Færsluflokkur: Dægurmál

Skref aftur á bak - Járnsíða og vindmylluþyrpingar

Að kvöldi 12. október 2022 var haldinn fundur í glæsilegum sal Tónlistarskóla Akraness undir yfirskriftinni: Vindmyllur - fyrir hverja [og] til hvers ?  Fundarstjóri var Jón Magnússon, hrl., og fórst honum það vel úr hendi, eins og hans var von og vísa. 

Höfundur þessa vefpistils flutti þarna erindið, sem sjá má í viðhengi þessa pistils.  Aðrir frummælendur þessa fundar voru Arnar Þór Jónsson, sem kveikti neista baráttuanda í brjósti fundarmanna í nafni sjálfstæðrar hugsunar og leyfis til gagnrýninnar tjáningar með haldföstum rökum, Kristín Helga Gunnarsdóttir, sem sýndi með fjölmörgum fallegum náttúrumyndum úr sveitum Vesturlands, hversu gróft og yfirþyrmandi inngrip í náttúruna um 200 m háar (spaðar í hæstu stöðu) vindmyllur yrðu í náttúru Íslands.  Ólafur Ísleifsson rifjaði upp umræðuna, sem varð í landinu í aðdraganda innleiðingar Alþingis á s.k. Orkupakka 3-OP3, lagabálki Evrópusambandsins (ESB) um orkumál, sem hann o.fl. telja á meðal lágpunktanna í sögu Alþingis.  

Nú er spurningin sú, hvort, samkvæmt OP3, Íslendingum beri að verða við óskum fyrirtækja af EES-svæðinu um leyfi til uppsetningar vindmylluþyrpinga í landi sínu á forsendum atvinnufrelsis á EES-svæðinu og jafnræðis á milli orkufyrirtækja á Innri markaði EES, enda sé raforkan frá vindmylluþyrpingunum "græn" samkvæmt skilgreiningu ESB. Íslendingum finnst mörgum hverjum lítið til koma þeirrar grænku.

Á þetta kann að reyna fyrir dómstólum, enda mætast í þessu máli stálin stinn. Þetta minnir okkur á, að Íslendingar hafa ekki ætíð talið sér henta að starfa eftir erlendum lagabálkum. Magnús, konungur lagabætir, vildi samræma löggjöf í gjörvöllu norska konungsríkinu, sem var víðfemt og spannaði eyjar úti fyrir Skotlandi, Færeyjar og Ísland, og e.t.v. Dublin og héruðin í kring á Írlandi, en um þetta leyti hafði Skotakonungur líklega náð tökum á fastlandi Skotlands. 

Magnús, konungur, lét leggja lögbók sína, Járnsíðu, fyrir Alþingi 1271, en Íslendingar sáu meinbugi við að umturna lagaumhverfi sínu og laga það að norskum rétti.  Þá fékk konungur lögfróðan Íslending, Jón Einarsson, til að sníða vankantana af Járnsíðu fyrir Íslendinga, og smíðaði hann nýja lögbók upp úr Grágás og Járnsíðu, sem kölluð var Jónsbók og hlaut samþykki Alþingis 1281 og var lögbók landsins, þar til Íslendingar sóru einvaldskonunginum, danska, hollustueið á Kópavogsfundi 1661. Eftir það breyttist Alþingi að mestu í dómstól.

Hvað sem þessu líður, þá ber Íslendingum nútíðarinnar að vega og meta gaumgæfilega kosti og galla vindmyllanna í íslenzkri náttúru og á íslenzka raforkumarkaðinum. Tilraun til þess er gerð í téðu viðhengi með pistli þessum. Hættan er sú, að þessi óskilvirka og ágenga leið til raforkuvinnslu komi óorði á íslenzkan orkuiðnað og jafnvel orkunotkunina, af því að raforkuvinnslan gangi of nærri landinu og gíni hvarvetna yfir landsmönnum og erlendum gestum þeirra. Það yrði afleit staða fyrir landsmenn að sitja uppi með, og ekkert var fjær forgöngumönnum rafvæðingar Íslands en slíkt. Vindmylluforkólfar eru af öðru sauðahúsi.

Raforkunotkun landsmanna er sú mesta í heimi, og er höfundur þessa vefpistils fyrir sína parta stoltur af því, enda er þessi mikla orkunotkun ásamt sjávarútvegi og ferðaútvegi undirstaða íslenzka velferðarþjóðfélagsins.  Varla hefur farið fram hjá nokkrum manni, að hrópað er úr öllum áttum á meira fé úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Við slíkum óskum er ómögulegt að verða án hagvaxtar í landinu. Stækkun hagkerfisins er nátengd aukinni orkunotkun í samfélaginu.  Því er tómt mál að stöðva allar nývirkjanir í landinu, þótt sú óskilvirkasta og fórnfrekasta sé látin eiga sig.    

Áður var drepið á vindmyllufund á Akranesi.  Akraneskaupstaður er velferðarsamfélag, sem stendur traustum fótum í sjávarútvegi og iðnaði á Grundartanga, þar sem öflug útflutningsfyrirtæki nýta mikla raforku.  Sjávarútvegurinn íslenzki hefur getið sér gott orð fyrir sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar og gjörnýtingu hráefnisins við framleiðslu á útflutningsvörum. 

Nýting íslenzkra orkulinda hefur verið sjálfbær fram að þessu og hófsemi og aðgátar verið gætt, þar sem kappkostað er að fella mannvirkin sem bezt að landinu. Notkun orkunnar hefur verið með glæsilegum hætti, eins og framsæknir auðlindagarðar og tækniþróuð iðnfyrirtæki, þar sem mest munar um álverin þrjú, bera glögglega vitni um. 

 Hvers vegna jafngilda vindmyllur afturför í þessum efnum ?  Það er vegna þess, að vindmyllur eru afkastalítil framleiðslutæki m.v. allan efniviðinn, sem þarf til að fá fram afleininguna MW.  Við nýtingu vindorkunnar myndast óhjákvæmilega lofthvirflar.  Ef þeir ná til næstu vindmyllu, hraðfellur vinnslugeta hennar, hávaði frá henni eykst og titringur myndast, sem eykur bilanatíðnina umtalsvert.  Þess vegna þurfa vindmylluþyrpingar að flæmast yfir margfalt landsvæði á við hefðbundnar íslenzkar virkjanir m.v. sambærilega orkuvinnslugetu, eins og rakið er hér í viðhenginu.

  Þessi frumstæða aðferð við raforkuvinnslu er einfaldlega fjarri því að geta réttlætt þær miklu landfórnir, sem háar vindmylluþyrpingar fela í sér.  Þjóðhagslegt gildi þeirra er ekkert, af því að aðrir endurnýjanlegir orkukostir í landinu eru miklu hagkvæmari, fjárhagslega. 

Það, sem nú eykur ásókn orkufyrirtækja, innlendra og erlendra, í að leggja "ósnortin" íslenzk víðerni undir ferlíki, sem gjörbreyta mundu ásýnd landsins, er ekki sæstrengur, enda styrkir ESB ekki lengur slíkan til Bretlands, heldur uppboðsmarkaður raforku í skortástandi á Íslandi, þar sem eigendur vindorkuþyrpinga munu verða ráðandi fyrir endanlegt verð á markaðinum samkvæmt jaðarkostnaðarreglu OP3.  Hér er rétt að hafa í huga, að þrátt fyrir eindregin tilmæli í þá veru í OP3 að innleiða slíkan uppboðsmarkað raforku, er það ekki skylda aðildarlandanna. 

Forseti framkvæmdastjórnar ESB hefur nú gefið þetta kerfi upp á bátinn, því að framboðshliðin brást niðri í Evrópu.  Á Íslandi er framboðshliðin háð duttlungum náttúrunnar, og þess vegna er innleiðing þessa kerfis reist á misskilningi um áhrif þess á hagsmuni neytenda.  Að segjast ætla að innleiða þetta uppboðskerfi raforku í nafni hagsmuna almennings er léleg öfugmælavísa í ljósi skortstöðunnar á markaði.

  Þegar í stað á að hætta við afritun úrelts ESB-markaðar hjá dótturfélagi Landsnets og hefja þess í stað þróun á markaðskerfi raforku, sem sérsniðið sé við íslenzkar aðstæður.  Hugmynd að slíkri hönnun er þegar fyrir hendi í riti eftir íslenzkan verkfræðing, sérfræðing í orkumálum.    

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hræsni loftslagspredikara

Gríðarlegt magn af metangasi (CH4) hefur mælzt stíga upp frá jarðgaslindum Rússa og talsvert er um leka á löngum lögnum, sem lítið virðist vera gert með. Þeir, sem létu sprengja í sundur báðar Nord Stream 1 lagnirnar og aðra Nord Stream 2 lögnina, ekki fjarri þverun nýrrar norskrar gaslagnar til Póllands á þessum lögnum [var hún e.t.v. skotmarkið ?], víluðu ekki fyrir sér að valda umhverfisslysi í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar í september 2022 og valda hættuástandi fyrir sæfarendur á Eystrasalti. Nú streymir sjór inn um rifurnar, sem mynduðust, og mun tæring gera skemmdu lagnirnar 3 af 4 ónothæfar.

Norðmenn eru nú aðaleldsneytisgasbirgjar Bretlands og Evrópusambandsins og sjá ESB fyrir 25 % af núverandi þörf.  Á sama sólarhring og skemmdarverkið var unnið, var ný gaslögn frá borpöllum Norðmanna úti fyrir ströndinni og um Danmörku alla leið til Póllands tekin í notkun. Þær kenningar eru á lofti, að hin kaldrifjaða aðgerð úti fyrir Borgundarhólmi sé undan rifjum Kremlar runnin í ógnunarskyni við þennan mikilvægasta eldsneytisbirgi frjálsrar Evrópu um þessar mundir. 

Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar, ritaði eina af athyglisverðum greinum sínum í Morgunblaðið 8. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:

"Að leika sér með líf annarra".

Þar stóð m.a. þetta:

 "Þjóðverjar endurræsa kolaorkuver sín á meðan Spánverjar og Ítalir tala fyrir aukinni gasframleiðslu í Afríku.  Þá er fjöldi Evrópuríkja, sem beðið hafa Botsvana að auka afköstin í kolanámum þarlendum, slíkur, að reikna má með þreföldun í umfangi kolaútflutnings þaðan.

Einn einasti þegn [á] meðal auðþjóða notar meira jarðefnaeldsneyti en samsvarar þeirri orku, sem stendur 23 Afríkubúum til boða.  Auður þessara þjóða spratt af umfangsmikilli vinnslu jarðefnaeldsneytis, sem um þessar mundir sér þeim fyrir rúmlega 3/4 þeirrar orku, sem þær nota. Innan við 3 % orku auðþjóðanna rekja uppruna sinn til framleiðslu með sólskini og vindi." 

Það er sláandi og varpar ljósi á rangar og óskilvirkar fjárfestingarákvarðanir að setja gríðarupphæðir, oftast með styrkjum úr opinberum sjóðum, í efnismiklar og landfrekar vindmyllur og sólarhlöður, sem þó skila innan við 3 % af orkuvinnslu s.k. auðugra þjóða nú, þegar hæst á að hóa.  Forgangsröðunin er kolröng. Nær hefði verið að setja allt þetta opinbera fé í rannsóknir og þróun á kjarnorkutækninni, öruggari tækni með úraníum kjarnakljúfum og þóríum kjarnorkuverum.  Vindmyllur eru frumstæð og óskilvirk aðferð við raforkuvinnslu.  Þá var glapræði að afhenda Rússlandi allan spilastokkinn og banna jarðgasvinnslu ("fracking") og kjarnorkuver víða í Evrópu.  Klóför græningjanna eru alls staðar sama markinu brennd.  Til lengdar skaða þau vestræn samfélög.  Annars staðar er lítið hlustað á bullið í þeim. Það á ekki að halda dýrum og óáreiðanlegum orkukostum að þjóðum, sem eiga langt í land með að byggja upp raforkukerfi sitt, og það er argasta hræsni að gera það í nafni loftslagsvár.  Þessi mistök eru af svipuðu bergi brotin og þau að flýta orkuskiptum á Vesturlöndum, þótt tæknin sé ekki komin á viðunandi stig fyrir þau.  

"Nú er lag að rifja upp reynslu indverska þorpsins Dharnai, sem Grænfriðungar einsettu sér árið 2014 að gera að fyrsta sólarorkusamfélagi landsins.

Augu allra fjölmiðla stóðu á Grænfriðungum, þegar þeir lýstu því yfir, að Dharnai neitaði að "falla í gildru jarðefnaeldsneytisiðnaðarins".  Daginn, sem skipt var yfir í sólarorku, tæmdust rafhlöðurnar svo á fáeinum klukkustundum.  Eftirminnileg er frásögn af dreng nokkrum, sem gat ekki sinnt heimanámi sínu, þar sem rafmagnið dugði ekki til að knýja eina lampa heimilisins.  

Þorpsbúum var bannað að nota kæliskápa sína og sjónvarpstæki, þar sem raforkukerfið stæði ekki undir notkuninni.  Ekki var heldur hægt að nota rafknúnar eldunarhellur, svo [að] fólkið neyddist til að snúa aftur í hitun með eldiviði, sem olli skelfilegri loftmengun. Um gervöll þróunarríkin deyja milljónir úr innanhússmengun, sem að mati Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar jafnast á við að reykja 2 pakka (af vindlingum] á dag." 

Þetta er gott dæmi um skelfilegar afleiðingar þess að hleypa forræðishyggjufólki í hópi fúskara um orkumál að ákvarðanatöku.  Þeir skoða engin mál til hlítar, vita vart, hvað áhættugreining felur í sér, en láta stjórnast af blindu hatri á því, sem þeir ímynda sér, að sé hættulegt, í þessu tilviki jarðefnaeldsneyti og í öðrum tilvikum kjarnorkan.  Þess eru líklega engin dæmi, að ráð hjátrúarfullra fúskara hafi gefizt vel á nokkru sviði, sem skipta samfélag manna máli.  Svipuðu máli gegnir um braskara, sem nota vilja uppboðsmarkað raforku til að græða.  Í Noregi ætlar ríkisstjórnin að lina þjáningar raforkukaupenda með niðurgreiðslum á raforkukostnaði, en engu að síður er búizt við mikilli viðarbrennslu á norskum heimilum í vetur til upphitunar húsnæðis.  Um rafmagn geta ekki gilt sömu viðskiptalögmál og um vörur, því að það er ekki hægt að safna saman og geyma í umtalsverðum mæli.

"Rafmagn, framleitt með sól og vindi, getur ekki staðið undir iðnaðarframleiðslu né knúið vatnsdælur, dráttarvélar og aðrar vélar - allt það, sem þörf er á til að leysa fólk úr fjötrum fátæktar.  Eins og auðþjóðunum er nú að skiljast, eru þessir orkugjafar í grundvallar atriðum ekki til að treysta á.  Sólarleysi og logn táknar rafmagnsþurrð.  Rafhlöðutækni býður heldur engin svör.  Þær rafhlöður, sem til eru í heiminum í dag, nægðu eingöngu til að standa undir orkunotkun heimsbyggðarinnar í 1 mín og 15 sek.  Jafnvel árið 2030, í kjölfar umfangsmikillar rafhlöðuframleiðslu, yrði þessi tími ekki orðinn [lengri] en tæpar 12 mín.  Til hliðsjónar má hafa vetur í Þýzkalandi, þegar sólarorkuframleiðsla er hvað minnst.  Á sama tíma tíma koma [a.m.k.] 5 daga [samfelld] tímabil, rúmar 7000 mín, þegar framleiðsla vindorku er við 0."

Það liggur í augum uppi, að téðir orkugjafar einir og sér eru ónothæfir fyrir notendur, sem reiða sig á áreiðanlega raforkuafhendingu, þegar þeir þurfa á henni að halda, hvenær sem er sólarhringsins. Þar er komið að þeim eiginleikum raforkunnar, sem peningaumsýslumenn, sem hannað hafa markaðskerfi margra landa með raforku, og græningjar, sem predika bráðan heimsendi vegna losunar koltvíildis við bruna jarðefnaeldsneytis, hafa flaskað á: raforkuna verður að framleiða á sama andartaki og aflþörfin í tengdum búnað myndast.  Annars rýrna gæði rafmagnsins til allra tengdra notenda á áhrifasvæði skortsins, og hætta getur myndazt á kerfishruni, ef ekki er brugðizt skjótt við. 

"Hér eru komnar skýringarnar á því, hvers vegna auðugri þjóðir heimsins munu áfram reiða sig á jarðefnaeldsneyti um áratugi.  Alþjóða orkustofnunin spáir því, að jafnvel þótt öll loftslagsumbótaloforðin verði efnd, muni jarðefnaeldsneyti enn verða uppspretta 2/3 hluta orku þessara þjóða árið 2050. Þróunarríkjunum dylst ekki hræsnin í orkuumræðunni, og e.t.v. hefur enginn orðað hlutina haganlegar en Yemi Osanbajo, varaforseti Nígeríu: "Engum í heiminum hefur auðnazt að iðnvæðast með endurnýjanlegri orku einni saman, [þó hafa Afríkuþjóðirnar] verið beðnar að gera það, þótt öllum öðrum í heiminum sé fullkunnugt, að við þurfum gasdrifinn iðnað fyrir viðskiptalífið.""

Þessi alhæfing Nígeríumannsins er röng.  Svisslendingar, Norðmenn og Íslendingar iðnvæddust með því að knýja iðnverin með raforku úr vatnsaflsvirkjunum, og það má örugglega finna fleiri slík dæmi.  Mikið óvirkjað vatnsafl er enn í Afríku, en sá hængur er á þessum virkjunum, að söfnun vatns í miðlunarlón bregst oftar í Afríku en í Noregi og á Íslandi.  Þar með er kominn upp óstöðugleiki á framboðshlið, sem atvinnulífið má ekki við. Það er þó himinn og hafa á milli óstöðugleika raforkuframboðs frá vindorkuverum og sólarhlöðum annars vegar og vatnsorkuverum, a.m.k. hér norðan Alpafjalla, þar sem spáð er vaxandi úrkomu með auknum hlýindum.  

Að setja upp vindorkuver á Íslandi er meinloka.  Vindorkuver mundu hérlendis hafa hækkunaráhrif á raforkumarkaðinn, og þau draga úr aðdráttarkrafti íslenzkrar náttúru á innlenda og erlenda ferðamenn vegna augljósra lýta á landinu langar leiðir og óþægilegs hávaða.  Vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir hafa hins vegar aðdráttarafl fyrir ferðamenn víða. Í upphafi skyldi endirinn skoða, en ekki apa allt eftir útlendingum, þótt þar séu aðstæður ósambærilegar orkuaðstæðum á Íslandi.    


Sókn eftir vindi

Vindorkuforkólfar sækja nú í sig veðrið og reyna að fá aukinn byr í seglin sökum þess, að orkustjórnkerfi landsins hefur brugðizt þeirri frumskyldu sinni að útvega þjóðinni næga orku hverju sinni til að halda uppi háu atvinnustigi í landinu og hagvexti. Þessa ásókn mátti t.d. greina í Morgunblaðinu 21. september 2022 undir fyrirsögninni:

"Tugmilljarða tekjur af vindorku".

Þar er greining á efnahagslegum áhrifum þessarar uppbyggingar, sem munu hafa komið fram í kynningu í Hljóðakletti í Borgarnesi 19.09.2021.  Um er að ræða 9 vindorkuver á Vesturlandi að uppsettu afli 687 MW og orkuvinnslugetu 2885 GWh/ár á vegum Qair, Hafþórsstaða, Zephyr og EM Orku.  Þessar tölur gefa til kynna áætlaðan nýtingartíma á fullu afli í 4200 klst/ár eða 48 % á ári að jafnaði, sem er ólíklegt að náist, enda verður að reikna með viðhaldstíma og viðgerðartíma, sem lækka munu þennan meðalnýtingartíma. 

Ólíkt öðrum þjóðum hafa Íslendingar val um tvenns konar endurnýjanlegar orkulindir auk vindorku, og gefa þær báðar kost á ódýrari raforku en hægt er að fá úr vindorkunni.  Vinnsla raforku með smáum og gríðarlega plássfrekum rafölum mun því fyrirsjáanlega hækka rafmagnsverð til almennings á Íslandi og mynda óeðlilega háan gróða hjá eigendum vatnsorkuvera og jarðgufuvera, þegar áform dótturfélags Landsnets um innleiðingu raforkukauphallar að hætti Evrópusambandsins (OP3) hafa rætzt. Þar ræður jaðarverðið, þ.e. næsta verðtilboð ofan þess hæsta, sem tekið er, ákvörðuðu verði fyrir tilboðstímabilið.  Jaðarverðtilboðið mun væntanlega koma frá vindmylluþyrpingum, og þannig munu vindmyllueigendur verða mótandi fyrir verðmyndun á markaði, sem er fullkomlega óeðlilegt hérlendis.    

 Það er þó af landverndarástæðum, sem ótækt er að hleypa vindorkuframkvæmdum af stað í íslenzkri náttúru fyrr en samanburðarathugun hefur farið fram á milli virkjanakosta um landþörf í km2/TWh endingartímans (búast má við, að landþörf fyrir 687 MW vindmyllur nemi 35 km2). Þótt Ísland sé ekki þéttbýlt, eru landsmenn viðkvæmir fyrir gjörbreyttri landnýtingu, eins og orkulindanýting úr náttúru Íslands felur í sér.  Þess vegna hlýtur þessi kennistærð, km2/TWh (landþörf m.v. orkuvinnslu á endingartíma virkjunar) að vega þungt, og þar með er hægt að skipa landfrekustu orkuverunum á orkueiningu aftast í röð við leyfisveitingar.  Þar virðast vindorkuverin munu skipa sér í þéttan hnapp.  Með sama hætti má reikna út kolefnisspor virkjunar með því að taka tillit til framleiðslu á helztu hlutum hennar, uppsetningar og rekstrar.  Fljótt á litið skipa vindorkuverin sér þar efst á blað, og ekki bætir plastmengun spaðanna umhverfis vindmyllurnar úr skák. Vindmyllur eru þá ekki sérlega umhverfisvænar, þegar allt kemur til alls. 

Hraði mylluspaðaendanna er svo mikill, að fuglar eiga erfitt með að forðast þá, ef þeir eru í grennd.  Þessi mikli hraði veldur hvirflum og miklum hávaða, sem berst langar leiðir.  Þetta er umhverfisbaggi, sem Íslendingar eiga ekki að venjast frá sínum hefðbundnu virkjunum. 

Það er ekkert, sem mælir með leyfisveitingum til raforkuvinnslu af þessu tagi, á meðan fjöldi álitlegra kosta liggur enn ónýttur á formi vatnsafls og jarðgufu.  Ásókn vindmyllufyrirtækja eftir framkvæmdaleyfum hérlendis er þess vegna tímaskekkja, og vonandi þurfa landsmenn aldrei að fórna miklu landi undir það gríðarlega umrót, sem vindmyllugarðar hafa í för með sér, enda verður komin ný orkutækni, þegar heppilegir virkjanakostir fallvatns og jarðgufu verða orðnir upp urnir. 

Í téðri Morgunblaðsgrein voru tíundaðir tekjustraumar frá 9 vindorkuvirkjunum á Vesturlandi án þess að geta um áætlaðar heildartekjur á tímabilinu 2026-2052.  Þeir voru tekjuskattur af raforkuframleiðendum, staðgreiðsla, útsvar til sveitarfélaga, tryggingagjald, umhverfis- og auðlindaskattur, fasteignagjöld og lóðaleiga.  Vegna þess að vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir eru hagkvæmari rekstrareiningar en vindorkuver með svipaðri orkuvinnslugetu, hér 2885 GWh/ár, og miklu áreiðanlegri aflgjafar, þá er langlíklegast, að í heildina séð verði þessir tekjustraumar hærri frá hinum hefðbundnu virkjunum Íslendinga. 

Frambærileg rök fyrir uppsetningu vindorkuvera á Íslandi eiga enn eftir að koma fram í dagsljósið.     


Iðnaðarframleiðsla í kreppu

Nú hefur hryggjarstykkið í illa ígrundaðri orkustefnu Þýzkalands og þar með Evrópusambandsins (ESB) verið sprengt í sundur í bókstaflegri merkingu og verður líklega aldrei sett saman aftur, því að sjór mun flæða inn í lagnirnar og tæra þær.  Þar með er í vissum skilningi líftaugin á milli Rússlands og Þýzkalands brostin, en margir Þjóðverjar sáu hana bæði sem leið til að láta sár gróa eftir hildarleik og blóðugustu bardaga Síðari heimsstyrjaldarinnar á Austurvígstöðvum Þriðja ríkisins og illvirki á báða bóga, þar sem tilraun var gerð til að brjóta rússneska heimsveldið á bak aftur, og til eflingar viðskipta, sem væru báðum í hag. Rússneski björninn trúr útþensluhefð sinni undi hins vegar ekki því, að frelsisandi þjóðanna, sem brutust undan veldi hans við fall kommúnismans 1989-1991, fengi að blómstra. Nú er aftur barizt á banaspjótum í Úkraínu og hermdarverk framið úr kafbáti á botni Eystrasalts í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar.  Það mun draga dilk á eftir sér.  Sá, sem það framdi, lagði grunninn að átökum Austurs og Vesturs, sem lykta mun með falli annars eða beggja. Ragnarök eru í vændum. 

Nú reynir mjög á þolrif Evrópuþjóðanna vegna dýrtíðar, samdráttar hagkerfa og líklegu vaxandi atvinnuleysi, sem við þessar aðstæður getur leitt til gjaldþrots margra fyrirtækja og fjölskyldna. Ofan í þessa stöðu var afar athyglivert að heyra haft eftir kanzlara Þýzkalands, kratanum Olaf Scholz, að nú þætti þýzku ríkisstjórninni brýnt til varnar frelsi Evrópuríkjanna, að þýzki herinn yrði sá stærsti og bezt vopnum búni í Evrópu. Það hefur gerzt áður, en undir öðrum formerkjum, en alltaf er ógnin úr austri undirtónninn.  

Skyldi Litla-Napóleóni í Elysée-höllinni ekki hafa svelgzt á, þegar hann frétti þetta ?  Það er gefið í skyn, að Evrópumenn verði að taka á sig auknar hernaðarlegar byrðar, því að Bandaríkjamenn muni í náinni framtíð þurfa að einbeita sér að Kyrrahafinu og að aðstoða Taiwan-búa við varnir eyjarinnar.  Eftir þessa tímamótayfirlýsingu kanzlarans ætti hann að veita Græningjanum á stóli utanríkisráðherra og landvarnaráðherranum nauðsynlegan stuðning, svo að hinn vaxandi þýzki her veiti nú úkraínska hernum allan þann hernaðarstuðning, sem hann má og rúmast innan samþykkta NATO.  Sá stuðningur felur í sér öflugustu þungavopn Bundeswehr á borð við Leophard 2 bryndrekann og loftvarnakerfi. Vesturveldin hljóta líka að drífa í afhendingu Patriot-loftvarnakerfisins til Úkraínu. 

Þótt sverfi að Evrópuþjóðunum er það hátíð ein hjá því helvíti, sem Rússlandsstjórn og rússneski herinn hafa leitt yfir úkraínsku þjóðina. Þess vegna má ekki láta deigan síga í allra handa stuðningi við úkraínsku þjóðina, sem úthellir blóði sínu fyrir frelsi sitt og frelsi allrar Evrópu.

Iðnaðarframleiðsla dregst nú saman í Evrópu, og er þar bílaiðnaðurinn ekki undanskilinn.  Spurn eftir rafmagnsbílum í Evrópu hefur hríðfallið, af því að nú er rafmagnið á bílana dýrara en jarðefnaeldsneyti m.v. sömu akstursvegalengd.  Byggingariðnaðurinn er líka í lamasessi, og af þessum ástæðum hefur spurn eftir áli minnkað tímabundið og þar með álverð á LME-markaðinum í Lundúnum.  Það berast hins vegar engar fregnir af fyrirætlunum álveranna þriggja hérlendis um að draga saman seglin, enda er LME-verðið nú um 2100 USD/t Al og spáð hækkandi á næsta ári.  Fyrirtæki á borð við ISAL í Straumsvík, sem einvörðungu framleiðir sérpantaða vöru (ekkert selt til endurbræðslu), fær hærra verð en skráð LME-verð. 

Þann 21. september 2022 skrifaði Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, atvinnulífsgrein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

 "Af orkuskorti, álframleiðslu og kolefnisspori".

Hún endaði þannig:

"Evrópsk álframleiðsla nær ekki að standa undir helmingi af eftirspurn eftir áli í Evrópu.  Ísland og Noregur eru stærstu álframleiðendur innan Evrópska efnahagssvæðisins, en alls er framleitt ál í 15 Evrópulöndum, þ.á.m. Þýzkalandi og Frakklandi.  Hér á landi búa álver við langtímasamninga, sem dregur úr sveiflum og áhættu bæði fyrir álver og innlend orkufyrirtæki. Hagstætt álverð hefur skilað viðsnúningi í rekstri íslenzkra álvera , og hafa orkufyrirtækin einnig notið góðs af því, en þau hafa skilað metafkomu síðustu misserin. 

Á síðasta ári [2021] voru útflutningstekjur íslenzks áliðnaðar um mrdISK 300 eða fjórðungur af gjaldeyristekjum þjóðarinnar.  Þar af nam innlendur kostnaður álvera mrdISK 123, en áætla má, að um helmingur af því hafi farið í orkukaup.  Keyptar voru vörur og þjónusta fyrir mrdISK 35 af hundruðum innlendra fyrirtækja, laun og launatengd gjöld námu yfir mrdISK 20 til 1´500 starfsmanna, en alls eru bein og óbein störf um 5´000.  Þá námu opinber gjöld mrdISK 3,4 og styrkir til samfélagsmála yfir MISK 100.  E.t.v. er mest um vert, að losun á hvert framleitt tonn hér á landi er margfalt minni en í Kína, sem framleiðir yfir helming af öllu áli í heiminum.  Það munar um íslenzkan áliðnað."

Eftir því sem álframleiðsla á meginlandi Evrópu og í Bretlandi dregst saman vegna ósamkeppnishæfrar orkuvinnslu, eykst mikilvægi íslenzkrar álframleiðslu fyrir evrópskan markað.  Staða orkumála í Noregi er um þessar mundir óbjörguleg vegna þess, að raforkuframleiðendur hillast til að flytja raforkuna út um öfluga sæstrengi vegna svimandi hárrar verðlagningar á meginlandinu og Bretlandi.  Þar með fá verksmiðjur Noregs enga raforku utan langtímasamninga, og hefur það leitt til framleiðslusamdráttar, t.d. hjá Norsk Hydro.  Þessi staða mun halda áfram, þar til jafnvægi næst aftur á milli framboðs og eftirspurnar raforku, eða þar til Norðmenn taka orkumálin í eigin hendur og láta innlenda raforkukaupendur njóta forgangs umfram erlenda, en það er bannað í Orkupakka 3, og ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, minnti Norðmenn á það, þegar umræða fór fram um það í Stórþinginu. 

Núverandi staða raforkumálanna í Noregi gengur þvert á hefðbundna afstöðu norsku þjóðarinnar til orkulindanna, sem er sú, að þær séu í þjóðareign, og norska ríkið eigi að geta beitt fullveldisrétti sínum til að stjórna nýtingu þeirra.  Stjórnvöld Noregs hafa villzt af þeirri leið, sem mótuð var í upphafi, að miða raforkuverð frá virkjun við verðmæti vatnsins í miðlunarlónunum, sem er útreiknað eftir vatnsmagni og árstíma, þ.e. líkum á og kostnaði af völdum tæmingar að vori, ásamt hæfilegum hagnaði til að standa undir fjárfestingum.  Árið 1993 var vikið frá þessari þjóðlegu stefnu og stofnað dótturfélag Statnetts, þeirra Landsnets, sem átti að stjórna raforkukauphöll, þar sem heildsöluverðið réðist af framboði og eftirspurn.

Nú er Landsnet statt í þessum sporum, en Norðmenn gengu enn lengra og seldu téð dótturfyrirtæki Statnetts til fjölþjóðlegrar orkukauphallar, Nord Pool.  Síðan var rekinn endahnúturinn á valdaafsal norska ríkisins yfir orkulindunum með samþykki Stórþingsins 22. marz 2018 um innleiðingu ESB-orkulöggjafarinnar, sem gengur undir nafninu Orkupakki 3, og felur ACER-Orkustofu ESB, stjórnun millilandaviðskipta á raforku.  Þessi óheillaþróun hefur leitt til mikillar dýrtíðar í Noregi og kippt fótunum undan samkeppnisstöðu hluta norsks atvinnulífs.  

Hvers vegna í ósköpunum er Landsnet nú að feta þessa óheillabraut ?  Rafmagn er undirstaða afkomu almennings í landinu, og landsmenn þurfa nú sízt á að halda afætuvæðingu í þessum geira, sem gera mun rafmagn að viðfangsefni kaupahéðna, sem fá aðstöðu til að maka krókinn án nokkurra verðleika til verðmætasköpunar.  Steininn tekur úr, þegar allt þetta umstang er sett á laggirnar undir merkjum hagsmuna almennings.  Þetta kerfi er svikamylla, sem malar ekki gull, heldur hrifsar það úr sjóðum fyrirtækja og heimila.  Vítin eru til þess að varast þau.

 


Orkustjórnkerfi í lamasessi

Orkustjórnkerfi Breta (frá dögum Margrétar Thatcher sem forsætisráðherra) og Evrópusambandsins (frá dögum Orkupakka 1 laust fyrir aldamót) er ónothæft við núverandi aðstæður að dómi Úrsúlu von der Layen, forseta framkvæmdastjórnar ESB.  Kerfi þetta lætur aðdrætti frumorkunnar afskiptalausa og gerir bara ráð fyrir því, að eldsneytissalar sjái um að birgja forðabúrin af orku. Þegar stjórnendur Sambandsins og aðildarlandanna í einfeldni sinni og barnaskap veita uppivöðslusömu einræðisríki stöðu forgangsbirgis fyrir frumorkuna, er ekki von á góðu, eins og nú hefur komið í ljós. Nú hafa bæði Nord Stream 1 og Nord Stream 2 verið sprengdar í sundur í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar á botni Eystrasalts.  

Á Íslandi er raforkukerfið ekki háð slíkum aðdráttum, heldur er það náttúran sjálf, sem stjórnar aðdráttum frumorkunnar, þ.e. vatnsrennsli í miðlunarlón og jarðgufustreymi inn í forðabúr gufuvirkjananna.  Þess vegna er markaðskerfi hagfræðinganna ónothæft fyrir íslenzka raforkukerfið, nema Íslendingar vilji verða fórnarlömb spákaupmennsku með raforku úr orkulindum, sem þjóðin á að mestu leyti sjálf. 

Núverandi orkustjórnkerfi hérlendis er líka ónothæft, því að það hefur ekki reynzt þess megnugt að tryggja stækkun kerfisins í tæka tíð og skeikar miklu.  Nú þegar er kerfið þanið til hins ýtrasta, en það eru a.m.k. 5 ár, þangað til næsta miðlungsstóra virkjun kemst í gagnið, og Orkustofnun virðist ekkert liggja á við að afgreiða umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun.  Embættisfærslan þar á bæ er orðin hneykslanleg.  

Á forsíðu Morgunblaðsins 21. september 2022 birtist frétt Baldurs Arnarsonar með eftirfarandi fyrirsögn: 

"Skortur á raforku gæti ógnað hagvexti á Íslandi".

Fréttin hófst þannig:

"Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur, segir það geta skapað áhættu fyrir íslenzkt hagkerfi, ef áform um orkuskipti ganga ekki eftir.  Sé krafan um græna orku ekki uppfyllt, geti það bitnað á útflutningi íslenzkra sjávarafurða og á flugsamgöngum. 

Auka þurfi framleiðslu á raforku um 24 TWh/ár, ef markmið um orkuskipti fyrir 2040 eigi að nást.  Í mesta lagi 1/10 hluti þess muni að óbreyttu nást fyrir 2030.  Því geti sú staða komið upp, að orka verði skömmtuð á Íslandi. 

Þá telur Vilhjálmur vandséð, að orkuskiptin geti gengið eftir án þess að nýta vindorkuna.  Ef 20 % orkuþarfarinnar verði aflað með vatnsorku, sem sé raunhæft, en hins hlutans með vindorku, muni það samsvara 800 vindmyllum."  

Á meðan hlutdeild endurnýjanlegrar orku af heildarorkunotkun landsmanna er yfir 85 % og langflestar þjóðir eru með miklu minni hlutdeild, eins og fyrirsjáanlegt er a.m.k. næstu 10 árin, er ímyndarvandi útflutningsgreina Íslands, þótt óraunhæf markmið stjórnmálamanna um orkuskipti náist ekki, ímyndun ein.  Áhættan er fjárhagslegs eðlis.  Þá koma til sektargreiðslur til Evrópusambandsins, sem stjórnmálamenn af ábyrgðarleysi sínu í gáska andartaksins hafa undirgengizt í nafni þjóðarinnar og geta skipt milljörðum ISK.  Þá verða atvinnuvegir og heimili líka áfram undir hæl olíuframleiðenda á sveiflukenndum markaði á leið til sólseturs, sem þýðir tilhneigingu til verðhækkana.  Aftur á móti er líka áhætta fólgin í því, að allur vélbúnaður á Íslandi sé háður raforkuvinnslu í eldfjalla- og jarðskjálftalandi á borð við Ísland. Það er þó með skynsamlegri uppbyggingu og dreifingu mannvirkja minni áhætta en væri fólgin í því fyrir landsmenn að fá hingað aflsæstreng, sem setja mundi orkumarkaðinn hér upp í loft.

Þessi viðbótar raforka, 24 TWh/ár á 2 áratugum, er áætluð heildar viðbótarþörf til vaxtar og viðgangs hagkerfinu ásamt heildar orkuskiptum.  Svartsýni Vilhjálms um orkuskömmtunarástand getur hæglega rætzt á næstu 5 árum, þ.e. fram að fyrstu virkjun í Neðri-Þjórsá, sem virðist verða næsta meðalstóra virkjun (um 100 MW) inn á stofnkerfið.  Þessi staða jafngildir falleinkunn núverandi stjórnkerfis raforkumála.  Það verður þess vegna að hanna nýtt stjórnkerfi orkumálanna hérlendis, ekki síður en í ESB, en þessi 2 stjórnkerfi verða nauðsynlega ólík, því að aðstæður eru gjörólíkar.  

Markaðskerfi raforku fyrir Ísland, sniðið að fyrirmynd ESB, er í hönnun, þótt Úrsúla von der Leyen hafi lýst þetta kerfi úrelt og ónothæft við breyttar aðstæður.  Ástæða þess, að það er ekki þegar tekið úr sambandi, er, að uppsprengt jarðgasverð veldur uppsprengdu rafmagnsverði vegna þeirrar reglu þessa kerfis, að verð til neytenda ákvarðast af jaðarverðinu, þ.e. verði næstu kWh, sem beðið er um, og þar með spara allir notendur við sig gas og rafmagn eftir megni.  

Það er eitthvað brogað við þennan vindmylluáhuga Vilhjálms.  Tölurnar, sem eftir honum eru hafðar þarna, fela í sér stórar vindmyllur, a.m.k. 7,0 MW, sem er aflmeiri vindmylla en nokkur framleiðandi hefur hingað til treyst sér að framleiða fyrir íslenzka markaðinn vegna veðurfarsaðstæðna hér.  Ef draumfarir Vilhjálms Egilssonar um 19 TWh/ár raforku frá vindmyllum rætast (Guð forði viðkvæmri íslenzkri náttúru frá öllu því jarðraski, sem þessi frumstæða og óskilvirka aðferð við raforkuvinnslu útheimtir), þá er sýnt, hvað gerist á íslenzka raforkumarkaðinum, sem dótturfélag Landsnets er að bauka við. Vindmyllueigendur munu stjórna raforkuverðinu, því að vindmyllurnar munu mynda jaðarkostnaðinn á markaðinum.  Þetta eitt út af fyrir sig mun þá valda um 50 % hækkun heildsöluverðs á raforku til almennings.  Hins vegar mun skortstaðan á íslenzka raforkumarkaðinum leiða til miklu meiri hækkana á verðinu til almennings en þetta. Þannig stefnir í algert óefni fyrir íslenzk heimili og fyrirtæki án langtímasamninga um raforkukaup vegna markaðsvæðingar raforkunnar, sem sterklega er mælt með í Orkupakka 3, en verður ekki skylda fyrr en með Orkupakka 4, og sá hlýtur nú að koma til róttækrar endurskoðunar af hálfu framkvæmdastjórnar ESB í ljósi nýlegra orða forseta hennar. 

Hvers vegna í ósköpunum leggur dr Vilhjálmur Egilsson upp með 20 % frá vatnsorkuverum og 80 % frá vindorkuverum af 24 TWh/ár fram til 2040, en 0 frá jarðgufuvirkjunum ?  Raforkan frá jarðgufuvirkjunum er yfirleitt dýrari en frá vatnsaflsvirkjunum, en ódýrari en frá vindorkuverum, og ólíku er saman að jafna um áreiðanleikann, svo að ekki sé nú minnzt á landverndina, kolefnisfótsporið á GWh að byggingarskeiði meðtöldu, notkun fágætra málma og mengun á rekstrartíma. Með því að nýta alla orkustrauma jarðgufuvirkjunar býður hún upp á alls konar starfsemi, bæði tengda afþreyingu, iðnaði og upphitun húsnæðis.  Þær eru yfirburðakostur í samanburði við viðurstyggilegar vindmyllur, sem eru algert neyðarbrauð og óþarfar á orkuríku Íslandi.  

 

 


Að skreyta sig með annarra orkufjöðrum

Í forystugrein Morgunblaðsins 15. september 2022 var orkumálaþáttur stefnuræðu forsætisráðherra kvöldið áður gerður að umfjöllunarefni, eins og verðugt er.  Þar blasti við sá tvískinnungur, hræsni og óheilindi, sem einkennir afstöðu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG) til orkumála, landverndar og loftslagsmála hérlendis. Skörin færist þó upp í bekkinn, þegar formaður VG afneitar sögu sinni, flokksins og rótum þessa flokks (Alþýðubandalagsins).  Það er jafnan ógeðfellt að verða vitni að því, þegar fólk, ekki sízt stjórnmálafólk, með einfeldningslegum hætti tekur að grobba og skreyta sig með annarra manna fjöðrum.  Morgunblaðið benti kurteislega á þetta, en það er engin ástæða til að skafa utan af þessum þætti í fari formanns VG. 

Forystugreinin nefndist:

"Orkumál og skautun",

og gerði stefnuræðu forsætisráðherra nokkur skil:

"Í hinu hnattræna samhengi gat forsætisráðherra ekki stillt sig um að minnast á loftslagsmálin, en í þeim efnum hefði hin endurnýjaða ríkisstjórn sett sér ný markmið til þess að minnka útblástur og sagði landið á "fullri ferð út úr kolefnishagkerfinu - inn í nýtt, grænt hagkerfi, en þar voru Katrínu efst í huga orkuskipti í samgöngum og [á] öðrum sviðum raunar einnig, þar sem öld grænna orkugjafa væri hafin."

Þetta er bölvað fleipur hjá forsætisráðherra.  Losun gróðurhúsalofttegunda 2022 verður sennilega meiri en 2021, svo að ferðin er aftur á bak, ef þetta er ferð.  Það vantar enn forsenduna um "öld grænna orkugjafa".  Hérlendis eru þeir fyrir hendi í náttúrunni, og u.þ.b. helmingur fýsilegra virkjanakosta hefur verið virkjaður, flestir þeirra í andstöðu við vinstri græna og forvera þeirra.  Ekki gleymist hatrömm andstaða Alþýðubandalagsins við virkjun Þjórsár við Búrfell, og sú virkjun er varla til, sem vinstri grænir hafa ekki lagzt gegn. Hvers vegna leyfist Orkustofnun að draga Landsvirkjun á virkjanaleyfi í Neðri-Þjórsá nú í 15 mánuði ?  Það vantar raforku nú í orkuskiptin og eflingu gjaldeyrissköpunar og atvinnu, og þannig verður það fyrirsjáanlega allan þennan áratug.  Þess vegna eru orkuskipti í samgöngum og öðru strönduð, og þessi fagurgali forsætisráðherra um losun koltvíildis og orkuskipti er gjörsamlega innantómur.  Hún talar tveimur tungum og sitt með hvorri og meinar ekkert með öllu saman.  Þetta er ábyrgðarlaust hjal hjá formanni VG. 

"Forsætisráðherra sagði, að Íslendingar væru "í einstakri stöðu til að ná fram orkuskiptum í almannaþágu vegna þess, að réttar ákvarðanir hafa verið teknar".  Undir það má taka, þótt Katrín hafi raunar vanrækt að geta þess, að hún og hennar fólk lögðust gegn öllum þeim framsýnu ákvörðunum á sínum tíma.  Hún rakti og, að það væri mikil gæfa, að Landsvirkjun og Landsnet - helzta orkufyrirtæki landsins og mikilvægasta innviðafyrirtæki þess - væru í almenningseigu."

Hvaða þokuhjal er þetta hjá Katrínu um "réttar ákvarðanir" ?  Er hún að afneita fortíð VG og viðurkenna, að flokkurinn og forveri hans hafi allan tímann haft rangt fyrir sér ?  Það jafngildir sprengingu í herbúðum þursanna, sem leggjast gegn öllum framförum.  Líklegra er, að hún eigi við einhverjar ótaldar ákvarðanir í tíð VG, sem auðvitað þarfnast þá skýringa.  Á hvaða vegferð er þetta furðufyrirbrigði eiginlega, sem hefur jafnan stimplað sig inn sem andstæðingur íslenzks atvinnulífs. 

Hlutverk Landsvirkjunar við stofnun hennar 1965 var að virkja stórt og reisa öflugt flutningskerfi raforku frá virkjunum til notenda, fyrirtækja og almennings.  Hugmyndin var, að stórsala raforku til áliðnaðar mundi fjármagna bæði virkjanir og flutningskerfi.  Það gekk eftir, en þessari hugmyndafræði lagðist Alþýðubandalagið, forveri VG, algerlega gegn. Ef afturhaldsstefna þessara vinstri afla hefði ráðið ríkjum allan tímann, væri hér engin Landsvirkjun og ekkert Landsnet í sinni núverandi mynd.  VG getur ekki einu sinni með réttu þakkað sér, að þessi fyrirtæki bæði eru í ríkiseigu.  VG - flokkur embættismanna og draumóramanna - telur sér nú sæma að skreyta sig með stolnum fjöðrum borgaralegra afla.

""Eins hljótum við að þakka fyrir, að orkukerfið hér á landi er sjálfstætt og undir innlendri stjórn.  Nú þegar raforkuverð í Evrópu er himinhátt - þegar almenningur í Noregi, Þýzkalandi, Bretlandi er jafnvel að borga margfalt verð fyrir hita og rafmagn á við okkur - er augljóst, að við erum í öfundsverðri stöðu", sagði forsætisráðherra, en lét að vísu alveg vera að ræða um orkupakkann í því sambandi."  

Hræsnin lekur af þessum orðum forsætisráðherra.  Hún er svo tvöföld í roðinu, að til háborinnar skammar er. Hún, flokkur hennar og forverar, hafa barizt hatrammlega gegn framförum, sem leitt hafa Íslendinga til núverandi stöðu í orkumálum, og hún situr enn við sinn keip, þegar kemur að leyfisveitingum til nýrra virkjana og flutningslína.  Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra, lyfti ekki litla fingri til að koma í veg fyrir lögleiðingu þess Orkupakka 3, sem nú veldur því, að tíföldun hefur orðið í fjölmennustu fylkjum Noregs á verði rafmagns til heimila, þ.m.t. húshitunar, og til fyrirtækja án langtímasamninga. Hvað ætlar þessi dr Jekyll og Mr Hyde í stóli forsætisráðherra Íslands að gera, þegar Landsnet og Landsreglari ACER á Íslandi hyggjast hrinda af stokkunum kauphöll raforku á Íslandi, þar sem tiltæk raforka verður falboðin á uppboðsmarkaði með þeim óhjákvæmilegu afleiðingum, að raforkuverð til almennings mun snarhækka samkvæmt lögmálinu um framboð og eftirspurn ?

"Aftur ítrekaði hún, að þetta væri vegna þess, að góðar og framsýnar ákvarðanir hefðu verið teknar hingað til, þótt Vinstri-græn hafi verið á öndverðum meiði.  Það er ekki nefnt forsætisráðherra og flokki hennar til lasts.  Þvert á móti ber að fagna aukinni samstöðu um þessi grundvallarmál, því [að] Ísland á, líkt og önnur lönd, allt sitt undir orkugnægð og enn frekar, þegar horft er til framtíðar og bættra lífskjara til frambúðar.  

Þessu virðist forsætisráðherra átta sig á og eins hinu, að miklu skipti, hvernig fram verður haldið.  Katrín sagði, að þegar kæmi að orkuskiptum og orkuframleiðslu væri frumskylda stjórnvalda við íslenzkan almenning."

Það er óráðlegt að ráða svona bjartsýnislega í orð forsætisráðherra, sem er hræsnari af Guðs náð og tvöföld í roðinu.  Hvað meinti hún með ræðunni.  Var verið að boða stefnubreytingu VG, "die Wende", eða vendipunkt, eins og hjá Olaf Scholz, kanzlara ?  Það er hægt að túlka loðmullu, eins og að "frumskylda stjórnvalda [sé] við íslenzkan almenning" með ýmsu móti.  Nema hvað ?  Hingað til hefur þessi skylda VG verið, að standa vörð um óraskaða náttúru Íslands, sem er della, því að þessi náttúra er sífelldum breytingum undirorpin, en Mogginn er yfir sig bjartsýnn og spáir vendipunkti hjá VG.  Guð láti gott á vita, en VG er forstokkaður ríkisafskipta- og afturhaldsflokkur, sem hefur ekki enn orðið fyrir vitrun: 

"Þarna er um afar afdráttarlausa stefnumörkun að ræða, og hún sætir nokkrum tíðindum, ekki sízt fyrir Vinstri-græn.  Þar á bænum hafa menn verið ákaflega tvístígandi í þessum efnum, þar sem á togast ýmis illsamrýmanleg grundvallarmarkmið um loftslag eða landvernd, bætt kjör almennings eða skerta neyzlu hans.  Nú hefur það skýrzt til muna, og það er vel."

Höfundur þessa vefpistils er engu nær og spáir engum breytingum hjá afturhaldinu.  Forsætisráðherra gasprar og geiflar sig.  Þegar hún hittir Jens Stoltenberg, er hún ötull baráttumaður bættra varna Vesturlanda gegn ofbeldinu í austri, sem engu eirir, þótt hún pakki umræðunni inn í óskiljanlegt jafnréttismálskrúð um jafnrétti innan NATO.  Hér heima er hún á móti þátttöku Íslands í NATO.  Þessi ruglandi nægir til að æra óstöðugan. Formaður VG hefur reynzt ófær um að marka flokkinum skýra stefnu í orkumálum, enda gerast kaupin ekki þannig á eyrinni þar á bæ, en Mogginn hefur tekið það að sér í lok forystugreinarinnar.  Forsætisráðherra ætti að vera þakklát fyrir:

"Af fyrrnefndum varnagla [forsætisráðherra, ábyrg orkunýting í sátt við náttúruna og í þágu almennings] má einnig draga ályktanir um, að Vinstri-græn geri ekki athugasemdir við orkuöflun fyrir landsmenn, en vilji síður, að hún komi útlendingum til góða.  Það vekur hins vegar spurningar um, hversu mikil alvara fylgir heitstrengingum Vinstri-grænna um loftslagsmálin eða vorkunn vegna orkukreppu í Evrópu.  Nú eða hvernig eigi að tryggja bætt lífskjör til frambúðar. 

Undir lok stefnuræðunnar sagði forsætisráðherra, að á "tímum skautunar og einstefnustjórnmála [skipti] miklu að ná saman um framfaraskref fyrir samfélagið allt".  Það er ánægjulegt, að ríkisstjórnin gangi þar á undan með góðu fordæmi málamiðlunar og miklu skiptir, hvernig verður fram haldið."

Það er smásmyglislegt útúrborusjónarmið VG, sem býr að baki einhvers konar útilokunarþörf gagnvart eðlilegri þróun og viðgangi erlendra fjárfestinga í landinu. Þetta er gamalkunnugt stef frá Alþýðubandalaginu, en stingur auðvitað gjörsamlega í stúf við inntak EES-samningsins.  Vinstri-grænir lögðust ekki gegn Orkupakka 3, sem þó fól útlendingum mikilvæg ítök í íslenzkum orkumálum, en nú á að mismuna fyrirtækjum í erlendri eigu á Íslandi, þegar kemur að orkuafhendingu hérlendis.  Þessi tvískinnungur forsætisráðherra í orkumálum er fyrir neðan allar hellur, gjörsamlega óboðlegur, enda siðlaus.

Það fylgir alls engin alvara heitstrengingum vinstri-grænna, sem Morgunblaðið gerir hér að umræðuefni.  Nýjar og miklar virkjanaframkvæmdir eru forsenda allra framfara á sviði orkuskipta og loftslagsmála á Íslandi, og hjá VG hefur alls engin afstöðubreyting orðið til þessara mála, hvað sem túðri forsætisráðherra í ræðustóli Alþingis líður.      

 

 


Misheppnaðir gjörningar í orkumálum

Stjórnmálamönnum er fullljóst, hvers konar lykilhlutverki frumorka hvers konar og raforkuvinnsla úr henni gegna í þjóðfélögum nútímans, en þeim eru þó mörgum hverjum mjög mislagðar hendur, þegar kemur að hlutverki þeirra sjálfra við mótun og framkvæmd orkustefnu fyrir sín samfélög. Að fjalla af viti um orkumál krefst þekkingar, sem er eðlilega ekki á allra færi, enda skripla þar margir á skötunni. Það er aðeins tvennt, sem hægt er með sanngirni að gera kröfu til stjórnmálamanna á Vesturlöndum, að þeir geri fyrir orkumál landa sinna:

(1) að tryggja heimilum og atvinnulífinu viðunandi orkuöryggi, þ.e. nægt orkuframboð til að fullnægja eftirspurn m.v. verð á hverjum tíma og (2) framboð frumorku sé nægt til að halda einingarverði orkunnar tiltölulegu stöðugu, t.d. sveiflur minni en +/- 30 % frá ársmeðaltali. 

Það er öllum ljóst, að yfirvöldum í Evrópu hefur tekizt þetta hrapallega. Þeir settu á laggirnar markaðskerfi raforku, sem var ekki hannað fyrir frumorkuskort.  Þvert á móti verður alltaf að vera nægt framboð frumorku, til að uppboðskerfi raforku, reist á jaðarkostnaðarreglu, virki. Nú er raforkuverð í Evrópu hátt yfir meðalkostnaði raforkuvinnslunnar, og þess vegna er mikill gróði hjá raforkuframleiðendum öðrum en gasorkuverum.  Á meðal raforkusölufyrirtækja er hins vegar tap og getur blasað við gjaldþrot, þar sem selt hefur verið fram í tímann á gamla verðinu.

Samið var við einræðisríki, með ofbeldisfulla og árásargjarna sögu, um kaup á frumorku í miklum mæli án tiltækra varaleiða.  Nú hefur þetta einræðisríki sýnt sitt rétta andlit og notfært sér stöðu sína á orkumarkaðinum í tilraun til að knýja fram vilja sinn á öðrum sviðum, þ.e. til að dregið verði úr refsiaðgerðum á þetta hryðjuverkaríki vegna villimannlegrar og óréttlætanlegrar innrásar í lýðræðislegt og friðsamlegt nágrannaríki. Einræðisríkið hefur reynt að búa til orkuskort í Evrópu.  Þær tilraunir hafa enn ekki leitt til beins skorts, en verðið hefur margfaldazt á eldsneytisgasi, en er nú tekið að falla aftur á jarðolíu og jafnvel á jarðgasinu líka vegna aukins framboðs annarra og minni eftirspurnar frá Kína. Notendur hafa líka dregið úr notkun jarðgass, svo að betur gengur að safna vetrarbirgðum en óttazt var snemmsumars.  

Þetta sýnir, hversu mikilvægt er, að yfirvöld og birgjar hafi vakandi auga fyrir áhættuþáttum á framboðshliðinni.  Það er ekki nóg að stýra flutningskerfunum í smáatriðum og veita nákvæma forskrift um markaðssetningu orkunnar, í þessu tilviki um uppboðsmarkað í orkukauphöll, eins og Evrópusambandið (ESB) gerir með gölluðum hætti, ef framboðshliðin er vanrækt.

Þessi veikleiki á líka við um Ísland, þótt öðruvísi sé.  Hér hafa stjórnmálamenn og embættismenn búið til stjórnkerfi, sem er með slíkum böggum hildar, að það hefur bæði búið til staðbundinn raforkuskort vegna úrelts flutningskerfis og tímabundinn heildar afl- og orkuskort vegna tregðu við að veita framkvæmdaleyfi. Að þetta skuli gerast í orkuríkasta landi Evrópu frá náttúrunnar hendi m.v. fjölda íbúa, þar sem ætti að vera auðveldara að skapa gegnsætt og skilvirkt stjórnkerfi en annars staðar vegna fámennis, er sorgarsaga. Það er mjög fátt, ef nokkuð, sem virðist ganga hnökralaust, þar sem stjórnmálamenn og embættismenn eru í aðalhlutverkum.

  Það er þess vegna mikilvægt stefnumál að einfalda og straumlínulaga stjórnsýsluna og draga úr áhrifum embættismanna á þjóðfélagsstarfsemina á öllum sviðum, þar sem flöskuhálsar koma í ljós. Þetta er hægara sagt en gert, því að varðhundar kerfisins eru fjölmennir í pólitíkinni.

  Þann 9. september 2022 gerðu Staksteinar Morgunblaðsins pistil Jóns Magnússonar, lögmanns, um orkumálin skil undir fyrirsögninni:

"Kuldaleg örbirgð".

"Stjórnmálastétt Evrópu hefur um árabil hamazt við að loka orkuverum og stuðla að svo nefndum orkuskiptum til þess að koma í veg fyrir hlýnun af mannavöldum.  Afleiðingin er hærra orkuverð til neytenda og heljartak Rússa á orkusölu."

Téð stjórnmálastétt hefur gert allt með öfugum klónum. Hún hefur tekið gríðarlega og óverjandi áhættu á framboðshliðinni, og í Evrópusambandinu hefur hún ekki gert neinar vitrænar og róttækar ráðstafanir, sem duga til að draga úr losun koltvíildis við orkuvinnslu og orkunotkun.  Ráðstafanirnar, sem mundu duga Evrópumönnum í þessum efnum, er að reisa kjarnorkuver og loka kolaorkuverum, þegar framboð raforku er orðið nægt.  Þess í stað hafa þeir fordæmt kjarnorkuna og lokað kjarnorkuverum.  Allar stærstu gjörðir þeirra í orkumálum hafa gert illt verra, svo að engu er líkara en þessir stjórnmálamenn hafi einfaldlega verið strengjabrúður Pútíns, og að Angela Merkel hafi þar leikið aðalhlutverkið.  Arfleifð hennar er afleit.  Hún beitti sér t.d. fyrir banni Sambandsþingsins í Reichstag á gasvinnslu með vökvaþrýstingi neðanjarðar, sem Pútín laug að henni, að væri stórhættuleg, en engin dæmi voru þó um umhverfisslys af þessum völdum áður í Þýzkalandi.  Græningjar sem ríkisstjórnarflokkur í Berlín eru nú að vinda ofan af hverri vitleysunni á fætur annarri í sinni stefnu, hvort sem um er að ræða skinhelgi í hermálum eða dellu í umhverfismálum.  Þýzkalandi verður þó vart mörkuð leiðandi og lífvænleg framtíðarstefna fyrr en Friedrich Merz, formaður CDU, sem Merkel bolaði burt,  tekur við keflinu í "Kanzleramt" í Berlín.

"Afleiðing af glórulausu ofstæki í orkumálum og hjátrú loftslagsbreytinga verður til þess, að í vetur verður helkuldi víða á heimilum í Evrópu, af því að fólk hefur ekki efni á að hita upp.  Framleiðsla dregst saman og örbirgð eykst vegna minni þjóðarframleiðslu." 

Ekki er líklegt, að þessi helkuldaspádómur á mörgum heimilum rætist vegna þess, að markaðskraftarnir eru fljótir að taka við sér. Bæði olíu- og gasverð fer nú lækkandi.  Bretar o.fl. munu sennilega geta aukið gasvinnslu sína í haust og vetur að tilhlutan Liz Truss, enda til mikils að vinna. Þýzkum fyrirtækjum hefur á undraskömmum tíma tekizt að draga stórlega úr gasþörf sinni án þess, að komi niður að ráði á framleiðslunni. Afkomendum þeirra, sem héldu uppi fullri hergagnaframleiðslu fyrir Wehrmacht með allt í rúst ofanjarðar, er ekki fisjað saman.  Tapararnir eru Moskvumenn, sem enn á ný sýna af sér arfaslaka herstjórn, misreiknuðu sig á öllum vígstöðvum og tókst ekki að knýja skjálfandi Evrópumenn á hnén núna með því að skrúfa fyrir eldsneytisgasið til þeirra.  Með villimannlegum tilburðum sínum á öllum vígstöðvum hafa þeir bitið af sér beztu kúnnana um alla framtíð.  Fyrir vikið bíður þeirra að lepja dauðann úr skel.

"Kaldhæðni örlaganna verður þá, að fjöldi þeirra, sem deyja úr kulda í Evrópu margfaldast vegna tilrauna stjórnmálastéttarinnar til að koma í veg fyrir, að fólk deyi úr hita.  Því miður virðist íslenzka stjórnmálastéttin jafnlangt gengin í ruglandanum og sú evrópska og hefur skuldbundið þjóðina til að greiða milljarðatugi á næstu árum á grundvelli Parísarsamkomulagsins svo nefnda, sennilega af því að fólki finnst vera allt of hlýtt á Íslandi." 

Kjarni þessa boðskapar er, að það er kolröng forgangsröðun á ferðinni í Evrópu allri í orkumálunum. Framboðshliðin hefur verið hundsuð.  Það er skylda stjórnmálamanna í nútíma þjóðfélögum að sjá til þess, að jafnan sé til næg raforka og orka til upphitunar á viðráðanlegu verði fyrir alla borgarana og atvinnureksturinn.  Inngrip stjórnmálamanna hafa verið þveröfug.  Þeir hafa lagt frumorkuafhendinguna í hendur ofbeldisfulls einræðisherra, sem um langa hríð er búinn að láta í ljós opinberlega vitstola hugmyndir um nýlendustríð til að endurreisa kúgunarstöðu Rússa yfir öðrum Slövum og Eystrasaltsþjóðunum, jafnvel Finnum.  Þeir hafa niðurgreitt raforku frá vindmyllum og sólarhlöðum, sem valda miklu álagi á náttúruna við öflun efna og þurfa stóran flöt á afleiningu og eru algerlega óáreiðanlegur aflgjafi.  Þeir hafa útilokað þá gerð orkuvera, sem ein getur víðast hvar leyst orkuver knúin jarðefnaeldsneyti af hólmi, þ.e. kjarnorkuverin.  Á Íslandi virðast þeir vera á góðri leið með að útiloka hagkvæmustu og umhverfisvænstu tæknina, þ.e. þá, sem felst í að beizla fallorku vatns. Allt, sem stjórnmálamenn hafa aðhafzt í orkumálum, er markað sérvizku og dómgreindarleysi. 

Afleiðingin er sú, að hjakkað er í sama farinu varðandi losun gróðurhúsalofttegunda, orkuverðið í Evrópu er orðið svimandi hátt, og fleira fólk mun deyja úr kulda í vetur í Evrópu en dó af völdum hás hitastigs í sumar.  Að Íslendingar skuli hafa verið skuldbundnir með jafnóábyrgum hætti og raun ber vitni um varðandi samdrátt losunar koltvíildis að viðlögðum þungum fésektum er til vitnis um, að ráðamenn eru á valdi sefasýkilegs áróðurs um heimsendi handan við hornið.  Sá heimsendir kæmi ekki 5 mínútum fyrr, þótt Íslendingar ykju bara losun sína í samræmi við hagvöxt, því að það munar nánast ekkert um losunina innan lögsögu Íslands, enda er um 85 % orkunotkunarinnar úr umhverfisvænum orkulindum.  Það leika ekki margar þjóðir eftir. 

Þetta hrikalega sjálfskaparvíti meginlandsmanna og Breta í orkumálum er vatn á myllu þeirra Evrópumanna, sem framleiða allt sitt rafmagn án aðkomu jarðefnaeldsneytis, en það eru líklega bara frændþjóðirnar, Norðmenn og Íslendingar. Norðmenn sitja hins vegar með skeggið í póstkassanum, eins og þeir taka til orða sjálfir um þá, sem verður á í messunni, því að menn með þá pólitísku trú, að vist í fangi Evrópusambandsins sé frelsandi fyrir Norðmenn, börðu Stórþingið til hlýðni (þetta á aðallega við um Verkamannaflokkinn), svo að það samþykkti innleiðingu Orkupakka 3 í norka lagasafnið. Með því lét Stórþingið völdin yfir millilandaflutningum raforku til og frá Noregi í hendur ACER-Orkustofu ESB vitandi vits, því að margsinnis var varað við þessu í ræðu og riti innan þings og utan.  Nú sitja íbúar Noregs, nema norðurhlutans, uppi með Svarta-Péturinn og u.þ.b. tífalt hærra raforkuverð en eðlilegt getur talizt m.v. aðstæður í Noregi, og ríkisstjórnin getur ekki ákveðið að hætta útflutninginum til að safna vetrarforða í miðlunarlónin vegna OP3.  Ola Nordmann og Kari eru ekki ánægð með þetta. 

Í þessu orkuríka landi, Noregi, frá náttúrunnar hendi kemur þetta ástand líka niður á orkukræfum iðnaði, því að hann er ekki með langtímasamninga, sem spanna alla orkuþörf hans.  Þannig er Norsk Hydro að draga saman seglin í áliðnaðinum í Noregi, og hefði það einhvern tímann þótt vera saga til næsta bæjar m.v. markaðstæður núna og markaðshorfur, þegar álver annars staðar án aðgangs að raforku frá vatnsorkuverum eru að leggja upp laupana eða a.m.k. að minnka umsvifin vegna þrúgandi hás orkuverðs.  Stór hluti Mittelstand í Þýzkalandi, sem er samheiti eigenda smárra og meðalstórra iðnaðarfyrirtækja, oft fjölskyldufyrirtækja í nokkra ættliði á sérhæfðu sviði, segjast ekki lengur vera samkeppnishæfir á mörkuðum, því að þeir þurfi að borga tífalt hærra orkuverð en samkeppnisaðilar, t.d. í Bandaríkjunum.  Grundvöllur atvinnulífs í ESB er að bresta með kreppu sem afleiðingu vegna algerlega misheppnaðrar orkustefnu Þýzkalands og ESB. 

Þann 9. september 2022 birtist frétt með viðtali við Þórð Gunnarsson, hagfræðing, undir fyrirsögninni:

"Orkukreppan gæti kallað á lokun fleiri álvera í Evrópu".

  Um þessa fyrirsögn má segja, að eins dauði er annars brauð (Eines Tot einem anderen Brot), því að bann við Rússaáli, tollur á Kínaál og stöðvun kerskála í Evrópu vegna hás orkuverðs ætti að skapa grundvöll fyrir meiri eftirspurn en framboð af áli og þar með hátt verð á því.  Það skapar grundvöll til aukinna fjárfestinga hérlendis, góðs hagnaðar íslenzkra orkufyrirtækja og þar með ávöxtun eigendanna á eigin fé í orkuverunum.

Í fréttinni sagði m.a.:

"Haft var eftir Clive Moffatt, sérfræðingi í orkumálum, í viðtalsþætti Nigel Farage á GB News, að verkfræðingar hefðu verið boðaðir til fundar vegna áætlana um að hefja á ný raforkuframleiðslu úr kolum í Drax-raforkuverinu á Bretlandi.

Þórður [Gunnarsson, hagfræðingur] segir aðspurður, að heyrzt hafi óstaðfestar fréttir um slík áform, en taka muni nokkurn tíma að endurræsa kolaorkuverin.  Þá sé til skoðunar að aflétta banni  við vinnslu jarðgass með bergbroti í Bretlandi, en henni sé hægt að koma í gagnið á nokkrum mánuðum. 

Að sama skapi sé til umræðu í Hollandi að hefja á ný vinnslu jarðgass úr Groningen-gaslindinni, en henni hafi verið hætt vegna loftslagsmála."

Það er grundvallar skilyrði, að forgangsraðað sé í þágu fólksins, en í orkumálunum fer því fjarri, að það hafi verið gert í Evrópu. Í fyrsta forgangi er að útvega næga raforku á viðráðanlegu verði fyrir almenning.  Þess vegna verður núna að kveikja upp í öllum fáanlegum kötlum, sem knúið geta rafala,  og jafnvel hitað vatn til upphitunar húsnæðis ásamt því að afla allrar fáanlegrar frumorku innanlands og þess, sem á vantar erlendis frá utan Rússlands, sem skrúfað getur hvenær sem er fyrir allar lagnir, sem það ræður yfir, til Vesturlanda, auk Nord Stream 1 og 2, sem eru lokaðar. 

Fysta krafan er að hindra straumleysi, að gera fólki kleift að hita híbýli sín.  Losun Evrópu á koltvíildi í fáein ár mun hvort sem er engum sköpum skipta um hlýnun jarðar. Stjórnmálamenn eru búnir að valda miklu tjóni með rangri forgangsröðun.  Það er hægt að bæta birgðastöðu eldsneytisgass með því að leyfa aftur vinnslu þess á landi úr setlögum með því að beita vökvaþrýstingi neðanjarðar, en það var ein af vitleysum stjórnmálamanna á fyrstu tveimur áratugum þessarar aldar, t.d. Angelu Merkel, að banna þessa vinnslu vegna ímyndaðrar umhverfisvár, en aldrei hafði orðið nokkurt umhverfisslys af þessum völdum í Þýzkalandi.  Það er eins og Merkel hafi gert sér leik að því að gera Þjóðverja berskjaldaða gagnvart Rússum, þegar þeim dytti í hug að loka fyrir gasið.  

""Nýlega var samþykkt á Evrópuþinginu, að fjárfestingar í raforkuframleiðslu úr gasi flokkist sem grænar. Markmið í loftslagsmálum eru ekki efst á baugi núna, heldur snýst málið um, hvort fólk krókni úr kulda í vetur", segir Þórður."

Þarna lýsir Þórður Gunnarsson, hvert vitlaus forgangsröðun stjórnmálamanna í orkumálum hefur leitt Evrópubúa.  Engir hafa eytt meira af skattpeningum íbúanna í niðurgreiðslur á raforku úr vindmyllum og sólarhlöðum.  Nú, þegar hæst á að hóa, er ekkert hægt að reiða sig á þessar kjánalegu fjárfestingar.  Áður en orkuver knúin jarðefnaeldsneyti eru lögð niður, verður að vera búið að reisa orkuver án koltvíildislosunar, sem geta tekið við, t.d. kjarnorkuver. 

Að reiða sig á mikilvæga aðdrætti frá einræðisríki, sem hefðbundið hefur stundað nýlendukúgun í Evrópu, og var jafnvel með grimmilega árásarsögu á 21. öldinni fyrir 24. febrúar 2022, er svo mikil blindni og grafalvarlegur barnaskapur, að það er ekki einleikið, og hafa grunsemdir um fláræði vaknað af minna tilefni. 

Hér á Íslandi hafa draumlyndir stjórnmálamenn skuldbundið þjóðina um minnkun losunar koltvíildis 2030, sem er óraunhæf með öllu án verulegrar kjaraskerðingar, en láta þó Orkustofnun komast upp með að láta útgáfu virkjanaleyfa, t.d. fyrir Hvammsvirkjun, dankast. Þegar kemur að orkumálum, nær framlag stjórnmálamanna ekki máli og veldur miklu samfélagslegu tjóni. Tvískinnungur og hræsni eru aldrei vænleg fyrir árangur í þágu fólksins í stjórnmálunum.  

Að lokum stóð í þessari frétt:

"Spurður um stöðuna í Frakklandi segir Þórður, að vegna lítillar úrkomu hafi kjarnorkuver þar í landi verið keyrð með 30 %-40 % afköstum í sumar, enda hafi skort kælivatn fyrir kjarnakljúfana.  Það hafi birzt í orkuverðinu í sumar, sem hafi oft og tíðum verið hærra en í Þýzkalandi.

"Ríki, eins og Frakkland og Þýzkaland, munu komast í gegnum þetta, en þurfa að borga mikið fyrir orkuna.  Ef Rússar halda áfram að skrúfa fyrir gasið, er fátt, sem bendir til, að orkuverð muni lækka mikið [í Evrópu á næstunni], nema það verði meiri háttar kreppa og stórnotendur raforku stöðvi framleiðslu", segir Þórður."

Í Frakklandi er nú lögmál Murphys að verki, þ.e. það slæma, sem getur gerzt, gerist á versta tíma.  Umfangsmikið fyrirbyggjandi viðhald eftir ástandsgreiningu margra kjarnorkuvera var ekki talið mega bíða.  Á sama tíma hefur vatnsorkuverin skort vatn.  Afleiðingin er sú ótrúlega staða, að raforkuverð í Frakklandi hefur um hríð verið hærra en í Þýzkalandi.  Gallarnir sitja ekki uppi með græningja í ríkisstjórn, eins og nágrannarnir austan Rínar, og hafa þess vegna tekið þá rökréttu ákvörðun að setja kraft í að reisa um 6 ný kjarnorkuver, en slík vitræn ákvörðun vefst fyrir Germönum, sem hafa ekki einu sinni ákveðið að fresta lokun 3 síðustu kjarnorkuvera sinna.  Öðru vísi mér áður brá. Neyðin mun þó kenna nakinni konu að spinna sem forðum.  

   

 

 

 

 

 


Orkustríð Rússlands við önnur Evrópulönd

Hegðun rússneska sambandsríkisins um þessar mundir gagnvart öðrum Evrópulöndum, sér í lagi með hernaði gegn óbreyttum borgurum Úkraínu og sprengjuárásum í grennd við stærsta kjarnorkuver Evrópu, og gegn gasnotendum í Evrópuríkjunum, er fyrir neðan allar hellur, og fyrir þessa fáheyrðu framgöngu verðskulda þeir útskúfun hins frjálsa heims.

Rússar sýna nú sitt rétta andlit og fyrirgera öllu trausti í sinn garð.  Þeir eru stimplaðir ofbeldisgjarnir ómerkingar, sem eru ekki í húsum hæfir. Þegar þetta er ritað, eru þeir búnir að stöðva alla gasflutninga um Nord Stream 1, lögn á botni Eystrasalts, sem tengir Þýzkaland við gaslindir Síberíu án viðkomu í öðrum löndum og bera við bilun, sem þeir geti ekki gert við vegna viðskiptabanns á sig. Ef það væri rétt afsökun, væri rússneskur iðnaður óttalega aftarlega á merinni.   

Undrun hefur vakið, hversu vel Þjóðverjum hefur tekizt að fylla á gasforðabúr sín fyrir veturinn, en í lok ágúst 2022 mun staðan að meðaltali hafa numið tæplega 70 % af hámarki, sem er meira en búizt var við.  Norðmenn hafa aukið gasvinnslu í Norðursjónum og meðfram strandlengjunni eftir mætti, en það er allt önnur og skuggalegri skýring á þessu. Það liggur fremur afkastalítil gaslögn frá Síberíu til Kína, en að auki flytja nú Rússar gas á vökvaformi (LNG) til Kína.

Nú er þungt undir fæti í efnahagslífi Kínverja vegna sprunginnar húsnæðisbólu og strangra, misráðinna opinberra sóttvarnarráðstafana, sem engu hafa skilað öðru en gríðarlegu efnahagstjóni og töfum á útbreiðslu C-19 faraldursins. Heildarfjöldi dauðsfalla yfir s.s. 3 ára tímabil eykst yfirleitt af völdum opinberra sóttvarnarráðstafana vegna slæmra áhrifa á geðkvilla og aðra sjúkdóma, svo að ekki sé nú minnzt á ósköpin úr Kófinu, þegar óreyndum efnum var sprautað í flesta með mjög litlum varnaráhrifum, en alvarlegum aukaáhrifum í sumum tilvikum. Þessari vitleysu er haldið áfram fyrir 60+.

Opinberar sóttvarnarráðstafanir með verulegum frelsisskerðingum, sem upprunnar eru í einræðisríkinu Kína, gera aðeins illt verra, þegar um skæða flensu er að ræða. Bezta ráðið er að styrkja ónæmiskerfi líkamans, en sú ráðlegging hefur ekki verið áberandi hjá landlæknisembættinu hér. Þetta á við alla aldurshópa.

Kínverjar hafa vegna kreppu hjá sér verið aflögufærir um jarðgas.  Þeir eru kaupahéðnar að eðlisfari og hafa selt Evrópumönnum afgangsgas og makað krókinn.  Hvaðan hafa þeir fengið þetta gas ?  M.a. frá Rússlandi.  LNG eldsneytið, sem flýtt hefur forðasöfnun í Evrópu, er ættað frá Rússlandi, en á uppsprengdu verði m.v. gas um Nord Stream 1.  Þetta er ófagurt afspurnar. 

Gasverð fer enn hækkandi og hækkaði t.d. í síðustu heilu viku ágúst 2022 um 30 % m.v. vikuna áður.  Sumarið 2021 gerðu Frakkar og Þjóðverjar framvirka samninga um eldsneytisgas á verði, sem jafngilti 100 EUR/MWh rafmagns, en um mánaðamótin ágúst-september 2022 náði það 1000 EUR/MWh og hjaðnaði svo nokkuð.  Jaðarkostnaður rafmagns samkvæmt orkumarkaðskerfi Evrópusambandsins ræðst af kostnaði gasorkuveranna.  Algert ófremdarástand ríkir nú í orkumálum Evrópu vegna kolrangs mats á eðli rússneska ríkisins, eins og margir gerðu sig seka um á sínum tíma varðandi Þriðja ríkið. Undantekning var Winston Churchill.

Sum ríki Suður-Evrópu hafa nú þegar varið sem nemur 5 % af vergri landsframleiðslu sinni í að verja neytendur gegn ofurverði á jarðgasi. Það eru um mrdISK 150 á íslenzkan mælikvarða, og munu þessi ríki nú lenda á framfæri digurs Kófsjóðs Evrópusambandsins, sem ekki var búið að ráðstafa öllu fé úr.   

Frændur vorir, Norðmenn, sem búa sunnan Dofrafjalla, sitja algerlega í súpunni, þótt nánast öll raforka þeirra komi úr vatnsaflsvirkjunum vítt og breitt um landið. Vandræði þeirra á orkusviðinu er himinhátt raforkuverð sunnan Dofrafjalla.  Heildsöluverðið, þ.e. verð frá virkjun án flutnings- og dreifingarkostnaðar og skatta, var 30.ágúst 2022 jafnhátt á Vestur-, Austur- og Suðurlandinu, þ.e. á áhrifasvæði millilandatenginganna, og á Jótlandi, Sjálandi og Fjóni, Þýzkalandi, Lúxemborg og Litháen samkvæmt Nord-Pool og Gunnlaugi Snæ Ólafssyni í fréttaskýringu í Morgunblaðinu 31. ágúst 2022. Í tveimur löndum Evrópu, Frakklandi og Austurríki var verðið enn hærra.  Þetta verð sunnan Dofrafjalla jafngilti 94 ISK/kWh.  Það er tæplega 19 sinnum hærra en íslenzkt heildsöluverð og rúmlega 24 sinnum hærra en í Mið-Noregi (Þrændalögum) og rúmlega 59 sinnum hærra en í Norður-Noregi.

Ef engar millilandatengingar væru virkar í Noregi, mundi heildsöluverð raforku að mestu vera ákvarðað út frá vatnsforða miðlunarlóna, árstíma, og lestun landshlutatenginga.  Á þessum árstíma mætti þá núna búast við raforkuverði sunnan Dofrafjalla um 5,6 ISK/kWh, en það er tæplega 17 sinnum hærra, og verður að skrifa það alfarið á millilandatengingarnar. Norðmenn fóru út í þær til að græða og til að draga úr fjárfestingum í varaafli og varaorku, en þess ber að gæta, að norsk heimili kaupa 5-falt meiri raforku en íslenzk heimili, enda eru langflestar byggingar rafhitaðar í Noregi.  Gróðinn átti að felast í því að selja afl og orku utan á daginn á hærra verði en var á norskum innanlandsmarkaði og kaupa orku inn á nóttunni og um helgar á mun lægra verði.  Þetta gekk eftir, á meðan millilandatengingarnar voru ekki eins öflugar og nú og á meðan Norðmenn stjórnuðu þessum flutningum sjálfir, en ríkisfyrirtækið Statnett, þeirra Landsnet, á allar millilandatengingarnar. Eftir lögleiðingu Orkupakka 3 stjórnar ACER-Orkustofa ESB þessum flutningum, og ríkisstjórnin má ekki grípa inn í þessi viðskipti.  Markaðurinn ræður.  Fyrirsögnin í téðri fréttaskýringu Gunnlaugs Snæs Ólafssonar vísar einmitt til þessa:

"Harma raforkuverð, en geta ekkert gert".

"Norska ríkið hefur ekki tök á því að sporna gegn verðhækkunum, þar sem salan fer fram á rafmagnsmarkaði, sem innleiddur er í gegnum hina svo kölluðu "orkupakka"  ESB.  Þeir ná til alls EES og stýra því, hvernig sölu á raforku til Evrópu frá Noregi [og til baka - innsk. BJo] um sæstrengi er háttað."

Ákvæði um millilandatengingar og millilandaviðskipti með rafmagn og jarðgas komu fyrst inn í orkulöggjöf ESB með Orkupakka 3.  Þess vegna urðu deilurnar um OP3 í Noregi og á Íslandi svo hatrammar sem raun bar vitni um. Nú kemur OP3 almenningi og atvinnulífinu í Noregi í koll, nema orkufyrirtækjunum, sem græða á tá og fingri.  Skrýtið, að jafnaðarmenn í ríkisstjórn og á Stórþinginu skuli teka þetta í mál.  Ríkisstjórnin er undir forsæti Verkamannaflokksins, sem er hallur undir ESB-aðild Noregs.  Hinn stjórnarflokkurinn, Miðflokkurinn, barðist gegn innleiðingu OP3 og spáði einmitt hækkandi raforkuverði í kjölfar öflugra sæstrengja til Bretlands og Þýzkalands, sem þá var verið að leggja og nú hafa verið teknir í rekstur. Flokkurinn fær hins vegar ekkert að gert núna, enda stendur ekki reiðfærið á ESB til að veita Noregi undanþágur frá orkuafhendingu. Kostnaðurinn af millilandatengingum Noregs lendir nú á ríkissjóði, eins og Gunnlaugur Snær rakti í téðri fréttaskýringu:

"Í millitíðinni hefur myndazt eining um, að norska ríkið greiði 90 % af orkukostnaði heimila umfram 70 Naur/kWh [9,9 ISK/kWh] frá 1. september [2022] upp að 5,0 MWh.  Verð nú er um 644 Naur/kWh." 

Það vekur athygli, að niðurgreitt orkumagn nemur aðeins fjórðungi ársnotkunar meðalíbúðar í Noregi með rafhitun.  Það eru þó fáir að spá verulegri orkuverðslækkun í Evrópu innan 3 mánaða.  Verðið mun sennilega ekki lækka fyrr en með vorinu 2023. 

Í lokin stóð þetta í fréttaskýringunni:

"Ákallið um, að eitthvað verði gert til að tempra raforkuverðið hefur þó ekki fjarað út í Noregi, og hafa flokkar m.a. lagt til, að útflutningur verði takmarkaður og að hámarksverð verði sett á rafmagn.  Breytingar verða þó ekki gerðar á löggjöf ESB, nema áhugi sé fyrir því innan sambandsins.  Það er því óljóst, nákvæmlega hvað norska Stórþingið hyggst ræða á fundi sínum í september [2022]."

Rökin fyrir markaðsvæðingu raforkunnar á sínum tíma í Noregi voru neytendavernd, þ.e. samkeppnin átti að tryggja raforkunotendum hagstæðustu kjör.  Nú hefur þessi neytendavernd snúizt upp í neytendaáþján.  Þá er spurningin, hvort stuðningur er við afnám lagasetningar um OP3 í Noregi.  Á sínum tíma var því haldið fram, að lögleiðing OP3 hefði mikla þjóðhagslega þýðingu í Noregi.  Þá var ekki sízt horft til aðgangs Noregs að evrópskum gasmarkaði. Nú er aðalleikarinn, Rússland, að mestu dottinn út af evrópskum gasmarkaði um ófyrirsjáanlega framtíð, og þar með eru norskar gaslagnir til Bretlands og meginlandsins orðnar enn mikilvægari.  Með þessa sterku markaðsstöðu þurfa Norðmenn í raun ekkert á OP3 að halda, en það er hins vegar spurning, hvort þeir vilja berjast fyrir uppsögn hans innan EFTA og í Sameiginlegu EES-nefndinni. Það er annað mál og af pólitískum toga. Tæpast getur ríkisstjórnin sameinazt um slíka stefnu, nema Alþýðusamband Noregs álykti í þá veru.  Það mundi breyta afstöðu Verkamannaflokksins.    

 

     

 


Orkustefnan og hagsmunir verkalýðs

Þórður Gunnarsson, hagfræðingur, reit athygliverða Sjónarhólsgrein í Morgunblaðið í sumar, 6. júlí 2022, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu, að stefna landverndarsinna mundi óhjákvæmilega leiða til lífskjaraskerðingar almennings.  Höfundar þessarar stefnu virðast draga dám af höfundum bókarinnar um Endimörk vaxtar (Limits to Growth), sem boðuðu afturhvarf til fortíðar til að bjarga jörðunni. Þeir reyndust vera falsspámenn, þótt margir hafi síðar orðið til að feta í fótspor þeirra, t.d. framkvæmdastjóri Landverndar á Íslandi. 

Það er ástæða til að halda þessari grein hagfræðingsins á lofti nú, þegar kjaramál eru í brennidepli.  Kjaraskerðing almennings á Íslandi er hjóm eitt m.v. þær hrikalegu holskeflur, sem orkuskortur hefur leitt yfir önnur Evrópulönd. Sú staðreynd ætti að leiða öllum landsmönnum fyrir sjónir, hversu farsæl stefna hefur verið við lýði í landinu við nýtingu orkulinda landsins, en öfgasjónarmiðum um landvernd hefur verið gert of hátt undir höfði í löggjöfinni, svo að dýrkeyptar tafir hafa orðið við að reisa flutningsmannvirki raforkunnar með þeim afleiðingum, að alvarlegur, staðbundinn raforkuskortur ríkir.  Þá ríkir nú illskiljanleg lognmolla yfir virkjanamálum á tímum, þegar raforkueftirspurn í landinu er meiri en raforkuframboð . Ótrúleg málsmeðferð Orkustofnunar á umsókn Landsvirkjunar um leyfi til virkjunar Neðri-Þjórsár (Hvammsvirkjun) hefur rýrt faglegt traust til OS, eftir að nýr Orkumálastjóri tók þar við. 

Hefst nú tilvitnun í téða Sjónarhólsgrein: 

"Á Íslandi hefur umræða um umhverfismál oft verið óskipulögð og ólíkum hugtökum blandað og ruglað saman.  Í sömu umræðu erlendis er skýr munur gerður á umhverfisvernd og landvernd.  Þar til nýlega ægði þessum hugtökum saman í íslenzkri umræðu um virkjanaframkvæmdir og raforkuframleiðslu.

Umhverfisvernd snýr fyrst og fremst að því að framleiða orku með sem minnstum tilkostnaði m.t.t. loftslagsmála.  Landvernd snýst hins vegar um, að helzt megi ekki hrófla við náttúrunni, sama hvað það kostar.

Þeir, sem tala fyrir landvernd, verða einfaldlega að vera heiðarlegir með þessa afstöðu sína og hætta að fela sig að baki merkimiðum í loftslagsmálum.  Öll orkuframleiðsla útheimtir náttúrufórnir.  Þeir, sem tala fyrir aukinni orkuframleiðslu, eiga svo ekki að vera feimnir við að segja það hreint út."

 Orkumálin eru í kyrrstöðu núna, m.a. af því að stuðningsmenn meiri nýtingar hefðbundinna íslenzkra orkulinda, vatnsafls og jarðgufu, hafa sig lítt í frammi.  Framkvæmdastjóri Landverndar hefur hins vegar talað berum orðum fyrir hönd samtaka sinna um, að þessi nýting skuli ekki aukin, heldur skuli ríkisvaldið, sem alfarið á stærsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, beita sér fyrir því, að dregið verði svo mjög úr orkusölu til orkusækins iðnaðar, stóriðju, að svigrúm skapist til orkuskiptanna og almennrar aukningar raforkunotkunar vegna fólksfjölgunar.  Þessi boðskapur jafngildir því ósköp einfaldlega að leggja stóriðjuna niður, líklega með því að endurnýja enga orkusölusamninga við hana, hvað þá að gera nýja slíka samninga, því að riftun gildandi samninga yrði óheyrilega dýr.

Þessi stefna Landverndar er fullkomlega ábyrgðarlaus, því að hún mun fyrr en seinna leiða til meiri einsleitni í atvinnulífinu, viðvarandi halla á viðskiptajöfnuði með gengislækkun og atvinnuleysi, einkum vestanlands og austan, sem afleiðingu. Þetta mundi ekki síður koma niður á félagsfólki verkalýðsfélaganna en öðrum landsmönnum, og þess vegna skýtur skökku við m.v., að sumir verkalýðsforingjar, sem tjá sig um allt mögulegt í þjóðfélaginu, skuli ekki hafa gagnrýnt harðlega málflutning Landverndar, sem hvetur til stjórnvaldsaðgerða, sem óhjákvæmilega mundu gera marga verkamenn, iðnaðarmenn og aðra í góðum störfum stóriðjunnar, að fórnarlömbum vanhugsaðrar hugmyndafræði. 

"Málflutningur landverndarsinna felur hins vegar í sér að skrúfa niður í lífsgæðum almennings. Fráleitt er að tala um breytta forgangsröðun í orkumálum á Íslandi og ýja að því, að taka eigi pólitíska ákvörðun um að draga úr sölu til stórnotenda og beina raforkunni þess í stað til íslenzkra heimila og fyrirtækja."  

Að félagssamtök skuli álykta með þessum hætti og kynna stefnuna sem hvern annan valkost, sem landsmenn geti valið og eigi að velja án þess, að það muni draga nokkurn dilk á eftir sér, er alvarlegt sjúkdómseinkenni.  Fjölmiðlar hafa heldur ekki spurt sérlega gagnrýninna spurninga um afleiðingarnar.  Þeir gefa sér væntanlega, að þá færu þeir í geitarhús að leita ullar.

Fyrir utan efnahagsáfall og atvinnuleysi má nefna, að traust til Íslendinga á meðal erlendra fjárfesta, sem eru að eða munu íhuga fjárfestingar á Íslandi, yrði að engu við aðfarir, sem væru einsdæmi á Vesturlöndum. Þessi hnekkir einn og sér er á við annað efnahagsáfall. Hugarfarið, sem að baki þessari tillögugerð Landverndar býr, er þess eðlis, að óþarfi er að taka nokkurn boðskap þessa félags alvarlega. Þjóðarhagur er þar látinn lönd og leið, svo að minnir á skæruliðastarfsemi. 

"Landverndarsinnum hefur tekizt að snúa sönnunarbyrðinni við í þessum efnum á liðnum árum.  Sá hópur, sem áttar sig á því, að framleiðsla og sala raforku sé ein undirstaða hagkerfisins, hefur þurft að standa í stöðugri baráttu við að benda á þá einföldu staðreynd. 

Sem betur fer virðist núna annað hljóð í strokknum.  Þeir, sem halda því fram, að uppbyggingu orkuframleiðslu á Íslandi geti verið lokið núna, verða einfaldlega að láta það fylgja máli, að slíkri stefnu fylgir afturför í lífsgæðum, minni kaupmáttur og fábrotnara líf. 

M.ö.o. boðar landverndarstefnan aukið meinlæti.  Minna handa öllum."

 Ofstækisfólk, sem oft ber mest á, leggur allar framkvæmdir í náttúrunni að jöfnu við landspjöll.  Það viðurkennir ekki afleiðingar stefnu sinnar, sem Þórður Gunnarsson telur þarna upp. Þvert á móti setur það á langar ræður um, að enginn, nema fjárfestirinn, tapi á að leggja starfsemi hans niður.  Veruleikafirringin knýr þetta fólk áfram og tálmar því sýn.  Það lifir í eigin heimi, útópíu, sem enginn verður feitur af. 

"Í ljósi alls þessa sætir furðu, að verkalýðsforystan á Íslandi [t.d. ASÍ - innsk. BJo] beiti sér ekki meira í þessari umræðu.  Þeir, sem segjast standa í stafni lífsgæðabaráttu verkafólks, ættu að vera fremst í flokki þeirra, sem knýja á um aukna uppbyggingu orkuframleiðslu og iðnaðar. 

Skýringin á afstöðuleysi flestra verkalýðsleiðtoga, sem jafnan veljast úr hópi vinstri manna, er sú, að helzti fararmáti vinstri stefnu á síðast liðnum þremur áratugum hefur verið í formi umhverfis-eða landverndarstefnu.  Enda var ekkert annað hægt en að markaðssetja vinstri stefnu undir nýjum formerkjum í kjölfar þess, að efnahagsstefna sósíalismans beið skipbrot fyrir um 3 áratugum."

Hérlendis stóð Alþýðuflokkurinn (jafnaðarmenn) með Sjálfstæðisflokkinum að kaflaskilum í iðnvæðingu landsins og virkjun fallvatna til að knýja þennan iðnað og aðra starfsemi í landinu ásamt heimilunum. Síðan hefur reiðfærið ekki staðið á vinstra liðinu til atvinnuuppbyggingar af neinu viti.  Öðru vísi hefur þessu verið háttað á hinum Norðurlöndunum, t.d. í Noregi og Svíþjóð, þar sem sósíaldemókratar (jafnaðarmenn) studdu jafnan gerð virkjana í ánum til að knýja orkusækinn iðnað í hinum dreifðu byggðum. 

Vegna þeirra sinnaskipta vinstri manna, sem Þórður Gunnarsson lýsir þarna, eru þeir rótlausir, vita vart sitt rjúkandi ráð, en stunda lýðskrumsstjórnmál til að fiska óánægjufylgi, sem kann að reka á fjörur þeirra. Síðan eru auðvitað gjalda- og skattahækkanir viðvarandi kliður hjá þeim og þar með útþensla opinbera geirans, en að hlúa að verðmætasköpuninni, sem öll verður til í fyrirtækjum landsins, fer fyrir ofan garð og neðan í loftslagsjapli og landverndarstagli. 

Samorkumenn-7-11-2012-StraumsvikAflmestu spennar landsins   

 

    


Kjarnorkan mun ganga í endurnýjun lífdaganna

Fyrir villimannlega innrás Rússlands í Úkraínu var það meint loftslagsvá, sem helzt mælti með fjölgun kjarnorkuvera.  Þar sem hvorki er fyrir hendi fallorka vatns né jarðgufa, er jarðefnaeldsneyti eini orkugjafinn, sem knúið getur raforkuver með stöðugu afli og umtalsverðu uppsettu afli auk kjarnorkuveranna. Við téða innrás bættust við rök fyrir kjarnorkuverum, þ.e.a.s. Rússar tóku til við að beita jarðefnaeldsneytinu, aðallega jarðgasinu, sem vopni á Evrópulöndin með því að draga úr framboðinu. Þeir, sem gerst þekktu til þankagangsins í Kreml, höfðu fyrir löngu varað við, að þetta mundi gerast, en við slíkum viðvörunum var skellt skollaeyrum, t.d. í Berlín, þar sem gjörsamlega ábyrgðarlaus stefnumörkun fór fram fyrir hönd fjölmennasta ríkis Evrópusambandsins. 

Þar með hækkaði orkuverðið upp úr öllu valdi.  Þorparar í Kreml kunna að skrúfa algerlega fyrir gasflæðið til Evrópu í haust með voveiflegum afleiðingum fyrir evrópsk heimili og fyrirtæki. Það er engin huggun harmi gegn, að um sjálfskaparvíti er að ræða, sem barnaleg utanríkispólitík Angelu Merkel ber sök á. 

Þess vegna hefur öllum samningum vestrænna ríkja við rússnesk fyrirtæki um ný kjarnorkuver verið rift. Allt traust er horfið um fyrirsjáanlega framtíð, og djúpstætt hatur á Rússum hefur myndazt í Úkraínu og gengið í endurnýjun lífdaganna víða í fyrri nýlendum Ráðstjórnarríkjanna í Austur-Evrópu. Það geisar viðskiptastríð á milli Rússlands og Vesturlanda og blóðugt stríð á milli Rússlands og Úkraínu.  Hið síðar nefnda stríð mun ákvarða örlög Evrópu á þessari öld og er í raun stríð hugmyndafræðikerfa einræðis og yfirgangs annars vegar og hins vegar lýðræðis og friðsemdar.  Líklega sígur sól hins víðfeðma Rússaríkis senn til viðar.  "Der Zeitgeist" eða tíðarandinn er ekki hliðhollur nýlendustefnu nú fremur en hann reyndist hliðhollur þjóðernisjafnaðarstefnu fyrir miðja 20. öldina. Hvort tveggja tímaskekkja m.v. þróunarstig tækni og menningar. 

Viðskiptalíkan Þýzkalands um tiltölulega ódýra orku úr jarðefnaeldsneyti og mikla markaði fyrir iðnvarning í Rússlandi og Kína hefur lent uppi á skeri, enda var hún tálsýn um friðsamlega sambúð lýðræðisríkja og einræðisríkja með sögulega útþenslutilhneigingu. Þegar Rússland fær ekki lengur aðgang að vestrænum varningi og vestrænni tækni, mun landið verða fyrir hæfileikaleka, sem hófst þegar í febrúar 2022, og hnigna ört þess vegna og vegna margháttaðrar einangrunar.  Þetta fjölþjóðaríki siglir inn í innri óstöðugleika, borgarastyrjöld, sem sennilega hefst með uppreisn í Tétsníu á þessu ári. Nokkrir baráttumenn frá Tétseníu hafa barizt með úkraínska hernum, og ætlunin er að nota tækifærið nú, eftir að rússneski herinn hefur orðið fyrir skelli í Úkraínu og er upptekinn við grimmdarverk sín þar gegn óbeyttum borgurum, til að gera uppreisn gegn leppstjórninni í Grozni. 

Putin hefur lagt sig í framkróka við að sundra Vesturveldunum.  Eitt af fáum handbendum hans við völd á Vesturlöndum um þessar mundir er hinn hægri sinnaði Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.  Í sögulegu samhengi vekur afstaða hans til samstarfs við Rússa fyrir hönd Ungverja furðu. Hann hefur samþykkt áform um 2 nýja rússneska kjarnakljúfa í Paks verinu í miðju landinu, sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt harðlega á þeim grundvelli, að rússneskt kjarnorkuver muni veita Rússum of mikil áhrif í landinu.  Nú þykir vafasamt, að Rosatom muni geta lokið verkefninu vegna viðskiptabanns Vesturveldanna.  Stríð Rússa við Úkraínumenn hefur opinberað, hversu vanþróað ríki Rússland er.  Ríkið stendur á brauðfótum, en hefur haldið sér á floti með útflutningi á orku og hráefnum.  Það sækist eftir yfirráðum í Úkraínu til að mergsjúga Úkraínumenn, sem standa á hærra menningarstigi en steppubúarnir í austri.

Bretar eru nú að endurskoða afstöðu sína til þátttöku Kínverja í kjarnorkuverkefni í Bradwell.  Einræðisríkin Rússland og Kína eru nú búin að spila rassinn úr buxunum sem áreiðanlegur viðskiptafélagi.  Brot ríkisstjórnar Kína á samningi við Breta um sjálfstæði Hong Kong og móðursýkisleg viðbrögð hennar við heimsókn forseta Fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi, til Taiwan í ágústbyrjun 2022, sýna lögleysuna og yfirganginn, sem einkennir framferði einræðisríkja. 

Ein af afleiðingum yfirstandandi orkukreppu er aukinn áhugi á kjarnorku, en Vesturveldin ætla ekki að fara úr öskunni í eldinn og afhenda Rússum, og varla Kínverjum heldur, lykilinn að þessum orkuverum.  Kjarnorkuverin geta séð eigendum sínum fyrir mikilli orku með hámarks áreiðanleika. Það er ljóst, að hefði uppbyggingu kjarnorkuvera í Evrópu verið haldið áfram á síðasta áratug og þessum bæði til að draga úr loftmengun, koltvíildi í andrúmsloftinu og kverkataki Rússa á orkukerfinu, þá væri meira gas til ráðstöfunar nú fyrir iðnað og kyndingu húsnæðis í Evrópu.  Þetta er ástæða þess, að Finnar, sem reitt hafa sig í talsverðum mæli á rússneskt gas, sem nú er búið að skrúfa fyrir, er umhugað um þá tækni, sem fyrir valinu verður í kjarnorkuverum þeirra. 

Frakkar hafa verið leiðandi á sviði kjarnorku í Evrópu og fá meira en helming sinnar raforku frá kjarnorkuverum.  Af þessum ástæðum blasir ekki sama hryggðarmyndin við orkukerfinu þar og í Þýzkalandi.  Emanuel Macron lýsti því yfir 10. febrúar 2022, að Frakkar mundu senn hefja nýtt uppbyggingarskeið kjarnorkuvera í landi sínu og að nýting sjálfbærra orkugjafa (mikil vatnsorka er virkjuð í Frakklandi) og kjarnorku  væri sjálfstæðasta leiðin (most sovereign) til að framleiða raforku.

Bretar hafa líka verið drjúgir í kjarnorkunni.  Í apríl 2022 sagði forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, í heimsókn til HPC kjarnorkuversins, sem er á byggingarstigi, að verið væri þáttur í stefnumörkun um orkuöryggi Breta:

"Við getum ekki leyft landi okkar að verða háð rússneskri olíu og gasi",

sagði hann við þetta tækifæri. Til að gefa nasasjón af byrðum almennings á Bretlandi af orkukreppu Evrópu og heimsins alls má nefna, að f.o.m. október 2022 mun meðalfjölskylda á Bretlandi þurfa að greiða 3582 GBP/ár eða um 590 kISK/ár, sem mun hækka um 19 % strax um næstu áramót.  Þetta er ófremdarástand, sem eitt og sér dugir til að draga úr allri eftirspurn og keyra samfélagið í samdrátt.  Bretlandi er vaxandi ólga á vinnumarkaði, enda er þar í þokkabót spáð 13 % verðbólgu síðustu 12 mánuði í október 2022.  Atvinnulífið er almennt ekki í neinum færum til að bæta launþegum þessa lífskjaraskerðingu, því að fyrirtækin eru sömuleiðis mörg hver að sligast undan auknum rekstrarkostnaði og nú fjármagnskostnaði, því að Englandsbanki er tekinn að hækka stýrivexti sína ofan í þetta ástand í tilraun til að veita verðbólgunni viðnám.  

Þann 24. febrúar 2022 urðu vatnaskil í sögu 21. aldarinnar, einkum í Evrópu.  Markaðir gjörbreyttust og samskipti þjóða líka.  Tvípólun blasir við í heimsstjórnmálum.  Annars vegar Vesturveldin og önnur lýðræðisríki heims, þar sem mannréttindi og lög og réttur eru lögð til grundvallar stjórnarfarinu, og hins vegar einræðisríkin Rússland og Kína með Rússland á brauðfótum og fáein önnur löglaus einræðisríki á borð við hið forneskjulega klerkaveldi í Íran.

Markaðir Íslendinga í Evrópu fyrir fisk og ál hafa batnað fyrir vikið um hríð a.m.k vegna mun minna framboðs frá einræðisríkjunum vegna viðskiptabanns á Rússa og tollalagningar áls frá Kína og framleiðsluminnkun þar.  Yfirvofandi kreppa getur þó sett strik í reikninginn hér líka. Við þessar viðkvæmu aðstæður blasir við, að engin sóknarfæri eru fyrir verkalýðshreyfinguna til að auka kaupmáttinn frá því, sem hann var um síðustu áramót og varnarsigur væri fyrir verkalýðshreyfinguna, ef tækist nokkurn veginn að varðveita þann kaupmátt að öllu samanlögðu á næstu árum.  Það yrði einstök staða fyrir Ísland í samanburði við flestar þjóðir heimsins.  Svisslendingar eru þó á svipuðu róli.  Þar er þó félagsaðild að verkalýðsfélögum miklu lægri en hér. Eru verkalýðsfélögin hérlendis e.t.v. gengin sér til húðar ?  Væru launþegar betur settir með staðbundnum samningum við sína vinnuveitendur ?  Þessir vinnuveitendur eru í stöðugri samkeppni um starfsfólk.   

Staðan á mörkuðunum ofan í mikla peningaprentun á Covid-tímanum (2020-2021) hefur valdið mikilli verðbólgu í heiminum.  Þrátt fyrir lítinn sem engan hagvöxt í ESB og Bretlandi, hafa seðlabankarnir hækkað stýrivexti til að kveða verðbólgudrauginn niður.  Þetta mun að líkindum keyra Evrópu í djúpa efnahagskreppu.  Hún kemur ofan í skuldakreppu eftir Covid og getur valdið því, að ríki á evrusvæðinu fari fram á hengiflug greiðsluþrots vegna hás vaxtaálags á ríkisskuldabréf.  Evrópu bíður erfiðari vetur en dæmi eru um, eftir að hungursneyðinni eftir Síðari heimsstyrjöldina linnti.  Óhjákvæmilega hlýtur angi þessa grafalvarlega ástands að teygja sig til Íslands. Það er bezt að hafa eggin í körfunni ættuð sem víðast að, en frá bandamönnum þó. Heyrðist einhvers staðar í horni klisjan um, að nú sé Íslendingum brýnast að ganga í Evrópusambandið ?  Eru engin takmörk fyrir vitleysunni, sem talin er vera boðleg landsmönnum ?Jarðgasvinnsla úr setlögum

Evran krosssprungin


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband