9.8.2008 | 22:42
Allt er hey í harðindum
Fagnaðarefni er, að Landsvirkjun skuli nú sjá sér fært að virkja við Búðarháls með hagkvæmum hætti. Það sýnir, að samningar hafa náðst um hærra heildsöluverð raforku en Landsvirkjun stóð áður til boða. Þar að auki fylgir verðið vafalítið verðhækkunum á afurðum verksmiðjanna, sem raforkuna kaupa.
Um 80 % af heildarorkunotkun okkar Íslendinga kemur úr okkar eigin sjálfbæru og afturkræfu virkjunum. Aðrar þjóðir komast fæstar í hálfkvisti við okkur, hvað þetta varðar. Myndin með þessari vefgrein er frá mótmælum gegn byggingu nýs kolakynts raforkuvers í Kingsnorth á Englandi. Evrópusambandið (ESB) hefur sett löndum ESB að markmiði, að árið 2020 komi 15 % heildarorkunotkunar úr endurnýjanlegum orkulindum. Mótmælendur á myndinni hafa með sér "hvítabjörn" til að undirstrika ótta sinn við hlýnun jarðar. Vitneskjan um kraftana, sem valda loftslagsbreytingum virðist þó enn vera á reiki. Samkvæmt líkani IPCC ætti að hafa farið hlýnandi síðast liðinn áratug, en meðalhitastig jarðar hefur þvert á móti lækkað þá. Fyrir þá mótmælendur, sem hér eiga í hlut, umhverfisöfgasinna og stjórnleysingja, helgar tilgangurinn þó meðalið. Hver yrði afleiðingin af því að fara að vilja þeirra ? Orkuskortur blasir við á Bretlandi, því að rífa þarf fjölda gamalla kolakyntra vera ásamt kjarnorkuverum á næstu árum. Ekkert nýtt kolakynt raforkuver hefur fengizt reist í 20 ár. Raforka úr kjarnorku er um tvöfalt dýrari en raforka úr eldsneyti, og þá hefur ekki verið meðreiknaður niðurrifskostnaður og eyðingarkostnaður geislavirks úrgangs. Um 70 milljarðar punda er áætlaður kostnaður við hreinsun allra núverandi kjarnorkuvera Breta, sem mundi duga til að reisa vindorkuver á sjó úti til framleiðslu á 60 GW rafafli. Sá hængur er á þessum vindorkuverum, að þau framleiða að jafnaði aðeins 13 % af uppsettu afli, og viðhaldskostnaður vegna veðra og tæringar er hár samkvæmt dönskum heimildum. Samkvæmt þeim kostar rafmagn til neytenda frá slíkum orkuverum 0,26 evrur/kWh eða 32 ISK/kWh. Af þessu er ljóst, að þjóðir án aðgangs að vatnsorku eða jarðvarma standa frammi fyrir vali á milli gríðarlega hárra orkureikninga eða að halda eldsneytisbrennslunni áfram til vinnslu á raforku.
Sú andstaða, sem hérlendis gerir vart við sig gegn virkjunum, er ekki í neinum samhljómi við meginstraumana í þróun orku-og umhverfismála heimsins. Hún er einnig reist á löngu úreltum viðhorfum til fyrirtækjanna, sem eru helztu kaupendur raforku á Íslandi. Þau eru nú hluti af alþjóðlegu viðskipta-og framleiðslukerfi, sem nýta hérlendis beztu fáanlegu þekkingu til lágmörkunar á mengun og hámörkunar á arði. Þetta tryggir varanlega fyrsta flokks vinnustaði. Hvergi mundi slíkri atvinnuuppbyggingu vera mótmælt nú á dögum. Haldreipi umhverfisofstækisfólks hérlendis er, að náttúran verði að njóta vafans. Þó er náttúran sjálf sífelldum breytingum undirorpin, eins og ekki fer framhjá þeim, sem um landið hafa ferðazt undanfarna áratugi. Frágangur flestra virkjana hérlendis afsannar rækilega þá kenningu, að mannvirki séu til lýta i annars ósnortinni náttúru. Miðlunarlón vatnsaflsvirkjana eru þvert á móti til fegurðarauka í úmhverfinu að margra mati. Mannvirki geta fallið ágætlega að náttúrunni, og náttúran haldið áfram að njóta sín þrátt fyrir mannvirkin.
Áður fyrr lifðu Íslendingar á því, sem landið og miðin gáfu þeim. Oft lifðu þeir þá við harðan kost og voru lengi á heljarþröm hungurs og vosbúðar. Nú er öldin önnur. Þegar þjóðin hafði náð stjórn eigin mála í sínar hendur, tæknivæddist hún. Hún þarf nú ekki lengur að nýta landið með ósjálfbærum hætti, eins og forfeðurnir neyddust til að gera til að halda lífi, heldur hefur alla burði til að njóta þess, sem landið getur veitt með fallvötnum sínum og orku í iðrum jarðar. Auðvitað jafngilda slíkar framkvæmdir breytingum, en þær bæta undantekningarlaust lífsgæðin í landinu. Hluta af afrakstri auðlindanýtingarinnar ætti síðan að nýta til landgræðslu og skila landinu þannig því, sem af því var tekið í nauðvörn. Ef við ekki teljum okkur hafa ráð á því, getum við engan veginn talizt vera föðurbetrungar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.