Færsluflokkur: Dægurmál

Orkustefnan og hagsmunir verkalýðs

Þórður Gunnarsson, hagfræðingur, reit athygliverða Sjónarhólsgrein í Morgunblaðið í sumar, 6. júlí 2022, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu, að stefna landverndarsinna mundi óhjákvæmilega leiða til lífskjaraskerðingar almennings.  Höfundar þessarar stefnu virðast draga dám af höfundum bókarinnar um Endimörk vaxtar (Limits to Growth), sem boðuðu afturhvarf til fortíðar til að bjarga jörðunni. Þeir reyndust vera falsspámenn, þótt margir hafi síðar orðið til að feta í fótspor þeirra, t.d. framkvæmdastjóri Landverndar á Íslandi. 

Það er ástæða til að halda þessari grein hagfræðingsins á lofti nú, þegar kjaramál eru í brennidepli.  Kjaraskerðing almennings á Íslandi er hjóm eitt m.v. þær hrikalegu holskeflur, sem orkuskortur hefur leitt yfir önnur Evrópulönd. Sú staðreynd ætti að leiða öllum landsmönnum fyrir sjónir, hversu farsæl stefna hefur verið við lýði í landinu við nýtingu orkulinda landsins, en öfgasjónarmiðum um landvernd hefur verið gert of hátt undir höfði í löggjöfinni, svo að dýrkeyptar tafir hafa orðið við að reisa flutningsmannvirki raforkunnar með þeim afleiðingum, að alvarlegur, staðbundinn raforkuskortur ríkir.  Þá ríkir nú illskiljanleg lognmolla yfir virkjanamálum á tímum, þegar raforkueftirspurn í landinu er meiri en raforkuframboð . Ótrúleg málsmeðferð Orkustofnunar á umsókn Landsvirkjunar um leyfi til virkjunar Neðri-Þjórsár (Hvammsvirkjun) hefur rýrt faglegt traust til OS, eftir að nýr Orkumálastjóri tók þar við. 

Hefst nú tilvitnun í téða Sjónarhólsgrein: 

"Á Íslandi hefur umræða um umhverfismál oft verið óskipulögð og ólíkum hugtökum blandað og ruglað saman.  Í sömu umræðu erlendis er skýr munur gerður á umhverfisvernd og landvernd.  Þar til nýlega ægði þessum hugtökum saman í íslenzkri umræðu um virkjanaframkvæmdir og raforkuframleiðslu.

Umhverfisvernd snýr fyrst og fremst að því að framleiða orku með sem minnstum tilkostnaði m.t.t. loftslagsmála.  Landvernd snýst hins vegar um, að helzt megi ekki hrófla við náttúrunni, sama hvað það kostar.

Þeir, sem tala fyrir landvernd, verða einfaldlega að vera heiðarlegir með þessa afstöðu sína og hætta að fela sig að baki merkimiðum í loftslagsmálum.  Öll orkuframleiðsla útheimtir náttúrufórnir.  Þeir, sem tala fyrir aukinni orkuframleiðslu, eiga svo ekki að vera feimnir við að segja það hreint út."

 Orkumálin eru í kyrrstöðu núna, m.a. af því að stuðningsmenn meiri nýtingar hefðbundinna íslenzkra orkulinda, vatnsafls og jarðgufu, hafa sig lítt í frammi.  Framkvæmdastjóri Landverndar hefur hins vegar talað berum orðum fyrir hönd samtaka sinna um, að þessi nýting skuli ekki aukin, heldur skuli ríkisvaldið, sem alfarið á stærsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, beita sér fyrir því, að dregið verði svo mjög úr orkusölu til orkusækins iðnaðar, stóriðju, að svigrúm skapist til orkuskiptanna og almennrar aukningar raforkunotkunar vegna fólksfjölgunar.  Þessi boðskapur jafngildir því ósköp einfaldlega að leggja stóriðjuna niður, líklega með því að endurnýja enga orkusölusamninga við hana, hvað þá að gera nýja slíka samninga, því að riftun gildandi samninga yrði óheyrilega dýr.

Þessi stefna Landverndar er fullkomlega ábyrgðarlaus, því að hún mun fyrr en seinna leiða til meiri einsleitni í atvinnulífinu, viðvarandi halla á viðskiptajöfnuði með gengislækkun og atvinnuleysi, einkum vestanlands og austan, sem afleiðingu. Þetta mundi ekki síður koma niður á félagsfólki verkalýðsfélaganna en öðrum landsmönnum, og þess vegna skýtur skökku við m.v., að sumir verkalýðsforingjar, sem tjá sig um allt mögulegt í þjóðfélaginu, skuli ekki hafa gagnrýnt harðlega málflutning Landverndar, sem hvetur til stjórnvaldsaðgerða, sem óhjákvæmilega mundu gera marga verkamenn, iðnaðarmenn og aðra í góðum störfum stóriðjunnar, að fórnarlömbum vanhugsaðrar hugmyndafræði. 

"Málflutningur landverndarsinna felur hins vegar í sér að skrúfa niður í lífsgæðum almennings. Fráleitt er að tala um breytta forgangsröðun í orkumálum á Íslandi og ýja að því, að taka eigi pólitíska ákvörðun um að draga úr sölu til stórnotenda og beina raforkunni þess í stað til íslenzkra heimila og fyrirtækja."  

Að félagssamtök skuli álykta með þessum hætti og kynna stefnuna sem hvern annan valkost, sem landsmenn geti valið og eigi að velja án þess, að það muni draga nokkurn dilk á eftir sér, er alvarlegt sjúkdómseinkenni.  Fjölmiðlar hafa heldur ekki spurt sérlega gagnrýninna spurninga um afleiðingarnar.  Þeir gefa sér væntanlega, að þá færu þeir í geitarhús að leita ullar.

Fyrir utan efnahagsáfall og atvinnuleysi má nefna, að traust til Íslendinga á meðal erlendra fjárfesta, sem eru að eða munu íhuga fjárfestingar á Íslandi, yrði að engu við aðfarir, sem væru einsdæmi á Vesturlöndum. Þessi hnekkir einn og sér er á við annað efnahagsáfall. Hugarfarið, sem að baki þessari tillögugerð Landverndar býr, er þess eðlis, að óþarfi er að taka nokkurn boðskap þessa félags alvarlega. Þjóðarhagur er þar látinn lönd og leið, svo að minnir á skæruliðastarfsemi. 

"Landverndarsinnum hefur tekizt að snúa sönnunarbyrðinni við í þessum efnum á liðnum árum.  Sá hópur, sem áttar sig á því, að framleiðsla og sala raforku sé ein undirstaða hagkerfisins, hefur þurft að standa í stöðugri baráttu við að benda á þá einföldu staðreynd. 

Sem betur fer virðist núna annað hljóð í strokknum.  Þeir, sem halda því fram, að uppbyggingu orkuframleiðslu á Íslandi geti verið lokið núna, verða einfaldlega að láta það fylgja máli, að slíkri stefnu fylgir afturför í lífsgæðum, minni kaupmáttur og fábrotnara líf. 

M.ö.o. boðar landverndarstefnan aukið meinlæti.  Minna handa öllum."

 Ofstækisfólk, sem oft ber mest á, leggur allar framkvæmdir í náttúrunni að jöfnu við landspjöll.  Það viðurkennir ekki afleiðingar stefnu sinnar, sem Þórður Gunnarsson telur þarna upp. Þvert á móti setur það á langar ræður um, að enginn, nema fjárfestirinn, tapi á að leggja starfsemi hans niður.  Veruleikafirringin knýr þetta fólk áfram og tálmar því sýn.  Það lifir í eigin heimi, útópíu, sem enginn verður feitur af. 

"Í ljósi alls þessa sætir furðu, að verkalýðsforystan á Íslandi [t.d. ASÍ - innsk. BJo] beiti sér ekki meira í þessari umræðu.  Þeir, sem segjast standa í stafni lífsgæðabaráttu verkafólks, ættu að vera fremst í flokki þeirra, sem knýja á um aukna uppbyggingu orkuframleiðslu og iðnaðar. 

Skýringin á afstöðuleysi flestra verkalýðsleiðtoga, sem jafnan veljast úr hópi vinstri manna, er sú, að helzti fararmáti vinstri stefnu á síðast liðnum þremur áratugum hefur verið í formi umhverfis-eða landverndarstefnu.  Enda var ekkert annað hægt en að markaðssetja vinstri stefnu undir nýjum formerkjum í kjölfar þess, að efnahagsstefna sósíalismans beið skipbrot fyrir um 3 áratugum."

Hérlendis stóð Alþýðuflokkurinn (jafnaðarmenn) með Sjálfstæðisflokkinum að kaflaskilum í iðnvæðingu landsins og virkjun fallvatna til að knýja þennan iðnað og aðra starfsemi í landinu ásamt heimilunum. Síðan hefur reiðfærið ekki staðið á vinstra liðinu til atvinnuuppbyggingar af neinu viti.  Öðru vísi hefur þessu verið háttað á hinum Norðurlöndunum, t.d. í Noregi og Svíþjóð, þar sem sósíaldemókratar (jafnaðarmenn) studdu jafnan gerð virkjana í ánum til að knýja orkusækinn iðnað í hinum dreifðu byggðum. 

Vegna þeirra sinnaskipta vinstri manna, sem Þórður Gunnarsson lýsir þarna, eru þeir rótlausir, vita vart sitt rjúkandi ráð, en stunda lýðskrumsstjórnmál til að fiska óánægjufylgi, sem kann að reka á fjörur þeirra. Síðan eru auðvitað gjalda- og skattahækkanir viðvarandi kliður hjá þeim og þar með útþensla opinbera geirans, en að hlúa að verðmætasköpuninni, sem öll verður til í fyrirtækjum landsins, fer fyrir ofan garð og neðan í loftslagsjapli og landverndarstagli. 

Samorkumenn-7-11-2012-StraumsvikAflmestu spennar landsins   

 

    


Kjarnorkan mun ganga í endurnýjun lífdaganna

Fyrir villimannlega innrás Rússlands í Úkraínu var það meint loftslagsvá, sem helzt mælti með fjölgun kjarnorkuvera.  Þar sem hvorki er fyrir hendi fallorka vatns né jarðgufa, er jarðefnaeldsneyti eini orkugjafinn, sem knúið getur raforkuver með stöðugu afli og umtalsverðu uppsettu afli auk kjarnorkuveranna. Við téða innrás bættust við rök fyrir kjarnorkuverum, þ.e.a.s. Rússar tóku til við að beita jarðefnaeldsneytinu, aðallega jarðgasinu, sem vopni á Evrópulöndin með því að draga úr framboðinu. Þeir, sem gerst þekktu til þankagangsins í Kreml, höfðu fyrir löngu varað við, að þetta mundi gerast, en við slíkum viðvörunum var skellt skollaeyrum, t.d. í Berlín, þar sem gjörsamlega ábyrgðarlaus stefnumörkun fór fram fyrir hönd fjölmennasta ríkis Evrópusambandsins. 

Þar með hækkaði orkuverðið upp úr öllu valdi.  Þorparar í Kreml kunna að skrúfa algerlega fyrir gasflæðið til Evrópu í haust með voveiflegum afleiðingum fyrir evrópsk heimili og fyrirtæki. Það er engin huggun harmi gegn, að um sjálfskaparvíti er að ræða, sem barnaleg utanríkispólitík Angelu Merkel ber sök á. 

Þess vegna hefur öllum samningum vestrænna ríkja við rússnesk fyrirtæki um ný kjarnorkuver verið rift. Allt traust er horfið um fyrirsjáanlega framtíð, og djúpstætt hatur á Rússum hefur myndazt í Úkraínu og gengið í endurnýjun lífdaganna víða í fyrri nýlendum Ráðstjórnarríkjanna í Austur-Evrópu. Það geisar viðskiptastríð á milli Rússlands og Vesturlanda og blóðugt stríð á milli Rússlands og Úkraínu.  Hið síðar nefnda stríð mun ákvarða örlög Evrópu á þessari öld og er í raun stríð hugmyndafræðikerfa einræðis og yfirgangs annars vegar og hins vegar lýðræðis og friðsemdar.  Líklega sígur sól hins víðfeðma Rússaríkis senn til viðar.  "Der Zeitgeist" eða tíðarandinn er ekki hliðhollur nýlendustefnu nú fremur en hann reyndist hliðhollur þjóðernisjafnaðarstefnu fyrir miðja 20. öldina. Hvort tveggja tímaskekkja m.v. þróunarstig tækni og menningar. 

Viðskiptalíkan Þýzkalands um tiltölulega ódýra orku úr jarðefnaeldsneyti og mikla markaði fyrir iðnvarning í Rússlandi og Kína hefur lent uppi á skeri, enda var hún tálsýn um friðsamlega sambúð lýðræðisríkja og einræðisríkja með sögulega útþenslutilhneigingu. Þegar Rússland fær ekki lengur aðgang að vestrænum varningi og vestrænni tækni, mun landið verða fyrir hæfileikaleka, sem hófst þegar í febrúar 2022, og hnigna ört þess vegna og vegna margháttaðrar einangrunar.  Þetta fjölþjóðaríki siglir inn í innri óstöðugleika, borgarastyrjöld, sem sennilega hefst með uppreisn í Tétsníu á þessu ári. Nokkrir baráttumenn frá Tétseníu hafa barizt með úkraínska hernum, og ætlunin er að nota tækifærið nú, eftir að rússneski herinn hefur orðið fyrir skelli í Úkraínu og er upptekinn við grimmdarverk sín þar gegn óbeyttum borgurum, til að gera uppreisn gegn leppstjórninni í Grozni. 

Putin hefur lagt sig í framkróka við að sundra Vesturveldunum.  Eitt af fáum handbendum hans við völd á Vesturlöndum um þessar mundir er hinn hægri sinnaði Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.  Í sögulegu samhengi vekur afstaða hans til samstarfs við Rússa fyrir hönd Ungverja furðu. Hann hefur samþykkt áform um 2 nýja rússneska kjarnakljúfa í Paks verinu í miðju landinu, sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt harðlega á þeim grundvelli, að rússneskt kjarnorkuver muni veita Rússum of mikil áhrif í landinu.  Nú þykir vafasamt, að Rosatom muni geta lokið verkefninu vegna viðskiptabanns Vesturveldanna.  Stríð Rússa við Úkraínumenn hefur opinberað, hversu vanþróað ríki Rússland er.  Ríkið stendur á brauðfótum, en hefur haldið sér á floti með útflutningi á orku og hráefnum.  Það sækist eftir yfirráðum í Úkraínu til að mergsjúga Úkraínumenn, sem standa á hærra menningarstigi en steppubúarnir í austri.

Bretar eru nú að endurskoða afstöðu sína til þátttöku Kínverja í kjarnorkuverkefni í Bradwell.  Einræðisríkin Rússland og Kína eru nú búin að spila rassinn úr buxunum sem áreiðanlegur viðskiptafélagi.  Brot ríkisstjórnar Kína á samningi við Breta um sjálfstæði Hong Kong og móðursýkisleg viðbrögð hennar við heimsókn forseta Fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi, til Taiwan í ágústbyrjun 2022, sýna lögleysuna og yfirganginn, sem einkennir framferði einræðisríkja. 

Ein af afleiðingum yfirstandandi orkukreppu er aukinn áhugi á kjarnorku, en Vesturveldin ætla ekki að fara úr öskunni í eldinn og afhenda Rússum, og varla Kínverjum heldur, lykilinn að þessum orkuverum.  Kjarnorkuverin geta séð eigendum sínum fyrir mikilli orku með hámarks áreiðanleika. Það er ljóst, að hefði uppbyggingu kjarnorkuvera í Evrópu verið haldið áfram á síðasta áratug og þessum bæði til að draga úr loftmengun, koltvíildi í andrúmsloftinu og kverkataki Rússa á orkukerfinu, þá væri meira gas til ráðstöfunar nú fyrir iðnað og kyndingu húsnæðis í Evrópu.  Þetta er ástæða þess, að Finnar, sem reitt hafa sig í talsverðum mæli á rússneskt gas, sem nú er búið að skrúfa fyrir, er umhugað um þá tækni, sem fyrir valinu verður í kjarnorkuverum þeirra. 

Frakkar hafa verið leiðandi á sviði kjarnorku í Evrópu og fá meira en helming sinnar raforku frá kjarnorkuverum.  Af þessum ástæðum blasir ekki sama hryggðarmyndin við orkukerfinu þar og í Þýzkalandi.  Emanuel Macron lýsti því yfir 10. febrúar 2022, að Frakkar mundu senn hefja nýtt uppbyggingarskeið kjarnorkuvera í landi sínu og að nýting sjálfbærra orkugjafa (mikil vatnsorka er virkjuð í Frakklandi) og kjarnorku  væri sjálfstæðasta leiðin (most sovereign) til að framleiða raforku.

Bretar hafa líka verið drjúgir í kjarnorkunni.  Í apríl 2022 sagði forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, í heimsókn til HPC kjarnorkuversins, sem er á byggingarstigi, að verið væri þáttur í stefnumörkun um orkuöryggi Breta:

"Við getum ekki leyft landi okkar að verða háð rússneskri olíu og gasi",

sagði hann við þetta tækifæri. Til að gefa nasasjón af byrðum almennings á Bretlandi af orkukreppu Evrópu og heimsins alls má nefna, að f.o.m. október 2022 mun meðalfjölskylda á Bretlandi þurfa að greiða 3582 GBP/ár eða um 590 kISK/ár, sem mun hækka um 19 % strax um næstu áramót.  Þetta er ófremdarástand, sem eitt og sér dugir til að draga úr allri eftirspurn og keyra samfélagið í samdrátt.  Bretlandi er vaxandi ólga á vinnumarkaði, enda er þar í þokkabót spáð 13 % verðbólgu síðustu 12 mánuði í október 2022.  Atvinnulífið er almennt ekki í neinum færum til að bæta launþegum þessa lífskjaraskerðingu, því að fyrirtækin eru sömuleiðis mörg hver að sligast undan auknum rekstrarkostnaði og nú fjármagnskostnaði, því að Englandsbanki er tekinn að hækka stýrivexti sína ofan í þetta ástand í tilraun til að veita verðbólgunni viðnám.  

Þann 24. febrúar 2022 urðu vatnaskil í sögu 21. aldarinnar, einkum í Evrópu.  Markaðir gjörbreyttust og samskipti þjóða líka.  Tvípólun blasir við í heimsstjórnmálum.  Annars vegar Vesturveldin og önnur lýðræðisríki heims, þar sem mannréttindi og lög og réttur eru lögð til grundvallar stjórnarfarinu, og hins vegar einræðisríkin Rússland og Kína með Rússland á brauðfótum og fáein önnur löglaus einræðisríki á borð við hið forneskjulega klerkaveldi í Íran.

Markaðir Íslendinga í Evrópu fyrir fisk og ál hafa batnað fyrir vikið um hríð a.m.k vegna mun minna framboðs frá einræðisríkjunum vegna viðskiptabanns á Rússa og tollalagningar áls frá Kína og framleiðsluminnkun þar.  Yfirvofandi kreppa getur þó sett strik í reikninginn hér líka. Við þessar viðkvæmu aðstæður blasir við, að engin sóknarfæri eru fyrir verkalýðshreyfinguna til að auka kaupmáttinn frá því, sem hann var um síðustu áramót og varnarsigur væri fyrir verkalýðshreyfinguna, ef tækist nokkurn veginn að varðveita þann kaupmátt að öllu samanlögðu á næstu árum.  Það yrði einstök staða fyrir Ísland í samanburði við flestar þjóðir heimsins.  Svisslendingar eru þó á svipuðu róli.  Þar er þó félagsaðild að verkalýðsfélögum miklu lægri en hér. Eru verkalýðsfélögin hérlendis e.t.v. gengin sér til húðar ?  Væru launþegar betur settir með staðbundnum samningum við sína vinnuveitendur ?  Þessir vinnuveitendur eru í stöðugri samkeppni um starfsfólk.   

Staðan á mörkuðunum ofan í mikla peningaprentun á Covid-tímanum (2020-2021) hefur valdið mikilli verðbólgu í heiminum.  Þrátt fyrir lítinn sem engan hagvöxt í ESB og Bretlandi, hafa seðlabankarnir hækkað stýrivexti til að kveða verðbólgudrauginn niður.  Þetta mun að líkindum keyra Evrópu í djúpa efnahagskreppu.  Hún kemur ofan í skuldakreppu eftir Covid og getur valdið því, að ríki á evrusvæðinu fari fram á hengiflug greiðsluþrots vegna hás vaxtaálags á ríkisskuldabréf.  Evrópu bíður erfiðari vetur en dæmi eru um, eftir að hungursneyðinni eftir Síðari heimsstyrjöldina linnti.  Óhjákvæmilega hlýtur angi þessa grafalvarlega ástands að teygja sig til Íslands. Það er bezt að hafa eggin í körfunni ættuð sem víðast að, en frá bandamönnum þó. Heyrðist einhvers staðar í horni klisjan um, að nú sé Íslendingum brýnast að ganga í Evrópusambandið ?  Eru engin takmörk fyrir vitleysunni, sem talin er vera boðleg landsmönnum ?Jarðgasvinnsla úr setlögum

Evran krosssprungin


Rússland er hryðjuverkaríki

Mafían, sem nú stjórnar Rússlandi, er gengin af vitinu og er þegar búin að senda Sambandríkið Rússland á ruslahauga sögunnar. Hún hefur brotið allar brýr að baki sér með brotum á öllum reglum, sem gilda um samskipti ríkja. Þessi Kremlarmafía lýsti ekki yfir stríði gegn Úkraínu á innrásardaginn, heldur þvaðraði um "sérstaka hernaðaraðgerð", sem hafði það markmið að setja af lýðræðislega myndaða ríkisstjórn Úkraínu í Kænugarði og að setja til valda þar strengjabrúðu gjörspilltrar mafíunnar, sem ekki þyrfti að sækja vald sitt til fólksins, heldur til forseta Rússlands. Vladimir Putin er síðan í stríði við stjórnkerfi lýðræðis, sem hann óttast, og lýðræðisríki heimsins með NATO-ríkin í broddi fylkingar. 

Þessi rússneska mafía heldur úti umfangsmiklum lygaáróðri, meinar aldrei, það sem hún segir, og svíkur alla samninga, eins og loftárásir á höfnina í Odessa innan sólarhrings frá undirritun samninga um að heimila og hefja kornútflutning frá þessari miklu hafnarborg við Svartahafið eru nýlegt dæmi um. Annað nýlegt fyrirlitlegt dæmi var að sprengja í loft um fangelsi fyrir úkraínska stríðsfanga í Kherson-héraði, þar sem pyntingar höfðu verið stundaðar, og kenna síðan Úkraínumönnum um að hafa skotið HIMARS-skeyti á fangelsið. 

Þessi glæpsamlegu yfirvöld Rússlands eru óalandi og óferjandi í samfélagi þjóðanna, gjörsamlega siðblind, eins og þau hafa sýnt með löðurmannlegri framgöngu rússneska hersins í Úkraínu gegn almennum borgurum, að þau eru.  Þá hefur mafían orðið uppvís af að brjóta Genfarsáttmálann um meðferð stríðsfanga.   

Ýmsum lygum hefur verið reynt að beita í vitfirringslegum tilraunum til að réttlæta óverjandi innrás Rússahers í Úkraínu 24. febrúar 2022.  Einna afkáralegust er kenning Putins um, að bolsévikar hafi skapað úkraínska ríkið í kjölfar byltingarinnar í Rússlandi 1917, en sögulega séð sé Úkraína hluti af Rússlandi og úkraínska þjóðin ekki til.  Þetta er allt saman alrangt óráðshjal, enda er Kænugarðsríkið eldra en rússneska ríkið og var lengst af sjálfstætt á miðöldum og á hærra menningarstigi en hið rússneska, þótt Kænugarðskóngur hafi oft átt í vök að verjast, t.d. á uppgangstímum pólska og litháíska ríkisins.  Þjóðernistilfinning Úkraínumanna er hrein og fölkskvalaus, eins og þeir hafa sannað með framgöngu sinni við varnir landsins, en á ekkert skylt við nazisma.  Mafían í Kreml heldur þeim áróðri að almenningi í Rússlandi, að rússneski herinn sé að uppræta nazista í Úkraínu.  Þar sannast enn og aftur hið fornkveðna, að margur heldur mig sig. 

Í innantómum gorgeir sínum héldu valdhafar Rússlands, að þeir gætu valtað yfir Úkraínumenn og að þeim hefði með undirróðri flugumanna sinna í Úkraínu tekizt að skapa andrúmsloft uppgjafar og að rússneska hernum yrði jafnvel fagnað með blómum. Hvernig sem vinfengi Úkraínumanna við Rússa kann að hafa verið háttað fyrir 24.02.2022, er alveg öruggt núna, að yfirgnæfandi meirihluti Úkraínumanna hatar Rússa eins og pestina, hugsar þeim þegjandi þörfina og vill allt til vinna  núna að reka þá til síns heima og ganga í raðir lýðræðisríkja Evrópu með formlegum hætti. Er vonandi, að Evrópusambandinu beri gæfa til að taka Úkraínu í sínar raðir og að NATO veiti landinu fullnægjandi öryggistryggingu gegn viðvarandi ógn frá vænisjúkum nágranna í austri. 

 Víðtæk skoðanakönnun í Úkraínu, sem brezka tímaritið "Spectator" birti 29.07.2022, sýndi, að 84 % Úkraínumanna eru andvígir því að láta nokkur landsvæði af hendi við Rússa fyrir frið af því landi, sem var innan landamæra Úkraínu 2014 áður en forseti Rússlands hóf landvinningastríð sín gegn Úkraínu undir fjarstæðukenndum ásökunum sínum um nazistíska eiturlyfjaþræla við stjórnvölinn í Kænugarði, sem ofsæktu rússneskumælandi fólk í Úkraínu.  Ósvífni og fáránleiki þessara ásakana endurspeglast í þeirri staðreynd, að stjórnvöld Úkraínu eru lýðræðislega kjörin og forseti landsins, Volodimir Zelenski, er Gyðingaættar með rússnesku að móðurmáli sínu (ættaður úr austurhéruðunum), en tók sér úkraínsku sem aðalmál á innrásardeginum, 24.02.2022. 

Vladimir Putin hefur breytt Rússlandi í fasistaríki, og rússneski herinn berst undir merki hálfs hakakross.  Vesturlöndum stendur mikil ógn af þeirri stöðu, sem upp er komin í Austur-Evrópu. Kremlverjar hyggjast uppræta Úkraínu sem ríki, og draumurinn er að stofna samslavneskt ríki í Evrópu undir stjórn Kremlar.  Einræðisstjórninni í Kreml stafaði pólitísk ógn af lýðræðisþróuninni í Úkraínu og þoldi ekki, að ríkisstjórnin í Kænugarði sneri við Rússum baki og horfði alfarið til vesturs um samstarf á stjórnmála- og viðskiptasviði.  Það kom svo af sjálfu sér, eftir að landvinningastríð Rússa gegn Úkraínumönnum hófst 2014, að Úkraínumenn sæktust eftir samstarfi við og stuðningi Vesturlanda á hernaðarsviðinu, enda voru þeir rændir hluta af landi sínu. Hættan fyrir Rússland af NATO-aðild Úkraínu var hins vegar aldrei annað en skálkaskjól og ein af útúrborulegum "réttlætingartilraunum" á ínnrásinni 24.02.2022. 

Ef Rússar meintu þetta, hvers vegna réðust þeir þá ekki á Finnland, þegar Finnar sóttu um aðild að NATO ?  Þeim hefði reyndar ekki orðið kápan úr því klæðinu, því að finnski herinn er tilbúinn að taka á móti bjarndýrinu, og finnski herinn er ofjarl Rússahers m.v. lélega herstjórn hans í Úkraínu, lítt þróuð hergögn og lélegan anda innan rússneska hersins. Vladimir Putin dreymir um að sýna umheiminum það, sem hann kallar "mikilleik Rússlands", en honum hefur þvert á móti tekizt að sýna umheiminum, að rússneskir leiðtogar eru lygalaupar og grobbhænsni, og Rússland er í ruslflokki á öllum sviðum. Hvernig dettur þessu hyski í hug að leggja undir sig önnur lönd ?  Það er eitthvað mongólskt í blóðinu, sem þar býr að baki. 

Úkraínuher hefur nú hafið gagnsókn gegn innrásarliðinu í suðurhluta landsins og stefnir á að ná Kherson-héraði, en þar mun Katrín, mikla, 1729-1796, keisaraynja Rússlands frá Stettin í Pommern/Prússlandi, hafa unnið nokkra hernaðarsigra á sinni tíð, og í anda alræmdrar fortíðarþráar núverandi alvalds Rússlands, ætlar hann að innlima þetta svæði í Rússland.  Boðuð er málamynda atkvæðagreiðsla um sameiningu við Rússland í september 2022, og hundruðir kennara hafa verið sendir frá Rússlandi til að heilaþvo blessuð börnin. Er það í samræmi við þá argvítugu Rússavæðingu, sem yfirvöld á hernámssvæðunum stunda.  Hins vegar er starfandi vopnuð andspyrnuhreyfing í Kherson-héraðinu, sem taka mun höndum saman við úkraínska herinn um að reka óþverrana af höndum sér. 

Andspyrnuhreyfingu virðist vera að vaxa fiskur um hrygg í Rússlandi sjálfu, þrátt fyrir ógnarstjórn Kremlar, því að eldar hafa brotizt út víðs vegar um Rússland í skráningarstöðvum hersins, í verksmiðjum - jafnvel í Moskvu, í vopnageymslum og í a.m.k. einni jarðgasvinnslustöð í Síberíu.

Ljóst er, að þungavopn frá Vesturlöndum geta snúið gangi stríðsins við Úkraínumönnum í vil, ef þau verða afhent þeim í þeim mæli, sem Úkraínumenn hafa farið fram á.  HIMARS-fjölflauga, hreyfanlegi nákvæmnisskotpallurinn með 80 km drægni frá BNA er dæmi um þetta. Úkraínumönnum gætu staðið til boða 10.000 flaugar í þessa skotpalla, og þær mundu fara langt með að ganga frá getu rússneska hersins til aðgerða utan landamæra Rússlands. Úkraínumönnum hefur tekizt að eyðilegja birgðageymslur rússneska hersins og skemma aðdráttarleiðir að Kherson-borg með 8 slíkum skotkerfum.  Til viðbótar eru 8 áleiðinni, en úkraínski herinn þarf a.m.k. fimmföldun núverandi fjölda skotpalla til að reka óværuna af höndum sér.  Danir, Bretar og Eystrasaltsríkin hafa afhent flaugar á borð við Harpoon, sem grandað geta skipum, og hafa Úkraínumenn nú þegar valdið miklu tjóni á Svartahafsflota Rússa og tekið aftur Snákaeyju. Þjóðverjar hafa afhent Gephard loftvarnarkerfi og eru að undirbúa afhendingu á öflugasta skriðdreka nútímans, Leopard 2, en hafa verið sakaðir um seinagang og að vera tvíátta. Það er ekki nóg fyrir hinn kratíska kanzlara í Berlín að lýsa yfir í Reichstag, að vendipunktur hafi orðið í utanríkisstefnu Sambandsríkisins Þýzkalands.  Verkin segja meira en nokkur orð.

Vesturlandamenn verða að gera sér grein fyrir því, að alvaldur Rússlands vill lýðræðislegt stjórnkerfi þeirra feigt og að hann er haldinn landvinningaórum um útþenslu Rússlands til vesturs með vísun til landvinninga rússneska keisaradæmisins og Ráðstjórnarríkjanna.  Vesturveldin standa nú þegar í stríði við Rússland á efnahagssviðinu og á hernaðarsviðinu með milligöngu Úkraínumanna, sem bera hita og þunga blóðfórnanna í þágu fullveldis lands síns.  Hættan er sú, að Vesturlönd geri sér ekki grein fyrir því í tæka tíð, að þau hafa ekki efni á því, að Úkraínumenn tapi þessu stríði við kvalara sína um aldaraðir. Hergagnaframleiðslu verður að setja í gang strax, eins og Vesturlöndum hafi verið sagt stríð á hendur.  Ekki dugir að reiða sig á, að birgðirnar dugi. Þær gera það fyrirsjáanlega ekki, allra sízt birgðir Evrópuríkjanna.  

Mest mæðir á Bandaríkjamönnum, og þeir hafa látið í té margháttaða verðmæta aðstoð.  Stefnumörkun þeirra var látin í ljós, þegar utanríkisráðherrann, Antony Blinken, og varnarmálaráðherrann, Lloyd Austin, sneru til baka úr snöggri ferð til Kænugarðs 24. apríl 2022.  Austin sagði þá:

"Úkraínumenn eru staðráðnir í að bera sigur úr býtum.  Við erum staðráðnir í að hjálpa þeim til þess. Og það sem meira er: Við viljum sjá svo stóra burst dregna úr nefi Rússa, að þeir verði ekki færir um að endurtaka það, sem innrásin í Úkraínu felur í sér."  

Nú er eftir að sjá, hvort þessum orðum Bandaríkjamannsins fylgja efndir.  Mikið ríður á því. 

    


Hóflaus skattheimta er hagkerfinu skaðleg

Íslendingar eru ein skattpíndasta þjóð í heimi.  Þetta kemur auðvitað fram í samanburði á samkeppnishæfni þjóða, en þar eru Íslendingar eftirbátar hinna Norðurlandaþjóðanna, og til að festa góð lífskjör (kaupmátt) í sessi, þarf að bæta samkeppnishæfnina. Skattheimtan leikur þar stórt hlutverk, en hvað er hófleysi í þessu sambandi ?  Margar snilldarhugmyndir og drög að lausnum á viðfangsefnum hafa orðið til með uppdráttum á munnþurrkum á matarborðinu undir góðum málsverði. Ein slík er kennd við bandaríska hagfræðinginn dr Arthur B. Laffer - Laffer ferillinn og sýnir, að til er skattheimtugildi (optimum-beztunargildi) á hverju sviði skattlagningar, sem hámarkar beinar heildartekjur (skattspor) hins opinbera af skattlagningunni, en bæði við lægri og hærri skattheimtu verða heildarskatttekjurnar minni. 

Staksteinar Morgunblaðsins 25. júlí 2022 báru heitið:

"Skyndilegt áhugaleysi um skatta".

Þar stóð m.a. þetta:

"Afgangurinn [af kaupverði útgerðarfélagsins Vísis], mrdISK 6,0, er greiddur með peningum, en eins og greint var frá í frétt Morgunblaðsins á laugardag [23.07.2022], fer stærstur hluti þeirrar fjárhæðar í skattgreiðslu eða vel á fimmta milljarð króna. ....

Þetta [áhugaleysi ýmissa fjölmiðla á þessari háu skattheimtu] kemur nokkuð á óvart ekki sízt í ljósi þess, að gagnrýnendur viðskiptanna fundu m.a. að því, að ríkið fengi ekkert út úr þeim.  Fyrrverandi ríkisskattstjóri, sem hefur jafnan miklar áhyggjur, ef einhvers staðar liggur óskattlögð króna, sagði t.a.m., að viðskiptin færu fram "án þess að þjóðin fengi krónu í sinn hlut"."

Þessi viðskipti eru ofureðlileg og stórfurðulegt að halda því fram, að skattalöggjöfin hérlendis spanni ekki viðskipti af þessu tagi.  Það er deginum ljósara, að lítilsigldir vinstri menn ruku upp til handa og fóta vegna viðskipta, sem þá varðar ekkert um, og fóru að fiska í gruggugu vatni í von um, að einhver teldi sig hafa verið hlunnfarinn. 

Að lokum stóð í þessum Staksteinum:

"Þjóðin hefur notið þess ríkulega, bæði beint og óbeint, að hér á landi er sjávarútvegur rekinn með hagkvæmum hætti, en er ekki niðurgreiddur, eins og almennt tíðkast í nágrannalöndum okkar.  Eigi hann áfram að skila miklu í þjóðarbúið, þarf hann að búa við viðunandi rekstrarumhverfi, ekki sízt stöðugleika í regluverki."

Hér munar mestu um regluna um frjálst framsal nýtingarréttarins, sem var að verki í hagræðingarskyni, þegar almenningshlutafélagið Síldarvinnslan á Neskaupstað festi kaup á fjölskyldufyrirtækinu Vísi í Grindavík, og önnur regla um sjávarútveginn á við veiðigjöldin, sem er ekkert annað en sérskattur á sjávarútveginn og auðvitað íþyngjandi sem slíkur, enda nemur hann þriðjungi framlegðar fyrirtækjanna (framlegð er það, sem fyrirtækin hafa upp í fastan kostnað sinn). Veiðigjaldið var á sínum tíma réttlætt með því, að í sjávarútveginum væri fólgin auðlindarenta, en sú hefur aldrei fundizt. 

Nýjasta dæmið um, að í sjávarútveginum fyndist engin auðlindarenta (þ.e. hagnaður umfram annan atvinnurekstur), kom fram í grein Svans Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Bláa hagkerfisins og sjávarútvegsfræðings, í Morgunblaðinu 21. júlí 2022. Hún hófst þannig:

"Í oft og tíðum ruglingslegri umræðu um sjávarútveginn hafa margir lagt lykkju á leið sína til þess að halda því fram, að hagnaður og afkoma fyrirtækja þar sé önnur og betri en þekkist í íslenzku samfélagi. [Þetta er hin ósanna fullyrðing um auðlindarentu, sem skapi ríkinu rétt til viðbótar skattheimtu - innsk. BJo.] Það geri síðan fyrirtækjum í sjávarútvegi kleift að kaupa "upp" aðrar atvinnugreinar [so what ?].  Ekkert er fjær lagi, því [að] fyrirtæki í sjávarútvegi eru ekki með betri afkomu en gengur og gerist, og arðsemi þar er sízt meiri en við eigum að venjast á íslenzkum fyrirtækjamarkaði.  Því miður, liggur mér við að segja, en sem betur fer eru mörg fyrirtæki í sjávarútvegi vel rekin og skila góðri afkomu, þó [að] þau starfi í mjög krefjandi umhverfi, þar sem alþjóðleg samkeppni er hörð, á sama tíma og þau þurfa sífellt að laga sig að breytingum, sem lúta að grunnþáttum greinarinnar."  

Svanur Guðmundsson bar síðan saman framlegð í % af veltu fyrirtækja með a.m.k. 80 % af veltu í hverri af 10 atvinnugreinum samkvæmt ársreikningum 2020-2021.  Framlegð sjávarútvegs, sem ein atvinnugreina sætir því af hálfu löggjafans, að framlegðin sé skattstofn, nam 25 %, en meðaltal 10 greina var 26,3 %. Hann bar líka saman hagnaðinn sem % af eigin fé fyrirtækjanna. Hjá sjávarútveginum nam hagnaðurinn 14 %, en meðaltal 10 fyrirtækja nam 13,5 %. 

Þrátt fyrir að þessi athuguðu 2 ár hefðu verið sjávarútveginum tiltölulega hagfelld, er alls enga auðlindarentu að finna í fórum hans.  Hvað veldur því, að sumir hagfræðingar búa til spuna um atvinnugrein, sem gefur skattasjúkum pólitíkusum, embættismönnum, blaðamönnum o.fl. tilefni til að krefjast viðbótar skattlagningar á atvinnugrein, sem á í höggi við niðurgreiddar vörur á erlendum mörkuðum ?

Skattspor sjávarútvegsins er stórt, því að hann veitir mörgum vinnu, bæði beint og óbeint, og greiðir há laun.  Hærri skattheimta af honum en nú tíðkast yrði aðför að dreifðum byggðum landsins, þar sem sjávarútvegur er kjölfesta byggðarlaga víða.  Óhjákvæmilega drægi hærri skattheimta úr getu sjávarútvegsins til fjárfestinga, sem drægi strax úr hagvexti í landinu, og innan skamms kæmist hann á vonarvöl, því að fólk og fé tæki að forðast hrörnandi atvinnugrein, og hann yrði hreinlega undir í samkeppninni á erlendum mörkuðum. 

Í stað þess að vera flaggskip íslenzks atvinnulífs yrði hann að ryðkláfi, sem ríkissjóður yrði sífellt að hlaupa undir bagga með í nafni byggðastefnu.  Sú tíföldun veiðigjalda, sem aldurhnignir Berlínarkommar og vizkubrekkur í Icesave-hlekkjum úr HÍ hafa talað fyrir, er ekki einvörðungu svo langt til hægri á X-ási Laffer-ferilsins, að hann sé kominn að núlli (0), heldur hefur Laffer-ferillinn í þessu tilviki skorið X-ásinn, og ríkið fær þá ekki lengur skatttekjur af brjálæðislegri skattheimtu, heldur verður ríkissjóður fyrir útgjöldum við að halda atvinnugreininni á floti.  Það er einmitt draumsýn kommúnistans.     

 


Ánægjuleg þróun matvælaframleiðslu

Kjötframleiðsla á Íslandi á undir högg að sækja.  Kjötneyzla á mann er mjög mikil eða um 50 kg/ár, en hún fer minnkandi á sama tíma og grænmetisneyzla góðu heilli vex. Innlenda kjötið keppir bæði við innflutt kjöt og vaxandi framboð af fiski; bæði er fjölbreytt úrval villtra fisktegunda og af eldisfiski.  Þessi misserin á sér stað gríðarleg aukning í eldisfiski, bæði á sjó og landi.  Vegna mikillar nýtniaukningar og vöruþróunar innan hefðbundins sjávarútvegs er samt ekki líklegt, að útflutningsverðmæti eldisfisks verði meiri en villts fisks á þessum eða næsta áratugi.  Mikil aukning framleiðslu á próteinríkri fæðu með tiltölulega lítið kolefnisspor er fagnaðarefni. 

Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, gerði þróun í fiskeldi að umræðuefni í Morgunblaðinu, 16. júlí 2022, undir fyrirsögn, sem vísar til merkra tíðinda á þeim vígstöðvum:

"Strategískar ákvarðanir um fisk".

Greinin hófst þannig:

"Frá því var skýrt undir lok júní [2022], að færeyska fiskeldisfyrirtækið Bakkafrost hefði keypt Boeing-757 þotu til að ná forskoti í keppninni um að koma ferskum laxi á borð veitingastaða á Manhattan á innan við 24 tímum frá slátrun. 

Í frétt brezka blaðsins The Guardian um þotukaupin segir, að stjórnendur Bakkafrosts, sem einnig eigi Scottish Salmon Company (nú Bakkfrost Scotland), svari gagnrýni á kolefnisspor þotuflugsins yfir Atlantshaf á þann veg, að sporið minnki með því að fara ekki um Heathrow-flugvöll  með laxinn; jafnframt minnki matarsóun, þegar tíminn styttist [á] milli slátrunar og matargerðar bandarísku viðskiptavinanna.  

Í Færeyjum tala þeir um eldislaxinn sinn sem "kampavínslaxinn".  Hann sé sem sagt allra laxa beztur.  Seiðin í þennan hágæðalax koma héðan, þar sem eldisfyrirtæki verða sífellt öflugri.  Í nýjasta tölublaði Bændablaðsins (7. júlí [2022]) um öran vöxt landeldis, einkum á laxi og bleikju, en 5 fyrirtæki, sem stundi "þauleldi fisks á landi", hafi nýlega stofnað samtökin Eldís, Landeldissamtök Íslands."

Það er saga til næsta bæjar, þegar fyrirtæki kaupir stóra vöruflutningaflugvél til að spara flutningatíma og skjóta keppinautunum ref fyrir rass, með því að bjóða ferskari vöru en jafnvel framleiðendur í heimalandinu eða í nágrannaríkjum, t.d. Kanada í þessu tilviki, geta gert. Þetta er áreiðanlega framkvæmt að vel athuguðu máli og sýnir, hversu mikils kröfuharðir viðskiptavinir meta ferska matvöru, enda eru þeir fúsir að greiða meira fyrir hana en hina.

  Við Ísland eru ekki síðri aðstæður til fiskeldis en við Færeyjar.  Þótt sjórinn sé hlýrri við Færeyjar og vöxturinn þar með hraðari, fylgir sá böggull skammrifi, að lúsin er þar vágestur allt árið.  Hér lifir laxalúsin ekki vetrarkuldann í sjónum.  Eitrun er því beitt í meira mæli þar en hér. 

Íslendingar eru þar að auki með ás uppi í erminni í samkeppninni við fiskeldisfyrirtæki annars staðar við Norður-Atlantshaf, þar sem er landrými, nægt ferskvatn, raforka á hagstæðu verði og síðast en ekki sízt víða jarðvarmi, sem gefur af sér hitaveituvatn til að stýra vaxtarhraðanum.  Þá losna landeldisfélögin við alla áhættu af blöndun eldisfisks við villtan lax, og lækkar þá eftirlitskostnaður og viðhaldskostnaður kera.  Það hefur reyndar verið gert allt of mikið úr áhættu erfðablöndunar hérlendis, þar sem sjókvíaeldi er bannað á Vesturlandi og Norðurlandi (nema í Eyjafirði), og er ekki stundanlegt úti fyrir Suðurlandi, nema í úthafskvíum framtíðarinnar.  Þá er langur vegur á milli þess, að eldislax sleppi og að hann æxlist með villtum laxi og að erfðaeinkenni eldislaxins komi fram í lífvænlegum afkvæmum.  

Þessari fróðlegu grein lauk Björn Bjarnason þannig:

 "Fjórum vikum fyrir Vísis-kaupin birtust fréttir um, að Síldarvinnslan hefði keypt 34,2 % hlut í norska laxeldisfélaginu Arctic Fish Holding AS fyrir um mrdISK 14,8.  Arctic Fish Holding á 100 % hlutafjár í Arctic Fish ehf., einu af stærstu laxeldisfyrirtækjunum hér; rekur það eldisstöðvar á Vestfjörðum með rúmlega 27 kt/ár leyfi fyrir eldi í sjó.  

Án þess á nokkurn hátt sé gert lítið úr eignarhaldi á þorskígildistonnum og gildi veiða og vinnslu þeirra, blasir við, að hér verði sama þróun og í Noregi: eldi í sjó og á landi og útflutningur á slátruðum eldisfiski vegi meira við sköpun verðmæta en gamalgrónu veiðarnar. 

Alls eru 98 % íslenzks sjávarfangs flutt á erlenda markaði.  Þar er samkeppni hörð og kröfur miklar.  Flugvélarkaup Bakkafrosts sýna, að keppinautar um beztu markaðina vilja skapa sér forskot með ofurgæðum.  Sjávarútvegsfyrirtæki hér keppa við þá beztu. 

Í þessu ljósi ber að skoða strategískar ákvarðanir öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjanna.  Þær eru teknar til að styrkja samkeppnisstöðu þjóðarinnar allrar sem framleiðanda matvæla í hæsta gæðaflokki.  Er fagnaðarefni, að fyrirtækin hafi fjárhagslegan styrk til stórsóknar án þess að vera háð opinberri fyrirgreiðslu." 

Undir þetta allt, ályktanir og fullyrðingar Björns, skal heils hugar taka. Íslendingar hafa borið gæfu til að skjóta stoðum undir öflugan sjávarútveg.  Hann færir nú út kvíarnar og fjárfestir í fiskeldi, bæði í sjó og á landi.  Þröngsýnis- og smammsýnismenn hérlendir hafa gagnrýnt erlent eignarhald á fiskeldinu.  Það er óviturleg gagnrýni, enda hefur erlendu fjármagni fylgt þekking, tækni og markaðssambönd.  Nú þegar fiskeldinu vex fiskur um hrygg, eru Íslendingar að flytja fjármagn í þessa grein, m.a. úr hefðbundnum sjávarútvegi.  Hælbítar sjávarútvegsins hafa af þekkingarleysi og almennri bölsýni sinni gagnrýnt hann fyrir að fjárfesta í öðrum greinum, þótt þeim komi það lítið við. Er það óeðlilegt m.v. þær þröngu skorður, sem íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum eru settar um aflahlutdeildir ? Skyldu sömu aðilar þá vilja leggjast þversum gegn fjárfestingum sjávarútvegsins í fiskeldinu ?  Þessir gagnrýnendur sjávarútvegs og fiskeldis virðast vera  gjörsamlega úti á þekju.  Þetta er yfirleitt sama fólkið og gagnrýnir fiskveiðistjórnunarkerfið af talsverðri heift.  Það skilur ekki enn löngu viðtekin sannindi um, að framseljanlegar nýtingarheimildir aflahlutdeilda eru grundvöllur allrar vel heppnaðrar auðlindanýtingar. Það klifar á þeirri illa ígrunduðu fullyrðingu í anda marxista, að þetta fyrirkomulag feli í sér arðrán, en það er öðru nær, því að þetta er einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmasta fyrirkomulagið.  Evrópusambandið býr við annað fiskveiðistjórnunarkerfi, og þar er nú verið að ausa út í annað skiptið á stuttu tímabili fé úr opinberum sjóðum í "björgunarpakka" handa sjávarútvegi ESB.  

Stærsti vaxtarbroddur innlendrar matvælaframleiðslu í fjárfestingum talið og tonnum próteins er laxeldi á landi.  Á þessum áratugi gæti landeldið numið yfir 130 kt/ár til slátrunar, sem gætu gefið um 150 mrdISK/ár í útflutningstekjur.  Ef slátrun upp úr sjókvíum undir lok þessa áratugar verður rúmlega tvöföld að magni m.v. 2021, þá gæti andvirði hennar numið um 100 mrdISK/ár, svo að eldið gefi þá alls um 250 mrdISK/ár.  Árið 2021 nam heildarútflutningsverðmæti hefðbundins sjávarútvegs mrdISK 296, og binda má vonir við hækkun þessarar upphæðar að raunvirði vegna vaxandi gæða, meiri úrvinnslu, hækkandi nýtingar og vaxandi afla, þar sem ástand lífríkis í hafinu umhverfis Ísland lofar góðu um framhaldið.  Þess vegna hillir ekki undir meiri tekjur af fiskeldi en hefðbundnum sjávarútvegi, hvað sem síðar verður.  Alkunna er, að í Noregi hefur fiskeldið farið tekjulega fram úr hefðbundnum sjávarútvegi, en þar eru ekki viðlíka takmarkanir á laxeldi í sjó, eins og hér við land. 

Bændablaðið fjallaði um þann efnilega vaxtarbrodd, landeldi, 7. júlí 2022.  Undir fyrirsögninni:

"Landeldi í örum vexti",

stóð þetta m.a.:

"Rúnar [Þór Þórarinsson] segir umfang landeldis hér á landi vera í örum vexti.  

"Samherji rekur eldisstöð í Öxarfirði, þar sem áherzlan er á áframeldi á laxi og bleikju, en þar að auki rekur Samherji bleikjueldi á landi í Grindavík og við Vatnsleysuströnd.  Fyrirtækið áformar enn fremur að stórauka framleiðsluna á laxi með uppbyggingu sinni á Reykjanesi, [í] svo nefndum Auðlindagarði. Áformar Samherji að auka þannig framleiðslu sína á landöldum laxi upp í 45 kt/ár.""

   Líklega er Samherji með þessum fjárfestingum að skipa sér sess sem brautryðjanda í heiminum á sviði landeldis laxfiska. Það hefur glímt við hælbíta í fjölmiðlaheiminum, og jafnvel Seðlabankanum undir fyrrverandi Seðlabankastjóra, sem aldrei hafa skapað nein verðmæti og líklega aldrei neitt annað en niðurrif og skítkast, eins konar eiturnöðrur. 

Með aðgerðum sínum nú á sviði fjárfestinga í laxeldi sýnir fyrirtækið í hnotskurn, hversu framsækið og verðmætt það er, þar sem það haslar sér völl á sviði ferskvatnsnýtingar og hitaveitunýtingar til matvælaframleiðslu, sennilega að langmestu leyti í framtíðinni úr íslenzku fóðri.  Þróun fiskeldis hérlendis í samstarfi Norðmanna og Íslendinga og í auknum mæli í krafti fjárfestinga íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja er ævintýri líkust. 

"Saman tekið eru því 131,5 kt af landöldum laxi á ársgrundvelli við sjóndeildarhringinn hjá þessum 5 landeldisfélögum.  Langmest eru uppbyggingaráformin, hvað landeldi varðar, á Suðurlandi og [á] Reykjanesi, segir Rúnar og bætir við, að til samanburðar hafi heildarmagn þess lax, sem slátrað var úr sjókvíum við Ísland árið 2021 verið alls 44,5 kt.  Nam útflutningsverðmæti þess rúmum mrdISK 20 á síðasta ári."  

Ef engir óvæntir erfiðleikar koma upp í landeldinu, stefnir það hraðbyri í að verða með talsvert meiri framleiðslu en sjókvíaeldið, þar til tæknin leyfir úthafseldi.  Verður spennandi að sjá, hvort einhver verðmunur verður á afurðum þessara tveggja greina, en kostnaðarmunurinn er verulegur.  Það vekur athygli, að samkvæmt ofangreindum upplýsingum hefur verð fyrir sjókvíaafurðirnar aðeins numið um 450 ISK/kg, sem er svipað og fyrir t.d. þorskinn, en yfirleitt hefur verð laxins verið a.m.k. tvöfalt þorskverðið. 

""Lífrænn úrgangur og hliðarafurðir eru orðnar enn mikilvægari auðlindir en áður til áburðarnotkunar í ljósi mikilla hækkana á innfluttum, tilbúnum áburði.  Hlutverk BÍ og Eldís næstu mánuði verður að vinna að sameiginlegri umsókn í samkeppnissjóði á sviði loftslags- og umhverfismála á grundvelli þeirrar hugmyndafræði, að með innlendri endurnýtingu á lífrænum efnum, sem falla til við landbúnað og landeldi, sé hægt að framleiða áburð, sem mætir þörfum innanlandsmarkaðar, og þannig stuðla að aukinni sjálfbærni í íslenzkum landbúnaði", segir í sameiginlegri tilkynningu félaganna.  Með samstarfsverkefninu sé hafin ein af þeim framtíðaraðgerðum, sem lögð var til í spretthópi matvælaráðherra."   

Þetta hljómar mjög vel, og ekki er að efa, að efnainnihaldið og áburðargildið er ríkt, en það verður að leggja rannsóknir til grundvallar á því, hversu mikið þarf að bera á til að fá æskilega uppskeru á hverju ræktarlandi fyrir sig. Skemmst er að minnast hraklegrar ofstjórnar ríkisstjórnar Sri Lanka á bændum þar, en hún bannaði þeim að nota tilbúinn áburð, og allir bændur skyldu umsvifalaust leggja fyrir sig lífræna ræktun.  Afleiðingin varð hrun landbúnaðarframleiðslunnar á Sri Lanka, gjaldeyrisvarasjóðurinn varð uppiskroppa með fé, og hungursneyð hélt innreið sína í landið.  Ekki má gleyma því, að vegurinn til heljar er varðaður góðum áformum. 

Orkuverð í Evrópu mun ekki lækka niður í jafngildi 70 USD/tunnu hráolíu, sem það var í um áramótin 2021/2022.  Það gæti rólað um 100 USD/tunnu næstu árin, og gasverðið verður áfram hátt, því að gasflæðið frá Rússlandi til Evrópu er nú aðeins um 40 % af því, sem var, og stefnt er að því, að það verði ekkert á næstu árum.  Í staðinn mun koma jarðgas víða að, t.d. frá gaslindum úti fyrir ströndum Ísraels um lögn til Krítar, Kýpur og meginlands Grikklands.  Jarðgas á gasformi frá Ísrael og á vökvaformi (LNG) annars staðar frá, verður dýrara en Rússagasið, og þessi viðskipti munu auðga Ísrael mjög (tugmilljarða USD tekjur á mánuði).  Þannig er líklegt, að rekstrargrundvöllur verði fyrir vetnis- og ammoníakframleiðslu með raforku hérlendis og arðsamt rafeldsneyti og áburð úr þessu "hráefni".   

 


Finnlandisering í Evrópu er liðin tíð

Dr Otto von Habsburg (1912-2011) vakti athygli á því í ræðu árið 2003, að Vladimir Putin, þá nýskipaður arftaki verkfræðingsins Borisar Jeltsin á forsetastóli Rússlands, hefði í ræðu í Minsk í Hvíta-Rússlandi (Belarus) árið 2000 viðrað hugmyndir sínar um endurheimt nýlendna Rússlands í Evrópu, en útþenslukeisarar Rússlands höfðu gert Úkraínu, Eystrasaltslöndin, Finnland, Pólland o.fl. lönd að nýlendum Rússlands. Þessi kaldrifjaði og einræðissinnaði nýi forseti, þá undir sýndarmerkjum lýðræðis, en nú einvaldur til æviloka, vissi, að hann yrði að beita hervaldi til að framkvæma hugmyndafræði sína, en í svívirðilegri innrás í Úkraínu 24. febrúar 2022, misreiknaði þessi ógnarstjórnandi sig herfilega.  Hann ímyndaði sér, að úkraínski herinn myndi lyppast niður og leggja niður vopn og að Vesturveldin myndu líka lyppast niður og samþykkja innlimun Úkraínu á nýjan leik. Ef menn af gamla Kaldastríðsskólanum á borð við Henry Kissinger, bundnir í þrælaviðjar áhrifasvæða stórvelda, Finnlandiseringu, hefðu mátt ráða, hefði svo vafalítið orðið, en ofan á urðu réttmæt sjónarmið að alþjóðalögum um, að ekkert ríki mætti komast upp með það að beita fullvalda nágrannaríki sitt hervaldi. Putin er ofbeldismaður, sem hættir ekki fyrr en hann er stöðvaður, nákvæmlega eins og Adolf Hitler.  Þess vegna ber höfuðnauðsyn til að reka rússneska herinn út úr Úkraínu, þ.m.t. Krímskaga. 

Umsóknir Finnlands og Svíþjóðar um NATO-aðild eru kjaftshögg á granir Kremlarherranna, sem reyndu að réttlæta óverjanlega ákvörðun sína um innrás í Úkraínu með því, að þar með væru þeir að koma í veg fyrir að fá NATO upp að vesturlandamærum sínum. Nú hafa yfirgangssamir og ósvífnir Kremlarherrar orðið að kyngja því, að handan 1300 km landamæra við Finnland verður NATO-ríki með einn öflugasta her í Evrópu og öflugasta stórskotaliðið.

Hortugar og ógnandi yfirlýsingar þeirra um, að innganga Úkraínu í NATO mundi hafa hernaðarlegar afleiðingar, eru aðeins skálkaskjól nýlenduherra í landvinningahug.  Þeim stendur engin ógn af varnarbandalaginu NATO, og þeir eiga alls ekki að ráða ákvörðunum fullvalda nágranna sinna um utanríkis- og varnarmál.  Það er kominn tími til að vinda ofan af þeirri vitleysu, að þessir grimmlyndu og gjörspilltu stjórnendur Rússlands hafi einhver áhrif á það, hvernig aðrar þjóðir í Evrópu haga sínum málum, enda hefur styrkur Rússlands verið stórlega ofmetinn hingað til, og Rússland hefur nú beðið siðferðislegt skipbrot og bíður vist í skammarkróki heimsins. 

Rússlandsforseti hefur haldið því fram, að stækkun NATO til austurs, að þrábeiðni þjóðanna þar eftir fall Ráðstjórnarríkjanna, sé brot á samkomulagi, sem James Baker, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi gefið Ráðstjórnarríkjunum í febrúar 1990.  Margir stjórnmálamenn og stjórnmálaskýrendur á Vesturlöndum átu það upp eftir Kremlarherrum, að stækkun NATO til austurs væri óskynsamleg, af því að Rússum stæði ógn af slíku.  Angela Merkel fór illu heilli fyrir þessum sjónarmiðum á NATO-fundi 2008, þar sem umsókn Úkraínu var til umfjöllunar og knúði Bandaríkin til undanhalds um þetta. Undirlægjuháttur hennar gagnvart Rússlandi reið ekki við einteyming.

Ef innganga Úkraínu hefði verið samþykkt, hefði Úkraínumönnum verið hlíft við þeim hörmungum, sem síðan hafa á þeim dunið fyrir tilverknað glæpsamlegra afla í Rússlandi. "Partnership for Peace" eða bandalag við NATO um frið veitir þjóðum ekki öryggistryggingu í viðsjárverðum heimi, og þess vegna sóttu Svíar og Finnar um inngöngu. 

Þessi málatilbúnaður Rússa um samkomulag við Baker 1990 er að engu hafandi, enda finnst ekkert skriflegt um það.  Orð Bakers áttu ekki við löndin í Austur-Evrópu, heldur var hann að tala um Austur-Þýzkaland, og við Endursameiningu Þýzkalands áttu þau ekki við lengur. Eftir upplausn Varsjárbandalagsins um 18 mánuðum eftir að orð Bakers féllu, hrundu forsendur þeirra.

Samkomulag á milli NATO og Rússlands var undirritað árið 1997, og þar voru engar hömlur lagðar á ný aðildarríki NATO, þótt stækkun hefði verið rædd þá þegar.  Tékkland, Ungverjaland og Pólland gengu í NATO u.þ.b. 2 árum seinna.  Samkomulagið, sem hefur verið brotið í þessu samhengi, er loforð Rússlands gagnvart Úkraínu frá 1994 (Búdapest-samkomulagið) um að beita Úkraínu hvorki efnahagsþvingunum né hernaðaraðgerðum. Samkvæmt þessu samkomulagi Úkraínumanna, Rússa og Breta afhenti Úkraína Rússlandi kjarnorkuvopnin, sem hún erfði frá Ráðstjórnarríkjunum.

NATO á fullan rétt á að stækka.  Skárra væri það nú.  Samkvæmt lokaútgáfu Helsinki-samningsins 1975, sem var m.a. undirritaður af hálfu Ráðstjórnarríkjanna, er ríkjum frjálst að velja sér bandamenn.  Varsjárbandalagsríkin þjáðust mjög undir rússnesku ráðstjórninni.  Hvers vegna skyldu aðildarríkin ekki leita skjóls gagnvart ríki, sem þau þekkja af grimmilegri kúgun ? 

Í mörg ár töldu Finnar og Svíar hagsmunum sínum betur borgið utan NATO.  Þetta breyttist, þegar þessi ríki horfðu upp á algert virðingarleysi Rússlands gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum og lögum 24. febrúar 2022.  Eitt af mörgum grundvallarmálum, sem nú eru í húfi í Úkraínu, er réttur fullvalda ríkja til að ákvarða sjálf örlög sín. 

Var stækkun NATO til austurs viturleg ráðstöfun ?  Hún hefur hingað til tryggt öryggi þessara ríkja, sem augljóslega hefði verið í uppnámi annars samkvæmt reynslunni frá 24. febrúar 2022. Þannig var hún viturleg ráðstöfun, og að sama skapi hefði átt að skella skollaeyrum við geltinu úr Kreml 2008 og verða við ósk Úkraínu um aðild.  Sífelld friðþæging Þýzkalands og Frakklands með því að henda beinum í Kremlarhundinn var óábyrg og skammsýn. Rússar láta eins og þeir hafi ástæðu til að óttast árás að fyrra bragði frá NATO, en það er helber áróður, og stækkun NATO breytir því ekki.  Kaldrifjaður Putin hefur ýtt undir rússneska þjóðerniskennd og notað rétttrúnaðarkirkjuna til að efla völd sín.  Hún hefur nú lýst stríð Rússlands í Úkraínu heilagt, hvorki meira né minna, enda fá Rússar að heyra, að þar stundi rússneski herinn afnazistavæðingu, sem er eitthvert vitlausasta áróðursbragð, sem heyrzt hefur frá nokkrum einræðisherra um langa hríð.

Meintar ógnanir við rússneskumælandi fólk handan landamæranna voru skálkaskjól Putins fyrir innrásinni í Georgíu 2008 og í Úkraínu 2014. Merkja menn ekki sömu klóförin hér og í Súdetahéruðum Tékkóslavikíu 1938 og í Póllandi 1939 (Danzig-hliðið og Slésía). Í báðum tilvikum höfðu stórveldi misst spón úr aski sínum og leituðust við með ólögmætum hætti að rétta hlut sinn. Í ljós hefur komið, að Wehrmacht var þó miklu öflugri en þessi Rússaher við framkvæmd skipana alræðisherrans. 

NATO var ekki annar orsakavaldur í þessu sjónarspili nú en sá að veita Austur-Evrópuríkjunum, sem í það gengu, skjól gagnvart árásargirni risans í austri.  Hið eina, sem stöðvar villimennina, sem þar hafa hrifsað til sín völdin með fláræði, er samstaða og einarður viðnámsþróttur Vesturveldanna og heilsteyptur stuðningur við Úkraínu á öllum sviðum. 

  Finnar og Svíar  nutu Bandalags um frið (Partnership for Peace) við NATO, en treystu ekki lengur á, að það dygði þeim til öryggis eftir 24. febrúar 2022. Nú liggur í augum uppi, að hefði NATO hafnað aðildarbeiðnum fyrrverandi Varsjárbandalagsríkja, mundi hafa myndazt öryggislegt tómarúm í Austur-Evrópu vestan Úkraínu, sem hefði freistað Rússa að fylla. Finnland og Svíþjóð komust að réttri niðurstöðu um það, að Rússlandsforsetinn Putin er hættulegur og ófyrirsjáanlegur - ekki vegna NATO, heldur þess, hvernig hann stjórnar Rússlandi.  Umsókn þeirra ætti að samþykkja við fyrsta mögulega tækifæri, enda mun aðild þeirra styrkja NATO, einkum á Eystrasalti, við varnir Eystrasaltsríkjanna og á norðurvængnum almennt.         

 


Ætlar óstjórninni aldrei að linna ?

Reykvíkingar felldu furðudýrin, sem mynduðu meirihluta borgarstjórnar, í kosningum 14. maí 2022, frá völdum, og er það í annað skiptið í röð, sem lýst er frati á stjórnarhætti borgarstjórans og önnur furðudýr, sem með honum hafa myndað meirihluta borgarstjórnar.

Þá gerist það, að eini fulltrúi Viðreisnar, sem inn komst, spyrðir sig við bandalag vinstri flokkanna, sem myndað var um þá huggulegu fyrirætlun þeirra að hundsa kosningaúrslitin og gefa Reykvíkingum langt nef.  Þótt Viðreisn flaggi borgaralegum gildum og hugmyndum á tyllidögum og fyrir kosningar, er nú ljóst, að ekkert er að marka hana; hún er ómerk orða sinna og kom í veg fyrir, að Framsóknarflokkurinn gæti a.m.k. látið líta út fyrir, að hann vildi efna kosningafyrirheit sín í Reykjavík. Viðreisn neitaði að reyna að verða við ábendingum kjósenda um nauðsyn róttækrar stefnubreytingar í Reykjavík og situr nú brennimerkt í kratasúpunni. 

Þessi kratamoðsuða tók 4 nýja borgarfulltrúa Framsóknar í gíslingu til að endurlífga gamla meirihlutann án VG, og er það eins óbjörguleg byrjun á "samstarfi" um stjórnun borgarinnar og hugsazt getur.  Þetta er pólitískt eitrað fyrirkomulag fyrir bæði Viðreisn og Framsókn, eins og fljótlega mun koma á daginn.

Í Morgunblaðinu 31. maí 2022 voru viðraðar skoðanir ritstjórnarinnar í leiðara undir fyrirsögninni:

 "Engar breytingar, og reyndar verri en engar".

Í lok hennar stóð þetta:

"Splunkunýr leiðtogi kom í Framsókn [frá hægri - innsk. BJo] skömmu fyrir kosningar í Reykjavík nú.  Óljóst var, hverju hann lofaði, en þó ekki jafn óljóst og í dæmunum, sem nefnd voru [af loforðum Framsóknar fyrir þingkosningar - innsk. BJo].  Hann lofaði ítrekað [m.a. í flaumi dýrra auglýsinga - innsk. BJo] og alltaf, þegar hann kom því að, að Framsóknarflokkurinn nýi í borginni myndi tryggja breytingar. Þetta var risastóra loforðið, enda hið eina, sem menn muna, sem eykur stærðina enn.  Og efndin eina og ógnarsmá[a] er að tryggja, að Dagur Bje E, sem kjósendur gerðu allt, sem þeir gátu til að losna við, yrði áfram, og að hans meginverkefni yrði, eins og áður, að tryggja bensínsölum, sem leggja upp laupa, milljarða [ISK] á milljarða ofan í fullkomnu heimildarleysi og andstöðu við reglur og hefðbundið verklag borgarinnar til tuga ára."  

Þarna er sýnt fram á, að Framsóknarflokkurinn í borginni lætur furðudýrin í föllnum vinstri meirihlutanum ekki einvörðungu teyma sig á asnaeyrunum inn í pólitískt öngstræti, heldur út í kviksyndi spillingar, sem grafið hafur um sig undir verndarvæng Samfylkingarinnar í borginni. 

Hvernig getur Framsóknarflokkurinn í Reykjavík litið á það sem hlutverk sitt að endurnýja völd sérvitringa og furðudýra, sem misbeita skipulagsvaldi sínu í þágu minnihlutasjónarmiða sinna um, að Reykjavíkurflugvöllur skuli fara sem fyrst úr Vatnsmýrinni, og reyna að gera hann óstarfhæfan með íbúðabyggingum (á hæðina) í grennd auk fleiri óþurftarverka ? 

Önnur dæmi um misbeitingu skipulagsvalds eru af sviðum samgangna á landi, en furðudýrin tóku mislæg gatnamót út af aðalskipulagi borgarinnar, svo að Vegagerðin færi ekki að huga að fjárfestingum í alvöru og löngu tímabærum samgöngubótum.  Alræmt er síðan, þegar þetta stæka afturhald skipulagði íbúðabyggð (án skóla) í Vogahverfi í veg fyrir hagkvæmustu legu Sundabrautar að dómi Vegagerðar, en rök samtaka um bíllausan lífstíl og furðudýranna í gamla meirihlutanum gegn Sundabraut eru, að hún auki á umferðina og auki þar með mengun og losun koltvíildis.  Þegar veruleikafirrtir fá völd, er bara skáldað upp "nýjum sannleik", sem alltaf er eins og út úr kú.   

Aðför hins afdankaða meirihluta í borgarstjórn að fjölskyldubílnum er annálsverður í sögu Reykjavíkur, því að þar er fullkominn fíflagangur á ferðinni með þrengingum gatna, fuglahúsum og framkvæmdastoppi á umbætur.  Hugmyndafræði furðudýranna snýst um að gera ökumönnum sem erfiðast fyrir í umferðinni í von um, að þeir gefist upp og leggi bílum sínum eða flytji annað. 

Fleiri akreinar og örugg (mislæg) gatnamót eru sögð fjölga ökutækjum, en furðudýrin vilja leysa úr umferðarhnútum í Reykjavík með því að fækka bílum. Þessi "hugmyndafræði" er eintóm vitleysa frá upphafi til enda, og að setja borgarlínuverkefnið, sem er trompið til að fækka bílum, í forgang fjárveitinga er yfirþyrmandi áhættusækni fyrir hönd skattgreiðenda með mrdISK 100-200 áður en upp verður staðið, og árangurinn verður alls enginn, ef reynsla Björgvinjarbúa í Vestur-Noregi er höfð til hliðsjónar.

Í viðtali Ásgeirs Ingvarssonar við Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor emerítus, í Morgunblaðinu 16.05.2022 mátti lesa þetta í byrjun undir fyrirsögninni:

"Töpum 120 milljörðum á töfum":

"Auknar tafir hafa einkennt umferðina á höfuðborgarsvæðinu undanfarinn áratug og má áætla, að árið 2019 hafi tekið um 50 % lengri tíma að komast á milli staða en árið 2007.  Hægt er að reikna út kostnaðinn af þessum töfum, en samanlagt má áætla, að hjá höfuðborgarbúum fari á bilinu 11-18 Mklst/ár í súginn árlega vegna lengri ferðatíma.  Ef reynt er að verðleggja þennan glataða tíma, er tjón almennings um 60 mrdISK/ár, en þjóðhagslegt tjón í kringum 120 mrdISK/ár. 

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn, sem Hagrannsóknir sf. gerði að beiðni samtakanna Samgöngur fyrir alla (SFA) með stuðningi Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál (RSE)."

 

 Hér er hrikalegt sjálfskaparvíti á ferðinni, sem stafar af óhæfri pólitískri forystu í Reykjavík.  Hún er veruleikafirrt og þess vegna gjörsamlega utan gátta, þegar þarf að finna skynsamlegar lausnir á viðfangsefnum.  Það er ekki nóg með, að vegfarendur í Reykjavík verði fyrir óþörfum töfum, heldur veldur servizka furðudýranna í borgarstjórn aukinni slysahættu, þar sem þau hafa hundsað nauðsynlegar nútímalegar endurbætur á forneskjulegum gatnamótum, sem henta engan veginn fyrir þann ökutækjafjölda, sem daglega þarf að fara um þau. Furðudýrin skeyta engu um mannlega harmleiki, sem af þessu hljótast, og líklega um 50 mrdISK/ár aukakostnaði í tjónum, slysum og jafnvel dauðsföllum. Í staðinn hafa þau fengið þá flugu í höfuðið, að þeim beri með stjórnvaldsaðgerðum að fækka fjölskyldubílum í umferðinni, og til þess reyna þau að torvelda umferðina.  Þetta er sjúklegt ástand, og toppurinn á vitleysunni verður ofurstrætó, sem mun fækka akreinum fyrir önnur ökutæki og torvelda alla umferð, því að ofurstrætó verður á 2 akreinum fyrir miðju vegstæðis.  Þetta er ferlíkisframkvæmd, sem er dæmd til að mistakast og verða myllusteinn um háls sveitarfélaganna, sem að henni standa, og baggi á skuldsettum ríkissjóði, sem fyrir vikið verður að fresta bráðnauðsynlegum samgöngubótum. 

 "Spurður um ástæðurnar að baki auknum töfum í umferðinni segir Ragnar, að sennilegasta skýringin sé sú, að fólksfjölgun hafi orðið á höfuðborgarsvæðinu og ferðum þar með fjölgað, en samgönguinnviðir ekki verið bættir til að mæta þessari þróun. "Umferðarmannvirki á höfuðborgarsvæðinu hafa lítið verið bætt undanfarin 12-15 ár og jafnvel verið stigin ákveðin skref - sérstaklega af hálfu Reykjavíkurborgar - til að rýra umferðarmannvirki með ýmsum hætti á þessu tímabili." 

Augljósasta lausnin til að leysa umferðarvandann í dag er, að mati Ragnars, að ráðast í gerð viðeigandi umferðarmannvirkja, og segir hann, að þegar liggi fyrir hönnun á umferðarmannvirkjum, sem munu draga verulega úr umferðartöfum.  Sum þeirra séu mislæg gatnamót á viðeigandi stöðum, en aðrar felist í tiltölulega einföldum endurbótum á þeim umferðarmannvirkjum, sem fyrir hendi eru.  Víða geti einfaldar lagfæringar eða endurhönnun vega haft veruleg jákvæð áhrif. "Þetta eru framkvæmdir, sem útreikningar sýna, að eru mjög hagkvæmar, og skila samfélaginu ávöxtun, sem er langt umfram það, sem venjuleg fjárfestingartækifæri bjóða.""

  Að hætti vandaðra fræðimanna lætur Ragnar Árnason ekki þar við sitja að greina vandamálið og leggja tölulegt mat á umfang þess, heldur dregur hann upp úr pússi sínu lausnir, sem eru þekktar, þaulprófaðar að virka og kostnaðarmetnar.  Hængurinn á verkefninu er sá, að vandamálið er ekki sízt að finna í borgarstjórn Reykjavíkur sjálfri, þar sem við eldana sitja furðudýr úr gjörólíkum hugmyndaheimi, m.v. hugmyndaheim Ragnars, sem leynt og ljóst telja hluta lausnarinnar vera að auka vandræði vegfarenda með töfum og aukinni slysahættu, því að þannig muni bílum í umferðinni að lokum fækka.

Síðan er í undirbúningi rándýr ofurstrætó (liðvagnar), sem á að bjóða þeim, sem hrökklast út úr bílum sínum, upp á valkost, sem þau geti sætt sig við.  Þetta er kolruglaður hugsunargangur og ósvífinn í hæsta máta, sem hafa mun mikil og neikvæð áhrif á lífsgæði allra þeirra, sem þurfa að aka um höfuðborgarsvæðið, og mun draga úr getu viðkomandi sveitarfélaga og ríkissjóðs til að sinna mun vitrænni og nauðsynlegum fjárfestingum.

Verkefnið er glórulaust í alla staði, enda rökstutt með bábiljum, eins og minni mengun og losun koltvíildis.  Það stenzt ekki skoðun, því að tafirnar auka losun eiturefna og CO2 og ofurstrætisvagnar munu tæta upp malbikið vegna tíðra ferða og öxulþungans.  Vegslitið fylgir öxulþunganum í 3. veldi, sem þýðir t.d., að 2,0 t bíll veldur áttföldu sliti á við 1,0 t bíl.  

"Bætir Ragnar við, að áhugavert sé að setja tjónið af töfum í umferðinni í samhengi við tekjur sveitarfélaganna, en árið 2018 námu útsvarstekjur Reykjavíkurborgar um mrdISK 110.  "Líta má svo á, að með því að láta reka á reiðanum í þessum málaflokki sé verið að leggja á borgarbúa viðbótarskatt, sem slagar hátt upp í útsvarið, sem þeir eru að greiða.""

Þetta er lýsandi samanburður hjá Ragnari, en það er nauðsynlegt að taka líka slysakostnaðinn af völdum frumstæðra gatnamóta (m.v. umferðarþungann) með í reikninginn, og þá fæst sama upphæð og útsvarinu nemur, sem varpar ljósi á afleiðingar þess að hafa við völd í Reykjavík, kjörtímabil eftir kjörtímabil, staurblint afturhald.  

Miklabraut


Sleggjudómar stjórnarandstöðu hafa orðið henni til skammar

Lögmannsstofa hefur hrakið tilhæfulausar aðdróttanir nokkurra stjórnarandstöðuþingmanna og fjölmiðlunga um brot Bankasýslu ríkisins á jafnræðisreglu laga um sölu ríkiseigna.  Þar með er botninn hruninn úr innantómu glamrinu, sem tröllreið Alþingi og fjölmiðlum, ekki sízt RÚV "okkar allra", þar sem reglur um óhlutdræga umfjöllun fréttaefnis voru þverbrotnar og glott við tönn um leið.  Ósvífnin og faglegt metnaðarleysi fréttamanna reið ekki við einteyming.  Skyldu þeir hafa gengið þannig fram, ef hvarflað hefði að þeim, að þessi ósvífni áróður þeirra mundi helzt verða vatn á myllu Framsóknarflokksins ?  Enn einn afleikur vinstri slagsíðunnar ?

Þann 18. maí 2022 birtist í ViðskiptaMogganum frétt um skýrslu lögmannsþjónustu um málsmeðferð Bankasýslunnar undir fyrirsögninni:

"Salan í samræmi við jafnræðisreglu".

Fréttin hófst þannig:

"Ákvörðun Bankasýslu ríkisins um að takmarka þátttöku í útboði á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka við hæfa fjárfesta án viðbótar skilyrðis um lágmarkstilboð fól ekki í sér brot gegn jafnræðisreglu [í skilningi laga um sölu ríkiseigna - innsk. BJo]. Auk þess voru fullnægjandi ráðstafanir gerðar af hálfu Bankasýslunnar til að tryggja jafnt aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu.

Þetta er niðurstaða í lögfræðiáliti, sem Logos lögmannsþjónusta vann fyrir Bankasýsluna.  ViðskiptaMoggi hefur álitið undir höndum."

Það er mikilsvert að fá þetta lögfræðiálit nú, því að það staðfestir, að lætin og moldviðrið fyrir kosningarnar út af þessari sölu voru farsi af ómerkilegustu gerð, þar sem þátttakendurnir hafa nú orðið að gjalti. Það verður fróðlegt að bera þetta lögfræðiálit saman við skýrslu Ríkisendurskoðunar.  Niðurstaða Seðlabanka á líka eftir að birtast.  Stjórnarandstaðan mun ekki ríða feitu hrossi frá þessari viðureign. 

"Því hefur verið haldið fram í þjóðfélagsumræðu, m.a. af þingmönnum, að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu í útboðinu.  Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði m.a. í grein í Morgunblaðinu í byrjun maí [2022], að framkvæmd sölunnar hafi verið brot á jafnræðisreglu laga um sölumeðferð ríkis í fjármálafyrirtækjum.  Aðrir þingmenn hafa talað á sambærilegum nótum, og vart þarf að rifja upp þá gagnrýni, sem varpað hefur verið fram í kjölfar sölunnar, en hún beinist annars vegar að Bankasýslunni og starfsaðferðum hennar við útboðið, en ekki síður að stjórnmálamönnum og þá sérstaklega Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsmálaráðherra."

Téður þingmaður, Helga Vala, mun vera lögfræðingur að mennt og svo er um fleiri, sem tjáð hafa sig digurbarkalega um þetta mál og fellt sleggjudóma.  Þau hafa nú sýnt, að það er ekkert meira að marka þau um lögfræðileg álitaefna í pólitíkinni en hvern annan skussa á þingi eða á fjölmiðlunum.  Fjöldi manns hefur gjaldfellt sig með sleggjudómum, en ráðherrann stendur keikur eftir með hreinan skjöld. Hann mismunaði engum, sem þýðir, að hann dró heldur ekki taum neins, eins og lágkúrulegir gagnrýnendur fullyrtu þó. 

"Í beiðni Bankasýslunnar var Logos falið að svara þremur spurningum:

1) Hvort skilyrði um að takmarka þátttöku í útboðinu við hæfa fjárfesta án skilyrðis um lágmarkstilboð hafi falið í sér brot gegn jafnræðisreglu;

2) Hvort fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu Bankasýslu ríkisins til að tryggja aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu og

3) Hvort ákvörðun um að skerða að fullu tilboð tveggja fjárfesta hafi verið andstæð jafnræðisreglu.

Sem fyrr segir kemst Logos að þeirri niðurstöðu, að ákvörðun um að takmarka þátttöku í útboðinu við hæfa fjárfesta án viðbótar skilyrðis um lágmarkstilboð hafi ekki falið í sér brot gegn jafnræðisreglu.  Þá telur Logos, að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu Bankasýslunnar til að tryggja jafnt aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu í lagalegu tilliti og að ákvörðun Bankasýslunnar um að skerða að fullu tilboð tveggja fjárfesta hafi stuðzt við málefnaleg sjónarmið og verið í samræmi við jafnræðisreglu."

Upphrópanir og dylgjur ýmissa þingmanna og fjölmiðlunga af ódýrari endanum falla þar með dauð og ómerk, því að líklegt má telja, að Ríkisendurskoðun verði sama sinnis.  Eins og sést af niðurlagi fréttarinnar, sem birt er hér að neðan, falla svigurmæli sömu aðila í garð fjármála- og efnahagsráðherra sömuleiðis niður dauð og ómerk, og kemur það höfundi þessa vefpistils ekki á óvart, enda hefur verið borðleggjandi frá upphafi, að hér væri á ferðinni stormur í vatnsglasi að undirlagi manna lítilla sæva og lítilla sanda, sem ættu að skammast sín, ef þeir kynnu það:

"Þá er einnig farið yfir aðkomu fjármálaráðherra að málinu og ákvörðun um söluna að loknu útboði, og er það niðurstaða Logos, að það [hún] hafi verið í samræmi við stjórnsýslulög og góðar venjur."

Don Kíkóti Alþingis er ekki ánægður með þessa niðurstöðu, heldur sezt niður í fýlukasti og skrifar samhengislausan pistil í Moggann 19.05.2022 með fyrirsögn, sem sýnir, að hann heyrir bara í sjálfum sér:

"Að gelta og gjamma".

Björn Leví Gunnarsson skrifar m.a.:

"Já, það er áhugavert að vera kallaður hælbítur fyrir að finnast það ámælisvert, að enginn axli ábyrgð á þessum málum [sölu á 22,5 % hlut í Íslandsbanka - innsk. BJo]. Að vera sakaður um að dreifa áróðri fyrir að benda á spillinguna."

Þarna krystallast hundalógikk Píratans.  Hann gefur sér fyrirfram, að um saknæmt athæfi sé að ræða, og rótar síðan og bölsótast eins og naut í flagi og heimtar, að þeir sem hann af fullkomnu dómgreindarleysi sínu er búinn að klína sök á, axli ábyrgð.  Svona málflutningur eru ær og kýr þessa Pírata og fleiri á Alþingi og á fjölmiðlum, sem virðast aldrei hafa þroskazt upp fyrir sandkassastigið, með fullri virðingu fyrir því þroskaskeiði, sem er bæði skemmtilegt og gefandi, en verður ámáttlegt fyrir þá einstaklinga, sem festast í því.  

 

 

 

 

 

 

 


Leðjuslagur þingmanna stjórnarandstöðu og ráðherra

Þingmönnum stjórnarandstöðu tókst í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að ná nýjum lágpunkti í málefnafátækt, dylgjum og rangfærslum í umræðum um sölu Bankasýslunnar á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka.  Bankasýsla ríkisins framkvæmdi þessa sölu, og armslengd fjármálaráðherra frá sölunni þýðir, að hann hafði engin áhrif á það, hvernig "hæfir fjárfestar" voru skilgreindir, eða hvaða tilboðum var tekið. 

Stjórnarandstaðan virtist hins vegar telja, að hann hefði átt að rýna bjóðendalistann og vinza úr að eigin geðþótta. Það kemur heim og saman við spillt hugarfar þessarar stjórnarandstöðu og veikleika gagnvart afskiptum ráðherra af smáu og stóru. Þetta er auðvitað löngu úrelt viðhorf. 

Einn ráðherrann varð skyndilega vitur eftir á og þóttist hafa lýst andstöðu fyrirfram við þessa útboðsleið, en enginn kannast við slíkt, hvorki í ríkisstjórn né í þingflokki Framsóknar. Hér er mikill draugagangur á ferð, enda kosningar á næsta leiti. 

Björn Leví Gunnarsson, minnipokamaður og pírati, varð þinginu enn til skammar með göturæsislegu tali í þingnefnd.  Téður minnipokamaður heldur, að hann sæki sér einhverja upphefð í því að láta eins og bjáni á Alþingi.  Aðeins bjána getur dottið í hug að fara með staðlausa stafi í þingnefnd á borð við það, að ráðherra hafi lagt sig niður við að hafa milligöngu um, að Bankasýslan eða verktakar á hennar vegum seldi nánu skyldmenni hans hlut í bankanum. Hvorki söluráðgjafar né Bankasýslan höfðu heimild til að hafna viðskiptum á grundvelli ætternis, og Bankasýslunni var ekki heimilt að spyrja ráðherrann ráða í þessu sambandi vegna eðlilegrar armslengdar, sem á að ríkja á milli ráðherra og viðskiptanna.  Þetta skilur ekki vænisjúkur Björn Leví, sem sér skrattann í hverju horni.  Til þess er armslengdin (Bankasýslan), að ráðherra þurfi ekki að annast gjörninga, þar sem hægt er að efast um hæfi hans.  Út af þessum heilaspuna stjórnarandstöðunnar er búið að þyrla upp miklu moldviðri, og rykið mun ekki setjast  fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningar 14.05.2022.

Dramadrottningar stjórnarandstöðunnar hefur þrástagazt á nauðsyn þess að skipa "óháða" rannsóknarnefnd Alþingis til að rannsaka þetta margtuggna söluferli.  Það er augljóslega ótímabært að leggja út í þann mikla kostnað, úr því að Ríkisendurskoðun telur, að fenginni beiðni frá ráðherra, að rannsóknin sé á sínu verksviði.  Þá tók Seðlabankinn frumkvæðisákvörðun um að fela Fjármálaeftirliti sínu að fara ofan í kjölinn á vinnubrögðum söluverktakanna, sem Bankasýslan fól verkið, og þóknuninni til þeirra.  Það hefur verið látið, eins og þessir söluverktakar hafi handvalið kaupendur að eigin geðþótta, en það er auðvitað tóm vitleysa.  Allir hæfir fagfjárfestar, án tillits til stærðar, gátu gert tilboð í hlut. Jafnræðis er talið gætt á milli kaup- og söluaðila, þegar fagfjárfestir gerir tilboð í eignarhlut.  Einstaklingar eru þess vegna ekki fagfjárfestar. Hvers vegna átti að útiloka litla fagfjárfesta ?  Í ljós kom, að þeir lyftu fremur verðinu upp en hitt. Það er misskilningur, að útboðið hafi átt að einskorða við "kjölfestufjárfesta".  Þvert á móti var áherzla lögð á að trufla markaðinn sem minnst, og þess vegna voru engar hömlur lagðar á endursölu keypts hlutar.

Stærstir voru íslenzku lífeyrissjóðirnir.  Þeir kröfðust afsláttar, líklega magnafsláttar.  Hversu heilbrigt er það, að lífeyrissjóðirnir eigi stóran hlut í bankanum ?  Þeir eru nú þegar ráðandi í stjórnum ýmissa fyrirtækja, sem eru í viðskiptum við bankann, þ.e.a.s. þeir munu sitja beggja vegna borðs.

Flestir telja þó, að gott verð hafi fengizt fyrir bankann.  Undantekning eru þeir, sem alls ekki vilja selja hluti ríkisins í bönkunum, þ.e. ríkisafskiptasinnar (aðallega sameignarsinnar).  Halda menn, að það auki samkeppni og rekstrarhagkvæmni bankakerfisins hérlendis, að ríkissjóður eigi meirihlutann í tveimur af þremur stærstu fjármálastofnunum á markaði hérlendis ?  Erlendis er ríkisrekstur meginhluta fjármálakerfisins hvorki talinn þjóna hagsmunum neytenda né skattborgara (að mestu sniðmengi). Hvers vegna ætti annað að gilda hérlendis ?

Eftir útboðið kynti ráðherrann Lilja Dögg Alfreðsdóttir undir æsing stjórnarandstöðunnar með því að halda því fram, að hún hafi verið andvíg því að fara að ráði Bankasýslu ríkisins um þá aðferð, sem var viðhöfð. Til hvers í ósköpunum var hún að þessu ? Hún sat í ráðherranefnd með forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, sem undirbjó verkið.  Hinir ráðherrarnir í nefndinni kannast ekki við slíka gagnrýni Lilju þar.  Hún er því í ógöngum og gróf sína holu enn dýpri með því síðar að halda því fram, að hinir ráðherrarnir hefðu líka haft sínar efasemdir.

  Hvernig brást fjármála- og efnahagsráðherra við þessum flóttalegu ummælum á opnum fundi fjárlaganefndar Alþingis 29.04.2022 ? Morgunblaðið skýrir frá því daginn eftir undir fyrirsögninni:

"Þráspurðu Bjarna um útboðið".

Þar gat eftirfarandi að líta undir undirfyrirsögninni "Kannast ekki við efasemdirnar":

"Þá þótti einnig eftirtektarvert, þegar fjármálaráðherra sagðist ekki kannast við að hafa haft miklar efasemdir í ráðherranefnd gagnvart útfærslu sölunnar, þegar Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Pírata, spurði hann út í það.

Daginn áður hafði Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra, sagt á Alþingi, að forsætisráðherra og fjármálaráðherra hefðu deilt áhyggjum, sem hún hafði áður greint frá í ráðherranefnd, sem vörðuðu aðferðafræðina, sem varð ofan á við söluna á bréfum í bankanum.  

Að sögn Bjarna fór fram umræða um kosti og galla sölunnar, og fannst honum ekki lýsandi að talað væri um efasemdir.

Þegar Þorbjörg spurði, hvort Lilja hefði verið að fara með rangt mál daginn áður, sagði Bjarni, að hann teldi Lilju ekki hafa verið að viðra lagalegar áhyggjur, heldur pólitískar áhyggjur af því, hvernig menn geti viðhaldið góðum stuðningi meðal þjóðarinnar eftir því, hvaða leið væri farin." 

 

Spyrja má, hvað viðskipta- og menningarmálaráðherra gangi til með því að skálda upp eigin mótbárur við þá söluaðferð á ríkiseign í Íslandsbanka, sem Bankasýslan lagði til,  2 nefndir Alþingis lögðu blessun sína yfir og ríkisstjórnin samþykkti að lokum.  Á Alþingi voru engar sérstakar efasemdaraddir um aðferðina sem slíka fyrr en eftir á, heldur kunnugleg gagnrýni sameignarsinna á sölu ríkiseigna yfirleitt. Síðan kórónar viðskipta- og menningarmálaráðherra vitleysuna með því að gera samnefndarmönnum sínum í viðkomandi undirbúningsnefnd sölunnar, forsætis- og fjármála- og efnahagsráðherra, upp, að þau hafi líka verið með böggum hildar út af þessari sölu.  Þessi skrýtni ráðherra virðist vera algerlega úti á þekju og ekki gera sér grein fyrir þeim vandræðum, sem hún veldur ríkisstjórninni með þessari hegðun sinni, nema hún vilji hana feiga.  Framsókn er jafnan söm við sig.   

 


Stríð í Evrópu 2022-202?

Vladimir Putin skáldar upp söguskýringar í fortíð og nútíð til að reyna að réttlæta gjörðir sínar og rússneska hersins, sem hann er æðsti yfirmaður fyrir (commander in chief). Þessar fáránlegu söguskýringar ná ekki máli og réttlæta auðvitað hvorki eitt né neitt, nema í hugum siðblindra og vanheilla.  Hann heldur því fram, að innrás Rússlands í stórt nágrannaríki sitt, Úkraínu, hafi verið óhjákvæmileg 24. febrúar 2022, til að bjarga rússnesku mælandi fólki í Úkraínu frá þjóðarmorði nazista, sem væru við stjórnvölinn í Kænugarði. 

Þessa endemis vitleysu og lygaþvælu telur hann þjóð sinni, Rússum, trú um í krafti alræðis síns og lokunar á öllum frjálsum fjölmiðlum.  15 ára fangelsisvist liggur við því að láta aðra túlkun í ljósi, sem nær væri sannleikanum. 

Tal forseta Rússlands um nágranna sinn í vestri er fyrir neðan allar hellur og vitnar um glámskyggni hans, mannfyrirlitningu og botnlausan hroka, sem viðgengizt hefur í Kreml um aldaraðir.  Hann segir, að Úkraína sé ekki til sem land og því síður nokkurt ríki úkraínskrar þjóðar, heldur sé um að ræða hérað í Rússlandi. 

Þetta ömurlega viðhorf er grundvöllur landvinningastefnu Rússlands, sem birtist með innrás Rússlandshers í Úkraínu 24.02.2022. Þetta vitfirringslega mat forsetans hefur síðan þá orðið sér rækilega til skammar, því að Úkraínumenn hafa sýnt og sannað, að þeir eru ein þjóð, hvort sem móðurmál þeirra er úkraínska eða rússneska.  Þeir eru fúsir til að berjast til þrautar fyrir fullveldi lands síns og sjálfstæði til að taka með lýðræðislegum hætti ákvarðanir í innanríkis- og utanríkismálum. 

Sízt af öllu vilja þeir lenda aftur undir hrammi rússneska bjarnarins.  Þegar forseta Rússlands varð þetta ljóst, skipaði hann rússneska hernum að refsa fyrir þessa "þrákelkni", og svívirðilegar aðgerðir rússneska hersins eru mjög alvarlegir stríðsglæpir, sem jafna má við þjóðarmorð.  Rússar munu ekki komast upp með þennan glæp gegn mannkyni, heldur munu gjalda með útskúfun og haldlagningu rússneskra verðmæta til að nota við uppbyggingu Úkraínu með vestrænni tækni. Úkraína mun njóta aðstoðar Vesturlanda við uppbyggingu, og lífskjör þar munu fara hratt batnandi, en versnandi í Rússlandi.  DÝRÐ SÉ ÚKRAÍNU !

Það er ljóst, að Rússar lúta nú alræði siðblindingja, dómgreindarlauss fants.  Hér verða nefnd til sögunnar 20 atriði, sem vitna um þetta:

#1 Viðskiptaþvinganirnar bíta mun meir en Putin bjóst við: 

 Putin gæti hafa búizt við kraftlausum viðskiptaþvingunum á svipuðum nótum og eftir töku Krímskagans 2014.  Samt vöruðu Bandaríkin við því, að þær yrðu ósambærilegar að styrk.  Putin er alræmdur fyrir hótanir sínar og hefur túlkað þessa viðvörun BNA sem innantóma hótun ráðvilltra Vesturvelda.

Síðla janúar 2022 var honum einnig tjáð, að þvinganirnar mundu einnig beinast að einstaklingum.  Putin hefur ekki búizt við, að öll helztu ríki heims, nema Kína og Indland, mundu koma sér saman um fordæmalausar efnahagsþvinganir.  Það er nægilegt bit í þeim, til að nokkrir ólígarkar vinna nú að því að fjarlægja Putin frá völdum.  Árangursríkar efnahagsþvinganir munu draga úr getu Rússa til að halda úti þessu stríði, og þær munu þess vegna vonandi stytta stríðið.

Nú hafa borizt fregnir af því, að forysturíki Evrópusambandsins, Þýzkalands og Frakklands, hafi selt Rússum vopn fyrir hundruði milljóna EUR á tímabilinu 2015-8. apríl 2022, þegar ekki mátti einu sinni selja þeim íhluti, sem nýtzt gætu í vopnabúnað.  Þetta vitnar um ótrúlega hálfvelgju og tvískinnung ESB í afstöðunni til Rússa allt fram til þessa. Aðeins fyrir árvekni og harðfylgi Eystrasaltsríkjanna og austur-evrópskra aðildarríkja tókst að binda enda á þessi skammarlegu viðskipti.  Einfeldningsháttur friðþægingarinnar ríður ekki við einteyming.

#2 Zelenski-stjórnin gafst ekki upp:

Allt bendir til, að Putin hafi fastlega reiknað með snöggri uppgjöf úkraínsku ríkisstjórnarinnar, og að hún mundi flýja land.  Þá ætlaði Putin að koma á leppstjórn í Úkraínu og færa hana þannig undir yfirráð Rússa.  Þetta varð afdrifaríkur misreikningur Putins, og hann hefur í kjölfarið kennt FSB um mistökin og leyst starfsmenn´FSB, sem áttu að undirbúa jarðveginn og safna réttum upplýsingum þaðan, frá störfum.  Siðblindir alræðisherrar viðurkenna aldrei eigin mistök.  Adolf Hitler kenndi í lokin þýzku þjóðinni um ósigur Wehrmacht. 

#3 Úkraínski herinn er mun öflugri en búizt var við:

Rússland hefur ranglega reitt sig á vonlausan úkraínskan her, aðeins 1/5 af innrásarhernum í fjölda hermanna og með lakari vígtól.  Úkraínski herinn er í raun vel þjálfaður (að hluta af Vesturveldunum), og hann er bardagavanur eftir að hafa fengizt við rússneska herinn í austurhéruðunum í 8 ár.  Hann er einbeittur að verja land sitt, beitir góðri herstjórn og er búinn öflugum léttum vestrænum varnarvopnum. 

#4 Hernaðarleg frammistaða rússneska hersins hefur ekki verið upp á marga fiska:

Fyrir innrásina í Úkraínu var það hald manna, að rússneski herinn væri öflugur, tæknilega þróaður og skilvirkur.  Ekkert af þessu hefur gengið eftir, og er það sennilega vegna rótgróinnar spillingar í hernum.  Honum hefur verið beitt skefjalaust gegn óvopnuðum almenningi til þess gagngert að valda sem mestri skelfingu og sem mestu tjóni til að draga kjarkinn úr Úkraínumönnum.  Þessi hegðun hefur gjörsamlega lagt orðstír rússneska hersins í rúst og er líkleg til að grafa undan siðferðisþreki hans og baráttugetu. 

#5 Fæstir nýliðar rússneska hersins, sem gegna herskyldu, eru fúsir til að berjast í Úkraínu:

Þetta er alvarlegt vandamál, þar sem herskyldumenn mynda 80 % hersins.  Sumir hafa gefizt upp, bardagalaust, og tæki þeirra, vopn og skotfæri eru nú í höndum úkraínska hersins, sem beitir þeim gegn rússneska hernum, sem er martraðarkennt ástand fyrir rússneska liðsforingja. 

#6 Rússar hafa ekki náð fullum yfirráðum í lofti:

Rússar hafa á undirbúningsstigum talið sig strax mundu ná fullum yfirráðum í lofti, og þar með yrði þeim eftirleikurinn auðveldur.  Þetta hefur ekki gengið eftir, og eiga Úkraínumenn enn einhverja tugi orrustuþota og herþyrlna.  Mest hefur þó munað um léttu varnarvopnin á landi, eins og Stinger, sem leita fórnarlambið uppi með hitanema.  Rússar hafa tapað hundruðum orrustuþota og herþyrlna, og hefur tapið örugglega komið þeim í opna skjöldu. Vandi BNA í þessu sambandi er hins vegar, að fyrir nokkrum árum var hætt að framleiða Stinger-varnarbúnaðinn. Rússar eiga greinilega einnig í erfiðleikum með að fylla upp í eyður herbúnaðarins eftir gríðarlegt tap.

#7 Almenningur í Úkraínu tekur á móti rússneska hernum sem svörnum óvinum sínum:

Rússnesku hermönnunum var tjáð fyrir innrásina af yfirmönnum sínum, að Úkraínumenn mundu taka á móti þeim sem frelsurum.  Þetta mat Rússa hefur reynzt vera fjarstæða.  Úkraínskur almenningur í borgum og sveitum lítur á rússneska herinn sem svæsinn óvinn, sem ætli að svipta þá frelsinu og leggja á þá rússneskt helsi.  Í minnum er Mólotoff-kokkteilgerð almennings, sem myndir birtust af í upphafi stríðsins. Úkraínska þjóðin er einhuga um að berjast gegn rússneska einvaldinum, enda er saga rússneskra yfirráða í Úkraínu hrikaleg og ekkert framundan annað en eymd og volæði undir rússneskri stjórn. 

#8 Tjón rússneska hersins er mikið:

Rússneski herinn hefur með grimmdaræði valdið miklu óþörfu tjóni í Úkraínu, en hann hefur líka mætt harðri mótspyrnu úkraínska hersins, og líklega hafa yfir 20 þús. rússneskir hermenn fallið síðan 24. febrúar 2022, en mun færri úkraínskir hermenn.  Hergagnatjón Rússa er og gríðarlegt.  Birtingarmynd þessa er flótti Rússa úr stöðum sínum við Kænugarð, þar sem í ljós hafa komið hryllilegir stríðsglæpir rússneska hersins.  Fyrir vikið mun Rússland verða útlagaríki í mörg ár á kafi í eigin foraði og mega horfa fram á stóreflt NATO vegna eigin gerða.   

#9 Tugþúsundir erlendra hermanna á eigin vegum til Úkraínu til að berjast við hlið Úkraínumanna:

Um 40 þús. menn erlendis frá hafa bætzt í raðir úkraínska hersins hvaðanæva að úr heiminum.  Þetta hefur áhrif á gang stríðsins og var að sjálfsögðu óvænt fyrir Rússa.  Úkraína hefur lofað hverjum þeim, sem kemur til að berjast fyrir Úkraínu, úkraínskum ríkisborgararétti.  Eitthvað mun vera um málaliða Rússamegin, t.d. frá Tétseníu og Sýrlandi.  Stóra spurningin er hins vegar um kínverska hernaðaraðstoð.  

#10 Rússum hefur reynzt erfitt að halda unnum landsvæðum:

Dæmi um þetta eru borgir í norðurhlutanum og flugvöllur, sem Rússar nýttu strax til að geyma þyrlur og orrustuþotur á.  Úkraínski herinn gerði gagnárás, náði flugvellinum og eyðilagði allar þyrlurnar og orrustuþoturnar.  

#11 Birgðaflutningar hafa reynzt Rússum erfiðir:

Herinn hefur sums staðar orðið uppiskroppa með mat, eldsneyti og skotfæri, og varahluti hefur vantað í búnaðinn.  Við hlustun á samskiptarásum á milli hermanna og liðsforingja þeirra hefur komið í ljós, að hermenn þjást af kali og sulti.  Matarskammtar, sem fundust í teknum tækjum, voru árum frá ráðlögðum neyzludegi.  Margir rússneskir hermenn hafa leiðzt út í rán og gripdeildir, m.a. á mat, en aðrir hafa stöðvazt fjarri mannabyggð.

#12 Rússneskir hermenn eru að komast að sannleikanum:

Hægt og sígandi komast nú rússneskir hermenn að því, að orðfæri einræðisherrans í Kreml og hershöfðingja hans, "sérstök hernaðaraðgerð" til frelsunar Úkraínu er helber þvæla og að aðgerðin, sem þeir hafa verið skikkaðir í, er innrás, framkvæmd úr a.m.k. 3 áttum.  Nú er lygalaupurinn Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, tekinn að hóta 3. heimsstyrjöld, af því að rússneska hernum gangi svo illa á vígstöðvunum í Úkraínu, og væntanlega er þessi heimskulega hótun merki um gremju út af væntanlegri inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO í júní 2022.  Er hann svo skyni skroppinn að halda, að einhverjum á Vesturlöndum detti í hug, að Rússum muni ganga betur í hernaði gegn NATO og bandamönnum bandalagsins en gegn Úkraínumönnum einum ? Til hvers að fara í kjarnorkustríð ?  Rússar hafa ekki roð við NATO, og líkur þeirra á einhvers konar sigri í kjarnorkuátökum eru engar, núll. 

#13 Mótmæli gegn Úkraínustríðinu í Rússlandi eru sterk og viðvarandi:

Einvaldur Rússlands líður engin mótmæli.  Þrátt fyrir þungar refsingar á borð við fangelsisvist og sektir hafa Rússar haldið áfram að mótmæla stríðsrekstrinum.  Daglega fara margir út á strætin í 60 borgum í mótmælaskyni, enda eiga ýmsir Rússar vini og ættingja í Úkraínu, sem þeir hafa haft símasamband við. 

#14 Rússland hefur þegar tapað "fjölmiðlastríðinu":

Nú á dögum eru stríð ekki einvörðungu háð á vígvöllunum.  Sérhver með alnetsaðgang getur tjáð skoðanir sínar.  Orðspor Rússlands hefur verið lagt í rúst í fjölmiðlum, aðallega með því að varpa myndum af illvirkjum Rússa á netið.  Núna eru alþjóðlegir miðlar á borð við Facebook og Twitter aflæstir og bannaðir í Rússlandi, en ríkisstjórnin sviðssetur þess í stað lygaþvælu um atburðarásina.  Spurning er, hversu lengi almenningur gleypir við áróðri rússneskra yfirvalda.

#15 Rússnesk yfirvöld hafa festst í eigin lygavef:

Rússar réðust á Úkraínu með áform um að setja lygaáróður sinn í stað sannleikans og villa um fyrir eigin þegnum með rangnefninu "sérstök hernaðaraðgerð" til frelsunar Úkraínu undan helsi nýnazisma. Öllum heiminum utan Rússlands er nú ljóst, að um lygaþvætting Kremlverja er að ræða, og sannleikurinn er tekinn að síga inn í Rússland m.a. með særðum hermönnum, sem sennilega nema um 60 þúsund um þessar mundir.  Þetta grefur um síðir undan trausti almennings á stjórnvöldum með slæmum afleiðingum fyrir skrímslið í Kreml.

#16 Heimurinn er að töluverðu leyti sameinaður í andstöðu við rússnesku innrásina í Úkraínu:

141 ríki Sameinuðu þjóðanna greiddi atkvæði með fordæmingu á Rússum vegna innrásarinnar.  Þetta er sjaldgæf samstaða á alþjóðavettvangi og sýnir, að Rússar hafa með ofbeldi og glæpaverkum gegn mannkyni í Úkraínu svert eigið mannorð svo mjög, að það mun liggja í svaðinu næstu áratugina, og Rússa bíður ekki annað en eymd og volæði fjárhagslegrar, viðskiptalegrar og menningarlegrar einangrunar. Núverandi Rússlandsstjórn getur engan veginn lagað þá stöðu, því að hún á aðeins heima á sakamannabekk alþjóðlegs glæpadómstóls. 

#17 NATO er sterkara og sameinaðra en áður:

Putin hefur rembzt, eins og rjúpan við staurinn, síðustu 15 árin eða lengur við að sá óeiningu innan NATO og hefur rekið hræðsluáróður gagnvart ríkjum Evrópu utan NATO gagnvart því að leita inngöngu þar.  Hann kom með hræðsluáróðri í veg fyrir inngöngu Úkraínu í NATO um 2007, og þess vegna þorði hann að taka Krímskagann og sneiðar af Austur-Úkraínu 2014, svo að ekki sé nú minnzt á ósköpin 2022. Hlutur Austur-Þjóðverjans Angelu Merkel er þar sérstaklega bágborinn. 

Mörg NATO-ríkin hafa fórnað töluverðu til að setja harðar viðskiptaþvinganir á Rússland, en Þjóðverjar hafa þó ekki enn losað um hramm rússneska bjarnarins á eldsneytisgaskaupum sínum, þótt þeir stöðvuðu NORD STREAM 2.  Gerhard Schröder, krati og fyrrverandi kanzlari, er orðin þjóðarskömm Þjóðverja. 

#18 Nú sjá þjóðir sitt óvænna að æskja ásjár NATO:

Þjóðir á borð við Finna og að sjálfsögðu Úkraínumenn líta nú svo á, að NATO-aðild þeirra sé nauðsynleg fyrir tilveru sína sem fullvalda og sjálfstæðra þjóða til langframa.  Nú bendir margt til þess, að þjóðþing Finna og Svía muni samþykkja aðildarumsókn fyrir fund forystumanna NATO í júní 2022, og umsókn þeirra verður að sjálfsögðu samþykkt eins fljótt og verða má. Þetta verður verðskuldað kjaftshögg á fjandsamlega utanríkisstefnu Rússa, sem hafa hingað til þvingað Finna til undirgefnihlutleysis, sem hlotið hefur heitið "Finnlandisering". 

Rússar hafa haldið hótunum sínum áfram, nú með kjarnorkuvopnavæðingu Eystrasaltsins, en hvað hafa þeir haft um árabil í Kalíningrad, hinni fornu "Königsberg der Dichter und Denker", annað en vígtól, sem borið geta kjarnaodda ? Það er kominn tími til, að útþenslustefnu þessa grimma, víðlenda ríkis verði settar skorður.  Að venju munu Rússar og málpípur þeirra æpa um sókn NATO upp að vesturlandamærum Rússlands, en þetta rotna ríki mafíunnar í Kreml á ekki lengur að komast upp með að ráða utanríkis- og varnarstefnu nágrannanna.  Það er stórhættulegt. 

#19 Áður hlutlaus ríki hafa nú snúizt gegn Rússlandi:

Rússar hafa misreiknað viðbrögð Vesturlanda á fjölmörgum sviðum, þ.á.m. hlutlausu þjóðanna.  Þeir hafa ekki átt von á því, að Svisslendingum yrði nóg boðið og mundu taka afstöðu í þessum átökum, enda er það saga til næsta bæjar.  Rússnesku ólígarkarnir hafa orðið fyrir áfalli, þegar svissneskum bankareikningum þeirra var lokað.  Svíþjóð hefur líklega í um 200 ár staðið utan við vopnuð átök, en nú aðstoða Svíar Úkraínumenn með vopnasendingum og þjálfun. 

Hinum siðmenntaða heimi blöskrar villimannleg framganga Rússa í Úkraínu, sem nú fylla í skörð rússneska hersins með íbúum frá Síberíu, sem minni tengsl hafa við Úkraínu en íbúar Rússlands vestan Úral.

#20 Þjóðareining Úkraínumanna hefur aldrei verið meiri en nú:

Heimskulegur, hrokafullur og fasistískur rússneskur áróður um, að Úkraína sé ekki til sem land, hefur nú skolazt niður um skolpræsið með montinu um "mikilleika Rússlands", sem fyrir víst er ekki fyrir hendi nú, hafi hann einhvern tíma verið það. Baráttuandi og baráttuþrek Úkraínumanna á vígvöllunum og þrautseigja og þolgæði almennings þrátt fyrir svívirðilegar árásir rússneska hersins á varnarlausa borgara í húsum sínum, í skólum, á sjúkrahúsum og á götum úti, hefur fært umheiminum heim sanninn um, að Úkraínumenn eru samheldin og samstæð þjóð með eigin menningu, sem einræðisherrann í Kreml vill feiga. Þessi yfirgengilegi fruntaháttur frumstæðra Rússa má ekki verða til þess, að Úkraínumenn missi land og fullveldi sitt í hendur kúgaranna. Hvort sem móðurmál Úkraínumanna er úkraínska eða rússneska vilja þeir í lengstu lög forðast að verða undir beinni eða óbeinni stjórn Rússlands.  Það hafa þeir sannað með frækilegri vörn sinni, og allt annað er ekki annað en ómerkileg, rússnesk lygi, sem meira en nóg hefur verið af í þessu stríði.  Beztu lyktir þessa stríðs væru, að rússneska herliðið verði hrakið til baka yfir landamærin til Rússlands, einnig frá Krímskaga, og að frystar eignir ólígarka og rússneska ríkisins á Vesturlöndum verði síðan notaðar til endurreisnar Úkraínu.   

ukrainian-cloth-flags-flag-15727   

 

 

 

   

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband