Færsluflokkur: Evrópumál

"Sæstrengurinn og orkupakkinn"

 Höfundurinn "Óðinn" birti afleitan pistil undir ofangreindri fyrirsögn í Viðskiptablaðinu 22. nóvember 2018.  Þetta var miður, því að oftast eru pistlar með þessu höfundarnafni frumlegir og fela í sér réttmæta gagnrýni og góða greiningu á viðfangsefninu.  Í þessu tilviki urðu honum þó á nokkrir alvarlegir fingurbrjótar.  

Hann minnir í upphafi á 3 orkumarkmið ESB fyrir árið 2020, sem sennilega munu ekki nást, aðallega vegna of einhliða áherzlu á slitróttar, endurnýjanlegar orkulindir, sól og vind, á meðan grunnorkugjöfum á borð við kjarnorkuver er lokað. Að berjast þannig á tveimur vígstöðvum samtímis hefur jafnan verið ávísun á ófarir.  Fyrir vikið hefur kolanotkun sumra ESB-landa aukizt og koltvíildislosun orkuiðnaðarins í heild innan ESB líka.  

Fyrsta markmiðið var, að endurnýjanlegar orkulindir stæðu undir minnst 20 % raforkuþarfarinnar.  Það mun ekki nást.  Á Íslandi er þetta hlutfall næstum 100 %.

Annað markmiðið var, að orkunýtni ykist um 20 % (vantar viðmiðunartímann).  Á 10 árum hefur eldsneytisnýtni ökutækja aukizt um a.m.k. 20 %, og líklega hefur orkunýtni raforkuvera í Evrópu aukizt um 20 % á 20 árum.  Á Íslandi eru of mikil orkutöp í raforkukerfinu vegna of lítilla fjárfestinga.  Árið 2015 námu töp og eigin notkun raforkukerfisins 1303 GWh eða 6,9 % af heildarraforkuvinnslu.  Töp og eigin notkun þurfa að fara niður fyrir 5 % eða minnka um 400 GWh/ár.  Þannig sparast um 2 mrðISK/ár.

Þriðja markmiðið var að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 20 % (viðmiðunarár vantar).  Þetta markmið næst alls ekki.  Sé miðað við árið 2005, sem stundum er gert, næst þessi minnkun alls ekki í ESB, og sigið hefur á ógæfuhliðina á Íslandi.  Þess vegna fer koltvíildisgjald losunar hækkandi í ESB, og kolefnisgjald eldsneytis fer hækkandi á Íslandi.  Hið síðara er óréttmætt, því að allsendis ófullnægjandi framboð er enn á rafbílum, til að þeir geti tekið bróðurpart endurnýjunarþarfarinnar, og enginn raunhæfur rafmagnsvalkostur er enn fyrir stórar dísilvélar.  Stjórnvöld eru komin fram úr sér í skattheimtu vegna orkuskiptanna.  Markaðurinn hlýtur að ráða ferðinni, en ekki löngun stjórnmálamanna. 

Óðinn virðist éta upp eftir ráðuneytum utanríkis og iðnaðar, þegar hann skrifar:

"Ekki er ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þessum [orku] pakka, þó að eðlilegt sé að gjalda varhug við öllum pakkasendingum frá Brüssel.  Þessi löggjöf mun hafa mun minni áhrif á Íslandi en á meginlandi Evrópu og líklega lítil sem engin."

Þessu er einmitt þveröfugt farið.  Þar sem samkeppnismarkaður var fyrir raforku (og gas) og uppfyllti samkeppnisreglur ESB, þegar Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB var lögleiddur í aðildarlöndunum árið 2009, þar varð líklega ekki mikil breyting fyrir orkukaupendur, þegar Landsreglari tók til starfa sem eftirlitsaðili og reglusetningaraðili fyrir orkumarkaðinn, starfandi beint undir ACER-Orkustofnun ESB. 

Þar sem hins vegar ekki er fyrir hendi samkeppnismarkaður, eins og í tilviki Íslands, þar verður að stofna slíkan eftir lögleiðingu Orkupakka #3.  Líklegt er, að á Íslandi verði stofnað útibú frá "Nord Pool" orkukauphöllinni.  Þetta eitt og sér mun hafa miklar breytingar í för með sér fyrir orkuseljendur og orkukaupendur.  Raforkuverðið verður sveiflukennt, og meðalverðið mun hækka, af því að samræmd orkulindastýring verður bönnuð, sem hæglega getur leitt til ofnotkunar miðlunarlónanna í samkeppni við jarðgufuverin og þar af leiðandi mikilla verðhækkana að vetrarlagi og jafnvel orkuskorts.

"Aftur og aftur hefur komið fram, að Landsvirkjun hefur hvorki getu né áhuga á að leggja út í 800 milljarða króna framkvæmd, enda væri slíkt fásinna.  Landsvirkjun hefur á hinn bóginn aftur og aftur greint frá áhuga erlendra aðila á því að leggja sæstrenginn."

Nú er það vel þekkt, að sæstrengurinn "Ice-Link" hefur hlotið náð fyrir augum ESB og er á lista ACER um forgangsorkusamtengingar Evrópulanda.  Það þýðir, að þessi samtenging verður styrkhæf úr sjóðum Evrópusambandsins, sem miða að aukinni hlutdeild sjálfbærrar orku í orkunotkun ESB.  Hvaða áhrif útganga Breta úr ESB hefur á þessi áform, er enn óljóst.  Hitt er þó öruggt, að orkuviðskipti Breta og ESB-landanna munu halda áfram, og hugsanlega verður Bretland aukaaðili (án atkvæðisréttar) að ACER, eins og fyrirhugað er með EFTA-löndin.

Með ofangreindum stofnkostnaði, 2 % árlegum rekstrarkostnaði, 10 % heildartöpum og 8 % ávöxtunarkröfu í 25 ár, mun flutningsgjaldið þurfa að nema 90 USD/MWh, sem gæti lækkað í 80 USD/MWh vegna styrkveitinga frá ESB.  Þetta er svipað verð og nú fæst fyrir raforku á heildsölumarkaði á Englandi.  Ekkert er fast í hendi um, að brezki ríkissjóðurinn muni tryggja ákveðið lágmarksverð raforku um þennan sæstreng, sem sé talsvert hærra en þetta markaðsverð, enda er ekkert slíkt áformað í viðskiptum Norðmanna og Breta með sjálfbæra raforku frá Noregi.

"Nær væri að líta til væntrar arðsemi slíks verkefnis fyrir íslenzka raforkusala, sem flestir eru í opinberri eigu.  Þar hafa verið nefndir 10-40 milljarðar króna á ári eftir því, hvaða forsendur menn hafa gefið sér."

Það virðist alveg út í hött, að svo mikið fáist fyrir íslenzka raforku á Bretlandi, að staðið geti undir greiðslum á 80 USD/MWh til sæstrengseigandans og þar að auki greiðslum til orkuvinnslufyrirtækja á Íslandi, sem ásamt orkusölu innanlands standi undir um 25 mrðISK/ár (10-40 mrðISK/ár) í arðgreiðslum til fyrirtækjanna.  Um slíkar fjarstæður er ekki annað hægt að segja en þær hljóta að vera ættaðar frá skýjaglópum. 

S.k. listaverð Landsvirkjunar fyrir forgangsorku er núna 43 USD/MWh.  Það eru aðeins um 5 TWh/ár eftir virkjanlegir með þessum einingarkostnaði, en 1200 MW sæstrengur þarf 10 TWh/ár frá neti fyrir ofangreindan flutningskostnað.  50 USD/MWh er þannig nauðsynlegt forgangsorkuverð frá Íslandi inn á sæstreng.  Það þýðir V=80+50=130 USD/MWh, sem brezkir kaupendur yrðu að greiða fyrir íslenzkt rafmagn, ef ekki á að verða tap á viðskiptunum.  Það er 63 % hækkun m.v. núverandi markaðsverð á Englandi.  Hvað skyldu draumóramenn segja um þetta ?  Lítum aftur á Óðin:

"Það, sem skiptir arðsemi sæstrengs máli, er, hvort það náist samningur við brezk stjórnvöld um orkuverð, sem gildir út líftíma sæstrengsins eða ekki.  Í upplýsingum, sem Landsvirkjun hefur birt frá orkumálaráðuneyti Bretlands um verð á endurnýjanlegri orku, kemur fram, að það er 3-5 sinnum hærra en listaverð Landsvirkjunar til 15-35 ára.  Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, telur það geta verið hærra eða allt að 6-8 sinnum hærra." 

Hér eru miklar væntingar, en ekkert kjöt á beinunum.  Væntanlega á Óðinn við afskriftartímann fremur en tæknilegan líftíma sæstrengsins.  Höfundur þessa pistils hefur reiknað með 25 ára afskriftartíma, sem er hámark, en annars verður flutningskostnaður raforku enn þá hærri.  Samkvæmt þessu er ríkisstjórn Bretlands fús til að tryggja um 4x43=172 USD/MWh fyrir raforku frá Íslandi.  Hún þyrfti þá að greiða 172-80=92 USD/MWh með henni eða 790 MUSD/ár að jafngildi um 100 mrðISK/ár.   Fyrir slíkan samning fengi Landsvirkjun (fyrir tilviljun) sömu upphæð, en slíkir samningar væru samt ekki þjóðhagslega hagkvæmir, því að upp að 180 USD/MWh (100 USD/MWh til innlendra orkuvinnslufyrirtækja) fæst meiri verðmætasköpun með innanlandsnotkun raforkunnar.  

Er fótur fyrir því, að brezka ríkisstjórnin geti og vilji gera slíka samninga við Íslendinga ?  Nei, það er enginn fótur fyrir því.  Það er allt annað mál, hverju hún og þingið telja verjanlegt að verja til þróunar á kjarnorkuveri (Hinkley 150 USD/MWh) og á vindorkuverum undan ströndinni (200 USD/MWh).  Eins og sakir standa eru nánast engar líkur á, að brezk stjórnvöld vilji eða geti gert samninga um svona hátt verð, hvað þá eins og haft er eftir Katli Sigurjónssyni, því að brezki ríkissjóðurinn er rekinn með miklum halla og í hverjum fjárlögunum á fætur öðrum eru niðurgreiðslur vegna sólar- og vindorku minnkaðar, enda fer kostnaður frá þeim hratt lækkandi vegna tækniþróunar.   Niðurgreiðslur til vindorkuvera undan strönd hafa þó að mestu haldizt.  

Aðeins ef raforkuverð á Englandi hækkar um meira en 60 % verður hagkvæmt fyrir íslenzka virkjanaeigendur að stækka markað sinn, en enginn getur tryggt þeim slíkt verð til frambúðar eða út afskriftartíma nýrra virkjana.  Af þessum ástæðum er viðskiptagrundvöllurinn enginn, nema eitthvað annað komi til, t.d. lokun iðjuvera á Íslandi, en stjórnvöld ættu að vinna gegn slíkum skiptum, því að þau verða ekki í þjóðarhag, eins og hér hefur verið rakið. Hér er vert að benda á, að norska ríkisstjórnin hefur lagt sig í framkróka við að framlengja raforkusamninga við orkukræfan iðnað í Noregi.  Það mundi hún ekki hafa gert, nema hún teldi þjóðhagslega hagkvæmara að nota raforkuna til verðmætasköpunar í Noregi en að flytja hana til útlanda um millilandatengingarnar. Samt hirðir ríkisfyrirtækið Statnett allan ágóða af flutninginum sjálfum, Því að Statnett á allar millilandatengingarnar.    

Í næsta pistli verður haldið áfram að fjalla um þessa grein Óðins og þá m.a. um arðsemi orkusölu til stóriðju. 

 

 

 

 

  

  

 


Norðmenn súpa seyðið - málsmeðferð Stórþingsins kærð

Norðmenn búa við frjálsa samkeppni í orkukauphöll, þar sem spákaupmennska er stunduð með raforku að hætti Evrópusambandsins-ESB.  Raforkuverðið í Noregi sveiflast eftir framboði og eftirspurn þar og eftir verði í ESB vegna millilandatenginganna.  Nú, þegar koltvíildisskattur og verð á losunarkvótum koltvíildis fer hækkandi í ESB, hækkar raforkuverðið í Noregi, þótt Norðmenn framleiði nánast enga raforku með jarðefnaeldsneyti. Þetta er einn af göllunum fyrir land endurnýjanlegrar raforku við að vera á raforkumarkaði ESB.

Í september  2018 rigndi meira en dæmi eru um í Noregi, eftir mikla þurrka í sumar, og þess vegna er ekki útlit fyrir bráðan vatnsskort í miðlunarlónum í vetur, en samt er raforkuverð þar með hæsta móti vegna millilandatenginganna og og vöntunar á framlagi orku frá norskum vindmyllum vegna lítt vindasamrar veðráttu í umhverfi flestra vindmyllna Noregs.  

Vindorkuver eru farin að hafa áhrif á framboð raforku í Noregi, en útihitastigið ræður mestu um eftirspurnina.  T.d. í viku 50/2018 blés lítið og hitastig var í meðallegi.  Þá nam orkuverðið til almennings um 59 Naur/kWh eða 8,5 ISK/kWh (60 EUR/MWh).  Þetta er allt að 40 % hærra en hérlendis.  Ef nú kólnar um 3-4 °C, getur verðið hækkað um þriðjung og jafngildir þá 11,3 ISK/kWh, einvörðungu fyrir orkuhlutann (allt að 90 % hærra en hérlendis).  Þetta má tvöfalda vegna flutnings, dreifingar og skatta, svo að almenningur í Noregi má þá út með um 22 ISK/kWh, sem er talsvert hærra en hérlendis.  

Enn verra er þetta á meginlandinu.  Í Belgíu var verðið nýlega 350 EUR/MWh = 49 ISK/kWh fyrir rafmagnið án flutnings og skatta.  Þetta sýnir hrikalegar öfgar markaðskerfisins.  Kerfi af þessu tagi á ekkert erindi hingað til lands, enda myndi það fljótt kippa stoðunum undan velferðarsamfélaginu hér og samkeppnishæfni atvinnulífsins.  Fulltrúar atvinnulífsins ættu að kynna sér þessi mál og taka opinbera afstöðu í þessu brýna hagsmunamáli atvinnulífsins.   

Norðmenn eru eðlilega óánægðir með það, að afurð vatnsafls þeirra og vindafls, rafmagnið, skuli vera undirorpin gríðarlegum verðsveiflum á markaði og háð rafmagnsverði annars staðar í Evrópu.  Ef vindar blása veikt í Danmörku, Hollandi og Þýzkalandi, þá hækkar rafmagnsverð í Noregi.  Ef ESB ákveður að hækka koltvíildisskatt, þá hækkar rafmagnsverð í Noregi, og geta má nærri, að slíkt setji alvarlegt strik í heimilisbókhaldið hjá Ola Nordmann og Kari, sem eru Jón og Gunna Noregs, þegar þetta gerist á kuldaskeiði að vetrarlagi, en meðalheimili í Noregi notar um tífalt meira rafmagn að meðaltali yfir árið en meðalstórt íslenzkt heimili vegna þess, að í Noregi er rafmagn notað til húshitunar. Þar af leiðandi er raforkukerfi Noregs aflhannað, en hérlendis er það hins vegar orkuhannað, sem gefur mun betri nýtingu orkumannvirkjanna að meðaltali yfir árið.  Norðmenn hafa reynt að bæta sér þetta upp með aflsölu til útlanda.  Raforkukerfi okkar býður einfaldlega ekki upp á slíkt.  Þegar raforkuverðið hækkar og þröngt verður í búi hjá frændum vorum, er gengið á eldiviðarhlaðann og kynt upp með kamínunni, svo að á lygnum vetrardögum leggst reykjarmökkur yfir byggðina. Það léttir undir með buddunni, en ekki er það heilsusamlegt. 

Staða Noregs í þessum efnum á að verða Íslendingum víti til varnaðar.  Við eigum ekki að láta gróðapunga klófesta hér orkumarkaðinn og sameina hann Evrópumarkaðinum með sæstreng til að hefja spákaupmennsku með raforkuna á stórum markaði, sem óhjákvæmilega mun rýra kjör alþýðu hérlendis og veikja íslenzk fyrirtæki.  Munum hið fornkveðna: ef þú réttir skrattanum litla fingurinn, þá tekur hann alla hendina.  

Norðmenn eru að vakna upp við vondan draum.  Þeir eru ekki búnir að gefast upp, þótt Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn hafi verið samþykktur á Stórþinginu í vetur, reyndar með 8 skilyrðum.  Þegar ESB tekur að brjóta þessi skilyrði, þá munu Norðmenn verða æfir, einkum Verkamannaflokksmenn, sem sömdu þessi skilyrði.  ESB skrifaði aldrei undir þessi skilyrði, svo að þeir svíkja ekkert, þótt þeir hundsi þau. 

"Nei til EU"-samtökin hafa haldið uppi öflugu andófi gegn ESB í Noregi, og hafa nú kært ríkið fyrir það, að ekki var krafizt aukins meirihluta á Stórþinginu við afgreiðslu Orkupakka #3, eins og stjórnarskrá Noregs áskilur, þegar um skýrt fullveldisframsal er að ræða.  Hér fyrir neðan er þýðing pistilhöfundar á blaðagrein frá "Nei til EU" um þetta efni, en hún er birt á frummálinu í viðhengi með þessum pistli:

"ACER málsóknin snýst um heiðarleika":

"Ríkisstjórn og Stórþing hafa ekki frítt spil við að hola norskt fullveldi að innan; þess vegna ætlar "Nei til EU" að nýta réttarkerfið til að verja leikreglur Stjórnarskrárinnar.

"Nei til EU" hefur stefnt Ríkinu, sem Erna Solberg, forsætisráðherra, stendur sem fulltrúi fyrir, með kröfu um, að ríkisstjórnin setji Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB ekki í framkvæmd, en sá fellir Noreg undir valdsvið Orkustofnunar ESB-ACER.  Röksemdin er sú, að ACER-samþykkið sé ógilt, af því að Stórþingið fylgdi ekki Stjórnarskrárgrein nr 115 um fullveldisafsal, sem m.a. áskilur aukinn 3/4 meirihluta.

     Þetta er í fyrsta skipti, sem "Nei til EU" fer í málsókn.  Við erum félag, sem er grundvallað á lýðræði, og erum gagnrýnin á að beina stjórnmálum á brautir réttarfars, eins og er háttur ESB.  Í EES-samninginum blasir þetta við með stöðugum inngripum eftirlitsstofnunarinnar ESA, sem yfirstýrir stjórnmálalegum áherzlumálum [t.d. banni Alþingis við innflutningi ófrosins kets o.fl.-innsk. BJo].  Við erum þeirrar skoðunar, að lýðræði og fullveldi séu nátengd, og Stjórnarskráin sé réttarfarsramminn, sem afmarkar leikreglurnar fyrir norskt lýðræði.  Þess vegna er úrslitaatriði, að hin sértæku skilyrði, sem Stjórnarskráin setur fyrir fullveldisafsali, séu virt í hvívetna.

Að sniðganga Stjórnarskrána:

Samkvæmt Stjórnarskrá eiga dómstólarnir að hafa alveg óháða stöðu.  Það felur í sér að gæta þess, að einnig þeir, sem setja lögin og framkvæma þau, fylgi lagabókstafnum.  Sjálfstæðið hverfur, ef réttarkerfið samþykkir tafarlaust Stjórnarskrártúlkanir, sem Stórþing og ríkisstjórn miða við.

     Í svo miklu deilumáli sem ACER-málinu hefði Stórþingið sjálft átt að óska eftir mati Hæstaréttar, eins og það á möguleika á með Stjórnarskrárgrein nr 83.  Það vildi hins vegar-eða þorði-Stórþingsmeirihlutinn ekki gera.  Kristilegi þjóðarflokkurinn, KrF, lagði fram tillögu um slíkt mat, en meirihlutinn hafnaði því.  Þegar Stórþingið gerir lítið úr lýðræðinu, er sú leið opin í stjórnskipun okkar, að réttarkerfið geti leikið stærra stjórnmálalegt hlutverk en ella til varnar Stjórnarskránni.  

     ACER-málið leysti úr læðingi gríðarlega krafta, og mjög mörgum finnst, að við Stórþingssamþykktina hafi Stjórnarskráin verið sniðgengin.  Við höfum safnað yfir MNOK 1,0 til málssóknarinnar, og enn bætist við söfnunarféð.  Ef nauðsyn krefur munum við reka málið fyrir Hæstarétti til að fá dómsúrskurð, sem eiginlega allir ættu að hafa hag af, að komi.

Meira en "lítil áhrif":

Aðalspurningin í væntanlegu dómsmáli er, hvort valdframsalið "hafi lítil áhrif", eins og ríkisstjórnin fullyrðir, og hvort þetta sé nógu góð röksemd til að hafna grein 115 og í staðinn að velja einfaldari samþykktarforskrift (gr. 26).  Talsverður fjöldi þekktra lögfræðinga var opinberlega mjög gagnrýninn á aðferð málsmeðferðarinnar í ACER-málinu.

     Fyrirkomulag ákvarðana orkustofnunarinnar ACER í EES er mjög sérstök.  Eftirlitsstofnunin ESA á formlega að taka ákvarðanirnar, en ákvarðanirnar eru skrifaðar hjá ACER.  Ákvarðanir ESA fara síðan til Landsreglarans, sem samkvæmt regluverki ESB verður að vera óháður yfirvöldum hvers lands.  Landsreglarinn á að afrita og framkvæma ákvarðanir ESA, og tekur hvorki við fyrirmælum frá ríkisstjórn né Stórþingi.  Með öðrum orðum er búin til röð afritunarákvarðana frá ESB-stofnuninni, sem verða bindandi fyrir viðkomandi aðila í Noregi.

Í álitsgerð um Stjórnarskrárgrein nr 115 og ACER-málið bendir Hans Petter Graver á marga veikleika við mat ríkisstjórnarinnar, m.a., að lagt hafi verið til grundvallar, að völdin, sem ESA fái, séu einvörðungu þjóðréttarlegs eðlis.  Graver skrifar: "Þar eð völdum ESA verður beitt í norsku réttarumhverfi, munu ákvarðanir ESA verða á lagalegum innanríkisgrundvelli, og þær verða bindandi og njóta forgangs samkvæmt EES-samninginum gagnvart þeim, sem þær beinast að.  Landsreglarinn verður að landslögum skyldugur til að framfylgja ákvörðunum ESA.  Þetta atriði hefði átt að hafa í huga við mat á "áhrifalitlu" valdi, og gæti þá hafa leitt til annarrar niðurstöðu."

Orka er viðkvæmt mál:

Hjá orkustofnuninni ACER hafa verið teknar ákvarðanir um rör og rafstrengi yfir landamæri að andvirði mörg hundruð milljónir norskra króna (MNOK).  ACER getur einnig ákvarðað úthlutun á flutningsgetu í evrópska orkukerfinu.  Þar að auki hefur hún heimildir til að afla upplýsinga hjá einkaaðilum í orkugeiranum og til að leggja á sektir, ef ekki er orðið við þessari upplýsingaskyldu.  

     Við þetta má bæta, að orka er miðlægt og viðkvæmt svið fyrir Noreg sem ríki, einkafyrirtæki og borgarana.  Er þá hægt, heiðarlega og hreinskilið, að halda nokkru öðru fram en því, að valdframsalið hafi mikil áhrif ? 

 Á Íslandi hefur ráðuneytisfólk og fólk á mála hjá  ráðuneytunum sett sig á háan hest og gert lítið úr röksemdum fyrir því, að innleiðing og framkvæmd Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB hérlendis sé utan leyfilegra marka íslenzku Stjórnarskrárinnar.  Hún er strangari, ef eitthvað er, en norska Stjórnarskráin að þessu leyti, en samt geisa um þetta harðar deilur í Noregi.  Íslenzkir embættismenn ættu að forðast að láta í ljós hroka sinn gagnvart þeim, sem brauðfæða þá.  Þeir eru enn ekki nema "smalar í hlutastarfi fyrir ESB".

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

"Hver veit, nema Eyjólfur hressist ?"

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á Landsfundi sjálfstæðismanna í marz 2018 var einróma samþykkt ályktun frá Atvinnuveganefnd fundarins um að hafna frekara valdframsali yfir orkumarkaði landsins til evrópskra stofnana.  Það var skilningur langflestra Landsfundarfulltrúa, að þarna væri á ferðinni skýr afstaða Landsfundar gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Síðan hafa þó heyrzt hjáróma raddir fáeinna sjálfstæðismanna um, að það sé misskilningur, að téð Landsfundarályktun eigi við Orkupakka #3.  Eigi er örgrannt um, að ráðherrar iðnaðar og utanríkismála, sem með málið fara í ríkisstjórn, hafi viðhaft slíkar dylgjur, og verður að færa þeim það til hnjóðs, báðum. Hefur þá heyrzt fleygt, að þáttur í grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins sé frjáls samkeppni með vöru og þjónustu, og Orkupakki #3 snúist í raun um frjálsa samkeppni um orku.  Sá hængur er á þessum málflutningi, að það er ekki afstaða Sjálfstæðisflokksins að skilgreina rafmagn sem vöru á markaði í stað afurðar náttúruauðlindar þjóðarinnar, sem nota beri til að styrkja samkeppnisstöðu íslenzkra fyrirtækja um allt land og mynda þannig undirstöðu samkeppnishæfra lífskjara hérlendis m.v. önnur lönd.  

Ýmsir sjálfstæðismenn á þingi hafa tjáð sig um þetta mál, þannig að ætla má, að innan þingflokksins sé í allvænum hópi manna að verða til sameiginlegur skilningur á því, að misráðið hafi verið að hleypa Evrópusambandinu (ESB) inn á gafl íslenzkra orkumála.  Dæmi um þessi sjónarmið komu fram í grein eftir Jón Gunnarsson, Alþingismann, í Morgunblaðsgrein 29. nóvember 2018,

"Orkupakki Evrópusambandsins".

Jón reit m.a.:

"Í huga margra er það grundvallaratriði, þegar kemur að aðild okkar að EES, að í þeim málaflokki [fiskveiðistjórnun] ráðum við sjálf regluverkinu."
 
Til þess að varðveita óskert fullveldi yfir landhelginni og nýtingu auðlinda innan fiskveiðilögsögunnar varð að undanskilja sjávarútvegsmálin frá EES-samninginum við Ísland, og hið sama var gert fyrir Noreg, og Liechtenstein er landlukt. Það var ólán, að orkumálin skyldu ekki vera undanskilin líka.  Líklegasta skýringin á, að svo var ekki gert á sínum tíma, er, að hin EFTA-ríkin hafi viljað hafa orkumálin með í EES-samninginum og íslenzkir samningamenn hafi annaðhvort ekki haft bolmagn til að fá undanþágu á Viðauka IV um orkumál í samninginum eða ekki áttað sig á mikilvægi þess að halda ESB-löggjöfinni frá orkumálum Íslands og látið gott heita að fylgja hinum EFTA-ríkjunum.  Það var misráðið, eins og nú er komið á daginn. Í þeirri stöðu er þá ekki um annað að ræða en að taka í lögbundinn neyðarhemil og beita neitunarvaldi á Alþingi.
 
  Framsóknarflokkurinn vill taka upp samningaviðræður núna við ESB um undanþágu frá Orkupakka #3.  Líklegt er, að fyrst þurfi EFTA að fallast á slíkt og að síðan hefjist samningaviðræður um þetta á milli EFTA og ESB.  Þá er eðlilegast að fara fram á, að Ísland losni algerlega við Viðauka IV um orkumálin í EES-samninginum.  Þetta verður á brattann að sækja.  Einfaldast er að beita neitunarvaldinu á Alþingi.
 
Síðan víkur Jón Gunnarsson að því, að regluverki ESB, sem í ýmsum tilvikum er mjög íþyngjandi fyrir lítið samfélag á tiltölulega afskekktri eyju, og telur, að íslenzkir embættismenn eða stjórnmálamenn hefðu verið þess umkomnir að gera löggjöf ESB okkur eitthvað hagfelldari.  Það er borin von.  Væntingar um slíkt eru algerlega óraunhæfar.  Það ætti öllum að vera ljóst, sem líta á ferli tilskipana og gerða hjá ESB.  Ef átt er við hina Sameiginlegu EES-nefnd, þá er það einfaldlega æ ákveðnari krafa að hálfu ESB, að samræmi verði í framkvæmd tilskipana og gerða innan alls ESB og EES.  Evrópurétturinn á að vera einn og óskiptur.  Að hola hann út er eðlilega illa séð.
 
"Í einhverjum tilfellum skrifast það á okkar reikning, því við stóðum ekki vaktina úti í Brüssel, þegar regluverkið var í smíðum, því það er á því stigi, sem við höfum tækifæri til að koma athugasemdum okkar á framfæri og eftir því, sem við á, að leggja til breytingar, sem við viljum ná fram eða sækja um undanþágur frá einhverjum þeim reglum, sem til stendur að færa í lög."
 
Við verðum aldrei í neinni slíkri aðstöðu, nema við göngum í ESB.  Það er framkvæmdastjórn ESB, sem einhliða ákveður, hvaða tilskipanir og gerðir skuli fara til umfjöllunar í Sameiginlegu EES-nefndinni til innleiðingar í löggjöf EFTA-landanna.  Þar hafa aldrei náðst neinar markverðar breytingar fram á virkni löggjafarinnar.
 
Síðan víkur Jón skrifunum að Orkupakkanum, hvers vegna margir Íslendingar óttast verðhækkanir á raforku, sem fylgi í kjölfar hans, og stjórnun orkumála hér með hliðsjón af hagsmunum alls EES í stað einvörðungu eyjarskeggjanna hér:
 
"Sjálfbær nýting náttúruauðlinda er okkur Íslendingum hlutfallslega mikilvægari en öðrum þjóðum, og þess vegna er eðlilegt, að umræður verði krefjandi.  Þetta á við um orkupakkann.  Íslendingar framleiða u.þ.b. 50 MWh af raforku á hvern landsmann [53 MWh/íb], á sama tíma og Norðmenn framleiða 15 MWh [25 MWh/íb-innsk. BJo].  Þessar tvær þjóðir bera höfuð og herðar yfir aðrar, þegar kemur að þessari framleiðslu.  Það er því eðlilegt, að margir hafi áhyggjur, þegar þeir telja, að innleiðing regluverks ESB geti haft takmarkandi áhrif á ákvarðanatöku okkar um skipulag þessara mála til lengri framtíðar og mögulega kallað fram hækkun á raforkuverði til heimila og almenns fyrirtækjarekstrar í landinu."
 
Það nægir að nefna 2 dæmi um réttmæti kvíðbogans fyrir innleiðingu Orkupakka #3 á hag allra landsmanna:
a) Eftir innleiðingu markaðskerfis ESB á íslenzkum raforkumarkaði, verður bannað að stunda hér orkulindastýringu þvert á fyrirtæki í samkeppnisrekstri. Með þessu er átt við stýringu álags á virkjanir með það í huga að treina vatnið í miðlunarlónunum allan veturinn fram að þeim tíma, er innrennsli lónanna eykst á ný að vorlagi.  Þá verður þess líka gætt að ofnýta ekki virkjuð gufuforðabúr, en hætta er á því, þegar vatnsaflsvirkjanir gefa eftir vegna vatnsleysis.  
b) Prófessor Peter Örebech sýndi fram á það í fyrirlestri sínum í HÍ 22. október 2018, að málsmeðferð umsóknar um leyfi til að leggja aflsæstreng til Íslands og tengja hann við íslenzka raforkukerfið mun bera öll einkenni einnar stoðar lausnar í stað tveggja stoða lausnar, sem áskilin er í EES-samninginum.  Þetta þýðir, að ákvarðanatakan verður alfarið í höndum Landsreglarans á Íslandi og yfirvalda hans, Orkustofnunar ESB-ACER.  Breytir þá engu um niðurstöðuna, þótt Alþingi samþykki bann við slíku, þegar það verður búið að afsala sér völdum á þessu sviði til yfirþjóðlegrar stofnunar, sem landið á ekki aðild að.
 
Síðan harmaði Jón Gunnarsson, að Ísland skyldi ekki hafa verið undanþegið orkumálakafla EES-samningsins, eins og sjávarútvegskaflanum, en það stafar sennilega af mismunandi hagsmunamati Norðmanna á þessum tveimur auðlindasviðum og framsýni hefur skort hjá íslenzku samningamönnunum til að berjast fyrir undanþágu fyrir Ísland frá Viðauka IV um orkumálin:
 
"Þróun regluverks ESB vegna orkumála var ekki fyrirséð [af] þeim, sem á sínum tíma lögðu áherzlu á innleiðingu þess hér á landi, og það sér ekki fyrir endann á þeim málum.  Eftir á að hyggja hefði því verið skynsamlegt, að við þróuðum okkar eigið regluverk til að gæta hagsmuna landsmanna og fyrirtækja í landinu.  Tryggja eðlilegan markað og samkeppni, sem hefði skilað hagkvæmum rekstri og bætt hag neytenda.  
Ég get ekki séð, að það skipti samstarfsþjóðir okkar nokkru máli, þó að við stæðum utan regluverksins um orkumál.  Þrátt fyrir að vera hlutfallslega stórir framleiðendur, er markaðurinn hér örmarkaður í stóra samhenginu, markaður, sem skiptir ekki aðra en okkur máli m.a. vegna þess, hversu langt við erum frá markaði ESB, og við erum ekki að tengjast þeim markaði á næstu árum, hvað sem síðar verður."
 
Það er mikið til í þessu hjá þingmanninum, en samt er hætt við, að hann sé of bláeygur gagnvart hagsmunagæzlu ESB.  ESB hungrar eftir endurnýjanlegri raforku.  Þar á bæ er ekki litið einvörðungu á núverandi orkumarkað hérlendis, heldur eru orkulindirnar allar teknar með í reikninginn, og mikið er óvirkjað hér, bæði í nýtingarflokki, biðflokki og verndarflokki Rammaáætlunar.  Hafa ber í huga hér, að náttúruvernd er ekki tekin gild í Evrópurétti sem útflutningshindrun. 
Nú er búið að virkja aðeins um 40 % þess, sem talið er hagkvæmt að virkja hér fyrir utan vindorkuna.  Alls má meta mögulega verðmætasköpun með allri orkunni yfir 600 mrdISK/ár, svo að þessi auðlind mun skipta sköpum fyrir framtíðina á Íslandi.
 
List stjórnmálanna verður fólgin í því að skapa forsendur í landinu fyrir nýtingu auðlinda landsins til hagsbóta fyrir fólkið í landinu.  Það má fullyrða, að það er ómögulegt með því að deila þessum auðlindum með öðrum með einum eða öðrum hætti.  Listin verður þar að auki fólgin í því að skapa snurðulaust aðgengi fyrir afurðir landsins sem víðast í heiminum, þar sem kaupgeta er.
 
Grein sinni lýkur Jón í sáttatóni, þar sem hann virðist leggja til, að ríkisstjórnin geri stefnumörkun miðstjórnarfundar Framsóknarflokksins að sinni, en miðstjórnarfundurinn lagði til, að leitað yrði hófanna hjá EFTA/ESB um undanþágu allra ákvæða Þriðja orkupakkans fyrir Ísland gegn því, að Alþingi myndi staðfesta innleiðingu pakkans í Viðauka IV við EES-samninginn.  Rökrétt væri hins vegar m.v. grein Jóns að losa Ísland alfarið undan Viðauka IV, því að það hafi verið misráðið í upphafi, að Ísland væri aðili að honum.  Þá renndi íslenzk stjórnvöld líklega ekki í grun, hvað þar myndi verða sett inn með tíð og tíma.  
 
"Mín tillaga er því einföld: setjumst niður með viðsemjendum okkar og förum yfir málin á þessum grunni.  Ég sé ekki, að þær þjóðir hafi, eins og sakir standa, sérstaka hagsmuni af því, að við innleiðum reglur ESB um orkumál."
 
Það er þó hægt að greina hernaðaráætlun ("strategíu") hjá ESB með orkustefnu sinni og með Viðauka IV í EES-samninginum.  Hún er sú, að öll raforkunotkun ESB-landanna verði á grundvelli sjálfbærrar orkuvinnslu og allt ESB-svæðið verði einn orkumarkaður með mjög svipað orkuverð alls staðar.  Tenging allra Norðurlandanna er af augljósum ástæðum (orkuríkidæmi) hluti þessarar hernaðaráætlunar.  Þjónar hún hagsmunum Íslands ?  Nei, þegar kemur að samtengingu íslenzka orkukerfisins við ESB gerir hún það ekki, því að hún eyðileggur samkeppnisforskot Íslands. 
 
Það er miður, að íslenzk stjórnvöld skuli ekki hafa staðið sig betur en raun ber vitni um við hagsmunagreiningu fyrir Íslands hönd og einarðri stefnumörkun á grundvelli hennar.  Það er ekki seinna vænna en að setjast niður með viðsemjendum okkar og útskýra fyrir þeim nýja afstöðu Íslands, og hvers vegna hún er nauðsynleg.  Þetta mál verður prófsteinn á innri styrk stjórnvalda og getu utanríkisþjónustunnar.  
 
 
 
 

Sjálfstæðið á undanhaldi - hver rekur flóttann ?

Það er deginum ljósara, að EES-samningurinn er orðinn stórvarasamur fyrir hagsmuni Íslands vegna þess, að hann hefur þróazt frá s.k. tveggja stoða fyrirkomulagi ákvarðanatöku og yfir í einnar stoðar ákvarðanatöku um mikilvæg málefni, þ.á.m. um ráðstöfun orkulinda og rekstur raforkumarkaðar.

Tveir forystumenn ríkisstjórnarinnar, s.k. Viðeyjarstjórnar, sem beitti sér fyrir lögfestingu EES-samningsins, hafa manna skeleggast bent á, að þróun þessa samnings geti reynzt Íslendingum hættuleg og að brýna nauðsyn beri til að spyrna við fótum á Alþingi, þegar Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB verður þar borinn undir atkvæði.

Ágætis dæmi um þetta gaf að líta í Reykjavíkurbréfi sunnudagsblaðs Moggans 09.12.2018,

"Svör við röngum spurningum hafa aldrei komið að gagni".

Höfundurinn bendir á ömurlegan hlut íslenzka embættismannakerfisins, sem hefur látið sig hafa það að gerast taglhnýtingur forréttindastéttarinnar í Brüssel, sem þar situr við kjötkatlana og semur tilskipanir og reglugerðir, sem nánast allar þjóna stefnumiðum stórauðvalds Evrópu um sameinað eitt Evrópuríki, sem ekki hefur sézt þar síðan á dögum Karlamagnúsar í Aachen forðum, ef stutt ógnartilvist Þriðja ríkis þjóðernisjafnaðarmanna 1933-1945 er undanskilin. Þar stóðu um skeið engilsaxar á Bretlandseyjum einir á móti ofureflinu, og endurtekur sagan sig núna fyrir framan augun á okkur að breyttu breyttanda.

Eftir að hafa skrifað um Neville Chamberlain, Winston Churchill, Adolf Hitler og Tony Blair í inngangi, víkur höfundur Reykjavíkurbréfsins sögunni til Íslands:

"Umræður um þriðja orkupakkann eru gott dæmi um þetta [þ.e. að skynja eða skynja ekki um hvað málið snýst, og hvaða spurning og svar við henni skipti mestu máli (gæti vísað til spurninga og svara um Orkupakka #3 á vefsetri Auðlinda- og nýsköpunarráðuneytisins,ANR)]. Þar hefur ýmsu, sem engu skiptir eða litlu, verið blandað inn í aðdraganda ákvarðanatöku, og snýst það tal gjarna um það, hvort hætta af málinu sé á þessu stigi lítil eða mikil, og hvort Íslendingar geti fengið að hafa einhverja aðkomu að framtíðarstjórnun þess, þótt lokaorðið sé komið annað.  Ekki sé endilega víst, að þetta eða hitt komi upp í málinu og verði vandamál.  Þetta eru allt fjasspurningar.  En spurningarnar, sem þarf að svara, eru þessar:

Er eitthvað í þessu máli fyrir okkur Íslendinga ?  Svarið við því er nei.  Heimilar stjórnarskrá okkar yfirfærslu valds í þessum málaflokki ?  Svarið við því er líka nei.  Af hverju í ósköpunum er þá málið enn að þvælast fyrir stjórnmálamönnum hér á landi ? [Undirstr. BJo - svar BJo: ESB hefur komið ár sinni vel fyrir borð hérlendis.]

Það er hárrétt, að ráðuneytin tvö, sem hafa þetta mál á sinni könnu, hafa afvegaleitt umræðuna um það með kolröngum áherzlum, rangfærslum og hártogunum.  Dæmi um þetta eru fullyrðingar um, að ekkert muni breytast í íslenzka orkugeiranum fyrr en hingað verði lagður sæstrengur og að slíkt hafi Íslendingar í hendi sér. Hið rétta er, að eftir innleiðingu Orkupakka #3 verður ekki komizt hjá fullri markaðsvæðingu raforkuviðskiptanna, og þá er líklegast, að útibú "Nord Pool" orkukauphallar verði fyrir valinu sem vettvangur þessara viðskipta.  Ef þá kemur kvörtun frá markaðsaðila til ESA yfir markaðshlutdeild Landsvirkjunar, mun ESA bregðast við með vísun til ESB-réttar. 

Það er jafnframt engin ástæða til að efast um, að gerð #347/2013 verði innleidd hér í kjölfar innleiðingar pakkans, sem hún er náskyld, og þar með er komin forskrift fyrir Landsreglarann til að leggja mat á sæstrengsumsóknir.  Alþingi hefur þá afsalað sér og yfirvöldum landsins stöðvunarvaldi yfir sæstrengsverkefni, enda er ákvörðunarferlið fyrir sæstreng einnar stoðar fyrirkomulag, eins og prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, hefur sýnt fram á í fyrirlestri hérlendis.

Síðan tekur höfundur Reykjavíkurbréfs til við að fjalla um þróun EES-samningsins, en sá samningur er auðvitað farvegur orkupakkans hingað til lands.  Fá hérlendir embættismenn, sem um þessi mál fjalla, falleinkunn hjá höfundinum og sömu söguna er að segja af lögfræðilegum álitsgjöfum á vegum ráðuneyta, sem t.d. hafa veitt umsagnir um Orkupakka #3.

"Nú er komið á daginn, að því fer algjörlega fjarri, að þeim embættismönnum, sem treyst var til að halda á hagsmunum Íslands eftir EES-samninginn, hafi risið undir því.  Þeir hafa, eins og frú Thatcher orðaði það fyrir löngu, flutt sitt ríkisfang og trúnað.  Þeir hafa furðu fljótt tekið að líta á sitt hlutverk sem smala í hlutastarfi fyrir ESB.  Er hægt að nefna nokkur dæmi um það.

Þetta þýðir að sjálfsögðu, að þeir stjórnmálamenn, sem fylgdu því eftir í góðri trú, að samþykkja bæri aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, hafa verið illa sviknir.   Embættismannakerfið hefur smám saman unnið að því að koma sér upp lögfræðilegum álitsgjöfum, sem skrifa upp á hvað sem er í efnum sem þessum.  Slíkir sýndu heldur betur á spilin sín í Icesave-málinu sællar minningar."

Það voru forystumenn Viðeyjarstjórnarinnar, Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson, sem fylgdu því manna fastast fram á Alþingi á sinni tíð, að EES-samningurinn yrði samþykktur, sem Alþingi svo gerði í janúar 1993.  Nú lætur annar þeirra í ljós mikil vonbrigði með frammistöðu þeirra embættismanna og stjórnmálamanna, sem rekið hafa þennan samning, og báðir hafa þeir látið í ljós megna óbeit sína á fyrirætlun núverandi ríkisstjórnar um innleiðingu Þriðja orkupakkans frá ESB.

Ef allt er með felldu í Stjórnarráðinu, hljóta varnaðarorð þessara fyrrverandi ráðherra, sem mest véluðu um EES-samninginn á sinni tíð, að reka út í hafsauga allan vafa þar um, að beita beri neitunarvaldi gegn Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB.  

Hérlendum embættismönnum og stjórnmálamönnum er ekki treystandi til að standa í ístaðinu til lengdar gagnvart þeirri viðleitni framkvæmdastjórnar ESB og helztu forkólfa þess að draga sífellt meiri völd frá þjóðríkjunum og til stofnana ESB; ekki frekar en kollegum þeirra í Noregi.  Af þessu leiða æ stærri stjórnlagalegar spurningar á Íslandi og í Noregi, þótt hinir aðkeyptu lögfræðingar ríkisstjórna landanna setji kíkinn fyrir blinda augað og skrifi svo sín minnisblöð og greinargerðir til ráðherra.  Þeir verða þá reyndar að sæta því, að sérfræðingar í Evrópurétti geri alvarlegar athugasemdir við niðurstöður þeirra.  Eitt slíkt mál er nú rekið fyrir þingréttinum í Ósló vegna þeirrar túlkunar norsku ríkisstjórnarinnar, að einfaldur meirihluti dygði til að samþykkja Orkupakka #3 í Stórþinginu, af því að fullveldisframsalið væri minni háttar. Er líklegt, að dómur Þingréttarins verði kveðinn upp haustið 2019 og endanlegur dómur Hæstaréttar Noregs verði birtur haustið 2020.

Ekki er hægt að láta þessa spægipylsuaðferð ganga endalaust, og Orkupakki #3 er að margra dómi hérlendis þannig vaxinn, að gegn honum verður að spyrna við fótum, eins og Grettir gerði forðum, er hann glímdi við drauginn Glám á Þóroddsstöðum í Forsæludal.  Það þarf að bregða saxinu sem fyrst og afhausa drauginn áður en orð hans verða að áhrínsorðum.  

Þegar bent er á vaxandi alvarlega galla við EES-samninginn, er strax tekið að kyrja óttusöng um, að EES-samningurinn sé undirstaða núverandi lífskjara á Íslandi.  Vegna gallanna, sem felast í að taka upp mjög íþyngjandi lagabálka ESB, sem Viðskiptaráð telur virka stórlega hamlandi á framleiðniaukningu landsins, sem er þá dragbítur á lífskjarabata, þarf að skoða með opnum huga möguleikana á fríverzlunarsamningi við ESB og Bretland með víðtækum samstarfsákvæðum í líkingu við samband Svisslands við ESB. 

Nú er gerjun í þá átt í Noregi að segja EES-samninginum upp, því að löggjöf ESB eigi oft á tíðum illa við í Noregi, og þá getur opnazt sá möguleiki, að EFTA og ESB geri slíka fríverzlunarsamninga.  Þetta þarf allt að vega og meta á hagsmunavog Íslands, þar sem markaðsaðgengið auðvitað mun vega þungt. 

"Þegar EES-samningurinn var í umræðu í þinginu, voru lögð fram tvö gagnstæð lögfræðiálit um það, hvort EES-samningurinn stæðist stjórnarskrá landsins.  Meirihluti þingsins byggði á áliti, sem taldi, að málið stæðist.  En það fór ekki á milli mála, að samningurinn kallaði á mikla varfærni og einurð, hvað þetta varðaði.  Ætli menn sér að skoða þróun samningsins, og hvernig á honum hefur verið haldið, þá er óhjákvæmilegt, að það sé gert á grundvelli þessara lögfræðiálita og framganga íslenzkra yfirvalda skoðuð með hliðsjón af því.  Þá væri verra en ekkert, ef að því kæmu að einhverju leyti þeir aðkeyptu lögfræðingar, sem skrifað hafa upp á gerðir embættiskerfisins, sem stjórnmálamenn síðustu ár hafa gersamlega lagzt flatir fyrir, svo að til vanza er."

Höfundur Reykjavíkurbréfs hefur áhyggjur af því, að sú rýni á rekstri EES-samningsins, sem nú stendur yfir á vegum utanríkisráðuneytisins, verði með böggum hildar.  Er ástæða til að búast við óvilhallri og hlutlægri umfjöllun í þeirri skýrslu ?  Áhyggjur um það eru ekki ástæðulausar.

Á aldarfjórðungsrekstrartíma EES-samningsins hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina varðandi íþyngjandi innleiðingar ESB-gerða og tilskipana.  Það eru engin teikn á lofti um breytingu á þessari tilhneigingu, og þess vegna nálgast Ísland stöðugt meir að verða með löggjöf, eins og ESB-ríki.  Það er algerlega borin von, að íslenzkir embættismenn geti haft nokkur umtalsverð áhrif á tilurð þessara samfélagsforskrifta. Þær eru í upphafi mótaðar á lokuðum fundum ESB-ríkjanna, og bolmagn íslenzkra embættismanna til breytinga á síðari stigum er nánast ekkert.  Það er hrein fjármunasóun að vera með tilburði til slíks.  Norðmenn eru með 70 manns í störfum í Brüssel við að fylgjast með öllu moðverkinu og verður lítið ágengt að eigin mati.  Með þessu áframhaldi sogumst við fyrr en síðar inn í svarthol ESB.  Þar verðum við sem "krækiber í helvíti" eða fluga í köngulóarvef. Það er óþarfi nú, þegar kvarnast fer úr Evrópusambandinu og innri mótsetningar þess eru að verða óbærilegar.

 

 

  

 

 


Hagfræðistofnun og orkukauphöll

 Landsnet mun hafa í undirbúningi stofnun orkukauphallar fyrir heildsölumarkað með rafmagn.  Slíkt er valkvætt samkvæmt Orkumarkaðslagabálki ESB #2, en skylda samkvæmt Orkupakka #3 að koma á frjálsri samkeppni með rafmagn, er lýtur öllum samkeppnisreglum EES.  Í öðrum löndum EES hefur bezta ráðið til þess verið talið að koma upp orkukauphöll fyrir viðskipti mislangt fram í tímann og einnig fyrir viðskipti með orkuafleiður, þar sem spákaupmennska með orkuna þrífst og getur reynzt gróðavegur eða leitt til gjaldþrots, eins og dæmin sanna frá nágrannalöndunum. Spurningin ætti þó aðeins að vera þessi: verður frjáls samkeppi með raforku, t.d. í kauphöll, orkunotendum til hagsbóta eða ekki ?

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, HHÍ, gaf haustið 2018 út skýrslu, þar sem mælt var með stofnsetningu orkukauphallar á Íslandi, en rökin voru í lausu lofti, því að algerlega var litið framhjá gerð íslenzka raforkukerfisins, sem er gjörólíkt öðrum raforkukerfum.  Þegar þessa forsendu rannsóknarinnar skortir, verður útkoman óhjákvæmilega vitlaus.  Það er með öðrum orðum ófullnægjandi að beita hagfræðikenningum á íslenzka raforkumarkaðinn og að gefa sér það, að hann hagi sér eins og evrópskur raforkumarkaður.  Þetta er meginvilla HHÍ.  

 Íslenzka raforkukerfið og frjáls raforkumarkaður hérlendis uppfylla ekkert af þeim 5 skilyrðum, sem ESB-sjálft hefur sett fyrir því, að frjáls samkeppni um raforku geti þrifizt eðlilega og orðið notendum til hagsbóta.  Þessu hefðu skýrsluhöfundar HHÍ þurft að gefa gaum áður en þeir gáfu þessa skýrslu út. Sú hagfræðilega rökleiðsla, sem beitt er, gengur út frá því, að raforkukerfi Íslands lúti að öllu leyti sömu lögmálum og raforkukerfi Evrópu.  Það er augljóslega óleyfileg einföldun á viðfangsefninu, því að hvergi annars staðar í Evrópu samanstendur vinnslukerfi rafmagns nánast einvörðungu af vatnsaflsvirkjunum og jarðgufuvirkjunum. Verður nú vitnað í skýrsluna:

"Heildsöluverð á almennum markaði mundi endurspegla  það verð, sem stórnotendur vilja borga fyrir rafmagnið.  Sem stendur er Landsvirkjun eini seljandinn, sem um munar í heildsöluviðskiptum, en bæta mætti úr því með því að skikka framleiðendur til þess að bjóða allt rafmagn til sölu í kauphöllinni - það sem ekki hefur þegar verið selt stórnotendum.  Verðið mundi líklega sveiflast meira en nú, en minni hætta yrði á rafmagnsskorti."

Þessi texti Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ, gefur til kynna, að íslenzkur raforkumarkaður hafi ekki verið brotinn til mergjar frá öllum hliðum þar á bæ.  Flestir raforkukaupendur á Íslandi verða einfaldlega að kaupa þá raforku, sem þeir þurfa til heimilishalds og atvinnurekstrar við lægsta verði, sem í boði er á þeim fákeppnismarkaði, sem hér er. Stórnotendur njóta náttúrulega alltaf hagstæðari kjara í krafti magnafsláttar, kauptryggingar og jafnvel stöðugri viðskipta (jafnara álags).  Verð í orkukauphöll ræðst mjög af notkunarmynztrinu (álagsfreifingu yfir sólarhring, viku og mánuð), og þess vegna er það einkennileg staðhæfing, að verðið muni endurspegla verð til stórnotenda.

Orðalagið "sem stendur" um Landsvirkjun sem eina seljandann á heildsölumarkaði, sem um munar, sýnir, að höfundurinn reiknar með breytingu á þessu innan tíðar.  Það samræmist einfaldlega ekki samkeppnisreglum Innri markaðar EES, að hafa aðeins einn birgi, "sem um munar".  ESA mun þess vegna eftir markaðsvæðinguna gera kröfu til ríkisstjórnarinnar um skiptingu Landsvirkjunar til að jafna markaðshlutdeildina. 

Reglur Innri markaðarins um fjárfestingafrelsi og athafnafrelsi veita orkufyrirtækjum  innan EES rétt til að taka sér stöðu sem orkuseljendur í orkukauphöll á Íslandi og sem orkuvinnsluaðilar úr íslenzkum orkulindum.  Þeir mundu sjá sér leik á borði að kaupa allt sem býðst á íslenzkum orkumarkaði, sækja um rannsóknarleyfi vegna nýrra virkjana og síðan um virkjanaleyfi fyrir þær. Hvers vegna.  Jú, það er alvarlegur skortur í Evrópu og reyndar í heiminum öllum á endurnýjanlegum orkulindum. 

Þeir væru þá búnir að koma sér vel fyrir hér, þegar umsókn berst Orkustofnun og Landsreglara um leyfi til lagningar sæstrengs til Íslands.  Í kjölfar samþykktar Orkupakka #3 leikur enginn vafi á um, að Sameiginlega EES-nefndin og Alþingi munu samþykkja ESB-gerð # 347/2013, en með henni mun það fela í sér brot á EES-samninginum að hafna sæstrengsumsókn, sem Landsreglari telur fullgilda.  

Að "skikka" orkuvinnslufyrirtækin til að selja allt rafmagn í orkukauphöll, sem "ekki hefur þegar verið selt stórnotendum", þýðir, að engir fleiri langtímasamningar um raforkuafhendingu verða gerðir hérlendis, t.d. í sambandi við beinar erlendar fjárfestingar í iðjuverum.  Þetta mundi líka þýða, að öll viðbótar raforkukaup núverandi iðjuvera með langtímasamninga færu fram í orkukauphöll, og um endurnýjun slíkra samninga yrði heldur ekki að ræða, þegar þeir renna úr gildi.  Þetta er stórpólitísk stefnumörkun í atvinnulegu tilliti. 

Stefnumörkun af þessu tagi fyrir atvinnulíf landsins væri með öllu ótækt, af hagsmunalegum og lýðræðislegum ástæðum, að leggja í hendur Landsreglara.  Stórmál af þessu tagi verður að ræða og ákveða á Alþingi.  Jafnvel Norðmenn, sem rekið hafa orkukauphöll í landi sínu síðan 1990, en eru enn ekki undir járnhæl ACER, gera enn langtímasamninga við stóriðjufyrirtæki, bæði ný og við endurnýjun samninga.  Ríkisvaldið þar hefur veitt stóriðjufyrirtækjunum tryggingu fyrir "samkeppnishæfu" raforkuverði í Noregi gegn því, að þau haldi uppi starfsemi og tryggi atvinnu í dreifðum byggðum Noregs.  ESA sætti sig að lokum við þetta gegn ákvæði í orkusamningunum um einhvers konar vísitölutengingu eða markaðstengingu raforkuverðsins.   

HHÍ virðist vera kaþólskari en páfinn, þegar raforkumarkaður á Íslandi er annars vegar, ef mið er tekið af rekstri norsks raforkumarkaðar og samskiptum Norðmanna og ESA út af langtímasamningum á raforkumarkaðinum þar í landi.  Þá ber hins vegar að gæta að því, að ACER ræður enn ekki ríkjum í Noregi með fulltrúa sinn, Landsreglarann, í eftirliti með raforkumarkaðinum.  Hver veit, nema HHÍ hafi tekið mið af því við skýrslugerðina, sem menn þar á bæ búast við frá Landsreglara hérlendis í fyllingu tímans ?  Skýrslan á greinilega að réttlæta stofnun orkukauphallar á Íslandi, en þannig er hins vegar ekki hægt að gæta hagsmuna orkukaupenda hérlendis, þegar betur er að gáð.  Þeir, sem hag hafa af slíku hérlendis, eru orkuseljendur og spákaupmenn.  Alþingismenn og verkalýðshreyfing ættu að beita sér gegn stofnun orkukauphallar og spákaupmennsku með rafmagn á Íslandi.  Það verður mjög erfitt eða ómögulegt að hindra það eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.    

Það þarf ekki að orðlengja það, að verði ráðlagt fyrirkomulag HHÍ ofan á um raforkumarkað á Íslandi, þá mun stóriðnaður líða undir lok á Íslandi um 2035, eða þegar núverandi samningar renna sitt skeið á enda.  Er framtíðarsýn HHÍ sú, að fyrir tilstilli frjáls raforkumarkaðar loki stóriðjuverin og orkan, sem þannig verður tiltæk á markaði, verði seld á "Nord Pool" orkukauphöll inn á sæstreng með 10 % viðbótar töpum til verðmætasköpunar erlendis ?  Þetta er framtíðarsýn, sem fáum hérlendis hugnast, því að slík viðskipti geta fyrirsjáanlega ekki orðið þjóðhagslega hagkvæm m.v. orkunýtingu við verðmætasköpun innanlands til gjaldeyrissparandi starfsemi eða útflutningsiðnaðar.  Við hvað á fólkið að starfa, sem haft hefur viðurværi sitt beint og óbeint af iðjuverunum ?  

Norsk stjórnvöld lögðu sig í framkróka upp úr aldamótunum síðustu við að tryggja norskum stóriðjuverum áframhaldandi langtíma raforkusamninga, en þá runnu margir samningar þar út, enda er viðurkennd staðreynd þar, að slíkir raforkusamningar eru forsenda fyrir samkeppnishæfum stóriðjurekstri í Noregi.  Ef norsk stjórnvöld hefðu talið þjóðhagslega hagkvæmara að láta markaðinn ráða og leyfa hverju iðjufyrirtækinu á fætur öðru að leggja upp laupana í samkeppni við fyrirtæki nær mörkuðum eða annars staðar með lágt orkuverð, jafnvel fyrirtæki á meginlandi Evrópu, sem hefðu aðgang að norskri orku gegnum sæstrengi, þá hefðu þau ekki beitt sér fyrir áframhaldandi langtíma raforkusamningum í byrjun þessarar aldar. Þessi barátta tókst í Noregi, en hafa íslenzkir stjórnmálamenn upp til hópa nægan skilning á þjóðhagslegu og atvinnulegu mikilvægi orkukræfs iðnaðar á Íslandi nú á dögum ? 

Grundvöllur orkuútflutnings um sæstrengi frá Noregi er mikil ónotuð aflgeta í norskum vatnsorkuverum utan kaldasta tíma vetrarins, því að megnið af norsku húsnæði er hitað upp með rafmagni.  Það hefur jafnframt yfirleitt verið um 7 % (10 TWh/ár) umframorkugeta í Noregi vegna lokunar úreltra verksmiðja, talsverðra (erlendra) fjárfestinga í vindorkuverum, orkusparnaðar, nýtniaukningar gamalla vatnsorkuvera og þokkalega góðra vatnsára.  Nettó útflutningur orku hefur alltaf verið minni en þetta, enda hefur verðið hækkað, þegar framboðið minnkaði innanlands, og þá verið hagkvæmt að flytja inn raforku að nóttunni til mótvægis.

Þá er komið að fullyrðingunni um, að minni hætta verði á "rafmagnsskorti" með viðskiptum í orkukauphöll en með núverandi gjaldskrárkerfi og fremur takmörkuðu samkeppni, sem þó er fyrir hendi, einkum á heildsölumarkaði. Það er þvert á móti mun meiri hætta á orkuskorti, þar sem frjáls samkeppni ríkir í orkukauphöll.  Ástæðurnar eru eftirtaldar:

  1. Vatnsorkuver eru mun samkeppnishæfari í rekstri en gufuorkuver.  Þar af leiðandi munu fyrirtæki, sem eiga vatnsorkuver, geta selt alla orku, sem þau bjóða, og síðan munu jarðgufuverin koma inn á hærri verðum, og vindmyllur munu reka lestina, þegar þar að kemur.  Þetta mun valda hraðari lækkun á vatnsstöðu miðlunarlóna en ella og lakari nýtingu á jarðgufuverum fyrir vikið en góðu hófu gegnir fyrr en raforkuverð tekur að hækka, þegar hillir undir tæmingu miðlunarlóna.  Ólík samkeppnisstaða virkjana á Íslandi og dyntótt náttúran, sem framboðinu ræður í raun, veldur því, að íslenzkt orkukerfi hentar afar illa fyrir samkeppnismarkaðinn, sem ESB leggur upp með.  Til mótvægis þessum agnúum þarf að beita samræmdri orkulindastýringu, þvert á fyrirtæki á markaði, en slíkt er bannað á samkeppnismarkaði að hætti ESB.
  2. Núna stundar Landsvirkjun orkulindastýringu innan sinna vébanda, og vegna stærðar hennar á markaði virðist hún duga landskerfinu.  Öðru máli mun gegna, verði kvarnað úr fyrirtækinu til að jafna samkeppnisstöðuna.  Orkulindastýring snýst um að treina vatnið í öllum þremur stærstu miðlunarlónunum, Hálslóni, Þórisvatni og Blöndulóni, fram á vorið, þar til innrennslið vex aftur að ráði, vanalega um mánaðamótin apríl-maí.  Ef Íslendingar fá að ráða málum sínum sjálfir í orkugeiranum (án afskipta Landsreglara á vegum ESB), þá er líklegt, að markaðskerfi, sem er sérsniðið við íslenzkar aðstæður, sem eru einstæðar, verði þróað þannig, að það gagnist orkukaupendum.  Slíkt kerfi þarf að hámarka afhendingaröryggi raforkunnar til almennings og stóriðju og tryggja hag orkukaupenda eftir föngum, samtímis sem það felur í sér hvata til að virkja í tæka tíð áður en orkuskortur tekur að láta á sér kræla að teknu tilliti til langs undirbúningstíma virkjana hérlendis.
Af samanburði á milli frjáls markaðskerfis í orkukauphöll og annarra markaðskerfa, t.d. núverandi, er augljóslega fráleitt af HHÍ að reyna að telja fólki trú um, að orkukauphöll feli í sér aukið afhendingaröryggi raforku.  Það er þvert á móti.
 
Í skýrsu HHÍ eru draumórar um, að stóriðjan mundi sjá sér hag í að selja topporku, ef hún fengi til þess heimild:
"Ef almennur rafmagnsmarkaður líktist öðrum mörkuðum, mundi rafmagn hækka í verði, þegar útlit væri fyrir skort.  Þá gæti borgað sig fyrir stórnotendur að draga heldur úr umsvifum og selja það rafmagn, sem þannig sparaðist, inn á almennan markað."
 
Þetta er illa ígrundað hjá HHÍ.  Ef tekið er mið af álverunum, þá er framlegð þeirra oft um 1200 USD/t, og þá þurfa þau að lágmarki að fá 100 USD/MWh eða 12,5 ISK/kWh fyrir raforku, sem þau láta af hendi.  Þetta er ríflega þreföldun á núverandi heildsöluverði.  Álverin verða fyrir ýmiss konar skakkaföllum við breytingar á straumi gegnum kerin, sérstaklega, ef ekki vinnst ráðrúm til undirbúnings.  Þetta leiðir til lakari orkunýtni í kjölfar breytinganna.  Þar við bætist, að framleiðslubreytingar með skömmum fyrirvara geta tafið afhendingu afurðanna, svo að vara komist ekki í rétt skip, en álverin framleiða eftir pöntun viðskiptavina, og framleiðslan er "just in time", þ.e. biðtími vöru er í lágmarki.  Til að vega upp á móti þessu tjóni og framleiðnitapinu má áætla, að álver þurfi um 120 USD/MWh fyrir raforku, sem þau láta af hendi.  Þetta jafngildir tæplega ferföldun núverandi heildsöluverðs. 
Ef sú staða verður uppi á raforkumarkaðinum, eftir að orkukauphöllin tekur til starfa, þá mun sú staða á markaði áreiðanlega neyða mörg fyrirtæki til að draga úr starfsemi sinni og jafnvel loka.  Þannig mun neyðin draga úr álagi á rafkerfið, en eftir situr íslenzkt atvinnulíf, vinnuveitendur og launþegar, með skaðann.  
Það er í einu orði sagt glapræði að stofna hér til orkukauphallar á forsendum ESB.  Það getur leitt til hruns samkeppnisstöðunnar við útlönd, sem óhjákvæmilega jafngildir miklu atvinnuleysi og kjaraskerðingu. 

 

 


Hráskinnaleikur ESB og Noregs

Í leiðara Morgunblaðsins, 5. desember 2018, var vakin athygli á tveimur hagsmunamálum Íslands, makrílmálinu og Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Málin eru ólík, en eiga það sameiginlegt, að í báðum koma Evrópusambandið, ESB, og Noregur við sögu.

Ríkisstjórn Ernu Solberg í Noregi er höll undir ESB-aðild Noregs, þótt nú flæði undan fylgismönnum aðildar á Stórþinginu og andstæðingum aðildar á meðal þjóðarinnar vaxi fiskur um hrygg.  Þessi ríkisstjórn sýnir hvað eftir annað, að hún tekur samstöðu með ESB fram yfir samstöðu með Íslendingum.  Það á t.d. við í deilum strandþjóðanna við Norð-Austur Atlantshaf um veiðar á og veiðihlutdeild í makrílstofninum, og það á við um samstarfið í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem sitja fulltrúar ESB, Noregs, Liechtensteins og Íslands. 

Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því í ræðu á Alþingi, að fulltrúi Noregs hafi verið alltof bráðlátur að hlaupa upp í hjá ESB, þegar íslenzki fulltrúinn hafði önnur samningsmarkmið. Það fórst sem sagt fyrir að mynda sameiginlega EFTA-stefnu. 

Í makríldeilunni hafa fulltrúar norsku ríkisstjórnarinnar beinlínis komið illa fram við Íslendinga og hagað sér með bæði óábyrgum og ósanngjörnum hætti með þeim afleiðingum, að makrílstofninn er stórlega ofveiddur og lætur nú undan síga.  Liggur þar e.t.v. fiskur undir steini, að Norðmenn vilji ekki, að makríllinn gangi lengur á Íslandsmið ?

Í sumar gerði utanríkisráðherra Noregs sér ferð til Íslands.  Látið var í veðri vaka, að ferðin væri í tilefni heykaupa norskra bænda af íslenzkum bændum, en aðalerindi utanríkisráðherrans var að hvetja íslenzku ríkisstjórnina til að framfylgja af fullri hörku samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar um innleiðingu Þriðja orkupakkans í EES-samninginn, og til að hvetja þingmenn stjórnarflokkanna til tafarlausrar og snurðulausrar afgreiðslu málsins á haustþinginu.  Þetta var ósvífin tilraun til áhrifa á framvindu í íslenzkum stjórnmálum að hálfu stjórnvalda, sem ætíð hafa sett hagsmuni Íslendinga til hliðar til að geta smjaðrað fyrir ESB og veifað skottinu.  Þessi norsku stjórnvöld eiga þess vegna engan greiða inni hjá íslenzkum stjórnvöldum. 

Þessi staða er hins vegar ekki í neinu samræmi við viðhorf og skoðanir norsku þjóðarinnar, sem ber vinarþel til íslenzku þjóðarinnar og er algerlega mótfallin afstöðu norsku stjórnarinnar gagnvart ESB og orkupakkanum.  Varðandi málsmeðferð norsku stjórnarinnar á makrílmálinu hafa Norðmenn tekið sér í munn orðið "dobbelmoral".  Hún leikur þar tveim skjöldum.

 Samanburður ritstjóra Morgunblaðsins á makrílsmáli og orkupakka var vel við hæfi og fróðlegur:

"Makrílveiðar hafa undanfarin ár verið langt umfram ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins, ICES, og á því verður engin breyting nú.  Heildarkvótinn var reyndar minnkaður um 20 %, en er engu að síður tvöfalt meiri en kvað á um í ráðgjöf ICES.  Með þessu framferði er ýtt undir rányrkju á makrílstofninum.

Af kvótanum fá ríki utan strandríkjahópsins, Ísland, Grænland og Rússland, rúm 15 %.  Það er naumt skammtað og ósvífið að ætlast til þess, að ríkin utan samningsins haldi sig á mottunni, á meðan þau, sem sömdu, skammta sér ríflega og láta sér á sama standa um ráðgjöf.  Í raun er þeim ýtt út í einhliða aðgerðir."

Hvernig getur norska ríkisstjórnin verið þekkt fyrir að meina Íslendingum aðgang að samningaborðinu um makríl, sem er mikið hagsmunamál fyrir Ísland og fyrir sjálfbærar nytjar af þessum flökkustofni, og heimta á sama tíma, að íslenzkir þingmenn kokgleypi stórfellt fullveldisframsal til Evrópusambandsins, sem setur íslenzkan raforkumarkað á annan endann án nokkurs sjáanlegs ávinnings á öðrum sviðum.  Þessari norsku ríkisstjórn þarf að kenna þá lexíu, að íslenzka ríkisstjórnin láti ekki bjóða sér slíka framkomu.  Stjórninni í Ósló er engin vorkunn að semja á eigin spýtur um áframhaldandi orkuviðskipti við ESB, þótt Íslendingar vilji þar hvergi nærri koma.  Þannig gerast kaupin á eyrinni.

Morgunblaðið tók eftirfarandi pól í hæðina:

"Óbilgirni Norðmanna þarf ekki að koma á óvart, þótt hvimleið sé.  Hún er hins vegar í litlu samræmi við þann þrýsting, sem norskir ráðamenn hafa beitt íslenzk stjórnvöld um að samþykkja þriðja orkupakkann vegna þess, hvað hann skipti miklu máli fyrir Norðmenn. Það er undarlegt, að Norðmenn ætlist til þess, að Íslendingar taki þeirra hagsmuni fram yfir sína eigin í orkumálum, en vilja ekki einu sinni hleypa Íslendingum að samningaborðinu um makrílinn.

Þá er rétt að halda því til haga, að Íslendingar voru ekki að biðja Norðmenn að setja sína hagsmuni til hliðar í makrílmálinu; bara, að Ísland fengi að taka þátt í samningum í stað þess að standa utan við þá."

Í apríl 2018 komu til Íslands tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar norsku og áttu fund með íslenzkum stjórnarþingmönnum.  Erindi þeirra var algerlega öndvert við erindi norska utanríkisráðherrans um þremur mánuðum síðar.  Þeir báðu íslenzka þingmenn þess lengstra orða að taka ákvörðun í orkupakkamálinu á grundvelli hagsmuna íslenzku þjóðarinnar og að láta ekki áróður norskra stjórnvalda og hagsmunaaðila á hennar bandi villa sér sín.  Það hefur verið skammarlegt að fylgjast með málflutningi íslenzka  utanríkisráðuneytisins hingað til í þessu orkupakkamáli, því að þar á bæ hafa menn kysst á norska vöndinn og haldið því fram, að vegna mikilla viðskiptahagsmuna Norðmanna verði íslenzkir þingmenn að samþykkja pakkann.  

Þetta er alger hundalógikk hjá utanríkisráðuneytinu.  Kalt hagsmunamat verður að liggja að baki íslenzkri stefnumörkun, ekki undirlægjuháttur og gagnrýnislaus auðsveipni við erlent vald.  Mikill meirihluti norsku þjóðarinnar er algerlega andvígur orkupakka #3, og Alþýðusamband Noregs hefur lýst yfir andstöðu við hann.  Norska ríkisstjórnin er minnihlutastjórn, sem fékk orkupakkann illu heilli samþykktan í Stórþinginu með tilstyrk Verkamannaflokksins.  Sá flokkur er nú að snúast í afstöðunni til Þriðja orkupakkans.  Gott samband við Noreg er Íslendingum nauðsynlegt.  Til frambúðar verður það bezt tryggt, eins og sakir standa, með því að hafna Orkupakka #3.  Það er skrýtið, ef þetta fer ekki bráðlega að renna líka upp fyrir íslenzka utanríkisráðuneytinu.  

Í viðhengi eru nýlegar úrklippur úr norsku blaði, þar sem tíundaðar eru nokkrar ESB-gerðir, sem væntanlegar eru til umfjöllunar Stórþingsins 2019 og sem vekja munu miklar deilur í Noregi.  Líklegt er, að a.m.k. einhverri þessara ESB-gerða muni Stórþingið hafna.  Það er engin umræða um það í Noregi, að þess vegna muni EES-samstarfið verða í uppnámi.  Hvers vegna ?

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mishátt er risið

 Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður árið 1929 m.a. til að knýja á um fullt sjálfstæði Íslands við fyrsta tækifæri, þ.e. með uppsögn Sambandslagasamningsins frá 1918 að 25 árum liðnum frá gildistöku hans.  Af þessu dró flokkurinn nafn sitt, og sá baráttuandi á enn fullt erindi í íslenzk stjórnmál og mun aldrei úreldast, þótt hann taki breytingum "að breyttu breytanda".  

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins notaði pistilpláss sitt í sunnudagsblaði Moggans 2. desember 2018 í greininni:

"Til hamingju Ísland"

hins vegar ekki til að minna á, að fullveldið 1918 var aðeins mikilsverður áfangi á leið þjóðarinnar til fulls sjálfstæðis, heldur virtist varaformanninum í mun að sýna fram á, að hægt væri að vera í ríkjasambandi og samt að vera fullvalda !  Þetta ríkjasamband var samt aðallega konungssamband og gagnkvæmur jafn þegnréttur, en engin kvöð var þá um að taka upp hluta af löggjöf "herraríkisins".

Það var alls ekki eins hátt risið á þessari grein og búast hefði mátt við af varaformanni Sjálfstæðisflokksins á einnar aldar afmæli fullveldis Íslands.  Þar var engu líkara en varaformaðurinn gerði málstað þeirra að sínum, sem ekkert sjá því til fyrirstöðu að taka upp hverja risagerðina á fætur annarri frá Evrópusambandinu (ESB) í íslenzka löggjöf og framselja þar með ákvarðanatöku um ríkismálefni og um málefni lögaðila og einstaklinga til stofnana ESB, þar sem landsmenn eiga ekki fullgilda fulltrúa. 

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins virðist þannig enn berjast með kjafti og klóm fyrir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn og vinna þannig flokki sínum pólitískt stórtjón. Þessi málstaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur er orðinn pólitískur baggi á flokki hennar, enda stingur hann í stúf við sögu Sjálfstæðisflokksins og á ekki upp á pallborðið hjá grasrót hans eða almenningi þessa lands.  

  Varaformanninn virðist skorta skilning á því, að Sambandslagasamningurinn 1918 var aldrei hérlendis hugsaður sem endastöð, heldur mikilvægur áfangi á leið til fulls sjálfstæðis, sbr þetta:

"Það er áhugavert að velta því fyrir sér, að við öðluðumst fullveldið með lögum um náið samband við annað ríki."

Sett í samband við stöðu Íslands 2018 virðist varaformaðurinn gefa í skyn, að af þessu megi álykta, að hægt sé að vera fullvalda og í nánu sambandi við annað ríki eða ríkjasamband.  Þetta hefur aldrei verið skoðun meginþorra Íslendinga og sízt af öllu stofnenda núverandi Sjálfstæðisflokks.  

Villandi málflutningur varaformannsins í tilefni aldarafmælis fullveldis landsins hélt áfram í téðri "fullveldisgrein":

"Enginn efast um, að við urðum fullvalda með þessum lögum.  En annað land fór með utanríkismál okkar, annað land fór með æðsta dómsvald, og borgarar annars lands höfðu hér öll sömu réttindi og við, þar á meðal til að nýta auðlindir okkar til lands og sjávar.  Það má segja, að við höfum verið "fullvalda á föstu", en samt fullvalda, vegna þess að við gengum frjáls til þessara samninga og gátum sagt þeim upp."

Í samningnum stóð, að fela ætti starfsmanni utanríkisráðuneytis Dana að sjá um íslenzk utanríkismál samkvæmt ósk íslenzkra stjórnvalda og í samráði við þau.  Það er þess vegna villandi hjá varaformanni Sjálfstæðisflokksins að halda því fram, að Danir hafi farið með utanríkismál okkar.  Það var einvörðungu að forminu til.  

Þá er líka villandi af varaformanninum að halda því fram, að Danir hafi farið áfram með æðsta dómsvaldið, því að Hæstiréttur Íslands var settur á laggirnar í Reykjavík 1920.  Spyrja má, hvað er eiginlega fullveldi í huga varaformanns Sjálfstæðisflokksins ?

  Er hún að reyna að leggja sig, á misheppnaðan hátt, í framkróka við að sýna fram á, að úr því að Ísland var fullvalda 1918, sé landið ekki síður fullvalda 2018, þótt því sé gert að taka við heilu lagabálkunum frá evrópsku ríkjasambandi og yfirþjóðlegar stofnanir sama ríkjasambands hafi öðlazt valdheimildir á Íslandi, sem aðeins íslenzka ríkið hafði áður ? 

Til þess eru refirnir skornir hjá varaformanninum, að af þessum sökum felist engin fullveldisskerðing í því að stofna hér embætti Landsreglara, sem framkvæmir fyrirmæli ESA/ACER/ESB og íslenzk yfirvöld geta engin áhrif haft á.  Er þetta hægt, Matthías, á aldarafmæli fullveldis Íslands ?

Út yfir þjófabálk tók, þegar varaformaðurinn tók að vitna með velþóknun í Bjarna Má Magnússon, aðjunkt við Lagadeild HR, en hann hefur undanfarin misseri boðað öfugsnúnar kenningar um afsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem beitingu fullveldis, þótt ljóst sé, að framhald slíkrar beitingar muni eiga sér dapurlegan endi:

"Það má taka undir það sjónarmið Bjarna Más, að þröng skilgreining á fullveldishugtakinu er sérlega varhugaverð fyrir ríki, sem byggja þjóðaröryggi sitt og hagsmunagæzlu að miklu leyti á milliríkjasamningum og alþjóðlegri samvinnu.  Ekki verður heldur séð, að slík skilgreining samræmist viðhorfum þeirra, sem leiddu fullveldisbaráttuna."

Hér veður varaformaður Sjálfstæðisflokksins reyk.  Leiðtogar sjálfstæðisbaráttunnar á tveimur fyrstu áratugum 20. aldarinnar höfðu að vissu leyti fyrirmynd í sjálfstæðistöku Norðmanna 7. júní 1905 og sáu alltaf fyrir sér Ísland sem frjálst og fullvalda ríki með óskorað löggjafar-, framkvæmda- og dómsvald.  Innan þeirrar hugmyndafræði rúmast t.d. Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn alls ekki, en varaformaður Sjálfstæðisflokksins rembist, eins og rjúpan við staurinn, við að sannfæra landsmenn um, að hann sé landsmönnum nauðsynlegur, þótt við flestum blasi, að hann er stórhættulegur fullveldi okkar og hagsmunum.

Í ofangreindri tilvitnun virðist varaformaður Sjálfstæðisflokksins ekki skilja muninn á leyfilegum þjóðréttarlegum samningum ríkisins annars vegar og hins vegar samningum, sem fela í sér óleyfilegt fullveldisframsal.  Dæmi um þjóðréttarlega samninga eru aðildin að Sameinuðu þjóðunum, NATO, EFTA og Hafréttarsáttmálanum.  EES-samningurinn var árið 1992 talinn af ýmsum lögfræðingum (ekki öllum) rúmast innan marka Stjórnarskrár, en nú er viðurkennt, að við hann hefur bætzt svo mikið, að mikil áhöld eru um, að svo sé lengur.  Það þýðir, að spyrna verður við fótum.

Við þær aðstæður, sem nú eru uppi í stjórnmálum, er áreiðanlega ekki viturlegt, að Sjálfstæðisflokkurinn taki sér stöðu með þeim, sem helzt vilja "deila fullveldi landsins með öðrum".  Nú er þvert á móti lag fyrir Sjálfstæðisflokkinn að skera upp herör gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Það er afstaða, sem langflestir kjósendur Sjálfstæðisflokksins mundu kunna að meta við hann, og hann gæti jafnframt vænzt stuðnings við slíka stefnu víðar að í stað núverandi lágmarksfylgis flokksins.

Í viðhengi með þessum pistli er inngangserindi höfundar að ávarpi Norðmannsins Eiriks Farets Sakariassen á fundi Heimssýnar að kvöldi 1. desember 2018. 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bindandi áhrif Þriðja orkupakkans

 Seinni hluti fyrirlestrar prófessors Peters Örebech í HÍ 22.10.2018 fjallaði um stöðuga þróun orkulöggjafar Evrópusambandsins, ESB, til meiri miðstýringar og valdframsals aðildarlandanna til framkvæmdastjórnar ESB, og sér engan veginn fyrir endann á þeirri þróun, því að Fjórði orkupakki ESB mun vera í burðarliðnum.  

Þann 1. desember 2018 fékk Heimssýn góðan gest frá Stafangri á Rogalandi.  Sá leiðir starf SV-Sosialistisk Venstreparti í Stafangri.  Hann hélt ræðu að kveldi fullveldisdagsins hjá Heimssýn, og er hún birt í íslenzkri þýðingu í viðhengi þessa pistils.  Þar gat hann um, að SV hefði gert það að tillögu sinni á Stórþinginu, að ríkisstjórnin drægi frumvarp sitt um innleiðingu Þriðja orkupakkans í EES-samninginn til baka, þar til Fjórði orkupakki ESB sæi dagsins ljós.

Það var skynsamleg tillaga, sem ríkisstjórnin hundsaði m.a. af því, að mikil pólitísk gerjun á sér stað um þessar mundir í afstöðunni til orkupakka ESB í Noregi.  Hún á sér aðallega stað innan verkalýðshreyfingarinnar, og hefur Alþýðusamband Noregs, LO, þegar tekið opinbera afstöðu gegn Orkupakka #3. Ekki nóg með þetta, heldur virðist verkalýðshreyfingin vera að fá sig fullsadda af stöðugum straumi gerða og tilskipana frá ESB, sem grafa undan stöðu verkalýðshreyfingarinnar og atvinnuöryggis verkafólks.

Nú er rætt um það í Noregi, að á þingi Alþýðusambandsins árið 2022, muni verða samþykkt tillaga um uppsögn EES-samningsins.  Þetta mun tvímælalaust breyta afstöðu stærsta stjórnmálaflokks Noregs, Verkamannaflokksins, til Evrópu-samstarfsins, en forysta hans hefur hingað til verið höll undir inngöngu Noregs í ESB. Þar með munu valdahlutföllin í Stórþinginu m.t.t. afstöðunnar til ESB snúast við, sem óhjákvæmilega breytir líka afstöðunni til EES og innleiðingar afdrifaríkra Evrópugerða að einhverju leyti.

Peter Örebech, lagaprófessor og sérfræðingur í Evrópurétti, rakti það í 6 liðum í fyrirlestri sínum, hvernig framkvæmdastjórn ESB herðir stöðugt tök sín á orkumálunum.  Fyrir löndin á meginlandi Evrópu kann vel að vera vit í því, en fyrir eyjarskeggja í um 1500 km fjarlægð frá landsvæði þessa ríkjasambands (eftir útgöngu Breta), er alveg út í hött að innleiða reglur ESB, sem stórlega skerða sjálfsákvörðunarrétt þeirra um málefni helztu auðlindar þeirra, endurnýjanlegrar orku, og bjóða jafnframt hættunni heim um tengingu við erlend raforkukerfi og spákaupmennsku, sem leiða mun til mikilla raforkuverðshækkana, algerlega að þarflausu. Þessi voru atriðin 6 hjá PÖ:

  1. Fyrirkomulag orkumarkaðar ESB um sameiginlegar reglur fyrir Innri markað rafmagns, sem samkvæmt tilskipun 2003/54 ESB frá 26.06.2003 var valkvætt, breyttist með stofnun ACER-Orkustofnunar ESB yfir í bindandi fyrirkomulag með gerð 713/2009 o.fl.
  2.  Takmarkið með stjórnun ESB á þessu sviði er að "ná markmiðum evrópsku orkustefnunnar". Til að ná þeim er bent á, að ESB verði að "fjarlægja hindranir á  viðskiptum yfir landamæri með rafmagn og jarðgas".  ACER á ennfremur að "sjá til þess að fylla upp í eyður löggjafarinnar sem hluti af ESB" (ESB-gerð 713/2009, formáli, atriði 5).  ESB hefur ákveðið, að "stofnunin skuli tryggja, að stjórnvaldsaðgerðir í hverju landi ... séu rækilega samhæfðar og, ef nauðsyn krefur, kláraðar á vettvangi ESB" (formálinn, atriði 6). 
  3. Með "á vettvangi ESB" er ekki átt við náið samráð ESB-landanna í þjóðréttarlegum skilningi, heldur er átt við frumkvæði ESB-stofnana, þ.e.a.s. ACER, en einnig aðrar ESB-stofnanir, þ.á.m. ENTSO-E: "Framkvæmdastjórnin og stofnunin vinna náið saman í sambandi við framkvæmd þessarar Evrópugerðar, og slíkt getur einnig átt við um samtök evrópskra kerfisstjóra fyrir rafmagn og gas" (formálinn, atriði 20).  
  4. Uppbyggingu stofnunarinnar [ACER] skal aðlaga sértækum þörfum stýringar á orkusviði. Þar skal taka sérstakt tillit til sérstaks hlutverks landsreglaranna og tryggja sjálfstæði þeirra (formálinn, atriði 20).
  5. Stofnuninni ber að tryggja, að stýringarverkefni  landsreglaranna samkvæmt tilskipun 2009/72/ESB frá 13.07.2009 um sameiginlegar reglur Innri markaðarins fyrir rafmagn og tilskipun 2009/73/ESB frá 23.07.2009 fyrir jarðgas, séu samhæfð með skilvirkum hætti og, ef nauðsyn krefur, sé framfylgt á vettvangi ESB.  Í þessu sambandi er nauðsynlegt að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart rafmagns- og gasframleiðendum, flutnings- og dreifingarfyrirtækjum, hvort sem þau eru í opinberri eða einkaeigu, og gagnvart notendum, og tryggja, að starfsemi stofnunarinnar sé samkvæmt ESB-réttinum, tryggja tæknilega og stjórnunarlega getu stofnunarinnar og aðgengi að henni, móttækileika fyrir lýðræðislega stjórnun og skilvirkni (formálinn, atriði 6).
  6. ESB-gerð #347/2013 frá 17.04.2013 [utan Orkupakka #3, en verður nánast örugglega innleidd á Íslandi í kjölfar hans, af því að hún og gerðir "pakkans" skarast] um leiðbeiningar fyrir orkumannvirki á milli Evrópulanda, sem leysir af hólmi #1364/2006/ESB og felur í sér breytingar á gerðum #713/2009, #714/2009 og #715/2009 [sem allar eru í Orkupakka #3].  Ákvarðanatakan innan stofnananna er takmörkuð við aðildarlönd ESB og Framkvæmdastjórnina.
Norsku lagaprófessorarnir Eirik Holmöyvik og Hallvard Haukeland Fredriksen draga af þessu eftirfarandi ályktun:
"Með þessu yfirtekur ESA stjórnunarvald ríkisstjórnarinnar á þeim hluta norskrar orkustjórnsýslu, sem fellur í hlut Landsreglarans ... Og, ef Landsreglarinn dregur lappirnar, geta trúlega einkaaðilar framkallað framkvæmdina með því að leggja fram gögn fyrir norskum dómstólum um, að norsk lög skyldi Landsreglarann til að framkvæma ákvarðanir ESA."
http://rett24.no/articles/grunnlovsstridig-tilknytning-til-eus-energibyra .
 
"Staðan er þá sú, að allt ákvörðunarvald um orkuflutninga á milli landa er hjá ACER og orkuskrifstofum ESB (með Framkvæmdastjórnina á toppinum."
Þar með hefur prófessor Örebech sannað lögfræðilega, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn felur í sér fráhvarf frá "tveggja stoða lausn" til "einnar stoðar lausnar".  Þetta felur í sér stjórnarskrárbrot bæði í Noregi og á Íslandi.  Formlegt sjálfstæði með ESA sem millilið og raunverulegt ósjálfstæði stríðir gegn Stjórnarskrá, segir prófessor Örebech, og í sama streng hefur prófessor emeritus, Stefán Már Stefánsson, tekið. Sjá þó skoðun annars lögfræðings í lok þessa pistils. 
"Prófessor Johs. Andenæs skrifar (Statsforfatningen i Norge (Tano, 1997), s. 265): fullveldisframsal er löglegt með því skilyrði, að það fari fram í "samvinnu jafnsettra ríkja í þágu sameiginlegra hagsmuna" og samningsaðilar verða í sameiningu að mynda alþjóðlegt félag (stofnun) af fullri gagnkvæmni.  Samkvæmt Andenæs jafngildir ACER aðildin stjórnarskrárbrotlegu valdframsali, "þótt formlegt fullveldi væri virt".  Við aðild að ACER verða ESA og Landsreglarinn tæki fyrir ESB og ekki fyrir Noreg, og ESB fylgir að venju  1-stoðar-lausn í andstöðu við stjórnarskrárgrein #1.  Ríkisstjórnin hefur þannig sett Noreg í aðstöðu, sem  prófessor Andenæs ræðir um sem "lýðríkisstöðu" (bls. 266), andstætt stjórnarskrá."
 
Engum vafa er undirorpið, að sé ACER-aðild Noregs brot á stjórnarskrá þar, þá er ACER-aðild Íslands brotleg við stjórnarskrá Íslands með sömu rökum og að ofan eru tíunduð. 
 
"Inngangan í Orkusamband ESB (þ.m.t. ACER) er reist á því kerfi, að norsk stjórnmálaleg yfirvöld geti ekki gripið í taumana gegn óæskilegegri afritsákvörðun Landsreglarans/ESA, af því að norsk löggjöf setur þá kvöð á Landsreglarann að raungera ákvörðun ESB. Landsreglarinn er fjármagnaður af Stórþinginu og með stjórnendur, sem Oíu- og orkuráðuneytið velur án þess að vera tæki fyrir norska ríkið, heldur tæki fyrir ESB.  Þetta sjálfstæði frá hagsmunaöflum norska ríkisins eða einkaaðilum er fyrirskrifað í tilskipun 2009/207: "Landsreglarinn skal vera algerlega óháður öllum opinberum hagsmunum og einkahagsmunum".  Þetta kerfi afritaðra ákvarðana er-í samræmi við viðhorf prófessors Andenæs-andstætt stjórnarskrá, gr. 1."
 
Hér er hin lögfræðilega niðurstaða skýr, að öll völd varðandi orkuflutninga á milli aðildarlanda ACER, einnig EFTA-landanna, ef þau gerast þar aðilar (án atkvæðisréttar), er hjá ACER.  Vitlausasta viðbáran gegn þessu hérlendis er sú, að þetta gildi ekki um Ísland, af því að landið er ótengt við raforkukerfi annarra landa.  Auðvitað gilda völd ACER um allar sæstrengsmumsóknir, einnig þá fyrstu.
 
Það vekur ekki síður furðu að heyra holtaþokuvæl um valdsvið ACER berast frá innsendri grein til Bændablaðsins 29. nóvember 2018, en höfundur hennar er Hilmar Gunnlaugsson, hrl. og LLM í orkurétti.  Hann er á öndverðum meiði við ofangreinda norska lögspekinga án þess þó að bera sannfærandi rök á borð fyrir lesendur.  Minnir þessi Bændablaðsgrein mest á skæklatog og sparðatíning.  Höfundurinn reynir að telja lesendum blaðsins trú um, að ACER sé áhrifavaldur sem ráðgefandi aðili, en ekki ákvörðunaraðili.  Hilmar skrifar m.a.:
"Hlutverk hennar [ACER] er fyrst og fremst að samræma gerðir raforkueftirlits innan sambandsins, eins og nafnið ber sér.  Að vera ráðgefandi.  ACER hefur takmarkað ákvörðunarvald, en er framkvæmdastjórninni, sem getur innan ESB tekið ákvarðanir, til ráðgjafar um þau málefni, sem tengjast verkefnasviði hennar."
 
 ACER hefur verið falið aðalhlutverkið við að hrinda orkustefnu ESB í framkvæmd, og til þess hafa stofnuninni verið falin völd og sjálfstæði, s.s. til að ryðja úr vegi hindrunum í einstökum löndum á leið orkustefnunnar.  Verkfærið er Landsreglarinn í hverju landi, sem verður óstöðvanlegur í aðgerðum sínum, svo lengi sem hann heldur sig að fyrirmælum ACER og Evrópuréttarins.    
 
 
 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mesta breytingin með Þriðja orkupakkanum

Þann 22. október 2018 hélt norskur sérfræðingur í Evrópurétti, prófessor Peter Örebech, fyrirlestur í Háskóla Íslands, sem hann nefndi,

"EUs energibyrå (ACER), utenlandskabler og beslutningene" eða "Orkustofnun ESB (ACER), utanlandsstrengir og ákvarðanirnar".

Þar sýndi hann, að núverandi ákvarðanatökuferli um millilandatengingar á orkusviði fyrir EFTA-löndin er reist á tveggja stoða fyrirkomulagi, þ.e.a.s. samkvæmt Orkupakka 2 fer ákvörðun um sæstreng á milli EFTA-lands og ESB-lands fram í Sameiginlegu EES-nefndinni, sem tekur annaðhvort sameiginlega ákvörðun með samþykki allra eða enga ákvörðun.  

Síðan birti og ræddi Peter Örebech um stefnumið ESB í Sameiginlegu EES-nefndinni, þegar rætt var um upptöku Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn, Viðhengi IV:

"Hér má sjá, að við upptöku Orkupakka III í EES-samninginn verður litið á orku sem vöru, sem "frelsin fjögur" spanna að fullu ásamt stjórnmálalegum markmiðum - þar með allar skyldar stefnur í EES.  Þessi krafa kemur fram í EES-grein 7: "Löggjöf, sem er fjallað um eða tekin upp í viðhengi við þennan samning eða í samþykktum Sameiginlegu EES-nefndarinnar, skulu vera bindandi fyrir aðila samningsins og skulu vera eða verða hluti af innra réttarkerfi þeirra."

Þetta þýðir, að eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans verður ekki lengur undan því vikizt að koma hérlendis á því markaðskerfi fyrir raforku, sem ESB á við með skilvirkum og hagstæðum samkeppnismarkað fyrir orkunotendur, þar sem orkan er tryggð þeim fyrst, sem hæsta verðið vill borga.  Þannig telja hugmyndafræðingar ESB, að orkan muni skapa mest verðmæti. 

Skuggahliðin á þeirri mynd er, að þeir, sem minnst fé hafa á milli handanna, verða undir í samkeppninni og leggja upp laupana. Þannig grisjar ESB hafrana frá sauðunum. Þetta miskunnarlausa markaðslögmál hefur ekki átt upp á pallborðið hérlendis, heldur hafa flestir landsmenn viljað líta á raforkuna sem afurð sameiginlegra orkulinda þjóðarinnar, þótt eignarhaldið reyndar sé með ýmsum hætti.  

Af þessu síðast talda sjónarmiði leiðir, að stilla á verðlagningu orkunnar, rafmagns og hitaveitu, í hóf eftir föngum, og nýta orkuna til uppbyggingar samkeppnishæfra atvinnugreina vítt og breitt um landið.  Þáttur í að halda orkukostnaði hóflegum eftir föngum er að viðhafa samræmda orkulindastýringu til að nýta miðlunarlónin og virkjaðan jarðgufuforða ásamt vindorkuverum sem bezt og forða notendum undan orkuskorti í lengstu lög, en slík inngrip í markað með frjálsri samkeppni að hætti ESB er bannað á þeim bæ.

Það eru fjölmörg fleiri atriði, sem valda því, að orkukauphöll að hætti ESB getur ekki orðið hagkvæmasta markaðsfyrirkomulagið yrir orkukaupendur á Íslandi. Þar má nefna fákeppni og ójafna samkeppnisstöðu orkubirgjanna, sem eru mjög mismunandi að stærð og ráða yfir mismunandi virkjunum að gerð.  Frumorkan er dyntótt, umframorkan og umframaflið lítið, svo að iðulega þarf að skerða ótryggða orku.  Við slík skilyrði hækkar raforkuverð mjög á markaði. Að efna til orkukauphallar við ríkjandi íslenzkt orkukerfi  kann ekki góðri lukku að stýra fyrir orkunotendur hér á landi.  Þar sem auðlindastýring verður bönnuð, getur orkukauphöll ekki orðið orkunotendum til hagsbóta á Íslandi, heldur þvert á móti.

Síðan taldi Peter Örebech upp greinar EES-samningsins um "fjórfrelsið", sem taka munu gildi um viðskipti með rafmagn við útlönd við innleiðingu Þriðja orkupakkans:

  • gr.11 og 12 banna takmarkanir á umfangi innflutnings og útflutnings.  Vegna ákvæðis #11 getur Landsreglarinn hafnað ósk íslenzkra yfirvalda um að draga úr útflutningi raforku af verðlagsástæðum.   
  • gr.13 setur takmörkunum á ofangreindu þröngar skorður.  Íslendingar munu ekki einhliða geta takmarkað útflutning á rafmagni, þótt raforkuverðið hækki mjög vegna hraðrar lækkunar í miðlunarlónum. Landsreglarinn getur sagt sem svo, að Íslendingar geti flutt inn rafmagn, ef lónin tæmast, en hvað gerist í þeirri stöðu, ef sæstrengurinn bilar ?  ACER setur markaðinn í öndvegi, og í hans nafni verða Íslendingar settir á Guð og gaddinn í þessum efnum, þ.e. þeir verða að bjarga sér sjálfir í neyð.  Staðan er ósambærileg við lönd með margar millilandatengingar og alls konar frumorkuaðdrætti.
  • gr. 40 bannar takmarkanir á fjárfestingum erlendra aðila innan EES og öll mismunun er bönnuð.  Að reisa virkjun á Íslandi til að flytja út rafmagn getur orðið vænlegur fjárfestingarkostur, ef orkuverð hækkar erlendis eða flutningskostnaður um sæstreng lækkar, t.d. vegna styrkveitinga ESB í nafni "grænnar orku" eða við lok afskrifta sæstrengsins. Þetta ákvæði er líklegt til að koma í veg fyrir einokun Statnetts á öllum millilandatengingum Noregs, þótt Stórþingið gerði það að einu af 8 skilyrðum sínum fyrir samþykki Orkupakka #3.  Samþykkt Orkupakka #3 gæti orðið í uppnámi í Noregi af nokkrum ástæðum.  Hinir pólitísku vindar í Noregi eru að snúast þessa mánuðina gegn orkupakkanum, og skilyrðin 8 eru sem tímasprengja.
  • gr. 4 og gr. 124 banna alla mismunun eftir þjóðernum innan EES.  Raforkunotendur í ESB-löndunum munu þess vegna keppa á jafnræðisgrundvelli um rafmagn úr íslenzkum orkulindum eftir tengingu íslenzka rafkerfisins við rafkerfi erlendis.  Þetta eyðileggur mikilvægt forskot atvinnurekstrar á Íslandi, sem óhjákvæmilega mun rýra hér lífskjörin. Það er kominn tími til, að fleiri atvinnurekendur feti í fótspor gróðurhúsabænda og láti í sér heyra um Þriðja orkupakkann.   
  • gr. 125 um, að EES-samningurinn skuli ekki breyta neinu um gildandi eignarhaldsreglur aðildarlandanna hefur sáralítið gildi hérlendis annað en ríkinu væri ekki bannað að Evrópurétti að þjóðnýta allan raforkugeirann.  Þetta ákvæði er fjarri því að ónýta samkeppnisákvæði Evrópuréttarins, sem eiga að tryggja frjálsa samkeppni eftir föngum.  Markaðshlutdeild eins fyrirtækis upp á yfir 70 % samræmist ekki Evrópurétti, enda hafa ritgerðir hagfræðinga, t.d. Lars Christensen, fjallað um uppskiptingu Landsvirkjunar.  Þá standa allir jafnt að vígi innan EES til að kaupa bútana úr Landsvirkjun.  Erlend fyrirtæki fá óneitanlega aukinn áhuga á íslenzka orkugeiranum, ef landið samþykkir Orkupakka #3, því að þannig mun hilla undir aflsæstreng til landsins.  

Í viðhengi með þessari færslu er fyrirlestur Peters Örebech, 22.10.2018, í HÍ á norsku, en hann hefur ekki verið þýddur.

 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Liggur fiskur undir steini ?

Það er ljóst, að talsverður áhugi er bæði innan orkugeirans íslenzka og fjármálageirans á því að tengja aflsæstreng frá útlöndum við raforkukerfi landsins. Þetta kom síðast fram í viðtali í kvöldfréttum RÚV-Sjónvarps 24.11.2018 við forstjóra Landsnets, Guðmund Inga Ásmundsson.  Forstjóri Landsvirkjunar hefur kyrjað þennan söng, síðan hann settist í forstjórastólinn þar árið 2010, og árið 2017 gaf fjármálafyrirtækið Kvika út skýrslu, sem fegraði hlut sæstrengs meira en góðu hófi gegndi og sleppti ýmsum mikilvægum áhættuþáttum við strenginn, t.d. rekstrarlegs eðlis.

Þess er og skemmst að minnast, að fyrirtæki téðra forstjóra eru tilfærðir ásamt raforkuflutningsfyrirtæki Breta, National Grid, sem "sponsors" eða bakhjarlar "Ice Link", sem er 1200 MW sæstrengur á forgangsverkefnaskrá ACER-Orkustofnunar ESB á milli Suð-Austur Íslands og Skotlands, a.m.k. 1000 km vegalengd, sem þverar um 1,0 km hámarksdýpi. Fyrirtækið er kallað "National Grid Interconnector Holdings Ltd", og þessi sæstrengur yrði lengsti samfelldi sæstrengur sögunnar og sá, sem lagður er á mest dýpi. Forstjóri Landsvirkjunar hefur fullyrt, að tæknin ráði við verkefnið, en óvíst, hvað hann á við með því.  Það, sem strengfyrirtækin vinna að nú, er þróun á plasteinangrun, sem þolir svo háa jafnspennu (DC), að orkutöpin verði kostnaðarlega viðráðanleg fyrir þennan orkuflutning. Hefur Landsnet lagaheimild til að taka þátt í slíku fyrirtæki ?

Þá hefur enska fyrirtækið "Atlantic Superconnector" lýst fjálglega áformum um tvo einpóla 700 MW sæstrengi frá Íslandi til Norð-Austur Englands (Jórvíkurskíri) um 1500 km leið, og sennilega með flutningsmöguleika aðeins aðra leið, suður, enda rekur fyrirtækið áróður í Englandi fyrir þessu verkefni á grundvelli aukinnar endurnýjanlegrar orku, sem skapa muni ný störf á Englandi.  Kynning fyrirtækisins á viðskiptatækifærum þess á Íslandi líkist helzt óráðshjali á krá í Newcastle:

"Through a unique renewable energy partnership with Iceland, we can bring a near-limitless source of clean hydroelectric and geothermal power to the UK - all while delivering jobs, growth and investment opportunities to Britain´s world beating industrial heartland."

Gefur ekki auga leið, að hagkvæmara er fyrir hérlandsmenn að skapa störf, vöxt og laða hingað að fjárfesta með því að bjóða upp á endurnýjanlega orku hérlendis á hagstæðum kjörum í stað þess að flytja hana í rafstrengjum 1500 km leið með ærnum tilkostnaði og miklum orkutöpum ?

Fjármála- og efnahagsráðherra Íslands mun hafa kallað eftir handföstum gögnum frá brezkum stjórnvöldum um raforkuverð og samningstíma, sem þau vilji tryggja orkuseljendum á Íslandi, svo að hægt verði að gera áætlanir af einhverju viti hérlendis um sölu rafmagns inn á sæstreng.  Fullnægjandi tryggingar í þessa veru geta eða vilja brezk stjórnvöld varla gefa fyrir innflutning á rafmagni, þótt "grænt" sé.  Íslenzkt rafmagn mun að líkindum fara á Nord Pool orkukauphöllina, eins og rafmagn frá Noregi eða öðrum löndum til Bretlands. Nord Pool er viðtekin orkukauphöll fyrir Norðvestanverða Evrópu að hálfu ESB, og útibúi frá Nord Pool verður væntanlega komið upp hérlendis eigi síðar en 2020, þótt engar forsendur séu fyrir því, að slík orkukauphöll gagnist orkukaupendum hérlendis, heldur þvert á móti.  Orkukauphöll í anda ESB hérlendis er líkleg til að valda hér sveiflukenndu raforkuverði og umtalsverðri hækkun meðalverðs, því að hún tekur ekki tillit til sérstakrar samsetningar  orkukerfis (frumorkulinda) landsins og fákeppni og lítils fákeppnismarkaðar. 

Það hafa komið fram kenningar um það hérlendis, að á bak við áróðurinn fyrir inngöngu Íslands í Orkustofnun ESB-ACER með innleiðingu  Orkupakka #3 liggi annarlegar hvatir, þ.e.a.s. að fjárplógsmenn muni sjá sér leik á borði að leggjast á árarnar með Framkvæmdastjórninni um að samtengja alla Evrópu,  einkanlega til að nýta alla þá endurnýjanlegu orku, sem fáanleg er til raforkuvinnslu, og maka á því krókinn, ótæpilega. 

Eins og málum er háttað nú á frjálsum orkumarkaði, er ljóst, að slík tenging Íslands getur ekki orðið þjóðhagslega hagkvæm fyrir Íslendinga, þótt hún geti verið þjóðhagslega hagkvæm fyrir EES samkvæmt forskrift Evrópugerðar 347/2013, sem mælir fyrir um slíkt hagkvæmnimat.  Til þess liggja tvær ástæður.  Það verður líklega alltaf þjóðhagslega hagkvæmara að nýta orkuna innanlands til atvinnu- og verðmætasköpunar en að selja hana utan með ærnum flutningskostnaði, sem að lágmarki  nemur 80 USD/MWh að teknu tilliti til 10 % orkutapa í endabúnaði og streng.  Þótt orkuverð erlendis muni hækka á næsta áratugi, þá munu orkukræfar vörur eðli máls samkvæmt hækka líka, enda er 4 % árleg eftirspurnaraukning á áli og meiri á kísli.  Hin ástæðan er sú, að um miðja öldina munum við þurfa á öllum orkulindum landsins að halda, sem nú eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar #3, vegna orkuskiptanna og fjölgunar íbúa landsins.  Tal um, að hér sé næg orka fyrir rafmagnsútflutning er þvaður eitt, nema ætlunin sé að kasta Rammaáætlun fyrir róða eða loka stórum verksmiðjum, sem nú standa undir a.m.k. fjórðungi af útflutningstekjum landsins.

Rafmagnsútflutningur kallar á mun fleiri virkjanir en nú eru í nýtingarflokki, og hann mun valda hér miklum hækkunum á rafmagnsreikningum fyrirtækja og heimila, jafnvel meira en tvöföldun, þegar þar að kemur.  Slíkt mun skerða lífskjör íslenzkrar alþýðu og svipta hana lifibrauðinu í hrönnum, því að samkeppnisgrundvellinum verður kippt undan margri starfseminni með slíkum kostnaðarhækkunum og rafmagnsútflutningur skapar hér sáralitla vinnu.  Útflutningur á rafmagni er þess vegna mjög óeðlileg ráðstöfun auðlinda þjóðarinnar.  Málflutningur um, að þolendum atvinnumissis megi bæta tjónið með greiðslum úr ríkissjóði af skatttekjum orkusölunnar er óboðlegt píp.  

Margir nestorar íslenzkra stjórnmála hafa gengið til liðs við það sjónarmið, að alls ekki eigi að rétta skrattanum litla fingurinn á sviði orkumála, því að þá muni hann óðar taka alla höndina, fara að ráðskast með orkunýtinguna (Landsreglarinn) og seilast til áhrifa við leyfisveitingar til áhugasamra sæstrengsfjárfesta. Þetta er allt saman borðleggjandi fyrir þá, sem á eigin spýtur kynna sér stefnumörkun ESB í gerðum þeirra og tilskipunum og virða fyrir sér framkvæmdina í raun, t.d. sæstrengslögn frá Ísrael um Kýpur og til Grikklands, en Ísraelsmenn fundu fyrir nokkrum árum gaslindir í lögsögu sinni, sem eru meiri en þeir telja sig hafa not fyrir, og breyta hluta þeirra í rafmagn.

Einn nestor íslenzkra stjórnmála, Guðni Ágústsson, reit 10. nóvember 2018 grein í Morgunblaðið, þar sem hann varpaði fram í fyrirsögn hinni tímabæru spurningu:

"Hverjir eru hagsmunir Íslands af þriðja Orkupakka ESB ?":

"Hvað sögðu Jón Baldvin og Peter T. Örebech ?  Jón Baldvin sagði á Útvarpi Sögu: "Við höfum ekkert með orkupakka ESB að gera, basta.  Þetta varðar ekki Ísland, og tæknilega kemur þetta Íslandi ekki við.  Við seljum enga orku til Evrópu og ætlum ekki að leggja sæstreng."  Svo bætti hann við: "Íslenzkir hagsmunir eru þeir að gerast aldrei aðilar að orkupakka ESB."  Og ennfremur, að sæstrengur sé draumur þröngsýnnar klíku, sem ein ætlar að græða á uppátækinu ásamt erlendum auðjöfrum.  Kom þetta og margt fleira skýrt fram í máli Jóns Baldvins."

Ef tvípóla sæstrengur til Bretlands með um 1200 MW flutningsgetu á að skila eigendum sínum þokkalegum arði, verður flutningsgjaldið að nema a.m.k. 80 USD/MWh, eigi hann jafnframt að standa undir kostnaði við endabúnað sinn og orkutöpin á leiðinni.  Þetta er svipað og heildsöluverð á raforku á Bretlandi nú um stundir.  Ekkert álag á verð raforku úr endurnýjanlegum orkulindum utan Bretlands er í boði þar núna og engar horfur á slíku.  Miðað við núverandi aðstæður fengist sáralítið fyrir rafmagn inn á streng og verð langt undir kostnaði frá nýjum virkjunum hér fyrir rafmagn til útflutnings. 

Raforkuverð á Bretlandi þarf að hækka yfir 50 % til að eitthvert viðskiptalegt vit (frá þröngu sjónarmiði séð) verði í útflutningi rafmagns héðan.  Ætla má, að það gerist, ef olíutunnan fer í USD 90, og slíkt getur vel orðið á næsta áratugi, ef ekki verður "gegnumbrot" í nýrri tækni til raforkuvinnslu, t.d. í þóríum-kjarnorkuverum. 

Þessi útflutningur verður samt ekki þjóðhagslega hagkvæmur fyrir Ísland, því að virðisaukinn af að nýta innlenda orku innanlands svarar til verðs fyrir raforku frá virkjun u.þ.b. 100 USD/MWh m.v. núverandi verðlag, og þá þurfa að fást a.m.k. 180 USD/MWh fyrir rafmagnið við strengendann Bretlandsmegin.  Slík 2,3 földun heildsöluverðs á rafmagni á Englandi er engan veginn í sjónmáli. 

Ef heildsöluverðið erlendis, reiknað í Bandaríkjamynt, verður hins vegar á bilinu 120-180 USD/MWh er hætt við, að þrýstingur aukist mjög hérlendis á tengingu sæstrengs við erlend raforkukerfi, en það mundi án nokkurs vafa valda hækkun á rafmagni innanlands, sem vissulega yrði mörgum atvinnugreinum þung í skauti og jafngildir lífskjaraskerðingu íbúa landsins.

Statnett (norska Landsnet) á allar millilanda raforkutengingar við Noreg.  Þær eru þannig í eigu ríkisins.  Norðmenn hafa svo miklar áhyggjur af, að ACER/ESB leyfi ekki þessa ríkiseinokun eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans, að Stórþingið gerði það að einu af 8 skilyrðum sínum fyrir samþykki "pakkans", að Statnett héldi eignarhaldi á öllum eldri millilandatengingum og fengi að eiga nýjar tengingar, t.d. NorthConnect frá Hardanger til Peterhead á Skotlandi, en einkafyrirtæki hefur nú sótt um leyfi fyrir þessum sæstreng.  Framkvæmdastjórn ESB hefur engu svarað, enda er hún óbundin af þessum skilyrðum Norðmanna.  NorthConnect verður prófmál á milli Norðmanna og ACER í mörgu tilliti, sérstaklega ef Landsreglari Noregs, RME, verður ósammála mati NVE, norsku orkustofnunarinnar, á leyfisumsókn NorthConnect.  

Guðni Ágústsson hélt áfram í téðri grein:

"Ennfremur ber að nefna hér erindi norska lagaprófessorsins Peter T. Örebech á fundi í Heimssýn, en samkvæmt orðum Örebechs er verið að stefna íslenzkum hagsmunum í orkumálum og þar með sjálfsákvörðunar- og fullveldisrétti þjóðarinnar í stórhættu, ef Alþingi samþykkir að innleiða regluverk ESB á bak við orkupakkann.  Geta má þess, að Örebech var einn þeirra, sem börðust með okkur gegn Icesave og er virtur sérfræðingur í Evrópurétti."

Fyrirlestur prófessors Peters Örebech, sem Guðni nefnir, var gagnmerkur, og það sem þar stóð upp úr var lögfræðileg sönnunarfærsla prófessorsins á þeirri meginbreytingu með Orkupakka #3 frá Orkupakka #2, að með hinum fyrrnefnda er innleidd einnar stoðar ákvarðanataka ESB fyrir millilandatengingar, þar sem EFTA (ESA) kemur hvergi nærri öðruvísi en að framsenda ákvarðanir til landsreglaranna á Íslandi, í Liechtenstein og í Noregi.  Ríkisstjórnir landanna hafa engan möguleika á að skipta sér af þessum boðum, sem eru bindandi fyrirmæli frá ESB-stofnunum eða framkvæmdastjórn ESB til landsreglaranna, og þeir fara með æðstu völd yfir lykilþáttum raforkumálanna í hverju landi.  Þetta er stjórnarskrárbrot á Íslandi og í Noregi.

Þegar við þetta bætist, að Orkupakki #3 virkjar greinar 11 og 12 í EES-samninginum fyrir millilandatengingar, en þær banna takmarkanir á inn- og útflutningi vöru, þjónustu, fjármagni og fólki, þá þarf ekki frekari vitnana við um það, að íslenzk stjórnvöld munu ekki lengur hafa síðasta orðið um það, hvort samþykkja á eða hafna tengingu íslenzka raforkukerfisins við önnur raforkukerfi innan EES. Það mun engu breyta um niðurstöðuna, þótt Alþingi samþykki bann við lagningu sæstrengs; ekki frekar en bann Alþingis 2009 við innflutningi á ófrosnu, hráu kjöti, ógerilsneyddri mjölk og eggjum tekið gilt hjá EFTA-dómstólinum 2017.  Evrópurétturinn ríkir nú yfir landinu á fjölmörgum sviðum, og ætlun ríkisstjórnarinnar hefur fram að þessu verið að gera hann allsráðandi á orkusviðinu líka.  Vonandi tekst að koma í veg fyrir slíkt stórslys, þótt glöggt standi.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband