Færsluflokkur: Fjármál

Röng ráð við vitlausu stöðumati

Meginviðhorf vinstri grænna í þessari kosningabaráttu eru fallin um koll.  Með öðrum orðum er undirstaða áróðurs Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, fyrir Alþingiskosningarnar 28. október 2017 reist á ósannindum. Það er mikið áhyggjuefni, ef vinstri grænum tekst að tæla fólk um hríð til stuðnings við sig á fölskum forsendum á öld upplýsinganna.  Enn meira áhyggjuefni er, að í sjálfsblekkingu sinni um stöðu samfélagsins mun VG í ríkisstjórn framkvæma, eins og sýndarveruleiki flokksbroddanna sé sannleikur.  Landsmenn eru þá í stöðu skipverja undir stjórn blinds skipstjóra með bilaðan áttavita. Hvað má verða slíkum til bjargar ?

Katrín Jakobsdóttir hefur ásamt öðrum frambjóðendum VG verið eins og biluð plata, sem í síbylju fer með utan að lærðar staðleysur um óréttlætið í íslenzku samfélagi, sem stafi af mjög ójafnri tekjuskiptingu og ójafnri eignadreifingu á meðal íbúanna.  Nú er ekki lengur hægt að hækka skattana undir klisjunni: "Hér varð hrun", heldur sé nú þjóðarnauðsyn að hækka skatta til að jafna tekjuskiptingu og eignadreifingu í íslenzka samfélaginu.  Þessi málflutningur vinstri grænna er illa þefjandi "bolaskítur", hreinræktað bull, reist á samfélagslegum bábiljum vindmylluriddara. 

Það er nákvæmlega engin þörf á að hækka neina skatta núna.  Þvert á móti eru slík heimskupör stórhættuleg við núverandi efnahagsaðstæður og geta framkallað hér "harða lendingu" með "stagflation", þ.e. efnahagslega stöðnun með verðbólgu og atvinnuleysi.  Skipið er dauðadæmt með blindan skipstjóra og biluð siglingatæki í brúnni.  

Bábilja VG #1: Það er svo mikill tekjuójöfnuður á Íslandi, að nauðsynlegt er að þrepskipta tekjuskattinum enn meir og hækka jaðarskattheimtuna:

Þetta er gjörsamlega úr lausu lofti gripið hjá VG, sem sýnir, að meginmálflutningur flokksins eru lygar einar, og ráðstafanirnar verða þess vegna stórskaðlegar fyrir hagkerfið.  Flokkurinn er algerlega ótrúverðugur, því að hann reisir ekki málflutning sinn á staðreyndum, heldur hugarórum, og  flokksmenn VG stunda hreint lýðskrum.

Samkvæmt nýjustu gögnum frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, er Ísland í langneðsta sæti ójafnaðarlistans, GINI, um ójafna tekjuskiptingu, þar sem efst tróna Síle - með 47 stig, Mexíkó-46 og Bandaríkin-39, en neðst eru Ísland-23, Noregur-25 og  Danmörk-25.  Það er 10 % munur á Íslandi og Noregi.  Þetta er heilbrigðisvottorð fyrir íslenzka þjóðfélagið, og því ber að fagna, að jöfnuðurinn hefur farið vaxandi á undanförnum árum vegna þeirrar stefnu í kjarasamningum að hækka lægstu laun tiltölulega mest.  Það er hins vegar hægt að ganga svo langt í jöfnun ráðstöfunartekna, að nauðsynlegur hvati til að klífa upp tekjustigann verði of veikur.  Þá tapar allt samfélagið, af því að slíkt kemur niður á landsframleiðslunni.  

Bábilja VG #2: Eignadreifingin er svo ójöfn á Íslandi, að nauðsynlegt er að taka upp eignaskatt, sem lygalaupar VG nefna auðlegðarskatt:

Samkvæmt gögnum frá Credit Suisse, sem Halldór Benjamín Þorbergsson vitnar til í ágætri Morgunblaðsgrein sinni 12. október 2017:

"Bábiljur og staðreyndir um ójöfnuð tekna og eigna á Íslandi":

"Þar kemur fram, að eignajöfnuður á Norðurlöndum er hvergi meiri en á Íslandi.  Í heildarsamanburði Credit Suisse er fjöldi ríkja með minni eignaójöfnuð en Ísland, en þau eiga það sammerkt að vera mun fátækari ríki.  Það er jákvæð fylgni á milli eignaójöfnuðar ríkja og ríkidæmis þeirra.  Lægra menntunarstig dregur úr [eigna] ójöfnuði.  Aukið ríkidæmi þjóða eykur hlutfallslegan [eigna] ójöfnuð vegna dreifingar fjármagns og framleiðslutækja.  Jöfn dreifing fjármagns og fjármuna hefur verið reynd; sú tilraun gekk ekki vel." 

Blautlegir draumar VG-forkólfa fjalla um þetta síðast nefnda, þ.e. að ná fram hérlendis á endanum jafnri dreifingu fjármagns og fjármuna, en það er ekki hægt, nema skapa hér fátæktarríki, alræði öreiganna.  Vinstri grænir eru úlfar í sauðargæru.  Þeir koma óheiðarlega fram, breiðandi yfir nafn og númer.

Það er þess vegna ákveðið hagstjórnarlegt afrek á Íslandi að ná einu mesta ríkidæmi heims sem þjóð og á sama tíma að vera með mesta eignajöfnuð ríkra þjóða. 

Loddarar vinstrisins halda því líka fram í þessari kosningabaráttu, þar sem hvorki er skeytt um skömm né heiður, að eignaójöfnuður fari vaxandi á Íslandi.  Þetta er rétt ein bábiljan, fullyrðing, sem er algerlega úr lausu lofti gripin.  Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands voru 62 % eigin fjár á Íslandi í eigu þeirra 10 % heimila, sem mest áttu eigið fé árið 2016.  Á velmektardögum Samfylkingar og VG, var hlutfallið hæst og náði þá 86 %, en hefur farið stöðugt lækkandi síðan. Að meðaltali tímabilið 1997-2016, 20 ára skeið, er hlutfall 10 % heimila með mest eigið fé 64 % af heildar eiginfé, svo að hlutfallið er núna undir meðaltali. 

Hvaðan hafa bullustampar Samfylkingar og VG þá vizku sína, að eignaójöfnuður á Íslandi hafi farið vaxandi að undanförnu ?  Þetta er fullkomlega ómarktækt fólk.  Málflutningur þess er reistur á sandi !

 Merki Sjálfstæðisflokksins

 

 

 


Reykjavíkurflugvöllur á næsta kjörtímabili

Allir þekkja hug núverandi vinstri meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur til Reykjavíkurflugvallar.  Meirihluti Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Pírataflokksins vill eindregið loka þessari samgöngumiðstöð landsins alls árið 2024.  Enginn þarf heldur að velkjast í vafa um, að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni á hauk í horni, þar sem er núverandi samgönguráðherra, Jón Gunnarsson, enda hefur hann hvatt til byggingar nýrrar flugstöðvar við Reykjavíkurflugvöll. 

Ef sams konar meirihluti og nú er í borgarstjórninni, nær völdum í Stjórnarráðinu eftir næstu Alþingiskosningar, verður sótt að starfsemi flugvallarins úr tveimur áttum, gerð að honum tangarsókn, og kraftaverk þarf þá til að bjarga honum úr þeirri kló.  Þetta ættu þeir, sem annt er um áframhald flugvallarstarfsemi í Vatnsmýrinni að hafa ofarlega í huga, þegar þeir ganga að kjörborðinu 28. október 2017, hvar sem er á landinu.  

Flugvöllur verður aldrei byggður í Hvassahrauni.  Staðsetning innanlands- og varaflugvallar þar er glórulaus af tveimur ástæðum.  Önnur er sú, að umrætt flugvallarstæði er á vatnsverndarsvæði Suðurnesjamanna, og hin er sú, að það er á virku jarðeldasvæði. Um fyrra atriðið sagði Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðis og formaður Svæðisskipulags Suðurnesja í viðtali við Baldur Arnarson, sem birtist í baksviðsgrein hans í Morgunblaðinu, 27. maí 2017,

"Flugvöllur gæti ógnað vatnsbóli í Hvassahrauni":

"Það eru skilgreind vatnsverndarsvæði í Svæðisskipulagi Suðurnesja.  Hvassahraunið liggur á vatnsverndarsvæði á svo kölluðu fjarsvæði vatnsverndar.  Það eru takmarkanir á því, hvers konar starfsemi má fara fram á vatnsverndarsvæði.  Væntanlega þyrfti skipulagsbreytingar, ef eitthvað ætti að hreyfa það svæði."

Það er alveg áreiðanlegt, að flugvallarstarfsemi og vatnsverndarsvæði, nær eða fjær, fara ekki saman.  Það er alltof mikil mengunaráhætta á byggingartíma og á rekstrartíma flugvalla til að mótvægisaðgerðir geti lækkað áhættuna niður fyrir ásættanleg mörk. 

Það er stórfurðulegt, að tillaga um jafnilla reifaða hugmynd skyldi koma frá "Rögnunefndinni" á sinni tíð og að slíkt skyldi flögra að meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur, því að flokksfélagar þar á bæ eru stöðugt með náttúruvernd á vörunum í öðru samhengi, þar sem hún þó orkar mjög tvímælis m.t.t. hagsmuna, sem víða eru af náttúruauðlindanýtingu. Hugmyndir vinstri grænna um umhverfisvernd eru greinilega afstæðar. Þar sem flugvöllurinn í Vatnsmýrinni þjónar ágætlega sínu hlutverki fyrir landið allt með þremur flugbrautum, er engin brýn þörf á að leggja út í áhættusamt og rándýrt verkefni í Hvassahrauni.  

Það er fullkomlega fráleitt, í ljósi eftirfarandi ummæla Ólafs Þórs, að eyða meira púðri á Hvassahraun sem flugvallarstæði:

"Fyrir utan að grunnvatnsstraumar, sem liggja undan Reykjanesinu og til vesturs, renna allir eftir þessum leiðum [áhrifasvæði flugvallar - innsk. BJo]. Heilbrigðiseftirlitið segir, að á fjarsvæðum skuli gæta fyllstu varúðar í meðferð efna.   Stærri geymsluhylki eru t.d. bönnuð á slíku svæði.  Síðan getur Heilbrigðisnefnd Suðurnesja gefið frekari fyrirmæli um takmarkanir á umferð og byggingu mannvirkja á slíku svæði."  

Það þarf enginn að velkjast í vafa um það eftir þennan lestur, að flugvöllur verður aldrei leyfður í Hvassahrauni.  Þeir, sem halda því fram, að Hvassahraun sé raunhæfur kostur fyrir flugvöll, eru annað hvort einfeldningar eða blekkingameistarar.  

"Allt neyzluvatn á Suðurnesjum rennur þarna undir [flugvallarstæðið], og við hér suður frá hljótum að fara vandlega yfir það, hvaða mannvirki geta risið á slíku svæði.  Þá, hvort sem það er sveitarfélagið Vogar, sem hefur skipulagsvaldið, eða við hjá Samtökum sveitarfélaga á Suðurnesjum um svæðisskipulagið."

Drykkjarhæft vatn beint úr náttúrunni hefur verið nefnt "olía 21. aldarinnar".  Nú þegar er tæplega 60 % meiri spurn eftir henni en framboð á markaði, og með loftslagsbreytingum, fjölgun mannkyns og vaxandi kaupmætti þorra fólks í heiminum er líklegt, að eftirspurnin vaxi mikið á næstu áratugum.  Til Íslands gætu siglt risatankskip til að sækja vatn á verði, sem gæti verið um 1 kUSD/t til seljanda hérlendis.  Með þeim hætti yrðu Íslendingar "olíusjeikar norðursins" á 21. öld. 

Á Suðurnesjum er neyzluvatnið tandurhreint, síað í gegnum hraunlög.  Það er makalaust, að nokkur skuli halda því til streitu nú með þessar upplýsingar í höndunum að flytja Vatnsmýrarvöllinn suður í Hvassahraun, en vinstri grænir, samfylkingar og píratar standa enn á því fastar en fótunum og þrengja stöðugt að flugvellinum með lóðaskipulagningu og lóðaúthlutun.  Þar með sannast, að hugtakið náttúruvernd er ekki hugsjón þeirra, heldur yfirvarp til að breiða yfir "óhreinu börnin hennar Evu", forræðishyggju og ríkisrekna einokun, sem á ekki upp á pallborðið hjá mörgum, hvorki hérlendis né annars staðar.  

Á fundi borgarstjórnar 19. september 2017 var til umræðu skýrsla Þorgeirs Pálssonar, fyrrverandi flugmálastjóra og kennara blekbónda í stærðfræði Laplace við Verkfræðideild HÍ, um hlutverk Reykjavíkurflugvallar í öryggiskerfi landsins.  Þar kemur fram, að Vatnsmýrarvöllurinn hefur þjónað öryggishlutverki sínu afar vel og að nauðsynlegt er, að á SV-horni landsins séu hið minnsta 2 flugvellir.   Þar með hefur ábyrgðarleysi vinstri grænna, samfylkinga og pírata gagnvart flugfarþegum og flugáhöfnum verið afhjúpað, því að þessir blindingjar berjast um á hæl og hnakka til að fá Reykjavíkurflugvelli lokað árið 2024, hvað sem flugvelli í Hvassahrauni líður.  Þetta vinstra lið vinnur þannig að gríðarlegri sóun skattfjár og spilar rússneska rúllettu með líf og limi flugfarþega og áhafna, svo að ekki sé nú minnzt á bráðveika sjúklinga.  Er hægt sökkva öllu dýpra í pólitíska eymd ? 

Hvernig halda menn, að verði fyrir velunnara flugvallarins að halda merkjum hans á lofti, ef vinstri grænir munu ráða ferðinni í Stjórnarráðinu og í Ráðhúsinu við Reykjavíkurtjörn á sama tíma ?

Njáll Trausti Friðbertsson, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fyrir NA-kjördæmi og flugumferðarstjóri, hefur kynnt sér lokunarmál Neyðarflugbrautarinnar, 06/24, rækilega, og bent á faglega veikleika ferlisins, sem leiddi til lokunar flugbrautarinnar, sem séu svo alvarlegir, að lokun brautarinnar sé í raun ólögmæt.  Njáll Trausti sat í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á síðasta kjörtímabili.  Þessi nefnd hefur óskað eftir því, að gerð verði stjórnsýsluúttekt á aðdraganda þess, að Neyðarbrautinni var lokað eftir dóm Hæstaréttar í máli nr 268/2016. Ekki var vanþörf á því.

Áhættugreiningin fyrir Reykjavíkurflugvöll, sem lokun Neyðarbrautarinnar var reist á, hefur verið harðlega gagnrýnd af Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og öryggisnefnd félagsins (ÖFÍA).  Gagnrýnin er reist á faglegum rökum, þar sem sýnt er fram á, að útreikningur nothæfisstuðuls flugvallarins án Neyðarbrautarinnar gefi of háa niðurstöðu í téðri áhættugreiningu, og þar af leiðandi sé óverjandi að loka neyðarbrautinni út frá öryggissjónarmiðum.  Ef starfrækja á Reykjavíkurflugvöll sem miðstöð innanlandsflugs, sjúkraflugs, kennsluflugs og sem neyðarflugvöll fyrir millilandaflugið, verður hann að hafa 3 flugbrautir áfram.  

Í baksviðsgrein Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 5. júlí 2017, Flugvallarmálið sé rannsakað, segir um þátt Samgöngustofu í þessu máli:

"Þá segir Njáll Trausti, að nefndin telji rétt, að úttektin nái til umsagnar Samgöngustofu um áhættumat Isavia vegna lokunar á Neyðarbrautinni.  Í umsögn Samgöngustofu komi m.a. fram, að áhættumatið nái ekki til áhrifa á flugvallakerfið í landinu í heild sinni né til neyðarskipulags Almannavarna eða áhrifa á sjúkraflutninga.  Þá nái það ekki til fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur.  Jafnframt hafi Samgöngustofa rifjað upp, að gera þurfi sérstakt áhættumat, komi til þess, að Neyðarbrautinni verði lokað.  Í ljósi þessa telji nefndin spurningar vakna um, hvort íslenzka ríkið hafi aflað sér gagna eða unnið gögn, sem snúa að umræddum öryggishagsmunum.  Skoða þurfi stjórnvaldsákvarðanir í þessu ferli."

Það hefur verið skoðun blekbónda, að hrapað hafi verið að lokun flugbrautar 06/24, og Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis virðist að meirihluta til vera sama sinnis.  Vonandi leiðir úttekt Ríkisendurskoðunar til þess, að flugbrautin verði opnuð á ný, enda muni Reykjavíkurflugvöllur gegna mikilvægu hlutverki fyrir flugsamgöngur landsins um ófyrirsjáanlega framtíð.  

Það getur verið fróðlegt að bera saman gerðir annarra þjóða í málum af svipuðu tagi.  London City Airport er ekki á förum, þótt á döfinni hafi verið að bæta við einni flugbraut á Heathrow. Í Berlín er enn verið að byggja nýjan flugvöll.  Hvorki tíma- né kostnaðaráætlanir fyrir nýja Berlínarflugvöllinn hafa staðizt og skeikar þar miklu.  Hæðast Suður-Þjóðverjar að hrakförum þessa verkefnis Prússanna, þótt þeim sé ekki hlátur í hug vegna mikilla tafa og kostnaðar við þennan nýja þjóðarflugvöll. Berlínarbúar voru nýlega spurðir, hvort þeir mundu vilja leggja niður hinn sögugræga Tempelhof flugvöll í Berlín, þegar hinn loksins kæmist í notkun.  Það vildu þeir ekki, heldur vilja þeir halda starfrækslu gamla Tempelhofs áfram.  

Njáll Trausti sagði í viðtalinu eftirfarandi um landsölu ríkisins eftir téðan Hæstaréttardóm:

"Við teljum rétt, að úttektin nái til þess, hvort eðlilega hafi verið staðið að sölu lands í eigu ríkisins m.t.t. þeirra nýju upplýsinga, sem komið hafa fram á undanförnum vikum, að flugbraut 06/24 hafi ekki verið varanlega lokað síðast liðið sumar, heldur hafi verið um tímabundna lokun að ræða, enda hafi samþykki Samgöngustofu um lokun ekki legið fyrir."

Þétting byggðar í Vatnsmýri er vanhugsuð út frá umhverfisverndarsjónarmiðum og af umferðartæknilegum ástæðum.  Það er eins og strútar ráði ferðinni í skipulagsmálum borgarinnar, sem stinga bara hausnum í sandinn, þegar þeim er bent á, að aðeins lítið brot af væntanlegum íbúum í þessu dýra hverfi mun nota almenningssamgöngutæki, reiðhjól eða tvo jafnfljóta, til að komast leiðar sinnar.  Þetta er eftir öðru í sýndarveruleika sossanna.

 


Landshlutahagsmunir og fiskeldi

Samkvæmt athugunum bandarískra fræðimanna (Fiskifréttir 14.09.2017) er fræðilega mögulegt að ala 15 mia t (milljarða tonna) af fiski í heimshöfunum.  Þetta er 100 falt núverandi eldi, svo að nægt próteinframboð á að verða í framtíðinni fyrir vaxandi mannkyn að því tilskildu, að höfin verði ekki of menguð fyrir allt þetta eldi.  Það horfir óbjörgulega með höfin núna, t.d. vegna plastagna, sem sleppt er í gegnum síur fráveitukerfa út í hafið, og vegna plasts á reki í höfunum, og brotnar þar niður.  Plast í vefjum líkama dýra og manna er þeim hættulegt. Íslenzk heilbrigðis- og umhverfisverndaryfirvöld eru svo aftarlega á merinni, að þau hafa ekki hugmynd um, hvort þetta er vandamál í hafinu við Ísland eða í íslenzkum vatnsveitum.  Þau hafa sofið á verðinum og ekki í fyrsta sinn. 

Að færa út kvíarnar frá landeldi og strandeldi til opinna hafsvæða er mögulegt vegna hönnunar öflugra sjókvía, sem reist er á hönnun olíuborpalla og olíuvinnslupalla.  Norðmenn eru þar í fararbroddi, og á þessu ári munu þeir koma fyrir fyrstu eldiskvíum þessarar gerðar á norsku hafsvæði.  Strandeldi þeirra við Noreg hefur framleiðslugetu um 1,3 Mt/ár (M=milljón) af laxi, en stjórnvöld áforma tvöföldun á næstu 10 árum og fimmföldun, þegar full tök hafa náðst á starfseminni.  Aukningin verður langmest í hafeldinu. 

Þá er ekki útilokað, að íslenzk stjórnvöld muni heimila slíkt hafeldi við Ísland, þegar strandeldið hefur náð viðurkenndum burðarþolsmörkum, sem nú er aðeins 71 kt/ár (k=þúsund).  Þetta kann að aukast í tímans ráð, og framleiðslan að ná 100 kt/ár árið 2040 með eldi í landkerum líka. Það verður áhugavert fyrir hérlandsmenn að fylgjast með hinu nýja hafeldi Norðmanna, arðsemi þess og rekstrarlegu öryggi, t.d. meðal strokhlutfalli á ári úr kvíunum.

Með núverandi burðarþolsmati var Austfirðingum úthlutað 21 kt laxeldis og Vestfirðingum 50 kt.  Einkum var lágt burðarþolsmat fyrir Austfirði gagnrýnt og þótti hæpið, að suðurfirðirnir, t.d. Berufjörður, þyldu ekki meira en metið var.  Á Austfjörðum er atvinnuástand gott og fjölbreytilega atvinnu að finna, sem tengist landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu, samgöngum og iðnaði.  Svo er t.d. kjölfestufyrirtækinu í fjórðunginum, Fjarðaáli á Reyðarfirði, fyrir að þakka. 

Því fer fjarri, að jafnöflugt atvinnulíf sé fyrir hendi á Vestfjörðum.  Af þessum sökum ríður Vestfirðingum á, að eldisfyrirtæki, sem sótt hafa um starfsleyfi, fái þau sem fyrst.  Þar er stærsti hængurinn á, að Hafrannsóknarstofnun telur ekki þorandi að hefja starfsleyfisúthlutanir í Ísafjarðardjúpi og á Jökulfjörðum.  

Hvers vegna er þetta ekki réttlætanleg niðurstaða Setjum sem svo, að sú málamiðlun verði gerð sökum hagsmunaárekstra, við t.d. ferðaþjónustu, að leyfa ekki starfrækslu eldiskvía í Jökulfjörðum.  Þá standa eftir um 25 kt í Ísafjarðardjúpi samkvæmt núverandi burðarþolsmati.  Í ljósi þess, að árin 2016-2017 hefur ekki verið tilkynnt um neitt strok úr laxeldiskvíum á Vestfjörðum og enginn eldislax hefur veiðzt þar, sem ætla megi, að sloppið hafi á þessu tímabili, má álykta, að gjörbylting til hins betra hafi orðið í rekstri laxeldiskvíanna með nýrri hönnun þeirra og vinnu við þau samkvæmt ströngum norskum staðli.  

Ef gert er ráð fyrir meðalfjölda eldislaxa í kvíum í Ísafjarðardjúpi 10 M m.v. 25 kt og hámarks leyfilega blöndun 4 % við villta stofna þar í ám, þá verður hámarks leyfilegt sleppihlutfall úr kvíunum og upp í árnar 4 ppm/ár.  Það eru meiri líkur en minni á, að laxeldisfyrirtækin á Vestfjörðum hafi þegar náð þessu, og rekstraröryggið mun bara vaxa með tímanum.  

Það er almennur vilji fyrir því á Vestfjörðum, að strax verði veitt starfsleyfi í Ísafjarðardjúpi upp að burðarþolsmörkum. Til marks um það var samþykkt fjölsótts fundar á vegum Fjórðungssambands Vestfjarða 24. september 2017 með 4 ráðherrum um að leyfa laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  Í ljósi atvinnumála á norðanverðum Vestfjörðum er nú rétt að snúa við slagorði vinstri grænna og taka ákvörðun á grundvelli mikils rekstraröryggis strandkvíanna og þeirrar afstöðu "að leyfa íbúunum (homo sapiens) að njóta vafans".

Hvað gæti í versta tilviki tapazt ?  

Ekki líffræðileg fjölbreytni, því að ólíkt laxastofnunum á Suðurfjörðunum eru laxarnir í ánum, sem renna út í Ísafjarðardjúp, ekki af gamalgrónum vestfirzkum stofnum, mynda ekki sjálfstæðan erfðahóp, heldur hafa verið ræktaðir tiltölulega nýlega í ánum.  Það verður þar af leiðandi enginn óafturkræfur erfðafræðilegur missir, þótt meira en 4 % laxanna í ánum verði eldislaxar.

Á Suðurfjörðunum hefur þetta (eldislaxar í ám > 4 % af villtum löxum) að líkindum gerzt á fyrri árum í einhverjum tilvikum, en það hefur samt ekki verið sýnt fram á skaðlegar erfðabreytingar eða úrkynjun laxastofnanna þar, sem eru hins vegar upprunalegir og mynda sjálfstæðan erfðahóp.  Eldislaxinn hefur blandazt urriða þar, en afkvæmin eru ófrjó.

Nú hefur Arnarlax starfsleyfi fyrir 14,5 kt af laxi í Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði og hefur sótt um leyfi fyrir 10 kt í Ísafjarðardjúpi og sama í Jökulfjörðum.  Það verður að gæta samræmis við áhættumatið og nýta nýjustu gögn hvers tíma. 

Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi á Vestfjörðum, og þess vegna er ekki verjanlegt að draga lappirnar að óþörfu.  KPMG metur það svo, að á Vestfjörðum verði til 16 ný störf fyrir hvert framleitt kt.  Ef leyft verður að hafa 25 kt í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi, eins og eðlilegt má telja, e.t.v. í áföngum, þá munu verða til 400 ný störf á Vestfjörðum (um 13 % aukning) og allt að 150 ný störf annars staðar á landinu (samkvæmt norskum rannsóknum verða til alls 22 ný störf per kt laxeldis). 

Samkvæmt KPMG mun veltan nema 57,5 MISK/starf, en betri mælikvarði er verðmætasköpunin sjálf, sem styður við hagvöxtinn í landinu.  Samkvæmt norskum rannsóknum nemur hún 2,7 MNOK/starf eða 37 MISK/starf. Þetta gefur tæplega 15 miaISK/ár aukna verðmætasköpun á Vestfjörðum og gæti aukið verga landsframleiðslu Íslands um tæplega 1 %, svo að hér er um hagsmunamál landsins alls að ræða.  

Vestfirðingar hafa mátt búa við þá slæmu stöðu áður en fiskeldið kom til skjalanna, að íbúum í landshlutanum hefur fækkað.  Ef stjórnvöld setja ekki óþarfar hömlur á vöxt og viðgang laxeldisins upp að metnu burðarþoli fjarðanna, þá mun fólksfækkun verða snúið í fólksfjölgun, svo að árið 2040 gæti hafa orðið 5000 manna fjölgun þar eða 100 %. Þótt þessi jákvæða þróun Vestfjarða verði knúin áfram af einkaframtakinu, eins og eðlilegt er, setja stjórnvöld starfseminni umgjörð með leyfisveitingum og innviðauppbyggingu og geta hæglega kastað skít í tannhjólin.  Þetta ættu Vestfirðingar að hafa ofarlega í huga, þegar þeir ganga að kjörborðinu 28. október 2017, og huga að því, hvaða stjórnmálaflokkur er líklegastur til að styðja við bakið á þeim í þeirri merkilegu atvinnu- og þyggðaþróun, sem getur nú verið framundan á Vestfjörðum.  

Til þess að tækifærin verði nýtanleg, verða stjórnvöld nefnilega að hjálpa til við uppbyggingu nauðsynlegra innviða.  Þau mega ekki leggja stein í götu Hvalárvirkjunar, og þau verða að flýta áætlunum Landsnets um að reisa aðveitustöð á Nauteyri, sem verður lykillinn að langþráðri hringtengingu Vestfjarða um Ísafjörð og aðveitustöð Mjólká á traustu 132 kV/66 kV flutningskerfi.

Upphleyptur og klæddur vegur á láglendi frá Ísafirði suður til Patreksfjarðar og þaðan austur í Þorskafjörð er annað skilyrði fyrir því, að mannlífið fái að blómstra með þessum hætti á Vestfjörðum, sbr slagorðið: "Ísland allt blómstri".  Af því, sem fram kemur hér að ofan, yrðu fjárveitingar ríkissjóðs til þessara verkefna þjóðhagslega arðbærar, og ber að einhenda sér í þær tafarlaust.  

Hvaða stjórnmálaflokkum er trúandi fyrir þessu verkefni ? 

Alls ekki vinstri grænum, af því að þessi atvinnuuppbygging stríðir gegn grundvallar stefnu þeirra í atvinnumálum, þar sem hér er um beinar erlendar fjárfestingar að ræða og aukna nýtingu á náttúruauðlindum öðru vísi en með tronti ferðamanna um landið.  (Undantekning við stefnu VG er ráðstöfun ríkisins vegna PCC-kísilversins á Bakka.) Alræmt og heimskulegt slagorð þeirra, "látum náttúruna njóta vafans", getur bæði beinzt gegn auknu laxeldi og nýjum vatnsaflsvirkjunum á borð við Hvalárvirkjun.  Vinstri grænum er ekki treystandi til að styðja nein atvinnutengd framfaramál, sem tengjast náttúruauðlindum.  Þeirra hjartans mál er stofnun þjóðgarða með ærnum kostnaði fyrir ríkissjóð, og mundu þeir áreiðanlega gjarna vilja breyta Vestfjörðum í einn samfelldan þjóðgarð, þar sem íbúarnir væru hluti af verndaðri náttúru svæðisins.  Þetta vilja íbúarnir einmitt alls ekki, og skyldi engan undra.

Framsóknarflokkurinn verður vísast ekki til stórræðanna eftir kosningarnar 28. október 2017 og mun þurfa langan tíma til að sleikja sár sín, ef þau þá leiða hann ekki til ólífis. Hjaðningavígin á miðjunni verða henni vart til framdráttar. 

Píratar hafa engan áhuga fyrir atvinnumálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, enda nenna þeir ekki að ýja einni hugsun að þessum málum.  Frítt niðurhal af netinu og ný Stjórnarskrá eru þeirra mál.  Af fyrra málinu hafa þeir sjálfsagt margháttaða reynslu, en á seinna málinu hafa þeir ekkert vit, enda um margbrotið mál að ræða, sem stjórnlagafræðingar þurfa að véla um. Það er hins vegar hægt endalaust að túðra af takmarkaðri þekkingu um flókið og fjarlægt mál eins og nýja Stjórnarskrá.   

Um aðra flokka þarf varla að véla og lítið vitað um.  Afl þeirra verður annaðhvort ekkert eða sáralítið á Alþingi, ef svo fer fram sem horfir.  Dreifbýlisfólk má ekki við því að dreifa kröftunum um of eina ferðina enn.  

 

 


Lausbeizlaður ríkissjóður eða aðhaldsstefna

Formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því yfir á ræsfundi (kick-off meeting) kosningabaráttu flokksins á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu laugardaginn 23. september 2017, að hann vildi móta landinu nýja heilbrigðisstefnu, þar sem skilgreint væri, hver ætti að gera hvað, og þar með væri unnið samkvæmt markmiðum (management by objectives).  Hann lýsti því líka yfir, að hann vildi tvöfalda persónuafsláttinn upp í 100 kISK/mán á næsta kjörtímabili.  Það hefur komið fram, að umtalsvert meiri hækkun frítekjumarks yrði ríkissjóði mjög dýr.  Það er nauðsynlegt vegna jafnræðissjónarmiða, að þessi hækkun spanni allar tekjur, hvaða nafni sem þær nefnast.

Umsvif hins opinbera eru nú þegar mjög mikil á Íslandi og á meðal þess hæsta, sem gerist innan OECD. Það er ljóst, að forkólfar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Samfylgingar, Píratahreyfingarinnar og annarra, sem hækka vilja skattabyrðarnar enn meir, gera sér enga grein fyrir, hvað það þýðir að hafa skattheimtuna hér í hæstu hæðum.  Þau munu spenna bogann um of, þar til bogstrengurinn brestur. Landið er stórt og þjóðin fámenn, og þar af leiðandi er dýrt að halda hér uppi nútímaþjóðfélagi.  Það er þess vegna mjög auðvelt að fara offari á útgjaldahlið.  Öllu verra er, að þessir flokkar hafa ekki minnsta skilning á nauðsyn þess að afla fyrst og eyða svo, þ.e. fyrst að skapa aukin verðmæti í einkageiranum áður en hið opinbera tekur til við að útdeila gæðunum. Það er fyrirkvíðanlegt, að flokkar, sem nú virðast stefna í meirihluta á Alþingi, hafa nánast engan skilning á atvinnurekstri, heldur virðast frambjóðendur flestir  vera úr opinbera geiranum eða vinna fyrir hann.  Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Það skín í gegn um allan málflutning Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, að fólk í þeim flokki hefur engan áhuga á skilvirkni í rekstri opinberra stofnana, hvorki m.t.t. þjónustugæða né kostnaðar, heldur er formið fyrir þeim aðalatriðið, þ.e.a.s. að að hið opinbera bæði kaupi þjónustuna og sjái um reksturinn.  Þetta heftir framþróun á viðkomandi sviðum, tefur fyrir tækniþróun, kemur í veg fyrir samkeppni og girðir fyrir aukna skilvirkni og bætt gæði, sem samkeppni tryggir.  Þetta er mjög slæmt fyrir starfsfólkið, því að það hefur þá aðeins einn vinnuveitanda á sínu fagsviði, sem er sjaldnast hollt fyrir starfsánægju og laun.  

Það virðist vera, að þeir, sem festast í þessu fari hinnar sívaxandi opinberu þjónustu, verði hallir undir þá stjórnmálaflokka, sem boða útþenslu ríkisbáknsins og sem mesta einokun.  Þetta er vítahringur, sem nauðsynlegt er að rjúfa, því að þetta rekstrarform er þjóðhagslega óhagkvæmt. 

Þegar nánar er að gætt, kemur í ljós, að opinberi geirinn hérlendis notfærir sér í minni mæli þjónustu einkaframtaksins en annars staðar tíðkast.  Þetta á við um báða stóru geirana, heilbrigðisgeirann og menntageirann.  Það hefur gefizt vel annars staðar, t.d. á hinum Norðurlöndunum, að úthýsa þjónustu til einkaaðila, t.d. á sviði heilsugæzlu og skóla.  Hið opinbera greiðir hið sama fyrir veitta þjónustu, óháð rekstrarformi, en rekstraraðilarnir keppa sín á milli um "viðskiptavini".  Þetta hefur gefizt vel á sviði heilsugæzlu hérlendis, þar sem einkareknar heilsugæzlustöðvar hafa reynzt vera vinsælar á meðal "viðskiptavina" og hafa staðið sig vel í samkeppninni.

Hér er sem sagt leið til að slá tvær flugur í einu höggi, bæta þjónustuna og halda kostnaðaraukningu við þjónustu hins opinbera í skefjum.  Hið sama er uppi á teninginum með sérfræðilæknana.  Þjónusta þeirra utan spítalanna er sjálfsögð og dregur úr álagi á yfirlestuð sjúkrahús.  Að leyfa einkareknum lækningasofum að stunda aðgerðir, sem krefjast legu í kjölfarið, ætti að vera sjálfsagt mál, ef öllum gæða- og kostnaðarkröfum hins opinbera er fullnægt.  

Að fordómafullir og í sumum tilvikum ofstækisfullir stjórnmálamenn nái að leggja stein í götu sjálfsagðrar frelsisþróunar í atvinnulegu tilliti, sem einnig sparar skattfé, er gjörsamlega ólíðandi, en nú stefnir í, að slíkir hafi sitt fram um skeið.  Það verður áreiðanlega ekki lengi, því að gallar kerfisins þeirra eru svo yfirþyrmandi, að það mun fljótlega ganga sér til húðar.  

 


Skýr og yfirvofandi hætta

Gekk ekki amerísk bíómynd hér fyrir allmörgum árum undir heitinu, "Clear and present danger" ?  Nú vofir yfir landsmönnum augljós hætta á, að við ríkisstjórnarborðið muni bráðlega eftir Alþingiskosningar 28. október 2017 ríkja sams konar óstjórn og í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Munurinn verður sá einn, að í Ráðhúsinu er Samfylkingarmaðurinn Dagur B. Eggertsson í oddvitasætinu, en við enda ríkisstjórnarborðsins mun sitja "litla stúlkan með eldspýturnar", Katrín Jakobsdóttir, ef fer fram sem horfir. Ef kjósendur fá henni eldfæri í hendurnar, þá mun hún setja púðurtunnu undir ríkiskassann og kveikja í öllu saman.  Þetta sést af tillögum vinstri grænna um hrikalegar útgjaldahækkanir ríkissjóðs tímabilið 2018-2022. 

Reykjavík stefnir á að lenda í höndum fjárhagslegs tilsjónarmanns vegna skuldasöfnunar. Ekkert sýnir betur ábyrgðarleysi vinstri grænna, samfylkinga og pírata við meðferð annarra manna fjár. Með hliðsjón af tillögum VG við gerð fjárhagsáætlunar ríkisins í vor munu matsfyrirtækin neyðast til að lækka lánstraustsmatið á ríkissjóði, og Seðlabankinn mun sjá sig knúinn til að hamla gegn lausung ríkisfjármálanna með hækkun stýrivaxtanna.  Afleiðing lausungarinnar verður vaxtastökk á verðtryggðum og á óverðtryggðum lánum.  Að sukka er alltaf dýrkeypt, og aðalfórnarlömb vinstri vingulsháttarins verða þeir, sem sízt skyldi.

Þegar rúmlega 900 manns höfðu í skoðanakönnun, sem upplýst var um 23. september 2017, svarað efnislega, hvaða stjórnmálaflokk þau hygðust kjósa í komandi Alþingiskosningum og 30 % þeirra lýstu yfir stuðningi sínum við Vinstri hreyfinguna grænt framboð, þá var "litla stúlkan með eldspýturnar" strax tilbúin að stjórna íkveikju ríkissjóðs.  Hún lýsti því yfir, að hún vildi leiða vinstri stjórn, sem nyti meirihluta á Alþingi.  Fyrir hana er þó ekki sopið kálið, þótt í ausuna sé komið, því að það á eftir að renna upp fyrir mörgum, að hag þeirra verður verst komið undir vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur.  

Þegar ólánsferill vinstri stjórnarinnar 2009-2013 er hafður í huga og með hliðsjón af óstjórninni á öllum sviðum í Reykjavík, má gera því skóna, að vinstri grænka við stjórnvölinn í Stjórnarráðinu muni:

  1. gera fyrirtækjum landsins erfiðara fyrir með aukinni skattheimtu.  Nú er kólnun hagkerfisins hafin, sem þýðir minnkandi þörf á að fjölga starfsfólki.  Ef skattbyrði fyrirtækja verður á sama tíma aukin, þá munu þau flest neyðast til að fækka hjá sér starfsfólki.  Fyrirtækin verða að bregðast við með tvenns konar hætti:               Á sviðum takmarkaðrar samkeppni, verður kostnaðaraukningunni velt út í verðlagið, sem er ávísun á versnandi lífskjör almennings, því að verðbólga er næstversti óvinur launamannsins.  Annars neyðast fyrirtækin til að draga saman seglin og fækka starfsfólki, og atvinnuleysi er versti óvinur launamannsins.  Af þessu má draga þá ályktun, að skattbyrði fyrirtækjanna kemur harðlega niður á lífshagsmunum launþega.  Við kólnun hagkerfa ber að forðast "harða lendingu" með því að létta skattbyrðina.  Vinstri grænir eru í senn fúskarar á sviði hagfræði og gösslarar á sviði stjórnsýslu, því að þeir lifa í eigin veruleikafirrta heimi, þar sem kenningar Marx og Leníns eru öllu ofar.
  2. hækka beina skatta á einstaklinga með því að hækka skattheimtuna í núverandi hærra þrepi (46 %) og jafnvel með því að stofna til þriðja þrepsins þar fyrir ofan.  Leiða má þá hugann til frönsku sossanna, sem bjuggu til 75 % tekjuskattsþrep. Þetta mun hafa afar slæm áhrif á kjör ungs fólks, sem leggur mikið á sig í vinnu og er með há útgjöld vegna fjárfestinga og ómegðar.  Þetta bitnar líka hart á sérfræðingum, í mörgum tilvikum nýkomnum að utan með háa námsskuld á bakinu. Gæti leitt til gjaldþrota, ef hrun verður á húsnæðismarkaði vegna samdráttar í hagkerfinu. 
  3. valda gríðarlegu verðmætatjóni í samfélaginu og glötuðum tækifærum, þar sem nýsköpun stöðvast. Þegar hefur markaðsvirði fyrirtækja lækkað um a.m.k. miaISK 50 frá stjórnarslitum og tækifæri fara í súginn vegna færri og minni fjárfestinga.  Ísland verður ekki lengur jafnaðlaðandi til búsetu og áður fyrir unga og vel menntaða Íslendinga.  Að kasta frá sér gullnum tækifærum með óvissu og öngþveiti í stjórnmálum í stað stöðugra og örvandi stjórnarhátta fyrir atvinnulífið yrði þjóðarhneisa.
  4. setja innflytjendamálin í algert öngþveiti, þar sem þúsundir innflytjenda frá "öruggum" löndum lenda á framfæri ríkisins.  VG hefur á stefnuskrá sinni að taka árlega við 500 hælisleitendum.  Slíkt mun leiða til öngþveitis á Íslandi. Nægur er húsnæðisskorturinn fyrir og vöntun á fé í þarfari málaflokka.  Árlegur kostnaður hins opinbera af straumi fákunnandi fólks úr framandi umhverfi, oft í miðaldamyrkri múhameðstrúar, sem getur í fæstum tilvikum aðlagazt almennilega íslenzka þjóðfélaginu, gæti þrefaldazt m.v. núverandi kostnað og farið að nálgast miaISK 20.  Á þremur árum væri búið að sóa jafnvirði nýs Landsspítala með einfeldningshætti og trúgirni um glæpsamlegt eðli innflytjendastraumsins (mansal, smygl á fólki), sem kemur hart niður á alþýðu manna.  Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera eini flokkurinn á Alþingi með bein í nefinu til að stemma stigu við stjórnlausu innflæði fólks, sem er þungur baggi á öllu velferðarkerfinu. 
  5. vinna gegn öllum tilraunum til aukinnar samkeppni í opinbera geiranum. Vinstri stjórn mun grafa undan einkaframtaki á öllum sviðum, sem einfaldlega mun leiða til minna valfrelsis fyrir almenning, dýrari og verri þjónustu, sem einokun ætíð hefur í för með sér.  Góður árangur einkaframtaksins í opinberri þjónustu sást nýlega í heilsugæzlugeiranum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fólk flykktist til nýstofnaðrar einkarekinnar stöðvar, en flúði opinberar stöðvar.  Þjónusta batnar og kostnaður hins opinbera lækkar, þegar dauð stjórnsýsluhönd er tekin af mikilvægri, flókinni og viðkvæmri starfsemi.  (FRÚ kom með lygafrétt um kostnaðarhækkun hins opinbera í Svíþjóð vegna þjónustukaupa af heilbrigðisstarfsfólki í einkarekstri, eins og 2 læknar bentu á í aðsendri grein í Morgunblaðinu 05.10.2017.) Hugmyndafræði sósíalista yfirtrompar heilbrigða skynsemi í huga þeirra, þegar þeir komast til valda. Fólk er tilraunadýr í þjóðfélagstilraun sósíalista, sem alls staðar og alltaf hefur mistekizt, þar sem hún hefur verið reynd.  
  6. iðka leyndarhyggju sem aldrei fyrr.  Kommúnistar og arftakar þeirra, sósíalistar, hafa stundað það frá upphafi að ljúga eigin ávirðingum upp á pólitíska andstæðinga sína.  Þegar kemur að leyndarhyggjunni, kasta þeir heldur betur steinum úr glerhúsi.  Hver man ekki eftir leyndarmeðferðinni á fyrsta Icesave-samninginum, misheppnuðustu samningsniðurstöðu í þjóðarsögunni, þar sem sósíalistinn Svavar Gestsson stýrði för án þess að geta það.  Samningurinn var lokaður inni í herbergi í Alþingishúsinu, sem þingmenn höfðu aðgang að í einrúmi, og þessu óbermi átti að þröngva gegnum þingið svo að segja ólesnu.  Þetta var ekki aðeins hámark leyndarhyggjunnar, heldur nauðgun þingræðisins.  Sem betur fór sat þá forseti á Bessastöðum með nægt bein í nefinu og taugar til þjóðarinnar til að synja Icesave-ólögunum samþykkis, og eftirleikurinn er kunnur.
  7. skapa úlfuð um utanríkismálastefnu landsins.  Vinstri hreyfingin grænt framboð er andsnúin veru Íslands í varnarsamtökum vestrænna þjóða, NATO, og telja þau vera tímaskekkju, eftir að Varsjárbandalagið leið undir lok.  Vilja Íslendingar, að stjórnvöld sái fræjum efasemda um heilindi okkar í vestrænu öryggissamstarfi ?  Ekki nóg með þetta, heldur er Vinstri hreyfingin grænt framboð andsnúin fríverzlunarsamningum á milli ríkja, sem flestir hagfræðingar telja þó almenningi vera til hagsbóta.  Er skemmst að minnast fríverzlunarsamnings Íslands og Kína, sem gerður var undir handarjaðri Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi utanríkisráðherra, í vinstri stjórninni 2009-2013.  Var VG á móti þessum samningi, eða er ekkert að marka stefnuskrá VG ?  Má þá ekki gera fríverzlunarsamning við Breta, þegar þeir ganga úr ESB ?  Þá veit nú enginn upp á hverju ný vinstri stjórn tæki gagnvart Evrópusambandinu.  Sú síðasta sendi inn formlega umsókn um aðildarviðræður, en lagði umsóknina á ís, þegar í ljós kom, að engar undanþágur voru í boði frá sameiginlegri fiskveiði- og landbúnaðarstefnu ESB, eins og Össur hafði þó alltaf haldið fram hér heima.  Þessi umsókn er enn ofan í skúffu í Berlaymont.  Mun ný vinstri stjórn blása í glæðurnar og gera okkur að athlægi, á sama tíma og aðalviðskiptaþjóð okkar er á leið út úr sambandinu ?  Utanríkismálin undir "leiðsögn" vinstri grænna, þar sem blindur leiðir haltan, gætu lent í algeru uppnámi og stórskaðað orðspor okkar.  

Ísland á öðru róli

Af skoðanakönnunum að dæma og af atburðum og umræðum á Alþingi má ætla, að hérlendis stefni í fjölflokka stjórn til vinstri í hinu pólitíska litrófi.  Það yrði þá sannkölluð óreiðustjórn frá upphafi til enda, sem litast mundi af vandræðagangi stórra egóa, með lítið vit á fjármálum og atvinnumálum, en hafa komizt upp með ábyrgðarlaust gaspur. 

Það er engum vafa undirorpið, að fjárfestar munu hræðast slíka stjórn, og landsmenn munu sjá undir iljar þeirra með fé úr landi.  Þetta mun hægja á hagvexti, veikja krónuna, ISK, og leiða til kjaraskerðingar með einum eða öðrum hætti. Lánshæfismat ríkisins mun fljótt lækka, þegar hætt verður að borga niður skuldir ríkissjóðs og jafnvel tekið til við að safna skuldum á ný.  Vextir í landinu munu þá óhjákvæmilega hækka og rekstur heimila og fyrirtækja verða erfiðari.

Allt er þetta uppskera smáflokksins, sem sleit stjórnarsamstarfinu aðfararnótt 15. september 2017 í flaustri, æsingi og misskilningi, enda algerlega að óathuguðu máli. Að einhver hafi reynt að hylma yfir eitt eða annað, er ímyndun ein og rangtúlkun á þeirri staðreynd, að dómsmálaráðuneytið hefur alltaf talið sig bundið þagnarskyldu að lögum, en benti í þetta skiptið fréttamanni, sem leitaði upplýsinga, á að fá úrskurð "Urskurðarnefndar upplýsingamála" um, hvað væri löglegt að birta.  Samkvæmt úrskurðinum má birta sumt, en annað ekki.  Eftir úrskurðinn var forsætisráðherra ekki lengur bundinn þagnarskyldu og sagði formönnum samstarfsflokkanna í ríkisstjórn frá margumræddri undirskrift föður síns. 

Þetta tvíeyki smáflokkanna í ríkisstjórn gerði hins vegar ekkert með þessar upplýsingar mánudagsins 11.09.2017. Skýtur það rækilega skökku við það, sem gerðist téða örlaganótt. Þá tók fjallið jóðsótt, og fæddist lítil mús. 

Umboðsmaður Alþingis telur að sjálfsögðu enga ástæðu til að gera nokkurn skapaðan hlut með þann músagang.   Annaðhvort lá stjórn BF á því lúasagi að nota þetta mál sem tylliástæðu til að rjúfa bræðralag Óttars Proppés og Benedikts Jóhannessonar, sem hefur verið henni þyrnir í augum, eða þessi sama stjórn BF kann ekki skil á réttu og röngu.  Slíkt ástand er nefnt siðblinda og er viðsjárverð þeim, er fyrir henni verða. 

Upplausnarástand stjórnmálanna hérlendis er hins vegar ekki pólitíska staðan, sem við blasir annars staðar í Evrópu.  Í Noregi eru nýafstaðnar kosningar til Stórþingsins.  Þar héldu stjórnarflokkarnir, Hægri flokkurinn og Framfaraflokkurinn, sem er hægra megin við Hægri flokkinn, nokkurn veginn sínu, svo að þar heldur borgaraleg, tveggja flokka stjórn væntanlega  áfram störfum, hugsanlega með Frjálslynda flokkinum Venstre, innanborðs, þó að sá kristilegi dragi stuðning sinn við ríkisstjórnina til baka. 

Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinnn, Verkamannaflokkurinn, hefðbundinn krataflokkur, tapaði töluverðu fylgi.  Það er í samræmi við þróunina annars staðar í Evrópu.  Fækkun verkamannastarfa og öldrun samfélaganna í Evrópu og víðar virðist valda því, að tími kratanna er liðinn.  Farið hefur fé betra.  Almenningur finnur, að hann hefur hreinlega ekki lengur efni á kratisma, þegar færra og færra vinnandi fólk þarf að framfleyta fleiri og fleiri heilbrigðum og sjúkum gamlingjum.  Þar er ekki lífeyrissjóðakerfi sambærilegt hinu íslenzka, heldur s.k. gegnumstreymiskerfi beint úr ríkissjóðunum.   

Franski jafnaðarmannaflokkurinn er ekki svipur hjá sjón eftir þingkosningar þar í landi í sumar.  Miðjumaður, bankamaður, var kosinn forseti Frakklands nokkrum vikum fyrr, og tók hann við af hinum kvensama jafnaðarmanni, Francois Hollande.  Þótt frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar, frönsku, Marine Le Pen, gengi ekki vel í forsetakosningunum, varð samt hægri sveifla í Frakklandi. Þjóðfylkingin veitir forsetanum aðhald og standi hann sig illa, getur Marine Le Pen fellt forsetann í næstu forsetakosningum.  

Í Þýzkalandi var kosið til Sambandsþingsins, sem aðsetur hefur í Reichstag, gamla þinghúsinu í Berlín, þann 24. september 2017.  Úrslitin má túlka sem ótvíræða hægri sveiflu í þýzkum stjórnmálum, þótt CDU/CSU tapaði 8,5 % og fengi aðeins 33 % atkvæðanna.  Fylgistapið var sérstakt áfall fyrir Bæjarana í CSU, sem ráðið hafa lögum og lofum í Bæjaralandi frá endurreisn Þýzkalands á rústum Þriðja ríkisins 1949.  Tap CDU og CSU var aðallega til Alternative für Deutschland, AfD, sem er flokkur evruandstæðinga og fólks, sem geldur mikinn varhug við flaumi flóttamanna úr framandi menningarheimum til Þýzkalands, en einnig gengu FDP, Frjálsir demókratar, í endurnýjun lífdaganna.  Þótt AfD þyki ekki stjórntækur, sem orkar tvímælis út frá lýðræðissjónarmiðum, mun 90 manna þingflokkur þeirra í Reichstag hafa áhrif á stjórnarstefnuna, hvaða stjórn, sem að lokum tekst að berja saman í Berlín.  

Þýzkir jafnaðarmenn, SPD, guldu afhroð og fengu minnsta fylgi í aldarlangri sögu flokksins.  Stefna jafnaðarmanna um háskattastefnu og gríðarlegar millifærslur til alls konar hópa, sem eru þeim þóknanlegir, fellur ekki lengur evrópskum kjósendum í geð.  Þá gæti hrifning jafnaðarmanna í Evrópu af Evrópusambandinu, ESB, átt þátt í minnkandi stuðningi við þá, en mörgum geðjast illa að yfirþjóðlegu valdi í Evrópu, sbr BREXIT.  Það fjarar víðast hvar undan þeim, og það gæti verið óafturkræf atburðarás.  

 

 

Björn Jón Bragason, lögfræðingur og sagnfræðingur, er áhugamaður um þýzk stjórnmál.  Sumarið 2017 var hann staddur í Berlín og kynnti sér starfsemi og kosningabaráttu CDU (Christlich Demokratische Union), sem hann nefnir systurflokk Sjálfstæðisflokksins.  Þann 11. september 2017 ritaði hann grein í Morgunblaðið,

"Frú Merkel og Sjálfstæðisflokkurinn".

Þar kvað hann megininntakið í tali starfsfólks CDU hafa verið eftirfarandi:

""Við erum flokkur allra stétta; við erum flokkur verkamannsins í bifreiðaverksmiðjunni í Stuttgart og kaupsýslumannsins í Hamborg, vínbóndans í Rínardölum og kennarans í Berlín."

Flokkurinn hefur á að skipa öflugum launþegasamtökum, CDA, og þá er innan vébanda hans starfandi hreyfing lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en bæði þessi aðildarsamtök hafa mikil áhrif á mótun stefnu flokksins og framkvæmd mála."

Í ljósi þess, að CDU er talinn vera einn af systurflokkum Sjálfstæðisflokksins í Evrópu og að CDU ásamt bandalagsflokki sínum í Bæjaralandi, CSU, hefur tekizt að halda fylgi sínu lengst af frá stofnun á rústum Þriðja ríkisins á bilinu 35 %-45 % í kosningum til neðri deildar þýzka sambandsþingsins, og CSU hefur haft meirihluta í Bæjaralandi, þá er fróðlegt að kynnast megindráttum skipulags og stefnumörkunar CDU.  Í tíð Angelu Merkel hefur reyndar verið uppi óvenjumikill ágreiningur á milli CDU og CSU, sem bendir til, að hún hafi fært CDU til vinstri,  t.d. varðandi lágmarkslaun, kjarnorkuver og flóttamenn, en einnig endurspeglast þar menningarmunur á milli Lúthersmanna norðursins og kaþólikka suðursins. 

Undir lok greinar sinnar dregur Björn Jón eftirfarandi ályktanir um það, hvað sjálfstæðismenn þurfa að gera eftir að hafa leitað í smiðju stjórnmálaflokks, sem stöðugt höfðar til 30 % - 40 % Þjóðverja (utan Bæjaralands).  Það er hægt að taka heils hugar undir með Birni Jóni:

"Eigi Sjálfstæðisflokkurinn að öðlast aftur fyrri stöðu sem 40 % flokkur, er nauðsynlegt að líta til þeirra grundvallaratriða, sem hér eru nefnd.  Flokkurinn hefur fyrir löngu glatað öllum tengslum við verkalýðshreyfinguna og fátt verið gert til að bæta rekstrarstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.  Eiginfjármyndun almennings og fyrirtækja eru settar alltof þröngar skorður með óhóflegri skattheimtu og íþyngjandi regluverki. Þá hefur á mörgum sviðum atvinnulífsins orðið óeðlilega mikil samþjöppun og litlir atvinnurekendur átt í vök að verjast."

Til að undirstrika það, hversu hóflaus útþensla ríkisbáknsins hefur verið, er rétt að rifja upp nokkrar staðreyndir, sem annar mikill baráttumaður fyrir kjölfestu borgaralegs samfélags, litla framkvæmdamanninn, og í mörgum tilvikum frumkvöðulinn, Óli Björn Kárason, Alþingismaður, tíundaði í Moggagrein 30. ágúst 2017:

Skatttekjur ríkissjóðs 2016 voru um miaISK 229 hærri að raunvirði en árið 2000 [ÓBK-annað hér á eftir er frá BJo].  Það er MISK 2,7 meira á hverja fjögurra manna fjölskyldu m.v. íbúafjölda í árslok 2016.  Meginskýringarnar á þessari svakalegu hækkun eru meiri vaxtakostnaður og aukin útgjöld til heilbrigðis- og almannatryggingamála.  Vegna öldrunar þjóðarinnar mun mikil aukning ríkisútgjalda rýra lífskjör vinnandi fólks hratt, ef hækkunum er ekki andæft. 

Andófið felst í að greiða niður skuldir, auka skilvirkni heilbrigðiskerfisins með fjölbreytilegum rekstrarformum, sem keppa um fjárveitingar ríkisins (fé fylgir sjúklingi), efla lýðheilsuna með námsefni í skólum um skaðsemi óheilbrigðs lífernis og hækkun lífeyrisaldurs.  Vinstri flokkarnir hafa engan áhuga á að setja ríkisútgjöldum skorður, hvorki í bráð né lengd.  Óráðsstefna þeirra mun leiða ríkissjóð og hag þjóðarinnar í fullkomið óefni, ef hún verður ofan á við ríkisstjórnarborðið.  

 


Vinstra öngþveiti yfirvofandi

Hlutabréfamarkaður og gjaldeyrismarkaður hérlendis tóku fréttum af stjórnaslitum aðfararnótt 15. september 2017 ekki vel.  Um  miaISK 40 af markaðsvirði fyrirtækja hvarf út í buskann fyrstu vikuna eftir stjórnarslitin og miaISK 20 hafa bætzt við tapið síðan. Það er skiljanlegt, og ekki verður útlitið björgulegra fyrir þjóðarhag í kjölfar skoðanakannana, sem birtust 19. september 2017 og benda til, að næsta ríkisstjórn geti orðið fjölflokkastjórn undir forsæti formanns Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Katrínar Jakobsdóttur, litlu stúlkunnar með eldspýturnar og púðurtunnuna, sem hún ætlar að setja undir ríkiskassann, ef marka má boðskap hennar við gerð fjárlagaáætlunar vorið 2017.   

Það, sem sameinað getur flokkana, sem nú eru á þingi, gegn Sjálfstæðisflokkinum, er eindregin ósk þeirra allra um að auka enn við skattabyrði almennings.  Ríkisútgjöld og ríkisafskipti verða þanin út, komist þeir til valda, eins og téð Katrín boðaði í vor við gerð ríkisfjármálaáætlunar. Sjálfstæðisflokkurinn einn stendur gegn skaðlegum ofvexti ríkisumsvifa, og það auk heilbrigðrar þróunar atvinnulífsins til nauðsynlegrar verðmætasköpunar alþýðu til heilla er meginhlutverk hans í íslenzkum stjórnmálum. Hinir flokkarnir hafa miklu meiri áhuga á eyðslu fjármuna og skattheimtu en eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun.

Eftir kosningar mun almenningur sitja vonsvikinn með afleiðingarnar, fái Sjálfstæðisflokkurinn laka útkomu, sem verða veruleg rýrnun kaupmáttar vegna verðminni króna (ISK) af völdum mikillar gengisveikingar og verðbólgu, sem er óumflýjanlegur fylgifiskur efnahagsstefnu vinstri grænna

Katrín Jakobsdóttir þykist geta lofað öllum öllu, eins og ríkisfjárhirzlurnar séu ótæmandi hít, en því fer víðs fjarri í raun. Auðveldast af öllu er að breyta rekstrarafgangi ríkissjóðs Íslands í rekstrarhalla, hækka skatta og samtímis að safna skuldum.  Allt er það ávísun á stöðnun hagkerfisins, atvinnuleysi og lakari lífskjör þorra fólks, einkum hinna lakast settu, eins og dæmin sanna.

Sjálfstæðisflokkurinn, einn flokka á Alþingi, berst fyrir hagsmunum skattgreiðenda.  Annars væru skattgreiðendur algerlega berskjaldaðir.  Þessir hagsmunir eru fólgnir í því, að stjórnmálamenn séu gætnir í meðferð ríkisfjár og gæti þess, að ríkisútgjöld vaxi ekki umfram almennan hagvöxt í landinu.  Meðulin, sem Sjálfstæðisflokkurinn vill beita í þessu skyni, eru, að eignum ríkisins verði ráðstafað á arðsamari hátt en nú er raunin, peningarnir látnir vinna og að styrkur frjálsrar samkeppni verði nýttur til að veita betri og ódýrari opinbera þjónustu, t.d. á sviðum lækninga og kennslu.

  Óli Björn Kárason er einn ötulasti talsmaður einkaframtaks á Alþingi nú um stundir og verður að vona, að hann verði það einnig á næsta þingi.  Hann skrifaði hugvekju í Morgunblaðið 30. ágúst 2017:

"Áskoranir ríkisstjórnir: útgjaldavandi og nýting eigna" . 

Ríkisstjórnin, sem hann skoraði á, var felld með lúalegum hætti aðfararnótt 15. september 2017 af einum samstarfsflokkanna, en áskorunin er í fullu gildi fyrir næstu ríkisstjórn, hvernig sem sú mun nú líta út:

"Í félagi við Brynjar Níelsson og Harald Benediktsson lagði ég í janúar síðastliðnum fram þingsályktunartillögu um sölu ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.  Tillagan náði ekki fram að ganga, en í greinargerð var m.a. bent á, að með nokkurri einföldun megi segja, að Íslendingar standi frammi fyrir tveimur kostum:

"Annars vegar getur ríkið áfram átt fyrirtæki, hús, jarðir og fleira og búið við þungar vaxtagreiðslur á komandi árum með tilheyrandi lakari þjónustu og hærri sköttum.  Hins vegar er hægt að selja hluta eigna ríkisins og greiða niður skuldir.  Þar með lækka vaxtagreiðslur, og fjármunina, sem sparast, má nýta til að byggja upp heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfi og lækka skatta."

Í greinargerðinni er því haldið fram, að lækkun skulda ríkisins sé eitt brýnasta verkefni samtímans og mikilvæg forsenda bættra lífskjara.  Það sé ekki eftirsóknarvert fyrir almenning að eiga hlut í bönkum eða öðrum fyrirtækjum með sameiginlegu eignarhaldi ríkisins, ef greitt er fyrir eignarhaldið í formi verri lífskjara með hærri sköttum og verri þjónustu hins opinbera."

Hér er í raun bara verið að halda heilbrigðri skynsemi á lofti, og það er alveg dæmigert fyrir núverandi samsetningu Alþingis, að þingmenn skyldu ekki vilja veita þessari tillögu brautargengi.  Hún vísar þó veginn til að bæta nýtingu á fjármunum ríkisins almenningi öllum til hagsbóta.  Sjálfstæðisflokkurinn, einn flokka á Alþingi, er fús til að leyfa heilbrigðri skynsemi að ráða við ráðstöfun ríkiseigna, en pólitískar kreddur hindra aðra flokka í að hoppa á vagninn með Sjálfstæðisflokkinum, og vinstri grænir eru svo gaddfreðnir ríkisafskiptasinnar, að þeir mega ekki heyra minnzt á neitt annað en skattahækkanir til auka þjónustu við almenning.  Í landi einna skattpíndustu þjóðar heims mun skattahækkun ekki skapa neina sjálfbæra tekjuaukningu fyrir ríkissjóð, heldur aðeins rýra lífskjörin og hægja á hagvexti.  

Nú hefur Framsóknarmaddaman tekið til við að snyrta á sér vinstri vangann.  Lilja Alfreðsdóttir Þorsteinssonar lagði 19. september 2017 fram þá tillögu í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, að Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, yrði sviptur formennsku, Viðreisnarmaður flyttist úr varaformennsku í formennsku og Svandís Svavarsdóttir yrði varaformaður.  Tillagan var samþykkt, enda stjórnarmeirihlutinn fallinn, og þar með er hafið samstarf Framsóknarflokksins við vinstri glundroðaöflin að hætti ólánsams R-lista í höfuðborginni, sem gefa mun tóninn í kosningabaráttunni og í viðræðum um myndun ríkisstjórnar að kosningum afloknum 28. október 2017. Síðar gerðist það hins vegar, að Framsóknarflokkurinn klofnaði, og Samvinnuflokkur (?) og Framsóknarflokkur munu eiga erfitt um samstarf á hvaða vettvangi sem er. Þetta mun bæta vígstöðu Sjálfstæðisflokksins í ýmsum kjördæmum og á Alþingi.  

Kjósendur sjá nú skriftina á veggnum.  Það er verið að leggja drögin að harðsvíraðri vinstri stjórn, sem á eftir að koma okkur á kaldan klaka og sennilega að flýta fyrir hruni lífskjaranna í landinu.  Kjósendur geta aðeins andæft hættunni af vinstri stjórn með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.  Það er sami botninn undir öllu hinu pakkinu; hann er reyndar hjá Bakkabræðrum suður í Borgarfirði og skyldi engan undra.  

 sovetislandh_my_pictures_falkinn

 


Um hvað eiga þingkosningarnar í haust að snúast ?

Landsmenn hafa nú fengið smjörþefinn af því, hvað það getur kostað þá að leiða smáflokka til valda.  Það er enginn veigur í þeim, þeir leggjast marflatir við goluþyt.  Að leiða þá til öndvegis kallar á óstöðugt stjórnarfar í landinu.  

Fyrst lengir það stjórnarmyndunartilraunir, ef fleiri en tvo flokka þarf til að mynda ríkisstjórn, þingstörf smáþingflokka verða í skötulíki við að manna ráðherrastóla, og mannvalið er sjaldnast beysið, eins og dæmin sanna.  Úthaldið í valdastólunum er takmarkað, og baklandið í flokkunum getur fyrirvaralaust á valdi tilfinninganna snúið baki við samstarfsflokkunum með furðulegum og ósvífnum hætti, eins og varð síðustu ríkisstjórn að aldurtila, langt um aldur fram.  

Vilji kjósendur láta tilfinninguna ráða því, hvaða stjórnmálaflokkur hlýtur atkvæði þeirra í komandi Alþingiskosningum, ætti sú tilfinning að vera trauststilfinning.  Hvaða stjórnmálaflokki treystir þú bezt til að sýna festu og ábyrgð við landsstjórnina á næsta kjörtímabili ?  Það er ábyggilegt, að festa og ábyrgð á æðstu stöðum verður í askana látin hjá almenningi, en ákvarðanafælni, upphlaup og sýndarmennska ekki.  

Ef kjósendur vilja láta rökhyggjuna ráða ferð um það við hvern er krossað á kjörseðlinum, má t.d. spyrja sig þeirrar spurningar, hvaða stjórnmálaflokkur er líklegastur til, m.v. reynsluna, að varðveita bezt þau hámarks lífskjör, sem landsmenn njóta nú ?  

Sjálfstæðisflokkurinn hefur langflesta félaga innanborðs, félaga, sem mynda grasrót flokksins um allt land og kjölfestu allra sveitarfélaga á Íslandi.  Þingmenn flokksins gjörþekkja lífsbaráttu íslenzku þjóðarinnar, eru flestir alþýðufólk og vinna í anda hinna gömlu slagorða flokksins:

"Stétt með stétt" og "Eign handa öllum". 

Það er þess vegna engin hætta á öðru en þingmenn og ráðherrar flokksins séu með gott jarðsamband og stjórni með hagsmuni alþýðunnar fyrir augum. Fámenn klíka, 40-50 manns, eins og hjá smáflokkunum í ríkisstjórninni, getur ekki tekið völdin í Sjálfstæðisflokkinum og steypt ríkisstjórninni upp úr þurru, sízt af öllu að næturþeli á valdi tilfinninganna og án þess að ræða ágreiningsefnið við samstarfsflokkana.  Ótrúleg hegðun BF er einstæð, enda lítilmótleg, og verður í annála færð sem slík, því að Umboðsmaður Alþingis hefur lýst því opinberlega yfir, að hann sjái alls ekkert tilefni til rannsóknar á leyndarhyggju, yfirhylmingu eða trúnaðarbresti.  Ekkert af þessu var fyrir hendi í raun og veru, en grasseraði í heilabúum taugaveiklaðs pólitísks smælkis.   

Margir þingmanna Sjálfstæðisflokksins, og má benda á Óla Björn Kárason í kjördæmi blekbónda til vitnis um það, eru þeirrar skoðunar, að "litli atvinnurekandinn" sé kjarninn í sínu byggðarlagi og að þeir saman séu kjölfesta miðstéttarinnar í landinu.  Þetta getur verið Jódýnus, vinnuvélaeigandi og verktaki, Björn, bóndi, Njörður, útgerðarmaður, Eldon, rafvirkjameistari, Smiður, byggingarmeistari, Pétur, prentsmiðjueigandi eða Kristín, tannlæknir, svo að fáein dæmi séu nefnd, sem margir þekkja.  

Lítil og meðalstór fyrirtæki veita langflestum launamönnum vinnu, og þau eru oft í harðri samkeppni við mun stærri fyrirtæki, sem hafa aðgang að ódýru fjármagni á hlutabréfamarkaði, meira að segja frá lífeyrissjóðum.  Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um hagsmuni litlu og meðalstóru fyrirtækjanna, launþeganna, sem hjá þeim starfa, og allra neytenda með því að jafna samkeppnisskilyrðin og lækka alla skatta í kjölfar niðurgreiðslu ríkisskulda, jafnt beina sem óbeina. Báðar gerðir skattheimtu hafa verið lækkaðar að tilstuðlan sjálfstæðismanna á undanförnum árum, en með lækkun vaxtakostnaðar og drjúgum hagvexti skapast skilyrði til að gera enn betur.  Sjálfstæðismenn eru einir um þessa skoðun á Alþingi.

Í fjármálaráðherratíð Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili var gerð gangskör að þessu með afnámi tolla og vörugjalda á allt, nema jarðefnaeldsneytisknúna bíla, og með afnámi miðþreps tekjuskatts einstaklinga.  Þá var bilið á milli VSK þrepanna stytt með því að færa þau nær hvort öðru, og ríkisstjórn þessa kjörtímabils ætlaði að lækka efra þrep VSK enn meir eða niður í 22,5 % með breikkun skattstofns. 

Hins vegar setti fjármálaráðherrann, Benedikt Jóhannesson, í fjárlagafrumvarp 2018 inn gríðarlega hækkun á eldsneytisálögum, sem ekki njóta stuðnings allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, þótt honum hafi verið leyft að leggja frumvarpið fram með fyrirvörum um breytingar í meðförum þingsins.  Þannig átti dísilolíuverð að hækka um 18 kr/l + kolefnisgjald + VSK og benzínverð um 8 kr/l + kolefnisgjald + VSK.  Þetta er mjög íþyngjandi hækkun fyrir fjölskyldurnar og atvinnulífið, sem rýrir kaupmáttinn og hlýtur að enda úti í verðlagi vöru og þjónustu.  Hækkanirnar eru skaðlegar og óverjandi með vísun til orkuskipta, því að innviðir orkuskipta eru enn í skötulíki hérlendis og víðast hvar erlendis.  

Það er óheppilegt fyrir stöðugleika stjórnarfarsins að fylgi kjósenda dreifist á marga flokka.  Þriggja flokka stjórnir, hvað þá með fleiri flokka innanborðs, eru veikar, eins og dæmin sanna, og vilji kjósenda birtist ekki sem skyldi í stjórnarstefnunni vegna mikillar útþynningar og málamiðlana.  Í raun og veru spanna 3,5 flokkar öll meginsjónarmið, þ.e. frjálslyndra borgaralegra viðhorfa hægra megin við miðju, xD, einn flokkur, spannar miðjuna, xB, og sá þriðji spannar vinstri stefnu, xV.  Þessi hálfi, xC, með fáfróða ráðgjafarráðið með ranghugmyndir um starfsstjórn o.fl, getur spannað þá, sem eindregið vilja, að Alþingi afsali fullveldi landsins til leiðtogaráðs ESB í Brüssel.

Þeir kjósendur, sem vilja ráðdeild og skilvirkni í ríkisrekstri með fjölbreytni rekstrarforma á þjónustu ríkisins, velja Sjálfstæðisflokkinn.  Þeir, sem vilja háskattastefnu, stöðvun á lækkun skulda ríkissjóðs og hraðfara útþenslu ríkisbáknsins, þeir kjósa vinstri græna.  Síðan ræðst framhaldið af því, sem upp úr kjörkössunum kemur, en verði kaupin þessi á eyrinni, þá verður a.m.k. fræðilega hægt að mynda tveggja flokka ríkisstjórn.  Það er heimskulegt fyrirfram að útiloka nokkurn stjórnmálaflokk til samstarfs, eins og t.d. píratar hafa verið gjarnir á að gera.  Slíkt ber ekki vitni um virðingu fyrir lýðræðinu, enda eru þeir vargar í véum.   

 


Sauðfjárræktin-dauði eða dagrenning

Það hafa ýmsir, þ.á.m. fráfarandi landbúnaðarráðherra, farið mikinn út af meintu kjötfjalli af völdum offramleiðslu sauðfjárbænda.  Nú er komið í ljós, að allt er þetta stormur í vatnsglasi; birgðirnar við upphaf sláturtíðar haustið 2017 voru svipaðar og vant er, tæplega tveggja mánaða innanlandsneyzla. Verið er að kenna ferðamönnum hérlendis átið á lambakjöti og útflutningur hefur braggazt.  Kínamarkaður er sagður munu geta tekið við a.m.k. 1 kt/ár af ærkjöti og lambakjöti f.o.m. næsta ári.  Það er bara brot af öllu því lambakjöti, sem kínverska miðstéttin er farin að sporðrenna nú þegar. Það er engin þörf á 20 % fækkun sauðfjárbænda, eins og bullustampurinn á stóli landbúnaðarráðherra hefur slengt fram, ekki einu sinni 10 % - 20 %.  

Í sambandi við matarbirgðir í landinu er rétt að hafa í huga, að jarðvísindamenn eru nú teknir að minna á, að á næstu 50 árum megi búast við stórgosi á Lakagígasvæðinu með svipuðum áhrifum á loft og jörð og í Móðuharðindunum 1783-1786.  Þá eru líka hafðar uppi áhyggjur um, að vegna langs meðgöngutíma Kötlu muni næsta gos hennar verða eitt af hennar stærstu, sem þýðir jafnvel enn meira af gosefnum úr iðrum jarðar en í Móðuharðindunum.  

Við þessar aðstæður munu flugsamgöngur við landið að líkindum lamast og landið verða að reiða sig á flutninga með skipum.  Þá verður ómetanlegt að hafa enn dugmikla og þrautseiga matvælaframleiðendur innanlands sem fjærst ósköpunum, t.d. á Norð-Vesturlandi og á Norð-Austurlandi.  Verulegt matvælaöryggi færi fyrir lítið, ef landbúnaður, þ.m.t. sauðfjárrækt, legðist að mestu af á þessum svæðum, en þau eru líklega á meðal harðbýlustu svæða landsins. 

Á Íslandi voru framleidd um 10,4 kt lambakjöts árið 2016.  Þá nam innanlandsneyzla þess um 6,8 kt, að neyzlu erlendra ferðamanna, um 0,6 kt, meðtalinni.  Mismuninn, 3,6 kt, þarf að afsetja á erlendum mörkuðum.  Evrópskur markaður er yfirfullur af kjöti, eftir að Rússar svöruðu viðskiptaþvingunum BNA og ESB með innflutningsbanni á matvæli og Íslendingum var flækt í þessar viðskiptaþvinganir, sem þeir áttu ekkert erindi í.  Verð fyrir lambakjöt hefur af þessum sökum lækkað erlendis , sem hefur leitt til verðlækkunar hérlendis og tilfinnanlegs tjóns fyrir bændur, sem stefnir lífsafkomu þeirra í voða.

Fráfarandi landbúnaðarráðherra eru mjög mislagðar hendur við að fást við þetta mál, sem og önnur vandamál.  Hennar lausn er fólgin í að fækka bændum með því að kaupa þá burt af búum sínum.  Þetta er mjög óviturleg leið, sem þjónar landinu ekki til lengdar, af því að af henni getur leitt byggðahrun, jafnvel þar, sem landsmönnum ríður á af öryggisástæðum að hafa byggð, eins og áður var drepið á.

Óli Björn Kárason, Alþingismaður í Kraganum, reit tímamótagrein um málefni sauðfjárræktarinnar í Morgunblaðið, 13. september 2017, sem hann nefndi:

"Erum við að pissa í sauðskinnsskóinn ?"

Þar gaf hann landbúnaðarráðherra falleinkunn með eftirfarandi hætti:

"Að sama skapi má færa fyrir því rök, að tillögur ráðherrans til lausnar vandanum séu gamaldags og eigi fremur skylt við að pissa í skóinn en að styrkja heilbrigðar undirstöður byggðar og landbúnaðar."

Fái þessi ráðherra um tvo kosti að velja, skal hún ævinlega velja verri kostinn.  Það þykir bera órækan vott dómgreindarskorts og þekkingarleysis, sem er dauðadómur yfir ráðherra, sem þarf að taka margar mikilvægar ákvarðanir á dag, sem flestar varða þjóðarhag.  

Síðan kemur heilræði frá Óla Birni, sem bændur ættu að íhuga vandlega:

"Margir í bændastétt hljóta að líta í eigin barm og spyrja, af hverju þeir hafi skilgreint sig sem launamenn, en ekki sjálfstæða atvinnurekendur, sem eru burðarstólpar sinna samfélaga.  Þetta viðhorf hefur litað öll samskipti við stjórnvöld."

Það hefur margoft komið fram á stuttum ferli fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hversu úrræðalaus hún er. Haraldur Benediktsson, Alþingismaður, hefur nefnt úrræði hennar í málefnum sauðfjárbænda "eyðibýlastefnu", og það má bæta um betur og kenna afstöðu hennar við sveitaauðn, því að fyrst gætu ungir bændur flosnað upp og síðan hinir elztu.  Hvað hefur Óli Björn um þetta að segja ?:

"Vera kann, að hugmyndir um 20 % fækkun sauðfjár séu reistar á traustum upplýsingum [Þær eru það ekki, því að kjötbirgðir fyrir haustslátrun 2017 voru venjulegar og eðlilegar. Rétt einu sinni gerði Þorgerður Katrín sig seka um flaustursleg vinnubrögð.  Hún virðist ekki kunna að vinna. - innsk. BJo], en tillögur ráðherra um, hvernig þeirri fækkun skuli ná, fela í sér þá hættu, að það verði fremur yngri bændur en þeir eldri, sem hætti sauðfjárbúskap, hagkvæmari bú hætti, en þau, sem óhagstæðari eru, haldi áfram.  Ekkert í tillögunum gefur tilefni til þess, að bændur geti gert sér vonir um, að hagur þeirra batni á komandi árum."

"Ég óttast, að verið sé að leggja upp í vegferð, sem getur endað illa.  Verið sé að búa til fátæktargildrur til sveita í stað þess að styrkja stoðir undir sjálfstæðan atvinnurekstur."

Þetta gefur tilefni til að ætla, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sé versta forsending, sem bændur þessa lands hafa fengið á stól landbúnaðarráðherra frá fullveldi.  Flokkur hennar kemst vonandi ekki á blað í nokkru einasta landsbyggðarkjördæmi 28. október 2017.

Í lok greinar sinnar setur Óli Björn Kárason fram tillögu að gjörólíkri stefnu í málefnum sauðfjárbænda, sem næsta ríkisstjórn gerir vonandi að sinni:

"Sett er greiðslumark fyrir beingreiðslur, þ.e. það heildarmagn framleiðslu, sem rétt á á beingreiðslum.  Gæðastýringargreiðslum er hætt.  Beingreiðslur miðast við ákveðið lágmarksbú - a.m.k. 100 kindur - og bundnar því skilyrði, að öll framleiðsla sé samkvæmt viðurkenndum gæðastöðlum - m.a. er varðar velferð dýra og ábyrga meðferð á landi, heilnæmi og heilbrigði framleiðslunnar."

 

Nú eru sauðfjárbændur að aðalstarfi rúmlega 1100 talsins.  Beingreiðslur til þeirra námu árið 2016 miaISK 3,1, þ.e. um 2,8 MISK/bú eða tæplega 300 ISK/kg af lambakjöti.  Í kerfi ÓBK mun þessi heildarupphæð líklega verða svipuð:

  • "Greiðslumarkinu [t] er í upphafi skipt niður á einstök bú/bændur samkvæmt sanngjarnri reglu (t.d. hlutdeild í framleiðslu undangengin 3 ár).
  • Handhafar greiðslumarks eiga rétt á beingreiðslum á hverja einingu framleiðslunnar upp að greiðslumarki sínu.
  • Greiðslumark hvers árs er nokkuð undir áætlaðri innanlandseftirspurn, t.d. 95 %.
  • Framleiðsla umfram greiðslumark er heimil, en nýtur ekki beingreiðslna.  Fyrir framleiðslu umfram greiðslumark fá bændur það verð, sem sláturleyfishafar og/eða aðrir kaupendur eru tilbúnir að greiða. Verðið verður því lægra þeim mun meira, sem framleitt er umfram greiðslumarkið.  Að sama skapi verður verðið hærra eftir því, sem eftirspurn er meiri, ekki sízt, ef vel tekst til á erlendum mörkuðum.
  • Greiðslumark bænda er framseljanlegt bæði varanlega og til skamms tíma.  Þá getur verið rétt að setja inn ákvæði um, að enginn bóndi (sauðfjárbú) geti farið yfir ákveðna hlutdeild af heildargreiðslumarki (líklega undir 1 %).
  • Kerfið er til langs tíma (15-20 ár).

Hér er komin fram heildstæð stefnumörkun í málefnum sauðfjárbænda, sem ber af eins og gull af eyri hrákasmíði fráfarandi landbúnaðarráðherra, sem ekki virðist kunna réttri hendi í rass að taka.  Hvernig skyldu þingmenn á borð við Harald Benediktsson og bændaforystan taka þessum tillögum ?  Þær hefðu helzt þurft nú þegar að vera komnar til framkvæmda.  

 

 

 

 

 

 

 


Að ganga í endurnýjun lífdaganna

Íslenzka hagkerfið hefur tekið stakkaskiptum á einum áratugi.  Á ytra borði lýsir þetta sér í lengra hagvaxtarskeiði og peningalegu stöðugleikaskeiði en áður, og að eignastaða landsins við útlönd er orðin jákvæð, sem vonandi verður viðvarandi staða.  Sama má segja um viðskiptajöfnuðinn við útlönd.  Hann bætir stöðugt gjaldeyrisstöðu landsins. Skuldir ríkisins eru þó enn þungbærar,  miaISK 900, þótt þær hafi verið lækkaðar um miaISK 600 eða 40 % síðan árið 2012.   

Á innra borði hefur orðið grundvallarbreyting á eignarhaldi fyrirtækja.  Óþarft er að minnast á mikla ríkiseign í fjármálakerfinu, um 400 miaISK, sem er í senn óeðlilegt og óhagkvæmt ástand og breytist vonandi til batnaðar á næsta kjörtímabili, þótt nú um stundir blási ekki byrlega fyrir borgaralegri ríkisstjórn eftir næstu kosningar. Það virðast of margir ætla að renna blint í sjóinn og láta pírata og enn smærri flokka fá atkvæði sitt, svo að ekki sé nú minnzt á ótrúlega mikið fylgi Vinstri hreyfingarinnar græns framboð í mælingum á fylgi flokkanna, en sá flokkur er gaddfreðinn ríkiseinokunarflokkur og háskattaflokkur.

Með andvirði eigna ríkissjóðs í fjármálakerfinu mætti tæplega helminga útistandandi skuldir ríkisins. Auk skuldalækkunar ríkissjóðs hefur sú róttæka breyting orðið á eignamyndun í þjóðfélaginu, að lífeyrissjóðum landsmanna hefur vaxið mjög fiskur um hrygg, og nemur andvirði eignar þeirra um þessar mundir um miaISK 3´500 eða um 1,4 x VLF.

Innflæði iðgjalda er enn mun meira en útflæði lífeyris úr lífeyrissjóðum landsmanna, og mun árleg fjárfestingarþörf þeirra þar af leiðandi vera yfir miaISK 100.  Á haftaárunum eftir hrun fjármálamarkaðarins 2008 fjárfestu lífeyrissjóðirnir gríðarlega innanlands, og enn fjárfesta þeir mikið hér vegna meiri arðsemi og hærra vaxtastigs.  Allur gangur er á skynseminni í þessum fjárfestingum.  Ótrúlega óvandað var af nokkrum sjóðum og banka að leggja lag sitt við ævintýramann í Helguvík, sem ekkert kunni til verka við uppbyggingu iðnaðarfyrirtækis, heldur keypti allt sitt úr hverri áttinni, þar sem ódýrast var.  Hönnunin varð þá í skötulíki og miklir hnökrar reyndust við samtengingar, eins og búast mátti við.  Þetta er dauðadómur yfir verksmiðju nú á dögum, þegar allur búnaður þarf að geta "talað saman" um samskiptakerfi verksmiðjunnar.  Gagnstæð aðferðarfræði er viðhöfð í þýzku kísilverksmiðjunni, PCC, á Bakka við Húsavík, þar sem verksmiðjuhönnun, hönnun búnaðar og innkaup eru á einni hendi, svo að allt framleiðsluferlið verður samhæft.  Þarf ekki annað en að bera saman útlit verksmiðjanna í Helguvík og á Bakka til að átta sig á, að með ólíkum hætti er staðið að hönnun þessara tveggja verksmiðja.  

Niðurstaðan varðandi lífeyrissjóðina í landinu er orðin sú, að þeir eru nú ríki í ríkinu, stærsti eigandinn að íslenzku athafnalífi, þegar litið er á þá sem heild.  Þetta er íslenzk útgáfa af "Mitbestimmungsberechtigkeit" eða meðákvörðunarrétti starfsmanna um stjórnun þýzkra fyrirtækja.  Hagsmunir starfsmanna og eigenda fara saman; í raun og veru í meiri mæli á Íslandi en í Þýzkalandi vegna þess, að íslenzkir starfsmenn eiga orðið stóran hlut í mörgum fyrirtækjum á Íslandi með aðild lífeyrissjóðanna, og fulltrúar starfsmanna og atvinnurekenda skipa stjórnir fyrirtækjanna, en í Þýzkalandi er yfirleitt ekki þessu sterka eignarhaldi starfsmanna til að dreifa. 

Þetta eru sterk rök fyrir friði hér á vinnumarkaði og hófsömum launahækkunum í takti við framleiðniaukningu fyrirtækjanna og samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna vegna þess, að hagur fyrirtækjanna er nú orðinn hagur launþeganna. Ef fyrirtækjunum gengur illa, þá mun lífeyrir launþeganna skerðast að sama skapi.  Allir eru í sama báti. Þessi þróun er útfærsla á hinum gömlu og góðu slagorðum Sjálfstæðisflokksins, "Eign handa öllum" og "Stétt með stétt".

Sá, sem liggur óbættur hjá garði hér, er þó litli atvinnurekandinn, einyrkinn, sem byrjaði með tvær hendur tómar, og efldi fyrirtæki sitt með elju og þrautseigju, svo að það er e.t.v. komið með 10 manns eða fleiri í vinnu, stundum.  

Þessi maður býr við mjög erfiða samkeppnisstöðu oft og tíðum, og þarf oftar en ekki að berjast við risana, sem t.d. lífeyrissjóðir hafa fjárfest í.  Hér er komið að litlum og meðalstórum fyrirtækjum, eins manns og upp í 80 manna fyrirtæki.  Þau brauðfæða flesta launamenn og standa oft í harðri samkeppni við fyrirtæki með opinberu ívafi og við stórfyrirtæki, sem m.a. lífeyrissjóðirnir eiga.  Það er kominn tími til að létta þessum litlu og meðalstóru fyrirtækjum lífið með minni skriffinnskukröfum að hálfu hins opinbera og skattalækkunum, t.d. þannig, að af fyrstu 20 starfsmönnum hvers fyrirtækis þurfi aðeins að greiða 50 % tryggingagjald.

Ráðdeild þarf almennt að efla í þjóðfélaginu.  Þess vegna þarf að ýta undir sparnað, og það getur hið opinbera gert með því að draga úr skattheimtu á fjármagnstekjur, fara aftur niður í 10 % fjármagsntekjuskatt og hætta að skattleggja verðbætur á sparnað. 

Húsnæði er of dýrt, hvort sem er eignarhúsnæði eða leiguhúsnæði.  Þetta er litlum fyrirtækjum, ungu fólki og eldri borgurum, þungt í skauti.  Alþingi getur sett lög til að stemma stigu við þessu, sem ákvarði hámark heildar fasteignagjalda 0,2 %/ár af verðmæti fasteignar og lóðar (fasteignamati) og afnemi lágmarkið.  Þar með skapast samkeppni á milli sveitarfélaga um íbúa og fyrirtæki, sem er veitir sveitarstjórnum aðhald. 

Sérstaka lagasetningu þarf um auðlindargjald af vatnsréttindum, sem Hæstiréttur hefur úrskurðað, að viðkomandi sveitarfélög megi innheimta af virkjunareiganda sem fasteignagjald af metnu verðmæti vatnsréttindanna. Þar kemur 0,5 %/ár, til greina.

Fartækjaútgerð er töluverður kostnaðarþáttur hjá litlum fyrirtækjum og hjá fjölskyldunum.  Í fjárlagafrumvarpi 2018 er gert ráð fyrir óhóflegri aukningu á gjaldtöku af eldsneyti með 18 kr/l hækkun á dísilolíu og 8 kr/l hækkun á benzíni og tvöföldun kolefnisgjalds til viðbótar, auk VSK.  Sjálfstæðismenn á þingi hafa gert athugasemdir við þessar gríðarlegu hækkanir,  enda ná þær engri átt og ætti að lækka hækkunina á báðum eldsneytistegundunum um 8 kr/l og fresta kolefnishækkuninni.  Stjórnvöld geta enn ekki með réttu réttlætt miklar eldsneytishækkanir og hækkun kolefnisgjalds með þörfinni á að hraða rafbílavæðingu, af því að innviðauppbygging fyrir rafvæðingu bílaflotans er allt of skammt komin til að rafbílavæðing geti orðið almenn. Það stendur enn upp á yfirvöld að hraða styrkingu dreifiveitna og uppsetningu tengla, 1x16 A, 3x16 A, 3x32 A, 3x63 A, við fjölbýlishús og á bílastæðum.   

Í tilefni frumvarps til fjárlaga er mjög virðingarvert, að sjálfstæðismenn velti fyrir sér, hvers vegna er þörf á að styrkja hugmyndafræðilegan grundvöll Sjálfstæðisflokksins, og horfi þá gjarna til "systurflokks", sem stöðugt heldur fylgi sínu í grennd við 40 % þrátt fyrir að leiða ríkisstjórn síðan 2005 ?  Grein Björns Jóns Bragasonar, lögfræðings og sagnfræðings, í Morgunblaðinu, 11. september 2017," Frú Merkel og Sjálfstæðisflokkurinn" , var mjög gott innlegg í þessar hugleiðingar.  Meira um það síðar.

Það er m.a. vegna þess, að nauðsynlegt er að hamla gegn sósíalistunum, sem boða, eins og vant er, algerlega ábyrgðarlausa stefnu í fjármálum ríkisins, sem strax mundi leiða til hallarekstrar, skuldasöfnunar og hárrar verðbólgu.  Sósíalistarnir lifa í hugmyndafræðilegri gerviveröld, í sýndarveruleika, sem afneitar staðreyndum.  Þeir reyna að telja fólki trú um, að þeir muni og geti bætt kjör fólks með því að auka samneyzluna upp úr öllu valdi.  Þeir reyna meira að segja að telja fólki trú um, að afkoma þess hafi verið betri áður.  Samt segja tölur, að samneyzlan hefur aldrei verið hlutfallslega hærri en nú á Íslandi og er á meðal þess hæsta, sem þekkist innan OECD.  Skattheimta hins opinbera er svo há, að hún virkar hamlandi á getu atvinnulífsins til fjárfestinga og kjarabóta launþeganna.  Skattheimtan á Íslandi heggur stórt skarð í kaupmátt almennings, ekki sízt þeirra, sem eru undir miðgildi tekna. 

Dæmi um þennan falsboðskap vinstri manna gat að líta í Morgunblaðinu 11. september 2017 í viðtali Sigurðar Boga Sævarssonar við Kolbein Óttarsson Proppé, þingmann VG:

"Ég hef oft velt fyrir mér, hvort fjölskylda á lágmarkslaunum hafi fyrir 30-40 árum [um 1982-innsk. BJo] hugsanlega haft það betra en nú, að teknu tilliti til margs þess, sem fólk þarf að greiða sjálft fyrir, en var áður samfélagslegt. [Þessi fortíðarþrá er fáránleg.  Þá ríkti hér óðaverðbólga og skortur á fjölbreytilegum atvinnutækifærum, og lífsbaráttan var mun erfiðari en nú er.  Annaðhvort er þessum manni, Proppé, ekki sjálfrátt eða hann er loddari af lökustu sort. - innsk. BJo]  Því miður er ábyrgðin í dag í allt of ríkum mæli sett á hvern og einn, óháð tekjum og stöðu viðkomandi. [Þetta eru ótrúleg öfugmæli forræðishyggjumanns m.v. öryggisnetið, sem velferðarkerfið íslenzka hefur strengt á sviðum menntunar, sjúkdóma og elli, svo að eitthvað sé nefnt. - innsk. BJo] Svo virðist sem skattar og samneyzla séu orðin neikvæð orð, og sjálfur hef ég oft verið snupraður fyrir að segjast vilja samneyzlu, sósíalisma. [Þarna talar maður, sem gefur skít í eignarréttinn og telur, að hið opinbera eigi heilagan rétt á að gera eins stóran hlut af sjálfsaflafé almennings upptækan og því sýnist hverju sinni. - innsk. BJo]  Mér finnst því mjög miður og í raun hættulegt, að sett hafi verið ríkisfjármálaáætlun, þar sem kveðið er á um, að ríkisútgjöld megi aldrei fara yfir 41,5 % af VLF.  Það þýðir í raun, að ekki verði hægt að beita ríkissjóði til jöfnunar, ef harðnar á dalnum.  Þetta er stóra myndin, og henni viljum við í VG breyta."

 

Hámark ríkisútgjalda af VLF á Íslandi, sem Kolbeinn Óttarsson nefnir, er með því hæsta í heimi, og hærra hlutfall er algerlega ósjálfbært og sligandi fyrir hagkerfið.  Það er engum til framdráttar, nema síður sé, að hækka það. Slíkt mundi draga alla niður í sósíalistískt svað. Að nefna aukna jöfnun sem ástæðu  aukinnar skattheimtuer er út í hött í landi, þar sem jöfnuður er þegar sá mesti, sem þekkist samkvæmt alþjóðlegum stuðli, GINI.  Sósíalistar eru blindingjar, sem hugsa mjög skammt fram á veg (og sennilega dauflega, þá sjaldan týrir á þeim), svo að þeir gera sér ekki grein fyrir afleiðingum háskattastefnu sinnar.  Þeir eru þess vegna ómarktækir í þessum efnum.

Menn á borð við téðan Proppé, sem hrópa út um borg og bí, að "samneyzlan sé svelt" í landi, þar sem útgjöld ríkissjóðs til heilbrigðismála 2018 eru áætluð miaISK 201 og útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingamála, eru áætluð miaISK 208, eru hugmyndafræðilega á sömu vegferð og Hugo Chavez og Nicólas Maduro, sem komust til valda í Venezúela undir slagorðum sósíalismans um aukinn jöfnuð í ríkasta landi Suður-Ameríku, en tókst á 10 árum að koma landinu á vonarvöl hungursneyðar og hruns velferðarkerfisins. 

Gammur vokir yfir hræiVetur á Íslandi

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband