Færsluflokkur: Dægurmál
29.4.2022 | 11:10
Stríð í Evrópu 2022-202?
Vladimir Putin skáldar upp söguskýringar í fortíð og nútíð til að reyna að réttlæta gjörðir sínar og rússneska hersins, sem hann er æðsti yfirmaður fyrir (commander in chief). Þessar fáránlegu söguskýringar ná ekki máli og réttlæta auðvitað hvorki eitt né neitt, nema í hugum siðblindra og vanheilla. Hann heldur því fram, að innrás Rússlands í stórt nágrannaríki sitt, Úkraínu, hafi verið óhjákvæmileg 24. febrúar 2022, til að bjarga rússnesku mælandi fólki í Úkraínu frá þjóðarmorði nazista, sem væru við stjórnvölinn í Kænugarði.
Þessa endemis vitleysu og lygaþvælu telur hann þjóð sinni, Rússum, trú um í krafti alræðis síns og lokunar á öllum frjálsum fjölmiðlum. 15 ára fangelsisvist liggur við því að láta aðra túlkun í ljósi, sem nær væri sannleikanum.
Tal forseta Rússlands um nágranna sinn í vestri er fyrir neðan allar hellur og vitnar um glámskyggni hans, mannfyrirlitningu og botnlausan hroka, sem viðgengizt hefur í Kreml um aldaraðir. Hann segir, að Úkraína sé ekki til sem land og því síður nokkurt ríki úkraínskrar þjóðar, heldur sé um að ræða hérað í Rússlandi.
Þetta ömurlega viðhorf er grundvöllur landvinningastefnu Rússlands, sem birtist með innrás Rússlandshers í Úkraínu 24.02.2022. Þetta vitfirringslega mat forsetans hefur síðan þá orðið sér rækilega til skammar, því að Úkraínumenn hafa sýnt og sannað, að þeir eru ein þjóð, hvort sem móðurmál þeirra er úkraínska eða rússneska. Þeir eru fúsir til að berjast til þrautar fyrir fullveldi lands síns og sjálfstæði til að taka með lýðræðislegum hætti ákvarðanir í innanríkis- og utanríkismálum.
Sízt af öllu vilja þeir lenda aftur undir hrammi rússneska bjarnarins. Þegar forseta Rússlands varð þetta ljóst, skipaði hann rússneska hernum að refsa fyrir þessa "þrákelkni", og svívirðilegar aðgerðir rússneska hersins eru mjög alvarlegir stríðsglæpir, sem jafna má við þjóðarmorð. Rússar munu ekki komast upp með þennan glæp gegn mannkyni, heldur munu gjalda með útskúfun og haldlagningu rússneskra verðmæta til að nota við uppbyggingu Úkraínu með vestrænni tækni. Úkraína mun njóta aðstoðar Vesturlanda við uppbyggingu, og lífskjör þar munu fara hratt batnandi, en versnandi í Rússlandi. DÝRÐ SÉ ÚKRAÍNU !
Það er ljóst, að Rússar lúta nú alræði siðblindingja, dómgreindarlauss fants. Hér verða nefnd til sögunnar 20 atriði, sem vitna um þetta:
#1 Viðskiptaþvinganirnar bíta mun meir en Putin bjóst við:
Putin gæti hafa búizt við kraftlausum viðskiptaþvingunum á svipuðum nótum og eftir töku Krímskagans 2014. Samt vöruðu Bandaríkin við því, að þær yrðu ósambærilegar að styrk. Putin er alræmdur fyrir hótanir sínar og hefur túlkað þessa viðvörun BNA sem innantóma hótun ráðvilltra Vesturvelda.
Síðla janúar 2022 var honum einnig tjáð, að þvinganirnar mundu einnig beinast að einstaklingum. Putin hefur ekki búizt við, að öll helztu ríki heims, nema Kína og Indland, mundu koma sér saman um fordæmalausar efnahagsþvinganir. Það er nægilegt bit í þeim, til að nokkrir ólígarkar vinna nú að því að fjarlægja Putin frá völdum. Árangursríkar efnahagsþvinganir munu draga úr getu Rússa til að halda úti þessu stríði, og þær munu þess vegna vonandi stytta stríðið.
Nú hafa borizt fregnir af því, að forysturíki Evrópusambandsins, Þýzkalands og Frakklands, hafi selt Rússum vopn fyrir hundruði milljóna EUR á tímabilinu 2015-8. apríl 2022, þegar ekki mátti einu sinni selja þeim íhluti, sem nýtzt gætu í vopnabúnað. Þetta vitnar um ótrúlega hálfvelgju og tvískinnung ESB í afstöðunni til Rússa allt fram til þessa. Aðeins fyrir árvekni og harðfylgi Eystrasaltsríkjanna og austur-evrópskra aðildarríkja tókst að binda enda á þessi skammarlegu viðskipti. Einfeldningsháttur friðþægingarinnar ríður ekki við einteyming.
#2 Zelenski-stjórnin gafst ekki upp:
Allt bendir til, að Putin hafi fastlega reiknað með snöggri uppgjöf úkraínsku ríkisstjórnarinnar, og að hún mundi flýja land. Þá ætlaði Putin að koma á leppstjórn í Úkraínu og færa hana þannig undir yfirráð Rússa. Þetta varð afdrifaríkur misreikningur Putins, og hann hefur í kjölfarið kennt FSB um mistökin og leyst starfsmenn´FSB, sem áttu að undirbúa jarðveginn og safna réttum upplýsingum þaðan, frá störfum. Siðblindir alræðisherrar viðurkenna aldrei eigin mistök. Adolf Hitler kenndi í lokin þýzku þjóðinni um ósigur Wehrmacht.
#3 Úkraínski herinn er mun öflugri en búizt var við:
Rússland hefur ranglega reitt sig á vonlausan úkraínskan her, aðeins 1/5 af innrásarhernum í fjölda hermanna og með lakari vígtól. Úkraínski herinn er í raun vel þjálfaður (að hluta af Vesturveldunum), og hann er bardagavanur eftir að hafa fengizt við rússneska herinn í austurhéruðunum í 8 ár. Hann er einbeittur að verja land sitt, beitir góðri herstjórn og er búinn öflugum léttum vestrænum varnarvopnum.
#4 Hernaðarleg frammistaða rússneska hersins hefur ekki verið upp á marga fiska:
Fyrir innrásina í Úkraínu var það hald manna, að rússneski herinn væri öflugur, tæknilega þróaður og skilvirkur. Ekkert af þessu hefur gengið eftir, og er það sennilega vegna rótgróinnar spillingar í hernum. Honum hefur verið beitt skefjalaust gegn óvopnuðum almenningi til þess gagngert að valda sem mestri skelfingu og sem mestu tjóni til að draga kjarkinn úr Úkraínumönnum. Þessi hegðun hefur gjörsamlega lagt orðstír rússneska hersins í rúst og er líkleg til að grafa undan siðferðisþreki hans og baráttugetu.
#5 Fæstir nýliðar rússneska hersins, sem gegna herskyldu, eru fúsir til að berjast í Úkraínu:
Þetta er alvarlegt vandamál, þar sem herskyldumenn mynda 80 % hersins. Sumir hafa gefizt upp, bardagalaust, og tæki þeirra, vopn og skotfæri eru nú í höndum úkraínska hersins, sem beitir þeim gegn rússneska hernum, sem er martraðarkennt ástand fyrir rússneska liðsforingja.
#6 Rússar hafa ekki náð fullum yfirráðum í lofti:
Rússar hafa á undirbúningsstigum talið sig strax mundu ná fullum yfirráðum í lofti, og þar með yrði þeim eftirleikurinn auðveldur. Þetta hefur ekki gengið eftir, og eiga Úkraínumenn enn einhverja tugi orrustuþota og herþyrlna. Mest hefur þó munað um léttu varnarvopnin á landi, eins og Stinger, sem leita fórnarlambið uppi með hitanema. Rússar hafa tapað hundruðum orrustuþota og herþyrlna, og hefur tapið örugglega komið þeim í opna skjöldu. Vandi BNA í þessu sambandi er hins vegar, að fyrir nokkrum árum var hætt að framleiða Stinger-varnarbúnaðinn. Rússar eiga greinilega einnig í erfiðleikum með að fylla upp í eyður herbúnaðarins eftir gríðarlegt tap.
#7 Almenningur í Úkraínu tekur á móti rússneska hernum sem svörnum óvinum sínum:
Rússnesku hermönnunum var tjáð fyrir innrásina af yfirmönnum sínum, að Úkraínumenn mundu taka á móti þeim sem frelsurum. Þetta mat Rússa hefur reynzt vera fjarstæða. Úkraínskur almenningur í borgum og sveitum lítur á rússneska herinn sem svæsinn óvinn, sem ætli að svipta þá frelsinu og leggja á þá rússneskt helsi. Í minnum er Mólotoff-kokkteilgerð almennings, sem myndir birtust af í upphafi stríðsins. Úkraínska þjóðin er einhuga um að berjast gegn rússneska einvaldinum, enda er saga rússneskra yfirráða í Úkraínu hrikaleg og ekkert framundan annað en eymd og volæði undir rússneskri stjórn.
#8 Tjón rússneska hersins er mikið:
Rússneski herinn hefur með grimmdaræði valdið miklu óþörfu tjóni í Úkraínu, en hann hefur líka mætt harðri mótspyrnu úkraínska hersins, og líklega hafa yfir 20 þús. rússneskir hermenn fallið síðan 24. febrúar 2022, en mun færri úkraínskir hermenn. Hergagnatjón Rússa er og gríðarlegt. Birtingarmynd þessa er flótti Rússa úr stöðum sínum við Kænugarð, þar sem í ljós hafa komið hryllilegir stríðsglæpir rússneska hersins. Fyrir vikið mun Rússland verða útlagaríki í mörg ár á kafi í eigin foraði og mega horfa fram á stóreflt NATO vegna eigin gerða.
#9 Tugþúsundir erlendra hermanna á eigin vegum til Úkraínu til að berjast við hlið Úkraínumanna:
Um 40 þús. menn erlendis frá hafa bætzt í raðir úkraínska hersins hvaðanæva að úr heiminum. Þetta hefur áhrif á gang stríðsins og var að sjálfsögðu óvænt fyrir Rússa. Úkraína hefur lofað hverjum þeim, sem kemur til að berjast fyrir Úkraínu, úkraínskum ríkisborgararétti. Eitthvað mun vera um málaliða Rússamegin, t.d. frá Tétseníu og Sýrlandi. Stóra spurningin er hins vegar um kínverska hernaðaraðstoð.
#10 Rússum hefur reynzt erfitt að halda unnum landsvæðum:
Dæmi um þetta eru borgir í norðurhlutanum og flugvöllur, sem Rússar nýttu strax til að geyma þyrlur og orrustuþotur á. Úkraínski herinn gerði gagnárás, náði flugvellinum og eyðilagði allar þyrlurnar og orrustuþoturnar.
#11 Birgðaflutningar hafa reynzt Rússum erfiðir:
Herinn hefur sums staðar orðið uppiskroppa með mat, eldsneyti og skotfæri, og varahluti hefur vantað í búnaðinn. Við hlustun á samskiptarásum á milli hermanna og liðsforingja þeirra hefur komið í ljós, að hermenn þjást af kali og sulti. Matarskammtar, sem fundust í teknum tækjum, voru árum frá ráðlögðum neyzludegi. Margir rússneskir hermenn hafa leiðzt út í rán og gripdeildir, m.a. á mat, en aðrir hafa stöðvazt fjarri mannabyggð.
#12 Rússneskir hermenn eru að komast að sannleikanum:
Hægt og sígandi komast nú rússneskir hermenn að því, að orðfæri einræðisherrans í Kreml og hershöfðingja hans, "sérstök hernaðaraðgerð" til frelsunar Úkraínu er helber þvæla og að aðgerðin, sem þeir hafa verið skikkaðir í, er innrás, framkvæmd úr a.m.k. 3 áttum. Nú er lygalaupurinn Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, tekinn að hóta 3. heimsstyrjöld, af því að rússneska hernum gangi svo illa á vígstöðvunum í Úkraínu, og væntanlega er þessi heimskulega hótun merki um gremju út af væntanlegri inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO í júní 2022. Er hann svo skyni skroppinn að halda, að einhverjum á Vesturlöndum detti í hug, að Rússum muni ganga betur í hernaði gegn NATO og bandamönnum bandalagsins en gegn Úkraínumönnum einum ? Til hvers að fara í kjarnorkustríð ? Rússar hafa ekki roð við NATO, og líkur þeirra á einhvers konar sigri í kjarnorkuátökum eru engar, núll.
#13 Mótmæli gegn Úkraínustríðinu í Rússlandi eru sterk og viðvarandi:
Einvaldur Rússlands líður engin mótmæli. Þrátt fyrir þungar refsingar á borð við fangelsisvist og sektir hafa Rússar haldið áfram að mótmæla stríðsrekstrinum. Daglega fara margir út á strætin í 60 borgum í mótmælaskyni, enda eiga ýmsir Rússar vini og ættingja í Úkraínu, sem þeir hafa haft símasamband við.
#14 Rússland hefur þegar tapað "fjölmiðlastríðinu":
Nú á dögum eru stríð ekki einvörðungu háð á vígvöllunum. Sérhver með alnetsaðgang getur tjáð skoðanir sínar. Orðspor Rússlands hefur verið lagt í rúst í fjölmiðlum, aðallega með því að varpa myndum af illvirkjum Rússa á netið. Núna eru alþjóðlegir miðlar á borð við Facebook og Twitter aflæstir og bannaðir í Rússlandi, en ríkisstjórnin sviðssetur þess í stað lygaþvælu um atburðarásina. Spurning er, hversu lengi almenningur gleypir við áróðri rússneskra yfirvalda.
#15 Rússnesk yfirvöld hafa festst í eigin lygavef:
Rússar réðust á Úkraínu með áform um að setja lygaáróður sinn í stað sannleikans og villa um fyrir eigin þegnum með rangnefninu "sérstök hernaðaraðgerð" til frelsunar Úkraínu undan helsi nýnazisma. Öllum heiminum utan Rússlands er nú ljóst, að um lygaþvætting Kremlverja er að ræða, og sannleikurinn er tekinn að síga inn í Rússland m.a. með særðum hermönnum, sem sennilega nema um 60 þúsund um þessar mundir. Þetta grefur um síðir undan trausti almennings á stjórnvöldum með slæmum afleiðingum fyrir skrímslið í Kreml.
#16 Heimurinn er að töluverðu leyti sameinaður í andstöðu við rússnesku innrásina í Úkraínu:
141 ríki Sameinuðu þjóðanna greiddi atkvæði með fordæmingu á Rússum vegna innrásarinnar. Þetta er sjaldgæf samstaða á alþjóðavettvangi og sýnir, að Rússar hafa með ofbeldi og glæpaverkum gegn mannkyni í Úkraínu svert eigið mannorð svo mjög, að það mun liggja í svaðinu næstu áratugina, og Rússa bíður ekki annað en eymd og volæði fjárhagslegrar, viðskiptalegrar og menningarlegrar einangrunar. Núverandi Rússlandsstjórn getur engan veginn lagað þá stöðu, því að hún á aðeins heima á sakamannabekk alþjóðlegs glæpadómstóls.
#17 NATO er sterkara og sameinaðra en áður:
Putin hefur rembzt, eins og rjúpan við staurinn, síðustu 15 árin eða lengur við að sá óeiningu innan NATO og hefur rekið hræðsluáróður gagnvart ríkjum Evrópu utan NATO gagnvart því að leita inngöngu þar. Hann kom með hræðsluáróðri í veg fyrir inngöngu Úkraínu í NATO um 2007, og þess vegna þorði hann að taka Krímskagann og sneiðar af Austur-Úkraínu 2014, svo að ekki sé nú minnzt á ósköpin 2022. Hlutur Austur-Þjóðverjans Angelu Merkel er þar sérstaklega bágborinn.
Mörg NATO-ríkin hafa fórnað töluverðu til að setja harðar viðskiptaþvinganir á Rússland, en Þjóðverjar hafa þó ekki enn losað um hramm rússneska bjarnarins á eldsneytisgaskaupum sínum, þótt þeir stöðvuðu NORD STREAM 2. Gerhard Schröder, krati og fyrrverandi kanzlari, er orðin þjóðarskömm Þjóðverja.
#18 Nú sjá þjóðir sitt óvænna að æskja ásjár NATO:
Þjóðir á borð við Finna og að sjálfsögðu Úkraínumenn líta nú svo á, að NATO-aðild þeirra sé nauðsynleg fyrir tilveru sína sem fullvalda og sjálfstæðra þjóða til langframa. Nú bendir margt til þess, að þjóðþing Finna og Svía muni samþykkja aðildarumsókn fyrir fund forystumanna NATO í júní 2022, og umsókn þeirra verður að sjálfsögðu samþykkt eins fljótt og verða má. Þetta verður verðskuldað kjaftshögg á fjandsamlega utanríkisstefnu Rússa, sem hafa hingað til þvingað Finna til undirgefnihlutleysis, sem hlotið hefur heitið "Finnlandisering".
Rússar hafa haldið hótunum sínum áfram, nú með kjarnorkuvopnavæðingu Eystrasaltsins, en hvað hafa þeir haft um árabil í Kalíningrad, hinni fornu "Königsberg der Dichter und Denker", annað en vígtól, sem borið geta kjarnaodda ? Það er kominn tími til, að útþenslustefnu þessa grimma, víðlenda ríkis verði settar skorður. Að venju munu Rússar og málpípur þeirra æpa um sókn NATO upp að vesturlandamærum Rússlands, en þetta rotna ríki mafíunnar í Kreml á ekki lengur að komast upp með að ráða utanríkis- og varnarstefnu nágrannanna. Það er stórhættulegt.
#19 Áður hlutlaus ríki hafa nú snúizt gegn Rússlandi:
Rússar hafa misreiknað viðbrögð Vesturlanda á fjölmörgum sviðum, þ.á.m. hlutlausu þjóðanna. Þeir hafa ekki átt von á því, að Svisslendingum yrði nóg boðið og mundu taka afstöðu í þessum átökum, enda er það saga til næsta bæjar. Rússnesku ólígarkarnir hafa orðið fyrir áfalli, þegar svissneskum bankareikningum þeirra var lokað. Svíþjóð hefur líklega í um 200 ár staðið utan við vopnuð átök, en nú aðstoða Svíar Úkraínumenn með vopnasendingum og þjálfun.
Hinum siðmenntaða heimi blöskrar villimannleg framganga Rússa í Úkraínu, sem nú fylla í skörð rússneska hersins með íbúum frá Síberíu, sem minni tengsl hafa við Úkraínu en íbúar Rússlands vestan Úral.
#20 Þjóðareining Úkraínumanna hefur aldrei verið meiri en nú:
Heimskulegur, hrokafullur og fasistískur rússneskur áróður um, að Úkraína sé ekki til sem land, hefur nú skolazt niður um skolpræsið með montinu um "mikilleika Rússlands", sem fyrir víst er ekki fyrir hendi nú, hafi hann einhvern tíma verið það. Baráttuandi og baráttuþrek Úkraínumanna á vígvöllunum og þrautseigja og þolgæði almennings þrátt fyrir svívirðilegar árásir rússneska hersins á varnarlausa borgara í húsum sínum, í skólum, á sjúkrahúsum og á götum úti, hefur fært umheiminum heim sanninn um, að Úkraínumenn eru samheldin og samstæð þjóð með eigin menningu, sem einræðisherrann í Kreml vill feiga. Þessi yfirgengilegi fruntaháttur frumstæðra Rússa má ekki verða til þess, að Úkraínumenn missi land og fullveldi sitt í hendur kúgaranna. Hvort sem móðurmál Úkraínumanna er úkraínska eða rússneska vilja þeir í lengstu lög forðast að verða undir beinni eða óbeinni stjórn Rússlands. Það hafa þeir sannað með frækilegri vörn sinni, og allt annað er ekki annað en ómerkileg, rússnesk lygi, sem meira en nóg hefur verið af í þessu stríði. Beztu lyktir þessa stríðs væru, að rússneska herliðið verði hrakið til baka yfir landamærin til Rússlands, einnig frá Krímskaga, og að frystar eignir ólígarka og rússneska ríkisins á Vesturlöndum verði síðan notaðar til endurreisnar Úkraínu.
21.4.2022 | 10:37
Tvískinnungur og hræsni eftiráklókra
Tvískinnungur, hræsni og eftirávizka tröllríður gagnrýni þingmanna og eins ráðherrans á útboðsferli Bankasýslunnar á 20 % hlut í Íslandsbanka, sem jókst í 22,5 %. Líklegt er, að óvandaðir stjórnmálamenn hræri hér í gruggugu vatni í tilefni væntanlegra sveitarstjórnarkosninga, aðallega til að rétta borgarstjórnarmeirihluta með allt á hælunum hjálparhönd á ögurstundu, en tilfinningaþrungin umræða, þótt á röngum forsendum sé, getur haft áhrif á val á milli stjórnmálaflokka í kjörklefanum.
Mest kom á óvart, að einn ráðherrann fann til ríkrar þarfar að þjóna lýðskrumsónáttúru sinni, þegar hún varð vör við kurrinn. Þóttist Lilja D. Alfreðsdóttir hafa mælt gegn málinu á vettvangi ríkisstjórnar, en forsætisráðherra kvað enga bókun um það finnanlega í fórum ríkisstjórnarinnar, og sat téð Lilja þó í ráðherranefndinni, sem á undirbúningsstigum fjallaði um þessa bankasölu og hélt gerðabók. Hefur téð Lilja þagað þunnu hljóði eftir þessa ádrepu. Er betra að veifa röngu tré en öngu í pólitík ? Fer eftir, hver á heldur. Af gögnum málsins er ljóst, að hér er um fullkomlega ábyrgðarlausa hegðun viðskipta- og menningarráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins að ræða, sem hefur grafið undan trausti á henni, sem var þó lítið fyrir, m.a. vegna lagabrots hennar við ráðningu ráðuneytisstjóra og málaferla, sem kostuðu ríkið stórfé. Ráðherrann, sem við tók, flokksbróðir Lilju, stöðvaði áfrýjun hennar á töpuðu máli til Landsréttar og dró líklega þannig úr tjóni ríkisins. Dómgreind téðrar Lilju Daggar virðist ekki vera upp á marga fiska.
Þá voru skrýtin ummæli Lilju um, að EES-reglur hindruðu að fara í almennt útboð. Það er rangt hjá henni, en þá þarf að semja nákvæma útboðslýsingu, eins og gert var fyrir frumútboðið, og það kostar auðvitað sitt. Þetta varð ekki ferð til fjár fyrir Lilju D. Alfreðsdóttur, en er fallið til að eitra andrúmsloftið innan ríkisstjórnarinnar. Var það ætlunin ?
Þingmenn hafa sennilega sjaldan fengið jafnítarlega kynningu á nokkru máli eins og þessu útboði á um fimmtungi af hlutabréfum Íslandsbanka. Samt láta þeir eins og þeir komi af fjöllum, margir hverjir. Jólasveinar geta ekki leynt eðli sínu. Gera þeir þó ekki helzti lítið úr sér og hæfileikum sínum til að taka við, greina og spyrja gagnrýninna spurninga ? Nokkrir af þeim, sem hæst hafa látið og vitrastir og um leið hneykslaðistir hafa orðið eftir á, sitja í þingnefndunum, sem fjölluðu sérstaklega um málið. Morgunblaðið greindi frá þessu þannig í fréttaskýringu 13. apríl 2022:
"Þingmenn í fjárlaganefnd og í efnahags- og viðskiptanefnd fengu ítarlegar kynningar frá fulltrúum Bankasýslunnar og fjármálaráðuneytisins í aðdraganda útboðsins. Fyrsti kynningarfundurinn var haldinn nokkrum dögum eftir að fjármála- og efnahagsráðherra hafði óskað eftir umsögnum nefndanna.
Á fundunum var farið yfir kosti og galla þeirra aðferða, sem hægt er að [beita] í útboðum sem þessum, hvaða áhrif salan kynni að hafa á þróun á hlutabréfamarkaði, hvernig salan færi fram og fleira til.
Nokkrir af þeim þingmönnum, sem hafa gagnrýnt útboðið, eftir að því lauk, sátu umrædda fundi, þar sem þau eiga sæti í nefndunum. Má þar m.a. nefna Bryndísi Haraldsdóttur (Sjálfstæðisflokki), Jóhann Pál Jóhannsson og Kristrúnu Frostadóttur (Samfylkingu), Guðbrand Einarsson (Viðreisn), Björn Leví Gunnarsson og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur (Pírötum).
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins gerðu þau ekki athugasemdir við verklag eða aðferðafræði Bankasýslunnar í aðdraganda útboðsins, þó [að] sum þeirra hafi skilað séráliti, þegar nefndirnar skiluðu sínum umsögnum, og þar gagnrýnt með margvíslegum hætti, að til stæði að selja hlut ríkisins."
Það er heiðarleg pólitísk afstaða, þótt arfavitlaus sé frá hagfræðilegu sjónarmiði, að vera andvíg[ur] sölu ríkiseigna. Það er út af því, að ríkið á ekki að standa í samkeppnisrekstri, enda stendur ríkið sig yfirleitt illa í þeim rekstri, sem það tekur sér fyrir hendur að sinna, á almenna mælikvarða um árangur í rekstri. Ef Jón og Gunna vilja eiga hlut í banka, gátu þau tekið þátt í frumútboði Íslandsbanka og aftur óbeint núna með því að kaupa í verðbréfasjóðum, sem eru á hlutabréfamarkaði. Það eru viðurkenndir fagfjárfestar og voru þar af leiðandi taldir hæfir til að bjóða í hluti Íslandsbanka nú. Hvergi var sett skilyrði um stærð fagfjárfestis, svo að það er hreinn fyrirsláttur hjá þingmönnum og öðrum, að lítil stærð fagfjárfesta hafi komið á óvart, ef hlutlægt er skoðað.
Annað gagnrýniatriði er söluþóknunin, og hún er nú til athugunar hjá Bankaeftirliti Seðlabankans. Ekki verður annað séð en upphlaupið út af þessu máli sé stormur í vatnsglasi, og stjórnmálamenn hafa þarna fallið fyrir freistingum sýndarmennsku og lýðskrums.
Kristrún Frostadóttir, nýr þingmaður Samfylkingar í Reykjavík, hefur bókstaflega staðið á öndinni út af þessu máli. Það er skiljanlegt, þar sem hún hefur haft meiri persónuleg kynni af hlutabréfum en margur annar, og þeir, sem hafa kynnt sér bankaferil hennar, hafa reyndar staðið á öndinni af hneykslun yfir þeim skjótfengna gróða og án verðleika, sem hún varð aðnjótandi, en vill ekki að fréttist um og alls ekki, að aðrir njóti.
Í Staksteinum Morgunblaðsins 14. apríl 2022 stóð þetta m.a. um þennan sérkennilega ofsagróða kratans Kristrúnar:
"Björn Bjarnason skrifar:"Kristrún Frostadóttir stefnir að formennsku í Samfylkingunni. Fyrir kosningar 25. september 2021 var hún þráspurð um viðskipti sín með bréf í Kvikubanka, þar sem hún starfaði. Hún vildi engu svara fyrir kosningar, en að þeim loknum fékk hún drottningarviðtal í Silfrinu.""
Hvers vegna neitaði kratinn Kristrún að upplýsa um ofsagróða sinn á verðbréfum í Kviku fyrir kosningar í september 2021 ? Kannski þótti kratanum það ekki vænlegt til vinsælda og atkvæðaveiða í kosningum ? Þetta vitnar um óhreint eðli hennar og óheiðarleika gagnvart kjósendum, þótt hún nú ásaki aðstandendur útboðsins á fimmtungshluti ríkisins í Íslandsbanka um skort á gagnsæi. Sá skortur er uppspuni hennar, en ekki nóg með það, heldur hefur hún sýnt af sér tvískinnung með því að mótmæla söluferlinu ekki hástöfum fyrir útboðið, en standa svo á öndinni af vandlætingu eftir útboðið. Ef hún telur einfaldlega engan tíma heppilegan til að losa um bundið fé ríkisins í fyrirtækjum í samkeppnisrekstri, þá væri heiðarlegra af henni að segja það hreint út í stað þess að sá tortryggni um framkvæmd útboðsins. Í hvaða gróðabralli stóð þessi krati ? Það var ekkert smáræði:
"Björn heldur áfram og segir, að í Viðskiptablaðinu hafi viðskiptum Kristrúnar verið lýst á þennan hátt: "Hún fékk að kaupa áskrift að kaupum á 10 milljónum hluta í bankanum á ákveðnu gengi á fyrirfram ákveðnum dagsetningum gegn hóflegri greiðslu. Myndi þróun á gengi bréfa bankans verða hagfelld - gætu þessi áskriftarréttindi skapað gríðarlega mikinn hagnað, eins og kom á daginn: Þrjár milljónir króna urðu að áttatíu."
MISK 80/MISK 3 = 27 Þetta er með betri ávöxtun, sem sézt hefur, enda býðst hún ekki hverjum sem er. Téð Kristrún er forréttindaspíra, sem nú kastar steinum úr glerhúsi yfir skjótfengnum gróða annarra, sem þó bliknar í samanburðinum við gróða Kristrúnar, og þessir aðrir nutu engra forréttinda, heldur spiluðu eftir almennum leikreglum, sem Alþingi var rækilega upplýst um. Hvers vegna þyrlar hún upp þessu moldviðri núna ? Það er af ómerkilegasta tagi, enda kosningar í nánd.
""Nú býsnast Kristrún mjög yfir skjótfengnum gróða þeirra, sem keyptu bréf í Íslandsbanka 22. marz [2022] og segir á visir.is 12. apríl [2022], að stór hópur þeirra rúmlega 200, sem keyptu bréfin, hafi "komið inn aðeins fyrir skjótfenginn gróða", og sé ávöxtun þeirra "ævintýraleg". Fyrir Kristrúnu, sem breytti þremur milljónum í áttatíu með hlutabréfaviðskiptum er þarna mjög sterkt að orði kveðið um gróða annarra af slíkum viðskiptum", skrifar Björn."
Þessi gagnrýni Kristrúnar Frostadóttur er helber hræsni. Hún fór langt með að setja Íslandsmet í hræsni í dymbilvikunni og lætur eins og það sé glæpsamlegt að selja nýkeypt hlutabréf í Íslandsbanka með nokkurra % hagnaði. Í útboðsskilmálunum var það ekki bannað. Hvers konar reginvitleysu er þessi fyrrverandi bankadama að sviðsetja hér ? Hjá henni fara tal og mynd alls ekki saman. Hún starfaði áður hjá einkabanka og hrærir nú í gruggugu vatni, vegna þess að undir fölsku flaggi háværrar gagnrýni, sem er stormur í vatnsglasi, leynist hin kommúnistíska hugmyndafræði um, að öll atvinnutæki og fjármálastarfsemi eigi að vera á höndum ríkisins. Skyldi þessi hræsnari dymbilvikunnar nú sem þingmaður vera orðin að bráð þeirrar gjörsamlega misheppnuðu og hættulegu hugmyndafræði sameignarstefnunnar, eða er hún loddari og lýðskrumari af Guðs náð ?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.4.2022 | 10:11
Efnahagsátök og styrjaldarvafstur
Stríðið um Úkraínu 2022 eru mestu stríðsátök í Evrópu síðan 1945, þegar Heimsstyrjöld 2 lauk. Það er athyglisvert, að nú eru Úkraínumenn og Rússar í aðalhlutverkunum, og þeir léku stór hlutverk í heimsstyrjöldinni 1941-1945. Úkraínumenn voru kúgaðir og hart leiknir í ríkjasambandi Ráðstjórnarríkjanna undir Jósef Stalín, og margir þeirra tóku Wehrmacht fagnandi sem frelsurum 1941, en Schutzstaffel (SS) og GESTAPO Heinrich Himmlers gengu þannig fram á hernámssvæðunum, að Úkraínumenn snerust gegn hernámi Þriðja ríkisins, og kunni Wehrmacht framgöngu Himmlers og manna hans litlar þakkir fyrir, því að Úkraínumenn gerðu Wehrmacht lífið miklu erfiðara en ella. Nú hamrar ódámurinn Vladimir Putin á því við landsmenn sína, að Rússland eigi aftur í höggi við nazista handan landamæra sinna við Úkraínu og Eistland, og bráðum kemur áreiðanlega að Lettlandi og Lithauen o.fl. Sannleikurinn er sá, að yfirgangur og stríðsglæpir Putins minna í mörgu á aðfarir Foringja Þriðja ríkisins. Mannfyrirlitning þeirra og miskunnarleysi beggja er slík, að hvorugur getur talizt mennskur og má þar af leiðandi telja vitstola.
Stríðið um Úkraínu núna er líka háð af Vesturveldunum, þótt ekki sé það enn með hermönnum á vígvellinum eða á höfunum, en að því getur hæglega komið m.v. málflutning höfuðpaurs stríðsglæpamannanna í Kreml. NATO er núna að búa sig undir vopnuð átök við Rússland, varnarstríð, og þess vegna ættu menn fyrir löngu að vera hættir að taka mark á hótunum þorparans um, að afhendi Vesturveldin Úkraínumönnum sóknarvopn, líti hann á það sem stríðsyfirlýsingu NATO. Vesturveldin verða að venja sig af þeim kæk að láta þetta gegnumrotna ríki stjórna gerðum sínum. Ekkert stöðvar einræðisherra með guðlega köllun til illvirkja annað en valdbeiting máttar, sem hefur í fullu tré við fólið.
Efnahagsþvinganir Vesturveldanna gagnvart Rússlandi eru sögulega einstæðar, og áhrif þeirra á Rússland munu ráða miklu um Úkraínustríðið og átök í heiminum næstu árin. Þær hafa nú þegar skapað öngþveiti í þessu trnUSD 1,6 hagkerfi og valdið rétt einni hótuninni frá forseta Rússlands; í þetta sinn var það hótun um beitingu kjarnorkuvopna. Þetta var heimskulegasta hótunin af þeim öllum og sýnir dómgreindarleysi þessa einræðisherra. Hann skilur ekki, að hann hefur glatað stöðu sinni út á við. Vestrænir leiðtogar skilja nú flestir loksins, að friðsamleg sambúð við stríðsglæpamennina í Kreml er útilokuð. Ef Rússar ekki losa sig við illmennið og draga sig alfarið út úr Úkraínu með sinn her, þá verður öngþveiti í Rússlandi, og landið verður þriðjaheimsland, sem mun ekki eiga sér viðreisnar von um áratugaskeið.
Snöggum umskiptum til hins verra í Rússlandi í kjölfar efnahagsþvingana Vesturveldanna er tekið eftir um allan heim, ekki sízt í Kína, þar sem aðalritari kommúnistaflokksins ætlar að skilja eftir sig þá arfleifð að hafa fært Taiwan undir vald Kínastjórnar í Peking. Vestrið verður að vinna þetta efnahagsstríð gegn Rússlandi og síðan að koma á laggirnar lagagrundvelli, sem ávarðar skilyrðin, sem þarf að uppfylla til að beita megi mismunandi stigum þessa öfluga tóls.
Þann 26. febrúar 2022 fóru Vesturveldin yfir Rúbíkon ána í anda rómverska herforingjans Júlíusar Cesars forðum, þegar efnahagsþvinganir voru settar á 11. stærsta hagkerfi heims. Með því að gera viðskipti vestrænna fyrirtækja við rússneska banka ólögleg, nema á sviði orkuviðskipta, og útiloka þá frá alþjóðlega greiðslumiðlunarkerfinu SWIFT, stórminnkaði fjármagnsflæði yfir rússnesku landamærin. Frysting þess hluta gjaldeyrisforða Seðlabanka Rússlands, sem geymdur er á Vesturlöndum, hindrar aðgengi rússneska ríkisins að rúmlega helmingi þessa mrdUSD 630 forða. Rúblan féll um tæplega 30 % á fyrstu 10 dögum stríðsins, en mun eitthvað hafa hjarnað við um sinn vegna tekna rússneskra olíu- og gasfyrirtækja, en fyrir gasið til Evrópu fá þeir um 1 mrdUSD/sólarhr. m.v. núverandi gasverð. Meiri verðbólga geisar nú í Rússlandi en víðast hvar annars staðar og bætist við 10 % lækkun lífskjara í Rússlandi frá 2014, er Rússar lögðu undir sig Krím og fengu á sig vægar viðskiptaþvinganir. Hlutabréfavísitalan í Moskvu hefur lækkað um a.m.k. 90 % frá 24.02.2022, og vöruskortur hefur hafið innreið sína.
Rússland er ríki á fallanda fæti(failed state), því að það er þegar gjaldþrota pólitískt og bráðlega efnahagslega. Það er dæmigert fasistaríki, þar sem mikilleiki Rússlands er hafinn upp til skýjanna með aðstoð rétttrúnaðarkirkjunnar, en þessi mikilleiki er innantómur, því að hann er reistur á hernaðarmætti, sem er ekki fyrir hendi. Putin sigar hernum á lítil ríki í grennd, s.s. Georgíu og Tétseníu, og nú stærra ríki, sem hann taldi mundu verða sér auðveld bráð, alveg eins og Mússólíni á sinni tíð. Sá var gerður afturreka úr Abbessyníu í NA-Afríku (Eþíópía-Eritrea), og Þjóðverjar urðu að bjarga ítalska hernum undan Grikkjum vorið 1941, sem tafði "Operation Barbarossa" um örlagaríkar vikur.
Nú hefur Úkraínumönnum tekizt að eyða þriðjungi rússneska hersins, og framganga hans í Úkraínu sýnir engan mikilleika, heldur þvert á móti algera lágkúru á vígvellinum og níðingshátt gagnvart almennum borgurum. Það er ekkert eftir af Pótemkíntjöldum fastaleiðtogans Putins. Það er ekki hægt að gera neina samninga við hann; það er aðeins hægt að sigra hann.
Í Kænugarði er aftur á móti fram kominn pólitískur leiðtogi Vestursins í stríði, sem líkja má við Winston Churchill 1939. Fyrsti forsætisráðherra Rússlands eftir fall kommúnistastjórnarinnar 1991 var gagnmerkur maður, sem lézt fyrir aldur fram 2009. Árið 2007 gaf Yegor Gaidar út bók, "Collapse of an Empire: Lessons for modern Russia". Þar greinir hann hættuna, sem umheiminum stafar af Rússum undir einræðisstjórn. Reynt verði með öllum tiltækum ráðum að ná ítökum á öllu yfirráðasvæði Ráðstjórnarríkjanna. Nú hefur hrollvekjuspá Yegors Gaidars rætzt. Vesturveldin verða að knýja fram skilning á því í Kreml, að öllu afli Vesturveldanna verður beitt til að koma í veg fyrir, að fasistastjórninni í Kreml, blóðugri upp að öxlum, takist ætlunarverk sitt. Ef eitt ríki fellur, bíða hinna sömu örlög. Úkraínumenn berjast nú ekki einvörðungu fyrir föðurland sitt, heldur hinn lýðræðislega heim allan.
Ef Vestrinu tekst að ráða niðurlögum hinna illu afla í Kreml með aðgerðum sínum (til þess þarf að draga verulega úr eldsneytiskaupum af Rússum), verða langtímaáhrifin af því veruleg. Heimurinn er ókræsilegur, og ýmis ríki munu þá reyna að smeygja sér út úr vestrænu fjármálakerfi. Slíkt dregur úr áhrifum þvingunaraðgerða og mun leiða til breyttra heimsviðskipta (End of Globalisation). Á 4. áratugi 20. aldarinnar var uppi ótti við viðskiptabönn samfara uppgangi einræðis og efnahagslegra áhrifasvæða.
Óttinn við þetta efnahagsvopn verður mestur í einræðisríkjum, en á þeirra snærum er nú helmingur trnUSD 20 gjaldeyrissjóða og varasjóða ríkisstjórna heimsins. Þótt Kínastjórn muni geta valdið Vestrinu og bandamönnum vestrænna ríkja (lýðræðisríkjunum) gríðarlegu tjóni með því að stöðva afhendingu aðfanga til þeirra, ef Kínaher ræðst á Taiwan, gæti Vestrið þá fryst varasjóð Kínastjórnar upp á trnUSD 3,3. Jafnvel Indverjar, sem enn hafa neitað að fordæma innrás Rússa í Úkraínu, hafa ástæðu til að íhuga stöðu sína í þessu ljósi. Á næstu 10 árum gætu tæknibreytingar leitt af sér þróun peningakerfis, sem gerir löndum kleift að sniðganga vestrænt fjármálakerfi. Kínverska stafræna mynttilraunin hefur nú 261 milljón (M) notendur. Núna er erfitt að koma trilljónum bandaríkjadala fyrir til ávöxtunar utan vestrænna markaða, en í tímans rás munu fleiri ríki e.t.v. reyna að koma varasjóðum sínum víðar fyrir með fjárfestingum.
Klofningur fjármálaheimsins virðist vera óhjákvæmilegur. Með víðtækari og áhrifameiri notkun viðskiptaþvingana sem vopns í pólitískri baráttu við andstæðinga eiga Vesturveldin á hættu, að fleiri ríki reyni að rjúfa sig frá vestrænu fjármálakerfi en æskilegt þykir. Þess vegna þurfa Vesturlönd að afloknum núverandi átökum við Rússland að leitast við að koma sér upp einhverju regluverki um þessar þvingunarráðstafanir. Bitlitlar þvingunarráðstafanir ætti að forðast. Víðtækar og djúptækar þvingunarráðstafanir með lömunaráhrif að hætti viðskipta- og fjármálahamlanna gegn Rússlandi ætti aðeins að vera unnt að beita gegn árásaraðila, sem hefur ólögmætt stríð að alþjóðalögum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.3.2022 | 10:55
Einvaldur kastar grímunni
Aðfararnótt 24. febrúar 2022 gaf forseti Rússlands, sem er einvaldur og stjórnar í skjóli leynilögreglunnar FSB að hætti Jósefs Stalín og rússneskra einvalda á undan honum, rússneska hernum fyrirskipun um að ráðast á fullvalda ríkið Úkraínu og leggja það undir Rússland. Mistækur einvaldurinn mun hafa ætlazt til leifturstríðs (Blitzkrieg að hætti Þriðja ríkisins) af hálfu Rússahers, en er nú staddur í hernaðarlegu og pólitísku kviksyndi, blóðugur upp að öxlum. Einvaldurinn er kominn í hóp verstu þorpara mannkynssögunnar, en enginn efast lengur um rétt og vilja úkraínsku þjóðarinnar til sjálfstæðis og fullveldis. Vesturveldin eiga að taka Úkraínumönnum opnum örmum í sinn hóp og í samtök sín.
Hér er um gjörsamlega óviðunandi landvinningastríð Rússa í Evrópu að ræða að hætti fyrri einvalda Rússlands. Í Kreml hefur alltaf blundað draumur um landvinninga. Síðan 24.02.2022 hefur þessi sami rússneski hér framið fleiri stríðsglæpi gegn almennum borgurum og með árásum á kjarnorkuver en tölu verður á komið. Orðstír rússneska hersins er í tætlum, og hann á sér ekki viðreisnar von.
Af illvirkjum rússneska hersins að dæma er einvaldur Rússlands gjörsamlega misheppnaður stjórnandi, kaldrifjaður illvirki, sem hefur haft leiðtoga Vesturveldanna að fíflum, það sem af er öldinni. Hann hefur að hætti KGB (Leyniþjónustu Ráðstjórnarríkjanna (sovézka kommúnistaflokksins)) stundað undirróður og lygar á Vesturlöndum og tekizt að vinna auðtrúa sálir á sitt band, sem jafnvel enn enduróma áróðurinn frá honum gegn Vesturlöndum. (Ætli spákerlingin, sem kom á flug hugarórunum um "Endurræsinguna miklu" hafi aðsetur í Moskvu ? Nú er því nefnilega haldið fram, að Vladimir Putin standi helzt í veginum fyrir þessari endurræsingu heimsins. Það er ekki öll vitleysan eins.)
Rafael Grossi, forstjóri IAEA (International Atomic Energy Agency-Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar) sagði á 8. degi innrásarinnar, þegar Zaporizhzhia kjarnorkuverið varð fyrir skothríð rússneska hersins, sem áður hafði hertekið Chernobyl-kjarnorkuverið, að hernaður gegn kjarnorkuverum sé stríðsglæpur að alþjóðalögum:
"The IAEA principles should never be compromised, and therefore our agency must back up words with actions."
Hann ásamt teymi frá IAEA lagði síðan upp í ferð til Úkraínu, og var ætlunin að fara um öll kjarnorkuver landsins til að yfirfara rekstraöryggi veranna og varnir gegn skaðlegri geislun.
Morgunblaðið birtir dagbækur Úkraínubúa. Fyrirsögnin 22. marz 2022 var:
"Og þeir kalla okkur nasista".
Færsla Karínar í Karkív hófst þannig
"Í dag er 26. dagur innrásar Rússa. Við erum enn á lífi. Stöðugar loftárásir voru í alla nótt, og við vorum mjög hrædd. Rússar eru að skjóta langdrægum eldflaugum á borgina, og hávaðinn glymur hérna rétt hjá okkur og í fjarska. Þessir villimenn halda óbreyttum borgurum í skelfingu. Þeir eru að eyðileggja allt, drepa fólk og beita sálfræðilegum þrýstingi til að þvinga okkur til að ganga að kröfum þeirra. Hræðilegar fréttir bárust á laugardaginn, þegar Boris Romanchenko, sem var 96 ára, lézt í loftárás á Karkív. Hann lifði af helförina í útrýmingarbúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni, en var drepinn af rússneskri eldflaug, og þeir kalla okkur nasista !
Samkvæmt upplýsingum frá Ígor Terekóv, borgarstjóra Karkív, voru 972 byggingar eyðilagðar og þar af 778 íbúðabyggingar. Það er ekki hægt að semja neitt við þetta fólk. Eina, sem hægt er að samþykkja, er, að þessi villimannaþjóð, Rússland, verði afvopnuð og afnasistavædd. Þeir þurfa að fara eftir samningum, sem gerðir voru eftir seinni heimsstyrjöldina."
Það eru mikil líkindi með stríðsglæpamönnunum Adolf Hitler og Vladimir Putin. Hvorugur virðir nokkra samninga, ef honum býður svo við að horfa. Engin vettlingatök dugðu á þann fyrrnefnda, og Rússar verða að losa sig við þann síðar nefnda og hverfa síðan með öllu út fyrir landamæri Úkraínu. Einangraður einvaldurinn virðist lífhræddari en rotta í búri, hefur sett af æðsta mann hersins, skipt um 1000 manna þjónustulið sitt og hneppt 2 háttsetta FSB-menn í stofufangelsi. Seðlabankastjórinn er á öndverðum meiði við Putin og jafnvel hættur og sverfa tekur að Rússum víða, enda hefur kvalarinn í Kreml nú leitað á náðir forseta Kína um aðstoð. Sá leitar nú eftir 5 ára framlengingu umboðs síns frá kínverska kommúnistaflokkinum og hefur slegið úr og í. Hvers vegna ætti hann að veita böðlinum í Kreml liðsstyrk við óhæfuverkin ?
Margar átakanlegar fréttir og myndir hafa borizt frá Úkraínu undanfarið. Ein var frá Maríupol, þar sem verið var að forða gömlum manni. Hann mundi eftir hernaði Wehrmacht fyrir um 80 árum á sömu slóðum. Hann hafði þá sögu að segja, að Wehrmacht og Waffen SS hefðu látið óbreytta borgara að mestu í friði, en einbeitt sér gegn Rauða hernum, en Rússaher Putins virtist mest í mun að ráðast á varnarlaust fólk. Her, sem framfylgir skipunum um níðingsverk, eins og Rússaher hefur gert sig sekan um, er dauðadæmdur. Ekki bætir úr skák fyrir honum, að fórnarlömbin eru flest með rússnesku að móðurmáli. Stríðið sýður saman eina úkraínska þjóð án tillits til móðurmáls.
Nürnberg-réttarhöld blasa við forseta, ríkisstjórn og herstjórn Rússlands. Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, ritaði um þetta í Morgunblaðið 22. marz 2022 undir fyrirsögninni:
"Ísland styðji sérstaklega við rannsókn á stríðsglæpum Rússlands":
"Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur sagt sannanir fyrir, að rússneski herinn hafi beitt klasasprengjum. Notkun slíkra sprengja er bönnuð samkvæmt Genfarsamningunum.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kallaði eftir því, að stríðsglæpir Rússa yrðu rannsakaðir. Síðast en ekki sízt hefur Karim A.A. Khan, saksóknari hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum, sagt ástæðu til að ætla, að stríðsglæpir hafi verið framdir af hálfu rússneska hersins í Úkraínu. Hinn 28. febrúar [2022] lýsti saksóknarinn því svo yfir, að rannsókn vegna stöðunnar í Úkraínu væri hafin."
Þann 22. marz 2022 bárust svo fréttir af því, að Rússar væru farnir að beita fosfórsprengjum gegn borgum í Úkraínu. Slíkt er stríðsglæpur og glæpur gegn mannkyni samkvæmt Rómarsamkomulaginu (Rome Convention).
Hegðun Rússa gagnvart almennum borgurum Úkraínu verður því níðingslegri þeim mun verr sem þeim gengur á vígvöllunum í átökunum við úkraínska herinn. Rússlandi er augljóslega stjórnað af mafíósum, sem einskis svífast og eru viðbjóðslegar skepnur í mannsmynd. Við slíka er hvorki hægt að semja við né eiga við þá viðskipti. Það ber að einangra þá með öllu.
Það er með öllu óviðunandi, að ríki Evrópu með Þýzkaland í broddi fylkingar fóðri þessa mafíósa með um 800 MUSD/dag fyrir eldsneytisgas. (40 %-50 % gasnotkunarinnar er jarðgas frá Rússlandi, 55 % í Þýzkalandi.) Nú hefur þýzka ríkisstjórnin gert samning við Qatar um afhendingu LNG (Liquid Natural Gas) í stað rússneska gassins og ætlar að minnka gaskaup 2022 um 2/3 m.v. árið áður. Bygging móttökustöðva fyrir LNG í þýzkum höfnum er í undirbúningi. Það verður að einangra Rússland á öllum sviðum, þar til þar verður gerð vorhreingerning. Peningarnir fyrir gasið hindra, að rúblan hrynji til grunna, en hún mun hafa fallið um 30 %- 40 % frá upphafi stríðs. Svartamarkaðsbrask að hætti kommúnistatímans blasir nú við almenningi í Rússlandi.
Þann 21. marz 2022 skrifaði pastor emeritus Geir Waage grein í Morgunblaðið, sem vekur fleiri spurningar en svör. Hún hét:
"Sýn Kissingers á Úkraínu árið 2014".
"Hann [Kissinger] heldur því fram, að Úkraína eigi hvorki að halla sjer til austurs nje vesturs, heldur að brúa bil þar á milli. Rússar verði að virða landamæri Úkraínu og Vesturveldin verði að gæta þess, að Úkraína geti í þeirra augum aldrei orðið útland."
Það er réttur fullvalda Úkraínu að ákveða það sjálf, hvort hún hallar sér til austurs eða vesturs. Rússneskumælandi Úkraínumenn berjast nú við hlið úkraínumælandi landa sinna gegn innrásarliði Rússlands, sem með fantabrögðum reynir að leggja landið undir Rússland. Með hetjulegri vörn sinni hefur Úkraínuher og úkraínska fólkið úthellt blóði sínu, ungra og aldinna, fyrir sjálfstæða, fullvalda og lýðræðislega Úkraínu. Þjóðin sjálf og ríkisstjórn hennar hafa sýnt, að þau vilja allt til vinna að mega halla sér til vesturs. Vestrið á að taka þeim fagnandi inn í samtök sín, hverju nafni sem þau nefnast, og gera Úkraínumenn fullgilda aðila þar.
Það er fullreynt frá 2014 og 2022, að Rússum er ekki treystandi til að virða landamæri Úkraínu. Árið 1994 var gert samkomulag, kennt við Búdapest, á milli Úkraínumanna, Rússa, Bandaríkjamanna og Breta, um, að Úkraínumenn létu af hendi við Rússa kjarnorkuvopn sín, sem voru arfur frá Ráðstjórnarríkjunum 1991, gegn því, að hin ríkin tryggðu öryggi Úkraínu og virtu landamæri hennar. Úr því að þetta samkomulag var svívirt af Rússum, hvernig á þá að tryggja öryggi Úkraínu með öðru móti en t.d. öryggi Póllands og Eystrasaltsríkjanna, þ.e. með inngöngu Úkraínu í NATO ?
"Evrópusambandið verði að skilja, að kröfur þess um samræmingu og aðild að reglum og stefnu Evrópusambandsins setji alla samninga í uppnám."
"Kissingar leggur [lagði] til [2014], að allir aðilar gæti eftirfarandi sjónarmiða:
- Úkraínumenn velji sjálfir viðskipta- og stjórnmálatengsl sín, þ.m.t. gagnvart Evrópusambandinu. [Þetta á við í enn ríkara mæli eftir hina örlagaþrungnu atburði 2022 - innsk. BJo.]
- Úkraína gangi ekki í NATO. [Þetta á alls ekki við 2022 - innsk. BJo.]
- Úkraínumenn ráði sjálfir stjórnarfari sínu í samræmi við vilja þjóðarinnar. Skynsamir leiðtogar muni leita samkomulags andstæðra fylkinga. Á alþjóðasviði skyldu þeir fara að fordæmi Finna, sem sjeu eindregnir sjálfstæðissinnar, en starfi með vestrænum þjóðum og gæti þess að sýna Rússum enga óvild. [Kenningin um rétt Rússa til að eigna sér áhrifasvæði í kringum sig á ekki við lengur. Hún er skálkaskjól til hernaðarlegrar atlögu, þegar Rússar telja sér henta. Þess vegna vega og meta Finnar núna, hvort þeir eigi að ganga í NATO. NATO er opið gagnvart þeim, sem þangað leita - innsk. BJo.]
- Ekki verði á það fallizt, að Rússar hafi innlimað Krím. Þeir verði að virða fullveldi Úkraínu yfir Krím, en Úkraína verði að styrkja sjálfstjórn Krímverja, sem borin verði undir atkvæði undir alþjóðlegu eftirliti. Staða flotastöðvar Rússa í Sevastopol verði ekki vefengd. [Þetta getur staðið áfram - innsk. BJo.]
Sýn hins reynda stjórnmálamanns og margra annarra bandarískra diplómata og háskólamanna var síðan gjörsamlega fyrir borð borin. Evrópusambandið og NATO reri þá og æ síðan að innlimun Úkraínu í Evrópusambandið og NATO. Sú stefna hefur nú leitt til árangurs, sem seint verður bættur."
Með þessum lokaorðum höfundarins horfir hann algerlega framhjá glæpsamlegu eðli forseta Rússlands, sem gekk á lagið og nýtti sér það, að Úkraína var ekki gengin í NATO. Eina raunhæfa vörn Úkraínu til lengdar er NATO-aðild. ESB-aðild dugar landinu ekki til varnar, en mun hjálpa því mikið við uppbygginguna. Réttast er, að Rússland verði auk þess látið greiða landinu stríðsskaðabætur.
Þann 22. marz 2022 gerði Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur, stutta athugasemd við ofannefnda grein Geirs Waage undir fyrirsögninni:
"Hverju var lofað ?".
Greininni lauk Þorsteinn þannig:
"Þótt Gorbatsjov segði í viðtalinu, að hann væri ósáttur við síðari þróun mála og fjölgun NATO-ríkja, væri ekki um samningsbrot eða svik að ræða. Fullyrðingar Pútíns um hið gagnstæða fá því ekki staðizt. Eins og Anthony Blinken, núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði nýverið, var það höfuðatriði í stofnsáttmála NATO frá 1949, að bandalagið skyldi hafa opnar dyr. NATO hefði aldrei gefið loforð um að neita nýjum aðilum um inngöngu. Slíkt væri útilokað."
Málflutningur Kremlar er reistur á lygavef, og lygunum hefur bæði verið beint að íbúum Rússlands og Vesturlanda. Rússar sjálfir hafa verið heilaþvegnir, enda ríkir þar nú skoðanakúgun og einokun ríkisins á fréttum og túlkun atburða. Þolinmæði Rússa gagnvart einvöldum, sem tapa í vopnuðum átökum við önnur ríki, hefur aldrei verið mikil, og það mun vonandi fljótlega renna upp fyrir mörgum Rússum, að þeir hafa verið hafðir að fíflum af eigin stjórnvöldum og að mistökum þessara sömu stjórnvalda er um að kenna, að lífskjör fara nú hratt versnandi í Rússlandi, og ófarir rússneska hersins í Úkraínu verður ekki lengi hægt að dylja úr þessu. Lygamerðir Rússlandsstjórnar á borð við Dimitry Peshkov, talsmann forsetans, sem viðtal birtist nýlega við á vestrænum fjölmiðli, er til vitnis um, að stjórn Rússlands er heillum horfin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.3.2022 | 10:23
Herstjórn í handaskolum
Það er kolröng ályktun Viðreisnarforkólfa, sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, kynnir um þessar mundir af áfergju, t.d. í Silfri RÚV 13. marz 2022, og Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, predikar líka, að nú hafi þeir atburðir orðið í Evrópu, sem geri einboðið fyrir Íslendinga að sækja um aðild að Evrópusambandinu (ESB), þ.e. að biðja viðkomandi "kommissar" í ESB um að dusta rykið af þeirri gömlu. Halda þau virkilega, að ESB telji ekki mikilvægara að fást við brýnni mál en þetta núna ? Engum alvöru norskum stjórnmálaleiðtoga dettur í hug að fara á flot með jafnfjarstæðukennda hugmynd og þessa þar í landi. Þannig hefur formaður Hægri, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, og fylgjandi ESB-aðild, ekki fitjað upp á þessu, enda ekki vinsælt í Noregi, að norskir hermenn gangi í Evrópuherinn. Norski herinn er NATO mikilvægur í vörnum Norður-Evrópu. Þessir íslenzku formenn tveir eru úti að aka.
Það er alveg rétt, að allt gjörbreyttist í Evrópu 24. febrúar 2022 með villimannlegri innrás Rússahers í Úkraínu, sem lygnu siðblindingjarnir í Kreml kalla ekki sínu rétta nafni og hafa bannað rússnesku þjóðinni að kalla sínu rétta nafni, heldur skuli viðhafa hugtakarugling að hætti Kremlar og kalla ófögnuðinn "sértæka hernaðaraðgerð". Þá er skírskotað til þeirrar vitfirrtu átyllu, að nauðsynlegt hafi verið að hreinsa nazista út úr valdastöðum í nágrannaríkinu, af því að rússneskumælandi fólk ætti þar í vök að verjast. Sjúklegri lygaþvættingur hefur sjaldan sézt eða heyrzt. Rússar eru nú flæktir í eigin lygaþvælu, þar sem yfirmenn hafa logið að undirmönnum um "strategíu" hernaðarins, og undirmenn hafa logið að yfirmönnum um getu hersins. Leyniþjónustan, arftaki KGB, laug að Pútín um hug Úkraínumanna til innrásarhersins og sagði honum aðeins, það sem hann vildi heyra. Þetta er dæmigerður veikleiki einræðisríkis.
Viðbrögð ESB-ríkjanna urðu snögg og samstæð, mikil aukning hernaðarútgjalda, miklar hergagnasendingar til Úkraínu og viðamiklar fjármálalegar og viðskiptalegar refsiðgerðir gegn Rússum undir forystu Bandaríkjamanna. Við Rússlandi blasir gjaldþrot með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Mikil aukning fjárveitinga til hermála er ekki til að styrkja hernaðararm ESB, heldur til að gera Evrópuríkin í stakk búin til að uppfylla hernaðarlegar skuldbindingar sínar gagnvart NATO, enda gera þau sér mætavel grein fyrir, að þau geta ekki varið sig sjálf gegn Rússlandi, heldur verða að reiða sig á NATO. Þetta varð enn ljósara við brotthvarf öflugasta herveldis Vestur-Evrópu úr ESB, og Bretar hömruðu jafnan á því, á meðan þeir voru innanborðs, að stofnun ESB-hers yrði NATO ekki til framdráttar, nema síður væri, því að sömu fjármunina er ekki hægt að nota tvisvar. Þegar af þessari ástæðu er Úkraínustríðið engin hvatning fyrir Ísland til að ganga í ESB. Málflutningurinn sýnir fremur málefnalegt gjaldþrot ESB-sinna hérlendis, þar sem þeim hefur mistekizt að sýna fram á gagnsemi aðildar fyrir hinn almenna mann. Það er ekki hægt að sýna fram á neina gagnsemi af aðild fyrir land, sem er með þjóðartekjur á mann hátt yfir meðaltali ESB-ríkjanna.
Staðan sýnir hins vegar öllu hugsandi fólki í sjónhendingu, hversu mikilvægt varnarbandalagið NATO er fyrir varnir lýðræðisríkja hins vestræna heims, enda mælist nú meira en helmingsfylgi almennra flokksmanna VG við NATO-aðild Íslands, þótt forstokkaðir flokksbroddarnir japli enn á andstöðu sinni við veru Íslands í hvers konar hernaðarbandalögum. Þau eru óskiljanleg og verulega vandræðaleg. Þegar fólk hefur verið einu sinni slegið blindu, á það sér ekki viðreisnar von. Á hinum Norðurlöndunum eru systurflokkar VG ekki svona forstokkaðir, heldur endurmeta nú stöðuna, t.d. SV í Noregi.
Spurt hefur verið, hvort Ísland eigi við núverandi aðstæður að fara fram á stöðuga viðveru herliðs á vegum NATO. Varnarbandalagið hefur nú nóg á sinni könnu í austanverðri Evrópu, þar sem það gæti lent í beinum bardaga við rússneska herinn fyrirvaralaust. Á meðan átökin hafa ekki færzt út á Atlantshafið, verður að líta svo á, að stöðug viðvera varnarliðs hér á vegum NATO hafi litla þýðingu.
Það gæti þó breytzt, og fari NATO fram á slíkt, t.d. eftir að hafa komizt á snoðir um einhver áform óvinarins, þá er það helzta mótframlag, sem Íslendingar geta lagt að mörkum gegn hervernd NATO, að ljá land, aðstöðu og alla mögulega þjónustu við herlið, sem NATO telur æskilegt eða nauðsynlegt að staðsetja hér.
Stríðið í Úkraínu hefur komið flatt upp á flesta. Aðdáun hefur vakið frækileg vörn Úkraínumanna, sem láta ekki bilbug á sér finna þrátt fyrir hrottalega stríðsglæpi rússneska hersins gegn almennum borgurum, íbúðarhúsum, sjúkrahúsum, fæðingardeildum, elliheimilum o.s.frv.
Rússneski herinn sýnir öll merki þess gerspillta ríkis, sem hann þjónar. Búnaður stendur sig illa og er óáreiðanlegur, varahluti, eldsneyti og mat handa hermönnunum skortir, þ.e. aðföng hersins eru í lamasessi. Þar sem spilling ríkir, þykir þetta dæmigert einkenni. Af fjárveitingum til hermála er m.ö.o. ótæpilegu stolið á öllum stigum. Ólígarkar fá framleiðslusamninga á hertólum, en illa er gengið frá samningum, svo að ólígarkar sleppa með að afhenda gallaða vöru.
Herstjórnarlist Rússa virðist ekki vera upp á marga fiska. Hún virðist í sumum tilvikum miðast við að hrúga saman sem flestum skriðdrekum á lítil svæði í von um, að ógnin af þeim leiði til uppgjafar, en Úkraínuher virðist hafa átt ágæt svör við þessari ógn, sem leitt hefur á 2 vikum til þriðjungs af mannfalli Rússa í öllu Afghanistan-stríðinu og svo mikils taps stríðstóla, að rússneski herinn virðist ekki fá það bætt með varaliði. Afleiðing af þessu öllu er slæmur andi og minni bardagageta rússneska hersins en búizt var við. Orðstýr rússneska hersins er farinn norður og niður, hann virðist vera siðferðislegt flak.
Þessi innrás Rússa í Úkraínu hefur valdið ólýsanlegum mannlegum harmleik þar í landi, en út úr viðbjóði óréttlætanlegrar innrásar með tugþúsundum látinna og hundraða þúsunda særðra auka efnalegs tjóns, sem hleypur á hudruðum milljarða evra, gæti komið samstæðari Úkraínuþjóð en nokkru sinni áður í sögunni, sem mun ákveðin kjósa sér vestræna lifnaðarhætti, eigi hún þess kost. Vesturveldin fá vonandi tækifæri til að aðstoða við uppbyggingu vestræns þjóðfélags úr þeim rústum, sem Rússar hafa valdið.
Rússa bíður ekkert annað en skömm og fyrirlitning heimsins í einangrun. Stjórnarfarið þar er nú farið að minna mjög á Stálínstímann. Hversu lengi heimurinn mun þurfa að lifa í nýju "Köldu stríði", verður undir Rússum komið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.3.2022 | 21:00
Skefjalaus útþenslustefna Rússlandsforystunnar
Það hefur nú loksins runnið upp fyrir forystu Evrópu, Bandaríkjanna og heimsins alls, hversu stórhættuleg fyrir framtíð heimsins alls forysta Rússlands er vegna skefjalausrar útþenslustefnu sinnar, þar sem hún reynir á vitfirringslegan hátt að skrúfa rás tímans aftur um rúmlega 30 ár og jafnvel langt aftur fyrir byltingu mensévíka gegn keisaranum og bolsévíka gegn þeim.
Það er forneskjuleg og glæpsamleg hugmyndafræði, sem forseti Rússlands hefur kynnt í ritgerðum og ræðum, að Rússlandi beri að sameina slavneskar þjóðir undir ríki sitt með svipuðum hætti og var í blóma rússneska keisaraveldisins. Frá Kalíningrad, gömlu Königsberg í Prússlandi, sem er víghreiður Rússlands við Eystrasaltið, getur rússneski herinn sótt inn í Eystrasaltslöndin, sem reyndar eru ekki slavnesk að stofni, og inn í Pólland. Þessi yfirvofandi hætta hefur nú sameinað Evrópu, Bandaríkin og nánast allan heiminn. (Kínverskur stórbanki í Shanghai, sem hefur haft milligöngu um mikil eldsneytisviðskipti Rússa, hefur nú stöðvað þau. Indverski herinn er búinn rússneskum hergögnum og hefur nú miklar áhyggjur af "gæðum" þeirra.)
Það er með ólíkindum og með öllu óviðunandi fyrir Evrópuþjóðir vestan Úkraínu, að tekin sé ákvörðun um það í Moskvu að leggja frjálst og fullvalda Evrópuland undir Rússland með villimannslegu hervaldi. Við þessa iðju sína beita Rússar ógnaraðferðum og gera óbreytta borgara að skotmörkum flugskeyta sinna og sprengjuvarpa með því að beina þeim að skólum, sjúkrahúsum, stjórnarbyggingum, torgum o.fl., þótt lygalaupurinn Pútín haldi öðru fram og sendimönnum ógnarstjórnar fyrrverandi KGB-manns sé falið að ljúga öðru upp í opið geðið á Vesturlandamönnum, sem búnir eru nú að fá upp í kok af lygaþvættingi stríðsglæpamanna ríkisstjórnar Rússlands og útsendara hennar. Að þvættingurinn frá Moskvu sé enn bergmálaður á Íslandi, er ekki einleikið.
Úkraínumenn hafa með hetjulegum varnarviðbrögðum sannað fyrir umheiminum með óyggjandi hætti, að þeir hafa fengið sig fullsadda af að vera undirsátar Rússa í eigin landi. Þeir eru tilbúnir að berjast til þrautar við Rússa fyrir fullveldi sínu og sjálfsákvörðunarrétti. Fjöldi mæðra ungra barna hafa flúið eða eru á flótta til nágrannalanda, en feðurnir verða eftir til að berjast við ofureflið. Fyrrverandi hermenn fara unnvörpum til föðurlands síns til að taka þátt í baráttunni. Úkraínska hernum hefur orðið ótrúlega vel ágengt gegn fjandmanninum, sem virðist ekki vita sitt rjúkandi ráð.
Úkraínska ríkisstjórnin og forsetinn hafa ákallað Vesturveldin um aðstoð gegn ofureflinu, og Vesturveldin hafa svarað með því að einangra Rússland á öllum sviðum og með vopnasendingum, læknabúnaði og matarsendingum, þ.e. með flestu öðru en því, sem þarf til reka fjandmanninn á flótta með skjótum hætti. Það verður samt að vona, að Rússar, sem horfast nú í augu við þá fáránlegu staðreynd, að einn maður hefur nú breytt "móður Rússía" í útlagaríki í heiminum, ýti óþokkanum frá völdum og dragi rússneska herinn inn fyrir landamæri Rússlands.
Úkraínumenn munu hins vegar seint gleyma því eða fyrirgefa, það sem þessi nágranni þeirra hefur á hlut þeirra gert, og Úkraínumenn eiga siðferðilegan rétt á því eftir þetta, að Vesturlönd ábyrgist landamæri þeirra og þeir fái sérstakt samband við Evrópusambandið og aðgang að Innri markaðinum, eins og þeir hafa ítrekað beðið um. Evrópa verður að standa saman að uppbyggingu Úkraínu eftir stríðið með aðstoð Bandaríkjanna. Hið gegnumrotna stjórnkerfi Rússlands, þar sem auðjöfrar og stjórnmálamenn með Vladimir Putin, gamlan leyniþjónustumann KGB á toppi pýramídans, stela auði stritandi alþýðu Rússlands, má hreinlega ekki til þess hugsa, að vestan landamæranna þróist grózkumikið hagkerfi og lýðræðislegt stjórnarfar.
Nina L. Khrushcheva, prófessor alþjóðamála hjá "The New School", á rætur að rekja til Úkraínu, því að langafi hennar, Nikita Khrushchev, var aðalritari sovézka kommúnistaflokksins 1953-1964. Eftir hana birtist í Morgunblaðinu 28.02.2022 greinin:
"Hvað er Pútín að hugsa ?"
Þar stóð m.a. þetta:
"Aðeins slík hugsun [Mao Zedong:"pólitískt vald vex úr byssuhlaupi"-innsk. BJo] getur útskýrt aðgerðir Pútíns í Úkraínu. Hann segist vilja "afnazistavæða" Úkraínu, en merkingarleysi þeirrar fullyrðingar ætti að vera augljóst ekki sízt vegna þess, að forseti Úkraínu, Volodimir Zelenski, er Gyðingur.
Hvert er markmið Pútíns ? Vill hann refsa NATO með því að eyðileggja hernaðarinnviði Úkraínu ? Vonast hann til að koma á fót leppstjórn, hvort sem er með því að skipta Zelenskí út eða með því að breyta honum í úkraínskan Philippe Pétain, samstarfsleiðtoga [leppstjóra] Frakklands í síðari heimsstyrjöldinni ?
Svarið við báðum þessum spurningum gæti verið já. En raunveruleg ástæða Pútíns fyrir innrás í Úkraínu er mun óraunsærri og meira ógnvekjandi. Pútín virðist hafa fallið fyrir sjálfhverfri þráhyggju sinni um að endurheimta valdastöðu Rússlands með eigið greinilega skilgreinda áhrifasvæði."
Sennilega hefur Khrushcheva rétt fyrir sér um það, að vitfirringsleg löngun forseta Rússlands til að endurvekja yfirráð Moskvustjórnar yfir löndum, sem zarinn réði fyrir forðum tíð, þegar veldi hans var mest, ráði gjörðum hans. Þá varð hann að byrja á Úkraínu, en Úkraínumenn hafa nú sýnt og sannað, að þeir kjósa að berjast til þrautar fyrir frelsi sínu og fullveldi landsins.
Það hafa verið hæg heimatökin hjá þeim að bera saman þjóðfélagsgerð, tæknilegar framfarir og lífskjör austan og vestan við sig, þ.e. í Rússlandi og t.d. í Póllandi. Þessi samanburður hefur leitt til þess, að þeir vilja eindregið horfa til vesturs, og glæpsamleg innrás Rússa í landið þeirra hefur farið langt með að sameina þá í þeirri afstöðu, og Vestrið hefur loksins vaknað upp við vondan draum. Það verður að stöðva stríðsglæpamennina í Kreml. Jafnvel Svisslendingar hafa nú fryst eigur þeirra í Sviss.
Úkraínski flugherinn þarf nú flugvélar og flugmenn og gagneldflaugakerfi, eins og t.d. Ísraelsmenn eiga. Flugbannssvæði yfir Úkraínu mundi þýða stríð NATO við Rússland, ef að líkum lætur. Ef vitfirringin fær að grassera í stjórn Rússlands, verður stríð við hana þó óhjákvæmilegt.
"Í ljósi þess, að Pútín treysti á Kína til stuðnings við að skora heimsmynd og yfirráð Bandaríkjanna á hólm, myndi það ekki hafa góð pólitísk eða stefnumótandi áhrif á Xi að ljúga að honum. Það, sem veldur svo miklum áhyggjum, er, að Pútín virðist ekki lengur fær um þá rökhugsun, sem ætti að stýra ákvarðanatöku leiðtoga. Langt frá því að vera jafningi er Rússland nú á góðri leið með að verða eins konar kínverkst leppríki."
Þarna lætur Khrushcheva í ljós áhyggjur margra um, að forseti Rússlands sé ekki lengur með "fulle fem", að hann gangi ekki á öllum. Það er alveg ljóst, að heilbrigð skynsemi hefur yfirgefið hann, hafi hann einhvern tímann búið svo vel. Hann er búinn að keyra Rússland niður í siðferðislegan, pólitískan og efnahagslegan ruslflokk og verður nú að sitja og standa, eins og Xi Jinping þóknast. Hann er með stórveldisdraumum sínum og landvinningastefnu að drekkja Úkraínumönnum í blóði. Hann mun fyrir vikið uppskera fyrirlitningu og viðbjóð landsmanna sinna og alls umheimsins. Hann er búinn að vera.
Ungur skriðdrekahermaður, sem féll í fyrstu viku átakanna, hringdi úr farsíma sínum í móður sína skömmu áður og sagðist vera kominn í stríð í Úkraínu, en hún hélt hann vera á heræfingu á Krím. Hann sagði, að hermönnunum hefði verið sagt, að Úkraínumenn mundu taka þeim fagnandi, en raunin væri allt önnur. Hann skammaðist sín svo mikið fyrir hlutskipti sitt, að hann sagðist helzt vilja binda enda á eigið líf. Þegar vika var liðin frá upphafi innrásarinnar höfðu 9000 rússneskir hermenn fallið í átökunum samkvæmt upplýsingum Úkraínustjórnar. Þessi villimannslega innrás rússneska hersins gengur á afturfótunum.
"Innrásin í Úkraínu hefur einnig myndað gjá [á] milli fyrrverandi bandamanna og Pútíns. Sumir af trúföstustu lærisveinum hans á Vesturlöndum, frá forseta Tékklands, Milos Zeman, til Viktors Orbáns, forsætisráðherra Ungverjalands, hafa fordæmt aðgerðir hans. En, kannski enn mikilvægara, þá hafa óráðsræður Pútíns hliðsett rússnesku þjóðina. Með villimannslegri árás á Úkraínu hefur hann fórnað áratuga langri félagslegri og efnahagslegri þróun og eyðilagt vonir Rússa um betri framtíð. Rússland verður nú alþjóðlegt úrhrak í áratugi."
Í ljósi þessa mats, sem er ekki langsótt, heldur liggur beint við, er stórfurðulegt að sjá nokkrar hræður á samfélagsmiðlum hérlendis bera í bætifláka fyrir stríðsglæpamanninn Vladimir Putin og jafnvel ganga svo langt í fáránleikanum, að hann sé með svívirðilegum stríðsrekstri sínum að uppræta spillingu í Úkraínu. Fólk, sem lætur svona þvætting frá sér fara, er ekki með öllum mjalla.
Hver er afstaða forsætisráðherra Íslands og flokks hennar, Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs, til varnarbandalags lýðræðisríkja, NATO ? Síðast, þegar fréttist, var hún og flokkurinn andsnúin veru Íslands í NATO. Við núverandi aðstæður gengur það alls ekki, að forsætisráðherra Íslands hafi þessa afstöðu eða sé óheil í afstöðu sinni, beri kápuna á báðum öxlum. Hvers vegna hefur hún ekki manndóm í sér til að fara að dæmi Svía og Finna, sem nú eru að endurskoða sína afstöðu, og viðurkenna villur síns vegar ? Ætlar hún enn að halda því fram, að eitthvert hald sé að hlutleysisstefnu ríkis í varnarmálum ? Vitleysa vinstri manna á Íslandi ríður ekki við einteyming nú frekar en fyrri daginn.
"Sömuleiðis er fullyrðing um, að 73 % Rússa styðji aðgerðir Pútíns í Úkraínu, hreinn áróður. Þúsundir safnast saman í rússneskum borgum og segja "nei við stríði", þrátt fyrir fangelsanir og lögregluofbeldi. Í þetta sinn virðast Rússar ekki líklegir til að gefast upp án andmæla. Á næstu dögum og vikum getur heimurinn búizt við mörgum vísbendingum til viðbótar um, að Rússar vilji ekki þetta stríð."
Það er vafalaust þyngra en tárum taki fyrir almenning í Rússlandi að sitja uppi með böðul frænda þeirra vestan landamæranna. Það þarf enga mannvitsbrekku til að átta sig á, að engin glóra er í því fyrir Rússa að standa blóðugir upp fyrir axlir við að þvinga fram sameiningu Rússland og Úkraínu. Það vissi alþýða Rússlands fyrir 24. febrúar 2022.
Það er sömuleiðis ótæk hegðun með öllu að láta börn eða fullorðna, sem eru af rússnesku bergi brotin hérlendis, gjalda fyrir framferði ríkisstjórnar lands þeirra, en að mótmæla framferði þessarar rússnesku ríkisstjórnar í Úkraínu með friðsamlegum hætti er hins vegar sjálfsagt mál.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.2.2022 | 15:15
Köttur í kringum heitan graut
Viðbrögð umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, gagnvart orkuvanda þjóðarinnar, sem í vetur veldur tugmilljarða ISK tekjutapi í hagkerfinu og mun draga úr hagvexti á þessu ári og næstu árum, eru ekki að öllu leyti uppörvandi fyrir þá, sem eldurinn brennur heitast á, þótt jákvæð tíðindi berist nú einnig.
Ráðherrann virðist að nokkru leyti koma af fjöllum sorglegt ástand orkumála landsins, og hið eina bitastæða, sem fyrir vorþinginu liggur af verkefnum frá honum, er að draga úr óþarfa skriffinnsku við endurnýjun og jafnvel aflaukningu virkjana og að auðvelda fólki á rafhitunarsvæðum að setja upp hjá sér varmadælu til húshitunar og spara þannig um 60 % raforku til húshitunar. Hvort tveggja er þó gott og blessað, en annars einkennast gjörðir ráðherrans af því að geta sagzt hafa brugðizt hratt við með nefndaskipunum til upplýsingaöflunar um mál, sem fullnægjandi þekking er á nú þegar í ráðuneytinu, hjá Orkustofnun og síðast en ekki sízt hjá Landsneti. Þó hefur nú frétzt af því, að Rammaáætlun 3 verði tekin á dagskrá vorþingsins, og er það gleðiefni, þótt mey skuli að morgni lofa. Það er vert að gefa gaum að því í þessu sambandi, að virkjanafyrirtækin hafa ekki séð sér hag í því enn að hefja framkvæmdir við öll verkefni í nýtingarflokki Rammaáætlunar 2. Ætla má, að nú væri enginn raforkuskortur í landinu, ef allur nýtingarflokkur Ramma 2 væri nú kominn í gagnið.
Í Markaði Fréttablaðsins 26.01.2022 birtist umfjöllun um orkuskortinn og frásögn af viðbrögðum téðs ráðherra undir fyrirsögninni:
"Ráðherra lítur mögulega skerðingu á raforku alvarlegum augum".
Sennilega á kaldhæðni Helga Vífils Júlíussonar þátt í þessari fyrirsögn, þannig að hann hæðist að máttleysislegum viðbrögðum ráðherrans. Umfjöllunin hófst þannig:
"Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, lítur tilkynningu Landsvirkjunar um, að mögulega verði dregið úr afhendingu raforku, alvarlegum augum. Um leið og ráðuneytið varð þess áskynja, voru fulltrúar Landsvirkjunar og Orkustofnunar kallaðir á fund, og í kjölfar þess var sett af stað vinna við að bregðast við vandanum."
Þetta hljómar eins og texti í fáránleikaleikhúsi. Allir landsmenn vita, að þegar á þessum tíma var í gangi skerðing á ótryggðri orku, af því að raforkukerfið hefur ekki undan þörfinni, og við því er lítið hægt að gera annað en að veita framkvæmdaaðilum framkvæmdaleyfi við fullhannaðar virkjanir í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3, þegar Alþingi hefur afgreitt hana. Landsvirkjun sótti 10. júní 2021 um virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun til Orkustofnunar. Orkustofnun svaraði meira en hálfu ári síðar með beiðni um meiri gögn. Kerfið heldur tafaleikjum sínum áfram. Þetta er stjórnsýsla án jarðsambands.
Einhverjir gætu misst neðri kjálkann niður á bringu af undrun yfir því, sem ráðherrann lætur út úr sér:
""Staðan kom mér satt að segja á óvart. Um leið og ég varð þess áskynja, hvernig málin stæðu, þá leit ég það mjög alvarlegum augum. Fundaði ég þegar í stað með aðilum, sem lýst höfðu yfir áhyggjum vegna stöðunnar til skamms tíma, og er unnið að lausn málanna. Þá fundaði ég með Orkustofnun vegna stöðunnar, en stofnunin sendi í kjölfarið bréf á raforkufyrirtækin, eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum í vikunni", segir hann."
Þetta er lítið annað en sjálfshól ráðherra, sem kemur fram sem álfur út úr hól. Er eitthvert annað raunhæft ráð við orku- og aflskorti en að virkja ? Umrætt bréf Orkustofnunar er sennilega tilgangslausasta bréf sögunnar frá þeirri virðulegu stofnun hæfra stjórnenda, en þá var öldin önnur, er Gaukur bjó á Stöng.
Áætlanir um orku- og aflþörf og framboð hins sama hafa frá árinu 2019 sýnt fram á yfirvofandi skort. Kófið olli frestun vandans til 2022. Morgunblaðið gerði rækilega grein fyrir málinu í forsíðufrétt og baksviðsfrétt 27. janúar 2022. Baksviðsfréttin bar skuggalega fyrirsögn:
"Frekari skerðingar á næstunni".
Föstudaginn 28. janúar 2022 bilaði tengivirki ON/Landsnets við Nesjavelli. Þann dag kom til stórfelldra skerðinga á raforku og heitavatnslaust varð hjá tugþúsundum manna. Kólnaði verulega í húsum vegna gats, sem kom á stofnlögn Veitna vegna yfirþrýstings. Talverðar truflanir urðu á afhendingu raforku í kjölfar bilunarinnar á Nesjavöllum, t.d. hjá Norðuráli. Þetta sýnir, að menn treysta á Guð og lukkuna, en hafa engin úrræði, þótt aðeins ein eining bili, í þessu tilviki tengivirki ON/Landsnets við Nesjavelli.
Það er endalaust hummað fram af sér að styrkja kerfið til að gera það þolið gagnvart einni bilun, og aflgetan er nú nýtt til hins ýtrasta. Þessir rekstrarhættir bjóða hættunni heim með óábyrgum hætti, og Orkustofnun virðist hvorki hafa faglega getu né áhuga á eða heimildir til að leggja mat á afhendingaröryggið og krefjast úrbóta af orkufyrirtækjunum. Naglafægjarar og baunateljarar virðast móta stefnuna og ráða ferðinni varðandi raforkukerfið. Afhendingaröryggið liggur þar óbætt hjá garði.
Téð baksviðsfrétt hófst þannig:
"Ef miðað er við venjubundna aukningu raforkunotkunar samkvæmt raforkuspá eru líkur á, að draga þurfi úr afhendingu skerðanlegrar orku í meðalvatnsári, ekki aðeins í lélegu vatnsári, strax á næsta ári. Staðan verður mun verri, ef áform um orkuskipti eða aukning á fyrirtækjamarkaði verður umfram spár. Í greiningu Landsnets kemur fram, að nauðsynlegt sé að bæta við afli með nýjum virkjunum og styrkja flutningskerfið."
Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar voru september og nóvember úrkomusamir á Suð-Vesturlandi árið 2021, og meðalhitastig ársins var 0,2°C yfir meðallagi áranna 1991-2020 með tilheyrandi meiri jökulbráðnun. Það stendst því varla, að lág staða Þórisvatns stafi af sérlega lélegu ári fyrir vatnsbúskapinn, heldur stafar óvenju lág staða þar af einhverju öðru, og munar þar vafalaust mest um metálag á raforkukerfinu. Spár EFLU miða við meðalvatnsár, og kerfislíkan fyrirtækisins greindi þegar árið 2019 yfirvofandi skort í kerfinu. Kófið gaf gálgafrest, en nú árið 2022 er fyrirsjáanlegur orkuskortur skollinn á, og orkuyfirvöldin eru með allt á hælunum. Það er lakari frammistaða en þjóðin á að þurfa að búa við.
Áfram með téða baksviðsfrétt:
"Landsnet gerir reglulega greiningar á afl- og orkujöfnuði landsins. Í síðustu birtu greiningu, sem EFLA-verkfræðistofa gerði á árinu 2019, voru taldar líkur á aflskorti á árinu 2022 og enn frekar á árinu 2023. Aflskortur þýðir, að ekki er nægt afl tiltækt í virkjunum til að fullnægja aflþörf. Líkurnar á aflskorti aukast, ef litið er til kalds vetrardags, sem reikna má með, að komi á 10 ára fresti. Þetta hefur gengið eftir, eins og komið hefur fram í ákvörðunum Landsvirkjunar að undanförnu um að takmarka afhendingu á orku samkvæmt samningum um skerðanlega orku vegna lélegrar vatnsstöðu á Suðurhálendinu."
Orkustofnun og þáverandi atvinnuvegaráðuneyti mátti vera ljóst í síðasta lagi fyrir 3 árum, að í óefni stefndi með orkujöfnuð landsins og að þar af leiðandi væru loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar í uppnámi. Samt var setið með hendur í skauti og látið sem orkumálin væru í himnalagi og jafnvel enn bætt í loftslagsmarkmiðin. Um þetta er það aðeins að segja, að þetta er glórulaus stjórnsýsla, þar sem sýndarmennskan ræður ferðinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.2.2022 | 11:10
"Gríðarleg olíubrennsla"
Orkustefna og þar með loftslagsstefna stjórnvalda eru staddar í öngstræti vegna lamandi áhrifa græningja á vinstri kanti stjórnmálanna á stjórn landsins, en hugmyndafræði þeirra virðist hafa snúizt upp í afturhvarf til fortíðar. Fyrirhyggjuleysið í orkumálum og hræsnin um náttúru og hlýnun andrúmslofts haldast hönd í hönd, því að samhliða öfgakenndri andstöðu við orkuframkvæmdir yfir 10 MW og jafnvel minni hafa græningjarnir tekið þátt í að semja loftslagsmarkmið fyrir Ísland, sem kynnt hafa verið á alþjóðavettvangi af núverandi forsætisráðherra sem skuldbindingar Íslands (55 % minnkun losunar 2030 m.v. 2005).
Hið veigamesta í þessum markmiðum er reist á orkuskiptum í landumferð og hjá fiskiskipaflotanum, en forsenda þessara orkuskipta er nægt raforkuframboð frá endurnýjanlegum orkulindum. Nú er staðfest, að raforkukerfi landsins er orðið yfirlestað, því að það ræður ekki við álag allra viðskiptavina að vetrarlagi. Þurrkaár í fyrra er bara smjörklípa. Fyrirsjáanlegur er orku- og aflskortur fram að næstu verulegu virkjun, þ.e. a.m.k. til 2027, þannig að loftslagsstefna stjórnvalda er ekki pappírsins virði og hefur aldrei verið annað en helber hræsni.
Hlutur Orkustofnunar (OS) er skrýtinn í þessu máli. Eðlilegt væri, að hún linnti ekki látunum, þegar fyrirsjáanlegt er, að spár hennar um þróun orkunotkunar fara fram úr spám um orkuframboð. Það hefur verið ljóst í nokkur ár, að yrði, þegar allt færi í gang eftir Kófið.
Fyrrverandi orkumálastjóri varaði iðulega við allt of þunglamalegu og óskilvirku leyfisveitingaferli fyrir nýjar virkjanir. Núverandi orkumálastjóri virðist vilja laga fyrirtækin að viðvarandi orkuskorti, því að hún hefur hvatt orkuseljendur til að selja ekki hæstbjóðanda raforkuna, nema hann styðji við orkuskiptin innanlands. Þetta er kúvending, sem gengur í berhögg við markaðslögmálin og getur framkallað ólögmæta mismunun mismunandi atvinnustarfsemi.
Þessi orkumálastjóri sendi um miðjan janúar 2022 bréf til allra raforkuframleiðenda landsins og spurði þá efnislega á þá leið, hvort þeir lumuðu á orkuvinnslugetu, sem þeir gætu hugsað sér að setja í gang í vetur. Þetta er afar sérkennileg spurning, því að enginn getur haft hag af því að halda aftur af orkuvinnslugetu fyrirtækis síns við núverandi aðstæður. Eiginlega hlýtur fiskur að liggja undir steini hjá orkumálastjóra. Vitað er um niðurdrátt í ýmsum jarðgufuvirkjunum, og hefur hann verið einna mestur í Hellisheiðarvirkjun, en til að vega upp á móti slíku þarf annaðhvort að tengja virkjun við annað jarðgufuforðabúr, auka niðurdælingu til að fá meiri gufu eða til bráðabirgða að fjölga vinnsluholum, en allt tekur þetta tíma. Gefnir voru 2 sólarhringar til að svara. Hefði ekki verið nær að hringja í forstjórana og fá uppgefna orkuvinnsluna vikuna á undan, bera saman við málgetuna og leita síðan skýringa á hugsanlegum frávikum ?
Þann 21. janúar 2022 gerði Morgunblaðið nokkrar afleiðingar yfirstandandi orku- og aflskorts að umfjöllunarefni á forsíðu sinni með sömu fyrirsögn og á þessum pistli. Umfjöllunin hófst þannig:
"Orkubú Vestfjarða og RARIK búa sig undir að brenna milljónum lítra af olíu á komandi mánuðum til þess að tryggja húshitun á Vestfjörðum og á Seyðisfirði. Forstjóri Orkubúsins telur raforkuskort leiða tæplega MISK 500 kostnað yfir fyrirtækið á komandi þremur mánuðum, og að honum verði óhjákvæmilega velt yfir á neytendur á Vestfjörðum til lengri tíma litið. Höggið jafngildi kISK 70 reikningi á hvert mannsbarn á svæðinu."
Hér eru mikil firn á ferð, sem skrifa má á öfgafulla virkjanaandstæðinga, sem lagt hafa sig í líma við að leggja stein í götu nýrra vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum, sem þó eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3. Slíkar öfgar eru hrein skemmdarverkastarfsemi gegn velferð almennings á Vestfjörðum, þegar árlegur reikningur á hverja 4 manna fjölskyldu þar mun nema a.m.k. 280 kISK/ár vegna raforkuskorts. Slíkar viðbótar byrðar eru ekkert gamanmál fyrir íbúa, sem mega una við háan vöruflutningakostnað og þ.a.l. væntanlega hærra verðlag en á höfuðborgarsvæðinu. Er ekki eðlilegt, að ríkið hlaupi undir bagga með íbúunum í ljósi þess, að handhafar ríkisvaldsins hafa brugðizt þeirri skyldu sinni (enginn þykist ábyrgur) að sjá íbúum landsins fyrir nægu framboði raforku (álagsgeta kerfisins er við þolmörk á vetrum) ? Kostnaðurinn er lítilræði í hlutfalli við væntanlegar arðgreiðslur Landsvirkjunar til ríkissjóðs í ár.
"Orkuskerðingin, sem fyrirtækin standa frammi fyrir, kemur í kjölfar þess, að Landsvirkjun hafði einnig tilkynnt öllum fiskimjölsverksmiðjum landsins, að þær myndu ekki fá keypta skerðanlega orku úr kerfum fyrirtækisins. Hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna áætlað, að það leiði til þess, að 20 Ml af olíu verði brennt við bræðsluna á yfirstandandi vertíð."
Þessi raforkuskerðing til fiskimjölsverksmiðjanna ríflega tvöfaldar orkukostnað þeirra, sem þýðir ríflega mrdISK 1 í viðbótarkostnað og ríflega 1 % aukningu á koltvíildislosun Íslands á árinu 2022. Tekjutap stóriðjunnar vegna orkuskerðinga við hana getur orðið einni stærðargráðu meira eða um mrdISK 20 á árinu 2022. Þetta er herfilegur minnisvarði um misheppnaða orkustefnu stjórnvalda undanfarinna ára, gjörsamlega að þarflausu, og nú verður umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Kötustjórnar 2 að setja hæl undir nára merarinnar til að afla orku fyrir landsmenn á þessu kjörtímabili, ef áratugurinn á ekki allur að markast af misráðinni orkulöggjöf, sem dregur niður lífskjörin og veldur atvinnuleysi í landinu, er fram líða stundir.
"Gögn, sem Landsvirkjun hefur veitt Morgunblaðinu aðgang að, sýna, að skammtímamarkaður með raforku hefur tekið miklum breytingum á örfáum vikum. Á 90 dögum hafa s.k. mánaðarblokkir á þeim markaði hækkað um 46 %. Í svari fyrirtækisins við fyrirspurn blaðsins segir, að vatnsbúskapur hafi ekki verið lakari um árabil vegna þurrka, og á sama tíma sé eftirspurn eftir raforku mikil. "Raforkukerfið er fulllestað um þessar mundir, og Landsvirkjun hefur ekki getað annað allri eftirspurn frá núverandi viðskiptavinum."
Þarna kemur fram, að raforkukerfið sé fulllestað. Skýringin á því er ekki slæm staða miðlunarlóna, heldur aflskortur í kerfinu, þ.e. það vantar nýjar virkjanir inn á kerfið. Miðlunarstaða Hálslóns hefur verið góð í haust og vetur, en samt er fiskimjölsverksmiðjum á Austfjörðum og reyndar í Vestmannaeyjum neitað um ótryggða orku, um 180 GWh. Skýringin er ekki vatnsskortur fyrir austan, heldur aflskortur í kerfinu. Hér sunnan heiða var hvorki sérlega þurrt né kalt árið 2021, svo að skýringar á lágri miðlunarstöðu Þórisvatns er ekki að leita í veðrinu, heldur í miklu álagi á vatnsorkuverum Tugnaár/Þjórsár m.v. miðlunargetuna.
Iðnaðurinn framleiddi á fullum afköstum og e.t.v. hafa önnur orkuver framleitt minna en vant er af illviðráðanlegum ástæðum. Þessi staða kann að boða árlegan orkuskort fram að næstu virkjun, sem um munar.
Daginn eftir, 22.01.2022, rakti Morgunblaðið fleiri afleiðingar raforkuskortsins á forsíðu sinni undir fyrirsögninni:
"Skortur hefur víða áhrif".
Af lýsingunni varð enn skýrara, að orkuskiptin hafa steytt á skeri, og það er urgur í sveitarstjórnarmönnum út af því, að miklar orkuskiptafjárfestingar nýtast ekki, heldur lendir nú mikill viðbótar rekstrarkostnaður á fjárfestum og/eða rekstraraðilum, þar sem olíuverð er nú í hæstu hæðum. Téð umfjöllun hófst þannig:
"Forsvarsmönnum Vestmannaeyjaferjunnar hefur verið tilkynnt, að komið geti til skerðingar á afhendingu raforku til rekstrar Herjólfs. Fyrirtækið hefur keypt skerðanlega raforku til starfseminnar. Mun olíunotkun skipsins margfaldast, verði skerðingin að veruleika.
Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri á Ísafirði, kallar eftir tafarlausum úrbótum á raforkumálum Vestfjarða. Tómt mál sé að tala um orkuskipti, þegar fjórðungurinn standi frammi fyrir því að þurfa að brenna milljónum lítra af olíu á komandi mánuðum til að tryggja húskyndingu. Þá komi ekki til greina að samþykkja stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum fyrr en tryggt verði, að slík stofnun girði ekki fyrir nauðsynlegar virkjanaframkvæmdir. Forstjóri Orkubús Vestfjarða ítrekar, að hagfelldasti kosturinn væri að reisa 20-30 MW virkjun í Vatnsfirði í Vestur-Barðastrandasýslu."
Hér skal taka eindregið undir með bæjarstjóranum á Ísafirði. Það hefur verið einstaklega ógeðfellt að fylgjast úr fjarlægð með því, hvernig ofstopa-umhverfisafturhald utan Vestfjarða hefur rekið skefjalausan áróður gegn því, að vilji Vestfirðinga og Verkefnisstjórnar Rammaáætlunar 3 um vatnsorkuver á Vestfjörðum nái fram að ganga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.2.2022 | 10:24
Opinberar sóttvarnaraðgerðir hafa valdið tjóni, en hafa þær gert gagn ?
Hér birtist þýðing á grein sænska læknisins Sebastians Rushworth á vefsetri hans undir fyrirsögninni:
"Covid opinberlega afstaðin í Svíþjóð"
Við eigum eftir að standa andspænis öðrum og alvarlegri sjúkdómsfaröldrum en C-19. Þess vegna er nauðsynlegt að gera hlutlæga athugun á viðbrögðum hins opinbera og einkaaðila við þessum tiltölulega væga faraldri, t.d. í samanburði við ebólu, svo að móta megi hagkvæm og skilvirk og fumlaus viðbrögð við næstu faröldrum. Hefst nú grein Sebastians:
"Sænska ríkisstjórnin hefur ákveðið að binda enda á allar hömlur tengdar covid 9. febrúar 2022. Þar að auki verður samkomuhöldurum og atburðastjórnendum óheimilt að krefja gesti um bólusetningarvottorð. Ennfremur mælir landlæknir með, að covid verði ekki lengur flokkað sem "ógn við lýðheilsu". Svíþjóð er 3. í röð Norðurlandanna til að afnema covid-hömlur og fylgir þar á hæla Danmerkur og Noregs.
Ákvörðunin felur í sér viðurkenningu á þeirri staðreynd, að covid hefur breytzt úr því að vera heimsfaraldur í hefðbundna umgangspest. Landlæknir áætlar, að 500´000 Svíar hafi smitazt í viku 04/2022 [18´500 á íslenzkan mælikvarða-innsk. BJo] (sem er tvöfaldur fjöldi greindra tilvika ). Á sama tíma dó aðeins 181 af/með covid [7 á íslenzkan mælikvarða] (mögulega fleiri "með" en "af"). Það setur núverandi dánarhlutfall af covid í sömu stíu og kvef. Eins og margir hafa spáð, hefur C-19 nú orðið 5. "kvef"- kórónuveirusjúkdómurinn.
Nú þegar faraldurinn er opinberlega afstaðinn, finnst mér áhugavert að líta til baka og athuga, hversu slæmur hann raunverulega var. Áður en við gerum það skulum við minnast þess, að Svíþjóð beitti vægum úrræðum gegn faraldrinum allan tímann. Það þýðir, að Svíþjóð er gagnleg "viðmiðun" til að skilja, hvað mundi hafa gerzt, ef yfirvöld (í mörgum löndum) hefðu ekki beitt aflokunum (lockdowns), lokað skólum og þvingað alla til að setja upp grímu.
Ef við viljum skilja, hversu mikil lífsógn faraldurinn var, þá er bezti mælikvarðinn fjöldi heildardauðsfalla. Það er eini mælikvarðinn, sem ekki er auðveldlega hægt að föndra með í annarlegu augnamiði. "Coviddauðdagar" er ekki góður mælikvarði, af því að hann er túlkunaratriði. Ólíkir læknar, ólík sjúkrahús og ólík lönd, skilgreina coviddauðdaga með ólíkum hætti. Oft sést í opinberri tölfræði, að "dauðdagar með covid" (þ.e. dánarorsök önnur, en sá látni var með covid eða a.m.k. hafði slíkt próf reynzt jákvætt) eru skilgreindir sem "coviddauðdagar", sem gerir erfitt um vik að ákvarða hina raunverulegu dánartíðni af völdum covid. [Þetta á nánast örugglega við um Ísland einnig-innsk. BJo.]
Tölfræðistofnun sænsku ríkisstjórnarinnar (SCB) [Hagstofan] vinnur fyrirtaks tölfræðigögn, mögulega áreiðanlegustu opinberu tölfræðigögn í heiminum. "Harold on Twitter" hefur útbúið afar hjálpleg gröf á grundvelli þessarar tölfræði.
Á "harold-graph-1" í viðhengi koma fram heildardauðsföll í Svíþjóð 1991-2021. Við sjáum hægt fallandi dánartíðni á þessu 30 ára skeiði, frá u.þ.b. 1´100 dauðsföllum á 100´000 í byrjun 10 áratugarins niður í að meðaltali u.þ.b. 900 dauðsföll á 100´000 íbúa síðastliðin 5 ár. Þessi lækkun er líklega aðallega út af því, að vænt ævilengd í Svíþjóð hefur lengst töluvert á þessu 30 ára skeiði eða úr 78 árum 1991 í 83 ár núna.
Næst sjáum við óvenju lága dánartíðni 2019. Þess vegna var viðbúið, að árið 2020 yrði verra en meðalár af þeirri einföldu ástæðu, að árum með dánartíðni undir meðaltali fylgja vanalega ár með yfir meðaltals dánartíðni (af því að ár með undir meðaltals dánartíðni þýðir, að þá eru margir heilsuveilir við dauðans dyr í upphafi næsta árs). Við getum séð þetta á grafinu - þegar dánartíðni lækkar umtalsvert á einu ári, fylgir því venjulega hækkun dánartíðni árið eftir. Þannig verður árið 2020 líklegt til að vera með hærri dánartíðni en meðaltals dánartíðni áður en C-19 varð vart.
Þá komum við að árinu 2020, og þar sjáum við áhrif faraldursins (ásamt viðbúinni dánartíðni aðeins yfir meðaltalinu), með heildardauðsfallafjölda u.þ.b. 945 á 100´000 íbúa í samanburði við meðaltal síðustu 5 ára, sem er 900 á 100´000 íbúa. Þannig voru árið 2020 45 viðbótar dauðsföll á 100´000 íbúa í samanburði við meðaltal undanfarinna 5 ára, sem jafngildir u.þ.b. 4´600 manns. Það þýðir, að faraldurinn ásamt þeirri staðreynd, að 2020 sigldi í kjölfar árs með óvenju lága dánartíðni, olli um 4´600 viðbótar dauðsföllum, sem er 0,04 % af íbúafjölda Svíþjóðar.
Hvað getum við ályktað ?
Jú, það varð smáfjölgun dauðsfalla 2020 út af covid, en hún varð ósköp lítil. Ég segi ekki, að covid sé ekki hættulegur sjúkdómur fyrir suma hluta þjóðfélagsins, en allar fullyrðingar um, að þetta væri afar lífshættulegur faraldur á við spænsku veikina eru greinilega gríðarlega orðum auknar. Það kemur einkar vel í ljós, þegar við höldum áfram og lítum á árið 2021. Eins og fram kemur af grafinu, var dánarhlutfall það ár ekkert umfram meðaltalið. Raunar var 2021 með næstminnstu dánartíðni í sögu Svíþjóðar !
Þetta er svo þrátt fyrir þá staðreynd, að opinberar tölur sýna 6000 dauðsföll með/af covid í Svíþjóð 2021 [þetta eru 220 á íslenzkan mælikvarða]. Greinilega voru þá flest þessara 6000 dauðsfalla fremur "með" en "af" covid, eða fólkið, sem dó af covid var flest komið svo að fótum fram, að það hefði látizt árið 2021 hvort eð var, jafnvel án covid.
Þegar við skoðum gögnin mánuð fyrir mánuð (aftur leyfi frá Harold og SCB, sjá viðhengi þessa pistils), sjáum við dálítið áhugavert [harold-graphs-2-1].
Við sjáum dauðsföll yfir meðaltali í Svíþjóð frá apríl til júní 2020 og síðan aftur frá nóvember 2020 til janúar 2021. Í öllum öðrum mánuðum þessa tveggja ára tímabils voru dauðsföllin færri en búast mátti við. Þannig voru umframdauðsföll af völdum þessarar veiru í reynd aðallega á tveimur stuttum tímabilum, og var annað vorið 2020 og hitt veturinn 2020/2021. Utan þessara tveggja tímabila voru áhrif veirunnar lítil. Sænska ríkisstjórnin hefur opinberlega lýst yfir lokum faraldursins nú, en sé litið á tölfræði mánaðarlegra heildardauðsfalla, lítur út fyrir, að honum hafi lokið fyrir einu ári [líklega með hjarðónæmi í Svíþjóð - innsk. BJo].
Jæja, þetta var um það, hvernig covid lék Svía, þjóðina, sem aldrei var beitt aflokunum á starfsemi og sem margir gerðu lítið úr sem "útlagaþjóð" á fyrri hluta faraldursskeiðsins. Þegar við hins vegar skoðum tölfræði heildarandláta og sjáum fjöldann, sem raunverulega dó af völdum covid, er alveg ljóst, að Svíþjóð var e.t.v. landið, sem brást viturlegast við faraldrinum með aðgerðum, sem voru að mestu í samræmi við ógnina, sem við blasti. Aðrar þjóðir á hinn bóginn gengu fram með slaghömrum gegn flugum.
Eitt er það, sem áhugavert er að hugsa um í ljósi þessa, og það er heildardauðsfallafjöldi á 100 k íbúa í öðrum löndum. Fyrst Svíþjóð, sem skellti ekki í lás, var aðeins með örlítið fleiri dauðsföll 2020 en að meðaltali 5 árin á undan og engin umframdauðsföll 2021, er ljóst, að covid-19 hefur í sjálfu sér ekki valdið umtalsverðu tjóni. Það þýðir, að tíðni dauðsfalla umfram smáræðið í Svíþjóð í löndum, sem skelltu í lás (lockdown), getur ekki verið vegna veirunnar. Orsakanna hlýtur að verða að leita annað. Fyrst hið hina, sem skildi að Svíþjóð og þessi önnur lönd um þetta 2 ára skeið, var höfnun [Svíþjóð] og notkun [aðrir] aflokana, er næstum örugglega hægt að skýra umframdauðsföll með aflokunum.
Tökum Bandaríkin (BNA) sem dæmi. Ólíkt Svíþjóð var víða í BNA gripið til stórtækra aflokana. Komu þessar aflokanir í veg fyrir einhver covid-dauðsföll ? Ja, ef við lítum bara á hráar tölurnar, þá sjáum við enga slíka fækkun dauðsfalla m.v. Svíþjóð. Samkvæmt opinberum tölum hafa 0,27 % bandarísku þjóðarinnar látizt af/með covid [Ísland 0,01 %] í samanburði við 0,16 % Svía - þrátt fyrir aflokanir hafa Bandaríkjamenn mátt þola marktakt fleiri covid-dauðsföll en Svíar m.v. 100 k íbúa !
Þetta er í samræmi fjölda gagna, sem sýna fram á, að opinberar aflokanir og hömlur á samkomum og rekstri voru óskilvirkt úrræði gagnvart SARS-CoV-2. Nú fyrst við vitum, að höftin eru óskilvirkt úrræði til að stöðva veiruna, mundum við búast við, að í BNA væru áhrif faraldursins á heildarandlátsfjöldann svipuð og í Svíþjóð - þ.e. smávegis aukningu í fjölda heildarandláta má búast við. Ef á hinn bóginn aukningin er miklu meiri í BNA en í Svíþjóð, þá er hún líklega sökum haftanna. Hvað sjáum við á grafinu "image-1", sem reist er á gögnum CDC (Sóttvarnastofnun BNA) í viðhengi ?
Við sjáum aukningu í heildarfjölda andláta í BNA 2020 og 2021, sem er markvert meiri en í Svíþjóð. Í Svíþjóð er hlutfallsleg aukning heildarfjölda andláta 1 % í samanburði við meðaltal áranna 5 á undan (frá 900 dauðsföllum á 100 k árin 2015-2019 til 912 dauðsföll á 100 k árin 2020-2021).
Í BNA er hlutfallsleg aukning heildardauðsfalla 18 % ! (frá 860 dauðsföll á 100 k árin 2015-2019 til 1016 dauðsföll á 100 k árin 2020-2021). Það er 18-föld meiri aukning dauðsfalla á þessum 2 árum farsóttarinnar í BNA en í Svíþjóð !
Samantekt: BNA er með innan við tvöfalt fleiri [1,7 sinnum fleiri] covid-dauðsföll en Svíþjóð (0,27 % af bandarísku þjóðinni m.v. 0,16 % af sænsku þjóðinni), en 18 sinnum fleiri umframdauðsföll [frá meðaltali] ! Greinilega er ekki hægt að útskýra þann gríðarlega mun með veirunni. Það verður að útskýra hann öðruvísi. Eina haldbæra skýringin frá mínu sjónarhorni eru hrikalegar afleiðingar haftanna á frelsi fólks og fyrirtækja fyrir heilsufar almennings. Það verður áhugavert að fylgjast með því, hvort bandaríska þjóðin lætur stjórnmálaforystu sína á næstu árum gjalda fyrir gríðarlegan skaða, sem hún hefur valdið þjóðinni með dómgreindarleysi sínu." Undirstrikun þýðanda.
Sóttvarnaryfirvöld hérlendis sitja við sinn keip og fullyrða án þess að hafa rannsakað það neitt nánar, að alls konar dýrkeyptar hugdettur þeirra, sem framkvæmdar hafa verið umhugsunarlítið með útgáfu reglugerða heilbrigðisráðherra, hafi gert eitthvert gagn. Þá er því oftast kastað fram, að höftin hafi dregið úr álagi á heilbrigðiskerfið. Hér skal kasta fram þeirri tilgátu, að málinu sé öfugt farið. Höftin hafi aukið álag á heilbrigðiskerfið, og er þá vísað til þessarar athugunar Sebastians Rushworth hér að ofan. Öfgar sóttvarnaryfirvalda hafa verið yfirgengilegar með því t.d. að skikka einkennalausa og börn í sóttkví og hvetja foreldrana til að láta bólusetja börn sín í miðjum ómíkrón faraldri, sem bóluefnin eru frá upphafi gagnslaus gegn, og varnarmáttur þeirra hvarf á hálfu ári gagnvart fyrri afbrigðum.
Það er rík ástæða fyrir Alþingi til að verja almenning gegn öfgum lækna og annarra, sem blygðunarlaust hræða almenning til fylgilags við öfgafullar skoðanir sínar um frelsissviptandi forsjárhyggju sína. Það verður að beizla sóttvarnarlækni á hverjum tíma með víðsýnu sóttvarnaráði, skipuðu fólki úr öllum lögum samfélagsins, eins og núverandi heilbrigðisráðherra hefur nú í hyggju. Ný sóttvarnarlög ættu að taka völdin af ráðherra til frelsissviptinga almennings með reglugerð. Aðeins Alþingi á að geta veitt ráðherra slíkar heimildir, sem hann síðan útfærir í samráði við sóttvarnarráð, en hvorki landlækni né sóttvarnalækni eina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.2.2022 | 20:54
Örvænt um vitræna orkumálaumræðu
Framkvæmdastjóri félagsskapar, sem kallaður er Landvernd, Auður Önnu Magnúsdóttir, hefur gengið fram af mönnum fyrir sinn útúrborulega málflutning um íslenzkar virkjanir til raforkuvinnslu, einkum þær, sem enn hafa ekki komið til framkvæmda, en eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3 og nauðsynlegt er að færa af undirbúningsstigi yfir á framkvæmdastig eina af annarri á næsta aldarfjórðungi, ef hér á að verða hagvöxtur, næg atvinna og ef orkuskiptin eiga að verða barn í brók. Svipaða sögu er að segja af baráttu hennar gegn 220 kV flutningslínum raforku.
Téð mannvitsbrekka sá sig knúna til að hella úr vizkuskálum sínum yfir landslýð 16.01.2022 af því tilefni, að forstjóri Landsvirkjunar hafði þá nýlega tjáð sig um virkjanaþörf fyrir orkuskipti Íslendinga. Hún er um 50 % af núverandi orkugetu að hans mati, sem eru um 10 TWh/ár ný orkuvinnslugeta. Á þessum og næsta áratugi verður vonandi hagvöxtur og íbúum landsins fjölgar, þannig að orkuþörfin mun vaxa umfram það, sem orkuskiptin útheimta, e.t.v. um 35 % á 20 árum, enda skapa orkuskiptin viðskiptatækifæri til útflutnings á "grænu" eldsneyti.
Framkvæmdastjóri Landverndar talar vafalaust í nafni félagsins, þegar hún tilkynnir, að nóg sé komið af virkjunum á Íslandi. Spurð, hvernig eigi þá að uppfylla markmið ríkisstjórnarinnar um losun gróðurhúsalofttegunda, koma svör, sem sýna, að hún talar í senn af fullkomnu þekkingarleysi og ábyrgðarleysi gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum landsins.
Hún segir lausnina vera orkusparnað, en raunhæfur orkusparnaður fæst sjaldnast án fjárfestinga, og raforkan, sem hægt er að spara hérlendis með tækniframförum, mun aðeins nema broti af raforkuþörf orkuskiptanna. Einna stærsta orkusparnaðarverkefnið, sem nú er í gangi, er ný 220 kV Byggðalína í stað 132 kV línu, en Landvernd hefur einmitt lagt steina í götu þeirrar framkvæmdar og tafið hana stórlega. Þá hefur hún nefnt nýtingu á varmatöpum stóriðjunnar, en hitastigið er yfirleitt svo lágt í strompum verksmiðjanna, að enga raforku er hægt að vinna með þeirri orku, en e.t.v. með ærnum kostnaði hægt að nýta hana í fjarvarmaveitu.
Ef/þegar álverin söðla yfir í kolefnisfría rafgreiningu súráls, mun orkuþörf álveranna aukast að öðru óbreyttu, því að raforka þarf að koma í stað varmaorku frá bruna kolaforskautanna til að viðhalda hitastigi raflausnarinnar.
U.þ.b. 1 TWh/ár kann að fara núna til gagnaveranna í landinu. Fundið hefur verið að þessari sölu vegna þess, að talsvert af orkunni fer í "námugröft" eftir Bitcoin og öðru slíku. Eru slíkar aðfinnslur í samræmi við einstæða hvatningu nýs orkumálastjóra til orkufyrirtækjanna um að láta ekki viðskipti við fyrirtæki ráðast af því, hver býður hæsta verðið, heldur að setja orkuskiptaverkefni í forgang. Standast þessar hvatningar orkumálastjóra ákvæði orkulaga (Orkupakka 3) varðandi frjálsa samkeppni og jafnræði ?
Allt er þetta krepputal afleiðing af þeim raforkuskorti, sem fyrirhyggjuleysi stjórnvalda hefur leitt yfir þjóðina. Landsmenn standa nú frammi fyrir fulllestuðu raforkukerfi, sem þýðir, að vegna aflskorts (vöntun á nýjum virkjunum) mun verða að neita öllum óskum um raforku til nýrra verkefna og sennilega að neita fyrirtækjum um afhendingu ótryggðrar raforku, sem er 5-10 % af heildargetu raforkukerfisins, næstu 5 árin, eða þar til ný virkjun, sem eitthvað kveður að á landsvísu, kemst í gagnið. Augljóslega setur þessi staða loftslagsmarkmið stjórnvalda í uppnám, enda voru þau orðin tóm, þar sem það vantaði, sem við átti að éta.
Staksteinar Morgunblaðsins gátu ekki orða bundizt 20. janúar 2022 um delluna, sem upp úr framkvæmdastjóra Landverndar vellur:
"Þar [í viðtali á RÚV 16.01.2022 um virkjunarþörf versus orkusparnað Landverndar - innsk. BJo] nefndi hún t.d. strandsiglingar til vöruflutninga, sem lognuðust út af um aldamót. En hvað er Landvernd að segja ? Að fólk úti á landi sé ekki of gott til þess að neyta tveggja vikna gamallar dagvöru og geti vel beðið eftir sendingum ?"
Þessi málflutningur framkvæmdastjóra Landverndar er aðeins ein birtingarmynd þeirra afturhaldsviðhorfa, sem eru grundvöllur stefnu Landverndar yfirleitt. Ekki ber þó að útiloka strandsiglingar. Þungaflutningar valda megninu af vegslitinu og þar með viðhaldsþörf þjóðveganna. Þegar þetta ásamt aukinni slysahættu af völdum þungaflutninga á vegum er tekið með í reikninginn, kann vel að vera, að strandsiglingar með annað en dagvöru neytenda, t.d. með rusl að nýrri sorpbrennslustöð, sem gefur frá sér varmaorku og raforku, verði senn hagkvæmar, en bæði þungaflutningar á landi og sjó munu þurfa sitt rafeldsneyti, sem engin raforka er nú til í landinu til að framleiða.
"Aðalmálið sagði hún samt millilandaflugið. "Þar verðum við að sætta okkur við, að við getum ekki verið að fljúga til útlanda þrisvar á ári hver einasta manneskja, eins og við gerðum fyrir Covid." Þar fer hún með rangt mál. Árin fyrir plágu lætur nærri, að það hafi verið 1,7 ferðir á hvert mannsbarn."
Hvers vegna gerir framkvæmdastjóri Landverndar svo mikið úr utanlandsferðum Íslendinga ? Þær skipta ekki sköpum fyrir heildarlosun millilandaflugs til og frá Íslandi, og millilandaflug í heiminum skiptir ekki sköpum fyrir losun koltvísýrings á heimsvísu. Þar að auki er afar sennilegt, að 2030-2040 muni koma fram tækni, sem leysir jarðefnaeldsneyti af hólmi í millilandaflugvélum. Ef hugarfar Auðar Önnu Magnúsdóttur yrði hins vegar ráðandi í heiminum, yrðu engar framfarir í þessa veru. Afturhaldssjónarmið Landverndar hefja neyzlusamdrátt og núllvöxt til skýjanna. Þetta er hins vegar vís leið til fjöldaatvinnuleysis og fjárhagslegra vandræða um allt þjóðfélagið og um allan heim, ef því er að skipta. Enginn ábyrgur stjórnmálamaður getur léð máls á slíku, en engu að síður smjaðrar nánast öll vinstri slagsíða stjórnmálanna á Íslandi fyrir þessum útúrboruhætti.
Gervifjölmiðlar gera heldur enga athugasemd við delluna frá Landvernd, en það gerir alvörufjölmiðill á borð við Morgunblaðið aftur á móti:
"En það, sem Landvernd þarf að útskýra, er, hvernig þessum markmiðum skal náð, því [að] leiðirnar eru ekki margar. Með átthagafjötrum ? Með skömmtunarstofu utanlandsferða ? Með skattheimtu, svo [að] aðeins efnafólk hafi efni á utanlandsferðum ?
Í leiðinni mætti Auður segja okkur, hversu margar flugferðir hafa verið farnar á vegum Landverndar, nú eða fráfarins umhverfisráðherra hennar eða annarra í svipuðum erindum á ráðstefnur úti í heimi árin fyrir fraldurinn, og þess vegna [á] meðan á honum stóð."
Þarna varpa Staksteinar ljósi á hræsnina, sem umlykur öfgagræningja. Getur verið, að kolefnisfótspor öfgagræningjans sé stærra en meðalkolefnisspor landsmanna ? Ef við tökum tillit til afleiðinga baráttu þessara græningja gegn orkutengdum framkvæmdum undanfarinn áratug nú í raforkuskortinum, þá er engum vafa undirorpið, að kolefnisfótspor öfgagræningja er risastórt í öllum samanburði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)