Sjávarútvegur í stórsjó

Stjórnendur í sjávarútvegi horfast nú í augu við óhagstæð viðskiptakjör vegna sterkrar krónu, ISK, fremur lágs fiskverðs, að neikvæðum áhrifum  hásetaverkfalls ógleymdum, og aukins kostnaðar við mannahald í kjölfar sama tveggja mánaða verkfalls. Að geta ekki sinnt föstum viðskiptavinum um langa hríð tekur tíma að bæta fyrir á erlendum mörkuðum. 

Til að létta lundina eru þó fremur jákvæð tíðindi af lífríki hafsins um þessar mundir, sem gefa von um lækkaðan tilkostnað á sóknareiningu og fleiri þorskígildistonn á fiskveiðiárinu 2017/2018 en á yfirstandandi fiskveiðiári. Um þetta segir í Morgunblaðsfrétt, 19. apríl 2017, undir fyrirsögninni:

"Þorskstofninn hefur ekki mælst sterkari":

"Verkefnastjóri [Hafrannsóknarstofnunar í marzralli 2017] var Jón Sólmundsson, fiskifræðingur, og segir hann í samtali við Morgunblaðið, að í heildina séu niðurstöður rallsins jákvæðar.  Þær megi einkum þakka góðu ástandi í sjónum við landið, og að skynsamlega sé staðið að veiðum, þar sem byggt er á aflareglu í mörgum tegundum."

Sem kunnugt er hefur aflamark í þorski og fleiri tegundum iðulega frá miðjum 9. áratug síðustu aldar verið skorið stórlega niður með lækkandi stofnvísitölum samkvæmt mælingum og ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar, frá því að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var tekið upp, og á fiskveiðiárinu 2016/2017 er ráðgjöfin enn undir því marki, sem ráðlagt var fyrir 40 árum. 

Uppbygging stofnanna hefur kostað langvinnar fórnir, en það er tvímælalaust heillavænlegt að ganga ekki of nærri hrygningarstofnunum með því að beita aflareglu á hverja tegund samkvæmt viðurkenndri vísindalegri þekkingu.  Hitt er annað mál, að þessi þekking er enn gloppótt og efla þarf mjög vísindarannsóknir á lífríki hafsins til að skjóta traustari stoðum undir veiðiráðgjöfina. Eyrnamerkja á hluta veiðigjaldanna rannsóknarverkefnum og fjárfestingum í búnaði hjá Hafrannsóknarstofnun, eins og ætlunin var við setningu laga um þessa umdeilanlegu gjaldtöku.

Samkeppnin knýr fyrirtækin til frekari hagræðingar; ekki sízt á tímum minnkandi tekna og lakari framlegðar.  Það blasir t.d. við hjá HB Granda að sameina þurfi bolfiskvinnslu í Reykjavík og á Akranesi á einum stað.  Nú er lagt upp í Reykjavík og ekið með óunninn fisk þaðan til vinnslu á Akranesi, og tilbúinni vöru er ekið til baka eða til Keflavíkurflugvallar.  Þessi akstur bætir ekki gæði vörunnar, er óumhverfisvænn, eykur við mikla vegumferð og er kostnaðarsamur.  Þar sem aðstaða fyrir alla starfsemina er ófullnægjandi á Akranesi, en fullnægjandi í Reykjavík, er eðlilegt, að fyrirtækið kjósi að sameina alla starfsemina í Reykjavík. 

Akranes er ekki "brothætt byggð", heldur kaupstaður með mikla atvinnustarfsemi og nýtur góðs af mikilli iðnaðarstarfsemi á Grundartanga.  Fyrirtæki, sem starfa á frjálsum markaði, verða að hafa svigrúm til þeirrar hagræðingar, sem þau telja gagnast bezt til lengdar starfsemi sinni.  Reykjavík, Akranes og Grundartangi eru í raun eitt atvinnusvæði vegna Hvalfjarðarganga, og nú eru jafnvel ferjusiglingar yfir til Reykjavíkur í bígerð. 

Ef Faxaflóahafnir ætla að byggja samkeppnishæfa bryggjuaðstöðu á Akranesi til að þjóna HB Granda þar, er fyrirtækið komið með mjög sterka samningsstöðu og getur í raun "deilt og drottnað".  Er það ákjósanleg staða fyrir Akranes og Reykjavík ?  Hefur málið verið hugsað til enda ?

Morgunblaðið gerði skilmerkilega grein fyrir þessum hagræðingarmálum HB Granda 29. marz 2017 undir fyrirsögnunum:

"Vildu flutning til Akraness 2007" og "Sameina vinnslurnar til að hagræða".

Undir þeirri seinni skrifaði Guðni Einarsson:

"HB Grandi er að setja upp botnfiskvinnslu á Vopnafirði.  Vilhjálmur [Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda] sagði það gert til að skapa vinnu allt árið fyrir fólk, sem starfar þar í uppsjávarvinnslu.  Stefnt er að því að vinna þar um 700 t af þorski í ár á milli uppsjávarvertíða.  Um 40 starfsmenn uppsjávarfiskvinnslunnar munu starfa við botnfiskvinnsluna.  Til samanburðar voru unnin um 7300 t af þorski á Akranesi í fyrra. 

HB Grandi keypti í haust veiðiheimildir upp á 1600 þít, og verður hluti heimildanna unninn á Vopnafirði. HB Grandi keypti hátt í 4000 t af botnfiski á mörkuðum í fyrra [2016].  Þar af voru rúm 3000 t af ufsa, sem unnin voru í Reykjavík.  Félagið ætlar að hætta að kaupa fisk á mörkuðum.  Vilhjálmur sagði, að gengju áform félagsins eftir, yrði vinnsla 7300 t flutt frá Akranesi til Reykjavíkur.  Heildarvinnslan þar mundi þá aukast úr um 21 kt í 24 kt á ári."

Stefna HB Granda er af þessu að dæma að styrkja tvær vinnslustöðvar í sessi hérlendis; aðra á suðvestur horninu og hina á norðaustur horninu.  Það er verið að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækisins með því að auka framleiðnina og framleiðsluna á báðum stöðunum, tryggja virðiskeðjuna frá veiðum til viðskiptavinar í sessi og draga úr áhættu varðandi landshlutatengd áföll og bæta gæðatryggingu vörunnar.  Allt rímar þetta vel við heilbrigða skynsemi, og yfirvöld ættu ekki að reyna með yfirlýsingum út í loftið eða skammsýnum aðgerðum að reyna að hafa áhrif á þá óhjákvæmilegu og að mörgu leyti jákvæðu atvinnuþróun, sem hér fer fram. 

Þegar stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja standa frammi fyrir eða hafa tekið erfiðar, en að sínum dómi nauðsynlegar ákvarðanir í hagræðingarskyni, þá skal ekki bregðast, að upp hefjist ógeðfelld umræða, oft pólitískt lituð, um sérgæzku og jafnvel mannvonzku þeirra, sem ábyrgðina bera, svo að ekki sé nú minnzt á hinn sígilda blóraböggul þeirra mannvitsbrekkna, sem hér eiga í hlut, fiskveiðistjórnunarkerfið.  Þessi umræða minnir að mörgu leyti á löngu úreltan stéttastríðstalsmáta, sem er ekkert annað en innantómt glamur nú á dögum.  Þetta varð Gunnari Þórðarsyni, viðskiptafræðingi, að umritunarefni í Fiskifréttum 21. apríl 2017 undir fyrirsögninni,

"Óábyrg umræða":

"Í raun er aðeins verið að benda á þá staðreynd, að með hækkun krónunnar aukast líkurnar á, að fiskvinnslan flytjist úr landi, alla vega ef gengið er út frá því, að íslenzkur sjávarútvegur sé rekinn á markaðslegum forsendum.  Hér er engin hótun á ferðinni, heldur aðeins bent á þá staðreynd, að fiskvinnsla verður ekki rekin á landinu, nema hún standist samkeppni við erlenda keppinauta.  Ekki er langt síðan óunninn gámafiskur var fluttur til vinnslu í Evrópu í miklu magni, sem hefur nánast verið óþekkt undanfarin ár.  Fullvinnsla hefur hins vegar aukizt mikið á Íslandi undanfarin ár, bæði í bolfiski og uppsjávarfiski.  Íslenzkur sjávarútvegur hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni og brugðizt við hækkun á innlendum kostnaði með aukinni hagræðingu og tæknivæðingu."

Þarna er drepið á þá gríðarlegu ógn, sem atvinnu og verðmætasköpun í landinu stafar af gengisþróun ISK, sem er um 20 % of há að verðgildi m.v. okkar helztu viðskiptamyntir um þessar mundir. Þetta hágengi vinnur gegn hagsmunum landsins, því að það mun senn svipta fólk atvinnu og kippa stoðunum undan verðmætasköpun.  Seðlabankinn og núverandi peningastefnunefnd hafa brugðizt hlutverki sínu, sem er varðveizla peningalegs stöðugleika í bráð og lengd. 

Norska krónan, NOK, hefur fallið um helming, 50 %, frá 2014 til 2017 gagnvart ISK, þrátt fyrir miklar gjaldeyristekjur af olíu- og gassölu og varasjóð frá þeim tekjum, sem nemur um miaUSD 800.  Hvers vegna er ekki beitt sömu ráðum hér til að stemma stigu við skaðlegum áhrifum mikils gjaldeyrisinnstreymis á íslenzka hagkerfið, þ.e. með því að taka þetta fé tímabundið út úr innlenda hagkerfinu og fjárfesta erlendis þar til slaki eða jafnvel kreppa ógnar því ? Þess í stað hleður Seðlabankinn undir ISK með því að safna gildum gjaldeyrissjóði, sem er honum svo dýrkeyptur, að bankinn er búinn að glutra niður nánast öllu eigin fé sínu.

Evra er augljóslega ekki svarið við þessum erfiðleikum, því að Seðlabanki evrunnar er að berjast við hagkerfissamdrátt, en hér er hagkerfisþensla núna.  Þannig er það iðulega, að hagkerfissveifla á Íslandi er í mótfasa við hagkerfissveiflu á meginlandi Evrópu.  Íslandi hentar þannig engan veginn að gerast aðili að þessu myntbandalagi.  Ekkert okkar helztu viðskiptalanda er á svipuðum stað, þ.e. á toppi hagsveiflunnar, eins og Ísland um þessar mundir.  Okkar bezta úrræði er að stjórna efnahagskerfinu og peningamálunum af skynsamlegu viti.  Þekking, geta og vilji er það, sem þarf, eins og venjulega.  Skussar ráða ekki við viðfangsefni af þessu tagi.

"Stór fyrirtæki, sem ráða yfir allri virðiskeðjunni frá veiðum til heildsölu, munu einfaldlega yfirtaka smærri fyrirtæki, sem ekki hafa borð fyrir báru til að standa undir íþyngjandi skattlagningu.  Þetta er í sjálfu sér ekki alvont, þar sem það eykur framleiðni og verðmætasköpun, en rétt, að menn geri sér grein fyrir þessu og láti það ekki koma sér á óvart, þegar það raungerist. Séu þá með áætlun um, hvernig bregðast eigi við t.d. byggðaröskun, sem óumflýjanlega fylgir slíku róti í atvinnugreininni.  Það veldur vonbrigðum að heyra sjávarútvegsráðherra hóta hækkun á veiðigjöldum til að neyða sjávarútveginn til að uppfylla það, sem honum finnst vera samfélagsleg ábyrgð.  Það er mikilvægt, að ráðamenn geri sér grein fyrir áhrifum veiðigjalda, og hækkun á þeim verður varla gerð í sátt við atvinnugreinina."

 Það er kunnara en frá þurfi að segja, að snarast hefur á merinni, þegar afkoma sjávarútvegsins í ár er borin saman við árið 2015.  Vegna mjög afturvirkrar álagningar veiðigjalda og brottfalls tímabundins afsláttar á veiðigjöldum munu útgerðarfélögin þurfa að bera hækkun veiðigjalda á fiskveiðiárinu 2017/2018.  Það er brýnt að endurskoða þessa skattheimtu, svo að ekki sé horft lengra aftur í tímann en eitt ár, og að sett verði þak á veiðigjöldin, t.d. 5 % af framlegð og að engin veiðigjöld verði innheimt af fyrirtækjum með framlegð undir 20 % af tekjum.  Núverandi skattheimta er flókin, ósanngjörn og meðalhófs er ekki gætt.

Jafnframt þarf auðvitað að samræma álagningu auðlindagjalds af öllum fyrirtækjum, sem nýta náttúruauðlindir, t.d. virkjanafyrirtækin, flutningsfyrirtækið Landsnet, ferðaþjónustan og fiskeldið.  Það er hægt að beita samræmdri aðferðarfræði á allar þessar greinar.  Spangól sjávarútvegsráðherra um nauðsyn hækkunar á eina þessara greina í einhvers konar refsingarskyni er algerlega út í loftið og sýnir í senn ábyrgðarleysi og getuleysi hennar við að leggja eitthvað uppbyggilegt að mörkum sem ráðherra.

Tækniþróun í flestum greinum atvinnulífsins leiðir til aukinnar afkastagetu og aukinnar sjálfvirkni.  Þetta er nú um stundir að stækka og fækka vinnslustöðvum fiskiðnaðarins.  Það væri glapræði að reyna að sporna við þessari þróun og ekki gæfulegra en að hverfa aftur í torfkofana.  Um þessa þróun skrifaði Gunnar Þórðarson í téðri grein:

"Með nýrri tækni, eins og vatnsskurðarvélum og þjörkum, aukast afköst á manntíma, og þannig mun starfsmönnum og vinnsluhúsum fækka.  Slíkri þróun geta þó fylgt mikil tækifæri, þar sem í stað erfiðisvinnu verða til betur launuð tæknistörf.  Það ætti að vera forgangsmál hjá sveitarfélögum og launþegahreyfingunni að taka þátt í slíkum breytingum með sjávarútvegsfyrirtækjum og tryggja hlutdeild starfsmanna í aukinni framleiðni í framtíðinni.  Það er hin raunverulega samfélagslega ábyrgð, að fyrirtæki, starfsmenn og samfélög leggist á eitt til að viðhalda samkeppnishæfni og verðmætasköpun í íslenzkum sjávarútvegi til framtíðar.  Að taka þátt í þróuninni og hafa áhrif á hana á jákvæðan hátt er einmitt samfélagsleg ábyrgð."

Það er hægt að taka heils hugar undir þessa þörfu hugvekju Gunnars Þórðarsonar, og ályktun hans um hvað felst í samfélagslegri ábyrgð á fullan rétt á sér.  Hið sama á við um flestar atvinnugreinar og sjávarútveginn, að þær auka framleiðni sína með sjálfvirknivæðingu.  Þetta er þeim einfaldlega nauðsyn til að standast samkeppnina.  Það er óviturlegt af sveitarfélögum og launþegafélögum að reyna að stöðva "tímans þunga nið".  Mun gæfulegra er, eins og téður Gunnar bendir á, að vinna með fyrirtækjunum að þessari þróun sjálfum sér og umbjóðendum sínum til hagsbóta.  Á stéttabaráttuvindgangi tapa allir, en græða að sama skapi á stéttasamvinnu.  Það er líka eðlilegt og almenningi til hagsbóta, að sveitarfélög keppi upp að vissu marki um hylli fyrirtækja og fólks, t.d. með góðri fjármálastjórnun.

 


Skólakerfi í úlfakreppu

Í fersku minni er slök og versnandi frammistaða íslenzkra 15 ára nemenda á 6. PISA (Programme for International Student Assessment) prófunum árið 2015. Ætlunin með þessum prófum er að veita skólayfirvöldum í hverju landi innsýn í árangur grunnskólastarfsins með alþjóðlegum samanburði. 

Ekkert hefur þó enn verið látið uppskátt um úrbótaviðleitni íslenzkra yfirvalda og legið er á upplýsingum um frammistöðu einstakra skóla sem ormur á gulli.  Þessi fælni við að horfast í augu við vandann og doði í stað þess að ganga til skipulegra úrbóta er einkennandi fyrir þrúgandi miðstýringu og fordóma gagnvart einkaframtaki í þessum geira og reyndar fleiri.  Samkeppni er þó einn þeirra hvata, sem bætt geta árangur skólanna. Er keppnisandi ekki hluti af manneðlinu og þar af leiðandi öfugsnúið að forðast hann ?  Það vantar nýja stefnumörkun í skólamálin til að snúa af þeirri óheillabraut, sem PISA-prófin 2015 sýndu, að íslenzkir grunnskólar eru á.  Vandi grunnskólanna flyzt auðvitað með nemendunum upp í framhaldsskólana eða út í þjóðlífið. Það er í verkahring nýs mennta- og menningarmálaráðherra að hafa forgöngu um  stefnumörkun í menntakerfinu, sem hafi að markmiði bættan árangur eigi síðar en 2021.

Framkvæmd grunnskólastarfs er í verkahring sveitarfélaganna, en ríkisvaldið samræmir starfið með Aðalnámskrá, sem öllum ber að fara eftir.  Hvernig skyldi nú vera staðið að skólamálum í stærsta sveitarfélaginu, Reykjavík, sem oft á árum áður gaf tóninn, en er nú orðin eftirbátur annarra sveitarfélaga í mörgu tilliti ?  Um það skrifar Áslaug María Friðriksdóttir í Morgunblaðsgreininni:

"Þreyttar áætlanir og lævís leikur", þann 22. apríl 2017:

"Gott samfélag býr að góðu menntakerfi.  Matið er einfalt.  Gott menntakerfi er samanburðarhæft við menntakerfi annarra ríkja [þ.e. stenzt samjöfnuð-innsk. BJo].  Árangur íslenzkra nemenda í lesskilningi og læsi á stærðfræði og náttúrufræði hefur hins vegar versnað síðastliðinn áratug og er verri en í samanburðarlöndum okkar.  Um þetta er enginn ágreiningur.  Því hefði mátt halda, að helzta áherzla meirihluta borgarinnar yrði að líta á málið sem algjört forgangsmál og leggja allt á vogarskálarnar [rangt orðalag, ef átt er við að leggja allt í sölurnar-innsk. BJo] til að gera betur.  Því miður blasir annað við.

Að skerða fjármagn til skólanna hefur verið helzt á dagskrá meirihlutans.  Skólastjórnendur hafa þurft að standa í karpi og mikilli baráttu við að fá skilning um, að ekki sé hægt að ná meiri árangri með slíkum hætti.  Hvergi hefur orðið vart við, að skólafólk fái hvatningu til að vinna að breytingum til að mæta slökum árangri.  Meirihlutinn hefur einnig staðið í vegi fyrir, að upplýsingum um árangur verði miðlað á þann hátt til skólanna, svo að þeir geti notað þær til að efla eigið starf.

Ljóst er, að hér verður að gera betur.  Vinna verður að því að fá fram breytingar á kennsluháttum og breytingar á aðbúnaði.  Menntastofnanir verða fyrst og fremst að geta sinnt kennsluhlutverki sínu.  Nauðsynlegt er að skýra línurnar og verja menntaþáttinn."

Hér er kveðinn upp þungur áfellisdómur yfir viðbrögðum borgaryfirvalda við niðurstöðum PISA 2015.  Ljóst er, að annaðhvort skilja borgaryfirvöld ekki til hvers PISA er eða þau nenna ekki að fara í nauðsynlega greiningarvinnu og úrbótaverkefni í kjölfarið.  Ríkjandi meirihluta vantar sem sagt hæfileika til að veita leiðsögn í þessu máli.  Borgaryfirvöld eru stungin svefnþorni, þau eru ófær um að veita nokkra vitræna forystu.  Stjórnendur af þessu tagi eru á rangri hillu og eiga skilda falleinkunn fyrir frammistöðu sína, sem jafngildir brottrekstri úr starfi eigi síðar en við næstu borgarstjórnarkosningar. 

Það er nauðsynlegt að fylgjast með því, hvað í ósköpunum fer fram í skólastofunum og gefur svo slakan námsárangur sem raun ber vitni um.  Af lauslegum viðræðum blekbónda við 15 ára nemendur virðist honum, að þekkingarstig þeirra komist ekki í samjöfnuð við þekkingarstig jafnaldra nemenda, sem þreyttu og náðu Landsprófi á sinni tíð, en það var þá inntökupróf í menntaskóla. Þetta er aðeins óformleg og lausleg athugun, sem e.t.v. veitir vísbendingu, og þekking 15 ára nemenda nú og fyrir hálfri öld er jafnvel ekki sambærileg. Í hvað fer tími nemenda nú um stundir ?

  Það þarf að beina sjónum að kennurunum, menntun þeirra og færni, og veita þeim umbun fyrir árangur í starfi, sem er að vissu marki mælanlegur sem einkunnir nemenda þeirra.  Standa kennarasamtökin e.t.v. gegn aðgerðum, sem bætt gætu árangur nemenda, ef hægt er að kenna slíkar aðgerðir við samkeppni á milli kennara ?  Hvers vegna er heilbrigð samkeppni á milli nemenda, kennara og skóla eitur í beinum sumra kennara og jafnvel stéttarfélagsins ?  Er ekki tímabært að losa sig við fordóma, sem standa skjólstæðingum kennara og hag kennara fyrir þrifum ?  Til að virðing kennara á Íslandi komist í samjöfnuð við virðingu stéttarsystkina þeirra í Finnlandi, sem hafa náð góðum árangri með nemendur sína á PISA, þarf mælanlegur árangur íslenzkra kennara að batna til muna.

Það vantar ekki fé í málaflokkinn, því að samkvæmt OECD batnar árangur óverulega við að setja meira en nemur 50 kUSD/nemanda alla hans grunnskólatíð í skólastarfið, að teknu tilliti til kaupgetu í hverju landi (purchasing power parity 2013), og hérlendis er varið mun hærri upphæð á hvern grunnskólanemanda. Það, sem vantar, er skilvirkni, mælanlegur árangur fjárfestingar í þekkingu ungviðisins.

 Bretland, Bandaríkin, Austurríki, Noregur, Sviss og Lúxemborg vörðu meira en tvöfaldri þessari upphæð samkvæmt athugun OECD árið 2013 í kennslu hvers nemanda, en nemendur þeirra náðu þó aðeins miðlungsárangri, um 490 stigum, á PISA 2015.  Íslenzkir nemendur voru undir þessu meðaltali í öllum prófgreinum, og árangur þeirra fer enn versnandi. Þetta er svo hraklegur árangur, að furðu má gegna, hversu lítil og ómarkviss viðbrögðin urðu. Það er pottur brotinn í grunnskólanum, og það er einfaldlega ekki í boði að stinga hausnum í sandinn gagnvart vandamálinu, því að framtíð landsins er í húfi.  Vendipunktur þarf að verða nú þegar, en mælanlegra framfara er þó ekki að vænta fyrr en 2021.   

Góður efnahagur og meiri jöfnuður hérlendis en í öllum 72 löndum þeirra 540´000 þúsund nemenda, sem þreyta PISA-þrautirnar, gera að verkum, að lélegur árangur Íslands á PISA er með öllu óeðlilegur.  Í OECD eru "fátækir" nemendur nærri þrisvar sinnum líklegri en nemendur í góðum efnum til að búa yfir minna en grunnfærni í raungreinum (science).  Nemendur, hverra foreldrar eru fæddir erlendis, koma jafnvel enn verr út.  Engu að síður eru 29 % fátækra barna á meðal 25 % hæstu nemendanna innan OECD.  Í Singapúr, Japan og Eistlandi, sem öll fengu yfir 525 stig árið 2015 og eru jafnan á meðal hinna beztu, er nálægt 50 % fátækra nemenda í efsta kvartili stiga (meðaleinkunnar).  Í þessu er fólginn hinn mikli og æskilegi þjóðfélagsjöfnunarkraftur skólakerfisins, þar sem hæfileikar fá að njóta sín án tillits til efnahags, en með dyntóttri doðastefnu sinni eru skólayfirvöld á Íslandi mest að bregðast þeim skjólstæðingum sínum, sem sízt mega við slíku.  Viðkomandi starfsmenn bregðast þá jafnframt hlutverki sínu.  Menntamálaráðherra verður að beita valdi sínu og beita áhrifavaldi, þar sem boðvald skortir.  Annars lendir hann í súpunni. 

Framhaldsskólarnir eru háðir fjárframlögum ríkisins.  Rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, segir farir sínar ekki sléttar í baráttunni um hlutdeild í ríkisútgjöldum í grein í Fréttablaðinu 12. apríl 2017:

"Fjárfestum í framtíðinni:

"Það er óumdeilt meðal framsýnna ríkja í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu, að opinber fjárfesting í menntun, rannsóknum og nýsköpun, hefur bein áhrif á framleiðni, hagvöxt og ný störf.  Þannig er í nýrri skýrslu Evrópusambandsins fullyrt, að rekja megi 2/3 hagvaxtar í Evrópu á tímabilinu 1995-2003 til þekkingarsköpunar, en áhrifin voru mest í Bretlandi (50 %) og Finnlandi (40 %) og minnst (innan við 10 %) í löndum á borð við Ungverjaland, Grikkland og Slóveníu.  Tölurnar tala skýru máli: opinber fjárfesting í menntun og rannsóknum er fjárfesting í samkeppnishæfni og farsæld til framtíðar."

Það er tvennt, sem ekki er skýrt í þessum texta rektors.  Annað er, hvernig 2/3 (67 %) hagvaxtar í ESB á tilteknu tímabili geti átt rætur að rekja til "þekkingarsköpunar", ef mestu áhrifin í einu landi voru 50 % ?  Hitt er, hvers vegna þessi áhrif eru bundin við opinberar fjárfestingar ?  Einkafjárfestingar eru venjulega hnitmiðaðri, markvissari og árangursríkari í krónum mældar. Um meginniðurstöðu rektors þarf þó ekki að deila.   

Háskóli Íslands er búinn að dreifa kröftunum mjög með ærnum tilkostnaði og má nefna doktorsnám í nokkrum greinum sem dæmi.  Honum væri nær á tímum aðhaldsþarfar að einbeita kröftunum að nokkrum greinum á borð við verkfræði, þar sem mjög mikið vantar upp á aðstöðu til verklegrar þjálfunar, t.d. í rafmagnsverkfræði, læknisfræði í samstarfi við Háskólasjúkrahúsið, lögfræði, sem sniðin er að íslenzkri löggjöf og íslenzk fræði og fornbókmenntir, sem hvergi er eðlilegra að rannsaka en hér. Í íslenzkum fræðum er óplægður akur innan háskólasamfélagsins að rannsaka, hvernig íslenzkar bókmenntir spruttu upp af hinum gelíska arfi landnámsmanna, og hvernig gelísk orð voru felld inn í íslenzkuna. Hvers vegna er verið að festa fé í monthúsi á borð við hús tungumálanna á undan góðum tilraunasölum á sviði verkfræði eða Húsi íslenzkra fræða, sem vinstri stjórnin skyldi við sem forarpytt ?

Grein háskólarektors er rituð til að brýna stjórnvöld til að breyta 5 ára fjármálaáætlun ríkisins þannig, að fjárveitingar úr ríkissjóði nái meðaltali OECD.  Slíkt er verðugt markmið í lok áætlunartímabilsins, en stúdentar hér eru margir á hvern íbúa landsins.  E.t.v. væri ráð að setja á hófleg skólagjöld, t.d. 100 kISK/önn ofan á innritunargjöld, samhliða styrkjakerfi lánasjóðsins á móti, sem tengt væri árangri í námi, til að bæta úr brýnasta fjárhagsvanda skólans.  

Það er einfaldlega svo, að mjög mikil fjárfestingarþörf er í öllum innviðum landsins núna eftir óþarflega langdregna efnahagslægð vegna rangra stjórnarhátta í kjölfar hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, sem Íslendingar voru berskjaldaðir fyrir vegna oflátungslegrar hegðunar, sem aldrei má endurtaka sig. Á sama tíma ber brýna nauðsyn til að greiða hratt niður skuldir ríkissjóðs til að spara skattgreiðendum óhóflegan vaxtakostnað, auka mótlætaþol ríkisins í næstu kreppu og hækka skuldhæfiseinkunn ríkisins, sem lækka mun vaxtaálag í öllu hagkerfinu.  Kostnaðarbyrði fyrirtækja og einstaklinga áf völdum skattheimtu er nú þegar mjög há á mælikvarða OECD og litlu munar, að stíflur bresti og kostnaðarhækkanir flæði út í verðlagið.  Skattahækkanir eru þess vegna ekki fær leið.  Gríðarlegar raunhækkanir útgjalda ríkisins þessi misserin skjóta skökku við í þensluástandi, eins og nú ríkir, þannig að rekstrarafgangur ríkissjóðs þyrfti helzt að vera þrefaldur á við áætlaðan afgang til að treysta fjármálastöðugleikann. 

Rektor Háskóla Íslands verður að laga útgjöld skólans að tekjum hans á þrengingaskeiði, sem að óbreyttu mun standa í 2-3 ár enn.  Þetta verður hann að gera í samráði við menntamálaráðuneytið, eins og aðrir ríkisforstjórar verða að gera í samráði við sitt ráðuneyti.  Að æpa í fjölmiðlum á hærri peningaútlát úr ríkissjóði en rétt kjörin stjórnvöld hafa ákveðið og Alþingi hefur staðfest, verður þeim sízt til sóma. Ríkisstofnunum, eins og einkafyrirtækjum og einstaklingum, gagnast fjármálalegur stöðugleiki betur en há verðbólga.   

 


Skipulagsmál í skötulíki

Ástand húsnæðismarkaðarins hérlendis er til skammar, því að um sjálfskaparvíti mistækra og sérlundaðra stjórnmálamanna í höfuðborginni er að ræða að mestu leyti. Þetta sjálfskaparvíti hefur margvíslegar afleiðingar.  Verst kemur gegndarlaus hækkun húsnæðisverðs niður á kaupendum fyrstu íbúðar, en einnig vega hækkanirnar inn í verðlagsvísitölur, sem er skaðræði í landi verðtryggingar. 

Um alvarlegar afleiðingar hás íbúðaverðs skrifaði Sigurður Ingólfsson, framkvæmdastjóri Hannars ehf í Morgunblaðið 23. marz 2017:

"Komum skikki á byggingarmálin":

"Þegar við höfum hrakið unga fólkið okkar úr landi með því stjórnleysi í húsnæðismálum, sem hér er lýst, þá skulum við ekki reikna með, að nema hluti þess komi til baka.  Á nokkrum árum fækkar þannig unga, vel menntaða fólkinu okkar, á meðan þjóðin eldist.  Hver á þá að halda þjóðfélaginu uppi ?"

Stjórnvöld hafa brugðizt þeirri skyldu sinni að hafa nóg framboð lóða af fjölbreytilegu tagi á boðstólum og að gera byggingarreglugerð og byggingarskilmála þannig úr garði, að húsbyggjendum sé kleift að reisa ódýr hús, þótt vönduð séu.  Hvað þetta varðar er mikill munur á sveitarfélögum, og það er alveg ljóst, sveitarfélög, sem sósíalistar stjórna, eru miklir eftirbátar hinna, sem stjórnað er af borgaralega sinnuðu fólki. Sósíalistum er síður en svo umhugað um, að ungt fólk eignist húsnæði, heldur snýst hugmyndafræði þeirra um, að fólk búi í leiguhúsnæði alla sína tíð.  Af þessum sökum er nægt framboð ódýrra lóða eitur í beinum sósíalista, og þess vegna vilja þeir ekki sjá yfir 10 þúsund íbúðir í Úlfarsárdal. 

Um samanburð sveitarfélaga segir byggingaverktaki í viðtali við Baldur Arnarson í Morgunblaðinu 19. apríl 2017:

"Minni kvaðir lækka íbúðaverð:

"Þorvaldur Gissurarson, forstjóri verktakafyrirtækisins ÞG Verks, áætlar, að vegna áðurnefndra breytinga á reglugerðinni, lægra lóðaverðs og sveigjanlegri skipulagsskilmála verði fermetraverð nýrra íbúða á Selfossi allt að 30 % lægra en í nýju fjölbýli í úthverfum á höfuðborgarsvæðinu.  Lægra lóðaverð vegi þungt í þessu samhengi."

Að sveitarfélag geri sig sekt um slík reginmistök í skipulagsmálum að leggja höfuðáherzlu á fyrirbærið "þétting byggðar" er höfuðsynd í þessu sambandi og er orðið húsbyggjendum og íbúðakaupendum gríðarlega dýrt; það er nokkuð, sem þeir og aðrir kjósendur þurfa að kvitta fyrir í næstu kosningum.  Um þetta skrifar Sigurður Ingólfsson í téðri grein:

"Það sést vel, að byggingarkostnaður og verð fasteigna fara illa saman.  Þar kemur auðvitað margt til, og er lóðarkostnaður og lóðaframboð stór þáttur í þeirri þróun.  Þegar lítið framboð er af lóðum, er lítið byggt, og þá hækkar eftirspurnin verð fasteigna, eins og nú gerist.  Þegar þar við bætist, að höfuðáherzlan er lögð á dýrar lóðir, sem er afleiðing þéttingar byggðar, þá hækkar verðið enn frekar.

Lausleg skoðun á söluverði fasteigna á mismunandi stöðum í Reykjavík sýnir, að þar sem þétting byggðar stendur aðallega yfir, er fasteignaverðið 40 %- 50 % hærra en t.d. í Úlfarsárdal (úthverfi) og er jafnvel 90 % - 100 % hærra, eins og við Laugaveg.

Sé gengið út frá, að byggingarkostnaðurinn sjálfur sé svipaður á þessum stöðum, þá er niðurstaðan, að lóðarkostnaðurinn sé um 13 % af verði fjölbýlishúss í úthverfi, um 38 % á þéttingarsvæðum í Reykjavík og um 55 % við Laugaveginn.

Hefði Reykjavíkurborg þannig úthlutað lóðum fyrir 4000 íbúðir, 75 m2 að stærð, í Úlfarsárdal, hefði það sparað kaupendum þeirra 48 milljarða króna í heild og borgin haft um leið tekjur af þeim upp á 15,3 milljarða króna.  Hver íbúð hefði kostað um 30 milljónir kr á verðlagi nú, sem hefði vafalaust lækkað enn frekar við mikið framboð íbúða.

Á framangreindum tölum sést, að það er um 30 % ódýrara að kaupa íbúð í úthverfi höfuðborgarsvæðisins en á þéttingarsvæðunum.  Það eru meira en 10 milljónir kr miðað við 75 m2 íbúð (nettó).  Þetta er ríflega sú upphæð, sem rætt er um, að ungt fólk þurfi til að festa sér íbúð.  Er ekki kominn tími til að fara að stjórna þessum málaflokki ?"

Þetta er einn samfelldur áfellisdómur yfir stjórnun skipulagsmálanna í Reykjavík á undanförnum árum, a.m.k. 2 kjörtímabil, og löngu er orðið tímabært, að Reykvíkingar hristi af sér þá óværu, sem nú situr í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur og stjórnar þar af fádæma þröngsýni, þekkingarleysi á hagsmunum borgarbúa og hreinræktaðri afdalamennsku, með fullri virðingu fyrir íbúum í afskekktum dölum. Nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga er reynt að bregða yfir úlfinn sauðargæru háfleygra byggingaráforma, en slíkt eru orðin tóm, því að stefnan er löngu mörkuð til vinstri.

Þessi fáránlega tilhögun skipulagsmála höfuðborgarinnar hefur hækkunaráhrif á íbúðarhúsnæði langt út fyrir mörk Reykjavíkur og á verðlagsvísitöluna í landinu.  Þeir, sem hyggja á flótta undan hárri húsaleigu eða byggingarkostnaði ættu þó að hugsa sig um tvisvar áður en þeir halda í húsnæðisleit og þar með í atvinnuleit til útlanda, a.m.k. til Norðurlandanna, því að þar hefur verðlag á húsnæðismarkaði hækkað gríðarlega á undanförnum árum, aðallega vegna lágra vaxta, sem magna upp eftirspurnina.  Á Norðurlöndunum eru lágir vextir til að stemma stigu við fjármagnsflótta frá evru-svæðinu, sem hækkaði verðgildi mynta Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, svo að Seðlabankar þessara landa sáu sér þann kost vænstan að lækka stýrivextina niður að núlli og jafnvel undir það.  Hinir seinheppnu vistmenn á Svörtuloftum eru þó hvergi bangnir, þótt samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna hér hrynji vegna gengis, sem er a.m.k. 20 % of hátt m.v. kostnaðarstigið í landinu, sem enn mun hækka hjá flestum fyrirtækjum nú í maí-júní. 

Í Viðskiptablaðinu 23. marz 2017 var úttekt á húsnæðiskostnaði Norðurlandanna eftir Snorra Pál Gunnarsson:

"Norræna tálsýnin"     Þar sagði m.a.:

"Þótt gæta verði að mörgu í þessum samanburði, fer því fjarri, að hægt sé að halda því fram með rökum, að grasið sé grænna [á] meðal frændþjóða okkar og auðveldara að koma sér [þar] þaki yfir höfuðið.  Þvert á móti gætu Íslendingar búið við lakari og áhættumeiri kjör á norrænum fasteignamarkaði en hér á landi."

Það er ekki aðeins aukin spurn eftir húsnæði vegna lágra vaxta, sem hækkað hefur íbúðaverðið meira í Svíþjóð og Noregi en á Íslandi og svipað í Danmörku, heldur einnig landleysi, sem tekið er að hrjá sum sveitarfélög þar, eins og t.d. Seltjarnarnes og Kópavog á Íslandi.  Snorri Páll gerir nánari grein fyrir hækkununum þannig:

"Undir lok síðasta árs [2016] var húsnæðisverð hlutfallslega hæst í Svíþjóð og tæplega helmingi [50 %] hærra en á Íslandi. Næst kom Noregur, þar sem húsnæðisverð var um 27 % hærra en hér á landi, en húsnæðisverð í Svíþjóð og Noregi er í sögulegu hámarki um þessar mundir.  Ísland og Danmörk koma þar á eftir með svipuð húsnæðisverð.  Loks er húsnæðisverð lægst í Finnlandi, sem er að ákveðnu leyti sér á báti, hvað varðar verðþróun á húsnæðismarkaði, en þar hefur húsnæðisverð verið nokkuð stöðugt síðan 2011." 

Til að sýna "húsnæðisbóluna" á Norðurlöndunum skal hér tilgreina fermetraverð í 10 þekktum borgum á Norðurlöndunum.  Verð eru í MISK/m2:

  1. Stokkhólmur:       1,10
  2. Ósló:              0,92
  3. Helsingfors        0,76
  4. Gautaborg          0,70
  5. Þrándheimur        0,62
  6. Kaupmannahöfn      0,60
  7. Björgvin           0,58
  8. Reykjavík          0,48
  9. Árósar             0,46
  10. Málmhaugar         0,38

Það, sem skiptir kaupandann höfuðmáli, er árleg greiðslubyrði hans af hverjum fermetra.  Snorri Páll gerir þannig grein fyrir henni:

"Greiðslubyrði af 100 m2 húsnæði í Ósló, sem kostar að meðaltali um MISK 92,3 með 75 % láni hjá DNB með jöfnum greiðslum til 25 ára á 2,55 % breytilegum vöxtum, er tæplega 314 kISK/mán.  Hjá Nordea í Svíþjóð er greiðslubyrðin af 100 m2 íbúð í Stokkhólmi, sem kostar að meðaltali um MISK 111 með 75 % láni til 25 ára á 2,04 % vöxtum, um 356 kISK/mán.  Hjá íslenzkum banka er greiðslubyrðin af slíkri íbúð í Reykjavík með 75 % láni hins vegar um 255 kISK/mán samkvæmt reiknivélum bankanna, sem er svipað og í Danmörku.  Greiðslubyrðin á verðtryggðum íbúðalánum, sem eru um 80 % af húsnæðislánum í landinu, er jafnvel enn lægri, og þar að auki bjóða lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður lægri vexti en viðskiptabankarnir."

Greiðslubyrði íbúðalána er sem sagt hærri á Norðurlöndunum en hérlendis, og hún er jafnframt þungbærari sem hærra hlutfall ráðstöfunartekna en hér.  Ekki nóg með það, heldur er áhætta lántakenda meiri á hinum Norðurlöndunum, því að fyrr eða síðar munu vextir þar hækka, og þá mun íbúðaverð lækka aftur.  Til að ná sögulegu meðaltali þurfa vextir u.þ.b. að tvöfaldast, svo að væntanlegar vaxtahækkanir á hinum Norðurlöndunum munu verða verulegar.  Þá mun eftirspurnin falla og verðið lækka. 

Þeir, sem þá þurfa að selja, munu verða fyrir fjárhagslegu tapi, sem getur leitt til eignamissis, jafnvel gjaldþrots.  Hvernig í ósköpunum stendur á því, að jafnaðarmenn á Íslandi klifa stöðugt á Norðurlöndunum sem hinni miklu fyrirmynd Íslendinga á öllum sviðum ?  Þeir, sem til þekkja, vita vel, að Norðurlöndin standa frammi fyrir miklum efnahagsvanda vegna mikils ríkisbúskapar, hárra skatta, mikilla skulda og lítillar framleiðniaukningar.  Samkeppnishæfni þeirra er af þessum sökum ógnað.

Þótt verðlag á húsnæðismarkaði sé svipað eða hærra á hinum Norðurlöndunum en hér, er það engin afsökun fyrir allt of háu verðlagi á húsnæðismarkaði hér í landi hárra vaxta og yfirleitt nægs landrýmis.  Það hlýtur að verða eitt af kosningamálum komandi sveitarstjórnarkosninga til hvaða aðgerða stjórnmálamenn ætla að grípa til að lækka íbúðaverð og þar með leiguverð með raunhæfum hætti.  Eitt er víst, að í þá umræðu eru ákafir talsmenn þéttingar byggðar ekki gjaldgengir. 

 


Orkustefna í smíðum

Íslendingar nota allra manna mest af orku, þegar lögð eru saman jarðhiti, vatnsorka, olíuvörur og kol. Sumpart stafar þetta af tiltölulega mikilli upphitunarþörf húsnæðis vegna veðurfarsins og sumpart af því, að bifreiðaeign er hvergi meiri að tiltölu, en aðallega stafar mikil orkunotkun þó af miklum orkusæknum iðnaði. Staðsetning hans á Íslandi hlífir andrúmsloftinu við meira af gróðurhúsagösum árlega en nemur allri losun Íslendinga að fluginu meðtöldu vegna annars eðlis orkulinda hérlendis en í líklegum staðsetningarlöndum stóriðju.    

Nú er hins vegar spurningin, hvert við viljum halda á orkunotkunarsviðinu, og um það hlýtur orkustefna sú, sem nú er í smíðum hjá ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, að snúast.  Ekki er úr vegi, að almenningur leggi þar eitthvað "í púkkið". 

Eftirfarandi tilvitnun í ráðherrann birtist í Fréttablaðinu 5. apríl 2017 undir fyrirsögninni:

"Orkustefnan upp úr skúffunni": 

""Staðreyndin er sú, að í raun er ekki til formleg orkustefna fyrir Ísland.  Ég tel það bagalegt, og mér finnst mikilvægt, að stjórnvöld taki af skarið og marki formlega orkustefnu til lengri tíma.  Sú vinna er raunar þegar hafin innan míns ráðuneytis", sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á ársfundi Landsnets í gær."

Spyrja má, hvaða gagn sé að orkuáætlun ríkisins.  Á móti má segja, að það jaðri við ósvinnu, að land, sem státar af mestu orkunotkun á mann í heiminum, hafi enga formlega orkustefnu að fara eftir. Það er nánast ósvinna, en um gagnsemina gildir, að veldur hver á heldur. 

Orkustefna felur í sér leiðbeiningar til allra hagsmunaaðila á sviði orkumála um, hvert ríkisvaldið hyggst stefna í þessum þjóðhagslega mikilvæga og víðfeðma málaflokki, og hvers vegna, og þá eru meiri líkur á en nú, að aðalleikendur á sviðinu muni ganga í takti. Orkumál eru alls staðar umdeild, ekki sízt á Íslandi orkugnægtar, enda miklir hagsmunir í húfi.  Það er vandasamt og e.t.v. ekki hægt að móta orkustefnu, sem ólíkar ríkisstjórnir og Alþingi geta unnið eftir. Nú eru 5 ára áætlanir í tízku í Stjórnarráðinu, en Orkuáætlun fyrir Ísland þarf að spanna ferfalt lengri tíma.

Stefna á ekki að vera nákvæmlega útfærð áætlun með nákvæmum magnsetningum og tímasetningum, því að á grundvelli stefnunnar eru síðan sett markmið, og þar eru verkefni magnsett og tímasett.  Til að ná markmiðunum þarf ennfremur verkáætlun, þar sem fram kemur, hvernig markmiðum á að ná.  Orkustefna mun þannig hafa stefnumótandi áhrif fyrir ákvarðanatöku alls athafnalífs og mun hafa áhrif á flest svið þjóðlífsins, er fram í sækir. 

Árið 2016 varð stórmerkileg þróun í íslenzka hagkerfinu.  Hagvöxtur varð 7,2 %, sem er með því mesta, sem þekkist um þessar mundir, en raforkuvinnslan minnkaði á sama tíma um 1,3 %; hjá stórnotendum dróst raforkunotkun saman um 0,5 % og hjá almenningi um 4,2 %. Þetta er merki um sveigju hagkerfisins frá framleiðslu til þjónustu.  Sem dæmi má nefna til samanburðar, að á Indlandi varð hagvöxtur svipaður eða um 7 %, en hann var orkudrifinn, því að raforkunotkun jókst um 5 %. 

Yfirleitt hefur hagvöxtur á Íslandi og annars staðar verið orkudrifinn.  Var hann það kannski, þótt hann væri ekki knúinn rafmagni á Íslandi 2016 ?  Jarðhitanotkun minnkaði um 4,5 % m.v. 2015, sem má skýra með hærra meðalhitastigi utanhúss og bættri hitastýringu, og fallið gefur til kynna, að rúmtak húsnæðis hafi aukizt sáralítið, enda áherzla á þéttingu byggðar í Reykjavík, þar sem gamalt húsnæði (illa einangrað) var iðulega rifið til að rýma fyrir öðru með minni varmatöpum. 

Aftur á móti kemur í ljós við tölurýni, að notkun á eldsneyti úr jarðolíu jókst um 8,8 %, og kolanotkun jókst um 14,2 %. Þetta er hroðaleg tilhneiging í landi endurnýjanlegra orkugjafa að mestu, þar sem ríkisvaldið hefur skuldbundið landsmenn til 40 % minni eldsneytisnotkunar árið 2030 en 1990.  Þjónustuhagkerfið verður að söðla um í vali á orkugjöfum eða hefja meiriháttar mótvægisaðgerðir með fjármögnun ræktunar, sem bindur mikið koltvíildi á hvern hektara.  Forysta Landverndar á ekki að komast upp með að reka hornin í öll vatsaflsvirkjunaráform í landinu, nú síðast á Vestfjörðum, og reka samtímis áróður fyrir stofnun þjóðgarðs og aukinni ferðamennsku á sömu landsvæðum, sem er sú starfsemi, sem mestri mengun veldur á láði, legi og í lofti. 

Hagvöxturinn var sem sagt eldsneytisdrifinn, þegar betur er að gáð.  Sú þróun hefur átt sér stað síðan 2012, þegar hlutdeild endurnýjanlegrar orku náði hámarki sínu, 86,8 %, en árið 2016 féll sú hlutdeild niður í 82,4 %. Sú óheillaþróun heldst í hendur við stækkun þjónustugeirans umfram aðrar greinar. Hér skal varpa fram þeirri fullyrðingu, að fyrir hverja krónu í tekjur í erlendum gjaldeyri er sóðaskapur og mengun náttúrunnar mest af völdum ferðaþjónustu af öllum greinum íslenzks atvinnulífs. 

Það blasir nú við, að meginhlutverk orkustefnu verður að snúa þessari öfugþróun við hið snarasta.  Sökudólgurinn er þekktur.  Hann heitir ferðaþjónusta. Ríkið getur beitt hvötum til að draga úr eldsneytisnotkun á hvern farþegakílómeter með eldsneytissköttum eða kolefnisgjaldi.  Norðmenn leggja t.d. eldsneytisskatt á allar flugvélar, sem fara frá Noregi.  Eigum við ekki að fylgja fordæmi þeirra ?  Það er bara tímaspurning, hvenær ESB o.fl. munu halda á sömu braut. Ívilnanir við kaup bílaleiga á bílum ættu ennfremur að verða bundnar við "umhverfisvæna" bíla. Þetta mun flýta rafvæðingu bílaflotans, þegar innviðauppbygging leyfir, en kolefnisgjaldinu ætti hiklaust að verja til að styrkja og að búa í haginn fyrir orkuskiptin. 

Orkustefnan verður að styðja við markmið Íslands í loftslagsmálum.  Hvernig gerir hún það bezt ? 

Í fyrsta lagi með því að stuðla að nægu kolefnisfríu orkuframboði á samkeppnishæfu verði, og í öðru lagi með því að stuðla að afnámi allra flöskuhálsa í flutningskerfi og dreifikerfum raforku. Í þessu skyni þarf blöndu af hvötum og hrísvöndum í stefnuna. 

Með auknum rannsóknum á hagkvæmum virkjunarkostum skal leitast við að fækka virkjunarkostum í biðflokki, svo að virkjunarfyrirtækin hafi um fleiri virkjunarkosti að velja í nýtingarflokkinum, þar sem þau geta virkjað og framleitt raforku án þess að hækka raforkuverðið umfram neyzluverðsvísitölu.  Slíkt er nauðsynlegt til að tryggja snurðulaus orkuskipti, sem samfélagið allt hagnast á. 

Til að tryggja nægt framboð raforku í landinu, einnig þegar óvæntir atburðir verða, bilanir eða náttúruhamfarir, skal með lagasetningu skylda  virkjanafyrirtæki með starfsleyfi yfir 10 MW, sem selja orku inn á stofnkerfið, til að vera með framleiðslugetugetu í venjulegu árferði, t.d. meðalvatnsári, sem er að lágmarki 3 % umfram umsamda forgangsorkusölu hvers fyrirtækis á ári og aflgetan skal aldrei fara undir 5 % umfram umsamið forgangsafl.  Orkustofnun skal fylgjast með þessu og hafi heimild til stjórnvaldssekta samkvæmt reglugerð iðnaðarráðuneytis, ef út af bregður, nema um óviðráðanlega atburði (force majeure) sé að ræða.  Þetta knýr fyrirtækin til að virkja í tæka tíð áður en stórtjón verður af völdum orku- og aflskorts.

Öllum almennum notendum skal standa til boða sú orka, sem hann kýs. Þannig er það ekki nú. Til þess þarf að styrkja flutningskerfið og dreifikerfin.  Ef Landsneti verður ekki ágengt gagnvart viðkomandi sveitarfélögum og landeigendum með línulagnir í lofti eða jörðu, skal fyrirtækið leggja alla valkosti fyrir ráðherra iðnaðar, sem úrskurðar eða leggur málið fyrir Alþingi til ákvörðunar. 

Dreifingarfyrirtækjum ber að hanna og setja upp dreifikerfi, sem fullnægja þörfum allra íbúa og fyrirtækja, sem fá rafmagn á málspennu undir 72 kV.  Allir íbúar landsins og lögaðilar skulu eiga rétt á þriggja fasa rafmagni, enda er snurðulaust aðgengi að þriggja fasa rafmagni forsenda orkuskipta.  Samhliða þrífösun sveitanna skal leggja stofn og heimtaugar í jörðu og taka niður loftlínur.  RARIK og aðrir dreifingaraðilar skulu þess vegna flýta áætlunum sínum, eins og tæknilegur kostur er, með fjárhagslegu fulltingi ríkisins. Þetta er hagkvæmt, og þetta er jafnréttismál.

Á heimsvísu er staðan mjög slæm m.t.t. gríðarmikillar notkunar á jarðefnaeldsneyti sem orkulind. Orka jarðefnaeldsneytisins er leyst úr læðingi við bruna, sem myndar heilsuskaðleg efni og gróðurhúsalofttegundina CO2.  Árið 2014 nam hlutdeild jarðefnaeldsneytis 81,6 % af heildarorkunotkun heimsins, og endurnýjanlegir orkugjafar voru aðeins 14,0 % af heild.  Þar að auki komu 4,4 % frá kjarnorku. 

Yfirlit orkunotkunar á heimsvísu eftir orkulindum leit þannig út 2014 samkvæmt IEA-International Energy Agency:

  1. Olía:        31,6 %
  2. Kol:         28,7 %
  3. Gas:         21,3 %
  4. Lífmassi:    10,3 %
  5. Kjarnorka:    4,4 %
  6. Fossorka:     2,2 %
  7. Vindur, sól:  1,5 %

Árið 2014 voru notaðir 4,3 milljarðar (mia) tonna af olíu, og með núverandi þróun verður notkunin 4,8 mia t árið 2040, sem jafngildir 12 % aukningu eða tæplega 0,5 % á ári.  Þetta er feigðarbraut, því að fræðimenn á vegum IEA telja, að til að halda hækkun hitastigs andrúmslofts jarðar í skefjum, þannig að árið 2040 hafi heildarhitastigshækkun frá 1750 orðið innan við 2°C, þá verði árleg olíunotkun manna að minnka um 1,1 mia t fram til 2040, þ.e. niður í 3,2 mia t eða um ríflega fjórðung.  Það eina, sem getur snúið þessari óheillaþróun við, er tæknibylting á sviði kolefnisfrírrar raforkuvinnslu.  Hún gæti orðið snemma á næsta áratugi á formi umhverfisvænna kjarnorkuhvarfa, sem kljúfa t.d. frumefnið þóríum.

Þjóðir standa misvel að vígi við að minnka olíunotkun.  Íslendingar standa þar vel að vígi, af því að þeir hafa bolmagn til fjárfestinga í nýrri tækni, sem leysa mun olíuþörfina af hólmi, og þeir búa yfir orkulindum, hverra nýting leiðir til tiltölulega lítillar losunar gróðurhúsalofttegunda.  Í miðlunarlónum á sér stað rotnun jurtaleifa, sem leiðir til myndunar metangass, og koltvíildi losnar úr jarðgufunni.  Þetta er þó hverfandi á hverja orkueiningu í samanburði við bruna jarðefnaeldsneytis.  Þess vegna ber að fjölga vatnsvirkjunarkostum í nýtingarflokki Rammaáætlunar með því að gefa eldsneytissparnaði vatnsaflsvirkjana og almennum hreinleika við vinnsluna meira vægi við val á milli nýtingar- og verndarflokks.

Orkustefna stjórnvalda á hiklaust að marka leiðina að uppfyllingu skuldbindinga Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu í desember 2015 og að Íslandi án nettó losunar gróðurhúsalofttegunda um miðja þessa öld.  Hvort tveggja útheimtir fjölþætta markmiðasetningu og verkáætlanir um allt þjóðfélagið, því að þjóðarátak þarf til.  Lítið bólar á slíku.

Við skulum ekki fara í grafgötur með, að öll starfsemi Íslendinga á láði, legi og í lofti hefur sáralítil hækkunaráhrif á hitastig jarðar, því losunin nemur lægra hlutfalli en 0,03 % á ári af áætlaðri heildarlosun vegna eldsneytisbruna.  Engu að síður ber okkur að taka fullan þátt í þessari baráttu, því að allt er undir.  Þjóðhagslega munum við hagnast strax á orkuskiptunum, því að ríflega 10 % af gjaldeyrisútlátum vegna vöruinnflutnings munu sparast við að losna við benzín, dísilolíu, flotaolíu og svartolíu.

 

 

 

 

 


Heilsustofnun og gelísk áhrif

Um páskana dvaldi blekbóndi í góðu yfirlæti á HNLFÍ-Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í hressingarskyni.  Þar var viðamikil sameiginleg dagskrá, sem hver og einn gat spunnið við að vild.  Árangur af slíkri vist næst aðeins með góðum vilja til virkrar þátttöku í því, sem er á boðstólum.  Þá er þar sannarlega ekkert letilíf.

Mataræðið er reist á grænmetishráfæði og baunum, en fiski bregður þó einnig fyrir. Þá eru margs konar grænmetissúpur, grjónagrautur og jafnvel brauðsúpa með þeyttum rjóma á boðstólum.  Á morgnana er boðið upp á frábæran hafragraut ásamt ab-súrmjólk og ávöxtum og alls konar korni og kryddi. 

Ekki er félagslegi þátturinn minnsts virði, en dvalargestur getur kynnzt fjölda manns við matborðið, í dagskráratriðunum og á kvöldvökum, ef hann leggur sig eftir því.  Blekbóndi er þakklátur fyrir góð kynni við alls konar fólk á HNLFÍ, m.a. við samstúdent úr MR, sem hann hefur varla séð í tæpa hálfa öld. 

Fyrsta kvöldvakan, eftir að blekbóndi mætti á svæðið, fólst í átakamiklum sópransöng Bjargar Þórhallsdóttur við píanóundirleik Hilmars Arnar Agnarssonar og fyrirlestri Þorvaldar Friðrikssonar, fornleifafræðings og útvarpsmanns, um gelísk áhrif í íslenzku. 

Þar er fyrst til að taka, að af hálfu Íslenskrar erfðagreiningar hefur verið sýnt fram á, að rúmlega 60 % af kvenfólki í hópi landnámsmanna hefur verið af keltneskum (gelískum) uppruna.  Sagnir eru til um stórhöfðingja í hópi landnámsmanna frá Suðureyjum, og má þar nefna Auði, djúpúðgu, og fjölda höfðingja, sem með henni komu, dreifðust um landið og tóku sér mannaforráð, en hún settist að í Hvammi í Dölum og er ættmóðir Sturlunga. Þannig verður bókmenntaáhugi og snilldartök Sturlunga auðskilinn.   

Fólkið frá Suðureyjum og annars staðar frá Skotlandi var kristið að keltneskum hætti, en kristin trú Kelta var með öðru sniði en rómversk-katólska kristnin, og Keltar viðurkenndu ekki páfann í Róm.  Biskupar Kelta höfðu lítil völd, en valdamest voru ábótar og abbadísir, enda hámenning stunduð í klaustrum Kelta, t.d. á sviði ritlistar.  Fjölmenni frá Skotlandi og Írlandi á Íslandi er skýringin á því, að hérlendis varð ekki borgarastyrjöld við kristnitökuna, eins og á hinum Norðurlöndunum, þar sem lítill minnihluti tróð trú sinni upp á alla hina.  Hérlendis gæti meirihluti íbúanna hafa verið kristinnar trúar eða velviljaður þeim trúarbrögðum áður en kristnitakan var formlega samþykkt á Alþingi vegna offors, hótana og ofbeldis Ólafs, Noregskonungs, Tryggvasonar. 

Ríkur gelískur arfur hérlendis er skýringin á einstæðri bókmenningu, sem hér reis hæst á árunum 1100-1300. Hvers vegna hefði bókmenning átt að rísa hátt á Íslandi afkomenda Norðmanna, þótt engin bókmenntahefð væri þá í Noregi ?  Slíkt er óhugsandi, nema fólk hefði tekið með sér bókmenntaarf.  Það er hins vegar einkennandi fyrir sagnaritarana, t.d. Ara, fróða, að þeir draga fjöður yfir eða gera lítið úr hinum gelíska uppruna þjóðarinnar, þætti Vestmanna, en gera sem mest úr landnámi Austmanna (Norðmanna) og nánum tengslum við Noreg.  Þetta kann að hafa verið gert að undirlagi rómversk-katólsku kirkjunnar, sem stóð þá að því að brjóta fornkirkju Keltanna á bak aftur og innleiða rétttrúnaðinn frá Róm á gelískum áhrifasvæðum. 

Það eru auðvitað mörg spor gelísku í íslenzku og fjöldi orða, sem engar rætur eiga í hinum norrænu málunum, en finna má í gelísku. Þorvaldur Friðriksson gaf mörg dæmi í fyrirlestri sínum á HNLFÍ í dymbilviku 2017 um orð í íslenzku af gelískum uppruna og fjöldamörg örnefni eru af gelískum stofni. T.d. bæjarheitið Saurbær hefur verið reynt að kenna við mýri, en með gelískri skírskotun þýðir það "miklibær", og það er mun nærtækari skýring, því að flestir Saurbæir eru kostajarðir, en mýri einkennir þá ekki umfram aðrar jarðir. 

Þá eru fjöldamörg örnefni kennd við tröllkarla, skessur eða annars óþekkta landnámsmenn.  Mest er það tilbúningur sagnaritara, sem annaðhvort hafa ekki skilið merkingu orða af gelískum uppruna eða viljað breiða yfir hana með skáldskap. 

Verður mikill fengur að bók Þorvaldar um þessi efni, og er löngu tímabært að draga huluna af hinum gelíska þætti í uppruna og menningu Íslendinga. Frá hefðbundnum fræðimönnum á þessu sviði hefur hann ekki hlotið gegnrýni, þegar hann hefur kynnt kenningar sínar, enda eru þær studdar sterkari rökum en þeir sjálfir eru í færum til að styðja sitt mál. 

Í Íslendingabók skrifar Ari Þorgilsson, að hann hafi viljað varpa ljósi á uppruna Íslendinga til að kveða niður illmælgi útlendinga um, að Íslendingar væru af þrælum komnir, og er þá aðallega átt við fólk af gelískum uppruna.  Þetta er fásinna.  Í fyrsta lagi voru fjölmargir frjálsir menn í þeim hópi, sem kaus af pólitískum og öðrum ástæðum að flýja til Íslands eða leita þar betra lífs.  Í öðru lagi var vænn hópur, sem Austmenn hnepptu í þrældóm og höfðu með sér til Íslands sem nauðsynlegt vinnuafl og eru á engan hátt verri fyrir það.  Í þriðja lagi höfðu Austmenn búið á Skotlandi og á skozku eyjunum í eina öld og blandazt Keltunum, er Ísland byggðist.  Það var þannig mestmegnis blandað fólk, sem bjó við kraftmikla menningu, sem hingað kom frá gelískum áhrifasvæðum, og engin skömm að því. Einhvers staðar liggur hér fiskur undir steini. Það er líklegt, að trúarbragðadeilur og yfirgangur Rómarkirkjunnar gagnvart Keltakirkjunni hafi byrgt hérlendum mönnum sýn. 

Blekbóndi óskar lesendum gleðilegs sumars. 


Fiskeldi í farvatni annarra

Fiskeldi í nágrannalöndum okkar við Atlantshafið er miklu lengra komið en hér að umfangi, en tæknin er svipuð, og nú siglir greinin hraðbyri hér við land.  Ástæðan er miklar fjárfestingar Norðmanna, sem náð hafa undraverðum árangri við laxeldi í norskum fjörðum síðan 1970. Ekki hefur þróunin verið áfallalaus, og sumt er óafturkræft, s.s. mikil staðbundin erfðablöndun villtra stofna og erfðabreytts eldislax. 

Við  munum aldrei verða hálfdrættingar á við Norðmenn í þessari grein vegna víðtækra takmarkana á starfssvæðum sjókvíaeldis hér við land samkvæmt verndarlögum fyrir íslenzka laxfiskastofna frá árinu 2004.  Er ekki hafður uppi ágreiningur um þá lagasetningu, svo að blekbónda sé kunnugt um.

Nú mun slátrun eldisfisks í heiminum nema um 90 Mt/ár.  Til samanburðar munu fiskveiðar hvers konar í heiminum nema um 80 Mt/ár og vera fallandi, en verði ofveiði hætt og sóknargetu stillt í hóf m.v. arðsemi af sjálfbærum veiðum, er talið, að jafnstöðuaflinn muni nema 90 Mt/ár.  Veiðar á villtum sjávardýrum munu fyrirsjáanlega ekki anna vaxandi matvælaþörf heimsins og vaxandi spurn eftir dýraeggjahvítuefni.  Höfin verða nú aðeins við 20 % af eftirpurninni, þótt þau þeki um 70 % af yfirborði jarðar.  Af þessum sökum lofar markaður fyrir eldisfisk góðu, ekki sízt úr hreinu umhverfi, þar sem beitt er tiltölulega litlu af sýklalyfjum.

Gríðarleg vaxtaráform eru hjá fiskeldisfyrirtækjum um allan heim, sem gefur til kynna góða arðsemi í greininni.  Áform um framleiðsluaukningu eru síður en svo einsdæmi hér á Íslandi, og nægir að horfa til nágrannalandanna, Noregs, Færeyja og Skotlands, í þeim efnum.

Norðmenn slátra núna um 1,3 Mt/ár af eldislaxi og fá um 800 ISK/kg. Það er um tvöfalt hærra en fæst fyrir þorskígildiskílógrammið, þígkg, á mörkuðum. Andstætt því, sem margir halda, hafa Norðmenn alls ekki fullnýtt framleiðslugetuna í eldiskvíum í norskum fjörðum, heldur hafa þeir áform um næstum fjórföldun á rúmlega 30 árum fram til ársins 2050.  Það er athyglisvert í ljósi áhyggju hérlendis af erfðablöndun.  Í raun vantar fleiri staðreyndir á borðið um skaðsemi erfðablöndunar, og hversu stór hluti eldislax í ánum má verða af villtum laxi áður en sá fyrrnefndi getur gert usla í erfðaeiginleikum seiðanna. 

Samt eru talsverð afföll í norska laxeldinu af völdum fiskisjúkdóma og sníkjudýra, sem hækkar kostnað og draga úr tekjum, þannig að arðsemin verður minni en ella. 

Mesta ógnin mun stafa af s.k. laxalús, sem er blóðsuga, dregur úr vexti og getur leitt til dauða bæði seiða og fullorðinna fiska. Norðmenn rannsaka hana af miklu kappi til að finna ráð gegn henni, sem dugar. Hún drepst við sjávarhita undir 3,5 °C, og við Vestfirði og Austfirði fer sjávarhiti undir þau mörk á veturna. Þetta er mikill kostur fyrir heilbrigt eldi. Jafnvel við Norður-Noreg er sjávarhiti hærri en við Ísland, svo að lúsavandamál hér við land er ekkert í líkingu við það, sem við er að glíma við Noreg, Færeyjar eða Skotland, hvað sem verður, ef sjávarhiti hækkar enn meira en nú hefur orðið reyndin við Ísland. Af þessum sökum eru lyfjagjöf og afföll minni hér en þar í eldinu, en aftur á móti er vaxtarhraðinn hér minni.  Það ætti að vera möguleiki á hærra verði per kg fyrir eldislax frá Íslandi vegna heilnæmara umhverfis og uppvaxtar og þar með meiri gæða vörunnar.

Vegna hækkandi sjávarhita eru vaxtarskilyrði lax betri við Ísland nú en fyrir 30 árum.  Norðmenn hafa eygt í þessu viðskiptatækifæri og hafa fjárfest í fiskeldi hér við land fyrir tugi milljarða ISK.  Það er fagnaðarefni, því að þeir horfa til starfrækslu hér um áratugaskeið, þeir búa yfir beztu fáanlegu tækni (BAT=best available technology), þeir hafa góð viðskiptasambönd og menningarheimur þeirra er af sama toga og okkar. 

Í Noregi hefur verið innleiddur strangur staðall fyrir þessa starfsemi, NS 9415,og fyrirtæki með norskt eignarhald og norska tækni hérlendis starfa eftir þessum staðli. Í því felst gæðatrygging, og það er sjálfsagt mál að innleiða þennan staðal á Íslandi í íslenzka staðlasafnið, ÍST nnnn (NS 9415). 

Að vinna eftir þessum staðli veitir ákveðna gæðatryggingu, m.a. fyrir umhverfið einnig. Aðaláhættan fyrir umhverfið er fólgin í erfðablöndun hins norsk ættaða eldislax við villta laxa í íslenzkum ám.  Fjöldi strokulaxa úr eldiskvíum á ári, sem nær upp í árnar, skiptir höfuðmáli fyrir þessa áhættu.  Leyfilegur líklegasti meðalfjöldi á ári er háður fjölda villtra laxa í ám, sem renna í viðkomandi fjörð og aðliggjandi firði. Á Vestfjörðum eru villtir laxar tiltölulega fáir, sennilega innan við 10 % af heildarfjölda göngulaxa á ári.  Þetta gerir Vestfirði enn viðkvæmari en ella gagnvart strokulöxum.

Ætlunin með nýjum og traustbyggðum eldiskvíum og fastmótuðum verklagsreglum, sem uppfylla kröfur téðs staðals, er að lágmarka hættu á stroki, og ef strok verður, að það uppgötvist svo fljótt, að hafa megi hendur í hári strokulaxanna áður en þeir ná upp í árnar. 

Eftir því sem blekbóndi kemst næst, eru líkur á stroki, og að strokulaxar nái upp í norskar ár úr eldisstöðvum, þar sem staðallinn NS 9415 hefur verið innleiddur, 20 ppm/ár, þ.e. úr hópi einnar milljónar fiska í eldisstöð strjúka að jafnaði 20 laxar á ári.  Á Vestfjörðum hefur burðarþol 4 fjarða verið metið 80 kt/ár, og ekki er ólíklegt, að 2 ómetnir firðir gefi 20 kt/ár til viðbótar, eða að metið burðarþol Vestfjarða verði 100 kt/ár.  Blekbóndi skilur þetta burðarþol þannig, að það vísi til heildarlífmassans í eldisstöðvum fjarðarins, en ekki árlegs slátrunarmassa.  Ætla má, að þá verði árleg eldisafköst til slátrunar um 2/3 af burðarþolinu. 

Setjum sem svo, að þetta gefi slátrunarafkastagetu tæplega 70 kt/ár og að meðalslátrunarmassi fisks sé 5,0 kg; þá verða í eldiskvíum á Vestfjörðum um 27 M eldislaxar á sama tíma.  Samkvæmt norskum stroklíkindum má þá búast við 540 stroklöxum upp í vestfirzkar ár á ári.  Ef 5000 villtir laxar ganga í vestfirzkar ár á ári, sem er um 7 % af heildarfjölda göngulaxa upp í íslenzkar ár að jafnaði, þá verður hlutfall eldislaxa þar af villtum hrygningarlaxi um 11 %.  Blekbóndi gizkar á, að út frá sjónarmiðum erfðablöndunar sé þetta hlutfall hátt yfir öryggismörkum, en það er einmitt hlutverk eftirlitsstofnana að skera úr um þetta. Hefur það verið gert opinberlega ? 

Það er sem sagt hugsanlegt, að burðarþolið verði ekki takmarkandi þáttur fyrir stærð leyfis, heldur erfðafræðileg áhætta.  Þetta sýnir, að líkindi á stroki eldislaxa upp í árnar er alger lykilstærð varðandi vöxt sjókvíaeldis við Ísland, ef fiskur er ógeltur. Íslenzkt laxeldi verður að róa að því öllum árum að ná meðaltali stroks niður fyrir norsku bráðabirgða reynslutöluna 20 ppm, helzt niður um heila stærðargráðu.  Það er býsna ströng krafa, en það ber að hafa í huga, að 3. hvert ár mun vera meiningin að hvíla kvíasvæðin.  Það fækkar stroklöxum niður í 360 m.v. fullnýtt 100 kt burðarþol og hlutfall þeirra af villtum verður rúmlega 7 %, sem er strax í áttina.

Burðarþol fjarða, sem þegar hafa verið metnir við Ísland fyrir sjókvíaeldi, er sem stendur 125 kt/ár.  Eldisfyrirtækin hafa lýst hug á 185 kt/ár, og það er hugsanlegt, að matið á Vestfjörðum, Austfjörðum, í Eyjafirði og Axarfirði, nái upp í 200 kt/ár.  Þegar reynsla fæst af stroktíðni eldislaxanna í Noregi og á Íslandi með nýrri tækni og nýjum vinnubrögðum undir hinum nýja staðli, þá verður hægt að stilla leyfisveitingar eftir leyfilegu hlutfalli eldislaxa af villtum löxum í hverjum firði, og leyfin kunna þá að verða umtalsvert minni en burðarþolið. 

Í Skotlandi er nú slátrað um 160 kt/ár af eldislaxi, og Skotar hafa áform um 25 % aukningu eða upp í 200 kt/ár árið 2020.  Þar nema verðmæti laxeldisafurða um 40 % af heildarverðmætum matvæla, sem flutt eru út, þrátt fyrir, að Skotar fái aðeins 560 ISK/kg, sem er umtalsvert lægra en Norðmenn og Íslendingar fá (um 800 ISK/kg).  Með 100 kt/ár framleiðslu af fiskeldisafurðum  á Íslandi og 800 ISK/kg (7,1 USD/kg), mundu útflutningsverðmæti fiskeldis nema 25 % af heildarútflutningsverðmætum matvæla frá Íslandi. Þetta er dálagleg búbót fyrir íslenzka þjóðarbúið. 

Það er ekki bara sungið halelúja, þegar kemur að laxeldinu.  Orri Vigfússon, formaður NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, skrifaði 22. marz 2017 í Fréttablaðið greinina,

"Óraunhæfir fiskeldisdraumar", sem hefst þannig:

"Opið sjókvíaeldi á laxfiskum er stórhættulegt og hefur valdið ómældum og óafturkræfum skaða í vistkerfum, þar sem það hefur verið reynt í nágrannalöndum okkar." 

Hér eru stór orð höfð uppi, en að blekbónda sækir sá grunur, að höfundurinn magni þarna upp fortíðardraug með ástandslýsingu, sem að einhverju leyti gat átt við á síðustu öld eða fyrir einum mannsaldri, 30 árum.  Síðan er mikið vatn runnið til sjávar, og miklu fé hefur verið varið til rannsókna, og mikið er búið að fjárfesta í nýjum búnaði með góðum árangri, t.d. við að draga úr líkum á því, að strokulaxar komist upp í árnar.  Orri gefur í skyn, að hérlendis eigi ekki að nota beztu fáanlegu tækni (BAT) við kvíaeldið.  Hvað á hann við með því ?  Einn af kostunum við miklar norskar fjárfestingar í greininni hérlendis er einmitt, að þannig fá eldisfyrirtækin hérlendis aðgang að BAT og gildandi  verklagsreglum samkvæmt strangasta staðli, sem í notkun er í þessum efnum.

"Gamla tæknin, sem á að nota hér á landi, hefur nú þegar skaðað vistkerfið á flestum stöðum, þar sem hún hefur verið reynd."

Hér reynir höfundurinn að koma því inn hjá almenningi, að beitt sé úreltri tækni við fiskeldi á Íslandi.  Þar með sáir hann efasemdum að ósekju um trúverðugleika fiskeldisfyrirtækjanna, sem hafa lýst því yfir, að þau noti nú nýjustu og öruggustu útfærslu af sjókvíum, beiti öflugra eftirliti með ástandi þeirra og meiri sjálfvirkni við fóðrun og annað en áður hefur þekkzt í þessari starfsemi á Íslandi.  Þá gerir hann með þessum dylgjum lítið úr viðkomandi eftirlitsstofnunum og leyfisútgefendum, sem vissulega væru að bregðast hlutverki sínu með stórauknum leyfisveitingum, ef metin áhætta væri of mikil fyrir villta íslenzka laxastofna.

Einkennandi fyrir málflutning allra gagnrýnenda sjókvíaeldis við Íslandsstrendur er klisjan um, að einn lax sleppi úr hverju tonni eldisfiskjar í sjókvíum.  Hér skal fullyrða, að hafi þessi strokfjöldi einhvern tímann verið raunverulegur, er hann löngu úreltur og á engan veginn við lengur.  Að bera slík ósannindi á borð verður málstað veiðiréttarhafa og annarra, sem honum hampa, til minnkunar. 

Hvaða stroklíkindum jafngildir þessi fjöldi, 1 lax/t ?  Hann jafngildir u.þ.b. líkindunum 0,4 % í samanburði við gildandi stroklíkur í Noregi núna um 0,002 %.  Þumalfingursregla hagsmunaaðila laxveiðiréttinda o.fl. felur í sér grófa villu, sem nemur tveimur stærðargráðum, eða nánar tiltekið er viðmiðunartalan þeirra 200 sinnum of há.  Hitt er annað mál, að fyrir aðstæður á Vestfjörðum og Austfjörðum, þar sem villtir laxar eru tiltölulega fáir í ánum, eru líkindin 0,002 % of há til að erfðafræðilega skaðlaust geti talizt.  Þess vegna er nauðsynlegt að fara hægt í sakirnar og fylgjast grannt með laxastrokum næstu árin áður en leyfi verða gefin fyrir meira laxeldi en 40 kt samtímis í sjókvíum hér við landið.  Til að heimila eldi umfram 40 kt þyrftu stroklíkur að lækka um allt að heilli stærðargráðu í 2 ppm.

Tilvitnaðri grein sinni lýkur Orri Vigfússon þannig:

"Nú er rétti tíminn til að horfa til vistvænna aðferða í fiskeldi í stað þess að setja viðkvæmt lífríkið hér við land í uppnám með úreltri eldistækni, sem mengar út frá sér, veldur erfðablöndun við villta stofna og magnar upp lúsafaraldra og sjúkdóma, sem hafa reynzt illviðráðanlegir í nágrannalöndum okkar."

Eina aðferðin, sem fullnægir skilyrðum Orra, er laxeldi í eldiskerum á landi.  Þar er aðsemin hins vegar ekki sambærileg, þótt sums staðar mætti nota jarðhita til að auka vaxtarhraða laxins.  Til að útiloka erfðablöndun hefur sums staðar í litlum mæli verið beitt geldingu á lax í sjókvíum.  Allt er þetta á tilraunastigi og kann að verða sett sem skilyrði fyrir fullnýtingu burðarþols íslenzkra fjarða, þ.e. eldi á erfðabreyttum norskum laxi á bilinu 100 kt - 200 kt.  Mikið vatn á eftir að renna til sjávar áður en hægt verður að leyfa svo mikið laxeldi af vísindalegu öryggi með beztu fáanlegu þekkingu (BAT) að vopni. 


Kolefnisgjald hér og þar

Að hálfu ríkisstjórnar Íslands hefur verið boðuð tvöföldun kolefnisgjalds á jarðefnaeldsneyti. Það er stórt stökk og ósanngjarnt, nema neytendur hafi skýran valkost til að beina orkunotkun sinni á umhverfisvænni braut. Hið sama þarf helzt að vera fyrir hendi, þar sem fjármagna á samgöngubætur neð veggjaldi, t.d. ýmis jarðgöng, Sundabraut o.s.frv.  

Svo er ekki, á meðan flutningskerfi og jafnvel dreifikerfi raforku er með þeim hætti í landinu, að það annar nánast engri viðbótar raforkunotkun.  Jafnvel fiskimjölsverksmiðjur, sem fjárfest hafa stórfé í rafmagnskötlum, fá ekki rafmagn, og aðrar fá það með afarkostum vegna skorts á nýjum virkjunum.  Framboð raforku er of lítið, og svo mun iðulega verða, á meðan virkjunaraðilar græða meira á skorti en auknu framboði.  Þarna verða neytendur fórnarlömb, og stjórnvöldum ber að breyta þessu með hvötum til nýrra virkjana, þegar hillir undir orku- eða aflskort. Slíkt ætti að setja fram í orkustefnu ríkisins, sem nú er í smíðum. 

Helztu raforkufyrirtæki landsins eru alls ekki á sömu blaðsíðunni í þessum efnum.  Forstjóri stærsta fyrirtækisins, Landsvirkjunar, hefur lýst því yfir, að hækka verði raforkuverðið, og hann beitir alls konar meðulum í þá átt.  Forstjóri þess næststærsta segir, að ekkert þurfi að virkja fyrir orkuskiptin, hvað þá fyrir aðra almenna notkun á næstunni.  Forstjóri HS Orku segir aftur á móti, að orkuskortur sé og að nauðsynlegt sé að virkja.  Tveir hinir fyrrnefndu, fulltrúar fyrirtækja í opinberri eigu, hafa rangt fyrir sér, en sá þriðji, fulltrúi einkafyrirtækis, hefur rétt fyrir sér.  Með orkustefnu ríkisins þarf að stilla saman strengi, svo að allir haldi í sömu átt, þangað sem er nægt framboð á orku án raunverðhækkana m.v. núverandi verðlag, og þangað sem allir geta fengið þá orku, sem þá lystir, á samkeppnishæfu verði.    

Það verður að gera þá sanngirniskröfu til stjórnvalda, að þessi mikla hækkun á kolefnisgjaldi, sem er réttlætanleg við réttar aðstæður, komi ekki til framkvæmda fyrr en flutnings- og dreifikerfið hefur verið styrkt, svo að fullnægjandi sé fyrir orkuskiptin, og virkjað hefur verið nægjanlega fyrir rafkatlamarkaðinn og önnur orkuskipti. 

Kanada er gríðarlegt vatnsorkuland, sem Ísland á í samkeppni við um orkuverð til stóriðju, en Kanada er líka mikið eldsneytisland, sem brennir kolum til raforkuvinnslu og vinnur olíu með "sóðalegum" hætti úr tjörusandi og sendir hana til risans sunnan landamæranna, sem er eldsneytishít.

Kanadamönnum hefur gengið illa með skuldbindingar sínar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og sögðu sig þess vegna frá Kyoto-samkomulaginu.  Íslendingar fengu hins vegar sérákvæði þar um 10 % aukningu m.v. 1990 vegna stóriðju, sem knúin væri endurnýjanlegri orku.  Það hefur sparað andrúmsloftinu a.m.k. 10 Mt/ár af gróðurhúsagösum. Samt setja sumir upp þröngsýnisgleraugun og gagnrýna þetta ákvæði samningsins.  Þeir munu seint verða taldir vera lausnarmiðaðir. 

Nú eru Kanadamenn að snúa þróuninni við og ætla í fyrsta sinn að mynda landsstefnu í stað einvörðungu fylkjastefnu um leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Hér verður endursagður hluti af greininni "Walking the walk" (ekki "Walking the Talk") í The Economist 17. desember 2016, sem fjallar á áhugaverðan hátt um þetta:

"Að tala er auðvelt.  Síðan 1997 hefur Kanada staðfest 5 alþjóðlega samninga og lofað að minnka losun gróðurhúsagasa.  Samt hefur aldrei verið mynduð ríkisstefna um málefnið. Þess í stað hafa fylkin 10 og svæðin 3 haft frelsi til athafna að eigin vild. 

Fylki, sem auðug voru af fossorku, s.s. Quebec og Ontario, lögðu sig í framkróka, og í Brezku Kólumbíu, BC, var jafnvel lagður á kolefnisskattur.  Aftur á móti sátu miklir framleiðendur jarðefnaeldsneytis á borð við Alberta aðgerðalausir.

Niðurstaðan var fyrirsjáanlega slæm.  Á árinu 1990, viðmiðunarári Kyoto, nam losun landsins 613 Mt af koltvíildisígildum og hafði árið 2014 hækkað upp í 732 Mt, sem var 9. mesta losun í heiminum.  Kanada dró sig út úr Kyoto-samkomulaginu 2011, þegar ljóst var, að landið næði ekki áformum sínum. 

Eftir nærri tvo áratugi aðgerðaleysis gæti Kanada nú hafa náð vendipunkti í þessum efnum.  Þann 9. desember 2016 lýstu forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, og 11 af 13 forsætisráðherrum fylkja og svæða, því yfir, að þeir hefðu náð samkomulagi um loftslagsáætlun. 

Áætlunin felur í sér mismunandi leiðir fyrir fylki og svæði og tvö forgangsatriði ríkisins: árið 2018 verður hvert fylki að hafa innleitt annaðhvort kolefnisgjald eða framseljanlegt kvótakerfi á koltvíildi að verðgildi CAD 10 (USD 7,5, EUR 7,0, ISK 849) á tonnið, sem skuli hafa hækkað upp í CAD 50 (USD 37,5, EUR 35,0, ISK 4245) árið 2022.  Árið 2030 verður ekki lengur heimilt að brenna kolum í raforkuverum.  Verði þetta raungert, þá mun landið eiga möguleika á að ná markmiði sínu 2030 um losun að hámarki 523 Mt." 

Það eru nokkur atriði, sem vekja athygli í þessari frásögn af gangi loftslagsmála í Kanada.  Í fyrsta lagi lausatök ríkisstjórnarinnar í Ottawa fram að þessu, sem eru dæmigerð um kæruleysi flestra ríkisstjórna frá Kyoto-samkomulaginu um 1995 til Prísarsamkomulagsins 2015.  Þessi léttúð getur orðið afdrifarík fyrir hitastig lofthjúpsins, þó að öll nótt sé ekki úti enn.

Þá er athyglisvert, að aðferð Kanadamanna til að knýja fram minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda er tvíþætt, þegar þeir loksins taka við sér.  Annars vegar fara þeir markaðsleiðina með kvótaviðskiptum, stigminnkandi úthlutunum á losunarheimildum til fyrirtækja, sem þeir búast við, að leiði til 5-földunar kvótaverðs á 5 ára tímabilinu 2018-2022, og hins vegar beita þeir skattlagningu á jarðefnaeldsneytið og ætla að banna kolabrennslu árið 2030.  Hið síðast nefnda eru stórtíðindi í Vesturheimi.  Reyndar hefur nýting kolavera í Kína minnkað úr 60 % árið 2010 og undir 50 % 2017 og á Indlandi úr 75 % og í 55 % á sama tímabili vegna samkeppni frá öðrum orkugjöfum.

Sunnan landamæranna ætlar Bandaríkjaforseti að aflétta hömlum af kolaiðnaðinum.  Hann mun ekki geta snúið þróuninni við.  Hann er eins og fornaldareðla að þessu leyti, og áhrif hans munu ekki marka nein framtíðarspor, heldur verða Bandaríkjunum  tímabundið til trafala og minnkunar og aðeins tefja fyrir nauðsynlegri þróun í átt til kolefnisfrírrar framtíðar; þó ekki einu sinni um 4 ár, því að sum ríki BNA munu einfaldlega halda sínu striki í þessum efnum, sbr Kalifornía og Nýja Jórvík. 

Það vekur jafnframt athygli, að markmið Kanadamanna er um aðeins 15 % minni losun árið 2030 en 1990, sem er helmingurinn af hlutfallslegu markmiði EES-ríkjanna.  Þetta sýnir, að ESB ætlar að ganga á undan með góðu fordæmi á pappírnum, en hver reyndin verður er önnur saga, því að t.d. brennsla kola í orkuverum Evrópu hefur vaxið á undanförnum árum vegna misheppnaðrar orkustefnu, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri. 

Íslendinga bíða mikil tækifæri í hlýnandi loftslagi og við að fást við hlýnun andrúmslofts.  Grænkustuðull landsins, þ.e. magn græns gróðurs, hefur á 30 ára tímabili, 1980-2010, aukizt um 80 %, og vaxtarhraði birkis hefur 8-faldazt m.v. árin í kringum 1970.  Þetta hefur góð og marktæk áhrif á framleiðni og samkeppnishæfni íslenzks landbúnaðar og gerir kleift að rækta með góðum árangri tegundir, sem áður var undir hælinn lagt með, s.s. korntegundir og repju.  Boðuð hækkun kolefnisgjalds mun sennilega gera það að verkum, að stórfelld repjuræktun til framleiðslu á t.d. 50 kt/ár af eldsneyti og 100 kt/ár af mjöli verður arðsöm.  Markaður verður fyrir alla þessa framleiðslu innanlands, þar sem eru olíufélögin og laxeldisfyrirtækin o.fl.

Þá mun binding koltvíildis á hvern ha skóglendis hérlendis vaxa, sem gerir íslenzka skógarbændur vel samkeppnishæfa um verð á koltvíildiskvóta á Evrópumarkaði, ef hann þróast með svipuðum hætti og ráðgert er í Kanada, en m.v. bindingu á 5,0 t/ha CO2 var kostnaðurinn hérlendis 2015 undir 30 USD/t, og hefur lækkað síðan vegna gengisstyrkingar. 


Að hlaupa illilega á sig

Öllum verða á mistök, og "errare humanum est" sögðu Rómverjar, eða það er mannlegt að skjátlast.  Þetta vita allir og eiga að taka tillit til þess í viðbrögðum sínum og gjörðum öllum í stað þess að hrapa að niðurstöðum, hrópa úlfur, úlfur og fella sleggjudóma.

Alveg sérstaklega ætti þessi vísdómur að eiga við hið opinbera vegna þeirrar yfirburðastöðu, sem því hefur verið fengin yfir einstaklingum og félögum þeirra á mörgum sviðum. 

Nú hefur Umhverfisstofnun misstigið sig herfilega og traðkað í salatinu, eins og Norðmenn taka stundum til orða, þegar einhverjum verður illilega á. Stofnunin kokgleypti mæliniðurstöður verktaka um styrk mengunarefna frá iðnfyrirtækinu United Silicon, USi, þó að einföld rýni á þeim hefði átt að gefa til kynna strax, að þær voru ótrúverðugar. 

Básúnað var út, að krabbameinsvaldandi efni, arsen, væri losað út í andrúmsloftið frá verksmiðjunni í styrk, sem er yfir heilsuverndarmörkum. Það voru 3 atriði, sem hvert og eitt hefðu átt að varna því, að Umhverfisstofnun birti ofurhá mæligildi verktakans, Orkurannsókna Keilis, svo að lokun verksmiðjunnar lá í loftinu í kjölfarið.  Þá hefði stofnunin og ríkissjóður sem bakhjarl fengið yfir sig ofurháar skaðabótakröfur.  Þessi atriði voru:

  1. Mæligildi verktakans hækkuðu áður en viðkomandi verksmiðja tók til starfa.
  2. Vindátt stóð ekki af verksmiðjunni í átt að mælinum, þegar háu gildin voru mæld.
  3. Mælir í strompi verksmiðjunnar sýndi allan tímann mun lægri og eðlilegri gildi.

Við þessar aðstæður átti Umhverfisstofnun að sannreyna, hvort mælir verksmiðjunnar hefði gilt og rekjanlegt kvörðunarskírteini til fjölþjóðlegra staðla.  Ef svo var, átti að fara ofan í saumana á verklagi þessa verktaka í stað þess að básúna tóman þvætting yfir þjóðina um, að USi eitraði út frá sér með þungmálmum  og krabbameinsvöldum. 

Um er að ræða mjög nákvæmar mælingar á styrk efna u.þ.b. 0,1 % úr mg á m3, þannig að ekkert má út af bregða, svo að ekki hljótist af stórar skekkjur.  Þarna voru aðdróttanir um sýnu alvarlegri mengun en viðarsótsagnir.  Séu hins vegar PAH-tjöruefni úr kolum losuð út í andrúmsloftið yfir leyfilegum mörkum, verður skilyrðislaust að stöðva þá mengun strax, því að þar eru vissulega krabbameinsvaldar á ferð. 

Þá að öðru máli, þar sem eftirlitsstofnanir ríkisins brugðust gjörsamlega: 

Nú hefur Rannsóknarnefnd Alþingis um sölu ríkiseignarinnar Búnaðarbankans árið 2003, sem sett var á laggirnar í fyrra, skilað af sér bitastæðri skýrslu fyrir um MISK 30, sem er einni stærðargráðu ódýrari skýrsla en gerð var t.d. um fall sparisjóðanna.  Þá hefur t.d. Ríkisendurskoðun skilað skýrslu um þetta efni, sem var vitagagnslaus og beinlínis villandi, því að hún fann ekkert að þessu ferli.  Virðisauki við skýrsluskrif er mjög upp og niður.

Nýja skýrslan leiðir þó fram í dagsljósið stórkostlega blekkingaiðju, sem var í raun gróf markaðsmisnotkun, því að seljandanum var talin trú um, að kaupandinn væri í raun annar en hann var.  Sökudólgurinn hefur nú bitið höfuðið af skömminni með því að senda frá sér yfirlýsingu, þar sem segir, að lygarnar hafi engu máli skipt fyrir seljandann, ríkið, sem hafi fengið umsamda upphæð fyrir sinn snúð.  Siðblindinginn er að sjálfsögðu dómgreindarlaus og kann engin skil á réttu og röngu.  Borgarstjóra þykir við hæfi að gera meiriháttar þróunarsamning um byggingarland við félag þessa manns.  Reykvíkingar munu tjá hug sinn til slíks athæfis í borgarstjórnarkosningum að vori. 

Það kom glögglega í ljós við rannsókn á þessu Búnaðarbankamáli, að það er ekki nóg að skipa rannsóknarnefnd.  Það skiptir öllu máli, að nefndarmenn kunni að vinna og geti leyst sjálfir vandasöm viðfangsefni.  Hinar fyrri nefndir eru því marki brenndar að hafa verið dýrar og skilað af sér innihaldsrýrum doðröntum.  Þessum ungu nefndarmönnum, sem krufið hafa viðfangsefni sitt til mergjar, ætti nú að fela fleiri verkefni af svipuðum toga.  Að rekja slóð peninganna er í mörgum tilvikum aðkallandi.  Illgresið verður að rífa upp með rótum og hindra, að það nái að sá fræjum sínum á ný.   

Það er deginum ljósara, að þeir, sem mestan skítinn setja í tannhjól markaðshagkerfisins, eru "klíkukapítalistarnir", þ.e. þeir, sem ekki vilja eða treysta sér ekki til að lúta reglum heiðvirðrar frjálsrar samkeppni, heldur sækja undir pilsfald ríkisins með fyrirgreiðslu að hálfu stjórnmálamanna og/eða embættismanna eða nota aðstöðu sína til að koma ár sinni fyrir borð með markaðsmisnotkun.  Þetta kallast rentusækni. 

Í litlu þjóðfélagi er enn meiri hætta á hvers konar óheiðarleika af þessu tagi, og honum verður að verjast með því að taka mjög hart á samkeppnisbrotum og svindli.  Ef litið er til annarra vestrænna ríkja, sést, að refsingar eru hér of vægar og eftirlit bitlítið.  Svik og prettir, sem beinast að almannahagsmunum, eiga t.d. ekki að fyrnast. Þeir, sem uppvísir verða að slíku, eiga ekki að fá fleiri tækifæri á viðskiptasviðinu.  Miskunnarleysi heitir það, sem hér á við. 

Nú eru kaup vogunarsjóða á allt að 10 % hlut þrotabús Kaupþings á undirverði í Arion-banka í umræðunni. Fátt eitt er vitað um fjáreigendur eða uppruna fjárins.  Þegar eigandi að stærsta banka landsins á í hlut, er slíkt einfaldlega óviðunandi, og væri víðast hvar á Vesturlöndum, enda stafar fjármálastöðugleikanum ógn af.

Vinstri stjórnin, alræmda, færði kröfuhöfum föllnu bankanna, Kaupþings og Glitnis, Arion og Íslandsbanka á silfurfati af einhverjum dularfullum og annarlegum ástæðum árið 2009, og nauðsynlegt er að komast til botns í þeim gjörningum.  Hvað gekk henni til ?  Grunsemdir eru um það, en létta þarf aldarlangri leynd af gjörningum vinstri stjórnarinnar og færa sönnur á grunsemdir eða afsanna þær.  

Íslandsbanki  var færður ríkissjóði sem stöðugleikaframlag slitabús Glitnis í fyrra, en nú er eitthvert "skítamix" að fara af stað með 87 % eignarhlut slitabúsins í Arion.  Það verður að ríkja gegnsæi við sölu á banka, og vogunarsjóðir eru næstum síðasta sort, þegar kemur að eigendum banka.  Það þarf að gera strangar viðskiptasiðferðiskröfur til eigenda banka, og þeir þurfa að vera "komnir til að vera".  Nú reynir á FME, sem á sínum tíma sá ekkert athugavert við aðkomu Hauck & Aufhäuser. Hefur þeim skánað ?

 Einn maður gerði efnislega athugasemd við þau sýndarkaup á sínum tíma.  Það var Vilhjálmur Bjarnason, þáverandi "bara aðjunkt" og núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum.  Hann var hæddur fyrir málefnalega gagnrýni sína m.a. af þeim, sem síðar voru afhjúpaðir sem fúskarar, t.d. hjá Ríkisendurskoðun, sem í tvígang hvítþvoði kaup S-hópsins á Búnaðarbankanum.  Opinbert eftirlitskerfi hérlendis er því miður vita tannlaust og verður að brýna klærnar í stað þess að fægja bara neglurnar.

Vilhjálmur skrifaði góða grein í Morgunblaðið 31. marz 2017, "Skúrkar kaupa banka":

"Það er sárt til þess að vita, að þeir, sem áttu að gæta að hagsmunum íslenzka ríkisins, þegar heimilissilfrið var selt, lýsa sig jafnfávísa og raun ber vitni, þegar það koma fram gögn við ein "merkustu" viðskipti þessarar aldar.  Vissi bílstjóri Olaviusar Olavius [FI] ekki neitt, hafandi verið viðskiptaráðherra og seðlabankastjóri ?

Reyndar er það svo, að Olavius Olavius býr utan Íslands flestum stundum, en hefur þó haft aðsetur á sveitasetri á Vesturlandi á stundum.  Hann telur Íslendinga fátæka þjóð og telur sig geta komið fram við hana, eins og skrælingja, og þess vegna alltaf sagt: ef ég get einhverja ögn af einhverju tagi, sama hvað það er lítið, þá geri ég það í augsýn alls heimsins.  Þannig verður niðurlæging Íslendinga mest."

Þarna eru skírskotanir til "bungaló" í Borgarfirði og seinni tíma ámælisverðra atvika í rekstrarsögu Olaviusar á Íslandi.  Olavius er enginn Pétur, þríhross, heldur óuppdreginn fjárplógsmaður, sem komið hefur óorði á auðvaldsskipulagið og þannig gefið afturhaldi ríkiseinokunar á mörgum sviðum "blod på tanden".

"Með því að láta viðgangast viðskiptatilburði, eins og viðhafðir voru í viðskiptum með Búnaðarbanka Íslands hf, megnum við hvorki að sigla né verzla.  Þess vegna eignumst við aldrei peninga. Þess vegna verðum við ekki aðeins kúguð þjóð, heldur einnig þjóð í lífsháska." 

Við verðum að gera miklu strangari kröfur til okkar sjálfra og annarra í viðskiptasiðferðilegum efnum, hafa þar með varann á okkur og staldra við, þegar málavextir koma undarlega fyrir sjónir, eru óskýrir eða virka óeðlilegir.  Núna er nauðsyn siðbótar, eins og var svo sannarlega fyrir 500 árum, en nú vantar Martin Luther.   

 


Seinlæti hjá Landsneti

Landsnet hefur enn ekki tekið neitt róttækt skref í átt að raunhæfri tillögugerð um að leysa brýn flutningsvandamál rafmagns á Norðurlandi.  Það er enn hjakkað í gamla farinu með 220 kV loftlínu í Skagafirði og Eyjafirði. Blekbóndi hefur ekkert á móti slíkri línu, ef valin er skársta línuleið m.t.t. minnstu truflunar á útsýni, en heimamenn sætta sig ekki við slíkt mannvirki við túnfótinn, þótt gamla 132 kV loftlínan hverfi, og þess vegna er það ekki til annars en að tefja brýnt mál að halda þessum valkosti til streitu.

Í frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu þann 27. marz 2017, "Tæknin takmarkar notkun jarðstrengja", kemur fram, að aðeins sé hægt að leggja 12 % fyrirhugaðrar styrkingar Byggðalínu á Norðurlandi í jörðu, þ.e. 37 km af 310 km leið 220 kV línu frá Blönduvirkjun til Fljótsdalsvirkjunar vegna veiks kerfis og hættu á miklum spennuhækkunum og ódeyfðum aflsveiflum á milli virkjana. 

Þessi viðbára orkar tvímælis, því að rýmdaráhrif jarðstrengsins má vega upp með spanspólum á leiðinni.  Sú lausn er þó dýr og óttalegt neyðarbrauð vegna þess og flækjustigs. 

Af fréttinni að dæma eru Landsnetsmenn nú fyrst að rumska eftir harða andstöðu við háspennulínur í byggð, sem íbúunum eru þyrnir í augum, og sveitarfélögin hafa litlar eða engar beinar tekjur af. 

Rumskið hefur leitt til þess, að Landsnetsmenn eru nú að skoða "mótvægisaðgerðir", sem þeir nefna svo, en ganga líklega ekki nógu langt:

"Í kjölfar þessarar vinnu er Landsnet að skoða mótvægisaðgerðir við Byggðalínuna.  Nefnir Magni [Þór Pálsson, verkefnastjóri rannsókna hjá Landsneti] sem dæmi, að kannað verði, hvort hægt sé að setja stóran hluta núverandi Byggðalínu, sem er á 132 kV spennu, í jarðstreng samhliða uppbyggingu nýju línunnar á 220 kV spennu. 

Gamla Byggðalínan mundi þá fá nýtt hlutverk; nýtast meira til að þjóna byggðarlögunum.  Þá gætu minni virkjanir og vindorkuver tengst inn á hana."

Það er gleðiefni, að Landsnetsmenn hafa loksins áttað sig á því, að tímabært er að endurnýja Byggðalínuna með 132 kV jarðstreng.  Það er hins vegar miður, að þeir skuli enn berja hausnum við steininn og telja raunhæft að leggja 220 kV loftlínu um sveitir Norðurlands til orkuflutninga á milli landshluta. 

Nú þarf að huga að nýrri leið til að tengja saman virkjanirnar Blöndu og Kröflu með því að fara "ofan byggða", þ.e. á heiðum sunnan dala Norðurlands.  Framtíðar jafnstraumsjarðstrengur af Sprengisandi mundi þá tengjast inn á þessa samtengilínu helztu virkjana Norðurlands, en styrking samtengingar þessara kerfa er nauðsynleg stöðugleikaumbót í truflanatilvikum. 

Jarðstrengur Byggðalínu með loftlínubútum, 132 kV, mundi tengja saman Hrútatungu í Hrútafirði, Laxárvatn við Blönduós, Blönduvirkjun, Varmahlíð í Skagafirði, Rangárvelli við Akureyri og Kröflu, en tenging Kröflu og Fljótsdals þarf að vera 220 kV og loftlína af fjárhagsástæðum.  Sprengisandsjarðstreng mætti þá fresta um a.m.k. einn áratug, og mun hann þá verða fjárhagslega viðráðanlegri en nú, og ekki vanþörf á þessari styrkingu tengingar raforkukerfa Norður- og Suðurlands, einnig vegna aukinnar flutningsþarfar með auknu álagi raforkukerfis landsins. Þar mun væntanlega verða um jafnstraumsstreng að ræða með flutningsgetu í sitt hvora áttina. 

Forstjóri OR gerði í kvöldfréttatíma RÚV sjónvarps 3. apríl 2017 lítið úr orku- og aflþörf vegna rafbílavæðingar og nefndi Sprengisandslínu í því sambandi.  Hann er greinilega í gufumekki Hellisheiðarvirkjunar, því að hann virðist ekki hafa heyrt af því vandamáli Landsnets og landsmanna allra, að Byggðalínan er fulllestuð, og það er brýnt að ráðast í aðgerðir til að auka flutningsgetu hennar og/eða draga úr flutningsþörfinni eftir henni.  Hið síðar nefnda er hægt að gera með virkjunum fyrir norðan eða nýrri tengingu Norður- og Suðurlands. 

Þá gerir forstjórinn sig sekan um alvarlegt vanmat á orkuþörf rafmagnsbíla, sem gæti stafað af því, að hann leggi orkunýtnitölur bílaframleiðendanna til grundvallar.  Það er algerlega óraunhæft á Íslandi, þar sem bæta þarf við orku til upphitunar, afísingar og lýsingar.  Það er ekki óhætt að reikna með betri orkunýtni en 0,35 kWh/km, og vægt áætlað verður meðalakstur 100´000 rafbíla árið 2030 (þennan fjölda nefndi Bjarni Bjarnason í téðu viðtali) 15´000 km á bíl.  Þessi bílafloti þarf þá a.m.k. 550 GWh orkuvinnslu í virkjunum eða um 65 MW að jafnaði. Þetta er um 15 % viðbót við almenna raforkumarkaðinn í landinu, og að halda því blákalt fram opinberlega, að engin þörf sé á að virkja vegna þessarar viðbótar, er villandi og í raun ábyrgðarleysi. 

Ef tekið yrði mark á slíku, mundi það hafa alvarlegan og rándýran orkuskort í för með sér.  Er forstjórinn "að taka skortstöðu" á markaðnum til að búa í haginn fyrir enn meiri raforkuverðshækkanir ?  Þær hafa orðið tugum prósenta yfir vísitöluhækkunum neyzluverðs síðan 2010 hjá dótturfélögum OR, og það er tímabært að snúa þeirri öfugþróun við. 

 


Sauðargærur borgarstjórnar

Í hverju stórmálinu á fætur öðru taka borgaryfirvöld illa upplýsta ákvörðun, móta stefnu í anda sérvitringa og afturhaldssinna gegn almannahag. Það er pólitískt slys, að slíku hyski skuli hafa skolað í valdastóla höfuðborgarinnar og mál, að þeirri óáran og óstjórn, sem því fylgir, linni. 

Sem dæmi skal hér tilfæra 4 mál eða málaflokka úr umræðunni: Reykjavíkurflugvöll, Sundabraut, mislæg gatnamót og lóðaúthlutanir.

1) Meirihluti borgarstjórnar undir forystu Samfylkingar, þar sem innanborðs eru Vinstri grænir, Björt framtíð og Píratar, gegn vilja minnihlutans, hefur rekið einarða stefnu sem lið í þéttingu byggðar í Reykjavík að afleggja Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni.  Að láta skipulagsmál hverfast um þéttingu byggðar í ört vaxandi borg er einsdæmi og í því eru fólgin grundvallarmistök á skipulagssviði borgarinnar, reist á þröngsýni og þekkingarleysi.

Gert er ráð fyrir því í Aðalskipulagi borgarinnar, að flugvöllurinn hverfi á skipulagstímabilinu.  Það er skipulagsslys, stórslys, því að þjónustan á Vatnsmýrarvelli er höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu mikilvæg, og borgin hefur af honum drjúgar tekjur.  Eru mörg dæmi frá öðrum höfuðborgum, sem telja sér skylt í nafni greiðra samgangna að hafa slíka þjónustu innan sinna vébanda, t.d. Lundúnir og Berlín.  Þó að lóðir séu þar dýrari en hér, dettur þar engum í hug í nafni þrengingar byggðar eða "þéttingar" að fórna flugvelli fyrir byggingarlóðir. 

Borgaryfirvöld ætla að kyrkja starfsemi flugvallarins með því að skera af honum eina flugbraut í einu. Á máli lækna mundi slíkt kallast "amputering" eða aflimun. Það er ekki einasta einkar ógeðfelld aftaka á flugvallarstarfsemi, heldur stórhættuleg aðferð fyrir notendur flugvallarins. Aðeins vinstra hyski getur fengið svo ógeðfellda hugmynd.

Dómur Hæstaréttar, sem lokun Neyðarbrautarinnar (SV-NA) var reist á, úrskurðaði, að samningar skuli standa.  Svo er að öllu eðlilegu, en hvað, ef svo kemur í ljós, að viðkomandi samningur var gerður í skugga öryggisúttektar á flugvelli, sem rökstuddur vafi leikur á um, að sé lögmæt eða faglega óvéfengjanleg ?  Þá getur ekki gilt gamla heiðursmannareglan, því að jafna má þessum aðdraganda við blekkingarleik.  Þar sem svik eru í tafli, er samningur ógildur.

Það er þess vegna fullt tilefni til að halda baráttu áfram fyrir tilvist Vatnsmýrarvallar með þremur flugbrautum, enda er hvorki önnur samgöngulausn í sjónmáli né fé til að leysa hann af hólmi með góðu móti. Almannahagsmunir eru í húfi, og aðrir hagsmunir verða þá að víkja.  Liður í þeirri baráttu er að koma núverandi, óhæfa meirihluta borgarstjórnar, með lækninn loðna í broddi fylkingar, frá völdum og endurskoða Aðalskipulagið í veigamiklum atriðum.  

Þann 25. febrúar 2017 skrifuðu Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Greta Björg Egilsdóttir, borgarfulltrúi og varaborgarfulltrúi, grein í Morgunblaðið,

"Alþjóða flugmálastofnunin staðfestir, að forsendur voru ekki réttar", sem hófst þannig:

"Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) hefur ítrekað lýst yfir efasemdum sínum um, að þær skýrslur, sem Efla, verkfræðistofa, vann fyrir ISAVIA um nothæfisstuðul og nothæfistíma Reykjavíkurflugvallar, séu í samræmi við alþjóðareglur, en áhættumatsskýrsla ISAVIA vegna lokunar s.k. Neyðarbrautar, flugbrautar 06/24, var unnin með hliðsjón af þeim.  Taldi ÖFÍA, að skýrslan um nothæfisstuðul væri ekki rétt, þar sem leggja bæri fleiri forsendur til grundvallar útreikningunum. Hefur það nú verið staðfest af Alþjóða flugmálastofnuninni."

Í þessu máli þurfa minni hagsmunir að víkja fyrir meiri.  Hinir meiri hagsmunir snúast um flugöryggi, ekki sízt sjúkraflugsins, sem tvímælalaust hefur verið skert að óþörfu, og enginn samningur á milli ríkis og borgar eða annarra, sem felur í sér aukna hættu á flugslysum, getur staðizt lög landsins. Hafi slíkir samningar verið gerðir með villandi eða ófullnægjandi upplýsingar í höndunum um veigamikla almannahagsmuni, hljóta að vera fyrir því lögformlegar og siðferðislegar ástæður að rifta þeim.  2)  Vegagerð ríkisins hefur valið s.k. Innri leið fyrir Sundabraut, vegna þess að hún er hagkvæmust, bæði krefst hún lægsta fjármagnskostnaðarins og rekstrarkostnaður mannvirkja hennar verður lægstur. Það gæti munað um miaISK 50 í heild á fjárfestingarupphæð valkosts Vegagerðarinnar og valkosts Reykjavíkurborgar.  Það er þannig engin skynsemi í valkosti vinstri meirihlutans í Reykjavík, enda virðist hann aðallega vera fram settur til að þvælast fyrir framkvæmdinni og tefja fyrir bráðnauðsynlegum samgönguumbótum við höfuðborgarsvæðið.  Fjárhagur borgarsjóðs er mjög bágborinn og sker sig þannig algerlega frá fjárhag nágrannasveitarfélaganna. Samkvæmt lögum þarf sveitarfélag, sem velur dýrari kost en Vegagerðin, að greiða mismunarkostnaðinn.  Eru íbúar Reykjavíkur reiðubúnir að kasta fé á glæ með þessum hætti ?

Sigtryggur Sigtryggsson segir svo frá þessum skæruhernaði borgarskipulagsfúskaranna, sem nú ráða illu heilli ferðinni í Reykjavík, flestum til ómælds ama, í Morgunblaðinu 14. marz 2017:

"Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og forráðamenn fasteignafélagsins Festis ehf [Er ekki rétt, að Dagur upplýsi um raunverulega eigendur þessa fyrirtækis og um tilurð þess fjár, sem þarna á að fjárfesta með ?-innsk. BJo].  Hverjir eru eigendur Festis, sem  undirrituðu síðastliðinn föstudag samning um uppbyggingu 332 íbúða í 5 húsum á Gelgjutanga.  Í síðustu viku samþykkti borgarráð þrjá samninga, sem tengjast fyrirhugaðri uppbyggingu á þessu svæði í Vogabyggð við Elliðaárvog. 

Með þessum samningi er endanlega ljóst, að ekki verður ráðizt í gerð Sundabrautar samkvæmt svo nefndri Innri leið. Samkvæmt þeirri leið, þ.e. leið 3, átti Sundabrautin að taka land á Gelgjutanga og liggja að mislægum gatnamótum á Sæbraut.  Þetta staðfestir Jónas Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri Þróunarsviðs Vegagerðarinnar."

Þessu framferði Dags & Co er ekki hægt að lýsa öðru vísi en sem skæruhernaði gegn Vegagerðinni og almannahagsmunum.  Hvers vegna í ósköpunum er lúðunum í borgarstjórn svo umhugað að halda samgöngunum til og frá borginni í óviðunandi ástandi sem allra lengst ?

3) Það er ekki nóg með, að mislæg gatnamót í stað ljósastýrðra gatnamóta auki flutningsgetu vega um a.m.k. 50 %, spari þannig vegfarendum ferðatíma og orku (dragi úr mengun), heldur eykst öryggi vegfarendanna mikið.  Tölfræðin sýnir, að þar sem mislæg gatnamót hafa verið byggð, þar hefur slysum fækkað um 46 % - 67 %.  Með þessa miklu kosti mislægra gatnamóta skjalfesta hlýtur landið, sem undir þau fer, að vera tiltölulega lágt gjald fyrir framfarirnar.  Eingöngu fúskarar draga arðsemi mislægra gatnamóta, sem Vegagerðin mælir með, í efa. 

Vinstri menn í borgarstjórn hafa látið fjarlægja öll mislæg gatnamót af Aðalskipulagi Reykjavíkur. Hvers vegna í ósköpunum ? Það er óhætt að fullyrða, að viðlíka flónska ráðamanna skipulagsmála og skeytingarleysi með líf og heilsu vegfarenda fyrirfinnst ekki í nokkurri annarri höfuðborg á Vesturlöndum um þessar mundir, og eru þær þó ekki undanskildar, þar sem jafnaðarmenn og græningjar hafa fengið að véla um málefni borgar.  Hér ríkir forstokkun heimsku og þekkingarleysis, sem krystallast í undirfurðulegu hatri á einkabílnum, sem minnir á Rauðu Khmerana, sem vildu af stjórnmálalegum ástæðum knýja íbúa Kambódíu aftur í sjálfsþurftarbúskap.   

4) Vitleysan á sviði skipulagsmála hefur einnig birzt með átakanlegum hætti við lóðaúthlutanir í borginni. Skipulagsyfirvöld hafa einblínt á þrengingu byggðar, og þar með hefur lóðaúthlutun á nýju landi setið á hakanum.  Dómgreindarleysi og þekkingarleysi borgaryfirvalda á skipulagsmálum höfuðborgar við aðstæður, eins og á Íslandi á þessum áratugi, birtist í svo litlu lóðaframboði í höfuðborginni, að íbúðamarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er þjakaður af skorti á íbúðum, einkum litlum íbúðum, 50-70 m2, og þar af leiðandi verðsprengingu, sem líkja má við katastrófu, þjóðfélagslegt stórslys, sem verst bitnar á þeim, sem eru að stofna til heimilis, eiga litlar sem engar eignir, jafnvel þungar námsskuldir, og verða á sama tíma fyrir tiltölulega miklum tímabundnum útgjöldum, t.d. vegna ómegðar.

Þrenging byggðar er dýr og seinleg.  Ef Dagur & Hjálmar vissu þetta ekki, voru þeir einir um slíka fávizku.  Ef þeir vissu þetta, var þeim alveg sama, því að annars hefðu þeir gætt að því að hafa hlutfall lóða á þrengingarsvæðum ekki hærra en 10 % af heild og í heildina væri úthlutað lóðum í Reykjavík undir 1000-2500 íbúðir á ári eftir þörfum markaðarins á sanngjörnu verði (án okurs, eins og nú).  Reykjavík á nóg landrými undir lóðir, en hið sama verður ekki sagt um öll hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.  Að móta byggingarstefnu án nokkurs tillits til þarfa og óska almennings er pólitísk dauðasök.  Pólitískar fallaxir borgarstjórnarkosninganna munu vonandi hreinsa til í borgarstjórn 2018.  Næg eru sakarefnin.

Nýir valdhafar verða að móta stefnu, sem lækkar fermetraverð íbúða umtalsvert og eykur mest framboð lítilla íbúða.  Þeir geta leitað víða í smiðju eftir slíkum hugmyndum, og eina gat að líta í Morgunblaðinu, 28. marz 2017, í grein Alberts Þórs Jónssonar, viðskiptafræðings:

"Einfaldar og hagkvæmar lausnir í húsnæðismálum:"

"Einfaldar og hagkvæmar lausnir í íbúðamálum geta falizt í því að byggja ódýrar og hagkvæmar íbúðir, sem eru 50-60 m2 að stærð, með haganlegu fyrirkomulagi.  Á 6. áratuginum voru t.a.m. byggð háhýsi við Austurbrún í Reykjavík, sem eru 12 hæðir, en stærð íbúðanna er á bilinu 45-60 m2. 

Sams konar íbúðir gætu mætt þeirri brýnu eftirspurn, sem er nú á íbúðamarkaði.  Ég tel, að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eigi að hafa nægilegt lóðaframboð til bygginga á slíkum háhýsum með íbúðum, sem væru á bilinu 50-60 m2.  Hægt er að hugsa sér, að á hverri hæð væru 6 íbúðir, þannig að 48 íbúðir væru í einu slíku háhýsi.  Gera má ráð fyrir 6 háhýsum í sama klasa eða samtals 288 íbúðum, og þar af leiðandi 1152 í 4 klösum.  Gera má ráð fyrir, að í hverju sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu væru byggðar 1152 íbúðir og þar af leiðandi 4608 íbúðir í 4 sveitarfélögum.  Reykjavíkurborg gæti verið með 8 klasa, sem eru þá 2304 íbúðir í Reykjavík. 

Úlfarsárdalur er kjörið svæði undir slíkar lausnir í íbúðamálum.  Ef gert er ráð fyrir, að verð á m2 sé 350´000 kr, mundi verð á slíkum íbúðum verða á bilinu 17,5-21,0 milljón kr eftir stærð íbúða."

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband