10.1.2023 | 11:14
Forgangsröðun Björns Lomborg
Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar og gistifræðimaður við Hoover stofnun Stanford-háskóla, hefur verið iðinn við að skrifa um meinlokurnar í stefnu stjórnvalda í löndum heimsins gagnvart því, sem þau nefna hlýnun heimsins. Á þessu hafa flestir skoðanir, en fáir djúpstætt vit á viðfangsefninu. Þess vegna er margt skrafað og skeggrætt án þess, að nokkur lausn sé í sjónmáli, enda tröllríður hræsnin húsum.
Er sú umræða að miklu leyti reist á sandi vegna þekkingarleysis og er þess vegna út og suður, blaður og fögur fyrirheit á fjölmennum ráðstefnum. Þegar heim af þessum rándýru og koltvíildismyndandi ráðstefnum er komið, er lítið sem ekkert gert í málunum. Skyldu íbúar Norður-Ameríku, sem upplifðu fimbulkulda á eigin skinni í desember 2022, taka mikið mark á blaðri um heimsendaspádóma vegna hlýnunar andrúmsloftsins ?
Enginn dregur í efa, að vaxandi styrk koltvíildis í andrúmslofti fylgir hlýnun, en það er ofureinföldun á flóknu fyrirbæri að halda því fram, að þetta eitt muni stjórna loftslagsbreytingum næstu áratuga. Nefna má áhrif brennisteins frá eldfjöllum og mönnum, sem hefur kælandi áhrif, og að hækkað hitastig andrúmslofts leiðir til aukinnar varmageislunar út í geiminn samkvæmt lögmáli Max Plank um samband hitastigs efnis og geislunarafls frá því. Líkön IPCC gefa miklu hærri útkomu á hitastigi en síðan hefur reynzt vera raunin samkvæmt nákvæmustu fáanlegu mælingum, sem t.d. dr John Christy, "director of the University of Alabama/Huntsville´s Earth System Science Center, ESSC", hefur birt og lagt út af.
Þann 20. desember 2022 birtist í Morgunblaðinu grein eftir téðan Björn og Jordan B. Peterson, prófessor emeritus við Toronto-háskóla, þar sem þeir leitast við að útskýra algert árangursleysi í loftslagsmálum m.t.t. til háleitra markmiða á heimsráðstefnum. Greinin bar bjartsýnislega fyrirsögn:
"Vegurinn áfram: Ný framtíðarsýn".
Þar gat að líta m.a.:
"Árið 2015 gerðu leiðtogar heimsins tilraun til að takast á við höfuðvandamál mannkynsins [svo ?] með því að setja sér markmiðin um sjálfbæra þróun - 169 skotmörk, sem hæfð skyldu verða, þegar árið 2030 rynni upp. Sá listi innihélt öll hugsanleg aðdáunarverð markmið: útrýmingu fátæktar og sjúkdóma, stöðvun styrjalda og loftslagsbreytinga, verndun líffræðilegrar fjölbreytni og bætta menntun."
Á ráðstefnum IPCC mæta tugþúsundir, og margir þeirra eru nestaðir að heiman með áhugamál, sem þeim finnst sér skylt að berjast fyrir, að fari inn á málefnaskrá ráðstefnunnar í lokin. Örfáir eða engir ráðstefnugesta hafa hugmynd um, hvernig er skynsamlegast að koma málefnum sínum og markmiðum í höfn, þegar ráðstefnunni hefur verið slitið, og margir ráðstefnugesta hafa hætt sér út á hálan ís og vita lítið, hvað þeir eru að tala um. Í öllu þessu felst skýringin á hinum vonlausa fjölda markmiða, sem samþykkt eru í lok ráðstefnunnar í kjölfar hrossakaupa og rifrildis um aukaatriði.
Það verður hins vegar að hafa kvarnir í stað heila til að átta sig ekki á, að niðurstaðan af miklum fjölda markmiða er sú sama og af engu markmiði. Af þessum sökum verður að álykta, að hugur fylgi ekki máli, ráðstefnan sé skrípaleikur, svífandi í tómarúmi, enda er eftirfylgnin ómarkviss.
Ráðstefnur IPCC breyta sáralitlu, en fjöldi manns er kominn á loftslagsspenann, og dómsdagsspámenn hræða stjórnmálamenn og almenning til að inna af hendi fjárframlög til að halda hringekjunni áfram.
"Árið 2023 er vegferðin hálfnuð, ef miðað er við tímabilið 2016-2030. Hins vegar erum við langan veg frá því að vera hálfnuð með markmiðin. M.v. stöðu mála munu þau nást hálfri öld síðar en ætlað var."
Hvað hið kjánalega loftslagsmarkmið frá 2015 varðar um helzt að halda hlýnun jarðar frá iðnvæðingu undir 1,5°C, en annars endilega undir 2°C, benda birtar hitamælingar IPCC til, að neðra markið náist ekki og jafnvel efra markið ekki heldur, en mælingar Johns Christy benda ekki til, að neðra markinu verði náð á næstu áratugum.
Það er mjög erfitt fyrir jarðarbúa að tengja aðgerðir sínar við hitastigshækkun, sérstaklega fyrir þá, sem upplifa harðnandi vetrarkulda (Norður-Ameríka -48°C í desember 2022 og mannskaðaveður í kuldum í Japan líka).
Þer líka erfitt fyrir íbúa hérlendis, að fá heila brú í talnaleik forsætisráðherra, nú síðast, að Íslendingar þurfi að draga úr losun koltvíildis um 55 % m.v. 2005. Losun Íslendinga er svo hlutfallslega lítil á heimsvísu, að engu máli skiptir fyrir hlýnun jarðar. Þá er losun vegna orkunotkunar á mann ein sú minnsta, sem þekkist. Losun iðnaðarins á hvert framleitt tonn er sömuleiðis ein sú minnsta, sem þekkist. Að rembast eins og rjúpan við staurinn með ærnum tilkostnaði við að bæta einn bezta árangurinn er einber hégómi og stafar af hégómagirnd stjórnmálamanna.
"Því er það löngu tímabært, að við skilgreinum og forgangsröðum þeim markmiðum, sem mestu skipta. Það er einmitt það, sem Kaupmannahafnarhugveitan (e. Copenhagen Consensus) hefur gert í samstarfi við nokkra Nóbelsverðlaunahafa og rúmlega 100 hagfræðinga í fremstu röð. Hún hefur skilgreint á hvaða vettvangi hver króna getur gagnazt hve mest.
Við gætum, svo [að] dæmi sé tekið, flýtt því mjög að binda enda á hungur. Þrátt fyrir að þar hafi aðdáunarverður árangur náðst síðustu áratugi, [fá] 800 milljónir manna enn þá ekki nóg að borða. Á þeim vettvangi getur rannsóknarvinna hagfræðinga [og líffræðinga - innsk. BJo] lyft grettistaki."
Gríðarlegum upphæðum hefur verið varið og er verið að verja í fáfengilega hluti eins og vindmyllur, þróun þeirra, smíði, uppsetningu og rekstur - allt saman í nafni loftslagsvandans, þótt þetta sé rándýrt, mengandi og landskemmandi fyrirbrigði. Tólfunum er kastað, þegar myndir berast af úðun ísaðra vindmylluspaða með miður hollum ísvara. Gjörninginn ætti alls ekki að leyfa hérlendis í mengunarvarnarskyni.
Til að kóróna vitleysuna eru víðast reist gaskynt raforkuver með vegna óáreiðanleika raforkuvinnslu með vindorku. Þetta er mjög óskilvirk ráðstöfun fjármuna og sorgleg í ljósi þess, að nýþróuð kjarnorkuver eru handan við hornið til að leysa orkuþörf heimsbyggðarinnar.
"Okkur er í lófa lagið að færa verðandi mæðrum lífsnauðsynlega næringu. Sá dagskammtur vítamíns og annarrar nauðsynlegrar fæðu kostar rúma USD 2 (ISK 283) á hverja manneskju. Með slíkri aðstoð þroskast heili fóstursins örar, sem síðar á ævinni skilar sér í meiri velmegun. Hver USD, sem varið er í það, svarar þannig til andvirðis USD 38 (ISK 5371) af félagslegum gæðum. Hvers vegna gerum við þetta ekki ? Vegna þess að í viðleitni okkar til að gera öllum til hæfis verjum við litlu fé í hvern þátt og yfirsjást um leið nytsamlegustu lausnirnar."
Barátta ríkja heimsins gegn meintri loftslagshlýnun er í fæstum tilvikum rekin á skynsemisgrundvelli. Ef svo væri hérlendis, mundu stjórnvöld hér lýsa því yfir, að þau telji of mikla umhverfisbyrði felast í uppsetningu vindmylluþyrpinga m.v. við samfélagslega ávinninginn, sem er neikvæður núna, af því að vindmylluþyrpingar munu leiða til hækkunar rafmagnsverðs hér.
Þá verði hætt við að moka ofan í skurði á kostnað hins opinbera, enda hafa verið færðar ófullnægjandi vísindalegar sönnur á einhlítan árangur slíkrar aðgerðar fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Hins vegar virðast landgræðsla og skógrækt ótvírætt vera til bóta og vera hagkvæmar.
Það er ennfremur skynsamlegt út frá loftslags- hagkvæmnisjónarmiðum að setja kraft í virkjanir hefðbundinna íslenzkra orkulinda jarðgufu og vatnsfalla. Það er óskiljanlegt, að umhyggjan fyrir andrúmsloftinu og óttinn við hlýnun af völdum CO2 lendir miklu aftar í forgangsröðuninni hjá ýmsum en hégómleg fordild um, að þessar hreinu og endurnýjanlegu orkulindir náttúrunnar skuli ekki snerta, því að slíkt útheimti röskun á náttúrunni, þó að náttúrukraftarnir séu sjálfir sífellt að breyta landinu.
Í lok greinarinnar skrifuðu þeir félagarnir Björn og Jordan þetta:
"Eitt er þó algerlega augljóst: við verðum að gera það bezta fyrst.
Þar er hið eina sanna áramótaheit komið, og það er hvort tveggja persónulegt og alþýðlegt. Með því er leiðin í átt til betra lífs vörðuð. Látum göngu okkar feta þann veg, þegar við veltum því fyrir okkur, hvernig við ætlum að heilsa nýju ári."
Þann 20. desember 2022 birtist afar fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir Hauk Ágústsson, kennara. Hún bar fyrirsögnina:
"Hvað er vindmylla ?"
Til að gefa mynd af mengunarhættunni og auðlindanotkun vindmylluframleiðenda stóð þetta:
"Öxull, sem gengur út úr enda skýlisins, tengist gírkassa, sem stýrir snúningshraða rafalans. Bremsubúnaður jafnar hraðann, auk þess sem spöðunum er stýrt í sama skyni. Í þessum búnaði eru nokkur hundruð lítrar af sértækri smurolíu, sem fylgzt er með og skipt um u.þ.b. þriðja hvert ár. Mörg dæmi eru um það, að olían leki.
Rafalinn er búinn síseglum (permanent magnets). Í þeim eru fágæt jarðefni, skaðleg umhverfinu í framleiðslu og endurvinnslu eða eyðingu. Þau eru að mestu unnin í Kína (um 90 %), sem er líka ráðandi í námi þeirra úr jörðu [t.d. í Afríku - innsk. BJo]. Í rafalanum og öðrum rafbúnaði er kopar (um 1500 kg) og ál (um 840 kg) - auk stáls. [Magntölur eiga við 2 MW rafal - innsk. BJo.] Í búnaðinum í tækjaskýlinu eru líka, samkvæmt Freeing Energy, um 20,5 t af steypujárni, rúmt 1 t af stáli og um 51 t af krómi.
Rafbúnaður fellir rafmagnið, sem framleitt er, að raforkukerfinu, sem myllan tengist. Búnaðurinn er í lokuðu rými og honum þjappað saman sem framast er unnt, sem veldur mikilli hættu á skammhlaupum. Í rýminu er gjarnan [einangrunar] gas, sem kallast SF6 (Sulphur hexafluoride). Það hefur afar litla rafleiðni, en er samkvæmt Norwegian SciTech News (2020) 22.000-23.500 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 og hefur 3.200 ára líftíma [í andrúmsloftinu - innsk. BJo]. Þetta gas hefur sloppið út í verulegum mæli, t.d. í Þýzkalandi, og er orðið vel mælanlegt þar."
Þessi upptalning ætti að sannfæra flesta um, að vindmyllur eru slæm fjárfesting til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda eða til að draga úr mengun á jörðunni. Þá gefur nú auga leið, að þessi fjárfesting á alls ekkert erindi í íslenzka náttúru, því að hrun einnar vindmyllu, t.d. í óveðri, getur valdið alvarlegu mengunarslysi og óafturkræfri mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Hún er af allt annarri og miklu hærri stærðargráðu en t.d. losun sama magns af CH4 - metani, því að það er "aðeins" um 22 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 og brotnar niður í andrúmsloftinu á um 50 árum.
Hryllingssaga Hauks Ágústssonar um mengunarhættuna af vindmyllum heldur áfram:
"Til þess að ná [hámarks] styrk m.v. þyngd eru spaðarnir gerðir úr trefjaplasti; gler- eða kolþráðum, sem þaktir eru með epoxíresíni. Á 2 MW Vestas-myllu vega þeir um 7 t hver. Epoxíresín eru mikið unnið úr olíutengdum efnum með efnafræðilegum aðferðum. Á 2 MW myllu er snúningsþvermál spaðanna um eða yfir 100 m, og hraðinn á spaðaenda getur náð vel yfir 200 km/klst. Til að minnka mótstöðu eru spaðarnir húðaðir að utan. Húðin slitnar af og berst út í umhverfið sem öragnir. Spaðana er almennt ekki unnt að endurvinna. Þeir eru því oftast urðaðir, þegar þeir eru orðnir ónothæfir."
Hér er um að ræða efni, sem ekkert erindi eiga inn í íslenzka náttúru og lífkeðju, því að þau eru sennilega torniðurbrjótanleg (frávirk) og safnast þess vegna upp í lífkeðjunni. Hefur Umhverfisstofnun vit á að gera viðeigandi kröfur til þeirra efna, sem hver vindmylla getur dreift út í umhverfið í venjulegum rekstri og við slys ?
Það er engin þörf á að dreifa þessum mannvirkjum um óspillt víðerni landsins hagkerfisins vegna, og þess vegna er engin áhætta ásættanleg. Öðru máli gegnir um hefðbundnar íslenzkar virkjanir. Fyrir þær er þörf, enda eru þær miklu hagkvæmari, og mengunarhættan af þeim er hverfandi í samanburði við þau ósköp, sem hér hafa verið upp talin, og landþörf á MW sömuleiðis mun minni.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Athugasemdir
Í gær birti Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, línurit úr New York Times sem sýnir meðalhitastig á jörðinni síðustu 82 árin. Þar kemur fram að hitastigið hefur aldrei hækkað eins hratt og síðustu árin þrátt fyrir mótvægisaðgerðir. Hann óttast greinilega að vá sé fyrir dyrum.
Enn eru þó háværar raddir uppi um að þetta sé eðlileg hlýnun sem ekki sé af mannavöldum og hafi margoft átt sér stað áður. Er þeim rökum t.d. beitt að enda þótt styrkur CO2 aukist þá séu gróðurhúsaáhrif vatnsgufu sterkari sem er vissulega rétt. Þar er þó horft fram hjá þeirri staðreynd að loftslag stjórnast af mörgum gagnkvæmum áhrifum og þarf þá ekki endilega sterkasti þátturinn að skipta sköpum.
Ekki veit ég hvað kemur mönnum til að berjast af hörku gegn þeim sem vara við og vinna gegn ofhlýnun jarðarinnar. Stundum eru þeir sakaðir um ofríki en stundum eru þeir hæddir og kallaðir illum nöfnum. Kunna einhverjir hagsmunir að búa þar að baki? Á það hefur verið bent að olíuiðnaðurinn hefur í áratugi reynt að þagga þessa umræðu niður. En gæti kannski líka verið að einhverjir finni þarna útrás fyrir innibyrgða þvermóðsku sína?
Hitt er svo allt annað mál að erfitt getur reynst að sporna við þessari loftslagsþróun og þar skipta líka hagsmunir máli. Margar ráðstefnur hafa verið haldnar "með fjörutíu þúsund fíflum", eins og einhver orðaði það, þar sem misvitrar ákvarðanir hafa sjálfsagt verið teknar. Sjálfsagt eru slíkar rástefnur fróðlegar og skemmtilegar, kannski líka gagnlegar, um það get ég ekki dæmt.
Hér er viðtal við Stefan Rahmstein, loftslagsfræðing frá Potsdam í Þýskaland: Das AfD-Klimaquiz für Schüler | Harald Lesch
Hörður Þormar, 11.1.2023 kl. 20:20
Góð grein að vanda, Bjarni.
Þarna er tekið á stærsta vandamálinu, hungri í heiminum. Í því ljósi er galið að tekin séu heilu landsvæðin í að rækta matvæli til eldsneytisgerðar, svo blanda megi því sulli í jarðefnaeldsneyti. Þetta er gert í þágu rétttrúnaðarins. En hver skyldi svo ávinningurinn að þessu sulli vera? Hvað hjálpar þetta mikið upp á losun co2? Vinsælustu matvælajurtirnar sem fá þessa meðferð eru maís til framleiðslu á sulli til blöndunar í díselolíu og sykurrófur til framleiðslu á sulli til blöndunar í bensín. Báðar þessar jurtir eru einærar, sem þýðir að akrarnir sem undir þessa ræktun er tekin, standa opnir hálft árið, með tilheyrandi kolefnislosun. Þannig að sennilega veldur þetta rugl enn frekari kolefnislosun, þar sem áhöld eru um sparnaðinn við íblöndunina í eldsneytið.
Fyrst og fremst er þetta þó galið í hungruðum heimi.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 12.1.2023 kl. 07:49
Nú berast fregnir af því, að "olíusjeik" í Dubai eigi að stjórna COP28, næstu ráðstefnu SÞ um aðgerðir til að stemma stigu við hlýnun jarðar. Sýnir þessi útnefning ekki í hnotskurn tilgangsleysi þessa árlega skvaldurs Sameinuðu þjóðanna um hlýnun jarðar ? Aðeins bylting í orkumálum heimsins getur haft einhver áhrif til að minnka losun jarðarbúa á CO2. Allt annað verður að flokka til samkvæmisleikja.
Bjarni Jónsson, 13.1.2023 kl. 10:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.