18.12.2008 | 20:39
Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi
Ómælda athygli vakti, er formaður Samfylkingar skilyrti líf sitjandi ríkisstjórnar í útvarpsþætti að morgni laugardagsins 13. desember 2008 við væntanlega niðurstöðu Landsfundar Sjálfstæðisflokksins, sem fram á að fara í lok janúar 2009. Þótti þá ýmsum skörin vera farin að færast upp í bekkinn. Þegar nánar er að gáð og eftir hlustað, er þó ljóst, að sú ókurteisi, sem í því felst að setja sjálfstæðismönnum á Landsfundi stólinn fyrir dyrnar með þeim hætti, sem gert var, veldur vatnaskilum í Sjálfstæðisflokkinum, fullveldissinnum í vil.
Teningunum er nú kastað, eins og hjá Júlíusi Caesar um 40 árum f. kr. á ögurstundu, er hann ákvað að halda með Gallíuher Rómarveldis til Rómar og taka þar völdin vegna úrræðaleysis Öldungaráðsins, sem honum þótti keyra um þverbak. Sjálfstæðisflokkurinn verður senn að halda yfir sitt Rubicon fljót til að jafna duglega um Samfylkinguna, sem lítillækkar hann með því að segja æðstu stofnun hans, Landsfundinum, fyrir verkum fyrir opnum tjöldum.
Fyrir Landsfundi liggur að semja ályktun, sem ætlað er að verða hryggjarstykkið í umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, ESB. Samfylkingin hefur enn ekki sýnt þann manndóm að semja slíkt skjal fyrir sitt leyti, svo að flokkarnir hafa í raun ekki um neitt handfast að semja. Samfylkingin mun þó fá tækifæri til að hnika til orðalagi, en umsóknin mun verða á forsendum Sjálfstæðisflokksins, verði heimilað á Landsfundi að breyta henni í umsókn um aðild að ESB.
Þetta er út af fyrir sig jákvætt, en framkvæmdastjórn ESB mun gjörbylta slíku plaggi, og Sjálfstæðisflokkurinn mun að lokum ekki geta mælt með samþykkt þess skjals, sem út úr samningaviðræðunum kemur, þó að Samfylkingin vafalaust muni leggjast á bakið og og biðja "kommissara" um að klóra sér á kviðnum. Hún samþykkti á sinni tíð í svo kallaðri "póstkosningu" að heimila flokksforystunni að fara í aðildarviðræður, en flokksforystan virðist ekki hafa unnið heimavinnuna sína.
Hugtakið aðildarviðræður hefur í þessu sambandi verið mistúlkað. Ekki er um venjulegar viðræður að ræða, þar sem báðir aðilar setjast við hreint borð með opinn hug. Á fyrsta fundi mæta samningamenn ESB eftir að hafa farið yfir aðildarumsóknina og merkt við atriði, sem ekki samræmast stofnsamningum sambandsins. Þeir hafa enga heimild til að víkja frá þeim, en mega semja um aðlögunartíma "fórnarlambinu" til handa.
Samfylkingin skilur enn ekki, hvernig kaupin gerast þarna á eyrinni. Menn fara með öðrum orðum ekki tómhentir í aðildarviðræður við ESB. Menn leggja þvert á móti fram mótaða umsókn fyrir ráðherraráðið, eins og Svartfjallaland gerði 15. desember 2008, og ráðið felur síðan framkvæmdastjórninni að fara yfir umsóknina og leggja fram gagntillögu, sem reist sé á stofnsamningum ESB. Síðan er reynt að semja um fresti og umþóttanir fyrir umsækjandann, ef framkvæmdastjórnin hefur í byrjun metið umsóknarlandið hæft til slíkra viðræðna, þ.e. tækt í sambandið.
Framkvæmdastjórninni er að sjálfsögðu óheimilt að víkja frá stofnsáttmálum ESB. Þetta á ekki sízt við um sjávarútveginn, sem ESB flokkar með landbúnaði, en málefni hans eru kjarninn í sameiginlegri stefnu ESB inn á við og út á við. Telja verður, að aðildarsinnum hérlendis sé ekki sjálfrátt þangað til þeir rökstyðja á hagfræðilegan og sagnfræðilegan hátt eða með öðrum óyggjandi hætti og með vísun til gæða opinberrar stjórnsýslu fjær og nær, hvers vegna þeir haldi, að Íslandi verði betur stjórnað úr fjarska en frá Reykjavík og þegnunum muni þannig betur vegna. Þangað til haldbær rök í þessa veru koma fram, verður að álykta, að hér vaði í raun um gösslarar og/eða áhættufíklar í líkingu við þá, sem kollkeyrðu efnahagskerfi landsins á undanförnum misserum. Einkunnarorð aðildarsinna virðast vera: "betra er að veifa röngu tré en öngu". Förum inn og látum skeika að sköpuðu. Hér ber að hafa í huga, að ekki er auðvelt að fara út aftur, nema brjóta allar brýr að baki sér. Engin áhættugreining og fræðileg hagsmunagreining hefur farið fram, sem sýnir með óyggjandi hætti ávinning af inngöngu. Á samt að gösslast áfram, nú með allt á hælunum, og fórna meiri hagsmunum fyrir minni ?
Vegna áhættunnar, sem felst í því að deila fullveldisrétti smáþjóðar um málefni og auðlindir landsins með öðrum þjóðum í bráð og lengd, verður að gera þá kröfu til aðildarsinna, að þeir komi fram með rök, sem halda vatni og séu annað og meira en yfirborðslegt froðusnakk eða barnaleg trú heimaalninga á jólasveinana í Brüssel. Allt of miklir hagsmunir eru í húfi til að leyfilegt sé að taka afstöðu út frá einhvers konar óskhyggju. Það verður að reikna dæmið til enda q.e.d.
Bogi Ágústsson, fréttamaður, sýndi afar áhugavert viðtal við Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svía, að kvöldi þriðjudagsins 16. desember 2008. Persson hefur nú dregið sig út úr skarkala stjórnmálanna og situr á búi sínu og fylgist afar vel með atburðum. Hann segist mikið ræða við kýr sínar, sem séu vitrar skepnur og því honum yfirleitt sammála. Persson studdi á sínum tíma inngöngu Svía í ESB, og hann er enn stuðningsmaður sambandsins, þó að hann segi, að sér blöskri iðulega það, sem hann sér til ESB, og skrifræðið, forræðishyggjan og hrein og bein vitleysa keyri iðulega um þverbak. Helztu rök fyrir aðild Svía sagði Persson vera æ fleiri og meir knýjandi málefni, sem þarfnast sameiginlegrar ákvarðanatöku og hann vildi, að Svía nyti við um stefnumótun fyrir Evrópu. Aðdragandi aðildar var á sinni tíð mikið hitamál í Svíþjóð, þar sem margir töldu aðild ekki samræmast hlutleysi Svíþjóðar. Hrifningin af ESB er ekki meiri en svo, að nokkrum árum eftir inngönguna höfnuðu Svíar evrunni í þjóðaratkvæðagreiðslu, og nú í kreppunni hrósa þeir happi yfir sænsku krónunni, sem gerir þá samkeppnihæfari á erlendum mörkuðum en ella.
Fyrir okkur Íslendinga er þess að gæta í þessu sambandi, að Svíþjóð er gamalt stórveldi, sem vill áfram eiga ítök í Evrópu. Nánd þeirra við meginlandið og risann í austri er ólíkt meiri en okkar, sem erum lengst norður í Dumbshafi. Hagsmunir okkar eru þvert á móti fólgnir í því að sitja að okkar hér norður frá og ekki að þurfa að deila auðlindum á legi og láði samkvæmt "yfirþjóðlegum" ákvörðunum með öðrum. Við mundum fá svo fáa fulltrúa í nefndir og ráð ESB sökum fámennis okkar, að áhrif okkar yrðu svipuð innan veggja sem utan. Þetta er í fáum orðum okkar sérstaða og hana ber okkur að rækta fremur en að kasta henni fyrir róða og eiga á hættu að fá ekkert í staðinn. Það kalla Norðmenn "að sitja með skeggið í póstkassanum", en við tölum um að sitja eftir með sárt ennið.
Hinn flýtti Landsfundur Sjálfstæðisflokksins mun að líkindum semja og samþykkja skjal, sem verður vegarnesti þingflokks Sjálfstæðisflokksins til Alþingis, ef Landsfundurinn þá á annað borð heimilar þingflokkinum að taka þátt í að semja um umsókn Íslands að ESB. Sá málatilbúnaður Samfylkingar að hlaupa út undan sér með því að gera umsókn að skilyrði áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfs mun vafalaust hafa hleypt illu blóði í verðandi landsfundarfulltrúa. Sá málatilbúnaður Samfylkingar er þeim mun kynlegri sem þessi svo kallaði stjórnmálaflokkur virðist ætla að mæta óundirbúinn til leiks í Brüssel og þannig ætla Sjálfstæðisflokkinum að semja umsóknina að mestu.
Hvað sem þessu líður, er ljóst, að við þessar aðstæður mun umsókn um aðild að ESB koma til umfjöllunar Alþingis, heimili Landsfundur það, og samþykki Alþingi skjalið, mun ríkisstjórnin senda það ráðherraráðinu í Brüssel. Að fengnu samþykki Alþingis fer síðan samninganefnd til Brüssel til fundar við framkvæmdastjórn ESB og kemur síðan heim með allt annað skjal, sem er afrakstur samningaviðræðna.
Ákveði ríkisstjórnin að leggja þessi samningsdrög fyrir Alþingi, munu vafalaust verða átakamiklar umræður á Alþingi. Landið verður heltekið af grimmilegum deilum, þar sem landsölumenn og fullveldissinnar munu takast harkalega á og ekki láta hlut sinn fyrr en í fulla hnefana. Ef Alþingi samþykkir, verður samningurinn, væntanlega ásamt tillögu Alþingis um stjórnarskrárbreytingu til að heimila aukið framsal fullveldis, lagður fyrir þjóðina. Er alveg áreiðanlegt, að í þeirri orrahríð verður öllu tjaldað til, og mun ástandið líkjast borgarastyrjöld að sumu leyti.
Er skynsamlegt að hleypa þessari vargöld af stað á tímum, þegar þjóðin berst í bökkum og nýta þarf alla krafta til að stilla saman strengi við að vinna þjóðina upp úr þeim djúpa öldudal, sem hún hefur lent í fyrir tilstilli örlaganornanna ? Landsfundarfulltrúar munu þarna hafa í höndum sér fjöregg þjóðarinnar. Engin umsókn um aðild verður send til Brüssel, nema Landsfundur veiti þingflokki sjálfstæðismanna umboð til að semja um slíkan gjörning á ákveðnum forsendum. Líklegra er, að landsfundarfulltrúar muni bíta í skjaldarrendurnar og ekki láta slíkt gjörningaveður yfir þjóðina ganga fyrir tilstilli annars stjórnmálaflokks, sem hefur uppi tilburði til að segja Landsfundi fyrir verkum. Þessi sami stjórnmálaflokkur hefur á sama tíma ekki haft uppi neina tilburði til að setja fram beinagrind að umsókn. Slíkur flokkur liggur hundflatur frammi fyrir samningasveitt ESB, grárri fyrir járnum.
Orrahríð innanlands á ögurstundu getur haft óafturkræfar og örlagaþrungnar afleiðingar í för með sér, sem sjálfstæðismenn munu engan veginn vilja bera ábyrgð á. Það verður þá hlutskipti annarra.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál, Evrópumál | Facebook
Athugasemdir
Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að skipta máli hérna. Ingibjörg Sólrún heldur pólitísku lífi í flokknum með því að leyfa honum að vera í ríkisstjórn. Hún telur það vera stjórnvisku hjá sér því hún ætlar að fá samstarfsflokkinn til að bera eða bresta í ESB umsókn. Henni er alveg sama þó þeir hafni umsókn. Það getur mögulega bætt stöðu Samfylkingarinnar þegar til kosninga kemur í lok janúar þegar sjálfstæðisflokkurinn guggnar og hrekkur aftur til fortíðaþrár sinnar. Ég tel Sjálfstæðisflokkinn vera búinn með hlutverk sitt í Íslenskum stjórnmálum alveg á par við Framsóknarflokkinn. Spái því að hvorugur nái formlega hundrað ára aldri. Spurningin er hvað fyrrum kjósendur D-listans velja ef þeir sitja ekki bara heima í fýlukasti. Geir vill hinsvegar ekki kosningar núna. Hann og vinir hans munu reyna finna leið til að þóknast Ingibjörgu. Mikið vildi ég að þeir gerðu það en með hálfum hug og semingi svo það yrðu stjórnarslit sem fyrst.
Gísli Ingvarsson, 18.12.2008 kl. 22:11
Gísli. heldurðu að Samfylkingin sé einhver framtíðarflokkur? gamlir stefnulausir kratar sem stofnuðu eins málefnis stjórnmálaflokk.
menn hafa þó innan sjálfstæðisflokksins meiri stefnu en og fleiri svör en: ESB halelúja.
Fannar frá Rifi, 21.12.2008 kl. 23:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.