Færsluflokkur: Evrópumál
14.1.2019 | 14:12
Villuljós Þriðja orkupakkans
Guðjón Sigurbjartsson, fyrrverandi fjármálastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur, skrifaði grein í Morgunblaðið 1. desember 2018 undir fyrirsögninni:
"Orkupakkinn í stóra samhenginu".
Hann gerir þar að umfjöllunarefni, hverju þarf að breyta á Íslandi til að frjáls samkeppni um rafmagnsviðskipti virki vel. Hann vitnar í danska hagfræðinginn Lars Christensen, en skilyrðin, sem hann telur upp, eru allsendis ófullnægjandi til að hindra, að viðskiptavinir orkubirgjanna beri skarðan hlut frá borði.
Skilyrðin, sem þarf að uppfylla til að markaðskerfi með raforku í anda ESB virki notendum til hagsbóta, eru vel þekkt, en þau munu einfaldlega aldrei verða uppfyllt á Íslandi vegna eðlis orkulindanna, því að ESB bannar miðlæga orkulindastýringu, sem er nauðsynleg við íslenzkar aðstæður, ef hlutur notenda á ekki að verða algerlega fyrir borð borinn. Þessu verða stjórnmálamenn og yfirvöld orkumála í landinu að fara að gera sér grein fyrir. Rafmagn er ekki eins og hver önnur vara á Íslandi, heldur afurð dyntóttra náttúruauðlinda, sem þarf að stjórna nýtingunni á, ef ekki á illa að fara. Að láta frjálsan markað um stýringu auðlindanna krefst aðhalds. Eldsneytiskerfi ESB-landanna er allt öðru vísi farið en orkulindum náttúru Íslands.
Guðjón hefur téða grein sína þannig:
"Danski hagfræðingurinn, Lars Christensen, skoðaði ásamt teymi sérfræðinga skilvirkni orkumarkaðarins á Íslandi og gaf út skýrsluna, "Our Energy 2030" í maí 2016 fyrir Samtök iðnaðarins. Samkvæmt henni þarf þrjár breytingar á okkar raforkumarkaði til að frjáls samkeppni virki vel:
1. Skipta þarf Landsvirkjun upp. Hún framleiðir um 70 % raforkunnar og er því of markaðsráðandi til að markaðurinn virki fullkomlega.
Almenningur þarf ekki að eiga orkukerfið til að fá arð af auðlindinni og njóta lágs orkuverðs. Þjóðin getur fengið sínar tekjur af orkuauðlindunum í formi auðlindarentu og skatta sbr sjávarútveginn."
Við þetta er margt að athuga. Það er þó engum blöðum um það að fletta, að Landsreglarinn á Íslandi, sem verður eftirlitsaðili með því, að frjáls samkeppni ríki á íslenzka raforkumarkaðinum í skilningi samkeppnislaga Evrópuréttarins, eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, mun ekki linna látunum fyrr en ESA gerir athugasemd við ríkisstjórnina um markaðshlutdeild Landsvirkjunar. Ríkisstjórn og Alþingi munu standa vanmáttug gagnvart kröfu ESA og að lokum EFTA-dómstólsins um að jafna samkeppnisstöðuna á raforkumarkaðinum; ekkert síður en lög Alþingis frá 2009 um varnir gegn innflutningi skaðræðissýkla í matvælum frá hinum EES-löndunum voru dæmd brot á EES-samninginum af EFTA-dómstólinum 2017. Þannig verður unnið óhæfuverk á öflugasta orkufyrirtæki landsins, sem stundað hefur hér nauðsynlega auðlindastjórnun til að gæta hagsmuna almennings og verið í stakk búið að byggja upp raforkukerfi landsins í krafti langtímasamninga við erlend framleiðslufyrirtæki. Með því að höggva Landsvirkjun í spað fer orkulindastjórnun landsins í vaskinn, því að undir ACER er hún óleyfileg, nema innan hvers fyrirtækis. Þetta stóreykur hættu á tæmingu lóna og ofnýtingu virkjaðs jarðgufuforða, enda er markaðskerfi ESB alls ekki sniðið fyrir lokað raforkukerfi með þessum náttúruauðlindum sem ríkjandi orkulindum. Allar munu þessar hagfræðilegu æfingar auðvitað valda stórhækkun raforkuverðs í landinu, enda eru refirnir til þess skornir að auka arðsemi raforkugeirans, sem sumir hagfræðingar telja of lága.
Það er röng ályktun hjá Guðjóni Sigurbjartssyni, að sala á hluta eða hlutum úr Landsvirkjun til fjárfesta hérlendis eða erlendis og markaðsvæðing raforkuviðskipta með orkukauphöll að forskrift ESB muni leiða til auðlindarentu og lágs orkuverðs til almennings ásamt skatttekjum til hins opinbera. Þetta þrennt fer ekki saman. Einkafjármagnið kallar á hærri arðsemi fjárfestinganna en opinber fyrirtæki hafa sætt sig við, eins og hagfræðingar, t.d. á Hagfræðistofnun HÍ hafa bent á. Þar að auki mun frjáls samkeppni án miðlægrar auðlindastýringar hæglega leiða til tæmingar lóna að vetri og ofnýtingar virkjaðs jarðgufuforða og þar með rýrnunar hans. Auðlindarenta af nýjum virkjunum fæst auðvitað ekki, nema orkuverðið frá þeim verði hækkað upp fyrir það, sem nægir til að standa undir kostnaði virkjunarinnar. Að afskriftum loknum fæst auðvitað bullandi auðlindarenta, og það er féð, sem ætlunin er að ráðstafa í varasjóð, Þjóðarsjóðinn.
"2. Fjölga þarf hluthöfum að Landsneti, sem flytur orkuna til kaupenda, til að jafna aðgang orkuframleiðenda að markaðinum.
Landsvirkjun, sem á núna langstærsta hlutann, getur ráðið mestu um, hvað er framkvæmt við flutningsnetið. Mikilvægt er, að slíkar ákvarðanir séu teknar út frá heildarhagkvæmni."
Eignaraðilar Landsnets eru 4 orkuvinnslufyrirtæki, og 3 þeirra hafa einnig sérleyfi til raforkudreifingar á sínum athafnasvæðum. Þau eignuðust Landsnet með því að leggja því til eignir við stofnun fyrirtækisins, Landsvirkjun 65 %, RARIK 22 %, OR 7 % og OV 6 %, en Landsnet fjármagnar sig þó sjálft, m.a. á erlendum mörkuðum. Landsnet má ekki draga taum neins, heldur eiga allir viðskiptavinir hennar að njóta jafnstöðu á markaði og lúta sama regluverki. Af sjálfu leiðir, að fulltrúar viðskiptavina mega ekki vera í stjórn kerfisstjórans, og þar sem Landsnet nýtur lögbundinnar einokunaraðstöðu, væri glapræði að hleypa fleiri einkaaðilum í eigendahópinn.
Af þessu leiðir, að eðlilegast er, að ríkissjóður leysi fyrirtækið strax til sín með útgáfu skuldabréfa. Ríkisendurskoðun hefur fundið að núverandi fyrirkomulagi, og það er óskiljanlegt, að ríkisstjórn Íslands skuli hafa leitað eftir og fengið undanþágu frá ESB til að varðveita óeðlilegt fyrirkomulag, sem var hugsað til bráðabirgða og er örverpi. Í nágrannalöndunum er reglan sú, að systurfyrirtæki Landsnets eru í ríkiseigu.
"3. Koma þarf upp spottmarkaði (svo ?) fyrir raforku til þess að laða fram sveigjanlega verðmyndun og nýtingu afgangsorku.
Þetta varðar t.d. hleðslu á rafmagnsbílum í framtíðinni. Hleðsla rafbíls getur t.d. verið stillt þannig, að hún fer í gang, þegar verð lækkar í tiltekið verð eða undir morgun, ef það næst ekki."
Það er ekki nauðsynlegt að koma upp uppboðsmarkaði eða orkukauphöll til að nýta afgangsorku í landinu. Þar nægir, að hver orkubirgir bjóði skilmála sína, t.d. á vefsetri sínu. Orkubirgjarnir hljóta að sjá sér hag í að selja sem mest af orku og verðleggja hana í samræmi við það, breytilega eftir árstíma, til að auka við notkunina að sumarlagi.
Ef hins vegar á að beina notendum á mismunandi tíma sólarhringsins, t.d. rafbílaeigendum á tímabil eftir kvöldtoppinn og fram að venjulegum vinnutíma, þá þarf snjallmæli hjá notandanum. Í þeim og uppsetningu þeirra felst mikil fjárfesting, ef skipta á um mæla alls staðar, en í nýjum töflum, og þar sem notkun er mikil (rafhitun, sum fyrirtæki), eru þeir eðlilegir. Þá er ekki endilega um að ræða að nýta afgangsorku, heldur að bezta nýtingu á innviðum raforkukerfisins, virkjunum, flutningskerfi og dreifikerfi, til að fresta fjárfestingum vegna viðbótar notkunar. Þá getur verið ódýrara að tengja hleðslutækið við rjúfanlega og fjarstýranlega grein í rafmagnstöflu gegn lækkun taxta í gjaldskrá. Þá er um samið, að dreififyrirtækið megi hindra eða stöðva notkun á viðkomandi grein, ef hætta verður á yfirálagi einhvers staðar uppstreymis í kerfinu.
"Styrkja þarf orkuflutningskerfið víða um land með tilkomu sæstrengs. Fá mætti þann kostnað greiddan hjá sæstrengsfyrirtækinu með eins konar aðgöngugjaldi að flutningskerfinu, ef af yrði."
Það er brýnt verkefni að styrkja flutningskerfi raforku innanlands, hvort sem sæstrengur kemur eður ei. Brýnast er að tengja Eyjafjörð við Kröflu og Fljótsdal með 220 kV línu og að útrýma flöskuhálsum, sem valda aflskorti hjá fiskvinnslum (mjölverksmiðjum) Norð-Austurlands. Öllum flöskuhálsum, sem hamla orkuskiptum, þarf að útrýma fyrir 2025, ef markmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum eiga að verða meira en orðin tóm.
Fyrir tengingu um 1200 MW sæstrengs til útlanda við stofnkerfi landsins þarf miklu meiri framkvæmdir. Slík tenging útheimtir tvær 400 kV línur, aðra frá Austurlandi (Fljótsdal) og hina frá Suðurlandi (Sigöldu) og að landtökustað sæstrengsins á Suð-Austurlandi, og gera þarf margháttaðar styrktar- og stöðugleikaráðstafanir með dýrum búnaði. Sterk tenging á milli Norður- og Suðurlands, t.d. jafnstraumsjarðstrengur yfir Sprengisand, um 500 MW, verður þá óhjákvæmileg fyrir stöðugleika kerfisins.
Ef Alþingi innleiðir Orkupakka #3 í EES-samninginn og íslenzka löggjöf, þá verður óheimilt að nota tekjur af sæstrengnum til að fjármagna flutningskerfið innanlands, heldur verður að fjármagna þessar miklu framkvæmdir, sem munu nema mrðISK 100-200, með hækkun gjaldskrár Landsnets á notendum innanlands. Þetta gæti þýtt 35 % hækkun gjaldskrár Landsnets umfram það, sem ella væri nauðsynlegt.
"Sæstrengur verður ekki lagður, nema í einkaframkvæmd á ábyrgð fjárfesta. Fjárfestar munu ekki leggja í framkvæmdina, nema stjórnvöld styðji framkvæmdina, því að verkefnið kallar á framkvæmdir við raforkuflutningskerfið og útvegun raforku til að nýta strenginn."
Þetta sjónarmið á aðeins við, á meðan Ísland er utan við Orkusamband ESB (ACER). Eftir samþykkt Orkupakka #3, sem vonandi aldrei verður, stendur lán frá ESB fjárfestum, íslenzkum eða erlendum, til boða, þar sem sæstrengurinn er nú þegar á forgangsverkefnalista ACER. Skilyrðið er þó, að Landsreglarinn á Íslandi og í hinu hýsingarlandi strengsins verði sammála um alla tæknilega og viðskiptalega skilmála strengsins.
Er hér verður komið sögu, verður komin orkukauphöll hérlendis, sem verður tengd við orkukauphöll í móttökulandi strengsins, þannig að íslenzkir raforkunotendur lenda í beinni samkeppni við raforkunotendur erlendis við tengingu sæstrengsins. Versnar þá samkeppnisstaða íslenzkra fyrirtækja og kaupmáttur heimila að sama skapi sem orkuverðið hækkar. Þetta fyrirkomulag gengur þvert á hagsmuni íslenzks almennings, enda er kerfið hannað fyrir aðra en hann. Hljóta atvinnurekendur og verkalýðshreyfing að geta sameinazt í andstöðu við slíkan óþurftargerning.
"Þó að verðmæti raforkunnar aukist umtalsvert við opnun nýrra markaða um sæstreng, hækkar verð til 90 % heimila ekki. Fáir hér munu finna fyrir hækkun raforku aðrir en stórnotendur. Almenningur mun hins vegar hagnast af auðlindagjöldum og fleiru, ef strengur verður að veruleika."
Það er undir hælinn lagt, hversu mikið verðmæti íslenzkrar raforku hækkar við þetta. Verðið fyrir raforkuna inn á endabúnað sæstrengsins ræðst af raforkuverðinu, sem kaupandinn erlendis er fús til að greiða, og frá því verði til kaupanda dregst flutningskostnaður um sæstrenginn og endabúnað hans, sem rennur til sæstrengseigendanna. Þegar sæstrengurinn hefur verið bókhaldslega afskrifaður, getur raforkuverðið til birgja hér aftur á móti hækkað stórlega.
Það er alveg út í hött að fullyrða, að raforkuverð til 90 % heimila hækki ekki. Verðið til allra heimila mun hækka, þótt ekki væri nema bara til að fjármagna nýjar framkvæmdir í virkjunum og stofnlínum og aðveitustöðvum. Stórnotendur með langtímasamninga munu hins vegar ekki finna fyrir þessu fyrst um sinn, nema þeir þurfi að kaupa viðbótar orku á markaði. Auðlindagjöldin til ríkisins (Þjóðarsjóðs) munu auðvitað koma úr vösum almennings hérlendis, eins og annarra raforkukaupenda, er fram líða stundir, svo að það er hæpið að færa þau á tekjuhlið almennings. Guðjón Sigurbjartsson bregður þannig upp einskærum villuljósum í sambandi við Orkupakka #3.
"Það fylgja sæstreng ýmsir fleiri kostir. Hann eykur afhendingaröryggi, þannig að ef hér verða náttúruhamfarir, sem gera virkjanir óstarfhæfar, mætti e.t.v. flytja inn orku, þar til úr rætist. Þá bætir strengurinn nýtingu vatnsaflsvirkjana, því að hægt er að flytja inn ódýra næturorku, sem stundum stendur til boða."
Líklega er afhendingaröryggi raforku um sæstreng, eins og "Icelink", minna en nú gerist almennt á Íslandi. Þess vegna er ólíklegt, að slíkt áhættumannvirki auki almennt afhendingaröryggi raforku á Íslandi. Þá eru meiri líkur á afhendingartruflun raforku í náttúruhamförum vegna línu- og aðveitustöðvarbilana en virkjanabilana. Boðaður lendingarstaður aflsæstrengs er á Suð-Austurlandi á áhrifasvæði Vatnajökuls, þar sem a.m.k. er að finna 3 eldstöðvar, sem hafa látið á sér kræla. Katla gæti líka slegið út flutningslínum á Suð-Austurlandi. Þetta gerir að verkum, að það er vart hægt að reikna með nokkurri orkuafhendingu að gagni til Íslands í slíkum náttúruhamförum. Sæstrengur getur jafnvel gert illt verra í þessum efnum, ef menn hafa af óforsjálni lækkað mjög í miðlunarlónum og sett traust sitt á strenginn, en hann eða línurnar að honum bila svo, þegar hæst á að hóa. Slíkt mannvirki veitir falskt öryggi.
Það er slæm viðskiptahugmynd út frá hagsmunum íslenzks almennings að flytja inn rafmagn um sæstreng til Íslands að næturþeli til að selja að deginum hér innanlands. Sjaldan er nokkurt næturrafmagn fáanlegt í Evrópu á lægra verði en hér ríkir nú allan sólarhringinn, og þegar búið verður að bæta flutningskostnaðinum við um strenginn og hér innanlands, verður það margfalt dýrara en núverandi rafmagnsverð á Íslandi. Allar hugmyndir í þessa veru eru reistar á stórhækkun raforkuverðs á Íslandi. Sú hækkun hækkar rekstrarkostnað heimila og fyrirtækja, grefur undan samkeppnisstöðu fyrirtækjanna og getur jafnvel tekið lifibrauðið frá fjölda manns.
"Til að nýta sæstreng þarf að auka orkuframleiðslu um sem nemur tveimur virkjunum á borð við Búrfellsvirkjun eða rúmlega það. Tilkoma strengsins bætir reyndar nýtingu kerfisins um sem nemur einni slíkri virkjun vegna ódýru næturorkunnar. Umhverfisvæn orka héðan getur dregið úr notkun meira mengandi orku í Bretlandi"
Búrfellsvirkjun er 270 MW að uppsettu afli og 2300 GWh/ár að vinnslugetu. Guðjón virðist þannig gera ráð fyrir orkuútflutningi um 5 TWh/ár. Það er bara helmingsnýting á flutningsgetu 1200 MW sæstrengs. Ekki er ljóst, hvernig kaup á næturorku frá útlöndum um strenginn geta bætt nýtingu íslenzkra virkjana. Sú nýting getur aðeins aukizt með því að selja meira afl, þegar miðlunarlón fyllast, en til þess þarf að auka aflgetu virkjana, líklega aðallega Fljótsdalsvirkjunar. Að sæstrengur geti aukið nýtingu núverandi virkjana um 2300 GWh/ár umfram það, sem innlendi markaðurinn getur, að teknu tilliti til orkuskipta og jafnvel vetnisframleiðslu, er útilokað.
Guðjón Sigurbjartsson klykkir út með eftirfarandi, þar sem boðskapurinn er ófélegur:
"Þriðji orkupakkinn varðar reglur um sameiginlegan orkumarkað Evrópu með hagsmuni neytenda í forgrunni. Við höfum tekið skref í átt að markaðsvæðingu orkugeirans og þurfum að ljúka því verki fyrir neytendur í landinu.
Evrópski orkumarkaðurinn er mikilvægur fyrir frændur okkar Norðmenn og vont að bregða fæti fyrir þá.
Ef reglur markaðarins liggja fyrir, eru meiri líkur á, að einkaaðilar sýni sæstreng áhuga. Ef af sæstreng verður, verður það mjög hagfellt fyrir almenning í þessu landi.
Það er því ekkert að óttast við að staðfesta þriðja orkupakkann, heldur mögulegt, að það verði okkur mjög hagfellt."
Þótt Þriðji orkupakkinn kunni að henta íbúum meginlands Evrópu, er ekki hægt að hrapa að þeirri ályktun, að hann henti Íslendingum. Hér eru aðstæður raforkuvinnslunnar og raforkumarkaðarins svo gjörólíkar, að þvert á móti má fullyrða, að almenningur á Íslandi myndi stórtapa á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.
Almenningur í Noregi hefur miklar áhyggjur af því, að Orkupakki #3 muni leiða til enn frekari hækkana raforkuverðs í Noregi og þar af leiðandi verri samkeppnisstöðu norskra fyrirtækja, einkum orkukræfra framleiðslufyrirtækja, sem að nokkru eru á frjálsum raforkumarkaði, þótt megnið af raforkukaupum þeirra sé samkvæmt langtímasamningum. Margir óttast, að Landsreglari Noregs, sem er aðeins háður ESA/ACER, muni fetta fingur út í endurnýjun langtímasamninga, af því að meginregla ACER er sú, að öll raforkuviðskipti fari fram í Orkukauphöll. Þar keppa norsk fyrirtæki um norska orku við fyrirtæki innan ESB vegna millilandatenginganna, sem eru margar og fer fjölgandi. Þessi evrópsku fyrirtæki eru mörg hver betur í sveit sett en norsk fyrirtæki m.t.t. aðdrátta, markaða, launakostnaðar og opinberra gjalda.
Það er rétt hjá Guðjóni, að innleiðing Orkupakka #3 eykur líkur á, að hingað verði lagður sæstrengur. ESB/ACER virðist hafa á því áhuga til að krækja í raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, sem mikill hörgull er á um þessar mundir í ESB, svo að nálgast örvæntingu þar á bæ vegna óraunhæfrar markmiðssetningar. Það er hins vegar algerlega úr lausu lofti gripið hjá Guðjóni, að sala rafmagns úr landi verði "mjög hagfellt fyrir almenning í þessu landi". Það jafngildir því að flytja vinnu og verðmætasköpun úr landi, og ímyndaður arður af þessum viðskiptum til baka til almennings verður aldrei annað en dropi í hafið hjá þeim gríðarlegu verðhækkunum rafmagns, sem sá sami almenningur mun þurfa að bera.
Trúarjátningunum í garð EES og Orkupakka #3 linnir ekki, en þær eru, eins og önnur trúarbrögð, hvorki reistar á tiltækum staðreyndum annars staðar frá né á rökhyggju. Þær eru reistar á trú, von og kærleika í garð spákaupmanna, sem hyggjast maka krókinn, eins og t.d. hefur gerzt í Noregi við innleiðingu uppboðsmarkaðar á raforku þar og stækkun markaðarins með millilandatengingunum. Eins dauði er annars brauð (Eines Tod einem anderen Brot).
11.1.2019 | 14:51
Að stinga hausnum í EES-sandinn
Það er háttur margra að bera á borð annaðhvort lofgerðarrullu um kosti EES-samstarfsins eða að lýsa göllunum fjálglega. Þessi aðferðarfræði er haldlaus á 25 ára afmæli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið-EES, því að þar er um æ flóknara fyrirbæri að ræða. Þá eru ekki margir hérlendis, sem hafa lagt sig eftir valkostum Íslendinga við EES-samninginn, sem þó er nauðsynlegt innlegg í umræðuna um veginn framundan í ljósi stöðunnar í Evrópu og reynslunnar af EES-samstarfinu. Þetta mat verður ekki inntak þessa pistils, heldur skal hér þrengja umræðuefnið til að spanna einn anga EES-samstarfsins, Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.
Tilefnið er greinarstúfur á Sjónarhóli Morgunblaðsins 3. janúar 2019 eftir Ara Guðjónsson, lögmann og yfirlögfræðing Icelandair Group, sem hann nefnir:
"EES-samstarfið í uppnámi".
Það olli vonbrigðum við lestur greinarinnar, hversu þröngt sjónarhornið er og takmarkaður eða alls enginn rökstuðningur í greininni færður fyrir skoðun lögmannsins. Honum þykir málflutningur andstæðinga innleiðingar Þriðja orkupakka ESB digurbarkalegur, en þeir hafa þó uppi góða tilburði, margir hverjir, til að rökstyðja sín sjónarmið.
Einkennandi fyrir málflutning skoðanasystkina Ara Guðjónssonar um þetta mál eru fullyrðingar um umdeilanleg lögfræðileg atriði, eins og lögmæti fullveldisframsals m.v. íslenzku Stjórnarskrána og áhrif innleiðing Evrópugerðar eða tilskipunar á gildandi réttarfar hér á landi. Þá ber mikið á sleggjudómum um viðbrögð samstarfsaðila Íslendinga í EES við höfnun Alþingis á "pakkanum", þótt EES-samningurinn sjálfur fjalli um leyfileg viðbrögð við synjun þjóðþings. Verður nú vitnað í téða Sjónarhólsgrein, sem hófst þannig:
"Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um hinn svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins í tengslum við fyrirhugaða innleiðingu Íslands á þeirri löggjöf. Andstæðingar þessarar nýju löggjafar hafa verið heldur digurbarkalegir í umræðunni og hafa haldið því fram, að regluverkið myndi fela í sér of víðtækt valdframsal á fullveldi Íslands og hafa jafnvel kallað eftir því, að Ísland gangi út úr samstarfinu. Þrátt fyrir að öll umræða um þessi málefni sé góðra gjalda verð, standast þær fullyrðingar, sem fram hafa komið frá helztu andstæðingum þriðja orkupakkaans enga lögfræðilega skoðun."
Á Evrópuréttarfræðinginum Stefáni Má Stefánssyni, fyrrverandi lagaprófessor, er að skilja, að með Orkupakka #3 verði gengið lengra í framsali fullveldis en samrýmist Stjórnarskránni, enda verði að taka tillit til uppsafnaðs framsals ríkisvalds til ESB. Það eru þess vegna uppi mjög miklar lögfræðilegar vangaveltur hérlendis, sem og í Noregi, um þetta atriði. Ari Guðjónsson hefur ekkert í höndunum til að sópa áhyggjum af þessu atriði út af borðinu. Þær eiga sér traustan, lögfræðilegan grundvöll.
Lögfræðileg umræða um framsal fullveldis þarfnast jarðtengingar til skýsringar. Það nægir hér að benda á eitt efnisatriði í þessu sambandi, en það er stofnun embættis Landsreglara, eða, sem væri enn þá verra, að breyta embætti Orkumálastjóra í Landsreglara, sem verður að Evrópurétti, sem á þessu sviði verður æðri íslenzkum lögum við innleiðinguna, algerlega óháður íslenzkum yfirvöldum, löggjafarvaldi og hagsmunaaðilum. Þetta embætti getur orðið íslenzkum lögaðilum og einstaklingum íþyngjandi með sektargreiðslum, fyrirmæli til embættisins eru samin hjá ACER-Orkustofnun ESB, og ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem er umsaminn milliliður, hefur enga heimild til að ógna einsleitni regluverks á milli landa EES með því að breyta fyrirmælunum eða hundsa þau til EFTA-landanna.
Landsreglarinn verður eftirlitsaðili með flutningsfyrirtækinu Landsneti og dreifiveitunum, semur reglugerðir þeim til handa og staðfestir verðskrár þeirra eða hafnar þeim. Hann getur farið fram á víðtæka upplýsingagjöf frá fyrirtækjum á íslenzka raforkumarkaðinum að viðlögðum fjársektum, ef ekki er orðið við þeim beiðnum.
Landsreglarinn mun hafa eftirlit með því, að íslenzki raforkumarkaðurinn starfi, eins og ACER bezt telur henta kaupendum á markaðinum, en svo illa vill til, að kjörfyrirkomulag ACER er frjáls samkeppni í orkukauphöll, sem engan veginn tryggir hag orkukaupenda, þar sem orkukerfið er samsett á þann einstæða hátt, sem hérlendis er raunin. Það getur hins vegar virkað ágætlega við aðstæður, sem það er hannað fyrir (eldsneytiskerfi, margir birgjar).
Þarna er vikið að innihaldi valdframsals yfir orkumálum til yfirþjóðlegs valds, þar sem við ekki höfum atkvæðisrétt. Það getur blessazt, en það eru mun meiri líkur á, að ákvarðanataka á grundvelli sameiginlegra hagsmuna ESB/EES gagnist illa íslenzkum hagsmunum á þessu sviði, þar sem aðstæður eru gjörólíkar. Þar af leiðandi á Alþingi að láta það ógert að taka slíka áhættu. Stjórnarskráin vísar rétta leið. Framsal ríkisvalds til útlanda er ávísun á verri stjórnarhætti, sem geta orðið landsmönnum dýrkeyptir. Þetta veit almenningur, enda er sagan ólygnust.
Ari Guðjónsson kýs að gera minni háttar atriði við Orkupakka #3 að aðalatriðum greinar sinnar, og þannig kemst hann aldrei að kjarna málsins, sem er stefnumörkun um málefni íslenzka raforkumarkaðarins út frá hugmyndafræði ESB, sem kallar á árekstra við hagsmuni almennings á Íslandi.
Hann gerir mikið úr, að íslenzkum yfirvöldum hafi tekizt að fá undanþágu frá skýrum reglum Orkupakka #2 og #3 um, að flutningsfyrirtækið, hér Landsnet, skuli vera óháð öðrum aðilum á orkumarkaði. Þessa undanþágu telur hann kost, en hún er alvarlegur ókostur, því að Landsnet, RARIK, OR og OV eiga Landsnet. Þar með er auðvelt að gera því skóna, að Landsnet mismuni aðilum á markaði, t.d. nýjum vindorkufyrirtækjum, sem gjaldi fyrir áhrifastöðu LV, RARIK, OR eða OV í stjórn LN.
Með miklum tilkostnaði var lítill raforkumarkaður Íslands brotinn upp í vinnslu, flutning, dreifingu og sölu, að fyrirmælum ESB, til að tryggja frjálsa samkeppni, en skrefið hefur aldrei verið stigið til fulls til að formlegum reglum um frjálsa samkeppni sé þó fullnægt. Ari Guðjónsson er hróðugur yfir þessum óskapnaði og skrifar:
"Að þessu leyti mun þriðji orkupakkinn því engin áhrif hafa á gildandi réttarumhverfi hér á landi, og er þar með búið að tryggja, að ekki þurfi að gera breytingar þar á vegna innleiðingarinnar [á Orkupakka #3-innsk. BJo]."
Að hugsa sér, að þetta skuli vera uppistaðan í röksemdafærslu lögfræðingsins fyrir því, að Orkupakki #3 muni engin áhrif hafa hér á landi. Ekki tekur betra við, þegar kemur að Landsreglaranum, sem við blasir, að verður einsdæmi í stjórnsýslu á Íslandi og í raun Trójuhestur ESB í stjórnkerfinu á Íslandi, þótt hann kunni (umdeilanlega) að vera eðlilegur þáttur stjórnsýslu ESB í ESB-löndunum. Þessu snýr Ari Guðjónsson á haus og kveður fyrirkomulagið verða sjálfstæðismál fyrir Orkustofnun. Hver hefur beðið um það ?
Það er lýðræðislegt fyrirkomulag, að Orkumálastjóri heyri heill og óskiptur undir íslenzkan ráðherra, en ekki stundum undir forstjóra ACER með ESA sem millilið. Hvernig í ósköpunum á Orkumálastjóri stundum að vera óháður ráðherra og stundum að vera undir boðvaldi hans ? Ari skrifar:
"Það liggur hins vegar fyrir, að gera þarf ákveðnar breytingar á raforkulögum og lögum um Orkustofnun vegna innleiðingarinnar. Þær breytingar munu m.a. tryggja frekara sjálfstæði Orkustofnunar með þeim hætti, að ráðherra mun ekki geta gefið stofnuninni fyrirmæli um úrlausn mála, þrátt fyrir að Orkustofnun muni enn heyra undir yfirstjórn ráðherra."
Það er alveg makalaust, að lögfræðingurinn virðist telja ávinning af innleiðingu þessa aukna og ólýðrýðislega flækjustigs í íslenzka stjórnsýslu, þótt við leikmanni blasi, að breytingin feli í sér Stjórnarskrárbrot.
Þá kemur rúsínan í pylsuendanum með lofrullu um EES-aðildina og hræðsluáróður um, að EES-samstarfið velti á innleiðingu Orkupakka #3. Það er ekki fótur fyrir slíku. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að m.v. gamla fríverzlunarsamninginn, sem í gildi var á milli EFTA og ESB, nemi viðskiptalegur ávinningur EES-samningsins 4,5 mrðISK/ár. Kostnaðurinn er hins vegar margfaldur ávinningurinn, því að beinn kostnaður er talinn nema 22 mrðISK/ár (Viðskiptaráð Íslands) og óbeinn kostnaður af ofvöxnu reglugerða- og eftirlitsfargani í örsmáu samfélagi og minni framleiðniaukningu um 1,0 %/ár fyrir vikið, þýðir sóun upp á yfir 100 mrðISK/ár. Alls nemur árlegur nettókostnaður EES-aðildar á annað hundrað milljörðum ISK. Þetta er nú öll margrómuð himnaríkisdýrð EES-aðildar Íslands.
Til að gefa innsýn í hugarheim EES-trúaðra er fróðlegt að birta jarðteiknasögu Ara Guðjónssonar og "Götterdämmerung" eða syndafallið í lokin:
"Það er jafnframt mikilvægt að hafa í huga, að EES-samningurinn felur í sér eina mestu réttarbót, sem íslenzkt samfélag hefur innleitt. Samningurinn hefur tryggt Íslandi fullan aðgang að innri markaði Evrópu, en þó með þeim takmörkunum, sem taldar voru nauðsynlegar á sínum tíma, sem aðallega varða sjávarútveg. Það er ekkert launungarmál, að Ísland hefði líklega aldrei náð að landa slíkum samningi án þess að hafa verið í samstarfi með öðrum stærri ríkjum, þegar samningurinn var gerður. Ef Alþingi tryggir ekki innleiðingu þriðja orkupakkans hér á landi, gæti það sett EES-samstarfið í uppnám."
Í raun og veru er þetta áróður fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið, því að meint "réttarbót" er Evrópurétturinn og synjunarvald þjóðþinganna á ESB-gerðum er það, sem helzt greinir að réttarstöðu EFTA-ríkjanna (í EES) og ESB-ríkjanna gagnvart stofnunum Evrópusambandsins.
Í Noregi gætir vaxandi efasemda um aðild landsins að EES-samninginum, og er þar athyglisverðust þróunin innan norsku verkalýðshreyfingarinnar. Ekki er ólíklegt, að BREXIT-dramað endi með gerð víðtæks fríverzlunarsamnings á milli Bretlands og ESB. Þá liggur beint við, að EFTA leiti hófanna um svipaðan samning við Bretland og ESB.
8.1.2019 | 11:28
Af mismunandi stjórnarskrárumræðu
Það hefur mikið verið gert úr því, að Stjórnarskrá lýðveldisins væri með böggum hildar vegna aldurs og uppruna hennar. Höfundi þessa pistils er samt ekki kunnugt um aðra ásteytingarsteina Stjórnarskrárinnar við alþjóðasamninga en EES-samninginn á milli EFTA og ESB um Evrópska efnahagssvæðið frá 1994, þar sem nú aðeins 3 EFTA-ríki eiga aðild, eftir að nokkur EFTA-ríki fylgdu Bretlandi inn í ESB á sínum tíma.
Það leikur vart á tveimur tungum, að Alþingi hefur heimild til að staðfesta þjóðréttarlega samninga, sem ríkisstjórnin á aðild að eða óskar aðildar að. Þar er ekki um að ræða samninga, er varða fullveldisafsal til stofnana, þar sem Ísland á ekki fulla aðild, og það verður heldur engin breyting á réttarstöðu lögaðila (fyrirtækja, stofnana) hérlendis eða einstaklinga, sem eru með íslenzkt ríkisfang. Slíkir samningar, þjóðréttarlegs eðlis, eru taldir réttlætanlegir til að bæta öryggi ríkisins, bæta stöðu þess á alþjóðavettvangi og tryggja réttarstöðu þess á alþjóðavettvangi, svo að eitthvað sé nefnt. Dæmi eru NATO-aðildin, SÞ-aðildin, AGS-aðildin og Hafréttarsáttmálinn.
EES-aðildin er allt annað folald. Um hana skrifaði Ásgerður Ragnarsdóttir, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, í Morgunblaðið, 1. desember 2018:
"Fullveldi og framsal valdheimilda":
"Frá því að EES-samningurinn tók gildi árið 1994, hafa skuldbindingar íslenzka ríkisins aukizt verulega, og hefur samstarfið krafizt þess, að valdheimildir séu framseldar í vaxandi mæli til stofnana EES. Almennt er viðurkennt, að lögfesting samningsins hafi á sínum tíma reynt verulega á mörk stjórnarskrárinnar, og því fór fjarri, að samhugur væri um, hvort þörf væri á stjórnarskrárbreytingu. Nefnd þeirra fjögurra sérfræðinga í lögum, sem leitað var til, taldi, að framsal valdheimilda samkvæmt samningnum stæðist stjórnarskrá og vísaði einkum til þess, að framsalið væri "skýrt afmarkað, ekki umfangsmikið eða verulega íþyngjandi fyrir einstaklinga eða lögaðila.""
Hér er þess að geta, að þáverandi stjórnarandstaða leitaði líka eftir áliti valinkunnra lögfræðinga og fékk frá þeim þá niðurstöðu, að lögfesting EES-samningsins bryti gegn Stjórnarskrá. Eftir á að hyggja virðist sú niðurstaða hafa verið réttari en niðurstaða lögfræðingateymis ríkisstjórnarinnar, því að EES-samningurinn hefur ekki reynzt vera skýrt afmarkaður og reyndar ófyrirsjáanlegt, hvaða stefnu hann tekur; hann er ennfremur mjög umfangsmikill, og hann hefur reynzt vera afar íþyngjandi fyrir fyrirtækin í landinu og gæti reynzt einstaklingum þungur baggi, eins og fjármálaeftirlitslagabálkurinn og persónuverndarlagabálkurinn eru dæmi um og Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn mun reynast dæmi um, ef hann verður innleiddur af Alþingi.
Um þetta skrifar Ásgerður Ragnarsdóttir með skarplegum hætti:
"Sé litið til stöðunnar í dag, um aldarfjórðungi síðar, má ljóst vera, að íslenzka ríkið hefur framselt valdheimildir í talsverðum mæli til stofnana EES, og hefur þeim jafnframt verið eftirlátið vald til að taka íþyngjandi ákvarðanir gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum hér á landi, svo sem með álagningu sekta og beinum afskiptum af rekstri fyrirtækja. Hér má nefna sem dæmi, að samkvæmt reglum Evrópusambandsins um fjármálaeftirlit, sem voru innleiddar hér á landi haustið 2016, hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimild til að taka íþyngjandi ákvarðanir gagnvart íslenzkum stofnunum og fyrirtækjum á fjármálamarkaði, sem geta m.a. náð til þess að stöðva starfsemi þeirra. Frumkvæði að slíkum ákvörðunum og undirbúningur þeirra er í höndum sérstakra eftirlitsstofnana, sem starfa á vettvangi Evrópusambandsins, og á Ísland ekki aðild að þeim.
Þá má jafnframt nefna, að vegna breytinga á samkeppnisreglum EES-samningsins var með samkeppnislögum nr 44/2005 lögfest ákvæði, sem felur efnislega í sér, að ákvarðanir ESA eru í ákveðnum tilvikum bindandi fyrir íslenzka dómstóla við úrlausn mála, þar sem þeir fara með dómsvald. Hefur löggjafinn þar með bundið hendur dómstóla í ákveðnum skilningi vegna reglna EES-réttar [undirstr. BJo].
Þegar meta á, hvort setja eigi í Stjórnarskrá ákvæði, sem heimila framsal ríkisvalds til erlendra valdstofnana, er ljóst, að setja verður einhver mörk í þeim efnum. Að mati pistilhöfundar yrði of langt gengið með því að heimila það, sem að ofan er lýst, að þegar hafi verið samþykkt vegna innleiðingar ESB-gerða gegnum EES. Það á hvorki að ganga svo langt að samþykkja íþyngjandi kvaðir á hendur íslenzkum ríkisborgurum, sem rekja má til stofnana, þar sem Ísland á engin raunveruleg ítök, né kvaðir á hendur íslenzkum dómstólum, eins og raktar eru hér að ofan.
Í Noregi er bann í Stjórnarskrá gegn framsali ríkisvalds til annarra ríkja eða yfirþjóðlegra stofnana, nema framsalið sé þjóðréttarlegs eðlis eða takmarkað, fyrirsjáanlegt og vel skilgreint. Ef fara ætti þessa leið hérlendis, þyrfti að skilgreina slíkt leyfilegt framsal og krefjast 3/4 atkvæða þingheims til samþykktar, eins og fordæmi er um í norsku stjórnarskránni.
Ásgerður Ragnarsdóttir hélt áfram:
"Telja verður líklegt, að álitaefni um mörk heimils framsals muni aukast í framtíðinni, og væri það í takti við þróun í regluverki Evrópusambandsins, þar sem sjálfstæðum eftirlitsstofnunum eru í auknum mæli veittar valdheimildir gagnvart einstaklingum og lögaðilum. Skýrt dæmi um þetta er þriðji orkupakki Evrópusambandsins, sem hefur upp á síðkastið verið til umræðu um mörk heimils framsals valdheimilda hér á landi.
Það er í öllu falli ljóst, að þær forsendur, sem voru taldar styðja þá upphaflegu afstöðu, að ekki væri þörf á stjórnarskrárbreytingu vegna aðildar Íslands að EES-samningnum, hafa breytzt, og að valdframsal er mun meira en gert var ráð fyrir í upphafi. Í því sambandi er athyglisvert, að höfundar sumra þeirra álitsgerða, sem aflað hefur verið vegna innleiðingar gerða, hafa lagt áherzlu á, að jafnvel þó að framsal samkvæmt einstakri gerð sé talið standast stjórnskipulega, sé ekki þar með sagt, að breytingarnar, virtar heildstætt, teljist innan ramma stjórnarskrárinnar."
Það verður mjög vandasamt að skilgreina einstakt leyfilegt framsal og uppsafnað leyfilegt framsal fullveldis í tillögu að Stjórnarskrárbreytingu, og það getur orðið torsótt fyrir Alþingi að komast að niðurstöðu um slíkt, jafnvel þótt valinkunnum stjórnlagafræðingum tækist að gera um slíkt tillögu til Alþingis. Að óreyndu er ólíklegt, að meirihluti reynist um það á meðal þjóðarinnar að leyfa erlendum stofnunum að leggja kvaðir á landsmenn, eins og gerðir og tilskipanir ESB nú á dögum vissulega fela í sér, og þá ekki sízt Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB.
Hvað skyldi formaður Sjálfstæðisflokksins, fjármála- og efnahagsráðherrann, hafa um þetta að segja ? Að nokkru leyti kemur það fram í frétt Morgunblaðsins 17. desember 2018:
"Styður ekki framsal auðlinda":
"Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki barizt sérstaklega fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans að sögn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, í viðtali við Pál Magnússon, þáttstjórnanda Þingvalla á K100 og Alþingismann Sjálfstæðisflokksins, í gærmorgun.
Bjarni sagði, að sér fyndist sumt af því, sem rataði til okkar í gegnum EES-samstarfið, varla vera málefni innri markaðarins. "Í þessu tilviki er ekki nema von, að menn spyrji, þar sem Ísland er eyland, hvers vegna það sé hluti af þátttöku okkar á Evrópska efnahagssvæðinu að undirgangast evrópska löggjöf á því sviði", sagði Bjarni."
Þetta er hárrétt athugað, og á það hafa fjölmargir bent, t.d. fyrrverandi stjórnmálamenn. Þar má nefna guðföður EES-samningsins fyrir Íslands hönd á sinni tíð, Jón Baldvin Hannibalsson. Það á engu að breyta um afstöðu þingsins nú, þótt það hafi á árum áður (2014-2016) fengið upplýsingar um málið frá embættismönnum án þess að gera við þær alvarlegar athugasemdir. Á grundvelli nýjustu og beztu upplýsinga ber að taka ákvörðun.
Þegar þetta mál er sett í rétt samhengi, þ.e. skoðað í samhengi við ákvæði EES-samningsins, t.d. ákvæði um frjálsa samkeppni og bann við innflutnings- og útflutningshindrunum, svo og nýrri gerðir tengdar orkupakkanum með valdeflingu ACER-Orkustofnunar ESB sem meginstef, t.d. gerð #347/2013, sem áreiðanlega verður samþykkt til innleiðingar af Sameiginlegu EES-nefndinni í kjölfar lögfestingar Þriðja orkumarkaðslagabálksins, þá verður ljóst, að framlengdur reglusetningararmur ACER til Íslands, Landsreglarinn, verður gríðarlega valdamikill á Íslandi, enda mun hann verða óháður íslenzkum yfirvöldum og hagsmunaaðilum, en dansa þess í stað eftir flautu ESB. Landsreglarinn fær í raun valdstöðu jafnstæða ráðherra hérlendis án þess að njóta aðhalds/eftirlits að hálfu þjóðþingsins, og um gerðir hans gildir Evrópurétturinn, sem íslenzkir dómstólar verða að dæma eftir, og slíkir dómar verða áfrýjanlegir til ESA/EFTA-dómstólsins.
Í ljósi þessa hefur t.d. norski lagaprófessorinn Peter Örebech sýnt fram á, að eftirfarandi fullyrðing ráðherrans orkar mjög tvímælis og vitnar um óvarkárni í ljósi þeirra gríðarlegu hagsmuna, sem eru í húfi fyrir Íslendinga á sviði orkumála:
"Bjarni sagði samtalið undanfarið hafa snúizt um, hvort verið væri að framselja yfirráð yfir auðlindunum. "Samkvæmt þeim gögnum, sem hafa verið tekin saman, er ekki svo", sagði Bjarni."
Á meðal gagna, sem iðnaðarráðherra hefur "tekið saman" um málið, er minnisblað og greinargerð tveggja innlendra lögmanna. Nokkur atriði í skjölum þessum hafa verið vegin og léttvæg fundin af fyrrnefndum norskum sérfræðingi í Evrópurétti. Það boðar ekki gott, ef stjórnvöld ætla að taka kæruleysislegan pól í hæðina og skoða það á grunnfærinn hátt út frá þröngu sjónarhorni í stað þess að setja það í samhengi við EES-samninginn, síðari gerðir ESB á orkumálasviði og líklega þróun þessara mála innan ESB (Fjórði orkupakkinn). Sé það gert, blasir við, að réttast er fyrir Íslendinga að stöðva nú þegar samstarfið við ESB á orkumálasviði, sem felst í Viðauka IV við EES-samninginn. Í þessa átt virðist Bjarni Benediktsson einnig hneigjast af eftirfarandi að dæma:
"Hann rifjaði upp, hvað fylgdi því að taka þátt í EES-samstarfinu og sagðist telja, að af hálfu ESB hefði harkan í að krefjast meiri einsleitni vaxið. "Ég er þeirrar skoðunar, að Evrópusambandið hafi gengið of langt, í of mörgum málum á undanförnum árum, í því að reyna að fá okkar hóp, þ.e.a.s. EFTA-megin, Íslendinga þar með, til þess að fella sig við einhverja stofnanaumgjörð, sem bara gengur ekki upp. Mér finnst það vera mjög mikið umhugsunarefni, hversu mikil vinna hefur farið í það að sníða sérlausnir, sem standast íslenzku stjórnarskrána. Þetta hef ég oft gert að umtalsefni í þinginu og er áhyggjuefni í Evrópusamvinnunni; að það þyki bara boðlegt gagnvart Íslandi að krefjast þess, að vald sé framselt til stofnana, sem við eigum enga aðild að", sagði Bjarni. Hann sagði, að nú væri því haldið fram um þriðja orkupakkann, að í honum fælist slíkt framsal. "Af minni hálfu stendur ekki til að styðja mál, sem felur í sér framsal, hvorki á auðlindum né á meiri háttar ákvarðanatöku um lagaumgjörð fyrir okkur. Hins vegar er því haldið fram, að málið mögulega standist ekki stjórnarskrá. Þetta eru atriði, sem við viljum fara vandlega yfir", sagði Bjarni. Hann sagði það rangt, að með þriðja orkupakkanum yrði gert skylt að leggja rafstreng til Íslands. Þriðji orkupakkinn myndi ekki breyta því, að Alþingi setti áfram lögin, sem giltu á Íslandi [Undirstr. BJo]."
Rökrétt niðurstaða af þessum hugleiðingum formanns Sjálfstæðisflokksins er að segja hingað og ekki lengra gagnvart Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Nú er svo mikið í húfi, að sýna verður aðilum EES-samstarfsins, að Íslendingar geti ekki undirgengizt einsleitniáráttu ESB og mótun lagaumgjarðar á hvaða sviði þjóðlífsins sem er, enda væru þeir væntanlega þegar gengnir í ESB, ef engar slíkar takmarkanir fyndust í hugskoti landsmanna.
Um síðasta atriðið, sem ráðherrann nefnir, er vert að spyrja hann, hversu traustum fótum lagasetning Alþingis standi, ef hún brýtur í bága við Evrópurétt á þeim sviðum, sem Alþingi hefur innleitt Evrópurétt, eins og t.d. um inn- og útflutning á hráu, ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk. EFTA-dómstóllinn hefur dæmt innflutningsbann Alþingis frá 2009 brotlegt við EES-samninginn, og lá þar lýðheilsa og búfjárheilsa við, en núverandi ráðherra landbúnaðarmála hefur látið á sér skilja, að hlíta verði dómi EFTA-dómstólsins, sem kveður íslenzku lögin stríða gegn EES-samninginum. Enn hafa lögin þó ekki verið felld úr gildi, góðu heilli. Mætast þar stálin stinn.
Nákvæmlega hið sama mun gerast eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, ef fjárfestar sækja um leyfi fyrir lagningu aflsæstrengs til Íslands frá landi, sem er í Orkusambandi ESB (ACER), og Landsreglarar í löndunum, sem strengurinn á að tengja saman, telja umsóknina uppfylla allar kröfur ESB, t.d. gerð #347/2013, og hugsanleg lagasetning Alþingis um bann við strengnum og þar með við milliríkjaviðskiptum með rafmagn verður kærð fyrir ESA og síðar EFTA-dómstólinum. Þá myndast hagsmunastríðsástand á milli Íslands og hinna EES-landanna, sem yrði Íslandi miklu þyngra í skauti en höfnun á téðum orkubálki á grundvelli mikilvægra þjóðarhagsmuna getur orðið.
Margt er skrýtið í kýrhausnum. Furðulegasta tillaga, sem sézt hefur á prenti um breytingu á Stjórnarskrá lýðveldisins, var sett fram í lok greinar Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra,
"Fullveldið, stjórnarskráin og alþjóðasamstarf"
í Morgunblaðinu 28. desember 2018:
"Fræðimenn getur greint á um, hvort EES-gerð sé þess eðlis, að hún rúmist innan stjórnarskrárinnar. Þeir eru hins vegar allir sammála um, að laga beri stjórnarskrána að alþjóðasamstarfi. Eftir þeim ráðum fara stjórnmálamenn þó ekki.
Ótti stjórnmálamanna ræðst af andstöðu við aðild Íslands að ESB. Þar tengjast allir illu andarnir, sem áður er getið. Þá má kveða niður með því að festa aðildina að EES eina í stjórnarskrána."
Þetta er gjörsamlega fráleit tillaga, því að með slíku ákvæði í Stjórnarskrá væri verið að slá því föstu, að allar gerðir og tilskipanir Evrópusambandsins, sem Sameiginlega EES-nefndin mun samþykkja til innleiðingar í EFTA-löndunum, væru í samræmi við Stjórnarskrá lýðveldisins, sama hversu víðtækt og stórtækt fullveldisframsal til stofnana ESB fælist í innleiðingunni, eða hversu mjög viðkomandi lagabálkur ESB gengi gegn hagsmunum íslenzka lýðveldisins. Þingmenn gætu þá ekki hafnað slíkri innleiðingu á þeirri forsendu, að fullveldisframsalið væri Stjórnarskrárbrot. Aldrei verður nokkur sátt um slíka Stjórnarskrárbreytingu, og tillaga um hana er andvana fædd. Aðeins ESB-sinnar, þ.e. þau, sem berjast leynt og/eða ljóst fyrir inngöngu Íslands í ESB, geta stutt slíka tillögu.
5.1.2019 | 17:47
Átta landa gengið innan ESB
Í fersku minni er frá fyrsta ársfjórðungi 2016, er einn helzti fyrrum hvatamaður inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, líkti slíkri inngöngu við að hlaupa inn í brennandi hús. Það, sem Jóni B. Hannibalssyni ofbauð helzt við hið brennandi hús, var myntbandalagið og meðferð ráðandi afla þar, Frakklands og Þýzkalands, á veikburða suðurríkjum bandalagsins, einkum Grikklandi.
Aðgerðir ESB, ESB-bankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, til að bjarga Grikklandi frá gjaldþroti í kjölfar alþjóðlegs fjármálahruns 2007-2008 voru í raun lenging í hengingaról Grikkja til bjargar lánadrottnum Grikkja, sem að stærstum hluta voru franskir og þýzkir bankar, sem margir hverjir stóðu tæpt og eru enn laskaðir. Síðan þá hefur runnið upp fyrir æ fleirum, hvað ESB í raun og veru er orðið: það er vanheilagt bandalag skriffinnskubákns og stórkapítals. Hagsmunir hins vinnandi manns og konu á Íslandi og þeirrar klíku geta ekki farið saman. Var ekki Icesave-deilan áminning um það ?
Það kennir margra grasa innan ESB, og núningurinn er ekki aðeins á milli norðurs og suðurs; hann er einnig á milli austurs og vesturs. Límið, sem hindrað hefur klofning eftir gamla járntjaldinu, er ótti Austur-Evrópuríkjanna við rússneska björninn.
Eystrasaltslöndin þrjú, sem innlimuð voru í Ráðstjórnarríkin, þegar Wehrmacht hörfaði undan ofureflinu 1944 eftir vanhugsaða "Operation Barbarossa"-Rauðskeggsaðgerðina, stærstu hernaðaraðgerð sögunnar, eru reyndar ekki í bandalagi Austur-Evrópuríkjanna innan ESB, heldur eru þau í Nýja Hansasambandinu, þar sem eru 5 önnur ríki: Írland, Holland, Danmörk, Svíþjóð og Finnland. Það, sem sameinar þessi ríki, er, að standa fast á Maastricht-skilmálunum um heilbrigðan rekstur ríkissjóðs hvers lands, og þau vilja ekki sjá sameiginleg fjárlög og einn fjármálaráðherra evrusvæðisins né stóran samtryggingarsjóð til að forða veikum ríkissjóðum frá greiðslufalli. Miðstýrðasta ríki Evrópu, Frakkland, sem að ýmsu leyti stendur veikt, herjar á um þessa óvinsælu samrunaþróun. Þar horfa Frakkar aðallega til þess, að hinir duglegu, aðhaldssömu og skilvirku nágrannar austan Rínar dragi þá upp úr foraðinu, sem þeir hafa ratað í vegna óráðsíu.
Ríkin 8 eiga sér reyndar stuðningsríki um þetta í Slóvakíu, sem var austan járntjaldsins í austurhluta Tékkóslóvakíu, og Slóveníu, sem var nyrzta ríki Júgóslavíu. Þýzkaland er nú hlédrægur bakhjarl Nýja Hansasambandsins, eins og á miðöldum, þegar nokkrar þýzkar verzlunarborgir voru mikilvægur hluti Hansasambands miðalda.
Ástæðan fyrir hæglátri afstöðu Þýzkalands er sú, að Nýja Hansasambandið beinist aðallega að Frakklandi, og Þýzkaland reynir enn að stjórna ESB í nánu samstarfi við Frakkland. Það verður hins vegar stöðugt erfiðara fyrir Þýzkaland að hlaupa eftir duttlungum Frakklands um "samstöðu", sem snýst um að hlaupa undir bagga með veika manninum í Evrópu, Frakklandi, sem neitar að taka á sínum málum. Frá þessum veika manni Evrópu koma alls konar blautir draumar með rætur í gamalli og löngu horfinni stórveldistíð, t.d. lágvaxna Korsíkumannsins, eins og um sameiginlegan herafla, sem varizt geti Rússum, Bandaríkjamönnum og Kínverjum. Þetta er út í hött á sama tíma og þessi forysturíki ESB og mörg fleiri hafa ekki treyst sér til að standa við skuldbindingar sínar innan NATO um framlög til hermála.
Skattbyrðin er mest í Frakklandi innan OECD, og Macron, forseti, sem verið hefur með digurbarkalegar yfirlýsingar um að láta ekki óeirðaseggi stjórna málefnum Frakklands, hefur reynzt vera pappírstígrisdýr, sem gaf eftir fyrir gulvestungum og skaðaði þannig pólitískt orðspor sitt. Við það vex hallinn á ríkisbúskap Frakka enn, og það verður fróðlegt að sjá Brüssel hirta Gallana fyrir skuldasöfnun, sem ógnar stöðugleika evrunnar. Það verður þó aðeins gert með samþykki Berlínar, og þar er þolinmæðin á þrotum gagnvart framferði Gallanna. Verði Gallinn hirtur, mun hrikta í öxlinum Berlín-París, en verði Gallanum sleppt við hirtingu, mun Nýja Hansasambandið, Ítalir, Grikkir o.fl. móðgast.
Hvatinn að Nýja Hansasambandinu, sem myndað var í desember 2017 að frumkvæði fjármálaráðherra landanna 8, var BREXIT. Löndin höfðu talið hag sínum vel fyrir komið með Bretland sem boðbera frjáls markaðar og Þýzkaland sem boðbera heilbrigðra ríkisfjármála sem mótvægi við franskan ákafa um "samstöðu" í ríkisfjármálum og verndarstefnu á viðskiptasviðinu. Valdajafnvægið innan ESB breytist við brotthvarf Breta, Frökkum í vil, og Nýja Hansasambandið á að verða þar mótvægi.
Í sameiginlegri skýrslu fjármálaráðherra 8-landa gengisins frá marz 2018 er lögð áherzla á, að "fyrst og fremst" eigi ríkin að haga ríkisfjármálum í "fullu samræmi" við ríkissjóðsreglur ESB. Ef allir mundu haga sér með ábyrgum hætti og kæmu reglu á opinber fjármál, þá yrði hægt að takast á við ytri áföll, án þess að skattgreiðendur annarra landa þyrftu að hlaupa undir bagga, skrifuðu þeir. Haukar ríkisfjármálanna halda því fram, líklega með Ítalíu í huga, að stöðugleikasjóður, sem dreifir áhættu á milli ríkja, mundi einnig virka hvetjandi til óhófs og letjandi á aðhaldssemi. Nýja Hansasambandið mundi fremur hvetja til eflingar markaðsaflanna innan ESB, t.d. að hraða umbótum á fjármálamarkaðinum eða að gera fleiri fríverzlunarsamninga við ríki utan EES.
Íslendingar mundu að mörgu leyti eiga samleið með hinu Nýja Hansasambandi, en aðild að ESB kemur hins vegar ekki til greina, því að sjálfsákvörðunarrétturinn og umráðaréttur yfir auðlindum landsins færu þá veg allrar veraldar. Bretar fengu nóg af miðstjórnarvaldinu í Brüssel og klíkustjórnun öxulsins Berlín-París, sem hundsaði Bretland. Slíku getur gamalt stórveldi ekki torgað lengi. Bretar hafa sennilega endanlega fengið sig fullsadda á Evrópusambandinu í útgönguviðræðunum og munu eftir útgönguna taka upp samkeppni við það á mörgum sviðum, sem leitt getur til, að þeirra gömlu bandamenn innan ESB, sem nú mynda Nýja Hansasambandið, segi skilið við ESB með tíð og tíma og gangi í fríverzlunarbandalag, hugsanlega EFTA. Mun þá gamla Hansasambandið ganga í endurnýjun lífdaganna. Það eru ýmis innanmein í ESB, sem benda til, að þetta vanheilaga samband skrifstofuveldis og stórkapítals muni líða undir lok í sinni núverandi mynd fyrr en síðar.
Þjóðríkishugmyndinni hefur vaxið fiskur um hrygg í Evrópu síðan ríki Habsborgara leið undir lok 1918. Íslendingar kærðu sig ekki um að vera í ríkjasambandi við Dani, en meirihluti Færeyinga virðist enn kjósa það. Skotar, Walesverjar og Norður-Írar verða líklega áfram í sambandsríki með Englendingum, þannig að það er mismunandi afstaða uppi, og tungumálið virðist ráða töluverðu um afstöðu þjóða, t.d. á Bretlandseyjum, þar sem allir tala ensku.
Heillavænlegast er, að ákvarðanir um málefni íbúa séu teknar í nærumhverfi þeirra. Þannig eru langflestir hérlendis þeirrar skoðunar, að stjórnun málefna Íslands hafi batnað markvert með Heimastjórninni 1904. Að sama skapi telja mjög margir, að það yrði dapurlegt afturhvarf til fortíðar að flytja stjórnun málefna Íslands að talsverðu leyti til Brüssel, enda hefur iðulega komið í ljós, að hagsmunir landa á meginlandi Evrópu fara ekki saman við hagsmuni eyjarskeggja langt norður í Atlantshafi. Það er auðskiljanlegt.
3.1.2019 | 15:28
Væntingar um vetni
Samkvæmt sumum áætlunum þarf að ferfalda rafmagnsvinnslu í heiminum á næstu 30 árum til að sinna eftirspurnaraukningunni, m.a. vegna orkuskiptanna. Á Íslandi mun rafmagnsvinnslan líklega aukast um 50 %-100 % á sama tímabili, þ.e. hún mun vart ná að tvöfaldast. Ef tilraunir með djúpboranir niður á 5 km dýpi heppnast, mun afl hverrar gufuholu geta tífaldazt. Þá aukast möguleikar á alls kyns umhverfisvænni orkunýtingu hérlendis, t.d. vetnisframleiðslu til innanlandsbrúks og útflutnings. Aflsæstrengur til útlanda getur varla keppt við slíkt með öllum sínum stofnkostnaði, orkutöpum og rekstaróvissu, m.a. vegna bilanahættu og langs stöðvunartíma í bilunartilvikum.
Orkuskiptin verða almennt tæknilega erfiðari í ýmsum orkunýtingargeirum en í raforkuvinnslunni. Þar má nefna svið, þar sem liþíum-rafgeymum eða rafmagni verður illa við komið, s.s. í þungaflutningum á landi, í skipum, flugvélum, upphitun húsnæðis og í iðnaði.
Árið 2014 (nýjustu áreiðanlegu upplýsingar) myndaði þessi starfsemi (þar sem bein rafvæðing er torsótt) 15 mrðt (milljarða tonna) af CO2 eða 41 % af losun orkutengdrar starfsemi, en raforkuvinnslan myndaði minna eða tæplega 38 % orkutengdrar losunar. Mesta losun CO2 frá iðnaðarstarfsemi er frá járn- og stálverksmiðjum, 6,4 %, sementsverksmiðjum, 6,1 % og frá efnaverksmiðjum, 3,0 %. Álverksmiðjur losa aðeins 0,8 % af heild orkutengdrar starfsemi.
Framundan er sögulegt átak til að forða jörðunni frá ofhlýnun fyrir núverandi líf af völdum gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar. Á 200 ára skeiði frá upphafi kolanotkunar til 1970 myndaði bruni jarðefnaeldsneytis og iðnaðarframleiðsla 420 mrðt af gróðurhúsalofttegundum, aðallega CO2. Á 40 ára tímabilinu 1970-2011 þrefaldaðist þetta koltvíildismagn og varð þá 1,3 Trnt, aðallega við iðnvæðingu fjölmennra Asíuþjóða. Landbúnaður og landnotkun (án eldsneytisbruna) valda um fjórðungi heildarlosunar, og orkutengd losun 3/4 heildarlosunar.
Varðandi landnotkunina ættu menn hérlendis ekki að hrapa að aðgerðum á borð við uppfyllingu í skurði, því að nýjar mæliniðurstöður hérlendis benda til, að upphaflegt talnaefni, sem að miklu leyti var fengið erlendis frá, þar sem lofthiti og jarðvegur er annar en hér, gefi til kynna allt of mikla minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda við endurheimt votlendis. Hins vegar er bráðnauðsynlegt að beina auknu fé, sem fæst t.d. af kolefnisgjaldtökunni, yfir í skógrækt og landgræðslu og halda sem nákvæmast bókhald um þá mótvægisaðgerð með mælingum á koltvíildisnámi nýræktar. Þessar mælingar þurfa að njóta alþjóðlegrar viðurkenningar.
Steven Davis við Irvine Kaliforníuháskólann hefur stjórnað rannsókn á því, sem þarf til að orkunotkunin verði kolefnisfrí í heiminum m.v. þekkta tækni. Auk rafmagns og rafgeyma segir hann þurfa vetni og ammoníum, lífeldsneyti, gervieldsneyti, að fjarlægja kolefni úr útblæstri og geyma það í jörðu og að taka koltvíildi úr andrúmsloftinu og setja í trygga geymslu, væntanlega neðanjarðar.
Vetni gæti gegnt hlutverki við að knýja áfram létt og þung farartæki, við hitun og stálvinnslu. Vetni, H2, og koleinildi, CO, eru aðalefniviður gervieldsneytis fyrir þotuhreyfla. Að fjarlægja C úr afgösum kemur til greina við hitun og sementgerð.
Þeir, sem vinna að því að fjarlægja kolefni úr orkukerfum heimsins, búast við gegnumbroti í þeim efnum 2025-2035. Þá muni koma fram á sjónarsviðið flutningatæki með langa drægni, knúin rafgeymum og vetni, og að þá muni vetni leysa jarðgas af hólmi sem hitagjafi við húsnæðisupphitun. 2030-2040 verði framleitt gervieldsneyti fyrir skip og flugvélar. 2040-2050 verði kolefnisbrottnámi og geymslu þess beitt í stórum stíl; svo og verði vetni beitt í stórum stíl í iðnaði í stað jarðefnaeldsneytis. 2050-2060 verði nettólosun gróðurhúsalofttegunda engin með hjálp stórfelldrar endurræktunar skóga og með því að vinna CO2 úr loftinu og geyma það á föstu formi, t.d. neðanjarðar.
Orkuskiptin verða kostnaðarsöm, en Íslendingar verða í kjörstöðu með sínar endurvinnanlegu orkulindir; það væri glapræði að spreða þeim inn á sæstreng með öllum sínum orkutöpum áður en til nýtingar kemur. Við getum rafgreint vatn með sjálfbærri raforku og þannig orðið sjálfum okkur nóg um vetni til eldsneytisframleiðslu fyrir innanlandsmarkaðinn og jafnframt flutt út umtalsvert magn vetnis, t.d. til Bretlands, en Bretar hafa mikil áform um vetnisvæðingu sem lið í orkuskiptum hjá sér.
Adair Turner, formaður "Energy Transitions Commission", ETC, sem eru alþjóðleg samtök um orkuskipti, segir, að árlegur kostnaðarauki við rekstur kerfa, þar sem orkuskiptin eru tæknilegum vandkvæðum háð, án nettó losunar, muni nema TrnUSD 1,2 árið 2050. Þetta er há upphæð, en þó líklega svipuð og nemur árlegum útgjöldum til hernaðar og vígbúnaðar í heiminum, svo að ekki ætti sá þröskuldur að vera óyfirstíganlegur.
Eftir stöðuga lækkun framleiðslukostnaðar helzta neyzluvarnings áratugum saman vegna tækniþróunar, framleiðniaukningar og flutnings á vöruframleiðslu frá hákostnaðarlöndum til lágkostnaðarlanda, sem drifið hefur áfram sífellt vaxandi neyzlu í heiminum og fækkað örfátækum, stendur heimurinn nú líklega frammi fyrir hækkandi framleiðslukostnaði um sinn í fyrsta skipti í langan tíma. Það veldur pólitískri tregðu við að taka á málum af einurð.
Í skýrslu frá ETC segir, að til að ná nettó núll kolefnislosun frá orkutengdri starfsemi manna þurfi að auka vetnisvinnsluna úr um 60 Mt/ár í 500-700 Mt/ár um miðja þessa öld. Þó er ekki gert ráð fyrir mörgum bílum knúnum vetnisrafölum.
Núverandi vetnisvinnslu úr vatnsgufu með jarðgasi, sem stendur undir 95 % vinnslunnar, verður að umbylta yfir í rafgreiningu vatns með rafstraumi frá sjálfbærum orkulindum, svo að gagn verði af henni. Þar liggja mikil tækifæri fyrir þjóðir með miklar ónotaðar, sjálfbærar orkulindir. Íslendingar eru þar á meðal, og innlend vetnisframleiðsla getur orðið í senn gjaldeyrissparandi, gjaldeyrisaflandi og atvinnuskapandi. Hún verður mjög vænlegur valkostur við útflutning á raforku strax í byrjun næsta áratugar vegna skorts á vetni í heiminum, sem framleitt er án koltvíildislosunar að nokkru marki.
30.12.2018 | 15:16
Vaxandi áhugi á vetni
Rafmagnsbílum fjölgar ört í heiminum, og munar þar mest um kínverska framleiðslu og kaupendur. Þar er stefna stjórnvalda að draga úr loftmengun, einkum í stórborgunum, þar sem hún er löngu komin á stórskaðlegt stig og leiðir til ótímabærs dauðdaga yfir 100 þúsund manns á ári hverju. Þetta skelfilega ástand hefur valdið þjóðfélagslegri spennu. Liður í úrbótum stjórnvalda er rafvæðing bílaflotans, þótt slíkt sé skammgóður vermir, þar sem megnið af raforkuvinnslunni er kolaknúin. Kínverjar hafa hins vegar uppi mikil áform um að kjarnorkuvæða raforkuvinnsluna, og hafa sett háar upphæðir í þróun kjarnorkutækni, einnig með klofnun annarra frumefna en úraníum, t.d. þóríum.
Kínverjar ganga róttækt til verks á sviði loftslagsmála. Þeir hafa tryggt sér meirihlutann af vinnslugetu málma, sem þarf til að framleiða liþíum-rafgeyma. Af þessum sökum hefur verð á þeim hækkað mikið og hörgull er á þeim inn á heimsmarkaðinn. Þetta torveldar framboð nýrra rafmagnsbíla, en samt hefur framleiðsla þeirra aukizt hratt á síðustu árum. Frá miðju ári 2014 tvöfaldaðist fjöldi þeirra í heiminum úr 1 M í 2 M á 17 mánuðum,og síðan tók aðeins 6 mánuði að tvöfalda fjöldann úr 2 M í 4 M. Í árslok 2018 gætu þeir verið um 10 M í heiminum öllum, sem þó er aðeins rúmlega 1 % af heildarfjöldanum. Á Íslandi er fjöldi alrafbíla um 2500, sem er um 1 % af fólksbílafjöldanum. Framboðið er hreinlega ekki nægt til að hægt sé að ná markmiði stjórnvalda. Að hækka kolefnisgjaldið til að hraða fjölguninni er út í hött við þessar aðstæður.
Orkutengd losun mannkyns 2014 nam alls 36,2 mrðt af CO2 og var bróðurparturinn af losun mannkyns. Það mun enginn umtalsverður árangur nást í baráttunni við gróðurhúsaáhrif koltvíildis í andrúmsloftinu fyrr en stórtæk tækni við kolefnisausa vinnslu raforku lítur dagsins ljós, því að raforkuvinnslan veldur 37,6 % orkutengdrar losunar. Þegar árangur næst á þessu sviði, t.d. með þóríum-kjarnorkuverum, þá verður hægt að vinna vetni í stórum stíl með rafgreiningu úr vatni án kolefnislosunar. Gallinn við þetta ferli eru mikil orkutöp eða um 25 % við rafgreininguna sjálfa. Hún krefst þess vegna um 50 kWh/kg H2. Eðlisorkan er um 33 kWh/kg, sem er einhver hæsta eðlisorka eldsneytis, sem þekkist.
Af þessum orsökum hentar vetni vel sem eldsneyti á farartæki. Samgöngur valda 26,1 % orkutengdrar losunar CO2. Nokkrir stórir japanskir og Suður-kóreanskir bílaframleiðendur hafa tekið stefnuna á vetnisrafalaknúna rafmagnsbíla. Það eru góð rök fyrir því að því gefnu, að nægt "grænt" vetni verði á boðstólum. Til að ná 650 km drægni fólksbíls þarf hann vetnisknúinn aðeins að vera 1400 kg, en 3000 kg knúinn liþíumrafgeymum. Vetnið kostar núna um 1,35 USD/kg, en spáð er hækkun upp í 2,3 USD/kg árið 2020. Reikna má með a.m.k. 100 km/kg vetnis, sem þýðir, að þetta síðar nefnda verð má tvöfaldast án þess, að orkukostnaður vetnisbíls verði hærri en rafmagnsbíls með liþíum rafgeyma.
Vetnið má einnig nota til framleiðslu á gervieldsneyti, og það er mjög vænleg framleiðsla á næstu áratugum fyrir vinnuvélar, skip og flugvélar. Koltvíildi andrúmsloftsins er hinn grunnþáttur þessarar gervieldsneytisframleiðslu. Hérlendis mætti framleiða um 150 kt/ár (k=þúsund) af umhverfisvænu vetni, sem sumpart færi beint á farartæki, sumpart færi það í eldsneytisframleiðslu og afgangurinn væri fluttur utan, t.d. til Norð-Austur Englands, þar sem það verður notað til að leysa jarðgas af hólmi við upphitun húsnæðis.
Það er sjálfsagt að nýta sjálfbærar orkulindir til framleiðslustarfsemi hér innanlands, sem verða má að liði í baráttunni við ofhlýnun jarðar, sem leiðir m.a. til ofsúrnunar hafsins og getur haft alvarleg áhrif á lífríkið innan efnahagslögsögu Íslands. Að gera landið sjálfu sér nægt um eldsneyti hefur gríðarlega efnahagslega þýðingu, svo og öryggislega þýðingu. Að framleiða vetni verður arðsöm starfsemi, og með slíkri framleiðslu verður ekkert svigrúm eftir til rafmagssölu inn á sæstreng, jafnvel þótt stóriðjuver loki. Þetta veldur því, að Ísland verður áfram einangraður raforkumarkaður, og raforkuverðshækkanir geta þá orðið hóflegar og fylgt kostnaðarhækkunum virkjanafyrirtækja, flutnings- og dreifingarfyrirtækja.
27.12.2018 | 11:36
Hvað má loftslaginu til bjargar verða ?
Nýlega var haldin ráðstefna í Póllandi í héraði, þar sem mikil loftmengun er frá kolakyntum raforkuverum. Þetta var framhald Parísarráðstefnunnar í desember 2015; fjölmennar voru báðar og mengandi, en árangur óáþreifanlegur, enda umræðuefnið ekki það, sem máli skiptir. Höfuðatriðið hér er, hvernig á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og þar leika raunvísindamenn aðalhlutverkið, en embættismenn og stjórnmálamenn manna ræðupúltin og hinar fjölmennu, rándýru og ósjálfbæru ráðstefnur til að ræða stefnur og markmið.
IEA (The International Energy Agency-Alþjóðlega orkumálastofnunin) áætlar, að heimslosun CO2 í ár, 2018, nái nýjum hæðum, sem sýnir haldleysi fagurgala á fjölmennum ráðstefnum. Megnið af losuninni stafar af orkuvinnslu- eða orkunýtingarferlum.
Árið 2014 nam þessi losun 36,2 mrðt (milljörðum tonna), og var rafmagnsvinnsla 37,6 % þar af, en hitt, 62,4 %, skiptist á milli samgangna, 26,1 %, iðnaðar 22,7 %, húsnæðishitunar 9,2 % og annars 4,4 %. Þessar hlutfallstölur eru nytsamlegar til að gera sér grein fyrir viðfangsefninu, sem felst í að stöðva hitastigshækkun lofthjúps jarðar af mannavöldum með engri nettólosun gróðurhúsalofttegunda eigi síðar en 2050.
Það er óhjákvæmilegt fyrir heimsbyggðina að grípa til róttækra ráðstafana til að gera rafmagnsvinnsluna kolefnisfría. Það hefst aldrei með fjölgun vind- og sólarorkuvera einvörðungu. Kjarnorkan verður að koma til skjalanna. Verið er að þróa kjarnorkuver með mun minna geislavirkum úrgangi og styttri helmingunartíma geislavirkni hans, sem að auki eru öruggari í rekstri en úraníum-kjarnorkuverin.
Í samgöngunum munu rafknúnir bílar taka við, og vetnið mun knýja stærri samgöngutæki eða tilbúið eldsneyti úr vetni og koltvíildi/koleinildi, CO2 t.d. frá jarðgufuverum. Rafgeymarnir mynda flöskuháls í framleiðsluferli rafmagnsbíla, og þess vegna verður fyrirsjáanlega að grípa til vetnisrafala í bílum í einhverjum mæli. Stórir bílaframleiðendur í Asíu þróa nú slíka tækni.
Í iðnaðinum stendur yfir mikil þróun til að losna við kolefni úr framleiðsluferlinu. Þar gegnir vetni lykilhlutverki. Alcoa og Rio Tinto hafa stofnað þróunarfélag, Elyses, til að þróa álvinnslu án kolefnisskauta og reyndar án vetnis líka. Með eðalskautum, sem hafa a.m.k. 15 sinnum lengri endingu en kolefnisskautin, mun myndast súrefni við rafgreiningu súráls í stað koltvíildis frá kolaskautunum. Annars myndast tiltölulega lítið af gróðurhúsalofttegundum við vinnslu áls í heiminum; aðeins um 300 MtCO2eq/ár eða 0,8 % allrar orkutengdrar losunar koltvíildis. Ef álnotkun í landfarartækjum heimsins hefur leitt til 5 % eldsneytissparnaðar þessara farartækja, þá jafngildir sú minnkun gróðurhúsalofttegunda helmingi losunar frá öllum framleiðslustigum álsins.
Í mörgum löndum fer megnið af orkunotkun heimilanna til upphitunar eða kælingar. Hitunarferlið er í mörgum tilvikum knúið jarðgasi. Á Norð-Austur Englandi er þróunarferli hafið, sem snýst um að leysa jarðgasið af hólmi með vetni. Leeds-borg hefur forystu um þetta. Þarna er markaðstækifæri fyrir Íslendinga, því að talið er, að árið 2020 muni verð vetnis hafa hækkað úr núverandi 1,35 USD/kg í 2,30 USD/kg vegna aukinnar eftirspurnar og hærri framleiðslukostnaðar úr jarðgasi vegna kolefnisgjalds. Við þetta verð fást 46 USD/MWh af rafmagni, en til samanburðar er listaverð Landsvirkjunar núna á forgangsorku 43 USD/MWh.
Talið er, að núverandi vetnisframleiðsla þurfi að tífaldast hið minnsta vegna orkuskiptanna. Hún fer hins vegar nú aðallega fram með vinnslu úr jarðgasi (95 %), en þarf að verða með rafgreiningu fyrir tilstilli sjálfbærs rafmagns. Heimsframleiðsla á vetni þarf þannig að nema 600 Mt/ár um 2050 með rafgreiningu. Ef Íslendingar ákveða að leggja baráttunni við gróðurhúsaáhrifin á erlendri grundu lið með því að virkja t.d. 10 TWh/ár (helmingurinn af núverandi raforkuvinnslu, þriðjungurinn af orkugetu nýtingarflokks Rammaáætlunar) til að knýja vetnisframleiðslu hérlendis og flytja megnið utan samanþjappað, þá þarf til þess 65 kWh/kg, og hægt verður að framleiða 150 kt/ár af H2 (vetni) á flutningstæku formi. Þetta er aðeins 0,03 % af áætlaðri markaðsþörf, en myndi hjálpa Englendingum talsvert við að vetnisvæða upphitun húsnæðis á NA-Englandi. Þetta gæfi að lágmarki útflutningstekjur að upphæð 345 MUSD/ár eða 43 mrðISK/ár.
Með þessu móti mundu Íslendingar teygja sig mjög langt við að aðstoða ríki við orkuskiptin, sem vantar endurnýjanlega orku. Þetta mundi að óbreyttu þýða, að við þyrftum að ganga á biðflokk virkjana fyrir eigin orkuskipti og 4 TWh/ár fyrir vetnisframleiðslu til eigin nota fyrir t.d. stærri samgöngutæki á landi ásamt vinnuvélum, skipum og flugvélum auk vaxandi orkuþarfar vegna aukinna umsvifa á landinu.
24.12.2018 | 11:14
Sæstrengur eða iðjuver
Enn er agnúazt hérlendis út í langtíma raforkusamninga við erlend stóriðjufyrirtæki. Það er kostulegt, því að þessir samningar voru ekki einvörðungu undirstaða stórvirkjana á Íslandi, sem voru mun hagkvæmari í rekstri en smávirkjanir eða margir smááfangar stórvirkjana, heldur urðu þeir líka undirstaðan að öflugu flutningskerfi raforku frá virkjunum til þéttbýlisins á SV-landi. Þetta kerfi væri bæði veigaminna, þ.e. væri með annmörkum minna afhendingaröryggis raforku til viðskiptavinanna, og væri miklu dýrara fyrir almenna notendur en reyndin er, ef raforkukerfið hefði einvörðungu verið sniðið við almenna markaðinn, sem nú er um 20 % af heild.
Með samnýtingu stórnotenda og almennings á einu og sama raforkukerfinu, sem stórnotendur hafa fjármagnað að mestu leyti, hefur draumur brautryðjendanna um einna lægst raforkuverð á Íslandi með viðunandi afhendingaröryggi í samanburði við önnur lönd í Evrópu og reyndar víðast hvar í heiminum rætzt. Við þessi hlunnindi bætast auðvitað hitaveiturnar, þar sem þeirra nýtur við til húsnæðishitunar hérlendis. Hitaveiturnar stórminnka raforkuþörfina eða um allt að 10 TWh/ár, sem er um helmingur núverandi virkjaðrar orku. Íslendingar hafa þannig með áræðni, framsýni og dugnaði á þessu tæknilega sviði, sem orkunýting er, borið gæfu til að leysa þau viðfangsefni vel af hendi, sem felast í að breyta orkulindum í verðmæta afurð, samfélaginu öllu til mikilla hagsbóta. Þó má betur, ef duga skal.
Sem dæmi dugðu greiðslur frá ISAL til Landsvirkjunar fyrir raforku fyrstu 30 ár rekstrarins til að greiða upp allan upphaflegan stofnkostnað Búrfellsvirkjunar, Geithálsstöðvarinnar, tveggja flutningslína á milli Búrfells og ISAL ásamt vararafstöð Landsvirkjunar í Straumsvík. Þessi mannvirki, nema vararafstöðin, leystu jafnframt úr almennum raforkuskorti á höfuðborgarsvæðinu og víðar, sem tók að gæta í lok 7. áratugar síðustu aldar.
Sumir hagfræðingar o.fl. eru haldnir þeirri bábilju, sem fyrir löngu komst á kreik, að fjárfestingar í raforkumannvirkjum, virkjunum, aðveitustöðvum og flutningslínum, á grundvelli gerðra langtímasamninga um raforkuafhendingu til iðjuvera, haldi ekki máli, hvað arðsemi varðar. Þetta er alvarleg villa, sem stafar af því, að hagfræðingarnir hafa ekki tekið með í reikninginn óvenjulangan endingartíma virkjananna í fullri virkni og með litlum rekstrarkostnaði.
Venjulega er reiknað með bókhaldslegum afskriftartíma 40 ár fyrir virkjanir, en tæknilegur endingartími þeirra getur hæglega varað 100 ár með eðlilegu viðhaldi og endurnýjun. Ef hagfræðingarnir reikna bara arðsemina yfir afskriftartímann, er ekki kyn, þótt keraldið leki, því að botninn er þá suður í Borgarfirði. Í neðangreindri tilvitnun í téðan Óðin hafa menn komizt að þeirri niðurstöðu, að arðsemi þessara fjárfestinga sé 5 %. Réttara er að áætla hana 50 % fyrstu 100 árin að jafnaði, ef gert er ráð fyrir 5 % í 40 ár og 80 % í 60 ár:
"Staðreyndin er sú, að arðsemin af fjárfestingu tengdri stóriðju hefur verið óviðunandi, eins og Óðinn hefur oft bent á. Þetta kemur fram í skýrslu, sem Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannsson skrifuðu fyrir Hagfræðistofnun Háskóla Íslands árið 2012, "Arðsemi Landsvirkjunar af rafmagnssölu til stóriðju 1966-2010". Niðurstaða þeirrar skýrslu er, að arðsemi raforkusölunnar sé ekki nema liðlega 5 % fyrir skatta og verðbólgu, sem þýðir, að fjárfestingin stendur ekki undir fórnarkostnaði þess fjármagns, sem bundið er í henni. Þjóðhagslegur ábati hefði verið meiri, ef ríkið hefði ekki sogað þetta fé til sín og það hefði verið til reiðu í aðra atvinnuvegafjárfestingu."
Málflutningi af þessu tagi er beitt í vanburða tilraun til að færa rök fyrir þeirri skoðun, að erlendar fjárfestingar í orkukræfum iðnaði hérlendis séu óalandi og óferjandi. Þetta eru fordómar. Þessi iðnaðarstarfsemi hefur gert íslenzkum orkufyrirtækjum kleift að fjárfesta í virkjunum, sem mala gull í 100 ár. Bauðst íslenzka ríkinu einhvern tímann viðlíka fjárfestingartækifæri ?
Jafnvel þótt álverið í Straumsvík muni aðeins starfa í tæplega 70 ár (út núverandi samningstíma um raforku), þá verður meðalarðsemin af fjárfestingum vegna þess samt um 50 %, því að orkuverðið þangað hefur hækkað mjög mikið á rekstrartímabilinu, ekki sízt eftir að afskriftartímabili Búrfellsvirkjunar lauk.
Starfsemi fyrirtækjanna, sem útlendingar hafa stofnsett hérlendis til að skapa verðmæti úr endurnýjanlegri orku, hefur leitt til mikillar tækniþróunar hérlendis og öryggis- og umhverfisstjórnun hefur tekið stakkaskiptum fyrir þeirra tilverknað og þeirra íslenzka starfsliðs. Það er þess vegna ekki reist á neinum rökum, að t.d. álverin hafi verið einhvers konar byrði hér, sem haldið hafi aftur af þróuninni vegna þess, að fénu til orkumannvirkjanna hefði getað verið betur varið. Þetta er algerlega tilhæfulaust og sorglegt að sjá Óðin falla ofan í þennan fúla pytt.
Síðan víkur Óðinn sögunni að sæstrengsviðræðum þáverandi forsætisráðherranna, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Davids Cameron, en Óðinn er ekki sá eini, sem hefur tilhneigingu til að stilla aflsæstreng til útlanda upp sem heppilegum valkosti við málmiðjuverin. Þar verður þá ekki komizt hjá því að stilla upp þriðja valkostinum, sem er vinnsla vetnis hérlendis úr vatni með rafgreiningu, en í uppsiglingu er á Bretlandi mikill markaður fyrir vetni til að leysa jarðgas af hólmi sem orkugjafi til upphitunar húsnæðis.
"Ráðherrarnir ræddu einnig samstarf í orkumálum og var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng. Sigmundur Davíð sagðist hafa fyrirvara um lagningu sæstrengs. Forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni væri, að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki. Eðlilegt er þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif, sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér."
Hér er meinloka á ferðinni. Það er útilokað, að tenging íslenzka raforkukerfisins við erlent raforkukerfi, þar sem heildsöluverð raforku er a.m.k. tvöfalt raforkuverðið hérlendis, hafi ekki áhrif á verðlagningu raforku hér til hækkunar. Eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins hérlendis og tengingu raforkukerfanna mun verðlagningin hér ráðast í "Nord Pool" orkukauphöllinni, þar sem Ísland og Bretland verða. Íslenzkir raforkukaupendur verða þar í samkeppni við brezka og kannski einnig við kaupendur á meginlandinu, því að Bretland er raftengt þangað og bráðlega við Noreg einnig. Vilja Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins þetta ? Þau mega ekki fljóta sofandi að feigðarósi, heldur ber að berjast gegn slíkum kostnaðarauka á sín aðildarfyrirtæki, sem raftenging við útlönd óhjákvæmilega hefur í för með sér.
Hérlendis hafa heyrzt raddir um, að það muni verða á valdi íslenzkra stjórnvalda, hvert rafmagnsverðið verður til almennings hérlendis eftir slíka tengingu. Það er tóm vitleysa. Hverjum dettur í hug, að ríkissjóður hafi bolmagn til slíkra niðurgreiðslna ? Ef hann hins vegar reynir það, gerist hann umsvifalaust brotlegur við reglur EES-samningsins, sem banna slík inngrip ríkisins í samkeppnismarkað, enda eru t.d. engin fordæmi um slík inngrip norska ríkissjóðsins með sinn öfluga bakhjarl, olíusjóðinn, þótt norskum fjölskyldum og fyrirtækjum hafi sviðið mjög undan gríðarlegum verðhækkunum rafmagns þar í landi samfara útflutningi á rafmagni.
Óðinn hefur furðulega afstöðu til þessa máls, því að hann skrifar, að hann sé sammála Sigmundi um, að "það er óásættanlegt, að íslenzkur almenningur taki á sig þyngri byrðar með tilkomu sæstrengs. En þetta eru óþarfar áhyggjur Sigmundar bæði fyrr og nú". Þær eru ekki óþarfar. Það er þvert á móti óhjákvæmilegt, að íslenzkur almenningur beri kostnað af sæstrengsuppátæki, bæði beinan og óbeinan. Beini kostnaðurinn felst í að standa undir kostnaði Landsnets við að reisa flutningslínur frá stofnkerfinu og niður að landtökustað sæstrengsins, sennilega tvær 400 kV línur samkvæmt forskrift Orkupakka #3, og óbeini kostnaðurinn felst í hækkun á verðlagningu raforku vegna tengingar við erlendan markað og minna framboðs en eftirspurnar.
Síðan fimbulfambar Óðinn um, að sú lífskjarastefna, sem felst í því að halda raforkuverði lágu til heimila, sem nota aðeins 5 % af heildarraforkunotkun, haldi verði niðri til hinna, þ.e. almenns atvinnurekstrar og stóriðju, og að þar með nái orkuseljendur minni hagnaði en ella. Hann athugar það ekki, að lágt raforkuverð skapar atvinnurekstrinum í landinu nauðsynlegt forskot í samkeppni við fyrirtæki, sem eru betur staðsett m.v. aðdrætti og flutninga afurða á markað. Þá dregur lágt raforkuverð til almennings ekkert úr svigrúmi raforkuheildsalanna til að gera hagstæða langtíma raforkusamninga.
Það fettir enginn fingur út í það, þótt umsamið verð til stóriðju hækki, þegar langtímasamningar eru endurnýjaðir. Stóriðjan hefur um langa hríð staðið undir fjármögnun raforkukerfisins og lágu raforkuverði til almennings. Við það er ekkert að athuga.
Þegar menn draga í efa, að staðan sé þessi, þá gleyma þeir dreifingarkostnaðinum, sem hérlendis nemur tæplega 40 % af heildarkostnaði rafmagns til almennings, en stóriðjan sér sjálf um fyrir sig. Þá gleyma menn einnig, að fjárfesting á bak við hverja kWh er um 60 % meiri, þegar virkjað er fyrir ójafnt álag, eins og álag almenningsveitna, en fyrir jafnt álag stóriðjunnar, og hagkvæmni stærðarinnar er þá ótalin.
Óðinn klykkir út með eftirfarandi hvatningu til iðnaðarráðherra:
"Óðinn vonar, að iðnaðarráðherra muni loks láta reyna á það, hvort lagning sæstrengs sé fær leið, enda allir helztu hagfræðingar landsins sammála um áhrif hennar á þjóðarhag."
´Oðinn vill sem sagt kanna til hlítar, hvort hægt sé að þróa álitlega viðskiptahugmynd með Englendingum um raforkuviðskipti við Íslendinga. Af þeim gögnum, sem þegar eru fyrir hendi, má þó ljóst vera, að alvarlegir meinbugir eru á þessu sæstrengsverkefni, þótt Óðinn telji "alla helztu hagfræðinga landsins" telja verkefnið þjóðhagslega hagkvæmt. Væri fróðlegt að sjá þá útrikninga, því að þetta stenzt ekki, á meðan heildsöluverð raforku á Englandi er undir 180 USD/MWh, sem er 2,25 x núverandi heildsöluverð þar. Þetta stafar m.a. af gríðarlegum eða um 10 % afltöpum á leiðinni, sem flutningar um strenginn verða að borga. Ef 1400 MW fara inn á endabúnaðinn, þá koma aðeins 1260 MW út eða með öðrum orðum 140 MW tap. Það er tæplega aflgeta Blönduvirkjunar.
Nú er að opnast nýtt viðskiptatækifæri á NA-Englandi fyrir orku. Leeds-borg hefur áform um orkuskipti við húshitun, og borgarstjórnin vill leysa jarðgas af hólmi með vetni. Fljótt á litið getur reynzt arðsamt að rafgreina vatn á Íslandi og senda það utan með skipi, en flutningskostnaðinn þarf þó að kanna nánar. Það er líka annar markaður að opnast fyrir vetni í Evrópu, en það er hluti stáliðnaðarins, sem vill verða kolefnishlutlaus með því að afoxa járngrýtið með vetni í stað jarðgass, sem notað er í sumum stálvinnsluofnum. Það sparar orku að framleiða vetnið á Íslandi m.v. að gera það með íslenzku rafmagni á Englandi, og vetnisframleiðslan felur í sér verðmætasköpun með rafmagni ásamt nokkurri atvinnusköpun. Þá er hægt að leysa benzín og dísilolíu og væntanlega flotaolíu líka af hólmi með amoníum, NH3. Vetnis- og ammoníumframleiðsla á Íslandi jafngilda að öllum líkindum meiri þjóðhagslegri hagkvæmni en hrár raforkuútflutningur.
21.12.2018 | 17:54
"Sæstrengurinn og orkupakkinn"
Höfundurinn "Óðinn" birti afleitan pistil undir ofangreindri fyrirsögn í Viðskiptablaðinu 22. nóvember 2018. Þetta var miður, því að oftast eru pistlar með þessu höfundarnafni frumlegir og fela í sér réttmæta gagnrýni og góða greiningu á viðfangsefninu. Í þessu tilviki urðu honum þó á nokkrir alvarlegir fingurbrjótar.
Hann minnir í upphafi á 3 orkumarkmið ESB fyrir árið 2020, sem sennilega munu ekki nást, aðallega vegna of einhliða áherzlu á slitróttar, endurnýjanlegar orkulindir, sól og vind, á meðan grunnorkugjöfum á borð við kjarnorkuver er lokað. Að berjast þannig á tveimur vígstöðvum samtímis hefur jafnan verið ávísun á ófarir. Fyrir vikið hefur kolanotkun sumra ESB-landa aukizt og koltvíildislosun orkuiðnaðarins í heild innan ESB líka.
Fyrsta markmiðið var, að endurnýjanlegar orkulindir stæðu undir minnst 20 % raforkuþarfarinnar. Það mun ekki nást. Á Íslandi er þetta hlutfall næstum 100 %.
Annað markmiðið var, að orkunýtni ykist um 20 % (vantar viðmiðunartímann). Á 10 árum hefur eldsneytisnýtni ökutækja aukizt um a.m.k. 20 %, og líklega hefur orkunýtni raforkuvera í Evrópu aukizt um 20 % á 20 árum. Á Íslandi eru of mikil orkutöp í raforkukerfinu vegna of lítilla fjárfestinga. Árið 2015 námu töp og eigin notkun raforkukerfisins 1303 GWh eða 6,9 % af heildarraforkuvinnslu. Töp og eigin notkun þurfa að fara niður fyrir 5 % eða minnka um 400 GWh/ár. Þannig sparast um 2 mrðISK/ár.
Þriðja markmiðið var að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 20 % (viðmiðunarár vantar). Þetta markmið næst alls ekki. Sé miðað við árið 2005, sem stundum er gert, næst þessi minnkun alls ekki í ESB, og sigið hefur á ógæfuhliðina á Íslandi. Þess vegna fer koltvíildisgjald losunar hækkandi í ESB, og kolefnisgjald eldsneytis fer hækkandi á Íslandi. Hið síðara er óréttmætt, því að allsendis ófullnægjandi framboð er enn á rafbílum, til að þeir geti tekið bróðurpart endurnýjunarþarfarinnar, og enginn raunhæfur rafmagnsvalkostur er enn fyrir stórar dísilvélar. Stjórnvöld eru komin fram úr sér í skattheimtu vegna orkuskiptanna. Markaðurinn hlýtur að ráða ferðinni, en ekki löngun stjórnmálamanna.
Óðinn virðist éta upp eftir ráðuneytum utanríkis og iðnaðar, þegar hann skrifar:
"Ekki er ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þessum [orku] pakka, þó að eðlilegt sé að gjalda varhug við öllum pakkasendingum frá Brüssel. Þessi löggjöf mun hafa mun minni áhrif á Íslandi en á meginlandi Evrópu og líklega lítil sem engin."
Þessu er einmitt þveröfugt farið. Þar sem samkeppnismarkaður var fyrir raforku (og gas) og uppfyllti samkeppnisreglur ESB, þegar Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB var lögleiddur í aðildarlöndunum árið 2009, þar varð líklega ekki mikil breyting fyrir orkukaupendur, þegar Landsreglari tók til starfa sem eftirlitsaðili og reglusetningaraðili fyrir orkumarkaðinn, starfandi beint undir ACER-Orkustofnun ESB.
Þar sem hins vegar ekki er fyrir hendi samkeppnismarkaður, eins og í tilviki Íslands, þar verður að stofna slíkan eftir lögleiðingu Orkupakka #3. Líklegt er, að á Íslandi verði stofnað útibú frá "Nord Pool" orkukauphöllinni. Þetta eitt og sér mun hafa miklar breytingar í för með sér fyrir orkuseljendur og orkukaupendur. Raforkuverðið verður sveiflukennt, og meðalverðið mun hækka, af því að samræmd orkulindastýring verður bönnuð, sem hæglega getur leitt til ofnotkunar miðlunarlónanna í samkeppni við jarðgufuverin og þar af leiðandi mikilla verðhækkana að vetrarlagi og jafnvel orkuskorts.
"Aftur og aftur hefur komið fram, að Landsvirkjun hefur hvorki getu né áhuga á að leggja út í 800 milljarða króna framkvæmd, enda væri slíkt fásinna. Landsvirkjun hefur á hinn bóginn aftur og aftur greint frá áhuga erlendra aðila á því að leggja sæstrenginn."
Nú er það vel þekkt, að sæstrengurinn "Ice-Link" hefur hlotið náð fyrir augum ESB og er á lista ACER um forgangsorkusamtengingar Evrópulanda. Það þýðir, að þessi samtenging verður styrkhæf úr sjóðum Evrópusambandsins, sem miða að aukinni hlutdeild sjálfbærrar orku í orkunotkun ESB. Hvaða áhrif útganga Breta úr ESB hefur á þessi áform, er enn óljóst. Hitt er þó öruggt, að orkuviðskipti Breta og ESB-landanna munu halda áfram, og hugsanlega verður Bretland aukaaðili (án atkvæðisréttar) að ACER, eins og fyrirhugað er með EFTA-löndin.
Með ofangreindum stofnkostnaði, 2 % árlegum rekstrarkostnaði, 10 % heildartöpum og 8 % ávöxtunarkröfu í 25 ár, mun flutningsgjaldið þurfa að nema 90 USD/MWh, sem gæti lækkað í 80 USD/MWh vegna styrkveitinga frá ESB. Þetta er svipað verð og nú fæst fyrir raforku á heildsölumarkaði á Englandi. Ekkert er fast í hendi um, að brezki ríkissjóðurinn muni tryggja ákveðið lágmarksverð raforku um þennan sæstreng, sem sé talsvert hærra en þetta markaðsverð, enda er ekkert slíkt áformað í viðskiptum Norðmanna og Breta með sjálfbæra raforku frá Noregi.
"Nær væri að líta til væntrar arðsemi slíks verkefnis fyrir íslenzka raforkusala, sem flestir eru í opinberri eigu. Þar hafa verið nefndir 10-40 milljarðar króna á ári eftir því, hvaða forsendur menn hafa gefið sér."
Það virðist alveg út í hött, að svo mikið fáist fyrir íslenzka raforku á Bretlandi, að staðið geti undir greiðslum á 80 USD/MWh til sæstrengseigandans og þar að auki greiðslum til orkuvinnslufyrirtækja á Íslandi, sem ásamt orkusölu innanlands standi undir um 25 mrðISK/ár (10-40 mrðISK/ár) í arðgreiðslum til fyrirtækjanna. Um slíkar fjarstæður er ekki annað hægt að segja en þær hljóta að vera ættaðar frá skýjaglópum.
S.k. listaverð Landsvirkjunar fyrir forgangsorku er núna 43 USD/MWh. Það eru aðeins um 5 TWh/ár eftir virkjanlegir með þessum einingarkostnaði, en 1200 MW sæstrengur þarf 10 TWh/ár frá neti fyrir ofangreindan flutningskostnað. 50 USD/MWh er þannig nauðsynlegt forgangsorkuverð frá Íslandi inn á sæstreng. Það þýðir V=80+50=130 USD/MWh, sem brezkir kaupendur yrðu að greiða fyrir íslenzkt rafmagn, ef ekki á að verða tap á viðskiptunum. Það er 63 % hækkun m.v. núverandi markaðsverð á Englandi. Hvað skyldu draumóramenn segja um þetta ? Lítum aftur á Óðin:
"Það, sem skiptir arðsemi sæstrengs máli, er, hvort það náist samningur við brezk stjórnvöld um orkuverð, sem gildir út líftíma sæstrengsins eða ekki. Í upplýsingum, sem Landsvirkjun hefur birt frá orkumálaráðuneyti Bretlands um verð á endurnýjanlegri orku, kemur fram, að það er 3-5 sinnum hærra en listaverð Landsvirkjunar til 15-35 ára. Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, telur það geta verið hærra eða allt að 6-8 sinnum hærra."
Hér eru miklar væntingar, en ekkert kjöt á beinunum. Væntanlega á Óðinn við afskriftartímann fremur en tæknilegan líftíma sæstrengsins. Höfundur þessa pistils hefur reiknað með 25 ára afskriftartíma, sem er hámark, en annars verður flutningskostnaður raforku enn þá hærri. Samkvæmt þessu er ríkisstjórn Bretlands fús til að tryggja um 4x43=172 USD/MWh fyrir raforku frá Íslandi. Hún þyrfti þá að greiða 172-80=92 USD/MWh með henni eða 790 MUSD/ár að jafngildi um 100 mrðISK/ár. Fyrir slíkan samning fengi Landsvirkjun (fyrir tilviljun) sömu upphæð, en slíkir samningar væru samt ekki þjóðhagslega hagkvæmir, því að upp að 180 USD/MWh (100 USD/MWh til innlendra orkuvinnslufyrirtækja) fæst meiri verðmætasköpun með innanlandsnotkun raforkunnar.
Er fótur fyrir því, að brezka ríkisstjórnin geti og vilji gera slíka samninga við Íslendinga ? Nei, það er enginn fótur fyrir því. Það er allt annað mál, hverju hún og þingið telja verjanlegt að verja til þróunar á kjarnorkuveri (Hinkley 150 USD/MWh) og á vindorkuverum undan ströndinni (200 USD/MWh). Eins og sakir standa eru nánast engar líkur á, að brezk stjórnvöld vilji eða geti gert samninga um svona hátt verð, hvað þá eins og haft er eftir Katli Sigurjónssyni, því að brezki ríkissjóðurinn er rekinn með miklum halla og í hverjum fjárlögunum á fætur öðrum eru niðurgreiðslur vegna sólar- og vindorku minnkaðar, enda fer kostnaður frá þeim hratt lækkandi vegna tækniþróunar. Niðurgreiðslur til vindorkuvera undan strönd hafa þó að mestu haldizt.
Aðeins ef raforkuverð á Englandi hækkar um meira en 60 % verður hagkvæmt fyrir íslenzka virkjanaeigendur að stækka markað sinn, en enginn getur tryggt þeim slíkt verð til frambúðar eða út afskriftartíma nýrra virkjana. Af þessum ástæðum er viðskiptagrundvöllurinn enginn, nema eitthvað annað komi til, t.d. lokun iðjuvera á Íslandi, en stjórnvöld ættu að vinna gegn slíkum skiptum, því að þau verða ekki í þjóðarhag, eins og hér hefur verið rakið. Hér er vert að benda á, að norska ríkisstjórnin hefur lagt sig í framkróka við að framlengja raforkusamninga við orkukræfan iðnað í Noregi. Það mundi hún ekki hafa gert, nema hún teldi þjóðhagslega hagkvæmara að nota raforkuna til verðmætasköpunar í Noregi en að flytja hana til útlanda um millilandatengingarnar. Samt hirðir ríkisfyrirtækið Statnett allan ágóða af flutninginum sjálfum, Því að Statnett á allar millilandatengingarnar.
Í næsta pistli verður haldið áfram að fjalla um þessa grein Óðins og þá m.a. um arðsemi orkusölu til stóriðju.
18.12.2018 | 10:59
Norðmenn súpa seyðið - málsmeðferð Stórþingsins kærð
Norðmenn búa við frjálsa samkeppni í orkukauphöll, þar sem spákaupmennska er stunduð með raforku að hætti Evrópusambandsins-ESB. Raforkuverðið í Noregi sveiflast eftir framboði og eftirspurn þar og eftir verði í ESB vegna millilandatenginganna. Nú, þegar koltvíildisskattur og verð á losunarkvótum koltvíildis fer hækkandi í ESB, hækkar raforkuverðið í Noregi, þótt Norðmenn framleiði nánast enga raforku með jarðefnaeldsneyti. Þetta er einn af göllunum fyrir land endurnýjanlegrar raforku við að vera á raforkumarkaði ESB.
Í september 2018 rigndi meira en dæmi eru um í Noregi, eftir mikla þurrka í sumar, og þess vegna er ekki útlit fyrir bráðan vatnsskort í miðlunarlónum í vetur, en samt er raforkuverð þar með hæsta móti vegna millilandatenginganna og og vöntunar á framlagi orku frá norskum vindmyllum vegna lítt vindasamrar veðráttu í umhverfi flestra vindmyllna Noregs.
Vindorkuver eru farin að hafa áhrif á framboð raforku í Noregi, en útihitastigið ræður mestu um eftirspurnina. T.d. í viku 50/2018 blés lítið og hitastig var í meðallegi. Þá nam orkuverðið til almennings um 59 Naur/kWh eða 8,5 ISK/kWh (60 EUR/MWh). Þetta er allt að 40 % hærra en hérlendis. Ef nú kólnar um 3-4 °C, getur verðið hækkað um þriðjung og jafngildir þá 11,3 ISK/kWh, einvörðungu fyrir orkuhlutann (allt að 90 % hærra en hérlendis). Þetta má tvöfalda vegna flutnings, dreifingar og skatta, svo að almenningur í Noregi má þá út með um 22 ISK/kWh, sem er talsvert hærra en hérlendis.
Enn verra er þetta á meginlandinu. Í Belgíu var verðið nýlega 350 EUR/MWh = 49 ISK/kWh fyrir rafmagnið án flutnings og skatta. Þetta sýnir hrikalegar öfgar markaðskerfisins. Kerfi af þessu tagi á ekkert erindi hingað til lands, enda myndi það fljótt kippa stoðunum undan velferðarsamfélaginu hér og samkeppnishæfni atvinnulífsins. Fulltrúar atvinnulífsins ættu að kynna sér þessi mál og taka opinbera afstöðu í þessu brýna hagsmunamáli atvinnulífsins.
Norðmenn eru eðlilega óánægðir með það, að afurð vatnsafls þeirra og vindafls, rafmagnið, skuli vera undirorpin gríðarlegum verðsveiflum á markaði og háð rafmagnsverði annars staðar í Evrópu. Ef vindar blása veikt í Danmörku, Hollandi og Þýzkalandi, þá hækkar rafmagnsverð í Noregi. Ef ESB ákveður að hækka koltvíildisskatt, þá hækkar rafmagnsverð í Noregi, og geta má nærri, að slíkt setji alvarlegt strik í heimilisbókhaldið hjá Ola Nordmann og Kari, sem eru Jón og Gunna Noregs, þegar þetta gerist á kuldaskeiði að vetrarlagi, en meðalheimili í Noregi notar um tífalt meira rafmagn að meðaltali yfir árið en meðalstórt íslenzkt heimili vegna þess, að í Noregi er rafmagn notað til húshitunar. Þar af leiðandi er raforkukerfi Noregs aflhannað, en hérlendis er það hins vegar orkuhannað, sem gefur mun betri nýtingu orkumannvirkjanna að meðaltali yfir árið. Norðmenn hafa reynt að bæta sér þetta upp með aflsölu til útlanda. Raforkukerfi okkar býður einfaldlega ekki upp á slíkt. Þegar raforkuverðið hækkar og þröngt verður í búi hjá frændum vorum, er gengið á eldiviðarhlaðann og kynt upp með kamínunni, svo að á lygnum vetrardögum leggst reykjarmökkur yfir byggðina. Það léttir undir með buddunni, en ekki er það heilsusamlegt.
Staða Noregs í þessum efnum á að verða Íslendingum víti til varnaðar. Við eigum ekki að láta gróðapunga klófesta hér orkumarkaðinn og sameina hann Evrópumarkaðinum með sæstreng til að hefja spákaupmennsku með raforkuna á stórum markaði, sem óhjákvæmilega mun rýra kjör alþýðu hérlendis og veikja íslenzk fyrirtæki. Munum hið fornkveðna: ef þú réttir skrattanum litla fingurinn, þá tekur hann alla hendina.
Norðmenn eru að vakna upp við vondan draum. Þeir eru ekki búnir að gefast upp, þótt Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn hafi verið samþykktur á Stórþinginu í vetur, reyndar með 8 skilyrðum. Þegar ESB tekur að brjóta þessi skilyrði, þá munu Norðmenn verða æfir, einkum Verkamannaflokksmenn, sem sömdu þessi skilyrði. ESB skrifaði aldrei undir þessi skilyrði, svo að þeir svíkja ekkert, þótt þeir hundsi þau.
"Nei til EU"-samtökin hafa haldið uppi öflugu andófi gegn ESB í Noregi, og hafa nú kært ríkið fyrir það, að ekki var krafizt aukins meirihluta á Stórþinginu við afgreiðslu Orkupakka #3, eins og stjórnarskrá Noregs áskilur, þegar um skýrt fullveldisframsal er að ræða. Hér fyrir neðan er þýðing pistilhöfundar á blaðagrein frá "Nei til EU" um þetta efni, en hún er birt á frummálinu í viðhengi með þessum pistli:
"ACER málsóknin snýst um heiðarleika":
"Ríkisstjórn og Stórþing hafa ekki frítt spil við að hola norskt fullveldi að innan; þess vegna ætlar "Nei til EU" að nýta réttarkerfið til að verja leikreglur Stjórnarskrárinnar.
"Nei til EU" hefur stefnt Ríkinu, sem Erna Solberg, forsætisráðherra, stendur sem fulltrúi fyrir, með kröfu um, að ríkisstjórnin setji Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB ekki í framkvæmd, en sá fellir Noreg undir valdsvið Orkustofnunar ESB-ACER. Röksemdin er sú, að ACER-samþykkið sé ógilt, af því að Stórþingið fylgdi ekki Stjórnarskrárgrein nr 115 um fullveldisafsal, sem m.a. áskilur aukinn 3/4 meirihluta.
Þetta er í fyrsta skipti, sem "Nei til EU" fer í málsókn. Við erum félag, sem er grundvallað á lýðræði, og erum gagnrýnin á að beina stjórnmálum á brautir réttarfars, eins og er háttur ESB. Í EES-samninginum blasir þetta við með stöðugum inngripum eftirlitsstofnunarinnar ESA, sem yfirstýrir stjórnmálalegum áherzlumálum [t.d. banni Alþingis við innflutningi ófrosins kets o.fl.-innsk. BJo]. Við erum þeirrar skoðunar, að lýðræði og fullveldi séu nátengd, og Stjórnarskráin sé réttarfarsramminn, sem afmarkar leikreglurnar fyrir norskt lýðræði. Þess vegna er úrslitaatriði, að hin sértæku skilyrði, sem Stjórnarskráin setur fyrir fullveldisafsali, séu virt í hvívetna.
Að sniðganga Stjórnarskrána:
Samkvæmt Stjórnarskrá eiga dómstólarnir að hafa alveg óháða stöðu. Það felur í sér að gæta þess, að einnig þeir, sem setja lögin og framkvæma þau, fylgi lagabókstafnum. Sjálfstæðið hverfur, ef réttarkerfið samþykkir tafarlaust Stjórnarskrártúlkanir, sem Stórþing og ríkisstjórn miða við.
Í svo miklu deilumáli sem ACER-málinu hefði Stórþingið sjálft átt að óska eftir mati Hæstaréttar, eins og það á möguleika á með Stjórnarskrárgrein nr 83. Það vildi hins vegar-eða þorði-Stórþingsmeirihlutinn ekki gera. Kristilegi þjóðarflokkurinn, KrF, lagði fram tillögu um slíkt mat, en meirihlutinn hafnaði því. Þegar Stórþingið gerir lítið úr lýðræðinu, er sú leið opin í stjórnskipun okkar, að réttarkerfið geti leikið stærra stjórnmálalegt hlutverk en ella til varnar Stjórnarskránni.
ACER-málið leysti úr læðingi gríðarlega krafta, og mjög mörgum finnst, að við Stórþingssamþykktina hafi Stjórnarskráin verið sniðgengin. Við höfum safnað yfir MNOK 1,0 til málssóknarinnar, og enn bætist við söfnunarféð. Ef nauðsyn krefur munum við reka málið fyrir Hæstarétti til að fá dómsúrskurð, sem eiginlega allir ættu að hafa hag af, að komi.
Meira en "lítil áhrif":
Aðalspurningin í væntanlegu dómsmáli er, hvort valdframsalið "hafi lítil áhrif", eins og ríkisstjórnin fullyrðir, og hvort þetta sé nógu góð röksemd til að hafna grein 115 og í staðinn að velja einfaldari samþykktarforskrift (gr. 26). Talsverður fjöldi þekktra lögfræðinga var opinberlega mjög gagnrýninn á aðferð málsmeðferðarinnar í ACER-málinu.
Fyrirkomulag ákvarðana orkustofnunarinnar ACER í EES er mjög sérstök. Eftirlitsstofnunin ESA á formlega að taka ákvarðanirnar, en ákvarðanirnar eru skrifaðar hjá ACER. Ákvarðanir ESA fara síðan til Landsreglarans, sem samkvæmt regluverki ESB verður að vera óháður yfirvöldum hvers lands. Landsreglarinn á að afrita og framkvæma ákvarðanir ESA, og tekur hvorki við fyrirmælum frá ríkisstjórn né Stórþingi. Með öðrum orðum er búin til röð afritunarákvarðana frá ESB-stofnuninni, sem verða bindandi fyrir viðkomandi aðila í Noregi.
Í álitsgerð um Stjórnarskrárgrein nr 115 og ACER-málið bendir Hans Petter Graver á marga veikleika við mat ríkisstjórnarinnar, m.a., að lagt hafi verið til grundvallar, að völdin, sem ESA fái, séu einvörðungu þjóðréttarlegs eðlis. Graver skrifar: "Þar eð völdum ESA verður beitt í norsku réttarumhverfi, munu ákvarðanir ESA verða á lagalegum innanríkisgrundvelli, og þær verða bindandi og njóta forgangs samkvæmt EES-samninginum gagnvart þeim, sem þær beinast að. Landsreglarinn verður að landslögum skyldugur til að framfylgja ákvörðunum ESA. Þetta atriði hefði átt að hafa í huga við mat á "áhrifalitlu" valdi, og gæti þá hafa leitt til annarrar niðurstöðu."
Orka er viðkvæmt mál:
Hjá orkustofnuninni ACER hafa verið teknar ákvarðanir um rör og rafstrengi yfir landamæri að andvirði mörg hundruð milljónir norskra króna (MNOK). ACER getur einnig ákvarðað úthlutun á flutningsgetu í evrópska orkukerfinu. Þar að auki hefur hún heimildir til að afla upplýsinga hjá einkaaðilum í orkugeiranum og til að leggja á sektir, ef ekki er orðið við þessari upplýsingaskyldu.
Við þetta má bæta, að orka er miðlægt og viðkvæmt svið fyrir Noreg sem ríki, einkafyrirtæki og borgarana. Er þá hægt, heiðarlega og hreinskilið, að halda nokkru öðru fram en því, að valdframsalið hafi mikil áhrif ?
Á Íslandi hefur ráðuneytisfólk og fólk á mála hjá ráðuneytunum sett sig á háan hest og gert lítið úr röksemdum fyrir því, að innleiðing og framkvæmd Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB hérlendis sé utan leyfilegra marka íslenzku Stjórnarskrárinnar. Hún er strangari, ef eitthvað er, en norska Stjórnarskráin að þessu leyti, en samt geisa um þetta harðar deilur í Noregi. Íslenzkir embættismenn ættu að forðast að láta í ljós hroka sinn gagnvart þeim, sem brauðfæða þá. Þeir eru enn ekki nema "smalar í hlutastarfi fyrir ESB".