Færsluflokkur: Evrópumál
3.1.2019 | 15:28
Væntingar um vetni
Samkvæmt sumum áætlunum þarf að ferfalda rafmagnsvinnslu í heiminum á næstu 30 árum til að sinna eftirspurnaraukningunni, m.a. vegna orkuskiptanna. Á Íslandi mun rafmagnsvinnslan líklega aukast um 50 %-100 % á sama tímabili, þ.e. hún mun vart ná að tvöfaldast. Ef tilraunir með djúpboranir niður á 5 km dýpi heppnast, mun afl hverrar gufuholu geta tífaldazt. Þá aukast möguleikar á alls kyns umhverfisvænni orkunýtingu hérlendis, t.d. vetnisframleiðslu til innanlandsbrúks og útflutnings. Aflsæstrengur til útlanda getur varla keppt við slíkt með öllum sínum stofnkostnaði, orkutöpum og rekstaróvissu, m.a. vegna bilanahættu og langs stöðvunartíma í bilunartilvikum.
Orkuskiptin verða almennt tæknilega erfiðari í ýmsum orkunýtingargeirum en í raforkuvinnslunni. Þar má nefna svið, þar sem liþíum-rafgeymum eða rafmagni verður illa við komið, s.s. í þungaflutningum á landi, í skipum, flugvélum, upphitun húsnæðis og í iðnaði.
Árið 2014 (nýjustu áreiðanlegu upplýsingar) myndaði þessi starfsemi (þar sem bein rafvæðing er torsótt) 15 mrðt (milljarða tonna) af CO2 eða 41 % af losun orkutengdrar starfsemi, en raforkuvinnslan myndaði minna eða tæplega 38 % orkutengdrar losunar. Mesta losun CO2 frá iðnaðarstarfsemi er frá járn- og stálverksmiðjum, 6,4 %, sementsverksmiðjum, 6,1 % og frá efnaverksmiðjum, 3,0 %. Álverksmiðjur losa aðeins 0,8 % af heild orkutengdrar starfsemi.
Framundan er sögulegt átak til að forða jörðunni frá ofhlýnun fyrir núverandi líf af völdum gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar. Á 200 ára skeiði frá upphafi kolanotkunar til 1970 myndaði bruni jarðefnaeldsneytis og iðnaðarframleiðsla 420 mrðt af gróðurhúsalofttegundum, aðallega CO2. Á 40 ára tímabilinu 1970-2011 þrefaldaðist þetta koltvíildismagn og varð þá 1,3 Trnt, aðallega við iðnvæðingu fjölmennra Asíuþjóða. Landbúnaður og landnotkun (án eldsneytisbruna) valda um fjórðungi heildarlosunar, og orkutengd losun 3/4 heildarlosunar.
Varðandi landnotkunina ættu menn hérlendis ekki að hrapa að aðgerðum á borð við uppfyllingu í skurði, því að nýjar mæliniðurstöður hérlendis benda til, að upphaflegt talnaefni, sem að miklu leyti var fengið erlendis frá, þar sem lofthiti og jarðvegur er annar en hér, gefi til kynna allt of mikla minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda við endurheimt votlendis. Hins vegar er bráðnauðsynlegt að beina auknu fé, sem fæst t.d. af kolefnisgjaldtökunni, yfir í skógrækt og landgræðslu og halda sem nákvæmast bókhald um þá mótvægisaðgerð með mælingum á koltvíildisnámi nýræktar. Þessar mælingar þurfa að njóta alþjóðlegrar viðurkenningar.
Steven Davis við Irvine Kaliforníuháskólann hefur stjórnað rannsókn á því, sem þarf til að orkunotkunin verði kolefnisfrí í heiminum m.v. þekkta tækni. Auk rafmagns og rafgeyma segir hann þurfa vetni og ammoníum, lífeldsneyti, gervieldsneyti, að fjarlægja kolefni úr útblæstri og geyma það í jörðu og að taka koltvíildi úr andrúmsloftinu og setja í trygga geymslu, væntanlega neðanjarðar.
Vetni gæti gegnt hlutverki við að knýja áfram létt og þung farartæki, við hitun og stálvinnslu. Vetni, H2, og koleinildi, CO, eru aðalefniviður gervieldsneytis fyrir þotuhreyfla. Að fjarlægja C úr afgösum kemur til greina við hitun og sementgerð.
Þeir, sem vinna að því að fjarlægja kolefni úr orkukerfum heimsins, búast við gegnumbroti í þeim efnum 2025-2035. Þá muni koma fram á sjónarsviðið flutningatæki með langa drægni, knúin rafgeymum og vetni, og að þá muni vetni leysa jarðgas af hólmi sem hitagjafi við húsnæðisupphitun. 2030-2040 verði framleitt gervieldsneyti fyrir skip og flugvélar. 2040-2050 verði kolefnisbrottnámi og geymslu þess beitt í stórum stíl; svo og verði vetni beitt í stórum stíl í iðnaði í stað jarðefnaeldsneytis. 2050-2060 verði nettólosun gróðurhúsalofttegunda engin með hjálp stórfelldrar endurræktunar skóga og með því að vinna CO2 úr loftinu og geyma það á föstu formi, t.d. neðanjarðar.
Orkuskiptin verða kostnaðarsöm, en Íslendingar verða í kjörstöðu með sínar endurvinnanlegu orkulindir; það væri glapræði að spreða þeim inn á sæstreng með öllum sínum orkutöpum áður en til nýtingar kemur. Við getum rafgreint vatn með sjálfbærri raforku og þannig orðið sjálfum okkur nóg um vetni til eldsneytisframleiðslu fyrir innanlandsmarkaðinn og jafnframt flutt út umtalsvert magn vetnis, t.d. til Bretlands, en Bretar hafa mikil áform um vetnisvæðingu sem lið í orkuskiptum hjá sér.
Adair Turner, formaður "Energy Transitions Commission", ETC, sem eru alþjóðleg samtök um orkuskipti, segir, að árlegur kostnaðarauki við rekstur kerfa, þar sem orkuskiptin eru tæknilegum vandkvæðum háð, án nettó losunar, muni nema TrnUSD 1,2 árið 2050. Þetta er há upphæð, en þó líklega svipuð og nemur árlegum útgjöldum til hernaðar og vígbúnaðar í heiminum, svo að ekki ætti sá þröskuldur að vera óyfirstíganlegur.
Eftir stöðuga lækkun framleiðslukostnaðar helzta neyzluvarnings áratugum saman vegna tækniþróunar, framleiðniaukningar og flutnings á vöruframleiðslu frá hákostnaðarlöndum til lágkostnaðarlanda, sem drifið hefur áfram sífellt vaxandi neyzlu í heiminum og fækkað örfátækum, stendur heimurinn nú líklega frammi fyrir hækkandi framleiðslukostnaði um sinn í fyrsta skipti í langan tíma. Það veldur pólitískri tregðu við að taka á málum af einurð.
Í skýrslu frá ETC segir, að til að ná nettó núll kolefnislosun frá orkutengdri starfsemi manna þurfi að auka vetnisvinnsluna úr um 60 Mt/ár í 500-700 Mt/ár um miðja þessa öld. Þó er ekki gert ráð fyrir mörgum bílum knúnum vetnisrafölum.
Núverandi vetnisvinnslu úr vatnsgufu með jarðgasi, sem stendur undir 95 % vinnslunnar, verður að umbylta yfir í rafgreiningu vatns með rafstraumi frá sjálfbærum orkulindum, svo að gagn verði af henni. Þar liggja mikil tækifæri fyrir þjóðir með miklar ónotaðar, sjálfbærar orkulindir. Íslendingar eru þar á meðal, og innlend vetnisframleiðsla getur orðið í senn gjaldeyrissparandi, gjaldeyrisaflandi og atvinnuskapandi. Hún verður mjög vænlegur valkostur við útflutning á raforku strax í byrjun næsta áratugar vegna skorts á vetni í heiminum, sem framleitt er án koltvíildislosunar að nokkru marki.
30.12.2018 | 15:16
Vaxandi áhugi á vetni
Rafmagnsbílum fjölgar ört í heiminum, og munar þar mest um kínverska framleiðslu og kaupendur. Þar er stefna stjórnvalda að draga úr loftmengun, einkum í stórborgunum, þar sem hún er löngu komin á stórskaðlegt stig og leiðir til ótímabærs dauðdaga yfir 100 þúsund manns á ári hverju. Þetta skelfilega ástand hefur valdið þjóðfélagslegri spennu. Liður í úrbótum stjórnvalda er rafvæðing bílaflotans, þótt slíkt sé skammgóður vermir, þar sem megnið af raforkuvinnslunni er kolaknúin. Kínverjar hafa hins vegar uppi mikil áform um að kjarnorkuvæða raforkuvinnsluna, og hafa sett háar upphæðir í þróun kjarnorkutækni, einnig með klofnun annarra frumefna en úraníum, t.d. þóríum.
Kínverjar ganga róttækt til verks á sviði loftslagsmála. Þeir hafa tryggt sér meirihlutann af vinnslugetu málma, sem þarf til að framleiða liþíum-rafgeyma. Af þessum sökum hefur verð á þeim hækkað mikið og hörgull er á þeim inn á heimsmarkaðinn. Þetta torveldar framboð nýrra rafmagnsbíla, en samt hefur framleiðsla þeirra aukizt hratt á síðustu árum. Frá miðju ári 2014 tvöfaldaðist fjöldi þeirra í heiminum úr 1 M í 2 M á 17 mánuðum,og síðan tók aðeins 6 mánuði að tvöfalda fjöldann úr 2 M í 4 M. Í árslok 2018 gætu þeir verið um 10 M í heiminum öllum, sem þó er aðeins rúmlega 1 % af heildarfjöldanum. Á Íslandi er fjöldi alrafbíla um 2500, sem er um 1 % af fólksbílafjöldanum. Framboðið er hreinlega ekki nægt til að hægt sé að ná markmiði stjórnvalda. Að hækka kolefnisgjaldið til að hraða fjölguninni er út í hött við þessar aðstæður.
Orkutengd losun mannkyns 2014 nam alls 36,2 mrðt af CO2 og var bróðurparturinn af losun mannkyns. Það mun enginn umtalsverður árangur nást í baráttunni við gróðurhúsaáhrif koltvíildis í andrúmsloftinu fyrr en stórtæk tækni við kolefnisausa vinnslu raforku lítur dagsins ljós, því að raforkuvinnslan veldur 37,6 % orkutengdrar losunar. Þegar árangur næst á þessu sviði, t.d. með þóríum-kjarnorkuverum, þá verður hægt að vinna vetni í stórum stíl með rafgreiningu úr vatni án kolefnislosunar. Gallinn við þetta ferli eru mikil orkutöp eða um 25 % við rafgreininguna sjálfa. Hún krefst þess vegna um 50 kWh/kg H2. Eðlisorkan er um 33 kWh/kg, sem er einhver hæsta eðlisorka eldsneytis, sem þekkist.
Af þessum orsökum hentar vetni vel sem eldsneyti á farartæki. Samgöngur valda 26,1 % orkutengdrar losunar CO2. Nokkrir stórir japanskir og Suður-kóreanskir bílaframleiðendur hafa tekið stefnuna á vetnisrafalaknúna rafmagnsbíla. Það eru góð rök fyrir því að því gefnu, að nægt "grænt" vetni verði á boðstólum. Til að ná 650 km drægni fólksbíls þarf hann vetnisknúinn aðeins að vera 1400 kg, en 3000 kg knúinn liþíumrafgeymum. Vetnið kostar núna um 1,35 USD/kg, en spáð er hækkun upp í 2,3 USD/kg árið 2020. Reikna má með a.m.k. 100 km/kg vetnis, sem þýðir, að þetta síðar nefnda verð má tvöfaldast án þess, að orkukostnaður vetnisbíls verði hærri en rafmagnsbíls með liþíum rafgeyma.
Vetnið má einnig nota til framleiðslu á gervieldsneyti, og það er mjög vænleg framleiðsla á næstu áratugum fyrir vinnuvélar, skip og flugvélar. Koltvíildi andrúmsloftsins er hinn grunnþáttur þessarar gervieldsneytisframleiðslu. Hérlendis mætti framleiða um 150 kt/ár (k=þúsund) af umhverfisvænu vetni, sem sumpart færi beint á farartæki, sumpart færi það í eldsneytisframleiðslu og afgangurinn væri fluttur utan, t.d. til Norð-Austur Englands, þar sem það verður notað til að leysa jarðgas af hólmi við upphitun húsnæðis.
Það er sjálfsagt að nýta sjálfbærar orkulindir til framleiðslustarfsemi hér innanlands, sem verða má að liði í baráttunni við ofhlýnun jarðar, sem leiðir m.a. til ofsúrnunar hafsins og getur haft alvarleg áhrif á lífríkið innan efnahagslögsögu Íslands. Að gera landið sjálfu sér nægt um eldsneyti hefur gríðarlega efnahagslega þýðingu, svo og öryggislega þýðingu. Að framleiða vetni verður arðsöm starfsemi, og með slíkri framleiðslu verður ekkert svigrúm eftir til rafmagssölu inn á sæstreng, jafnvel þótt stóriðjuver loki. Þetta veldur því, að Ísland verður áfram einangraður raforkumarkaður, og raforkuverðshækkanir geta þá orðið hóflegar og fylgt kostnaðarhækkunum virkjanafyrirtækja, flutnings- og dreifingarfyrirtækja.
27.12.2018 | 11:36
Hvað má loftslaginu til bjargar verða ?
Nýlega var haldin ráðstefna í Póllandi í héraði, þar sem mikil loftmengun er frá kolakyntum raforkuverum. Þetta var framhald Parísarráðstefnunnar í desember 2015; fjölmennar voru báðar og mengandi, en árangur óáþreifanlegur, enda umræðuefnið ekki það, sem máli skiptir. Höfuðatriðið hér er, hvernig á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og þar leika raunvísindamenn aðalhlutverkið, en embættismenn og stjórnmálamenn manna ræðupúltin og hinar fjölmennu, rándýru og ósjálfbæru ráðstefnur til að ræða stefnur og markmið.
IEA (The International Energy Agency-Alþjóðlega orkumálastofnunin) áætlar, að heimslosun CO2 í ár, 2018, nái nýjum hæðum, sem sýnir haldleysi fagurgala á fjölmennum ráðstefnum. Megnið af losuninni stafar af orkuvinnslu- eða orkunýtingarferlum.
Árið 2014 nam þessi losun 36,2 mrðt (milljörðum tonna), og var rafmagnsvinnsla 37,6 % þar af, en hitt, 62,4 %, skiptist á milli samgangna, 26,1 %, iðnaðar 22,7 %, húsnæðishitunar 9,2 % og annars 4,4 %. Þessar hlutfallstölur eru nytsamlegar til að gera sér grein fyrir viðfangsefninu, sem felst í að stöðva hitastigshækkun lofthjúps jarðar af mannavöldum með engri nettólosun gróðurhúsalofttegunda eigi síðar en 2050.
Það er óhjákvæmilegt fyrir heimsbyggðina að grípa til róttækra ráðstafana til að gera rafmagnsvinnsluna kolefnisfría. Það hefst aldrei með fjölgun vind- og sólarorkuvera einvörðungu. Kjarnorkan verður að koma til skjalanna. Verið er að þróa kjarnorkuver með mun minna geislavirkum úrgangi og styttri helmingunartíma geislavirkni hans, sem að auki eru öruggari í rekstri en úraníum-kjarnorkuverin.
Í samgöngunum munu rafknúnir bílar taka við, og vetnið mun knýja stærri samgöngutæki eða tilbúið eldsneyti úr vetni og koltvíildi/koleinildi, CO2 t.d. frá jarðgufuverum. Rafgeymarnir mynda flöskuháls í framleiðsluferli rafmagnsbíla, og þess vegna verður fyrirsjáanlega að grípa til vetnisrafala í bílum í einhverjum mæli. Stórir bílaframleiðendur í Asíu þróa nú slíka tækni.
Í iðnaðinum stendur yfir mikil þróun til að losna við kolefni úr framleiðsluferlinu. Þar gegnir vetni lykilhlutverki. Alcoa og Rio Tinto hafa stofnað þróunarfélag, Elyses, til að þróa álvinnslu án kolefnisskauta og reyndar án vetnis líka. Með eðalskautum, sem hafa a.m.k. 15 sinnum lengri endingu en kolefnisskautin, mun myndast súrefni við rafgreiningu súráls í stað koltvíildis frá kolaskautunum. Annars myndast tiltölulega lítið af gróðurhúsalofttegundum við vinnslu áls í heiminum; aðeins um 300 MtCO2eq/ár eða 0,8 % allrar orkutengdrar losunar koltvíildis. Ef álnotkun í landfarartækjum heimsins hefur leitt til 5 % eldsneytissparnaðar þessara farartækja, þá jafngildir sú minnkun gróðurhúsalofttegunda helmingi losunar frá öllum framleiðslustigum álsins.
Í mörgum löndum fer megnið af orkunotkun heimilanna til upphitunar eða kælingar. Hitunarferlið er í mörgum tilvikum knúið jarðgasi. Á Norð-Austur Englandi er þróunarferli hafið, sem snýst um að leysa jarðgasið af hólmi með vetni. Leeds-borg hefur forystu um þetta. Þarna er markaðstækifæri fyrir Íslendinga, því að talið er, að árið 2020 muni verð vetnis hafa hækkað úr núverandi 1,35 USD/kg í 2,30 USD/kg vegna aukinnar eftirspurnar og hærri framleiðslukostnaðar úr jarðgasi vegna kolefnisgjalds. Við þetta verð fást 46 USD/MWh af rafmagni, en til samanburðar er listaverð Landsvirkjunar núna á forgangsorku 43 USD/MWh.
Talið er, að núverandi vetnisframleiðsla þurfi að tífaldast hið minnsta vegna orkuskiptanna. Hún fer hins vegar nú aðallega fram með vinnslu úr jarðgasi (95 %), en þarf að verða með rafgreiningu fyrir tilstilli sjálfbærs rafmagns. Heimsframleiðsla á vetni þarf þannig að nema 600 Mt/ár um 2050 með rafgreiningu. Ef Íslendingar ákveða að leggja baráttunni við gróðurhúsaáhrifin á erlendri grundu lið með því að virkja t.d. 10 TWh/ár (helmingurinn af núverandi raforkuvinnslu, þriðjungurinn af orkugetu nýtingarflokks Rammaáætlunar) til að knýja vetnisframleiðslu hérlendis og flytja megnið utan samanþjappað, þá þarf til þess 65 kWh/kg, og hægt verður að framleiða 150 kt/ár af H2 (vetni) á flutningstæku formi. Þetta er aðeins 0,03 % af áætlaðri markaðsþörf, en myndi hjálpa Englendingum talsvert við að vetnisvæða upphitun húsnæðis á NA-Englandi. Þetta gæfi að lágmarki útflutningstekjur að upphæð 345 MUSD/ár eða 43 mrðISK/ár.
Með þessu móti mundu Íslendingar teygja sig mjög langt við að aðstoða ríki við orkuskiptin, sem vantar endurnýjanlega orku. Þetta mundi að óbreyttu þýða, að við þyrftum að ganga á biðflokk virkjana fyrir eigin orkuskipti og 4 TWh/ár fyrir vetnisframleiðslu til eigin nota fyrir t.d. stærri samgöngutæki á landi ásamt vinnuvélum, skipum og flugvélum auk vaxandi orkuþarfar vegna aukinna umsvifa á landinu.
24.12.2018 | 11:14
Sæstrengur eða iðjuver
Enn er agnúazt hérlendis út í langtíma raforkusamninga við erlend stóriðjufyrirtæki. Það er kostulegt, því að þessir samningar voru ekki einvörðungu undirstaða stórvirkjana á Íslandi, sem voru mun hagkvæmari í rekstri en smávirkjanir eða margir smááfangar stórvirkjana, heldur urðu þeir líka undirstaðan að öflugu flutningskerfi raforku frá virkjunum til þéttbýlisins á SV-landi. Þetta kerfi væri bæði veigaminna, þ.e. væri með annmörkum minna afhendingaröryggis raforku til viðskiptavinanna, og væri miklu dýrara fyrir almenna notendur en reyndin er, ef raforkukerfið hefði einvörðungu verið sniðið við almenna markaðinn, sem nú er um 20 % af heild.
Með samnýtingu stórnotenda og almennings á einu og sama raforkukerfinu, sem stórnotendur hafa fjármagnað að mestu leyti, hefur draumur brautryðjendanna um einna lægst raforkuverð á Íslandi með viðunandi afhendingaröryggi í samanburði við önnur lönd í Evrópu og reyndar víðast hvar í heiminum rætzt. Við þessi hlunnindi bætast auðvitað hitaveiturnar, þar sem þeirra nýtur við til húsnæðishitunar hérlendis. Hitaveiturnar stórminnka raforkuþörfina eða um allt að 10 TWh/ár, sem er um helmingur núverandi virkjaðrar orku. Íslendingar hafa þannig með áræðni, framsýni og dugnaði á þessu tæknilega sviði, sem orkunýting er, borið gæfu til að leysa þau viðfangsefni vel af hendi, sem felast í að breyta orkulindum í verðmæta afurð, samfélaginu öllu til mikilla hagsbóta. Þó má betur, ef duga skal.
Sem dæmi dugðu greiðslur frá ISAL til Landsvirkjunar fyrir raforku fyrstu 30 ár rekstrarins til að greiða upp allan upphaflegan stofnkostnað Búrfellsvirkjunar, Geithálsstöðvarinnar, tveggja flutningslína á milli Búrfells og ISAL ásamt vararafstöð Landsvirkjunar í Straumsvík. Þessi mannvirki, nema vararafstöðin, leystu jafnframt úr almennum raforkuskorti á höfuðborgarsvæðinu og víðar, sem tók að gæta í lok 7. áratugar síðustu aldar.
Sumir hagfræðingar o.fl. eru haldnir þeirri bábilju, sem fyrir löngu komst á kreik, að fjárfestingar í raforkumannvirkjum, virkjunum, aðveitustöðvum og flutningslínum, á grundvelli gerðra langtímasamninga um raforkuafhendingu til iðjuvera, haldi ekki máli, hvað arðsemi varðar. Þetta er alvarleg villa, sem stafar af því, að hagfræðingarnir hafa ekki tekið með í reikninginn óvenjulangan endingartíma virkjananna í fullri virkni og með litlum rekstrarkostnaði.
Venjulega er reiknað með bókhaldslegum afskriftartíma 40 ár fyrir virkjanir, en tæknilegur endingartími þeirra getur hæglega varað 100 ár með eðlilegu viðhaldi og endurnýjun. Ef hagfræðingarnir reikna bara arðsemina yfir afskriftartímann, er ekki kyn, þótt keraldið leki, því að botninn er þá suður í Borgarfirði. Í neðangreindri tilvitnun í téðan Óðin hafa menn komizt að þeirri niðurstöðu, að arðsemi þessara fjárfestinga sé 5 %. Réttara er að áætla hana 50 % fyrstu 100 árin að jafnaði, ef gert er ráð fyrir 5 % í 40 ár og 80 % í 60 ár:
"Staðreyndin er sú, að arðsemin af fjárfestingu tengdri stóriðju hefur verið óviðunandi, eins og Óðinn hefur oft bent á. Þetta kemur fram í skýrslu, sem Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannsson skrifuðu fyrir Hagfræðistofnun Háskóla Íslands árið 2012, "Arðsemi Landsvirkjunar af rafmagnssölu til stóriðju 1966-2010". Niðurstaða þeirrar skýrslu er, að arðsemi raforkusölunnar sé ekki nema liðlega 5 % fyrir skatta og verðbólgu, sem þýðir, að fjárfestingin stendur ekki undir fórnarkostnaði þess fjármagns, sem bundið er í henni. Þjóðhagslegur ábati hefði verið meiri, ef ríkið hefði ekki sogað þetta fé til sín og það hefði verið til reiðu í aðra atvinnuvegafjárfestingu."
Málflutningi af þessu tagi er beitt í vanburða tilraun til að færa rök fyrir þeirri skoðun, að erlendar fjárfestingar í orkukræfum iðnaði hérlendis séu óalandi og óferjandi. Þetta eru fordómar. Þessi iðnaðarstarfsemi hefur gert íslenzkum orkufyrirtækjum kleift að fjárfesta í virkjunum, sem mala gull í 100 ár. Bauðst íslenzka ríkinu einhvern tímann viðlíka fjárfestingartækifæri ?
Jafnvel þótt álverið í Straumsvík muni aðeins starfa í tæplega 70 ár (út núverandi samningstíma um raforku), þá verður meðalarðsemin af fjárfestingum vegna þess samt um 50 %, því að orkuverðið þangað hefur hækkað mjög mikið á rekstrartímabilinu, ekki sízt eftir að afskriftartímabili Búrfellsvirkjunar lauk.
Starfsemi fyrirtækjanna, sem útlendingar hafa stofnsett hérlendis til að skapa verðmæti úr endurnýjanlegri orku, hefur leitt til mikillar tækniþróunar hérlendis og öryggis- og umhverfisstjórnun hefur tekið stakkaskiptum fyrir þeirra tilverknað og þeirra íslenzka starfsliðs. Það er þess vegna ekki reist á neinum rökum, að t.d. álverin hafi verið einhvers konar byrði hér, sem haldið hafi aftur af þróuninni vegna þess, að fénu til orkumannvirkjanna hefði getað verið betur varið. Þetta er algerlega tilhæfulaust og sorglegt að sjá Óðin falla ofan í þennan fúla pytt.
Síðan víkur Óðinn sögunni að sæstrengsviðræðum þáverandi forsætisráðherranna, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Davids Cameron, en Óðinn er ekki sá eini, sem hefur tilhneigingu til að stilla aflsæstreng til útlanda upp sem heppilegum valkosti við málmiðjuverin. Þar verður þá ekki komizt hjá því að stilla upp þriðja valkostinum, sem er vinnsla vetnis hérlendis úr vatni með rafgreiningu, en í uppsiglingu er á Bretlandi mikill markaður fyrir vetni til að leysa jarðgas af hólmi sem orkugjafi til upphitunar húsnæðis.
"Ráðherrarnir ræddu einnig samstarf í orkumálum og var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng. Sigmundur Davíð sagðist hafa fyrirvara um lagningu sæstrengs. Forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni væri, að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki. Eðlilegt er þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif, sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér."
Hér er meinloka á ferðinni. Það er útilokað, að tenging íslenzka raforkukerfisins við erlent raforkukerfi, þar sem heildsöluverð raforku er a.m.k. tvöfalt raforkuverðið hérlendis, hafi ekki áhrif á verðlagningu raforku hér til hækkunar. Eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins hérlendis og tengingu raforkukerfanna mun verðlagningin hér ráðast í "Nord Pool" orkukauphöllinni, þar sem Ísland og Bretland verða. Íslenzkir raforkukaupendur verða þar í samkeppni við brezka og kannski einnig við kaupendur á meginlandinu, því að Bretland er raftengt þangað og bráðlega við Noreg einnig. Vilja Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins þetta ? Þau mega ekki fljóta sofandi að feigðarósi, heldur ber að berjast gegn slíkum kostnaðarauka á sín aðildarfyrirtæki, sem raftenging við útlönd óhjákvæmilega hefur í för með sér.
Hérlendis hafa heyrzt raddir um, að það muni verða á valdi íslenzkra stjórnvalda, hvert rafmagnsverðið verður til almennings hérlendis eftir slíka tengingu. Það er tóm vitleysa. Hverjum dettur í hug, að ríkissjóður hafi bolmagn til slíkra niðurgreiðslna ? Ef hann hins vegar reynir það, gerist hann umsvifalaust brotlegur við reglur EES-samningsins, sem banna slík inngrip ríkisins í samkeppnismarkað, enda eru t.d. engin fordæmi um slík inngrip norska ríkissjóðsins með sinn öfluga bakhjarl, olíusjóðinn, þótt norskum fjölskyldum og fyrirtækjum hafi sviðið mjög undan gríðarlegum verðhækkunum rafmagns þar í landi samfara útflutningi á rafmagni.
Óðinn hefur furðulega afstöðu til þessa máls, því að hann skrifar, að hann sé sammála Sigmundi um, að "það er óásættanlegt, að íslenzkur almenningur taki á sig þyngri byrðar með tilkomu sæstrengs. En þetta eru óþarfar áhyggjur Sigmundar bæði fyrr og nú". Þær eru ekki óþarfar. Það er þvert á móti óhjákvæmilegt, að íslenzkur almenningur beri kostnað af sæstrengsuppátæki, bæði beinan og óbeinan. Beini kostnaðurinn felst í að standa undir kostnaði Landsnets við að reisa flutningslínur frá stofnkerfinu og niður að landtökustað sæstrengsins, sennilega tvær 400 kV línur samkvæmt forskrift Orkupakka #3, og óbeini kostnaðurinn felst í hækkun á verðlagningu raforku vegna tengingar við erlendan markað og minna framboðs en eftirspurnar.
Síðan fimbulfambar Óðinn um, að sú lífskjarastefna, sem felst í því að halda raforkuverði lágu til heimila, sem nota aðeins 5 % af heildarraforkunotkun, haldi verði niðri til hinna, þ.e. almenns atvinnurekstrar og stóriðju, og að þar með nái orkuseljendur minni hagnaði en ella. Hann athugar það ekki, að lágt raforkuverð skapar atvinnurekstrinum í landinu nauðsynlegt forskot í samkeppni við fyrirtæki, sem eru betur staðsett m.v. aðdrætti og flutninga afurða á markað. Þá dregur lágt raforkuverð til almennings ekkert úr svigrúmi raforkuheildsalanna til að gera hagstæða langtíma raforkusamninga.
Það fettir enginn fingur út í það, þótt umsamið verð til stóriðju hækki, þegar langtímasamningar eru endurnýjaðir. Stóriðjan hefur um langa hríð staðið undir fjármögnun raforkukerfisins og lágu raforkuverði til almennings. Við það er ekkert að athuga.
Þegar menn draga í efa, að staðan sé þessi, þá gleyma þeir dreifingarkostnaðinum, sem hérlendis nemur tæplega 40 % af heildarkostnaði rafmagns til almennings, en stóriðjan sér sjálf um fyrir sig. Þá gleyma menn einnig, að fjárfesting á bak við hverja kWh er um 60 % meiri, þegar virkjað er fyrir ójafnt álag, eins og álag almenningsveitna, en fyrir jafnt álag stóriðjunnar, og hagkvæmni stærðarinnar er þá ótalin.
Óðinn klykkir út með eftirfarandi hvatningu til iðnaðarráðherra:
"Óðinn vonar, að iðnaðarráðherra muni loks láta reyna á það, hvort lagning sæstrengs sé fær leið, enda allir helztu hagfræðingar landsins sammála um áhrif hennar á þjóðarhag."
´Oðinn vill sem sagt kanna til hlítar, hvort hægt sé að þróa álitlega viðskiptahugmynd með Englendingum um raforkuviðskipti við Íslendinga. Af þeim gögnum, sem þegar eru fyrir hendi, má þó ljóst vera, að alvarlegir meinbugir eru á þessu sæstrengsverkefni, þótt Óðinn telji "alla helztu hagfræðinga landsins" telja verkefnið þjóðhagslega hagkvæmt. Væri fróðlegt að sjá þá útrikninga, því að þetta stenzt ekki, á meðan heildsöluverð raforku á Englandi er undir 180 USD/MWh, sem er 2,25 x núverandi heildsöluverð þar. Þetta stafar m.a. af gríðarlegum eða um 10 % afltöpum á leiðinni, sem flutningar um strenginn verða að borga. Ef 1400 MW fara inn á endabúnaðinn, þá koma aðeins 1260 MW út eða með öðrum orðum 140 MW tap. Það er tæplega aflgeta Blönduvirkjunar.
Nú er að opnast nýtt viðskiptatækifæri á NA-Englandi fyrir orku. Leeds-borg hefur áform um orkuskipti við húshitun, og borgarstjórnin vill leysa jarðgas af hólmi með vetni. Fljótt á litið getur reynzt arðsamt að rafgreina vatn á Íslandi og senda það utan með skipi, en flutningskostnaðinn þarf þó að kanna nánar. Það er líka annar markaður að opnast fyrir vetni í Evrópu, en það er hluti stáliðnaðarins, sem vill verða kolefnishlutlaus með því að afoxa járngrýtið með vetni í stað jarðgass, sem notað er í sumum stálvinnsluofnum. Það sparar orku að framleiða vetnið á Íslandi m.v. að gera það með íslenzku rafmagni á Englandi, og vetnisframleiðslan felur í sér verðmætasköpun með rafmagni ásamt nokkurri atvinnusköpun. Þá er hægt að leysa benzín og dísilolíu og væntanlega flotaolíu líka af hólmi með amoníum, NH3. Vetnis- og ammoníumframleiðsla á Íslandi jafngilda að öllum líkindum meiri þjóðhagslegri hagkvæmni en hrár raforkuútflutningur.
21.12.2018 | 17:54
"Sæstrengurinn og orkupakkinn"
Höfundurinn "Óðinn" birti afleitan pistil undir ofangreindri fyrirsögn í Viðskiptablaðinu 22. nóvember 2018. Þetta var miður, því að oftast eru pistlar með þessu höfundarnafni frumlegir og fela í sér réttmæta gagnrýni og góða greiningu á viðfangsefninu. Í þessu tilviki urðu honum þó á nokkrir alvarlegir fingurbrjótar.
Hann minnir í upphafi á 3 orkumarkmið ESB fyrir árið 2020, sem sennilega munu ekki nást, aðallega vegna of einhliða áherzlu á slitróttar, endurnýjanlegar orkulindir, sól og vind, á meðan grunnorkugjöfum á borð við kjarnorkuver er lokað. Að berjast þannig á tveimur vígstöðvum samtímis hefur jafnan verið ávísun á ófarir. Fyrir vikið hefur kolanotkun sumra ESB-landa aukizt og koltvíildislosun orkuiðnaðarins í heild innan ESB líka.
Fyrsta markmiðið var, að endurnýjanlegar orkulindir stæðu undir minnst 20 % raforkuþarfarinnar. Það mun ekki nást. Á Íslandi er þetta hlutfall næstum 100 %.
Annað markmiðið var, að orkunýtni ykist um 20 % (vantar viðmiðunartímann). Á 10 árum hefur eldsneytisnýtni ökutækja aukizt um a.m.k. 20 %, og líklega hefur orkunýtni raforkuvera í Evrópu aukizt um 20 % á 20 árum. Á Íslandi eru of mikil orkutöp í raforkukerfinu vegna of lítilla fjárfestinga. Árið 2015 námu töp og eigin notkun raforkukerfisins 1303 GWh eða 6,9 % af heildarraforkuvinnslu. Töp og eigin notkun þurfa að fara niður fyrir 5 % eða minnka um 400 GWh/ár. Þannig sparast um 2 mrðISK/ár.
Þriðja markmiðið var að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 20 % (viðmiðunarár vantar). Þetta markmið næst alls ekki. Sé miðað við árið 2005, sem stundum er gert, næst þessi minnkun alls ekki í ESB, og sigið hefur á ógæfuhliðina á Íslandi. Þess vegna fer koltvíildisgjald losunar hækkandi í ESB, og kolefnisgjald eldsneytis fer hækkandi á Íslandi. Hið síðara er óréttmætt, því að allsendis ófullnægjandi framboð er enn á rafbílum, til að þeir geti tekið bróðurpart endurnýjunarþarfarinnar, og enginn raunhæfur rafmagnsvalkostur er enn fyrir stórar dísilvélar. Stjórnvöld eru komin fram úr sér í skattheimtu vegna orkuskiptanna. Markaðurinn hlýtur að ráða ferðinni, en ekki löngun stjórnmálamanna.
Óðinn virðist éta upp eftir ráðuneytum utanríkis og iðnaðar, þegar hann skrifar:
"Ekki er ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þessum [orku] pakka, þó að eðlilegt sé að gjalda varhug við öllum pakkasendingum frá Brüssel. Þessi löggjöf mun hafa mun minni áhrif á Íslandi en á meginlandi Evrópu og líklega lítil sem engin."
Þessu er einmitt þveröfugt farið. Þar sem samkeppnismarkaður var fyrir raforku (og gas) og uppfyllti samkeppnisreglur ESB, þegar Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB var lögleiddur í aðildarlöndunum árið 2009, þar varð líklega ekki mikil breyting fyrir orkukaupendur, þegar Landsreglari tók til starfa sem eftirlitsaðili og reglusetningaraðili fyrir orkumarkaðinn, starfandi beint undir ACER-Orkustofnun ESB.
Þar sem hins vegar ekki er fyrir hendi samkeppnismarkaður, eins og í tilviki Íslands, þar verður að stofna slíkan eftir lögleiðingu Orkupakka #3. Líklegt er, að á Íslandi verði stofnað útibú frá "Nord Pool" orkukauphöllinni. Þetta eitt og sér mun hafa miklar breytingar í för með sér fyrir orkuseljendur og orkukaupendur. Raforkuverðið verður sveiflukennt, og meðalverðið mun hækka, af því að samræmd orkulindastýring verður bönnuð, sem hæglega getur leitt til ofnotkunar miðlunarlónanna í samkeppni við jarðgufuverin og þar af leiðandi mikilla verðhækkana að vetrarlagi og jafnvel orkuskorts.
"Aftur og aftur hefur komið fram, að Landsvirkjun hefur hvorki getu né áhuga á að leggja út í 800 milljarða króna framkvæmd, enda væri slíkt fásinna. Landsvirkjun hefur á hinn bóginn aftur og aftur greint frá áhuga erlendra aðila á því að leggja sæstrenginn."
Nú er það vel þekkt, að sæstrengurinn "Ice-Link" hefur hlotið náð fyrir augum ESB og er á lista ACER um forgangsorkusamtengingar Evrópulanda. Það þýðir, að þessi samtenging verður styrkhæf úr sjóðum Evrópusambandsins, sem miða að aukinni hlutdeild sjálfbærrar orku í orkunotkun ESB. Hvaða áhrif útganga Breta úr ESB hefur á þessi áform, er enn óljóst. Hitt er þó öruggt, að orkuviðskipti Breta og ESB-landanna munu halda áfram, og hugsanlega verður Bretland aukaaðili (án atkvæðisréttar) að ACER, eins og fyrirhugað er með EFTA-löndin.
Með ofangreindum stofnkostnaði, 2 % árlegum rekstrarkostnaði, 10 % heildartöpum og 8 % ávöxtunarkröfu í 25 ár, mun flutningsgjaldið þurfa að nema 90 USD/MWh, sem gæti lækkað í 80 USD/MWh vegna styrkveitinga frá ESB. Þetta er svipað verð og nú fæst fyrir raforku á heildsölumarkaði á Englandi. Ekkert er fast í hendi um, að brezki ríkissjóðurinn muni tryggja ákveðið lágmarksverð raforku um þennan sæstreng, sem sé talsvert hærra en þetta markaðsverð, enda er ekkert slíkt áformað í viðskiptum Norðmanna og Breta með sjálfbæra raforku frá Noregi.
"Nær væri að líta til væntrar arðsemi slíks verkefnis fyrir íslenzka raforkusala, sem flestir eru í opinberri eigu. Þar hafa verið nefndir 10-40 milljarðar króna á ári eftir því, hvaða forsendur menn hafa gefið sér."
Það virðist alveg út í hött, að svo mikið fáist fyrir íslenzka raforku á Bretlandi, að staðið geti undir greiðslum á 80 USD/MWh til sæstrengseigandans og þar að auki greiðslum til orkuvinnslufyrirtækja á Íslandi, sem ásamt orkusölu innanlands standi undir um 25 mrðISK/ár (10-40 mrðISK/ár) í arðgreiðslum til fyrirtækjanna. Um slíkar fjarstæður er ekki annað hægt að segja en þær hljóta að vera ættaðar frá skýjaglópum.
S.k. listaverð Landsvirkjunar fyrir forgangsorku er núna 43 USD/MWh. Það eru aðeins um 5 TWh/ár eftir virkjanlegir með þessum einingarkostnaði, en 1200 MW sæstrengur þarf 10 TWh/ár frá neti fyrir ofangreindan flutningskostnað. 50 USD/MWh er þannig nauðsynlegt forgangsorkuverð frá Íslandi inn á sæstreng. Það þýðir V=80+50=130 USD/MWh, sem brezkir kaupendur yrðu að greiða fyrir íslenzkt rafmagn, ef ekki á að verða tap á viðskiptunum. Það er 63 % hækkun m.v. núverandi markaðsverð á Englandi. Hvað skyldu draumóramenn segja um þetta ? Lítum aftur á Óðin:
"Það, sem skiptir arðsemi sæstrengs máli, er, hvort það náist samningur við brezk stjórnvöld um orkuverð, sem gildir út líftíma sæstrengsins eða ekki. Í upplýsingum, sem Landsvirkjun hefur birt frá orkumálaráðuneyti Bretlands um verð á endurnýjanlegri orku, kemur fram, að það er 3-5 sinnum hærra en listaverð Landsvirkjunar til 15-35 ára. Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, telur það geta verið hærra eða allt að 6-8 sinnum hærra."
Hér eru miklar væntingar, en ekkert kjöt á beinunum. Væntanlega á Óðinn við afskriftartímann fremur en tæknilegan líftíma sæstrengsins. Höfundur þessa pistils hefur reiknað með 25 ára afskriftartíma, sem er hámark, en annars verður flutningskostnaður raforku enn þá hærri. Samkvæmt þessu er ríkisstjórn Bretlands fús til að tryggja um 4x43=172 USD/MWh fyrir raforku frá Íslandi. Hún þyrfti þá að greiða 172-80=92 USD/MWh með henni eða 790 MUSD/ár að jafngildi um 100 mrðISK/ár. Fyrir slíkan samning fengi Landsvirkjun (fyrir tilviljun) sömu upphæð, en slíkir samningar væru samt ekki þjóðhagslega hagkvæmir, því að upp að 180 USD/MWh (100 USD/MWh til innlendra orkuvinnslufyrirtækja) fæst meiri verðmætasköpun með innanlandsnotkun raforkunnar.
Er fótur fyrir því, að brezka ríkisstjórnin geti og vilji gera slíka samninga við Íslendinga ? Nei, það er enginn fótur fyrir því. Það er allt annað mál, hverju hún og þingið telja verjanlegt að verja til þróunar á kjarnorkuveri (Hinkley 150 USD/MWh) og á vindorkuverum undan ströndinni (200 USD/MWh). Eins og sakir standa eru nánast engar líkur á, að brezk stjórnvöld vilji eða geti gert samninga um svona hátt verð, hvað þá eins og haft er eftir Katli Sigurjónssyni, því að brezki ríkissjóðurinn er rekinn með miklum halla og í hverjum fjárlögunum á fætur öðrum eru niðurgreiðslur vegna sólar- og vindorku minnkaðar, enda fer kostnaður frá þeim hratt lækkandi vegna tækniþróunar. Niðurgreiðslur til vindorkuvera undan strönd hafa þó að mestu haldizt.
Aðeins ef raforkuverð á Englandi hækkar um meira en 60 % verður hagkvæmt fyrir íslenzka virkjanaeigendur að stækka markað sinn, en enginn getur tryggt þeim slíkt verð til frambúðar eða út afskriftartíma nýrra virkjana. Af þessum ástæðum er viðskiptagrundvöllurinn enginn, nema eitthvað annað komi til, t.d. lokun iðjuvera á Íslandi, en stjórnvöld ættu að vinna gegn slíkum skiptum, því að þau verða ekki í þjóðarhag, eins og hér hefur verið rakið. Hér er vert að benda á, að norska ríkisstjórnin hefur lagt sig í framkróka við að framlengja raforkusamninga við orkukræfan iðnað í Noregi. Það mundi hún ekki hafa gert, nema hún teldi þjóðhagslega hagkvæmara að nota raforkuna til verðmætasköpunar í Noregi en að flytja hana til útlanda um millilandatengingarnar. Samt hirðir ríkisfyrirtækið Statnett allan ágóða af flutninginum sjálfum, Því að Statnett á allar millilandatengingarnar.
Í næsta pistli verður haldið áfram að fjalla um þessa grein Óðins og þá m.a. um arðsemi orkusölu til stóriðju.
18.12.2018 | 10:59
Norðmenn súpa seyðið - málsmeðferð Stórþingsins kærð
Norðmenn búa við frjálsa samkeppni í orkukauphöll, þar sem spákaupmennska er stunduð með raforku að hætti Evrópusambandsins-ESB. Raforkuverðið í Noregi sveiflast eftir framboði og eftirspurn þar og eftir verði í ESB vegna millilandatenginganna. Nú, þegar koltvíildisskattur og verð á losunarkvótum koltvíildis fer hækkandi í ESB, hækkar raforkuverðið í Noregi, þótt Norðmenn framleiði nánast enga raforku með jarðefnaeldsneyti. Þetta er einn af göllunum fyrir land endurnýjanlegrar raforku við að vera á raforkumarkaði ESB.
Í september 2018 rigndi meira en dæmi eru um í Noregi, eftir mikla þurrka í sumar, og þess vegna er ekki útlit fyrir bráðan vatnsskort í miðlunarlónum í vetur, en samt er raforkuverð þar með hæsta móti vegna millilandatenginganna og og vöntunar á framlagi orku frá norskum vindmyllum vegna lítt vindasamrar veðráttu í umhverfi flestra vindmyllna Noregs.
Vindorkuver eru farin að hafa áhrif á framboð raforku í Noregi, en útihitastigið ræður mestu um eftirspurnina. T.d. í viku 50/2018 blés lítið og hitastig var í meðallegi. Þá nam orkuverðið til almennings um 59 Naur/kWh eða 8,5 ISK/kWh (60 EUR/MWh). Þetta er allt að 40 % hærra en hérlendis. Ef nú kólnar um 3-4 °C, getur verðið hækkað um þriðjung og jafngildir þá 11,3 ISK/kWh, einvörðungu fyrir orkuhlutann (allt að 90 % hærra en hérlendis). Þetta má tvöfalda vegna flutnings, dreifingar og skatta, svo að almenningur í Noregi má þá út með um 22 ISK/kWh, sem er talsvert hærra en hérlendis.
Enn verra er þetta á meginlandinu. Í Belgíu var verðið nýlega 350 EUR/MWh = 49 ISK/kWh fyrir rafmagnið án flutnings og skatta. Þetta sýnir hrikalegar öfgar markaðskerfisins. Kerfi af þessu tagi á ekkert erindi hingað til lands, enda myndi það fljótt kippa stoðunum undan velferðarsamfélaginu hér og samkeppnishæfni atvinnulífsins. Fulltrúar atvinnulífsins ættu að kynna sér þessi mál og taka opinbera afstöðu í þessu brýna hagsmunamáli atvinnulífsins.
Norðmenn eru eðlilega óánægðir með það, að afurð vatnsafls þeirra og vindafls, rafmagnið, skuli vera undirorpin gríðarlegum verðsveiflum á markaði og háð rafmagnsverði annars staðar í Evrópu. Ef vindar blása veikt í Danmörku, Hollandi og Þýzkalandi, þá hækkar rafmagnsverð í Noregi. Ef ESB ákveður að hækka koltvíildisskatt, þá hækkar rafmagnsverð í Noregi, og geta má nærri, að slíkt setji alvarlegt strik í heimilisbókhaldið hjá Ola Nordmann og Kari, sem eru Jón og Gunna Noregs, þegar þetta gerist á kuldaskeiði að vetrarlagi, en meðalheimili í Noregi notar um tífalt meira rafmagn að meðaltali yfir árið en meðalstórt íslenzkt heimili vegna þess, að í Noregi er rafmagn notað til húshitunar. Þar af leiðandi er raforkukerfi Noregs aflhannað, en hérlendis er það hins vegar orkuhannað, sem gefur mun betri nýtingu orkumannvirkjanna að meðaltali yfir árið. Norðmenn hafa reynt að bæta sér þetta upp með aflsölu til útlanda. Raforkukerfi okkar býður einfaldlega ekki upp á slíkt. Þegar raforkuverðið hækkar og þröngt verður í búi hjá frændum vorum, er gengið á eldiviðarhlaðann og kynt upp með kamínunni, svo að á lygnum vetrardögum leggst reykjarmökkur yfir byggðina. Það léttir undir með buddunni, en ekki er það heilsusamlegt.
Staða Noregs í þessum efnum á að verða Íslendingum víti til varnaðar. Við eigum ekki að láta gróðapunga klófesta hér orkumarkaðinn og sameina hann Evrópumarkaðinum með sæstreng til að hefja spákaupmennsku með raforkuna á stórum markaði, sem óhjákvæmilega mun rýra kjör alþýðu hérlendis og veikja íslenzk fyrirtæki. Munum hið fornkveðna: ef þú réttir skrattanum litla fingurinn, þá tekur hann alla hendina.
Norðmenn eru að vakna upp við vondan draum. Þeir eru ekki búnir að gefast upp, þótt Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn hafi verið samþykktur á Stórþinginu í vetur, reyndar með 8 skilyrðum. Þegar ESB tekur að brjóta þessi skilyrði, þá munu Norðmenn verða æfir, einkum Verkamannaflokksmenn, sem sömdu þessi skilyrði. ESB skrifaði aldrei undir þessi skilyrði, svo að þeir svíkja ekkert, þótt þeir hundsi þau.
"Nei til EU"-samtökin hafa haldið uppi öflugu andófi gegn ESB í Noregi, og hafa nú kært ríkið fyrir það, að ekki var krafizt aukins meirihluta á Stórþinginu við afgreiðslu Orkupakka #3, eins og stjórnarskrá Noregs áskilur, þegar um skýrt fullveldisframsal er að ræða. Hér fyrir neðan er þýðing pistilhöfundar á blaðagrein frá "Nei til EU" um þetta efni, en hún er birt á frummálinu í viðhengi með þessum pistli:
"ACER málsóknin snýst um heiðarleika":
"Ríkisstjórn og Stórþing hafa ekki frítt spil við að hola norskt fullveldi að innan; þess vegna ætlar "Nei til EU" að nýta réttarkerfið til að verja leikreglur Stjórnarskrárinnar.
"Nei til EU" hefur stefnt Ríkinu, sem Erna Solberg, forsætisráðherra, stendur sem fulltrúi fyrir, með kröfu um, að ríkisstjórnin setji Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB ekki í framkvæmd, en sá fellir Noreg undir valdsvið Orkustofnunar ESB-ACER. Röksemdin er sú, að ACER-samþykkið sé ógilt, af því að Stórþingið fylgdi ekki Stjórnarskrárgrein nr 115 um fullveldisafsal, sem m.a. áskilur aukinn 3/4 meirihluta.
Þetta er í fyrsta skipti, sem "Nei til EU" fer í málsókn. Við erum félag, sem er grundvallað á lýðræði, og erum gagnrýnin á að beina stjórnmálum á brautir réttarfars, eins og er háttur ESB. Í EES-samninginum blasir þetta við með stöðugum inngripum eftirlitsstofnunarinnar ESA, sem yfirstýrir stjórnmálalegum áherzlumálum [t.d. banni Alþingis við innflutningi ófrosins kets o.fl.-innsk. BJo]. Við erum þeirrar skoðunar, að lýðræði og fullveldi séu nátengd, og Stjórnarskráin sé réttarfarsramminn, sem afmarkar leikreglurnar fyrir norskt lýðræði. Þess vegna er úrslitaatriði, að hin sértæku skilyrði, sem Stjórnarskráin setur fyrir fullveldisafsali, séu virt í hvívetna.
Að sniðganga Stjórnarskrána:
Samkvæmt Stjórnarskrá eiga dómstólarnir að hafa alveg óháða stöðu. Það felur í sér að gæta þess, að einnig þeir, sem setja lögin og framkvæma þau, fylgi lagabókstafnum. Sjálfstæðið hverfur, ef réttarkerfið samþykkir tafarlaust Stjórnarskrártúlkanir, sem Stórþing og ríkisstjórn miða við.
Í svo miklu deilumáli sem ACER-málinu hefði Stórþingið sjálft átt að óska eftir mati Hæstaréttar, eins og það á möguleika á með Stjórnarskrárgrein nr 83. Það vildi hins vegar-eða þorði-Stórþingsmeirihlutinn ekki gera. Kristilegi þjóðarflokkurinn, KrF, lagði fram tillögu um slíkt mat, en meirihlutinn hafnaði því. Þegar Stórþingið gerir lítið úr lýðræðinu, er sú leið opin í stjórnskipun okkar, að réttarkerfið geti leikið stærra stjórnmálalegt hlutverk en ella til varnar Stjórnarskránni.
ACER-málið leysti úr læðingi gríðarlega krafta, og mjög mörgum finnst, að við Stórþingssamþykktina hafi Stjórnarskráin verið sniðgengin. Við höfum safnað yfir MNOK 1,0 til málssóknarinnar, og enn bætist við söfnunarféð. Ef nauðsyn krefur munum við reka málið fyrir Hæstarétti til að fá dómsúrskurð, sem eiginlega allir ættu að hafa hag af, að komi.
Meira en "lítil áhrif":
Aðalspurningin í væntanlegu dómsmáli er, hvort valdframsalið "hafi lítil áhrif", eins og ríkisstjórnin fullyrðir, og hvort þetta sé nógu góð röksemd til að hafna grein 115 og í staðinn að velja einfaldari samþykktarforskrift (gr. 26). Talsverður fjöldi þekktra lögfræðinga var opinberlega mjög gagnrýninn á aðferð málsmeðferðarinnar í ACER-málinu.
Fyrirkomulag ákvarðana orkustofnunarinnar ACER í EES er mjög sérstök. Eftirlitsstofnunin ESA á formlega að taka ákvarðanirnar, en ákvarðanirnar eru skrifaðar hjá ACER. Ákvarðanir ESA fara síðan til Landsreglarans, sem samkvæmt regluverki ESB verður að vera óháður yfirvöldum hvers lands. Landsreglarinn á að afrita og framkvæma ákvarðanir ESA, og tekur hvorki við fyrirmælum frá ríkisstjórn né Stórþingi. Með öðrum orðum er búin til röð afritunarákvarðana frá ESB-stofnuninni, sem verða bindandi fyrir viðkomandi aðila í Noregi.
Í álitsgerð um Stjórnarskrárgrein nr 115 og ACER-málið bendir Hans Petter Graver á marga veikleika við mat ríkisstjórnarinnar, m.a., að lagt hafi verið til grundvallar, að völdin, sem ESA fái, séu einvörðungu þjóðréttarlegs eðlis. Graver skrifar: "Þar eð völdum ESA verður beitt í norsku réttarumhverfi, munu ákvarðanir ESA verða á lagalegum innanríkisgrundvelli, og þær verða bindandi og njóta forgangs samkvæmt EES-samninginum gagnvart þeim, sem þær beinast að. Landsreglarinn verður að landslögum skyldugur til að framfylgja ákvörðunum ESA. Þetta atriði hefði átt að hafa í huga við mat á "áhrifalitlu" valdi, og gæti þá hafa leitt til annarrar niðurstöðu."
Orka er viðkvæmt mál:
Hjá orkustofnuninni ACER hafa verið teknar ákvarðanir um rör og rafstrengi yfir landamæri að andvirði mörg hundruð milljónir norskra króna (MNOK). ACER getur einnig ákvarðað úthlutun á flutningsgetu í evrópska orkukerfinu. Þar að auki hefur hún heimildir til að afla upplýsinga hjá einkaaðilum í orkugeiranum og til að leggja á sektir, ef ekki er orðið við þessari upplýsingaskyldu.
Við þetta má bæta, að orka er miðlægt og viðkvæmt svið fyrir Noreg sem ríki, einkafyrirtæki og borgarana. Er þá hægt, heiðarlega og hreinskilið, að halda nokkru öðru fram en því, að valdframsalið hafi mikil áhrif ?
Á Íslandi hefur ráðuneytisfólk og fólk á mála hjá ráðuneytunum sett sig á háan hest og gert lítið úr röksemdum fyrir því, að innleiðing og framkvæmd Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB hérlendis sé utan leyfilegra marka íslenzku Stjórnarskrárinnar. Hún er strangari, ef eitthvað er, en norska Stjórnarskráin að þessu leyti, en samt geisa um þetta harðar deilur í Noregi. Íslenzkir embættismenn ættu að forðast að láta í ljós hroka sinn gagnvart þeim, sem brauðfæða þá. Þeir eru enn ekki nema "smalar í hlutastarfi fyrir ESB".
15.12.2018 | 15:09
"Hver veit, nema Eyjólfur hressist ?"
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á Landsfundi sjálfstæðismanna í marz 2018 var einróma samþykkt ályktun frá Atvinnuveganefnd fundarins um að hafna frekara valdframsali yfir orkumarkaði landsins til evrópskra stofnana. Það var skilningur langflestra Landsfundarfulltrúa, að þarna væri á ferðinni skýr afstaða Landsfundar gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn. Síðan hafa þó heyrzt hjáróma raddir fáeinna sjálfstæðismanna um, að það sé misskilningur, að téð Landsfundarályktun eigi við Orkupakka #3. Eigi er örgrannt um, að ráðherrar iðnaðar og utanríkismála, sem með málið fara í ríkisstjórn, hafi viðhaft slíkar dylgjur, og verður að færa þeim það til hnjóðs, báðum. Hefur þá heyrzt fleygt, að þáttur í grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins sé frjáls samkeppni með vöru og þjónustu, og Orkupakki #3 snúist í raun um frjálsa samkeppni um orku. Sá hængur er á þessum málflutningi, að það er ekki afstaða Sjálfstæðisflokksins að skilgreina rafmagn sem vöru á markaði í stað afurðar náttúruauðlindar þjóðarinnar, sem nota beri til að styrkja samkeppnisstöðu íslenzkra fyrirtækja um allt land og mynda þannig undirstöðu samkeppnishæfra lífskjara hérlendis m.v. önnur lönd.
Ýmsir sjálfstæðismenn á þingi hafa tjáð sig um þetta mál, þannig að ætla má, að innan þingflokksins sé í allvænum hópi manna að verða til sameiginlegur skilningur á því, að misráðið hafi verið að hleypa Evrópusambandinu (ESB) inn á gafl íslenzkra orkumála. Dæmi um þessi sjónarmið komu fram í grein eftir Jón Gunnarsson, Alþingismann, í Morgunblaðsgrein 29. nóvember 2018,
"Orkupakki Evrópusambandsins".
Jón reit m.a.:
13.12.2018 | 11:06
Sjálfstæðið á undanhaldi - hver rekur flóttann ?
Það er deginum ljósara, að EES-samningurinn er orðinn stórvarasamur fyrir hagsmuni Íslands vegna þess, að hann hefur þróazt frá s.k. tveggja stoða fyrirkomulagi ákvarðanatöku og yfir í einnar stoðar ákvarðanatöku um mikilvæg málefni, þ.á.m. um ráðstöfun orkulinda og rekstur raforkumarkaðar.
Tveir forystumenn ríkisstjórnarinnar, s.k. Viðeyjarstjórnar, sem beitti sér fyrir lögfestingu EES-samningsins, hafa manna skeleggast bent á, að þróun þessa samnings geti reynzt Íslendingum hættuleg og að brýna nauðsyn beri til að spyrna við fótum á Alþingi, þegar Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB verður þar borinn undir atkvæði.
Ágætis dæmi um þetta gaf að líta í Reykjavíkurbréfi sunnudagsblaðs Moggans 09.12.2018,
"Svör við röngum spurningum hafa aldrei komið að gagni".
Höfundurinn bendir á ömurlegan hlut íslenzka embættismannakerfisins, sem hefur látið sig hafa það að gerast taglhnýtingur forréttindastéttarinnar í Brüssel, sem þar situr við kjötkatlana og semur tilskipanir og reglugerðir, sem nánast allar þjóna stefnumiðum stórauðvalds Evrópu um sameinað eitt Evrópuríki, sem ekki hefur sézt þar síðan á dögum Karlamagnúsar í Aachen forðum, ef stutt ógnartilvist Þriðja ríkis þjóðernisjafnaðarmanna 1933-1945 er undanskilin. Þar stóðu um skeið engilsaxar á Bretlandseyjum einir á móti ofureflinu, og endurtekur sagan sig núna fyrir framan augun á okkur að breyttu breyttanda.
Eftir að hafa skrifað um Neville Chamberlain, Winston Churchill, Adolf Hitler og Tony Blair í inngangi, víkur höfundur Reykjavíkurbréfsins sögunni til Íslands:
"Umræður um þriðja orkupakkann eru gott dæmi um þetta [þ.e. að skynja eða skynja ekki um hvað málið snýst, og hvaða spurning og svar við henni skipti mestu máli (gæti vísað til spurninga og svara um Orkupakka #3 á vefsetri Auðlinda- og nýsköpunarráðuneytisins,ANR)]. Þar hefur ýmsu, sem engu skiptir eða litlu, verið blandað inn í aðdraganda ákvarðanatöku, og snýst það tal gjarna um það, hvort hætta af málinu sé á þessu stigi lítil eða mikil, og hvort Íslendingar geti fengið að hafa einhverja aðkomu að framtíðarstjórnun þess, þótt lokaorðið sé komið annað. Ekki sé endilega víst, að þetta eða hitt komi upp í málinu og verði vandamál. Þetta eru allt fjasspurningar. En spurningarnar, sem þarf að svara, eru þessar:
Er eitthvað í þessu máli fyrir okkur Íslendinga ? Svarið við því er nei. Heimilar stjórnarskrá okkar yfirfærslu valds í þessum málaflokki ? Svarið við því er líka nei. Af hverju í ósköpunum er þá málið enn að þvælast fyrir stjórnmálamönnum hér á landi ? [Undirstr. BJo - svar BJo: ESB hefur komið ár sinni vel fyrir borð hérlendis.]
Það er hárrétt, að ráðuneytin tvö, sem hafa þetta mál á sinni könnu, hafa afvegaleitt umræðuna um það með kolröngum áherzlum, rangfærslum og hártogunum. Dæmi um þetta eru fullyrðingar um, að ekkert muni breytast í íslenzka orkugeiranum fyrr en hingað verði lagður sæstrengur og að slíkt hafi Íslendingar í hendi sér. Hið rétta er, að eftir innleiðingu Orkupakka #3 verður ekki komizt hjá fullri markaðsvæðingu raforkuviðskiptanna, og þá er líklegast, að útibú "Nord Pool" orkukauphallar verði fyrir valinu sem vettvangur þessara viðskipta. Ef þá kemur kvörtun frá markaðsaðila til ESA yfir markaðshlutdeild Landsvirkjunar, mun ESA bregðast við með vísun til ESB-réttar.
Það er jafnframt engin ástæða til að efast um, að gerð #347/2013 verði innleidd hér í kjölfar innleiðingar pakkans, sem hún er náskyld, og þar með er komin forskrift fyrir Landsreglarann til að leggja mat á sæstrengsumsóknir. Alþingi hefur þá afsalað sér og yfirvöldum landsins stöðvunarvaldi yfir sæstrengsverkefni, enda er ákvörðunarferlið fyrir sæstreng einnar stoðar fyrirkomulag, eins og prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, hefur sýnt fram á í fyrirlestri hérlendis.
Síðan tekur höfundur Reykjavíkurbréfs til við að fjalla um þróun EES-samningsins, en sá samningur er auðvitað farvegur orkupakkans hingað til lands. Fá hérlendir embættismenn, sem um þessi mál fjalla, falleinkunn hjá höfundinum og sömu söguna er að segja af lögfræðilegum álitsgjöfum á vegum ráðuneyta, sem t.d. hafa veitt umsagnir um Orkupakka #3.
"Nú er komið á daginn, að því fer algjörlega fjarri, að þeim embættismönnum, sem treyst var til að halda á hagsmunum Íslands eftir EES-samninginn, hafi risið undir því. Þeir hafa, eins og frú Thatcher orðaði það fyrir löngu, flutt sitt ríkisfang og trúnað. Þeir hafa furðu fljótt tekið að líta á sitt hlutverk sem smala í hlutastarfi fyrir ESB. Er hægt að nefna nokkur dæmi um það.
Þetta þýðir að sjálfsögðu, að þeir stjórnmálamenn, sem fylgdu því eftir í góðri trú, að samþykkja bæri aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, hafa verið illa sviknir. Embættismannakerfið hefur smám saman unnið að því að koma sér upp lögfræðilegum álitsgjöfum, sem skrifa upp á hvað sem er í efnum sem þessum. Slíkir sýndu heldur betur á spilin sín í Icesave-málinu sællar minningar."
Það voru forystumenn Viðeyjarstjórnarinnar, Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson, sem fylgdu því manna fastast fram á Alþingi á sinni tíð, að EES-samningurinn yrði samþykktur, sem Alþingi svo gerði í janúar 1993. Nú lætur annar þeirra í ljós mikil vonbrigði með frammistöðu þeirra embættismanna og stjórnmálamanna, sem rekið hafa þennan samning, og báðir hafa þeir látið í ljós megna óbeit sína á fyrirætlun núverandi ríkisstjórnar um innleiðingu Þriðja orkupakkans frá ESB.
Ef allt er með felldu í Stjórnarráðinu, hljóta varnaðarorð þessara fyrrverandi ráðherra, sem mest véluðu um EES-samninginn á sinni tíð, að reka út í hafsauga allan vafa þar um, að beita beri neitunarvaldi gegn Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB.
Hérlendum embættismönnum og stjórnmálamönnum er ekki treystandi til að standa í ístaðinu til lengdar gagnvart þeirri viðleitni framkvæmdastjórnar ESB og helztu forkólfa þess að draga sífellt meiri völd frá þjóðríkjunum og til stofnana ESB; ekki frekar en kollegum þeirra í Noregi. Af þessu leiða æ stærri stjórnlagalegar spurningar á Íslandi og í Noregi, þótt hinir aðkeyptu lögfræðingar ríkisstjórna landanna setji kíkinn fyrir blinda augað og skrifi svo sín minnisblöð og greinargerðir til ráðherra. Þeir verða þá reyndar að sæta því, að sérfræðingar í Evrópurétti geri alvarlegar athugasemdir við niðurstöður þeirra. Eitt slíkt mál er nú rekið fyrir þingréttinum í Ósló vegna þeirrar túlkunar norsku ríkisstjórnarinnar, að einfaldur meirihluti dygði til að samþykkja Orkupakka #3 í Stórþinginu, af því að fullveldisframsalið væri minni háttar. Er líklegt, að dómur Þingréttarins verði kveðinn upp haustið 2019 og endanlegur dómur Hæstaréttar Noregs verði birtur haustið 2020.
Ekki er hægt að láta þessa spægipylsuaðferð ganga endalaust, og Orkupakki #3 er að margra dómi hérlendis þannig vaxinn, að gegn honum verður að spyrna við fótum, eins og Grettir gerði forðum, er hann glímdi við drauginn Glám á Þóroddsstöðum í Forsæludal. Það þarf að bregða saxinu sem fyrst og afhausa drauginn áður en orð hans verða að áhrínsorðum.
Þegar bent er á vaxandi alvarlega galla við EES-samninginn, er strax tekið að kyrja óttusöng um, að EES-samningurinn sé undirstaða núverandi lífskjara á Íslandi. Vegna gallanna, sem felast í að taka upp mjög íþyngjandi lagabálka ESB, sem Viðskiptaráð telur virka stórlega hamlandi á framleiðniaukningu landsins, sem er þá dragbítur á lífskjarabata, þarf að skoða með opnum huga möguleikana á fríverzlunarsamningi við ESB og Bretland með víðtækum samstarfsákvæðum í líkingu við samband Svisslands við ESB.
Nú er gerjun í þá átt í Noregi að segja EES-samninginum upp, því að löggjöf ESB eigi oft á tíðum illa við í Noregi, og þá getur opnazt sá möguleiki, að EFTA og ESB geri slíka fríverzlunarsamninga. Þetta þarf allt að vega og meta á hagsmunavog Íslands, þar sem markaðsaðgengið auðvitað mun vega þungt.
"Þegar EES-samningurinn var í umræðu í þinginu, voru lögð fram tvö gagnstæð lögfræðiálit um það, hvort EES-samningurinn stæðist stjórnarskrá landsins. Meirihluti þingsins byggði á áliti, sem taldi, að málið stæðist. En það fór ekki á milli mála, að samningurinn kallaði á mikla varfærni og einurð, hvað þetta varðaði. Ætli menn sér að skoða þróun samningsins, og hvernig á honum hefur verið haldið, þá er óhjákvæmilegt, að það sé gert á grundvelli þessara lögfræðiálita og framganga íslenzkra yfirvalda skoðuð með hliðsjón af því. Þá væri verra en ekkert, ef að því kæmu að einhverju leyti þeir aðkeyptu lögfræðingar, sem skrifað hafa upp á gerðir embættiskerfisins, sem stjórnmálamenn síðustu ár hafa gersamlega lagzt flatir fyrir, svo að til vanza er."
Höfundur Reykjavíkurbréfs hefur áhyggjur af því, að sú rýni á rekstri EES-samningsins, sem nú stendur yfir á vegum utanríkisráðuneytisins, verði með böggum hildar. Er ástæða til að búast við óvilhallri og hlutlægri umfjöllun í þeirri skýrslu ? Áhyggjur um það eru ekki ástæðulausar.
Á aldarfjórðungsrekstrartíma EES-samningsins hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina varðandi íþyngjandi innleiðingar ESB-gerða og tilskipana. Það eru engin teikn á lofti um breytingu á þessari tilhneigingu, og þess vegna nálgast Ísland stöðugt meir að verða með löggjöf, eins og ESB-ríki. Það er algerlega borin von, að íslenzkir embættismenn geti haft nokkur umtalsverð áhrif á tilurð þessara samfélagsforskrifta. Þær eru í upphafi mótaðar á lokuðum fundum ESB-ríkjanna, og bolmagn íslenzkra embættismanna til breytinga á síðari stigum er nánast ekkert. Það er hrein fjármunasóun að vera með tilburði til slíks. Norðmenn eru með 70 manns í störfum í Brüssel við að fylgjast með öllu moðverkinu og verður lítið ágengt að eigin mati. Með þessu áframhaldi sogumst við fyrr en síðar inn í svarthol ESB. Þar verðum við sem "krækiber í helvíti" eða fluga í köngulóarvef. Það er óþarfi nú, þegar kvarnast fer úr Evrópusambandinu og innri mótsetningar þess eru að verða óbærilegar.
11.12.2018 | 09:58
Hagfræðistofnun og orkukauphöll
Landsnet mun hafa í undirbúningi stofnun orkukauphallar fyrir heildsölumarkað með rafmagn. Slíkt er valkvætt samkvæmt Orkumarkaðslagabálki ESB #2, en skylda samkvæmt Orkupakka #3 að koma á frjálsri samkeppni með rafmagn, er lýtur öllum samkeppnisreglum EES. Í öðrum löndum EES hefur bezta ráðið til þess verið talið að koma upp orkukauphöll fyrir viðskipti mislangt fram í tímann og einnig fyrir viðskipti með orkuafleiður, þar sem spákaupmennska með orkuna þrífst og getur reynzt gróðavegur eða leitt til gjaldþrots, eins og dæmin sanna frá nágrannalöndunum. Spurningin ætti þó aðeins að vera þessi: verður frjáls samkeppi með raforku, t.d. í kauphöll, orkunotendum til hagsbóta eða ekki ?
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, HHÍ, gaf haustið 2018 út skýrslu, þar sem mælt var með stofnsetningu orkukauphallar á Íslandi, en rökin voru í lausu lofti, því að algerlega var litið framhjá gerð íslenzka raforkukerfisins, sem er gjörólíkt öðrum raforkukerfum. Þegar þessa forsendu rannsóknarinnar skortir, verður útkoman óhjákvæmilega vitlaus. Það er með öðrum orðum ófullnægjandi að beita hagfræðikenningum á íslenzka raforkumarkaðinn og að gefa sér það, að hann hagi sér eins og evrópskur raforkumarkaður. Þetta er meginvilla HHÍ.
Íslenzka raforkukerfið og frjáls raforkumarkaður hérlendis uppfylla ekkert af þeim 5 skilyrðum, sem ESB-sjálft hefur sett fyrir því, að frjáls samkeppni um raforku geti þrifizt eðlilega og orðið notendum til hagsbóta. Þessu hefðu skýrsluhöfundar HHÍ þurft að gefa gaum áður en þeir gáfu þessa skýrslu út. Sú hagfræðilega rökleiðsla, sem beitt er, gengur út frá því, að raforkukerfi Íslands lúti að öllu leyti sömu lögmálum og raforkukerfi Evrópu. Það er augljóslega óleyfileg einföldun á viðfangsefninu, því að hvergi annars staðar í Evrópu samanstendur vinnslukerfi rafmagns nánast einvörðungu af vatnsaflsvirkjunum og jarðgufuvirkjunum. Verður nú vitnað í skýrsluna:
"Heildsöluverð á almennum markaði mundi endurspegla það verð, sem stórnotendur vilja borga fyrir rafmagnið. Sem stendur er Landsvirkjun eini seljandinn, sem um munar í heildsöluviðskiptum, en bæta mætti úr því með því að skikka framleiðendur til þess að bjóða allt rafmagn til sölu í kauphöllinni - það sem ekki hefur þegar verið selt stórnotendum. Verðið mundi líklega sveiflast meira en nú, en minni hætta yrði á rafmagnsskorti."
Þessi texti Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ, gefur til kynna, að íslenzkur raforkumarkaður hafi ekki verið brotinn til mergjar frá öllum hliðum þar á bæ. Flestir raforkukaupendur á Íslandi verða einfaldlega að kaupa þá raforku, sem þeir þurfa til heimilishalds og atvinnurekstrar við lægsta verði, sem í boði er á þeim fákeppnismarkaði, sem hér er. Stórnotendur njóta náttúrulega alltaf hagstæðari kjara í krafti magnafsláttar, kauptryggingar og jafnvel stöðugri viðskipta (jafnara álags). Verð í orkukauphöll ræðst mjög af notkunarmynztrinu (álagsfreifingu yfir sólarhring, viku og mánuð), og þess vegna er það einkennileg staðhæfing, að verðið muni endurspegla verð til stórnotenda.
Orðalagið "sem stendur" um Landsvirkjun sem eina seljandann á heildsölumarkaði, sem um munar, sýnir, að höfundurinn reiknar með breytingu á þessu innan tíðar. Það samræmist einfaldlega ekki samkeppnisreglum Innri markaðar EES, að hafa aðeins einn birgi, "sem um munar". ESA mun þess vegna eftir markaðsvæðinguna gera kröfu til ríkisstjórnarinnar um skiptingu Landsvirkjunar til að jafna markaðshlutdeildina.
Reglur Innri markaðarins um fjárfestingafrelsi og athafnafrelsi veita orkufyrirtækjum innan EES rétt til að taka sér stöðu sem orkuseljendur í orkukauphöll á Íslandi og sem orkuvinnsluaðilar úr íslenzkum orkulindum. Þeir mundu sjá sér leik á borði að kaupa allt sem býðst á íslenzkum orkumarkaði, sækja um rannsóknarleyfi vegna nýrra virkjana og síðan um virkjanaleyfi fyrir þær. Hvers vegna. Jú, það er alvarlegur skortur í Evrópu og reyndar í heiminum öllum á endurnýjanlegum orkulindum.
Þeir væru þá búnir að koma sér vel fyrir hér, þegar umsókn berst Orkustofnun og Landsreglara um leyfi til lagningar sæstrengs til Íslands. Í kjölfar samþykktar Orkupakka #3 leikur enginn vafi á um, að Sameiginlega EES-nefndin og Alþingi munu samþykkja ESB-gerð # 347/2013, en með henni mun það fela í sér brot á EES-samninginum að hafna sæstrengsumsókn, sem Landsreglari telur fullgilda.
Að "skikka" orkuvinnslufyrirtækin til að selja allt rafmagn í orkukauphöll, sem "ekki hefur þegar verið selt stórnotendum", þýðir, að engir fleiri langtímasamningar um raforkuafhendingu verða gerðir hérlendis, t.d. í sambandi við beinar erlendar fjárfestingar í iðjuverum. Þetta mundi líka þýða, að öll viðbótar raforkukaup núverandi iðjuvera með langtímasamninga færu fram í orkukauphöll, og um endurnýjun slíkra samninga yrði heldur ekki að ræða, þegar þeir renna úr gildi. Þetta er stórpólitísk stefnumörkun í atvinnulegu tilliti.
Stefnumörkun af þessu tagi fyrir atvinnulíf landsins væri með öllu ótækt, af hagsmunalegum og lýðræðislegum ástæðum, að leggja í hendur Landsreglara. Stórmál af þessu tagi verður að ræða og ákveða á Alþingi. Jafnvel Norðmenn, sem rekið hafa orkukauphöll í landi sínu síðan 1990, en eru enn ekki undir járnhæl ACER, gera enn langtímasamninga við stóriðjufyrirtæki, bæði ný og við endurnýjun samninga. Ríkisvaldið þar hefur veitt stóriðjufyrirtækjunum tryggingu fyrir "samkeppnishæfu" raforkuverði í Noregi gegn því, að þau haldi uppi starfsemi og tryggi atvinnu í dreifðum byggðum Noregs. ESA sætti sig að lokum við þetta gegn ákvæði í orkusamningunum um einhvers konar vísitölutengingu eða markaðstengingu raforkuverðsins.
HHÍ virðist vera kaþólskari en páfinn, þegar raforkumarkaður á Íslandi er annars vegar, ef mið er tekið af rekstri norsks raforkumarkaðar og samskiptum Norðmanna og ESA út af langtímasamningum á raforkumarkaðinum þar í landi. Þá ber hins vegar að gæta að því, að ACER ræður enn ekki ríkjum í Noregi með fulltrúa sinn, Landsreglarann, í eftirliti með raforkumarkaðinum. Hver veit, nema HHÍ hafi tekið mið af því við skýrslugerðina, sem menn þar á bæ búast við frá Landsreglara hérlendis í fyllingu tímans ? Skýrslan á greinilega að réttlæta stofnun orkukauphallar á Íslandi, en þannig er hins vegar ekki hægt að gæta hagsmuna orkukaupenda hérlendis, þegar betur er að gáð. Þeir, sem hag hafa af slíku hérlendis, eru orkuseljendur og spákaupmenn. Alþingismenn og verkalýðshreyfing ættu að beita sér gegn stofnun orkukauphallar og spákaupmennsku með rafmagn á Íslandi. Það verður mjög erfitt eða ómögulegt að hindra það eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.
Það þarf ekki að orðlengja það, að verði ráðlagt fyrirkomulag HHÍ ofan á um raforkumarkað á Íslandi, þá mun stóriðnaður líða undir lok á Íslandi um 2035, eða þegar núverandi samningar renna sitt skeið á enda. Er framtíðarsýn HHÍ sú, að fyrir tilstilli frjáls raforkumarkaðar loki stóriðjuverin og orkan, sem þannig verður tiltæk á markaði, verði seld á "Nord Pool" orkukauphöll inn á sæstreng með 10 % viðbótar töpum til verðmætasköpunar erlendis ? Þetta er framtíðarsýn, sem fáum hérlendis hugnast, því að slík viðskipti geta fyrirsjáanlega ekki orðið þjóðhagslega hagkvæm m.v. orkunýtingu við verðmætasköpun innanlands til gjaldeyrissparandi starfsemi eða útflutningsiðnaðar. Við hvað á fólkið að starfa, sem haft hefur viðurværi sitt beint og óbeint af iðjuverunum ?
Norsk stjórnvöld lögðu sig í framkróka upp úr aldamótunum síðustu við að tryggja norskum stóriðjuverum áframhaldandi langtíma raforkusamninga, en þá runnu margir samningar þar út, enda er viðurkennd staðreynd þar, að slíkir raforkusamningar eru forsenda fyrir samkeppnishæfum stóriðjurekstri í Noregi. Ef norsk stjórnvöld hefðu talið þjóðhagslega hagkvæmara að láta markaðinn ráða og leyfa hverju iðjufyrirtækinu á fætur öðru að leggja upp laupana í samkeppni við fyrirtæki nær mörkuðum eða annars staðar með lágt orkuverð, jafnvel fyrirtæki á meginlandi Evrópu, sem hefðu aðgang að norskri orku gegnum sæstrengi, þá hefðu þau ekki beitt sér fyrir áframhaldandi langtíma raforkusamningum í byrjun þessarar aldar. Þessi barátta tókst í Noregi, en hafa íslenzkir stjórnmálamenn upp til hópa nægan skilning á þjóðhagslegu og atvinnulegu mikilvægi orkukræfs iðnaðar á Íslandi nú á dögum ?
Grundvöllur orkuútflutnings um sæstrengi frá Noregi er mikil ónotuð aflgeta í norskum vatnsorkuverum utan kaldasta tíma vetrarins, því að megnið af norsku húsnæði er hitað upp með rafmagni. Það hefur jafnframt yfirleitt verið um 7 % (10 TWh/ár) umframorkugeta í Noregi vegna lokunar úreltra verksmiðja, talsverðra (erlendra) fjárfestinga í vindorkuverum, orkusparnaðar, nýtniaukningar gamalla vatnsorkuvera og þokkalega góðra vatnsára. Nettó útflutningur orku hefur alltaf verið minni en þetta, enda hefur verðið hækkað, þegar framboðið minnkaði innanlands, og þá verið hagkvæmt að flytja inn raforku að nóttunni til mótvægis.
Þá er komið að fullyrðingunni um, að minni hætta verði á "rafmagnsskorti" með viðskiptum í orkukauphöll en með núverandi gjaldskrárkerfi og fremur takmörkuðu samkeppni, sem þó er fyrir hendi, einkum á heildsölumarkaði. Það er þvert á móti mun meiri hætta á orkuskorti, þar sem frjáls samkeppni ríkir í orkukauphöll. Ástæðurnar eru eftirtaldar:
- Vatnsorkuver eru mun samkeppnishæfari í rekstri en gufuorkuver. Þar af leiðandi munu fyrirtæki, sem eiga vatnsorkuver, geta selt alla orku, sem þau bjóða, og síðan munu jarðgufuverin koma inn á hærri verðum, og vindmyllur munu reka lestina, þegar þar að kemur. Þetta mun valda hraðari lækkun á vatnsstöðu miðlunarlóna en ella og lakari nýtingu á jarðgufuverum fyrir vikið en góðu hófu gegnir fyrr en raforkuverð tekur að hækka, þegar hillir undir tæmingu miðlunarlóna. Ólík samkeppnisstaða virkjana á Íslandi og dyntótt náttúran, sem framboðinu ræður í raun, veldur því, að íslenzkt orkukerfi hentar afar illa fyrir samkeppnismarkaðinn, sem ESB leggur upp með. Til mótvægis þessum agnúum þarf að beita samræmdri orkulindastýringu, þvert á fyrirtæki á markaði, en slíkt er bannað á samkeppnismarkaði að hætti ESB.
- Núna stundar Landsvirkjun orkulindastýringu innan sinna vébanda, og vegna stærðar hennar á markaði virðist hún duga landskerfinu. Öðru máli mun gegna, verði kvarnað úr fyrirtækinu til að jafna samkeppnisstöðuna. Orkulindastýring snýst um að treina vatnið í öllum þremur stærstu miðlunarlónunum, Hálslóni, Þórisvatni og Blöndulóni, fram á vorið, þar til innrennslið vex aftur að ráði, vanalega um mánaðamótin apríl-maí. Ef Íslendingar fá að ráða málum sínum sjálfir í orkugeiranum (án afskipta Landsreglara á vegum ESB), þá er líklegt, að markaðskerfi, sem er sérsniðið við íslenzkar aðstæður, sem eru einstæðar, verði þróað þannig, að það gagnist orkukaupendum. Slíkt kerfi þarf að hámarka afhendingaröryggi raforkunnar til almennings og stóriðju og tryggja hag orkukaupenda eftir föngum, samtímis sem það felur í sér hvata til að virkja í tæka tíð áður en orkuskortur tekur að láta á sér kræla að teknu tilliti til langs undirbúningstíma virkjana hérlendis.
8.12.2018 | 18:45
Hráskinnaleikur ESB og Noregs
Í leiðara Morgunblaðsins, 5. desember 2018, var vakin athygli á tveimur hagsmunamálum Íslands, makrílmálinu og Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Málin eru ólík, en eiga það sameiginlegt, að í báðum koma Evrópusambandið, ESB, og Noregur við sögu.
Ríkisstjórn Ernu Solberg í Noregi er höll undir ESB-aðild Noregs, þótt nú flæði undan fylgismönnum aðildar á Stórþinginu og andstæðingum aðildar á meðal þjóðarinnar vaxi fiskur um hrygg. Þessi ríkisstjórn sýnir hvað eftir annað, að hún tekur samstöðu með ESB fram yfir samstöðu með Íslendingum. Það á t.d. við í deilum strandþjóðanna við Norð-Austur Atlantshaf um veiðar á og veiðihlutdeild í makrílstofninum, og það á við um samstarfið í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem sitja fulltrúar ESB, Noregs, Liechtensteins og Íslands.
Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því í ræðu á Alþingi, að fulltrúi Noregs hafi verið alltof bráðlátur að hlaupa upp í hjá ESB, þegar íslenzki fulltrúinn hafði önnur samningsmarkmið. Það fórst sem sagt fyrir að mynda sameiginlega EFTA-stefnu.
Í makríldeilunni hafa fulltrúar norsku ríkisstjórnarinnar beinlínis komið illa fram við Íslendinga og hagað sér með bæði óábyrgum og ósanngjörnum hætti með þeim afleiðingum, að makrílstofninn er stórlega ofveiddur og lætur nú undan síga. Liggur þar e.t.v. fiskur undir steini, að Norðmenn vilji ekki, að makríllinn gangi lengur á Íslandsmið ?
Í sumar gerði utanríkisráðherra Noregs sér ferð til Íslands. Látið var í veðri vaka, að ferðin væri í tilefni heykaupa norskra bænda af íslenzkum bændum, en aðalerindi utanríkisráðherrans var að hvetja íslenzku ríkisstjórnina til að framfylgja af fullri hörku samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar um innleiðingu Þriðja orkupakkans í EES-samninginn, og til að hvetja þingmenn stjórnarflokkanna til tafarlausrar og snurðulausrar afgreiðslu málsins á haustþinginu. Þetta var ósvífin tilraun til áhrifa á framvindu í íslenzkum stjórnmálum að hálfu stjórnvalda, sem ætíð hafa sett hagsmuni Íslendinga til hliðar til að geta smjaðrað fyrir ESB og veifað skottinu. Þessi norsku stjórnvöld eiga þess vegna engan greiða inni hjá íslenzkum stjórnvöldum.
Þessi staða er hins vegar ekki í neinu samræmi við viðhorf og skoðanir norsku þjóðarinnar, sem ber vinarþel til íslenzku þjóðarinnar og er algerlega mótfallin afstöðu norsku stjórnarinnar gagnvart ESB og orkupakkanum. Varðandi málsmeðferð norsku stjórnarinnar á makrílmálinu hafa Norðmenn tekið sér í munn orðið "dobbelmoral". Hún leikur þar tveim skjöldum.
Samanburður ritstjóra Morgunblaðsins á makrílsmáli og orkupakka var vel við hæfi og fróðlegur:
"Makrílveiðar hafa undanfarin ár verið langt umfram ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins, ICES, og á því verður engin breyting nú. Heildarkvótinn var reyndar minnkaður um 20 %, en er engu að síður tvöfalt meiri en kvað á um í ráðgjöf ICES. Með þessu framferði er ýtt undir rányrkju á makrílstofninum.
Af kvótanum fá ríki utan strandríkjahópsins, Ísland, Grænland og Rússland, rúm 15 %. Það er naumt skammtað og ósvífið að ætlast til þess, að ríkin utan samningsins haldi sig á mottunni, á meðan þau, sem sömdu, skammta sér ríflega og láta sér á sama standa um ráðgjöf. Í raun er þeim ýtt út í einhliða aðgerðir."
Hvernig getur norska ríkisstjórnin verið þekkt fyrir að meina Íslendingum aðgang að samningaborðinu um makríl, sem er mikið hagsmunamál fyrir Ísland og fyrir sjálfbærar nytjar af þessum flökkustofni, og heimta á sama tíma, að íslenzkir þingmenn kokgleypi stórfellt fullveldisframsal til Evrópusambandsins, sem setur íslenzkan raforkumarkað á annan endann án nokkurs sjáanlegs ávinnings á öðrum sviðum. Þessari norsku ríkisstjórn þarf að kenna þá lexíu, að íslenzka ríkisstjórnin láti ekki bjóða sér slíka framkomu. Stjórninni í Ósló er engin vorkunn að semja á eigin spýtur um áframhaldandi orkuviðskipti við ESB, þótt Íslendingar vilji þar hvergi nærri koma. Þannig gerast kaupin á eyrinni.
Morgunblaðið tók eftirfarandi pól í hæðina:
"Óbilgirni Norðmanna þarf ekki að koma á óvart, þótt hvimleið sé. Hún er hins vegar í litlu samræmi við þann þrýsting, sem norskir ráðamenn hafa beitt íslenzk stjórnvöld um að samþykkja þriðja orkupakkann vegna þess, hvað hann skipti miklu máli fyrir Norðmenn. Það er undarlegt, að Norðmenn ætlist til þess, að Íslendingar taki þeirra hagsmuni fram yfir sína eigin í orkumálum, en vilja ekki einu sinni hleypa Íslendingum að samningaborðinu um makrílinn.
Þá er rétt að halda því til haga, að Íslendingar voru ekki að biðja Norðmenn að setja sína hagsmuni til hliðar í makrílmálinu; bara, að Ísland fengi að taka þátt í samningum í stað þess að standa utan við þá."
Í apríl 2018 komu til Íslands tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar norsku og áttu fund með íslenzkum stjórnarþingmönnum. Erindi þeirra var algerlega öndvert við erindi norska utanríkisráðherrans um þremur mánuðum síðar. Þeir báðu íslenzka þingmenn þess lengstra orða að taka ákvörðun í orkupakkamálinu á grundvelli hagsmuna íslenzku þjóðarinnar og að láta ekki áróður norskra stjórnvalda og hagsmunaaðila á hennar bandi villa sér sín. Það hefur verið skammarlegt að fylgjast með málflutningi íslenzka utanríkisráðuneytisins hingað til í þessu orkupakkamáli, því að þar á bæ hafa menn kysst á norska vöndinn og haldið því fram, að vegna mikilla viðskiptahagsmuna Norðmanna verði íslenzkir þingmenn að samþykkja pakkann.
Þetta er alger hundalógikk hjá utanríkisráðuneytinu. Kalt hagsmunamat verður að liggja að baki íslenzkri stefnumörkun, ekki undirlægjuháttur og gagnrýnislaus auðsveipni við erlent vald. Mikill meirihluti norsku þjóðarinnar er algerlega andvígur orkupakka #3, og Alþýðusamband Noregs hefur lýst yfir andstöðu við hann. Norska ríkisstjórnin er minnihlutastjórn, sem fékk orkupakkann illu heilli samþykktan í Stórþinginu með tilstyrk Verkamannaflokksins. Sá flokkur er nú að snúast í afstöðunni til Þriðja orkupakkans. Gott samband við Noreg er Íslendingum nauðsynlegt. Til frambúðar verður það bezt tryggt, eins og sakir standa, með því að hafna Orkupakka #3. Það er skrýtið, ef þetta fer ekki bráðlega að renna líka upp fyrir íslenzka utanríkisráðuneytinu.
Í viðhengi eru nýlegar úrklippur úr norsku blaði, þar sem tíundaðar eru nokkrar ESB-gerðir, sem væntanlegar eru til umfjöllunar Stórþingsins 2019 og sem vekja munu miklar deilur í Noregi. Líklegt er, að a.m.k. einhverri þessara ESB-gerða muni Stórþingið hafna. Það er engin umræða um það í Noregi, að þess vegna muni EES-samstarfið verða í uppnámi. Hvers vegna ?