12.3.2009 | 20:51
Mea Culpa
Þannig tóku Rómverjar til forna til orða, þegar þeir öxluðu ábyrgð: "Mea Culpa - sökin er mín".
Á Íslandi hrundi fjármálakerfið haustið 2008 vegna mistaka, sem margir eiga sök á. Þingmenn axla sína ábyrgð með stjórnmálalegum hætti, bankamenn og viðskiptamenn munu sumir þurfa að axla ábyrgð í dómssölum, og hið sama kann eiga við um embættismenn. Þjóðin þarf að draga sína lærdóma af því, sem gerzt hefur, til að geta reist heilbrigðara, farsælla og traustara þjóðfélag á grundvelli framleiðslu raunverulegra verðmæta. Hlutverk ríkisvaldsins er ekki að eiga atvinnulífið, heldur að veita forystu um stefnu, sem laðar að erlenda fjárfesta til fjárfestinga í atvinnuskapandi starfsemi. Við eigum að velja okkur Alþingismenn, sem líklegastir eru til að rífa okkur sem hraðast upp úr atvinnuleysisbölinu án þess að steypa okkur og komandi kynslóðum í enn frekari skuldir.
Enn eru aðgengilegar upplýsingar um bankahrunið í september-október 2008 á Íslandi af mjög skornum skammti. Þess vegna eru ekki öll kurl komin til grafar. Gera verður miklar kröfur til rannsóknarnefndar Alþingis, sem skila á af sér síðla árs 2009, og hins sérstaka saksóknara afbrotamála, er varða Hrunið með einhverjum hætti. Erlendis er ekki tekið neinum vettlingatökum á slíkum málum, og ef fuglinn Fönix á að hefja sig til flugs úr rústunum, verður að gera hreint. Samt er nú unnt að gera sér grein fyrir aðalatriðum og að draga ályktanir til bráðabirgða.
Tveir háskólakennarar, Jón Daníelsson og Gylfi Zoega, eiga heiður skilinn fyrir ritgerð sína, "Hagkerfi bíður skipbrot", sem þeir birtu þann 9. febrúar 2009, og varpar ljósi á Hrunið, aðdraganda og eftirleik. Verður mjög stuðzt við téða ritgerð með beinum tilvitnunum í þessari vefgrein.
Skuldinni af Hruninu hefur verið skellt á frjálshyggju, sem Sjálfstæðisflokkurinn er sagður hafa komið á á Íslandi í stjórnartíð sinni 1991-2008. Þetta er tóm bábilja. Þar sem frjálshyggja ríkir, eru opinber afskipti lítil. Hér á landi var hlutdeild hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, stór á þessu tímabili og tók til sín a.m.k. 40 % af VLF (verg landsframleiðsla).
"Íslenska hagkerfið hefur verið miðstýrðara og stjórnast í meira mæli af pólitískum öflum en hagkerfi flestra vestrænna ríkja. Efnahagsstjórnin hefur þannig byggst fremur á brjóstviti en reglum og náin tengsl verið á milli fyrirtækja í einkageira og stjórnmálaflokka".
Þannig var Ísland langt á eftir V-Evrópu í hagstjórn og velmegun, þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við stjórnartaumunum 1991. "Í tímans rás hefur dregið úr miðstýringu hins opinbera á hagkerfinu. Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) í upphafi 10. áratugar síðustu aldar markaði þáttaskil. Hún fól í sér að Ísland fékk aðgang að innri markaði Evrópusambandsins og tók upp evrópskar reglugerðir. Hins vegar var ekki reynt sem skyldi að styrkja lykilstofnanir þjóðfélagsins, t.a.m. Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið"
Það, sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991-1995 gerði, var í höfuðdráttum að innfæra frelsin fjögur á Íslandi, þ.e. frjálsan flutning fjármagns, vöru, fólks og þjónustu á Íslandi gagnvart ESB, og í raun að opna Ísland gagnvart heimsvæðingu viðskiptanna. Því fer fjarri, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi innleitt meira frelsi á Íslandi en tíðkaðist annars staðar í Evrópu. Verið var að laga Ísland að Evrópu.
Eins og fram kemur í ritgerð háskólakennaranna, var þess hins vegar ekki gætt að styrkja eftirlitsstofnanirnar til að veita hinu aukna frelsi aðhald. Í næstu ríkisstjórn á eftir, stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, steig viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins meira að segja það ógæfuspor að fordæmi Gordons Browns, þáverandi fjármálaráðherra Verkamannaflokksins á Stóra-Bretlandi, að skilja að starfsemi fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Ný lög um Seðlabanka Íslands frá febrúar 2009, sem eru hrákasmíði frá upphafi til enda, hefðu betur sameinað þessar tvær stofnanir í eina að nýju.
"Einkavæðingu bankakerfisins var lokið í upphafi þessa áratugar. Bankarnir lentu í höndum aðila sem voru reynslulitlir þegar kom að nútíma bankastarfsemi og færðu sér fljótt í nyt þá lausafjárgnægð sem var á alþjóðlegum mörkuðum. Afleiðingin var mikil skuldsetning fyrirtækja og ör vöxtur bankakerfisins." Þess ber að geta hér, að ríkisbankarnir íslenzku voru illseljanlegar eignir, og t.d. fékkst enginn alvöru fjárfestir erlendur til að gera tilboð í þá. Launahvatar reistir á skammtímamarkmiðum og áhættustýring reist á ábyrgðarleysi og þekkingarleysi ásamt stórhættulegum krosseignatengslum áttu eftir að blása bankana út og reisa stórveldi á brauðfótum. Ljóst var þegar á árinu 2006, að þessi "pilsfaldakapítalismi" var dæmdur til að hrynja við minnsta mótblástur. Til þess eru vítin að varast þau.
"Í raun var sú ákvörðun tekin að byggja efnahagslega framtíð landsins á alþjóðlegri bankastarfsemi án þess þó að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir. Þetta leiddi til þess að á endanum stóðum við uppi með bankakerfi sem var langtum stærra en svo að íslenzka ríkið gæti stutt það kæmi til eiginfjár-eða greiðsluhæfisvandræða." Stærðin ein og sér hefði átt að duga til að knýja stjórnvöld til gagnráðstafana. Allir stjórnmálaflokkar og forseti lýðveldisins virðast hafa verið hallir undir hið nýja hagkerfi bankajarlanna og annarra útrásarvíkinga með einum eða öðrum hætti, eins og glögglega kom fram í REI-málinu 2006-2007, en þar stöðvaði reyndar borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins, með núverandi borgarstjóra í broddi fylkingar, stórslys, þar sem óreiðumenn voru komnir með klærnar í eigur Orkuveitu Reykjavíkur.
"Með því að takast ekki á við yfirvofandi fall bankakerfisins, e.t.v. í von um að óstöðugleikinn myndi hverfa, verður ekki hjá því komist að álykta að íslensk yfirvöld hafi veðjað á að bankarnir myndu lifa hremmingarnar af, og tapað. Ef yfirvöld hefðu brugðist við með varkárari hætti þá væri hagkerfið ekki eins illa leikið og það er nú."
"Peningastefnan átti einnig hlut að máli. Allt frá vordögum árið 2001 þá hefur verðbólgumarkmiði verið fylgt við stjórn peningamála. Sú aðferðarfræði hefur ekki staðist væntingar við að ná niður verðbólgu en hátt vaxtastig hefur hvort tveggja hvatt innlend heimili og fyrirtæki til skuldsetningar í erlendri mynt og laðað að fjármagn spákaupmanna sem vildu stunda vaxtamunarviðskipti hér. Mikið innflæði fjármagns fylgdi í kjölfarið og þótt heildarupphæðin sé ekki þekkt virðist sem hún hafi numið meira en 50 % af VLF. Það verður ekki séð hvers vegna þetta vakti ekki áhyggjur yfirvalda."
Alþingi setti Seðlabankanum verðbólgumarkmið að hámarki 2,5 %. Bankinn var bundinn í báða skó. Þegar séð var til hvers verðbólgumarkmiðið leiddi efnahagskerfi landsins eigi síðar en árið 2006, átti Alþingi að söðla um og setja bankanum nýtt markmið, t.d. um, að viðskiptaójöfnuður mætti ekki fara undir -5 % af VLF og yrði að vera yfir 5 % að meðaltali á 5 ára skeiði. Hefði þetta verið gert, hefði bankinn spornað gegn hækkun krónunnar með því að selja krónur og efla gjaldeyrisvarasjóðinn. Viðskiptahallinn hefði þá ekki náð 25,4 % árið 2006, sem er hið mesta, sem þekkist á Vesturlöndum, og vexti hefði ekki þurft að hækka upp úr öllu valdi síðar til að verja gengið.
Hér að ofan hefur verið dregin upp mynd af Hruninu, sem varpar ljósi á hina augljósu sökudólga. Hér er átt við þá, sem staðið hafa að glórulausum gjörningum, sem engan veginn er unnt að flokka til eðlilegra viðskiptahátta og voru til þess fallnir að grafa undan fjármálakerfi Íslands, og hina, sem áttu að standa vörð um hagsmuni almennings á Íslandi, en höfðu ekki erindi sem erfiði eða létu það hreinlega undir höfuð leggjast.
Stjórnendur og helztu eigendur bankanna breyttu fjármálakerfinu í spilavíti, sem var fallið að fótum fram löngu áður en Lehman Brothers féllu. Téðir ritgerðarhöfundar skrifa um "ofvaxið og óþroskað bankakerfi". "Í heildina nam eignahlið efnahagsreiknings þriggja stærstu bankanna nífaldri VLF í lok ársins 2007, sem var mikil breyting frá því sem var árið 2004 þegar eignir bankanna og VLF voru af svipaðri stærðargráðu. Þessi útþensla var nánast alfarið keyrð áfram með erlendri lántöku." Stærðin varð þeim að falli, því að lokum sáu lánadrottnarnir erlendu, að enginn gat komið þeim til hjálpar, ef á bjátaði. Þá voru öll sund lokuð.
Það, sem gerði þennan ótrúlega vöxt mögulegan, var sú breyting á reikningsskilareglum, sem forkólfar ENRON nýttu sér óspart, að færa mætti huglægan eða áætlaðan ávinning til óefnislegrar eignar, sem væri veðhæf. Fjármálakerfið íslenzka minnti um margt á ENRON-hneykslið. Þá vaknar spurningin, hvort forkólfarnir íslenzku muni mega sæta svipaðri meðferð handhafa laga og réttar og hinir bandarísku í sínu heimalandi ?
Í Frakklandi hafa frá dögum frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789 starfað svo nefndir rannsóknardómarar að breyttu breytanda með afar ríkar rannsóknarheimildir. Þar er ekki tekið neinum vettlingatökum á meintum efnahagsbrotamönnum, heldur beitt árangursríkum aðferðum og nútíma tækni til að koma höndum yfir illa fengið fé og fé í svo nefndu peningaþvætti. Í stað þess að boða skattahækkanir á tekjur yfir meðallagi, sem er tröllheimskuleg tekjuöflunarferð "félagshyggjustjórna" í núverandi árferði, enda flestar þjóðir að lækka skatta til að létta undir með almenningi og örva atvinnulífið, væri henni nær að taka stefnuna á Brezku jómfrúareyjarnar og reyna að endurheimta eitthvað af glötuðum hundruðum milljarða íslenzkra króna.
Það gefur auga leið, að sú ríkisstjórn, sem við völd var í aðdraganda Hrunsins, í því sjálfu og í kjölfarinu, ber mikla ábyrgð á atburðarásinni. Þó ber að halda því til haga, að ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald, heldur ber hver ráðherra óskoraða ábyrgð á sínum málaflokkum. Þar af leiðandi er ábyrgð bankamálaráðherrans mest, en fleiri áttu að sjálfsögðu að koma við sögu. Um þetta segir í téðri ritgerð: "Það er því okkar skoðun að stjórn og stjórnendur Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins ásamt öðrum yfirmönnum þar hafi vitað hvað var að gerast. Á sama hátt hljóta allir ráðherrar ásamt yfirmönnum fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, utanríkisráðuneytis og forsætisráðuneytis að hafa vitað hvað átti sér stað. Samt sem áður brást ríkisstjórnin ekki við. Hún hefði á öllum tímapunktum getað tekið ákvarðanir sem hefðu mildað endanlega niðurstöðu. Ef ríkisstjórnin hefði brugðist skynsamlega við væri hagkerfið í mun betri stöðu nú. Með því að takast ekki á við yfirvofandi fall bankakerfisins, e.t.v í von um að óstöðugleikinn myndi hverfa, verður ekki hjá því komist að líta á sem svo að íslensk yfirvöld hafi veðjað á að endurlífgun bankakerfisins myndi eiga sér stað, en tapað."
Ríkisstjórnin stakk með öðrum orðum höfðinu í sandinn og því fór sem fór. Lengi hefur loðað við Samfylkinguna tilhneigingin til að sópa vandanum undir teppið og ætla öðrum að leysa hann. Í stað þess að vera með eitt stórt rautt núll í flokksmerki sínu, ætti hún að taka upp mynd af strútfuglinum.
Ríkisstjórnin lét viðvaranir sem vind um eyrun þjóta. "Takmarkað eftirlit og of stórt bankakerfi blöstu við hverjum þeim sem sjá vildi", skrifa hagfræðingarnir. Innlendir og erlendir sérfræðingar og leikmenn bentu á alls kyns sjúkdómseinkenni íslenzka hagkerfisins. Innlendir og erlendir sérfræðingar skrifuðu líka lengi vel um styrk íslenzka hagkerfisins og fjármálakerfisins. "Til dæmis gaf fjármálastöðugleikaskýrsla Seðlabankans (apríl, 2008) til kynna að hagkerfið væri vel haldið. Sér í lagi að bankarnir væru "vel í stakk búnir" og að fjármálakerfið væri "traust"."
Það hefur komið fram, að eftir samtöl formanns bankastjórnar Seðlabankans við ríkisstjórnina leituðu ráðherrar eftir skoðun bankastjóra viðskiptabankanna á mati Seðlabankans. Sögunni fylgir, að jafnan hafi ríkisstjórnin fengið þau svör, að allt væri í himnalagi. Þetta er einhver slappasta stjórnsýsla, sem um getur. Það er einkennilegt, ef ríkisstjórnin hefur ekki leitað umsagnar og ráða hjá stjórnendum og stjórn Fjármálaeftirlitsins, FME, varðandi fjölda viðvarana úr Seðlabankanum, SÍ. Það er nauðsynlegt, að fram komi, hvernig stóð á því, að ríkisstjórnin lét reka fljótandi að feigðarósi.
Seðlabanki Íslands var ótvírætt sjálfstætt stjórnvald samkvæmt fyrri lagabálki um hann. Sá átti að tryggja sjálfstæði hans og trúverðugleika. Hann laut hins vegar markmiðssetningar Alþingis um 2,5 % verðbólgu á ári. Þetta markmið markaði gerðir hans og segja má, að þessi stjórnunarháttur hafi gefizt illa. Höfundar margtéðrar ritgerðar telja einnig, að ýmislegt hafi farið úrskeiðis við stefnumörkun bankans og framkvæmd:"Seðlabankinn bar líka ábyrgð. Seðlabanka Íslands ber lagaleg skylda til að tryggja fjármálastöðugleika. Bankinn hefði getað byggt upp gjaldeyrisvaraforða og komið í veg fyrir hina gríðarlegu gengisstyrkingu. Hann hefði getað hækkað bindiskylduna til þess að draga úr vexti útlána. Bankanum ber skylda til að veita yfirvöldum og almenningi nákvæmar upplýsingar með útgáfu skýrslna um fjármálastöðugleika. Formaður bankastjórnar Seðlabankans hefur lýst því opinberlega yfir að hann hafi varað ríkisstjórnina við því að staða bankanna væri vonlítil nokkrum mánuðum fyrir hrunið en virðist lítið hafa aðhafst til að koma í veg fyrir hrunið.".
Þessi orð hagfræðinganna beina athyglinni enn að aðgerðarleysi ríkisstjórnanna tveggja á tveggja ára skeiði fyrir Hrun og að því, að furðulítið samstarf virðist hafa átt sér stað á milli FME og SÍ. Ef einhver samræmingaraðili var til um þeirra starf, var það ríkisstjórnin. Aðskilnaður FME og SÍ í tíð viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins var til þess eins fallinn að veikja hið opinbera eftirlitskerfi. Það er nauðsynlegt að semja ný lög um SÍ hið fyrsta, þar sem m.a. verði kveðið á um, að FME verði deild í bankanum og honum verði sett ný markmið, t.d. um viðskiptajöfnuð og/eða hagvöxt.
Ótrúlega lítið hefur farið fyrir aðgerðum FME. Um það hafa hagfræðingarnir þessi orð:"Það er algengt að þeim sem eiga að sæta eftirliti takist að vinna eftirlitsaðila á sitt band. Þetta náði svo langt í tilviki fjármálaeftirlits hér á landi að sjálfur eftirlitsaðilinn tók þátt í markaðssetningu netinnlánsreikninga í Hollandi aðeins nokkrum mánuðum fyrir hrun bankans þegar það hefði mátt vera ljóst að Landsbankinn riðaði til falls.".
Hér eru mikil firn á ferð, sem bera með sér, að stöðumat ríkisstjórnar og eftirlitsaðila hefur verið í skötulíki. Er jafnvel ástæða til þess að kanna, hvort ofangreind tilvitnun feli í sér, að maðkur hafi verið í mysunni.
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.