Tekizt á um Evrópu

Nokkrum sinnum hafa geisað heiftúðlegir bardagar um yfirráðin í Evrópu. Nú fara fram harðvítug átök á bak við luktar dyr í Brüssel, Berlín, París, Róm og Madrid.  Þetta má ráða af yfirlýsingum, sem frá þessum stöðum berast bæði fyrir og eftir fundi leiðtoga stærstu ríkjanna, evruríkjanna og ESB-ríkjanna. Síðasta lota átakanna hófst árið 2010, er skuldavandi evruríkjanna tók að ógna evrunni.  Þá óttuðust menn, að gjaldþrot Grikklands mundi leiða til hruns evrunnar.  Það óttast menn vart lengur, og flestir búast við þjóðargjaldþroti þar nú árið 2012.  Svo illa hefur evran leikið Grikkina.  Nú vekur hrun Spánar ESB-mönnum mestan ugg í brjósti.  Það gæti orðið árið 2013 eftir öllum sólarmerkjum að dæma. Gjaldþrot Spánar mun valda svo djúpri efnahagskreppu í Evrópu, að líklega mun verða evrunni um megn.  Björgunarkostnaður er miaEUR 650, og svo mikið fé er ekki í handraðanum.  Af þessum sökum er Evrópa nú þegar í úlfakreppu, peningalegri, ríkisfjármálalegri og stjórnmálalegri.  Upp frá sviðinni jörð evrunnar munu rísa gömlu myntirnar og þjóðirnar munu endurheimta fullveldi sitt frá ESB. Það er öllum til háðungar, að íslenzk stjórnvöld skuli við þessar aðstæður halda áfram aðlögunarviðræðum með ærnum tilkostnaði.  Það hlýtur að vera aðhlátursefni búrókratanna í Brüssel á góðum stundum, sem nú fer fækkandi.     

Vatnaskil urðu í viku 30/2012, er Moody´s tilkynnti um biðleik að lækkun lánshæfismats Þýzkalands, Hollands og Lúxemborgar.  Athyglivert var, að Finnland var ekki í þeim hópi og mun þess vegna standa innan tíðar eitt uppi með hæstu lánshæfiseinkunn innan evrulands.  Það er eðlileg skýring á því.  Finnar hafa ekki sætt sig við þær tryggingar til greiðslu lánanna til Suður-Evrópu og Írlands, sem í boði hafa verið, og fengið betri veð en hinir. Þessir atburðir hafa þegar leitt til þess, að meirihluti Þjóðverja telur hag Þýzkalands betur borgið án evru en með.  Það styttist í endurkomu Deutsche Mark, sem Þjóðverjar syrgðu á sinni tíð. Vegna komandi Sambandsþingskosninga haustið 2013 munu leiðtogar Þýzkalands ekki þora að ganga í berhögg við þjóðarviljann.

Bandaríska matsfyrirtækið, og ýmsir aðrir, er tekið að reikna með, að lunginn úr lánveitingunum til Suður-Evrópu, sem hleypur á hundruðum milljarða, þegar saman fara greiðslur úr björgunarsjóði evrunnar og bankalán, fáist aldrei endurgreidd.  Suður-Evrópa er botnlaus hít, sem rís ekki undir kvöðum myntsamstarfsins. Það er sumpart vegna veikari þjóðfélagslegra innviða suðurfrá en norðurfrá og sumpart vegna of hás gengis evrunnar fyrir hagkerfi Suður-Evrópu, jafnvel enn, þó að gengi evrunnar hafi hrapað.  

Bilið á milli leiðtoga evruríkjanna jókst með kosningu Francois Hollandes, Frakklandsforseta.  Hann stóð fyrir samsæri á leiðtogafundi í lok júní 2012 á milli Frakklands, Ítalíu og Spánar gegn Angelu Merkel, Þýzkalandskanzlara, sem á eftir að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir rómönsku leiðtogana og lönd þeirra í þessu bandalagi germanskra, rómanskra, slavneskra og keltneskra þjóða.  Þetta varð Þjóðverjanum Joschka Fischer tilefni til vangaveltna, og er úrdráttur úr blaðagrein hans birtur hér að neðan.  Það er líklegt, að dagar evrunnar og jafnvel Evrópusambandsins séu nú þegar taldir.     

   

Grein Joschka Fischers, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, í Morgunblaðinu 19. júlí 2012, varpar ljósi á þetta.  Hann skrifar þetta um land sitt, Þýzkaland:

"Landið var orðið að táknmynd hroka og afneitunar í bæði knattspyrnu og stjórnmálum og taldi sig allra manna maka bæði í Evrópumeistaramótinu og í Evrópusambandinu". ...."Stefna Þýzkalands síðan evrukreppan hófst fyrir tveimur árum hafði skilið landið eftir einangrað og það átti sér ekki viðreisnar von gegn bandalagi Ítalíu, Spánar og Frakklands." 

Hér á Fischer við leiðtogafundinn í lok júní 2012, þar sem Angela Merkel var ofurliði borin og mátti lúta í gras fyrir rómanska bandalaginu.  Þar með kom brestur í öxulinn Berlín-París í fyrsta sinn.  Sá verður örlagaríkur og dregur langan dilk á eftir sér.  Almenningur í Þýzkalandi er vel meðvitaður um, hvað gerðist, og hvað það boðar. ESB mun ekki bera sitt barr eftir þetta.  

Vandi Evrópu hófst með bankakreppunni 2007 og þróaðist svo yfir í skuldakreppu ríkjanna vegna þess, hvernig tekið var á bankakreppunni.  Það hefur lítið sem ekkert verið tekið á vandamálum bankanna; aðeins dælt í þá fé skattborgaranna.  Bandaríkjamenn fóru öðru vísi að.  Þeir voru að sjálfsögðu með bankavandamál, enda á bankakreppan upptök sín þar með eitruðum vafningum og vafasömum uppfinningum fjármálasérfræðinga úr virtum háskólum.  Þar voru afskrifaðir miaUSD 800 af slæmum eignum bankanna.  Síðan stefnir allt upp á við hjá þeim, þó að hægt hafi á batanum undanfarið.  Í Evrópu hefur ekkert slíkt uppgjör farið fram, og þess vegna hjakkar Evrópa enn áfram í sama farinu.  Það vantar trausta yfirstjórn til að fást við vanda ESB, af því að fyrir henni er enginn grundvöllur, þar sem íbúar Evrópu kæra sig fæstir um að búa í einu sambandsríki. Draumurinn um Sambandsríki Evrópu, sem sumir af kaldhæðni nefna Fjórða ríkið, á sér aðallega samastað á meðal forstokkaðra búrókrata, sem sumir voru aldir upp í kommúnistaflokkum Austur-Evrópu og á meðal peningafursta Evrópu. 

Í ESB er engin samstaða um nein róttæk úrræði, af því að hagsmunir landanna eru ólíkir.  Hægt og sígandi er verið að þröngva Þjóðverjum til að taka ábyrgð á skuldum ESB-landanna. Slík er talin forsenda þess, að bjarga megi evrunni og veikum ríkjum ESB frá þjóðargjaldþroti. Kosningar eru til Sambandsþingsins haustið 2013, og þessi þróun verður æ ver þokkuð af almenningi í Þýzkalandi.  Ráðamenn Þýzkalands eru þess vegna á milli steins og sleggju. Almenningur þar kann þess vegna að flykkja sér um flokka, sem ekki taka í mál, að Þýzkaland gangi í ábyrgð fyrir skuldir óreiðuríkja. Þetta kann að valda stjórnmálalegri skálmöld í Berlín, sem einnig gerðist í Weimar-lýðveldinu.  Þetta er ósanngjarn samanburður, en sporin hræða.

Fischer skrifar eftirfarandi um samkomulag leiðtoganna í lok júní 2012:

"Samkomulagið í Brüssel var, sem lausn á fjárhagsvanda evrusvæðisins, allt annað en framþróun, því að það náði aldrei að hefja sig ofar þröngri áfallastjórnun.  Það býður ekki upp á neina áætlun til þess að sigrast á kreppunni í Suður-Evrópu, sem þýðir, að ógnin við evrusvæðið er enn fyrir hendi."

Þetta er mergurinn málsins.  Það er ekki tekið nógu róttækt á málum, eins og t.d. í BNA, og þess vegna hefur kreppan versnað stöðugt frá því, að hennar varð vart, og hún er að verða óviðráðanleg.  Hún getur þess vegna riðið Evrópusambandinu að fullu vegna innanmeina, sem líklega eru banvæn.

Fischer:

"Ef öxullinn á milli Frakklands og Þýzkalands virkar ekki, getur samrunaferli Evrópu ekki náð árangri.  Báðir aðilar verða að ákveða sig, hvort þeir vilji Evrópu, þ.e.a.s. fullan efnahagslegan og pólitískan samruna."

Þarna stendur hnífurinn í kúnni.  Þjóðir Evrópu eru ekki fúsar til að sameinast í eitt ríki.  Það verður þess vegna ekkert af því að sinni.  Afleiðing þessa verður sú, að skuldavandinn og evruvandinn verður ekki leystur.  Þjóðargjaldþrot sumra ríkja ESB og upplausn evrunnar blasir við.  Það ætti ekki að ríkja Þórðargleði neins staðar yfir þeirri grafalvarlegu stöðu mála, að stjórnmálamönnum Evrópu hefur rétt einu sinni tekizt að klúðra málum með slæmum afleiðingum fyrir alla heimsbyggðina. Það er hins vegar efni í sjálfstæða hugleiðingu, hvað tekur við í Evrópu.

Hér að neðan er mynd af aðalleikaranum í evrudramanu 2012 og til hægri af þeim manni, sem líklegastur er til að binda endi á dramað.  

 Mario Draghi   

   

  Horst Seehofer, formaður CSU

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þórðargleði? Nei,en mér reynist erfitt að þagga hana niður,þegar hugsað er til þess að okkar eigin ríkisstjórn,sýnir enga tilburði né vilja til umræðu um það geigvænlega ástand,sem skekur Evrulönd, Hennar motto er ,,inn skulum við í þetta Evru-ástand,, engin rök lengur,nema ef það kallast rök,að þetta lagast.

Helga Kristjánsdóttir, 2.8.2012 kl. 23:58

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir þetta ágæta yfirlit yfir raunstöðu mála, Bjarni. Því miður er það svo, að þegar flóknustu mál eru komin í algera úlfakreppu, þá "leysast" þau ekki nema með sprengingu, skyndiatburði þar sem hoggið er á hnútana. Evrulönd nálgast þá stund hraðbyri.

Ívar Pálsson, 3.8.2012 kl. 09:29

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

1) Við skulum hafa hugfast, Helga, að almenningur í evru-löndunum verður að gjalda fyrir ákvarðanir misviturra stjórnmálamanna sinna og búrókratanna í Brüssel.  Fæstar þeirra þjóða, sem nú líða undan áþján evrunnar, voru spurðar í kosningum, hvort þær vildu taka upp evru.  Þjóðverjar voru ekki spurðir og hefðu að líkindum hafnað því að fórna sínu D-marki, hefðu þeir átt val.  Danir og Svíar voru spurðir og höfnuðu. 

Ríkisstjórnarflokkarnir eru nákvæmlega jafnólýðræðislegir og að ofan er lýst.  Þeir traðka á þjóðarviljanum og ana áfram út í ófæruna með ærnum tilkostnaði þvert gegn heilbrigðri skynsemi og lýðræðislegum stjórnarháttum.  Það verður beggja banabiti.

2) Ég er sammála þessu mati þínu, Ívar.  Við sjáum þess dæmi, ef við horfum til sögunnar.  Það er ekki hæfileikaleysi leiðtoga evrulandanna, sem veldur aðgerðarleysinu.  Það eru hagsmunaárekstrar landanna á milli og andstaða almennings í löndunum við þær leiðir, sem einar eru hugsanlega færar.  Búrókratar og hátt fljúgandi stjórnmálamenn Evrópu fóru langt fram úr sér með því að hunza lýðræðislega umfjöllun og lýðræðislegan vilja íbúanna áður en haldið var út á nýja braut í átt að sambandsríki. 

Ólýðræðislegar vinnuaðferðir án þess að kynna málin fyrir þjóðinni þekkjum við núorðið hér á Íslandi, en við skulum vinna að því að grafa þessi úreltu vinnubrögð með núverandi ríkisstjórn.  Það dregst allt of lengi að kasta á hana rekunum. 

Bjarni Jónsson, 3.8.2012 kl. 19:45

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Auðvitað hef ég það hugfast Bjarni,en mér tekst illa að lýsa togstreytu í vitundinni,þar sem egóið/reiðin kallast á við samúðina með ,,þeim,,.

Helga Kristjánsdóttir, 3.8.2012 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband