Vanstilltur fullyrðingaflaumur

"Opið bréf til Alþingismanna frá forystufólki í íslensku þjóðlífi og landeigendum" birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2024 undir ábúðarmikilli fyrirsögn: 

"Fimm staðreyndir um Ísland".

Þar gat að líta eftirfarandi:

"01 Sjálfsmynd Íslands tengist náttúruauðlindum og legu landsins órjúfanlegum böndum.  Þegar horft er til jarðfræðilegs mikilfengleika eldgosa og heitra lauga, stórbrotinna norðurljósa, villts dýralífs og ósnortinnar náttúru, er Ísland einstakt á heimsvísu."

Lönd hafa enga sjálfsímynd.  Það er hæpið að alhæfa með þessum síðrómantíska hætti um sjálfsímynd þjóðar, sem orðin er fjölmenningarleg, enda kemur þetta hástemmda náttúrublaður laxeldi í sjó við fáeinar strendur Íslands ekkert við, nema höfundarnir kjósi helzt, að fólkið í landinu verði bara sýningargripir í þjóðgarði fyrir túrhesta af malbiki stórborganna. 

"02 Í dag byggir Ísland sjálfstæð þjóð, sem trúir á sjálfsákvörðunarrétt sinn. Íslendingar mótuðust í deiglu sjálfstæðisþrár (sic ! - þráar) og ættu aldrei að láta erlenda hagsmuni ganga í berhögg við sína eigin."

Þetta er algerlega úrelt viðhorf.  Aðeins elztu núlifandi frumbyggjar mótuðust af sjálfstæðisþrá.  Nú er alþjóða samvinna komin á slíkt stig, að það að etja saman erlendum og innlendum hagsmunum í landi, sem er á Innri markaði Evrópusambandsins, þar sem "frelsin fjögur" eru grundvöllur EES-samningsins, sem Alþingi hefur fullgilt, er fullkomin tímaskekkja.  Þarna er verið að bera brigður á erlendar fjárfestingar og gildi þeirra fyrir hagkerfi landsins, sem fjárfest er í.  Erlendar fjárfestingar í löglegri atvinnustarfsemi eru alls staðar, nema í Norður-Kóreu og ámóta ríkjum, mikið keppikefli.  Þær eru reyndar allt of litlar á Íslandi.  Fjárfestingar Norðmanna í sjókvíaeldi við Ísland hafa komið fótunum undir laxeldi í sjó hérlendis, sem á sér brösuglega fortíð, þegar frumkvöðlarnir börðust í bökkum við þetta.  Laxeldi í sjó hefur leitt nýtt blómaskeið yfir byggðir Vestfjarða og styrkt byggðir Austfjarða í sessi.  Sefasýkislegur atvinnurógur í garð þessarar starfsemi er sorglegur upp á að horfa.  

"03 Við hvetjum heimsbyggðina til að sækja okkur heim, njóta gæða landsins og fjárfesta af ábyrgð, fremur en að ganga á auðlindir þessa stórkostlega lands.  Við getum ekki látið það viðgangast, að erlend fyrirtæki hagnýti meira af arfleifð okkar og þjóð en þau skila til baka."

Þarna er verið að hvetja til aukinnar ferðamennsku, en í ljósi þess, sem nú er að gerast á Kanaríeyjum, þar sem ferðamennskan er yfirþyrmandi og hefur leitt til fátæktar frumbyggjanna, sem reyna að lifa á sínum hefðbundnu atvinnugreinum.  Það er með öllu ósannað og verður að telja til ósanninda, að sjókvíaeldið gangi á auðlindir Íslands.  Landeigendur og veiðiréttarhafar ættu að líta sér nær varðandi mikla fækkun villtra laxa í íslenzkum ám.  Miðað við veiðiálagið og viðmiðanir vísindamanna um sjálfbært veiðiálag í íslenzkri lögsögu á sér stað rányrkja úr íslenzkum ám, en ástandinu er reynt að klína á sjókvíaeldið, sem er einfaldlega algerlega úr lausu lofti gripið og virðist vera ein rándýr smjörklípa. Það er tímabært, að Alþingi fjalli um að setja nytjar dýralífs í ám á Íslandi undir vísindalega stjórnun Hafrannsóknastofnunar. 

"04 Hagkerfi eyríkis á borð við okkar þarfnast þess að hugsa og skipuleggja langt fram í tímann.  Auðlindir eru alls staðar dýrmætar, en eyþjóð verður að standa dyggan vörð um þær, sem hún sjálf býr yfir. 

 Þetta er skrýtinn texti.  Hagkerfi hvorki hugsa né skipuleggja.  Þurfa ekki jafnvel fjölskyldur að hugleiða framtíðina og skipuleggja langt fram í tímann ?  Þarna virðist vera reynt að segja, að eyþjóð þurfi að standa dyggari vörð um auðlindir sínar en aðrar þjóðir.  Engin rök eru færð fyrir því, bara fullyrt.  Það er í anda þeirra smjörklípumanna, sem ofsækja sjókvíaeldi hér við land og kenna því um ófarir sínar.  Þarna á við hin kristna speki.  Þú sérð flísina í auga samferðarmanns þíns, en ekki bjálkann í eigin auga.  

Það hefði verið eðlilegra og nærtækara áður en vaðið var fram með órökstuddum fullyrðingum, svívirðingum og dylgjum, í garð heillar atvinnugreinar, að þau sem hér eiga í hlut mundu hafa gert mótvægisáætlun við hraða hnignun villtra laxastofna í ám Íslands, sem fæli í sér stórfelldan niðurskurð eða jafnvel friðun stofnanna, þar til þeir næðu sér á strik að nýju.  Ofstækið, sem felst í eftirfarandi málsgrein þeirra, er ekki aðeins forkastanlegt, heldur kann að vera brot á stjórnarskrárreglu um atvinnufrelsi á Íslandi:

"Við biðlum því til Alþingismanna okkar og ráðherra að vinna að því að draga úr og stöðva að lokum sjókvíaeldi."

Það hafa engin haldbær rök og gögn verið lögð fram, sem réttlæta mundu frekleg og rándýr stjórnvaldsinngrip af þessu tagi langt úr meðalhófi fram og án viðeigandi rannsóknarniðurstaðna, sem væru einstæð í sögunni og mundu draga dilk á eftir sér um langa framtíð.  Það lýsir dómgreindarleysi að senda þvílíka beiðni frá sér.  Ef flugufótur væri fyrir hrikalegum ásökunum hópsins, sem að þessari öfugsnúnu herferð stendur gegn lögbundinni atvinnustarfsemi í landinu, þá væru starfsmenn eftirlits- og ráðgjafarstofnana ríkisins, sem komið hafa að leyfisveitingum, eftirliti og ráðgjöf með þessari starfsemi, með öllu óhæfir og ekki starfi sínu vaxnir.  Það er fásinna að halda slíku fram og jafgildir atvinnurógi.  Þetta er mjög ljótt mál. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Heill og sæll Bjarni

Ég hef haldið mig frá umræðunni um fiskeldi í sjó, sumpart vegna þess að sjálfur átti ég á árum áður jörð sem átti land að laxveiðiá er gaf mér arð. Hins vegar eru nokkrar staðreyndir sem má benda á og einnig má velta vöngum yfir öðru.

Um og eftir 1980 fór fiski að fækka verulega í laxveiðiám landsins. Hver orsökin var er lítt vitað, en víst að varla er hægt að kenna sjókvíaeldi um þá þróun. Ekki var þó gripið til þess að fækka veiðidögum eða fækka stöngum í ám landsins, heldur var áfram sótt af fullum krafti. Svo kom að veiði í sumum bestu ám okkar hrundi nánast að fullu. Þá var tekið til við þá iðju er kallast að "veiða og sleppa", sem nú er algild í veiðiám hér. Ekki fækkað veiðidögum sem neinu næmi né fækkað stöngum. Þetta eru staðreyndirnar sem sem ég vildi nefna.

Það sem ég velti fyrir mér æ oftar er þessi aðferð að veiða og sleppa. Þegar laxinn bítur á agnið er hann þreyttur í langan tíma og að lokum landað. Eftir myndatökur og alskyns gleðskap veiðimanna yfir fengnum er laxinum síðan sleppt aftur í ánna. Hver afdrif þessa lax verður er fátt vitað. Þó telja menn nú að flestir þeirra nái aldrei að ganga upp ánna að hrigningaslóð og jafnvel að flestir þeirra drepist fljótlega eftir viðureignina. Engar staðreyndir liggja að baki þessum þönkum mínum, enda fáar rannsóknir verið gerðar á þessu.

Í það minnsta hefur þetta lítið aukið fiskgengd í árnar, er enn á sama leveli og þegar verst var. Hvers vegna ekki var tekið á málinu í tíma og ár friðaðar í meira mæli, liggur auðvitað í því að veiðimenn voru tilbúnir að greiða hátt verð þó von um veiði væri hverfandi. Bændurnir þáðu auðvitað aurinn, enda búbót sem munaði um. Með sama áframhaldi mun lítil breyting verða á, nema kannski að veiðimenn verði fráhverfari því að borga fyrir lítið eða ekkert.

Sjókvíaeldi er ung atvinnugrein hér á landi. Sú hrakfallasaga sem veiðiár hafa orðið fyrir síðustu 45 ár eða svo, er ekki sjókvíaeldi að kenna. Hvort það auki vanda veiðiáa í framtíðinni er ég ekki tilbúinn að skera úr um. Sýnist veiðimenn vera full færir um að útrýma laxinum sjálfir. Allt tal um sjálfbærni í laxveiðám hér á landi er hreint bull.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 18.4.2024 kl. 00:38

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Gunnar Heiðarsson, og þakka þér fyrir þitt fróðlega og vandaða innlegg.  Við erum algerlega sammála í þessu máli og sammála erfðafræðinni.  Það er ekki mögulegt, að veikburða gen eldislaxins nái að veikja stofna villtra laxa á Íslandi með þeirri litlu innblöndun, sem átt hefur sér stað hérlendis.  Þetta er einfaldlega útblásin vitleysa og illvíg smjörklípa.  Ég hef, eins og þú o.fl, verið hugsi um þessa "veiði og sleppa" aðferð.  Mig grunar hún sé sýndarmennska, því að fiskarnir særast oftar en ekki illilega í gininu, og þróun slíkra sára getur hæglega orðið neikvæð og hamlað fæðuöflun.  Er ekki stutt í, að dýraverndarsamtök geri sínar athugasemdir við þetta ?  Er þessi veiðiskapur dýraníð ?

Ég held, að mál séu að þróast með þeim hætti, að þingmenn muni sjá þörf lagasetningar, sem veiti ríkisvaldinu heimild til að grípa inn í neikvæða þróun laxastofna með veiðitakmörkunum eða tímabundinni friðun. 

Laxastofnar hafa gjarna sveiflazt með 10 ára lotu.  Ég held, að nauðsynlegt sé, að Hafrannsóknarstofnun fari að gefa ám landsins meiri gaum, fúski með seyðaflutningi á milli áa o.fl.  Að oflátungar og ofstækismenn (fúskarar) ríði húsum, hindrar raunverulegar framfarir við að efla íslenzka laxastofna.  

Bjarni Jónsson, 18.4.2024 kl. 17:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband