Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Umdeilanleg úttekt ríkisendurskoðanda

Það er öllum ljóst, að félag veiðiréttarhafa í ám og vötnum er mjög andsnúið sjókvíaeldi á þeirri norskættuðu laxtegund, sem valin hefur verið til þessarar starfsemi á þeim afmörkuðu svæðum, þar sem íslenzk löggjöf leyfir hana á annað borð. Veiðiréttarhafar og fulltrúar þeirra hafa verið stórorðir, jafnvel heiftúðugir í garð atvinnugreinarinnar.  Þótt þessi illska sé heimskuleg og reist sumpart á erfðafræðilegri vanþekkingu, eins og rakið var hér með vísun til Hafró í síðasta vefpistli, þá er ljóst, veiðiréttarhafar eða þeir, sem náin tengsl hafa við þá, eru vanhæfir til að starfa að úttkekt á vegum ríkisins á laxeldi í sjó við Ísland.

  Nú háttar einmitt þannig til, að þetta á við um sjálfan ríkisendurskoðandann, og alveg dæmalaust, að dómgreind hans skyldi ekki hvísla í eyra hans að víkja í þessu máli.  Í orðalagi skýrslu þessarar úttektar má jafnvel sjá gárur eftir æsingatitring veiðiréttarhafa.  Af þessum sökum hefur trúverðugleiki skýrslunnar beðið hnekki, og taka ber hana "med en klype salt", eins og Norðmenn taka til orða, þegar lítið er að marka eitthvað. 

Andrés Magnússon skrifaði baksviðsfrétt um téða skýrslu í Morgunblaðið 13. febrúar 2023.  Hún hófst þannig:

"Fiskeldisskýrsla ríkisendurskoðanda vakti athygli í fyrri viku, enda hvöss gagnrýni á stjórnsýsluna og vöxt greinarinnar, en með fylgdu ýmsar ábendingar til stofnana ríkisins.  Stjórnarandstaðan henti hana á lofti, og það gerðu andstæðingar sjókvíaeldis líka, veiðiréttarhafar sem náttúruverndarsamtök. 

Skýrslan komst aftur í fréttir í liðinni viku, þegar upplýst var, að Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi, væri sjálfur veiðiréttarhafi.  Þó [að] þeir hagsmunir séu minni en svo, að þeir valdi vanhæfi, situr eftir, að ríkisendurskoðandi er veiðiréttarhafi og [að] þeir hafa talað einni röddu gegn sjókvíaeldi.  [Pistilhöfundur er ósammála Andrési um, að þessir hagsmunir séu of litlir til að valda vanhæfi, þegar hitamál eru annars vegar, eins og í þessu tilviki.]  

Það er því engin goðgá að spyrja, hvort það hafi í einhverju getað litað úttektina, sér í lagi þar sem niðurstöður hennar eru til þess fallnar að þrengja að sjókvíaeldi, að lausn á lélegri stjórnsýslu sé meira af hinu sama, fyrir utan það, að úttektin er ekki gallalaus."

Lokamálsgrein blaðamannsins bendir til, að hann túlki skýrsluna sem hvatningu til að fjölga í starfsliði eftirlitsstofnana. Það er einfeldningsleg ráðlegging til stjórnmálamanna og sæmir Ríkisendurskoðun illa.  Hún á að kryfja mál til mergjar og benda á leiðir til að auka skilvirkni ríkisstarfsmanna, en ekki að hvetja til að ausa í eftirlitsstofnanir meira fé án þess að bæta stjórnarhætti, sem virðast ekki vera upp á marga fiska.  

"Fleira má að henni [téðri skýrslu] finna, eins og gagnrýni á, að Hafrannsóknastofnun hafi breytt aðferðarfræði sinni, en ríkisendurskoðandi segist hafa orðið þess áskynja við úttektina, að reiknistuðullinn væri í reynd kominn frá hagsmunaaðilum, en bætir svo við: "Ekki tókst að staðfesta, að svo væri" !  Órökstuddar sögur eiga ekki erindi í opinberar skýrslur.  [Þarna vegur vanhæfur ríkisendurskoðandi ómaklega að Hafró, þar sem menn vinna störf sín undir alþjóðlegri rýni og í samráði við virta erlenda vísindamenn á viðkomandi sviði.  Hér skín vanhæfi ríkisendurskoðanda í gegn, því að hann virðist lepja upp kjaftasögu veiðiréttarhafa og "náttúruverndara", sem spinnst út frá ímyndun þeirra og/eða misskilningi á vísindalegum gögnum Hafró - innsk. BJo.] 

Gerðar eru 23 ábendingar til ráðuneyta og stofnana, sem að mestu lúta að því að auka eftirlit, herða skilyrði greinarinnar og auka gjaldtöku.  E.t.v. endurspeglar það aðallega hefðbundnar hugmyndir ríkisstarfsmanna um, að fjölga þurfi ríkisstarfsmönnum, því [að] þar er hvergi rakið, að hvaða leyti núverandi eftirlit sé ónógt eða núverandi skilyrði of linkuleg.  [Þetta er annað dæmi, þar sem vanhæfis ríkisendurskoðanda gætir.  Hann vill láta setja sjókvíaeldið í spennitreyju ríkisafskipta og skattheimtu án þess að rökstyðja, hvers vegna.  Það væri alvarlegt lögbrot vegna mismununar og aðfarar að atvinnufrelsi, - innsk. BJo.]

Þrátt fyrir ábendingar um flókna og margbrotna stjórnsýslu, fjallar ríkisendurskoðandi lítt um umkvartanir um, hve öll afgreiðsla leyfa Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar er hæg.  Aðeins er nefnt, að ferill umhverfismats taki tíma, sem er frekar naum lýsing á ástandinu, þegar leyfisumsóknir velkjast um í kerfinu árum saman.  Hefði ekki verið ómaksins vert að grafast fyrir um ástæður þeirrar óskilvirkni, sem kostar fiskeldið og þjóðarbúið of fjár ?"

 

 Eftirlitsstofnanirnar með fiskeldinu standa ekki við lögboðna fresti á afgreiðslu umsókna frá fiskeldinu.  Það er alvarlegasti ljóðurinn á ráði þeirra, og hann er óviðunandi, af því að hann er lögbrot og rándýr, en á hann er ekki minnzt í þessari furðuskýrslu Ríkisendurskoðunar.  Það rýrir enn gildi og trúverðugleika þessarar skýrslu, og fer hvort tveggja þá að nálgast núllið. 

Andrés Magnússon er svipaðs sinnis um þessa kostulegu skýrslu Ríkisendurskoðunar og höfundur þessa vefpistils, þótt hann fari of mildilegum höndum um hrákasmíð.  Hún tekur ekki á vandanum, sem er sleifarlag eftirlitsstofnana, sem er þungur baggi á atvinnugreininni.  Fiskeldið fær engan veginn þá þjónustu hjá afætum ríkisins, sem það á rétt á og greiðir fyrir.  Hvers vegna var þagað um það í óvandaðri skýrslu Ríkisendurskoðunar ? 

Í lokin reit Andrés:

"Vitanlega er stjórnsýsluúttektin ekki alónýt.  Það er margt fróðlegt þar og ýmsar nauðsynlegar ábendingar.  En ef það vantar í hana allt um fjárheimildir stjórnsýslunnar til þessa og þar er ofaukið ályktunum um pólitísk álitaefni, þá blasir við, að hún er eitthvað allt annað en ætlazt var til."

 


Langvinnt þrætuepli

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, skrifaði ágæta grein um sögu skipulags fiskveiða við Ísland frá 1983.  Niðurstaða hans var skýr: það verður aldrei sátt í landinu um stjórn fiskveiða.  Þetta er sennilega alveg rétt hjá honum.  Það, sem stjórnvöld ættu að hafa að leiðarljósi við framlagningu frumvarpa til Alþingis um fiskveiðistjórnun hér eftir sem hingað til frá 1983, er að að hámarka afrakstur veiðanna til langs tíma. Slíkt eflir þjóðarhag mest. 

Guðmundur Kristjánsson orðar þetta þannig í lok greinar sinnar:

"Þess vegna segi ég, að það verður aldrei sátt um lög um stjórn fiskveiða. Ef núna koma ný lög um stjórn fiskveiða, þar sem þessi veiðiréttur verður færður ríkissjóði, þá verða þeir, sem hafa keypt þennan rétt, aldrei sáttir.  Ef þessu verður ekki breytt, verða þeir, sem vilja, að ríkissjóður eigi þennan rétt, aldrei sáttir. Þetta er staðan í dag.  Þess vegna segi ég: Það eina, sem hægt er að gera í dag, er, að lög um stjórn fiskveiða endurspegli arðsemi og skynsemi fyrir íslenzka þjóð.  Deilumálið er skipting arðseminnar."

Þetta er vafalaust rétt hjá Guðmundi Kristjánssyni. Seint mun ríkja almenn ánægja með íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið, en það er þó ómótmælanlegt, að það er umhverfisvænsta og skilvirkasta fyrirkomulag fiskveiða á jörðunni. Þess vegna væri guðsþakkarvert, að stjórnmálamenn og aðrir áhugamenn um þrætubókarlist hættu illa grundaðri heilaleikfimi sinni um þetta mál, enda einkennist umræðan um sjávarútveg of mikið af ofstækisfullum fullyrðingum, reistum á vanþekkingu á greininni og þar með því, hvernig hún getur bezt hámarkað verðmætasköpun sína fyrir íslenzka þjóðarbúið. 

Útbólgnir tilfinningaþrælar hafa lengi verið með mikinn belging út af eignfærslu útgerðanna á veiðiheimildum sínum.  Hafa þeir þá látið í það skína, að útgerðirnar hafi tekið það upp hjá sjálfum sér með einu pennastriki að sölsa undir sig eignir þjóðarinnar.  Það er þó öðru nær, því að allar 3 greinar ríkisvaldsins hafa þvingað þetta bókhaldsfyrirkomulag fram, eins og Guðmundur Kristjánsson rakti skilmerkilega í grein sinni:

Á þessum árum, 1990-1993, var allur kvóti/veiðiréttur gjaldfærður, hvort sem það var aflamark eða aflahlutdeild.  En þá kom ríkisskattstjóri í nafni ríkisins [framkvæmdavaldsins - innsk. BJo] og sagði, að þetta væri eign, en ekki kostnaður, og vildi banna útgerðinni að bókfæra þennan kvóta (veiðirétt) sem kostnað.  Útgerðin sagði aftur á móti, að þetta væri ekki eign, þar sem  þetta væri veiðiréttur að ákveðnu magni fisks í íslenzkri fiskveiðilögsögu og ekki eign í skilningi íslenzkra laga.  Ríkisskattstjóri og fjármálaráðherra á þessum tíma  stefndu útgerðinni fyrir dómstóla, og var  niðurstaðan sú í Hæstarétti árið 1993, að útgerðinni væri skylt að færa veiðiréttinn (aflahlutdeild/kvótann) sem eign í efnahagsreikningi.  Síðan hnykkti Alþingi Íslendinga endanlega á þessu ákvæði árið 1997, þar sem það var bannað að afskrifa veiðirétt í ársreikningum íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja. Í dag er þessi veiðiréttur eignfærður í öllum íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum og er þeirra helzta eign." 

Þessi eignfærsluákvörðun íslenzka ríkisvaldsins hefur margvísleg áhrif og hefur af upphlaupsmönnum verið notuð til tilefnislausra árása á sjávarútveginn, sem væri að sölsa undir sig eign þjóðarinnar. Það er öðru nær.  Hins vegar hefur þessi ákvörðun framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds, óneitanlega styrkt aflahlutdeildarkerfið í sessi, því að aflahlutdeildirnar njóta nú verndar eignarréttarákvæða Stjórnarskrárinnar.

Það eru ekki réttarfarsleg skilyrði fyrir hendi til að raungera illa ígrundaðar hugmyndir um fyrningu eða uppboð aflaheimilda.  Það er hið bezta mál, því að þessar hugmyndir eru rekstrarlegt óráð og hafa gefizt hörmulega, þar sem eitthvað í líkingu við þær hefur verið framkvæmt erlendis.

Í heilaleikfimisæfingum sínum hafa innantómir þrætubókarmenn lengi fullyrt, að veiðigjöld á útgerðirnar væru allt of lág.  Þeir eru þó í lausu lofti með stóryrði um þetta, því að þeim hefur láðst að sýna fram á auðlindarentu í sjávarútvegi, en hún var í upphafi lögð fram sem hin fræðilega forsenda slíkrar gjaldheimtu. Þá verður auðvitað líka að hafa í huga, að fyrirtækin, sem íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki keppa við á erlendum mörkuðum eru ekki aðeins yfirleitt töluvert stærri en hin íslenzku, heldur niðurgreidd af yfirvöldum viðkomandi landa. Þess vegna ber að gæta mikillar hófsemi við sérsköttun á íslenzkan sjávarútveg.    

 

 

 

 

 

   

 


Tregða við útgáfu framkvæmdaleyfis í Neðri-Þjórsá

Engum blöðum er um það að fletta, að á framkvæmdatíma virkjunar njóta viðkomandi sveitarfélög góðs af mjög auknum umsvifum.  Verktakar á heimavelli verða yfirleitt mjög uppteknir við fjölbreytilegar hliðar framkvæmdanna, og íbúarnir, ekki sízt ungir, fá uppgripavinnu.  

Þetta er auðvitað ekki nóg. Sveitarfélögin mega ekki bera skarðan hlut frá borði á rekstrartíma virkjunarinnar, en samkvæmt frétt Sigurðar Boga Sævarssonar í Morgunblaðinu 20.02.2023, sem reist er á viðtali við Harald Þór Jónsson, oddvita og sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps, er sú einmitt raunin í sveitarfélagi hans.  Það sé vegna þess, að skerðingar framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna teknanna af virkjunum séu hærri en nemur þessum tekjum.  

Fyrir vikið er komin upp tregða í sveitarstjórninni við afgreiðslu framkvæmdaleyfis fyrir Hvammsvirkjun.  Þetta er alvarlegt mál fyrir landsmenn, sem bráðvantar meira af ódýrri og áreiðanlegri sjálfbærri raforku. Að einhverju leyti verður að skrifa þessa stífni, sem upp er komin, á reikning Landsvirkjunar, og kemur þá upp í hugann dómsmál á milli Landsvirkjunar og Fljótsdalshrepps um gjaldtöku af Fljótsdalsvirkjun, sem hreppurinn vann.  Af fréttinni að dæma virðast afar takmarkaðar viðræður hafa farið fram á milli sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsvirkjunar um óánægjuefni sveitarstjórnarinnar.  Í ljósi þess, hversu mikið liggur á þessari virkjun, er það áfellisdómur yfir Landsvirkjun og reyndar ríkisstjórninni að hafa ekki nýtt langan meðgöngutíma Orkustofnunar með virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar til að móta stefnu til framtíðar um tekjustreymi af virkjunum til sveitarfélagsins.  Það mundi þá verða fyrirmynd annars staðar í landinu. 

Í árdaga virkjana á Þjórsár-Tugnaársvæðinu þurfti að leita allra leiða til að halda framleiðslukostnaði lágum.  Nú er öldin önnur, því að þessar virkjanir eru að miklu leyti afskrifaðar í bókhaldi Landsvirkjunar, þótt þær haldi áfram að mala gull, jafnvel í meira mæli en nokkru sinni áður.  Á þessum grundvelli er óhætt að semja um gjöld af virkjunum, sem séu meira í samræmi við gjöld af mannvirkjum annars konar starfsemi en virkjana en nú er.  Það mun ekki þurfa að hafa áhrif á verðlagningu raforku frá Landsvirkjun, heldur mun draga aðeins úr gróða ríkisfyrirtækisins og arðgreiðslum þess til ríkissjóðs.  Ánægja heimamanna með þetta nábýli er meira virði en nokkrar MISK í ríkissjóð. 

Téðri frétt Morgunblaðsins, sem bar yfirskriftina:

"Setja fyrirvara við fleiri virkjanir",

lauk þannig:

""Orkuvinnsla í sveitarfélaginu þjónar ekki hagsmunum þess í óbreyttri mynd", segir Haraldur Þór og minnir í þessu sambandi á áform um orkuskipti á Íslandi.  Vegna þeirra þurfi að reisa margar nýjar virkjanir á næstu árum, m.a. í nærumhverfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps.  Fá samtöl hafi þó verið [á] milli fulltrúa ríkis og sveitarfélaga um þau mál.  Nú þurfi því að tryggja með lögum, að til áhrifasvæðis virkjana skili sér efnahagslegur ávinningur af orkuvinnslu, sem sé brýnt byggðamál.  Sveitarfélögin þurfi að staldra við í skipulagsmálum, á meðan leikreglunum sé breytt og efnahagslegur ávinningur nærumhverfisins tryggður.  Slíkt sé forsenda orkuskipta og hagvaxtar."

Ríkisstjórnin virðist hafa sofið á verðinum í þessu máli og ekki áttað sig á, að frumkvæðis um lagasetningu er þörf af hennar hálfu til að greiða fyrir framkvæmdaleyfum nýrra virkjana.  Sveitastjórnarráðherra og orkuráðherra virðast þurfa að koma þessu máli í gæfulegri farveg en nú stefnir í með því að taka upp þráðinn við  samtök sveitarfélaganna.  Það gengur ekki að láta þetta dankast, því að á meðan líður tíminn og gangsetning nýrra vatnsaflsvirkjana og jarðgufuvirkjana verður hættulega langt inni í framtíðinni fyrir orkuöryggi landsmanna.  Andvaraleysi stjórnvalda verður landsmönnum dýrt spaug, því að afl- og orkuskerðingar blasa við næstu vetur.  


Leyfa ber sameiningar fyrirtækja í hagræðingarskyni

Á síðum Morgunblaðsins hafa þeir tekizt á um réttmæti framkvæmdar Samkeppniseftirlitsins (SKE) á samkeppnislögunum, Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við HÍ, og Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.  Sá fyrr nefndi hefur bent á, að það er fleira matur en feitt kjöt, þ.e. í þessu tilviki, að sem mestur fjöldi fyrirtækja á hinum litlu íslenzku mörkuðum, sé engin trygging fyrir lægsta mögulega verði til íslenzkra neytenda, því að verðið getur til lengdar ekki orðið lægra en nemur heildar framleiðslukostnaði hjá hagkvæmasta fyrirtækinu. Hann er háður framleiðni fyrirtækisins, og hún er að jafnaði hærri hjá stærri fyrirtækjum en smærri.  Af þessum ástæðum er einstrengingsleg túlkun SKE á samkeppnislögunum óskynsamleg og skaðleg; í raun ósjálfbær, því að erlend samkeppni er yfirleitt fyrir hendi.  Forstjóri þessarar stofnunar þarf að vera mun víðsýnni og betur að sér um hagfræði en nú er reyndin. 

SKE hefur valdið íslenzku atvinnulífi margvíslegum búsifjum með stirðbusahætti, löngum afgreiðslutíma og kröfuhörku, án þess að séð verði, að hagur strympu (neytenda) hafi nokkuð skánað við allan bægslaganginn.  Nýjasta dæmið er um sölu Símans á Mílu, þar sem SKE þvældist fyrir á dæmalaust ófaglegan hátt og hafði upp úr krafsinu að færa mrdISK 10 frá hluthöfum Símans, sem aðallega eru íslenzkir lífeyrissjóðir, til hluthafa franska kaupandans.  

Ragnar Árnason tók í Morgunblaðsgrein sinni 16.02.2023 ágætis dæmi af íslenzka sjávarútveginum; hvernig væri komið fyrir honum, ef SKE hefði lögsögu yfir honum.  Íslenzkar eftirlitsstofnanir setja of oft sand í tannhjól atvinnulífsins að þarflausu, og þess vegna er guðsþakkarvert, að SKE hefur ekki lögsögu yfir þessari eimreið íslenzkra útflutningsgreina.  

Yfirskrift greinarinnar var:

"Enn um hlutverk Samkeppniseftirlitsins":

"Sjávarútvegurinn er eflaust einn skilvirkasti atvinnuvegur landsmanna og mikilvæg stoð efnahagslegrar velsældar í landinu. Hollt er að hugleiða stöðu hans, ef hann þyrfti að búa við ægivald Samkeppniseftirlitsins, en öfugt við fyrirtæki, sem framleiða fyrir innanlandsmarkað, er hann (samkvæmt 3. gr. samkeppnislaga) því undanþeginn. 

Sjávarútvegurinn hefur í vaxandi mæli þróazt í átt að stórfyrirtækjum og lóðréttum samruna veiða, vinnslu og markaðssetningar.  Með þessu hefur honum tekizt að ná mjög mikilli rekstrarhagkvæmni með þeim afleiðingum, að íslenzkur sjávarútvegur er afar samkeppnishæfur á alþjóðlegum mörkuðum. Stendur hann þar raunar í fremstu röð, jafnvel framar þjóðum, sem hafa miklu meiri sjávarauðlindum úr að ausa (eins og t.d. Noregi). [Veiðigjöld tíðkast ekki gagnvart norska sjávarútveginum - innsk. BJo.]

Hver hefði þróun íslenzks sjávarútvegs orðið, ef hann hefði orðið að lúta þeim samkeppnisskilyrðum, sem Samkeppniseftirlitið hefur sett landbúnaði og ýmsum öðrum atvinnugreinum landsmanna ?  Samkeppniseftirlitið hefði þá auðvitað staðið í vegi fyrir sameiningu sjávarútvegsfyrirtækja í stærri fyrirtæki, svo [að] ekki sé minnzt á lóðréttan samruna [á] milli veiða og vinnslu.  Afleiðingin hefði orðið minni framleiðni í íslenzkum sjávarútvegi, hærri framleiðslukostnaður og lakari samkeppnisaðstaða á erlendum mörkuðum.  Þar með hefði framlag sjávarútvegsins til þjóðarbúskaparins orðið minna og hagsæld neytenda að sama skapi lakari." 

Þrátt fyrir harða samkeppni á erlendum mörkuðum hefur íslenzki sjávarútvegurinn náð að blómstra.  Því má þakka skynsamlegri löggjöf um fiskveiðistjórnun og því, að atvinnugreinin hefur sjálf tekið ábyrgð á eigin þróun, og hún hefur augljóslega gefizt vel, eins og Ragnar rekur hér að ofan, enda er sjálfs höndin hollust. 

Sannleikurinn er sá, að völd Samkeppnieftirlitsins eru vandmeðfarin og stofnunin hefur ítrekað farið offari í afskiptum sínum af fyrirætlunum atvinnulífsins til hagræðingar.  Samkeppniseftirlitið á að láta af óhóflegri afskiptasemi sinni og ekki að grípa fram fyrir hendur fyrirtækjanna, nema sterk rök liggi til þess, að inngripið bæti hag landsmanna.  Því hefur farið fjarri hingað til, að SKE hafi rökstutt mál sitt skilmerkilega. Það hefur bara þjösnazt áfram. Nýlegt dæmi er af viðskiptum franska sjóðstýringarfélagsins Ardin France S.A. og Símans um Mílu, þar sem SKE bannaði heildsölusamning um viðskipti Mílu og Símans, og bannið kostaði hluthafa Símans (lífeyrissjóðina) mrdISK 10.  Enginn bannaði öðrum að gera viðlíka heildsölusamninga við Mílu um mikla gagnaflutninga.  Þarna urðu viðskiptavinir Símans fyrir tjóni án þess, að ljóst sé, að viðskiptavinir samkeppnisaðila Símans hafi hagnazt. 

SKE ber að halda sig til hlés, nema vissa sé um, að hagsmunir neytenda séu í húfi, því að yfirleitt eru það hagsmunir landsmanna, að fyrirtæki fái að þróast, eins og þau sjálf telja hagkvæmast, í áttina til meiri framleiðni og lækkunar á einingarkostnaði hverrar framleiddrar vöru eða þjónustueiningar.  Búrókratar ríkisins eru alveg örugglega ekki betur til þess fallnir en stjórnir og eigendur fyrirtækjanna. 

SKE er kaþólskari en páfinn.  Hvernig stóð á því, að SKE komst í mjög löngu máli að þveröfugri niðurstöðu á við norska SKE í máli kjötafurðastöðva landbúnaðarins um samstarf þeirra í millum ?  Norðmenn eru leiðandi í EFTA-hluta EES, og úrskurður norska SKE hefði átt að gefa tóninn innan EFTA.  Nei, ekki aldeilis, Blönddælingurinn lætur ekki framkvæmd samkeppnisreglna EES-svæðisins stjórna afstöðu SKE.  Þar skal hans eigin þrönga sýn og eintrjáningsháttur vera ráðandi, á meðan hann er þar forstjóri.  Þessi frekja og afskiptasemi búrókratans gengur ekki lengur.  Hann er of dýr á fóðrum fyrir neytendur til að geta rekið SKE eftir eigin duttlungum.   


Mikið skraf - lítið gert í orkumálum

Nýlega bilaði eldingavari í kerfi Landsnets, sem tengir Suðurnesin við landskerfið.  Þetta er sjaldgæf bilun, en afleiðingarnar urðu nokkurra klukkustunda straumleysi á Suðurnesjum, á meðan bilaði eldingavarinn var fjarlægður og annar settur í staðinn.  Hvernig má það vera, að jarðgufuvirkjanir HS Orku skyldu ekkert nýtast, á meðan Suðurnesjalína 1 var óvirk ?

Ekki er víst, að það sé á almennu vitorði, að jarðgufuvirkjanirnar ráða ekki við reglun álagsins og geta þess vegna ekki starfað án tengingar við landskerfið. Tregða í reglun er akkilesarhæll jarðgufuvirkjana.  Bilunin brá birtu yfir veikleikana, sem Suðurnesjamenn búa við núna, og þann mikla ábyrgðarhluta, sem fylgir því að standa gegn lagningu Suðurnesjalínu 2. Það er með ólíkindum að láta orkuöryggi Suðurnesjamanna með allri þeirri mikilvægu starfsemi, sem þar fer fram, hanga á horriminni vegna meintrar sjónmengunar af loftlínu.  Geta menn ekki séð fegurðina í nauðsynlegu mannvirki fyrir öryggi mannlífs á Suðurnesjum ? 

Þann 10. febrúar 2023 sagði Morgunblaðið frá Viðskiptaþingi á Nordica daginn áður.  Þar kom fram enn einu sinni, að lögfest loftslagsmarkmið Íslands eru í uppnámi, og eru að verða einhvers konar níðstöng, sem beinist að óraunhæfum stjórnmálamönnum, sem settu hrein montmarkmið um 55 % minnkun losunar koltvíildis 2030 m.v. 2005 og kolefnishlutleysi 2040, vilja verða á undan öðrum þjóðum (pólitíkusum) að þessu leyti, en hirða ekki um forsenduna, sem er að afla endurnýjanlegrar orku, sem komið geti í stað jarðefnaeldsneytis. 

Á þessu viðskiptaþingi var smjaðrað fyrir vindorkunni, jafnvel á hafi úti, sem er fráleitt verkefni hér við land, og harmaðar hömlur á erlendum fjárfestingum á þessu sviði.  Hið síðar nefnda er undarlegt m.v., að Ísland er á Innri markaði Evrópusambandsins og EFTA, og hér hefur verið algerlega ótímabær ásókn fyrirtækja þaðan í framkvæmda- og rekstrarleyfi fyrir vindknúna rafala, þótt lagasetningu um þessi mannvirki skorti í landinu. 

Vindorkan kemur óorði á orkuvinnslu í landinu vegna þess, hversu þurftarfrek hún er á land, hversu ágeng,  áberandi og hávaðasöm hún er, mengandi og varasöm  fuglalífi.  Slitrótt raforkuvinnsla er lítils virði.  Eins og jarðgufuvirkjanir þurfa vindrafalaþyrpingar vatnsorkuver með sér til að sjá um reglunina, en jarðgufuvirkjanir hafa þann mikla kost að vera áreiðanlegar í rekstri fyrir grunnálag, en vindspaðaþyrpingar geta sveiflazt fyrirvaralítið úr fullum afköstum í engin afköst. Við þurfum ekki á þessu fyrirbrigði að halda við orkuöflun hér.  Við þurfum að virkja meira vatnsafl og meiri jarðgufu, en þar virðist hnífurinn standa í kúnni. Hvers vegna ?

Forsætisráðherrann og stjórnmálaflokkurinn, sem hún veitir formennsku, eru síður en svo hjálpleg, því að þar er fremur reynt að setja skít í tannhjólin, ef kostur er, eins og ávarp formannsins á téðu Viðskiptaþingi bar með sér:

 "Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði þingið.  Hún sagði orkunýtingu vera eitt stærsta pólitíska ágreiningsefnið á þessari öld, sem jafnvel meiri deila er um en fiskveiðistjórnunarkerfið.  Einnig varpaði hún fram þeirri spurningu, hvaða verðmæti fælust í ósnortinni náttúrunni, og þótt ekki væri hægt að meta fegurð til fjár, þá þyrfti að meta hana til einhvers.  Skapa þurfi sátt um forgangsröðun orku, sem notuð er í orkuskipti.

Einnig kom fram í ávarpi ráðherrans, að orkuskiptin væru ekki eina leiðin í átt að markmiðum um kolefnishlutleysi, heldur eru einnig tækifæri falin í minni sóun og betri nýtingu orku.  Nefndi hún matarsóun sérstaklega í því samhengi."  

Svona þokulúður er hluti af vandamálinu, sem við er að etja, stöðnun á sviði framkvæmda á orkusviðinu.  Ráðherrann þokuleggur sviðið með óljósu og merkingarlitlu tali og dregur þannig dul á, að flokkur hennar ber kápuna á báðum öxlum.  Hann hefur forgöngu um fögur fyrirheit og reyndar algerlega óraunhæf markmið í loftslagsmálum á landsvísu, en á sama tíma þvælist hann fyrir hefðbundnum virkjunum og línulögnum. 

Nú er raforkukerfið þanið til hins ýtrasta vegna framkvæmdaleysis á orkusviði, og slíkt hefur í för með sér, að raforkutöp eru í hámarki líka og stærðargráðu meiri en af matarsóuninni, sem forsætisráðherra er þó hugleikin og er síðlítil.  Ráðið við því er að virkja meira af vatnsföllum og jarðgufu og reisa fleiri flutningslínur. Það liggur þjóðarhagur við að gera þetta, þótt ekki séu allir á einu máli um það. Hlutverk alvöru stjórnmálamanna er að gera það, sem gera þarf, en ekki að horfa í gaupnir sér, þegar gagnrýni heyrist. Jafnstraumsjarðstrengur yfir Sprengisand mun hjálpa mikið til við að stýra raforkukerfi landsins í átt til stöðugleika og lágmörkunar orkutapa. Hann verður vonandi að veruleika á þessum áratugi.   

Um verðmæti hinna ósnortnu víðerna, sem ráðherrann augljóslega telur vera hátt upp í þónokkur, en óskilgreind, má segja, að þau muni fyrst renna upp fyrir mönnum, þegar þeim hefur verið spillt.  Engum blöðum er um það að fletta, að vindrafalaþyrpingar eru stórtækastar í þessum efnum, og þess vegna væri hægt að nálgast "sátt" um orkumálin með því einfaldlega að leggja áform um þessa gerð orkuvera á hilluna, enda eru mótvægisaðgerðir við yfir 200 m há ferlíki óhugsandi, um leið og hefðbundnum íslenzkum virkjanategundum er veittur framgangur, enda falli þær vel að landinu með beitingu nútíma tækni.  Hvers vegna er framvindan jafnhæg og raun ber vitni (kyrrstaða), þegar Rammaáætlun 3 hefur verið samþykkt ?  Það virðist vera mikil deyfð yfir orkufyrirtækjunum.  Hvers vegna ?  Markaðinn hungrar í meiri raforku ? 

"Sæmundur Sæmundsson, formaður sjálfbærnihóps Viðskiptaráðs, kynnti skýrslu þingsins.  Lagði hann áherzlu á í sinni ræðu, að mikilvægt væri að velja virkjanakosti, þó að það væri erfitt val.  [Hvers vegna er það erfitt val - hættið að gæla við vindinn ?-innsk. BJo.]  Hins vegar væri seinagangur í kerfinu, og nauðsynlegt væri að velja, hvar ætti að taka af skarið og virkja.  Nefndi hann máli sínu til stuðnings, að rafmagnsskortur [á] síðustu loðnuvertíð hefði orðið til þess, að allur ávinningur frá notkun rafmagnsbíla frá upphafi hefði þurrkazt út.  Svifasein stjórnsýsla og kærumál stoppi ferli og tefji framkvæmdir, svo [að] árum skipti.  Regluverkið sé sömuleiðis þungt, og regluverk skorti um vindorkuframkvæmdir.  Úr þessu þurfi að bæta."

Það er mikið sjálfskaparvíti, að afturhaldsöfl virðast hafa náð að leggja dauða hönd á orkuframkvæmdir.  Það er stjórnleysi, að ráðherrar láti stofnanir komast upp með að hundsa lögboðna fresti og að kærendur (með veikan málstað) geti nánast lamað framkvæmdaviljann.  Ströng skilyrði þurfa að vera um það, hverjir geta verið lögformlegir hagsmunaaðilar að kærumáli, og ein kæra á einstaka ákvörðun sé hámark, og tími frá ákvörðun að afgreiðslu kæru verði að hámarki 3 mánuðir.  Ekki má láta afturhaldið valda óafturkræfu efnahagstjóni í landinu. Eyðingaröfl á valdi sjúklegrar hugmyndafræði eru látin komast upp með stórfelld skemmdarverk á hagkerfinu.  Jafnvel má stundum segja, að stundum höggvi sá, er hlífa skyldi.  

Nú er sú staða uppi, að aðeins einn sæstrengur heldur uppi tengingu Vestmannaeyja við stofnkerfi rafmagns í landinu.  Þetta þýðir, að atvinnustarfsemi á loðnuvertíðinni í vetur þarf að keyra með dísilknúnum rafölum í Eyjum.  Fyrir jafnfjölmenna og mikilvæga byggð og í Vestmannaeyjum þarf að vera (n-1) raforkufæðing úr landi, þ.e. þótt einn strengur bregðist, á samt að vera hægt að halda uppi fullu álagi í Eyjum.  Landsneti hefur á undanförnum árum ekki tekizt að nýta allt fjárfestingarfé sitt, sumpart vegna andstöðu við framkvæmdir fyrirtækisins.  Lítillar andstöðu afturhaldsafla er þó að vænta við þriðja sæstrenginn út í Eyjar, og þess vegna er einkennilegt af Landsneti að hafa dregið von úr viti að koma á (n-1) tengingu við Heimaey, en slíkt fyrirkomulag er yfirlýst stefna fyrirtækisins hvarvetna á landinu. 

 

  


Óskilvirkur eftirlitsiðnaður

Sleifarlag einkennir starfsemi eftirlitsiðnaðarins á Íslandi, enda virðist enginn gegna því hlutverki að setja pipar undir stertinn á eftirlitsstofnunum, þegar lögbundinn tímafrestur til afgreiðslu mála er liðinn. Nýlegt dæmi um drátt úr hömlu er afgreiðsla Orkustofnunar á einfaldri umsókn Landsvirkjunar um leyfi til að virkja rennsli Neðri-Þjórsár við Hvamm (95 MW). 

Afgreiðslan tafðist von úr viti hjá Orkustofnun, enda var hún sett í saltpækil í hálft ár hjá nýjum orkumálastjóra, sem síðan þóknaðist að senda umsóknina út og suður í umsagnir, sem vitnar ekki beinlínis um fagleg efnistök.  Framkvæmdaleyfi sömu virkjunar fer eðlilega í umsagnarferli, þegar sveitarfélögin afgreiða það.  Virkjanaleyfið kom svo loks eftir dúk og disk eftir a.m.k. 1,5 árs meðgöngutíma hjá OS.  Ekkert vitrænt mun hafa komið út úr þessu ferli, sem bætti virkjanatilhögunina á nokkurn hátt.  Eftirlitsstofnanir líta of stórt á sig m.v. verðmætasköpun þar á bæ, sem sjaldnast er mælanleg, og sjá ekki skóginn fyrir trjánum. 

Það fyrsta, sem stofnanir þurfa að bæta innanhúss hjá sér, er vinnuagi, svo að lögbundnir tímafrestir séu virtir. Ef stofnun hangir á máli lengur en lögbundinn tímafrestur segir til um, á mál einfaldlega að ganga til baka sem samþykkt athugasemdalaust, nema ráðherra veiti einn mánuð í viðbót.  Kröflulína 3 velktist um í 7 ár í kerfinu, sem er tvöfaldur sá tími, sem eftirlitsiðnaðurinn hafði leyfi til að halda málinu hjá sér.  Hvað halda menn, að svona sleifarlag kosti fyrirtækin, sem í hlut eiga, og samfélagið allt ?  Í tilviki Kröflulínu 3 er um tugmilljarða ISK tjón að ræða.  Silkihúfurnar eiga að gjalda fyrir sleifarlagið og fá umbun fyrir afköst umfram væntingar. Hvata til góðra verka vantar.  Nú ætlar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að fækka stofnunum.  Við það fækkar silkihúfunum, en mun skilvirkni embættismannanna og gæði verkanna batna við þennan samruna ?  Ef ekki, kastar hann barninu út með baðvatninu.   

Morgunblaðið gerði þessa þjóðfélagsmeinsemd að umfjöllunarefni í forystugrein 10. febrúar 2023:

"Eftirlit án eftirlits".

Hún hófst þannig:

"Íslenzkar eftirlitsstofnanir hafa með árunum fært sig mjög upp á skaptið, og stafar það ekki sízt af því, að þær virðast sjálfar ekki undir neinu eftirliti í störfum sínum, sem augljóslega gengur ekki upp. Slíkar stofnanir hafa mikil völd og verða að beita þeim af yfirvegun og skynsemi, en eiga það til að tapa áttum, og þá er voðinn vís."

Þá er frumskilyrði, að forstjórar þessara stofnana gæti þess, að þær starfi samkvæmt lögum í hvívetna og séu ekki meira íþyngjandi fyrir atvinnulífið en nauðsyn krefur samkvæmt lagabókstafnum.  Það vantar mikið á, að Samkeppniseftirlitið fullnægi þessum skilyrðum, en forstjóri þessarar stofnunar er mjög ferkantaður í afstöðu sinni til atvinnulífsins og hagar sér iðulega eins og versti tréhestur.  Samkeppniseftirlitið (SKE) olli Símanum milljarða ISK tjóni með afskiptum sínum af sölu Mílu, en nytsemi þeirra afskipta fyrir neytendur er hæpin. 

Afstaðan til samstarfs afurðastöðva kjötframleiðenda er svo tréhestaleg, að furðu sætir.  Hagræðingu er unnt að ná með auknu samstarfi afurðastöðva.  Þar með lækkar kostnaður og tækifæri skapast til að greiða bændum hærra verð og/eða lækka verð til neytenda.  Þegar þess er gætt, að samkvæmt lögunum um Samkeppniseftirlitið má það heimila slíkar hagræðingarráðstafanir, verður að líta á það sem valdníðslu að hálfu forstjóra þess að leggjast þversum gegn þessu. 

"Samkeppniseftirlitið er eftirlitsstofnun, sem iðulega gengur of langt og er vandséð, að starfsemi þeirrar stofnunar skili nokkrum ávinningi. Eitt af því, sem stofnunin reynir af flækjast fyrir, er framþróun í íslenzkum landbúnaði, en stofnunin beitir sér mjög fyrir því, að hér séu sem strangastar reglur á þessu sviði atvinnulífsins, mun strangari en þekkist erlendis, þegar ástæða væri til, í ljósi fámennis og dreifbýlis, að veita meira svigrúm hér en erlendis til hagræðingar í greininni."

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins misskilur hlutverk sitt.  Hann virðist telja fjölda í grein til þess fallinn að keyra niður verð til neytenda.  Það er misskilningur, því að hagkvæmni stærðarinnar vegur þungt líka, og verðinu til neytenda eru skorður settar af lágri framleiðni, sem auka mætti með stækkun framleiðslueininga.  Með þvergirðingi (úr Blöndudal) stendur forstjóri Samkeppniseftirlitsins gegn eðlilegri framþróun atvinnulífsins, og ráðherra á ekki að láta hann komast upp með slíkt, en matvælaráðherra hefur nú látið embættismanninn beygja sig. 

"Samkeppniseftirlitið lætur sér ekki nægja að beita sér innan gildandi laga [það nýtir sér alls ekki svigrúm til hagræðingar í lögunum - innsk. BJo], það vill líka hafa áhrif á lagasetningu, jafnvafasamt og það er.  Þannig hefur stofnunin lagzt hart gegn frumvarpi, sem hefði getað aukið svigrúm til hagræðingar í landbúnaði með því að veita undanþágur frá samkeppnislögum.  Dæmi um, hve langt stofnunin gengur í þessum efnum, var nefnt í grein hér í blaðinu í gær eftir formann Samtaka fyrirtækja í landbúnaði.  Í greininni segir, að umsögn eftirlitsins, ásamt viðauka, sé samtals 56 bls.  "Þar er m.a. komið inn á fæðuöryggi, byggðastefnu o.fl., sem er Samkeppniseftirlitinu óviðkomandi. Til samanburðar má vísa til umsagnar norska samkeppniseftirlitsins, þegar núgildandi undanþága norskra laga frá samkeppnisreglum var samþykkt.  Umsögn norska samkeppniseftirlitsins var tæplega 2 bls. að lengd", segir í greininni, þar sem enn fremur kom fram, að norska eftirlitið lýsti ánægju með með frumvarpið." 

Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum, sem sýnir, að hér fer Samkeppniseftirlitið út um víðan völl, kann ekki að sníða sér stakk eftir vexti og er komið langt út fyrir verksvið sitt.  Með þessum vinnubrögðum spilar Samkeppniseftirlitið rassinn úr buxunum og verðskuldar þá einkunn að vera gagnslaust í samfélaginu.  Það er verra en það, því að með tréhestatiltækjum sínum veldur það tjóni á samkeppnishæfni atvinnulífsins.  Nýlegt dæmi er greining SKE á markaði fyrir majónes og kaldar sósur, en sá markaður var greindur í þaula og komizt að þeirri niðurstöðu, að Sameining Gunnars og Kaupfélags Skagfirðinga mundi draga úr samkeppni á þessum markaði.  Dettur embættismönnum SKE aldrei í hug að láta markaðinn einfaldlega njóta vafans ?  Í ljósi þess, að íslenzkur matvælaiðnaður á í harðri samkeppni við erlendan, virðist slíkt sjónarmið vera fyllilega réttlætanlegt.  SKE fer offari gagnvart íslenzku atvinnulífi og grefur þar með undan því og hagsmunum starfsmanna og neytenda, sem fremur kjósa íslenzkt.      

 

 

 

 


Öflugir bakhjarlar laxeldis hérlendis

Laxeldi í sjó hefur vaxið fiskur um hrygg hérlendis, og er orðin kjölfestustarfsemi á Vestfjörðum, sem er undirstaða fólksfjölgunar og vaxandi velmegunar á svæðinu.  Á Austfjörðum er starfsemi þess mikilvæg líka, en þar er meiri fjölbreytni í atvinnuháttum á sviðum orkukræfs iðnaðar, landbúnaðar og sjávarútvegs. Bölsýnisraddir hérlendar um þessa atvinnugrein hafa orðið sér til skammar.  Þær láta sem hvert strok úr kvíum jafngildi erfðablöndun við villta íslenzka laxastofna, sem skaði erfðamengi frumbyggjanna.  Þetta er dómadagsvitleysa og vitnar um fljótfærni og vanþekkingu á erfðafræði og öllu því, sem þarf að gerast áður en nokkur varanleg erfðablöndun getur átt sér stað.  

Laxeldið íslenzka nýtur mjög góðs af tæknisamstarfi við systur- og móðurfélög í Noregi og margháttað viðskiptasamstarf á sér líka stað við þessi norsku félög, t.d. á sviði hráefniskaupa og markaðssetningar afurðanna. Íslenzk sjávarútvegsfélög hafa nýlega aukið hlutdeild sína í þessari starfsemi, og er það eðlileg og ánægjuleg þróun. 

Þann 2. febrúar 2023 birtist merkileg frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu, sem varpar ljósi á þessa 2 öflugu bakhjarla íslenzks laxeldis, sem hlupu undir bagga með gríðarlega öflugu framtaki, þegar hæst þurfti að hóa.  Sýnir þetta, að íslenzkt laxeldi í sjó er ekki á flæðiskeri statt og mun eiga sér bjarta framtíð hér við land, hvað sem úrtöluröddum á móti hvers konar framförum og tekjumöguleikum alþýðu líður. Þessir góðu bakhjarlar tryggja aðgengi íslenzkra laxeldisfyrirtækja í sjó að beztu fáanlegu tækni til að fást við hvers konar vanda, sem upp kann að koma.  Það er ómetanlegt að þurfa ekki að finna upp hjólið sjálfur.  

 Fyrirsögn féttarinnar var: 

"Laxinum slátrað beint úr kvíunum".

Hún hófst þannig:

"Risastórt laxasláturskip er í ferðum [á] milli Dýrafjarðar og Ísafjarðarhafnar, og þaðan fara flutningabílar á 50 mín fresti til Suðurnesja og austur á land, þar sem laxinum er pakkað til útflutnings.  Aðstaða til að starfrækja þetta óvenjulega sláturhús, sem er dreift um landið, var sett upp á mettíma til að leysa tímabundinn vanda í slátrun hjá Arctic Fish."

Þarna er leyst úr vaxtarverkjum íslenzks laxeldis með hátæknisláturskipi frá Noregi og samstarfi við vinnslustöðvar í landi í öðrum landshlutum um hávetur.  Þetta sýnir, hversu öflugra bakhjarla laxeldið við Ísland nýtur, sem gefur góð fyrirheit um þróun þessarar greinar og framtíð í landinu, þótt ekki skorti nú hælbítana.

"Arnarlax hefur slátrað laxi fyrir Arctic Fish í sláturhúsinu á Bíldudal.  "Það er takmörkuð afkastageta í slátruninni.  Framleiðslan er orðin það mikil, að þeir 80 starfsmenn, sem eru í sláturhúsinu á Bíldudal, hafa ekki undan.  Við þurfum að ljúka slátrun úr Dýrafirði.  Fiskurinn er kominn í sláturstærð, og við þurfum að hvíla eldissvæðin og þurftum því að bregðast við", segir Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish.

Fengið var sláturskipið Norwegian Gannett frá Noregi til að taka kúfinn af, og er reiknað með, að það verði hér í rúman mánuð, út febrúar [2023].  Laxinum er slátrað beint upp úr kvíunum í Dýrafirði og síðan landað og hann flokkaður í ker í Ísafjarðarhöfn.  Þar hefur verið komið upp tjaldi til að skýla kerunum.  Síðan fara bílar á 50 mín fresti með laxinn til Grindavíkur og Djúpavogs og raunar einnig í minni vinnslur, þar sem honum er pakkað í frauðplastkassa til útflutnings. 

Norwegian Gannett er afar öflugt sláturskip.  80 manns er í áhöfn þess.  Daníel nefnir, að notaðar séu 14 slægingarvélar, en í sláturhúsi, sem Arctic Fish [reisir] í Bolungarvík, verða 2 slægingarvélar."

 

"Daníel er ánægður með fiskinn, segir, að 95 % - 97 % hans fari í hæsta gæðaflokk.  Ekki veitir af, því [að] nokkur aukakostnaður er við slátrun með þessu lagi, en Daníel bendir á, að heimsmarkaðsverð á laxi sé hátt um þessar mundir."

Það er ótrúlega góður árangur, ef um 96 % framleiðslunnar lendir í hæsta gæðaflokki á þessum kröfuharða markaði, sem laxamarkaðurinn er.  Það er enn fremur athyglisvert, að laxverðið er tiltölulega hátt núna á tímum þverrandi kaupmáttar almennings vegna verðbólgu.  Orkuverðið hefur lækkað í Evrópu vegna milds vetrar, þótt Evrópumenn séu nánast hættir að kaupa orku beint af Rússum.  Orkuvopnið geigaði hjá þeim og er að breytast í bjúgverpil, því að þeir hafa orðið af tugum milljarða EUR viðskiptum við Evrópu og eru nú að draga úr framleiðslu.  Nú tekur við páskaspurn eftir fiski á meginlandi Evrópu (fastan), svo að háa verðið á laxi mun haldast enn um hríð.

Nýlega kom út skýrsla á vegum Ríkisendurskoðunar um stjórn- og eftirlitskerfi með laxeldi í sjó við Ísland.  Þar fær embættismannakerfi matvælaráðuneytis, Hafrannsóknarstofnunar, Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar lága einkunn, enda hefur verið kvartað undan seinagangi þessara stofnana, og þær hafa staðið þróun greinarinnar fyrir þrifum. Núverandi Ríkisendurskoðandi er vanhæfur til að ritstýra skýrslu um þetta efni vegna hagsmunatengsla sinna við veiðiréttarhafa.  Þeir hafa rekið hatramman áróður og lagt til, að laxeldi í sjó verði hætt.  Er það ótrúlegt ofstæki, og skýrsla Ríkisendurskoðunar ber með sér, að þar eimir af slíkum viðhorfum og skýrslan er engan veginn í hlutlægu jafnvægi.  

Það er víða pottur brotinn í starfsemi íslenzkra eftirlitsstofnana, og efst á blaði trónir þar Samkeppniseftirlitið, sem þvælist fyrir með seinagangi og andstöðu við framfaramál, og virðist ekki gera nokkurt gagn.  Eftirlitsiðnaðurinn leikur lausum hala og virðist skorta nauðsynlegt aðhald.  Athygli vekur gjörólík afgreiðsla norska og íslenzka SKE á svipuðum málum matvælavinnslu, sem bendir til ófaglegra vinnubragða og smákóngaviðhorfa embættismanna hérlendis í stað þjónustulundar og vilja til að létta undir með atvinnulífinu í stað afætuhegðunar.  

   


Skaðræði í náttúrunni og hentar orkukerfinu illa

Ef mönnum finnst einhvers virði að búa í landi víðfeðmrar óspjallaðrar náttúru, ættu þeir að forðast eins og heitan eldinn að fjárfesta í eða samþykkja fjárfestingar í óskilvirkustu aðferð, sem nú um stundir er beitt til að vinna raforku án koltvíildislosunar á staðnum.  Hér er átt við rafala uppi á háum súlum, sem knúnir eru áfram af vindi, sem verkar á vanalega 3 feiknarlanga spaða. Það er rangtúlkun, að aðferðin sé umhverfisvæn, þegar lífferilgreining slíks verkefnis er krufin frá upphafi til enda. Það á sér stað margs konar mengun á framleiðslustigi íhlutanna ásamt koltvíildislosun, og á uppsetningarstiginu verður mikið jarðvegsrask og koltvíildislosun.

Vegna þess, hversu litlar og óskilvirkar framleiðslueiningarnar eru, stenzt þessi aðferð ekki samanburð við hefðbundnar íslenzkar virkjanir frá landverndar- og umhverfisverndar sjónarmiði.  Að auki er dýrara að framleiða rafmagn með vindknúnum spöðum en vatnsorkuverum og jarðgufuverum.  Ef hér væri nægt framboð raforku frá þessum hefðbundnu íslenzku virkjunum, væri varla nokkur áhugi á að reisa þessa háu turna, því að landið er ótengt erlendum raforkukerfum, ólíkt Noregi, þar sem turnþyrpingar með vindspöðum í óspilltum víðernum hafa valdið óánægju íbúanna í grennd og ferðamanna. 

Nú áformar norska ríkisstjórnin með lagasetningu að styrkja heimildir norskra yfirvalda til að tryggja orkuöryggi Norðmanna.  Í verkfærakistuna á að setja heimildir til draga úr eða stöðva útflutning raforku og að fyrirskipa orkufyrirtækjum að auka framleiðslugetu sína.  Hvort tveggja er andstætt ákvæðum Orkupakka 3, en norska ríkisstjórnin ber við þjóðaröryggi. Orkupakki 3 er úr gildi fallinn í Evrópusambandinu (ESB), og það gerðist reyndar áður en hann var innleiddur í lög á Íslandi, sem er einsdæmi, og færð hafa verið fyrir því sterk lögfræðileg rök, að innleiðing, sem svo er í pottinn búið með, sé ógild.  Engin ástæða er fyrir íslenzku ríkisstjórnina að vera rög við að feta í fótspor þeirrar norsku að þessu leyti.  Það er brýnt hagsmunamál þjóðarheildarinnar, að ábyrgur og hæfur aðili með heimildir til að grípa inn fylgist stöðugt með raforkukerfinu, framleiðslu, flutningum og dreifingu, til að lágmarka áhættu raforkunotenda varðandi afl- eða orkuskort. 

Morgunblaðið gerði anga þessa máls að umfjöllunarefni í fyrri forystugrein sinni, 24. janúar 2023, undir fyrirsögninni:

"Vindmyllur á hálum ís".

Í úrdrætti stóð:

"Þýðingarmikið er að grípa inn í skemmdarverk vindmyllumanna sem allra fyrst.  Það er aldrei um seinan, en það gæti kostað mikið fé að bæta úr afglöpunum."

Þetta er hárrétt, en hvers vegna í ósköpunum eru Íslendingar nú í þeirri stöðu að vera að búa sig undir að setja upp mannvirki á víðfeðmum ósnortnum svæðum, sem skaga meira en 200 m upp í loftið, eru ógn við dýralíf og hávaðavaldur ? Það er vegna þess, að hávær ofstækishópur hefur lagzt gegn nær öllum framkvæmdum á raforkusviðinu og náð að tefja framkvæmdir með kærum, þannig að virkjanir og línulagnir hafa dregizt von úr viti.  Afleiðingin er bæði staðbundinn afl- og orkuskortur og sams konar skortur á landsvísu, ef eitthvað bregður út af með veðurfar (þurrkar, kuldi) eða bilun verður í mikilvægri kerfiseiningu.

Hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hefur stefnan verið sú lungann úr undanförnum áratugi, að engin þörf sé á að virkja.  Í staðinn hefur borgarsjóður blóðmjólkað samstæðuna, og nú er svo komið, að kerfið annar ekki heitavatnsþörfinni á vetrum.  Á að lappa upp á það með mrdISK 0,6 heitavatnsgeymi fyrir 9 kt.  Sundlaugum hefur verið lokað tímabundið, og eftir eina lokunina birti RÚV sjónvarpsviðtal við nokkra pottverja. Í lokin skauzt á skjáinn framkvæmdastjóri Landverndar, sem ekki brá vana sínum, heldur boðaði, að nær hefði verið að skammta rafmagn til Norðuráls en að loka sundlaugunum. Þarna fara saman firring og fáfræði, eins og fyrri daginn.  Hún hefur boðað, að ekkert skuli virkja fyrir orkuskipti né annað, heldur segja upp langtíma samningum við álver.  Þetta er hroðalegur hugarheimur og hryllileg grautargerð, sem lýsir miskunnarleysi í garð fjölmenns hóps, sem hefur lífsviðurværi sitt af starfsemi álveranna beint og óbeint, svo að ekki sé nú minnzt á álitshnekki og kostnað vegna uppsagnar þessara orkusamninga, minni útflutningstekjur og minni tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga. 

Þar að auki er þessi málflutningur rangtúlkun á stöðunni.  Ef OR hefði dregið úr raforkusölu til Norðuráls, þá hefði framboð hitaveituvatns minnkað líka, vegna þess að hitaveituvatn jarðgufuveranna er aukaafurð raforkuvinnslunnar.  Framkvæmdastjóri Landverndar heldur ekki aðeins uppi óábyrgum áróðri, heldur skortir þar alla tengingu við raunveruleikann. 

Téð forystugrein hófst þannig:

"Staldra þarf við og [leggja] vindmyllumartröðina á ís.  Hvernig sem á það mál er litið, þá eiga þeir órar lítið erindi við okkur."

Þarna er ekki skafið utan af róttækri andstöðu við mikil áform um þyrpingar vindrafala.  Höfundur þessa pistils deilir þessari skoðun með Morgunblaðinu, en, eins og í Noregi, ber íslenzkum stjórnvöldum að koma í veg fyrir afl- og orkuskort hérlendis.  Það verður bezt gert með því að taka af skarið um, að vindknúnir rafalar séu of óskilvirkir virkjunarkostir og kosti of miklar fórnir á óraskaðri náttúru, þar sem turnarnir þenja sig yfir miklu meira land á hverja framleidda MWh/ár en hefðbundnar íslenzkar virkjanir.   Jafnframt skal hvetja orkufyrirtækin í landinu og viðkomandi sveitarfélög til að hraða afgreiðslu sinni á virkjanaáformum og -leyfum hefðbundinna virkjana.  Straumlínulaga þarf kæruferlin.  

Í lokin sagði í þessari forystugrein:

"Það er von, að margur spyrji, hvenær vinir náttúru og umhverfis, sem voru svo fyrirferðarmiklir forðum, vakni á ný.  Eru þeir kannski endanlega sofnaðir ?"

Ef hér væri nægt framboð raforku fyrir alla raforkunotendur í landinu og áform þeirra um aukin raforkukaup, þá væri áhuginn á að reisa þyrpingar súlna í náttúrunni með rafala á toppnum og spaða, sem snúast, þegar veður leyfir, varla jafnmikill og nú er reyndin.  Ef leið virkjanafyrirtækjanna að hefðbundnum virkjunum væri ekki jafntorsótt og raunin er, þá væri vafalaust meira raforkuframboð núna. Þeir, sem predika, að engin þörf sé á nýjum virkjunum, eru líka sekir um að hafa lagt steina í götu virkjanafyrirtækjanna umfram það, sem eðlilegt getur talizt frá lýðræðislegu sjónarmiði, og hafa þannig óbeint framkallað þennan þrýsting, sem nú gætir frá vindorkurekendum.

Orkumálastjóri, sem einnig er orkulandsreglari hjá orkustofu Evrópusambandsins (ESB) samkvæmt Orkupakka 3, en hann var leiddur í lög hér með einstæðum hætti eftir að hafa verið felldur úr gildi í ESB, gefur vindorkurekendum undir fótinn, eins og fram kemur í góðri grein Elíasar Elíassonar, verkfræðings, í Morgunblaðinu 16. janúar 2023 undir fyrirsögninni: 

"Vindmyllur kosta mikið og skila litlu öryggi".

Hún hófst þannig:

"Í Morgunblaðsgrein síðasta dag ársins 2022 skrifar Orkumálastjóri:

"Vindurinn blæs t.d. meira á veturna, þegar minna vatn er í lónum, en hægist um á sumrin, þegar lónstaða batnar."

Þarna er lýst sjónarmiði orkufyrirtækis, sem getur nýtt vindorku til að standa betur í samkeppni samkvæmt reglum þriðja orkupakkans, sem við sitjum nú uppi með, en íslenzka orkuöflunarkerfið er ekki hannað samkvæmt þeim reglum.  Hér eru það ekki meðaltöl, sem skipta öllu máli.  Hér er það regla nr 1, að orkukerfið hafi nægt vatn í lónum í árferði svo slæmu, að verra geti talizt "force majeure" eða náttúruhamfarir."

 Það er alveg undir hælinn lagt, hversu mikið gagn reynist af vindknúnum rafölum að vetrarlagi, því að þá verða oft langvinnar vindstillur, þegar hæð er yfir landinu, og við hitastig um frostmark og hátt rakastig getur ísing á spöðunum leitt til minni afkasta. Það er varla hlutverk orkumálastjóra að birta á prenti yfirborðslegan áróður fyrir vindknúnum rafölum.  Miklu meiri greiningarvinnu er þörf áður en nokkru er slegið föstu um nytsemi eða gagnsleysi þessarar gerðar raforkuvinnslu fyrir íslenzka raforkukerfið.  Lykilatriði í því sambandi er einmitt haldleysi meðaltals raforkuvinnslugetu við íslenzkar aðstæður, eins og Elías bendir á. 

"Að sjálfsögðu halda orkufyrirtækin fram sínum hagnaðarsjónarmiðum, sem þeim ber að gæta samkvæmt lögum og reglum.  Yfirvöldum, þar með orkumálastjóra, ber síðan að standa klár á sjónarmiðum orkuöryggis og sjá til, að sú þekking, sem til þarf hér á landi, sé þeim tiltæk.  Það er fullveldisréttur okkar, sem stjórnvöldum er skylt að sinna."

  Sú greiningarvinna, sem þarna er til umfjöllunar, leiðir annaðhvort til þeirrar niðurstöðu, að hætta verði á afl- eða orkuskorti áður en næsta trausta virkun getur komizt í gagnið eða vel sé séð fyrir jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar í raforkukerfinu í nánustu framtíð. Ef hið fyrr nefnda er uppi á teninginum, þurfa yfirvöld að hafa nægar lagaheimildir til að grípa til gagnráðstafana. Samkvæmt Orkupakka 3 eru þessar heimildir ekki fyrir hendi, og þessu þarf löggjafinn að bæta úr, einmitt á grundvelli fullveldisréttarins, sem Elías nefnir.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  

 

 

 

   


Virkjanir og sveitarfélögin

Nánast öll raforka frá virkjunum landsins fer inn á stofnkerfi raforku, og þannig eiga allir landsmenn að hafa jafnan aðgang að henni, þótt misbrestur sé á því í raun, bæði hvað afhendingaröryggi og spennugæði áhrærir. Það hefur of lítill gaumur verið gefinn að sveitarfélögunum, þar sem virkjanirnar eru staðsettar, enda er það eðlileg ósk heimamanna, að hluti virkjaðrar orku verði til ráðstöfunar í viðkomandi sveitarfélögum, ef eftirspurn skapast. 

Þetta viðhorf kom fram í góðri Morgunblaðsgrein eftir Harald Þór Jónsson, oddvita og sveitarstjóra í Skeiða- og Gnúpverjahreppi 9. janúar 2023 undir fyrirsögninni:

"Forsenda orkuskipta á Íslandi fyrir árið 2040".

Þar stóð m.a.:

"Ég leyfi mér að fullyrða, að orkuskipti þjóðarinnar gangi ekki eftir, nema haldið verði áfram að virkja þetta mikilvæga orkusvæði.  Þegar ríkisstjórn Íslands setti hins vegar markmið um orkuskipti fyrir Ísland, átti ekkert samtal eða samráð sér stað um það við sveitarfélögin, en samt er það svo, að það eru þau, sem þurfa að setja virkjanir og tengd mannvirki á aðal- og deiliskipulag sitt ásamt því að heimila framkvæmdir.  Nauðsynlegt er að hefja samtalið [á] milli ríkis og sveitarfélaga strax, til þess að orkuskiptin raungerist."

Þetta er þörf og löngu tímabær ábending.  Að samskipti ríkisvalds, stærsta ríkisorkufyrirtækisins og  sveitarfélaga á orkusviðinu skuli vera í lamasessi, eins og höfundurinn rekur, ber vitni um ómarkviss vinnubrögð af hálfu ríkisvaldsins og ríkisorkufélaganna, og er þessi meinbugur sennilega hluti af skýringunni á þeirri úlfakreppu, sem íslenzk orkumál eru í.  

Þjóðarskútunni hefur verið siglt inn í ástand raforkuskorts.  Hann er ekki tímabundinn, eins og löngum áður fyrr, heldur langvarandi. Hann stafar ekki einvörðungu af skorti á rafölum til að svara eftirspurninni, einnig frá nýjum notendum, heldur vegna ónógrar söfnunargetu miðlunarlóna virkjananna, sérstaklega á Tungnaár/Þjórsár-svæðinu. 

Að auka aflgetu virkjananna mun magna orkuvandann, því að aukið vatnsrennsli þarf til að knýja nýja rafala og/eða stærri rafala.  Aðalvandinn er sá, að miðlunargeta Þórisvatns er of lítil.  Til að bæta úr skák þarf 6. áfanga Kvíslaveitu, nýtt Tungnaárlón og Norðlingaölduveitu.  Hvammsvirkjun-95 MW, Holtavirkjun-57 MW og Urriðafossvirkun-140 MW munu bæta mjög úr skák, því að þar mun bætast við um 290 MW afgeta án þess að auka þörfina á miðlunargetu.

Landsvirkjun virðist vilja leysa aðsteðjandi orkuvanda með vindmylluþyrpingum.  Það er þjóðhagslega óhagkvæmt, af því að aðrir valkostir til að auka afl- og orkugetu raforkukerfisins eru hagkvæmari og vegna þess að mun meiri landverndar- og mengunarbyrði verður af vindmylluþyrpingum en vatnsorkuvirkjunum (miðlunum og vatnsaflshverflum með rafölum, spennum, rofum stýribúnaði). Núna hafa einvörðungu um 0,6 % landsins farið undir miðlanir, stöðvarhús, aðrennsli og frárennslu, flutningslínur og vegagerð vegna orkumannvirkja.  Landþörf vindmylluþyrpinga í km2/GWh/ár er tíföld á við vatnsaflsvirkjun með miðlun, ef koma á í veg fyrir gagnkvæm skaðleg áhrif vindmyllanna vegna vindhvirfla (túrbúlens), sem dregur úr nýtni og veldur titringi.  Það er með eindæmum, ef Orkustofnun, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og ráðuneyti orku, umhverfis og loftslags ætla að hrekja Landsvirkjun frá góðum lausnum á vatnsorkusviði til að koma á jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar raforku í landinu og yfir í alveg afleitar lausnir vindorkuhverflanna. 

  "Ég er mikill virkjanasinni.  Ég geri mér grein fyrir því, hvað sú græna orka, sem við framleiðum á Íslandi, hefur gert fyrir lífsgæði þjóðarinnar.  Sem sveitarstjóri og oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps er mér falin sú mikla ábyrgð að reka sveitarfélagið. Tryggja hagsmuni íbúanna.  Tryggja það, að samfélag okkar vaxi og dafni.  Tryggja, að lífsgæði okkar aukist.  Er eðlilegt að breyta byggð í fallegri náttúru, sem er hluti af lífsgæðum íbúanna, yfir í virkjanasvæði, sem hefur sjónrænt áhrifasvæði upp á meira en 50 km2, til að tryggja 1-2 störf til framtíðar í nærumhverfi virkjunarinnar ?  Ég held, að flestir viti svarið.  Eitthvað meira þarf að koma til." 

Það er vafasamt að heimfæra þær fórnir, sem þessar lýsingar oddvitans og sveitarstjórans draga upp mynd af, upp á Hvammsvirkjun.  Stöðvarhúsið verður lítt áberandi, og varla mun bera meira á stíflunni en brú, enda verður þar akfært yfir, og mun sú vegtenging yfir Þjórsá verða sveitarfélögunum beggja vegna lyftistöng. Inntakslónið verður alfarið í árfarveginum og mun fegra sveitina.  Sjónræna áhrifasvæðið, sem hann gerir mikið úr, eykur fjölbreytnina í sveitinni, gerir hana nútímalega og mun draga að henni gesti. 

Það er t.d. ekki hægt að bera náttúruinngrip þessarar virkjunar saman við vindmylluþyrpingu á þessum slóðum.  Slíkt mannvirki fælir frá vegna hávaða og gríðarlegt jarðrask á sér stað vegna graftrar fyrir undirstöðum á stóru svæði, þar sem eru vegslóðar og skurðir fyrir rafstrengi frá vindmyllum að aðveitustöð.  

"Ein af undirstöðum lífsgæða á Íslandi er orkuöflun, sem á sér stað á landsbyggðinni.  Samt er það skrifað í raforkulög, að uppbygging atvinnu, sem þarf mikla raforku, raungerist aldrei í dreifbýli.  Hvers vegna ?  Vegna þess að það er sérstök verðskrá fyrir dreifingu á raforku í dreifbýli og við, sem búum á landsbyggðinni þurfum að greiða hærra verð fyrir dreifingu á rafmagninu en þeir, sem búa í þéttbýli.  Við þurfum að greiða hærra verð fyrir orku, sem verður til í okkar nærumhverfi en þeir, sem nota hana í þéttbýliskjörnum, tugum og hundruðum km frá framleiðslustað.  Þessu þarf að breyta strax."

Þetta er alveg rétt hjá höfundinum og hefur ítrekað verið bent á þetta misrétti hér á vefsetrinu og lagðar til leiðir til úrbóta. Það, sem oddvitinn og sveitarstjórinn vill, er, að Landsvirkjun veiti sveitarfélögunum, sem hlut eiga að veitingu framkvæmdaleyfis fyrir Hvammsvirkjun, aðgang að hluta af orku frá virkjuninni.  Það er eðlilegt sjónarmið, að frá aðveitustöðinni, sem reist verður við Þjórsá til að taka við orku frá virkjunum Neðri-Þjórsár og tengja hana við stofnkerfi landsins, verði rofar fyrir orku innan sveitarfélaganna, u.þ.b. 10 MW.  Í grein höfundar segir, að stofnkostnaður Hvammsvirkjunar verði líklega um mrdISK 50.  Þá má reikna út, að kostnaður við þessa orkuvinnslu verður um 38,9 USD/MWh (5,6 ISK/kWh), og er það sanngjarnt verð frá virkjuninni til innansveitarnota, en til viðbótar kemur flutningskostnaður að aðveitustöðinni, og Landsvirkjun þyrfti að niðurgreiða dreifinguna, þar til stjórnvöld loksins leiðrétta téða mismunun notenda dreifiveitnanna.  Þá er hins vegar höfuðverkur sveitarfélaganna, hverjir eiga að njóta þessara vildarkjara ? 

Að lokum stóð í þessari athyglisverðu grein:

"Ef orkuskipti þjóðarinnar eiga að geta átt sér stað, þá þarf ríkisstjórn Íslands og þingmenn á Alþingi að hefja samtalið við sveitarstjórnir á landsbyggðinni um sanngjarna skiptingu á auðlindinni, sem orkan er. Tryggja þarf jafnt verð á dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli.  Tryggja þarf, að nærsamfélagið, þar sem orkan á uppsprettu, njóti ávinnings af þeim verðmætum, sem hún skapar, ekki bara á framkvæmdatíma við byggingu virkjana, heldur sem hlutdeild í þeim verðmætum, sem verða til á hverjum tíma með orkuframleiðslunni. Það samtal þarf að hefjast strax til að tryggja, að farsæl orkuskipti þjóðarinnar nái fram að ganga fyrir árið 2040."

Þarna virðist oddvitinn og sveitarstjórinn fara fram á gjald til viðkomandi sveitarfélaga af orkunni frá Hvammsvirkjun, ef hún er seld á hærra verði en nemur framleiðslukostnaði virkjunarinnar (38,9 USD/MWh=5,6 ISK/kWh).  E.t.v. er hægt að semja tímabundið um slíkt, en að auki koma fasteignagjöld í hlut sveitarfélaga, þar sem mannvirki eru staðsett, og arðurinn af ríkisfyrirtækjunum kemur í hlut þessara íbúa, eins og annarra íbúa landsins.  


Utan gátta

Loftslags-, orku- og umhverfisráðherra virðist vera haldinn þeirri meinloku, að Íslendingar séu að missa af lestinni, af því að þeir hafa ekki enn sett lög um vindmylluþyrpingar og ekki heimilað uppsetningu þeirra, þó að (erlendir) fjárfestar bíði í röðum eftir samþykki viðkomandi yfirvalda fyrir uppsetningu og rekstri slíkra orkuvera. Hvers vegna sýna þeir þennan áhuga núna ? 

Þeir kunna að sverma fyrir hærri nýtingu mannvirkjanna en algengt er annars staðar á landi vegna þess, hversu vindasamt hér er, en þá þurfa þeir að taka með í reikninginn viðhaldsþörf í sviptivindasömu landi og óvenju hátt rakastig, sem vafalaust mun valda meira ísingarálagi á spaða, legur og burðarsúlu en margir rekstaraðilar þessara mannvirkja eiga að venjast. Það er heldur ekki hlaupið að því að komast að til viðhalds og viðgerða stóran hluta ársins á mörgum þeirra staða, sem téðir fjárfestar hafa nú augastað á.

Er einhver markaður fyrir vindmyllurafmagn á Íslandi ?  Líklega treysta þessir fjárfestar á, að á Íslandi verði viðvarandi raforkuskortur, og þess vegna muni t.d. eigendur raforkuvera, sem háð eru vatni úr miðlunarlónum, grípa hvert tækifæri fegins hendi til að kaupa af þeim rafmagn og spara vatn. Ef hins vegar úrtöluraddir á sviði hefðbundinna íslenzkra virkjana verða ekki látnar komast upp með að virka eins og 5. herdeild spákaupmanna á sviði vindorku og hér verður í náinni framtíð staðið myndarlega að virkjun jarðgufu og vatnsafls, þá mun markaðurinn engan áhuga hafa fyrir vindorkurafmagni, sem er bæði ótryggt og dýrt og flækir fyrir beztun á rekstri íslenzka raforkukerfisins m.t.t. hámörkunar á nýtni við nýtingu orkulindanna. 

Noregur er vatnsorkuland, eins og hérlendis er kunnugt, en samt hafa verið settar þar upp vindmyllur í talsverðum mæli.  Þetta hefur valdið spjöllum á viðkvæmri náttúru í einu fegursta landi Evrópu. Þess vegna fer andstaða almennings þar í landi mjög vaxandi gegn þessari raforkuvinnslu, enda er hún að miklu leyti fyrir utanlandsmarkað.  Sömu sögu er að segja hvaðanæva að úr Evrópu, en þar eru landskortur og afleiðingar þrengsla víða drifkraftur mótmælanna.  Við hérlendis eigum að draga lærdóm af þessu, enda er þetta önnur meginorsök áhuga fjárfestanna fyrir Íslandi núna. 

Hér hafa ýmsar kenningar verið á lofti um, að sæstrengstenging við raforkukerfi Evrópu muni fylgja vindmylluþyrpingum á Íslandi og þá vísað til orkulöggjafar Evrópusambandsins í því sambandi.  Glöggur maður hefur leitt að því lögfræðileg rök, að innleiðing Orkupakka 3 á Íslandi haustið 2019 standist ekki lagalega, af því að sú löggjöf var þá úr gildi fallin hjá ESB og önnur, Orkupakki 4, tekin við.  Þá er mikilvægt að hafa í huga, að orkulöggjöf ESB gildir ekki lengur á Bretlandi, en þangað var jafnan mestur áhugi á að leggja aflsæstreng frá Íslandi. Sæstrengur til ESB-landanna er miklu dýrari framkvæmd, og raforkuflutningur þangað mun þýða mun meiri orkutöp og þar af leiðandi óhagkvæmari rekstur.  Að lokum er vert að benda á þann varnagla Alþingis við innleiðingu OP3, að löggjafinn áskildi sér rétt til að samþykkja eða hafna slíkri tengingu raforkukerfa. ESA hefur enn ekki gert athugasemd við þann varnagla.  Aflsæstrengur til Íslands er þess vegna mjög langsóttur (ólíklegur), en lífseigur efniviður samsæriskenningasmiða.  

Þann 30. desember 2022 birtist í Morgunblaðinu frétt af viðtali við ráðherra, sem virðist ekki átta sig á afleiðingum þess fyrir íslenzkt þjóðfélag og náttúru landsins, ef stjórnvöld nú ætla að reiða sig á vindorku til raforkuöflunar fyrir hagkerfi í vexti, og sem þar að auki stendur nú frammi fyrir orkuskiptum, sem reist verða á raforku úr sjálfbærum orkulindum.  Fréttin bar lævísan titil, ættaðan frá sama ráðherra:

"Nærumhverfið njóti ávinnings".

Hún hófst þannig:

"Vinna starfshóps, sem ætlað er að undirbúa nýjar reglur (svo !) um nýtingu vindorku, gengur vel að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.  Jafnframt er unnið að því í 2 öðrum hópum að bera saman reglur í nokkrum öðrum löndum og kanna, hvar hægt er að reisa vindorkuver á hafi.  Ætlazt er til, að starfshópurinn skili tillögum í formi draga að lagafrumvarpi fyrir 1. febrúar [2023]."

Með öðrum orðum vinnur ráðherra nú að undirbúningi þess að ryðja vindorkuþyrpingum leið inn í íslenzkt samfélag og ferst verkið óhönduglega.  Í stað þess að kynna sér rækilega kosti og galla, þ.e. reynsluna af vindorkuverum í nokkrum löndum, þá er farið yfir regluverkið, þótt það hafi gefizt misjafnlega og víða leitt til harðrar gagnrýni.  Að taka raunstöðuna fyrst í mismunandi löndum er nauðsynlegur undanfari þess að semja regluverk um vindmyllur fyrir Íslendinga.  Svona vinnubrögð hafa mjög lítið forvarnargildi og eru ógæfuleg. 

Það er með ólíkindum að setja í gang vinnu á vegum ríkisins til að opna fyrir umsóknir um leyfi til uppsetningar og rekstrar vindmylluþyrpinga á hafi úti.  Þetta eru mengandi fyrirbæri, sem útheimta mikið viðhald og munu verða annarri umferð til trafala, aðallega fiskiskipum.  Frá Noregi sýna rannsóknir, að sjávardýr safnast að þessum mannvirkjum, og áhrif hávaðans frá vindmylluspöðunum á sjávardýrin hafa ekki verið fullrannsökuð.  Vegna gríðarlegs kostnaðar við þessa gerð raforkuvinnslu verður aldrei neinn markaður hérlendis fyrir rafmagn frá vindmyllum á hafi úti.  Ef ætlunin er að flytja rafmagnið utan, bætist við hár flutningskostnaður, sem útilokar samkeppnihæfni slíks verkefnis.  Ráðuneytið er algerlega úti á túni með þessa undirbúningsvinnu sína.  Hvað er þetta ráðuneyti að gera til að auðvelda samþykktarleið hefðbundinna íslenzkra virkjana, t.d. vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum, sem eru Vestfirðingum og öllu raforkukerfinu nauðsynlegar ?  Er ekki vitlaust gefið í fílabeinsturninum ?

"Nú er verið að undirbúa fjölda vindorkuvera, allt að 40 á mismunandi stigum, eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær.  Stöðugt bætast við áform, en framkvæmdir stranda á því, að stjórnvöld hafa ekki sett sér stefnu.  Guðlaugur Þór bendir á, að enginn hafi heimild til að fara í framkvæmdir, nema að undangengnu mati í rammaáætlun. Þess má geta, að 2 vindorkugarðar Landsvirkjunar eru í nýtingarflokki rammaáætlunar, Búrfellslundur og Blöndulundur, en engir aðrir.  Landsvirkjun undirbýr byggingu beggja vindorkugarðanna og hefur sótt um virkjanaleyfi fyrir Búrfellslund." 

Það er eftir öðru í ríkisbúskapinum, að stærsta fyrirtækið á raforkumarkaðinum hérlendis, ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, ætli nú að ríða á vaðið og innleiða í íslenzka náttúru og samfélag mannvirki til raforkuöflunar, sem eru mengandi og standast engan samanburð við hefðbundnar íslenzkar virkjanir, hvað landþörf á uppsetta afleiningu og hagkvæmni snertir. Ef þessi áform verða að veruleika, þýðir það, að orkuöflunin verður miklu ágengari við náttúru og mannlíf en nokkur þörf er á, og uppátækið mun valda hækkun á raforkuverði í landinu og flækja rekstur raforkukerfisins t.d. m.t.t. til hámarks nýtni búnaðar. 

"Guðlaugur Þór segir, að aðrar þjóðir hafi nýtt vindorku lengi.  Gott sé að geta lært af reynslu annarra um það, hvað hafi gengið vel og hvað miður.

Eins þurfi að kortleggja möguleika á að byggja upp vindorkugarða á hafinu við landið.  Að þessu sé unnið samhliða vinnu 3 manna starfshóps, sem gera muni tillögur um umhverfi vindorkunnar í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar." 

 Ef ráðherra vill ekki hætta á að fara í geitarhús að leita ullar, ætti hann að byrja á að spyrja "aðrar þjóðir", hvort þær hafi haft yfir að ráða gnótt annars konar endurnýjanlegra orkulinda til að virkja í þágu orkuskipta og vaxtar þjóðar og atvinnulífs næstu 3 áratugina, þegar þær hófu að virkja vindinn.  Líklegast verður svarið neitandi, og þar með má strax álykta, að aðstæður á Íslandi séu ósambærilegar þessum öðrum löndum.  Þessi undirbúningsvinna á vegum ríkisins er unnin fyrir gýg.  

Að undirbúa vindmylluþyrpingar úti fyrir strönd Íslands er sömuleiðis gagnslaust verkefni, því að þær munu jafnan valda umferð á sjó trafala, t.d. fiskiskipa, og áhrifin á lífríkið eru lítt rannsökuð.  Raforka frá þessum orkuverum er svo dýr, að í fyrirsjáanlegri framtíð verður enginn innanlandsmarkaður fyrir hana, og flutningurinn til útlanda á þessari orku ylli heildarkostnaði fyrir þessa raforku þangað komna, sem mundi gera hana ósamkeppnisfæra þar.

"Guðlaugur telur, að horfa þurfi til fleiri þátta við reglusetningu fyrir nýtingu vindorkunnar en gert er í ferli rammaáætlunar.  "Það liggur fyrir, að hvaða leið, sem við förum, verða leyfi fyrir vindorkuorkugarði aldrei veitt án umræðu og vonandi verður búið þannig um hnútana, að rödd þeirra, sem næst búa, heyrist.  Ég tel mikilvægt, að nærumhverfið fái að njóta þess efnahagslega, þegar vindorkugarðar rísa", segir Guðlaugur Þór."  

Íbúar í þeim sveitarfélögum, þar sem áform um vindmylluþyrpingar hafa verið kynnt, hafa vissulega margir hverjir tjáð skoðun sína, og stór hluti íbúanna hefur lagzt gegn þessum áformum.  Að veifa pokaskjatta með silfurpeningum í breytir varla miklu, því að í mörgum tilvikum hafa íbúarnir einmitt áhyggjur af neikvæðum fjárhagslegum afleiðingum fyrir þá atvinnustarfsemi, sem fyrir er, og af verðfalli eigna sinna á áhrifasvæði vindmylluþyrpinganna.  Það er þess vegna ekki sérstaklega skynsamlegt af ráðherranum að fara inn á þessa braut.  

 

 

 

 

 

 

 

         

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband