Heilbrigði í háska

Að undanförnu hefur farið fram umræða á Íslandi um framkvæmd heilbrigðisþjónustu, sem vart gæti átt sér stað annars staðar í Evrópu, og það er svo sem gott og blessað.  Er þar átt við aukna fjölbreytni rekstrarforma aðila, sem framkvæma tilteknar skurðaðgerðir með takmarkaðri sjúkrahúsvist í kjölfarið.

Aðallega mun þar um að ræða aðgerðir, þar sem óhóflegir biðlistar valda þjökuðum ómældum líkamlegum og andlegum kvölum, af því að Landsspítalinn annar ekki eftirspurninni.  Þetta jafngildir auðvitað lífsgæðatapi og fjárhagstapi fyrir samfélagið, sérstaklega ef sjúklingurinn er frá vinnu. 

Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og frumkvöðull, ritaði 20. maí 2015 góða grein í Morgunblaðið, "Heilbrigðiskerfi á villigötum". 

Eftirfarandi upphaf greinarinnar var átakanleg lýsing vegna verkfalls á Landsspítalanum, en lýsingin getur líka átt við um langa biðlista, þar sem biðtíminn er í sumum tilvikum lengri en eitt ár, sem er alveg skelfilegt:

"Er það nokkurn tímann ásættanlegt, að líf og heilsa fólks sé óbeint notað sem skiptimynt í samningaviðræðum um kaup og kjör ?  Nýlega frétti ég af sjúklingi, sem féll frá, eftir að aðgerð, sem hann átti að fara í, var frestað vegna verkfallsins.  Ætli nokkur viti í raun, hversu mörg mannslíf þessi deila hefur þegar kostað ?  Ástandið er í raun alveg siðlaust.  Einkavætt heilbrigðiskerfi er eina skynsamlega lausnin, sem getur komið í veg fyrir, að svona ástand endurtaki sig."

Deiluefnið hérlendis, sem í upphafi var minnzt á, er reyndar ekki einkavæðing heilbrigðiskerfisins, heldur snýst það um einkarekið fyrirtæki, sem býðst til að bjóða Sjúkratryggingum Íslands samning um tiltekna, brýna þjónustu, sem Landlæknir hefur viðurkennt, að fyrirtækið geti veitt, og Landsspítalinn er um þessar mundir ekki í færum til að veita fyrr en eftir dúk og disk. 

Sumpart stafar sú ömurlega staða sjálfsagt af því, að ný aðstaða spítalans hefði nú þegar þurft að vera komin í notkun, þegar litið er til ástands gömlu aðstöðunnar og hinnar brýnu þarfar, en staðreyndin er sú, að 6 ár eru þar til veruleg breyting verður á högum spítalans, og fram til ársins 2023 er ljóst, að grípa verður til óhefðbundinna ráða til úrlausnar á vandamálum, sem hrannast upp. 

Eitt af slíkum ráðum er tvímælalaust að leyfa Sjúkratryggingum Íslands að ganga til samninga við einkafyrirtæki um tilteknar aðgerðir og tiltekinn fjölda þeirra gegn gjaldi, sem sé ekki hærra en sambærilegar aðgerðir kosta á Landsspítalanum, og heldur ekki með hærri kostnaðarþátttöku sjúklinganna.  Hver getur tapað á þessu fyrirkomulagi ?  Hvern er verið að vernda með því að berjast gegn þessu með kjafti og klóm ?

Sjúklingurinn græðir, því að hann fær fyrr úrbætur meina sinna; samfélagið græðir, því að líf sjúklingsins færist fyrr í venjulegra horf; álag á Landsspítalann minnkar, og kostnaður per sjúkling eykst ekki. 

Óánægjuraddirnar heyrast frá þeim, sem eru óttaslegnir yfir, að þeir, sem mest græða á þessu fyrirkomulagi, kunni að vera eigendur einkafyrirtækisins.  Hvers vegna ætti skattborgarinn að sýta það, ef kostnaður hans per sjúkling eykst ekki, heldur er hagnaður fyrirtækisins, ef einhver er, sóttur til aukinnar skilvirkni, meiri framleiðni en fyrir hendi er á stórri ríkisstofnun, sem starfar við óboðlegar aðstæður árið 2017, þótt ekki hvarfli að blekbónda eitt andartak að kasta með nokkrum hætti rýrð á starfsfólk spítalans.

Fái einkarekstur af þessu tagi að þrífast, eins og fordæmi eru um frá heilsugæzluþjónustunni, þá aukast líkur á, að fleiri íslenzkir sérfræðingar á heilbrigðissviði komi heim úr sérnámi og störfum.  Kjör og vinnuaðstaða starfsfólks í einkarekstrinum verða væntanlega ekki lakari en hjá ríkisfyrirtækinu, og möguleikar á samnýtingu sérhæfðs mannskaps og tækja opnast.  Að gera því skóna, að Landsspítalinn verði undir í slíkri samkeppni er að mála skrattann á vegginn.  Hins vegar er líklegt, að lömun á þeim stóra vinnustað, Landsspítalanum, vegna verkfalls eða sýklafárs, verði ekki jafnafdrifarík, ef fleiri vinnustaðir geta veitt að takmörkuðu leyti sambærilega þjónustu. 

Góðri grein sinni lýkur Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, þannig:

"Eina langtímalausnin á vanda heilbrigðiskerfisins, sem er réttmæt og tryggir samkeppnishæfni, er að einkavæða það alveg, svo að einstaklingar fái vald yfir því, sem skiptir þá mestu máli.  Slíkt fyrirkomulag mun jafnframt tryggja, að reyndir læknar og heilbrigðisstarfsfólk, sem hefur lagt mikið á sig til að sérhæfa sig í starfi, fái laun og starfsumhverfi, sem þau eiga skilið.  Því að þegar þeir, sem nota heilbrigðiskerfið, fá að ráða eigin málum, þá verður miðstýrð yfirstjórn óþörf, og þjónustan verður sjálfkrafa mun betri og markvissari, enda mun hún taka mið af þörfum sjúklinga, en ekki af þörfum kerfisins."

Þessi pistill blekbónda er til að mæla með takmörkuðum einkarekstri í sjúkrahúsgeiranum, en ekki einkavæðingu sjúkrahúsgeirans.  Það er þjóðfélagsleg nauðsyn að minnka þrýstinginn á Landsspítalann áður en sprenging verður.  Sú sprenging getur orðið vegna feiknarlegs fjölda erlendra ferðamanna, sem veikjast og slasast, eins og aðrir, og vegna gríðarlegrar fjölgunar eldri borgara, hérlendra.  Aldurssamsetning Íslendinga er um þessar mundir hagstæð, þ.e. meðalaldur þjóðarinnar er lágur, t.d. í samanburði við hin Norðurlöndin.  Samkvæmt OECD var um 13,1 % íslenzku þjóðarinnar 65 ára eða eldri árið 2014, en í Noregi 15,8 %, í Danmörku 18,3 % og í Svíþjóð og Finnlandi 19,3 %. Það sígur þó hratt hér á ógæfuhlið, og megnið af kostnaðinum við lækningar, hjúkrun og umönnun hvers einstaklings myndast, eftir að 65 ára aldrinum er náð.  Á Íslandi er þróun aldursdreifingar í þjóðfélaginu með sama hætti og á hinum Norðurlöndunum.  Ástæðan er bæði minni viðkoma, fækkun fæðinga á hverja konu, og meira langlífi landsmanna.   Þetta þýðir, að fjármögnun sjúkrahúsanna verður þyngri og kostnaðarhliðin þyngist gríðarlega.

Þessi ógæfulega þróun verður ljósari, þegar fjölgunin á aldarfjórðungsbilinu 2014-2040 er skoðuð.  Þá mun 65 ára og eldri fjölga um 97 %, 15-64 ára um 16 %, og Hagstofan spáir jafnframt, að þjóðinni í heild fjölgi um 25 % á þessu tímabili. 

Af þessu er ljóst, að framleiðniaukning í atvinnulífinu er ekki aðeins nauðsynleg til að bæta lífskjör almennings, heldur til að viðhalda þeim kjörum, sem nú hafa náðst.  Framleiðni á hvern starfsmann er minni á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum í öllum greinum atvinnulífsins, nema fjármálastarfsemi, landbúnaði og sjávarútvegi.  Mestu munar í iðnaði og upplýsinga- og fjarskiptafyrirtækjum.  Framleiðsla á hverja vinnustund er minni á Íslandi en á öllum hinum Norðurlöndunum. Það er verðugt verkefni ungu kynslóðarinnar að laga þetta. 

Bezta ráðið til að auka framleiðni er að efla samkeppni.  Það á líka við í sjúkrahússrekstri.  Stjórnvöld geta lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að greiða götu aukinnar fjölbreytni rekstrarforma, þar sem áhugi og rekstrarleg geta er á slíku og að uppfylltum sömu gæðakröfum og gerðar eru til þeirra stofnana, sem fyrir eru. Slíkt leyfi yrði tekið sem tákn um frjálslyndi og yrði vafalaust hvati til aukinnar framleiðni.

 

 


Kúreki kveikir upp

45. forseti Bandaríkja Norður-Ameríku, BNA, er búinn að kveikja upp í "Oval Office", embættisskrifstofu sinni, hagar sér eins og villtur kúreki, ríður mikinn í kringum hjörðina og þyrlar upp stórum rykmekki.  Þar fer augljóslega óhefðbundinn forseti með slíka lyndiseinkunn, að öruggt má telja, að það á eftir að skerast í odda á milli hins sjálfumglaða húsbónda í Hvíta húsinu og bandaríska þingsins í Washington D.C.

Forsetinn hefur undirritað eina tilskipun á dag, fyrstu dagana í embætti, í kastljósi fjölmiðla, sem hann annars hefur sagt stríð á hendur.  Eru þessir stórkarlalegu tilburðir fremur broslegir, en það er ómögulegt að segja fyrir um, hvernig þessu leikriti "hins afburðasnjalla og víðfræga" sonar Fred Trumps, kaupsýslumanns, sem ættaður var frá hinu huggulega vínyrkjuhéraði Þýzkalands, Pfalz, lyktar. 

Fyrsta tilskipun Donalds Trumps mun hafa fjallað um að draga BNA út úr viðskiptasamkomulagi Kyrrahafsríkja.  Þetta er fyrsta skrefið í að stöðva flóð kínverskra vara og fjármagns til BNA og draga þannig úr samkeppni bandarísks vinnuafls við hið kínverska.  Á sama tíma er Donald hvassorður um útþenslu Kínverja á Kínahafi, þar sem þeir eru að koma sér upp flotastöðvum í óþökk allra nágrannanna.  Þá ögrar Donald valdhöfum kínverska kommúnistaflokksins í Peking með því að ræða við forseta Taiwan (Formósu).  Donald Trump ætlar að stöðva framsókn Kínverja sem alheimsstórveldis, er ógnað geti BNA. Þetta mun ekki ganga átakalaust. 

Donald Trump virðist vera upp sigað við Evrópusambandið, ESB, sem er alveg ný afstaða í Hvíta húsinu.  Virðist hann helzt vilja sundra Evrópu, e.t.v. svo að hún ógni ekki BNA á viðskiptasviðinu, og hann hefur skotið Evrópumönnum, utan Rússlands, skelk í bringu með þeim palladómi, að NATO sé úrelt þing.  Hefur hann gefið í skyn, að NATO þjóni ekki hagsmunum BNA á meðan hinar NATO-þjóðirnar dragi lappirnar í útgjöldum til hermála og taki sér far á vagni, sem Bandaríkjamenn dragi.  Krafan er 2,0 % af VLF til hermála, sem á Íslandi þýðir rúmlega miaISK 50 til varnar- og öryggismála.  Ætli fari ekki innan við 1/10 af þeirri upphæð í mál, sem má flokka sem slík hérlendis nú ?  Hvað gerir Donald, þegar honum verður sagt frá því og hinum sérstaka varnarsamningi á milli Íslands og BNA ?  Það er eins gott, að skrifstofan er ávöl, því að annars gæti komið hljóð úr horni. 

Donald rekur hornin í ESB úr vestri og virtist í kosningabaráttunni vilja vingast við Vladimir Putin,fyrrverandi KGB-foringja og núverandi Kremlarbónda, sem hefur heldur betur rekið hornin í ESB úr austri.  Það á sem sagt að þrengja að ESB úr tveimur áttum á sama tíma og fjandsamlegir vindar blása í átt að BNA úr austri, suðri (Mexíkó) og vestri.  Það er sem sagt allt upp í loft. 

Upp í loft er líka allt hér í Evrópu, þar sem Bretar eru á leið út úr ESB.  Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur nú í ræðu í Leicester House gert opinbera grein fyrir því, hvaða línu ríkisstjórnin í Lundúnum ætlar að taka í þessu ferli.  Það verður "hreinn" viðskilnaður, sagði hún, sem er rökrétt afstaða ríkisstjórnarinnar eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna og felur í sér, að Bretar munu ekki sækjast eftir veru á Innri markaði ESB/EFTA með "frelsunum fjórum", heldur losa sig algerlega undan tilskipanafargani búrókratanna í Brüssel og taka fulla stjórn á landamærum sínum. 

Með þessu móti hafa Bretar frjálsar hendur um viðskiptasamninga við ESB og alla aðra.  Það var alger hvalreki fyrir þá að fá yfirlýsingu frá Donald Trump  um, að hann mundi liðka fyrir yfirgripsmiklum viðskiptasamningi á milli Bretlands og BNA.  Bretar geta þannig orðið stjórnmálalegur og viðskiptalegur milliliður á milli BNA og ESB, sem er draumastaða fyrir þá. 

Eftir téða ræðu Theresu May í Leicester House hvein í tálknum í Edinborg.  Þjóðarflokkur Skota, sem Sturgeon, yfirráðherra Skota fer fyrir, virðist telja hag sínum betur borgið á Innri markaði ESB en með óheftan aðgang að Englandi, Norður-Írlandi og aðild að öllum viðskiptasamningum Englendinga.  Hefur hún hótað aðskilnaði við England, ef verður af "hardest of hard Brexits" og inngöngu í ESB.  Þetta er hins vegar kolrangt mat hjá henni, því að það síðasta, sem framkvæmdastjórninni og leiðtogaráðinu í Berlaymont kann að detta í hug er að veita klofningsríki í Evrópu aðild, því að þar með yrði fjandinn laus í fjölda aðildarríkja.  Nægir að nefna Katalóníu á Spáni. Skotar munu þess vegna ekki fá aðild að ESB í sinni núverandi mynd, og þar með minnkar hvatinn til að rjúfa sig frá Englandi.  Allt er þetta "skuespill for galleriet".

Hvaða áhrif hefur þessi hrærigrautur hérlendis ?  Í öryggismálum verðum við að reiða okkur á NATO nú sem endranær og vona, að Bandaríkjaþing slaki ekki á varnarskuldbindingum Bandaríkjastjórnar og bandaríska heraflans gagnvart NATO-ríkjum. 

Í viðskiptamálum þurfum við fríverzlunarsamning við Bretland, sem tryggir íslenzkum útflytjendum tollfrjálsan aðgang að Bretlandsmarkaði.  Ef Bretar ná hagstæðum fríverzlunarsamningi við ESB, þarf að athuga, hvort við getum fengið tollfrjálsan aðgang að ESB-löndunum, og getum þá gengið úr EES, ef okkur sýnist svo. 

Þriðja stoð utanríkisstefnunnar ætti að vera að rækta sambandið við Berlín, því að þar er frjór jarðvegur fyrir náið samstarf og þangað er nú komin valdamiðstöð meginlands Evrópu vestan Rússlands.  Ef þessar 3 stoðir eru í lagi, er öryggishagsmunum og viðskiptahagsmunum Íslands borgið.

Varðandi frjálsa fjármagnsflutninga á milli Bretlands og Íslands þarf að gæta að því, að Bretar hafa undir rós hótað ESB því, að ætli samningamenn ESB um viðskilnað Bretlands að verða erfiðir og leiðinlegir, þá geti Bretar breytt hagkerfi sínu í skattaparadís til að stríða ESB-mönnum og draga frá þeim fjármagn.  Bretar hafa sterk spil á hendi, af því að öflugasta fjármálamiðstöð Evrópu er í Lundúnum, og þar fara jafnvel mestu viðskiptin með evrur fram. 

Um þetta skrifar Wolfgang Münchau á Financial Times í Morgunblaðið 26. janúar 2017:

"Í þriðja lagi á Bretland sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, er meðlimur G-20 hópsins og einnig G-7 hópsins.  Ef aðildarríki ESB vilja stemma stigu við skattasniðgöngu alþjóðafyrirtækja, stuðla að sanngjarnari áhrifum hnattvæðingar, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eða finna lausnir til að berjast gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, þá munu þau þurfa á Bretlandi að halda."

Í framkvæmdastjórn ESB eru jaxlar, sem vilja hræða önnur ríki frá að feta í fótspor Breta með því að sýna þeim í tvo heimana, þegar tekið verður til við að semja um viðskilnaðinn.  Í leiðtogaráðinu er stemningin önnur.  Mikið mun velta á því, hvernig þingkosningar fara í Hollandi í vor, forsetakosningar í Frakklandi í sumar og síðast, en ekki sízt, hver niðurstaða kosninganna til Sambandsþingsins í Berlín verður.  Munu Þjóðverjar refsa Merkel ?  Þeir virðast vera í skapi til þess núna. 

Bretar hafa ýmislegt uppi í erminni.  Spenna eykst í Evrópu, en viðskilnaðarsamningar verða ekki leikur kattarins að músinni, heldur miklu líkari viðskiptum Tomma og Jenna.  Münchau skrifar:

"Ef til "harðrar útgöngu" kemur, myndi hún ýta Bretlandi í átt að annars konar viðskiptalíkani, eins og Philip Hammond, fjármálaráðherra, komst að orði.  Mætti líka orða þetta sem svo, að í stað þess að leiða hinn vestræna heim í baráttunni við skattasniðgöngu, gæti Bretland orðið enn eitt skattaskjólið.  Það væri ekki sniðugt fyrir land á stærð við Bretland að taka upp sama líkan og Singapúr, að mínu mati.  Síðar nefnda landið er í raun einungis fjármálamiðstöð, en hið fyrr nefnda býr að fjölbreyttu hagkerfi og þarf fyrir vikið að móta víðtækari stefnu.  Hyggilegra væri að leggja áherzlu á nýsköpun og marka stefnu til að auka framleiðni.  Þótt lágskattaleiðin væri sennilega ekki sú hagkvæmasta, þá skapar hún engu að síður ógn fyrir ESB." 

Ekki er ólíklegt, að vinsamleg stefna Trumps gagnvart Rússum og fjandsamleg afstaða hans gagnvart ESB, muni bráðlega leiða til þess, að viðskiptabann Vesturlanda á Rússa og innflutningsbann Rússa á matvörum, verði felld niður.  Eftir er að sjá, hvort Íslendingar verða þá fljótir að endurvekja viðskiptasambönd sín við Rússa.  Það yrði sjávarútveginum og þjóðarbúinu kærkomin búbót á tímum tekjusamdráttar af öðrum völdum, en árlegt sölutap vegna lokunar Rússlands hefur numið 20-30 miaISK/ár. 

Hjörleifi Guttormssyni, náttúrufræðingi, er ástand alþjóðamála hugleikið.  Hann varpar fram eftirfarandi útskýringu á óánægju vestrænna kjósenda, t.d. bandarískra, sem komu Trump til valda, í Morgunblaðsgrein, 26. janúar 2017,

"Vesturlönd á afdrifaríkum krossgötum":

"Hnattvæðing efnahags- og fjármálastarfsemi hefur á sama tíma gerbreytt leikreglum í alþjóða viðskiptum og leitt til gífurlegrar auðsöfnunar fárra.  Eignir 8 ríkustu manna heims eru nú metnar til jafns við samanlagðan hlut 3´500 milljóna manna eða um helmings mannkyns.  Inn í þetta fléttast örar tæknibreytingar, sem gera þorra mannkyns að þátttakendum í samfélagsumræðu óháð hefðbundnum fjölmiðlum."

Hér fellur Hjörleifur í gryfju Oxfam, sem tiltekur heildareignir manna, en ekki hreinar eignir.  Hinir auðugri skulda margfalt meira en hinir, eins og nýlega kom fram á Íslandi vegna "skuldaleiðréttingarinnar".  Þá ber að halda því til haga, að téð hnattvæðing hefur lyft a.m.k. einum milljarði manna úr fátækt í bjargálnir, og áttamenningarnir hafa sumir hverjir veitt gífurlegum upphæðum til fátækra og sumir ánafnað góðgerðarstofnunum öllum auði sínum.  Flestir í þessum átta manna hópi voru frumkvöðlar, m.a. Zuckerberg á Fésbók, sem ekki hafa tekið fé af neinum, heldur orðið auðugir, af því að fólk vildi gjarna kaupa nýjungar, sem þeir höfðu á boðstólum á undan öðrum mönnum. Er það gagnrýnivert ? Að stilla þessum áttmenningum upp sem óvinum almennings og vandamáli er í ætt við Marxisma, sem er algerlega gagnslaus sem þjóðfélagsgreining nú sem áður. 

 


Vindmyllur, hagnaður og sparnaður

Furðu hefur vakið áhugi Landsvirkjunar á að setja upp s.k. vindmyllulundi á Íslandi.  Hafa menn ekki vitað, hvaðan á þá hefur staðið veðrið, af því  að raforkan frá vindmyllum er 2-3 sinnum dýrari í vinnslu en raforka frá hefðbundnum íslenzkum orkuverum, sem nýta fallorku vatns og jarðgufuþrýsting, og á þá eftir að bæta við kostnaði við að tengja e.t.v. 50 vindmyllur í hverjum lundi við stofnkerfið, en það er tiltölulega miklu dýrara að tengja 70x3 MW en 1x200 MW virkjun við stofnkerfið.

Menn láta stundum, eins og umhverfisáhrif vindmyllanna séu hverfandi.  Á íslenzkan mælikvarða er það þó alls ekki svo, því að þær setja mikinn svip á umhverfið og eru plássfrekar, eins og sést af því, að 200 MW vindmyllulundur spannar svæði á stærð við Hálslón, sem miðlar vatni til 690 MW fallvatnsvirkjunar. 

Hugmyndir Landsvirkjunar hafa lent í andbyr Verkefnisstjórnar Rammaáætlunar, sem setti Búrfellslund í bið, og Skipulagsstofnun ríkisins ályktar, að Landsvirkjun skuli endurskoða áform um að reisa 200 MW vindorkulund á Hafinu norðan Búrfells:

"Niðurstöður um mikil umhverfisáhrif gefa, að mati stofnunarinnar, tilefni til að skoða, hvort önnur landsvæði henti betur fyrir uppbyggingu af þessu tagi og umfangi.  [Hér á Skipulagsstofnun væntanlega við að þyrma óbyggðunum við þessum skrímslum, en staðsetja þær fremur í byggð.  Sveitarstjórnir eru sumar þó ekki ginnkeyptar fyrir því. - innsk. BJo]  Þá kann að vera tilefni til að skoða, hvort umfangsminni uppbygging á betur við á þessu svæði, bæði hvað varðar hæð og fjölda vindmylla".

Skipulagsstofnun fellst að svo stöddu ekki á það að leggja allt að 40 km2 undir tæplega 70 vindmyllur með mestu hæð frá jörðu 150 m.  Skipulagsstofnun telur þessi áform falla illa að "Landsskipulagsstefnu 2015-2026 um vernd víðerna og landslagsheilda".

Ágreiningur er uppi á milli sveitarstjórna og Landsvirkjunar um fasteignagjald af vindmyllum, og minnir það á dómsmál Landsvirkjunar gegn sveitarfélagi á Austurlandi um gjaldflokk vatnsréttinda.  Ljóst er, að leigugjald af landinu (þjóðlendu ?)undir 200 MW vindmyllulund getur orðið umtalsvert, og í raun er verið að haldleggja rými á Hafinu, sem nemur 6,0 km3, og landið verður allt sundurgrafið fyrir háspennustrengi frá hverri vindmyllu að aðveitustöð. Þetta hlýtur að koma til skoðunar við mat á fasteignagjaldi með svipuðum hætti og vatnsréttindi eru andlag fasteignagjalds.

 Hérlendis mundi vindmyllulundur af þessu tagi, sem að uppsettu afli er um 200 MW og getur framleitt um 700 GWh/ár, nýtast orkukerfinu bezt til að spara miðlunarvatn í Þórisvatni.  Þessi orka er tæplega 5 % af núverandi hámarks vinnslugetu Þjórsár/Tungnaár svæðisins, þ.e.a.s. 70 vindmyllur á Hafinu mundu hafa lítil áhrif á orkuvinnslugetu raforkukerfisins.  Þær munu framleiða svipaða orku á ári og 90 MW Þeistareykjavirkjun, sem nú er verið að byggja, en kostnaður við vindmylluorkuna verður a.m.k. tvöfaldur orkukostnaður Þeistareykjavirkjunar, og umhverfiskostnaður sýnilega verulegur m.v. það, sem Íslendingar eiga að venjast frá virkjunum.  

Þegar þess er gætt, að afrennsli vatnasviðs Þórisvatns fer vaxandi vegna hlýnunar og aukinnar úrkomu,  umfram þau 5 %, sem hér um ræðir, verður ljóst, að þessi vindmyllulundur er mjög óskynsamleg ráðstöfun m.t.t. fjárnýtingar og landnýtingar, nánast eins og út úr kú. 

Hvernig skyldi þessu nú víkja við með aflið ?  Í stuttu máli er eins vitlaust og hugsazt getur að reisa vindmyllur til að geta brugðizt við afltoppum í kerfinu.  Það eru tvær ástæður fyrir því: 

Sú fyrri er, að þegar þörf kann að vera á aflinu, þá er undir hælinn lagt, hvort það er tiltækt frá vindmyllulundi, þ.e. hvort byrlega blæs til raforkuvinnslu þar þá stundina.

Sú seinni er, að s.k. ársmegawatt (árskostnaður per MW) er langdýrast frá vindorkuverum af öllum tegundum sjálfbærra virkjana hérlendis.  Ef ársmegawattið kostar 100 kUSD/MW frá Búrfelli 2, sem nú er verið að byggja, þá kostar það 180 kUSD/MW frá Þeistareykjavirkjun og 235 kUSD/MW frá vindmyllulundi. 

Það er enginn fjárhagslegur hvati finnanlegur fyrir vindmyllulund til að framleiða raforku inn á íslenzka stofnkerfið. Annað mál er, að einkaaðilar reisi vindmyllur til að spara sér raforkukaup af þessu sama neti, þar sem flutningskostnaður og dreifikostnaður myndar lungann af kaupverði orku.

Það er hvorki skynsamlegt að reisa vindmyllulund á Íslandi til að afla orku né afls fyrir stofnkerfið. Allt öðru máli gegnir erlendis, þar sem hagkvæmari kostir til að framleiða raforku úr endurnýjanlegum orkulindum eru ekki fyrir hendi, nema þá sólarhlöður, og gagnsemi þeirra er víða stopul.  Núverandi kostnaður raforku frá vindrafstöðvum á landi á Englandi er t.d. 115 USD/MWh, sem passar vel við 90 USD/MWh á Íslandi, þar sem nýtingartími uppsetts afls er um þriðjungi lengri vegna vindasamara veðurfars á Íslandi.  

Þann 15. desember 2015 kynnti Viðskiptablaðið sveigjanlegri aflsamning Landsvirkjunar við sölufyrirtækin, sem virðist snúast um, að þau þurfi ekki að kaupa ársafltopp  (MW) allt árið, heldur geti sniðið aflkaup við breytilega þörf eftir árstíma.  Með þessu segist Hörður Arnarson geta sparað allt að 138 MW aflþörf. Viðskiptablaðið hefur eftir honum:

"Hann segir, að frekar sé verið að afstýra því að fara út í kostnaðarsamar fjárfestingar, sem síðan myndu fara út í verðlagið.  Ef ekkert hefði verið að gert, hefði fyrirtækið líklega þurft að leggja í svipaðar framkvæmdir og nú séu í gangi í Búrfelli. "Til að mæta þörf fyrir 150 MW af afli hefði þurft að fara í u.þ.b. miaISK 15 framkvæmdar."

Þetta er ófélegur boðskapur.  Því er hótað, að þegar að því kemur, að Landsvirkjun þarf að virkja til að mæta aflaukningu almenningsveitna, þá muni hún hækka orkuverðið.  Skýringin á því gæti verið hækkandi jaðarkostnaður, þ.e. næsta virkjun verður dýrari en síðasta virkjun. 

Þetta er hins vegar ósanngjörn verðlagningarstefna gagnvart almenningi, sem svo vill reyndar til, að á alla Landsvirkjun um þessar mundir.  Sanngjarnt er bæði fyrir fyrirtækið og eiganda þess, að almenningur borgi samkvæmt meðalkostnaði við að framleiða raforku fyrir hann í kerfi Landsvirkjunar.  Virkjanirnar mala gull eftir að skuldir þeirra vegna hafa verið greiddar alveg niður, og þar í hópi er allt eldra en Fljótsdalsvirkjun, svo að ekki þyrfti að ganga á eigið fé fyrirtækisins, þó að verð Landsvirkjunar til almenningsveitna héldist óbreytt. Til að greiða eigandanum háan arð er engin þörf á að ganga í skrokk á almenningi. 

Það er víðar pottur brotinn hjá orkufyrirtækjunum um sanngirni gagnvart neytendum (og eigendum) en hjá Landsvirkjun.  Hér skal tiltaka dæmi af OR-samstæðunni og Landsneti, sem er enn í eigu orkufyrirtækja, með vísun til umfjöllunar Viðskiptablaðsins á Fullveldisdaginn 2016.

Bágri fjárhagsstöðu OR-samstæðunnar í kjölfar Hrunsins hefur verið snúið við, aðallega með ofurálögum á viðskiptavini fyrirtækja samstæðunnar á formi gjaldskrárhækkana.  Nú er lag að vinda að nokkru ofan af þeim hækkunum, en stjórn fyrirtækisins virðist ekki vera á þeim buxunum.  Hagnaður OR-samstæðunnar þrefaldaðist 2016 m.v. árið áður, ef marka má stöðuna í upphafi 4. ársfjórðungs, og hefur að líkindum orðið miaISK 12,5, sem er um 10 % af eigin fé.  Þetta sýnir góða afkomu í ljósi þess, að skuldir samstæðunnar hafa verið lækkaðar um meira en miaISK 20 á árinu 2016, ef skuldalækkun fyrstu 9 mánaðanna hefur haldið áfram í svipuðum takti til áramóta.  Athugum nú, hvernig góður afkomubati þessarar samstæðu, sem aðallega er í eigu Reykjavíkurborgar, horfir við neytendum:

Vatnsveita:

Veitur mismuna íbúum á veitusvæði sínu með misjöfnum verðbreytingum á köldu vatni 2017.  Þetta er algerlega ógegnsæ verðlagsstefna fyrir einokunarstarfsemi.  Í nafni jafnræðis og sanngirni ætti einn taxti að ríkja á öllu veitusvæðinu fyrir þessa einokunarstarfsemi, en aftur á móti ætti hver áskrifandi að vatni að borga aðeins fyrir eigin notkun samkvæmt mæli.  Það er víða bruðlað með kalt vatn á heimskulegan hátt, sem óréttlátt er, að aðrir blæði fyrir.  Mælakaup og uppsetning kosta fé, en það fé mun fljótt sparast í minni fjárfestingarþörf til afkastaaukningar vatnsveitna OR.

Hitaveita:

Annað óréttlæti Veitna tengt neyzlumælingu hjá viðskiptavinum er, að aðeins rúmtak notaðs heits vatns er mælt, en það, sem viðskiptavininn skiptir máli, er hins vegar orkan, sem hann fær út úr því heita vatni, sem streymir í gegnum kerfið hans.  Inntakshitastig hitaveitu hjá sumum er t.d. oftast lægra en 65°C, en víða er það hærra en 70°C.  Sumir þurfa þá að öllu öðru jöfnu 10 %-15 % meira vatn vegna þessa mismunar á inntakshitastigi en aðrir.  Þess vegna er réttlætismál, að Veitur bæti mælingu á inntakshitastigi við reikningsaðferð sína á hitaveitukostnaði neytenda.  Það mundi kosta lítilræði, ef hitastigsálestri yrði bætt við magnálesturinn. Hitt er dýrari kostur að setja upp orkumæla í stað flæðismæla.

Í téðri úttekt Viðskiptablaðsins, "Hagnaður eykst um 203 %", er greint frá því, að gjaldskrá Veitna fyrir heitt vatn fylgi fylgi vísitölu neyzluverðs.  Í ljósi gríðarlegra gjaldskrárhækkana fyrir heitt vatn á fyrstu árunum eftir Hrun, langt umfram vísitölu neyzluverðs, er sú málsmeðferð, að einokunarþjónusta, sem er hér afhending á hitaveituvatni, skuli nú fylgja vísitölu neyzluverðs, algerlega óásættanleg.  Rétt bær yfirvöld, hvort sem um er að ræða Orkustofnun, Samkeppnisstofnun eða Neytendastofu, verða að gera hagræðingarkröfu á einokunarstarfsemi af þessu tagi, og OR ætti alls ekki að fá að hækka þessa gjaldskrá aðhaldslaust. 

Rafveita:

Í tilvitnaðri grein Viðskiptablaðsins stendur eftirfarandi í lokin:

"Hækki gjaldskrá ON um áramótin, er alveg ljóst, að nettóáhrifin verða þau, að rafmagnsreikningar borgarbúa hækka hækka enn á milli ára.  Fyrir rúmum mánuði greindi Viðskiptablaðið frá því, að frá árinu 2010 til 2016 hefði verð á raforku og dreifingu hækkað um 55 % á meðan vísitala neyzluverðs hefði hækkað um 23 %."

Þetta reyndist réttur spádómur Viðskiptablaðsins.  Raforkuverðið hækkaði um áramótin síðustu. Viðskiptavinir ON tóku möglunarlaust á sig miklar útgjaldabyrðar fyrir orkunotkun sína til að bjarga OR-samstæðunni frá gjaldþroti eftir Hrun.  Nú er hún komin fyrir vind og vel það, svo að hún greiddi líklega yfir miaISK 4 í tekjuskatt í fyrra.  Við þessar aðstæður er mjög ósanngjörn framkoma við viðskiptavinina að hækka gjaldskrá raforku, þegar eðlilegast hefði verið að halda raforkuverði frá virkjunum óbreyttu.  Blekbóndi er einn af viðskiptavinum ON, og hjá honum hækkaði verð á kWh án fastagjalds úr 14,0 kr/kWh í 14,8 kr/kWh eða um 5,7 %.  Þarna eru flutningur og dreifing innifalin ásamt virðisaukaskatti. 

Flutningsgjald:

Gjaldskrá Landsnets fyrir almenningsveitur hækkaði 1. desember 2016 um 13 %.  Þessi gríðarlega hækkun er fáheyrð, enda á hún drjúgan þátt í heildarhækkun rafmagns um áramótin.  Þessi hækkun er óskiljanleg í ljósi þess, að Landsnet stendur í sáralitlum framkvæmdum fyrir almenningsveitur, og hún má ekki velta kostnaði á milli óskyldra aðila.  Þess vegna eru 2 gjaldskrár, ein fyrir stóriðju og önnur fyrir almenningsveitur. 

Orkustofnun er stjórnvaldið, sem á að veita einokunarfyrirtækinu Landsneti aðhald og halda því við árlega hagræðingarkröfu.  Að Orkustofnun hleypi hækkun í gegn, sem er tíföld verðbólga ársins 2016, veldur vonbrigðum og jaðrar við hneyksli.  Þessi frammistaða Landsnets sýnir enn og aftur, að eignarhald fyrirtækisins er ótækt, því að stjórn fyrirtækisins veitir stjórnendum þess ófullnægjandi aðhald fyrir hönd almannahagsmuna. 

Ný ríkisstjórn ætti að móta sér stefnu um, að ríkissjóður nýti arðgreiðslur orkufyrirtækja sinna til að kaupa sig inn í Landsnet með það stefnumið að auka eigið fé hennar og að verða meirihlutaaðili í þessu einokunarfyrirtæki í þeirri von, að verðlagning þjónustu fyrirtækisins verði ekki algerlega út úr kú.  Fyrirtækisins bíða gríðarleg og bráðnauðsynleg verkefni, sem liggja í dróma, og heilir landshlutar og þar með hagsmunir alls landsins líða fyrir það.

 

 

 

 

 


Dagur rafmagns

Dagur án rafmagns er að vísu öllu áhugaverðari en dagur rafmagns, því að rafmagnið er nánast alls staðar, en það er þó vert að rita pistil í tilefni dags rafmagnsins í viku 04/2017.  Dagur rafsviðsins eða stöðurafmagnsins var víst 9. janúar 2017, en nú er komið að rafsegulsviðinu og rafstrauminum. 

Rafmagn er náttúrufyrirbæri, sem hinum viti borna manni (homo sapiens) hefur tekizt að virkja með snilldarlegum hætti.  Elding verður til, þegar rafstraumur (10-100 kA, k=1000) hleypur á milli andstæðra hleðslna.  Rafstraumnum fylgja eldglæringar og drunur, sem vakið hafa óttablandna virðingu frá örófi alda, enda tengdar goðum. Eldingar hafa klofið tré og valdið skógareldum, brunasárum og dauðsföllum. 

Fræg er sagan af Marteini Lúther, 16. aldar þýzkum munki,  sem ofbauð spilling og guðleysi páfastóls þess tíma.  Hann var á gangi með vini sínum, er sá var lostinn eldingu, en Lúther slapp naumlega, þakkaði guðlegri forsjá og efldist að trúarhita við atburðinn. Eldingin leitar alltaf í hæsta punkt á tilteknu svæði.  Þannig draga eldingavarar, sem eru málmtrjónur upp í loftið, til sín eldingar og verja þannig byggingar.  Gildir koparleiðarar eru tengdir við trjónuna og við jarðskaut sérstakrar gerðar í hinn endann. 

Ef slæm spennujöfnun er í jarðskautinu, getur mönnum og dýrum, einkum klaufdýrum, sem standa eða eru á gangi yfir jarðleiðaranum, stafað hætta af straumnum í leiðaranum, sem veldur hættulegri skrefspennu.  Hafa kýr drepizt á Íslandi af völdum skrefspennu, reyndar af völdum straums úr einnar línu loftlínukerfi, þar sem straumurinn var leiddur til baka gegnum jörðina til að spara kopar í loftlínu. 

Þó að Íslendingar sem þjóð noti manna mest af rafmagni eða um 56 MWh/íbúa, samanborið við 3,1 MWh/mann á jörðunni að meðaltali, þá er íbúum landsins enn mismunað gróflega um aðgengi að þriggja fasa rafmagni, þar sem margar blómlegar sveitir með öflugan búrekstur, sem virkilega þurfa á þriggja fasa rafmagni að halda, fá aðeins einfasa rafmagn með eins- eða tveggja víra loftlínu.  Það er til vanza, að stjórnvöld orkumála og RARIK skuli ekki hafa sett enn meiri kraft en raun ber vitni um í þrífösun sveitanna með jarðstrengjum og niðurtekt gamalla og lúinna loftlína.

Öflug hleðslutæki fyrir rafmagnsökutæki, sem hlaða á stytzta tíma, eru þriggja fasa.  Sama verður um vinnuvélar bænda og annarra.  Þess vegna er aðgengilegt þrífasa rafmagn fyrir a.m.k. 32 A alls staðar á landinu forsenda fyrir rafvæðingu ökutækja og vinnuvéla á landinu öllu.  Fyrir RARIK og aðrar rafveitur felur rafvæðing ökutækjaflotans í sér viðskiptatækifæri um aukna orkusölu, og fyrirtækin standa þess vegna frammi fyrir arðsamri fjárfestingu, sem réttlætanlegt er að flýta með lántökum.  Þau munu líka spara viðhaldskostnað á gömlum línum með þessari fjárfestingu. 

Fá lönd, ef nokkur, standa Íslendingum á sporði varðandi hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda í heildarorkunotkun.  Hlutfallið er nú um 86 % hérlendis, gæti orðið um 90 % árið 2030 og 100 % um miðja 21. öldina, ef myndarlega verður að orkuskiptum staðið.  Á heimsvísu var hlutdeild jarðefnaeldsneytis af heildarorkunotkun árið 2013 um 81 %.  Raforkunotkun vex hratt í heiminum, og raforkuvinnslan á mestan þátt í miklum og vaxandi styrk koltvíildis í andrúmsloftinu, sem er algengasta gróðurhúsalofttegundin. 

Rafmagnið hefur gjörbreytt atvinnuháttum og daglegu lífi fólks til hins betra, en það gæti orðið blóraböggull rándýrra mótvægisaðgerða vegna hlýnandi lofslags, nema tækniþróunin komi innan 10 ára fram á sjónarsviðið með orkulind fyrir hreina raforkuvinnslu, sem leyst getur eldsneytisorkuverin af hólmi. 

Raforkuvinnslugeta Íslendinga úr fallorku vatns og jarðgufuþrýstingi er takmörkuð við 35 TWh/ár af náttúruverndarsjónarmiðum.  Orkuvinnslugeta núverandi virkjana er um 54 % af þessu.  Fyrir vaxandi þjóð, sem ætlar að rafvæða samgöngutæki á láði, legi og í lofti, er engin orka afgangs til að flytja utan um sæstreng, nema til Færeyja, ef áhugi verður á slíku.  Stórfelldur raforkuútflutningur mundi hafa í för með sér áberandi mannvirki og náttúruinngrip, sem ekki öllum falla í geð.  Fyrir svo dýra framkvæmd sem 1200 km sæstreng skiptir hagkvæmni stærðarinnar meginmáli.  Þá er átt við orkusölu allt að 10 TWh/ár, sem eru tæp 30 % af heildarorku, sem e.t.v. fengist leyfi til að virkja.  Svo hátt hlutfall skapar flókin tæknileg úrlausnarefni í samrekstri lítils rafkerfis og stórs erlends rafkerfis og mundi vafalaust valda hér miklum verðhækkunum á raforku.  Það viljum við alls ekki.  Þvert á móti viljum við njóta ávaxta fjárhagslega afskrifaðra virkjana. 

Á degi rafmagns 2017 á Íslandi eru rafmagnsmálin alls ekki í kjörstöðu.  Verkefnisstjórn um Rammaáætlun þrjózkaðist við að taka allmarga virkjanakosti frá Orkustofnun til athugunar og rannsakaði ekki samfélagslega kosti annarra.  Síðustu niðurstöðu var þess vegna verulega áfátt, of fáir virkjanakostir í nýtingarflokki og of margir í bið m.v. fyrirsjáanlega raforkuþörf landsins fram til 2050. 

Öllu verri er samt staða einokunarfyrirtækisins Landsnets.  Sú markaðsstaða er lögbundin, en eignarhaldið er óeðlilegt.  Rétt er, að ríkissjóður kaupi sig inn í Landsnet og féð verði notað til að greiða fyrir lagningu jafnstraumsjarðstrengs undir Sprengisand án þess að sprengja gjaldskrá fyrirtækisins upp.  Þessi kaup má fjármagna með væntanlegum arðgreiðslum frá orkufyrirtækjunum. 

Þá verður hægt að halda Byggðalínu áfram á 132 kV og grafa hana í jörð í byggð, þar sem hún er fólki mest til ama.  Aðalatriðið er að eyða þeim flöskuhálsum, sem nú eru í flutningskerfinu og standa atvinnulífi á Vestfjörðum og Norðurlandi fyrir þrifum.  Vestfirði þarf að hringtengja með 132 kV línu og með strengnum undir Sprengisand eykst flutningsgetan til Norðurlands og Norð-Austurlands, svo að ný fyrirtæki geta fengið nauðsynlega orku, eldri aukið álag sitt og hægt verður að leysa olíubrennslu af hólmi í verksmiðjum, við hafnir og annars staðar.  Hér bíða verðug verkefni nýs orkumálaráðherra.  Afleiðing eldingar ágúst 2012


Þverstæðukennd frásögn

"Óþarft að virkja til aukinna orkuskipta" hljómaði fyrirsögn í Fréttablaðinu á bls. 6 þann 17. janúar 2017.  Hún er vægast sagt afar villandi og ber ekki góðum vinnubrögðum vitni, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið.

Ónákvæmnin er yfirþyrmandi, því að við hvað eru "aukin orkuskipti" miðuð ?  Viðbót við hvaða orkuskipti ? Síðan kemur í ljós, hvaðan blaðamaðurinn hefur vizku sína:

"Framkvæmdastjóri Orkuseturs telur hægt að orkuskipta öllum bílaflota Íslendinga með þeirri orku, sem nú er fyrir hendi. 

Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, segir orkuskipti í samgöngum möguleg án þess að virkja þurfi frekar.  "Tíu prósent landsmanna hita hús sín með rafmagni.  Það er hægt að fækka þeim með varmadælum.  Ef við myndum losa helminginn af því rafmagni, sem fer í húshitun, gæti það rafmagn dugað á um 116 þúsund rafbíla.  Einnig má ná miklum sparnaði í raforku með LED-lýsingu á götum sveitarfélaga.  Rafmagnið er til, við þurfum að nýta það betur", sagði Sigurður."

Hér er vaðið á súðum með villandi og óábyrgum hætti, eins og nú skal sýna fram á:

  1. Jarðefnaeldsneytisbílar á landinu voru í árslok 2016 um 240´000 talsins, en með hópbifreiðum, sendibifreiðum og vörubifreiðum taldi flotinn tæplega 280´000 bíla.  Gerum ráð fyrir, að í tilvitnun sé átt sé við fólksbílaflotann.  Áætla má árlega raforkuþörf hans eftir rafvæðingu þannig: E=4,5 MWh/b x 240 kb = 1,1 TWh/ár.  Þessi raforkuþörf samsvarar meðalálagi yfir árið 125 MW, en því fer fjarri, að rafbílaálag á rafkerfið verði jafnt.  Uppsett afl hleðslutækja þessara 240´000 bíla gæti orðið 3600 MW.  Ef samtímaþáttur er 0,2, þá verður hámarksálag um 720 MW af 240´000 fólksbílum og jeppum. 
  2. Á móti þessari álagsaukningu leggur téður Sigurður til, að fjárfest verði í varmadælum, sem spari helming raforkunnar, sem nú fer í rafhitun húsnæðis.  Ætla má, að árleg orka til rafhitunar húsnæðis sé: Eh=40 MWh/íb ár x 7000 íb = 280 GWh/ár með toppafli 50 MWHelmingurinn jafngildir 140 GWh/ár og 25 MW.
  3. Það er einnar stærðargráðu munur á því, sem Sigurður Friðleifsson telur vera lausn og viðfangsefninu, sem er rafvæðing bílaflotans
  4. Hvað dugir "varmadælulausnin" til að rafvæða marga bíla ?  M.v. íslenzkar aðstæður má reikna með raforkunotkun meðalfólksbíls 0,3 kWh/km, og ef meðalaksturinn er 15´000 km/ár, mun einn bíll þurfa raforkuna: Eb=0,3 kWh/km x 15000 km/ár = 4,5 MWh/ár.  Þá dugir "varmadælulausnin" fyrir: n=140000/4,5 = 31´000 bílar eða 13 % af fólksbílaflotanum.  Þetta eru 85´000 færri bílar en Sigurður Friðleifsson slengir fram í tilvitnuðu viðtali. 
  5. Orkusparnaður með LED-væðingu götulampa um land allt gæti e.t.v. haft í för með sér helmingsorkusparnað á við "varmadælulausnina", svo að alls mundu þessar tvær orkusparnaðaraðferðir gefa um 210 GWh/ár, sem er innan við 20 % af raforkunni, sem þarf fyrir núverandi fjölda fólksbíla, sem brenna jarðefnaeldsneyti.  Bæði er, að þeim fer fjölgandi og að þeir eru aðeins hluti af heildarflotanum eða innan við 86 %.
  6. Kostnaðarlega er það alveg út úr kú að tengja þessi tvö sparnaðarverkefni saman við orkuskipti.  Það er miklu ódýrara að virkja og framleiða viðbótar MWh, eins og þarf, en fjárfesta í varmadælum og í mörgum tilvikum vatnsofnum og pípulögnum í stað þilofna eða í LED-lömpum, þar sem meginsparnaðurinn er fólginn í minna viðhaldi, en ekki í orkusparnaði.

Það er mjög ámælisvert að fara með fleipur um mikilvæg verkefni á landsvísu.  Orkuflutningsfyrirtækið Landsnet hefur aftur á móti lagt spilin á borðið, og eftirfarandi er skrifað í þessari umræddu frétt:

"Í skýrslu Landsnets er dregið fram, að ef eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, með orkuskiptum, upp á 1,5 milljónir tonna á ári, þurfi um 880 MW af rafmagni til þess."

Megnið af þeirri losun, sem á að hverfa samkvæmt þessari sviðsmynd, kemur frá landumferð.  Það er himinn og haf á milli málflutnings Orkuseturs og Landsnets.  Blekbóndi telur málflutning Landsnets og téða sviðsmynd um aflþörf á réttu róli, ef álaginu verður ekki stýrt.  Blekbóndi hefur hins vegar bent á, að draga má verulega úr aflþörfinni með því að bjóða hagstæðan næturtaxta.  Slíkt breytir þó engu um orkuþörfina.  Að vanmeta hana getur orðið afdrifaríkt. Hitastigshækkun í andrúmslofti 

 


Veðurfar

Á Íslandi eru margir veðurfræðingar, bæði hámenntaðir og sjálfmenntaðir.  Þetta er skiljanlegt miðað við, hvað landsmenn eiga mikið undir veðri. Svo hefur alltaf verið og mun verða. Meiru skiptir þó þróun veðurfars en veðurs.  Með því að rýna í nánustu fortíð getur veðurfarsrýnir leyft sér að spá í veðurfarið í nánustu framtíð, þ.e. næstu áratugi, þótt slá beri þann varnagla, að leitnilína veðurs hefur takmarkað forspárgildi.

Staðan núna er sú, að á landsvísu varð meðalhitastig í byggð 5,0°C í fyrra (2016), og aðeins árin 2014 og 2003 varð hitastigið hærra eða 5,1°C.  Í Reykjavík varð meðalhitastig í Reykjavík 6,0°C og hefur aðeins einu sinni mælzt hærra, þ.e. 6,1°C árið 2003. Í Stykkishólmi, sem á lengsta skráða sögu veðurathugana á Íslandi, varð árið 2016 líklega það hlýjasta frá upphafi mælinga árið 1846. Vísindalegum veðurspekingum er meinilla við að fullyrða nokkuð um veðurmet og rýna gögnin vandlega áður en svo sögulegt skref er stigið.  Annars staðar en í Stykkishólmi hófust hitastigsskráningar yfirleitt 1870-1880.

Ef leitnilína er dregin frá 1880 til 2016 fyrir meðalhitastig á landinu fæst líklegt meðalhitastig árið 1880 rúmlega 2,5°C, en var í raun 1,7°C og árið eftir 3,8°C, og hitastigið, sem búast mátti við árið 2016 var 4,0°C, en var 5°C.  Stigull þessarar leitnilínu er 0,011°C, sem bendir til hitastigshækkunar á Íslandi um 1,1°C/öld, sem er meiri hitastigshækkun en talin er hafa orðið að meðaltali á jörðunni frá upphafi iðnvæðingar, 1750. Staðbundnar breytingar eru auðvitað meiri en heildarmeðaltal jarðar sýnir.    

Leitnin gæti endurspeglað hin svo kölluðu gróðurhúsaáhrif, þ.e.a.s. uppsöfnun gastegunda í andrúmsloftinu, sem minnka hitaútgeislun frá jörðunni. Þar er t.d. um að ræða koltvíildi, metan, brennisteinsflúoríð og kolefnisflúoríð.  

Fleiri áhrifaþættir eru þó fyrir hitastigsþróun á Íslandi.  Það er talið, að lækkað seltustig í Atlantshafi vegna jökulbráðnunar og vaxandi úrkomu dragi úr krafti Golfstraumsins, en hann hefur gert löndin norðan 60°N við Norður-Atlantshaf vel byggileg.  Þess vegna kann stigull leitnilínu fyrir Ísland að lækka, er fram líða stundir.

Það virðast hins vegar  vera fleiri áhrifavaldar á veðurfarið en vaxandi gróðurhúsaáhrif, því að áratugsmeðaltal hitastigs sveiflast lotubundið um leitnilínuna.  Lotan er rúmlega 70 ár og skar leitnilínuna um aldamótin síðustu á uppleið.  Það þýðir, að fram til um 2020 má búast við hratt vaxandi meðalhitastigi, eins og hefur verið raunin, og síðan minni árlegri hækkun og jafnvel kólnun eftir miðja öldina. Undir 2040 er líklegt, að gróðurhúsaáhrifin hafi valdið 0,2°C hækkun m.v. núverandi hitafar og að sveiflan hafi valdið 0,8°C hækkun, svo að hitastig verði 1,0°C hærra þá en um þessar mundir. Það er mikið og mun hafa margvísleg áhrif á Íslandi. Veðurfarsrýni þykir líklegt, að skýringa á téðri sveiflu um leitnilínu sé að leita í hegðun sólar eða braut jarðar um sólu.

Hækkandi hitafar, sem í vændum er, ef svo heldur fram sem horfir, hefur margvísleg jákvæð áhrif á landi.  Gróður vex hraðar og gróðrarlína hækkar, jafnvel um 100 m/°C.  Þetta mun auka framleiðni landbúnaðarins, sem er til hagsbóta fyrir bændur og neytendur og styrkir samkeppnisstöðu íslenzks landbúnaðar á innanlandsmarkaði og á útflutningsmörkuðum.  Kornyrkja verður auðveldari og mun spara innflutning.  Skógræktinni mun vaxa fiskur um hrygg og verða álitleg atvinnugrein, sem myndar mótvægi við losun gróðurhúsalofttegunda og sparar innflutning á viði.  Þegar er kominn hér upp nytjaskógur og farið að byggja íbúðarhús úr íslenzkum viði.  Ætli það hafi gerzt síðan á landnámsöld ?

Úrkoma mun að vísu aukast og þar með sólarstundum væntanlega fækka.  Úrkoman í Reykjavík í fyrra varð t.d. 15 % ofan meðallags og 25 % ofan meðallags á Akureyri.  Þetta mun efla vatnsbúskap og aukið orkuframboð mun hjálpa til við að halda raforkuverði áfram lágu, neytendum í hag.  Þetta mun auðvelda orkuskiptin, sem óhjákvæmilega eru framundan og þarf að ljúka fyrir miðja öldina, ef vel á að vera.  Orkuskiptin munu ekki aðeins bæta nærumhverfið og þar með heilsufarið, heldur getur forysta á þessu sviði orðið öðrum að góðu fordæmi og sparað um 100 miaISK/ár innflutningskostnað eldsneytis. 

Hlýnunin mun hafa margvíslegan kostnað í för með sér.  Sjávarstaðan hækkar og leggja þarf í kostnað við að verja land.  Mikil tækni hefur þróazt á því sviði, t.d. í Hollandi.  Það mun senn þurfa að nýta hana við Breiðamerkurlón, þar sem stutt er í að vegstæði og raflínustæði rofni, og Vík í Mýrdal er ógnað af ágangi sjávar.   

Öfgar virðast vaxandi í veðurfari, þurrkar sums staðar og mikil úrkoma annars staðar.  Þetta ásamt fjölgun mannkyns kann að hækka verð landbúnaðarvara á heimsmarkaði, en á móti þeirri þróun vegur ræktun genabreyttra afbrigða, sem aðlöguð eru að erfiðum aðstæðum og með mikinn vaxtarhraða.  Miklar efasemdir eru hins vegar um hollustu þessara jurta, og styrkur íslenzks landbúnaðar mun enn sem fyrr verða fólginn í náttúrulegum og ómenguðum vörum.  Heilnæmið gefur bezt til lengdar, og það þarf að votta í miklu meiri mæli en nú er gert.  Mætti vel veita bændum styrki til slíks, enda hagstætt öllum aðilum. 

Enginn veit, hvað gerast mun með hafið og lífríki þess umhverfis Ísland.  Makríllinn kom, og loðnan hvarf.  Síldarstofnar óbeysnir, en þorskur dafnar.  Þó er óttazt, að hann kunni að leita í svalari sjó. Hvaða áhrif hefur kraftminni Golfstraumur á lífríkið ?  Það er allt á huldu. 

Þegar allt er vegið og metið, virðist þó mega vænta góðæris á næstu áratugum, þótt eldgos kunni að setja tímabundið strik í reikninginn.  Svo munu verða atburðir, sem enginn sá fyrir né bjóst við.  Þá reynir á stjórnvöld landsins og landsmenn alla.

Vöringsfossen á Hörðalandi í Noregi  

 

 

  


Hægri-kratísk ríkisstjórn

Yfirbragð nýju ríkisstjórnarinnar og sáttmáli hennar frá 10. janúar 2017 bera með sér hægri kratískan blæ.  Reynslan ein mun skera úr um, hvort verk hennar verður hægt að kenna við hægri-kratisma.  Kannski er blekbóndi hægri-krati, því að hann getur stutt téða stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Hægri-kratísk ríkisstjórn hefur ekki stjórnað Íslandi síðan 1959-1971, en þá ríkti Viðreisnarstjórnin.  Hún olli sögulegum þáttaskilum á mörgum sviðum landi og þjóð til heilla. 

Fundið hefur verið að því, að stefnuskrá ríkisstjórnarinnar sé of almennt orðuð, en hvorki var ráðrúm né gott ráðslag að sitja lengur yfir plagginu en nauðsyn bar til. Nógu löngum tíma hafði verið varið í stjórnarmyndunarviðræður frá kosningum í lok október 2016, þar sem ýmsir sótraftar voru á sjó dregnir.  Stefnan er nú komin, og síðan er eðlilegt, að þingmenn ríkisstjórnar hægri-krata útfæri markmið upp úr stefnuskránni í samráði við viðkomandi ráðherra, sem fær markmiðin í flestum tilvikum til framkvæmdar.  Þetta er hin lýðræðislega aðferð.

Stöðugleiki er og verður fyrsta boðorð ríkisstjórnarinnar.  Það er ekki að ófyrirsynju, því að allir tapa á óstöðugleika og óvissu.  Vinnumarkaðurinn er ekki í ró um þessar mundir, eins og verkfall háseta ber með sér.  Meðallaun helztu útgerðarfyrirtækjanna eru þó á meðal þeirra hæstu, sem þekkjast um meðallaun í fyrirtækjum á Íslandi, en bæði er, að verkfallið tekur aðeins til hásetanna og mjög er misjafnt eftir útgerðum, hvernig kaupin gerast á eyrinni, en sjómenn róa upp á hlut, eins og kunnugt er. 

Árið 2016 lækkaði hlutur flestra vegna markaðsaðstæðna og vegna þess, sem kalla má ofris íslenzku krónunnar, ISK, er verðgildi hennar hækkaði um tæplega 20 % að jafnaði og um tæplega 30 % gagnvart sterlingspundinu, GBP, en England er okkar aðalviðskiptaland fyrir sjávarafurðir. Nú í ársbyrjun 2017 er markaðurinn sjálfur að leiðrétta ofrisið vegna árstíðabundins minna innflæðis gjaldeyris frá erlendum ferðamönnum, vegna stöðvunar gjaldeyrisinnflæðis frá sjávarútveginum og vegna vaxandi gjaldeyrisútflæðis við afléttingu hafta og vegna fjárfestinga og neyzlu.  Mestöll hækkun gengisins 2016 er sennilega ósjálfbær m.v. samkeppnishæfni landsins, en landið var líklega orðið dýrast í heimi fyrir útlendinga í árslok 2016, þegar gengisvísitalan var 160. Hún þarf að verða á bilinu 170-190. 

Eftir því var tekið, að á fyrsta Ríkisráðsfundi Forseta með nýrri ríkisstjórn heimilaði hann nokkurn flutning málaflokka á milli ráðuneyta, enda virtust þeir allir rökréttir og skynsamlegir.  Þarna var að nokkru verið að leiðrétta sérvizkulegar tiltektir nokkurra fyrrverandi forsætisráðherra með gæluverkefni sín. 

Eitt af því var að flytja málefni Seðlabankans aftur til forsætisráðherra, sem lætur af hendi ýmis veigaminni mál til annarra.  Það er nokkuð útbreidd skoðun í landinu, að Seðlabankinn þarfnist "sterkrar handar".  Starfsmenn hans hafa ítrekað hlaupið á sig og farið offari gagnvart almenningi og fyrirtækjum í landinu, t.d. Gjaldeyriseftirlit og Lögfræðideild bankans, svo að ekki sé nú minnzt á Peningastefnunefnd, sem virðist lifa í öðrum heimi.  Þá er fyrirbrigði innan Seðlabankans, sem nefnist Eignasafn Seðlabanka Íslands, ESÍ, sem aðallega eru fyrirtæki, sem rak á fjörur bankans við gjaldþrot.  Afleiðingin er sú, að ESÍ stendur enn í fyrirtækjarekstri, einnig erlendis, þar sem stórtap á sér stað í sumum tilvikum.  ESÍ ætti að leysa upp við fyrsta tækifæri.

Seðlabankinn á að hafa sjálfstæði, en stjórnun hans er nú ábótavant.  Þá verða löggjafinn og framkvæmdavaldið að koma til skjalanna.  Það er eðlilegt og tímabært að stokka upp í Seðlabankanum og endurskoða löggjöfina, sem um hann gildir.  Líklega er rétt að tengja peningastefnuna við fleiri stefnumið en verðbólgu, t.d. gengisskráningu og atvinnustig í ákveðinni forgangsröð. 

Það er mikilvægt fyrir efnahagsstöðugleika, að Seðlabankinn hafi nauðsynleg tæki og tól til að grípa inn í skortstöðutöku gegn ISK, hvort sem vogunarsjóðir eða aðrir eiga í hlut.  Ef bankinn spennir upp vexti á tíma lágvaxta erlendis, eins og nú eru, er hætt við ofrisi ISK vegna áhættufjár, sem leitar í vaxtamunarviðskipti, og af því að fé hrannast þá upp innanlands, sem við eðlilegar aðstæður ætti að leita ávöxtunar erlendis vegna áhættudreifingar. 

Allt eru þetta flókin mál, þar sem hvert skref þarfnast nákvæmrar ígrundunar og áhættugreiningar. Er engum betur treystandi til farsælla úrlausna en núverandi forsætisráðherra, eins og úrlausn málefna slitastjórna föllnu bankanna og aflétting hafta fyrri ríkisstjórnar hefur sýnt.

Eitt er það mál, sem hefur flotið að feigðarósi í tvö síðustu kjörtímabil og lenti í algerum hnúti á síðasta kjörtímabili, en það er Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni.  Núverandi borgaryfirvöld og þau næstu á undan hafa róið að því öllum árum, að flugvöllurinn hverfi eigi síðar en árið 2024.  Að horfa undanfarið upp á "rússneska rúllettu" með sjúkraflugið í SV-hvassviðri hefur verið þyngra en tárum taki.  Það var þess vegna einkar ánægjulegt að heyra nýjan samgönguráðherra taka hraustlega við sér fáeinum mínútum eftir embættistöku með ummælum, er lutu að uppbyggingu flugstöðvar í Vatnsmýrinni, en núverandi aðstaða er hneisa gagnvart ferðamönnum og starfsmönnum. 

Er nú vonandi, að samgönguráðherra og Alþingi taki af skarið um það, að miðstöð vaxandi innanlandsflugs með þremur flugbrautum verði í Vatnsmýrinni um ókomin ár. 

Merki SjálfstæðisflokksinsSkjaldarmerki lýðveldisins


Golfstraumur á hverfandi hveli

Nokkur ár eru síðan kenningar tóku að birtast um það opinberlega, að Golfstraumurinn mundi láta á sjá, ef svo héldi fram sem horfir með hlýnun andrúmslofts.  Síðan er mikið vatn runnið til sjávar og búið að þróa enn öflugri hugbúnaðarlíkön, sem spá ekki góðu.

Ef aðeins er tekið tillit til hlýnunar andrúmslofts af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið, sem nálgast meir og meir að verða óviðráðanleg, t.d. vegna losunar metans úr þiðnandi freðmýrum, þá minnkar Golfstraumurinn hingað norður eftir um 20 % samkvæmt reiknilíkani.  Enginn veit, hvaða áhrif slíkt hefur á lífríki sjávar, en veðurfarið á Íslandi yrði sennilega viðráðanlegt nútíma mönnum.

Hins vegar veldur hlýnunin auknu afrennsli til sjávar af ferskvatni bráðnandi jökla, sem dregur úr seltustigi sjávar.  Mismunur seltustigs (osmósa) hlýsjávar og kaldsjávar er talinn vera einn af kröftunum, sem knýja hringrás hafstrauma.  Nú herma fréttir, að endurforritað líkan af Atlantshafi gefi til kynna, að vél Golfstraumsins muni stöðvast, ef jöklar hér norður frá bráðna, og munar þar mestu um Grænlandsjökul.

Þetta eru hrikaleg tíðindi, því að meðallofthiti og meðalsjávarhiti lækka um nokkrar °C.  Það þarf ekki mikla mannvitsbrekku til að draga þá ályktun af þessu, að þá mundi a.m.k. "litla ísöld" halda innreið sína  við Norður-Atlantshaf og að Ísland yrði þá sennilega óbyggilegt flestum mönnum. 

Þetta færir loftslagsvána óþægilega nálægt okkur Íslendingum og gerir að verkum, að það er skylda okkar við komandi kynslóðir að sporna við fótum eftir megni, þó að það geti ekki orðið meira en sem dropi í hafið eða um 0,01 %.  Áhrifamáttur góðs fordæmis verður þó tiltölulega miklu meiri, og þess vegna er umhverfisátak hér ekki út í loftið. 

Það verður senn sorfið að iðnaði og flugi, sem eru undir sameiginlegum ESB-hatti kolefnisviðskipta, með koltvíildisskatti.  Andvirði hans ætti eindregið að verja til mótvægisaðgerða hérlendis, þar sem skógræktin er væntanlega öflugasta ráðið.  Ef vel verður haldið á spöðunum, gætu þessir losunaraðilar staðið á núlli losunarlega um miðja 21. öldina, en þá þarf Ísland endilega að verða nettó kolefnisfrítt.  Með tækniþróun á sviði "orkuskipta" er slíkt raunhæft.

Íslenzkur sjávarútvegur hefur sýnt gott fordæmi í eldsneytissparnaði í aldarfjórðung nú.  Það er vegna þess, að í fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga eru innbyggðir hvatar til umhverfisverndar.  Varðandi lífríkið í hafinu er umhverfisverndarhvatinn reistur á einkaeignarréttinum, sem víðast hvar í heiminum er forsenda góðs árangurs í umhverfisvernd. Framhjá þeirri staðreynd verður ekki gengið við mótun umhverfisstefnu og auðlindastefnu.

 Ótímabundinn afnotaréttur útgerðarmanna af auðlindinni skapar langtímahugsun og sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar.  Slíkum afmörkuðum rétti er ekki til að dreifa með andrúmsloftið.  Það er almannaeign, og þess vegna gengur svo erfiðlega að koma böndum á losun óæskilegra efna út í andrúmsloftið.  Þjóðum heims miðar enn ekkert áfram í þeim efnum, sem heitið getur, því að ferðalög á ráðstefnur og fagurgali þar duga skammt.  Bezta ráðið er sennilega að úthluta ríkjum, stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum síminnkandi losunarkvótum og leggja kolefnisskatt á það, sem umfram er kvóta.  Fyrir andvirði kolefnisskatts á m.a. að greiða fyrir mótvægisaðgerðir.

Hagkvæmniástæður og arðsemishvati hafa drifið þróun útgerðanna til minni olíunotkunar.  Þyngst hefur vegið fækkun skipa og útgerða.  Þá hefur fiskgengd aukizt, sem aukið hefur afla "í hali" og stytt úthaldstíma.  Við endurnýjun skipa hafa útgerðarmenn ennfremur lagt áherzlu á orkusparneytni, og tækniþróunin hefur leitt til orkusparandi ferla, t.d. ofurkælingar í stað ísingar eða frystingar. 

Allt hefur þetta leitt til 63 kt/ár olíusparnaðar fiskiskipa á 25 árum, sem jafngildir a.m.k. 30 % minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda á árabilinu 1990-2015, því að árið 1990 brenndu fiskiskip 207 kt af olíu og árið 2015 144 kt.  Hlutdeild veiðiskipa í heildarlosun Íslands var þá orðin innan við 10 %, sem er frábær árangur m.v. það, að hlutdeild sjávarútvegsklasans til VLF - vergrar landsframleiðslu var um 25 % árið 2015. 

Það er litlum vafa undirorpið, að árið 2030, sem er markmiðsár Parísarsamkomulagsins frá desember 2015, mun sjávarútvegurinn skila ríflega sínum hlut til minnkunar á losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum, sem er 40 %, eða minnkun olíunotkunar um a.m.k. 20 kt frá árinu 2015.  Þetta gerist við endurnýjun og enn meiri fækkun fiskiskipa, og með því að knýja skipin og ljósavélarnar með iðnaðareldsneyti og með rafgeymum og/eða ofurþéttum eða jafnvel með þóríum-kjarnakljúfi eða með öðrum umhverfisvænum hætti, sem enn hefur ekki komið fyrir almenningssjónir.  Blekbóndi spáir því, að árið 2030 muni sjávarútvegurinn hafa helmingað olíunotkun sína frá árinu 2015 og að á árinu 2050 muni hann engu jarðefnaeldsneyti brenna, þó að þorskígildistonnum muni þá hafa fjölgað frá því, sem nú er (um 600 þít). 

Um bílaeignina og bílanotkunina gilda önnur lögmál en um fiskiskipaeignina og notkun þeirra, því að takmarkað aðgengi að götum og vegum er enn ekki nægilega hamlandi til að draga úr notkun, þó að í Reykjavík sé mjög skammt í það, þegar ös er, þökk sé stefnu núverandi borgaryfirvalda.  Það er þó vitaskuld engin lausn að skapa umferðaröngþveiti með amlóðahætti í skipulagsmálum, og afleiðing slíkrar hringavitleysu er aðeins meiri mengun og auknar slysfarir. 

Lausnin á vanda umferðarinnar eru bætt umferðarmannvirki, sem auka öryggið og greiða fyrir umferð, og umhverfisvænir orkugjafar, sem nú þegar eru tiltækir, en verða enn notendavænni á næstu árum.  Til að gera þá almennt nýtanlega verða orkuyfirvöld hérlendis þó að hysja upp um sig brækurnar.  Það er margbúið að benda á, að ekkert gerist með fagurgala á tyllidögum, nema kné sé látið fylgja kviði með skipulagningu, hönnun, fjárveitingu og framkvæmd. 

Raforkufyrirtækjunum hefur nú vaxið svo fiskur um hrygg fjárhagslega, að þau hafa nægt bolmagn til að virkja, efla flutningskerfið og dreifikerfin og setja upp viðeigandi raftengla fram til 2030.  Slíkar fjárfestingar munu borga sig upp á innan við 5 árum, ef rétt er að verki staðið. Stjórnvöld landsins þurfa að koma með hvetjandi og letjandi aðgerðir á réttum stöðum sem fulltrúar lofthjúpsins og heildarhagsmuna.  Á þessu kjörtímabili þarf að verða vendipunktur í þessum málum, og liggur þá beint við að grafast fyrir um það, hvers vegna Austmenn (Norðmenn) eru komnir a.m.k. 5 sinnum lengra en við í rafbílavæðingunni, þegar tekið er tillit til hlutfallslegs fjölda rafbíla í hvoru landi. 

Afleiðingin af sofandahætti yfirvalda, stofnana og fyrirtækja hér (samsæri ?) er sú, að síðan árið 1990 hefur notkun jarðefnaeldsneytis landfartækja vaxið um 95 kt/ár eða um 58 %, þrátt fyrir mjög bætta nýtni nýrra benzín- og dísilvéla ökutækjanna.  Árið 1990 nam eldsneytisnotkun farartækjanna 164 kt, og árið 2015 hafði hún aukizt upp í 259 kt og nam þá tæplega 0,94 t/fartæki.  

Samkvæmt markmiði Parísarsamkomulagsins þarf þessi elsneytisbrennsla að hafa fallið niður í 98 kt árið 2030, sem jafngildir brottfalli um 161 kt af jarðefnaeldsneyti eða rúmlega 171´000 eldsneytisbrennandi landfartækja, sem þýðir, að þá þarf helmingur landfartækjaflotans, fólksbifreiðar, hópbifreiðar, sendibifreiðar og vörubifreiðar, að vera orðinn umhverfisvænn.  Hlutfallið er núna um 0,9 %, svo að vitundarvakningar er þörf á öllum vígstöðvum. 

Á þessari stundu er ekkert, sem bendir til, að nauðsynlegt kraftaverk verði.  Þess vegna er brýnt, ef menn eru með hýrri há, að hefjast þegar handa um mótvægisaðgerðir, sem virðast verða hvað öflugastar með endurheimt votlendis.  Olíunotkun landfartækja gæti líklega orðið 80 kt meiri árið 2030 en Parísarmarkmiðið gerir ráð fyrir.  Þetta jafngildir um 250 kt/ár af koltvíildi, sem þá þarf að útjafna.  Þetta samsvarar þó aðeins endurheimtum á rúmlega 2 % af núverandi framræstu landi, ef kenningar um varanlega aukningu á myndun gróðurhúsalofttegunda við þurrkun lands standast, sem þarfnast nánari rannsókna (mælinga).

Ríkisvaldið hefur þannig í hendi sér, hvort Ísland nær markmiðum Parísarsamkomulagsins.  Það verða ófyrirgefanleg afglöp ráðamanna á næstu 10 árum, sem ein geta valdið því, að Íslendingum mistakist að ná þessu markmiði.  Þríhyrningur


Alvarlegar ásakanir

Mjög óþægilegt mál fyrir þjóðina hefur undanfarin misseri grafið um sig varðandi 3. stoð ríkisvaldsins, dómsvaldið, en það eru ásakanir hæstaréttarlögmanns og fyrrverandi dómara við Hæstarétt, Jóns Steinars Gunnlaugssonar, JSG, í garð fyrrverandi meðdómara sinna, sem eftir öllum sólarmerkjum að dæma hafa verið vanhæfir til að dæma um lögbrot fyrrverandi bankamanna og virðast hafa beitt sér með ósæmilegum hætti gegn honum í aðdraganda skipunar hans í stöðu hæstaréttardómara. 

Jón Steinar hefur birt nokkrar greinar í Morgunblaðinu og skrifað bækur um efnivið, sem er þess eðlis, að ekki er hægt að láta liggja í þagnargildi, nema enn meira tjón hljótist af.  Ef Alþingi og Innanríkisráðherra ætla á nýju ári, 2017, að stinga höfðinu í sandinn, þegar jafnalvarlegar ásakanir eru hafðar uppi af fyrrverandi innanbúðarmanni í Hæstarétti í garð nokkurra dómara æðsta dómstigs landsins, einkum þess áhrifamesta og langvarandi forseta réttarins, þá bregðast hinar stoðir ríkisvaldsins líka skyldum sínum.  Er þá fokið í flest skjól, og ekki verður þá önnur ályktun dregin en alvarleg meinsemd (rotnun) hafi náð að grafa um sig á æðstu stöðum.  Það er óhjákvæmilegt að stinga á slíku kýli, þótt sársaukafullt verði,  og fjarlægja gröftinn. 

Grein JSG í Morgunblaðinu 2. janúar 2017:

"Hvað láta Íslendingar bjóða sér ?",

hefst þannig:

"Fráfarandi forseti Hæstaréttar og samdómarar hans hafa brotið gegn lagaskyldum sínum og misfarið með vald sitt.  Þá þarf að kalla til ábyrgðar."

Fram kemur í greininni, að staðfest leyfi rétt bærs aðila til handa hæstaréttardómara að eiga ákveðin hlutabréf og fjalla samtímis um málefni sakborninga í sama eða tengdum félögum (banka), hafi ekki verið lagt fram. Síðan segir:

"Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, að vísa skyldi ætluðum sökum hinna ákærðu í þessum málum frá dómi í stórum stíl.  Allir sáu, að hér voru á ferðinni úrlausnir, sem engu vatni héldu.  Er gerð grein fyrir þessu á bls. 378-384 í bók minni, "Í krafti sannfæringar", sem út kom á árinu 2014."

Síðan er drepið á málaferli gegn bankamönnum fyrir verknaði, er talið var, að veikt hefðu bankana í Hruninu og e.t.v. átt þátt í því:

"Sumir dómaranna höfðu verið þátttakendur í fjármálaumsvifum á vettvangi bankanna fyrir hrunið, mismiklum þó.  Þar virðist fráfarandi forseti réttarins hafa verið sýnu stórtækari en aðrir.  Þeir urðu svo fyrir umtalsverðu fjártjóni af völdum þess.  Um þetta vissi enginn. 

Þetta aftraði þeim ekki frá að taka sæti í þessum málum og fella þunga dóma yfir hinum ákærðu.  Það hefur vakið athygli, að í mörgum þessara mála hafa hinir ákærðu verið sakfelldir fyrir umboðssvik án þess, að fyrir hafi legið ásetningur þeirra til auðgunar á kostnað viðkomandi banka og án þess að sérstök hætta hafi einu sinni verið á slíku."

Í augum leikmanns eru dómarar við Hæstarétt hér sakaðir um að hafa látið sín viðskiptatengsl við fjármálastofnun hafa veruleg áhrif á úrskurð sinn í mikilsverðum dómsmálum.  Eins og allt er í pottinn búið, gefur augaleið, að ekki verður undan því vikizt að fá botn í málið og leiða það til lykta, svo að þeir axli sín skinn, sem brotið hafa af sér, en hinir verði sýknir saka. 

Síðan skýrir JSG frá illvígri aðför dómara við Hæstarétt að sér í þremur liðum til að hræða hann frá að sækja um embætti hæstaréttardómara 2004 með hótunum um misbeitingu meirihluta dómaranna á umsagnarrétti sínum um umsækjendur.  Þetta er gjörsamlega siðlaust athæfi dómaranna, ef satt er, og rýrir svo mjög traust til þeirra, að Alþingi og Innanríkisráðherra er með engu móti stætt á öðru en að hleypa opinberri rannsókn af stokkunum til að komast til botns í málinu. 

Nú skal ekki fella dóm hér, enda engin efni til þess, en ef samsæri á vinnustað gegn umsækjanda um starf á sama vinnustað kæmist upp og sannaðist, væri það hvarvetna talið ólíðandi óþokkabragð, þar sem vegið væri freklega að borgaralegum réttindum einstaklings og að orðstír hans, og einnig vinnur einelti af þessu tagi augljóslega gegn hagsmunum vinnustaðarins og vinnuveitandans, sem kappkostar að ráða starfsmann með eftirsótta hæfileika, getu og þekkingu, en alls ekki þann, sem líklegastur er til að falla bezt í klíkukramið á vinnustaðnum og láta bezt að stjórn klíkustjórans á hverjum tíma, ef slíkur er á viðkomandi vinnustað.  Ef rökstuddur grunur kemur upp um, að eitthvað þessu líkt viðgangist í Hæstarétti Íslands, eins og nú hefur komið á daginn, eru viðkomandi stjórnvöld, Alþingi og Innanríkisráðherra, að lýsa yfir blessun sinni á slíku ófremdarástandi með aðgerðarleysi. Slíkt hlýtur þá að lokum að hafa stjórnmálalegar afleiðingar.

"Dómarar við Hæstarétt hafa ekki hikað við að brjóta gegn lagaskyldum sínum og misfara með vald sitt til að koma fram niðurstöðum, sem þeim hafa fundizt æskilegar, hvað sem réttum lagareglum líður.  Þeir hafa þá að líkindum treyst því, að þeir gætu farið fram í skjóli leyndar um atriði, sem skipt hafa meginmáli fyrir dómsýslu þeirra." 

Nú stendur svo á, að þetta er líklega harðasta og alvarlegasta gagnrýni, sem komið hefur fram á störf hæstaréttardómara frá stofnun Hæstaréttar Íslands.  Væri þá ekki við hæfi, að yfirvöldin rækju af sér slyðruorðið og gripu til réttmætra aðgerða til að komast til botns í málinu og bæta orðstír Hæstaréttar í bráð og lengd ?

Lokahluti greinar JSG ber einmitt yfirskriftina:

"Glataður orðstír":

"Það er nauðsynlegur þáttur í aðgerðum til að endurvekja traust þjóðarinnar til Hæstaréttar Íslands, að dómarar við réttinn verði, þar sem það á við, látnir bera ábyrgð á afar ámælisverðu háttalagi sínu á undanförnum árum."rosabaugur251px1

 

 


Þrændalög og Vestfirðir

Vestfirðir hafa að mörgu leyti sérstöðu í sögulegu og nútímalegu samhengi.  Þar var frá fornu fari matarkista á miðum skammt undan, og þar var jafnan hægt að sækja björg í bú á vorin í fuglabjörg, þegar matarbirgðir voru að verða upp urnar.  Vestfirðir eru utan jarðskjálfta- og eldgosasvæða.  Hungursneyð heyrði til algerra undantekninga á Vestfjörðum, en sú var ekki reyndin í öðrum landshlutum á erfiðum skeiðum Íslandsbyggðar. 

Drottinn gaf og Drottinn tók, eins og átakanlegir og allt of tíðir sjóskaðar eru dæmi um á öllum öldum Íslandsbyggðar.  Í seinni tíð, eftir myndun þéttbýlis, minnast menn einnig hræðilegra afleiðinga af snjóflóðum á Vestfjörðum.  Allt stendur þetta þó til bóta á okkar tímum með margháttuðum varnaraðgerðum. 

Vestfirðingar hafa jafnan verið taldir miklir og góðir sæfarendur, og fornt dæmi um það er Flóabardagi á 13. öld, er mun fámennara lið Vestfirðinga hafði í fullu tré við vel útbúna Skagfirðinga í sjóorrustu á Húnaflóa. 

Vestfirðingar voru líka harðsnúnir í hernaði á landi og jafnan hallir undir Sturlunga í átökum á 13. öld, og ætíð verður í minnum haft, er mesti herforingi Íslandssögunnar, Sturlungurinn Þórður, kakali, fór með einvalalið 50 knárra Vestfirðinga um landið og lagði það undir sig í leifturstríði gegn andsnúnum höfðingjum þess tíma. 

Saga Vestfjarða í efnalegu tilliti er einnig glæst, og þar voru öflugir kaupmenn með alþjóðleg sambönd, eftir að helsi einokunarverzlunar Danakóngs var aflétt.  Á 19. öldinni voru norskir hvalveiðimenn og hvalverkendur aðsópsmiklir, og hvalstöðvarnar urðu fyrsta stóriðja Íslands, og þar fengu íslenzkir verkamenn í fyrsta skiptið greitt með alþjóðlega gildri mynt í seinni tíma sögu landsins. 

Ef litið er á þróun fiskvinnslu á Vestfjörðum, kemur í ljós, hún hefur orðið mjög neikvæð á tveimur áratugum í kringum síðustu aldamót.  Er kvótakerfinu, sem sett var á 1983 og frjálsu framsali, innleiddu 1991, gjarna kennt um.  Í upphafi fengu Vestfirðingar þó ríkulega úthlutaðan kvóta árið 1984 samkvæmt veiðireynslu vestfirzkra fiskiskipa, en þeir frömdu það glappaskot að selja fljótlega frá sér megnið af veiðiheimildum sínum, eftir að heimild var gefin til slíks með löggjöf 1990. Sagt er, að vestfirzkir útgerðarmenn hafi ekki reiknað með langæi kvótakerfisins. Það var rangt stjórnmálalegt og efnahagslegt mat. 

Árið 1993 voru 17 kt af uppsjávarfiski verkuð á Bolungarvík, ekkert árið 2013. 

Árið 1993 voru 37 kt af botnfiski verkuð á Vestfjörðum, en árið 2013 aðeins 14 kt, og var það allt verkað á Ísafirði og í Hnífsdal.  Minnkunin nam 23 kt eða 62 %, og nam minnkunin á Suðurfjörðunum 10 kt.  Þetta hefur að sjálfsögðu dregið byggðalegan mátt úr Vestfjörðum, og íbúunum hefur fækkað, en nú hefur orðið gleðilegur viðsnúningur í málefnum Vestfjarða, svo að hillir undir nýja stórveldistíð með drjúgri fólksfjölgun, gjaldeyrisöflun og tekjum á mann yfir meðaltali tekna á landinu. 

Þetta er í raun umfjöllunarefni fyrrverandi forseta Alþingis og núverandi formanns stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva, Einars Kristins Guðfinnssonar, EKG, í grein í Fiskifréttum, 15. desember 2016:

"Lítil dæmisaga um byggðamál frá Noregi":

Einar Kristinn hefur frásögnina af ferð sinni til eyjarinnar Freyju í Noregi þannig:

"Fröya er sjálfstætt sveitarfélag, vestasti hluti Syðri-Þrændalaga í Noregi, ekki langt frá Þrándheimi; Niðarósi, sem kemur mjög við sögu í fornsögunum.  Ólíklegt er, að margir Íslendingar þekki þar staðhætti."

Blekbóndi verður þó að gera athugasemd við síðustu málsgreinina vegna þess, að Þrándheimur eða Niðarós, sbr Nidarosdomen á norsku fyrir Niðarósdómkirkju, er mikið menntasetur og skólabær.  Þar var t.d. lengi rekinn eini Tækniháskóli Noregs, NTH-Norges Tekniske Högskole, nú NTNU eftir sameiningu skóla í Þrándheimi, og þar hafa allmargir íslenzkir námsmenn numið alls konar verkfræði við afar góðar kennsluaðstæður, í góðum tengslum við norskan iðnað, og þar er t.d. Rannsóknarstofnun norskra rafveitna (Elektrisitetsforyningens  Forskningsinstitutt-EFI), við búsældarlegt atlæti í fögru umhverfi, og er blekbóndi á meðal fyrrverandi stúdenta þar. 

Ljúka þeir flestir upp einum rómi um gæði þessa náms og góð kynni af norskum frændum, sem eiga vilja hvert bein í Íslendingum, ef svo ber undir.  Af þessum ástæðum hafa allmargir Íslendingar gengið um Niðarós allt frá dögum Kjartans Ólafssonar frá Hjarðarholti, er hann var þar með fríðu föruneyti ofan af Íslandi og þreytti sundiðkan við knáan Noregskonung kristnitökunnar, Ólaf Tryggvason. 

"En hin norræna skírskotun er kannski ekki í dag það, sem fyrst kemur upp í hugann, hvorki í Noregi né á Íslandi. Heldur miklu fremur hitt, að þarna fer fram gríðarlega öflugt laxeldi, sem hefur haft mikil og jákvæð áhrif á byggðina á eyjabyggðinni (sic.).  Það blasti við mér, eins og öðrum, þegar ég heimsótti Fröya fyrir skemmstu.

Líkt og margar sjávarbyggðir háði Fröya sína varnarbaráttu.  En fyrir um áratug snerist dæmið við, svo að um munaði, með uppbyggingu laxeldisins.  Beinum störfum fjölgaði.  Mikil fjárfesting átti sér stað með öllum þeim umsvifum, sem því fylgja.  Upp spruttu nýjar og áður óþekktar atvinnugreinar, sem leiddu af uppbyggingu í eldinu.  Ungt fólk tók að streyma til eyjarinnar.  Fólkinu fjölgaði, og sveitarfélagið varð æ eftirsóttara til búsetu."

Síðan lýsir EKG því, að á einum áratugi, eftir að þessi mikla atvinnuuppbygging hófst, hafi fólksfjölgun orðið 20 % - 25 %, sem er tiltölulega mikil fjölgun, en þó ekki meiri en svo, að hún getur farið fram með skipulegum hætti, og sveitarfélagið getur á sama tíma reist nauðsynlega innviði.  Markaðsrannsóknir sýna, að markaðurinn getur tekið við enn meira magni af eldislaxi á næstu áratugum og að verðþróun verði framleiðendum hagstæð, eða með orðum EKG:

"Laxeldi í Noregi nemur um 1,4 milljónum tonna, hefur tvöfaldazt á síðustu 8 árum, fer vaxandi og spáð, að svo verði áfram."

Þessi sama þróun er nú nýhafin á VestfjörðumNorsk laxeldisfyrirtæki eru að hasla sér þar völl með töluverðum fjárfestingum og færa hinni ungu grein á Vestfjörðum dýrmæta reynslu, þekkingu, öguð vinnubrögð, gæðastjórnun og öryggisstjórnun. 

Ótti ýmissa hérlandsmanna er um erfðablöndun norska eldislaxins við villta íslenzka laxastofna.  Til þess mega fæstir Íslendinga hugsa, en sjávarútvegsfræðingurinn og framkvæmdastjóri Eldis og umhverfis ehf, Jón Örn Pálsson, hefur í grein í Viðskiptablaðinu, 6. október 2016, fært gild rök fyrir því, að hætta á þessari erfðablöndun þurfi alls ekki að standa þróun greinarinnar fyrir þrifum á Íslandi.

  Í Noregi er nú unnið samkvæmt norska staðlinum NS9415 í laxeldisstöðvum, og eru slysasleppingar í svo litlum mæli eftir innleiðingu hans, að villtum stofnum getur ekki stafað erfðafræðileg hætta af.  Árin 2014-2015 er talið, að 6000 eldislaxar, eða 0,002 % (20 ppm) af fjölda laxa í kvíunum, hafi sloppið í norskar ár, sem mundi þýða 400 eldislaxa á ári í íslenzkar ár m.v. 100 kt/ár framleiðslu.  Jón Örn endar grein sína þannig:

"Af því, sem hér hefur verið dregið fram, má ljóst vera, að ekki þarf að fórna einum einasta villtum laxastofni til að byggja upp mikilvæg störf við fiskeldi á landsbyggðinni."

Leiðin virðist greið fyrir Vestfirðinga að finna fjölina sína á ný með því, að laxeldi og afleiddar greinar þess verði í flestum eða öllum fjörðum Vestfjarða sem kjarnastarfsemi, og ferðaþjónustan sem stuðningsstarfsemi.  Með þessu móti skapast skilyrði fyrir ágætis tekjuþróun og innviðauppbyggingu á Vestfjörðum, sem vantað hefur, frá því að vægi fiskveiða og fiskvinnslu minnkaði með þeirri samþjöppun, sem tækniþróun o.fl. hefur knúið áfram.  Svo kölluðum "brothættum byggðum", 10-12 talsins, samkvæmt skilgreiningu Byggðastofnunar fækkar nú að sama skapi. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband