Færsluflokkur: Fjármál
17.9.2017 | 11:11
Sveppir og sóun
Kári Stefánsson, læknir, getur ekki fundið neina vísindalega sönnun fyrir tengslum dvalar í húsnæði, þar sem raki er og sveppagróður, og heilsuleysis eða sjúkdómskvilla. Hann líkir "trúnni" á þessi tengsl við draugatrú Íslendinga og rifjar upp frásögn föður síns, Stefáns Jónssonar, fréttamanns, af för sinni norður að Saurum á Skaga, þar sem fréttist af illvígum draugagangi forðum tíð. Blekbónda rekur minni til að hafa skemmt sér ótæpilega við að hlýða á Stefán, fréttamann, og viðmælendur hans í þessu Sauramáli á sinni tíð.
Bezt er að vitna beint í son hins frábæra fréttamanns, í grein hans í Fréttablaðinu, 5. september 2017,
"Kólumkilli eða sveppasúpa":
"En það breytir því ekki, að þjóðin er enn staðföst í trú sinni á ýmislegt dularfullt og spennandi, sem ekki hefur verið sannað með aðferðum vísindanna [er það ekki "gelíska genið" ?-BJo]. Klárasta dæmið um þessa staðfestu upp á síðkastið er trúin á heilsuspillandi áhrif myglusveppa í húsum.
Þrátt fyrir vandlega leit í læknisfræðibókmenntum okkar tíma hefur mér ekki tekizt að finna þess merki, að búið sé að sýna fram á, með vísindalegum aðferðum, að myglusveppir í húsum vegi að heilsu manna. Þrátt fyrir það velkist íslenzk þjóð ekki í vafa um áhrif myglusveppa á heilsu, og má sjá merki þess víða í samfélaginu."
Raki og myglusveppur er ekki séríslenzkt fyrirbæri, heldur hefur sambýli manns og svepps verið við lýði frá fyrstu húsakynnum mannsins, og sveppir eru landlægir erlendis í vistarverum manna. Þótt ekki hafi tekizt að sanna læknisfræðilega sök sveppa á heilsuleysi manna, er þó ekki þar með sagt, að tengslin séu ekki fyrir hendi. Sumir, sem veikir eru fyrir á ákveðnum sviðum, t.d. í öndunarfærum, kunna að veikjast við þetta nábýli, þótt aðrir, sem sterkari eru fyrir, finni ekki fyrir einkennum. Læknisfræðin hlýtur að taka tillit til mismunandi mótstöðuþreks.
Kári, læknir, heldur áfram:
"Svo er það hús Orkuveitunnar [OR á reyndar ekki þetta hús lengur, heldur lífeyrissjóðir, þ.á.m. minn, þótt OR beri ábyrgð á rekstri, viðhaldi og opinberum gjöldum af húsinu. Allt er þetta reginhneyksli. - BJo] og þúsundir annarra húsa víðsvegar um landið, og okkur er sagt, að tjónið af völdum myglusvepps á Íslandi nemi tugum milljarða. Þetta byrjaði á því, að inn í hús nokkur kom ung kona í kafarabúningi (ghost buster) og fann myglusveppi grimmilega, sem hún lagði með mjaðmahnykk [?!]. Síðan þá hefur baráttan við myglusveppinn orðið mjög stór iðnaður á Íslandi og engin atvinnugrein vaxið meira í landinu, nema ferðaþjónustan."
Ætla má af lestri þessa texta, að læknirinn sé þeirrar skoðunar, að sveppasýkt húsnæði sé óraunverulegt vandamál. Það sé huglægt fyrirbrygði, eins og trú á tilvist drauga. Helzt er á honum að skilja, að flokka megi sýkingu mannfólks af völdum húsasvepps til móðursýki. Hvað segir landlæknir ? Hvers vegna tekur hann ekki af skarið um, hversu skaðlegur sveppagróðurinn er heilsu manna ? Hefur hann heldur ekkert í höndunum ? Er hættan ímyndun ein ?
Ef frekari rannsókna er þörf, verður að framkvæma þær strax áður en hús, sem kostaði miaISK 11 að núvirði að byggja, og mörg fleiri, eru dæmd svo heilsuskaðleg, að þau verði að rífa vegna myglusvepps. Um rannsóknarþörfina skrifar Kári:
"Þess vegna væri ekki úr vegi að byrja á því að rannsaka málið áður en hús eru dæmd ónýt og rifin og tugmilljarða króna tjón gert að raunveruleika. Rannsókn á skaða þeim, sem myglusveppur kann að valda á heilsu manna, verður eingöngu unnin á Íslandi, vegna þess að í öðrum löndum búa maðurinn og sveppurinn í friðsömu sambýli, og hvorugur kvartar undan hinum."
Það er rétt hjá Kára, að myglusveppur viðgengst víða, einnig á hinum Norðurlöndunum. Hefur þetta sveppafár hérlendis verið reist á ímyndun, eins og Kári Stefánsson, læknir gefur í skyn ? Læknastéttin skuldar þjóðinni óyggjandi svar við því.
Orkuveituhúsið var nefnt. Hvað, sem sveppagróðri í vesturálmu þess líður, er það óbrotgjarn (?) minnisvarði um meðferð R-listans, sáluga, á opinberu fé. R-listinn var samstarfsvettvangur vinstri manna og Framsóknarmanna. Til hans var stofnað til höfuðs völdum Sjálfstæðisflokksins í borginni. Hugarfar fólks, sem ber háskattastefnu fyrir brjósti, er virðingarleysi við einkaeignina, og tekjur fólks eru hluti af henni. Þetta hefur verið límið í valdastöðu vinstri manna í borginni og hefur aldeilis krystallast í Orkuveitu Reykjavíkur-OR.
Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar gumaði Dagur B. Eggertsson og fylgifénaður hans af viðsnúningi í rekstri OR. Hver kom OR í klandur ? Það var vinstra fólkið og Framsóknarfólkið í borgarstjórn, sem sukkaði og sóaði á báða bóga með allt of stórri Hellisheiðarvirkjun m.v. jarðgufuforðann þar undir og með allt of stóru monthúsi fyrir aðalstöðvar OR. Stjórnendur OR og hin pólitíska stjórn hennar voru ekki starfi sínu vaxin. Heimtaður var gjörsamlega óraunhæfur byggingarhraði bæði á OR-húsinu og á Hellisheiðarvirkjun með þeim afleiðingum, að eigendur OR, Reykvíkingar, Skagamenn og íbúar Borgarbyggðar, hafa orðið fyrir svakalegu tjóni, sem þegar getur numið um 1 MISK á hverja 4 manna fjölskyldu í þessum byggðarlögum. Hér er um opinbert fyrirtæki að ræða, og eigendurnir eru ófærir um að komast til botns í þessu OR-hneyksli. Þegar borgararnir verða fyrir viðlíka tjóni og hér um ræðir, verður að komast til botns í því, hvar var keyrt út af, og hverjir voru bílstjórar og meðreiðarsveinar í hverju tilviki.
Hörmungar OR halda hins vegar áfram og munu halda áfram, ef róttækar umbætur á stjórnun verða ekki gerðar. ON borar hverja holuna á fætur annarri í Hellisheiðina, en sá fjáraustur er eins og að míga í skóinn sinn. Finna þarf nýjan virkjunarstað til að létta 100-200 MW af Hellisheiðarvirkjun. Þegar menn eru komnir í foraðið, eiga þeir að hafa vit á að reyna að snúa við.
ON framdi í vor alvarleg mistök við rekstur einu vatnsaflsstöðvar sinnar, þegar gerð var tilraun til að hreinsa botnset úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar með því að galopna framhjáhlaup í stíflunni. Þessi heimskulega ráðstöfun fyllti alla hylji og þakti eirar Andakílsáar af leir með voveiflegum afleiðingum fyrir seiði í ánni og allt annað lífríki.
Ekki tekur betra við í mengunarmálum hjá Veitum, öðru dótturfélagi OR. Þar var viðbúnaður við bilun í frárennsliskerfinu fyrir neðan allar hellur í sumar, sem sýndi, að tæknilegri stjórnun er ábótavant. Hausinn var bitinn af skömminni með því að reyna að þegja málið í hel, þótt heilsuspillandi aðstæður sköpuðust vikum saman í fjörunni og úti fyrir. Siðferðið er ekki upp á marga fiska.
Gagnaveitan er þriðja dótturfyrirtæki OR. Þar þverskallast menn, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, við að eiga samráð við Mílu um samnýtingu skurða fyrir lagnir. Allt er þetta á sömu bókina lært.
Niðurstaðan af þessu öllu er sú, að OR-samsteypan hefur fyrir löngu vaxið borgarstjórn yfir höfuð. Þar á bæ hafa menn ekki hundsvit á þeirri starfsemi, sem OR-samsteypan fæst við, og eru ekki í neinum færum til að veita henni aðhald, hvorki í borgarráði né í stjórn OR. Borgarfulltrúarnir eru uppteknir við málefni, sem eru gjörólíks eðlis. Eina ráðið til úrbóta er að skera á meirihluta aðild borgarinnar að stjórn OR með því að gera dótturfélögin að sjálfstæðum almenningshlutafélögum. Með þessu móti verður hægt að greiða upp drjúgan hluta af skuldabagga OR-samstæðunnar, og stjórnun dótturfyrirtækjanna ætti að verða viðunandi fyrir eigendur, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.9.2017 | 13:15
"Villta vestrið" ?
Hérlendis hefur því verið haldið fram, að Norðmenn væru komnir að þolmörkum norskra fjarða fyrir laxeldi. Þeir hafa mest framleitt 1,3 Mt/ár (M=milljón), en í fyrra minnkaði framleiðslan við Noregsstrendur í 1,2 Mt vegna sjúkdóma og laxalúsar. Verðið er hátt um þessar mundir, svo að markaðurinn mun taka við meiru.
Norðmenn eru ekki af baki dottnir frekar en fyrri daginn. Nú hafa borpallahönnuðir þeirra hannað risavaxna eldiskví, sem ætlunin er að staðsetja utan fjarða við strendur Noregs. Þar með hefst nýtt "marnám" fyrir fiskeldi. Fimm slíkar kvíar eru nú í smíðum í Kína fyrir SalMar, og ein á leiðinni frá Kína til Noregs. SalMar er hluthafi í Arnarlaxi á Íslandi.
"Ocean Farm 1" eldisstöð mun líklega samanstanda af 6 slíkum risakvíum. Með þessum hætti hyggjast Norðmenn tvöfalda framleiðslu sína innan áratugar, og ráðagerð starfsleyfisveitenda í Noregi er, að framleiðsla eldislax við Noreg muni nema 5 Mt/ár innan tveggja áratuga. Framleiðsla Íslendinga verður þá et.v. 2 % af norsku framleiðslunni, því að tæplega verður staðsetning risakvía leyfð hérlendis utan fjarða.
Þetta er djarfhuga ráðagerð Norðmanna, sem er reist á beztu tækni á öllum sviðum, sem að þessu koma. Aðeins 3-7 starfsmenn verða staðsettir við eldisstöðina, og munu þeir fylgjast með 20´000 nemum og sæg myndavéla. Þarna verður minni hætta á mengun og minni hætta á sjúkdómum og lús vegna sterkari strauma og lægra sjávarhitastigs, en flutningar munu verða kostnaðarsamari. Framleiðnin verður hins vegar gríðarleg.
Aflúsunarlyfin eru varasöm, og Hafrannsóknarstofnunin íslenzka telur, að notkun aflúsunarlyfja í fiskeldi geti haft skaðleg áhrif á rækjustofna og lagði eðlilega til bann við notkun þeirra á rækjusvæðum í frummatsskýrslu um laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Ætti það alls staðar að verða við lýði í a.m.k. 5 km fjarlægð frá rækjusvæðum.
Hins vegar er ekki hægt að segja, að áhættugreining á sjókvíaeldi lax í Ísafjarðardjúpi réttlæti ákvörðun um að fresta um óákveðinn tíma leyfisveitingum um þetta eldi í Ísafjarðardjúpi. Þar vegast einfaldlega á miklir almannahagsmunir og litlir sérhagsmunir. Það er ósiðlegt að láta almannahagsmunina víkja í ljósi þess, að það er hægt að skilyrða leyfisveitingu við skaðabótaábyrgð, ef illa fer. Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Hafrannsóknarstofnun hafa 59 hnúðlaxar og 8 regnbogasilungar bitið á agn stangsveiðimanna í sumar. Um þetta hefur Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva eftirfarandi að segja samkvæmt Fréttablaðinu, 8. september 2017:
"Þessar tölur gefa það til kynna, að íslenzkt sjókvíaeldi sé ekki vandamál fyrir íslenzkar ár. Í tölunum er enginn lax úr íslenzku sjókvíaeldi. Einnig eru mjög fá tilvik um veiddan regnbogasilung. Þessar tölur gefa því vísbendingar um, að vel sé haldið á spöðunum í fiskeldi á Íslandi og slysasleppingar ekki vandamál þar."
Að enginn eldislax skuli veiðast í ánum nú, þegar framleiðslan nemur 10 kt í ár, bendir til, að ný tækni og ný vinnubrögð samkvæmt ströngum norskum staðli, standi undir mestu væntingum, sem til þeirra voru gerðar, þ.e. strokhlutfall undir 5 ppm. Þar með stafar náttúrulegum löxum í Ísafjarðardjúpi ekki hætta af kynblöndun við eldislaxa í 15 kt laxeldi þar m.v. varúðarreglu Hafrannsóknarstofnunar um hámark 4 % eldislax í laxveiðiá.
Í ljósi aðstæðna væri rétt að stíga þegar í stað skrefið til hálfs í Ísafjarðardjúpi og veita leyfi fyrir 15 kt sem upphafsmagni fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra talar digurbarkalega um viðkvæm mál, sem varða lífshagsmuni fólks:
"Með tillögunum [Starfshóps um stefnumörkun í fiskeldi] er leitazt eftir því að að útrýma því villta vesturs ástandi, sem ríkt hefur í greininni",
hafði Fréttablaðið eftir ráðherranum 24. ágúst 2017. Ekki verður betur séð en þetta sé afar ósanngjarnt orðalag í ljósi þess, að síðasta árið hefur ríkt stöðnun í útgáfu starfsleyfa til laxeldisfyrirtækjanna, sennilega að undirlagi þessa sama ráðherra, því að hún ætlar sjálf að koma á stjórnleysi á þessu sviði, með því að leiða auðvaldið til öndvegis og láta peningana ráða því, hverjir fá starfsleyfi. Í því felst stjórnunarleg uppgjöf hennar sem fulltrúa almennings, sem á að stjórna með almannahag í fyrirrúmi, en ekki að draga taum ríkustu fyrirtækjanna, sem hug hafa á að færa út kvíarnar við Ísland. Hvers vegna ekki að leyfa öllum, sem áhuga hafa og fullnægja hæfnisskilyrðum, að stunda laxeldi við Ísland og gera það á landfræðilega skipulegan hátt ?
Mogginn hefur eftir þessum angurgapalega ráðherra, 24. ágúst 2017, að "tillaga um nýtt fyrirkomulag við útgáfu leyfa sé um leið gríðarlega mikilvæg".
"Þetta er svolítið eins og villta vestrið í dag, og við þurfum að koma böndum á það."
Sá ráðherra, sem viðhefur þetta groddalega orðalag um núverandi fyrirkomulag leyfisveitinga, sem óneitanlega hefur verið hægvirkt að undanförnu, ætlar sjálf að koma hér á öngþveiti með því að bjóða starfsleyfin hæstbjóðanda. Hún mun neyðast til að binda útboðið alls kyns skilyrðum og takmörkunum, svo að því fer fjarri, að frjáls markaður fái að ráða vali á fyrirtækjum. Hins vegar getur hún endað með kraðak fyrirtækja í sama firði, og það hentar engum. Uppboð starfsleyfa við fiskeldi geta leitt til færri fyrirtækja í þessari starfsemi, sem er ekki hagfellt m.t.t. samkeppni þeirra á milli um starfsfólk og þjónustu, svo og fyrir eftirsóknarverða áhættudreifingu. Uppboðsleiðin er algerlega vanhugsuð aðferðarfræði á þessu sviði.
Fjárhagslega er uppboðsleið ofaukið í starfsemi, þar sem aðilar hafa komið sér saman um, að fiskeldisfyrirtækin skuli greiða árlegt auðlindargjald. Ráðherrann fer offari í skattheimtu af fyrirtækjunum að ætla bæði að bjóða út leyfi og að taka árlegt auðlindargjald. Hún stórskaðar ekki aðeins starfsemina, heldur einnig starfsfólkið og byggðirnar með þessari skattpíningu. Þingið verður að koma vitinu fyrir ráðherrann. Svona gera menn ekki.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.9.2017 | 11:34
Auðlindastjórnun í ljósi reynslunnar
Frá öndverðu nýttu Íslendingar aðallega gögn og gæði landsins sér til lífsviðurværis, þótt sjórinn væri ætíð nýttur með. Takmörkuðu vinnuafli var aðallega beint að landbúnaðarstörfum, þótt ungir menn væru sendir í verið. Sjórinn tók hins vegar ægilegan toll af sjómönnum, allt þar fiskiskipin urðu öflugri undir lok 19. aldar. Kann hræðilegur fórnarkostnaður að hafa ráðið nokkru um, að sjávarútvegur varð ekki undirstöðuatvinnuvegur hér fyrr en skömmu fyrir aldamótin 1900.
Nú tækni ruddi þá sjávarútvegi brautina. Þilskipin gjörbreyttu aðstöðu sjómanna, hafnargerð hófst og vélvæðing skipanna hóf innreið sína. Hvalveiðar Norðmanna upp úr 1870 hér við land og hvalvinnsla á Vestfjörðum og Austfjörðum umbyltu atvinnuháttum og þar með þjóðlífinu öllu. Árið 1890 námu útflutningstekjur af sjávarafurðum hærri upphæð en útflutningstekjur af landbúnaðarafurðum, sem verið höfðu aðalútflutningsvörur landsmanna frá upphafi, í vöruskiptum og sem gjaldeyrislind. Síðan hefur sjávarútvegur verið undirstöðu atvinnugrein landsmanna.
Nýlega gaf Ágúst Einarsson, prófessor emeritus við Háskólann á Bifröst, út bókina "Fagur fiskur í sjó". Að því tilefni birti Guðsteinn Bjarnason viðtal við fræðimanninn í Fiskifréttum, 31. ágúst 2017:
"Það má segja, að hinar hefðbundnu veiðar og vinnsla standi undir 9 %-11 % af landsframleiðslunni, en þegar sjávarútvegurinn er skoðaður í heild, þá skilar hann okkur ríflega 20 %, því að sjávarútvegurinn hér á landi er svo miklu meira en bara veiðar og vinnsla. Til hans verður líka að telja t.d. veiðarfæragerð og vélsmíði í tengslum við sjávarútveg, en þar erum við með stórfyrirtæki á heimsmælikvarða, eins og Hampiðjuna og Marel og mörg önnur fyrirtæki. Þarna hefur orðið bylting, og þetta gerir sjávarútveginn að mikilvægustu atvinnugrein landsmanna."
Ekki skal í efa draga, að sjávarútvegurinn skapi landsmönnum mestan auðinn allra atvinnugreina, en reiknað með sama hætti stendur iðnaðurinn undir um 20 % landsframleiðslunnar líka. Í sambandi við raforkuiðnaðinn í landinu má geta þess, að ef flytja þyrfti inn olíu til að framleiða þær 18,5 TWh/ár af raforku, sem framleiddar eru með vatnsafli og jarðgufu, sem er auðvitað óraunhæft dæmi, þá næmi andvirði þess innflutnings um 280 miaISK/ár um þessar mundir. Orkuvinnslan í landinu lyftir lífskjörunum og gerir landið samkeppnishæft við útlönd um fólk og fyrirtæki.
Ágúst ræddi einnig um fiskveiðistjórnunina:
"Ástæðan fyrir því, að það hafa verið svo miklar deilur um fiskveiðistjórnina, er sú, að þetta kerfi býr til verðmæti, sem heitir auðlindarenta, og það gerist vegna þess, að aðgangurinn er takmarkaður, en þá vakna spurningar um það, hver á rentuna ? Á að skattleggja þetta sérstaklega t.d. til að efla byggðir landsins."
Umrædd skattlagning er veikasti hlekkur fiskveiðistjórnunarkerfisins. Hún er reist á röngum og úreltum forsendum. Spyrja má grundvallarspurningar varðandi verðmætasköpun sjávarútvegsins á borð við þá, hvers virði óheftur réttur að miðunum sé, þegar ljóst er, að hann mundi valda tapi allra útgerðanna. Hann er einskis virði. Þess vegna er engin ástæða til sérskattlagningar á núverandi útgerðir. Hins vegar má til sanns vegar færa, að útgerðirnar standa í þakkarskuld við ríkisvaldið fyrir að hafa skapað umgjörð sjálfbærrar nýtingar á sjávarauðlindunum. Þess vegna er hóflegt auðlindagjald af útgerðunum sanngjarnt, en afraksturinn á ekki að renna í ríkissjóð, heldur í sjávarútvegssjóð til sveiflujöfnunar innan sjávarútvegsins og fjárfestinga tengdum sjávarútveginum, s.s. í nýju hafrannsóknarskipi Hafrannsóknarstofnunar, þyrlum Landhelgisgæzlu, hafnabótum, rafkerfisstyrkingu hafnanna o.s.frv.
Núverandi afturvirka aðferðarfræði við útreikning auðlindagjalds af sjávarútvegi er ótæk, og mun ganga af litlum og meðalstórum útgerðum dauðum. Hún getur valdið ofsaskattheimtu, þar sem andvirði skattheimtunnar getur numið þriðjungi framlegðar fyrirtækis.
Það er algerlega óskiljanlegt, að sjávarútvegsráðherra skuli leggja blessun sína yfir þá ofstopaskattheimtu af einni atvinnugrein, sem núverandi aðferðarfræði felur í sér, og girða fyrir breytingar fiskveiðiárið 2017/2018, sem henni væri þó í lófa lagið að gera. Reikna ber verðmæti auðlindarinnar, sem er tiltölulega einfalt með núvirðisreikningum meðalframlegðar, deila henni á aflahlutdeildir og taka síðan ákveðna rentu af þessu, allt að 0,5 %/ár, en árleg upphæð mætti aldrei fara yfir 5 % framlegðar á síðasta fiskveiðiári.
Þann 15. júní 2017 birtist viðtal Ásgeirs Ingvarssonar við Hjört Gíslason í Sjávarútvegi-riti Morgunblaðsins, í tilefni þýðingar Hjartar á nýrri bók Óla Samró, færeysks sjávarútvegsráðgjafa og hagfræðings, um mismunandi fiskveiðistjórnunarkerfi:
"Óli Samró kemst að þeirri niðurstöðu í bókinni, að hvergi sé til fiskveiðistjórnunarkerfi, sem gerir ekkert rangt og allt rétt, en kerfi eins og það íslenzka og nýsjálenzka komist næst því að stýra fiskveiðum með hvað skynsamlegustum hætti."
"Í Lettlandi og á Kamchatka í Rússlandi var sú leið [uppboðsleið] prófuð, og í báðum tilvikum var uppboðstilraununum hætt, því að ávinningurinn var ekki sá, sem vonazt hafði verið eftir. Í Rússlandi keyptu Kínverjar allan kvótann, sem var í boði, og í Lettlandi voru það Íslendingar."
Hvernig á að koma í veg fyrir, að fjársterkir aðilar, innanlands eða utan, bjóði hæsta verð í fiskveiðiheimildarnar með leppa sem skjöld og landi síðan aflanum, þar sem þeim sýnist ? Það eru einfeldningar, sem halda, að hægt sé að hafa stjórn á þeim öflum, sem úr læðingi sleppa, þegar slík óþurftar tilraunastarfsemi með grunnatvinnuveg er sett í gang.
Hjörtur ýjar að sjúkdómseinkenni krata og sósíalista, þegar að veiðigjaldaumræðu kemur:
"Það virðist æ algengara, að stjórnmálamenn reyni að afla sér vinsælda með loforðum um að taka enn meira frá sjávarútveginum og nota til ýmissa verkefna. En hafa verður í huga, að sjávarútvegurinn gerir nú þegar mikið fyrir þjóðarhag með beinum og óbeinum störfum, og tíðkast nánast hvergi annars staðar í heiminum, að útgerðir greiði auðlindagjald. Þvert á móti skekkir það samkeppnisstöðu íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja, að keppinautar þeirra í öðrum löndum njóta styrkja frá hinu opinbera."
Skipum, sem úthlutað er veiðiheimildum við Íslandsstrendur, fer fækkandi með hverju árinu og útgerðum fækkar einnig. Hvort tveggja er vísbending um hagræðingu í kerfinu. Hins vegar leikur ekki á tveimur tungum, að núverandi veiðigjaldakerfi flýtir fyrir þessari þróun, og yfirvöld stuðla þannig með ósanngjörnum gjörðum sínum að hraðari samþjöppun í greininni en ella, alveg sérstaklega við núverandi aðstæður mikils tekjusamdráttar í sjávarútvegi.
Alþingi samþykkti í óráði árið 2012 reglur, sem hafa afleiðingar, sem enginn stjórnmálaflokkur vill gangast við sem sinni stefnu. Samt lemur núverandi sjávarútvegsráðherra hausnum við steininn, af því að hún gengur með steinbarn í maganum, sem hefur fengið nafnið "uppboðsleið".
Orkulindir landsins eru líka takmörkuð auðlind, þótt takmörkunin sé annars eðlis en í sjávarútveginum. Yfirvöld úthluta fyrirtækjum virkjanaleyfum, og ekki fá þau öll leyfi til að virkja, þar sem þau hafa hug á og hafa jafnvel rannsakað virkjanasvæði, eins og niðurstaða Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun er órækt vitni um.
Þar að auki hefur Hæstiréttur dæmt sveitarfélagi í vil um, að það mætti leggja fasteignaskatt á vatnsréttindi í fljóti, sem rennur um sveitarfélagið, í hlutfalli við lengd fljótsins í viðkomandi sveitarfélagi (Fljótsdalshreppi). Eina útistandandi ágreiningsefnið við eiganda virkjunarinnar, Landsvirkjun, er, hvaða gjaldflokk megi nota.
Fulltrúar sveitarstjórna í sveitarfélögum, þar sem virkjuð á rennur um, en fáar eða engar fasteignir virkjunarinnar eru staðsettar, berja lóminn og kvarta undan því, að lítið af auðlindarentunni verði eftir í héraðinu. Hvers vegna láta þau ekki meta vatnsréttindin til fjár og leggja síðan á fasteignagjald, sem þau hafa nú réttarheimild til samkvæmt dómafordæmi Hæstaréttar ? Verðmætamatið þarf að vera samkvæmt viðurkenndri reikniaðferð um núvirðingu framtíðarframlegðar allra virkjana í ánni. Fyrir t.d. Þjórsá er ekki um neinar smáupphæðir að ræða og fara vaxandi.
Harðar deilur geisa um laxeldi í sjókvíum hér við land. Sumpart eiga þær deilur rót að rekja til liðins tíma horfinna vinnubragða við þessa atvinnugrein. Undanfarar ákvarðanatöku um starfsleyfi og rekstrarleyfi laxeldisstöðva eru tvíþættir. Í fyrsta lagi burðarþolsmat Hafró á líklegri getu viðkomandi fjarðar til að hreinsa sig af úrgangi og aðskotaefnum frá fiskeldinu og í öðru lagi áhættugreining, þar sem metnar eru líkur á neikvæðum atburðum á borð við eldislaxastrok alla leið upp í nærliggjandi ár, sem leiði til meira en 4 % af eldislaxi í einni á.
Til að reka endahnútinn á áhættugreininguna þarf hins vegar að meta líklegt fjárhagstjón af neikvæðum fylgifiskum laxeldis á móti samfélagslegum fjárhagsávinningi af laxeldinu. Bæði fólk og náttúra verða að fá að njóta vafans til lengdar. Einnig má líta svo á, að íbúarnir séu hluti af náttúrunni á viðkomandi svæði. Sé þetta gert, t.d. fyrir Ísafjarðardjúp, mun koma í ljós, ef lausleg athugun blekbónda er rétt, að hámarkstjónið er vel innan við 5 % af líklegum fjárhagsávinningi samfélagsins (verðmætasköpun) á hverju ári. Slíkt verður að telja, að réttlæti 30 kt/ár leyfisveitingu í Ísafjarðardjúpi, enda sé skaðabótaskylda eldisfyrirtækjanna niður njörvuð.
Í síðari hluta ágústmánaðar 2017 skilaði "Starfshópur um stefnumótun í fiskeldi" skýrslu sinni til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar var lagt til að bjóða út starfsleyfi til sjókvíaeldis, og fer nú fram vinna við útfærslu þeirra tillagna. Fyrirtækin eiga að fá 6 ára tímabil frá upphafsslátrun úr kvíunum að fyrstu greiðslu auðlindagjalds.
Hér er farið offari í gjaldtöku af atvinnustarfsemi, sem mun koma niður á fjárfestingum og nýsköpun í greininni og klárlega veikja samkeppnishæfni fyrirtækjanna á erlendum mörkuðum, því að þessi hegðun yfirvalda þekkist ekki annars staðar. Annaðhvort bjóða menn upp eða leggja á árlegt auðlindagjald, en alls ekki hvort tveggja.
Verðmætamat á laxeldisauðlindinni gæti numið 4,0 MISK/t. Reksturinn stendur ekki undir svo háu kaupverði, en e.t.v. má vænta tilboðs, sem nær 0,5 MISK/t. Til samanburðar hefur gangverð á þorskkvóta numið 2,5 MISK/t, en þar er yfirleitt um að ræða jaðarverð, þar sem útgerðir eru að bæta við sig kvóta. Ef þessi (0,5 MISK/t) yrði raunin í útboðum, mun kostnaður af leyfiskaupunum, jafnaður á 20 fyrstu rekstrarárin, nema um 6 % af framlegð. Þetta er hátt og skýrir, hvers vegna hámark árlegs auðlindargjalds var í skýrslu téðs starfshóps sett föst upphæð, 15 ISK/kg af sláturlaxi. Í heildina verða leyfisgjöld og auðlindargjald þungur baggi á starfseminni fyrstu árin, jafnvel 10 % af framlegð. Undir núverandi sjávarútvegsráðherra má þó sjávarútvegurinn búa við enn verri kjör, þar sem veiðileyfagjöldin munu nema um miaISK 11 í heildina fiskveiðiárið 2017/2018 samkvæmt reglugerð hennar frá í sumar. Þetta gæti að meðaltali numið 30 % af framlegð, sem er glórulaus gjaldtaka ríkisins.
Til að gera sér í hugarlund, hversu gríðarlegar upphæðir kunna að verða greiddar fyrir laxeldisleyfin, er hægt að taka dæmi af Ísafjarðardjúpi, þar sem burðarþolsmatið hljóðar upp á 30 kt. Ef þetta magn yrði boðið upp, gæti andvirðið numið miaISK 15. Hvert á það að renna ? Réttast væri að stofna sjóð, sem veitir fé til uppbyggingar innviða, sem tengjast fiskeldinu beint.
Ályktunin af öllu þessu er, að það stefnir í ringulreið í auðlindastjórnun landsmanna. Í sjávarútveginum er við lýði ofurgjaldtaka. Veiðileyfagjaldið raskar samkeppnisstöðu íslenzkra útgerða við útlönd og við aðrar atvinnugreinar hérlendis. Samþjöppun í greininni verður svo hröð, að sumar byggðir munu vart fá svigrúm til aðlögunar. Veiðileyfagjaldið á sjávarútveginn er miskunnarlaus rányrkja ríkisins, sem má ekki standa.
Í orku- og fjarskiptageiranum fer ekki fram útboð á virkjanaleyfum eða fjarskiptarásum. Gjald fyrir leyfisveitingar er mjög lágt, og ekkert auðlindargjald er innheimt.
Þetta ósamræmi er óviðunandi og ber vott um afleita stjórnsýslu. Hóflegt gjald ber að taka fyrir aðgang að náttúruauðlind "í sameign þjóðarinnar" eða afnotaréttinn, en það á ekki að refsa fyrirtækjum fyrir þessa nýtingu með því að rukka fyrir hvort tveggja. Heildarkostnaður fyrirtækis af aðgangs- og/eða afnotarétti ætti aldrei að fara yfir 5 % af framlegð þess árið á undan.
Uppboðsleiðin er stórgölluð. Hún getur aldrei farið fram óheft, nema menn sætti sig við, að allur aðgangurinn geti lent hjá öflugasta fyrirtækinu. Að hafa öll eggin í einni körfu er of áhættusamt fyrir yfirvöldin. Á keyptur aðgangur að vera framseljanlegur hverjum sem er ? Það verður að leggja ýmsar hömlur á bjóðendur. Það er mun eðlilegra, að raða fyrirtækjunum landfræðilega rökrétt niður á strandsvæðin og leggja síðan á þau hóflegt árlegt auðlindargjald, t.d. 20 ISK/kg, þó að hámarki 5,0 % af framlegð síðasta árs.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2017 | 18:13
Verður aukin skattbyrði umflúin ?
"Skattbyrði launafólks að teknu tilliti til tekjuskatts, útsvars og persónuafsláttar auk barna- og vaxtabóta hefur þyngzt í öllum tekjuhópum frá árinu 1998 t.o.m. árinu 2016, en þó mest frá árinu 2010."
Þetta er niðurstaða úr rannsókn Hagdeildar ASÍ, sem birt var 28. ágúst 2017. Í þessu eru engar fréttir, og sama niðurstaða gildir um allan hinn vestræna heim. Flest önnur vestræn ríki glíma við hagvaxtartregðu, sem kann að halda innreið sína hér fyrr en margan grunar, því að mjög sígur nú á ógæfuhlið með s.k. framfærsluhlutfall, sem er fjöldi fólks utan vinnumarkaðar sem hlutfall af fjölda á vinnumarkaði.
Höfuðmáli skiptir fyrir tekjuöflun hins opinbera, að hagkerfið hiksti ekki og sýni helzt hagvöxt yfir 3 %/ár að raunvirði. Þá þarf skattgrunnurinn að vera sem breiðastur, svo að skattheimtan (skatthlutfallið) geti orðið sem lægst. Nú mun ríða á að sigla á milli skers og báru varðandi skattheimtuna, svo að hún hafi sem minnzt lamandi áhrif á hagkerfið, en afli hinu opinbera þó nægra tekna til að standa straum af óumflýjanlega vaxandi útgjöldum af völdum öldrunar. Það vitlausasta, sem yfirvöld geta gert í þessari stöðu, er að drepa mjólkurkúna. Það er miðstéttin og hátekjufólk, sem stendur undir rekstri opinbera kerfisins að meginhluta, og gegndarlausar skattahækkanir á þetta fólk eru ígildi þess að drepa mjólkurkúna, því að þar með er verið að letja fólk til tekjuöflunar, sem gefin er upp til skatts, og á endanum verður landflótti sérfræðinga, sem er eitt það versta, sem fyrir landið getur komið. Til þess er blindinginn Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hins vegar albúin, ef hún kemst til valda. Í anda Hugo Chavez og Nicholas Maduros, geggjuðu sósíalistaforingjanna í Venezúela, mun téð Katrín ekki hika við að saga í sundur greinina, sem við öll þó sitjum á.
Í téðri skýrslu kvartar ASÍ undan því, að skattbyrði lágtekjufólks hafi hækkað mest. Skattkerfið og bótakerfið mynda eina flækju, sem fáir hafa fullan skilning á. Til einföldunar ætti að hækka skattleysismörkin upp í 250-300 kISK/mán (k=þúsund) og fella bætur niður á móti, t.d. vaxtabætur og barnabætur. Allir njóta góðs af hækkuðum skattleysismörkum, en lágtekjufólk þó lang mest.
Fasteignagjöld sveitarfélaganna ná ekki lengur neinni átt og eru orðin refsing fyrir að eiga húsnæði. Fyrir skuldugt ungt fólk og tekjulitla gamlingja eru fasteignagjöldin þungbær. Húseigendur borga sveitarfélögum margfaldan þann kostnað, sem þau bera af þjónustu vegna húsnæðisins. Fasteignagjöld á höfuðborgarsvæðinu eru nú 0,20 %-0,31 %. Með lögum ætti að lækka hámarksfasteignagjöld í 0,2 %, fjarlægja gólfið og fella þau niður af eldri borgurum til að auðvelda þeim að dvelja áfram í eigin húsnæði, öllum til hagsbóta. Sömu sveitarfélög leggja 1,18 %-1,65 % á atvinnuhúsnæði. Þetta jaðrar við eignaupptöku og er orðið mjög íþyngjandi fyrir atvinnuvegina og ætti með lögum að lækka í hámark 1,0 %. Lágmarkið ætti að afnema.
Útflutningsfyrirtækin berjast mörg í bökkum, þótt ISK láti nú undan síga. Til að bæta samkeppnishæfni fyrirtækjanna væri ráð að lækka tekjuskatt þeirra niður í 12 % - 15 %. Þetta mundi örva fjárfestingar hérlendis, auka nýsköpunarkraft fyrirtækjanna og gera þeim kleift að leggja meira fé í rannsóknir. Óðinn skrifar um þetta í Viðskiptablaðið, 13. júlí 2017, og vitnar í nafngreinda fræðimenn:
"Í einföldu máli komast þau að þeirri niðurstöðu, að nýsköpun innan fyrirtækjanna minnkar í kjölfar hækkunar tekjuskatts á fyrirtæki í þeirra heimaríki. Hækkun tekjuskatts um 1,5 % (frá miðgildinu 7 %) leiðir til þess, að um 37 % fyrirtækja sækja um einu færra einkaleyfi á næstu tveimur árum. Miðgildi einkaleyfaumsókna fyrirtækja er 9,1 umsókn á ári. Þegar hafður er í huga sá gríðarlegi fjöldi fyrirtækja, sem í Bandaríkjunum eru, þá er um verulega mikil áhrif að ræða."
Breyttar þjóðfélagsaðstæður gera enn meiri kröfur til yfirvalda en áður um gæði skattheimtu. Frá 2007 hefur tekjuskattur einstaklinga hækkað um 34 %, útsvarið hækkað um 11 %, fjármagnstekjuskattur og erfðafjárskattur um 100 % og tekjuskattur fyrirtækja um 33 % (úr 15 % í 20 %).Fjármagnstekjuskattur er skaðlegur fyrir sparnað. Hann ætti að helminga og ekki að skattleggja verðbætur. Erfðafjárskattur ætti að fara (aftur) í 5 %.
Katrín Jakobsdóttir og fylgifiskar virðast aldrei leiða hugann að afleiðingum skattheimtubreytinga á hegðun skattborgarans. Slíka greiningu er nauðsynlegt að gera til að leggja mat á afleiðingarnar fyrir hagkerfið. Gösslaragangur og einsýni vinstri manna í umgengni við skattkerfið gerir þá óhæfa til setu í ríkisstjórn á tímum aukinnar fjárþarfar og minnkandi tekjustofna. Slík hegðun verður enn skaðlegri fyrir hagkerfið, þegar rekstur ríkissjóðs verður í járnum, eins og fyrirsjáanlegt er með minnkandi tekjuaukningu og síðan tekjusamdrætti og hratt vaxandi útgjaldaþörf.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.8.2017 | 13:03
Sósíalismi er ekki svarið
Landsmenn standa frammi fyrir langtíma hagvaxtarrýrnun af völdum óhagstæðrar þróunar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Að öðru óbreyttu mun þetta leiða til hægari lífskjarabata þjóðarinnar og að lokum lífskjararýrnunar, ef fer fram sem horfir.
Svo kann að fara af þessum sökum, að landsmenn upplifi aldrei aftur viðlíka hagvöxt og í fyrra, 7,2 %, og að kaupmáttur ráðstöfunartekna vaxi ekki mikið úr þessu. Svona svartsýni styður mannfjöldaspá Hagstofu Íslands. Á hálfri öld, 2017-2065, mun fjöldi fólks yfir 64 ára aldri 2,4 faldast, hækka úr 50 k í 120 k. Hið s.k. framfærsluhlutfall, þ.e. fjöldi fólks undir tvítugu og yfir 64 sem hlutfall af fjöldanum 20-64 ára mun á sama tíma hækka úr 51 % í 72 %. Þetta er mjög íþyngjandi breyting fyrir samfélagið, því að árlegur sjúkrakostnaður fólks yfir 64 ára aldri er að jafnaði ferfaldur á við árlegan sjúkrakostnað yngri borgaranna.
Samkvæmt Sölva Blöndal, hagfræðingi hjá GAMMA Capital Management, í grein í Markaðnum, 23. ágúst 2017, má bást við, að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu muni rúmlega tvöfaldast sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á tímabilinu 2015-2050 m.v. 3,0 % raunaukningu á ári, fara úr 7,0 % í 15,2 %. Þetta þýðir með núverandi verðlagi og hlutdeild ríkisins í sjúkrakostnaði yfir 200 miaISK/ár útgjaldaauka ríkisins. Hvernig í ósköpunum á að fjármagna þetta ?
Hjá OECD hafa menn komizt að því, að meðaltal ríkissjóðsútgjalda til heilbrigðismála muni árið 2060 nema 14 % af VLF og hafa orðið ósjálfbær um miðja öldina, þ.e. eitthvað verður undan að láta á útgjaldahlið ríkisfjármálanna. Kerfið hrynur.
Við þessari óheillaþróun þarf að bregðast nú þegar til að draga úr tjóninu, sem blasir við. Er meiri sósíalismi svarið ? Nei, áreiðanlega ekki. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, talaði á nýlegum flokksráðsfundi eins og Hugo Chavez áður en hann kollsigldi ríkasta landi Suður-Ameríku í gjaldþrot:
"Vaxandi misskipting gæðanna sprettur beinlínis af því efnahagskerfi og þeim pólitísku stefnum, sem hafa verið ráðandi undanfarna áratugi, og nú er svo komið, að sífellt fleira fólk er farið að finna fyrir því."
Stefna Katrínar og hennar nóta birtist við afgreiðslu fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar á síðasta þingi. Þær fólu í sér svo mikla hækkun ríkisútgjalda á næstu árum, að þær mundu grafa undan getu ríkisins til að takast á við öldrunarvandann, sem við blasir í framtíðinni.
Það eru aðeins tvær leiðir til að fjármagna útgjaldahugdettur vinstri manna. Annaðhvort með skuldasöfnun eða skattahækkunum. Hvort tveggja dregur úr svigrúmi ríkissjóðs til langs tíma og er þannig ávísun á enn stórfelldari kjaraskerðingu barna okkar og barnabarna en ella verða nauðsynlegar.
Skynsamlegustu viðbrögðin núna við aðsteðjandi vanda eru þríþætt:
- Reyna að bæta lýðheilsuna með fræðsluátaki í skólum og í fjölmiðlum um skaðsemi óhófsneyzlu, hreyfingarleysis og óholls matarræðis. Ef þetta leiðir til betri heilsu eldri borgara, sparast opinber útgjöld, þótt langlífi aukist.
- Reyna að lækka einingarkostnað á hvers konar þjónustu hins opinbera. Til þess hafa aðrar þjóðir nýtt einkaframtakið. Af hverju er það talið ósiðlegt hér, sem er viðurkennd sparnaðarleið fyrir skattborgarana erlendis ? Kasta verður kreddum og pólitískum fordómum á haf út, þegar meðferð skattfjár er annars vegar. Um þetta skrifar Sölvi Blöndal í téðri grein: "Áskorunin felst m.a. í því að tryggja fjármögnun og framboð á heilbrigðisþjónustu og stuðla að hagvaxtarhvetjandi aðgerðum til framtíðar. Hvað viðvíkur fjármögnun og framboði á heilbrigðisþjónustu þá er mikilvægt að tryggja fjölbreytni. Fleiri geta annast sjálfa þjónustuna, hið opinbera, einkafyrirtæki, einstaklingar, sjálfseignarstofnanir, tryggingafélög o.fl. Sá, sem aflar fjárins, þarf ekki endilega að hafa yfirumsjón með þjónustunni. Tvær hagvaxtarhvetjandi aðgerðir, sem vert er að nefna, eru hækkun eftirlaunaaldurs annars vegar og minni hömlur á fólksflutninga til Íslands hins vegar." Ef innflytjendur eiga að styrkja hagkerfið, þurfa þeir að hafa menntun og þekkingu, sem spurn er eftir hér. Ekki er víst, að afkvæmi þeirra fjölgi sér hraðar en "frumbyggjarnir".
- Nýta verður núverandi svigrúm ríkisfjármála til að greiða hratt niður skuldir ríkissjóðs, því að að einum áratug liðnum mun "ellibyrðin" hafa vaxið til muna.
Hugmyndafræði vinstri manna er meira í ætt við trúarbrögð en stjórnmálastefnu, því að annars væri hugmyndafræði þeirra löngu dauð vegna slæmrar reynslu af henni á sviði efnahagsmála og á sviði frelsis einstaklinga og félagasamtaka. Hugmyndafræði vinstri manna á enn verr við á 21. öldinni en áður, því að nú verður að setja aukna verðmætasköpun á oddinn sem aldrei fyrr til að "hinn öfugi aldurspýramídi" hrynji síður. Um þetta skrifar Óli Björn Kárason, Alþingismaður, í ágætri miðvikudagsgrein í Morgunblaðinu, 23. ágúst 2017,
"Játning: ég mun aldrei skilja sósíalista":
"Hugmyndafræði vinstri manna - sósíalista - gefur ekkert fyrir þjóðfélag frjálsra einstaklinga, sem eru fjárhagslega sjálfstæðir. Mælikvarði velferðar og réttlætis [þeirra] mælir umsvif ríkisins. Íslenzkir vinstri menn - líkt og skoðanabræður þeirra í öðrum löndum - byggja á þeirri bjargföstu trú, að ríkið sé upphaf og endir allra lífsgæða. Aukin umsvif ríkis og annarra opinberra aðila er markmið í sjálfu sér, en [eru] ekki aðeins æskileg."
Fjármál | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.8.2017 | 09:13
Um laxeldi í Ísafjarðardjúpi
Nýleg skýrsla Hafrannsóknarstofnunar - Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar á milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi - olli Vestfirðingum og fleirum gríðarlegum vonbrigðum. Þetta var þó ekki áhættumat, heldur líkindamat, því að áhættumat fæst bæði við líkindi og afleiðingar atburðar. Á grundvelli líkinda á, að strokulax úr kvíum nái að æxlast með náttúrulegum laxi í tveimur ám í Ísafjarðardjúpi, lagðist stofnunin gegn sjókvíaeldi á ógeltum norskum laxi í Ísafjarðardjúpi þrátt fyrir, að opinbert burðarþolsmat gæfi til kynna, að lífríki Ísafjarðardjúps mundi þola 30 kt (k=þúsund) af laxi í sjókvíum án tillits til erfðablöndunar. Hver er áhættan ? Hér verður litið á afleiðingar þess að leyfa laxeldi í Ísafjarðardjúpi á mannlífið við Djúpið og á laxalífið.
Þegar vandað er til ákvörðunar, er ávinningur metinn hlutlægt á móti tjóninu. Hlutlægur mælikvarði er ætlaður fjárhagslegur ávinningur og ætlað fjárhagslegt tap.
Fyrst að meintum ávinningi. Mikið hefur verið skrifað í blöðin um málefnið og margt tilfinningaþrungið, svo að ljóst er, að mörgum er heitt í hamsi, enda miklir hagsmunir í húfi. Teitur Björn Einarsson, Alþingismaður, reit ágæta hugvekju í Morgunblaðið, 22. júlí 2017,
"Frá yztu nesjum samtímans":
"Viðfangsefnið er líka annað, þar sem spurningunni um, hvort hægt sé að lifa af landsins gæðum frá ári til árs, hefur verið skipt út fyrir aðra um, hvernig bæta á lífskjör í landinu án þess að mega nýta frekar auðlindir þess með sjálfbærum hætti."
Þetta er rétt greining hjá þingmanninum á núverandi stöðu atvinnuþróunar í landinu. Megnið af hagkerfi landsins er reist á hagnýtingu náttúrugæða, og nú er að bætast við þá flóru fiskeldi, sem getur orðið verðmæt stoð, sem hefur tekjuaukandi og sveiflujafnandi áhrif á efnahagslífið. Fyrir landið allt er þess vegna til mikils að vinna, þar sem fiskeldið jafnar atvinnuréttindi fólks í landinu vegna nýrra og verðmætra tækifæra á landsbyggðinni.
Vestfirðingum þykir að sér þrengt að hálfu ríkisvaldsins varðandi atvinnuuppbyggingu í sinni heimabyggð, og það er auðskilið. Teitur Björn tekur dæmi:
"Þrjú brýn framfaramál í deiglunni á Vestfjörðum eru nokkuð lýsandi dæmi fyrir baráttu byggðanna hringinn um landið. Þetta eru í fyrsta lagi vegur um Barðaströnd í stað vegslóða, í öðru lagi raforkuflutningskerfi, sem slær ekki út við fyrsta snjóstorm hvers vetrar og í þriðja lagi skynsamleg uppbygging á einni umhverfisvænstu matvælaframleiðslu, sem völ er á."
Hvað er "skynsamleg uppbygging" fiskeldis ? Er hún aðeins fyrir hendi, ef engin staðbundin óafturkræf breyting verður á lífríki náttúrunnar, eða er hægt að samþykkja slíkar breytingar, ef metið fjárhagstjón er t.d. innan við 5 % af metnum fjárhagslegum ávinningi ?
Alþingismaðurinn skrifar síðan, sennilega fyrir hönd langflestra Vestfirðinga, sem nú sjá breytta og bætta tíma innan seilingar, ef ríkisvaldið ekki leggst þversum:
"Þess vegna er það ekki í boði, að sanngjarnri kröfu íbúa á Vestfjörðum um eðlilega uppbyggingu innviða sé nú svarað með skeytingarleysi eða hiki af hálfu ríkisvaldsins og stofnana þess. Það er líka ótækt, að á lokametrum langs og lögbundins stjórnsýsluferils sé öllu til tjaldað af hálfu þrýstihópa til að stöðva mál og teflt af óbilgirni til að knýja fram sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna."
Það er hægt að taka heils hugar undir það, að ríkisvaldinu ber að veita almannahagsmunum brautargengi. Ef þeir brjóta á lögvörðum réttindum einstaklinga, komi fullar bætur fyrir að Stjórnarskrá og lögum. Þetta getur átt við um vegalögn, raflínulögn og fiskeldi úti fyrir strönd og í grennd við árósa.
Kristín Hálfdánsdóttir, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ, talar sennilega fyrir munn margra þar. Hún hóf grein í Morgunblaðinu 15. ágúst 2017,þannig:
"Laxeldi í Djúpinu":
"Fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum er ekkert mál stærra eða mikilvægara en, hvort laxeldi í Ísafjarðardjúpi fái brautargengi. Engin önnur atvinnu- og verðmætasköpun er sjáanleg til að byggja upp nýjar meginstoðir í atvinnulífi á þessu svæði til framtíðar. Skapað vel launuð og fjölbreytt störf, sem munu hafa úrslitaáhrif á byggðaþróun og snúa áratuga langri hnignun í sókn fyrir íbúana."
Hér er ekki lítið undir, heldur getur ákvörðun um sjókvíaeldi í Djúpinu skipt sköpum um, hvort byggðin fær að blómstra í fjölbreytileika atvinnulífs og mannlífs eða þarf enn að heyja varnarbaráttu.
Hver yrði ávinningurinn af 30 kt/ár sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi ?
Samkvæmt Pétri G. Markan, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps og formanni Fjórðungssambands Vestfirðinga, eru nú "180 bein störf í kringum fiskeldi á Vestfjörðum, skattspor nær milljarði. Í áætlunum fiskeldisfyrirtækja er gert ráð fyrir 700-800 beinum störfum - sé miðað við, að varfærnislegt burðarþol Hafrannsóknarstofnunar verði nýtt. Í verðmætum má reikna með 60 milljörðum [ISK] í útflutningstekjum."
Burðarþolsmat Hafró fyrir Ísafjarðardjúp hljóðaði upp á 30 kt/ár. Frumráðlegging stofnunarinnar var um að sleppa sjókvíaeldi norsks lax í Ísafjarðardjúpi, sem gæti hrygnt í tveimur laxveiðiám þar með ósa út í Djúpið, af ótta við kynblöndun og erfðabreytingar. Þær geta í versta tilviki orðið svo skaðlegar, að laxastofnar þessara tveggja áa deyi út, þ.e. úrkynjist og lifi ekki af veruna í hafinu.
Hafrannsóknarstofnun ráðleggur að leyfa allt að 50 kt/ár laxeldi í sjókvíum Vestfjarða án Ísafjarðardjúps. Pétur G. Markan gæti þess vegna átt við, að 700-800 ársverk hjá fiskeldisfyrirtækjunum sinni fiskmassa í sjókvíum að jafnaði 80 kt/ár ásamt skrifstofustörfum og annarri nauðsynlegri þjónustu við framleiðsluna. Þetta þýðir 10 ársverk/kt, þegar fullri framleiðslu verður náð og þar af leiðandi hámarks framleiðni.
Þetta passar við upplýsingar frá Noregi um 9500 bein ársverk (og 19000 óbein) eða 7,3 bein störf/kt. Það er reiknað með lægri framleiðni í fiskeldi á Íslandi en í Noregi, af því að framleiðslan verður væntanlega alltaf meira en tíföld í Noregi. Samkvæmt upplýsingum frá Noregi skapar hvert beint ársverk MNOK 2,7, sem er um MISK 36. Vegna minni framleiðni verða þetta e.t.v. 0,75 x 36 = MISK 27 á Íslandi.
Heimfært á 30 kt/ár laxeldi í Ísafjarðardjúpi er þar um að ræða 300 bein ársverk og 600 óbein ársverk dreifð um landið, þó trúlega mest á Vestfjörðum. Þetta gæti þýtt fólksfjölgun í Ísafjarðardjúpi um 2400 manns. Verðmætasköpun þessara beinu ársverka verður V=300 x 36 MISK/ár = 11 miaISK/ár. Þetta er hinn staðbundni fjárhagslegi ávinningur af að leyfa 30 kt/ár laxeldi (í sjókvíum) í Ísafjarðardjúpi.
Hvert getur hámarks tjónið af að leyfa þetta fiskeldi orðið ? Það verður væntanlega, ef laxinn hverfur úr Laugardalsá og Langadalsá/Hvannadalsá, en þar hefur meðalveiðin verið um 500 laxar/ár. Því var haldið fram af Magnúsi Skúlasyni, formanni Veiðifélags Þverár og bónda í Norðtungu í Fréttablaðsgrein 18. júlí 2017, "Að skapa störf með því að eyða þeim annars staðar", að með allri þjónustu skili sala veiðileyfa um 20 miaISK/ár inn í landið. Ef þessu er deilt á 30´000 fiska/ár, þá skila þessar veiðileyfatekjur 670 kISK/fisk. Hámarkstjón í Djúpinu er þá 670 kISK/fisk x 500 fiskar/ár = 335 MISK/ár eða 3 % af ávinninginum. Laxeldisfyrirtækin gætu tryggt sig fyrir þessu tjóni eða lagt brotabrot af sölutekjum sínum í tjónasjóð á hverju ári. Ef veiðin í ánum tveimur minnkar meira en að meðaltali yfir landið, myndavélar sýna eldislax við ósana og hann veiðist í meira en 4 % magni í ánum, þá verði skylt að bæta tjónið.
Ef gert er ráð fyrir stærð hrygningarstofns 700 löxum í téðum tveimur ám, þá kveður varúðarregla Hafrannsóknarstofnunar á um, að ekki megi fleiri en 0,04 x 700 = 28 eldislaxar ganga í árnar. Hvert er þá hámarks leyfilegt strokhlutfall upp í árnar til að hrygna, SHmax, af fjölda eldislaxa ?
Áætlaður fjöldi fiska í eldi er 30 kt/2 kg = 15 M fiskar. 15 M x SHmax = 28 ; SHmax = 1,9 ppm/ár. Þetta er sá "hámarksleki", sem laxeldisfyrirtækin ættu að keppa að.
Geta laxeldisfyrirtækin sýnt fram á, að þau geti uppfyllt þessa kröfu ? Á Íslandi er líklega ekki enn til marktækur gagnagrunnur fyrir slíka tölfræði, en hann mun koma, þegar laxeldinu vex fiskur um hrygg.
Fyrst er þess þá að geta, að með tiltækum mótvægisaðgerðum virðist, að í Noregi komist aðeins lítill hluti strokufiska upp í árnar og hrygni þar, e.t.v. innan við 2 %. Það hækkar auðvitað leyfilegt strokhlutfall úr eldiskvíunum, e.t.v. upp í 126 ppm.
Magnús Skúlason skrifar:
"Samkvæmt norskum rannsóknum liggur fyrir, að einn lax sleppur að meðaltali fyrir hvert alið tonn af eldislaxi." Ef þetta ætti við um Ísafjarðardjúp með 30 kt eldismassa, þá slyppu þar árlega út 30 þúsund laxar, og sleppihlutfallið væri 2000 ppm. Þetta stenzt ekki skoðun á upplýsingum frá norsku Umhverfisstofnuninni.
Í Fiskifréttum birtist 17. ágúst 2017 fróðleg grein um þetta efni eftir Svavar Hávarðsson, blaðamann,
"Kolsvört skýrsla um villtan lax í Noregi".
Greinin hófst þannig:
"Mikil hætta steðjar að norskum villtum laxastofnum, og allar helztu ástæður hennar eru raktar til laxeldis í sjókvíum. Erfðablöndun er þegar orðin útbreidd og mikil."
Aðstæður á Íslandi og í Noregi eru ósambærilegar að þessu leyti, því að laxeldið er þar stundað úti fyrir ósum allra helztu laxveiðiáa Noregs, en í tíð Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra, var sjókvíaeldi bannað árið 2004 úti fyrir ströndum Vesturlands, Norðurlands (nema Eyjafirði) og Norð-Austurlands, og verður ekki stundað úti fyrir Suðurlandi fyrir opnu hafi. Fjarlægðin er bezta vörnin gegn genaflæði á milli stofna. Fáeinir laxar geta villzt af leið, en það getur engin teljandi áhrif haft á eðli íslenzku laxastofnanna, nema staðbundin í viðkomandi firði.
Það er lykilatriði við að meta líkur á erfðabreytingum á íslenzkum löxum í Ísafjarðardjúpi, hvað búast má við miklum "fiskaleka" úr kvíunum. Tölur frá Noregi geta verið leiðbeinandi í þeim efnum, því að unnið er eftir sama stranga staðli báðum löndunum. Af tilvitnaðri Fiskifréttargrein má "slá á laxalekann" í Noregi:
"Norsk fyrirtæki framleiddu 1,2 Mt af eldislaxi árið 2016. Frá þessum fyrirtækjum var tilkynnt um 131 k laxa, sem sloppið höfðu úr kvíum - samanborið við 212 k laxa að meðaltali áratuginn á undan. Þessum tölum taka vísindamennirnir með fyrirvara; segja, að rannsóknir sanni, að tvisvar til fjórum sinnum fleiri laxar séu líklegir til að hafa sloppið en tilkynnt er um."
Ef reiknað er með, að 393 k laxar hafi sloppið úr norskum eldiskvíum árið 2016, þá gæti lekahlutfallið hafa verið: LH=393 k/720 M=550 ppm, sem er óviðunandi hátt fyrir íslenzkar aðstæður. Það mundi t.d. þýða, að 8250 laxar slyppu úr sjókvíum í Ísafjarðardjúpi með 30 kt eldismassa. Þetta er tífaldur hrygningarstofn laxa í Ísafjarðardjúpi, en þess ber að gæta, að með eftirliti og mótvægisaðgerðum er hægt að fanga megnið af þessum fiskum áður en þeir ná að hrygna í ánum.
Jón Örn Pálsson, sjávarlíffræðingur, hefur sagt, að 6000 eldislaxar á ári hafi leitað í norskar ár árin 2014-2015. Ef 6 k af 393 k eldislaxar hafa leitað í norskar ár árið 2016, þá er það 1,5 % af þeim, sem sluppu. Heimfært á Ísafjarðardjúp þýðir það, að 0,015x8250=124 eldislaxar sleppa upp í ár, þar sem stofninn er um 700 fiskar. Hlutfallið er tæplega 18 %, en varúðarmark Hafrannsóknarstofnunar er 4 %. Samkvæmt þessu má telja fullvíst, að í umræddum tveimur ám muni verða erfðabreytingar á laxastofnum. Það er hins vegar algerlega háð sleppihlutfallinu og virkum mótvægisaðgerðum. Það er þess vegna ekki hægt að slá því föstu á þessari stundu, að með því að leyfa 30 kt laxeldi í Ísafjarðardjúpi, verði þar skaðlegar erfðabreytingar á villtum laxastofnum í þeim mæli, að löxum taki þar að fækka.
Fjárhagslegur ávinningur er svo miklu meiri en hugsanlegt tjón, að réttlætanlegt er að leyfa að fara af stað með lífmassa í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi 15 kt og stunda um leið vísindarannsóknir á lífríkinu og fylgjast náið með "lekanum" og fjölda eldislaxa, sem ná upp í árnar. Tímabundin rannsóknar- og eftirlitsáætlun væri samin af viðkomandi fiskeldisfyrirtækjum og Umhverfisstofnun og kostuð af hinum fyrrnefndu. Mótvægisaðgerð gæti líka verið fólgin í fjölgun náttúrulegra laxa í Laugardalsá og Langadalsá/Hvannadalsá.
Nú hefur starfshópur Landssambands fiskeldisfyrirtækja, Veiðiréttarhafa í íslenzkum ám o.fl. skilað skýrslu til ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar, þar sem reifuð er uppstokkun á umgjörð fiskeldis á Íslandi. Flest stendur þar til bóta, en í ljósi óljósra líkinda á hugsanlegu tjóni af völdum laxeldis í Ísafjarðardjúpi og gríðarlegra hagsmuna íbúanna á svæðinu, sem eru meira en þrítugfaldir hugsanlegt hámarkstjón, er ekki hægt að rökstyðja bann með niðurstöðu "áhættugreiningar". Rökrétt hefði verið á grundvelli "áhættugreiningar" að leyfa minna laxeldi, með ströngum skilyrðum, en burðarþolsmat Hafrannsóknarstofnunar á Ísafjarðardjúpi skilgreindi. Hver veit, nema Alþingi komist að slíkri niðurstöðu ?
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.8.2017 | 10:19
Syndsamlegt líferni kostar sitt
Það er viðkvæðið, þegar mælt er gegn fíkniefnaneyzlu hvers konar, tóbak og vínandi þar ekki undanskilin, að fíklarnir séu samfélaginu dýrir á fóðrum.
Fíklarnir eru hins vegar sjálfum sér og sínum nánustu verstir. Nýleg brezk rannsókn sýnir, að peningalega eru þeir minni samfélagsbyrði í Bretlandi en þeir að líkindum hefðu verið, ef þeir mundu hafa lifað miðlungs heilbrigðu lífi og þannig náð meðalaldri brezku þjóðarinnar. Líklegt er, að rannsókn hérlendis mundi leiða til svipaðrar niðurstöðu um þetta.
Höfundurinn Óðinn ritar um þetta í Viðskiptablaðið, 10. ágúst 2017. Hann vitnar í rannsóknarskýrslu eftir Christofer Snowdon og Mark Tovey, sem gerð var fyrir brezku hugveituna "Institute of Economic Affairs" (IEA). Þar voru reykingamenn og drykkjumenn rannsakaðir. Grófasta nálgun við heimfærslu á Ísland er að deila með hlutfalli íbúafjölda landanna, 185, og að breyta sterlingspundum í ISK. Slík heimfærsla gefur aðeins vísbendingu.
"Skýrslan er um margt drungaleg vegna þess, að í henni er m.a. reynt að skjóta á þann sparnað, sem ríkið fær, vegna þess að reykingafólk deyr almennt fyrr en þeir, sem ekki reykja. Eins eru teknar með í reikninginn tekjur brezka ríkisins af tóbaksgjöldum."
Skýrsluhöfundar áætla kostnað ríkissjóðs vegna þjónustu heilbrigðiskerfisins við reykingafólk nema um miaGBP 3,6, sem gróflega heimfært nemur miaISK 2,7. Til viðbótar kemur miaGBP 1,0 vegna óþrifa af völdum reykinga og eldtjóns af völdum glóðar eftir reykingamenn. Kostnaður alls miaGBP 4,6 eða gróflega heimfært miaISK 3,4.
Á tekjuhlið ríkissjóðs í þessum málaflokki eru skattar og gjöld af tóbaksvörum, miaGBP 9,5, eða gróflega heimfært miaISK 7,1. Brezki ríkissjóðurinn er með rekstrarhagnað af reykingafólki, sem nemur GBP 4,9 eða gróflega heimfært miaISK 3,7.
Það er ekki nóg með þetta, heldur veldur sparar ríkissjóður Bretlands fé á ótímabærum dauðsföllum reykingamanna. Talið er, að 15,9 % dauðsfalla á Bretlandi hafi mátt rekja til reykinga árið 2015, og þau bar að jafnaði 13,3 árum fyrr að garði en hjá hinum. Hér er einmitt um þann hluta ævinnar hjá flestum að ræða, þegar fólk þarf mest að leita til hinnar opinberu heilbrigðisþjónustu. Þar að auki verða ellilífeyrisgreiðslur til reykingamanna sáralitlar, en á móti kann að koma örorkulífeyrir. Þetta telst skýrsluhöfundum til, að spari brezka ríkissjóðinum miaGBP 9,8 á ári, eða gróflega heimfært miaISK 7,3 á á ári. Þannig má halda því fram, að eymd brezkra reykingamanna spari brezka ríkinu miaGBP 14,7 á ári, sem gróflega heimfært á íslenzka reykingamenn yrðu miaISK 11,0. Þetta er nöturlega há tala m.v. þá eymd og pínu, sem sjúklingar, t.d. með súrefniskúta, mega þjást af, svo að ekki sé nú minnzt á aðstandendur. Kaldhæðnir segja tóbakið og nikótínfíknina vera hefnd rauðskinnans, en indíánar voru örugglega ekki með í huga á sínum tíma að styrkja ríkissjóði hvíta mannsins.
Með svipuðum hætti hefur Snowdon í skýrslunni "Alcohol and the Public Purse", sem gefin var út af IEA árið 2015, afsannað fullyrðingar um kostnað brezka ríkissjóðsins af ofneyzlu áfengis. Því er einnig iðulega haldið á lofti hérlendis, að áfengissjúklingar séu baggi á ríkissjóði, en ætli það sé svo, þegar upp er staðið ?
Áfengisbölið er hins vegar þyngra en tárum taki fyrir fjölskyldurnar, sem í hlut eiga. Slíkt ætti þó ekki að nota sem réttlætingu fyrir áfengiseinkasölu ríkisins, steinrunnu fyrirbrigði, sem bætir sennilega engan veginn úr áfengisbölinu.
Í grunnskólum landsins þarf forvarnaraðgerðir með læknisfræðilegri kynningu á skaðsemi vínanda og annarra fíkniefna á líkama og sál, einkum ungmenna. Þá er það þekkt, að sumir hafa í sér meiri veikleika en aðrir gagnvart Bakkusi og verða þar af leiðandi auðveld fórnarlömb hans. Allt þetta þarf að kynna ungu fólki í von um að forða einhverjum frá foraðinu. Vinfengi við Bakkus ætti helzt aldrei að verða, en hóflega drukkið vín (með mat í góðra vina hópi) gleður þó mannsins hjarta, segir máltækið.
Hvað skrifar Óðinn um opinberan kostnað af áfengisbölinu ?:
"Kostnaður hins opinbera vegna áfengisneyzlu er víðtækur. Kostnaður vegna áfengistengdra ofbeldisglæpa er metinn á um miaGBP 1,0, og kostnaður vegna annarra glæpa - þar á meðal drukkinna ökumanna - er um miaGBP 0,6. Kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna áfengisdrykkju er metinn á um miaGBP 1,9, og annar kostnaður velferðarkerfisins, t.d. vegna greiðslna til fólks, sem drykkjusýki sinnar vegna er ófært um vinnu, nemur um miaGBP 0,29."
Á Bretlandi er metinn opinber heildarkostnaður vegna ofdrykkju Kod = miaGBP(1,0+0,6+1,9+0,29)=miaGBP 3,8. Yfirfærður til Íslands með einfaldasta hætti nemur þessi kostnaður miaISK 2,8. Á Bretlandi er þessi kostnaður lægri en af tóbaksbölinu, en blekbóndi mundi halda, að á Íslandi sé opinber kostnaður af áfengisbölinu hærri en af tóbaksbölinu og jafnframt hærri en miaISK 2,8 þrátt fyrir verra aðgengi að áfengisflöskum og -dósum hérlendis, eins og allir vita, sem ferðazt hafa til Bretlands. Það er barnalegt að ímynda sér, að ríkisverzlanir reisi einhverjar skorður við áfengisfíkninni. Hún er miklu verri viðfangs en svo.
Tekjur brezka ríkisins af af áfengi á formi skatta og áfengisgjalda eru um miaGBP 10,4. Þar að auki felur skammlífi drykkjusjúkra í sér talsverðan sparnað, sem Óðinn tíundaði þó ekki sérstaklega. Brezka ríkið kemur þannig út með nettótekjur af áfengi, sem nemur a.m.k. miaGBP(10,4-3,8)=miaGBP 6,6. Brúttotekjur íslenzka ríkisins út frá þessu eru miaISK 7,8, en eru í raun miklu hærri, og nettótekjur þess miaISK 4,9. Kostnaður íslenzka ríkissjóðsins af áfengisbölinu er gríðarlegur, svo að nettótekjur hans af áfenginu eru sennilega ekki hærri en þessi vísbending gefur til kynna, en samt örugglega yfir núllinu, þegar tekið hefur verið tillit til styttri ævi.
Undir lokin skrifar Óðinn:
"Það er engu að síður áhugavert að sjá, að þvert á fullyrðingar þeirra, sem berjast gegn reykingum og áfengisneyzlu, þá væri staða brezka ríkissjóðsins verri en ella, ef ekki væri fyrir reykinga- og drykkjufólkið."
Ríkissjóðurinn íslenzki hagnast mikið á ýmsum öðrum hópum, sem sérskattaðir eru. Þar fara eigendur ökutækja framarlega í flokki. Tekjur ríkissjóðs af ökutækjum nema um miaISK 45, en fjárveitingar til vegagerðarinnar nema aðeins rúmlega helmingi þessarar upphæðar, og hefur Vegagerðin þó fleira á sinni könnu en vegina, t.d. ferjusiglingar. Fjárveitingar til Vegagerðarinnar hafa nú í 9 ár verið allt of lágar m.v. ástand vega og umferðarþunga, en frá 2015 hefur keyrt um þverbak. Af öryggisástæðum verður að auka árlegar fjárveitingar til vegamála hérlendis um a.m.k. miaISK 10.
Nú hefur fjármála- og efnahagsráðherra boðað hækkun kolefnisgjalds á dísilolíu. Vinstri stjórnin reyndi fyrir sér á ýmsum sviðum með neyzlustýringu, og eitt asnastrikið var að hvetja til kaupa á dísilbílum fremur en benzínbílum með meiri gjöldum á benzínið. Hækkun nú kemur sér auðvitað illa fyrir vinnuvélaeigendur, en vinnuvélar eru flestar dísilknúnar, og þeir eiga ekkert val. Eigendur annarra dísilknúinna ökutækja eiga val um aðra orkugjafa, t.d. fossaafl og jarðgufu, sem breytt hefur verið í rafmagn.
Stöðugt hefur fjarað undan þessum tekjustofni ríkisins vegna sparneytnari véla. Innleiðing rafbíla kallar á allsherjar endurskoðun á skattheimtu af umferðinni. Strax þarf að hefja undirbúning að því að afleggja gjöld á eldsneytið og eignarhaldið (bifreiðagjöld) og taka þess í stað upp kílómetragjald. Bílaframleiðendur eru að alnetsvæða bílana og "skattmann" getur fengið rauntímaupplýsingar um aksturinn inn í gagnasafn sitt og sent reikninga í heimabanka bíleigenda mánaðarlega, ef því er að skipta. Í Bandaríkjunum eru nú gerðar tilraunir með þetta, og er veggjaldið um 1,1 ISK/km. Þar er reyndar einnig fylgzt með staðsetningu og hærra gjald tekið í borgum, þar sem umferðartafir eru. Á Íslandi yrði meðalgjaldið um 5,1 ISK/km m.v. 35 miaISK/ár framlög ríkisins til vegamála.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2017 | 18:34
Skringilegur ráðherra
Umhverfis- og auðlindaráðherra braut síðareglur Alþingis með því uppátæki sínu að fara í einhvers konar fyrirsætuhlutverk í ræðusal hins háa Alþingis fyrir kjólahönnuð. Fyrir vikið fær ráðherrann ekki lengur að njóta vafans, en hún hefur verið með stórkarlalegar yfirlýsingar um atvinnuvegi landsmanna, t.d. orkukræfan iðnað. Við þetta hefur hún misst allt pólitískt vægi og er orðin þung pólitísk byrði fyrir Bjarta framtíð og er ekki ríkisstjórninni til vegsauka.
Í kjölfar hinnar alræmdu kjólasýningar í Alþingishúsinu, sem afhjúpaði dómgreindarleysi ráðherrans, birtist hún í fréttaviðtali á sjónvarpsskjám landsmanna með barn sitt á handlegg og lýsti því yfir, að hún vildi, að bílaumferðin væri orðin kolefnisfrí árið 2030 ! Þetta er ómögulegt og er ekki í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, sem miðar við, að 40 % bílaflotans í heild sinni verði knúinn raforku árið 2030.
Þetta undirmarkmið ríkisstjórnarinnar dugar þó ekki til þess að ná heildarmarkmiðinu um 40 % minni koltvíildislosun frá innanlandsnotkun jarðefnaeldsneytis utan ETS (viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir). Til þess verður olíu- og benzínnotkun um 60 kt of mikil árið 2030, sem þýðir, að hækka þarf undirmarkmið ríkisstjórnarinnar úr 40 % í 60 % til að ná yfirmarkmiðinu. Hröðun á þessu ferli næst hins vegar ekki án íþyngjandi og letjandi aðgerða stjórnvalda gagnvart kaupendum og eigendum eldsneytisbíla og hvetjandi aðgerðum til að kaupa rafknúna bíla, t.d. skattaívilnanir. Þá verður einnig að flýta allri innviðauppbyggingu. Allt þetta þarf að vega og meta gagnvart gagnseminni fyrir hitafarið á jörðunni og loftgæðin á Íslandi. Áhrifin af þessu á hitafarið verða nánast engin.
Ráðherra umhverfis- og auðlindamála gerði sig enn einu sinni að viðundri með yfirlýsingu, sem er óframkvæmanleg. Fyrsta undirmarkmið ríkisstjórnar í þessum efnum er frá 2010 og var einnig alveg út í hött, en það var um, að 10 % ökutækjaflotans yrðu orðin umhverfisvæn árið 2020. Nú er þetta hlutfall um 1,0 %, og með mikilli bjartsýni má ætla, að 5,0 % náist í árslok 2020.
Þetta illa ígrundaða undirmarkmið vinstri stjórnarinnar var skuldbindandi gagnvart ESB, og það mun kosta ríkissjóð um miaISK 1,0 í greiðslur koltvíildisskatts, að óbreyttu til ESB, en vonandi verður bróðurparti upphæðarinnar beint til landgræðslu á Íslandi, sem jafnframt bindur koltvíildi úr andrúmsloftinu. Það er þó í verkahring ríkisstjórnarinnar (téðs umhverfisráðherra ?) að vinna því máli brautargengi innan ESB.
Vegna þess, að koltvíildisgjaldið mun hækka á næsta áratug úr núverandi 5 EUR/t CO2 í a.m.k. 30 EUR/t, þá gætu kolefnisgjöld ríkissjóðs vegna óuppfyllts markmiðs íslenzkra stjórnvalda farið yfir miaISK 5,0 á tímabilinu 2021-2030. Það er verðugt viðfangsefni íslenzkra stjórnvalda að fá ESB til að samþykkja, að þetta fé renni t.d. til Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Er ráðherrum á borð við Björt Ólafsdóttur treystandi í slík alvöruverkefni ?
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.8.2017 | 09:43
Myntþrefið
Það vakti vissulega athygli í júlí 2017, er fjármála- og efnahagsráðherra Íslands reit greinarstúf í Fréttablaðið, þar sem ráðherra peningamálanna áskildi sér rétt til þess að hafa þá skoðun, að réttast væri að leggja íslenzku myntina, ISK, niður. Líklegt og eðlilegt er, að þetta sjónarmið ráðherrans hafi fallið í grýttan jarðveg á meðal landsmanna, því að flokkur ráðherrans tók dýfu í skoðanakönnunum í kjölfarið. Skyldi engan undra, enda er hér um einsdæmi að ræða frá stofnun embættis fjármálaráðherra. Þótt þessi fjármálaráðherra ynni sér ekkert annað til frægðar, er hann þar með kominn í annála. Líklega er þessi sprungna blaðra bara til að undirstrika málefnafátækt flokks ráðherrans, sem er eins máls flokkur, og þetta eina mál er nú sem steinbarn í kviði flokksins.
Ráðherrann varði sig með því að vísa til Evrópu, en til höfuðstöðva Evrópusambandsins, ESB, í Brüssel liggja pólitískar taugar ráðherrans, eins og kunnugt er. Hann hélt því fram, að fjármálaráðherrar evrulandanna hefðu í raun gert það sama og hann, þegar þessi lönd fórnuðu gjaldmiðlum sínum fyrir evruna. Þetta er röng og óviðeigandi samlíking hjá ráðherranum, enda ber aðildarlöndum ESB, sem uppfylla Maastricht-skilyrðin, að taka upp evru.
Það er þó vitað, að evran er pólitískt hrúgald, sem hróflað var upp aðallega að ósk Frakka, sem þoldu ekki samanburðinn á milli sterks Deutsche Mark, DEM, og veiks fransks franka. Misjafn styrkur þessara tveggja gjaldmiðla endurspeglaði þó aðeins muninn á efnahagsstjórn þessara ríkja, skipulagshæfni og dugnaði. Nú heldur Þýzkaland uppi gengi evrunnar, sem t.d. hefur styrkzt um 15 % gagnvart GBP frá Brexit kosningunum í júní 2016.
Þegar kommúnistastjórnir Austur-Evrópu voru komnar að fótum fram, þá fengu Vestur-Þjóðverjar gullið tækifæri með beitingu DEM gegnvart ráðstjórninni í Moskvu til að láta draum allra Þjóðverja um endursameiningu Þýzkalands rætast. Enginn veggur, heldur ekki Kremlarmúrar, er svo hár, að asni, klyfjaður gulli, komist ekki yfir hann. Bandaríkjamenn voru hlynntir endursameiningunni, en hin hernámsveldin tvö, Bretar og Frakkar, drógu lappirnar. Þá ákvað Helmut Kohl, þáverandi kanzlari Vestur-Þýzkalands, að egna fyrir Francois Mitterand, þáverandi forseta Frakklands, með ástfóstri Frakka, evrunni. Hann lofaði því, að ef Frakkar samþykktu endursameiningu Þýzkalands, þá mundu Þjóðverjar fórna þýzka markinu, DEM, og taka upp evru. Mitterand gekk að þessu, og þegar Bretar voru einir eftir, samþykktu þeir með semingi endursameiningu Þýzkalands. Það hefur þó frá fyrstu tíð verið þáttur í utanríkisstefnu Englands að halda Þjóðverjum sundruðum. Þeir tímar eru liðnir, þótt Þjóðverjar hafi tapað gríðarlegum landsvæðum í umróti 20. aldarinnar. Nú sækir sundrungarhættan Bretana sjálfa heim.
Síðla vetrar árið 2000, eftir að evran leit dagsins ljós og var komin í veski Evrópumanna, var blekbóndi á ferðinni í vestanverðu Þýzkalandi á bílaleigubíl og ók eftir sveitavegum, sem sumir hverjir voru fyrstu hraðbrautir Þýzkalands (þá Þriðja ríkisins). Hann mætti þá bændum og búaliði á dráttarvélum með heyvagna í eftirdragi, fulla af glaðbeittum Germönum á leið á Karnival, kjötkveðjuhátíð. Á einn vagnanna var strengdur borði með ógleymanlegum texta, sem blekbónda fannst stafa beint út úr þýzku þjóðarsálinni:"D-Mark, D-Mark, Schade das du alles vorbei ist".
Þýzka þjóðin saknaði myntar sinnar, sem vaxið hafði með henni úr rústum heimsstyrjaldarinnar 1939-1945 og endurspeglaði sparsemi, eljusemi, heiðarleika, kunnáttu og seiglu þýzks almennings, des deutschen Volkes, og hún átti erfitt með að sætta sig við þessa fórn, enda var hún afrakstur pólitískra hrossakaupa. Die Bundesbank, eða þýzki Seðlabankinn, hafði alla tíð, og hefur enn, miklar efasemdir um grundvöll evrunnar, enda er stöðugur reipdráttur í höfuðstöðvum evrubankans í Frankfurt am Main um peningamálastjórnunina á milli lífsviðhorfa rómanskra og germanskra þjóða.
Í stjórnartíð Tonys Blair, formanns Verkamannaflokksins brezka, sem vildi, að Bretar fórnuðu sterlingspundinu og tækju upp evru, var unnin ítarleg greining á kostum þess og göllum fyrir Breta að taka upp evru. Þá var Gordon Brown fjármálaráðherra, sá sem varð síðar alræmdur sem forsætisráðherra fyrir að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga í Hruninu, sem olli m.a. hruni íslenzkra banka í London. Þessi greining leiddi í ljós, að frumskilyrði þess, að upptaka evru gæti gagnazt Bretum, en ekki skaðað þá, væri, að hagkerfi Bretlands og Þýzkalands væru í fasa. Svo var ekki þá og er ekki enn, og þess vegna hafnaði ríkisstjórn Bretlands upptöku evrunnar. Hægt er að efast um, að til þjóðaratkvæðagreiðslu hefði komið á Bretlandi í júní 2016 um aðildina að ESB, ef GBP hefði verið fórnað á sinni tíð.
Hvalreka fyrir áhugafólk um myntmál Íslands má nefna fræðandi og röggsamlega samda grein, "Misskilningur um krónuna leiðréttur", sem Viðskiptablaðið birti þann 27. júlí 2017, eftir hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, Ragnar Árnason. Greinin hófst þannig:
"Baráttumenn fyrir því að leggja íslenzku krónuna niður, byggja mál sitt að verulegu leyti á misskilningi og jafnvel staðleysum. Þeir halda því fram, að [íslenzka] krónan valdi sveiflum og óstöðugleika í efnahagslífinu. Þeir fullyrða, að krónan sé orsökin fyrir hærri vöxtum á Íslandi en í nágrannalöndunum. Hvort tveggja er í grundvallardráttum rangt."
Hér kveður við nýjan tón og allt annan en þann, sem m.a. heyrist nú klifað á í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Prófessor Ragnar bendir síðan á 2 raunverulegar orsakir óstöðugleika í íslenzku efnahagslífi hingað til. Hin fyrri er smæð hagkerfisins, sem veldur því, að færri stoðir eru undir því. Ef ein stoðin brestur, t.d. af markaðsástæðum, er hætt við, að hinar gefi eftir vegna ofálags, og þá myndast óstöðugleiki með verðbólgu og jafnvel atvinnuleysi.
Hin ástæðan, sem prófessorinn tilgreinir, er, "að grunnatvinnuvegir á Íslandi eru í óvenju ríkum mæli byggðir á náttúrugæðum". Þetta á við um landbúnað, sjávarútveg og ferðaþjónustuna og að vissu leyti um orkukræfan iðnað, en þessi náttúrugæði, sem landsmenn nýta núorðið, eru af misjöfnum toga, svo að áhættudreifingin er þar með allt öðrum og betri hætti fyrir afkomu hagkerfisins en áður var. Þetta þýðir, að þótt sveiflur í náttúrunni og á viðkomandi mörkuðum hafi áhrif upp og niður á afkomu hverrar greinar, þá er sveiflan sjaldnast í fasa hjá tveimur, hvað þá öllum. Náttúrunýtingin er miklu fjölbreyttari en áður, sem þýðir minni hættu á efnahagslegum óstöðugleika af völdum náttúrunnar.
"Þannig mætti fara yfir hverja hagsveifluna á fætur annarri á Íslandi. Raunveruleikinn er auðvitað sá, að þær eiga rætur sínar að rekja til breytinga í raunverulegum framleiðslutækifærum og framleiðslugetu, en ekki þess gjaldmiðils, sem notaður hefur verið í landinu."
Þá andmælir prófessor Ragnar með kröftugum hætti þeirri staðhæfingu, að gjaldmiðillinn, ISK, sé orsök hárra vaxta á Íslandi, enda hafi raunvextir alls ekki alltaf verið háir hér á landi. Hann kveður ástæðu hárra vaxta vera, "að hið opinbera, þ.e. sá armur þess, sem nefnist Seðlabanki Íslands, hefur einfaldlega ákveðið að hafa háa vexti á Íslandi."
"Það er ekki heldur rétt, þótt Seðlabankinn reyni að halda því fram, að háir vextir séu nauðsynlegir vegna þess, hvað krónan er smá. Þvert á móti má færa að því sterk rök, að það sé einmitt vegna smæðar myntarinnar, sem ófært sé að halda uppi hærri vöxtum á Íslandi en annars staðar."
Myntin endurspeglar aðeins þjóðarbúskapinn og árangur efnahagsstjórnunarinnar. Hún er ekki sjálfstæður gerandi öðru vísi en þannig, að breytingar á gengi ISK leiða hagkerfið í átt að nýju jafnvægisástandi. Þannig leiðir góður árangur útflutningsgreina til hækkunar gengis og veikir þar með samkeppnisstöðu þessara greina. Þetta getur þó haft í för með sér óæskileg ruðningsáhrif, eins og landsmenn hafa orðið áþreifanlega varir við undanfarin misseri. Það hægir á aukningu ferðamannastraums til landsins vegna styrkingar ISK, en allar aðrar útflutningsgreinar líða fyrir vikið. Tiltölulega háir stýrivextir Seðlabankans, sem eru dæmi um ranga efnahagsstjórnun við núverandi aðstæður, hafa magnað vandann, því að minna fé leitar úr landi og meira inn en ella.
Niðurlagi greinar Ragnars Árnasonar er vert að gefa góðan gaum:
"Í hagfræði eru til kenningar um hagkvæmustu myntsvæði. Þar togast á kostir þess að eiga í viðskiptum á milli landsvæða í einni mynt, og ókostir þess að þurfa að hafa sömu peningastjórn í þeim báðum. Eitt af skilyrðunum fyrir því, að hagkvæmt geti verið að sameina myntir tveggja landsvæða, er, að hagsveiflur viðkomandi svæða séu svo samstilltar, að sama peningastjórn henti báðum. Hvað Ísland og flest nágrannalöndin beggja vegna Atlantshafs snertir, er þessu ekki að heilsa. Þvert á móti er það eiginlega merkilegt, hversu lítil (og jafnvel neikvæð) fylgni er á milli hagsveiflna á Íslandi og hagsveiflna í Evrópu og Norður-Ameríku. Því myndi peningastjórn þessara landa að öllum líkindum henta Íslandi afar illa og hugsanlega valda alvarlegum búsifjum. Efnahagsþróunin í Grikklandi í kjölfar fjármálahrunsins er dæmi um, hversu illa getur farið, þegar sjálfstæðum gjaldmiðli hefur verið varpað fyrir róða."
Ef Þjóðverjar væru enn með DEM, er talið, að það væri nú allt að 40 % sterkara en evran er nú, þ.e.a.s. í stað hlutfallsins EUR/USD=1,17 væri það nú 1,64. Þetta er merki um gríðarlega samkeppnishæfni þýzka hagkerfisins, vegna þess að framleiðni (tæknistig) Þjóðverja er há, reglubundnar launahækkanir eru lágar (um 2 %/ár), og Þjóðverjar spara hátt hlutfall launa sinna. Þetta veldur gríðarlegum viðskiptaafgangi hjá Þjóðverjum ár eftir ár, sem nemur um 7 % af VLF þeirra. Á Íslandi hefur hann undanfarið verið um 6 % af VLF, en fer minnkandi. Ríkisbúskapur Þjóðverja er í jafnvægi, á meðan rómönsku þjóðirnar safna ríkisskuldum. Þetta ójafnvægi er tekið út með miklu atvinnuleysi á evrusvæðinu. Það hefur þó lækkað úr 12 % í kjölfar fjármálakreppunnar og niður í 9,1 % í júní 2017 samkvæmt Eurostat, Hagstofu ESB, aðallega vegna rífandi gangs í Þýzkalandi, sem býr við óeðlilega lága vexti og lágt gengi m.v. stöðu hagkerfisins. Ef Íslendingar byggju við "fastgengi" EUR, USD, GBP eða annarrar myntar, og hefðu afhent peningamálastjórnunina öðrum, þá mundi hagkerfið sveiflast stjórnlaust á milli hárrar verðbólgu og mikils atvinnuleysis. Það, sem skiptir landsmenn máli, er ekki heiti myntarinnar, heldur kaupmáttur ráðstöfunartekna.
Af þessum samanburði að dæma má búast við meiri óstöðugleika í hagkerfinu án ISK, þar sem hún er ekki sveifluvaldur sjálf, eins og hver hefur þó hugsunarlaust étið upp eftir öðrum. Áhrif ISK eru að nokkru sveiflujafnandi, eins og sannaðist eftir Hrunið og er að sannast núna, með því að viðskiptajöfnuður Íslands fer minnkandi, og þróun ISK mun þá fyrr en síðar endurspegla versnandi viðskiptajöfnuð.
Í raun þarf að kryfja þessi mál ítarlega til að komast til botns í því, hvaða lausn er líklegust til að gefa hæstan kaupmátt, en það virðist einfaldlega alls ekki vera áhættunnar virði fyrir kaupmátt landsmanna til lengdar að fórna íslenzku krónunni.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2017 | 19:36
Snarazt hefur á meri orkuhlutdeildarinnar
Það hefur heldur betur snarazt á merinni, hvað hlutdeild jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun landsmanna varðar. Hlutdeild fljótandi jarðefnaeldsneytis, svartolíu, flotaolíu, dísilolíu og benzíns, gasefna, própangass og kósangass, og fastra efna, kola og koks, hefur lengi vel verið undir 15 % af heildarorkunotkun landsmanna, en árið 2016 var svo komið, að hlutdeild þessa kolefniseldsneytis nam tæpum fjórðungi eða 24,4 %. Lítið hefur farið fyrir kynningu á þessari breytingu og ekki úr vegi að fjalla lítillega um hana hér. Hvernig stendur á þessari einstæðu öfugþróun ?
Svar við þessari áleitnu spurningu fæst með því að virða fyrir sér neðangreinda töflu um skiptingu olíunotkunar landsmanna (benzín hér talið til olívara) árið 2016 (Mt=milljón tonn):
- Flugvélar og flutningaskip: 0,980 Mt eða 68 %
- Samgöngur á landi: 0,295 Mt eða 20 %
- Fiskiskip: 0,135 Mt eða 9 %
- Iðnaður: 0,050 Mt eða 3 %
_____________________________________________________
Heildarnotkun á fljótandi eldsneyti 2016: 1,46 Mt
Af þessu mikla magni nam innlend notkun, þ.e. sú, sem Parísarsamkomulagið frá 2015 spannar, aðeins 0,48 Mt eða 33 %.
2/3 hlutar falla undir ETS-viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, og þar af eru á að gizka 80 % notkun flugfélaganna eða 0,79 Mt. Þeir aðilar munu þurfa að greiða hundruði milljóna ISK á ári úr þessu fyrir alla sína losun gróðurhúsalofttegunda utan heimilda. Þetta mun bitna sérstaklega harkalega á fyrirtækjum í miklum vexti, eins og t.d. Icelandair og VOW-air.
Ef eitthvað væri spunnið í íslenzka umhverfisráðherrann, mundi hún beita sér fyrir því, að drjúgur hluti af þessu mikla fé fengi að renna til landgræðslu á Íslandi, þar sem er stærsta samfellda eyðimörk í Evrópu. Annað heyrist varla frá henni en hnjóðsyrði í garð íslenzkra stóriðjufyrirtækja. Nú síðast gelti hún í átt að PCC-kísilverinu á Bakka við Húsavík, sem Þjóðverjar reisa nú með Íslendingum og sem farið hefur fram á 2 ára aðlögunartíma að nýákvörðuðum ströngum rykkröfum. Alls staðar tíðkast, að fyrirtækjum er gefinn slíkur umþóttunartími, á meðan verksmiðjur eru teknar í notkun, framleiðslubúnaður beztaður, mælitæki stillt og kvörðuð og mannskapur þjálfaður. Téður þingmaður og núverandi ráðherra tjáir sig iðulega áður en hún hugsar, og þá vella upp úr henni löngu áunnir fordómarnir. Vinnubrögðin við friðlýsingu Breiðamerkurlóns og grenndar voru sama flaustursmarkinu brennd.
Hún hefur líklega ekki gert sér grein fyrir því, hver mesti mengunarvaldurinn af íslenzkri starfsemi er nú um stundir. Það er flugið, sem losar yfir 7,1 Mt/ár af kolefnisígildum. Það, sem losað er í háloftunum hefur tæplega 3 sinnum meiri gróðurhúsaáhrif en það sem losað er á jörðu niðri á hvert tonn eldsneytis, sem brennt er. Flugið hefur 45 % meiri gróðurhúsaáhrif en öll önnur starfsemi á Íslandi að millilandasiglingum meðtöldum.
Eldsneytisnýtni hefur batnað mikið í öllum geirum, einna mest í samgöngutækjum á landi. Árið 2016 var umferðin 21 % meiri en árið 2008. Samt nam eldsneytisnotkun umferðarinnar aðeins 95 % árið 2016 af notkuninni 2008. Þetta þýðir, að eldsneytisnotkun per km hefur minnkað um 27 % á 8 árum. Eldsneytisnotkun ökutækja hefur vaxið um 54 % frá viðmiðunarárinu 1990 og nam árið 2016 62 % af notkun fljótandi eldsneytis innanlands. Árið 1990 nam eldsneytisnotkun ökutækja um 192 kt, og markmiðið um 40 % samdrátt þeirrar notkunar árið 2030 þýðir, að þessi eldsneytisnotkun þarf þá að hafa minnkað niður í 115 kt, sem aftur á móti þýðir minnkun frá núverandi gildi um a.m.k. 180 kt/ár eða yfir 60 %.
Þetta jafngildir fækkun jarðefnaeldsneytisknúinna ökutækja um 225´000 (225 k) á næstu 13 árum.
Er raunhæft, að unnt verði að ná þessu markmiði ? Nei, það er útilokað, þegar þess er gætt, að ný umhverfisvæn ökutæki í ár verða aðeins um 1/10 af þeim fjölda, sem þau þurfa að verða árlega að meðaltali fram til 2030. Það hefur of miklum tíma verið sóað, og nauðsynlegar forsendur, sem eru innviðauppbygging, eru allt of sein á ferð. Yfirvöld verða að venja sig af því að setja markmið út í loftið. Það hafa oft verið sett erfið markmið, en hafi þeim verið náð, hefur undantekningarlaust þegar verið hafizt handa kerfisbundið við að ná þeim.
Það á alls ekki að reyna að þvinga fram meiri hraða á orkuskiptum með vanbúna innviði með illa ígrunduðum og íþyngjandi aðgerðum, t.d. með hækkun kolefnisgjalds. Fjölskyldubíllinn er þarfaþing, og sumir eru á mörkunum að hafa ráð á honum. Það er ósæmilegt að gera þessu og öðru fólki lífsbaráttuna enn erfiðari með því hagfræðilega glapræði að hækka enn opinberar álögur á eldsneyti, sem þegar eru um helmingur af söluverðinu til neytenda, þótt aðeins helmingur skattteknanna skili sér til Vegagerðarinnar. Vegagerðin þarf þegar í stað um helming af því, sem ríkissjóður fær ekki af bílakaupum landsmanna og rekstri bílaflotans eða um 15 miaISK/ár í viðbótar framlög frá ríkissjóði til að koma vegakerfinu í mannsæmandi horf á einum áratugi.
Til að flýta fyrir orkuskiptum í umferðinni er hins vegar ráð að efla enn innviðina, t.d. að gera öllum bíleigendum kleift að hlaða rafgeyma við sín heimahús og á viðkomustöðum á ferðum um landið, t.d. við hótel og gististaði og á tjaldsvæðum. Auðvitað þarf jafnframt að virkja og að efla stofn- og dreifikerfi raforku til að anna aukinni raforkuþörf. Hér er um stórfelldar fjárfestingar að ræða, en þær eru þjóðhagslega hagkvæmar vegna gjaldeyrissparnaðar, og þær eru hagkvæmar fyrir bíleigandann, því að rekstrarkostnaður bílsins lækkar um allt að 75 % m.v. núverandi orkuverð, sé bíllinn alfarið knúinn rafmagni.
Það er tæknilega og fjárhagslega raunhæft, að íslenzka vegaumferðin verði orðin kolefnisfrí árið 2050, en til þess þurfa forsendur að vera í lagi, og það þarf enn meiri tímabundna hvata, t.d. skattaafslátt við kaup á nýjum umhverfisvænum bíl, fasta upphæð á bilinu MISK 1,0-2,0. Það kostar klof að ríða röftum.
Næst mesti jarðefnaeldsneytisnotandinn innanlands eru útgerðirnar, stórar og smáar, með sín fiskiskip. Á þeim vettvangi hefur einnig orðið mikil orkunýtniaukning frá viðmiðunarárinu 1990, er olíunotkun útgerðanna var nánast sú sama og ökutækjanna eða um 200 kt. Árið 2016 nam hún aðeins um 135 kt, og höfðu útgerðirnar þá sparað 95 kt/ár eða 33 %. Þetta hafa þær aðallega gert með fækkun togskipa og endurnýjun þeirra, þar sem nýju skipin eru hönnuð m.v. hámarks orkusparnað. Það er líka þróun í hönnun veiðarfæra m.a. til að minnka orkunotkun skipanna við togið. Þar sem "veiðanleiki" hefur vaxið með aukinni fiskigengd í lögsögu Íslands, tekur styttri tíma en áður að sækja hvert tonn. Allt hefur þetta leitt til þess, að flotinn notar nú minni olíu en áður til að sækja hvert tonn sjávarafla.
Það er eldsneytiskostnaður, sem áður knúði á um orkusparnað, og nú hafa aukin umhverfisvitund og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum bætzt við. Útgerðarmönnum mun alveg áreiðanlega takast með frekari fjárfestingum að draga úr olíunotkun sinni um 40 % frá 1990 og komast niður í 125 kt árið 2030 og losna þar með við kolefnisrefsingu Rannsóknarréttarins nýja. Þar að auki hafa útgerðarmenn verið í viðræðum við Skógrækt ríkisins um bindingu koltvíildis með trjárækt. Hver veit, nema útgerðarmenn muni selja koltvíildiskvóta áður en yfir lýkur ?
Það, sem stjórnvöld hérlendis þurfa að gera núna, er að rafvæða hafnirnar rækilega, svo að útgerðir þurfi ekki að brenna olíu, þegar skipin eru bundin við bryggju. Þá er þegar orðið raunhæft að knýja báta með rafmagni, svo að brýnt er að fá rafmagn úr landi. Um borð er þá lítil dísil-ljósavél til að hlaða rafgeymana, ef þörf krefur. Þetta krefst háspennts dreifikerfis um helztu hafnir landsins. Hönnun á því þarf að hefjast strax, og ríkið þarf að leggja fram jákvæða hvata fyrir dreifiveiturnar til þessara verkefna. Lítið hefur heyrzt af slíku frumkvæði að hálfu ríkisvaldsins, þótt ekki skorti nú fimbulfambið um orkuskipti.
Stærri skipin geta brennt blöndu af lífdíselolíu og skipaolíu allt upp í 20 % af lífdísel og meir með breytingum á vél. Nota má repjuolíu sem lífdísel. Repju er hægt að framleiða hérlendis, svo að reisa þarf verksmiðju fyrir olíuvinnslu og mjölvinnslu. Ef hægt verður að selja mjölið á 100 ISK/kg, t.d. til innlends laxeldis, þá verður þessi olíuvinnsla hagkvæm við olíuverðið 1100 USD/t, CIF. Hér gæti ríkisvaldið einnig komið að með fjárhagslega hvata, svo að hægt væri að hefjast handa strax. Sem dæmi má nefna að veita tímabundinn afslátt á skattheimtu af rafmagni til slíkrar verksmiðju. Um miðja þessa öld verður íslenzki sjávarútvegurinn vafalaust orðinn kolefnisfrír.
Iðnaðurinn hefur einnig staðið sig mjög vel, því að árið 2016 hafði hann dregið úr olíubrennslu sinni um 44 kt/ár frá viðmiðunarárinu. Þetta hefur hann gert með því að rafvæða kyndingu hjá sér. Sem dæmi má taka ISAL. Fyrirtækið hefur ekki aðgang að jarðhitaveituvatni, svo að fyrstu tvo áratugina voru notaðir tveir olíukyntir gufukatlar, en í lok 9. áratugarins var keyptur 5,0 MW, 11 kV, rafhitaður gufuketill af innlendum framleiðanda, sem um þær mundir leysti fjölda olíukatla af hólmi hérlendis með framleiðslu sinni.
Heildarlosun mannkyns á koltvíildi, CO2, nam árið 2016 um 34 milljörðum tonna. Heildarlosun Íslendinga er sem dropi í hafið, og það skiptir engu máli fyrir hlýnun jarðar, hvort markmiðið um minnkun losun landumferðar á Íslandi um 40 % árið 2030 m.v. 1990 næst eða ekki. Aðalatriðið í þessu samhengi er, að landið verði orðið kolefnisfrítt árið 2050 að meðreiknuðum mótvægisaðgerðum á sviðum, þar sem tæknin býður þá enn ekki upp á kolefnisfríar lausnir. Það er þess vegna með öllu óþarft af stjórnvöldum að leggja íþyngjandi álögur á landsmenn í einhvers konar tímahraki, sem stjórnvöld eiga sjálf sök á með sinnuleysi.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)