9.4.2023 | 17:55
Umdeilanleg úttekt ríkisendurskoðanda
Það er öllum ljóst, að félag veiðiréttarhafa í ám og vötnum er mjög andsnúið sjókvíaeldi á þeirri norskættuðu laxtegund, sem valin hefur verið til þessarar starfsemi á þeim afmörkuðu svæðum, þar sem íslenzk löggjöf leyfir hana á annað borð. Veiðiréttarhafar og fulltrúar þeirra hafa verið stórorðir, jafnvel heiftúðugir í garð atvinnugreinarinnar. Þótt þessi illska sé heimskuleg og reist sumpart á erfðafræðilegri vanþekkingu, eins og rakið var hér með vísun til Hafró í síðasta vefpistli, þá er ljóst, veiðiréttarhafar eða þeir, sem náin tengsl hafa við þá, eru vanhæfir til að starfa að úttkekt á vegum ríkisins á laxeldi í sjó við Ísland.
Nú háttar einmitt þannig til, að þetta á við um sjálfan ríkisendurskoðandann, og alveg dæmalaust, að dómgreind hans skyldi ekki hvísla í eyra hans að víkja í þessu máli. Í orðalagi skýrslu þessarar úttektar má jafnvel sjá gárur eftir æsingatitring veiðiréttarhafa. Af þessum sökum hefur trúverðugleiki skýrslunnar beðið hnekki, og taka ber hana "med en klype salt", eins og Norðmenn taka til orða, þegar lítið er að marka eitthvað.
Andrés Magnússon skrifaði baksviðsfrétt um téða skýrslu í Morgunblaðið 13. febrúar 2023. Hún hófst þannig:
"Fiskeldisskýrsla ríkisendurskoðanda vakti athygli í fyrri viku, enda hvöss gagnrýni á stjórnsýsluna og vöxt greinarinnar, en með fylgdu ýmsar ábendingar til stofnana ríkisins. Stjórnarandstaðan henti hana á lofti, og það gerðu andstæðingar sjókvíaeldis líka, veiðiréttarhafar sem náttúruverndarsamtök.
Skýrslan komst aftur í fréttir í liðinni viku, þegar upplýst var, að Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi, væri sjálfur veiðiréttarhafi. Þó [að] þeir hagsmunir séu minni en svo, að þeir valdi vanhæfi, situr eftir, að ríkisendurskoðandi er veiðiréttarhafi og [að] þeir hafa talað einni röddu gegn sjókvíaeldi. [Pistilhöfundur er ósammála Andrési um, að þessir hagsmunir séu of litlir til að valda vanhæfi, þegar hitamál eru annars vegar, eins og í þessu tilviki.]
Það er því engin goðgá að spyrja, hvort það hafi í einhverju getað litað úttektina, sér í lagi þar sem niðurstöður hennar eru til þess fallnar að þrengja að sjókvíaeldi, að lausn á lélegri stjórnsýslu sé meira af hinu sama, fyrir utan það, að úttektin er ekki gallalaus."
Lokamálsgrein blaðamannsins bendir til, að hann túlki skýrsluna sem hvatningu til að fjölga í starfsliði eftirlitsstofnana. Það er einfeldningsleg ráðlegging til stjórnmálamanna og sæmir Ríkisendurskoðun illa. Hún á að kryfja mál til mergjar og benda á leiðir til að auka skilvirkni ríkisstarfsmanna, en ekki að hvetja til að ausa í eftirlitsstofnanir meira fé án þess að bæta stjórnarhætti, sem virðast ekki vera upp á marga fiska.
"Fleira má að henni [téðri skýrslu] finna, eins og gagnrýni á, að Hafrannsóknastofnun hafi breytt aðferðarfræði sinni, en ríkisendurskoðandi segist hafa orðið þess áskynja við úttektina, að reiknistuðullinn væri í reynd kominn frá hagsmunaaðilum, en bætir svo við: "Ekki tókst að staðfesta, að svo væri" ! Órökstuddar sögur eiga ekki erindi í opinberar skýrslur. [Þarna vegur vanhæfur ríkisendurskoðandi ómaklega að Hafró, þar sem menn vinna störf sín undir alþjóðlegri rýni og í samráði við virta erlenda vísindamenn á viðkomandi sviði. Hér skín vanhæfi ríkisendurskoðanda í gegn, því að hann virðist lepja upp kjaftasögu veiðiréttarhafa og "náttúruverndara", sem spinnst út frá ímyndun þeirra og/eða misskilningi á vísindalegum gögnum Hafró - innsk. BJo.]
Gerðar eru 23 ábendingar til ráðuneyta og stofnana, sem að mestu lúta að því að auka eftirlit, herða skilyrði greinarinnar og auka gjaldtöku. E.t.v. endurspeglar það aðallega hefðbundnar hugmyndir ríkisstarfsmanna um, að fjölga þurfi ríkisstarfsmönnum, því [að] þar er hvergi rakið, að hvaða leyti núverandi eftirlit sé ónógt eða núverandi skilyrði of linkuleg. [Þetta er annað dæmi, þar sem vanhæfis ríkisendurskoðanda gætir. Hann vill láta setja sjókvíaeldið í spennitreyju ríkisafskipta og skattheimtu án þess að rökstyðja, hvers vegna. Það væri alvarlegt lögbrot vegna mismununar og aðfarar að atvinnufrelsi, - innsk. BJo.]
Þrátt fyrir ábendingar um flókna og margbrotna stjórnsýslu, fjallar ríkisendurskoðandi lítt um umkvartanir um, hve öll afgreiðsla leyfa Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar er hæg. Aðeins er nefnt, að ferill umhverfismats taki tíma, sem er frekar naum lýsing á ástandinu, þegar leyfisumsóknir velkjast um í kerfinu árum saman. Hefði ekki verið ómaksins vert að grafast fyrir um ástæður þeirrar óskilvirkni, sem kostar fiskeldið og þjóðarbúið of fjár ?"
Eftirlitsstofnanirnar með fiskeldinu standa ekki við lögboðna fresti á afgreiðslu umsókna frá fiskeldinu. Það er alvarlegasti ljóðurinn á ráði þeirra, og hann er óviðunandi, af því að hann er lögbrot og rándýr, en á hann er ekki minnzt í þessari furðuskýrslu Ríkisendurskoðunar. Það rýrir enn gildi og trúverðugleika þessarar skýrslu, og fer hvort tveggja þá að nálgast núllið.
Andrés Magnússon er svipaðs sinnis um þessa kostulegu skýrslu Ríkisendurskoðunar og höfundur þessa vefpistils, þótt hann fari of mildilegum höndum um hrákasmíð. Hún tekur ekki á vandanum, sem er sleifarlag eftirlitsstofnana, sem er þungur baggi á atvinnugreininni. Fiskeldið fær engan veginn þá þjónustu hjá afætum ríkisins, sem það á rétt á og greiðir fyrir. Hvers vegna var þagað um það í óvandaðri skýrslu Ríkisendurskoðunar ?
Í lokin reit Andrés:
"Vitanlega er stjórnsýsluúttektin ekki alónýt. Það er margt fróðlegt þar og ýmsar nauðsynlegar ábendingar. En ef það vantar í hana allt um fjárheimildir stjórnsýslunnar til þessa og þar er ofaukið ályktunum um pólitísk álitaefni, þá blasir við, að hún er eitthvað allt annað en ætlazt var til."
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.