Tvískinnungur í forsætisráðuneytinu

Sjaldan hefur jafnótrúverðugur einstaklingur gegnt starfi forsætisráðherra og Katrín Jakobsdóttir.  Hún virðist hafa 2 öndverðar skoðanir á mörgum meginmálum, en flíkar aðeins annarri í einu, þar sem hún á við.  Tvískinnungur er þess vegna í raun einkunnarorð ráðherrans.  

Flokkur hennar, Vinstri hreyfingin - grænt framboð, er andvígur veru Íslands í NATO.  Á vettvangi NATO fagnaði hún hins vegar aðild Finnlands og taldi öryggi landsins betur borgið innan vébanda NATO en utan, svo og NATO-landanna, sem fyrir voru.  Hvað veldur því, að önnur sjónarmið eiga við um Ísland en Finnland að mati VG, eða eiga sömu sjónarmið e.t.v. við, en einhver önnur vega þyngra varðandi Ísland ?  Hér virðist himinhrópandi tvískinnungur einkenna stefnumörkun VG og formannsins, Katrínar Jakobsdóttur.

Annað stórmál, sem gerir Katrínu algerlega ótrúverðuga og flokk hennar óstjórntækan, eru loftslagsmálin og virkjunarmálin sett í samhengi.  Katrín, forsætisráðherra, hefur farið til fundar erlendis á vettvangi EES (Evrópska efnahagssvæðisins) til að guma af nýsettum markmiðum sínum fyrir Íslands hönd um 55 % samdrátt losunar koltvíildis, sem var algerlega út í hött, eins og hverju barni mátti þá þegar ljóst vera, en hún og flokkurinn ásamt útibúinu Landvernd innsigla síðan dauðadóm yfir nokkrum nýjum markverðum árangri Íslands með því að tefja allar virkjanir yfir 10 MW og 220 kV línuuppsetningu von úr viti með kærum. Þetta er ósvífinn tvískinnungur. 

Hinum óþreytandi þjóðfélagsrýni Arnari Þór Jónssyni, sjálfstætt starfandi lögmanni, verður þetta að "yrkisefni" í Morgunblaðinu 14. desember 2023.  Arnar Þór er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Kragann.  Hann á mikinn heiður skilinn fyrir að upplýsa landsmenn um váboða fyrir raunverulegt lýðræði í líki sýndarlýðræðis, vegna innleiðingar umfangsmikillar löggjafar Evrópusambandsins án möuleika þingmanna á ítarlegri umfjöllun, aðlögun og breytingum, nema eiga á hættu að fá athugasemd frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, fyrir að breyta innihaldi, sem embættismenn voru búnir að samþykkja í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Þetta er angi af embættismannaræði, sem Arnar Þór hefur gagnrýnt mjög og varað þjóðina við, að leysi í raun af hólmi það hefðbundna almannaræði, sem landsmenn hafa kosið sér til handa. 

Grein Arnars Þórs, sem hér verður vitnað til, bar fyrirsögnina:

"Skömmtunarstjórn Katrínar Jakobsdóttur".

     Tilefnið var Morgunblaðsgrein Katrínar 11.12.2023, sem bar heitið: "Baráttan fyrir mannréttindum í 75 ár".

"Enginn forsætisráðherra í lýðveldissögunni hefur brotið gegn mannréttindum í sama mæli og Katrín Jakobsdóttir, sem í anda stjórnlyndis innleiddi ólýðræðislegt stjórnarfar hérlendis á árunum 2020-2022, þar sem sérfræðingum ríkisstjórnarinnar var afhent stefnumörkun, sem Katrín studdi í einu og öllu með þeim afleiðingum, að íslenzkur almenningur var í framkvæmd sviptur stjórnarskrárvörðum rétti. Í þessu ljósi er holur hljómur í yfirlýsingum Katrínar um nauðsyn þess, að staðinn sé stöðugur vörður um mannréttindi.

Enginn forsætisráðherra í lýðveldissögunni hefur beitt sér gegn tjáningarfrelsinu af viðlíka hörku og Katrín Jakobsdótir, sem ítrekað hefur mælt með skerðingum á þessu undirstöðufrelsi undir merkjum "hatursorðræðu".  Í því samhengi er falskur tónn í tali Katrínar, þegar hún talar um "bakslag á undanförnum árum", hvað viðvíkur réttinum til lýðræðislegrar þátttöku og skoðana- og tjáningarfrelsi"." 

Þessi forsætisráðherra framkvæmir eitt og nokkru seinna segir hún allt annað og þveröfugt.  Það er meira en ómerkileg hegðun; það er siðleysi, þegar öll atvikin eru lögð saman.  Þess konar hegðun er óþolandi og ótraustvekjandi.  Í augum kjósenda, sem gera sér grein fyrir þessu, er Katrín Jakobsdóttir rúin trausti.  Hversu lengi skyldi henni takast að hanga á völdunum ?

"Sérstaka athygli ber að vekja á því, hvernig Katrín Jakobsdóttir staðhæfir, að "stærsta áskorun okkar kynslóðar" sé "loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á mannréttindi".  Þessi orð hennar ber að taka alvarlega, því [að] Katrín Jakobsdóttir aðhyllist sameignarstefnu, eins og raunar aðrir róttækir aðilar til hægri og vinsti, sem sumir líta svo á, að yfirvöld úthluti réttindum og hafi samsvarandi vald til að svipta fólk þeim réttindum. Þessi afstaða er í beinni andstöðu við anda klassískar, frjálslyndrar lýðræðishefðar, sem byggist á því, að mannréttindi séu meðfædd, ásköpuð og verði ekki frá mönnum tekin.  Með þetta í huga er afhjúpandi og blátt áfram hrollvekjandi að sjá forsætisráðherra vísa í greininni til þess, að unnt sé með samvinnu að "áorka einhverju, sem stuðlar að betra lífi fjöldans".  Í þessu kristallast sú hætta, að afstaða af þessu tagi geti stuðlað að því að takmarka mannréttindi einstaklinga og jafnvel afnema þau með lögum, ef það er talið "stuðla að betra lífi fjöldans" (e. the greater good)." Þetta er umhugsunarvert. Stjórnmálamenn forræðishyggjunnar eru hættulegir mannréttindum og einstaklingsfrelsi.  Þess vegna predikar Katrín umhyggju sína fyrir mannréttindum, en, eins og Arnar Þór skrifar, hefur enginn forsætisráðherra hérlendur brotið jafnmikið og oft gegn þeim.Það er líka athyglivert, að íbúi í Grindavík kærði, að sér væri meinað af yfirvöldum að búa í húsnæði sínu í Grindavík. Hann fékk lögmannsstofu Jóns Steinars Gunnlaugssonar til að reka mál sitt fyrir dómi á þeim forsendum, að sú meingjörð við sig væri brot gegn stjórnarskrárvörðum réttindum sínum og mannréttindum.  Athygli vakti, að skömmu fyrir jól heimilaði Lögreglustjórinn á Suðurnesjum Grindvíkingum að snúa aftur til síns heima á eigin ábyrgð, þótt landris væri enn í gangi og óvissa um stefnu næsta kvikuinnskots.  Ekki er ólíklegt, að Lögreglustjórinn hafi haft persónufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar í huga við þessa leyfisveitingu.  Hitt er svo annað mál, hvernig tryggingarfélög munu taka á því, ef þeir, sem aftur snúa, verða fyrir slysi eða tjóni af náttúrunnar völdum, á meðan á slíkri dvöl "á eigin ábyrgð" stendur.  Sannleikurinn er sá, að fólk leggur sig iðulega í hættu, og það er ekki bannað.                                 

 

                        

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sæll síðuhöfundur og gleðilegt ár.

Ég er orðinn það hugsi yfir þessum ádrepum, sem þú og aðrir setja fram, að mér finnst eins og ég hafi haldið aftur af mér. Það eru helvíti fá korn eftir í tímaglasinu og ég skil ekki afhverju Alþingi tekur ekki af skarið og sker á þessa þvælu sem er í gangi gagnvart ÖLLU sem þarf að gerast í þessu þjóðfélagi.

Sindri Karl Sigurðsson, 1.1.2024 kl. 15:54

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Gleðilegt nýár, Sindri Karl.

Ekki fer á milli mála, að innanhússmenn við Austurvöll eru teknir að ókyrrast vegna slagbrands, sem afturhaldið hefur skellt á orkumálin í landinu með þeim afleiðinum, að olíubrennsla í stað rafhitunar eykst með hverju árinu í landinu.  Þetta er algerlega glórulaust.  Svona fer, þegar leiðsögnin er í höndum fávísra sérvitringa.  

Bjarni Jónsson, 2.1.2024 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband