Um ásælni

Svo er sagt, að ekkert sé nýtt undir sólu.  Á jólum er við hæfi að hverfa í huganum til fortíðar og reyna að læra af reynslu genginna kynslóða.  Svo er einnig sagt, að þeir vissu, hvað þeir sungu, hinir gömlu.  Það á ekki sízt við snillinginn, sem í sáttaskyni var settur í fóstur til mesta höfðingja Íslands, Jóns Loftssonar í Odda á Rangárvöllum upp úr 1180 og nam þar bæði geistleg og veraldleg fræði, líklega í einum bezta skóla á Norðurlöndum sinnar tíðar.  Hér er átt við hinn gagnmenntaða stórhöfðingja Vestlendinga, Snorra Sturluson í Reykholti. 

Í Heimskringlu hans er frásögn af sendiför Þórarins Nefjólfssonar til Íslands með konungserindi, sem líkja má við starfsemi 5. herdeildarinnar á Íslandi nútímans, sem er iðin við undirróðursstarfsemi, nú á erfiðleikatímum, til að svæla Ísland undir lögsögu Evrópusambandsins, en höfðingjar þar á bæ stefna á að skapa úr ESB stórríki Evrópu í ætt við ríki Karlamagnúsar, þess er forðum sat í Aachen í núverandi Þýzkalandi og næstur hefur komizt því að endurskapa Rómarveldi keisaranna.  Hefst nú frásögn Snorra Sturlusonar:  

Jólasnjór í Sviss - 2008 002

"Ólafur, konungur, sendi þetta sumar Þórarin Nefjólfsson með erindum sínum, og hélt Þórarinn þá skipi sínu út úr Þrándheimi, er konungur fór, og fylgdi honum suður á Mæri.  Sigldi Þórarinn þá á haf út og fékk svo mikið hraðbyri, að hann sigldi á átta dægrum til þess, er hann tók Eyrar á Íslandi, og fór þegar til Alþingis og kom þar, er menn voru að Lögbergi, gekk þegar til Lögbergs.  En er menn höfðu þar mælt lögskil, þá tók Þórarinn til máls Nefjólfsson:"Ég skildi fyrir fjórum nóttum við Ólaf, konung, Haraldsson.  Sendi hann kveðju hingað til lands öllum höfðingjum og landstjórnarmönnum og þar með allri alþýðu karla og kvenna, ungum manni og gömlum, sælum og vesælum, guðs og sína og það með, að hann vill vera yðar drottinn, ef þér viljið vera hans þegnar, en hvorir annarra vinir og fulltingismenn til allra góðra hluta." 

Menn svöruðu vel máli hans.  Kváðust allir það fegnir vilja að vera vinir konungs, ef hann væri vinur hérlandsmanna.  Þá tók Þórarinn til máls:

"Það fylgir kveðjusendingu konungs, að hann vill þess beiðast í vináttu af Norðlendingum, að þeir gefi honum ey eða útsker, er liggur fyrir Eyjafirði, er menn kalla Grímsey, vill þar í móti leggja þau gæði af sínu landi, er menn kunnu honum til að segja, en sendi orð Guðmundi á Möðruvöllum til að flytja þetta mál, því að hann hefir það spurt, að Guðmundur ræður þar mestu." 

Guðmundur svarar: "Fús er ég til vináttu Ólafs, konungs, og ætla ég mér það til gagns miklu meira en útsker það, er hann biður um, en þó hefir konungur það eigi rétt spurt, að ég eigi meira vald á því en aðrir, því að það er nú að almenningi gjört.  Nú munum vér eiga stefnu að vor á milli, þeir menn, er mest hafa gagn af eyjunni." 

Ganga menn síðan til búða. 

Eftir það eiga Norðlendingar stefnu sín á milli og ræða þetta mál.  Lagði þá hver til slíkt, er sýndist.  Var Guðmundur flytjandi þessa máls, og sneru þar margir aðrir eftir því.  Þá spurðu menn, hví Einar, bróðir hans, ræddi ekki um.  "Þykir oss hann kunna", segja þeir, "flest gleggst að sjá."  Þá svarar Einar

"Því er ég fáræðinn um þetta mál, að enginn hefir mig að kvatt.  En ef ég skal segja mína ætlan, þá hygg ég, að sá myndi til vera hérlandsmönnum að ganga eigi undir skattgjafir við Ólaf, konung, og allar álögur hér, þvílíkar sem hann hefir við menn í Noregi.  Og munum vér eigi það ófrelsi gera einum oss til handa, heldur bæði oss og sonum vorum og allri ætt vorri, þeirri er þetta land byggir, og mun ánauð sú aldrei ganga eða hverfa af þessu landi.  En þótt konungur sá sé góður maður, sem ég trúi vel, að sé, þá mun það fara héðan frá sem hingað til, þá er konungaskipti verða, að þeir eru ójafnir, sumir góðir, en sumir illir.  En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu, því er þeir hafa haft, síðan er land þetta byggðist, þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á, hvorki um landaeign hér né um það að gjalda héðan ákveðnar skuldir, þær er til lýðskyldu megi metast.  En hitt kalla ég vel fallið, að menn sendi konungi vingjafir, þeir er það vilja, hauka eða hesta, tjöld eða segl eða aðra þá hluti, er sendilegir eru.  Er því þá vel varið, ef vinátta kemur í mót.  En um Grímsey er það að ræða, ef þaðan er enginn hlutur fluttur, sá er til matfanga er, þá má þar fæða her manns.  Og ef þar er útlendur her og fari þeir með langskipum þaðan, þá ætla ég mörgum kotbændunum munu þykja verða þröngt fyrir dyrum." 

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að eftir ofangreinda ræðu Einars, Þveræings, hafnaði þingheimur málaleitan konungs.  Enn standa Íslendingar andspænis ásælni erlends valds, þótt dult fari.  Með sama hætti og fyrr yrði um verulegar álögur að ræða til Evrópusambandsins umfram það, sem við nú greiðum, svo að tugum milljarða króna skipti.  Eins og þá, má ætla, að mörgum útgerðar-og sjómanninum muni þykja þrengjast um sig á miðunum við Ísland, þegar erlendir fiskiflotar, stórfloti Spánverja og fleiri, færu að birtast hér á miðunum með uppáskrift frá Brüssel.  Eins og þá veit enginn, hvað tekur við af núverandi reglum og núverandi valdhöfum ESB. 

Eitt vitum við þó; stefnt er að stóreflingu miðstýringarvalds ESB, þannig að með gildistöku Lissabon sáttmálans mun ESB líta út og virka meir sem sambandsríki en ríkjasamband.  Þar með eflast völd og áhrif fjölmennu ríkjanna á kostnað hinna fámennari. 

Áróður "kommissara" í Brüssel, erlendra sendimanna Evrópusambandsins sem og innlendra málpípa ESB, er vart einleikinn.  Jafnan eru þá gylliboð af ýmsu tagi höfð uppi, en aldrei er höfð uppi viðleitni til málefnalegrar greiningar á kostum og göllum aðildar.  Það má vel gera því skóna, að ESB vilji sækjast til áhrifa hér norður frá.  Hér er mikið landrými og enn stærra hafsvæði.  Bæði á láði og legi eru miklar vannýttar auðlindir.  Þetta á ekki sízt við um hafsbotninn, þar sem að öllum líkindum leynist mikið eldsneyti, sem tækniþróunin mun gera kleift að vinna á næstu árum.  Þegar er hafið kapphlaup um auðlindir undir norðurskautsísnum, sem hopar með hverju árinu.  Kemur sér þá vel fyrir ESB að hafa Ísland innan sinna vébanda og véla um mál við önnur stórveldi fyrir hönd þess.  Siglingaleiðir á milli meginlanda munu senn opnast.  Ef tekst að lokka Íslendinga inn í ESB, aukast líkur á, að Norðmenn og Færeyingar, okkar góðu grannar, fylgi í kjölfarið, og markmið Brüssel er að ná þannig lykilstöðu á norðurvængnum.   

Eins og áður, þykir alþýðu manna það ekki slæmur kostur í núverandi stöðu að vingast við ráðandi öfl erlendis, sem sýna landinu áhuga.  Það er líka sjálfsagt mál að eiga vinsamleg samskipti á viðskiptalegum og menningarlegum nótum við ríki ESB, eins og Einar, Þveræingur, lýsti gagnvart konungi á sinni tíð.  Það er hins vegar ljóst, að innganga leysir engan skammtímavanda hérlandsmanna, því að evran verður ekki innan seilingar fyrr en skuldir ríkissjóðs nema innan við 60 % af VLF (vergri landsframleiðslu) auk uppfyllingar þriggja annarra erfiðra skilyrða.  Fantatök Brüssel og ESB-landanna á okkur varðandi uppgreiðslu á innlánum í magnþrota íslenzkum bönkum erlendis sýna, að eigin hagsmunir ráða för, þó að með því séu lagðar drápsklyfjar á Íslendinga sökum fámennis þeirra.  

Það er engin goðgá fyrir Ísland að standa áfram utan ESB.  Ef EES (Evrópska efnahagssvæðið) verður lagt niður, sem ekki er vitað til, að sé á döfinni, þá getum við hafið samningaviðræður við ESB um tvíhliða samning, sem fæli í sér aðgengi að innri markaði ESB í líkingu við samning þann, sem í gildi er á milli Svisslands og Brüssel.  Það er góð viðskiptastefna að hámarka svigrúmið til samninga út á við með því að halda í fullveldið og deila því ekki með mannfjölda, sem er a.m.k. eitt þúsund sinnum meiri en íbúafjölda Íslands nemur. 

Vaclav KlausMyndin hér til hliðar er af forseta Tékklands, Vaclav Klaus.  Hann er höfundur viðreisnar Tékklands eftir skipbrot sameignarstefnunnar.  Nú er hann að fá smjörþefinn af meðhöndlun Brüssel á smáríkjum sambandsins. Formennska í ráðherraráðinu fellur í hlut Tékklands 1. janúar 2009 og stendur yfir í hálft ár.  Um daginn mætti Vaclav Klaus, forseti Tékklands, dónalegri framkomu þingmanna græningja o.fl., m.a. Daniel Cohn Bendits, alræmds uppreisnarseggs frá óeirðunum í Evrópu 1968, af þingi ESB, þar sem þessir þingmenn gerðu tilraun til að leggja forseta Tékklands línurnar um stefnu ESB næsta misserið.  Þær línur gengu þvert á lífsskoðanir forseta Tékklands.  Þannig er meðferðin á fulltrúum smáríkja innan ESB; smáríkin skulu sitja og standa, eins og stórveldin vilja og þóknast þeim í hvívetna að viðlögðum efnahagsþvingunum og öðrum refsingum.  Hvernig í ósköpunum halda menn, að staða Íslands yrði þarna innan stokks ?  Það yrði leikur kattarins að músinni.  Fulltrúar okkar yrðu, í fáum orðum sagt, algerlega áhrifalausir innan sem utan sambandsins.   Sjálfstæð utanríkisstefna ryki út í veður og vind. 

Okkar öflugasta vopn í samskiptunum við aðrar þjóðir er eigið fullveldi.  Fyrir því var barizt með oddi og egg, og hagstæðar sögulegar aðstæður í Evrópu færðu þjóðinni sigur í þeirri baráttu.  Verði fullveldið nú, gjörsamlega að þarflausu, útþynnt og blandað við fullveldi annarra, þar sem við værum innan við 1/1000 (0,1 %), yrðum við í raun leiksoppar annarra, þó að íslenzki fáninn mundi fá að blakta við hún framan við aðalstöðvarnar, þar sem ráðum er ráðið. 

Það er út í hött að fórna fullveldinu nú til að fá að taka upp evru að áratug liðnum.  Hvað, sem öðru líður, er gjaldmiðillinn öflugasti áhrifavaldur á efnahagskerfi einnar þjóðar.  Að kasta því stýritæki frá sér er mjög viðurhlutamikið fyrir efnahagskerfið.  Það er reikningsdæmi, hvaða gjaldmiðill veitir okkur mestan hagvöxt.  Það er unnt að finna út í hermilíkani, hvort evran, bandaríkjadalur eða einhver annar gjaldmiðill hefði skapað hér meiri eða minni hagvöxt en raun varð á um með íslenzku krónuna á þessum áratugi, sem nú lifum við.  Hvers vegna vinda menn sér ekki í það ?  Það er hins vegar staðreynd, að aðeins örfá efnahagskerfi í iðnvæddum löndum stóðust því íslenzka snúning á þessu tímabili fram að Hruninu mikla. 

Þá vaknar spurningin: "yrðum við betur varin gegn áföllum af þessu tagi innan ESB með evru en utan með ISK eða annan gjaldmiðil ?"

Rótin að Hruninu lá í reglugerðum og tilskipunum ESB fyrir EES-Evrópska efnahagssvæðið.  Engin starfsemi bjó við jafnrammgert reglugerðafargan og opinbert eftirlitskerfi og fjármálageirinn.  Samt féll hann og líklegast má segja þess vegna, því að fyrir því, sem hinu opinbera er falið að framfylgja, er enginn ábyrgur.  Þetta á sérstaklega við um Ísland á fjármálasviðinu, þar sem eftirlitshlutverkinu var skipt á milli Fjármálaeftirlits og Seðlabanka, og þessar stofnanir vísa síðan, með réttu eða röngu, ábyrgðinni hvor á aðra.  Fjármálageirinn sogaði til sín skærustu ljósin úr háskólunum og þeim var einfaldlega skipað að finna leiðir framhjá regluverkinu til að hámarka skammtímagróðann með löglegum hætti.  Skapaðar voru fjármálaafurðir, sem fáir botnuðu í, sízt af öllu eftirlitsaðilarnir.   

Lausnin er sú að láta þessa starfsemi lúta einföldum grundvallarreglum og hún beri algerlega ábyrgð á eigin gerðum með sama hætti og önnur atvinnustarfsemi.  Hollt væri yfirvöldum peningamála um allan heim að taka meira mið af kenningum austurríska hagfræðingsins Ludwig von Mises en gert hefur verið. 

Þjóðverjar, sem höfðu stjórnað efnahagskerfi sínu af skynsamlegu viti á meðan önnur ríki urðu fórnarlömb óstjórnar, höfnuðu því, að ESB og Evrópubankinn færu í sameiginlegar björgunaraðgerðir á fjármálakerfinu í ESB.  Að mörgu leyti var þetta skiljanleg afstaða frá sjónarhorni Þjóðverja. 

Ríkisstjórn brezka Verkamannaflokksins komst upp með svínslega hegðun gagnvart íslenzkum bönkum í London, þó að við værum fullgildir aðilar Innri markaðar ESB.  Full aðild hefði engu breytt í þessum efnum.  Hins vegar hefði verið kostur fyrir hið risavaxna bankakerfi, íslenzka, að vera með alþjóðlega mynt við þessar aðstæður til að verjast árásum.  Það, sem var óeðlilegt, var hins vegar stærð bankakerfisins, sem var 12 sinnum stærra en nemur íslenzkri VLF á ári, sem er meira en tvöfalt hærra hlutfall en þekktist á byggðu bóli.  Mistökin voru að líða þetta án mótvægisaðgerða.  Um þetta má hafa mörg orð, og málið hlýtur að verða krufið á næstunni til að læra af mistökunum.  Átti að velja hagkerfinu mynt eftir þörfum bankakerfisins ?  Sé litið á tekjur þjóðarbúsins, stenzt slíkt vart skoðun. 

Sem aðildarþjóð í ESB mundum við þurfa að greiða mun meira til sambandsins en við gætum gert okkur von um að fá í styrki frá því.  Þetta kom rækilega fram í könnun Evrópunefndar, sem skilaði skýrslu í marz 2007.  Sjávarútvegur og landbúnaður sjá sína sæng út breidda eftir að aðlögunartíma aðildar lýkur. 

Ferðamannaiðnaður og ýmis annar iðnaður er meðmæltur aðild, en aðallega eru það þó kaupahéðnar af ýmsum toga auk ritstjóra, ýmissa í háskólasamfélginu og atvinnublaðrara, sem eru meðmæltir aðild að ESB. 

Eins og á dögum Guðmundar, ríka, á Möðruvöllum, og bróður hans, Einars, Þveræings, verður almenningur spurður ráða um þetta mikla álitamál áður en yfir lýkur.  Við, sem teljum aðild Íslands að ESB enn vera með öllu ótímabæra, sækjum styrk til mætra manna Íslandssögunnar, Snorra Sturlusonar, Fjölnismanna, Jóns Sigurðssonar, forseta, og margra fleiri.  Getum við tapað baráttunni með slíka kenningasmiði í farteskinu ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

KJánaleg grein - hvaða þingmaður á Alþingi hefur ekki mætt ókuteisi einhvers í þingasal - jafnvel gagnrýni, fjandskap og reiði - það er skýrasta merki um lýðræði sem völ er á. Vonandi á aldrei neinn eftir að sitja í forsæti ESB án þess að einhver sýni honum óvild, fjandskap og jafnvel ókurteisi á yfir 600 manna þingi ESB. - Það er aðeins í landi sem nýlega er komið undan einræði og kúgun og þekkir ekki enn einkenni lýðræðis að hvarfli að einhverjum að slíkt sé eitthvað til að kvarta yfir í stað þess að fagna ummerkjum alvöru lýðræðis.

- Dreifið ykkur  til fjalla og finnið hver ykkar helli þessir sporgögnumenn Fjalla-Eyvindar - einangrunarsinnar sem teljið samskipti go samfélga vera sjálfstæðisafsal, en leyfið okkur hinum sem viljum eiga samksipti við umheiminn og búa í samfélagi fólks og þjóða, og teljum samfélag af hvaða skala sem er ekki vera sjálfstæðisafsal heldur einmitt hið gangstæða - sjálfsútvíkkun, að gera einmitt það - taka þátt og ábyrgð með samfélögum þjóða.

Helgi Jóhann Hauksson, 26.12.2008 kl. 04:53

2 Smámynd: Jón Þóroddur Jónsson

sæll Bjarni, já og sæll Helgi, kjánaleg finnst mér greinin ekki en tek undir með Helga að ráðamenn verða að þola athugasendir, mótmæli og fúkyrði. Það réttur hvers frjáls manns að geta óhræddur mótmælt og bölvað ráðamönnum að eigin vild. Já jafnvel að brenna flaggið er réttur hvers frjáls manns eins og einhver bandaríkjaforseti var látinn segja í bíómynd.

Umfjöllun þín um gjaldmiðlinn er áhugaverð en kannski skil ég ekki alveg hvað þú ert að leggja til? Ertu ekki að spyrja hvort við þurfum að vera með okkar eigin gjaldmiðil? Og þá langar mig til að bæta við spurningunni, getum við ekki bara notað þann gjaldmiðil sem er við hendina hverju sinni? Dollara, evrur, gull eða þorsk? Þú sýnir okkur reiknilíkanið og uppfærir það daglega. Verslanir á Íslandi velja sjálfar hvaða gjaldmiðil þær nota og geta skipt hvenær sem er. Algert frjálsræði ríkir og sá banki sem veitir mér besta þjónustu nýtur góðs af því.

Kveðja, JÞJ

Jón Þóroddur Jónsson, 28.12.2008 kl. 19:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband