3.4.2023 | 10:11
Til hvers er verið að setja markmið ?
Markmið verður að vera mælanlegt og tímasett. Annars er það eitthvað annað, t.d. stefnumið. Þetta er þó ekki nóg. Það verður að vera raunhæfur möguleiki á að ná markmiðinu með hnitmiðaðri áætlun og skipulegri og faglegri vinnu. Í kjölfar samþykktrar markmiðssetningar þarf áætlunin fljótlega að fæðast og vinnan að henni að hefjast. Þannig vinna fyrirtækin í landinu að því að bæta rekstur sinn eða fjárhagsstöðu. Markmiðasetning er öflugt stjórntæki til að beina vinnu starfsmanna inn á umbótabrautir, sem stjórnendur telja vænlega til árangurs fyrir fyrirtækið.
Komið hefur í ljós, að þessu er allt öðru vísi varið hjá sumum stjórnmálamönnum og embættismönnum, sem stjórna mikilvægum málaflokkum á vegum ríkisins.
Alræmdasta nýlega dæmið er af ráðherrum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem á síðasta kjörtímabili fóru með umhverfismál og forsæti ríkisstjórnarinnar, þegar ákveðið var að bæta um betur, svo að um munaði, og setja markið á 55 % samdrátt koltvíildislosunar út í andrúmsloftið árið 2030 m.v. losunina árið 1990. Það var þegar í upphafi ljóst, að í framkvæmdaáætluninni til að ná þessu markmiði yrðu að vera virkjanir endurnýjanlegrar orku, sem mundu leysa af hólmi eldsneytisorkuna, sem spöruð yrði. Ekkert bólaði á þessu hjá Katrínu Jakobsdóttur, sem básúnaði þetta markmið hins vegar út erlendis í hópi annarra þjóðarleiðtoga, sem grunaði ekki, að manneskjan færi með fleipur.
Nú er komið í ljós, að vonlaust er að reyna að ná þessu markmiði, því að forsendur skortir, enda hefur verið setið með hendur í skauti í orkumálunum og stóð aldrei annað til hjá Katrínu. Nú er hún búin að spila rassinn úr buxunum. Brennsla jarðefnaldsneytis á Íslandi og í íslenzkum skipum og flugvélum mun ná nýjum hæðum í ár og líklega á næstu árum ár frá ári, enda þarf að brenna tugþúsundum tonna af olíu til að framleiða rafmagn. Katrín verður þjóðinni til skammar með innihaldslausu rausi sínu á erlendri grundu. Þessi ólíkindalæti reyfarahöfundarins í forsætinu ganga ekki lengur.
Nú hefur annarri hneykslunarhellu skotið upp á yfirborðið, nokkuð óvænt m.v. digurbarkalega markmiðasetningu þar. Það eru háskólarnir. Þeir dala stöðugt í samanburði við marga erlenda háskóla. Sé rétt munað, setti núverandi rektor HÍ markmið um að koma HÍ í hóp 100 beztu á lista "Times Higher Education" á tilgreindu ári, en hann hefur nú fallið á botninn þar. Það kemur höfundi þessa pistils ekki sérlega mikið á óvart, að HÍ standist ekki samanburð við háskóla nágrannalandanna. Kennsla til fyrrihluta prófs í verkfræði tók á sínum tíma 3 ár í HÍ, en þegar kandídatarnir settust í Norðurlandaskólana, a.m.k. hinn ágæta "Norges Tekniske Högskole" - NTH í Þrándheimi, þá voru þeir settir með 3. árs nemum þar. Ástæðan var sennilega sú, að námið á NTH var mun nær þörfum atvinnulífsins og verklegra en námið í HÍ, og sennilega er það þannig enn þá. Það kostar mikið að koma upp verklegri kennsluaðstöðu, en það skilar sér fljótt. Það er líka dýrkeypt að útskrifa unnvörpum kandidata úr háskólum, sem atvinnulífið hefur litla eða enga þörf fyrir og á sama tíma að takmarka svo aðgengi að eftirsóttum greinum, t.d. sjúkraþjálfun, líftækni, lyfjafræði og hugbúnaðargerð, að hörgull í atvinnulífinu upp á tæplega 10 þúsund manns hefur myndazt.
Frétt Gísla Freys Valdórssonar í Morgunblaðinu 10. marz 2023 undir fyrirsögninni:
"Þörf á orku og fjölbreyttari menntun",
hófst þannig:
""Það er ekki nóg að setja sér markmið um orkuskipti og loftslagsmál; það þarf líka að standa við þau."
Þetta sagði Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka Iðnaðarins (SI) í opnunarávarpi sínu á fjölmennu Iðnþingi samtakanna, sem haldið var í gær. Þar fjallaði Árni m.a. um orkuþörfina hér á landi og benti á, að raforka á Íslandi væri nú uppseld og aflgeta kerfisins komin að þolmörkum. Eftirspurnin eftir raforku hafi þó sennilega aldrei verið meiri og mörgum álitlegum verkefnum hafi á undanförnum árum verið ýtt út af borðinu vegna framboðsskorts."
Þetta er ófögur lýsing á stöðu orkumála í landinu og í raun alger áfellisdómur yfir yfirvöldum orkumála í landinu. Hér á árum áður hefðu þessar lýsingar getað átt við síðasta árið fyrir gangsetningu nýrrar virkjunar, en nú er því ekki að heilsa. Næsta virkjun af þokkalegri stærð (um 100 MW) er ekki í sjónmáli, og þessi staða hefur í raun varað í meira en ár. Samfélagið hefur orðið fyrir stórtapi, enda hægir á hagvexti, þegar innlenda orku skortir. Ástandið er grafalvarlegt, enda er markmið ríkisstjórnarinnar um minnkun koltvíildislosunar gjörsamlega komið á hliðina, og Katrín, forsætisráðherra, hefur með óraunsæi og hégómagirni sinni hengt stórskuld koltvíildisgjalda til útlanda um háls skattborgaranna. Þessir stjórnarhættir eru óráðsía, en sennilega yppir frú Katrín bara öxlum, tekur eina eða tvær fettur og skellihlær svo að öllu saman í fullkomnu ábyrgðarleysi. Einhver annar á að bjarga málum, þegar þar að kemur.
""Stórnotendur þurfa að búa við mögulegar skerðingar raforku, og ekkert er til aukreitis vegna orkuskipta hérlendis né nýrra tækifæra í iðnaði. Engu að síður eru markmið stjórnvalda skýr: að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum árið 2040", sagði Árni. "Því blasir það við, að auka þarf raforkuframleiðslu á Íslandi verulega, ef við ætlum að vera virkir þátttakendur í hinni grænu iðnbyltingu með áframhaldandi hagvexti og bættum lífskjörum."
Það væri réttara að tala hreint út. Hér verður raforku- og rafaflskortur næstu 5 árin hið minnsta, og þess vegna er tómt mál að tala um kolefnishlutleysi og full orkuskipti árið 2040. Reyndar er hægt að ná kolefnishlutleysi á undan fullum orkuskiptum með því að binda CO2, t.d. með skógrækt, og fá alþjóðlega vottun á þá bindingu. Samtök iðnaðarins hefðu mátt svara spurningunni fyrir sitt leyti um, hvernig á að auka raforkuvinnslu með jarðgufu og orku fallvatna sem hraðast, því að vindknúnir rafalar koma að afar takmörkuðu gagni einir og sér og landskemmdir af þeirra völdum eru allt of víðfeðmar m.v. gagnsemina. Véfréttin í Delfí mundi svara þannig, að ríkisstjórnin og þingmeirihluti hennar verði að taka af skarið með einum eða öðrum hætti, en er þingmeirihluti fyrir hendi til þess ? Stendur hnífurinn þar í kúnni ?
"Áslaug Arna benti þó á, að íslenzkir háskólar væru langt á eftir norrænum háskólum í menntun í svonefndum STEAM-greinum (vísinda- og tæknigreinum, verkfræði, listgreinum og stærðfræði). Þá birti hún jafnframt tölur um samanburð á íslenzku háskólunum, þar sem fram kemur, að Háskólinn í Reykjavík (HR) er í neðsta sæti af 37 skólum á Norðurlöndum, þar sem gæði kennslu eru metin, og [að] Háskóli Íslands (HÍ) [sé] í 32. sæti.
Þá situr HR í 301.-350. sæti á lista "Times Higher Education", en HÍ í 501.-600. sæti. Það var á þessum lista, sem HÍ hafði sett sér markmið um að vera [á] meðal 100 beztu."
Þetta er hrikalegur áfellisdómur yfir íslenzka menntakerfinu og sérstaklega háskólastiginu. Þó að þarna sé augljóst ósamræmi, þar sem HR liggur á botninum í samanburði innan Norðurlandanna, en HÍ hjá "Times Higher Education", er þó full ástæða til að taka mark á þessum niðurstöðum, enda eru þær samhljóma árangri íslenzkra grunnskólanemenda í PISA-könnunum. Hið alsorglegasta við að horfa upp á þessi ósköp er, að þeir, sem eiga að stjórna þessum málum, virðast alls ekki vita, hvað til bragðs á að taka, og æpa bara á meira fé, sem annaðhvort kemur þá úr vösum stúdenta eða úr tómum ríkissjóði (auknar lántökur). Í báðum tilvikum er verið að kaupa gallaða vöru, og það er óviðunandi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.