Af verkalýðsbaráttu

Birtingarmynd átakanna innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ) fyrir þing samtakanna haustið 2022 og furðuleg framganga fáeinna verkalýðsforkólfa á þinginu sýna, að maðkur er í mysunni hjá verkalýðshreyfingunni. Forseti ASÍ hraktist úr starfi og þingið lamaðist og var frestað við útgöngu allmargra þingfulltrúa. Formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR) virtist standa í baráttu við Seðlabanka Íslands (SÍ) út af stýrivaxtahækkunum.  Hann rak kjánalega auglýsingaherferð gegn SÍ, og af viðbrögðum formanns VR við vaxtahækkun í kjölfarið að dæma virtist hann fara á límingunum við það og hafa ímyndað sér, að hann gæti fjarstýrt SÍ með rándýrri auglýsingaherferð með góðum leikurum.  Þessi sami formaður, sem yfirleitt tuðar tóma vitleysu um peningamál og efnahagsmál, virtist svo verða fyrir svo alvarlegu andlegu áfalli á ASÍ-þinginu vegna undirtekta við framboð sitt til forseta ASÍ, að hann hætti við framboðið og gekk út af þinginu.  Allt er þetta svo vanþroskuð og vanstillt framkoma hjá formanni stórs verkalýðsfélags, að engu tali tekur.  

Nú hafa stefnumarkandi kjarasamningar á milli Samtaka atvinnulífsins (SA) og samflots verkalýðsfélaga náðst.  Þar reið formaður Verkalýðsfélags Akraness (VA), sem jafnframt er formaður Starfsgreinasambandsins, á vaðið, en hann hefur áður sýnt færni sína og þekkingu við samningaborðið.  VR og Efling skáru sig úr þessu samfloti, þótt formenn þessara félaga virtust hafa samflot með formanni VA á ASÍ-þinginu.  Leit formaður VA á yfirlýsingar þeirra í kjölfar samninganna, áður en atkvæðagreiðsla um þá fór fram, sem rýtingsstungu í bakið.  Sýnir þetta baneitrað andrúmsloft í hreyfingunni, og nú hefur Efling slitið samningaviðræðum við SA hjá Ríkissáttasemjara (RSS).  Fordæmir formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir (SAJ) RSS og ber hann þungum sökum. Í raun þarf að auka völd RSS til jafns við það, sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Hann þarf að hafa vald til að fresta stöðvunaraðgerðunum á vinnumarkaði með miðlunartillögu, sem verður að greiða atkvæði um í almennri atkvæðagreiðslu í félögum deiluaðila.  Þá þarf hann að geta úrskurðað, að kjaradómur, sem deilendur og RSS skipa fulltrúa í, bindi enda á deilur í eitt ár í senn. 

Formaður Eflingar fer auðveldlega í fórnarlambshlutverkið og heggur þá í allar áttir, virðist uppsigað við alla í kringum sig, sem ekki lúta henni í einu og öllu, enda hefur hún verið dæmd af Félagsdómi fyrir óleyfilegar uppsagnir, m.a. trúnaðarmanns, á skrifstofu Eflingar. 

SAJ virðist sækjast eftir illindum, enda réðist hún á Alþingishúsið haustið 2008. Nú klæðir hún þjóðfélagshatur sitt í búning verkalýðsbaráttu og þykist vera að sækja fé í greipar auðvaldsins kúguðum verkalýð á höfuðborgarsvæðinu til handa og telur hann eiga rétt á hærri launum en starfsbræður og -systur annars staðar á landinu.  Í reynd sagar hún greinina, sem félagar í Eflingu sitja á, frá stofninum. Þetta er ekki verkalýðsbarátta fyrir 5 aura.  Þetta er skemmdarverkastarfsemi til að þjóna erfiðri lund SAJ.  

Þann 15. desember 2022 birtist í Morgunblaðinu ágætisgrein eftir aðalsamningamann SA og framkvæmdastjóra samtakanna, Halldór Benjamín Þorbergsson undir fyrirsögninni:

"Traust er þungavigtarhugtak".

Hún hófst þannig:

"Samtök atvinnulífsins hafa undirritað kjarasamninga við samflot verkafólks, verzlunarmanna og iðnaðarmanna, hringinn í kringum landið.  Samningar hafa náðst við 80 þúsund manns með stefnumarkandi kjarasamningum, sem leggja grunn að öllum kjarasamningum í þessari samningalotu, bæði á almennum og opinberum markaði.  Engin verðmæti verða til við undirritun kjarasamninga.  Kjarasamningar snúast um að skipta þeim verðmætum, sem verða til í atvinnulífinu.  Því er afar mikilvægt, að gætt sé sanngirni og samkvæmni í þeim kjarasamningum, sem gerðir eru.  Trúnaður Samtaka atvinnulífsins er gagnvart fólkinu í landinu.  Þau, sem semja við SA, verða að geta treyst því, að þær meginlínur, sem samflotskjarasamningar marka, verði varðar af SA.  Þar er trúverðugleiki SA sem stærsta samningsaðila á landinu að veði."

Á meðan atvinnurekendur hafa falið samtökum sínum, SA, að semja fyrir sig í stað þess, að hvert fyrirtæki semji við sína starfsmenn, þá er samflot verkalýðsfélaganna líka eðlilegt, og ef ekki er viðurkennt og virt, að slíkir samningar séu stefnumarkandi, þá er voðinn vís á vinnumarkaði og hætt við, að hann "springi í loft upp".  SAJ hefur skynjað þetta og eygir nú tækifæri til að gera verulega illt af sér. Hún hefur enga samúð með starfsfólki, eins og ólögleglar uppsagnir hennar á starfsfólki Eflingar sýna, heldur etur hún félögum í Eflingu á foraðið og telur þeim trú um, að þeir muni hafa eitthvað upp úr því. Reynslan gefur hins vegar til kynna, að verkfall í þágu höfrungahlaups eykur alls ekki kaupmátt til lengdar.  Þá hefðu hinar Norðurlandaþjóðirnar þegar fetað þá braut. Heilbrigð skynsemi mælir gegn verkfallsaðgerð til að koma af stað höfrungahlaupi, þegar stefnan á vinnumarkaði er að gera skammtímasamning, og eitt er víst, að fyrirtækin, sem fyrir barðinu verða á verkfallsvopninu, munu standa veikari eftir en ella og þar með vera verr í stakkinn búin til að standa í samkeppni og að hækka laun starfsmanna sinna.  Afleiðingarnar geta orðið alvarlegar fyrir fyrirtækin og traust þeirra á mörkuðum, sem þau keppa á, og fyrir þjóðarbúið í heild, t.d. missir gjaldeyristekna. 

Staksteinar Morgunblaðsins gerðu kjaramálin að umræðuefni á gamlaársdag 2022 undir fyrirsögninni: 

"Óvenjulegar kjarabætur".

Þar stóð m.a.:

"Staðan er líka þannig hér á landi, að óvenjulega háu hlutfalli af verðmætasköpun er varið í launakostnað.  Hlutfallið er raunar orðið svo hátt, að efasemdir hljóta að vakna um, að það geti haldið til lengdar, en nefna má, að þetta hlutfall hefur verið hæst hér á landi allra Norðurlandanna árum saman."

 Í raun og veru er þetta kjarni málsins í allri rökfastri kjaraumræðu.  Verði þetta hlutfall svo hátt, að ósjálfbært sé, minnkar ekki aðeins það, sem eigendurnir, hluthafarnir, fá í sinn hlut, heldur fara fyrirtækin þá að éta sig innan frá, þ.e.a.s. þau hafa ekki lengur getu til að fjárfesta, t.d. í framleiðniaukningu.  Þetta þýðir, að samkeppnishæfni þeirra versnar og þau verslast upp. 

"Þá er áhugavert, að á sama tíma og kaupmáttur rýrnar í samanburðarlöndum, er gert ráð fyrir áframhaldandi og jafnvel umtalsverðri kaupmáttaraukningu taxtalauna hér á landi í þeim skammtímasamningum, sem flestir hafa nú undirritað."

Hér yrði um einstakan árangur hagkerfisins íslenzka að ræða, ef spáin rætist, og hann veltur alfarið á því, hvort fyrirtækjunum upp til hópa tekst að auka framleiðni sína á þessu ári.  Þegar hlutfall launa af verðmætasköpun er komið í 65 %, eins og hér er, er kaupaukning umfram framleiðniaukningu ávísun á fölsk verðmæti á pappír, sem munu fljótlega gufa upp.  Ábyrgir verkalýðsforingjar vita þetta og haga sinni kröfugerð við samningaborðið samkvæmt því, en hinir, t.d. SAJ, setja upp hundshaus gagnvart slíkri röksemdafærslu og kjósa að lifa í eigin blekkingaheimi, en það verður fyrr en seinna á kostnað umbjóðenda þeirra og alls samfélagsins.

"Tekst að viðhalda þessum árangri ?  Það fer mjög eftir því, hvort raunsæi eða innantóm gífuryrði ráða för."

SAJ hótar nú að sprengja upp þann árangur, sem náðst hefur í þessari kjarasamningalotu.  Hún snýr öllu á haus í því sambandi, býr til úr sér fórnarlamb, sem útilokað hafi verið frá samfloti Starfsgreinasambandsins, á meðan öðrum er ljóst, að hún sagði Eflingu úr þessu samfloti.  Hún telur síðan yfirgang í því fólginn að "troða" samningum, sem aðrir gerðu, upp á sig og sitt félag, en hún þorir ekki að fara þá einu lýðræðislegu leið, sem við blasir, að leyfa félagsmönnum Eflingar að greiða atkvæði um þennan kjarasamning.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Mörg undanfarin ár hefur verið samið um prósentuhækkanir sem hafa valdið gliðnun milli starfstétta. Þetta þýðir að munur milli hæðstu og lægstu launa verður sífellt meiri. Þeir lægst launuðu eiga enga möguleika að rétta sinn hlut þegar þessi prósentuaðferð er viðhöfð. Ef farið er aftur í tímann, segjum 40 ár og uppfærð laun allra stétta miðað við ákveðna krónutöluhækkun jafnt á alla myndi myndu laun láglaunastétta verða mun hærri í dag á kostnað launahærri stétta. Það er náttúrulega engin hemja að hálaunafólk fái mánaðarlaun verkamannsins í kauphækkun ár eftir ár. Sá kostnaður sem fólk þarf að uppfæra( leiðrétta) er jafn hvort sem þú ert bankastjóri eða kassadama. Þessi aðferð við kjarasamninga er komin út í ógöngur og verður að að hætta hið snarasta að mínu mati.

Jósef Smári Ásmundsson, 16.1.2023 kl. 19:07

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það verður að vera hvati í þjóðfélaginu til að leggja á sig langskólanám og til að taka áhættu og að gegna ábyrgðarstörfum.  Sannleikurinn er sá, að hvergi á Vesturlöndum er meiri launajöfnuður en hérlendis, og það kann að vera, að hann dugi ekki til að manna erfiðar stöður.  Er þetta ekki hluti af vanda heilbrigðiskerfisins ?  Læknarnir snúa ekki nógu margir heim úr námi, hjúkrunarfræðingar leita í önnur störf.  

Bjarni Jónsson, 17.1.2023 kl. 17:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband