29.11.2021 | 20:38
Sæstrengsrímur kveðnar við raust
Nú er verð á orkugjöfum og orkuberum, þ.á.m. rafmagni, á meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum hátt. Þann 8.11.2021 tilkynnti Landsvirkjun um hækkun raforkuverðs skammtímasamninga við almenningsveiturnar og ber við lágri miðlunarlónsstöðu, enda er vatnshæðin í Þórisvatni óbeysin í byrjun vetrar. Ef orkumálum landsins væri almennilega stjórnað, og ekki bara látið reka á reiðanum, þá væri ný virkjun á borð við Hvammsvirkjun (95 MW) að taka til starfa nú í haust, og engin hætta væri á vatnsleysi í Þórisvatni (sama vatnið og í virkjunum ofar), en enginn er lagalega ábyrgur fyrir því, að á hverjum tíma, nema í náttúruhamförum, sé tiltæk næg raforka. Landsvirkjun er úti á þekju (hluti hennar var í Gljáskógum) og er nú í einhvers konar framboðs/eftirspurnarleik.
Með því að hækka raforkuverðið er ætlunin að draga úr eftirspurninni, en verðteygni rafmagns til almennings er ekki með þeim hætti, að aðferð Landsvirkjunar hrífi. Hver mun draga úr aflþörf sinni um jólin, þótt Landsvirkjun sé í sandkassaleik ? Landsnet undirbýr nú uppboðskerfi raforku, og þá mun orkuskorturinn bitna á almenningi fyrir alvöru. Noregur er með svipað kerfi, og þar kostar raforkan um þessar mundir 30 ISK/kWh + flutningur, dreifing og gjöld, alls um 60 ISK/kWh. Hér er um undirstöðu innviði samfélagsins að tefla, sem á ekki við að hleypa í uppnám spákaupmennsku, eins og tíðkast á uppboðsmörkuðum rafmagns í ESB og víðar við allt aðrar aðstæður en hér eru. Munu innviðaráðherra og/eða orkuráðherra grípa í taumana, áður en tjöldin verða dregin frá í þessu leikhúsi fáránleikans, eða á að skýla sér á bak við Orkupakka 3 frá ESB, sem jú er í gildi hér.
Raforkufyrirtækin eiga ekki að verða sogrör ofan í vasa almennings fyrir fyrirtæki á fákeppnismarkaði. Það er mikið hagsmunamál almennings, eins og við höfum fengið staðfest á undanförnum vikum frá hinum Norðurlöndunum, frá Bretlandseyjum og frá meginlandi Evrópu. Því miður eru þessi mál eftir innleiðingu Orkupakka 3 í höndum Orkustjóra ESB á Íslandi og ACER (Orkustofnunar ESB, sem ESA afritar fyrirmæli frá), en ekki í höndum íslenzkra ráðuneyta. Þingmenn gætu þó reynt að leggja fram þingsályktunartillögu um frestun á málinu, t.d. út þetta kjörtímabil eða þar til örlög Orkupakka 4 ráðast í EFTA. Norska verkalýðshreyfingin verður sífellt gagnrýnni á EES-aðildina, svo að til tíðinda kann að draga með EES-samninginn á þessu kjörtímabili. Noregur er kjölfesta hans innan EFTA og mótar stefnuna í grundvallaratriðum.
Daði Már Kristófersson, hagfræðiprófessor við HÍ, fer mikinn í Vísbendingu, 39. árg., 40. tlbl., 05.11.2021, um gróða Norðmanna á raforkuviðskiptum um sæstrengi. Þar minnist hann ekki á nokkur atriði, sem eru neikvæð fyrir slíka sæstrengstengingu við Ísland:
- Norska Landsnet (Statnett) á allar millilandatengingar við Noreg, og þess vegna njóta norskir raforkunotendur góðs af hagnaði orkuflutninganna, þótt ESB hafi lagt hömlur á hagnaðartilflutninga flutningsfyrirtækja í aðra starfsemi en millilandaflutninga.
- Meiri afl- og orkutöp verða í sæstreng til Íslands frá Betlandi eða meginlandinu en í norskum sæstrengjum til útlanda vegna vegalengdar.
- Allir aflsæstrengir Noregs hafa flutningsgetu, sem nemur alls um 30 % af framleiðslugetu landsins, en einn aflsæstrengur til Íslands mundi hafa flutningsgetu, sem nemur tæplega 50 % af núverandi framleiðslugetu Íslands. Verðsveiflur á Íslandi yrðu að sama skapi í enn meiri líkingu við verðsveiflur á hinum endanum.
- Miðlunargeta norskra lóna er meira en tíföld sú íslenzka. Það er mjög takmörkuð orka, sem hægt er að geyma í íslenzkum miðlunarlónum fyrir raforkufyrirtæki í Evrópu. Það er stórhættulegt fyrir Íslendinga að draga niður í eigin miðlunarlónum með sölu til útlanda, og verða þá algerlega háðir "hundi frá Evrópu" með raforku yfir veturinn.
- Með slíkri tengingu við Evrópu og markaðskerfi ESB samkvæmt Orkupakka 3 (og 4) mun heildsöluverð raforku til almenningsveitna verða svipað og í Evrópu. Þetta mun líka hækka hitaveitukostnaðinn (dæling) og kostnað allra fyrirtækja og heimila á landinu. Samkeppnisstaðan versnar að sama skapi, en gróði raforkuframleiðenda verður fugl í skógi, því að rándýr sæstrengurinn þarf sitt.
- Gríðarleg orku- og flutningsmannvirki innanlands verða nauðsynleg til að þjóna erlendum raforkumörkuðum. Það er ekki ljóst, að nægar orkulindir verði þá tiltækar fyrir raforkuþörf landsmanna til 2040, ársins, þegar kolefnishlutleysi á að nást, og enn þyngra getur orðið undir fæti með framkvæmdaleyfi fyrir flutningsmannvirki til innanlandsþarfa en ella.
Prófessorinn reit:
"Nokkur umræða hefur verið um möguleika á raforkuútflutningi um langt skeið. Ólík sjónarmið eru uppi um ágæti hugmyndarinnar. Raddir eru uppi um, að nýta eigi orkuna fremur hér á landi en flytja hana út, að búið sé að virkja nóg og umhverfisáhrif virkjana séu nú þegar of mikil og að útflutningur orku muni leiða til hækkunar á raforkuverði.
Á móti er bent á þann hag, sem aðrar þjóðir hafa haft af slíkum viðskiptum, t.d. Norðmenn, og á nauðsyn þess að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku á tímum aðgerða í loftslagsmálum. Hér er því af mörgu að taka."
Þarna er ýmislegt tínt til. Hinn raunverulegi lærdómur, sem Íslendingar geta dregið af viðskiptum Norðmanna með rafmagn á erlendum mörkuðum, er, að verðhækkun rafmagns innanlands er óhjákvæmilegur fylgifiskur viðskipta, innflutnings og útflutnings, fyrir vatnsorkulönd með lágan vinnslukostnað á rafmagni. Hagfræðingar geta fegrað þessi viðskipti á ýmsa lund, en hinn þjóðhagslegi kostnaður, sem felst í að rýra stórlega samkeppnishæfni atvinnuveganna og kaupmátt heimilanna verður alltaf hærri en nemur meintum ábata raforkufyrirtækjanna. Þeir, sem raunverulega græða, eru fyrirtæki erlendis, sem fá græna og kannski ódýrari raforku til að framleiða samkeppnishæfari vöru eða þjónustu.
Það verður alltaf hagkvæmara að nýta orkulindirnar innanlands til að skapa vinnu, þekkingu og verðmæta og eftirsótta vöru. Orkulindirnar eiga að verða hjálpartæki til að efla innlenda atvinnuvegi, en ekki leiksoppur spákaupmanna. Ríkisfyrirtæki á borð við Landsvirkjun á að sjá sóma sinn í þessu og hætta gælum við spákaupmennsku á erlendum mörkuðum, sem er órafjarri hlutverki Landsvirkjunar fyrr og síðar. Núverandi forysta hennar er heillum horfin, ef hún sér ekki villur síns vegar, og hættir ekki að einblína á Statkraft í Noregi, sem mikil óánægja er með á meðal norsks almennings um þessar mundir vegna útflutnings á raforku, sem bitnað hefur á stöðu miðlunarlónanna á viðkvæmum tíma. Við þetta er að bæta, að Norðmenn hafa afhent ESB/ACER stjórnun flutninganna um strengina til ESB-ríkjanna með innleiðingu Orkupakka 3, svo að þeir geta ekki staðið í þessum viðskiptum með hagsmuni Noregs að leiðarljósi, heldur verða hagsmunir heildarinnar, þ.e. ESB-landanna, hafðir að leiðarljósi undir umsjón ACER.
"Almennt er því ástæða til að ætla, að útflutningur raforku hefði jákvæð áhrif á Ísland. Verðmætasköpun og útflutningur mundi styrkjast."
Hér er hrapað að niðurstöðu. Útflutningurinn, sem fyrir er, mundi veikjast vegna verðhækkana rafmagns, svo að dregur úr hefðbundinni verðmætasköpun, sem vegur meira en ávinningurinn af sölu rafmagns. Þá mundi nýsköpun verða kyrkt með vöntun á grænu rafmagni á hagstæðu verði. M.ö.o. við yrðum undir í samkeppninni við útlendingana um eigið rafmagn vegna hærra kostnaðarstigs hér og flutningskostnaðar á vörum frá landinu.
"Lokuð raforkukerfi, eins og það íslenzka, þar sem milliríkjaviðskipti eru ekki möguleg, þurfa að tryggja nægilegt framboð fyrir ófyrirsjáanlegum sveiflum. Þessi umframframleiðslugeta þarf að vera umtalsverð í raforkukerfum, þar sem vatnsafl er ráðandi vegna óvissu um vatnsbúskap. Miðlunargeta þarf að geta brúað bilið milli góðra og slæmra vatnsára. Það þýðir jafnframt, að á meðalári er framleiðslugetan meiri en eftirspurn. Fossinn Hverfandi við Kárahnjúkastíflu er skýrt dæmi um þessa umframgetu. Vatnsaflskerfi Norður-Evrópu, s.s. Noregs og Svíþjóðar, voru með þeim fyrstu, sem nýttu sér útflutning, einmitt til að koma þessari umframframleiðslugetu í verð. Með þeim hætti var hægt að skapa verðmæti úr því, sem að jafnaði er kostnaðarliður vatnsaflskerfa."
Það hefur verið ljóst, frá því að fyrsta stórvirkjun Íslands, Búrfellsvirkjun, var hönnuð, að ójafnt aðrennsli frá ári til árs mundi valda sveiflukenndri framleiðslugetu á ársgrundvelli. Við þessu var séð á hagkvæman hátt með því að rannsaka rennslisraðir margra ára og síðar var farið að framkalla rennslisraðir með líkindareikningi og hermilíkönum í tölvum. Miðlunargeta lóns, uppsett afl í virkjun og orkusölusamningar, voru samhæfð þannig, að virkjun gæti alltaf (nema í neyðartilvikum-"force majeur") afhent viðskiptavinum sínum forgangsorku og í um 27 af 30 árum a.m.k. 50 % af s.k. ótryggðri orku, sem mest næmi um 10 % af heildarorkuafhendingu. Miðlunargetu á Íslandi er þannig ekki ætlað að brúa bilið á milli góðra og slæmra vatnsára, heldur einvörðungu á milli árstíða, og í slökum vatnsárum er einfaldlega dregið úr afhendingu ótryggðrar raforku samkvæmt samningum þar um.
Þetta fyrirkomulag hefur yfirleitt heppnazt ágætlega, þótt stóriðjan hafi einstaka sinnum þurft að taka á sig forgangsorkuskerðingu, þegar saman fara bilanir og slakt vatnsár. Það er misskilningur höfundar þessarar Vísbendingargreinar, að "á meðalári sé framleiðslugetan meiri en eftirspurn" og að yfirfall á stíflu (Hverfandi) sé til merkis um það. Þvert á móti er um undirframleiðslugetu í góðum vatnsárum að ræða. Að þetta sé "kostnaðarliður vatnsaflskerfa" er fráleit túlkun. Ef viðbótar fjárfesting færi fram í vatnsaflsvirkjunum til að nýta umframvatnið og sú fjárfesting stæði ekki undir sér, væri hægt að tala um "kostnaðarlið" vegna umframframleiðslugetu.
Landsvirkjun hefur þegar farið inn á þá braut að nýta yfirfallsvatn, og er Búrfell 2 dæmi um það. Nú gæti verið að skapast markaður fyrir "umframorku" vatnsorkuvera með aukningu á flutningsgetu rafmagns á milli landshluta og framleiðslu rafeldsneytis. Spáð er aukinni úrkomu á landinu og minnkun jökla með hækkun hitastigs, og þá gætu stækkanir vatnsaflsvirkjana orðið enn fýsilegri.
"Opnun lokaðra raforkukerfa, sérstaklega kerfa, sem byggja fyrst og fremst á vatnsafli, hefur því tvíþætta kosti. Það eykur verðmæti raforkuframleiðslu almennt með því að stækka markaðssvæðið, og það nýtir fjárfestingu betur með því að skapa möguleika á að nýta framleiðslugetu að fullu."
Þessar ályktanir höfundarins eru úr lausu lofti gripnar m.v. íslenzkar aðstæður. Raforkukerfi landsins er í raun innviðauppbygging hins opinbera, sem þjónar því hlutverki að gera framleiðendum kleift að framleiða alls konar vörur og þjónustu með hagkvæmum hætti og fólkinu í landinu að njóta ávaxtanna af þessum stórviðskiptum með lágu orkuverði til sín.
Það gefur auga leið, að orðalagið um "aukin verðmæti raforkuframleiðslu almennt" felur í sér verðhækkun og aukna raforkuvinnslu. Það mun koma harkalega niður á núverandi og framtíðar orkunotendum í landinu. Engum dettur í hug að leggja sæstreng alla leið til Íslands til að nýta það smáræði, sem felst í yfirfallsvatninu.
Noregur er víti til varnaðar í þessum efnum. Nýlega voru teknir í brúkið 2 öflugir aflsæstrengir þar, annar til Þýzkalands og hinn til Englands. Samkvæmt "Europower Energi" hefur rannsókn leitt í ljós, að þeir hafi á þessu ári leitt til orkuverðshækkunar í Noregi, sem nemur 13 Naur/kWh eða um 2,0 ISK/kWh. Þetta mun leiða til kostnaðarauka hjá meðalfjölskyldu um 3250 NOK/ár eða um 50´000 ISK/ár. Þar á ofan bætast hækkanir vegna lágrar stöðu í miðlunarlónum sökum mikils útflutnings (staðan var nefnilega góð í vor), enda hefur raforkuverð með flutningskostnaði, söluþóknun og opinberum gjöldum farið upp í 4,0 NOK/kWh eða 60 ISK/kWh. Þetta er meira en þrefalt það, sem flestir Íslendingar búa við um þessar mundir, og þetta er meira en þreföldun þess, sem Norðmenn hafa löngum búið við.
Frá október 2020-október 2021 hækkaði raforkuverð með flutningsgjaldi í Noregi um tæplega 80 %. Svona "trakteringar" vegna spákaupmennsku með auðlindir þjóðarinnar eiga Norðmenn erfitt með að sætta sig við. Þetta er meðvirkandi þáttur í andstöðu núverandi Stórþings við innleiðingu Orkupakka 4 í norskan rétt og svo kann að fara, að æðri dómstig dæmi afgreiðslu fyrra Stórþings á Orkupakka 3 sem stjórnarskrárbrot, þótt héraðsdómur (tingretten i Oslo) hafi hafnað því. Þá verður hann felldur úr gildi af núverandi Stórþingi, sem yrði einsdæmi.
Í næsta vefpistli verður fjallað um seinni hluta þessarar villandi Vísbendingargreinar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2021 | 12:13
Vafasöm orðræða
Við setningu Alþingis nú í viku 47/2021 þótti ýmsum gæta ósmekkvísi í garð óbólusettra af hálfu forseta lýðveldisins, Guðna Th. Jóhannessonar, svo að ekki sé meira sagt, enda virtust þau orð illa ígrunduð bæði lagalega og sóttvarnarlega. Það er harla óvenjulegt, að úr þessu tignarembætti, sem betra er, að friður ríki um, sé veitzt að einum þjóðfélagshópi, sem ekkert hefur aðhafzt, er brjóti í bága við lög landsins eða ógni hagsmunum nokkurs manns umfram aðra.
Þetta var umfjöllunarefni Staksteina 24. nóvember 2021 og skopmyndateiknara Morgunblaðsins sama dag og daginn eftir með eftirminnilegum hætti. Höfundi þessa vefseturs þykir svo mikið til þessarar umfjöllunar koma, að hann tekur sér það bessaleyfi að birta þessa Staksteina hér í heilu lagi:
"Spurt og svarað":
"Jón Magnússon, lögmaður, vekur athygli á, að forseti lýðveldisins hafi í setningarræðu Alþingis sagt, að "frelsi til að sýkja aðra væri vafasamur réttur". Jón spyr og svarar svo:
"En hvaða réttur er það ? Hefur einhver gefið einhverjum þann rétt ? Eru einhvers staðar lagaákvæði eða önnur fyrirmæli, sem mæla fyrir um það, að fólk eigi þann vafasama rétt ?
Raunar alls ekki. Samkvæmt íslenzkum rétti hefur enginn rétt til að sýkja aðra; það er bannað.
Það er beinlínis refsivert, sbr 175. gr. almennra hegningarlaga, sem mælir fyrir um refsingu, fangelsi allt að þremur árum, fyrir að valda því, að næmur sjúkdómur berist meðal manna. Einnig mætti vísa í sóttvarnalög.
Frelsi til að smita aðra er því ekki fyrir hendi í íslenzku samfélagi.
Það á enginn þann rétt.
Það er beinlínis refsivert."
Niðurstaða Jóns Magnússonar er þessi:
"Frelsi borgaranna er mikilvæg undirstaða siðaðra samfélaga, og það er mikilvægt, að æðstu stjórnendur ríkja og alþjóðlegra stofnana gæti þess að skilgreina það með réttum hætti og gæti þess að setja frelsið ekki í spennitreyju valdsins.""
Hér hefur forseti lýðveldisins verið leiðréttur fyrir ummæli, sem hann lét falla í þingsetningsrræðu í nóvember 2021, bæði á lögfræðilegum og siðferðislegum grunni mannréttinda. Ummælunum virtist vera beint gegn óbólusettu fólki með ósmekklegum hætti og þá í vanhugsaðri tilraun til að senda þá í bólusetningu. Þar sem ummælin féllu á vettvangi Alþingis er hætta á, að einhver hafi túlkað þau sem hvatningu til að setja einhvers konar þvingunarlög á óbólusetta. Eru einhver sóttvarnarleg rök fyrir slíku ? Nei, alls ekki. Bólusettir smita aðra, og er frá líður ekkert síður en óbólusettir. Ef þessi síðasta fullyrðing væri röng, þá mundi ekki geisa nein 4. bylgja C-19 faraldursins núna á meðal fullbólusettra þjóða Evrópu.
Sameiginlegt einkenni þjóða, sem sloppið hafa við þessa 4. bylgju, er, að þær hafa öðlazt náttúrulegt ónæmi gagnvart C-19. Virkni bóluefnanna gegn öðrum afbrigðum en Wuhan, upphaflegu veirunni, er takmarkað og rýrnar svo hratt, að eftir 6-9 mánuði eru þau gagnslaus bæði sem smitvörn og vörn gegn alvarlegum veikindum. Þær virka hjáróma raddirnar, sem nú kvaka um, að sennilega virki bóluefnin ekki gegn nýja Suður-Afríkanska afbrigðinu, omicron, sem kynnt var til sögunnar 23. nóvember 2021. Staða faraldursins í fullbólusettum löndum er dauðadómur yfir þessari nýju tækni, genatækni, sem baráttutæki við kórónuveiruna, og sennilega við allar veirur, sem hafa mikla tilhneigingu til stökkbreytinga.
Í forystugrein Morgunblaðsins, 25. nóvember 2021,
"Trúnaðartraust dalar",
er haft eftir leiðara The Telepgraph daginn áður, að krafa sé um, að bólusetningarárangur ólíkra bóluefna verður upplýstur. Það er þegar byrjað að upplýsa þetta, og skal hér vísa í sænska skýrslu, sem gerð var grein fyrir í https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2271869 .
Þar kemur fram, að ending AstraZeneca var áberandi lökust af þeim 3 bóluefnum, sem prófuð voru, en ending Moderna var skárst, enda er styrkleiki þess þrefaldur á við 3. bóluefnið, sem var frá Pfizer BioNTech. Styrkurinn kann að skýra alvarlegar aukaverkanir, t.d. hjartavöðvabólgu, af Moderna.
Leiðari Morgunblaðsins 25.11.2021 er mjög hógvær m.v. tilefnið, því að bóluefnamistökin eru reginhneyksli. Hér er seinni parturinn:
"Það, sem mestu breytti um traust til sóttvarna, er, að talsmenn þeirra í ráðandi ríkjum gáfu ótvírætt til kynna, að allt myndi breytast, þegar bóluefnin kæmu. Þó var viðurkennt, að þau myndu alls ekki þá hafa fengið þá skoðun, sem almennt væri gengið út frá.
Heimsbyggðin (eða þau 30 % hennar, sem eygðu í raun þessa von) keypti þessa spá brött og hefur gengið út frá, að gagnvart veirufárinu væru ekki tök á að vera kræsin. En á daginn hefur komið, að óþarflega margt hefur farið illa út úr óskhyggjunni, sem talsmenn vísindanna, sem við vildum fylgja, héldu loftinu í og virtust trúa á án mikilla fyrirvara, vitandi, að allt valt á, að nægilega margir yrðu með.
Svo opnuðust glufur í væntingahjúpinn. Fyrst var, að flest bóluefnanna kæmu ekki í einni sprautu. Eftir það skot þurfti að bíða í nokkra mánuði og fá svo nýtt. Það leið ekki langur tími, þar til tvíbólusettir, sem töldu sig orðna jarðbundna himnaríkismenn, þurftu þriðju sprautu. Þó hafði verið gefið upp, að tveggja sprautu menn væru varðir upp í 90 % alvörn og jafnvel rúmlega það. Engum datt í hug, að tveggja sprautu menn smituðust og það furðu auðveldlega, og virtist það koma öllum fróðum á óvart, en ýtti auðvitað undir einn skammt enn !
Þetta varð óneitanlega hnekkir á trúnaðartrausti gagnvart vísindamönnunum, þótt enginn (í merkingunni fáir) geri því skóna, að þeir hafi ekki gert sitt bezta og í góðri meiningu. En þessi vonbrigði og væntingahrun hafa því miður breytt stemningunni. Og eins hitt, hversu fljótt "vísindamenn" gleyptu við hugmyndum um, að bólusetja þyrfti börn, sem fullyrt var og er, að smituðust vissulega, en ekkert umfram það, sem gerist í venjulegum pestum og með svipuðum ætluðum afleiðingum.
Þessi viðbrögð og óvænt framganga án nokkurrar raunverulegrar umræðu, sem hvatt hafði verið til, varð ekki til góðs. Sjónarmið þess hóps, sem efazt hafði um flest, fengu óneitanlega meiri byr en áður. Lyfjarisarnir í heiminum hafa ekki unnið sér inn nein þau verðlaun, sem tengd eru helztu góðmennum sögunnar, þótt alheimur geti illa án framleiðslu þeirra verið. Með réttu eða röngu eru þeir grunaðir um græsku og óneitanlega er margt, sem ýtt hefur óþægilega undir það. Góðrarvonarhöfði er þekkt kennileiti, sem segir sig sjálft. Gróðavonarhöfði er bautasteinninn, sem fyrrnefndir risar eru gjarna taldir halla sér að, þegar bezt gengur, og dæmin eru of mörg til um, að ekki hafi alltaf verið gáð að sér í þeim efnum."
Svo mörg voru þau, en þarna er með fínlegum hætti verið að rassskella sóttvarnar- og heilbrigðisyfirvöld á Íslandi, sem nú beita þeirri vonlausu aðferð að sprauta þrisvar, af því að hvorki eitt né tvö skipti dugðu. Var sú aðferð ekki einhvern tíma talin einkenna þá, sem þjáðust af greindarskorti, að meira af sömu mistökum geti leyst vandann ?
Ástandið er ekki einleikið. Staðan er sú, að lyfjafyrirtækin stöðvuðu "langtíma" rannsóknir sínar á bóluefnunum eftir um 3 mánuði. Hefðu þau haldið áfram í 6 mánuði, mundi hafa komið í ljós, bóluefnin eru misheppnuð, því að virkni þeirra er þá orðin langt undir viðmiði flestra stjórnvalda, sem er 50 % minnkun líkinda á smiti. Í stað þess voru stjórnvöld dregin á asnaeyrunum og stærstu bólusetningartilraun sögunnar hleypt af stokkunum, og nú geisar 4. bylgjan. Ef omicron er enn meira smitandi en deltan, þá tekur sú nýja við og hækkar þröskuldinn fyrir náttúrulegu lýðónæmi. Um ónæmi frá bóluefnunum þarf ekki lengur að ræða. Keisarinn er ekki í neinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.11.2021 | 14:03
Covid: hin óvænta 4. bylgja
Aftur hefur sænski læknirinn, Sebastian Rushworth, skrifað merka grein á vefsetur sitt um þróun C-19 faraldursins. Allt ber þar að sama brunni. Bóluefnin eru gagnslaus eftir um hálft ár frá bólusetningu, og hið eina, sem getur skapað lýðónæmi (hjarðónæmi) gegn pestinni, er náttúrulegt ónæmi, sem líkaminn sjálfur þróar með sér eftir smit. Þannig hefur það gengið til hingað til með alla sjúkdómsfaraldra, sem lagzt hafa á öndunarfærin, og þau, sem nú reka áróður fyrir endurteknum bólusetningum gegn C-19 ættu að vita betur af reynslunni og þeim vísindaniðurstöðum, sem fyrir hendi eru. Þá er fyrir neðan allar hellur sá áróður, sem nú er rekinn víða um Evrópu, einnig á Íslandi, gegn óbólusettum, því að bólusettir smita aðra áfram og bóluefnin verða gagnslaus innan skamms tíma frá bólusetningu, eins og 4. bylgjan í fullbólusettum löndum sýnir. Í Svíþjóð virðist hins vegar náttúrulegt ónæmi í 70 % íbúanna duga til að hindra bylgju með delta-afbrigðinu í vetur.
Hér fer á eftir þýðing höfundar þessa vefseturs á grein sænska læknisins Sebastians Rushworth, sem birtist á vefsetri hans 20.11.2021:
"Ég var undrandi í fyrstu, þegar margar fullbólusettar þjóðir urðu fyrir barðinu á nýrri bylgju C-19 í haustbyrjun [2021]. Ég var hissa, þ.e.a.s. þar til ég fór að sjá skýrslur um, að vörn bóluefnanna er mun minni en búizt var við og hrapar niður í lággildi að fáeinum mánuðum liðnum frá bólusetningu.
Í þessu ljósi hef ég verið að bera saman tíðni covid dauðsfalla í mismunandi löndum til að reyna að skilja, hvað er eiginlega um að vera. Tíðni dauðsfalla er ákjósanlegri en tíðni greindra tilvika, því að hún breytist minna með tímanum. Tíðni greindra tilvika hefur sveiflazt gríðarlega síðan faraldurinn hófst, þar sem fjöldi sýnataka hefur verið breytilegur með breyttri skilgreiningu á sýkingartilviki og með breytingum á sýnatökuaðferðum. Greind tilvik eru þess vegna ómögulegt tæki til að skilja, hvernig faraldurinn hefur breytzt með tímanum. Þó að lönd hafi mismunandi skilgreiningar á covid dauðsföllum, þá virðast þau vera sjálfum sér samkvæm um það í tímans rás. Tíðni dauðsfalla er þess vegna miklu áreiðanlegri en tíðni greindra tilvika og þess vegna mun gagnlegri til að átta sig á þróun faraldursins.
Við sjáum á yfirliti um Svíþjóð, að upphafsbylgjan reið yfir um vorið 2020 með upphaflegu Wuhan-veirunni, þá kom fall niður í næstum 0 vegna sumarsins. Nú orðið ætti öllum að vera ljóst, að covid-19 er mjög árstíðabundin veira, sem eins og aðrar vetrarveirur hverfur að mestu frá því síðla vors fram í haustbyrjun.
Það, sem næst gerðist samkvæmt sænsku gögnunum er enduruppsveifla Wuhan-veirunnar um haustið 2020, sem byrjar að hjaðna eftir nokkra mánuði, þegar nægilegt lýð- eða hjarðónæmi hefur verið náð. Þessi hjöðnun stöðvast þó, og við tekur enn örari aukning dauðsfalla fyrir tilstilli brezka alfa-afbrigðisins í Svíþjóð.
Hvernig gat alfa-afbrigðið orsakað aðra bylgju, ef hjarðónæmi hafði þegar verið náð, mætti spyrja ? Það er vegna þess, að þröskuldur lýðónæmis er háður smitnæmi og dreifimöguleikum veirunnar. Því meiri dreifimöguleikar, þeim mun hærri verður þröskuldur lýðónæmis. Þannig var þröskuldi lýðónæmis gagnvart Wuhan-veirunni náð í desember 2020, en þegar alfaafbrigðið mætti á svæðið, hækkaði þröskuldurinn og nýr faraldur reið yfir.
Stöldrum nú við; alfa afbrigðið herjar hratt á íbúana, og nægilegt lýðónæmi var náð gagnvart þessu nýja afbrigði um miðjan janúar 2021. Aftur verður erfitt fyrir veiruna að finna ný fórnarlömb, og þá tekur daglegum smitum að fækka niður í umgangspestargildi árstíðarinnar og eru þar þangað til í sumarbyrjun.
Þeim, sem vilja tengja fækkun covid-dauðdaga í febrúar [2021] við bólusetningar, bendi ég á, að aðeins fá % íbúa Svíþjóðar höfðu þá verið bólusett, svo að bólusetningar geta ekki hafa leitt til neinnar fækkunar dauðsfalla.
Að sumrinu [2021] liðnu hækka gildin að nýju upp í eðlilegri árstíðabundin gildi, en eru áfram lág, eins og búast má við af veiru, sem veldur nú orðið umgangspest, en ekki faraldri. Jafnvel þótt hið afar smitandi delta-afbrigði hafi borizt til Svíþjóðar síðla vors [2021] og hafi um haustið verið ríkjandi, gat það ekki skapað nýja bylgju vegna þess víðtæka [náttúrulega] ónæmis, sem áður var komið á.
Við sjáum svipað mynztur annars staðar, þar sem harkaleg bylgja skall á vorið 2020, eins og í Svíþjóð. Þar má nefna Nýju Jórvík og Langbarðaland á Norður-Ítalíu. Þar myndaði Wuhan-afbrigðið fyrstu 2 bylgjurnar, og alfa-afbrigðið myndaði 3. bylgjuna, og síðan ekki söguna meir, þrátt fyrir tilkomu delta-afbrigðisins. Getuleysi delta-afbrigðisins við að mynda nýja bylgju er hægt að útskýra á 2 vegu - annaðhvort er dreifingargeta þess ekki nægilega mikið meiri en alfa-afbrigðisins til að mynda nýja bylgju á svæðum, þar sem lýðónæmi var þegar komið á gagnvart alfa-afbrigðinu, eða bólusetningarnar gera sitt gagn enn þá.
Förum nú til Indlands út af ályktunum, sem draga má um delta-afbrigðið þaðan:
Snemma árs 2021 verður delta-afbrigðisins fyrst vart á Indlandi og geisar á meðal íbúanna. Mótefnisprófanir á íbúunum leiddu í ljós, að 50 % íbúanna sýktust á aðeins fárra mánaða skeiði, svo að hlutfall íbúanna með mótefni hækkaði úr 20 % í 70 %, sem er nægilega hátt hlutfall til að mynda lýðónæmi, svo að veirudreifingin hrapar niður á lágt umgangspestarstig. Athugið, að bóluefnin léku greinilega ekkert hlutverk hér, því að aðeins fá % íbúanna á Indlandi höfðu verið bólusett á þeim tíma, þegar dánartíðnin hrapaði niður í lág gildi, eins og átti sér stað í Svíþjóð.
Nú skulum við snúa okkur að löndum, sem hafa orðið fyrir barðinu á 4. bylgju faraldursins í haust [2021], og reyna að finna skýringu. Tökum Ísrael sem dæmi:
Ísrael tókst að forðast víðtæka dreifingu covid vorið 2020. Um haustið skall Wuhan-afbrigðið á Ísraelum, og einmitt í þann mund, að lýðónæmið náði gildi, sem fær dreifinguna til að hægja á sér, varð landið fyrir árás alfa-afbrigðisins, sem leiddi til hámarks í tíðni dauðsfalla af völdum covid seint í janúar 2021. Á þeim tíma var þegar búið að bólusetja 20 % íbúanna að fullu, svo að hér gætu bólusetningarnar hafa átt þátt í að fækka dauðsföllum. Þær gætu verið skýringin á því, að dauðsföllum fækkar síðan mjög mikið í stað þess að hjakka í umgangspestargildum alveg fram í maí [2021], eins og í Svíþjóð (þar sem bólusetning gekk mun hægar).
Tíðni covid-dauðsfalla var áfram lág allt sumarið, eins og búast mátti við. Þá komum við að haustinu 2021 og hinni óvæntu 4. bylgju, eða ekki svo óvæntu, ef litið er á gögnin, sem sýna, að skilvirkni bóluefnanna dvínar hratt, einnig sá eiginleiki, sem átti að koma í veg fyrir alvarleg veikindi (sem á sérstaklega við um viðkvæma eldri borgara, sem raunar eru eini hópur samfélagsins, sem er í mikilli hættu út af covid-19). [Gerð er grein fyrir þessum gögnum í
https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2271869
og
https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2271929 ]
Jæja, Ísrael mátti þola 4. bylgjuna, eins og mörg önnur lönd. Hvers vegna eru svæðin, sem gerð var grein fyrir í upphafi pistilsins, Svíþjóð, Langbarðaland og Nýja Jórvík, ekki þolendur 4. bylgju núna ?
Frá mínum bæjardyrum séð eru 2 möguleikar fyrir hendi. Sá fyrri er, að íbúar þessara svæða hafi myndað svo víðtækt náttúrulegt ónæmi, þegar þeir urðu fyrir mikilli dreifingu covid-19 nokkuð lengi fram á vorið 2020, að þeir hafi nú afgreitt þennan faraldur fyrir sitt leyti og fleiri faraldra [SARS-CoV-2] sé ekki að vænta. Í Ísrael er bólusetning útbreidd, en hafði í haustbyrjun 2021 orðið fyrir covid-dreifingu í færri mánuði [en téð 3 svæði], og þar af leiðandi hafði lægra hlutfall íbúanna en á viðmiðunarsvæðunum 3 þróað með sér náttúrulegt ónæmi frá fyrri sýkingum. Það hefur nú verið leitt rækilega í ljós, að ónæmi, sem rætur á að rekja til sýkingar, er miklu varanlegra en ónæmið, sem framkallað er með bólusetningu. Þetta er eðlileg kenning núna, þegar við vitum, hversu mjög á reiki ónæmið er, sem bólusetningar framkalla.
Það getur verið upplýsandi núna að líta til Austur-Evrópu. Austur-evrópsku ríkin hafa orðið sérstaklega illa úti í haust [2021]. Þar má nefna Búlgaríu og Slóvakíu.
Mér finnst tvennt vera athyglisvert þarna. Í fyrsta lagi sluppu bæði löndin nánast alveg vorið 2020. Í öðru lagi var hröð dreifing veirunnar í gangi, þegar sumarkoman olli mikilli fækkun smita. Þessar þjóðir náðu þess vegna aldrei lýðónæmi gagnvart meira smitandi afbrigðum, og þess vegna hlaut veiran að taka sig upp aftur haustið 2021.
Jæja, fyrri mögulega skýringin mín á því, að sum landsvæði verða ekki tiltakanlega fyrir barðinu á 4. bylgjunni, er sú, að þar sé þegar fyrir hendi nægilegt náttúrulegt lýðónæmi, sem verndi íbúana. Sú síðari er, að íbúar þessara svæða njóti nú tímabundinnar verndar á þeim grunni, að íbúarnir voru bólusettir seinna en t.d. íbúar Ísrael. Sé sú skýring rétt, mun 4. bylgjan skella á þeim eftir einn mánuð eða tvo.
Gögn frá Þýzkalandi benda til, að fyrri skýringin sé líklegri, því að nú eru Þjóðverjar á leið inn í 4. bylgjuna. Hafið í huga, að Þjóðverjar, eins og Ísraelar, urðu lítið varir við covid-19 um vorið 2020. Hins vegar reið stór bylgja yfir þar veturinn 2020/2021 með Wuhan-afbrigðinu. Síðan kom smátoppur með alfa-afbrigðinu, sem myndaði meginálagið á Þýzkaland í apríl [2021]. Hins vegar komu hlýindi sumarkomunnar í veg fyrir myndun stórrar bylgju með alfa-afbrrigðinu. Á þessu skeiði voru Þjóðverjar bólusettir upp til hópa, og áttu flestar bólusetningarnar sér stað á tímabilinu marz-júní. Þetta er ákaflega svipað bólusetningarferli og í Svíþjóð, þar sem flestir voru bólusettir í marz-júní [2021].
Hvers vegna verður Þýzkaland þá fyrir nýrri bylgju núna [haustið 2021], en Svíþjóð ekki ?
Ljóslega er skýringarinnar ekki að leita í, að Þýzkaland hafi orðið fyrri til við bólusetningar og íbúarnir hafi þess vegna misst sitt ónæmi fyrr, því að báðar þjóðirnar voru bólusettar á sama tíma. Þess vegna hallast ég að réttmæti fyrri kenningarinnar, að Svíar hafi myndað náttúrulegt lýðónæmi með því, að covid hóf að breiðast mjög út í Svíþjóð vorið 2020, en útbreiðslan í Þýzkalandi hófst ekki að ráði fyrr en haustið 2020. Þrátt fyrir að áhrif bóluefnanna hafi þegar rýrnað í báðum löndum, þá er Svíþjóð varin með sínu víðtæka náttúrulega ónæmi, en Þýzkaland ekki. Ef þetta er rétt, mun Svíþjóð ekki verða fyrir barðinu á fleiri stórum bylgjum. Eftir mánuð eða tvo [um áramótin 2021-2022] munum við vita sannleika þessa máls.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.11.2021 | 14:04
Ótilhlýðilegur samanburður
Virtir raunvísindamenn hafa með rökföstum hætti og með vísunum til áreiðanlegra mælinga gagnrýnt vinnubrögð IPCC (Loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna, SÞ). Telja sumir, t.d. John Christy, loftslagsfræðingur og prófessor við UAH í BNA, hitastigshækkun andrúmsloftsins vera stórlega ýkta af IPCC og vísa þá til viðamikilla hitastigsmælinga með gervihnöttum, sem þeir hafa unnið úr og sem IPCC skellir skollaeyrum við, eða þeir telja um eðlilega sveiflu hitastigs að ræða í kringum fast meðaltal undanfarinna 2000 ára og leggja fram gögn sín því til sönnunar (árhringjamælingar trjáa).
Hér eru ábyrgir vísindamenn á ferð, sem ekki hafa verið gerðir afturreka með kenningar sínar og gögn með neinum rökstuddum hætti, heldur hefur IPCC beitt þöggun. Það er lítilmótlegt og samræmist engan veginn hefðbundnum vísindalegum vinnubrögðum. Gagnrýnendurnir eru aðeins knúnir áfram af sannleiksást og virðingu fyrir vísindalegum heiðri.
Þess vegna er miður að sjá Sigurð Friðleifsson, framkvæmdastjóra Orkuseturs, líkja þessum strangheiðarlegu vísindamönnum við einhvern Sergei Jargin, sem hann kveður bera brigður á þá margsönnuðu læknisfræðilegu staðreynd, að einangrunarefnið asbest sé stórhættulegt öndunarfærum manna, ef ögnum úr því er andað að sér. Enginn hefur hrakið það með rökum, sem standast vísindalegar kröfur. Þess vegna er þessi samanburður villandi og í raun algerlega út í hött.
Téð Morgunblaðsgrein 2. nóvember 2021 bar fyrirsögnina:
"Er ekki asbest allt í lagi ?",
og vitnar eiginlega um skrýtinn hugarheim. Greinin hófst þannig:
"Asbest er frábært efni, sem nota má til einangrunar og eldvarna. Olía er líka frábært efni, sem nota má til að knýja vélar og tæki. Vísindamenn hafa tengt asbest við steinlungu og krabbamein. Vísindamenn hafa líka tengt olíunotkun við loftslagsbreytingar og lungnasjúkdóma. Neikvæð áhrif asbests koma oft í ljós löngu eftir notkun. Neikvæð áhrif olíubrennslu munu sum koma í ljós löngu eftir brunann. Stór hluti vísindamanna telur notkun asbests umhverfislega neikvæða. Margir vísindamenn telja notkun olíu umhverfislega neikvæða. Til eru vísindamenn, sem draga neikvæð áhrif asbestnotkunar í efa. Til eru vísindamenn, sem draga neikvæð áhrif olíu á lofthjúpinn í efa. Til er umhverfisvænni tækni, sem leysti að mestu asbestið af hólmi. Til er umhverfisvænni tækni, sem leyst getur olíu að mestu af hólmi."
Þetta er kostulegur samsetningur, sem virðist ætlað að kasta rýrð á vandaða gagnrýni nokkurra virtra raunvísindamanna, sem ekki mega vamm sitt vita. Hæpið er, að skrif með svona samlíkingum verði nokkrum málstað að gagni. Að kalla asbest "frábært efni" er furðulegt, þegar það er sannað með klínískum rannsóknum, að það er svo hættulegt heilsu manna, að öll umgengni við það, niðurrif og förgun, er svo varasöm, að klæðast verður loftþéttum, einnota búningum við vinnu í grennd við það, hvað þá snertingu.
Höfundurinn heldur því fram, að "til [séu] vísindamenn, sem drag[i] neikvæð áhrif olíu á lofthjúpinn í efa". Hvaða vísindamenn eru það ? Það er þvert á móti viðtekin staðreynd, sem hefur ekki verið andmælt með vísun til viðurkenndra rannsókna, að bruni jarðefnaeldsneytis leysir úr læðingi skaðlegar agnir og gastegundir, sem hættulegar geta verið heilsu manna og valda árlega ótímabærum dauða milljóna manna. Þar að auki verða iðulega mengunarslys við leit, öflun og vinnslu þessara efna og hræðileg eru námuslysin. Seigdrepandi eru áhrif kolaryks á unga og hrausta kolanámumenn. Um þetta er enginn ágreiningur. Þess vegna er til mikils að vinna að losna við þessi efni úr orkunotkunarferlum manna, þótt þau muni nýtast í ýmsum efnaferlum.
Víkjum þá að "lífsandanum", en svo hefur koltvíildið verið nefnt, af því að það er næring fyrir allar plöntur jarðar og þörunga hafsins. Þannig er það ásamt súrefninu ein af undirstöðum lífsins á jörðunni. Það verður til með margvíslegum hætti, og orkunotkun mannsins hefur vissulega leitt til aukningar á styrk þess í andrúmslofti. Traustar mælingar liggja að baka þessari fullyrðingu, svo að um það verður ekki deilt, að núverandi styrkur þess er um 420 ppm.
Það er heldur ekki deilt um gróðurhúsalögmál Fouriers og Arrheniusar frá 19. öld, en það er hins vegar deilt um áhrif þessa gróðurhúsalögmáls á hitastigsþróunina í andrúmslofti jarðar. Veðurhjúpurinn verður fyrir margvíslegum áhrifum, og þar ríkir flókið samspil. Ein virkunin er hitageislun út í geiminn, og hún eykst með hækkandi hitastigi andrúmslofts samkvæmt ákveðnu lögmáli eðlisfræðinnar. Prófessor John Christy, loftslagsfræðingur við UAH í BNA, heldur því fram, að í loftslagslíkönum IPCC sé þessi þáttur vanmetinn, sem leiði til útreikninga á allt of háum hitastigli. Hann rökstyður mál sitt með hitastigsmælingum gervihnatta yfir 40 ára tímabil, sem enginn hefur véfengt.
Síðan hafa tölfræðingar gagnrýnt mjög meðferð IPCC á tímaröðum, og telja þeir ályktanir IPCC um yfirvofandi hækkun hitastigs glannalegar, og að þær fái ekki staðizt, sbr grein prófessors Helga Tómassonar í Morgunblaðinu 14.október 2021. Hann vitnar þar í rannsóknir á hitastigi jarðar 2000 ár aftur í tímann, sem bendi aðeins til tregbreytanlegra hitastigssveiflna um fast meðaltal, þ.e. núverandi hækkun gæti verið náttúruleg. Í þessu samhengi verður að gæta að því, að margir vísindamenn spá ísöld eftir um 1500 ár.
Síðan fullyrðir höfundurinn, að "til [sé] umhverfisvænni tækni, sem leyst [geti] olíu að mestu af hólmi". Ef lífið er svona einfalt, af hverju eykst þá með hverju árinu (ef Kófsárið 2020 er undanskilið) notkun jarðefnaeldsneytis ? Það er vitaskuld af því, að fullyrðingin er röng. Það vantar á markaðinn frambærilega og nægilega umhverfisvæna tækni til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi á heimsvísu. Það er hægt staðbundið mjög bráðlega, s.s. á Íslandi, en sjálfbærar orkulindir skortir einmitt. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Kjarnorkutæknin, sem nú er á markaðinum, gæti það, en almenningur í mörgum löndum telur hana of hættulega og virðist meta meiri vá af kjarnorkuverum en brennslu jarðefnaeldsneytis. Löggjafinn í sumum löndum hefur jafnvel gert eigendum kjarnorkuvera að loka þeim á næstu árum, þótt ekkert annað blasi þá við en aukin brennsla jarðefnaeldsneytis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.11.2021 | 17:59
Verður eflingarsprauta á 4 mánaða fresti ? - 2 af 2
Hér fer á eftir þýðing skrifara á síðari hluta vefgreinar Sebastians Rushworths 5. nóvember 2021 um hneykslanlega lélega endingu C-19 bóluefnanna. Í stað þess að viðurkenna haldleysi bóluefnanna, er frá líður, er bætt við sprautum með ærnum samfélagslegum kostnaði og heilsutjóni, sem engin yfirsýn er á núna. Það er eins og Bakkabræður hafi ákveðið að skella á stórtækri tilraunastarfsemi á kostnað skattborgaranna. Engin heildstæð stefnumörkun er fyrir hendi hjá heilbrigðisyfirvöldum landsins um að komast út úr þessum faraldri, nema stöðugar bólusetningar, og sú leið er ófær að mati Sebastians Rushworth, sem greint hefur skilvirkni bóluefnanna sem óviðunandi. Þar er um misheppnaða vöru að ræða, sem fyrir löngu ætti að vera búið að gangast við af hálfu framleiðendanna. Það er auðveldara að ná fram hjarðhegðun en hjarðónæmi. Hið síðar nefnda næst úr þessu aðeins á náttúrulegan hátt. Að telja fólki trú um, að "örvunarsprautan" skili okkur til hjarðónæmis, er líklega hreinræktuð óskhyggja, sem ekki styðst við neinar marktækar rannsóknir.
"Ef ríkisstjórnum hefði ekki legið svona mikið á að koma bóluefnum í borgarana, en hefðu þess í stað krafizt 6 mánaða reynslutíma af tvöföldu blindprófi með bóluefnin, í stað 2 mánaða, hefði aðeins Moderna-bóluefnið verið viðurkennt í upphafi.
Þegar við athugum lengra tímabil en 6 mánuði frá bólusetningu, verður ástæða til að verða enn niðurdregnari. Við 9 mánaða markið veitir Pfizer-bóluefnið ekki lengur nokkra vörn við einkennum covid-19. Því miður voru ekki til haldbær gögn um Moderna-bóluefnið eftir 9 mánuði vegna aðeins fárra, sem hlutu bólusetningu með því fyrir 9 mánuðum, en að 6 mánuðum liðnum hafði eiginleiki Moderna til að hindra smit C-19 með einkennum fallið niður í aðeins 59 %. Þannig virðist vera samfellt fall í skilvirkni Moderna-bóluefnisins við sérhverja áfangaathugun, og ekkert bendir til stöðvunar fallsins.
Hvað kemur í ljós, ef við lítum á lýðfræðilega undirhópa, t.d. eldri borgara, sem eru í langmestri áhættu vegna covid-19, og eiga þess vegna mest undir gagnsemi bólusetninganna ?
Fólk yfir 80 sýndi í upphafi sterk viðbrögð við bóluefninu, þ.e. 73 % lækkun hlutfallslegrar áhættu einkennasmits eftir 1-2 mánuði frá bólusetningu. Hins vegar lækkar þetta niður í aðeins 50 % eftir 2-4 mánuði og eftir 6 mánuði er gagnsemin alls engin. Jafnvel fyrir miðaldra (50-64 ára), sem hafa virkara ónæmiskerfi og ættu þess vegna að bregðast öflugar við bóluefnunum, eru þau gjörsamlega gagnslaus við að hindra sýkingu með einkennum eftir 4-6 mánuði. Eini hópurinn, þar sem skilvirkni bóluefnanna er meiri en 50 % eftir 4 mánuði, er undir 50 ára aldri (skilvirkni 51 % eftir 4-6 mánuði).
Hversu góð bóluefnin eru við að koma í veg fyrir smit með einkennum, er auðvitað ekki aðalatriðið, ef við venjulega eigum við með einkennasmiti eitthvað í líkingu við algengt kvef fremur en Spænsku flensuna. Það, sem höfuðmáli skiptir, er, hversu vel bóluefnunum tekst að koma í veg fyrir alvarleg veikindi. Nú skulum við skoða það.
Á tímabilinu 1-2 mánuðum frá bólusetningu leiddu bóluefnin til 91 % áhættulækkunar að lenda á spítala eða deyja. Á tímabilinu 4-6 mánuðum féll þetta í 74 %, og frá 6 mánuðum lækkaði áhættuminnkunin í 42 %, þótt mismunur á áhættu bólusettra og óbólusettra að þessu leyti væri ekki lengur tölfræðilega marktækur. M.ö.o. var ekki lengur tölfræðilega marktækur munur á áhættu bólusettra og óbólusettra sjúklinga að lenda í alvarlegum veikindum með spítalavist eða að deyja.
[Undirstrikun skrifara.]
Ég tel 2 mögulegar skýringar á hröðu falli á virkni bóluefnanna. Sú fyrri er, að það sé vegna takmarkaðs ónæmis af völdum bóluefnanna, og hin seinni er stöðug þróun veirunnar og einkum ris Delta-afbrigðisins. Ef seinni skýringin er rétt, er alls engin ástæða til að gefa fólki viðbótar sprautur (örvunar), því að þær mundu ekki gera nokkurn skapaðan hlut til að bæta ónæmið.
Ef fyrri skýringin er rétt, er viss ástæða til viðbótar sprautu, þótt það virðist fráleitt að sprauta alla með viðbót á 4 mánaða fresti gegn veiru, sem fyrir flesta hefur ekki meiri áhrif en kvef, og 99,8 % af smituðum lifa C-19 af, og þótt verulegt náttúrulegt ónæmi sé nú þegar fyrir hendi í öllum samfélögum vegna allra þeirra, sem nú þegar hafa smitazt af covid. Ólíkt skammtíma vörn bóluefnanna, hefur vörnin, sem verður til við smit, reynzt vera bæði endingargóð og breiðvirkandi, þrátt fyrir ruslvísindi, sem halda fram hinu gagnstæða og CDC [Centers for Disease Control and Prevention í BNA] stendur að. Hins vegar er rík ástæða til reglulegra bólusetninga fjölveikra eldri borgara á 4 mánaða fresti, helzt með Moderna-bóluefninu.
Jæja, hvaða ályktanir getum við núna dregið ?
Bóluefnin eru miklu óskilvirkari en búizt var við upphaflega, og skilvirknin fellur hratt. Með þessa vitneskju í farteskinu er hugmyndin um, að hægt sé að bólusetja þjóðir til að losna við faraldurinn, hrein vitleysa. [Sóttvarnarlæknir og heilbrigðisráðherra Íslands (Svandís S.) halda þessari bölvaðri vitleysu (bolaskít) enn að þjóðinni.] Eina leiðin til að losna við faraldurinn er, að nægilega margir smitist og þrói með sér náttúrulegt ónæmi, en þannig hafa allir undangengnir veirufaraldrar í öndunarfærum horfið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.11.2021 | 10:17
Covid: hversu lengi endist ónæmi bólusetninganna - 1 af 2
Sebastian Rushworth, sænskur læknir, birti 5.11.2021 athyglisverða grein um ofangreint efni á vefsetri sínu. Hún á ríkulegt erindi hérlendis hjá fullbólusettri þjóð, þar sem hjarðónæmi ætti að ríkja, ef allt væri með felldu með bóluefnin, en það er öðru nær. Aldrei hafa greind dagleg smit C-19 verið fleiri en í lok viku 45/2021 um einstaka daginn (single´s day), þegar opinberar sóttvarnarhömlur voru hertar til muna á Íslandi. Svo virðist sem þessar hömlur geri illt verra, því að þær draga pestina á langinn. Aðeins er gagn af náttúrulegu ónæmi til lengdar, og í pest, þar sem lífslíkur sýktra eru um 99,8 %, virðist það vera sú leið, sem rétt er að fara, sbr Svíþjóð. Orð sóttvarnarlæknis um, 3. sprautan verði leið út úr óförunum og til hjarðónæmis, standast ekki tölfræðilegar athuganir á virkni og endingu bóluefnanna, hvort sem vörn gegn smiti eða alvarlegum veikindum á í hlut. Bóluefnin eru misheppnuð, og það ber að viðurkenna hið fyrsta og hætta að eyða fé skattborgaranna í almennar bólusetningar.
"Það er óheppilegt, að lyfjafyrirtækin skyldu ákveða að hætta tilraunum sínum snemma með því að gefa fólki í lyfleysuhópnum bóluefni eftir aðeins fáa mánuði. Það þýðir, að engin langtíma eftirfylgni var með covid bóluefnum í tilviljanakenndu úrtaki, og það mun aldrei verða. Það merkir, að við verðum að reiða okkur alfarið á könnunargögn, þegar við reynum að gera okkur grein fyrir öryggi og skilvirkni bóluefnanna yfir langan tíma.
Það er ástæða þess, að nýleg sænsk rannsókn er afar áhugaverð. Ætlunin með rannsókninni var að ákvarða, hversu skilvirk bóluefnin eru við að verja gagn covid til lengdar (þ.e. eftir meira en fáeina mánuði). Þetta var tölfræðilega grunduð rannsókn, svo að engin furða er, að hún skyldi koma frá Svíþjóð. Svíþjóð er almennt viðurkennd fyrir að vera öðrum framar í að safna saman og flokka mikið magn lýðfræðilegra gagna og að nota þau í skýrslum sem þessum.
Höfundarnir byrjuðu á að finna alla íbúa Svíþjóðar, sem höfðu hlotið fulla bólusetningu gegn covid-19 seint í maí 2021. Þá höfðu 3 mismunandi bóluefni verið í notkun í Svíþjóð: Moderna, Pfizer og AstraZeneca. Bólusettir voru síðan paraðir við óbólusetta á sama aldri og kyni og búandi í sama sveitarfélagi. Alls voru 1´684´958 manns í rannsókninni. Fylgzt var með þeim fram að október [2021, 4 mánuðir], hvort þeir sýktust af covid-19.
Nú, hvað leiddi rannsóknin í ljós ?
Eins og eðlilegt er, voru bóluefnin áhrifarík við að verjast covid með einkennum í 2 mánuði frá bólusetningu. Þetta sýndi líka tölfræðilega blinda rannsókn lyfjafyrirtækjanna og varð grundvöllur viðurkenningar á bóluefnunum til almennrar notkunar. Í heild nam lækkun hlutfallslegrar áhættu á 31-60 daga tímabili 89 %.
Hins vegar varð hröð lækkun á gagnsemi bólusetninganna eftir þessa fyrstu 2 mánuði. Eftir 4-6 mánuði frá bólusetningu lækkuðu bóluefnin hlutfallslegar líkur á smiti um 48 % !
Þetta er áhugavert með það í huga, að ríkisstjórnir höfðu upphaflega sett markið fyrir viðurkenningu bóluefnanna við 50 % hlutfallslega lækkun. Ef krafizt hefði verið 6 mánaða tilraunatímabils fyrir kynningu niðurstaðna í stað 2 mánaða, þá mundu bóluefnin hafa verið talin of óskilvirk til notkunar og samþykki hefði verið hafnað.
Þetta er ekki alveg nákvæmt. Eitt bóluefni varði betur en sem nam 50 % hlutfallslegri lækkun eftir 6 mánuði - Moderna bóluefnið. Á 4-6 mánaða skeiði frá bólusetningu var hlutfallsleg lækkun Moderna 71 %. Pfizer gaf þá aðeins 47 % hlutfallslega lækkun áhættu, og áhrif AstraZeneca voru á þessu tímabili engin.
Það er skiljanlegt, að Moderna-bóluefnið gaf betri vörn en Pfizer-bóluefnið. Þótt samsetning bóluefnanna sé í raun eins, er Moderna-skammturinn þrefalt stærri. Þetta er líklega skýringin á því, að Moderna hefur fylgt mun hærri tíðni hjartavöðvabólgu, sem er ástæða þess, að það er ekki lengur leyfilegt að nota það til að bólusetja fólk undir 30 ára aldri í Svíþjóð."
Framhald greinar Rushworths læknis verður birt í næsta pistli. Þarna virðist vera komin skýring á haldleysi bóluefnanna við að skapa hjarðónæmi. Eru einhverjar rannsóknir, sem benda til, að 3. sprautan verði eitthvað skárri ? Þetta verður vítahringur samfélaganna og gróðastía lyfjafyrirtækjanna, þar til nægilega margir hafa smitazt og myndað náttúrulegt ónæmi til að hjarðónæmi náist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
13.11.2021 | 14:26
Kardínáli ávarpar lýðinn
Mörgum þykir COP-26 (Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna) í Gljáskógum einkennast af hræsni og yfirdrepsskap. Þangað mættu þjóðarleiðtogar, milljarðamæringar og samkvæmisljón af ýmsu tagi, en hefðu betur setið heima m.t.t. sóttvarna og koltvíildisstyrks í andrúmslofti, að teknu tilliti til nytsemi umræðnanna fyrir framtíðina, sem líklega nálgast 0. Öll töldu þau mannkynið standa á brún hengiflugs stjórnlausrar hlýnunar. Engar efasemdir við niðurstöður IPCC (Loftslagsnefndar SÞ) virðast vera leyfðar, og þó hafa þessar efasemdir verið kynntar almenningi. Hér er um að ræða trúarbrögð samtímans, þangað sem "góða fólkið" leitar heitrar baráttu til að bjarga mannkyninu frá syndum sínum í sefjun. Staðreyndum er sópað undir teppið, og rangfærslur hafðar uppi um aukna tíðni stórviðra.
Þær hefur m.a. hrakið John Christy, og einnig má nefna rannsóknir prófessors Johns Christy við UAH (University of Alabama-Huntsville) á hitastigsmælingum gervihnatta í lofthjúpi jarðar, sem sýna mun lægri hitastigul í andrúmsloftinu en IPCC hefur kynnt til sögunnar og framreiknað með loftslagslíkönum sínum, sem prófessor Christy hefur sýnt fram á, að eru gölluð. Gervihnattamælingar prófessors Christy yfir 40 ára tímabil sýna stigul rúmlega 0,1°C/10 ár eða framreiknað 1°C á öld.
Þá hefur Helgi Tómasson, prófessor í tölfræði við HÍ, kynnt í Morgunblaðinu tölfræðilegar niðurstöður á mati á hitastigi á jörðunni síðast liðin 2000 ár út frá árhringjamælingum trjáa. Niðurstaðan var sláandi: hitastig jarðar er tregbreytanlegt og sveiflast um fast meðaltal. Sem sagt engar marktækar breytingar í 2000 ár, og núverandi hitastigshækkun er bara uppsveifla um fast meðaltal, þannig að kuldaskeið mun taka við af núverandi hlýskeiði. Loftslagskirkjan reynir að yfirgnæfa gagnrýnisraddir með með fyrirferðarmiklum hræðsluáróðri, sem náð hefur eyrum fjölmiðlanna.
Einn af kardínálum loftslagskirkjunnar á Íslandi, Halldór Björnsson, loftslagssérfræðingur á Veðurstofu Íslands, fór fremur lítilsvirðandi orðum um efasemdarmenn, sem ekki leggja trúnað á, að gróðurhúsalögmál Fouriers og Arrheniusar frá 19. öld eigi að fullu við um jörðina og loftslag hennar. Hið furðulega er, að hið sama virðist vera uppi á teninginum varðandi Halldór sjálfan, þótt hann dragi hvergi af sér í dómsdagsboðskapnum, eins og sýnt verður með tilvitnunum í hann.
Ávarp kardínálans birtist í Fréttablaðinu 2. nóvember 2021 undir heitinu:
"Aðgerðaleysissinnar vilja tefja, en nú er tíminn að renna út".
Ávarpið hófst þannig:
"Frá því, að farið var að reyna að ná samkomulagi um aðgerðir í loftslagsmálum, hefur sambærilegt leikrit verið sett á svið í aðdraganda funda. Stuðningsmenn aðgerðaleysis - aðgerðaleysissinnar - fara mikinn í fjölmiðlum og finna málinu allt til foráttu. Pólitísk hugmyndafræði þeirra er ólík; annars vegar eru þeir, sem telja málið illa ígrundað, byggi á ónægum vísindum, leiði til ríkisafskipta og efnahagshruns, og svo eru þeir, sem vilja umbyltingu á efnahagslegu skipulagi heimsins og telja allar lausnir, sem ekki miði að endalokum núverandi kerfis, gangi of skammt. Báðir aðilar eru þó sammála um, að það sé tilgangslaust að halda fundi, eins og þann, sem nú stendur fyrir dyrum (svo !) í Glasgow og harma þá losun gróðurhúsalofttegunda, sem honum fylgir."
Þessi pistilhöfundur hér er ekki málsvari aðgerðaleysis á Íslandi til að ná kolefnisjafnvægi í þjóðarbúskapinum 2040, eins og ríkisstjórnin stefnir að, en hann vill, að allar aðgerðir séu reistar á beztu fáanlegu raunvísindalegu þekkingu. IPCC virðist misbeita vísindunum í nafni meintra öfgasjónarmiða um "endimörk vaxtar", sem ekki hafa staðizt tímans tönn, og beitir þöggun á þá raunvísindamenn, sem hafa með rannsóknum sínum komizt að allt annarri niðurstöðu en IPCC.
Höfundur þessa pistils telur einsýnt, að heimurinn sé kominn á braut orkuskipta, sem er einstefna í eðli sínu. Á Íslandi ber hiklaust að beita beztu tækni til að virkja vatnsföll og jarðgufu þannig, að sem bezt falli að náttúrugæðum og ásýnd landsins til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi. Erlendis verður málið víðast hvar leyst með mismunandi útgáfum af kjarnorku. Þessi nálgun verður þjóðhagslega hagkvæm fyrir Íslendinga, mun bæta loftgæðin og skjóta stoðum undir margvíslega framleiðslu í landinu frá skógi til vetnis.
Aðferðarfræði COP-fundanna er vonlaus, eins og Gljáskógadramað opinberar. Þar eru hafðar uppi heitstrengingar um mismunandi markmið þjóða, en lítið gert með þær, þegar heim er komið, nema kannski að skvaldra. Mun árangursríkara hefði verið að semja um sams konar aðgerðaáætlun stjórnvalda allra landa, sem fælu í sér písk og gulrætur fyrir alla orkunotendur. Afleiðingin af núverandi aðferðarfræði er mikið misgengi hagkerfa og kolefnisleki, en losunin eykst stöðugt. Samkvæmt Alþjóða veðurfræðistofnuninni jókst koltvíildisstyrkur andrúmslofts árið 2020 meira en að meðaltali 2011-2019. Þetta kom á óvart vegna minni iðnaðarframleiðslu og ferðalaga á Kófsárinu. Núverandi bókfærð losun nemur um 35 Gt/ár , og þar af frá Íslandi um 5 Mt/ár eða 0,14 þúsundustu partar, sem er langt innan mælióvissu.
Kardínálinn reit ennfremur:
"Um nokkurt skeið hefur legið fyrir, að losun gróðurhúsalofttegunda, mest vegna bruna jarðefnaeldsneytis (á kolum, olíu og gasi), veldur hlýnun jarðar og áhrif hennar eru auðmerkjanleg og víðfeðm. Hlýnunin frá iðnbyltingu er nú þegar um 1,1°C, og birtar vísindagreinar sýna, að áhrifa hefur alls staðar orðið vart, og einnig að áframhaldandi hlýnun getur haft í för með sér mjög harkalegar afleiðingar fyrir lífríki og þjóðfélög."
Þarna er farið á hundavaði yfir kenningar loftslagskirkjunnar, en ekkert vikið að gagnrýninni, t.d. frá tímaraðasérfræðingum á meðal tölfræðinga, sem prófessor Helgi Tómasson, gerði skilmerkilega grein fyrir í Morgunblaðsgrein 14. október 2021, en þeir sjá ekkert benda til afbrigðilegrar hlýnunar frá upphafi iðnbyltingar eftir að hafa rannsakað hitastigsþróunina á jörðinni undanfarin 2000 ár. Þá benda gervihnattamælingar hitastigs, sem prófessor John Christy o.fl. við UAH hafa rannsakað, til mun minni hitastiguls (0,1°C/10 ár) en IPCC ályktar á grundvelli sinna reiknilíkana, sem prófessor Christy telur gölluð. Hann telur IPCC ekki taka nægilegt tillit til aukinnar útgeislunar frá gufuhvolfinu með vaxandi hitastigi, sem hefur sjálfreglandi áhrif á hitastigsþróunina. Þekkt er lögmálið um, að geislun frá flötum fylgi hitastigi þeirra í °K í 4. veldi.
Síðan tekur við ótrúlegur málflutningur hjá Halldóri Björnssyni. Hann kveður losun mannkyns á CO2 frá upphafi iðnbyltingar nema 2400 Gt, og að við 2700 Gt muni "hlýnunin far[a] yfir Parísarviðmiðin" samkvæmt áætlun. Þá "versna líkur á, að hlýnun verði minni en 1,5°C; verði viðbótarlosunin 500 Gt CO2, eru aðeins helmingslíkur á, að hlýnun haldist innan við 1,5°C. Fyrir 2°C markið versna líkur við 900 Gt CO2 viðbótar losun, og helmingslíkur fást við 1350 Gt CO2 losun."
Þetta er álíka viturlega fram sett og hjá lækni, sem mundi segja við sjúkling sinn í dag, að lífslíkur hans muni versna á næsta ári m.v. núverandi ár. Þá er furðulegt að setja fram eitthvert gildi, sem valdi aðeins 50 % líkum á atburði. Hvað er eiginlega á bak við þetta ? Kenning Fouriers og Arrheniusar um gróðurhúsaáhrif getur ekkert um, að líkindareikningi þurfi að beita til að reikna hlýnunina út m.v. gefna aukningu á styrk CO2. Manni dettur helzt í hug, að eðlisfræðin, sem að baki reiknilíkönum IPCC er, sé á reiki, og að þau gefi þess vegna mismunandi niðurstöður. Samkvæmt prófessor John Christy, sem starfaði áður í rýnihópi IPCC, en var settur í skammarkrókinn vegna gagnrýni sinnar á starfsaðferðir IPCC, eru þau öll með böggum hildar, þó mismiklum.
Síðasta tilvitnunin í þessa grein er til að sýna dæmi um hræðsluáróðurinn, sem beitt er og hefur skotið mörgum skelk í bringu, sem engin furða er:
"Þetta þýðir, að mjög lítill tími er til stefnu áður en ekki má losa meira [m.v. 50 % líkur ? - innsk. BJo]. Vinnslu jarðefnaeldsneytis úr nýjum olíu- og gaslindum verður líklega að stöðva löngu áður en þær verða uppurnar. Þessi staðreynd er ástæða þess, að aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Gueterres, hvetur þjóðir til að hætta leit að jarðefnaeldsneyti, stöðva niðurgreiðslu þess og styðja í staðinn uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa."
Fjárfestar vita, hvað klukkan slær, og hafa þegar dregið úr fjárveitingum til rannsókna á nýjum vinnslusvæðum fyrir olíu, gas og kol. Þetta er þegar farið að hafa áhrif til hækkunar orkuverðs hvarvetna í heiminum, sem gerir auðvitað fátækum þjóðum enn erfiðara fyrir en áður að skrimta. Á meðan þetta orkubreytingaskeið varir, a.m.k. þar til hlutdeild kolefnisfrírra orkugjafa hefur vaxið til mikilla muna og þar með dregið úr spurn eftir jarðefnaeldsneytinu, má búast við háu verði á því. Það eykur ekki líkur á því, að opinberum niðurgreiðslum á því verði hætt, þar sem þær eru enn við lýði, en í Gljáskógum náðist aðeins fram loðið orðalag um að draga úr niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti, ef þær eru óskilvirkar. Það er ekki öll vitleysan eins. Hvað skyldi Gljáskógadramað hafa kostað alls ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.11.2021 | 11:15
"Græn" vetnisvinnsla verður hluti af lausninni
Með "grænni" vetnisvinnslu er átt við rafgreiningu vatns, H2O, með raforku frá orkuverum án koltvíildislosunar. Einnig er talað um "blátt" vetni, sem unnið er úr jarðgasi með föngun og förgun kolefnis, og "grátt" vetni úr kolum með föngun og förgun kolefnis.
Notkun vetnis hefur verið umdeild frá Hindenburg-slysinu 1937, þegar loftfar fyllt vetni varð eldi að bráð með hrapallegum afleiðingum. Síðan hefur vinnslu-, geymslu og nýtingartæknin þróazt, s.s. í Heimsstyrjöldinni síðari, í olíukreppum 1970-1979, og nú á 21. öldinni vegna hugmyndarinnar um nauðsyn þess að leysa jarðefnaeldsneyti sem fyrst af hólmi. Um 2050 er búizt við, að vetnisnotkun muni hafa dregið úr losun CO2 sem nemur 10 % af núverandi losun af mannavöldum eða um 4 mrdt CO2/ár eða 1/3 af núverandi losun Kínverja.
Notkunargildi vetnis verður mest, þar sem bein notkun rafmagns er ekki tæknilega fýsileg. Það er í ýmsum framleiðsluferlum, þar sem nú eru notuð kol, kox eða jarðgas, t.d. við stálframleiðslu (8 % núverandi losunar), sementsframleiðslu og glergerð. Þá mun "grænt" vetni koma í stað vetnis úr jarðgasi við áburðarframleiðslu. Þar sem tiltölulega lítill orkuþéttleiki rafgeyma í kWh/kg gerir þá ófýsilega, t.d. í stórum flutningafarartækjum, geta vetnisrafalar komið til greina, en hængurinn þar er lág nýtni. Rúmlega 80 % raforku til hleðslutækis bílrafgeyma nýtist sem hreyfiorka fyrir bílinn, en aðeins um helmingur þeirrar nýtni næst með vetni, þegar reiknað er frá spennainntökum afriðlastöðva rafgreiningarinnar á vatni.
Þá er unnt að geyma vetni og grípa þar til orkuforða, þegar framboð raforku annar ekki eftirspurn. Ástralía, Síle og Marokkó áforma að flytja vetni út með skipum. Vetnisklasar eru í myndun á Humberside á Bretlandi og Rotterdam í Hollandi.
Meira en 350 stórverkefni á vetnissviði eru nú í gangi í heiminum og gæti uppsöfnuð fjárfesting 2021-2030 numið mrdUSD 500. Morgan Stanley-bankinn áætlar, að árið 2050 muni sala vetnis nema 600 mrdUSD/ár. Það er 4 földun núverandi söluveltu, 150 mrdUSD/ár á 90 Mt af vetni, sem jafngildir núverandi einingarverði 1,7 USD/kg. Skammt er í, að Íslendingar gætu framleitt vetni á þessu verði, en þá er flutningurinn eftir. Grænt vetni verður verðlagt hærra en vetni úr jarðgasi án föngunar og förgunar CO2.
Yfir tylft landa hafa gert landsáætlun um öflun og nýtingu vetnis, þ.á.m. Bretland, Frakkland, Þýzkaland, Japan og Suður-Kórea, en Ísland er ekki þar á meðal, sem skýtur skökku við gríðarlegar áhyggjur ráðamanna hérlendis af koltvíildi í andrúmsloftinu og örvæntingarfullan áróður Landverndar fyrir yfirlýsingu stjórnvalda um neyðarástand í loftslagsmálum, sem væri algerlega út í hött hérlendis með einna stærstan hluta (85 %) orkunotkunar landsmanna úr sjálfbærum orkulindum af öllum löndum heims. Neyðarástand mundi einungis hvetja til ofstækisfullra og vanhugsaðra aðgerða stjórnvalda á kostnað almennings.
Talsvert hefur verið skrafað og skrifað um mögulega framleiðslu rafeldsneytis á Íslandi. Sameiginlegt öllu rafeldsneyti er "grænt" vetni, sem bindst ýmsum öðrum efnum. Rafeldsneyti verður í samkeppni við lífeldsneyti á borð við repju- og nepjuolíu. Repju og nepju er hægt að rækta á Íslandi með góðum árangri og gjörnýta fyrir dísilvélar og sem fiskafóður.
Þann 26. október 2021 birtist í Morgunblaðinu greinin:
"Rafeldsneyti - orkuskipti í samgöngum",
eftir Guðmund Pétursson, rafmagnsverkfræðing. Þar stóð m.a. þetta:
"Sumir telja einnig, að orkuskipti í samgöngum muni krefjast svo mikillar raforku og svo stórtækra virkjanaframkvæmda með neikvæðum umhverfisáhrifum, að það sé ekki verjandi. Nefnd hefur verið talan 18 TWh/ár af raforku, sem svarar til um 2000 MW í vatsafli [eða jafnvel 2500 MW, hvort sem um vatnsafl eða jarðgufuafl er að ræða - innsk. BJo] eða jafnvel 5000 MW í vindafli [vegna lægri nýtingartíma uppsetts afls - innsk. BJo]. Það slagar hátt í allt, sem virkjað hefur verið á Íslandi hingað til [21 TWh/ár - innsk. BJo].
Ekki er ljóst, hvaða forsendur er hér verið að miða við. Er átt við allar vegasamgöngur, skipin og flugvélarnar ? Hvaða ártal ? Svo stórar tölur hrella og geta valdið andófi gegn virkjanaframkvæmdum, einkum vegna sjónarmiða náttúruverndar. Einnig er nefnt, að það muni sáralítið um slíkt framlag okkar á heimsvísu; hlutur Íslands sé svo örsmár. Mikilvægt er þó, að við verðum hrein og sýnum heiminum gott fordæmi."
Hverjir eru þessir "sumir", sem kastað hafa fram virkjanaþörfinni 18 TWh/ár til orkuskiptanna án útskýringa ? Höfundur þessa vefpistils hefur ekki hugmynd um það, en finnst líklegt, að þeir miði við 2050, árið, sem ætlunin er, að til Íslands þurfi ekki lengur að berast jarðefnaeldsneyti, og að "sumir" áætli talsvert mikla orkuþörf til vetnisframleiðslu til útflutnings á einu eða öðru formi.
Sé hins vegar öll olíunotkun landsmanna (að millilandaskipum og millilandaflugvélum meðtöldum) og kolanotkun 2019 umreiknuð til raforkuþarfar, lætur nærri, að virkjanaþörfin nemi 9 TWh/ár og að 20 árum liðnum (2040 - ár kolefnisjafnaðar) er óvarlegt að gera ráð fyrir minna en 3 TWh/ár til viðbótar fyrir fólksfjölgun og framleiðsluaukningu, þ.e. alls 12 TWh/ár árið 2040. Sú orka fæst auðveldlega úr núverandi nýtingarflokki og hluta biðflokks Rammaáætlunar (óafgreidds 3. áfanga). Á hitt ber að líta, að lífeldsneyti mun draga úr þörf á rafeldsneyti og þar með raforkuþörf, þótt raforku þurfi til framleiðslu lífeldsneytis einnig.
"Vafalaust þarf að virkja talsvert meira [en hvað ?] hér til að gera heildarorkuskipti möguleg - og jafnvel útflutning rafeldsneytis - a.m.k. ef stóriðjan heldur velli hér áfram. Við eigum enn góða möguleika á því og ráðum vel við að virkja á viðunandi hátt af fulltri tillitssemi við náttúruna og framtíðina. Land undir virkjanir og orkumannvirki er og verður aldrei nema örsmátt brot af landflæmi Íslands og hinum ósnortnu víðernum. Engum dettur lengur í hug að virkja náttúruperlur !"
Það er einkennilega til orða tekið að skrifa "ef stóriðjan heldur velli áfram", þegar ljóst er, að hún er hluti af lausninni og starfsemi hennar á Íslandi er raunverulega stærsta framlag Íslendinga til þess, að koltvíildisstyrkur andrúmslofts skuli ekki vera enn hærri en ella. Breytingaskeiðið úr jarðefnaeldsneyti yfir í sjálfbærar orkulindir mun einkennast af fremur háu orkuverði, og á meðan svo er, er það gagnkvæmur hagur Íslendinga og eigenda orkukræfra iðjuvera að treysta og efla starfsemi þeirra hérlendis.
Eitt af því, sem mælir gegn vindorkuverum hvarvetna, er mikil landrýmisþörf fyrir raforkuvinnslu í ha á MWh/ár. Hún er miklu meiri en fyrir hinar hefðbundnu íslenzku vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir. Þegar Skipulagsstofnun, Náttúrufræðistofnun eða Umhverfisstofnun mæla gegn hefðbundnum íslenzkum virkjunum vegna hagsmunaárekstra við ferðamennsku, þá stangast slíkt á við reynsluna, því að þessar virkjanir eru vinsælir áfangastaðir ferðamanna. Á stofnununum liggur á fleti fyrir fólk gildishlaðins (óhlutlægs) mats, sem beitir fyrirslætti án þess að virða fyrir sér heildarmyndina. Flestir ferðamenn forðast hins vegar vindorkuver vegna lýta og óþægilegrar hávaðamengunar.
Þá víkur Guðmundur Pétursson að metani, sem er vannýtt hérlendis, en gæti átt sér talsverðan markað hér í vinnuvélum og stórum farartækjum, þar sem það hefur háan orkuþéttleika, 13,9 kWh/kg (benzín 11,3 kWh/kg) og hægt að vinna úr ruslahaugum og í jarðgerðarstöðvum og nýta sem eldsneyti eða í rafeldsneyti:
"Þetta vandamál [viðbótar orkuþörf til hitunar í rafmagnsfartækjum knúnum frá rafgeymum - innsk. BJo] er hins vegar ekki fyrir hendi í metanfarartækjum. Þar verður til nægur varmi til hitunar, eins og í venjulegum bensín- eða díselbíl. Vandséð er líka, hvers vegna Strætó ætti ekki að nýta metan frá eigin framleiðslu sveitarfélaganna í Sorpu/GAJA til að knýja vagna sína og fleiri farartæki. Það gera þeir hjá SVA á Akureyri frá sinni litlu "sorpu" þar. Norðurorka knýr einnig alla sína bíla með metani.
Notkun fljótandi metans á þungaflutningabíla fer nú vaxandi víða í Evrópu, þar sem þeir komast mjög langt (1500 km) á einni fyllingu. Á því sviði þurfum við að taka okkur á og gera það einnig mögulegt hér. Byggja þarf upp viðeigandi dreifikerfi.
Íslenzk skip má einnig hæglega knýja með innlendu rafeldsneyti í framtíðinni, og er nú þegar byrjað á því annars staðar (Stena Line t.d.). Ísland gæti orðið fyrirmynd annarra á þessum vettvangi. Fullþróuð tækni til notkunar á metani í bílum og skipum er nú þegar fyrir hendi, bæði fyrir fljótandi metan og gas."
Það er hægt að taka undir það, að metan ætti að nýta nú þegar á sviðum, þar sem það er samkeppnishæft, og með núverandi verði á dísilolíu er það sennilega samkeppnishæft, t.d. á vinnuvélum og vörubílum, en fyrst þarf að tryggja nægt framboð og verðstöðugleika.
Aftur að vetninu, framleiðslu og nýtingu þess. Megnið af núverandi 90 t/ár er framleitt við bruna jarðefnaeldsneytis, lofts og gufu saman, ferli, sem nú notar 6 % af árlegri jarðgasþörf og 2 % af kolaþörfinni. Við vinnsluna verða til meira en 800 Mt/ár af CO2, sem er svipað og losun Þýzkalands núna. Þetta vetni er notað í olíuhreinsistöðvum, til framleiðslu metanóls fyrir plastframleiðslu og til ammóníakframleiðslu. Iðnaðarammóníakið er notað í framleiðslu á tilbúnum áburði o.fl.
Til að leysa þessa framleiðsluaðferð af hólmi og þróa nýja notkun á vetni eru um 350 verkefni í gangi um þessar mundir, sem útheimta munu fjárfestingar frá hinu opinbera og einkageiranum að upphæð um mrdUSD 500 tímabilið 2021-2030, eins og áður er getið. Mikil þróun og veltuaukning á sér nú stað á framleiðslubúnaði græns vetnis, svo að BloombergNEF áætlar, að framleiðslukostnaður árið 2030 verði um 2 USD/kg (um 1/5 af núverandi kostnaði víða með rafgreiningu). Morgan Stanley er bjartsýnni og telur, að á stöðum með hagkvæmar endurnýjanlegar orkulindir, t.d. í Norður- og Suður-Ameríku (og á Íslandi), verði kostnaðurinn kominn niður í 1 USD/kg 2023-2024.
Hlutverk vetnis í flugi og siglingum er í deiglunni. Fyrir stuttar ferðir gætu rafgeymar verið brúklegir, en vetnisrafalar geta veitt rafgeymunum samkeppni. ZeroAvia, sprotafyrirtæki á vegum British Airways og Jeff Bezos, stofnanda Amazon, útfærði fyrsta vetnisrafalaknúna flugið með farþegaflugvél haustið 2020 á Bretlandi. Ferjufyrirtæki í Noregi og á vesturströnd Bandaríkjanna gera nú tilraunir með vetnisrafala í ferjum á stuttum leiðum.
Airbus leitar nú lausna til að knýja flugvélar sínar með vetni. Boeing lítur meir til ammóníaks úr "grænu" vetni (orkuþéttleiki 5,2 kWh/kg), sem gæti líka hentað stórum skipum, þótt rafeldsneyti með kolefnisinnihaldi þyki nú líklegra.
Bretar ætla að breyta kötlum í húsum sínum, sem nú brenna jarðgasi, í vetniskatla. Þar og víðar gæti orðið markaður fyrir grænt vetni frá Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.11.2021 | 10:57
Flokkur laus við hreðjatak Landverndar
Í ríkisstjórn situr stjórnmálaflokkur með afar sérvizkuleg viðhorf í öndvegi til framfaramála þjóðarinnar. Flokkurinn tapaði í nýgengnum Alþingiskosningum þremur þingmönnum og er með aðeins 12,6 % fylgi. Samt gerir hann kröfu um að leiða stjórnarsamstarfið á nýhöfnu kjörtímabili, heimtar óbreyttan ráðherrafjölda og þvælist að auki fyrir með sérvizku sína um ríkisbúskap, friðanir, orkunýtingu og viðurkenningu á óhæfum ráðherraefnum sínum. Hvers vegna nenna formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að þrátta við Katrínu Jakobsdóttur á annan mánuð um þetta, þegar annar stjórnmálaflokkur hefur opnað á raunhæfan samningsgrundvöll við þá um ríkisstjórn ?
Grein Jakobs Frímanns Magnússonar í Morgunblaðinu 28. október 2021 er til vitnis um þetta. Greinin hét:
"Áskoranir nýrrar ríkisstjórnar í loftslagsmálum".
Þar skrifaði hann m.a.:
"Endurheimt votlendis [orkar tvímælis-innsk. BJo], rafvæðing bílaflotans, vistvæn orka til skipa og aukin skógrækt eru þær mótaðgerðir, sem liggur beinast við, að við Íslendingar ráðumst í. En hnattrænn umhverfisvandi leysist ekki með því, að hver þjóð hugsi bara um sjálfa sig. Við hjá Flokki fólksins viljum nýta hreinar orkulindir landsins af skynsemi og ábyrgð, svo [að] draga megi úr mengun, samhliða náttúruvernd. Þar er mögulegt framlag okkar til loftslagsmála á heimsvísu ekki undanskilið."
Óháð því, hvað líður meintri loftslagsvá, sem er orðin loftslagstrúboðinu sem krossfesting frelsarans er kristnum mönnum, þá sigla þjóðir heims nú inn í tímabil orkuskipta, sem mun einkennast af háu orkuverði vegna framboðsskorts (af völdum minni fjárfestinga (það er nóg til)) og skattlagningar á jarðefnaeldsneyti eða losun.
Það er þess vegna ekki eftir neinu að bíða að hefja virkjanaframkvæmdir hér til orkuútvegunar í stað jarðefnaeldsneytisins. Einkaframtakið, erlent og innlent, mun síðan sjá um nýtinguna, eins og það hefur gert hingað til hérlendis, en með áherzlu á að knýja rafmagnsfartæki og að framleiða s.k. rafeldsneyti með "grænt" vetni sem grunnþátt, en einnig lífeldsneyti úr t.d. repju og nepju. Á meðan enginn aflsæstrengur er til Íslands, verður "hin græna" orka nýtt innanlands. Þrátt fyrir orkukreppuna í Evrópu þurfa landsmenn vart að óttast sæstrengslögn á þessu kjörtímabili, enda er Orkupakki 4 kominn í frysti hjá EFTA, eins og gerð hefur verið grein fyrir hér á vefsetrinu.
"Loftslagsmál og orkumál eru óaðskiljanlegir málaflokkar. Ég verð seint talinn til ákafra virkjanasinna, en mér virðist sýn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þessi mál skynsamleg. Fyrir nýafstaðnar kosningar lögðu báðir flokkarnir til, að Íslendingar hæfu útflutning á grænni orku í formi rafeldsneytis. Þannig gæti sprottið hér upp nýr og spennandi iðnaður ásamt tilheyrandi atvinnusköpun og ávinningi í loftslagsmálum."
Það verður hlutverk einkaframtaksins að finna markaði fyrir rafeldsneyti og lífeldsneyti, en ekki ríkisins. Viljayfirlýsingar stjórnmálamanna um nýsköpun atvinnutækifæra og verðmætasköpunar þjóðarbúsins eru þó eðlilegar, en þeir, sem segja A, verða þá að vera tilbúnir til að segja B. Það stendur virkilega upp á stjórnmálaflokkana og þingheim að setja leyfisferli vegna nýrra virkjana í viðunandi horf, en þau eru nú í algerri kyrrstöðu fyrir tilstilli afturhaldsflokksins með 12,6 % fylgið.
Jakob Frímann býður nú Sjálfstæðisflokkinum upp í dans. Hann talar væntanlega fyrir hönd 6 þingmanna Flokks fólksins um, að hann er tilbúinn að leiða þjóðina á vit nýrra tíma, sem felst í að skapa tæknilegar og viðskiptalegar lausnir, sem eru raunhæfar til að draga úr losun Íslendinga og fleiri á koltvíildi í stað innantóms blaðurs vinstri grænna um hættuna, sem lífinu á jörðinni stafar af hlýnun jarðar. Að hafa forsætisráðherra, sem endurómar Grétu Thunberg, en leggst gegn nauðsynlegum umbótum, er ógæfulegt fyrir eina þjóð.
"Ljóst er, að losa verður rammaáætlun úr höftum kyrrstöðu, öfgalaust, og horfa til kosta þess að nýta vindorku. Eðlilegt virðist jafnframt, að sveitarfélög og íbúar komi í auknum mæli að því að ákvarða, hvar mörkin á milli nýtingar grænna orkukosta og náttúruverndar liggja."
Þarna koma fram heilbrigð og lýðræðisleg viðhorf. Taka málin úr höndum sérlundaðra skrifborðsmanna, sem falið hefur verið að meta virkjanakosti og drekkt málinu í hreinum aukaatriðum, og færa matið í hendur viðkomandi sveitarfélags og íbúa þess, sem leggi dóm á virkjanakosti til nýtingar eða verndar með lýðræðislegum hætti. Hljómar þessi tónlist ekki nógu vel fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk til að slíta erfiðri sambúð við forstokkaða sérvitringa í VG, og fara nú að stíga dansinn með fólki, sem greinilega er ekki í viðjum Landverndarofstækisins ?
Að lokum skrifaði Jakob Frímann Magnússon:
"Það er ekki nóg að viðurkenna loftslagsvandann - við verðum líka að horfast í augu við tækifærin, og hvernig við Íslendingar getum axlað okkar ábyrgð. Skynsamleg nýting orkukosta og öflug náttúruvernd geta vel farið saman. Þær áskoranir bíða nýrrar ríkisstjórnar."
Þetta er mergurinn málsins, og ný ríkisstjórn verður að fara inn í næsta kjörtímabil með þetta að leiðarljósi. Það dugar ekki lengur að ýta þessum viðfangsefnum óleystum á undan sér. Vinstri hreyfingin grænt framboð er stöðnunarafl með eina hugsjón: að ríkisvæða sem mest af starfseminni í landinu. Menn hafa afleiðingu þessa úrelta hugsunarháttar nú fyrir augunum í eymdarásjónu Landsspítalans, sem kominn er að fótum fram undir hroðalegri óstjórn sósíalistans Svandísar Svavarsdóttur, sem keyrt hefur spítalann í þrot með því að hrúga á hann allt of mörgum verkefnum, sem betur eru komin hjá einkageiranum, enda standi Sjúkratryggingar Íslands straum af kostnaðinum, óháð verkaðila.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.11.2021 | 09:51
Orkupakki 4 í uppnámi innan EFTA
Nú geisar orkukreppa á Bretlandseyjum og á meginlandi Evrópu, og bera margir kvíðboga fyrir vetrinum, því að ekki munu allir geta staðið straum af orkureikningunum, þar sem einingarverðið hefur jafnvel þrefaldazt og var þó hátt fyrir. Angar þessa teygja sig til vatnsorkulandsins Noregs, sem hefur rækilega tengt raforkukerfi sitt við þessi skortsvæði raforku. Þar sem norska þjóðin lendir þá í beinni samkeppni um sína eigin orku á uppboðsmörkuðum Evrópu (Nord Pool fyrir norðanverða Evrópu), hefur raforkuverðið jafnvel hækkað meira hlutfallslega í Noregi, þar sem það var mun lægra en á Bretlandi og á meginlandinu og góðar tengingar á milli orkusvæða jafna orkuverðið, en stærri markaðurinn verður alltaf ráðandi.
Öflugir norskir sæstrengir voru nýlega teknir í notkun, annar til Þýzkalands og hinn til Bretlands, sem hafa aukið fylgni norsks raforkuverðs við hið brezka og þýzka. Þetta veldur nú eðlilega óánægju í Noregi, og vilja nú sumir, að Norðmenn taki stjórn strengjanna í eigin hendur, en með Orkupakka 3 framseldu þeir völdin til regluverks ESB og markaðarins. Stórþingsmenn vilja margir hverjir niðurgreiðslur á raforkuverði í Noregi, en það rímar illa við Orkupakka 3, og ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) gæti fljótlega veifað refsivendi sínum um samningsbrot í kjölfar slíks inngrips á markaði.
Meirihluti norsku þjóðarinnar var andvígur innleiðingu Orkupakka 3 í norskan rétt 2018, en Stórþingið samþykkti hana samt undanbragðalaust vegna fyrirskipunar frá stjórn Verkamannaflokksins (þá í stjórnarandstöðu) til þingflokksins um að kjósa sem einn maður með innleiðingunni, þótt grasrót flokksins (flokksdeildir í flestum fylkjum) væri því andsnúin.
Samtökin "Nei til EU" höfðuðu síðan mál gegn ríkinu fyrir þá ákvörðun Stórþingsins að beita ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um aukinn meirihluta við atkvæðagreiðslu um slíkt valdaframsal, og er málið enn fyrir dómstólunum. Ef Orkupakki 3 kæmi aftur til atkvæðagreiðslu í þinginu og þá með kröfu um 3/4 atkvæða til að teljast samþykktur, yrði hann felldur.
Eftir þrýsting frá Noregi samþykkti Alþingi Orkupakka 3 með undanbrögðum, sem var "skítamix", af því að það stenzt ekki Evrópurétt að innleiða samþykktir Sameiginlegu EES-nefndarinnar með skilyrðum. Evrópuréttur er rétthærri landsrétti samkvæmt EES-samninginum, eins og Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur, fjallaði um í fyrirlestri í Valhöll 28.10.2021. Það brýtur í bága við Stjórnarskrá Íslands, og deilur ríkja innan ESB við Framkvæmdastjórnina um þennan forgangsrétt ESB-réttar ber nú hátt í fréttum. Hefur Framkvæmdastjórnin lagt sektir á pólska ríkið fyrir dóm Hæstaréttar Póllands, sem kveður á um, að stjórnarskrá Póllands sé æðsta löggjöf, sem stjórnvöldum og borgurum í Póllandi ber að fara eftir. Nema sektirnar 1,0 MEUR/dag. Ursula von der Leyen hefur ekki tekið svona hart á Merkelstjórninni í Berlín, þótt Rauðhempurnar í Karlsruhe hafi úrskurðað stjórnarskrá Sambandslýðveldisins æðri réttarheimild en úrskurði ESB-dómstólsins og sáttmála ESB.
Nú er ný ríkisstjórn tekin við í Noregi. Að henni standa Verkamannaflokkur og Miðflokkur. Hún er þess vegna minnihlutastjórn, því að SV, systurflokkur VG hérlendis, hrökk fljótlega úr skapti stjórnarmyndunarviðræðna.
Hvaða stefnu hefur nýja norska ríkisstjórnin um Orkupakka 4 ? Stjórnarsáttmálinn þegir um það. Það bitastæðasta í nýja stjórnarsáttmálanum um EES er þetta:
"Regjeringen skal jobbe mer aktivt for å fremme norske interesser innenfor rammene av avtalen, og handlingsrommet i EÖS-avtalen skal tas i bruk med særlig vekt på å sikre nasjonal kontroll på områder som norsk arbeidsliv, energi og jernbane."
Snörun gæti litið þannig út:
"Ríkisstjórnin ætlar að vinna einbeittar að því að halda á lofti norskum hagsmunum innan ramma samningsins, og virkja skal athafnarými EES-samningsins með sérstakri áherzlu á að tryggja stjórn þjóðarinnar á sviðum s.s. norku atvinnulífi, orku og járnbrautum."
Hin pólitíska staða er þannig, að hygði ríkisstjórnin á innleiðingu Orkupakka 4, þá yrði uppreisn í Miðflokkinum, sem mundi leiða til stjórnarslita eða höfnunar Stórþingsins á þessari ESB-orkulöggjöf áður en málið færi til Sameiginlegu EES-nefndarinnar.
Verkamannaflokkurinn vill ekki fá Orkupakkann til formlegrar afgreiðslu í EFTA, því að þá yrði að beita neitunarvaldi þar af Noregs hálfu áður en hann kemst til Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þá stöðu vill Verkamannaflokkurinn ekki fá upp á sinni vakt vegna sambúðarinnar við ESB. Verkamannaflokkurinn er enn hallur undir aðild Noregs að ESB, en vaxandi væringar eru innan flokksins vegna þessa.
Hvað gera bændur þá ? Jú, ESB mun fá þau skilaboð, að EFTA vilji fresta innleiðingu Orkupakka 4 út þetta kjörtímabil, og ef hvorki Íslendingar né Liechtensteinar hreyfa þessu máli, mun það liggja í láginni a.m.k. til 2025. Það er harla ólíklegt, að núverandi stjórnarflokkar á Íslandi vilji gerast málsvarar innleiðingar Orkupakka 4 í andstöðu við norsk stjórnvöld, enda yrði slíkt frumhlaup andvana fætt. Norðmenn ráða lögum og lofum í EFTA-hópinum í EES. Þannig gerast nú kaupin á eyrinni á þeim bænum. Íslendingar eru þar í farþegasætinu og valdhafar Noregs í bílstjórasætinu. Frá fullveldissjónarmiði er staða Íslands gagnvart ESB að sumu leyti enn verri en Noregs, enda eru engin dæmi þess, að íslenzk stjórnvöld hafi stöðvað nokkurt mál frá ESB, sem komið hefur til umfjöllunar EFTA. Orkupakki 4 er ekki fyrsta málið, sem Norðmenn stöðva þar.
Það er vaxandi óánægja með EES-samninginn í Noregi. Í stjórnarsáttmálanum er veitt fyrirheit um að leggja mat á valkosti, sem Noregi kunna að standa til boða, aðra en EES. Þar eru menn sennilega að hugsa um fríverzlunarsamninga. Blasa þar aðallega 2 kostir við, þ.e. að Noregur semji á eigin spýtur við ESB um tvíhliða fríverzlun eða að EFTA semji við ESB um fríverzlun við ESB fyrir öll 4 lönd EFTA. Það gæti orðið Íslendingum farsælast, og mundu þá EFTA/EES-þjóðirnar 3 njóta góðs af öflugri og reyndri utanríkisþjónustu Svisslands.
Það er æskilegt, að hérlendis fari fram svipuð úttekt á framtíðar fyrirkomulagi samskipta við ESB á lögfræðilegum, viðskiptalegum og menningarlegum grundvelli. Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur, hélt merkt erindi í Valhöll 28. október 2021, um stöðu íslenzks réttarkerfis gagnvart ESB-réttinum, sem fékk forgangsgildi gagnvart landsrétti með gildistöku EES-samningsins á Íslandi 1. janúar 1994. Á fundinum í Valhöll var áberandi sú skoðun, að sú staða væri óviðunandi til frambúðar, að íslenzka stjórnarskráin yrði að víkja fyrir ESB-rétti, þar sem þessi 2 réttarkerfi greindi á við mat á úrlausnarefnum, og að ekki kæmi til greina að aðlaga stjórnarskrána ESB-rétti.
Sams konar viðhorf eru uppi í Noregi, og alkunn er réttarfarsdeila Pólverja við framkvæmdastjórn ESB, sem lagt hefur dagsektir á Pólverja, eins og áður segirt, á meðan þeir verða ekki við kröfum ESB um að taka af öll tvímæli um, að ESB-réttur hafi hærri réttarstöðu en stjórnarskrá Póllands. Framkvæmdastjórnin telur framtíð ESB hvíla á þessu atriði og líður engin frávik.
Þýzki stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe (rauðhempurnar) hefur sett ofan í við ESB-dómstólinn í Lúxemborg fyrir að fara út fyrir réttarheimildir sínar og kveða upp úrskurði, t.d. um heimildir seðlabanka evrunnar til skuldabréfakaupa, sem skortir lagaheimildir. Þar sem ESB sé ekki sambandsríki, eins og þýzku löndin eru, heldur aðeins ríkjasamband, þá hafi stjórnarskrá Þýzkalands hærri réttarstöðu en t.d. Lissabonsáttmálinn.
Þessi lagalegi ásteytingarsteinn getur orðið ESB og EES erfiður ljár í þúfu. Lénsveldishugarfar meginlandsins um, að lögin komi að ofan og yfirstéttin setji lýðnum þessi lög, gengur þvert á engilsaxneska og norræna hefð um, að lögin komi frá fólkinu og séu m.a. sett til varnar réttindum þess gagnvart ríkisvaldi og yfirstétt. Þessi mikli hugarfarsmunur átti þátt í, að meirihluti kjósenda á Bretlandi var búinn að fá sig fullsaddan af lagaflóðinu frá Brüssel til stimplunar í Westminster og batt enda á það í þjóðaratkvæðagreiðslu 2016. Hrakspár í kosningabaráttunni og jafnvel í kjölfarið og fram á þennan dag hafa orðið sér til skammar. Í þingkosningunum 2019 rauf svo Íhaldsflokkur Borisar Johnson "rauða múrinn" á milli Norður- og Mið-Englands, en norðan hans hefur Verkamannaflokkurinn ráðið lögum og lofum nánast frá styrjaldarlokum (1945). Kjörorð Borisar, "Levelling up", þ.e. að bæta lífskjör á Norður-Englandi til jafns við Suður-England sló í gegn, og stjórn hans vinnur hörðum höndum að þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)