Færsluflokkur: Fjármál
26.7.2017 | 18:36
Dýrkeypt markmið
"Útlit er fyrir, að íslenzka ríkið muni þurfa að verja milljörðum [ISK] til kaupa á kolefniskvóta á næsta áratug. Ástæðan er aukning í losun gróðurhúsalofttegunda þvert á það markmið stjórnvalda, að hún verði um 20 % minni árið 2020 en 2005."
Þetta kom fram í frétt Baldurs Arnarsonar,
"Losunin eykst þvert á markmiðin",
sem Morgunblaðið birti 21. júlí 2017. Ekki er víst, að allir landsmenn hafi verið meðvitaðir um skuldbindandi markmið landsins fram til 2020. Fram kom í fréttinni, að sá þáttur losunarinnar, sem yfirvöld hérlendis hafa skuldbundið sig til að minnka, nemur um þessar mundir aðeins um 40 % af heildarlosun Íslendinga, en 60 % falla undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins, ESB, með losunarheimildir, s.k. ETS-kerfi.
Þar undir eru fyrirtæki á sviði orkukræfs iðnaðar, skipafélögin og flugfélögin, sem munu fá síminnkandi árlegan losunarkvóta úthlutaðan og verða að kaupa sér losunarheimildir á markaði, ef þau ekki draga úr losun sinni að sama skapi. Verðið er um þessar mundir um 5 EUR/t CO2, en gæti farið yfir 30 EUR/t CO2 fljótlega á næsta áratugi til þessara fyrirtækja, en kannski fá ríkisstjórnir afslátt. Þeir, sem minnkað hafa sína losun, eru aflögufærir, og sé hagnaður sáralítill af starfsemi, getur borgað sig hreinlega að loka og selja losunarkvóta sinn á hverju ári. Ekki er ólíklegt, að íslenzkar útgerðir og iðnaður (utan stóriðju) muni geta selt losunarheimildir, því að losun þeirra frá 1990 hafði árið 2016 minnkað um 35 % og 47 % (í sömu röð).
Síðan segir í fréttinni:
"Fram kom í Viðskipta-Mogganum í gær, að Icelandair hefði keypt kolefniskvóta fyrir tæpan milljarð [ISK] frá ársbyrjun 2012 [í 5 ár-innsk. BJo]. Hugi [Ólafsson, skrifstofustjóri í Umhverfisráðuneytinu] segir, aðspurður, að kaup ríkisins gætu orðið af þeirri stærðargráðu vegna tímabilsins 2013-2020 [8 ár]. Síðan kunni að taka við frekari kvótakaup."
Fram kemur í fréttinni, að upphafshugmyndir um áform á brauðfótum hafi komið fram í aðgerðaráætlun Umhverfisráðuneytisins árið 2010 um loftslagsmál. Þar var þá ráðherra Svandís nokkur Svavarsdóttir og virðist téð "aðgerðaáætlun" að mestu hafa verið innantómt plagg, þ.e. nánast engin eftirfylgni virðist hafa átt sér stað. Samt mátti hún vita, að hún var að skuldbinda ríkissjóð til fjárútláta út fyrir landsteinana með þessari illa ígrunduðu áætlun. Þetta kallast fjármálalegt ábyrgðarleysi.
Þessi "aðgerðaáætlun" virðist vera upphafið að þeim vítaverðu skuldbindingum, sem nú eru að binda ríkissjóði milljarða íslenzkra króna (ISK) bagga. Þetta er algerlega ábyrgðarlaust atferli embættismanna, sem gera áætlanir, reistar á sandi (kolröngum forsendum, sem þeir gefa sér út í loftið) og gera litlar eða alls ófullnægjandi ráðstafanir til, að þróun eldsneytisnotkunar verði, eins og þeir láta sig dreyma um. Þar liggur ábyrgðarleysið. Umhverfisráðherrarnir skrifa svo undir vitleysuna og botna ekkert í því, að það eru allt aðrir kraftar að verki úti í þjóðfélaginu en í fundarherberginu, þar sem fallegu glærurnar eru til sýnis.
Þegar aðgerðaráætlunin um losun frá landumferð var samin fyrir áratuginn 2011-2020, þá ríkti enn samdráttur í hagkerfinu. Það er vel þekkt, að jákvætt samband ríkir á milli umferðarþróunar og breytinga á vergri landsframleiðslu. Það dæmalausa fólk, sem árið 2010 gerði áætlun um 23 % minni losun koltvíildis frá landfartækjum árið 2020 en árið 2008, þ.e. úr 974 kt í 750 kt, hlýtur að hafa reiknað með efnahagsstöðnun langleiðina til 2020. Hvílík framtíðarsýn þessa starfsfólks vinstri stjórnarinnar, sálugu. (Vinstri grænir eru reyndar á móti hagvexti.)
Stjórnvöld 2009-2013 lögðu reyndar lóð sín á vogarskálar samdráttar og síðar stöðnunar með gegndarlausum skattahækkunum, og það hefði vafalaust verið haldið áfram á sömu braut á síðasta kjörtímabili, ef kjósendur hefðu ekki fleygt yfirlýstum andstæðingum hagvaxtar út úr Stjórnarráðinu vorið 2013. Tekjuakattur var í kjölfarið lækkaður hjá flestum, og almenn vörugjöld og tollar afnumin, auk þess sem virðisaukaskattkerfið var lagfært. Skattar eru samt í hæstu hæðum á Íslandi. Byrja mætti með að lækka fjármagnstekjuskatt niður í 15 % til að efla sparnað, hækka frítekjumarkið til jöfnunar og lækka tekjuskatt fyrirtækja niður í 15 % til að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins á Íslandi.
Þróun umferðar varð sú, að strax árið 2013 varð viðsnúningur, og hún tók þá að aukast. Losun jókst þó ekki árið 2013, þegar hún nam 851 kt CO2, sennilega vegna sparneytnari ökutækja, en strax árið eftir tók losun frá umferð að aukast, og árið 2016 var svo komið, að hún nam um 932 kt CO2 og var þá um 115 kt meiri en embættismenn höfðu gert ráð fyrir árið 2010.
Það er til merkis um bætta eldsneytisnýtni bílvéla á 8 ára tímabilinu 2008-2016, að þótt umferðin væri 21 % meiri í lok tímabilsins en í upphafi þess, hafði eldsneytisnotkunin samt dregizt saman um 5 %. Þetta þýðir, að eldsneytisnotkun á hvern ekinn km hefur minnkað um 27 %.
Ef gert er ráð fyrir, að umferðin verði 15 % meiri árið 2020 en árið 2016 og bætt eldsneytisnýtni og umhverfisvænar vélar leiði af sér aðeins 10 % elsneytisaukningu á þessu 4 ára tímabili, mun losun landumferðar nema 1,0 Mt CO2 árið 2020, sem er 0,25 Mt eða þriðjungi meira en "aðgerðaáætlun" embættismanna hljóðaði upp á árið 2010. Þetta er stór og dýr villa við áætlanagerð.
Sú vitlausa áætlun var nefnilega skuldbindandi gagnvart ESB, svo að losun umfram áætlun þarf að greiða kolefnisskatt af. Ef ríkissjóður þarf að greiða fyrir þennan kvóta núgildandi verð í Evrópu, um 5 EUR/t CO2, þýðir það útgjöld vegna heimskulegrar "aðgerðaáætlunar" íslenzkra embættismanna og ráðherra upp á MEUR 1,3 = MISK 150 fyrir árið 2020 og sennilega 3,0 MEUR = MISK 370 vegna áranna á undan, þegar losunin var meiri en samkvæmt áætluninni. Uppsafnaður kolefnisskattur á Íslendinga til ESB fram til 2020 vegna illa kynntrar og illa unninnar áætlunar íslenzkra embættismanna mun nema a.m.k. hálfum milljarði ISK. Þetta nær engri átt, nema fénu verði öllu veitt til landgræðslu á Íslandi til mótvægis.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, er með lausn á takteinum, sem felur í sér "neikvæðan hvata" fyrir kaupendur nýrra bíla til að kaupa jarðefnaeldsneytisknúna bíla. Hann sagði í viðtali við Baldur Arnarson, sem birtist í frétt í Morgunblaðinu 18. júlí 2017 undir fyrirsögninni:
"Loftslagsstefna í hættu":
"Síðasta ríkisstjórn byrjaði á því að lækka skatta á kolefni og gaf þau skilaboð, að ekki stæði til að draga úr umferð [það var verið að koma hjólum atvinnulífsins í gang, eftir að vinstri stjórnin hafði sett skít í tannhjólin með miklum skattahækkunum - innsk. BJo]. Árið 2013 tók bílasala kipp, og hefur hún aukizt síðan. Stór hluti af þeirri aukningu er vegna ferðaþjónustu. Þessi stjórn hefði þurft að hækka gjöld á losun kolefnis frá samgöngum og annarri starfsemi."
Þetta er aðferð vinstri aflanna við neyzlustýringu. Hún er ekki vænleg til árangurs, og hún hefur neikvæð aukaáhrif, eins og hækkun verðlags og dregur úr hagvexti. Hún kemur illa við bíleigendur, sem reka bíl af litlum efnum og ná vart endum saman.
Miklu vænlegra er að fara leið jákvæðra hvata til að kaupa bíla, sem alls engu jarðefnaeldsneyti brenna, þ.e. rafbíla og vetnisbíla. Þegar hafa verið felld niður vörugjöld og virðisaukaskattur á þessi ökutæki. Nú er brýnt að hraða uppsetningu hleðsluaðstöðu rafbíla á bílastæðum í þéttbýli og dreifbýli, einkum við íbúðarhús.
Þegar almenningur metur innviði fyrir umhverfisvæna bíla fullnægjandi fyrir sig, mun hann vafalaust í auknum mæli velja þá frekar en hina, því að rekstrarkostnaður þeirra er allt að 75 % lægri en hinna. Þá þarf að láta kné fylgja kviði og veita skattaafslátt við slík kaup. Er ekki vitlegra að leyfa fólki og fyrirtækjum að draga MISK 1,0-2,0 frá skattskyldum tekjum sínum við kaup á nýjum rafbíl eða vetnisbíl til að flýta fyrir orkuskiptunum en að greiða hundruði milljóna ISK á ári í refsingu til ESB á hverju ári ? Hvað verður eiginlega um allt þetta refsigjald ? Mun vitlegra væri að beina þessu fé til landgræðslu á Íslandi til bindingar á kolefni úr andrúmsloftinu en að senda það í einhverja svikamyllu niðri í Evrópu.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.7.2017 | 10:23
Loksins heyrðist hljóð úr horni
Útgjöld ríkissjóðs til heilbrigðismála á árinu 2016 námu miaISK 171,2 og jukust um miaISK 38,2 frá árinu 2012 eða tæplega 29 % á 4 árum. Þetta var meiri aukning í fjármunum talið en til nokkurs annars málaflokks á snærum ríkissjóðs, þar sem meðalaukningin nam rúmlega 19 % á þessu tímabili, þegar fjármagns -og lífeyrisskuldbindingar og niðurgreiðslur húsnæðisskulda einstaklinga eru frátaldar. Samt þykir sumum ekki nóg að gert, en þá er lausnin ekki að hella enn meira fé í málaflokkinn, heldur að freista þess að draga úr aðsókn með forvarnaraðgerðum og að fá meira fyrir minna.
Hér er einvörðungu um rekstrarkostnað að ræða, en ríkissjóður fjármagnar einnig stofnkostnað sjúkrahúsa, heilsugæzlu, hjúkrunar- og endurhæfingarstofnanir. Þannig er nú í vændum gjörbylting á aðstöðu sjúklinga og starfsfólks LSH, þegar flutt verður í nýtt a.m.k. miaISK 70 húsnæði við Hringbraut í Reykjavík, eigi síðar en árið 2022, og má ekki seinna vera.
Það verður að taka á kostnaðarmynztri heilbrigðisgeirans, ef hann á ekki að vaxa ríkissjóði yfir höfuð, draga úr getu hans til framkvæmda og rekstrar á öðrum mikilvægum sviðum og sliga efnahag þjóðarinnar, svo að hagvöxtur eigi sér ekki viðreisnar von. Þetta er brýnt, því að lífeyrisþegum, bótaþegum hvers konar og sjúklingum fjölgar hraðar en vinnandi fólki, og hraði þeirrar öfugþróunar mun fara vaxandi á næstu árum.
Hér verður aðeins stiklað á stóru, en þrjár ástæður þessarar óheillaþróunar, sem snúa verður ofan af, má nefna:
Öldruðum, 67 ára og eldri, fjölgar meira en tvöfalt hraðar en þjóðinni í heild. Hvert hjúkrunarrými kostar að jafnaði 10 MISK/ár, en kostnaður við heimahjúkrun og félagslega aðstoð heima við nemur aðeins 1/10 af þessu. Það borgar sig vel að setja aukið fé í heimahjúkrun til að gera fleiri gamalmennum kleift að dvelja lengur heima hjá sér, eins og flest þeirra kjósa. Það sparar líka stórfé að byggja fleiri dvalar- og hjúkrunarheimili, svo að þau tæplega hundrað gamalmenni, sem nú eru vistuð með of dýrum hætti á LSH að lokinni læknismeðferð, en teppa sjúkrarúm fyrir þurfandi fólk á biðlistum, geti flutt í hentugt og ódýrara húsnæði. Byggingarsjóður aldraðra er misnotaður, því að 70 % ráðstöfunarfjár hans er nú varið til rekstrar og viðhalds, en allt ráðstöfunarfé hans á og þarf að fara í nýbyggingar.
Heilsufar þjóðarinnar er verra en eðlilegt getur talizt, eins og veikindafjarverur úr vinnu gefa til kynna. Of margir missa heilsuna of fljótt vegna óhollustusamlegs lífernis, rangs mataræðis, ofáts, ofdrykkju og hreyfingarleysis. Þetta blasir víða við, t.d. á endurhæfingarstöðum á borð við Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Ísland, HNLFÍ, í Hveragerði, en sú starfsemi er til stakrar fyrirmyndar og hefur verið frá stofnun, 1955. Þar fá vistmenn innsýn í, hvað hollt mataræði og hollir lifnaðarhættir fela í sér, en því miður er það of seint fyrir marga til að njóta til fullnustu. Það borgar sig að efla lýðheilsu og forvarnir á meðal æskunnar, og það er margt óþarfara kennt í grunnskóla en undirstöðuþættir hollra lífshátta. Þar þarf að hamra á því, að líkaminn er ekki vél, sem hægt er að misbjóða endalaust með ruslfæði, sætindum og vímuefnum, og fara svo með hann á verkstæði til sérfræðinga til viðgerðar, þegar þrekið er farið og ónæmiskerfið veiklað. Þannig gerast einfaldlega ekki kaupin á eyrinni með lífverur. Vítiskvalir og mikið böl bíður þeirra, sem éta sig í hel og hreyfa sig sáralítið. Það ætti ekki að vera nauðsynlegt að skattleggja þá sérstaklega í ofanálag, en það gera þó sumar ríkisstjórnir í fælingarskyni, einnig hér í Evrópu.
Þróun nýrra lyfja verður sífellt dýrari, og lyfjaiðnaðurinn er orðinn gríðarlega umfangsmikill og aðsópsmikill í þjóðfélaginu. Markaðssetning lyfja er að sama skapi markviss og öflug, og margir foreldrar gera þá reginskyssu að hrúga lyfjum í börnin, þegar nauðsynlegt er að efla og þjálfa ónæmiskerfi þeirra með því að ráða niðurlögum sjúkdóma. Inntaka ofnæmislyfja er í mörgum tilvikum óþörf og getur stórskaðað lifrina í börnum, sé hún óhófleg.
Lyfin eru ekki bara blessun, heldur jafnframt bölvun, því að þau hafa flest einhver neikvæð áhrif á líkamann, sum grafalvarleg, en önnur trufla starfsemi hans, þótt þau bæti meinið, og sum þeirra eru ávanabindandi. Lyfjanotkun getur hæglega orðið vítahringur, og um það eru dæmi, að gamlingjar séu komnir með lyfjapakka upp á ein 10 lyf, þar sem eitt á að vinna gegn aukaverkunum annars. Fyrsta lyfið veldur þannig vítahring, og þess vegna þurfa að vera mjög ríkar ástæður fyrir lyfjagjöf. Það er hægt að missa heilsuna með minni misnotkun á líkama og sál en þessu.
Sjúklingar eru reyndar sumir aðgangsharðir við lækna til að fá lyfjaávísun, þótt vafi leiki á um þörfina og gagnsemina, enda eru sum lyf ávanabindandi. Útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins "Lyf og lækningavörur" námu miaISK 20,1 árið 2016. Loksins er verið að taka í notkun sameiginlegan gagnagrunn fyrir landið allt, þar sem Landlæknir o.fl. geta fylgzt með lyfjaávísunum einstakra lækna, og þeir geta skoðað ávísanasögu sjúklinga áður en þeir gefa út lyfseðil. Þetta mun auka aðhaldið. Ef lyfjanotkun á mann á Íslandi minnkar niður í meðaltal hinna Norðurlandanna, munu sparast milljarðar ISK, án þess að heilsufarið versni, nema síður sé.
Sjúkrahúsaþjónusta kostaði ríkissjóð miaISK 70,4 árið 2016 og hafði hækkað um miaISK 15,0 frá árinu 2012 á verðlagi 2016. Bróðurparturinn fer til rekstrar LSH (Landsspítala háskólasjúkrahúss), og þar er þess vegna mikilvægt að bæta stöðugt nýtingu fjármagnsins. LSH er á föstu fjárframlagi úr ríkissjóði, en eðlilegra væri, að hann fengi greiðslur fyrir aðgerðir á hverjum sjúklingi, háð eðli umönnunar og veikindum. Slík einingarverð eru þekkt. Upptaka slíkrar fjármögnunar gerir verkkaupa auðveldara um vik að velja á milli birgja, þjónustuveitendanna, þar sem samkeppni kann að vera fyrir hendi, og hægt er auka kostnaðarvitund veitenda og þiggjenda með þessu móti.
Það mun koma að því, að umræða um fyrirkomulag líknardauða verður meiri hérlendis og annars staðar á Vesturlöndum en verið hefur. Læknavísindin geta í mörgum tilvikum hjálpað sjúklingum við að draga fram lífið, en þegar vitund sjúklings er horfin eða lífið þrautir einar, á líknardauði að vera möguleiki.
Þann 26. júní 2017 skrifuðu 6 læknaprófessorar góða grein í Morgunblaðið um stjórnarhætti og stjórnkerfi LSH. Þau vilja bæta stjórnun spítalans með því að setja yfir forstjórann lýðræðislega valda stjórn. Þar með megi vænta betri starfsanda og aukins sjálfstæðis LSH gagnvart velferðarráðuneytinu. Það er hægt að taka undir málflutning læknanna 6, Björns Rúnars Lúðvíkssonar, Guðmundar Þorgeirssonar, Helgu Ágústu Sigurjónsdóttur, Pálma V. Jónssonar, Sigurðar Guðmundssonar og Steins Jónssonar, í greininni:
"Styrkjum stjórn Landspítala":
"Árangur íslenzkrar heilbrigðisþjónustu hefur verið góður á alþjóðlegan mælikvarða, eins og nýlega kom fram í brezka læknatímaritinu Lancet. Ísland býr að vel menntuðu starfsfólki, sem hefur sótt menntun til fremstu háskólasjúkrahúsa á Vesturlöndum.
Líklegt er, að sameining sérgreina lækninga með stækkun sérdeilda og auknum möguleikum til sérhæfingar eigi þátt í þessum árangri. Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík hefur þannig skilað faglegum árangri.
Lykillinn að enn betri árangri er sameining starfsemi Landspítala í einu húsi, þar sem sérgreinar geta unnið saman með viðunandi hætti og við eðlileg húsnæðisskilyrði."
Hér er mikilsverður vitnisburður á ferðinni um gæði hérlendrar sjúkrahúsþjónustu í samanburði við önnur lönd. Er mat prófessoranna vissulega ánægjuefni í ljósi úrtöluradda um íslenzka heilbrigðiskerfið og eilífra kvartana um fjárskort, þótt málaflokkurinn hafi verið að undanförnu og sé í forgangi hjá fjárveitingarvaldinu. Fjölmörg tækifæri opnast starfsfólki LSH með gríðarlegum fjárfestingum í nýju húsnæði og tækjabúnaði til betri og skilvirkari þjónustu, en það eru einnig tækifæri fólgin í bættu stjórnkerfi LSH, sem prófessorunum er hugleikið í tilvitnaðri grein:
"Sterk stjórn talar máli sjúkrahússins út á við, en beinir einnig áhrifum sínum inn á við og stuðlar að því, að allir lykilþættir starfseminnar njóti sín; þjónusta, menntun og vísindi.
Eftir sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík árið 2000 varð grundvallarbreyting á þessari skipan, en þá færðist öll stjórnunarábyrgð til framkvæmdastjórnar og forstjóra. Síðan þá hafa fagstéttirnar á spítalanum í reynd ekki átt neina beina aðkomu að yfirstjórn spítalans, en öll ákvarðanataka og ábyrgð var færð í hendur forstjóra, sem er ráðinn af heilbrigðisráðherra. Forstjóranum er falið að skipa alla sína næstu stjórnendur í framkvæmdastjórn, sem hefur bæði stefnumótandi, eftirlits-, framkvæmdar- og rekstrarhlutverki að gegna. Undirrituð hafa ekki vitneskju um, að nokkrum forstjóra eða framkvæmdastjórn sé falið svo margþætt og valdamikið hlutverk á háskólasjúkrahúsum í nágrannalöndum okkar."
Það leynir sér ekki í þessum texta, að þykkja og jafnvel beizkja í garð núverandi yfirstjórnar LSH býr í brjósti höfundanna. LSH er stærsta stofnun landsins og fjölmennasti vinnustaður. Þetta stjórnkerfi er einstakt fyrir stór fyrirtæki eða stofnanir og virðist sniðið að þörfum ráðuneytisins um að eiga síðasta orðið um stærstu málin án þess að verða of innblandað í daglegan rekstur. Þetta er meingallað kerfi, sem ber að afnema með lögum. Velferðarráðuneytinu ber að leggja frumvarp fyrir Alþingi um nýja tilhögun, þar sem stjórn er sett yfir LSH, sem yfirtaki stefnumótunar-, eftirlits- og framkvæmdahlutverk (fjárfestingarákvarðanir hjá stjórn, en verkefnastjórnun í höndum annarra, sbr nýbyggingar LSH, og allar fjárveitingar auðvitað í höndum Alþingis) núverandi embættis forstjóra og framkvæmdastjórnar hans, en hjá þeim sitji eftir ábyrgð á rekstri og viðhaldi LSH. Það er ærið hlutverk á svo stórri og viðkvæmri stofnun sem LSH.
Nýja stjórnin ráði forstjórann, sem aftur velur sitt nánasta samstarfsfólk í framkvæmdastjórn og skipar þeim til verka. Það er áreiðanlega ekki vanþörf á þessari breytingu, enda skrifa téðir læknaprófessorar um þörfina þannig:
"Í umfangsmiklum starfsumhverfiskönnunum hefur komið fram mikil almenn óánægja með stjórnkerfi Landspítalans á meðal allra starfsstétta hans. Fagfólkið upplifir sig langt frá stjórnendum og jafnvel forstöðumenn fræðigreina hafa litla aðkomu að stefnumótandi ákvarðanatöku. Því teljum við ljóst, að núverandi stjórnkerfi Landspítala hafi ekki reynzt vel og að brýnna úrbóta sé þörf."
Það er ekki kyn, þó að keraldið leki, þegar svona ambögulegt stjórnkerfi er við lýði. Það þjónar augljóslega ekki sínu hlutverki, og óþarfi að bera brigður á það, sem 6 virtir læknaprófessorar leggja nafn sitt við. Það er sjálfsagt, að skipa Landsspítalanum stjórn með lýðræðislegum hætti um leið og fjármögnun hans verði reist á einingarkostnaði og fjölda eininga, sem inntar eru af hendi á spítalanum af hverju tagi, í stað fasts árlegs framlags, sem aldrei stenzt, því að ómögulegt er að sjá aðsóknina nákvæmlega fyrir.
Tengsl spítalans við velferðarráðuneytið þurfa áfram að vera traust, og þess vegna er eðlilegt, að heilbrigðisráðherra skipi formann stjórnar án tilnefningar.
Í anda vinnustaðalýðræðis væri, að starfsmenn kysu 4 í stjórn, 1 úr hópi lækna, 1 úr hópi hjúkrunarfræðinga og 2 úr starfsmannaráði. Til að tryggja tengsl háskólasjúkrahússins við háskólasamfélagið, þá velji rektor HÍ einn eftir tilnefningu læknadeildar, rektor HR annan með verkfræðimenntun (hátæknisjúkrahús) og rektor HA þann þriðja af lögfræðisviði. Þarna er þá komin 8 manna starfandi stjórn, og sé formaður oddamaður, ef atkvæði falla jöfn. Þessi skipan fellur vel að hugmynd greinarhöfundanna, sem hér er vitnað í:
"Við leggjum til, að æðsta vald innan Landspítala verði í höndum fjölskipaðrar stjórnar með sterkri aðkomu fagstéttanna. Stjórnin hafi eftirfarandi þrjú hlutverk:
(a) að ráða forstjóra
(b) að hafa eftirlit með störfum forstjóra og
(c) að móta heildarstefnu fyrir stofnunina
[Undir heildarstefnu ætti að heyra fjárfestingarstefna LSH, þ.e. forgangsröðun verkefna og tímasetning þeirra í samráði við heilbrigðisráðherra og fjárveitinganefnd Alþingis - innsk. BJo]. Tillaga þessi er í anda góðra stjórnarhátta í rekstri fyrirtækja og stofnana, þar sem áherzla er lögð á aðgreiningu á stefnumótunarvaldi og framkvæmdavaldi."
Samkeppni er holl á öllum sviðum, og er heilbrigðissviðið þar engin undantekning. LSH er og verður risinn á sviði þjónustu við sjúklinga á Íslandi. Enginn getur skaðazt við það, að styttir verði langir biðlistar eftir brýnum aðgerðum. Bið fylgir böl og samfélagslegt tjón. Þess vegna er alveg sjálfsagt að auka fjölbreytni rekstrarforma sjúkrahúsþjónustu að uppfylltum gæðakröfum Landlæknisembættisins. Þetta á t.d. við um Klíníkina Ármúla, en Sjúkratryggingar Íslands hafa þó ekki enn fengið leyfi ráðherra til að semja við þær. Samt hefur verið upplýst, að skattgreiðendur mundu spara 5 % á hverri aðgerð, sem Klíníkinni yrði greitt fyrir m.v. kostnað sömu aðgerðar á LSH og a.m.k. 50 % m.v. kostnað af að senda sjúklinginn í sams konar aðgerð til útlanda, ef hann velur þá leið, sem hann á rétt á eftir 3 mánuði á biðlista. Kostnaðarlega og siðferðislega er þetta ófremdarástand, sem heilbrigðisráðherra getur leyst úr og ber að bæta úr vafningalaust.
Í stað einokunaraðstöðu þurfa stjórnendur LSH nú að fara að sætta sig við samkeppnisstöðu, þótt yfirburðir LSH á markaði heilbrigðisþjónustu á Íslandi verði alltaf miklir. Forstjóri LSH hefur varað við samkeppni af þessu tagi, en hann er auðvitað vanhæfur til að tjá sig um málið, þar sem hann vill ríghalda í einokunarstöðu sinnar stofnunar. Ef nýtt fyrirkomulag við stjórnun LSH sér dagsins ljós, eins og hér hefur verið lýst, mun það verða í verkahring stjórnarformannsins að tjá afstöðu stjórnar LSH til stefnumarkandi þátta, eins og þessa, og það má vænta þess, að þar muni ríkja viðskiptasinnaðri viðhorf til samkeppni en afstaða núverandi forstjóra LSH og reyndar Landlæknis hafa gefið til kynna að undanförnu.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.6.2017 | 15:30
Innviðir í svelti
Íslenzka hagkerfið hefur hrist af sér fjárhagslegar afleiðingar falls fjármálakerfisins fyrir tæpum 9 árum, haustið 2008, og hið nýja fjármálakerfi virðist vera traustara en áður hefur þekkzt á Íslandi og traustara en víða erlendis, nær og fjær.
Jón Daníelsson, prófessor við "London School of Economics", varar jafnvel við of mikilli varfærni og regluviðjum um fjármálafyrirtækin, því að hún dragi úr skilvirkni fjármálakerfisins. Til þess má örugglega flokka hugmyndina um að kljúfa fjárfestingarstarfsemi bankanna frá almennri inn- og útlánastarfsemi. Fjárfestingarstarfsemin er svo lítill þáttur af heildarstarfseminni, að hún er hverfandi áhættuþáttur. Að kljúfa hana frá er þess vegna alger óþarfi og verður ekki til annars en að veikja fjármálastofnanirnar, gera þær óskilvirkari og dýrari í rekstri. Allt það óhagræði bitnar á viðskiptavinum bankanna með hærri umsýslugjöldum og vöxtum. Umræðan ber vitni um forræðishyggju þeirra, sem lítt þekkja til fyrirtækjarekstrar á fjármálamarkaði. Ríkið situr nú uppi með hundruði milljarða ISK bundna í þremur stærstu bönkunum. Það er líklega einsdæmi innan OECD, að ríkið eigi jafnstóran skerf af bankakerfinu og reyndin er hér. Nær væri að setja hluti í bönkunum hægt og rólega á markað, greiða upp skuldir fyrir andvirðið og losa þannig um framvæmdafé hjá ríkissjóði fyrir brýna og arðbæra innviðauppbyggingu.
Íslenzkir innviðir hafa verið sveltir frá og með árinu 2009, svo að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum nemur nú um miaISK 230. Þetta er alvarlegt mál, því að góðir og nægir innviðir fyrir atvinnuvegina eru forsenda hagvaxtar og þar með velferðar. Við höfum undanfarið búið að því, að á árunum 1990-2008 nam árleg nýfjárfesting í innviðum um 5,5 % af VLF (vergri landsframleiðslu) að jafnaði, og þetta hlutfall að staðaldri er talið geta viðhaldið 2,5 %-3,0 % hagvexti hérlendis, þ.e.a.s. innviðafjárfesting er að öðru jöfnu mjög arðsöm og getur ein og sér knúið framleiðniaukningu og aukningu landsframleiðslunnar, sem nemur helmingi fjárfestingarinnar. Til innviða í þessum skilningi eru taldar hafnir, flugvellir, vegir, brýr, jarðgöng, flutningskerfi raforku, ljósleiðaralagnir, sjúkrahús og skólar.
Þar sem Ísland er strjálbýlt með aðeins 3,3 íbúa/km2, á pari við Kanada, en t.d. Bretland og Þýzkaland eru með 70-80 sinnum fleiri íbúa á flatareiningu, þá verður kostnaður á íbúa miklu hærri við innviðauppbyggingu hérlendis en annars staðar í Evrópu. Þó að landsframleiðsla á mann á Íslandi sé á meðal þess hæsta, sem gerist innan OECD, þá fer samt ekki hjá því, að landsmenn verði að verja hærra hlutfalli af VLF til innviðafjárfestinga en aðrir innan OECD til að framkalla sama hagvöxt.
Hagfræðingar OECD telja nauðsynlegt miðgildi innviðafjárfestingar í löndum samtakanna sé 4,1 % af VLF til að framkalla 2,5 % - 3,0 % hagvöxt. Bæði innviðafjárfesting og hagvöxtur hafa minnkað á tímabilinu 1990-2016 innan OECD. Þannig nam fjárfesting í innviðum innan OECD 5,0 % af VLF árið 1990, en hafði helmingazt árið 2016. Þetta er ávísun á afar lágan hagvöxt á næstu árum og hrörnun samfélaganna, þ.e. að fjármunastofn innviða skreppi saman, enda hafa hagfræðingar OECD komizt að þeirri niðurstöðu, að fjárfestingarþörfin nemi þar nú yfirleitt 4,1 % af VLF á ári, en á Íslandi er þetta hlutfall talið þurfa að vera 5,5 % til að viðhalda hagvexti, sem tryggir fullt atvinnustig, þ.e. atvinnuleysi undir 3,0 % af fjölda á vinnumarkaði að meðaltali yfir árið. Þetta jafngildir árlegri innviðafjárfestingu hérlendis a.m.k. miaISK 130, en árið 2016 nam hún aðeins 3,8 % af VLF eða um miaISK 90. Þá er uppsafnaða þörfin ekki talin með.
Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, þurfa sem sagt að bæta um 40 miaISK/ár við fjárfestingarnar í fyrra, og eftir því sem skuldabyrði og vaxtakostnaður þessara aðila lækkar og skattstofnar stækka, verður raunhæfara að ná því marki án þess að auka skattheimtuna eða að gefa út skuldabréf. Þá stendur hins vegar eftir uppsafnaði stabbinn upp á miaISK 230, sem æskilegt er að vinna upp innan næstu 8 ára eða tæplega 30 miaISK/ár.
Hvernig er bezt að leysa þetta ? Um það ritaði Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá GAMMA Capital Management, í Markað Fréttablaðsins, 14. júní 2017,
"Innviðafjárfesting á Íslandi í lágmarki":
"Eina ástæðu fyrir takmörkuðum fjárfestingum opinberra aðila í hefðbundnum innviðafjárfestingum má rekja til sívaxandi útgjalda til heilbrigðismála, menntamála og félagsþjónustu. Til að fjármagna aukna fjárfestingu í innviðum geta stjórnvöld hækkað skatta og aukið útgáfu ríkisskuldabréfa [leið Katrínar Jakobsdóttur og félaga - innsk. BJo], en þá að sama skapi átt það á hættu að lækka í lánshæfi [sem hækkar vaxtakostnað ríkissjóðs, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga - innsk. BJo].
Stjórnvöld hafa hins vegar einnig leitað nýrra leiða til uppbyggingar innviða með aðkomu einkaaðila. Markmiðið með því er að draga úr ríkisskuldum og hallarekstri, flýta uppbyggingu þjóðhagslega arðbærra verkefna, auka kostnaðarþátttöku þeirra, sem nýta opinbera þjónustu, og nýta almennt kosti einkaframtaks.
Við ákveðnar kringumstæður er einkaframkvæmd talin vera hagkvæmur kostur, og er þá helzt horft til, hversu mikil áhætta fylgir framkvæmdinni, hvort einkaaðili búi yfir meiri færni en opinberir aðilar, eða hvort einkaaðili geti náð fram samlegðaráhrifum með annarri starfsemi sinni.
Einkaframkvæmd fylgja lægri útgjöld í upphafi fyrir ríkið, og kostnaður dreifist yfir lengra tímabil.
Mótrök gegn aðkomu einkaaðila að innviðafjárfestingum er, að fjármagnskostnaður sé að jafnaði hærri en hjá opinberum aðilum. Hins vegar má ætla, að sá munur minnki, ef opinberir aðilar skuldsetja sig fyrir öllum þessum verkefnum, því að þá kemur að því, að lánshæfi þeirra lækkar, sem leiðir til þess, að fjármagnskostnaður opinberra aðila hækkar."
Við aðstæður, eins og nú eru uppi, þar sem þörfin fyrir nýja innviði hefur hrúgazt upp, er alveg borðleggjandi að selja ríkiseignir og fara einnig leið einkaframkvæmdar. Þetta á t.d. við um samgönguleiðirnar að höfuðborgarsvæðinu, Sundabraut, Reykjanesbraut og leiðina austur fyrir fjall að Selfossi ásamt nýjum Hvalfjarðargöngum. Einnig næstu jarðgöng gegnum fjall. Það má koma gjaldtökunni þannig fyrir, að aðeins þurfi að hægja ferðina á meðan samskipti fara sjálfvirkt fram á milli aðgangskorts í bíl og lesara í vegtollsstöð. Með þessu móti munu tæplega 25´000 bílaleigubílar, sem aka svipað og 36´000 aðrir bílar landsmanna á ári eða 15 % fólksbílafjöldans, létta undir við þessa nauðsynlegu innviðafjármögnun.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2017 | 20:17
Lestarstjórar á hliðarspori
Þeir, sem halda því fram, að járnbrautarlest á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar (FLR) og Umferðarmiðstöðvarinnar (UMS) í Vatnsmýri geti í fyrirsjáanlegri framtíð orðið arðbær, vaða reyk, og þeir eru á villigötum bæði varðandi kostnað verkefnisins og tekjur af lestinni. Kveður svo rammt að þessu, að afskrifa þyrfti meira en 60 % kostnaðarins við verklok, svo að reksturinn stæði undir öllum kostnaði m.v. 9,0 %/ár ávöxtunarkröfu fjármagns, sem bundið er í þessu verkefni. Það eru alls engin þjóðhagsleg eða umhverfisleg rök fyrir svo fráleitum gerningi, sem að öllum líkindum væri þá afskrifaður á kostnað skattborgaranna, eins og rakið er í lok þessa pistils.
Hér er um að ræða "offjárfestingu dauðans", því að megnið af leið lestarinnar liggur hún samhliða vegi, sem mun geta flutt 100´000 manns á sólarhring, þegar hann hefur verið tvöfaldaður alla leið og tengdur gatnakerfi allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, nema Seltjarnarness, með mislægum gatnamótum við stofnæðar. Þetta þarf að framkvæma sem fyrst af öryggisástæðum, t.d. vegna mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna á bílaleigubílum og kostar smáræði m.v. lestarkostnaðinn.
Umferðarþunginn á Reykjanesbraut frá Njarðvíkum til Hafnarfjarðarfjarðar (2x2 brautir) um þessar mundir er að jafnaði vel innan við fimmtungur af flutningsgetu vegarins, og er nauðsynlegt að vinda bráðan bug að 2x2 braut alla leið. Ef þessi flutningsgeta verður einhvern tíma fullnýtt, þá er hægurinn á að bæta við akrein í sitt hvora átt fyrir kostnað, sem nemur rúmlega tíunda hluta lestarkostnaðarins.
"Lestarstjórarnir" (fluglestarfélagið) áætla, að flutningsgeta lestarinnar muni verða um 10´000 farþegar á sólarhring. Að leggja út í gríðarlega fjárfestingu, miaISK 175, til að bæta 10 % við flutningsgetu, þar sem nýtingin er nú minni en 20 %, er það, sem átt er við með "offjárfestingu dauðans" í þessu sambandi. Hvernig stendur á því, að stjórnmálamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega, ljá máls á, að viðkomandi sveitarfélög taki þátt í að undirbúa þessa endileysu ?
Forsvarsmaður undirbúningsfélags "fluglestarinnar" hefur upplýst, að farmiði með lestinni muni kosta ISK 5000 aðra leið. Farþeginn borgar þá 100 ISK/km, en til samanburðar nemur rekstrarkostnaður rafmagnsbíls (orka, viðhald, tryggingar, opinber gjöld) um 6,0 kr/km. Það eru einmitt rafmagnsbílar, sem lestin mun þurfa að keppa við, bílaleigubílar, rútur, leigubílar og einkabílar.
Lestin getur ekki keppt á tíma, þótt hún verði einungis 20 mín í förum, nema við rúturnar, vegna biðtíma á endastöðvunum og millibiðstöðvum, og ferðatíma að og frá þeim öllum, nema flugstöðinni. Hún mun heldur ekki geta keppt á verði, eins og kom fram hér að ofan.
Járnbrautarlest á milli FLR og UMS hefur ekkert samkeppnisforskot. Hvernig á hún þá að ryðja sér til rúms á markaðinum ?
Jónas Elíasson, prófessor emeritus og áhugamaður um betri borg, ritaði fróðlega grein í Morgunblaðið 19. júní 2017, um þessa járnbrautarlest, og þar er hann ómyrkur í máli um þetta gæluverkefni. Fyrirsögn greinarinnar var,
"Illa grundað gæluverkefni":
Um kostnaðaráætlun verkefnisins reit hann eftirfarandi:
"Einnig upplýsti forsvarsmaðurinn [fluglestarfélagsins í útvarpsviðtali - innsk. BJo], að engar rannsóknir hefðu farið fram vegna 12 km af jarðgöngum, sem gert er ráð fyrir frá Straumsvík inn á BSÍ. Reyndar er heill hellingur af rannsóknum til, en sem dæmi þá er vitað, að grunnberg í Straumsvík er á 20 m dýpi. Ofan á því liggja míglek hraun og Reykjavíkurgrágrýti, og það er því nokkuð ljóst, að áætlun félagsins upp á 100 milljarða fær vart staðizt. Um 150-200 milljarðar eru nær lagi."
Í arðsemisútreikningum blekbónda, sem raktir verða hér að neðan, er farið bil beggja og reiknað með stofnkostnaðinum A=miaISK 175.
Gert er ráð fyrir viðhaldskostnaði, VHA=miaISK 1,0, starfsmannakostnaði, STA=miaISK 1,0 og orkukostnaði, ORK=miaISK 0,2. Alls verður þá árlegur rekstrarkostnaður, B=miaISK 2,2, sem er lágmark til þessara þarfa.
Verkefnið er áhættusamt, og þess vegna má reikna með, að fjárfestar sætti sig ekki við minni ávöxtun en 9,0 % á ári. Einhvern tímann nefndi forsvarsmaður undirbúningsfélags fluglestarinnar reyndar, að hún mundi skila 15 % ávöxtun.
Eimreið og vagnar endast e.t.v. í 15 ár, spor í 40 ár og jarðgöng í 60 ár án verulegs viðhalds. Á þessum grunni er valinn afskriftatími verkefnisins 40 ár.
Með núvirðisreikningum má finna út, að árlegur fjármagnskostnaður verkefnisins, KF=miaISK 16,3, og árlegur rekstrarkostnaður er samkvæmt ofangreindu a.m.k., B=miaISK 2,2. Þetta saman lagt gefur heildarkostnað af verkefninu á ári: K=miaISK 18,5.
Þá er auðvitað næsta spurning, hvort árlegar tekjur af járnbrautarlestinni muni hrökkva fyrir þessum kostnaði. Áætlanir "lestarstjóranna" munu snúast um að flytja 10´000 manns á sólarhring fyrir 5000 kr/mann að jafnaði. Gangi þessi ofurbjartsýnisspá eftir, þá gengur dæmið upp, því að árlegar tekjur munu þá nema: T=10k x 5 kISK x 0,365k = miaISK 18,3.
Það er hins vegar nánast alveg útilokað, að járnbrautarlestin hreppi svona stóran skerf af heildarfarþegafjöldanum á milli FLR og höfuðborgarsvæðisins, sem m.v. 3,0 M erlenda ferðamenn, 1,0 M innlenda ferðamenn (í báðar áttir) og 10 % íbúa Reykjanesbæjar og nágrennis í förum til vinnu eða skóla eru tæplega 8,0 M/ár eða tæplega 22 k á sólarhring að meðaltali.
Meginástæðan fyrir því, að nánast útilokað er, að lestin hreppi 10/22=0,45=45 % heildarfarþegafjöldans, er sívaxandi notkun erlendra ferðamanna á bílaleigubílum. Þegar þeir verða rafvæddir (drægni rafbíla á einni rafgeymahleðslu er nú þegar meiri en meðalakstursvegalengd erlendra ferðamanna á dag), þá verður orkukostnaður þeirra aðeins 1/3 af núverandi eldsneytiskostnaði, og verðið á rafmagnsbílum er að verða svipað og á sambærilegum eldsneytisbílum vegna niðurfellingar ríkissjóðs á vörugjöldum og virðisaukaskatti og sívaxandi framleiðslufjölda rafmagnsbílanna.
Þann 17. marz 2017 birtist í Morgunblaðinu frétt undir fyrirsögninni, "Stóraukin notkun bílaleigubíla".
Þar var vitnað í skýrsluna "Akstur og öryggi erlendra ferðamanna 2016", sem fyrirtækið "Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf" samdi með tilstyrk Rannsóknarsjóðs Vegagerðarinnar.
"Áætlað er, að árið 2016 hafi um 960 þúsund erlendir ferðamenn nýtt sér bílaleigubíla á Íslandi (56 % gestanna) samanborið við um 480 þúsund árið 2014 (48 %) og 166 þúsund árið 2009 (33 %)."
Af þessu sést, að það er stígandi í hlutfalli erlendra ferðamanna, sem skiptir við bílaleigurnar. Þetta hlutfall stefnir vel yfir 60 %, og hér verður gert ráð fyrir, að 60 % erlendra ferðamanna leigi sér bíl í FLR og skili honum þar, og 20 % þeirra noti aðra ferðamáta en bílaleigubíl og lest. Þannig verður hlutdeild lestarinnar í flutningum erlendra ferðamanna úr og að FLR aðeins 20 %, sem er innan við helmingur þess, sem "Fluglestin-þróunarfélag" hefur gefið út.
Þá verður gert ráð fyrir, að sem svarar 5 % íbúa í Reykjanesbæ taki lestina 200 daga á ári og 50 þúsund íslenzkir ferðamenn taki hana fram og til baka á ári.
M.v. 3,0 M erlendra ferðamanna verður farþegafjöldinn með fluglestinni samkvæmt þessu: FÞF=4700 manns/ár.
Þetta er innan við helmingur þess farþegafjölda, sem lestarstjórarnir reikna með, og með meðalmiðaverði ISK 5000 verða árlegar tekjur 8,5 miaISK/ár.
Árlegur kostnaður er sem sagt ríflega tvöfaldar árlegar tekjur í þessu dæmi. Hér hefur þó kostnaður sízt verið ofáætlaður og tekjurnar ekki verið vanáætlaðar, nema síður sé. Fluglestarhugmyndin er annarleg og sem viðskiptahugmynd hreint glapræði, sem opinberir aðilar á Íslandi, ríki og sveitarfélög, verða að halda sig frá, þótt a.m.k. sum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hafi hug á að tengja hugarfóstur vissra stjórnmálamanna þar, Borgarlínuna, við Fluglestina. Hvað hefur Jónas Elíasson að segja um þessi mál ?:
"Í þeim borgum, sem lestir eru reknar, er það undantekningarlaust vegna þess, að vegasamgöngur hafa ekki undan. Vegir anna með öðrum orðum ekki einir sér þeim fjölda fólks, sem þarf til að komast inn í London, París, Tokyo, New York og Kaupmannahöfn, svo að algeng dæmi séu nefnd. Engum slíkum rökum er þó hér til að dreifa. Vegirnir í Reykjavík hafa þrátt fyrir allt við, og tiltölulega litlu þyrfti að kosta til, svo að umferð á höfuðborgarsvæðinu komist í gott lag.
Næsta mannsaldurinn eða svo (rúmlega 30 ár) er búizt við 70 þúsund manna fjölgun á höfuðborgarsvæðinu. Mannfjöldinn verður þar samt um eða undir kvartmilljón, sem er fátt m.v. mannfjöldann í ofangreindum borgum og færra en alls staðar, þar sem talið hefur verið nauðsynlegt að létta á vegumferð með járnbrautarlest. Járnbrautarlest til að tengja höfuðborgarsvæðið við stærsta alþjóðaflugvöll landsins er þess vegna verkefni án fordæma erlendis frá að teknu tilliti til aðstæðna. Þetta er sérvizkugrilla, sem ekki er reist á raunverulegri þörf eða vandaðri þarfagreiningu.
Mislægu gatnamótin, sem nú er verið að byggja á mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar í Hafnarfirði kosta "aðeins" miaISK 1,2. Það þarf að byggja allt að 10 slík mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu og fjölga akreinum á stofnæðum til að greiða úr umferðarhnútunum. Slík fjárfesting fyrir e.t.v. miaISK 25 leysir umferðarvandann fyrir einvörðungu þriðjung af kostnaði við Borgarlínu, sem þó mun alls engan vanda leysa.
"Svo virðist sem gylliboð um erlent fjármagn hafi sannfært ráðherrann og sýnt honum fram á, að ríkissjóður væri þar með úr allri hættu. Það er reyndar á töluverðum misskilningi byggt. Með hliðsjón af þeim neikvæða hagnaði (tapi), sem lestarreksturinn stefnir að óbreyttu í, er afar ólíklegt, að fjárfestar komi að málinu öðruvísi en með því skilyrði, að ríki og borg ábyrgist eins og 50-100 milljarða króna lán[reyndar líklega 60%x175miaISK = miaISK 105 - innsk. BJo] til einkahlutafélags, sem byggja á lestina. Fjárfestar, og alls ekki erlendir, eru ekki þekktir að því að hætta eigin fjármagni í framkvæmdir með litla sem enga hagnaðarvon.
Að umsömdum byggingartíma liðnum, þegar hin gamalkunnuga Vaðlaheiðarstaða verður komin upp með öllum sínum forsendubrestum, hvaða tryggingu hafa skattgreiðendur fyrir því, að fjárfestarnir verði ekki farnir og fjármagnið með; að ríki og borg sitji ekki eftir með lestarrekstur í fanginu ?
Að erlendir fjárfestar taki fjárhagslega ábyrgð á umræddri lest með eigin peningum - menn geta rólega gleymt því. Það er því harla ólíklegt, að einkahlutafélag sveitarfélaga fái svo mikið sem krónu af innviðagjaldi í svona lestarrekstur, jafnvel þó að gjaldið verði sett á (sem verður þó vonandi ekki), enda er málið tóm vitleysa frá upphafi, sprottið upp af óstjórninni í Reykjavík."
Hugmynd um að leggja járnbrautarteina á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Umferðarmiðstöðvarinnar er afspyrnu léleg viðskiptahugmynd, sem stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og vitnar um meira en litla veruleikafirringu. Þegar mun hafa verið varið MISK 200 til skýrsluskrifa, sem ætlað er að tæla einfalda stjórnmálamenn og aðra auðtrúa til fylgilags við fluglestina. Hver hefur verið svo ábyrgðarlaus að ljá máls á þessum blekkingum ? Eru það sveitarstjórnarmenn ? Jónas Elíasson heldur því fram, að þetta vitlausa mál sé "sprottið upp af óstjórninni í Reykjavík". Þar eru menn, eins og þeir eru, gaddfreðnir á lestarspori til heljar, en í öðrum sveitarfélögum ættu menn ekki að láta hafa sig að ginningarfíflum með því að veita fluglestarfélaginu ádrátt um að taka frá verðmætt land undir teina og biðstöðvar, sem að öllum líkindum aldrei munu verða að veruleika.
Nýjustu fregnir herma þó, að undirbúningur að "Lava Express" sé að komast á flugstig að tilstuðlan viðkomandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Þannig birtist kortskreytt frétt af legu jarðganganna eftir Baldur Arnarson í Morgunblaðinu á Jónsmessunni, 24. júní 2017, undir hinni ískyggilegu fyrirsögn:
"Nýr kafli að hefjast í þróun fluglestar":
"Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu [SSH] og Fluglestin - þróunarfélag hafa gert með sér samstarfssamning um þróun skipulagsmála vegna hraðlestar, sem ætlað er að tengja saman Keflavíkurflugvöll og höfuðborgarsvæðið. Hann bíður nú samþykkis sveitarfélaga."
Íbúar eiga heimtingu á því að fá að vita, hvað hér er verið að bralla. Er þessu ævintýrafélagi, Fluglestinni - þróunarfélagi, veittur ádráttur um að taka dýrmætt land frá undir gríðarlegan hávaðavald meðfram ströndinni á Suðurnesjum í samningum þess við sveitarfélög þar og land fyrir biðstöðvar og op niður í lestargöngin í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og Reykjavík ? Af fréttum að dæma eru yfirvöld einum um of leiðitöm; sumir mundu jafnvel kveða svo rammt að orði, að þau láti ævintýramenn teyma sig á asnaeyrunum. Ef þessi sömu sveitarfélög ætla að samþykkja að taka þátt í fjármögnun undirbúningsfélags, sem á að fá miaISK 1,5 til ráðstöfunar í rannsóknir, umhverfismat og frumhönnun, þá er of langt gengið, og munu þá væntanlega margir kjósendur sýna hug sinn í verki á vori komanda.
Í fréttinni var þetta haft eftir Runólfi Ágústssyni, framkvæmdastjóra Fluglestarinnar - þróunarfélags um nýgerðan samning á milli félags hans og SSH:
"Runólfur segir samninginn mikinn áfanga. "Þetta hefur þá þýðingu, að við getum farið í næsta fasa, og farið að fjármagna hann, sem eru skipulagsmál, mat á umhverfisáhrifum, frumhönnun og rannsóknir, sérstaklega á berglögum í gangastæðinu. Þessi fasi kostar í heild 1,5 milljarða [ISK] og tekur 3 ár. Við stefnum á að fjármagna þennan pakka í haust.""
Það væri synd að segja, að þær sveitarstjórnir og hugsanlega aðrir stjórnmálamenn, sem við þessa fluglest eru riðnir, hafi ekki verið varaðir rækilega við. Allur kostnaður, beinn og óbeinn, sem af þessum skýjaborgum hlýzt, mun fara í súginn. Í þeim tilvikum, að um skattfé verði að ræða, verða viðkomandi stjórnmálamenn látnir standa umbjóðendum sínum reikningsskil gerða sinna.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.6.2017 | 17:32
Borgin er að sökkva í skuldafen
Samkvæmt ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2016 nema heildarskuldir borgarinnar af eigin rekstri og hjá dótturfyrirtækjum miaISK 290, og er þetta 187 % af heildartekjum sömu aðila.
Í 64. grein Sveitarstjórnarlaga segir, að skuldir og skuldbindingar sveitarstjórnar, kjarna og dótturfyrirtækja, skuli vera innan við 150 % af tekjum samstæðunnar. Hjá Reykjavík er þetta hlutfall 187 %. Það er með öðrum orðum búið að kollsigla fjárhag borgarinnar, svo að við blasir að skipa henni tilsjónarmann. Einhvern tíma hefði það þótt saga til næsta bæjar, ef fjármálastjórnun höfuðborgarinnar væri með þeim endemum, að hún stefndi í að verða svipt fjárhagslegu sjálfstæði sínu. Nú eru hins vegar nýir tímar með endemis búskussa við völd í Reykjavík.
Skuldir kjarnans (A-hluta) nema miaISK 84 og fara vaxandi í bullandi góðæri. Það sýnir, að rekstur borgarinnar er ósjálfbær, en í lögum segir, að rekstur heildar, A og B hluta, skuli á hverju þriggja ára skeiði vera réttum megin við núllið. Aðalfyrirtæki B-hluta er Orkuveita Reykjavíkur, OR, með sín dótturfyrirtæki, ON og Veitur. Þar hefur loksins tekizt að bjarga orkusamstæðu frá greiðsluþroti með því að láta borgarana, notendur þjónustu OR, borga brúsann af röngum fjárfestingarákvörðunum á tímum R-listans og mjög áhættusömum samningum um raforkusölu til stóriðju frá jarðgufuorkuveri á fallandi fæti, þ.e. orkuveri með mjög háum rekstrarkostnaði vegna mikillar viðhaldsþarfar af völdum tæringa, útfellinga, og gufuöflunar. Aðrir viðskiptavinir ON en viðkomandi stóriðja eru látnir gjalda fyrir sífellda nýja orkuöflun í stað minnkandi afkasta á meðan orkusamningur til þessarar stóriðju tekur ekkert tillit til viðbótar kostnaðar vegna oflestunar á jarðgufuforða Hellisheiðarvirkjunar.
Hafa almennir notendur hins vegar mátt axla um 50 % gjaldskrárhækkun síðan árið 2010, sem er um 25 % umfram hækkun neyzluverðsvísitölu. Eru nú jafnvel boðaðar arðgreiðslur til borgarinnar frá OR, og er það til að bíta höfuðið af skömminni. Það nær auðvitað engri átt, og væri OR öllu nær að skila verðhækkunum umfram vísitölu til baka til neytenda. Fyrirtækið er áfram lágt metið af matsfyrirtækjum, og ákvað eitt þeirra, Moody´s, 15. júní 2017, að halda lánshæfiseinkunn óbreyttri, Ba2, sem er óvenjulega léleg einkunn til orkusamstæðu.
Það er þess vegna allsendis undir hælinn lagt, að Reykjavík takist að sleppa undir 150 % mark sveitarstjórnarlaga fyrir 2023, en þá fellur úr gildi undanþága í lögum um þessi mörk til sveitarfélaga, sem eiga orkufyrirtæki.
Vegna bágborinnar skuldastöðu Reykjavíkur hefur borgin ekki efni á neinum stórframkvæmdum, allra sízt algerlega óarðbærum, dýrum framkvæmdum á borð við Borgarlínuna, sem í fyrsta áfanga er áætlað, að kosta muni miaISK 22 og að lokum miaISK 70, en sá kostnaður fer yfir miaISK 100, ef að líkum lætur með gæluverkefni stjórnmálamanna, sem engin spurn er eftir á meðal notenda. Framtíð Borgarlínu veltur þess vegna alfarið á því, hvort Alþingi samþykkir Borgarlínu inn á Samgönguáætlun ríkisins, en þar er barizt um hvern bita, og það væri glórulaust athæfi að forgangsraða ríkisfjármunum í þágu gæluverkefnis, sem ætlað er að leysa umferðarvanda, sem miklu raunhæfara er að bregðast við í þágu allra vegfarenda á höfuðborgarsvæðinu með gerð mislægra gatnamóta og fjölgun akreina á stofnæðum þéttbýlisins fyrir mun lægri upphæð en nemur kostnaði við Borgarlínuna.
Jónas Elíasson, prófessor emeritus, vakti máls á grafalvarlegri fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar með grein í Morgunblaðinu, 13. júní 2017,
"Óstjórn í Reykjavík",
sem lauk með þessum orðum:
"Bjarga má fjármálum venjulegra bæjarfélaga með góðum vilja og samningum við lánadrottna, en 380 milljarða króna skuld Reykjavíkurborgar [mismunur 380 og 290 miaISK er e.t.v. vegna ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga Reykjavíkurborgar - innsk. BJo] verður vart bjargað með slíkum hætti. Til að svo megi verða, þarf þjóðarátak. Skuldastaða Reykjavíkur er þjóðhættuleg.
Hér er svo líklega skýringin komin á því, hve hægt gengur að viðhalda götum, að engar marktækar framkvæmdir eru í samgöngum og lagnakerfum eða þróun nýrra byggingarsvæða, svo að fátt eitt sé nefnt um stöðnun höfuðborgarinnar á flestum sviðum verklegra framkvæmda. Þetta er kannski einnig skýringin á því, að pótintátar borgarinnar tala um fátt annað en umhverfisvæna hjólreiðastíga eða álíka gæluverkefni, verkefni, sem þeir vita, sem vilja, að leysir ekki umferðar- og skipulagsvanda borgarinnar - hvorki í bráð né langd - en eru þeim óneitanlega kosti búin að kosta lítið í samanburði við allar þær framkvæmdir, sem æpandi þörf er á.
Á sama tíma er skuldahamarinn á leiðinni niður, og við því verður væntanlega að bregðast ?"
Það er búið að keyra höfuðborgina í fjárhagslegt fúafen, og núverandi valdhafar þar hafa hvorki getu né vilja til að draga hana þaðan upp. Til þess þarf nýja vendi í valdastólana, sem hafa bein í nefinu til að gera uppskurð á stjórnkerfi borgarinnar til að gera það bæði skilvirkara og ódýrara. Jafnframt þarf að auka tekjur borgarinnar enn meir með því að bjóða upp á mikla fjölbreytni lóða, og umfram allt að auka heildarlóðaframboð á sanngjörnu verði, þ.e. sem næst upphafskostnaði við innviði til að þjóna nýjum húsbyggjendum. Með þessum hætti mun skattstofn borgarinnar vaxa meira en ella. Þá misheppnuðu stefnu að láta allt snúast um þéttingu byggðar, svo að almenningssamgöngur verði raunhæfur valkostur fyrir fleiri en nú, verður að leggja fyrir róða.
Staðan er orðin grafalvarleg, þegar prófessor emeritus við Verkfræðideild HÍ kallar hana þjóðhættulega.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
19.6.2017 | 10:40
Borgarlína bætir ekki úr skák
Hugmyndafræðin að baki Borgarlínu er reist á sandi, og efniviðurinn í henni stenzt illa tímans tönn. Það er með öðrum orðum veruleg fjárfestingaráhætta fólgin í Borgarlínu, sem ber að vara sterklega við. Hugmyndin er reist á óskhyggju, sem mun rýra lífskjör og lífsgæði allra landsmanna, mest þó íbúa höfuðborgarsvæðisins. Ástæðan er sú, að ætlunin er að leggja út í mjög mikla fjárfestingu eða um miaISK 70 á tæplega 60 km löngum vegi, sem hæglega getur orðið miklu dýrari. Vegurinn verður ætlaður til forgangsaksturs um 30 m langra rafknúinna langvagna, sem er mjög hætt við, að verði illa nýttur, og þessi vegur, Borgarlína, mun óhjákvæmilega þrengja að almennri bílaumferð, sem alls ekki má við slíku, og sjúga til sín fjármagn, sem kæmi sér mun betur fyrir almenning að nýta til að auka flutningsgetu núverandi vegakerfis með uppsetningu nokkurra vel valinna mislægra gatnamóta og fjölgun akreina á höfuðborgarsvæðinu.
Árið 2009 var gert óþurftarsamkomulag á milli ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, sem standa að Strætó BS samlagsfélagi, um, að ríkissjóður legði samlagsfélaginu árlega til einn milljarð króna, miaISK 1,0, til uppbyggingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2018 gegn því, að Vegagerðin þyrfti ekki að leggja neitt fé að mörkum til nýrra umferðarmannvirkja á borð við mislæg gatnamót og fjölgun akreina á stofnæðum.
Þetta var óþurftarsamkomulag vegna þess, að það hafði í för með sér afar óhagkvæma ráðstöfun almannafjár, sem margfalt hagkvæmara hefði verið að ráðstafa til að greiða för almennrar umferðar með því að auka flutningsgetu lykilæða.
Árið 2009 er talið, að 4 % af ferðum hafi verið með almenningsvögnum og að þetta hlutfall sé núna 5 %, en markmiðið er 8 % árið 2018, sem fyrirsjáanlega næst ekki. Yfirgengilegur fjáraustur til almenningssamgangna hefur sáralítilli farþegaaukningu skilað, og þrátt fyrir ýmiss konar þvingunarráðstafanir að hálfu borgaryfirvalda á borð við þrengingu gatna og fækkun bílastæða í grennd við Borgarlínuna, eru sáralitlar líkur á, að aukningin muni verða meiri en 1 % í stað 7 %, þ.e. 20 % fjölgun farþega, með Borgarlínu, svo að markmiðið um 12 %, eða meira en tvöföldun farþegafjölda með strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu, árið 2040 mun að öllum líkindum ekki nást vegna aðstæðna á Íslandi, erfiðari og tímafrekari ferðamáta með strætó auk sívaxandi bílaeignar almennings og lægri rekstrarkostnaðar bíla í tímans rás, t.d. með orkuskiptum.
Þá sitjum við uppi með stórtap á fjárfestingu, sem líklega verður yfir miaISK 100, ef af verður, og 94 % ferðanna verður með einkabílum, sem Borgarlínan hefur þrengt hræðilega að bæði rýmislega og fjárhagslega, því að hún verður plássfrek og fjársveltir allar aðrar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og víðar.
Helga Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs þar, skrifaði fróðlega grein í Morgunblaðið 27. maí 2017, sem hún nefndi:
"Mun Borgarlína fjölga farþegum Strætó ?:
"Ávinningurinn af Borgarlínunni, ef vel tekst til, ætti að koma fram í sparnaði á fjárfrekum framkvæmdum við aðra samgöngukosti, en þennan ávinning þarf að sýna, þannig að verkefnið fái þann almenna stuðning, sem sótzt er eftir af þeim aðilum, sem hafa borið hitann og þungann af undirbúningi þess. "
"Aðrir samgöngukostir" hafa nú verið sveltir í 8 ár í tilraun til að efla almenningssamgöngur. 95 % fólks á ferðinni hefur orðið fyrir barðinu á því með árlegri lengingu farartíma á virkum dögum. Það er að öllum líkindum ranglega verið að gefa sér, að Borgarlínan fækki fólki í bílum úr 95 % í 88 % af heild árið 2040, en á þessu 23 ára tímabili mun íbúum fjölga um meira en 30 %, ef að líkum lætur. Að teknu tilliti til uppsafnaðrar þarfar í innviðauppbyggingu samgöngukerfisins er mjög óráðlegt núna að reikna með nokkrum einasta sparnaði vegna Borgarlínu. Það er nóg komið af þessari sérvizkulegu forgangsröðun.
Þegar í stað ber að leggja á hilluna öll áform um forgangsakreinar fyrir Strætó, en þess í stað beina fjármagni í að leysa úr umferðarhnútum allrar umferðar, líka strætó, með viðbótar akreinum og nýjum mislægum gatnamótum. Það er ódýr lausn á umferðarvandanum m.v. Borgarlínu, og slík fjárfesting mun nýtast allri umferðinni í stað lítils hluta hennar.
Það er ekki nóg með, að Borgarlína feli í sér stórfellt bruðl með skattfé í verkefni, sem mun nýtast fáum og há mörgum, heldur hefur borið á þeim skoðunum, að um þær mundir, er hún verður tilbúin fyrir miaISK 70 - 150, þá verði hún úrlelt orðin. Þá skoðun lét t.d. Elías Elíasson, verkfræðingur, í ljós í Morgunblaðinu 13. júní 2017 í greininni,
"Ó, þétta borg". Greinin hófst þannig:
"Draumar um, að almenningssamgöngur í Reykjavík gætu verið svona nokkurn veginn sjálfbært fyrirbæri, eru býsna gamlir og hafa breytzt í áranna rás. Þrátt fyrir að ætíð hafi það sýnt sig, að samfélagið í Reykjavík sé of lítið og dreift, til að draumurinn sá geti rætzt, hafa menn haldið áfram að leita leiðar, og vinstri menn í Reykjavík telja sig nú hafa fundið hana. Leiðin er sú að þétta byggð í Reykjavík, þar til draumurinn verður að veruleika. Skipuleggja skal borgina kringum samgöngukerfið, sem hefur hlotið nafnið "Borgarlína".
Því fer fjarri, að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu séu fjárhagslega sjálfbærar, því að rekstrartekjur frá farþegum standa aðeins undir fjórðungi kostnaðarins. Þær verða seint sjálfbærar, af því að íbúafjöldinn verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð slíkur, að samkeppnisforskot skapist gagnvart einkabílnum. Þótt vinstri menn í Reykjavík þétti byggð, láti annað sitja á hakanum og valdi stórfelldu efnahagstjóni með þessu sérvizkulega uppátæki, þá snýst þessi forræðishyggja algerlega í höndunum á þeim, því að fólkið leitar einfaldlega í önnur sveitarfélög, og íbúar höfuðborgarsvæðisins munu vonandi krefjast þess, að fjandskap yfirvalda í Reykjavík gagnvart einkabílnum linni og að opinberu fé verði varið með skilvirkari hætti til úrbóta á umferðarkerfinu.
"Þétting borgarinnar er þegar hafin. Í því skyni er framboð lóða takmarkað sem mest við dýrari lóðir í gömlu hverfunum og úr verður lóðaskortur. Þar sem borgin hefur markaðsráðandi stöðu á lóðamarkaði, getur hún spennt upp lóðaverð, svo að hinar dýru þéttingarlóðir seljast, en þetta heitir markaðsmisnotkun í annars konar viðskiptum.
Markaðurinn svarar auðvitað á sinn hátt með því, að þeim fækkar, sem byggja vilja hús sín og borga sín gjöld í Reykjavík, þannig að útsvarstekjur borgarinnar lækka. Nágrannasveitarfélögum finnst auðvitað gott að fá nýja, góða útsvarsgreiðendur og taka þeim opnum örmum.
Til viðbótar ofurgjaldi á lóðirnar er fyrirhugað að leggja innviðagjöld á íbúa í grennd við Borgarlínu og fjármagna hana með þeim hætti. Síðan fullyrðir borgarstjóri, að þarna sé um að ræða arðsama framkvæmd, sem borginni stendur til boða."
Þegar litið er á glórulausar fyrirætlanir meirihluta borgarstjórnar um ráðstöfun fjár borgarbúa, þarf engan að undra, að fjárhagur borgarinnar sé svo illa staddur, að litlu megi muna, að ríkisvaldið þurfi samkvæmt lögum að taka fjárráðin af borgaryfirvöldum með skipun tilsjónarmanns. Þar sem skattheimta borgarinnar er í leyfilegu hámarki, er ljóst, að tvær ástæður liggja til þessarar slæmu fjárhagsstöðu. Er önnur sú, sem Elías nefnir, að borgin hefur fælt frá sér vel borgandi íbúa og fyrirtæki með glórulausri lóðaskortsstefnu, og hin er bruðl með ráðstöfunarfé borgarinnar, auk hás vaxtakostnaðar af himinháum skuldum.
Í lokin færir Elías eftirfarandi ástæður fyrir því, að Borgarlínuhugmynd borgarforkólfa verður úrelt áður en hún kemst á koppinn:
"Þó þeir séu til, sem dásama líf án bíls, þá stefna lífshættir okkar í aðra átt. Við sjáum hilla undir byggð án umferðartafa, mengunarfría, sjálfkeyrandi bíla og netþjónustu í fólksflutningum, með mínar dyr sem mína biðstöð í stað sérbyggðra biðstöðva með línum á milli.
Þess sjást þegar merki, að þrenging byggðar hvetur efnameiri borgara til búsetu annars staðar, og fyrirtæki eru farin að flytja til rýmri svæða utan borgar.
Borgarlínudraumurinn er úreltur og orðinn skaðlegur. Þetta finna borgarbúar á sér og munu tryggja, að draumar um þéttingu byggðar og Borgarlínu verði draumar liðins dags eftir næstu kosningar."
Í Hafnarfirði, sem verður á suðurjaðri Borgarlínunnar, gætir nú raunsæislegra viðhorfa til hennar. Í Morgunblaðinu birtist 15. júní 2017 grein til merkis um þetta eftir Rósu Guðbjartsdóttur, formann bæjarráðs Hafnarfjarðar, og Inga Tómasson, formann skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar, undir fyrirsögninni, "Mikilvægar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu".
Þar er lögð áherzla á, að Borgarlína muni mynda greiða samgönguleið á milli sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins fyrir öll samgöngutæki og verði t.d. með forgangsakrein fyrir öll samgöngutæki, þar sem í eru tveir eða fleiri. Þá segir:
"Þrátt fyrir bjartsýnustu spár um 12 % notkun almenningssamgangna árið 2040 gera umferðarspár ráð fyrir allt að 46´000 bílum á þessari leið [Reykjanesbrautinni, sem er 53 % aukning frá árinu 2016 - innsk. BJo]. Fyrir okkur Hafnfirðinga er ástandið óásættanlegt. Umferðarvandinn verður ekki leystur með tilkomu Borgarlínu. Án annarra aðgerða mun vandinn halda áfram að vaxa."
Höfundarnir hafa lög að mæla og í lok sinnar ágætu greinar rita þau:
"Þótt flestir séu sammála því, að stefna beri að bættum almenningssamgöngum, þarf að vinna heildrænt og á raunhæfan máta að því að bæta samgöngurnar á svæðinu. Fjármagn til samgöngumála er af skornum skammti, og þegar því er útdeilt, verður að taka tillit til hagsmuna fjöldans og þess, að vegfarendur hafa mismunandi þarfir og gera ólíkar kröfur."
Kjarni málsins er einmitt sá, að fjármagni til samgöngumála er þröngur stakkur skorinn. Af þeim sökum er nauðsynlegt að forgangsraða. Forgangsröðunin á að verða í þágu hinna mörgu, en ekki í þágu hinna fáu, sem fæstir hafa farið fram á eða bíða spenntir eftir löngum hraðvögnum á forgangsakreinum. Það er allt í lagi að setja Borgarlínu á Aðalskipulag höfuðborgarsvæðisins, en ekki í þeim gæluverkefnisdúr, sem Dagur og Hjálmar í borgarstjórn Reykjavíkur hugsa sér, heldur á þá leið í þágu almannahagsmuna, sem Rósa og Ingi nefna hér að ofan, þ.e. ein forgangsakrein fyrir farþegaflutninga af öllu tagi, og 2-3 akreinar fyrir hvers konar umferð.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2017 | 11:20
Einstaklingurinn gagnvart ríkisvaldinu
Stjórnmálaafstaða okkar mótast af grundvallarviðhorfum um hlutverk og hlutverkaskiptingu einstaklinga og hins opinbera í þjóðfélaginu. Þeir, sem vilja frelsi einstaklingsins til athafna eins mikið og kostur er, þeir vilja jafnframt virða eignarréttinn í hvívetna, og þar með réttinn til að ráðstafa eigin aflafé, að því gefnu, að hann stangist ekki á við almannahag og að yfirvöld gæti laga, jafnræðis og meðalhófs, við skattheimtu. Af þessu leiðir, að skattheimtu ber að stilla í hóf, svo að jaðarskattur tekna dragi hvorki úr hvata til verðmætasköpunar sé hvetji til undanskota; sé t.d. undir þriðjungi og af fjármagni helmingi lægri til að efla sparnað (og auðvitað sé hann ekki reiknaður af verðbótum). Einkaframtaksmenn eru jafnframt hliðhollir hvers konar einkaeign, t.d. á húsnæði og bílum, og telja fasteign undirstöðu fjárhagslegs öryggis í ellinni.
Sósíalistar eða jafnaðarmenn eru á öndverðum meiði á öllum þessum sviðum. Þeir vilja mjög umsvifamikið ríkisvald og hika ekki við að hvetja til og verja einokunaraðstöðu þess með kjafti og klóm. Einkaeignarréttur er sósíalistum lítils virði, og þetta hafa þeir opinberað hérlendis t.d. með því að segja og skrifa, að hið opinbera, ríki eða sveitarfélag, sé að afsala sér tekjum með því að draga úr skattheimtunni. Þannig geta aðeins þeir tekið til orða, sem líta á vinnulaun, vaxtatekjur, fasteign eða gjaldstofn fyrirtækja, sem eign hins opinbera áður en skipt er, sem sjálfsagt sé að hremma eins stóran skerf af og hugmyndaflug jafnaðarmannanna um útgjöld útheimtir. Þar með er litið á einstaklinginn sem tannhjól í vélbúnaði hins opinbera. Þar sem slík sjónarmið ná fótfestu, er stutt í stjórnkerfi kúgunar í anda skáldsögunnar 1984 eftir George Orwell.
Í stað þess að líta á skattkerfið sem fjármögnunarkerfi fyrir lágmarks sameiginlegar þarfir samfélagsins að teknu tilliti til jafns réttar allra til heilbrigðis og menntunar, þá lítur sósíalistinn á skattkerfið sem refsivönd á þá, sem meira bera úr býtum, langoftast með því að leggja meira á sig en aðrir í námi og/eða í starfi, af því að ójöfn öflun fjár sé óréttlát. Þannig geta aðeins grillupúkar hugsað, en með slíkar grillur að vopni hefur verið gengið mjög langt á eignarréttinn.
Mismunurinn á hugarfari hægri manna og vinstri manna á Alþingi kom auðvitað berlega fram í afstöðunni til 5-ára Fjármálaáætlunar ríkisins 2018-2022. Óli Björn Kárason, Alþingismaður, ÓBK, gerði áformaða aukningu ríkisútgjalda samkvæmt áætluninni og samkvæmt viðbótar útgjaldatillögum vinstri manna, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, að umræðuefni í Morgunblaðsgreininni, 31. maí 2017,
"Kennedy, Reagan og íslenskir vinstrimenn":
"Að minnsta kosti tveir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna hefðu átt erfitt með að skilja hugmyndafræði íslenzkra vinstri manna og stefnu þeirra í skattamálum og harða samkeppni [um yfirboð-innsk. BJo]; John F. Kennedy og Ronald Reagan.
Reagan hélt því [réttilega] fram, að því hærri sem skattarnir væru, þeim mun minni hvata hefði fólk til að vinna og afla sér aukinna tekna [t.d. með því að afla sér meiri menntunar]. Lægri skattar gæfu almenningi tækifæri til aukinnar neyzlu og meiri sparnaðar, hvatinn til að leggja meira á sig og afla tekna yrði eldsneyti hagkerfisins. "Niðurstaðan", sagði Reagan, "er meiri hagsæld fyrir alla og auknar tekjur fyrir ríkissjóð.""
Þetta er mergurinn málsins. Þegar skattheimta er í hæstu hæðum, eins og nú á Íslandi, í sögulegum og í alþjóðlegum samanburði, þá er alveg áreiðanlegt, að við skattalækkun stækkar skattstofninn, og hann skreppur saman við skattahækkun m.v. óbreytta skattheimtu. Þess vegna getur lægri skattheimta þýtt auknar skatttekjur fyrir ríkissjóð, eins og Reagan sagði. Þetta eru ekki lengur tilgátur hagfræðinga og stjórnmálamanna. Þetta er raunveruleiki, eins og reynslan sýnir. Vinstri mönnum eru hins vegar allar bjargir bannaðar. Þeir átta sig hugsanlega á þessari leið til að auka opinberar tekjur, en þeir hafna henni samt, því að í þeirra huga er refsihlutverk skattkerfisins mikilvægara.
Tilvitnun ÓBK í JFK hér að neðan á greinilega við stöðu ríkisfjármála á Íslandi nú um stundir:
"Á blaðamannafundi í nóvember 1960 sagði Kennedy [þá nýkjörinn forseti BNA]:
"Það er mótsagnakenndur sannleikur, að skattar eru of háir og skatttekjur of lágar og að til lengri tíma litið er lækkun skatta bezta leiðin til að auka tekjurnar."
Kennedy lagði áherzlu á, að lækkun skatta yrði til þess að auka ráðstöfunarfé heimilanna og hagnað fyrirtækja og þar með kæmist jafnvægi á ríkisfjármálin með hækkandi skatttekjum. Á fundi félags hagfræðinga í New York árið 1962 sagði forsetinn m.a.:
"Efnahagskerfi, sem er þrúgað af háum sköttum, mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, alveg eins og það mun aldrei búa til nægilegan hagvöxt eða nægilega mörg störf.""
Það, sem JFK sagði þarna um ofurháa skattheimtu, voru ekki orðin tóm, heldur hafa margsannazt bæði fyrr og síðar. Á Íslandi er nú há skattheimta, því að hún er enn á meðal þess hæsta, sem þekkist á meðal þróaðra þjóða Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Verði hún hækkuð umtalsvert, breytist hún umsvifalaust í ofurskattheimtu með þeim afleiðingum, að skattstofninn rýrnar og halli verður á rekstri ríkissjóðs, hagvöxtur koðnar niður og atvinnuleysi heldur innreið sína á ný. Skattahækkunarleið vinstri flokkanna leiðir þess vegna beint út í ófæruna. Þegar halla mun undan fæti eftir núverandi mikla hagvaxtarskeið, ætti að lækka skattheimtuna til að örva hagvöxt, og má nefna tryggingagjaldið fyrst.
Í nýsamþykktri Fjármálaáætlun ríkisins 2018-2022 er ekki reiknað með aukinni skattheimtu, heldur lækkun tryggingagjalds á síðari hluta skeiðsins og lækkun virðisaukaskatts eftir samræmingu VSK á atvinnugreinar, en samt eiga tekjur ríkisins að verða miaISK 185 hærri árið 2022 en árið 2017 í lágri verðbólgu. Af þessari hækkun ríkistekna koma 57 % frá sköttum af vörum og þjónustu og 41 % frá tekjusköttum. Þessi fjórðungshækkun skatttekna á 5 árum á einvörðungu að koma frá stækkuðum og breikkuðum skattstofnum, þ.e. tekjuáætlunin er reist á öflugum hagvexti allt tímabilið. Síðan er útgjaldaramminn sniðinn við þetta og miðað við 1,3 % tekjuafgang á ári. Ef meðalhagvöxtur á ári verður undir 3,5 %, þá verður halli á ríkisrekstrinum m.v. þessa áætlun. Boginn er þannig spenntur til hins ýtrasta, og það vantar borð fyrir báru. Í góðæri ætti tekjuafgangur ríkisins að vera yfir 3 % af tekjum til að draga úr þenslu og til að draga úr þörf á niðurskurði, þegar tekjur minnka.
Vinstri flokkarnir vilja samt meiri hækkun tekna, sem óhjákvæmilega þýðir þá skattahækkanir, þótt þeir hafi ekki útfært þær. Þannig vill Samfylkingin miaISK 236 hækkun skatttekna árið 2022. Mismunur hækkana er miaISK miaISK 51, sem þýðir skattahækkun 0,6 MISK/ár á hverja fjagra manna fjölskyldu.
Hugmyndir Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um skattahækkanir keyra þó um þverbak. Formaður VG hefur verið nefnd "litla stúlkan með eldspýturnar"; ekki af því að hún þurfi að selja eldspýtur á götum úti loppin af kulda, eins og í ævintýri H.C. Andersens, heldur af því að umgengni hennar við ríkisfjármálin þykir minna á brennuvarg, sem hótar að bera eld að opnum benzíntunnum. Þannig mundi efnahagskerfi Íslands kveikja á afturbrennaranum um stund eftir valdatöku "litlu stúlkunnar með eldspýturnar", og síðan stæði hér allt í björtu verðbólgubáli, sem fljótt mundi leiða af sér stöðnun hagkerfisins, skuldasöfnun, vinnudeilur og atvinnuleysi.
"Litla stúlkan með eldspýturnar" vildi, að í Fjármálaáætlun yrði gert ráð fyrir miaISK 334 hærri skatttekjum árið 2022 en árið 2017. Mismunur þessa og samþykktrar Fjármálaáætlunar er 149 miaISK/ár, sem þá nemur skattahækkun vinstri grænna. Hún jafngildir aukinni skattbyrði hverrar 4 manna fjölskyldu um 1,75 MISK/ár. Með þessu mundu vinstri grænir vafalítið senda Ísland á skattheimtutopp OECD ríkja, sem mundi eyðileggja samkeppnisstöðu Íslands um fólk og fjármagn. Launþegahreyfingarnar mundu gera háar launahækkunarkröfur í tilraun til að endurheimta kaupmátt launa, sem nú er einn sá hæsti innan OECD, og allt mundi þetta leggjast á eitt um að senda hagkerfi landsins niður þann óheillaspíral, sem lýst er hér að ofan sem afleiðingu ofurskattlagningar.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, japlar á því bæði sýknt og heilagt, að með úrslitum síðustu Alþingiskosninga hafi kjósendur verið að biðja um aukna samneyzlu, og þess vegna sé sjálfsagt að gefa nú hraustlega í ríkisútgjöldin. Þetta er fullkomin fjarstæða hjá "litlu stúlkunni með eldspýturnar", enda mundu aukin ríkisútgjöld í þegar þöndu hagkerfi losa skrattann úr böndum með hræðilegum afleiðingum fyrir kaupmátt og skuldastöðu almennings. Ef þetta væri rétt hjá Katrínu, þá hefðu vinstri flokkarnir auðvitað aukið fylgi sitt hraustlega, en það lá hins vegar við, að annar þeirra þurrkaðist út. Almenningur skilur þetta efnahagslega samhengi ósköp vel, en "litla stúlkan með eldspýturnar" kærir sig kollótta, því að flokkur hennar nærist á óstöðugleika, þjóðfélagsóróa og almennri óánægju.
Það, sem þarf að gera við núverandi aðstæður, er að leggja áherzlu á aukna skilvirkni ríkisrekstrar og bætta nýtingu fjármagns, sem ríkissjóður hefur úr að moða. Tækifæri til þess eru vannýtt. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, SA, ritaði grein í Viðskiptablaðið 4. maí 2017, þar sem hann tíundaði útgjaldaaukningu ríkissjóðs til heilbrigðismála 2010-2015, sem nam þriðjungi, 33 %, á verðlagi 2015, þ.e. útgjöldin 2015 voru miaISK 39,3 hærri en árið 2010. Svipuð aukning er ráðgerð í Fjármálaáætlun 2018-2022. Landsspítalanum þykir samt ekki nóg að gert, þótt til reiðu sé fjárfestingarfé upp á miaISK 50 og sé þarna fyrir utan. Þá er lausnin ekki að ausa í spítalann meira fé, heldur að virkja einkarekstrarformið til að stytta biðlistana og að slást í hóp hinna Norðurlandanna við útboð, t.d. á lyfjum. Þar þarf atbeina Alþingis við að brjóta á bak aftur hagsmunapotara. Halldór Benjamín skrifar:
"Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hefur aðeins verið nýttur að takmörkuðu leyti á Íslandi. Fjölmörg dæmi er þó að finna um jákvætt framlag einkarekinna íslenzkra heilbrigðisfyrirtækja, sem hafa sýnt fram á, að þau geta veitt jafngóða eða betri þjónustu en hið opinbera með hagkvæmari rekstri fyrir þjóðfélagið."
Heilbrigðisgeirinn, meðferð og umönnun sjúklinga, er stærsti einstaki kostnaðarþáttur ríkissjóðs og virðist vera botnlaus hít. Þar eru þess vegna fjölmörg sparnaðartækifæri fyrir ríkissjóð, þar sem er nauðsynlegt að fá meira fyrir minna, og það er vel hægt, eins og dæmin sanna.
Þá bregður hins vegar svo við, að forysta Landsspítalans ásamt Landlækni rekur upp angistarvein sem stunginn grís væri og dengir yfir landslýð, að með auknum einkarekstri til að stytta allt of langa biðlista sjúklinga verði spónn dreginn úr aski háskólasjúkrahússins. Þetta er með ólíkindum.
Það er öfugsnúið að halda því fram, að með því að létta á yfirlestuðu sjúkrahúsi, þar sem yfirvinnustundir nema 15 % af venjulegum vinnutíma, muni það skaðast, þegar þjónustan er bætt við langhrjáða sjúklinga á biðlista. Jafn réttur sjúklinga er orðinn að réttleysi til lækninga, þegar á þarf að halda. Fullyrðing forystunnar er svo mótsagnakennd, að óþarft er fyrir fulltrúa fólksins að taka mark á henni, enda virðast ríkjandi hagsmunir á sjúkrahúsinu ekki hér að öllu leyti fara saman við almannahagsmuni.
"Hugmyndafræðileg afstaða á ekki að koma í veg fyrir, að gerðir verði samningar við einkareknar heilbrigðisstofnanir, sem geta stytt biðlista eftir aðgerðum. Mun betur mætti gera, ef krafa um hagkvæmni og árangur væri höfð að leiðarljósi og ríkjandi stefna um einokun opinberrar heilbrigðisþjónustu yrði endurskoðuð.
Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu byggist á því, að ríkið greiði sömu framlög til einkaaðila til að framkvæma sömu aðgerðir af jafnmiklum eða meiri gæðum. Það er ekki einkavæðing, heldur stefna um að bæta nýtingu skattfjár og auka þjónustu og að bæta lífsgæði sjúklinga."
Það mun reyndar vera þannig, að Klínikin Ármúla býðst til að taka að sér bæklunaraðgerðir á 95 % af kostnaði Landsspítalans, svo að hreinn sparnaður næst fyrir ríkissjóð. Í risafyrirtæki á borð við Landsspítalann (á íslenzkan mælikvarða) er mörg matarholan, og hætt er við, að margir maki krókinn með þeim hætti, sem ekki ætti að viðgangast. Dæmi um það eru lyfjakaupin, en fjármálastjóri Landsstítalans lýsti því nýlega í fréttaskýringarþætti á RÚV, að spítalann skorti skýlausa heimild frá Alþingi til að taka þátt í stóru útboði á lyfjum með norrænum sjúkrahúsum. Samt yrðu íslenzk fyrirtæki á bjóðendalista í þessu útboði. Felast ekki í því tækifæri fyrir þau og fyrir ríkissjóð ?
Hagsmunapotarar lyfjaiðnaðar- og innflytjenda hérlendis hafa komið ár sinni svo fyrir borð hjá Viðskiptanefnd þingsins, að spítalinn verður af líklega yfir eins milljarðs ISK sparnaði við lyfjakaup. Þarna er Landsspítalinn hlunnfarinn og þar með skattborgararnir. Er þetta ekki málefni fyrir heilbrigðisráðherra til að setja upp "gula gúmmíhanzkann" og skera upp herör ?
"OECD komst að þeirri niðurstöðu árið 2008, að hagræðing í heilbrigðiskerfinu [íslenzka] geti skilað tugprósentustiga lækkun kostnaðar. Þar starfi of margt fólk í samanburði við önnur lönd, hlutur einkaaðila sé of lítill, þjónusta sé í of miklum mæli veitt af dýrum þjónustuaðilum og samkeppni sé ekki nægjanleg."
Ef OECD hefur komizt að því árið 2010, að spara megi um 20 % í íslenzka heilbrigðiskerfinu, þá er hægt að losa þar um 30 miaISK/ár, sem nota má til að leysa úr brýnum vanda skjólstæðinganna. Hvers vegna í ósköpunum snúa menn sér ekki að slíkum alvöruviðfangsefnum í stað þess að setja reglulega á grátkór í fjölmiðlum um, að meira fé vanti úr ríkissjóði í reksturinn ?
Fjármál | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.6.2017 | 07:38
Græddur er geymdur eyrir
Íslenzka krónan, ISK, hefur risið í áður óþekktar hæðir gagnvart Norðurlandamyntunum NOK og SEK og sterlingspundi, GBP, og er nálægt efri mörkum gagnvart evru, EUR, en gagnvart aðalviðskiptamynt okkar, bandaríkjadal, USD, var hún talsvert hærri á fyrsta áratugi 21. aldarinnar. Hvernig stendur á því, að verðgildi ISK hækkar langt umfram getu hagkerfisins núna til að rísa undir ?
Þrátt fyrir afnám fjármagnshafta heldur ISK áfram að styrkjast. Á einum mánuði, eftir að Seðlabankinn hætti að selja ISK og bæta við gjaldeyrisvarasjóðinn í vor, hafði hún hækkað um 7 % gagnvart USD, 5 % gagnvart GBP og rúmlega 4 % gagnvart EUR. Um miðjan maí 2017 hafði ISK hækkað á 12 mánuðum um 16 %-25 % gagnvart þessum gjaldmiðlum og 19 %-22 % gagnvart NOK og SEK. Hér er greinilega spákaupmennska markaðarins á ferð, því að til lengri tíma er gengið a.m.k. fimmtungi of hátt. Líklega er gengið í árslok 2015 nálægt efnahagslegu jafnvægisgengi og getu hagkerfisins.
Þetta hefur gríðarleg neikvæð áhrif á afkomu gjaldeyrisaflandi atvinnugreina, sem mynda undirstöðu efnahagskerfis landsins. Er því spáð, að framlegð, EBITDA, sjávarútvegsins verði að meðaltali aðeins 13 % af tekjum hans 2017, og eru minni fyrirtæki og einkum útgerðir án eigin fiskvinnslu enn ver stödd. Þetta er mikil lækkun framlegðar frá meðaltali undanfarinna 20 ára, sem var um 23 % af söluandvirði. Til að standa undir afborgunum og vöxtum lána, nýjum nauðsynlegum fjárfestingum, veiðigjöldum, hefðbundnum sköttum og arðgreiðslum, þarf EBITDA að vera a.m.k. 20 % í fjármagnsfrekri starfsemi á borð við sjávarútveg, svo að viðunandi rekstrarárangur geti talizt til lengdar.
Í ljósi þess, að tæplega fjórðungur sjávarútvegsfyrirtækja var með neikvætt eigið fé árið 2015, þ.e. átti ekki fyrir skuldum, þýðir stórminnkuð framlegð síðan þá, að óvenjumörg fyrirtæki munu óhjákvæmilega leggja upp laupana á næstunni og önnur verða að hagræða rekstrinum með róttækum hætti til að ná endum saman. Þetta jafngildir enn meiri samþjöppun í sjávarútvegi og fækkun starfsstöðva með þeim félagslegu afleiðingum, sem kunnar eru.
Þróun gjaldmiðils landsins undanfarin 2-3 ár, þ.e. árin 2015-2016, og það sem af er árinu 2017, knýr fram aukna framleiðni og breytingar á atvinnuháttum um allt land. Þetta er "hrossalækning", sem hefur í för með sér varanlega töpuð störf á einstaka stað, en víðast tímabundna erfiðleika, þar sem Byggðastofnun og aðrar atvinnugreinar geta linað sársaukann.
Við þessar aðstæður koma gallar veiðigjaldakerfisins berlega í ljós. Útreikningur á veiðigjöldum er reistur á afkomu útgerðanna fyrir 2-3 árum. Þetta er allt of mikil afturvirkni, sem ber að afnema. Nær er að miða við framlegð á síðasta almanaksári, og sé hún undir 20 %, falli veiðigjöldin niður á næsta almanaksári. Jafnframt þarf að vera þak á veiðigjöldum í góðu árferði, t.d. 5 % af framlegð fyrirtækis á síðasta almanaksári, svo að ekki sé farið offari við þessa gjaldtöku af afnotum náttúruauðlindar. Það er reyndar brýnt réttlætismál að jafna aðstöðu á milli atvinnugreina með því að taka upp samræmt mat á verðmætum náttúruauðlinda og gjaldtöku af nýtingu slíkra, sem falla utan einkaeignarréttar. Á þetta hefur margfaldlega verið bent á á þessu vefsetri.
Stóriðjan aflar nokkru minni gjaldeyris en sjávarútvegurinn, og samtals afla þessar tvær greinar minni gjaldeyris en ferðaþjónustan. Vegna mikilla launahækkana eða um 30 % á undanförnum 2-3 árum, berst nú sá umtalsverði hluti iðnaðarins í bökkum, þar sem starfsmannakostnaður er hátt hlutfall, t.d. yfir 40 %, heildarkostnaðar. Í stóriðjunni er þetta hlutfall þó mun lægra, og þar eru aðalkostnaðarliðirnir, hráefni og orka, greidd í erlendum gjaldeyri, oftast USD, og tekjurnar eru í sömu mynt. Stóriðjan er þess vegna að nokkru leyti varin gegn gengisáhrifum ISK, en sömu sögu er engan veginn að segja um aðra þætti iðnaðarins, sem nú afla um miaISK 100 í erlendum gjaldeyri.
Ferðaþjónustan hefur fjárfest talsvert á undanförnum árum og er þess vegna skuldug. Hún er mannaflsfrek og framlegð hennar er tiltölulega mjög lág við þessar aðstæður. Hún hefur sennilega flotið á bættri nýtingu fjárfestingar ár frá ári og e.t.v. bættri framleiðni vegna gríðarlegrar aukningar á fjölda erlendra ferðamanna. Framleiðnin er hins vegar lág, og m.a. þess vegna eru meðallaun tiltölulega lág í þessari starfsgrein.
Fjölgun ferðamanna verður þó senn að dvína, því að álagsþol norðlægrar náttúru er takmarkað, og landið var óviðbúið hinum mikla flaumi. Bætt dreifing ferðamanna um landið, t.d. með innanlandsflugi, er lykilatriði til að forðast ofálag á vinsælustu stöðunum. Samkvæmt markaðslögmálunum hlýtur aukningin senn að færast niður að heimsmeðaltali árlegrar aukningar ferðamannafjölda, sem mun vera 5 %-10 %.
Seðlabankinn leikur stórt hlutverk í afkomu allra atvinnugreina á Íslandi og þar með allra fjölskyldna. Honum ber að framfylgja peningamálastefnu, sem heldur verðbólgu við 2,5 % +/- 1,5 %, þ.e. 1,0 % - 4,0 % verðvísitöluhækkun á ári. Sé vísitölu húsnæðisverðs haldið utan við (auk flestra sparenda og lántakenda mæðir hún aðallega á þeim, sem eru að festa kaup á húsnæði í fyrsta sinn), er í raun verðhjöðnun á Íslandi.
Um 40 mánaða skeið hefur heildarhækkun verðvísitölu (með húsnæðisliðnum) verið undir verðbólguviðmiði Seðlabankans, og undanfarna 12 mánuði hefur verðvísitala án húsnæðis lækkað um 1,8 %, en með húsnæði nemur hækkunin 1,9 %. Miðað við væntingar skuldabréfamarkaðarins mun þessi hækkun verða á bilinu 2,2 % - 2,5 % á ári að meðaltali næstu 5-10 árin. Samkvæmt verðmælingum í maí 2017 hefur hert á téðri verðhjöðnun, t.d. vegna vaxandi samkeppni á smásölumarkaði. Þótt spenna sé enn vaxandi á húsnæðismarkaði, er samt mikið af húsnæði í byggingu (þó ekki nóg og ekki af réttri stærð og kostnaði), og vonir standa til, að aukið framboð valdi minnkandi spennu þar eftir árið 2018, en þá þurfa að koma 9000 íbúðir inn á markaðinn á árabilinu 2017-2019.
Væntingar skuldabréfamarkaðar eru jafnan í hærri kantinum. Það verður ekki betur séð en Peningastefnunefnd hafi algerlega brugðizt bogalistin við að framfylgja peningastefnunni, sem er verðbólga sem næst 2,5 %/ár, því að hún heldur vöxtunum nú aðeins 0,5 % undir vaxtastiginu, sem var 2014, þegar verðbólgan fór undir verðbólguviðmið bankans eftir langa mæðu.
Munur á raunvöxtum hér og í nágrannalöndunum hefur líklega aldrei verið hærri en núna. Þetta veldur því, að fjárfestar hérlendis á borð við lífeyrissjóðina eru tregir til að selja ISK og fjárfesta erlendis, og hingað leitar fé erlendis frá til að nýta vaxtamuninn. Fjárfestarnir gera greinilega út á hækkandi gengi ISK. Þetta þrýstir genginu enn upp á við og getur verið skýringin á metháu og óeðlilega háu gengi ISK núna. Peningastefnunefnd Seðlabankans þiggur stefnuna frá Alþingi, en henni hafa verið hrapallega mislagðar hendur við að nýta tæki og tól bankans til að framfylgja þeirri stefnu með þeim afleiðingum, að skapazt hefur mikið ójafnvægi í þjóðarbúskapnum, sem ógnar tilveru fjölda fyrirtækja og lífsafkomu fólks um allt land. Við svo búið má ekki standa, og það er Alþingis að grípa í taumana að frumkvæði fjármála- og efnahagsráðherra og forsætisráðherra.
Valdimar Ármann, forstjóri Gamma, birti skýra greiningu sína á vandanum í Morgunblaðinu, 6. maí 2017,
"Tími til að leyfa Íslandi að njóta velgengninnar":
"Mikil fjölgun ferðamanna á Íslandi á stuttum tíma hefur valdið ýmiss konar ójafnvægi, enda ekki óeðlilegt, að það taki hagkerfið nokkur ár að aðlaga sig viðlíka breytingu, eins og átt hefur sér stað hér á landi. Auðséð er, að slík gjörbylting á hagkerfinu hlýtur að skila sér í mikilli breytingu í peningamála- og efnahagsstjórnun [leturbr. BJo].
Háum vöxtum verður ekki beitt til að stöðva umsvifin í hagkerfinu, sem eru drifin áfram af stórauknum komum erlendra ferðamanna til landsins. Háum vöxtum verður ekki beitt til þess að lækka fasteignaverð, sem að hluta til er drifið af því að hýsa þarf ferðamennina, sem hingað koma (svo að ekki sé minnzt á aukningu erlends vinnuafls), en talið er, að um 3000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu séu í leigu til ferðamanna einhvern hluta úr ári, sem eru nærri 4 % íbúða á öllu höfuðborgarsvæðinu.
Ekki þarf að beita háum vöxtum til að viðhalda vaxtamun til að laða gjaldeyri til landsins, þar sem óskuldsettur gjaldeyrisforði er fyrir hendi, viðskiptajöfnuður jákvæður ásamt jákvæðri erlendri stöðu þjóðarbúsins."
Ef þessi greining Valdimars Ármanns á nýju hagkerfi Íslands er rétt, sem ástæða er til að halda, þá stendur Peningastefnunefnd uppi sem steintröll, sem dagaði uppi, af því að hún einblíndi í baksýnisspegilinn, en horfði hvorki fram á veg né gerði hún sér far um að greina stöðuna, sem hagkerfið er nú í, og gera síðan viðeigandi ráðstafanir í peningamálum, sem henni ber lögum samkvæmt. Peningastefnunefnd hefur ekki reynzt vandanum vaxin, og þess vegna er ISK í methæðum, útflutningsatvinnuvegunum og þar með fjölda manns til stórtjóns.
Valdimar Ármann endar grein sína með ádrepu á núverandi stjórn Seðlabankans:
"Undanfarin ár hefur kaupmáttur hækkað myndarlega, og áfram er útlit fyrir umtalsverða samkeppni í smásöluverzlun, sem litast af innkomu erlendra aðila sem og aukinni verzlun á netinu. Þá hefur vöruverð lækkað bæði vegna hagræðingar og gengisstyrkingar, en einnig vegna lægri skatta í formi afnuminna vörugjalda og tolla og lækkunar á virðisaukaskatti [Þessar lækkanir innflutningsgjalda eiga mikinn þátt í komu Costco til landsins og þar með hertri samkeppni í verzlun - innsk. BJo]. En nú er kominn tími til þess, að Seðlabanki Íslands leyfi íslenzkum almenningi og fyrirtækjum að njóta góðs af velgengni landsins með því að lækka hér vaxtastig og létta þannig á heimilum landsins og auka samkepnishæfnina."
Í bankaráði Seðlabanka Íslands sitja 7 manns. Þann 25. apríl 2017 kaus Alþingi eftirfarandi í ráðið: Sigurður Kári Kristjánsson, Sveinn Agnarsson, Þór Saari og Frosti Sigurjónsson. Nýir vendir sópa bezt. Áfram sitja: Þórunn Guðmundsdóttir, Auður Hermannsdóttir og Björn Valur Gíslason.
Hagstjórnarmistök Peningastefnunefndar, sem að miklu leyti er skipuð æðstu stjórn bankans, eru svo alvarlegs eðlis, að bankaráðið getur ekki látið kyrrt liggja. Verður ekki öðru trúað en senn dragi til tíðinda undir Svörtuloftum, því að engir aukvisar hafa þau hingað til verið talin, sem nú skipa bankaráðið.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.5.2017 | 21:35
Borgin og Vegagerðin í hár saman
Nauðhyggja, bruðl með skattfé og skipulagslegt fúsk Dags B. Eggertssonar og Hjálmars Sveinssonar er orðið að þjóðfélagsvandamáli vegna stærðar og mikilvægis Reykjavíkurborgar.
Það steytir á mörgu, þegar skýjaborgir rekast á kostnaðarvitund, arðsemi fjárfestinga og rekstrar og fagleg sjónarmið. Reykjavík er nú stjórnað af hreinræktuðum skýjaglópum, sem svífast einskis við að koma gerræðislegum áformum sínum í framkvæmd og fjármagna þjóðhagslega óhagstæðar framkvæmdir með því að seilast enn dýpra ofan í vasa skattborgaranna.
Sem dæmi þessum fullyrðingum til stuðnings má nefna Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni, sem er þjóðhagslega mjög hagkvæmur, því að hann kemur í stað nýs flugvallar, sem kosta mundi um miaISK 100, hann styttir ferðaleið og ferðatíma þeirra, sem nýta völlinn, og hann þjónar, með þremur flugbrautum, hlutverki varaflugvallar fyrir Keflavíkurflugvöll, sem sparar millilandaflugvélum talsvert eldsneyti og eykur nettó flutningsgetu þeirra. Skýjaglóparnir hafa tekið þennan flugvöll út af Aðalskipulagi og ætla að skipuleggja þar íbúðahverfi. Veðurfarslega er Vatnsmýrin kjörlendi fyrir flugvöll, en það verður mjög dýrt að byggja þar húsnæði, því að djúpt er á fast undir sökkla og náttúrulegu votlendi, flóru og fánu, stendur ógn af þéttbýli í grennd. Slíkt þéttbýli hlýtur að kalla á dýrar samgöngulausnir, því að barnaskapur er að ímynda sér, að megnið af íbúunum geti nýtt Borgarlínu til allra sinna ferða. Flugvallarstaðsetning í Hvassahrauni er út í hött t.d. vegna þess, að þar er verndarsvæði fyrir vatnsöflun Suðurnesjamanna. Flugvöllur og vatnsverndarsvæði fara fráleitlega saman.
Skýjaglóparnir ætla að leggja í allt að miaISK 200 fjárfestingu í s.k. Borgarlínu, sem á einvörðungu að vera fyrir einhverja nýja tegund almenningssamgangna, hraðvagna á gúmmíhjólum eða járnbrautarlest, sem verður reyndar enn dýrari. Þetta fyrirbrigði er hugmyndin að tengja við fluglest á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Umferðarmiðstöðvar í Vatnsmýri. Fluglest þessi er sögð losa miaISK 100 í fjárfestingu, verður vafalaust enn dýrari, sé miðað við svipaðar framkvæmdir erlendis, og er viðskiptalega séð andvana fædd hugmynd, því að fluglest verður ósamkeppnishæf við rafknúnar langferðabifreiðir.
Ef samstaða er á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um að taka frá land fyrir samgönguæð á milli þeirra, sem virðist líklegt, er nauðsynlegt, að hún fái að þjóna öllum gerðum samgöngutækja og að hugmyndir um léttlest eða einhvers konar hraðvagna aðra en hefðbundna strætisvagna verði lagðar á hilluna. Með þessu móti getur Borgarlína staðið undir nafni, þjónað öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins og aðkomufólki utan af landi og erlendis frá, og þannig orðið þjóðhagslega arðbær. Þar með kæmi Vegagerð ríkisins að þessu máli sem hönnunar- og framkvæmdaraðili, sem tryggir nauðsynlega fagmennsku við stórt verkefni. Fáránlegt samkomulag frá 2009 á milli Reykjavíkurborgar og Vegagerðar um 1,0 miaISK/ár framleg Vegagerðar til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu gegn því að fresta öllum samgöngubótum þar til 2018 hefur engu skilað öðru en vaxandi umferðaröngþveiti og slysatíðni, því að markmiðið um 8 % hlut Strætó í fólksflutningum árið 2018 er fjarri því að nást. Hlutdeild Strætó hefur hækkað úr 4 % í 5 %. Hvað gera Bakkabræðurnir þá ? Þeir áforma að fleygja miaISK 200 í Borgarlínu og hækka markmiðið í 12 % árið 2040 !
Undirbúningur Sundabrautar er sýnidæmi um kæruleysi núverandi borgaryfirvalda gagnvart kostnaði borgarinnar og í raun andstöðu þeirra við raunverulegar samgöngubætur, því að þessari nauðsynlegu samgöngubót er teflt í tvísýnu með framferði borgarinnar. Frá þessu er skýrt í frétt Sigtryggs Sigtryggssonar í Morgunblaðinu 20. maí 2017, "Ytri leiðin er talin 10 milljörðum dýrari":
"Vegagerðin lítur svo á, að Reykjavíkurborg beri að fjármagna aukinn kostnað af lagningu Sundabrautar, verði ódýrasta lausnin ekki valin. Hér getur verið um 10 milljarða kr kostnað að ræða. Þetta álit Vegagerðarinnar kemur fram í bréfi, sem Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, hefur sent umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar."
Rekstur borgarinnar er í molum og afkoma hennar hefur verið slæm undanfarin ár, nema 2016 vegna góðærisins. Hún er stórskuldug. Hvernig ætla Dagur og Hjálmar að fjármagna skuld við Vegagerðina, ef þeir þvinga hana í dýrari kostinn ? Kannski með því að vísa greiðslum til framtíðarinnar ?
"Í bréfinu segir vegamálastjóri orðrétt: "Nú hafa Vegagerðinni borizt fregnir af því [Dagur og Hjálmar sýndu þá ókurteisi að upplýsa Vegagerðina ekki fyrirfram], að borgin hafi úthlutað lóðum á Gelgjutanga, sem eru á vegstæði Innri leiðar Sundabrautar og mun uppbygging þar útiloka, að hægt verði að velja þann kost fyrir Sundabraut."
Það er ljóst, að þeir, sem með skipulagsmálin fara fyrir Reykjavíkurborg nú um stundir kunna sig engan veginn. Að semja við byggingabraskara um heimild til að byggja á vegstæði, sem Vegagerðin var búin að mæla með sem fyrsta vali fyrir Sundabraut, án samráðs við Vegagerðina, er tuddaskapur og sýnir jafnframt, að skipulagsyfirvöld Reykjavíkur hafa engan áhuga fyrir samgönguumbótum við Reykjavík, enda stefna þau leynt og ljóst að því að gera bílstjórum í borginni lífið óbærilegt, svo að þeir "nýti almenningssamgöngutæki" í staðinn.
"Hér er vegamálastjóri að vísa til samnings, sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, gerði við fasteignafélagið Festi ehf í marz s.l. um uppbyggingu 332 íbúða í 5 húsum á Gelgjutanga. Fasteignafélagið Festir er í eigu hjónanna Ólafs Ólafssonar, athafnamanns, og Ingibjargar Kristjánsdóttur.
Í bréfi vegamálastjóra kemur fram, að Reykjavíkurborg hafi frá árinu 2014 látið vinna deiliskipulag af svokallaðri Vogabyggð. Vegagerðin hafi gert athugasemdir við þessa vinnu á öllum stigum hennar, þar sem lögð var megináherzla á, að ekki yrði ráðstafað lóðum norður að Kleppsmýrarvegi fyrr en fyrir lægi samkomulag milli Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar.
Orðrétt segir í bréfi Hreins Haraldssonar [vegamálastjóra]:
"Í erindi Vegagerðarinnar til Skipulagssviðs borgarinnar, dags. 26. febrúar 2014, er m.a. vakin athygli borgarinnar á ákvæði 2. mgr. 28. gr. Vegalaga nr 80/2007, en þar segir: "Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar, að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar, skal það rökstyðja það sérstaklega." Umrætt lagaákvæði var ítrekað í síðari erindum Vegagerðarinnar um málið.
Í 3. mgr. vegalaga segir svo: "Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en sá, sem Vegagerðin telur betri m.t.t. kostnaðar og tæknilegrar útfærslu og það leiðir til aukins kostnaðar, er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmuninn.""
Hér má greina hrokafulla afstöðu Skipulags- og umhverfissviðs Reykjavíkur gagnvart Vegagerðinni, sem virðist vart virt svars, hvað þá, að gefinn hafi verið kostur á lögbundnu samráði. Hjá Vegagerð ríkisins starfa mestu sérfræðingar landsins í þeim málaflokki, sem hér er til umræðu, þ.e. skipulagning og hönnun meiriháttar umferðarmannvirkja, en borgin hunzar þá, þótt lög standi til annars. Þetta er gjörsamlega óafsakanleg framkoma hjá Hjálmari Sveinssyni og yfirmanni hans, Degi B. Eggertssyni. Það vill svo til, að kjósendur í Reykjavík, sem blöskrar þessi framkoma, geta sniðgengið þessa menn í næstu sveitarstjórnarkosningum og sýnt þeim þá þumalinn.
Nú hafa þeir kumpánar séð sitt óvænna, því að þeir óttast, að Samgönguráðherra muni halda þeim við efnið og skikka borgina til að greiða fyrir afglöp fúskaranna:
"Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur 21. marz síðast liðinn var samþykkt tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að hefja viðræður við ríkið vegna Sundabrautar. Markmið viðræðnanna fælist í því að vinna að arðsemismati og kostnaðargreiningu, ákvarða endanlega útfærslu og legu brautarinnar og tímasetja framkvæmdina."
Í Morgunblaðinu 20. maí 2017 birtist Baksviðsgrein eftir Baldur Arnarson, blaðamann, undir þeirri skelfilegu fyrirsögn:
"Reykjavíkurflugvöllur muni víkja".
Núverandi meirihluta borgarstjórnar dreymir um það, en allar samgöngutæknilegar forsendur fyrir slíkri ákvörðun vantar. Þvert á móti er öflugra innanlandsflug forsenda fyrir meiri dreifingu erlendra ferðamanna um landið. Á Keflavíkurflugvelli hefur SV-NA flugbraut ekki verið tekin í brúk og ekki eru nein tök á að bæta innanlandsflugi við oflestaða flughöfn, enda fer ekki vel á slíku samkrulli þar. Ekki má gleyma, að Færeyjaflug, Grænlandsflug og nú flug til Írlands er stundað frá Reykjavíkurflugvelli, svo að ekki sé minnzt á kennsluflug og einkaflug.
Í téðri Baksviðsgrein er vitnað í Dag B. Eggertsson um mislæg gatnamót:
"Við erum búin að skoða, hverju það [mislæg gatnamót]myndi skila fyrir umferðina, og það er sáralítið. Það myndi bara flytja vandamálin á næstu gatnamót. Þess vegna þurfum við að hverfa frá gömlu hugsuninni frá 1960, eins og meira og minna öll borgarsvæði í heiminum hafa gert, og innleiða afkastameiri almenningssamgöngur, fjölbreyttari ferðamáta og gefa fólki val um, hvernig það vilji komast til og frá vinnu."
Það er ljóst af þessum ummælum, að þarna talar fúskari í umferðarskipulagningu. Mestu sérfræðingar á því sviði hérlendis starfa hjá Vegagerðinni, og hún mælir enn með mislægum gatnamótum til lausnar á umferðarhnútum. Hún er t.d. tilbúin til að reisa mislæg gatnamót á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar, strax og Reykjavíkurborg heimilar slíkt, en það verður aldrei, á meðan Dagur og Hjálmar ráða för.
Fólk hefur miklu fjölbreytilegri erindi en að fara í vinnu og til baka. Það þarf að selflytja börnin, verzla og sinna öðrum útréttingum. Þetta er ekki hægt að gera á viðráðanlegum tíma, þótt hraðfara og tíðir vagnar aki eftir einhverjum ásum og síðan strætisvagnar þvert á þá ása. Fólk er eðlilega ekki reiðubúið að lengja daglegan ferðatíma sinn umtalsvert, og slíkt gengur hreinlega ekki upp í dagskrá margra, svo að ekki sé minnzt á skert þægindi. Af þessum ástæðum er engin spurn hjá almenningi eftir þessu hugarfóstri Dags og Hjálmars. Þeir ætla að kasta hátt í miaISK 200 í umferðarmannvirki, sem engin not eru fyrir, bara af því að slíkt er í samræmi við stjórnmálaskoðun þeirra. Það er hægt að leysa umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins til næstu 30 ára með 10 nýjum mislægum gatnamótum og viðbótar akreinum á umferðaræðum fyrir brot af þeirri fjárupphæð, sem Borgarlínan í dagdraumum félaganna mun kosta. Þetta er skýr valkostur, sem ekki mun útiloka neinar lausnir, þ.m.t. einhvers konar Borgarlínu um miðja 21. öldina.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.5.2017 | 10:25
Karl Marx afturgenginn
Reynslan hefur sýnt almenningi, að meðal Karls Marx við sjúkdómum auðvaldskerfisins hafði miklu verri afleiðingar fyrir fólkið, sem fyrir barðinu varð, en sjúkdómarnir höfðu sjálfir.
Engu að síður höfða kenningar karlsins enn til nokkurra áhugamanna um stjórnmál, en almenningur hefur greint hismið frá kjarnanum fyrir löngu og telur hag sínum mun ver borgið undir einhvers konar Marxisma, sem stundum er kölluð jafnaðarstefna, en með blönduðu borgaralegu hagkerfi, þar sem stuðzt er við kenningar Adams Smith og lærisveina hans með félagslegu ívafi, eins og öryggisneti almannatrygginga.
Einkenni á málflutningi Marxista er, að þeir hugsa ekki málin til enda, heldur gefa sér alls konar sviðsmyndir, sem ekki standast í raunveruleikanum. Hið sama einkenndi karlinn sjálfan, og því er reynslan af sósíalisma alls staðar hörmuleg, þar sem hann hefur verið reyndur. Kjarni Marxismans er, að hverjum beri eftir þörfum og láti af hendi rakna eftir getu. Þetta er algerlega opin fullyrðing, því að hver á að ákveða, hvað þú þarft og hvað þú getur látið af hendi rakna ? Í framkvæmd, þar sem sósíalismanum var komið á, var "nómenklatúrunni", þ.e. yfirstétt kommúnistaflokksins eða jafnaðarmannaflokksins falið þetta vald. Í því fólst og felst enn auðvitað reginranglæti og misrétti. "Nómenlatúran" hefur yfirtekið ríkisvaldið og ríkt án nokkurs lýðræðislegs aðhalds.
Dæmi um stöðnun og forræðishyggju jafnaðarmanna nú á dögum er ný stefnuskrá brezka Verkamannaflokksins, sem felur í sér þjóðnýtingu á ýmissi almannaþjónustu, og þá er næsta skrefið að þjóðnýta atvinnutækin, sem auðinn skapa, í anda kenninga Karls Marx. Almenningur á Bretlandi er ekki ginnkeyptur fyrir þessu, enda hefur fylgið hrunið af Verkamannaflokkinum, þótt hann annars mundi eiga fjölmörg sóknarfæri á hendur Íhaldsflokki Theresu May nú í aðdraganda þingkosninga, s.s. lækkandi gengi sterlingspundsins í aðdraganda Brexit. Brexit verður flókið viðfangsefni fyrir Brüssel og London, og kannski fer allt í háaloft.
Hvers vegna er almenningur ekki ginnkeyptur fyrir stefnu Verkamannaflokksins ? Í fyrsta lagi hefur fólk samanburð á milli ríkisrekstrar og einkarekstrar, og í öðru lagi kærir almenningur sig ekki um, að flokkshestar og vekalýðsrekendur ráði yfir fyrirtækjum, sem almenningur á mikið undir, því að þetta fólk hefur ekki hundsvit á því, hvernig á að reka fyrirtæki á hagkvæman og þjónustuvænan hátt. Með öðrum orðum veit almenningur, að fjárhagsbyrðum sukks "nómenklatúrunnar" verður velt yfir á hann með íþyngjandi skattahækkunum og þjónustan verður lakari.
Reynslan af jafnaðarmanninum Francois Hollande og sósíalistaflokki hans í Frakklandi þótti svo slæm þar, að fylgi beggja hrundi niður úr öllu valdi, og ungur bankamaður og ráðherra á vegum Sósíalistaflokksins var endurunninn og búinn til frjálslyndur borgaralegur frambjóðandi í nafni umbóta á stöðnuðu frönsku þjóðfélagi og Evrópusambandi-ESB. Macron ætlar að hleypa nýju lífi í öxulinn Berlín-París, nú þegar Bretar eru á förum, með því að fylgja umbótastefnu í efnahagsmálum, sem hann telur muni falla Merkel betur í geð en lítið aðhald Hollandes við ríkisreksturinn. Þá ætlar Macron að lengja vinnuvikuna í 40 klst úr 35 klst. Þótt sósíalistar styttu hana, fækkaði ekki atvinnulausum, sem eru um 10 % af vinnuaflinu.
Í staðinn vill Macron fá enn meiri samtvinnun í bankamálum og fjármálum almennt, sem Þjóðverjum hugnast illa, því að þeir óttast meiri útgjöld þýzkra skattborgara vegna fjárhagsstuðnings við veikburða ESB-ríki.
Evrópuþingmaðurinn Schulz átti að bjarga "die Sozialistische Partei Deutschlands - SPD" eða Jafnaðarmannaflokki Þýzkalands frá niðurlægingu í Sambandsþingskosningunum í september 2017. Í upphafi blés byrlega fyrir SPD, en þegar kjósendur hafa heyrt og séð meira til þessa rykfallna kerfiskarls frá Brüssel, verða þeir meira afhuga hugmyndinni um að dubba hann upp sem kanzlara Sambandslýðveldisins í Berlín í stað prestsdótturinnar frá Austur-Þýzkalandi.
Þetta er vandi jafnaðarmannaflokka alls staðar í hinum vestræna heimi. Þeir eru tákngervingar liðins tíma. Tímabili stéttastríðs er lokið á Vesturlöndum, verkamannastörfum hefur fækkað, lágmarkslaun eru víðast hvar tryggð og hlutverk jafnaðarmannaflokkanna hefur skroppið saman í að gæta hagsmuna búrókrata og annarra forréttindahópa og afæta. Þetta er stundum kölluð "elítan", sem er þó rangnefni, því að kerfissnatar bera ekki af á nokkurn hátt annan en í ómerkilegri "rentusækni", þ.e. að skara eld að sinni köku á kostnað almennings og án þess að verðskulda sérstaka umbun frá hinu opinbera.
Á Íslandi er nú draugagangur á vinstri væng stjórnmálanna. Flokkur fjármagns og búrókrata í Brüssel er að tærast upp, en vinstri grænum vegnar betur þrátt fyrir fastheldni við marxíska stefnu um háa skatta á fyrirtæki og fólk, einkum þá, sem mestan þjóðfélagsauðinn skapa, og ríkiseinokun á sem flestum sviðum. Flokkurinn má ekki heyra minnzt á fjölbreytni rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu og framhaldsskólakerfinu, svo að tveir geirar þjónustu, sem ríkið stendur straum af, séu tíundaðir, þótt slíkt geti aðeins leitt til sparnaðar og betri þjónustu, því að ella yrði samningum sagt upp.
Það sýnir bókstafstrú vinstri grænna á falskenningar Karls Marx, sem taldi einkarekstur ósamrýmanlegan sæluríki kommúnismans. Vinstri grænum er sem fyrr annara um form en innihald, og þá varðar ekkert um hagsmuni skjólstæðinga þessara kerfa, sjúklinga og nemenda. Þetta er sannkallaður afturhaldsflokkur, þar sem yfirdrepsskapurinn tröllríður húsum.
Forstokkun vitleysunnar gengur svo langt, að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs vilja heldur, að Sjúkratryggingar Íslands greiði tvöfaldan kostnað Landsspítala af bæklunaraðgerð á sjúklingum á einkasjúkrahúsi í Svíþjóð en að greiða Klínikinni Ármúla 95 % af kostnaði sömu aðgerðar á Landsspítala. Þegar umgengnin við skattfé borgaranna er orðin með þessum hætti í anda Karls Marx, þarf engan að undra, að marxísk hagkerfi hafi yfirleitt orðið gjaldþrota fyrr en seinna eða hjarað á hungursbarmi, eins og Kúba Karíbahafsins, þar sem mánaðarlaun lækna munu vera 10-20 bandaríkjadalir. Þá er gott að eiga garðholu fyrir matjurtir.
Ingólfur S. Sveinsson, læknir, skrifaði fróðlega grein um efnið í Morgunblaðið 14. marz 2017 undir fyrirsögninni,
""Tvöföld heilbrigðisþjónusta", skammaryrði eða skýr nauðsyn":
Þar kom m.a. fram:
"Allar ríkisstjórnir síðustu 30 ár hafa unnið að því að þvinga heilbrigðisþjónustuna inn í kommúnískt ríkisrekstrarkerfi miðstýringar og ofstjórnar."
Nú hefur þetta kerfi gengið sér til húðar. Það lýsir sér með gegndarlausri kostnaðarhækkun heilbrigðiskerfisins, sem nú er líklega dýrasta heilbrigðiskerfi í Evrópu á hvern íbúa lands, þegar tekið hefur verið tillit til tiltölulega lágs meðalaldurs þjóðarinnar. Kerfið er kostnaðarleg hít, enda samkeppni og samanburður innanlands af skornum skammti.
Einnig koma skýr einkenni slíkra kerfa, óviðráðanlega langir biðlistar eftir þjónustu, vel fram á Íslandi. Ein versta sukktillaga um tilhögun ríkisútgjalda kom fyrir rúmu ári frá auðvaldskommanum Kára Stefánssyni, opinberum bréfritara Decode, þess efnis, að í fjárlögum skyldi binda 11 % af VLF við heilbrigðisgeirann, þrátt fyrir að VLF/íb sé einna hæst á Íslandi allra landa og aldurssamsetning þjóðarinnar kalli ekki á að keyra útgjöld til málaflokksins upp í rjáfur.
Meira úr grein Ingólfs Sveinssonar:
"Aðkoma Færeyinga mætti gagnast Íslendingum nú sem oft áður. Þeir gerðu fyrst stuttan samning við Klínikina fyrir konur með brjóstakrabbamein. Eftir reynslutíma og án efa kostnaðargreiningu á þjónustunni gerðu Sjúkratryggingar þeirra samning til lengri tíma. Færeyingarnir fóru með gætni, skynsemi, ábyrgð og umhyggju."
Hér á Íslandi eru marxistískt hugarfar og bókstafstrú greinilega rótgrónari og illvígari en í Færeyjum. Það er til háborinnar skammar, að íslenzk yfirvöld skuli ekki þegar hafa farið svipaða leið og yfirvöld heilbrigðismála í Færeyjum gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu, sem til boða stendur á Íslandi.
Hér eru tveir rugguhestar í veginum, forstjóri Landsspítalans, Páll Matthíasson, og Landlæknir, Birgir Jakobsson. Afstaða beggja vitnar um þröngsýni, því að þeir bera því við, að hagur Landsspítala verði fyrir borð borinn, ef fleiri rekstrarform fá að njóta sín. Það er útilokað, því að streituvaldandi langir biðlistar munu styttast fyrir vikið, og allt of mikil yfirvinna á Landsspítalanum mun geta minnkað, sem er jákvætt fyrir greiðendur þjónustunnar og þá, sem veita hana. Þessir fulltrúar sjónarmiða ríkiseinokunar mála skrattann á vegginn, eins og skoðanabræður þeirra á öðrum sviðum þjóðfélagsins. Fyrr en síðar mun það verða lýðum ljóst hér sem víðast annars staðar.
Í eftirfarandi kafla varpar Ingólfur, læknir, ljósi á dragbítana, sem við er að etja og verður að ryðja úr vegi, nema menn ætli að láta falsspámanninn Karl Marx ganga hér aftur ljósum logum endalaust:
"Gamalgróin er andstaðan gegn sjálfstætt starfandi heilbrigðisþjónustu, lækningastofum og stöðvum utan sjúkrahúsa. Þangað hefur fólk í áratugi sótt þjónustu að eigin vali og greitt með tryggingum sínum og eigin fé.
Staðnaðir sósíalistar og aðrir ofstjórnarsinnar amast við flestu, sem ekki er ríkisrekið, og hafa talað um "tvöfalda heilbrigðisþjónustu", eins og sjálfstæður rekstur eigi ekki tilverurétt.
BSRB hefur sent frá sér ótrúlega ályktun varðandi Klínikina. Telja frekari einkavæðingu í andstöðu við meirihluta þjóðarinnar. Telja það ranga leið að reyna að stytta biðlista með því að greiða fyrirtækjum reknum í hagnaðarskyni. Sjúklingar skulu bíða.
Hér má minnst orða Willy Brandts: "Sá, sem ekki er sósíalisti um tvítugt, er hjartalaus. Sé hann það enn um fertugt, er hann heilalaus."
Sú staðreynd, að fjármagnseigendur eiga hlut í húsnæðinu, sem um ræðir, vekur ýmsum ugg, öðrum ofnæmi. En hefur það forgang framfyrir þarfir sjúklinga ? Gera má samning þannig, að hagnaður eigenda , ef verður, renni að mestu til að styrkja reksturinn."
Mótmæli stéttarfélaga við tilraun til fjölbreytilegri rekstrarforma koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum, og eru eitt af því, sem er "heilalaust" við þessa marxistísku andstöðu með skírskotun til Willys Brandt. Einokun í atvinnugrein leiðir aldrei til betri kjara starfsfólksins, nema síður sé. Hér eru verkalýðsrekendur að hnýta félagsmönnum sínum nútíma vistarbönd.
Fyrrverandi Landlæknir, Ólafur Ólafsson, hefur lengi steininn klappað, og hér að neðan fer hann með öfugmæli. Sjúklingar, sem beðið hafa mánuðum saman, jafnvel meira en eitt ár, eftir aðgerð, sárþjakaðir og óvinnufærir, finna á eigin skinni, að það er marxistísk mantra, að "opinber rekstur tryggi gæði og jöfnuð í heilbrigðiskerfinu". Miklu nær er að fullyrða, að blandaður rekstur, sem veitir kost á samanburði á milli mismunandi vinnustaða, virki hvetjandi til að bæta stöðugt gæði þjónustunnar. Um jöfnuð þarf vart að fjölyrða í þessu sambandi, því að greiðslur sjúklinga verða hinar sömu, en skattborgararnir borga minna.
Ingólfur S. Sveinsson, læknir, lýkur ágætri grein sinni með eftirfarandi hætti:
"Ýmsir kunna að taka undir orð Ólafs Ólafssonar, fv. landlæknis (Læknabl. 2/2017): "Opinber rekstur tryggir gæði og jöfnuð í heilbrigðiskerfinu". Aðrir efast. Barnatrú á sósíalisma er fögur í fjarlægð. En við eigum nýja reynslu af ríkissósíalisma í framkvæmd og og eigum hins vegar fyrirmyndir úr okkar eigin sögu.
Fyrir utan að eiga gott starfsfólk eru Sjúkratryggingarnar, skyldutryggingar í okkar eigu - ekki ríkisins - það dýrmætasta í heilbrigðisþjónustunni. Ríkisrekstur heilbrigðisstofnana býður upp á vanrækslu. Ég tek því undir orð Ólafs, fv. landlæknis, með fyrirvara. Opinber rekstur tryggir gæði og jöfnuð í heilbrigðiskerfinu - að því gefnu, að neytendur kerfisins, sjúklingarnir, hafi valfrelsi um þjónustuna og að kerfið - þjónustukerfið sjálft njóti þess öryggis og aðhalds að hafa virka samkeppni utan frá [undirstrikanir eru frá BJo]".
Það er fjarri blekbónda að halda því fram, að allt, sem Karl Marx setti fram á sinni tíð, hafi reynzt vera vitleysa. Kjarni kenninga hans er, að auðstéttina skipi ekki verðmætaskaparar, heldur rentusækjendur, þ.e. fólk, sem hefur lag á að eigna sér verk annarra og kynna þau sem sín eigin. Þetta þekkist í öllum samfélögum, og kommúnismi læknar ekki þetta mein. Það hefur sýnt sig, þar sem kommúnistar hafa náð völdunum.
Hins vegar var Marx blindur á mikilvægi framtaksmannsins, sem skapar verðmæti úr engu. Marx horfði framhjá hlutverki stjórnenda við að bæta framleiðnina. Sé t.d. horft á brezkt athafnalíf, fæst staðfest, að mikil rentusækni á sér þar stað [The Economist 13. maí 2017-"The Marxist moment"]. Árið 1980 þénuðu forstjórar 100 stærstu skráðu fyrirtækjanna 25 falt það, sem dæmigerður starfsmaður þeirra þénaði. Árið 2016 var þetta hlutfall orðið 130.
Þetta er alger óhæfa, og það er gæfa Íslendinga, að á Íslandi er mestur jöfnuður innan OECD, eins og hann er alþjóðlega mældur á kvarða GINI. Árið 2014 var jafnvel svo mikill jöfnuður launa, að hagfræðingum OECD þótti nóg um og gerðu þá athugasemd, að of mikill jöfnuður væri skaðlegur samkeppnishæfni landsins, því að hæfileikafólk leitaði þá á önnur mið. Þetta heitir atgervisflótti þangað, sem jöfnuður er minni.
Síðan 2014 hafa orðið stakkaskipti á vinnumarkaði, atvinnuþátttaka er hér í hæstu hæðum, kjarasamningar hafa verið gerðir um u.þ.b. 30 % launahækkun á 3-4 árum og ISK hefur hækkað um ein 50 % á tímabilinu. Boginn er reyndar of hátt spenntur, og nú er svo komið, að læknar og hjúkrunarfræðingar hafa þriðjungi hærri fastalaun og helmingi hærri heildarlaun en kollegar þeirra á hinum Norðurlöndunum. Hvernig mundi Karl Marx greina þá stöðu, væri hann á dögum ? Á þeim bullustömpunum, sem hérlendis trúa á hann, er lítið að græða í þeim efnum og öðrum.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)