Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sókn eftir vindi

Vindorkuforkólfar sækja nú í sig veðrið og reyna að fá aukinn byr í seglin sökum þess, að orkustjórnkerfi landsins hefur brugðizt þeirri frumskyldu sinni að útvega þjóðinni næga orku hverju sinni til að halda uppi háu atvinnustigi í landinu og hagvexti. Þessa ásókn mátti t.d. greina í Morgunblaðinu 21. september 2022 undir fyrirsögninni:

"Tugmilljarða tekjur af vindorku".

Þar er greining á efnahagslegum áhrifum þessarar uppbyggingar, sem munu hafa komið fram í kynningu í Hljóðakletti í Borgarnesi 19.09.2021.  Um er að ræða 9 vindorkuver á Vesturlandi að uppsettu afli 687 MW og orkuvinnslugetu 2885 GWh/ár á vegum Qair, Hafþórsstaða, Zephyr og EM Orku.  Þessar tölur gefa til kynna áætlaðan nýtingartíma á fullu afli í 4200 klst/ár eða 48 % á ári að jafnaði, sem er ólíklegt að náist, enda verður að reikna með viðhaldstíma og viðgerðartíma, sem lækka munu þennan meðalnýtingartíma. 

Ólíkt öðrum þjóðum hafa Íslendingar val um tvenns konar endurnýjanlegar orkulindir auk vindorku, og gefa þær báðar kost á ódýrari raforku en hægt er að fá úr vindorkunni.  Vinnsla raforku með smáum og gríðarlega plássfrekum rafölum mun því fyrirsjáanlega hækka rafmagnsverð til almennings á Íslandi og mynda óeðlilega háan gróða hjá eigendum vatnsorkuvera og jarðgufuvera, þegar áform dótturfélags Landsnets um innleiðingu raforkukauphallar að hætti Evrópusambandsins (OP3) hafa rætzt. Þar ræður jaðarverðið, þ.e. næsta verðtilboð ofan þess hæsta, sem tekið er, ákvörðuðu verði fyrir tilboðstímabilið.  Jaðarverðtilboðið mun væntanlega koma frá vindmylluþyrpingum, og þannig munu vindmyllueigendur verða mótandi fyrir verðmyndun á markaði, sem er fullkomlega óeðlilegt hérlendis.    

 Það er þó af landverndarástæðum, sem ótækt er að hleypa vindorkuframkvæmdum af stað í íslenzkri náttúru fyrr en samanburðarathugun hefur farið fram á milli virkjanakosta um landþörf í km2/TWh endingartímans (búast má við, að landþörf fyrir 687 MW vindmyllur nemi 35 km2). Þótt Ísland sé ekki þéttbýlt, eru landsmenn viðkvæmir fyrir gjörbreyttri landnýtingu, eins og orkulindanýting úr náttúru Íslands felur í sér.  Þess vegna hlýtur þessi kennistærð, km2/TWh (landþörf m.v. orkuvinnslu á endingartíma virkjunar) að vega þungt, og þar með er hægt að skipa landfrekustu orkuverunum á orkueiningu aftast í röð við leyfisveitingar.  Þar virðast vindorkuverin munu skipa sér í þéttan hnapp.  Með sama hætti má reikna út kolefnisspor virkjunar með því að taka tillit til framleiðslu á helztu hlutum hennar, uppsetningar og rekstrar.  Fljótt á litið skipa vindorkuverin sér þar efst á blað, og ekki bætir plastmengun spaðanna umhverfis vindmyllurnar úr skák. Vindmyllur eru þá ekki sérlega umhverfisvænar, þegar allt kemur til alls. 

Hraði mylluspaðaendanna er svo mikill, að fuglar eiga erfitt með að forðast þá, ef þeir eru í grennd.  Þessi mikli hraði veldur hvirflum og miklum hávaða, sem berst langar leiðir.  Þetta er umhverfisbaggi, sem Íslendingar eiga ekki að venjast frá sínum hefðbundnu virkjunum. 

Það er ekkert, sem mælir með leyfisveitingum til raforkuvinnslu af þessu tagi, á meðan fjöldi álitlegra kosta liggur enn ónýttur á formi vatnsafls og jarðgufu.  Ásókn vindmyllufyrirtækja eftir framkvæmdaleyfum hérlendis er þess vegna tímaskekkja, og vonandi þurfa landsmenn aldrei að fórna miklu landi undir það gríðarlega umrót, sem vindmyllugarðar hafa í för með sér, enda verður komin ný orkutækni, þegar heppilegir virkjanakostir fallvatns og jarðgufu verða orðnir upp urnir. 

Í téðri Morgunblaðsgrein voru tíundaðir tekjustraumar frá 9 vindorkuvirkjunum á Vesturlandi án þess að geta um áætlaðar heildartekjur á tímabilinu 2026-2052.  Þeir voru tekjuskattur af raforkuframleiðendum, staðgreiðsla, útsvar til sveitarfélaga, tryggingagjald, umhverfis- og auðlindaskattur, fasteignagjöld og lóðaleiga.  Vegna þess að vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir eru hagkvæmari rekstrareiningar en vindorkuver með svipaðri orkuvinnslugetu, hér 2885 GWh/ár, og miklu áreiðanlegri aflgjafar, þá er langlíklegast, að í heildina séð verði þessir tekjustraumar hærri frá hinum hefðbundnu virkjunum Íslendinga. 

Frambærileg rök fyrir uppsetningu vindorkuvera á Íslandi eiga enn eftir að koma fram í dagsljósið.     


Iðnaðarframleiðsla í kreppu

Nú hefur hryggjarstykkið í illa ígrundaðri orkustefnu Þýzkalands og þar með Evrópusambandsins (ESB) verið sprengt í sundur í bókstaflegri merkingu og verður líklega aldrei sett saman aftur, því að sjór mun flæða inn í lagnirnar og tæra þær.  Þar með er í vissum skilningi líftaugin á milli Rússlands og Þýzkalands brostin, en margir Þjóðverjar sáu hana bæði sem leið til að láta sár gróa eftir hildarleik og blóðugustu bardaga Síðari heimsstyrjaldarinnar á Austurvígstöðvum Þriðja ríkisins og illvirki á báða bóga, þar sem tilraun var gerð til að brjóta rússneska heimsveldið á bak aftur, og til eflingar viðskipta, sem væru báðum í hag. Rússneski björninn trúr útþensluhefð sinni undi hins vegar ekki því, að frelsisandi þjóðanna, sem brutust undan veldi hans við fall kommúnismans 1989-1991, fengi að blómstra. Nú er aftur barizt á banaspjótum í Úkraínu og hermdarverk framið úr kafbáti á botni Eystrasalts í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar.  Það mun draga dilk á eftir sér.  Sá, sem það framdi, lagði grunninn að átökum Austurs og Vesturs, sem lykta mun með falli annars eða beggja. Ragnarök eru í vændum. 

Nú reynir mjög á þolrif Evrópuþjóðanna vegna dýrtíðar, samdráttar hagkerfa og líklegu vaxandi atvinnuleysi, sem við þessar aðstæður getur leitt til gjaldþrots margra fyrirtækja og fjölskyldna. Ofan í þessa stöðu var afar athyglivert að heyra haft eftir kanzlara Þýzkalands, kratanum Olaf Scholz, að nú þætti þýzku ríkisstjórninni brýnt til varnar frelsi Evrópuríkjanna, að þýzki herinn yrði sá stærsti og bezt vopnum búni í Evrópu. Það hefur gerzt áður, en undir öðrum formerkjum, en alltaf er ógnin úr austri undirtónninn.  

Skyldi Litla-Napóleóni í Elysée-höllinni ekki hafa svelgzt á, þegar hann frétti þetta ?  Það er gefið í skyn, að Evrópumenn verði að taka á sig auknar hernaðarlegar byrðar, því að Bandaríkjamenn muni í náinni framtíð þurfa að einbeita sér að Kyrrahafinu og að aðstoða Taiwan-búa við varnir eyjarinnar.  Eftir þessa tímamótayfirlýsingu kanzlarans ætti hann að veita Græningjanum á stóli utanríkisráðherra og landvarnaráðherranum nauðsynlegan stuðning, svo að hinn vaxandi þýzki her veiti nú úkraínska hernum allan þann hernaðarstuðning, sem hann má og rúmast innan samþykkta NATO.  Sá stuðningur felur í sér öflugustu þungavopn Bundeswehr á borð við Leophard 2 bryndrekann og loftvarnakerfi. Vesturveldin hljóta líka að drífa í afhendingu Patriot-loftvarnakerfisins til Úkraínu. 

Þótt sverfi að Evrópuþjóðunum er það hátíð ein hjá því helvíti, sem Rússlandsstjórn og rússneski herinn hafa leitt yfir úkraínsku þjóðina. Þess vegna má ekki láta deigan síga í allra handa stuðningi við úkraínsku þjóðina, sem úthellir blóði sínu fyrir frelsi sitt og frelsi allrar Evrópu.

Iðnaðarframleiðsla dregst nú saman í Evrópu, og er þar bílaiðnaðurinn ekki undanskilinn.  Spurn eftir rafmagnsbílum í Evrópu hefur hríðfallið, af því að nú er rafmagnið á bílana dýrara en jarðefnaeldsneyti m.v. sömu akstursvegalengd.  Byggingariðnaðurinn er líka í lamasessi, og af þessum ástæðum hefur spurn eftir áli minnkað tímabundið og þar með álverð á LME-markaðinum í Lundúnum.  Það berast hins vegar engar fregnir af fyrirætlunum álveranna þriggja hérlendis um að draga saman seglin, enda er LME-verðið nú um 2100 USD/t Al og spáð hækkandi á næsta ári.  Fyrirtæki á borð við ISAL í Straumsvík, sem einvörðungu framleiðir sérpantaða vöru (ekkert selt til endurbræðslu), fær hærra verð en skráð LME-verð. 

Þann 21. september 2022 skrifaði Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, atvinnulífsgrein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

 "Af orkuskorti, álframleiðslu og kolefnisspori".

Hún endaði þannig:

"Evrópsk álframleiðsla nær ekki að standa undir helmingi af eftirspurn eftir áli í Evrópu.  Ísland og Noregur eru stærstu álframleiðendur innan Evrópska efnahagssvæðisins, en alls er framleitt ál í 15 Evrópulöndum, þ.á.m. Þýzkalandi og Frakklandi.  Hér á landi búa álver við langtímasamninga, sem dregur úr sveiflum og áhættu bæði fyrir álver og innlend orkufyrirtæki. Hagstætt álverð hefur skilað viðsnúningi í rekstri íslenzkra álvera , og hafa orkufyrirtækin einnig notið góðs af því, en þau hafa skilað metafkomu síðustu misserin. 

Á síðasta ári [2021] voru útflutningstekjur íslenzks áliðnaðar um mrdISK 300 eða fjórðungur af gjaldeyristekjum þjóðarinnar.  Þar af nam innlendur kostnaður álvera mrdISK 123, en áætla má, að um helmingur af því hafi farið í orkukaup.  Keyptar voru vörur og þjónusta fyrir mrdISK 35 af hundruðum innlendra fyrirtækja, laun og launatengd gjöld námu yfir mrdISK 20 til 1´500 starfsmanna, en alls eru bein og óbein störf um 5´000.  Þá námu opinber gjöld mrdISK 3,4 og styrkir til samfélagsmála yfir MISK 100.  E.t.v. er mest um vert, að losun á hvert framleitt tonn hér á landi er margfalt minni en í Kína, sem framleiðir yfir helming af öllu áli í heiminum.  Það munar um íslenzkan áliðnað."

Eftir því sem álframleiðsla á meginlandi Evrópu og í Bretlandi dregst saman vegna ósamkeppnishæfrar orkuvinnslu, eykst mikilvægi íslenzkrar álframleiðslu fyrir evrópskan markað.  Staða orkumála í Noregi er um þessar mundir óbjörguleg vegna þess, að raforkuframleiðendur hillast til að flytja raforkuna út um öfluga sæstrengi vegna svimandi hárrar verðlagningar á meginlandinu og Bretlandi.  Þar með fá verksmiðjur Noregs enga raforku utan langtímasamninga, og hefur það leitt til framleiðslusamdráttar, t.d. hjá Norsk Hydro.  Þessi staða mun halda áfram, þar til jafnvægi næst aftur á milli framboðs og eftirspurnar raforku, eða þar til Norðmenn taka orkumálin í eigin hendur og láta innlenda raforkukaupendur njóta forgangs umfram erlenda, en það er bannað í Orkupakka 3, og ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, minnti Norðmenn á það, þegar umræða fór fram um það í Stórþinginu. 

Núverandi staða raforkumálanna í Noregi gengur þvert á hefðbundna afstöðu norsku þjóðarinnar til orkulindanna, sem er sú, að þær séu í þjóðareign, og norska ríkið eigi að geta beitt fullveldisrétti sínum til að stjórna nýtingu þeirra.  Stjórnvöld Noregs hafa villzt af þeirri leið, sem mótuð var í upphafi, að miða raforkuverð frá virkjun við verðmæti vatnsins í miðlunarlónunum, sem er útreiknað eftir vatnsmagni og árstíma, þ.e. líkum á og kostnaði af völdum tæmingar að vori, ásamt hæfilegum hagnaði til að standa undir fjárfestingum.  Árið 1993 var vikið frá þessari þjóðlegu stefnu og stofnað dótturfélag Statnetts, þeirra Landsnets, sem átti að stjórna raforkukauphöll, þar sem heildsöluverðið réðist af framboði og eftirspurn.

Nú er Landsnet statt í þessum sporum, en Norðmenn gengu enn lengra og seldu téð dótturfyrirtæki Statnetts til fjölþjóðlegrar orkukauphallar, Nord Pool.  Síðan var rekinn endahnúturinn á valdaafsal norska ríkisins yfir orkulindunum með samþykki Stórþingsins 22. marz 2018 um innleiðingu ESB-orkulöggjafarinnar, sem gengur undir nafninu Orkupakki 3, og felur ACER-Orkustofu ESB, stjórnun millilandaviðskipta á raforku.  Þessi óheillaþróun hefur leitt til mikillar dýrtíðar í Noregi og kippt fótunum undan samkeppnisstöðu hluta norsks atvinnulífs.  

Hvers vegna í ósköpunum er Landsnet nú að feta þessa óheillabraut ?  Rafmagn er undirstaða afkomu almennings í landinu, og landsmenn þurfa nú sízt á að halda afætuvæðingu í þessum geira, sem gera mun rafmagn að viðfangsefni kaupahéðna, sem fá aðstöðu til að maka krókinn án nokkurra verðleika til verðmætasköpunar.  Steininn tekur úr, þegar allt þetta umstang er sett á laggirnar undir merkjum hagsmuna almennings.  Þetta kerfi er svikamylla, sem malar ekki gull, heldur hrifsar það úr sjóðum fyrirtækja og heimila.  Vítin eru til þess að varast þau.

 


Orkustjórnkerfi í lamasessi

Orkustjórnkerfi Breta (frá dögum Margrétar Thatcher sem forsætisráðherra) og Evrópusambandsins (frá dögum Orkupakka 1 laust fyrir aldamót) er ónothæft við núverandi aðstæður að dómi Úrsúlu von der Layen, forseta framkvæmdastjórnar ESB.  Kerfi þetta lætur aðdrætti frumorkunnar afskiptalausa og gerir bara ráð fyrir því, að eldsneytissalar sjái um að birgja forðabúrin af orku. Þegar stjórnendur Sambandsins og aðildarlandanna í einfeldni sinni og barnaskap veita uppivöðslusömu einræðisríki stöðu forgangsbirgis fyrir frumorkuna, er ekki von á góðu, eins og nú hefur komið í ljós. Nú hafa bæði Nord Stream 1 og Nord Stream 2 verið sprengdar í sundur í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar á botni Eystrasalts.  

Á Íslandi er raforkukerfið ekki háð slíkum aðdráttum, heldur er það náttúran sjálf, sem stjórnar aðdráttum frumorkunnar, þ.e. vatnsrennsli í miðlunarlón og jarðgufustreymi inn í forðabúr gufuvirkjananna.  Þess vegna er markaðskerfi hagfræðinganna ónothæft fyrir íslenzka raforkukerfið, nema Íslendingar vilji verða fórnarlömb spákaupmennsku með raforku úr orkulindum, sem þjóðin á að mestu leyti sjálf. 

Núverandi orkustjórnkerfi hérlendis er líka ónothæft, því að það hefur ekki reynzt þess megnugt að tryggja stækkun kerfisins í tæka tíð og skeikar miklu.  Nú þegar er kerfið þanið til hins ýtrasta, en það eru a.m.k. 5 ár, þangað til næsta miðlungsstóra virkjun kemst í gagnið, og Orkustofnun virðist ekkert liggja á við að afgreiða umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun.  Embættisfærslan þar á bæ er orðin hneykslanleg.  

Á forsíðu Morgunblaðsins 21. september 2022 birtist frétt Baldurs Arnarsonar með eftirfarandi fyrirsögn: 

"Skortur á raforku gæti ógnað hagvexti á Íslandi".

Fréttin hófst þannig:

"Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur, segir það geta skapað áhættu fyrir íslenzkt hagkerfi, ef áform um orkuskipti ganga ekki eftir.  Sé krafan um græna orku ekki uppfyllt, geti það bitnað á útflutningi íslenzkra sjávarafurða og á flugsamgöngum. 

Auka þurfi framleiðslu á raforku um 24 TWh/ár, ef markmið um orkuskipti fyrir 2040 eigi að nást.  Í mesta lagi 1/10 hluti þess muni að óbreyttu nást fyrir 2030.  Því geti sú staða komið upp, að orka verði skömmtuð á Íslandi. 

Þá telur Vilhjálmur vandséð, að orkuskiptin geti gengið eftir án þess að nýta vindorkuna.  Ef 20 % orkuþarfarinnar verði aflað með vatnsorku, sem sé raunhæft, en hins hlutans með vindorku, muni það samsvara 800 vindmyllum."  

Á meðan hlutdeild endurnýjanlegrar orku af heildarorkunotkun landsmanna er yfir 85 % og langflestar þjóðir eru með miklu minni hlutdeild, eins og fyrirsjáanlegt er a.m.k. næstu 10 árin, er ímyndarvandi útflutningsgreina Íslands, þótt óraunhæf markmið stjórnmálamanna um orkuskipti náist ekki, ímyndun ein.  Áhættan er fjárhagslegs eðlis.  Þá koma til sektargreiðslur til Evrópusambandsins, sem stjórnmálamenn af ábyrgðarleysi sínu í gáska andartaksins hafa undirgengizt í nafni þjóðarinnar og geta skipt milljörðum ISK.  Þá verða atvinnuvegir og heimili líka áfram undir hæl olíuframleiðenda á sveiflukenndum markaði á leið til sólseturs, sem þýðir tilhneigingu til verðhækkana.  Aftur á móti er líka áhætta fólgin í því, að allur vélbúnaður á Íslandi sé háður raforkuvinnslu í eldfjalla- og jarðskjálftalandi á borð við Ísland. Það er þó með skynsamlegri uppbyggingu og dreifingu mannvirkja minni áhætta en væri fólgin í því fyrir landsmenn að fá hingað aflsæstreng, sem setja mundi orkumarkaðinn hér upp í loft.

Þessi viðbótar raforka, 24 TWh/ár á 2 áratugum, er áætluð heildar viðbótarþörf til vaxtar og viðgangs hagkerfinu ásamt heildar orkuskiptum.  Svartsýni Vilhjálms um orkuskömmtunarástand getur hæglega rætzt á næstu 5 árum, þ.e. fram að fyrstu virkjun í Neðri-Þjórsá, sem virðist verða næsta meðalstóra virkjun (um 100 MW) inn á stofnkerfið.  Þessi staða jafngildir falleinkunn núverandi stjórnkerfis raforkumála.  Það verður þess vegna að hanna nýtt stjórnkerfi orkumálanna hérlendis, ekki síður en í ESB, en þessi 2 stjórnkerfi verða nauðsynlega ólík, því að aðstæður eru gjörólíkar.  

Markaðskerfi raforku fyrir Ísland, sniðið að fyrirmynd ESB, er í hönnun, þótt Úrsúla von der Leyen hafi lýst þetta kerfi úrelt og ónothæft við breyttar aðstæður.  Ástæða þess, að það er ekki þegar tekið úr sambandi, er, að uppsprengt jarðgasverð veldur uppsprengdu rafmagnsverði vegna þeirrar reglu þessa kerfis, að verð til neytenda ákvarðast af jaðarverðinu, þ.e. verði næstu kWh, sem beðið er um, og þar með spara allir notendur við sig gas og rafmagn eftir megni.  

Það er eitthvað brogað við þennan vindmylluáhuga Vilhjálms.  Tölurnar, sem eftir honum eru hafðar þarna, fela í sér stórar vindmyllur, a.m.k. 7,0 MW, sem er aflmeiri vindmylla en nokkur framleiðandi hefur hingað til treyst sér að framleiða fyrir íslenzka markaðinn vegna veðurfarsaðstæðna hér.  Ef draumfarir Vilhjálms Egilssonar um 19 TWh/ár raforku frá vindmyllum rætast (Guð forði viðkvæmri íslenzkri náttúru frá öllu því jarðraski, sem þessi frumstæða og óskilvirka aðferð við raforkuvinnslu útheimtir), þá er sýnt, hvað gerist á íslenzka raforkumarkaðinum, sem dótturfélag Landsnets er að bauka við. Vindmyllueigendur munu stjórna raforkuverðinu, því að vindmyllurnar munu mynda jaðarkostnaðinn á markaðinum.  Þetta eitt út af fyrir sig mun þá valda um 50 % hækkun heildsöluverðs á raforku til almennings.  Hins vegar mun skortstaðan á íslenzka raforkumarkaðinum leiða til miklu meiri hækkana á verðinu til almennings en þetta. Þannig stefnir í algert óefni fyrir íslenzk heimili og fyrirtæki án langtímasamninga um raforkukaup vegna markaðsvæðingar raforkunnar, sem sterklega er mælt með í Orkupakka 3, en verður ekki skylda fyrr en með Orkupakka 4, og sá hlýtur nú að koma til róttækrar endurskoðunar af hálfu framkvæmdastjórnar ESB í ljósi nýlegra orða forseta hennar. 

Hvers vegna í ósköpunum leggur dr Vilhjálmur Egilsson upp með 20 % frá vatnsorkuverum og 80 % frá vindorkuverum af 24 TWh/ár fram til 2040, en 0 frá jarðgufuvirkjunum ?  Raforkan frá jarðgufuvirkjunum er yfirleitt dýrari en frá vatnsaflsvirkjunum, en ódýrari en frá vindorkuverum, og ólíku er saman að jafna um áreiðanleikann, svo að ekki sé nú minnzt á landverndina, kolefnisfótsporið á GWh að byggingarskeiði meðtöldu, notkun fágætra málma og mengun á rekstrartíma. Með því að nýta alla orkustrauma jarðgufuvirkjunar býður hún upp á alls konar starfsemi, bæði tengda afþreyingu, iðnaði og upphitun húsnæðis.  Þær eru yfirburðakostur í samanburði við viðurstyggilegar vindmyllur, sem eru algert neyðarbrauð og óþarfar á orkuríku Íslandi.  

 

 


Endurskoðun orkumarkaðar

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), hefur lýst því yfir, að raforkumarkaður ESB sé ónothæfur við núverandi aðstæður.  Bragð er að, þá barnið finnur.  Forsenda markaðarins var alla tíð sú, að nóg bærist til hans af frumorku, þ.e. aðallega jarðefnaeldsneyti í tilviki ESB. 

Aðildarlöndin og bandalagið sjálft hafa hins vegar sýnt skilningsleysi á virkni markaðarins og/eða ábyrgðarleysi með því að veikja framboðshliðina smám saman, þangað til hún hrundi við eina aðgerð einræðisherra austur í Moskvu, sem lokaði smám saman fyrir gasstreymi eftir Nord Stream 1 frá Síberíu til Þýzkalands. Nú eru reyndar eldsneytisgasgeymar í Evrópu um 80 % fullir, og ESB hefur sett Gazprom stólinn fyrir dyrnar með ákvörðun hámarksverðs á gasi, sem mun jafngilda 50 EUR/MWh á raforkuvinnslu úr þessu gasi. Sýnir þessi "gagnsókn" ESB, að "orkuvopnið" hefur snúizt í höndum einræðisherrans og ólígarka hans. 

Með samningum Þjóðverja við Rússa um gaskaup eftir Nord Stream 1 & 2 á tiltölulaga hagstæðu verði myndaðist enginn hvati til að setja upp aðstöðu í höfnum Þýzkalands fyrir jarðgas á vökvaformi, LNG, sem er auðvitað mun dýrara.  Þar að auki var bannað í Þýzkalandi á dögum Merkel sem kanzlara, líklega 2015, að vinna gas úr jörðu með vökvaþrýsingi (fracking), þótt góð reynsla væri af því í Þýzkalandi áður.  Árið 2011 lét þessi sami óheilla kanzlari frá Austur-Þýzkalandi (DDR) draga úr framboði raforku í Þýzkalandi með því að loka kjarnorkuverum og banna alla slíka starfsemi frá árslokum 2022.  Á sama tíma var girt fyrir byggingu nýrra kolaorkuvera með loftslagssköttum (gjaldi á CO2) og niðurgreiðslu úr ríkissjóði á orku frá vindorkuverum og sólarhlöðum.  Af þessum sökum öllum var orkumarkaður Evrópu orðinn óstöðugur 2022, þegar Rússar hófu ólögmæta og grimmilega útrýmingarherferð sína gegn Úkraínumönnum 24.02.2022, og það gerði út um orkumarkað ESB.  Hvað tekur við af honum, veit enginn. 

Í þessu ljósi er afar lærdómsríkt að velta fyrir sér, hvernig þróunin gæti orðið í vatnsorkulöndum Evrópu.  Það eru víða vatnsorkuver í Evrópu, t.d. í Sviss, Frakklandi og í Austur-Evrópu, en stærsta hlutdeild vatnsorku er þó í Noregi, 89,1 %, og Íslandi, 68,8 %. Þrátt fyrir það, að Norðmenn séu sjálfum sér nægir með raforku með sína 155 TWh/ár framleiðslugetu, hafa þeir orðið fyrir barðinu á orkukreppu Evrópu, þar sem orkuverð hefur víða tífaldazt og samkvæmt framvirkum samningum stefnir heildsöluverð í 1200 EUR/MWh í október 2022 í Þýzkalandi og 2500 EUR/MWh í Frakklandi, en þar fer saman lélegt vatnsár fyrir vatnsorkuverin og mikil og brýn viðhaldsþörf í kjarnorkuverunum.  Lág vatnsstaða í miðlunarlónum í Suður- og Austur-Noregi vegna mikillar sölu raforku til Hollands, Þýzkalands og Bretlands, ásamt smitáhrifum um öflugar millilandatengingar við þessi lönd veldur tíföldun raforkuverðs sunnan Þrændalaga m.v. Norður-Noreg.  Þetta hefur valdið ólgu í Noregi og niðurgreiðslu ríkisins á heildsöluverði umfram 0,7 NOK/kWh (=9,6 ISK/kWh).  Hvaða lausnir sjá frændur okkar í Noregi á þessu viðfangsefni ?

Þann 19. september 2022 hélt Samstarfshópur um breytta orkustefnu mótmælafund framan við Stórþingshúsið í Ósló og samþykkti ályktun til þingsins, sem sjá má í viðhengi með þessum pistli. Þessi samtök leggja m.a. fram eftirfarandi rök fyrir því, að Norðmönnum henti ekki gildandi markaðskerfi raforkunnar:

 "Norska vatnsorkukerfið er einstakt með sín miðlunarlón, sem jafna út mismunandi úrkomu eftir árstíðum og jafnvel árum.  Það er svo ólíkt öðrum orkulindum á evrópska orkumarkaðinum, að það eitt og sér er næg ástæða til að krefjast aftengingar [við uppboðsmarkað raforku].  Norsk miðlunarlón er ekki hægt að fylla með tankbílum [eins og eldsneytisgeyma Evrópu - innsk. BJo]." 

Þetta er rétt og á líka við um Ísland.  Þar er enn ekki kominn uppboðsmarkaður raforku, en illu heilli vinnur Landsnet undir stjórn æðsta umboðsmanns ACER (Orkustofu ESB) á Íslandi, sem einnig gegnir starfi forstjóra Orkustofnunar !, að hönnun þessa markaðsfyrirkomulags hefur nú stofnað dótturfélag um tiltækið.  Allt er það tímaskekkja. Ótrúlegt er, að ACER þrýsti á þetta núna eftir yfirlýsingu Úrsúlu von der Leyen um ónothæfni fyrirkomulagsins.  Hér er íslenzkt ríkisfyrirtæki að færa út kvíarnar almenningi til bölvunar.  

Hvað vill téður Samstarfshópur í Noregi fá í staðinn ?:

"Þessar aðgerðir munu gera kleift að koma aftur á verðlagningu raforku, sem notuð er í Noregi, sem reist verði á raunkostnaði við að framleiða og flytja rafmagn með nauðsynlegri viðbót vegna fjárfestinga, endurfjárfestinga [stækkanir - innsk. BJo] og endurbóta ásamt hugsanlegum viðbótum til að hvetja til orkusparnaðar." 

Undir þetta skal taka, og þetta á líka við um Ísland undir samræmdri stjórn.  Raforka er ekki vara, sem hægt er að geyma í umtalsverðum mæli, heldur verður framleiðslan að haldast algerlega í hendur við notkunina. Þess vegna fer illa, ef reynt er að láta lögmál um vörur gilda um rafmagnið. Um vatnsorkuvirkjanir gildir, að vatn í miðlunarlóni kostar og er verðmæti þess fall af vatnsmagni í lóni og árstíma.  Verðmæti þess er ekkert í þessu samhengi, þegar flæðir út úr lóni á yfirfalli, en hátt, þegar það nær ekki að fyllast að hausti.  Þannig er verðmætið háð líkindum á tæmingu lónsins, og ætlunin með þessari verðlagningu að koma í veg fyrir tæmingu án þess að grípa þurfi til skömmtunar.

Í stað þessa fyrirkomulags hefur verið gripið til þess ráðs í langtíma orkusölusamningum við stóriðjuna að skipta orkusölunni í tvennt - forgangsorku og ótryggða orku.  Forgangsorku má ekki skerða, nema í óviðráðanlegu neyðarástandi, en ótryggðu orkuna má skerða um allt að 50 % á ári samkvæmt ýmsum samningum.   Útreikningana á verðgildi vatns í miðlunarlónum er þá hægt að láta stjórna þessum skerðingum, og er slíkt mun gegnsærra fyrir viðskiptavini Landsvirkjunar en nú tíðkast.  Vatnsverðmætin mynda "eldsneytisverð" fyrir vatnsaflsvirkjunina, sem verður hluti vinnslukostnaðar raforkunnar.  

Svipað fyrirkomulag má viðhafa um jarðgufuna.  Þegar tekur að draga niður í gufuforðabúri jarðgufuvirkjana, öðlast gufan verðmæti, og þar með hækkar rekstrarkostnaður viðkomandi virkjunar, sem getur leitt til minni spurnar eftir orku frá henni.  

Til að annast útreikninga á orkukostnaði virkjana þarf embætti með aðgang að fjárhag fyrirtækjanna, vatnsbúskap og gufubúskap þeirra.  Þessu embætti þarf að fela ábyrgð á því að hindra orku- og aflskort til skamms og langs tíma, en nú eru þau mál í lausu lofti og mikil hætta á, að alvarleg skortstaða komi upp áður en næsta miðlungsstóra virkjun kemst í gagnið.  28.07.2019 lýsti höfundur þessa pistils valkosti við markaðskerfi ESB í skjalinu "Orkupakki #4 og afleiðingar hans" á vegum samtakanna "Orkunnar okkar":

"Samkvæmt orkustefnu ESB [meingölluð fyrir vatnsorkulönd og nú í uppnámi alls staðar-innsk. BJo] á raforkumarkaðurinn að sjá um nægt aflframboð á hverjum stað og tíma, og eldsneytismarkaðir eiga á sama tíma að tryggja nægt orkuframboð. Íslenzkur raforkumarkaður getur hins vegar ekki sinnt hvoru tveggja [duttlungar náttúrunnar ráða orkuframboðinu - innsk. BJo]. Hér þarf (nýtt) fyrirkomulag, sem hentar orkulindum Íslands.  Þar er kjarni máls, að ríkið beiti fullveldisrétti sínum til að stofna embætti orkulindastjóra, sem hafi með höndum samstýringu allra virkjana landsins, sem máli verða taldar skipta fyrir orkubúskap landsins, með svipuðum hætti og Landsvirkjun stundar nú innan sinna vébanda. Með vandaðri lagasetningu um embætti orkulindastjóra fái hann í hendur "tól og tæki", sem tryggi, að virkjanafyrirtækin hefji virkjanarannsóknir og virkjanaundirbúning í tæka tíð, svo að nægt framboð raforku verði jafnan mögulegt, vald til að takmarka stærð (uppsett afl) jarðgufuvirkjana á hverju svæði, svo að rýrnun gufuafls verði ekki óhóflega hröð, heldur innan "eðlilegra marka", og jafnframt fái orkulindastjórinn vald til að stýra hæð miðlunarlóna í nafni orkuöryggis. 

Lagasetningin um embættið þarf jafnframt að tryggja því aðgang að nægum upplýsingum um allar virkjanir í þessari samræmdu auðlindastýringu á hverjum sólarhring, til að embættið geti gegnt öryggishlutverki sínu.  Orkulindastjórinn skal tryggja beztu sjálfbæru nýtingu allra virkjana landsins, sem áhrif hafa á orkubúskap þess, með því að hámarka orkuvinnslu hverrar virkjunar til langs tíma.  Lögbundnar ákvarðanir orkulindastjóra skapa orkumarkaðinum ramma, sem hann verður að starfa í frjálsri samkeppni innan.  Eðlilegast er að neita að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3, unz færi gefst á að semja um þessa íslenzku útfærslu á réttum vettvangi EES."

Sem kunnugt er var hinum stjórnskipulega fyrirvara létt af samþykki Sameiginlegu EES-nefndarinnar á OP3 haustið 2019 á Alþingi. 21.09.2022 var tilkynnt um ráðningu framkvæmdastjóra nýs dótturfélags Landsnets, sem á að setja á fót og reka heildsölumarkað raforku á Íslandi í anda ESB.  Sagt er í leiðinni, að þetta fyrirkomulag eigi að tryggja þjóðinni hagstæðasta verð á hverjum tíma og orkuöryggi. Það þarf kaldrifjaða ósvífni til að halda þessu fram, á sama tíma og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, tilkynnir, að smíða verði nýtt og raunhæfara kerfi, því að núverandi kerfi, það sem Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri raforkukauphallarinnar, ætlar að sjá um hönnun á hérlendis, stenzt ekki kröfurnar, sem gera verður til þess við núverandi aðstæður.  Kerfinu hefur mistekizt að girða fyrir orkuskort og hefur sent raforkuverð til skýjanna í samræmi við jaðarkostnaðinn, sem er kostnaður eldsneytisgasorkuveranna.  

Þá kann einhver að benda á, að íslenzka raforkukerfið sé ósambærilegt við hið evrópska.  Það er einmitt mergurinn málsins.  Framboði raforku á Íslandi stjórna náttúruöflin, og þar er engum stöðugleika fyrir að fara.  Með framboðshliðina í stöðugri óvissu og fákeppnismarkað raforkubirgjanna verður veruleg verðhækkun á raforku hið eina, sem hefst upp úr stofnun heildsölumarkaðar á Íslandi að forskrift ESB í Orkupakka 3. Það er feigðarflan að setja hér upp kerfi, sem valdið hefur stórvandræðum annars staðar.   

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvöss gagnrýni á stjórnvöld

Varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins ritaði yfirvegaða og afar hvassa gagnrýni á íslenzk stjórnvöld fyrir framgöngu þeirra í Kófinu í Morgunblaðið 16. september 2022.  Þann 12. september 2022 birtist í Norgunblaðinu beitt gagnrýni Guðmundar Karls Snæbjörnssonar, sérfræðings í heimilislækningum, á sóttvarnaryfirvöld fyrir illa rökstudda ástríðu þeirra fyrir bólusetningum barna gegn C-19, þótt börnum, án tillits til heilsufars þeirra, sé nánast engin hætta búin af SARS-CoV-2 veirunni, sem veldur C-19, en geti hins vegar hæglega beðið alvarlegt heilsutjón af mRNA-bóluefnunum, sem enn eru á tilraunastigi og hafa reynzt gagnslaus öllum aldurshópum innan hálfs árs frá bólusetningu. Þessi bóluefni verður að telja misheppnuð, og það er eitthvað bogið við það, að lyfjaiðnaðurinn skuli komast upp með að markaðssetja svo svikna vöru. 

Fyrirsögn svipugangagreinar Arnars Þórs Jónssonar, lögmanns og varaþingmanns sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi, var tæpitungulaus:

"Réttarríkið riðar á fótunum".

Í lok inngangs stóð þetta:

"Samkvæmt útgefinni dagskrá [um Lagadaginn 23.09.2022] stendur ekki til að ræða þar um mál málanna, þ.e. augljósa hnignun réttarríkisins í kórónuveirufárinu. Með þögninni kallar "lögfræðingasamfélagið" yfir sig áfellisdóm og tortryggni líkt og sá, sem ber í bresti niðurníddrar byggingar með því að sparsla í sprungurnar."

Það er umhugsunarefni, að samtök lögfræðinga eða stærri hópur lögfræðinga skuli ekki hafa séð ástæðu til að leiða samborgurum sínum og þar með stjórnmálamönnum fyrir sjónir, að heilbrigðisyfirvöld landsins fóru offari í Kófinu, sviptu borgarana dýrmætu einstaklingsfrelsi, atvinnufrelsi og mannréttindum, og beittu við þetta "heilaþvotti" í nafni vísinda, sem voru ekki fyrir hendi. Hvaða hagsmunir lágu þar að baki ?

Þetta reyndist valda einstaklingum og fyrirtækjum gríðarlegu fjárhagstjóni og skapaði heilsufarsleg og félagsleg vandamál. Í heilbrigðiskerfinu var forgangsraðað með ærnum tilkostnaði til þess að fást við tiltölulega hættulítinn sjúkdóm, en þá sátu aðrar greiningar og meðferðir, jafnvel við hættulegri sjúkdómum, á hakanum.  Afleiðingin varð sú, að dauðsföll hafa víða aldrei verið fleiri eftir rénun C-19. 

Bent var á hættuna á þessu á þessu vefsetri og vísað í rannsóknir, og Þorsteinn Siglaugsson o.fl. voru líka ötulir að vara við þessu.  Aðgerðir heilbrigðisyfirvalda snerust þannig algerlega í höndunum á þeim. Í næsta fári verður framkvæmdavaldið að halda haus og gæta sín að hlaupa ekki út um víðan völl í heimildarleysi. Veikum stjórnmálamönnum og embættismannastéttinni hættir við því. 

"Þessi ummæli [forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um, að "hræðsluáróðri" hafi verið beitt] staðfesta, að yfirvöld hér á landi hafa beitt stjórnarfarslega ólögmætum aðferðum til að stýra hegðun borgaranna; með öðrum orðum inngripum og athöfnum, sem hvorki eiga sér viðhlítandi lagastoð né byggjast á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum auk þess að falla á margþættum prófum meðalhófsreglu, sem einnig hefur talizt til mikilvægustu forsendna mannréttindaverndar.  Grundvallarreglur stjórnskipunarinnar og undirstöður lýðræðis og mannréttinda, eins og lögmætisregla, hlutlægnis- og réttmætisregla, sem og meðalhófsreglur, virðast hafa verið mölbrotnar á altari faraldursfræði og rörsýni, sem hvorki á skylt við lýðræði né lögmætisforsendur. Hvert, sem litið er, má sjá, hvernig stjórnvöld með dyggri aðstoð meginstraumsfjölmiðla, hafa beitt áróðri og ritskoðun. Skipulega hefur verið alið á ótta, vísindaleg rökræða bæld niður, pólitísk rökræða vængstýfð og heilbrigðar efasemdir úthrópaðar." 

   Það eru engar smáræðis ásakanir á hendur stjórnvöldum, sem þarna eru settar fram.  Mistök stjórnvalda í Kófinu eru í raun meiri en í aðraganda Hrunsins 2008, því að þar var alvarlegasta ákæran sú, að ekki hefði verið boðað til ríkisstjórnarfundar um tiltekið málefni.  Hér virðast lög um ráðherraábyrgð vissulega aftur koma til álita, og í þetta sinn verða það stöllurnar í VG, sú sem sat í stóli forsætisráðherra og gerir enn, og sú sem sat þá í stóli heilbrigðisráðherra, sem verða að svara til saka.

Það er sláandi, að Umboðsmaður Alþingis skyldi ekki ranka við sér þegar árið 2020.  Það var bara einn þingmaður, Sigríður Andersen, sem hafði sig verulega í frammi til að gagnrýna aðgerðir sóttvarnaryfirvalda og spyrja gildra spurninga, bæði efnislega og lagalega.  Þessi doði þjóðfélagsins er váboði, sem taka ber mark á. Arnar Þór kallar fyrirbærið "lýðræðishrun" og telur það einkenna Vesturlönd í heild.  Hér skal benda á, að ekki má kemba öllum með einum kambi.  Hjarðhegðun og móðursýki áttu einna sízt uppdráttar í Svíþjóð.  Þar var gripið til einna minnstra skerðinga á persónulegu frelsi fólks og starfsemi fyrirtækja.  Niðurstaðan, mæld í þróun heildar dauðsfalla, er sízt Svíþjóð í óhag.  Flumbrugangur og ofstæki íslenzkra og fleiri  sóttvarnaryfirvalda var lýðheilsulegt vindhögg. Hver græddi á þessum ósköpum ?  

"Stjórnar- og eftirlitsstofnanir ríkisins, sem ætlað er að verja almannahagsmuni, hafa snúizt gegn almenningi og þeim gildum, sem stjórnskipunin er grundvölluð á.  Fjölmiðlar hafa í auknum mæli orðið háðir ríkisvaldinu um afkomu sína og gerzt gagnrýnislausar málpípur stjórnvalda.  Lyfjaiðnaðurinn hefur fengið að láta greipar sópa um almannafé í boði yfirvalda.  Læknar og heilbrigðisyfirvöld hafa brugðizt hlutverki sínu með því að einblína á sprautur, grímur og innilokun heilbrigðis [einkennalausir sendir í sóttkví á grundvelli ónákvæmra greininga (PCR) - innsk. BJo] einkennalauss fólks í stað þess að mæla með sólarljósi, D-vítamíni, hollu mataræði og fyrirbyggjandi snemmmeðferðum. Allt hefur þetta gerzt án þess, að nokkur gagnrýni hafi heyrzt frá háskólamönnum og án nokkurrar sjáanlegrar viðleitni stjórnvalda til að framkvæma viðunandi kostnaðar -og ábatagreiningu."    

Þetta er flengjandi gagnrýni á heilbrigðisgeirann hérlendis og stjórn hans m.a. fyrir gálausa meðferð fjár.  Gríðarlegum fjármunum var varið til kaupa á meingölluðum bóluefnum, sem skilað hafa litlum og umdeilanlegum árangri og valdið mörgum heilsutjóni, ef ekki fjörtjóni, enda um tilraunaefni á neyðarleyfi að ræða.  Þannig má segja, að gríðarleg og fordæmalaust umfangsmikil tilraun á mannfólki hafi átt sér stað, sem verður að telja siðlaust athæfi.  "Cuo bono" spurðu Rómverjar, þegar þeir voru hissa á einhverju ?

  Lyfjaiðnaðurinn spilaði undir þessum söng heilbrigðisyfirvalda og græddi óhemju fé á svikinni vöru sinni.  Þetta fé sáldrast víða, og þar eru ekki öll kurl komin til grafar í Evrópu og víðar.  Segja má, að þessi mál séu á óviðunandi spori.  Er kvíðvænlegt að hugsa til næsta faraldurs, sem gæti orðið virkilega skæður, ef stjórn varnanna á að verða með sama markinu brennd. Hverjir hafa heiðarleika, getu og þekkingu til að fara ofan í saumana á þessari ömurlegu reynslu af sóttvörnum hérlendis með það í huga að smíða betri, traustari og löglegar varnir ? 

"Á bak við embættisvaldið og sérfræðingana standa skuggastjórnendur, sem í krafti auðvalds og valdaásælni krefjast undirgefni og samræmdra aðgerða á alþjóðlegan og fordæmalausan mælikvarða.  Bæði austan hafs og vestan eru sjáanleg dauðamörk á lýðræðinu.  Óheillavænleg skautun (pólarísering) hefur orðið á stjórnmálasviðinu, þar sem vinstri- og hægrimenn skiptast á að væna hver annan um öfgar (fasisma/kommúnisma)." 

Þarna er hreint út sagt lýst rotnu samfélagi.  Það verður að stinga á kýlinu og leyfa greftrinum að vella út.  Að réttu ættu Alþingismenn að hafa forgöngu um það.  Hafa þeir vilja, þekkingu og þor ?  Margir þeirra eru lítilla sanda og sæva og velta sér upp úr lýðskrumi, en eftir þá liggur ekkert uppbyggilegt.  Vinstri menn eru ólíklegri til afreka í þessa veru, enda margir hverjir hallir undir embættismannavaldið innlenda og erlenda (ESB).  Eini mannsbragurinn í Kófinu var að hægri mönnum, og þar skaraði Sigríður Andersen fram úr. Það þarf slíkan bóg til að hrista upp í því samansúrraða rotna kerfi, sem Arnar Þór lýsir áferðinni á að ofan. Í lok þessarar sprengjugreinar reit hann:

"Samruni ríkisvalds og stórfyrirtækja, sem nú þegar hefur sogað milljarða [ISK] úr ríkissjóði, hefur vakið upp gráðugan óvætt og kallað stórkostlegan háska yfir lög okkar og rétt.  Ritskoðun, áróður og valdstýring hefur náð því stigi, að lýðræðislegt stjórnarfar og borgaralegt frelsi er í stórhættu.  Til kollega minna í "lögfræðingasamfélaginu" vil ég segja þetta: það er betra að sjá sannleikann, þótt hann sé svartur, en að lifa í blekkingu og þegja."

Þetta er beittasta gagnrýni, sem birzt hefur um langa hríð á lögfræðingastéttina, embættismenn og valdsmenn ríkisins. Embætti sóttvarnarlæknis, vafalaust með samþykki landlæknis, hefur ákveðið að beita sér fyrir bólusetningu barna gegn C-19. Eins og Guðmundur Karl Snæbjörnsson, sérfræðingur í heimilislækningum, hefur sýnt fram á, finnast engin læknisfræðileg rök fyrir þeirri ákvörðun. Við leit á skýringum beinast þá böndin að ályktun Arnars Þórs hér að ofan um "samruna ríkisvalds og stórfyrirtækja". Þessi rotna staða er óviðunandi fyrir skattborgarana og neytendur hinnar opinberu heilbrigðisþjónustu.  Það eru svo gríðarlegir hagsmunaárekstrar í hinum opinbera heilbrigðisgeira að koma í ljós, t.d. við lyfja- og bóluefnaviðskipti, að traust til hans og heilbrigðisstefnu ríkisins hefur beðið hnekki.  Mikil miðstýring á miklu opinberu fé býður upp á mikla spillingu.  Það er lágmark, að embættismenn, eins og landlæknir og sóttvarnarlæknir, geri hreint fyrir sínum dyrum, þegar fyrirspurnum er beint til þeirra, eins og heimilislæknirinn Guðmundur Karl gerði í Morgunblaðsgrein sinni 12.09.2022. 


Að skreyta sig með annarra orkufjöðrum

Í forystugrein Morgunblaðsins 15. september 2022 var orkumálaþáttur stefnuræðu forsætisráðherra kvöldið áður gerður að umfjöllunarefni, eins og verðugt er.  Þar blasti við sá tvískinnungur, hræsni og óheilindi, sem einkennir afstöðu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG) til orkumála, landverndar og loftslagsmála hérlendis. Skörin færist þó upp í bekkinn, þegar formaður VG afneitar sögu sinni, flokksins og rótum þessa flokks (Alþýðubandalagsins).  Það er jafnan ógeðfellt að verða vitni að því, þegar fólk, ekki sízt stjórnmálafólk, með einfeldningslegum hætti tekur að grobba og skreyta sig með annarra manna fjöðrum.  Morgunblaðið benti kurteislega á þetta, en það er engin ástæða til að skafa utan af þessum þætti í fari formanns VG. 

Forystugreinin nefndist:

"Orkumál og skautun",

og gerði stefnuræðu forsætisráðherra nokkur skil:

"Í hinu hnattræna samhengi gat forsætisráðherra ekki stillt sig um að minnast á loftslagsmálin, en í þeim efnum hefði hin endurnýjaða ríkisstjórn sett sér ný markmið til þess að minnka útblástur og sagði landið á "fullri ferð út úr kolefnishagkerfinu - inn í nýtt, grænt hagkerfi, en þar voru Katrínu efst í huga orkuskipti í samgöngum og [á] öðrum sviðum raunar einnig, þar sem öld grænna orkugjafa væri hafin."

Þetta er bölvað fleipur hjá forsætisráðherra.  Losun gróðurhúsalofttegunda 2022 verður sennilega meiri en 2021, svo að ferðin er aftur á bak, ef þetta er ferð.  Það vantar enn forsenduna um "öld grænna orkugjafa".  Hérlendis eru þeir fyrir hendi í náttúrunni, og u.þ.b. helmingur fýsilegra virkjanakosta hefur verið virkjaður, flestir þeirra í andstöðu við vinstri græna og forvera þeirra.  Ekki gleymist hatrömm andstaða Alþýðubandalagsins við virkjun Þjórsár við Búrfell, og sú virkjun er varla til, sem vinstri grænir hafa ekki lagzt gegn. Hvers vegna leyfist Orkustofnun að draga Landsvirkjun á virkjanaleyfi í Neðri-Þjórsá nú í 15 mánuði ?  Það vantar raforku nú í orkuskiptin og eflingu gjaldeyrissköpunar og atvinnu, og þannig verður það fyrirsjáanlega allan þennan áratug.  Þess vegna eru orkuskipti í samgöngum og öðru strönduð, og þessi fagurgali forsætisráðherra um losun koltvíildis og orkuskipti er gjörsamlega innantómur.  Hún talar tveimur tungum og sitt með hvorri og meinar ekkert með öllu saman.  Þetta er ábyrgðarlaust hjal hjá formanni VG. 

"Forsætisráðherra sagði, að Íslendingar væru "í einstakri stöðu til að ná fram orkuskiptum í almannaþágu vegna þess, að réttar ákvarðanir hafa verið teknar".  Undir það má taka, þótt Katrín hafi raunar vanrækt að geta þess, að hún og hennar fólk lögðust gegn öllum þeim framsýnu ákvörðunum á sínum tíma.  Hún rakti og, að það væri mikil gæfa, að Landsvirkjun og Landsnet - helzta orkufyrirtæki landsins og mikilvægasta innviðafyrirtæki þess - væru í almenningseigu."

Hvaða þokuhjal er þetta hjá Katrínu um "réttar ákvarðanir" ?  Er hún að afneita fortíð VG og viðurkenna, að flokkurinn og forveri hans hafi allan tímann haft rangt fyrir sér ?  Það jafngildir sprengingu í herbúðum þursanna, sem leggjast gegn öllum framförum.  Líklegra er, að hún eigi við einhverjar ótaldar ákvarðanir í tíð VG, sem auðvitað þarfnast þá skýringa.  Á hvaða vegferð er þetta furðufyrirbrigði eiginlega, sem hefur jafnan stimplað sig inn sem andstæðingur íslenzks atvinnulífs. 

Hlutverk Landsvirkjunar við stofnun hennar 1965 var að virkja stórt og reisa öflugt flutningskerfi raforku frá virkjunum til notenda, fyrirtækja og almennings.  Hugmyndin var, að stórsala raforku til áliðnaðar mundi fjármagna bæði virkjanir og flutningskerfi.  Það gekk eftir, en þessari hugmyndafræði lagðist Alþýðubandalagið, forveri VG, algerlega gegn. Ef afturhaldsstefna þessara vinstri afla hefði ráðið ríkjum allan tímann, væri hér engin Landsvirkjun og ekkert Landsnet í sinni núverandi mynd.  VG getur ekki einu sinni með réttu þakkað sér, að þessi fyrirtæki bæði eru í ríkiseigu.  VG - flokkur embættismanna og draumóramanna - telur sér nú sæma að skreyta sig með stolnum fjöðrum borgaralegra afla.

""Eins hljótum við að þakka fyrir, að orkukerfið hér á landi er sjálfstætt og undir innlendri stjórn.  Nú þegar raforkuverð í Evrópu er himinhátt - þegar almenningur í Noregi, Þýzkalandi, Bretlandi er jafnvel að borga margfalt verð fyrir hita og rafmagn á við okkur - er augljóst, að við erum í öfundsverðri stöðu", sagði forsætisráðherra, en lét að vísu alveg vera að ræða um orkupakkann í því sambandi."  

Hræsnin lekur af þessum orðum forsætisráðherra.  Hún er svo tvöföld í roðinu, að til háborinnar skammar er. Hún, flokkur hennar og forverar, hafa barizt hatrammlega gegn framförum, sem leitt hafa Íslendinga til núverandi stöðu í orkumálum, og hún situr enn við sinn keip, þegar kemur að leyfisveitingum til nýrra virkjana og flutningslína.  Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra, lyfti ekki litla fingri til að koma í veg fyrir lögleiðingu þess Orkupakka 3, sem nú veldur því, að tíföldun hefur orðið í fjölmennustu fylkjum Noregs á verði rafmagns til heimila, þ.m.t. húshitunar, og til fyrirtækja án langtímasamninga. Hvað ætlar þessi dr Jekyll og Mr Hyde í stóli forsætisráðherra Íslands að gera, þegar Landsnet og Landsreglari ACER á Íslandi hyggjast hrinda af stokkunum kauphöll raforku á Íslandi, þar sem tiltæk raforka verður falboðin á uppboðsmarkaði með þeim óhjákvæmilegu afleiðingum, að raforkuverð til almennings mun snarhækka samkvæmt lögmálinu um framboð og eftirspurn ?

"Aftur ítrekaði hún, að þetta væri vegna þess, að góðar og framsýnar ákvarðanir hefðu verið teknar hingað til, þótt Vinstri-græn hafi verið á öndverðum meiði.  Það er ekki nefnt forsætisráðherra og flokki hennar til lasts.  Þvert á móti ber að fagna aukinni samstöðu um þessi grundvallarmál, því [að] Ísland á, líkt og önnur lönd, allt sitt undir orkugnægð og enn frekar, þegar horft er til framtíðar og bættra lífskjara til frambúðar.  

Þessu virðist forsætisráðherra átta sig á og eins hinu, að miklu skipti, hvernig fram verður haldið.  Katrín sagði, að þegar kæmi að orkuskiptum og orkuframleiðslu væri frumskylda stjórnvalda við íslenzkan almenning."

Það er óráðlegt að ráða svona bjartsýnislega í orð forsætisráðherra, sem er hræsnari af Guðs náð og tvöföld í roðinu.  Hvað meinti hún með ræðunni.  Var verið að boða stefnubreytingu VG, "die Wende", eða vendipunkt, eins og hjá Olaf Scholz, kanzlara ?  Það er hægt að túlka loðmullu, eins og að "frumskylda stjórnvalda [sé] við íslenzkan almenning" með ýmsu móti.  Nema hvað ?  Hingað til hefur þessi skylda VG verið, að standa vörð um óraskaða náttúru Íslands, sem er della, því að þessi náttúra er sífelldum breytingum undirorpin, en Mogginn er yfir sig bjartsýnn og spáir vendipunkti hjá VG.  Guð láti gott á vita, en VG er forstokkaður ríkisafskipta- og afturhaldsflokkur, sem hefur ekki enn orðið fyrir vitrun: 

"Þarna er um afar afdráttarlausa stefnumörkun að ræða, og hún sætir nokkrum tíðindum, ekki sízt fyrir Vinstri-græn.  Þar á bænum hafa menn verið ákaflega tvístígandi í þessum efnum, þar sem á togast ýmis illsamrýmanleg grundvallarmarkmið um loftslag eða landvernd, bætt kjör almennings eða skerta neyzlu hans.  Nú hefur það skýrzt til muna, og það er vel."

Höfundur þessa vefpistils er engu nær og spáir engum breytingum hjá afturhaldinu.  Forsætisráðherra gasprar og geiflar sig.  Þegar hún hittir Jens Stoltenberg, er hún ötull baráttumaður bættra varna Vesturlanda gegn ofbeldinu í austri, sem engu eirir, þótt hún pakki umræðunni inn í óskiljanlegt jafnréttismálskrúð um jafnrétti innan NATO.  Hér heima er hún á móti þátttöku Íslands í NATO.  Þessi ruglandi nægir til að æra óstöðugan. Formaður VG hefur reynzt ófær um að marka flokkinum skýra stefnu í orkumálum, enda gerast kaupin ekki þannig á eyrinni þar á bæ, en Mogginn hefur tekið það að sér í lok forystugreinarinnar.  Forsætisráðherra ætti að vera þakklát fyrir:

"Af fyrrnefndum varnagla [forsætisráðherra, ábyrg orkunýting í sátt við náttúruna og í þágu almennings] má einnig draga ályktanir um, að Vinstri-græn geri ekki athugasemdir við orkuöflun fyrir landsmenn, en vilji síður, að hún komi útlendingum til góða.  Það vekur hins vegar spurningar um, hversu mikil alvara fylgir heitstrengingum Vinstri-grænna um loftslagsmálin eða vorkunn vegna orkukreppu í Evrópu.  Nú eða hvernig eigi að tryggja bætt lífskjör til frambúðar. 

Undir lok stefnuræðunnar sagði forsætisráðherra, að á "tímum skautunar og einstefnustjórnmála [skipti] miklu að ná saman um framfaraskref fyrir samfélagið allt".  Það er ánægjulegt, að ríkisstjórnin gangi þar á undan með góðu fordæmi málamiðlunar og miklu skiptir, hvernig verður fram haldið."

Það er smásmyglislegt útúrborusjónarmið VG, sem býr að baki einhvers konar útilokunarþörf gagnvart eðlilegri þróun og viðgangi erlendra fjárfestinga í landinu. Þetta er gamalkunnugt stef frá Alþýðubandalaginu, en stingur auðvitað gjörsamlega í stúf við inntak EES-samningsins.  Vinstri-grænir lögðust ekki gegn Orkupakka 3, sem þó fól útlendingum mikilvæg ítök í íslenzkum orkumálum, en nú á að mismuna fyrirtækjum í erlendri eigu á Íslandi, þegar kemur að orkuafhendingu hérlendis.  Þessi tvískinnungur forsætisráðherra í orkumálum er fyrir neðan allar hellur, gjörsamlega óboðlegur, enda siðlaus.

Það fylgir alls engin alvara heitstrengingum vinstri-grænna, sem Morgunblaðið gerir hér að umræðuefni.  Nýjar og miklar virkjanaframkvæmdir eru forsenda allra framfara á sviði orkuskipta og loftslagsmála á Íslandi, og hjá VG hefur alls engin afstöðubreyting orðið til þessara mála, hvað sem túðri forsætisráðherra í ræðustóli Alþingis líður.      

 

 


Misheppnaðir gjörningar í orkumálum

Stjórnmálamönnum er fullljóst, hvers konar lykilhlutverki frumorka hvers konar og raforkuvinnsla úr henni gegna í þjóðfélögum nútímans, en þeim eru þó mörgum hverjum mjög mislagðar hendur, þegar kemur að hlutverki þeirra sjálfra við mótun og framkvæmd orkustefnu fyrir sín samfélög. Að fjalla af viti um orkumál krefst þekkingar, sem er eðlilega ekki á allra færi, enda skripla þar margir á skötunni. Það er aðeins tvennt, sem hægt er með sanngirni að gera kröfu til stjórnmálamanna á Vesturlöndum, að þeir geri fyrir orkumál landa sinna:

(1) að tryggja heimilum og atvinnulífinu viðunandi orkuöryggi, þ.e. nægt orkuframboð til að fullnægja eftirspurn m.v. verð á hverjum tíma og (2) framboð frumorku sé nægt til að halda einingarverði orkunnar tiltölulegu stöðugu, t.d. sveiflur minni en +/- 30 % frá ársmeðaltali. 

Það er öllum ljóst, að yfirvöldum í Evrópu hefur tekizt þetta hrapallega. Þeir settu á laggirnar markaðskerfi raforku, sem var ekki hannað fyrir frumorkuskort.  Þvert á móti verður alltaf að vera nægt framboð frumorku, til að uppboðskerfi raforku, reist á jaðarkostnaðarreglu, virki. Nú er raforkuverð í Evrópu hátt yfir meðalkostnaði raforkuvinnslunnar, og þess vegna er mikill gróði hjá raforkuframleiðendum öðrum en gasorkuverum.  Á meðal raforkusölufyrirtækja er hins vegar tap og getur blasað við gjaldþrot, þar sem selt hefur verið fram í tímann á gamla verðinu.

Samið var við einræðisríki, með ofbeldisfulla og árásargjarna sögu, um kaup á frumorku í miklum mæli án tiltækra varaleiða.  Nú hefur þetta einræðisríki sýnt sitt rétta andlit og notfært sér stöðu sína á orkumarkaðinum í tilraun til að knýja fram vilja sinn á öðrum sviðum, þ.e. til að dregið verði úr refsiaðgerðum á þetta hryðjuverkaríki vegna villimannlegrar og óréttlætanlegrar innrásar í lýðræðislegt og friðsamlegt nágrannaríki. Einræðisríkið hefur reynt að búa til orkuskort í Evrópu.  Þær tilraunir hafa enn ekki leitt til beins skorts, en verðið hefur margfaldazt á eldsneytisgasi, en er nú tekið að falla aftur á jarðolíu og jafnvel á jarðgasinu líka vegna aukins framboðs annarra og minni eftirspurnar frá Kína. Notendur hafa líka dregið úr notkun jarðgass, svo að betur gengur að safna vetrarbirgðum en óttazt var snemmsumars.  

Þetta sýnir, hversu mikilvægt er, að yfirvöld og birgjar hafi vakandi auga fyrir áhættuþáttum á framboðshliðinni.  Það er ekki nóg að stýra flutningskerfunum í smáatriðum og veita nákvæma forskrift um markaðssetningu orkunnar, í þessu tilviki um uppboðsmarkað í orkukauphöll, eins og Evrópusambandið (ESB) gerir með gölluðum hætti, ef framboðshliðin er vanrækt.

Þessi veikleiki á líka við um Ísland, þótt öðruvísi sé.  Hér hafa stjórnmálamenn og embættismenn búið til stjórnkerfi, sem er með slíkum böggum hildar, að það hefur bæði búið til staðbundinn raforkuskort vegna úrelts flutningskerfis og tímabundinn heildar afl- og orkuskort vegna tregðu við að veita framkvæmdaleyfi. Að þetta skuli gerast í orkuríkasta landi Evrópu frá náttúrunnar hendi m.v. fjölda íbúa, þar sem ætti að vera auðveldara að skapa gegnsætt og skilvirkt stjórnkerfi en annars staðar vegna fámennis, er sorgarsaga. Það er mjög fátt, ef nokkuð, sem virðist ganga hnökralaust, þar sem stjórnmálamenn og embættismenn eru í aðalhlutverkum.

  Það er þess vegna mikilvægt stefnumál að einfalda og straumlínulaga stjórnsýsluna og draga úr áhrifum embættismanna á þjóðfélagsstarfsemina á öllum sviðum, þar sem flöskuhálsar koma í ljós. Þetta er hægara sagt en gert, því að varðhundar kerfisins eru fjölmennir í pólitíkinni.

  Þann 9. september 2022 gerðu Staksteinar Morgunblaðsins pistil Jóns Magnússonar, lögmanns, um orkumálin skil undir fyrirsögninni:

"Kuldaleg örbirgð".

"Stjórnmálastétt Evrópu hefur um árabil hamazt við að loka orkuverum og stuðla að svo nefndum orkuskiptum til þess að koma í veg fyrir hlýnun af mannavöldum.  Afleiðingin er hærra orkuverð til neytenda og heljartak Rússa á orkusölu."

Téð stjórnmálastétt hefur gert allt með öfugum klónum. Hún hefur tekið gríðarlega og óverjandi áhættu á framboðshliðinni, og í Evrópusambandinu hefur hún ekki gert neinar vitrænar og róttækar ráðstafanir, sem duga til að draga úr losun koltvíildis við orkuvinnslu og orkunotkun.  Ráðstafanirnar, sem mundu duga Evrópumönnum í þessum efnum, er að reisa kjarnorkuver og loka kolaorkuverum, þegar framboð raforku er orðið nægt.  Þess í stað hafa þeir fordæmt kjarnorkuna og lokað kjarnorkuverum.  Allar stærstu gjörðir þeirra í orkumálum hafa gert illt verra, svo að engu er líkara en þessir stjórnmálamenn hafi einfaldlega verið strengjabrúður Pútíns, og að Angela Merkel hafi þar leikið aðalhlutverkið.  Arfleifð hennar er afleit.  Hún beitti sér t.d. fyrir banni Sambandsþingsins í Reichstag á gasvinnslu með vökvaþrýstingi neðanjarðar, sem Pútín laug að henni, að væri stórhættuleg, en engin dæmi voru þó um umhverfisslys af þessum völdum áður í Þýzkalandi.  Græningjar sem ríkisstjórnarflokkur í Berlín eru nú að vinda ofan af hverri vitleysunni á fætur annarri í sinni stefnu, hvort sem um er að ræða skinhelgi í hermálum eða dellu í umhverfismálum.  Þýzkalandi verður þó vart mörkuð leiðandi og lífvænleg framtíðarstefna fyrr en Friedrich Merz, formaður CDU, sem Merkel bolaði burt,  tekur við keflinu í "Kanzleramt" í Berlín.

"Afleiðing af glórulausu ofstæki í orkumálum og hjátrú loftslagsbreytinga verður til þess, að í vetur verður helkuldi víða á heimilum í Evrópu, af því að fólk hefur ekki efni á að hita upp.  Framleiðsla dregst saman og örbirgð eykst vegna minni þjóðarframleiðslu." 

Ekki er líklegt, að þessi helkuldaspádómur á mörgum heimilum rætist vegna þess, að markaðskraftarnir eru fljótir að taka við sér. Bæði olíu- og gasverð fer nú lækkandi.  Bretar o.fl. munu sennilega geta aukið gasvinnslu sína í haust og vetur að tilhlutan Liz Truss, enda til mikils að vinna. Þýzkum fyrirtækjum hefur á undraskömmum tíma tekizt að draga stórlega úr gasþörf sinni án þess, að komi niður að ráði á framleiðslunni. Afkomendum þeirra, sem héldu uppi fullri hergagnaframleiðslu fyrir Wehrmacht með allt í rúst ofanjarðar, er ekki fisjað saman.  Tapararnir eru Moskvumenn, sem enn á ný sýna af sér arfaslaka herstjórn, misreiknuðu sig á öllum vígstöðvum og tókst ekki að knýja skjálfandi Evrópumenn á hnén núna með því að skrúfa fyrir eldsneytisgasið til þeirra.  Með villimannlegum tilburðum sínum á öllum vígstöðvum hafa þeir bitið af sér beztu kúnnana um alla framtíð.  Fyrir vikið bíður þeirra að lepja dauðann úr skel.

"Kaldhæðni örlaganna verður þá, að fjöldi þeirra, sem deyja úr kulda í Evrópu margfaldast vegna tilrauna stjórnmálastéttarinnar til að koma í veg fyrir, að fólk deyi úr hita.  Því miður virðist íslenzka stjórnmálastéttin jafnlangt gengin í ruglandanum og sú evrópska og hefur skuldbundið þjóðina til að greiða milljarðatugi á næstu árum á grundvelli Parísarsamkomulagsins svo nefnda, sennilega af því að fólki finnst vera allt of hlýtt á Íslandi." 

Kjarni þessa boðskapar er, að það er kolröng forgangsröðun á ferðinni í Evrópu allri í orkumálunum. Framboðshliðin hefur verið hundsuð.  Það er skylda stjórnmálamanna í nútíma þjóðfélögum að sjá til þess, að jafnan sé til næg raforka og orka til upphitunar á viðráðanlegu verði fyrir alla borgarana og atvinnureksturinn.  Inngrip stjórnmálamanna hafa verið þveröfug.  Þeir hafa lagt frumorkuafhendinguna í hendur ofbeldisfulls einræðisherra, sem um langa hríð er búinn að láta í ljós opinberlega vitstola hugmyndir um nýlendustríð til að endurreisa kúgunarstöðu Rússa yfir öðrum Slövum og Eystrasaltsþjóðunum, jafnvel Finnum.  Þeir hafa niðurgreitt raforku frá vindmyllum og sólarhlöðum, sem valda miklu álagi á náttúruna við öflun efna og þurfa stóran flöt á afleiningu og eru algerlega óáreiðanlegur aflgjafi.  Þeir hafa útilokað þá gerð orkuvera, sem ein getur víðast hvar leyst orkuver knúin jarðefnaeldsneyti af hólmi, þ.e. kjarnorkuverin.  Á Íslandi virðast þeir vera á góðri leið með að útiloka hagkvæmustu og umhverfisvænstu tæknina, þ.e. þá, sem felst í að beizla fallorku vatns. Allt, sem stjórnmálamenn hafa aðhafzt í orkumálum, er markað sérvizku og dómgreindarleysi. 

Afleiðingin er sú, að hjakkað er í sama farinu varðandi losun gróðurhúsalofttegunda, orkuverðið í Evrópu er orðið svimandi hátt, og fleira fólk mun deyja úr kulda í vetur í Evrópu en dó af völdum hás hitastigs í sumar.  Að Íslendingar skuli hafa verið skuldbundnir með jafnóábyrgum hætti og raun ber vitni um varðandi samdrátt losunar koltvíildis að viðlögðum þungum fésektum er til vitnis um, að ráðamenn eru á valdi sefasýkilegs áróðurs um heimsendi handan við hornið.  Sá heimsendir kæmi ekki 5 mínútum fyrr, þótt Íslendingar ykju bara losun sína í samræmi við hagvöxt, því að það munar nánast ekkert um losunina innan lögsögu Íslands, enda er um 85 % orkunotkunarinnar úr umhverfisvænum orkulindum.  Það leika ekki margar þjóðir eftir. 

Þetta hrikalega sjálfskaparvíti meginlandsmanna og Breta í orkumálum er vatn á myllu þeirra Evrópumanna, sem framleiða allt sitt rafmagn án aðkomu jarðefnaeldsneytis, en það eru líklega bara frændþjóðirnar, Norðmenn og Íslendingar. Norðmenn sitja hins vegar með skeggið í póstkassanum, eins og þeir taka til orða sjálfir um þá, sem verður á í messunni, því að menn með þá pólitísku trú, að vist í fangi Evrópusambandsins sé frelsandi fyrir Norðmenn, börðu Stórþingið til hlýðni (þetta á aðallega við um Verkamannaflokkinn), svo að það samþykkti innleiðingu Orkupakka 3 í norka lagasafnið. Með því lét Stórþingið völdin yfir millilandaflutningum raforku til og frá Noregi í hendur ACER-Orkustofu ESB vitandi vits, því að margsinnis var varað við þessu í ræðu og riti innan þings og utan.  Nú sitja íbúar Noregs, nema norðurhlutans, uppi með Svarta-Péturinn og u.þ.b. tífalt hærra raforkuverð en eðlilegt getur talizt m.v. aðstæður í Noregi, og ríkisstjórnin getur ekki ákveðið að hætta útflutninginum til að safna vetrarforða í miðlunarlónin vegna OP3.  Ola Nordmann og Kari eru ekki ánægð með þetta. 

Í þessu orkuríka landi, Noregi, frá náttúrunnar hendi kemur þetta ástand líka niður á orkukræfum iðnaði, því að hann er ekki með langtímasamninga, sem spanna alla orkuþörf hans.  Þannig er Norsk Hydro að draga saman seglin í áliðnaðinum í Noregi, og hefði það einhvern tímann þótt vera saga til næsta bæjar m.v. markaðstæður núna og markaðshorfur, þegar álver annars staðar án aðgangs að raforku frá vatnsorkuverum eru að leggja upp laupana eða a.m.k. að minnka umsvifin vegna þrúgandi hás orkuverðs.  Stór hluti Mittelstand í Þýzkalandi, sem er samheiti eigenda smárra og meðalstórra iðnaðarfyrirtækja, oft fjölskyldufyrirtækja í nokkra ættliði á sérhæfðu sviði, segjast ekki lengur vera samkeppnishæfir á mörkuðum, því að þeir þurfi að borga tífalt hærra orkuverð en samkeppnisaðilar, t.d. í Bandaríkjunum.  Grundvöllur atvinnulífs í ESB er að bresta með kreppu sem afleiðingu vegna algerlega misheppnaðrar orkustefnu Þýzkalands og ESB. 

Þann 9. september 2022 birtist frétt með viðtali við Þórð Gunnarsson, hagfræðing, undir fyrirsögninni:

"Orkukreppan gæti kallað á lokun fleiri álvera í Evrópu".

  Um þessa fyrirsögn má segja, að eins dauði er annars brauð (Eines Tot einem anderen Brot), því að bann við Rússaáli, tollur á Kínaál og stöðvun kerskála í Evrópu vegna hás orkuverðs ætti að skapa grundvöll fyrir meiri eftirspurn en framboð af áli og þar með hátt verð á því.  Það skapar grundvöll til aukinna fjárfestinga hérlendis, góðs hagnaðar íslenzkra orkufyrirtækja og þar með ávöxtun eigendanna á eigin fé í orkuverunum.

Í fréttinni sagði m.a.:

"Haft var eftir Clive Moffatt, sérfræðingi í orkumálum, í viðtalsþætti Nigel Farage á GB News, að verkfræðingar hefðu verið boðaðir til fundar vegna áætlana um að hefja á ný raforkuframleiðslu úr kolum í Drax-raforkuverinu á Bretlandi.

Þórður [Gunnarsson, hagfræðingur] segir aðspurður, að heyrzt hafi óstaðfestar fréttir um slík áform, en taka muni nokkurn tíma að endurræsa kolaorkuverin.  Þá sé til skoðunar að aflétta banni  við vinnslu jarðgass með bergbroti í Bretlandi, en henni sé hægt að koma í gagnið á nokkrum mánuðum. 

Að sama skapi sé til umræðu í Hollandi að hefja á ný vinnslu jarðgass úr Groningen-gaslindinni, en henni hafi verið hætt vegna loftslagsmála."

Það er grundvallar skilyrði, að forgangsraðað sé í þágu fólksins, en í orkumálunum fer því fjarri, að það hafi verið gert í Evrópu. Í fyrsta forgangi er að útvega næga raforku á viðráðanlegu verði fyrir almenning.  Þess vegna verður núna að kveikja upp í öllum fáanlegum kötlum, sem knúið geta rafala,  og jafnvel hitað vatn til upphitunar húsnæðis ásamt því að afla allrar fáanlegrar frumorku innanlands og þess, sem á vantar erlendis frá utan Rússlands, sem skrúfað getur hvenær sem er fyrir allar lagnir, sem það ræður yfir, til Vesturlanda, auk Nord Stream 1 og 2, sem eru lokaðar. 

Fysta krafan er að hindra straumleysi, að gera fólki kleift að hita híbýli sín.  Losun Evrópu á koltvíildi í fáein ár mun hvort sem er engum sköpum skipta um hlýnun jarðar. Stjórnmálamenn eru búnir að valda miklu tjóni með rangri forgangsröðun.  Það er hægt að bæta birgðastöðu eldsneytisgass með því að leyfa aftur vinnslu þess á landi úr setlögum með því að beita vökvaþrýstingi neðanjarðar, en það var ein af vitleysum stjórnmálamanna á fyrstu tveimur áratugum þessarar aldar, t.d. Angelu Merkel, að banna þessa vinnslu vegna ímyndaðrar umhverfisvár, en aldrei hafði orðið nokkurt umhverfisslys af þessum völdum í Þýzkalandi.  Það er eins og Merkel hafi gert sér leik að því að gera Þjóðverja berskjaldaða gagnvart Rússum, þegar þeim dytti í hug að loka fyrir gasið.  

""Nýlega var samþykkt á Evrópuþinginu, að fjárfestingar í raforkuframleiðslu úr gasi flokkist sem grænar. Markmið í loftslagsmálum eru ekki efst á baugi núna, heldur snýst málið um, hvort fólk krókni úr kulda í vetur", segir Þórður."

Þarna lýsir Þórður Gunnarsson, hvert vitlaus forgangsröðun stjórnmálamanna í orkumálum hefur leitt Evrópubúa.  Engir hafa eytt meira af skattpeningum íbúanna í niðurgreiðslur á raforku úr vindmyllum og sólarhlöðum.  Nú, þegar hæst á að hóa, er ekkert hægt að reiða sig á þessar kjánalegu fjárfestingar.  Áður en orkuver knúin jarðefnaeldsneyti eru lögð niður, verður að vera búið að reisa orkuver án koltvíildislosunar, sem geta tekið við, t.d. kjarnorkuver. 

Að reiða sig á mikilvæga aðdrætti frá einræðisríki, sem hefðbundið hefur stundað nýlendukúgun í Evrópu, og var jafnvel með grimmilega árásarsögu á 21. öldinni fyrir 24. febrúar 2022, er svo mikil blindni og grafalvarlegur barnaskapur, að það er ekki einleikið, og hafa grunsemdir um fláræði vaknað af minna tilefni. 

Hér á Íslandi hafa draumlyndir stjórnmálamenn skuldbundið þjóðina um minnkun losunar koltvíildis 2030, sem er óraunhæf með öllu án verulegrar kjaraskerðingar, en láta þó Orkustofnun komast upp með að láta útgáfu virkjanaleyfa, t.d. fyrir Hvammsvirkjun, dankast. Þegar kemur að orkumálum, nær framlag stjórnmálamanna ekki máli og veldur miklu samfélagslegu tjóni. Tvískinnungur og hræsni eru aldrei vænleg fyrir árangur í þágu fólksins í stjórnmálunum.  

Að lokum stóð í þessari frétt:

"Spurður um stöðuna í Frakklandi segir Þórður, að vegna lítillar úrkomu hafi kjarnorkuver þar í landi verið keyrð með 30 %-40 % afköstum í sumar, enda hafi skort kælivatn fyrir kjarnakljúfana.  Það hafi birzt í orkuverðinu í sumar, sem hafi oft og tíðum verið hærra en í Þýzkalandi.

"Ríki, eins og Frakkland og Þýzkaland, munu komast í gegnum þetta, en þurfa að borga mikið fyrir orkuna.  Ef Rússar halda áfram að skrúfa fyrir gasið, er fátt, sem bendir til, að orkuverð muni lækka mikið [í Evrópu á næstunni], nema það verði meiri háttar kreppa og stórnotendur raforku stöðvi framleiðslu", segir Þórður."

Í Frakklandi er nú lögmál Murphys að verki, þ.e. það slæma, sem getur gerzt, gerist á versta tíma.  Umfangsmikið fyrirbyggjandi viðhald eftir ástandsgreiningu margra kjarnorkuvera var ekki talið mega bíða.  Á sama tíma hefur vatnsorkuverin skort vatn.  Afleiðingin er sú ótrúlega staða, að raforkuverð í Frakklandi hefur um hríð verið hærra en í Þýzkalandi.  Gallarnir sitja ekki uppi með græningja í ríkisstjórn, eins og nágrannarnir austan Rínar, og hafa þess vegna tekið þá rökréttu ákvörðun að setja kraft í að reisa um 6 ný kjarnorkuver, en slík vitræn ákvörðun vefst fyrir Germönum, sem hafa ekki einu sinni ákveðið að fresta lokun 3 síðustu kjarnorkuvera sinna.  Öðru vísi mér áður brá. Neyðin mun þó kenna nakinni konu að spinna sem forðum.  

   

 

 

 

 

 


Orkupakki 4 í dvala

Það er að vonum á örlagatímum, þegar orkan í öllum sínum myndum er í brennidepli, að umræðan um Orkupakka 4 (OP4), nýjustu endurskoðun Evrópusambandsins (ESB) á orkulöggjöf sinni, hafi um sinn hafizt aftur í Noregi. Annar stjórnarflokkurinn, Senterpartiet (Sp-Miðflokkurinn) hefur nú samþykkt í flokksstofnunum sínum að leggjast gegn innleiðingu þessarar ESB-orkulöggjafar í norskan rétt.  Þar með er loku fyrir það skotið, að núverandi ríkisstjórn Noregs muni samþykkja, að OP4 verði vakinn úr dvala á vettvangi EFTA, og þar með verður hann ekki tekinn á dagskrá Sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem fjallar um alla löggjöf ESB, sem Sambandið vill, að EFTA-lönd EES-samningsins innleiði hjá sér. 

Nú hefur hinn stjórnarflokkurinn, Verkamannaflokkurinn (Ap-Arbeiderpartiet), og aðrir flokkar á Stórþinginu, sem á sínum tíma greiddu götu OP3 inn í norskan rétt,  áttað sig á því, að ekki eru öll 8 skilyrði þeirra fyrir að fallast á norska innleiðingu OP3 uppfyllt, eins og andstæðingar OP3 sögðu raunar fyrir um.  Ap hélt því fram, að opinbert eignarhald á mörgum vænum virkjunum og Statnett, sem á allar millilandatengingarnar við Noreg, mundi duga til að varðveita stjórnunarrétt ríkisins á nýtingu orkulinda Noregs.  Annað er nú komið á daginn. 

Vatnsstaða miðlunarlóna austanverðs og sunnanverðs Noregs er svo lág núna m.v. árstíma, að samhljómur er á meðal stjórnmálamanna um, að nú sé brýnt fyrir Noreg að hætta að flytja raforku til útlanda, á meðan safnað sé vetrarforða í miðlunarlónin. Hvað gerist þá ?  ACER-Orkustofa ESB neitar að láta stjórnun millilandaflutninganna af hendi, og ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem á að fylgjast með framfylgd EES-samningsins í EFTA-löndunum, rýkur út með opinbera tilkynningu um, að yfirtaka norskra stjórnvalda á stjórnun orkuflutninga millilandatenginga muni verða túlkuð af ESA sem brot á EES-samninginum og muni framkalla alvarleg mótmæli frá ESA og, ef nauðsyn krefur, að norska ríkið verði dregið fyrir EFTA-dómstólinn til að svara fyrir gjörninginn. 

Þessi hjálparvana staða norska ríkisins í orkumálum kemur á versta tíma fyrir stjórnmálaflokkana, sem studdu OP3 árið 2018, því að raforkuverðið hefur hækkað upp úr öllu valdi í framangreindum landshlutum, þar sem vatnsstaða miðlunarlónanna er bágborin og  áhrifa millilandastrengjanna gætir á raforkumarkaðinn.  Athuguð var staða miðlunarlóna í % af hámarksfyllingu 09.09.2022 og raforkuverð í ISK/kWh 10.09.2022:

  • Austurlandið------67,1 %------57,6 ISK/kWh
  • Suðurlandið-------50,3 %------57,6 ISK/kWh
  • Vesturlandið------69,8 %------57,6 ISK/kWh
  • Mið-Noregur-------83,1 %------15,5 ISK/kWh
  • Norður-Nor--------92,0 %-------5,7 ISK/kWh

Lónfylling í Noregi í heild er aðeins 68,5 % og lækkandi, sem er ófullnægjandi forðastaða fyrir veturinn.  Hún er lökust, þar sem áhrif hinna öflugu sæstrengja til útlanda eru mest, en verðáhrifa millilandatenginganna gætir alls staðar, nema í Norður-Noregi.  Þar er lónsstaðan og heildsöluverð raforku á svipuðu róli og á Íslandi um þessar mundir. 

Með hliðsjón af þessari reynslu Norðmanna er með eindæmum að hlýða á einn af framkvæmdastjórum  Landsvirkjunar í kvöldfréttum RÚV 08.09.2022 halda því fram, að óljóst sé, hver verðáhrif millilandatengingar með aflsæstreng frá Bretlandi eða meginlandinu til Íslands yrðu hérlendis. Þau yrðu háð flutningsgetu millilandatengingarinnar og vatnsstöðunni hér, en t.d. 1000 MW sæstrengur mundi hafa róttæk áhrif á vatnsstöðu íslenzkra miðlunarlóna til hins verra í núverandi markaðsstöðu, því að nánast alltaf væri arðsamara út frá þröngum sjónarmiðum virkjanaeigenda að selja raforkuna utan en innanlands.  Sá gjörningur yrði hins vegar ekki þjóðhagslega hagkvæmur, því að raforkuverðið hér mundi togast upp í áttina að verðinu erlendis, eins og reyndin er í Noregi, þar sem allt að tíföldun raforkuverðs er afleiðing millilandatenginganna um þessar mundir. Tíföldun raforkuútgjalda heimila og almennra fyrirtækja hefði skelfileg efnahagsáhrif hér og mundi stórskaða samkeppnisstöðu, sem þegar á í vök að verjast. Hlutverki Landsvirkjunar samkvæmt lögum um hana yrði þá bókstaflega snúið á haus.  Það verður tafarlaust að gera þá lágmarkskröfu til stjórnenda Landsvirkjunar, að þeir mæti ekki ólesnir í tíma, heldur geri sér grein fyrir þessum sannindum, sem nú eru fyrir framan nefið á þeim í Noregi.  

Á Íslandi er nú miklu meiri spurn eftir raforku en framboð, og þannig mun staðan fyrirsjáanlega verða allan þennan áratug.  Þegar af þeirri ástæðu er tómt mál að tala um að tengja raforkukerfi landsins við útlönd.  Hér þarf nú að bretta upp ermar og hefja virkjunarframkvæmdir, sem eitthvað munar um.  Það er nóg af kaupendum, sem vilja greiða nógu hátt verð fyrir rafmagn til nýtingar á Íslandi, til að nánast allir virkjunarkostir hérlendis gætu verið afar afar arðsamir.     

   


Frelsisstríð og auðlindastríð

Það er þyngra en tárum taki, að þjóð í Evrópu skuli þurfa að heyja stríð til varnar frelsi sínu og fullveldi og þar með til að koma í veg fyrir að verða enn á ný hneppt í ánauð grimmra, villimannlegra og frumstæðra árásarseggja í austri. Úkraínumenn eru á hærra menntunar- og menningarstigi en Rússar almennt.  Frelsisandinn hefur jafnan verið ríkur í brjóstum þeirra og dugar að nefna forfeður þeirra, kósakkana. Þeir vilja þess vegna mun fremur halla sér að Vesturlöndum en að Rússlandi um menningartengsl, viðskipti og stjórnarfar, og þetta þolir ofríkisgaurinn í Kreml ekki. Úkraínumenn þekkja til rússneskrar kúgunar af biturri reynslu. Hvorki forseti Rússlands né aðrir Rússar eiga að ráða neinu um stjórnskipun og stjórnarfar í nágrannaríkjum Rússlands, ekki frekar en Spánverjar eiga að ráða um málefni Portúgala.

  Sagt er, að án Úkraínu hefðu Ráðstjórnarríkin vart verið annað en svipur hjá sjón. Það veitir þó að sjálfsögðu hinum fjölmennari og landmeiri Rússum engan rétt til að heyja landvinningastríð gegn Úkraínumönnum sem hvert annað illvígt nýlendustríð. Vesturlöndum hefur orðið á í messunni, að Rússar skyldu nú dirfast að rjúfa friðinn í Evrópu með stórfelldu árásarstríði. Evrópskir stjórnmálamenn gerðu grafalvarleg mistök með þeirri óverjanlegu áhættutöku að veita Úkraínumönnum enga öryggistryggingu og með því að setja eigin þjóðir í orkusnöru Kremlverja. Nú líður Evrópa öll fyrir þessi pólitísku mistök í öryggismálum.

Sárabót er, að Svíþjóð og Finnland leita nú inngöngu í NATO, og NATO verður að tryggja upphafleg (1991) landamæri sjálfstæðrar Úkraínu, svo að Úkraínumenn geti um frjálst höfuð strokið í framtíðinni. 

Úkraína að austurhéruðunum og Krímskaga og lögsögu hans út í Svartahafið meðtöldum er gríðarlega auðugt landsvæði og sjávarbotn frá náttúrunnar hendi. Í Úkraínu, ekki sízt í austur- og suðurhlutanum, er t.d. hægt að vinna gríðarlega mikið af eldsneytisgasi með því að beita vökvaþrýstingi neðanjarðar (e. fracking). Hins vegar hefur komið í ljós, að enn betri horfur eru á vænum gasforðabúrum undir botni Svartahafs.  Þar eru svo miklar birgðir af eldsneyti, að séð gætu allri Evrópu vestan Rússlands fyrir allri sinni gasþörf um áratugaskeið eða svo lengi, sem þörf krefur, þar til orkuskipti hafa farið fram. Rússland hefur nú lokað fyrir Nord Stream 1 og þar með jarðsett allan snefil af trausti Evrópuríkjanna til Rússlands sem eldsneytisbirgis.  Ef Úkraínu tekst að endurheimta sín réttmætu landsvæði m.v. landamærin 1991-2014, þá bíður hennar vonandi björt framtíð sem lýðræðislegt velferðarríki, eins og hugur almennings þar stendur til, á traustum efnahagslegum grunni.  Um þetta er barizt. 

Það er með endemum, að einræðisseggur í Moskvu með innistæðulausa stórveldisdrauma skuli dirfast að ráðast inn í nágrannaland til að troða upp á það frumstæðum og spilltum stjórnarháttum sínum og framhald á langvinnri kúgun.  Honum og meðreiðarsveinum hans verður að kenna sína lexíu. Niðurlæging Rússlands er mikil orðin, þegar stjórnvöld þar leita til útlagaríkisins Norður-Kóreu um kaup á vopnabúnaði, eins og nú berast tíðindi af. Settu Kínverjar afarkosti ?  

Forystugrein Morgunblaðsins 25. ágúst 2022 fjallaði um það helvíti á jörðu, sem villimennirnir austan við Úkraínumenn bjóða þeim upp á núna:

 "Hálft ár af hörmungum".

Þar stóð m.a.:

"Með það í huga [viðhorf Rússa til Úkraínumanna - innsk. BJo] verður sú spurning áleitin, hvernig friður geti á endanum náðst, ef endanlegt markmið Rússa er að ná yfirráðum í Úkraínu.  Slík niðurstaða yrði einfaldlega óviðunandi fyrir hinn vestræna heim, enda yrði þá staðfest, að alþjóðalög væru til einskis og að nú gilti hnefarétturinn einn.  Hver yrðu þá örlög annarra svæða, sem búa við hlið ágengra nágranna, sem ásælast þau ?

Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu, orðaði það nýlega svo, að Úkraínumenn yrðu að berjast á hverjum einasta degi, til þess að hvert einasta mannsbarn gæti skilið, að Úkraína væri ekki hjálenda, skattland eða eign nokkurs heimsveldis, heldur "frjálst, fullvalda, ósundranlegt og sjálfstætt ríki".  Í þessum orðum felst, að Úkraínumenn telja sér heldur ekki fært neitt annað en að berjast til annaðhvort sigurs eða hinztu stundar."

Þarna er vel komizt að orði um langstærsta viðfangsefni samtímans. Vesturlönd standa frammi fyrir því vali að láta engan bilbug á sér finna í vetur, þótt orkuskortur og dýrtíð kunni að sverfa að fólki, á meðan beztu synir og dætur Úkraínu falla á vígvellinum í vörn fyrir sjálfsagðan rétt þjóðar þeirra, og senda til Úkraínu allan þann bezta búnað og mesta, sem í  valdi Vesturveldanna stendur, til að halda uppi merkjum frelsis og lýðræðis, eða lyppast niður með skömm gagnart glæpsamlegum ofbeldisöflum í Moskvu, sem einskis svífast í vitfirrtu stríði sínu gegn vestrænni Úkraínu. 

Það er á flestra vitorði, að komist frumstætt ríki, sem stjórnað er af mafíósum, upp með gjörning sinn í einu ríki, þá verður enginn óhultur í kjölfarið.  Þetta er ögurstund fyrir Vesturlönd.  Þau verða að standa saman sem klettur með Úkraínu og beita öllum sínum mikla efnahagsmætti, sem er margfaldur á við Rússland í VLF mælt, til að hjálpa hinni einörðu og hugrökku þjóð, Úkraínumönnum, úr klóm bjarnarins. Ef það verður ekki gert núna, eru öll góð gildi Vestursins í húfi, gildi, sem áður hefur verið úthellt blóði fyrir.  Þessi gildi eiga á hættu að rotna, ef gerðir fylgja ekki orðum núna.

Þessari forystugrein Morgunblaðsins lauk þannig:

"Það er enda sá hængur á [hernaðarárangri Úkraínumanna], að Úkraínumenn hafa þurft að treysta á stuðning bandamanna sinna í vestri til þessa, og sá stuðningur hefur, með nokkrum mikilvægum undantekningum, verið veittur með miklum semingi. Þó að fátt bendi til, að Bandaríkjamenn, Bretar, Pólverjar o.fl. muni hætta stuðningi sínum í bráð, má enn greina raddir í Þýzkalandi og annars staðar í Evrópu, þar sem menn virðast furða sig á því, að Úkraínumenn haldi áfram að berjast fyrir lífi sínu. 

 Það veltur því mikið á, að samstaða Vesturveldanna með Úkraínu haldi, þrátt fyrir að fram undan séu mögulega enn dimmari tímar fyrir Úkraínumenn.  Sagan sýnir, að alræðisríki, en Rússland ber nú ógnvekjandi mörg merki slíkra ríkja, láta sjaldan gott heita í landvinningum sínum.  Falli Úkraína, verður spurningin einfaldlega sú, hverjir verða næstir."

Þessi semingur við vopnaafhendinguna virðist að sumu leyti hafa átt við Bandaríkin líka fram að þessu, en þá ber að hafa í huga, að nauðsynlegur þjálfunartími á stórbrotinn og afkastamikinn vopnabúnað tekur sinn tíma. Það á t.d. við um HIMARS, sem ásamt öðrum vopnabúnaði, sem nýlega hefur verið tekinn í brúkið af Úkraínumönnum, er að breyta gangi stríðsins þeim í vil.  Búnaður á borð við skriðdrekann Leopard 2 frá Þýzkalandi og orrustuþotuna F15 frá Bandaríkjunum, sem Úkraínumenn hafa óskað eftir, hefur þó ekki borizt enn, svo að vitað sé. Með því að flýta afhendingu mikilvirkra vopna til Úkraínumanna þyrma Vesturveldin mörgum úkraínskum mannslífum og jafnvel verður þá hægt að tryggja öryggi stærsta kjarnorkuvers Evrópu gegn hernaðarvá, en tíðindi þaðan eru váleg um þessar mundir.

Kostnaðurinn við afhent hergögn til Úkraínumanna er lítill í samanburði við kostnað Vesturveldanna af orkuverðshækkunum og jafnvel líka í samanburði við boðaðan kostnað ríkissjóðanna við "frystingu" orkuverðs og alls konar bætur til þeirra, sem minna mega sín, til að hjálpa þeim að ná endum saman í heimilisbókhaldinu.  Ríkin standa þar misjafnlega að vígi, af því að þau eru misskuldsett.  Nú nýtir þýzka ríkið styrk sinn, losar um skuldsetningarhöft ríkissjóðs, og hann nýtur mun hagstæðari lánskjara en t.d. ítalski ríkissjóðurinn. 

Olaf Scholz, kanzlari, hefur  boðað mrdEUR 65 úr ríkissjóði til stuðnings almenningi í dýrtíðinni. Til samanburður nemur kostnaður BNA við hernaðarstuðning við Úkraínumenn fram að þessu aðeins mrdUSD 16 (gengi þessara gjaldmiðla er á sama róli núna). Aftur á móti boðaði fyrrverandi forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, í síðustu heimsókn sinni til Kænugarðs sem leiðtogi Bretlands, 24. ágúst 2022, á þjóðhátíðardegi Úkraínu, að Bretar ætluðu að senda hergögn að andvirði mrdGBP 54, og er það rausnarlegt og Bretum til sæmdar. Liz Truss, arftaki Borisar, var fyrsti ráðherra Vesturlanda, sem höfundur þessa pistils heyrði nefna, að aðeins brottrekstur rússneska hersins frá Úkraínu m.v. landamæri 1991-2014 væri niðurstaða þessa stríðs, sem ásættanleg væri. 

Þann 25. ágúst 2022 birti Stefán Gunnar Sveinsson skilmerkilega frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

    "Við munum berjast til þrautar".

Þar stóð m.a.:

"Zelenski sagði í þjóðhátíðarávarpi sínu, að það kæmi ekki til greina, að Úkraínumenn semdu við "hryðjuverkamenn", en úkraínsk stjórnvöld hafa þrýst á um, að Rússland verði nefnt hryðjuverkaríki.  Þá sagði hann einnig, að Úkraína samanstæði af öllu landsvæðinu, sem tilheyrði landinu, þ.m.t. þeim héruðum, sem Rússar hafa nú lagt undir sig eða innlimað. 

Vísaði Zelenski þar ekki sízt til Krímskaga, sem Rússland innlimaði árið 2014, en Úkraínumenn hafa á síðustu vikum náð að gera árásir á skaganum, sem hingað til hafði verið talinn langt utan þess svæðis, sem þeir gætu náð til.  Hafa Úkraínumenn sagt á síðustu vikum, að endanlegt markmið þeirra sé að frelsa Krímskaga undan yfirráðum Rússa. 

 Þá hafa Úkraínumenn einnig gert ítrekaðar árásir á birgðageymslur rússneska hersins í rússnesku borginni Belgorod, sem er um 40 km frá landamærum Rússlands að Úkraínu." 

Úkraínski herinn virðist beita fjölbreytilegri og óvæntri hernaðartækni, hafa gott vald á nýjum tæknivæddum herbúnaði og sýna stundum af sér sjaldgæfa herkænsku, enda hefur herinn náð undraverðum árangri í viðureigninni við fjölmennari, rotinn, siðlausan og niðurlægðan  rússneskan her, sem hafði ógrynni hertóla úr að moða í upphafi innrásar, en virðist nú hafa farið erindisleysu inn í Úkraínu.

 

 

 

 


Lengi eimir eftir af Molotoff-Ribbentropp-samninginum

Molotoff og Ribbentropp voru utanríkisráðherrar einræðisherranna Stalíns og Hitlers.  Hitler sendi utanríkisráðherra sinn til Moskvu síðla ágústmánaðar 1939 til að ganga frá samningi við Kremlverja, sem innsiglaði skiptingu Evrópu á milli þessara stórvelda.  Þessi samningur var ósigur fyrir lýðræðið og sjálfsákvörðunarrétt þjóða um að haga málum sínum að vild, enda voru þjóðir Evrópu með honum dæmdar til kúgunar og þrælahalds. Það er einmitt gegn slíku þrælahaldi, sem Úkraínumenn berjast núna blóðugri baráttu, og er það ótrúlega hart nú á 21. öldinni að þurfa að berjast fyrir sjálfsögðum rétti sínum í Evrópu upp á líf og dauða.

Í Evrópu sluppu t.d. Bretar, Íslendingar, Svisslendingar, Svíar, Spánverjar og Portúgalir undan stríðsátökum.  Einörð varnarbarátta Breta bjargaði Vestur-Evrópu undan járnhæl nazismans.  Vegna einstakrar frammistöðu flughers Breta í viðureigninni við flugher Þjóðverja haustið 1940 og öflugs flota Breta tókst að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja yfir Ermarsundið.  Með aðgerðinni Rauðskeggur 21. júní 1941 splundraði Hitler þessum illræmda samningi, en það er engu líkara en hann lifi þó í hugskoti ýmissa enn. 

Afstaða Þýzkalandskanzlaranna Kohls, Merkel og Scholz ber þess merki, að þau hafi í hugskoti sínu stjórnazt af þeirri úreltu hugmyndafræði, að Þýzkaland og Rússland ættu að skipta Evrópu á milli sín í áhrifasvæði. Þýzka ríkisstjórnin var Eystrasaltsríkjunum fjandsamleg við lok Kalda stríðsins, Merkel stöðvaði áform Bandaríkjamanna 2015 um að veita Úkraínu aðild að NATO, og Scholz hefur dregið lappirnar í hernaðarstuðningi Þjóðverja við Úkraínu.  Afleiðingin er ófögur. 

Jón Baldvin Hannibalsson, krati og fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, á heiður skilinn fyrir framgöngu sína, þegar hann, ásamt forsætisráðherranum, Davíð Oddssyni, beitti sér fyrir því, að Ísland braut ísinn á örlagaþrungnum tíma og viðurkenndi fullveldi Eystrasaltsríkjanna.  Þetta er bezti gjörningur Íslands gagnvart öðrum ríkjum á lýðveldistímanum.  Hvar værum við stödd, ef réttur þjóðríkja til óskoraðs fullveldis væri ekki virtur að alþjóðalögum ?  Barátta Úkraínumanna núna við rotið Rússland, sem stjórnað er með vitfirrtum hætti til að snúa sögunni við, snýst um rétt stórra og smárra ríkja til fullveldis og til að búa í friði í landi sínu. Þess vegna eiga Vesturlönd að styðja Úkraínu hernaðarlega án þess að draga af sér og fylgja þar fordæmi Póllands og Eystrasaltsríkjanna. 

Nú verður vitnað í grein JBH í Morgunblaðinu 30.ágúst 2022, sem hann nefndi:

"Um þá sem þora ..." 

"Í næstum hálfa öld voru Eystrasaltsþjóðirnar hinar gleymdu þjóðir Evrópu.  Lönd þeirra voru þurrkuð út af landakortum heimsins.  Tungumál þeirra voru til heimabrúks, og þjóðmenningin lifði neðanjarðar.  Þessar þjóðir voru horfnar af pólitískum radarskjá umheimsins.  Þegar ég ræddi um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða við starfsbróður minn, utanríkisráðherra NATO-ríkis, reyndi hann að eyða umræðuefninu með eftirfarandi ummælum: "Hafa þessar þjóðir ekki alltaf tilheyrt Rússlandi ?".  

Þarna minnist JBH ekki á eitt alsvínslegasta tiltæki rússnesku kúgaranna, sem þeir hafa beitt alls staðar, þar sem þeir hafa talið þörf á að berja niður sjálfstæðistilhneigingu þjóða og að eyðileggja þjóðareinkenni þeirra. Þeir hafa stundað hina mannfjandsamlegu kynþáttahreinsun, "ethnic cleansing", í Eystrasaltsríkjunum, og hana stunda viðbjóðirnir á herteknum svæðum Úkraínu.  Fólkið er flutt burt langt frá heimkynnum sínum og Rússar látnir setjast að í staðinn.  Þetta er glæpur gegn mannkyni, og það er ískyggilegt, að rússneska valdastéttin skuli vera á svo lágu siðferðisstigi á 21. öldinni að gera sig seka um þetta.  Þeir verðskulda ekkert minna en fulla útskúfun Vesturlanda sem hryðjuverkaríki.  

"Hinn atburðurinn [á eftir "syngjandi byltingunni" í júní 1988-innsk. BJo], sem náði inn á forsíður blaða og sjónvarpsskjái heimsins, var "mannlega keðjan" í ágúst 1989.  Næstum 2 milljónir manna héldust í hendur frá Tallinn í norðri til Vilniusar í suðri til að mótmæla Molotov-Ribbentrop-samninginum og leyniskjölum hans frá því fyrir hálfri öld (1939). Þessi alræmdi samningur [á] milli tveggja einræðisherra, Hitlers og Stalíns, reyndist vera upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar.  Samkvæmt samninginum var Stalín gefið frítt spil til að innlima Eystrasaltsþjóðirnar í Sovétríkin, þ.m.t. Finnland - eitt Norðurlandanna."

Þannig var lenzkan á miðöldum í Evrópu, að stórveldin ráðskuðust með fullveldi minni ríkjanna og röðuðu þeim inn á áhrifasvæði sín. Enginn, nema kannski páfinn eða æðsti prestur rétttrúnaðarkirkjunnar í Moskvu,  hafði gefið þeim þennan rétt.  Þau tóku sér hann annars með vopnavaldi. Í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar, 1914-1918, tók þetta fyrirkomulag að rakna upp fyrir tilstuðlan Bandaríkjastjórnar.  Þá var kveðið á um rétt þjóða til að ákvarða sjálfar örlög sín, hvort þau kysu að vera í ríkjabandalagi eða afla sér sjálfstæðis um eigin mál og fullveldis.  Þá urðu t.d. Ísland og Finnland sjálfstæð ríki, og Úkraína varð sjálfstæð í öreigabyltingunni rússnesku 1917. Þetta er nú hinn ríkjandi réttur að alþjóðalögum. Vladimir Putin snýr öllu á haus, vill snúa klukkunni til baka, en það mun ekki ganga til lengdar.

"Leiðtogar Vesturveldanna stóðu frammi fyrir hörðum kostum.  Ættu þeir að fórna öllum ávinningi af samningum um lok kalda stríðsins með því að lýsa yfir stuðningi við endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsþjóða ?  Eða ættu þeir að fórna þessum smáþjóðum - í því skyni að varðveita frið og stöðugleika ? 

Bilið [á] milli orðræðu þeirra um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og að færa út landamæri lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis annars vegar og þeirrar stórveldapólitíkur, sem þeir fylgdu í reynd hins vegar, var orðið óbrúanlegt."

Að stærri ríki hafi öll ráð hinna smærri í hendi sér, er óalandi og óferjandi viðhorf.  Valdið til að ákvarða fullveldi ríkis liggur hjá íbúum þess ríkis sjálfum og ekki hjá stjórnmálamönnum stærri ríkja, sízt af öllu gamalla nýlendukúgara eins og Rússlands. Þetta viðurkenndu Bretar og Frakkar í raun með því að segja Stór-Þýzkalandi stríð á hendur í kjölfar innrásar Wehrmacht í Pólland 1. september 1939.  Frakkland féll að vísu flestum að óvörum á undraskömmum tíma vorið 1940 fyrir leifturárás, "Blitzkrieg Guderians", en Stóra-Bretland hélt velli og stóð uppi sem sigurvegari 1945 með dyggri hernaðarhjálp Bandaríkjamanna. 

"Það var þess vegna, sem Bush, Bandaríkjaforseti, flutti ræðu í þinginu í Kænugarði í ágúst 1991, sem síðan hefur þótt með endemum.  Í ræðunni skoraði hann á Úkraínumenn "að láta ekki stjórnast af öfgakenndri þjóðernishyggju", heldur halda Sovétríkjunum saman "í nafni friðar og stöðugleika". 

Það var þess vegna, sem Kohl, kanzlari, og Mitterand, forseti, skrifuðu sameiginlega bréf til Landsbergis, leiðtoga sjálfstæðishreyfingarinnar í Litáen, þar sem þeir skoruðu á hann að fresta framkvæmd sjálfstæðisyfirlýsingar Litáa frá 11. marz 1990."

Ráðstjórnarríkin voru of rotin undir þrúgandi kommúnisma, til að þau gætu haldizt saman.  Það hefur þessum forsetum og kanzlara verið ljóst, en þeir hafa talið sig skuldbundna Gorbasjeff fyrir þátt hans í friðsamlegu hruni Járntjaldsins. Þeir höfðu hins vegar engan rétt til að slá á frelsisþrá undirokaðra þjóða, sem þráðu endurheimt frelsis síns og fullveldis. Þar kemur að hinu sögulega gæfuspori Íslands, smáríkis norður í Atlantshafi, sem öðlazt hafði fullveldi í eigin málum í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldar og fullt sjálfstæði við lýðveldisstofnun, sem Bandaríkjamenn studdu dyggilega í júní 1944, skömmu eftir innrás Bandamanna í Normandí. 

"En hvers vegna sætti Ísland sig ekki við þessa niðurstöðu ?  Það voru engir þjóðarhagsmunir í húfi.  Þvert á móti: Ísland var háð Sovétríkjunum um innflutning á eldsneyti - sem er lífsblóð nútímahagkerfa - allt frá því, að Bretar skelltu viðskiptabanni á Ísland í þorskastríðunum (1954-1975).  Vissum við kannski ekki, að smáþjóðum er ætlað að leita skjóls hjá stórþjóðum og lúta forystu þeirra ?  M.ö.o. kunnum við ekki viðtekna mannasiði ? 

Allt er þetta vel þekkt.  Engu að síður vorum við [Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur - innsk. BJo]  tregir til fylgispektar.  Leiðtogar Vesturveldanna létu augljóslega stjórnast af eigin hagsmunum.  Við vorum hins vegar sannfærðir um, að fylgispekt vestrænna leiðtoga við Gorbachev væri misráðin.  Hún byggðist á rangri og yfirborðskenndri greiningu á pólitískum veruleika Sovétríkjanna.  Ég var sannfærður um, að Sóvétríkin væru sjálf í tilvistarkreppu, sem leiðtogar þeirra fundu enga lausn á.  Heimsveldið væri að liðast í sundur, rétt eins og evrópsku nýlenduveldin í kjölfarið á seinni heimsstyrjöldinni." 

Það er eins og Vesturveldin hafi verið fús til á þessari stundu að stinga þeirri dúsu upp í Gorbasjeff að skipta Evrópu á milli tveggja stórvelda í anda Mólotoff-Ribbentropp-samningsins og Þjóðverjar stutt það leynt og ljóst sem verðandi forysturíki Evrópusambandsins.  Þetta er ólíðandi hugarfar og ekki reist á öðru en rétti, sem sá "sterki" tekur sér til að kúga og skítnýta þann "veika". Saga nýlendustjórnarfars í Evrópu leið undir lok með hruni Járntjaldsins, en nú reyna Rússar að snúa við hinni sögulegu þróun.  Það mun allt fara í handaskolum hjá þeim, enda með endemum óhönduglega og villimannslega að verki verið.  Enginn kærir sig um að þjóna slíkum herrum á 21. öldinni.

"Mér var stórlega misboðið að heyra leiðtoga vestrænna lýðræðisþjóða áminna undirokaðar þjóðir um, að þær ættu að sætta sig við örlög sín, til þess að við á Vesturlöndum gætum notið "friðar og stöðugleika". Í mínum eyrum hljómaði þetta ekki bara sem smánarleg svik, heldur sem örlagarík mistök." 

 

 

 

 

 

 Brandenborgarhliðið

   

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband