Færsluflokkur: Umhverfismál

Afleiðingar atvinnufjandsemi

Stöðnun ríkir í athafnalífi landsmanna, ef frá eru taldar talsverðar framkvæmdir Rio Tinto Alcan (RTA) í Straumsvík og framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun, sem reist er til að fullnusta nýjan orkusamning á milli Landsvirkjunar og RTA.  Því miður hillir ekki undir næstu framkvæmdir á þessu sviði. 

Ef allt væri með felldu, væru framkvæmdir við álverið í Helguvík nú þegar komnar að nýju af stað og virkjanaframkvæmdir vegna þessa notanda.  E.t.v. hefur ógæfa þessa verkefnis verið of mikil áherzla á jarðgufuvirkjun til orkuöflunar.  Nóg er hins vegar af vatnsorku í landinu, en auðvitað þarf þá að flytja orkuna lengri leið í sumum tilvikum.  Öflugt atvinnulíf á Suðurnesjum útheimtir öfluga flutningslínu þangað og er óskandi, að ágreiningur um flutningslínuna standi ekki þróun fjölbreytilegs athafnalífs Suðurnesja fyrir þrifum.

Hins vegar er alveg ljóst, að bögglingurinn með Rammaáætlun um nýtingu og verndun orkulinda, sem nú þegar hefur dregizt um of úr hömlu, er tekinn að hamla þróun athafnalífs í landinu.  Þessi bögglingur vinstri manna við völd tefur uppbyggingu athafnalífsins og magnar fjárhagsvanda almennings.  Stuðningur við fjárhag heimilanna þarf að vera í 5 liðum:

  1. Fjárfestingar í fyrirtækjum til útflutningsiðnaðar.    Þar undir falla virkjanir, því að tekjur þeirra af raforkusölu til útflutningsiðnaðar eru í bandaríkjadölum.  Gjaldeyristekjur gefa hámarks margfeldisáhrif á hagkerfið.  Aukið innstreymi gjaldeyris er til þess fallið að styrkja krónuna, sem bætir stöðugleikann, og gerir kleift að hraða greiðslu erlendra skulda, sem minnkar vaxtaútgjöld hins opinbera og rennir stoðum undir hækkað lánshæfismat.  Fjárfestingar draga úr atvinnuleysi í bráð og lengd, sem lagar stöðu ríkissjóðs.  Stórtækar fjárfestingar efla tækniþekkinguna í landinu og skjóta þannig stoðum undir innviði þjóðfélagsins. Fjárfestingar, sem nema a.m.k. 20 % af landsframleiðslu, VLF, eru traust undirstaða öflugs hagvaxtar, 3 % - 6 % á ári, sem, ásamt framleiðniaukningu, gefur von um varanlegar kjarabætur almenningi til handa.  Slíkar kjarabætur ásamt, skattaívilnunum, er raunhæfasta aðstoð við fjárhagslega aðþrengdar fjölskyldur, sem völ er á.  
  2. Vinstri hreyfingin grænt framboð og Samfylking í Stjórnarráðinu eru nú að framkvæma löngu yfirlýsta stefnu sína um að þrengja að notkun einkabílsins með mjög háum stofnkostnaði, mjög háu varahlutaverði og afar háu eldsneytisverði.  Allt of lítil endurnýjun á sér þess vegna stað á bílaflota landsmanna, og meðalaldur hans að verða ískyggilega hár m.v. öryggi og hagkvæmni.  Vinstri menn og nytsamir sakleysingjar gjamma enn um, að eldsneytisverð sé lægra hérlendis en sums staðar erlendis.  Þeir setja þessi mál þá ekki í rétt samhengi.  Hérlendis eru engar járnbrautarlestir og almenningssamgöngur vanþróaðar, enda fer aðeins um 5 % fólksflutninga fram þannig.  Erlendis er þetta hlutfall margfalt hærra, þ.e. í öðrum löndum gefst fólki val, og eldsneytisverðið hefur þess vegna ekki jafnhrikalega neikvæð áhrif á pyngju almennings og fyrirtækja og hérlendis.  Það er þess vegna rétt athugað hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að lækkun eldsneytisverðs niður í 200 kr/l er eðlileg samfélagsleg ráðstöfun og til þess fallin að örva atvinnulífið.  Miða mætti við verðlag í ársbyrjun 2012 og leyfa verðinu að hækka m.v. hækkun vísitölu frá þeim tímapunkti og þar til hagvöxtur í landinu er orðinn a.m.k. 4 % yfir 2 ár í senn.   Þetta mundi hafa góð áhrif á hag flestra fjölskyldna í landinu og allra fyrirtækja og þar með örva hagvöxt.  Íslendingar eiga tæknilega möguleika á framleiðslu eldsneytis, sem dugir öllum bílaflotanum, sem líklega borgar sig, ef verð hráolíutunnu er yfir USD 100, en það er nú um 115 USD/tu.  Þetta verður gjaldeyrissparandi og dregur úr koltvíildislosun og ýmissi annarri loftmengun. Slík þróun yrði þjóðhagslega hagkvæm. 
  3. Sjávarútveginum er haldið í spennitreyju af stjórnarflokkunum.  Hótanir vofa yfir um þjóðnýtingu, svo að ritað sé tæpitungulaust.  Við slíkar aðstæður er of áhættusamt að fjárfesta.  Samt er svo komið, að á næstu 10 árum þyrfti að endurnýja um 80 % af atvinnutækjum sjávarútvegsins, ef vel ætti að vera.  Endilega þarf að stefna að því, að þessar fjárfestingar nýtist sem bezt íslenzkum tæknimönnum og iðnaði.  Þó að útvegurinn sé mjög skuldsettur núna, m.a. vegna kvótakaupa, er ekki ólíklegt, að hann gæti fjárfest fyrir 30 mia. kr á ári næstu árin.  Slíkt yrði landinu gríðarleg lyftistöng.  Til þess að gera þetta þarf sjávarútvegurinn frið fyrir stjórnvöldum, bæði varðandi eignarhald aflaheimilda og sérskattlagningu, s.s. veiðileyfagjald, sem er uppfinning andskotans til að draga kraftinn úr atvinnugrein, sem stendur í harðri alþjóðlegri samkeppni á matvælamörkuðum heimsins.  Sjávarútvegur greiðir feiknin öll til samfélagsins með hafnargjöldum, fasteignaskatti og tekjuskatti.  Hann greiðir og hærri laun að jafnaði en almennt gerist.  Allir mundu hagnast á því, að útvegurinn setti fé í stórfellda repjuræktun og olíuvinnslu úr henni, sem nýtzt gæti flotanum og almenningi.  Til að auka hlut almennings enn meir í velgengni sjávarútvegs mætti veita fólki forkaupsrétt að hlutabréfum í fyrirtækjum, sem aflað hafa sér fiskveiðikvóta, sem nemur yfir 5 % heildarkvótans. 
  4. Verðbætur stuðla að hærri verðbólgu.  Í um 30 ár hafa verið verðbætur á fjárskuldbindingar, en ekki á laun.  Þetta hefur eflt sparnað í landinu, sbr lífeyrissjóðina.  Hann mundi hins vegar verða enn meiri eftir afnám vísitölutengingar lána, ef samtímis tekst að kveða verðbólguna í kútinn og skapa jákvæða raunvexti.  Þá verða lánin ekki það kverkatak á hag fjölskyldna, sem nú er.  Til að kveða verðbólguna niður verður að vinna bug á hallarekstri ríkissjóðs strax og skapa aðstæður, sem hægt styrkja krónuna.  Snöggt afnám gjaldeyrishafta mun stinga á kýli, hreinsa gröft úr sári og skapa aðstæður fyrir gróanda, þ.e. aukið innstreymi gjaldeyris, sem er nauðsynlegt.  Við þurfum að taka upp þýzka hagstjórn, halda vexti ríkissjóðs vel innan hagvaxtarmarka, halda launahækkunum innan marka framleiðniaukningar og efla iðnaðinn með áherzlu á menntun iðnaðarfólks og tæknimanna.  Hefja verkmenningu til öndvegis, eins og Þjóðverjar gera, en láta spákaupmennsku og froðuhagkerfi lönd og leið.
  5. Menn á borð við Þorstein Pálsson telja leiðina til að ná öllum þessum fögru markmiðum liggja til Evrópusambandsins, ESB.  Þess vegna var sótt um aðild að ESB 16. júlí 2009, þegar Íslendingar stóðu mjög höllum fæti vegna Hrunsins.  Bjartsýnir ESB-sinnar spáðu Íslandi inni þar í hlýju Berlaymont þegar árið 2011.  Það var mikil glámskyggni. Hvaða lærdóma má draga við athugun á þróuninni innan ESB síðan sótt var um aðildina ?  ESB er nú að þróa með sér nýja sameiginlega sjávarútvegsstefnu.  Frétzt hefur, að hún muni verða reist á kvótakerfi með 15 ára nýtingarrétti.  Augljóslega er svo nefnd fyrningarleið Samfylkingar aðlögun að þessari stefnu.  Þá verður hluti aflaheimildanna innkallaður á hverju ári, þjóðnýttur með Salami-aðferðinni, til uppboðs eða endurúthlutunar til 15 ára.  Er ástæða til að halda, að þetta fyrirkomulag muni auka afrakstur sjávarútvegsins ?  Nei, það standa engin rök til þess, af því að eignarréttur veiðihlutdeildarinnar hvetur til betri umgengni við auðlindina, meiri fjárfestinga og langtímahagsmunir eru þá settir í öndvegi í stað skammtímasjónarmiða.  Hvaða ályktanir má draga af óförum jaðarlanda ESB, Grikklands, Portúgals og Írlands.  Innanríksráðherra Þýzkalands hefur svarað því.  Eina leiðin fyrir Grikkina er að losa sig út úr evrusamstarfinu, segir hann.  Þetta blasir við.  Til að Grikkir rétti úr kútnum verður að myndast hagvöxtur í gríkska hagkerfinu. Á árinu 2011 varð þar 7 % samdráttur, og hefur hagkerfið dregizt saman um líklega 15 % - 20 % frá 2007.  Þetta er voveiflegt, enda er millistétt Grikklands að verða fátæktinni að bráð.  Um 30 % Grikkja eru nú undir skilgreindum fátæktarmörkum.  Öllum þessum ósköpum hefur evran valdið.  Portúgalir eru líklega gjaldþrota líka, eins og Grikkir í raun.  Eitt bjargar Írum nú.  Miklar fjárfestingar erlendra fyrirtækja, sem þeir hafa laðað til sín með aðeins um 12 % tekjuskatti á fyrirtæki.  Þetta er leiðin út úr ógöngunum.  Burt frá sósíalisma andskotans.  Það á að fjárfesta sig út úr kreppunni.  Niðurskurður þarf að vera með að því marki, sem eykur alþjóðlega samkeppnihæfni, en vöxt verður að tryggja.  Þetta er lærdómurinn.  Tryggjum við þetta með inngöngu í ESB ?  Ekkert bendir til þess.  Þvert á móti.  Í kurteisiskyni við framkvæmdastjórn og leiðtogaráð ESB og í sparnaðarskyni fyrir íslenzka skattgreiðendur ber að stöðva aðildarferlið nú þegar.  Segja á við ESB.: - Þróunin innan ESB hefur orðið allt önnur en búast mátti við, þegar Alþingi samþykkti aðildarumsókn.  Þess vegna treystum við okkur ekki til að halda ferlinu áfram án þess að spyrja þjóðina beint, hvort hún vilji fá að sjá samning við ESB. - Alþingi skuldbindi sig til að hlíta vilja þjóðarinnar í þessu efni.  Þetta verða talin eðlileg og lýðræðisleg viðbrögð lítillar þjóðar í vandasamri stöðu.

Það fer lágt á opinberum vettvangi á Íslandi, að erlendis er fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga talið meðal hinna bezt heppnuðu í heimi.  Þann 25.02.2012 var fjallað í vikuritinu The Economist um sjávarútveg í greininni, "How to stop fishermen fishing".  Byrjað er á að minnast á súrnun hafsins, sem rekja má til hlýnunar andrúmsloftsins og aukins koltvíildis þar.  Þá er minnzt á ofveiðina, sem aðeins hefur tekizt að hamla gegn með kvótakerfi.  Fiskveiðistjórnunarkerfi ESB er ýtir undir ofveiði.  Tækniþróunin hefur aukið afköstin við veiðarnar gríðarlega.  Sumir fiskistofnar hafa minnkað um 90 %, og tjónið af þessum völdum er talið nema um 50 miö USD á ári samkvæmt Alþjóðabankanum.

Þar sem fiskimiðin eru almenningur, en ekki í einkaeign kvótaeigenda, þar ríkir skammtímasjónarmið við veiðarnar og hjarðhegðun rányrkjunnar, sem reist er á sjónarmiðinu, að stundum við ekki ofveiði, þá muni aðrir verða tilþess.  

"Á flestum miðum mundu sjómenn auka tekjur sínar með því að koma böndum á nýtinguna, og það ætti að vera unnt að byggja inn hvata í kerfið til slíks. Bezta leiðin er að veita þeim langtímaréttindi til nýtingar  veiðihlutdeildar. Í þróuðum fiskveiðistjórnunarkerfum, eins og á Íslandi, Nýja-Sjálandi og í Bandaríkjunum, hefur þetta þróazt yfir í framseljanlega, veðsetjanlega hlutdeild í veiðiheimildum.  Þróunarríkjum, þar sem réttarfarið er brokkgengt, virðist ganga betur, þegar hópréttindum til fiskveiða á ákveðnu svæði er úthlutað til samvinnufélags eða þorpsútgerðar.  Grunnurinn er sá sami: fiskimenn, sem finnst þeir vera eigendur, eru líklegri til að ganga um auðlindina með ábyrgum hætti en hinir, sem valsa í almenninginum.  Ný tölfræðileg rannsókn bendir til, að útgerðir með eignarrétt á veiðuhlutdeild eru yfirleitt með heilbrigðari rekstur."

Þannig er það niðurstaða höfundar þessarar greinar í hinu virta tímariti, að einkaeignarréttarfyrirkomulagið á veiðihlutdeildum stuðli að sjálfbærum veiðum, en annars konar fyrirkomulag leiði til rányrkju.  Það kemur líka fram í greininni, að þessi leið sé stjórnmálalega grýtt, því að sjómennskan hafi verið rekin áfram á veiðieðlinu og fæðusöfnun; taparar verði til við úthlutun eða viðskipti með aflahlutdeildir og öfund skapist.  Allt kemur þetta heim og saman hérlendis.  Aðalatriðið er, að fiskveiðar snúast ekki lengur um að draga bein úr sjó, heldur um að fullnægja þörfum viðskiptavinar á hörðum samkeppnimarkaði á réttum tíma.  Að því leyti er enginn munur á nútímaútgerð og iðnaðarfyrirtæki, sem aflar sér hráefna með vinnslu úr eigin námu.

Íslenzka hagkerfinu ríður á, að sjávarútvegur lúti vísindalegri samfélagslegri stjórn á auðlindanýtingunni, eins og fæst með ákvörðun ráðuneytis á heildarafla á hverri tegund á hverjum miðum á hverjum tíma á grundvelli veiðiráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar, og nýtingin lúti síðan markaðslögmálum á grundvelli einkaeignarréttar á veiðihlutdeild (kvóta).

           


Heilnæmi matvæla

Ísland nýtur enn sérstöðu í heiminum fyrir hreinleika.  Við eigum gnótt neyzluvatns, 600 m3/s, og nýtum aðeins 1 % af því um þessar mundir.  Loftið er yfirleitt hreint og heilnæmt, þó að undantekningar séu þéttbýli um áramót og dagar með stillum, einkum á vetrum, þegar styrkur svifryks í andrúmslofti fer yfir hættumörk.  Ætli sú viðsjárverða staða standi ekki yfir í um 5 % af árinu, þar sem verst er.  Þá er hafið umhverfis Ísland lítt mengað, nema sums staðar af skólpi. Stóriðjan hefur vart skilið eftir sig nokkur mengunarfótspór í náttúrunni samkvæmt mælingum óháðra aðila.

Okkur hefur verið talin trú um, að jarðvegurinn væri víðast hvar hreinn og ómengaður, einkum í dreifbýlinu, þar sem matvælaframleiðslan er aðallega stunduð.  Nú hefur hulunni verið svipt af mengunarslysi, sem varpar ljósi á skelfilegt ábyrgðarleysi í umgengni við íslenzka ræktarjörð, þar sem gras, fóðurkál, korn og grænmeti kann að vera ræktað.  Bændur landsins og þar með neytendur framleiðslu þeirra hafa orðið fórnarlömb fúsks og vítaverðs kæruleysis, sem er skaðvænlegt heilsufari landsmanna og orðspori íslenzks landbúnaðar.

Hvernig má það vera, að innflutningsaðila hins eitraða áburðar samkvæmt skilgreiningu laganna, sem hér er umræðuefnið, er ekki gert skylt að skila mæligögnum úr öllum förmum ?  Af hverju tekur eftirlitsaðilinn, Matvælastofnun, ekki sýni í tæka tíð, þ.e. áður en áburðurinn er afhentur bændum, og er ekki nauðsynlegt fyrir bændur sjálfa, kaupendur vörunnar, þ.e. samtök þeirra, að gera úrtaksprófanir á vörunni miðað við það, hversu mikið er í húfi ? 

Verst af öllu er þó hið fádæma siðleysi birgis og eftirlitsaðilans að bindast samtökum um að þegja yfir skömminni, þegar hún komst upp.  Hvers konar miðaldahugarfar býr þarna að baki á 21. öldinni.  Það er dæmalaust dómgreindarleysi, sem þarna býr að baki, sem ekki er hægt að láta refsilaust.  Hvers vegna höfða samtök bænda, Neytendasamtökin, Talsmaður neytenda eða aðrir, sem eiga að grípa til varna, þegar heilsufari landsmanna og orðstýr einnar atvinnugreinar er stefnt í voða, ekki mál gegn birginum og eftirlitsaðilanum ?  Það virðist allt eiga að hjakka í sama farinu. 

Eftirlitsstofnanir á sviði hollustu hafa lent í hverju eftirlitshneykslinu á fætur öðru að undanförnu.  Er skemmst að minnast losunar Becromal á skaðlegum efnum í sjó við Eyjafjörð, þar sem eftirlit stofnunar virtist vera til málamynda.  Varnartilburðir stofnunarinnar við áburðarhneykslinu gefa til kynna, að þar sé skilningur bágborinn á hlutverki hennar, sem er að viðhalda hreinleika íslenzkrar náttúru til matvælaframleiðslu.

Ein rakaleysan var sú, að í Evrópu væru viðmiðunarmörk kadmíums í áburði hærri.  Ástæða þess er, að evrópskur jarðvegur er þrælslega mengaður nú þegar. Íslenzkur jarðvegur, hins vegar, er mjög hreinn og náttúrulegur, og þar af leiðandi verður hlutfallsleg styrkaukning eiturefna við áburðargjöf mun meiri hérlendis en þar.  Þetta er auðvitað ástæða þess, að löggjafinn ákvað að setja mun strangari viðmiðunarreglur hér en tíðkast í ESB.  Sumir embættismenn hérlendis virðast vilja yfirfæra reglur ESB hráar hingað.  Ef heilbrigð skynsemi er ekki með í ráðum, getur slíkt flaustur reynzt stórskaðlegt.

Íslenzk náttúra er gersemi, og verði hreinleika hennar spillt varanlega, eins og hægt er að gera með austri tilbúins áburðar í hana, hefur orðið óbætanlegt mengunarslys.  Bezt er að vera laus við tilbúinn áburð, því að hann vinnur tjón á örverum moldarinnar, þó að efnainnihald hans sé innan löglegra marka.  Þess vegna er hann ekki viðurkennt hráefni innan vottaðs lífræns búskapar.  Þar að auki inniheldur hann ýmis snefilefni, sem eru lífverum hættuleg, t.d. þungmálma, sem safnast upp í líkamanum og rökstuddur grunur er um, að valdi erfiðum og hættulegum sjúkdómum.  Ekki aðeins er heilnæmi afurðanna og orðstýr íslenzks landbúnaðar í húfi, heldur eru gríðarlegir hagsmunir í húfi, sem slugs og sleifarleg birgja og eftirlitsaðila geta sett í uppnám.  Hér er átt við möguleika bænda á að fá vottun um lífræna ræktun.  

Íslenzkur landbúnaður er hagkerfinu og heilsufari landsmanna gríðarlega mikilvægur.  Hann sparar tugi milljarða króna í innflutningi nettó, og hann er að sækja í sig veðrið sem útflutningsatvinnuvegur.  Þar á hann glæsilega framtíðarmöguleika; ekki sízt í samstarfi við orkuvinnslufyrirtæki landsins, t.d. gróðurhús og fiskeldi. 

Svo er það ímynd landsins.  Sleifarlag af því tagi, sem viðgengizt hefur hjá Matvælastofnun, er til þess fallið, að stórskaða hreinleikaímynd landsins erlendis og ímynd landbúnaðarins sérstaklega.

Matvælastofnun og Umhverfisstofnun eru ekki einar á báti.  Íslenzkar eftirlitsstofnanir virðast upp til hópa vera bitlausar og gagnslitlar.  Það væri vert að leita skýringanna með rannsóknum.  Hugsanlegt er, að skýringanna sé að leita í stjórnuninni.  Hún sé ómarkviss, jafnvel fálmkennd, og að lognmolla leti og deyfð svífi þar yfir vötnunum, því að stjórnendur hafi ekki gáning á eða möguleika á að hvetja starfsfólk sitt til dáða.  Það er óþarfi að nefna fleiri eftirlitsstofnanir, því að margir kannast við þennan vanda af eigin raun af viðskiptunum við þær. 

Þó verður ekki skilizt við umræðuefnið án þess að nefna Fjármálaeftirlitið.  Því hefur verið kennt um Hrunið. Hvað sem því líður, verður ekki séð, að nokkurt gagn hafi verið í Fjármálaeftirlitinu til að draga úr fjárhagstjóni Hrunsins.  Að skilja Fjármálaeftirlitið frá Seðlabankanum var gert að erlendri fyrirmynd og hefur reynzt illa.  Það þarf að semja ný lög um Seðlabanka Íslands, þar sem Seðlabankanum verður sett ný umgjörð um starfsemi sína, sem tryggir honum völd að hætti Bundesbank á sinni tíð til að stjórna peningamálum landsins með árangursríkum hætti.  Í nýju lögunum verði eftirlitshlutverk hans endurskilgreint og honum falin starfsemi Fjármálaeftirlits, sem þá verði lagt niður sem sjálfstæð stofnun.  Þetta ætti að leiða til hagræðingar í ríkisbákninu.

Verði fjárveitingavaldinu settar skorður í Stjórnarskrá, eins og Þjóðverjar o.fl. hafa gert, og fjármálalegt aðhald með ríkisstjórn leitt í lög, eru góðar líkur á, að efnahagslegum stöðugleika megi ná hérlendis, en slíkt er grundvallarmál fyrir grózku hagkerfisins og efnahagslegt réttlæti í þjóðfélaginu, því að verðbólga er meinvættur gagnvart hagvexti og réttlátri skiptingu auðs í þjóðfélaginu.             

        Matarverðsþróun

       20100925_usp001

 


Á síðasta snúningi

Á jólaföstu 2011 er óvenjumargt á síðasta snúningi á Íslandi og í heiminum öllum.  Það er ástæða til að fjalla um þessa þróun mála, sem vonandi ber í sér kím betri tíma fyrir Íslendinga og mannkyn allt.

Stærst þessara mála er fjárhagsvandi heimsins.  Hagkerfið hökti fyrst 2007, en ári síðar voru nokkrir stórir bankar við dauðans dyr.  Var þeim mörgum bjargað með fjárframlögum og skuldbindingum ríkissjóða til bankanna, sem reyndist Phyrrosarsigur, þ.e. of dýru verði keypt, eins og nú er að koma í ljós.  Íslenzka leiðin, leið Geirs Hilmars Haarde, út úr vandanum varð affarasælli. Evrópa á fallanda fæti er ágætt dæmi um þetta.

Nokkrir bankar fengu náðarhöggið, og munaði þar mestu um Lehmans Brothers 15. september 2008.  Gjaldþrot bræðranna stöðvaði fjármagnsflæði til Íslands, og hrukku útblásnir og innanétnir íslenzkir bankar upp af í kjölfarið í október 2008.  Hvergi í heiminum, nema á Íslandi, er einum stjórnmálaflokki, Sjálfstæðisflokkinum, kennt um þetta.  Nær væri að kenna EES-aðildinni um, en það er álíka viturlegt og að kenna þingræðinu um ófarirnar.

Nú er sennilegt, að stórbankar á evrusvæðinu, líklega í Frakklandi, séu að komast í þrot.  Þess vegna flýr fé frá Evrópu, svo að evruland er nú fjárvana, nema Þýzkaland, Austurríki og Holland, og AGS býr sig til neyðarhjálpar, en getan er ófullnægjandi, því að Kína hefur neitað.  Evrópa er algerlega hjálparvana, en Merkel og Sarkozy dansa einhvers konar óskiljanlegan menúett án hljómsveitarleiks.

Merkozy parið í desember 2011

 

 

Plástrun ríkissjóðanna gekk ekki upp.  Ríkissjóðir Vesturlanda og Japans voru svo þandir upp af lánum og höfðu þanizt svo út í hagkerfinu, að staða þeirra varð ósjálfbær eftir yfirtöku bankaskuldanna.  Þýzka ríkið skuldar um 80 % af VLF og Frakkar munu innan skamms hrapa niður í svaðið eftir lækkun á vitlausu lánshæfismati, AAA. Þar með mun Þýzkaland taka forystuna í Evrópu.  Ef Merkel og þýzka þingið hefðu samþykkt ákall Sarkozys um útgáfu evru-skuldabréfa með tryggingu allra í evrulandi, þá væri Þýzkaland í stórhættu að dragast með niður í lægra lánshæfismat.  Sarkozy er þegar í raun fallinn, og Merkel hefði þá örugglega fallið í næstu kosningum til Reichstag. 

Það gleymdist að taka háan meðalaldur Evrópuþjóðanna með í reikninginn, lítinn hagvöxt þeirra og stirðbusalegt samningafyrirkomulag á vinnumarkaði.  Ríkissjóðirnir eru í raun komnir í þrot.  Bandaríkjamenn virtust um sinn ætla að losa sig úr prísundinni með verðbólgu af völdum peningaprentunar, en virðast hafa hægt á henni, og í október 2011 varð verðhjöðnun í BNA.  Ekki mun slíkt auðvelda Bandaríkjamönnum að fást við 100 % skuldir ríkissjóðs af VLF og ofboðslegan ríkissjóðshalla.

Marskálkur ríkisfjármála og peningamála framkvæmdastjórnar ESB og næstráðandi Barrosos, Finninn Olli Rehn, gaf 1. desember 2011 út stórkallalega yfirlýsingu: "Það eru 10 dagar til stefnu til að bjarga evrunni." Steingrímur J. tók hann á orðinu og sagði við Jóhönnu, að nú væru góð ráð dýr; þau yrðu að fórna efnahagsmálaráðherranum og Steingrímur að sölsa undir sig efnahagsmálin á Íslandi, auk ríkisfjármálanna, en slíkt kann ekki góðri lukku að stýra fremur en í Brüssel, þó að því sé sleppt, að téður SJS hefur hvorki vit á ríkisfjármálum né efnahagsmálum og er alls ekki treystandi fyrir öðrum þessara málaflokka, hvað þá báðum, eins og dæmin sanna.

Ofangreind yfirlýsing innsta kopps í búri evrunnar sýnir betur en orð fá annars lýst, að evran er á síðasta snúningi.  Þjóðverjar tala og skipuleggja nú, eins og nægur tími sé til stefnu.  Tíminn er samt út runninn, eins og orð Olla Rehn sýna, og Þjóðverjar safna nú glóðum elds að höfði sér fyrir að vernda hagsmuni síns eigin lands.  Þeir gera sér vel grein fyrir þessari stöðu.  Það er nóg að horfa á þýzkar sjónvarpsstöðvar til að átta sig á því.

Þýzkir stjórnmálamenn þora ekki að leyfa nú peningaprentun, því að þeir vita mætavel, að það yrði þeirra banabiti í næstu kosningum til Sambandsþingsins.  Peningaprentun er til skemmri tíma að míga í skóinn sinn, og til lengri tíma er hún ávísun á kjaraskerðingu almennings.  Verðstöðugleiki er réttlætismál og mikilvægur hagvextinum. Að leyfa peningaprentun ECB, Seðlabanka ESB, er þess vegna ávísun á langtíma kjaraskerðingu almennings í Þýzkalandi, og Þjóðverjar eru ekki tilbúnir til þess.  Lái þeim það, hver sem vill.  Slíkt mundi ekki leysa grundvallarvanda evrulands, heldur einvörðungu kaupa evrunni tíma og mundi reynast ESB Phyrrosarsigur. 

Evran sekkurSvo virðist sem félag Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavík sé á síðasta snúningi, enda alvarlegur tilvistarvandi augljós af völdum svikahrappa, sem farið hafa á bak við félagsmenn í hverju málinu á fætur öðru.  Sálarháski steðjar þess vegna að félögunum.  Allt er réttlætt með nauðsyninni á að halda íhaldinu frá kjötkötlunum.  Úrræði garmanna er að leita til stjórnmálalegs uppruna síns, sem er Kommúnistaflokkur Íslands, sem fjarstýrt var af Komintern í Moskvu undir stjórn Jósefs Djughawilis Stalíns.  Þar á bæ samþykktu menn í viku 48/2011 svohljóðandi yfirlýsingu:

 "Stjórn Vinstri-grænna í Reykjavík lýsir yfir létti og ánægju með þá ákvörðun Ögmundar Jónassonar að synja Huang Nubo leyfis til uppkaupa á íslensku landi. Megi þetta verða vísir þess, sem koma skal, að eignarhald á jarðnæði verði úr höndum auðmanna, hverrar þjóðar sem þeir eru, og að einkaeignarhald á jarðnæði heyri almennt sögunni til."     

Hér að ofan er boðuð þjóðnýtingarstefna á landi, stefna, sem leitt hefur hvað mestar hörmungar yfir þjóðir á 20. öldinni.  Þjóðnýting lands leiddi til hungursneyðar í Ráðstjórnarríkjunum og í öðrum sameignarríkjum, þar sem hún var innleidd, svo að tugir milljóna manna dóu af þeim sökum. Að boða nú þessa stefnu árið 2011 á Íslandi sýnir, að vinstri grænir eru að örvænta og koma nú út úr skápinum, enda finna þeir feigðina á sér;  það styttist til endaloka valdaferils þeirra.

SvikahrappurinnIcesave-maðurinn á myndinni hér til vinstri er þó ekki af baki dottinn.  Nú ætlar hann í hrossakaup við "heilaga Jóhönnu".  Hann ætlar að fórna eina ráðherranum, sem stendur í ístaðinu gagnvart hinni forkastanlegu aðlögun að ESB, fyrir peð í Efnahagsráðuneytinu, og þannig að svæla efnahagsmálin undir fjármálaráðuneytið, sem er algerlega glórulaus valdasamþjöppun í einu ráðuneyti.  Með þessu móti mundi honum (SJS) takast að læsa klónum í Icesave-málið á ný og klúðra því, eins og hægt er úr þessu, en SJS mun vera fýldur út af því að missa málið frá sér á sínum tíma og að nýir herrar skuli hafa sýnt burði til að taka til nokkurra varna í málinu fyrir Íslands hönd.  Kommúnistaklíkan Svavar Gestsson, Steingrímur J. Sigfússon og Indriði H. Þorláksson vilja hindra, að Icesave-málið fái farsælan endi, svo að ömurlegur hlutur þeirra verði síður að sögulegum minnisvarða um alvarlegustu mistök í stjórnmálum lýðveldisins.  Þá væri enn einu sinni hægt að kenna íhaldinu um.  

Núverandi fjármálaráðherra þreytist ekki á að greiða fyrirtæki Ásgeirs Jónssonar og Sigurðar Jóhannssonar, Sjónarrönd, þóknun fyrir áróðursrit. Enn fjallar Sjónarrönd, sem er handan heilbrigðrar skynsemi, þegar kemur að orkumálum, um arðsemi Landsvirkjunar og arð af orkusölusamningum við stóriðju.  "Gutta cavat Lapidem" sögðu Rómverjar til forna, og hagfræðingarnir á Sjónarrönd virðast vera þeirrar skoðunar, að ítrekaðar blekkingar í boði Fjármálaráðuneytis Rauðstakkanna Steingríms og Indriða muni að lokum síast inn í fólk sem sannleikur. 

Áhættugreining þeirra félaga á orkusamningum við stóriðjufyrirtækin er kolröng og annaðhvort reist á dómgreindarskorti eða vanþekkingu á samningunum, nema hvort tveggja sé. Þeir halda því t.d. fram, að samningum við álfyrirtækin um raforkusölu fylgi meiri áhætta en samningum við almenningsveitur.  Hvernig í ósköpunum er unnt að komast að þeirri niðurstöðu, þegar haft er í huga, að kaupskylda upp á tæp 90 % af heildarorkumagni er fólgin í orkusölusamningum við álverin ?  Þetta þýðir, að þótt álverksmiðjurnar mundu enga orku nota, mundu þær samt þurfa að greiða fyrir tæplega 90 % orkunnar út samningstímabilið.  Ekkert sambærilegt ákvæði er í samningunum við almenningsveitur, og allir vita, að álag þeirra er mjög sveiflukennt og ræðst af árstíma, veðurfari og árferði. 

Í þessu ljósi er sá málflutningur þeirra félaga afar kindarlegur, að óeðlileg áhætta sé fólgin í því fyrir eigendur opinberu orkufyrirtækjanna, ríki og borg, að ábyrgjast lántökur þeirra gegn lægri vaxtabyrði.  Eigendurnir, skattborgararnir, hagnast á því, og áhættan er sáralítil, eins og afkoma Landsvirkjunar er ljós vottur um. Allur málatilbúnaður félaganna á Sjónarrönd er faglega mjög veikur og klisjukenndur og svo fótalaus, að borin von er, að þeim verði að trú sinni.  

Um 80 % af orkuvinnslu Landsvirkjunar er selt til stóriðju.  Eigið fé Landsvirkjunar var um 200 milljarðar króna í árslok 2010.  Stóriðjufyrirtækin greiða upp mannvirki á 15-30 árum, sem hafa tæknilegan endingartíma 40-200 ár.  Það er nánast engin áhætta fólgin í orkusölusamningum við álfyrirtækin, því að sala á megninu af orkunni er tryggð í 25-40 ár óháð því, hvort hún er notuð eður ei. 

Orkuverðið er í bandaríkjadölum, USD, og ýmist tengt við neyzluverðsvísitölu í BNA eða við markaðsverð á áli. Áhættudreifing er þess vegna fyrir hendi. Spáð er, að á næstu áratugum muni álverð hækka meira en neyzluverðsvísitalan eða um 4 %- 5 % á ári að jafnaði.  Það liggur þess vegna í augum uppi, að samningar Landsvirkjunar við stóriðjuna hafa verið fyrirtækinu afar hagfelldir, og stóriðjan hefur reynzt vera feiknarlega hagkvæm, þjóðhagslega.  Að halda því fram, að 5,5 % arðsemi Landsvirkjunar sé slæm er rógburður manna með alvarlega slagsíðu til vinstri í garð iðnaðaruppbyggingar í landinu og í garð samningamanna hins opinbera fyrirtækis, Landsvirkjunar.  

Nú hefur ný stjórn og forstjóri tekið við Landsvirkjun, og hafa þau ýmislegt undarlegt gert og sagt.  Eitt er að stórhækka verð á afgangsorku.  Það er illa rökstudd aðgerð, enda engin skynsamleg rök til fyrir svo þjóðhagslega óhagkvæmri aðgerð.  Ættu fulltrúar eigenda, þ.e. þjóðarinnar, á Alþingi, að grípa í taumana, svo að skammsýn einokunarhyggja verði kæfð í fæðingunni.

Forræðishyggja stjórnvalda hefur keyrt um þverbak.  Sagt er, að fjórðungi bregði til fósturs.  Umhverfisráðherrann, núverandi, er af kommúnistum kominn og að auki alinn upp á leikskóla miðstjórnarmanna austur-þýzka kommúnistaflokksins.  Hún ætlar nú að fyrirskipa umhverfismat á skógrækt sem skyldu.  Kommúnistar kunna sér ekkert hóf, þegar þeir komast til valda, en sýna þá á sér algerlega ómennska hlið.  Þetta einkenni gæti bent til geðklofa.  Hvað sem þeirri sjúkdómsgreiningu líður, verður að telja kommúnista vera almennt siðblinda. Einstaklingurinn skiptir kommúnistann engu máli, enda eru hagsmunir hans fótum troðnir. 

Búrókratar umhverfisráðuneytisins hljóta að átta sig á því, að það að skylda áhugafólk, félagasamtök og fyrirtæki til lögformlegs umhverfismats mun stórlega draga úr skógrækt í landinu.  Það hlýtur þess vegna að vera vilji téðs umhverfisráðherra að draga verulega vaxtarmáttinn úr skógrækt í landinu.  Þarna gengur kommúnistinn enn einu sinni erinda fámenns hóps sérvitringa í landinu, sem ekkert vill af skógrækt vita, heldur telur til dyggða að rífa hana niður og "varðveita landið í sinni núverandi mynd".  Þetta eins og annað réttlætir þessi endemis umhverfisráðherra með klisju sinni: "náttúran verður að njóta vafans".   Hefur nokkurn tímann heyrzt heimskulegra slagorð ?

Ísland þoldi ekki sambýlið við manninn í bland við kólnandi veðurfar og eldgosavirkni.  Landið missti gróðurhulu sína og er nú sem flakandi sár á stórum svæðum; stærsta eyðimörk í Evrópu.  Mesta umhverfisvandamál Íslands er uppblástur landsins.  Það ber að efla skógrækt og landgræðslu í landinu og hvetja einkaframtakið til dáða í þeim efnum fremur en að letja það og svæla svo alla starfsemi af þessu tagi undir ríkið með skrifræðislegum bolabrögðum, boðum og bönnum.

Stjórnvald, sem leggur sig í framkróka við að hefta uppgræðslu landsins og endurheimt skóganna er á síðasta snúningi.  Um það er engum blöðum að fletta.  Sannað er, að skógur breytir veðurfari til hins betra.  Hann veitir skjól og hitastigið á viðkomandi svæði hækkar.  Landið verður byggilegra en ella, en náttúran verður víst að njóta vafans, sem jafngildir því, að öll mannanna verk séu forkastanleg, breyti þau núverandi ásýnd landsins.  

Ekki leikur á tveimur tungum, að lífríkið tekur stakkaskiptum með skógrækt og landgræðslu. Nýjar tegundir setjast að og aðrar hopa.  Markmiðið ætti að vera að bæta búsetuskilyrðin í landinu þannig, að hér verði blómlegt mannlíf í skjóli vaxtar, sem kenndur er við hag og skóg, og dýrategundir verði sem flestar, t.d. fuglar, sem á annað borð geta verið í sambýli.

Þessar hugrenningar leiða hugann til járnkanzlarans, þess er sameinaði þýzku ríkin með eldi og blóði, "mit Feuer und Blut", á síðari hluta 19. aldar, undir Prússakonung, er varð Þýzkalandskeisari með aðsetri í höfuðborg Prússlands, Berlín, en hann lét hafa eftirfarandi eftir sér:" Lagasetning er eins og pylsugerð.  Bezt er að sjá ekki, hvernig hún fer fram".     

   Brandenburger Tor               

 

  

 

 

 

 

 


Kolefnisleki og spekileki

Snemmárs 2011 innleiddi hrikalegasta skattlagningarstjórn lýðveldistímans svokallaðan kolefnisskatt á fljótandi eldsneyti á Íslandi. Var það gert undir því yfirskyni, að verið væri að aðlaga Ísland að regluverki Evrópusambandsins, ESB.  Í raun er ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur aðeins að framfylgja eigin duttlungum um að sölsa æ stærri hluta þjóðarkökunnar undir forsjá ríkisins.  Vinstri flokkarnir hafa lengi séð ofsjónum yfir bíleign landsmanna og setja sig aldrei úr færi að reka hornin í bíleigendur. Þetta ásamt öðru ættu bíleigendur að hafa í huga við kjörborðið. 

Þetta var glórulaus skattlagning af tveimur ástæðum.  Efnahagur landsins er í rúst, og hvorki atvinnulífið né heimilin máttu við hærra eldsneytisverði, sem var í hæstu hæðum fyrir.  Þessi aðgerð var fallin til þess að draga úr umsvifum í hagkerfinu, enda gerði hún það.  Hátt eldsneytisverð hamlar hagvexti.  Vinstri grænir hata hagvöxt, svo að allt fellur að sama brunni.

Hin ástæðan fyrir því, að tiltæki ríkisstjórnarinnar var glórulaust, er, að almenningur og fyrirtækin geta ekki farið í neina aðra orkugjafa, sem máli skipta hér á landi.  Þetta geta þó þjóðir ESB.  Þær hafa allar rafknúnar járnbrautarlestir, nema e.t.v. Malta, sem neytendur geta nýtt í meira mæli í stað eldsneytis.  Stjórnvöld reyna að beina fleirum í járnbrautirnar, sem víðast hvar eru reknar með tapi.  Þó að mörg orkuveranna séu kola-eða gaskynt, er hægt að sýna fram á meiri mengun eldsneytisknúinna ökutækja per mann en járnbrautarlesta. 

Kolefnisskattur á fljótandi eldsneyti er ótímabær á Íslandi fyrr en hagur Strympu vænkast og neytendur eiga raunhæfa valkosti. Vinstri stjórnin gengur þvert á heilbrigða skynsemi, eins og hún er vön, enda eru vitsmunir núverandi ráðamanna ekki meiri en Guð gaf og þekkingin af ákaflega skornum skammti.  Dæmi um þetta má finna af öðrum orkugeira, raforkugeiranum, þar sem glórulaus áform ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar um stórhækkun á verði afgangsorku hafa verið kynnt til sögunnar.  Á tímum raforkugnægðar, kreppu og verðbólgubaráttu er þessi fyrirætlun eins gæfu-og vizkusnauð og hugsazt getur.

Ríkisstjórnin ætlar nú að hækka skatt á fljótandi kolefniseldsneyti um 32 % í ársbyrjun 2012.  Segja má, að ekki verði á þessa ríkisstjórn logið.  Þvílíkt gerir einvörðungu vitstola fólk í lömuðu hagkerfi.  Eitt skref í þá átt að koma hjólum efnahagslífsins í gang er að afturkalla gildistöku þessarar kolefnisskattlagningar frá 2011 tímabundið þangað til skattlagningin hefur sömu möguleika á að virka og annars staðar innan EES.  Innan EES verður að gæta jafnræðis, en jafnaðarmennirnir Íslandi eiga erfitt með að skilja það. Verður að binda vonir við, að sjálfstæðismennirnir á nýju Alþingi kunni betur til verka í baráttunni við kreppuna.  Þá verða ytri aðstæður mun erfiðari en undanfarin ár.

Í frumvarpi til fjárlaga var gert ráð fyrir að hefja stighækkandi skattlagningu kola og koks, en helztu notendur eru stóriðjan vegna forskauta og bakskauta í rafgreiningarkerum og ljósbogaofnum.  Enn nota fjármálaráðherra og umhverfisráðherra þau rök, að þetta sé aðlögun Íslands að ESB, þó að þau hafi dregið í land um sinn.  Þetta eru falsrök og mætti kalla umhverfisvernd andskotans.  

Hér kennir fingraför Indriða H. Þorlákssonar, aðstoðarmanns Svavars Gestssonar í Icesave 1 samningunum, einum hrikalegasta afleik Íslandssögunnar, en IHÞ hefur samið þvættingsritgerð um það, að stóriðjan leggi nánast ekkert til þjóðarbúsins.  Afætur Íslands láta sannarlega ekki deigan síga og ekki dónalegt að hafa slíkar mannvitsbrekkur á spena ríkisins.

Sannleikurinn er sá, að ráðherrar vinstri grænna sjá sér hér leik á borði að koma höggi á iðnfyrirtækin í landinu, sem myndað hafa vaxtarsprota hagkerfisins í kreppunni, því að þau hafa öll staðið undanfarið og standa enn í umtalsverðum framkvæmdum.  Þau munu missa allan áhuga á frekari fjárfestingum hér, og sum munu leggja upp laupana.  Áformin ein skapa tortryggni fjárfesta í garð stjórnvalda. Skemmdarverk Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs heppnaðist, þótt ekkert kunni að verða úr framkvæmdinni vegna skorts á stuðningi.  

Fjárfestingar stóriðjufyrirtækjanna verða fyrir vikið annars staðar, þar sem raforkuvinnsla á sér stað með jarðefnaeldsneyti og ekkert kolefnisgjald er við lýði.  Þetta er kolefnisleki.  Stjórnmálaöfl, sem honum valda, eiga ekkert skylt við umhverfisvernd, enda hefur umhverfið aldrei orðið fyrir öðru eins áfalli og valdatöku vinstri grænna. Þegar Steingrímur J. Sigfússon segir: "Landið er engin skattaparadís fyrir mengandi starfsemi", er hann að segja stóriðjunni að fara þangað, sem piparinn vex, þ.e. annað, þar sem starfsemi þeirra er alfarið reist á ósjálfbærum orkugjöfum.  Gagnvart náttúrunni sýnir neiaragrímurinn algert ábyrgðarleysi, en fullnægir nú gamalli þrá sinni um að sparka í athafnalífið.  Maðurinn er lágkúran helber og hrikalega dýr á fóðrum.  Vonandi losa Þingeyingar okkur við fyrirbrigðið í næstu Alþingiskosningum.  Landsdómur þarf svo að taka við honum.

Skipting CO2 losunarEkki má túlka ofangreint svo, að stóriðjan eigi að vera undanþegin takmörkunum á losun gróðurhúsalofttegunda.  Því fer víðs fjarri. Í ársbyrjun 2013 verður evrópska viðskiptakerfið með loftmengunarkvóta, "Emission Trading System-ETS", innleitt á Íslandi.  Að undirgangast ETS er hluti af skuldbindingum okkar gagnvart EES, Evrópska efnahagssvæðinu, um að draga úr losun stóriðju á gróðurhúsalofttegundum.  Lakari fyrirtækin í þessum efnum munu þá þurfa að greiða fyrir losun yfir viðmiðunarmörkum, en hin beztu þurfa ekkert að greiða.  ISAL er t.d. í þessum hópi, enda hefur fyrirtækið trónað á heimstoppinum eða við hann undanfarin ár, hvað lágmörkun losunar koltvíildisjafngilda per áltonn út í andrúmsloftið varðar.  Fyrirtækið hefur náð þessum frábæra árangri með fjárfestingum, samhentu átaki starfsmanna og beitingu beztu tækni við gjörnýtingu möguleikanna, sem núverandi búnaður býður upp á.  Eins og menn sjá, felur ETS í sér hvata til að standa sig. Það er nokkuð annað en dratthalarnir, heimaalningarnir í ríkisstjórn Íslands setja á koppinn.

Spekileki er óhjákvæmilegur í stöðnuðum þjóðfélögum.  Þar sem fjárfestingar eru af skornum skammti, eins og á Íslandi, þar sem aðeins er fjárfest fyrir um 13 % af VLF (vergri landsframleiðslu) undir vinstri stjórninni, skortir allar stéttir viðfangsefni við hæfi og leita þangað, sem tækifærin eru talin vera.  Á næsta ári, 2012, reiknar ASÍ aðeins með 1 % hagvexti, og þar sem þjóðinni fjölgar meir, verður augljóslega kjararýrnun alls almennings það, sem eftir lifir valdatíma verstu ríkisstjórnar Íslandssögunnar.

Huang NuboVið þessar aðstæður er höfnun innanríkisráðherra á beiðni Huang Nubos um undanþágu fyrir kínversk hlutafélag við lög um landakaup lögaðila utan EES óviturleg, svo að ekki sé nú fastara að orði kveðið.  Lögin veita ráðherra fullt svigrúm til að vega og meta áhættu og nytsemi slíkrar undanþágu í hverju tilviki.  Áhættan er hverfandi, því að jörðin, sem var til sölu og Nubo bauð í, er í óskiptri eign á móti ríkinu.  Nubo hefði þurft að kljást við íslenzka búrókrata um allar framkvæmdir á jörðinni, og ráðherra hefði haft neitunarvald um allt.

Ávinningurinn fyrir Þingeyjarsýslur gat hins vegar orðið gríðarlegur; reyndar svo mikill, að allt íslenzka hagkerfið hefði notið góðs af. Verður nú viðbúið, að Þingeyingar gjaldi Steingrími J. Sigfússyni rauðan belg fyrir gráan. Atvinnuleysið á landsmælikvarða getur farið í 10 % í vetur, og samt velur ráðherra þá leið að þjóna duttlungum sínum og hatri Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á erlendum fjárfestum, hverju nafni sem þeir nefnast.  Flokkurinn er haldinn einangrunarhyggju af sjúklegu tagi, sem ekki verður lýst öðru vísi en heimóttarlegri og verulega kindarlegri árið 2011, en við hverju er að búast af flokki, sem gerir í nóvemborlok 2011 samþykkt um, að einkaeignarhald á jarðnæði heyri almennt sögunni til" ? 

Það var fullt tilefni fyrir ráðherra að veita Huang Nubo undanþáguna í ljósi efnahagsástandsins í landinu, vegna landeigendanna sjálfra, sem vildu selja, og vegna afstöðu heimamanna almennt og viðkomandi sveitarfélags. Lögin eru beinlínis sniðin fyrir slíkt hagsmunamat og "ad hoc" ákvarðanatöku án fordæmisgjafar. Auðvitað ákvað ráðherra vinstri grænna að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.  Bolsévikar voru vanir að gera það.  Hvernig endaði það ?   

Heimóttarskapur vinstri grænna kostar ríkisstjóð a.m.k. 200 milljarða kr á ári í útgjöld vegna atvinnuleysisbóta og glataðra tekna af erlendum fjárfestingum og síðar af sölu alls konar vöru og þjónustu til erlendra fyrirtækja, skattlagningar rekstrar og launatekna beinna og óbeinna.  Sveitarfélögin gætu verið að tapa allt að 50 milljörðum kr á ári vegna glataðra fasteignagjalda og útsvars af sömu tækifærum, sem vinstri grænir hafa fórnað.  Alls gæti samfélagslegt tap af stjórnarsetu vinstri grænna numið 250 milljörðum kr á ári.  Öll eymdin og baslið í rekstri hins opinbera er í boði forstokkunar vinstri grænna.  Ægilegur niðurskurður í heilbrigðisgeiranum, skólastarf í svelti, samgönguframkvæmdir í lágmarki, Hafrannsóknarstofnun í lamasessi, Landhelgisgæzla í skötulíki, skattheimta á einstaklinga og fyrirtæki undir drep, og þannig mætti lengi telja, er allt saman bein afleiðing stjórnarstefnu viðrinisins í hegningarhúsinu gamla við Lækjargötu. 

Ríkisstjórnir í Evrópu eru margar óbeysnar, en sú íslenzka er sú alversta, þegar tekið er mið af hagsmunum þegnanna og þeim valkostum, sem í boði eru.  Þegar tekið er mið af því, að sá litli hagvöxtur, sem nú má mæla, er froða, ósjálfbærar launahækkanir og úttektir úr lífeyrissjóðum og varasjóðum fjölskyldna, má ljóst vera, að þær háu tölur, sem tilfærðar eru hér að ofan um samfélagslegan kostnað af vinstri grænum við völd eru sízt ofmetnar og vaxa með hverju árinu, sem þeir hanga lengur við völd og fleiri tækifæri fara forgörðum.  Vinstri hreyfingunni grænu framboði á að stinga undir stól hið allra fyrsta og ekki að hafa í valdastólum næstu tvo áratugina hið minnsta.  Sagan mun fara um þá ómjúkum höndum.

Fjárfestingartækifæri      

 

       

 

     

 


"Orka með dyggð reisi bæi og byggð"

Ofangreind ljóðlína er tekin úr kvæðinu "Aldamót" eftir Einar Benediktsson, sýslumann og skáld.  Skáldið sá lengra fram í tímann en samtíðarmenn hans.  Skáldið hafði framtíðarsýn.  Einar Benediktsson gerði sér grein fyrir því, að orka fallvatnanna yrði auðsuppspretta komandi kynslóða.  Hefði Alþingi borið gæfu til að fylgja ráðum skáldsins, stæði efnahagur landsmanna traustari fótum en nú, því að þá væri meira framleitt af útflutningsvöru með orku fallvatnanna, og þá hefðu menn e.t.v. ekki verið svo ginnkeyptir fyrir fallvöltum verðmætum verðbréfaheimsins og raunin varð á.

Forstjóri Landsvirkjunar kvartar sífellt undan of lágu orkuverði og lágri arðsemi fyrirtækisins.  Hann virðist að mörgu leyti utan gátta um það, að orkukræfur iðnaður í Evrópu er að hverfa vegna hás orkuverðs og skattlagningar.  Af hverju heldur hann t.d., að Rio Tinto Alcan sé að loka álverksmiðjum eða selja víða í heiminum á sama tíma og samsteypan eykur fjárfestingu sína á Íslandi um MUSD 500 ?  Ef hann heldur, að skýringin sé sú, að forveri hans í forstjórastóli Landsvirkjunar hafi samið af sér, þá veður hann reyk.  Raforkuverðið er nálægt meðalverði til álvera í heiminum.  Báðir viðsemjendur græða á því, að íslenzkar orkulindir eru samkeppnihæfar.  Núverandi forstjóri Landsvirkjunar er að verðleggja sig út af markaðinum, svo að allir tapa.

Hann talaði í Kastljósi RÚV 15.11.2011 um ódýrt rafmagn og, að illa væri farið með rafmagnið núna.  Þetta er fáheyrður málflutningur, en um leið þokukenndur, enda er forstjóri þessi í senn fullyrðingasamur og ónákvæmur í málflutningi.  Virðist hann oft á tíðum vaða á súðum.  Aumkvunarverðir eru tíðir tilburðir hans til að hreykja sér á kostnað forveranna.  Væri honum nær að breyta um tóntegund gagnvart einni aðaltekjulind þjóðarbúsins, stóriðjunni, sem áreiðanlega mun ekki láta hann komast upp með að féfletta sig í samningum. Hann hefur sýnt á öll sín spil, gerði það m.a. í Icesave deilunni, og það eru tómir hundar.  

Hörður Árnason kveður arðsemi eigin fjár Landsvirkjunar vera allt of lága eða 2 %.  Þetta er rangt.  Fyrir fyrirtæki á borð við Landsvirkjun með gulltrygga sölu afurða, örugg aðföng og endingu fjárfestinga um 100 ár, er ekkert náttúrulögmál, að arðsemi eigin fjár skuli vera 11 %, eins og Hörður vill stefna á.  Hörður þessi er að bera saman epli og appelsínur og virðist enn ekki hafa fyllilega áttað sig á starfsemi Landsvirkjunar. 

Sá góði maður verður einnig að gá að því, að með lögum frá Alþingi var kveðið á um það, að raunorkuverð Landsvirkjunar til almenningsveitna skuli lækka um 3 % á ári.  Hér mætast þess vegna tvær ólíkar stefnur.  Samkvæmt annarri á að skattleggja þjóðina, fólk og fyrirtæki, um meltingarveg Landsvirkjunar, en samkvæmt hinni á almenningur í landinu og fyrirtækin að njóta eins lægsta raforkuverðs í heiminum.  Þessi stefna hefur mjög jákvæð áhrif á hag heimilanna, eflir samkeppnistöðu fyrirtækjanna, stuðlar að atvinnuuppbyggingu og eykur atvinnuöryggi landsmanna. Er ekki eðlilegra, að eigendur orkuauðlindarinnar, njóti afrakstursins þannig beint ? Þessi síðar nefnda stefna er ólíkt þekkilegri og eðlilegri frá sjónarmiði eigandans, almennings í landinu, en hin fyrr nefnda gróðapungastefna, sem minnir óþægilega mikið á gasfyllta gróðapunga útrásarinnar, sálugu.  

Önnur afleiðing af lágri arðsemi eigin fjár er sú, að þá verður Landsvirkjun að fjármagna fjárfestingar sínar að mestu með lánum.  Það þýðir meiri fjármagnskostnað og dýrari virkjanir og þar með hærra orkuverð frá nýjum virkjunum.  Slíkt lendir aðallega á stóriðjunni, því að hún er stærsti kaupandi nýrrar orku.  Stóriðjan mun hér eftir sem hingað til verða tilbúin til að greiða kostnaðarverð að viðbættri arðsemi, sem dugar til að greiða viðkomandi virkjun og flutningskerfi upp á 20-30 árum.  Það er auðvitað gríðarlega hagfellt fyrir virkjunareiganda, sem þarf aðeins að greiða um 5 % heildarkostnaðar sem rekstrarkostnað, og allt annað tal er holtaþokuvæl og ekki ætlað til annars en slá ryki í augu fólks.

Þegar orkuverð til stóriðju er borið saman við orkuverð til almennings, er margs að gæta.  Þegar allt er tekið með í reikninginn, er unnt að sýna fram á, að stóriðjan á Íslandi er í raun að greiða niður raforkuverð til almennings, og það er hið bezta mál, enda fer saman, að ekkert vestrænt ríki annað en Ísland býr við þá stöðu, að 80 % framleiddrar raforku í landinu fer til stóriðju, og ekkert annað vestrænt ríki býr við jafnlágt raforkuverð til almennings, þegar opinberar álögur eru undanskildar í samanburðinum.     

Það er mál málanna nú um stundir að skapa ný störf, og þau þurfa að vera fjölbreytileg.  Atgervisflóttinn frá landinu, sem staðið hefur samfleytt allan vinstri stjórnar tímann, er algerlega óviðunandi, enda stórhættulegur fyrir þjóðfélagsþróunina og hagkerfisþróunina.  Það verður hið skjótasta að snúa atvinnuþróuninni við, svo að brottfluttir leiti í heimahagana eða "heim ins Reich", eins og sagt var annars staðar eftir mikla kreppu. 

Það er alger skömm að verklagi vinstri stjórnarinnar í þessum efnum sem öðrum, því að hún daufheyrist við ákalli "aðila vinnumarkaðarins", launþegasamtakanna og vinnuveitenda, um að hleypa fjárfestum að.  Sama er, hvort kínverska skáldið, sem vill verða stórbóndi á Grímsstöðum á Fjöllum, á í hlut, eða álframleiðendur, gagnaversmenn, einkarekin heilbrigðisþjónusta með erlendum sjúklingum í bland.  Alls staðar flækjast ráðherrarnir fyrir af ótrúlegri fákænsku, þröngsýni og fordómum.  Þeir gefa dauðann og djöfulinn í hagsmuni almennings í landinu, ef aðeins forstokkaðri, andvana kennisetningu sósíalismans (sameignarstefnunnar) er unnt að hampa. "Nómenklatúran" hefur aldrei látið sig hagsmunni almennings neinu varða.

Frá því, að fyrst var farið að setja olíu á tunnur í Pennsylvaníu árið 1859, hafa menn talið eldsneytisþurrð vera framundan.  Tæknin og frjáls markaður hafa þó séð til þess, að spár um eldsneytisþurrð hafa ekki rætzt.  Verð eldneytis hefur sveiflazt gríðarlega í raundollurum.  Hæst varð raunverðið árið 1918.  Um 1985 var verðið um 10 USD/tunnu, en náði 150 USD/tunnu árið 2008, og átti þetta háa orkuverð þátt í efnahagskreppunni, sem þá hófst.  Nú losar verð á olíutunnu 100 USD/tunnu.

Framfarabyltingin, sem nú á sér stað í Austur-Asíu, mun valda mikilli raunverðshækkun á orku.  Kínverjar tvöfölduðu rafmagnsvinnslu sína á 5 ára bilinu 2006-2010.  Talið er, að Indverjar muni fimmfalda raforkuvinnslu sína á tveimur áratugum, 2010-2030.  Undirstaða þessarar aukningar beggja þjóðanna er jarðefnaeldsneyti.  Þetta mun auka hraðann í aukningu koltvíildis í andrúmslofti. 

Árið 1958 var farið að mæla styrk koltvíildis í andrúmslofti.  Charles Keeling, bandarískur vísindamaður, mældi þá 315 ppm (hlutar úr milljón) á eldfjalli á Hawai.  Hálfri öld síðar mældist þessi styrkur 387 ppm, sem jafngildir aukningu um 1,44 ppm/ár.  Við 450 ppm er talið, að meðalhitastig á jörðunni muni hafi hækkað um 2°C frá upphafi iðnvæðingar, 1750.  Ef hækkunin verður meiri, getur hún orðið óviðráðanleg með svakalegum afleiðingum.  Við höfum því aðeins um hálfa öld til að stöðva aukninguna.  Af þessum sökum er ljóst, að eldsneytisorkugjafar geta ekki staðið undir aukningu raforkuvinnslu í heiminum.  Slíkt er tortímingarleið lífríkis á jörðu í núverandi mynd.  Þess vegna eru endurnýjanlegir og mengunarlitlir orkugjafar ómetanleg auðlind.

Við þessar aðstæður er Rammaáætlun, með alls konar fordildarlegri verndun, algerlega óboðleg þessum heimi.  Hún er ónothæf eftir meðferð ráðherranna á henni og aðeins til hliðsjónar í sinni upprunalegu mynd.  Við Verkfræði-og raunvísindadeild Háskóla Íslands hefur verið sýnt fram á, að allar virkjanir hingað til á Íslandi eru afturkræfar.  Vilji nýjar kynslóðir Íslendinga ekki starfrækja virkjanir, þá geta þeir hætt því og rifið þær.  Sama á við um flutningskerfi raforku.

Er líklegt, að svo verði ?  Nei, starfsemi virkjananna er sjálfbær og arðsöm.  Hælbítar orkuiðnaðarins halda því fram, að umsamið orkuverð sé of lágt.  Þar með gera þeir lítið úr samningamönnum virkjanafyrirtækjanna.  Sá, sem hér heldur á fjaðurstaf, getur staðfest, að ekki er flugufótur fyrir þessu, a.m.k. í tilviki Landsvirkjunar.  Þar á bæ hafa samningamenn náð beztu kjörum, sem markaðurinn var tilbúinn að láta í té á hverjum tíma.  Arðsemi Landsvirkjunar er slík, að ef hún mundi nú hætta að virkja, þá yrði hún eftir áratug gullgæs, sem gæfi eiganda sínum tugi milljarða kr í aðra hönd. Ef hún heldur áfram að virkja, er aðeins lengra í gullgæsartímabilið, en gulleggin verða þá þeim mun fleiri.    

Við Íslendingar eigum að stefna að því að verða öðrum óháðir um eldsneyti.  Eldsneytið eigum við að framleiða sjálfir með endurnýjanlegum orkulindum okkar, og í þessu augnamiði verður að vísa á bug ofstækisfullum verndarsjónarmiðum, sem vilja takmarka raforkuvinnslu við 30 TWh/a (terawattstundir á ári) eða minna á grundvelli eigin sérvizku.  Raforkuvinnslan nemur nú um 17 TWh/a.  Við getum hæglega virkjað 50-60 TWh/a af vatnsorku og jarðvarma og jafnvel meir, ef djúpboranir heppnast.    

Nú hefur aðeins um helmingur vatnsorkunnar og einn tíundi hluti jarðvarmaorkunnar verið beizlaður eða innan við þriðjungur þessara orkulinda samtals verið virkjaður.  Þjóðfélagið er í sárri þörf fyrir meiri vinnu, meiri fjárfestingar og meiri gjaldeyrisöflun.  Aukin orkuöflun er lykillinn að þessu öllu enn sem fyrr.  

Jakob Björnsson, fyrrverandi prófessor við Verkfræðideild Háskóla Íslands og lærifaðir þess, er hér handfjatlar lyklaborð, í Electrisitetslära, á grein í Morgunblaðinu þriðjudaginn 8. nóvember 2011, er hann nefnir:"Arnardalsvirkjun og Vatnajökulsþjóðgarður".  Þar bendir hann á þá staðreynd, að óheppilegt er að reisa orkuöflun til stórnotenda á jarðvarmavirkjunum vegna óvissu um viðbrögð jarðhitageymisins við mikilli nýtingu hans.  Við virkjun jarðgufu ber að fara hægt í sakirnar. Þetta er þörf ábending.  Ei er flas til fagnaðar.

Jakob leggur til, "að álverið (á Bakka) fái 75 % orku sinnar frá vatnsaflsvirkjun, Arnardalsvirkjun í Jökulsá á Fjöllum, í stað þess að reiða sig eingöngu á jarðhitavirkjanir, sem enn er mun minni reynsla af hérlendis en af vatnsaflsvirkjunum".

Þetta er afar skynsamleg og raunhæf tillaga frá fyrrverandi orkumálastjóra.  Auðvitað verður að nýta beztu fáanlegu tækni við orkuvinnsluna.  Saman fara hagsmunir íbúanna, fjárfesta og ferðafólks, því að Arnardalsvirkjun þarf ekki að snerta núverandi friðlönd og, svo að vitnað sé áfram í Jakob.:

"Jökulsá á Fjöllum verður ekki fyrir öðrum áhrifum af virkjuninni en þeim, að rennslið um Dettifoss minnkar, en þó ekki svo mikið, að tröllsvipur hans láti áberandi á sjá að sumri til."

Með þessum hætti er tæknin nýtt til að taka tillit til ólíkra hagsmuna, þ.e. náttúruskoðunar og orkuvinnslu.  Virkjanir fallvatna verða í næstu framtíð burðarstólpinn í vaxandi raforkuvinnslu í landinu.  Jarðvarmavirkjanir henta engan veginn til raforkuvinnslu einvörðungu vegna lágrar nýtni, rúmlega 10 %, en eru kjörnar sem aukabúgrein, þar sem not eru fyrir megnið af varmorkunni til annars. Jarðvarmavirkjanir nýtast vel, þar sem hitakærir efnaferlar koma við sögu, t.d. eldsneytisvinnsla. 

Þegar hugur er leiddur að framtíð orkuvinnslu á Íslandi má ekki gleyma tveimur orkulindum, sem enn hafa ekkert verið nýttar af Íslendingum, en það eru sjávarfallavirkjanir og vindorkan.  Þessi orkugnægð mun gera að verkum, að þrátt fyrir virkjun 30 TWh/a til útflutningsiðnaðar, þá verður samt nóg eftir til eldsneytisvinnslu og annarra nota.  

Þó er ljóst, að með slíkri stórfelldri orkunotkun innanlands verður ekkert eftir til rafmagnsútflutnings um sæstreng.  Þar er þó bættur skaðinn. Allt tal um, að sæstrengur muni bæta nýtingu orkukerfis Íslands er fótalaust, af því að slík framkvæmd stenzt ekki öðrum aðferðum snúning til að ná sama markmiði.  Sæstrengur til útlanda, annarra en Færeyja, er enn tæknilega útilokaður, og hann mun aldrei verða samkeppnihæfur.  Landsvirkjun mundi gera réttast í að kistuleggja þessa sæstrengsdraumóra sína.  Ástæðan er sú, að sæstrengur skapar sárafá störf hérlendis og markaðslausnir eins og sala afgangsorku og frjáls markaður með orku, t.d. að notendur megi selja orku, sem þeir ekki nota, en eiga rétt á, eru miklu hagkvæmari leiðir til að bæta nýtingu kerfisins. 

Með nýrri stjórn Landsvirkjunar og forstjóra, sem spyrtur er við vinstri stjórnina, og boðar stefnu gróðapunga í stað atvinnuuppbyggingar hérlendis, er Landsvirkjun komin langt frá upphaflegri stefnu sinni frá 1965 á dögum Viðreisnarstjórnarinnar, og það er miður.  

  

 

 Háspennulína   Vöringsfossen á Hörðalandi í Noregi


Á villigötum gleymsku og getuleysis

Á ferð um Norðurland í lok júní 2011 veldur slæmt ástand gróðurs hugarangri.  Sprettan er sáralítil, kalskemmdir og trjákemmdir áberandi.  Í stjórnmálum landsins er ástandið því miður þannig, að horfir til algers uppskerubrests, en þar að auki á sér stað sóun opinbers fjár á báða bóga á stjórnarheimilinu.  Ríkisbúskapurinn og hagstjórn eru í skötulíki, en bændur munu vafalaust lágmarka tjón erfiðs árferðis af alkunnri útsjónarsemi.

Vegna innviða og fortíðar stjórnarflokkanna var óraunhæft að búast við meðalmennsku af núverandi ríkisstjórn, en hún hefur þó komið allflestum á óvart fyrir afspyrnu léleg og fornfáleg vinnubrögð, sem ekki verðskulda annað en falleinkunn á öllum sviðum á hvaða mælikvarða sem er.  Nýlegt dæmi um þetta var sofandaháttur ráðherranna við lok Alþingis í vor með þeim afleiðingum, að brýn mál sátu á hakanum.  Þessu fólki er ekki lagið að vinna í ábyrgðarstöðu, heldur að gaspra af ábyrgðarleysi.  Fyrir þetta mun fjöldi fólks líða, eins og komið hefur fram.  Landið þolir ekki lengur svona lélega forystu og er brýnt að breyta, enda getur hún ekki orðið lélegri.

Einna alvarlegast verður að telja, hvernig þingmeirihluti Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur leikið heilbrigðisgeirann.  Með botnlausri forsjárhyggju og kjánalegum afskiptum af viðkvæmri starfsemi er lækningastarfsemin að þrotum komin.  Þetta endurspeglast í flótta úr læknastéttinni til útlanda.  Læknar, sem lokið hafa löngu og ströngu sérnámi, treysta sér ekki heim við ríkjandi aðstæður, þó að þeir að öðrum kosti hefðu verið fúsir til heimferðar.  Tölurnar í þessu sambandi eru sláandi.  Erlendis starfa nú 617 læknar, og innanlands starfa 1060 læknar, sem þýðir, að erlendis starfa 37 % allra íslenzkra lækna, sem er a.m.k. fjórfaldur sá fjöldi, sem eðlilegur getur talizt.  Þetta er sóun í nafni kyrrstöðu og forræðishyggju, sem okkar litla þjóðfélag hefur ekki efni á.  Ríkið nánast einokar starfsemina, en hleypa verður einkaframtakinu að með samkeppni.  Slíkt mun auka skilvirkni, útrýma biðlistum, auka gæði þjónustunnar og verða þjóðhagslega hagkvæmt, eins og dæmin sanna, t.d. frá Svíþjóð.

Hér hefur aðeins ein stétt verið nefnd til sögunnar sem dæmi um þann atgervisflótta, sem hér hefur átt sér stað á valdatíma afturhaldsstjórnarinnar, sem hér hefur verið við völd síðan 1. febrúar 2009.  Um 30 þúsund ársverk hafa tapazt út úr hagkerfinu og enn ekki verið endurheimt, af því að framkvæmdafjandsemi er hér við völd. 

Þá bregður svo við, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun kynnir með pompi og pragt skýjaborgir um nánast tvöföldun vinnslugetu sinnar á raforku á um 15 árum.  Dregin er upp hláleg sviðsmynd af starfsemi orkufyrirtækis sem uppsprettu auðæva á við olíusjóð Norðmanna.  Á hvers kostnað yrði það ?  Sennilega aðallega íslenzkrar alþýðu, sem á fyrirtækið. 

Sú villa er gerð við þessa skýjaborgabyggingu að miða við orkuverð í Evrópu.  Þar ríkir orkuskortur, og þar er koltvíildisskattur lagður á raforkuna með þeim afleiðingum, að orkukræfur iðnaður hefur hrökklazt burt af þessum skaga út úr Asíu.  Nákvæmlega hið sama mun gerast hér, ef Landsvirkjun ætlar að fylgja fordæmi Evrópu um verðlagningu á raforku.  Alþjóðleg fyrirtæki munu þá leita annað, enda hafa þau heiminn allan undir. 

Eina raunhæfa viðmiðið varðandi áætlun um tekjur af orkusölu á Íslandi er heimsmarkaðsverð til sambærilegrar starfsemi.  Það þýðir t.d. ekkert að heimta 50 mill/kWh af nýjum álverum, ef ný álver fá orkuna annars staðar fyrir 30 mill/kWh.  Skýjaborgir af þessum toga eru ekki til annars en að slá ryki í augu almennings og fæla hugsanlega fjárfesta frá landinu, því að enginn vill láta okra á sér. 

Þessar skýjaborgir Landsvirkjunar eru stórfurðulegar í ljósi kyrrstöðustefnu eigandans, ríkisins, en ríkisstjórnin má ekki heyra minnzt á neinar virkjanir fyrir iðnað í eigu erlendra fjárfesta, sem þó er alger forsenda fyrir aukningu raforkuvinnslu um 0,5 TWh/a (terawattstundir á ári), sem skýjaborgirnar snúast um.  Hér kann að liggja sá fiskur undir steini, að Landsvirkjun gæli enn við hugmyndir um stórfelldan útflutning á raforku um sæstreng, en auðvelt er að sýna fram á, að slík starfsemi er þjóðhagslega óhagkvæm miðað við nýtingu orkunnar innanlands.  Er slíkur útflutningur raforku á stefnuskrá stjórnarflokkanna ? Halda menn, að kleift verði að fara út í slíkar framkvæmdir, ef ljóst er, að afleiðingin verður hækkun orkuverðs á Íslandi, eins og dæmin sanna frá Noregi ? 

Ríkisvaldið sjálft verður að móta landinu orkustefnu á grundvelli þess, sem bezt þykir henta hagkerfinu hverju sinni.  Næsta víst er, að hagkerfinu nýtist ekki til fullnustu svo hröð uppbygging, sem Landsvirkjun hér kynnir til sögunnar.  Uppbygginguna þarf að miða við getu íslenzkra fyrirtækja og stöðugleika hagkerfisins til að hámarka þjóðhagslegan ávinning.  Aðeins hámarks ávinningur er ásættanlegur.

Til hliðsjónar er rétt að hafa þá miklu vinnu, sem lögð hefur verið í svo nefnda rammaáætlun um nýtingu og verndun orkulinda, en hún á að gefa vísbendingu um skynsamlega forgangsröðun virkjana og friðunar.  Ef hins vegar núverandi stjórnvöld verða mikið lengur við völd, verður allt friðað og ekkert framkvæmt.  Náttúran skal njóta vafans er orðhengilsháttur umhverfisráðherra.  Þá verða heldur engir peningar fyrir hendi til að reka friðlönd og þjóðgarða með þeim myndarbrag, sem vert er.  Að nýta og njóta skal verða stefnan í þágu fólksins í landinu, sem ætíð skal láta njóta vafans.  

Vatnsafl 

 

 

     

 


Hangir á horriminni

Vantrauststillaga Sjálfstæðisflokksins á hendur ríkisstjórninni leiddi í ljós, að hún höktir nú á minnsta mögulega meirihluta.  Svo mjög hefur ósvífni og tækifærismennska Steingríms Jóhanns gengið fram af flokksmönnum hans, að þrír þeirra hafa nú kastað sér fyrir borð og hyggjast synda til lands og berjast við Steingrím á flokksvettvangi og utan.  Er þá deginum ljósara, að vinstri-grænir munu ganga með böggum hildar til næstu kosninga og í mörgum kjördæmum verða þurrkaðir út vegna svika við kjósendur.  Farið hefur fé betra.

Hvers vegna lafði þessi gæfusnauða og illa mannaða ríkisstjórn ?  Guðfríður Lilja, sem fékk stöðumissi í stað blómvandar við endurkomu á þing, var á báðum áttum.  Eftir að Árni Þór hafði þó lotið í gras og afsalað sér langþráðum titli þingflokksformanns í friðþægingarskyni við skákdrottninguna að skipun húsbónda síns, beit hún höfuðið af skömminni með því að gefa ríkisstjórninni líf, þó að framferði ríkisstjórnarinnar sé í veigamiklum atriðum upp á kant við stefnuna, sem hún gekk á hönd, er hún gekk til liðs við Vinstri hreyfinguna grænt framboð. 

Það var þó eitt hálmstrá, sem hún hékk á, og var það sannarlega ekki hvönn, eins og Þorgeir Hávarsson hékk í forðum á bergbrúninni að sögn Þormóðar, Kolbrúnarskálds.  Guðfríður færði það sem sérstök rök fyrir framlengingu á dauðastríði ömurlegrar ríkisstjórnar, að hún mundi standa vörð um það hugðarefni Guðfríðar að taka enga ákvörðun um virkjun Neðri-Þjórsár.  

Hvaða skoðun skyldi iðnaðarráðherra hafa á þessu afturhaldssama sjónarmiði ?  Hún hefur líklegast lagt kollhúfur við því, eins og hún er vön.  Afturhaldið, sem nú heldur um stjórnartauma landsins, á sér samnefnara í athafnaleysi og heldur þannig athafnalífinu og vinnumarkaðinum í heljargreipum. 

Þetta er engin tilviljun.  Vinstri hreyfingin grænt framboð telur hagvöxt vera illt afsprengi auðvaldsskipulagsins og þvælist þess vegna af öllum mætti fyrir öllum ákvörðunum, sem leitt geta til þess að rífa þjóðfélagið upp úr núverandi stöðnun.  Stöðnun er óskastaða vinstri-grænna, því að þannig er girt fyrir hagvöxt. 

urridafoss_1Græningjar um allan heim eru við sama heygarðshornið.  Þeir telja hagvöxt verða á kostnað náttúrunnar.  Orkuöflun er sérstakur skotspónn græningja.  Ástæðurnar eru af tvennum toga.  Annars vegar vita græningjar, að orkuöflun er forsenda hagvaxtar.  Með því að berjast gegn orkuöflun kyrkja græningjar hagvöxt

Hins vegar fylgir orkuöflun víðast erlendis aukin mengun af einhverju tagi eða geislunarhætta.  Oftast er um að ræða aukið sót, brennistein og koltvíildi út í andrúmsloftið, en einnig getur verið um að ræða hávaða, fugladauða og sjónræn umhverfisspjöll, t.d. af völdum vindmylla.

Íslenzkar vatnsaflsvirkjanir eru allar sjálfbærar og einnig afturkræfar samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu.  Mengun af þeirra völdum er í algeru lágmarki á heimsvísu.  Það er þess vegna einboðið að nýta þessa auðlind til að útrýma atvinnuleysinu í landinu.  Neðri-Þjórsá er efst á lista um hagkvæmni og lítið umhverfisrask.  Þess vegna verður ekki séð, að þessi ríkisstjórn muni samþykkja nokkra nýja virkjun, ef hún leggst gegn virkjunum í Neðri-Þjórsá.

Afstaðan til virkjana varðar grundvallar hagsmuni almennings og er þess vegna kjaramál.  Nýjar virkjanir og framhald iðnvæðingar eru grundvöllur þess, að hér verði fullt atvinnustig og og að lífskjör í landinu verði samkeppnihæf við hin beztu í Evrópu.  Helztu ástæður þessa eru eftirfarandi:

  • fjárfestingar þurfa að nema um 25 % af VLF (verg landsframleiðsla) eða tæplega ISK 400 mia. á ári til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast nægilega hratt til að þörf verði á auknu vinnuafli og saxist á fjölda atvinnulausra. 
  • helmingurinn af þessu fé gæti komið frá hefðbundnum þáttum, þegar hagkerfið fer að taka við sér, en um ISK 200 mia. á ári þurfa að verða á formi erlendra fjárfestinga.  Engar umtalsverðar slíkar eru í sjónmáli án aukinnar nýtingar á orkuauðlindinni, og aðeins stóriðja getur nýtt hana að marki.  Ísland er enn samkeppnihæft um orkuverð til stóriðju, og enginn geiri athafnalífsins hefur meiri burði til stækkunar og framlags til hagvaxtar en stóriðja.   
  • aðeins straumur erlends gjaldeyris inn í landið af ofangreindri stærðargráðu getur gert kleift að losa um og losna við gjaldeyrishöftin, en slík eru mikill áfellisdómur yfir hagstjórn í hverju ríki, sem setur þau upp og viðheldur.  Þau brjóta í bága við frelsin  fjögur á Innri markaði EES, en þessi innri markaður er ein af rósunum (ekki þó kratarós) í hnappagati ESB og styður við heilbrigða samkeppni í Evrópu. 
  • auknar gjaldeyristekjur eru skilyrði styrkingar krónunnar og greiðslu á vöxtum og afborgunum hins opinbera og einkaaðila til útlendinga með skaplegum hætti, þ.e. að koma skuldum ríkisins niður í um 30 % af VLF á 10-15 árum án þess að innviðir samfélagsins fari við það á hliðina.  

 Það er þess vegna ekkert smáræði, sem leiða kann af því, að skákdrottningin tók þá ákvörðun 13. apríl 2011 að valda eitraða peðið, sem skírt var Steingrímur Jóhann á sinni tíð.  Ákvörðun hennar jafngildir því að halda atvinnulífinu áfram í spennitreyju, lykilatvinnuvegum í uppnámi, festa atvinnuleysi í 10 %, reka ríkissjóð á heljarþröm, og að gera kjararýrnun viðvarandi í landinu frá ári til árs.  

Þetta eru ekki dyntir skákdrottningarinnar, heldur er hún með þessu trú stefnu vinstri-grænna um að koma í veg fyrir hagvöxt með öllum mögulegum og ómögulegum ráðum.  Á þetta horfir Samfylkingin aðgerðarlaus og er ekki svo leitt sem hún lætur, enda er þetta verðið, sem hún greiddi fyrir að fá að sækja um aðild að ESB.  Sjá nú allir, hversu illa var stofnað til þessa stjórnarsamstarfs.  Þar haldast í hendur amlóðaháttur og afturhald, a&a, sem þó á ekkert skylt við hin ágætu AA-samtök. 

Myndin hér að neðan lýsir vel anda umræðunnar í Evrópu eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á Íslandi 9. apríl 2011, þegar vanda skuldugra ríkja ber á góma.  Ísland setti þá fagurt fordæmi, en hvernig á nokkur maður, innlendur eða útlendur, að geta treyst ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur til að framfylgja hinni skýru stefnumörkun þjóðarinnar ?      

     

      Gott fordæmi fyrir Íra 

   

 


Vendipunktur

Þjóðverjar nefna endursameiningu Þýzkalands 1990 "die Wende", og 3. október fögnuðu þeir tvítugsafmæli endursameinaðs Sambandslýðveldis.  Með svipuðum hætti má segja, að vendipunktur hafi orðið í viðreisn íslenzks atvinnulífs, þegar alþjóðlega iðnfyrirtækið Rio Tinto Alcan (RTA) tilkynnti haustið 2010 um nýjar fjárfestingar í Straumsvík fyrir tæpa 60 milljarða kr.  Hér var ísinn brotinn eftir frystingu fjármálageirans á fjárflæði til landsins eftir Hrun, nema með tilstilli Alþjóða gjaldeyrissjóðsins .

Í grundvallaratriðum er hér um þrígreint verkefni að ræða.  Í fyrsta lagi að styrkja innviði raforkuflutnings til allara kerskálanna þriggja.  Þetta er nauðsynlegt af tveimur ástæðum.

Í fyrsta lagi vegna öldrunar rafbúnaðarins, en elzti hluti hans er nú orðinn 41 árs gamall og ákveðinn rofabúnaður jafnvel 10 árum betur.  Af þessum ástæðum munu bilanalíkindi fara ört vaxandi að óbreyttu álagi.  Dregið verður úr álagi á gamla búnaðinn, þegar nýr verður tekinn í notkun, til þess að lengja endingu hans enn meir.

Gjörnýting framleiðslutækjanna er stefna fyrirtækisins, og verksmiðjan framleiðir nú 27 % meir en hún var hönnuð fyrir.  Þetta hefur verið gert á kostnað rekstraröryggis, og fyrsti hluti fjárfestinganna er til mótvægis við það.  Nýr búnaður mun veita ráðrúm til stórviðhalds á gamla búnaðinum í þeim mæli, sem það verður talið hagkvæmara en endurnýjun.

Annar þáttur fjárfestinganna er fólginn í byltingu straumleiðarakerfis elztu kerskálanna tveggja til að gera kleift að auka strauminn um 320 ker.  Grundvöllur þessa er líkangerð og viðamiklir straum-og segulsviðsútreikningar í Rannsóknarmiðstöð RTA í Evrópu.  Jafnframt verða innviðir verksmiðjunnar lagaðir að meiri afköstum og framleiðni.  Þetta þýðir m.a., að bæta þarf við nýjum rafbúnaði, og verða þannig tveir nýir 200 MVA aðalspennar í aðveitustöð ISAL, sem verða öflugustu spennar landsins.

Þriðji áfanginn verður fólginn í umbyltingu framleiðslunnar úr fljótandi áli kerskálanna.  Steyptir verða sívalningar, og þeir glæddir í rafhituðum glæðiofnum.  Þessi framleiðsla er arðsamari og veitir meiri markaðsstöðugleika en völsunarbarrarnir. 

Jafnhliða skipulagningu og fjármögnun á þessu verkefni í Straumsvík hefur RTA samið um orkuafhendingu til svo langs tíma við Landsvirkjun, að arðsemi fjárfestinganna er tryggð.  Jafnframt er atvinnuöryggi a.m.k. 2000 starfa, beinna og óbeinna, tryggt.

ISAL í StraumsvíkÞessi orkusamningur gaf Landsvirkjun byr í seglin á erlendum lánamörkuðum.  Deutsche Bank reið á vaðið og keypti skuldabréf af Landsvirkjun við um 6,5 % vöxtum.  Vextirnir þykja nú fremur háir, en arðsemi fjárfestinga Landsvirkjunar verður áfram há, og fjárfestingar hennar bera þessa vexti vel.  Gegnumbrot Íslendinga á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur átt sér stað fyrir tilverknað vendipunktsins, sem minnzt var á í upphafi.  Þjóðverjar reynast oss enn sem fyrr haukar í horni.

Hvorugt erlendu fyrirtækjanna, sem hér hafa verið nefnd til sögunnar, eru góðgerðarstofnanir.  Þau þekkja hins vegar Íslendinga af verkum þeirra.  "Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá." 

Mjór er mikils vísir.  Ofangreindar fjárfestingar þarf að tífalda á næstu fimm árum til að koma íslenzka hagkerfinu á skrið.  Nú á að láta kné fylgja kviði.  Raforkunotkun landsins nam árið 2009 um 16,8 TWh (terawattstundir).  Það er engin goðgá, að framleiða megi 50 TWh/a, ekki sízt, ef djúpvinnsla jarðvarmans tekst, og þess vegna er hægurinn á að þrefalda núverandi raforkuvinnslu með sjálfbærum og afturkræfum hætti.

Þetta mun lítil áhrif hafa á aðra landnotkun vegna víðernis landsins, en fróðlegt verður að sjá, hvernig fjallað er um þetta í svo nefndri "Rammaáætlun" um nýtingu og verndun auðlinda.  Skýrslan mun vera nýjasta deiluefni algerlega óhæfrar ríkisstjórnar.  Nú er ekki rétti tíminn til að hengja sig í stjórnmálastefnur til hægri eða vinstri, heldur verða hæfileikar að ráða því, hverjir verða settir til verka í stjórnarráðinu.  Ráðherrar vinstri stjórnarinnar hafa nú svikið öll sín kosningaloforð, svo að engan veginn verður séð, hvaða erindi þeir eiga lengur í Stjórnarráðið.

Tími er kominn til að bretta upp ermarnar og að spýta í lófana á öllum vígstöðvum.  

Kertaljós

     

 

 

 

     

  


Afturreka

Umhverfisráðherrann alræmdi, Svandís Svavarsdóttir, hefur legið undir ámæli um mjög óvandaða stjórnsýslu.  Stjórnarhættir hennar einkennast þannig af ólýðræðislegum viðhorfum, þjösnaskap og lögleysu.  Þetta hefur margoft verið bent á og öllum orðið ljóst, nema e.t.v. vinstri grænum. 

Ráðherrann beitir oft ofangreindum gerræðislegu vinnubrögðum með vísun til, að "almannahagsmunir" séu í húfi.  Þetta eru algjör öfugmæli, og til nákvæmlega sömu firru hafa stjórnmálalegir ofstopamenn sögunnar jafnan gripið til.  Sannast þar enn skyldleikinn. 

Ráðherra þessi hefur skákað í því skjólinu, að hún væri að berjast fyrir stjórnmálalegum málstað.  Þetta er málstaður örfárra sérvitringa, sem fyrir tilviljun náðu tökum á ríkisvaldinu. Forkólfar vinstri-grænna virðast hiklaust telja, að tilgangurinn helgi meðalið.  Skeyta þeir þá hvorki um skömm né heiður, lög, hagsmuni þjóðfélagsþegna, t.d. í dreifbýlinu, né um mannréttindi.  Þetta hefur nú verið staðfest af Héraðsdómi Reykjavíkur, sem gerði Svandísi gjörsamlega afturreka með geðþóttaúrskurð sinn um skipulag Flóahrepps, þar sem skipulagsyfirvöld höfðu fellt Urriðafossvirkjun inn í aðalskipulag sitt, og ráðuneytið var jafnframt dæmt til greiðslu alls málskostnaðar um MISK 1,5.  Hið síðasta sýnir, að ráðherrann átti sér engar haldbærar málsbætur.  Hún er dómgreindarlaus.

urridafoss_1Umhverfisráðherra þessi hefur traðkað á réttindum hreppanna við Þjórsá til að stjórna skipulagsmálum sínum.  Það tók hana 11 mánuði að kveða upp hinn ógilta úrskurð.  Flóahreppur kærði og á meðan skipulagið var í ráðuneytinu til málamyndameðferðar, og á meðan kærumálið var fyrir dómstólinum, hefur skipulagsmál Flóahrepps, og í raun Gnúpverja og Skeiðamanna, rekið á reiðanum.  Þetta hefur valdið íbúunum stórfelldu fjárhagstjóni og vandræðum, meðalhóf hefur verið sniðgengið, og hér eru stjórnvaldsduttlungar á ferð, sem klárlega stríða gegn almannahagsmunum.  Í andrúmsloftinu, sem sameignarsinnar hafa skapað á síðustu vikum með því að berjast, með hjálp nytsamra sakleysingja, fyrir stjórnmálalegum réttarhöldum, fá menn ekki varizt þeirri hugsun, að téður misheppnaður ráðherra verði dreginn fyrir Landsdóm, ef Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur einbeittan vilja til að ryðja brautina fyrir hann.  Það er nefnilega grundvallarregla í þessu samfélagi, að allir skuli standa jafnir gagnvart lögunum, sem þýðir m.a., að "nómenklatúra" Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs getur átt yfir höfði sér ákærur um "að stofna heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu" - (Steingrímur/Icesave), stórfellt hirðuleysi - (Gylfi/engin áhættugreining á bankakerfinu), og fyrir að "að misbeita stórlega valdi sínu" - (Svandís/ofangreint).  

Umhverfisráðherra hefur með ólöglegum og löglegum, en siðlausum hætti, þvælzt fyrir viðreisn hagkerfisins og sköpun atvinnu og þannig unnið leynt og ljóst gegn almannahagsmunum.  Brotavilji hennar hefur verið skýr og einbeittur.  

sovetislandÞann 18. september 2010 birtist ágæt grein í Morgunblaðinu eftir Dr Tryggva Þór Herbertsson, Alþingismann.  Hann gerir þar afturhaldsmann nokkurn að umræðuefni, sem hann nefnir "alkemista" og kveður hafa "póstmódernískar" skoðanir.  Þar er á ferðinni Andri Snær Magnason, "rithöfundur", en málflutningur hans verður helzt kenndur við bullustampinn, svo stóryrtur og veruleikafirrtur sem hann er.  Áróðursaðferð "rithöfundarins" er einfeldningsleg.  Hann kastar á loft einni, þokkalega þekktri tölu, sem fer nærri sannleikanum, og þyrlar síðan upp talnamoldviðri og fullyrðingaflaumi, sem eru hrein fjarstæða.  Af því að sannleikskorn var í einu, sæmilega þekktu atriði, er fólki ætlað að kokgleypa bullið.  Hefur þessi moðsuða fengið að ganga átölulítið þar til þingmaðurinn benti á ruglandann.

Einn versti fjandi bullustampanna er hagvöxturinn.  Val fólks stendur þó einfaldlega um bættan hag sinn með aukinni landsframleiðslu eða aukinni framleiðni annars vegar og hins vegar versnandi kjör sín og vaxandi bágindi margra og jafnvel neyð.  Vinstri-grænir telja hagvöxtinn varasaman og gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til að hindra viðsnúning hagþróunar úr samdrætti í vöxt.  Til þess er gengið á milli bols og höfuðs á einkaframtakinu, litlum og meðalstórum fyrirtækjum, aðalatvinnuskaparanum, níðzt á þeim í bönkunum og þeim látið blæða út, svo að stórfyrirtæki í hrömmum bankanna geti ginið yfir markaðinum.  Það er ógeðslegt þjóðfélag, sem blasir við, verði þessi níðangurslega fátæktarstefna áfram við lýði í Stjórnarráðinu. Um helmingur íslenzkra fyrirtækja er á heljarþröminni og mörgum þeirra dygði dágóður (5 %) hagvöxtur í um 5 ár til að komast á réttan kjöl. 

Þjóðin  þarf nú ferskt blóð á þing og raunverulega leiðtoga í Stjórnarráðið með lífvænlega þrígreinda stefnu til skamms tíma, miðlungs og langs tíma:

  • Koma öllum vinnufúsum höndum til starfa með því að koma hjólum atvinnulífsins í gang á einu kjörtímabili.  Þetta er í algerri andstöðu við stefnu núverandi ríkisstjórnar, en öll verk hennar (og verkleysi) hafa dregið máttinn úr atvinnulífinu.
  • Koma ríkisfjármálunum í sjálfbært og viðunandi horf á tveimur kjörtímabilum.  Þetta þýðir lækkun á skuldum ríkisins úr yfir 100 % af VLF nú niður fyrir 40 % af VLF á 8 árum.  Jafnframt verði allir vinstri skattarnir afnumdir á sama tímabili og umsvif ríkisins minnkuð niður fyrir 30 % af VLF.  Þetta er í algerri andstöðu við stefnu núverandi ríkisstjórnar, sem er að drekkja landinu í erlendum skuldum með stjórnlausum hallarekstri ríkissjóðs þrátt fyrir hrikalegar og glórulausar skattahækkanair.
  • Koma efnahagsmálum landsins og þar með gjaldeyris-og myntmálum í örugga höfn á næstu þremur kjörtímabilum.  Þetta þýðir, að finna þarf þarf þá lausn á peningamálunum, sem bezt tryggir stöðugleika hagkerfisins og hagsæld almennings.  Þetta er í algerri andstöðu við stefnu núverandi ríkisstjórnar, sem með flausturslegum hætti hefur sótt um aðild að ESB og er komin í rándýrt aðlögunarferli þess með markmið um upptöku evru sem fyrst án undanfarandi greiningar til að komast að niðurstöðu um, hvað bezt hentar íslenzka hagkerfinu í heild.   

  

Til þess að skapa hagvöxt verða Íslendingar að laða að erlent áhættufé í fjárfestingar í atvinnulífinu.  Múmínálfar stjórnleysingja og bullustampar vinstri-grænna eru alfarið á móti erlendum fjárfestingum og telja alþjóðavæðingu viðskiptanna frá Kölska komna.  Hér eru alger öfugmæli á ferð.  Hvað hefur lyft hundruðum milljóna Kínverja upp úr örbirgð ?  Erlendar fjárfestingar og markaðskerfi á afmörkuðum sviðum, sem Kommúnistaflokkur Kína hefur leyft.  Er nú svo komið, að Kína, með yfir 10 % hagvöxt á ári, er orðið annað stærsta hagkerfi heims.  Að berjast gegn hagvexti er í raun að vinna gegn almannahagsmunum og valda hér vaxandi fátækt og eymd.  Framkvæmdafjandskapur "Draumalandsins" er alls ekki umhverfisvernd, hvorki á innlendan né alþjóðlegan mælikvarða.  Hefur framkvæmdafjandskapur hérlendis dregið úr landeyðingu vegna uppblásturs ?  Hefur framkvæmdafjandskapur hérlendis dregið úr mengun lofts, láðs og lagar í heiminum ?  Svarið er nei.  Firrtir malbiksbúar á borð við múmínálfa Andra Snæs Magnasonar snúa staðreyndum á haus og vita í raun ekki, hvað umhverfisvernd er.   

Fyrir rúmum 200 árum skýrði David Ricardo, hagfræðingur, út fyrir fólki, hvernig auðlegð þjóðanna ykist hraðast.  Það væri með frjálsum viðskiptum, þar sem gert væri út á hlutfallslega hagræna yfirburði þjóða. -  Í íslenzku lögsögunni eru ein gjöfulustu fiskimið heims, sem veita hlutfallslega yfirburði og við eigum að bezta nýtinguna á sjálf.  Þar sem miðin eru fullnýtt, er ekki rúm fyrir fleiri þar. - Hreinleiki landsins, hlýnandi loftslag og vaxandi matvælaþörf gefur íslenzkum landbúnaði sérstakan byr í seglin og hlutfallslega yfirburði á útflutningsmörkuðum. -  Á landi eru einar mestu orkulindir á mann, sem um getur.  Með nútíma tækni er unnt að virkja um 50 TWh/a af raforku með sjálfbærum og afturkræfum hætti, sem þýðir, að enn eru um 2/3 hlutar lindanna óvirkjaðir.  Þetta gefur okkur hlutfallslega yfirburði, sem ber að nýta almenningi til hagsbóta.

Um 10 milljarðar tunna af olíu eru taldar liggja undir hafsbotni í íslenzka hluta Drekasvæðisins.  Þetta nemur þó aðeins heimsnotkun upp á 4 mánuði, en gæti reynzt næstu kynslóðum dágóð tekjulind.  Rússar vilja semja um rannsóknir þar og nýtingu, og þá er nú ekki ólíklegt, að fleiri verði um hituna.  

Tækifærin eru alls staðar, en með afturhaldsöfl við stjórnvölinn og óttablandið hatur á hagvexti í öndvegi munum við hvorki komast lönd né strönd.  Það verður að fá nýtt fólk í brúna; fólk, sem hvorki er með böggum hildar eftir Hrunið né haldið úreltum grillum haturs, öfundar og stjórnlyndis. Stokka verður strax upp á Alþingi og breyta þar valdahlutföllum.

falkinn1_444247  

   

      

 


Depurð umhverfis

Nýlega fann umhverfisráðherra Íslands þörf hjá sér til að upplýsa landslýðinn um sálarástand sitt, sem hún kvað þá stundina einkennast af depurð. 

Þessi einstæði umhverfisráðherra, hvers helzta minnismerki verður hernaðurinn gegn landinu, sem fólginn er í að fyrirskipa eitrun fyrir tveimur tilteknum jurtategundum í yfir 400 m hæð, er ekki dapur yfir því, að fólk kunni að bíða tjón á heilsu sinni af völdum þessa eiturefnahernaðar í íslenzkri náttúru.

Blómaskrúð

Er hún e.t.v. döpur út af því, að hátt í 30 þúsund mannár tapast árlega út úr íslenzku atvinnulífi frá 2008 og ekki hillir undir viðsnúning á þeirri óheillaþróun, nema síður sé ?  Ekki aldeilis.  Allt hennar þóf, þvergirðingsháttur, fyrirsláttur og aðgerðarleysi hefur m.a. leitt til þessarar afturfarar og eymdar.  

Er hún döpur vegna þess, að allt stefnir í nýja gjaldþrotahrinu, þegar úttektir tugþúsunda launþega á séreignarlífeyrissparnaði sínum verða upp urnar ?  Öðru nær.  Umhverfisráðherra virðist  engan raunverulegan gáning hafa á afkomu fólks.  Um það vitnar allt hennar tal og framferði.  Það er dæmigert fyrir sameignarsinna.  Slíkir stjórnmálamenn hafa villt á sér heimildir, fengið stuðning upp í valdastóla á fölskum forsendum og valdið almúganum stórtjóni, en hampað flokksgæðingum (nómenklatúrunni). 

Það, sem veldur hins vegar umhverfisráðherra depurð, er, að erlendur fjárfestir hefur keypt sig inn í orkugeirann íslenzka og öðlazt þannig nýtingarrétt á jarðvarma í Svartsengi og víðar.  Þar með gæti hillt undir nýja verðmætasköpun í landinu með nýtingu jarðvarma fyrir tilstuðlan erlends áhættufjármagns, sem langflestar þjóðir reyna að laða til sín og Íslendinga vanhagar um. 

Ráðherrann lætur eins og Magma Energy muni fara með þennan jarðvarma úr landi og jafnvel selja hann þar á svörtum.  Þá er nú betra, að láta jarðhitann liggja áfram ónýttan djúpt í jörðu en útlendingar hætti fé sínu til atvinnuuppbyggingar á Íslandi og græði hugsanlega á því að framleiða rafmagn o.fl. úr frumorkunni.  Þetta er svartagallsraus vinstri-grænna.

Málflutningur sameignarsinna um orkumál ber þess keim, að þeir telji orkufyrirtækin lúta öðrum lögmálum en önnur fyrirtæki.  Þetta er argasta firra og sýnir í hnotskurn, að forkólfar Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs vita ekkert í sinn haus um hagræn efni, eru algerlega úti að aka og kunna nákvæmlega ekkert til verka, enda leggja þeir sig ekki eftir neinu því, er til hagvaxtar getur horft í þjóðfélaginu.  Með þá í brúnni verður þjóðarskútunni senn siglt í strand.   

Flokksbróðir Svandísar, Ögmundur, stúdent, Jónasson, spurði nýlega, eins og aðeins Þórálfur, hagfurðufræðingur, hefði getað spurt, hvers vegna ætti að leyfa einkafjármagn í orkugeiranum ?  Marxistinn, gamli, heldur greinilega, að nú sé lag til að koma því inn hjá fólki, að sameignarstefnan, sem varð siðferðilega gjaldþrota snemma á 20. öldinni og seinna efnahagslega gjaldþrota, beri af einkaframtaki og frjálsum markaði hagrænt og siðferðilega.  Þessu er eftirfarandi til að svara:

Í fyrsta lagi er hið opinbera á Íslandi, ríki og flest sveitarfélög, skuldsett upp fyrir haus og hafa ekki efni á neinum fjárfestingum, sem um munar.  Óhóf og stöðugar kröfur þrýstihópa um framlög af skattfé landsmanna við trumbuslátt fyrirhyggjulausra vinstri manna á Alþingi og í sveitarstjórnum ásamt óstjórn og skuldasöfnun vinstri stjórnanna frá Hruni hafa leitt landið fram á hengiflug Álftanessástands.  Ef á að rífa atvinnulífið upp úr núverandi eymdarástandi, verður þess vegna að veita alþjóðlegu einkaframtaki frelsi til athafna í landinu.  Kerfisbundin skemmdarverk VG í ríkisstjórn og á Alþingi benda hins vegar til, að þessi stjórnmálahreyfing leggi allt í sölurnar til að koma í veg fyrir slíkt.  Til harðvítugs uppgjörs hlýtur senn að koma, þar sem baráttan stendur um þjóðfélagsgerðina sjálfa, þ.e. valddreift og opið markaðshagkerfi með burði til hagvaxtar og vinnu fyrir alla annars vegar, en hins vegar lokað og staðnað og algerlega ósamkeppnihæft einokunarhagkerfi með allsráðandi stjórnmálamenn í fjármála-og athafnalífi, fjöldaatvinnuleysi og vaxandi opinberan rekstur, sem fljótlega mun leiða til þjóðargjaldþrots.  

Varpa má ljósi á hinn hluta svarsins með því að taka dæmi af sjávarútveginum.  Bæjarútgerðir gáfust herfilega hér á árum áður og skiluðu eigendum sínum ævinlega tapi.  Þetta er í reynd það, sem stjórnarflokkarnir ætla að innleiða með hinni afdæmingarlegu fyrningarleið sinni, sem hefur hlotið falleinkunn við hverja faglegu úttektina á fætur annarri.  Þegar horfið var frá þessari vonlausu sameignarstefnu á Íslandi með einkavæðingu sjávarútvegsins, hófst mikið hagræðingarferli og tæknivæðing, sem leiddi til þess, að íslenzki sjávarútvegurinn er nú sennilega með hæstu framleiðni í heimi.  Mikil framleiðni í samanburði við samkeppniaðilana er grundvöllur þjóðhagslegrar hagkvæmni sjávarútvegsins og þess, að hann geti framvegis verið ein af þremur megingjaldeyrislindum landsmanna.

Með því að hleypa erlendum fjármagnseigendum að orkugeiranum er opnað fyrir aukna samkeppni þar, fjárfestingar, tækniþróun, framleiðniaukningu og fjölbreytni, sem skila mun sér til íslenzkra heimila og fyrirtækja og leggja grunn að aukinni orkukræfri starfsemi í landinu.  Allt mun þetta verða hagvaxtarhvetjandi.  Allt eru þetta hin almennu og vel þekktu hagfræðilegu sannindi, að almenningi vegnar bezt innan hagkerfa, þar sem stjórnmálamenn láta einkaframtakið um athafnalífið, en láta duga að setja sanngjarnar leikreglur, koma á fót öflugu eftirlitskerfi með miklum rannsóknarheimildum ásamt ströngum viðurlögum við brotum.

Þar sem vel tekst til, leiðir þetta fyrirkomulag til valddreifingar í þjóðfélaginu, en þrúgandi vald stjórnmálamanna yfir fjármálastofnunum og öðru athafnalífi felur í sér hættulega valdsamþjöppun og einokun og er ógnun við lýðræðisþróunina í landinu.

Landsmenn ættu að hafa í huga hið fornkveðna á kjördag, að skamma stund verður hönd höggi fegin.  Að refsa ábyrgum sveitarstjórnarmönnum borgaralegra afla með því að kjósa gosa, loddara og lýðskrumara mun hitta þá sjálfa fyrir sem slíkum bjúgverpli beita, og eru vítin til að varast þau. 

Stétt með stétt.   

falkinn1_444247

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband