Færsluflokkur: Fjármál

Seðlabanki í sálarháska

 

Stjórnarhættir Seðlabanka Íslands hafa um hríð sætt meira ámæli en títt er.  Mætti stundum halda, að sjálfur Trotzki sæti við stjórnvölinn undir Svörtu loftum, en ekki lærisveinn Ólafs Ragnars Grímssonar, hagfræðingurinn Már Guðmundsson. 

Einræðis- og forræðistilburðir Seðlabankans hafa t.d. birzt í því, hvernig hann hefur gegnt eftirlitshlutverki sínu með framfylgd gjaldeyrislaganna, sem lögðu höft á viðskipti landsmanna með erlendan gjaldeyri, en hafa nú seint og um síðir verið afnumin. 

Undir Svörtu loftum hefur Parkinsons-lögmálið tröllriðið húsum. T.d. óx meðalstarfsmannafjöldi við gjaldeyriseftirlit úr 9,7 árið 2010 í 23,8 árið 2016, þ.e. starfsmannafjöldi við starfsemi, sem aðallega skilaði mistökum á mistökum ofan, næstum 2,5 faldaðist.  Ekkert hefur hafzt upp úr krafsinu í stórmálum og lítið annað en ami í smámálum. Hér er þó ekki um neina láglaunamenn við eftirlitsstörf að ræða, heldur nam launakostnaður í gjaldeyriseftirlitinu um MISK 80 árið 2010 og hafði hækkað upp í MISK 320 árið 2016 eða fjórfaldazt.  Vankunnátta, ósvífni og klúður hefur verið mest áberandi við stjórnun á þessu gjaldeyriseftirliti, sem fyrir vikið hefur orðið fyrir gagnrýni Umboðsmanns Alþingis, eins og nú skal greina. 

Af efnahagsástæðum var löngu tímabært að afnema gjaldeyrishöftin um miðjan marz 2017, og nú ætti að verða lag til að spara Seðlabankanum stórlega útgjöld til gjaldeyriseftirlits, enda liggur honum nú við gjaldþroti, þar sem nánast allt eigið fé hans er nú upp urið vegna gjaldeyriskaupa og vaxtakostnaðar vegna gjaldeyrisforðans til að halda aftur af gengishækkun ISK, en ofrisi hennar á Seðlabankinn mikla sök á sjálfur vegna ofurvaxta, sem hann hefur viðhaldið hér á fölskum forsendum að töluverðu leyti með ærnu efnahagstjóni fyrir marga, en nokkrum fjármagnstekjum fyrir aðra.  Vitleysan ríður ekki við einteyming. 

Í Seðlabankanum voru samdar reglur um gjaldeyrishöftin, og hann fékk það hlutverk að framfylgja þeim.  Starfsmenn bankans höfðu ekki fyrir því að fá samþykki yfirmanns síns í ríkisstjórninni á þessum reglum sínum, svo að þær veittu honum enga réttarheimild í byrjun.  Þessi vanræksla var mjög alvarlegur fingurbrjótur stjórnvalds, því að reglurnar veittu stjórnvaldinu mjög ríkar rannsóknar- og refsiheimildir gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum og urðu mjög íþyngjandi, eins og átti eftir að koma á daginn. 

Seðlabankinn fór fljótlega í ofsóknarleiðangur gegn Samherja, og hófst hann með húsleit í kastljósi sjónvarpsmyndavéla RÚV í marz 2012, og kvað Már Guðmundsson þá í viðtölum meint gjaldeyrisbrot hlaupa á tugum milljarða ISK.  Þessar fáheyrðu ofsóknir Seðlabankastjóra, sem ítrekað tjáði sig digurbarkalega um málið í fjölmiðlum, runnu út í sandinn og urðu stjórnendum bankans til mikillar minnkunar, enda gátu þær minnt á tiltektir rauðliðanna, byltingarfélaga Trotzkys, í kjölfar byltingarinnar í Moskvu 1917.  Óðinn skrifar um þessi fáheyrðu vinnubrögð í Viðskiptablaðið 2. marz 2017:

"Tvisvar var Seðlabankinn gerður afturreka með kærur til Sérstaks saksóknara, en í stað þess að láta segjast og hætta þessu, töldu stjórnendur Seðlabankans meira máli skipta að halda andlitinu með einhverjum hætti.  Það var gert í sumar, þegar stjórnendum Samherja var gefinn kostur á að ljúka málinu með sátt og greiða MISK 8,5 í sekt.  Því hafnaði Samherji, og var þá sektin ákvörðuð MISK 15,0."

Hér er um valdhroka siðlausra embættismanna að ræða, sem starfa í anda einvaldanna: "ég einn veit", og lýðurinn skal fá að kenna á keyrinu, úr því að hann möglar. Ályktunin er hins vegar sú, að þessir embættismenn kunna ekkert til verka á þessu sviði og hefðu aldrei átt að fá sakarannsóknar- og refsiheimildir. 

Umboðsmanni Alþingis hefur jafnvel ofboðið framganga embættismannanna og ritað umvöndunarbréf til fjármála- og efnahagsráðherra, formanns bankaráðs Seðlabankans og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis:

"Ég tek það líka fram, að ég tel það miður, þegar forstöðumenn ríkisstofnana, sem fara með rannsóknarvald af því tagi, sem hér er fjallað um, vísa til þess, að ástæðu þess, að fella hefur þurft niður rannsóknir mála, t.d. með ákvörðun ákæruvaldsins, megi rekja til vanbúnaðar í lögum eða mistaka við lagasetningu.  Það er einmitt verkefni stjórnvalda að gæta að því, að þau hafi nægar heimildir í lögum til þeirra athafna og ákvarðana gagnvart borgurunum, sem þau grípa til."

Þarna gefur Umbi gjaldeyriseftirliti, lögfræðideild og bankastjóra Seðlabankans, falleinkunn fyrir embættisfærslu þessara aðila.  Er ekki þörf á vorhreingerningu undir Svörtu loftum ?

Af öðru sauðahúsi er Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri hjá Kviku og fyrrverandi varaformaður framkvæmdahóps um losun hafta.  Hann mundi sóma sér vel í Svörtu loftum, því að hann hefur góða yfirsýn um hagkerfið og hefur næman skilning á lögmálum þess, sem draga má í efa um núverandi Peningastefnunefnd Seðlabankans, sem hefur haldið stýrivöxtum í hæstu hæðum og þar með stuðlað að ofrisi ISK og keyrt Seðlabankann í þrot með gjaldeyriskaupum og gríðarlegum vaxtakostnaði af gjaldeyrisvarasjóði.  Sigurður telur reyndar, að ríkisstjórnin leggi heldur ekki nægilega þung lóð á vogarskálar vaxtalækkunar með nýjustu fjárlögunum, og það er sennilega rétt hjá honum.  Hann skrifaði þann 9. marz 2017 í Fréttablaðið greinina:

"Lækkum vexti með  stöðugleikasjóði":

"Ef rétt er á málum haldið, má lækka vexti með stofnun stöðugleikasjóðs, sem hefði sveiflujöfnun hagkerfisins og opinberan sparnað að leiðarljósi. 

Útgjöld hins opinbera hafa bein áhrif á vaxtastigið í landinu.  Óhóflegur útgjaldavöxtur ríkisins er þensluhvetjandi og kallar á viðbrögð Seðlabankans, sem nýtir stýrivexti til að slá á þenslu.  [Fjárlög hækkuðu meira við síðustu afgreiðslu Alþingis á þeim en dæmi eru um í sögunni, og samt bíta menn enn í skjaldarrendur til að kreista meir úr ríkisspenanum - innsk. BJo.].  Nú, þegar vel árar, virðast ríkisstjórn og Seðlabanki ekki ætla að ganga í takti.  Í stað þess að draga úr eftirspurn í hagkerfinu, auka aðhald og stefna að myndarlegum rekstrarafgangi ríkissjóðs, er stefnt á 1,5 % [af VLF-innsk. BJo] afgang næstu árin samkvæmt fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.  Sá litli afgangur heldur vöxtum hærri en ella og leggur þyngri vaxtabyrði en annars væri á fyrirtæki og heimili landsins."

Hér er hreyft þörfu máli um stöðugleikasjóð, sem gæti t.d. haft tekjur af auðlindagjöldum frá sjávarútvegi, fiskeldi, orkufyrirtækjum og ferðaþjónustu, þegar vel árar hjá þessum aðilum.

Það má einnig til sanns vegar færa, að þingmenn tefla stöðugleikanum á tæpasta vað með óhóflegri útgjaldaaukningu í fjárlögum 2017.  Þeir hafa sér til örlítilla málsbóta allt of lágar spár Hagstofu og Seðlabanka um vöxt landsframleiðslunnar 2016, sem nam 7,2 % samkvæmt nýjustu tölum, en ekki um 5 %.  Forráðamenn ríkissjóðs verða að stíga á bremsurnar í ár og nota tímann til að búa í haginn fyrir sókn á næstu árum, þegar slaknar á hagkerfinu, með því að greiða niður skuldir og minnka þar með óhóflegan vaxtakostnað, sem enn nemur um 70 miaISK/ár.

Nú hefur gjaldeyrishöftum loksins verið aflétt, þótt svo kölluðum varúðartækjum Seðlabankans sé eðlilega haldið við.  Gagnrýni stjórnarandstöðunnar er hláleg og ljóst, að væri hún við völd, mundi ekkert hilla undir losun hafta.  Nú munu miaISK 90 fara út á genginu EUR/ISK=137,50, en aðrir fara út á um EUR/ISK=120.  Mistök Seðlabankans í fyrra lágu auðvitað í því að meta þróun ISK með röngum hætti.  Ef eitthvert gagn væri að svo kölluðum líkönum Seðlabankans af íslenzka hagkerfinu, hefðu þau ályktað af gríðarlegu innflæði gjaldeyris og 4 % raunvaxtamuni við útlönd um styrkingu ISK.  Þar með hefði eigendum snjóhengjunnar verið boðið hagstæðara gengi og þeir hraðað sér út, en spádómsgáfa vogunarsjóðanna reyndist spádómsgáfu Seðlabankamanna traustari.  Því miður verður að álykta af öllu þessu, að núverandi stjórnendur Seðlabanka Íslands geti fátt eitt rétt gert. 

Ljós í myrkri Svörtu lofta er, að ríkisstjórnin hefur nú skipað í verkefnisstjórn valinkunna hagfræðinga til að stjórna vinnu við endurskoðun laga og starfsreglna um Seðlabankann.  Verður að binda vonir við, að hannað verði bætt  stjórnkerfi og umfram allt, að peningamálastjórnunin taki stakkaskiptum.  Téður hópur hagfræðinga er í færum til að sníða Seðlabankanum stakk eftir vexti, þ.e.a.s. í stað þess að apa stjórnkerfi hans eftir öðrum, þá verði Seðlabankinn felldur almennilega að íslenzka hagkerfinu og sérþörfum þess.  Leiðisnúran er að færa honum tæki og tól til að leggja þungt lóð á vogarskálarnar gegn óstöðugleika í hagkerfinu, en núverandi þröngu stefnumið bankans eru ekki fallin til þess. 

Auðvitað mun Seðlabankinn aldrei ráða einn við það hlutverk að rata hér hinn gullna meðalveg lágrar verðbólgu, lítilla gengissveiflna, hás atvinnustigs og meiri hagvaxtar en í helztu viðskiptaríkjunum.  Aðilar vinnumarkaðarins gegna þar stóru hlutverki, og ríkisstjórnin er þar í veigamiklu hlutverki líka.

  Eitt af því, sem Seðlabankinn hefur flaskað á, eru dempandi áhrif erlendra starfsmanna hérlendis á s.k. launaskrið. Þess vegna m.a. eru verðbólguspár hans jafnan allt of háar undanfarin ár. Þessi dempun er jákvæð fyrir heildina, en skuggahliðar innflutts vinnuafls eru algerlega óviðunandi, en þær minna helzt á forneskjulegt þrælahald. 

Þann 15. marz 2017 ákvað Peningastefnunefnd Seðlabankans að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum, 5,0 %.  Þessi ranga ákvörðun sýnir, að Peningastefnunefnd situr í fílabeinsturni og kann ekki að greina hismið frá kjarnanum.  Seðlabankastjóri sér flísina í auga bróður síns, en ekki bjálkann í eigin auga.  Hann kennir ferðaþjónustunni um vandann og vill leggja einhvers konar hömlur á hana.  Það er einkennilegt, ef þau í Svörtu loftum telja helzt til ráða að slátra mjólkurkúnni.  Þatta er sama sagan, þegar Már Guðmundsson reyndi að afsaka mistök Gjaldeyriseftirlits bankans með því, að lögin um höftin og eftirlit með þeim væru ófullkomin og eiginlega gölluð.  Þetta er að búa í fílabeinsturni.  

Seðlabankastjóri færir helzt þau rök fyrir téðri vaxtaákvörðun, að mikill hagvöxtur sé í landinu og jafnvel vaxandi og atvinnulífið sé þanið til hins ýtrasta.  Þá vanmetur hann þá staðreynd, að 21´500 útlendingar eru á vinnumarkaðinum, sem stækkar vinnumarkaðinn um meira en 12,0 %.  Þá má benda á, að fjárfestingar 2016 sem hlutfall af VLF voru nálægt sögulegu meðaltali.  Heimili og fyrirtæki draga úr skuldsetningu sinni, svo að það er vandséð á hvaða peninganotkun háir vextir eiga að slá.  Aðilar í Peningastefnunefnd berja sér á brjóst og þakka háum vöxtum það, að fólk og fyrirtæki skuldsetja ekki við þessar aðstæður.  Það er grunnfærnisleg ályktun.  Meiri líkur eru á, að lánshæfismat bankanna á lánsumsækjendum dempi aukningu útlána en hátt raunvaxtastig. 

Um hættuleg áhrif núverandi vaxtastigs skrifar Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í Fréttablaðið 15. marz 2017:

"Vaxtalækkun er knýjandi:

"Rekstrarskilyrði þeirra [útflutningsgreinanna] hafa tekið stakkaskiptum til hins verra á undanförnum misserum vegna gengisstyrkingar og mikilla launahækkana.

Efnahagslífið hefur notið mikillar velgengni á undanförnum árum.  Verðmætasköpun atvinnulífsins og lífskjör landsmanna eru betri en nokkru sinni fyrr.  Mikill vöxtur útflutningstekna þjóðarbúsins og afgangur í viðskiptum við útlönd eru rót velgengninnar.  Afgangurinn hefur nýtzt til grynnkunar erlendra skulda.  Hagvöxtur er heilbrigður, því að hann stafar af auknum útflutningi og vaxandi einkaneyzlu, sem byggir á kaupmætti heimilanna, en ekki söfnun skulda, eins og oftast áður.

SA fagnar þeirri losun fjármagnshafta, sem tók gildi í vikunni [14.03.2017] og leiðir vonandi til betra jafnvægis í gengi krónunnar.  En meira þarf til, svo að styrking gengis krónunnar stöðvist og setji útflutningsgreinarnar [ekki] í þrot, þ.e. myndarleg vaxtalækkun Seðlabankans.  Samhliða skapast sterkur hvati fyrir íslenzka lífeyrissjóði til að auka verulega fjárfestingar sínar í erlendum gjaldmiðlum.  Sú ákvörðun er skynsamleg fyrir sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna og mun auka áhættudreifingu sjóðanna til lengri tíma. 

Hagsmunir almennings, fyrirtækja og lífeyrissjóða, eru samofnir, hvað varðar stöðugt og raunhæft gengi krónunnar.  Viðvarandi vaxtamunur við útlönd, sem býður fjárfestum upp á margfalda ávöxtun m.v. önnur ríki, leiðir til viðvarandi ásóknar í innlenda vexti, sem óhjákvæmilega stuðlar að styrkingu krónunnar.  Vaxtalækkun styður við atvinnulífið og gagnast heimilum með beinum hætti."

Það er hægt að taka undir þetta allt saman, og Halldór Benjamín ætlar að reynast sannspár um, að haftalosun ein og sér dugar ekki til að nálgast "raungengi" eða jafnvægisgengi ISK við aðrar myntir.  Svörtu lofta menn glötuðu tækifæri þann 15. marz 2017 til að stíga í takti við ríkisstjórnina og taka stórt skref í peningamálum til efnahagsjafnvægis með því að lækka stýrivexti um 0,5 %.  Þau á Svörtu loftum eru algerlega sér á báti og eru nú orðin sjálfstætt efnahagsvandamál. 

Hvert er "raungengið" núna ?  Lars Christensen, alþjóðahagfræðingur, ritar um það í Fréttablaðið 15. marz 2017, "Gjaldeyrishöftin kvödd !".  Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu, að ISK sé nú 10 %-15 % of hátt skráð, þ.e. að gengið þurfi að færast, þangað sem það var í ágúst-september 2016. Það þýðir, að bandaríkjadalur færi úr ISK 116 í ISK 125 og vísitala meðalgengis yrði rúmlega 160. 

Í lok greinarinnar kom Lars Christensen með athyglisverða ráðleggingu:

"Tvær lykilráðstafanir, sem ég myndi mæla með, væru að breyta markmiði Seðlabankans úr verðbólgumarkmiði yfir í nafnlaunamarkmið, og tengja afborganir húsnæðislána við nafnlaunaþróun frekar en við verðbólgu.  Þessar tvær stefnutillögur myndu draga verulega úr neikvæðum smitáhrifum af gengissveiflum. 

Þetta ættu að verða næstu umbætur, sem ríkisstjórnin tekur til athugunar."

Fljótt á litið verður ekki annað séð en báðar þessar tillögur séu skynsamlegar, og að þær mundu báðar virka í stöðugleikaátt.  Verkefnastjórn um endurskoðun peningamálastefnu hefur úr miklu að moða, en hún á að skila ríkisstjórninni tillögum fyrir árslok 2017.

 

   


Þýzkaland á tímabili Trumps

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, á ættir að rekja til Þýzkalands og Bretlandseyja.  Afi hans, Friedrich Trump, var frá Kallstadt í Pfalz. Nú hafa ummæli ráðamanna í Washington, þar sem köldu hefur blásið til Þýzkalands, NATO og Evrópusambandsins, ESB, valdið Þjóðverjum miklum vonbrigðum, jafnvel hugarangri.  Ástæðan er sú, að auk Þjóðverja sjálfra áttu Bandaríkjamenn mestan þátt í vel heppnaðri endurreisn Vestur-Þýzkalands, Sambandslýðveldisins, eftir heimsátökin og hildarleikinn 1939-1945, og Bandaríkjamenn eiga heiðurinn af traustri staðsetningu þýzku þjóðarinnar í samtökum vestrænna lýðræðisþjóða, þótt Bandaríkjamenn hafi þar auðvitað verið að gæta eigin hagsmuna ekki síður en annarra Vesturlanda í baráttunni við Jósef Stalín og eftirmenn hans í Kreml.  Þjóðverjar hafa síðan vanizt því að njóta skjóls af Bandaríkjamönnum, og nægir að nefna loftbrúna miklu til Vestur-Berlínar og ræðu Johns Fitzgeralds Kennedys við Berlínarmúrinn, "Ich bin ein Berliner", þegar allt ætlaði um koll að keyra af hrifningu í Þýzkalandi.  "Þá var öldin önnur, er Gaukur bjó á Stöng."

Nú hefur efnahagsráðgjafi Trumps, Peter Navarro, ásakað þýzku stjórnina um að möndla ("manipulate") með gengi evrunnar og þannig að misnota Bandaríkin og aðra, af því að evran sé veikari en þýzka markið væri, ef það væri enn í brúki.  Þetta er í raun og veru óboðlegur málflutningur frá æðstu stöðum í BNA.

Þessari gagnrýni úr Hvíta húsinu kunna Þjóðverjar gizka illa, enda er hún afar ósanngjörn.  Þetta kemur í kjölfar hótunar Trumps um að setja 35 % toll á BMW og lítilsvirðandi ummæla um NATO og ESB. Berlín stjórnar brúðuleikhúsinu í Brüssel og hefur undirtökin í Evrópu á öllum sviðum, nema hernaðarsviðinu, en verður nú að hækka framlög sín til varnarmála upp í 2,0 % af VLF eða upp í 60 miaEUR/ár að kröfu Hvíta hússins.  Þetta höfðu aðildarríkin reyndar skuldbundið sig til, þegar ógnin úr austri jókst, en flestir hunzað.  Ef Íslendingar þyrftu að gera hið sama, mundu slík útgjöld ríkissjóðs nema 50 miaISK/ár, sem er talsvert lægra en árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Íslendingar gætu þetta, en það mundi vissulega koma niður á öllu öðru, sem ríkissjóður fjármagnar.   

Þjóðverjar telja, að Trump eigi sjálfur "sök" á hækkun bandaríkjadals með því að lofa skattalækkunum og auknum fjárfestingum í innviðum, sem hafi leitt til vaxtahækkana Seðlabanka BNA og þar af leiðandi styrkingar bandaríkjadals, USD.  Mikill halli er á viðskiptum BNA við útlönd, og ætlar Trump að breyta þeim halla í afgang.  Þá mun bandaríkjadalur styrkjast enn.  Donald Trump siglir hins vegar ekki lygnan sjó, og virðast demókratar stefna á að koma honum frá völdum ("impeachment"), eins og Richard Nixon, en þó strax á fyrra kjörtímabilinu.  Ef þeir ná meirihluta á þingi árið 2018, gætu þeir rekið karlinn frá völdum í kjölfarið. Þá  verður líf í tuskunum. 

Forseti bankastjórnar Seðlabanka evrunnar, Ítalinn Mario Draghi, heldur stýrivöxtum bankans við núllið og kaupir alls konar skuldabréf, rusl segja sumir, til að örva efnahagslífið utan Þýzkalands.  Fjármálaráðherra Þýzkalands, Wolfgang Schäuble, varaði Draghi við að halda út á þessa braut, en af virðingu við sjálfstæði Seðlabankans lofaði hann Draghi því að gagnrýna hann ekki opinberlega fyrir tiltækið.  Það hafa hins vegar mikilsvirtir þýzkir hagfræðingar gert, t.d. einn af hugmyndafræðingum evrunnar, dr Otmar Issing.

Ein af ástæðum andstöðu Þjóðverja við þessa slökun á peningamálastefnunni var einmitt, að þá mundi viðskiptajöfnuður Þjóðverja vaxa mjög. Fyrirsjáanlegt var, að slíkt mundi skapa óstöðugleika í álfunni og óánægju víða. Nú gera Bandaríkjamenn Þjóðverja að blóraböggli fyrir stefnu, sem hinir síðar nefndu eru andsnúnir, þó að þeir virðist hafa grætt mest á henni.  Það er ekki öll vitleysan eins.  Hinir lágu vextir eru eitur í beinum Þjóðverja, því að þá minnkar ávöxtun af sparnaði þeirra hjá bönkum og líftryggingafélögum, sem starfa líka sem lífeyrissjóðir. Fjármögnun ellilífeyris þýzkrar alþýðu er í uppnámi, því að framlög þýzka ríkissjóðsins til sívaxandi fjölda ellibelgja munu líklega lækka, því að þýzkur vinnumarkaður mun senn skreppa saman, af því að Þjóðverjum hefur brugðizt bogalistin við að fjölga sér.

Viðskiptajöfnuður Þjóðverja er stærri en viðskiptajöfnuður Kínverja, og þar með sá mesti í heimi, og nemur 9,0 % af landsframleiðslu þeirra.  Þetta eru um 3375 EUR/íb eða 412 kISK/íb, og til samanburðar nam viðskiptajöfnuður Íslendinga árið 2016 um 7,1 % af landsframleiðslu, en þar sem landsframleiðsla á mann er hér hærri en í Þýzkalandi, þá var viðskiptajöfnuður á mann hér hærri eða 507 kISK/íb. Ísland og Þýzkaland skera sig að þessu leyti úr í Evrópu með jákvæðum hætti, og þótt víðar væri leitað.

Stærðarmunur þjóðanna gerir það hins vegar að verkum, að Íslendingar liggja ekki undir ámæli fyrir sinn góða árangur, en Þjóðverjar hafa mátt sæta gagnrýni fyrir vikið að hálfu Framkvæmdastjórnar ESB í Brüssel, AGS í Washington, fjármálaráðuneyti BNA og OECD síðan árið 2005, er þeir tóku ákvörðun um að bæta samkeppnishæfni Þýzkalands.  Aðilar vinnumarkaðarins beggja vegna borðsins tóku þá ákvörðun um að halda mjög aftur af umsömdum launahækkunum. Vegna þess að laun í öðrum evrulöndum hækkuðu meira en í Þýzkalandi eftir þetta, virkaði ákvörðun verkalýðssambanda og samtaka atvinnurekenda í Þýzkalandi sem gengislækkun á efnahagskerfið, þýzkar vörur hækkuðu minna en aðrar í verði, eða jafnvel ekkert vegna framleiðniaukningar, og atvinna jókst í Þýzkalandi. Árið 2005 var atvinnuleysi í Þýzkalandi 10,3 %, en árið 2015 aðeins 4,3 %.  Stefnan kennd við Peter Hartz undir forystu jafnaðarmanna við stjórnvölinn í Berlín svínvirkaði. Nú hafa laun tekið að hækka í Þýzkalandi á ný, og árið 2016 hækkuðu þau að jafnaði um 2,3 %, sem er þó innan við þriðjungur raunlaunahækkunar á Íslandi í fyrra. 

Þar sem Ísland er orðið eitt dýrasta land Evrópu, er nú höfuðnauðsyn að fylgja fordæmi Þjóðverja og spenna bogann lágt í komandi kjarasamningum, því að annars brestur strengurinn með þeim afleiðingum, að verðbólgan losnar úr læðingi, öllum til tjóns, og veldur þar mestu tjóni, sem minnst borð er fyrir báru nú. 

Það eru váboðar framundan hjá Þjóðverjum, eins og fleirum. Framleiðnin frá árinu 2008 hefur aðeins aukizt um 0,5 % á ári m.v. 3,25 %/ár áður í vöruframleiðslugeiranum. Í flestum þjónustugeirum hefur framleiðniaukning verið svipuð, og í fjármálageiranum og í opinbera geiranum hefur hún minnkað.  Hið sama er uppi á teninginum víðast hvar í OECD, og þar með í aðalviðskiptalöndum Íslands. 

Mikil skuldsetning dregur úr fjárfestingargetu, sem hægir á tækniframförum, sem yfirleitt leiða til aukinnar framleiðni.  Óðinn í Viðskiptablaðinu var hins vegar 9. febrúar 2017 með merkilega kenningu í ljósi stefnu Trumps um "America First" og innvistun framleiðslunnar, sem hefur þegar átt sér stað í Þýzkalandi.  Fylgir Trump bara strauminum ?:

"Annað, sem gerzt hefur á síðustu árum, er, að viðsnúningur hefur orðið í úthýsingu verkefna til annarra ríkja.  Undanfarna áratugi hafa þróaðri ríki, einkum Vesturlönd og Japan, flutt stóra hluta af frumframleiðslu til ríkja á borð við Kína.  Lengi vel var talað um Kína sem vinnustofu heimsins.  Undanfarin ár hefur orðið viðsnúningur á þessari þróun, og töluvert af framleiðsluferlum, sem áður fóru fram erlendis, hafa verið fluttir heim aftur til Þýzkalands [heim ins Reich - gamalt orðalag - innsk. BJo].  Má sem dæmi nefna, að í málmiðnaði jókst hlutur innlendra aðila í vergri virðisaukningu úr 34 % árið 2008 í 37 % í fyrra.  Í framleiðslu á raftækjum hefur hlutfallið aukizt úr 31 % í 34 % á sama tíma.  Þegar afkastaminni þættir í framleiðsluferlinu eru fluttir heim, kemur það niður á framleiðni í geiranum í heild sinni."

Þrátt fyrir hærri launakostnað heima fyrir, taka framleiðendur þetta skref til baka af ótta við þróun stjórnmála og efnahagsmála erlendis.  Kommúnisminn í Kína gæti verið kominn að leiðarlokum.  Mikið er um uppþot í Kína og fjöldamótmæli vegna spillingar og ódugnaðar embættismanna og svakalegrar loft- og vatnsmengunar.  Að lokum skrifaði Óðinn:

"Hér á landi er vandinn vissulega ekki fólginn í of lágum vöxtum, heldur er þvert á móti æskilegt að lækka vexti verulega.  Þetta [lágir vextir - innsk. BJo] undirstrikar hins vegar þann vanda, sem sem evrusvæðið - og reyndar Vesturlönd almennt, standa frammi fyrir.  Skýrsluhöfundar Commerzbank klykkja svo út með því að benda á, að verði ekki gripið inn í þessa þróun, sé hætt við því, að Þýzkaland stefni í japanskar aðstæður - þ.e. mjög lítinn hagvöxt til lengri tíma litið."

Útlitið í Evrópu er óbeysið.  Í Þýzkalandi sparar fólk mjög til elliáranna með því að leggja fyrir á banka.  Þar er mun minna um fjárfestingar fólks í íbúðarhúsnæði til eigin nota.  Neyzlustigið er tiltölulega lágt, enda Þjóðverjar nýtnir og sparneytnir frá fornu fari.  Þar er sparsemi dyggð.  Þegar gamlingjar Þýzkalands verða orðnir enn fleiri en nú eða um 2035, verður þó enn meira tekið út úr þýzkum bönkum en lagt verður fyrir, og þá mun hagkerfi landsins hafa veikzt svo mjög, að nágrannarnir þurfa ekki lengur að kvarta.  Þá verður margt annað líka með öðru móti en nú.  Framtíðin virðist vera ósjálfbær, en hver veit, nema Eyjólfur hressist.     

 

 


Verðmæti jarðgufu- og vindorkuréttinda

Stjórnvöldum á Íslandi er falið af Eftirlitsstofnun EFTA-ESA, líklega til að jafna samkeppnisstöðu, að koma því í kring, að öll fyrirtæki, sem stunda raforkuvinnslu úr orkulindum á landi í opinberri eigu eða umsjón, skuli greiða markaðstengt afnotagjald fyrir aðgang að þessum orkulindum. Þetta er væntanlega til að hindra rentusækni og jafna samkeppnisstöðu og á einnig við um nýtingu, sem þegar er hafin, og skal gilda allt til loka nýtingar. 

Það getur verið fróðlegt að kanna, hvaða upphæðir, væntanlega í sveitarsjóði, gæti hér verið um að ræða, og þá er auðvitað nauðsynlegt fyrst að verðmeta þessar orkulindir.  Það er hægt að gera á grundvelli lágmarksverðs, sem fá þarf fyrir raforkuna frá tiltekinni virkjun, með ávöxtunarkröfu, sem svipar til arðsemi annarra fjárfestinga með svipaðri áhættu.

Sem dæmi um jarðgufunýtingu til raforkuvinnslu má taka Þeistareykjavirkjun, sem nú er í byggingu.  Áætluð fjárfesting er MUSD 185.  Gera verður hærri ávöxtunarkröfu til jarðgufuvirkjana en til vatnsorkuvera vegna meiri rekstraráhættu, hér 9,0 %, og afskriftartíminn er styttri vegna óvissu um endingu jarðgufuforðans á staðnum, hér valinn 30 ár.  Rekstrarkostnaður er tiltölulega hár vegna meiri viðhaldsþarfar af völdum útfellinga, tæringar og gufuöflunar, hér valinn 5,0 %/ár af stofnkostnaði.  Þá fæst "kostnaðarverð" raforku frá Þeistareykjum 38 USD/MWh (=4,3 ISK/kWh), framlegð 66 % og rekstrarkostnaður 34 %. Sé umsamið raforkuverð lægra, er arðsemin óviðunandi í þessu ljósi.

Með þessu móti mun árleg framlegð virkjunarinnar nema 18 MUSD.  Til að leggja mat á verðmæti orkulindarinnar er nú ráð að núvirða þessar árlegu greiðslur í 25 ár, og fæst þá upphæðin MUSD 175 = miaISK 20,2. 

Ef gert er ráð fyrir, að eðli jarðgufuréttinda og vatnsréttinda sé hið sama í lagalegum skilningi, þá gildir dómur Hæstaréttar um, að Þjóðskrá Íslands skuli færa þessi verðmæti í fasteignaskrá, og þar með mega viðkomandi sveitarfélög innheimta af þeim fasteignagjald: FG=0,005 x 20,2 = 101 MISK/ár.  Jarðfræðingar hafa hugmynd um umfang nýtingarsvæðis fyrir gufuforða virkjunarinnar, og út frá því getur skipting þessa afnotagjalds farið fram á milli sveitarfélaganna. Annað mál er, hvað Alþingi ákvarðar, að stór hluti af slíku afnotagjaldi renni í jöfnunarsjóð sveitarfélaganna, því að jarðhiti er æði misjafn eftir sveitarfélögum, eða jafnvel í væntanlegan auðlindasjóð. 

Er meðalhófs gætt við þessa skattheimtu jarðgufuréttinda ?  Svarið er jákvætt, því að upphæð afnotagjaldsins nemur 4,9 % af árlegri framlegð virkjunarinnar, sem má kalla hófstillt, þegar litið er t.d. til álagningar svo kallaðra veiðigjalda, þar sem aðferðarfræðin er illa ígrunduð. 

Næst má snúa sér að vindmyllulundum og spyrja, hvort einhver glóra sé í því að taka gjald af fyrirtækjum fyrir að breyta vindorku í raforku ?  Því er til að svara, að í nafni jafnræðis á markaði er það nauðsynlegt, því að annars væru stjórnvöld að mynda fjárhagslegan hvata fyrir raforkuvinnslu úr vindorku, sem er skiljanlegt af umhverfisástæðum erlendis, en er algerlega ástæðulaust á Íslandi.  Vindorkan er enn þá dýrust í vinnslu á Íslandi af hefðbundnu orkuformunum þremur, fallvatnsorku, jarðgufuorku og vindorku, en kostnaðarbilið á milli hennar og hinna tveggja fer minnkandi með árunum. 

Það er engu að síður enn svo, að vinnslukostnaður raforku með vindmyllum á Íslandi ásamt kostnaði við að koma raforkunni inn í aðveitustöð fyrir stofnkerfistengingu, m.v. 7,0 %/ár ávöxtunarkröfu fjármagns og 30 ára afskriftatíma fjárfestingar, nemur 60 USD/MWh (=6,9 ISK/MWh), sem er hærra orkugjald en flestir neytendur þurfa að greiða um þessar mundir.  Fjárhagsleg réttlæting gæti þá einvörðungu falizt í að spara vatn í miðlunarlónum til að forða vatnsskorti, t.d. í Þórisvatni í tilviki Búrfellslundar. 

Er eitthvert vit í því ? Orkuvinnslugeta Búrfellslundar mun verða innan við 700 GWh/ár, sem er um 5 % af orkuvinnslugetu Landsvirkjunar um þessar mundir, svo að eftir litlu er að slægjast, sérstaklega í ljósi yfirstandandi loftslagsbreytinga. 

Með hækkandi meðalhitastigi í lofti yfir Íslandi má búast við meiri ársúrkomu og mildari vetrum, svo að innrennsli miðlunarlóna mun vaxa og árstíðasveifla álags raforkukerfisins minnka.  Allt virkar þetta í þá átt að draga úr líkum á "þurrum árum", þegar vænta má raforkuskorts vegna vatnsleysis. Betri vatnsbúskapur af þessum völdum mun sennilega jafngilda meiri orkuvinnslugetu vatnsorkukerfisins en áformaðri vinnslugetu Búrfellslundar nemur. 

Búrfellslundur eða aðrir vindmyllulundir verður þess vegna ekki hagrænt gagnlegur fyrr en meir hefur dregið saman með raforkukostnaði frá vindmyllum og öðrum virkjunum, t.d. þegar vinnslukostnaður vindmylla hefur lækkað um 20 % frá því, sem nú er. Það gæti orðið upp úr 2020.

Ef/þegar vindmyllulundur verður reistur á Hafinu norðan Búrfells, mun arðsemi þess fjármagns, sem þar verður bundið, verða innan við 5,0 % m.v. núverandi raforkuverð í landinu og fjárfestingarþörf 2,0 MUSD/MW.  Ef hins vegar Landsvirkjun skyldi takast að fá 6,9 ISK/kWh, þá verður framlegðin 80 % eða 3,9 miaISK/ár. 

Til þess að meta verðmæti þessarar staðsetningar til að nýta vindorku til að framleiða rafmagn án tillits til "umhverfiskostnaðarins", sem sumir telja frágangssök, en þarfnast vandaðs mats, þarf, eins og áður, að  núvirða framlegðina yfir 25 ár, og fæst þannig upphæðin 392 MUSD = miaISK 45,1, sem þá eru verðmæti vindorkuréttindanna á þessum stað. 

Árlegt fasteignagjald af þessari upphæð: FG = 0,005 x 45,1 = MISK 226, sem eru 5,8 % af árlegri framlegð vindmyllanna við 6,9 ISK/kWh. 

Ef umsamið orkuverð frá vindmyllunum verður lægra, verður framlegðin og þar með verðmæti virkjunarréttindanna að sama skapi lægri. 

Kjarni málsins er, að auðvelt er að þróa almenna aðferð til að leggja mat á virkjunarréttindi, hvaða nafni, sem þau nefnast, og reyndar má beita henni á hvers konar arðgæfar náttúruauðlindir og vega á móti ávinninginum af að aðhafast ekki.  Það er brýnt, réttlætisins vegna, að látið verði af uppteknum hætti að bleyta þumalfingurinn og stinga honum upp í loftið til að slá á verðmæti náttúruauðlinda. 

Þrýstingur er nú þegar á stjórnvöld að hálfu sveitarfélaganna og ESA hjá EFTA að leggja fram frumvarp, sem taki mið af markaðinum, mismuni engum á markaðinum og gæti meðalhófs við álagningu afnotagjalds af orkulindunum. Boltinn er hjá ráðuneyti og Alþingi.

 


Verðmæti náttúruauðlinda

Enn er aðeins innheimt afnotagjald af miðunum við Ísland af öllum náttúruauðlindunum.  Aðferðarfræðin við það er of flókin og afturvirk, og niðurstaðan er rekstri margra útgerða þungbær, af því að afnotagjald fyrir aðgang að miðunum getur skorið væna sneið af framlegð fyrirtækjanna. 

Þessi skattheimta er óréttlát, af því að hún mismunar atvinnugreinum. Afkoma útgerðanna getur snarbreytzt á einu ári, og þess vegna er ótækt að miða afnotagjald við afkomuna fyrir 2-3 árum.  Þar að auki eru engar hömlur á því, hversu stóran hluta framlegðar fyrirtækjanna ríkið haldleggur með afnotagjaldi miðanna.  Setja ætti þak við afnotagjald allra náttúruauðlinda við t.d. 6,0 % af framlegð, og sé afkoma útgerðar svo lakleg, að framlegðin nái ekki 20 % af söluandvirði aflans, þá ætti að fella afnotagjaldið niður á því ári, enda borgar útgerðin að öðru leyti opinber gjöld að jöfnu við önnur fyrirtæki, nema tryggingagjaldið er óvenjuhátt á útgerðirnar, og er brýnt að samræma það, um leið það verður almennt lækkað. 

Hvers vegna býður ríkið ekki fram samræmingu (lækkun) á tryggingagjaldinu sem lokahnykk í sáttaferli, er e.t.v. feli í sér dagpeningagreiðslur og hefðbundna skattameðferð þeirra á móti ásamt ofangreindu þaki á veiðigjöldin ?  

Það hefur dregizt úr hömlu að jafna aðstöðu fyrirtækja í landinu, sem hafa aðgang að náttúruauðlindum í almenningum, þjóðlendum eða í annars konar opinberri umsjá eða eigu.  Sú staðreynd hefur ratað alla leið á borð ESA. Þann 20. apríl 2016 kvað eftirlitsnefnd EFTA, ESA,upp úrskurð þess efnis, að ríkisstjórninni bæri að eiga frumkvæði að lögfestingu aðferðarfræði við að meta verðmæti orkulinda í náttúrunni í opinberri eigu eða umsjá, sem nýttar eru til raforkuvinnslu, í þeim tilvikum, sem markaðsverð hefur ekki þegar myndazt; þessi aðferðarfræði skal vera markaðstengd, þ.e.a.s. rafmagnsframleiðendur skulu borga markaðsverð fyrir afnot náttúruauðlinda, þ.e. vatnsréttinda, jarðgufuréttinda og vindréttinda. Ef hafstraumar, haföldur eða sjávarföll verða nýtt í framtíðinni, mun hið sama gilda um þessar orkulindir.  Fyrir ólíkar orkulindir er nauðsynlegt að þróa heildstæða aðferðarfræði við verðmætamatið. 

Jafnframt ber ríkisstjórninni að sjá til þess með lagafrumvarpi, samkvæmt téðum úrskurði, að öll orkuvinnslufyrirtæki greiði "markaðsverð" fyrir vatnsréttindi, jarðgufuréttindi eða vindréttindi. Þetta á líka við um gildandi orkusamninga, þar til þeir renna út, en ekki afturvirkt.  Það þarf þess vegna að drífa í þessu.  Spurningin er: hvernig ?

Það eru dæmi um afnotagjald vatnsréttinda í landinu fyrir smávirkjanir. Þar virðist yfirleitt miðað við ákveðinn hundraðshluta af sölutekjum virkjunar. Í mörgum tilvikum stærri virkjana er orkuverðið þó óþekkt.  Það er tilgreint í orkusamningi, sem leynd hvílir yfir, og það tengist einhverri annarri breytu, t.d. afurðaverði orkukaupandans eða vísitölu neyzluverðs í Bandaríkjunum, BNA, af því að umsamið raforkuverð er yfirleitt í bandaríkjadölum, BNA. 

Það er ósanngjarnt að taka ekki tillit til rekstrarkostnaðar við að breyta fallorku vatnsins í rafmagn, og þess vegna er eðlilegra að leggja framlegð nýrrar virkjunar af sama tagi með sams konar viðskiptavini til grundvallar álagningu afnotagjalds vatnsréttinda. 

Það hafa gengið dómsmál á milli Landsvirkjunar og sveitarfélaganna, sem eiga hagsmuni af því, hvernig verðmætamati vatnsréttinda fyrir Fljótsdalsvirkjun er háttað.  Hæstiréttur úrskurðaði í október 2015, að sveitarfélög, sem hafa virkjaðar ár í sínu landi og arðgæf vatnsréttindi, geti óskað eftir því við Þjóðskrá Íslands, að hún meti vatnsréttindin til fasteignamats.  Þar með opnast möguleiki fyrir sveitarfélögin að leggja fasteignaskatt á fyrirtækin, sem fénýta þessi vatnsréttindi. 

Deilur á milli hagsmunaaðila hafa einnig risið um í hvaða fasteignaflokk ætti að skrá vatnsréttindin.  Yfirfasteignamatsnefnd kvað upp úrskurð sinn um þetta 15. desember 2016.  Fasteignaskatt vegna vatnsréttinda kærenda í Fljótsdalshreppi skal ákvarða samkvæmt a. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga jafnt innan sem utan þjóðlendu. 

Ákvæðið tilgreinir skattheimtu allt að 0,5 % af fasteignamati með 25 % viðbót við sérstakar aðstæður.  Sveitarfélagið hafði krafizt heimildar til skattheimtu samkvæmt c. lið laganna, sem heimilar þrefalt hærri skattheimtu, en úrskurðurinn ætti að vera vel viðunandi fyrir báða aðila. 

Það er hins vegar verðmætamatinu sjálfu, sem er enn þá ábótavant.  Í ágúst 2007 komst matsnefnd að þeirri niðurstöðu, að verðmæti vatnsréttinda, sem nýtt eru í þágu Fljótsdalsvirkjunar, skuli vera miaISK 1,54. Þetta er aðeins 1,0 % af upphæðinni, sem aðferðarfræði blekbónda, sem hér er kynnt til sögunnar, leiðir til. Krafa vatnsréttarhafa hljóðaði hins vegar upp á rúmlega miaISK 25, svo að þar er einnig ginnungagap á milli, sem sýnir, að það bráðvantar heildstæða aðferðarfræði við verðmætamat vatnsréttinda.  Uppgefin viðmiðun handhafa vatnsréttindanna var líka út í hött, þar sem hún virðist hafa verið meðalverð seldrar orku í landinu við stöðvarvegg árið 2006, sem var gefið á bilinu 2,07 kr/kWh-2,18 kr/kWh, sem m.v. gengi á miðju ári 2006, USD/ISK = 67,5, svarar til 31,4 USD/MWh (bandaríkjadala á megawattstund). 

Meðalsöluverð raforku í landinu á ákveðnu ári kemur  hins vegar þessu máli ekki við.  Það, sem er rökrétt að leggja til grundvallar verðmætamati ákveðinna vatnsréttinda, er "kostnaðarverð" raforku frá sambærilegri virkjun með sambærilegt álag og með venjulega ávöxtunarkröfu slíkra fjárfestinga, hér 7,0 %/ár, venjulegan afskriftatíma slíkra mannvirkja, 40 ár, og hefðbundinn rekstrarkostnað slíkra virkjana, hér 1,0 %/ár af stofnkostnaði. Nota mætti uppfærðan stofnkostnað virkjunar, sem í hlut á.  

Síðan skal núvirða árlega framlegð slíkrar virkjunar yfir samningstímabil orkusölunnar, t.d. 25 ár, og fást þá reiknuð verðmæti vatnsréttindanna.  Í tilviki Fljótsdalsvirkjunar er niðurstaða blekbónda MUSD 1329 = miaISK 153 (USD/ISK=115), sem er 6-falt verðmætamat sveitarfélaganna Fljótsdalshrepps og Fljótsdalshéraðs, sem eru hagsmunaaðilar ásamt Landsvirkjun. 

Árlegur fasteignaskattur til viðkomandi sveitarsjóða:  FS=153 miaISK x 0,005=765 MISK, og er eðlilegt, að sveitarfélögin skipti honum á milli sín í hlutfalli við landareignir m.v. hámarks ummál miðlunarlóns og lengd árfarvegar, sem virkjað vatn fer um í viðkomandi sveitarfélagi. 

FS er ívið hærri en fæst samkvæmt tíðkaðri markaðsaðferð um smávirkjanir, en þá ber að hafa í huga, að orkuverðið frá Fljótsdalsvirkjun er í lægri kantinum um þessar mundir vegna lágs álverðs. 

Verður þessi skattheimta íþyngjandi fyrir Landsvirkjun ?  FS mun nema um 5,8 % af árlegri framlegð virkjunarinnar.  Sé litið til afnotagjalda sjávarútvegsins af veiðiheimildunum, þá hafa þau undanfarin ár iðulega numið tvöföldu þessu hlutfalli af framlegð útgerðanna eða yfir 10 %, sem er sannarlega íþyngjandi og skekkir (veikir) samkeppnisstöðu sjávarútvegsins verulega.  Sú skattheimta af fyrirtækjum, sem nýta rennandi vatn til raforkuvinnslu, sem hér er lögð til, jafnar aðstöðu fyrirtækja í landinu, sem nýta náttúruauðlindir, og það er vissulega gætt meðalhófs.  Til að tryggja þetta meðalhóf ætti að setja hámark 6,0 % af framlegð fyrirtækja í afnotagjald af auðlindum náttúrunnar. 

Það er grundvallaratriði, að allar greinar orkuvinnslunnar njóti jafnræðis gagnvart skattheimtu, og sama má segja um allar greinar, sem nýta náttúruauðlindir.  Þar er ferðaþjónustan ekki undan skilin.  Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að þróa samræmda og almenna aðferðarfræði við verðmætamat auðlinda, ef markaðurinn hefur ekki nú þegar myndað verð á þeim.

Í næstu vefgrein verður fjallað um verðmætamat jarðgufuréttinda og vindréttinda.

Búðarháls úr lofti 10.07.2012

 


Jafnvægi og framsýni

Fyrrverandi fjármálaráðherra hafði betri tök á starfinu en margir forvera hans.  Hann einfaldaði skatta- og innflutningsgjaldakerfið mikið, til hagsbóta fyrir alla, og umbæturnar virkuðu til verðlagslækkunar, og eru ein skýringin á lágri verðbólgu undanfarin misseri, miklu lægri en í öllum verðlagsspám Seðlabankans, sem eru kapítuli út af fyrir sig. 

Þá lagði hann sem fjármála- og efnahagsráðherra grunn að losun gjaldeyrishaftanna með samningum við þrotabú föllnu bankanna, sem eru almenningi hérlendis mjög hagstæðir, mun hagstæðari en flestir bjuggust við. 

Síðast en ekki sízt hefur hann með aðhaldi í rekstri ríkissjóðs og örvun hagkerfisins náð að rétta hann svo mjög við, að við árslok 2016 námu skuldir A-hluta ríkissjóðs tæplega 40 % af VLF, sem er með því lægsta sem þekkist í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, en voru hæstar árið 2010 eða rúmlega 60 % af VLF. 

Þá lagði hann grunninn að fjármálastefnu ríkisins til 5 ára, sem er öflugt stjórntæki til eflingar fjármálastöðugleika. 

Nú er kominn nýr fjármála- og efnahagsráðherra, og fjármálaáætlun hans þykir mörgum vera of laus í reipunum með þeim afleiðingum, að geta ríkissjóðs til að taka á sig efnahagsáföll á gildistíma fjármálaáætlunarinnar verður ófullnægjandi og mun minni en í aðdraganda Hrunsins.  

Í janúar 2017 myndaði Bjarni Benediktsson sína fyrstu ríkisstjórn.  Þann 19. janúar 2017 ritaði hann grein í Morgunblaðið:

"Með jafnvægi og framsýni að leiðarljósi", þar sem hann útlistaði Stjórnarsáttmálann ögn nánar og gaf innsýn í, um hvað ríkisstjórn hans er mynduð:

"Ný ríkisstjórn vill nálgast úrlausn mála undir merkjum frjálslyndis og réttsýni.  Ísland á að vera eftirsóknarvert fyrir alla þá, sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenzkt samfélag til framtíðar.  Mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð, ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum, mynda þar sterkan grunn."

Málefni heilbrigðiskerfisins munu reka oft á fjörur ríkisstjórnarinnar, enda er það að mestu fjármagnað og rekið af ríkissjóði, og þar er við mikil vandkvæði að fást. Að jafnviðkvæm starfsemi skuli vera svo háð duttlungum stjórnmálamanna, er stórgalli og stjórnunarlegur veikleiki. Taka þarf fyrirmyndir frá nágrannalöndunum og stefna á, að veita sjúkrahúsunum fé per sjúkling eftir eðli máls. Reyna þarf að mynda fjárhagshvata til bætts rekstrarárangurs, sem vantar að mestu í núverandi fjármögnunarkerfi.

Við ákvarðanir, sem þarf að taka um þróun heilbrigðiskerfisins á kjörtímabilinu, er ekki ónýtt að hafa ofangreint stefnumið í blaðagreininni að leiðarljósi.  Það á t.d. við um spurninguna, hvort leyfa eigi einkafyrirtæki, sem Landlæknir hefur úrskurðað faglega hæft, að stunda sérhæfðar læknisaðgerðir og umsjá í kjölfarið í takmarkaðan tíma, t.d. 5 sólarhringa, sem meiri spurn er eftir en Landsspítalinn getur annað um þessar mundir með hræðilega löngum biðlistum sem afleiðingu. 

Jákvætt svar ríkisstjórnarinnar við ósk hæfs einkafyrirtækis um að fá að veita slíka þjónustu með sama kostnaði fyrir ríkissjóð og sjúklingana og á Landsspítalanum væri til merkis um frjálslyndi, og réttsýni væri fólgin í að jafna ögn stöðu ríkis og einkafyrirtækja á þessum markaði. Hvers vegna má ekki veita Landsspítalnum örlitla samkeppni ? Núverandi fyrirkomulag annar ekki eftirspurn og er ekki heilög kýr.  Það er hrjáð af göllum einokunar.

Þá mundi jáyrði skapa fleiri sérfræðingum tækifæri til að koma heim til Íslands og "byggja upp íslenzkt samfélag til framtíðar".  Þá mundi jákvæð afstaða ríkisstjórnarinnar falla algerlega að síðustu tilvitnuðu málsgreininni í téðri blaðagrein.  Neikvæð afstaða mundi ekki efla mannréttindi, hér atvinnuréttindi, jöfnun tækifæra, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð. Orðum þurfa að fylgja gjörðir, ef traust á að takast að mynda.  Varðhundar kerfisins urra slefandi fyrir utan.  Ráðherra þarf að vera hundatemjari líka.  Grimmir hundar rífa heybrækur á hol.

"Á marga mælikvarða stöndum við Íslendingar vel, þegar borin eru saman lífskjör þjóða.  Frekari sókn mun byggjast á því, að okkur takist að auka samkeppnishæfni landsins, bæta framleiðni og fjölbreytni í atvinnulífinu, skapa ný verðmæti og fjölga vel borgandi störfum.  Þetta mun tryggja getu okkar til að halda áfram að byggja upp heilbrigðisþjónustuna, draga úr kostnaði sjúklinga, efla menntakerfið og bæta samgöngur.  Ný ríkisstjórn hyggst bæta og styrkja heilbrigðisþjónustuna, því að örugg og góð heilbrigðisþjónusta, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, er forgangsmál."

Mikilvægur mælikvarði á efnahagslega velgengni þjóða er landsframleiðsla á mann (með íslenzkt ríkisfang).  Á þessari öld hefur hún þróazt með jákvæðum hætti, ef undan eru skilin árin 2008-2010.  Að meðaltali hefur þessi vöxtur verið 1,6 %/ár, og árið 2016 var Ísland komið í 10. sæti, hvað þetta varðar, á eftir Lúxemborg, Sviss, Noregi, Qatar, Írlandi, Bandaríkjunum, Singapúr, Danmörku og Ástralíu, og var röðin þessi frá 1-9. 

Þessi röð er þó ekki mælikvarði á kaupmátt launa, því að verðlag er ólíkt frá einu landi til annars.  Samkvæmt Peningamálum Seðlabankans 2016/1 var búizt við hækkun launakostnaðar á framleidda einingu um 9,3 % (8,7 %) 2016, 4,7 % (4,1 %) 2017 og 5,0 % (3,7 %) árið 2018, og, að kaupmáttur ráðstöfunartekna ykist um tölurnar í svigunum.  Það lætur nærri, að launakostnaður á framleidda einingu vaxi tvöfalt meira en landsframleiðslan á mann, og það sýnir, hversu viðkvæm fyrirtækin, sem undir kjarabótunum standa, hljóta að vera gagnvart ágjöf.  Slík ágjöf er t.d. hækkun gengisskráningar, minni hagvöxtur o.s.frv. 

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, bendir á þessa veikleika í viðtali við Snorra Pál Gunnarsson í Viðskiptablaðinu 2. febrúar 2017,

"Óábyrg fjármálastefna",

þar sem hún gagnrýnir þensluhvetjandi fjármálastefnu núverandi fjármála- og efnahagsráðherra.  Hún hefur gert næmnigreiningu á stöðugleika rekstrarafkomu ríkissjóðs og fundið út, að miðað við hagvaxtarspá stjórnvalda verður rekstrarafgangur 1,0 %/ár - 1,6 %/ár af VLF árabilið 2017-2022, en verði hagvöxtur 1,0 %/ár minni en spáin, sem hæglega getur gerzt, þá snarist á merinni og hallinn verði allt að 2,5 %/ár af VLF/ár.

Umsvif hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, eru mjög mikil á Íslandi, og hvorki heilbrigð né sjálfbær, og fjármálastefnan setur þakið við 41,5 % af VLF. 

"Er svo komið, að umfang hins opinbera í hagkerfinu er hvergi meira innan OECD en í háskattalandinu Íslandi, þar sem skatttekjur eru 34 % af VLF, og opinberir aðilar ráðstafa um 42 % af allri verðmætasköpun í landinu." 

Það er alveg öruggt, að þessi gríðarlegu opinberu umsvif á Íslandi virka hamlandi á framleiðniaukningu og sjálfbæran hagvöxt, sem undanfarið hefur verið haldið uppi af ósjálfbærri aukningu ferðamannafjölda hingað til lands.  Uppskurðar og skattalækkunar er þörf til að landið verði samkeppnihæft til lengdar.  Í landinu eru stjórnmálaöfl blindingja allöflug, sem vilja leiða landsmenn fram af bjargbrúninni, eins og læmingja.  Ef/þegar það gerist, er nauðsynlegt, að staða ríkissjóðs sé miklu sterkari en nú.  Um þetta segir Ásdís í viðtalinu:

"Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir afgangi á rekstri hins opinbera í fjármálastefnunni, er þetta lítill afgangur miðað við forsendurnar um áframhaldandi hagvöxt. Áætlaður afgangur miðar við samfelldan hagvöxt næstu 5 árin á grundvelli hagspár Hagstofunnar.  Stefnan treystir þannig á, að núverandi hagvaxtarskeið verði það lengsta í sögu lýðveldisins eða 12 ár.  Ef hagvöxtur verður 1 %/ár minni en gert er ráð fyrir, getur afgangur breytzt í umtalsverðan halla, eins og við sýnum fram á með næmnigreiningu.  Það má því lítið út af bregða. 

Þetta er sérstaklega mikið áhyggjuefni í ljósi alvarlegrar skuldastöðu hins opinbera.  Hið opinbera er meira en tvöfalt skuldsettara nú en í aðdraganda bankakreppunnar árið 2008.  Samkvæmt áætlunum stjórnvalda verða opinberar skuldir áfram meiri en á síðasta þensluskeiði næstu 5 árin, þrátt fyrir að ráðstafa eigi stöðugleikaframlögum og arðgreiðslum til skuldalækkunar.  Að mati SA er því ekki verið að greiða skuldir nógu hratt og ekkert er í hendi með ráðstöfun fjármuna til skuldalækkunar."   

Hér liggur víglínan á milli frjálslyndis með ábyrgðartilfinningu og afturhalds með ábyrgðarlausum yfirboðum í landinu um efnahagsmálin.  Við  misheppnaðar stjórnarmyndunartilraunir Katrínar Jakobsdóttur og Birgittu Jónsdóttur var verið að leggja drög að þveröfugri stefnumörkun en Ásdís leggur áherzlu á.  Það var ætlunin að sprengja hér allt í loft upp, meðvitað eða ómeðvitað, með því að draga úr skuldalækkun ríkissjóðs og hækka skatta á almenning, einstaklinga og fyrirtæki, til að gefa eldsneytisgjöfina í botn hjá hinu opinbera, sem þá hefði á skömmum tíma þanizt upp í 50 % af VLF, stöðnun og óðaverðbólgu ("stagflation"). 

Núverandi ríkisstjórn er á réttri leið, en hún teflir með útgjöldum ríkissjóðs á tæpasta vað og leggur ekki fram nógu framsýna, róttæka og örugga fjármálastefnu til að varðveita stöðugleikann og undirbúa varnir gegn næstu niðursveiflu, sem sennilega verður innan 5 ára. 

"Ásdís segir fjármálastefnuna og áætlanir stjórnvalda í fjármálum hins opinbera einkennast af ábyrgðarleysi auk skorts á framtíðarsýn og forgangsröðun með betri nýtingu fjármuna að leiðarljósi."

Fjármála- og efnahgsráðherra er þar með sendur "back to the drawing desk", hann verður að lesa betur tilvitnaða grein forsætisráðherra: "Með jafnvægi og framsýni að leiðarljósi", koma síðan til baka frá teikniborðinu og kæla hagkerfið áður en sýður uppúr.

""Þess vegna óskum við eftir því, að stjórnvöld sýni ábyrgð og leggi fram langtímaáætlanir um það, hvernig eigi að bæta úr skák og skapa skilyrði til að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki, t.d. með agaðri forgangsröðun, hagkvæmari nýtingu fjármuna og fjölbreyttari rekstrarformum.  Þar liggja tækifæri t.a.m. á sviði heilbrigðismála og menntamála", segir Ásdís.

"Einhvern tímann mun koma fram aðlögun, og við óttumst, að ekki sé verið að búa í haginn fyrir það, eins og staðan er núna. Ef til bakslags kemur, erum við óundirbúin.""


Vindmyllur, hagnaður og sparnaður

Furðu hefur vakið áhugi Landsvirkjunar á að setja upp s.k. vindmyllulundi á Íslandi.  Hafa menn ekki vitað, hvaðan á þá hefur staðið veðrið, af því  að raforkan frá vindmyllum er 2-3 sinnum dýrari í vinnslu en raforka frá hefðbundnum íslenzkum orkuverum, sem nýta fallorku vatns og jarðgufuþrýsting, og á þá eftir að bæta við kostnaði við að tengja e.t.v. 50 vindmyllur í hverjum lundi við stofnkerfið, en það er tiltölulega miklu dýrara að tengja 70x3 MW en 1x200 MW virkjun við stofnkerfið.

Menn láta stundum, eins og umhverfisáhrif vindmyllanna séu hverfandi.  Á íslenzkan mælikvarða er það þó alls ekki svo, því að þær setja mikinn svip á umhverfið og eru plássfrekar, eins og sést af því, að 200 MW vindmyllulundur spannar svæði á stærð við Hálslón, sem miðlar vatni til 690 MW fallvatnsvirkjunar. 

Hugmyndir Landsvirkjunar hafa lent í andbyr Verkefnisstjórnar Rammaáætlunar, sem setti Búrfellslund í bið, og Skipulagsstofnun ríkisins ályktar, að Landsvirkjun skuli endurskoða áform um að reisa 200 MW vindorkulund á Hafinu norðan Búrfells:

"Niðurstöður um mikil umhverfisáhrif gefa, að mati stofnunarinnar, tilefni til að skoða, hvort önnur landsvæði henti betur fyrir uppbyggingu af þessu tagi og umfangi.  [Hér á Skipulagsstofnun væntanlega við að þyrma óbyggðunum við þessum skrímslum, en staðsetja þær fremur í byggð.  Sveitarstjórnir eru sumar þó ekki ginnkeyptar fyrir því. - innsk. BJo]  Þá kann að vera tilefni til að skoða, hvort umfangsminni uppbygging á betur við á þessu svæði, bæði hvað varðar hæð og fjölda vindmylla".

Skipulagsstofnun fellst að svo stöddu ekki á það að leggja allt að 40 km2 undir tæplega 70 vindmyllur með mestu hæð frá jörðu 150 m.  Skipulagsstofnun telur þessi áform falla illa að "Landsskipulagsstefnu 2015-2026 um vernd víðerna og landslagsheilda".

Ágreiningur er uppi á milli sveitarstjórna og Landsvirkjunar um fasteignagjald af vindmyllum, og minnir það á dómsmál Landsvirkjunar gegn sveitarfélagi á Austurlandi um gjaldflokk vatnsréttinda.  Ljóst er, að leigugjald af landinu (þjóðlendu ?)undir 200 MW vindmyllulund getur orðið umtalsvert, og í raun er verið að haldleggja rými á Hafinu, sem nemur 6,0 km3, og landið verður allt sundurgrafið fyrir háspennustrengi frá hverri vindmyllu að aðveitustöð. Þetta hlýtur að koma til skoðunar við mat á fasteignagjaldi með svipuðum hætti og vatnsréttindi eru andlag fasteignagjalds.

 Hérlendis mundi vindmyllulundur af þessu tagi, sem að uppsettu afli er um 200 MW og getur framleitt um 700 GWh/ár, nýtast orkukerfinu bezt til að spara miðlunarvatn í Þórisvatni.  Þessi orka er tæplega 5 % af núverandi hámarks vinnslugetu Þjórsár/Tungnaár svæðisins, þ.e.a.s. 70 vindmyllur á Hafinu mundu hafa lítil áhrif á orkuvinnslugetu raforkukerfisins.  Þær munu framleiða svipaða orku á ári og 90 MW Þeistareykjavirkjun, sem nú er verið að byggja, en kostnaður við vindmylluorkuna verður a.m.k. tvöfaldur orkukostnaður Þeistareykjavirkjunar, og umhverfiskostnaður sýnilega verulegur m.v. það, sem Íslendingar eiga að venjast frá virkjunum.  

Þegar þess er gætt, að afrennsli vatnasviðs Þórisvatns fer vaxandi vegna hlýnunar og aukinnar úrkomu,  umfram þau 5 %, sem hér um ræðir, verður ljóst, að þessi vindmyllulundur er mjög óskynsamleg ráðstöfun m.t.t. fjárnýtingar og landnýtingar, nánast eins og út úr kú. 

Hvernig skyldi þessu nú víkja við með aflið ?  Í stuttu máli er eins vitlaust og hugsazt getur að reisa vindmyllur til að geta brugðizt við afltoppum í kerfinu.  Það eru tvær ástæður fyrir því: 

Sú fyrri er, að þegar þörf kann að vera á aflinu, þá er undir hælinn lagt, hvort það er tiltækt frá vindmyllulundi, þ.e. hvort byrlega blæs til raforkuvinnslu þar þá stundina.

Sú seinni er, að s.k. ársmegawatt (árskostnaður per MW) er langdýrast frá vindorkuverum af öllum tegundum sjálfbærra virkjana hérlendis.  Ef ársmegawattið kostar 100 kUSD/MW frá Búrfelli 2, sem nú er verið að byggja, þá kostar það 180 kUSD/MW frá Þeistareykjavirkjun og 235 kUSD/MW frá vindmyllulundi. 

Það er enginn fjárhagslegur hvati finnanlegur fyrir vindmyllulund til að framleiða raforku inn á íslenzka stofnkerfið. Annað mál er, að einkaaðilar reisi vindmyllur til að spara sér raforkukaup af þessu sama neti, þar sem flutningskostnaður og dreifikostnaður myndar lungann af kaupverði orku.

Það er hvorki skynsamlegt að reisa vindmyllulund á Íslandi til að afla orku né afls fyrir stofnkerfið. Allt öðru máli gegnir erlendis, þar sem hagkvæmari kostir til að framleiða raforku úr endurnýjanlegum orkulindum eru ekki fyrir hendi, nema þá sólarhlöður, og gagnsemi þeirra er víða stopul.  Núverandi kostnaður raforku frá vindrafstöðvum á landi á Englandi er t.d. 115 USD/MWh, sem passar vel við 90 USD/MWh á Íslandi, þar sem nýtingartími uppsetts afls er um þriðjungi lengri vegna vindasamara veðurfars á Íslandi.  

Þann 15. desember 2015 kynnti Viðskiptablaðið sveigjanlegri aflsamning Landsvirkjunar við sölufyrirtækin, sem virðist snúast um, að þau þurfi ekki að kaupa ársafltopp  (MW) allt árið, heldur geti sniðið aflkaup við breytilega þörf eftir árstíma.  Með þessu segist Hörður Arnarson geta sparað allt að 138 MW aflþörf. Viðskiptablaðið hefur eftir honum:

"Hann segir, að frekar sé verið að afstýra því að fara út í kostnaðarsamar fjárfestingar, sem síðan myndu fara út í verðlagið.  Ef ekkert hefði verið að gert, hefði fyrirtækið líklega þurft að leggja í svipaðar framkvæmdir og nú séu í gangi í Búrfelli. "Til að mæta þörf fyrir 150 MW af afli hefði þurft að fara í u.þ.b. miaISK 15 framkvæmdar."

Þetta er ófélegur boðskapur.  Því er hótað, að þegar að því kemur, að Landsvirkjun þarf að virkja til að mæta aflaukningu almenningsveitna, þá muni hún hækka orkuverðið.  Skýringin á því gæti verið hækkandi jaðarkostnaður, þ.e. næsta virkjun verður dýrari en síðasta virkjun. 

Þetta er hins vegar ósanngjörn verðlagningarstefna gagnvart almenningi, sem svo vill reyndar til, að á alla Landsvirkjun um þessar mundir.  Sanngjarnt er bæði fyrir fyrirtækið og eiganda þess, að almenningur borgi samkvæmt meðalkostnaði við að framleiða raforku fyrir hann í kerfi Landsvirkjunar.  Virkjanirnar mala gull eftir að skuldir þeirra vegna hafa verið greiddar alveg niður, og þar í hópi er allt eldra en Fljótsdalsvirkjun, svo að ekki þyrfti að ganga á eigið fé fyrirtækisins, þó að verð Landsvirkjunar til almenningsveitna héldist óbreytt. Til að greiða eigandanum háan arð er engin þörf á að ganga í skrokk á almenningi. 

Það er víðar pottur brotinn hjá orkufyrirtækjunum um sanngirni gagnvart neytendum (og eigendum) en hjá Landsvirkjun.  Hér skal tiltaka dæmi af OR-samstæðunni og Landsneti, sem er enn í eigu orkufyrirtækja, með vísun til umfjöllunar Viðskiptablaðsins á Fullveldisdaginn 2016.

Bágri fjárhagsstöðu OR-samstæðunnar í kjölfar Hrunsins hefur verið snúið við, aðallega með ofurálögum á viðskiptavini fyrirtækja samstæðunnar á formi gjaldskrárhækkana.  Nú er lag að vinda að nokkru ofan af þeim hækkunum, en stjórn fyrirtækisins virðist ekki vera á þeim buxunum.  Hagnaður OR-samstæðunnar þrefaldaðist 2016 m.v. árið áður, ef marka má stöðuna í upphafi 4. ársfjórðungs, og hefur að líkindum orðið miaISK 12,5, sem er um 10 % af eigin fé.  Þetta sýnir góða afkomu í ljósi þess, að skuldir samstæðunnar hafa verið lækkaðar um meira en miaISK 20 á árinu 2016, ef skuldalækkun fyrstu 9 mánaðanna hefur haldið áfram í svipuðum takti til áramóta.  Athugum nú, hvernig góður afkomubati þessarar samstæðu, sem aðallega er í eigu Reykjavíkurborgar, horfir við neytendum:

Vatnsveita:

Veitur mismuna íbúum á veitusvæði sínu með misjöfnum verðbreytingum á köldu vatni 2017.  Þetta er algerlega ógegnsæ verðlagsstefna fyrir einokunarstarfsemi.  Í nafni jafnræðis og sanngirni ætti einn taxti að ríkja á öllu veitusvæðinu fyrir þessa einokunarstarfsemi, en aftur á móti ætti hver áskrifandi að vatni að borga aðeins fyrir eigin notkun samkvæmt mæli.  Það er víða bruðlað með kalt vatn á heimskulegan hátt, sem óréttlátt er, að aðrir blæði fyrir.  Mælakaup og uppsetning kosta fé, en það fé mun fljótt sparast í minni fjárfestingarþörf til afkastaaukningar vatnsveitna OR.

Hitaveita:

Annað óréttlæti Veitna tengt neyzlumælingu hjá viðskiptavinum er, að aðeins rúmtak notaðs heits vatns er mælt, en það, sem viðskiptavininn skiptir máli, er hins vegar orkan, sem hann fær út úr því heita vatni, sem streymir í gegnum kerfið hans.  Inntakshitastig hitaveitu hjá sumum er t.d. oftast lægra en 65°C, en víða er það hærra en 70°C.  Sumir þurfa þá að öllu öðru jöfnu 10 %-15 % meira vatn vegna þessa mismunar á inntakshitastigi en aðrir.  Þess vegna er réttlætismál, að Veitur bæti mælingu á inntakshitastigi við reikningsaðferð sína á hitaveitukostnaði neytenda.  Það mundi kosta lítilræði, ef hitastigsálestri yrði bætt við magnálesturinn. Hitt er dýrari kostur að setja upp orkumæla í stað flæðismæla.

Í téðri úttekt Viðskiptablaðsins, "Hagnaður eykst um 203 %", er greint frá því, að gjaldskrá Veitna fyrir heitt vatn fylgi fylgi vísitölu neyzluverðs.  Í ljósi gríðarlegra gjaldskrárhækkana fyrir heitt vatn á fyrstu árunum eftir Hrun, langt umfram vísitölu neyzluverðs, er sú málsmeðferð, að einokunarþjónusta, sem er hér afhending á hitaveituvatni, skuli nú fylgja vísitölu neyzluverðs, algerlega óásættanleg.  Rétt bær yfirvöld, hvort sem um er að ræða Orkustofnun, Samkeppnisstofnun eða Neytendastofu, verða að gera hagræðingarkröfu á einokunarstarfsemi af þessu tagi, og OR ætti alls ekki að fá að hækka þessa gjaldskrá aðhaldslaust. 

Rafveita:

Í tilvitnaðri grein Viðskiptablaðsins stendur eftirfarandi í lokin:

"Hækki gjaldskrá ON um áramótin, er alveg ljóst, að nettóáhrifin verða þau, að rafmagnsreikningar borgarbúa hækka hækka enn á milli ára.  Fyrir rúmum mánuði greindi Viðskiptablaðið frá því, að frá árinu 2010 til 2016 hefði verð á raforku og dreifingu hækkað um 55 % á meðan vísitala neyzluverðs hefði hækkað um 23 %."

Þetta reyndist réttur spádómur Viðskiptablaðsins.  Raforkuverðið hækkaði um áramótin síðustu. Viðskiptavinir ON tóku möglunarlaust á sig miklar útgjaldabyrðar fyrir orkunotkun sína til að bjarga OR-samstæðunni frá gjaldþroti eftir Hrun.  Nú er hún komin fyrir vind og vel það, svo að hún greiddi líklega yfir miaISK 4 í tekjuskatt í fyrra.  Við þessar aðstæður er mjög ósanngjörn framkoma við viðskiptavinina að hækka gjaldskrá raforku, þegar eðlilegast hefði verið að halda raforkuverði frá virkjunum óbreyttu.  Blekbóndi er einn af viðskiptavinum ON, og hjá honum hækkaði verð á kWh án fastagjalds úr 14,0 kr/kWh í 14,8 kr/kWh eða um 5,7 %.  Þarna eru flutningur og dreifing innifalin ásamt virðisaukaskatti. 

Flutningsgjald:

Gjaldskrá Landsnets fyrir almenningsveitur hækkaði 1. desember 2016 um 13 %.  Þessi gríðarlega hækkun er fáheyrð, enda á hún drjúgan þátt í heildarhækkun rafmagns um áramótin.  Þessi hækkun er óskiljanleg í ljósi þess, að Landsnet stendur í sáralitlum framkvæmdum fyrir almenningsveitur, og hún má ekki velta kostnaði á milli óskyldra aðila.  Þess vegna eru 2 gjaldskrár, ein fyrir stóriðju og önnur fyrir almenningsveitur. 

Orkustofnun er stjórnvaldið, sem á að veita einokunarfyrirtækinu Landsneti aðhald og halda því við árlega hagræðingarkröfu.  Að Orkustofnun hleypi hækkun í gegn, sem er tíföld verðbólga ársins 2016, veldur vonbrigðum og jaðrar við hneyksli.  Þessi frammistaða Landsnets sýnir enn og aftur, að eignarhald fyrirtækisins er ótækt, því að stjórn fyrirtækisins veitir stjórnendum þess ófullnægjandi aðhald fyrir hönd almannahagsmuna. 

Ný ríkisstjórn ætti að móta sér stefnu um, að ríkissjóður nýti arðgreiðslur orkufyrirtækja sinna til að kaupa sig inn í Landsnet með það stefnumið að auka eigið fé hennar og að verða meirihlutaaðili í þessu einokunarfyrirtæki í þeirri von, að verðlagning þjónustu fyrirtækisins verði ekki algerlega út úr kú.  Fyrirtækisins bíða gríðarleg og bráðnauðsynleg verkefni, sem liggja í dróma, og heilir landshlutar og þar með hagsmunir alls landsins líða fyrir það.

 

 

 

 

 


Dagur rafmagns

Dagur án rafmagns er að vísu öllu áhugaverðari en dagur rafmagns, því að rafmagnið er nánast alls staðar, en það er þó vert að rita pistil í tilefni dags rafmagnsins í viku 04/2017.  Dagur rafsviðsins eða stöðurafmagnsins var víst 9. janúar 2017, en nú er komið að rafsegulsviðinu og rafstrauminum. 

Rafmagn er náttúrufyrirbæri, sem hinum viti borna manni (homo sapiens) hefur tekizt að virkja með snilldarlegum hætti.  Elding verður til, þegar rafstraumur (10-100 kA, k=1000) hleypur á milli andstæðra hleðslna.  Rafstraumnum fylgja eldglæringar og drunur, sem vakið hafa óttablandna virðingu frá örófi alda, enda tengdar goðum. Eldingar hafa klofið tré og valdið skógareldum, brunasárum og dauðsföllum. 

Fræg er sagan af Marteini Lúther, 16. aldar þýzkum munki,  sem ofbauð spilling og guðleysi páfastóls þess tíma.  Hann var á gangi með vini sínum, er sá var lostinn eldingu, en Lúther slapp naumlega, þakkaði guðlegri forsjá og efldist að trúarhita við atburðinn. Eldingin leitar alltaf í hæsta punkt á tilteknu svæði.  Þannig draga eldingavarar, sem eru málmtrjónur upp í loftið, til sín eldingar og verja þannig byggingar.  Gildir koparleiðarar eru tengdir við trjónuna og við jarðskaut sérstakrar gerðar í hinn endann. 

Ef slæm spennujöfnun er í jarðskautinu, getur mönnum og dýrum, einkum klaufdýrum, sem standa eða eru á gangi yfir jarðleiðaranum, stafað hætta af straumnum í leiðaranum, sem veldur hættulegri skrefspennu.  Hafa kýr drepizt á Íslandi af völdum skrefspennu, reyndar af völdum straums úr einnar línu loftlínukerfi, þar sem straumurinn var leiddur til baka gegnum jörðina til að spara kopar í loftlínu. 

Þó að Íslendingar sem þjóð noti manna mest af rafmagni eða um 56 MWh/íbúa, samanborið við 3,1 MWh/mann á jörðunni að meðaltali, þá er íbúum landsins enn mismunað gróflega um aðgengi að þriggja fasa rafmagni, þar sem margar blómlegar sveitir með öflugan búrekstur, sem virkilega þurfa á þriggja fasa rafmagni að halda, fá aðeins einfasa rafmagn með eins- eða tveggja víra loftlínu.  Það er til vanza, að stjórnvöld orkumála og RARIK skuli ekki hafa sett enn meiri kraft en raun ber vitni um í þrífösun sveitanna með jarðstrengjum og niðurtekt gamalla og lúinna loftlína.

Öflug hleðslutæki fyrir rafmagnsökutæki, sem hlaða á stytzta tíma, eru þriggja fasa.  Sama verður um vinnuvélar bænda og annarra.  Þess vegna er aðgengilegt þrífasa rafmagn fyrir a.m.k. 32 A alls staðar á landinu forsenda fyrir rafvæðingu ökutækja og vinnuvéla á landinu öllu.  Fyrir RARIK og aðrar rafveitur felur rafvæðing ökutækjaflotans í sér viðskiptatækifæri um aukna orkusölu, og fyrirtækin standa þess vegna frammi fyrir arðsamri fjárfestingu, sem réttlætanlegt er að flýta með lántökum.  Þau munu líka spara viðhaldskostnað á gömlum línum með þessari fjárfestingu. 

Fá lönd, ef nokkur, standa Íslendingum á sporði varðandi hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda í heildarorkunotkun.  Hlutfallið er nú um 86 % hérlendis, gæti orðið um 90 % árið 2030 og 100 % um miðja 21. öldina, ef myndarlega verður að orkuskiptum staðið.  Á heimsvísu var hlutdeild jarðefnaeldsneytis af heildarorkunotkun árið 2013 um 81 %.  Raforkunotkun vex hratt í heiminum, og raforkuvinnslan á mestan þátt í miklum og vaxandi styrk koltvíildis í andrúmsloftinu, sem er algengasta gróðurhúsalofttegundin. 

Rafmagnið hefur gjörbreytt atvinnuháttum og daglegu lífi fólks til hins betra, en það gæti orðið blóraböggull rándýrra mótvægisaðgerða vegna hlýnandi lofslags, nema tækniþróunin komi innan 10 ára fram á sjónarsviðið með orkulind fyrir hreina raforkuvinnslu, sem leyst getur eldsneytisorkuverin af hólmi. 

Raforkuvinnslugeta Íslendinga úr fallorku vatns og jarðgufuþrýstingi er takmörkuð við 35 TWh/ár af náttúruverndarsjónarmiðum.  Orkuvinnslugeta núverandi virkjana er um 54 % af þessu.  Fyrir vaxandi þjóð, sem ætlar að rafvæða samgöngutæki á láði, legi og í lofti, er engin orka afgangs til að flytja utan um sæstreng, nema til Færeyja, ef áhugi verður á slíku.  Stórfelldur raforkuútflutningur mundi hafa í för með sér áberandi mannvirki og náttúruinngrip, sem ekki öllum falla í geð.  Fyrir svo dýra framkvæmd sem 1200 km sæstreng skiptir hagkvæmni stærðarinnar meginmáli.  Þá er átt við orkusölu allt að 10 TWh/ár, sem eru tæp 30 % af heildarorku, sem e.t.v. fengist leyfi til að virkja.  Svo hátt hlutfall skapar flókin tæknileg úrlausnarefni í samrekstri lítils rafkerfis og stórs erlends rafkerfis og mundi vafalaust valda hér miklum verðhækkunum á raforku.  Það viljum við alls ekki.  Þvert á móti viljum við njóta ávaxta fjárhagslega afskrifaðra virkjana. 

Á degi rafmagns 2017 á Íslandi eru rafmagnsmálin alls ekki í kjörstöðu.  Verkefnisstjórn um Rammaáætlun þrjózkaðist við að taka allmarga virkjanakosti frá Orkustofnun til athugunar og rannsakaði ekki samfélagslega kosti annarra.  Síðustu niðurstöðu var þess vegna verulega áfátt, of fáir virkjanakostir í nýtingarflokki og of margir í bið m.v. fyrirsjáanlega raforkuþörf landsins fram til 2050. 

Öllu verri er samt staða einokunarfyrirtækisins Landsnets.  Sú markaðsstaða er lögbundin, en eignarhaldið er óeðlilegt.  Rétt er, að ríkissjóður kaupi sig inn í Landsnet og féð verði notað til að greiða fyrir lagningu jafnstraumsjarðstrengs undir Sprengisand án þess að sprengja gjaldskrá fyrirtækisins upp.  Þessi kaup má fjármagna með væntanlegum arðgreiðslum frá orkufyrirtækjunum. 

Þá verður hægt að halda Byggðalínu áfram á 132 kV og grafa hana í jörð í byggð, þar sem hún er fólki mest til ama.  Aðalatriðið er að eyða þeim flöskuhálsum, sem nú eru í flutningskerfinu og standa atvinnulífi á Vestfjörðum og Norðurlandi fyrir þrifum.  Vestfirði þarf að hringtengja með 132 kV línu og með strengnum undir Sprengisand eykst flutningsgetan til Norðurlands og Norð-Austurlands, svo að ný fyrirtæki geta fengið nauðsynlega orku, eldri aukið álag sitt og hægt verður að leysa olíubrennslu af hólmi í verksmiðjum, við hafnir og annars staðar.  Hér bíða verðug verkefni nýs orkumálaráðherra.  Afleiðing eldingar ágúst 2012


Þverstæðukennd frásögn

"Óþarft að virkja til aukinna orkuskipta" hljómaði fyrirsögn í Fréttablaðinu á bls. 6 þann 17. janúar 2017.  Hún er vægast sagt afar villandi og ber ekki góðum vinnubrögðum vitni, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið.

Ónákvæmnin er yfirþyrmandi, því að við hvað eru "aukin orkuskipti" miðuð ?  Viðbót við hvaða orkuskipti ? Síðan kemur í ljós, hvaðan blaðamaðurinn hefur vizku sína:

"Framkvæmdastjóri Orkuseturs telur hægt að orkuskipta öllum bílaflota Íslendinga með þeirri orku, sem nú er fyrir hendi. 

Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, segir orkuskipti í samgöngum möguleg án þess að virkja þurfi frekar.  "Tíu prósent landsmanna hita hús sín með rafmagni.  Það er hægt að fækka þeim með varmadælum.  Ef við myndum losa helminginn af því rafmagni, sem fer í húshitun, gæti það rafmagn dugað á um 116 þúsund rafbíla.  Einnig má ná miklum sparnaði í raforku með LED-lýsingu á götum sveitarfélaga.  Rafmagnið er til, við þurfum að nýta það betur", sagði Sigurður."

Hér er vaðið á súðum með villandi og óábyrgum hætti, eins og nú skal sýna fram á:

  1. Jarðefnaeldsneytisbílar á landinu voru í árslok 2016 um 240´000 talsins, en með hópbifreiðum, sendibifreiðum og vörubifreiðum taldi flotinn tæplega 280´000 bíla.  Gerum ráð fyrir, að í tilvitnun sé átt sé við fólksbílaflotann.  Áætla má árlega raforkuþörf hans eftir rafvæðingu þannig: E=4,5 MWh/b x 240 kb = 1,1 TWh/ár.  Þessi raforkuþörf samsvarar meðalálagi yfir árið 125 MW, en því fer fjarri, að rafbílaálag á rafkerfið verði jafnt.  Uppsett afl hleðslutækja þessara 240´000 bíla gæti orðið 3600 MW.  Ef samtímaþáttur er 0,2, þá verður hámarksálag um 720 MW af 240´000 fólksbílum og jeppum. 
  2. Á móti þessari álagsaukningu leggur téður Sigurður til, að fjárfest verði í varmadælum, sem spari helming raforkunnar, sem nú fer í rafhitun húsnæðis.  Ætla má, að árleg orka til rafhitunar húsnæðis sé: Eh=40 MWh/íb ár x 7000 íb = 280 GWh/ár með toppafli 50 MWHelmingurinn jafngildir 140 GWh/ár og 25 MW.
  3. Það er einnar stærðargráðu munur á því, sem Sigurður Friðleifsson telur vera lausn og viðfangsefninu, sem er rafvæðing bílaflotans
  4. Hvað dugir "varmadælulausnin" til að rafvæða marga bíla ?  M.v. íslenzkar aðstæður má reikna með raforkunotkun meðalfólksbíls 0,3 kWh/km, og ef meðalaksturinn er 15´000 km/ár, mun einn bíll þurfa raforkuna: Eb=0,3 kWh/km x 15000 km/ár = 4,5 MWh/ár.  Þá dugir "varmadælulausnin" fyrir: n=140000/4,5 = 31´000 bílar eða 13 % af fólksbílaflotanum.  Þetta eru 85´000 færri bílar en Sigurður Friðleifsson slengir fram í tilvitnuðu viðtali. 
  5. Orkusparnaður með LED-væðingu götulampa um land allt gæti e.t.v. haft í för með sér helmingsorkusparnað á við "varmadælulausnina", svo að alls mundu þessar tvær orkusparnaðaraðferðir gefa um 210 GWh/ár, sem er innan við 20 % af raforkunni, sem þarf fyrir núverandi fjölda fólksbíla, sem brenna jarðefnaeldsneyti.  Bæði er, að þeim fer fjölgandi og að þeir eru aðeins hluti af heildarflotanum eða innan við 86 %.
  6. Kostnaðarlega er það alveg út úr kú að tengja þessi tvö sparnaðarverkefni saman við orkuskipti.  Það er miklu ódýrara að virkja og framleiða viðbótar MWh, eins og þarf, en fjárfesta í varmadælum og í mörgum tilvikum vatnsofnum og pípulögnum í stað þilofna eða í LED-lömpum, þar sem meginsparnaðurinn er fólginn í minna viðhaldi, en ekki í orkusparnaði.

Það er mjög ámælisvert að fara með fleipur um mikilvæg verkefni á landsvísu.  Orkuflutningsfyrirtækið Landsnet hefur aftur á móti lagt spilin á borðið, og eftirfarandi er skrifað í þessari umræddu frétt:

"Í skýrslu Landsnets er dregið fram, að ef eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, með orkuskiptum, upp á 1,5 milljónir tonna á ári, þurfi um 880 MW af rafmagni til þess."

Megnið af þeirri losun, sem á að hverfa samkvæmt þessari sviðsmynd, kemur frá landumferð.  Það er himinn og haf á milli málflutnings Orkuseturs og Landsnets.  Blekbóndi telur málflutning Landsnets og téða sviðsmynd um aflþörf á réttu róli, ef álaginu verður ekki stýrt.  Blekbóndi hefur hins vegar bent á, að draga má verulega úr aflþörfinni með því að bjóða hagstæðan næturtaxta.  Slíkt breytir þó engu um orkuþörfina.  Að vanmeta hana getur orðið afdrifaríkt. Hitastigshækkun í andrúmslofti 

 


Hægri-kratísk ríkisstjórn

Yfirbragð nýju ríkisstjórnarinnar og sáttmáli hennar frá 10. janúar 2017 bera með sér hægri kratískan blæ.  Reynslan ein mun skera úr um, hvort verk hennar verður hægt að kenna við hægri-kratisma.  Kannski er blekbóndi hægri-krati, því að hann getur stutt téða stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Hægri-kratísk ríkisstjórn hefur ekki stjórnað Íslandi síðan 1959-1971, en þá ríkti Viðreisnarstjórnin.  Hún olli sögulegum þáttaskilum á mörgum sviðum landi og þjóð til heilla. 

Fundið hefur verið að því, að stefnuskrá ríkisstjórnarinnar sé of almennt orðuð, en hvorki var ráðrúm né gott ráðslag að sitja lengur yfir plagginu en nauðsyn bar til. Nógu löngum tíma hafði verið varið í stjórnarmyndunarviðræður frá kosningum í lok október 2016, þar sem ýmsir sótraftar voru á sjó dregnir.  Stefnan er nú komin, og síðan er eðlilegt, að þingmenn ríkisstjórnar hægri-krata útfæri markmið upp úr stefnuskránni í samráði við viðkomandi ráðherra, sem fær markmiðin í flestum tilvikum til framkvæmdar.  Þetta er hin lýðræðislega aðferð.

Stöðugleiki er og verður fyrsta boðorð ríkisstjórnarinnar.  Það er ekki að ófyrirsynju, því að allir tapa á óstöðugleika og óvissu.  Vinnumarkaðurinn er ekki í ró um þessar mundir, eins og verkfall háseta ber með sér.  Meðallaun helztu útgerðarfyrirtækjanna eru þó á meðal þeirra hæstu, sem þekkjast um meðallaun í fyrirtækjum á Íslandi, en bæði er, að verkfallið tekur aðeins til hásetanna og mjög er misjafnt eftir útgerðum, hvernig kaupin gerast á eyrinni, en sjómenn róa upp á hlut, eins og kunnugt er. 

Árið 2016 lækkaði hlutur flestra vegna markaðsaðstæðna og vegna þess, sem kalla má ofris íslenzku krónunnar, ISK, er verðgildi hennar hækkaði um tæplega 20 % að jafnaði og um tæplega 30 % gagnvart sterlingspundinu, GBP, en England er okkar aðalviðskiptaland fyrir sjávarafurðir. Nú í ársbyrjun 2017 er markaðurinn sjálfur að leiðrétta ofrisið vegna árstíðabundins minna innflæðis gjaldeyris frá erlendum ferðamönnum, vegna stöðvunar gjaldeyrisinnflæðis frá sjávarútveginum og vegna vaxandi gjaldeyrisútflæðis við afléttingu hafta og vegna fjárfestinga og neyzlu.  Mestöll hækkun gengisins 2016 er sennilega ósjálfbær m.v. samkeppnishæfni landsins, en landið var líklega orðið dýrast í heimi fyrir útlendinga í árslok 2016, þegar gengisvísitalan var 160. Hún þarf að verða á bilinu 170-190. 

Eftir því var tekið, að á fyrsta Ríkisráðsfundi Forseta með nýrri ríkisstjórn heimilaði hann nokkurn flutning málaflokka á milli ráðuneyta, enda virtust þeir allir rökréttir og skynsamlegir.  Þarna var að nokkru verið að leiðrétta sérvizkulegar tiltektir nokkurra fyrrverandi forsætisráðherra með gæluverkefni sín. 

Eitt af því var að flytja málefni Seðlabankans aftur til forsætisráðherra, sem lætur af hendi ýmis veigaminni mál til annarra.  Það er nokkuð útbreidd skoðun í landinu, að Seðlabankinn þarfnist "sterkrar handar".  Starfsmenn hans hafa ítrekað hlaupið á sig og farið offari gagnvart almenningi og fyrirtækjum í landinu, t.d. Gjaldeyriseftirlit og Lögfræðideild bankans, svo að ekki sé nú minnzt á Peningastefnunefnd, sem virðist lifa í öðrum heimi.  Þá er fyrirbrigði innan Seðlabankans, sem nefnist Eignasafn Seðlabanka Íslands, ESÍ, sem aðallega eru fyrirtæki, sem rak á fjörur bankans við gjaldþrot.  Afleiðingin er sú, að ESÍ stendur enn í fyrirtækjarekstri, einnig erlendis, þar sem stórtap á sér stað í sumum tilvikum.  ESÍ ætti að leysa upp við fyrsta tækifæri.

Seðlabankinn á að hafa sjálfstæði, en stjórnun hans er nú ábótavant.  Þá verða löggjafinn og framkvæmdavaldið að koma til skjalanna.  Það er eðlilegt og tímabært að stokka upp í Seðlabankanum og endurskoða löggjöfina, sem um hann gildir.  Líklega er rétt að tengja peningastefnuna við fleiri stefnumið en verðbólgu, t.d. gengisskráningu og atvinnustig í ákveðinni forgangsröð. 

Það er mikilvægt fyrir efnahagsstöðugleika, að Seðlabankinn hafi nauðsynleg tæki og tól til að grípa inn í skortstöðutöku gegn ISK, hvort sem vogunarsjóðir eða aðrir eiga í hlut.  Ef bankinn spennir upp vexti á tíma lágvaxta erlendis, eins og nú eru, er hætt við ofrisi ISK vegna áhættufjár, sem leitar í vaxtamunarviðskipti, og af því að fé hrannast þá upp innanlands, sem við eðlilegar aðstæður ætti að leita ávöxtunar erlendis vegna áhættudreifingar. 

Allt eru þetta flókin mál, þar sem hvert skref þarfnast nákvæmrar ígrundunar og áhættugreiningar. Er engum betur treystandi til farsælla úrlausna en núverandi forsætisráðherra, eins og úrlausn málefna slitastjórna föllnu bankanna og aflétting hafta fyrri ríkisstjórnar hefur sýnt.

Eitt er það mál, sem hefur flotið að feigðarósi í tvö síðustu kjörtímabil og lenti í algerum hnúti á síðasta kjörtímabili, en það er Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni.  Núverandi borgaryfirvöld og þau næstu á undan hafa róið að því öllum árum, að flugvöllurinn hverfi eigi síðar en árið 2024.  Að horfa undanfarið upp á "rússneska rúllettu" með sjúkraflugið í SV-hvassviðri hefur verið þyngra en tárum taki.  Það var þess vegna einkar ánægjulegt að heyra nýjan samgönguráðherra taka hraustlega við sér fáeinum mínútum eftir embættistöku með ummælum, er lutu að uppbyggingu flugstöðvar í Vatnsmýrinni, en núverandi aðstaða er hneisa gagnvart ferðamönnum og starfsmönnum. 

Er nú vonandi, að samgönguráðherra og Alþingi taki af skarið um það, að miðstöð vaxandi innanlandsflugs með þremur flugbrautum verði í Vatnsmýrinni um ókomin ár. 

Merki SjálfstæðisflokksinsSkjaldarmerki lýðveldisins


Raforkumarkaður og opinber orkustefna

Orkumál landsmanna hafa ekki að öllu leyti þróazt, eins og bezt verður á kosið.  Ótvíræður styrkleiki er auðvitað, að um áratuga skeið hefur nánast engin raforka verið framleidd  hérlendis með jarðefnaeldsneyti, en ágallar kerfisins eru þó nokkrir og alvarlegir.

Fyrst ber þá að nefna, að málefni flutningsfyrirtækisins, Landsnets, eru í ólestri. Framkvæmdir fyrirtækisins eru langt á eftir áætlun með þeim afleiðingum, að flutningskerfið er víða fulllestað, annar ekki því hlutverki sínu að flytja viðbótar afl, þó að það sé til reiðu og mikil þörf sé fyrir það. Þetta hamlar atvinnuuppbyggingu og tefur fyrir orkuskiptum úr jarðefnaeldsneyti í rafmagn, sem stjórnvöld hafa þó skuldbundið landið til að framkvæma býsna hratt. Í þessum efnum er eins og hægri höndin viti ei, hvað sú vinstri gjörir.

Í mörgum tilvikum hafa vandræði Landsnets stafað af deilum og málaferlum við landeigendur og/eða umhverfisverndarsamtök.  

Landsnet þarf að fá lagalegt svigrúm og heimildir til að fjármagna nauðsynlegar lausnir með lántökum með ríkisábyrgð, og ríkið á að eignast smám saman Landsnet með framlögum af arðgreiðslum þeirra raforkufyrirtækja, sem ríkið á að einhverju eða öllu leyti.  Með þessu móti má draga mjög úr hækkunarþörf á gjaldskrá Landsnets og gera hækkun vegna dýrari lausna, til sátta, tímabundna.    

Eignarhald Landsnets er nú óviðunandi, því að nokkur raforkufyrirtæki á markaði og hitaveitufyrirtæki eiga hana.  Þetta gerir Landsnet vanhæft til að starfa á frjálsum markaði, þar sem samkeppni á að ríkja á milli orkusölufyrirtækja, sem eiga að standa jafnfætis varðandi inntök og úttök flutningskerfisins. Með því að ríkið eignist smám saman ráðandi hlut í fyrirtækinu, má eyða tortryggni aðila utan eigendahópsins um hlutdrægni Landsnets varðandi t.d. nýja tengistaði við stofnlínukerfið. Einokunarfyrirtæki eru oft bezt komin undir pilsfaldi ríkisins. 

Það þarf að hanna raforkumarkað fyrir Ísland.  Hlutverk hans á að vera að tryggja raforkuöryggi, raforkuverð til almennings í samræmi við raunkostnað raforkufyrirtækjanna og hagkvæmustu nýtingu orkulindanna á hverjum tíma. 

M.a. um þessi mál ritaði Elías Elíasson, fyrrverandi sérfræðingur í orkumálum hjá Landsvirkjun, í Morgunblaðið 20. júní 2016, undir fyrirsögninni:

"Lars Christensen og orkan okkar:

Elías gerði þar nýlega skýrslu Lars Christensens, dansks alþjóðahagfræðings, um íslenzk orkumál að umfjöllunarefni, en Lars lagði þar m.a. til sölu Landsvirkjunar í bútum og stofnun auðlindasjóðs fyrir andvirðið. Elías reit gegn þessu m.a.:

"Það er mögulegt og jafnvel skilvirkara að láta arð af orkunni renna til almennings gegnum lágt orkuverð en með beinum greiðslum."

Hinn valkosturinn, sem Lars Christensen er talsmaður fyrir, er sá að láta arðgreiðslur frá orkufyrirtækjum í eigu ríkisins renna í auðlindasjóð, sem nýta mætti til að halda uppi fjárfestingum að hálfu ríkisins í niðursveiflum hagkerfisins.  Með því að setja það í eigendastefnu orkufyrirtækja að meirihluta í eigu ríkisins, að orkufyrirtækið skuli verðleggja orku sína fyrir almennan markað í samræmi við meðalvinnslukostnað sinn, en ekki jaðarkostnað, þ.e. kostnað af næstu mannvirkjum í röðinni, þá munu orkufyrirtæki ríkisins verða stefnumarkandi á markaði um lágverðsstefnu. Slíkt styrkir samkeppnihæfni Íslands. 

Það hefur hins vegar jafnan tíðkazt á Íslandi, að stóriðjan greiði verð í samræmi við kostnað virkjunar, sem ráðast þarf í vegna viðkomandi orkusölusamninga, og áfram yrði það svo. Að sjálfsögðu mun almenningur njóta góðs af slíkri stefnu, af því að þá greiða orkufyrirtækin tiltölulega hratt niður skuldir vegna nýrra fjárfestinga, sem almennir notendur njóta jafnframt góðs af. Vegna hárrar nýtni, hás aflstuðuls og langtímasamnings er orkuvinnslukostnaður jafnan í lágmarki til stóriðnaðar á borð við álver, en reynsla er enn ekki komin af álagseinkennum kísilvera, sem samið hefur verið við hérlendis.

Orkufyrirtæki með arðsama stóriðjusamninga munu senn verða í stakkinn búin til umtalsverðra arðgreiðslna til eigenda sinna, þó að lágverðsstefna sé rekin gagnvart almenningi, því að álag almenningsveitnanna er lágt saman borið við stóriðjuálagið. Andvirði slíkra arðgreiðslna til ríkisins verður bezt varið til að kaupa ríkinu beina meirihlutaeign í flutningsfyrirtækinu Landsneti, sem mundi þá geta varið af nýju eigin fé sínu til að greiða viðbótar kostnað, sem hlýzt af "óumflýjanlegum" jarðstrengjum í stofnkerfinu á kerfisspennum 220 kV og 132 kV. 

Miklir hagsmunir almennings eru fólgnir í að afnema flöskuhálsa í flutningskerfinu, auka stöðugleika stofnkerfisins í truflanatilvikum og að hindra langvinnar hækkanir á flutningsgjaldinu.  Með því að styrkja fjárhag Landsnets með þessum hætti má jafnvel lækka flutningsgjald til almennings með tíð og tíma frá því, sem nú er. Vel má vera, að núverandi eigendur Landsnets vilji við þessar aðstæður selja hlut sinn í fyrirtækinu, og ríkið gæti þar þá gert hagstæð kaup og orðið einrátt, eins og eðlilegt er þar á bæ.  

Frá gildistöku núverandi raforkulaga 2003 er enginn virkjunaraðili á Íslandi ábyrgur, ef kemur til skorts á forgangsorku í landinu.  Það eru afar veikir hvatar í kerfinu til að virkja, nema fyrir stóriðju, þegar samningur hefur náðst við hana. Þetta leiðir til þess freistnivanda virkjunareigenda að láta skeika að sköpuðu, fresta framkvæmdum við fjármagnsfreka næstu virkjun, því að það er fundið fé að fresta fjárfestingu, auk þess sem orkuverð á markaði hækkar jafnan, þegar orkuforðinn minnkar, t.d. í miðlunarlónum. Þessi staða er virkjunarfyrirtækjunum í hag, á meðan þau geta afhent umbeðna orku, en er áhættusöm fyrir þjóðarhag.

Í langtímasamningum stóriðjufyrirtækjanna og viðkomandi virkjunareigenda kunna að vera refsiákvæði við skerðingu á forgangsorku, og þar er jafnframt kveðið á um, að ekki megi skerða forgangsorku til stóriðju hlutfallslega meira en álag almenningsveitna. Skerðing forgangsorku til ólíkra notenda skal vera hlutfallslega jöfn, "pro rata", stendur þar. Allt er þetta ófullnægjandi neytendavernd almenningi til handa. 

Það er þess vegna tímabært að leggja skyldur á herðar fyrirtækis í markaðsráðandi stöðu, segjum með yfir 40 % af raforkumarkaðinum á sinni könnu, um að tryggja landsmönnum alltaf næga forgangsorku á markaðsverði, nema óviðráðanleg öfl ("force majeure") komi í veg fyrir það, eða flutningskerfi og/eða dreifikerfi geti ekki miðlað orkunni til notenda.  Í lagasetningu um þetta þarf að kveða á um sektir vegna skorts á forgangsorku í landinu, sem séu í samræmi við þjóðhagslegt tjón vegna orku, sem almenningsveiturnar ekki fá, t.d. tífalt hæsta einingarverð orku frá fyrirtækinu til almenningsveitna, sem þá verði greitt í ríkissjóð fyrir orku, sem vantar á markaðinn.

Fróðlegt er að kynnast viðhorfum Elíasar til þessa málefnis í téðri grein:

"Vatnsorka og jarðvarmaorka nota ekki eldsneyti, og því er orkumarkaður á borð við hina evrópsku ófær um að stjórna orkuvinnslunni á hagkvæmasta hátt.  Eini kostnaðarliðurinn, sem er háður álagi (eftirspurn) á orkukerfið, er áhætta vatnsorkuveranna, þegar þau taka vatn úr miðlunarlóni. ....

Yfir veturinn fer seljandinn því varlega og reiknar áhættu sína [nú aðeins vegna stóriðjusamninga - innsk. BJo], sem er því meiri sem miðlunarlón standa lægra [og lengra er til vorleysinga - innsk. BJo].  Með vaxandi áhættu getur hann hækkað verðið á sölutilboðum sínum, þar til hann hefur verðlagt sig að hluta út af markaðinum.  Þetta er það, sem hefur gerzt, þegar loðnubræðslurnar kvarta undan því, að rafmagnið er orðið dýrara en olía. 

Ef orkusalinn hefur á herðum sér þá skuldbindingu að hafa ætíð tiltekna orku til reiðu að viðlagðri ábyrgð, þá getur verðmyndun farið fram með þessum hætti, annars ekki.  Þarna getur uppboðsmarkaður gegnt hlutverki, en dagsmarkaður að evrópskum hætti er óþarfi.  Að bjóða í magn einnar viku í einu nægir."

Nú er við lýði uppboðsmarkaður fyrir s.k. jöfnunarorku, sem er mismunur áætlaðrar orkuþarfar og raunorkuþarfar hverrar klst.  Þennan markað má útvíkka með tilboðsmarkaði fyrir eina viku í senn, eins og Elías leggur til.  Verð frá stærsta raforkuvinnslufyrirtækinu mun þá markast af líkindum þess, að tiltekinn orkuskortur verði, t.d. við væntanlega lágstöðu miðlunarlóna fyrirtækisins og jaðarvinnslukostnaði hans (viðbót við grunnafl hans), og aðrir, aðallega eigendur jarðgufuvera, munu ýmist bjóða hærra eða lægra verð en verðið verður frá þeim stærsta.  Verð sölufyrirtækjanna til almennra notenda mundi ekki geta breytzt jafnört og á uppboðsmarkaði fyrr en fjarmælingar hjá almennum notendum verða komnar í gagnið.

Niðurlag greinar Elíasar var eftirfarandi:

"Allt tal um uppskiptingu Landsvirkjunar er ótímabært fyrr en almenn stefna í orkumálum hefur verið mörkuð og markaðsfyrirkomulag, sem virkar við þessar aðstæður, hefur verið hannað.  Skort á orkustefnu hér telur Christensen veikleika, og þar hefur hann rétt fyrir sér."

Það er hægt að taka undir þessa ályktun Elíasar að öllu leyti.  Verkröðin þarf að vera sú að móta landinu fyrst orkustefnu og sneiða þar með hjá alls konar gryfjum, sem leiða til mikilla deilna og tafa á undirbúningi verka og framkvæmd.  Ef í orkustefnunni mun felast, að raforkukerfið skuli vera markaðsdrifið í líkingu við það, sem þekkist á hinum Norðurlöndunum, á Bretlandi og í ESB-löndum meginlandsins, þá þarf að hanna markaðskerfi, sem sniðið er að íslenzkum þörfum og aðstæðum, eins og að ofan er drepið á.  Meginhlutverk slíks markaðskerfis verður væntanlega að tryggja jafnan jafnvægi framboðs og eftirspurnar raforku alls staðar á landinu, og að vinnslukostnaður, flutningskostnaður og dreifingarkostnaður raforku verði sá lægsti, sem völ er á á hverjum tíma, að teknu eðlilegu tilliti til umhverfisverndar.  (Eðlilegt tillit er mat umhverfisyfirvalda og jafnvel afstaða meirihluta í atkvæðagreiðslu.)

Fyrst að þessu loknu er tímabært fyrir stjórnmálamenn að hafa afskipti af stærð fyrirtækja, ef hún augljóslega virkar hamlandi á virkni markaðarins.  Óvíst er, hvort nokkurn tímann verður talið ómaksins vert að leggja aflsæstreng á milli Íslands og annarra landa m.a. vegna of lítillar fáanlegrar orku hérlendis fyrir svo dýra framkvæmd. Íslendingar munu þess vegna verða að reiða sig á, að alltaf verði næg tiltæk raforka til reiðu úr innlendum orkulindum, og þá er skuldbundið kjölfestufyrirtæki hérlendis ómetanlegt. 

Á þessu eru þó skiptar skoðanir, og Skúli Jóhannsson, verkfræðingur, ritaði 13. október 2016, grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Hugmynd að uppskiptingu Landsvirkjunar":

Hann nefnir þann möguleika að stofna 2 ný fyrirtæki, þar sem annað mundi yfirtaka eignarhald á og rekstur jarðgufuvirkjananna, og hitt mundi sjá um vindmyllurnar.  Bæði þessi nýju fyrirtæki yrðu anzi lítil og léttvæg á markaðinum, þó að með Þeistareykjavirkjun vaxi jarðgufuhluta Landsvirkjunar vissulega ásmegin.  Ef Landsvirkjun telur ekki samlegðaráhrif af þessari starfsemi með vatnsorkuverunum vera næg, þá er eðlilegast, að hún selji þessi jarðgufuver og vindmyllur af hagkvæmniástæðum.  Ef Landsvirkjun verður fengið það kjölfestuhlutverk að tryggja landsmönnum orkuöryggi, þá er ósennilegt, að samkeppnisyfirvöld muni krefjast minni umsvifa hennar á markaði en reyndin er nú.

Nú eru sveitarfélög að vakna til meðvitundar um hagsmuni sína gagnvart orkuiðnaðinum.  Kemur þetta fram í kröfu á hendur Landsvirkjun um greiðslu fyrir vatnsréttindi, og hefur Hæstiréttur úrskurðað, að leggja megi fasteignagjald á þau.  Þá hafa sveitarfélögin lagt fram þá réttmætu kröfu, að mannvirki orkugeirans verði ekki lengur undanþegin fasteignagjöldum.  Hlýtur þetta einnig að taka til loftlína.  Þá eru sveitarstjórnir sumar lítt hrifnar af vindmyllum, nema umtalsverðar greiðslur af þeim falli sveitarsjóðum í skaut. 

Vinnslukostnaður vindmylla á Íslandi er 2-3 faldur vinnslukostnaður hefðbundinna vatnsorku- og jarðgufuvera.  Þær hafa einnig umtalsvert neikvæð umhverfisáhrif.  Vindorkugarðar munu þess vegna eiga erfitt uppdráttar á Íslandi, en það er þó ekki loku fyrir það skotið, að í stað aukins miðlunarforða í uppistöðulónum verði talið ákjósanlegra, að teknu tilliti til kostnaðar og umhverfisáhrifa, að reisa vindorkugarða til að spara vatn í miðlunarlónum. 

burfellmgr-7340

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband