31.8.2012 | 20:37
Að evru fallinni
Beygur er nú í mörgum Evrópumanninum vegna stöðu illa ígrundaðrar tilraunastarfsemi stjórnmálakokka hinnar sameiginlegu myntar. Nú eftir að markaðirnir bera ekki lengur traust til evrunnar, munu evruríkin, jafnvel með aðstoð AGS, ekki hafa neitt bolmagn til að hindra hrun gjaldmiðilsins.
Fjármálakreppan, sem hófst með lausafjárþurrð banka árið 2007, olli miklum eignabruna eftir eignabólumyndun vegna mikillar aukningar peningamagns í umferð, og náði hámarki með gjaldþroti Lehman Brothers 15. september 2008, hefur kostað banka og ríkissjóði óhemju fé. Allt var þetta vegna mjög ógætilegrar peningamálastefnu seðlabanka og lausgirtrar útlánastefnu banka. Fjárfestingarnar skiluðu litlum sem engum arði, eins og nú er að koma á daginn í Kína og mun valda bæði fjármálalegri og stjórnmálalegri kreppu þar. Þeir, sem kasta fé á glæ með ógætilegum fjárfestingum eða gæluverkefnum, hljóta sína refsingu. Sannast bezt þar, að sígandi lukka er bezt.
Það er ekkert borð fyrir báru lengur. Valið stendur á milli peningaprentunar Seðlabanka evrulands, ECB, og þess að láta skeika að sköpuðu. Allur fjárausturinn til að fresta þjóðargjaldþroti Suður-Evrópu ríkjanna er unninn fyrir gýg, og allt er það fé glatað. Þetta er Jens Weidemann, seðlabankastjóra Þýzkalands, ljóst flestum löndum hans. Ítalinn, sem nú stjórnar seðlabanka evrunnar, vill fá að blása í glæðurnar. Mikil barátta stendur yfir innan ECB (seðlabanka evrunnar) og ESB um peningamálin, enda eru Spánn og Ítalía á heljarþröminni.
Mun meira fé mun glatast við gjaldþrotin en nú er búið að verja til björgunaraðgerða, en fallið verður ekki umflúið úr þessu; það verður ekki við neitt ráðið. Bolmagnið hrekkur ekki til. Ýmsir bankar munu þá rúlla á hliðina og aðrir standa tæpt. Eina lausnin út úr skuldakreppu er að binda endi á skuldasöfnun. Þetta á ekki sízt við um ríkissjóðina, hverra forráðamenn verða að læra að sníða sér stakk eftir vexti. Þessi einfalda staðreynd á líka við um íslenzka ríkissjóðinn.
Þjóðirnar, sem í hlut eiga, munu eiga um sárt að binda í 5-10 ár, enda ekki hafa nokkurt lánstraust. Kaupmáttur þeirra og lífskjör munu hrynja, sem hefur slæm áhrif á utanríkisviðskipti margra landa, þ.á.m. Íslands. Íslendingum er betra að fara strax að huga að nýjum mörkuðum í stað Suður-Evrópu, t.d. í Suður-Ameríku og Austur-Evrópu.
Umsagnaraðilar, sem tjáðu sig um verðbréfafallið 9. ágúst 2007, héldu því fram, að markaðurinn mundi rétta sig af á nokkrum vikum. Þeir gáðu ekki að því, að fjármálakerfi heimsins var orðið helsjúkt eftir að Nixon, Bandaríkjaforseti, rauf alla viðmiðun bandaríkjadals við gullfótinn. Eftir það var taumlaust hægt að prenta peninga. Þetta varð í stuttu máli íslenzka fjármálakerfinu að falli árið 2008. Þeir, sem kjósa að koma sökinni á tiltekna íslenzka stjórnmálaflokka, skilja ekki eðli málsins og gera sig seka um loddaralega umgengni við sannleikann og hreinræktað lýðskrum.
Evran hverfur sem mynt, enda hafa engir hag af henni, nema Þjóðverjar. Þeir munu fá sitt þýzka mark aftur, sem verður sterkara en evran og mun þannig halda aftur af útflutningsgetu Þjóðverja. Þeir munu verða fyrir efnahagslegu áfalli við hrun evrunnar, enda munu þeir tapa stórfé. Sunnan Alpa og vestan Rínar verður ekki feitan gölt að flá. Þjóðverjar munu þess vegna snúa sér til austurs, og í Austur-Evrópu verður fjárfest mun meira en annars staðar í Evrópu. Austur-Evrópa verður áreiðanlega mjög samkeppnihæf á þessum áratugi. Þar er talsvert af auðlindum í jörðu, t.d. setlagagasi.
Þeir, sem ekki höfðu látið ginnast til að taka upp evruna, munu sleppa skárst, þegar ósköpin dynja yfir. Þar ber Bretana hæst, en þeir munu standa með pálmann í höndunum með sitt sterlingspund. Þessir atburðir munu styrkja London sem fjármálamiðstöð Evrópu, og Frankfurt mun ekki um sinn bera sitt barr. Brezkir bankar munu að vísu tapa háum upphæðum á óförum Suður-Evrópu, en enska sterlingspundið mun samt styrkjast við brotthvarf evrunnar. Hagkerfi Bretanna er að sumu leyti fallvalt vegna gríðarlegrar skuldsetningar einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera og mikillar hlutdeildar fjármálakerfisins í efnahagskerfi landsins, en að öðru leyti ætti að vera traustur grundvöllur fyrir brezka hagkerfið að verða hið næst stærsta í Evrópu vestan Rússlands; t.d. er aldurssamsetning Breta hagstæð. Bretar munu deila og drottna í Evrópu, eins og þeir gerðu þar til járnkanzlarinn, Otto von Bismarck, sameinaði Þjóðverja með blóði og járni. Í kjölfar sameiningar Þýzkalands 1871 tóku Þjóðverjar mjög að láta að sér kveða í Evrópu, en nú horfir ekki vel fyrir þeim vegna rétt einnar misheppnaðrar tilraunar til sameiningar Evrópu.
Andrúmsloftið í Evrópu verður væntanlega svo eitrað við hrun peningakerfisins í evrulöndunum 17, að starfsgrundvöllur ESB í sinni núverandi mynd verður ekki lengur fyrir hendi. Líklegt er, að sjónarmið Breta um það, hvernig ESB á að starfa, sem og á fleiri sviðum, verði ofan á. ESB mun þess vegna verða skorið niður við trog og breytast í fríverzlunarsvæði.
Líklegt er, að Rússar muni reyna að seilast til meiri áhrifa í Evrópu en verið hefur, einkum á gömlum áhrifasvæðum sínum í Austur-Evrópu. Ekki er víst, að þeim verði kápan úr því klæðinu, nema í Hvíta Rússlandi og í Úkraínu. Þeir hafa reynt sig með orkuvopnið og skrúfað tímabundið fyrir gasflæðið til að knýja fram vilja sinn. Nú eru hins vegar að skipast veður í lofti, og orkumarkaðurinn að breytast úr seljendamarkaði í kaupendamarkað. Svo er setlagagasinu fyrir að þakka, en með því að þróa tækni við vinnslu þess hefur tekizt að auka mjög gasframboð í heiminum, og orkuverð hefur jafnframt lækkað.
Hvaða áhrif mun þessi þróun hafa á hagsmuni Íslands ? Það þarf að efla tengslin við Þýzkaland og Bretland, því að í þessum löndum eru mikilvægir markaðir fyrir Íslendinga á sviði áls, sjávarafurða og ferðamennsku. Jafnframt ber höfuðnauðsyn til að leita nýrra markaða utan Vestur-Evrópu. Álitlegir markaðir munu t.d. myndast í Austur-Evrópu og í Asíu að ógleymdri Suður-Ameríku.
Miklir atburðir eru að öllum líkindum framundan í Evrópu. Hvaða áhrif munu þeir hafa hérlendis, t.d. á stjórnmálin ? Stefna Samfylkingarinnar um, að alfa og omega íslenzkra stjórnmála eigi að verða að tengja Ísland sem nánustum böndum við stórríki Evrópu, bíður skipbrot. Málflutningur formanns viðræðunefndar ríkisstjórnarinnar við stækkunarstjóra ESB er lítilsigldur, þar sem hann útskýrir, að hann burðist við að skapa Íslendingum sem bezta stöðu til að sækja í styrktarsjóði ESB. Það hefur aldrei verið talið eftirsóknarvert í þessu landi að ganga fyrir höfðingjana með bettlistaf í hendi. Samfylkingin hefur enga aðra hugsjón en þennan betlistaf. Samfylkingin mun þess vegna líða undir lok með evrunni og ESB. Farið hefur fé betra. Einsmálsflokkur, sem verður ber að kolröngum boðskap, sem gengur algerlega á skjön við þjóðarhag, er dauðadæmdur. Ljóst er, að flokkurinn er bráðfeigur, þegar liðsuppstilling hans fyrir komandi kosningabaráttu, er skoðuð. Flokkur með slíka forystu er auðveld bráð fálka á flugi.
Hvað verður þá um garminn Ketil skræk, þegar Skugga-Sveinn hrekkur upp af ? Vinstri hreyfingin grænt framboð, ærulaus, enda með allt á hælunum, hefur tengt örlög sín svo rækilega við örlög Samfylkingarinnar í því ólánsstjórnarsamstarfi, sem að nafninu til lafir enn, að henni verður vart margra lífdaga auðið. Ný framboð munu kasta rekunum á hræið.
VG er meðábyrg fyrir þeim undirlægjuhætti, sem verið hefur kennimark ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur gagnvart ESB og fjármálaveldi Evrópu. Þau færðu erlendum vogunarsjóðum bankana á silfurfati.Líklegt er, að Steingrímur Sigfússon innsigli svikaferil sinn í komandi samningaviðræðum um makrílinn. Á ferli þessarar ríkisstjórnar hefur engu verið líkara en hún gangi erinda erlendra afla gegn hagsmunum Íslands. Skeleggasti gagnrýnandi feigðarflans forystu og þingflokks VG, sem allur, utan Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, greiddi atkvæði með því að senda umsókn um inngöngu í ESB til Brüssel, Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, ritaði góða grein í Morgunblaðið 23. ágúst 2012, "Framfylgjum stefnu okkar gegn ESB-aðild í stað orðavaðals":
Yfirstandandi viðræðum við ESB um aðild Íslands að sambandinu verður ekki líkt við annað en leikhús fáránleikans, þar sem aðeins einn stjórnmálaflokkur í landinu, Samfylkingin, stendur að baki málinu og fullljóst, að meirihluti landsmanna er andvígur aðild. Enginn botn fæst í viðræður um "kaup og kjör" í Brüssel á þessu kjörtímabili, enda þurfa menn engar viðræður til að setja sig inn í þann grundvöll, sem ESB hefur byggt á til þessa og er forsenda aðildar."
"Bjarghringurinn, sem litið er til í Berlín og Brüssel felst í yfirtöku ESB á efnahags- og fjármálastjórn aðildarlanda og þannig grundvallarbreytingu í átt að sambandsríki. Hvers konar vitfirring er það við slíkar aðstæður að standa í aðildarviðræðum af Íslands hálfu og aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að ESB ?"
"Nú reynir á Alþingi að koma böndum á þennan skollaleik, og í þeim efnum þarf VG að tala skýrt. Forysta flokks verður að geta horfst í augu við fólkið, sem er ætlað að vera burðarásar í stjórnmálastarfi, að ekki sé talað um að skírskota til trausts manna, þegar kemur að kjörklefanum."
Hér ritar fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins tæpitungulausan texta beint úr grasrót Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Forysta flokksins er rúin trausti. Formaður og varaformaður eru aðhlátursefni, hvort með sínum hætti. Forystan er föst í eigin ósannindavef og getur ekki horfzt í augu við staðreyndir. Hún snýr öllu á haus, enda er hún búin að eyðileggja stjórnmálaflokkinn, sem Hjörleifur Guttormsson og hans líkar hafa stutt með ráðum og dáð hingað til. Svo falla krosstré sem önnur tré.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.8.2012 | 20:45
Samstaða um þjóðþrifamál
Forseta lýðveldisins mæltist að vanda vel í innsetningarræðu sinni 1. ágúst 2012. Þar vakti hann máls á því, að þau, sem hann færði völdin 1. febrúar 2009, hefðu farið illa með völd sín (þó að það væru ekki hans orð), því að um þverbak hefði keyrt í gerræðislegum stjórnarathöfnum, oft í bullandi ágreiningi innan ríkisstjórnar og við stjórnarandstöðuna. Einkennandi fyrir þessa ríkisstjórn vinstri manna er lömun. Engar nýjar hugmyndir um framfaraskref fyrir land og lýð koma fram. Engar hugsjónir eru kynntar til sögunnar um leiðir, er leitt geta til betri afkomu. Óvíst er, að ríkisstjórnin óski almenningi bættrar afkomu, því að öfl innan stjórnarflokkanna telja hagvöxt vera hættulegan, og "náttúran verði að njóta vafans", enda geta nú sumir einvörðungu hrósað happi yfir að hafa náttúru (enn).
Þetta eru eins ógæfulegir stjórnarhættir og hugsazt getur ekki sízt á tímum sem þessum, þegar þjóðin á við mjög mikla efnahagserfiðleika að etja. Sumpart markast þessi hegðun af inngrónu forræðishugarfari stjórnarinnar, sem minnir að sumu leyti á einræðissinnaða stjórnmálamenn sameignarsinna eftir valdarán í Austur-Evrópu og að öðru leyti á einvalda síðmiðalda, sem hafðir eru eftir frasar á borð við:"vér einir vitum". Össur talar að vísu oftast um utanríkisráðherrann í 3. persónu, eintölu, þegar 1. persóna eintölu eða jafnvel fleirtölu er auðskiljanlegri.
Það hefur verið sagt um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, að geti hún efnt til illdeilna um málefni, sem efst eru á baugi hverju sinni, þá láti hún einskis ófreistað að gera það fremur en að leita að sáttagrundvelli. Þetta kann líka að vera vegna skapgerðargalla ráðherranna og eðlislægrar ófélagslegrar hegðunar ofstækisfólks. Dæmin eru mýmörg og nægir að nefna Icesave, Stjórnarskráarmálið, auðlindanýtingu s.s. fiskveiðistjórnunarkerfið og Rammaáætlun um verndun og nýtingu orkulinda. Jafnvel kattavinurinn og ljóðskáldið Huang Nubo, fjárfestir, lendir í eldlínunni, skotlínu á milli ráðherra, sem kýta eins og börn í sandkassa. Þetta eru algerlega úreltir og óboðlegir stjórnarhættir, sem varpa ljósi á þroskastig hrossataðskögglanna, sem ofan á fljóta í spillingunni og vinstra gaufinu.
Ný ríkisstjórn, sem væntanlega verður skipuð borgaralega þenkjandi fólki af miðju stjórnmálanna, verður að taka upp nútímalegri stjórnarhætti; leggja spilin á borðið, segja þjóðinni sannleikann og vinna hana á sitt band í hverju málinu á fætur öðru með vísun til langtíma hagsmuna heildarinnar. Ný ríkisstjórn ætti eðli málsins samkvæmt auðveldara með þetta en núverandi stjórnvöld, sem skipuð er útúrborulegum sérvitringum og á útjaðri stjórnmálanna með skoðanir og markmið, sem almenningi hugnast illa eftir að hafa kynnzt útfærslu þeirra í tæp 4 ár, enda á þetta fólk sér hvergi skoðanabræður og -systur í ríkisstjórn í Evrópu nú um stundir. Tíminn hljóp frá þessu fólki við fall Berlínarmúrsins 1989.
Ný ríkisstjórn á ekki að hika við að leggja stórmál í dóm þjóðarinnar í stað þess að láta ofstækisfullan minnihluta á Alþingi egna endalaust til ófriðar "í nafni þjóðarinnar" og jafnvel að taka þjóðþrifamál í gíslingu. Í stað tímasóandi þrefs á að láta þjóðina höggva á hnútinn. Fiskveiðistjórnunarmálið og Rammaáætlun eru dæmi um þetta.
Þar með mundi ný ríkisstjórn svara kalli forseta lýðveldisins um aukið beint lýðræði og minni átakastjórnmál, því að úrskurður þjóðarinnar er endanlegur. Það er auðvelt að leggja skýra valkosti um stjórnun fiskveiða og nýtingu orkulinda fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu.
Um mánaðamótin júlí-ágúst 2012 mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins um 37 % í mánaðarlegri skoðanakönnun. Mörgum þykir þetta of lágt á þessum tímapunkti og skal taka undir það. Hnjóðað er að því tilefni í forystu flokksins og ýmislegt tínt til. Hún þykir t.d. deig í baráttunni. Þá er þess að minnast, að þing stóð fram í júní 2012, og þá tók við kosningabarátta forsetaefnanna. Óeðlilegt hefði verið að draga athygli frá henni. Með sumarleyfi flestra að baki myndast nú svigrúm. Hvers vegna efna formenn og varaformenn borgaralegu stjórnmálaflokkanna ekki til fundaherferðar um landið saman og bjóða landsmönnum upp á raunhæfan og lokkandi valkost við illindapúkana, sem nú sitja á fjósbitum Stjórnarráðsins ?
Forystu Sjálfstæðisflokksins er brigzlað um svik í Icesave-málinu og bornar á brýn fyrirætlanir um að svíkja Ísland inn í ESB. Á fundum með forystunni gæfist almenningi kostur á að þýfga hana um Icesave-málið, og henni gæfist þá tækifæri til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Varðandi ESB-málið er auðvitað fordæmi um hrikaleg svik flokksforystu VG í stórmáli, en að ætla forystu Sjálfstæðisflokksins svik í því máli verður að telja til vænisýki. Með tilraun til slíks mundi hún fremja stjórnmálalega kviðristu á sjálfri sér, Landsfundur flokksins yrði umsvifalaust kallaður saman og forystan sett af.
Sá er munurinn á forystu Sjálfstæðisflokksins og núverandi forystu stjórnarflokkanna, að hin fyrr nefnda tekur rökum, lærir og dregur rökréttar ályktanir af breytingum í umhverfinu. Hafi einhverjir í forystu Sjálfstæðisflokksins einhvern tímann verið hallir undir inngöngu í ESB og upptöku evru, skal höfundur þessa pistils éta hattinn sinn upp á það, að svo er ekki lengur. Í Sjálfstæðisflokkinum er fyrir hendi þjóðmálaafl til róttækra þjóðfélagsbreytinga, hvað sem hælbítum aftan úr grárri forneskju líður.
Stuðningsmenn stjórnmálaflokka ganga ekki að því gruflandi, að þeir verði misánægðir með frammistöðu og verk fulltrúa flokksins. Enginn getur ætlazt til að vera alltaf hæstánægður. Menn sameinast um grundvallarstefnu, og flokksmenn verða síðan að sýna hver öðrum nægt umburðarlyndi til að geta starfað saman. Hið sama á við í öllum fyrirtækjum og félögum. Í Sjálfstæðisflokkinum sameinast fólk undir merkjum einstaklingsfrelsis, einkaframtaks og jafnra tækifæra. Gjör rétt, þol ei órétt.
Af þessu leiðir ósk um lágmörkun opinberra afskipta og skattheimtu. Afleiðingin af slíku verður öflug uppbygging athafnalífsins með fullri atvinnu fyrir allar vinnufúsar hendur.
Frelsi fylgir ábyrgð og þar af leiðandi setja sjálfstæðismenn ráðdeild og sparnað í öndvegi. Skuldasöfnun núverandi ríkisstjórnar er eitur í beinum sjálfstæðismanna, enda er hún siðlaus og í raun tilræði við afkomu barna okkar og barnabarna. Hún er í andstöðu við stefnumiðið um jöfn tækifæri öllum til handa, af því að með þessari óráðsíu í skuldsetningu ríkisins er verið að dæma afkomendur okkar til fátæktar. Þessari ósvinnu verður að linna, en henni linnir ekki, nema kjósendur refsi núverandi stjórnarflokkum grimmilega, sem góðar vonir standa til.
Til að brjóta stöðnun hagkerfisins á bak aftur þarf kerfisbreytingar við stjórn peningamála og ríkisfjármála og miklar fjárfestingar, u.þ.b. 20 % af VLF, innlendar sem erlendar. Þessar breytingar á þjóðfélaginu til frelsis og framfara munu leiða af sér sjálfbæran hagvöxt grundvallaðan á framleiðslu útflutningsverðmæta í stað þess, að landsmönnum sé vísað til Noregs í atvinnuleit, hent út af atvinnuleysisskrá vegna langtíma atvinnuleysis eða bent á að taka út séreignarlífeyrissparnað langt um aldur fram. Vinstri stefna er alltaf ósjálfbær, því að hún fær fólk til að éta útsæðið í stað þess að sá, hlúa að uppskerunni og nýta hana til virðisaukningar. Þetta er sagan um Litlu gulu hænuna. Kanski má finna stefnumörkun Sjálfstæðisflokksins í þeirri ágætu dæmisögu.
Það getur aldrei orðið friður um fátækt á Íslandi. Þess vegna getur ekki orðið friður um furðulega ófaglega tilraunastarfsemi með grundvallaratvinnuveginn, sjávarútveginn. Þess vegna getur ekki orðið friður um afbakaða Rammaáætlun með ofxaxinni verndun og óþörfum biðflokki. Það getur heldur ekki orðið friður um gæluverkefni í forgangsröð á undan styrkingu innviða í menntun og lækningum. Það er hægt að ná miklu betri árangri við stjórnarskráarbreytingar með mun ódýrari hætti en núverandi ríkisstjórn leggur upp með. Það er hægt að spara stórfé með endurskoðun bótakerfis og með breytingum á utanríkisþjónustunni. Sjálfstæðismenn munu leiða samskiptin við ESB í farsælan farveg án illinda og sárinda, þar sem báðir aðilar geta gengið hnarreistir frá borði eftir að íslenzka þjóðin hefur sjálf tekið af skarið í þessu endemis vandræðamáli, sem hefur leitt í ljós, að Samfylkingin er ekki í húsum hæf. Aðeins Sjálfstæðisflokkinum er treystandi til stórræðanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2012 | 14:33
Hvað er róttækni ?
Eftir að hinn vitiborni maður (homo sapiens) tók sér fasta bólfestu og hóf að yrkja jörðina í stað þess að vera á faraldsfæti í leit að veiðibráð, leið ekki á löngu, unz klíkur mynduðust og hrifsuðu til sín völdin í samfélögunum. Kaupin gerðust þannig á eyrinni í 8000 ár þar til borgarastríðinu á Englandi lyktaði með sigri Cromwells og þingsins um 1662 og bylting varð í Frakklandi 1789.
Áður hafði aðallinn ráðið lögum og lofum í Evrópu, og honum tókst reyndar lengi vel að klóra í bakkann eftir téðar byltingar. Á Íslandi réðu landeigendur lögum og lofum. Höfðingjar, kirkjan og kóngurinn, áttu nærri allar jarðir á Íslandi, en ábúendur voru leiguliðar. Lýðurinn var skattpíndur og haldið í átthagafjötrum og í fjötrum fáfræði. Hann var nánast réttlaus, en landeigendurnir réðu ráðum sínum á Alþingi og settu þar lög til að tryggja valdastöðu sína. Þetta var framhald á goðakerfi sögualdar. Bjó almenningur á Íslandi við verstu kúgun og réttindaleysi, sem jaðrar við þrælahald, allt fram á 20. öld.
Síðan er mikið vatn til sjávar runnið, og valdið hefur að forminu til færzt til almennings, en því fer þó fjarri, að stjórnað sé með hagsmuni hans fyrir augum. Um þverbak hefur keyrt undir valdstjórn svo kallaðra vinstri flokka, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, enda forræðishyggjan þeim runnin í merg og bein. Þarna situr í raun lítil, þröngsýn og fáfróð klíka á valdastólunum, sem á enga samleið með almenningi í lífsbaráttu hans.
Aldrei hafa hagsmunir almennings verið jafnheiftarlega fyrir borð bornir og í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Nægir þar að nefna Icesave og starfaeyðandi stefnu ríkisstjórnarinnar í garð athafnalífsins, sem ber hagsmuni hins vinnandi manns gjörsamlega fyrir borð. Það var kominn tími til þess, að almenningur sæi svart á hvítu, hverjir fórna hagsmunum hans purkunarlaust á altari Evrópustefnu og sérvizku um málefni ríkisbúskapar og náttúruverndar. Nú hefur afturhaldið kastað grímunni. Segja má, að miðaldasvartnætti sé við lýði hjá valdstjórninni og almenningur sé leiksoppur tilraunastarfsemi um andvana félagshyggju í ríkisbúskapi og atvinnumálum. Þetta sama lið vinnur síðan að því að flytja úrslitavald um málefni lands og þjóðar til nýs stórríkis í Evrópu, sem þegar er á fallanda fæti. "Ekkert er nýtt undir sólunni."
Umbætur á Stjórnarskrá þurfa að hafa að meginmarkmiði að færa enn meiri völd til almennings, t.d. með því að færa almenningi rétt til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál, sem á döfinni eru. Almenningur ætti og að fá rétt til að setja forseta lýðveldisins og ríkisstjórn af með því að krefjast nýrra forsetakosninga og Alþingiskosninga.
Verkalýðsflokkarnir, svo kölluðu, ráku upphaf sitt til kenninga Karls Marx og Friedrichs Engels og til rússnesku byltingarinnar og byltingarforingjans, Vladimirs Lenins. Það kom hins vegar strax í ljós árið 1917, að byltingin át börnin sín. Stjórnkerfi kommúnismans byggir upp nýja, gjörspillta valdaklíku. Hér var um að ræða rétt eina valdaklíkuna gegn hagsmunum almennings, en þessi var reist á lygum, hræsni og loddarahætti. Valdaklíkan var með hagsmuni öreiganna á vörunum, en stjórnarhættirnir voru algerlega ólýðræðislegir og leiddu ekki til kjarabóta almennings. Þvert á móti var skapað hagkerfi fátæktar. Almenningi var beitt fyrir vagn einræðisins. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er af þessum meiði, þó að hún geri sig ekki seka um blóðsúthellingar. Ef sama fólk fær völdin að afloknum næstu Alþingiskosningum, verður hagkerfi landsins lagt í rúst.
Vægari útgáfa alræðis öreiganna var mótuð, þegar hryllingur stjórnarhátta Jósefs Stalíns varð ljós. Þá var svo kölluð jafnaðarstefna mótuð. Hugmyndafræðin um, að stjórnmálaflokkur verkalýðsstéttarinnar ætti að móta samfélagsgerðina með ríkisafskiptum á öllum sviðum þjóðfélagsins og hárri skattheimtu af borgarastéttinni, hefur algerlega gengið sér húðar. Þetta var "kratisminn" eða "socialdemocracy". Hann lenti í blindgötu stöðnunar hagkerfisins og ægilegri skuldabyrði almennings, sveitarfélaga og ríkissjóðs. Þetta er kjarninn í vandamálum Evrópu þessi misserin, og þessi lýsing á vissulega við um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Evran hefur magnað vandamál Evrópu, en hún er ekki orsök vandans. Rætur vandans liggja í stjórnkerfi Evrópu, sem leitt hefur til gríðarlegrar skuldsetningar ríkja, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga.
Við þjóðargjaldþroti lá í Svíþjóð áður en borgaralegu flokkarnir komust til valda 2006 og sneru af ógæfubrautinni. Þetta er í raun og veru vandi langflestra Evrópuríkjanna nú um stundir, þó að evrunni sé um kennt, ekki alveg þó að ósekju. Hún hefur flýtt fyrir því, að þjóðirnar kæmust fram á bjargbrúnina. Evrópsk þjóðfélög eru flest mjög ósveigjanleg og niður njörvuð í reglugerðafargan og frelsissviptingu athafnalífsins í anda jafnaðarmanna, sem leitt hefur til gríðarlega hás launakostnaðar og geigvænlegs atvinnuleysis. Þjóðirnar eru af þessum sökum ekki lengur samkeppnihæfar, nema Þjóðverjar, sem tóku sér taki eftir hagbóluna, sem varð í kjölfar endursameiningar Þýzkalands og óhemjulegra fjárfestinga í Austur-Þýzkalandi (mia EUR 2000). Þeir tröllríða nú hagkerfum hinna evrulandanna, sem mega sín einskis, og munu senn neita þeim um frekari fjárhagsstuðning, enda hafa þeir ekki lengur efni á honum. Hallinn á ríkisbúskap Þýzkalands er árið 2012 EUR 35 milljarðar (mia EUR 35), og stefnir í, að þeir taki á sig skuldbindingar að upphæð mia EUR 300. Stjórnlagadómstóll Þýzkalands mun í septembar 2012 kveða upp úr um, hvort slíkt samrýmist stjórnarskrá Sambandslýðveldisins. Af þessum sökum fer lánshæfismat þýzka ríkisins lækkandi. Vonandi rís fuglinn Fönix upp úr öskuhrúgu hagkerfa Evrópu og svífur um án ægivalds sérhagsmunanna, en í byr raunverulegs frelsis og valds almennings. Það getur þó aðeins orðið við valddreifingu og án miðstýringar frá Brüssel eða Berlín.
Stjórnmál samtímans ættu að snúast um að finna fyrirkomulag, sem hámarkar lífsgæði almennings. Slíkt fyrirkomulag er órjúfanlega tengt stjórnkerfisumbótum, sem færir almenningi völd til að stöðva "elítuna", þegar "hugsjónir" hennar leiða hana á villigötur stórveldisóra eða annarra óra, sem ganga þvert gegn hagsmunum og óskum almennings í bráð og lengd. Auka ber verðmætasköpun með sjálfbærum hætti með því að nýta beztu fáanlegu tækni og dreifa auðnum til þeirra, sem skapa hann, án milligöngu opinberra aðila. Þannig verður hagsmunum afkomenda okkar bezt borgið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2012 | 10:35
Orkuverð hér og þar
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að stjórn og forstjóri Landsvirkjunar hafa mótað aðra stefnu um verðlagningu raforku en fyrrverandi stjórn og forstjóri, Friðrik Sophusson. Skammt er frá því að segja, að nýja stefnan hefur reynzt hið mesta óráð, enda er hún reist á röngum forsendum.
Hin fyrri ranga forsenda er, að íslenzk orka sé að keppa við evrópska orku um viðskiptavini, og þess vegna beri verðlagningunni að draga dám af verðlagningu raforku í Evrópu. Þetta er kolröng forsenda, eins og bezt sést á því, að undanfarin tvö ár hefur áliðnaður á meginlandi Evrópu dregið saman seglin um fjórðung. Ástæðan er orkuskortur í Evrópu, m.a. vegna lokunar kjarnorkuvera, og ótti fjárfesta við kolefnisskatt. Nú hefur framkvæmdastjórn ESB hins vegar lýst því yfir, að til að varna "kolefnisleka" til annarra landa, sem ekki ætla að leggja kolefnisskatt á, muni hún veita tímabundna undanþágu frá kolefnisskatti til samkeppniiðnaðar. Þetta mun þó hvorki nægja til að draga að nýja starfsemi á sviði orkukræfs iðnaðar né auka við þá, sem fyrir er, því að raforkuseljendur í Evrópu eru ófúsir að gera langtímasamninga um orkusölu vegna óvissunnar í Evrópu.
Vestur-evrópsk orkufyrirtæki gerðu þau mistök fyrir nokkrum árum að gera samning til 20 ára um kaup á gasi frá Gazprom í Rússlandi á verði, sem er fimmfalt núverandi gasverð í Bandaríkjunum, BNA. Reyna kaupendurnir nú að fá þessum samningum hnekkt. Rússneski björninn vill hins vegar tengja gasverð við heimsmarkaðsverð á olíu. Nú eru hins vegar að þróast sjálfstæðir gasmarkaðir, sem munu knýja orkuverð niður á við. Af þessu sést, að orkumarkaðurinn á Íslandi á fátt sameiginlegt með evrópska markaðinum og augljóst, að þessir tveir markaðir þróast eftir ólíkum leiðum, enda birgjar og viðskiptavinir gjörólíkir.
Hin ranga forsendan er, að raforkuverð í heiminum sé á uppleið, og þess vegna sé réttlætanlegt að hækka á einu bretti heildsöluverð um þriðjung. Þessi skoðun Landsvirkjunarforystunnar er annaðhvort reist á mikilli vanþekkingu eða kolröngum ályktunum af tiltækum staðreyndum, því að þessu er þveröfugt farið, eins og rakið var í greininni, "Don Kíkóti tengir vindmyllur með sæstreng", hér á vefsetrinu og tíundað verður enn frekar í þessum pistli. Verðlagningarstefnu Landsvirkjunar verður að gjörbreyta hið fyrsta. Annars missa Íslendingar af mikilvægum erlendum fjárfestingum og iðnaðartækifærum. Sæstrengsóra má skrínleggja strax, því að raforkuverð í Evrópu hefur þegar náð hæstu hæðum og mun fara lækkandi að raunvirði.
Ástæðan fyrir verðlækkun raforku í heiminum, sem hafa mun sín áhrif í Evrópu, er gríðarleg aukning framboðs á eldsneytisgasi, bæði venjulegu jarðgasi og s.k. setlagagasi (shale gas). Áætlað er, að gasbirgðir heimsins muni endast í 200 ár þrátt fyrir, að það muni líklega standa undir 35 %-50 % af frumorkunotkun heimsins um 2050, sem jafngildir um tvöföldun hlutdeildar m.v. nútímann. Þar er orkubylting á ferðinni.
Verðið á gasi hefur vegna mikils framboðs fallið á frjálsum mörkuðum, en þar sem gasverð er enn tengt olíuverði, eins og í Evrópu, þar sem Gazprom neitar að lækka verðið, hefur verðið lækkað mun minna. Gasverðið og þar með raforkuverðið í Evrópu mun þó án vafa lækka enn meira á næstu árum að raunvirði. Landsvirkjun er þar af leiðandi á kolröngu róli með sína gríðarlegu orkuverðshækkun nýrra langtímaorkusamninga. Af þessum ástæðum hefur Landsvirkjun orðið af hagstæðum langtímasamningum. Þetta þýðir, að Landsvirkjun verður að taka upp hefðbundna verðlagningarstefnu, sem reist er á jaðarkostnaði í kerfinu í stað einhvers konar spákaupmennsku. Þá er virkjunum stillt upp í hagkvæmniröð og t.d. meðaltal kostnaðar 5 næstu virkjana lagt til grundvallar verðlagningu. Komandi Alþingiskosningar munu vonandi valda straumhvörfum á þessu sviði sem mörgum öðrum.
Hlutdeild gass á kostnað kola við raforkuvinnslu hefur stóraukizt í Bandaríkjunum og er nú komin í 25 % og gæti verið komin yfir 50 % árið 2030 vegna verðþróunar og helmingi minni koltvíildislosunar per kWh en í kolakyntum orkuverum. Bandaríkjamönnum hefur þannig tekizt að minnka koltvíildislosun sína um 800 milljónir tonna af CO2 án skuldbindinga á meðan þessi losun hefur vaxið í ESB þrátt fyrir orðagjálfur stjórnmálamanna og tuð búrókrata, skuldbindingar Kyoto og 20/20 markmiðin og tilskipanir kommissara í Brüssel um hið mótsetta.
Evrópa er furðusein á sér að taka við sér í nýtingu setlagagass. Draugasögur eru þar á kreiki um eld, sem standi út úr krönum fólks í heimahúsum vegna blöndunar gass við drykkjarvatnsforða. Tækniþróun við vinnslu setlagagassins er ör, og umhverfisáhætta við vinnsluna er lítil, en ávinningur andrúmslofts og buddu almennings ótvíræður. Þjóðverjar hafa mótað aðra stefnu í orkumálum. Þeir ætla að auka gríðarlega hlutdeild sjálfbærra orkugjafa í orkuvinnslu sinni, þ.e. vinds, sólar og lífmassa, og verða 50 % af frumorkunotkun þeirra árið 2040. Gasbyltingin fellur ekki að þessum áætlunum, en iðnaði Þýzkalands lízt ekki á blikuna vegna mun hærra orkuverðs og minni áreiðanleika í orkuafhendingu.
Sýnir þetta dæmi með skýrum hætti muninn á því, hvernig frjáls markaður og haftamarkaður vinnur, t.d. á sviði mengunarvarna. Stjórnmálamönnum verður ekkert ágengt, ef þeir eru úr tengslum við athafnalífið. Það, sem bandarískir stjórnmálamenn gerðu, var að veita vinnsluleyfi fyrir setlagagasið, sem sumir evrópskir stjórnmálamenn hafa bannað. Þar með tryggðu Bandaríkjamenn mikið framboð af gasi, einnig í þjóðaröryggislegu augnamiði, og markaðurinn hefur síðan unnið sitt starf neytendum í hag og umhverfinu til góðs.
Undanfarinn áratug hefur orðið bylting í olíu-og gasvinnslu heimsins. Þessi tæknibylting er að breyta eldsneytismarkaðinum úr seljendamarkaði í kaupendamarkað. Tvennt kemur hér til:
- Bortækni hefur fleygt fram. Nú er hægt að bora á ská og lárétt. Samhliða hefur mælitækni tekið framförum. Geislavirknimælingar gefa til kynna, hvar er berg og hvar er sandur eða setlög. Leiðnimælingar gefa til kynna, hvort í sandinum eða setlögunum er að finna eldsneyti. Lág leiðni gefur til kynna olíu eða gas. Þannig er unnt frá einum borpalli að beina borkrónunni á líklegar lindir. Iðulega er borað 2-3 km lóðrétt og síðan allt að 12 km á ská eða lárétt. Gefur auga leið, hversu mjög boranir verða árangursríkari og ódýrari fyrir vikið, enda hafa fjölmörg fyrirtæki sérhæft sig í þessari nýju bortækni. Fyrirtæki með miaUSD40 í veltu á þessu sviði geta búizt við miaUSD5 í hreinan ágóða.
- Hin byltingin er jarðgasvinnsla úr setlögum. Þá er ofangreindri bortækni beitt og síðan er dælt vatni niður undir miklum þrýstingi. Vatnið sprengir upp setlögin og losar um gas þaðan, sem síðan streymir upp. Þessi aðferð nefnist "fracking" á ensku, sem nefna mætti sundrun á íslenzku. Nokkuð mikið vatn er notað við þetta, en þó minna en á golfvöllum BNA.
Nú eru þekktar gasbirgðir í heiminum 755 Trn m3 samkvæmt "International Energy Agency" og skiptast þannig eftir landsvæðum (Trn m3=trilljón rúmmetrar; 1 Trn=1 þúsund milljarðar):
- Austur Evrópa að Rússlandi meðtöldu: 174 Trn m3 eða 23 %
- Mið-Austurlönd: 137 Trn m3 eða 18 %
- Asía (Kyrrahafsmegin): 132 Trn m3 eða 18 %
- OECD-Norður-Ameríka: 122 Trn m3 eða 16 %
- Afríka: 74 Trn m3 eða 10 %
- Mið-og Suður-Ameríka: 71 Trn m3 eða 9 %
- OECD-Evrópa: 45 Trn m3 eða 6 %
Þessi dreifing gasauðævanna er allt önnur en dreifing olíuauðævanna. Fyrir vikið sér OPEC sína sæng út breidda. Bandaríkin (BNA) eru frumkvöðlar setlagagasvinnslunnar og stefna að því að verða sjálfum sér nóg um eldsneytisþörf innan fárra ára, en Bandaríkjamenn flytja nú inn 17 milljónir tunna af olíu á sólarhring. Þetta mun gjörbreyta valdajafnvæginu í heiminum, og mikilvægi Hormuz-sunds mun stórminnka. Fyrir vikið gæti orðið friðvænlegra í heiminum.
Núna skiptist frumorkuvinnsla heimsins nokkurn veginn þannig: olía, kol og gas hvert með um 26 %, alls 78 %, og fallvötn, kjarnorka, vindur ofl. endurnýjanlegt: um 7 % hvert, alls 22 %. Gasnotkun mun aukast á kostnað olíu og kola, og heildareldsneytisnotkunin mun aukast, þannig að summa eldsneytisorkugjafanna mun fara yfir 80 % árið 2035, en það ár búast Bandaríkjamenn við, að árleg notkun þeirra á gasi nemi 820 miö m3 og sjái BNA fyrir helmingi frumorku sinnar. Þeir eru frumkvöðlar á þessu sviði, svo að um 2050 má vænta helmingshlutdeildar gass í frumorkunotkun heimsins.
Nú er koltvíildislosun út í andrúmsloftið um 30,7 Gt/a, en spáð er, að hún muni vaxa um 20 % til 2035 og nema þá 36,8 Gt/a, þrátt fyrir helmingi minni losun á hverja kWh frá gasbruna en kolabruna. Skýringarinnar er þar að leita, að orkuverðið mun lækka og þar með mun orkunotkun vaxa per mann (og þar að auki verður fólksfjölgun). Afleiðingin verður sú, að aukið gasframboð mun ekki leiða til minni losunar gróðurhúsalofttegunda.
Árið 2035 er hins vegar mjög líklegt, að samrunaorkan verði komin til skjalanna. Einkafyrirtæki í Bandaríkjunum eru komin að þröskuldi í þróun samrunaorku, og það eru yfirgnæfandi líkur á, að innan tveggja áratuga muni takast að ná endanlegri lausn á orku-og gróðurhúsaloftsvanda heimsins. Þá kunna endurnýjanlegar orkulindir og tiltölulega mengunarlausar að lækka í verði. Grípa verður gæsina á meðan hún gefst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.8.2012 | 21:02
Tekizt á um Evrópu
Nokkrum sinnum hafa geisað heiftúðlegir bardagar um yfirráðin í Evrópu. Nú fara fram harðvítug átök á bak við luktar dyr í Brüssel, Berlín, París, Róm og Madrid. Þetta má ráða af yfirlýsingum, sem frá þessum stöðum berast bæði fyrir og eftir fundi leiðtoga stærstu ríkjanna, evruríkjanna og ESB-ríkjanna. Síðasta lota átakanna hófst árið 2010, er skuldavandi evruríkjanna tók að ógna evrunni. Þá óttuðust menn, að gjaldþrot Grikklands mundi leiða til hruns evrunnar. Það óttast menn vart lengur, og flestir búast við þjóðargjaldþroti þar nú árið 2012. Svo illa hefur evran leikið Grikkina. Nú vekur hrun Spánar ESB-mönnum mestan ugg í brjósti. Það gæti orðið árið 2013 eftir öllum sólarmerkjum að dæma. Gjaldþrot Spánar mun valda svo djúpri efnahagskreppu í Evrópu, að líklega mun verða evrunni um megn. Björgunarkostnaður er miaEUR 650, og svo mikið fé er ekki í handraðanum. Af þessum sökum er Evrópa nú þegar í úlfakreppu, peningalegri, ríkisfjármálalegri og stjórnmálalegri. Upp frá sviðinni jörð evrunnar munu rísa gömlu myntirnar og þjóðirnar munu endurheimta fullveldi sitt frá ESB. Það er öllum til háðungar, að íslenzk stjórnvöld skuli við þessar aðstæður halda áfram aðlögunarviðræðum með ærnum tilkostnaði. Það hlýtur að vera aðhlátursefni búrókratanna í Brüssel á góðum stundum, sem nú fer fækkandi.
Vatnaskil urðu í viku 30/2012, er Moody´s tilkynnti um biðleik að lækkun lánshæfismats Þýzkalands, Hollands og Lúxemborgar. Athyglivert var, að Finnland var ekki í þeim hópi og mun þess vegna standa innan tíðar eitt uppi með hæstu lánshæfiseinkunn innan evrulands. Það er eðlileg skýring á því. Finnar hafa ekki sætt sig við þær tryggingar til greiðslu lánanna til Suður-Evrópu og Írlands, sem í boði hafa verið, og fengið betri veð en hinir. Þessir atburðir hafa þegar leitt til þess, að meirihluti Þjóðverja telur hag Þýzkalands betur borgið án evru en með. Það styttist í endurkomu Deutsche Mark, sem Þjóðverjar syrgðu á sinni tíð. Vegna komandi Sambandsþingskosninga haustið 2013 munu leiðtogar Þýzkalands ekki þora að ganga í berhögg við þjóðarviljann.
Bandaríska matsfyrirtækið, og ýmsir aðrir, er tekið að reikna með, að lunginn úr lánveitingunum til Suður-Evrópu, sem hleypur á hundruðum milljarða, þegar saman fara greiðslur úr björgunarsjóði evrunnar og bankalán, fáist aldrei endurgreidd. Suður-Evrópa er botnlaus hít, sem rís ekki undir kvöðum myntsamstarfsins. Það er sumpart vegna veikari þjóðfélagslegra innviða suðurfrá en norðurfrá og sumpart vegna of hás gengis evrunnar fyrir hagkerfi Suður-Evrópu, jafnvel enn, þó að gengi evrunnar hafi hrapað.
Bilið á milli leiðtoga evruríkjanna jókst með kosningu Francois Hollandes, Frakklandsforseta. Hann stóð fyrir samsæri á leiðtogafundi í lok júní 2012 á milli Frakklands, Ítalíu og Spánar gegn Angelu Merkel, Þýzkalandskanzlara, sem á eftir að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir rómönsku leiðtogana og lönd þeirra í þessu bandalagi germanskra, rómanskra, slavneskra og keltneskra þjóða. Þetta varð Þjóðverjanum Joschka Fischer tilefni til vangaveltna, og er úrdráttur úr blaðagrein hans birtur hér að neðan. Það er líklegt, að dagar evrunnar og jafnvel Evrópusambandsins séu nú þegar taldir.
Grein Joschka Fischers, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, í Morgunblaðinu 19. júlí 2012, varpar ljósi á þetta. Hann skrifar þetta um land sitt, Þýzkaland:
"Landið var orðið að táknmynd hroka og afneitunar í bæði knattspyrnu og stjórnmálum og taldi sig allra manna maka bæði í Evrópumeistaramótinu og í Evrópusambandinu". ...."Stefna Þýzkalands síðan evrukreppan hófst fyrir tveimur árum hafði skilið landið eftir einangrað og það átti sér ekki viðreisnar von gegn bandalagi Ítalíu, Spánar og Frakklands."
Hér á Fischer við leiðtogafundinn í lok júní 2012, þar sem Angela Merkel var ofurliði borin og mátti lúta í gras fyrir rómanska bandalaginu. Þar með kom brestur í öxulinn Berlín-París í fyrsta sinn. Sá verður örlagaríkur og dregur langan dilk á eftir sér. Almenningur í Þýzkalandi er vel meðvitaður um, hvað gerðist, og hvað það boðar. ESB mun ekki bera sitt barr eftir þetta.
Vandi Evrópu hófst með bankakreppunni 2007 og þróaðist svo yfir í skuldakreppu ríkjanna vegna þess, hvernig tekið var á bankakreppunni. Það hefur lítið sem ekkert verið tekið á vandamálum bankanna; aðeins dælt í þá fé skattborgaranna. Bandaríkjamenn fóru öðru vísi að. Þeir voru að sjálfsögðu með bankavandamál, enda á bankakreppan upptök sín þar með eitruðum vafningum og vafasömum uppfinningum fjármálasérfræðinga úr virtum háskólum. Þar voru afskrifaðir miaUSD 800 af slæmum eignum bankanna. Síðan stefnir allt upp á við hjá þeim, þó að hægt hafi á batanum undanfarið. Í Evrópu hefur ekkert slíkt uppgjör farið fram, og þess vegna hjakkar Evrópa enn áfram í sama farinu. Það vantar trausta yfirstjórn til að fást við vanda ESB, af því að fyrir henni er enginn grundvöllur, þar sem íbúar Evrópu kæra sig fæstir um að búa í einu sambandsríki. Draumurinn um Sambandsríki Evrópu, sem sumir af kaldhæðni nefna Fjórða ríkið, á sér aðallega samastað á meðal forstokkaðra búrókrata, sem sumir voru aldir upp í kommúnistaflokkum Austur-Evrópu og á meðal peningafursta Evrópu.
Í ESB er engin samstaða um nein róttæk úrræði, af því að hagsmunir landanna eru ólíkir. Hægt og sígandi er verið að þröngva Þjóðverjum til að taka ábyrgð á skuldum ESB-landanna. Slík er talin forsenda þess, að bjarga megi evrunni og veikum ríkjum ESB frá þjóðargjaldþroti. Kosningar eru til Sambandsþingsins haustið 2013, og þessi þróun verður æ ver þokkuð af almenningi í Þýzkalandi. Ráðamenn Þýzkalands eru þess vegna á milli steins og sleggju. Almenningur þar kann þess vegna að flykkja sér um flokka, sem ekki taka í mál, að Þýzkaland gangi í ábyrgð fyrir skuldir óreiðuríkja. Þetta kann að valda stjórnmálalegri skálmöld í Berlín, sem einnig gerðist í Weimar-lýðveldinu. Þetta er ósanngjarn samanburður, en sporin hræða.
Fischer skrifar eftirfarandi um samkomulag leiðtoganna í lok júní 2012:
"Samkomulagið í Brüssel var, sem lausn á fjárhagsvanda evrusvæðisins, allt annað en framþróun, því að það náði aldrei að hefja sig ofar þröngri áfallastjórnun. Það býður ekki upp á neina áætlun til þess að sigrast á kreppunni í Suður-Evrópu, sem þýðir, að ógnin við evrusvæðið er enn fyrir hendi."
Þetta er mergurinn málsins. Það er ekki tekið nógu róttækt á málum, eins og t.d. í BNA, og þess vegna hefur kreppan versnað stöðugt frá því, að hennar varð vart, og hún er að verða óviðráðanleg. Hún getur þess vegna riðið Evrópusambandinu að fullu vegna innanmeina, sem líklega eru banvæn.
Fischer:
"Ef öxullinn á milli Frakklands og Þýzkalands virkar ekki, getur samrunaferli Evrópu ekki náð árangri. Báðir aðilar verða að ákveða sig, hvort þeir vilji Evrópu, þ.e.a.s. fullan efnahagslegan og pólitískan samruna."
Þarna stendur hnífurinn í kúnni. Þjóðir Evrópu eru ekki fúsar til að sameinast í eitt ríki. Það verður þess vegna ekkert af því að sinni. Afleiðing þessa verður sú, að skuldavandinn og evruvandinn verður ekki leystur. Þjóðargjaldþrot sumra ríkja ESB og upplausn evrunnar blasir við. Það ætti ekki að ríkja Þórðargleði neins staðar yfir þeirri grafalvarlegu stöðu mála, að stjórnmálamönnum Evrópu hefur rétt einu sinni tekizt að klúðra málum með slæmum afleiðingum fyrir alla heimsbyggðina. Það er hins vegar efni í sjálfstæða hugleiðingu, hvað tekur við í Evrópu.
Hér að neðan er mynd af aðalleikaranum í evrudramanu 2012 og til hægri af þeim manni, sem líklegastur er til að binda endi á dramað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)