Færsluflokkur: Evrópumál
9.6.2011 | 21:08
Að skjóta fyrst og spyrja svo
Ráðherrarnir hafa barið sér á brjóst og þótzt hafa unnið þrekvirki. Þetta á ekki sízt við um Þistilfirðinginn, fjármálaráðherrann, Steingrím Jóhann Sigfússon, sem þykist hafa lyft Grettistaki í þágu þjóðarinnar. Það eru þó alger öfugmæli. Það litla, sem hann hefur komið í verk, hefur allt verið til bölvunar. Þegar hulunni hefur verið lyft af gjörðum ráðherrans, kemur þetta í ljós. Mesti kjaftaskur og strigakjaftur þingsins undanfarin ár reynist vera allt of veiklundaður til að standa í ístaðinu gagnvart útlendingum, sem sótt hafa að hagsmunum almennings á Íslandi. Þetta kom berlega í ljós í Icesave-deilunni, þar sem hann sleikti skósóla samningamanna brezka og hollenzka ríkisins og gerði ítrekaðar tilraunir til að fórna hagsmunum íslenzkra skattborgara án þess að blikna. Það var mikið gæfuspor þeirra sjálfra að taka ótvírætt af skarið og hafna áþján sameignarsinnans.
Steingrímur tók jafnframt þátt í stórfelldum blekkingaleik og áróðursstríði ásamt Seðlabanka Íslands og AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum), m.a. með rangfærslum um nettó eignastöðu Íslands gagnvart útlöndum, til að bæta áróðursstöðu sína og undirlægja ESB (Evrópusambandsins) hérlendis í þeirri von, að smeygja mætti viðbótar fátæktarhelsi erlendra skuldbindinga um háls Íslendinga. Blekkingavefur ESB-undirlægja og taglhnýtinga þeirra fær ekki lengur dulizt.
Þá hefur komið í ljós, að Steingrím hefur sárlega þrotið örendið í samningaviðræðum við kröfuhafa föllnu íslenzku bankanna. Hann nennti ekki að fara þá leið, sem ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde mótaði, að láta ríkið eignast alla nýju bankana um sinn og yfirtaka eignir hinna gömlu með miklum afskriftum í andstöðu við kröfuhafana, heldur lét hann, gegn ráðleggingum Fjármálaeftirlitsins og gegn heilbrigðri skynsemi, kröfuhafa gömlu bankanna eignast þá nýju. Aulahátturinn er með eindæmum. Þessi maður er ekki einasta fallinn á prófinu, heldur eru afglöpin svo alvarleg, að varðar Landsdómi, sem hann, mistakasmiðurinn, endurvakti með húskörlum sínum.
Steingrímur lét hagsmuni íslenzkra heimila og fyrirtækja lönd og leið um leið og hann var með "skjaldborg um heimilin" á vörunum ásamt gráa, ofdekraða fyrirbrigðinu í forsætisráðuneytinu (ekki er hér átt við gráa fiðringinn). Lengra hefur ekki verið komizt í tvískinnungi og sviksemi við hagsmuni íslenzks almennings. Hér var einkavætt í skjóli nætur til að losna við þrýsting frá ESB, sem að sjálfsögðu gætti hagsmuna sinna manna, fjármálafursta Evrópu. Ef þessi tvö mál, Icesave og stóra bankaklúðrið, eru ekki tilefni til Landsdómsákæru, þá verður tæplega nokkru sinni slíkt tilefni. Núverandi stjórnarandstaða á þingi verður að huga að þessu, þó að ferlið sé ófélegt, því að uppvakningurinn er þegar á kreiki. Þeir, sem vöktu drauginn upp, skulu kenna á honum sjálfir hið sama og verða sproksettir. Þar ber félagshyggjupostulana þrjá hæst, Atla, Steingrím og Ögmund. Síðan verður auðvitað að laga lagagrundvöll Landsdóms að því, sem sómasamlegt er í nútímalegu lýðræðisríki.
Nú hefur Jón Bjarnason, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, eftir miklar fæðingarhríðir, lagt fram tvö frumvörp um hrikalegt afturhvarf til slæmrar fortíðar fiskveiðistjórnunarkerfisins í andstöðu við langflesta hagsmunaaðila í sjávarútvegi og í hróplegri andstöðu við hagfræðileg lögmál. Í fortíðinni voru aðstæður í sjónum og á markaði ósambærilegar við nútímann, og þess vegna eru þessi frumvörp fullkomin tímaskekkja. Flutningsmaðurinn virðist reyndar vera sjálfur tímaskekkja og jafnan sem álfur út úr hól að þeim þó ólöstuðum.
Sameignarsinninn leggur frumvörpin fram í blindni og án þess að hafa hugmynd um afleiðingar gjörða sinna fyrir hagkerfi landsins. Ábyrgðarleysi hans er algert. Sem óviti með eldspýtur kveikir hann í mikilli byggingu, þegar hann nú setur undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, síðustu kjarasamninga og sjávarafurðamarkaði Íslendinga erlendis, í algert uppnám. Fullkomlega dæmigert ráðstjórnarráðslag.
Útgerðarmenn, sunnan, austan og vestan, hafa hins vegar reiknað út afleiðingar óráðsíu stjórnvalda fyrir sig, og fer mönnum þá að skiljast, hvers vegna útgerðarmenn hafa haldið að sér höndum um fjárfestingar frá myndun vinstri stjórnarinnar 1. febrúar 2009. Aflaheimildir Vestmannaeyinga upp á 15´500 þorskígildistonn verða samkvæmt þessu tekin ránshendi af þeim og fengnar einhverjum öðrum, m.a. þeim, sem selt hafa frá sér aflaheimildir til hinna, sem verða rændir samkvæmt frumvörpunum. Þetta er magnað argasta óréttlæti og valdníðsla að hálfu ríkisvaldsins, og það er fráleitt, að eignaupptaka af þessu tagi í anda ráðstjórnar standist ákvæði stjórnarskráar Íslands um eignarrétt og atvinnurétt. Vont er þeirra óréttlæti, en verra er þó þeirra réttlæti.
Um atvinnumissi og tortímingu rótgróinna fyrirtækja í sjávarútvegi, sem staðið hafa sig vel á markaðinum, í nafni öfundar, úlfúðar og stjórnlyndis, hefur Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og doktor í galdraofsóknum á Íslandi á 17. öld, einkum á Vestfjörðum, þetta að segja, samkvæmt Morgunblaðinu, 3. júní 2011:
"Það kemur mér ekkert á óvart, að þeir reyni að reikna sig til þessarar niðurstöðu". Þá segir hún spár um atvinnumissi ekki munu standast. "Ég mæli um og legg svo á, að það verði ekki", svo ?!
Hjá þessum þingmanni, sem er varaformaður sjávarútvegs-og landbúnaðarnefndar Alþingis, bólar sem sagt ekkert á rökum fyrir mestu inngripum ríkisins í íslenzkt athafnalíf frá því að losað var um krumlur ríkisins utan um atvinnulífið á Viðreisnarárum 7. áratugar 20. aldarinnar. Þingmaðurinn bregður sér meira að segja í líki galdrakindar og fer með heitingar. Þessum þingmanni og öðrum sameignarsinnum á Alþingi er fyrirmunað að meta afleiðingar gjörða sinna fyrir framtíðar afkomu þjóðarinnar. Þeir horfa einvörðungu aftur í tímann, hafa ekki getu til annars, og eru í heljargreipum stjórnmálakenninga, sem alls staðar hafa leitt til ófara og hörmunga, þar sem áhangendur þeirra hafa komizt til valda. Eftirminnilegt dæmi er frá Zimbabwe, þar sem Mugabe tók land af grónum bændum og færði öðrum í nafni réttlætis, en viðtakendurnir, skjólstæðingar Mugabes, reyndust hins vegar algerir búskussar, og nú flytur gamla matarkistan, sem áður hét Rhodesía, inn matvæli. Um er að ræða vitsmunalega eyðimörk á hefðbundna borgaralega mælistiku. Ef sameignarsinnar næðu völdum í Sahara, yrði þar sandskortur innan tíðar.
Þeir, sem fara með forræði ríkisvaldsins nú um stundir, hafa í raun ekki minnstu burði til að stjórna einu né neinu, hvað þá einu þjóðfélagi, eins og ofangreind dæmi sýna í hnotskurn. Þetta eru hræsnarar, loddarar og lýðskrumarar, undirmálsfólk og klúðrarar, enda er ríkisstjórn þeirra sú allélegasta á lýðveldistímanum. Í þessu ljósi má furðu gegna, að hún skuli enn njóta yfir 30 % fylgis í skoðanakönnunum. Verða góðir menn að leggjast á árarnar til að svo verði ekki lengi úr þessu.
Því hefur heyrzt fleygt, að félagshyggjuflokkarnir vilji fara í kosningar um téða sjávarútvegsstefnu sína, jafnvel að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hana. Þetta er auðvitað fullkomið dómgreindarleysi af þeirra hálfu, eins og annað, sem úr þeim ranni kemur. Vandi sjávarútvegsins eru auðvitað hrikalegar skerðingar aflaheimilda, sem átt hafa sér stað undandarin 20 ár, og töfralækningar loddara breyta þar engu um. Kvótakerfið var og er markaðsvætt stjórnkerfi til að laga sjávarútveginn að þeirri staðreynd, að veiðigetan var og er langt umfram afrakstursgetu veiðistofnanna. Fækkun skipa, vinnslustöðva og starfsfólks í sjávarútvegi var óhjákvæmileg aðlögun að raunveruleikanum til að sjávarútvegurinn yrði þjóðhagslega hagkvæmur. Öðruvísi verður hann niðurgreidd þjóðfélagsleg byrði, haldið uppi sem þætti af byggðastefnu stjórnvalda, eins og í nágrannalöndum okkar.
Hvar, sem lýðskrumararnir koma, tala þeir nú í hræsnisfullum tóni um núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og lofa tilfærslum aflaheimilda og auðlindagjalds til þess byggðarlags, þar sem þeir eru staddir þá stundina. Gildir þá einu, hvort þeir eru staddir fyrir vestan, norðan, austan eða sunnan. Loddararnir boða betri tíð alls staðar við fjölgun fyrirtækja og starfsmanna í greininni. Allir heilvita menn sjá, að þessi áróður töfralæknanna gengur ekki upp, heldur mun greinin í heild veikjast vegna þess, að ráðherra fjölgar ekki fiskum í sjónum.
Það, sem mun gerast, er, að íslenzkur sjávarútvegur mun á ný komast á vonarvöl, eins og sjávarútvegur í Evrópu yfirleitt er. E.t.v. liggur þar fiskur undir steini hjá Samfylkingunni, að þjóðnýting aflaheimilda og ráðherraræði yfir sjávarútveginum færi stjórnkerfi landsins nær stjórnkerfi ESB. Það passar þó illa við yfirlýsingar í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB, um, að íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið ætti að verða öðrum til fyrirmyndar. Því skal taka fagnandi hverju tækifæri, sem blindingjarnir í Stjórnarráðinu gefa til að takast á við þá um fiskveiðistjórnunina í baráttu fyrir Alþingiskosningar eða fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.
Jón Bjarnason, ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, hefur gert sig sekan um afspyrnu forneskjuleg vinnubrögð. Með frumvarpi hans læsir félagshyggjan klónum að nýju í undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar með þeirri ráðstjórnarvæðingu og afskiptum stjórnmálamanna, sem slíku fylgir. Að gösslast áfram með slíkt örlagamál án þess að áhættugreina það heitir að skjóta fyrst og spyrja svo, og er slíkt einkenni undirmálsmanna.
27.5.2011 | 22:11
Vanheilagt bandalag
Upp úr skjóðunni eru nú að skjótast molar, sem varpa skýrara ljósi á, hvílík regingjá er á milli orða og gjörða forkólfa ríkisstjórnarinnar. Myrkraverk þeirra leynast ekki lengur. Fjármálaráðherrann, Steingrímur Jóhann Sigfússon, er nú orðinn ber að því að vera vikapiltur alþjóðlegra fjármálaafla, líklega vogunarsjóða. Ískyggilegt er, að hann skuli hafa selt þeim Aríonbanka og Íslandsbanka og tapað um 20 milljörðum króna á þeim viðskiptum. Ríkisstjórn Geirs Hilmars Haardes var með áform um, að á rústum föllnu bankanna þriggja risu þrír ríkisbankar. Átti sú fjármögnun að nema lægri upphæð en fjármögnun nýju bankanna hefur kostað ríkissjóð. Átti að leiðrétta þá miklu hækkun skuldabyrðar heimila og fyrirtækja, sem af Hruninu leiddi, með afskriftum skulda í hinum nýju ríkisbönkum. Ekki er að spyrja að mannvitsbrekkum norrænu velferðarstjórnarinnar.
Skömmu eftir myndun vinstri stjórnarinnar, 1. febrúar 2009, var snúið við blaðinu. Þá átti sér stað furðulegasta og dularfyllsta einkavæðing Íslandssögunnar á bak við tjöldin. Vinnubrögð í anda ráðstjórnar. Kröfuhafar gömlu bankanna voru gerðir að meirihluta eigendum Íslandsbanka og Aríonbanka. Þetta gerðu Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. með "skjaldborg um heimilin" á vörunum. Svikamilla Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til að greiða fyrir aðild að Evrópusambandinu, ESB, sem hafði í hótunum er að koma í ljós. Lýðskrumarar, hræsnarar og hreinar undirlægjur erlends valds sviku þannig skuldugan almenning í klær óprúttinna gróðapunga og héldu skuldugum fyrirtækjum í heljarklóm. Þetta var gert undir hinu raunverulega kjörorði ríkisstjórnarinnar: "Tortryggni, öfund og sundrungarandi".
Hér hefur hin misheppnaða og fláráða stjórnarforysta, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Jóhann, framið slíkt axarskapt, að kalla verður saman Landsdóm til að kveða upp úr um sýknu eða sekt um landráð, "þegar þau siguðu erlendum kröfuhöfum í gegnum hina föllnu banka gegn íslenskum fyrirtækjum og almenningi í vanda", eins og segir í forystugrein Morgunblaðsins, "Alvarleg afglöp", mánudaginn 23. maí 2011.
Annað ríkulegt tilefni til að láta téða forkólfa finna rækilega til tevatnsins úr þeim katli, sem þau sjálf drógu ónotaðan og rykfallinn fram og hituðu upp með offorsi, er "Icesave" málið frá upphafi til enda. Vonandi boðar stjórnarandstaðan á þingi brátt undirbúning slíks málatilbúnaðar. Hér eru á ferðinni margfalt meiri sakarefni en í máli Geirs Hilmars, sem sakaður er um vanrækslu í starfi án þess að nokkur maður hafi getað bent með trúverðugum hætti á það, sem hann átti að gera, en lét ógert. Ákæra núverandi þingmeirihluta er ómálefnaleg, en við téð axarsköpt skötuhjúanna örmu voru skýrir valkostir.
Skriðdýrsháttur ríkisstjórnar vinstri manna í Icesave-málinu gagnvart fjármálafurstum á Bretlandi og í Hollandi, ásamt skósólasleikjum í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB, er af nákvæmlega sama meiði og gagnvart hinum erlendu kröfuhöfum bankanna. Þessi lágkúra vinstri manna gagnvart auðvaldinu er vel þekkt úr sögu Samfylkingarinnar, eins og rakið er skilmerkilega í nýútkominni bók Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, "Rosabaugur yfir Íslandi".
Hér er við hæfi að grípa niður í Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, 20.05.2011, "Ó, litla þjóð":
"En Samfylkingin, helsta skjól útrásarmanna, afsakandi þeirra og útrásarsleikja frá sínum fyrsta degi pólitískrar tilveru komst skaðlaus frá kosningunum."
Samfylkingin var stjórnmálalegur bakhjarl og fótaþurrka Baugs, enda studdu fjölmiðlar Baugs Samfylkinguna í síðustu kosningum, og þannig útskýrir höfundur Reykjavíkurbréfs, að Samfylkingin skyldi sleppa við skell í síðustu Alþingiskosningum. Nú er hins vegar komið að skuldadögum. Blekkingarhjúpinum hefur verið svipt burt, og eftir situr ófrýnilegt smetti landssvikara.
Samfylkingin þjónaði útrásarmönnum til borðs og sængur. Skemmst er að minnast REI-hneykslisins, þar sem Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi, og Össur Skarphéðinsson, þáverandi iðnaðarráðherra, studdu með ráðum og dáð, að útrásarvíkingarnir læstu klóm sínum í Orkuveitu Reykjavíkur. Svo nefndir sexmenningar í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins stöðvuðu þessa ráðagerð á síðustu stundu og uppskáru fyrir það hatur spilltrar klíku.
Samfylkingin vinnur nú ötullega að inngöngu Íslands í ESB. Þar styður hún hagsmuni bankaauðvaldsins, sem í öllum löndum Evrópu styður æ meiri samruna ("Ever closer Union") og ræður för ESB, sbr harðneskjulega aðför að Grikkjum, Írum og Portúgölum, þar sem ESB berst fyrir hagsmunum lánadrottnanna. Þetta er meginskýringin á fantabrögðum ESB gagnvart Íslendingum eftir Hrun. Samfylkingin var handbendi braskara og fjárglæframanna, sem átu bankana að innan, eða með orðum höfundar ofangreinds Reykjavíkurbréfs:
"Burðarviðurinn hafði verið seldur og auðurinn sem út úr því braski kom settur í vöxt í kjörlendi hans, skattaskjólum og þekktum peningafylgsnum."
Samfylkingin hefur ekkert breytzt frá árunum fyrir Hrun, enda neitar hún að horfast í augu við sjálfa sig og fortíð sína. Við mat á réttmæti umsóknar Íslands um aðild að ESB er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, að hagsmunir auðvalds Evrópu, sem ræður ESB, fara ekki saman við hagsmuni Íslands. Ísland er norðlæg eyja, framleiðsluland sjávarafurða, málma og landbúnaðarafurða, og þarf að gæta auðlinda sinna, sem að baki þessari framleiðslu standa. Landið er á jaðri Evrópu án landamæra að nokkru landi ESB. Nágrannarnir eru Færeyingar, Norðmenn og Grænlendingar, og ber að rækta samvinnu sérstaklega við þessar þjóðir um leið og viðskiptasamband er eflt og samstarfsverkefnum fjölgað vestur á bóginn.
Jafnframt þarf Ísland að gæta framtíðar hagsmuna sinna í norðri, en ekki að afsala þeirri hagsmunagæzlu í hendur komandi stórríkis í suðri, þó að vinsamleg samskipti við það séu okkur nauðsyn. Nýlega töpuðu Íslendingar í samkeppni við Norðmenn um að hýsa aðalbækistöðvar samtaka ríkja, sem land eiga að Norður-Íshafinu og/eða norðurpólnum. Hvers vegna halda menn, að það hafi verið ?
Það var vegna umsóknar Íslands um aðild að ESB. Þessi ríki norðursins vilja ekki hleypa ESB að borði Norðurskautsráðsins, því að ESB rekur nýtingarstefnu og viðskiptastefnu, sem brýtur í bága við hagsmuni norðursins. Nægir að nefna hval og sel í því sambandi. Hagsmunum Íslands er bezt borgið í höndum Íslendinga sjálfra. Sagan sannar þessa fullyrðingu áþreifanlega. Fjölnismenn og frelsishetjan, Jón Sigurðsson, forseti, reyndust um þetta sannspáir.
Aðstæður í samfélaginu hafa breytzt svo mikið frá kosningunum í apríl 2009 með nýjum upplýsingum og afleitri reynslu af þjóðhættulegri afturhaldsstefnu rauðgræna bandalagsins, að eðlileg lýðræðiskrafa er um Alþingiskosningar hið fyrsta samfara þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðlögunar íslenzka stjórnkerfisins að ESB eða stöðvun umsóknarferlisins og afturköllun óheillaumsóknar.
Evrópumál | Breytt 28.5.2011 kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.5.2011 | 22:10
Lánshæfi lands og óhæfni ríkisvalds
Nú er meginstoð lúalegs áróðurs fyrir ríkisábyrgð á skuldum fallins einkabanka erlendis hrunin. Andstæðingar þessarar ríkisábyrgðar héldu ætíð fram, að sú röksemd væri reist á sandi, að lánshæfi ríkisins mundi versna við höfnun Icesave-samninganna. Meirihluti landsmanna reyndist vera sömu skoðunar, þó að skrýtni fuglinn í Seðlabankanum segði opinberlega rétt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, að lánshæfi landsins mundi falla niður í spákaupmennskuflokk við höfnun; hvaða flokkur, sem það nú er.
Öll matsfyrirtækin þrjú, sem aðallega hafa komið við þessa hörmulegu sögu, hafa nú afsannað kenningar náhirðar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem ekki hefur meira vit á efnahagsmálum en heimiliskötturinn hér. Lánshæfið hefur batnað, ef eitthvað er. Mat Nei-manna (ekki þó neiara-Gríms og hirðar hans), að nýir vindar blésu nú um Evrópu gegn ríkisábyrgðum, reyndist hárrétt. Það stríðir líka gegn heilbrigðri skynsemi, að lánshæfi stórskuldugs aðila batni við, að hann bæti á sig skuldaklafa. Þetta hefur auðvitað berlega komið fram á Grikkjum, en lánshæfi þeirra er nú með þeim hætti, að hætt er að kaupa af þeim ríkisskuldabréf við lægri vöxtum en 15 % á ári, enda nema ríkisskuldirnar um 160 % af VLF (vergri landsframleiðslu Grikkja). Þýzka ríkisstjórnin hefur áttað sig á, að skuldastaða Grikkja er ósjálfbær, og berst nú við Evrópubankann (ECB) um að fella hluta skulda Grikkja niður. Er hún að vinna ýmsar fleiri ríkisstjórnir evrusvæðisins á sitt band. Spurningin er hins vegar sú, hvort þjóðargjaldþrot Grikkja (endurröðun lána á máli stjórnenda ESB) muni leiða til mikils falls evrunnar, sem knýi ECB til svo mikilla vaxtahækkana, að efnahagur evruríkja í efnahagsvörn hrynji einnig. Við þessar aðstæður boðar blöðruselurinn í utanríkisráðuneytinu upptöku Íslands á evru 3 árum eftir aðild ("Anschluss").
Áróður stuðningsmanna Icesave-laganna var uppspuni frá rótum. Þessi lygavefur ríkisstjórnarinnar og annarra áhangenda ESB-aðildar Íslands var spunninn til þess einvörðungu að þóknast Evrópusambandinu og greiða fyrir inngöngu Íslands. Þessi málatilbúnaður er einn sá alómerkilegasti, sem sézt hefur hér um áraraðir. Það á alls ekki að láta opinbera aðila, Seðlabankann, ríkisstjórnina, embættismenn eða þingmenn komast upp með þvættinginn, heldur á að nudda þeim upp úr honum og krefja þá skýringa á blekkingavaðlinum. Hér hafa lygamerðir leikið lausum hala, og nú verða þeir að fá að finna til tevatnsins.
Af þessu tilefni var það rifjað upp í forystugrein Morgunblaðsins, "Nei reyndist jákvætt", þann 17. maí 2011, að forsætisráðherra landsins tók ekkert smáræði upp í sig í viðtali við erlenda fjölmiðla um þetta málefni, er hún spáði "efnahagslegu öngþveiti" á Íslandi í kjölfar höfnunar þjóðarinnar. Hér getur eitt af þrennu verið á ferðinni:
- forsætisráðherra er algerlega dómgreindarlaus
- forsætisráðherra gengur erinda erlends valds
- bæði ofangreind atriði eiga við
Taka skal undir það, sem í téðri forystugrein stendur, að 40 % þjóðarinnar, sem mark tóku á blekkingavefnum, eiga heimtingu á skýringum. Auðvitað mun koma í ljós, að keisarinn er ekki í neinu. Það var einfaldlega af blygðunarleysi verið að ganga erinda ESB. Framið var stjórnmálalegt blygðunarbrot.
Nú er að koma berlega í ljós, það sem margir vissu, að utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, er ekki treystandi til að stjórna aðlögunarviðræðum við ESB. Hann og aðalsamninganefnd hans hafa gengið að kröfum ESB um að innleiða stjórnkerfi þess á landbúnaðarmálum hérlendis. Þetta er gert í óþökk landbúnaðarráðherra, í algerri andstöðu við bændasamtökin íslenzku og sennilega í blóra við drjúgan meirihluta þjóðarinnar. Opinni lýðræðislegri umræðu er gefið langt nef af téðum Gosa.
Brugðið er leyndarhjúpi yfir þetta ferli, sem þó ætti að vera opið fyrir lýðræðislegri umræðu. Gjörðir Össurar Skarphéðinssonar þola ekki dagsljósið nú frekar en fyrri daginn. Þess vegna á að stöðva þetta aðlögunarferli strax, leggja spilin á borðið og leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um framhald eður ei. Segja má, að Össur níðist á lýðræðinu, sólundi ríkisfjármunum og verði þjóðinni til háborinnar skammar, því að mikill meirihluti þjóðarinnar er algerlega andvígur inngöngu, og það er borin von, að mannvitsbrekkur utanríkisráðuneytis Íslands snúi ESB á sveif með hagsmunum Íslands.
Hvað rekur sig á annars horn hjá þessari ríkisstjórn. Á sama tíma og hún gerir andvana fædda tilraun til að fella stjórnkerfi íslenzks landbúnaðar að dauðadæmdri landbúnaðarhít ESB, sem tekur um helming af útgjöldum á fjárlögum ESB og borið er uppi af frekju Frakka og fjármögnun Þýzkalands, þá rembist ríkisstjórnin við að geta af sér óskapnað sem á að kallast nýtt stjórnkerfi sjávarútvegs, sem jafnvel ESB dytti ekki í hug að setja á laggirnar. ESB er nú að vega og meta kosti og galla aflahlutdeildarkerfis eða kvótakerfis í sjávarútvegi, enda hefur slíkt kerfi alls staðar sýnt þjóðhagslega yfirburði, þar sem það hefur verið innleitt. Afturhaldið í Stjórnarráðinu horfir aftur um 80 ár og reynir að blása lífi í löngu dauða, fjarstæðukennda kreddu Leníns um eignarhald hins opinbera á auðlindum og atvinnutækjum.
Íslenzka ríkisstjórnin með Alþingisleppa sína er að afnema markaðsknúið hagkerfi á Íslandi. Hún stingur í þeim efnum og öðrum algerlega í stúf við allar aðrar ríkisstjórnir á Vesturlöndum. Ríkisstjórnin er sorgleg tímaskekkja og á að hypja sig hið snarasta til Bessastaða og biðjast þar lausnar.
Ábyrgðarleysi kreddufullra og hatursfullra stjórnmálamanna nær nýjum hæðum með tilraunum þeirra til lögfestingar á ræningjafyrirkomulagi, sem rænir núverandi handhafa afnotaréttarins að fiskimiðunum hluta af atvinnurétti þeirra, sem kippa mun afkomugrundvellinum undan fyrirtækjum þeirra og valda óbætanlegum skaða á markaðsstöðu Íslands og markaðssamböndum. Norðmenn hyggja nú þegar gott til glóðarinnar að fylla skarðið.
Aflahlutdeildarkerfið hefur stóraukið framleiðni sjávarútvegs og gæði framleiðslunnar. Þetta hvort tveggja er grundvöllur að sívaxandi verðmætasköpun hans þrátt fyrir minnkandi kvóta. Kvótakerfið hefur gert kraftaverk á íslenzka sjávarútveginum. Hann malar þjóðarheildinni gull og stóð, ásamt orkukræfum stóriðnaði, undir gríðarlegum lífskjarabata hérlendis á árunum 1995-2007. Allir útreikningar hagfræðinga sýna, að áform ríkisstjórnarinnar eru argasta glapræði. Þau hafa í för með sér mikið óréttlæti, enda stríðir þvinguð eignaupptaka af þessu tagi gegn 72. grein Stjórnarskráarinnar um verndun eignarréttar (afnotaréttur er ein tegund eignarréttar). Hringl með stjórnarskráarvarin réttindi er einkenni frumstæðra stjórnenda.
Evrópumál | Breytt 21.5.2011 kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.5.2011 | 23:36
Stóra-Berta
Nú berast fréttir af því, að ESB (Evrópusambandið) hyggist leggja fullan þunga í áróður fyrir jákvæðu gildi sínu fyrir Íslendinga. Verður ekkert til sparað, og digrir sjóðir reiddir fram. Er af þessu ljóst, hvílíka áherzlu ESB leggur nú á að lokka Ísland inn fyrir þröskuldinn, og hverjir hafa mestan ávinning af slíkri innlimun. Eftir það hafa þeir í fullu té við okkur, og munu breyta Íslandi með þeim hætti, sem fæstum Íslendingum hugnast, þ.e. í eins konar selstöð.
Er nú verið að sækja Stóru-Bertu, en risastór fallbyssa Þjóðverja, sem þeir notuðu á vesturvígstöðvunum í heimsstyrjöldinni fyrri, gekk undir þessu nafni. Stórveldi Evrópu vilja öðlast aðgang að norðurslóðum. Noregur er ekki tagltækur, en nú telja hýenur, að Ísland liggi vel við höggi. Þær munu komast að því, hvar Davíð keypti ölið.
Við þessar aðstæður ritar Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur og prófessor, góða grein í Morgunblaðið þann 10. maí 2011 undir fyrirsögninni, "Réttlátt samfélag eða Evrópusamband". Hér skal fúslega játa, að eftir lestur greinarinnar missti höfundur þessarar vefgreinar neðri kjálkann niður á bringu af undrun yfir því að vera sammála Ragnari, jarðskjálftafræðingi, um meginmál.
Við krufningu málsins kom skýringin í ljós. Hún er fólgin í eftirfarandi málsgrein úr grein Ragnars:
"Með fiskimiðin, með landgæðin, með orkuna og með menntunina höfum við möguleika á að byggja gott og réttlátt samfélag, ef við varðveitum sjálfstæði okkar til þess og ef við náum samstöðu um, að þetta sé mikilvægast fyrir manneskjurnar, sem hér búa."
Hér er hægt að túlka "gott og réttlátt samfélag" að vild lesandans. Það, sem Ragnari þykir gott og réttlátt, kann mér að þykja vera bæði vont og óréttlátt. T.d. er þjóðnýting aflaheimilda grafalvarleg atlaga að lífskjörum almennings og mun leiða til gengisfellinga, lækkunar á lánshæfi og efnahagsöngþveitis að dómi fjölmargra.
Frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytta skipan í sjávarútvegi er stórt skref aftur á bak, argasta sameignarstefna í anda Leníns og Stalíns og mun leiða til handstýringar stjórnmálamanna á hagkerfinu. Verst mun landsbyggðin verða úti í þessu fári, því að launin í greininni hljóta óhjákvæmilega að lækka, þegar fótunum er kippt undan sjávarútveginum. Lýðskrumarar ráða ferðinni og þykjast vera að færa verðmæti til almennings, en því er alveg þveröfugt varið. Kvótakerfið stórbætti kjör almennings, af því að tilkostnaður við hvert þorskígildi lækkaði og markaðsstaðan var efld. Þess vegna varð meira til skiptanna. Ríkisstjórnin mun með glæpsamlegri stefnu sinni setja fyrirtæki á hausinn, sem nú eiga um helming aflaheimildanna, samkvæmt rannsókn fræðimanna við Háskólann á Akureyri. Hin veikari á meðal hinna munu lepja dauðann úr skel, og bankarnir munu verða við dauðans dyr. Sameignarstefnan mun á örskotsstundu ganga af íslenzka hagkerfinu dauðu.
Það er hins vegar hægt að vinda ofan af þessari dauðans vitleysu, sem væntanleg lagasetning félagshyggjuliðsins er, þegar þjóðinni auðnast að varpa þessu skaðræðis oki af sér, sem nú situr í Stjórnarráðinu og hagar sér eins og naut í flagi. Það verður hins vegar ekki hægt að varpa af sér oki ESB, þegar kjörtímabili lýkur. Þess vegna eru hægri menn fúsir til að berjast við hlið vinstri manna á borð við Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðing og prófessor, gegn ásælni erlends valds.
Í þessu samhengi málsins, sem er andstaða við fullveldisframsal til Brüssel með innlimun í ESB, er aðalatriðið, að vinstri menn og hægri menn geta sameinazt gegn krötum og taglhnýtingum þeirra og gegn ásælni erlends valds í ítök hér. Þetta bandalag mun bera sigurorð af landsölumönnum og kveða þá í kútinn um langa framtíð.
Aðlögunarferlið er þess vegna andvana fætt og ber að stöðva þann undirmáls málatilbúnað áður en meira skattfé, sem tekið er að láni erlendis, verður sólundað á altari hégómagirndar Össurar Skarphéðinssonar og annarra krata og taglhnýtinga þeirra, sem mikið telja gefandi fyrir að fá að hanga í bakhluta stórríkisins, sem hins vegar mun sízt taka því fagnandi að hafa verið dregið á asnaeyrunum með fótalausri og grasvitlausri umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Hér gildir sem áður, að betri er barður þræll en feitur þjónn.
15.4.2011 | 18:16
Hangir á horriminni
Vantrauststillaga Sjálfstæðisflokksins á hendur ríkisstjórninni leiddi í ljós, að hún höktir nú á minnsta mögulega meirihluta. Svo mjög hefur ósvífni og tækifærismennska Steingríms Jóhanns gengið fram af flokksmönnum hans, að þrír þeirra hafa nú kastað sér fyrir borð og hyggjast synda til lands og berjast við Steingrím á flokksvettvangi og utan. Er þá deginum ljósara, að vinstri-grænir munu ganga með böggum hildar til næstu kosninga og í mörgum kjördæmum verða þurrkaðir út vegna svika við kjósendur. Farið hefur fé betra.
Hvers vegna lafði þessi gæfusnauða og illa mannaða ríkisstjórn ? Guðfríður Lilja, sem fékk stöðumissi í stað blómvandar við endurkomu á þing, var á báðum áttum. Eftir að Árni Þór hafði þó lotið í gras og afsalað sér langþráðum titli þingflokksformanns í friðþægingarskyni við skákdrottninguna að skipun húsbónda síns, beit hún höfuðið af skömminni með því að gefa ríkisstjórninni líf, þó að framferði ríkisstjórnarinnar sé í veigamiklum atriðum upp á kant við stefnuna, sem hún gekk á hönd, er hún gekk til liðs við Vinstri hreyfinguna grænt framboð.
Það var þó eitt hálmstrá, sem hún hékk á, og var það sannarlega ekki hvönn, eins og Þorgeir Hávarsson hékk í forðum á bergbrúninni að sögn Þormóðar, Kolbrúnarskálds. Guðfríður færði það sem sérstök rök fyrir framlengingu á dauðastríði ömurlegrar ríkisstjórnar, að hún mundi standa vörð um það hugðarefni Guðfríðar að taka enga ákvörðun um virkjun Neðri-Þjórsár.
Hvaða skoðun skyldi iðnaðarráðherra hafa á þessu afturhaldssama sjónarmiði ? Hún hefur líklegast lagt kollhúfur við því, eins og hún er vön. Afturhaldið, sem nú heldur um stjórnartauma landsins, á sér samnefnara í athafnaleysi og heldur þannig athafnalífinu og vinnumarkaðinum í heljargreipum.
Þetta er engin tilviljun. Vinstri hreyfingin grænt framboð telur hagvöxt vera illt afsprengi auðvaldsskipulagsins og þvælist þess vegna af öllum mætti fyrir öllum ákvörðunum, sem leitt geta til þess að rífa þjóðfélagið upp úr núverandi stöðnun. Stöðnun er óskastaða vinstri-grænna, því að þannig er girt fyrir hagvöxt.
Græningjar um allan heim eru við sama heygarðshornið. Þeir telja hagvöxt verða á kostnað náttúrunnar. Orkuöflun er sérstakur skotspónn græningja. Ástæðurnar eru af tvennum toga. Annars vegar vita græningjar, að orkuöflun er forsenda hagvaxtar. Með því að berjast gegn orkuöflun kyrkja græningjar hagvöxt.
Hins vegar fylgir orkuöflun víðast erlendis aukin mengun af einhverju tagi eða geislunarhætta. Oftast er um að ræða aukið sót, brennistein og koltvíildi út í andrúmsloftið, en einnig getur verið um að ræða hávaða, fugladauða og sjónræn umhverfisspjöll, t.d. af völdum vindmylla.
Íslenzkar vatnsaflsvirkjanir eru allar sjálfbærar og einnig afturkræfar samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu. Mengun af þeirra völdum er í algeru lágmarki á heimsvísu. Það er þess vegna einboðið að nýta þessa auðlind til að útrýma atvinnuleysinu í landinu. Neðri-Þjórsá er efst á lista um hagkvæmni og lítið umhverfisrask. Þess vegna verður ekki séð, að þessi ríkisstjórn muni samþykkja nokkra nýja virkjun, ef hún leggst gegn virkjunum í Neðri-Þjórsá.
Afstaðan til virkjana varðar grundvallar hagsmuni almennings og er þess vegna kjaramál. Nýjar virkjanir og framhald iðnvæðingar eru grundvöllur þess, að hér verði fullt atvinnustig og og að lífskjör í landinu verði samkeppnihæf við hin beztu í Evrópu. Helztu ástæður þessa eru eftirfarandi:
- fjárfestingar þurfa að nema um 25 % af VLF (verg landsframleiðsla) eða tæplega ISK 400 mia. á ári til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast nægilega hratt til að þörf verði á auknu vinnuafli og saxist á fjölda atvinnulausra.
- helmingurinn af þessu fé gæti komið frá hefðbundnum þáttum, þegar hagkerfið fer að taka við sér, en um ISK 200 mia. á ári þurfa að verða á formi erlendra fjárfestinga. Engar umtalsverðar slíkar eru í sjónmáli án aukinnar nýtingar á orkuauðlindinni, og aðeins stóriðja getur nýtt hana að marki. Ísland er enn samkeppnihæft um orkuverð til stóriðju, og enginn geiri athafnalífsins hefur meiri burði til stækkunar og framlags til hagvaxtar en stóriðja.
- aðeins straumur erlends gjaldeyris inn í landið af ofangreindri stærðargráðu getur gert kleift að losa um og losna við gjaldeyrishöftin, en slík eru mikill áfellisdómur yfir hagstjórn í hverju ríki, sem setur þau upp og viðheldur. Þau brjóta í bága við frelsin fjögur á Innri markaði EES, en þessi innri markaður er ein af rósunum (ekki þó kratarós) í hnappagati ESB og styður við heilbrigða samkeppni í Evrópu.
- auknar gjaldeyristekjur eru skilyrði styrkingar krónunnar og greiðslu á vöxtum og afborgunum hins opinbera og einkaaðila til útlendinga með skaplegum hætti, þ.e. að koma skuldum ríkisins niður í um 30 % af VLF á 10-15 árum án þess að innviðir samfélagsins fari við það á hliðina.
Það er þess vegna ekkert smáræði, sem leiða kann af því, að skákdrottningin tók þá ákvörðun 13. apríl 2011 að valda eitraða peðið, sem skírt var Steingrímur Jóhann á sinni tíð. Ákvörðun hennar jafngildir því að halda atvinnulífinu áfram í spennitreyju, lykilatvinnuvegum í uppnámi, festa atvinnuleysi í 10 %, reka ríkissjóð á heljarþröm, og að gera kjararýrnun viðvarandi í landinu frá ári til árs.
Þetta eru ekki dyntir skákdrottningarinnar, heldur er hún með þessu trú stefnu vinstri-grænna um að koma í veg fyrir hagvöxt með öllum mögulegum og ómögulegum ráðum. Á þetta horfir Samfylkingin aðgerðarlaus og er ekki svo leitt sem hún lætur, enda er þetta verðið, sem hún greiddi fyrir að fá að sækja um aðild að ESB. Sjá nú allir, hversu illa var stofnað til þessa stjórnarsamstarfs. Þar haldast í hendur amlóðaháttur og afturhald, a&a, sem þó á ekkert skylt við hin ágætu AA-samtök.
Myndin hér að neðan lýsir vel anda umræðunnar í Evrópu eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á Íslandi 9. apríl 2011, þegar vanda skuldugra ríkja ber á góma. Ísland setti þá fagurt fordæmi, en hvernig á nokkur maður, innlendur eða útlendur, að geta treyst ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur til að framfylgja hinni skýru stefnumörkun þjóðarinnar ?
11.4.2011 | 10:41
"Hrafnaþing kolsvart í holti"
Tveir menn reyndust öðrum fremur verða örlagavaldar um farsæla og sjálfsagða afgreiðslu Icesave#3. Er annar forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, en án hans tilstyrks hefði þjóðin ekki fengið tækifæri til að stöðva gæfusnauða vegferð vitstola stjórnvalda með auðsveipt þing í taumi, kolsvart hrafnaþing, eins og skáldmæringurinn, Jónas Hallgrímsson, kvað forðum.
Hinn örlagavaldur málsins var ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson. Hann hóf þegar í upphafi skelegga baráttu gegn lögunum um Icesave#3 , og atti þar kappi við ofurefli liðs og skoðanakannanir, sem bentu til, að valdastétt landsins hefði tekizt að sannfæra meirihluta landsmanna um, að skárst væri að samþykkja ófögnuðinn. Með listfengi og meistaralegum stílbrögðum tókst Davíð fangbrögðum við réttrúnaðarfólk samfélagsins, sem með RÚV, Fréttablaðið, flesta aðra fjölmiðla , drjúgan hluta háskólasamfélagsins og aðila vinnumarkaðarins fór fram með hótunum, hálfkveðnum vísum, villandi upplýsingum og röngum ályktunum.
Að sjálfsögðu lögðu fjölmargir mætir menn og konur hönd á plóginn, lögðu fram staðreyndir og vöktu máls á hinum augljósa undirlægjuhætti Já-sinna við Evrópusambandið, ESB, sem var allan tímann hinn raunverulegi andstæðingur í þessu máli. Þess vegna er vegferð þessa máls jafnógæfuleg og raun ber vitni um. Menn kunnu eki fótum sínum forráð í þjónkun sinni við hið erlenda vald.
Ríkisstjórnin með Samfylkinguna í broddi fylkingar, ásamt öðrum áhangendum aðildar Íslands að ESB, vildu fórna hagsmunum íslenzkra skattborgara, íslenzks almennings á blótstalli ESB til að komast þar inn. Með sigrinum 9. apríl 2011 tókst að hindra þetta og þar með vannst tvöfaldur sigur. Draumur Össurar & Co. með Ísland inn í ESB er orðinn að martröð Samfylkingarinnar.
Nú er sagt, að slíðra eigi sverðin. Hvað lætur forsætisráðherra verða sitt fyrsta verk morguninn eftir niðurlægjandi ósigur sinn ? Hún lýsir því yfir við erlenda fjölmiðla, að útkoma þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafi verið sú versta, sem hugsazt gat. Af þessu er aðeins hægt að draga þá ályktun, að núverandi forsætisráðherra er sá versti, sem hugsazt getur úr hópi hins kolsvarta hrafnaþings við Austurvöll. Hún leikur tveimur skjöldum og vinnur hagsmunum Íslands meira ógagn en gagn.
Framganga fjármálaráðherra eftir sinn bitra ósigur var ekki því markinu brenndur að taka málstað andstæðinganna að þessu sinni. Hann hóf sig yfir lágkúrulegan málflutning sinn fyrir kosningarnar og talaði nú máli þjóðar sinnar. Þessa óvæntu stefnubreytingu má þó rekja til afar óeðlilegs atburðar, sem hann stóð fyrir sama daginn í eigin þingflokki. Hann setti skákmeistarann Guðfríði Lilju út af sakramentinu með því að steypa henni af stóli þingflokksformanns vinstri-grænna fyrsta daginn hennar í vinnu eftir "barnsburðarleyfi". Fruntaháttur fjára ríður ekki við einteyming. Nú þynnist fjanda flokkur.
Sjálfstæðismenn gengu með klofinn skjöld til þessara kosninga, og höfðu sjálfstæðismenn, þversum, betur. Ástæðan fyrir þessum klofningi var það feigðarflan forystu Sjálfstæðisflokksins að ganga í berhögg við stefnumörkun Sjálfstæðisflokksins á síðasta Landsfundi. Þar var kveðið eins skýrt að orði og verða má um, að ekki skyldi undirgangast löglausar kröfur útlendinga. Það er hulin ráðgáta, hvernig forystunni og sjálfstæðismönnum, langsum, datt í hug að hunza þessa samþykkt við atkvæðagreiðslu á hinu kolsvarta hrafnaþingi við Austurvöll. Þeir verða sjálfir að útskýra þetta á réttum vettvangi, en vonandi verður ekki meira um slíka fingurbrjóta á næstunni. Formanni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur liðizt það að fara með stefnuskrá síns flokks, eins og brókina sína, enda er sú stefnuskrá reist á siðblindu, eignaupptöku og ófrelsi einstaklingsins á flestum sviðum, en þveröfugt á við um stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, og þess vegna gera sjálfstæðismenn háreistari kröfur til sinnar forystu.
Einn er sá maður, sem ber höfuð og herðar yfir alla stjórnmálamenn landsins, en það er forseti lýðveldisins. Hann boðaði til blaðamannafundar sunnudaginn 10. apríl 2011 að Bessastöðum. Er skemmst frá því að segja, að hann fór þar á kostum. Hann er augljóslega að blása til stórsóknar fyrir málstað Íslands á erlendri grundu. Leikur ekki á tveimur tungum, að forsetinn fyllir upp í tómarúm ríkisstjórnarinnar á þessum vettvangi, en þar fara dæmalausar liðleskjur gagnvart útlendingum og undirlægjur gagnvart ESB.
Er ekki að efa, að forseti lýðveldisins á eftir að bregða bröndum, svo vígfimur sem hann er, og að vinna málstað Íslands fylgi á meðal lykilmanna. Eins og Nei-sinnar (t.d. sjálfstæðismenn, þversum) þreyttust ekki á að benda á, er góður jarðvegur nú fyrir þennan málflutning í heiminum, ekki í sízt í Evrópu, þar sem sú stefna ESB og ECB (Evrópubankans) að bjarga lánadrottnum veikra banka og veikra ríkja er að bíða skipbrot. Nú er Portúgal komið í gapastokkinn, og er þá Spánn næstur, en þá munu Þjóðverjar stöðva þetta óheillaferli, því að ekki er stuðningur á meðal þýzkra kjósenda við slík risaútlát í björgunarsjóð ESB, sem Spánn mun útheimta. Gengi evrunnar mun þá falla, þrátt fyrir hækkandi vexti þar á bæ. Allsvakalega mun þá hrikta í stoðum Evrópusamstarfsins, og verður það mikið gjörningaveður. Verður þá smáþjóð affarasælla að standa til hlés.
Þannig fer, þegar stjórnmálamenn fara af stað með sín stóru og illa ígrunduðu verkefni, sem eru í blóra við lögmál hagfræðinnar, jafnvel náttúrulögmál og heilbrigða skynsemi. Þetta var einmitt upphaf evrunnar, stjórnmálagjörningur að undirlagi Frakka til að losna undan ægishjálmi þýzka marksins. Nú standa þeir í skugga Þjóðverja, sem eru að ná aðstöðu til að deila og drottna í Evrópu í krafti eigin dugnaðar.
7.4.2011 | 22:04
Þvinganir og þumalskrúfur og svarið er NEI
Brezka ríkisstjórnin beitti íslenzka banka og íslenzka ríkið fantabrögðum í október 2008, er hún flokkaði íslenzku bankana og íslenzku ríkisstjórnina með ótíndum hryðjuverkamönnum. Svo lítil hafa síðan verið geð guma, sem verja áttu hagsmuni íslenzku þjóðarinnar, að aldrei virðist hafa verið reist burst gegn þessu óþokkabragði George Browns og Alistair Darlings, ráðherra brezka Verkamannaflokksins, systurflokks Samfylkingarinnar á Íslandi. Lee Buchheit hefur upplýst, að ekki hafi verið vakið máls á þessu í samningaviðræðunum um Icesave#3. Hér liggja stórfelldir hagsmunir Íslendinga óbættir hjá garði, sem minnast ber 9. apríl 2011. Þess má þá jafnframt minnast, að hollenzkir ráðherrar og embættismenn hafa sýnt okkur mikla óbilgirni innan ESB, þar sem þeir eru á meðal innstu koppa í búri, og hafa löngum verið með ógeðfelldar hótanir frá því þeir greiddu hollenzkum innistæðueigendum upp inneignir sínar í hollenzka Icesave-bankanum af ótta við bankahrun vegna áhlaups á banka í eigin landi.
Icesave-málið er dæmi um frámunalega lélegan erindrekstur íslenzkra stjórnmálamanna og embættismanna með hagsmuni íslenzku þjóðarinnar. Aldrei átti að ljá máls á vaxtagreiðslum til Breta og Hollendinga vegna útláta til að forða áhlaupi á þeirra eigin banka. Aldrei átti heldur að ljá máls á að gangast í ábyrgð fyrir óvissa upphæð, enda stríðir slíkt gegn Stjórnarskrá. Ekki átti að hvika frá kröfunni um forgang íslenzka innlánstryggingasjóðsins í þrotabúið óskipt, því að krafan um lágmarkstrygginguna stendur á þann sjóð.
Áhættan samfara samþykki á Icesave-lögunum er gríðarleg. Að skuldbinda ríkissjóð fyrir óvissri upphæð, sem hlaupið getur á hundruðum milljarða króna, er forkastanlegt. Farandi dómstólaleið höfum við ekki skuldbundið okkur til eins né neins og höfum allt að vinna, en engu að tapa, í samanburðinum. Nú ganga í garð krepputímar á Bretlandi, því að Bretar eru að bíta úr nálinni með gríðarlegan fjáraustur ríkisins í brezka banka og herða þess vegna sultarólina mjög. Hvaða áhrif halda menn, að slíkt hafi á eignaverð þrotabúsins og heimtur í það ?
Bent hefur verið á gengisáhættuna, en vegna aukins útstreymis gjaldeyris úr íslenzka hagkerfinu við fullnustu Icesave-samningsins er viðbúið, að gengi falli enn meir en þegar er orðið frá gerð samningsins.
Icesave-samningurinn er kjánalegur séður frá íslenzkum bæjarhóli, því að yfirgnæfandi líkur standa til, að kostnaður Íslendinga af samninginum verði margfaldur á við það, sem dómstólaleiðin mundi kosta landsmenn. Hræðsluáróður um refsingar EES eða verri lánakjör í útlöndum við höfnun Icesave er ættaður frá ESB og á ekki við nein rök að styðjast, því að heimurinn er stærri en Evrópa, og "peningar fara aldrei í fýlu". Peningamenn líta á efnahagsumhverfið, stjórnarfarið og möguleika á samkeppnihæfri arðsemi.
Hafa ber í huga, að nú falla öll vötn til Dýrafjarðar, þegar kemur að afstöðu Evrópumanna til ríkisábyrgðar á starfsemi fjármálastofnana. Sú stefna ESB og ECB (Evrópubankans) hefur gengið sér til húðar. Írar eru á heljarþröm vegna þumalskrúfu ESB, eins og Íslendingar mundu verða eftir samþykkt hinna illræmdu Icesave-laga, sem er skilgetið afkvæmi evrópsks bankaauðvalds, og þýzkir kjósendur hafa sýnt Merkel, kanzlara, gula spjaldið í fylkiskosningum undanfarið, sem túlkað er sem megn óánægja þýzkra kjósenda með að verja stórfelldum fúlgum þýzks skattfjár til veikra ríkja á evrusvæðinu til að bjarga bönkum, þýzkum og öðrum, frá útlánatapi. Öll stefna ESB er þjónkun við stórauðvaldið á kostnað almennings í Evrópu.
Hans Tietmayer, fyrrverandi bankastjóri Bundesbank, þýzka seðlabankans, var búinn að vara við því, að sameiginlegur gjaldmiðill gengi ekki upp án sams konar fjárlaga í öllum evrulöndunum. Nú er reynt að koma evrunni til bjargar með því að efla enn miðstýringuna frá Brüssel. ESB-búrókratar mega ekki til þess hugsa, að til málarekstrar komi um ríkisábyrgð á innlánstryggingasjóðunum af eftirtöldum ástæðum:
- Ef dómstóll kveður upp úr um, að engin ríkisábyrgð sé fyrir hendi, sem líklegast er, þá missa bankarnir tiltrú og áhlaup verður gert á veikustu bankana, sem hafa mun keðjuverkandi áhrif og fella evrópska bankakerfið. Það eru þess vegna miklu meiri hagsmunir í veði en þær smáupphæðir á evrópskan mælikvarða, en háar á íslenzkan mælikvarða, sem um er teflt í Icesave-málinu.
- Ef dómstóll kveður upp úr um ríkisábyrgð, mun slíkt magna ábyrgðarleysi bankanna, þeir verða enn áhættusæknari, gætu þanizt út og valdið eignabólu, sem síðan springur með brauki og bramli.
Það hefur frá upphafi verið ljóst, að Íslendingar væru að fást við ESB (Evrópusambandið), þegar Icesave var annars vegar. ESB hrærði í stjórnmálamönnum á Norðurlöndum og AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum) varðandi lánveitingar, en hefur ekki lengur bolmagn til þess, vegna þess að almenningur í Evrópu er búinn að fá sig fullsaddan á þjónkuninni við bankaauðvaldið. Tíminn hefur unnið með okkur. Með afar skýrum hætti hefur sterk tenging málsins við ESB birzt hérlendis. Þeir sem hallir eru undir ESB, hafa stundað illvígan áróður fyrir því að gangast undir jarðarmen bankaauðvaldsins og ríkistryggja skuldbindingar fallna bankans og borga vexti í ofanálag. Málpípur ESB hafa sumar orðið aumkvunarverðar, er þær hafa étið upp vitleysuna úr bankamönnum og skósveinum þeirra í matsfyrirtækjunum, en á þeim og greiningardeildum bankanna er harla lítill munur. Allt étur þetta lið úr lófa bankaauðvaldsins. Þá var og ósæmandi með öllu, að forkólfar s.k. aðila vinnumarkaðarins, SA og ASÍ, skyldu í örvæntingu kasta fram öfugsnúnum hugrenningum sínum um þróun íslenzka hagkerfisins, ef það verður losað undan Icesave-ánauðinni. Þetta er ósæmilegur ESB-áróður úr lausu lofti gripinn.
Nóg er nú komið af hræðsluáróðri utan þings sem innan. Synjun um staðfestingu Icesave-laganna er um leið höfnun á leiðsögn þeirar dæmalausu ríkisstjórnar, sem nú situr. Eftir síðustu höfnun átti hún auðvitað að sigla sinn sjó, enda hefur hún síðan staðfest, að henni er ekki treystandi til að fást af manndómi við þetta deilumál. Eftir höfnun 9. apríl 2011 hefur ríkisstjórnin hvorki siðferðilega, málefnalega né lýðræðislega stöðu til áframhalds. Leysa ber þá þingið upp og boða til Alþingiskosninga. Sýnum öðrum gott fordæmi og segjum Nei.
26.3.2011 | 19:48
Vantraust
Ríkisstjórnin er trausti rúin, enda klúðra ráðherrar hennar öllu, sem þeir koma nálægt. Forsætisráðherra, sem henti frá sér efnahagsmálunum og tók til sín jafnréttismálin í staðinn, tókst ekki að ráða skrifstofustjóra án þess að brjóta jafnréttislög að dómi jafnréttisráðs.
Umhverfisráðherra er margdæmdur fyrir brot í starfi; kosningar til stjórnlagaþings, aðalhugðarefni forsætisráðherrans, voru ógiltar af Hæstarétti vegna óvandaðrar lagasetningar og klúðurs við framkvæmd, en þá gerði Alþingi sér lítið fyrir og skipti um nafn á fyrirbærinu, eins og aðrir skipta um brók. Nú býr stjórnlagaráð sig undir að heimta stjórnarskrárbrot með því að Alþingi láti tillögur þess, órýndar af því sjálfu, ganga til þjóðarinnar beint. Þetta er alger farsi og lágkúran helber.
Atvinnurekendur og verkalýðshreyfing hafa lýst örvæntingu sinni yfir verkleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart öllu, er til framfara og atvinnusköpunar kann að horfa. Samtök sveitarstjórna hafa gefizt upp á ríkisstjórninni. Aðeins féttastofan RÚV-TASS styður ríkisstjórnina. Réttasta lýsingin á stöðunni er sú, að ríkisstjórnin er dauð, en afturgangan er enn með tilburði til að þvælast fyrir.
Talsmenn höfuðatvinnuvega landsins hafa lýst hneykslun sinni á niðurrifsstarfsemi ríkisstjórnarinnar gagnvart atvinnuvegunum. Ríkisstjórnin sýnir iðnaðinum, sér í lagi stóriðju, beinan fjandskap, hvað sem innantómum fagurgala iðnaðarráðherra líður. Ríkisstjórnin hótar að eyðileggja áratuga uppbyggingarstarf í sjávarútvegi og að tortíma lífsnauðsynlegum viðskiptasamböndum, sem reist eru á stöðugleika, t.d. á afnotarétti aflahlutdeilda (kvóta).
Minnzt var á framkomu ríkisstjórnarómyndarinnar við atvinnuvegina hér að ofan. Engan þeirra hefur hún leikið jafngrátt og sjávarútveginn. Jón Bjarnason, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, gefur dauðann og djöfulinn í allt, sem snertir arðsemi greinarinnar. Hann, eins og flokkssystir hans í umhverfisráðuneytinu, er í stjórnmálum og stundar stjórnmál með gerðum sínum í ráðuneytum sínum. Þetta er stjórnsýslubrot og má flokka til siðrofs,sem er einkenni alræðissinnaðra stjórnmálamanna, sem hatast við einkaframtakið og einstaklingsfrelsi, en láta tilgang stjórnmálastefnu sinnar helga meðalið.
Í góðri grein prófessors Ragnars Árnasonar í Morgunblaðinu 7. marz 2011 sýnir hann með gildum rökum og tilvísunum í aðra fræðimenn, að það eru allt önnur öfl að baki byggðaröskunar á Íslandi og annars staðar en kvótakerfi sjávarútvegs. Kvótakerfið var sett á í neyð til að mæta þeirri stöðu, sem upp var komin í sjávarútvegi í upphafi 9. áratugar 20. aldarinnar, er sóknarþunginn var orðinn langt umfram veiðiþol miðanna. Aflamarkskerfið reyndist bjarga sjávarútveginum og þar með íslenzka þjóðfélaginu frá efnahagshruni, þegar leyfilegur þorskafli var minnkaður úr um 320 kt/a á áratugunum 1970-1990 í um 200 kt/a 1991-2009. Kvótakerfi með framsalsrétti veiðiheimilda hefur jafnframt komið fótunum undir sjávarútveginn að nýju þrátt fyrir þennan gríðarlega aflasamdrátt. Grundvöllur þessa góða árangurs er langtíma afnotaréttur útgerðar á miðunum, sem gerir langtíma áætlanagerð, viðskiptasambönd og fjárfestingar kleif. Ríkisvaldið, aftur á móti, hefur með ákvæðinu um þjóðareign í kvótalögunum rétt til að stjórna veiðunum í því augnamiði að hámarka veiðiþol miðanna til lengdar þjóðinni allri til hagsbóta. Neyðarúrræði hefur reynzt furðuvel, og íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið ber höfuð og herðar yfir önnur slík kerfi, þegar árangur og arðsemi er lagður til grundvallar. Það þjónar þess vegna hagsmunum almennings vel, þrátt fyrir sögulega agnúa, og má alls ekki rífa það niður með gerræðislegri forræðishyggju, sem auka mun tilkostnaðinn og minnka afrakstur útgerðarinnar auk þess að gera henni ókleift að standa við langtímasamninga sína við birgja og viðskiptavini.
Ríkisstjórnin gengur í berhögg við samtök bænda, þegar hún undirbýr aðlögun landbúnaðarins að landbúnaðarstefnu ESB, sem leikið hefur landbúnað Evrópu grátt og mundi ganga af íslenzkum landbúnaði dauðum í sinni núverandi mynd, en við tækju einhvers konar risabú og gervibú með kostum þeirra og göllum og byggðamynztri, sem fæstum Íslendingum er að skapi. Eðlileg þróun og framleiðniaukning íslenzks landbúnaðar mundi stöðvast og sérstaða hans hverfa. Spurning, hvort gæðunum yrði fórnað fyrir magnið, eins og reyndin er í ESB. Ferðamennskan kvartar sáran undan þungum álögum, sem skekkja samkeppnistöðu hennar. Atvinnuleysi er tekið að vaxa á ný.
Við þessar ömurlegu aðstæður, sem lýsa má í einu orði, þjóðfélagshrörnun, er einn aðili í þjóðfélaginu stunginn líkþorni. Það er hinn sögufrægi vinnustaður við Austurvöll, Alþingi. Í Hrunskosningum fyrir tæpum tveimur árum varð hann reyndar með endemum illa skipaður, eins og hrakfarir þingmeirihlutans við lagasetningu bera vott um. En er minnihlutinn beysnari ? Hvernig í ósköpunum stendur á því, að hann hefur enn ekki lagt fram vantraust á einstaka ráðherra og/eða á ríkisstjórnina sem heild ? Hvar er og hvað er Sjálfstæðisflokkurinn ? Eftir atkvæðagreiðslu sína á Alþingi verður forysta hans, sem valdið hefur vonbrigðum með deyfð og lélegri herstjórnarlist, að svara þessari spurningu á næsta Landsfundi. Árangur Sjálfstæðisflokksins er ófullnægjandi. Sjálfstæðisflokkurinn á að vera baráttutæki fyrir frelsi einstaklingsins og mannsæmandi kjörum allra landsmanna. Hvernig í ósköpunum er unnt að samræma þetta markmið þeim gjörningi að styðja stórskaðlega ríkisstjórn við að leggja 100 milljarða króna helsi á skattborgara landsins að óþörfu ?; og það ofan í óþverrabragð Breta að beita hryðjuverkalögum á þjóðina, sem ollu henni svipuðu tjóni og Icesave. Sigurbjörn Svavarsson hefur sýnt fram á með glöggum rökum, að 100 milljarðar verði upphæðin með vöxtum, sem greiða þarf. Síðast reit hann um þetta í Morgunblaðið þann 26. marz 2011 í greininni "Rangir útreikningar samninganefndar ríkisins".
Eitt kjörið mál til vantrausts á þingi er umsóknin um aðildina að ESB. Það mál hefur allt til að bera, sem vantraust þarf: forsendubrest, fjáraustur, óvinsældir á meðal almennings, heitar tilfinningar og klofning í stjórnarliði. Samt bólar ekki á vantrausti. Getur verið, að aumingjaskapurinn tröllríði húsum víðar en í stjórnarráðinu ? Það eru undanvillingar í stjórnarandstöðuliðinu, sem óttast er, að veita mundu ríkisstjórninni brautargengi í atkvæðagreiðslu um vantraust vegna ESB-umsóknar. Það er nauðsynlegt fyrir Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn að fá á hreint, hvorum megin hryggjar þetta fólk ætlar að liggja. Þá verður hægt að taka á því, eins og það verðskuldar, í flokksráðum og á landsfundum flokkanna með lýðræðislegum hætti, svo að ekki sé nú talað um undirbúning næstu þingkosninga. Því verður ekki trúað, að þingmenn stjórnarandstöðu yrðu til að framlengja líf lamaðrar ríkisstjórnar félagshyggjunnar, sem aðeins nær samstöðu um auknar skattbyrðar og hefur þegar kostað samfélagið 300 milljarða króna í glötuðum hagvexti og ætlar að taka 100 milljarða króna út úr hagkerfinu og senda til Breta og Hollendinga að óþörfu. Það er kysst á vöndinn.
Ríkisstjórn, sem lafir við völd á óttanum einum við kjósendur, á ekkert annað skilið en náðarhöggið með vantrausti. Að láta slíkt hjá líða verður að túlka sem annað tveggja: stjórnmálalegan lydduhátt eða óbeinan stuðning við stefnuleysi ríkisstjórnarinnar og undirmáls stjórnarhætti.
Út er komið vorhefti ársfjórðungsritsins Þjóðmál. Er unnt að komast á vefsvæði tímaritsins frá tengli hér á síðunni. Í vorheftinu er grein eftir höfund þessa vefseturs, "Viðreisn-víðtækar umbætur", þar sem viðfangsefnið er að varða veginn út úr núverandi hrörnunarástandi íslenzka þjóðfélagsins. Það er óþarfi að taka það fram, að áður en slík viðreisn getur hafizt er nauðsynlegt að setja núverandi stjórnvöld til hliðar.
19.3.2011 | 21:18
Ríkis-Bakkabræður
Alan Greenspan (AG), seðlabankastjóri Bandaríkjanna (BNA) í áraraðir, var lengi átrúnaðargoð margra hagfræðinga. Töldu þeir hann hafa fundið hagstjórnaraðferð eilífs hagvaxtar, sem girti fyrir kreppur. Greenspan féll af stalli 2008 og var kennt um kreppuna, sem reið yfir seinni hluta þess árs, með því að hafa ofspennt hagkerfið og látið hjá líða að slá á eignabóluna.
Frægur er fundur, þar sem AG gerði grein fyrir peningamálastefnu Seðlabanka BNA og blaðamaður sagði:"Ég tel mig hafa skilið rétt, það sem þú varst að segja ...", og AG greip þá fram í fyrir honum: "Sé svo, hef ég ekki hagað orðum mínum með þeim hætti, sem ég hugðist".
Fyrirbrigðið, sem nú vermir stól seðlabankastjóra Íslands, verður að vísu aldrei kallaður "meistarinn", eins og AG, en hann gerir engu að síður sitt ýtrasta til að rugla fólk í ríminu. Í fersku minni eru launamál þessa seðlabankastjóra Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra enn, þar sem hann vildi, að bankaráðið hækkaði laun sín um 400 kkr/mán, en kvað þessa hækkun þó vera lækkun frá umsömdum kjörum við drauginn í forsætisráðuneytinu.
Enn sannaðist þetta dularfulla samband seðlabankastjórans við forsætisráðuneytið, þegar hann spáði Móðuharðindum af manna völdum, ef Icesave#2 yrði hafnað. Icesave#2 var kolfellt í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. marz 2010, og ekkert gerðist. Reynslan síðan er sem sagt sú, að ekki stóð steinn yfir steini af málflutningi seðlabankastjóra, sem reyndist hafa farið með eintómt fleipur. Slíkir menn eru réttilega nefndir ómerkingar.
Enn er sami trúður kominn af stað og spáir nú óáran í hagkerfinu, verði Icesave#3 hafnað. Ekkert er fjær lagi en að taka mark á þessum þvættingi. Hvernig í ósköpunum getur það styrkt íslenzka hagkerfið, að ríkið gangist við skuldum vegna innlána gjaldþrota einkabanka í útlöndum ?
Píslarvættishugmyndir skjóta reyndar upp kollinum í þessu sambandi. Fólki blöskrar með réttu framferði ósvífinna fjárglæframanna íslenzkra á erlendri grundu og vill friðþægja fyrir ófyrirleitna landsmenn sína með því að axla þessar byrðar. Þetta er á miklum misskilningi reist.
Landsmönnum ber hvorki siðferðileg, lagaleg né stjórnmálaleg skylda eða nokkur önnur kvöð til að samþykkja Icesave#3. Með því væru þeir að játa sig sigraða gagnvart auðvaldi fjármálageirans og embættismönnum Evrópusambandsins (ESB), og þeir mundu gera öðrum þjóðum í svipaðri stöðu mun erfiðara fyrir við að standa á rétti sínum til að forðast ríkisgjaldþrot.
Að hafna Icesave#3 er þar að auki í takti við tíðarandann nú í Evrópu, þar sem almenningur, t.d. á Írlandi og í Þýzkalandi, er búinn að fá sig fullsaddan af að axla byrðar óreiðumanna fjármálageirans norðan og sunnan Alpanna, sem þar með valda almenningi stórfelldri kjaraskerðingu. Það er og að renna upp fyrir æ fleiri hagfræðingum og stjórnmálamönnum, að öryggisnet af þessu tagi undir fjármálafyrirtækjunum ýtir stórlega undir áhættusækni á þeim bænum; óráðsíu og vöxt út yfir allan þjófabálk. Það er þess vegna til vitnis um kolrangt stöðumat að halda því nú fram, að sérstakar refsiaðgerðir umheimsins séu handan við hornið, felli þjóðin hin illræmdu Icesave-lög úr gildi.
Afar leiðigjörn er að verða tugga annars Ríkis-Bakkabróðurins, forstjóra Landsvirkjunar, að þungt muni verða undir fæti að sækja til erlendra lánamarkaða þangað til gengið hafi verið að afarkostum Breta og Hollendinga. Veit hann ekki, að fjármálamarkaðir Evrópu eru nú í herkví evruvandræðanna, þar sem séð er fram á gjörningaveður bankahruns og/eða gríðarlegra fjármagnsflutninga, af því að Suður-Evrópa er komin að leiðarlokum evruævintýris með lágum vöxtum og mikilli þenslu ? Afleiðingin er algerlega ósamkeppnihæfir útflutningsatvinnuvegir þar á evruslóðum.
Á Landsvirkjun sannast, að þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur. Hvers vegna horfir Landsvirkjun ekki til vesturs og austurs ? Í Kanada ríkir grózka og í BNA er hagkerfið að hjarna við. Þar stendur mönnum nákvæmlega á sama um Icesave, og hafa trúlega fæstir heyrt á hörmungina minnzt. Í Kína er gríðarlegt fé á lausu, og Kínverjar hafa áður sýnt góðan hug til Íslands, t.d. innan stjórnar AGS.
Veit forstjóri Landsvirkjunar, að Icesave#3 er lánasamningur fjármálaráðherra Íslands við brezka og hollenzka fjármálaráðuneytið að upphæð GBP 2,235 mia með 3,3 % vöxtum og EUR 1,332 mia með 3,0 % vöxtum og að þessi lán verða notuð til að greiða brezka og hollenzka innistæðutryggingsjóðunum strax til baka greiðslur þeirra á lágmarkstryggingu til innistæðueigenda Icesave-reikninga á Bretlandi og í Hollandi og að með þessum gjörningi verður Icesave-ævintýrið að skuldabagga íslenzka ríkisins með vöxtum frá 9. október 2009 ? Ímyndar hann sér, að væntanlegir lánadrottnar Landsvirkjunar muni telja bakhjarl hennar, ríkissjóð Íslands, verða betur í stakk búinn að hlaupa undir bagga með henni, ef hún lendir í kröggum, með þennan viðbótar skuldabagga á bakinu, sem eykur skuldirnar verulega, því að ekki má gleyma því, að ríkið verður að fleyta skuldasúpunni á undan sér með nýjum lánum á e.t.v. 7 % vöxtum ?
Þriðji Ríkis-Bakkabróðirinn er arminginn Árni, efnahagsráðherra. Hann upphefur vart raust sína á mannamótum öðruvísi en til að hallmæla íslenzku krónunni. Hann er ekki einn um það, og er Kögunarþúfa Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu 19. marz 2011 sorglegt dæmi um það. Hvað segir þessi Ríkis-Bakkabróðir þá um það, að hafni landsmenn Icesave-ánauðinni 9. apríl 2011, og verði síðan svo nefnd dómstólaleið farin, mun málið hafna fyrir íslenzkum dómstóli, sem mun dæma ríkissjóð til greiðslu í íslenzkum krónum, ef hann þá dæmir ríkissjóð til einhverra greiðslna, sem er ólíklegt, þar sem í augum uppi liggur, að kröfur Breta og Hollendinga eru löglausar og alfarið stjórnmálalegs eðlis.
Stjórnmálamenn þessara þjóða þrjózkast við að viðurkenna að hafa hlaupið á sig og ESB vill ekki, að í ljós komi veila í löggjöf sinni um innistæðutryggingasjóðinn. Samt er viðurkennt, m.a. af núverandi bankastjóra Evrópubankans, ECB, Jean-Claude Trichét, að kerfið var aldrei sniðið við hrun heils bankakerfis. Lagalega og siðferðislega standa Íslendingar með pálmann í höndunum, ef þeir hafna Icesave-vitleysunni enn og aftur, en dæma sig til verulegrar kjaraskerðingar og ýta ríkissjóði jafnvel fram af bjargbrúninni, ef þeir axla ábyrgð á vitleysunni.
Á áratuginum 2001-2010 nam meðalhagvöxtur evru-svæðisins aðeins 1,2 % á ári. Hagvöxtur Íra var þá mestur eða 2,5 % og hagvöxtur Ítala minnstur eða 0.3 %. Hagvöxtur evrusvæðisins var og er miklu minni en Ísland þarf á að halda nú til að rjúfa vítahring skuldasöfnunar og skattahækkana. Við verðum að ná 3 % - 5 % árlegum hagvexti á þessum áratugi til 2020 til að reisa efnahag landsins við. Verði ofangreindum 100 milljörðum króna bætt við skuldasúpu ríkissjóðs við útlönd, getur slíkt orðið dropinn, sem fyllir mælinn og keyrir ríkissjóð í greiðsluþrot. Þá verðum við ekki tekin neinum vettlingatökum, heldur verðum bónbjargarmenn í a.m.k. áratug með staðnað þjóðfélag.
Innri markaður Evrópu og evran áttu að leiða Evrópuríkin til forystu í heiminum á efnahagssviðinu. Innri markaðurinn hefur staðið undir væntingum, þó að hann þurfi að þróa betur, t.d. á sviði þjónustu, en evran hefur valdið miklum vonbrigðum. Forysta ESB telur framtíð hennar vera í uppnámi, nema evrusvæðið verði þróað í átt að sambandsríki. ESB er þess vegna orðið tveggja teina fyrirbæri, sem er allt annað en Alþingi samþykkti umsókn að 16. júlí 2009. Helztu rök Árna Páls og kumpána fyrir inngöngu eru að skipta um mynt. Með evru yrði Ísland lágvaxtarland, og því höfum við engan veginn efni á, enda alger óþarfi með gríðarlegar ónýttar orkulindir. Myndin hér að neðan sýnir þó leið, sem eindregið á að forðast við orkunýtingu. Landsvirkjun fjármálaráðherra vinstri-grænna (hann er eini hluthafinn) gælir nú við lagningu 1600 km sæstrengs til flutnings á 600 - 1000 MW afli til Bretlands. Orkan er sögð eiga að koma úr jarðgufuverum. Hér er um fásinnu að ræða. Sóun orku yrði gríðarleg vegna tapa í orkuverum, þar sem aðeins næst 10 % nýtni við einvörðungu raforkuvinnslu úr gufu, og mikil töp verða óhjákvæmilega í afriðlum, sæstreng og áriðlum. Þegar vindar blása fellur orkuverðið vegna vindmyllanna niður fyrir kostnaðarverð orku um sæstreng frá Íslandi, svo að léleg nýting á mannvirkjunum mundi gera út af við arðsemi þeirra. Eftir stæði mikil fjárfesting, sem skapar aðeins vinnu í útlöndum, og hærra orkuverð til almennings og fyrirtækja á Íslandi. Þetta er spákaupmennska af versta tagi með íslenzkar orkulindir.
12.3.2011 | 22:31
Öll vötn til Dýrafjarðar
Á foreldrafundum í borginni hafa verið uppi raddir um, að stjórnun hennar nú einkennist af gerræði og sýndarmennsku. Sömu sögu er að segja af ráðherrum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Allt er þetta félagshyggjufólk og/eða stjórnleysingjar þar að auki ótrúlega illa að sér um flesta hluti.
Hið síðast talda virðist reyndar eiga við um stóran hluta þingheims. Það má heita með eindæmum, að á sama tíma og Landhelgisgæzlan hefur ekki úr nægu fé að spila til að halda úti lágmarkseftirliti í íslenzku efnahagslögsögunni, heldur verður að leggjast í verktöku á fjarlægum hafsvæðum, þá samþykkir drjúgur meirihluti þingheims að leggja andstyggilega klafa á íslenzka skattgreiðendur, sem nú eru taldir geta numið á bilinu 47-470 milljörðum kr.
Hvernig stendur á þessari firringu ? Hér hrundi heilt bankakerfi haustið 2008, og í rétt stofnaðan Tryggingasjóð innistæðueigenda hafði tæpast safnazt fé til að tryggja inneignir í þokkalegum sparisjóði á Íslandi. Tryggingasjóðir Breta og Hollendinga áttu fullt í fangi með riðandi bankakerfi, innlend, og bar ekki skylda til að tryggja innistæðueigendur í hinum fallna Landsbanka. Mikill ótti við hrun evrópska bankakerfisins hafði grafið um sig í London, den Haag, Brüssel og víðar í Evrópu, og þess vegna afréðu fjármálaráðherrar í Hollandi og í Bretlandi að beita sér fyrir útlátum úr ríkissjóðum sínum til að gera upp við innistæðueigendur Icesave. Síðan hafa þessir aðilar ekki linnt látunum að fá ríkisstjórn Íslands og Alþingi til að fallast á að bæta þeim þessar greiðslur með vöxtum.
Allir réttsýnir menn sjá, að þessar málalyktir eru fáheyrðar, ólögmætar og afspyrnu ósanngjarnar vegna hruns heils bankakerfis á Íslandi og þar af leiðandi mjög slæmrar stöðu íslenzka ríkissjóðsins, sem aðeins um 200 þúsund hræður standa undir. Ofan á þetta bætist ríkisstjórnarnefna, sem í á þriðja ár hefur reynzt algerlega um megn að koma hjólum atvinnulífsins af stað aftur. Hana skortir meira að segja viljann til þess. Hún hefur ekkert gert af viti, en axarsköptin eru legíó. Síðustu fréttir af vinnumarkaðinum eru voveiflegar; fjöldi atvinnulausra vex nú síðvetrar og enginn hagvöxtur er í hagkerfinu. Ríkisstjórnin lafir á óttanum einum. Stjórnarráðið er nú Musteri óttans. Hún þorir ekki að berjast fyrir barninu sínu, Icesave-lögunum, sem forseti lýðveldisins synjaði staðfestingar, heldur sigar rökkum sínum á kjósendur.
En nú falla öll vötn til Dýrafjarðar. Þýzkur almenningur hefur fengið nóg af að vera beitt fyrir vagn Brüssel. Kjósendur veittu ríkisstjórnarflokkunum þýzku ráðningu í síðustu fylkiskosningum í Hamborg, og einar 6 fylkiskosningar eru framundan á þessu ári í Þýzkalandi. Stjórnlagadómstóll Þýzkalands mun telja skuldbindingar þýzku ríkisstjórnarinnar um að senda þýzkt skattfé í sukk og svínarí til suðurhluta álfunnar, án undanfarandi samþykktar Bundestags, stríða gegn stjórnarskrá. Þeim vex nú ásmegin í Þýzkalandi, sem hvorki telja rétt að nota þýzkt skattfé til að bjarga erlendum ríkissjóðum frá greiðsluþroti né að bjarga bönkum, innanlands sem utan, frá gjaldþroti. Þess má geta, að þýzkir bankar hafa fest fé þýzkra sparifjáreigenda með töluverðri áhættu á erlendri grundu.
Neyðarlög ríkisstjórnar Geirs H. Haarde voru sett til að bjarga Íslandi frá gjaldþroti og allsherjar öngþveiti. Þar var gripið til neyðarréttar til bjargar litlu þjóðfélagi. Það er ekki með sanngirni né lagalegri skírskotun hægt að halda því fram, að full ríkistrygging innistæðna innanlands hefði átt að þýða ríkistryggingu íslenzka innistæðutryggingasjóðsins á inneignum á Icesave-reikningunum. Það er ekki verið að mismuna eftir þjóðernum, því að útlendingar á Íslandi nutu trygginga á við innfædda og Landsbankinn í Bretlandi og Hollandi var ekki endurreistur. Bankahrunið íslenzka olli öllum landsmönnum peningalegu tapi, annaðhvort á peningalegum eignum eða með rýrnun lífeyrissjóða þeirra, nema hvort tveggja væri, svo að ekki sé nú minnzt á lækkun fasteignaverðs og aðra óáran. Hér er þó lagalagur vafi, sem andstæðingum okkar gefst kostur á að fá úrskurðað um, en litlar líkur, e.t.v. 10 %, eru á, að þeir kæri sig um þessa dómstólaleið, sem enda mundi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og síðan e.t.v. Hæstarétti Íslands. "Ískalt mat" er, að dómstólaleiðin verði oss hagfelldari en sá samningur, sem nú hefur verið samþykkt ríkisábyrgð á, en þjóðin fær tækifæri til að tjá sig um þann 9. apríl 2011. "Ískalt mat" er líka, að annarleg sjónarmið ráði stuðningi við hin afleitu lög, þ.e. hreinn undirlægjuháttur og þrá eftir að þóknast Brüssel-valdinu í von um greiðari inngöngu í herlegheitin þrátt fyrir, að rýnivinna hagsmunaaðila og samninganefndar hafi nú leitt í ljós, að kröfur ESB um aðlögun og hagsmunir íslenzkra undirstöðuatvinnuvega eru ósamrýmanlegir.
Hagkerfi Íslands hefur dregizt saman um 10 % frá Hruni. Svipað hefur gerzt á Írlandi, en Írar eiga sér ekki viðreisnar von og eru komnir í snöruna ásamt Grikkjum og Portúgölum eftir að hafa sett um 40 % af landsframleiðslu sinni til bjargar bönkum landsins. Þetta er mesti samdráttur, sem þekkist á þessum tíma. Staða gjaldeyris Íra, evrunnar, tekur ekkert mið af bágstöddu hagkerfi Íra, og þess vegna mun koma til ríkisgjaldþrots Írlands. Það lýsir sér þannig, að afskrifuð verða 25 % - 50 % af skuldum ríkissjóðs, en skuldatryggingarálag á Íra og aðra, sem í svipuðum hremmingum lenda, mun verða hræðilega hátt, e.t.v. hærra en 10 %, fyrstu árin á eftir, jafnvel í heilan áratug.
Af þessu sést, að höfnun Íslendinga á að greiða skuldir íslenzku bankanna erlendis, þ.m.t. innlán, jafngildir ekki lengur því að synda á móti strauminum. Segja má, að straumhvörf séu að verða að þessu leyti í Evrópu og að nú falli öll vötn til Dýrafjarðar. Að eiga einn bandamann í Berlín er betra en að eiga tíu í Brüssel.