Færsluflokkur: Evrópumál

Evrópuhugsjónin fer halloka

Örlagatímar eru nú í Evrópu vegna bresta sameiginlegu myntarinnar á evrusvæðinu. Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins (ESB), Herman van Rompuy, hefur lýst því yfir, að hrynji evran, þá líði ESB undir lok.  Þessi ummæli vitna um sálarháska þeirra, sem telja Evrópumenn aðeins verða sáluhólpna, lúti þeir stjórnun og reglugerðasetningu miðlægs og sjálflægs skrifræðisbákns, sem lýtur takmörkuðu eða engu lýðræðislegu aðhaldi almennings í Evrópu.  Þetta er ókræsileg Evrópuhugsjón, enda nær hún vart eyrum annarra en opinberra starfsmanna.

Þekktur hagfræðingur, Willem Buiter, sem í skýrslu, saminni fyrir íslenzku bankana sumarið 2008, taldi innviði þeirra vera svo fúna, að þeir væru þá komnir að fótum fram, hefur nú spáð falli evrunnar.  Hann telur hagkerfi Spánar vera mun veikara en bókhaldsbækur sýna og gerir ráð fyrir því, að Evrópubankinn, ECB, sem gárungarnir kalla EBB (European Bad Bank í stað - Central Bank), muni hefja stórfellda prentun peninga í örvæntingarfullri tilraun miðstýringarmanna í Frankfurt og Brüssel til bjargar Spáni.  

Á talsmönnum þýzkra viðhorfa í þessum efnum er hins vegar ekki að heyra, að gripið verði til þess óyndisúrræðis, og tónninn í Berlín er tekinn að draga dám af rómi þýzks almennings, sem líkir opinberum stuðningi við nauðstadda banka við það að reyna að fylla baðker án tappa í niðurfallinu.  Yrði prentun peninga hafin, mundi það leiða til mikillar verðbólgu, og til þess er reyndar leikurinn gerður að grynnka á skuldum evruríkjanna með greiðslum með verðminni mynt.

Þjóðverjar mega hins vegar ekki til slíks óstöðugleika hugsa, sem af slíku kynni að leiða, í ljósi sögunnar.  Weimar lýðveldið féll 1933 vegna ráðleysis ríkisstjórna, fjöldaatvinnuleysis, óðaverðbólgu og auðmýkingar að hálfu Vesturveldanna með Versalasamningunum 1919.  Þýzkur almenningur hefur nú fengið það á tilfinninguna, að ætlunin sé að láta hann greiða skuldir allra evruríkjanna, sem á þurfa að halda.  Þetta er nú að renna upp fyrir stjórnendum við Potzdamer Platz, sem standa andspænis stjórnmálalegum rústum, eða að láta Spán róa og þar með evruna.  Því skal spá hér, að lýðræðið verði ofan á við ákvarðanatöku í Berlín og dálæti Þjóðverja, Deutsche Mark, sjái dagsins ljós að nýju.   

Mynt í skammarkrókiVið þessar aðstæður líður Alþingi Íslendinga s.k. félagshyggjustjórn, ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri-grænna, að halda út í aðlögunarferli stjórnkerfis landsins að kröfum ESB á röngum forsendum með miklum peningalegum útlátum úr ríkissjóði, beinum og óbeinum. 

Ríkisstjórnin er í óleyfi við þetta ferli vegna þess, að reginmunur er á samningaviðræðum, sem Alþingi samþykkti með semingi 16. júlí 2009, svo að vægt sé til orða tekið, og aðlögunarferli.  Þá var aldrei minnzt á aðlögun, heldur viðræður, jafnvel könnunarviðræður, með það að markmiði að athuga, hvað byðist í Brüssel.  Grátleg grautargerð það.  Gagnaðilinn, ESB, hefur hins vegar ekki farið í launkofa með eðli málsins og að í boði væri aðeins ein með öllu, Evrópuhugsjón,stofnsáttmálar, lög og tilskipanir ESB, án nokkurra varanlegra undanþága.  

Því má svo bæta við þessar hugleiðingar, að jafnvel þótt undanþágur fengjust við lok aðlögunarferlisins, sem auðvitað væru ætlaðar sem agn fyrir þing og þjóð, þá yrðu þær haldlausar síðar meir, ef einhver aðildarþjóðanna mundi kæra þær til Evrópudómstólsins, sem dæmir jafnan stranglega eftir stofnsáttmálum ESB.  Þar með væri fjöregg þjóðarinnar dæmt í útlegð til Brüssel, og Alþingi og ríkisstjórn í Reykjavík yrðu að lúta boðvaldi þaðan, t.d. varðandi nýtingu lands og sjávar.

Af þessum sökum öllum leggst Alþingi með eindæmum lágt nú að láta bjóða sér framhald þessa ólýðræðislega ferlis, sem Samfylkingin keyrir nú fram af offorsi gegn vilja allra hinna stjórnmálaflokkanna.  Það er skammarlegt út á við og slæm framkoma við ESB að halda því uppi á snakki af algjörri sýndarmennsku og bruðla þannig með fé skattborgaranna, sem í þokkabót er tekið að láni.  Sannast þar enn, að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms er siðlítil og ábyrgðarlaus.

Sigfusson, Steingrimur JÞað virðist bera brýna nauðsyn til að auka veg Alþingis og sjálfstæði gagnvart framkvæmdavaldinu.  Almennara má orða þetta svo, að gera þurfi sérstakar ráðstafanir í Stjórnarskrá til eflingar þrígreiningar ríkisvaldsins og til eflingar gagnkvæmu aðhaldi. 

Aukin valddreifing og gagnkvæmt aðhald allra þriggja greina ríkisvaldsins er nauðsyn í okkar fámenna þjóðfélagi, þar sem tilhneiging er til valdsamþjöppunar, klíkuskapar og annarra meinsemda lítils kunningjasamfélags.  Þá er alkunna, að staða forsetaembættisins er óljós og hálfutanveltu í fámennu íslenzku þjóðfélagi. 

Til mótvægis þessum veikleikum og áhættuþáttum mætti slá tvær flugur í einu höggi og sameina embætti forseta lýðveldisins og forseta Alþingis.  Forseti Alþingis yrði með öðrum orðum kosinn beint af þjóðinni samhliða Alþingiskosningum og mundi við það öðlast visst sjálfstæði frá stjórnmálaflokkunum, og hann mundi veita Alþingi forystu um aðhald að ríkisstjórn, þar sem ráðherrar gegndu ekki þingmennsku og hann hefði ekki atkvæðisrétt.  Til að lög öðluðust gildi yrði forsetinn að undirrita þau, og hann gæti synjað lögum staðfestingar þar til þjóðin hefði greitt um þau atkvæði.  Viðbótarleiðir til að framkalla þjóðaratkvæði væru tilmæli 20 þingmanna til forseta um slíkt, sem hann féllist á, eða undirskriftir 20 % atkvæðisbærra manna, sem skilmálalaust gætu framkallað þjóðaratkvæði. 

 

Til greina kemur að fækka þingmönnum um 14, að ráðherrarnir verði 7 og að komið yrði upp Stjórnlagadómstóli 7 manna.  Þangað yrði hægt að vísa til úrskurðar deilum um það, hvort samningar ríkisstjórnar, lög þingsins eða dómar Hæstaréttar brytu í bága við Stjórnarskrá landsins. Forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar mundu skipa þessa 7 dómara.  Í Hæstarétt mundi Forseti Alþingis skipa að fengnum tillögum innanríkisráðherra og Hæstaréttar.   

Nýkjörið stjórnlagaþing þarf að leggjast undir feld og velta fyrir sér fjölmörgum öðrum mikilvægum málum, er varða stjórnun ríkisins, kjördæmaskipan, kosningafyrirkomulag, og rétt minnihluta.  Eitt af þessu er að móta reglur um með hvaða hætti Stjórnarskrá verður breytt í framtíðinni.  Það má hugsa sér, að frumkvæðið gæti komið frá forseta Alþingis eða Alþingi, sem mundu senda tillögu Stjórnlagadómstóli til umsagnar og síðan þjóðinni til staðfestingar eða synjunar.   

Þorvaldur GylfasonEitt er þó víst, að núverandi Stjórnarskrá verður ekki breytt með öðrum reglum en þeim, sem hún sjálf mælir fyrir um.  Það er ótrúleg hegðun að hálfu þess stjórnlagaþingmanns, sem myndin hér til hliðar er af, að hreyta því í Alþingismenn, að þeir skuli senda tillögur stjórnlagaþings óbreyttar og umsvifalaust í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Það mega Alþingismenn ekki gera, því að Stjórnarskráin kveður á um, að tvö Alþingi þurfi til að samþykkja Stjórnarskrárbreytingu og Alþingiskosningar á milli.  Var þetta alveg ótrúlegt frumhlaup að hálfu prófessorsins og lofar ekki góðu um framhaldið. 

Þetta var með eindæmum hrokafull hegðun í ljósi þess, að líta má svo á, að meirihluti þjóðarinnar sé á móti því að setja þetta stjórnlagaþing á laggirnar nú, þar sem hann hunzaði kosningarnar.  Úr því að stjórnlagaþing er nú samt að taka til starfa ber að brýna fyrir því auðmýkt gagnvart því mikilvæga starfi, sem fulltrúarnir 25 eru nú að takast á herðar, og það verður að vona, að lýðskrum víki fyrir íhygli og vönduðum vinnubrögðum.  Niðurstaðan verði innviðum lýðveldisins til eflingar að beztu manna yfirsýn.

         

   


Gauf og fum

Illa er högum komið einnar þjóðar, þegar stjórnarháttum forystu ríkisins verður helzt lýst sem gaufi og fumi.  Einmitt þannig háttar þó til um hina voluðu vinstri stjórn, sem nú grefur sína eigin gröf.  Er þá vonlegt, að hún efni til stjórnlagaþings til að færa athyglina af sér og sínum 150 nefndum (1,6 nefnd á viku að meðaltali), en  nefndaskipanir í stað stefnumörkunar, skattahækkanir og daður við fullveldisframsal eru kennimörk ríkisstjórnarinnar.  Leiðir þar blindur haltan. 

Trúmenn á vinstri væng stjórnmálanna kynnu að spyrja, hvort seinlætið gæti verið birtingarmynd vandvirkni.  Það er nú öðru nær.  Önnur eins hrákasmíði við lagasetningu og  stjórnvaldsákvarðanir og fum við framkvæmdina hefur aldrei sézt áður hjá nokkurri ríkisstjórn hérlendis.  Hefur ríkisstjórnin verið gerð afturreka með hvern gjörninginn á fætur öðrum, fyrir dómstólum og eftirlitsstofnunum, og eru dæmin um hroðvirknina legíó.  Ríkisstjórnin nær ekki máli.

Nýjasta dæmið er héraðsdómur, sem sýndi fram á, að ársgömul lagasetning um ábyrgðarmenn lántakenda var gjörsamlega haldlaus, enda stríddi hún gegn Stjórnarskrá.

 

Írar á barmi gjaldþrots 2010Hvernig halda menn, að farið hefði fyrir Íslandi haustið 2008, þegar hrun varð á alþjóðlegum fjármálamörkuðum við gjaldþrot Lehman Brothers, hefði vinstri stjórn þá verið við völd ?  Því er fljótsvarað.  Landið væri gjaldþrota nú

Eitt þessu til sannindamerkis er gauf og fum núverandi stjórnvalda við allt, sem máli skiptir.  Hitt er, að langlíklegast er, að vinstri stjórn í Hruni hefði farið sömu leið og sú írska, þ.e. að láta ríkið ábyrgjast allar skuldbindingar bankanna.  Þá væru skuldir ríkisins nú 8000 milljörðum meiri en raunin er, sem útilokað væri fyrir þjóðina að rísa undir.  "Icesave-samningur" Svavars Gestssonar og Steingríms Jóhanns sýndi, að vinstri forystan, "nómenklatúran", svífst einskis í viðleitni sinni við að bregða á Íslendinga fátæktarhlekkjum alræðis öreiganna.

Afstaða vinstri stjórnarinnar til krafna erlendra kröfuhafa og samningar hennar um "Icesave" sýna fram á hug hennar til ríkisábyrgða á skuldbindingum einkabanka.  Ríkisstjórn félagshyggjunnar hefði í Hruni umsvifalaust flaðrað upp um framkvæmdastjórn ESB og fórnað Íslandi á altari Evrópuhugsjónar kratanna.  Við værum nú jafnvel öreigar með beiningastaf í Brüssel undir "verndarvæng" hrægammanna, sem Írar eru að fá smjörþefinn af nú. 

Málflutningur beturvitanna í hópi hagfræðinga hérlendra, ýmissa, og háskólaprófessora úr mörgum hornum, fyrir og eftir Hrun, sýnir ennfremur, að þeir hefðu kynt undir feigðarflaninu, kinnroðalaust, þó að leið þeirra leiddi augljóslega til glötunar sjálfstæðis. 

Moldvörpur höfðu þá ekki erindi sem erfiði, en skriðu fram úr fylgsnum sínum í búsáhaldabyltingunni.  Íslendingar mega þakka sínum sæla fyrir að hafa haustið 2008 búið við stjórnvöld, sem gátu tekið fjöldann allan af erfiðum ákvörðunum á skömmum tíma undir miklum þrýstingi; ákvarðanir, sem nú í írsku ljósi virðast, á heildina litið, hafa verið þær beztu á peningamálasviðnu fyrir hagsmuni íslenzku þjóðarinnar, sem völ var á.  Þar stóðu í stafni forsætisráðherra og formaður seðlabankastjórnar.  Þó að núverandi ríkisstjórn taki sér óendanlegan tíma, getur hún samt enga óvitlausa ákvörðun tekið.

Stjórnendur landsins á Hrunstímanum sættu eftir á óvæginni og ósvífinni gagnrýni, lygamyllur niðurrifsaflanna möluðu stanzlaust, og með makalausri skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis var höfuðið bitið af skömminni.  Nefndin hengdi sig í tittlingaskít, formsatriði um fundargerðir á ögurstundu, en horfði fram hjá því, að þjóðarafrek voru unnin við afar erfiðar aðstæður, nánast stríðsástand.  Þetta lýkst upp fyrir mönnum nú á dögum írska hrunsins, sem er miklu svakalegra en hið íslenzka, þó að stærð íslenzku bankanna hafi líklega verið meiri í hlutfalli við landsframleiðslu móðurlandsins.  Fyrir vikið sóttu félagshyggjuöflin hérlendis, blinduð af hatri lítilmenna "með skítlegt eðli", að fyrrverandi forsætisráðherra og eru nú búin að breyta þeirri lögsókn í réttarfarslegan óskapnað.  Grundvallarreglur nútíma réttarríkis eru fótum troðnar af einræðisöflum, sem hunza þrígreiningu ríkisvaldsins og eru landinu til mikillar minnkunar. Sómi landsins liggur við að hætta þessum skrípaleik stjórnmálalegra ofsókna á formi réttarhalda.

Auðvitað verður þessi mynd skýrari, þegar frammistaða Hrunsstjórnar og þáverandi Seðlabankastjórnar er borin saman við núverandi hörmung í Stjórnarráði Lísu í Undralandi og í Svörtuloftum skömmtunarstjórans skrýtna, þar sem axarsköpt, fáránleiki og doði ráða nú húsum.  Það er ýmislegt fleira en þessi samanburður stjórnvalda, sem bendir til, að dómur sögunnar verði Hrunsstjórninni hagfelldur, þegar öllu er á botninn hvolft, og auðvitað allt annar og betri en dómurinn yfir ríkisstjórnum Lísu í Undralandi.  Þær eru hver annarri lakari og munu verða taldar hinar verstu frá upphafi Heimastjórnar. Hvernig á annað að vera ? 

Þekktur hagfræðingur, Paul Krugman, hefur lýst því yfir, að íslenzka leiðin, úrlausn á neyðarástandi á kostnað erlendra lánadrottna, innlendum sparifjáreigendum í vil, hafi verið lögleg og hagfræðilega mun affarasælli en sú írska haustið 2008 gagnvart almenningi í þessum löndum, svo að hann er þar á sama báti og núverandi stjórnarandstæðingar á Íslandi.  Grunnur var þarna lagður að skjótri viðreisn hagkerfisins, en hin "norræna velferðarstjórn" klúðraði því gullna tækifæri. 

Með verstu ríkisstjórn sögunnar hérlendis nú í tæp 2 ár hafa ofangreindar staðreyndir Hrunsins legið í láginni þar til Írland féll.  Aðdáendur ESB og evru ættu nú að beina sjónum að örlögum Portúgals, sem verður næsta fórnardýr evrunnar. Það gengur hratt á neyðarsjóðinn, sem þýzkir skattborgarar voru látnir fjármagna að mestum hluta, og Evrópa logar nú frá Atlantshafi til Eyjahafs vegna evrunnar.  Pýreneaskaginn verður sviðin jörð og hagkerfi Ítalíu er helsjúkt.  Meira að segja heimaland Brüssel, Belgía, hefur sýkzt.  Evran, sem var gjald Þjóðverja fyrir endursameiningu lands síns, er ekki á vetur setjandi, og Deutsche Mark, dálæti þýzku þjóðarinnar, mun koma til skjalanna.  Stjórnmálahamur (evrugalli) Össurar, garmsins, og hans sálufélaga, mun fuðra upp í þeim hildarleik. Að Ragnarökum loknum verður spurt um framleiðslugetu og útflutningsverðmæti hagkerfis að baki myntar, en ekki froðu á borð við stærð fjármálakerfis eða fullnustu uppátækja eins og Maastrichtssamnings.  

Það er ekki nokkrum vafa undirorpið, að með borgaralega ríkisstjórn við völd undanfarin 2 ár mundum við nú búa við myndarlegan hagvöxt, þ.e. vaxandi landsframleiðslu, en ekki stöðugt minnkandi, eins og nýjustu gögn Hagstofunnar sýna.  Atvinnuleysi færi minnkandi og fólk væri á leið heim á ný (heim in das Reich, eins og sagt var) að taka þátt í uppbyggingu útflutningsdrifins framleiðslusamfélags, þar sem kraftur auðvaldsskipulagsins er virkjaður öllu vinnandi fólki til hagsbóta og tekjur hins opinbera fara vaxandi þrátt fyrir lækkandi skattheimtu.  Þetta verður að gerast til að losna undan þrúgandi klafa erlendra skulda ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja.

Til að svo verði þarf ekkert bóluhagkerfi, eins og bankarnir skópu hér og víðar í byrjun 21. aldarinnar, og óorði komu á alþjóðlegt markaðshagkerfi.  

Stjórnmálaflokkarnir tveir, sem nú ráða ríkisstjórn, eru fullkomlega ófærir um að leiða nokkurt mál til lykta með heilbrigðum og affarasælum hætti fyrir land og þjóð.  Ráðherrar þeirra vinna allt með öfugum klónum.  Hver og ein þeirra gjörð keyrir þjóðina dýpra ofan í svaðið, eins og nýjustu samdráttartölur Hagstofunnar vitna um.  Það er engin furða, þegar afturhaldssjónarmið ráða afstöðu til allra framfaramála og framkvæmda, og ráðherrar afturhaldsins, t.d. Svandís Svavarsdóttir, lýsa beinlínis yfir andstöðu sinni við hagvöxt.  Með slíkt fólk í forystu verður aldrei hagvöxtur, sem neinu nemur.  Slíkt fólk leiðir almenning í algerar ógöngur, og breyta leiktjöld, leikbrögð og látalæti, svo að ekki sé minnzt á mannalæti, þar engu um.     

   Sameiginleg mynt-glópska

 

   


Finnsku hrossin og markaðirnir

Á fjölum Þjóðleikhússins er nú finnska verkið, "Finnski hesturinn".  Þar greinir frá örlögum finnskrar bændafjölskyldu eftir inngöngu Finnlands í Evrópusambandið, ESB.  Er þar skemmst frá að segja, að allri framleiðslu á búinu hefur verið hætt, en gert er út á styrkveitingar ESB til finnskra bænda til aðgerðarleysis.  Þetta leiðir auðvitað til siðferðisupplausnar í rótgrónu bændasamfélagi og endar með gjaldþroti og því, að bændurnir flosna upp af jörðum sínum.

Kveður hér við töluvert annan tón en Finnar láta uppi opinberlega, en þó er þetta í samræmi við málflutning íslenzku bændasamtakanna, sem kynnt hafa sér stöðu landbúnaðar á Norðurlöndum út í hörgul.  Er einboðið, að innganga Íslands í ESB væri líkleg til að leiða svipuð örlög yfir íslenzka bændur og þá finnsku.  Slíkt viljum við alls ekki hafa, heldur kaupa innlendar landbúnaðarafurðir sem einhverja þá mestu gæðavöru á sviði matvæla, sem fáanleg er.  Með útflutningi til þjóða, sem komnar eru í álnir, en anna þörf sinni á sviði matvæla ekki lengur, má auka framleiðni og lækka framleiðslukostnað íslenzks landbúnaðar á hverja framleidda einingu.

Nei við ESBFeðgarnir í téðu leikverki reyna fyrir sér með hrossaprangi innan Evrópu, langt suður í álfu, með hrapallegum afleiðingum.  Nú hefur forstjóri Landsvirkjunar tjáð áhuga sinn á, að Landsvirkjun reyni fyrir sér með orkuviðskiptum á meginlandi Evrópu eða á Stóra-Bretlandi.  Hér verður sýnt fram á, að sæstrengur þangað yrði skelfilegt útrásarævintýri, þ.e. þetta er hugmynd, sem tiltölulega auðvelt er að reikna út, að hæglega getur orðið að martröð gríðarlegs taps, verði hún að veruleika.  Er ömurlegt til þess að vita, að Landsvirkjun skuli nú vera á braut spákaupmennsku með orkulindir landsins í stað þess að nýta þær með öruggum og traustum hætti innanlands til framleiðslu á útflutningsvörum eða gjaldeyrissparandi vörum til eflingar íslenzku athafnalífi og hagkerfi. 

Af þessu tilefni er rétt að rifja upp, það sem ritað var um þennan forstjóra í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 19.11.2010, "Draugurinn vakinn upp":  "Steingrímur J. er aftur tekinn til við að panta yfirlýsingar frá stórforstjórum, þ.á.m. frá ríkisforstjóranum í Landsvirkjun.  Sá setti ofan með undirlægjuhætti sínum.  Forstjórinn vildi, að þjóðin tæki á sig tugi eða hundruð milljarða, svo að hann gæti átt þægilegra spjall við erlenda bankamenn.  Yfirlæti stórforstjóra í garð íslensku þjóðarinnar hefur lítið breyst frá 2007.  Og kanski hafa slíkir ekki áttað sig á, að virðing hennar fyrir slíkum er minni en hún var." 

Hér er vitaskuld Icesave umræðuefnið, en það er margt fleira skrýtið í kýrhausnum.  Eitt er undirbúningur Landsvirkjunar að uppsetningu vindmylla á Íslandi, en hitt eru gælur forstjórans við hugmyndina um sæstreng til meginlands Evrópu eða Stóra-Bretlands.  Það skýtur skökku við, að ríkisfyrirtæki á Íslandi sé að eyða fé í andvana fæddar hugmyndir fyrir íslenzkt umhverfi.

Engin þjóð, með alla sína raforkuvinnslu úr afar samkeppnihæfum og sjálfbærum orkulindum, lætur sér til hugar koma að setja upp vindmyllur, sem eru svo óhagkvæmar, að orkan frá þeim er alls staðar niðurgreidd, þó að þar sé að stofni til um að ræða eldsneytisknúin raforkuver og þar af leiðandi hærra raforkuverð en á Íslandi.  Vindmyllur á Íslandi, þar sem raforkuverð er nú einna lægst í heiminum, mundu einvörðungu leiða til hækkunar raforkuverðs til notenda eða útgjalda úr ríkissjóði.  Rætt er um, að vindmyllur gætu sparað vatn í miðlunarlónum, en þá er hinn kosturinn ólíkt hagkvæmari og umhverfisvænni að auka miðlunargetu safnlónanna. Vindmyllur mundu verða til mikilla lýta, þær valda fugladauða og eru hávaðasamar í grennd.  Fyrir ferðamennskuna væru þær fráhrindandi, en ekki aðdráttarafl, eins og vatnsafls-og jarðvarmavirkjanir þó klárlega eru.

norned_hvdc-cable-work-3Á vegum Pöyry Management Consulting (Norway) AS og Thema Consulting Group í Noregi hefur verið gerð mjög ítarleg skýrsla um viðskipti á milli norræna og evrópska raforkumarkaðarins á meginlandinu, sem heitir: Challenges for Nordic Power: How to handle the renewable electricity surplus. 

Þar eru leidd rök að því, að 20-20-20 markmið ESB, þ.e. lækkun orkunotkunar um 20 %, aukning orkunýtni um 20 % og minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda vegna raforkuvinnslu um 20 %, allt á árinu 2020, muni leiða til virkjunarátaks á Norðurlöndunum og umframorku þar af þeim sökum um allt að 46 TWh/a, sem er 2,7 sinnum núverandi raforkuvinnsla Íslands.  Verðið, sem skýrsluhöfundar telja, að fengist á hinum evrópska markaði meginlandsins árið 2020 er afar breytilegt eða á bilinu 29 evrur/MWh - 76 evrur/MWh, allt eftir árferði. 

Við þessar markaðsaðstæður mundi Landsvirkjun þurfa að keppa, ef hún sendir orku um sæstreng niður til Evrópu.  Sæstrengur er feiknadýr, á öðrum enda hans þarf að reisa afriðlavirki og á hinum áriðlavirki.  Auk virkjana að afli á borð við Kárahnjúkavirkjun þarf að styrkja stofnkerfið, þ.e. meginflutningskerfi raforkunnar, umtalsvert.  Gríðarleg orkutöp, í heild e.t.v. um 20 %, verða í öllum þessum mannvirkjum.  Bilunum má búast við í búnaði, sem er í raun í þróun og á mörkum tæknigetunnar.  Af öllum þessum ástæðum mundi Landsvirkjun þurfa 130 - 150 evrur/MWh, eða tvöfalt til fimmfalt verðið, sem í boði verður. 

Landsvirkjun hefur gert ofurbjartsýnilega frumkostnaðaráætlun um sæstreng til Skotlands, 1170 km að lengd.  Við gerð þessarar áætlunar er teflt á tæpasta vað, reiknað með 700 MW flutningsgetu og orkusölu 5200 GWh/a, sem jafngildir 7430 klst (85 %) nýtingartíma á ári, töpum í streng 6 %, strengendingu 30 árum og raforkuverði 60 EUR/MWh.  Telja verður hæpið að reisa arðsemiútreikninga á rauðlituðu tölunum.  Jafnvel að þeim forsendum gefnum fær höfundur þessa pistils, að verð raforkunnar við móttökuenda verði að ná 130 EUR/MWh.  Græna talan hér að ofan, sem Landsvirkjun gefur sér sem fáanlegt verð, er alveg út í hött árið 2020 m.v. niðurstöður téðrar norsku skýrslu um fáanlegt orkuverð á meginlandinu 2020, sem er þó mun hærra en verðlag orku á Skotlandi. 

Það er erfiðleikum háð að senda orkuna áfram suður frá Skotlandi vegna takmarkaðrar flutningsgetu.  Landsvirkjun virðist ekki hafa reiknað með neinum kostnaði við styrkingu flutningskerfisins á Skotlandi vegna þessara 700 MW.  Einfaldir útreikningar sýna, að enginn viðskiptalegur grundvöllur er fyrir sæstreng frá Íslandi, hvorki til Noregs, Skotlands né meginlands Evrópu.  Norska skýrslan gerir ráð fyrir orkuverði 60-89 EUR/MWh á meginlandinu árið 2030, og það er langt undir lágmarksverðinu, sem Landsvirkjun þyrfti. Landsvirkjun undir nýrri stjórn virðist ekki þekkja sinn vitjunartíma.  

norned_hvdc_europeRíkisfyrirtæki á borð við Landsvirkjun á aðeins að fást við þjóðhagslega hagkvæm verkefni.  Það gefur t.d. auga leið, að miklu hagkvæmara er að framleiða ál á Íslandi og að flytja það með skipi til meginlandsins en að flytja orku um streng til Evrópu og framleiða þar ál með "sömu" orku.  Ástæðan er sú, að flutningskostnaður raforku um sæstreng er margfaldur á við flutningskostnað áls með skipi. 

Hér hefur verið sýnt fram á, að stórkostlegt þjóðhagslegt tap yrði af raforkuútflutningi um sæstreng, en að sama skapi er verulegur þjóðhagslegur gróði af sölu raforku til álvera og af starfsemi þessara sömu álvera á Íslandi.  Ástæðan er sú, að féð, sem eftir verður af veltu álvers innanlands, nemur a.m.k. tvöföldun þess fjár, sem einvörðungu fæst fyrir orkuna.  Frá sjónarmiði samfélagshagkvæmni er þess vegna einboðið, að Landsvirkjun á að einhenda sér í að virkja og selja meiri orku til álvera, og landsmenn að styrkja viðskiptastöðu sína gagnvart Evrópu með því að selja þangað meira af áli í takti við samdrátt álframleiðslu annars staðar í Evrópu vegna skorts þar á sjálfbærum og hagkvæmum orkulindum. 

Landsvirkjun virðist nú um stundir vera sama markinu brennd og ríkisstjórnin.  Forgangsröðunin er óskiljanleg og áherzlurnar virðast vera á gæluverkefnum, sem eiga hvergi annars staðar heima en í ruslafötunni.

 

 

 

 

 

 

 

 

       


Þrákelkni, þýlyndi og þekkingarskortur

Það furðufyrirbæri Íslandssögunnar, sem kallar sig nú Norræna velferðarstjórn, er ekki af baki dottið við að ganga fram af landslýð.  Nú er það að verða uppvíst að þvílíkri þráhyggju og undirferli, að með ólíkindum má telja, jafnvel þó að siðleysingjar eigi í hlut.  Í fullkomnu umboðsleysi rembist fjármálaráðherranefnan við samninga við erlend ríki á forsendum, sem íslenzka þjóðin hafnaði rækilega í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. marz 2010. 

Á tyllidögum kallar þessi vinstri sveit fordæmdra sig stundum Fyrstu vinstri stjórnina á Íslandi, og er það einkar lærdómsríkt fyrir alþýðu manna að komast að því í eitt skipti fyrir öll, hvers konar óáran fylgir slíku fyrirbæri.  Aldrei aftur vinstri stjórn !

Það ætlar sem sagt að verða landsmönnum dýrkeypt lexía að kalla félagshyggjuöflin til valda.  Þjóðin gat þó ekki vitað fyrirfram, hvað slíkt bæri í skauti sér. Hún gat ekki vitað það, að félagshyggjuöflin væru algerlega óstarfhæf saman í ríkisstjórn.  Nú veit hún það, og vonandi verður dregin af þessari reynslu rétt ályktun næstu tvo áratugina eða svo.  Loddarar og lýðskrumarar 'félagshyggjunnar' eru landslýð óskaplega dýrir á fóðrum.  

Þar er um að ræða hundruði milljarða króna í glötuðum tækifærum, bæði í erlendum fjárfestingum og innlendum, sem kyrktar hafa verið af þessari vinstri stjórn, þannig að í hagkerfinu hefur ríkt stöðugur samdráttur frá Hruni, og engar horfur á hagvexti með sömu stjórnarherra hangandi við stjórnvölinn.   Verstar eru þó þær raunir og ógæfa, sem ríkisstjórn vinstri aflanna hefur leitt yfir fjölda manns, algerlega að þarflausu, með atvinnuleysisböli, "skjaldborg um heimilin", sem að engu gagni hefur komið, og skemmdarverk á heilbrigðisgeiranum með fjandskap við einkaframtak, kaldrifjaðri forsjárhyggju og þekkingarleysi á hlutverki heilbrigðisþjónustu fyrir dreifbýli landsins. Fordómarnir tröllríða fávísinni.

Ríkisstjórnin er svo heillum horfin, að öllum hennar verkum má lýsa með einhverju þeirra orða, sem fyrirsögn þessa pistils hefur að geyma, eða jafnvel öllum í senn.

Öll orðin, og miklu fleiri einkunnir, eiga við hið dæmalausa sukk og svínarí ríkisstjórnarinnar, t.d. það framferði að leggja sig í líma við að skuldbinda íslenzka skattborgara til að greiða erlendum innlánshöfum í Landsbankanum, gamla, sem nemur um MISK 1 (einni milljón króna) á hverja launþegafjölskyldu í landinu.  Samt höfðu þessar sömu fjölskyldur, og allar hinar, hafnað ábyrgð á þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu, og þess vegna er ríkisstjórnin umboðslaus að pukrast við þessi myrkraverk, sem hún hefur aldrei ráðið við.  Gumar lítilla sanda og lítilla sæva verða þjóðhættulegir, þegar þeir fara að fást við erlenda menn.  Sukkurum er ekki stætt á, eina ferðina enn, að bjóða upp á þessa moðsuðu sína. 

20100923rikisstjornadstandasigAf fréttum að dæma er verið að semja um skuldaklafa um háls íslenzkra skattborgara á svipuðum forsendum og landsmenn höfnuðu 6 .marz 2010.  Breytingin, sem orðið hefur, er einvörðungu meiri heimtur í þrotabú Landsbankans en áður var búizt við og lægri vaxtaprósenta núna, enda eru t.d. seðlabankavextir víða nú undir 1,0 %.  Hvers vegna í ósköpunum á að láta íslenzka ríkið borga mun hærri vexti en þetta af fé, sem hollenzka og brezka ríkisstjórnin lögðu fram til uppgreiðslu innlána án þess að íslenzka ríkið færi fram á slíkt, svo að vitað sé ? Þessar vaxtagreiðslur eru fáránlegar og alger afleikur í samningaviðræðum að fallast á slíkt.  

Eftir höfnun forseta lýðveldisins og þjóðarinnar er einungis unnt að ganga frá þessu máli lagalega við andstæðinga okkar, þ.e. fyrir dómstólum, eða á alveg nýjum forsendum við samningaborðið, t.d. vaxtaleysi og skiptri ábyrgð þjóðanna þriggja, þar sem tekið er tillit til jöfnunar byrða á skattborgara landanna þriggja.  

20100930kosningarTil hvers eru refirnir þá skornir ?  Þar kemur að þýlyndinu í fyrirsögninni.  Vitað er, að samningar, að skapi Breta og Hollendinga, eru skilyrði inngöngu í Evrópusambandið, ESB.  Það er verið að selja afkomu næstu kynslóða Íslands fyrir baunadisk í Brüssel, sem fólginn er í forréttindum embættismanna, góðum stöðum í Brüssel og miklum hlunnindum, og að tryggja forræðishyggjunni, sem jafnaðarstefnan snýst um, sess á Íslandi.  Það hefur alltaf verið skoðun íslenzkra jafnaðarmanna, að íslenzka ríkið stæðist ekki sem sjálfstæð eining, heldur yrði að vera hluti af stærri heild.  Þetta kom t.d. í ljós við lýðveldisstofnunina og kemur hvað eftir annað upp á yfirborðið. Jafnaðarmenn eru afætur í eðli sínu. 

heimssyn1 Það er að koma í ljós, að málflutningur efasemdarmanna og andstæðinga aðildar Íslands að ESB á undan og eftir 16. júlí 2009, er Alþingismenn ýmsir voru beittir annarlegum þrýstingi til að samþykkja umsókn, átti við full rök að styðjast.  Það, sem í boði er í Brüssel, er ESB, með kostum þess og göllum og án nokkurra varanlegra undanþága.  Sérréttir eru einfaldlega ekki á þessum matseðli, og að velja þennan matseðil mun leiða til alvarlegra meltingatruflana þjóðarlíkamans.  

Að ráðið til að tryggja sjálfstæðið sé að fórna því eru landsfjandsamleg öfugmæli.  Í hverju dæminu á fætur öðru kemur í ljós, að við höfum mun meiri áhrif til eflingar eiginn hags utan en innan við "Festung Europa".  Má þar nefna makríl, síld, hval, Icesave, skatta til ESB, viðskiptasamninga við Kínverja o.fl., svo að ekki sé minnzt á stórveldisdraumana með stofnun Evrópuhers með herskyldu til að berja ungviðið undir hollustu við Evrópufánann. 

Ekki er unnt að skilja við ESB án þess að nefna evruna.  Hún á nú í svo miklum þrengingum, að forseti leiðtogaráðsins, Herman van Rompuy, hefur opinberlega nú í viku 46/2010, séð ástæðu til að lýsa því yfir, að framtíð ESB sé stefnt í hættu, ef evran fellur.  Hvort Þýzkaland muni berjast fyrir evruna, er alls óvíst um, eins og nú er komið málum.  Þjóðverjar eru tilbúnir með Deutsche Mark, ef evran sekkur.  Þýzkaland ætlar ekki að fórna sér endalaust fyrir önnur lönd Evrópu með slaka hagstjórn.  Þeir, sem allt vilja í sölurnar leggja fyrir öflugan gjaldmiðil, ættu að sækja um aðild að Sambandslýðveldinu Þýzkalandi.  

Írar eru að falli komnir vegna evrunnar, Grikkir á framfæri ESB vegna hennar, Portúgalir afar tæpir og Spánverjar og Ítalir kunna að fylgja í kjölfarið.  Mynt án ríkisvalds og ríkissjóðs að bakhjarli virðist ekki ganga upp. Fyrir íslenzka hagkerfið er þá ekki eftir neinu að slæðast með inngöngu.  Við yrðum alltaf minnipokamenn innan þessa ríkjasambands eða sambandsríkis.  Auðlindastjórnun yrði í uppnámi, hvað sem belgingi kerfiskrata líður.  Við mundum ekki hafa bolmagn til að standa gegn þrýstingi annarra ESB ríkja, ef við höfnum innanborðs.  Slíkt bolmagn höfum við hins vegar nú í krafti fullveldis.  Að deila því með öðrum jafngildir óhjákvæmilega útvötnun á áhrifum okkar sjálfra og höftum á svigrúmi okkar.  Við yrðum sem hross í hafti algerlega upp á náð og miskunn annarra ESB-ríkja komin. 

Loddarar ríkisstjórnarinnar eru að vinna þjóðinni stórtjón með bjölluati í Brüssel.  Það býr engin alvara að baki umsókninni vegna klofnings ríkisstjórnarinnar.  Forkólfar og samningamenn ESB eru hafðir að ginningarfíflum, og þetta mun valda okkur miklum álitshnekki.  Því fyrr sem snúið er af þessari óheillabraut, þeim mun betra.  Ríkisstjórninni ber að láta fullveldi landsins njóta vafans.  Þar sem þess sjást engin merki, ber Alþingi nú þegar á haustþingi að kippa í taumana, stöðva rándýrt aðlögunarferlið og vísa þessu ólánsmáli til úrskurðar þjóðarinnar.

Myndin hér að neðan ber með sér staðreyndir, sem höfundum evrunnar kom ekki til hugar.  Mismunandi vexti á langtíma skuldabréfum ríkissjóða evru-landaÞetta er að ganga af evrunni dauðri og ætti að sýna Íslendingum svart á hvítu, að hérlendis gætu hæglega ríkt háir vextir eftir upptöku evru.

Ríkisskuldabréfavextir 2010

 

    


Frá Rentukammeri til Ráðstjórnar

Verstu hrakspár um vinstri flokkana við stjórnvöl þjóðarskútunnar íslenzku hafa nú rætzt.  Þessi ríkisstjórn gæti verið sú lakasta frá upphafi Heimastjórnar 1904 og jafnvel mun lengra aftur, mælt í þróun landsframleiðslu á hennar valdaferli miðað við nágrannaþjóðir okkar.  Þetta er mælikvarði, sem segir til um, hvort hagur landsmanna versnar eða batnar miðað við aðrar þjóðir.  Skemmst er frá því að segja, að nýbirt gögn Hagstofunnar sýna, að hagkerfi landsins stefnir í "alkul", og skyldi engan undra eftir aðfarir afturhaldsins. Ferill ríkisstjórnarinnar er ein samfelld hrakfallasaga.

Vinnubrögðin eru enda afleit, sinnuleysið, doðinn og döngunarleysið við viðreisn efnahagslífsins er hræðilegt.  Dæmin um spillta og myrka stjórnarhætti eru legíó og spanna bankasýslið, skipan í stjórnir á vegum ríkisins, ráðningar í ráðuneyti og stofnanir, ólýðræðislegar ákvarðanir um stórmál eins og fullveldisframsal til framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs ESB (Evrópusambandsins) auk Evrópuþingsins og Evrópudómstólsins og nú síðast flausturslegt frumvarp um Stjórnarráð Íslands. 

Þá má ekki gleyma hörmulegri hagsmunagæzlu í Icesave-málinu og síðan handjárnaðri lögfestingu landráðasamnings um ríkisábyrgð á Tryggingasjóði bankastofnana, sem þjóðin rifti glæsilega í þjóðaratkvæðagreiðslu að undirlagi forseta lýðveldisins þann 6. marz 2010.

Sönnunin um getuleysi vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við viðreisn efnahagslífsins kom nú í byrjun september 2010 við birtingu Hagstofunnar á þróun VLF (verg landsframleiðsla) á 2. ársfjórðungi 2010.  Fjármálaráðherra hafði gumað af, og forsætisráðherra étið upp eftir honum, að botni efnahagslægðarinnar væri náð á Íslandi. Það reyndust innantómar fullyrðingar, sem sýna, að hvorugt þeirra skötuhjúanna ber hið minnsta skynbragð á efnahagsmál landsins.  Hvorugt er til nokkurs nýtt á þessu sviði, enda vill hvorugt þeirra nokkuð af lögmálum hagkerfis vita. Þau lifa í sjálfsblekkingu forræðishyggjunnar, sem reist er á löngu afsönnuðum villukenningum um handstýringu hagkerfisins.

Hér skal setja fram þá kenningu, að lélegri árangur við hagstjórn landsins hafi enginn ráðherra náð, sem vélað hefur um fjármál landsins, síðan á dögum Rentukammersins í Kaupmannahöfn forðum daga en núverandi fjármálaráðherra. Það er reyndar athugunarefni hagspekinga, hvort nokkru sinni í sögu landsins hafi orðið jafnmikill samdráttur 7 ársfjórðunga í röð síðan í Móðuharðindunum 1783-1785. 

Má með sanni segja, að vinstri stjórnin sé völd að móðuharðindum af mannavöldum, því að í flestum löndum er hagvöxtur 2010 dágóður, en hér hefur ríkt samfelldur samdráttur síðan á 4. ársfjórðungi 2008.

atvinnuleysi2010

Þegar samsetning samdráttar á 2. fjórðungi 2010, sem nam 3,1 % frá 1. fjórðungi, er skoðaður, verður deginum ljósara, að um heimatilbúinn vanda ráðstjórnarinnar er að ræða; kreppan er bein afleiðing stjórnarstefnunnar, aðgerða og aðgerðaleysis, og er geigvænlega afleiðingu afturhaldsstefnunnar að sjá á grafinu um hlutfall atvinnulausra af fólki á íslenzka vinnumarkaðinum 2007-2010 hér að ofan.  

  • einkaneyzla dróst saman um 3,1 %.  Ástæðurnar eru m.a. hækkanir Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, á bæði tekjutengdum sköttum og neyzlusköttum, og minnkandi framboð atvinnu, t.d. vegna atvinnufjandsamlegrar skattastefnu og fjandsemi Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, í garð atvinnusköpunar, auk vingulsháttar iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, sjá skuggalega þróun atvinnuleysis á grafinu hér að ofan.
  • fjárfesting dróst saman um 4,7 %.  Ástæðurnar eru moldvörpustarfsemi, sem ríkisstjórnin hefur, illu heilli, rekið gegn íslenzka sjávarútveginum.  Ríkisstjórnin hefur gert sig seka um að grafa undan undirstöðuatvinnuvegi landsins með þeim afleiðingum, að svo mikil óvissa hefur skapazt um framtíð greinarinnar, að stjórnendur og eigendur treysta sér ekki til að fjárfesta.  Þetta verður að flokka sem skemmdarverkastarfsemi ráðstjórnarinnar gegn einkaframtakinu, en hún vill þjóðnýta greinina, koma hér á bæjarútgerðum að nýju og niðurgreiða greinina að hætti ESB.  Ríkisstjórnin áttar sig ekki á, að útgerðirnar eru að afla hágæða matvæla, sem afhenda verður samkvæmt pöntun á tilsettum tíma á tilteknum stað.  Ferlið er í raun að verða við kröfum viðskiptavina og krefst stöðugleika, ef ekki á illa að fara, og er miklu flóknara en einvörðungu að draga bein úr sjó, þó að rétt vinnubrögð við það krefjist líka mikillar þekkingar. Þá hefur afturhaldið í Stjórnarráðinu lagt stein í götu erlendra fjárfesta eftir mætti, þvælzt fyrir og stórskaðað trúverðugleika íslenzkra viðsemjenda með framkomu sinni, t.d. í skattamálum, hvort sem um ræðir rafskatt, tekjuskatt  eða virðisaukaskatt.
  • samneyzla jókst hins vegar um 1,0 %.  Það er algert hneyksli að auka samneyzluna með erlendum lánum, eins og tvímælalaust á sér stað með dúndrandi halla á ríkissjóði.  Ríkisstjórnarviðrinið gerir nákvæmlega ekkert af viti.  Það tefur viðreisnina, og mun gera hana enn sársaukafyllri. Fjármálaráðherra reynir samt að blekkja Alþingi með fullyrðingum um, nýir skattar virki lítt íþyngjandi.
  • útflutningsverðmætin jukust um 2,8 % að raunvirði, og innflutningurinn minnkaði um 5,1 %.  Ytri skilyrði eru mjög hagstæð, en ríkisstjórnin ræður engan veginn við viðfangsefnin, þ.e.a.s. hún vinnur allt með öfugum klónum, fer vitlaust að öllu, sem hún kemur nálægt, stundar snarvitlausa forgangsröðun viðfangsefna; er í fáum orðum sagt óhæf til að stjórna landinu. 

 

VSITAL~1Myndin hér til hægri sýnir verðbólguþróunina á Íslandi sem 12 mánaða meðaltal 2007-2010.  Árið 2009 varð verðbólguskot vegna hækkandi innflutningsverðs í kjölfar hruns fjármálamarkaðarins, sem leiddi til helmingunar á verðgildi gjaldmiðilsins, og árið 2010 annað minna vegna skattahækkana.  Ríkisstjórninni varð ekkert ágengt við að styrkja krónuna í sessi 2009, og lánshæfi landsins er nú í ruslflokki.  Það er fyrst árið 2010, að krónan er tekin að braggast vegna mjög hagstæðra vöruskipta við útlönd og mikilla erlendra lántaka Seðlabanka fyrir brösuglega milligöngu AGS, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, sem gefur ríkisstjórninni langt nef hvað eftir annað.  Þrátt fyrir, að öll þessi upptalning hagstærða bendi til hættu á verðhjöðnun, sem er illvígt kreppuástand, viðheldur Seðlabankinn tiltölulega háum vöxtum á sama tíma og seðlabankavextir eru víða um og undir 1 %.  Seðlabankinn vantreystir augsýnilega ríkisstjórninni til að gera nauðsynlega uppstokkun á ríkisfjármálunum.  

"Landið tekur að rísa"  er yfirskrift greinaflokks hugstola fjármálaráðherra um efnahagsþróunina á Íslandi, sem út kom skömmu áður en Hagstofan birti hagtölurnar, sem hér hefur verið vitnað til.  Innihaldið reyndust eintómir hugarórar hrakfallabálks, sem ræður engan veginn við viðfangsefni sín í fjármálaráðuneytinu, og mun aldrei gera.  Á meðan hann er þar verður enginn viðsnúningur. Hann er kolfallinn á prófinu og hlýtur lægstu einkunn, sem nokkur maður, sem vélað hefur um fjármál íslenzka ríkiskassans, hefur hlotið, og eru rentukammersmenn Danakóngs þá meðtaldir.     

 

  

    

 


Asni klyfjaður gulli

Evrópusambandið (ESB) hefur nú verið þanið yfir alla Evrópu allt austur að Hvíta-Rússlandi og Úkraínu. Enginn veit, hvernig ESB mun þróast, enda er það í skipulagslegum og fjárhagslegum ólgusjó sundurlyndis, en hitt er þó vitað, að róið er að því öllum árum í Þýzkalandi og í Frakklandi að þróa það, a.m.k. evrusvæðið, í átt að sambandsríki með ein fjárlög að baki evrunni.  Sambandi ríkjanna yrði þá háttað með svipuðum hætti og tíðkast innan Sambandsríkisins Þýzkalands. Í Sambandsríkinu tíðkast ekki neitunarvald. Þetta sjónarmið er skiljanlegt að hálfu meginlandsríkja, en hagsmunir smáríkis með ráð yfir gríðarlegu hafsvæði í Norður-Evrópu fara ekki saman við hagsmuni meginlandsins.

Nú hefur þetta verðandi stórríki litið til norðurs.  Þar eru feikna hafflæmi og mikil auðævi í hafi og undir hafsbotni, og menn vænta vaxandi siglinga, þar sem nú er heimskautsís. Síðasta sókn ESB til norðurs stöðvaðist árið 1994, þegar norska þjóðin felldi aðildarskilmála, sem Stórþingið þó var hliðhollt. Í kjölfarið (1995) var aðlögunarferli innleitt fyrir umsækjendur, og felast samningaviðræður síðan í að aðlaga stjórnkerfi umsóknarríkis að ESB-kerfinu.

Eftir hrun fjármálakerfisins, þar sem íslenzkir ævintýramenn léku ótrúleg hlutverk, lítur ríkjasamband í vanda til norðvesturs og ætlar sér að gleypa smáríki í einum munnbita og gera olíuríkinu Noregi tilveruna þungbæra utan við. Forkólfar ESB vita sem er, að lítið er um varnir á Íslandi um þessar mundir og hagsmunagæzla fyrir hönd landsmanna öll í skötulíki. Ríkisstjórn landsins er siðlítil og þröngsýn, og ekki reiðir hún vitið í þverpokum.   

Samfylkingin þvingaði með offorsi fram heimild Alþingis til umsóknar um aðild að ESB 16.07.2009.  Þessa heimild notuðu forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann síðan til að semja eitthvert ómerkilegasta plagg, sem sézt hefur í Íslandssögunni.  Það var svo einfeldningslegt, snubbótt og skilyrðalaust, að hefði ráðherraráðið einfaldlega svarað með jái á þeim grundvelli, að Ísland væri þegar í EES, þá hefðu Íslendingar orðið aðilar strax.  Svona fortakslaus fleðulæti sýndu forkólfar Samfylkingar væntanlegu stórveldi í júlí 2009. Verður það talið á meðal verstu glappaskota lýðveldisins. 

Fyrir löngu er komið í ljós, að þessi gösslaragangur mun valda okkur stórtjóni.  Ríkisstjórnin er klofin í málinu, og minnihluti á þjóðþinginu styður nú umsóknarferli, sem hefur tekið allt aðra stefnu en lagt var upp með 16. júlí 2009.  Þjóðin kærir sig ekki um að verða útnári stórríkis Evrópu, svipt forræði yfir eigin lögsögu og áhrifalaus við ákvarðanir um eigin hagsmuni eða stefnumótun stórríkis um hermál og hvaðeina.  Sviksemi og blekkingaleikur einkenna þetta umsóknarferli, sem lagt var upp með sem könnun á, hvað byðist. Verður þetta talin ein versta lágkúra Íslandssögunnar.

Furstar ESB láta ekki að sér hæða, heldur ætla þeir að brjóta andstöðu þjóðarinnar á bak aftur með því að bera fé á landsmenn.  Stofna á skrifstofu að hálfu ríkisins til að taka við fénu og dreifa því til upplýsingaherferðar og aðlögunar hins opinbera að reglum og hefðum skrifræðisbáknsins í Brüssel og annars staðar á snærum ESB. 

Það er ljóst, að ríkisstjórn, sem samþykkir þvílíkt löngu áður en samningaviðræðurnar eru leiddar til lykta, hefur glatað sómatilfinningu sinni.  Ríkisstjórnin í Reykjavík, ringluð, vingulsleg og sem í vímu, virðist vera herfilega misnotuð af biskupinum, stækkunarstjóranum í Brüssel.  Nú á við að taka sér í munn orð Oddaverjans, Jóns Loftssonar, um gagnrýni Niðaróssbiskups á líferni höfðingja 12. aldar Íslands: "Heyra má ek erkibiskups boðskap, en ráðinn em ek í að hafa hann að engu." 

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, dagsettu 27.08.2010, er utanríkisráðherranum, Össuri Skarphéðinssyni, líkt við prest, sem heldur minningarræðu yfir ættingjum og vinum hins framliðna án þess að hafa hirt um að kynna sér æviferil viðkomandi.  Þessi samlíking varpar ágætu ljósi á þekkingarleysi og óraunsæi skötuhjúanna Jóhönnu, sem er ólæs á regluverk ESB, og Össurar, sem talar sem trúmaður með glýju í augum, blindaður af trú sinni. 

Við ofangreinda líkingu höfundar Reykjavíkurbréfs má bæta við sögu, sannri.  Ættingjar hlýddu á minningarræðu prests nokkurs um framliðna frænku sína.  Þar kom ræðunni, að viðstaddir litu hver á annan í undrun yfir því, sem þeir heyrðu.  Að ræðunni lokinni stungu þeir saman nefjum um innihaldið, en enginn kannaðist við að hafa gaukað fram komnum upplýsingum að presti.  Afréðu þau loks að spyrja prestinn, hver hefði verið heimildarmaður hans um tiltekið efni.  "Elskurnar mínar, ég þurfti engan slíkan heimildarmann.  Ég var í beinu sambandi við þá framliðnu." 

Össur Skarphéðinsson er í hlutverki þessa prests gagnvart þjóðinni, þegar hann lýsir fyrir henni ESB og aðildarviðræðunum. Hann heldur því fram, að unnt sé að sveigja ESB til að hleypa Íslendingum inn með alls kyns undanþágur frá sáttmálum og lögum ESB. 

Við skulum gefa okkur, að ESB sé svo mikið í mun að ná Íslandi inn, að þeir samþykki t.d. óskertan yfirráðarétt Íslendinga yfir fiskveiðilögsögunni.  Þá mun sannast, að allt orkar tvímælis, þá gert er.  Ágreiningur, sem einhver fiskveiðiþjóðin mun gera við Íslendinga vegna veiða innan íslenzku lögsögunnar, verður lagður fyrir Evrópudómstólinn.  Fordæmi sýna, að hann ógildir hiklaust samninga, ef þeir stríða gegn grundvallarreglum ESB.  Þannig er ljóst, að áhættan við inngöngu er allt of mikil til að taka hana.  

Sumir tala um, að þeir vilji taka "upplýsta ákvörðun" um það, hvort Ísland gangi í ESB eða haldi áfram fullveldi sínu með kostum þess og göllum.  Til að unnt verði að taka þess konar ákvörðun, verði að ljúka vegferð þeirri, sem téð skötuhjú hófu í júlí árið 2009.  Þetta fólk gengur að því sem vísu, að allar nauðsynlegar upplýsingar verði þá fyrir hendi til að taka rétta ákvörðun.  Í raunveruleikanum er þetta aldrei svo.  Einhver áhætta fylgir öllum ákvörðunum, og var tilgreint dæmi um eina slíka hér að ofan, þar sem eru úrskurðir Evrópudómstólsins.

Þessu aðildarmáli fylgir gífurleg áhætta, því að afleiðingar aðildar fyrir hag landsmanna geta orðið hrapallegar.  Það er rétt, að við eigum ríkra hagsmuna að gæta í Evrópu.  Hins vegar hefur sambandið við Evrópu verið ærið stormasamt.  Hefur t.d. verið deilt um þorsk, skuldbindingar íslenzka ríkisins vegna fallins einkabanka og nú síðast makríl.  Síðast nefnda deiluefnið er afar lærdómsríkt.  Breytingar í hafinu hafa leitt til mikilla makrílgangna inn í íslenzku lögsöguna.  Sem fullvalda þjóð getum við nýtt þessa nýju tegund að vild innan lögsögunnar.  Jafnljóst er, að ESB vill meina okkur það og mundi vafalaust neyta aflsmunar, ef Ísland væri innan "Festung Europa".  

Það má nærri geta, að við hrossakaup innan ESB yrðu hagsmunir smáþjóðar úti í reginhafi að láta í minni pokann gagnvart ofurefli fjölmennis í auðlindanauð.  Hin rökrétta ályktun er sú, að umsóknin sé leikur að eldi, hún hafi í för með sér sóun mikilla fjármuna og tímasóun í stjórnkerfi ríkisins. Síðast en ekki sízt rýrir umsóknin trúverðugleika landsmanna erlendis, þar sem hugur fylgdi í raun aldrei máli, og viðsemjendum okkar mun finnast þeir hafi verið dregnir á asnaeyrunum, því að um aðild að ESB sækja einvörðungu þeir, sem tilbúnir eru til að taka upp lög og reglur sambandsins í heild sinni á ákveðnu árabili.  Aukaaðild er ekki til.   

thid_erud_einangradir_ofgamenn586px         


Skæruliðinn

Enn hefur þvergirðingslegur umhverfisráðherra lagt sig þversum á veg framfara.  Hún virðist að þessu sinni hafa óttazt, að Norðlingaölduveita yrði, samkvæmt Rammaáætlun, dæmdur fýsilegur orkunýtingarkostur vegna tiltölulega lítilla umhverfisáhrifa af 5 km2 lóni sunnan marka friðlandsins, sem Héraðsdómur dæmdi árið 2006, að gilda skyldu, og vegna afar ódýrrar viðbótar orku.  Að líða þessa hagkvæmu nýju orkuvinnslu hefði verið algert stílbrot sannkallaðs afturhalds.

Hér er um afar hagkvæman og umhverfisvænan virkjunarkost að ræða, því að fjárfesting er lítil, en nokkur rekstrarkostnaður mun af hljótast vegna nauðsynlegrar tímabundinnar dælingar á vatni upp í Þórisvatn.  Þar með eykst vinnslugeta Vatnsfells, Sigöldu, Hrauneyja og Búðarháls, þegar sú virkjun kemst í notkun, en þungt mun vera fyrir fæti um fjármögnun hennar, þó að engin áhætta fylgi fjármögnun virkjunarinnar, þar sem langtíma orkusölusamningur er þegar fyrir hendi, sem greiða mun virkjunina upp á skömmum tíma m.v. endingartíma hennar.    

Sigalda"Röksemdir" ráðherrans eru honum einum líkar,  fáránlega firrtar og fullkomlega óboðlegar fullorðnu fólki, að ekki sé nú minnzt á þá í þessum hópi, sem misst hafa vinnu sína vegna athafnaleysis, skattahækkana og sérvizku vinstri stjórnarinnar, sem lengt hefur stórlega í kreppunni með kolrangri efnahagsstefnu.  

Forystumenn vinstri-grænna framfylgja af algeru purkunarleysi í skjóli Samfylkingar stefnu sinni um andstöðu við öll tekjuaukandi verkefni fyrir samfélagið, svo að ekki sé nú minnzt á nýja gjaldeyrissköpun. 

Viðbáran er jafnan sú endileysa, að núverandi kynslóð hafi ekki til þess siðferðilegan rétt að ákveða nýtingu orkulinda.  Ráðherra umhverfismála ætti "að anda með nefinu" og kynna sér rannsóknarskýrslu, sem samin var af kennara við Verkfræðideild Háskóla Íslands fyrir fáeinum árum um afturkræfni virkjana á Íslandi með alþjóðlegri viðmiðun.  Niðurstaðan var sú, að þær eru allar afturkræfar, og Norðlingaölduvirkjun felur í sér svo takmörkuð umhverfisáhrif, að víst má telja, að hún verði engin undantekning í þessum efnum. Hvers vegna fer ráðherra offari ?

Til þess liggja stjórnmálalegar ástæður.  Vinstri hreyfingin grænt framboð er í tætlum eftir hálfs annars árs sambúð við eins máls flokkinn, sem miðar allt við að troða Íslandi inn í Evrópusambandið (ESB), jafnvel á fölskum forsendum kynningarviðræðna, sem eru í raun aðlögun að ESB.  Það er reyndar óskiljanlegt, hversu hart Samfylkingin berst fyrir því að kasta Íslandi í fang auðvalds Evrópu, þó að ýmsir merðir þeirrar fyrr nefndu megi vart heyra minnzt á erlendar fjárfestingar á Íslandi.  

Ljóst má vera, að téð rökleysa ráðherrans, um vísun til næstu kynslóða, felur í sér algera stöðnun þjóðfélagsins, því að engin rök standa til þess, að næsta kynslóð hafi til þess meiri siðferðilegan rétt en núverandi, eða þarnæsta, að hefja framkvæmdir við eitt eða neitt.  Miklu fremur ber núverandi kynslóð til þess siðferðisleg skylda að búa í haginn fyrir næstu kynslóð, eins og kynslóðirnar á undan okkur gerðu. Til að standa straum af öllum þeim erlendu lánum, sem ríkisstjórn vinstri flokkanna hefur tekið, m.a. fyrir tilstuðlan Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, dugar ekki, að landsframleiðslan hjakki í sama farinu, eins og fyrirsjáanlegt er með afturhald í Stjórnarráðinu, heldur verður að auka landsframleiðsluna um 5 % á ári að jafnaði á þessum áratugi. 

Ef hins vegar á að fylgja fram téðu grundvallarmáli vinstri-grænna um rétt kynslóðanna, mun íslenzka þjóðfélagið breytast á örskotsstundu úr nútímalegu velferðarþjóðfélagi með öflugar gjaldeyrislindir í fátæktarbæli hafta og ofríkis stjórnmálamanna. Hver kærir sig um slíkt ?  Þetta eru valkostir kjósenda nú.  Skýrari geta þeir vart verið.  Það verður aðalarfleifð vinstri stjórnarinnar að skerpa skilin á milli framfaraafla og afturhalds.

Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma átti að leggja fram á vorþinginu 2010 samkvæmt áætlun, en það var ekki gert.  Hvers vegna ? Deilurnar í ríkisstjórninni lama hana algerlega, svo að landið er í raun stjórnlaust. Fyrir tilverknað stjórnvalda er eignarhald HS orku í uppnámi.  Skipulag sveitarfélagsins Ölfuss, þar sem Hverahlíðarvirkjun kemur við sögu, situr fast í Umhverfisráðuneytinu.  Svipaðri valdbeitingu óvandaðs, öfgafulls og ólýðræðislegs stjórnvalds hafa sveitarfélögin við Neðri-Þjórsá mátt sæta, og þar með er virkjun hennar sett í herkví, 3 hagstæðar virkjanir með lágmarks lónum og línum.

Öllum brögðum er beitt til að tefja frekari rannsóknir og þróun Kröflusvæðis, Gjástykkis og Þeistareykja.  Með ríkisstjórnaraðild sinni hafa vinstri-grænir í skjóli Samfylkingar sett þumalskrúfu á þjóðfélagið, hindrað hagvaxtarhvetjandi framfarir, komið helzta hugðarefni sínu, skattahækkunum, til framkvæmda, og komið fyrirtækjum á vonarvöl með því að viðhalda langvarandi efnahagskreppu í landinu.  Afleiðingin verður vaxandi atvinnuleysi, landflótti og minnkandi skattstofnar.

Allt þetta kemur illilega niður á hag almennings í landinu.  Skjaldborgin fyrir kosningarnar síðustu varð gjaldborg heimilanna eftir þær.  Vinstri flokkarnir hafa svikið öll sín fögru fyrirheit.  Þeir hafa reynzt gjörspilltir, þegar til átti að taka, og getulausir til róttækrar uppstokkunar, sem leitt gæti til heilbrigðara þjóðfélags. Vinstri vítin eru til að varast þau.

Samfylkingin gerir fátt annað en að smjaðra fyrir Evrópusambandinu, ESB, með öllum þeim tilkostnaði, sem af því leiðir fyrir íslenzka ríkið.  Verður að átelja hana fyrir offors, sem vart getur flokkazt til lýðræðislegra vinnubragða, þar sem minnihluti á Alþingi er nú fylgjandi áframhaldandi aðlögun og þjóðinni er enn neitað um að tjá sig beint í atkvæðagreiðslu um hið örlagaríka mál. Tal utanríkisráðherra um stórfelldan sparnað af evruupptöku fær ekki lengur staðizt í ljósi reynslunnar frá Suður-Evrópu og Írlandi, sem búa við miklu hærri vexti en Þýzkaland og eiga í vandræðum með of dýran útflutning sinn. Þjóðverjar hertu sultarólina í meiri mæli en aðrir og njóta nú ávaxtanna með spáný framleiðslutæki í austurhlutanum og gríðarlega mikla samkeppnihæfni á útflutningsmörkuðum og lága vexti.  

Hver er sinnar gæfu smiður, og Evrópubankinn mun ekki leysa efnahagsvanda Íslendinga.  Það mun enginn gera fyrir þá.  Þeir verða að leysa vanda sinn sjálfir með því að leggja hart að sér. Að ímynda sér annað er flótti frá veruleikanum.   Það, sem máli skiptir fyrir hagkerfið, er heilbrigð hagstjórn, framfarahvetjandi og ábyrgt ríkisvald, sem ver tekjum sínum, af hóflegri skattheimtu, til skuldalækkunar, þróunar á innviðum samfélagsins og inneigna (gjaldeyrisvarasjóðs) hjá Seðlabanka, og full nýting alls tiltæks vinnuafls og framleiðslutækja.

Frelsisbaráttu frjálshuga og framfarasinnaðs fólks er þörf gegn spilltum og þröngsýnum valdhöfum ("nómenklatúru"), sem engan áhuga hafa á kjörum almennings í landinu, en telja öllu skipta fyrir stjórnmálalega hagsmuni sína, að einangra Ísland frá innstreymi alþjóðlegs fjárfestingarfjármagns, sem forsjárhyggju stjórnmálamenn munu aldrei geta ráðskast með. 

Þessi stefna krystallast í "Saving Iceland" samtökunum, og fylgismenn hennar, hvort sem eru stjórnleysingjar í Bezta flokkinum eða ríkisforsjárhyggjufólk í VG, eru þess vegna rétt nefndir skæruliðar gegn íslenzka lýðveldinu.  Uppreisnar borgaralegra afla er þörf.          

 

  


Fingurbrjótar ríkisstjórnar

Afleikir klúðraranna í Stjórnarráðinu eru legió. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur lýst yfir stuðningi við vafagemlinginn, efnahags-og viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússon, í kjölfar fingurbrjóts hans í umgengni við sannleikann. 

Téður Gylfi þorði ekki, sumarið 2009, að upplýsa þing og þjóð um greinargerð yfirlögfræðings Seðlabankans, sem reist var á annarri frá lögfræðistofu í Reykjavík. Viðbára um trúnaðarskjal frá bankanum var orðhengilsháttur, því að trúnaðarskyldan lá á greinargerð lögfræðistofunnar.  Yfirlýsing um þessa trúnaðarskyldu hefur enda verið borin til baka af Seðlabankanum og Efnahags-og viðskiptaráðuneytinu.  

Hvers vegna blekkti ráðherrann Alþingi sumarið 2009 og áhorfendur Kastljóss RÚV 10. ágúst 2010 ? Skoðum fyrst, hvernig ráðherrann gerði þetta.   

Spurning þingmannsins var skýr og einföld.  Hún var um lögmæti myntkörfulána.  Ráðherrann afvegaleiddi þingið með því að svara annarri spurningu.  Hann sagði lögfæðiálit ráðuneytisins og stofnana hníga til þess, að lán í erlendri mynt væru lögleg.  Með þessu lét hann líta þannig út, að tvö hugtök, myntkörfulán og gjaldeyrislán, þýddu hið sama og gaf þar með í skyn, að myntkörfulán væru lögleg að beztu manna yfirsýn.  

Þessum leik hélt hann áfram í tilvitnuðum Kastljóssþætti.  Dósentinn vissi allan tímann betur, en komst upp með blekkinguna í bæði skiptin, sem er miður.  Eftir dóm Hæstaréttar um þetta efni 16. júní 2010 rann upp fyrir fólki lögfræðilegi mismunurinn á þessum tveimur hugtökum.  Sekt ráðherrans er núna augljós.  Seta slíks manns á ráðherrastóli er móðgun við þjóðina. Honum er ekki treystandi til að fara með forræði opinberra málefna. Forsætisráðherra lagði hins vegar blessun sína yfir setu hans, þegar málið komst í hámæli.  Hvers vegna ? 

Svarið er hið sama og við spurningunni um það, hvers vegna efnahags-og viðskiptaráðherra lagði út á sína blekkingabraut.  Ef hann hefði svarað sannleikanum samkvæmt, á grundvelli beztu, fáanlegu upplýsinga, á Alþingi, þá hefði komið í ljós stórfelldur afleikur ríkisstjórnarinnar með fjármálaráðherra og efnahagsmálaráðherra, sem þá var Jóhanna, í broddi fylkingar, við stofnun nýju bankanna, því að þar var ein forsendan til grundvallar flutningi lánasafns til nýju bankanna sú, að myntkörfulánin væru lögleg og mundu skila sér að mestu leyti gengistryggð til baka.

Fjármálaráðherrann og þingmenn vinstri stjórnarinnar hafa hingað til vísað til þessa bankauppgjörs sem nánast einu rósarinnar í hnappagati ríkisstjórnarinnar.  Nú er komið í ljós, að hún klúðraði þessu máli herfilega, eins og flestum öðrum málum, sem hún hefur komið nálægt. Er getuleysi, dómgreindarleysi og lánleysi þessarar dæmalausu langs-og þversumklofnu ríkisstjórnar með algerum endemum.  Viðvaningshátturinn, þvergirðingurinn, þröngsýnin og leyndarhyggjan ríða ekki við einteyming í Stjórnarráðinu nú um stundir.  Allt rekur þar á reiðanum.

Mál er að linni.  Óhæfnin er ekki ein á báti, heldur er óheiðarleikinn með í för.  Það sannar myntkörfuhneykslið, sem hér hefur verið reifað.  Ekki tekur betra við, þegar litið er til þriðja hjólsins undir stjórnarskriflinu, utanríkisráðherrans.  Hann varð að athlægi á blaðamannafundi í Brüssel nýlega með stækkunarstjóranum, Stefan Füle.  Blaðamenn rak í rogastans við þá séríslenzku kenningu, að evran mundi hafa orðið Íslendingum hjálparhella í hinni alþjóðlegu bankakreppu, sem leiddi til bankahruns hér, af því að ríkið hafði ekki bolmagn til að bjarga bönkunum hér, eins og það gerði t.d. á evrusvæðinu, einnig á Bretlandi og í BNA. Þýzkir blaðamenn sperrtu eyrun, því að þeir voru vanari því að heyra evrunni kennt um vandræðin, t.d. á Írlandi og í Suður-Evrópu. Hinir einu, sem blómstra nú á evrusvæðinu, eru Þjóðverjar, með sitt sterka framleiðslukerfi og útflutningsknúna hagkerfi, sem nú er að springa út í fyrsta skipti eftir "die Wende" eða endursameiningu Þýzkalands.    

Þá fimbulfambaði utanríkisráðherra Íslands um bjartsýni sína á, að Ísland fengi hagstæða samninga við ESB.  Það mátti stækkunarstjórinn eiga, að hann leiðrétti þetta snarlega.  Engar varanlegar undanþágur yrðu veittar.  Þetta á ekki síður við um hvalveiðar, nýtingu á lögsögu Íslands, innflutning landbúnaðarafurða, herskyldu í væntanlegum Evrópuher en hvað annað, sem á fjörurnar kann að reka í aðlögunarviðræðunum. Þá er vitað, að sérsamningar án lagalegs stuðnings sáttmála ESB eru haldlausir, ef hagsmunaárekstrar verða, sem leiddir eru til lykta fyrir Evrópudómstólinum. 

Taka má dæmi af sjávarútveginum.  Blekið verður ekki þornað á samninginum við ESB, þegar spænskur togari fer inn í landhelgina.  Varðskip mun taka hann og færa til hafnar við Ísland. Spánverjar kæra fyrir Evrópudómstólinum, sem dæmir samkvæmt sáttmálum og lögum ESB, að lögsaga ESB sé ein og óskiptanleg.  Samningurinn við ESB haldlaus og Ísland breytist í verstöð Evrópu.

Það, sem í boði er í Brüssel, er ESB með sáttmálum þess, lögum og tilskipunum.  Annað er blekking og/eða blindni, og er hvort tveggja ófyrirgefanlegt.   

Af þessum sökum, sem hér hafa verið tíundaðar, og er þá margt óupptalið af ávirðingum ríkisstjórnarinnar, er hún ekki á vetur setjandi, heldur ber að setja hana af hið fyrsta og kjósa til Alþingis.  Nú er búizt við nýrri holskeflu hagkerfissamdráttar erlendis, og þá er nauðsynlegt, að við stjórnvöl þjóðarskútunnar íslenzku séu hvorki heybrækur né hugstola fólk.   

   Atvinnuleysi Evrópu 2008-2010   

   


Dansað við úlfa

Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, fullyrti nýlega í fjölmiðlaviðtali, að aðrir erlendir fjárfestar mundu ekki kippa sér upp við það, þó að Magma Energy hrykki úr skaptinu.  Þessi fullyrðing var órökstudd, og hún á sér enga stoð í veruleikanum.  Þá má spyrja, hvaða augum Alcoa-menn líti á framkomu iðnaðarráðherra við þá út af Bakkaverkefninu.  Sjaldan er ein báran stök.

Framferði ríkisstjórnarinnar er grafalvarlegt og hefur ótvíræð fælingaráhrif.  Ríkisstjórnin er skaðvaldur almannahagsmunum og atvinnutortímandi, nema fyrir eigin hlöðukálfa á ríkisjötunni, sem ekkert vinna af almennilegu viti og skapa þess vegna engin verðmæti, nema síður sé. Klúðurstjórnin viðheldur kreppunni.

Til þess eru refirnir skornir hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði og viðlíka mörðum að tefja öll framfaramál í landinu eða að drepa þeim á dreif, þar sem einkaframtakið er annars vegar.  Bakkamálið sýndi reyndar, að Samfylkingin hefur lítinn sem engan skilning á nauðsyn iðnvæðingar til að skapa hér traust, evrópskt nútímaþjóðfélag, því að umhverfisráðherra hennar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hvítabjarnarbani, gerði sitt til að eyðileggja málið með svo kölluðu sameiginlegu umhverfismati.

Nú um stundir háttar þannig til, að eina einkaframtakið, sem dregið getur strandaða íslenzka þjóðarskútu á flot, er erlent.  Af einskærri forpokun, fordild og forheimskun mega vinstri grænir ekki heyra á slíkt minnzt. Það er athyglivert, að einu umtalsverðu erlendu fjárfestingarnar á Íslandi eru vesturheimskar enn sem komið er, þ.e. frá Kanada og Bandaríkjunum (BNA).  Hvernig víkur því við, að alþjóðleg fyrirtæki Evrópu hafa ekki fjárfest hér neitt að ráði þrátt fyrir EES ?  Mundi innganga í ESB og upptaka evru í fyllingu tímans greiða fyrir því ?  Það er ekki að sjá, að hin vinstri sinnaða Samfylking sé hrifin af erlendum fjárfestingum.  Á hvaða leið er hún eiginlega, ef hún vill fyrir alla muni troða landinu inn í ESB, en er á sama tíma með alls kyns vífilengjur gagnvart frjálsu flæði fjármagns ?  Stefna Samfylkingarinnar gengur ekki upp.  Hún er í blindgötu og hefur glatað öllum trúverðugleika.   

Ísland hefur aldrei efni á slíkum yfirgengilegum hringlandahætti í viðskiptum við erlenda fjárfesta, sem opinberazt hefur undanfarið, og sízt af öllu nú, þegar landinu ríður á skjótri og varanlegri viðreisn atvinnulífsins til að vinna bug á atvinnuleysinu, ná jafnvægi í ríkisbúskapinum, auka gjaldeyristekjur þjóðarbúsins til að greiða niður erlendar skuldir og að skjóta stoðum undir traustan hagvöxt öllum til hagsbóta.

Samskipti stjórnmálamanna í valdastólum og embættismanna þeirra við fjárfesta eru viðkvæm, og oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.  Í hópi fjárfestanna getur gætt hjarðhegðunar, eins og í öðrum hópum, og verði þeir varir við hringlandahátt eða lítt dulbúna andúð í garð eins, má búast við, að þeir bíði ekki boðanna, heldur leiti annað.  Ísland á í harðri samkeppni við mörg önnur lönd um erlent áhættufé, og t.d. lönd, sem óska eftir orkukræfum iðnaði, eru ýmis til, og bjóða þau m.a. orkuverð, sem Ísland getur ekki keppt við.  Ísland verður þá að geta boðið eitthvað annað á móti, t.d. úrvals starfsfólk, þróaða innviði, traust stjórnarfar og markaðsaðgengi.  Umhverfisvænar orkulindir eru viðbótar kostur.

Traustvekjandi framkoma valdhafa skiptir í þessu sambandi sköpum.  Það er t.d. skaðlegt í þessu sambandi, þegar ráðherra, í þessu tilviki Jón Bjarnason, lýsir því yfir, að verja þurfi íslenzkt athafnalíf gegn erlendum fjárfestingum.  Hér glittir í þann með horn, hala og klaufir upp úr skurðkjaftinum, en þar mun vera komin afstaða Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til erlendra fjárfestinga á Íslandi í hnotskurn.  Það er von, að hrikti í stjórnarskriflinu, þegar svona er í pottinn búið. 

Samfylkingin berst í orði kveðnu fyrir bættum stjórnarháttum á Íslandi og kveður bezta ráðið til bættra stjórnarhátta vera að ganga í ESB (Evrópusambandið).  Þó er vandséð, að þjóðin þurfi að taka slíkt örlagaskref til að Samfylkingarráðherrar sýni gott fordæmi í þessum efnum.  Ráðherrar Samfylkingarinnar eru þvert á móti með asklok fyrir himin og nota aðstöðu sína með óbilgjörnum hætti í þágu hlöðukálfa sinna.  Fagmennskan er í sumum tilvikum fólgin í því, að ráðherrann er viðstaddur ráðningarviðtöl ráðningarstofu og getur þannig með nærveru sinni framkallað niðurstöðu með slagsíðu. Í stuttu máli mundu stjórnarhættir Samfylkingarinnar hvergi sóma sér, nema í bananalýðveldi.  Hverjum dettur í hug, að þetta ástand mundi batna við inngöngu í ESB ?  Ráðherrarnir yrðu þá strengjabrúður Brüssel í öllum hagsmunamálum ríkjasambandsins, en fengju í staðinn að leika lausum hala með frændhygli sína og ofdekur við hlöðukálfa.  Á Íslandi yrði tilveran óbærileg öllu heiðvirðu og frjálshuga fólki fyrir vikið. 

Það sætir furðu, hversu mjög vinstri grænum hefur tekizt að beygja iðnaðarráðherra afturhaldsstjórnarinnar af leið.  Má segja, að hún sé komin í skeifu miðað við það, sem hún lagði upp með í ráðherradómi sínum.  Allir vita, að Samfylkingin er eins máls flokkur, þ.e. að troða sálu landsins í poka og fleygja honum inn um gullna hliðið í Berlaymont/Brüssel eru hennar ær og kýr.  Þess vegna hefur hún enga stefnu í orkumálum aðra en þá, sem rituð er í sáttmálabók ESB.  Þar stendur, að í raforkuvinnslu skuli ríkja frjáls samkeppni og að öll fyrirtæki innan ESB (og þá EES) skuli njóta jafnstöðu í samkeppninni, hvar sem er innan EES, og njóta sömu tækifæra til fjárfestinga.  Upphaflega virtist núverandi iðnaðarráðherra "vinna" samkvæmt þessari stefnu, en nú er skeifan staðreynd, þ.e. viðsnúningur. Þessi iðnaðarráðherra mun aldrei leggja grunn að neinum verkefnum, sem um munar fyrir athafnalíf landsins.  Hún slær bara úr og í.

Nú segjast formenn Samfylkingar og VG ætla "að vinda ofan af þessari stefnu" og eiga þá við fjárfestingar annarra en opinberra fyrirtækja í orkugeiranum.  Forpokun einangrunarsinnanna í VG tröllríður húsum ríkisstjórnarinnar, svo að allt leikur á reiðiskjálfi.  Fórnarlamb einokunar í orkuvinnslu verður almenningur nú sem endranær.  Þegar rjáfur ríkisstjórnarinnar, en hún er sem fjörulús á tjöruspæni í öllum málum, brotnar, verða framfaraöfl í þessu landi að sameinast um að smyrja athafnalífið í skyndingu með erlendu fé, ekki lánsfé, enda er það illfáanlegt, heldur fjárfestingarfé, og að koma eftirspurn eftir vörum og þjónustu í gang aftur með eftirfarandi hætti:

  • Semja við alþjóðlegu álfyrirtækin um nýjar fjárfestingar.  Hagur þessara fyrirtækja er nú að vænkast eftir bankahrun, efnahagslægð í kjölfarið og mikla skuldsetningu við fyrirtækjakaup.  Spár um álmarkað benda til skorts á áli á markaðinum á næstu 20 árum vegna aukinnar markaðshlutdeildar áls, t.d. í samgöngugeiranum, og þróunar málmfræðinga á nýjum álmelmum. 
  • Semja um sölu afnotaréttar af orkulindum eða einkaframkvæmd við virkjanir, eins og iðnaðarráðherra mælir með, til að sjá álverunum og öðrum fyrir orku.
  • Afnema alla skatta vinstri stjórnarinnar strax og gera áætlun um enn meiri tekjuskattslækkun, er miði að því að laða hingað atgervisfólk, sem flúði kreppu og afturhald, og að hámarka stærð skattstofnsins.
  • Ná jafnvægi í ríkisbúskapinum á þremur árum með auknum tekjum frá vaxandi hagkerfi og samkeppni til kostnaðarlækkunar við að veita þjónustu, sem hið opinbera kostar.  Dæmi um þetta er stærsti útgjaldaliðurinn, heilbrigðisgeirinn, þar sem snarlega verður að vinda ofan af groddalegum einokunartilburðum sameignarsinnans Álfheiðar Ingadóttur, sem valda mun viðkvæmum innviðum heilbrigðisgeirans og þjóðinni allri stórtjóni, ef svo fer fram sem horfir.  Leita má fyrirmynda um þetta innan EES.
  • Leggja verður strax fyrir róða fíflagang þann með undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, sem nefndur er "fyrning aflaheimilda" útgerðarinnar, en virkar eins og ofurskattlagning á útgerðina, sem eyðir eiginfé hennar á svipstundu og er þess vegna ígildi þjóðnýtingar, eins og búið er að sýna fram á með óhrekjanlegum, hagfræðilegum rökum. "Fyrning aflaheimilda" er hugarfóstur kaffihúsakomma og annarra afæta á ríkisjötunni án snefils af skynsemi. 
  • Útgerðin hefur tekið á sig skerðingu aflaheimilda vegna minnkandi hrygningarstofna, t.d. þorsks.  Nú er komið að því að snúa við blaðinu með aukningu, sem eitthvað hægir á vexti stofnsins, en stöðvar hann þó ekki að mati Hafrannsóknarstofnunar.  Þetta er ekki áhætta, heldur yfirveguð efnahagsleg og stjórnmálaleg aðgerð til stuðnings viðreisn hagkerfisins.
  • Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB, hefur lýst því yfir, að engar varanlegar undanþágur standi Íslendingum til boða.  Ekkert hald er í sérlausnum, þegar farið er með ágreining fyrir Evrópudómstólinn. Þetta sannar reynsla Finna og annarra, sem höfðu skrifað undir samning án skuldbindingar að hálfu samningamanna ESB, er reist væri á Rómarsáttmálanum eða seinni sáttmálum ESB.  Því miður gera þessi atriði ESB með öllu ófýsilegt fyrir Ísland til inngöngu.  Bezt er, að nýtt Alþingi horfist í augu við þetta strax og feli nýjum utanríkisráðherra að biðja forseta ráðherraráðs ESB afsökunar á frumhlaupi fyrirrennarans um leið og óskað er hlés á viðræðum vegna óvissu um Icesave-deiluna og óvissu um þróun ESB. Síðan fái þjóðin að tjá sig um það í næstu kosningum á eftir, hvort hefja eigi leikinn að nýju eða að afturkalla illa ígrundaða umsókn. 
  • Engum dylst, að köldu andar til Íslands frá ýmsum ríkisstjórnum Evrópu, jafnvel frá einstökum ráðherrum ríkisstjórnar Noregs, eins og fram hefur komið í Makrílsmálinu, en Evrópuþjóðirnar berjast um veiðihlutdeild í þessum stofni.  Svarið við þessu er að afla annarra bandamanna.  Kínverjar hafa sýnt okkur vinarþel, t.d. innan AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðsins) og ber að þakka það, svo og Japanir.  Það liggur hins vegar beint við að leita til vesturs, til Norður-Ameríku, þ.e. BNA og Kanada, til þjóða, sem aldrei hafa rekið í okkur hornin í líkingu við Evrópuþjóðir ýmsar. Þaðan hafa helztu fjárfestingarnar hérlendis síðustu 20 árin komið, og þar er fjöldi fólks af íslenzku bergi brotið. Í Eystrasaltslöndunum og í Mið-og Austur-Evrópu eru og efnilegir bandamenn.  Nauðhyggjan ein rekur okkur í fang kvalaranna. Móta þarf nýja og víðsýna utanríkisstefnu, er tekur mið af hagsmunum okkar í bráð og lengd, en setur ekki öll eggin í eina körfu, sem aðrir halda á en við sjálf. 
  • Lega landsins reynist enn tromp á hendi.  Í þetta sinn eiga í hlut miklar auðlindir í norðurhöfum, t.d. eru taldar þar á umráðasvæði Íslands um 10 milljarðar tunna af jarðolíu undir hafsbotni.  Norðmenn eru taldir eiga svipað magn á sömu slóðum.  Fylgjast þarf náið með atferli þeirra þar norður frá, en Norðmenn hafa aflað sér gríðarlegrar þekkingar á olíuvinnslu á hafi úti.  Við þurfum að vera tilbúin að gera samning við leitarfyrirtæki, þegar tæknin leyfir og markaðir fyrir olíu gera svo dýra vinnslu arðbæra.
  • Landbúnaður hefur verið í umræðunni undanfarið.  Hér er um að ræða kjarnagrein í íslenzku athafnalífi, og flest bú á Íslandi eru rekin af miklum dugnaði, útsjónarsemi og þekkingu.  Þau framleiða hágæða vöru, sem höfundur þessa pistils vill ekki fyrir nokkurn mun skipta á. Kornyrkja fer vaxandi, hana þarf að tífalda á 15 árum og spara þannig mikinn gjaldeyri.  Framleiðslu-og markaðskerfi landbúnaðarins er hins vegar niður njörvað í gildandi búvörulögum.  Framleiðslukvótinn er hér ekki settur á til að vernda auðlindina, heldur til að hindra offramleiðslu.  Hinn tæknivæddi og stórglæsilegi íslenzki landbúnaður þarf nú að hrista af sér þessar viðjar og sækja fram í heimi sívaxandi matarskorts, einnig á meðal þjóða, sem eru að komast í álnir, þökk sé miklum fjárfestingum alþjóðlegra fyrirtækja.  Aukin framleiðsla og frjálsari verðmyndun mun leiða til aukinnar framleiðni landbúnaðarins, sem þegar er gríðarleg, neytendum og bændum til hagsbóta.                             

Olíuverð á heimsmarkaði 2009-2010

 


Leiðin til ánauðar

Um þessar mundir rennur fræg bók austurríska hagfræðingsins Friedrich von Hayek út eins og heitar lummur erlendis.  Í riti þessu, Leiðinni til ánauðar, er gerð skilmerkileg grein fyrir því, að miðstýring framleiðsluaflanna leiði til ófarnaðar í rekstri fyrirtækjanna og fátæktar almennings, en valddreifing og samkeppni einkaframtaks hins vegar hámarki sjálfbæra nýtingu atvinnutækja, skapi heilbrigðan hagvöxt og bæti almannahag.  Þetta hefur afleit reynsla af ríkisrekstri staðfest.  Hann ber að forðast eins og heitan eldinn.

Ráðstjórnarríkin, sem voru grundvölluð á samyrkjubúskap og höfðu upprætt einkaeignarréttinn, urðu siðferðilega og fjárhagslega gjaldþrota og sameignarstefnan hrundi þar til grunna.  Einkaeignarrétturinn, frjálst framtak og markaðshyggja, hrósuðu sigri.  Ríki sameignarsinna voru örgustu fátæktarbæli, og hið sama gildir um þau fáu, sem eftir eru, e.t.v. að Rauða-Kína undanskildu, þar sem reyndar er blandað hagkerfi. 

Nú bregður svo við hérlendis, að afturganga sameignarstefnunnar birtist undir heitunum "Attack" og Vinstri hreyfingin grænt framboð.  Afturgangan einbeitir sér um sinn að orkugeiranum, þó að orkulindir séu í sameign samkvæmt lögum og aðeins brot af afnotaréttinum í einkaeigu.  Orkuvinnslufyrirtækin, eins og önnur fyrirtæki, þurfa fernt: aðföng, mannauð, fjármagn og markað. Sérstaða orkuvinnslufyrirtækjanna er fólgin í mikilli fjármagnsþörf og langri endingu mannvirkja.  Málsvarar sameignarfyrirkomulagsins virðast bæði vilja éta kökuna og eiga hana.  Það hefur aldrei verið hægt, og arðgreiðslur af virkjun geta ekki hafizt að ráði fyrr en skuldir af henni hafa verið greiddar mörgum árum eftir að starfræksla hófst.  Þess vegna hafa arðgreiðslur íslenzkra orkufyrirtækja verið sáralitlar. Stór hluti kostnaðar orkuvinnslunnar, og þar með orkuverðsins, er framan af vegna vaxtakostnaðar fyrirtækjanna, sem að mestu rennur í vasa erlendra fjármagnseigenda. 

Viðskiptaáætlun Magma Energy gerir ekki ráð fyrir arðgreiðslum til eigenda á næstu árum, heldur verður framlegð nýtt til frekari fjárfestinga á Íslandi.  Þetta er einmitt það, sem Íslendingar þurfa á að halda til að koma hjólum athafnalífsins í gang og til að stækka þjóðarkökuna. Er ekki að efa, að næsta frjálslynda ríkisstjórn, sem mynduð verður í landinu, mun kappkosta einmitt þetta til að efla hagvöxtinn.

Samfylkingarmenn telja sig vera málsvara nútímalegra stjórnarhátta með því að berjast fyrir inngöngu Íslands í ESB (Evrópusambandið).  Miðað við stjórnarhætti vinstri grænna er e.t.v. eitthvað til í því.  Þó verður að segja alveg eins og er, að stjórnarhættir núverandi ríkisstjórnar Samfylkingar hafa keyrt um þverbak.  Þeir vitna um spillingu, og nægir að minna á ráðningu "Umboðsmanns skuldara" og pukrið og potið vegna starfs forstjóra Íbúðalánasjóðs. 

Vita Samfylkingarmenn ekki, að sú einokunarstefna í orkugeiranum, sem sameignarsinnar berjast fyrir, stingur algerlega í stúf við stefnu ESB um skipulag, samkeppni og eignarhald orkugeirans ?  Þar er kveðið á um samkeppni í orkuvinnsluhlutanum, og ríkið má ekki vera markaðsráðandi á samkeppnimarkaði.  Yfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingar um að hindra meirihlutaeigu einkafyrirtækja í orkuvinnslu stangast gjörsamlega á við stefnu ESB.

Á sama tíma berst Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, um á hæl og hnakka við að troða Íslandi inn í ESB.  Fær hann ekki mínus í kladdann hjá Brüssel, þegar aðfarir stjórnarinnar í orkumálum berast inn á borð Stefans Füle, stækkunarstjóra ?  Sá tók skýrt fram nýlega, að alls engar undanþágur frá lögum og reglum ESB stæðu Íslendingum til boða til lengdar.  Þetta er staðfesting á mati andstæðinga ESB-aðildar um þessi efni.  

Síðan 1994 hefur Ísland verið á Evrópska efnahagssvæðinu, hvers grundvöllur eru frelsin fjögur, þ.e. frjálsir flutningar fólks, vöru og þjónustu á milli landa og frjálst flæði fjármagns.  Með boðaðri skerðingu ríkisstjórnarinnar á frjálsu flæði fjármagns frá EES til Íslands skýtur Samfylkingin sig í fótinn; gott, ef hún skýtur ekki fótinn undan trúverðugleika sínum sem stjórnmálaflokkur með einlægan vilja til aðildar lands síns að tilvonandi ríkjasambandi, ESB.  Þegar landbúnaðar-og sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, lýsti því yfir, að verja yrði íslenzkt athafnalíf gegn erlendum fjárfestingum, tók þó fyrst steininn úr.  Slíkur málflutningur heyrist aðeins frá Norður-Kóreu nú á dögum.

Fjármálaráðherra "norrænu velferðarstjórnarinnar" heldur sig við yfirborðslegar vísanir til Noregs um eignarhlutdeild ríkis í fyrirtækjum.  Norðmenn eru í þeirri einstöku aðstöðu í Evrópu, að ríkið ræður yfir gríðarlegum upphæðum, olíugróða, sem það telur vel varið með fjárfestingu í öflugum fyrirtækjum af ýmsum toga, þ.á.m. í Noregi.  Ekkert slíkt á við hér.  Þvert á móti er ríkissjóður rekinn á erlendum lánum, og skuldir hans nálgast af þeim sökum að nema heilli landsframleiðslu, VLF.  Skuldirnar eru þar með yfir hættumörkum, enda er lánshæfi ríkissjóðs í ruslflokki samkvæmt Fitch. Af þeim sökum, sem hér hafa verið raktar, eru hvorki stjórnmálalegar né fjárhagslegur forsendur fyrir hendi til að stugga við og jafnvel að þjóðnýta einkaeign í orkuvinnslu Íslendinga.  Veruleikafirringin ríður ekki við einteyming.  

Hvað þýðir þetta fyrir efni þessa máls ?  Það þýðir, að verði VG að vilja sínum, munu vaxtagjöld skattborgaranna til útlanda stórhækka, ríkissjóður dregst nær hengifluginu, og ekkert bolmagn verður til framkvæmda í orkuvinnslu né annars staðar.  Þetta mun stöðva frekari iðnvæðingu landsins.  Með öðrum orðum:

aukin fátækt, stöðnun og landflótti í boði Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Ríkisstjórnarflokkarnir fá falleinkunn fyrir framgöngu sína í orkumálum.  Það verður að spyrja þjóðina hið fyrsta, hvort hún vilji fara í þessa eyðimerkurgöngu með afturhaldinu, eða hvort hún vill sópa því út í hafsauga með Alþingiskosningum.  

Vaðallinn snýst mest um þá moðsuðu, að forðast beri, að arðurinn af orkulindunum lendi í höndum útlendinga.  Þeir, sem halda þessu fram um orkufyrirtæki Íslendinga, sem skulda um 600 milljarða króna í útlöndum, hafa annaðhvort ekki kynnt sér málefni orkugeirans af nokkru viti eða þeir tala gegn betri vitund.  Hagkvæmast er nú fyrir ríkissjóð að losa um fé, selja eignir, t.d. í orkuvinnslufyrirtækjunum, og grynnka á skuldum í útlöndum.  Með þessu lækka vaxtagreiðslur skattborgaranna til útlanda, erlent fjárfestingarfé streymir til landsins, atvinna eykst, hagvöxtur myndast, og ríkið nær jafnvægi á rekstur sinn.  Þetta er forsenda þess að lækka skuldabagga hins opinvera erlendis niður fyrir 50 % af VLF, svo að lánstraustið batni og vextir lækki.  Þetta er hagsmunamál almennings í landinu.

Þegar orkufyrirtæki í einkaeign taka að skila arði, mun ríkið hirða hluta hans með skattheimtu.  Það er ætíð og alls staðar svo, að eigandi fjár, sem hann lánar eða festir í eign, fær af því vexti eða arð, nema skuldunautur lendi í greiðsluþroti eða fjárfesting misheppnist.  Ríkið á alls ekki að leggja fé skattborgaranna í áhættufjárfestingar. 

Óvissa ríkir um orkuvinnslugetu jarðvarmaorkuvera, og borholur eru viðkvæmar fyrir jarðhræringum í grennd.  Einkafyrirtæki nær, að öðru jöfnu, lægri vinnslukostnaði en ríkisfyrirtæki.  Ákvarðanataka fyrirtækis með stóra ríkishlutdeild verður mun erfiðari og tregari.  Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna í Evrópu að hlutast til um rekstur og fjárfestingar orkuvinnslufyrirtækja.  Þessi þátttaka ríkisins er með öllu óeðlileg í nútíma þjóðfélagi, og er í andstöðu við reglur Innri markaðar EES.     

Kost-CO2spar-2010Nú er mál málanna á orkusviðinu í ESB að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í raforkuvinnslu upp í 20 % árið 2020.  Þetta er til að draga úr losun koltvíildis, og hér til hliðar er sýndur kostnaður við þetta með mismunandi aðferðum í GBP/t CO2.  Af þessum ástæðum er því spáð, að raunhækkun raforkuverðs muni nema allt að 45 % á þessu tímabili í Evrópu.  Í þessu eru fólgin mikil tækifæri fyrir Íslendinga, því að kostnaður við virkjun hérlendis er einvörðungu um 1/10 á við kostnað í Evrópu á hvert MW (megawatt) í endurnýjanlegum orkulindum þar.  Þegar afnotaréttur orkulinda hérlendis er seldur, t.d. til 20-30 ára, er rétt að tengja verðið við vísitölu orkuverðs í Evrópu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband