Vatnsdalsvirkjun er upplagður kostur Vestfirðinga

Það er þekktara en frá þurfi að greina, að Vestfirðingar njóta sýnu lakasta aðbúnaðarins í orkumálum hérlendis.  Þar er fyrst til að taka, að afar takmarkaðan jarðhita er þar að finna, þótt volgrur séu þar vel þekktar að fornu og nýju. Til að leysa úr upphitunarþörf húsnæðis, hafa verið settir upp rafskautakatlar og samið við ríkisfyrirtækið Landsvirkjun um kaup á ótryggðri orku til að knýja þessa katla.  Til vara eru þá olíukyntir katlar.  Samfélagsskyldur eru svo lágt skrifaðar á þeim bæ, að iðulega er fyrst "klippt á" þessa orkusölu að hausti, þegar orkuforði miðlunarlóna er í hættu að lenda undir lágmarki síðla vetrar. 

Hugmyndir Orkubús Vestfjarða til úrbóta eru að setja upp varmadælur og kaupa forgangsorku inn á þær (raforkuþörf minnkar um 2/3 að öðru óbeyttu), en einnig að freista þess að finna meiri nýtanlegan jarðvarma. 

Raforkukerfi Vestfjarða hefur sinn Akkilesarhæl, sem annars staðar á landinu er ekki lengur að finna.  Hann er fólginn í einni viðkvæmri stakri tengingu við stofnkerfi landsins, en annars staðar eru þær a.m.k. 2.  Hún er viðkvæm, því að veðurfarsleg áraun er mikil, stormviðri, ísing, selta, snjóþyngsli.  66 kV flutningskerfi Landsnets og dreifikerfi Orkubúsins er enn að miklu leyti ofanjarðar og að sama skapi bilunargjarnt. 

Þótt talsverðar vatnsorkulindir sé að finna á Vestfjörðum, stendur raforkuvinnsla ekki undir eftirspurninni, sem fer hratt vaxandi.  Af þessum ástæðum er einboðið að virkja meira á Vestfjörðum, en með glórulausu ofstæki hefur þröngsýnispúkum tekizt að tefja eða hindra það með þeim afleiðingum, að umhverfið geldur fyrir með olíubrennslu til raforkuvinnslu, og fólk og fyrirtæki geldur fyrir  minnsta afhendingaröryggi raforku á landinu. 

Orkubúið undir traustri forystu Orkubússtjórans hefur reynt að þoka áfram framfaramálum við takmarkaðar undirtektir Alþingismanna kjördæmisins, að því er virðist, og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra virðist þjakaður af dauðyflishætti, þegar kemur að því að bregðast við óskum Vestfirðinga um úrbætur í orkumálum.  Þann 27. febrúar 2024 birtist ágæt og fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir Elías Jónatansson, Orkubússtjóra, undir fyrirsögninni:

"Vatnsdalsvirkjun þarf að komast í umfjöllun í rammaáætlun".

Hún hófst þannig:

"Orkubú Vestfjarða óskaði eftir því fyrir u.þ.b. ári, að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra breytti reglum um friðlandið í Vatnsfirði í Vesturbyggð, þannig að unnt sé að taka Vatnsdalsvirkjun til umfjöllunar í rammaáætlun og bera saman við aðra kosti.  Orkubúið lagði síðan fram greinargerð í haust, sem unnin var af VSÓ Ráðgjöf, um möguleg umhverfisáhrif af slíkri framkvæmd.  Umsagnir bárust frá 12 aðilum, fagstofnunum, samtökum og einstaklingum, auk umsagnar frá Vesturbyggð.

VSÓ hefur í samráði við OV dregið saman aðalatriði umsagnanna og viðbrögð við þeim á minnisblaði, sem nú hefur veið sent ráðuneytinu.  Meginviðfangsefnin snúa að birkiskógum, óbyggðum víðernum, vatnamálum, samfélagsþáttum og valkostum auk óvissu um umhverfisáhrif."

 Mótbárurnar við þessari virkjun eru á gamalþekktum nótum úr smiðju staurblinds afturhalds án sýnar á heildarhagsmuni landsins.  Að fetta fingur út í, að 0,2 % af birkitrjám friðlandsins raskist, sýnir algera málefnafátækt.  Í nafni þess, að betra sé að veifa röngu tré en öngvu, er því haldið fram, að áhrif virkjunarinnar verði einkum neikvæð á víðerni Glámusvæðisims.  Þó verða engar framkvæmdir vegna Vatnsdalsvirkjunar innan óbyggðra víðerna, en miðlunarlón verður þó innan þeirra, sem mun bara verða til bóta fyrir grunnvatnsstöðu svæðisins. Áhrifasvæði vatnsmiðlunarinnar nema þó aðeins 0,4 % af óbyggðum víðernum Vestfjarða og 0,03 % á landsvísu, sem sýnir, hvers konar smælki er reynt að tína til í tilraun til að fella þessa ágætu virkjunarhugmynd. 

Samfélagslegir hagsmunir fá ekkert vægi í þessum athugasemdum, en hlutlægt mat leiðir auðveldlega í ljós, að mikilvægi þeirra er margfalt á við sparðatíninginn á móti. 

"Á fyrrnefndu minnisblaði til ráðherra er lagður fram stuttur samanburður Orkubúsins við Tröllárvirkjun (13,7 MW), virkjunarkost, sem einnig er á Glámuhálendinu og hefur verið settur í nýtingarflokk í tillögu að rammaáætlun 4.  Í þeim samanburði kemur fram, að margt bendi til þess, að umhverfisáhrif vegna virkjunar í Vatnsdal séu minni en umhverfisáhrif Tröllárvirkjunar, auk þess sem virkjun í Vatnsdal er hagkvæmari og staðsetning ákjósanlegri varðandi tengingar.  

Til frekari skýringar þá yrði Vatnsdalsvirkjun tengd með 20 km flutningsleið í landi ríkisins og Orkubúsins beint í tengivirki Landsnets í Mjólká. Tengingin væri því óháð núverandi Vesturlínu, sem er 45 ára gömul.  Tröllárvirkjun yrði hins vegar tengd við Vesturlínu, bæði vegna smæðar sinnar og meiri fjarlægðar frá tengivirkinu í Mjólká, og afhendingaröryggið yrði því minna.  Þá er ósamið um land- og vatnsréttindi Tröllárvikjunar, sem eru í einkaeigu. Vatnsréttindi í Vatnsdal eru hins vegar í eigu ríkisins. 

Allir aðrir virkjunarkostir á Vestfjörðum yfir 20 MW eru í mun meiri fjarlægð frá tengivirkinu í Mjólká eða u.þ.b. 100 km."

 Þessi stutti samanburður virkjunarkosta á Vestfjörðum gefur glöggum lesanda ótvírætt til kynna ("som den observante læser umiddelbart ser"), hvaða virkjun er æskilegast að ráðast næst í á Vestfjörðum.  Hvers vegna heyrist ekki múkk frá orkuráðherranum ?  Orkubússtjórinn hefur enga sögu að segja af þessum ráðherra.  Sá hefur ekki getið sér orð fyrir glöggskyggni, en hans pólitíska nef, sem er engin smásmíði, ætti að segja honum, að með því að taka þessa málaleitan Okubús Vestfjarða upp á arma sér, gæti hann markað spor í sandinn og slegið nokkrar flugur í einu höggi. 

Að lokum reit Orkubússtjórinn: 

"Orkubú Vestfjarða telur það vera grundvallar atriði að bera Vatnsdalsvirkjun saman við aðra kosti, sem eru í rammaáætlun, til þess að taka upplýsta ákvörðun, sem hentar hagsmunum Vestfjarða bezt.  

Ákvörðun um að bera áform um Vatnsdalsvirkjun saman við aðra virkjunarkosti felur ekki í sér ákvörðun um virkjun.  

Sú náttúruvá, sem að steðjar á Íslandi um þessar mundir, hlýtur enn fremur að leiða til þess, að hugað verði fekar að minni og dreifðari virkjunarkostum, utan jarðskjálfta- og eldgosasvæða, eins og Vatnsdalsvirkjun."  

Allt er þetta hárrétt athugað hjá Orkubússtjóranum.  Æðstu yfirvöld orkumála verða sér til stórfelldrar minnkunar, ef þau reka ekki af sér slyðruorðið og taka rökstudda afstöðu með þessari tillögu Orkubús Vestfjarða, sem hér var gerð að umfjöllunaefni. 

 

 

 


Snarazt hefur á merinni

Á stuttu tímabili hefur verið hlaðið á ríkissjóð gríðarlegum böggum, sem auðvitað er í anda flokks fosætisráðherra, og Framsóknarflokkurinn hefur gjarna ratað inn í þessa blindgötu líka, eins og nýleg tillögugerð menningar-og viðskiptaráðherra um auknar ölmusur til listamanna, sem er algerlega úr takti við almennan boðskap ríkisstjórnarinnar um aðhald í ríkisrekstri nú um stundir.  Það bráðvantar fé í marga þarfa málaflokka, t.d. rekstrar- og viðhaldsfé til vegamála, og á sama tíma keppast Framsóknarráðherrarnir um að leggja fram gæluverkefni sín.  Hvað skyldi 1 stk "Þjóðarhöll" kosta, þegar upp verður staðið ?  Dettur einhverjum til hugar, að MISK 15 dugi ? Einhver nefndi leiðréttingarstuðul pí. 

Ábyrgðarlaus umgengni stjórnmálamanna við ríkissjóð hefur valdið mikilli skuldasöfnun hans síðan 2020, og þess vegna er lántaka ríkissjóðs til að fjármagna nýlegar skuldbindingar hans ekki fær leið. Meðalfjölskyldan í landinu þufti að greiða um kISK 700 árið 2022 vegna skuldabyrðarinnar.  Rúmur þriðjungur af greiddum tekjuskatti einstaklinga fór þá í þessa hít, sem var þreföldun hlutfallsins frá 2020. 

Á þessu tímabili hafa útjöld til útlendingamála farið úr böndunum og einboðið er að minnka útgjöldin með því að stemma stigu við mannfjöldanum, sem tekið verður á móti næstu áin, enda vantar húsnæði fyrir þetta fólk og innfædda, sérstaklega eftir rýmingu Grindavíkur. 

Skólarnir ráða ekki við verkefnið, sem er mjög erfitt, svo að ekki hillir undir betri kennslu almennt, sem lyft gæti PISA-meðaltalinu upp.  Hælisleitendur eru margir hverjir í þörf fyrir mikla læknisþjónustu, og  hópar af framandi slóðum, jafnvel heilaþvegnir af ofstækismönnum, aðlagast illa, sem kemur fram í yfirgengilega mörgum, sem komast í kast við lögin og eru dæmdir til fangavistar.  Allt veldur þetta gríðarlega miklum samfélagskostnaði, sem verður að koma böndum á með frávísun úr landinu, nema vinum okkar frá Úkraínu, sem eru frá stríðshrjáðu landi og hafa aðlagazt vel hér. Úkraínumenn og frumbyggjar voru beztu vinir íslenzkra landnema vestanhafs á 19. öld.

Í stöðu eins og þessari, þegar innviðir hrópa á meira fjármagn, en byrðar ríkissjóðs vaxa, verður ríkið að huga að sölu eigna, sérstaklega þar sem viðkomandi fyrirtæki eru í samkeppni við einkaframtakið að þarflausu.  Er ríkisrekin póstþjónusta tímaskekkja ?  Sjálfsagt er að losa alfarið um eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og koma afrakstrinum "í vinnu" annars staðar.  Er fýsilegt að selja RARIK og/eða Orkubú Vestfjarða ?  Svona mætti lengi telja. 

Þessar vangaveltur eru ekki frumlegar, eins og sjá mátti af forystugrein Morgunblaðsins 14. marz 2024,

"Þörf þingsályktunartillaga",

en hún hófst svona:

"Óli Björn Kárason og nokkrir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um sölu ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum. Í tillögunni segir, að fjármála-og efnahagsráðherra sé falið að "skipa nefnd, sem móti langtímaáætlun um sölu ríkiseigna, lækkun á skuldum ríkissjóðs og fjáfestingu í innviðum.  Nefndin verði skipuð 3 sérfræðingum á sviði hagfræði, fjármála og lögfræði.  Nefndin skili áfangaskýrslu eigi síðar en 6 mánuðum eftir skipun og lokaskýrslu eigi síðar en 12 mánuðum eftir skipun."

 Þetta er ágætis tillaga, sem getur skilað samantekt um eignir ríkisins, sem til greina kemur að selja, og áætlun um það ásamt áætlun um lækkun skulda.  Það mun hins vegar aðallega koma í hlut næstu ríkisstjórna að nýta þá eigna- og skuldaskýrslu við framkvæmd stefnu sinnar, og þess vegna er allsendis óþarfi að bíða aðgerðarlaus eftir skýrslunni, heldur ljúka þegar höfnum söluferlum ríkisstjórnarinnar og fitja upp á annarri sölu úr samkeppnisgeiranum, sem hún telur sig geta leitt til lykta á kjörtímabilinu.  

"Í greinarerð með tillögunni er vakin athygli á, að skuldsetning ríkissjóðs og gríðarlegar vaxtagreiðslur hafi lamandi áhrif á íslenzkt efnahagslíf og hamli getu ríkisins til að veita þá þjónustu, sem ætlazt sé til, og að lækka álögur á launamenn og fyrirtæki."  

Ef tekið er mið af Svíþjóð, var gengið allt of langt í sóttvarnaraðgerðum hér og í að láta ríkissjóð deyfa fjárhagslegar afleiðingar þess fyrir einstaklinga og fyrirtæki.  Það er eins og örvænting hafi gripið ráðamenn og eytt var stórfé í að bólusetja almenning, þ.m.t. börn að óþörfu og með áhættu, margoft með tilraunaefnum (mRNA-genatækni), sem virkuðu mjög stutt og höfðu margvíslegar aukaverkanir á gollurshúsið, ónæmiskerfið o.fl.  Þegar enn alvarlegri faraldur gýs upp, munu aðgerðir að óbreyttu hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu og lánstraust ríkissjóðs, svo að draga verður lærdóm af reynslunni og horfa til Svíþjóðar.

"Þess vegna er það rétt, sem einnig kemur fram í greinargerðinni, að "lækkun skulda ríkissjóðs er eitt brýnasta verkefni samtímans og mikilvæg forsenda sóknar til bættra lífskjara.  Ungt fólk horfir upp á, að skuldirnar og tilheyrandi fjármagnskostnaður rýri lífskjör þess í framtíðinni.  Fyrir tugþúsundir ungra karla og kvenna, sem koma út á vinnumarkaðinn á komandi árum, er ekki sérstaklega eftirsóknarvert að eiga hlut í banka eða öðrum fyrirtækjum í gegnum sameiginlegt eignarhald ríkisins, ef greitt er fyrir eignarhaldið í formi verri lífskjara, með hærri sköttum og verri þjónustu hins opinbera.   Þeir, sem eldri eru, og ekki sízt þeir, sem þurfa nauðsynlega á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda eða fá aðra aðstoð, verða að sætta sig við lakari þjónustu og minni aðstoð en ella.  Miklar skuldir ríkissjóðs hafa því bein áhrif á daglegt líf þúsunda Íslendinga."

Þetta eru nokkuð góð rök fyrir því að selja sem fyrst, ef gott verð fæst, eignarhluti ríkisins í áhætturekstri og samkeppnisrekstri, t.d. Íslandsbanka, 40 % hlut í Landsbanka, Póstinn o.fl.  Landsmenn njóta nú langtíma fjárfestingar sinnar í Landsvirkjun með lágu raforkuverði og hárri arðsemi og ætti svo áfram að vera, þótt stjórnun fyrirtækisins sé áfátt.

Hvað skyldi vera að frétta af hástökkvara skoðanakannana um þessar mundir, Samfylkingunni, varðandi fullyrðingu tillögugerðarmanna um, að "lækkun skulda ríkissjóðs [sé] eitt brýnasta verkefni samtímans ..." ?  Ekkert bitastætt hefur heyrzt frá flokkinum síðan formaðurinn kúventi í málefnum hælisleitenda og  vakti um leið úlfúð í flokkinum.  Spyrja má, hvort flokkurinn sé stjórntækur vegna stefnuleysis.  Þá er hætt við, að hann leiði þjóðina út í algerar ógöngur með óábyrgri útgjaldaaukningu og skuldasöfnun.  

 


Heilbrigðiskerfi í viðjum pólitískrar kreddufestu

Nú hefur ríkið tekið á sig mikla fjárhagsbagga vegna jarðhræringa og eldgosa á Suðurnesjum og vegna kjarasamninga.  Skuldir eru miklar fyrir hjá ríkissjóði og frekari skuldasöfnun vart fær leið, þar sem við það ykist peningamagn í umferð, sem veldur verðbólguþrýstingi upp á við.  Þess vegna er nú boðað aðhald í rekstri og frestun fjárfestinga. Einboðið er að hætta við fjármögnun vanhugsaðrar og algerlega óarðbærrar borgarlínu og helzt að skera bastarðinn "Betri samgöngur" niður við trog.  Í staðinn ætti að koma "Létt borgarlína", þar sem miðað er við strætisvagnaakrein hægra megin við núverandi akbrautir, þar sem þörf er talin á greiðfærari leið og nokkur arðbærustu mislægu gatnamótin verði byggð, en hvorki stokkar né göng að svo stöddu, og glórulaust er að setja núverandi hönnun Fossvogsbrúar í framkvæmd.  Hana þarf að endurhanna, svo að kostnaðurinn verði eðlilegur.

 Heilbrigðiskerfið liggur eins og farg á ríkissjóði með öllum göllum einokunar ríkisins, sem nöfnum tjáir að nefna.  Þarna er unnt að spara stórfé árlega og bæta þjónustu við sjúklinga með styttingu biðlista.  Hægt er að bjóða út mörg læknisverkin og taka þeim tilboðum, sem lægst eru og fullnægja útboðsskilmálum og jafngilda sparnaði fyrir ríkissjóð.  Hvorki verkkaupa né þingmönnum kemur þá við, hvernig innbyrðis kostnaður hvers bjóðanda skiptist. Hinir forstokkuðu vinstri grænir hafa löngum kyrjað, að ekki mætti græða á að veita læknisþjónustu.  Hvers vegna í ósköpunum má það ekki ?  Þessi vinstri meinloka er meginskýringin á sífellt lengri biðlistum eftir aðgerðum. 

Morgunblaðið gerði þetta að umræðuefni í vandaðri forystugrein 5. marz 2024 undir kjörorðinu:

"Forðumst kreddur"

"Ólíkar áherzlur stjórnmálaflokka þurfa ekki að koma á óvart og ættu út af fyrir sig fekar að vera fagnaðarefni, enda auka þær val kjósenda.  Þó eru vonbrigði að sjá, að flokksfundur VG um helgina [2.-3. marz 2024] sá ástæðu til að lýsa "áhyggjum af aukinni áherzlu á einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, kerfi, sem á ekki að vera gróðalind fárra rekstraraðila, heldur sameiginlegt velferðarkerfi okkar allra". 

Þarna er Vinstri hreyfingunni grænu framboði rétt lýst.  Þar sem einokunarkrumla ríkisvaldsins hefur náð að læsa klóm sínum í einhverja starfsemi, þar skal hvorki ræða um kostnað né leiðir til sparnaðar í þágu skattgreiðenda eða bætta þjónustu, ef þessar úrbætur munu fela í sér að draga úr einokunarstarfseminni og virkja einkaframtakið á samkeppnisgrundvelli.  Þetta er öfugsnúinn embættismannasósíalismi, sem óttast að missa spón úr aski sínum.  Ef þetta er sannur sósíalismi, þá á hann sér engrar framtíðar von, enda stríðir hann gegn heilbrigðri skynsami.  VG hefur dagað uppi undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, versta tvískinnungs í emætti forsætisráðherra á fullveldistímanum, og er flokkur hennar löngu orðinn pólitískur steingervingur. 

"Þarna er ályktað aftan úr grárri forneskju og ekkert tillit tekið til reynslunnar af einkarekstri í heilbrigðisþjónustu eða samanburðar á einkarekstri og opinberum rekstri á þessu sviði."

 VG er eins og sértrúarsöfnuður, sem höndlað hefur "stórasannleik".  Á slíkan söfnuð hrífa engin rök, sem grafa undan "stórasannleik".  Það kvarnast úr söfnuðinum, en eftir sitja "die hards" réttrúnaðarmenn.  Nú er orðið auðvelt að sýna fram á sparnaðinn við að minnka umsvif einokunarinnar með því að færa sum verkefni til samkeppnigeirans og hægt að sýna fram á gríðarlega sparnaðarmöguleika vegna mikils munar á einingarkostnaði Háskólasjúkrahússins og viðurkenndra læknastofa úti í bæ.  Það er eins og VG loki öllum skilningarvitum og berji hausnum við steininn.  Slíkur stjórnmálaflokkur er auðvitað ekki á vetur setjandi, og þetta skynja æ fleiri kjósendur. Spurningin er hins vegar, hvort þeir fara úr öskunni í eldinn með því að ljá Kristrúnu Frostadóttur og flokki hennar atkvæði sitt.  Hún er grunuð um að gera hosur sínar grænar fyrir kjósendum á fölskum forsendum; að bera kápuna á báðum öxlum, því að ekki er til þess vitað, stofnanir Samfylkingarinnar hafi kúvent í stórum málum. 

"Skammt er t.d. síðan greint var frá könnun á ánægju skjólstæðinga heilsugæzlunnar á höfuðborgarsvæðinu með þá þjónustu, sem þar er í boði.  Þar fer ánægja almennt minnkandi, sem ætti að vera áhyggjuefnið, en athygli vekur, að einkareknu heilsugæzlustöðvarnar raða sér í 4 efstu sætin í könnuninni.  Furðulegt er, að nokkrum dögum eftir, að slík könnun er birt og ekki sú fyrsta, sem sýnir ánægju með einkarekstur á heilbrigðissviði umfram ríkisreksturinn, skuli stjórnmálaflokkur telja ástæðu til að álykta sérstaklega gegn einkarekstri."  

Allt er hér samkvæmt bókinni.  Það ætti öllum að vera orðið fyrir löngu ljóst, að opinbert eignarhald hentar mjög illa til að fást við viðkvæma og flókna þjónustu.  Hið opinbera getur hvorki keppt við einkaeignarhald í gæðum né kostnaði slíkrar þjónustu. Vinstri grænir eru steingervingar, sem leggja allt aðra mælistiku á þessi mál.  Þeir loka eyrunum fyrir einföldum staðeyndum á borð við upplifun neytenda á veittri þjónustu og fjárhagsbyrði skattgreiðenda af henni, ef þessar staðreyndir mæla gegn opinberu eignarhaldi og rekstri, sem þeir, líklega af rangtúlkun minni spámanna, telja, að eitt samræmist Kómmúnistaávarpi Karls Marx, sem var misheppnaður maður, en engu að síður átrúnaðargoð fólks með einkennilega lífssýn. 

"Ekki er langt síðan Vinstri græn réðu heilbrigðisráðuneytinu.  Þá var þeirri stefnu, sem lýst er í ályktuninni, fylgt mjög markvisst og með slæmum afleiðingum.  Þetta birtist t.a.m. í því, að ríkið vildi ekki semja við einkaaðila hér á landi um brýnar aðgerðir, m.a. liðskiptaaðgerðir, en sendi sjúklinga þess í stað utan, þó að það kostaði margfalt meira.  Afleiðingarnar voru lítil afköst, langir biðlistar og mikil óþægindi og jafnvel þjáningar fyrir sjúklinga."

 Þessi hegðun ríkisvalds í höndum forstokkaðs sósíalista lýsir ótta hins opinbera kerfis við einkaframtakið á þeim sviðum, sem lotið hafa einokun ríkisins.  Sósíalistinn vill ekki, að neytendur fái slíkt val, því að vitneskjan, sem slíkt val veitir, mun grafa hratt undan einokun ríkisins. Barnaleg lygin, sem haldið hefur verið að fólki um, að ríkið "verði" að sjá um þessa þjónustu, verður aðhlátursefni.  Þá er reynt að kynda undir öfundinni með þvælu á borð við, að enginn megi græða á þessari þjónustu, en er ekki undarlegt, að hvarvetna annars staðar í heiminum er það talið sjálfsagt, enda smurfeiti góðs árangurs.  Það hlýtur að vera þrautum háð að vera kaþólskari en páfinn. 

"Kreddur verða að víkja til að hægt sé að ná árangri, og á það við í heilbrigðiskerfinu, eins og annars staðar.  Skilning á þessu mátti sjá í aðsendri grein hér í blaðinu í liðinni viku, þar sem Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði áherzlu á að beita þyrfti þeim ráðum, sem dygðu í heilbrigðismálum, þ.m.t. einkarekstri, sem hún benti á, að hefði gefizt vel.  Séu þingmenn og stjórnmálaflokkar opnir fyrir lausnum, sem duga, er hægt að ná árangri í heilbrigðismálum, stytta biðlista og bæta þjónustu.  Leið VG felur í sér aukin útgjöld, en lakari þjónustu."

 VG mun aldrei láta af kreddum sínum um sem allra umsvifamestan (mannaflsfrekastan) ríkisrekstur, því að sú túarjátning er grundvöllur þessa jaðarflokks, sem nú hefur spilað rassinn úr buxunum og mun hverfa í gleymskunnar dá.  Það eru þó fleiri slæmir á þingi.  Þótt hinn nýi formaður Samfylkingarinnar reyni að gefa henni ögn nútímalegri blæ hægri kratisma, er ekkert fast í hendi, hvað það snertir, þegar flokkurinn verður búinn að hafa gott af kjósendum.  Útibúið, sem af einhverjum dularfullum ástæðum kallar sig Píratahreyfinguna, mun bara fylgja höfuðbólinu.  


Hið opinbera fitnar, eins og púkinn á fjósbitanum

Það er sterk tilhneiging í samtímanum til að þenja hið opinbera út og þar með að fjölga starfsmönnum á launaskrám þess.  Heilbrigðis- og umönnunarkerfið er dæmi um þetta, og undirliggjandi kraftur þar er öldrun þjóðarinnar, en heilsufar eldri borgara er miklu bágbornara en vera þyrfti, sem stafar af óhollum lifnaðarháttum í allsnægtaþjóðfélaginu. Það er vandlifað í henni versu. Lyfjaátið er yfirþyrmandi og allt of lítið mark tekið á næringarráðgjöfum og þjálfunarsérfræðingum á borð við Janus Guðlaugsson. Þegar allt er komið í óefni, er heimtað "quick fix", en slíkt er ekki til. 

Grunnskólakerfið hefur þanizt út að mannafla í mun meira mæli en nemendafjöldinn.  Að sama skapi hefur árangur nemenda 10. bekkjar versnað að mati OECD og PISA-prófdómaranna, enda eru komnar alls konar aðrar starfsstéttir inn í kerfið en áður tíðkuðust þar.  Þegar nemendum var raðað eftir getu í bekkjardeildir, var minna álag á kennurum í tímum, þótt í bekkjardeild væri yfir 30 manns, og árangur nemenda var að jafnaði betri en síðar varð, þegar "kerfi án aðgreiningar" hafði haslað sér völl.  Er einhver í stakk búinn til að mótmæla með rökum þessum tveimur staðhæfingum, sem hér eru settar fram sem tilgátur án eigin rannsóknar.  Ef ekki, hvers vegna er þá viðhöfð sú þrákelkni á grunnskólastiginu að viðhalda þessari aðferðarfræði, sem er óframkvæmanleg með góðu móti og hefur reynzt afspyrnu illa (dregið meðaltalsárangur niður) ?

Þann 9. febrúar 2024 birti Magdalena Anna Torfadóttir fróðlega yfirlitsfrétt um umfang hins opinbera á viðskiptafréttasíðu Morgunblaðsins undir sláandi fyrirsögn:

"Ráðstafar annarri hverri krónu".

Hún hófst þannig:

"Hið opinbera velti árið 2022 um mrdISK 1650, sem þýðir, að það ráðstafar tæplega annarri hverri krónu, sem verður til í hagkerfinu.  Hlutfallið hefur vaxið jafnt og þétt, allt frá lýðveldisstofnun, þegar um 5. hver króna fór um hendur hins opinbera [þ.e. úr 20 % í 50 % á 78 árum, eða um 0,4 % VLF/ár að meðaltali - innsk. BJo].

Þetta er meðal þess, sem kom fram í skýrslu Viðskiptaráðs, sem kynnt var á Viðskiptaþingi ráðsins í gær [08.02.2024].  Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, kynnti skýrsluna og niðurstöður hennar.  Í skýrslunni er fjallað um hið opinbera, og hvernig megi bæta þjónustu þess til lengri tíma litið.

"Í ljósi umfangs ríkis og sveitarfélaga er rétt að rýna, hvernig þessum fjármunum er varið, hvar og hvernig megi gera betur, og hvort hið opinbera þurfi að sinna öllum þeim verkefnum, sem það hefur nú á sinni könnu", segir í skýrslunni."

Umfang opinbers rekstrar á Íslandi vex með ósjálfbærum hætti.  Þingmenn og sveitarstjórnarmenn hafa verið of leiðitamir þrýstihópum og fyrir vikið fórnað mikilvægum hagsmunum skattborgaranna og þjóðarinnar allrar, sem sýpur seyðið af óskilvirku bákni, sem er ekki nægilega vel stjórnað og mikil byrði fyrir  avinnulífið.  Í EES-samninginum er mikil áherzla lögð á, að hið opinbera gæti sín í hvívetna að skekkja ekki samkeppnisstöðu, þar sem það er á markaði í samkeppni við einkafyrirtæki.  Á þessu er misbrestur hérlendis, sem er ein ástæða ofþenslu báknsins.  Ríkisútvarpið er skýrt dæmi um þetta, en það er mjög óeðlilegt, að það keppi um auglýsingar á miðlamarkaði, því að það getur notað skattfé til að viðhalda markaðsráðandi stöðu sinni.  Menningar- og viðskiptaráðherra talar og skrifar mikið og stundar pólitík í anda lýðskrums, en gerir fátt af viti og þ.á.m. næsta lítið, sem máli skiptir, til að minnka umsvif ríkisrekna risans á fjölmiðlamarkaði, sem stöðugt færir út kvíarnar sem opinbert hlutafélag án lagaheimilda til þess. 

Landsvirkjun er annars konar dæmi um ríkisfíl í postulínsbúð.  Þar er að vísu ekki um ríkisframlög að ræða, heldur arðgreiðslur til ríkisins, en hegðunin er ámælisverð, og hana verður að skrifa á lyndiseinkenni forstjórans, sem nýlega gekk hart fram um setningu laga um viðbrögð við skorti á rafmagni á markaði, sem áttu að hlaða enn meira undir Landsvirkjun, og dylgjaði þessi forstjóri þar um "leka á milli markaða", þ.e. að aðrir en Landsvirkjun hygluðu stórfyrirtækjum á kostnað almennra neytenda. Allt koðnaði það niður hjá honum, enda bitu menn frá sér.  Á Alþingi var hætt við þessa lagasetningu, enda hún einskær vitleysa frá Orkustofnun og ráðuneyti orkumála.  Eftir stendur, að Landsvirkjun eyðileggur alla raunverulega samkeppni á raforkumarkaði vegna stærðar sinnar og þeirrar staðreyndar, að megnið af tekjum hennar kemur frá stórnotendum á grundvelli langtímasamninga, sem ríkið veitti Landsvirkjun forgang að án samkeppni.  Þar af leiðandi mega stjórnendur fyrirtækisins alls ekki traðka í salatinu.  Meira að segja Samkeppnisetirlitið mælti gegn téðri skömmtunarlagasetningu.  Hvenær gerir stofnunin frumkvæðisathugun á samkeppni á raforkumarkaði ?

Heilbrigðiskerfið er mikið vandræðabarn á ríkissjóði, enda að mestu fjármagnað af honum.  Nú er langt komið eða jafnvel búið að meta alla helztu verkþætti Landsspítalans til kostnaðar og spítalinn farinn að fá greitt samkvæmt innsendum reikningum, enda hafa ekki heyrzt núna þau relubundnu harmakvein um fjármagnsskort, sem landsmenn áttu að venjast.  Þetta kerfi gerir Sjúkratryggingum kleift að bjóða fyrirhafnarlítið út verkþætti, sem hægt er að úthýsa innanlands og jafnvel á Evrópska efnahagssvæðinu, er útboðið er stórt.  Það verður að ganga út frá því sem vísu, að Sjúkratryggingar Íslands nýti útboðsleiðina út í yztu æsar og gefi íslenzkum sérhæfðum læknastofum tækifæri til að hagnýta fjárfestingar sínar í nannauði, húsnæði og tækjabúnaði, og spari um leið skattgreiðendum landsins stórfé. 

Kostnaður við hvern grunnskólanemanda hefur vaxið mikið á þessari öld og á sama tíma hefur árangur hans versnað í alþjóðlegu samhengi.  Nemendur koma með furðulega gloppótta þekkingu út úr grunnskóla.   Kerfið þarf þess vegna að stokka upp.  Væri ekki ráð að veita skólunum meira sjálfstæði og ýta undir samkeppni þeirra á milli, t.d. með birtingu meðaltala úr PISA fyrir hvern skóla ?  Skólarnir gætu t.d. ráðið því, hvernig þeir raða í bekkjardeildir og mættu flokka nemendur í deildir eftir getustigi, eins og gert var áður fyrr með góðum árangri. 

"Svanhildur Hólm stýrði stýrði umræðum með Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, stofnanda Kara Connect, og Andra Heiðari Kristinssyni, fyrrverandi leiðtoga Stafræns Íslands.  Þau ræddu m.a. þær áskoranir og hindranir, sem verða á vegi tæknifyrirtækja í samskiptum við opinberar stofnanir.  Þorbjörg Helga lýsti m.a. samskiptum sínum við opinberar stofnanir, þá sérstaklega embætti Landlæknis, sem lagt hafa stein í götu félagsins og starfsemi þess.  Hún sagði, að þrátt fyrir yfirlýsinar stjórnmálamanna um nýsköpun í heilbrigðiskerfinu og mikilvægi þess að leita nýrra lausna í þjónustu, væri því ekki fylgt eftir með almennilegum hætti."  

Embætti Landlæknis virðist vera steinrunnið apparat, sem er mjög umhendis að veita almenningi þjónustu.  Frammistaðan í Kófinu var fyrir neðan allar hellur, þar sem beitt var ótæpilegum og dýrum höftum á umgengni fólks, sem hafði alvarlegar afleiðingar fyrir hagkerfið og andlega líðan fólks.  Þetta voru aðgerðir, sem sniðgengu meðalhófsreglu stjórnsýslulaga rýrðu pesónufrelsi án umtalsverðrar gagnsemi.  Eins og spáð var um á grundvelli fræða um þessi mál, varð dánartíðnin í kjölfar aðgerðanna hærri en efni stóðu til.  Þar bætti ekki úr skák sú stefna embættisins að beita margítrekuðum sprautunum gegn veirunni með tilraunaefnum á bráðabirgðaleyfi Lyfjaefirlits Evrópu.  Af þeim hafa hlotizt margvíslegir skaðar á heilsu fólks, en varnarvirknin dalaði mjög hatt eftir inngjöf.  Tilraunaefnin hefðu að réttu lagi ekki komizt í gegnum hefðbundið prófunarferli lyfja, og það vekur mikla furðu, að enn skuli þau vera í brúki hérlendis.  

"Í fyrrnefndri skýrslu Viðskiptaráðs kemur fram, að undanfarin 30 ár hefur fjöldi starfsfólks í stjórnsýslunni tæplega tvöfaldazt.  Árið 1995 störfuðu 387 manns í um 11 ráðuneytum, en í dag starfa 724 í 12 ráðuneytum.

"Að mati Viðskiptaráðs sýnir þróunin, að verulega skorti á hagræðingu hjá hinu opinbera [ríkinu í þessu tilviki - innsk. BJo].  Leiða má líkur að því, að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins leggi stein í götu stjórnvalda til að bregðast við, þegar verkefni breytast, falla niður eða ný verða til.  Tækifæri til meira hagræðis í starfsmannahaldi eru vannýtt, og stafræn umbylting virðist frekar hafa verið nýtt til að auka umfang stjórnarráðsins en annað.  Það ætti ekki að vera náttúrulögmál, að stöðugt fjölgi í stjórnarráðinu, þótt á þessu tímabili hafi starfsmönnum einungis fækkað á árunum 2013-2016", segir í skýrslunni."

Höfundar skýrslu Viðskiptaráðs hljóta að hafa kynnt sér Lögmál Parkinsons, sem einmitt fjallar um hina ríku tilhneigingu innan opinberrar stjónsýslu að þenjast út, engum til gagns. Þar að auki eru 2 utan að komandi kraftar að verki.  Á árunum 2009-2013 var í gangi umsókn um aðild að Evrópusambandinu (ESB), og þar á bæ var óspart fundið að fámenni og getuleysi íslenzkrar stjórnsýslu.  Vafalaust brást hin "fyrsta tæra vinstri stjórn" hart við þessu, og aldrei hefur verið undið ofan af þeirri fjölgun, enda á sér stað umfangsmikil innleiðing ESB-reglugerða og -tilskipana, sem útheimtir starfsfólk.  Þá má ekki gleyma því, að síðan árið 2017 hefur harðsvíraður miðstýringar- og ríkisafskiptaflokkur leitt hér ríkisstjórn og sett af stað gæluverkefni og gælustofnanir, sem eru óþörf fyrir ríkisreksturinn.    

Það var þarfur gjörningur hjá Viðskiptaráði að benda á talnalegar staðreyndir málsins, en þróunin var við búin og er bein afleiðing vanhugsaðrar ákvarðanatöku kjósenda og Alþingismanna.  Það er ekki hægt að snúa þessari óheppilegu þróun við, nema henda vinstri mönnum út úr stjórnarráðinu og hætta að rembast við að aðlaga löggjöf smáríkis að löggjöf stórrar ríkjasamsteypu. 

  

   

 

              


Það verður að komast til botns í COVID-19 hneykslinu

Það er ýmislegt á reiki um uppruna SARS-CoV-2 veirunnar, um gagnsemi aðferðarfræðinnar í baráttunni við hana og um gagnsemi og skaðsemi tilraunaefnanna, sem sprautað var í fólk í nafni keppikeflisins hjarðónæmis, sem aldrei náðist. Það þarf að rannsaka þetta allt til að mynda grunn að nýrri stefnumörkun í sóttvarnarmálum, þegar lærdómur hefur verið dreginn af reynslunni af því, sem gert var í baráttunni við SARS-CoV-2. 

Kínverjar halda því fram, að þessi veira hafi stokkið úr leðurblökum í menn á útimarkaði fyrir matvæli í borginni Wuhan í Kína. Þessi kenning hefur alltaf hljómað barnalega. Hvaða aðstæður voru fyrir hendi á þessum stað árið 2019, sem auðveldaði veirunni að leggja undir sig nýjan hýsil ?  Það hafði hún ekki gert áratugum eða öldum saman í sambúðinni við "homo sapiens".

Ýmsir vísindamenn, sem rannsakað hafa téða veiru, sjá á henni manngerð ummerki.  Skammt frá téðum útimarkaði í Wuhan stendur stór bygging, sem hýsir veirurannsóknir.  Þar eru taldar fara fram tilraunir með veiruræktun í því augnamiði að ná fram ákveðnum eiginleikum.  Vitað er, að stórveldin stunda þetta í hernaðarlegum tilgangi til að lama andstæðinginn, en þá þarf jafnframt að þóa mótefni, svo að veiran snúist ekki gegn skapara sínum.  Sé SARS-CoV-2 ættuð af rannsóknarstofu, hefur hún sloppið út áður en téðri ræktunarstarfsemi lauk, því að hættan af henni fyrir ungt og hraust fólk var lítil og fór minnkandi með stökkbreyttum afbrigðum. Spánska veikin var miklu skæðari, svo að dæmi sé tekið, þó ekki sé minnzt á ebóluna. 

Þann 31. janúar 2024 birtist fróðleg grein eftir Helga Örn Viggósson, hugbúnaðarsérfræðing, og Þorgeir Eyjólfsson, eftirlaunaþega, í Mogunblaðinu um viðbrögð íslenzka sóttvarnayfirvalda við SARS-CoV-2 veirunni undir fyrirsögninni:

"Afsökun um reynsluleysi og vankunnáttu ekki lengur í boði".

Hún hófst þannig:

"Það voru mikil mistök að hefja að nýju örvunarbólusetningar gegn covid á haustmánuðum [2023] eftir að hafa hætt bólusetningum í lok apríl [2023]. Ákvörðunina um framhald bólusetninga tóku sóttvarnayfirvöld þrátt fyrir rannsóknarniðurstöður, sem staðfestu takmarkanir efnanna [til] smitvarnar, auk niðurstaðna fjölda rannsókna, sem sýna fram á skaðsemi efnanna fyrir heilsu almennings og sem sýna, að efnin eru þeim eiginleikum búin, að eftir því sem einstaklingurinn er bólusettur oftar, þeim mun líklegri er hann til að sýkjast af covid, þ.e. sjúkdómnum, sem bóluefnið átti að koma í veg fyrir.

Afleiðingar þessarar röngu ákvörðunar embættis landlæknis létu ekki á sér standa, því [að] dauðsföllum fjölgaði um 37 % á Íslandi í viku 42 [2023], sem byrjaði mánudaginn 16. október, borið saman við meðaltal látinna í vikunum tveimur þar á undan.  Það var einmitt í viku 42, sem bólusetningar á hjúkrunarheimilunum hófust."

Það eru nokkrar tilvísanir í heimildir í þessum kafla, sem er sleppt hér.  Þótt tilvísunum sé sleppt, verður að telja þessa hörðu gagnrýni á Landlæknisembættið, en sóttvarnalæknir er þar undir, vera vel rökstudda. Þá hafa höfundarnir fundið óyggjandi fylgni á milli upphafs þessara endurbólusetninga og aukinnar dánartíðni í landinu.  Það er stórfurðulegt til þess að vita m.v. forsögu málsins, sem höfundarnir geta um, að ákveðið skuli hafa verið að hefja gagnslitlar og hættulegar bólusetningar með tilraunabóluefnum.  Þarf að leita að peningaslóðinni í þessu máli til að finna einhverja haldbæra skýringu á þessu einkennilega ráðslagi ? Gagnsleysi og skaðsemi þessara tilraunaefna, sem sóttvarnalæknir vill dæla í fólk gegn ærnum kostnaði, blasa við leikmönnum.  Það er maðkur í mysunni, sem verður að hreinsa burt áður en lengra er haldið. 

"Þekkt eru skaðleg áhrif mRNA-efnanna á starfsemi  hjartans, en helzti ráðgjafi sóttvarnayfirvalda hefur staðfest, að bólusetning gegn veirunni þrefaldi líkur á bólgu í hjartavöðva, og á annað þúsund ritrýndar vísindagreinar hafa komið út um, hvernig sprauturnar geta skaðað hjartað, þ.á.m. framskyggnar rannsóknir (þátttakendur mældir fyrir og eftir sprautu) með niðurstöðum, sem segja, að í kringum 3 % ungs fólks fái hjartavöðvabólgu, í langflestum tilvika einkennalaust, en getur engu að síður verið lífshættulegt ástand."

 Það er stórundarlegt, að lyfjaiðnaðurinn og yfirvöld skuli nú hafa fellt úr gildi allar hefðbundnar varúðarreglur, sem krefjast margra ára blindrannsókna á afleiðingum fyrirbyggjandi og læknandi efna á mannslíkamann, eftir dýratilraunir.  Það standa bara engin efni til þess arna gagnvart margstökkbreyttri SARS-CoV-2 veiru, sem er orðin tiltölulega meinlaus, og hefur reyndar alltaf verið meinlítil gagnvart óbældu ónæmiskerfi.  

 

 

     

 


Útþenslustefna er feigðarflan

Otto von Bismarck, járnkanzlaranum, tókst að sameina þýzku ríkin "með eldi og blóði" undir foystu Prússa á síðari hluta 19. aldar.  Segja má, að þetta hafi verið eðlilegt framhald rómantísku stefnunnar, sem gagntók Þjóðverja í öllum þýzku ríkjunum og hertogadæmunum í kjölfar yfirgangs og stríðsbrölts Napóleons Bonaparte frá Korsíku í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789. Þá má og segja, að Bismarck hafi gripið sögulegt tækifæri til að hnekkja hefðbundinni brezkri  utanríkisstefnu um að hindra, að nokkurt ríki á meginlandinu yrði nógu öflugt til að skáka Bretlandi. Vilhjálmur 2., Þýzkalandskanzlari, klúðraði þessari jákvæðu þýzku þróun  með því að "mikið vill meira", og hann "vildi fá hlutdeild í sólskininu" með stofnun nýlendna í Afríku og flækja Þjóðverja í átök, sem urðu að Heimsstyrjöldinni fyrri 14. ágúst 1914.

Þjóðverjar börðust á austur- og vesturvígstöðvum, höfðu betur austanmegin, Nikulási 2. var steypt og kaffihúsamarxistanum Lenín trillað til Rússlands til að hella olíu á eldinn og gera friðarsamning við Þýzkaland. 

Úrslit styrjaldarinnar réðust þó á vesturvígstöðvunum, þar sem þátttaka Kanada og Bandaríkjanna með Frökkum og Bretum réði úrslitum.  Þjóðverjar töpuðu þýzkum landsvæðum og urðu að undirgangast miklar skaðabætur, sem sliguði hagkerfi þeirra og ollu óðaverðbólgu. 

Með hefndarhug var aftur lagt af stað, í raun 1938, en Vesturveldin sögðu Stór-Þýzkalandi ekki stíð á hendur fyrr en í kjölfar innrásarinnar í Pólland 01.09.1939.  Í þeim hildarleik, sem fylgdi, keyrði um þverbak. 

Nú hefur Rússland rofið friðinn í Evrópu, sem ríkt hafði frá 1945 með Balkanstríðinu sem undantekningu.  Það er stórfurðulegt, að stjórnvöld í Kreml skuli telja, að á 21. öldinni sé einfaldlega hægt að ákveða ný landamæri í Evrópu einhliða með hervaldi.  Engir lærdómar eru dregnir af sögunni á þeim bænum.  

Rússland hefur orðið sér mjög til minnkunar með gegndarlausum brotum á alþjóðalögum og lítilmannlegum beinum grimmdarárásum á almenna borgara Úkraínu. Allur stórveldisbragur er horfinn af Rússlandi, sem er að breytast í fylgiríki Kína.  Útanríkisráðuneyti Rússlands fordæmdi þá ákvörðun Ekvadors að afhenda Bandaríkjamönnum gamlan rússneskan vopnabúnað til framhaldsflutnings til Úkraínu. Ekvador tilkynnti, að landið mundi senda það, sem kallað var "úkraínskur og rússneskur brotamálmur" til Úkraínu og fá í staðinn nútíma vopnabúnað að verðmæti MUSD 200.  Hljómar líkt og samningur.  Yfirvöld í Ekvador sögðu frá því, að Moskvuvaldið hefði áður varað þau við þessu, en þau hefðu engu að síður til þess fullan rétt.  Smælki af þessu tagi vex í huga Pútíns þessi dægrin, en ekkert heyrist frá honum um hervæðingu Eystrasaltslandanna við landamærin að Rússlandi í varnarskyni, raunar ekki langt frá sumardvalarstað hans.  Ætlunin er að styrkja varnirnar, svo að hægt verði að hrinda þar innrás Rússa innan 3-4 ára.  Þau munu ekki brúka til þess vopn frá Ekvador.  Þeirra eigin verksmiðjur framleiða nú nútímavopn í fremstu röð.  Sumir Rússar sjá nú skriftina á veggnum, enda hefur utanríkisstefna Rússlands beðið skipbrot við inngöngu Finnlanda og Svíþjóðar í NATO. Pútín er mesti mistakasmiður í sögu æðstu valdamanna Kremlar, enda lifir hann í veruleikafirrtum heimi.   

Ofurstinn Alexander Khodakovsky, næst æðsti yfirmaður þjóðarvarðliðanna í Alþýðulýðveldinu Donetsk, sem hernumið er af Rússum, sagði herlið sitt ekki geta brotið úkraínska herinn á bak aftur. 

Hann kallar eftir vopnahléi, svo að Rússland geti safnað kröftum.  Gangur innrásarinnar hefur sýnt hinum ímyndunarveika Pútín, að afskipti Vestursins af stríðinu séu vegna mikilvægis þessa landssvæðis og að Vestrið (NATO) hafi augljóslega verið að ráðgera árás á hann þaðan.  Ennfremur þykir þessum Pútín kostur, að sannleikur þessa máls skyldi birtast áður en til innrásar að vestan kom, en styrjöld við NATO telur þessi afstyrmislega Rússaforysta óhjákvæmilega.  Bullið úr Pútín minnir óþyrmilega á einræður Adolfs Hitlers, þegar mistök hans voru orðin lýðum ljós. Pútín segir, að miklu erfiðara hefði orðið að taka á móti NATO-innrás en að eiga í stríði við NATO með Úkraínu sem lepp.  Þannig að allt, sem gerist, styrkir Pútín að hans eigin mati.  Hann lifir í sýndarveruleika, eins og karlinn í Bunkernum á sinni tíð. 

Við ættum að hafa hugfast, að stríðið nær langt út fyrir vopnaviðskiptin, sem fréttir greina frá daglega.  Miklir pólitískir kraftar eru þar á ferðinni, sem munu koma Úkraínumönnum og Vesturlandabúum á óvart og blása þessum aðilum kappa í kinn, enda er mikið í húfi. 

 Hvað segir Yudin í þessu sambandi ?:  "Stríðið við Úkraínu er vitlausasta stríðið í sögu okkar [Rússa] ... [reist á] gremjublandinni vanþóknun - tröllvaxinni, endalausri gremju.  Samkvæmt Pútín er engin hamingja til í lífinu ... . Í heimssýn hans eru engin landamæri [á hinum rússneska heimi].  Þessi stefna hefur orðið að opinberri stefnumörkun: Rússland endar hvergi." 

Er nema von, að Evrópa hervæðist nú á ný eftir fall Járntjaldsins, þegar þessi boðskapur berst út ? Sturlunin er við völd í Kreml. Rússland er fast í fúafeni, sem virðir mannslíf og örlög fólks einskis.  Í báðum löndum eru feður, sem munu ekki verða viðstaddir brúðkaup barna sinna; systur, sem munu aldrei sjá bróður sinn aftur; mæður, sem munu aldrei halda á börnum sínum eða heyra hlátur barnabarna sinna.  Ein ófreskja getur valdið með ólíkindum mikilli eyðileggingu.  Slíka verður að stöðva, og hún verður stöðvuð.  Hún er glæpur gegn mannkyni.   

 


Gregory Yudin heldur áfram greiningu sinni

Gregory Yudin er rússneskur fræðimaður, sem er mjög gagnrýninn á heimsvaldastefnu Rússa, sem heimurinn horfist nú í augu við og sem sumir valdamenn Vesturlanda neita að skilja, hvað merkir.  Það háttarlag heitir að stinga hausnum í sandinn, eins og strúturinn gerir, þegar honum þykir að sér sótt.  Það er furðulegt háttarlag og heimskulegt í meira lagi af "homo sapiens" að taka það upp eftir strútinum.

Að undanteknu Hvíta-Rússlandi hafa öll fyrri ríki Ráðstjórnarinnar annaðhvort greitt atkvæði með eða setið hjá við fordæmingu Sameinuðu þjóðanna á innrás Rússlands í Úkraínu og farið fram á heimkvaðningu rússneska hersins.  Jafnvel æðsti varðhundur Kremlar í Minsk, Alexander Lukashenka, hefur sagt, að "við höfum engan metnað til að berjast í Úkraínu".  85 % Hvít-Rússa eru mótfallnir því, að her þeirra gangi til liðs við Rússa í Úkraínu.  Hvít-Rússar hafa í raun komið á fót mannúðaraðstoð í Úkraínu og fyrir úkraínska flóttamenn í Hvíta-Rússlandi. 

Innrásin í Úkraínu 24.02.2022 hleypti lífi í þjóðernishreyfingar minnihlutahópa innan rússneska ríkjasambandsins, en gremjan í garð Moskvuvaldsins eða "Muscovy", eins og margir minnihlutahópar kalla það, hefur verið í áratugagerjun, og sumir mundu segja um aldir í gerjun.  Pútín hefur fundið, að þrýstingi hans til að mynda heimsveldi út frá Rússlandi hefur verið mætt með jafnstórum krafti í hina áttina: metnaði til að stofna til sjálfstæðra ríkja á meðal þeirra ríkja, sem nú eru í ríkjasambandinu. Sundrung rússneska ríkjasambandsins munu verða heimssöguleg tíðindi ekki síður en upplausn Ráðstjórnarríkjanna. 

Síðast þegar Pútín kynnti nýtt herútboð, var stofnuð hreyfingin "Ráð mæðra og eiginkvenna" ("Council of Mothers and Wives").  Ætlunarverkið var samhæfing aðgerða um allt Ríkjasambandið af hálfu aðstandenda hinna herkvöddu, þ.á.m. að þrýsta á yfirvöld að bæta úr skák, svo að menn verði ekki kvaddir ólöglega í herinn eða afhentur bilaður búnaður. 

Það var einmitt samblástur mæðra, sem leiddi til falls zarsins 1917.  Verkakonur í vefnaðariðnaðinum Vyborg-megin í Pétursborg lýstu yfir verkfalli vegna brauðskorts.  Karlarnir sameinuðust þeim og úr varð mikill mannfjöldi á Nevsky, þar sem hrópað var "brauð!" og "niður með zarinn!".  Er leið að kvöldi, voru 100.000 verkamenn komnir í verkfall, og það urðu átök við lögreglu. 

 

Allt og sumt, sem zarinn hafði úr að moða til að fást við fjöldamótmæli, voru ungir varaliðar án reynslu af að fást við múg.  Reynslulausir herkvaddir án búnaðar ... hljómar kunnuglega.  Daginn eftir héldu 150.000 verkamenn út á göturnar.  Það var þessi bylting - kvennabyltingin - sem leiddi til falls hinnar ríkjandi Romanov-ættar og opnaði nýja möguleika fyrir framtíð rússneska ríkisins, sem þá átti í stríði við m.a. Þjóðverja. 

Núverandi kvennahreyfing í Rússlandi krefst m.a. árstímatakmörkun fyrir herkvaðninguna, eða að hernum verði breytt í atvinnuher.  Hreyfingin krefst einnig réttar til þjóðfélagslegra mótmæla og fjöldasamkoma ásamt "þjóðfélagslegu réttlæti og jöfnum réttindum og skyldum þegnanna, einnig til handa herkvöddum." 

Þær eru mjög óánæggðar með fréttir af hermönnum, sem meinað hefur verið að yfirgefa herinn, þótt þeir hafi þjónað allan herskyldutímann.  "Moscow Telegraph", sem hefur næstum 90.000 áskrifendur, safnaði saman nokkrum viðbrögðum ættmenna hinna herkvöddu á samfélagsmiðlum og skrifaði: "Fjölskyldur hinna herkvöddu spá vopnaðri uppreisn".  

"Þeir munu grípa til vopna og gera uppreisn ... maðurinn minn getur ekki lengur liðið þetta", skrifaði einn "Telegram" samfélagsmiðilsnotandi.

Bandalag Rússlands við önnur ríki virðist líka liggja banaleguna.  Kínverski viðskiptabankinn Chouzhou hefur tilkynnt viðskiptavinum sínum í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi, að hann sé að binda endi á öll viðskipti við þá vegna greiðsluvandkvæða af völdum vestræns viðskiptabanns.  Allir kínversku meginbankarnir hafa að sögn eflt fylgni sína við strangara vestrænt viðskiptabann, sem auglýst var í desember 2023.  Flestir kínversku meginbankarnir reka útibú í Bandaríkjunum, sem gerir þá viðkvæma fyrir framfylgd viðskiptabannsins.  Kínverjarnir vita líka, að rússneska hagkerfið er að fjara út; rússnesk rúbla er orðin verðminni en 1 USc.  Hallarekstur ríkissjóðs er að þurrka upp sparnaðarsjóði ríkisins.  Það kemur að greiðsluþroti (ríkisgjaldþroti). 

Fundir Pútíns með aðalritaranum Xi, sem mikið veður var gert af í Rússlandi, leiddu ekki til neins, nema kínverskrar innreiðar í Asíuhéruð Ríkjasambandsins Rússlands, sem áður voru hluti Kínaveldis.  Rússland er að breytast í pólitískan dverg með hegðun sinni í Úkraínu, og nú berast fregnir af því, að Moskvuvaldið hafi boðið NATO upp á friðarsamninga, þar sem megninu af Úkraínu yrði skipt á milli Rússlands, Póllands, Ungverjalands og Rúmeníu.  Veruleikafirringin í Kreml núna er ekki minni en hún var í hinum alræmda "Bunker" í Berlín 1945.    

 

 


Enn af rússneska fræðimanninum Yudin

Yudin kveður djúpstæðan klofning vera í rússneska þjóðfélaginu.  Klofning vantar ekki á Vesturlöndum, en hann er annars eðlis:

"Við erum að tala um land með ótrúlega lítið persónulegt traust á milli manna, óhemju lítinn áhuga á pólitík og sérstaklega á pólitískri þátttöku og litla trú á að geta haft áhrif á pólitíkina.  Stríðið er almennt talið koma að utan og ekkert við því að gera.  Þetta getur ekki skapað verulega einingu.  Það skapar ótta, óvissu og angist."

Hann fullyrðir, að þjóðfélaginu megi skipta í þrennt: 

Fyrsti hópurinn - minnihluti 15 % - 20 % - styðja herinn, og aðeins þeirra skoðanir eru leyfðar opinberlega.  Þeir eru í eldri kantinum; eldra fólk, sem aðhyllist þá heimssýn, sem ráðamenn setja fram.  Jafnstórum hópi fólks býður við þessu stríði og líta á það sem grundvallar mistök, sem leiða muni miklar þjáningar yfir Rússland.  Mikill meirihluti fólks er þarna á milli og er í grundvallar atiðum fús til að sætta sig við það, sem henda kann.

Annar þjóðfélagsklofningur er fólginn í tekjuskiptingunni.  Þetta er ekki aðeins stríð þeirra gömlu, heldur líka stríð hinna ríku Rússa.  Þetta er í raun stríð þeirra, sem ekki eiga á hættu að deyja.  Þeir gömlu vilja alls herjar herútboð, en þeir verða undanþegnir, þeir munu senda börnin sín á vígstöðvarnar.  Hið sama á við um tekjuhópana.  Ríkisbubbarnir verða ekki sendir á vígstöðvarnar.  Þeir munu bara senda fátæklingana.  Þessi mismunun skapar gíðarlega þjóðfélagsspennu.  Óánægjunni er ekki hleypt út vegna stríðsins, en er fyrir hendi og getur brotizt út af minnsta tilefni. 

 

Afleiðing af þessu er, að Rússland er deyjandi heimsveldi. 

Það hefur ekkert áhugavert fram að færa fyrir þau landssvæði, sem það hefur hug á að stjórna.  Hið eina, sem er í boði, er hugmyndin um endurreisn Ráðstjórnarríkjanna, sem eru aðeins hugarórar.  Þar er engin siðmenninggarleg verkefni að finna.  Þess vegna virka yfirráð Rússa mjög fráhrindandi á Úkraínumenn og aðrar þjóðir.  Þess vegna er valdbeitingin eina haldreipi Rússa. 

 

Yudin ræður frá samningaviðræðum við Pútín: stríðið snýst um, að Úkraínumenn vilja varðveita fullveldi Úkaínu.  Hugmyndin um að þvinga Úkraínumenn að samningaborðinu er öfgakennd forsjárhyggja.  Hún felur í sér að samþykkja þá sturluðu hugmynd Pútíns, að Úkraína sé ekki fullvalda ríki; að einhver utan Úkraínu setji skilmálana. 

"Í huga Pútíns snýst þetta stríð ekki um Úkraínu.  Þetta stríð er til að endurreisa heimsveldið.  Heimsveldið felur að sjálfsögðu í sér Varsjárbandalags-löndin, arfleifð Stalíns. Þar eð hann gefur ekkert fyrir hlutleysi, ætlar hann ekki að gera þessi lönd hlutlaus, heldur að færa þau aftur á áhrifasvæði Rússlands, gera þau leppa þess. Þar er Austur-Þýzkaland meðtalið.  Þetta þarf þýzka ríkisstjórnin í Berlín að gaumgæfa vel.  Ef hún hefði gert það af einhverju viti, væru Taurus flaugar nú þegar komnar í hendur úkraínska hersins og ráðgjafar (forritarar) Bundeswehr með þeim.  Það er stórhættulegt að reyna að taka á rússneska birninum með silkihönzkum. Ef Rússum tekst ætlunarverk sitt í Úkraínu, láta þeir ekki staðar numið þar.  Moldóvía er greinilega inni í hernaðaráætlun Rússa. 

Pútín á í vandræðum með það hrokafulla og ofbeldishneigða viðhorf sitt, að Úkraína sé ekki til.  Úkraínumenn geta ekki setzt niður með slíkum stjórnvöldum til samningaviðræðna, en gætu náð árangri með næstu stjórnvöldum Rússlands.  Framtíðarsýn Pútíns er óhjákvæmilegt stríð við Vestrið, við NATO.  Hann lítur ekki á það sem valkvætt, sem það er, auðvitað.  Hugarfarið, sem hann hamrar á í Rússlandi, er, að Rússar lifi í heimi án vals. 

Nú er Rússland að rifna, því að spennan av völdum óvinnandi stíðs eykst. Pútín er að missa tökin á héraðsstjórnum Sambandsríkisins. Fyrrverandi Ráðstjórnarlönd eru andstæð Kreml. Kazakhstan hefur kallað innásina í Úkraínu stríðsaðgerð og sent hjálp til Úkraínu.  Moldóvía hefur sótt um aðild að ESB, eins og Úkraína. 

 

    

 


Rússneski heimspekingurinn og félagsfræðingurinn Grigory Yudin

Nú, seint og um síðir, virðist vera að renna upp ljós fyrir Vestur-Evrópuleiðtogunum, að Evrópu stafar tilvistarhætta af Rússlandi og það verður undir hælinn lagt, hversu gagnlegur hernaðarstuðningur mun berast frá Bandaríkjunum, ef/þegar í harðbakkann slær. Nú bítur Evrópa úr nálinni með að hafa sofið á verðinum frá lokum Kalda stríðsins 1989 og hunzað heri sína.

Frakkar hafa frá forsetatíð Charles de Gaulle, hershöfðingja, þann steininn klappað, að Evrópuþjóðirnar ættu að efla herstyrk sinn, jafnvel undir sameiginlegri herstjórn, en vegna NATO hefur þetta sjónarmið ekki hlotið hljómgrunn fyrr en nú.  Samstaða um að senda evrópskt herlið inn í Úkraínu til að berjast þar við hlið Úkraínumanna hefur þó ekki náðst.  Gjammið í Kreml sem viðbögð við því er þó ekki annað en gelt í grimmum og tannlausum hundi.  Hernaðaryfirburðir NATO gagnvart Rússlandi eru 4-5 faldir á öllum sviðum hernaðar, enda er landsframleiðsla Rússlands ekki meiri en Spánar. 

Rússneski heimsspekingurinn og félagsfræðingurinn Gegory Yudin spáði því, að "stríð Rússlands gegn Úkraínu yrði hörmung (e. disaster) fyrir Rússland á allan mögulegan hátt".  Hann var einn örfárra rússneskra sérfræðinga þeirrar skoðunar í febrúar 2022, að stríð á milli Rússlands og Úkraínu væri óhjákvæmilegt. Í grein, sem birtist 2 dögum fyrir innrásina, spáði Yudin því, að meiriháttar stríð væri yfirvofandi, að Rússar mundu verða ginnkeyptir fyrir ásökunum Kremlar á hendur Vesturveldunum og að viðskiptaþvinganir hefðu engin áhrif á Pútín - allt gekk þetta eftir. 

Hann sagði, að Pútín þyrfti "viðvarandi stríð" til að halda almenningi í skefjum.  Á móti kvað hann breiðfylkingu stríðsandstæðinga mundu myndast í Rússlandi.  Nú er spurning, hvað gerist í kjölfar aftöku aðalstjórnarandstæðingsins Navalny og kosningaskrípaleiks til forsetaembættis. 

 

"Stríðið er nú endalaust.  Með því eru engin náanleg markmið, sem leitt geta til lykta þess.  Það heldur einfaldlega áfram, af því að [í hugarheimi Pútíns] eru þeir óvinir, og þeir ætla að drepa okkur, og við viljum drepa þá.  Fyrir Pútín er þetta tilvistarbarátta við óvin til að eyðileggja hann."

Yudin er prófessor í stjórnmálalegri heimsspeki í Moskvuháskóla fyrir félags- og hagfræði.  Í mótmælum gegn stríðinu var hann barinn og lagður inn á sjúkrahús. 

Hann var líka einn hinna fyrstu til að greina þýðingu uppreisnarinnar gegn Pútín, sem leidd var af foringja Wagner-málaliðanna, Yevgeny Prigozhin. 

Hann benti á, að Prigozhin hafði sakað hernaðarforystu Rússlands um lélega skipulagningu, sem leitt hefði til svika við og fórna á rússneskum hermönnum, og á sama tíma dró hann í efa rökin fyrir stríðinu í Úkaínu. Hann hélt því fram, að allt stríðið væri afleiðing innantóms þjóðernismonts Pútíns, af því að Úkraínuforseti, Volodymyr Zelensky, hefði verið opinn fyrir samningaviðræðum í upphafi. 

Við eitt tækifæri hefði Prigozhin kallað rússnesku forystuna "geðsjúka drullusokka og hálfvita" fyrir að ákveða að "fleygja aftur nokkum þúsundum rússneskra drengja inn í kjöthakkavél til að drepast eins og hundar". 

Vönduð greining Yudins á tilhneigingum og stemningu í rússnesku samfélagi leiðir til einnar ályktunar: æ fleiri Rússum finnst, að landið sé komið í blindgötu. Ennfremur kemst hann að þeirri niðustöðu, að það sé algerlega útilokað fyrir Rússland að vinna. 

Í Úkraínu er engin sýnileg leið til rússnesks sigurs, þótt handbendið Donald Trump nái markmiði sínu, því að Evrópa mun sjá Úkraínu fyrir nauðsynlegum stuðningi, þótt takmarkaður sé.  Pútín spinnur upp sviðsmyndir fyrir óhjákvæmilegan rússneskan sigur: Fyrst átti að nást auðveldur sigur með því að ýta Kænugarðsstjórninni frá völdum, síðan með því að leggja undir sig Donbas, þá með eyðileggingu lífsnauðsynlegra innviða í Úkraínu og valda alvarlegum orkuskorti í Evrópu síðast liðinn vetur, síðan með því að bíða eftir þreytu vestrænna ríkja við stuðning við Úkraínu með vopnasendingum.  Margir Rússar voru fúsir til að leggja trúnað á veruleikafirrtan spuna Pútíns, en fáir geta nú látizt trúa því, að góður endir sé í sjónmáli.  Fremur liggur ósigur í loftinu, og þótt um bannorð sé að ræða í opinberri umræðu, eins og var í Þriðja ríkinu á sinni tíð, skýtur því æ oftar upp í einkasamtölum. Við opinber tækifæri, á meðan á Prigozhin-uppeisninni stóð, ýjaði Pútín þó að möguleikanum á ósigri með því að hefja máls á "rýtingsstungu í bakið". 

Það er eftirtektarvert, að Prigozhin mætti í uppreisn sinni sáralítilli mótspyrnu frá yfirstéttinni, sem þagði að mestu í heilan sólarhring.  Almenningur fagnaði og embættismenn aðhöfðust ekkert, þegar her Prigozhins hélt til Moskvu án teljandi viðnáms rússneska hersins.  Þetta segir þá sögu, að allir séu orðnir hundleiðir á sjúklegum stjórnarháttum Pútíns.      


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband