Færsluflokkur: Evrópumál
12.10.2011 | 20:51
Fjármálavaldið
Eftir hinar óhugnanlega háu afskriftir skulda íslenzku bankanna, e.t.v. um 10 þúsund milljarða kr eða um 100 milljarða bandaríkjadala, sem aðallega Þjóðverjar máttu súpa seyðið af, við gjaldþrot íslenzku bankanna þriggja fyrir 3 árum, haustið 2008, var sennilega fljótvirkasta aðferð endurreisnar sú, sem ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde valdi, að leita ásjár Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS.
Þar fengust lán til að mynda hryggjarstykki í gjaldeyrisvarasjóði Seðlabankans, sem er öryggi að og nauðsynlegur bakhjarl krónunnar, þegar hún fer aftur á flot. Með samstarfinu við AGS vaknaði að nýju nokkur trúverðugleiki í garð fjárhagslegrar endurskipulagningar Íslands eftir hið nánast algera hrun fjármálakerfis landsins.
Hins vegar var að hálfu vinstri stjórnarinnar, sem við völdum tók eftir mikinn undirróður sömu flokka og óeirðir á götum úti, sem jafna má við ofbeldisfulla byltingu, staðið aulalega að því að ná endum saman í ríkisrekstrinum. Þumalfingursregla við slíkar aðstæður, til að lágmarka samdráttaráhrifin á hagkerfið, er, að 1/3 af bilinu sé brúaður með skattahækkunum og 2/3 með sparnaði ríkisútgjalda. Vinstri stjórnin fór alveg öfugt að og framfylgdi þar með skattahækkunarstefnu, sem forkólfar vinstri flokkanna, alveg sérstaklega fjármálaráðherrann, höfðu boðað og barizt fyrir árum saman. Skal fullyrða hér, að skattahækkanir í fjármálaráðherratíð Steingríms Jóhanns Sigfússonar hefðu orðið svipaðar, þó að ekkert Hrun hefði orðið.
Fjármálaráðherra, sem tók barnatrú á Karl Marx og Vladimir Lenin, og gengur með úreltar og afskrifaðar kenningar þeirra sem steinbarn í kviði, neitar að viðurkenna einföld lögmál hagfræðinnar um samband eftirspurnar og verðs. Þegar hann var búinn að hækka eldsneytisverð upp fyrir þolmörk neytenda, minnkuðu eldsneytiskaupin og dróg úr skatttekjum ríkissjóðs samkvæmt lögmálinu. Gamall sameignarsinni í stóli fjármálaráðherra lét samt ekki að sér hæða og boðaði enn meiri skattheimtu til að vinna upp lækkun skatttekna. Allt er á sömu bókina lært hjá þessum vesalings manni, sem vistast mun í sögunni með ömurlegum og óafturkræfum hætti.
Nauðsynlegur liður í langtímaáætlun AGS var sú að laða að erlenda fjárfesta til að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Slíkt átti að skapa þjóðinni viðspyrnu til að endurgreiða hin miklu lán, sem tekin höfðu verið, og nema skuldbindingar ríkissjóðs líklega um 110 % af VLF (vergri landsframleiðslu) nú, sem er hættulega hátt hlutfall.
Örvun fjárfestinga upp í 20 % -30 % af VLF á ári er einnig á stefnuskrá borgaralegu flokkanna í stjórnarandstöðu. AGS átti ekki von á því, að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands væru á öndverðum meiði um þetta langtímaráð. Það átti þó heldur betur eftir að koma á daginn. Vinstri flokkarnir lifa í núinu og éta útsæðið í stað þess að gera áætlun til a.m.k. 5 ára um endurreisn hagkerfisins.
Aðferð vinstri flokkanna er sú að setja upp hundshaus við hvern þann fjárfesti, sem rekur á fjörur hennar. Þeir sjá alltaf einhvern meinbug á honum. Hann er e.t.v. ekki af EES svæðinu, eða starfsemi hans er ekki forræðishyggjuflokkunum þóknanleg. Ef hann vill eiga viðskipti um mikla orku og reisa hér iðjuver, er farið að tuða um "eitthvað annað", sem væri þessum sjálfskipuðu sérfræðingum um gæði atvinnuuppbyggingar á Íslandi þóknanlegra. Síðan er jarmað undir, að náttúran skuli njóta vafans. Allt eru þetta þvílík undirmálsrök, að jafna verður við rökleysu. Í ljósi hinnar brýnu almannaþarfar á öflugra atvinnulífi og hagvexti, er ljóst, að blása verður nýju lífi í framkvæmdir og þar með verktakastarfsemina, sem vinstri stjórnin hefur næstum gengið af dauðri, enda er hún víst ekki "eitthvað annað". Vinstri flokkarnir eru getulausir, enda stefnulausir, þegar kemur að endurreisn landsins.
Svo þegar "eitthvað annað" holdi klætt í gervi kínversks auðjöfurs og ljóðskálds rekur á fjörur ríkisstjórnarinnar, þá sýnir hún honum fálæti, ef ekki dónaskap, leggst á umsókn hans um fjárfestingarleyfi undir yfirskini rannsóknar og ætlar greinilega að þreyta hann, svo að hann verði afhuga miklum fjárfestingum hér í ferðamannageiranum. Þessi ríkisstjórn vinnur allt með öfugum klónum, og þess vegna berjumst við enn um á botni kreppunnar, ef honum er þá náð. Vingulsháttur stjórnvalda er til háborinnar skammar. Afar þröngir sérhagsmunir fámennrar sérvitringaklíku virðist ráða för Bakkabræðra.
Framtíðarsýn forkólfa vinstri flokkanna er engin, sem heitið getur. Um þetta er yfirlýsing utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, í Frankfurt am Main þann 12. október 2011, ljóst dæmi um. Þar var hann staddur á meiri háttar bókasýningu, þeirri stærstu, sem um getur, ásamt utanríkisráðherra Sambandslýðveldisins Þýzkalands, Guido Westerwelle. Hvort sem Herr Westerwelle hefur verið búinn að bjóða ÖS þrisvar upp á líterskrús af "deutschem Bier" eður ei, þá vall ótrúleg og allsendis óviðeigandi þvæla út úr ÖS. Hann sagði, að framtíðarsýn Íslands væri Evrópusambandið. Hvílík endaleysa og öfugmæli. Forkólfar ESB hafa sjálfir, eins og nú er komið málum, enga framtíðarsýn. Það veit enginn, hvað um ESB verður. Hvernig er hægt að hafa eitthvað að framtíðarsýn, sem enginn getur sagt um á hvaða vegferð verður eftir 2 ár ? Það hefði verið miklu áhugaverðara, ef Össuri hefði ratazt á munn, að framtíðarsýn Íslands væri að verða 17. ríkið í Sambandslýðveldinu. Yfirlýsingin hefði verið fótalaus, en hefði hugsanlega kætt Herrn Westerwelle. Hann og flokkur hans, die FDP, eiga nú í umtalsverðum stjórnmálalegum kröggum og veitir ekki af huggun harmi gegn.
Forverar núverandi valdhafa á vinstri kanti stjórnmála komu fram að sumu leyti hreinni og beinni en núverandi trúðar. Þeir sögðu blákalt sína skoðun, að auðvaldinu á Íslandi yxi við það fiskur um hrygg, ef erlendir fjárfestar skytu hér rótum, og þá mundi halla á verkalýðsflokkana í stéttabaráttunni. Þess vegna var það þáttur í stéttastríði Kommúnistaflokks Íslands, Sameiningarflokks alþýðu-sósíalistaflokksins og Alþýðubandalagsins, að koma í veg fyrir erlendar fjárfestingar. Dæmi um þetta er, að vinstri menn börðust hatrammari baráttu gegn stofnun Íslenzka Álfélagsins í Straumsvík og fyrstu stórvirkjun landsins, Búrfellsvirkjun, en gegn hersetunni. Nefndi Einar Olgeirsson Straumsvík "hausaskeljastaði". Nú er ISAL öruggasti vinnustaður á Íslandi og þótt víðar væri leitað með yfir 5 milljónir vinnustunda án slyss, er leiðir til fjarveru úr vinnu.
Hið einkennilega er, að Samfylkingin, sem kennir sig við jafnaðarstefnu, berst með oddi og egg fyrir innlimun Íslands í mestu auðvaldssamsteypu, sem stofnað hefur verið til í Evrópu, Evrópusambandsins, ESB. Það er tóm vitleysa, sem sagt er, að ESB hafi verið stofnað til að varðveita landamæri Evrópu með friðsamlegum hætti, sem ákveðin voru í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Þess gerðist engin þörf. Svo var kjarnorkuvopnunum fyrir að þakka. Nei, ESB var stofnað til að veita evrópsku auðvaldi hámarkssvigrúm án landamæra til að leika sér að örlögum alþýðu Evrópu, eins og nú er að koma á daginn. Það er hulin ráðgáta, hvers vegna hinir siðspilltu íslenzku vinstri flokkar sitja froðufellandi af löngun við borgarhlið Brüssel bíðandi eftir að verða hleypt inn í Berlaymont. Þeir munu verða að gjalti, eins og önnur tröll við dagrenningu.
Báðir íslenzku vinstri flokkarnir hafa fórnað hagsmunum íslenzks almennings á altari evrópsks auðvalds oftar en tvisvar. Haninn gól þrisvar, og téðir vinstri flokkar guggnuðu í öll skiptin. Þar sitja eintómar undirlægjur og heybrækur á fleti fyrir um þessar mundir, eins og dæmin sanna. Þeir ætluðu að henda íslenzkum skattborgurum fyrir ljónin í Icesave-málinu, en forseti lýðveldisins þekkti þessa fugla og blöskraði aðfarir sinna gömlu samstarfsmanna og stöðvaði þá háskaför.
Vinstri flokkunum tókst að færa erlendu kröfuhöfunum tvo íslenzka banka á silfurfati, og nú er margur berskjaldaður í baráttunni við vogunarsjóðina eða aðra eigendur bankanna, sem ekki er almennt vitað um, hverjir í raun og veru eru. Þarna véluðu um "alþýðuhetjurnar miklu", svikahrapparnir Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Jóhann Sigfússon, Þistilfirðingur.
Tugum milljarða hefur verið kastað á glæ í glópskulegu írafári, sem Bakkabræðurnir á vinstri bakkanum nefna björgun Sjóvár og sparisjóðanna. Sameignarsinnarnir eru í essinu sínu, þegar þeir fá tækifæri til að kasta peningum skattborgaranna á glæ.
Vinstri flokkarnir eru þannig sérstakir verndarar og talsmenn peningavaldsins. Um þetta er ekki lengur neinum blöðum að fletta. Þetta kom t.d. berlega í ljós, þegar Samfylkingin tók málstað mesta auðhrings Íslands 2003 og gagnrýndi Sjálfstæðisflokkinn fyrir andóf hans gegn auðjöfrunum. Starfsemi og málflutningur vinstri flokkanna er einn samfelldur öfugmælaóður, sem sumir mundu kalla lygavef.
Þegar hins vegar kemur að hinum, sem vilja setja fé í að skapa áþreifanleg verðmæti, hafa til þess tæknilega burði og vilja til að fylgja ströngustu mengunarvarnarkröfum og reglum um heilbrigði, hollustu og öryggi á vinnustað, þá fara Bakkabræðurnir í að bera ljósið inn í kofa sinn í kirnum og hafa engan tíma til viðræðna um að endurreisa íslenzkt athafnalíf. Fyrir þessa þröngsýni, sérvizku og hreina glópsku líður landslýður allur og mest fjölmennur hópur atvinnulausra og flóttafólks til útlanda. Sköpun handfastra verðmæta úr hafinu og með tilstuðlan endurnýjanlegrar orku með sjálfbærum hætti er sú leið, sem landsmenn eiga að einbeita sér að í stað loftkastalasmíða og draumóra kaffihúsasnata um "eitthvað annað". Fyrirmyndin í þeim efnum er Sambandslýðveldið Þýzkaland", sem reisti Austur-Þýzkaland úr rústum sameignarstefnunnar, tapaði sér aldrei í framleiðslu peninga með peningum án þess að fara framleiðsluleiðina. Þjóðverjar hafa alla tíð lagt áherzlu á verkmenntun, iðni, framleiðniaukningu og sköpun handfastra verðmæta. Þetta getur verið framtíðarsýn Íslendinga.
Það, sem þarf að gera, er að losna við handbendi erlends peningavalds úr ráðherrastólunum og taka hér upp sjálfstæða íslenzka stefnu á öllum sviðum. Það á að losa um höftin, afnema vísitölutengingar, binda endi á heimskulegan og rándýran látbragðsleik við blýantsnagara í Brüssel, sem heitir "Að kíkja í pakkann" og er að breytast úr "tragíkomedíu" í sorgarleik, leysa einkaframtakið úr læðingi til sköpunar áþreifanlegra verðmæta, helzt útflutningstekna, sem okkur ríður á að auka til að skapa efnahagslegan stöðugleika hér. Vegna skýlausrar kröfu um stöðugleika verður að taka upp stranga stjórnun ríkisfjármála og peningamálastjórnun í anda Bundesbank. Uppgjafarvæl vinstri flokkanna á að kveða í kútinn strax.
Plan B þarf að vera til í þessu sambandi sem oft endranær. Ef misheppnast að fleyta krónunni, þrátt fyrir vandaðan undirbúning, þarf að vera unnt að grípa til plans B. Það getur t.d. verið þannig, að samið verði við Merwyn King, formann bankastjórnar Englandsbanka, um aðstoð og stuðning við að tengja krónuna við brezka sterlingspundið.
Gangi þetta eftir, mun hagur strympu brátt vænkast, og landið verða komið í hóp þriggja tekjuhæstu landa Evrópu árið 2020 í krafti sjálfbærrar og vaxandi útflutningsstarfsemi. Snögg umskipti geta ekki orðið í afkomu landsmanna vegna skuldaklafans, sem vinstri stjórnin gerir sífellt illviðráðanlegri, en allir munu fá vinnu við sitt hæfi og á áratugi mun mikið breytast með nýjum stjórnarháttum, nema verðfall verði mikið og langvarandi á erlendum mörkuðum Íslendinga. Fjárglæfrar hins alþjóðlega fjármálavalds hafa leitt til hrikalegs verðmætabruna, sem efnahagskerfi heimsins á í mesta basli með að fást við. Hlutverk fjármálastofnana á að vera að taka við sparifé og ávaxta það með útlánum til hagkvæmra verkefna, en ekki loddaraleikur með fjármálavafninga, afleiður og að blása út efnahagsreikninginn með naglasúpugerð, sem dæmd er til að misheppnast fyrr en síðar, eins og hrakfallasaga fjármálakerfisins sýnir ljóslega.
Segja má, að íslenzka krónan hafi aldrei fengið að njóta sín. Það hefur oftast ríkt óstjórn í efnahagsmálum á Íslandi, annaðhvort í ríkisfjármálum, launamálum eða peningamálum og stundum í öllum þessum þáttum samtímis. Jóhanna Sigurðardóttir kennir krónunni um þetta, en ekki þarf að eyða mörgum orðum að jafneinfeldningslegri skýringu og þeirri. Nóg er að minna á málsháttinn:"Árinni kennir illur ræðari".
Satt er, að hagkerfið er lítið, svo að það er berskjaldað gegn árásum spákaupmanna, en sé hagkerfið heilbrigt, má búa svo um hnútana, að ávinningur verði hverfandi af spákaupmennsku með myntina. Dæmin sanna, að hagkerfi með sterka mynt getur hæglega verið óheilbrigt og jafnvel helsjúkt. Slíkt endar með ósköpum, eins og við horfum nú upp á í Evrópu, sérstaklega á evrusvæðinu, og ekki er bandaríkjadalur beysinn eða bandaríska hagkerfið um þessar mundir. Þess vegna er vert að freista þess að setja krónuna á flot, en að baki verður að búa prússneskur agi í ríkisfjármálum og peningamálum. Stöðugleika verður að tryggja með öllum ráðum og öllu til að kosta. Takist það ekki, má gera tilraun með tengingu við sterlingspundið, eins og áður er nefnt. Það var reynt um 1930 og misheppnaðist, en nú eru breyttir tímar á Bretlandseyjum og á Íslandi.
Nú er svo komið, að evran hefur verið dæmd af. Þjóðverjar líta á hin veiku hagkerfi evrulands sem botnlausa hít og munu ekki ausa meiru fé í hana en þeir hafa þegar skuldbundið sig til. Schäuble, fjármálaráðherra, minnir nú að mörgu leyti á Martein Luther, sem gagnrýndi sölu aflátsbréfa Rómarkirkjunnar. Sagan endurtekur sig. Það er þá eins og við manninn mælt, að forystusauður Bakkabræðrastjórnarinnar á Íslandi boðar, að nú sé eina haldreipi Íslendinga "að ganga í ESB og taka upp evru". Enginn með öllum mjalla mundi halda slíku fram nú.
Það eru að verða straumhvörf í hinum vestræna heimi ekki síður en t.d. í arbaheiminum. Fólkið hefur þyrpzt út á götur Suður-Evrópu og sums staðar hefur komið til bardaga. Ekki má gleyma uppþotunum í London nú síðsumars. Bandaríkjamenn eru nú teknir að hópast saman á götum stórborganna með kröfuspjöld og í vígahug. Alls staðar er viðkvæðið hið sama, þ.e. að mótmæla harðlega hinu vanheilaga bandalagi stjórnmálamanna og peningafurstanna. Meinvörp ofvaxins fjármálakerfis hafa grafið um sig í flestum löndum hins vestræna heims og víðar. Þessi þróun mun leiða til þess, að þessir sömu, spilltu stjórnmálamenn munu neyðast til að láta af völdum eða að fara íslenzku leiðina, leiðina, sem Geir Hilmar Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, varðaði á ögurstundu í íslenzkri sögu haustið 2008; að láta kröfuhafana gjalda áhættusækni sinnar og éta það, sem úti frýs, ef banki kemst í þrot, en tryggja innistæðurnar, í stað þess að hella skattpeningum ofan í götótta vasa peningafurstanna. Almenningur er búinn að fá sig fullsaddan af jafnaðarmennskunni, sem felst í því að bjarga allt of áhættusæknum og gírugum fjármálafyrirtækjum. Siðleysi og spilling tröllríður húsum þessara fyrirbrigða og tími kominn til að láta þau standa á eigin fótum. Þetta verður siðbót nútímans.
27.9.2011 | 21:03
Hagkerfi á heljarþröm
Þann 22. september 2011 lýstu forstjórar Alþjóðabankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins báðir yfir því, að hagkerfi heimsins væri á heljarþröminni. Það er leitun að yfirlýsingu, sem væri betur fallin til þess að skapa ótta um hrun en þessi. Verður þess nú vafalítið skammt að bíða, að ný kollsteypa verði á fjármálamörkuðum heimsins. Á veik staða evrulands mesta sök á því, þó að víðar sé pottur brotinn. Aðalspurningin er, hversu lengi Sambandsþingið í Berlín lætur teyma sig út í ófæruna að henda góðu fé fyrir slæmt. Því fyrr, sem Þjóðverjar taka af skarið um, að þjóðargjaldþrot ýmissa evruþjóða er óhjákvæmilegt, þeim mun betra.
Hafa reyndar óhemju verðmæti gufað upp af hlutabréfamörkuðum heimsins undanfarnar vikur og m.a. íslenzku lífeyrissjóðirnir tapað óskaplega á því, en, eins og margoft hefur verið bent á, eru þeir allt of áhættusæknir, sem endurspeglast í meira en tvöfaldri hlutdeild hlutabréfa í eignasafni þeirra miðað við það, sem eðlilegt getur talizt.
Þó að gjaldeyrishöft hindri spákaupmenn í að ná til íslenzku krónunnar um sinn, fer því þó fjarri, að íslenzka hagkerfið verði ónæmt fyrir þessum óförum evrulanda, sem eru reyndar víðast með böggum hildar ráðstjórnar, þ.e. gríðarlegum opinberum afskiptum af athafnalífi og hárri opinberri hlutdeild í efnahagskerfinu, eða um 50 %, illa reknum ríkissjóðum og búa mörg hver við peningamálastjórnun, sem er sniðin við annars konar hagkerfi en þeirra eigið. Stirðbusalegur samningsrammi á vinnumarkaði, léleg nýting vinnuafls og vaxandi fjöldi ómaga og eftirlaunaþega er sú eitraða blanda, sem mörg Vesturlönd bergja nú á. Þetta eru einkenni langrar valdasetu jafnaðarmanna, oft í skjóli sameignarsinna. Þjóðfélagskerfi Vesturlanda þarfnast gríðarlegrar uppstokkunar, því að það er víða ósjálfbært, efnahagslega og umhverfislega. Hér er ekki um að ræða gjaldmiðilskreppu einvörðungu, heldur efnahagskreppu á heimsvísu, sem getur orðið langvinn. Vesturlönd hafa lifað um efni fram, og nú hallar undan fæti fyrir þeim.
Það er oft lítil þúfa, sem veltir þungu hlassi í þessum efnum. Nú er það smáríkið Grikkland. Það er einkennilegt, hvað Grikkir koma oft við sögu, þegar miklir atburðir verða. Þeir stöðvuðu útþenslustefnu Persa á sinni tíð í átt að Evrópu. Vísindi þeirra og listir lögðu grunninn að mesta stórveldi sögunnar í Evrópu, Rómarríki. Rómverjar voru vel skipulagðir, agaðir, víðsýnir og námfúsir bændur, sem tileinkuðu sér menningu Grikkja og Egypta, og með tækni-og skipulagsyfirburðum lögðu þeir undir sig megnið af Evrópu, Litlu-Asíu og Norður-Afríku, og sköpuðu eitt stórt hagkerfi. Grikkir komu mjög við sögu kirkjunnar í árdaga hennar, og ein elzta útgáfa Biblíunnar er á grísku.
Vorið 1941 réðist ítalski herinn inn í Grikkland í óþökk Öxulveldisins í norðri, Þýzkalands. Grikkir vörðust hetjulega, og þeim tókst að ná yfirhöndinni gegn Ítölum. Þýzka herráðið, sem þá var önnum kafið við undirbúning áætlunarinnar "Operation Barbarossa", Aðgerð Rauðskeggur, sem var dulnefni á hernaðaráætlun um innrásina í Rússland, ákvað að tillögu ríkiskanzlarans að skakka leikinn, og var Wehrmacht send af stað til að yfirbuga Grikki. Það tókst á tveimur vikum, en fyrir vikið seinkaði Rauðskegginum, og er sú seinkun talin vera einn af örlagavöldum þess, að framsókn Wehrmacht stöðvaðist rétt utan við Moskvu í brunakulda og fannfergi þá um veturinn.
Innleiðing evrunnar í Grikklandi fór fram á fölskum forsendum og raskaði aldagömlu jafnvægi í landinu. Grikkir höfðu nokkru áður undirritað samning við Þýzkaland, þar sem þeir afsöluðu sér rétti til að krefjast endurgreiðslu á ránsfeng Wehrmacht og SS, sem var gríðarlegur og slagaði upp í þá upphæð, sem kæmi þeim á réttan kjöl nú.
Eftir upptöku evrunnar varð allt í einu mikið framboð á ódýru lánsfé í Grikklandi, sem leiddi til lánafyllirís, þenslu í hagkerfinu og verðbólgu, sem stjórnvöld réðu ekkert við, enda gengu þau á undan með takmarkalitlu sukki í meðferð opinbers fjár undir forystu jafnaðarmanna (nema hverra ?). Nú nema skuldir gríska ríkisins um 170 % af VLF og fara enn vaxandi, og almenningur er líka mjög skuldsettur. Ástæðan fyrir þessum lágu vöxtum, sem ollu stórskaðlegri bólu í Grikklandi, var ládeyða í þýzka hagkerfinu eftir þenslu endursameiningarinnar. ECB, Seðlabanki ESB, horfði til þungamiðjunnar við vaxtaákvarðanir, en jaðarríkin léku lausum hala með voveiflegum afleiðingum. Hver ber sök í þessu máli ? Er ekki ábyrgð Seðlabanka Evrópu nokkur á óförum Grikkja ? Það er hrikalegt að horfa upp á Grikki núna verða fórnarlamb misheppnaðrar hugsjónar um Evrópu undir einni stjórn.
Brüssel hefur nú fyrirskipað miklar sparnaðaraðgerðir í Grikklandi, sem leitt hafa til sársaukafulls samdráttar hagkerfisins um 14 % á 3 árum, sem er nánast einsdæmi um kreppuumfang; þó svipað og í Argentínu eftir hrunið, þegar þeir höfðu tengt mynt sína beint við bandaríkjadal um skeið. Jafnframt var Grikkjum fyrirskipað að selja ríkiseignir, þ.m.t. heilu eyjarnar. Eru þetta miskunnarlaus skilyrði ESB-foringjanna fyrir nýjum lánum, sem aðeins lengja í hengingaról Grikkja. Fyrir samfylkingarráðherrana er evruland samt fyrirheitna landið. Þangað leitar klárinn, sem hann er kvaldastur. Hjálpi oss allir heilagir !
Grískur almenningur er æfur yfir þessari óréttlátu meðferð höfðingjanna í Berlín, París og Brüssel, á sér og fór í allsherjarverkfall og í fjölmennar mótmælagöngur á götum borga og bæja Grikklands. Allt er á suðupunkti og fleiri verkföll boðuð, því að fólk, sem enga ábyrgð ber gagnvart grísku þjóðinni, er nú tekið að véla um örlög hennar. Þetta veldur djúpstæðri ólgu í vöggu lýðræðisins. Það er vel skiljanlegt. Reglur lýðræðis eru fótum troðnar af skriffinnum Brüssel.
Þetta er einmitt meginástæða óvinsælda ESB. Það dregur stórlega úr lýðræðinu, sem almenningur í aðildarlöndunum þó býr við, því að íþyngjandi aðgerðir fyrir almenning eru ákvarðaðar af stjórnendum í Brüssel, sem hafa ekki verið kjörnir af almenningi og þurfa aldrei að standa honum reikningsskap gjörða sinna.
Íslendingar hljóta að finna til samstöðu með Grikkjum á þessum örlagatímum, enda er fjármálaveldið, sem að baki ESB stendur, að kreista hvern blóðdropa út úr Grikkjum til að minnka eigin skell, sem þó er óhjákvæmilegur. Eru þetta einhverjar ljótustu aðfarir, sem sézt hafa í Evrópu um langa hríð og hljóta að enda með ósköpum. Við Íslendingar höfum fundið smjörþefinn af þessum fantabrögðum alþjóðlegs fjármálavalds, sem einskis svífst. Á Íslandi hafa vinstri flokkarnir lagzt hundflatir fyrir því, sbr Icesave og einkavæðingu bankanna, og var kominn tími til, að þeir opinberuðu undirlægjueðli sitt. Í næstu kosningum mun sigling þeirra undir fölsku flaggi almannahagsmuna verða stöðvuð. Lýðræðið hefur hér enn undirtökin. Fyrir því er vert að berjast.
Ljóst er hverju mannsbarni, nema ríkisstjórn Íslands, að svona getur þetta ekki gengið. Ríkisstjórn Íslands hafði pata af ástandinu nú með haustskipunum, en lét hafa eftir sér, að vonir stæðu til, að ástandið lagaðist. Hvers konar hundarökfræði er þetta eiginlega ? "O, sancta Simplicitas", sögðu Rómverjar, þ.e. ó, heilaga einfeldni. Í ríkisstjórn Íslands sitja nú eintómir Bakkabræður, sem eru önnum kafnir við að ausa hriplekt fleyið og að bera ljósið frá ESB inn í kofann sinn í kirnum.
Ástandið mun aldrei lagast með núverandi 17 lönd innanborðs í evrusamstarfinu. Þjóðverjar munu ekki taka þátt í skuldsetningu björgunarjóðs ESB, EFSF, upp á 2 trilljónir evra, sem eldveggur eða Festung Euro er talinn mundu kosta. Myntsamstarf Evrópu í sinni núverandi mynd gengur ekki upp og mun senn líða undir lok. Andstæðurnar eru of djúptækar. Það er lýðum ljóst. Ógæfa Íslands nú er sú, að við stjórnvölinn hér sitja hugmyndasnauðir, fákænir og valdasjúkir ofstækismenn, sem þora ekki að horfast í augu við veruleikann og að játa mistök sín.
ESB forystan ræður ekki við vandann. Hún hefur ekki bolmagn til þeirra breytinga, sem nauðsynlegar eru til að leysa vandann, enda var vitlaust gefið í upphafi. Evran var hugarfóstur stjórnmálamanna, aðallega gallískra (franskra), til þess sniðin að koma böndum á endursameinað Þýzkaland. Þeir skulfu af ótta við Deutsche Mark. Evran gat virkað í hinum bezta heimi allra heima, en engan veginn í raunheimi. Gjaldþrot Grikklands mun leiða til stórtíðinda. Bankar munu falla og fleiri ríki í Suður-Evrópu riða til falls. Gallar ætluðu að beita germönum fyrir vagn sinn, en nú er svo langt um liðið frá heimsstyrjöldinni síðari, að kynslóðir eru fram komnar, sem ekki láta troða upp á sig syndum forfeðranna frá 1939-1945, enda hafa andstæðingar Öxulveldanna ekki úr háum söðli að detta, siðferðislega.
Þjóðverjum hefur stórlega mislíkað, hvernig Seðlabanki Evrópu, ECB, hefur staðið að málum undanfarið undir forystu Frakkans Jean-Claude Trichets. Helzti maður Þjóðverja hjá ECB, Jürgen Stark, aðalhagfræðingur Seðlabanka ESB og fyrrverandi Bundesbankmaður, sagði sig nýlega úr bankastjórninni í mótmælaskyni. Hann var á móti kaupum ECB á grískum ríkisskuldabréfum. Þjóðverjar telja sig svikna, og það eru oftast Gallarnir, sem sárindunum valda, enda Bretarnir ekki innanborðs í myntsamstarfinu. Jens Weidmann, bankastjóri Bundesbank, Seðlabanka Þýzkalands, er á móti stækkun neyðarsjóðsins, EFSF. Það hillir þess vegna undir það, að germanskar þjóðir segi sig úr þessu misheppnaða myntbandalagi, þar sem þær telja sig ekki eiga samleið með rómönskum þjóðum, sem haga sér sífellt með óábyrgum hætti, og eru eins konar sníkjudýr í þessu samstarfi. Þá verður efnahagslegur og stjórnmálalegur jarðskjálfti í Evrópu, eins konar stríðsástand á nútímavísu.
Þetta mun e.t.v. leiða til stofnunar nýs myntbandalags Þýzkalands og fylgiríkja þeirra. Sú mynt gæti orðið óþægilega sterk fyrir útflutningsiðnað aðildarþjóðanna. Þetta vita Þjóðverjar, og þess vegna hika þeir. Leiðtogar Þjóðverja þora hins vegar varla að henda meiru af skattfé landsmanna sinna á bálið af ótta við refsingu í þingkosningum. Nú ræðir Bundestag, þýzka þingið, hvort auka eigi hlutdeild Þjóðverja í EFSF úr 123 í 211 milljarða evra. Þetta er botnlaus hít. A.m.k. 75 % Þjóðverja eru reiðir yfir því að vera endalaust látnir draga hlass Evrópusambandsins. Hlassið er komið að leiðarlokum, og það mun reyndar senn standa í björtu báli.
Bretar rifja nú upp baráttu áhrifaríkra hópa á Bretlandi fyrir upptöku evru fyrir 10 árum (2001). Þeir hrósa happi yfir gæfuríkri ákvörðun sinni þá að hafna því að fórna sterlingspundi og að taka upp evru. Þá mundu þeir sogast nú niður í öngþveitisástand, sem er margfalt verra en ástand hagkerfis Breta nú, þó að þeir færu að vísu mjög illa út úr bankakreppunni 2008 vegna óstjórnar Verkamannaflokksins á ríkisfjármálunum og rangra ákvarðana í aðdraganda hrunsins og í hruninu. Hvorum megin hryggjar ættu Bretar að liggja, væru þeir nú með evru; í bandalagi með Þjóðverjum og bandamönnum þeirra eða með Frökkum og þeirra fylgifiskum ? Bretar ættu heima í hvorugri þessara fylkinga og mundu verða að taka aftur upp sterlingspundið. Sterlingspundið verður áfram við lýði. Bretar hyggja nú á gagnsókn gegn veikri Evrópu og vilja endurheimta hluta af lýðræðinu, sem þeir afsöluðu sér til Brüssel við inngönguna í ESB.
Hið sama má segja um Ísland, ef það væri nú með evru. Það er þess vegna alveg forkostulegt, og er mörgum erlendum mönnum og innlendum hrein ráðgáta, hvers vegna ríkisstjórn Íslands rembist enn eins og rjúpan við staurinn við að komast inn í Evrópusambandið (ESB) með það að markmiði að taka upp evru. Þetta líkist helzt einhvers konar sjálfstortímingarhvöt og mun verða seinni tíðar mönnum mikið umhugsunarefni.
Jafnframt mun það vekja stórfurðu, ef haustþingið tekur ekki í taumana og stöðvar vitleysuna, sem viðgengst að hálfu sálarháskanna, sem ríkisstjórn Íslands skipa nú, landinu til stórtjóns og alþjóðlegrar hneisu.
Hér að neðan má sjá hagvaxtarspár frá júní og september 2011 fyrir Þýzkaland, Frakkland, Spán, Ítalíu og evru-svæðið sem heild. Sýna tölurnar glögglega, hversu hratt fjarar nú undan Evrópusambandinu. Þetta er ekki ritað af "Schadenfreude" eða Þórðargleði, heldur vegna baráttunnar gegn blygðunarlausri aðför að sjálfsákvörðunarrétti landsmanna.
25.8.2011 | 21:41
Skrattinn úr Svörtuloftum
Segja má, að tilkynning Seðlabankans í viku 33/2011 um 0,25 % vaxtahækkun hafi komið eins og skrattinn úr sauðarleggnum á landslýð. Svo kölluð Peningastefnunefnd Seðlabankans tók þessa ákvörðun, sem virðist gjörsamlega úr lausu lofti gripin. Dettur manni í hug hið fornkveðna að þessu tilefni, að því verri eru heimskra manna ráð sem þeir koma fleiri saman.
Stöðu íslenzka hagkerfisins nú um stundir má kenna við stöðnunarverðbólgu (e. stagflation), og við slíkar aðstæður hefur engum hvítum manni hingað til dottið í hug að hækka vexti, en mannvitsbrekkurnar í Svörtuloftum riðu á vaðið.
Millibankavextir Seðlabanka ákvarða vaxtastig í landinu. Vaxtahækkun er við vissar aðstæður rétt að nota til að slá á fjárfestingar og/eða einkaneyzlu. Hvorugu er til að dreifa nú, enda er hagvöxtur nánast enginn. Mikið atvinnuleysi er í landinu (a.m.k. 8 %), og nýting framleiðslutækjanna er lág. Það eru engin grundvallarskilyrði vaxtahækkunar uppfyllt um þessar mundir. Engu er líkara en gamli Trotzkyistinn í Svörtuloftum sé að apa nýlega vaxtahækkun eftir ECB (Seðlabanka ESB), en þar á bæ voru áhyggjur af langvinnri verðbólgu yfir markmiði og þenslu í þýzkumælandi löndum. Nú virðist hafa verið um gönuhlaup ECB að ræða, hvað þá Seðlabanka Íslands.
Peningastefnunefnd varð að almennu athlægi í landinu með ákvörðun sinni, og ekki fór betur, þegar Trotzkyistinn rembdist við að útskýra fíflaganginn. Verðhækkanir í kjölfar vonlausra kjarasamninga og innfluttrar verðbólgu, m.a. vegna lækkandi gengis, eru algerlega utan seilingar Seðlabankans. Að hækka vexti vegna lækkandi gengis á tímum gjaldeyrishafta er fáránlegt. Það er ætíð mjög varasamt að reyna að stjórna genginu með vöxtum, eins og dæmin sanna. Það verður að stokka spilin algerlega upp á nýtt í Svörtuloftum, þegar glóra kemst í landsstjórnina. Það leysir í þessu samhengi ekki nokkurn vanda að hrópa á upptöku annars gjaldmiðils, því að hagstjórninni verður að koma í jafngott lag og tíðkast í því hagkerfi, sem mótar viðkomandi gjaldmiðil áður en til greina kemur að ganga í myntbandalag. Annars gerist einmitt það, sem Grikkir súpa nú seyðið af.
Einfeldningar á Íslandi, sem hrakyrða krónuna og halda að með einu pennastriki sé hægt að leysa gjaldmiðilsvandann með samningum við ESB, hafa fjargviðrazt út í andstæðinga ódýrs fullveldisafsals fyrir að vilja svipta þá réttinum til að kjósa um samningsskilmálana. Ekkert er fjær sanni, en fyrst er þó nauðsynlegt að fá úr því skorið, hvort þjóðin treystir núverandi stjórnarskrípi til að standa í slíku samningaferli. Allt bendir til, að þjóðin muni hafna aðildarsamningi, og þess vegna ber brýna nauðsyn til að veita henni ráðrúm til að stöðva feigðarflan ríkisstjórnarinnar.
Svörtuloftaformaðurinn sker sig algerlega úr hópi starfsbræðra sinna í öðrum löndum. Hann á það til að toppa aðra álfa út úr hólum. Það gerði hann á dögunum. Þá var hann beðinn um að leggja mat á ástand evrunnar. Þjónn Jóhönnu svaraði þá, að hann vonaði, að ástandið varaði ekki lengi. Svona svarar enginn viti borinn seðlabankastjóri. Hvert mannsbarn veit, að ástand evrunnar er grafalvarlegt, og það er ekkert annað en kraftaverk, sem getur bjargað henni nú. Það er útilokað, að núverandi 17-landa evruvandi verði leystur á skömmum tíma, t.d. 12 mánuðum. Warren Buffet spáir evrulandi vanda í 10 ár, en flest bendir til klofnings evrulands með einum eða öðrum hætti. Þýzkaland og norðrið á móti Frakklandi og suðri eða afturhvarf til þjóðmyntanna í einhverjum mæli hillir undir.
Víkjum nú að furðufyrirbrigðinu, sem síðan 1993 hefur rembzt eins og rjúpan við staurinn við að flokka virkjunarkosti landsmanna. Þegar loks kom að verklokum Verkefnisstjórnar Rammaáætlunar má segja, að fjallið tók jóðsótt, en fæddist lítil mús. Verkefnisstjórn þessi stendur ekki undir nafni. Stjórnmálalegur hrærigrautur ofstækisgræningja var það, sem reitt var fram á formi draga til frumvarps. Hræðileg moðsuða.
Það, sem gott þriggja manna teymi verkfræðings, jarðfræðings og hagfræðings, hefði getað leyst á tveimur vikum, tók þessa endemis verkefnisstjórn 18 ár að koma á koppinn. Var króinn þó ærið óburðugur, svo að hann getur ekki orðið komandi kynslóðum að nokkru gagni. Notagildið er aðallega fólgið í forgangsröðun virkjana, en hver kynslóð mun virkja í þeim mæli, sem hagkvæmt og skynsamlegt þykir á hverjum tíma án tillits til þessa vanskapnings. Að takast þar að auki ekki að ljúka verkinu, en setja upp biðflokk, er til skammar. Hér hefur afætum verið gefið ótæpilega á garðann.
Málsmeðferð ríkisstjórnarinnar á aðlögunarferlinu að ESB er fyrir neðan allar hellur. Til að leyna þjóðinni aumkvunarverðri framgöngu samningamanna og embættismanna ríkisstjórnarinnar, sér ríkisstjórn opinnar stjórnsýslu og gegnsæis í málatilbúnaði, en þannig lýsti hún sér í upphafi, til þess, að þjóðin fær engar upplýsingar um gang mála í þessu brýnasta hagsmunamáli sínu, sem er varðveizla fullveldis. Stjórnarómyndin ætlar ekki að láta steyta á neinu máli í viðræðunum, hvorki um sjávarútveg né landbúnað. Síðan á með áróðursvél ESB, sem stjórnað er frá bökkum Spree í hinni fornu höfuðborg Prússlands, að freista þess að blekkja þing og þjóð til fylgilags við fullveldisafsal í fögrum umbúðum.
Ef einhver töggur er í stjórnarandstöðunni á Alþingi, ber henni að vekja máls á þeirri ólýðræðislegu málsmeðferð, sem hér er á ferðinni, og á þeim óeðlilega farvegi, sem þetta ólánsmál, skammarlega mál, er í. Enn er því haldið fram af töskuberum Össurar Skarphéðinssonar í öllum flokkum, að leiða þurfi viðræðurnar til lykta til að þjóðin geti lagt mat á afraksturinn. Þetta er svo þrátt fyrir þá staðreynd, að meirihluti þings og þjóðar er á móti aðild óháð því, hvað kemur upp úr poka jólasveinsins. Það vita allir heilvita menn, hvað upp úr pokanum mun koma. Það verður allt núverandi regluverk ESB með tímabundnum umþóttunum og einstaka undanþágum, sem ekkert hald verður í gagnvart Evrópudómstólinum, kæri einhver aðildarþjóðin síðar.
Þess vegna á Alþingi nú snarlega að stöðva þetta ferli með kurteislegri ályktun án þess að styggja viðmælendurna, Stefan Füle, og hans menn í Brüssel. Þar með sparast stórfé, og stjórnkerfi landsins getur snúið sér að uppbyggilegri málum. Þetta mun þó ekki gerast fyrr en Alþingi nær vopnum sínum, og tæpast verður það án kosninga. Þar mun fylgi stjórnarflokkanna fara niður fyrir björtustu vonir stjórnarandstæðinga. Svo verður nýjum stjórnmálaflokkum fyrir að þakka, sem munu reyndar verða áhrifalausir eftir kosningarnar, en ná að róta fylginu til. Ný forysta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fær þá tækifæri til að hefja og leiða mikla framfarasókn landsmanna eftir eyðimerkurgöngu félagshyggjuaflanna, sem munu hafa valdið hér meira tjóni á þremur árum en varð í fjármálakreppunni á Íslandi í október 2008. Það verður að hrista kerfið rækilega, sópa út úr stjórnarskrifstofunum og hleypa þar inn fersku lofti og fólki, sem þorir og kann eitthvað til verka í stað taðskegglinga og þöngulhausa, sem félagshyggjuflokkarnir hafa af stökustu ósvífni raðað á garðann. Nú dugir ekkert minna en áfallsmeðferð (sjokkterapía), afnám gjaldeyrishafta og allra annarra stjórnvaldshafta, afnám verðtryggingar, stórfelld skattalækkun og samningar um stórframkvæmdir. "You ain´t seen nothing yet."
19.8.2011 | 22:07
Meinsemd
Alvarleg meinsemd hefur grafið um sig víða og ekki sízt í vestrænum samfélögum. Hér er átt við langvarandi fjöldaatvinnuleysi og lága nýtni framleiðsluaflanna. Þessi meinsemd hefur grafið um sig á löngu tímabili og valdið óhamingju og þjóðfélagsspennu, sem getur leystst úr læðingi snögglega, ef neisti kemst í púðurtunnuna. Þetta hafa Englendingar mátt reyna á eigin skinni undanfarið, en staðan er þannig, að óeirðir vegna innibyrgðrar gremju stórra utanveltuhópa geta brotizt út hvar sem er fyrirvaralaust. Þessi sóun á kröftum, sem gætu skapað verðmæti, er ennfremur rót grundvallarvandans í vestrænum samfélögum, sem er of lítil verðmætasköpun m.v. útgjöld og þar af leiðandi viðvarandi hallarekstur á sameiginlegum sjóðum.
Þetta á ekki sízt við um Evrópu, þar sem atvinnuþátttaka er víða ótrúlega lítil, og 40 % atvinnuleysi á meðal fólks undir þrítugu er ekki óalgengt. Það er gríðarlegur áfellisdómur yfir einu þjóðfélagi og ber vott um skeytingarleysi valdhafa að geta ekki fengið nánast öllum þegnum sínum eitthvað að sýsla við. Þetta er því alvarlegra í Evrópu, þeim mun hærri, sem meðalaldur viðkomandi þjóðar er. Ef meðalaldur er hár, er viðkoma lítil og tiltölulega fátt ungt fólk. Ef þar á ofan skortir verkefni fyrir stóran hluta þessa fólks, er ljóst, að viðkomandi þjóðfélag er algerlega misheppnað. Margt bendir til, að ofsköttun fyrirtækja og fjölskyldna ásamt skrifræðisbákni og þunglamalegu stjórnkerfi eigi mikinn þátt í þessu vandamáli. Ljóst er, að ESB hefur ekki bætt hér úr skák, nema síður sé.
Grundvallarforsenda fyrir háu atvinnustigi og þar af leiðandi útrýmingu langtíma atvinnuleysis er fjölbreytni atvinnuveganna og góður hagvöxtur, þ.e. yfir 3 % á ári. Hagvaxtarleysi eða lágur hagvöxtur er einmitt einkenni margra Evrópulanda. Hver skyldi vera skýringin á því ? Sem dæmi má nefna, að frá Hruni hefur hagkerfi Vesturlanda í heild nánast ekkert vaxið, en hagkerfi iðnvæðingarlanda Asíu hefur vaxið um 20 % á sama tíma.
Skýringarnar á ofangreindu eru aðallega tvær. Annars vegar mjög umsvifamikill ríkisbúskapur með þeirri sóun fjármagns, sem er fylgifiskur slíks ásamt háum sköttum, sem draga mátt úr athafnalífinu og draga úr neyzlu almennings, og hins vegar hallarekstur ríkisins, sem veldur hárri skuldabyrði, miklum vaxtagreiðslum úr viðkomandi ríkissjóði og samkeppni ríkisins við einkaframtakið um lánsfjármagn. Þetta er í fáum dráttum vandi margra hagkerfa heimsins, þ.á.m. í Evrópu, sem er orðinn svo svæsinn, að kreppa er yfirvofandi. Fjármálakerfi heimsins er í raun búið að missa trú á, að leiðtogum ESB takist að koma evrunni fyrir vind.
Í ESB (Evrópusambandinu) er vandinn mjög alvarlegur af þremur ástæðum:
- Á vegum ESB starfa hundruðir þúsunda blýantsnagara við að semja íþyngjandi reglugerðir og fylgja þeim eftir og leggjast ofan á fjölmennt lið á ríkisjötu aðildarríkjanna. Allt þetta verður atvinnulífið að bera uppi og jafngildir lakari samkeppnistöðu fyrirtækjanna í ESB.
- Aldurssamsetning í Evrópu er orðin mjög óeðlileg vegna lítillar viðkomu lengi. Þetta veldur æ þyngri opinberum byrðum á tiltölulega fátt vinnandi fólk.
- Glannalegri peningalegri tilraun var hleypt af stokkunum um aldamótin 2000 að frumkvæði franskra stjórnmálamanna án rétts undirbúnings og samræmingar í ríkisbúskapi aðildarlandanna. Tilraunina um hina sameiginlegu mynt, evruna, skortir nauðsynlegar fjárhagslegar forsendur til að heppnast. Franskir stjórnmálamenn eiga mesta sök, því að miklu veldur sá, er upphafinu veldur, og þeir hafa brotið Maastrichtsamkomulagið, sem átti að koma í stað sameiginlegra ríkisfjármála og veita ríkisstjórnunum nægan aga í anda Bundesbank Otmars Issings. Frakkar hafa ekki burði til að leika í úrvalsdeild hagkerfa með Þjóðverjum og munu fyrr eða síðar falla fyrir borð með brauki, bramli og miklu handapati. Eigum við Íslendingar erindi í úrvalsdeild með Þjóðverjum, í aðra deild með Frökkum, eigum við að tengjast sterlingspundinu eða norrænu krónunum eða reyna að standa í lappirnar með eigin, sjálfstæða mynt ?
Hér á Íslandi er mikið atvinnuleysi eða um 8 % þrátt fyrir hræðilegan fólksflótta, svo að fækkun á vinnumarkaði nemur líklega um 15 %. Eins og annars staðar er atvinnuleysið mest á meðal ungs fólks. Ástandið er svona slæmt, þrátt fyrir að ekkert ofangreindra þriggja skilyrða eigi við Ísland. Ástæðurnar fyrir því eru tvær. Annars vegar hrikalegur fjármunabruni í bankahruninu í október 2008, þegar gjaldmiðillinn hrundi einnig, allt vegna glæpsamlegs framferðis óreiðumanna, og hins vegar vegna ráðstjórnarinnar, sem ríkt hefur á Íslandi síðan 1. febrúar 2009 og slysalegrar samsetningar Alþingis frá hrakfarakosningum í apríl 2009, þegar hrakval kjósenda átti sér stað.
Þessi ríkisstjórn hefur bætt gráu ofan á svart með því að hrinda í framkvæmd svakalegum skattahækkunum, sem forkólfar hennar hafa predikað nauðsyn á, frá því að þeir hrökkluðust úr ríkisstjórn árið 1991. Þar á ofan hefur ráðstjórnin, eins og búast mátti við , fjandskapazt leynt og ljóst við athafnalífið og lagt helztu útflutningsgreinarnar, sjávarútveg og stóriðju, í einelti. Sjávarútvegurinn hefur þar af leiðandi verið í vörn og lítið fjárfest, og ekkert nýtt álver hefur litið dagsins ljós.
Fjárfestingar eru af þessu tilefni helmingi minni en þær þyrftu að vera eða aðeins um 200 milljarðar króna á ári eða um 12 % af VLF. Hvort tveggja, skattpíning og litlar fjárfestingar, hafa dýpkað og lengt í kreppunni, því að þetta er eitruð blanda fyrir hagvöxt. Ráðstjórnin hefur meðvitað rekið hér hagvaxtarfjandsamlega stefnu, enda hafa sumir forkólfar hennar lýst því yfir, að þeir séu á móti hagvexti. Þetta er vel þekkt græningjasjónarmið, t.d. í Evrópu, en á engan veginn við hérlendis, þar sem allir atvinnuvegirnir eru reknir með sjálfbærum hætti. Bjálfayrðing á borð við "látum náttúruna njóta vafans" eða "náttúran hefur sjálfstætt gildi", sem umhverfisráðherra ráðstjórnarinnar viðhefur oft, lýsir vel þokukenndum viðhorfum núverandi stjórnvalda.
Flestar ríkisstjórnir setja í öndvegi sinnar stefnumörkunar að viðhalda góðum hagvexti og að koma í veg fyrir samdrátt hagkerfisins. Er þetta víðast hvar látið ganga fyrir samdrætti á umsvifum ríkissjóðs, þó að það jafngildi tímabundnum hallarekstri hans. Ástæðan er sú, að umsvif ríkisvaldsins eru yfirleitt svo stór hluti af landsframleiðslu, 35 % - 55 %, að aðgerðir í ríkisfjármálum hafa mikil áhrif á þjóðarbúskapinn. Hérlendis er þessu öðru vísi farið undir ráðstjórn. Ríkisstjórnin hefur engan áhuga á hagvexti og hefur ekkert gert til að efla hann með þeim afleiðingum, að ekki hefur enn tekizt að vinna upp tapaða landsframleiðslu í raunkrónum frá Hruni, heldur hjakkar hagkerfið í sama farinu og er nú svipað að stærð í raunkrónum og árið 2005, þ.e.a.s. síðastliðin 6 ár hefur okkur ekkert miðað fram á við. Svona langt tímabil án nokkurs nettóhagvaxtar er grafalvarlegt mál og vitnar um mikla meinsemd. Hún er stjórnmálalegs eðlis, því að ráðstjórnin hefur farið öfugt að öllu miðað við það, sem gengur og gerist í hinum vestræna heimi. Hún hefur ofan í kreppuna hækkað skatta og skorið niður ríkisútgjöld án þess að fara í nokkra hagvaxtarhvetjandi aðgerð. Þetta er stórskaðlegt hagkerfinu og þjóðfélagslega stórhættulegt, því að ráðstjórnin hefur með þessu sett hagkerfið í spennitreyju og hrakið 30 þúsund manns út af vinnumarkaðinum. Þannig mun þetta ganga valdatíma ráðstjórnar á enda, því að þessi fáránlegu og forkastanlegu vinnubrögð eru samofin gjaldþrota stjórnmálastefnu félagshyggjunnar á Íslandi.
Borgaraleg ríkisstjórn með heibrigða skynsemi að leiðarljósi hefði sett í forgang að koma hjólum atvinnulífsins af stað með tvöföldun fjárfestinga upp í 400 milljarða á ári, svo að koma mætti í veg fyrir fjólmörg gjaldþrot, sóun verðmæta með flutningi stærstu atvinnutækjanna úr landi og atgervisflótta ("brain drain"). Síðan hefði hún snúið sér að sparnaði í ríkisrekstri með því að fá einkaframtakinu tiltekin verkefni og hreinsa út af atvinnuleysisskránni, því að þeir, sem fúlsa við vinnu, sem þeim býðst, eiga ekki að vera þar.
Borgaraleg ríkisstjórn hefði ekki migið í skóinn sinn með stórfelldum skattahækkunum, sem hafa gefið ríkissjóði miklu minna en stjórnin reiknaði með, því að hún hefur með þessu skapað víðtækan svartan markað; stórfellt neðanjarðarhagkerfi. Glataður tími og tækifæri verða ekki endurheimt, og viðreisnin verður því erfiðari þeim mun lengri, sem stöðnunartímabilið varir. Til að koma hjólunum í gang á ný ríkisstjórn ekki annarra kosta völ en að birta í upphafi ferils síns stefnuyfirlýsingu, sem afnemur þá miklu óvissu, sem nú ríkir um afstöðu ríkisvaldsins til athafnalífsins og til skattlagningar fyrirtækja og fólks. Til að gefa stefnumörkuninni trúverðugleika þarf að lækka alla skattheimtu strax samkvæmt áætlun og að flýta samningum um nýja stóriðju, svo að hefjast megi handa við nýjar virkjanir og iðnaðaruppbyggingu.
Fyrirtæki landsins á að meðhöndla skattalega með sama hætti, þ.e. auðlindagjald á að afnema, nema auðlindarentan alræmda finnist. Hins vegar gæti sjávarútvegurinn staðið straum af kostnaði við þjónustu, sem hann nýtur að hálfu hins opinbera, t.d. á formi veiðiráðgjafar og hafnarþjónustu. Vinda þarf ofan af mismunun innan sjávarútvegsins, sem t.d. er fólgin í strandveiðum, en þar fá menn kvóta endurgjaldslaust og af þeim er ekki innheimt veiðigjald.
Ferðamennskuna verður að endurskipuleggja til að koma í veg fyrir náttúruspjöll, sem jaðra við hreina villimennsku. Gjald verður að taka af ferðamönnum á viðkvæmum stöðum til að stemma stigu við fjöldanum og til að kosta stíg-og slóðagerð ásamt ströngu eftirliti.
Tækifærin á Íslandi eru meiri en í nokkru öðru Evrópulandi. Við höfum alla burði til að vaxa út úr núverandi vanda, en frumskilyrði er þá að velja til forystu fólk með bein í nefinu, víðsýni og þekkingu, en umfram allt fólk, sem stendur með báða fætur á íslenzkri jörð, en er ekki heltekið af evrópskum grillum, sem það sjálft botnar hvorki upp né niður í.
11.8.2011 | 20:26
Evrópusambandið í herkví
Fyrr en margur hugði er nú komið að ögurstundu á vegferð Evrópusambandsins (ESB), sem er orðið mikill baggi á veikburða ríkissjóðum aðildarlandanna. Óhætt er að segja, að evran er dragbítur á hag margra landa Evrópu nú í efnahagskreppunni seinni í byrjun 21. aldarinnar, því að þau eru ósamkeppnihæf vegna hennar.
Jafnvel er nú skuldatryggingarálag Sambandslýðveldisins tekið að hækka, og hlutabréfaverð í frönskum bönkum lækkar eðlilega ört vegna mikilla útlána þeirra til Grikklands og fleiri senn gjaldþrota landa evrulands. Lánshæfismat franska ríkisins, AAA, er of hátt m.v. 82 % skuldir þess af VLF. Varnarlína ESB liggur ekki lengur um Madríd og Róm, heldur um París. Slagorðið um æ nánari samruna (an ever closer union) skortir nú innihald, því að stefnuna hefur steytt á skeri.
Með útgáfu ESB-ríkisskuldabréfa átti að bjarga Suður-Evrópu, en úr því verður ekki, því að Þjóðverjar neita að verða drógin, sem dregur þann vagn á gjöktandi nöfum. Þar með verður feigum ekki forðað, né ófeigum í hel komið. Þjóðverjar sáu skriftina á veggnum í þessu sambandi, þ.e. að þeir mundu verða blóðmjólkaðir, en sökudólgarnir mundu að mestu komast upp með léttúðuga lifnaðarhætti. Þjóðverjar eru sem betur fer teknir að leggja við hlustir, þegar fyrrverandi yfirhagfræðingur Bundesbank, þýzka seðlabankans, Otmar Issing, hefur upp raust sína. Í forystugrein Morgunblaðsins, miðvikudaginn 10. ágúst 2011, "Aðvörunarorð úr innsta hring", er haft eftir Herrn Issing, "að ráðagerðir valdamanna í Brüssel um að búa til pólitískt sambandsríki, svo að verja megi evruna, feli dauðann í sér."
Það eru komnir upp þverbrestir í samstarfi evru-ríkjanna, og þar ríkir glundroði sem á sökkvandi skipi væri. Bréf Barroso til forystumanna ESB og ofanígjöf Olla Rehn við hann ásamt silalegum og fálmkenndum viðbrögðum og algeru frumkvæðisleysi varpar ljósi á þetta.
Hvers konar klúbbur er það þá, sem Samfylkingin og handbendi hennar eru blygðunarlaust að troða Íslandi í ? Svarið á skrifandi stundu er, að það veit enginn. Samt er haldið áfram með ærnum tilkostnaði. Samfylkingin hefur tekið trú og getur ekki játað á sig mistök með því að láta af henni. Þessu fyrirbrigði verður hegnd grimmilega fyrir þrákelkni sína í næstu Alþingiskosningum, því að flokkurinn tekur Brüssel-trú sína fram yfir þjóðarhagsmuni.
Væri nokkur mannsbragur að forystu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, mundi hún fara að ráðum Nestors síns, Hjörleifs Guttormssonar, er hann setti fram í Morgunblaðsgrein 10. ágúst 2011, "Alþingi stöðvi gönuhlaupið til Brussel", en þar sýnir hann fram á, að umsóknin, sem Alþingi samþykkti með semingi 16. júlí 2009, var sett fram á röngum forsendum. Það er hægt að taka undir hvert orð í þessari grein Hjörleifs, t.d.:"Það er niðurlægjandi fyrir Íslendinga, að stjórnvöld skuli standa í aðildarviðræðum við Evrópusambandið þvert á vilja meirihluta þjóðarinnar." Hann biðlar síðan til Alþingis, sérstaklega flokksmanna sinna, að söðla nú um og samþykkja að draga umsóknina til baka. Þessi flokksómynd hefur reyndar þegar glutrað niður öllum trúverðugleika sínum fyrir tilstilli Steingríms Sigfússonar og Svandísar Svavarsdóttur.
Ljóst er, að gríðarlegt tap er framundan. Trilljónir evra og trilljónir bandaríkjadala (trilljón=þúsund milljarðar) munu tapast á mörkuðum. Þetta verður svo tilfinnanlegt tap, að koma mun við buddu hvers einasta manns austan hafs og vestan, sem á annað borð á buddu. Enn einu sinni tapa íslenzku lífeyrissjóðirnir hluta af 500 milljarða kr eign í hlutabréfum. Það liggur ekki í augum uppi, hvers vegna lífeyssjóðirnir hafa sett fjórðung eigna sinna í hlutabréfakaup. Að mati höfundar þessa vefseturs er það óafsakanleg glæfrahyggja með langtímasparnað landsmanna. Hámark hlutabréfaeignar ætti að vera 10 %.
Verðfallið hefur þegar haft áhrif á verðlag útflutningsafurða Íslendinga til lækkunar og áhrif til fækkunar ferðamanna eru líkleg. Þetta mun jafngilda áframhaldandi kjaraskerðingu á Íslandi. Við þessar aðstæður gælir farlama ríkisstjórn við hugmyndir um aukna skattheimtu af útflutningsgreinunum, sem er fullkomlega forkastanleg stefna, sem gæti stórskaðað hagsmuni þjóðarinnar til langs tíma litið (og skamms). Að éta útsæðið eru ær og kýr sameignarsinna.
Nú ríður okkur á sparnaði og aðhaldi á öllum sviðum, en á sama tíma er ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs mjög útbær á opinbert fé, sem sólundað er m.a. í aðlögun að ESB og í aðildarviðræður að því. Þetta er því forkastanlegra, þeim mun augljósara sem það verður, að Ísland verður aldrei aðili að því ESB, sem við þekkjum núna, einfaldlega af því að það er á fallanda fæti.
Það er mjög óvenjulegt skeið í alþjóða stjórnmálum að renna upp núna, sem kallar á óvenjuleg, frumleg og djarfleg viðbrögð íslenzkra stjórnmálamanna. Því miður er Alþingi með endemum aftarlega á merinni og ógæfulega saman sett nú, og óskandi væri, að gamla settinu yrði einfaldlega settur stóllinn fyrir dyrnar, svo að kosningar verði ekki umflúnar, í von um, að breyta megi atburðarásinni til betri vegar. Þá verða stjórnarandstæðingar í öllum þingflokkunum og stjórnmálaflokkunum að leggjast á eitt til að svo megi verða. Ekki er loku fyrir það skotið, að slíkt megi verða þegar í haust 2011, því að ríkisstjórnin er lömuð á strandstað.
Það er til of mikils mælzt, að Samfylkingin sjái að sér og skipti um skoðun á nauðsyn þess að ganga í ESB, enda hefur jafnan legið í landi, að sú stefnumörkun héldi vart vatni. Frá þessum blinda einsmálsflokki hefur aldrei komið neitt annað en kratablaður um Evrópuhugsjónina, sem á ekki upp á pallborðið hjá eyjarskeggjum. Þessi sama Evrópuhugsjón verður fyrsta fórnarlambið, þegar harðnar á dalnum, og hver þjóð mun bjarga sér sem bezt hún getur. Evrópumenn munu ekki láta bjóða sér að verða undirsátar ólýðræðislegs bákns í Brüssel, sem hæglega getur tekið myndbreytingu í átt að Sovétbákninu hryllilega, sbr viðvörunarorð eins traustasta varðar og bakhjarls þýzka marksins, Otmar Issing.
Ákall og draumórar græningjans, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, Joschka Fischer, sem berja mátti augum í Morgunblaðinu þriðjudaginn 9. ágúst 2011, er andvana fætt. Greinin ber fyrirsögnina, "Fullveldiskreppan í Evrópu", og þar á höfundurinn við, að Evrópuríkin búi nú við of mikið fullveldi og að vandamálið sé fólgið í þvergirðingi margra við fullveldisafsali. Um þetta sjónarmið má segja, að sínum augum lítur hver á silfrið. Joschka Fischer vill leggja allt í sölurnar til að bjarga evrunni, en höfundur þessa vefseturs er þeirrar skoðunar, að farið hafi fé betra og að í því sé fólgin allt of mikil áhætta að auka enn við miðstýringarvald og forsjárhyggjuáráttuna í Brüssel. Það gengur heldur ekki upp, hagfræðilega. Joschka Fischer skrifar m.a.:
"Í öðru lagi mun stökkið inn í gjaldeyrissjóð og sameiginlega stjórn efnahagsmála leiða til frekari og víðtækrar skerðingar á fullveldi í þágu evrópskrar lausnar á vettvangi sambandsins. Má t.d. nefna, að innan myntbandalagsins munu fjárlög einstakra aðildarríkja heyra undir evrópska eftirlitsstofnun."
Svo mörg voru orð þýzka græningjans, en því fer víðs fjarri, að meirihluti landsmanna hans deili með honum skoðunum um Sambandsríki Evrópu, enda mundi slík ríkismyndun verða á kostnað lýðræðis og sjálfsákvörðunarréttar almennings. Stjórnlagadómstóll Þýzkalands í Karlsruhe mun og verða græningjum og krötum Þýzkalands óþægur ljár í þúfu, því að svo heiftarlegt fullveldisframsal stríðir gegn Stjórnarskrá Sambandslýðveldisins. Almenningur í Þýzkalandi er meðvitaður um, hvað sameining Evrópu í eitt ríki hefur í för með sér fyrir efnahag sinn. Hann hefur nýlegt dæmi frá endursameiningu Þýzkalands. Hinum ráðdeildarsama þýzka skattgreiðanda verður beitt fyrir Evrópuvagninn og látinn "halda uppi" sukksamari ríkjum með einum eða öðrum hætti. Þetta er kjarni samrunaferlisins. Lýðræðið í Þýzkalandi mun hindra þessa þróun, og þess vegna stendur evran og ESB á brauðfótum um þessar mundir. Veikleikar Frakklands í þessu sambandi eiga eftir að koma betur í ljós.
Við þessar aðstæður er tal sanntrúaðra ESB-sinna Samfylkingarinnar sorglegt. Þeir opinbera sig sem þekkingarlitla (sbr evran er ekki sökudólgurinn) og dómgreindarlausa varðandi núverandi stöðu Evrópu, og afleiðingar þess fyrir Ísland að sækjast eftir aðild að ESB.
Samfylkingin hefur ekki annað samningsmarkmið en að skrifa undir allt, sem ESB fer fram á. Síðan eiga spunaþrælarnir að klæða kvikindið í búning, sem þeir telja unnt að selja það þjóðinni í. Engin efnisleg umræða fer fram á þingi eða í fjölmiðlum um framvindu samninganna. Þetta er viðbjóðslegur málatilbúnaður og ber vitni um einbeitt andlýðræðislegt hugarfar. Ofan af þessum viðbjóði verður flett og ESB-draugarnir verða teknir viðeigandi glímutökum og brotnir á bak aftur. Myndin hér að neðan sýnir þróun hlutabréfamarkaðar í frönsku kauphöllinni í byrjun ágúst 2011.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.7.2011 | 19:48
Hið varnarlausa þjóðfélag
Norrænu samfélögin, hinn vestræni heimur og þó víðar væri leitað, eru harmi slegin vegna heigulslegrar aftöku ungmenna o.fl. á Útey í Noregi og gríðarlegrar og mannskæðrar sprengingar við stjórnarráðsbyggingar í miðborg Óslóar þann 22. júlí 2011. Er Norðmönnum hér með vottuð dýpsta samúð vegna þessara atburða.
Yfirmaður norsku öryggislögreglunnar, PST (Politiets Sikkerhetstjeneste), Janne Kristiansen, sagði í viðtali við stærsta dagblað Noregs, Aftenposten, þann 25. júlí 2011, að jafnvel STASI, leynilögreglu Austur-Þýzkalands, hefði hún verið starfandi í Noregi, mundi ekki hafa tekizt að komast á snoðir um fyrirætlanir Anders Behring Breivik, hvað þá að koma í veg fyrir, að hann hrynti þeim í framkvæmd. Höfundur þessa vefseturs er ekki í færum til að leggja mat á þessa fullyrðingu lögregluforingjans norska, en hún er umhugsunarefni í kjölfar þessara svívirðilegu manndrápa.
Þetta leiðir hugann að því, hve berskjölduð lýðræðisþjóðfélög eru fyrir ódæðisverkum einstaklinga og félagasamtaka, sem hafa lag á að fara lágt með fyrirætlanir sínar og eru nægilega forhert, siðblind eða sturluð til að láta tilganginn helga meðalið. Hér er meðalhófið vandfundið, þ.e. öryggislögregla, sem vinnur gagn og kemur í veg fyrir sum hryðjuverk, þó að hún geti ekki greint öll, án þess að ganga á frelsi einstaklingsins.
Í þessu sambandi dugir skammt að vísa til öfgafullra, stjórnmálalegra skoðana, því að enginn, sem gengur heill til skógar, fremur slíkt ódæði, sem hér er umræðuefni, sama hversu öfgafullar stjórnmálalegar skoðanir til hægri eða vinstri viðkomandi kann að hafa. Í heilbrigðum einstaklingi eru nægilega háir siðferðilegir þröskuldar til að hindra slíkt, enda er það mat lögfræðings Breiviks, að hann sé brenglaður maður, s.s. ýmislegt í fortíð hans, sem upplýst hefur verið um, gefur greinilega til kynna.
Óhætt er að segja, að téðir atburðir, einkum skotárásin í Útey, hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þó er óþarfi að stinga hausnum í sandinn og láta eins og norska þjóðfélagið sé fullkomið. Því fer víðs fjarri.
Á seinni árum hefur myndazt þjóðfélagsleg spenna í Noregi, sem á sér engan sinn líka frá stríðslokum. Þetta dylst ekki þeim, sem kunnugur er norska þjóðfélaginu frá fornu fari og heimsótt hefur Noreg nýlega. Gríðarlegur straumur fólks frá fjarlægum löndum með framandi menningu og siði hefur tekið sér bólfestu í Noregi á síðustu 30 árum. Þetta fólk sezt að í ákveðnum hverfum bæja og borga Noregs og myndar þar gettó. Mikil viðkoma er hjá þessu fólki, og þegar norska heyrist ekki lengur töluð í viðkomandi hverfisskólum, þá flýja Norðmenn hverfið. Þetta ástand er reyndar þekkt víðar, t.d. á Englandi, og er auðvitað til þess fallið að mynda mikla þjóðfélagsspennu.
Vinur er sá, er til vamms segir, hljómar fornt máltæki. Norðmenn hafa flotið sofandi að feigðarósi. Að breyttu breytanda minnir þessi óheillaþróun á ástandið á 4. áratug 20. aldarinnar, er Norðmenn létu varnir landsins sitja á hakanum með þeim afleiðingum, að þýzki flotinn undir merkjum hakakrossins gat siglt andspyrnulítið með her manns inn eftir Óslóarfirði og tekið Norðmenn í bólinu, þó að Oscarsborgar- virkinu að vísu tækist að granda herskipinu Blücher, þar sem þúsundir þýzkra hermanna fórust.
Í ljósi aðdraganda voðaatburðanna föstudaginn 22. júlí 2011 og ummæla lögregluforingjans hér að ofan er hins vegar fyllilega réttmætt að spyrja, hvort leynilögregla og margfalt fé til forvarnaraðgerða hefði nokkru skilað. Hætta er á, að slíkt endi í öfgum eftirlitsþjóðfélagsins, þar sem útsendarar ríkisins eru með nefið ofan í hvers manns koppi, sbr hryllingssöguna 1984. Persónuvernd er þá fokin út í veður og vind og minni munur orðinn á einræðisþjóðfélögum og lýðræðisþjóðfélögum en flestir íbúa hinna síðar nefndu kæra sig um.
Affarasælla er, að yfirvöld gæti þess að haga stjórnun þjóðfélagsmála þannig, að ekki myndist alvarleg innri spenna í þjóðfélögunum. Slíkt er hægt, ef skynsemi er beitt, en valdafólk með afbrigðilegar skoðanir og sérvizku á borð við stjórnmálaflokka á vinstri kantinum veldur óhjákvæmilega þjóðfélagsspennu, enda eru stéttaátök þeirra ær og kýr.
Spenna getur myndazt vegna þess, að tilfinningaþrungin mál séu látin reka á reiðanum, eins og t.d. stefnumörkun um innflytjendamál og aðlögun innflytjenda að þjóðfélaginu, sem þeir hafa kosið að setjast að í. Það verður að ræða slík mál fyrir opnum tjöldum, og vel kemur til greina að leiða þau til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Mikil spenna er nú að myndast á milli ýmissa Evrópulanda og Evrópusambandsins (ESB), einkum í bágstöddum evrulöndum. Þar hafa brotizt út blóðug átök almennings við lögreglu. Almenningur er þar að kljást við vanheilagt bandalag stjórnmálamanna og fjármálakerfisins, en hið síðast nefnda beitir nú ESB purkunarlaust fyrir sig í hagsmunabaráttunni. Má ganga svo langt að segja, að ESB sé handbendi fjármálakerfis Evrópu. Við Íslendingar höfum orðið vitni að falli peningafursta hérlendis og höfum séð téð fjármálakerfi ESB og AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðsins) rísa upp á afturlappirnar, þegar við reyndum að verja okkur í þröngri stöðu.
Hér á Íslandi vex þjóðfélagsspennan vegna ólýðræðislegra "samningaviðræðna" um inngöngu Íslands í ESB, sem eiga sér stað undir leyndarhjúpi og án nauðsynlegrar umræðu um, hverju ekki má fórna, og líkast til nú í blóra við vilja meirihluta þings og þjóðar. Samningaviðræður þessar skortir augljóslega nauðsynlegan bakhjarl í umsóknarlandinu. Hér er um mjög mikið hitamál í landinu að ræða, enda stórfelldir hagsmunir í húfi. Til þess að eyða þessum spennuvaldi þarf einfaldlega að kjósa um það, hvort halda eigi kostnaðarsömu samningaferli áfram, sem margir telja, að geti aðeins endað í blindgötu.
Stórfelld svik kosningaloforða ríkisstjórnarflokkanna hafa auðvitað valdið djúpstæðri gremju í þjóðfélaginu, enda á ekki að líða stjórnmálamönnum atferli eins og svik Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í ESB-málinu og svik þeirra og jafnaðarmanna við að reisa skjaldborg um skuldug heimili, sem breyttist í gjaldborg. Auðvitað á ekki að refsa hinum seku stjórnmálamönnum með líkamlegu ofbeldi eða vopnabeitingu, heldur með því að svipta þá völdum í friðsamlegum kosningum.
Íslendingar eru óvanir atvinnuleysi yfir 3 %. Atvinnuleysið hefur þrefaldazt í tíð núverandi ríkisstjórnar, og brostið hefur á landflótti, sem er meiri en þekkzt hefur frá harðindatímabilinu 1870-1890. Engum dylst, að þetta ástand hefur í för með sér mikla þjóðfélagslega sóun og spennu; ekki sízt, þar sem kreppan er orðin allt of langvinn og vandamálið er nú fólgið í því, að allar gerðir ríkisstjórnarinnar stórskaða hagkerfið og dýpka kreppuna. Halli ríkissjóðs er geigvænlegur, enda á sér stað bruðl með skattpeningana í kauðska fjármálagjörninga hins gæfusnauða fjármálaráðherra, eins og viðskipti með Sjóvá og SpKef bera vitni um, þar sem tap skattborgaranna á mistökum Steingríms Jóhanns Sigfússonar getur numið um 30 milljörðum kr. Fólki sárnar sóun annarra með eigið fé ekki sízt nú, þegar skattuppgjör 2011 er að birtast.
Þá er efnahagsstjórnun efnahagsmálaráðherrans hrein hörmung, sem lýsir sér með því, að verðbólgan er orðin tvöföld á við markmið Seðlabankans og stefnir í 6 %. Þar með hefur óstjórn ríkisstjórnarinnar leitt til þess, að allar kjarabætur nýlegra kjarasamninga eru upp urnar. Það er afspyrnu gremjulegt í kjölfar samfelldra kjaraskerðinga í bráðum 3 ár. Það er gjörsamlega girt fyrir kjarabætur undir vinstri stjórn. Það er reyndar ekki ný saga.
Hér hefur verið tæpt á örfáum óánægjuefnum, sem öll eru sjálfskaparvíti algerlega óhæfs þingmeirihluta, og þess vegna hefðu góð stjórnvöld varazt þessi víti. Vegna framfarafjandsemi, sundrunartilhneigingar og einstrengingslegrar og úreltrar hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar er orðið bráðnauðsynlegt að nýta úrræði lýðræðisskipulagsins til að losa um óþolandi þjóðfélagsþrýsting af hennar völdum og efna til Alþingiskosninga, þar sem gamla settinu verður vonandi sópað á haugana í vissu þess, að nýir vendir sópa bezt. Núverandi stjórnarhættir á Íslandi eru viðundurslegir, misbjóða almenningi og eru þess vegna stórhættulegir.
Evrópumál | Breytt 30.7.2011 kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.7.2011 | 20:32
Evrópa í deiglunni
Ljóst er, að miklir atburðir munu verða á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) á næstu tveimur árum, þ.e. á tímabilinu 2011-2013. Ástæðan er sú mikla spenna, sem myndazt hefur á milli norður-og suðurhluta álfunnar.
Vandamálið er ekki síður af stjórnmálalegum toga en hagrænum. Viðfangsefnin hafa verið hagfræðilegs eðlis, en þar sem stjórnmálamenn eru að fást við þau auk starfsmanna Evrópubankans (ECB), þarf að taka tillit til mjög ólíkra sjónarmiða. Málsmeðferð hefur þess vegna einkennzt af drætti ákvarðana fram á síðustu stundu, og ákvörðunin er eins konar minnsti samnefnari innan evrulandsins. Í grundvallaratriðum hefur forysta evrulands um 3 leiðir að velja:
a) niðurskurð ríkisútgjalda og launalækkanir í vandamálalöndunum
b) afskriftir lána ríkissjóðanna
c) björgunaraðgerðir Sambandslýðveldisins Þýzkalands (Frakkar og aðrir eru getulitlir í þessu tilliti)
Aðferðafræði stjórnenda evrulands kann ekki góðri lukku að stýra, því að hún leiðir til stöðugrar nauðvarnar og viðbragða við markaðsþróun í stað frumkvæðis og stefnumörkunar til framtíðar. Afleiðingin er sú, að evran er nú komin út á yztu nöf. Kann svo að fara, að hálfkák ESB-forystunnar leiði til sundrunar evrulands.
Athygli fjármálamarkaðsaflanna hefur nú beinzt að bágri stöðu Ítalíu, þar sem skuldir ríkissjóðs nema um 120 % af VLF (vergri landsframleiðslu), en það eru hins vegar Ítalir sjálfir, sem fjármagnað hafa þessa miklu skuldsetningu með skuldabréfakaupum að mestu. Erlendar skuldir eru þess vegna ekki vandamál Ítala.
Ítalska hagkerfið hefur verið staðnað í einn áratug a.m.k. og eftir upptöku evru hefur stöðugt sigið á ógæfuhlið, því að verðbólga (verðhækkanir) hefur verið yfir meðaltali evrulands, svo að útflutningsgreinarnar hafa orðið undir í samkeppninni, einnig innan evrulands. Vinnumarkaðurinn er mjög stífur og einstrengingslegur, og samstöðu hefur skort um að herða sultarólina tímabundið, eins og Þjóðverjar gerðu þó með góðum árangri eftir þensluna þar 1995-2005, sem leiddi af endursameiningu Þýzkalands.
Hið ljúfa líf forsætisráðherrans, eða "Bunga-Bunga" lifnaðarhættir hans, hefur ekki bætt stjórnarfarið í landinu. Líklega hitti fjármálaráðherra Berlusconis, Giulio Tremonti, en þeir félagarnir hafa elt saman grátt silfur út af aðhaldsaðgerðum, naglann á höfuðið nýlega, er hann sagði:
"Ef ég fell, þá fellur Ítalía. Falli Ítalía, þá fellur evran. Falli evran, þá fellur ESB." Örlög evrunnar hanga þess vegna á bláþræði, sem "Bunga-Bunga" öldunginum síkáta í Róm þóknast að spinna. Það er vart hægt að hugsa sér ömurlegra hlutskipti eins gjaldmiðils, enda var vitlaust gefið í upphafi spils. Evran var reist af stjórnmálamönnum á hæpnum forsendum jafnvægis í Evrópu, sem hefur leitt til gríðarlegs ójafnvægis og blóðugra átaka í Suður-Evrópu. Forysta Frakklands og Þýzkalands hefur hleypt anda úr flösku og ræður ekki við viðfangsefnið, sem er að koma honum aftur í flöskuna.
Spænska ríkið er ekki jafnskuldsett og hið ítalska, en þar myndaðist hins vegar þensla og eignabóla eftir upptöku evru, sem er sprungin. Heildarskuldir Spánverja nema tæplega ferfaldri VLF, en til samanburðar eru skuldir Breta fimmföld VLF, Þjóðverja og Bandaríkjamanna um þreföld og Íslendinga um tvöföld VLF. Spænskir bankar hafa lánað gríðarfé, um USD 1200 milljarða (USD 1,2 trilljónir), til veikra hagkerfa Írlands, Portúgals og Grikklands. Spænskir bankar eru þess vegna í grafalvarlegri stöðu. Þetta er ástæðan fyrir tregðu Evrópubankans að afskrifa hluta af skuldum þessara þjóða. Það getur leitt til keðjuverkandi bankahruns. Evrópska bankakerfið er eins og spilaborg með tiltölulega mikil útlán. Verði bankahrun á Spáni, verður efnahagslegur stórskjálfti í evrulandi og verðgildi evrunnar mun þá hrynja.
Nú er hafin tangarsókn að evrunni upp eftir Spáni og Ítalíu. Þjóðverjar ráða við að halda PIG (Portúgal-Írland-Grikkland) á floti, en hvorki Spáni né Ítalíu. Þýzkur almenningur hefur hins vegar fengið sig fullsaddan af austri skattpeninga sinna í hít Suður-Evrópu og hefur skotið viðvörunarskotum að Angelu Merkel í fylkiskosningum Sambandslýðveldisins, og vinsældir hennar fara dalandi. Hún ætlar að vinna Sambandsþingkosningarnar árið 2013, en veit, að það er vonlaust, ef hún heldur áfram að beita þýzkum skattgreiðendum fyrir evruvagninn. Evran hangir þá í lausu lofti og er dæmd til að sundrast.
Enn er evran gulrót Samfylkingarinnar, "jafnaðarmanna á Íslandi", fyrir inngöngu í ESB (Evrópusambandið). Sú gulrót er nú orðin mygluð. Engum öðrum rökum hefur verið haldið á lofti. Evrópuhugsjónin um frið á milli "stórvelda" Evrópu, þótt falleg sé, höfðar ekki til eyjarskeggja lengst norður í Atlantshafi. Það er ekki eftir neinu að slæðast með ESB-aðild Íslands. Til þess eru og verða vonandi þjóðartekjur Íslendinga einfaldlega of háar m.v. meðaltal ESB. Við munum verða nettó-greiðendur inn í þann hrörnandi klúbb, sem ESB er. Enginn veit, hvernig hann verður að 10 árum liðnum. Eitt er þó næsta víst, ef hagur landsmanna þróast, eins og góð rök standa til, þá verða Íslendingar nettó-greiðendur inn í þetta ríkjasamband eða sambandsríki, og getur þetta ójafnvægi skipt tugum milljarða kr á ári og farið vaxandi eftir því, sem meðalaldur hækkar meira í Evrópu.
Við núverandi aðstæður hér innanlands og vegna tímamóta í sögu ESB, sem við blasa, er rökrétt að gera hlé á samningaviðræðum við ESB og að stöðva aðlögunarferlið. Tímann á að nota til að ræða það á Alþingi, hvort aðlögun að ESB þjóni þjóðarhagsmunum, og síðan á að spyrja þjóðina að því í þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. samhliða næstu Alþingiskosningum, hvort hún vill kanna til þrautar, hvers konar aðildarsamningur fæst, eða hvort hún e.t.v. hefur engan áhuga fyrir að ganga í þennan klúbb, hvernig sem ótraust gylliboð frá Brüssel kunna að hljóma.
Það er á margra vitorði, að svo nefndar samningaviðræður eru sem slíkar hreinn skrípaleikur, enda er hér um að ræða aðlögun að sáttmálum og lagabálkum ESB, basta. Brjóti samningarnir í bága við stofnsáttmála ESB, sem þeir verða að gera, ef kröfum Alþingis á að fullnægja, þá vofir yfir sú hætta síðar meir, að Evrópudómstóllinn dæmi hann ólögmætan, og hæpin ákvæði Íslandssamningsins við ESB verði þá að víkja. Þá værum við í heljargreipum Evrópuþingsins, framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs ESB. Það er glórulaust að halda áfram þessu feigðarflani. Mál er að linni.
Evrópumál | Breytt 22.7.2011 kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2011 | 22:20
Útúrboruháttur
Fregnir berast um, að kínverski forsætisráðherrann hafi haft hug á að heimsækja þann íslenzka nú um miðjan júlí 2011 með 100 manna sendinefnd, sem að stórum hluta væri viðskiptasendinefnd. Af ástæðum, sem rekja má til íslenzka forsætisráðuneytisins hefur heimsókninni verið aflýst og hótelbókanir Kínverjanna afturkallaðar. Íslenzka forsætisráðuneytið fer undan í flæmingi, þegar leitað er skýringa, og ráðherrann virðist hafa breytzt í lofttegund. Það er óbjörgulegt, ef ferðinni er heitið til kanzlara Merkel í komandi viku. Kínverjarar munu hafa einnig lagt til fundartíma viku seinna, svo að heimsókn á Potzdamer Platz er ekki haldbær skýring.
Hér skal fullyrða, að enginn forsætisráðherra í Evrópu, annar en sá íslenzki, mundi setja upp hundshaus og sýna af sér fádæma ókurteisi og útúrboruhátt í stað þess að taka fagnandi tækifæri af þessu tagi til að efla samskiptin, ekki sízt viðskiptatengsl, við annað stærsta hagkerfi heims og það, sem örast vex, ef hið indverska er undanskilið, nú um stundir. Hér er þess vegna argasta stjórnvaldshneyksli á ferðinni, sem draga mun dilk á eftir sér og sannar, að hagsmunagæzla fyrir Íslands hönd er ekki upp á marga fiska í stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Það hafði reyndar áður komið í ljós, t.d. í "Icesave"-deilunni, en þetta atvik undirstrikar, að mönnun þessa embættis er fullkomlega óboðleg og raunar stórskaðleg sem stendur. Forsætisráðherra vinnur ekki fyrir kaupinu sínu, enda fer því fjarri, að hún valdi starfinu. Á þessu ber Samfylkingin stjórnmálalega ábyrgð, sem hún getur ekki vikizt undan í næstu kosningum. Þá mun hún fá þá ráðningu, sem dugir til að fleygja henni út úr stjórnarráðinu, en tjónið, sem af veru hennar þar hefur hlotizt, nemur hundruðum milljarða króna og hefur orðið mörgum þungt í skauti. "Alþýðuhetjan" reyndist alþýðubaggi, þegar til kastanna kom.
Annar alvarlegur ábyrgðarhlutur jafnaðarmanna heitir Össur Skarphéðinsson. Hann er fíll í postulínsbúð, sem gösslast nú áfram í samningaviðræðum við ESB umboðslaus og án skýrra samningsmarkmiða. Hann hefur ekki umboð frá Alþingi, þó að hann hafi það frá marklausri Jóhönnu, til að semja um, að eina trygging Íslands fyrir óbreyttum yfirráðarétti efnahagslögsögunnar sé vinnuregla ESB um "hlutfallslegan stöðugleika". Sú regla er haldlaus og á útleið samkvæmt yfirlýsingum fulltrúa ESB. Er fávísi Össurar með eindæmum að hampa þessu plaggi. Er alveg ljóst nú af flumbruhætti Össurar, að forynjur hafa komið höndum yfir fjöregg þjóðarinnar og kasta því nú á milli sín í Brüssel.
ESB hefur mótað sér sameiginlega fiskveiðistefnu og sameiginlega landbúnaðarstefnu, enda sameiginlegur málaflokkur hjá ESB, og það er jafnlíklegt, að sambandið samþykki sérreglur fyrir Ísland og það er, að Össur Skarphéðinsson muni ganga á vatni á morgun. Ástæðan fyrir þessu er, að sérlausnir eða varanlegar undanþágur til handa einstökum ríkjum fela í sér mismunun ríkjanna. Stefan Füle, stækkunarstjóri, hefur lýst því yfir á blaðamannafundi með Össuri í Brüssel, að ekkert slíkt sé í boði að hálfu ESB. Ástæðan er sú, að slíkt grefur undan einingu ríkjanna. Samþykktarferlið yrði torsótt fyrir Füle, því að samþykki allra ríkjanna er áskilið.
Þó að svo ólíklega vildi til, að slíkt næðist í gegn, er samningur Íslands við ESB á slíkum forsendum haldlaus, ef eitthvert aðildarríkjanna seinna meir, t.d. í einhverju ágreiningsmáli við Ísland, ber réttmæti undanþáganna upp við Evrópudómstólinn. Sá leggur stofnsáttmála ESB til grundvallar dómum sínum, og fordæmi eru fyrir því, að ákvæði inntökusamninga, sem brjóta í bága við stofnsáttmálana, eru dæmd ógild. Hvað mundu Íslendingar gera, sem í góðri trú færu inn í Evrópusambandið á röngum forsendum, ef haldreipi þeirra yrði þannig dæmt ónothæft og þeir mundu þurfa að sæta því að hlíta undanbragðalaust hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu og sameiginlegu fiskveiðistefnu ? Fyrr en síðar mun slíkt hafa í för með sér skiptan hlut í lögsögunni og minni hlutdeild í flökkustofnum. Slík þróun mála jafngildir minni tekjum sjávarútvegsins inn í íslenzka hagkerfið, því að íslenzka lögsagan undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB yrði nýtt m.a. af verkefnalitlum stórflotum ESB-landanna, sem sæta færis. Gæti slíkt í ofanálag rústað lífríki hafsins, því að þessir flotar eru ekki þekktir af vandaðri umgengni við veiðislóðir, svo að ekki sé tekið dýpra í árinni.
Til hvers var þá baráttan fyrir fullveldi og forræði yfir 200 mílna lögsögu, ef allt á að afhenda yfirþjóðlegu valdi 500 milljóna manna gjörsamlega að þarflausu ? Hvers vegna að dæma sig til áhrifaleysis um eigin auðlindir og meginhagsmuni í nafni Evrópuhugsjónar, sem í upphafi snerist um að skapa varanlegan frið á milli Frakklands og Þýzkalands og nú snýst aðallega um viðskiptahagsmuni þessara tveggja landa. Þessi Evrópuhugsjón er góð og gild, en okkur ber engin siðferðisleg skylda til að fórna einu né neinu fyrir hana.
Nú um stundir er téð Evrópuhugsjón í uppnámi. Rígurinn yfir Rín er kominn í hámæli. Tilraun Frakka til að draga úr efnahagsveldi Þýzkalands með því að þröngva Þjóðverjum til að fórna þýzka markinu fyrir endursameiningu Þýzkalands er dæmd til að snúast upp í niðurlægingu þeirra sjálfra. Þýzkaland ræður nú þegar örlögum evrunnar, og Evrópusambandið hvílir á evrunni.
Hið eina, sem bjargað getur evrunni í sinni núverandi mynd er myndun sambandsríkis Evrópu, en slíkt er borin von, sbr kosningarnar um stjórnarskrá ESB, sem sýndu miklar efasemdir um réttmæti og innihald hennar. Síðan hefur tortryggni og úlfúð magnazt. Það, sem er að gerast á evrusvæðinu núna, er einmitt það, sem Þjóðverjar óttuðust og sem þeir reyndu að girða fyrir með Maastricht-samninginum. Hann dugði ekki, og Þjóðverjar ætla ekki að dæla fé í þá, sem hvorki hafa getu né vilja til að taka til í eigin ranni og fylgja agaðri hagstjórn í anda Prússanna við ána Spree. Til að átta sig á, hvað baráttumenn fyrir varðeizlu ESB eru að fást við núna, ættu menn að lesa grein Joschka Fischer, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, í Morgunblaðinu 8. júlí 2011, sem kemur þar til dyranna, eins og hann er klæddur.
Doktorinn frá Englandi í kynlífi laxfiska, sem nú fyrir kaldhæðni örlaganna gegnir stöðu utanríkisráðherra Íslands án þess að geta það, er að halda inn á jarðsprengjusvæði. Það er gert með samþykki og í fylgd fyrirbrigðis, sem kallar sig Vinstri hreyfinguna grænt framboð. Innan tíðar verða flokkur doktorsins og þetta fyrirbrigði hreyfingarlaus á sviðinni jörðu. Tilraunin með tæra vinstri stjórn á Íslandi mistókst hrapallega, enda gerir hún ekkert annað en að skemmta skrattanum.
24.6.2011 | 10:06
Ofmat á evru - söguleg mistök
Ein bezta afurð Evrópusambandsins (ESB), ef svo má að orði komast, er Innri markaðurinn, sem Ísland á aðgang að vegna aðildar að EES (Evrópska efnahagssvæðið). Á Innri markaði EES ríkir fjórfrelsið, þ.e. frjálst flæði fólks, fjármagns, vöru og þjónustu. Þegar Frakkar voru með erfiðismunum að sannfæra Þjóðverja um réttmæti sameiginlegrar myntar, árin 1990-1991, notuðu þeir slagorðið "einn markaður-ein mynt". Slagorðið fór vel í Þjóðverja, því að borðleggjandi var, að sameiginleg mynt mundi hafa í för með sér sparnað fyrir útflutningsdrifið hagkerfi Þjóðverja, þar sem ekki þyrfti að skipta úr einni mynt í aðra með kostnaði, sem slíku fylgir. Þjóðverjar voru á þessum tímamótum ekki í stöðu til að hafna upptöku evru eftir að hafa neitað að greiða stríðsskaðabætur til Bandamanna, sem þeim þó var gert að gera við stríðslok, ef Þýzkaland yrði endursameinað.
Flestir Þjóðverjar höfðu hins vegar mjög miklar efasemdir um réttmæti þess fyrir þýzka hagkerfið og gagnsemi þess fyrir þýzkan almenning að fórna Deutsche Mark. ("D-Mark, D-Mark, Schade, dass du alles vorbei ist", stóð á borðum á heyvögnum bænda á kjötkveðjuhátíðum, eftir að þýzka þingið féllst á myntfórnina.) Bankastjórn Bundesbank, þýzka seðlabankans, lagðist gegn gjörninginum og færði fyrir því hagræn rök, sem reynslan hefur sýnt, að voru hárrétt. Þýzkir stjórnmálamenn töldu sig hins vegar fórna minni hagsmunum fyrir meiri, þegar þeir ákváðu að ganga að skilyrði Frakka gegn samþykki þeirra sem hernámsveldis 1945 fyrir endursameiningu Þýzkalands, þ.e. að fórna Deutshe Mark og taka upp evru, en hafna jafnframt greiðslu stríðsskaðabóta. Því má bæta við hér, að skuldir Þýzkalands voru þrisvar á 20. öldinni afskrifaðar, þ.e. Þriðja ríkið neitaði að greiða skuldir Weimar-lýðveldisins, árið 1953 voru skuldir Vestur-Þýzkalands afskrifaðar og grunnur lagður að "Wunderwirtschaft", og 1991 neitaði þýzka ríkisstjórnin undir forystu Dr Helmut Kohls, kanzlara, að greiða áfallnar stríðsskaðabætur vegna heimsstyrjaldarinnar 1939-1945.
Evran hefur þjónað stærsta hagkerfi ESB, Þýzkalandi, vel hingað til, enda verður Evrópubankinn í Frankfurt, ECB, eðli málsins samkvæmt, að taka mest tillit til aðstæðna í efnahagskerfi Þýzkalands. Hagsveiflan í minni hagkerfum evrusvæðisins verður að vera samstiga hagsveiflunni í Þýzkalandi, ef ekki á illa að fara í minni ríkjunum. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Þetta hafa minni ríkin hunzað eða ekki megnað, og þess vegna er evran í sinni núverandi mynd í raun komin á leiðarenda núna. Því má bæta hér við, að næststærsta hagkerfi Evrulands, stendur illa, því að skuldir hrúgast upp hjá Frökkum, sem reka ríkissjóð með 6 % halla af VLF. Það er allt að krebera undan þýzka stálinu.
Myndin hér að neðan frá óeirðum í Aþenu í júní 2011, þar sem táragasi var beitt, varpar ljósi á þá staðreynd, að þótt stefna ESB-forkólfanna hafi steytt á skeri, berja þeir hausnum við steininn fram í rauðan dauðann og þess vegna styttist í óreiðukennt gjaldþrot Grikklands með hugsanlegri úrsögn landsins úr evru-samvinnunni, sem gæti haft keðjuverkandi áhrif á ríki í vandræðum, s.s. Írland, Portúgal, Spán og Ítalíu. Þar með væri komin upp alveg ný og mjög tvíræð staða innan ESB. Það er mjög óskynsamlegt af íslenzkum stjórnvöldum að halda áfram viðræðum við ESB um aðild Íslands við þessar aðstæður. Með óbreyttri efnahagsstefnu á Íslandi fær Ísland aldrei aðild að Evrulandi, og það er heldur ekki eftirsóknarvert, þó að nauðsyn beri til breyttrar efnahagsstjórnunar, eins og stiklað verður á hér á eftir.
Frá árinu 2003 hefur síbylja Samfylkingarinnar hljómað: "burt með krónuna-tökum upp evruna". Forkólfar Samfylkingarinnar hafa jafnframt látið að því liggja, að Ísland hefði komið betur út úr bankahruninu en raun varð á með evru í stað krónu. Þetta er þó órökstutt, eins og fleiri fullyrðingar þeirra um evruna og aðild Íslands að ESB. Ef hér hefði verið evra sem lögeyrir árið 2008, eru tveir möguleikar. ECB hefði ályktað, að ekki væri unnt að bjarga bönkunum vegna stærðar þeirra m.v. landsframleiðslu Íslands. Þeir hefðu þá rúllað, en fallið hagkerfi setið uppi með mjög sterkan gjaldmiðil, sem gert hefði útflutningi mjög erfitt um vik. Ef ECB hefði ákveðið að bjarga íslenzku bönkunum, hefði skilyrðið verið svipað og gagnvart Írum, þ.e. að íslenzka ríkið tæki verulegan þátt. Þá sætum við nú uppi með óyfirstíganlegar ríkisskuldir og dýran gjaldmiðil í stað snjallræðis Geirs Hilmars Haarde og ríkisstjórnar hans í nauðvörn að láta kröfuhafana taka skellinn, en hlífa íslenzkum almenningi eftir föngum.
Annað mál er, að núverandi ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri grænna hefur afhent sömu kröfuhöfum nýju bankana, sem var hið mesta glapræði og ósvinna gagnvart íslenzkum viðskiptavinum bankanna og meiri ástæða til krufningar fyrir Landsdómi en meint vanræksla Geirs Hilmars.
Aðildarsinnar halda sig enn við það heygarðshornið, að meginkosturinn við aðild að ESB muni verða að komast í myntbandalagið (EMU) og að taka síðan upp evru. Hvað þarf eiginlega að gerast á evrusvæðinu eða í Evrulandi til að menn skilji, að evran gengur ekki upp ? Evran var tilraun, sem mistókst. Það er ekki unnt að halda úti sameiginlegum gjaldmiðli án sameiginlegs fjármálaráðuneytis. Þetta hefur reynslan nú kennt mönnum, og hún er staðfest af Jean-Claude Trichet, bankastjóra ECB.
Það eru hverfandi líkur á, að öll evrulöndin samþykki slíkt. Það mun þess vegna kvarnast úr evrusamstarfinu. Jaðarríkin munu hrökklast út. Halda menn, að Íslendingar mundu samþykkja slíkt yfirráðuneyti yfir sig ? Það er af og frá. Það er jafnvel hæpið, að þýzka þingið mundi samþykkja slíkt fullveldisframsal, sem sennilega stríðir gegn stjórnarskrá Sambandslýðveldisins Þýzkalands (BRD).
Ef evran er ekki lengur eftirsóknarverð sem raunhæfur myntkostur fyrir Íslendinga, eftir hverju er þá verið að slæðast með því að halda uppi rándýru umsóknarferli ? Hvers konar fíflagangur er þetta eiginlega ? Ráðamenn Þýzkalands og Frakklands hafa lýst því yfir, að ESB muni ekki lifa af hrun evrunnar. Sennilega er það ofmælt, enda er ekki víst, að evran líði undir lok, þó að Suður-Evrópa og jafnvel Írland muni hverfa úr henni. Hagkerfin, sem eftir verða með evru, verða að vera mjög vel samstillt og sýna mikinn aga í ríkisfjármálum.
Það er einmitt þessi agi, sem er lykilatriði fyrir Íslendinga að sýna til að hér ríki stöðugleiki í efnahagsmálum. Til að auðvelda stjórnmálamönnum verkið er hægt að setja ákvæði í Stjórnarskrá, sem eru jafnvel strangari en Maastricht-ákvæðin og banna fjárlagahalla, nema í skilgreindum undantekningartilvikum upp að 2 % af VLF, ef ríkisskuldir eru þá undir 50 % af VLF, og setja jafnframt skorður við útþenslu ríkisins m.v. hagvöxt undanfarinna ára og að hámarki 35 % af VLF (vergri landsframleiðslu).
Seðlabankinn þarf að verða sjálfstætt stjórnvald undir forseta lýðveldisins, sem skipi stjórnarmenn. Hlutverk bankans verði að halda verðbólgunni innan meðalverðbólgu viðskiptalandanna á hverju 5 ára tímabili, halda sveiflum í gengi myntarinnar innan við +/- 5 % á ári m.v. myntvog og að hámarka hagvöxt að uppfylltum framangreindum skilyrðum.
Slíkar leikreglur fyrir þingmenn og ráðherra mundu skapa þann aga á framkvæmdavald og löggjafarvald, sem hefur vantað, en ætti að vera nauðsynlegur og nægjanlegur fyrir árangursríka hagstjórn. Með slíkum aga þarf ekkert yfirfjármálaráðuneyti með agavald (agalegt vald).
Í raun má segja, að skynsemi sé allt, sem þarf. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er brennimerkt óskynseminni. Þetta þýðir, að séu tvær leiðir til að velja um í einu máli, er alveg öruggt, að þessi ríkisstjórn velur óskynsamlegu leiðina. Þetta kemur auðvitað niður á hagsmunum almennings í landinu, en þeir eru fyrir borð bornir í hverju málinu á fætur öðru. Afleiðingin er viðvarandi kreppa, atvinnuleysi, atgervisflótti, skuldasöfnun ríkisins, mikil verðbólga og gjaldþrot fyrirtækja og einstaklinga auk stórfurðulegrar utanríkisstefnu, sem enda mun með ósköpum (skipbroti í Brüssel).
17.6.2011 | 09:43
Lýðveldisdagurinn 2011
Að þessu sinni er þess minnzt á Þjóðhátíðardeginum, að 200 ár eru liðin frá fæðingu þjóðhetjunnar, Jóns Sigurðssonar, forseta Alþingis, að Hrafnseyri við Arnarfjörð. Hlutur Jóns í sjálfstæðisbaráttunni við Dani var svo mikill, að fullyrða má, að framlag hans skipti sköpum um þróunina til fullveldis og lýðveldis, eins og hún varð, þó að hún hefði e.t.v. orðið með meiri krókaleiðum seinna án hans. Í þessu sambandi má þó ekki gleyma forgöngumönnunum, sem skópu frjóan jarðveg, Fjölnismönnum, og öðrum, sem fram úr sköruðu, þ.á.m. Skúla Magnússyni, landfógeta, sem var fyrsti forgöngumaður iðnvæðingar Íslands með Innréttingunum (af þýzka orðinu Einrichtungen). Allir voru þessir menn afburðamenn 18. og 19. aldar.
Jón Sigurðsson var einnig mikill hvatamaður framfara og atvinnufrelsis í landinu, og taldi verklegar framfarir og verzlunarfrelsi mundu verða undirstöðu sjálfstæðis landsins. Þarf ekki mikið hugmyndaflug til að láta sér detta í hug, hvar í flokk Jón Sigurðsson mundi skipa sér nú á tímum. Ólíklegt verður að telja, að hann mundi verða upprifinn af hugmyndum nútímans um að binda trúss sitt við nokkuð, sem hæglega getur orðið að risaríki Evrópu, ESB, eins og ráða má af eftirfarandi tilvitnun í ræðu formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, á Alþingi nýlega í tilefni afmælisins:
...,þegar Íslendingum bauðst að kjósa fulltrúa á danska þingið og njóta þannig jafnræðis á við danska þegna, hafnaði Jón því alfarið. Það gerði hann meðal annars í þeirri vitneskju, að örfáir þingmenn á þingi, sem átti að stýra öllum löndum dönsku krúnunnar, hefðu lítil áhrif á hagi landsins og slíkir þingmenn yrðu ekki í tengslum við stöðu mála á Íslandi; ekki frekar en þeir embættismenn, sem fóru með málefni landsins á skrifstofu í ráðuneyti fjærri Íslandsströndum."
Á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar er vert að huga að hlutskipti æskunnar. Þar skipta menntamálin sköpum. Hvernig er búið að æskunni í skólum landsins ? Athugun á kunnáttunni sýnir því miður, að gæðum kennslunnar er stórlega ábótavant. Hlustum á málfarið og lítum á ritsmíðarnar. Hvorugt heldur máli í of mörgum tilvikum. Framburður er slæmur, orðaforði lítill, allt morar í hortittum og ambögum, og stafsetningin er í molum. Ekki þarf annað en að líta með öðru auganu á bloggið til að sjá, hvílíkur voði er á ferð. Margir, sem rembast við að tjá sig á ritvellinum, hafa til þess enga burði og allsendis ófullnægjandi kunnáttu. Kennslunni hefur stórlega hrakað, frá því að höfundur þessa vefpistils sat við fótskör merkra lærifeðra í Ísaksskóla, Laugarnesskóla, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar (landspróf) og MR.
Nýlega kvörtuðu nemendur opinberlega undan því að fá ekki kennslu í Stjórnarskránni. Þeir voru þá að afhenda Stjórnlagaráði hugmyndir sínar. Þegar þessi höfundur var í Laugarnesskólanum var kennt þar fagið Félagsfræði, og þar var Stjórnarskráin hluti af námsefninu. Hinn frábæri kennari, Pálmi Pétursson, hlýddi nemendum yfir hana.
Handabakavinnubrögð hafa tekið við við skipulagningu námsskráa og skólastarfs, frá því að höfundur var í barnaskóla, gagnfræðaskóla og menntaskóla, og þar til börn hans fetuðu síðan sömu slóð, þ.e. afturför í gæðum kennslunnar hefur aðallega átt sér stað á tímabilinu 1970-1990.
Tungumálakunnáttan er sama markinu brennd. Stúdentar í raungreinum geta flestir lítið sem ekkert tjáð sig á þýzku eða á öðrum málum en ensku, og geta vart haldið uppi samræðum á ensku. Þetta er mikil afturför. Sama má segja um þekkingu á sögu Íslands og mannkynssögu. Þessi þekking er algerlega í molum hjá mörgum stúdentum.
Hvernig er þá fagþekkingunni háttað ? Þjóðfélagi okkar ríður á, að skólarnir skili frá sér fólki, sem fullnægir þörfum atvinnulífsins. Því fer fjarri, að svo sé. Fjöldi iðnaðarmanna er of lítill, og þekking þeirra er ekki í nógu miklum mæli sniðin við þarfir nútíma athafnalífs. Vinnubrögð nýsveina eru yfirleitt ekki nógu vönduð, og þeir hafa hlotið ófullnægjandi þekkingu í notkun og bilanagreiningu á iðntölvum, svo að eitthvað sé nefnt. Skólakerfið er 10-20 árum á eftir tímanum. Það verður að auka gæði kennslunnar í grunnskólum, á menntaskólastigi og ekki sízt á iðnskólastigi. Alveg sérstaka rækt þarf að leggja við verknámsbrautir. Setja þarf fé í að reisa æfingaaðstöðu og tilraunaaðstöðu fyrir fólk í verknámi til sveinsprófs, iðnfræði, tæknifræði og verkfræði. Verklegri þjálfun allra þessara hópa er áfátt, ekki sízt verkfræðinga í samanburði við starfsbræður þeirra erlendis, og slíkt er hneisa fyrir þjóðfélag, sem ætlar að verða öflugt, útflutningsdrifið framleiðsluþjóðfélag.
Það verður að auka sjálfstæði skólanna í stað þess að drepa þá í dróma samræmingar og miðstýringar. Þannig myndast samkeppni á milli þeirra. Rekstrarform skólanna þarf að vera mismunandi, t.d. sjálfseignarstofnanir og einkaskólar auk skóla í eigu sveitarfélaga og ríkis. Þeir eiga að keppa um nemendur og keppa um að skila frá sér nemendum sem hæfustum fyrir næsta skólastig fyrir ofan og/eða atvinnulífið. Gæði menntunar skiptir sköpum fyrir hagfellda þróun þjóðfélagsins og samkeppnistyrk.
Hvernig er atvinnulífið í stakk búið að taka við nemendunum ? Því miður er nú við völd ríkisstjórn, sem lætur hvert tækifærið af öðru á sviði framfara framhjá sér fara. Engin ríkisstjórn á lýðveldistímanum hefur glutrað niður jafnmörgum tækifærum og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þótt valdaferillinn sé skammur. Þar sem þetta er ekki einvörðungu klaufaskapur, heldur meðvitað háttarlag, verður að kalla þessa ríkisstjórn afturhaldsstjórn. Af glötuðum tækifærum um sinn má nefna einkasjúkrahús á Miðnesheiði í húsnæði reist af Bandaríkjaher, gagnaver á svipuðum slóðum, álver þar skammt frá við Helguvík sem og á Bakka við Skjálfanda, milljarðafjárfestingar í sjávarútvegi, sem útgerðarmenn hafa frestað vegna vingulslegs tals stjórnvalda og frumvarps um þjóðnýtingu í greininni og nú síðast lagasetningar, sem grefur undan aflahlutdeildarkerfinu. Sams konar tal var reyndar haft uppi um orkuiðnaðinn og virkar mjög fælandi á fjárfesta. Skattastefna stjórnvalda hefur og gert illt verra og kæft athafnalífið og einkaneyzluna. Allt eru þetta sjálfskaparvíti fólks, sem heltekið er af stjórnmálalegum kreddum, en hefur engan gáning á hagsmunum athafnalífsins.
Af þessum sökum er mikill hörgull á boðlegum tækifærum fyrir æskuna, þegar hún kemur út úr íslenzka skólakerfinu, enda er geigvænlegt, e.t.v. 20 %, atvinnuleysi á meðal ungs fólks á bilinu 18-29 ára. Þetta er sjálfskaparvíti þröngsýnna, einstrengingslegra og fákænna stjórnvalda, sem fyrir slysni skolaði hér á valdastólana eftir Hrunið, en verða senn send á ruslahauga sögunnar, ef forsjónin lofar.
Alls staðar í Evrópu eiga jafnaðarmenn og sameignarsinnar undir högg að sækja. Öllum kosningum eftir Hrunið hafa þeir tapað, nema á Íslandi. Líklegt má heita, að repúblikanar (lýðveldissinnar) hreppi Hvíta húsið í BNA í næstu forsetakosningum þar m.v. ástandið í hagkerfi BNA núna og mikið atvinnuleysi. Það er þó að sumu leyti skárra en í ESB.
Ástæðan fyrir óförum félagshyggjunnar er einföld. Það liggur í augum uppi, að vinstri úrræðin duga ekki, þegar á herðir. Á meðan allt leikur í lyndi og hægt er að slá lán fyrir sukki og óráðsíu í opinberum rekstri, sem jafnan fylgir stjórnmálaflokkum vinstra megin við miðju í ríkisstjórn, hanga lýðskrumarar og loddarar við völd á kostnað komandi kynslóða.
Í höfuðvígi jafnaðarmanna, Svíþjóð, var þeim ekki hleypt í valdastólana í síðustu kosningum til Riksdagen, en í Noregi er að vísu enn við völd ríkisstjórn með sama flokkamynztri og hér, en það er einvörðungu vegna olíusjóðsins, sem ríkisstjórnin sáldrar úr og smyr opinberan rekstur með. Í Noregi er hlutur hins opinbera orðinn geigvænlega stór hluti þjóðarkökunnar, og það eru ótrúlega fáir í einkageiranum, sem halda þjóðfélaginu uppi. Sagt er, að alls kyns bætur úr opinberum sjóðum standi undir fylgi félagshyggjuflokkanna. Það eru ær og kýr vinstri manna að taka úr einum vasa til að setja í annan, jafnvel vasa sömu persónunnar. Þetta felur í sér rýrnun verðmæta og sóun.
Þrátt fyrir tímabundna velferð í Noregi, er norska þjóðfélagið ósjálfbært. Norðmenn lifa nú á kostnað komandi kynslóða í boði lýðskrumara og loddara. Hið norræna velferðarkerfi á að verða okkur víti til varnaðar.
Hvað er til ráða á Íslandi ? Það hafa tapazt um 30 000 störf á Íslandi frá Hruni, sem þýðir, að nýting athafnalífsins er aðeins um 85 % um þessar mundir. Þetta er meiri sóun auðlinda en við höfum ráð á og með svo lágri nýtni nær hagkerfið sér ekki á strik. Ráðið við þessu eru mjög auknar fjárfestingar, enda eru þær mjög litlar og minnkandi nú. Núverandi ríkisstjórn hefur engin áform um neitt slíkt og engan áhuga, nema síður sé; hún þvælist endalaust fyrir. Það er nákvæmlega sama staðan hér og annars staðar í Evrópu að þessu leyti; félagshyggjuflokkarnir duga ekki til stórræða. Þeir hugsa mest um skiptingu auðsins, en minna um sköpun hans. Þegar öllu skiptir að stækka þjóðarkökuna, eyðir félagshyggjan tímanum í eitthvað annað, oftast er það kostnaðaraukandi í stað tekjuaukandi, og stjórnin skilar þess vegna í raun auðu við úrlausn á vandamálum samfélagsins í bráð og lengd.
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur valdið stuðningsmönnum sínum gríðarlegum vonbrigðum. Flokkarnir halda hvor öðrum í heljargreipum, og hrossakaupin sjúga merginn úr beinum beggja flokka. Samfylkingin fékk leyfi til að sækja um aðild að ESB. Áhugi Samfylkingarinnar á inngöngu Íslands í ESB er þó torskiljanlegur, því að hún virðist standa langt til vinstri við stefnu framkvæmdastjórnar ESB á flestum sviðum.
Umsókn og aðlögun var of mikil fórn á grunngildum VG, enda troðið ofan í kokið á flokksmönnum af valdasjúkum formanninum. Í staðinn fékk VG þó stöðvunarvald á öllum stórframkvæmdum, sem ríkið átti nokkurn kost á að stöðva. Þetta veldur krötum miklum áhyggjum, og í heild er þessi samsuða banvæn fyrir flokkana, sem að ríkisstjórninni standa. Það er bara tímaspurning, hvenær upp úr sýður, og annað þessara atriða mun valda stjórnaslitum áður en kjörtímabilið verður á enda runnið.
Þá mun margur anda léttar, og þá þarf heldur betur að taka til hendinni í viðreisn á öllum sviðum. Það er skylda borgaralegu flokkanna að búa sig vel og vandlega undir valdatökuna, kynna almenningi markmið sín og leiðir að þeim, og hrinda strax eftir stjórnarmyndun af stað aðgerðum til að ná settum markmiðum. Öll markmið ættu að stuðla að aðalstefnumiðinu, að Ísland verði í hópi þriggja landa með beztu lífskjörin í Evrópu árið 2020. Minna sættum við okkur ekki við. Ljúfan lýðveldisdag !