Færsluflokkur: Evrópumál
5.3.2011 | 21:36
Neisti verður að báli
Bylting Araba veturinn 2011 hófst með því, að hinn túniski götusali, Muhammad Bouazizi, kveikti í sér í mótmælaskyni við túnísk yfirvöld, sem kippt höfðu undan honum afkomugrundvellinum með því að heimta af honum umsókn um leyfi til að stunda ávaxtasölu. Hann vissi, að hann gat ekki uppfyllt kröfur yfirvalda, sem þannig settu þessum unga manni stólinn fyrir dyrnar við að sjá sér farborða.
Atvinnuleysi á meðal ungmenna í arabalöndunum nemur víðast hvar yfir þriðjungi undir þrítugu, en það er víðar pottur brotinn. Á Spáni, sem ESB reisti við eftir einræðisstjórn Francisco Francos, nemur atvinnuleysi ungmenna 40 %, á Bretlandi 20 %, og ætli það sé ekki svipað á Íslandi. Atvinnuleysi ungmenna er þjóðfélagsböl, sem hvergi ræðst við án hagvaxtar. Á Íslandi er enginn hagvöxtur og mun ekki verða með núverandi stjórnarflokka við stjórnvölinn. Það er þversögn fólgin í áróðri já-manna við Icesave, að hagvöxtur geti hafizt við að borga vexti, og e.t.v. hluta af tryggingarfénu, til Breta og Hollendinga, af upphæð, sem ríkissjóðir þeirra lögðu fram af ótta við bankahrun í eigin löndum.
Lífskjörum á Íslandi hrakar óðum undir félagshyggjustjórninni, og eru aðstæður bágstaddra átakanlegar. Þessari óheillaþróun verður aðeins snúið við með því að virkja markaðsöflin til að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Það mun félagshyggjustjórnin aldrei gera. Það mun aðeins borgaraleg ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gera. Hún verður að byrja á því að afnema skatta félagshyggjunnar og hefja virkjanaframkvæmdir og nýja orkusölu.
Eftir að Hæstiréttur dæmdi, að hinn forstokkaði og ofstækisfulli umhverfisráðherra hefði brotið lög á Flóahreppi, lurðaðist ráðherrann til að staðfesta aðalskipulag hreppsins. Með þessu er rudd brautin að hagkvæmasta virkjunarkosti landsins, Urriðafossvirkjun, 980 GWh/a, ásamt Hvammsvirkjun, 665 GWh/a og Holtavirkjun, 415 GWh/a, í Neðri-Þjórsá. Á þessum áratug ætti einnig að reisa Arnardalsvirkjun í Jökulsá á Fjöllum, 4000 GWh/a, en samkvæmt Rammaáætlun hefur sú virkjun minnst umhverfisáhrif á hverja orkueiningu í för með sér. Hún er næsthagkvæmust virkjana í röð Rammaáætlunar. Með því að lækka tekjuskatt fyrirtækja niður í írskt gildi, 12 %, munu orkukaupendur standa í biðröð eftir að gera langtímasamninga (20-30 ár) um kaup á "grænni" orku. Arðsemi slíkra samninga getur í núverandi efnahagsumhverfi orðið svo há, að virkjunarfyrirtæki og Landsnet geti greitt upp allan kostnað á innan við 20 árum, en mannvirkin endast í 40-100 ár og eru afturkræf.
Ofangreindar virkjunarframkvæmdir ásamt því að reisa iðnaðarfyrirtæki, sem nýta munu þessa orku til framleiðslu á útflutningsvörum, munu útrýma atvinnuleysinu, laða brottflutta "heim ins Reich" og skjóta traustum stoðum gjaldeyrisöflunar undir greiðslu erlendra skulda hins opinbera.
Það er hins vegar á fleiri sviðum, sem þarf að taka til hendinni. Peningamálastjórn ríkisins er eitt af mikilvægustu sviðunum. Það verður að afnema gjaldeyrishöftin hið bráðasta. Í því sambandi er málflutningur seðlabankastjóra ekki hjálplegur. Hvort hann er rugludallur skal ósagt láta, en hann ruglar a.m.k. fólk í ríminu. Að halda því fram, að samþykki Icesave-samningsins, sem að öllum líkindum verður okkur dýrari kostur en að hafna honum, sé skilyrði fyrir afnámi haftanna í náinni framtíð, er þvættingur. Eftir að náðst hafa samningar við erlenda iðnjöfra um verulegar fjárfestingar á Íslandi, mun verða unnt að afnema höftin án þess að krónan lækki verulega eða varanlega.
Efnahags-og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, er enn við sama heygarðshornið í evrumálum. Gildir þá einu, þó að framtíð hennar hafi aldrei verið óvissari en nú og tekið sé til við að spá nýju bankahruni í Evrópu, bæði á Bretlandi og á evrusvæðinu. Að þessu sinni munu ríkissjóðir Evrópu ekki hafa ráð á að dæla skattfé í bankana. Hvort vilja menn þá heldur bankahrun eða þjóðagjaldþrot ? Er hroðaleg spennitreyja evrunnar á Írum okkur ekki nægt víti til varnaðar ? Lítum til Svíþjóðar. Það er óvíða jafnmikill hagvöxtur og þar og verðbólga er þar minni en víða á evrusvæðinu. Þennan frábæra árangur þakka Svíar sinni krónu, og þetta getum við líka með því að stokka upp hagstjórnina og nota Stjórnarskrána til að skapa stjórnmálamönnum aðhald við meðferð opinberra fjármuna og löggjöfina til að skapa Seðlabankanum viturlegar og faglegar reglur til að vinna eftir.
Stjórnarskráin er ekki vandamálið, en hana má virkja til að skapa hér nútímalega og góða stjórnarhætti og til að stuðla að stöðugleika hagkerfisins og stjórnmálanna. Aðferðarfræði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við þetta er þó jafnvonlaus og hún er forkastanleg. Aðferð ríkisstjórnarinnar nefnist hrakval. Hún ætlar að velja til verksins fólk, sem eðli málsins samkvæmt vanvirðir núverandi Stjórnarskrá, og er þess vegna vanhæft til að smíða nýja. Hæstiréttur dæmdi sem sagt, að fólkið, sem á stjórnlagaþingið var kosið, sé engu rétthærra en annað kjörgengt fólk á Íslandi til að gegna þessu hlutverki. Niðurlæging Alþingis verður kvíðvænleg, samþykki það tillögu dómgreindarleysis um að fara á svig við dóm Hæstaréttar með "kennitöluflakki". Þegar reiðin út í stjórnvöld Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs brýst út á Íslandi, verður þessum flokkum sópað út í yztu myrkur, þó að með friðsamlegum hætti verði.
26.2.2011 | 21:58
Einföld spurning - eindrægt svar
Það er stórfurðulegt, að landsmenn þurfi nú að tjá sig í þjóðaratkvæðagreiðslu öðru sinni um hið alræmda "Icesave-mál". Það hefðu þeir ekki þurft að gera, ef allt væri með felldu með stjórnarhætti í landinu. Því er hins vegar engan veginn að heilsa.
Eftir afhroð ríkisstjórnar félagshyggjunnar, 6. marz 2010, í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave#2, átti ríkisstjórnin að segja af sér samkvæmt lýðræðisreglum. Mikill ágreiningur var þá uppi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um málið, og forseti lýðveldisins vantreysti ríkisstjórninni, sem lagði fyrir hann málið í Ríkisráði. Þjóðin hafnaði síðan með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða að greiða skuldir óreiðumanna. Ríkisstjórnin hlaut þannig tvöfalda hirtingu, en lafði áfram, löskuð, gegn viðteknum reglum lýðræðis.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa engan skilning á milliríkjasamskiptum og hafa látið áróðursvélar fjármálageirans, ESB (Evrópusambandsins) og landanna tveggja, sem hlut eiga að máli, Bretlands og Hollands, telja sér trú um, að íslenzka ríkinu beri skylda til að ábyrgjast skuldir þrotabús Landsbankans, gamla, að svo miklu leyti sem eignir Innistæðutryggingasjóðs hrökkva ekki til.
Ráðherrarnir hafa reynzt algerar rolur í viðureigninni við ofangreind auðvaldsöfl og ekki beitt sér nokkurn skapaðan hlut, heldur látið embættismönnum og stjórnmálalega skipuðum nefndum um að bera hita og þunga leiksins. Ráðherrarnir eru heimóttarlegir, skortir reynslu í samskiptum við útlendinga og málakunnáttu þeirra flestra er ábótavant. Óbeysnastur að þessu leyti er þó forsætisráðherrann, sem ekki getur haldið uppi samræðum á erlendri tungu um einföldustu málefni, hvað þá rammflókin úrlausnaratriði.
Ef Íslendingar hefðu á undangengnun tveimur árum átt forsætisráðherra með bein í nefinu, sem ekki væri hækja Brüsselvaldsins, mundi sá hinn sami hafa tekið þetta stórmál á sitt eigið forræði og leitt það til lykta með starfsbræðrum sínum í Bretlandi og Hollandi. Núverandi forsætisráðherra neitaði þjóðinni um rétt sinn til að kjósa nýtt Alþingi, sem hefði vafalaust orðið skömminni skárra en núverandi Alþingi, og lélegasti forsætisráðherra lýðveldissögunnar hefði þá verið leystur af hólmi.
Samsæri auðvaldsins snýst um það að brjóta Íslendinga á bak aftur, svo að ekki verði til fordæmi skuldugra þjóða um að neita að hengja um háls sér óréttmæta skuldaklafa úr þrotabúum þessa sama auðvalds. Bankaauðvaldið vill fyrir enga muni missa sitt öryggisnet. Það heldur þess vegna uppi linnulausum hræðsluáróðri og beitir fyrir sig matsfyrirtækjum, AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum) og öðrum liðléttingum.
Ekki eru þó allir jafnlítilla sanda og sæva og þessir aðilar. Ritstjórar tveggja virtustu blaða, sem um fjármál heimsins rita, "The Financial Times" og "The Wall Street Journal", hafa tekið upp hanzkann fyrir heilbrigða skynsemi og málstað íslenzkra skattborgara. Þá hafa N-amerísk iðnfyrirtæki fjárfest hér, og síðustu fréttir herma, að Century Aluminium sé tilbúið að festa hér stórfé í nýju álveri, sem stjórnvöld þvælast hins vegar fyrir, t.d. varðandi orkuöflun. Að halda því fram, að orkufyrirtæki landsins með samning upp á vasann um 20-30 ára trygga orkusölu fái hvergi í heiminum lán fyrr en ríkið gengst í ábyrgð fyrir fallin bankaútibú á Bretlandi og í Hollandi, er fjarstæðukennt. Því verður með engu móti trúað, að hræðsluáróður peningavaldsins nái að grípa svo um sig, að þjóðin samþykki að taka á sig feikna viðbót við erlendar skuldir, sem nú þegar sliga hagkerfið, svo að innviðir samfélagsins líða mjög fyrir.
Ef þjóðin hafnar "Icesave#3", hvers skuldabaggi getur hlaupið á bilinu ISK 50 - 250 mia., mun nákvæmlega ekkert gerast, sem einhverju máli skiptir fyrir hagkerfi Íslands. ESA, úrskurðaraðili EFTA, og EFTA-dómstóllinn, kunna að góla eitthvað, en slíkt hefur ekkert lögformlegt gildi og verður aldrei annað en stormur í vatnsglasi. Höfði andstæðingarnir mál fyrir aðfararhæfum dómstóli, verður að sækja málið í varnarþingi ríkissjóðs Íslands, sem dæma mun eftir íslenzkum lögum.
Ríkisstjórnin hlýtur að berjast fyrir máli sínu, "Icesave#3". Fái hún höfnun, verður henni engan veginn sætt lengur, nema hún ætli að fótumtroða allar lýðræðislegar hefðir. Hún traðkar reyndar á dómsvaldinu og sýnir löggjafarvaldinu lítilsvirðingu. "Alræði öreiganna", sem er einræði "nómenklatúrunnar" eða útvalinna flokkshesta, stendur hjarta ríkisstjórnarinnar næst. Hún vanvirðir þrígreiningu ríkisvaldsins og sýnir Stjórnarskránni lítilsvirðingu.
Með höfnun "Icesave#3" verður ríkisstjórn norrænnar helreiðar komin á leiðarenda, og þar af leiðandi verða Alþingiskosningar óumflýjanlegar fyrir alla stjórnmálaflokka. Stund hefndarinnar mun þá renna upp og mikið blóð renna. Upp úr þeim hildarleik hljóta að rísa bæði karlmenn og konur, sem meiri veigur er í en nú er að sjá í flestum sætum hinna 63 við Austurvöll.
Nei við löglausum drápsklyfjum nýlenduveldanna er heiðarlegt og eindrægt svar við óréttlæti erlendis frá og við innlendu hæfileikaleysi, getuleysi og einræðistilburðum.
20.2.2011 | 13:40
Hræðsluáróður ESB-áhangenda
Undirlægjuháttur margra landsmanna gagnvart ósvífinni kröfugerð Breta og Hollendinga, hvort tveggja gamalla nýlenduvelda, á hendur íslenzkum skattborgurum hefur ekki verið einleikinn. Augljóslega er hræðsluáróðurinn ættaður frá Brüssel, enda hafa "kommissarar" þar einskis látið ófreistað að koma þumalskrúfu á Íslendinga í hinni bölvuðu Icesave-deilu. Er skemmst að minnast framgöngu þeirra í stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, en þar brutu Kínverjar að lokum ofríki Vesturveldanna á bak aftur.
Icesave-málið er grundvallarmál fyrir ESB og Íslendinga sitt með hvorum hætti. Fjármálakerfi ESB stóð á brauðfótum um þær mundir, sem Hrunið varð hér. Allmargir bankar Evrópu hefðu fallið, ef ríkisstjórnir í Evrópulöndunum hefðu ekki ausið úr kistlum ríkissjóðanna til stuðnings bönkunum. Hefðu þær ekki gert þetta, er næsta víst, að sparifjáreigendur hefðu gert áhlaup á bankana, og margir þeirra hefðu fallið við það. Þess vegna greiddu ríkisstjórnir Bretlands og Hollands innistæðueigendum Icesave inneignir sínar. Þetta gerðu þeir hins vegar án nokkurs samráðs við íslenzku ríkisstjórnina, og þess vegna er með öllu óskiljanlegt, hvernig þeim datt í hug að heimta íslenzka ríkisábyrgð á skuldbindingum Innlánstryggingasjóðs. Sérstaklega er þetta ósanngjarnt í ljósi bágrar stöðu íslenzka ríkisins eftir Hrunið og í ljósi þess, að allir viðurkenna, að tilskipun ESB um Innlánstryggingasjóð tók hvergi fram, að ríkisábyrgð væri á þessum sjóði, og núverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Evrópu, ECB, hefur lýst því yfir, að slíkt geti með engu móti átt við, ef um hrun heils bankakerfis sé að ræða, eins og segja má, að hérlendis hafi orðið í október 2008.
Fimmta herdeild ESB á Íslandi hefur bergmálað söng ESB um "skuldbindingar" Íslendinga í þessu efni. Þessi áróður er þjóðfjandsamlegur og er í raun stefnt gegn fullveldi landsins, þegar horft er til þess, hversu mjög þessar Icesave-byrðar munu vega að innviðum þjóðfélagsins og beinlínis stefna fjárhagslegu sjálfstæði landsins í þrot. Þá hefur legið í landi, að Icesave-deilan væri hindrun á leið Íslands inn í ESB. Þetta er meginástæða hinnar öfugsnúnu höfuðáherzlu, sem ríkisstjórnarflokkarnir, undirlægjur ESB, hafa lagt á að ná samningum um þetta mál.
Innistæðulausum hræðsluáróðri hefur ótæpilega verið beitt af ESB-áhangendum og fylgifiskum þeirra til að fá þjóðina til að fallast á afarkostina, en án árangurs, nema á Alþingi, þar sem stór hluti þingheims missti niður um sig og mun þannig neyðast til að horfast í augu við grasrót flokka sinna í fyllingu tímans. Heiðarlegar undantekningar voru þó frá þessu, og verður ekki betur séð en nýr þingskörungur hafi komið fram á sjónarsviðið, þar sem er Unnur Brá Konráðsdóttir, og birtist mynd af henni hér að ofan.
Eitt hálmstrá undirlægjanna hefur verið, að engar fjárfestingar í fyrirtækjum hérlendis muni fást fyrr en gengið væri endanlega að afarkostunum Breta og Hollendinga í nafni ESB. Þetta var afsannað með MUSD 500 fjárfestingu Rio Tinto Alcan í Straumsvík, sem ákveðin var árið 2010, og nú í viku 07/2011, þegar tilkynnt var um væna fjárfestingu í nýju fyrirtæki, sem starfrækja á kísilverksmiðju í Helguvík. Það er hins vegar athyglivert, að evrópsk fyrirtæki leggja ekki í neina meiriháttar fjárfestingu hérlendis, ef álþynnuverksmiðjan á Akureyri er undanskilin. Allar helztu erlendu fjárfestingarnar í gjaldeyrisskapandi framleiðslufyrirtækjum hérlendis eiga rætur að rekja til Norður-Ameríku. Samt erum við á Innri markaði Evrópu, þannig að frelsin fjögur eiga að vera við lýði í samskiptum Íslands og ESB. Það er sláandi, hversu lítið hefur verið um beinar evrópskar fjárfestingar hér, og er fátt, sem bendir til breytinga á því, þó að af inngöngu Íslands í ESB yrði. Þrátt fyrir orkuskort í Evrópu og þar af leiðandi hátt orkuverð hafa Evrópumenn ekki sýnt nægan áhuga fyrir stofnsetningu orkukræfra fyrirtækja hérlendis. Málpípur þeirra hafa hins vegar rekið áróður fyrir andvana fæddum hugmyndum um sæstreng frá Íslandi til Evrópu, sem flutt gæti afl á borð við allt núverandi virkjað afl í landinu til raforkuvinnslu. Samhliða minnkandi framleiðslu áls á meginlandi Evrópu, hafa kaup Evrópumanna á áli frá Íslandi aukizt, og það hentar Íslendingum ágætlega, að Norður-Ameríka fjárfesti hér til að anna eftirspurn í Evrópu. Til þess þurfum við ekki að ganga ESB á hönd, heldur aðeins að hafa við það viðskiptasamninga eða að vera á Innri markaði þeirra.
Samsæri hins vestræna fjármálageira er vissulega fyrir hendi gegn Íslendingum. Það kom margoft fram í kjölfar Hruns og helgast af því, að það er að sjálfsögðu í hag fjármálastofnana að hafa um sig öryggisnet ríkisábyrgðar. Alla andstæðinga slíkrar ríkisábyrgðar á bankastarfsemi er reynt að kúga til hlýðni. Þetta kemur berlega fram í yfirlýsingum svo kallaðra matsfyrirtækja á lánshæfni íslenzka ríkissjóðsins. Það nær auðvitað engri átt, að lánshæfni hans aukist við að taka á sig skuldbindingar á bilinu ISK 50-250 mia. Þetta er áróðursbragð fjármálageirans, og þessu gleypa undirlægjur ríkisstjórnarinnar við. Öðru vísi mér áður brá, þegar félagshyggjuflokkarnir reistu jafnan burst gegn ásókn alþjóðlegs auðvalds. Nú liggja væsklar einir þar á fleti fyrir og sýna af sér algert manndómsleysi.
Því er einnig haldið fram, að íslenzk fyrirtæki fái verri lánafyrirgreiðslu, ef ríkið ekki ábyrgist Icesave. Þetta stríðir gegn venjulegum viðskiptalögmálum. Fjármagn leitar einfaldlega þangað, sem ávöxtunin er öruggust og bezt. Það eru aðrir þættir í íslenzku efnahagsumhverfi, sem mjög hafa dregið úr arðsemi fjárfestinga á Íslandi, og það eru allt handaverk ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Til að koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju þarf að kveða niður draug sameignarstefnunnar, þjóðnýtingu auðlindanna og ofurskattlagningu á einkaframtakið, fyrirtæki og heimili.
22.1.2011 | 13:37
Orkumarkaður í heljargreip
Oft hefur furðu vakið, að ríkisstjórnin skuli berjast um á hæl og hnakka við að troða Íslandi inn í Evrópusambandið, ESB. Í raun eru báðir stjórnarflokkarnir langt til vinstri við stefnu ESB í markaðsmálum, peningamálum og ríkisfjármálum, og eiga enga samleið með ESB. Hvorugur flokkurinn, Samfylking eða Vinstri hreyfingin grænt framboð, er stofutækur í sölum ESB. Stjórnarflokkarnir á Íslandi núna eru sótsvart afturhald, haldnir ríkri ríkiseinokunarhyggju, sem hvergi er að finna lengur í Evrópu, enda leiðir hún til spillingar, allt of mikilla valda án aðhalds, og fátæktar almennings. Þetta er eðli félagshyggjunnar.
Dæmin hrannast þar að auki upp um óhæfni forystu Alþingis og ríkisstjórnar við að taka ákvarðanir, þegar atburðir verða. Morgunblaðið ljóstraði í viku 3/2011 upp um trójuhest, sem fannst í húsnæði Alþingis í febrúar 2010. Stallsysturnar úr Samfylkingunni, sem nú gegna miklum opinberum ábyrgðarhlutverkum sem forseti Alþingis og forsætisráðherra, brugðust þingi og þjóð algerlega, er þær ákváðu að þegja yfir hlerunarbúnaði, sem fannst tengdur við samskiptanetkerfi Alþingis. Hlerun af þessu tagi jaðrar við landráð, og að rannsaka ekki málið til hlítar og gera það ekki opinbert hlýtur að kalla á málsmeðferð fyrir Landsdómi. Af hverju þögguðu þær málið niður ? Var Samfylkingin að njósna um Alþingismenn, Hreyfingin eða Wikileak, en Julian Assange, andfætlingur okkar, mun hafa verið í húsinu í boði Hreyfingarinnar á þeim tíma, er hún var tengd ? "Gleymdi" hann fartölvunni sinni ? Þetta mál kemur auðvitað nú sem bjúgverpill (hannaður af frumbyggjum Ástralíu (búmmerang)) í fang kvennanna tveggja, sem hið allra fyrsta þarf nú að sópa af þingi með öllu sínu hyski.
Um reiðileysið við stjórnvölinn og á þingi má líka taka dæmi af orkumálunum. Stefna ESB er, að í orkuvinnslunni ríki frjáls samkeppni, og þar þykir það fyrir neðan allar hellur, að við orkuvinnslu ríki fákeppni. Það er óþolandi aðstöðumismunun og hagsmunir orkukaupenda eru þá næstum örugglega fyrir borð bornir. Íslenzka ríkisstjórnin er hér sem víðar á öndverðum meiði við ESB. Stefna hennar er ríkiseinokun á orkuvinnslu. Þó að ríkið eigi nú yfir 90 % orkuvinnslunnar, ætlar allt af göflunum að ganga, þegar nýr aðili kemur til skjalanna inn á markaðinn. Kemur þar fram dæmigert ofstæki og ofstopi félagshyggjuflokkanna í garð samkeppni. Þeir þola ekki samkeppni, enda eru þeir minnipokamenn, sem vilja láta ríkið breyta leikreglunum sér í hag.
Þarna ríghalda stjórnarflokkarnir í úreltar kennisetningar afdankaðra kredduflokka lengst til vinstri í litrófi stjórnmálanna. Það er almennt viðurkennt, að afleiðingin af ríkiseinokun er mikil binding skattfjár og minni arðsemi fjárfestinganna en efni standa til. Ójafnræði seljanda og kaupenda er algerlega óviðunandi að mati ESB og þeirra, sem leggja vilja jafnstöðu á markaði og heilbrigða rekstrarhætti til grundvallar vali á rekstrarformum. Ríkisstjórnin safnar glóðum elds að höfði sér úr öllum áttum.
Ríkisstjórnin verður að hætta samstundis ofsóknum sínum í garð atvinnulífsins. Aðförin að Magma er hreinræktað hneyksli í stjórnmála-og atvinnusögu landsins. Það yrði til að kóróna afdæmingarlega hegðun stjórnvalda, ef þeim, með aðstoð upppoppaðrar geimveru, sem líklegast greiðir skatta erlendis fremur en á Íslandi, tækist að flæma héðan fjárfesti, sem hefur lagt tugi milljarða króna í orkugeirann íslenzka með löglegum hætti og vill starfa að uppbyggingu athafnalífsins á Íslandi. Þetta er hreinræktað galdrafár, og drýsildjöflar umsnúinnar umhverfisverndar leika þar lausum hala. Athæfi stjórnvalda sætir meira að segja ámæli að hálfu Umboðsmanns Alþingis, þó að seint komi. Bragð er að, þá barnið finnur. Enn ein rík ástæða til að kjósa til þings á ný.
Stjórnsýsla félagshyggjuflokkanna er rotin af spillingu, pukri, yfirhylmingum, frændhygli og flokkshygli, enda ná afurðirnar ekki máli. Ef ríkisstjórnin leggur þjóðnýtingarfrumvarp um HS-Orku fyrir þingið, þá færir hún landið í einu vetfangi í hóp bananalýðvelda. Slíkt háttarlag er í samræmi við úrelta hugmyndafræði stjórnarflokkanna, en mun mælast afskaplega illa fyrir í Brüssel, valda kærumálum, og verða einn af nöglunum í líkkistu ESB-umsóknarinnar, sem þó ekki skal sýta.
Engu er líkara en ríkisstjórn félagshyggjunnar, trausti og fylginu rúin, sé höktandi í tangarsókn gegn tveimur stoðum atvinnulífsins á Íslandi. Að ofan hefur verið tæpt á hlerun með vitund forystu Samfylkingarinnar á Alþingi og á svívirðilegri skæruliðastarfsemi ríkisstjórnarinnar gegn erlendum fjárfestingum í orkugeiranum, sem jafnvel opinber nefnd um erlendar fjárfestingar getur ekki stutt.
Hinn armur tangarsóknarinnar gegn atvinnuvegunum beinist að sjávarútveginum, sem í góðri trú hefur fjárfest í veiðiheimildum, beztu tækni og í öflugri markaðssetningu til að fullnægja kröfum viðskiptavina sinna í Evrópu. Framsæknustu fyrirtækin veiða og verka, þegar og það, sem viðskiptavinirnir panta af þeim. Það er beint samband á milli veiðiskips og viðskiptavinar. Með þessu næst hámarksnýting auðlindarinnar. Ríkisstjórnin boðar þjóðnýtingu aflaheimildanna. Með slíkum gjörningi verður sjálfstæðum, nútímalegum íslenzkum sjávarútvegi greitt náðarhöggið, og hann færður marga áratugi aftur í tímann. Slíkt þýðir hrun hagkerfisins, og að verða valdur að slíku jafngildir landráðum. Hvorki í ESB-ríkjunum né í nokkru öðru vestrænu ríki dettur stjórnvöldum í hug að halda út á aðra eins galeiðu lögleysu, þjóðhagslegs tjóns og markaðseyðileggingar. Nú er tortímingin forgangsmál félagshyggjunnar á Íslandi. Ábyrgðarleysið er í algleymi. Það verður að grípa í taumana.
Á samþættingu þjóðarhagsmuna og nútímalegs og vel rekins sjávarútvegs bera ríkisstjórnarflokkarnir ekkert skynbragð. Þeir ganga í þeirri dulunni, að útgerð jafngildi að draga bein úr sjó og henda á markað án nokkurrar gæðastjórnunar. Það er liðin tíð. Sjávarútvegur Ólínu Þorvarðardóttur, doktors í galdrafári Vestfjarða á 17. öld, nemur aðeins örlitlu broti heildarveiðanna og enn minna broti teknanna. Illvígur áróður hennar og annars staurblinds og ofstækisfulls félagshyggjufólks er raunveruleikafirrtur og þjóðhættulegur og á heima á báli, þar sem endanlega verður brennd misheppnuð og stórskaðleg hugmyndafræði forræðishyggju 19. og 20. aldarinnar, sem skilið hefur eftir sig eymd og vesöld, hungursneyðir, ofsóknir og styrjaldir.
Nú þarf að spenna kraftaklára þeirra tveggja greina í landinu, sem mest hafa aflið, orkuiðnaðar og sjávarútvegs, fyrir vagninn, sem sekkur æ dýpra ofan í dýið, og rykkja honum upp úr. Það er enn hægt, en verður ekki gert í samstarfi við brennuvargana, heldur eftir stjórnmálalega jarðsetningu þeirra í Alþingiskosningum. Þjóðina er tekið að klæja í fingurna eftir að fá að kasta rekunum.
Hvað gerir ríkisstjórnin við þessar örlagaríku aðstæður ? Henni má líkja við hrekkjóttan, dyntóttan og úlfúðarfullan strák, sem sendur er út í haga að sækja hross til að spenna fyrir vagn. Í stað þess að reka hrossin í réttina og leggja við þau, þá hræðir hann þau og fælir, svo að þau stökkva úr girðingunni og hlaupa á fjall og nást ekki í bráð. Ríkisstjórnin er hreinræktuð hrollvekja fyrir alþýðu þessa lands. Hún er atvinnutortímandi. Hún bruðlar með skattfé í gagnslaus gæluverkefni og hendir fé í fyrirtæki í samkeppnisrekstri, hún hunzar efnahagslögmál, og hún grefur undan fyrirtækjum og heimilum í landinu leynt og ljóst. Hún vinnur allt með öfugum klónum og er óalandi og óferjandi.
Ríkisstjórnin er í stríði við bændur, sem hún vill kippa stoðunum undan með hömlulausum innflutningi verksmiðjuframleiddra matvæla frá einu þéttbýlasta og mengaðasta svæði á jörðunni, Evrópu. Hún bregður fæti fyrir bíleigendur og ferðamennskuna með hárri skattlagningu og koltvíildisskatti á eldsneyti án þess að raunverulegir valkostir standi neytendum til boða. Verktakageirinn í byggingariðnaðinum er í andaslitrunum, af því að afturhaldið á Alþingi og í Stjórnarráðinu froðufellir, ef minnzt er á framfarir í atvinnumálum. Þar á bæ er hins vegar smjaðrað fyrir hinum alræmdu "skapandi stéttum"; fólki, sem gefið hefur sjálfu sér þetta yfirlætisfulla nafn til að bæta í eyður verðleikanna og er upp til hópa á framfæri skattborgaranna. Spyrja má: hvar fer ekki fram sköpun á hverjum degi ?
Hér að ofan getur að líta reiðilestur í anda meistara Jóns Vídalíns. Þá má það verða til mikillar hugarhægðar að fylgjast með landsmönnum vorum berjast af miklum fræknleik á erlendri grundu og geta sér þar góðan orðstýr. Árangur landsliðs Íslands í handknattleik er hvorki tilviljun né heppni. Hann er árangur þrotlausrar vinnu hvers einasta manns, sem þessa liðsheild myndar. Einn fyrir alla og allir fyrir einn. Árangurinn er sýnidæmi um það, hvað markviss stjórnun stjórnendateymisins, reist á traustri þekkingu og hörðum aga á sjálfum sér og á liðsheildinni, fær áorkað. Í dag mætast stálin stinn. Úrslitin munu velta á undirbúninginum, andlegum og líkamlegum. Þessi keppni er löng vegferð. Liðið býr yfir aðdáunarverðri seiglu. Þjóðin veit, að liðið mun leggja sig allt fram, og stendur að baki því, hvernig sem fer. Beztu árnaðaróskir til landsliðsins í Svíþjóð.
Evrópumál | Breytt 23.1.2011 kl. 02:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.1.2011 | 13:17
Orkumál í gíslingu
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs heldur orkumálunum í gíslingu. Þetta lýsir sér með eins konar banni á öllum rannsóknum og virkjunum, sem fyrirtæki á þessum markaði hafa hug á.
Í blekkingarskyni skipaði ríkisstjórnin nefnd 7 manna, með einum starfsmanni til viðbótar, til að móta orkustefnu. Nú hefur króginn séð dagsins ljós, og er sá eigi björgulegur. Segja má, m.v. fjöldann, sem að verknaðinum kom, að fjallið tók jóðsótt, en fæddist lítil mús. Það er ofmælt að nefna drög þessi orkustefnu. Um er að ræða samtíning héðan og þaðan og gamlar tuggur. Ekki örlar á frumlegri hugsun í allri skýrslunni. Hún vísar engum nokkra leið til orkunýtingar og er þess vegna einskis virði sem stefnumarkandi plagg.
Viðvaningsbragur er á málsmeðferðinni, og hún er undir áhrifum fordóma og mismununar gagnvart notendum og þröngsýni forræðishyggjunnar. Dæmi um þetta er umfjöllunin um lengd samningstíma um afnotarétt orkulindanna. Mikið er lagt upp úr nauðsyn þess að stytta hann úr 65 árum í 35 ár. Hér gleymist, að löggjafinn kann með slíkri styttingu að vera að svipta handhafa auðlindarinnar miklu og öruggu tekjuflæði. Kaupandi tímabundins afnotaréttar er að öllum líkindum fúsari til að borga hærra, ef hann sér fram á lengra tekjutímabil á móti.
Hvers vegna í ósköpunum má ekki seljandi tímabundins afnotaréttar reikna það út sjálfur, hvað er honum hagfelldast. Það er mikið samspil á milli einingarverðs, tímabils og samningsupphæðar, og samningsaðilar eiga að fá að vera í friði fyrir stjórnmálamönnum, sem margir þykjast vita bezt um það, hvað handhafa auðlindarinnar er fyrir beztu. Það er reginmisskilningur þeirra. Það er illvíg forræðishyggja.
Í Fréttatímanum, 2. tbl. 2. árgangs, birtist viðtal við formann téðs stýrihóps. Þar fá menn innsýn í hugarfarið, sem svifið hefur yfir vötnunum. Eftir lestur viðtalsins verður ljóst, að ekki er kyn, þó að keraldið leki, því að botninn er suður í Borgarfirði.
"Stýrihópurinn mælir með því, að orkuauðlindum í ríkiseigu verði safnað saman í Auðlindasjóð.... ." "Þá þarf að skoða, hvort sveitarfélög eru tilbúin að taka upp sama fyrirkomulag útboða og útleigu, svo að ramminn sé samræmdur og hið opinbera tapi ekki arði vegna innbyrðis samkeppni."
Hér horfa lesendur framan í alsovézkt smetti. Helfrosið hugarfar hafta og samkeppnihamla, og miðstýringaráráttan verður vart meiri. Hér skal fullyrða, að þetta sovétskipulag stríðir gegn frjálsum viðskiptaháttum og reglum innri markaðar EES um frjálsa samkeppni og bann við samkeppnihamlandi hringamyndun. Samfylkingin er langt til vinstri við markaðshyggju ESB, og þeim mun furðulegri er þráhyggja flokksins að ganga í þann klúbb.
Kjaftaskar tala mikið um auðlindarentu, en vefst tunga um tönn við að skilgreina hana. Víst er, að hún finnst ekki í sjávarútveginum íslenzka. Ástæðan er sú, að hann, óstuddur af fjárframlögum hins opinbera, á í harðvítugri samkeppni um fiskkaupendur við niðurgreiddan sjávarútveg í Evrópu.
Þjóðnýtingarmenn aflaheimilda eru sem ómálga börn í viðskiptalegu tilliti og horfa, meðvitað eða ómeðvitað, algerlega framhjá aðalatriði auðlindanýtingar í sjávarútvegi nú á tímum. Hún snýst nefnilega ekki um að draga bein úr sjó, heldur að fullnægja þörfum viðskiptavina á sjávarvörumörkuðum. Með fyrningu aflaheimilda, eða annarri viðlíka gáfulegri tilraunastarfsemi, sem enginn annar stundar þó, er stoðunum algerlega kippt undan getu birgjanna, íslenzku sjávarútvegsfyrirtækjanna, sem veiða samkvæmt langtíma-og skammtíma samkomulagi við sjávarvörukaupendur í Evrópu, til að þjónusta evrópskan markað með trúverðugum hætti. Stjórnmálamenn mundu þannig verða valdir að tortímingu viðskiptasambanda og hruni á tekjustofnum sjávarútvegsins. Hvaða áhrif halda menn, að það hafi á þjóðarhag ?
Í orkugeiranum er hins vegar borð fyrir báru á Íslandi vegna orkuskorts í Evrópu og koltvíildisskatts, sem leggjast mun á með vaxandi þunga. Tal formanns "Stýrihóps um mótun orkustefnu" um allt of lágt orkuverð á Íslandi, arðsamari orkusölu til smánotenda og jafnvel orkusölu um sæstreng, er hins vegar alveg út í hött. Hvers vegna hafa engir samningar tekizt enn við slíka ? Svarið er, að kjörin, sem þeir hafa boðið fram að þessu, ná ekki máli og standast kjörum seljenda til stórnotenda ekki snúning.
Þeir, sem fara út í samanburð á einingarverðum, dæma sig strax úr leik sem óhæfa í þessari umræðu. Margvíslegir þættir fléttast saman í einum orkusamningi og hafa áhrif á hagkvæmni hans fyrir seljanda og kaupanda. Þar má nefna grunnverð orkunnar og verðtryggingarákvæði í samningi, hlutfall forgangsorku og afgangsorku, kaupskyldu, samningstíma, samband orku og leyfilegs afltopps, aflstuðul, síun yfirsveiflna og þann tíma, sem tekur að fullnýta virkjunina frá byggingu hennar.
Vegna þess, að íslenzku orkulindirnar eru endurnýjanlegar, sjálfbærar og lítt mengandi, búa Íslendingar við náttúrulegt forskot, sem jafnvel mun fara vaxandi. Af þessum sökum er engin goðgá að stofna íslenzkan orkusjóð í líkingu við olíusjóðinn norska. Má hugsa sér sem tekjur í þennan sjóð allt að 5 % af söluverði orku frá raforkuvirkjun, hitaveitudælustöð og síðar meir olíu-og gaslindum Drekasvæðisins eða annars staðar, enda verði sértæk orkuskattlagning, s.s. rafskattur, aflögð samtímis. Orkusjóðurinn gegni hlutverki viðlagasjóðs og gangi slíkir sjóðir inn í orkusjóðinn og gjöld til gömlu sjóðanna verði þá aflögð.
Orkusjóðinum sé þannig ætlað að vera tryggingasjóður landsmanna gegn hamförum, þ.e. stóráföllum af hvaða völdum sem er. Hann mundi þannig taka á sig byrðar af Icesave, ef landsmenn verða, t.d. með dómi, þvingaðir til að taka á sig þessar byrðar. Orkusjóður Íslands yrði eins konar bakhjarl ríkissjóðs Íslands. Orkusjóðurinn nyti sennilega meira lánstrausts en ríkissjóður Íslands og gæti þannig brúað þungbær tímabil með lántökum á meðan orkulindirnar eru nýttar. Í raun er ekki vanþörf á slíkum, öflugum sjóði í landi, þar sem náttúruöflin eru jafnstórtæk og hér.
Viðbúið er, að þessi tillaga hljóti ekki náð fyrir augliti afturhaldsins í landinu, af því að hún er uppbyggileg. En tími afturhaldsins er senn á enda. Stjórnarflokkarnir hafa gert í buxurnar, og segja sumir gott betur. Sífrið úr þeim mun heyrast úr afkimum þjóðfélagsins í hvert sinn, sem eitthvert framfaraspor verður stigið. Þá verður sífrað um, að fremur eigi að gera "eitthvað annað", þó að enginn hindri "eitthvað annað", orkuverðið sé of lágt, þó að orkuseljandi hafi gert hagkvæmasta samning, sem honum bauðst, og framin hafi verið náttúruspjöll, þó að vatnsaflsvirkjanir fegri umhverfi sitt, auki gróðurfar vegna hærra rakastigs og hærra grunnvatnsborðs og dragi úr hættu á slysum og tjóni vegna flóða, en virkjanaframkvæmdir munu þó aldrei hafa áhrif á nema lítið brot af landinu.
Rétttrúnaðurinn vill hafa það svo, að nýtanleg orka til raforkuvinnslu í landinu sé að hámarki 50 TWh/a. Vaðallinn í kringum þessa tölu ber vitni um þekkingarleysi og staðnað hugarfar. Tækniþróunin mun gefa þeim langt nef, sem ríghalda í slík þök. Þau munu hafa tilhneigingu til að lyftast, ef markaðurinn verður jafnhungraður eftir sjálfbærri orku og nú virðist stefna í. Tækniþróunin mun auka nýtni orkuvinnslunnar og draga úr umhverfisáhrifum virkjana. Ef tekst að þróa djúpborun og orkuvinnslu úr 5 km djúpum holum, þá tífaldast orkugeta hverrar holu á háhitasvæði. Sjá þá allir, að orkuvinnslugeta landsins getur hæglega farið yfir 100 TWh/a. Að gera mikið mál úr einhverju 50 TWh/a þaki er beinlínis hlálegt og sýnir, að téður stýrihópur hefur asklok fyrir himin.
v
Evrópumál | Breytt 17.1.2011 kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2011 | 22:18
Hagspá óhagfelld
Furðudýrið fúlskeggjaða, sem nú er opinber aðalfulltrúi Íslendinga gagnvart umheiminum vegna slyss, utanríkisráðherrann Össur Skarphéðinsson, er m.a. með þann meðfædda galla að telja sig ná sér niðri á samferðarmönnum sínum með því að tala um þá með niðurlægjandi hætti.
Þegar Össur talar um Dr Lilju Mósesdóttur sem burðuga hryssu með strok í genum mætti halda, að fengitími væri kominn hjá Dr Össuri, en hann sérhæfði sig á meðal Engilsaxa í kynlífi laxfiska á sinni tíð áður en hann varð ritstjóri Þjóðviljans. Talsmáti Össurar er ruddafenginn og ber vitni um meingallaðan persónuleika í sálarháska. Þessi utanríkisráðherra er landsmönnum til skammar, hvar sem hann birtist. Þessu hefur Samfylkingin þó lyft til æðstu metorða, og lýsir það innviðum flokksins betur en mörg orð.
Það er að krystallast, að Samfylkingin er með hegðun sinni og stefnu innanlands og utan að einangrast í íslenzkum stjórnmálum. Með henni getur í raun enginn hinna stjórnmálaflokkanna unnið án þess að bíða tjón af. Samfylkingin er þeirrar gerðar, að aðeins stjórnleysingjar á borð narrann Gnarr geta unnið með henni.
Samfylkingin rak rýting í bak Sjálfstæðisflokksins fyrir tveimur árum, og nú engist Vinstri hreyfingin grænt framboð í eitruðu faðmlagi félagshyggjunnar, sem koma mun sjálfri sér fyrir kattarnef á nýju ári. Spurning er, hvers konar framboð verður þar á ferðinni fyrir næstu Alþingiskosningar ? Stjórnmálamenn, sem svíkja öll sín meginkosningaloforð, missa traust kjósenda. Þeir verða sem trúðar á vettvangi stjórnmálanna.
Mælikvarði á stjórnarhætti er m.a. hagvöxtur. Ef allt hefði verið með felldu, ætti að verða 3 % - 5 % hagvöxtur á Íslandi 2011. Spáð er hér aðeins 0,5 % hagvexti, eins og stöplaritið hér til hliðar sýnir. Hagkerfið, íslenzka, tók djúpa dýfu árið 2009, en þó ekki jafndjúpa og t.d. hagkerfi Eistlands, sem dróst þá saman um 14 %. Þar er nú á hinn bóginn spáð 4,4 % hagvexti 2011. Eistar hafa búið við fastgengi lengi. Þeir öðluðust sjálfstæði árið 1919 og voru með eiginn gjaldmiðil, sem tengdur var Reichsmark til 1940. Þeir voru af Ráðstjórnarríkjunum þvingaðir til að taka upp rúblu, en hentu henni árið 1992, ásamt félagshyggjunni, og tóku þá að nýju upp kroon og markaðsbúskap, en bundu gengið þá við Deutsche Mark. Tíu árum síðar negldu þeir kroon við evruna, og 1. janúar 2011 tóku Eistar upp evru.
Eistar eru vanir fastgengi, eins og að framan er lýst, en engu að síður verður fróðlegt að fylgjast með raungengi Eistlands innan sameiginlega myntsvæðisins, vegna þess að verðbólga fer nú vaxandi í Eistlandi. Nú ráða Eistar ekki lengur vaxtastiginu í landi sínu og eru þannig sviptir peningalegum stjórntækjum í baráttunni við verðbólgu eða verðhjöðnun. Afleiðingin getur orðið lakari samkeppnistaða Eista gagnvart útlöndum, sem hrjáir Íra og Spánverja, svo að dæmi séu nefnd.
Opinberar skuldir Eista eru hinar minnstu á meðal evruríkjanna eða 8 % af þjóðarframleiðslu m.v. 84 % á evrusvæðinu að meðaltali. Þetta er árangur mikils aga við fjárlagagerð og við að framfylgja fjárlögum. Slíkt er í ófullnægjandi horfi á Íslandi. Til eru ráð við því, eins og lesa má um í tímaritinu Þjóðmálum, vetrarhefti 2010 og væntanlegu vorhefti 2011.
Eistneska ríkið þurfti ekki að hlaupa undir bagga með bönkunum, af því að bankakerfi Eistlands er í erlendri eigu, og eru Svíar þar drjúgir. Erlent eignarhald á fyrirtækjum, jafnvel bönkum, hamlar ekki góðum árangri í efnahagsmálum, nema síður sé, hlíti fyrirtækin lögsögu gistilandsins og greiði þar með skatta og skyldur þangað. Þetta fyrirkomulag hefur þvert á móti greitt leið Eista að fjárfestingarfé.
Fastgengið hafa þeir hins vegar keypt verði gríðarlegs atvinnuleysis, og var það árið 2010 17,5 % að meðaltali. Eistar hafa þess vegna orðið fórnarlömb spekileka og misst af mikilli verðmætasköpun fyrir vikið.
Það, sem knýr hagvöxt Eista áfram núna, er m.a. skattkerfið. Það er afar einfalt, um 17 % flatur tekjuskattur. Það, sem aftur á móti heldur aftur af íslenzka hagkerfinu, eru flækjur og gríðarlegar skattahækkanir ofan í samdrátt. Þetta er einstaklega heimskuleg hagstjórn öfundarknúinnar, illvígrar félagshyggju án hagspekilegra raka, enda lengir hún kreppuna og rýrir skattstofnana. Fyrir vikið mun taka lengri tíma en ella að grynnka á skuldum hins opinbera, sem nú nema 130 % af þjóðarframleiðslu, og eru þær komnar hátt yfir hættumörk. Ríkissjóður er að sligast undan skuldum sínum og vaxtagreiðslum til útlanda. Við stjórnvölinn sitja þá aulabárðar, sem láta allt reka á reiðanum. Við svo búið má ekki standa.
Rétta ráðið er að lækka skatta, a.m.k. í sama horf og árið 2006, örva fjárfestingar með því að liðka fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja og heimila, sem ríkisstjórninni hefur mistekizt, afleggja verðtrygginguna og fjarlægja hindranir í vegi erlendra fjárfestinga, s.s. gjaldeyrishöft og virkjanahöft.
Með núverandi ríkisstjórn stefnir í greiðsluþrot ríkisins, fjölda fyrirtækja og einstaklinga. Stækkun þjóðarkökunnar er eina raunhæfa leiðin út úr vandanum. Með 5 % hagvöxt í 10 ár mun landsframleiðslan vaxa um 63 %. Hún verður þá 1000 milljörðum kr meiri en nú. Undir ráðstjórn vex hún ekkert. Þarna skilur á milli feigs og ófeigs, hvort ræðst við skuldavandann eða ekki. Allt annað er hjóm.
Þess vegna leikur ekki á tveimur tungum, að hin feiga félagshyggjustjórn afturhaldsins í landinu, sem hatast við athafnalífið og hefur asklok fyrir himin, verður að hverfa af vettvangi hið bráðasta og umbótastjórn á sviði hagstjórnar og stjórnsýslu, nánast byltingarstjórn á öllum sviðum, að taka við.
31.12.2010 | 17:00
Við áramót 2010/2011
Land elds og ísa stóð undir nafni árið 2010. Huggulegt túrhestagos á Fimmvörðuhálsi breyttist í náttúruhamfarir, þegar gos hófst undir Eyjafjallajökli, sem varð um hríð alræmdur í Evrópu, og þó að víðar væri leitað. Bændur og búalið undir Eyjafjöllum sýndu aðdáunarvert æðruleysi við aðstæður, sem voru erfiðari en orð fá lýst. Minnisstæð er myndin af gröfu Suðurverks og stjórnanda hennar, þar sem hann rauf þjóðveg 1 og bjargaði þar með túnum á stóru svæði ásamt Suðurlandsvegi. Þessi maður ætti skilinn titilinn hetja ársins 2010.
Stóriðjan varð líka fyrir búsifjum á árinu 2010. Í öllum iðjuverunum 4, sem framleiða málma eða melmi, kom upp eldur, þó að af ólíkum toga væri. Leiðir þetta hugann að þeirri staðreynd, að á þessum vinnustöðum er fengizt við feiknaafl. Losni það úr læðingi, er voðinn vís. Þetta fékk ISAL að reyna 19. júní 2006, er spennumælaspennar sprungu af völdum afar sjaldgæfs fyrirbrigðis, er járnherma ("Ferroresonance") nefnist. Spennarnir voru þurrir, þ.e. innihéldu enga olíu, svo að enginn eldur hlauzt af. Þeir sáu hins vegar týristorafriðlum verksmiðjunnar fyrir nauðsynlegum mælimerkjum, og af þeim sökum stöðvaðist rekstur þessara afriðla. Fræðileg greining á orsökum fór fram strax í kjölfarið, og var hönnun breytt með ýmsum hætti til að draga úr líkum á sams konar atburði og til að draga úr afleiðingunum, ef skilyrði járnhermu mynduðust aftur.
Líklegt er, að svipaðri aðferðarfræði sé nú beitt hjá Fjarðaáli í Reyðarfirði eftir hrikalegan bruna, sem þar kom upp í stórskornum og flóknum spenni nú í desember. Augljóslega verður rekstur þessarar Alcoa verksmiðju viðkvæmur, þar sem ein afriðladeildin verður ótiltæk mánuðum saman, en hinar væntanlega undir meira álagi en áður.
Hjá Norðuráli losnaði mikið afl einnig úr læðingi, þegar skammhlaup urðu í rofabúnaði. Þegar slíkt gerist, verður spennufall svo mikið á stofnkerfi Landsnets, að margir notendur verða varir við.
Hjá ISAL í Straumsvík kviknaði í rafstrengjum í lagnakjallara steypuskálans við álleka ofan í kjallarann. Atburðurinn lamaði steypuskálann um tíma og varð að draga úr framleiðslu kerskálanna um hríð fyrir vikið. Engu að síður verður árið 2010 metframleiðsluár í sögu verksmiðjunnar. Má merkilegt heita, hverju unnt er að ná út úr gamalli verksmiðju. Það er þó ekki tilviljun, því að beitt er beztu tækni við rekstur og viðhald undir kjörorði stöðugrar þróunar og umbóta. Má segja, að góður árangur sé afrakstur mikillar reynslu, staðgóðrar þekkingar og frjósams samstarfs við aðrar deildir móðurfyrirtækisins.
Ljóst er, að móðurfyrirtæki ISAL í Straumsvík, Rio Tinto Alcan, hefur fullan hug á að treysta starfsemi sína á Íslandi. Fyrirtækið braut ísinn á árinu og ákvað miklar fjárfestingar (um MUSD 500 eða ISK 60 milljarðar) í Straumsvík, sem miða að bættu afhendingaröryggi jafnstraums til allra kerskálanna þriggja, framleiðsluaukningu í þeim um 40 kt/a og nýrri afurð steypuskálans, sem á að tryggja markaðsstöðu samsteypunnar í Evrópu til framtíðar litið. Þessi fjárfestingarákvörðun kom á góðum tíma fyrir hagkerfi Íslands, sem er í fjárfestingarsvelti. Landsvirkjun fékk tryggingu fyrir orkukaupum frá Búðarhálsvirkjun til langs tíma, svo að hverfandi lítil áhætta fylgir lánveitingu til verkefnisins eða skuldabréfakaupum af fyrirtækinu, enda mun Deutsche Bank hafa riðið á vaðið og gert nýjan viðskiptasamning við fyrirtækið á viðunandi kjörum m.v. orkuverðið, svo að arðsemi Búðarháls er tryggð.
Um þjóðhagslega arðsemi stóriðjuframkvæmda og virkjana þeirra vegna þarf enginn að efast. Það er auðvelt að sýna fram á, að betri kostir eru ekki í boði. "Eitthvað annað" er tómt mál að tala um, enda standa þessar eða aðrar stóriðjuframkvæmdir ekki í vegi fyrir neinum. Hins vegar blómstrar margháttuð starfsemi í skjóli orkuvinnslu og orkunýtingar. Er nauðsynlegt á nýju ári að nýta öll möguleg tækifæri á þessu sviði sem vogarstöng upp úr stöðnun, sem grefur um sig og veldur hrörnun á öllum sviðum.
Til slíkrar framfarasóknar þarf stjórnmálalega forystu. Það er útséð um, að slíka er ekki að finna innanborðs hjá núverandi stjórnarflokkum. Nauðsyn ber til að stokka sem fyrst upp á löggjafarsamkundunni og kalla fersk öfl upp í brúna og niður í vélarrúm til að ausa og síðan að ræsa öfluga vél, setja á fullt afl, rykkja fleyinu af strandstað og taka stefnuna út úr brimgarðinum.
Það má engan tíma missa úr þessu. Það sýnir "The Global Debt Clock", sem skoða má á vefsetri "The Economist". Samkvæmt þessari skuldaklukku nema opinberar skuldir Íslands 14 milljörðum bandaríkjadala (USD) eða um 43 þúsund bandaríkjadölum á íbúa (kUSD 43/íb). Þessar skuldir eru 129 % af þjóðarframleiðslunni, og jukust skuldirnar um 2,3 % árið 2010. Þetta eru allt mjög háar tölur og meðal þess hæsta, sem gerist. Við svo búið má alls ekki standa. Ljóst er, að núverandi stjórnvöld ráða engan veginn við þennan vanda. Þau virðast ekki skilja vandamálið, og lausnirnar eru þess vegna hvorki fugl né fiskur. Ríkisstjórninni má líkja við fjörulús á tjöruspæni. Hún kemst ekki spönn frá rassi. Svo nefnd félagshyggja er gjaldþrota og algerlega gagnslaus, þegar vandi steðjar að.
Til samanburðar við ofangreindar tölur má taka annað land í vanda, Írland. Þar námu opinberar skuldir sem hlutfall af þjóðarframleiðslu (GDP) "aðeins" 79 %, og þessar skuldir minnkuðu um 0,9 % árið 2010. Aðild Írlands að ESB hefur ekki hjálpað Írum neitt. Þvert á móti urðu þeir að hlíta ákvörðun ESB um að styrkja einkabanka með gríðarlegum upphæðum frá skattborgurunum. Evran er þeim til trafala nú, því að hagbólan á Írlandi leiddi til kostnaðarhækkana, sem voru miklu meiri en í Þýzkalandi, forystulandi ESB, en gengi evrunnar hangir núna alfarið á góðu gengi þýzku útflutningsvélarinnar.
Þjóðverjar eru vel að árangri sínum komnir. Þeir eru farnir að bera úr býtum eftir endursameiningu landsins og endurreisn austurhluta landsins og eftir að hafa hert sultarólina 1999-2009. Hin mikla breyting í stjórnmálum Evrópu árið 2010 er sú, að Þýzkaland hefur nú stigið fram sem forystuland ESB og álfunnar allrar. Þetta gerist vegna yfirburðastöðu hagkerfis þeirra og vegna traustvekjandi stefnumörkunar innanlands og utan. Menningarþjóð með mikla sögu blómstrar nú undir merkjum lýðræðis.
Gleðilegt nýár.
Evrópumál | Breytt 4.1.2011 kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.12.2010 | 10:36
Er evran svarið ?
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að evran er nú í svo miklu hafróti, að seinna mun segja af því, hvort hún nær landi. Nái hún landi, er vafa undirorpið, hvort hún verði þá ólöskuð. Margt bendir nú til, að hvorki evran né ESB verði söm eftir þann hildarleik, sem fram fer á fjármálamörkuðum heimsins um þessar mundir. Þetta gæti leitt til þess, að kvarnist úr myntbandalaginu og/eða ESB breyti um eðli og taki upp miðstýrða fjárlagastefnu, sem færir það skrefi nær sambandsríki en áður. Óvissan um framtíð evru og ESB óx til muna árið 2010.
Við þessar aðstæður hefur efnahags-og viðskiptaráðherra Íslands kallað eftir greiningu á kostum þess og göllum að taka upp evru. Hann gerir þetta reyndar í kindugu ljósi. Árni Páll Árnason hefur sjálfur marglýst yfir þeirri skoðun sinni, að evran eigi að leysa íslenzku krónuna af hólmi sem fyrst, og hið sama er stefna flokks hans, Samfylkingarinnar. Hvernig gátu þessir aðilar myndað sér stefnu án undanfarandi greiningar ? Hvernig geta þessir sömu aðilar ríghaldið í stefnu sína, þó að umhverfið, þ.e. staða evrunnar, sé gjörbreytt ? Það er margt, sem bendir til þess, að þessi stefnumörkun sé illa ígrunduð fyrir hagsmuni almennings á Íslandi og íslenzka hagkerfisins í heild sinni, eins og hér verður fjallað um.
Það er mála sannast, að til að geta tekið upp evru, að reglum ESB og Evrópubankans, ECB, og án þess að hér fari samstundis allt á hvolf, þarf að hafa náðst viss stöðugleiki í efnahagsmálum. Þar er um að ræða ríkisbúskap, ríkisskuldir og peningamál hins opinbera hagkerfis. Þessum tilskilda stöðugleika er unnt að ná, eins og sýnt var fram á í vetrarhefti ársfjórðungsritsins Þjóðmála, sem kom út í desember 2010, og enn styrkari stoðum er unnt að skjóta undir stöðugleika hagkerfisins með stjórnkerfisbreytingum á grundvelli nýrrar Stjórnarskráar, sem drægi dám af stjórnarskrám þeirra, sem beztum árangri hafa náð í efnahagsmálum. Upptaka erlends gjaldmiðils verður þá valkostur, en ekki þvingaður kostur.
Þegar þessum stöðugleika verður náð, þá reka okkur Íslendinga engar nauðir til að taka upp evru eða annan erlendan gjaldmiðil. Þá verður enginn ávinningur við erlenda mynt hér, en hins vegar talsvert óhagræði. Óhagræðið felst í því, að um fastgengi verður þá að ræða án tillits til afkomu og samkeppnihæfni útflutningsatvinnuveganna. Raungengið getur þá skekkzt mjög, eins og sýnt er á súluritinu hér að ofan af myntsvæði ESB. Þessi ólíka þróun raungengis evrulandanna er sterk vísbending um, að evran eigi sér ekki viðreisnar von að óbreyttu skipulagi ESB.
Til að jafna metin og draga úr verðbólgu þurfa ríki með of hátt gengi að lækka tilkostnað atvinnuveganna eða að auka framleiðnina í meiri mæli en gerist í samkeppnihæfari ríkjunum. Þetta er erfitt í rígbundnum hagkerfum Evrópu og reynist mörgum um megn. Það er t.d. ákaflega erfitt að lækka fólk í launum í kjarasamningum. Raunlaunalækkun er það, sem gerist við gengisfellingar. Slík raunlaunalækkun er óhjákvæmileg, þar sem halli er á utanríkisviðskiptum.
Téður ráðherra birti grein um efnið mánudaginn 27.12.2010. Blaðagrein þessi er furðulega vanburðug. Hann lætur líta þannig út, að val Íslendinga standi á milli fjármálahafta (Capital Control) og upptöku evru. Þetta er tóm vitleysa, því að ríkisstjórnin getur afnumið gjaldeyrishöftin með lagabreytingu og ætti að manna sig strax til framlagningar slíks frumvarps á Alþingi. Gengið mundi fljótlega leita eðlilegs jafnvægis fyrir utanríkisviðskipti og skuldastöðu landsins. Ríkisstjórnin, trú úreltum hagstjórnarkenningum hafta og forræðishyggju, heldur hins vegar dauðahaldi í forarvilpu spillingar, sem úthlutun hins opinbera á takmörkuðum verðmætum, t.d. undanþágum frá höftum, jafnan hefur í för með sér. Höftin halda aftur af hagkerfinu, grafa um sig, og valda sóun og spillingu. Ráðherra snýr orsakasamhengi á haus. Til að ná stöðugleika verða höftin fyrst að hverfa, en ekki öfugt.
Hin furðurök efnahagsráðherra Samfylkingar snúa að því, að krónan standi í vegi erlendra fjárfestinga á Íslandi. Ráðherrann vísar til þess, að Írar setji nú traust sitt á erlendar fjárfestingar að draga þá upp úr argvítugri skuldasúpu, sem ábyrgð ríkisins á einkabönkum leiddi til þar í landi. Hér liggur sannleikurinn óbættur hjá garði ráðherrans. Fjárfestar hafa aðallega áhuga fyrir Írlandi vegna þess, að þar er lægstur tekjuskattur á fyrirtæki innan ESB, þó að Brüssel hafi beitt þvingunarúrræðum á Íra án árangurs til að fá þá til að hækka tekjuskattinn. Ráðherrann skilur ekki þennan hvata, enda stendur hann að hækkun þessa og annarra skatta með hverjum fjárlögum ríkisstjórnar Samfylkingar og vinstri grænna.
Fyrirtækjum í erlendri eigu (og öðrum) er í lófa lagið að færa bókhald sitt í erlendri mynt. Íslenzki markaðurinn er svo lítill, að erlend fyrirtæki hafa sjaldnast áhuga á honum til fjárfestinga. Þau hafa hins vegar mörg hver áhuga á að nýta innlendar auðlindir til útflutnings. Til þess verða þau að fjárfesta í landinu. Tekjur þeirra eru þá í erlendri mynt, og gengi íslenzku krónunnar skiptir þau harla litlu máli. Þau hafa þannig komið sér upp öflugum gengisvörnum. Hvernig getur téður ráðherra verið þekktur fyrir að halda uppi svo einfeldningslegum rökum, sem hér hafa verið gerð að umræðuefni ? Fyrir umrædda Fréttablaðsritgerð sína fær hann 2,5 af 10,0 fyrir viðleitni. Er allt á sömu bókina lært hjá Árna Páli Árnasyni ?
Spyrja má, hvað valdi hrikalegri vantrú Samfylkingarinnar á, að Íslendingar geti spjarað sig sjálfir, og oftrú þeirra á að færa mikilvæga ákvarðanatöku um hagsmunamál Íslendinga til Brüssel. Getur verið, að ráðherrann dreymi um að sitja veizlur, stórar, með höfðingjum í Brüssel ? Hætt er við, að slíkar draumfarir verði endasleppar, því að lítil spurn er eftir jafnyfirgripsmikilli vanþekkingu og getuleysi og hér um ræðir á meðal nokkurra hópa manna, utan Samfylkingarinnar.
18.12.2010 | 14:11
Harmsaga fjárhirðis
Rök hafa verið leidd að því, að engin dæmi finnist um jafnhrikalegt vanmat á eigin stjórnmálalegu stöðu á seinni tímum og hjá Steingrími Jóhanni Sigfússyni (SJS), þegar hann gekk til samstarfs við Samfylkinguna 2009, sbr Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, dags. 17.12.2010. Hann gat haft tögl og hagldir við stjórnarmyndanirnar þá, en glutraði niður tækifærinu.
Fyrir vikið lét hann Samfylkinguna leggja upp í sig og síðan teyma þægan við einteyming til samstarfs við AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinn) og til forkastanlegra samninga um mjög þungbærar klyfjar á íslenzka skattgreiðendur vegna gjaldþrots einkabanka í útlöndum, sem voru svo herfileg mistök, að varða hiklaust Landsdómi, og síðast en ekki sízt sveik hann flokksmenn sína og kjósendur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og varðaði leiðina til inngöngu í ESB (Evrópusambandið).
Þessum fjárhirði íslenzka ríkiskassans hefur nú enn orðið á í messunni. Hann lagði fyrir Alþingi hrákasmíði í gervi fjárlagafrumvarps, sem gekk fram af almenningi og ofbauð eigin flokksmönnum. Þrír þingmenn VG helltust úr lestinni við lokaatkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið, og eftir það munu vinstri grænir ekki bera sitt barr. Ríkisstjórn Jóhönnu hefur aldrei borið neitt barr, svo að þar á verður engin breyting. Hún skilur alls staðar eftir sig sviðna jörð.
Fjármálaráðherrann er þannig orðinn ber að algeru dómgreindarleysi. Honum er ekki hægt að treysta fyrir horn. Allt, sem frá honum kemur, ber að sæta mikilli tortryggni, og vísast er það almannahag stórskaðlegt.
Það sætir þess vegna furðu, að fúsk á borð við fjárlagafrumvarp SJS skuli ekkert mótatkvæði hljóta. Fjárlögin eru reist á blekkingum og röngum hagspám. Hagspá SJS miðar við hagvöxt, en stefna ríkisstjórnarinnar leggur stein í götu framkvæmda, sem hérlendis eru forsenda hagvaxtar. Ofurskattlagning lamar hagkerfið, og fjandskapur ríkisstjórnarinnar í garð athafnalífsins heftir vilja til fjárfestinga í gjaldeyrisskapandi starfsemi, t.d. í sjávarútvegi.
Samkomulagið við AGS átti að renna út í nóvember 2010, en ríkisstjórnin er látin sitja eftir eins og hverjir aðrir tossar. Hún hefur auðvitað staðið sig illa, en kominn er tími til að losna úr viðjum AGS. Eins og myndin hér til hliðar sýnir, er fjármagnsflæði til hagkerfa á uppbyggingarskeiði mjög tekið að glæðast eftir síðasta hrun fjármálakerfis heimsins, og virðist engin þörf fyrir íslenzka ríkið lengur að vera undir handarjaðri AGS. Íslendingar standa í þakkarskuld við AGS fyrir að veita tryggingar á válegum tíma, en hegðun hans síðan er ekki alls kostar ásættanleg, og lítillækkandi er, að hann verði hér eilífur augnakarl.
Velferðarstjórn fjármálakerfisins á Íslandi er ekki á þeim buxunum að afnema fjármálahöftin í bráð. Bankarnir græða á þeim, og skömmtunarstjórarnir halda dauðahaldi í skömmtunaraðstöðuna. Skrýtni karlinn í Seðlabankanum, gamli Marx-Lenínistinn, er yfirskömmtunarstjórinn. Hann er jafnframt eini seðlabankastjórinn í heiminum, nema vera skyldi í Zimbabwe, sem rekur jafnframt tryggingafélag. Hann setti löpp á milli stafs og hurðar og kom þannig í veg fyrir endureinkavæðingu þess, trúr fornum átrúnaði sínum. Störf þessa handbendis velferðarstjórnar bankanna eru orðin að lélegum brandara.
Tveir góðkunnir hagfræðiprófessorar, Jón Daníelsson og Ragnar Árnason, rituðu haglega hugvekju í Morgunblaðið 17.12.2010 undir fyrirsögninni: "Gjaldeyrishöftunum þarf að aflétta sem fyrst". Þeir fullyrða, að efnhagsstefna ríkisstjórnarinnar sé reist á gjaldeyrishöftum. Þetta eitt og sér er nóg til að gefa stjórnarómyndinni falleinkunn, því að ríki með gjaldeyrishöft getur ekki staðizt öðrum snúning í keppninni um erlent áhættufé, getur ekki búið frumkvöðlum eðlilegt umhverfi og er dæmt til að verða undir í keppninni um að búa þegnum sínum fyrirmyndar lífskjör.
Prófessorarnir segja þegar vera kominn upp þjóðhagslega óarðbæran atvinnuveg við að framfylgja höftunum hjá hinu opinbera og hjá fyrirtækjum við að komast fram hjá þeim. Spilling grasserar og forsjárhyggjan dillir sér. Að skammta verðmæti til gullrassa og gæludýra eru hennar ær og kýr.
Téðir höfundar leiða rök að stórfelldri skaðsemi gjaldeyrishaftanna fyrir efnahagslífið, sem dragi úr samkeppnihæfni þess og rýri þannig lífskjör almennings: "Með því að viðhalda gjaldeyrishöftunum erum við í raun að tilkynna, að íslenzk stjórnvöld annaðhvort geti ekki eða vilji ekki reka hagkerfi samkvæmt þeim leikreglum, sem tíðkast í þróuðum ríkjum. Þar með er verið að lýsa því yfir, að Ísland sé þriðja heims efnahagssvæði, þar sem búast megi við, að stjórnvöld skelli á og viðhaldi beinum gjaldeyrishöftum og öðrum takmörkunum langtímum saman." (Stafsetning og ritháttur prófessoranna færð til betri vegar.)
Með vísun til ofangreindrar niðurstöðu virtra fræðimanna á hagfræðisviðinu gegnir furðu, að ríkisstjórnin skuli vera með landsmenn á vegferð inn í ESB án þess að fjarlægja þessi höft, sem klárlega eru brot á fjórfrelsinu, sem kveður á um frjálsa fjármagnsflutninga á Innri markaðinum.
Ánægjuegt er á aðventunni að sjá virta hagfræðiprófessora taka þannig til orða í téðri Morgunblaðsgrein: "Við Íslendingar, eins og svo margar aðrar þjóðir, höfum lært af biturri reynslu, að ríkisforsjá efnahagslífsins er ekki til velsældar fallin. Hún leiðir jafnan af sér óhagkvæmni og sóun og hneigist gjarnan til pólitískrar fyrirgreiðslu og mismununar."
Að fernu ber nú að vinda bráðan bug :
- Að afnema gjaldeyrishöftin með vönduðum undirbúningi, er feli í sér samstarf við erlenda seðlabanka og varaáætlun
- Að binda endi á samstarfið við AGS í núverandi mynd
- Að stöðva inngönguferlið í ESB og biðja stækkunarstjóra þess afsökunar á frumhlaupi gálausra og bernskra hérlendra stjórnvalda
- Að liðka fyrir erlendum fjárfestingum í hvívetna og greiða veg fjárfesta til nýtingar auðlinda í lögsögu landsmanna.
Með þessum hætti, og skipulegri einföldun og uppstokkun skattkerfisins, mun takast að koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju og öllu vinnufúsu fólki, innanlands og brottfluttu, til arðsamra starfa hér á ný. Jafnframt ber stöðugt að minnast þess, að vítin eru til að varast þau. Það má sízt fyrnast á næsta velmegunarskeiði.
Evrópumál | Breytt 19.12.2010 kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2010 | 13:55
Umbúðastjórnin
Fyrir nokkrum árum kom út bókin Umbúðaþjóðfélagið. Var þar bent á bruðl í óþarfa, sem einkennandi væri fyrir nútímaþjóðfélagið. Þá þekkjum við einnig fornt og fallegt ævintýri um barnið og keisarann klæðlausa og heimska, en vefarar og klæðskerar ríkisins töldu honum trú um, að nektin væri dýrasta hýjalín, en svo vel ofið, að það dyldist sjónum.
Nú hefur afkvæmi Samfylkingar og vinstri grænna, ríkisstjórnin Steingrímur Jóhanna, í vesældómi sínum sameinað þetta tvennt. Öll hennar verk eru einvörðungu innihaldslausar umbúðir. Stjórnin sjálf er ekki sveipuð dýrmætu hýjalíni, heldur viðbjóðslegum, endurunnum, gatslitnum umbúðum. Þetta eru marxista-kenningar um forræði ríkisvalds yfir atvinnulífinu og ofurskattlagningu alls fjár, lauss og fasts, sem umfram er brýnustu lífsnauðsynjar. Skvaldur um lýðræðisást, ákvörðunarvald fólksins, brjóstvörn alþýðu og opna stjórnsýslu eru umbúðir spunahvolpa utan um ekki neitt.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður villuráfandi vinstri snata, hefur með purkunarlausum hætti, með Hrunið að yfirvarpi, hækkað alla skatta upp úr öllu valdi. Hann greip tækifærið í kjölfar Hruns og gerði úr sér gengna marxistahrollvekju sína að veruleika. Fyrir þetta situr hann í ríkisstjórn, og fyrir þetta mun hann lenda á ruslahaugum sögunnar sem hvert annað marxistagóss.
Fyrir vikið hefur hagkerfi Íslands skroppið saman allan hans tíma í fjármálaráðuneytinu og getur ekki annað. Það var fyrirsjáanlegt, og stjórnarandstæðingar létu þá skoðun í ljós strax, þegar þessi hagstjórnarheimska var viðruð. Hvergi annars staðar á Vesturlöndum dettur ríkisstjórn í hug að fara Steingrímsleiðina við að jafna ríkissjóðshalla. Niðurskurður ríkisútgjalda sem hlutfall af lækkun hallans er yfirleitt á bilinu 60 %-90 %, en hér er hann 20 % -40 %.
Allar vinstri stjórnir á Íslandi, og reyndar víðast hvar í heiminum, hafa safnað skuldum, og núverandi hörmung er þar engin undantekning. Samkvæmt Hagstofunni voru þær 30.9.2010 1676 milljarðar kr, þar af 378 milljarðar kr (23 %) erlendar skuldir, og höfðu þá á 12 mánaða skeiði aukizt um 258 milljarða kr eða um 18 %. Þessi þróun er stórhættuleg og hana verður að stöðva strax, því að skuldir ríkissjóðs nema nú 109 % af landsframleiðslu, sem stöðugt skreppur saman að raungildi. Ríkisstjórnin hefur enga stjórn á málum, hún veltur áfram, og stefnir fram af hengiflugi þjóðargjaldþrots.
Við þessar ömurlegu aðstæður fréttist, að ríkisstjórnin Steingrímur Jóhanna hafi með samninganefnd sinni náð enn einu samkomulaginu við Breta og Hollendinga um að bæta eftirstöðvum úr gjaldþroti óreiðumanna á erlendri grundu ofan á skuldahrúguna. Helztu rökin eru þau, að í þetta sinn muni vextir og afborganir nema 430 milljörðum kr lægri upphæð en þeirri, sem þjóðin hafnaði 6. marz 2010. Steingrímur Jóhanna fullyrti þá, að hagstæðari samningum væri ekki unnt að ná og að hvorki fengjust lán né fjárfestingar til landsins, nema samkomulag hennar við Breta og Hollendinga yrði staðfest af þingi og þjóð. Allt reyndist þetta vera tóm vitleysa algerra ómerkinga, sem þó sitja enn að völdum í skömm sinni.
Enn fara þessir sömu ómerkingar á flot með löglausar kröfur Breta og Hollendinga á hendur Íslendingum. Það er með öllu óþarfi að samþykkja löglausar kröfur á hendur ríkissjóði Íslands, sem er á gjaldþrotsbarmi nú þegar. Þetta deilumál á heima fyrir dómsstólum. Ef við vinnum málið, sem mestar líkur eru á, þá höfum við bjargað ríkissjóði. Ef við töpum, þá getur dómurinn ekki hljóðað upp á hærri upphæð en samkvæmt þessu síðasta samkomulagi.
Það er deginum ljósara, þótt óljós sé um þessar mundir, hvað knýr fyrirbrigðið, sem kallar sig Samfylkingu, áfram. Það er þýlyndi við skrifræðisseggi ESB í Brüssel. Steingrímur Jóhanna þjösnast áfram á grilluvegferð sinni með Ísland inn í ríkjasamband á brauðfótum. Það er búið að gera Steingrími Jóhönnu skiljanlegt, að ekkert geti orðið af innreið í Brüssel, nema "Icesave" deilunni verði rutt úr vegi. Forystusauðir Samfylkingar vaða eld og brennistein til að koma landinu inn í samfélag skrifræðisbáknsins, og gildir einu fyrir þá, hvort landið kemst í greiðsluþrot fyrir vikið. Þá gildir einu, þótt evran sé fallin, eins og sjá má á grafi hér fyrir ofan (brattur hnigull). Hún var alla tíð yfirskin. Hið kratíska samfélag skrifræðis, og löngunin til að verða hluti af stærri heild, yfirskyggir gjörsamlega heilbrigða skynsemi og sjálfstæðisvilja. "Miklir menn erum við, Hrólfur minn."
Það má geta sér til um, hvað býr að baki sjúklegri áráttu Steingríms Jóhönnu að koma löglausum skuldaklafa á þjóðina. Steingrími og vinstri grænum gengur það eitt til að geta eftir á haldið því fram, að hvort sem banki er í einkaeigu eða í ríkiseign, þá lendi gjaldþrotið á ríkinu. Þetta telur hann muni skjóta stoðum undir ríkisrekstur á fjármálasviðinu í framtíðinni og þar með sem víðast í atvinnulífinu. Þessi stefna er við lýði hjá Evrópusambandinu, ESB, og er að ganga af því dauðu. Írar fóru flatt á að ríkistryggja alla banka tröllvaxins bankakerfis síns, sem reyndar var hlutfallslega helmingi minna en hið íslenzka, sem var krabbamein á þjóðarlíkamunum og skorið burt af Geir Haarde og ríkisstjórn hans. Steingrímur Jóhanna klúðraði hins vegar gjörsamlega eftirmeðferðinni, eins og öllu öðru, sem hún hefur komið nálægt. Bandaríkjamenn settu óhemju fé í bankakerfið, en leyfðu sumum að rúlla, t.d. Lehman Brothers. Ríkisábyrgð er skaðvaldur, því að hún ýtir undir áhættufíkn og ábyrgðarleysi.
Íslenzka leiðin er hins vegar sú, að ríkið ábyrgist einvörðungu bankainnistæður innanlands, en taki enga ábyrgð á lántökum fjármálastofnana né bankainnistæðum erlendis. Með þessari ráðstöfun í Neyðarlögum ríkisstjórnar Geirs Haarde var ríkið að vernda hagsmuni þegna sinna, en lét einkafyrirtæki sigla sinn sjó. Vilji erlendar ríkisstjórnir láta reyna á lagalegt réttmæti þessa gjörnings, þá höfða þær mál gegn ríkissjóði Íslands. Þetta hafa þær hingað til forðazt, og það er ekki af tillitssemi við íslenzka hagsmuni; svo mikið er víst. Allar þeirra ráðstafanir eru reistar á eigingirni og ótta við áhlaup á eigið bankakerfi.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)