Öflugir bakhjarlar laxeldis hérlendis

Laxeldi í sjó hefur vaxið fiskur um hrygg hérlendis, og er orðin kjölfestustarfsemi á Vestfjörðum, sem er undirstaða fólksfjölgunar og vaxandi velmegunar á svæðinu.  Á Austfjörðum er starfsemi þess mikilvæg líka, en þar er meiri fjölbreytni í atvinnuháttum á sviðum orkukræfs iðnaðar, landbúnaðar og sjávarútvegs. Bölsýnisraddir hérlendar um þessa atvinnugrein hafa orðið sér til skammar.  Þær láta sem hvert strok úr kvíum jafngildi erfðablöndun við villta íslenzka laxastofna, sem skaði erfðamengi frumbyggjanna.  Þetta er dómadagsvitleysa og vitnar um fljótfærni og vanþekkingu á erfðafræði og öllu því, sem þarf að gerast áður en nokkur varanleg erfðablöndun getur átt sér stað.  

Laxeldið íslenzka nýtur mjög góðs af tæknisamstarfi við systur- og móðurfélög í Noregi og margháttað viðskiptasamstarf á sér líka stað við þessi norsku félög, t.d. á sviði hráefniskaupa og markaðssetningar afurðanna. Íslenzk sjávarútvegsfélög hafa nýlega aukið hlutdeild sína í þessari starfsemi, og er það eðlileg og ánægjuleg þróun. 

Þann 2. febrúar 2023 birtist merkileg frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu, sem varpar ljósi á þessa 2 öflugu bakhjarla íslenzks laxeldis, sem hlupu undir bagga með gríðarlega öflugu framtaki, þegar hæst þurfti að hóa.  Sýnir þetta, að íslenzkt laxeldi í sjó er ekki á flæðiskeri statt og mun eiga sér bjarta framtíð hér við land, hvað sem úrtöluröddum á móti hvers konar framförum og tekjumöguleikum alþýðu líður. Þessir góðu bakhjarlar tryggja aðgengi íslenzkra laxeldisfyrirtækja í sjó að beztu fáanlegu tækni til að fást við hvers konar vanda, sem upp kann að koma.  Það er ómetanlegt að þurfa ekki að finna upp hjólið sjálfur.  

 Fyrirsögn féttarinnar var: 

"Laxinum slátrað beint úr kvíunum".

Hún hófst þannig:

"Risastórt laxasláturskip er í ferðum [á] milli Dýrafjarðar og Ísafjarðarhafnar, og þaðan fara flutningabílar á 50 mín fresti til Suðurnesja og austur á land, þar sem laxinum er pakkað til útflutnings.  Aðstaða til að starfrækja þetta óvenjulega sláturhús, sem er dreift um landið, var sett upp á mettíma til að leysa tímabundinn vanda í slátrun hjá Arctic Fish."

Þarna er leyst úr vaxtarverkjum íslenzks laxeldis með hátæknisláturskipi frá Noregi og samstarfi við vinnslustöðvar í landi í öðrum landshlutum um hávetur.  Þetta sýnir, hversu öflugra bakhjarla laxeldið við Ísland nýtur, sem gefur góð fyrirheit um þróun þessarar greinar og framtíð í landinu, þótt ekki skorti nú hælbítana.

"Arnarlax hefur slátrað laxi fyrir Arctic Fish í sláturhúsinu á Bíldudal.  "Það er takmörkuð afkastageta í slátruninni.  Framleiðslan er orðin það mikil, að þeir 80 starfsmenn, sem eru í sláturhúsinu á Bíldudal, hafa ekki undan.  Við þurfum að ljúka slátrun úr Dýrafirði.  Fiskurinn er kominn í sláturstærð, og við þurfum að hvíla eldissvæðin og þurftum því að bregðast við", segir Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish.

Fengið var sláturskipið Norwegian Gannett frá Noregi til að taka kúfinn af, og er reiknað með, að það verði hér í rúman mánuð, út febrúar [2023].  Laxinum er slátrað beint upp úr kvíunum í Dýrafirði og síðan landað og hann flokkaður í ker í Ísafjarðarhöfn.  Þar hefur verið komið upp tjaldi til að skýla kerunum.  Síðan fara bílar á 50 mín fresti með laxinn til Grindavíkur og Djúpavogs og raunar einnig í minni vinnslur, þar sem honum er pakkað í frauðplastkassa til útflutnings. 

Norwegian Gannett er afar öflugt sláturskip.  80 manns er í áhöfn þess.  Daníel nefnir, að notaðar séu 14 slægingarvélar, en í sláturhúsi, sem Arctic Fish [reisir] í Bolungarvík, verða 2 slægingarvélar."

 

"Daníel er ánægður með fiskinn, segir, að 95 % - 97 % hans fari í hæsta gæðaflokk.  Ekki veitir af, því [að] nokkur aukakostnaður er við slátrun með þessu lagi, en Daníel bendir á, að heimsmarkaðsverð á laxi sé hátt um þessar mundir."

Það er ótrúlega góður árangur, ef um 96 % framleiðslunnar lendir í hæsta gæðaflokki á þessum kröfuharða markaði, sem laxamarkaðurinn er.  Það er enn fremur athyglisvert, að laxverðið er tiltölulega hátt núna á tímum þverrandi kaupmáttar almennings vegna verðbólgu.  Orkuverðið hefur lækkað í Evrópu vegna milds vetrar, þótt Evrópumenn séu nánast hættir að kaupa orku beint af Rússum.  Orkuvopnið geigaði hjá þeim og er að breytast í bjúgverpil, því að þeir hafa orðið af tugum milljarða EUR viðskiptum við Evrópu og eru nú að draga úr framleiðslu.  Nú tekur við páskaspurn eftir fiski á meginlandi Evrópu (fastan), svo að háa verðið á laxi mun haldast enn um hríð.

Nýlega kom út skýrsla á vegum Ríkisendurskoðunar um stjórn- og eftirlitskerfi með laxeldi í sjó við Ísland.  Þar fær embættismannakerfi matvælaráðuneytis, Hafrannsóknarstofnunar, Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar lága einkunn, enda hefur verið kvartað undan seinagangi þessara stofnana, og þær hafa staðið þróun greinarinnar fyrir þrifum. Núverandi Ríkisendurskoðandi er vanhæfur til að ritstýra skýrslu um þetta efni vegna hagsmunatengsla sinna við veiðiréttarhafa.  Þeir hafa rekið hatramman áróður og lagt til, að laxeldi í sjó verði hætt.  Er það ótrúlegt ofstæki, og skýrsla Ríkisendurskoðunar ber með sér, að þar eimir af slíkum viðhorfum og skýrslan er engan veginn í hlutlægu jafnvægi.  

Það er víða pottur brotinn í starfsemi íslenzkra eftirlitsstofnana, og efst á blaði trónir þar Samkeppniseftirlitið, sem þvælist fyrir með seinagangi og andstöðu við framfaramál, og virðist ekki gera nokkurt gagn.  Eftirlitsiðnaðurinn leikur lausum hala og virðist skorta nauðsynlegt aðhald.  Athygli vekur gjörólík afgreiðsla norska og íslenzka SKE á svipuðum málum matvælavinnslu, sem bendir til ófaglegra vinnubragða og smákóngaviðhorfa embættismanna hérlendis í stað þjónustulundar og vilja til að létta undir með atvinnulífinu í stað afætuhegðunar.  

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband