Fyrirheitna landið

Nú er jólamánuðurinn genginn í garð.  Mjög snögg umskipti til hins verra hafa orðið á flestum heimilum landsins, margir verða að breyta háttum sínum, sumir Íslendingar upplifa nú skort í fyrsta sinn.  Orsök þessa hörmulega ástands má rekja til fjármálakreppu um allan heim af völdum óhóflegrar skuldsetningar víða með Japan og Þýzkaland sem undantekningar.   Efnahagskreppan fer samt ekki framhjá þessum löndum, sem sýnir glögglega, að hér er um heimskreppu að ræða. Feiknarleg skuldsetning íslenzkra banka, margra annarra innlendra fyrirtækja og einstaklinga er meginorsök þess, að "íslenzka efnahagsundrið" hrundi eins og spilaborg. 

FViðskiptajöfnuður og neyzla í Þýzkalandi og Japanyrir um 2500 árum leiddi Móses þjóð sína úr ánauð Faraóa Egyptalands.  Fyrir neðan þessa vefgrein er tengill að stórkostlegri myndasýningu frá Egyptalandi, sem mér barst nýlega frá Svisslendinginum Ursulu Riesen.  Eru lesendur hvattir til að koma sér vel fyrir og hverfa í huganum til Egyptalands á meðan þeir njóta einstakra mynda og gullkorna frá Ursulu Riesen. 

Nú þurfa Íslendingar á því að halda að verða leiddir út úr eyðimörk efnahagsófara.  Eftir er að sjá, hvort einhver nýr foringi stígur fram á sviðið til að veita þjóð sinni leiðsögn út úr þessari eyðimörk.  Móses er aðeins eitt af mörgum dæmum um mikilhæfa forystumenn, sem komið hafa fram á örlagastundu. 

Dansinn í kringum gullkálfinn gekk hér út í öfgar.  Nýtt gildismat þarf að eiga sér stað.  Hins vegar er efnaleg velferð íslenzka þjóðfélaginu nauðsyn, ef það á að standast öðrum snúning.  Eiga Íslendingar enn möguleika í samkeppni við önnur efnahagskerfi ? Svarið er, að með dugnaði og ráðdeild, góðu skipulagi, hugkvæmni, jöfnun tækifæra, umbun eftir framlagi og öflugum stuðningi við þá, sem minna mega sín, eru góðir möguleikar á, að lífskjör hérlendis verði aftur á meðal þess bezta, sem þekkist. 

Hvernig á að fjármagna þessar framfarir ?  Auðlindir Íslendinga eiga að verða undirstaða sóknar til bættra lífskjara.  Fiskimið, ár og vötn, ræktarland, úthagi og lindarvatn eru lítt eða jafnvel ómengaðar matarkistur hverra verðmæti fara vaxandi í heimi sívaxandi fólksfjölda, þar sem mengun og veðurfarsbreytingar gera manninum æ erfiðara fyrir.  Skógrækt og landgræðsla eru stórverkefni, sem unnt verður að fjármagna með sölu koltvíildiskvóta. 

Mikið verðfall afurða og eigna, fasteigna og hlutafjár, ofan í mikla skuldsetningu, hefur þrengt stöðu margra fjárfesta til muna.  Þegar þeir rétta úr kútnum, munu þeir hyggja fljótt á fjárfestingar til að verða tilbúnir í næstu uppsveiflu.  Við Íslendingar búum að orkulindum, sem heiminn þyrstir í.  Við eigum að grípa tækifærin strax og þau gefast og virkja vatnsföll og jarðgufu til að knýja iðjuver af því tagi, sem fáanleg eru hingað til lands.  Þannig breytum við orku í gjaldeyri, sem knýr efnahagslífið áfram.  Innlend orka mun einnig knýja fiskiskipaflotann, er fram líða stundir, og Íslendingar geta innan tveggja áratuga orðið sjálfum sér nægir með orku.  Þeir geta orðið fyrsta iðnaðarþjóð heims, sem alfarið losnar úr viðjum jarðefnaeldsneytisins. 

Við getum reyndar einnig á sama árabili orðið olíu-og gasvinnsluþjóð með gríðarlegar útflutningstekjur af slíkri vinnslu, eins og frændur okkar Norðmenn.  Við verðum að halda vel á spilunum til að okkur nýtist allar þessar auðlindir.  Til þess þurfum við að leggja áherzlu á góða verkkunnáttu, góða efnahagsstjórnun, markaðskerfi með dreifðri eignaraðild og samfélagslegri ábyrgðarkennd með langtíma árangur heildarinnar að markmiði í stað skammtíma ávinnings fárra.  Hugarfar "Casino" hagkerfisins verður að víkja fyrir sköpun handfastra verðmæta.  Bréfaleikrit og launatengingar við einkennileg skammtímamarkmið eru liðin tíð.  Hégómleikinn víki fyrir ábyrgum stjórnum hlutafélaga, sem geri ráðningarsamninga á grundvelli fastra launa eða langtímaárangurs, sem mælanlegur sé með áþreifanlegum hætti, en ekki sem þrýstingur ímyndaðrar bólu.  Lykilorð eru valddreifing og dreifð eignaraðild í anda Sambandslýðveldisins Þýzkalands á dögum Konrads Adenauers og Ludwig Erhards, feðra þýzka efnahagsundursins.

Við þurfum snjalla samningamenn, sem standast erlendri ásælni snúning, þannig að forræði auðlindanna og efnahagsstjórn og dreifing arðsins af vinnu Litlu-Gunnu og Litla-Jóns lendi ekki í hundskjafti. 

Aðild að ESB er stóráhættusöm og má hvorki flana að né ráðast í á röngum forsendum eins og gjaldmiðilsmálum.  Samþykkt Evrópubankans og ESB á evru sem ríkisgjaldmiðli Íslands er ekki handan við hornið, því að uppfylling allra Maastricht krafnanna er algert skilyrði og vegna skuldabagganna, sem virðast verða hnýttir ríkissjóði, er evran óraunhæfur kostur fyrr en um 2020.  Allar þjóðir eru nú uppteknar við að bjarga eigin skinni og samningaviðræður um myntsamstarf, t.d. við Bandaríkjamenn, þess vegna ótímabært.  Hvað sem draumórum líður, er enginn annar kostur fyrir okkur en að reyna að koma efnahagslífinu á réttan kjöl með okkar gamla gjaldmiðli, með kostum hans og göllum.  

Það verður að gera þá kröfu til Alþingis, að það kryfji afleiðingar aðildar til mergjar og miði þá við, að ESB er breytingum undirorpið, getur sundrazt, getur þrózt á mismunandi brautum fyrir mismunandi lönd, en sterk öfl vinna hins vegar að þróun þess í átt að sambandsríki í ætt við Sambandslýðveldið Þýzkaland.  Hvaða rök hníga að því, að örlögum Íslands verði betur borgið við Kurfürstendamm og Brandenburger Tor en við Austurvöll og Lækjartorg ? Íslendingar eiga ágæta vini í Berlín, og aðild Íslands mundi fremur styrkja norðurvæng ESB en hitt, en vandséð er, að fjarbúðarstjórnsýsla geti orðið vandaðri en umsýslan á landinu sjálfu, þó að brokkgeng sé á köflum, enda ekki allt jafnvakurt hér á vegum hins opinbera.  Með öðrum orðum þarf að vera skýr og augljós ávinningur fyrir landið sem heild til langrar framtíðar af inngöngu til að rétt sé að hætta á færa ákvarðanatöku um lykilmál til skrifræðisbákns Evrópusambandsins.  Slík rök fyrir inngöngu hafa ekki komið og höfundi þessara hugleiðinga er til efs, að þau séu til.  Norska þjóðin fann þau ekki fyrir sitt leyti, þar sameinuðust reyndar Hægri flokkurinn og Verkamannaflokkurinn um að styðja aðild á sinni tíð, þó að mikils klofnings gætti.  Margt er líkt með hagsmunum Íslendinga og Norðmanna, vatnsorkulindir, áliðnaður, auðug og víðfeðm fiskimið og olíulindir.  ESB þyrstir í þetta allt og þeim yrði vel tekið sem fjárfestum, en forræðið, lagasetningarvaldið, fullveldisrétturinn verður að vera í Reykjavík til að landið breytist ekki í verstöð, hverrar ráðum er ráðið í Brussel, Berlín, París og London. 

Spilling og hrikaleg hrossakaup tröllríða húsum á stjórnarskrifstofum ESB.  Í þeim vargahópi mætti rödd okkar lítils. Á hinn bóginn yrðum við krafin um hæstu gjöld á mann til sambandsins, þegar við náum efnahagskerfinu aftur á snúning.  Það eru blóðpeningar, sem fara í niðurgreiðslu-og fyrirgreiðsluhít blýantsnagaranna í Brussel.  Göngum við á mála hjá ESB, verður vart aftur snúið, og landið getur hafnað sem afkími Stór-Evrópu, án nokkurra umtalsverðra áhrifa, hvorki innan né utan ESB.  Það hlýtur að koma betur út fyrir smáþjóð að semja sjálf um hagsmuni sína en að fela öðrum það hlutverk. 

Áhugi Austur-Evrópu þjóða á inngöngu í ESB á sér rætur í þáttum, sem eru óskyldir hagsmunum Íslendinga.  Þær sjá fyrir sér bætt lífskjör við inngöngu, því að meðaltekjur á mann eru mun lægri en að jafnaði í ESB.  Þessu er öfugt farið með okkur.  Þá telja þessar þjóðir sér vera vörn í aðild gegn hugsanlegri ásælni og ítökum Rússa. 

Tiltölulega margir starfa í landbúnaði í þessum löndum, og bændur þar hafa mjög horft til framlaga úr sjóðum ESB til landbúnaðar.  Hætt er við, að hinn mjög svo niðurgreiddi landbúnaður ESB mundi ganga af íslenzkum landbúnaði dauðum í samkeppninni af náttúrufarslegum ástæðum.  Sjávarútvegur ESB er líka stórlega ríkisstyrktur, og þess vegna er fiskiskipaflotinn þar allt of stór miðað við veiðiheimildir.  Þetta er með eindæmum ógæfuleg blanda fyrir íslenzkan sjávarútveg, sem er mun betur rekinn en sá evrópski og gengur líklega einnig mun betur um miðin.  Hvort iðnaðurinn verður betur settur innan ESB en utan er óvíst, því að hann hefur nú þegar fullt aðgengi að mörkuðum ESB. 

Hverra hagsmunum væri þá verið að þjóna með inngöngu í ESB ?  Tæpast hagsmunum höfuðatvinnuveganna, en e.t.v. einhverjum sérhagsmunum.

 

    

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Þakka þér góða hugleiðingu -

Að leiða þjóðina út úr óstandinu - Geir H.Haarde.

við getum ekki og þolum ekki að lýðskrumarar komist að - Steingrímur J er með nýju fötin keisarans sem lausn á öllum málum - það væri hroði að hleypa honum að.

Vinnum að því aðGeir fái vinnufrið - honum er best treystandi til þess að losa okkur við afleiðingar heimskreppunnar og útrásarhítarinnar.

Hersvegna eru eigur þessara manna ekki teknar eignarnámi - þeir virðast eiga milljarðatugi og jafnvel milljarða hundruð í allskonar eignum. Þjóðin á þessar eigur - ekki fjárglæframennirnir.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 7.12.2008 kl. 14:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband