Færsluflokkur: Fjármál
15.5.2017 | 10:09
Græðgi og geggjun
Á húsnæðismarkaði höfuðborgarsvæðisins ríkir nú óðaverðbólga, og hún hefur náð til nágrannasveitarfélaganna, t.d. fyrir austan fjall. Kaupendur húsnæðis þurfa að gera sér grein fyrir gríðarlegri fjárfestingaráhættu við þessar aðstæður, m.ö.o. eru miklar líkur á, að verðlag húsnæðis muni hafa lækkað aftur frá núverandi verðlagi, þegar núverandi kaupandi þarf að selja, og þá situr hann uppi með milljónatap og getur hæglega orðið gjaldþrota.
Dæmi má taka af nágrannasveitarfélögunum Hveragerði og Selfossi. Samkvæmt Fasteignablaði Viðskiptablaðsins 27. apríl 2017 hefur verð per m2 í sérbýli, 100-400 m2, hækkað í Hveragerði um 42 % frá fyrsta ársfjórðungi 2015 til fyrsta ársfjórðungs 2017, þ.e. hækkun úr 154,5 kISK/m2 í 220,1 kISK/m2, og á Selfossi hækkaði einingarverðið úr 166,9 kISK/m2 í 218,7 kISK/m2 eða um 31 %. Þessar miklu hækkanir stafa af aukinni eftirspurn, þar sem fólk hrökklast úr lóðaskortinum og okrinu á höfuðborgarsvæðinu, en fer nú orðið úr öskunni í eldinn vegna íbúðaskorts á markaði.
Ákveðin 100 m2 íbúð í raðhúsi á öðrum tilgreindra staða er um 10 ára gömul. Ásett verð var MISK 38 í byrjun maí 2017, svo að þar er einingarverðið komið upp í 380 kkr/m2, sem er 73 % hærra en að meðaltali á fyrsta árfjórðungi 2017 fyrir sérbýli að stærð 100-400m2. Brunabótamat íbúðarinnar var MISK 27 í fyrra og verðmæti lóðar metið á MISK 3. Byggingarkostnað má þannig ætla um MISK 30 með hagnaði byggingarverktaka, en ásett verð er 27 % hærra á notaðri íbúð. Einhverjum kann að þykja það engin ósköp, en þá þarf að vega og meta líkindi þess, að verðið haldist svona hátt til frabúðar.
Í ljósi hinna miklu hækkana undanfarið má búast við lækkun markaðsverðs þarna, þegar jafnvægi kemst á markaðinn með auknu framboði húsnæðis, minna aðstreymi fólks til tímabundinnar eða varanlegrar búsetu á landinu og hægari aukningu á ferðamannafjöldanum frá útlöndum. Með öðrum orðum; þegar markaðurinn nær jafnvægi, munu þeir tapa talsverðum upphæðum, sem nú festa fé í íbúð á þessum afarkjörum. Það verður að vara eindregið við því að gera kaupsamninga um þessar mundir, þar sem græðgi ræður för á söluvængnum, því að ekki er að vænta neinna "skuldaleiðréttingaraðgerða" að hálfu stjórnvalda aftur.
Sams konar aðvaranir koma fram í greiningu Reykjavik Economics:
"Blikur á lofti á íbúðamarkaði: Framboðstregða á höfuðborgarsvæðinu ýtir undir bólumyndun",
sem unnin var fyrir Íslandsbanka.
Laugardaginn 6. maí 2017 birti Baldur Arnarson viðtal sitt í Morgunblaðinu við Magnús Árna Skúlason, hagfræðing hjá Reykjavik Economics undir fyrirsögninni,
"Skortur á byggingarlóðum á þátt í hækkandi fasteignaverði":
"Magnús Árni bendir á, að frá marz 2016 til marz 2017 hafi raunverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 19 % og um 20,9 % að nafnverði."
Þetta er helmingur hækkunarinnar, sem átti sér stað á tvöföldu þessu tímabili sums staðar fyrir austan fjall, sem sýnir, að það eru "flóttamenn" undan húsnæðisokri á höfuðborgarsvæðinu, sem skapa eftirspurn umfram framboð og fara úr öskunni í eldinn 50-60 km leið til austurs um þessar mundir.
"Jafnframt hafi húsnæðisverð hækkað að meðaltali um 52,1 % að raungildi síðan vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu náði lágmarki í desember 2010."
Þetta sýnir, hversu gríðarlegar sveiflur geta orðið í báðar áttir á húsnæðismarkaðinum. Lágmarkið varð óeðlilega lágt, því að það var mun lægra en nam byggingar- og lóðarkostnaði. Þar með misstu verktakar hvatann til að byggja. Eðlilegt og langtíma jafnvægisverð er 0-5 % yfir brunabótamati og lóðarverðmæti á nýju húsnæði, og síðan þarf að taka tillit til afskrifta vegna aukinnar viðhaldsþarfar með árunum.
"Með þessa þróun í huga hvetur Magnús Árni fólk til varkárni í fasteignakaupum. Það geti ekki lengur reiknað með, að íbúðarverð hækki."
""Það er enn mikill framboðsskortur á íbúðum. Nokkrar skýringar eru á því. Þar kemur til takmörkuð afkastageta byggingariðnaðarins. Sú afkastageta fór líklega að miklum hluta í hótelbyggingar, og svo fóru margir iðnaðarmenn úr landi eftir hrunið. Til viðbótar hefur skort lóðir m.a. vegna tregðu í skipulagsferlinu. Ég hef rætt við nokkra verktaka. Þeir segja erfitt að fá lóðir, og að þær séu dýrar. Kerfið í borginni er líka hægvirkt. Í einu tilviki tók um 3 ár að breyta atvinnulóð í íbúðalóð. Það tafði byggingu fjölda íbúða", segir Magnús Árni.
Þá bendir hann á, að síðustu ár hafi um 8000 fleiri flutt til landsins en fluttu frá landinu. Það hafi aftur aukið eftirspurn eftir húsnæði. Jafnframt sé mikil eftirspurn til komin vegna stórra árganga ungs fólks, sem íhugar fasteignakaup. Loks segir í skýrslunni, að miklar verðhækkanir á húsnæði séu varasamar.
"Öfgakenndar sveiflur í íbúðaverði eru ekki æskilegar hvorki út frá lánveitanda né lántaka. Íbúðarkaupandi, sem keypti íbúð árið 2007 með 65 % skuldsetningu sá allt eigið fé sitt brenna upp fyrir skuldaleiðréttingar, en sá, sem keypti í lok árs 2010, jafnvel með 100 % láni (t.d. með eiginfjárframlagi frá aðstandendum), hefur notið eiginfjárávinnings allt til dagsins í dag.""
Þessi lýsing sýnir í hnotskurn, hversu skeinuhættur húsnæðismarkaðurinn getur orðið fjárhag einstaklinga. Hvernig sem kaupin gerast á eyrinni, er um að ræða stærstu einstöku fjárfestingu flestra á ævinni, og þess vegna ríður á fyrir fjárhaginn til lengdar, að traust undirstaða sé fyrir fjárfestinguna. Núna er mýri undir þeirri fjárfestingu, sem getur riðið efnahag fjölskyldna svo á skakkinn, er frá líður,að þær verði enn skuldugar, þegar ellilífeyrisaldri er náð, og slíkt er þungbær baggi að bera inn í ellina.
Stjórnvöld, einkum sveitarstjórnir, bera hér ábyrgð. Þau hafa flest sinnt lóðaundirbúningi með hangandi hendi og voru tekin í bólinu, þegar eftirspurnin jókst og hagkerfið fór á fullan snúning eftir vitlausa vinstri stefnu 2009-2013 við landsstjórnina. Uppsöfnuð þörf á landinu er talin vera 5000 íbúðir og til viðbótar þarf framboð lóða fyrir allar gerðir íbúða, mest 70-110 m2, að svara til árlegs framboðs 2000 íbúða. Þetta þýðir, að byggingariðnaðurinn þarf að framleiða að jafnaði 2500 íbúðir/ár. Það getur hann, fái hann til þess svigrúm. Það hjálpar til, að flestir, sem flúðu land á vinstristjórnar árunum undan atvinnuleysi í þessum geira, eru nú komnir til baka til starfa, enda yfir litlu að voka erlendis.
Þegar hillir undir samdrátt hagkerfisins þurfa sveitarfélögin að hafa rænu á að draga tímabundið úr framboði lóða niður í sem svarar 1000-1500 íbúðum, svo að ekki verði mikið verðfall á markaði vegna mikils framboðs umfram eftirspurn. Eitt af aðalstefnumiðum stjórnvalda hjá ríki og annars staðar á að vera að draga úr hagsveiflum, bæði upp og niður.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.4.2017 | 10:53
Sjávarútvegur í stórsjó
Stjórnendur í sjávarútvegi horfast nú í augu við óhagstæð viðskiptakjör vegna sterkrar krónu, ISK, fremur lágs fiskverðs, að neikvæðum áhrifum hásetaverkfalls ógleymdum, og aukins kostnaðar við mannahald í kjölfar sama tveggja mánaða verkfalls. Að geta ekki sinnt föstum viðskiptavinum um langa hríð tekur tíma að bæta fyrir á erlendum mörkuðum.
Til að létta lundina eru þó fremur jákvæð tíðindi af lífríki hafsins um þessar mundir, sem gefa von um lækkaðan tilkostnað á sóknareiningu og fleiri þorskígildistonn á fiskveiðiárinu 2017/2018 en á yfirstandandi fiskveiðiári. Um þetta segir í Morgunblaðsfrétt, 19. apríl 2017, undir fyrirsögninni:
"Þorskstofninn hefur ekki mælst sterkari":
"Verkefnastjóri [Hafrannsóknarstofnunar í marzralli 2017] var Jón Sólmundsson, fiskifræðingur, og segir hann í samtali við Morgunblaðið, að í heildina séu niðurstöður rallsins jákvæðar. Þær megi einkum þakka góðu ástandi í sjónum við landið, og að skynsamlega sé staðið að veiðum, þar sem byggt er á aflareglu í mörgum tegundum."
Sem kunnugt er hefur aflamark í þorski og fleiri tegundum iðulega frá miðjum 9. áratug síðustu aldar verið skorið stórlega niður með lækkandi stofnvísitölum samkvæmt mælingum og ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar, frá því að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var tekið upp, og á fiskveiðiárinu 2016/2017 er ráðgjöfin enn undir því marki, sem ráðlagt var fyrir 40 árum.
Uppbygging stofnanna hefur kostað langvinnar fórnir, en það er tvímælalaust heillavænlegt að ganga ekki of nærri hrygningarstofnunum með því að beita aflareglu á hverja tegund samkvæmt viðurkenndri vísindalegri þekkingu. Hitt er annað mál, að þessi þekking er enn gloppótt og efla þarf mjög vísindarannsóknir á lífríki hafsins til að skjóta traustari stoðum undir veiðiráðgjöfina. Eyrnamerkja á hluta veiðigjaldanna rannsóknarverkefnum og fjárfestingum í búnaði hjá Hafrannsóknarstofnun, eins og ætlunin var við setningu laga um þessa umdeilanlegu gjaldtöku.
Samkeppnin knýr fyrirtækin til frekari hagræðingar; ekki sízt á tímum minnkandi tekna og lakari framlegðar. Það blasir t.d. við hjá HB Granda að sameina þurfi bolfiskvinnslu í Reykjavík og á Akranesi á einum stað. Nú er lagt upp í Reykjavík og ekið með óunninn fisk þaðan til vinnslu á Akranesi, og tilbúinni vöru er ekið til baka eða til Keflavíkurflugvallar. Þessi akstur bætir ekki gæði vörunnar, er óumhverfisvænn, eykur við mikla vegumferð og er kostnaðarsamur. Þar sem aðstaða fyrir alla starfsemina er ófullnægjandi á Akranesi, en fullnægjandi í Reykjavík, er eðlilegt, að fyrirtækið kjósi að sameina alla starfsemina í Reykjavík.
Akranes er ekki "brothætt byggð", heldur kaupstaður með mikla atvinnustarfsemi og nýtur góðs af mikilli iðnaðarstarfsemi á Grundartanga. Fyrirtæki, sem starfa á frjálsum markaði, verða að hafa svigrúm til þeirrar hagræðingar, sem þau telja gagnast bezt til lengdar starfsemi sinni. Reykjavík, Akranes og Grundartangi eru í raun eitt atvinnusvæði vegna Hvalfjarðarganga, og nú eru jafnvel ferjusiglingar yfir til Reykjavíkur í bígerð.
Ef Faxaflóahafnir ætla að byggja samkeppnishæfa bryggjuaðstöðu á Akranesi til að þjóna HB Granda þar, er fyrirtækið komið með mjög sterka samningsstöðu og getur í raun "deilt og drottnað". Er það ákjósanleg staða fyrir Akranes og Reykjavík ? Hefur málið verið hugsað til enda ?
Morgunblaðið gerði skilmerkilega grein fyrir þessum hagræðingarmálum HB Granda 29. marz 2017 undir fyrirsögnunum:
"Vildu flutning til Akraness 2007" og "Sameina vinnslurnar til að hagræða".
Undir þeirri seinni skrifaði Guðni Einarsson:
"HB Grandi er að setja upp botnfiskvinnslu á Vopnafirði. Vilhjálmur [Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda] sagði það gert til að skapa vinnu allt árið fyrir fólk, sem starfar þar í uppsjávarvinnslu. Stefnt er að því að vinna þar um 700 t af þorski í ár á milli uppsjávarvertíða. Um 40 starfsmenn uppsjávarfiskvinnslunnar munu starfa við botnfiskvinnsluna. Til samanburðar voru unnin um 7300 t af þorski á Akranesi í fyrra.
HB Grandi keypti í haust veiðiheimildir upp á 1600 þít, og verður hluti heimildanna unninn á Vopnafirði. HB Grandi keypti hátt í 4000 t af botnfiski á mörkuðum í fyrra [2016]. Þar af voru rúm 3000 t af ufsa, sem unnin voru í Reykjavík. Félagið ætlar að hætta að kaupa fisk á mörkuðum. Vilhjálmur sagði, að gengju áform félagsins eftir, yrði vinnsla 7300 t flutt frá Akranesi til Reykjavíkur. Heildarvinnslan þar mundi þá aukast úr um 21 kt í 24 kt á ári."
Stefna HB Granda er af þessu að dæma að styrkja tvær vinnslustöðvar í sessi hérlendis; aðra á suðvestur horninu og hina á norðaustur horninu. Það er verið að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækisins með því að auka framleiðnina og framleiðsluna á báðum stöðunum, tryggja virðiskeðjuna frá veiðum til viðskiptavinar í sessi og draga úr áhættu varðandi landshlutatengd áföll og bæta gæðatryggingu vörunnar. Allt rímar þetta vel við heilbrigða skynsemi, og yfirvöld ættu ekki að reyna með yfirlýsingum út í loftið eða skammsýnum aðgerðum að reyna að hafa áhrif á þá óhjákvæmilegu og að mörgu leyti jákvæðu atvinnuþróun, sem hér fer fram.
Þegar stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja standa frammi fyrir eða hafa tekið erfiðar, en að sínum dómi nauðsynlegar ákvarðanir í hagræðingarskyni, þá skal ekki bregðast, að upp hefjist ógeðfelld umræða, oft pólitískt lituð, um sérgæzku og jafnvel mannvonzku þeirra, sem ábyrgðina bera, svo að ekki sé nú minnzt á hinn sígilda blóraböggul þeirra mannvitsbrekkna, sem hér eiga í hlut, fiskveiðistjórnunarkerfið. Þessi umræða minnir að mörgu leyti á löngu úreltan stéttastríðstalsmáta, sem er ekkert annað en innantómt glamur nú á dögum. Þetta varð Gunnari Þórðarsyni, viðskiptafræðingi, að umritunarefni í Fiskifréttum 21. apríl 2017 undir fyrirsögninni,
"Óábyrg umræða":
"Í raun er aðeins verið að benda á þá staðreynd, að með hækkun krónunnar aukast líkurnar á, að fiskvinnslan flytjist úr landi, alla vega ef gengið er út frá því, að íslenzkur sjávarútvegur sé rekinn á markaðslegum forsendum. Hér er engin hótun á ferðinni, heldur aðeins bent á þá staðreynd, að fiskvinnsla verður ekki rekin á landinu, nema hún standist samkeppni við erlenda keppinauta. Ekki er langt síðan óunninn gámafiskur var fluttur til vinnslu í Evrópu í miklu magni, sem hefur nánast verið óþekkt undanfarin ár. Fullvinnsla hefur hins vegar aukizt mikið á Íslandi undanfarin ár, bæði í bolfiski og uppsjávarfiski. Íslenzkur sjávarútvegur hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni og brugðizt við hækkun á innlendum kostnaði með aukinni hagræðingu og tæknivæðingu."
Þarna er drepið á þá gríðarlegu ógn, sem atvinnu og verðmætasköpun í landinu stafar af gengisþróun ISK, sem er um 20 % of há að verðgildi m.v. okkar helztu viðskiptamyntir um þessar mundir. Þetta hágengi vinnur gegn hagsmunum landsins, því að það mun senn svipta fólk atvinnu og kippa stoðunum undan verðmætasköpun. Seðlabankinn og núverandi peningastefnunefnd hafa brugðizt hlutverki sínu, sem er varðveizla peningalegs stöðugleika í bráð og lengd.
Norska krónan, NOK, hefur fallið um helming, 50 %, frá 2014 til 2017 gagnvart ISK, þrátt fyrir miklar gjaldeyristekjur af olíu- og gassölu og varasjóð frá þeim tekjum, sem nemur um miaUSD 800. Hvers vegna er ekki beitt sömu ráðum hér til að stemma stigu við skaðlegum áhrifum mikils gjaldeyrisinnstreymis á íslenzka hagkerfið, þ.e. með því að taka þetta fé tímabundið út úr innlenda hagkerfinu og fjárfesta erlendis þar til slaki eða jafnvel kreppa ógnar því ? Þess í stað hleður Seðlabankinn undir ISK með því að safna gildum gjaldeyrissjóði, sem er honum svo dýrkeyptur, að bankinn er búinn að glutra niður nánast öllu eigin fé sínu.
Evra er augljóslega ekki svarið við þessum erfiðleikum, því að Seðlabanki evrunnar er að berjast við hagkerfissamdrátt, en hér er hagkerfisþensla núna. Þannig er það iðulega, að hagkerfissveifla á Íslandi er í mótfasa við hagkerfissveiflu á meginlandi Evrópu. Íslandi hentar þannig engan veginn að gerast aðili að þessu myntbandalagi. Ekkert okkar helztu viðskiptalanda er á svipuðum stað, þ.e. á toppi hagsveiflunnar, eins og Ísland um þessar mundir. Okkar bezta úrræði er að stjórna efnahagskerfinu og peningamálunum af skynsamlegu viti. Þekking, geta og vilji er það, sem þarf, eins og venjulega. Skussar ráða ekki við viðfangsefni af þessu tagi.
"Stór fyrirtæki, sem ráða yfir allri virðiskeðjunni frá veiðum til heildsölu, munu einfaldlega yfirtaka smærri fyrirtæki, sem ekki hafa borð fyrir báru til að standa undir íþyngjandi skattlagningu. Þetta er í sjálfu sér ekki alvont, þar sem það eykur framleiðni og verðmætasköpun, en rétt, að menn geri sér grein fyrir þessu og láti það ekki koma sér á óvart, þegar það raungerist. Séu þá með áætlun um, hvernig bregðast eigi við t.d. byggðaröskun, sem óumflýjanlega fylgir slíku róti í atvinnugreininni. Það veldur vonbrigðum að heyra sjávarútvegsráðherra hóta hækkun á veiðigjöldum til að neyða sjávarútveginn til að uppfylla það, sem honum finnst vera samfélagsleg ábyrgð. Það er mikilvægt, að ráðamenn geri sér grein fyrir áhrifum veiðigjalda, og hækkun á þeim verður varla gerð í sátt við atvinnugreinina."
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að snarast hefur á merinni, þegar afkoma sjávarútvegsins í ár er borin saman við árið 2015. Vegna mjög afturvirkrar álagningar veiðigjalda og brottfalls tímabundins afsláttar á veiðigjöldum munu útgerðarfélögin þurfa að bera hækkun veiðigjalda á fiskveiðiárinu 2017/2018. Það er brýnt að endurskoða þessa skattheimtu, svo að ekki sé horft lengra aftur í tímann en eitt ár, og að sett verði þak á veiðigjöldin, t.d. 5 % af framlegð og að engin veiðigjöld verði innheimt af fyrirtækjum með framlegð undir 20 % af tekjum. Núverandi skattheimta er flókin, ósanngjörn og meðalhófs er ekki gætt.
Jafnframt þarf auðvitað að samræma álagningu auðlindagjalds af öllum fyrirtækjum, sem nýta náttúruauðlindir, t.d. virkjanafyrirtækin, flutningsfyrirtækið Landsnet, ferðaþjónustan og fiskeldið. Það er hægt að beita samræmdri aðferðarfræði á allar þessar greinar. Spangól sjávarútvegsráðherra um nauðsyn hækkunar á eina þessara greina í einhvers konar refsingarskyni er algerlega út í loftið og sýnir í senn ábyrgðarleysi og getuleysi hennar við að leggja eitthvað uppbyggilegt að mörkum sem ráðherra.
Tækniþróun í flestum greinum atvinnulífsins leiðir til aukinnar afkastagetu og aukinnar sjálfvirkni. Þetta er nú um stundir að stækka og fækka vinnslustöðvum fiskiðnaðarins. Það væri glapræði að reyna að sporna við þessari þróun og ekki gæfulegra en að hverfa aftur í torfkofana. Um þessa þróun skrifaði Gunnar Þórðarson í téðri grein:
"Með nýrri tækni, eins og vatnsskurðarvélum og þjörkum, aukast afköst á manntíma, og þannig mun starfsmönnum og vinnsluhúsum fækka. Slíkri þróun geta þó fylgt mikil tækifæri, þar sem í stað erfiðisvinnu verða til betur launuð tæknistörf. Það ætti að vera forgangsmál hjá sveitarfélögum og launþegahreyfingunni að taka þátt í slíkum breytingum með sjávarútvegsfyrirtækjum og tryggja hlutdeild starfsmanna í aukinni framleiðni í framtíðinni. Það er hin raunverulega samfélagslega ábyrgð, að fyrirtæki, starfsmenn og samfélög leggist á eitt til að viðhalda samkeppnishæfni og verðmætasköpun í íslenzkum sjávarútvegi til framtíðar. Að taka þátt í þróuninni og hafa áhrif á hana á jákvæðan hátt er einmitt samfélagsleg ábyrgð."
Það er hægt að taka heils hugar undir þessa þörfu hugvekju Gunnars Þórðarsonar, og ályktun hans um hvað felst í samfélagslegri ábyrgð á fullan rétt á sér. Hið sama á við um flestar atvinnugreinar og sjávarútveginn, að þær auka framleiðni sína með sjálfvirknivæðingu. Þetta er þeim einfaldlega nauðsyn til að standast samkeppnina. Það er óviturlegt af sveitarfélögum og launþegafélögum að reyna að stöðva "tímans þunga nið". Mun gæfulegra er, eins og téður Gunnar bendir á, að vinna með fyrirtækjunum að þessari þróun sjálfum sér og umbjóðendum sínum til hagsbóta. Á stéttabaráttuvindgangi tapa allir, en græða að sama skapi á stéttasamvinnu. Það er líka eðlilegt og almenningi til hagsbóta, að sveitarfélög keppi upp að vissu marki um hylli fyrirtækja og fólks, t.d. með góðri fjármálastjórnun.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.4.2017 | 13:48
Skólakerfi í úlfakreppu
Í fersku minni er slök og versnandi frammistaða íslenzkra 15 ára nemenda á 6. PISA (Programme for International Student Assessment) prófunum árið 2015. Ætlunin með þessum prófum er að veita skólayfirvöldum í hverju landi innsýn í árangur grunnskólastarfsins með alþjóðlegum samanburði.
Ekkert hefur þó enn verið látið uppskátt um úrbótaviðleitni íslenzkra yfirvalda og legið er á upplýsingum um frammistöðu einstakra skóla sem ormur á gulli. Þessi fælni við að horfast í augu við vandann og doði í stað þess að ganga til skipulegra úrbóta er einkennandi fyrir þrúgandi miðstýringu og fordóma gagnvart einkaframtaki í þessum geira og reyndar fleiri. Samkeppni er þó einn þeirra hvata, sem bætt geta árangur skólanna. Er keppnisandi ekki hluti af manneðlinu og þar af leiðandi öfugsnúið að forðast hann ? Það vantar nýja stefnumörkun í skólamálin til að snúa af þeirri óheillabraut, sem PISA-prófin 2015 sýndu, að íslenzkir grunnskólar eru á. Vandi grunnskólanna flyzt auðvitað með nemendunum upp í framhaldsskólana eða út í þjóðlífið. Það er í verkahring nýs mennta- og menningarmálaráðherra að hafa forgöngu um stefnumörkun í menntakerfinu, sem hafi að markmiði bættan árangur eigi síðar en 2021.
Framkvæmd grunnskólastarfs er í verkahring sveitarfélaganna, en ríkisvaldið samræmir starfið með Aðalnámskrá, sem öllum ber að fara eftir. Hvernig skyldi nú vera staðið að skólamálum í stærsta sveitarfélaginu, Reykjavík, sem oft á árum áður gaf tóninn, en er nú orðin eftirbátur annarra sveitarfélaga í mörgu tilliti ? Um það skrifar Áslaug María Friðriksdóttir í Morgunblaðsgreininni:
"Þreyttar áætlanir og lævís leikur", þann 22. apríl 2017:
"Gott samfélag býr að góðu menntakerfi. Matið er einfalt. Gott menntakerfi er samanburðarhæft við menntakerfi annarra ríkja [þ.e. stenzt samjöfnuð-innsk. BJo]. Árangur íslenzkra nemenda í lesskilningi og læsi á stærðfræði og náttúrufræði hefur hins vegar versnað síðastliðinn áratug og er verri en í samanburðarlöndum okkar. Um þetta er enginn ágreiningur. Því hefði mátt halda, að helzta áherzla meirihluta borgarinnar yrði að líta á málið sem algjört forgangsmál og leggja allt á vogarskálarnar [rangt orðalag, ef átt er við að leggja allt í sölurnar-innsk. BJo] til að gera betur. Því miður blasir annað við.
Að skerða fjármagn til skólanna hefur verið helzt á dagskrá meirihlutans. Skólastjórnendur hafa þurft að standa í karpi og mikilli baráttu við að fá skilning um, að ekki sé hægt að ná meiri árangri með slíkum hætti. Hvergi hefur orðið vart við, að skólafólk fái hvatningu til að vinna að breytingum til að mæta slökum árangri. Meirihlutinn hefur einnig staðið í vegi fyrir, að upplýsingum um árangur verði miðlað á þann hátt til skólanna, svo að þeir geti notað þær til að efla eigið starf.
Ljóst er, að hér verður að gera betur. Vinna verður að því að fá fram breytingar á kennsluháttum og breytingar á aðbúnaði. Menntastofnanir verða fyrst og fremst að geta sinnt kennsluhlutverki sínu. Nauðsynlegt er að skýra línurnar og verja menntaþáttinn."
Hér er kveðinn upp þungur áfellisdómur yfir viðbrögðum borgaryfirvalda við niðurstöðum PISA 2015. Ljóst er, að annaðhvort skilja borgaryfirvöld ekki til hvers PISA er eða þau nenna ekki að fara í nauðsynlega greiningarvinnu og úrbótaverkefni í kjölfarið. Ríkjandi meirihluta vantar sem sagt hæfileika til að veita leiðsögn í þessu máli. Borgaryfirvöld eru stungin svefnþorni, þau eru ófær um að veita nokkra vitræna forystu. Stjórnendur af þessu tagi eru á rangri hillu og eiga skilda falleinkunn fyrir frammistöðu sína, sem jafngildir brottrekstri úr starfi eigi síðar en við næstu borgarstjórnarkosningar.
Það er nauðsynlegt að fylgjast með því, hvað í ósköpunum fer fram í skólastofunum og gefur svo slakan námsárangur sem raun ber vitni um. Af lauslegum viðræðum blekbónda við 15 ára nemendur virðist honum, að þekkingarstig þeirra komist ekki í samjöfnuð við þekkingarstig jafnaldra nemenda, sem þreyttu og náðu Landsprófi á sinni tíð, en það var þá inntökupróf í menntaskóla. Þetta er aðeins óformleg og lausleg athugun, sem e.t.v. veitir vísbendingu, og þekking 15 ára nemenda nú og fyrir hálfri öld er jafnvel ekki sambærileg. Í hvað fer tími nemenda nú um stundir ?
Það þarf að beina sjónum að kennurunum, menntun þeirra og færni, og veita þeim umbun fyrir árangur í starfi, sem er að vissu marki mælanlegur sem einkunnir nemenda þeirra. Standa kennarasamtökin e.t.v. gegn aðgerðum, sem bætt gætu árangur nemenda, ef hægt er að kenna slíkar aðgerðir við samkeppni á milli kennara ? Hvers vegna er heilbrigð samkeppni á milli nemenda, kennara og skóla eitur í beinum sumra kennara og jafnvel stéttarfélagsins ? Er ekki tímabært að losa sig við fordóma, sem standa skjólstæðingum kennara og hag kennara fyrir þrifum ? Til að virðing kennara á Íslandi komist í samjöfnuð við virðingu stéttarsystkina þeirra í Finnlandi, sem hafa náð góðum árangri með nemendur sína á PISA, þarf mælanlegur árangur íslenzkra kennara að batna til muna.
Það vantar ekki fé í málaflokkinn, því að samkvæmt OECD batnar árangur óverulega við að setja meira en nemur 50 kUSD/nemanda alla hans grunnskólatíð í skólastarfið, að teknu tilliti til kaupgetu í hverju landi (purchasing power parity 2013), og hérlendis er varið mun hærri upphæð á hvern grunnskólanemanda. Það, sem vantar, er skilvirkni, mælanlegur árangur fjárfestingar í þekkingu ungviðisins.
Bretland, Bandaríkin, Austurríki, Noregur, Sviss og Lúxemborg vörðu meira en tvöfaldri þessari upphæð samkvæmt athugun OECD árið 2013 í kennslu hvers nemanda, en nemendur þeirra náðu þó aðeins miðlungsárangri, um 490 stigum, á PISA 2015. Íslenzkir nemendur voru undir þessu meðaltali í öllum prófgreinum, og árangur þeirra fer enn versnandi. Þetta er svo hraklegur árangur, að furðu má gegna, hversu lítil og ómarkviss viðbrögðin urðu. Það er pottur brotinn í grunnskólanum, og það er einfaldlega ekki í boði að stinga hausnum í sandinn gagnvart vandamálinu, því að framtíð landsins er í húfi. Vendipunktur þarf að verða nú þegar, en mælanlegra framfara er þó ekki að vænta fyrr en 2021.
Góður efnahagur og meiri jöfnuður hérlendis en í öllum 72 löndum þeirra 540´000 þúsund nemenda, sem þreyta PISA-þrautirnar, gera að verkum, að lélegur árangur Íslands á PISA er með öllu óeðlilegur. Í OECD eru "fátækir" nemendur nærri þrisvar sinnum líklegri en nemendur í góðum efnum til að búa yfir minna en grunnfærni í raungreinum (science). Nemendur, hverra foreldrar eru fæddir erlendis, koma jafnvel enn verr út. Engu að síður eru 29 % fátækra barna á meðal 25 % hæstu nemendanna innan OECD. Í Singapúr, Japan og Eistlandi, sem öll fengu yfir 525 stig árið 2015 og eru jafnan á meðal hinna beztu, er nálægt 50 % fátækra nemenda í efsta kvartili stiga (meðaleinkunnar). Í þessu er fólginn hinn mikli og æskilegi þjóðfélagsjöfnunarkraftur skólakerfisins, þar sem hæfileikar fá að njóta sín án tillits til efnahags, en með dyntóttri doðastefnu sinni eru skólayfirvöld á Íslandi mest að bregðast þeim skjólstæðingum sínum, sem sízt mega við slíku. Viðkomandi starfsmenn bregðast þá jafnframt hlutverki sínu. Menntamálaráðherra verður að beita valdi sínu og beita áhrifavaldi, þar sem boðvald skortir. Annars lendir hann í súpunni.
Framhaldsskólarnir eru háðir fjárframlögum ríkisins. Rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, segir farir sínar ekki sléttar í baráttunni um hlutdeild í ríkisútgjöldum í grein í Fréttablaðinu 12. apríl 2017:
"Fjárfestum í framtíðinni:
"Það er óumdeilt meðal framsýnna ríkja í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu, að opinber fjárfesting í menntun, rannsóknum og nýsköpun, hefur bein áhrif á framleiðni, hagvöxt og ný störf. Þannig er í nýrri skýrslu Evrópusambandsins fullyrt, að rekja megi 2/3 hagvaxtar í Evrópu á tímabilinu 1995-2003 til þekkingarsköpunar, en áhrifin voru mest í Bretlandi (50 %) og Finnlandi (40 %) og minnst (innan við 10 %) í löndum á borð við Ungverjaland, Grikkland og Slóveníu. Tölurnar tala skýru máli: opinber fjárfesting í menntun og rannsóknum er fjárfesting í samkeppnishæfni og farsæld til framtíðar."
Það er tvennt, sem ekki er skýrt í þessum texta rektors. Annað er, hvernig 2/3 (67 %) hagvaxtar í ESB á tilteknu tímabili geti átt rætur að rekja til "þekkingarsköpunar", ef mestu áhrifin í einu landi voru 50 % ? Hitt er, hvers vegna þessi áhrif eru bundin við opinberar fjárfestingar ? Einkafjárfestingar eru venjulega hnitmiðaðri, markvissari og árangursríkari í krónum mældar. Um meginniðurstöðu rektors þarf þó ekki að deila.
Háskóli Íslands er búinn að dreifa kröftunum mjög með ærnum tilkostnaði og má nefna doktorsnám í nokkrum greinum sem dæmi. Honum væri nær á tímum aðhaldsþarfar að einbeita kröftunum að nokkrum greinum á borð við verkfræði, þar sem mjög mikið vantar upp á aðstöðu til verklegrar þjálfunar, t.d. í rafmagnsverkfræði, læknisfræði í samstarfi við Háskólasjúkrahúsið, lögfræði, sem sniðin er að íslenzkri löggjöf og íslenzk fræði og fornbókmenntir, sem hvergi er eðlilegra að rannsaka en hér. Í íslenzkum fræðum er óplægður akur innan háskólasamfélagsins að rannsaka, hvernig íslenzkar bókmenntir spruttu upp af hinum gelíska arfi landnámsmanna, og hvernig gelísk orð voru felld inn í íslenzkuna. Hvers vegna er verið að festa fé í monthúsi á borð við hús tungumálanna á undan góðum tilraunasölum á sviði verkfræði eða Húsi íslenzkra fræða, sem vinstri stjórnin skyldi við sem forarpytt ?
Grein háskólarektors er rituð til að brýna stjórnvöld til að breyta 5 ára fjármálaáætlun ríkisins þannig, að fjárveitingar úr ríkissjóði nái meðaltali OECD. Slíkt er verðugt markmið í lok áætlunartímabilsins, en stúdentar hér eru margir á hvern íbúa landsins. E.t.v. væri ráð að setja á hófleg skólagjöld, t.d. 100 kISK/önn ofan á innritunargjöld, samhliða styrkjakerfi lánasjóðsins á móti, sem tengt væri árangri í námi, til að bæta úr brýnasta fjárhagsvanda skólans.
Það er einfaldlega svo, að mjög mikil fjárfestingarþörf er í öllum innviðum landsins núna eftir óþarflega langdregna efnahagslægð vegna rangra stjórnarhátta í kjölfar hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, sem Íslendingar voru berskjaldaðir fyrir vegna oflátungslegrar hegðunar, sem aldrei má endurtaka sig. Á sama tíma ber brýna nauðsyn til að greiða hratt niður skuldir ríkissjóðs til að spara skattgreiðendum óhóflegan vaxtakostnað, auka mótlætaþol ríkisins í næstu kreppu og hækka skuldhæfiseinkunn ríkisins, sem lækka mun vaxtaálag í öllu hagkerfinu. Kostnaðarbyrði fyrirtækja og einstaklinga áf völdum skattheimtu er nú þegar mjög há á mælikvarða OECD og litlu munar, að stíflur bresti og kostnaðarhækkanir flæði út í verðlagið. Skattahækkanir eru þess vegna ekki fær leið. Gríðarlegar raunhækkanir útgjalda ríkisins þessi misserin skjóta skökku við í þensluástandi, eins og nú ríkir, þannig að rekstrarafgangur ríkissjóðs þyrfti helzt að vera þrefaldur á við áætlaðan afgang til að treysta fjármálastöðugleikann.
Rektor Háskóla Íslands verður að laga útgjöld skólans að tekjum hans á þrengingaskeiði, sem að óbreyttu mun standa í 2-3 ár enn. Þetta verður hann að gera í samráði við menntamálaráðuneytið, eins og aðrir ríkisforstjórar verða að gera í samráði við sitt ráðuneyti. Að æpa í fjölmiðlum á hærri peningaútlát úr ríkissjóði en rétt kjörin stjórnvöld hafa ákveðið og Alþingi hefur staðfest, verður þeim sízt til sóma. Ríkisstofnunum, eins og einkafyrirtækjum og einstaklingum, gagnast fjármálalegur stöðugleiki betur en há verðbólga.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.4.2017 | 10:04
Skipulagsmál í skötulíki
Ástand húsnæðismarkaðarins hérlendis er til skammar, því að um sjálfskaparvíti mistækra og sérlundaðra stjórnmálamanna í höfuðborginni er að ræða að mestu leyti. Þetta sjálfskaparvíti hefur margvíslegar afleiðingar. Verst kemur gegndarlaus hækkun húsnæðisverðs niður á kaupendum fyrstu íbúðar, en einnig vega hækkanirnar inn í verðlagsvísitölur, sem er skaðræði í landi verðtryggingar.
Um alvarlegar afleiðingar hás íbúðaverðs skrifaði Sigurður Ingólfsson, framkvæmdastjóri Hannars ehf í Morgunblaðið 23. marz 2017:
"Komum skikki á byggingarmálin":
"Þegar við höfum hrakið unga fólkið okkar úr landi með því stjórnleysi í húsnæðismálum, sem hér er lýst, þá skulum við ekki reikna með, að nema hluti þess komi til baka. Á nokkrum árum fækkar þannig unga, vel menntaða fólkinu okkar, á meðan þjóðin eldist. Hver á þá að halda þjóðfélaginu uppi ?"
Stjórnvöld hafa brugðizt þeirri skyldu sinni að hafa nóg framboð lóða af fjölbreytilegu tagi á boðstólum og að gera byggingarreglugerð og byggingarskilmála þannig úr garði, að húsbyggjendum sé kleift að reisa ódýr hús, þótt vönduð séu. Hvað þetta varðar er mikill munur á sveitarfélögum, og það er alveg ljóst, sveitarfélög, sem sósíalistar stjórna, eru miklir eftirbátar hinna, sem stjórnað er af borgaralega sinnuðu fólki. Sósíalistum er síður en svo umhugað um, að ungt fólk eignist húsnæði, heldur snýst hugmyndafræði þeirra um, að fólk búi í leiguhúsnæði alla sína tíð. Af þessum sökum er nægt framboð ódýrra lóða eitur í beinum sósíalista, og þess vegna vilja þeir ekki sjá yfir 10 þúsund íbúðir í Úlfarsárdal.
Um samanburð sveitarfélaga segir byggingaverktaki í viðtali við Baldur Arnarson í Morgunblaðinu 19. apríl 2017:
"Minni kvaðir lækka íbúðaverð:
"Þorvaldur Gissurarson, forstjóri verktakafyrirtækisins ÞG Verks, áætlar, að vegna áðurnefndra breytinga á reglugerðinni, lægra lóðaverðs og sveigjanlegri skipulagsskilmála verði fermetraverð nýrra íbúða á Selfossi allt að 30 % lægra en í nýju fjölbýli í úthverfum á höfuðborgarsvæðinu. Lægra lóðaverð vegi þungt í þessu samhengi."
Að sveitarfélag geri sig sekt um slík reginmistök í skipulagsmálum að leggja höfuðáherzlu á fyrirbærið "þétting byggðar" er höfuðsynd í þessu sambandi og er orðið húsbyggjendum og íbúðakaupendum gríðarlega dýrt; það er nokkuð, sem þeir og aðrir kjósendur þurfa að kvitta fyrir í næstu kosningum. Um þetta skrifar Sigurður Ingólfsson í téðri grein:
"Það sést vel, að byggingarkostnaður og verð fasteigna fara illa saman. Þar kemur auðvitað margt til, og er lóðarkostnaður og lóðaframboð stór þáttur í þeirri þróun. Þegar lítið framboð er af lóðum, er lítið byggt, og þá hækkar eftirspurnin verð fasteigna, eins og nú gerist. Þegar þar við bætist, að höfuðáherzlan er lögð á dýrar lóðir, sem er afleiðing þéttingar byggðar, þá hækkar verðið enn frekar.
Lausleg skoðun á söluverði fasteigna á mismunandi stöðum í Reykjavík sýnir, að þar sem þétting byggðar stendur aðallega yfir, er fasteignaverðið 40 %- 50 % hærra en t.d. í Úlfarsárdal (úthverfi) og er jafnvel 90 % - 100 % hærra, eins og við Laugaveg.
Sé gengið út frá, að byggingarkostnaðurinn sjálfur sé svipaður á þessum stöðum, þá er niðurstaðan, að lóðarkostnaðurinn sé um 13 % af verði fjölbýlishúss í úthverfi, um 38 % á þéttingarsvæðum í Reykjavík og um 55 % við Laugaveginn.
Hefði Reykjavíkurborg þannig úthlutað lóðum fyrir 4000 íbúðir, 75 m2 að stærð, í Úlfarsárdal, hefði það sparað kaupendum þeirra 48 milljarða króna í heild og borgin haft um leið tekjur af þeim upp á 15,3 milljarða króna. Hver íbúð hefði kostað um 30 milljónir kr á verðlagi nú, sem hefði vafalaust lækkað enn frekar við mikið framboð íbúða.
Á framangreindum tölum sést, að það er um 30 % ódýrara að kaupa íbúð í úthverfi höfuðborgarsvæðisins en á þéttingarsvæðunum. Það eru meira en 10 milljónir kr miðað við 75 m2 íbúð (nettó). Þetta er ríflega sú upphæð, sem rætt er um, að ungt fólk þurfi til að festa sér íbúð. Er ekki kominn tími til að fara að stjórna þessum málaflokki ?"
Þetta er einn samfelldur áfellisdómur yfir stjórnun skipulagsmálanna í Reykjavík á undanförnum árum, a.m.k. 2 kjörtímabil, og löngu er orðið tímabært, að Reykvíkingar hristi af sér þá óværu, sem nú situr í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur og stjórnar þar af fádæma þröngsýni, þekkingarleysi á hagsmunum borgarbúa og hreinræktaðri afdalamennsku, með fullri virðingu fyrir íbúum í afskekktum dölum. Nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga er reynt að bregða yfir úlfinn sauðargæru háfleygra byggingaráforma, en slíkt eru orðin tóm, því að stefnan er löngu mörkuð til vinstri.
Þessi fáránlega tilhögun skipulagsmála höfuðborgarinnar hefur hækkunaráhrif á íbúðarhúsnæði langt út fyrir mörk Reykjavíkur og á verðlagsvísitöluna í landinu. Þeir, sem hyggja á flótta undan hárri húsaleigu eða byggingarkostnaði ættu þó að hugsa sig um tvisvar áður en þeir halda í húsnæðisleit og þar með í atvinnuleit til útlanda, a.m.k. til Norðurlandanna, því að þar hefur verðlag á húsnæðismarkaði hækkað gríðarlega á undanförnum árum, aðallega vegna lágra vaxta, sem magna upp eftirspurnina. Á Norðurlöndunum eru lágir vextir til að stemma stigu við fjármagnsflótta frá evru-svæðinu, sem hækkaði verðgildi mynta Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, svo að Seðlabankar þessara landa sáu sér þann kost vænstan að lækka stýrivextina niður að núlli og jafnvel undir það. Hinir seinheppnu vistmenn á Svörtuloftum eru þó hvergi bangnir, þótt samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna hér hrynji vegna gengis, sem er a.m.k. 20 % of hátt m.v. kostnaðarstigið í landinu, sem enn mun hækka hjá flestum fyrirtækjum nú í maí-júní.
Í Viðskiptablaðinu 23. marz 2017 var úttekt á húsnæðiskostnaði Norðurlandanna eftir Snorra Pál Gunnarsson:
"Norræna tálsýnin" Þar sagði m.a.:
"Þótt gæta verði að mörgu í þessum samanburði, fer því fjarri, að hægt sé að halda því fram með rökum, að grasið sé grænna [á] meðal frændþjóða okkar og auðveldara að koma sér [þar] þaki yfir höfuðið. Þvert á móti gætu Íslendingar búið við lakari og áhættumeiri kjör á norrænum fasteignamarkaði en hér á landi."
Það er ekki aðeins aukin spurn eftir húsnæði vegna lágra vaxta, sem hækkað hefur íbúðaverðið meira í Svíþjóð og Noregi en á Íslandi og svipað í Danmörku, heldur einnig landleysi, sem tekið er að hrjá sum sveitarfélög þar, eins og t.d. Seltjarnarnes og Kópavog á Íslandi. Snorri Páll gerir nánari grein fyrir hækkununum þannig:
"Undir lok síðasta árs [2016] var húsnæðisverð hlutfallslega hæst í Svíþjóð og tæplega helmingi [50 %] hærra en á Íslandi. Næst kom Noregur, þar sem húsnæðisverð var um 27 % hærra en hér á landi, en húsnæðisverð í Svíþjóð og Noregi er í sögulegu hámarki um þessar mundir. Ísland og Danmörk koma þar á eftir með svipuð húsnæðisverð. Loks er húsnæðisverð lægst í Finnlandi, sem er að ákveðnu leyti sér á báti, hvað varðar verðþróun á húsnæðismarkaði, en þar hefur húsnæðisverð verið nokkuð stöðugt síðan 2011."
Til að sýna "húsnæðisbóluna" á Norðurlöndunum skal hér tilgreina fermetraverð í 10 þekktum borgum á Norðurlöndunum. Verð eru í MISK/m2:
- Stokkhólmur: 1,10
- Ósló: 0,92
- Helsingfors 0,76
- Gautaborg 0,70
- Þrándheimur 0,62
- Kaupmannahöfn 0,60
- Björgvin 0,58
- Reykjavík 0,48
- Árósar 0,46
- Málmhaugar 0,38
Það, sem skiptir kaupandann höfuðmáli, er árleg greiðslubyrði hans af hverjum fermetra. Snorri Páll gerir þannig grein fyrir henni:
"Greiðslubyrði af 100 m2 húsnæði í Ósló, sem kostar að meðaltali um MISK 92,3 með 75 % láni hjá DNB með jöfnum greiðslum til 25 ára á 2,55 % breytilegum vöxtum, er tæplega 314 kISK/mán. Hjá Nordea í Svíþjóð er greiðslubyrðin af 100 m2 íbúð í Stokkhólmi, sem kostar að meðaltali um MISK 111 með 75 % láni til 25 ára á 2,04 % vöxtum, um 356 kISK/mán. Hjá íslenzkum banka er greiðslubyrðin af slíkri íbúð í Reykjavík með 75 % láni hins vegar um 255 kISK/mán samkvæmt reiknivélum bankanna, sem er svipað og í Danmörku. Greiðslubyrðin á verðtryggðum íbúðalánum, sem eru um 80 % af húsnæðislánum í landinu, er jafnvel enn lægri, og þar að auki bjóða lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður lægri vexti en viðskiptabankarnir."
Greiðslubyrði íbúðalána er sem sagt hærri á Norðurlöndunum en hérlendis, og hún er jafnframt þungbærari sem hærra hlutfall ráðstöfunartekna en hér. Ekki nóg með það, heldur er áhætta lántakenda meiri á hinum Norðurlöndunum, því að fyrr eða síðar munu vextir þar hækka, og þá mun íbúðaverð lækka aftur. Til að ná sögulegu meðaltali þurfa vextir u.þ.b. að tvöfaldast, svo að væntanlegar vaxtahækkanir á hinum Norðurlöndunum munu verða verulegar. Þá mun eftirspurnin falla og verðið lækka.
Þeir, sem þá þurfa að selja, munu verða fyrir fjárhagslegu tapi, sem getur leitt til eignamissis, jafnvel gjaldþrots. Hvernig í ósköpunum stendur á því, að jafnaðarmenn á Íslandi klifa stöðugt á Norðurlöndunum sem hinni miklu fyrirmynd Íslendinga á öllum sviðum ? Þeir, sem til þekkja, vita vel, að Norðurlöndin standa frammi fyrir miklum efnahagsvanda vegna mikils ríkisbúskapar, hárra skatta, mikilla skulda og lítillar framleiðniaukningar. Samkeppnishæfni þeirra er af þessum sökum ógnað.
Þótt verðlag á húsnæðismarkaði sé svipað eða hærra á hinum Norðurlöndunum en hér, er það engin afsökun fyrir allt of háu verðlagi á húsnæðismarkaði hér í landi hárra vaxta og yfirleitt nægs landrýmis. Það hlýtur að verða eitt af kosningamálum komandi sveitarstjórnarkosninga til hvaða aðgerða stjórnmálamenn ætla að grípa til að lækka íbúðaverð og þar með leiguverð með raunhæfum hætti. Eitt er víst, að í þá umræðu eru ákafir talsmenn þéttingar byggðar ekki gjaldgengir.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2017 | 10:07
Hagkerfi í örum vexti og vaxtarbroddur
Vöxtur þjóðarútgjalda 2016 nam 8,7 % að raungildi, en vergrar landsframleiðslu (VLF) um 7,2 %, og var sú aukning hin mesta innan OECD á árinu og meiri en í Kína.
Það eru stórtíðindi, að eitt Vesturlanda skuli skjóta "asísku tígrisdýrunum" aftur fyrir sig, en Indland gefur að vísu upp meiri hagvöxt, 7,5 %.
Einkaneyzla jókst um 6,9 %, en var samt í hlutfallslegu sögulegu lágmarki eða aðeins 49 % af VLF. Þetta vitnar um framleiðsludrifið hagkerfi, enda var niðurstaða utanríkisviðskiptanna jákvæð um tæplega miaISK 160 eða rúmlega 6 % af VLF. Aðeins Þjóðverjar geta státað af álíka miklum viðskiptaafgangi (hlutfallslegum) og eru öfundaðir af innan ESB og víðar.
Fjárfestingar eru nú í sögulegu hámarki, og eftir 23 % aukningu þeirra í fyrra frá 2015 eru þær nú í sögulegu meðaltali sem hlutfall af VLF, eða 21 % (rúmlega miaISK 500).
Ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar hafa í heildina séð á sama tíma lækkað skuldir sínar, og nú er svo komið, að segja má, að Íslendingar séu orðnir lánveitendur í heiminum fremur en skuldarar, því að erlendar eignir þjóðarbúsins námu í árslok 2016 miaISK 3´837, en erlendar skuldir miaISK 3´811. Markverður vendipunktur, sem vafalaust hafði áhrif á lánshæfismatsfyrirtækin, sem hækkuðu eða eru að íhuga hækkun á lánshæfismati ríkissjóðs. Slíkt verður í askana látið.
Þessi jákvæða þróun þjóðarbúsins er auðvitað borin uppi af öflugum útflutningsatvinnuvegum, iðnaði með hækkandi afurðaverði, sjávarútvegi með hærra afurðaverði en keppinautanna og feiknarlegum flaumi erlendra ferðamanna, sem þó kann að verða eitthvert lát á vegna kostnaðar. Norðmenn hafa t.d. mátt horfa upp á yfir 40 % lækkun NOK gagnvart ISK á 3 árum. Það er merkilegt, að "stöðugleikasjóður" upp á miaUSD 900 hefur ekki dugað til að hamla meira en þetta gegn lækkun gengis norsku krónunnar. Að baki því er sorgarsaga, sem vert væri að gera góð skil.
Vöruskiptajöfnuður Íslands var hins vegar óhagstæður, og það er hægt að bæta úr því með því að leysa dísilolíu, flotaolíu og benzín af hólmi með innlendum orkugjöfum fyrir 2050 og með því að skjóta varanlegum stoðum undir mesta vaxtarbrodd vöruútflutnings núna, fiskeldið. Ef útflutningur laxeldisfyrirtækjanna á Vestfjörðum og Austfjörðum verður aukinn í 100 kt/ár, sem talið er raunhæft upp úr 2030, þá mundu útflutningstekjur af því aukast um a.m.k. 100 miaISK/ár að núvirði.
Dregið hefur verið dám af orðinu landbúnaður og af því myndað nýyrðið strandbúnaður, sem Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri hjá Matís, skilgreinir þannig í greininni "Strandbúnaður 2017" í Morgunblaðinu 13. marz 2017:
"Strandbúnaður er samheiti yfir atvinnugreinar, sem tengjast nýtingu land- og/eða sjávargæða í og við strandlengju landsins, hvort sem um ræktun eða eldi er að ræða."
Það er engum blöðum um það að fletta, þegar litið er til nágrannalandanna, Noregs, Færeyja og Skotlands, að strandbúnaði á eftir að vaxa fiskur um hrygg við Íslandsstrendur og að þar er víða við Ísland um vannýtta auðlind að ræða. Markaðurinn er tvímælalaust fyrir hendi, og um það skrifar Arnljótur Bjarki í umræddri grein:
"Um alllangt skeið hafa innan við 5 % af heildar matvælaframleiðslu heimsins komið úr höfum og vötnum, þó svo að þau þeki um 70 % af yfirborði jarðarinnar. Æ fleiri beina nú sjónum sínum að þessari staðreynd, því að líklegt er, að nokkur hluti fyrirsjáanlegrar aukningar matvælaframleiðslu heimsins fari fram við strendur og úti fyrir ströndum meginlanda sem og eyríkja. Landbúnaður er fyrirferðarmikill í matvælaframleiðslu heimsins og margfalt umfangsmeiri en veiðar eða nytjar villtra fiskistofna."
Við þetta má bæta, að eldisfiskur mun í tonnum talinn vera svipaður og sjávarafli, en arðsemin er margföld í eldinu á við sjávarútveg. Ein efnilegasta grein strandbúnaðar á Íslandi er laxeldi. Ætla má, að framlegð þess hérlendis sé um 50 % af söluandvirði afurðanna. Þetta er um tvöföld framlegð sjávarútvegs hérlendis. Á rekstrarhlið stafar mismunurinn að mestu af orkukostnaði, veiðarfærakostnaði og launakostnaði útgerðanna, sem eðlilega er mun hærri en orku- og launakostnaður við strandeldið, en á móti kemur auðvitað fóðurkostnaðurinn. Fóðrið verður sennilega hægt að framleiða allt hérlendis, t.d. sem repjumjöl, svo að gjaldeyrisútlát vegna fóðurs verða lítil.
Á tekjuhlið er enn meiri munur á laxeldi og sjávarútvegi, sem sýnir auðvitað mikla framtíðarmöguleika við markaðssetningu villtra sjávarafurða. Laxeldisfyrirtækin hérlendis eru að fá um 1000 ISK/kg og þar á bæ er talið, að framtíðin lofi góðu um raunverðhækkanir á umhverfisvottaðri vöru frá Íslandi vegna vaxandi eftirspurnar.
Í Morgunblaðinu 9. marz 2017 er viðtal Þórodds Bjarnasonar við Kjartan Ólafsson, stjórnarformann laxeldisfyrirtækisins Arnarlax, undir fyrirsögninni:
"Skattspor Arnarlax um 616 milljónir króna":
"Skattspor Arnarlax skiptist þannig, að skattar starfsmanna, sem voru að meðaltali 118 á síðasta ári (2016), voru MISK 377, framlög í lífeyrissjóði námu MISK 124, aðflutningsgjöld voru MISK 18, gjald í umhverfissjóð var MISK 30, afla- og hafnargjöld voru MISK 48, og önnur gjöld voru MISK 19."
Hér ræðir um arðbæra starfsemi, sem framleiddi um 6 kt af sláturlaxi 2016 og stefnir á tvöföldun 2017. Veltan var líklega um miaISK 6,0, svo að skattsporið var rúmlega 10 % af söluandvirðinu. Þetta er ekki ýkja hátt í samanburði við t.d. sjávarútveginn, og ástæðan er há framlegð.
Með því að leggja þessa framlegð, sem blekbóndi áætlar um 50 % af söluandvirði afurðanna, til grundvallar, má leggja mat á verðmæti strandaðstöðunnar, sem er náttúruauðlind.
Fyrir hvert tonn er þá árleg framlegð MISK 0,5. Sé hún lögð saman fyrir næstu 25 ár og núvirt með 9,0 %/ár vöxtum, fást núvirt verðmæti aðstöðunnar:
C = 0,5 x 9,8 MISK = 4,9 MISK/t
Eðlilegt er, að handhafar starfsleyfis til að nýta þessa auðlind greiði sambærilegt árlegt gjald og handhafar vatnsréttinda vegna virkjunar munu að öllum líkindum greiða sem fasteignagjald til viðkomandi sveitarfélaga, 0,5 % af metnum verðmætum:
FG = 0,5 %/ár x 4,9 MISK/t = 0,025 MISK/ár per tonn.
Þetta er 5,0 % af árlegri framlegð, sem ekki er unnt að telja íþyngjandi auðlindargjald og er mun lægra hlutfall en sjávarútvegurinn hefur mátt sæta undanfarið. Mál er, að allir með nýtingarrétt á náttúruauðlindum sitji við sama borð. Til þess þarf atbeina löggjafans.
Nú virðist þjónustugjald vegna leyfisveitinga í greininni vera G=30 MISK/6000 t= 0,005 MISK/t, sem er aðeins 1/5 af því, sem eðlilegt getur talizt. Það er þess vegna brýnt að setja samræmdar reglur um auðlindagjaldið, sem þá skiptist á milli sveitarfélaganna og þjónustu- og eftirlitsstofnananna og komi í stað gjalds í umhverfissjóð og leyfisgjalda.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2017 | 10:33
Seðlabanki í sálarháska
Stjórnarhættir Seðlabanka Íslands hafa um hríð sætt meira ámæli en títt er. Mætti stundum halda, að sjálfur Trotzki sæti við stjórnvölinn undir Svörtu loftum, en ekki lærisveinn Ólafs Ragnars Grímssonar, hagfræðingurinn Már Guðmundsson.
Einræðis- og forræðistilburðir Seðlabankans hafa t.d. birzt í því, hvernig hann hefur gegnt eftirlitshlutverki sínu með framfylgd gjaldeyrislaganna, sem lögðu höft á viðskipti landsmanna með erlendan gjaldeyri, en hafa nú seint og um síðir verið afnumin.
Undir Svörtu loftum hefur Parkinsons-lögmálið tröllriðið húsum. T.d. óx meðalstarfsmannafjöldi við gjaldeyriseftirlit úr 9,7 árið 2010 í 23,8 árið 2016, þ.e. starfsmannafjöldi við starfsemi, sem aðallega skilaði mistökum á mistökum ofan, næstum 2,5 faldaðist. Ekkert hefur hafzt upp úr krafsinu í stórmálum og lítið annað en ami í smámálum. Hér er þó ekki um neina láglaunamenn við eftirlitsstörf að ræða, heldur nam launakostnaður í gjaldeyriseftirlitinu um MISK 80 árið 2010 og hafði hækkað upp í MISK 320 árið 2016 eða fjórfaldazt. Vankunnátta, ósvífni og klúður hefur verið mest áberandi við stjórnun á þessu gjaldeyriseftirliti, sem fyrir vikið hefur orðið fyrir gagnrýni Umboðsmanns Alþingis, eins og nú skal greina.
Af efnahagsástæðum var löngu tímabært að afnema gjaldeyrishöftin um miðjan marz 2017, og nú ætti að verða lag til að spara Seðlabankanum stórlega útgjöld til gjaldeyriseftirlits, enda liggur honum nú við gjaldþroti, þar sem nánast allt eigið fé hans er nú upp urið vegna gjaldeyriskaupa og vaxtakostnaðar vegna gjaldeyrisforðans til að halda aftur af gengishækkun ISK, en ofrisi hennar á Seðlabankinn mikla sök á sjálfur vegna ofurvaxta, sem hann hefur viðhaldið hér á fölskum forsendum að töluverðu leyti með ærnu efnahagstjóni fyrir marga, en nokkrum fjármagnstekjum fyrir aðra. Vitleysan ríður ekki við einteyming.
Í Seðlabankanum voru samdar reglur um gjaldeyrishöftin, og hann fékk það hlutverk að framfylgja þeim. Starfsmenn bankans höfðu ekki fyrir því að fá samþykki yfirmanns síns í ríkisstjórninni á þessum reglum sínum, svo að þær veittu honum enga réttarheimild í byrjun. Þessi vanræksla var mjög alvarlegur fingurbrjótur stjórnvalds, því að reglurnar veittu stjórnvaldinu mjög ríkar rannsóknar- og refsiheimildir gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum og urðu mjög íþyngjandi, eins og átti eftir að koma á daginn.
Seðlabankinn fór fljótlega í ofsóknarleiðangur gegn Samherja, og hófst hann með húsleit í kastljósi sjónvarpsmyndavéla RÚV í marz 2012, og kvað Már Guðmundsson þá í viðtölum meint gjaldeyrisbrot hlaupa á tugum milljarða ISK. Þessar fáheyrðu ofsóknir Seðlabankastjóra, sem ítrekað tjáði sig digurbarkalega um málið í fjölmiðlum, runnu út í sandinn og urðu stjórnendum bankans til mikillar minnkunar, enda gátu þær minnt á tiltektir rauðliðanna, byltingarfélaga Trotzkys, í kjölfar byltingarinnar í Moskvu 1917. Óðinn skrifar um þessi fáheyrðu vinnubrögð í Viðskiptablaðið 2. marz 2017:
"Tvisvar var Seðlabankinn gerður afturreka með kærur til Sérstaks saksóknara, en í stað þess að láta segjast og hætta þessu, töldu stjórnendur Seðlabankans meira máli skipta að halda andlitinu með einhverjum hætti. Það var gert í sumar, þegar stjórnendum Samherja var gefinn kostur á að ljúka málinu með sátt og greiða MISK 8,5 í sekt. Því hafnaði Samherji, og var þá sektin ákvörðuð MISK 15,0."
Hér er um valdhroka siðlausra embættismanna að ræða, sem starfa í anda einvaldanna: "ég einn veit", og lýðurinn skal fá að kenna á keyrinu, úr því að hann möglar. Ályktunin er hins vegar sú, að þessir embættismenn kunna ekkert til verka á þessu sviði og hefðu aldrei átt að fá sakarannsóknar- og refsiheimildir.
Umboðsmanni Alþingis hefur jafnvel ofboðið framganga embættismannanna og ritað umvöndunarbréf til fjármála- og efnahagsráðherra, formanns bankaráðs Seðlabankans og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis:
"Ég tek það líka fram, að ég tel það miður, þegar forstöðumenn ríkisstofnana, sem fara með rannsóknarvald af því tagi, sem hér er fjallað um, vísa til þess, að ástæðu þess, að fella hefur þurft niður rannsóknir mála, t.d. með ákvörðun ákæruvaldsins, megi rekja til vanbúnaðar í lögum eða mistaka við lagasetningu. Það er einmitt verkefni stjórnvalda að gæta að því, að þau hafi nægar heimildir í lögum til þeirra athafna og ákvarðana gagnvart borgurunum, sem þau grípa til."
Þarna gefur Umbi gjaldeyriseftirliti, lögfræðideild og bankastjóra Seðlabankans, falleinkunn fyrir embættisfærslu þessara aðila. Er ekki þörf á vorhreingerningu undir Svörtu loftum ?
Af öðru sauðahúsi er Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri hjá Kviku og fyrrverandi varaformaður framkvæmdahóps um losun hafta. Hann mundi sóma sér vel í Svörtu loftum, því að hann hefur góða yfirsýn um hagkerfið og hefur næman skilning á lögmálum þess, sem draga má í efa um núverandi Peningastefnunefnd Seðlabankans, sem hefur haldið stýrivöxtum í hæstu hæðum og þar með stuðlað að ofrisi ISK og keyrt Seðlabankann í þrot með gjaldeyriskaupum og gríðarlegum vaxtakostnaði af gjaldeyrisvarasjóði. Sigurður telur reyndar, að ríkisstjórnin leggi heldur ekki nægilega þung lóð á vogarskálar vaxtalækkunar með nýjustu fjárlögunum, og það er sennilega rétt hjá honum. Hann skrifaði þann 9. marz 2017 í Fréttablaðið greinina:
"Lækkum vexti með stöðugleikasjóði":
"Ef rétt er á málum haldið, má lækka vexti með stofnun stöðugleikasjóðs, sem hefði sveiflujöfnun hagkerfisins og opinberan sparnað að leiðarljósi.
Útgjöld hins opinbera hafa bein áhrif á vaxtastigið í landinu. Óhóflegur útgjaldavöxtur ríkisins er þensluhvetjandi og kallar á viðbrögð Seðlabankans, sem nýtir stýrivexti til að slá á þenslu. [Fjárlög hækkuðu meira við síðustu afgreiðslu Alþingis á þeim en dæmi eru um í sögunni, og samt bíta menn enn í skjaldarrendur til að kreista meir úr ríkisspenanum - innsk. BJo.]. Nú, þegar vel árar, virðast ríkisstjórn og Seðlabanki ekki ætla að ganga í takti. Í stað þess að draga úr eftirspurn í hagkerfinu, auka aðhald og stefna að myndarlegum rekstrarafgangi ríkissjóðs, er stefnt á 1,5 % [af VLF-innsk. BJo] afgang næstu árin samkvæmt fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Sá litli afgangur heldur vöxtum hærri en ella og leggur þyngri vaxtabyrði en annars væri á fyrirtæki og heimili landsins."
Hér er hreyft þörfu máli um stöðugleikasjóð, sem gæti t.d. haft tekjur af auðlindagjöldum frá sjávarútvegi, fiskeldi, orkufyrirtækjum og ferðaþjónustu, þegar vel árar hjá þessum aðilum.
Það má einnig til sanns vegar færa, að þingmenn tefla stöðugleikanum á tæpasta vað með óhóflegri útgjaldaaukningu í fjárlögum 2017. Þeir hafa sér til örlítilla málsbóta allt of lágar spár Hagstofu og Seðlabanka um vöxt landsframleiðslunnar 2016, sem nam 7,2 % samkvæmt nýjustu tölum, en ekki um 5 %. Forráðamenn ríkissjóðs verða að stíga á bremsurnar í ár og nota tímann til að búa í haginn fyrir sókn á næstu árum, þegar slaknar á hagkerfinu, með því að greiða niður skuldir og minnka þar með óhóflegan vaxtakostnað, sem enn nemur um 70 miaISK/ár.
Nú hefur gjaldeyrishöftum loksins verið aflétt, þótt svo kölluðum varúðartækjum Seðlabankans sé eðlilega haldið við. Gagnrýni stjórnarandstöðunnar er hláleg og ljóst, að væri hún við völd, mundi ekkert hilla undir losun hafta. Nú munu miaISK 90 fara út á genginu EUR/ISK=137,50, en aðrir fara út á um EUR/ISK=120. Mistök Seðlabankans í fyrra lágu auðvitað í því að meta þróun ISK með röngum hætti. Ef eitthvert gagn væri að svo kölluðum líkönum Seðlabankans af íslenzka hagkerfinu, hefðu þau ályktað af gríðarlegu innflæði gjaldeyris og 4 % raunvaxtamuni við útlönd um styrkingu ISK. Þar með hefði eigendum snjóhengjunnar verið boðið hagstæðara gengi og þeir hraðað sér út, en spádómsgáfa vogunarsjóðanna reyndist spádómsgáfu Seðlabankamanna traustari. Því miður verður að álykta af öllu þessu, að núverandi stjórnendur Seðlabanka Íslands geti fátt eitt rétt gert.
Ljós í myrkri Svörtu lofta er, að ríkisstjórnin hefur nú skipað í verkefnisstjórn valinkunna hagfræðinga til að stjórna vinnu við endurskoðun laga og starfsreglna um Seðlabankann. Verður að binda vonir við, að hannað verði bætt stjórnkerfi og umfram allt, að peningamálastjórnunin taki stakkaskiptum. Téður hópur hagfræðinga er í færum til að sníða Seðlabankanum stakk eftir vexti, þ.e.a.s. í stað þess að apa stjórnkerfi hans eftir öðrum, þá verði Seðlabankinn felldur almennilega að íslenzka hagkerfinu og sérþörfum þess. Leiðisnúran er að færa honum tæki og tól til að leggja þungt lóð á vogarskálarnar gegn óstöðugleika í hagkerfinu, en núverandi þröngu stefnumið bankans eru ekki fallin til þess.
Auðvitað mun Seðlabankinn aldrei ráða einn við það hlutverk að rata hér hinn gullna meðalveg lágrar verðbólgu, lítilla gengissveiflna, hás atvinnustigs og meiri hagvaxtar en í helztu viðskiptaríkjunum. Aðilar vinnumarkaðarins gegna þar stóru hlutverki, og ríkisstjórnin er þar í veigamiklu hlutverki líka.
Eitt af því, sem Seðlabankinn hefur flaskað á, eru dempandi áhrif erlendra starfsmanna hérlendis á s.k. launaskrið. Þess vegna m.a. eru verðbólguspár hans jafnan allt of háar undanfarin ár. Þessi dempun er jákvæð fyrir heildina, en skuggahliðar innflutts vinnuafls eru algerlega óviðunandi, en þær minna helzt á forneskjulegt þrælahald.
Þann 15. marz 2017 ákvað Peningastefnunefnd Seðlabankans að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum, 5,0 %. Þessi ranga ákvörðun sýnir, að Peningastefnunefnd situr í fílabeinsturni og kann ekki að greina hismið frá kjarnanum. Seðlabankastjóri sér flísina í auga bróður síns, en ekki bjálkann í eigin auga. Hann kennir ferðaþjónustunni um vandann og vill leggja einhvers konar hömlur á hana. Það er einkennilegt, ef þau í Svörtu loftum telja helzt til ráða að slátra mjólkurkúnni. Þatta er sama sagan, þegar Már Guðmundsson reyndi að afsaka mistök Gjaldeyriseftirlits bankans með því, að lögin um höftin og eftirlit með þeim væru ófullkomin og eiginlega gölluð. Þetta er að búa í fílabeinsturni.
Seðlabankastjóri færir helzt þau rök fyrir téðri vaxtaákvörðun, að mikill hagvöxtur sé í landinu og jafnvel vaxandi og atvinnulífið sé þanið til hins ýtrasta. Þá vanmetur hann þá staðreynd, að 21´500 útlendingar eru á vinnumarkaðinum, sem stækkar vinnumarkaðinn um meira en 12,0 %. Þá má benda á, að fjárfestingar 2016 sem hlutfall af VLF voru nálægt sögulegu meðaltali. Heimili og fyrirtæki draga úr skuldsetningu sinni, svo að það er vandséð á hvaða peninganotkun háir vextir eiga að slá. Aðilar í Peningastefnunefnd berja sér á brjóst og þakka háum vöxtum það, að fólk og fyrirtæki skuldsetja ekki við þessar aðstæður. Það er grunnfærnisleg ályktun. Meiri líkur eru á, að lánshæfismat bankanna á lánsumsækjendum dempi aukningu útlána en hátt raunvaxtastig.
Um hættuleg áhrif núverandi vaxtastigs skrifar Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í Fréttablaðið 15. marz 2017:
"Vaxtalækkun er knýjandi:
"Rekstrarskilyrði þeirra [útflutningsgreinanna] hafa tekið stakkaskiptum til hins verra á undanförnum misserum vegna gengisstyrkingar og mikilla launahækkana.
Efnahagslífið hefur notið mikillar velgengni á undanförnum árum. Verðmætasköpun atvinnulífsins og lífskjör landsmanna eru betri en nokkru sinni fyrr. Mikill vöxtur útflutningstekna þjóðarbúsins og afgangur í viðskiptum við útlönd eru rót velgengninnar. Afgangurinn hefur nýtzt til grynnkunar erlendra skulda. Hagvöxtur er heilbrigður, því að hann stafar af auknum útflutningi og vaxandi einkaneyzlu, sem byggir á kaupmætti heimilanna, en ekki söfnun skulda, eins og oftast áður.
SA fagnar þeirri losun fjármagnshafta, sem tók gildi í vikunni [14.03.2017] og leiðir vonandi til betra jafnvægis í gengi krónunnar. En meira þarf til, svo að styrking gengis krónunnar stöðvist og setji útflutningsgreinarnar [ekki] í þrot, þ.e. myndarleg vaxtalækkun Seðlabankans. Samhliða skapast sterkur hvati fyrir íslenzka lífeyrissjóði til að auka verulega fjárfestingar sínar í erlendum gjaldmiðlum. Sú ákvörðun er skynsamleg fyrir sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna og mun auka áhættudreifingu sjóðanna til lengri tíma.
Hagsmunir almennings, fyrirtækja og lífeyrissjóða, eru samofnir, hvað varðar stöðugt og raunhæft gengi krónunnar. Viðvarandi vaxtamunur við útlönd, sem býður fjárfestum upp á margfalda ávöxtun m.v. önnur ríki, leiðir til viðvarandi ásóknar í innlenda vexti, sem óhjákvæmilega stuðlar að styrkingu krónunnar. Vaxtalækkun styður við atvinnulífið og gagnast heimilum með beinum hætti."
Það er hægt að taka undir þetta allt saman, og Halldór Benjamín ætlar að reynast sannspár um, að haftalosun ein og sér dugar ekki til að nálgast "raungengi" eða jafnvægisgengi ISK við aðrar myntir. Svörtu lofta menn glötuðu tækifæri þann 15. marz 2017 til að stíga í takti við ríkisstjórnina og taka stórt skref í peningamálum til efnahagsjafnvægis með því að lækka stýrivexti um 0,5 %. Þau á Svörtu loftum eru algerlega sér á báti og eru nú orðin sjálfstætt efnahagsvandamál.
Hvert er "raungengið" núna ? Lars Christensen, alþjóðahagfræðingur, ritar um það í Fréttablaðið 15. marz 2017, "Gjaldeyrishöftin kvödd !". Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu, að ISK sé nú 10 %-15 % of hátt skráð, þ.e. að gengið þurfi að færast, þangað sem það var í ágúst-september 2016. Það þýðir, að bandaríkjadalur færi úr ISK 116 í ISK 125 og vísitala meðalgengis yrði rúmlega 160.
Í lok greinarinnar kom Lars Christensen með athyglisverða ráðleggingu:
"Tvær lykilráðstafanir, sem ég myndi mæla með, væru að breyta markmiði Seðlabankans úr verðbólgumarkmiði yfir í nafnlaunamarkmið, og tengja afborganir húsnæðislána við nafnlaunaþróun frekar en við verðbólgu. Þessar tvær stefnutillögur myndu draga verulega úr neikvæðum smitáhrifum af gengissveiflum.
Þetta ættu að verða næstu umbætur, sem ríkisstjórnin tekur til athugunar."
Fljótt á litið verður ekki annað séð en báðar þessar tillögur séu skynsamlegar, og að þær mundu báðar virka í stöðugleikaátt. Verkefnastjórn um endurskoðun peningamálastefnu hefur úr miklu að moða, en hún á að skila ríkisstjórninni tillögum fyrir árslok 2017.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2017 | 10:47
Þýzkaland á tímabili Trumps
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, á ættir að rekja til Þýzkalands og Bretlandseyja. Afi hans, Friedrich Trump, var frá Kallstadt í Pfalz. Nú hafa ummæli ráðamanna í Washington, þar sem köldu hefur blásið til Þýzkalands, NATO og Evrópusambandsins, ESB, valdið Þjóðverjum miklum vonbrigðum, jafnvel hugarangri. Ástæðan er sú, að auk Þjóðverja sjálfra áttu Bandaríkjamenn mestan þátt í vel heppnaðri endurreisn Vestur-Þýzkalands, Sambandslýðveldisins, eftir heimsátökin og hildarleikinn 1939-1945, og Bandaríkjamenn eiga heiðurinn af traustri staðsetningu þýzku þjóðarinnar í samtökum vestrænna lýðræðisþjóða, þótt Bandaríkjamenn hafi þar auðvitað verið að gæta eigin hagsmuna ekki síður en annarra Vesturlanda í baráttunni við Jósef Stalín og eftirmenn hans í Kreml. Þjóðverjar hafa síðan vanizt því að njóta skjóls af Bandaríkjamönnum, og nægir að nefna loftbrúna miklu til Vestur-Berlínar og ræðu Johns Fitzgeralds Kennedys við Berlínarmúrinn, "Ich bin ein Berliner", þegar allt ætlaði um koll að keyra af hrifningu í Þýzkalandi. "Þá var öldin önnur, er Gaukur bjó á Stöng."
Nú hefur efnahagsráðgjafi Trumps, Peter Navarro, ásakað þýzku stjórnina um að möndla ("manipulate") með gengi evrunnar og þannig að misnota Bandaríkin og aðra, af því að evran sé veikari en þýzka markið væri, ef það væri enn í brúki. Þetta er í raun og veru óboðlegur málflutningur frá æðstu stöðum í BNA.
Þessari gagnrýni úr Hvíta húsinu kunna Þjóðverjar gizka illa, enda er hún afar ósanngjörn. Þetta kemur í kjölfar hótunar Trumps um að setja 35 % toll á BMW og lítilsvirðandi ummæla um NATO og ESB. Berlín stjórnar brúðuleikhúsinu í Brüssel og hefur undirtökin í Evrópu á öllum sviðum, nema hernaðarsviðinu, en verður nú að hækka framlög sín til varnarmála upp í 2,0 % af VLF eða upp í 60 miaEUR/ár að kröfu Hvíta hússins. Þetta höfðu aðildarríkin reyndar skuldbundið sig til, þegar ógnin úr austri jókst, en flestir hunzað. Ef Íslendingar þyrftu að gera hið sama, mundu slík útgjöld ríkissjóðs nema 50 miaISK/ár, sem er talsvert lægra en árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Íslendingar gætu þetta, en það mundi vissulega koma niður á öllu öðru, sem ríkissjóður fjármagnar.
Þjóðverjar telja, að Trump eigi sjálfur "sök" á hækkun bandaríkjadals með því að lofa skattalækkunum og auknum fjárfestingum í innviðum, sem hafi leitt til vaxtahækkana Seðlabanka BNA og þar af leiðandi styrkingar bandaríkjadals, USD. Mikill halli er á viðskiptum BNA við útlönd, og ætlar Trump að breyta þeim halla í afgang. Þá mun bandaríkjadalur styrkjast enn. Donald Trump siglir hins vegar ekki lygnan sjó, og virðast demókratar stefna á að koma honum frá völdum ("impeachment"), eins og Richard Nixon, en þó strax á fyrra kjörtímabilinu. Ef þeir ná meirihluta á þingi árið 2018, gætu þeir rekið karlinn frá völdum í kjölfarið. Þá verður líf í tuskunum.
Forseti bankastjórnar Seðlabanka evrunnar, Ítalinn Mario Draghi, heldur stýrivöxtum bankans við núllið og kaupir alls konar skuldabréf, rusl segja sumir, til að örva efnahagslífið utan Þýzkalands. Fjármálaráðherra Þýzkalands, Wolfgang Schäuble, varaði Draghi við að halda út á þessa braut, en af virðingu við sjálfstæði Seðlabankans lofaði hann Draghi því að gagnrýna hann ekki opinberlega fyrir tiltækið. Það hafa hins vegar mikilsvirtir þýzkir hagfræðingar gert, t.d. einn af hugmyndafræðingum evrunnar, dr Otmar Issing.
Ein af ástæðum andstöðu Þjóðverja við þessa slökun á peningamálastefnunni var einmitt, að þá mundi viðskiptajöfnuður Þjóðverja vaxa mjög. Fyrirsjáanlegt var, að slíkt mundi skapa óstöðugleika í álfunni og óánægju víða. Nú gera Bandaríkjamenn Þjóðverja að blóraböggli fyrir stefnu, sem hinir síðar nefndu eru andsnúnir, þó að þeir virðist hafa grætt mest á henni. Það er ekki öll vitleysan eins. Hinir lágu vextir eru eitur í beinum Þjóðverja, því að þá minnkar ávöxtun af sparnaði þeirra hjá bönkum og líftryggingafélögum, sem starfa líka sem lífeyrissjóðir. Fjármögnun ellilífeyris þýzkrar alþýðu er í uppnámi, því að framlög þýzka ríkissjóðsins til sívaxandi fjölda ellibelgja munu líklega lækka, því að þýzkur vinnumarkaður mun senn skreppa saman, af því að Þjóðverjum hefur brugðizt bogalistin við að fjölga sér.
Viðskiptajöfnuður Þjóðverja er stærri en viðskiptajöfnuður Kínverja, og þar með sá mesti í heimi, og nemur 9,0 % af landsframleiðslu þeirra. Þetta eru um 3375 EUR/íb eða 412 kISK/íb, og til samanburðar nam viðskiptajöfnuður Íslendinga árið 2016 um 7,1 % af landsframleiðslu, en þar sem landsframleiðsla á mann er hér hærri en í Þýzkalandi, þá var viðskiptajöfnuður á mann hér hærri eða 507 kISK/íb. Ísland og Þýzkaland skera sig að þessu leyti úr í Evrópu með jákvæðum hætti, og þótt víðar væri leitað.
Stærðarmunur þjóðanna gerir það hins vegar að verkum, að Íslendingar liggja ekki undir ámæli fyrir sinn góða árangur, en Þjóðverjar hafa mátt sæta gagnrýni fyrir vikið að hálfu Framkvæmdastjórnar ESB í Brüssel, AGS í Washington, fjármálaráðuneyti BNA og OECD síðan árið 2005, er þeir tóku ákvörðun um að bæta samkeppnishæfni Þýzkalands. Aðilar vinnumarkaðarins beggja vegna borðsins tóku þá ákvörðun um að halda mjög aftur af umsömdum launahækkunum. Vegna þess að laun í öðrum evrulöndum hækkuðu meira en í Þýzkalandi eftir þetta, virkaði ákvörðun verkalýðssambanda og samtaka atvinnurekenda í Þýzkalandi sem gengislækkun á efnahagskerfið, þýzkar vörur hækkuðu minna en aðrar í verði, eða jafnvel ekkert vegna framleiðniaukningar, og atvinna jókst í Þýzkalandi. Árið 2005 var atvinnuleysi í Þýzkalandi 10,3 %, en árið 2015 aðeins 4,3 %. Stefnan kennd við Peter Hartz undir forystu jafnaðarmanna við stjórnvölinn í Berlín svínvirkaði. Nú hafa laun tekið að hækka í Þýzkalandi á ný, og árið 2016 hækkuðu þau að jafnaði um 2,3 %, sem er þó innan við þriðjungur raunlaunahækkunar á Íslandi í fyrra.
Þar sem Ísland er orðið eitt dýrasta land Evrópu, er nú höfuðnauðsyn að fylgja fordæmi Þjóðverja og spenna bogann lágt í komandi kjarasamningum, því að annars brestur strengurinn með þeim afleiðingum, að verðbólgan losnar úr læðingi, öllum til tjóns, og veldur þar mestu tjóni, sem minnst borð er fyrir báru nú.
Það eru váboðar framundan hjá Þjóðverjum, eins og fleirum. Framleiðnin frá árinu 2008 hefur aðeins aukizt um 0,5 % á ári m.v. 3,25 %/ár áður í vöruframleiðslugeiranum. Í flestum þjónustugeirum hefur framleiðniaukning verið svipuð, og í fjármálageiranum og í opinbera geiranum hefur hún minnkað. Hið sama er uppi á teninginum víðast hvar í OECD, og þar með í aðalviðskiptalöndum Íslands.
Mikil skuldsetning dregur úr fjárfestingargetu, sem hægir á tækniframförum, sem yfirleitt leiða til aukinnar framleiðni. Óðinn í Viðskiptablaðinu var hins vegar 9. febrúar 2017 með merkilega kenningu í ljósi stefnu Trumps um "America First" og innvistun framleiðslunnar, sem hefur þegar átt sér stað í Þýzkalandi. Fylgir Trump bara strauminum ?:
"Annað, sem gerzt hefur á síðustu árum, er, að viðsnúningur hefur orðið í úthýsingu verkefna til annarra ríkja. Undanfarna áratugi hafa þróaðri ríki, einkum Vesturlönd og Japan, flutt stóra hluta af frumframleiðslu til ríkja á borð við Kína. Lengi vel var talað um Kína sem vinnustofu heimsins. Undanfarin ár hefur orðið viðsnúningur á þessari þróun, og töluvert af framleiðsluferlum, sem áður fóru fram erlendis, hafa verið fluttir heim aftur til Þýzkalands [heim ins Reich - gamalt orðalag - innsk. BJo]. Má sem dæmi nefna, að í málmiðnaði jókst hlutur innlendra aðila í vergri virðisaukningu úr 34 % árið 2008 í 37 % í fyrra. Í framleiðslu á raftækjum hefur hlutfallið aukizt úr 31 % í 34 % á sama tíma. Þegar afkastaminni þættir í framleiðsluferlinu eru fluttir heim, kemur það niður á framleiðni í geiranum í heild sinni."
Þrátt fyrir hærri launakostnað heima fyrir, taka framleiðendur þetta skref til baka af ótta við þróun stjórnmála og efnahagsmála erlendis. Kommúnisminn í Kína gæti verið kominn að leiðarlokum. Mikið er um uppþot í Kína og fjöldamótmæli vegna spillingar og ódugnaðar embættismanna og svakalegrar loft- og vatnsmengunar. Að lokum skrifaði Óðinn:
"Hér á landi er vandinn vissulega ekki fólginn í of lágum vöxtum, heldur er þvert á móti æskilegt að lækka vexti verulega. Þetta [lágir vextir - innsk. BJo] undirstrikar hins vegar þann vanda, sem sem evrusvæðið - og reyndar Vesturlönd almennt, standa frammi fyrir. Skýrsluhöfundar Commerzbank klykkja svo út með því að benda á, að verði ekki gripið inn í þessa þróun, sé hætt við því, að Þýzkaland stefni í japanskar aðstæður - þ.e. mjög lítinn hagvöxt til lengri tíma litið."
Útlitið í Evrópu er óbeysið. Í Þýzkalandi sparar fólk mjög til elliáranna með því að leggja fyrir á banka. Þar er mun minna um fjárfestingar fólks í íbúðarhúsnæði til eigin nota. Neyzlustigið er tiltölulega lágt, enda Þjóðverjar nýtnir og sparneytnir frá fornu fari. Þar er sparsemi dyggð. Þegar gamlingjar Þýzkalands verða orðnir enn fleiri en nú eða um 2035, verður þó enn meira tekið út úr þýzkum bönkum en lagt verður fyrir, og þá mun hagkerfi landsins hafa veikzt svo mjög, að nágrannarnir þurfa ekki lengur að kvarta. Þá verður margt annað líka með öðru móti en nú. Framtíðin virðist vera ósjálfbær, en hver veit, nema Eyjólfur hressist.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2017 | 13:18
Verðmæti jarðgufu- og vindorkuréttinda
Stjórnvöldum á Íslandi er falið af Eftirlitsstofnun EFTA-ESA, líklega til að jafna samkeppnisstöðu, að koma því í kring, að öll fyrirtæki, sem stunda raforkuvinnslu úr orkulindum á landi í opinberri eigu eða umsjón, skuli greiða markaðstengt afnotagjald fyrir aðgang að þessum orkulindum. Þetta er væntanlega til að hindra rentusækni og jafna samkeppnisstöðu og á einnig við um nýtingu, sem þegar er hafin, og skal gilda allt til loka nýtingar.
Það getur verið fróðlegt að kanna, hvaða upphæðir, væntanlega í sveitarsjóði, gæti hér verið um að ræða, og þá er auðvitað nauðsynlegt fyrst að verðmeta þessar orkulindir. Það er hægt að gera á grundvelli lágmarksverðs, sem fá þarf fyrir raforkuna frá tiltekinni virkjun, með ávöxtunarkröfu, sem svipar til arðsemi annarra fjárfestinga með svipaðri áhættu.
Sem dæmi um jarðgufunýtingu til raforkuvinnslu má taka Þeistareykjavirkjun, sem nú er í byggingu. Áætluð fjárfesting er MUSD 185. Gera verður hærri ávöxtunarkröfu til jarðgufuvirkjana en til vatnsorkuvera vegna meiri rekstraráhættu, hér 9,0 %, og afskriftartíminn er styttri vegna óvissu um endingu jarðgufuforðans á staðnum, hér valinn 30 ár. Rekstrarkostnaður er tiltölulega hár vegna meiri viðhaldsþarfar af völdum útfellinga, tæringar og gufuöflunar, hér valinn 5,0 %/ár af stofnkostnaði. Þá fæst "kostnaðarverð" raforku frá Þeistareykjum 38 USD/MWh (=4,3 ISK/kWh), framlegð 66 % og rekstrarkostnaður 34 %. Sé umsamið raforkuverð lægra, er arðsemin óviðunandi í þessu ljósi.
Með þessu móti mun árleg framlegð virkjunarinnar nema 18 MUSD. Til að leggja mat á verðmæti orkulindarinnar er nú ráð að núvirða þessar árlegu greiðslur í 25 ár, og fæst þá upphæðin MUSD 175 = miaISK 20,2.
Ef gert er ráð fyrir, að eðli jarðgufuréttinda og vatnsréttinda sé hið sama í lagalegum skilningi, þá gildir dómur Hæstaréttar um, að Þjóðskrá Íslands skuli færa þessi verðmæti í fasteignaskrá, og þar með mega viðkomandi sveitarfélög innheimta af þeim fasteignagjald: FG=0,005 x 20,2 = 101 MISK/ár. Jarðfræðingar hafa hugmynd um umfang nýtingarsvæðis fyrir gufuforða virkjunarinnar, og út frá því getur skipting þessa afnotagjalds farið fram á milli sveitarfélaganna. Annað mál er, hvað Alþingi ákvarðar, að stór hluti af slíku afnotagjaldi renni í jöfnunarsjóð sveitarfélaganna, því að jarðhiti er æði misjafn eftir sveitarfélögum, eða jafnvel í væntanlegan auðlindasjóð.
Er meðalhófs gætt við þessa skattheimtu jarðgufuréttinda ? Svarið er jákvætt, því að upphæð afnotagjaldsins nemur 4,9 % af árlegri framlegð virkjunarinnar, sem má kalla hófstillt, þegar litið er t.d. til álagningar svo kallaðra veiðigjalda, þar sem aðferðarfræðin er illa ígrunduð.
Næst má snúa sér að vindmyllulundum og spyrja, hvort einhver glóra sé í því að taka gjald af fyrirtækjum fyrir að breyta vindorku í raforku ? Því er til að svara, að í nafni jafnræðis á markaði er það nauðsynlegt, því að annars væru stjórnvöld að mynda fjárhagslegan hvata fyrir raforkuvinnslu úr vindorku, sem er skiljanlegt af umhverfisástæðum erlendis, en er algerlega ástæðulaust á Íslandi. Vindorkan er enn þá dýrust í vinnslu á Íslandi af hefðbundnu orkuformunum þremur, fallvatnsorku, jarðgufuorku og vindorku, en kostnaðarbilið á milli hennar og hinna tveggja fer minnkandi með árunum.
Það er engu að síður enn svo, að vinnslukostnaður raforku með vindmyllum á Íslandi ásamt kostnaði við að koma raforkunni inn í aðveitustöð fyrir stofnkerfistengingu, m.v. 7,0 %/ár ávöxtunarkröfu fjármagns og 30 ára afskriftatíma fjárfestingar, nemur 60 USD/MWh (=6,9 ISK/MWh), sem er hærra orkugjald en flestir neytendur þurfa að greiða um þessar mundir. Fjárhagsleg réttlæting gæti þá einvörðungu falizt í að spara vatn í miðlunarlónum til að forða vatnsskorti, t.d. í Þórisvatni í tilviki Búrfellslundar.
Er eitthvert vit í því ? Orkuvinnslugeta Búrfellslundar mun verða innan við 700 GWh/ár, sem er um 5 % af orkuvinnslugetu Landsvirkjunar um þessar mundir, svo að eftir litlu er að slægjast, sérstaklega í ljósi yfirstandandi loftslagsbreytinga.
Með hækkandi meðalhitastigi í lofti yfir Íslandi má búast við meiri ársúrkomu og mildari vetrum, svo að innrennsli miðlunarlóna mun vaxa og árstíðasveifla álags raforkukerfisins minnka. Allt virkar þetta í þá átt að draga úr líkum á "þurrum árum", þegar vænta má raforkuskorts vegna vatnsleysis. Betri vatnsbúskapur af þessum völdum mun sennilega jafngilda meiri orkuvinnslugetu vatnsorkukerfisins en áformaðri vinnslugetu Búrfellslundar nemur.
Búrfellslundur eða aðrir vindmyllulundir verður þess vegna ekki hagrænt gagnlegur fyrr en meir hefur dregið saman með raforkukostnaði frá vindmyllum og öðrum virkjunum, t.d. þegar vinnslukostnaður vindmylla hefur lækkað um 20 % frá því, sem nú er. Það gæti orðið upp úr 2020.
Ef/þegar vindmyllulundur verður reistur á Hafinu norðan Búrfells, mun arðsemi þess fjármagns, sem þar verður bundið, verða innan við 5,0 % m.v. núverandi raforkuverð í landinu og fjárfestingarþörf 2,0 MUSD/MW. Ef hins vegar Landsvirkjun skyldi takast að fá 6,9 ISK/kWh, þá verður framlegðin 80 % eða 3,9 miaISK/ár.
Til þess að meta verðmæti þessarar staðsetningar til að nýta vindorku til að framleiða rafmagn án tillits til "umhverfiskostnaðarins", sem sumir telja frágangssök, en þarfnast vandaðs mats, þarf, eins og áður, að núvirða framlegðina yfir 25 ár, og fæst þannig upphæðin 392 MUSD = miaISK 45,1, sem þá eru verðmæti vindorkuréttindanna á þessum stað.
Árlegt fasteignagjald af þessari upphæð: FG = 0,005 x 45,1 = MISK 226, sem eru 5,8 % af árlegri framlegð vindmyllanna við 6,9 ISK/kWh.
Ef umsamið orkuverð frá vindmyllunum verður lægra, verður framlegðin og þar með verðmæti virkjunarréttindanna að sama skapi lægri.
Kjarni málsins er, að auðvelt er að þróa almenna aðferð til að leggja mat á virkjunarréttindi, hvaða nafni, sem þau nefnast, og reyndar má beita henni á hvers konar arðgæfar náttúruauðlindir og vega á móti ávinninginum af að aðhafast ekki. Það er brýnt, réttlætisins vegna, að látið verði af uppteknum hætti að bleyta þumalfingurinn og stinga honum upp í loftið til að slá á verðmæti náttúruauðlinda.
Þrýstingur er nú þegar á stjórnvöld að hálfu sveitarfélaganna og ESA hjá EFTA að leggja fram frumvarp, sem taki mið af markaðinum, mismuni engum á markaðinum og gæti meðalhófs við álagningu afnotagjalds af orkulindunum. Boltinn er hjá ráðuneyti og Alþingi.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2017 | 10:08
Verðmæti náttúruauðlinda
Enn er aðeins innheimt afnotagjald af miðunum við Ísland af öllum náttúruauðlindunum. Aðferðarfræðin við það er of flókin og afturvirk, og niðurstaðan er rekstri margra útgerða þungbær, af því að afnotagjald fyrir aðgang að miðunum getur skorið væna sneið af framlegð fyrirtækjanna.
Þessi skattheimta er óréttlát, af því að hún mismunar atvinnugreinum. Afkoma útgerðanna getur snarbreytzt á einu ári, og þess vegna er ótækt að miða afnotagjald við afkomuna fyrir 2-3 árum. Þar að auki eru engar hömlur á því, hversu stóran hluta framlegðar fyrirtækjanna ríkið haldleggur með afnotagjaldi miðanna. Setja ætti þak við afnotagjald allra náttúruauðlinda við t.d. 6,0 % af framlegð, og sé afkoma útgerðar svo lakleg, að framlegðin nái ekki 20 % af söluandvirði aflans, þá ætti að fella afnotagjaldið niður á því ári, enda borgar útgerðin að öðru leyti opinber gjöld að jöfnu við önnur fyrirtæki, nema tryggingagjaldið er óvenjuhátt á útgerðirnar, og er brýnt að samræma það, um leið það verður almennt lækkað.
Hvers vegna býður ríkið ekki fram samræmingu (lækkun) á tryggingagjaldinu sem lokahnykk í sáttaferli, er e.t.v. feli í sér dagpeningagreiðslur og hefðbundna skattameðferð þeirra á móti ásamt ofangreindu þaki á veiðigjöldin ?
Það hefur dregizt úr hömlu að jafna aðstöðu fyrirtækja í landinu, sem hafa aðgang að náttúruauðlindum í almenningum, þjóðlendum eða í annars konar opinberri umsjá eða eigu. Sú staðreynd hefur ratað alla leið á borð ESA. Þann 20. apríl 2016 kvað eftirlitsnefnd EFTA, ESA,upp úrskurð þess efnis, að ríkisstjórninni bæri að eiga frumkvæði að lögfestingu aðferðarfræði við að meta verðmæti orkulinda í náttúrunni í opinberri eigu eða umsjá, sem nýttar eru til raforkuvinnslu, í þeim tilvikum, sem markaðsverð hefur ekki þegar myndazt; þessi aðferðarfræði skal vera markaðstengd, þ.e.a.s. rafmagnsframleiðendur skulu borga markaðsverð fyrir afnot náttúruauðlinda, þ.e. vatnsréttinda, jarðgufuréttinda og vindréttinda. Ef hafstraumar, haföldur eða sjávarföll verða nýtt í framtíðinni, mun hið sama gilda um þessar orkulindir. Fyrir ólíkar orkulindir er nauðsynlegt að þróa heildstæða aðferðarfræði við verðmætamatið.
Jafnframt ber ríkisstjórninni að sjá til þess með lagafrumvarpi, samkvæmt téðum úrskurði, að öll orkuvinnslufyrirtæki greiði "markaðsverð" fyrir vatnsréttindi, jarðgufuréttindi eða vindréttindi. Þetta á líka við um gildandi orkusamninga, þar til þeir renna út, en ekki afturvirkt. Það þarf þess vegna að drífa í þessu. Spurningin er: hvernig ?
Það eru dæmi um afnotagjald vatnsréttinda í landinu fyrir smávirkjanir. Þar virðist yfirleitt miðað við ákveðinn hundraðshluta af sölutekjum virkjunar. Í mörgum tilvikum stærri virkjana er orkuverðið þó óþekkt. Það er tilgreint í orkusamningi, sem leynd hvílir yfir, og það tengist einhverri annarri breytu, t.d. afurðaverði orkukaupandans eða vísitölu neyzluverðs í Bandaríkjunum, BNA, af því að umsamið raforkuverð er yfirleitt í bandaríkjadölum, BNA.
Það er ósanngjarnt að taka ekki tillit til rekstrarkostnaðar við að breyta fallorku vatnsins í rafmagn, og þess vegna er eðlilegra að leggja framlegð nýrrar virkjunar af sama tagi með sams konar viðskiptavini til grundvallar álagningu afnotagjalds vatnsréttinda.
Það hafa gengið dómsmál á milli Landsvirkjunar og sveitarfélaganna, sem eiga hagsmuni af því, hvernig verðmætamati vatnsréttinda fyrir Fljótsdalsvirkjun er háttað. Hæstiréttur úrskurðaði í október 2015, að sveitarfélög, sem hafa virkjaðar ár í sínu landi og arðgæf vatnsréttindi, geti óskað eftir því við Þjóðskrá Íslands, að hún meti vatnsréttindin til fasteignamats. Þar með opnast möguleiki fyrir sveitarfélögin að leggja fasteignaskatt á fyrirtækin, sem fénýta þessi vatnsréttindi.
Deilur á milli hagsmunaaðila hafa einnig risið um í hvaða fasteignaflokk ætti að skrá vatnsréttindin. Yfirfasteignamatsnefnd kvað upp úrskurð sinn um þetta 15. desember 2016. Fasteignaskatt vegna vatnsréttinda kærenda í Fljótsdalshreppi skal ákvarða samkvæmt a. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga jafnt innan sem utan þjóðlendu.
Ákvæðið tilgreinir skattheimtu allt að 0,5 % af fasteignamati með 25 % viðbót við sérstakar aðstæður. Sveitarfélagið hafði krafizt heimildar til skattheimtu samkvæmt c. lið laganna, sem heimilar þrefalt hærri skattheimtu, en úrskurðurinn ætti að vera vel viðunandi fyrir báða aðila.
Það er hins vegar verðmætamatinu sjálfu, sem er enn þá ábótavant. Í ágúst 2007 komst matsnefnd að þeirri niðurstöðu, að verðmæti vatnsréttinda, sem nýtt eru í þágu Fljótsdalsvirkjunar, skuli vera miaISK 1,54. Þetta er aðeins 1,0 % af upphæðinni, sem aðferðarfræði blekbónda, sem hér er kynnt til sögunnar, leiðir til. Krafa vatnsréttarhafa hljóðaði hins vegar upp á rúmlega miaISK 25, svo að þar er einnig ginnungagap á milli, sem sýnir, að það bráðvantar heildstæða aðferðarfræði við verðmætamat vatnsréttinda. Uppgefin viðmiðun handhafa vatnsréttindanna var líka út í hött, þar sem hún virðist hafa verið meðalverð seldrar orku í landinu við stöðvarvegg árið 2006, sem var gefið á bilinu 2,07 kr/kWh-2,18 kr/kWh, sem m.v. gengi á miðju ári 2006, USD/ISK = 67,5, svarar til 31,4 USD/MWh (bandaríkjadala á megawattstund).
Meðalsöluverð raforku í landinu á ákveðnu ári kemur hins vegar þessu máli ekki við. Það, sem er rökrétt að leggja til grundvallar verðmætamati ákveðinna vatnsréttinda, er "kostnaðarverð" raforku frá sambærilegri virkjun með sambærilegt álag og með venjulega ávöxtunarkröfu slíkra fjárfestinga, hér 7,0 %/ár, venjulegan afskriftatíma slíkra mannvirkja, 40 ár, og hefðbundinn rekstrarkostnað slíkra virkjana, hér 1,0 %/ár af stofnkostnaði. Nota mætti uppfærðan stofnkostnað virkjunar, sem í hlut á.
Síðan skal núvirða árlega framlegð slíkrar virkjunar yfir samningstímabil orkusölunnar, t.d. 25 ár, og fást þá reiknuð verðmæti vatnsréttindanna. Í tilviki Fljótsdalsvirkjunar er niðurstaða blekbónda MUSD 1329 = miaISK 153 (USD/ISK=115), sem er 6-falt verðmætamat sveitarfélaganna Fljótsdalshrepps og Fljótsdalshéraðs, sem eru hagsmunaaðilar ásamt Landsvirkjun.
Árlegur fasteignaskattur til viðkomandi sveitarsjóða: FS=153 miaISK x 0,005=765 MISK, og er eðlilegt, að sveitarfélögin skipti honum á milli sín í hlutfalli við landareignir m.v. hámarks ummál miðlunarlóns og lengd árfarvegar, sem virkjað vatn fer um í viðkomandi sveitarfélagi.
FS er ívið hærri en fæst samkvæmt tíðkaðri markaðsaðferð um smávirkjanir, en þá ber að hafa í huga, að orkuverðið frá Fljótsdalsvirkjun er í lægri kantinum um þessar mundir vegna lágs álverðs.
Verður þessi skattheimta íþyngjandi fyrir Landsvirkjun ? FS mun nema um 5,8 % af árlegri framlegð virkjunarinnar. Sé litið til afnotagjalda sjávarútvegsins af veiðiheimildunum, þá hafa þau undanfarin ár iðulega numið tvöföldu þessu hlutfalli af framlegð útgerðanna eða yfir 10 %, sem er sannarlega íþyngjandi og skekkir (veikir) samkeppnisstöðu sjávarútvegsins verulega. Sú skattheimta af fyrirtækjum, sem nýta rennandi vatn til raforkuvinnslu, sem hér er lögð til, jafnar aðstöðu fyrirtækja í landinu, sem nýta náttúruauðlindir, og það er vissulega gætt meðalhófs. Til að tryggja þetta meðalhóf ætti að setja hámark 6,0 % af framlegð fyrirtækja í afnotagjald af auðlindum náttúrunnar.
Það er grundvallaratriði, að allar greinar orkuvinnslunnar njóti jafnræðis gagnvart skattheimtu, og sama má segja um allar greinar, sem nýta náttúruauðlindir. Þar er ferðaþjónustan ekki undan skilin. Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að þróa samræmda og almenna aðferðarfræði við verðmætamat auðlinda, ef markaðurinn hefur ekki nú þegar myndað verð á þeim.
Í næstu vefgrein verður fjallað um verðmætamat jarðgufuréttinda og vindréttinda.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2017 | 20:47
Jafnvægi og framsýni
Fyrrverandi fjármálaráðherra hafði betri tök á starfinu en margir forvera hans. Hann einfaldaði skatta- og innflutningsgjaldakerfið mikið, til hagsbóta fyrir alla, og umbæturnar virkuðu til verðlagslækkunar, og eru ein skýringin á lágri verðbólgu undanfarin misseri, miklu lægri en í öllum verðlagsspám Seðlabankans, sem eru kapítuli út af fyrir sig.
Þá lagði hann sem fjármála- og efnahagsráðherra grunn að losun gjaldeyrishaftanna með samningum við þrotabú föllnu bankanna, sem eru almenningi hérlendis mjög hagstæðir, mun hagstæðari en flestir bjuggust við.
Síðast en ekki sízt hefur hann með aðhaldi í rekstri ríkissjóðs og örvun hagkerfisins náð að rétta hann svo mjög við, að við árslok 2016 námu skuldir A-hluta ríkissjóðs tæplega 40 % af VLF, sem er með því lægsta sem þekkist í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, en voru hæstar árið 2010 eða rúmlega 60 % af VLF.
Þá lagði hann grunninn að fjármálastefnu ríkisins til 5 ára, sem er öflugt stjórntæki til eflingar fjármálastöðugleika.
Nú er kominn nýr fjármála- og efnahagsráðherra, og fjármálaáætlun hans þykir mörgum vera of laus í reipunum með þeim afleiðingum, að geta ríkissjóðs til að taka á sig efnahagsáföll á gildistíma fjármálaáætlunarinnar verður ófullnægjandi og mun minni en í aðdraganda Hrunsins.
Í janúar 2017 myndaði Bjarni Benediktsson sína fyrstu ríkisstjórn. Þann 19. janúar 2017 ritaði hann grein í Morgunblaðið:
"Með jafnvægi og framsýni að leiðarljósi", þar sem hann útlistaði Stjórnarsáttmálann ögn nánar og gaf innsýn í, um hvað ríkisstjórn hans er mynduð:
"Ný ríkisstjórn vill nálgast úrlausn mála undir merkjum frjálslyndis og réttsýni. Ísland á að vera eftirsóknarvert fyrir alla þá, sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenzkt samfélag til framtíðar. Mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð, ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum, mynda þar sterkan grunn."
Málefni heilbrigðiskerfisins munu reka oft á fjörur ríkisstjórnarinnar, enda er það að mestu fjármagnað og rekið af ríkissjóði, og þar er við mikil vandkvæði að fást. Að jafnviðkvæm starfsemi skuli vera svo háð duttlungum stjórnmálamanna, er stórgalli og stjórnunarlegur veikleiki. Taka þarf fyrirmyndir frá nágrannalöndunum og stefna á, að veita sjúkrahúsunum fé per sjúkling eftir eðli máls. Reyna þarf að mynda fjárhagshvata til bætts rekstrarárangurs, sem vantar að mestu í núverandi fjármögnunarkerfi.
Við ákvarðanir, sem þarf að taka um þróun heilbrigðiskerfisins á kjörtímabilinu, er ekki ónýtt að hafa ofangreint stefnumið í blaðagreininni að leiðarljósi. Það á t.d. við um spurninguna, hvort leyfa eigi einkafyrirtæki, sem Landlæknir hefur úrskurðað faglega hæft, að stunda sérhæfðar læknisaðgerðir og umsjá í kjölfarið í takmarkaðan tíma, t.d. 5 sólarhringa, sem meiri spurn er eftir en Landsspítalinn getur annað um þessar mundir með hræðilega löngum biðlistum sem afleiðingu.
Jákvætt svar ríkisstjórnarinnar við ósk hæfs einkafyrirtækis um að fá að veita slíka þjónustu með sama kostnaði fyrir ríkissjóð og sjúklingana og á Landsspítalanum væri til merkis um frjálslyndi, og réttsýni væri fólgin í að jafna ögn stöðu ríkis og einkafyrirtækja á þessum markaði. Hvers vegna má ekki veita Landsspítalnum örlitla samkeppni ? Núverandi fyrirkomulag annar ekki eftirspurn og er ekki heilög kýr. Það er hrjáð af göllum einokunar.
Þá mundi jáyrði skapa fleiri sérfræðingum tækifæri til að koma heim til Íslands og "byggja upp íslenzkt samfélag til framtíðar". Þá mundi jákvæð afstaða ríkisstjórnarinnar falla algerlega að síðustu tilvitnuðu málsgreininni í téðri blaðagrein. Neikvæð afstaða mundi ekki efla mannréttindi, hér atvinnuréttindi, jöfnun tækifæra, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð. Orðum þurfa að fylgja gjörðir, ef traust á að takast að mynda. Varðhundar kerfisins urra slefandi fyrir utan. Ráðherra þarf að vera hundatemjari líka. Grimmir hundar rífa heybrækur á hol.
"Á marga mælikvarða stöndum við Íslendingar vel, þegar borin eru saman lífskjör þjóða. Frekari sókn mun byggjast á því, að okkur takist að auka samkeppnishæfni landsins, bæta framleiðni og fjölbreytni í atvinnulífinu, skapa ný verðmæti og fjölga vel borgandi störfum. Þetta mun tryggja getu okkar til að halda áfram að byggja upp heilbrigðisþjónustuna, draga úr kostnaði sjúklinga, efla menntakerfið og bæta samgöngur. Ný ríkisstjórn hyggst bæta og styrkja heilbrigðisþjónustuna, því að örugg og góð heilbrigðisþjónusta, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, er forgangsmál."
Mikilvægur mælikvarði á efnahagslega velgengni þjóða er landsframleiðsla á mann (með íslenzkt ríkisfang). Á þessari öld hefur hún þróazt með jákvæðum hætti, ef undan eru skilin árin 2008-2010. Að meðaltali hefur þessi vöxtur verið 1,6 %/ár, og árið 2016 var Ísland komið í 10. sæti, hvað þetta varðar, á eftir Lúxemborg, Sviss, Noregi, Qatar, Írlandi, Bandaríkjunum, Singapúr, Danmörku og Ástralíu, og var röðin þessi frá 1-9.
Þessi röð er þó ekki mælikvarði á kaupmátt launa, því að verðlag er ólíkt frá einu landi til annars. Samkvæmt Peningamálum Seðlabankans 2016/1 var búizt við hækkun launakostnaðar á framleidda einingu um 9,3 % (8,7 %) 2016, 4,7 % (4,1 %) 2017 og 5,0 % (3,7 %) árið 2018, og, að kaupmáttur ráðstöfunartekna ykist um tölurnar í svigunum. Það lætur nærri, að launakostnaður á framleidda einingu vaxi tvöfalt meira en landsframleiðslan á mann, og það sýnir, hversu viðkvæm fyrirtækin, sem undir kjarabótunum standa, hljóta að vera gagnvart ágjöf. Slík ágjöf er t.d. hækkun gengisskráningar, minni hagvöxtur o.s.frv.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, bendir á þessa veikleika í viðtali við Snorra Pál Gunnarsson í Viðskiptablaðinu 2. febrúar 2017,
"Óábyrg fjármálastefna",
þar sem hún gagnrýnir þensluhvetjandi fjármálastefnu núverandi fjármála- og efnahagsráðherra. Hún hefur gert næmnigreiningu á stöðugleika rekstrarafkomu ríkissjóðs og fundið út, að miðað við hagvaxtarspá stjórnvalda verður rekstrarafgangur 1,0 %/ár - 1,6 %/ár af VLF árabilið 2017-2022, en verði hagvöxtur 1,0 %/ár minni en spáin, sem hæglega getur gerzt, þá snarist á merinni og hallinn verði allt að 2,5 %/ár af VLF/ár.
Umsvif hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, eru mjög mikil á Íslandi, og hvorki heilbrigð né sjálfbær, og fjármálastefnan setur þakið við 41,5 % af VLF.
"Er svo komið, að umfang hins opinbera í hagkerfinu er hvergi meira innan OECD en í háskattalandinu Íslandi, þar sem skatttekjur eru 34 % af VLF, og opinberir aðilar ráðstafa um 42 % af allri verðmætasköpun í landinu."
Það er alveg öruggt, að þessi gríðarlegu opinberu umsvif á Íslandi virka hamlandi á framleiðniaukningu og sjálfbæran hagvöxt, sem undanfarið hefur verið haldið uppi af ósjálfbærri aukningu ferðamannafjölda hingað til lands. Uppskurðar og skattalækkunar er þörf til að landið verði samkeppnihæft til lengdar. Í landinu eru stjórnmálaöfl blindingja allöflug, sem vilja leiða landsmenn fram af bjargbrúninni, eins og læmingja. Ef/þegar það gerist, er nauðsynlegt, að staða ríkissjóðs sé miklu sterkari en nú. Um þetta segir Ásdís í viðtalinu:
"Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir afgangi á rekstri hins opinbera í fjármálastefnunni, er þetta lítill afgangur miðað við forsendurnar um áframhaldandi hagvöxt. Áætlaður afgangur miðar við samfelldan hagvöxt næstu 5 árin á grundvelli hagspár Hagstofunnar. Stefnan treystir þannig á, að núverandi hagvaxtarskeið verði það lengsta í sögu lýðveldisins eða 12 ár. Ef hagvöxtur verður 1 %/ár minni en gert er ráð fyrir, getur afgangur breytzt í umtalsverðan halla, eins og við sýnum fram á með næmnigreiningu. Það má því lítið út af bregða.
Þetta er sérstaklega mikið áhyggjuefni í ljósi alvarlegrar skuldastöðu hins opinbera. Hið opinbera er meira en tvöfalt skuldsettara nú en í aðdraganda bankakreppunnar árið 2008. Samkvæmt áætlunum stjórnvalda verða opinberar skuldir áfram meiri en á síðasta þensluskeiði næstu 5 árin, þrátt fyrir að ráðstafa eigi stöðugleikaframlögum og arðgreiðslum til skuldalækkunar. Að mati SA er því ekki verið að greiða skuldir nógu hratt og ekkert er í hendi með ráðstöfun fjármuna til skuldalækkunar."
Hér liggur víglínan á milli frjálslyndis með ábyrgðartilfinningu og afturhalds með ábyrgðarlausum yfirboðum í landinu um efnahagsmálin. Við misheppnaðar stjórnarmyndunartilraunir Katrínar Jakobsdóttur og Birgittu Jónsdóttur var verið að leggja drög að þveröfugri stefnumörkun en Ásdís leggur áherzlu á. Það var ætlunin að sprengja hér allt í loft upp, meðvitað eða ómeðvitað, með því að draga úr skuldalækkun ríkissjóðs og hækka skatta á almenning, einstaklinga og fyrirtæki, til að gefa eldsneytisgjöfina í botn hjá hinu opinbera, sem þá hefði á skömmum tíma þanizt upp í 50 % af VLF, stöðnun og óðaverðbólgu ("stagflation").
Núverandi ríkisstjórn er á réttri leið, en hún teflir með útgjöldum ríkissjóðs á tæpasta vað og leggur ekki fram nógu framsýna, róttæka og örugga fjármálastefnu til að varðveita stöðugleikann og undirbúa varnir gegn næstu niðursveiflu, sem sennilega verður innan 5 ára.
"Ásdís segir fjármálastefnuna og áætlanir stjórnvalda í fjármálum hins opinbera einkennast af ábyrgðarleysi auk skorts á framtíðarsýn og forgangsröðun með betri nýtingu fjármuna að leiðarljósi."
Fjármála- og efnahgsráðherra er þar með sendur "back to the drawing desk", hann verður að lesa betur tilvitnaða grein forsætisráðherra: "Með jafnvægi og framsýni að leiðarljósi", koma síðan til baka frá teikniborðinu og kæla hagkerfið áður en sýður uppúr.
""Þess vegna óskum við eftir því, að stjórnvöld sýni ábyrgð og leggi fram langtímaáætlanir um það, hvernig eigi að bæta úr skák og skapa skilyrði til að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki, t.d. með agaðri forgangsröðun, hagkvæmari nýtingu fjármuna og fjölbreyttari rekstrarformum. Þar liggja tækifæri t.a.m. á sviði heilbrigðismála og menntamála", segir Ásdís.
"Einhvern tímann mun koma fram aðlögun, og við óttumst, að ekki sé verið að búa í haginn fyrir það, eins og staðan er núna. Ef til bakslags kemur, erum við óundirbúin.""
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)