Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
17.3.2019 | 10:54
Aukin ásókn í leyfi fyrir vindorkuverum
Samhliða fjölgun millilandatenginga við raforkukerfi Noregs hefur orðið gríðarleg fjölgun vindmyllna í landinu. Við árslok 2018 voru vindmyllur með framleiðslugetu um 4 TWh/ár í rekstri (svipað og öll almenn notkun á Íslandi), en vindmyllur að framleiðslugetu 22 TWh/ár eru annaðhvort í byggingu eða hafa fengið virkjanaleyfi frá NVE (Orkustofnun Noregs). Þessi viðbót er meiri en öll núverandi raforkuvinnsla á Íslandi.
NVE hefur ennfremur kunngert hugsanlegan ramma fyrir frekari virkjun vindorku í Noregi upp á 30 TWh/ár. Í lok næsta áratugar gæti þannig orkuvinnslugeta vindmyllna í Noregi numið um 50 TWh/ár, sem er svipuð heildarvinnslugetu vatnsorkuvera og jarðgufuvera Íslands, eins og hún er talin geta orðið mest í reynd. Vindorkuver munu þá nema yfir fjórðungi af raforkuvinnslu í Noregi. Þetta svarar til þess, að hérlendis mundu rísa vindorkugarðar með 7 TWh/ár framleiðslugetu um 2030.
Hver er skýringin á þessum skyndilega áhuga á vindorkuverum í Noregi, sem hingað til hafa ekki verið arðsöm þar ? NVE og Anders Skonhoft, hagfræðiprófessor, eru sammála um, að skýringarinnar sé að leita í væntingum um hærra raforkuverð í Noregi. Þetta hefur reyndar leitt til kaupa fjárfesta frá ESB-löndum á smávatnsvirkjunum, vindmyllum og til umsókna þeirra um leyfi til að reisa slíkar virkjanir.
Í Noregi hafa vindmylluleyfi verið gefin út fríhendis, þ.e. án þess að um þau gildi nokkur heildar rammaáætlun fyrir landið allt. Það þýðir að mati prófessors Anders Skonhoft, að slík virkjunarleyfi hafa verið gefin út, án þess að leggja sérstakt mat á "gildi náttúru og umhverfis".
Svipaðrar tilhneigingar gætir hérlendis frá fjárfestum. Þeir hafa sýnt áhuga á að reisa vindorkuver, sem í fljótu bragði virðist ekki vera fjárhagsgrundvöllur fyrir. Þannig reiknaði höfundur þessa pistils út vinnslukostnað 130 MW vindorkuvers í landi Hróðnýjarstaða, í grennd við Búðardal við Hvammsfjörð, 53 USD/MWh eða 6,4 ISK/kWh, fyrir um ári. Þetta er um 30 % yfir núverandi heildsöluverði hérlendis. Ef til Íslands verður lagður aflsæstrengur erlendis frá með flutningsgetu um 1200 MW og raforkukerfi landsins tengt við raforkukerfi, þar sem raforkuverðið er, segjum, tvöfalt hærra en hér, þá mun heildsöluverðið allt að því tvöfaldast hérlendis og vindmyllur augljóslega verða mjög arðsamar.
Það er engum blöðum um það að fletta, að íslenzkar virkjanir og virkjanaleyfi munu verða enn verðmætari en nú í augum fjárfesta með tilkomu millilandatengingar og jafnvel þegar við innleiðingu uppboðsmarkaðar raforku í Orkukauphöll, sem Landsreglari mun fylgja stranglega eftir, að stofnsett verði hér eftir innleiðingu Orkupakka #3. Hvað þýðir það, að hér verði vindmyllugarðar upp á 7 TWh/ár ?
M.v. reynslutölur frá Noregi þá jafngildir þetta 600 vindmyllum á Íslandi, sem leggja munu undir sig 300 km2; 0,3 % af heildarflatarmáli landsins, en áhrifasvæði þeirra er langtum víðáttumeira, því að hæð þeirra verður allt að 250 m, og hávaðinn getur orðið gríðarlegur. Athafnasvæðið sjálft flokkast sem iðnaðarsvæði með vegi þvers og kruss, sem mælast munu í hundruðum km.
Orkan frá þessum vindmyllum, 7 TWh/ár, nemur nokkurn veginn því, sem reiknað er með að flytja utan um téðan sæstreng, því að með þessari miklu hækkun raforkuverðs innanlands verður afgangsorkuflutningsgeta sæstrengsins nýtt til að flytja inn rafmagn að næturþeli á lægra verði en hér verður þá, eins og gerzt hefur í Noregi, e.t.v. 2 TWh/ár.
Þessi þróun mála er landsmönnum óhagfelld, því að frá sjónarmiði innlendra orkukaupenda er afleiðingin sú að heildarrafmagnsreikningurinn gæti hækkað um 60 %. Hagnaður orkuvinnslufyrirtækjanna vex einvörðungu vegna sölu innanlands á hærra verði, en samkvæmt prófessor Anders Skonhoft verður enginn hagnaðarauki hjá þeim af útflutningi raforkunnar um sæstreng, heldur hirðir strengeigandinn allan hagnaðinn af útflutninginum, enda verða innlend orkuvinnslufyrirtæki fyrir kostnaðarauka af viðbótar orkuöflun (til útflutnings). Frá hagsmunamati innlendra raforkukaupenda er hér um svikamyllu að ræða. Prófessor Anders Skonhoft orðar þetta þannig í þýðingu pistilhöfundar:
"Veitið því annars athygli, að hagnaður orkuvinnslufyrirtækjanna er einvörðungu tengdur verðhækkun innanlands vegna útflutningsins. Án hækkaðs verðs innanlands hafa orkuvinnslufyrirtækin þar með enga fjárhagslega ástæðu til að fagna orkuviðskiptum við útlönd."
Þetta ætti að færa eigendum íslenzku orkuvinnslufyrirtækjanna (þau eru flest í opinberri eigu) endanlega heim sanninn um, að það er þjóðhagslega óhagkvæmt að hefja slík viðskipti. Aukinn hagnaður þeirra verður allur á kostnað innlendra raforkunotenda, þvert á það, sem ýmsir stjórnmálamenn og talsmenn orkufyrirtækja o.fl. hafa haldið fram. Ástæðan er aukinn kostnaður þeirra við öflun útflutningsorkunnar, og að sæstrengseigandinn hirðir allan ávinninginn av millilandaviðskiptunum. Þá er ótalið fjárhagstjónið, sem leiðir af verri samkeppnisstöðu allra atvinnufyrirtækja í landinu. Afleiðingin á frjálsum markaði verður óhjákvæmilega, að fyrirtæki munu gefast upp á rekstrinum og geta hinna til að greiða laun verður minni en áður.
Ætlun Evrópusambandsins með Orkupakka #3 var að færa völd á sviði orkumarkaðar og milliríkjaviðskipta með raforku (og gas) frá aðildarlöndunum og til Framkvæmdastjórnarinnar til að ná markmiðum ESB um aukinn millilandaflutning orku, og Orkupakki #4 leggur áherzlu á, að þetta verði í vaxandi mæli orka úr endurnýjanlegum orkulindum. Eftir samþykkt Orkupakka #3 verður möguleiki á því, að samskipti ESB og Íslands á orkusviðinu verði leikur kattarins að músinni, þar sem lokahnykkur þess að ganga orkustefnu ESB á hönd verður þar með tekinn. Hana móta æðstu stofnanir ESB út frá hagsmunum þungamiðju evrópsks iðnaðar.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.3.2019 | 21:46
Umhverfismál, aflsæstrengur og þróun raforkuverðs
Í margra augum er umhverfisvernd mál málanna, og það er hægt að fallast á, að sérhvert nýtt verkefni verði að meta út frá umhverfisáhrifum á land, loft, ár, stöðuvötn og sjó, en auðvitað líka út frá samfélagslegum áhrifum á byggðaþróun og hag íbúa nær og fjær. Allt þetta verður að meta saman, ef vel á að vera.
Þann 18. febrúar 2019 birtist athygliverð grein í Morgunblaðinu eftir Hjörleif Guttormsson,
"Loftslagsháskinn, uppreisn æskufólks og íslensk viðhorf".
Grein sinni lauk Hjörleifur þannig:
"Æskufólk hérlendis veitir því eflaust athygli, sem er að gerast handan Atlantsála vegna loftslagsmála, enda sízt minna í húfi hér en annars staðar. Þrátt fyrir ríkulegar endurnýjanlegar orkulindir er kolefnisfótspor Íslands, ekki sízt vegna stóriðju, með því hæsta, sem gerist, og því mikið verk að vinna. Íslendingar eiga flestum þjóðum meira undir náttúrulegum auðlindum, og því er hófleg nýting þeirra og verndun lykilatriði fyrir framtíðarafkomu.
Í því sambandi skiptir mestu, að Ísland, sem fullvalda ríki, haldi óskertum yfirráðum sínum yfir auðlindum lands og hafs innan efnahagslögsögunnar.
Annað nærtækt atriði er verndun íslenzkrar tungu og menningararfs, sem henni tengist, og einnig það brothætta fjöregg er í höndum þeirra, sem nú eru ungir að árum." (Undirstr. BJo.)
Þetta er þörf brýning, einkum undirstrikaði textinn nú um stundir. Varðandi losun koltvíildis frá stóriðju á Íslandi er þess að geta, að hýsing orkukræfs iðnaðar er stærsta framlag Íslendinga til þess að halda aukningu koltvíildisstyrks andrúmsloftsins í skefjum. Bæði er, að Íslendingum hefur tekizt afar vel upp með tækniþróun kerrekstrar og vandlega vöktun óeðlilegra kera og ofna til að lágmarka þessa losun á hvert framleitt tonn málms, og vegna lítillar losunar gróðurhúsalofttegunda við orkuvinnsluna fyrir stóriðjuna er heildarlosunin aðeins um 1/10 af heildarlosun vegna sambærilegs iðnaðar erlendis. Þá er ótalinn eldsneytissparnaðurinn við notkun afurða álvera og kísilvera. Íslendingar þurfa þess vegna síður en svo að bera kinnroða fyrir orkukræfum iðnaði í landi sínu.
Sumir hérlendir menn ganga með þær grillur í kollinum, að samfélagslega hagkvæmara sé að selja raforku til útlanda um sæstreng en að selja hana framleiðslufyrirtækjum hérlendis. Íslenzki orkugeirinn hefur haldið þessari firru að fólki, aðallega núverandi forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson.
Norski orkuiðnaðurinn hefur ekki lagzt svona lágt, en talsmenn hans, t.d. hjá NVE (norsku orkustofnuninni) og hjá Statnett (norska Landsneti), hafa aðeins fullyrt, að sala á rafmagni til útlanda um millilandatengingar væri þjóðhagslega arðsöm, af því að þar hefur verið til nóg umframorka til að flytja út. Þess ber að geta, að þrátt fyrir rúmlega 6 GW flutningsgetu núverandi sæstrengja og loftlína yfir landamærin, nemur nettó raforkuflutningur Norðmanna til útlanda aðeins um 10 TWh/ár. Þetta er aðeins um 10 % af almennri raforkunotkun í Noregi og 7,1 % af raforkuvinnslunni.
Í viðhengi með þessum pistli er birt greining prófessors Anders Skonhoft við Þjóðhagfræðideild NTNU (Norska tækni- og náttúruvísindaháskólans í Þrándheimi) á áhrifum nýrra aflsæstrengja frá Noregi til útlanda á þjóðarhag, þ.e. á hag raforkuseljenda og á hag raforkukaupenda.
Í stuttu máli er niðurstaða greiningarinnar sú, að áhrif sæstrengjanna á norskan þjóðarhag séu neikvæð. Nýir sæstrengir muni leiða til enn meiri raforkuverðshækkunar en þegar er orðin af þeirra völdum. Útflutt magn raforku fari eftir verðmuninum í sitt hvorum enda. Munurinn sé svo mikill á raforkuverði á Englandi (nú er verið að leggja sæstreng á milli Noregs og NA-Englands, North Sea Link) og í Noregi, að flutningur muni nánast stöðugt verða í sömu áttina eftir strengnum. Því meira sem flutt er út, þeim mun meira hækkar raforkuverðið í Noregi, því að það sneiðist um umframorkuna, þótt bætt sé við smávatnsvirkjunum og vindmyllum.
Prófessor Skonhoft kemst að þeirri niðurstöðu, að ávinningur orkuseljenda af útflutninginum felist einvörðungu í sölu raforku í heimalandinu á hærra verði, sem útflutningurinn veldur. Hagnaðinn af raforkuútflutninginum sjálfum gleypir sæstrengurinn og kostnaðarhækkanir vegna nýrra virkjana. Eftir sitja raforkunotendur innanlands, Kari og Ola Nordmann með sárt ennið, með hækkaðan rafmagnsreikning, fyrirtækin í landinu (raforkunotendur) með laskaða samkeppnisstöðu við útlönd og orkukræfan iðnað í tilvistarhættu.
Á Íslandi yrði uppi sú afspyrnu slæma staða, að orkuútflutningur um einn streng myndi verða um 50 % meiri en nemur allri almennri raforkunotkun í landinu (þ.e. utan langtímasamninga), og umframorku af mjög skornum skammti og alls enga í sumum árum. Í Noregi nemur útflutningur raforku aðeins um 10 % af almennri notkun (7,1 % af heildarraforkuvinnslu).
M.v. hækkanir rafmagnsverðs í Noregi má búast við tvöföldun á raforkuverðinu frá virkjun við íslenzkar aðstæður, yfir 50 % hækkun flutningsgjalds til almennings og stóriðju vegna mannvirkja til að flytja orkuna frá stofnkerfi landsins að sæstreng (endabúnaður sæstrengs ekki innifalinn) og 20 % hækkun dreifingargjalds vegna aukinnar arðsemiskröfu Landsreglara á hendur dreifiveitunum. Alls næmi þessi verðhækkun rafmagns tæplega 60 %.
Afleiðingar af hækkun tilkostnaðar hjá fyrirtækjum í núverandi árferði eru samdráttur, hagræðing, fækkun starfsfólks eða jafnvel stöðvun rekstrar. Afleiðingarnar verða alltaf grafalvarlegar. Þess vegna er aflsæstrengur til útlanda þjóðhagslega óhagkvæmur og verður það alltaf.
Í úrdrætti greinarinnar segir höfundur í snörun pistilhöfundar:
"Mikilvæg áhrif af fleiri aflstrengjum til útlanda eru, að raforkuverðið í Noregi mun hækka. Þetta þýðir, að hagnaður virkjanafyrirtækjanna mun vaxa, en að sama skapi munu raforkunotendur (fyrirtæki og heimili) tapa. Hækkað rafmagnsverð íþyngir almennt norsku atvinnulífi og alveg sérstaklega orkusæknum iðnaði. Hærra raforkuverð mun gera vindorkuverkefni, sem áður voru óarðbær, bókhaldslega arðsöm. Niðurstaðan verður fjölgun vindmyllna og meiri eyðilegging norskrar náttúru og víðerna."
Nú segir stuðningsfólk innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Íslandi, að engin hætta sé á, að landið verði tengt við útlönd með aflsæstreng, þótt þessi ólánspakki verði innleiddur. Þetta er í meira lagi barnalegur málflutningur, sem sýnir óverjandi áhættusækni ráðamanna fyrir hönd þjóðarinnar og algert skilningsleysi á stöðu orkumála í ESB, hvers vegna og til hvers Framkvæmdastjórnin, Ráðherraráðið og ESB-þingið, börðu saman og gáfu út Orkupakka #3 og eru með Orkupakka #4, Vetrarpakkann, í burðarliðnum.
Hvað skyldi verkfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, Elías Elíasson, hafa um fyrirætlanir ESB að segja ? Sýnishorn af því má sjá í Morgunblaðsgrein hans, 25. febrúar 2019,
"Að svara "röngum" spurningum":
"Með þriðja orkupakkanum er mörkuð stefna í átt til miðstýringar í raforkumálum af hálfu ESB, eins og kemur enn betur fram í þeim reglugerðum, sem við bætast fram að fjórða orkupakkanum. Þessum viðbótum líta boðendur pakkans fram hjá, þegar þeir fullyrða, að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér svo mikið afsal fullveldis, að um sé að ræða brot á stjórnarskrá.
Það er ekki nóg að meta stefnumörkunina aðeins út frá þeim hluta pakkans, sem nú skal leggja fyrir Alþingi, heldur verður að lesa öll gildandi lög og reglur þriðja orkupakkans og hafa jafnframt til hliðsjónar þau ákvæði um fjórfrelsi, samkeppni og viðskipti milli landa, sem stuðzt verður við, þegar koma skal stefnunni í framkvæmd.
Þetta verður að gera núna. Það er of seint að fara fram á undanþágur, þegar komið er að ákvörðunartöku um einstakar framkvæmdir; að ekki sé talað um, þegar búið er að framselja réttinn til að taka þessar ákvarðanir fyrir okkar hönd, eins og varðandi sæstrenginn."
Það þarf enginn að velkjast í vafa um það, að eftir mögulegt samþykki Alþingis á Orkupakka #3, mun ESB leggja áherzlu á, að EFTA-ríkin samþykki allar gerðir og tilskipanir um orkumál, sem komið hafa í kjölfar orkupakkans, t.d. gerð #347/2013, og koma munu, en Orkupakki #4 er í burðarliðnum. Þar er enn aukin miðstýring ESB á orkumálum aðildarlandanna réttlætt með því, að öðruvísi muni ESB ekki takast nógu hratt að innleiða raforku úr endurnýjanlegum orkulindum og að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins.
Allmargir hérlendis hafa velt fyrir sér framtíð orkukræfs iðnaðar á Íslandi. Það er tímabært, að Samálsmenn og Samtök iðnaðarins átti sig á því, að eftir hugsanlega innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn mun verða farið að fetta fingur út í langtímasamninga við stóriðju hérlendis, og látið verður sverfa til stáls við hver tímamót, t.d. endurskoðun þessara samninga. Þá munu hvorki Landsreglari né ESA taka lengur í mál, að íslenzk stóriðja fái lægra raforkuverð en gerist og gengur á markaði meginlandsins. Við það mun einfaldlega samkeppnihæfni stóriðjunnar hérlendis hverfa vegna óhagræðis staðsetningarinnar fyrir flutninga að og frá.
Um þetta skrifaði Elías í téðri grein sinni:
"Það kom Norðmönnum á óvart, þegar þeir ætluðu að endursemja um orkusölu til stóriðju, að ESA-nefndin taldi, að fjarlægð frá mörkuðum væri ekki lögmæt ástæða afsláttar [á raforkuverði-innsk. BJo]. Þar skyldi miða við markaðsverð. Eins verður [það] hér, þó [að] við séum fimm daga siglingu frá Evrópu."
ESB mun einskis svífast við að klófesta raforku frá endurnýanlegum orkulindum Noregs og Íslands. Svigrúm til þess verður skapað með því að eyðileggja samkeppnisstöðu orkukræfra framleiðslufyrirtækja í þessum löndum. Þau geta ekki keppt á heimsmarkaði, ef þau þurfa að borga markaðsverð raforku á meginlandi Evrópu, því að flest annað er þeim mótdrægt, flutningaleiðir og mönnunarkostnaður. ESB löndin geta keypt vörurnar á heimsmarkaði, sem ekki munu lengur berast frá Íslandi og Noregi. Um þetta snýst Orkupakki #3 m.a.
8.3.2019 | 14:48
Gaslögn veldur uppnámi í Evrópu
Með Nord Stream 2 (NS2-steypuhúðuð stállögn fyrir jarðgas, yfir 1,1 m í innra þvermál, á botni Eystrasalts) er rofin samstaða ESB-ríkjanna í orkumálum og á pólitíska sviðinu. Reglur Fyrsta orkumarkaðslagabálks ESB um aðskilnað eigenda flutningsmannvirkja og orkuvinnslu eru brotnar. Afkastageta núverandi gaslagna inn í hjarta iðnaðarframleiðslunnar í Evrópu kallar ekki á viðbótar gaslögn á næstunni. Það er maðkur í mysunni, og Vladimir Putin, hinn gerzki, er grunaður um græzku.
Í janúar og framundir miðjan febrúar 2019 tókust ríkisstjórnir og þingmenn ESB á um breytingar á tilskipun ESB um gaslagnir frá öðrum ríkjum inn í ESB, af því að Þjóðverjar vildu aðlaga reglurnar að þörfum NS2-verkefnisins. Eftir snerru ("contretemps") á milli Þjóðverja og Frakka var síðan í viku 7/2019 gert samkomulag um, að samkeppnisreglur ESB fyrir gas skuli gilda um NS2, eftir að lögnin kemur á land í ESB-landi, og þýzka landsreglaranum var falið að útfæra þessar samkeppnisreglur.
Undanþágur frá ströngum ákvæðum í samkeppnisreglum ESB má veita, en Framkvæmdastjórnin verður þó að staðfesta þær. Þetta getur gert Gazprom, eiganda lagnar og linda, lífið leitt og seinkað gangsetningu gasflutninganna. Rosneft, rússneskur olíurisi, svermir fyrir að hlaupa í skarðið með því að kaupa lögnina á þýzku landi og víðar, ef þýzki landsreglarinn heimtar annað eignarhald. Einhverjir mundu segja, að með slíku ráðslagi fari frjáls samkeppni með eldsneytisgas í Evrópu úr öskunni í eldinn. Yfirburðastaða Rússa á orkusviðinu í Evrópu veita þeim gríðarlega sterka pólitíska og í næstu umferð hernaðarlega stöðu gagnvart Evrópu, eins og Bandaríkjamenn hafa opinberlega bent á.
Sannleikurinn er sá, að Nord Stream 2 brýtur reglur Fyrsta orkumarkaðslagabálks ESB um eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækis og orkuvinnslufyrirtækis, af því að hvort tveggja er í eigu Gazprom, sem er að meirihluta í eigu rússneska ríkisins. Nord Stream 2 er stórverkefni, 1200 km löng gaslögn, sem mun kosta mrdUSD 11. Hún liggur frá Vyborg á vesturströnd Rússlands til Greifswald í austurhluta Þýzkalands. Verkið hófst 2018 og gæti lokið um áramótin 2019/2020.
Þótt gríðarleg óánægja sé á meðal gömlu austantjaldslandanna og norrænu ríkjanna innan ESB með staðsetningu lagnarinnar og þessi viðskipti yfirleitt, er ekki talið, að ESB muni stöðva verkefnið og viðskiptin. Það sýnir, að Þjóðverjar hafa nú komið ár sinni þannig fyrir borð, að þeir ráða því, sem þeim sýnist, þar á bæ. Nú hafa þeir hvorki aðhald frá Bretum né stuðning, þegar "dirigiste"-miðstjórnartilhneiging Frakka ætlar allt að kæfa. Norðursjávargas Breta og Hollendinga er á þrotum, en Norðmenn viðhalda framleiðslu sinni með því að bora stöðugt norðar úti fyrir strönd Noregs við æ háværari mótmæli umhverfisverndarsinna.
Rússar og Þjóðverjar hafa ekki samið um NS2 vegna hörguls á flutningsgetu fyrir jarðgas til Þýzkalands. Lagnirnar frá Rússlandi um Úkraínu og Pólland ásamt Nord Stream 1, sem liggur líka beint til Þýzkalands, munu anna þörfinni um fyrirsjáanlega framtíð.
Það liggur fiskur undir steini. Pútín hefur ekki hikað við að loka fyrir gasstreymi til að ógna Úkraínu og Póllandi. Eftir NS2 getur hann ógnað þessum þjóðum og kúgað með því að stjórna gasstreyminu til þeirra, án þess að slíkt ógni beint hagsmunum Þjóðverja, og þegar NS2 kemst í gagnið, tapa Úkraínumenn og Pólverjar af flutningsgjaldi fyrir gasið til Þýzkalands. Í Úkraínu nemur það um þessar mundir 2 % af VLF landsins, sem jafngildir 55 mrdISK/ár tapi fyrir þjóðarbúið á íslenzkan mælikvarða (þetta er mun meira en tvöfalt höggið af loðnubrestinum, því að töluverður kostnaður er við að afl loðnunnar, en sáralítill fyrir Úkraínumenn vegna gaslagnarinnar).
Með þessu móti lækkar verðið á gasinu til Þýzkalands og flutningarnir verða öruggari. Þetta er mikilvægt fyrir Þjóðverja nú, þegar á að loka síðustu kjarnorkuverum Þýzkalands 2021. Með Nord Stream 2 verður hagkvæmara að reisa gaskynt orkuver en kolakynt orkuver í stað kjarnorkuveranna, og mengun mun minnka ásamt losun gróðurhúsalofttegunda, ef gaskynt raforkuver munu þar að auki leysa kolakyntar rafstöðvar af hólmi, eins og gerzt hefur í Bandaríkjunum.
Helmingur húsnæðis í Þýzkalandi er hitaður upp með gasi. Gasverð hefur hefur af þessum sökum veruleg áhrif á lífskjör almennings í Þýzkalandi. Með Nord Stream 2 eftir miðjum Eystrasaltsbotni fá Rússar átyllu til aukinnar hernaðarlegrar viðveru úti fyrir Eystrasaltsríkjunum. Í ljósi árásar Rússa á Úkraínu 2014 er slíkt eðlilega mikill þyrnir í augum Eystrasaltsþjóðanna.
Þessi staða hefur valdið ágreiningi innan ESB, þar sem Rússum hefur tekizt að reka fleyg á milli Þjóðverja og annarra ríkja ESB. Stefna ESB hefur verið sú að fá orku eftir fjölbreytilegum aðdráttarleiðum. Nú hefur einhæfnin aukizt og einn birgir, rússneska ríkisfélagið Gazprom, verður með yfirgnæfandi markaðshlutdeild.
ESB skipaði norskum gasbirgjum eftir samþykkt Orkupakka #2 að hætta að koma fram sem ein heild og heimtaði aðskilið eignarhald lagna og linda. Nú hafa Þjóðverjar brotið Orkulagabálk ESB #1, sem fjallar um aðskilnað eignarhalds, og #2, sem fjallar um frjálsa samkeppni, en með einn aðila með bróðurpart markaðshlutdeildar, verður ekki frjálsri samkeppni við komið.
Þjóðverjar reyna nú að klóra í bakkann og vona, að áætlun þeirra um að byggja 2 móttökustöðvar fyrir LNG (eldsneytisgas á vökvaformi) á norðurströnd Þýzkalands, sem samþykkt var um miðjan febrúar 2019, muni lægja öldurnar, einnig í Washington DC. Þetta eldsneyti er hins vegar 20 % dýrara en eldsneytisgasið frá Rússlandi, svo að bandaríska gasið mun eiga erfitt uppdráttar við venjulegar aðstæður, en er bráðnauðsynlegt af öryggisástæðum. Verður það greitt niður ? Slík ríkisafskipti eru bönnuð á Innri orkumarkaði ESB. Hvað rekur sig á annars horn í ESB núna.
Þetta ævintýri Rússa og Þjóðverja er eitur í beinum Bandaríkjamanna af öryggisástæðunum, sem að ofan eru taldar, og af þeim viðskiptalegu ástæðum, að þeir eru aflögufærir um jarðgas og vilja gjarna selja það bandamönnum sínum í Evrópu, sem eru algerlega háðir öðrum um orkuaðdrætti. Þjóðverjar snúa nú upp á hendur Frakka til að kaupa gas frá NS2. Þannig nær klofningur út af Nord Stream 2 inn í NATO.
Frú Merkel viðurkenndi í byrjun febrúar 2019 hina pólitísku vídd NS2 og hefur nú krafizt þess, að gas haldi áfram að streyma um lagnir í Úkraínu eftir gangsetningu NS2. Það er þó engin trygging komin fyrir slíku. Víð áhættugreining á áhrifunum af NS2 er ekki fyrir hendi í Berlín. Þjóðverjar virðast hafa einblínt á viðskiptalega þáttinn, sem reistur er á trausti gagnvart Rússum. Slíkt kemur öðrum á óvart, og Þjóðverjar eru nú um síðir að fá kalda fætur út af þessu máli, þar sem jafnaðarmenn eru í aðalhlutverki, hafa stutt málið í ríkisstjórninni og í sambandsþinginu í Berlín og í viðkomandi fylkisþingi, og fyrrverandi leiðtogi þeirra, Gerhard Schröder, er stjórnarformaður í NS2 félaginu, sem Gazprom á að mestu.
Stefan Meister í þýzka utanríkismálaráðinu segir: "Þetta mál ber vott um sjálfhverfa afstöðu, og það hefur skaðað ímynd Þýzkalands í Evrópu".
Hvað getum við Íslendingar lært af þessu ? Það verður allt undan að láta, þegar orkumál orkuhungraðra þjóða eru annars vegar. "Der Erfolg berechtigt das Mittel"-tilgangurinn helgar meðalið-í þessu tilviki eru samdar nýjar reglur og meginreglur jafnvel sveigðar, ef hagsmunir valdamikilla ríkja í ESB eru taldir krefjast þess. Slíkir hagsmunir eru t.d. að flýta sem mest orkuskiptunum í Þýzkalandi án þess að gera iðnaði landsins erfitt fyrir á samkeppnismörkuðum.
Það gefur auga leið, hversu hættulegt er fyrir fámenna þjóð norður í Dumbshafi í landi mikilla og verðmætra orkulinda að láta teygja sig út í þá ófæru að fela slíku ríkjasambandi lykilstöðu á orkumálasviði landsins og játast undir löggjöf þess, sem er sífelldum breytingum undirorpin, en oftast sveigð að hagsmunum fjölmennustu ríkjanna þar.
Þær breytingar eru allar á sömu bókina lærðar, því að allar miða þær að auknum völdum Framkvæmdastjórnarinnar á kostnað þjóðríkjanna. Framkvæmd EES-samningsins er með þeim ósköpum að hálfu íslenzkra stjórnvalda, að þeim er hreinlega ekki treystandi til að standa gegn sífelldum þrýstingi frá EFTA/ESB. Þess vegna má alls ekki færa ESB tangarhaldið á mótun orkustefnu hér.
3.3.2019 | 10:55
BREXIT og kunnuglegt bitbein
BREXIT-ferlið hefur tekið dapurlega stefnu, þar sem nú er útlit fyrir óreiðukennda útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, ESB. Hún kann þó að verða Bretum skárri kostur en hálfvelgjulegur viðskilnaður, þegar upp verður staðið. Bretar hafa átt í höggi við forystu ESB, sem er í vörn og óttast um framtíð sambandsins og vill gjarna, að útganga Stóra-Bretlands verði öðrum innanborðs víti til varnaðar. Hvort forystan sér að sér og hægir ótilneydd á samrunaferlinu, er þó alls óvíst. Vitað er, að þjóðir, sem lengi hafa skipt mikið við Breta og hafa fylgt þeim að málum innan ESB, t.d. Danir, Svíar og jafnvel Hollendingar, gætu séð sér hag í að fylgja Bretum, ef Bretum mun vegna vel utan við ESB.
Ekki þarf að orðlengja vanda Ítala. Skuldir ríkissjóðs Ítalíu nema yfir 130 % af VLF, og Ítalir hafa flotið á lágum vöxtum hingað til, því að hagkerfið hefur ekkert vaxið í áratug. Nú hækkar skuldatryggingarálagið ört á Ítölum; eru vextirnir, sem ítalska ríkið greiðir, nú um 4 % hærri en þeir, sem þýzka ríkið greiðir. Með sama áframhaldi mun ítalska ríkið lenda í greiðsluþroti (við 7 % álag) síðar á þessu ári. Þá hrynur evran, og þá mun hrikta í innviðum Evrópusambandsins.
Pólitísk sameining Evrópu gengur ekki upp, og hún er í raun algerlega óþörf frá praktísku sjónarmiði. Skynsamlegra hefði verið að halda sig við hugmyndir Breta um samstarf á viðskiptasviðinu, sem einskorðist við tollabandalag og staðlasamræmingu á öllum sviðum.
Eitt þeirra sviða, sem pólitískir hugsuðir ESB töldu nauðsynlegt að fella undir yfirstjórn ESB, var orkusviðið. Þar hafði um áratugaskeið ríkt valfrjálst samstarf á milli grannþjóða um orkuviðskipti yfir landamæri, ekki sízt með raforku. Norðurlandaþjóðirnar stofnuðu til slíks samstarfs innan NORDEL einna fyrstar í Evrópu, og buðu Íslendingum að fylgjast með því samstarfi.
Á Evrópugrundvelli starfaði félagsskapur raforkuflutningsfyrirtækja, ENTSO-E, og er Landsnet aðili þar, en þegar ESB ákveður að taka stjórn þessa málaflokks í sínar hendur með útgáfu Fyrsta orkumarkaðslagabálksins 1996, breyttist samstarf Evrópuþjóða frá valfrjálsri tæknilegri samvinnu yfir í þvingað, miðstýrt samstarf, sem lýtur pólitískri stefnumörkun æðstu stjórnar Evrópusambandsins. Þá hættir málið að vera áhugavert fyrir eyþjóð, lengst norður í Atlantshafi, þótt það kunni að þjóna hagsmunum þjóða í miðri Evrópu.
17 milljón kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni á Bretlandi í júní 2016 voru þeirrar hyggju, að ókostir ESB-aðildar Bretlands væru meiri en kostirnir, og mörgum þóttu ókostirnar fara vaxandi með aukinni miðstýringu, eftir því sem samrunaferlinu til sambandsríkis Evrópu vatt fram. Steininn tók úr 2009 eftir innleiðingu stjórnarskrárígildis ESB, Lissabon-samningsins. Það var löngum vitað, að slík þróun var Bretum ekki að skapi, hvorki verkalýðsstétt Bretlands né húsráðendum í Whitehall, sem löngum hafa í utanríkismálum haft að leiðarljósi orðtak Rómverja, "divide et impera", að deila og drottna í Evrópu.
Það er reyndar sáralítið fylgi á meginlandinu við hugmyndina um sambandsríki. Ferlið er rekið áfram af búrókrötum í Brüssel á grundvelli stjórnarskrárígildisins, Lissabonsáttmálans. Fjármálamógúlar Evrópu hafa barið bumburnar. Mikillar og vaxandi óánægju gætir á meginlandinu með það, hvernig forréttindastéttin rekur trippin. Franska þjóðfylkingin, (Norður) bandalagið á Ítalíu, Alternative für Deutschland og Svíþjóðardemókratarnir eru skýr dæmi um þetta.
Í BREXIT-viðræðunum tókst ekki að ná samkomulagi um fiskveiðistjórnun innan brezku lögsögunnar. Það er eftirtektarvert fyrir Íslendinga, að samninganefnd ESB krafðist áframhaldandi fiskveiðiréttinda fyrir togaraflota ESB-landanna innan brezku lögsögunnar upp að 12 sjómílnum, brezkum sjómönnum til mikillar gremju og tjóns fyrir þá og útgerðirnar.
Þetta ber vott um óbilgirni að hálfu Barnier & Co. í ljósi þess, að fiskveiðar nema aðeins um 0,1 % af VLF ESB-landanna. Jafnvel í útgerðarhéruðum ESB, skozku hálöndunum og eyjunum, Galicíu á Spáni og grísku eyjunum á Jónahafi, er hlutdeild sjávarútvegs litlu meiri en 2 % af viðkomandi hagkerfum. Sjávarútvegurinn hefur hins vegar mun meiri pólitísk áhrif en fjárhagslegi styrkurinn gefur til kynna, og kann það að hvíla á mikilvægi greinarinnar til fæðuöflunar fyrir Evrópu, og að mikil innflutningsþörf er á fiski til flestra ESB-landanna.
Hagsmunir brezks sjávarútvegs höfðu töluverð áhrif á úrslit BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslunnar, þótt sömu viðhorf endurspeglist ekki í afstöðu meirihluta þjóðþingsins. Brezkir sjómenn kröfðust brottvikningar erlendra togara úr brezkri lögsögu, þar sem þeir veiða 8 sinnum meira en Bretar í erlendri lögsögu. Lausn ágreiningsins var frestað til sumars 2020, en aðlögunartíma útgöngunnar á að ljúka þá um haustið. Þessu reiddust báðar brezku fylkingarnar, og um 20. nóvember 2018 skrifuðu Íhaldsþingmenn frá Skotlandi (Skotland kaus með veru í ESB) Theresu May, forsætisráðherra, þar sem þeir lýstu sig andvíga hvers konar samkomulagi, sem gengi skemur en að ná fullum yfirráðarétti yfir brezkri lögsögu ("full sovereignty over our waters").
Það verður þó á brattann að sækja, því að ríkisstjórnir strandríkja innan ESB, þ.á.m. Frakklands, Belgíu og Portúgals, heimta tryggingu fyrir áframhaldandi aðgangi togara sinna landa. Frakkar hafa gengið lengst í yfirganginum og heimta, að slík trygging verði skilyrði fyrir útgöngusamningi. Allt þetta þref er sett á svið vegna um 6000 sjómannsstarfa á meginlandinu og geira í brezka hagkerfinu, sem skapar svipuð verðmæti og skógarhögg eða framleiðsla á leðurvörum.
Þessi deila hefur áhrif á hagsmuni Íslendinga. Verði gengið að kröfum ESB, mun brezkum fiskimiðum og brezkum sjávarútvegi enn hrörna. Eins dauði er annars brauð. Þetta mun skapa öðrum fiskveiðiþjóðum, Íslendingum, Norðmönnum, Rússum og Kínverjum, ný viðskiptatækifæri á Bretlandi. Hafi Bretar sitt fram, sem verður að vona þeirra vegna, gæti útflutningsmarkaður þeirra fyrir fisk á meginlandinu lokazt um sinn, en um 2/3 aflans fara þangað. Þessi fiskur mun þá fara á innanlandsmarkaðinn í Bretlandi, sem herða mun samkeppnina á fiskmörkuðum þar til muna. Jafnframt lokast þá sú leið Íslendinga að landa í Grimsby og Hull og flytja fiskinn á teinum undir Ermarsundið til Frakklands og víðar. Í staðinn munu beinir flutningar frá Íslandi með fisk í lofti og á sjó inn til meginlands Evrópu aukast, því að þörfin þar fyrir "villtan" fisk og eldisfisk eykst stöðugt.
27.2.2019 | 13:17
Auðvelt að verzla við ESB án EES
Utanríkisráðuneytið, Félag atvinnurekenda (heildsalar), sumir þingmenn o.fl., hafa lengi þann steininn klappað, að viðskiptahagsmunum Íslendinga muni verða hætta búin, ef Alþingi hafni Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Þetta er hrein fjarstæða og flokkast undir hræðsluáróður í anda "Icesave"-tímans, enda eiga margir hinna sömu skúma þar hlut að máli. Þegar viðskiptasamningur er á góðri leið með að breyta þingræðinu í landinu í "póstlýðræði", þar sem drjúgur hluti lagasetningarinnar kemur með pósti frá Brüssel, þá er vissulega eitthvað að og rík ástæða til að horfa til annars konar viðskiptalíkans við Evrópusambandið, ESB. Að breyttu breytanda getur þetta fyrirkomulag minnt Íslendinga og Norðmenn á stöðu landanna, þegar þau voru hjálendur Danakóngs.
Myndin af tollgæzlumönnum að störfum á landamærum, sem skoða alla farma við landamærin og fylla í hægðum sínum út eyðublöðin sín og stimpla þau að lokum, er löngu orðin úrelt. Eftirlitið er nú stafrænt, og farmurinn er skráður við upphaf ferðar. 95 % af innflutningi ESB kemur frá löndum utan EFTA-landanna þriggja í EES, Íslands, Noregs og Liechtensteins. Aðeins u.þ.b. 1 % af innflutningi ESB-landanna er tollskoðað.
Megnið af útflutningi Íslands og Noregs til ESB eru hrávörur og hálfunnar vörur. Þessar vörur fara inn í framleiðsluferli ESB-landanna, og fyrirtækin þar, sem í hlut eiga, vilja auðvitað helzt fá þessar vörur sem ódýrastar. Það myndi skaða efnahag ESB-landanna talsvert að útiloka vörur frá þessum EFTA-löndum á borð við fisk, málma, svo að ekki sé nú minnzt á olíu og gas frá Noregi, eða að hækka kostnað við að kaupa þessar vörur með því að leggja á þær innflutningsgjöld.
Það, sem Ísland kaupir frá ESB-löndunum, eru að mestu leyti vörur tilbúnar til notkunar, allt frá skrúfum og pizzum til bíla og vélbúnaðar. ESB-löndin hafa í heild aukið markaðshlutdeild sína bæði á Íslandi og í Noregi frá gildistöku EES-samningsins, og Ísland hefur líka aukið útflutning sinn til ESB-landanna sem hlutfall af heildarútflutningi, en minna fer fyrir viðskiptum við t.d. Bandaríkin og Rússland en fyrir 1973-langt á undan EES-samninginum. Sumpart er þetta vegna tæknilegra hindrana, sem EFTA-löndunum er gert að innleiða til að geta verið á Innri markaði ESB. Síðan er skemmst að minnast refsiaðgerða gegn Rússum undir forystu Angelu Merkel, sem leiddi til viðskiptabanns Rússa á matvæli frá Íslandi. Þetta olli landinu tugmilljarða ISK tjóni. Angela Merkel klæðskerasneið þessar refsiaðgerðir þannig, að Þjóðverjar urðu fyrir sáralitlu tjóni, en Norðmenn og Íslendingar fyrir stórtjóni, og Færeyingar hlupu í skarðið.
ESB hefur ekkert að vinna með því að reisa tollmúra gagnvart Íslandi og Noregi.
ESB bauð Bretum fríverzlunarsamning í upphafi BREXIT-viðræðnanna, en Bretar höfnuðu honum vegna Írlandsmálanna. Með fríverzlunarsamningi ESB við Bretland myndi Norður-Írland hafa lent utan tollabandalags við Írska lýðveldið, sem Írar vilja alls ekki. Engin slík vandamál mundu koma upp í samningaviðræðum EFTA-landanna við ESB um víðtækan fríverzlunarsamning. Þegar Norðmenn og Íslendingar verða búnir að fá sig fullsadda af lýðræðishallanum og fullveldisframsalinu, sem í EES-samninginum felst, þá er einboðið, að þeir í sameiningu, eða undir merkjum EFTA, leiti eftir fríverzlunarsamningi og víðtækum samstarfssamningi við ESB.
Það er líklegt, að samningaviðræður EFTA og ESB um fríverzlunarsamning myndu ganga greiðlega, ef t.d. Ísland og Noregur ákveða að segja upp EES-samninginum, og má í því sambandi benda á fríverzlunarsamninga, sem ESB hefur á síðustu árum gert við Suður-Kóreu, Japan og Kanada.
Hvers konar rammasamningar eru fyrir hendi fyrir viðskipti utan EES ? Frá degi 1 fyrir Ísland utan EES myndu viðskiptin lúta ákvæðum gamla fríverzlunarsamningsins frá 1973 á milli Íslands og ESB ásamt WTO-reglum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar.
Fríverzlunarsamningur Íslands og Noregs við ESB frá 1973, sem enn er í gildi, kveður á um núll toll á iðnaðarvörum, þó ekki á tilreiddum fiski og öðrum matvörum, og samningurinn hefur verið uppfærður nokkrum sinnum á þessari öld. EES-samningurinn gefur heldur ekki núll toll á fiski og á laxi, sem er vaxandi útflutningsvara. Þar yrði tollurinn óbreyttur, 2 %.
Röksemd, sem stundum heyrist fyrir EES-samninginum, er, að hann fjarlægi tæknilegar viðskiptahindranir úr vegi inn- og útflytjenda. WTO-reglurnar gegn mismunun á markaði kveða á um, að eftir að ESB eða sérhvert WTO-land (Ísland er aðili að Alþjóða viðskiptastofnuninni) hefur kunngert WTO-staðla sína, þá skulu þeir undantekningarlaust gilda um alla útflytjendur þangað. Eftir 25 ára samræmingarstarf og veru á Innri markaði ESB, þá fullnægir Ísland öllum kröfum ESB um vörustaðla. Það þýðir, að eftir úrsögn standa engar tæknilegar hindranir í veginum fyrir útflutningi frá Íslandi til ESB-landa né öfugt. Sértækar samþykktarkröfur verða óleyfilegar.
WTO-samningar um tæknilegar viðskiptahindranir og um fyrirkomulag viðskipta ásamt Kyoto-samninginum um tollafgreiðslu um heiminn allan, skuldbindur ESB til eins greiðrar landamæraafgreiðslu og möguleg er.
Íslenzk yfirvöld geta síðan valið þann kostinn að aðlaga sig nýjum, tæknilegum reglum vegna Innri markaðar ESB, þannig að viðskiptastaðlarnir verði áfram eins hér og þar. Ef menn hérlendis vilja gera eigin kröfur til ákveðinnar vöru, þá er á vegum WTO gengið frá því með s.k. samsvörunarmati, að vörur, sem taldar eru gjaldgengar á Íslandi verði það einnig í löndum, sem Ísland flytur vörur út til. Sömuleiðis hefur framkvæmdastjórn ESB vald til að slá föstu, að vörur með uppruna utan ESB séu jafngildar samsvarandi ESB-vörum og í samræmi við ESB-staðalinn. Þar að auki má benda á, að viðskiptasamningar Sviss og Kanada við ESB veita réttum yfirvöldum í þessum ríkjum heimild til að samþykkja einhliða, að vara fullnægi ESB-stöðlum áður en hún er flutt út. Það er engin ástæða til að ætla annað en EFTA-landið Ísland fengi slíka heimild fúslega viðurkennda af ESB.
Vinnan við að semja alþjóðlega, tæknilega staðla fer fram óháð ESB, t.d. í Staðlanefnd Evrópu (CEN), þar sem lönd utan EES eru líka aðilar.
Fyrirkomulag við landamæraeftirlit hefur aðallega verið rætt í sambandi við fiskútflutning. WTO er með eigin samning um matvæli, sem veitir heimild til landamæraeftirlits til að tryggja lágmarksgæði innflutningsins. Eftirlitið verður að vera reist á málefnalegum rökum, og aðgerðirnar mega ekki mismuna útflytjendum eða innflytjendum. Þetta tryggir öllum sams konar aðgang að ESB-fiskmörkuðum. Hreinlætisreglur Íslands og ESB eru samræmdar og munu verða óbreyttar við uppsögn EES-samningsins. Sérstakt eftirlit með dýrasjúkdómum á landamærum ESB stæðist ekki kröfur um málefnalegan rökstuðning og mundi vera í blóra við WTO-samninginn.
Fiskurinn mun fljóta yfir landamærin næstum eins og núna. Benda má á, að flutningabílar með fisk frá Noregi eru tollafgreiddir núna á landamærunum, og tíminn, sem í þetta fer eftir úrsögn Noregs úr EES mun varla lengjast nokkuð. Sama mun væntanlega gilda með íslenzkan fisk til meginlandsins, hvort sem hann er fluttur með flutningavögnum frá Englandi, skipum eða flugvélum beint frá Íslandi. ESB-löndin flytja að auki mikið inn núna af fiskmeti frá löndum utan EES, t.d. Rússlandi, Víetnem og Ekvador.
Í bókinni "Myth and Paradoxes of Single Market" frá brezku hugveitunni Civitas eru verzlunartölur frá OECD í 40 ár, 1973-2012, bornar saman. Þar kemur fram, að vöruútflutningur til ESB frá löndum með sérsamninga, þ.á.m. EES-löndunum Noregi og Íslandi, hefur ekki vaxið meir en útflutningur frá löndum, sem verzla við ESB á grundvelli WTO-reglna.
Þegar um er að ræða þjónustuviðskiptin, sýnir bókin viðskiptaþróun u.þ.b. 50 landa við ESB á tímabilinu 2004-2012. Þar kemur fram, að svo ólík lönd sem Sviss, Indland, Síle og S-Kórea (og mörg fleiri) juku þjónustuútflutninginn til ESB meira en Noregur. Flest löndin verzla við ESB á grundvelli WTO-samnings um fríverzlun með þjónustu, GATS-samningsins.
ESB hefur mikinn hag af viðskiptum með jarðefnaeldsneyti, fiskmeti og málma frá Noregi, og hið sama gildir um viðskiptin við Ísland, þótt landið flytji ekki enn út eldsneyti, hvað sem verður. Noregur flytur inn þjónustu frá ESB fyrir 50 % hærri upphæð en andvirði þjónustunnar, sem landið flytur út til ESB. Viðskiptajöfnuður landsins gagnvart ESB í aldarfjórðung er klárlega ESB í hag.
Hvað Ísland varðar, var árið 2017 jákvæður vöruskiptajöfnuður við ESB upp á mrdISK 27,1, og þjónustujöfnuðurinn var jákvæður upp á mrdISK 35,7, svo að alls var vöru- og þjónustujöfnuðurinn jákvæður um mrdISK 62,8.
Auðvitað viljum við áfram eiga mikil og góð viðskipti við ESB-löndin og getum lagað okkur að tæknilegum kröfum Innri markaðarins eftir þörfum, en það er orðið allt of íþyngjandi að taka upp umfangsmikla löggjöf Evrópusambandsins um málefni, sem ekki snerta okkar viðskipti við ESB-löndin, og þurfa að sæta ákvörðunarvaldi mismunandi stofnana ESB og úrskurðarvaldi EFTA-dómstólsins um málefni, sem varða landsmenn miklu.
25.2.2019 | 18:14
Orkuskipti og orkumarkaður
Forsenda þess, að orkuskiptin á Íslandi gangi snurðulaust, eins og þau verða að gera, eigi markmið ríkisstjórnarinnar um að draga úr losun koltvíildis um 40 % árið 2030 m.v. 1990 (að hætti ESB), að nást, er, að orkumarkaðurinn verði hér í jafnvægi og að engar meiri háttar hækkanir verði hér á raforkuverði. Þriðji og Fjórði orkupakki ESB munu aðeins torvelda Íslendingum að fást við þetta verkefni, en auðvelda meginlandinu það örlítið, eins og kerfið (orkulöggjöf ESB) er auðvitað hannað til. Hagsmunir Íslands og ESB stangast á í þessu máli, og hagsmunir íslenzku þjóðarinnar og norsks auðvalds og forréttindastéttar (og Liechtensteins) fara ekki saman í orkumálasamstarfi við ESB. Íslendingar eru fórnarlömb í EES-samstarfinu vegna ístöðuleysis ráðamanna hér, og af því að þeir lenda alltaf í minnihluta í Sameiginlegu EES-nefndinni, þegar mikil hagsmunamál eru þar til umfjöllunar. Hagsmunir norsku þjóðarinnar og þeirrar íslenzku fara hins vegar saman í orkupakkamálum, eins og skoðanakannanir í báðum löndum bera glögglega vitni um. Í Noregi hefur lengi verið gjá á milli þings og þjóðar, sbr tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um aðildarsamninga við ESB. Slík gjá var líka á Íslandi á vinstri stjórnar tímabilinu 2009-2013, eins og 2 þjóðaratkvæðagreiðslur um "Icesave" sýndu. Er hún fyrir hendi á Alþingi þessa kjörtímabils, þótt ríkisstjórnin spanni mestallt hið pólitíska litróf ?
Verði Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB innleiddur af Alþingi í EES-samninginn, mun taka hér til starfa embætti Landsreglara undir beinni stjórn Evrópusambandsins, ESB, með ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sem millilið, sem gegna mun ljóritunar- og þýðingarhlutverki í þessu tilviki, þótt hún sé valdamikil á öðrum sviðum, enda á hún að endurpegla Framkvæmdastjórnina EFTA-megin.
Verkefni Landsreglarans (National Energy Regulator) verður m.a. að fylgja eftir stofnun orkukauphallar og að hafa eftirlit með starfsemi hennar. Það er líklegt, að slíkt fyrirkomulag orkuviðskipta í íslenzku fákeppnisumhverfi, þar sem enginn hefur þær skyldur á herðum að tryggja nægt orkuframboð á hverjum tíma (frekar en nú er), muni leiða til óstöðugs orkumarkaðar og hærra meðalverðs en nú er við lýði. Nægir að líta til Noregs í því sambandi, þar sem öll orkuviðskipti, nema megnið af orkukaupum stóriðju, fara fram á uppboðsmarkaði orkukauphallar, Nord Pool, sem var norrænn orkumarkaður og er nú hluti af Innri markaði ESB. Það verður ekki bæði sleppt og haldið, og þess vegna gætu orkuskiptin dregizt á Íslandi og þau orðið dýrari en ella og nauðsyn krefur.
Með orkuskiptunum mun myndast hér talsverður markaður fyrir vetni, sem verður bæði notað beint á eldsneytisrafala ("Fuel cells") til að knýja vinnuvélar, langferðabíla, vörubíla, skip og flugvélar ásamt fólksbílum, og sem grunnefni við eldsneytisframleiðslu. Það er auðvitað glórulaust að flytja inn vetni, sem yfirleitt er framleitt úr jarðgasi um þessar mundir. Hægt er að framleiða vetni með helmingi lægri tilkostnaði en á meginlandi Evrópu með rafgreiningu vatns, enda er vatnið ódýrt hér og raforkan enn þá notendum tiltölulega hagstæð. Kostnaður við framleiðsluna nemur samkvæmt upplýsingum og útreikningum höfundar 2,0 EUR/kg. Þótt verðið mundi þrefaldast á leið í dælu fyrir fartækin, þá verður orkukostnaður vetnisfartækja samt aðeins 2,0 ISK/km, sem er lægra en fyrir rafmagnsbíl, knúinn rafhlöðum, hvað þá jarðefnaeldsneyti.
Ef hagstæður raforkusamningur næst, t.d. með takmörkuðum álagsskerðingarrétti forgangsorku og afgangsorku (ótryggðrar orku), verður hagkvæmt að framleiða hérlendis allt vetni til innanlandsbrúks með rafgreiningu. Til að ná stærðarhagkvæmni má hæglega hugsa sér, að íslenzk vetnisverksmiðja flytji út vetni, t.d. til Norð-Austur Englands, þar sem senn mun opnast nægilega stór markaður fyrir alla vetnisframleiðslu á Íslandi umfram innanlandsnotkun. Englendingarnir hyggjast leysa jarðgas, sem nú er á þrotum úr Norðursjónum, af hólmi með vetni til upphitunar húsnæðis. Ekki er líklegt, að framleiðslumagn vetnis á Íslandi réttlæti gaslögn til Englands, sem kostað gæti allt að mrdISK 600. Útflutningurinn yrði með sérútbúnum skipum til flutninga á eldsneytisgasi.
Í kynningarblaði Fréttablaðsins, 31. janúar 2019,
"Konur í atvinnulífinu",
átti Benedikt Bóas Hinriksson viðtal við Ingunni Agnesi Kro, framkvæmdastjóra skrifsofu- og samskiptasviðs Skeljungs, en hún leiðir vetnisvæðingu fyrirtækisins hérlendis. Ingunn Agnes hefur margt athyglisvert fram að færa.
"Ef við ætlum okkur að ná fram orkuskiptum í samgöngum, þá þurfum við að nýta vetnið. Það eru ekki einungis mín orð, heldur hafa bæði forstjóri ON, sem leitt hefur rafbílavæðinguna, og stjórnarformaður N1, einnig sagt opinberlega."
Það er trúlega rétt, að vetni er óumflýjanlegt, ef orkuskipti farartækja eiga að fara fram hér að mestu á næstu tveimur áratugum. Agnes Kro ætti að beita sér fyrir, að Skeljungur reisi hér vetnisverksmiðju. Búnaður er til á markaðinum fyrir hæfilega upphafsstærð.
Orkuþéttleiki þekktra Liþíum rafgeyma er mjög lítill eða undir 0,2 kWh/kg (vetni 47 kWh/kg og 33 kWh/kg nettó inn á rafkerfi fartækja) og drægnin þar af leiðandi ónóg á hverri hleðslu og endurhleðslutíminn auk þess of langur til að rafgeymar henti öllum notendum og farartækjum. Ingunn Agnes bendir t.d. á, að drægni núverandi vetnisbíla á Íslandi sé 500-700 km við verstu aðstæður og að á einni klukkustund anni ein vetnisdæla 20 bílum, en ein hraðhleðslustöð rafgeyma tveimur. Vetniskerfin eru skilvirkari en rafgeymakerfin, þótt heildarnýtni vetnis sé aðeins um 60 % af nýtni rafgeymakerfanna.
"Ingunn segir þó jafnframt, að hún sé ekki að taka slaginn um það, hvort við munum í framtíðinni öll aka um á rafbílum eða á vetnisbílum. Hún telji, að flotinn muni samanstanda af báðum valkostum.
Rafmagn sé afar ódýrt á Íslandi. Hafi fólk tök á því að hlaða bílana sína heima og þurfi ekki að ferðast á þeim lengri vegalengdir, þá geti [rafgeymaknúinn] rafmagnsbíll verið bezti kosturinn. Sé það hins vegar ekki staðan og ef bíllinn þarf að vera í meiri notkun eða komast lengri vegalengdir, telur hún vetnisbíl vera bezta kostinn. Vetnið sé kjörið á stærri bifreiðar, svo sem rútur og flutningabíla. Strætó muni verða kominn með 5 vetnisvagna á árinu 2020, og verið sé að vinna að því að útvega vetnisflutningabíla fyrir Ölgerðina og Eimskip.
Ekki þurfi að verja plássi í stór og þung batterí, heldur sé í vetnisbílum lítið batterí, en einnig vetnistankur, sem hægt sé að hafa stóran eða lítinn eftir þörfum [rúmtakið fer líka eftir völdum kerfisþrýstingi-innsk. BJo].
"Vetni er léttasta frumefnið, svo að það liggur engin þyngd í því. Bílarnir [langferðabílar, vörubílar - innsk. BJo] komast um 500 km á 5 kg. Það er vissulega líka batterí í vetnisbílum, en mun minna en í rafmagnsbíl", segir Ingunn."
M.v. núverandi stöðu á markaðinum hefur vetni sem orkuberi styrkleika og veikleika í samkeppninni við rafgeymana. Af veikleikum má nefna tiltölulega lága heildarorkunýtni, sem þó fer batnandi með þróun tækninnar, bæði við rafgreininguna og í efnarafalanum. Orkukostnaður á hvern ekinn km virðist vera lægri nú fyrir vetnisknúna rafbíla en rafgeymaknúna rafbíla. Vetnisverðið orðið ráðandi þáttur fyrir innleiðingu rafknúinna farartækja. Það er óráð að flytja vetni til landsins. Skynsamlegast er að reisa hér vetnisverksmiðju. Til að hún geti framleitt vetni á samkeppnishæfu verði fyrir innanlandsmarkað og fyrir útflutning, þarf hún hagstæðan raforkusamning.
Líkurnar á, að slíkur samningur komist á koppinn, minnka stórlega með tilkomu Landsreglara eftir innleiðingu Orkupakka #3. Ástæðan er sú, að eitt hlutverka hans er að hafa náið eftirlit með orkumarkaðinum hér og gæta þess, að þróun hans verði öll í átt að fullkominni aðlögun að innri orkumarkaði Evrópusambandsins. Þar er ekkert rúm fyrir langtímasamninga af því tagi, sem vetnisverksmiðja á Íslandi þarf á að halda til að vera samkeppnishæf. Landsreglarinn kann að komast að þeirri niðurstöðu, að hagstæðari langtímasamningur við vetnisverksmiðju hérlendis en fáanlegur er innan ESB mismuni vetnisverksmiðjum á meginlandinu og feli jafnvel í sér opinberan stuðning, ef orkubirgirinn er í eigu ríkis eða sveitarfélags.
Ef Landsreglarinn vísar slíku máli til úrskurðar ESA og ríkisfyrirtæki, t.d. Landsvirkjun á í hlut, kann ESA að úrskurða slíkan samning ígildi ríkisstuðnings við vetnisverksmiðjuna, og þar með yrði hún í algeru uppnámi.
Þetta er eitt dæmi af mörgum, sem hægt væri að taka, til að sýna, að innleiðing Orkupakka #3 getur sett alvarlegt strik í reikning orkuskiptanna hérlendis og sett fyrirtækjum hér stólinn fyrir dyrnar um öfluga þátttöku í þeim, sem þó er nauðsynleg, eigi markmið stjórnvalda í loftslagsmálum að nást.
Það er óboðlegt að hleypa Trójuhesti ESB inn í íslenzka stjórnkerfið á orkumálasviði. Slíkt mun draga úr svigrúmi landsmanna sjálfra til ákvarðanatöku út frá eigin hagsmunum, en beina ákvarðanatöku í farveg, sem hentar orkuhrjáðu Evrópusambandi. Slík fullveldisskerðing er Stjórnarskrárbrot og mun óhjákvæmilega leiða til minni verðmætasköpunar á Íslandi en annars. Þetta verður mönnum enn ljósara, þegar þeir lesa úrdrátt Fjórða orkubálksins, sem ESB hefur birt og fjallar um aukna miðstýringu ESB til að auðvelda Framkvæmdastjórninni að ná losunarmarkmiðunum, sem ESB er skuldbundið til samkvæmt Parísarsamkomulaginu.
22.2.2019 | 17:38
Olíufélög auka vinnsluna
Það er ekki enn komið að toppi olíueftirspurnar í heiminum, heldur ekki á Íslandi, þegar öll jarðefnaeldsneytiseftirspurn (án kola) er meðtalin. Hér verður vitnað í Hjörleif Guttormsson, náttúrufræðing og fyrrverandi iðnaðarráðherra, en eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu, 18. febrúar 2019:
"Ferðaiðnaðurinn með ómældri losun gróðurhúsalofts frá flugvélum og skemmtiferðum og vöruflutningum loftleiðis heimshorna á milli er oft nefndur sem dæmi um sólund, sem heyra verði sem fyrst sögunni til, eins og einnig skefjalaus notkun einkabílsins. Hergagnaiðnaður og stríðsátök kóróna síðan feigðarflanið."
Í ljósi þess sess, sem ferðamennskan skipar í lífi Íslendinga og vegna þeirrar stöðu, að ferðaþjónusta er nú aðalatvinnugrein landsmanna, veitir flestum beina vinnu og er aðalgjaldeyrislindin, er þessi hugleiðing Hjörleifs umhugsunarverð. Það er ekki alls kostar rétt, að eldsneytislosun þessa geira samfélagsins sé ómæld. Árið 2016 nam t.d. eldsneytisnotkun íslenzkra millilandaflugvéla um 0,79 Mt (milljón tonnum), sem var 84 % meira en notkun farartækja á landi og fiskiskipa til samans. Gróðurhúsaáhrif frá íslenzkum millilandaflugvélum voru árið 2016 45 % meiri en gróðurhúsaáhrif allrar annarrar starfsemi á landinu að millilandaskipum meðtöldum, en fyrir utan landnotkun (framræslu lands).
Þannig má halda því fram, að aðalstarfsemi landsmanna sé umhverfislega ósjálfbær. Flugið heyrir undir sameiginlega kvótasetningu EES-ríkjanna, og það er líklegt, að flugfélögin muni þurfa að kaupa sér umtalsverða koltvíildiskvóta á næsta áratug. Þessi kostnaður Icelandair og VOW til samans árið 2019 mun losa mrdISK 1,0, og þessi kostnaður fer hækkandi. Hver ráðstafar öllu þessu fé, sem fer í koltvíildiskaup ? Féð ætti að fara í mótvægisaðgerðir á Íslandi, t.d. skógrækt. Koltvíildisgjaldið veldur hækkun farmiðaverðs fyrr en síðar, sem mun leiða til fækkunar ferðamanna frá Evrópu. ESB hefur hins vegar ekki lögsögu yfir flugfélögum með aðsetur utan Evrópu, og koltvíildiskvóti hefur enn ekki verið lagður á flugfélög, sem fljúga til Íslands frá öðrum heimsálfum.
Þessi þróun mun ýta undir nýtingu vetnis til að knýja flugvélar, en vetnið hefur mun meiri orkuþéttleika (kWh/kg) en jarðefnaeldsneyti. Þarna verður þá framtíðarmarkaður fyrir vetnisverksmiðju á Íslandi. Það verður engum vandkvæðum háð að finna markað, innanlands og utan, fyrir allt það vetni, sem hægt er að framleiða með raforku, sem nú er rætt um að flytja frá Íslandi um sæstreng. 1200 km lögn til Bretlands gæti kostað mrdUSD 4-5, sem varla er samkeppnishæf við flutninga með skipi.
Olíufurstar reikna þó ekki með alvarlegri samkeppni frá vetni, enda er skortur á umhverfisvænni orku til að framleiða það. Vetni, framleitt með rafgreiningu á Íslandi gefur engu að síður samkeppnishæfan orkukostnað á farartæki m.v. rafmagn af rafgeymum, svo að ekki sé nú minnzt á samanburðinn við núverandi verð jarðefnaeldsneytis, sem er a.m.k. 5-falt dýrara á hvern km.
Exxon Mobil hefur gert áætlun um eldsneytiseftirspurnina á næstu árum og fjárfestingar til að fullnægja henni. Gangi þessar áætlanir eftir, næst toppur eldsneytisnotkunar jarðarbúa á tímabilinu 2040-2050, sem er tveimur áratugum of seint, til að hemja megi meðalhitastigshækkun á jörðunni innan við 2°C, sem samkvæmt sérfræðingahópi Sameinuðuðu þjóðanna, IPCC, er nauðsynlegt til að hindra stjórnlausa hækkun hitastigs jarðar.
Samkvæmt áætlun Exxon Mobil mun olíuþörfin aukast um 42 % á tímabilinu 2000-2040 og verða enn hægt stígandi í lok tímabilsins, og gasþörfin mun aukast um 75 % og enn vera hratt stígandi 2040. Þetta er óbjörgulegt og sýnir, að allt stefnir í óefni, þrátt fyrir yfirlýsingar og heitstrengingar stjórnmálamanna og embættismanna á ráðstefnum. Markaðurinn verður að taka til sinna ráða, eins og hann hefur gert í Bandaríkjunum með góðum árangri. Tilburðir stjórnmálamanna til að stjórna þróuninni hafa reynzt vera misheppnaðir.
Exxon Mobil eykur nú vinnslu sína með borunum neðansjávar. Háþróaðri tækni er beitt, t.d. úti fyrir ströndum Guyana í Suður-Ameríku. Þar borar Exxon Mobil á 2000 m dýpi frá skipi, sem haldið er innan 3 m radíus frá lóðlínu niður að borholu, þaðan sem dælt er upp olíu úr lind, sem metin er nema 5 mrd tunna. Á næstu árum verður Guyana líklega annað mesta olíuríki Suður-Ameríku, næst á eftir Brasilíu, því að sameignarstefnan (kommúnisminn) hefur eyðilagt efnahag Venezúela, en þar eru gríðarlegar olíulindir.
Exxon Mobil hyggur á vöxt, þrátt fyrir aðvaranir vísindamanna IPCC til heimsbyggðarinnar. Þannig er stefnt að 25 % meira framboði á gasi og olíu árið 2025 en árið 2017. Þetta sýnir, að róttækrar tæknibyltingar er þörf til að vinda ofan af því, hversu háð mannkynið er orðið notkun jarðefnaeldsneytis.
Til þess þarf mikið fé, og sennilega er minna fé til ráðstöfunar í þessa nauðsynlegu tækniþróun en til fjárfestinga í gas- og olíuiðnaðinum. Darren Woods, sem tók við forstjórastarfi í Exxon Mobil af Rex Tillerson 2017, sem um stutta hríð var utanríkisráðherra hjá Donald Trump, hefur tilkynnt um fjárfestingaráform fyrirtækisins upp á mrdUSD 200 á 7 ára tímabili 2019-2025 (triISK 24 - tíföld íslenzk landsframleiðsla á ári).
Eftir forstjóranum Woods var haft nýlega:
"Við metum horfur olíuiðnaðarins til langs tíma. Við sinnum þörfum hagkerfanna fyrir orku miðað við lífskjör fólksins."
Með þessu á forstjórinn væntanlega við, að lífskjör fólks um langa framtíð verði háð nægu framboði á jarðefnaeldsneyti. Það kann þvert á móti að koma senn til gríðarlegs kostnaðarauka af völdum notkunar jarðefnaeldsneytis, sem þá mun rýra lífskjör almennings, því meir sem lengur dregst að leysa þessa orkugjafa af hólmi. Það er mótsögn í ofangreindum orðum forstjórans og því, að hann segist sammála stefnunni, sem mörkuð var á Parísarráðstefnunni 2015 um að halda hlýnun vel innan við 2,0°C. Til þess þarf nefnilega olíunotkun að fara að minnka um 2020. Það gerist ekki á meðan olíufyrirtækin halda framboðinu uppi. Lausnin verður þó auðvitað að koma á neytendahliðinni, svo að eftirspurnin minnki. Þá mun verðið lækka og ekki mun lengur borga sig að leita nýrra linda.
Jarðgas hefur víða fengið samkeppni frá vind- og sólarorkuverum, og í Bandaríkjunum og víðar hefur það leyst kolaorkuver af hólmi og dregið þannig úr loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda. Olían hefur áfram sterk tök í flutningageiranum og vinnuvélunum. Á þessu virðist ekki munu verða mikil breyting á næsta áratugi, því að aðeins 15 % bíla verða rafdrifnir með rafgeymum eða vetni árið 2030 samkvæmt spám, sem taldar hafa verið bjartsýnislegar um þessa rafvæðingu.
Vörubílar, vinnuvélar, skip og flugvélar munu væntanlega fylgja í kjölfar bílanna. Þó er vert að gefa gaum að þróun rafkerfa fyrir skip, sem lofar góða um breytingar á næsta áratugi. Nýja ferjan á milli lands og Eyja mun verða knúin frá 3000 kWh rafgeymum, en endurhleðslutíminn verður aðeins 0,5 klst. Þetta er ótrúlegt, en er samkvæmt upplýsingum framleiðandans. Þá þarf vissulega háspennta raflögn niður að endurhleðslustað á hafnarbakka.
Annar möguleiki og áhugaverðari fyrir flutningaskip og togaraflotann er vetnisrafali til að knýja rafkerfi þeirra, þ.m.t. rafhreyflana, sem knýja skipin. Slíkur hefur verið þróaður fyrir minni skip fyrir nokkrum árum með góðum árangri. Orkuþéttleiki (kWh/kg) vetnis er a.m.k. þrefaldur á við orkuþéttleika flotaolíu, og með framleiðslu vetnis á Íslandi með rafgreiningu úr vatni verður það samkeppnishæft við rafgeyma og með miklu lengri drægni.
15.2.2019 | 10:39
Kúvending orkustefnu
Upp úr 1960 mótuðu íslenzk stjórnvöld landinu nýja orkustefnu. Hverfa skyldi frá smávirkjanastefnu, en beina kröftunum þess í stað að hagkvæmustu virkjanakostum landsins, stórvirkjunum á íslenzkan mælikvarða, og byggja upp öflugt og áreiðanlegt flutningskerfi raforku til mesta þéttbýlissvæðis landsins, þar sem verið hafði viðvarandi orkuskortur. Með þessu mundi myndast fótfesta til alhliða uppbyggingar raforkukerfisins og viðeigandi iðnaðar um allt land.
Hugmyndin var sú að fjármagna þessar framkvæmdir í orkukerfinu með orkusölu til stóriðju. Það var þáverandi iðnaðarráðherra, Bjarni Benediktsson, sem fór fyrir þessari tímabæru stefnubreytingu. Stór áfangasigur umbótamanna náðist árið 1965, þegar Alþingi samþykkti lög um Landsvirkjun, sem framfylgja skyldi þessari stefnu Viðreisnarstjórnarinnar.
Stefnan var innsigluð á Alþingi árið 1966 með stofnun Íslenzka Álfélagsins og staðfestingu Aðalsamnings við Alusuisse til 45 ára um stofnun og starfrækslu álvers ISAL í Straumsvík og raforkusölusamnings til 45 ára (með endurskoðunarákvæðum), eftir stórpólitískar deilur í landinu á milli ríkisstjórnarflokkanna þáverandi, Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, og stjórnarandstöðuflokkanna, Framsóknarflokks og Alþýðubandalags. Höfundi þessa pistils eru deilur þessar enn í minni.
Starfsemin hófst í Straumsvík í júní 1969, þrátt fyrir bölbænir andstæðinganna, og fékk ISAL raforku fyrst frá einum rafala í Búrfelli og einni línu þaðan, og hefur þessi verksmiðja þess vegna í sumar verið starfrækt í hálfa öld. Þarf ekki að fjölyrða hér um þróun starfseminnar á þessu tímabili, og að afhendingaröryggi raforku, sem var mjög bágborið, hefur síðan tekið stakkaskiptum.
Með ISAL hljóp nýr kraftur í iðn- og tæknivæðingu landsins á heppilegum tíma í atvinnulegu tilliti, því að sjávarútvegurinn og hagkerfi landsins stríddu um þessar mundir við hrun síldarstofnsins, sem var um tíma aðalgjaldeyrislind þjóðarinnar. Orkusækinn iðnaður hefur síðan alla tíð verið sveiflujafnandi í íslenzka hagkerfinu og myndar nú eina af þremur meginstoðum gjaldeyrisöflunar landsmanna. Stefnumörkun Viðreisnarstjórnarinnar gekk upp, en alvarlegustu hrakspár úrtölumanna, bæði um Búrfellsvirkjun, ISAL og áhrif útlendinga á íslenzkt þjóðlíf vegna beinna fjárfestinga þeirra, rættust ekki. Hrakspárnar reyndust reistar á vanþekkingu, vanmetakennd og/eða pólitískum grillum.
Þótt umsamið orkuverð frá Búrfelli væri lágt fyrstu árin, þá hækkaði það smám saman, og nú borgar ISAL hæsta verð orkukræfra verksmiðja á Íslandi, og er það yfir meðalverði til álvera í heiminum. Dugðu tekjur af ISAL reyndar til að greiða upp allan kostnað af Búrfelli, stofnlínum þaðan og tengdum aðveitustöðvum á innan við 30 árum, og notaði ISAL þó aldrei alla orkuna frá Búrfelli á þessu tímabili. Í þessu, ásamt atvinnusköpun, verðmætasköpun, nýrri tækniþekkingu o.fl., fólst ávinningur stóriðjustefnunnar fyrir almenning.
Sumir hagfræðingar hafa samt talið arðsemiskröfuna til virkjanafjárfestinga vera of lága og telja enn. Þar má nefna Þorstein Siglaugsson, sem að eigin sögn er "heimspekingur, hagfræðingur, rekstrarráðgjafi og frjálslyndur frjálshyggjumaður". Ekki lítið punt á nafnspjaldið, það. Gott og vel, en hefði arðsemiskrafan verið hækkuð upp í það, sem algengt er fyrir fjárfestingar með tæknilegan afskriftartíma um 30 ár, þótt öruggari fjárfestingar en í virkjunum með trygga sölu orkunnar áratugum saman finnist vart, þá hefði einfaldlega ekkert orðið af þessum framkvæmdum, og uppbygging raforkukerfisins hefði dregizt von úr viti. Í þessu sambandi er haldlaust að segja, að fjárfesta hefði mátt í einhverju öðru. Mikil notkun endurnýjanlegra orkulinda á hvern íbúa er öruggasta stoðin undir velmegun landsmanna í bráð og lengd.
Hvað gerði mögulegt að hrinda þessari orku- og iðnvæðingarstefnu Viðreisnarstjórnarinnar í framkvæmd ? Það var nægt vinnuafl í landinu, geta og vilji í þjóðfélaginu til nauðsynlegrar innviðauppbyggingar, þ.á.m. næg verkþekking og tæknikunnátta til að Íslendingar, sem að þessu störfuðu, væru nægilega fljótir að tileinka sér og uppfylla kröfur, sem gerðar voru til þeirra á öllum vígstöðvum. Þessari merku sögu hafa ekki verið gerð skil að fullu. Saga ISAL hefur þó verið rituð, en ekki gefin út enn.
Á fjármálalegu hliðinni var, eins og áður segir, eitt grundvallar atriði, sem gerði þessa stefnu mögulega í raunheimum. Það var lág ávöxtunarkrafa fjármagns, sem lagt var í mannvirkin, Búrfellsvirkjun, aðveitustöðvar og flutningslínur Landsvirkjunar. Þar sem fjármagnskostnaðurinn er yfirgnæfandi þáttur heildarkostnaðar slíkra framkvæmda og rekstrarkostnaður þeirra er tiltölulega lágur, var þessi stefnumörkun forsenda þess, að orkusamningur náðist við Alusuisse. Fyrir vikið var unnt að selja þessu fyrirtæki, sem á sama tíma reisti sams konar verksmiðju á Húsnesi sunnan við Björgvin í Noregi, orku á samkeppnishæfu verði þess tíma. Sú tekjutrygging Landsvirkjunar, sem í orkusamninginum fólst, ásamt ríkisábyrgð, sem Landsvirkjun nýtur eðlilega ekki lengur, enda komin á legg, varð jafnframt til þess, að Landsvirkjun fékk lán (hjá Alþjóðabankanum) á tiltölulega hagstæðum kjörum, þótt um væri að ræða frumraun Íslendinga á þessu sviði iðnvæðingarinnar. Ísinn var brotinn.
Allt leiddi þetta til lækkunar raunraforkuverðs til almennings ár eftir ár, er frá leið, svo að Ísland hefur búið við einna lægst raforkuverð í Evrópu ásamt Noregi, áratugum saman, en Norðmenn voru meira en hálfri öld á undan Íslendingum að virkja vatnsföllin til að knýja orkukræfa iðnaðarframleiðslu.
Þeir leyfðu hins vegar í upphafi hinum erlendu iðnfyrirtækjum að virkja og að reka virkjanirnar fyrir verksmiðjur sínar. Segja má, að Íslendingar hafi hafnað þeirri leið um og eftir 1920, er Títanfélagi Einars Benediktssonar, sýslumanns og skálds, var settur stóllinn fyrir dyrnar. Þannig skildu leiðir með frændþjóðunum til iðnvæðingar um sinn.
Norðmenn settu hins vegar á svipuðum tíma fyrstu eignarnámslögin, sem kváðu á um, að virkjanirnar skyldu falla skuldlausar í skaut hins opinbera, viðkomandi sveitarfélags og/eða ríkis, að um 80 árum liðnum. Megnið af raforkukerfi Noregs er þess vegna nú í opinberri eigu og bókhaldslega afskrifað fyrir löngu, en malar áfram gull, þar sem verksmiðjurnar hafa verið endurnýjaðar og/eða raforkan seld til almenningsveitnanna.
Þess vegna hafa Norðmenn lengi búið við lægsta raforkuverð í Evrópu. Nú eru þó blikur á lofti hjá þeim í þessum efnum, þar sem þeir flytja inn hátt raforkuverð frá meginlandi Evrópu gegnum aflsæstrengi sína. Flytja þeir þar með inn afleiðingarnar af misheppnaðri orkustefnu á meginlandinu. Hefur hækkunarhrinan nú leitt til þess, að á tímabili í vetur var dýrara að kaupa rafmagn á rafmagnsbíl í Noregi en jarðefnaeldsneyti á sparneytinn dísilbíl fyrir sams konar akstur. Þetta hefur sett ugg að mörgum Norðmanninum um afkomu sína og þróun orkuskiptanna. Afkoma Ola Nordmann og Kari, sem eru Jón og Gunna Noregs, kann að bíða hnekki af þessari þróun mála, sem leiðir til lakari samkeppnisstöðu fyrirtækjanna, sem Ola og Kari eiga afkomu sína undir.
Árið 2007 kvað EFTA-dómstóllinn upp úrskurð þess efnis, að þessi norsku eignarnámslög stríddu gegn athafnafrelsi og fjárfestingafrelsi EES-samningsins og Evrópuréttarins. Fjárfestingar aðila af EES-svæðinu í virkjunum í EFTA-löndunum eftir þennan dóm eru þannig varðar gagnvart löggjöf um eignarnám, enda hefur mátt greina vaxandi áhuga, t.d. Þjóðverja og Frakka, á fjárfestingum í norskum vatnsorku- og vindorkuverum.
Skuldir Landsvirkjunar fara nú hraðminnkandi og þess vegna vex hagnaður fyrirtækisins hraðfara með hverju árinu. Það eru margvíslegar ástæður fyrir því, að þjóðhagslega er hagkvæmt að byggja atvinnulífið upp með því að krefjast lágrar ávöxtunar af fjárfestingum í orkumannvirkjum og að viðhalda þannig lægra orkuverði til atvinnulífs og almennings, þótt minni hagnaður verði framan af endingartíma mannvirkjanna. Ein ástæðan er einmitt langur endingartími orkumannvirkja, en hann er í sumum tilvikum meira en fjórfaldur bókhaldslegur afskriftartími.
Frá upphafi téðrar stefnumótunar Viðreisnarstjórnarinnar, sem svo frábærlega reyndist landsmönnum, hafa staðið harðar deilur um hana sem fyrr greinir. Fyrst var andstaðan reist á blöndu af sósíalistískri og þjóðernislegri andúð á beinum erlendum fjárfestingum. Þegar sá hræðsluáróður missti marks, beindist áróðurinn að því að varðveita náttúruna án inngripa mannsins. Í ljósi stöðunnar í umhverfismálum jarðarinnar er ábyrgðarlaust að reka hér öfgafulla umhverfisstefnu í anda slagorðsins "náttúran verður að njóta vafans", enda mundi slíkt leiða til stöðnunar hagkerfisins og síðan samdráttar og fjöldaatvinnuleysis í þjóðfélagi, sem reisir afkomu sína á nýtingu náttúruauðlinda. Þess má geta, að náttúruvernd nýtur ekki viðurkenningar sem fullgild ástæða fyrir hömlum á útflutningi eða innflutningi á vörum og þjónustu að Evrópurétti.
Frá upphafi hefur orkuverð til stóriðjunnar einnig verið skotspónn. Um sérhvert þessara atriða gildir, að hefðu þau sjónarmið orðið ofan á í opinberri stefnumörkun, þá hefði ekkert orðið af iðnvæðingunni, sem nú er ein meginundirstaðanna undir útflutningstekjum, góðum lífskjörum, menntakerfi og velferðarkerfi landsmanna. Þeir, sem berjast nú fyrir staðfestingu Alþingis á þeim "mistökum" Sameiginlegu EES-nefndarinnar að fara að kröfu ESB um innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn og íslenzk lög, hvort sem þeir heita Björn Bjarnason eða eitthvað annað, vinna um leið að því að hverfa frá stefnunni um lágt raforkuverð á Íslandi til að knýja hér atvinnustarfsemi, sem stenzt öðrum snúning og hægt er að selja á samkeppnishæfu verði í Evrópu og annars staðar.
Eins og áður getur um, átti fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, mestan þátt í þessari gifturíku stefnumörkun fyrir land og lýð, og Sjálfstæðisflokkurinn hefur fylgt þessari stefnu síðan. Nú eru hins vegar blikur á lofti. Þrátt fyrir eindregna ályktun Landsfundar sjálfstæðismanna í marz 2018 gegn auknum völdum erlendra stofnana yfir íslenzkum orkumarkaði, sem engum blandaðist hugur um, að fól í sér yfirgnæfandi andstöðu Landsfundarfulltrúa við innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn og íslenzka löggjöf, virðast 2 ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, sem með málið fara innan ríkisstjórnarinnar, enn vera við sama heygarðshornið. Verði áform þeirra að veruleika, jafngildir það kúvendingu á stefnu Sjálfstæðisflokksins í orkumálum.
Markaðsvæðing raforkunnar í orkukauphöll að hætti ESB, þar sem litið er á rafmagn sem hverja aðra vöru, þar sem hæstbjóðandi fær forgang að henni, hlýtur að leiða til hærri ávöxtunarkröfu fjármagnsins, sem lagt er í virkjanirnar, og Landsreglarinn er jafnframt líklegur til að krefjast hærri ávöxtunar á féð, sem lagt er í orkuflutnings- og dreifingarkerfið. Þetta þýðir aukin útgjöld allra heimila, fyrirtækja og stofnana í landinu til raforkukaupa.
Ekki nóg með þetta. Í ESB er öll raforka á uppboðsmarkaði. Á Íslandi og í Noregi, hins vegar, er mikill hluti raforkuvinnslunnar bundinn í langtímasamningum, sem voru undirstöður stórvirkjana, og eru grundvöllur samkeppnishæfni orkusækinna fyrirtækja á SV-landi, Norðurlandi, Austurlandi og um dreifðar byggðir Noregs. ESA (Eftirlitsstofnun EFTA)hefur með semingi fallizt á þetta fyrirkomulag um sinn, en það er áreiðanlega þyrnir í augum ESB, sem, eftir gildistöku Orkupakka #3, er líklegt til að gera athugasemd við þetta fyrirkomulag sem dulbúinn ríkisstuðning við fyrirtæki í samkeppnisrekstri í þeim tilvikum, þar sem samningsaðili er ríkisfyrirtæki, t.d. Landsvirkjun.
Hættan á þessu stóreykst, ef Alþingi samþykkir Orkumarkaðslagabálk ESB nr 3, því að hann kveður á um stofnun embættis Landsreglara, sem m.a. á að hafa náið eftirlit með, að orkumarkaðurinn sé starfræktur að hætti ESB; verði aðlagaður innri markaðinum. Þar að auki er alþekkt, að ESB breytir gerðum og tilskipunum og bætir við nýjum um málaflokkinn að eigin geðþótta.
Ein hugsanleg breyting hjá ESA er hreinlega að skipa svo fyrir, að öll orka, sem losnar úr langtímasamningum, skuli fara á uppboðsmarkað og nýir langtímasamningar verði óheimilir. Hnífurinn mun stöðugt standa á íslenzkum stjórnvöldum, eftir að Alþingi hefur samþykkt Orkupakka #3, því að ESB hungrar eftir endurnýjanlegri orku. Það verður ekki linnt látunum fyrr en íslenzk orka hefur verið beizluð með beinum hætti fyrir hagkerfi ESB. Málmana, sem nú eru framleiddir hér með miklum virðisauka fyrir landið, munu verksmiðjur ESB-landanna kaupa annars staðar frá, jafnvel þótt koltvíildislosun þar sé allt að 16 sinnum meiri á hvert framleitt tonn og flutningsvegalengdir verði margfaldar.
Eftir sitja Íslendingar með rústað atvinnulíf og ótrygg rafmagnsviðskipti um sæstrengi, sem verður bundinn endi á, um leið og Evrópa hefur þróað öfluga og sjálfbæra orkugjafa. Til þess eru refirnir skornir með háu orkuverði að mynda nauðsynlega hvata til slíkrar þróunar, sem leyst geti Evrópu, vestan Rússlands, úr þeirri hræðilegu orkuprísund, sem hún nú er í.
10.2.2019 | 11:46
Góð og ill tíðindi úr iðnaðarráðuneyti
Í lok janúar 2019 kynnti iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, "átak" til að flýta þrífösun sveitanna. Um hríð hefur verið við lýði áætlun um að ljúka henni árið 2035. Þetta er afspyrnu metnaðarlaust markmið, enda leiðir dreifing raforku á einum fasa til orkusóunar á formi meiri orkutapa en ella, bæði hjá dreifingarfyrirtækinu og notandanum, og notandanum eru þröngar skorður settar með aflúttak og val á búnaði. Hvort tveggja stendur atvinnurekstri fyrir þrifum.
Það er eitthvað bogið við það að leggja upp með, að sumar sveitir sitji uppi með einn fasa til ársins 2035 í ljósi þess, að orkusalan mun aukast við þrífösunina, og hagræði mun koma fram, sem vafalaust gerir þessa þrífösun þjóðhagslega hagkvæma. Þá má ekki gleyma jákvæðum umhverfisáhrifum, minni rekstrarkostnaði og auknu afhendingaröryggi raforku, sem jarðstrengjavæðing og afnám loftlína hefur í för með sér. Töluverð verðmæti í vír falla til við niðurrifið.
Upphæðin, sem ráðuneytið hyggst verja í þessu skyni næstu 3 ár, 2020-2022, er þó skammarlega lág m.v. þörf og notagildi eða aðeins MISK 240 og mun nema flýtikostnaði RARIK í tveimur sveitarfélögum. Þessa upphæð þarf a.m.k. að tífalda og jafnframt að heimila veitufyrirtækjunum að taka lán með ríkisábyrgð, svo að ljúka megi þessu þarfa verkefni yfir 90 % árið 2025.
Nú er gert upp á milli notenda innan hvers veitusvæðis eftir búsetu. Þetta óréttlæti ætti að afnema með reglugerðarútgáfu ráðuneytisins og/eða lagasetningu, ef þörf krefur, um, að sama dreififyrirtæki megi ekki mismuna viðskiptavinum sínum út frá búsetu, heldur skuli ríkja sama gjaldskrá fyrir dreifingu í þéttbýli og dreifbýli. Þetta er réttlætismál og mun einfalda reikningshald fyrirtækjanna.
Er þetta ekki málefni fyrir þingmann að taka föstum tökum ? Á að trúa því, að ráðuneytið beri fyrir sig Annan orkumarkaðslagabálk ESB, sem er jafnframt í lögum hér, að hann banni slíkan jöfnuð ? Það er ekki verið að ræða um miðstýrða gjaldskrá allra dreifingarfyrirtækjanna. Hins vegar verður það eitt hlutverka Landsreglarans, sem iðnaðarráðherra vill endilega fá til starfa hér á vegum ESA/ACER/ESB, að rýna og samþykkja (eða hafna) gjaldskrár dreifiveitnanna. Hvaða áhrif það hefur á gjaldskrár þeirra, fer eftir arðsemiskröfunni, sem hann leggur til grundvallar fjárfestingunum. Það er engin ástæða til að ætla, að gjaldskrár dreifiveitnanna muni lækka við tilkomu embættis Landsreglara.
Ef miðað er við viðmiðunar húsnæði Byggðastofnunar og Orkustofnunar, 140 m2 og 350 m3, 4,5 MWh/ár í almenna notkun og 28,4 MWh/ár til húshitunar, þá virðist raforkunotkun í dreifbýli án húshitunar kosta 60 kISK/ár meira en í þéttbýli eða 32 % m.v. sömu notkun. Þessi munur er í raun mun meiri vegna þess, að í dreifbýli er yfirleitt um atvinnurekstur að ræða á sveitabýlum, og rafmagnsnotkun er þess vegna engan veginn bundin við íbúðarhúsið. Hjá hverri sveitafjölskyldu gæti rafmagnsnotkunin numið 15 MWh/ár án rafhitunar. Þá nemur kostnaður í dreifbýli án rafhitunar 200 kISK/ár umfram raforkukostnað þéttbýlisfjölskyldu.
Þá er komið að húshitunarkostnaðinum. Umframkostnaður beinnar rafhitunar ofangreinds húsnæðis m.v. sama orku-, flutnings- og dreifingarkostnað virðist nema um 80 kISK/ár umfram hitaveitukostnað eða 46 %. Það er hægt að draga úr þessum mun og spara allt að 60 % rafkyndingarkostnaðar með uppsetningu varmadælu fyrir upphitað húsnæði og spara þannig 48 kISK/ár og í raun mun hærri upphæð vegna stærra húsnæðis, sem er upphitað í dreifbýli, e.t.v. 100 kISK/ár.
Hér er um aðstöðumun fólks á "heitum" og "köldum" svæðum að ræða, sem eðlilegt er, að ríkissjóður leitist við að jafna. Innkaupastofnun ríkisins gæti boðið út varmadælur og afhent þær þeim endurgjaldslaust, sem gera samning um varmadæluvæðingu húsnæðis síns á "köldum" svæðum. Þetta er aðeins raunhæft, þar sem dreifiveita afhendir þriggja fasa rafmagn, því að þriggja fasa búnaður er mun ódýrari í stofnkostnaði og rekstri.
Raforkuviðskiptin minnka við þetta, en á móti koma orkuskiptin, sem munu vega þessa minnkun upp og eru illmöguleg í dreifbýli án þriggja fasa rafmagns.
Nú vaknar spurningin, hvernig orkukostnaðinum mun víkja við, ef Ísland gengur ACER/ESB á hönd og hingað verður lagður sæstrengur frá útlöndum. Flutningsgeta slíks sæstrengs gæti numið 1400 MW eða yfir 50 % af uppsettu afli á Íslandi. Í Noregi er hlutfall flutningsgetu millilandatenginga um 20 %, en samt hefur orðið þar yfir 100 % hækkun í vetur á verði raforku frá virkjun til almennings.
Þar leggjast á eitt minna orkuframboð innanlands vegna þurrka í sumar, mikil upphitunarþörf húsnæðis vegna kulda, vindstillur og miklar raforkuverðshækkanir í ESB. NVE, orkustofnun Noregs, hefur nú fundið það út, að verðlagsáhrif utanlandstenginganna eru tvöfalt meiri í Noregi en stofnunin hafði áður reiknað með. Þegar verðið varð hæst nú í byrjun febrúar, brá rafbílaeigendum heldur betur í brún, því að orkukostnaður þeirra gat jafnast á við orkukostnað sparneytinna eldsneytisbifreiða, nema þeir gættu þess að hlaða bíla sína utan álagstíma.
ACER krefst þess, að flutningsmannvirki innanlands að tengistað millilandatengingar sé kostuð af raforkunotendum innanlands. Þetta mun hækka flutningsgjald Landsnets til almennings og stóriðju um tugi prósenta. Þá er ekki ólíklegt, að Landsreglarinn skipi svo fyrir, að gjaldskrár dreifiveitna verði hækkaðar til að auka arðsemi þeirra og auka hvatann til framkvæmda. Í heild er varlega áætlað, að þessar hækkanir, sem allar má rekja beint til innleiðingar Þriðja orkupakkans, muni að jafnaði yfir árið hækka raforkukostnað almennings hérlendis um 50 %-100 %. M.v. raforkuviðskipti almennings, fjölskyldna og fyrirtækja, næmi þessi hækkun að lágmarki 32 mrðISK/ár eða um 360 kISK/ár á hverja fjagra manna fjölskyldu.
Þetta er svo mikil hækkun, að hún mun klárlega reynast mörgum fjölskyldum þung í skauti og valda stöðvun á rekstri sumra fyrirtækja. Geta þeirra allra til launahækkana og fjárfestinga mun minnka, þannig að lífskjörin í landinu hríðversna. Þau eru m.a. háð lágu raforkuverði. Þess vegna er það almenningi í hag að halda áfram að miða við lága ávöxtunarkröfu orkumannvirkja. Yfir endingartíma þeirra verður ávöxtunin samt mjög góð, því að hann er miklu lengri en bókhaldslegur afskriftartími mannvirkjanna. Stjórnvöldum verður óheimilt að niðurgreiða orkuverðið, því að slík ríkisaðstoð felur í sér óleyfilega mismunun samkvæmt EES-samninginum. Hækkunin er gjörsamlega þarflaus, því að kostnaðaraukinn er óþarfur og ekki í neinu samræmi við verðhækkunina. Hér er um svikamyllu að ræða.
8.2.2019 | 10:39
Ætluð framtíðarsýn ESB í orkumálum
Orkumál skipa veglegan sess hjá Evrópusambandinu, ESB, vegna þess, að þar á bæ hafa menn fyrir löngu skynjað ógnina, sem afkomuöryggi Evrópu vestan Rússlands stafar af orkuskorti í bráð og lengd. Í bráð getur hann stafað af pólitískum refsiaðgerðum Rússlands, eins og dæmin sanna, en um fjórðungur af öllu eldsneytisgasi, sem brennt er í ESB-löndunum, kemur frá Rússlandi, og hlutfallið gæti vaxið, þegar Nord Stream #2 lögnin verður tekin í notkun 2019-2020.
Að frumkvæði ESB er verið að leggja aðra lögn til ESB-landanna í suð-austri frá löndum sunnan Rússlands við Kaspíahafið. Framboð jarðefnaeldsneytis mun dragast saman til lengdar litið, og ESB hefur skapað orkumarkað í aðildarlöndunum, sem með hækkandi orkuverði á að skapa nægilegan sterkan hvata til að þróa sjálfbæra orkugjafa, sem leyst geti jarðefnaeldsneytið af hólmi.
Þannig er langtímastefna ESB sú í orkumálum, að EES-svæðið verði sjálfu sér nægt um sjálfbæra orku. Umhverfisvernd er ekki gild ástæða að Evrópurétti sem útflutningshindrun orku. Með áherzlu ESB á orkupakkann er verið að tryggja Framkvæmdastjórninni tögl og hagldir á orkumarkaði alls Evrópska efnahagssvæðisins, fulla nýtingu allra endurnýjanlegra orkulinda á svæðinu, afnám flöskuhálsa í flutningi orku á milli landa og þar með í raun orkuflutning frá jöðrum EES og inn að miðjunni, þar sem mesta og verðmætasta framleiðslugeta auðjöfranna, sem stjórna ESB í raun, er staðsett.
Stefnumarkendur ESB sjá fyrir sér mikla hækkun eldsneytisverðs, þegar þekktar orkulindir taka að dvína. Þeir vita, að það er kapphlaup við tímann að þróa kolefnisfrí orkuver, sem nýta orkugjafa, sem ekki er hörgull á. Til að flýta þessari þróun er tekið að gera notkun jarðefnaeldsneytis dýrari en efni standa til, markaðarins vegna. Það er gert með úthlutun koltvíildiskvóta og síðan hækkun á verði umframlosunar koltvíildis.
Hlutverk Íslands í þessari ætluðu sviðsmynd ESB er að virkja sem allra mest af endurnýjanlegum orkulindum sínum, þar sem jarðgufan er talin vera endurnýjanleg, og síðan að senda raforkuna út með sæstreng í átt að auðlegðarmiðju Evrópu. Þetta er slæm viðskiptahugmynd vegna þess, að lengsti sæstrengur í heimi, og á að jafnaði mesta dýpinu undir illviðrahafi, býður upp á rekstrartruflanir, langvinnar og dýrar viðgerðir, gríðarleg orkutöp og háan stofnkostnað.
Fyrir Íslendinga verður slíkt verkefni ekki þjóðhagslega hagkvæmt fyrr en evrópskt orkuverð hefur 2,5 faldazt m.v. núverandi stöðu. Það kann að koma að því, en það verður þá áreiðanlega skammært, því að ekkert hagkerfi getur keppt á þeim grundvelli við umheiminn. Orkuskipti Evrópu, reist á umhverfisvænni tækni í einingum á borð við núverandi kjarnorkuver, um 2 GW, munu gera slíkan sæstreng algerlega verðlausan og verkefnalausan.
Ef hérlendir menn vilja taka þátt í orkuskiptunum með Evrópu, létta undir bagga með henni og samtímis stunda arðbæra framleiðslu og viðskipti, er nær að virkja fyrir vetnisverksmiðju og flytja þann hluta framleiðslunnar, sem ekki er þörf fyrir hér, t.d. til Norð-Austur Englands, þar sem áform eru uppi um að leysa jarðgas til húshitunar af hólmi með vetni.
Jónas Elíasson, prófessor emerítus við Verkfræði- og náttúruvísindadeild HÍ, skrifaði athyglisverða grein,
"Þriðja þverbeygjan í orkumálum",
sem birt var í Morgunblaðinu 30. janúar 2019. Þar voru orkumálin reifuð í ljósi Þriðja orkupakka ESB, sem Jónas varar Alþingismenn sterklega við að innleiða á Íslandi. Nú verður gripið niður í grein hans:
"Það er samt greinilegt, að almenningur, einkum sá hluti hans, sem fæst við stjórnmál, botnar ekkert í þessum pakka. Þetta kemur greinilega fram í endurteknum fullyrðingum alþingismanna og ráðherra: Þó [að] við samþykkjum orkupakkann, þarf ekki að leggja neinn sæstreng til útlanda. Hvað er rangt við þetta ? Málinu er þveröfugt farið. Ef við leggjum engan sæstreng til útlanda, þarf engan orkupakka; hann verður bara til trafala. Orkupakkanum er ætlað að undirbúa komu okkar inn á evrópska raforkumarkaðinn, sem er miðstýrt frá Ljubljana í Slóveníu.
Ef við tengjumst ekki þeim Evrópumarkaði, þ.e.a.s. leggjum ekki sæstreng, er bezt að vera utan áhrifasvæðis þeirrar miðstjórnar. Það er bezt fyrir okkur og bezt fyrir Ljubljana. Norðmenn gætu reiðst okkur og rekið landið úr EES, segja einhverjir á Alþingi. Þetta er hræðsluáróður, sem ekkert er á bakvið."
Allt er þetta hárrétt hjá Jónasi. Þingmenn, sem enn hafa ekki tekið afstöðu gegn Orkupakka #3, verða að íhuga þessi orð Jónasar og gera sér grein fyrir eðli málsins. Orkupakkinn er sniðinn til að greiða götu millilandatenginga í ESB til að varna staðbundnum orkuskorti og til að auðvelda og flýta fyrir orkuskiptunum, sem verða ESB-löndunum þung í skauti vegna þess, hversu jarðefna eldsneytisdrifin hagkerfi þeirra eru.
Dágóður meirihluti íslenzku þjóðarinnar virðist vera algerlega andsnúinn tengingu raforkukerfis landsins við útlönd. Þar af leiðandi er ólýðræðislegt með öllu, að þingheimur samþykki lagasetningu, sem auðveldar ríkjasambandi að hafa áhrif, jafnvel úrslitaáhrif, á það, að hingað verði í fyllingu tímans lagður sæstrengur til þess eins að fegra orkubókhald viðtakandans. Þessi gjörningur mun ekki fegra orkubókhald Íslands, heldur þvert á móti, og hleypa raforkuverðinu upp úr öllu valdi, á meðan áhugi er á þessum millilandaviðskiptum með rafmagn.
Það fer að verða tímabært að kryfja þingmennina um afstöðu þeirra til þessa óláns Orkupakka #3, svo að þeir, sem velja fólk á framboðslista fyrir næstu Alþingiskosningar og aðrir kjósendur, viti, hvernig forgangsröðun frambjóðendanna er háttað, þ.e. með hagsmunum almennings eða með hagsmunum ESB, orkuseljenda og braskara.
Um þetta reit Jónas:
"Ef orkupakkinn verður samþykktur, mun skapast mikill og viðvarandi þrýstingur á að leggja sæstreng. Hann mun vara, þangað til sæstrengurinn kemur, því að orkuverð á hinum endanum er mun hærra en hér."
Þetta er laukrétt. Æstustu fylgismenn Þriðja orkupakkans hérlendis halda því jafnvel fram, að Íslendingar geti ekki neitað viðtöku slíks sæstrengs, ef farið verður fram á slíkt nú, væntanlega af einhverjum fjárfesti, með stuðningi ACER.
Þetta er misskilningur, sem stafar af því, að innleiðing Evrópuréttar yfir íslenzkum orkumarkaði náði ekki yfir millilandatengingar með Fyrsta og Öðrum orkumarkaðslagabálkimum. Úr þessu var ráðin bót með Þriðja orkupakkanum, eins og norski lagaprófessorinn, Peter Örebech, hefur sýnt fram á í greinargerð sinni frá 23. september 2018, sjá viðhengi, t.d. bls. 11. Að Evrópurétturinn spanni millilandatengingar fyrir rafmagn, þýðir m.a., að lýðræðislega kjörnum yfirvöldum hvers ríkis EES verður óheimilt að torvelda eða koma í veg fyrir millilandaviðskipti með rafmagn, sem til þess bær aðili kann að vilja koma á, sbr EES-samninginn, gr. 11 og 12.
Þar sem íslenzk löggjöf gildir nú um þetta svið hérlendis, millilandatengingar, geta íslenzk stjórnvöld núna hafnað umsókn um slíkan sæstreng. Orðagjálfur að hálfu þeirra, sem með trúarhita rembast, eins og rjúpan við staurinn, við að "sýna fram á", án nokkurra haldbærra raka, að innleiðing Orkupakka #3 muni nánast engu breyta í lagalegu tilliti hérlendis, er algerlega út í loftið.
Annað mikilvægt atriði, sem Orkupakki #3 breytir, eins og prófessor Peter Örebech leiddi glögglega í ljós í fyrirlestri sínum í Háskóla Íslands, 22. október 2018, er stjórnun innleiðingar á frjálsum uppboðsmarkaði rafmagns í orkukauphöll, og síðan eftirlit með rekstri hennar og virkni. Gapuxarnir, sem hæst láta og telja goðgá að vinda ofan af mistökum Sameiginlegu EES-nefndarinnar 5. maí 2017, með því að Alþingi synji Orkupakka #3 staðfestingar, virðast ekkert botna í því, hvað þetta markaðsmál raforku snýst um, en vaða í villu og svíma áfram, eins og þeir gefi sér, að markaðskerfi ESB hljóti að henta almenningi hér á Íslandi. Það hefur verið sýnt fram á, að við íslenzkar aðstæður er markaðsfyrirkomulag þetta stórvarasamt atvinnurekstri á Íslandi og hag almennings. Þetta skilur hins vegar Jónas Elísson, prófessor emerítus í verkfræði, mæta vel og skrifar:
"Ef svona ástand [enginn ábyrgur fyrir því að eiga vatn í miðlunarlónum] leiðir til þess, að virkjanir standa vatnslausar í einhvern tíma, verður orkuskortur. Síðasta dæmi um slíkt er, þegar RARIK tæmdi Smyrlabjargalón 1976, Hornafjörður varð rafmagnslaus og fullt af fólki flúði heimili sín."
Síðan hélt Jónas áfram að fjalla um markaðsmál rafmagns og um mikinn ábyrgðarhluta iðnaðarráðherra og annarra Alþingismanna, ef þeir hundsa ráðleggingar þeirra, sem gerst mega vita, við afgreiðslu Orkupakka #3, og láta jafnvel nauðhyggju um Alþingi sem óvirka afgreiðslustofnun fyrir nefnd EFTA og ESB í Brüssel ráða för. Meira að segja Stórþingið, norska, virti svo viðundurslegan málflutning að vettugi fyrir nokkrum árum (pósttilskipun) og er líklegt til að endurtaka leikinn við afgreiðslu Járnbrautarpakka #4, sem er illa þokkaður í Noregi og fjallar um frjálsa samkeppni allra járnbrautarfyrirtækja EES á opinberum teinum Noregs og annarra EES-ríkja, þar sem járnbrautarteinar eru í eigu hins opinbera :
"Landsvirkjun hefur sinnt sínu hlutverki með prýði og landið haft nóg rafmagn. Auðvitað þarf að koma málum þannig fyrir, að Landsvirkjun geti selt orku, bæði til iðnaðar og útlanda, án þess að auka hættuna á orkuskorti. Það er lágmarkskrafa, að úr þessu verði bætt með viðeigandi lagasetningu áður en tenging inn á uppboðsmarkað ESB kemur til greina.
Auk þess er sala á rafmagni inn á uppboðsmarkað ESB samkvæmt reglum ACER í Ljubljana varhugaverð. Þá er verið að yfirgefa þá stefnu, að íslenzka orku skuli nota til atvinnuuppbyggingar innanlands fyrir fullt og allt. Fórnarlömbin verða almenningur og iðnaðurinn í heild sinni, ekki bara áliðnaðurinn og landbúnaður í gróðurhúsum. Þessar atvinnugreinar lifa ekki án orku á viðráðanlegu verði, eftir að Ísland verður framleiðandi hráorku fyrir uppboðsmarkað ESB; hann er ófær um að bjóða innlendum iðnaði orku á viðunandi verði. Skipaðar hafa verið nefndir og skrifaðar skýrslur af minna tilefni en þessu. Það verður að fresta þessu orkupakkamáli, svo [að] ríkisstjórnin nái áttum og geti undirbúið málið með fullnægjandi hætti."
(Undirstr. BJo.)
Það eru engin teikn á lofti um, að ríkisstjórnin undirbúi setningu einhverra lagalegra varnagla, sem tryggi hér í sessi nauðsynlega stýringu allra orkulinda landsins, sem nýttar eru til sölu raforku inn á stofnrafkerfi landsins. Hún virðist líka hafa heykzt á boðaðri lagasetningu um, að aflsæstrengur til útlanda útheimti samþykki Alþingis, enda væri slík lagasetning stjórnsýslulegt örverpi, þar sem um er að ræða málefni framkvæmdavaldsins. Um báðar þessar umræddu lagasetningar gildir, það sem prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, hefur gert grein fyrir, að með gildistöku Orkupakka #3 að vopni geta Landsreglari, ACER og Framkvæmdastjórnin hrundið slíkum lagasetningum Íslendinga fyrir ESA og EFTA-dómstólinum.
Þá vekur furðu sú kokhreysti iðnaðarráðherra að halda því enn til streitu, að ríkisstjórnin stefni að innleiðingu Orkupakka #3 á vorþingi eða haustþingi 2019, þrátt fyrir samþykkt Miðstjórnar Framsóknarflokksins í fyrrahaust um, að leita skuli samninga við EFTA/ESB um allsherjar undanþágu fyrir Ísland á þessum orkupakka gegn því, að hann verði formlega innleiddur án nokkurra skuldbindinga að Íslands hálfu. Þar með mundi hann öðlast gildi í EES utan Íslands. Stendur utanríkisráðuneytið e.t.v. í slíkum samningaviðræðum ? Hvers vegna heyrist hvorki stuna né hósti frá ríkisstjórninni um þessa blessuðu samþykkt ?