Hernaður gegn landinu

Á þessu vefsetri hefur því verið haldið fram, að annað stjórni gjörðum núverandi umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, í meginmálum en umhyggja fyrir náttúrunni.  Þar var vísað til einkennandi kennda vinstri-grænna, þ.e.a.s. haturs sameignarsinna á athafnalífinu og einkanlega á erlendum fjárfestum í íslenzku atvinnulífi.  Til að girða fyrir hagvöxt í landinu, sem er eitur í beinum vinstri-grænna, er þvælzt fyrir allri mannvirkjagerð í landinu, sem beinist að nýtingu orkulindanna.

Þessi hraksmánarlega afstaða hefur nú komið á daginn.  Umhverfisráðherra vinstri-grænna er lögzt í hernað gegn landinu.  Vægilegar er vart hægt að taka til orða um þá ætlan hennar að fara í eiturefnaherferð til útrýmingar lúpínu og kerfils í yfir 400 m hæð yfir sjó.  Eiturefnaherferð af þessu tagi á vegum íslenzka ríkisins er óþörf, kostnaðarsöm, stórlega ámælisverð og sennilega dæmd til að mistakast.

Hún jafngildir hættulegri mengun ósnortinnar náttúru, sem á endanum bitnar á íbúum landsins.  Hún er forkastanleg í ljósi þeirra geigvænlegu heilsufarsáhrifa, sem slík eitrun umhverfisins hefur haft erlendis.  Viðhorf umhverfisráðherra vitnar um eindæma þröngsýni og skort á faglegum verkferlum með viðeigandi áhættugreiningum.  Fyrirætlun hennar snýst um óafturkræf náttúruspjöll og sóun skattfjár til að eitra fyrir skattborgarana og aðra.

Hvað hefur prófessor emeritus, Sigmundur Guðbjarnason, um þennan gæfusnauða málatilbúnað ofstækisins að segja ?  Hann ritaði hugvekju í Morgunblaðið, föstudaginn 23.04.2010, undir fyrirsögninni, "Lúpína og skógarkerfill-eyðing með eitri eða aðrir valkostir ?"

"Þegar jurtirnar eru úðaðar með eitri, þá fer eitrið einnig á annan gróður og í jarðveginn.  Þessi eitraði gróður verður nýttur af sauðfé, sem gengur laust á sumrin, og getur eitrið þannig fengið greiða leið í lömbin og fæðukeðju manna.  Eitrið, sem fer á jörðina, hefur einnig áhrif á lífríki moldarinnar og fer jafnframt í grunnvatnið.  ..... Áður en stríðið við illgresið er hafið, stríð sem gæti haft afdrifaríkar afleiðingar, væri heppilegt að kanna, hvort unnt er og hagkvæmt að vinna úr þeim verðmæt efni og gera slíka vinnslu arðbæra og atvinnuskapandi."

Mæli fyrrverandi háskólarektor manna heilastur.  Hinn gifturýri ráðherra viðhefur oft frasann um, að náttúran verði að njóta vafans.  Hér á sá frasi við betur en í annan tíma.  Hún ætlar að ræna komandi kynslóðir þeim möguleika, sem prófessor emeritus nefnir, að nýta þessar tvær harðgerðu og meinhollu jurtir í yfir 400 m hæð yfir sjó til framleiðslu fæðubótarefna og grasalyfja.  Gjörð hennar kann að reynast óafturkræft glappaskot.

Vinstri-grænir hafa hingað til verið þekktastir fyrir hernað sinn gegn fólkinu í landinu. Í ríkisstjórn hafa þeir lagt sig í líma við að reyra landsmenn í skuldafjötra fallins einkabanka, sem vinstri flokkarnir, af alræmdri skammsýni sinni og dómgreindarleysi ráðamanna þar á bæ, töldu nauðsynlegt til að ryðja landinu braut inn í Evrópusambandið, ESB.  Jafnframt hafa vinstri-grænir framfylgt stefnu sinni um hærri skattheimtu af almenningi á vitlausasta tíma, sem hugsazt gat.  Þar með kyrktu þeir efnahagsbata, sem lágt gengi krónunnar annars gat framkallað, juku atvinnuleysið, ollu verðbólguskoti og minnkuðu tekjustofna ríkissjóðs.  Þá hafa vinstri-grænir þvælzt fyrir öllum meiri háttar erlendum fjárfestingum í landinu og þannig girt fyrir átak landsmanna út úr kreppunni með beggja skauta byr góðs hagvaxtar. 

Það, sem hér hefur verið reifað, er ekki hægt að kalla öðru nafni en hernað sameignarsinna gegn fólkinu í landinu, og kemur þá hernaðurinn gegn landinu sjálfu til viðbótar.  Gegn um allar gjörðir vinstri-grænna skín, að fólkið er til fyrir ríkið, og afkoma þess er aukaatriði, ef aðeins hlutdeild ríkisins af þjóðarbúskapnum vex.  Hvert einasta upp talið atriði hér er dýrkeypt, og saman komin mynda þau þjóðhættulega ríkisstjórnarstefnu. 

Gegn þessu munu Sjálfstæðismenn tefla grunngildum sínum, sem meitluð eru í óskráðan sáttmála íslenzka lýðveldisins.  Þessi sáttmáli hefur verið hyrningarsteinn Sjálfstæðisflokksins, sem frá stofndægri sínu 25. maí 1929, er Frjálslyndi flokkurinn og Íhaldsflokkurinn voru sameinaðir undir forystu Jóns Þorlákssonar, landsverkfræðings, hefur verið flokkur allra stétta og flokkur sátta í samfélaginu. 

Í stofnskrá Sjálfstæðisflokksins er því lýst yfir, að hann muni "... vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum." 

Þetta grunnstef Sjálfstæðisflokksins mun nú ganga í endurnýjun lífdaganna.  Þessi gunnfáni flokksins verður hins vegar aðeins borinn fram til sigurs af heiðarleika og ósérplægni.  Í þessu sambandi er vert að hafa í huga eftirfarandi orð fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, Ólafs Thors, sem sannir Sjálfstæðismenn geta gert að sínum:

"Ég lít þannig á, að það sé skylda hvers manns að berjast eftir getu sér og sínum til framdráttar.  En getan verður alltaf að fylgja götu heiðarleikans."

Að mánuði liðnum verða haldnar sveitarstjórnarkosningar í landi hér.  Þá fá kjósendur kost á að skjóta aðvörunarskoti framan baugs stjórnarflokkanna.  Brýnast er nú fyrir íslenzka kjósendur að fá hjól atvinnulífsins til að snúast á nýjan leik.  Núverandi ríkisstjórn hefur sýnt og sannað, að hún hefur til þess hvorki vit né vilja.  Hér mun allt hjakka í sama fari doða og dáðleysis, ef óbreytt stjórnarstefna verður við lýði.  Þar að auki er ljóst, að spilling, tækifærismennska og lýðskrum gegnsýrir stjórnarflokkana.  Samfylkinguna skortir dug til að gera hreint fyrir sínum dyrum, og Vinstri-hreyfingin grænt framboð hefur svikið kjósendur sína í þjóðfrelsismálum.   

 

 Strákurinn og keisarinn     

  

 

 


Rætur vandans

Nú hefur rannsóknarnefnd þingsins skilað af sér lærðri ritgerð um orsakir ófara þjóðfélagsins.  Ferill nefndar þessarar endurspeglar galla, sem hér eru landlægir, þ.e. vanhæfi og takmarkað tímaskyn.  Skilatími nefndarinnar var reyndar bundinn í lög.  Hafi þessum lögum verið breytt, hefur það farið fram hjá mörgum.  Annars fól dráttur á skilum til 12.04.2010 í sér lögbrot.  Þá voru á tímabili áhöld um hæfi eða vanhæfi eins nefndarmannsins vegna þess, sem sumum þóttu vera sleggjudómar í upphafi rannsóknarstarfs.  Einn nefndarmanna gegnir stöðu, sem fer með eins konar yfireftirlitshlutverk ríkisbáknsins.  Hvorki heyrðist hósti né stuna frá þessu embætti varðandi frammistöðu annarra eftirlitsstofnana með fjármálageiranum.  Auðvelt er að vera vitur eftir á.  

Í lögum um Umboðsmann Alþingis segir svo: "Ef umboðsmaður verður þess var, að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum, skal hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn."

Hér skal setja þá kenningu fram, að sökin á Hruninu og því, hvernig komið er málefnum landsins, liggi hjá Alþingi.      Alþingi setur leikreglurnar í þessu þjóðfélagi.  Þess vegna berast böndin að Alþingi og vinnubrögðum þess, þegar reynt er að grafast fyrir um rætur hins þjóðfélagslega skipbrots, sem hér hefur orðið.  Of margar brotalamir eru í lagasetningunni.  Dæmi um þetta eru Baugsmálin svo nefndu.  Dómstólar sáu sér ekki fært að verða við kröfum ákæruvaldsins.  Í ljósi seinni upplýsinga gefa þau málalok til kynna, að löggjöfin sé gölluð.  Seinagangurinn við rannsókn brotamála kann að stafa af lagaflækjum.  Engin hemja er, að ákærur skuli enn ekki hafa verið birtar og að enn starfi meintir sökudólgar í athafnalífinu.  Afsökunarbeiðni án iðrunar er ófullnægjandi.  Dómar verða að ganga, og lögbrjótar að taka út refsingu.

Gríðarlegt flóð reglna rekur á fjörur Alþingis frá Evrópusambandinu, ESB, sem heimtar, að þær séu leiddar í lög í aðildarlöndum Evrópska efnahagssvæðisins, EES.  Fullyrða má, að án aðildarinnar að EES hefði ekkert Hrun orðið.  Ástæðan er innleiðing fjórfrelsisins með EES, en án frjáls flæðis fjármagns hefði útrásin ekki tekið á sig þá sjúklegu mynd, sem raun varð á, og bankarnir hefðu ekki tútnað út í risavaxin skrímsli. Hér skal þó ei mæla með fjármagnshöftum; þvert á móti ber að afnema núverandi höft strax, en girða verður fyrir æxlismyndun, t.d. með því að skilja að starfsemi fjárfestingarbanka og innlánsstofnana.

Alþingi leiddi hér margt í lög að lítt athuguðu máli.  Til að girða fyrir þetta þarf að hægja á lagasetningarflóðinu og vanda betur til verka.  Vegna mikilvægis gæða lagasetningar fyrir landsmenn þarf Alþingi að koma sér upp lagastofnun, sem áhættugreinir fyrirmæli ESB, metur kosti og galla lagafrumvarpa og ráðleggur þinginu mótvægisaðgerðir til að draga úr hættu á slysum og annars konar neikvæðum afleiðingum lagasetningar.  Þá þarf að grisja lagafrumskóginn og hindra, að ný lög brjóti í bága við eldri lög. 

Í raun og veru má segja, að Umboðsmaður Alþingis hefði átt að gegna þessu hlutverki samkvæmt laganna hljóðan um embættið.  Það hefur hann augljóslega enga burði haft til að gera, eins og hrikalegir meinbugir á lagasetningu og starfsemi opinberra stofnana hafa leitt í ljós.  Vera kann, að heppilegra sé, að sérstök lagastofnun Alþingis hafi með höndum ráðgjöf til að bæta gæði lagasetningar, en Umbinn hafi eftirlit með framkvæmdavaldinu. 

AGS Nýlegt dæmi um embættisfærslu fjármálaráðherra hefði átt að framkalla miklu harðari viðbrögð Alþingis, sem hefði átt að draga ráðherrann til ábyrgðar fyrir afglöp í starfi.  Fjármálaráðherra sendi yfirlýsingu til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, sem túlka má sem yfirlýsingu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um það, að Íslendingar ætli að tryggja Bretum og Hollendingum greiðslur EUR 20 887 hvers innlánsreiknings með vöxtum.  Þetta gerir ráðherrann án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu á vettvangi Alþingis, sem er eini aðilinn í landinu, sem skuldbundið getur íslenzka borgara til skattgreiðslna.  Jafnframt lætur ráðherrann eins og þjóðaratkvæðagreiðslan í marz 2010 hafi aldrei átt sér stað.

Hér er um að ræða fádæma valdhroka og valdníðslu að hálfu þessa þöggunarráðherra.  Það er hneyksli, að Alþingi skuli láta þetta viðgangast.  Alþingi verður að taka upp hanzkann fyrir þjóðina, sem tjáð hefur sig greinilega í þessu máli, en ráðherrann hunzar algerlega þann úrskurð.  Fyrir slíkt ber ráðherra að gjalda dýru verði.  Alþingi verður að reka af sér slyðruorðið og láta Umboðsmann Alþingis fara ofan í saumana á þessum gjörningi. 

Alþingi verður að standa betur í ístaðinu en það hefur gert.  Hrunið er hægt að skrifa á gjörðir og aðgerðaleysi þingsins.  Þess vegna er með eindæmum, að enn skuli sitja í ríkisstjórn sama fólk og sat í ríkisstjórn, er Hrunið varð.  Þetta fólk og fleira þar innanborðs er óhæft og ætti að sjá sóma sinn í að taka hatt sinn og staf. 

Stóra spurningin er hins vegar, hvernig hægt er að fá Alþingi til að sýna vígtennurnar.  Sennilega verður það bezt gert með því að gera þingmenn sjálfstæðari gagnvart stjórnmálaflokkunum.  Prófkjör og uppstillingar eru gróðrarstía spillingar.  Hvers vegna mega kjósendur ekki sjálfir velja úr hópi þeirra, sem bjóða vilja sig fram undir merkjum stjórnmálaflokkanna eða sjálfstætt ?  Til að einfalda þetta má hafa blandað kerfi.  Landslista stjórnmálaflokkanna,  og þeir, sem vilja, mættu einnig velja tiltekinn fjölda frambjóðenda úr sínu kjördæmi, þvert á stjórnmálaflokka.

Það verður með öllum ráðum að efla sjálfstæði Alþingis.  Til starfa þingsins verður að gera mjög háar gæðakröfur, því að velferð landsins veltur á störfum Alþingis.   

  

   

 


Vanmáttur, firring og vanræksla

Á síðustu misserum hefur heimsbyggðin upplifað vanmátt nútíma tækni, sem engan óraði fyrir.  Síðla árs 2008 riðaði fjármálakerfi heimsins til falls vegna svo nefndra skuldavafninga, sem voru ein af fjölmörgum fjármálaafurðum, sem reistar voru á viðamiklum tölfræðilíkönum, sem fengið höfðu gæðastimpil háskólasamfélagsins og virtra fjármálastofnana.  Þrátt fyrir, að fjármálaheimurinn og mikill hluti fjármálafræðiheimsins, viðskiptalífsins og obbi stjórnmálamanna virtist trúa því, að hér hefði mannshuganum loksins tekizt að þróa virkilega gullhænu, reyndust staðreyndir vera allt annars eðlis.  Hér óð uppi gegndarlaus loddaraháttur, undirferli og annars konar sviksemi knúin áfram af siðlausri græðgi.  Á Íslandi var unnt að rita 3000 blaðsíður um málefnið, en ágætur Englendingur, sem hér var nýlega í heimsókn, sagði, að fyrirbrigðinu mætti lýsa með tveimur orðum:"Græðgi og heimska".  Þetta er hverju orði sannara. 

Þetta vandamál þarfnast raunverulegrar rótargreiningar, t.d. svo nefndrar "Tap Root Analysis", en það eru engin teikn á lofti um, að beztu þekktu aðferðafræði verði beitt til að skapa nýtt umhverfi fyrir fjármálageirann.  Segja má, að hann hafi hvarvetna komizt upp með svikamillu.  Dæmigert er, að rætur vandans lágu í hálfopinberum húsnæðislánasjóðum í BNA.  Eftirlit og endurskoðun var í skötulíki, þó að ekki hafi nú skort reglufarganið.  Það var sniðgengið, enda vonlaus aðferð.  Allt virðist falt.

Það er þó í raun gjörsamlega ótækt fyrir almenning að búa við þann óstöðugleika og áhættu, sem ríkir.  Ríkisreknum seðlabönkum heimsins hefur einfaldlega tekizt einstaklega illa upp við peningamálastjórnina.  E.t.v. ætti að einkavæða þessa starfsemi, sem peningaprentun er ? 

Það er t.d. ljóst, að tilraunin með evruna hefur mistekizt.  Athygli fjármálaheimsins hefur ekki enn beinst að stærsta vandamálinu, sem er Ítalía.  Ríkisskuldir Ítala nema 115 % af VLF, og er þetta hlutfall næst hæst á evrusvæðinu á eftir því gríska, en hagkerfi Ítala er margfalt stærra.  Ríkisbúskapurinn þar nam 53 % af VLF 2009, spilling er landlæg og ríkisstjórnin leggur ekki í niðurskurð fremur en sú íslenzka.  Ítalska ríkið hefur flotið á því, að skuldir þess eru að mestu fjármagnaðar með innlendum sparnaði. 

Á Íslandi hanga lömuð stjórnvöld yfir engu og munu ekkert gera annað en að safna erlendum skuldum þar til landið kemst á vonarvöl.  Þau verða þess vegna að víkja.  Hagvöxtur er enginn og atvinnuleysið vex enn.  Eymdarástand er bein afleiðing aulaháttar, þröngsýni og fordóma núverandi stjórnvalda.  Vendipunkti hefði nú þegar verið náð, ef manndómur hefði verið fyrir hendi í Stjórnarráðinu.  Því virðist hvorki að heilsa á þingi né á meðal embættismanna.  Sannast þar, að heppilegast er, að frumkvæði athafnalífsins fái að njóta sín.  Frelsi þarf hins vegar að fylgja ábyrgð.  Það merkir, að menn skuli gjalda græðgi sinnar, heimsku, yfirsjóna og annarra mistaka, sem leitt hafa til almannatjóns. 

Nú í viku 15/2010 hafa fáheyrðir atburðir gerzt, sem varpa ljósi á veikleika nútíma tækni.  Nánast allt flug um Evrópu hefur stöðvazt vegna eldgoss á Íslandi.  Þetta hafði engum til hugar komið og er auðvitað óásættanlegt.  Allar samgöngur heillar heimsálfu fara úr skorðum vegna lítils eldgoss, af því að stöðvun flugs teppir allar aðrar samgönguleiðir.  Það er ekki nokkur leið að búa við slíkt ástand, sem sýnir, að hið tæknivædda samfélag stendur á brauðfótum.  Þetta kemur mörgum í opna skjöldu.  Þýðir þetta þá, að afturhvarf til náttúrunnar sé eina leiðin ?  Alls ekki.  Nú þarf að stoppa í götin og ekki að leggja eyrun við endalausum úrtölum afturhaldsafla fátæktarboðskaparins.   

Á Íslandi veldur gosið í Eyjafjallajökli miklum búsifjum.  Verst hefur það bitnað á bændum, búaliði og búsmala í grenndinni, en það kann að eiga eftir að leika aðra tæknivædda innviði þjóðfélagsins grátt.  Í þessu máli verður hins vegar ekki orða bundizt að láta í ljósi aðdáun á björgunarsveitum landsins, og kemur ekki annað til greina en að láta fé úr hendi rakna úr sameiginlegum sjóðum landsmanna, þó að björgulegri mættu vera, til styrktar björgunarsveitunum.  Þá er full ástæða fyrir orðunefnd að gera tillögu til forseta lýðveldisins um að sæma þá menn, sem björguðu Markarfljótsbrú, nokkrum bújörðum og búsmala á dögunum, riddarakrossi hinnar íslenzku Fálkaorðu. 

Það er alveg ljóst af viðbrögðum almennings, sem orðið hefur fyrir barðinu á náttúruhamförunum, að þar fara hinir beztu eðliskostir, sem kenndir hafa verið við Íslendinga frá fornu fari: heiðarleiki, dugnaður, hjálpsemi, þrautseigja og útsjónarsemi.

Að svo mæltu vill höfundur benda á stórkostlegt sjónarspil náttúrunnar, án undanfarandi umhverfismats, á myndasýningu, sem birtist með vefgrein þessari. 

    

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skemmdarverkastarfsemi

Engu er líkara en heilbrigðisráðherra vinstri-grænna leggi læknastéttina íslenzku í einelti.  Síðustu fréttir herma reyndar, að embættismenn undir hennar stjórn muni ekki allir kemba hærurnar í embætti.  

Deilt er harkalega um kjör lækna á Landsspítalanum, þrengt er stórlega að sérfræðilæknum fjárhagslega, læknum er gert ókleift að stofna til einkasjúkrahúsa, t.d. á Miðnesheiði til að flytja inn sjúklinga, og jaðarskattar eru hækkaðir stórlega, sem auðvitað bitnar mjög á læknastéttinni. Þetta er dæmigert fyrir stefnu vinstri-grænna, sem snýst um að "jafna" lífskjör að geðþótta valdsmanna með valdboði, þó að það jafngildi tortímingu samfélagsins, eins og við höfum þekkt það, og fátækt flestra.  Vinstri-grænir viðurkenna ekki, að launamunur knýr þjóðfélagið áfram og einstaklingana til dáða.  Sumir læra aldrei neitt.

Þessar aðfarir gegn læknastéttinni eru ekki tilviljun, heldur, eins og áður segir, bein afleiðing af hugmyndafræði vinstri-grænna um, að enginn skuli fá að njóta sín og alls ekki að njóta ávaxta erfiðis síns. 

Um er að ræða eitthvert mest menntaða fólk þjóðarinnar.  Eitt af beztu einkennum hennar hefur einmitt komið fram í því, að sprottið hafa fram úr hennar ranni margir frábærir læknar, sem starfa ýmist innanlands eða utan.  Sýnir það góðan efnivið í þjóðinni, hversu margir synir hennar og dætur hafa staðizt hina mestu áraun, sem erfiðasta háskólanám er. 

Stefna núverandi stjórnvalda hrekur læknana unnvörpum úr landi, sem er þjóðinni hræðileg blóðtaka, og veldur því einnig, að færri sækja sér nám í læknisfræði.  Þetta endar þá með félagshyggjufeigð, sem lýsa má sem "dönsku veikinni", þar sem skurðlæknar koma flestir frá Indlandi, því að dönsk ungmenni sjá sér engan hag í að leggja fyrir sig háskólanám.  Þeim er refsað með háum jaðarsköttum þannig, að lífslaun þeirra verða lægri en félaga þeirra, sem leggja fyrir sig mun styttra nám.  

Viljum við þessa þróun mála á Íslandi ?  Það mundi þýða algera sóun hæfileika. Nei, hvorki þessa né aðra flónsku vinstri-grænna viljum við hafa í þessu landi, og ofan af henni skal verða undið, þó að seinna verði.  Við viljum með engu móti elda grátt silfur út af kjaramálum við læknastéttina.  Til þess er hún þjóðinni of dýrmæt, og hún þekkir líka sinn vitjunartíma.   Læknar eiga að hafa svo góð kjör, að þeir geti unað glaðir við sitt hérlendis. 

Hins vegar er ljóst, að draga þarf úr kostnaði hins opinbera vegna heilbrigðisgeirans.  Lausnir í þá veru eru ekki fólgnar í stórhættulegum inngripum stjórnmálamanna í starfsemi sjúkrahúsanna, heldur felast lausnirnar í að færa umtalsverðan hluta þjónustunnar, e.t.v. fjórðung, til einkaframtaksins í heilbrigðisgeiranum.  Sjálfseignarstofnanir, einkaframtak og opinber rekstur með valfrelsi fyrir fólkið og samanburð á milli rekstrareininga og rekstrarforma er það, sem koma skal.  

Athygliverðar eru í þessu sambandi tölur frá Bandaríkjunum (BNA) og Sviss.  Í BNA fara 17 % af VLF til heilbrigðisþjónustu.  Aðeins 12 % þeirra útgjalda koma beint úr vasa notendaÍ Sviss fara 11 % af VLF til heilbrigðismála, en þar af koma 31 % beint úr vasa notenda.  Með því að mynda markað fyrir heilbrigðisþjónustu, eykst kostnaðarvitund seljenda og kaupenda og samkeppni myndast, sem lækkar kostnaðinn. 

Það má jafna áhrifin á afkomu sjúklinganna með ýmsu móti, t.d. með því að hafa lækniskostnað frádráttarbæran til skatts og með aðkomu lífeyrissjóða og/eða sveitarsjóða, þar sem tekjur sjúklinga eru undir skattleysismörkum.  Fyrst er að skapa fjölbreytileg rekstrarform og fjölbreytilega þjónustu, sem stendur jafnfætis, hafi hún hlotið (fjölþjóðlega) viðurkenningu.  Hér er átt við margháttaðar lækningaaðferðir, smáskammtalækningar, grasalækningar, nálastungur o.fl. ásamt skólalæknisfræðinni.  Leyfum þúsund blómum að blómstra.  

Fimmvörðuháls gosNú hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um að veita Landsvirkjun heimild til að virkja Neðri-Þjórsá.  Þá bregður svo við, að umhverfisráðherra umhverfist, hrín hún sem stungin gylta og hefur upp sinn hefðbundna öfugmælakveðskap.  Eru flutningsmanni frumvarpsins jafnvel á brýn borin ólýðræðisleg vinnubrögð.  Hvað er lýðræðislegra í þessu landi en þingmenn láti reyna á vilja meirihluta Alþingis ?  Allir, sem vita vilja, vita, að nú væri virkjanaundirbúningur hafinn, ef afturhaldið lægi ekki á fleti fyrir í ríkisstjórn, þvældist þar fyrir atvinnuuppbyggingu og léki í því augnamiði alla þá tafaleiki, sem því dettur í hug.  Ekki þorir afturhaldið samt að koma til dyranna, eins og það er klætt, með stefnuyfirlýsingu um, að ekkert verði virkjað og ekkert framkvæmt, nema í nafni ríkisins.  Þannig horfa málin samt við. Nú verður sótt að afturhaldinu, og þess vegna heyrast nú skessudrunur úr umhverfishellinum.  Hvernig, sem sú atlaga fer, er alveg öruggt, að þursa þá og skessur, er nú, illu heilli, véla um landsmálin, fyrir slysni, mun fyrr eða síðar daga uppi, og í kjölfarið mun viðreisnin hefjast af krafti, og þá verða engin vettlingatök viðhöfð.   

Í dymbilvikunni reit Svavar nokkur Gestsson, sem titlar sig fyrrverandi heilbrigðisráðherra, greinarstúf í eitt dagblaðanna.  Þar varð honum tíðrætt um hjarðhegðun.  Þeim, sem ekki reiða vitið í þverpokum, er trúandi til að skynja ekki, hvenær þeir kasta steinum úr glerhúsi.  Enginn man lengur eftir Svavari, heilbrigðisráðherra, en sagan mun geyma nafn téðs Svavars fyrir þá sök, að enginn maður hefur nokkru sinni komið heim frá útlöndum með jafnhraksmánarlegan og þjóðhættulegan samning við útlendinga og téður fyrrverandi heilbrigðisráðherra, enda nennti hann ekki að hanga yfir samningaþófinu að eigin sögn.  Heim kominn ætlaði hann að "manipúlera" þingmenn eða að þvinga þá með haldlitlum og takmörkuðum upplýsingum ásamt hálfsannleik og tímaþvingun til að samþykkja þrælahelsi á íslenzka skattborgara um langa framtíð. 

Glæsilegur árangur, beztu, fáanlegu samningar; þetta voru upphrópanir Steingríms og Svavars yfir þingheim.  Þvílík lágkúra !  Hvers konar hegðun var hér verið að reyna að framkalla hjá þingheimi ?  "Hjarðhegðun".  Þingheimur sá við hjarðsveininum og fjárhirðinum, og nú liggur téður Svavar óbættur hjá garði, en sagan mun dæma hann með miskunnarlausum hætti. 

fimmvörðuháls gos 1


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband