Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
5.2.2019 | 15:19
Þrautalending pakkasinna
Stríður straumur umfangsmikillar löggjafar frá Evrópusambandinu-ESB hefur legið til Íslands, Noregs og Liechtensteins um farveg EES-samningsins um Evrópska efnahagssvæðið frá samþykkt ESB-landanna á stjórnarskrárígildi ESB 2007 um æ nánara samstarf ESB-landanna. Undantekningarlaust þýðir þetta aukna miðstýringu Framkvæmdastjórnarinnar í hverjum málaflokkinum á fætur öðrum.
Yfirleitt er hún innleidd með því að setja á laggirnar stofnun á viðkomandi sviði, sem heyrir beint undir framkvæmdastjórnina, t.d. Bankaeftirlitið, sem er hluti af áformuðu sameiginlegu bankakerfi ESB með einum innlánatryggingasjóði (eitur í beinum Þjóðverja), Persónuverndarráð, sem Persónuvernd á Íslandi heyrir undir, og ACER, sem er samráðsvettvangur landsreglara hvers aðildarríkis á sviði orkumála.
Stefnumótendur ESB telja orkumálin réttilega útheimta miðlæga stefnumörkun til langs tíma, því að orkuskortur ógnar meginlandinu vestan Rússlands í bráð og lengd og reyndar Bretlandi einnig vegna dvínandi olíu- og gaslinda neðansjávar í lögsögu Bretlands. Noregur er undantekning frá þessari reglu, enda hefur forysta ESB lagt ríka áherzlu á að ná Noregi inn fyrir sín vébönd (ACER).
Af Kerfisþróunaráætlun ESB að dæma virðist gæta vaxandi áhuga á Íslandi á orkusviðinu í Berlaymont, þótt Íslendingar ráði enn engum þekktum jarðefnaeldsneytislindum. Baráttan um ACER-aðild (Þriðja orkupakkann) er einnig vísbending um þetta, því að sendiherra ESB á Íslandi hefur blandað sér í þrætuna hérlendis. ESB er þess vegna ekki sama, hvernig fer. Það þýðir hins vegar ekki, að ESB eigi að ráða þessum málalyktum.
Rökleysur, orðhengilsháttur og formsatriði án innihalds hafa einkennt málflutning sóknaraðila gegn fullveldi landsins á orkusviði, og þrautalending þeirra hefur verið að grípa til goðsagnarinnar um mikilvægi EES-samningsins fyrir hagsmuni landsins, og rekinn hefur verið hræðsluáróður um, að hann verði í uppnámi, ef Alþingi hafnar Orkupakka #3, þótt slíkt sé af og frá samkvæmt köldu mati út frá hagsmunum ESB í bráð og lengd.
Það er þess vegna rétt að líta á fáein mikilvæg atriði í sambandi við þennan EES-samning. Í ár eru 25 ár liðin frá því, að Norðmenn höfnuðu inngöngusamningi við ESB öðru sinni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Skömmu áður, eða 1992, var EES-samningurinn gerður, og hann var hugsaður sem aðlögunartæki að ESB fyrir eftirlegukindurnar í EFTA, sem þá voru, auk Norðmanna, Íslendinga, Svisslendinga og Liechtensteina, Svíar og Austurríkismenn. Því er vísað á bug af áköfum talsmönnum EES-samningsins að endurskoða þennan samning, og þeir halda því fram, að ekkert jafngott geti komið í staðinn. Þetta er tómur tilbúningur.
Noregur borgar til uppihalds EES-samningsins og í sjóði ESB árlega u.þ.b. mrdNOK 10,9 (sjá viðhengi með þessum pistli), jafngildi um mrðISK 160. Íslendingar borga miklu minna beint þarna inn, en rekstrarkostnaður samningsins fyrir Ísland hefur verið áætlaður 22 mrðISK/ár. Tilfinnanlegastur er þó óbeini kostnaðurinn, sem stafar af risavöxnu reglugerðafargani (a.m.k. 12000 gerðir og tilskipanir ESB hafa verið færðar inn í viðhengi EES-samningsins), sem er svo íþyngjandi fyrir íslenzk fyrirtæki og stofnanir, að taldar eru draga úr árlegri framleiðniaukningu um 0,5-1,0 % (Viðskiptaráð Íslands). Þarna safnast upp gríðarlegar upphæðir, svo að þessi óbeini kostnaður er grafalvarlegur og sýnir, að viðskiptasamningur af þessu tagi er allt of dýru verði keyptur m.v. ávinninginn, eða 150-200 mrðISK/ár nú
Árið 2012 kom út í Noregi skýrslan "Alternativer til dagens EÖS avtale" sem framlag til umræðu um framtíðarstefnumörkun varðandi samskiptin við ESB. Skýrslan leiðir í ljós, að fyrir hendi eru nokkrir valkostir við núverandi EES-samning, sem síðan skýrslan var samin er orðinn miklu víðtækari fyrir EFTA-löndin þrjú. EES-samningurinn er orðinn of víðtækur og allt of íþyngjandi (sjá EES-leiðarvísi á norsku í viðhengi), svo að nauðsyn ber nú til að velja valkost, sem er þjóðréttarlegs eðlis, þ.e. felur ekki í sér framsal fullveldis ríkisins til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland er ekki aðili.
Einn valkostur eru samningaviðræður við ESB, hugsanlega á vegum EFTA, eftir stefnubreytingu í Noregi, um minni EES-samning til að endurheimta lýðræðislega, innlenda ákvarðanatöku á mikilvægum sviðum.
Samkvæmt norskum prófessor í lögum við háskólann í Tromsö (UIT), Peter Th Örebech, er Noregur nú aðili að fjölda alþjóðlegra samninga við Alþjóða viðskiptastofnunina WHO, áður GATT, ásamt EFTA-samninginum. Hið sama er að segja um Ísland, Sviss og líklega Liechtenstein. Ísland og Noregur hafa líka gert tvíhliða viðskiptasamninga við önnur ríki og hafa haft svigrúm til þess, af því að þau eru ekki í tollabandalagi við ESB. Þessir samningar eru virkir, og engar ráðstafanir eru nauðsynlegar, sem að þeim lúta, þótt EES-samninginum verði sagt upp.
Ísland og Noregur gerðu tvíhliða viðskiptasamninga við þáverandi Efnahagsbandalag Evrópu (EBE) árið 1973, sem tryggði tollfrían aðgang að EBE-markaðinum fyrir allan iðnvarning. Þessi samningur er enn í gildi gagnvart ESB, og eftir honum er t.d. farið í viðskiptum með sjávarfang og landbúnaðarvörur. Eftir honum mætti fara að öllu leyti, ef EES-samninginum yrði sagt upp. Nýjan tvíhliða samning við ESB eða EFTA-ESB fríverzlunarsamning þarf að einskorða við afmörkuð svið, og hann verður að vera algerlega þjóðréttarlegs eðlis.
Varðandi samband Noregs við ESB er áhugavert að lesa skrif prófessor Örebechs um málið, því að þau geta að nokkru leyti átt við um Ísland einnig:
"Stefna ESB hefur verið að tryggja hráefnisflutninga til ESB. Veiði ESB-fiskiskipaflotans hefur farið minnkandi. Þetta hefur leitt til, að útflutningurinn til ESB hefur vaxið og ESB hefur vegna fiskiðnaðar síns afnumið tollinn á fiski um ótilgreindan tíma. Við getum þannig slegið föstu, að minnkandi geta ESB-landanna til að afla hráefna á borð við fisk, olíu og gas, fyrir iðnað sinn og neytendur, muni gera ESB háðari Noregi í framtíðinni án tillits til þess, hvað verður um EES-samninginn."
Við þessa vöruflokka, sem æ meiri þörf er á í ESB, má bæta áli og kísli. Samkvæmt prófessor Örebech er vel mögulegt að útbúa heildstæðan samningsramma um samninga Noregs við ESB-án þess að slíkt feli í sér náinn samruna við ESB. Hið sama ætti þá að eiga við um Ísland. Þá verður að fjarlægja sérkenni EES-samningsins, þ.e.a.s. ESA, EFTA-dómstólinn og ákvæðin um, að allt regluverk frá ESB, sem talið er, að eigi við um EFTA-löndin í EES, komi á færibandi til þeirra (meira en 12000 hingað til).
Því fer víðs fjarri, að EES-samningurinn sé upphaf og endir alls í samskiptum Íslands og ESB í viðskiptalegu tilliti. Hræðsluáróðurinn um, að EES-samstarfið verði í uppnámi, ef Alþingi synjar Þriðja orkupakka ESB staðfestingar, er skot villuráfandi sálna út í myrkrið.
21.1.2019 | 10:06
Verður Orkustofnun sjálfstæðari með Landsreglara innanborðs ?
Í Noregi er búið að stofna embætti Landsreglara (Reguleringsmyndighet for energi-RME), eins og þegar sé búið að lyfta hinum stjórnskipulega fyrirvara varðandi Orkupakka #3 í öllum þremur EFTA-löndum EES-samstarfsins. Embættið er komið á norsku fjárlögin og er einhvers konar viðhengi við norsku orkustofnunina, NVE, en er ekki undir orkumálastjóranum, heldur undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) og ACER (Orkustofnun ESB).
Ekki er búið að stofna embætti Landsreglara á Íslandi, þó það nú væri, en enn kyndugra fyrirkomulag er fyrirhugað hér en í Noregi, þar sem Landsreglarann á að fella inn í embætti Orkumálastjóra. Sú naumhyggja gengur varla upp fyrir valdamesta embætti landsins á sviði orkumála. Ef hvort tveggja (Landsreglari og önnur viðfangsefni Orkumálastjóra) verður á hendi sömu persónu, verður hún stundum undir lögsögu ráðherra og stundum undir lögsögu ESA/EFTA/ACER/ESB. Þetta er líklega einsdæmi, þótt víðar væri leitað.
Í grein Þrastar Ólafssonar, hagfræðings, í Fréttablaðinu 11. janúar 2019,
"Vera með eða ekki",
virtist hann telja, að Orkustofnun yrði sjálfstæðari fyrir vikið. Hjá Orkumálastjóra hefur þó komið fram, að ekkert vanti upp á sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart ráðuneytunum. Í huga ESB-sinna virðist Ísland fyrst hljóta sjálfstæði við inngöngu í ESB. Þetta er óbjörgulegur hugarheimur, fullur af vanmetakennd gagnvart risavöxnu stjórnkerfi og skilningsleysi á gildi lýðræðis og ákvörðunarréttar sem næst þeim, sem ákvörðunina varðar um. Er líklegt, að frelsi landsmanna og hagur vænkist við slíkt ? Nei, af öllum sólarmerkjum að dæma getur innlimun í ríkjasamband ekki orðið til þess. Þröstur skrifaði þó:
"Þá gæti þurft að gera Orkustofnun sjálfstæðari en hún er. Hvað gerist með orkuverð hérlendis, ef svo ólíklega vill til, að íslenzkur orkumarkaður tengist innri orkumarkaði ESB, þá mun þurfa að semja um það, þegar þar að kemur. Orkupakkinn breytir í engu fullum yfirráðum okkar yfir orkuauðlindinni, um leið og við einir ráðum því á hverjum tíma, hvort orkustrengur verður yfirleitt lagður. Við höfum öll ráð í hendi okkar."
Þetta er allt tóm vitleysa, eins og nú skal rekja. Stefnumiðið með Orkupakka #3 var að færa Framkvæmdastjórn ESB völd yfir orkumálum aðildarlandanna, sem dygðu til að koma á nægilega öflugu flutningskerfi raforku og jarðgass á milli landanna til að koma á sæmilegu jafnvægi framboðs og eftirspurnar hvarvetna innan sambandsins, og jafnframt að sjá til þess að setja á laggirnar samræmda orkumarkaði, sem hagnýttu frjálsa samkeppni, svo að orkunotendurnir fengju hagstæðasta mögulega verð á hverjum tíma.
Þetta er allt saman gott og blessað, en hængurinn á þessu fyrir Ísland er sá, að Íslendingar nota almennt ekki jarðgas (nema í útilegum og í einstaka eldhúsi), og viðskiptakerfi ESB með raforku er m.v., að eldsneytismarkaðir, en ekki náttúran sjálf, eins og á Íslandi, sjái fyrir frumorkuþörfinni. Þetta misræmi leiðir óhjákvæmilega til þess, að markaðskerfi ESB með raforku getur ekki orðið íslenzkum raforkunotendum til hagsbóta, heldur þvert á móti mundi það einvörðungu virka raforkubirgjunum, virkjanaeigendum og sölufyrirtækjum, til hagsbóta á þeim fákeppnismarkaði, sem verður hér alltaf á raforkumarkaði. Þessu skautar hagfræðingurinn léttilega framhjá, og almannahagur hérlendis liggur þannig óbættur hjá garði.
Ekki tæki betra við, ef ESB tækist að gera "Icelink" að raunveruleika, því að þá lenda landsmenn í samkeppni við útlendinga um íslenzka raforku. Það verður "seljendamarkaður", svo að raforkuverð innanlands mun óhjákvæmilega togast í átt að og fylgja sveiflum evrópsks orkuverðs, eins og skýr merki eru um í Noregi. Þar með fyki einn helzti kostur þess að búa á Íslandi og að stunda þar atvinnurekstur út í veður og vind.
Landsreglarinn gegnir lykilhlutverki hjá ESB við að koma þessu öllu í kring. Mikilvægir þættir í starfsemi Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytisins munu verða færðir til embættis Landsreglara. Stjórnsýsla þessara mikilvægu mála mun lúta erlendri yfirstjórn, þ.e.a.s. ESA/EFTA að forminu til, en ACER/ESB í raun. Þetta heitir með ESB-tungutaki "að gera Orkustofnun sjálfstæðari en hún er". Þegar Þröstur skrifar, að "við" munum áfram ráða því, hvort sæstrengur verði hingað lagður, þá á hann í raun ekki við íslenzku ríkisstjórnina eða Alþingi, heldur verður úrslitavald þess máls í raun komið til Framkvæmdastjórnarinnar, sem kært getur allan þvergirðing í þessum efnum hérlendis til EFTA-dómstólsins, eftir að Alþingi hefur leitt Evrópurétt til öndvegis á þessu sviði þjóðmálanna með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.
Elías B. Elíasson, verkfræðingur, varpaði skýru ljósi á þessa stöðu mála í Morgunblaðsgrein sinni, 13. desember 2018:
"Raforkumarkaður Landsvirkjunar":
"Nauðsynlegt er að koma á auðlindastýringu yfir allt landið með þeim hætti, sem Landsvirkjun hefur og taka jarðvarmann þar með. Ef við síðan ætlum að koma hér á frjálsum markaði, er álitlegast að þróa áfram þann vísi, sem Landsvirkjun kynnti á morgunverðarfundi sínum [haustið 2018] og hafa náið samráð við fyrirtækin á markaðnum. Samþykkt þriðja orkupakkans mun gera þetta ferli ómögulegt."
Þröstur, hagfræðingur, opinberar skilningsleysi sitt á þessi mál með eftirfarandi skrifum, eða er hann e.t.v. ófær um að gagnrýna nokkuð það, sem úr ranni búrókratanna í Brüssel kemur ?:
"Það er því óskiljanlegt, hvernig hægt er að gera þjóðarógn úr orkupakkanum. Komið hefur fram sú fullyrðing, að allt sé í lagi að hafna honum. Ekkert muni gerast. Það er nú svo. Þá myndu tveir fyrri orkupakkar að öllum líkindum falla úr gildi, því að þeir mynda eina heild. Það myndi valda okkur miklu andstreymi innan ESB og EES, kannski endalokum þess samnings."
Hér eru hafðir uppi tilburðir ESB-sinna til hótana gagnvart sjálfstæðri og lýðræðislegri ákvarðanatöku á Íslandi. Þótt annar orkupakkinn, sem í raun yfirtók þann fyrsta, falli úr gildi, getur Alþingi fest í lög hér, það sem því sýnist ávinningur af að hafa hér í gildi af téðum orkupakka. Ef EES-samningurinn verður brotinn með einhverjum öðrum aðgerðum gegn Íslandi í kjölfar fyllilega leyfilegrar höfnunar Alþingis á Þriðja pakkanum, þá væri það merki um svo slæman félagsskap, að réttast yrði að binda enda á hann. Þá tækju við til bráðabirgða viðskiptaákvæði gamla fríverzlunarsamningsins á milli EFTA og ESB og/eða ákvæði WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, á meðan leitað yrði hófanna um nýja, víðtæka fríverzlunarsamninga á milli Íslands og Bretlands og Íslands og ESB. Áfram yrði Ísland auðvitað í EFTA.
Hugarheimur Þrastar kemur undarlega fyrir sjónir. Hann spyrðir saman EES-samninginn og aðildina að NATO, sbr hér að neðan. Honum er þó fullkunnugt um, að á vegum ESB er starfandi vísir að Evrópuher, Leiftursveitin, og uppi er ráðagerð um stofnun alvöru Evrópuhers, sem varizt geti Rússum, Kínverjum og Bandaríkjamönnum, eins og forseti Fimmta lýðveldisins orðaði það svo óhönduglega. Gangi Íslendingar í ESB, munu íslenzk ungmenni hljóta herþjálfun hjá lautinöntum Bundeswehr, her Fimmta lýðveldisins og öðrum. Tæpast verður Evrópuherinn til að styrkja samheldnina í NATO, og án Breta verður hann reyndar hvorki fugl né fiskur.
Aðild Íslands að NATO og EES-samninginum eiga ekkert sameiginlegt annað en það, að Ísland og Noregur eru aðilar að báðum samningunum. NATO-samningurinn er þjóðréttarlegs eðlis til að styrkja öryggi og þar með fullveldi landsins, en EES-samningurinn felur í sér valdframsal til erlendra stofnana, sem hafa bein áhrif á daglegt líf landsmanna framhjá íslenzkum yfirvöldum og dómskerfi.
"Þrátt fyrir hugsanlegt valdaframsal þá styrkir samningurinn fullveldi þjóðarinnar, því [að] hann, ásamt aðildinni að NATO, neglir öryggi þjóðarinnar fast við nágranna okkar beggja vegna Atlantshafs."
Það er ekki heil brú í þessum texta. Nú er Bretland, sennilega öflugasta herveldi Evrópu, að yfirgefa ESB, en öryggi Íslands haggast ekki hót við það, því að NATO stendur óhaggað.
ESB-sinnar virðast vera ónæmir fyrir staðreyndum og faglegri röksemdafærslu um áhættuna, sem upptöku ýmissa lagabálka ESB hérlendis fylgir. Það er út af því, að þeir meta fullveldi landsins einskis. Það vanmat er reist á fullkomnu skilningsleysi á hagsmunabaráttu. Þetta á ekki sízt við um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn. Fyrir aðra lesendur en ESB-sinna verður hér klykkt út með tilvitnun í málsvara heilbrigðrar skynsemi í þessum efnum, Elías B. Elíasson, í umræddri Morgunblaðsgrein hans:
"Þegar orkulögin voru sett 2003 og við samþykktum að vera í innri orkumarkaði ESB, grunaði engan, að ESB mundi taka þá stefnu að gera allt svæði innri raforkumarkaðarins að einu verðsvæði og breyta mörkuðunum, svo [að] þeir virki betur í þá átt. Til að koma þeirri stefnu örugglega fram lætur ESB þjóðþing landanna setja sérstakan yfirmann, landsreglarann, yfir raforkugeirann, utan valdsviðs hverrar ríkisstjórnar, en í reynd með ráðherravald og náin tengsl við ACER. ESB tryggir síðan með reglugerðum, að landsreglarinn sé fulltrúi þjóðar sinnar í viðræðum, sem jafnvel geta valdið henni verulegum fjárskuldbindingum."
Þetta sýnir, hversu óútreiknanlegt EES-samstarfið er. EFTA-löndin vita ekkert að hverju þau ganga, þegar þau innleiða Evrópugerð, því að hún getur tekið nýja stefnu, eins og breytingin frá Orkupakka #2 til Orkupakka #3 sýnir. ACER hefur nú þegar úrskurðað í ágreiningsmálum aðildarlandanna, sem nema tugum milljarða ISK. Í þessu sambandi verður að hafa í huga, að Ísland mun ekki öðlast atkvæðisrétt í ACER án inngöngu í ESB.
"Hráorkan hér, vatn og jarðgufa, getur ekki farið gegnum orkumarkað, eins og eldsneyti aflstöðva Evrópu gerir, og því nær vald landsreglarans einnig yfir vinnslu úr auðlindunum. Þannig virkar þriðji orkupakkinn hér á landi. Þetta fyrirkomulag vegur of mikið að fullveldi okkar, og það er Alþingis að kveða fyrst upp þann dóm. Þingið á að hafna þriðja orkupakkanum."(Undirstr. BJo.)
Elías hefur lög að mæla hér að ofan. Það er viðkvæðið hjá þeim, sem eru á bandi búrókratanna um innleiðingu Orkupakka #3, að hann snerti ekki nýtingu orkulinda landsmanna. Þessu halda þeir fram að óathuguðu máli og hafa ekki áttað sig á, að orkupakkinn snýst líka um afhendingaröryggi, og aðföng virkjananna hafa mikil áhrif á afhendingaröryggi raforku. Þá hefur verið bent á, að erlend orkufyrirtæki geta hæglega keypt sér aðgang að orkulindunum með því að stofna hér til virkjanafyrirtækja. Ekki má mismuna eftir þjóðernum við úthlutun virkjanaleyfa. Ef öll raforkuviðskipti hér utan gildandi langtímasamninga verða sett á frjálsan markað og á meðal kaupenda er öflugur aðili, sem yfirbýður aðra, þá er afleiðingin ekki einvörðungu sú, að hann ryður veikari kaupendum af markaðnum hérlendis, heldur stjórnar hann þá óbeint nýtingu orkulinda landsins.
Líklega hugnast fáum Íslendingum þessi skefjalausi kapítalismi á orkusviðinu, heldur vilja þeir líta á orkuna sem afurð sameiginlegra náttúruauðlinda, sem nýta eigi heimilum landsins og fyrirtækjum til hagsbóta. Það þýðir, að gæta á mikils hófs í arðsemiskröfum til orkufyrirtækjanna, eins og gert hefur verið fram að þessu, og halda spákaupmennsku með orkuna fjarri.
14.1.2019 | 14:12
Villuljós Þriðja orkupakkans
Guðjón Sigurbjartsson, fyrrverandi fjármálastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur, skrifaði grein í Morgunblaðið 1. desember 2018 undir fyrirsögninni:
"Orkupakkinn í stóra samhenginu".
Hann gerir þar að umfjöllunarefni, hverju þarf að breyta á Íslandi til að frjáls samkeppni um rafmagnsviðskipti virki vel. Hann vitnar í danska hagfræðinginn Lars Christensen, en skilyrðin, sem hann telur upp, eru allsendis ófullnægjandi til að hindra, að viðskiptavinir orkubirgjanna beri skarðan hlut frá borði.
Skilyrðin, sem þarf að uppfylla til að markaðskerfi með raforku í anda ESB virki notendum til hagsbóta, eru vel þekkt, en þau munu einfaldlega aldrei verða uppfyllt á Íslandi vegna eðlis orkulindanna, því að ESB bannar miðlæga orkulindastýringu, sem er nauðsynleg við íslenzkar aðstæður, ef hlutur notenda á ekki að verða algerlega fyrir borð borinn. Þessu verða stjórnmálamenn og yfirvöld orkumála í landinu að fara að gera sér grein fyrir. Rafmagn er ekki eins og hver önnur vara á Íslandi, heldur afurð dyntóttra náttúruauðlinda, sem þarf að stjórna nýtingunni á, ef ekki á illa að fara. Að láta frjálsan markað um stýringu auðlindanna krefst aðhalds. Eldsneytiskerfi ESB-landanna er allt öðru vísi farið en orkulindum náttúru Íslands.
Guðjón hefur téða grein sína þannig:
"Danski hagfræðingurinn, Lars Christensen, skoðaði ásamt teymi sérfræðinga skilvirkni orkumarkaðarins á Íslandi og gaf út skýrsluna, "Our Energy 2030" í maí 2016 fyrir Samtök iðnaðarins. Samkvæmt henni þarf þrjár breytingar á okkar raforkumarkaði til að frjáls samkeppni virki vel:
1. Skipta þarf Landsvirkjun upp. Hún framleiðir um 70 % raforkunnar og er því of markaðsráðandi til að markaðurinn virki fullkomlega.
Almenningur þarf ekki að eiga orkukerfið til að fá arð af auðlindinni og njóta lágs orkuverðs. Þjóðin getur fengið sínar tekjur af orkuauðlindunum í formi auðlindarentu og skatta sbr sjávarútveginn."
Við þetta er margt að athuga. Það er þó engum blöðum um það að fletta, að Landsreglarinn á Íslandi, sem verður eftirlitsaðili með því, að frjáls samkeppni ríki á íslenzka raforkumarkaðinum í skilningi samkeppnislaga Evrópuréttarins, eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, mun ekki linna látunum fyrr en ESA gerir athugasemd við ríkisstjórnina um markaðshlutdeild Landsvirkjunar. Ríkisstjórn og Alþingi munu standa vanmáttug gagnvart kröfu ESA og að lokum EFTA-dómstólsins um að jafna samkeppnisstöðuna á raforkumarkaðinum; ekkert síður en lög Alþingis frá 2009 um varnir gegn innflutningi skaðræðissýkla í matvælum frá hinum EES-löndunum voru dæmd brot á EES-samninginum af EFTA-dómstólinum 2017. Þannig verður unnið óhæfuverk á öflugasta orkufyrirtæki landsins, sem stundað hefur hér nauðsynlega auðlindastjórnun til að gæta hagsmuna almennings og verið í stakk búið að byggja upp raforkukerfi landsins í krafti langtímasamninga við erlend framleiðslufyrirtæki. Með því að höggva Landsvirkjun í spað fer orkulindastjórnun landsins í vaskinn, því að undir ACER er hún óleyfileg, nema innan hvers fyrirtækis. Þetta stóreykur hættu á tæmingu lóna og ofnýtingu virkjaðs jarðgufuforða, enda er markaðskerfi ESB alls ekki sniðið fyrir lokað raforkukerfi með þessum náttúruauðlindum sem ríkjandi orkulindum. Allar munu þessar hagfræðilegu æfingar auðvitað valda stórhækkun raforkuverðs í landinu, enda eru refirnir til þess skornir að auka arðsemi raforkugeirans, sem sumir hagfræðingar telja of lága.
Það er röng ályktun hjá Guðjóni Sigurbjartssyni, að sala á hluta eða hlutum úr Landsvirkjun til fjárfesta hérlendis eða erlendis og markaðsvæðing raforkuviðskipta með orkukauphöll að forskrift ESB muni leiða til auðlindarentu og lágs orkuverðs til almennings ásamt skatttekjum til hins opinbera. Þetta þrennt fer ekki saman. Einkafjármagnið kallar á hærri arðsemi fjárfestinganna en opinber fyrirtæki hafa sætt sig við, eins og hagfræðingar, t.d. á Hagfræðistofnun HÍ hafa bent á. Þar að auki mun frjáls samkeppni án miðlægrar auðlindastýringar hæglega leiða til tæmingar lóna að vetri og ofnýtingar virkjaðs jarðgufuforða og þar með rýrnunar hans. Auðlindarenta af nýjum virkjunum fæst auðvitað ekki, nema orkuverðið frá þeim verði hækkað upp fyrir það, sem nægir til að standa undir kostnaði virkjunarinnar. Að afskriftum loknum fæst auðvitað bullandi auðlindarenta, og það er féð, sem ætlunin er að ráðstafa í varasjóð, Þjóðarsjóðinn.
"2. Fjölga þarf hluthöfum að Landsneti, sem flytur orkuna til kaupenda, til að jafna aðgang orkuframleiðenda að markaðinum.
Landsvirkjun, sem á núna langstærsta hlutann, getur ráðið mestu um, hvað er framkvæmt við flutningsnetið. Mikilvægt er, að slíkar ákvarðanir séu teknar út frá heildarhagkvæmni."
Eignaraðilar Landsnets eru 4 orkuvinnslufyrirtæki, og 3 þeirra hafa einnig sérleyfi til raforkudreifingar á sínum athafnasvæðum. Þau eignuðust Landsnet með því að leggja því til eignir við stofnun fyrirtækisins, Landsvirkjun 65 %, RARIK 22 %, OR 7 % og OV 6 %, en Landsnet fjármagnar sig þó sjálft, m.a. á erlendum mörkuðum. Landsnet má ekki draga taum neins, heldur eiga allir viðskiptavinir hennar að njóta jafnstöðu á markaði og lúta sama regluverki. Af sjálfu leiðir, að fulltrúar viðskiptavina mega ekki vera í stjórn kerfisstjórans, og þar sem Landsnet nýtur lögbundinnar einokunaraðstöðu, væri glapræði að hleypa fleiri einkaaðilum í eigendahópinn.
Af þessu leiðir, að eðlilegast er, að ríkissjóður leysi fyrirtækið strax til sín með útgáfu skuldabréfa. Ríkisendurskoðun hefur fundið að núverandi fyrirkomulagi, og það er óskiljanlegt, að ríkisstjórn Íslands skuli hafa leitað eftir og fengið undanþágu frá ESB til að varðveita óeðlilegt fyrirkomulag, sem var hugsað til bráðabirgða og er örverpi. Í nágrannalöndunum er reglan sú, að systurfyrirtæki Landsnets eru í ríkiseigu.
"3. Koma þarf upp spottmarkaði (svo ?) fyrir raforku til þess að laða fram sveigjanlega verðmyndun og nýtingu afgangsorku.
Þetta varðar t.d. hleðslu á rafmagnsbílum í framtíðinni. Hleðsla rafbíls getur t.d. verið stillt þannig, að hún fer í gang, þegar verð lækkar í tiltekið verð eða undir morgun, ef það næst ekki."
Það er ekki nauðsynlegt að koma upp uppboðsmarkaði eða orkukauphöll til að nýta afgangsorku í landinu. Þar nægir, að hver orkubirgir bjóði skilmála sína, t.d. á vefsetri sínu. Orkubirgjarnir hljóta að sjá sér hag í að selja sem mest af orku og verðleggja hana í samræmi við það, breytilega eftir árstíma, til að auka við notkunina að sumarlagi.
Ef hins vegar á að beina notendum á mismunandi tíma sólarhringsins, t.d. rafbílaeigendum á tímabil eftir kvöldtoppinn og fram að venjulegum vinnutíma, þá þarf snjallmæli hjá notandanum. Í þeim og uppsetningu þeirra felst mikil fjárfesting, ef skipta á um mæla alls staðar, en í nýjum töflum, og þar sem notkun er mikil (rafhitun, sum fyrirtæki), eru þeir eðlilegir. Þá er ekki endilega um að ræða að nýta afgangsorku, heldur að bezta nýtingu á innviðum raforkukerfisins, virkjunum, flutningskerfi og dreifikerfi, til að fresta fjárfestingum vegna viðbótar notkunar. Þá getur verið ódýrara að tengja hleðslutækið við rjúfanlega og fjarstýranlega grein í rafmagnstöflu gegn lækkun taxta í gjaldskrá. Þá er um samið, að dreififyrirtækið megi hindra eða stöðva notkun á viðkomandi grein, ef hætta verður á yfirálagi einhvers staðar uppstreymis í kerfinu.
"Styrkja þarf orkuflutningskerfið víða um land með tilkomu sæstrengs. Fá mætti þann kostnað greiddan hjá sæstrengsfyrirtækinu með eins konar aðgöngugjaldi að flutningskerfinu, ef af yrði."
Það er brýnt verkefni að styrkja flutningskerfi raforku innanlands, hvort sem sæstrengur kemur eður ei. Brýnast er að tengja Eyjafjörð við Kröflu og Fljótsdal með 220 kV línu og að útrýma flöskuhálsum, sem valda aflskorti hjá fiskvinnslum (mjölverksmiðjum) Norð-Austurlands. Öllum flöskuhálsum, sem hamla orkuskiptum, þarf að útrýma fyrir 2025, ef markmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum eiga að verða meira en orðin tóm.
Fyrir tengingu um 1200 MW sæstrengs til útlanda við stofnkerfi landsins þarf miklu meiri framkvæmdir. Slík tenging útheimtir tvær 400 kV línur, aðra frá Austurlandi (Fljótsdal) og hina frá Suðurlandi (Sigöldu) og að landtökustað sæstrengsins á Suð-Austurlandi, og gera þarf margháttaðar styrktar- og stöðugleikaráðstafanir með dýrum búnaði. Sterk tenging á milli Norður- og Suðurlands, t.d. jafnstraumsjarðstrengur yfir Sprengisand, um 500 MW, verður þá óhjákvæmileg fyrir stöðugleika kerfisins.
Ef Alþingi innleiðir Orkupakka #3 í EES-samninginn og íslenzka löggjöf, þá verður óheimilt að nota tekjur af sæstrengnum til að fjármagna flutningskerfið innanlands, heldur verður að fjármagna þessar miklu framkvæmdir, sem munu nema mrðISK 100-200, með hækkun gjaldskrár Landsnets á notendum innanlands. Þetta gæti þýtt 35 % hækkun gjaldskrár Landsnets umfram það, sem ella væri nauðsynlegt.
"Sæstrengur verður ekki lagður, nema í einkaframkvæmd á ábyrgð fjárfesta. Fjárfestar munu ekki leggja í framkvæmdina, nema stjórnvöld styðji framkvæmdina, því að verkefnið kallar á framkvæmdir við raforkuflutningskerfið og útvegun raforku til að nýta strenginn."
Þetta sjónarmið á aðeins við, á meðan Ísland er utan við Orkusamband ESB (ACER). Eftir samþykkt Orkupakka #3, sem vonandi aldrei verður, stendur lán frá ESB fjárfestum, íslenzkum eða erlendum, til boða, þar sem sæstrengurinn er nú þegar á forgangsverkefnalista ACER. Skilyrðið er þó, að Landsreglarinn á Íslandi og í hinu hýsingarlandi strengsins verði sammála um alla tæknilega og viðskiptalega skilmála strengsins.
Er hér verður komið sögu, verður komin orkukauphöll hérlendis, sem verður tengd við orkukauphöll í móttökulandi strengsins, þannig að íslenzkir raforkunotendur lenda í beinni samkeppni við raforkunotendur erlendis við tengingu sæstrengsins. Versnar þá samkeppnisstaða íslenzkra fyrirtækja og kaupmáttur heimila að sama skapi sem orkuverðið hækkar. Þetta fyrirkomulag gengur þvert á hagsmuni íslenzks almennings, enda er kerfið hannað fyrir aðra en hann. Hljóta atvinnurekendur og verkalýðshreyfing að geta sameinazt í andstöðu við slíkan óþurftargerning.
"Þó að verðmæti raforkunnar aukist umtalsvert við opnun nýrra markaða um sæstreng, hækkar verð til 90 % heimila ekki. Fáir hér munu finna fyrir hækkun raforku aðrir en stórnotendur. Almenningur mun hins vegar hagnast af auðlindagjöldum og fleiru, ef strengur verður að veruleika."
Það er undir hælinn lagt, hversu mikið verðmæti íslenzkrar raforku hækkar við þetta. Verðið fyrir raforkuna inn á endabúnað sæstrengsins ræðst af raforkuverðinu, sem kaupandinn erlendis er fús til að greiða, og frá því verði til kaupanda dregst flutningskostnaður um sæstrenginn og endabúnað hans, sem rennur til sæstrengseigendanna. Þegar sæstrengurinn hefur verið bókhaldslega afskrifaður, getur raforkuverðið til birgja hér aftur á móti hækkað stórlega.
Það er alveg út í hött að fullyrða, að raforkuverð til 90 % heimila hækki ekki. Verðið til allra heimila mun hækka, þótt ekki væri nema bara til að fjármagna nýjar framkvæmdir í virkjunum og stofnlínum og aðveitustöðvum. Stórnotendur með langtímasamninga munu hins vegar ekki finna fyrir þessu fyrst um sinn, nema þeir þurfi að kaupa viðbótar orku á markaði. Auðlindagjöldin til ríkisins (Þjóðarsjóðs) munu auðvitað koma úr vösum almennings hérlendis, eins og annarra raforkukaupenda, er fram líða stundir, svo að það er hæpið að færa þau á tekjuhlið almennings. Guðjón Sigurbjartsson bregður þannig upp einskærum villuljósum í sambandi við Orkupakka #3.
"Það fylgja sæstreng ýmsir fleiri kostir. Hann eykur afhendingaröryggi, þannig að ef hér verða náttúruhamfarir, sem gera virkjanir óstarfhæfar, mætti e.t.v. flytja inn orku, þar til úr rætist. Þá bætir strengurinn nýtingu vatnsaflsvirkjana, því að hægt er að flytja inn ódýra næturorku, sem stundum stendur til boða."
Líklega er afhendingaröryggi raforku um sæstreng, eins og "Icelink", minna en nú gerist almennt á Íslandi. Þess vegna er ólíklegt, að slíkt áhættumannvirki auki almennt afhendingaröryggi raforku á Íslandi. Þá eru meiri líkur á afhendingartruflun raforku í náttúruhamförum vegna línu- og aðveitustöðvarbilana en virkjanabilana. Boðaður lendingarstaður aflsæstrengs er á Suð-Austurlandi á áhrifasvæði Vatnajökuls, þar sem a.m.k. er að finna 3 eldstöðvar, sem hafa látið á sér kræla. Katla gæti líka slegið út flutningslínum á Suð-Austurlandi. Þetta gerir að verkum, að það er vart hægt að reikna með nokkurri orkuafhendingu að gagni til Íslands í slíkum náttúruhamförum. Sæstrengur getur jafnvel gert illt verra í þessum efnum, ef menn hafa af óforsjálni lækkað mjög í miðlunarlónum og sett traust sitt á strenginn, en hann eða línurnar að honum bila svo, þegar hæst á að hóa. Slíkt mannvirki veitir falskt öryggi.
Það er slæm viðskiptahugmynd út frá hagsmunum íslenzks almennings að flytja inn rafmagn um sæstreng til Íslands að næturþeli til að selja að deginum hér innanlands. Sjaldan er nokkurt næturrafmagn fáanlegt í Evrópu á lægra verði en hér ríkir nú allan sólarhringinn, og þegar búið verður að bæta flutningskostnaðinum við um strenginn og hér innanlands, verður það margfalt dýrara en núverandi rafmagnsverð á Íslandi. Allar hugmyndir í þessa veru eru reistar á stórhækkun raforkuverðs á Íslandi. Sú hækkun hækkar rekstrarkostnað heimila og fyrirtækja, grefur undan samkeppnisstöðu fyrirtækjanna og getur jafnvel tekið lifibrauðið frá fjölda manns.
"Til að nýta sæstreng þarf að auka orkuframleiðslu um sem nemur tveimur virkjunum á borð við Búrfellsvirkjun eða rúmlega það. Tilkoma strengsins bætir reyndar nýtingu kerfisins um sem nemur einni slíkri virkjun vegna ódýru næturorkunnar. Umhverfisvæn orka héðan getur dregið úr notkun meira mengandi orku í Bretlandi"
Búrfellsvirkjun er 270 MW að uppsettu afli og 2300 GWh/ár að vinnslugetu. Guðjón virðist þannig gera ráð fyrir orkuútflutningi um 5 TWh/ár. Það er bara helmingsnýting á flutningsgetu 1200 MW sæstrengs. Ekki er ljóst, hvernig kaup á næturorku frá útlöndum um strenginn geta bætt nýtingu íslenzkra virkjana. Sú nýting getur aðeins aukizt með því að selja meira afl, þegar miðlunarlón fyllast, en til þess þarf að auka aflgetu virkjana, líklega aðallega Fljótsdalsvirkjunar. Að sæstrengur geti aukið nýtingu núverandi virkjana um 2300 GWh/ár umfram það, sem innlendi markaðurinn getur, að teknu tilliti til orkuskipta og jafnvel vetnisframleiðslu, er útilokað.
Guðjón Sigurbjartsson klykkir út með eftirfarandi, þar sem boðskapurinn er ófélegur:
"Þriðji orkupakkinn varðar reglur um sameiginlegan orkumarkað Evrópu með hagsmuni neytenda í forgrunni. Við höfum tekið skref í átt að markaðsvæðingu orkugeirans og þurfum að ljúka því verki fyrir neytendur í landinu.
Evrópski orkumarkaðurinn er mikilvægur fyrir frændur okkar Norðmenn og vont að bregða fæti fyrir þá.
Ef reglur markaðarins liggja fyrir, eru meiri líkur á, að einkaaðilar sýni sæstreng áhuga. Ef af sæstreng verður, verður það mjög hagfellt fyrir almenning í þessu landi.
Það er því ekkert að óttast við að staðfesta þriðja orkupakkann, heldur mögulegt, að það verði okkur mjög hagfellt."
Þótt Þriðji orkupakkinn kunni að henta íbúum meginlands Evrópu, er ekki hægt að hrapa að þeirri ályktun, að hann henti Íslendingum. Hér eru aðstæður raforkuvinnslunnar og raforkumarkaðarins svo gjörólíkar, að þvert á móti má fullyrða, að almenningur á Íslandi myndi stórtapa á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.
Almenningur í Noregi hefur miklar áhyggjur af því, að Orkupakki #3 muni leiða til enn frekari hækkana raforkuverðs í Noregi og þar af leiðandi verri samkeppnisstöðu norskra fyrirtækja, einkum orkukræfra framleiðslufyrirtækja, sem að nokkru eru á frjálsum raforkumarkaði, þótt megnið af raforkukaupum þeirra sé samkvæmt langtímasamningum. Margir óttast, að Landsreglari Noregs, sem er aðeins háður ESA/ACER, muni fetta fingur út í endurnýjun langtímasamninga, af því að meginregla ACER er sú, að öll raforkuviðskipti fari fram í Orkukauphöll. Þar keppa norsk fyrirtæki um norska orku við fyrirtæki innan ESB vegna millilandatenginganna, sem eru margar og fer fjölgandi. Þessi evrópsku fyrirtæki eru mörg hver betur í sveit sett en norsk fyrirtæki m.t.t. aðdrátta, markaða, launakostnaðar og opinberra gjalda.
Það er rétt hjá Guðjóni, að innleiðing Orkupakka #3 eykur líkur á, að hingað verði lagður sæstrengur. ESB/ACER virðist hafa á því áhuga til að krækja í raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, sem mikill hörgull er á um þessar mundir í ESB, svo að nálgast örvæntingu þar á bæ vegna óraunhæfrar markmiðssetningar. Það er hins vegar algerlega úr lausu lofti gripið hjá Guðjóni, að sala rafmagns úr landi verði "mjög hagfellt fyrir almenning í þessu landi". Það jafngildir því að flytja vinnu og verðmætasköpun úr landi, og ímyndaður arður af þessum viðskiptum til baka til almennings verður aldrei annað en dropi í hafið hjá þeim gríðarlegu verðhækkunum rafmagns, sem sá sami almenningur mun þurfa að bera.
Trúarjátningunum í garð EES og Orkupakka #3 linnir ekki, en þær eru, eins og önnur trúarbrögð, hvorki reistar á tiltækum staðreyndum annars staðar frá né á rökhyggju. Þær eru reistar á trú, von og kærleika í garð spákaupmanna, sem hyggjast maka krókinn, eins og t.d. hefur gerzt í Noregi við innleiðingu uppboðsmarkaðar á raforku þar og stækkun markaðarins með millilandatengingunum. Eins dauði er annars brauð (Eines Tod einem anderen Brot).
5.1.2019 | 17:47
Átta landa gengið innan ESB
Í fersku minni er frá fyrsta ársfjórðungi 2016, er einn helzti fyrrum hvatamaður inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, líkti slíkri inngöngu við að hlaupa inn í brennandi hús. Það, sem Jóni B. Hannibalssyni ofbauð helzt við hið brennandi hús, var myntbandalagið og meðferð ráðandi afla þar, Frakklands og Þýzkalands, á veikburða suðurríkjum bandalagsins, einkum Grikklandi.
Aðgerðir ESB, ESB-bankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, til að bjarga Grikklandi frá gjaldþroti í kjölfar alþjóðlegs fjármálahruns 2007-2008 voru í raun lenging í hengingaról Grikkja til bjargar lánadrottnum Grikkja, sem að stærstum hluta voru franskir og þýzkir bankar, sem margir hverjir stóðu tæpt og eru enn laskaðir. Síðan þá hefur runnið upp fyrir æ fleirum, hvað ESB í raun og veru er orðið: það er vanheilagt bandalag skriffinnskubákns og stórkapítals. Hagsmunir hins vinnandi manns og konu á Íslandi og þeirrar klíku geta ekki farið saman. Var ekki Icesave-deilan áminning um það ?
Það kennir margra grasa innan ESB, og núningurinn er ekki aðeins á milli norðurs og suðurs; hann er einnig á milli austurs og vesturs. Límið, sem hindrað hefur klofning eftir gamla járntjaldinu, er ótti Austur-Evrópuríkjanna við rússneska björninn.
Eystrasaltslöndin þrjú, sem innlimuð voru í Ráðstjórnarríkin, þegar Wehrmacht hörfaði undan ofureflinu 1944 eftir vanhugsaða "Operation Barbarossa"-Rauðskeggsaðgerðina, stærstu hernaðaraðgerð sögunnar, eru reyndar ekki í bandalagi Austur-Evrópuríkjanna innan ESB, heldur eru þau í Nýja Hansasambandinu, þar sem eru 5 önnur ríki: Írland, Holland, Danmörk, Svíþjóð og Finnland. Það, sem sameinar þessi ríki, er, að standa fast á Maastricht-skilmálunum um heilbrigðan rekstur ríkissjóðs hvers lands, og þau vilja ekki sjá sameiginleg fjárlög og einn fjármálaráðherra evrusvæðisins né stóran samtryggingarsjóð til að forða veikum ríkissjóðum frá greiðslufalli. Miðstýrðasta ríki Evrópu, Frakkland, sem að ýmsu leyti stendur veikt, herjar á um þessa óvinsælu samrunaþróun. Þar horfa Frakkar aðallega til þess, að hinir duglegu, aðhaldssömu og skilvirku nágrannar austan Rínar dragi þá upp úr foraðinu, sem þeir hafa ratað í vegna óráðsíu.
Ríkin 8 eiga sér reyndar stuðningsríki um þetta í Slóvakíu, sem var austan járntjaldsins í austurhluta Tékkóslóvakíu, og Slóveníu, sem var nyrzta ríki Júgóslavíu. Þýzkaland er nú hlédrægur bakhjarl Nýja Hansasambandsins, eins og á miðöldum, þegar nokkrar þýzkar verzlunarborgir voru mikilvægur hluti Hansasambands miðalda.
Ástæðan fyrir hæglátri afstöðu Þýzkalands er sú, að Nýja Hansasambandið beinist aðallega að Frakklandi, og Þýzkaland reynir enn að stjórna ESB í nánu samstarfi við Frakkland. Það verður hins vegar stöðugt erfiðara fyrir Þýzkaland að hlaupa eftir duttlungum Frakklands um "samstöðu", sem snýst um að hlaupa undir bagga með veika manninum í Evrópu, Frakklandi, sem neitar að taka á sínum málum. Frá þessum veika manni Evrópu koma alls konar blautir draumar með rætur í gamalli og löngu horfinni stórveldistíð, t.d. lágvaxna Korsíkumannsins, eins og um sameiginlegan herafla, sem varizt geti Rússum, Bandaríkjamönnum og Kínverjum. Þetta er út í hött á sama tíma og þessi forysturíki ESB og mörg fleiri hafa ekki treyst sér til að standa við skuldbindingar sínar innan NATO um framlög til hermála.
Skattbyrðin er mest í Frakklandi innan OECD, og Macron, forseti, sem verið hefur með digurbarkalegar yfirlýsingar um að láta ekki óeirðaseggi stjórna málefnum Frakklands, hefur reynzt vera pappírstígrisdýr, sem gaf eftir fyrir gulvestungum og skaðaði þannig pólitískt orðspor sitt. Við það vex hallinn á ríkisbúskap Frakka enn, og það verður fróðlegt að sjá Brüssel hirta Gallana fyrir skuldasöfnun, sem ógnar stöðugleika evrunnar. Það verður þó aðeins gert með samþykki Berlínar, og þar er þolinmæðin á þrotum gagnvart framferði Gallanna. Verði Gallinn hirtur, mun hrikta í öxlinum Berlín-París, en verði Gallanum sleppt við hirtingu, mun Nýja Hansasambandið, Ítalir, Grikkir o.fl. móðgast.
Hvatinn að Nýja Hansasambandinu, sem myndað var í desember 2017 að frumkvæði fjármálaráðherra landanna 8, var BREXIT. Löndin höfðu talið hag sínum vel fyrir komið með Bretland sem boðbera frjáls markaðar og Þýzkaland sem boðbera heilbrigðra ríkisfjármála sem mótvægi við franskan ákafa um "samstöðu" í ríkisfjármálum og verndarstefnu á viðskiptasviðinu. Valdajafnvægið innan ESB breytist við brotthvarf Breta, Frökkum í vil, og Nýja Hansasambandið á að verða þar mótvægi.
Í sameiginlegri skýrslu fjármálaráðherra 8-landa gengisins frá marz 2018 er lögð áherzla á, að "fyrst og fremst" eigi ríkin að haga ríkisfjármálum í "fullu samræmi" við ríkissjóðsreglur ESB. Ef allir mundu haga sér með ábyrgum hætti og kæmu reglu á opinber fjármál, þá yrði hægt að takast á við ytri áföll, án þess að skattgreiðendur annarra landa þyrftu að hlaupa undir bagga, skrifuðu þeir. Haukar ríkisfjármálanna halda því fram, líklega með Ítalíu í huga, að stöðugleikasjóður, sem dreifir áhættu á milli ríkja, mundi einnig virka hvetjandi til óhófs og letjandi á aðhaldssemi. Nýja Hansasambandið mundi fremur hvetja til eflingar markaðsaflanna innan ESB, t.d. að hraða umbótum á fjármálamarkaðinum eða að gera fleiri fríverzlunarsamninga við ríki utan EES.
Íslendingar mundu að mörgu leyti eiga samleið með hinu Nýja Hansasambandi, en aðild að ESB kemur hins vegar ekki til greina, því að sjálfsákvörðunarrétturinn og umráðaréttur yfir auðlindum landsins færu þá veg allrar veraldar. Bretar fengu nóg af miðstjórnarvaldinu í Brüssel og klíkustjórnun öxulsins Berlín-París, sem hundsaði Bretland. Slíku getur gamalt stórveldi ekki torgað lengi. Bretar hafa sennilega endanlega fengið sig fullsadda á Evrópusambandinu í útgönguviðræðunum og munu eftir útgönguna taka upp samkeppni við það á mörgum sviðum, sem leitt getur til, að þeirra gömlu bandamenn innan ESB, sem nú mynda Nýja Hansasambandið, segi skilið við ESB með tíð og tíma og gangi í fríverzlunarbandalag, hugsanlega EFTA. Mun þá gamla Hansasambandið ganga í endurnýjun lífdaganna. Það eru ýmis innanmein í ESB, sem benda til, að þetta vanheilaga samband skrifstofuveldis og stórkapítals muni líða undir lok í sinni núverandi mynd fyrr en síðar.
Þjóðríkishugmyndinni hefur vaxið fiskur um hrygg í Evrópu síðan ríki Habsborgara leið undir lok 1918. Íslendingar kærðu sig ekki um að vera í ríkjasambandi við Dani, en meirihluti Færeyinga virðist enn kjósa það. Skotar, Walesverjar og Norður-Írar verða líklega áfram í sambandsríki með Englendingum, þannig að það er mismunandi afstaða uppi, og tungumálið virðist ráða töluverðu um afstöðu þjóða, t.d. á Bretlandseyjum, þar sem allir tala ensku.
Heillavænlegast er, að ákvarðanir um málefni íbúa séu teknar í nærumhverfi þeirra. Þannig eru langflestir hérlendis þeirrar skoðunar, að stjórnun málefna Íslands hafi batnað markvert með Heimastjórninni 1904. Að sama skapi telja mjög margir, að það yrði dapurlegt afturhvarf til fortíðar að flytja stjórnun málefna Íslands að talsverðu leyti til Brüssel, enda hefur iðulega komið í ljós, að hagsmunir landa á meginlandi Evrópu fara ekki saman við hagsmuni eyjarskeggja langt norður í Atlantshafi. Það er auðskiljanlegt.
3.1.2019 | 15:28
Væntingar um vetni
Samkvæmt sumum áætlunum þarf að ferfalda rafmagnsvinnslu í heiminum á næstu 30 árum til að sinna eftirspurnaraukningunni, m.a. vegna orkuskiptanna. Á Íslandi mun rafmagnsvinnslan líklega aukast um 50 %-100 % á sama tímabili, þ.e. hún mun vart ná að tvöfaldast. Ef tilraunir með djúpboranir niður á 5 km dýpi heppnast, mun afl hverrar gufuholu geta tífaldazt. Þá aukast möguleikar á alls kyns umhverfisvænni orkunýtingu hérlendis, t.d. vetnisframleiðslu til innanlandsbrúks og útflutnings. Aflsæstrengur til útlanda getur varla keppt við slíkt með öllum sínum stofnkostnaði, orkutöpum og rekstaróvissu, m.a. vegna bilanahættu og langs stöðvunartíma í bilunartilvikum.
Orkuskiptin verða almennt tæknilega erfiðari í ýmsum orkunýtingargeirum en í raforkuvinnslunni. Þar má nefna svið, þar sem liþíum-rafgeymum eða rafmagni verður illa við komið, s.s. í þungaflutningum á landi, í skipum, flugvélum, upphitun húsnæðis og í iðnaði.
Árið 2014 (nýjustu áreiðanlegu upplýsingar) myndaði þessi starfsemi (þar sem bein rafvæðing er torsótt) 15 mrðt (milljarða tonna) af CO2 eða 41 % af losun orkutengdrar starfsemi, en raforkuvinnslan myndaði minna eða tæplega 38 % orkutengdrar losunar. Mesta losun CO2 frá iðnaðarstarfsemi er frá járn- og stálverksmiðjum, 6,4 %, sementsverksmiðjum, 6,1 % og frá efnaverksmiðjum, 3,0 %. Álverksmiðjur losa aðeins 0,8 % af heild orkutengdrar starfsemi.
Framundan er sögulegt átak til að forða jörðunni frá ofhlýnun fyrir núverandi líf af völdum gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar. Á 200 ára skeiði frá upphafi kolanotkunar til 1970 myndaði bruni jarðefnaeldsneytis og iðnaðarframleiðsla 420 mrðt af gróðurhúsalofttegundum, aðallega CO2. Á 40 ára tímabilinu 1970-2011 þrefaldaðist þetta koltvíildismagn og varð þá 1,3 Trnt, aðallega við iðnvæðingu fjölmennra Asíuþjóða. Landbúnaður og landnotkun (án eldsneytisbruna) valda um fjórðungi heildarlosunar, og orkutengd losun 3/4 heildarlosunar.
Varðandi landnotkunina ættu menn hérlendis ekki að hrapa að aðgerðum á borð við uppfyllingu í skurði, því að nýjar mæliniðurstöður hérlendis benda til, að upphaflegt talnaefni, sem að miklu leyti var fengið erlendis frá, þar sem lofthiti og jarðvegur er annar en hér, gefi til kynna allt of mikla minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda við endurheimt votlendis. Hins vegar er bráðnauðsynlegt að beina auknu fé, sem fæst t.d. af kolefnisgjaldtökunni, yfir í skógrækt og landgræðslu og halda sem nákvæmast bókhald um þá mótvægisaðgerð með mælingum á koltvíildisnámi nýræktar. Þessar mælingar þurfa að njóta alþjóðlegrar viðurkenningar.
Steven Davis við Irvine Kaliforníuháskólann hefur stjórnað rannsókn á því, sem þarf til að orkunotkunin verði kolefnisfrí í heiminum m.v. þekkta tækni. Auk rafmagns og rafgeyma segir hann þurfa vetni og ammoníum, lífeldsneyti, gervieldsneyti, að fjarlægja kolefni úr útblæstri og geyma það í jörðu og að taka koltvíildi úr andrúmsloftinu og setja í trygga geymslu, væntanlega neðanjarðar.
Vetni gæti gegnt hlutverki við að knýja áfram létt og þung farartæki, við hitun og stálvinnslu. Vetni, H2, og koleinildi, CO, eru aðalefniviður gervieldsneytis fyrir þotuhreyfla. Að fjarlægja C úr afgösum kemur til greina við hitun og sementgerð.
Þeir, sem vinna að því að fjarlægja kolefni úr orkukerfum heimsins, búast við gegnumbroti í þeim efnum 2025-2035. Þá muni koma fram á sjónarsviðið flutningatæki með langa drægni, knúin rafgeymum og vetni, og að þá muni vetni leysa jarðgas af hólmi sem hitagjafi við húsnæðisupphitun. 2030-2040 verði framleitt gervieldsneyti fyrir skip og flugvélar. 2040-2050 verði kolefnisbrottnámi og geymslu þess beitt í stórum stíl; svo og verði vetni beitt í stórum stíl í iðnaði í stað jarðefnaeldsneytis. 2050-2060 verði nettólosun gróðurhúsalofttegunda engin með hjálp stórfelldrar endurræktunar skóga og með því að vinna CO2 úr loftinu og geyma það á föstu formi, t.d. neðanjarðar.
Orkuskiptin verða kostnaðarsöm, en Íslendingar verða í kjörstöðu með sínar endurvinnanlegu orkulindir; það væri glapræði að spreða þeim inn á sæstreng með öllum sínum orkutöpum áður en til nýtingar kemur. Við getum rafgreint vatn með sjálfbærri raforku og þannig orðið sjálfum okkur nóg um vetni til eldsneytisframleiðslu fyrir innanlandsmarkaðinn og jafnframt flutt út umtalsvert magn vetnis, t.d. til Bretlands, en Bretar hafa mikil áform um vetnisvæðingu sem lið í orkuskiptum hjá sér.
Adair Turner, formaður "Energy Transitions Commission", ETC, sem eru alþjóðleg samtök um orkuskipti, segir, að árlegur kostnaðarauki við rekstur kerfa, þar sem orkuskiptin eru tæknilegum vandkvæðum háð, án nettó losunar, muni nema TrnUSD 1,2 árið 2050. Þetta er há upphæð, en þó líklega svipuð og nemur árlegum útgjöldum til hernaðar og vígbúnaðar í heiminum, svo að ekki ætti sá þröskuldur að vera óyfirstíganlegur.
Eftir stöðuga lækkun framleiðslukostnaðar helzta neyzluvarnings áratugum saman vegna tækniþróunar, framleiðniaukningar og flutnings á vöruframleiðslu frá hákostnaðarlöndum til lágkostnaðarlanda, sem drifið hefur áfram sífellt vaxandi neyzlu í heiminum og fækkað örfátækum, stendur heimurinn nú líklega frammi fyrir hækkandi framleiðslukostnaði um sinn í fyrsta skipti í langan tíma. Það veldur pólitískri tregðu við að taka á málum af einurð.
Í skýrslu frá ETC segir, að til að ná nettó núll kolefnislosun frá orkutengdri starfsemi manna þurfi að auka vetnisvinnsluna úr um 60 Mt/ár í 500-700 Mt/ár um miðja þessa öld. Þó er ekki gert ráð fyrir mörgum bílum knúnum vetnisrafölum.
Núverandi vetnisvinnslu úr vatnsgufu með jarðgasi, sem stendur undir 95 % vinnslunnar, verður að umbylta yfir í rafgreiningu vatns með rafstraumi frá sjálfbærum orkulindum, svo að gagn verði af henni. Þar liggja mikil tækifæri fyrir þjóðir með miklar ónotaðar, sjálfbærar orkulindir. Íslendingar eru þar á meðal, og innlend vetnisframleiðsla getur orðið í senn gjaldeyrissparandi, gjaldeyrisaflandi og atvinnuskapandi. Hún verður mjög vænlegur valkostur við útflutning á raforku strax í byrjun næsta áratugar vegna skorts á vetni í heiminum, sem framleitt er án koltvíildislosunar að nokkru marki.
30.12.2018 | 15:16
Vaxandi áhugi á vetni
Rafmagnsbílum fjölgar ört í heiminum, og munar þar mest um kínverska framleiðslu og kaupendur. Þar er stefna stjórnvalda að draga úr loftmengun, einkum í stórborgunum, þar sem hún er löngu komin á stórskaðlegt stig og leiðir til ótímabærs dauðdaga yfir 100 þúsund manns á ári hverju. Þetta skelfilega ástand hefur valdið þjóðfélagslegri spennu. Liður í úrbótum stjórnvalda er rafvæðing bílaflotans, þótt slíkt sé skammgóður vermir, þar sem megnið af raforkuvinnslunni er kolaknúin. Kínverjar hafa hins vegar uppi mikil áform um að kjarnorkuvæða raforkuvinnsluna, og hafa sett háar upphæðir í þróun kjarnorkutækni, einnig með klofnun annarra frumefna en úraníum, t.d. þóríum.
Kínverjar ganga róttækt til verks á sviði loftslagsmála. Þeir hafa tryggt sér meirihlutann af vinnslugetu málma, sem þarf til að framleiða liþíum-rafgeyma. Af þessum sökum hefur verð á þeim hækkað mikið og hörgull er á þeim inn á heimsmarkaðinn. Þetta torveldar framboð nýrra rafmagnsbíla, en samt hefur framleiðsla þeirra aukizt hratt á síðustu árum. Frá miðju ári 2014 tvöfaldaðist fjöldi þeirra í heiminum úr 1 M í 2 M á 17 mánuðum,og síðan tók aðeins 6 mánuði að tvöfalda fjöldann úr 2 M í 4 M. Í árslok 2018 gætu þeir verið um 10 M í heiminum öllum, sem þó er aðeins rúmlega 1 % af heildarfjöldanum. Á Íslandi er fjöldi alrafbíla um 2500, sem er um 1 % af fólksbílafjöldanum. Framboðið er hreinlega ekki nægt til að hægt sé að ná markmiði stjórnvalda. Að hækka kolefnisgjaldið til að hraða fjölguninni er út í hött við þessar aðstæður.
Orkutengd losun mannkyns 2014 nam alls 36,2 mrðt af CO2 og var bróðurparturinn af losun mannkyns. Það mun enginn umtalsverður árangur nást í baráttunni við gróðurhúsaáhrif koltvíildis í andrúmsloftinu fyrr en stórtæk tækni við kolefnisausa vinnslu raforku lítur dagsins ljós, því að raforkuvinnslan veldur 37,6 % orkutengdrar losunar. Þegar árangur næst á þessu sviði, t.d. með þóríum-kjarnorkuverum, þá verður hægt að vinna vetni í stórum stíl með rafgreiningu úr vatni án kolefnislosunar. Gallinn við þetta ferli eru mikil orkutöp eða um 25 % við rafgreininguna sjálfa. Hún krefst þess vegna um 50 kWh/kg H2. Eðlisorkan er um 33 kWh/kg, sem er einhver hæsta eðlisorka eldsneytis, sem þekkist.
Af þessum orsökum hentar vetni vel sem eldsneyti á farartæki. Samgöngur valda 26,1 % orkutengdrar losunar CO2. Nokkrir stórir japanskir og Suður-kóreanskir bílaframleiðendur hafa tekið stefnuna á vetnisrafalaknúna rafmagnsbíla. Það eru góð rök fyrir því að því gefnu, að nægt "grænt" vetni verði á boðstólum. Til að ná 650 km drægni fólksbíls þarf hann vetnisknúinn aðeins að vera 1400 kg, en 3000 kg knúinn liþíumrafgeymum. Vetnið kostar núna um 1,35 USD/kg, en spáð er hækkun upp í 2,3 USD/kg árið 2020. Reikna má með a.m.k. 100 km/kg vetnis, sem þýðir, að þetta síðar nefnda verð má tvöfaldast án þess, að orkukostnaður vetnisbíls verði hærri en rafmagnsbíls með liþíum rafgeyma.
Vetnið má einnig nota til framleiðslu á gervieldsneyti, og það er mjög vænleg framleiðsla á næstu áratugum fyrir vinnuvélar, skip og flugvélar. Koltvíildi andrúmsloftsins er hinn grunnþáttur þessarar gervieldsneytisframleiðslu. Hérlendis mætti framleiða um 150 kt/ár (k=þúsund) af umhverfisvænu vetni, sem sumpart færi beint á farartæki, sumpart færi það í eldsneytisframleiðslu og afgangurinn væri fluttur utan, t.d. til Norð-Austur Englands, þar sem það verður notað til að leysa jarðgas af hólmi við upphitun húsnæðis.
Það er sjálfsagt að nýta sjálfbærar orkulindir til framleiðslustarfsemi hér innanlands, sem verða má að liði í baráttunni við ofhlýnun jarðar, sem leiðir m.a. til ofsúrnunar hafsins og getur haft alvarleg áhrif á lífríkið innan efnahagslögsögu Íslands. Að gera landið sjálfu sér nægt um eldsneyti hefur gríðarlega efnahagslega þýðingu, svo og öryggislega þýðingu. Að framleiða vetni verður arðsöm starfsemi, og með slíkri framleiðslu verður ekkert svigrúm eftir til rafmagssölu inn á sæstreng, jafnvel þótt stóriðjuver loki. Þetta veldur því, að Ísland verður áfram einangraður raforkumarkaður, og raforkuverðshækkanir geta þá orðið hóflegar og fylgt kostnaðarhækkunum virkjanafyrirtækja, flutnings- og dreifingarfyrirtækja.
27.12.2018 | 11:36
Hvað má loftslaginu til bjargar verða ?
Nýlega var haldin ráðstefna í Póllandi í héraði, þar sem mikil loftmengun er frá kolakyntum raforkuverum. Þetta var framhald Parísarráðstefnunnar í desember 2015; fjölmennar voru báðar og mengandi, en árangur óáþreifanlegur, enda umræðuefnið ekki það, sem máli skiptir. Höfuðatriðið hér er, hvernig á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og þar leika raunvísindamenn aðalhlutverkið, en embættismenn og stjórnmálamenn manna ræðupúltin og hinar fjölmennu, rándýru og ósjálfbæru ráðstefnur til að ræða stefnur og markmið.
IEA (The International Energy Agency-Alþjóðlega orkumálastofnunin) áætlar, að heimslosun CO2 í ár, 2018, nái nýjum hæðum, sem sýnir haldleysi fagurgala á fjölmennum ráðstefnum. Megnið af losuninni stafar af orkuvinnslu- eða orkunýtingarferlum.
Árið 2014 nam þessi losun 36,2 mrðt (milljörðum tonna), og var rafmagnsvinnsla 37,6 % þar af, en hitt, 62,4 %, skiptist á milli samgangna, 26,1 %, iðnaðar 22,7 %, húsnæðishitunar 9,2 % og annars 4,4 %. Þessar hlutfallstölur eru nytsamlegar til að gera sér grein fyrir viðfangsefninu, sem felst í að stöðva hitastigshækkun lofthjúps jarðar af mannavöldum með engri nettólosun gróðurhúsalofttegunda eigi síðar en 2050.
Það er óhjákvæmilegt fyrir heimsbyggðina að grípa til róttækra ráðstafana til að gera rafmagnsvinnsluna kolefnisfría. Það hefst aldrei með fjölgun vind- og sólarorkuvera einvörðungu. Kjarnorkan verður að koma til skjalanna. Verið er að þróa kjarnorkuver með mun minna geislavirkum úrgangi og styttri helmingunartíma geislavirkni hans, sem að auki eru öruggari í rekstri en úraníum-kjarnorkuverin.
Í samgöngunum munu rafknúnir bílar taka við, og vetnið mun knýja stærri samgöngutæki eða tilbúið eldsneyti úr vetni og koltvíildi/koleinildi, CO2 t.d. frá jarðgufuverum. Rafgeymarnir mynda flöskuháls í framleiðsluferli rafmagnsbíla, og þess vegna verður fyrirsjáanlega að grípa til vetnisrafala í bílum í einhverjum mæli. Stórir bílaframleiðendur í Asíu þróa nú slíka tækni.
Í iðnaðinum stendur yfir mikil þróun til að losna við kolefni úr framleiðsluferlinu. Þar gegnir vetni lykilhlutverki. Alcoa og Rio Tinto hafa stofnað þróunarfélag, Elyses, til að þróa álvinnslu án kolefnisskauta og reyndar án vetnis líka. Með eðalskautum, sem hafa a.m.k. 15 sinnum lengri endingu en kolefnisskautin, mun myndast súrefni við rafgreiningu súráls í stað koltvíildis frá kolaskautunum. Annars myndast tiltölulega lítið af gróðurhúsalofttegundum við vinnslu áls í heiminum; aðeins um 300 MtCO2eq/ár eða 0,8 % allrar orkutengdrar losunar koltvíildis. Ef álnotkun í landfarartækjum heimsins hefur leitt til 5 % eldsneytissparnaðar þessara farartækja, þá jafngildir sú minnkun gróðurhúsalofttegunda helmingi losunar frá öllum framleiðslustigum álsins.
Í mörgum löndum fer megnið af orkunotkun heimilanna til upphitunar eða kælingar. Hitunarferlið er í mörgum tilvikum knúið jarðgasi. Á Norð-Austur Englandi er þróunarferli hafið, sem snýst um að leysa jarðgasið af hólmi með vetni. Leeds-borg hefur forystu um þetta. Þarna er markaðstækifæri fyrir Íslendinga, því að talið er, að árið 2020 muni verð vetnis hafa hækkað úr núverandi 1,35 USD/kg í 2,30 USD/kg vegna aukinnar eftirspurnar og hærri framleiðslukostnaðar úr jarðgasi vegna kolefnisgjalds. Við þetta verð fást 46 USD/MWh af rafmagni, en til samanburðar er listaverð Landsvirkjunar núna á forgangsorku 43 USD/MWh.
Talið er, að núverandi vetnisframleiðsla þurfi að tífaldast hið minnsta vegna orkuskiptanna. Hún fer hins vegar nú aðallega fram með vinnslu úr jarðgasi (95 %), en þarf að verða með rafgreiningu fyrir tilstilli sjálfbærs rafmagns. Heimsframleiðsla á vetni þarf þannig að nema 600 Mt/ár um 2050 með rafgreiningu. Ef Íslendingar ákveða að leggja baráttunni við gróðurhúsaáhrifin á erlendri grundu lið með því að virkja t.d. 10 TWh/ár (helmingurinn af núverandi raforkuvinnslu, þriðjungurinn af orkugetu nýtingarflokks Rammaáætlunar) til að knýja vetnisframleiðslu hérlendis og flytja megnið utan samanþjappað, þá þarf til þess 65 kWh/kg, og hægt verður að framleiða 150 kt/ár af H2 (vetni) á flutningstæku formi. Þetta er aðeins 0,03 % af áætlaðri markaðsþörf, en myndi hjálpa Englendingum talsvert við að vetnisvæða upphitun húsnæðis á NA-Englandi. Þetta gæfi að lágmarki útflutningstekjur að upphæð 345 MUSD/ár eða 43 mrðISK/ár.
Með þessu móti mundu Íslendingar teygja sig mjög langt við að aðstoða ríki við orkuskiptin, sem vantar endurnýjanlega orku. Þetta mundi að óbreyttu þýða, að við þyrftum að ganga á biðflokk virkjana fyrir eigin orkuskipti og 4 TWh/ár fyrir vetnisframleiðslu til eigin nota fyrir t.d. stærri samgöngutæki á landi ásamt vinnuvélum, skipum og flugvélum auk vaxandi orkuþarfar vegna aukinna umsvifa á landinu.
24.12.2018 | 11:14
Sæstrengur eða iðjuver
Enn er agnúazt hérlendis út í langtíma raforkusamninga við erlend stóriðjufyrirtæki. Það er kostulegt, því að þessir samningar voru ekki einvörðungu undirstaða stórvirkjana á Íslandi, sem voru mun hagkvæmari í rekstri en smávirkjanir eða margir smááfangar stórvirkjana, heldur urðu þeir líka undirstaðan að öflugu flutningskerfi raforku frá virkjunum til þéttbýlisins á SV-landi. Þetta kerfi væri bæði veigaminna, þ.e. væri með annmörkum minna afhendingaröryggis raforku til viðskiptavinanna, og væri miklu dýrara fyrir almenna notendur en reyndin er, ef raforkukerfið hefði einvörðungu verið sniðið við almenna markaðinn, sem nú er um 20 % af heild.
Með samnýtingu stórnotenda og almennings á einu og sama raforkukerfinu, sem stórnotendur hafa fjármagnað að mestu leyti, hefur draumur brautryðjendanna um einna lægst raforkuverð á Íslandi með viðunandi afhendingaröryggi í samanburði við önnur lönd í Evrópu og reyndar víðast hvar í heiminum rætzt. Við þessi hlunnindi bætast auðvitað hitaveiturnar, þar sem þeirra nýtur við til húsnæðishitunar hérlendis. Hitaveiturnar stórminnka raforkuþörfina eða um allt að 10 TWh/ár, sem er um helmingur núverandi virkjaðrar orku. Íslendingar hafa þannig með áræðni, framsýni og dugnaði á þessu tæknilega sviði, sem orkunýting er, borið gæfu til að leysa þau viðfangsefni vel af hendi, sem felast í að breyta orkulindum í verðmæta afurð, samfélaginu öllu til mikilla hagsbóta. Þó má betur, ef duga skal.
Sem dæmi dugðu greiðslur frá ISAL til Landsvirkjunar fyrir raforku fyrstu 30 ár rekstrarins til að greiða upp allan upphaflegan stofnkostnað Búrfellsvirkjunar, Geithálsstöðvarinnar, tveggja flutningslína á milli Búrfells og ISAL ásamt vararafstöð Landsvirkjunar í Straumsvík. Þessi mannvirki, nema vararafstöðin, leystu jafnframt úr almennum raforkuskorti á höfuðborgarsvæðinu og víðar, sem tók að gæta í lok 7. áratugar síðustu aldar.
Sumir hagfræðingar o.fl. eru haldnir þeirri bábilju, sem fyrir löngu komst á kreik, að fjárfestingar í raforkumannvirkjum, virkjunum, aðveitustöðvum og flutningslínum, á grundvelli gerðra langtímasamninga um raforkuafhendingu til iðjuvera, haldi ekki máli, hvað arðsemi varðar. Þetta er alvarleg villa, sem stafar af því, að hagfræðingarnir hafa ekki tekið með í reikninginn óvenjulangan endingartíma virkjananna í fullri virkni og með litlum rekstrarkostnaði.
Venjulega er reiknað með bókhaldslegum afskriftartíma 40 ár fyrir virkjanir, en tæknilegur endingartími þeirra getur hæglega varað 100 ár með eðlilegu viðhaldi og endurnýjun. Ef hagfræðingarnir reikna bara arðsemina yfir afskriftartímann, er ekki kyn, þótt keraldið leki, því að botninn er þá suður í Borgarfirði. Í neðangreindri tilvitnun í téðan Óðin hafa menn komizt að þeirri niðurstöðu, að arðsemi þessara fjárfestinga sé 5 %. Réttara er að áætla hana 50 % fyrstu 100 árin að jafnaði, ef gert er ráð fyrir 5 % í 40 ár og 80 % í 60 ár:
"Staðreyndin er sú, að arðsemin af fjárfestingu tengdri stóriðju hefur verið óviðunandi, eins og Óðinn hefur oft bent á. Þetta kemur fram í skýrslu, sem Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannsson skrifuðu fyrir Hagfræðistofnun Háskóla Íslands árið 2012, "Arðsemi Landsvirkjunar af rafmagnssölu til stóriðju 1966-2010". Niðurstaða þeirrar skýrslu er, að arðsemi raforkusölunnar sé ekki nema liðlega 5 % fyrir skatta og verðbólgu, sem þýðir, að fjárfestingin stendur ekki undir fórnarkostnaði þess fjármagns, sem bundið er í henni. Þjóðhagslegur ábati hefði verið meiri, ef ríkið hefði ekki sogað þetta fé til sín og það hefði verið til reiðu í aðra atvinnuvegafjárfestingu."
Málflutningi af þessu tagi er beitt í vanburða tilraun til að færa rök fyrir þeirri skoðun, að erlendar fjárfestingar í orkukræfum iðnaði hérlendis séu óalandi og óferjandi. Þetta eru fordómar. Þessi iðnaðarstarfsemi hefur gert íslenzkum orkufyrirtækjum kleift að fjárfesta í virkjunum, sem mala gull í 100 ár. Bauðst íslenzka ríkinu einhvern tímann viðlíka fjárfestingartækifæri ?
Jafnvel þótt álverið í Straumsvík muni aðeins starfa í tæplega 70 ár (út núverandi samningstíma um raforku), þá verður meðalarðsemin af fjárfestingum vegna þess samt um 50 %, því að orkuverðið þangað hefur hækkað mjög mikið á rekstrartímabilinu, ekki sízt eftir að afskriftartímabili Búrfellsvirkjunar lauk.
Starfsemi fyrirtækjanna, sem útlendingar hafa stofnsett hérlendis til að skapa verðmæti úr endurnýjanlegri orku, hefur leitt til mikillar tækniþróunar hérlendis og öryggis- og umhverfisstjórnun hefur tekið stakkaskiptum fyrir þeirra tilverknað og þeirra íslenzka starfsliðs. Það er þess vegna ekki reist á neinum rökum, að t.d. álverin hafi verið einhvers konar byrði hér, sem haldið hafi aftur af þróuninni vegna þess, að fénu til orkumannvirkjanna hefði getað verið betur varið. Þetta er algerlega tilhæfulaust og sorglegt að sjá Óðin falla ofan í þennan fúla pytt.
Síðan víkur Óðinn sögunni að sæstrengsviðræðum þáverandi forsætisráðherranna, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Davids Cameron, en Óðinn er ekki sá eini, sem hefur tilhneigingu til að stilla aflsæstreng til útlanda upp sem heppilegum valkosti við málmiðjuverin. Þar verður þá ekki komizt hjá því að stilla upp þriðja valkostinum, sem er vinnsla vetnis hérlendis úr vatni með rafgreiningu, en í uppsiglingu er á Bretlandi mikill markaður fyrir vetni til að leysa jarðgas af hólmi sem orkugjafi til upphitunar húsnæðis.
"Ráðherrarnir ræddu einnig samstarf í orkumálum og var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng. Sigmundur Davíð sagðist hafa fyrirvara um lagningu sæstrengs. Forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni væri, að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki. Eðlilegt er þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif, sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér."
Hér er meinloka á ferðinni. Það er útilokað, að tenging íslenzka raforkukerfisins við erlent raforkukerfi, þar sem heildsöluverð raforku er a.m.k. tvöfalt raforkuverðið hérlendis, hafi ekki áhrif á verðlagningu raforku hér til hækkunar. Eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins hérlendis og tengingu raforkukerfanna mun verðlagningin hér ráðast í "Nord Pool" orkukauphöllinni, þar sem Ísland og Bretland verða. Íslenzkir raforkukaupendur verða þar í samkeppni við brezka og kannski einnig við kaupendur á meginlandinu, því að Bretland er raftengt þangað og bráðlega við Noreg einnig. Vilja Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins þetta ? Þau mega ekki fljóta sofandi að feigðarósi, heldur ber að berjast gegn slíkum kostnaðarauka á sín aðildarfyrirtæki, sem raftenging við útlönd óhjákvæmilega hefur í för með sér.
Hérlendis hafa heyrzt raddir um, að það muni verða á valdi íslenzkra stjórnvalda, hvert rafmagnsverðið verður til almennings hérlendis eftir slíka tengingu. Það er tóm vitleysa. Hverjum dettur í hug, að ríkissjóður hafi bolmagn til slíkra niðurgreiðslna ? Ef hann hins vegar reynir það, gerist hann umsvifalaust brotlegur við reglur EES-samningsins, sem banna slík inngrip ríkisins í samkeppnismarkað, enda eru t.d. engin fordæmi um slík inngrip norska ríkissjóðsins með sinn öfluga bakhjarl, olíusjóðinn, þótt norskum fjölskyldum og fyrirtækjum hafi sviðið mjög undan gríðarlegum verðhækkunum rafmagns þar í landi samfara útflutningi á rafmagni.
Óðinn hefur furðulega afstöðu til þessa máls, því að hann skrifar, að hann sé sammála Sigmundi um, að "það er óásættanlegt, að íslenzkur almenningur taki á sig þyngri byrðar með tilkomu sæstrengs. En þetta eru óþarfar áhyggjur Sigmundar bæði fyrr og nú". Þær eru ekki óþarfar. Það er þvert á móti óhjákvæmilegt, að íslenzkur almenningur beri kostnað af sæstrengsuppátæki, bæði beinan og óbeinan. Beini kostnaðurinn felst í að standa undir kostnaði Landsnets við að reisa flutningslínur frá stofnkerfinu og niður að landtökustað sæstrengsins, sennilega tvær 400 kV línur samkvæmt forskrift Orkupakka #3, og óbeini kostnaðurinn felst í hækkun á verðlagningu raforku vegna tengingar við erlendan markað og minna framboðs en eftirspurnar.
Síðan fimbulfambar Óðinn um, að sú lífskjarastefna, sem felst í því að halda raforkuverði lágu til heimila, sem nota aðeins 5 % af heildarraforkunotkun, haldi verði niðri til hinna, þ.e. almenns atvinnurekstrar og stóriðju, og að þar með nái orkuseljendur minni hagnaði en ella. Hann athugar það ekki, að lágt raforkuverð skapar atvinnurekstrinum í landinu nauðsynlegt forskot í samkeppni við fyrirtæki, sem eru betur staðsett m.v. aðdrætti og flutninga afurða á markað. Þá dregur lágt raforkuverð til almennings ekkert úr svigrúmi raforkuheildsalanna til að gera hagstæða langtíma raforkusamninga.
Það fettir enginn fingur út í það, þótt umsamið verð til stóriðju hækki, þegar langtímasamningar eru endurnýjaðir. Stóriðjan hefur um langa hríð staðið undir fjármögnun raforkukerfisins og lágu raforkuverði til almennings. Við það er ekkert að athuga.
Þegar menn draga í efa, að staðan sé þessi, þá gleyma þeir dreifingarkostnaðinum, sem hérlendis nemur tæplega 40 % af heildarkostnaði rafmagns til almennings, en stóriðjan sér sjálf um fyrir sig. Þá gleyma menn einnig, að fjárfesting á bak við hverja kWh er um 60 % meiri, þegar virkjað er fyrir ójafnt álag, eins og álag almenningsveitna, en fyrir jafnt álag stóriðjunnar, og hagkvæmni stærðarinnar er þá ótalin.
Óðinn klykkir út með eftirfarandi hvatningu til iðnaðarráðherra:
"Óðinn vonar, að iðnaðarráðherra muni loks láta reyna á það, hvort lagning sæstrengs sé fær leið, enda allir helztu hagfræðingar landsins sammála um áhrif hennar á þjóðarhag."
´Oðinn vill sem sagt kanna til hlítar, hvort hægt sé að þróa álitlega viðskiptahugmynd með Englendingum um raforkuviðskipti við Íslendinga. Af þeim gögnum, sem þegar eru fyrir hendi, má þó ljóst vera, að alvarlegir meinbugir eru á þessu sæstrengsverkefni, þótt Óðinn telji "alla helztu hagfræðinga landsins" telja verkefnið þjóðhagslega hagkvæmt. Væri fróðlegt að sjá þá útrikninga, því að þetta stenzt ekki, á meðan heildsöluverð raforku á Englandi er undir 180 USD/MWh, sem er 2,25 x núverandi heildsöluverð þar. Þetta stafar m.a. af gríðarlegum eða um 10 % afltöpum á leiðinni, sem flutningar um strenginn verða að borga. Ef 1400 MW fara inn á endabúnaðinn, þá koma aðeins 1260 MW út eða með öðrum orðum 140 MW tap. Það er tæplega aflgeta Blönduvirkjunar.
Nú er að opnast nýtt viðskiptatækifæri á NA-Englandi fyrir orku. Leeds-borg hefur áform um orkuskipti við húshitun, og borgarstjórnin vill leysa jarðgas af hólmi með vetni. Fljótt á litið getur reynzt arðsamt að rafgreina vatn á Íslandi og senda það utan með skipi, en flutningskostnaðinn þarf þó að kanna nánar. Það er líka annar markaður að opnast fyrir vetni í Evrópu, en það er hluti stáliðnaðarins, sem vill verða kolefnishlutlaus með því að afoxa járngrýtið með vetni í stað jarðgass, sem notað er í sumum stálvinnsluofnum. Það sparar orku að framleiða vetnið á Íslandi m.v. að gera það með íslenzku rafmagni á Englandi, og vetnisframleiðslan felur í sér verðmætasköpun með rafmagni ásamt nokkurri atvinnusköpun. Þá er hægt að leysa benzín og dísilolíu og væntanlega flotaolíu líka af hólmi með amoníum, NH3. Vetnis- og ammoníumframleiðsla á Íslandi jafngilda að öllum líkindum meiri þjóðhagslegri hagkvæmni en hrár raforkuútflutningur.
21.12.2018 | 17:54
"Sæstrengurinn og orkupakkinn"
Höfundurinn "Óðinn" birti afleitan pistil undir ofangreindri fyrirsögn í Viðskiptablaðinu 22. nóvember 2018. Þetta var miður, því að oftast eru pistlar með þessu höfundarnafni frumlegir og fela í sér réttmæta gagnrýni og góða greiningu á viðfangsefninu. Í þessu tilviki urðu honum þó á nokkrir alvarlegir fingurbrjótar.
Hann minnir í upphafi á 3 orkumarkmið ESB fyrir árið 2020, sem sennilega munu ekki nást, aðallega vegna of einhliða áherzlu á slitróttar, endurnýjanlegar orkulindir, sól og vind, á meðan grunnorkugjöfum á borð við kjarnorkuver er lokað. Að berjast þannig á tveimur vígstöðvum samtímis hefur jafnan verið ávísun á ófarir. Fyrir vikið hefur kolanotkun sumra ESB-landa aukizt og koltvíildislosun orkuiðnaðarins í heild innan ESB líka.
Fyrsta markmiðið var, að endurnýjanlegar orkulindir stæðu undir minnst 20 % raforkuþarfarinnar. Það mun ekki nást. Á Íslandi er þetta hlutfall næstum 100 %.
Annað markmiðið var, að orkunýtni ykist um 20 % (vantar viðmiðunartímann). Á 10 árum hefur eldsneytisnýtni ökutækja aukizt um a.m.k. 20 %, og líklega hefur orkunýtni raforkuvera í Evrópu aukizt um 20 % á 20 árum. Á Íslandi eru of mikil orkutöp í raforkukerfinu vegna of lítilla fjárfestinga. Árið 2015 námu töp og eigin notkun raforkukerfisins 1303 GWh eða 6,9 % af heildarraforkuvinnslu. Töp og eigin notkun þurfa að fara niður fyrir 5 % eða minnka um 400 GWh/ár. Þannig sparast um 2 mrðISK/ár.
Þriðja markmiðið var að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 20 % (viðmiðunarár vantar). Þetta markmið næst alls ekki. Sé miðað við árið 2005, sem stundum er gert, næst þessi minnkun alls ekki í ESB, og sigið hefur á ógæfuhliðina á Íslandi. Þess vegna fer koltvíildisgjald losunar hækkandi í ESB, og kolefnisgjald eldsneytis fer hækkandi á Íslandi. Hið síðara er óréttmætt, því að allsendis ófullnægjandi framboð er enn á rafbílum, til að þeir geti tekið bróðurpart endurnýjunarþarfarinnar, og enginn raunhæfur rafmagnsvalkostur er enn fyrir stórar dísilvélar. Stjórnvöld eru komin fram úr sér í skattheimtu vegna orkuskiptanna. Markaðurinn hlýtur að ráða ferðinni, en ekki löngun stjórnmálamanna.
Óðinn virðist éta upp eftir ráðuneytum utanríkis og iðnaðar, þegar hann skrifar:
"Ekki er ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þessum [orku] pakka, þó að eðlilegt sé að gjalda varhug við öllum pakkasendingum frá Brüssel. Þessi löggjöf mun hafa mun minni áhrif á Íslandi en á meginlandi Evrópu og líklega lítil sem engin."
Þessu er einmitt þveröfugt farið. Þar sem samkeppnismarkaður var fyrir raforku (og gas) og uppfyllti samkeppnisreglur ESB, þegar Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB var lögleiddur í aðildarlöndunum árið 2009, þar varð líklega ekki mikil breyting fyrir orkukaupendur, þegar Landsreglari tók til starfa sem eftirlitsaðili og reglusetningaraðili fyrir orkumarkaðinn, starfandi beint undir ACER-Orkustofnun ESB.
Þar sem hins vegar ekki er fyrir hendi samkeppnismarkaður, eins og í tilviki Íslands, þar verður að stofna slíkan eftir lögleiðingu Orkupakka #3. Líklegt er, að á Íslandi verði stofnað útibú frá "Nord Pool" orkukauphöllinni. Þetta eitt og sér mun hafa miklar breytingar í för með sér fyrir orkuseljendur og orkukaupendur. Raforkuverðið verður sveiflukennt, og meðalverðið mun hækka, af því að samræmd orkulindastýring verður bönnuð, sem hæglega getur leitt til ofnotkunar miðlunarlónanna í samkeppni við jarðgufuverin og þar af leiðandi mikilla verðhækkana að vetrarlagi og jafnvel orkuskorts.
"Aftur og aftur hefur komið fram, að Landsvirkjun hefur hvorki getu né áhuga á að leggja út í 800 milljarða króna framkvæmd, enda væri slíkt fásinna. Landsvirkjun hefur á hinn bóginn aftur og aftur greint frá áhuga erlendra aðila á því að leggja sæstrenginn."
Nú er það vel þekkt, að sæstrengurinn "Ice-Link" hefur hlotið náð fyrir augum ESB og er á lista ACER um forgangsorkusamtengingar Evrópulanda. Það þýðir, að þessi samtenging verður styrkhæf úr sjóðum Evrópusambandsins, sem miða að aukinni hlutdeild sjálfbærrar orku í orkunotkun ESB. Hvaða áhrif útganga Breta úr ESB hefur á þessi áform, er enn óljóst. Hitt er þó öruggt, að orkuviðskipti Breta og ESB-landanna munu halda áfram, og hugsanlega verður Bretland aukaaðili (án atkvæðisréttar) að ACER, eins og fyrirhugað er með EFTA-löndin.
Með ofangreindum stofnkostnaði, 2 % árlegum rekstrarkostnaði, 10 % heildartöpum og 8 % ávöxtunarkröfu í 25 ár, mun flutningsgjaldið þurfa að nema 90 USD/MWh, sem gæti lækkað í 80 USD/MWh vegna styrkveitinga frá ESB. Þetta er svipað verð og nú fæst fyrir raforku á heildsölumarkaði á Englandi. Ekkert er fast í hendi um, að brezki ríkissjóðurinn muni tryggja ákveðið lágmarksverð raforku um þennan sæstreng, sem sé talsvert hærra en þetta markaðsverð, enda er ekkert slíkt áformað í viðskiptum Norðmanna og Breta með sjálfbæra raforku frá Noregi.
"Nær væri að líta til væntrar arðsemi slíks verkefnis fyrir íslenzka raforkusala, sem flestir eru í opinberri eigu. Þar hafa verið nefndir 10-40 milljarðar króna á ári eftir því, hvaða forsendur menn hafa gefið sér."
Það virðist alveg út í hött, að svo mikið fáist fyrir íslenzka raforku á Bretlandi, að staðið geti undir greiðslum á 80 USD/MWh til sæstrengseigandans og þar að auki greiðslum til orkuvinnslufyrirtækja á Íslandi, sem ásamt orkusölu innanlands standi undir um 25 mrðISK/ár (10-40 mrðISK/ár) í arðgreiðslum til fyrirtækjanna. Um slíkar fjarstæður er ekki annað hægt að segja en þær hljóta að vera ættaðar frá skýjaglópum.
S.k. listaverð Landsvirkjunar fyrir forgangsorku er núna 43 USD/MWh. Það eru aðeins um 5 TWh/ár eftir virkjanlegir með þessum einingarkostnaði, en 1200 MW sæstrengur þarf 10 TWh/ár frá neti fyrir ofangreindan flutningskostnað. 50 USD/MWh er þannig nauðsynlegt forgangsorkuverð frá Íslandi inn á sæstreng. Það þýðir V=80+50=130 USD/MWh, sem brezkir kaupendur yrðu að greiða fyrir íslenzkt rafmagn, ef ekki á að verða tap á viðskiptunum. Það er 63 % hækkun m.v. núverandi markaðsverð á Englandi. Hvað skyldu draumóramenn segja um þetta ? Lítum aftur á Óðin:
"Það, sem skiptir arðsemi sæstrengs máli, er, hvort það náist samningur við brezk stjórnvöld um orkuverð, sem gildir út líftíma sæstrengsins eða ekki. Í upplýsingum, sem Landsvirkjun hefur birt frá orkumálaráðuneyti Bretlands um verð á endurnýjanlegri orku, kemur fram, að það er 3-5 sinnum hærra en listaverð Landsvirkjunar til 15-35 ára. Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, telur það geta verið hærra eða allt að 6-8 sinnum hærra."
Hér eru miklar væntingar, en ekkert kjöt á beinunum. Væntanlega á Óðinn við afskriftartímann fremur en tæknilegan líftíma sæstrengsins. Höfundur þessa pistils hefur reiknað með 25 ára afskriftartíma, sem er hámark, en annars verður flutningskostnaður raforku enn þá hærri. Samkvæmt þessu er ríkisstjórn Bretlands fús til að tryggja um 4x43=172 USD/MWh fyrir raforku frá Íslandi. Hún þyrfti þá að greiða 172-80=92 USD/MWh með henni eða 790 MUSD/ár að jafngildi um 100 mrðISK/ár. Fyrir slíkan samning fengi Landsvirkjun (fyrir tilviljun) sömu upphæð, en slíkir samningar væru samt ekki þjóðhagslega hagkvæmir, því að upp að 180 USD/MWh (100 USD/MWh til innlendra orkuvinnslufyrirtækja) fæst meiri verðmætasköpun með innanlandsnotkun raforkunnar.
Er fótur fyrir því, að brezka ríkisstjórnin geti og vilji gera slíka samninga við Íslendinga ? Nei, það er enginn fótur fyrir því. Það er allt annað mál, hverju hún og þingið telja verjanlegt að verja til þróunar á kjarnorkuveri (Hinkley 150 USD/MWh) og á vindorkuverum undan ströndinni (200 USD/MWh). Eins og sakir standa eru nánast engar líkur á, að brezk stjórnvöld vilji eða geti gert samninga um svona hátt verð, hvað þá eins og haft er eftir Katli Sigurjónssyni, því að brezki ríkissjóðurinn er rekinn með miklum halla og í hverjum fjárlögunum á fætur öðrum eru niðurgreiðslur vegna sólar- og vindorku minnkaðar, enda fer kostnaður frá þeim hratt lækkandi vegna tækniþróunar. Niðurgreiðslur til vindorkuvera undan strönd hafa þó að mestu haldizt.
Aðeins ef raforkuverð á Englandi hækkar um meira en 60 % verður hagkvæmt fyrir íslenzka virkjanaeigendur að stækka markað sinn, en enginn getur tryggt þeim slíkt verð til frambúðar eða út afskriftartíma nýrra virkjana. Af þessum ástæðum er viðskiptagrundvöllurinn enginn, nema eitthvað annað komi til, t.d. lokun iðjuvera á Íslandi, en stjórnvöld ættu að vinna gegn slíkum skiptum, því að þau verða ekki í þjóðarhag, eins og hér hefur verið rakið. Hér er vert að benda á, að norska ríkisstjórnin hefur lagt sig í framkróka við að framlengja raforkusamninga við orkukræfan iðnað í Noregi. Það mundi hún ekki hafa gert, nema hún teldi þjóðhagslega hagkvæmara að nota raforkuna til verðmætasköpunar í Noregi en að flytja hana til útlanda um millilandatengingarnar. Samt hirðir ríkisfyrirtækið Statnett allan ágóða af flutninginum sjálfum, Því að Statnett á allar millilandatengingarnar.
Í næsta pistli verður haldið áfram að fjalla um þessa grein Óðins og þá m.a. um arðsemi orkusölu til stóriðju.
11.12.2018 | 09:58
Hagfræðistofnun og orkukauphöll
Landsnet mun hafa í undirbúningi stofnun orkukauphallar fyrir heildsölumarkað með rafmagn. Slíkt er valkvætt samkvæmt Orkumarkaðslagabálki ESB #2, en skylda samkvæmt Orkupakka #3 að koma á frjálsri samkeppni með rafmagn, er lýtur öllum samkeppnisreglum EES. Í öðrum löndum EES hefur bezta ráðið til þess verið talið að koma upp orkukauphöll fyrir viðskipti mislangt fram í tímann og einnig fyrir viðskipti með orkuafleiður, þar sem spákaupmennska með orkuna þrífst og getur reynzt gróðavegur eða leitt til gjaldþrots, eins og dæmin sanna frá nágrannalöndunum. Spurningin ætti þó aðeins að vera þessi: verður frjáls samkeppi með raforku, t.d. í kauphöll, orkunotendum til hagsbóta eða ekki ?
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, HHÍ, gaf haustið 2018 út skýrslu, þar sem mælt var með stofnsetningu orkukauphallar á Íslandi, en rökin voru í lausu lofti, því að algerlega var litið framhjá gerð íslenzka raforkukerfisins, sem er gjörólíkt öðrum raforkukerfum. Þegar þessa forsendu rannsóknarinnar skortir, verður útkoman óhjákvæmilega vitlaus. Það er með öðrum orðum ófullnægjandi að beita hagfræðikenningum á íslenzka raforkumarkaðinn og að gefa sér það, að hann hagi sér eins og evrópskur raforkumarkaður. Þetta er meginvilla HHÍ.
Íslenzka raforkukerfið og frjáls raforkumarkaður hérlendis uppfylla ekkert af þeim 5 skilyrðum, sem ESB-sjálft hefur sett fyrir því, að frjáls samkeppni um raforku geti þrifizt eðlilega og orðið notendum til hagsbóta. Þessu hefðu skýrsluhöfundar HHÍ þurft að gefa gaum áður en þeir gáfu þessa skýrslu út. Sú hagfræðilega rökleiðsla, sem beitt er, gengur út frá því, að raforkukerfi Íslands lúti að öllu leyti sömu lögmálum og raforkukerfi Evrópu. Það er augljóslega óleyfileg einföldun á viðfangsefninu, því að hvergi annars staðar í Evrópu samanstendur vinnslukerfi rafmagns nánast einvörðungu af vatnsaflsvirkjunum og jarðgufuvirkjunum. Verður nú vitnað í skýrsluna:
"Heildsöluverð á almennum markaði mundi endurspegla það verð, sem stórnotendur vilja borga fyrir rafmagnið. Sem stendur er Landsvirkjun eini seljandinn, sem um munar í heildsöluviðskiptum, en bæta mætti úr því með því að skikka framleiðendur til þess að bjóða allt rafmagn til sölu í kauphöllinni - það sem ekki hefur þegar verið selt stórnotendum. Verðið mundi líklega sveiflast meira en nú, en minni hætta yrði á rafmagnsskorti."
Þessi texti Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ, gefur til kynna, að íslenzkur raforkumarkaður hafi ekki verið brotinn til mergjar frá öllum hliðum þar á bæ. Flestir raforkukaupendur á Íslandi verða einfaldlega að kaupa þá raforku, sem þeir þurfa til heimilishalds og atvinnurekstrar við lægsta verði, sem í boði er á þeim fákeppnismarkaði, sem hér er. Stórnotendur njóta náttúrulega alltaf hagstæðari kjara í krafti magnafsláttar, kauptryggingar og jafnvel stöðugri viðskipta (jafnara álags). Verð í orkukauphöll ræðst mjög af notkunarmynztrinu (álagsfreifingu yfir sólarhring, viku og mánuð), og þess vegna er það einkennileg staðhæfing, að verðið muni endurspegla verð til stórnotenda.
Orðalagið "sem stendur" um Landsvirkjun sem eina seljandann á heildsölumarkaði, sem um munar, sýnir, að höfundurinn reiknar með breytingu á þessu innan tíðar. Það samræmist einfaldlega ekki samkeppnisreglum Innri markaðar EES, að hafa aðeins einn birgi, "sem um munar". ESA mun þess vegna eftir markaðsvæðinguna gera kröfu til ríkisstjórnarinnar um skiptingu Landsvirkjunar til að jafna markaðshlutdeildina.
Reglur Innri markaðarins um fjárfestingafrelsi og athafnafrelsi veita orkufyrirtækjum innan EES rétt til að taka sér stöðu sem orkuseljendur í orkukauphöll á Íslandi og sem orkuvinnsluaðilar úr íslenzkum orkulindum. Þeir mundu sjá sér leik á borði að kaupa allt sem býðst á íslenzkum orkumarkaði, sækja um rannsóknarleyfi vegna nýrra virkjana og síðan um virkjanaleyfi fyrir þær. Hvers vegna. Jú, það er alvarlegur skortur í Evrópu og reyndar í heiminum öllum á endurnýjanlegum orkulindum.
Þeir væru þá búnir að koma sér vel fyrir hér, þegar umsókn berst Orkustofnun og Landsreglara um leyfi til lagningar sæstrengs til Íslands. Í kjölfar samþykktar Orkupakka #3 leikur enginn vafi á um, að Sameiginlega EES-nefndin og Alþingi munu samþykkja ESB-gerð # 347/2013, en með henni mun það fela í sér brot á EES-samninginum að hafna sæstrengsumsókn, sem Landsreglari telur fullgilda.
Að "skikka" orkuvinnslufyrirtækin til að selja allt rafmagn í orkukauphöll, sem "ekki hefur þegar verið selt stórnotendum", þýðir, að engir fleiri langtímasamningar um raforkuafhendingu verða gerðir hérlendis, t.d. í sambandi við beinar erlendar fjárfestingar í iðjuverum. Þetta mundi líka þýða, að öll viðbótar raforkukaup núverandi iðjuvera með langtímasamninga færu fram í orkukauphöll, og um endurnýjun slíkra samninga yrði heldur ekki að ræða, þegar þeir renna úr gildi. Þetta er stórpólitísk stefnumörkun í atvinnulegu tilliti.
Stefnumörkun af þessu tagi fyrir atvinnulíf landsins væri með öllu ótækt, af hagsmunalegum og lýðræðislegum ástæðum, að leggja í hendur Landsreglara. Stórmál af þessu tagi verður að ræða og ákveða á Alþingi. Jafnvel Norðmenn, sem rekið hafa orkukauphöll í landi sínu síðan 1990, en eru enn ekki undir járnhæl ACER, gera enn langtímasamninga við stóriðjufyrirtæki, bæði ný og við endurnýjun samninga. Ríkisvaldið þar hefur veitt stóriðjufyrirtækjunum tryggingu fyrir "samkeppnishæfu" raforkuverði í Noregi gegn því, að þau haldi uppi starfsemi og tryggi atvinnu í dreifðum byggðum Noregs. ESA sætti sig að lokum við þetta gegn ákvæði í orkusamningunum um einhvers konar vísitölutengingu eða markaðstengingu raforkuverðsins.
HHÍ virðist vera kaþólskari en páfinn, þegar raforkumarkaður á Íslandi er annars vegar, ef mið er tekið af rekstri norsks raforkumarkaðar og samskiptum Norðmanna og ESA út af langtímasamningum á raforkumarkaðinum þar í landi. Þá ber hins vegar að gæta að því, að ACER ræður enn ekki ríkjum í Noregi með fulltrúa sinn, Landsreglarann, í eftirliti með raforkumarkaðinum. Hver veit, nema HHÍ hafi tekið mið af því við skýrslugerðina, sem menn þar á bæ búast við frá Landsreglara hérlendis í fyllingu tímans ? Skýrslan á greinilega að réttlæta stofnun orkukauphallar á Íslandi, en þannig er hins vegar ekki hægt að gæta hagsmuna orkukaupenda hérlendis, þegar betur er að gáð. Þeir, sem hag hafa af slíku hérlendis, eru orkuseljendur og spákaupmenn. Alþingismenn og verkalýðshreyfing ættu að beita sér gegn stofnun orkukauphallar og spákaupmennsku með rafmagn á Íslandi. Það verður mjög erfitt eða ómögulegt að hindra það eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.
Það þarf ekki að orðlengja það, að verði ráðlagt fyrirkomulag HHÍ ofan á um raforkumarkað á Íslandi, þá mun stóriðnaður líða undir lok á Íslandi um 2035, eða þegar núverandi samningar renna sitt skeið á enda. Er framtíðarsýn HHÍ sú, að fyrir tilstilli frjáls raforkumarkaðar loki stóriðjuverin og orkan, sem þannig verður tiltæk á markaði, verði seld á "Nord Pool" orkukauphöll inn á sæstreng með 10 % viðbótar töpum til verðmætasköpunar erlendis ? Þetta er framtíðarsýn, sem fáum hérlendis hugnast, því að slík viðskipti geta fyrirsjáanlega ekki orðið þjóðhagslega hagkvæm m.v. orkunýtingu við verðmætasköpun innanlands til gjaldeyrissparandi starfsemi eða útflutningsiðnaðar. Við hvað á fólkið að starfa, sem haft hefur viðurværi sitt beint og óbeint af iðjuverunum ?
Norsk stjórnvöld lögðu sig í framkróka upp úr aldamótunum síðustu við að tryggja norskum stóriðjuverum áframhaldandi langtíma raforkusamninga, en þá runnu margir samningar þar út, enda er viðurkennd staðreynd þar, að slíkir raforkusamningar eru forsenda fyrir samkeppnishæfum stóriðjurekstri í Noregi. Ef norsk stjórnvöld hefðu talið þjóðhagslega hagkvæmara að láta markaðinn ráða og leyfa hverju iðjufyrirtækinu á fætur öðru að leggja upp laupana í samkeppni við fyrirtæki nær mörkuðum eða annars staðar með lágt orkuverð, jafnvel fyrirtæki á meginlandi Evrópu, sem hefðu aðgang að norskri orku gegnum sæstrengi, þá hefðu þau ekki beitt sér fyrir áframhaldandi langtíma raforkusamningum í byrjun þessarar aldar. Þessi barátta tókst í Noregi, en hafa íslenzkir stjórnmálamenn upp til hópa nægan skilning á þjóðhagslegu og atvinnulegu mikilvægi orkukræfs iðnaðar á Íslandi nú á dögum ?
Grundvöllur orkuútflutnings um sæstrengi frá Noregi er mikil ónotuð aflgeta í norskum vatnsorkuverum utan kaldasta tíma vetrarins, því að megnið af norsku húsnæði er hitað upp með rafmagni. Það hefur jafnframt yfirleitt verið um 7 % (10 TWh/ár) umframorkugeta í Noregi vegna lokunar úreltra verksmiðja, talsverðra (erlendra) fjárfestinga í vindorkuverum, orkusparnaðar, nýtniaukningar gamalla vatnsorkuvera og þokkalega góðra vatnsára. Nettó útflutningur orku hefur alltaf verið minni en þetta, enda hefur verðið hækkað, þegar framboðið minnkaði innanlands, og þá verið hagkvæmt að flytja inn raforku að nóttunni til mótvægis.
Þá er komið að fullyrðingunni um, að minni hætta verði á "rafmagnsskorti" með viðskiptum í orkukauphöll en með núverandi gjaldskrárkerfi og fremur takmörkuðu samkeppni, sem þó er fyrir hendi, einkum á heildsölumarkaði. Það er þvert á móti mun meiri hætta á orkuskorti, þar sem frjáls samkeppni ríkir í orkukauphöll. Ástæðurnar eru eftirtaldar:
- Vatnsorkuver eru mun samkeppnishæfari í rekstri en gufuorkuver. Þar af leiðandi munu fyrirtæki, sem eiga vatnsorkuver, geta selt alla orku, sem þau bjóða, og síðan munu jarðgufuverin koma inn á hærri verðum, og vindmyllur munu reka lestina, þegar þar að kemur. Þetta mun valda hraðari lækkun á vatnsstöðu miðlunarlóna en ella og lakari nýtingu á jarðgufuverum fyrir vikið en góðu hófu gegnir fyrr en raforkuverð tekur að hækka, þegar hillir undir tæmingu miðlunarlóna. Ólík samkeppnisstaða virkjana á Íslandi og dyntótt náttúran, sem framboðinu ræður í raun, veldur því, að íslenzkt orkukerfi hentar afar illa fyrir samkeppnismarkaðinn, sem ESB leggur upp með. Til mótvægis þessum agnúum þarf að beita samræmdri orkulindastýringu, þvert á fyrirtæki á markaði, en slíkt er bannað á samkeppnismarkaði að hætti ESB.
- Núna stundar Landsvirkjun orkulindastýringu innan sinna vébanda, og vegna stærðar hennar á markaði virðist hún duga landskerfinu. Öðru máli mun gegna, verði kvarnað úr fyrirtækinu til að jafna samkeppnisstöðuna. Orkulindastýring snýst um að treina vatnið í öllum þremur stærstu miðlunarlónunum, Hálslóni, Þórisvatni og Blöndulóni, fram á vorið, þar til innrennslið vex aftur að ráði, vanalega um mánaðamótin apríl-maí. Ef Íslendingar fá að ráða málum sínum sjálfir í orkugeiranum (án afskipta Landsreglara á vegum ESB), þá er líklegt, að markaðskerfi, sem er sérsniðið við íslenzkar aðstæður, sem eru einstæðar, verði þróað þannig, að það gagnist orkukaupendum. Slíkt kerfi þarf að hámarka afhendingaröryggi raforkunnar til almennings og stóriðju og tryggja hag orkukaupenda eftir föngum, samtímis sem það felur í sér hvata til að virkja í tæka tíð áður en orkuskortur tekur að láta á sér kræla að teknu tilliti til langs undirbúningstíma virkjana hérlendis.