Færsluflokkur: Fjármál
19.6.2017 | 10:40
Borgarlína bætir ekki úr skák
Hugmyndafræðin að baki Borgarlínu er reist á sandi, og efniviðurinn í henni stenzt illa tímans tönn. Það er með öðrum orðum veruleg fjárfestingaráhætta fólgin í Borgarlínu, sem ber að vara sterklega við. Hugmyndin er reist á óskhyggju, sem mun rýra lífskjör og lífsgæði allra landsmanna, mest þó íbúa höfuðborgarsvæðisins. Ástæðan er sú, að ætlunin er að leggja út í mjög mikla fjárfestingu eða um miaISK 70 á tæplega 60 km löngum vegi, sem hæglega getur orðið miklu dýrari. Vegurinn verður ætlaður til forgangsaksturs um 30 m langra rafknúinna langvagna, sem er mjög hætt við, að verði illa nýttur, og þessi vegur, Borgarlína, mun óhjákvæmilega þrengja að almennri bílaumferð, sem alls ekki má við slíku, og sjúga til sín fjármagn, sem kæmi sér mun betur fyrir almenning að nýta til að auka flutningsgetu núverandi vegakerfis með uppsetningu nokkurra vel valinna mislægra gatnamóta og fjölgun akreina á höfuðborgarsvæðinu.
Árið 2009 var gert óþurftarsamkomulag á milli ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, sem standa að Strætó BS samlagsfélagi, um, að ríkissjóður legði samlagsfélaginu árlega til einn milljarð króna, miaISK 1,0, til uppbyggingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2018 gegn því, að Vegagerðin þyrfti ekki að leggja neitt fé að mörkum til nýrra umferðarmannvirkja á borð við mislæg gatnamót og fjölgun akreina á stofnæðum.
Þetta var óþurftarsamkomulag vegna þess, að það hafði í för með sér afar óhagkvæma ráðstöfun almannafjár, sem margfalt hagkvæmara hefði verið að ráðstafa til að greiða för almennrar umferðar með því að auka flutningsgetu lykilæða.
Árið 2009 er talið, að 4 % af ferðum hafi verið með almenningsvögnum og að þetta hlutfall sé núna 5 %, en markmiðið er 8 % árið 2018, sem fyrirsjáanlega næst ekki. Yfirgengilegur fjáraustur til almenningssamgangna hefur sáralítilli farþegaaukningu skilað, og þrátt fyrir ýmiss konar þvingunarráðstafanir að hálfu borgaryfirvalda á borð við þrengingu gatna og fækkun bílastæða í grennd við Borgarlínuna, eru sáralitlar líkur á, að aukningin muni verða meiri en 1 % í stað 7 %, þ.e. 20 % fjölgun farþega, með Borgarlínu, svo að markmiðið um 12 %, eða meira en tvöföldun farþegafjölda með strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu, árið 2040 mun að öllum líkindum ekki nást vegna aðstæðna á Íslandi, erfiðari og tímafrekari ferðamáta með strætó auk sívaxandi bílaeignar almennings og lægri rekstrarkostnaðar bíla í tímans rás, t.d. með orkuskiptum.
Þá sitjum við uppi með stórtap á fjárfestingu, sem líklega verður yfir miaISK 100, ef af verður, og 94 % ferðanna verður með einkabílum, sem Borgarlínan hefur þrengt hræðilega að bæði rýmislega og fjárhagslega, því að hún verður plássfrek og fjársveltir allar aðrar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og víðar.
Helga Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs þar, skrifaði fróðlega grein í Morgunblaðið 27. maí 2017, sem hún nefndi:
"Mun Borgarlína fjölga farþegum Strætó ?:
"Ávinningurinn af Borgarlínunni, ef vel tekst til, ætti að koma fram í sparnaði á fjárfrekum framkvæmdum við aðra samgöngukosti, en þennan ávinning þarf að sýna, þannig að verkefnið fái þann almenna stuðning, sem sótzt er eftir af þeim aðilum, sem hafa borið hitann og þungann af undirbúningi þess. "
"Aðrir samgöngukostir" hafa nú verið sveltir í 8 ár í tilraun til að efla almenningssamgöngur. 95 % fólks á ferðinni hefur orðið fyrir barðinu á því með árlegri lengingu farartíma á virkum dögum. Það er að öllum líkindum ranglega verið að gefa sér, að Borgarlínan fækki fólki í bílum úr 95 % í 88 % af heild árið 2040, en á þessu 23 ára tímabili mun íbúum fjölga um meira en 30 %, ef að líkum lætur. Að teknu tilliti til uppsafnaðrar þarfar í innviðauppbyggingu samgöngukerfisins er mjög óráðlegt núna að reikna með nokkrum einasta sparnaði vegna Borgarlínu. Það er nóg komið af þessari sérvizkulegu forgangsröðun.
Þegar í stað ber að leggja á hilluna öll áform um forgangsakreinar fyrir Strætó, en þess í stað beina fjármagni í að leysa úr umferðarhnútum allrar umferðar, líka strætó, með viðbótar akreinum og nýjum mislægum gatnamótum. Það er ódýr lausn á umferðarvandanum m.v. Borgarlínu, og slík fjárfesting mun nýtast allri umferðinni í stað lítils hluta hennar.
Það er ekki nóg með, að Borgarlína feli í sér stórfellt bruðl með skattfé í verkefni, sem mun nýtast fáum og há mörgum, heldur hefur borið á þeim skoðunum, að um þær mundir, er hún verður tilbúin fyrir miaISK 70 - 150, þá verði hún úrlelt orðin. Þá skoðun lét t.d. Elías Elíasson, verkfræðingur, í ljós í Morgunblaðinu 13. júní 2017 í greininni,
"Ó, þétta borg". Greinin hófst þannig:
"Draumar um, að almenningssamgöngur í Reykjavík gætu verið svona nokkurn veginn sjálfbært fyrirbæri, eru býsna gamlir og hafa breytzt í áranna rás. Þrátt fyrir að ætíð hafi það sýnt sig, að samfélagið í Reykjavík sé of lítið og dreift, til að draumurinn sá geti rætzt, hafa menn haldið áfram að leita leiðar, og vinstri menn í Reykjavík telja sig nú hafa fundið hana. Leiðin er sú að þétta byggð í Reykjavík, þar til draumurinn verður að veruleika. Skipuleggja skal borgina kringum samgöngukerfið, sem hefur hlotið nafnið "Borgarlína".
Því fer fjarri, að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu séu fjárhagslega sjálfbærar, því að rekstrartekjur frá farþegum standa aðeins undir fjórðungi kostnaðarins. Þær verða seint sjálfbærar, af því að íbúafjöldinn verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð slíkur, að samkeppnisforskot skapist gagnvart einkabílnum. Þótt vinstri menn í Reykjavík þétti byggð, láti annað sitja á hakanum og valdi stórfelldu efnahagstjóni með þessu sérvizkulega uppátæki, þá snýst þessi forræðishyggja algerlega í höndunum á þeim, því að fólkið leitar einfaldlega í önnur sveitarfélög, og íbúar höfuðborgarsvæðisins munu vonandi krefjast þess, að fjandskap yfirvalda í Reykjavík gagnvart einkabílnum linni og að opinberu fé verði varið með skilvirkari hætti til úrbóta á umferðarkerfinu.
"Þétting borgarinnar er þegar hafin. Í því skyni er framboð lóða takmarkað sem mest við dýrari lóðir í gömlu hverfunum og úr verður lóðaskortur. Þar sem borgin hefur markaðsráðandi stöðu á lóðamarkaði, getur hún spennt upp lóðaverð, svo að hinar dýru þéttingarlóðir seljast, en þetta heitir markaðsmisnotkun í annars konar viðskiptum.
Markaðurinn svarar auðvitað á sinn hátt með því, að þeim fækkar, sem byggja vilja hús sín og borga sín gjöld í Reykjavík, þannig að útsvarstekjur borgarinnar lækka. Nágrannasveitarfélögum finnst auðvitað gott að fá nýja, góða útsvarsgreiðendur og taka þeim opnum örmum.
Til viðbótar ofurgjaldi á lóðirnar er fyrirhugað að leggja innviðagjöld á íbúa í grennd við Borgarlínu og fjármagna hana með þeim hætti. Síðan fullyrðir borgarstjóri, að þarna sé um að ræða arðsama framkvæmd, sem borginni stendur til boða."
Þegar litið er á glórulausar fyrirætlanir meirihluta borgarstjórnar um ráðstöfun fjár borgarbúa, þarf engan að undra, að fjárhagur borgarinnar sé svo illa staddur, að litlu megi muna, að ríkisvaldið þurfi samkvæmt lögum að taka fjárráðin af borgaryfirvöldum með skipun tilsjónarmanns. Þar sem skattheimta borgarinnar er í leyfilegu hámarki, er ljóst, að tvær ástæður liggja til þessarar slæmu fjárhagsstöðu. Er önnur sú, sem Elías nefnir, að borgin hefur fælt frá sér vel borgandi íbúa og fyrirtæki með glórulausri lóðaskortsstefnu, og hin er bruðl með ráðstöfunarfé borgarinnar, auk hás vaxtakostnaðar af himinháum skuldum.
Í lokin færir Elías eftirfarandi ástæður fyrir því, að Borgarlínuhugmynd borgarforkólfa verður úrelt áður en hún kemst á koppinn:
"Þó þeir séu til, sem dásama líf án bíls, þá stefna lífshættir okkar í aðra átt. Við sjáum hilla undir byggð án umferðartafa, mengunarfría, sjálfkeyrandi bíla og netþjónustu í fólksflutningum, með mínar dyr sem mína biðstöð í stað sérbyggðra biðstöðva með línum á milli.
Þess sjást þegar merki, að þrenging byggðar hvetur efnameiri borgara til búsetu annars staðar, og fyrirtæki eru farin að flytja til rýmri svæða utan borgar.
Borgarlínudraumurinn er úreltur og orðinn skaðlegur. Þetta finna borgarbúar á sér og munu tryggja, að draumar um þéttingu byggðar og Borgarlínu verði draumar liðins dags eftir næstu kosningar."
Í Hafnarfirði, sem verður á suðurjaðri Borgarlínunnar, gætir nú raunsæislegra viðhorfa til hennar. Í Morgunblaðinu birtist 15. júní 2017 grein til merkis um þetta eftir Rósu Guðbjartsdóttur, formann bæjarráðs Hafnarfjarðar, og Inga Tómasson, formann skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar, undir fyrirsögninni, "Mikilvægar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu".
Þar er lögð áherzla á, að Borgarlína muni mynda greiða samgönguleið á milli sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins fyrir öll samgöngutæki og verði t.d. með forgangsakrein fyrir öll samgöngutæki, þar sem í eru tveir eða fleiri. Þá segir:
"Þrátt fyrir bjartsýnustu spár um 12 % notkun almenningssamgangna árið 2040 gera umferðarspár ráð fyrir allt að 46´000 bílum á þessari leið [Reykjanesbrautinni, sem er 53 % aukning frá árinu 2016 - innsk. BJo]. Fyrir okkur Hafnfirðinga er ástandið óásættanlegt. Umferðarvandinn verður ekki leystur með tilkomu Borgarlínu. Án annarra aðgerða mun vandinn halda áfram að vaxa."
Höfundarnir hafa lög að mæla og í lok sinnar ágætu greinar rita þau:
"Þótt flestir séu sammála því, að stefna beri að bættum almenningssamgöngum, þarf að vinna heildrænt og á raunhæfan máta að því að bæta samgöngurnar á svæðinu. Fjármagn til samgöngumála er af skornum skammti, og þegar því er útdeilt, verður að taka tillit til hagsmuna fjöldans og þess, að vegfarendur hafa mismunandi þarfir og gera ólíkar kröfur."
Kjarni málsins er einmitt sá, að fjármagni til samgöngumála er þröngur stakkur skorinn. Af þeim sökum er nauðsynlegt að forgangsraða. Forgangsröðunin á að verða í þágu hinna mörgu, en ekki í þágu hinna fáu, sem fæstir hafa farið fram á eða bíða spenntir eftir löngum hraðvögnum á forgangsakreinum. Það er allt í lagi að setja Borgarlínu á Aðalskipulag höfuðborgarsvæðisins, en ekki í þeim gæluverkefnisdúr, sem Dagur og Hjálmar í borgarstjórn Reykjavíkur hugsa sér, heldur á þá leið í þágu almannahagsmuna, sem Rósa og Ingi nefna hér að ofan, þ.e. ein forgangsakrein fyrir farþegaflutninga af öllu tagi, og 2-3 akreinar fyrir hvers konar umferð.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2017 | 11:20
Einstaklingurinn gagnvart ríkisvaldinu
Stjórnmálaafstaða okkar mótast af grundvallarviðhorfum um hlutverk og hlutverkaskiptingu einstaklinga og hins opinbera í þjóðfélaginu. Þeir, sem vilja frelsi einstaklingsins til athafna eins mikið og kostur er, þeir vilja jafnframt virða eignarréttinn í hvívetna, og þar með réttinn til að ráðstafa eigin aflafé, að því gefnu, að hann stangist ekki á við almannahag og að yfirvöld gæti laga, jafnræðis og meðalhófs, við skattheimtu. Af þessu leiðir, að skattheimtu ber að stilla í hóf, svo að jaðarskattur tekna dragi hvorki úr hvata til verðmætasköpunar sé hvetji til undanskota; sé t.d. undir þriðjungi og af fjármagni helmingi lægri til að efla sparnað (og auðvitað sé hann ekki reiknaður af verðbótum). Einkaframtaksmenn eru jafnframt hliðhollir hvers konar einkaeign, t.d. á húsnæði og bílum, og telja fasteign undirstöðu fjárhagslegs öryggis í ellinni.
Sósíalistar eða jafnaðarmenn eru á öndverðum meiði á öllum þessum sviðum. Þeir vilja mjög umsvifamikið ríkisvald og hika ekki við að hvetja til og verja einokunaraðstöðu þess með kjafti og klóm. Einkaeignarréttur er sósíalistum lítils virði, og þetta hafa þeir opinberað hérlendis t.d. með því að segja og skrifa, að hið opinbera, ríki eða sveitarfélag, sé að afsala sér tekjum með því að draga úr skattheimtunni. Þannig geta aðeins þeir tekið til orða, sem líta á vinnulaun, vaxtatekjur, fasteign eða gjaldstofn fyrirtækja, sem eign hins opinbera áður en skipt er, sem sjálfsagt sé að hremma eins stóran skerf af og hugmyndaflug jafnaðarmannanna um útgjöld útheimtir. Þar með er litið á einstaklinginn sem tannhjól í vélbúnaði hins opinbera. Þar sem slík sjónarmið ná fótfestu, er stutt í stjórnkerfi kúgunar í anda skáldsögunnar 1984 eftir George Orwell.
Í stað þess að líta á skattkerfið sem fjármögnunarkerfi fyrir lágmarks sameiginlegar þarfir samfélagsins að teknu tilliti til jafns réttar allra til heilbrigðis og menntunar, þá lítur sósíalistinn á skattkerfið sem refsivönd á þá, sem meira bera úr býtum, langoftast með því að leggja meira á sig en aðrir í námi og/eða í starfi, af því að ójöfn öflun fjár sé óréttlát. Þannig geta aðeins grillupúkar hugsað, en með slíkar grillur að vopni hefur verið gengið mjög langt á eignarréttinn.
Mismunurinn á hugarfari hægri manna og vinstri manna á Alþingi kom auðvitað berlega fram í afstöðunni til 5-ára Fjármálaáætlunar ríkisins 2018-2022. Óli Björn Kárason, Alþingismaður, ÓBK, gerði áformaða aukningu ríkisútgjalda samkvæmt áætluninni og samkvæmt viðbótar útgjaldatillögum vinstri manna, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, að umræðuefni í Morgunblaðsgreininni, 31. maí 2017,
"Kennedy, Reagan og íslenskir vinstrimenn":
"Að minnsta kosti tveir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna hefðu átt erfitt með að skilja hugmyndafræði íslenzkra vinstri manna og stefnu þeirra í skattamálum og harða samkeppni [um yfirboð-innsk. BJo]; John F. Kennedy og Ronald Reagan.
Reagan hélt því [réttilega] fram, að því hærri sem skattarnir væru, þeim mun minni hvata hefði fólk til að vinna og afla sér aukinna tekna [t.d. með því að afla sér meiri menntunar]. Lægri skattar gæfu almenningi tækifæri til aukinnar neyzlu og meiri sparnaðar, hvatinn til að leggja meira á sig og afla tekna yrði eldsneyti hagkerfisins. "Niðurstaðan", sagði Reagan, "er meiri hagsæld fyrir alla og auknar tekjur fyrir ríkissjóð.""
Þetta er mergurinn málsins. Þegar skattheimta er í hæstu hæðum, eins og nú á Íslandi, í sögulegum og í alþjóðlegum samanburði, þá er alveg áreiðanlegt, að við skattalækkun stækkar skattstofninn, og hann skreppur saman við skattahækkun m.v. óbreytta skattheimtu. Þess vegna getur lægri skattheimta þýtt auknar skatttekjur fyrir ríkissjóð, eins og Reagan sagði. Þetta eru ekki lengur tilgátur hagfræðinga og stjórnmálamanna. Þetta er raunveruleiki, eins og reynslan sýnir. Vinstri mönnum eru hins vegar allar bjargir bannaðar. Þeir átta sig hugsanlega á þessari leið til að auka opinberar tekjur, en þeir hafna henni samt, því að í þeirra huga er refsihlutverk skattkerfisins mikilvægara.
Tilvitnun ÓBK í JFK hér að neðan á greinilega við stöðu ríkisfjármála á Íslandi nú um stundir:
"Á blaðamannafundi í nóvember 1960 sagði Kennedy [þá nýkjörinn forseti BNA]:
"Það er mótsagnakenndur sannleikur, að skattar eru of háir og skatttekjur of lágar og að til lengri tíma litið er lækkun skatta bezta leiðin til að auka tekjurnar."
Kennedy lagði áherzlu á, að lækkun skatta yrði til þess að auka ráðstöfunarfé heimilanna og hagnað fyrirtækja og þar með kæmist jafnvægi á ríkisfjármálin með hækkandi skatttekjum. Á fundi félags hagfræðinga í New York árið 1962 sagði forsetinn m.a.:
"Efnahagskerfi, sem er þrúgað af háum sköttum, mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, alveg eins og það mun aldrei búa til nægilegan hagvöxt eða nægilega mörg störf.""
Það, sem JFK sagði þarna um ofurháa skattheimtu, voru ekki orðin tóm, heldur hafa margsannazt bæði fyrr og síðar. Á Íslandi er nú há skattheimta, því að hún er enn á meðal þess hæsta, sem þekkist á meðal þróaðra þjóða Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Verði hún hækkuð umtalsvert, breytist hún umsvifalaust í ofurskattheimtu með þeim afleiðingum, að skattstofninn rýrnar og halli verður á rekstri ríkissjóðs, hagvöxtur koðnar niður og atvinnuleysi heldur innreið sína á ný. Skattahækkunarleið vinstri flokkanna leiðir þess vegna beint út í ófæruna. Þegar halla mun undan fæti eftir núverandi mikla hagvaxtarskeið, ætti að lækka skattheimtuna til að örva hagvöxt, og má nefna tryggingagjaldið fyrst.
Í nýsamþykktri Fjármálaáætlun ríkisins 2018-2022 er ekki reiknað með aukinni skattheimtu, heldur lækkun tryggingagjalds á síðari hluta skeiðsins og lækkun virðisaukaskatts eftir samræmingu VSK á atvinnugreinar, en samt eiga tekjur ríkisins að verða miaISK 185 hærri árið 2022 en árið 2017 í lágri verðbólgu. Af þessari hækkun ríkistekna koma 57 % frá sköttum af vörum og þjónustu og 41 % frá tekjusköttum. Þessi fjórðungshækkun skatttekna á 5 árum á einvörðungu að koma frá stækkuðum og breikkuðum skattstofnum, þ.e. tekjuáætlunin er reist á öflugum hagvexti allt tímabilið. Síðan er útgjaldaramminn sniðinn við þetta og miðað við 1,3 % tekjuafgang á ári. Ef meðalhagvöxtur á ári verður undir 3,5 %, þá verður halli á ríkisrekstrinum m.v. þessa áætlun. Boginn er þannig spenntur til hins ýtrasta, og það vantar borð fyrir báru. Í góðæri ætti tekjuafgangur ríkisins að vera yfir 3 % af tekjum til að draga úr þenslu og til að draga úr þörf á niðurskurði, þegar tekjur minnka.
Vinstri flokkarnir vilja samt meiri hækkun tekna, sem óhjákvæmilega þýðir þá skattahækkanir, þótt þeir hafi ekki útfært þær. Þannig vill Samfylkingin miaISK 236 hækkun skatttekna árið 2022. Mismunur hækkana er miaISK miaISK 51, sem þýðir skattahækkun 0,6 MISK/ár á hverja fjagra manna fjölskyldu.
Hugmyndir Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um skattahækkanir keyra þó um þverbak. Formaður VG hefur verið nefnd "litla stúlkan með eldspýturnar"; ekki af því að hún þurfi að selja eldspýtur á götum úti loppin af kulda, eins og í ævintýri H.C. Andersens, heldur af því að umgengni hennar við ríkisfjármálin þykir minna á brennuvarg, sem hótar að bera eld að opnum benzíntunnum. Þannig mundi efnahagskerfi Íslands kveikja á afturbrennaranum um stund eftir valdatöku "litlu stúlkunnar með eldspýturnar", og síðan stæði hér allt í björtu verðbólgubáli, sem fljótt mundi leiða af sér stöðnun hagkerfisins, skuldasöfnun, vinnudeilur og atvinnuleysi.
"Litla stúlkan með eldspýturnar" vildi, að í Fjármálaáætlun yrði gert ráð fyrir miaISK 334 hærri skatttekjum árið 2022 en árið 2017. Mismunur þessa og samþykktrar Fjármálaáætlunar er 149 miaISK/ár, sem þá nemur skattahækkun vinstri grænna. Hún jafngildir aukinni skattbyrði hverrar 4 manna fjölskyldu um 1,75 MISK/ár. Með þessu mundu vinstri grænir vafalítið senda Ísland á skattheimtutopp OECD ríkja, sem mundi eyðileggja samkeppnisstöðu Íslands um fólk og fjármagn. Launþegahreyfingarnar mundu gera háar launahækkunarkröfur í tilraun til að endurheimta kaupmátt launa, sem nú er einn sá hæsti innan OECD, og allt mundi þetta leggjast á eitt um að senda hagkerfi landsins niður þann óheillaspíral, sem lýst er hér að ofan sem afleiðingu ofurskattlagningar.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, japlar á því bæði sýknt og heilagt, að með úrslitum síðustu Alþingiskosninga hafi kjósendur verið að biðja um aukna samneyzlu, og þess vegna sé sjálfsagt að gefa nú hraustlega í ríkisútgjöldin. Þetta er fullkomin fjarstæða hjá "litlu stúlkunni með eldspýturnar", enda mundu aukin ríkisútgjöld í þegar þöndu hagkerfi losa skrattann úr böndum með hræðilegum afleiðingum fyrir kaupmátt og skuldastöðu almennings. Ef þetta væri rétt hjá Katrínu, þá hefðu vinstri flokkarnir auðvitað aukið fylgi sitt hraustlega, en það lá hins vegar við, að annar þeirra þurrkaðist út. Almenningur skilur þetta efnahagslega samhengi ósköp vel, en "litla stúlkan með eldspýturnar" kærir sig kollótta, því að flokkur hennar nærist á óstöðugleika, þjóðfélagsóróa og almennri óánægju.
Það, sem þarf að gera við núverandi aðstæður, er að leggja áherzlu á aukna skilvirkni ríkisrekstrar og bætta nýtingu fjármagns, sem ríkissjóður hefur úr að moða. Tækifæri til þess eru vannýtt. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, SA, ritaði grein í Viðskiptablaðið 4. maí 2017, þar sem hann tíundaði útgjaldaaukningu ríkissjóðs til heilbrigðismála 2010-2015, sem nam þriðjungi, 33 %, á verðlagi 2015, þ.e. útgjöldin 2015 voru miaISK 39,3 hærri en árið 2010. Svipuð aukning er ráðgerð í Fjármálaáætlun 2018-2022. Landsspítalanum þykir samt ekki nóg að gert, þótt til reiðu sé fjárfestingarfé upp á miaISK 50 og sé þarna fyrir utan. Þá er lausnin ekki að ausa í spítalann meira fé, heldur að virkja einkarekstrarformið til að stytta biðlistana og að slást í hóp hinna Norðurlandanna við útboð, t.d. á lyfjum. Þar þarf atbeina Alþingis við að brjóta á bak aftur hagsmunapotara. Halldór Benjamín skrifar:
"Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hefur aðeins verið nýttur að takmörkuðu leyti á Íslandi. Fjölmörg dæmi er þó að finna um jákvætt framlag einkarekinna íslenzkra heilbrigðisfyrirtækja, sem hafa sýnt fram á, að þau geta veitt jafngóða eða betri þjónustu en hið opinbera með hagkvæmari rekstri fyrir þjóðfélagið."
Heilbrigðisgeirinn, meðferð og umönnun sjúklinga, er stærsti einstaki kostnaðarþáttur ríkissjóðs og virðist vera botnlaus hít. Þar eru þess vegna fjölmörg sparnaðartækifæri fyrir ríkissjóð, þar sem er nauðsynlegt að fá meira fyrir minna, og það er vel hægt, eins og dæmin sanna.
Þá bregður hins vegar svo við, að forysta Landsspítalans ásamt Landlækni rekur upp angistarvein sem stunginn grís væri og dengir yfir landslýð, að með auknum einkarekstri til að stytta allt of langa biðlista sjúklinga verði spónn dreginn úr aski háskólasjúkrahússins. Þetta er með ólíkindum.
Það er öfugsnúið að halda því fram, að með því að létta á yfirlestuðu sjúkrahúsi, þar sem yfirvinnustundir nema 15 % af venjulegum vinnutíma, muni það skaðast, þegar þjónustan er bætt við langhrjáða sjúklinga á biðlista. Jafn réttur sjúklinga er orðinn að réttleysi til lækninga, þegar á þarf að halda. Fullyrðing forystunnar er svo mótsagnakennd, að óþarft er fyrir fulltrúa fólksins að taka mark á henni, enda virðast ríkjandi hagsmunir á sjúkrahúsinu ekki hér að öllu leyti fara saman við almannahagsmuni.
"Hugmyndafræðileg afstaða á ekki að koma í veg fyrir, að gerðir verði samningar við einkareknar heilbrigðisstofnanir, sem geta stytt biðlista eftir aðgerðum. Mun betur mætti gera, ef krafa um hagkvæmni og árangur væri höfð að leiðarljósi og ríkjandi stefna um einokun opinberrar heilbrigðisþjónustu yrði endurskoðuð.
Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu byggist á því, að ríkið greiði sömu framlög til einkaaðila til að framkvæma sömu aðgerðir af jafnmiklum eða meiri gæðum. Það er ekki einkavæðing, heldur stefna um að bæta nýtingu skattfjár og auka þjónustu og að bæta lífsgæði sjúklinga."
Það mun reyndar vera þannig, að Klínikin Ármúla býðst til að taka að sér bæklunaraðgerðir á 95 % af kostnaði Landsspítalans, svo að hreinn sparnaður næst fyrir ríkissjóð. Í risafyrirtæki á borð við Landsspítalann (á íslenzkan mælikvarða) er mörg matarholan, og hætt er við, að margir maki krókinn með þeim hætti, sem ekki ætti að viðgangast. Dæmi um það eru lyfjakaupin, en fjármálastjóri Landsstítalans lýsti því nýlega í fréttaskýringarþætti á RÚV, að spítalann skorti skýlausa heimild frá Alþingi til að taka þátt í stóru útboði á lyfjum með norrænum sjúkrahúsum. Samt yrðu íslenzk fyrirtæki á bjóðendalista í þessu útboði. Felast ekki í því tækifæri fyrir þau og fyrir ríkissjóð ?
Hagsmunapotarar lyfjaiðnaðar- og innflytjenda hérlendis hafa komið ár sinni svo fyrir borð hjá Viðskiptanefnd þingsins, að spítalinn verður af líklega yfir eins milljarðs ISK sparnaði við lyfjakaup. Þarna er Landsspítalinn hlunnfarinn og þar með skattborgararnir. Er þetta ekki málefni fyrir heilbrigðisráðherra til að setja upp "gula gúmmíhanzkann" og skera upp herör ?
"OECD komst að þeirri niðurstöðu árið 2008, að hagræðing í heilbrigðiskerfinu [íslenzka] geti skilað tugprósentustiga lækkun kostnaðar. Þar starfi of margt fólk í samanburði við önnur lönd, hlutur einkaaðila sé of lítill, þjónusta sé í of miklum mæli veitt af dýrum þjónustuaðilum og samkeppni sé ekki nægjanleg."
Ef OECD hefur komizt að því árið 2010, að spara megi um 20 % í íslenzka heilbrigðiskerfinu, þá er hægt að losa þar um 30 miaISK/ár, sem nota má til að leysa úr brýnum vanda skjólstæðinganna. Hvers vegna í ósköpunum snúa menn sér ekki að slíkum alvöruviðfangsefnum í stað þess að setja reglulega á grátkór í fjölmiðlum um, að meira fé vanti úr ríkissjóði í reksturinn ?
Fjármál | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.6.2017 | 07:38
Græddur er geymdur eyrir
Íslenzka krónan, ISK, hefur risið í áður óþekktar hæðir gagnvart Norðurlandamyntunum NOK og SEK og sterlingspundi, GBP, og er nálægt efri mörkum gagnvart evru, EUR, en gagnvart aðalviðskiptamynt okkar, bandaríkjadal, USD, var hún talsvert hærri á fyrsta áratugi 21. aldarinnar. Hvernig stendur á því, að verðgildi ISK hækkar langt umfram getu hagkerfisins núna til að rísa undir ?
Þrátt fyrir afnám fjármagnshafta heldur ISK áfram að styrkjast. Á einum mánuði, eftir að Seðlabankinn hætti að selja ISK og bæta við gjaldeyrisvarasjóðinn í vor, hafði hún hækkað um 7 % gagnvart USD, 5 % gagnvart GBP og rúmlega 4 % gagnvart EUR. Um miðjan maí 2017 hafði ISK hækkað á 12 mánuðum um 16 %-25 % gagnvart þessum gjaldmiðlum og 19 %-22 % gagnvart NOK og SEK. Hér er greinilega spákaupmennska markaðarins á ferð, því að til lengri tíma er gengið a.m.k. fimmtungi of hátt. Líklega er gengið í árslok 2015 nálægt efnahagslegu jafnvægisgengi og getu hagkerfisins.
Þetta hefur gríðarleg neikvæð áhrif á afkomu gjaldeyrisaflandi atvinnugreina, sem mynda undirstöðu efnahagskerfis landsins. Er því spáð, að framlegð, EBITDA, sjávarútvegsins verði að meðaltali aðeins 13 % af tekjum hans 2017, og eru minni fyrirtæki og einkum útgerðir án eigin fiskvinnslu enn ver stödd. Þetta er mikil lækkun framlegðar frá meðaltali undanfarinna 20 ára, sem var um 23 % af söluandvirði. Til að standa undir afborgunum og vöxtum lána, nýjum nauðsynlegum fjárfestingum, veiðigjöldum, hefðbundnum sköttum og arðgreiðslum, þarf EBITDA að vera a.m.k. 20 % í fjármagnsfrekri starfsemi á borð við sjávarútveg, svo að viðunandi rekstrarárangur geti talizt til lengdar.
Í ljósi þess, að tæplega fjórðungur sjávarútvegsfyrirtækja var með neikvætt eigið fé árið 2015, þ.e. átti ekki fyrir skuldum, þýðir stórminnkuð framlegð síðan þá, að óvenjumörg fyrirtæki munu óhjákvæmilega leggja upp laupana á næstunni og önnur verða að hagræða rekstrinum með róttækum hætti til að ná endum saman. Þetta jafngildir enn meiri samþjöppun í sjávarútvegi og fækkun starfsstöðva með þeim félagslegu afleiðingum, sem kunnar eru.
Þróun gjaldmiðils landsins undanfarin 2-3 ár, þ.e. árin 2015-2016, og það sem af er árinu 2017, knýr fram aukna framleiðni og breytingar á atvinnuháttum um allt land. Þetta er "hrossalækning", sem hefur í för með sér varanlega töpuð störf á einstaka stað, en víðast tímabundna erfiðleika, þar sem Byggðastofnun og aðrar atvinnugreinar geta linað sársaukann.
Við þessar aðstæður koma gallar veiðigjaldakerfisins berlega í ljós. Útreikningur á veiðigjöldum er reistur á afkomu útgerðanna fyrir 2-3 árum. Þetta er allt of mikil afturvirkni, sem ber að afnema. Nær er að miða við framlegð á síðasta almanaksári, og sé hún undir 20 %, falli veiðigjöldin niður á næsta almanaksári. Jafnframt þarf að vera þak á veiðigjöldum í góðu árferði, t.d. 5 % af framlegð fyrirtækis á síðasta almanaksári, svo að ekki sé farið offari við þessa gjaldtöku af afnotum náttúruauðlindar. Það er reyndar brýnt réttlætismál að jafna aðstöðu á milli atvinnugreina með því að taka upp samræmt mat á verðmætum náttúruauðlinda og gjaldtöku af nýtingu slíkra, sem falla utan einkaeignarréttar. Á þetta hefur margfaldlega verið bent á á þessu vefsetri.
Stóriðjan aflar nokkru minni gjaldeyris en sjávarútvegurinn, og samtals afla þessar tvær greinar minni gjaldeyris en ferðaþjónustan. Vegna mikilla launahækkana eða um 30 % á undanförnum 2-3 árum, berst nú sá umtalsverði hluti iðnaðarins í bökkum, þar sem starfsmannakostnaður er hátt hlutfall, t.d. yfir 40 %, heildarkostnaðar. Í stóriðjunni er þetta hlutfall þó mun lægra, og þar eru aðalkostnaðarliðirnir, hráefni og orka, greidd í erlendum gjaldeyri, oftast USD, og tekjurnar eru í sömu mynt. Stóriðjan er þess vegna að nokkru leyti varin gegn gengisáhrifum ISK, en sömu sögu er engan veginn að segja um aðra þætti iðnaðarins, sem nú afla um miaISK 100 í erlendum gjaldeyri.
Ferðaþjónustan hefur fjárfest talsvert á undanförnum árum og er þess vegna skuldug. Hún er mannaflsfrek og framlegð hennar er tiltölulega mjög lág við þessar aðstæður. Hún hefur sennilega flotið á bættri nýtingu fjárfestingar ár frá ári og e.t.v. bættri framleiðni vegna gríðarlegrar aukningar á fjölda erlendra ferðamanna. Framleiðnin er hins vegar lág, og m.a. þess vegna eru meðallaun tiltölulega lág í þessari starfsgrein.
Fjölgun ferðamanna verður þó senn að dvína, því að álagsþol norðlægrar náttúru er takmarkað, og landið var óviðbúið hinum mikla flaumi. Bætt dreifing ferðamanna um landið, t.d. með innanlandsflugi, er lykilatriði til að forðast ofálag á vinsælustu stöðunum. Samkvæmt markaðslögmálunum hlýtur aukningin senn að færast niður að heimsmeðaltali árlegrar aukningar ferðamannafjölda, sem mun vera 5 %-10 %.
Seðlabankinn leikur stórt hlutverk í afkomu allra atvinnugreina á Íslandi og þar með allra fjölskyldna. Honum ber að framfylgja peningamálastefnu, sem heldur verðbólgu við 2,5 % +/- 1,5 %, þ.e. 1,0 % - 4,0 % verðvísitöluhækkun á ári. Sé vísitölu húsnæðisverðs haldið utan við (auk flestra sparenda og lántakenda mæðir hún aðallega á þeim, sem eru að festa kaup á húsnæði í fyrsta sinn), er í raun verðhjöðnun á Íslandi.
Um 40 mánaða skeið hefur heildarhækkun verðvísitölu (með húsnæðisliðnum) verið undir verðbólguviðmiði Seðlabankans, og undanfarna 12 mánuði hefur verðvísitala án húsnæðis lækkað um 1,8 %, en með húsnæði nemur hækkunin 1,9 %. Miðað við væntingar skuldabréfamarkaðarins mun þessi hækkun verða á bilinu 2,2 % - 2,5 % á ári að meðaltali næstu 5-10 árin. Samkvæmt verðmælingum í maí 2017 hefur hert á téðri verðhjöðnun, t.d. vegna vaxandi samkeppni á smásölumarkaði. Þótt spenna sé enn vaxandi á húsnæðismarkaði, er samt mikið af húsnæði í byggingu (þó ekki nóg og ekki af réttri stærð og kostnaði), og vonir standa til, að aukið framboð valdi minnkandi spennu þar eftir árið 2018, en þá þurfa að koma 9000 íbúðir inn á markaðinn á árabilinu 2017-2019.
Væntingar skuldabréfamarkaðar eru jafnan í hærri kantinum. Það verður ekki betur séð en Peningastefnunefnd hafi algerlega brugðizt bogalistin við að framfylgja peningastefnunni, sem er verðbólga sem næst 2,5 %/ár, því að hún heldur vöxtunum nú aðeins 0,5 % undir vaxtastiginu, sem var 2014, þegar verðbólgan fór undir verðbólguviðmið bankans eftir langa mæðu.
Munur á raunvöxtum hér og í nágrannalöndunum hefur líklega aldrei verið hærri en núna. Þetta veldur því, að fjárfestar hérlendis á borð við lífeyrissjóðina eru tregir til að selja ISK og fjárfesta erlendis, og hingað leitar fé erlendis frá til að nýta vaxtamuninn. Fjárfestarnir gera greinilega út á hækkandi gengi ISK. Þetta þrýstir genginu enn upp á við og getur verið skýringin á metháu og óeðlilega háu gengi ISK núna. Peningastefnunefnd Seðlabankans þiggur stefnuna frá Alþingi, en henni hafa verið hrapallega mislagðar hendur við að nýta tæki og tól bankans til að framfylgja þeirri stefnu með þeim afleiðingum, að skapazt hefur mikið ójafnvægi í þjóðarbúskapnum, sem ógnar tilveru fjölda fyrirtækja og lífsafkomu fólks um allt land. Við svo búið má ekki standa, og það er Alþingis að grípa í taumana að frumkvæði fjármála- og efnahagsráðherra og forsætisráðherra.
Valdimar Ármann, forstjóri Gamma, birti skýra greiningu sína á vandanum í Morgunblaðinu, 6. maí 2017,
"Tími til að leyfa Íslandi að njóta velgengninnar":
"Mikil fjölgun ferðamanna á Íslandi á stuttum tíma hefur valdið ýmiss konar ójafnvægi, enda ekki óeðlilegt, að það taki hagkerfið nokkur ár að aðlaga sig viðlíka breytingu, eins og átt hefur sér stað hér á landi. Auðséð er, að slík gjörbylting á hagkerfinu hlýtur að skila sér í mikilli breytingu í peningamála- og efnahagsstjórnun [leturbr. BJo].
Háum vöxtum verður ekki beitt til að stöðva umsvifin í hagkerfinu, sem eru drifin áfram af stórauknum komum erlendra ferðamanna til landsins. Háum vöxtum verður ekki beitt til þess að lækka fasteignaverð, sem að hluta til er drifið af því að hýsa þarf ferðamennina, sem hingað koma (svo að ekki sé minnzt á aukningu erlends vinnuafls), en talið er, að um 3000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu séu í leigu til ferðamanna einhvern hluta úr ári, sem eru nærri 4 % íbúða á öllu höfuðborgarsvæðinu.
Ekki þarf að beita háum vöxtum til að viðhalda vaxtamun til að laða gjaldeyri til landsins, þar sem óskuldsettur gjaldeyrisforði er fyrir hendi, viðskiptajöfnuður jákvæður ásamt jákvæðri erlendri stöðu þjóðarbúsins."
Ef þessi greining Valdimars Ármanns á nýju hagkerfi Íslands er rétt, sem ástæða er til að halda, þá stendur Peningastefnunefnd uppi sem steintröll, sem dagaði uppi, af því að hún einblíndi í baksýnisspegilinn, en horfði hvorki fram á veg né gerði hún sér far um að greina stöðuna, sem hagkerfið er nú í, og gera síðan viðeigandi ráðstafanir í peningamálum, sem henni ber lögum samkvæmt. Peningastefnunefnd hefur ekki reynzt vandanum vaxin, og þess vegna er ISK í methæðum, útflutningsatvinnuvegunum og þar með fjölda manns til stórtjóns.
Valdimar Ármann endar grein sína með ádrepu á núverandi stjórn Seðlabankans:
"Undanfarin ár hefur kaupmáttur hækkað myndarlega, og áfram er útlit fyrir umtalsverða samkeppni í smásöluverzlun, sem litast af innkomu erlendra aðila sem og aukinni verzlun á netinu. Þá hefur vöruverð lækkað bæði vegna hagræðingar og gengisstyrkingar, en einnig vegna lægri skatta í formi afnuminna vörugjalda og tolla og lækkunar á virðisaukaskatti [Þessar lækkanir innflutningsgjalda eiga mikinn þátt í komu Costco til landsins og þar með hertri samkeppni í verzlun - innsk. BJo]. En nú er kominn tími til þess, að Seðlabanki Íslands leyfi íslenzkum almenningi og fyrirtækjum að njóta góðs af velgengni landsins með því að lækka hér vaxtastig og létta þannig á heimilum landsins og auka samkepnishæfnina."
Í bankaráði Seðlabanka Íslands sitja 7 manns. Þann 25. apríl 2017 kaus Alþingi eftirfarandi í ráðið: Sigurður Kári Kristjánsson, Sveinn Agnarsson, Þór Saari og Frosti Sigurjónsson. Nýir vendir sópa bezt. Áfram sitja: Þórunn Guðmundsdóttir, Auður Hermannsdóttir og Björn Valur Gíslason.
Hagstjórnarmistök Peningastefnunefndar, sem að miklu leyti er skipuð æðstu stjórn bankans, eru svo alvarlegs eðlis, að bankaráðið getur ekki látið kyrrt liggja. Verður ekki öðru trúað en senn dragi til tíðinda undir Svörtuloftum, því að engir aukvisar hafa þau hingað til verið talin, sem nú skipa bankaráðið.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.5.2017 | 21:35
Borgin og Vegagerðin í hár saman
Nauðhyggja, bruðl með skattfé og skipulagslegt fúsk Dags B. Eggertssonar og Hjálmars Sveinssonar er orðið að þjóðfélagsvandamáli vegna stærðar og mikilvægis Reykjavíkurborgar.
Það steytir á mörgu, þegar skýjaborgir rekast á kostnaðarvitund, arðsemi fjárfestinga og rekstrar og fagleg sjónarmið. Reykjavík er nú stjórnað af hreinræktuðum skýjaglópum, sem svífast einskis við að koma gerræðislegum áformum sínum í framkvæmd og fjármagna þjóðhagslega óhagstæðar framkvæmdir með því að seilast enn dýpra ofan í vasa skattborgaranna.
Sem dæmi þessum fullyrðingum til stuðnings má nefna Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni, sem er þjóðhagslega mjög hagkvæmur, því að hann kemur í stað nýs flugvallar, sem kosta mundi um miaISK 100, hann styttir ferðaleið og ferðatíma þeirra, sem nýta völlinn, og hann þjónar, með þremur flugbrautum, hlutverki varaflugvallar fyrir Keflavíkurflugvöll, sem sparar millilandaflugvélum talsvert eldsneyti og eykur nettó flutningsgetu þeirra. Skýjaglóparnir hafa tekið þennan flugvöll út af Aðalskipulagi og ætla að skipuleggja þar íbúðahverfi. Veðurfarslega er Vatnsmýrin kjörlendi fyrir flugvöll, en það verður mjög dýrt að byggja þar húsnæði, því að djúpt er á fast undir sökkla og náttúrulegu votlendi, flóru og fánu, stendur ógn af þéttbýli í grennd. Slíkt þéttbýli hlýtur að kalla á dýrar samgöngulausnir, því að barnaskapur er að ímynda sér, að megnið af íbúunum geti nýtt Borgarlínu til allra sinna ferða. Flugvallarstaðsetning í Hvassahrauni er út í hött t.d. vegna þess, að þar er verndarsvæði fyrir vatnsöflun Suðurnesjamanna. Flugvöllur og vatnsverndarsvæði fara fráleitlega saman.
Skýjaglóparnir ætla að leggja í allt að miaISK 200 fjárfestingu í s.k. Borgarlínu, sem á einvörðungu að vera fyrir einhverja nýja tegund almenningssamgangna, hraðvagna á gúmmíhjólum eða járnbrautarlest, sem verður reyndar enn dýrari. Þetta fyrirbrigði er hugmyndin að tengja við fluglest á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Umferðarmiðstöðvar í Vatnsmýri. Fluglest þessi er sögð losa miaISK 100 í fjárfestingu, verður vafalaust enn dýrari, sé miðað við svipaðar framkvæmdir erlendis, og er viðskiptalega séð andvana fædd hugmynd, því að fluglest verður ósamkeppnishæf við rafknúnar langferðabifreiðir.
Ef samstaða er á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um að taka frá land fyrir samgönguæð á milli þeirra, sem virðist líklegt, er nauðsynlegt, að hún fái að þjóna öllum gerðum samgöngutækja og að hugmyndir um léttlest eða einhvers konar hraðvagna aðra en hefðbundna strætisvagna verði lagðar á hilluna. Með þessu móti getur Borgarlína staðið undir nafni, þjónað öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins og aðkomufólki utan af landi og erlendis frá, og þannig orðið þjóðhagslega arðbær. Þar með kæmi Vegagerð ríkisins að þessu máli sem hönnunar- og framkvæmdaraðili, sem tryggir nauðsynlega fagmennsku við stórt verkefni. Fáránlegt samkomulag frá 2009 á milli Reykjavíkurborgar og Vegagerðar um 1,0 miaISK/ár framleg Vegagerðar til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu gegn því að fresta öllum samgöngubótum þar til 2018 hefur engu skilað öðru en vaxandi umferðaröngþveiti og slysatíðni, því að markmiðið um 8 % hlut Strætó í fólksflutningum árið 2018 er fjarri því að nást. Hlutdeild Strætó hefur hækkað úr 4 % í 5 %. Hvað gera Bakkabræðurnir þá ? Þeir áforma að fleygja miaISK 200 í Borgarlínu og hækka markmiðið í 12 % árið 2040 !
Undirbúningur Sundabrautar er sýnidæmi um kæruleysi núverandi borgaryfirvalda gagnvart kostnaði borgarinnar og í raun andstöðu þeirra við raunverulegar samgöngubætur, því að þessari nauðsynlegu samgöngubót er teflt í tvísýnu með framferði borgarinnar. Frá þessu er skýrt í frétt Sigtryggs Sigtryggssonar í Morgunblaðinu 20. maí 2017, "Ytri leiðin er talin 10 milljörðum dýrari":
"Vegagerðin lítur svo á, að Reykjavíkurborg beri að fjármagna aukinn kostnað af lagningu Sundabrautar, verði ódýrasta lausnin ekki valin. Hér getur verið um 10 milljarða kr kostnað að ræða. Þetta álit Vegagerðarinnar kemur fram í bréfi, sem Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, hefur sent umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar."
Rekstur borgarinnar er í molum og afkoma hennar hefur verið slæm undanfarin ár, nema 2016 vegna góðærisins. Hún er stórskuldug. Hvernig ætla Dagur og Hjálmar að fjármagna skuld við Vegagerðina, ef þeir þvinga hana í dýrari kostinn ? Kannski með því að vísa greiðslum til framtíðarinnar ?
"Í bréfinu segir vegamálastjóri orðrétt: "Nú hafa Vegagerðinni borizt fregnir af því [Dagur og Hjálmar sýndu þá ókurteisi að upplýsa Vegagerðina ekki fyrirfram], að borgin hafi úthlutað lóðum á Gelgjutanga, sem eru á vegstæði Innri leiðar Sundabrautar og mun uppbygging þar útiloka, að hægt verði að velja þann kost fyrir Sundabraut."
Það er ljóst, að þeir, sem með skipulagsmálin fara fyrir Reykjavíkurborg nú um stundir kunna sig engan veginn. Að semja við byggingabraskara um heimild til að byggja á vegstæði, sem Vegagerðin var búin að mæla með sem fyrsta vali fyrir Sundabraut, án samráðs við Vegagerðina, er tuddaskapur og sýnir jafnframt, að skipulagsyfirvöld Reykjavíkur hafa engan áhuga fyrir samgönguumbótum við Reykjavík, enda stefna þau leynt og ljóst að því að gera bílstjórum í borginni lífið óbærilegt, svo að þeir "nýti almenningssamgöngutæki" í staðinn.
"Hér er vegamálastjóri að vísa til samnings, sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, gerði við fasteignafélagið Festi ehf í marz s.l. um uppbyggingu 332 íbúða í 5 húsum á Gelgjutanga. Fasteignafélagið Festir er í eigu hjónanna Ólafs Ólafssonar, athafnamanns, og Ingibjargar Kristjánsdóttur.
Í bréfi vegamálastjóra kemur fram, að Reykjavíkurborg hafi frá árinu 2014 látið vinna deiliskipulag af svokallaðri Vogabyggð. Vegagerðin hafi gert athugasemdir við þessa vinnu á öllum stigum hennar, þar sem lögð var megináherzla á, að ekki yrði ráðstafað lóðum norður að Kleppsmýrarvegi fyrr en fyrir lægi samkomulag milli Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar.
Orðrétt segir í bréfi Hreins Haraldssonar [vegamálastjóra]:
"Í erindi Vegagerðarinnar til Skipulagssviðs borgarinnar, dags. 26. febrúar 2014, er m.a. vakin athygli borgarinnar á ákvæði 2. mgr. 28. gr. Vegalaga nr 80/2007, en þar segir: "Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar, að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar, skal það rökstyðja það sérstaklega." Umrætt lagaákvæði var ítrekað í síðari erindum Vegagerðarinnar um málið.
Í 3. mgr. vegalaga segir svo: "Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en sá, sem Vegagerðin telur betri m.t.t. kostnaðar og tæknilegrar útfærslu og það leiðir til aukins kostnaðar, er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmuninn.""
Hér má greina hrokafulla afstöðu Skipulags- og umhverfissviðs Reykjavíkur gagnvart Vegagerðinni, sem virðist vart virt svars, hvað þá, að gefinn hafi verið kostur á lögbundnu samráði. Hjá Vegagerð ríkisins starfa mestu sérfræðingar landsins í þeim málaflokki, sem hér er til umræðu, þ.e. skipulagning og hönnun meiriháttar umferðarmannvirkja, en borgin hunzar þá, þótt lög standi til annars. Þetta er gjörsamlega óafsakanleg framkoma hjá Hjálmari Sveinssyni og yfirmanni hans, Degi B. Eggertssyni. Það vill svo til, að kjósendur í Reykjavík, sem blöskrar þessi framkoma, geta sniðgengið þessa menn í næstu sveitarstjórnarkosningum og sýnt þeim þá þumalinn.
Nú hafa þeir kumpánar séð sitt óvænna, því að þeir óttast, að Samgönguráðherra muni halda þeim við efnið og skikka borgina til að greiða fyrir afglöp fúskaranna:
"Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur 21. marz síðast liðinn var samþykkt tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að hefja viðræður við ríkið vegna Sundabrautar. Markmið viðræðnanna fælist í því að vinna að arðsemismati og kostnaðargreiningu, ákvarða endanlega útfærslu og legu brautarinnar og tímasetja framkvæmdina."
Í Morgunblaðinu 20. maí 2017 birtist Baksviðsgrein eftir Baldur Arnarson, blaðamann, undir þeirri skelfilegu fyrirsögn:
"Reykjavíkurflugvöllur muni víkja".
Núverandi meirihluta borgarstjórnar dreymir um það, en allar samgöngutæknilegar forsendur fyrir slíkri ákvörðun vantar. Þvert á móti er öflugra innanlandsflug forsenda fyrir meiri dreifingu erlendra ferðamanna um landið. Á Keflavíkurflugvelli hefur SV-NA flugbraut ekki verið tekin í brúk og ekki eru nein tök á að bæta innanlandsflugi við oflestaða flughöfn, enda fer ekki vel á slíku samkrulli þar. Ekki má gleyma, að Færeyjaflug, Grænlandsflug og nú flug til Írlands er stundað frá Reykjavíkurflugvelli, svo að ekki sé minnzt á kennsluflug og einkaflug.
Í téðri Baksviðsgrein er vitnað í Dag B. Eggertsson um mislæg gatnamót:
"Við erum búin að skoða, hverju það [mislæg gatnamót]myndi skila fyrir umferðina, og það er sáralítið. Það myndi bara flytja vandamálin á næstu gatnamót. Þess vegna þurfum við að hverfa frá gömlu hugsuninni frá 1960, eins og meira og minna öll borgarsvæði í heiminum hafa gert, og innleiða afkastameiri almenningssamgöngur, fjölbreyttari ferðamáta og gefa fólki val um, hvernig það vilji komast til og frá vinnu."
Það er ljóst af þessum ummælum, að þarna talar fúskari í umferðarskipulagningu. Mestu sérfræðingar á því sviði hérlendis starfa hjá Vegagerðinni, og hún mælir enn með mislægum gatnamótum til lausnar á umferðarhnútum. Hún er t.d. tilbúin til að reisa mislæg gatnamót á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar, strax og Reykjavíkurborg heimilar slíkt, en það verður aldrei, á meðan Dagur og Hjálmar ráða för.
Fólk hefur miklu fjölbreytilegri erindi en að fara í vinnu og til baka. Það þarf að selflytja börnin, verzla og sinna öðrum útréttingum. Þetta er ekki hægt að gera á viðráðanlegum tíma, þótt hraðfara og tíðir vagnar aki eftir einhverjum ásum og síðan strætisvagnar þvert á þá ása. Fólk er eðlilega ekki reiðubúið að lengja daglegan ferðatíma sinn umtalsvert, og slíkt gengur hreinlega ekki upp í dagskrá margra, svo að ekki sé minnzt á skert þægindi. Af þessum ástæðum er engin spurn hjá almenningi eftir þessu hugarfóstri Dags og Hjálmars. Þeir ætla að kasta hátt í miaISK 200 í umferðarmannvirki, sem engin not eru fyrir, bara af því að slíkt er í samræmi við stjórnmálaskoðun þeirra. Það er hægt að leysa umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins til næstu 30 ára með 10 nýjum mislægum gatnamótum og viðbótar akreinum á umferðaræðum fyrir brot af þeirri fjárupphæð, sem Borgarlínan í dagdraumum félaganna mun kosta. Þetta er skýr valkostur, sem ekki mun útiloka neinar lausnir, þ.m.t. einhvers konar Borgarlínu um miðja 21. öldina.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.5.2017 | 10:25
Karl Marx afturgenginn
Reynslan hefur sýnt almenningi, að meðal Karls Marx við sjúkdómum auðvaldskerfisins hafði miklu verri afleiðingar fyrir fólkið, sem fyrir barðinu varð, en sjúkdómarnir höfðu sjálfir.
Engu að síður höfða kenningar karlsins enn til nokkurra áhugamanna um stjórnmál, en almenningur hefur greint hismið frá kjarnanum fyrir löngu og telur hag sínum mun ver borgið undir einhvers konar Marxisma, sem stundum er kölluð jafnaðarstefna, en með blönduðu borgaralegu hagkerfi, þar sem stuðzt er við kenningar Adams Smith og lærisveina hans með félagslegu ívafi, eins og öryggisneti almannatrygginga.
Einkenni á málflutningi Marxista er, að þeir hugsa ekki málin til enda, heldur gefa sér alls konar sviðsmyndir, sem ekki standast í raunveruleikanum. Hið sama einkenndi karlinn sjálfan, og því er reynslan af sósíalisma alls staðar hörmuleg, þar sem hann hefur verið reyndur. Kjarni Marxismans er, að hverjum beri eftir þörfum og láti af hendi rakna eftir getu. Þetta er algerlega opin fullyrðing, því að hver á að ákveða, hvað þú þarft og hvað þú getur látið af hendi rakna ? Í framkvæmd, þar sem sósíalismanum var komið á, var "nómenklatúrunni", þ.e. yfirstétt kommúnistaflokksins eða jafnaðarmannaflokksins falið þetta vald. Í því fólst og felst enn auðvitað reginranglæti og misrétti. "Nómenlatúran" hefur yfirtekið ríkisvaldið og ríkt án nokkurs lýðræðislegs aðhalds.
Dæmi um stöðnun og forræðishyggju jafnaðarmanna nú á dögum er ný stefnuskrá brezka Verkamannaflokksins, sem felur í sér þjóðnýtingu á ýmissi almannaþjónustu, og þá er næsta skrefið að þjóðnýta atvinnutækin, sem auðinn skapa, í anda kenninga Karls Marx. Almenningur á Bretlandi er ekki ginnkeyptur fyrir þessu, enda hefur fylgið hrunið af Verkamannaflokkinum, þótt hann annars mundi eiga fjölmörg sóknarfæri á hendur Íhaldsflokki Theresu May nú í aðdraganda þingkosninga, s.s. lækkandi gengi sterlingspundsins í aðdraganda Brexit. Brexit verður flókið viðfangsefni fyrir Brüssel og London, og kannski fer allt í háaloft.
Hvers vegna er almenningur ekki ginnkeyptur fyrir stefnu Verkamannaflokksins ? Í fyrsta lagi hefur fólk samanburð á milli ríkisrekstrar og einkarekstrar, og í öðru lagi kærir almenningur sig ekki um, að flokkshestar og vekalýðsrekendur ráði yfir fyrirtækjum, sem almenningur á mikið undir, því að þetta fólk hefur ekki hundsvit á því, hvernig á að reka fyrirtæki á hagkvæman og þjónustuvænan hátt. Með öðrum orðum veit almenningur, að fjárhagsbyrðum sukks "nómenklatúrunnar" verður velt yfir á hann með íþyngjandi skattahækkunum og þjónustan verður lakari.
Reynslan af jafnaðarmanninum Francois Hollande og sósíalistaflokki hans í Frakklandi þótti svo slæm þar, að fylgi beggja hrundi niður úr öllu valdi, og ungur bankamaður og ráðherra á vegum Sósíalistaflokksins var endurunninn og búinn til frjálslyndur borgaralegur frambjóðandi í nafni umbóta á stöðnuðu frönsku þjóðfélagi og Evrópusambandi-ESB. Macron ætlar að hleypa nýju lífi í öxulinn Berlín-París, nú þegar Bretar eru á förum, með því að fylgja umbótastefnu í efnahagsmálum, sem hann telur muni falla Merkel betur í geð en lítið aðhald Hollandes við ríkisreksturinn. Þá ætlar Macron að lengja vinnuvikuna í 40 klst úr 35 klst. Þótt sósíalistar styttu hana, fækkaði ekki atvinnulausum, sem eru um 10 % af vinnuaflinu.
Í staðinn vill Macron fá enn meiri samtvinnun í bankamálum og fjármálum almennt, sem Þjóðverjum hugnast illa, því að þeir óttast meiri útgjöld þýzkra skattborgara vegna fjárhagsstuðnings við veikburða ESB-ríki.
Evrópuþingmaðurinn Schulz átti að bjarga "die Sozialistische Partei Deutschlands - SPD" eða Jafnaðarmannaflokki Þýzkalands frá niðurlægingu í Sambandsþingskosningunum í september 2017. Í upphafi blés byrlega fyrir SPD, en þegar kjósendur hafa heyrt og séð meira til þessa rykfallna kerfiskarls frá Brüssel, verða þeir meira afhuga hugmyndinni um að dubba hann upp sem kanzlara Sambandslýðveldisins í Berlín í stað prestsdótturinnar frá Austur-Þýzkalandi.
Þetta er vandi jafnaðarmannaflokka alls staðar í hinum vestræna heimi. Þeir eru tákngervingar liðins tíma. Tímabili stéttastríðs er lokið á Vesturlöndum, verkamannastörfum hefur fækkað, lágmarkslaun eru víðast hvar tryggð og hlutverk jafnaðarmannaflokkanna hefur skroppið saman í að gæta hagsmuna búrókrata og annarra forréttindahópa og afæta. Þetta er stundum kölluð "elítan", sem er þó rangnefni, því að kerfissnatar bera ekki af á nokkurn hátt annan en í ómerkilegri "rentusækni", þ.e. að skara eld að sinni köku á kostnað almennings og án þess að verðskulda sérstaka umbun frá hinu opinbera.
Á Íslandi er nú draugagangur á vinstri væng stjórnmálanna. Flokkur fjármagns og búrókrata í Brüssel er að tærast upp, en vinstri grænum vegnar betur þrátt fyrir fastheldni við marxíska stefnu um háa skatta á fyrirtæki og fólk, einkum þá, sem mestan þjóðfélagsauðinn skapa, og ríkiseinokun á sem flestum sviðum. Flokkurinn má ekki heyra minnzt á fjölbreytni rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu og framhaldsskólakerfinu, svo að tveir geirar þjónustu, sem ríkið stendur straum af, séu tíundaðir, þótt slíkt geti aðeins leitt til sparnaðar og betri þjónustu, því að ella yrði samningum sagt upp.
Það sýnir bókstafstrú vinstri grænna á falskenningar Karls Marx, sem taldi einkarekstur ósamrýmanlegan sæluríki kommúnismans. Vinstri grænum er sem fyrr annara um form en innihald, og þá varðar ekkert um hagsmuni skjólstæðinga þessara kerfa, sjúklinga og nemenda. Þetta er sannkallaður afturhaldsflokkur, þar sem yfirdrepsskapurinn tröllríður húsum.
Forstokkun vitleysunnar gengur svo langt, að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs vilja heldur, að Sjúkratryggingar Íslands greiði tvöfaldan kostnað Landsspítala af bæklunaraðgerð á sjúklingum á einkasjúkrahúsi í Svíþjóð en að greiða Klínikinni Ármúla 95 % af kostnaði sömu aðgerðar á Landsspítala. Þegar umgengnin við skattfé borgaranna er orðin með þessum hætti í anda Karls Marx, þarf engan að undra, að marxísk hagkerfi hafi yfirleitt orðið gjaldþrota fyrr en seinna eða hjarað á hungursbarmi, eins og Kúba Karíbahafsins, þar sem mánaðarlaun lækna munu vera 10-20 bandaríkjadalir. Þá er gott að eiga garðholu fyrir matjurtir.
Ingólfur S. Sveinsson, læknir, skrifaði fróðlega grein um efnið í Morgunblaðið 14. marz 2017 undir fyrirsögninni,
""Tvöföld heilbrigðisþjónusta", skammaryrði eða skýr nauðsyn":
Þar kom m.a. fram:
"Allar ríkisstjórnir síðustu 30 ár hafa unnið að því að þvinga heilbrigðisþjónustuna inn í kommúnískt ríkisrekstrarkerfi miðstýringar og ofstjórnar."
Nú hefur þetta kerfi gengið sér til húðar. Það lýsir sér með gegndarlausri kostnaðarhækkun heilbrigðiskerfisins, sem nú er líklega dýrasta heilbrigðiskerfi í Evrópu á hvern íbúa lands, þegar tekið hefur verið tillit til tiltölulega lágs meðalaldurs þjóðarinnar. Kerfið er kostnaðarleg hít, enda samkeppni og samanburður innanlands af skornum skammti.
Einnig koma skýr einkenni slíkra kerfa, óviðráðanlega langir biðlistar eftir þjónustu, vel fram á Íslandi. Ein versta sukktillaga um tilhögun ríkisútgjalda kom fyrir rúmu ári frá auðvaldskommanum Kára Stefánssyni, opinberum bréfritara Decode, þess efnis, að í fjárlögum skyldi binda 11 % af VLF við heilbrigðisgeirann, þrátt fyrir að VLF/íb sé einna hæst á Íslandi allra landa og aldurssamsetning þjóðarinnar kalli ekki á að keyra útgjöld til málaflokksins upp í rjáfur.
Meira úr grein Ingólfs Sveinssonar:
"Aðkoma Færeyinga mætti gagnast Íslendingum nú sem oft áður. Þeir gerðu fyrst stuttan samning við Klínikina fyrir konur með brjóstakrabbamein. Eftir reynslutíma og án efa kostnaðargreiningu á þjónustunni gerðu Sjúkratryggingar þeirra samning til lengri tíma. Færeyingarnir fóru með gætni, skynsemi, ábyrgð og umhyggju."
Hér á Íslandi eru marxistískt hugarfar og bókstafstrú greinilega rótgrónari og illvígari en í Færeyjum. Það er til háborinnar skammar, að íslenzk yfirvöld skuli ekki þegar hafa farið svipaða leið og yfirvöld heilbrigðismála í Færeyjum gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu, sem til boða stendur á Íslandi.
Hér eru tveir rugguhestar í veginum, forstjóri Landsspítalans, Páll Matthíasson, og Landlæknir, Birgir Jakobsson. Afstaða beggja vitnar um þröngsýni, því að þeir bera því við, að hagur Landsspítala verði fyrir borð borinn, ef fleiri rekstrarform fá að njóta sín. Það er útilokað, því að streituvaldandi langir biðlistar munu styttast fyrir vikið, og allt of mikil yfirvinna á Landsspítalanum mun geta minnkað, sem er jákvætt fyrir greiðendur þjónustunnar og þá, sem veita hana. Þessir fulltrúar sjónarmiða ríkiseinokunar mála skrattann á vegginn, eins og skoðanabræður þeirra á öðrum sviðum þjóðfélagsins. Fyrr en síðar mun það verða lýðum ljóst hér sem víðast annars staðar.
Í eftirfarandi kafla varpar Ingólfur, læknir, ljósi á dragbítana, sem við er að etja og verður að ryðja úr vegi, nema menn ætli að láta falsspámanninn Karl Marx ganga hér aftur ljósum logum endalaust:
"Gamalgróin er andstaðan gegn sjálfstætt starfandi heilbrigðisþjónustu, lækningastofum og stöðvum utan sjúkrahúsa. Þangað hefur fólk í áratugi sótt þjónustu að eigin vali og greitt með tryggingum sínum og eigin fé.
Staðnaðir sósíalistar og aðrir ofstjórnarsinnar amast við flestu, sem ekki er ríkisrekið, og hafa talað um "tvöfalda heilbrigðisþjónustu", eins og sjálfstæður rekstur eigi ekki tilverurétt.
BSRB hefur sent frá sér ótrúlega ályktun varðandi Klínikina. Telja frekari einkavæðingu í andstöðu við meirihluta þjóðarinnar. Telja það ranga leið að reyna að stytta biðlista með því að greiða fyrirtækjum reknum í hagnaðarskyni. Sjúklingar skulu bíða.
Hér má minnst orða Willy Brandts: "Sá, sem ekki er sósíalisti um tvítugt, er hjartalaus. Sé hann það enn um fertugt, er hann heilalaus."
Sú staðreynd, að fjármagnseigendur eiga hlut í húsnæðinu, sem um ræðir, vekur ýmsum ugg, öðrum ofnæmi. En hefur það forgang framfyrir þarfir sjúklinga ? Gera má samning þannig, að hagnaður eigenda , ef verður, renni að mestu til að styrkja reksturinn."
Mótmæli stéttarfélaga við tilraun til fjölbreytilegri rekstrarforma koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum, og eru eitt af því, sem er "heilalaust" við þessa marxistísku andstöðu með skírskotun til Willys Brandt. Einokun í atvinnugrein leiðir aldrei til betri kjara starfsfólksins, nema síður sé. Hér eru verkalýðsrekendur að hnýta félagsmönnum sínum nútíma vistarbönd.
Fyrrverandi Landlæknir, Ólafur Ólafsson, hefur lengi steininn klappað, og hér að neðan fer hann með öfugmæli. Sjúklingar, sem beðið hafa mánuðum saman, jafnvel meira en eitt ár, eftir aðgerð, sárþjakaðir og óvinnufærir, finna á eigin skinni, að það er marxistísk mantra, að "opinber rekstur tryggi gæði og jöfnuð í heilbrigðiskerfinu". Miklu nær er að fullyrða, að blandaður rekstur, sem veitir kost á samanburði á milli mismunandi vinnustaða, virki hvetjandi til að bæta stöðugt gæði þjónustunnar. Um jöfnuð þarf vart að fjölyrða í þessu sambandi, því að greiðslur sjúklinga verða hinar sömu, en skattborgararnir borga minna.
Ingólfur S. Sveinsson, læknir, lýkur ágætri grein sinni með eftirfarandi hætti:
"Ýmsir kunna að taka undir orð Ólafs Ólafssonar, fv. landlæknis (Læknabl. 2/2017): "Opinber rekstur tryggir gæði og jöfnuð í heilbrigðiskerfinu". Aðrir efast. Barnatrú á sósíalisma er fögur í fjarlægð. En við eigum nýja reynslu af ríkissósíalisma í framkvæmd og og eigum hins vegar fyrirmyndir úr okkar eigin sögu.
Fyrir utan að eiga gott starfsfólk eru Sjúkratryggingarnar, skyldutryggingar í okkar eigu - ekki ríkisins - það dýrmætasta í heilbrigðisþjónustunni. Ríkisrekstur heilbrigðisstofnana býður upp á vanrækslu. Ég tek því undir orð Ólafs, fv. landlæknis, með fyrirvara. Opinber rekstur tryggir gæði og jöfnuð í heilbrigðiskerfinu - að því gefnu, að neytendur kerfisins, sjúklingarnir, hafi valfrelsi um þjónustuna og að kerfið - þjónustukerfið sjálft njóti þess öryggis og aðhalds að hafa virka samkeppni utan frá [undirstrikanir eru frá BJo]".
Það er fjarri blekbónda að halda því fram, að allt, sem Karl Marx setti fram á sinni tíð, hafi reynzt vera vitleysa. Kjarni kenninga hans er, að auðstéttina skipi ekki verðmætaskaparar, heldur rentusækjendur, þ.e. fólk, sem hefur lag á að eigna sér verk annarra og kynna þau sem sín eigin. Þetta þekkist í öllum samfélögum, og kommúnismi læknar ekki þetta mein. Það hefur sýnt sig, þar sem kommúnistar hafa náð völdunum.
Hins vegar var Marx blindur á mikilvægi framtaksmannsins, sem skapar verðmæti úr engu. Marx horfði framhjá hlutverki stjórnenda við að bæta framleiðnina. Sé t.d. horft á brezkt athafnalíf, fæst staðfest, að mikil rentusækni á sér þar stað [The Economist 13. maí 2017-"The Marxist moment"]. Árið 1980 þénuðu forstjórar 100 stærstu skráðu fyrirtækjanna 25 falt það, sem dæmigerður starfsmaður þeirra þénaði. Árið 2016 var þetta hlutfall orðið 130.
Þetta er alger óhæfa, og það er gæfa Íslendinga, að á Íslandi er mestur jöfnuður innan OECD, eins og hann er alþjóðlega mældur á kvarða GINI. Árið 2014 var jafnvel svo mikill jöfnuður launa, að hagfræðingum OECD þótti nóg um og gerðu þá athugasemd, að of mikill jöfnuður væri skaðlegur samkeppnishæfni landsins, því að hæfileikafólk leitaði þá á önnur mið. Þetta heitir atgervisflótti þangað, sem jöfnuður er minni.
Síðan 2014 hafa orðið stakkaskipti á vinnumarkaði, atvinnuþátttaka er hér í hæstu hæðum, kjarasamningar hafa verið gerðir um u.þ.b. 30 % launahækkun á 3-4 árum og ISK hefur hækkað um ein 50 % á tímabilinu. Boginn er reyndar of hátt spenntur, og nú er svo komið, að læknar og hjúkrunarfræðingar hafa þriðjungi hærri fastalaun og helmingi hærri heildarlaun en kollegar þeirra á hinum Norðurlöndunum. Hvernig mundi Karl Marx greina þá stöðu, væri hann á dögum ? Á þeim bullustömpunum, sem hérlendis trúa á hann, er lítið að græða í þeim efnum og öðrum.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.5.2017 | 10:09
Græðgi og geggjun
Á húsnæðismarkaði höfuðborgarsvæðisins ríkir nú óðaverðbólga, og hún hefur náð til nágrannasveitarfélaganna, t.d. fyrir austan fjall. Kaupendur húsnæðis þurfa að gera sér grein fyrir gríðarlegri fjárfestingaráhættu við þessar aðstæður, m.ö.o. eru miklar líkur á, að verðlag húsnæðis muni hafa lækkað aftur frá núverandi verðlagi, þegar núverandi kaupandi þarf að selja, og þá situr hann uppi með milljónatap og getur hæglega orðið gjaldþrota.
Dæmi má taka af nágrannasveitarfélögunum Hveragerði og Selfossi. Samkvæmt Fasteignablaði Viðskiptablaðsins 27. apríl 2017 hefur verð per m2 í sérbýli, 100-400 m2, hækkað í Hveragerði um 42 % frá fyrsta ársfjórðungi 2015 til fyrsta ársfjórðungs 2017, þ.e. hækkun úr 154,5 kISK/m2 í 220,1 kISK/m2, og á Selfossi hækkaði einingarverðið úr 166,9 kISK/m2 í 218,7 kISK/m2 eða um 31 %. Þessar miklu hækkanir stafa af aukinni eftirspurn, þar sem fólk hrökklast úr lóðaskortinum og okrinu á höfuðborgarsvæðinu, en fer nú orðið úr öskunni í eldinn vegna íbúðaskorts á markaði.
Ákveðin 100 m2 íbúð í raðhúsi á öðrum tilgreindra staða er um 10 ára gömul. Ásett verð var MISK 38 í byrjun maí 2017, svo að þar er einingarverðið komið upp í 380 kkr/m2, sem er 73 % hærra en að meðaltali á fyrsta árfjórðungi 2017 fyrir sérbýli að stærð 100-400m2. Brunabótamat íbúðarinnar var MISK 27 í fyrra og verðmæti lóðar metið á MISK 3. Byggingarkostnað má þannig ætla um MISK 30 með hagnaði byggingarverktaka, en ásett verð er 27 % hærra á notaðri íbúð. Einhverjum kann að þykja það engin ósköp, en þá þarf að vega og meta líkindi þess, að verðið haldist svona hátt til frabúðar.
Í ljósi hinna miklu hækkana undanfarið má búast við lækkun markaðsverðs þarna, þegar jafnvægi kemst á markaðinn með auknu framboði húsnæðis, minna aðstreymi fólks til tímabundinnar eða varanlegrar búsetu á landinu og hægari aukningu á ferðamannafjöldanum frá útlöndum. Með öðrum orðum; þegar markaðurinn nær jafnvægi, munu þeir tapa talsverðum upphæðum, sem nú festa fé í íbúð á þessum afarkjörum. Það verður að vara eindregið við því að gera kaupsamninga um þessar mundir, þar sem græðgi ræður för á söluvængnum, því að ekki er að vænta neinna "skuldaleiðréttingaraðgerða" að hálfu stjórnvalda aftur.
Sams konar aðvaranir koma fram í greiningu Reykjavik Economics:
"Blikur á lofti á íbúðamarkaði: Framboðstregða á höfuðborgarsvæðinu ýtir undir bólumyndun",
sem unnin var fyrir Íslandsbanka.
Laugardaginn 6. maí 2017 birti Baldur Arnarson viðtal sitt í Morgunblaðinu við Magnús Árna Skúlason, hagfræðing hjá Reykjavik Economics undir fyrirsögninni,
"Skortur á byggingarlóðum á þátt í hækkandi fasteignaverði":
"Magnús Árni bendir á, að frá marz 2016 til marz 2017 hafi raunverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 19 % og um 20,9 % að nafnverði."
Þetta er helmingur hækkunarinnar, sem átti sér stað á tvöföldu þessu tímabili sums staðar fyrir austan fjall, sem sýnir, að það eru "flóttamenn" undan húsnæðisokri á höfuðborgarsvæðinu, sem skapa eftirspurn umfram framboð og fara úr öskunni í eldinn 50-60 km leið til austurs um þessar mundir.
"Jafnframt hafi húsnæðisverð hækkað að meðaltali um 52,1 % að raungildi síðan vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu náði lágmarki í desember 2010."
Þetta sýnir, hversu gríðarlegar sveiflur geta orðið í báðar áttir á húsnæðismarkaðinum. Lágmarkið varð óeðlilega lágt, því að það var mun lægra en nam byggingar- og lóðarkostnaði. Þar með misstu verktakar hvatann til að byggja. Eðlilegt og langtíma jafnvægisverð er 0-5 % yfir brunabótamati og lóðarverðmæti á nýju húsnæði, og síðan þarf að taka tillit til afskrifta vegna aukinnar viðhaldsþarfar með árunum.
"Með þessa þróun í huga hvetur Magnús Árni fólk til varkárni í fasteignakaupum. Það geti ekki lengur reiknað með, að íbúðarverð hækki."
""Það er enn mikill framboðsskortur á íbúðum. Nokkrar skýringar eru á því. Þar kemur til takmörkuð afkastageta byggingariðnaðarins. Sú afkastageta fór líklega að miklum hluta í hótelbyggingar, og svo fóru margir iðnaðarmenn úr landi eftir hrunið. Til viðbótar hefur skort lóðir m.a. vegna tregðu í skipulagsferlinu. Ég hef rætt við nokkra verktaka. Þeir segja erfitt að fá lóðir, og að þær séu dýrar. Kerfið í borginni er líka hægvirkt. Í einu tilviki tók um 3 ár að breyta atvinnulóð í íbúðalóð. Það tafði byggingu fjölda íbúða", segir Magnús Árni.
Þá bendir hann á, að síðustu ár hafi um 8000 fleiri flutt til landsins en fluttu frá landinu. Það hafi aftur aukið eftirspurn eftir húsnæði. Jafnframt sé mikil eftirspurn til komin vegna stórra árganga ungs fólks, sem íhugar fasteignakaup. Loks segir í skýrslunni, að miklar verðhækkanir á húsnæði séu varasamar.
"Öfgakenndar sveiflur í íbúðaverði eru ekki æskilegar hvorki út frá lánveitanda né lántaka. Íbúðarkaupandi, sem keypti íbúð árið 2007 með 65 % skuldsetningu sá allt eigið fé sitt brenna upp fyrir skuldaleiðréttingar, en sá, sem keypti í lok árs 2010, jafnvel með 100 % láni (t.d. með eiginfjárframlagi frá aðstandendum), hefur notið eiginfjárávinnings allt til dagsins í dag.""
Þessi lýsing sýnir í hnotskurn, hversu skeinuhættur húsnæðismarkaðurinn getur orðið fjárhag einstaklinga. Hvernig sem kaupin gerast á eyrinni, er um að ræða stærstu einstöku fjárfestingu flestra á ævinni, og þess vegna ríður á fyrir fjárhaginn til lengdar, að traust undirstaða sé fyrir fjárfestinguna. Núna er mýri undir þeirri fjárfestingu, sem getur riðið efnahag fjölskyldna svo á skakkinn, er frá líður,að þær verði enn skuldugar, þegar ellilífeyrisaldri er náð, og slíkt er þungbær baggi að bera inn í ellina.
Stjórnvöld, einkum sveitarstjórnir, bera hér ábyrgð. Þau hafa flest sinnt lóðaundirbúningi með hangandi hendi og voru tekin í bólinu, þegar eftirspurnin jókst og hagkerfið fór á fullan snúning eftir vitlausa vinstri stefnu 2009-2013 við landsstjórnina. Uppsöfnuð þörf á landinu er talin vera 5000 íbúðir og til viðbótar þarf framboð lóða fyrir allar gerðir íbúða, mest 70-110 m2, að svara til árlegs framboðs 2000 íbúða. Þetta þýðir, að byggingariðnaðurinn þarf að framleiða að jafnaði 2500 íbúðir/ár. Það getur hann, fái hann til þess svigrúm. Það hjálpar til, að flestir, sem flúðu land á vinstristjórnar árunum undan atvinnuleysi í þessum geira, eru nú komnir til baka til starfa, enda yfir litlu að voka erlendis.
Þegar hillir undir samdrátt hagkerfisins þurfa sveitarfélögin að hafa rænu á að draga tímabundið úr framboði lóða niður í sem svarar 1000-1500 íbúðum, svo að ekki verði mikið verðfall á markaði vegna mikils framboðs umfram eftirspurn. Eitt af aðalstefnumiðum stjórnvalda hjá ríki og annars staðar á að vera að draga úr hagsveiflum, bæði upp og niður.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.4.2017 | 10:53
Sjávarútvegur í stórsjó
Stjórnendur í sjávarútvegi horfast nú í augu við óhagstæð viðskiptakjör vegna sterkrar krónu, ISK, fremur lágs fiskverðs, að neikvæðum áhrifum hásetaverkfalls ógleymdum, og aukins kostnaðar við mannahald í kjölfar sama tveggja mánaða verkfalls. Að geta ekki sinnt föstum viðskiptavinum um langa hríð tekur tíma að bæta fyrir á erlendum mörkuðum.
Til að létta lundina eru þó fremur jákvæð tíðindi af lífríki hafsins um þessar mundir, sem gefa von um lækkaðan tilkostnað á sóknareiningu og fleiri þorskígildistonn á fiskveiðiárinu 2017/2018 en á yfirstandandi fiskveiðiári. Um þetta segir í Morgunblaðsfrétt, 19. apríl 2017, undir fyrirsögninni:
"Þorskstofninn hefur ekki mælst sterkari":
"Verkefnastjóri [Hafrannsóknarstofnunar í marzralli 2017] var Jón Sólmundsson, fiskifræðingur, og segir hann í samtali við Morgunblaðið, að í heildina séu niðurstöður rallsins jákvæðar. Þær megi einkum þakka góðu ástandi í sjónum við landið, og að skynsamlega sé staðið að veiðum, þar sem byggt er á aflareglu í mörgum tegundum."
Sem kunnugt er hefur aflamark í þorski og fleiri tegundum iðulega frá miðjum 9. áratug síðustu aldar verið skorið stórlega niður með lækkandi stofnvísitölum samkvæmt mælingum og ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar, frá því að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var tekið upp, og á fiskveiðiárinu 2016/2017 er ráðgjöfin enn undir því marki, sem ráðlagt var fyrir 40 árum.
Uppbygging stofnanna hefur kostað langvinnar fórnir, en það er tvímælalaust heillavænlegt að ganga ekki of nærri hrygningarstofnunum með því að beita aflareglu á hverja tegund samkvæmt viðurkenndri vísindalegri þekkingu. Hitt er annað mál, að þessi þekking er enn gloppótt og efla þarf mjög vísindarannsóknir á lífríki hafsins til að skjóta traustari stoðum undir veiðiráðgjöfina. Eyrnamerkja á hluta veiðigjaldanna rannsóknarverkefnum og fjárfestingum í búnaði hjá Hafrannsóknarstofnun, eins og ætlunin var við setningu laga um þessa umdeilanlegu gjaldtöku.
Samkeppnin knýr fyrirtækin til frekari hagræðingar; ekki sízt á tímum minnkandi tekna og lakari framlegðar. Það blasir t.d. við hjá HB Granda að sameina þurfi bolfiskvinnslu í Reykjavík og á Akranesi á einum stað. Nú er lagt upp í Reykjavík og ekið með óunninn fisk þaðan til vinnslu á Akranesi, og tilbúinni vöru er ekið til baka eða til Keflavíkurflugvallar. Þessi akstur bætir ekki gæði vörunnar, er óumhverfisvænn, eykur við mikla vegumferð og er kostnaðarsamur. Þar sem aðstaða fyrir alla starfsemina er ófullnægjandi á Akranesi, en fullnægjandi í Reykjavík, er eðlilegt, að fyrirtækið kjósi að sameina alla starfsemina í Reykjavík.
Akranes er ekki "brothætt byggð", heldur kaupstaður með mikla atvinnustarfsemi og nýtur góðs af mikilli iðnaðarstarfsemi á Grundartanga. Fyrirtæki, sem starfa á frjálsum markaði, verða að hafa svigrúm til þeirrar hagræðingar, sem þau telja gagnast bezt til lengdar starfsemi sinni. Reykjavík, Akranes og Grundartangi eru í raun eitt atvinnusvæði vegna Hvalfjarðarganga, og nú eru jafnvel ferjusiglingar yfir til Reykjavíkur í bígerð.
Ef Faxaflóahafnir ætla að byggja samkeppnishæfa bryggjuaðstöðu á Akranesi til að þjóna HB Granda þar, er fyrirtækið komið með mjög sterka samningsstöðu og getur í raun "deilt og drottnað". Er það ákjósanleg staða fyrir Akranes og Reykjavík ? Hefur málið verið hugsað til enda ?
Morgunblaðið gerði skilmerkilega grein fyrir þessum hagræðingarmálum HB Granda 29. marz 2017 undir fyrirsögnunum:
"Vildu flutning til Akraness 2007" og "Sameina vinnslurnar til að hagræða".
Undir þeirri seinni skrifaði Guðni Einarsson:
"HB Grandi er að setja upp botnfiskvinnslu á Vopnafirði. Vilhjálmur [Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda] sagði það gert til að skapa vinnu allt árið fyrir fólk, sem starfar þar í uppsjávarvinnslu. Stefnt er að því að vinna þar um 700 t af þorski í ár á milli uppsjávarvertíða. Um 40 starfsmenn uppsjávarfiskvinnslunnar munu starfa við botnfiskvinnsluna. Til samanburðar voru unnin um 7300 t af þorski á Akranesi í fyrra.
HB Grandi keypti í haust veiðiheimildir upp á 1600 þít, og verður hluti heimildanna unninn á Vopnafirði. HB Grandi keypti hátt í 4000 t af botnfiski á mörkuðum í fyrra [2016]. Þar af voru rúm 3000 t af ufsa, sem unnin voru í Reykjavík. Félagið ætlar að hætta að kaupa fisk á mörkuðum. Vilhjálmur sagði, að gengju áform félagsins eftir, yrði vinnsla 7300 t flutt frá Akranesi til Reykjavíkur. Heildarvinnslan þar mundi þá aukast úr um 21 kt í 24 kt á ári."
Stefna HB Granda er af þessu að dæma að styrkja tvær vinnslustöðvar í sessi hérlendis; aðra á suðvestur horninu og hina á norðaustur horninu. Það er verið að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækisins með því að auka framleiðnina og framleiðsluna á báðum stöðunum, tryggja virðiskeðjuna frá veiðum til viðskiptavinar í sessi og draga úr áhættu varðandi landshlutatengd áföll og bæta gæðatryggingu vörunnar. Allt rímar þetta vel við heilbrigða skynsemi, og yfirvöld ættu ekki að reyna með yfirlýsingum út í loftið eða skammsýnum aðgerðum að reyna að hafa áhrif á þá óhjákvæmilegu og að mörgu leyti jákvæðu atvinnuþróun, sem hér fer fram.
Þegar stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja standa frammi fyrir eða hafa tekið erfiðar, en að sínum dómi nauðsynlegar ákvarðanir í hagræðingarskyni, þá skal ekki bregðast, að upp hefjist ógeðfelld umræða, oft pólitískt lituð, um sérgæzku og jafnvel mannvonzku þeirra, sem ábyrgðina bera, svo að ekki sé nú minnzt á hinn sígilda blóraböggul þeirra mannvitsbrekkna, sem hér eiga í hlut, fiskveiðistjórnunarkerfið. Þessi umræða minnir að mörgu leyti á löngu úreltan stéttastríðstalsmáta, sem er ekkert annað en innantómt glamur nú á dögum. Þetta varð Gunnari Þórðarsyni, viðskiptafræðingi, að umritunarefni í Fiskifréttum 21. apríl 2017 undir fyrirsögninni,
"Óábyrg umræða":
"Í raun er aðeins verið að benda á þá staðreynd, að með hækkun krónunnar aukast líkurnar á, að fiskvinnslan flytjist úr landi, alla vega ef gengið er út frá því, að íslenzkur sjávarútvegur sé rekinn á markaðslegum forsendum. Hér er engin hótun á ferðinni, heldur aðeins bent á þá staðreynd, að fiskvinnsla verður ekki rekin á landinu, nema hún standist samkeppni við erlenda keppinauta. Ekki er langt síðan óunninn gámafiskur var fluttur til vinnslu í Evrópu í miklu magni, sem hefur nánast verið óþekkt undanfarin ár. Fullvinnsla hefur hins vegar aukizt mikið á Íslandi undanfarin ár, bæði í bolfiski og uppsjávarfiski. Íslenzkur sjávarútvegur hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni og brugðizt við hækkun á innlendum kostnaði með aukinni hagræðingu og tæknivæðingu."
Þarna er drepið á þá gríðarlegu ógn, sem atvinnu og verðmætasköpun í landinu stafar af gengisþróun ISK, sem er um 20 % of há að verðgildi m.v. okkar helztu viðskiptamyntir um þessar mundir. Þetta hágengi vinnur gegn hagsmunum landsins, því að það mun senn svipta fólk atvinnu og kippa stoðunum undan verðmætasköpun. Seðlabankinn og núverandi peningastefnunefnd hafa brugðizt hlutverki sínu, sem er varðveizla peningalegs stöðugleika í bráð og lengd.
Norska krónan, NOK, hefur fallið um helming, 50 %, frá 2014 til 2017 gagnvart ISK, þrátt fyrir miklar gjaldeyristekjur af olíu- og gassölu og varasjóð frá þeim tekjum, sem nemur um miaUSD 800. Hvers vegna er ekki beitt sömu ráðum hér til að stemma stigu við skaðlegum áhrifum mikils gjaldeyrisinnstreymis á íslenzka hagkerfið, þ.e. með því að taka þetta fé tímabundið út úr innlenda hagkerfinu og fjárfesta erlendis þar til slaki eða jafnvel kreppa ógnar því ? Þess í stað hleður Seðlabankinn undir ISK með því að safna gildum gjaldeyrissjóði, sem er honum svo dýrkeyptur, að bankinn er búinn að glutra niður nánast öllu eigin fé sínu.
Evra er augljóslega ekki svarið við þessum erfiðleikum, því að Seðlabanki evrunnar er að berjast við hagkerfissamdrátt, en hér er hagkerfisþensla núna. Þannig er það iðulega, að hagkerfissveifla á Íslandi er í mótfasa við hagkerfissveiflu á meginlandi Evrópu. Íslandi hentar þannig engan veginn að gerast aðili að þessu myntbandalagi. Ekkert okkar helztu viðskiptalanda er á svipuðum stað, þ.e. á toppi hagsveiflunnar, eins og Ísland um þessar mundir. Okkar bezta úrræði er að stjórna efnahagskerfinu og peningamálunum af skynsamlegu viti. Þekking, geta og vilji er það, sem þarf, eins og venjulega. Skussar ráða ekki við viðfangsefni af þessu tagi.
"Stór fyrirtæki, sem ráða yfir allri virðiskeðjunni frá veiðum til heildsölu, munu einfaldlega yfirtaka smærri fyrirtæki, sem ekki hafa borð fyrir báru til að standa undir íþyngjandi skattlagningu. Þetta er í sjálfu sér ekki alvont, þar sem það eykur framleiðni og verðmætasköpun, en rétt, að menn geri sér grein fyrir þessu og láti það ekki koma sér á óvart, þegar það raungerist. Séu þá með áætlun um, hvernig bregðast eigi við t.d. byggðaröskun, sem óumflýjanlega fylgir slíku róti í atvinnugreininni. Það veldur vonbrigðum að heyra sjávarútvegsráðherra hóta hækkun á veiðigjöldum til að neyða sjávarútveginn til að uppfylla það, sem honum finnst vera samfélagsleg ábyrgð. Það er mikilvægt, að ráðamenn geri sér grein fyrir áhrifum veiðigjalda, og hækkun á þeim verður varla gerð í sátt við atvinnugreinina."
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að snarast hefur á merinni, þegar afkoma sjávarútvegsins í ár er borin saman við árið 2015. Vegna mjög afturvirkrar álagningar veiðigjalda og brottfalls tímabundins afsláttar á veiðigjöldum munu útgerðarfélögin þurfa að bera hækkun veiðigjalda á fiskveiðiárinu 2017/2018. Það er brýnt að endurskoða þessa skattheimtu, svo að ekki sé horft lengra aftur í tímann en eitt ár, og að sett verði þak á veiðigjöldin, t.d. 5 % af framlegð og að engin veiðigjöld verði innheimt af fyrirtækjum með framlegð undir 20 % af tekjum. Núverandi skattheimta er flókin, ósanngjörn og meðalhófs er ekki gætt.
Jafnframt þarf auðvitað að samræma álagningu auðlindagjalds af öllum fyrirtækjum, sem nýta náttúruauðlindir, t.d. virkjanafyrirtækin, flutningsfyrirtækið Landsnet, ferðaþjónustan og fiskeldið. Það er hægt að beita samræmdri aðferðarfræði á allar þessar greinar. Spangól sjávarútvegsráðherra um nauðsyn hækkunar á eina þessara greina í einhvers konar refsingarskyni er algerlega út í loftið og sýnir í senn ábyrgðarleysi og getuleysi hennar við að leggja eitthvað uppbyggilegt að mörkum sem ráðherra.
Tækniþróun í flestum greinum atvinnulífsins leiðir til aukinnar afkastagetu og aukinnar sjálfvirkni. Þetta er nú um stundir að stækka og fækka vinnslustöðvum fiskiðnaðarins. Það væri glapræði að reyna að sporna við þessari þróun og ekki gæfulegra en að hverfa aftur í torfkofana. Um þessa þróun skrifaði Gunnar Þórðarson í téðri grein:
"Með nýrri tækni, eins og vatnsskurðarvélum og þjörkum, aukast afköst á manntíma, og þannig mun starfsmönnum og vinnsluhúsum fækka. Slíkri þróun geta þó fylgt mikil tækifæri, þar sem í stað erfiðisvinnu verða til betur launuð tæknistörf. Það ætti að vera forgangsmál hjá sveitarfélögum og launþegahreyfingunni að taka þátt í slíkum breytingum með sjávarútvegsfyrirtækjum og tryggja hlutdeild starfsmanna í aukinni framleiðni í framtíðinni. Það er hin raunverulega samfélagslega ábyrgð, að fyrirtæki, starfsmenn og samfélög leggist á eitt til að viðhalda samkeppnishæfni og verðmætasköpun í íslenzkum sjávarútvegi til framtíðar. Að taka þátt í þróuninni og hafa áhrif á hana á jákvæðan hátt er einmitt samfélagsleg ábyrgð."
Það er hægt að taka heils hugar undir þessa þörfu hugvekju Gunnars Þórðarsonar, og ályktun hans um hvað felst í samfélagslegri ábyrgð á fullan rétt á sér. Hið sama á við um flestar atvinnugreinar og sjávarútveginn, að þær auka framleiðni sína með sjálfvirknivæðingu. Þetta er þeim einfaldlega nauðsyn til að standast samkeppnina. Það er óviturlegt af sveitarfélögum og launþegafélögum að reyna að stöðva "tímans þunga nið". Mun gæfulegra er, eins og téður Gunnar bendir á, að vinna með fyrirtækjunum að þessari þróun sjálfum sér og umbjóðendum sínum til hagsbóta. Á stéttabaráttuvindgangi tapa allir, en græða að sama skapi á stéttasamvinnu. Það er líka eðlilegt og almenningi til hagsbóta, að sveitarfélög keppi upp að vissu marki um hylli fyrirtækja og fólks, t.d. með góðri fjármálastjórnun.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.4.2017 | 13:48
Skólakerfi í úlfakreppu
Í fersku minni er slök og versnandi frammistaða íslenzkra 15 ára nemenda á 6. PISA (Programme for International Student Assessment) prófunum árið 2015. Ætlunin með þessum prófum er að veita skólayfirvöldum í hverju landi innsýn í árangur grunnskólastarfsins með alþjóðlegum samanburði.
Ekkert hefur þó enn verið látið uppskátt um úrbótaviðleitni íslenzkra yfirvalda og legið er á upplýsingum um frammistöðu einstakra skóla sem ormur á gulli. Þessi fælni við að horfast í augu við vandann og doði í stað þess að ganga til skipulegra úrbóta er einkennandi fyrir þrúgandi miðstýringu og fordóma gagnvart einkaframtaki í þessum geira og reyndar fleiri. Samkeppni er þó einn þeirra hvata, sem bætt geta árangur skólanna. Er keppnisandi ekki hluti af manneðlinu og þar af leiðandi öfugsnúið að forðast hann ? Það vantar nýja stefnumörkun í skólamálin til að snúa af þeirri óheillabraut, sem PISA-prófin 2015 sýndu, að íslenzkir grunnskólar eru á. Vandi grunnskólanna flyzt auðvitað með nemendunum upp í framhaldsskólana eða út í þjóðlífið. Það er í verkahring nýs mennta- og menningarmálaráðherra að hafa forgöngu um stefnumörkun í menntakerfinu, sem hafi að markmiði bættan árangur eigi síðar en 2021.
Framkvæmd grunnskólastarfs er í verkahring sveitarfélaganna, en ríkisvaldið samræmir starfið með Aðalnámskrá, sem öllum ber að fara eftir. Hvernig skyldi nú vera staðið að skólamálum í stærsta sveitarfélaginu, Reykjavík, sem oft á árum áður gaf tóninn, en er nú orðin eftirbátur annarra sveitarfélaga í mörgu tilliti ? Um það skrifar Áslaug María Friðriksdóttir í Morgunblaðsgreininni:
"Þreyttar áætlanir og lævís leikur", þann 22. apríl 2017:
"Gott samfélag býr að góðu menntakerfi. Matið er einfalt. Gott menntakerfi er samanburðarhæft við menntakerfi annarra ríkja [þ.e. stenzt samjöfnuð-innsk. BJo]. Árangur íslenzkra nemenda í lesskilningi og læsi á stærðfræði og náttúrufræði hefur hins vegar versnað síðastliðinn áratug og er verri en í samanburðarlöndum okkar. Um þetta er enginn ágreiningur. Því hefði mátt halda, að helzta áherzla meirihluta borgarinnar yrði að líta á málið sem algjört forgangsmál og leggja allt á vogarskálarnar [rangt orðalag, ef átt er við að leggja allt í sölurnar-innsk. BJo] til að gera betur. Því miður blasir annað við.
Að skerða fjármagn til skólanna hefur verið helzt á dagskrá meirihlutans. Skólastjórnendur hafa þurft að standa í karpi og mikilli baráttu við að fá skilning um, að ekki sé hægt að ná meiri árangri með slíkum hætti. Hvergi hefur orðið vart við, að skólafólk fái hvatningu til að vinna að breytingum til að mæta slökum árangri. Meirihlutinn hefur einnig staðið í vegi fyrir, að upplýsingum um árangur verði miðlað á þann hátt til skólanna, svo að þeir geti notað þær til að efla eigið starf.
Ljóst er, að hér verður að gera betur. Vinna verður að því að fá fram breytingar á kennsluháttum og breytingar á aðbúnaði. Menntastofnanir verða fyrst og fremst að geta sinnt kennsluhlutverki sínu. Nauðsynlegt er að skýra línurnar og verja menntaþáttinn."
Hér er kveðinn upp þungur áfellisdómur yfir viðbrögðum borgaryfirvalda við niðurstöðum PISA 2015. Ljóst er, að annaðhvort skilja borgaryfirvöld ekki til hvers PISA er eða þau nenna ekki að fara í nauðsynlega greiningarvinnu og úrbótaverkefni í kjölfarið. Ríkjandi meirihluta vantar sem sagt hæfileika til að veita leiðsögn í þessu máli. Borgaryfirvöld eru stungin svefnþorni, þau eru ófær um að veita nokkra vitræna forystu. Stjórnendur af þessu tagi eru á rangri hillu og eiga skilda falleinkunn fyrir frammistöðu sína, sem jafngildir brottrekstri úr starfi eigi síðar en við næstu borgarstjórnarkosningar.
Það er nauðsynlegt að fylgjast með því, hvað í ósköpunum fer fram í skólastofunum og gefur svo slakan námsárangur sem raun ber vitni um. Af lauslegum viðræðum blekbónda við 15 ára nemendur virðist honum, að þekkingarstig þeirra komist ekki í samjöfnuð við þekkingarstig jafnaldra nemenda, sem þreyttu og náðu Landsprófi á sinni tíð, en það var þá inntökupróf í menntaskóla. Þetta er aðeins óformleg og lausleg athugun, sem e.t.v. veitir vísbendingu, og þekking 15 ára nemenda nú og fyrir hálfri öld er jafnvel ekki sambærileg. Í hvað fer tími nemenda nú um stundir ?
Það þarf að beina sjónum að kennurunum, menntun þeirra og færni, og veita þeim umbun fyrir árangur í starfi, sem er að vissu marki mælanlegur sem einkunnir nemenda þeirra. Standa kennarasamtökin e.t.v. gegn aðgerðum, sem bætt gætu árangur nemenda, ef hægt er að kenna slíkar aðgerðir við samkeppni á milli kennara ? Hvers vegna er heilbrigð samkeppni á milli nemenda, kennara og skóla eitur í beinum sumra kennara og jafnvel stéttarfélagsins ? Er ekki tímabært að losa sig við fordóma, sem standa skjólstæðingum kennara og hag kennara fyrir þrifum ? Til að virðing kennara á Íslandi komist í samjöfnuð við virðingu stéttarsystkina þeirra í Finnlandi, sem hafa náð góðum árangri með nemendur sína á PISA, þarf mælanlegur árangur íslenzkra kennara að batna til muna.
Það vantar ekki fé í málaflokkinn, því að samkvæmt OECD batnar árangur óverulega við að setja meira en nemur 50 kUSD/nemanda alla hans grunnskólatíð í skólastarfið, að teknu tilliti til kaupgetu í hverju landi (purchasing power parity 2013), og hérlendis er varið mun hærri upphæð á hvern grunnskólanemanda. Það, sem vantar, er skilvirkni, mælanlegur árangur fjárfestingar í þekkingu ungviðisins.
Bretland, Bandaríkin, Austurríki, Noregur, Sviss og Lúxemborg vörðu meira en tvöfaldri þessari upphæð samkvæmt athugun OECD árið 2013 í kennslu hvers nemanda, en nemendur þeirra náðu þó aðeins miðlungsárangri, um 490 stigum, á PISA 2015. Íslenzkir nemendur voru undir þessu meðaltali í öllum prófgreinum, og árangur þeirra fer enn versnandi. Þetta er svo hraklegur árangur, að furðu má gegna, hversu lítil og ómarkviss viðbrögðin urðu. Það er pottur brotinn í grunnskólanum, og það er einfaldlega ekki í boði að stinga hausnum í sandinn gagnvart vandamálinu, því að framtíð landsins er í húfi. Vendipunktur þarf að verða nú þegar, en mælanlegra framfara er þó ekki að vænta fyrr en 2021.
Góður efnahagur og meiri jöfnuður hérlendis en í öllum 72 löndum þeirra 540´000 þúsund nemenda, sem þreyta PISA-þrautirnar, gera að verkum, að lélegur árangur Íslands á PISA er með öllu óeðlilegur. Í OECD eru "fátækir" nemendur nærri þrisvar sinnum líklegri en nemendur í góðum efnum til að búa yfir minna en grunnfærni í raungreinum (science). Nemendur, hverra foreldrar eru fæddir erlendis, koma jafnvel enn verr út. Engu að síður eru 29 % fátækra barna á meðal 25 % hæstu nemendanna innan OECD. Í Singapúr, Japan og Eistlandi, sem öll fengu yfir 525 stig árið 2015 og eru jafnan á meðal hinna beztu, er nálægt 50 % fátækra nemenda í efsta kvartili stiga (meðaleinkunnar). Í þessu er fólginn hinn mikli og æskilegi þjóðfélagsjöfnunarkraftur skólakerfisins, þar sem hæfileikar fá að njóta sín án tillits til efnahags, en með dyntóttri doðastefnu sinni eru skólayfirvöld á Íslandi mest að bregðast þeim skjólstæðingum sínum, sem sízt mega við slíku. Viðkomandi starfsmenn bregðast þá jafnframt hlutverki sínu. Menntamálaráðherra verður að beita valdi sínu og beita áhrifavaldi, þar sem boðvald skortir. Annars lendir hann í súpunni.
Framhaldsskólarnir eru háðir fjárframlögum ríkisins. Rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, segir farir sínar ekki sléttar í baráttunni um hlutdeild í ríkisútgjöldum í grein í Fréttablaðinu 12. apríl 2017:
"Fjárfestum í framtíðinni:
"Það er óumdeilt meðal framsýnna ríkja í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu, að opinber fjárfesting í menntun, rannsóknum og nýsköpun, hefur bein áhrif á framleiðni, hagvöxt og ný störf. Þannig er í nýrri skýrslu Evrópusambandsins fullyrt, að rekja megi 2/3 hagvaxtar í Evrópu á tímabilinu 1995-2003 til þekkingarsköpunar, en áhrifin voru mest í Bretlandi (50 %) og Finnlandi (40 %) og minnst (innan við 10 %) í löndum á borð við Ungverjaland, Grikkland og Slóveníu. Tölurnar tala skýru máli: opinber fjárfesting í menntun og rannsóknum er fjárfesting í samkeppnishæfni og farsæld til framtíðar."
Það er tvennt, sem ekki er skýrt í þessum texta rektors. Annað er, hvernig 2/3 (67 %) hagvaxtar í ESB á tilteknu tímabili geti átt rætur að rekja til "þekkingarsköpunar", ef mestu áhrifin í einu landi voru 50 % ? Hitt er, hvers vegna þessi áhrif eru bundin við opinberar fjárfestingar ? Einkafjárfestingar eru venjulega hnitmiðaðri, markvissari og árangursríkari í krónum mældar. Um meginniðurstöðu rektors þarf þó ekki að deila.
Háskóli Íslands er búinn að dreifa kröftunum mjög með ærnum tilkostnaði og má nefna doktorsnám í nokkrum greinum sem dæmi. Honum væri nær á tímum aðhaldsþarfar að einbeita kröftunum að nokkrum greinum á borð við verkfræði, þar sem mjög mikið vantar upp á aðstöðu til verklegrar þjálfunar, t.d. í rafmagnsverkfræði, læknisfræði í samstarfi við Háskólasjúkrahúsið, lögfræði, sem sniðin er að íslenzkri löggjöf og íslenzk fræði og fornbókmenntir, sem hvergi er eðlilegra að rannsaka en hér. Í íslenzkum fræðum er óplægður akur innan háskólasamfélagsins að rannsaka, hvernig íslenzkar bókmenntir spruttu upp af hinum gelíska arfi landnámsmanna, og hvernig gelísk orð voru felld inn í íslenzkuna. Hvers vegna er verið að festa fé í monthúsi á borð við hús tungumálanna á undan góðum tilraunasölum á sviði verkfræði eða Húsi íslenzkra fræða, sem vinstri stjórnin skyldi við sem forarpytt ?
Grein háskólarektors er rituð til að brýna stjórnvöld til að breyta 5 ára fjármálaáætlun ríkisins þannig, að fjárveitingar úr ríkissjóði nái meðaltali OECD. Slíkt er verðugt markmið í lok áætlunartímabilsins, en stúdentar hér eru margir á hvern íbúa landsins. E.t.v. væri ráð að setja á hófleg skólagjöld, t.d. 100 kISK/önn ofan á innritunargjöld, samhliða styrkjakerfi lánasjóðsins á móti, sem tengt væri árangri í námi, til að bæta úr brýnasta fjárhagsvanda skólans.
Það er einfaldlega svo, að mjög mikil fjárfestingarþörf er í öllum innviðum landsins núna eftir óþarflega langdregna efnahagslægð vegna rangra stjórnarhátta í kjölfar hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, sem Íslendingar voru berskjaldaðir fyrir vegna oflátungslegrar hegðunar, sem aldrei má endurtaka sig. Á sama tíma ber brýna nauðsyn til að greiða hratt niður skuldir ríkissjóðs til að spara skattgreiðendum óhóflegan vaxtakostnað, auka mótlætaþol ríkisins í næstu kreppu og hækka skuldhæfiseinkunn ríkisins, sem lækka mun vaxtaálag í öllu hagkerfinu. Kostnaðarbyrði fyrirtækja og einstaklinga áf völdum skattheimtu er nú þegar mjög há á mælikvarða OECD og litlu munar, að stíflur bresti og kostnaðarhækkanir flæði út í verðlagið. Skattahækkanir eru þess vegna ekki fær leið. Gríðarlegar raunhækkanir útgjalda ríkisins þessi misserin skjóta skökku við í þensluástandi, eins og nú ríkir, þannig að rekstrarafgangur ríkissjóðs þyrfti helzt að vera þrefaldur á við áætlaðan afgang til að treysta fjármálastöðugleikann.
Rektor Háskóla Íslands verður að laga útgjöld skólans að tekjum hans á þrengingaskeiði, sem að óbreyttu mun standa í 2-3 ár enn. Þetta verður hann að gera í samráði við menntamálaráðuneytið, eins og aðrir ríkisforstjórar verða að gera í samráði við sitt ráðuneyti. Að æpa í fjölmiðlum á hærri peningaútlát úr ríkissjóði en rétt kjörin stjórnvöld hafa ákveðið og Alþingi hefur staðfest, verður þeim sízt til sóma. Ríkisstofnunum, eins og einkafyrirtækjum og einstaklingum, gagnast fjármálalegur stöðugleiki betur en há verðbólga.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.4.2017 | 10:04
Skipulagsmál í skötulíki
Ástand húsnæðismarkaðarins hérlendis er til skammar, því að um sjálfskaparvíti mistækra og sérlundaðra stjórnmálamanna í höfuðborginni er að ræða að mestu leyti. Þetta sjálfskaparvíti hefur margvíslegar afleiðingar. Verst kemur gegndarlaus hækkun húsnæðisverðs niður á kaupendum fyrstu íbúðar, en einnig vega hækkanirnar inn í verðlagsvísitölur, sem er skaðræði í landi verðtryggingar.
Um alvarlegar afleiðingar hás íbúðaverðs skrifaði Sigurður Ingólfsson, framkvæmdastjóri Hannars ehf í Morgunblaðið 23. marz 2017:
"Komum skikki á byggingarmálin":
"Þegar við höfum hrakið unga fólkið okkar úr landi með því stjórnleysi í húsnæðismálum, sem hér er lýst, þá skulum við ekki reikna með, að nema hluti þess komi til baka. Á nokkrum árum fækkar þannig unga, vel menntaða fólkinu okkar, á meðan þjóðin eldist. Hver á þá að halda þjóðfélaginu uppi ?"
Stjórnvöld hafa brugðizt þeirri skyldu sinni að hafa nóg framboð lóða af fjölbreytilegu tagi á boðstólum og að gera byggingarreglugerð og byggingarskilmála þannig úr garði, að húsbyggjendum sé kleift að reisa ódýr hús, þótt vönduð séu. Hvað þetta varðar er mikill munur á sveitarfélögum, og það er alveg ljóst, sveitarfélög, sem sósíalistar stjórna, eru miklir eftirbátar hinna, sem stjórnað er af borgaralega sinnuðu fólki. Sósíalistum er síður en svo umhugað um, að ungt fólk eignist húsnæði, heldur snýst hugmyndafræði þeirra um, að fólk búi í leiguhúsnæði alla sína tíð. Af þessum sökum er nægt framboð ódýrra lóða eitur í beinum sósíalista, og þess vegna vilja þeir ekki sjá yfir 10 þúsund íbúðir í Úlfarsárdal.
Um samanburð sveitarfélaga segir byggingaverktaki í viðtali við Baldur Arnarson í Morgunblaðinu 19. apríl 2017:
"Minni kvaðir lækka íbúðaverð:
"Þorvaldur Gissurarson, forstjóri verktakafyrirtækisins ÞG Verks, áætlar, að vegna áðurnefndra breytinga á reglugerðinni, lægra lóðaverðs og sveigjanlegri skipulagsskilmála verði fermetraverð nýrra íbúða á Selfossi allt að 30 % lægra en í nýju fjölbýli í úthverfum á höfuðborgarsvæðinu. Lægra lóðaverð vegi þungt í þessu samhengi."
Að sveitarfélag geri sig sekt um slík reginmistök í skipulagsmálum að leggja höfuðáherzlu á fyrirbærið "þétting byggðar" er höfuðsynd í þessu sambandi og er orðið húsbyggjendum og íbúðakaupendum gríðarlega dýrt; það er nokkuð, sem þeir og aðrir kjósendur þurfa að kvitta fyrir í næstu kosningum. Um þetta skrifar Sigurður Ingólfsson í téðri grein:
"Það sést vel, að byggingarkostnaður og verð fasteigna fara illa saman. Þar kemur auðvitað margt til, og er lóðarkostnaður og lóðaframboð stór þáttur í þeirri þróun. Þegar lítið framboð er af lóðum, er lítið byggt, og þá hækkar eftirspurnin verð fasteigna, eins og nú gerist. Þegar þar við bætist, að höfuðáherzlan er lögð á dýrar lóðir, sem er afleiðing þéttingar byggðar, þá hækkar verðið enn frekar.
Lausleg skoðun á söluverði fasteigna á mismunandi stöðum í Reykjavík sýnir, að þar sem þétting byggðar stendur aðallega yfir, er fasteignaverðið 40 %- 50 % hærra en t.d. í Úlfarsárdal (úthverfi) og er jafnvel 90 % - 100 % hærra, eins og við Laugaveg.
Sé gengið út frá, að byggingarkostnaðurinn sjálfur sé svipaður á þessum stöðum, þá er niðurstaðan, að lóðarkostnaðurinn sé um 13 % af verði fjölbýlishúss í úthverfi, um 38 % á þéttingarsvæðum í Reykjavík og um 55 % við Laugaveginn.
Hefði Reykjavíkurborg þannig úthlutað lóðum fyrir 4000 íbúðir, 75 m2 að stærð, í Úlfarsárdal, hefði það sparað kaupendum þeirra 48 milljarða króna í heild og borgin haft um leið tekjur af þeim upp á 15,3 milljarða króna. Hver íbúð hefði kostað um 30 milljónir kr á verðlagi nú, sem hefði vafalaust lækkað enn frekar við mikið framboð íbúða.
Á framangreindum tölum sést, að það er um 30 % ódýrara að kaupa íbúð í úthverfi höfuðborgarsvæðisins en á þéttingarsvæðunum. Það eru meira en 10 milljónir kr miðað við 75 m2 íbúð (nettó). Þetta er ríflega sú upphæð, sem rætt er um, að ungt fólk þurfi til að festa sér íbúð. Er ekki kominn tími til að fara að stjórna þessum málaflokki ?"
Þetta er einn samfelldur áfellisdómur yfir stjórnun skipulagsmálanna í Reykjavík á undanförnum árum, a.m.k. 2 kjörtímabil, og löngu er orðið tímabært, að Reykvíkingar hristi af sér þá óværu, sem nú situr í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur og stjórnar þar af fádæma þröngsýni, þekkingarleysi á hagsmunum borgarbúa og hreinræktaðri afdalamennsku, með fullri virðingu fyrir íbúum í afskekktum dölum. Nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga er reynt að bregða yfir úlfinn sauðargæru háfleygra byggingaráforma, en slíkt eru orðin tóm, því að stefnan er löngu mörkuð til vinstri.
Þessi fáránlega tilhögun skipulagsmála höfuðborgarinnar hefur hækkunaráhrif á íbúðarhúsnæði langt út fyrir mörk Reykjavíkur og á verðlagsvísitöluna í landinu. Þeir, sem hyggja á flótta undan hárri húsaleigu eða byggingarkostnaði ættu þó að hugsa sig um tvisvar áður en þeir halda í húsnæðisleit og þar með í atvinnuleit til útlanda, a.m.k. til Norðurlandanna, því að þar hefur verðlag á húsnæðismarkaði hækkað gríðarlega á undanförnum árum, aðallega vegna lágra vaxta, sem magna upp eftirspurnina. Á Norðurlöndunum eru lágir vextir til að stemma stigu við fjármagnsflótta frá evru-svæðinu, sem hækkaði verðgildi mynta Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, svo að Seðlabankar þessara landa sáu sér þann kost vænstan að lækka stýrivextina niður að núlli og jafnvel undir það. Hinir seinheppnu vistmenn á Svörtuloftum eru þó hvergi bangnir, þótt samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna hér hrynji vegna gengis, sem er a.m.k. 20 % of hátt m.v. kostnaðarstigið í landinu, sem enn mun hækka hjá flestum fyrirtækjum nú í maí-júní.
Í Viðskiptablaðinu 23. marz 2017 var úttekt á húsnæðiskostnaði Norðurlandanna eftir Snorra Pál Gunnarsson:
"Norræna tálsýnin" Þar sagði m.a.:
"Þótt gæta verði að mörgu í þessum samanburði, fer því fjarri, að hægt sé að halda því fram með rökum, að grasið sé grænna [á] meðal frændþjóða okkar og auðveldara að koma sér [þar] þaki yfir höfuðið. Þvert á móti gætu Íslendingar búið við lakari og áhættumeiri kjör á norrænum fasteignamarkaði en hér á landi."
Það er ekki aðeins aukin spurn eftir húsnæði vegna lágra vaxta, sem hækkað hefur íbúðaverðið meira í Svíþjóð og Noregi en á Íslandi og svipað í Danmörku, heldur einnig landleysi, sem tekið er að hrjá sum sveitarfélög þar, eins og t.d. Seltjarnarnes og Kópavog á Íslandi. Snorri Páll gerir nánari grein fyrir hækkununum þannig:
"Undir lok síðasta árs [2016] var húsnæðisverð hlutfallslega hæst í Svíþjóð og tæplega helmingi [50 %] hærra en á Íslandi. Næst kom Noregur, þar sem húsnæðisverð var um 27 % hærra en hér á landi, en húsnæðisverð í Svíþjóð og Noregi er í sögulegu hámarki um þessar mundir. Ísland og Danmörk koma þar á eftir með svipuð húsnæðisverð. Loks er húsnæðisverð lægst í Finnlandi, sem er að ákveðnu leyti sér á báti, hvað varðar verðþróun á húsnæðismarkaði, en þar hefur húsnæðisverð verið nokkuð stöðugt síðan 2011."
Til að sýna "húsnæðisbóluna" á Norðurlöndunum skal hér tilgreina fermetraverð í 10 þekktum borgum á Norðurlöndunum. Verð eru í MISK/m2:
- Stokkhólmur: 1,10
- Ósló: 0,92
- Helsingfors 0,76
- Gautaborg 0,70
- Þrándheimur 0,62
- Kaupmannahöfn 0,60
- Björgvin 0,58
- Reykjavík 0,48
- Árósar 0,46
- Málmhaugar 0,38
Það, sem skiptir kaupandann höfuðmáli, er árleg greiðslubyrði hans af hverjum fermetra. Snorri Páll gerir þannig grein fyrir henni:
"Greiðslubyrði af 100 m2 húsnæði í Ósló, sem kostar að meðaltali um MISK 92,3 með 75 % láni hjá DNB með jöfnum greiðslum til 25 ára á 2,55 % breytilegum vöxtum, er tæplega 314 kISK/mán. Hjá Nordea í Svíþjóð er greiðslubyrðin af 100 m2 íbúð í Stokkhólmi, sem kostar að meðaltali um MISK 111 með 75 % láni til 25 ára á 2,04 % vöxtum, um 356 kISK/mán. Hjá íslenzkum banka er greiðslubyrðin af slíkri íbúð í Reykjavík með 75 % láni hins vegar um 255 kISK/mán samkvæmt reiknivélum bankanna, sem er svipað og í Danmörku. Greiðslubyrðin á verðtryggðum íbúðalánum, sem eru um 80 % af húsnæðislánum í landinu, er jafnvel enn lægri, og þar að auki bjóða lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður lægri vexti en viðskiptabankarnir."
Greiðslubyrði íbúðalána er sem sagt hærri á Norðurlöndunum en hérlendis, og hún er jafnframt þungbærari sem hærra hlutfall ráðstöfunartekna en hér. Ekki nóg með það, heldur er áhætta lántakenda meiri á hinum Norðurlöndunum, því að fyrr eða síðar munu vextir þar hækka, og þá mun íbúðaverð lækka aftur. Til að ná sögulegu meðaltali þurfa vextir u.þ.b. að tvöfaldast, svo að væntanlegar vaxtahækkanir á hinum Norðurlöndunum munu verða verulegar. Þá mun eftirspurnin falla og verðið lækka.
Þeir, sem þá þurfa að selja, munu verða fyrir fjárhagslegu tapi, sem getur leitt til eignamissis, jafnvel gjaldþrots. Hvernig í ósköpunum stendur á því, að jafnaðarmenn á Íslandi klifa stöðugt á Norðurlöndunum sem hinni miklu fyrirmynd Íslendinga á öllum sviðum ? Þeir, sem til þekkja, vita vel, að Norðurlöndin standa frammi fyrir miklum efnahagsvanda vegna mikils ríkisbúskapar, hárra skatta, mikilla skulda og lítillar framleiðniaukningar. Samkeppnishæfni þeirra er af þessum sökum ógnað.
Þótt verðlag á húsnæðismarkaði sé svipað eða hærra á hinum Norðurlöndunum en hér, er það engin afsökun fyrir allt of háu verðlagi á húsnæðismarkaði hér í landi hárra vaxta og yfirleitt nægs landrýmis. Það hlýtur að verða eitt af kosningamálum komandi sveitarstjórnarkosninga til hvaða aðgerða stjórnmálamenn ætla að grípa til að lækka íbúðaverð og þar með leiguverð með raunhæfum hætti. Eitt er víst, að í þá umræðu eru ákafir talsmenn þéttingar byggðar ekki gjaldgengir.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2017 | 10:07
Hagkerfi í örum vexti og vaxtarbroddur
Vöxtur þjóðarútgjalda 2016 nam 8,7 % að raungildi, en vergrar landsframleiðslu (VLF) um 7,2 %, og var sú aukning hin mesta innan OECD á árinu og meiri en í Kína.
Það eru stórtíðindi, að eitt Vesturlanda skuli skjóta "asísku tígrisdýrunum" aftur fyrir sig, en Indland gefur að vísu upp meiri hagvöxt, 7,5 %.
Einkaneyzla jókst um 6,9 %, en var samt í hlutfallslegu sögulegu lágmarki eða aðeins 49 % af VLF. Þetta vitnar um framleiðsludrifið hagkerfi, enda var niðurstaða utanríkisviðskiptanna jákvæð um tæplega miaISK 160 eða rúmlega 6 % af VLF. Aðeins Þjóðverjar geta státað af álíka miklum viðskiptaafgangi (hlutfallslegum) og eru öfundaðir af innan ESB og víðar.
Fjárfestingar eru nú í sögulegu hámarki, og eftir 23 % aukningu þeirra í fyrra frá 2015 eru þær nú í sögulegu meðaltali sem hlutfall af VLF, eða 21 % (rúmlega miaISK 500).
Ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar hafa í heildina séð á sama tíma lækkað skuldir sínar, og nú er svo komið, að segja má, að Íslendingar séu orðnir lánveitendur í heiminum fremur en skuldarar, því að erlendar eignir þjóðarbúsins námu í árslok 2016 miaISK 3´837, en erlendar skuldir miaISK 3´811. Markverður vendipunktur, sem vafalaust hafði áhrif á lánshæfismatsfyrirtækin, sem hækkuðu eða eru að íhuga hækkun á lánshæfismati ríkissjóðs. Slíkt verður í askana látið.
Þessi jákvæða þróun þjóðarbúsins er auðvitað borin uppi af öflugum útflutningsatvinnuvegum, iðnaði með hækkandi afurðaverði, sjávarútvegi með hærra afurðaverði en keppinautanna og feiknarlegum flaumi erlendra ferðamanna, sem þó kann að verða eitthvert lát á vegna kostnaðar. Norðmenn hafa t.d. mátt horfa upp á yfir 40 % lækkun NOK gagnvart ISK á 3 árum. Það er merkilegt, að "stöðugleikasjóður" upp á miaUSD 900 hefur ekki dugað til að hamla meira en þetta gegn lækkun gengis norsku krónunnar. Að baki því er sorgarsaga, sem vert væri að gera góð skil.
Vöruskiptajöfnuður Íslands var hins vegar óhagstæður, og það er hægt að bæta úr því með því að leysa dísilolíu, flotaolíu og benzín af hólmi með innlendum orkugjöfum fyrir 2050 og með því að skjóta varanlegum stoðum undir mesta vaxtarbrodd vöruútflutnings núna, fiskeldið. Ef útflutningur laxeldisfyrirtækjanna á Vestfjörðum og Austfjörðum verður aukinn í 100 kt/ár, sem talið er raunhæft upp úr 2030, þá mundu útflutningstekjur af því aukast um a.m.k. 100 miaISK/ár að núvirði.
Dregið hefur verið dám af orðinu landbúnaður og af því myndað nýyrðið strandbúnaður, sem Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri hjá Matís, skilgreinir þannig í greininni "Strandbúnaður 2017" í Morgunblaðinu 13. marz 2017:
"Strandbúnaður er samheiti yfir atvinnugreinar, sem tengjast nýtingu land- og/eða sjávargæða í og við strandlengju landsins, hvort sem um ræktun eða eldi er að ræða."
Það er engum blöðum um það að fletta, þegar litið er til nágrannalandanna, Noregs, Færeyja og Skotlands, að strandbúnaði á eftir að vaxa fiskur um hrygg við Íslandsstrendur og að þar er víða við Ísland um vannýtta auðlind að ræða. Markaðurinn er tvímælalaust fyrir hendi, og um það skrifar Arnljótur Bjarki í umræddri grein:
"Um alllangt skeið hafa innan við 5 % af heildar matvælaframleiðslu heimsins komið úr höfum og vötnum, þó svo að þau þeki um 70 % af yfirborði jarðarinnar. Æ fleiri beina nú sjónum sínum að þessari staðreynd, því að líklegt er, að nokkur hluti fyrirsjáanlegrar aukningar matvælaframleiðslu heimsins fari fram við strendur og úti fyrir ströndum meginlanda sem og eyríkja. Landbúnaður er fyrirferðarmikill í matvælaframleiðslu heimsins og margfalt umfangsmeiri en veiðar eða nytjar villtra fiskistofna."
Við þetta má bæta, að eldisfiskur mun í tonnum talinn vera svipaður og sjávarafli, en arðsemin er margföld í eldinu á við sjávarútveg. Ein efnilegasta grein strandbúnaðar á Íslandi er laxeldi. Ætla má, að framlegð þess hérlendis sé um 50 % af söluandvirði afurðanna. Þetta er um tvöföld framlegð sjávarútvegs hérlendis. Á rekstrarhlið stafar mismunurinn að mestu af orkukostnaði, veiðarfærakostnaði og launakostnaði útgerðanna, sem eðlilega er mun hærri en orku- og launakostnaður við strandeldið, en á móti kemur auðvitað fóðurkostnaðurinn. Fóðrið verður sennilega hægt að framleiða allt hérlendis, t.d. sem repjumjöl, svo að gjaldeyrisútlát vegna fóðurs verða lítil.
Á tekjuhlið er enn meiri munur á laxeldi og sjávarútvegi, sem sýnir auðvitað mikla framtíðarmöguleika við markaðssetningu villtra sjávarafurða. Laxeldisfyrirtækin hérlendis eru að fá um 1000 ISK/kg og þar á bæ er talið, að framtíðin lofi góðu um raunverðhækkanir á umhverfisvottaðri vöru frá Íslandi vegna vaxandi eftirspurnar.
Í Morgunblaðinu 9. marz 2017 er viðtal Þórodds Bjarnasonar við Kjartan Ólafsson, stjórnarformann laxeldisfyrirtækisins Arnarlax, undir fyrirsögninni:
"Skattspor Arnarlax um 616 milljónir króna":
"Skattspor Arnarlax skiptist þannig, að skattar starfsmanna, sem voru að meðaltali 118 á síðasta ári (2016), voru MISK 377, framlög í lífeyrissjóði námu MISK 124, aðflutningsgjöld voru MISK 18, gjald í umhverfissjóð var MISK 30, afla- og hafnargjöld voru MISK 48, og önnur gjöld voru MISK 19."
Hér ræðir um arðbæra starfsemi, sem framleiddi um 6 kt af sláturlaxi 2016 og stefnir á tvöföldun 2017. Veltan var líklega um miaISK 6,0, svo að skattsporið var rúmlega 10 % af söluandvirðinu. Þetta er ekki ýkja hátt í samanburði við t.d. sjávarútveginn, og ástæðan er há framlegð.
Með því að leggja þessa framlegð, sem blekbóndi áætlar um 50 % af söluandvirði afurðanna, til grundvallar, má leggja mat á verðmæti strandaðstöðunnar, sem er náttúruauðlind.
Fyrir hvert tonn er þá árleg framlegð MISK 0,5. Sé hún lögð saman fyrir næstu 25 ár og núvirt með 9,0 %/ár vöxtum, fást núvirt verðmæti aðstöðunnar:
C = 0,5 x 9,8 MISK = 4,9 MISK/t
Eðlilegt er, að handhafar starfsleyfis til að nýta þessa auðlind greiði sambærilegt árlegt gjald og handhafar vatnsréttinda vegna virkjunar munu að öllum líkindum greiða sem fasteignagjald til viðkomandi sveitarfélaga, 0,5 % af metnum verðmætum:
FG = 0,5 %/ár x 4,9 MISK/t = 0,025 MISK/ár per tonn.
Þetta er 5,0 % af árlegri framlegð, sem ekki er unnt að telja íþyngjandi auðlindargjald og er mun lægra hlutfall en sjávarútvegurinn hefur mátt sæta undanfarið. Mál er, að allir með nýtingarrétt á náttúruauðlindum sitji við sama borð. Til þess þarf atbeina löggjafans.
Nú virðist þjónustugjald vegna leyfisveitinga í greininni vera G=30 MISK/6000 t= 0,005 MISK/t, sem er aðeins 1/5 af því, sem eðlilegt getur talizt. Það er þess vegna brýnt að setja samræmdar reglur um auðlindagjaldið, sem þá skiptist á milli sveitarfélaganna og þjónustu- og eftirlitsstofnananna og komi í stað gjalds í umhverfissjóð og leyfisgjalda.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)