Færsluflokkur: Fjármál

Lækkun raforkuverðs

Á það hefur verið bent á þessum vettvangi og víðar, að raunlækkun raforkuverðs sé orðin tímabær og sé í raun réttlætismál almenningi til handa.  Ástæðurnar eru viðsnúningur til hins betra í afkomu helztu raforkuvinnslufyrirtækjanna í landinu og hlutfall orkuverðs til almennings og stóriðjufyrirtækjanna í hlutfalli við vinnslukostnað raforku til þessara aðila. Þetta er einnig kærkomið mótvægi við hækkunartilhneigingu flutningskostnaðar raforku, sem gæti orðið framhald á, ef hlutdeild jarðstrengja í nýframkvæmdum flutningskerfisins eykst. 

Nú hafa þau gleðilegu tíðindi orðið, að Landsvirkjun hefur tilkynnt raunlækkun á 10 % af orkusölu sinni, sem er um helmingur af orkusölu hennar til almennra sölufyrirtækja raforku.  Þetta segja talsmenn Landsvirkjunar, að jafngildi 2,6 % raunverðlækkun á verði hennar til sölufyrirtækjanna. Þar sem orkuverðið er aðeins um 30 % af heildarverði per kWh, því að flutningur og dreifing nema um 50 % og opinber gjöld um 20 %, þá munu almennir notendur sjá lækkun innan við 1,0 %.  Boðuð hefur verið hækkun flutningsgjalda (Landsnets) og lækkun dreifingarkostnaðar t.d. hjá OR-Veitum.  Neytendur munu þá e.t.v. sjá 1 %-2 % lækkun einingarverðs, sem er lítil, en góð byrjun.  Afkomuþróunin í raforkugeiranum gefur fulla ástæðu til að hefja nú verðlækkun á raforku til almennings.

Landsvirkjun útskýrir þessa lækkun með bættri nýtingu uppsetts afls í virkjunum vegna sveigjanlegri orkusölusamninga.  Þetta þýðir, að Landsvirkjun getur frestað næstu virkjun að öðru óbreyttu og mun þá reka núverandi virkjanir á afli, sem er nær málraun (ástimplaðri aflgetu) virkjananna, og mun þess vegna nýta fjárfestingar sínar í virkjunum betur en áður, sem styttir endurgreiðslutíma virkjananna, þar sem árleg sala vex.  Þetta er ágætt, ef það eykur ekki líkur á orkuskorti í þurrkaárum.  Hér ber að hafa í huga, að engu er líkara en löggjafinn hafi reiknað með tiltæku neyðarafli af einhverju tagi, ef orkuskortur verður í kerfinu.  Ekkert er fjær sanni, og enginn virkjunaraðili er skuldbundinn að viðlagðri refsingu til að sjá til þess, að hér komi ekki upp forgangsorkuskortur.  Þetta er óviðunandi og er efni í sérpistil.

Þróun rafbúnaðar er m.a. í þá átt, að við notkun hans verða minni afltöp en í eldri búnaði til sömu nota.  Þetta á t.d. við um ljósabúnað og eldunarbúnað.  Þessi búnaður kemur inn af fullum þunga á háálagstímum, og bætt nýtni hans leiðir þá til lægri toppaflsþarfar.  Lækkun toppálags af þessum völdum gæti numið yfir 100 MW, þegar t.d. LED-perur hafa leyst af hólmi glóperur og gasfylltar perur í inni- og útilýsingu á heimilum, í fyrirtækjum, opinberum stofnunum og dreifiveitum (götulýsing). Kostnaðarlega munar talsvert um þessa tæplega 5 % lækkun toppsins.

Á móti þessu mun koma nýtt álag hleðslutækja rafbílanna, þar sem samtímaálag þeirra um miðja 21. öldina getur numið 400 MW.  Það er brýnt að forða því, að þetta nýja álag ásamt álagi frá hleðslutækjum skipanna bætist ofan á núverandi toppálag.  Ef tekst að færa þetta væntanlega viðbótar álag yfir á tíma núverandi lágmarksálags, þ.e. næturnar, þá batnar nýting alls raforkukerfisins enn frá því, sem nú er, þ.e. fjárfestingar til að framleiða, flytja og dreifa 1 kWh af öryggi allan sólarhringinn allan ársins hring, minnka, öllum til hagsbóta, og næturtaxti ætti þá að endurspegla mun minni fjárfestingar en ella, en hins vegar þarf að virkja fyrir aukna orkusölu.  Sú orka verður þó innan við helmingur af orkuinnihaldi þess eldsneytis, sem raforkan leysir af hólmi, vegna mun hærri orkunýtni rafmagnsbíla en bíla, sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti. 

Í Morgunblaðinu þann 30. nóvember 2016 birtist Baksviðsgrein Helga Bjarnasonar um nýja kerfisáætlun Landsnets, sem hann nefndi:

"Raforkukerfið ræður ekki við orkuskipti framtíðar:

"Ekki er hægt að ráðast í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni eða í orkuskipti til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, nema [að] byggja upp flutningskerfi raforku í landinu.  Landsnet áætlar, að þörf sé á flutningi 660-880 MW til viðbótar, ef farið yrði í öll þau orkuskipti, sem rætt er um, en það myndi minnka losun um 1,5 Mt/ár, sem er um þriðjungur af árlegri losun landsmanna."

Hér er því lýst yfir, að landsbyggðinni sé haldið í raforkusvelti.  Hér er aðallega átt við Vestfirði, Norðurland og Austurland. Landsnet hefur ekki verið í stakk búið til að uppfylla skyldur sínar við landsmenn, og það er grafalvarlegt og að sumu leyti áfellisdómur yfir fyrirtækinu, sem hefur ekki ráðið við ytri aðstæður og þannig brugðizt hlutverki sínu. Tafir eru á Suð-Vesturlínu, línum frá Kröflu-Þeistareykjum til kísilvers PCC við Húsavík og styrkingu Byggðalínu, svo að ekki sé nú minnzt á nýja og nauðsynlega samtengingu Norður- og Suðurlands.  Meginástæðan fyrir töfunum er, að Landsnet hefur ekki náð góðu samkomulagi við alla landeigendur og náttúruverndarsamtök. Samskiptum virðist hafa verið áfátt, en sjaldan á einn sök, þá tveir deila. 

Fjölda fyrirtækja er haldið í gíslingu raforkuleysis af nokkrum sérhagsmunaaðilum, sem Landsnet virðist ekki hafa lag á eða lagaleg úrræði til að tjónka við. Landsnet verður nú að söðla um, því að höggva verður á hnútinn áður en hundruða milljarða ISK þjóðhagslegt tjón hlýzt af. 

Nokkurrar þvermóðsku hefur þótt gæta að hálfu Landsnets með að koma til móts við landeigendur, Landvernd o.fl. með jarðstrengjum í stað loftlína, en fyrirtækinu var vorkunn, því að lög skylduðu það til að velja jafnan fjárhagslega hagkvæmasta kostinn, en nú hefur löggjafinn veitt slaka í þeim efnum.  Fyrirtækið þarf því að bregðast hratt við núna með lausnarmiðuðum tillögum um lagnaleiðir og jarðstrengi, þar sem slíkt getur leitt til sáttar í héraði og til að losa íbúa og fyrirtæki á norðanverðu landinu úr raforkusvelti, sem hefur í för með sér glötuð tækifæri til atvinnuuppbyggingar, eldsneytissparnaðar og minni mengunar. 

Samkvæmt lögunum eiga nýir notendur að standa undir viðbótar kostnaði við flutningskerfið, en það getur ekki átt við hér, þar sem þeir báðu bara um rafmagn, en tóku ekki afstöðu til, hvernig flutningunum yrði háttað.  Þess vegna verður Landsnet að fjármagna umframkostnaðinn með langtíma lánum og láta alla notendur standa undir viðkomandi afborgunum og vöxtum. 

Um er að ræða þjóðhagslega hagkvæm verkefni, eins og fram kemur í eftirfarandi úrdrætti téðs "Baksviðs" úr umhverfismatsskýrslu Kerfisáætlunar 2016-2025:

"Í umhverfismatsskýrslunni eru hugleiðingar um hugsanleg frekari orkuskipti en fram koma í sviðsmyndum kerfisáætlunarinnar.  Er þá miðað við þá framtíðarsýn, að einkabifreiðar, atvinnubifreiðar og bílaleigubifreiðar verði knúnar rafmagni í stað jarðefnaeldsneytis.  Rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja verði lokið, og rafmagn komi í stað jarðefnaeldsneytis í iðnaði. Miðað er við, að skip verði tengd við raforkukerfi í höfnum og að Ísland verði sjálfbært [sjálfu sér nógt-skilningur BJo] með ræktun helztu grænmetistegunda.  Þetta kallar á betri nýtingu virkjana og frekari uppbyggingu á endurnýjanlegum orkukostum, enda myndi notkun raforku aukast um 660-880 MW.  Aflið ræðst af því, hversu vel tekst til við stýringu hleðslustöðva fyrir rafknúin farartæki [hversu vel tekst til við að beina nýju álagi á lágálagstíma, t.d. nóttina - innsk. BJo].

Blekbóndi telur þessa framtíðarsýn höfunda skýrslu Landsnets raunhæfa fyrir næsta áratug, og það er þessi jákvæða þróun, sem er í uppnámi vegna núverandi fulllestunar hluta stofnlínukerfisins, þ.e. Byggðalínu. Varðandi skipin verður ekki einvörðungu að reikna með hafnartengingu, á meðan þau liggja við festar, heldur munu rafknúin veiðiskip að líkindum sjá dagsins ljós undir lok næsta áratugar.

Það verður með stuðningi ríkisvaldsins, væntanlegs orkumálaráðherra, að höggva á núverandi rembihnúta, sem nú standa a.m.k. helmingi landsins fyrir þrifum, með því að ákveða lögn á jarðstrengjum, eins og tæknilega er unnt, þar sem slíkt getur leitt til sátta við hagsmunaaðila, þó að stofnkostnaður þeirra sé hærri en loftlínanna. Á móti hækkun flutningsgjalds vegur lækkun á verði orkuvinnslunnar sjálfrar, eftir því sem afskriftabyrði orkuvinnslufyrirtækjanna lækkar og nýting fjárfestinganna batnar, en hún er reyndar nú betri á Íslandi en annars staðar vegna tiltölulega mikils og jafns stóriðjuálags.

Landsnet hefur sjálft í nýrri kerfisáætlun kynnt til sögunnar nýja lausn á flutningi afls á milli Suðurlands og Norðurlands, sem gæti leyst úr langvinnum og harðvítugum deilum um kerfislega bráðnauðsynlega styrkingu stofnkerfisins. 

"Baksviðs" er þannig greint frá henni:

"Kostirnir, sem velja þarf á milli, eru í aðalatriðum tveir: Tenging landshluta með styrkingu byggðalínuhringsins eða með háspennulínu yfir hálendið.  Fjórar útfærslur eru af hvorum kosti.  Eru þetta í aðalatriðum sömu kostir og í fyrri kerfisáætlun.  Þó er tekinn inn möguleikinn á jarðstreng á allri hálendisleiðinni.  Það yrði þá jafnstraumsstrengur (DC) með tilheyrandi umbreytistöðvum á endum.  Áætlað er, að lagning slíks strengs mundi kosta um miaISK 40 samanborið við miaISK 13 í loftlínu."

Það er virðingarvert af Landsneti að geta um þessa tæknilega færu leið við nauðsynlega samtengingu landshluta.  Hún hefur þann ókost að vera þrefalt dýrari en grunnkosturinn, loftlína yfir Sprengisand, en þá síðar nefndu skortir aftur á móti þann stjórnmálalega stuðning, sem nauðsynlegur er, svo að hún verði raunhæf. Millilausn er lögn riðstraumsjarðstrengs allt að 50 km á sjónrænt viðkvæmasta hluta leiðarinnar. Þrátt fyrir miklu flóknari búnað má ætla, að rekstraröryggi jafnstraumsstrengs og innanhúss AC/DC-DC/AC búnaðar verði meira en rekstraröryggi loftlínu á Sprengisandi vegna veðurfars, sandbylja og mögulegs öskufalls og eldinga í nágrenni virkra eldstöðva. Við kostnaðarútreikninga þarf að leggja s.k. ævikostnað til grundvallar samanburðar á valkostum. Þar ætti að reyna að leggja mat á "umhverfiskostnaðinn" og að sjálfsögðu að taka allan rekstrarkostnað með í reikninginn. 

Ákvörðun um slíkan jarðstreng yrði í samræmi við tækniþróun á þessu sviði og viðhorfstilhneigingu í þjóðfélaginu.  Kostnaðarmunurinn, miaISK 27, nemur u.þ.b. innheimtum virðisaukaskatti af rafmagni á tveimur árum.  Það væri því engin goðgá að fjármagna helming mismunarins með hækkun á gjaldskrá Landsnets og helminginn beint úr ríkissjóði með framlögum til Landsnets á einum áratugi í nafni umhverfisverndar og rekstraröryggis.    


Eftirlætisiðja lýðskrumara

Af takmörkuðum fréttum um efni stjórnarmyndunarviðræðna má ráða, að einn helzti ásteytingarsteinninn hafi verið fiskveiðistjórnunarkerfið.  Er það lýsandi dæmi um stjórnmálaástandið, að margir stjórnmálamenn skuli finna sér það helzt til dundurs að ráðast á kerfi, sem aflar svo vel í þjóðarbúið, að það er litið á það utanlands frá sem fyrirmynd umbóta á fiskveiðistjórnarkerfum, sem gefizt hafa illa. 

Lýðskrumarar hérlendis hafa beitt óvönduðum meðulum við að rakka niður núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og alls ekki sýnt fram á með rökum, hvers vegna nauðsyn beri til að umturna því.  Hefði samt verið óskandi, áður en stjórnmálamenn taka að ræða breytingar, að hérlendis hefð verið notuð sama aðferð og í Færeyjum, þ.e. fengnir óvilhallir fræðimenn til að semja skýrslu um kosti og galla núverandi kerfis og síðan að leggja fræðileg rök að breytingum á því eða að öðru kerfi, sem væri þjóðhagslega hagkvæmara en núverandi kerfi, því að líklega er samdóma álit allra, að hér skuli vera við lýði fiskveiðistjórnunarkerfi, sem gagnast þjóðinni sem heild bezt til lengdar. Hér ber að geta þess, að beinir hagsmunaaðilar greinarinnar sjálfrar, útgerðarmenn og sjómenn, hafa lýst andstöðu sinni við þá illa þokkuðu hugmynd að bjóða fiskveiðiheimildir upp.  Aðferðin er illa þokkuð, þar sem hún hefur verið reynd, og reyndist hún hvorki nærsamfélaginu né viðkomandi ríkissjóðum vel.

Í byrjun október 2016 var gefin út ný skýrsla nefndar um nýskipan sjávarútvegsmála í Færeyjum, sem nefnd, skipuð af Högna Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja, samdi.  Svo segir í frétt Jóns Birgis Eiríkssonar í Morgunblaðinu 10. október 2016:

"Óvíst, hvort uppboð verður ofan á":

"Skýrslan er hluti af vinnu við endurskoðun á fiskveiðikerfi Færeyinga í ljósi þess, að á næsta ári [2017] rennur út gildistími veiðiheimilda, sem gefnar voru út fyrir 10 árum.  Í skýrslunni er m.a. boðað, að horfið verði frá sóknarmarkskerfi og tekið upp aflamarkskerfi.  Einnig, að hafrannsóknir verði auknar og að jafnaði verði afla landað í Færeyjum og hann unninn þar."

Þetta er haft eftir Steinari Inga Matthíassyni, sérfræðingi hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, SÍF. Höfundar skýrslunnar komust m.ö.o. að þeirri niðurstöðu, að hafna bæri sóknarmarkskerfinu, sem var við lýði í Færeyjum, og "uppboðsleiðinni", sem núverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja er talsmaður fyrir, en taka upp íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið í einhverri mynd ásamt því að efla færeyskar hafrannsóknir.  Það er lærdómsríkt fyrir Íslendinga að kynnast því, hvað mikil fiskveiðiþjóð, sem horfir til allra átta við mótun nýs fiskveiðistjórnunarkerfis frá grunni, telur verða sér helzt til heilla við nýtingu villtra stofna í sjónum, en Færeyingar eru líka mikil fiskeldisþjóð. 

"Steinar Ingi segir Högna Hoydal, sjávarútvegsráðherra, hafa lagt nefndinni skýrar línur áður en vinnan hófst.  Eitt markmiðanna hafi t.a.m. verið að skoða sérstaklega uppboðsleiðina.  "Hann stendur fyrir þá pólitík, að þessi réttindi skuli boðin upp á opinberum uppboðsmarkaði.  Það er pólitíkin, sem hann og hans flokkur reka," segir Steinar Ingi."

Allar veiðiheimildir í færeyskri lögsögu og úr deilistofnum, sem falla í hlut Færeyinga, falla sem sagt í hlut færeyska ríkisins árið 2017, og ríkið getur gert við þær, það sem því sýnist.  Að mati sérfræðinganna á ríkið ekki að bjóða þær upp, heldur á ríkið (Landsstjórnin í Færeyjum) að úthluta núverandi færeyskum útgerðarmönnum aflahlutdeildir.  Þetta er sama staða og Íslendingar voru í 1983, fyrir 33 árum, þegar Alþingi ákvað þessa leið, og að aflahlutdeildir á skip skyldu ráðast af veiðireynslu 1981-1983.

Hvers vegna skyldu sérfræðingarnir hafa komizt að þessari niðurstöðu, sem er í blóra við vilja sjávarútvegsráðherrans ?:

  1. Sérfræðingarnir hafa litið til reynslu Færeyinga af sóknarmarkskerfi og fundið út, að árangur kerfisins væri óviðunandi m.t.t. vaxtar og viðgangs nytjastofnanna, afkomu sjávarútvegsins og verðmætasköpunar, svo að eitthvað sé nefnt.  Sóknarmarkskerfið fékk falleinkunn hjá sérfræðingum og helztu hagsmunaaðilum í Færeyjum á grundvelli eigin reynslu. Reynslan er jafnan ólygnust.
  2. Sérfræðingarnir hafa litið til reynslu fáeinna þjóða af "uppboðsleiðinni". Hún viðgengst enn á Falklandseyjum, brezkum eyjaklasa úti fyrir strönd Argentínu, en eyjarskeggjar stunda ekki fiskveiðar sjálfir að neinu marki, heldur leigja hæstbjóðandi erlendri útgerð veiðiheimildir í tiltekinn tíma. Eistar og Rússar prófuðu "uppboðsleið", en hurfu frá henni að um þremur árum liðnum, af því að hún var að rústa sjávarútvegi í héruðum, þar sem gerð var tilraun með hana.  Hún leiddi til mikillar skuldsetningar útgerða, gjaldþrota og samþjöppunar aflaheimilda á fáar hendur.  Engin nýliðun varð í greininni.  Hið opinbera fékk fyrst um sinn meir í sinn hlut í þessum æfingum, en er frá leið minnkuðu tekjur þess, og að endingu töpuðu allir, og meiri byggðaröskun varð en nokkru sinni áður.  Við öllu þessu hefur verið varað á Íslandi, ef stjórnmálamenn hérlendis láta glepjast af glópagulli. Færeyingar fengu smjörþefinn í sumar af "uppboðsleið" hjá sér.  Fá tilboð bárust, og engir nýir aðilar voru í hópi þátttakenda.  Gagnrýnendur segja, að veiðiréttindin hafi safnazt á færri hendur en áður og erlendar útgerðir eru taldar hafa beitt fyrir sig leppum til að bjóða fyrir sig í aflaheimildirnar.
  3. Téðir sérfræðingar færeyska sjávarútvegsráðherrans hafa vafalaust litið til bræðraþjóðarinnar á eyjunni í norðvestri frá sér, þar sem aflamerkskerfi með frjálsu framsali aflaheimilda hefur verið við lýði í aldarfjórðung. Það var sett á í andstöðu við útgerðarmenn þess tíma í landinu, sennilega af því að þeir sáu fram á miklar aflatakmarkanir samfara kvótasetningu, eins og reyndin varð, og fyrst nú hillir undir svipað aflamagn bolfisktegunda og þá. Lýðskrumarar hérlendir hamra á "gjafakvóta" til þessara útgerðarmanna, en staðreyndin er sú, að útgerðarmenn þess tíma fengu aflahlutdeild úthlutað út á veiðireynslu.  Þá voru veiðiskipin allt of mörg til að veiðar úr minnkandi stofnum gætu borið sig.  Þess vegna var fleirum ekki hleypt að í 7 ár til 1990-1991, er frjálst framsal aflahlutdeilda var heimilað af Alþingi. Síðan þá hafa nánast allar aflahlutdeildir skipt um hendur, þ.e. gengið kaupum og sölum á frjálsum markaði. Sérfræðingar færeysku Landsstjórnarinnar hafa vafalaust einnig litið til traustrar uppbyggingar þorskstofnsins í íslenzku lögsögunni og borið hana saman við hnignandi hrygningarstofn í færeysku lögsögunni og litið til verðmætasköpunar íslenzka sjávarútvegsins, sem er sú mesta, sem þekkist í heiminum á hvert kg úr sjó. 

 

 Viðkvæði lýðskrumara er, að útgerðarmenn greiði ekki nóg til samfélagsins, af því að þeir séu að nýta auðlind í "sameign þjóðarinnar".  Hér er, eins og vænta má, fiskað í gruggugu vatni.  Hvað er nóg, þegar þess er gætt, að bein opinber gjöld sjávarútvegsins 2015 námu miaISK 22,6 eða 32 % af EBITDA-framlegðinni.  Getur einhver bent á starfsgrein á Íslandi, sem greiðir hærri opinber gjöld eða t.d. hærra hlutfall af tekjum sínum til ríkisins ?  Hlutfallið var í þessu tilviki 22,6/275=8,2 %, og sem hlutfall af hagnaði fyrir skatta 22,6/60,1=38 %. 

Opinberu gjöldin skiptust þannig 2015:

  • Tekjuaskattur: miaISK 9,3=13,1 % af framlegð
  • Tryggingagjald:miaISK 5,8= 8,2 % af framlegð
  • Veiðigjöld:    miaISK 7,5=10,6 % af framlegð

Að óbreyttu stefnir í hærri veiðigjöld á fiskveiðiárinu 2017/2018 vegna góðrar afkomu árið 2015, og samkvæmt gildandi lögum fellur þá niður skuldaafsláttur veiðigjalda, sem eitt og sér mun hækka veiðigjöld um miaISK 1,0.  Á næsta fiskveiðiári gætu veiðigjöldin þannig hækkað um miaISK 2,5 eða um þriðjung og komizt upp í miaISK 10. Þetta er mjög alvarlegt fyrir afkomu sjávarútvegsins, því að á árinu 2016 munu tekjur hans dragast saman m.v. 2015 vegna versnandi viðskiptakjara.  Þar vegur gengishækkun ISK um 16 % þyngst.  Í aðalviðskiptalandinu, Bretlandi, hefur gengi gjaldmiðils landsins,sterlingspundsins, lækkað um 30 % gagnvart ISK.  Við svo búið má ekki standa, og vonandi er Seðlabankinn nú að rumska, en hann hefur sofnað á verðinum gagnvart hættulegri gengishækkun, sem efnahagsstöðugleikanum stafar ógn af.

Að teknu tilliti til versnandi markaðsaðstæðna almennt, einkum fyrir makríl og þurrkaðar afurðir, og hækkandi gengis, má búast við miaISK 30 lægri framlegð sjávarútvegs 2016 en 2015, þ.e. að framlegðin verði um miaISK 40, sem er lækkun um miaISK 30 eða 42 %.  Á sama tíma hækka veiðigjöldin, sem sýnir nauðsyn þess að endurskoða og einfalda útreikning þeirra. Í þessu sambandi þarf að benda á, að í aðalsamkeppnislandi Íslands á þessu sviði, Noregi, eru hvorki innheimt veiðigjöld né hafnargjöld af útgerðum, og launatengd gjöld eru þar lægri en hér.  Í Færeyjum og á Grænlandi greiða sjómenn hluta veiðigjalds á móti útgerðum. Í samkeppninni á erlendum mörkuðum hefur staða íslenzka sjávarútvegsins veikzt verulega.

Nú er svo komið, að afl íslenzkra útgerða til fjárfestinga, sem árið 2015 nam miaISK 26 eða 37 % af framlegð, mun veikjast mjög á næsta ári, og fé til ráðstöfunar af framlegð, EBITDA, til fjárfestinga verður mjög af skornum skammti.  Líklegt er þá, að skuldir útgerðanna vaxi aftur, en skuldir sjávarútvegs voru í hámarki árið 2009 í miaISK 494 og lækkuðu niður í miaISK 333 árið 2015 eða um miaISK 161, og skuldastaðan, sem árið 2015 var 333/71=4,7, þ.e. tiltölulega góð, mun vafalaust versna. Þetta fellir viðkomandi sjávarútvegsfyrirtæki í verði á hlutabréfamarkaði og dregur úr lánshæfni þeirra. 

Í ljósi versnandi horfa um tekjur og skuldastöðu sjávarútvegsins er með eindæmum, að stjórnmálamenn skuli sitja yfir því dögum saman með sveittan skallann í stjórnarmyndunarviðræðum, hvernig hægt sé að ná meira fé en nú þegar er gert af sjávarútveginum til þess að fjármagna aukin umsvif ríkisins, sem eru ótímabær fyrr en lækkaðar vaxtagreiðslur ríkissjóðs veita slíkt svigrúm og mundu setja fullþanið hagkerfi úr skorðum. Slíkir stjórnmálamenn eru buddu almennings stórvarasamir.

Líklegt er, að orðin "sameign þjóðarinnar" í umræðunni og í lagatexta fiskveiðistjórnunarlaganna virki á skattaglaða stjórnmálamenn, eins og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, augljóslega eru, eins og blóðfnykur í loftinu virkar á rándýr. Þannig standa vinstri sinnaðir stjórnmálamenn iðulega á öndinni og halda því blákalt fram, alveg út í loftið, að hægt sé að stórauka skattheimtu með aðför skattheimtumanna að atvinnugreinum, sem hagnýta auðlindir landsins.  Er þá látið að því liggja, að fyrirtækin, sem breyta landsins gæðum í fjármuni séu með ótilteknum hætti að arðræna þjóðina um leið.  Þá er horft framhjá því, að greinarnar eru fjárfrekar og sjávarútvegurinn er áhættusöm grein, sem skilar starfsfólki sínu og viðkomandi byggðarlögum góðum tekjum og ríkissjóði meiri beinum og óbeinum tekjum en aðrar starfsgreinar. Að höggva í sama knérunn hefur löngum þótt ógæfulegt. 

Til að siðferðisgrundvöllur eigi að vera fyrir skattheimtu af einni starfsgrein umfram aðrar þarf að hafa greinzt rentusækni í þeirri grein og hún verið metin til fjár.  Rentusækni er það, að fyrirtæki eða starfsgrein sækist eftir og fái úthlutað ávísun á verðmæti úr takmarkaðri auðlind á kostnað annarra fyrirtækja eða þeim sé með einhverju móti hyglað af hinu opinbera við markaðssetningu á afurðum þeirra.  Sem dæmi um rentusæknar greinar má nefna sjókvíaeldi, orkuvirkjanir og fjarskiptageirann, en í þessum geirum fá fyrirtæki úthlutað starfsleyfum og rekstrarleyfum gegn vægu gjaldi, þar sem fleiri eru um hituna en fá. 

Hvers vegna er íslenzki sjávarútvegurinn ekki rentusækinn ?  Það er vegna þess, að útgerðarmennirnir hafa keypt eða leigt til sín veiðiheimildirnar á frjálsum markaði, og sjávarútvegsfyrirtækin selja afurðir sínar á frjálsum markaði, oftast í harðvítugri samkeppni erlendis við niðurgreidda (rentusækna) erlenda starfsemi. 

Hver ráðskast þá með "sameign þjóðarinnar" í þessu sambandi ?  Fyrst er þar til að taka, að enginn getur átt óveiddan fisk í sjó, enda syndir hann frjálst inn og út úr fiskveiðilögsögunni.  Miðin eru almenningur, þar sem "ítala" hefur verið sett af ríkisvaldinu af illri nauðsyn. Þessi "ítala" er aflamark í hverri kvótasettri tegund og aflahlutdeild veiðiskips.  Aflamarkið er sett af ráðherra á grundvelli rannsókna og ráðlegginga Hafrannsóknarstofnunar, en aflahlutdeildin ræðst á frjálsum markaði, og er þessi nýtingarréttur ígildi eignar, sem varinn er af eignarréttarákvæði Stjórnarskráarinnar. Ef Ísland væri í ESB, væru bæði aflamark innan landhelgi Íslands og aflahlutdeildir ákvarðaðar af framkvæmdastjórn ESB og samkvæmt CAP-"Common Agricultural and Fisheries Policy", mætti ekki mismuna veiðiskipum ESB um aðgang að íslenzku landhelginni til lengdar, enda félli hún undir lögsögu ESB.  Er þetta skýringin á því, að íslenzku ESB-flokkarnir vilja brjóta niður gildandi íslenzkt fiskveiðistjórnunarkerfi, eða ræður tilviljun því, afstaðan til ESB og fiskveiðistjórnunar fara saman ?  Tölfræðilega eru litlar líkur á slíkri samleitni, og þess vegna er tilgátan sú, að ekki sé um tilviljun að ræða. 

Að því leyti eru færeysk og íslenzk stjórnvöld í gjörólíkri aðstöðu, þar sem sóknardagaheimildir í færeyskri lögsögu falla allar til Landsstjórnarinnar á næsta ári, þar sem sóknardagakerfið verður aflagt, en íslenzka ríkisstjórnin verður annaðhvort að kaupa aflahlutdeildir íslenzkra útgerðarmanna eða að taka þær eignarnámi og greiða þá fébætur fyrir, ef hún vill leggja af núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og taka upp annað fyrirkomulag, t.d. "uppboðsleið". Skyldi maður halda, að ríkið hafi annað við peningana að gera en að festa þá í útgerð.  Varpar þessi ráðstöfun ríkisins skýru ljósi á, að "uppboðsleið" er ekki markaðsleið, heldur þjóðnýting aflahlutdeilda í felubúningi markaðskerfis, þar sem gera á útgerðarmenn að leiguliðum ríkisins. 

Blekbóndi á engra beinna hagsmuna að gæta varðandi útgerðirnar í landinu eða kvótaeign þeirra né liggja nokkrir venslaþræðir frá honum til útgerðanna, en hann telur samt einsýnt, að ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunar og aflamarkskerfið í sameiningu þjóni bezt hagsmunum hans allra þekktra fiskveiðistjórnunarkerfa, sem og þjóðarheildarinnar, og að hlutdeild ríkissjóðs af afrakstri auðlindarinnar hljóti að vera í hámarki til lengdar frá kerfi, þar sem verðmætasköpunin á hverja einingu er í hámarki

Vinstri hreyfingin grænt framboð, VG, hefur boðað hækkun á skattheimtu af einstaklingum og lögaðilum. Það mun leiða til enn meiri þenslu í hagkerfinu, því að fé þessara aðila, sem annars hefði m.a. verið varið til að greiða niður skuldir, spara, viðhalda húsnæði eða tækjum, fjárfesta í betri búnaði, fara á flandur til gamans eða markaðssetningar eða til einhverra annarra þarfa, fara þá í að þenja umsvif ríkissjóðs, sem ekki eru síður verðbólguhvetjandi en einkaneyzla. VG hefur sérstaklega boðað hækkun á veiðigjöldum, þótt fyrir því séu hvorki réttlætisrök, lögfræðileg rök né hagfræðileg rök.  Veiðigjöldin renna beint til ríkissjóðs, en það er lágmarks réttlætiskrafa, að þau séu eyrnamerkt og renni óbeint til sjávarútvegsins aftur sem framlög í hafnabótasjóð, til Hafrannsóknarstofnunar og til Landhelgisgæzlunnar.  Núverandi álagningaraðferð er ótæk, og væri tekjuskattsauki illskárri aðferð.                       Berlaymont sekkur

 

 

 


Söguleg umbrot

Sé litið yfir Evrópusöguna síðustu 2000 árin, má álykta, að upphaf stefnumarkandi þróunar á hverjum tíma eigi sér jafnan stað í Róm og/eða Lundúnum.  Rómarríkið lagði grundvöll að samfélagi og menningu Evrópu fram á þennan dag og mótaði þá landaskipan, sem við nú búum við. Rómarkirkjan klofnaði á fyrri hluta 16. aldar vegna spillingar Páfadóms að tilstuðlan Englendinga og Þjóðverja, og oft hafa Þjóðverjar þróað hugmyndir og aðferðir hinna tveggja af sinni alkunnu skipulagsgáfu, festu og nákvæmni. 

Iðnbyltingin hófst á Bretlandi um 1760 með mikilvægri tækniþróun, þar sem gufuvél James Watt markaði tímamót í frelsun manna undan líkamlegu oki erfiðisvinnunnar, og þar með kippti tækniþróunin fótunum undan þrælahaldi, sem hafði afar lengi verið undirstaða auðsköpunar hvarvetna.  Um svipað leyti lagði Adam Smith fram fræðilegan grundvöll að markaðshagkerfinu, sem ásamt enska þingræðiskerfinu hefur knúið áfram vestræn þjóðfélög til nútíma velferðarsamfélags og staðið af sér ofstæki einræðisafla, iðulega með miklum blóðfórnum.   

Uppruna þjóðernisjafnaðarmanna 20. aldar má rekja til niðurlægingar Fyrri heimsstyrjaldarinnar fyrir nokkur ríki Evrópu, þar sem Bretland og Bandaríkin réðu úrslitum á vígvöllunum, og stjórnmálaflokks Benitos Mussolinis, sem var fyrirrennari og að sumu leyti fyrirmynd þjóðernisjafnaðarmannaflokks þýzkra verkamanna Austurríkismannsins  Adolfs Hitlers. Sá flokkur var vissulega vinstri flokkur að nútíma skilningi, þó að hann stillti sér upp sem höfuðandstæðingi kommúnismans, af því að hann vildi spenna auðvaldskerfið fyrir vagn ríkisvaldsins. Einstaklingarnir voru tannhjól í samfélagsvél ríkisins. Það er vinstrimennska. Að sumu leyti svipar kínverskum kommúnisma til þessa kerfis.  Þar eru jafnvel stundaðar þjóðernishreinsanir, t.d. í Tíbet, og Han fólkið talinn yfirburða stofn kínverska ríkisins. 

Evrópusambandið (ESB) er reyndar hvorki ættað í Róm né í Lundúnum, heldur í Stál- og kolabandalagi Benelux-landanna ásamt Frakklandi og Þýzkalandi um 1950, en stofnsáttmáli Evrópubandalagsins frá 1957 er þó tengdur við og kenndur við Róm. Vatnaskil urðu hins vegar í þróun Evrópusambandsins, þegar Bretar samþykktu 23. júní 2016 að segja sig úr ESB. Brezka þingið hefur nú innsiglað þá stefnumörkun. Þar með stöðvuðu Bretar stöðuga útþenslu þess, og samdráttur yfirráðasvæðis þess hófst.  ESB mun ekki bera sitt barr eftir þetta, enda gætu fleiri, t.d. Danir, fylgt í kjölfarið og gengið í viðskiptabandalag með Bretum. Hafinn er nýr kafli í stjórnmálaþróun Evrópu að frumkvæði Lundúna. 

Þann 4. desember 2016 gengu Ítalir að kjörborðinu og kusu um stjórnarskrárbreytingar, sem forsætisráðherrann, Matteo Renzi, hafði haft forgöngu um.  Þær snerust um að styrkja miðstjórnarvaldið í Róm, og reyndist slíkt eitur í beinum Ítala.  Renzi ætlaði að auka skilvirkni og draga úr spillingu með því að draga völd frá héruðunum og til Rómar.  Sagðist hann draga burst úr nefi Mafíunnar með slíku, en Ítalir gáfu lítið fyrir það, enda hafa þeir aldrei verið hallir undir Rómarvaldið.  Hinir fornu Rómverjar létu sér það í léttu rúmi liggja, svo lengi sem þeir fengu skattfé af íbúunum og liðsmenn í Rómarherinn. Allir kunnu þó að meta vegakerfi og áveitukerfi Rómverja, sem höfðu á að skipa beztu verkfræðingum Evrópu þess tíma, og Pax Romana, friði innan landamæra Rómarveldis.

Samkvæmt lagabreytingu, að frumkvæði Renzis, átti stjórnmálaflokkur, sem hlyti yfir 40 % fylgi í þingkosningum, að fá meirihluta þingsæta í neðri deild þingsins á silfurfati, og efri deild átti bara að verða ráðgefandi.  Þetta hugnaðist Ítölum illa. 

Renzi sagði strax af sér eftir ósigurinn, og formaður Fimm stjörnu hreyfingarinnar, Beppe Grillo, trúður að atvinnu, krafðist tafarlausra þingkosninga í kjölfarið, en flokki hans er spáð sigri í næstu kosningum.  Eftir þær mun trúðurinn trúlega mynda ríkisstjórn á Ítalíu. 

Beppe Grillo styður aðild Ítalíu að ESB, en hefur lofað Ítölum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild landsins að myntbandalagi ESB, evrunni, komist hann til valda.  Síðan Ítalir tóku upp evruna í byrjun aldarinnar, hefur hagkerfi Ítalíu ekki borið sitt barr, hagvöxtur verið sáralítill, ráðstöfunartekjum almennings hrakað, atvinnuleysi vaxið, einkum á meðal ungviðis og í suðurhlutanum, og skuldsetning allra kima þjóðfélagsins keyrt úr hófi fram, ekki sízt ríkissjóðs.  Nú er mikið um vanskil í bönkum, og ítalska fjármálakerfið stendur tæpt, verst þriðji stærsti banki landsins og sá elzti, starfandi, kenndur við hina fögru borg Toscana, Siena.  Hlutabréf hans hafa fallið um 85 %, sem segir sína sögu, og hlutabréf hafa almennt fallið á Ítalíu eftir ósigur Renzis og evran tekið dýfu. Fjármálamarkaðir finna á sér óveður í aðsigi. 

Berlín hefur frestað gjaldþroti Grikklands og hjálpað Kýpverjum, Írum, Spánverjum og Portúgölum, en Berlín ræður ekki við að bjarga Ítalíu. Greiðsluþrot Ítalíu og brottfall úr myntbandalaginu verður reiðarslag fyrir myntsamstarfið, sem mun leika á reiðiskjálfi, og e.t.v. fá rothögg með heilablæðingu.  Mikil atburðarás var þess vegna ræst í Evrópu sunnudaginn 4. desember 2016. Ekki er útlitið björgulegt fyrir íslenzka útflytjendur og ferðaþjónustu, ef svo fer fram sem horfir. 

Lítum nú á, hvað fyrsti aðalhagfræðingur Evrubankans, Þjóðverjinn Otmar Issing, sagði um framferði Ítalans Mario Draghi og evrubanka hans ásamt stjórnmálamönnum  evrulands haustið 2016 með tilvitnunum í grein Andrésar Magnússonar í Viðskiptablaðinu, 20. október 2016:

"Spilaborg evrunnar mun óhjákvæmilega hrynja:

""Einn dag mun þessi spilaborg hrynja" var á meðal þess, sem Issing sagði í viðtali við Central Banking á dögunum, en það er eitt vinsælasta tímarit seðlabankaheimsins.  Hann sagði, að evran hefði verið svikin í tryggðum af stjórnmálunum og harmaði, að tilraunin hefði mistekizt allt frá upphafi, en hefði síðan úrkynjazt í fjármálapólitísk áflog, þar sem engin fantabrögð væru undanskilin.

"Ef við leggjum kalt mat á framhaldið, þá mun evran böðlast áfram, skjögrandi frá einni kreppunni til hinnar næstu.  Það er erfitt að spá fyrir um, hversu lengi það mun ganga þannig til, en það getur ekki gengið að eilífu.""

Það er hafið yfir vafa, að hinn skeleggi Otmar Issing hefur lög að mæla.  Það, sem hann á við, er, að stjórnmálamenn brutu reglurnar, sem að tilstuðlan þýzkra hagfræðinga voru settar um evruna, þegar hún var grundvölluð, t.d. með því að bjarga bönkum og ríkjum frá greiðsluþroti með ríkisfé og peningaprentun, með því að brjóta reglur Maastricht samkomulagsins um hámarks halla á ríkissjóðum 3 % af VLF ár eftir ár og með dúndrandi viðskiptahalla víða. 

Issing spáir hruni evrunnar eftir ótilgreindan tíma, og nú bendir ýmislegt til, að sá tími sé að renna upp með hruni fjármálakerfis Ítalíu og/eða úrsögn Ítalíu úr myntsamstarfinu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar valdatöku yfirtrúðs Ítalíu og Fimm stjörnu hreyfingar hans, sem þegar hefur náð völdum í Róm.   

Heyrzt hefur, að eitt af "erfiðu málunum" í stjórnarmyndunarviðræðunum hérlendis í vetur hafi verið krafa tiltekinna stjórnmálaflokka um að setja aðildarumsókn Íslands að ESB á dagskrá aftur.  Í ljósi raunveruleikans á Íslandi og í Evrópu er þetta alveg dæmalaus þráhyggja og pólitískur sauðsháttur.  Nægir að benda á, að evran er á hverfanda hveli og að Samfylkingin fékk einn mann kjörinn í síðustu Alþingiskosningum (og 2 uppbótarmenn), sem má túlka sem höfnun kjósenda á stefnu hennar, m.a. um aðild Íslands að ESB og upptöku evru sem lögeyris á Íslandi.  Aðrir flokkar héldu þessari stefnu lítið sem ekkert á lofti, og þess vegna er í meira lagi ólýðræðislegt og einstaklega óskynsamlegt að eyða púðri á þetta mál í íslenzkum stjórnmálum nú og á næstunni.  Hvað hafði Issing að segja um stjórnendur ESB í Brüssel ?:

"Issing, prófessor, úthúðaði framkvæmdastjórn ESB, sagði hana pólitíska ókind, sem gæfist upp á að framfylgja grundvallarreglum sambandsins í öllum meginatriðum. "Freistnivandinn er yfirþyrmandi", segir hann um kommissara framkvæmdastjórnarinnar. 

Hann var engu mjúkmálli um Seðlabanka Evrópu, sem hann segir vera á hálli braut til Heljar og hafa í raun eyðilagt hið sameiginlega myntkerfi með því að koma gjaldþrota ríkjum til bjargar þvert á vinnureglur bankans, lög og undirliggjandi milliríkjasáttmála.  "Stöðugleikabandalagið hefur meira eða minna misheppnazt, og agi á markaði verið látinn lönd og leið með afskiptum Seðlabanka Evrópu.  Fyrir vikið eru engin fjármálaleg stjórntæki lengur tiltæk, hvorki markaðsleg né pólitísk", sagði Issing og bætti við: "Þetta er allt, sem þarf til að kalla hamfarir yfir myntsamstarfið"."

""Efnisgreinin, sem bannar Seðlabanka Evrópu að hlaupa undir bagga með gjaldþrota ríkissjóðum, er þverbrotin daglega", segir Issing. Hann vísar úrskurðum Evrópudómstólsins um, að þær ráðstafanir sé lögmætar, á bug og segir þá einfeldningslega og dómarana blindaða af Evrópuhugsjóninni."

Það er ómetanlegt, að hinn vel upplýsti og hreinskilni Otmar Issing skuli tjá sig opinberlega um morkna innviði bæði ESB og ECB.  Hann er í raun og veru að segja, að framkvæmdastjórn ESB og bankastjórn evrubankans, ECB, hafi látið reka á reiðanum og ekki haft bein í nefinu til að halda sjó í stormviðrum og miklum þrýstingi frá stjórnmálamönnum, forstjórum og bankastjórum í aðildarríkjunum, þegar framkvæmdastjórn og bankastjórn bar skylda til að standa vörð um grundvallaratriði, sem njörvuð höfðu verið niður í samningum á milli aðildarríkjanna.  Með þessu hafi þeir grafið svo undan trausti á Evrópusambandinu og evrunni, að hvort tveggja sé nú sært til ólífis. 

Hér eru þessir tveir sjúklingar, ESB og ECB, úrskurðaðir dauðvona án lífsvonar.  Náið samband ólíkra ríkja Evrópu er að leiða til skilnaðar, af því að siðferðiskenndin er ólík og ósamrýmanleg.  Það er andstætt mannlegu eðli, að svo ólíkt hugarfar, sem hér um ræðir, geti deilt sömu örlögum.  Martin Luther var að breyttu breytanda talsmaður sömu viðhorfa og grundvallarafstöðu og Otmar Issing.  Það verður að halda sig við Bókina í fjölþjóðasamstarfi, en prelátarnir mega ekki túlka hana út og suður að eigin vild, og slíkt hefur þá alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Upp úr þessu umróti gætu risið "Suður-Kirkjan" og Norður-Kirkjan" með fríverzlunarsvæði og sameiginlega mynt innbyrðis og viðskiptasamning sín á milli.  Bretland mun standa utan við báðar Kirkjurnar með sitt sterlingspund og fríverzlunarbandalag með þeim, sem ekki kæra sig um að vera í fyrrgreindum tveimur "Kirkjum" og auðvitað viðskiptasamning við þær. 

Hvar halda menn, að Ísland eigi bezt heima í þessu tilliti ?  Væri ekki ráð að staldra við, leyfa þróun Evrópu að hafa sinn gang og umrótinu að linna áður en gösslazt er út í viðræður við samband á fallanda fæti ?  ESB hefur hvort eð er lýst því yfir, að engin ný ríki verði tekin inn fyrir 2020.  Það er fullkomin tímaskekkja af tilteknum stjórnmálaflokkum á Íslandi að ræða það af tilfinningaþrunginni alvöru dag eftir dag í stjórnarmyndunarviðræðum að láta þjóðina kjósa um framhald aðildarviðræðna eða um aðild að ESB.  Verði sú reyndin, verður hlegið um alla Evrópu, þótt Evrópumönnum sé sízt hlátur í hug, þegar talið berst að ESB.   


Doði í rafvæðingunni

Á Íslandi er undarlega lítill hugur í mönnum við inleiðingu vistvænna bíla, ef frá er talið froðusnakk. Tiltölulega lítill hugur lýsir sér í því, að fjöldi alrafbíla og tengiltvinnbíla, þ.e. fólksbíla með aflrafgeyma, sem endurhlaðanlegir eru frá veitu (3x32 A eða 1x16 A tenglum), er aðeins um 3,5 % af heildarfjölda nýrra, en í Noregi er þetta sama hlutfall um þessar mundir næstum nífalt hærra og er að nálgast 30 % og vex hraðar en íslenzka hlutfallið. Þetta segir sína sögu um stjórnsýsluna hér og þar.  Þessi doði er leiðinlegur og vitnar um framtaksleysi hérlendis, þótt fjárveitingavald ríkisins eigi heiður skilinn fyrir sinn þátt, sem er niðurfelling vörugjalds og virðisaukaskatts, þótt aðeins sé til eins árs í senn, og sjóðframlag, 200 Mkr/ár, en eftirspurnin nemur þó 800 Mkr/ár.  Einkennilega mikilla vinsælda njóta þó þeir tvinnbílar hérlendis, sem eru þeirrar náttúru að framleiða rafmagn inn á rafgeyma með afli benzín- eða dísilvéla.  Slíkir ættu ekki að njóta neinna forréttinda hérlendis, enda fráleitt að framleiða rafmagn með eldsneyti í landi endurnýjanlegra orkulinda.   

Það eru 2 meginskýringar á þessum mikla muni á milli þessara tveggja Norðurlanda, og er önnur fjárhagslegs eðlis, og hin varðar aðstöðuna, sem notendum er búin. 

Í Noregi er hinn fjárhagslegi ávinningur notenda rafknúinna ökutækja meiri en hér af tveimur ástæðum.  Jarðefnaeldsneytið er dýrara í olíulindalandinu Noregi en á Íslandi, sem er enn án olíulinda og eimingarstöðva fyrir jarðolíu, en kaupir megnið af tilbúnu eldsneyti frá Statoil, hinu ríkisrekna olíufélagi Noregs. 

Í Noregi er virkt markaðskerfi með rafmagnið, enda sveiflast raforkuverð til almennings í takti við framboð og eftirspurn rafmagns í hverju héraði.    Meðalverðið er svipað og á Íslandi, en notendum eru hins vegar boðin hagkvæm kjör að næturlagi, og þá endurhlaða flestir norskir rafbílaeigendur bíla sína. 

Á Íslandi er fjárhagsleg hagkvæmni þess að kaupa nýjan rafmagnsbíl, alraf eða tengiltvinn, í járnum um þessar mundir, en hún er hins vegar ótvíræð í Noregi.  Þjóðhagsleg hagkvæmni rafbíla á Íslandi er líka ótvíræð vegna gjaldeyrissparnaðar yfir endingartíma bílsins m.v. meðalakstur eða meiri.  Þá auðvelda rafbílar landsmönnum að standa við skuldbindingar sínar frá Parísarráðstefnunni um loftslagsmál í desember 2015.  

Innviðauppbygging til að þjóna rafbílaeigendum er svo langt komin í Noregi, að í fæstum tilvikum virkar hún hamlandi fyrir val bílkaupenda á rafknúnum bíl.  Aðstaða er til að hlaða rafgeymana á vinnustöðum, við heimahús, þ.m.t. á bílastæðum og í bílakjöllurum fjölbýlishúsa, og við hótel og annars konar gistihús, auk hraðhleðslustöðva við þjóðvegina og í þéttbýli. 

"Som den observante læser umiddelbart ser", eins og stóð í dönsku stærðfræðidoðröntunum (Matematisk Analyse) stúdentum til hrellingar yfirleitt, sem hér voru kenndir, eru augljósar skýringar á hinum mikla muni, sem er á framgangi rafvæðingar íslenzka og norska bílaflotans.  Hér þarf að gera gangskör að eftirfarandi til að jafna metin:

 

  1. Hefja hraðfara undirbúning að innleiðingu næturtaxta rafmagns með því að setja nýja raforkumæla með viðbótar, tímastýranlegu teljaraverki fyrir raforkunotkun á lægri taxta í stað gömlu mælanna.  Með næturtaxta og jafnvel helgartaxta fá dreifiveitur jafnara álag yfir sólarhringinn og vikuna og þurfa þannig hvorki að skipta um spenna né stofnstrengi vegna rafbílanna, nema þar sem heimtaug er með of fáa leiðara fyrir umbeðið þriggja fasa álag.  Dreifiveitur og flutningsfyrirtæki og jafnvel virkjunarfyrirtæki hagnast jafnframt á þessu fyrirkomulagi, af því að þau fá aukin viðskipti án fjárfestinga í sama mæli, sem jafngildir bættri nýtingu búnaðar. Virkjunarfyrirtækin fá betri nýtingu eldri fjárfestinga, en munu þó þurfa að bæta við virkjunum vegna aukinnar raforkuþarfar á næsta áratugi. Ávinninginum af þessu ættu neytendur og birgjar að skipta á milli sín, t.d. í hlutföllunum 2/3:1/3, þar sem óhagræði er fyrir neytendur að binda sig við ákveðið hleðslutímabil. 
  2. Skylda húsbyggjendur, með ákvæði í byggingarreglugerð og ákvæðum um útfærslu raflagnar í Reglugerð um raforkuvirki, til að leggja þrífasa rafstreng að hverju bílastæði og tengidós fyrir úttak að 1x16 A eða 3x32 A tengli, eftir þörfum, við allt nýtt húsnæði. Dreifiveitur skulu jafnframt búa sig í stakkinn fyrir styrkingu dreifikerfa fyrir allt eldra húsnæði til að geta orðið hratt og vel við óskum íbúa um tengingu fyrir rafbíla á sanngjörnu verði.  Hér gæti stuðningssjóður ríkisins stutt við dreifiveiturnar, þar sem dýrast er, gegn þaki á kostnað neytenda.
  3. Það hefur komið fram, að flutningskerfi raforku á 132 kV spennu er ekki í stakkinn búið til að flytja orku á milli landshluta og héraða vegna viðbótar þarfa á borð við rafvæðingu bílaflotans og hafnanna eða afnáms olíukatla í matvæla- og fóðuriðnaðinum.  Auðveldast væri líklega í fyrsta áfanga að reisa nýja Byggðalínu á 220 kV spennu og rífa þá gömlu.  Sú nýja þarf að fá nýja legu og jafnvel á köflum í jörðu, þar sem sú gamla liggur yfir tún bænda eða er talin vera mest til lýta og jafnvel að valda hættu, t.d. fyrir flugvélar.  

Um hagkvæmni rafbíla:

 

Orkunýtnitölur bílaframleiðenda eru ekki gagnlegri fyrir kaupendur rafbíla (alraf- og tengiltvinnbíla) en fyrir kaupendur benzín- og dísilknúinna bíla.  Þannig er orkunýtni þess tengiltvinnbíls, sem blekbóndi þekkir af eigin raun, gefin upp um 0,12 kWh/km, en í haust hér á höfuðborgarsvæðinu í rafhami hefur hún að jafnaði verið 0,354/kWh, eða tæplega þrefalt lakari en upp er gefið. Blekbóndi mælir orku inn á hleðslutæki og hleðslustreng, og þar með eru töpin innifalin, þ.e. mælt er, það sem greitt er fyrir.  Mikil orkunotkun á km veldur því í þessu tilviki, að drægnin á hverri hleðslu nær aðeins 16 km af upp gefnum allt að 50 km, eða þriðjungi, sem hrekkur oft ekki til fyrir akstur innan höfuðborgarsvæðisins, og þá hrekkur benzínvélin sjálfvirkt í gang. 

Ástæður fyrir þessu eru m.a. ljósaskyldan á Íslandi, útihitastigið og upphitunarþörf bíls að haustlagi auk orkukræfs aksturslags í umferð með ójöfnum hraða (tíðum hröðunum).

Villandi upplýsingar, reistar á gjörólíkum, stöðluðum aðstæðum, koma fólki í opna skjöldu og geta komið sér illa.  Þannig er eftirfarandi m.a. haft eftir Tinnu Andrésdóttur, lögfræðingi Húseigendafélagsins, í Morgunblaðinu 14. nóvember 2016 í grein Guðna Einarssonar:

"Víða vantar tengla fyrir rafbílana": 

"Hún kvaðst hafa búið í fjöleignarhúsi og átt rafbíl.  "Umboðin, sem selja rafbíla, gefa upp áætlaðan kostnað við að hlaða bílinn yfir árið.  Hann er svona 10-12 þúsund kr.  Við greiddum ríflega þessa fjárhæð í hússjóðinn, svo að húsfélagið væri ekki að greiða aukinn rafmagnskostnað okkar vegna.""

M.v. ofangreinda orkunýtni blekbónda og einingarverð viðbótarorku, þ.e. án fastakostnaðar, nemur raforkukostnaður 5,0 kr/km, svo að téð Tinna hefur aðeins greitt fyrir "ríflega" 2´000-2´400 km akstur.  Langflestum bílum er ekið mun meira.  Ef Tinna hefur ekið 10´000 km/ár, sem er langt undir meðalakstursvegalengd á bíl hérlendis, þá hefur rafmagnskostnaður bílsins numið 50´000 kr/ár, og hússjóðurinn gæti hafa verið snuðaður um allt að 40´000 kr/ár vegna þessa eina bíls. Þetta dæmi sýnir nauðsyn þess að reisa gjaldtöku og greiðslu fyrir bílrafmagn á raunraforkumælingu, en alls ekki á upplýsingum frá bílaumboðunum, nema þau séu með mæligildi héðan frá Íslandi. Annars eru orkutölur þeirra út í hött.

Þrátt fyrir mun hærri raforkukostnað rafbíla í raun en bílaumboðin hérlendis láta í veðri vaka, geta rafbílakaup verið hagkvæm miðað við núverandi aðstæður, hvort heldur er á alrafbíl eða tengiltvinnbíl (í raftvinnbílum er notað eldsneyti til að framleiða rafmagn, sem er mjög kyndug aðferð á Íslandi), og er þá ekki tekið tillit til væntanlega lægri viðhaldskostnaðar rafbíla. Kaupin á rafbíl eru óhagkvæm núna á Íslandi, ef lítið er ekið (<15 kkm/ár) og selja á bílinn yngri en 6 ára. Þessar ályktanir eiga við sparnað í orkukostnaði m.v. benzínverð um 190 kr/l og raforkuverð fyrir bílrafmagn um 14 kr/kWh. Þróun þessara verða er lykilatriði fyrir hagkvæmni rafbíla í samanburði við benzín- og dísilbíla. Þá hefur verð bílrafgeyma farið hratt lækkandi, og með vaxandi fjölda framleiddra rafbíla á ári mun verðmunur rafbíla og eldsneytisknúinna bíla fara lækkandi. 

Til að varpa betra ljósi á þessar kostnaðarhugleiðingar, verður hér tekið dæmi af alrafbíl í ódýrari kantinum, þar sem endurgreiðslutími á verðmun sambærilegra bíla, sem knúnir eru annars vegar rafmagni og hins vegar benzíni, er tæplega 6 ár við núverandi aðstæður:     

Forsendurnar eru eftirfarandi:

  • Verð rafbílsins, 4,12 Mkr, er sett 100 %.
  • Verð sambærilegs benzínbíls er þá 2,4 Mkr, eða 58 %, samkvæmt Kára Auðuni Þorsteinssyni, KAÞ, viðskiptastjóra hjá Ergo, í grein Sæunnar Gísladóttur í Markaðinum, 9. nóvember 2016. Ofan á verð jarðefnaeldsneytisbílanna leggjast neðangreind gjöld:
  • Vörugjöld eru 9 % af verði rafbílsins og virðisaukaskattur 16 %, en leggjast einvörðungu á jarðefnaeldsneytisbíla samkvæmt Fjárlögum eitt ár í senn.  Ákvörðun um það ætti að festa í sessi þar til heildarfjöldi vistvænna bíla nær 10 % af fjölda skráðra fólksbíla í landinu á númerum, en hlutfallið er nú aðeins 0,9 %.
  • Téður 17 % munur á verði nýs rafmagnsbíls og benzínbíls jafngildir 0,7 Mkr.
  • Samkvæmt KAÞ nemur orkukostnaðarmunur þessara tveggja bifreiða 8,7 kr/kWh, sem er trúleg tala m.v. 5,0 kr/km kostnað tengiltvinnbíls blekbónda í rafhami.  Heildarkostnaður hefur numið 8,5 kr/kWh.
  • Við bílkaupin stendur kaupandinn t.d. frammi fyrir vali á milli rafbíls og benzínbíls.  Velji hann rafbílinn, þarf hann að snara út 0,7 Mkr ofan á verð benzínbílsins.  Það er nokkru minni verðmunur á tengiltvinnbílum og jarðefnaeldsneytisbílum, af því að aflrafgeymarnir í tengiltvinnbílum eru venjulega innan við þriðjungur að orkugetu á við svipaða alrafbíla. Velji hann benzínbílinn og aki 15´000 km/ár, lendir hann í 0,131 Mkr hærri orkuútgjöldum á ári, en getur á móti ávaxtað 0,7 Mkr, t.d. með 3,0 % raunávöxtun á ári.  Hvor kosturinn er kaupandanum hagkvæmari ?
  • Til að svara þessu þarf að núvirða mismun árlegs kostnaðar þessara tveggja bíla og fæst þá sú niðurstaða, að ætli kaupandinn að eiga bílinn í tæplega 6 ár eða lengur, þá er rafbíllinn hagkvæmari.  M.v. núverandi orkuverð, benzín um 190 kr/l, og að öðru óbreyttu, þá er benzínbíllinn hagkvæmari yfir minna en 6 ára rekstrartíma. 
  • Til að ljúka þessum samanburði má bera saman líklegt endursöluverð þessara bíla að þessum endurgreiðslutíma liðnum, tæplega 6 árum.  Framleiðendur og umboðsmenn þeirra veita a.m.k. 5 ára ábyrgð á rafgeymunum, en upplýsa jafnframt, að búast megi við 10 ára endingu rafgeymanna.  Ending getur hér verið teygjanlegt hugtak, því að umtalsverð stytting á drægni eftir minna en 10 ára notkun er afar líkleg.  Gerum ráð fyrir versta tilviki fyrir rafbílinn, þ.e. að drægni rafgeymanna sé talin orðin óviðunandi eftir 6 ár.  Hvað er líklegt, að endurnýjun kosti þá ?  Geri ráð fyrir verði aflrafgeyma í alrafbílinn nú um 1,5 Mkr eða 63 kkr/kWh.  Á 8 ára tímabilinu 2008-2016 hefur verð aflrafgeyma í bíla lækkað um 80 %, og er þá helmingunartími verðsins 2-3 ár, ef um algengt veldisfall er að ræða.  Það þýðir, að þessir rafgeymar munu árið 2022 kosta að núvirði minna en 0,25x1,5 Mkr = 0,38 Mkr.  Við sölu á 6 ára rafbíl þarf eigandinn að fá sem nemur þessari upphæð umfram andvirði benzínbílsins til að sleppa jafnvel og eigandi benzínbíls.  Ef hlutföll eldsneytisverðs og rafmagnsverðs hafa ekki raskazt frá 2016 árið 2022 og áhugasamur kaupandi framkvæmir  þá núvirðisreikninga, eins og hér að ofan, þá gæti verðmat hans á bílnum velt á því, hversu lengi hann hyggst eiga bílinn.  Það eru hins vegar meiri líkur en minni á því, að upphaflegur eigandi rafbílsins sleppi á sléttu eða með örlítinn hagnað frá viðskiptunum með sinn fyrsta rafbíl. 

Með núverandi verði á eldsneyti og raforku á Íslandi og ákvæðum um innflutningsgjöld á bíla er fjárhagsleg hagkvæmni rafbíla í járnum.  Með innleiðingu næturtaxta á rafmagn, sem væri e.t.v. þriðjungi lægri en núgildandi almennir taxtar, mundi hagkvæmni rafbíla verða ótvíræð á Íslandi, eins og í Noregi, þar sem um 30 % nýrra bíla er nú rafdrifinn. 

Annað, sem margir gæla við í þessu sambandi, er hækkun heimsmarkaðsverðs á olíu. Það er þó óvarlegt að reiða sig á slíkt, t.d. í arðsemisútreikningum.  Þann 30. nóvember 2016 tilkynnti OPEC um samdrátt framleiðslu um 1-2 Mtunnur/sólarhr með gildistöku 1.1.2017. Verðið hækkaði strax á heimsmörkuðum um 9 % og fór yfir 50 USD/tunnu.  Þar var það í innan við sólarhring, því að lítil trú er á samheldni OPEC, og boðuð framleiðsluminnkun nam minna magni  en eldsneytissparnaði bílaflota heimsins árið 2015, sem var 2,3 Mtunnur/sólarhr vegna sparneytnari véla.  Þá bíða Bandaríkjamenn eftir verðhækkun, líklega yfir 60 USD/tunnu, sem dugar þeim til að endurræsa leirsteinsbrotið (e. fracking), og Donald Trump ætlar að heimila mikla olíulögn frá Norður-Dakóta, þar sem eru eldsneytisrík leirsteinslög, og frá tjörusöndum Alberta í norðri og suður að miklum lögnum, sem liggja að olíuhreinsistöðvum og útskipunarhöfnum í Texas og í Louisiana.   

Á meðan heimshagkerfið er í ládeyðu, þarf ekki að búast við, að hráolíuverð verði til lengdar yfir 50 USD/tunnu. Bandaríkjadalur hóf þegar að styrkjast með kosningu Donalds (Þorvaldar ?) Trump vegna kosningaloforða hans um að jafna viðskiptajöfnuð BNA, að stöðva skuldasöfnun alríkisins og að auka atvinnuþátttöku á bandarískum vinnumarkaði.  Þó að hagvöxtur verði góður í BNA vegna innviðauppbyggingar nýrra valdhafa í Washington DC, þá mun bandarískur olíu-og gasiðnaður geta mætt eftirspurnaraukningu eldsneytis þar.

Annars konar og afar athyglisverð þróun á sér nú stað í orkumálum Kína, en hún er á sviði sjálfbærrar orku, svo að olíueftirspurn Kína mun fara minnkandi, þar sem Kínverjum fækkar og þeir eldast (meðalaldur þjóðanna þar hækkar).  Mengun er orðin að pólitísku vandamáli í Kína, vatnsból ganga til þurrðar og önnur spillast, og 1,6 M manns deyja árlega í Kína af völdum loftmengunar. Þar af leiðandi hafa yfirvöld ríkar ástæður til að stöðva brennslu kola og leysa þau af hólmi með umhverfisvænum orkugjöfum.  Ár eru virkjaðar, vindorkuver og sólarhlöður sett upp.  Raforka frá sólarhlöðum er að verða samkeppnishæf í verði við raforku kolakyntra og jarðgaskyntra orkuvera, sem þurfa 40 USD/MWh.  Raforkuverð frá vindmyllum undan ströndum, t.d. norðanverðrar Evrópu, hefur meira en helmingazt á þremur síðustu árum, sem reyndar þýðir um 100 USD/MWh nú.  Til samanburðar er kostnaður orku frá nýjum virkjunum á Íslandi um 35 USD/MWh.

Áform Kínverja eru gríðarleg að umfangi.  Í lok þessa áratugar (2020) áforma stjórnvöld að hafa þrefaldað núverandi (2016) uppsett afl sólarhlaða og verða með 150 GW uppsett afl með þeim, sem jafngildir 100 GW aukningu á 4 árum.  Árleg aukning jafngildir tíföldu uppsettu afli vatnsafls og jarðgufu á Íslandi. 

Nú fara rafbílar að hafa mælanleg áhrif til minnkunar olíueftirspurnar.  Aðalástæðan er hraðfara lækkun bílrafgeymakostnaðar.  Þannig hefur verð á meðalstórum, hefðbundnum Liþíum rafgeymum lækkað á 8 árum um 80 % og er nú um 1,5 Mkr eða 63 kkr/kWh (560 USD/kWh).  Þetta jafngildir helmingunartíma verðs á 2-3 árum og verði á slíkum rafgeymum um 350 kkr eða um 15 kkr/kWh árið 2022.  Verið er að þróa léttari gerðir bílrafgeyma en 30 kg/kWh, eins og nú eru á markaðinum, og gerðir, sem geta með góðu móti tekið við hraðari endurhleðslu.  Öll tækniþróun um þessar mundir vinnur gegn háu olíuverði.  Norðmenn mega þess vegna búast við, að nýhafin töppun þeirra af digrum olíusjóði sínum til að létta á hart leiknum ríkissjóði Noregs verði varanleg.  

 


Hvað er tromp ?

Kjör Donalds Trump sem 45. forseti Bandaríkjanna (BNA) hefur valdið úlfaþyt á vinstri vængnum.  Sumpart er það vegna þess, að sigur hans kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þvert á skoðanakannanir og umsagnir álitsgjafa um frammistöðu frambjóðenda í sjónvarpseinvígjum, viðtölum og á fundum.  Sumpart stafar úlfaþyturinn af róttækri stefnu Trumps þvert á viðtekna stefnu ráðandi afla í Washington, á "Wall Street" og víðar.  Víxlararnir á "Wall Street" hafa verið stefnumarkandi á stjórnarárum demókrata og lengra aftur. Donald Trump ætlar að velta við borðum víxlaranna.  Slíkt þýðir óhjákvæmilega mikla drullu í viftuspaðana.

Ótta hefur gætt víða um, hvað valdataka svo róttæks manns muni hafa í för með sér, t.d. á sviði hernaðar, viðskipta og umhverfisverndar.  Þessar áhyggjur eru óþarfar, nema á þeim sviðum, þar sem stefna tilvonandi forseta og meirihluta í hvorri þingdeild fara saman.  

Donald Trump var vanmetinn frambjóðandi í forkosningum og í forsetakjörinu sjálfu.  Hann beitti annarri tækni en andstæðingarnir og uppskar vel.  Hann var ekki með fjölmargar kosningaskrifstofur hringjandi í fólk með hvatningu um að skrá sig í kosningarnar og kjósa sig.  Hann hélt hins vegar fjöldafundi, þar sem hann blés stuðningsmönnum og hugsanlegum stuðningsmönnum kapp í kinn.  Hann var með á sínum snærum greinendur, sem beittu nýrri tækni við að finna út, hverjir gætu hugsanlega kosið Donald Trump, og hvað hann þyrfti líklega að segja eða gera, lofa, til að slíkir kjósendur tækju af skarið og styddu Trump. 

Minnir þetta á baráttuaðferð Húnvetningsins Björns Pálssonar á Löngumýri, er hann vann þingsæti fyrir Framsóknarflokkinn í Húnaþingi 1959 með því að einbeita sér að Sjálfstæðismönnum.  Var hann spurður að því, hvers vegna hann heimsækti bara Sjálfstæðismenn, en vanrækti Framsóknarmennina.  Sagðist hann þá vita, hvar hann hefði hefði Framsóknarfólkið, það þekkti hann vel, en hann yrði að snúa nokkrum Sjálfstæðismönnum á sitt band til að komast á þing.  Fór svo, að Björn felldi Sjálfstæðismanninn, höfðingjann Jón á Akri, þingforsetann,m.a. með þessari aðferðarfræði.   

Repúblikanaflokkurinn hefur um langa hríð stutt heimsvæðingu viðskiptanna, "globalisation", og á því hefur engin breyting orðið með sigri Trumps.  Trump mun ekki skrifa undir neina nýja fríverzlunarsamninga, eins og t.d. við Evrópusambandið, ESB, enda er sá samningur strandaður nú þegar á andstöðu og tortryggni Evrópumanna. Hann mun líklega binda enda á fríverzlunarsamning yfir Kyrrahafið til Asíu, en þingið mun tæplega leyfa honum að rifta samningum við Kanada í norðri og Mexíkó og fleiri ríki í suðri. Kínverjar hafa þegar tekið frumkvæði um að bjarga Asíusamninginum, þótt BNA dragi sig út.  Vísar það til þess, sem koma skal, ef/þegar Bandaríkjamenn draga sig inn í skel sína.

Hins vegar mun hann líklega fá fjárveitingu í vegg/girðingu á landamærunum við Mexíkó til að draga úr straumi eiturlyfja og ólöglegra innflytjenda til BNA. Talið er, að þeir séu 11 milljónir talsins í BNA eða 3 % af fjölda bandarískra ríkisborgara. Slíkir undirbjóða bandaríska launþega og verktaka og eru undirrót víðtækrar óánægju í BNA.

Finnur Magnússon, lögmaður og aðjunkt við Lagadeild HÍ, birti grein á Sjónarhóli Morgunblaðsins, 20. október 2016,

"Blikur á lofti", um hnattvæðinguna, "globalisation":

"Undanfarin 30 ár hefur orðið "hnattvæðing" verið einkennandi fyrir pólitíska umræðu á Vesturlöndum.  Stjórnmálamönnum, embættismönnum, verkalýðsleiðtogum o.fl. hefur orðið tíðrætt um síaukna hnattvæðingu.  Árið 2000, í síðustu stefnuræðu sinni í bandaríska þinginu, fullyrti Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna,að ekki yrði hægt að vinda ofan of hnattvæðingu þess tíma - hún yrði varanleg.

Einungis rúmum áratug síðar hefur aftur á móti átt sér stað þróun, sem bezt verður lýst sem bakslagi í viðhorfum kjósenda vestrænna ríkja til hnattvæðingar."

Það er næsta víst, að hinn síkáti Bill hafði rangt fyrir sér, þegar hann taldi hnattvæðinguna hafa fest sig í sessi.  Hún er ekki varanlegt fyrirkomulag í sinni núverandi mynd, heldur hljóta agnúar hennar að verða sniðnir af, svo að flestir geti samþykkt hana.  Hún hefur gagnast Þriðja heiminum vel og lyft hundruðum milljóna manna úr örbirgð til bjargálna.  Neikvæða hliðin er gjaldþrot fyrirtækja á Vesturlöndum, sem ekki hafa getað lagað starfsemi sína að breyttum aðstæðum.  Fólk hefur þá orðið atvinnulaust eða orðið að samþykkja lægri laun við sömu eða önnur störf.  Í sumum tilvikum er endurhæfing og/eða endurmenntun lausn á þessum vanda, en slíkt krefst vilja og getu starfsmanna til að gangast undir slíkt og nýrra atvinnutækifæra, sem hörgull er á í stöðnuðum þjóðfélögum. 

Íslendingar hafa orðið áþreifanlega varir við þetta ástand hjá málmframleiðslufyrirtækjunum, álverum og járnblendiverksmiðju, en mikil verðlækkun hefur orðið á mörkuðum þeirra vegna offramleiðslu Kínverja, sem fyllt hafa markaðina af ódýrri og jafnvel niðurgreiddri vöru frá kínverskum ríkisverksmiðjum.  Erlendis hefur komið til minni framleiðslu fyrirtækjanna af þessum sökum eða jafnvel lokun, en á Íslandi hefur afleiðingin orðið mikið aðhald og sparnaður í rekstri þessara fyrirtækja og litlar fjárfestingar ásamt tapi í þeim tilvikum, þar sem raforkuverðið hefur ekki fylgt afurðaverðinu.  Um það eru dæmi hérlendis, t.d. í elzta álverinu.  Þjóðhagslega hefur þetta ekki komið að sök vegna ótrúlegrar fjölgunar erlendra ferðamanna á Íslandi, sem sumir koma frá Kína og hefðu ekki haft ráð á slíku ferðalagi án hnattvæðingarinnar. Síðan 2009 hefur aukning gjaldeyristekna ferðageirans verið tvöföld saman lögð aukning sjávarútvegs og orkukræfs iðnaðar. 

Hnattvæðingin hefur lækkað verð á iðnaðarvörum og hækkað verð á matvælum, af því að fleiri hafa nú ráð á að kaupa matvæli.  Fyrir íslenzka hagkerfið er litlum vafa undirorpið, að frjáls viðskipti þjóna almennt hagsmunum fyrirtækjanna, hagsmunum almennings og efla hagvöxtinn.  Hin pólitíska mótsögn Trumps er sú, að hægri menn eru mun hrifnari af hagvexti en vinstri menn, sem tala margir hverjir niðrandi um hann, og ofstækisfullir umhverfisverndarsinnar telja jörðina ekki þola hagvöxt. Trump er reyndar hrifinn af hagvexti, en ætlar að beita öðrum aðferðum en frjálsum utanríkisviðskiptum honum til eflingar.  Hugmyndafræði bókarinnar  "Endimarka vaxtar" eða "Limits to Growth" lifir enn góðu lífi í vissum kreðsum, en það eru ekki kreðsar Donalds Trump, og nú óttast menn, að hann muni losa BNA undan skuldbindingum Parísarsamkomulagsins frá desember 2015, en það yrði þeim ekki til vegsauka. 

Tæknivæðingin hefur gert hnattvæðinguna í sinni núverandi mynd mögulega.  Tæknivæðingin og hnattvæðingin í sameiningu hafa knúið  framleiðniaukningu undanfarinna áratuga um allan heim.  Framleiðniaukning er undirstaða sjálfbærs hagvaxtar og varanlegra kjarabóta almennings.  Donald Trump mun sem forseti hafa nokkuð víðtæk völd í utanríkismálum og getur þess vegna með fyrirvara afturkallað skuldbindingar Bandaríkjamanna í samningum við erlend ríki.  Þar sem hann er sjóaður viðskiptamaður, mun hann væntanlega aðeins gera það að vel athuguðu máli, ef hann er t.d. sannfærður um, að slíkt sé nauðsynlegt til að draga úr miklum halla Bandaríkjanna á viðskiptum við útlönd.

Lítum á, hvað Finnur Magnússon skrifar meira um hnattvæðingu:  

"Hvað er hnattvæðing ?  Í bók sinni, "Hnattvæðing og gagnrýni hennar", útskýrir Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hugtakið þannig, að um sé að ræða nánari samskipti ríkja og einstaklinga í heiminum, sem eru afleiðing af lækkun flutningskostnaðar og aukinna samskipta og útrýmingar á hindrunum, sem standa í vegi fyrir frjálsum vöruviðskiptum, þjónustuviðskiptum, fjármagnsviðskiptum og skoðanaskiptum á milli fólks í ólíkum löndum. - Það er einmitt brottfall þessara hindrana, sem gerir fólki kleift að auka lífsgæði sín.  Svo að dæmi sé nefnt, lækkaði kostnaður vegna 3 mín símtals á milli New York og London úr USD 300 árið 1930 niður í USD 1 árið 1997.  Þessi lækkun á kostnaði getur af sér aukin samskipti, þar sem allur almenningur hefur ráð á að notfæra sér þessa þjónustu, og leiðir það ekki síður til aukinna viðskipta á milli landa, sem skapa gífurleg efnahagsleg gæði."

Af þessum sökum eru miklir hagsmunir í uppnámi í Evrópu eftir Brexit.  Það er mjög mikið í húfi fyrir Breta og hin ríkin í Evrópusambandinu, ESB, að frjáls viðskipti haldist við Breta.  Heyrzt hefur, að brezka ríkisstjórnin kjósi helzt að gera sjálfstæðan fríverzlunarsamning við ESB, BNA, Brezka samveldið, Kína og önnur mikilvæg viðskiptasvæði Breta.  EES, Evrópska efnahagssvæðið, freistar ríkisstjórnarinnar ekki sérstaklega, af því að þá situr hún uppi með frjálsa för EES-þegna til Bretlands, þótt Bretar séu ekki aðilar að hinu alræmda Schengensamkomulagi um opin innri landamæri aðildarlandanna. Skotar eru með þreifingar í Brüssel og Reykjavík um aðild að ESB eða EES.  Í ríkjasambandi við Englendinga er hvorugt mögulegt.  Skeri þeir á böndin við Lundúni, verður aðild ekki samþykkt í Brüssel vegna óvinsæls fordæmis, en yrði samþykkt í Reykjavík, Ósló og Liechtenstein, ef að líkum lætur. 

Jafnframt hefur framkvæmdastjórn ESB látið út berast, að hún vilji hörkulegt Brexit til að önnur aðildarlönd ESB falli ekki í freistni og yfirgefi ESB líka.  Því verður samt ekki að óreyndu trúað, þótt því sé trúandi upp á búrókratana í Brüssel, að ESB muni stofna til viðskiptastríðs innan Evrópu. 

Lars Christensen, alþjóðahagfræðingur, ritar áhugaverða pistla í "Markaðinn", sem er hluti af Fréttablaðinu á miðvikudögum.  Greinin, 16. nóvember 2016, heitir:

""Trumpbólga" er yfirvofandi":

"...., en ég hef lagt áherzlu á, að ég byggist ekki við, að verðbólgan færi yfir 2,0 % í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu í náinni framtíð.  Það var hins vegar áður en Donald Trump vann óvæntan sigur í bandarísku forsetakosningunum 8.11.2016.  Með Trump sem forseta Bandaríkjanna mun verðbólgan stefna hærra.

Næstum öll stefnumál Donalds Trump munu ýta upp verðlagi í BNA - bæði frá framboðshliðinni (kostnaður) og frá eftirspurnarhliðinni (aukning). Ef við byrjum á framboðshliðinni, þá munu fyrirætlanir Trumps um um að herða innflytjendastefnuna og jafnvel að reka ólöglega innflytjendur úr landi örugglega leiða til hækkunarþrýstings, hvað launakostnað varðar.  Auk þess mun afstaða Trumps til verndartolla hækka innflutningsverð.  Sem betur fer virðist ekki vera meirihluti fyrir því að koma öllum stefnumálum Trumps, hvað varðar innflytjendur og verndartolla, gegnum þingið, en honum mun sennilega takast að koma einhverjum þeirra í gegn.

Hvað eftirspurnarhliðina varðar, hefur Trump sagzt vilja "tvöfalda hagvöxt" - við aðstæður, þar sem vöxtur vergrar landsframleiðslu að raunvirði er sennilega nú þegar farinn að nálgast mögulegan vöxt.  Hann hyggst auka hagvöxt með því, sem bezt verður lýst sem gamaldags stefnu Keynes - miklum vanfjármögnuðum skattalækkunum  og umfangsmiklum fjárfestingum í innviðum."

Meginvandi hagkerfis heimsins hefur verið stöðnun og verðhjöðnun.  Donald J. Trump mun setja bandaríska hagkerfið á fullan snúningshraða og fá öllum vinnufúsum höndum betur launuð verk að vinna en fáanleg hafa verið lengi í BNA. Væntingar um þessa stefnubreytingu hófu þegar um 10.11.2016 að hækka bandaríkjadalinn, USD, og hann er nú t.d. orðinn verðmætari en CHF og mun vafalítið árið 2017 sigla fram úr EUR.  Ástæðan fyrir því er aukið fjárstreymi til BNA í væntingu um hækkun stýrivaxta bandaríska seðlabankans til að sporna við verðbólgu vegna aukins peningamagns í umferð af völdum hugsanlegs tímabundins aukins hallarekstrar ríkissjóðs BNA. 

Ef Donald ætlar að girða fyrir aukinn innflutning til BNA af völdum aukins hagvaxtar og kaupmáttar almennings með innflutningshömlum, þá verða áhrif Trump-sveiflunnar í BNA takmörkuð á umheiminn, en annars er aukinn kraftur í bandarísku hageimreiðinni einmitt það, sem hagkerfi flestra landa heimsing þarf á að halda núna.  Það eru spennandi tímar framundan, eins og alltaf, þegar jákvæðra breytinga er að vænta með nýjum leiðtogum.  Er óskandi, að Evrópumenn og aðrir láti af fordómum og sleggjudómum um væntanlega embættistíð nýkjörins Bandaríkjaforseta, en dæmi hann, ríkisstjórn hans og Bandaríkjaþing af verkum sínum í fyllingu tímans.  Slíkt er siðaðra manna háttur. 


Æskan og menntakerfið

Fyrir hag almennings á Íslandi skiptir samkeppnishæfni landsins við útlönd meginmáli.  Á síðasta kjörtímabili fór Íslandi mjög fram, hækkaði um 4 sæti frá 2013-2015, hvað samkeppnishæfni varðar, að mati World Economic Forum-Global Competitiveness Index-WEF-GCI, en hrörnun samkeppnishæfni og lífskjara hefur hins vegar verið óumflýjanlegur fylgifiskur vinstri stjórna. 

Samkvæmt skýrslu WEF eru helztu hamlandi þættir á samkeppnishæfni hérlendis: gjaldeyrishöft, skattheimta og verðbólga.  Þessir þættir stóðu allir til bóta árið 2016, og munu þeir draga úr rýrnun samkeppnishæfni af völdum um 20 % styrkingar ISK á árinu.  Nú, 16.11.2016, hafa furðufuglarnir í Peningastefnunefnd Seðlabankans hins vegar ákveðið, að vegna um 5,0 % hagvaxtar 2016 sé óráð að lækka vexti.  Með þessu ráðslagi grefur bankinn undan trúverðugleika hagstjórnarinnar, því að ISK ofrís nú, og slíkt endar aðeins með kollsteypu. Í þessu sambandi má benda á Svíþjóð.  Þar er hagvöxtur um 4 % 2016, en stýrivextir sænska seðlabankans eru neikvæðir.  Hagfræðingarnir, sem þessu ráða í þessum tveimur löndum,virðast hafa gengið í mjög ólíka skóla.  Vonandi bjagar fortíð íslenzka Seðlabankastjórans sem Trotzkyisti ekki lengur viðhorf hans til raunveruleikans. 

Sviss, Singapúr og Bandaríkin eru efst á þessum lista WEF.  Svissneski frankinn, CHF, hefur fallið mjög m.t.t. USD á þessu ári, enda stýrivextir við 0 í Sviss.  Nú eru teikn á lofti um, að USD muni stíga m.v. aðra gjaldmiðla, einkum EUR og GBP, vegna vaxandi hagvaxtar og hækkandi stýrivaxta í upphafi valdatíðar Donalds J. Trump.

Hið merkilega er, m.v. umræðuna í fjölmiðlum, að á Íslandi stendur grunnskólakerfið og heilbrigðiskerfið vel að vígi samkvæmt WEF og skorar 6,6 af 7,0, og er Ísland þar í 7. sæti af 138 löndum. 

Þá er Ísland vel í sveit sett, hvað varðar að tileinka sér nýja tækni, skorar 6,2 og lendir í 8. sæti.

Hið síðast nefnda hlýtur að vera háð menntunarstigi í landinu og gæðum framhalds- og háskóla.  Vitað er hins vegar, að þar er pottur brotinn, svo að slembilukka gæti ráðið mikilli aðlögunarhæfni að nýrri tækni. 

Mennta- og menningarmálaráðherra vinstri stjórnarinnar 2009-2013 reif niður framhaldsskólakerfið með stórfelldum skerðingum á framlögum ríkisins til þess. Það var kreppa, en það er almennt viðurkennt, að við slíkar aðstæður má ekki ráðast á fræðslukerfið, því að það er undirstaðan fyrir viðsnúning.  Þá er mikilvægast að fjárfesta í framtíðinni

Þrátt fyrir þessi afglöp og stórfelld svik við kjósendur VG með umsókn ríkisstjórnar um aðild að ESB og undirlægjuhátt hennar við AGS og kröfuhafa föllnu bankanna, þá er téð Katrín samt vinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar.  Ávirðingar hennar virðast enn ekki festast við hana, svo að hún verðskuldar vissulega heitið Teflón-Kata.

Illugi Gunnarsson, mennta-og menningarmálaráðherra ríkisstjórna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sigurðar Inga, 2013-2016, er af allt öðru sauðahúsi, enda lét hann hendur standa fram úr ermum við að bæta fyrir kárínur Katrínar í embætti.  Hann skrifaði mjög góða grein í Morgunblaðið 18. október 2016, "Endurreisn framhaldsskólans",

og verður nú vitnað í hana:

"Þegar núverandi ríkisstjórn tók við sumarið 2013, voru framlög á hvern nemanda í framhaldsskólum landsins um kkr 900 á verðlagi 2016.  Á árunum fyrir hrun hafði aðhaldskröfu verið beint að skólunum, en í kjölfar hrunsins var gengið mjög hart fram gagnvart framhaldsskólunum og þeir skornir mjög grimmt niður.  Til að setja kkr 900 framlagið á hvern nemanda í samhengi, þá er framlag á verðlagi ársins 2016 á hvern grunnskólanemanda um kkr 1´700.  Þessi skelfilega lága tala, sem blasti við sumarið 2013, stefndi öllu skólastarfi í voða, og engar raunhæfar áætlanir voru uppi um, hvernig unnið yrði úr þeirri stöðu."

Þessi hrikalega lýsing eftirmanns Teflón-Kötu á viðskilnaði hennar við embætti menntamálaráðherra bendir til, að hún sé óhæfur stjórnandi.  Ekki einvörðungu skar hún framhaldsskólana inn að beini, svo að starfsemi þeirra beið tjón af, heldur var hún svo sinnulaus um starf sitt, að hún lét undir höfuð leggjast að gera áætlun um endurreisnina.  Öll sú vinna féll í skaut eftirmanns hennar í embætti, og hann hafði forgöngu um kerfisbreytingar, sem leggja munu grundvöll að framhalds- og háskólakerfi í fremstu röð og að menntakerfi, sem eykur samkeppnishæfni þjóðfélagsins:

"Fjölmargar ástæður liggja því til grundvallar að fara úr fjögurra ára framhaldsskólakerfi í þriggja ára kerfi.  Ljóst var, að Ísland var eina landið innan OECD, þar sem 14 ár þurfti til að undirbúa ungmenni fyrir háskólanám, en önnur lönd kláruðu það verkefni á 12 eða 13 árum.  Ekki var hægt að víkja sér undan því að breyta þessu, gríðarlegir hagsmunir eru undir fyrir þjóðarbúið allt, og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur metið það svo, að þjóðarframleiðslan muni verða hærri sem nemur 14-17 miökr/ár vegna þessarar breytingar.  Ríkissjóður mun þar af leiðandi fá í sinn hlut um 5-7 miakr/ár í auknar skatttekjur, og munar um minna."

Illugi gat ekki vikizt undan skyldum sínum sem menntamálaráðherra til að auka skilvirkni framhaldsskólanna, um leið og hann skaut traustum fótum undir umbætur með mjög auknum fjárframlögum úr ríkissjóði.  Teflón-Kata átti hins vegar í engum erfiðleikum með það.  Hennar aðferð er að stinga hausnum í sandinn, ef hana grunar, að krefjandi verkefni sé handan við hornið: 

"Það, sem ég ekki sé, það er ekki fyrir hendi."

"Til viðbótar því fjármagni, sem mun bætast við framlög á hvern nemanda vegna styttingarinnar, þá liggur nú fyrir í samþykktri áætlun um ríkisfjármál til ársins 2021 ákvörðun um að auka framlög til framhaldsskólans um miakr 2,6 á þeim tíma, sem áætlunin nær til. 

Þar með mun framlag á hvern nemanda aukast úr rúmum kkr 900 í um kkr 1´570 árið 2021, og svigrúm er til enn frekari hækkana, ef vilji stendur til slíks. 

Þetta mun gjörbreyta öllu starfi framhaldsskólanna, möguleikum þeirra til að sinna hverjum nemanda með fullnægjandi hætti og tryggja, að menntun ungmenna á Íslandi sé jafngóð því, sem bezt gerist í þeim löndum, sem við viljum bera okkur saman við um lífskjör."

Ofan á sveltigildi Teflón-Kötu er Illugi búinn að bæta kkr 670 eða 74 % sem framlagi ríkisins per nemanda á ári að raunvirði.  Þá verður þetta framlag hærra en allra hinna Norðurlandanna, nema Noregs, og 42 % hærra en meðaltal OECD var árið 2012.  Ef svo fer fram sem horfir um þróun efnahagsmála, verður framlag ríkisins á Íslandi hið hæsta á Norðurlöndunum árið 2021. Er það vel að verki verið hjá Illuga og ríkisstjórninni, sem hann sat í 2013-2016. 

Átak er nauðsynlegt á þessu kjörtímabili í fjármögnun háskólanna, svo að góður menntunargrunnur beri hámarks ávöxt.  Illu heilli stöðvaði Teflón-Kata, ásamt öðrum afturhaldsöflum í blóra við vilja stúdenta, framgang frumvarps Illuga um fjárhagslegt stuðningskerfi við stúdenta í lok síðasta þings haustið 2016.  Frumvarpið innihélt fjárhagslega hvata fyrir stúdenta til að standa sig í námi og ljúka því án tafa.  Umbætur Illuga beinast allar að aukinni framleiðni og auknum gæðum, en skilvirkni er eitur í beinum Teflón-Kötu. Þar situr aumingjavæðingin í fyrirrúmi, enda þjónar slíkt flokkshagsmunum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.  Stórskuldugir eilífðarstúdentar, sem aldrei verða borgunarmenn himinhárra skulda við LÍN, eru hennar menn. 

Mjög jákvætt teikn við íslenzka þjóðfélagið er atvinnuþátttaka ungmenna á aldrinum 15-29 ára.  Á meðal aðildarríkja OECD er hún mest á Íslandi eða um 78 %. Aðgerðarleysi og atvinnuleysi ungmenna er í mörgum löndum stórfellt þjóðfélagslegt og efnahagslegt vandamál.

Í Sviðsljósi Björns Jóhanns Björnssonar í Morgunblaðinu, 13. október 2016, stendur þetta í upphafi greinarinnar:

"Atvinnuþátttaka ungmenna hvergi meiri":

"Samkvæmt nýrri skýrslu frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, virðast íslenzk ungmenni búa við mun betri aðstæður en [ungmenni] í öðrum löndum.  Þannig er atvinnuþátttaka 15-29 ára um 80 % hér á landi, en hlutfallið er 2 % í Grikklandi og 28 %-37 % á Ítalíu, Spáni og Portúgal."

Að Ísland skuli fá hæstu einkunn innan OECD fyrir atvinnutækifæri til handa ungmennum, er einhver þýðingarmesta umsögn, sem íslenzka þjóðfélagið getur fengið, og vitnar um heilbrigði þess, fólks, atvinnulífs og stjórnarfars, hvað sem úrtöluröddum niðurrifsaflanna líður.  Ýmsar úrtöluraddir telja íslenzka samfélagið of lítið til að geta staðizt sjálfstætt.  Af 35 ríkjum OECD í þessum samanburði er meðaltalið rúmlega 50 % atvinnuþátttaka ungmenna.  Til hvers að vera stór eða hluti af stóru ríkjasambandi, ef það þýðir mun verri aðstæður og færri atvinnutækifæri fyrir nýja kynslóð ?

Þessu tengd eru lífslíkur, sem eru einna hæstar á Íslandi innan OECD, svo og lífsánægjan, sem fær 7,5 af 10,0 á Íslandi. 

Að lokum skal birta hér upplýsingar um fátækt innan OECD, sem sýna svart á hvítu, að jöfnuður er tiltölulega mikill á Íslandi, enda er menntakerfi, eins og hið íslenzka, öflugasta jöfnunartækið:

"Þegar tölur um fátækt eru skoðaðar, er hlutfall ungmenna einna hæst í flestum ríkjum, einkum þar sem ungmenni fara fyrr að heiman.  Á Íslandi er hlutfall ungmenna, sem teljast búa við fátækt, rúm 5 %.  Um 3 % eldri borgara á Íslandi búa við fátækt samkvæmt OECD.  Eru þær tölur frá árinu 2014.

Athygli vekur, að 25 % ungmenna (16-29 ára) í Bandaríkjunum búa við fátækt, um 24 % í Danmörku, 23 % í Noregi og tæp 20 % í Svíþjóð.  Hvað Norðurlöndin varðar, er í skýrslunni sérstaklega bent á, að ungt fólk flytji fyrr úr foreldrahúsum en víðast annars staðar."

Íslendingar geta verið stoltir af þjóðfélagi sínu varðandi aðbúnað ungmenna og tækifæri þeirra til náms og starfa.  Það er þó vissulega hægt að gera betur. Viðskilnaður fráfarandi ríkisstjórnar er glæsilegur í þessum efnum, en hvort ný ríkisstjórn hefur vit á því að beina kröftunum í rétta átt, þ.e. þangað, sem mestu varðar að ná frábærum árangri út frá sanngirnissjónarmiðum og fjárhagslegum ávinningi samfélagsins er önnur saga.  Það er líka undir hælinn lagt, hvort hún ratar rétta braut að ákvörðunarstað eða þvælist bara fyrir framförum.  Sporin hræða.

 

 

 


Sterkt gengi ISK ógnar stöðugleika

Gengisvísitalan er nú komin undir 164 vegna mjög hagstæðs viðskiptajafnaðar og of hárra vaxta í landinu.  Greiningardeildir bankanna hafa varað við því, að framleiðnin í landinu aukist ekki í takti við gengishækkunina og að hún sé þess vegna ósjálfbær.  Krónan (ISK) þarf að lækka strax aftur og Seðlabankinn þarf að halda gengisvísitölunni á bilinu 175-185 til að tryggja jafnvægi í hagkerfinu til lengdar. Til þess að Seðlabankinn bregðist almennilega við þeirri ógn, sem að landinu stafar vegna tímabundinnar styrkingar krónunnar þarf að breyta lögum um Seðlabankann, svo að Peningastefnunefnd hans taki tillit til fleiri þátta en nú og horfi til lengri tíma en nú virðist raunin.  Nú dugar ekki að horfa í baksýnisspegilinn, því að þjóðfélagið er á nýju breytingaskeiði.

Þetta þýðir, að gengisskráningin er farin að ógna samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna, að ferðaþjónustunni meðtalinni, og ýta undir gjaldeyrisnotkun landsmanna í meiri mæli en góðu hófi gegnir.  Ef ekkert verður að gert, stefnir í, að Ísland verði dýrasta land í heimi, erlendum ferðamönnum fækki, útflutningsfyrirtæki leggi upp laupana og viðskiptajöfnuður verði neikvæður árin 2018-2019.  Þá mun gengið hrapa og valda hér verðbólgu yfir efri þolmörkum Seðabankans, 4,0 %, með öllum þeim neikvæðu keðjuáhrifum, sem há verðbólga hefur í verðtryggingarsamfélagi skulda. 

Nú er starfsstjórn við völd, sem ekkert frumkvæði tekur í stefnumarkandi málum, enda skortir hana þinglegan stuðning.  Seðlabankinn hefur hins vegar frelsi til athafna, eins og áður, og hann verður að taka nú niður námuhesta blöðkurnar, sem hann sjálfur hefur sett upp, og lækka stýrivextina í 0,5 % skrefum þar til gengishækkunin stöðvast í nafni stöðugleika til lengri tíma litið.  Það er ólíklegt við núverandi aðstæður, þrátt fyrir fulla nýtingu tiltæks vinnuafls, að vaxtalækkun muni valda verðlagshækkun.  Þvert á móti lækkar hún tilkostnað fyrirtækjanna, sem hafa þá minni tilhneigingu til að ýta hækkunarþörf sinni út í verðlagið.  Aðstreymi erlends vinnuafls dregur úr þenslu á vinnumarkaði. 

Hættulega hátt verðlag:

Samkvæmt Hagspá Greiningardeildar Arion-banka frá 1. nóvember 2016 var gengi íslenzku krónunnar þá þegar orðið 8 % - 10 % hærra en sjálfbært má telja fyrir hagkerfi landsins.  Þetta þýðir, að nú er grafið undan arðsemi útflutningsatvinnuveganna og viðskiptajöfnuðinum.  Með sama áframhaldi er hætta á því, að viðskiptajöfnuðurinn verði neikvæður á árunum 2018-2019, ef ekki verður þegar gripið í taumana.  Afleiðingin verður fjöldagjaldþrot, atvinnuleysi og há verðbólga, og allt verður vitlaust á vinnumarkaði.  Þar sem við erum nú þegar á feigðarsiglingu, hlýtur Stöðugleikaráð að verða að koma þegar saman og snúa þjóðarskútunni við á þessari siglingu.

Sem dæmi um óefnið, sem verðlagið hér séð frá buddu útlendinga er komið í, má nefna, að það er orðið hærra en í Noregi, sem lengi var dýrasta land í heimi.  Það var ósjálfbært ástand þar, af því að hátt olíuverð gaf Norðmönnum gríðarlegar útflutningstekjur, en aðrir atvinnuvegir landsins dröbbuðust niður. Olían tekur enda. Sem dæmi um ósjálfbærnina er, að útflutningur norska sjávarútvegsins er niðurgreiddur þrátt fyrir gjöful fiskimið úti fyrir langri ströndu. Hér má ekki verða "norskt ástand", sem lýsir sér með 30 % falli gjaldmiðilsins, m.v. stærstu myntir, og verðbólgu, sem gæti orðið enn meiri hér en í Noregi, ef samtímis verður uppsveifla í heimshagkerfinu.

Nú munar aðeins 7 % á verðlagi Íslands og Sviss, sem er dýrasta land í heimi, en þar er framleiðnin hærri en á Íslandi, enda eru ríkisumsvifin þar mun minni en hér þrátt fyrir svissneska herinn. 

Konráð Guðjónsson hjá Greiningardeild Arion leggur til, að hluti gjaldeyrisinnflæðisins verði settur í "sérstakan auðlegðarsjóð":

"Það eru dæmi um, að ríki hafi safnað í stóran gjaldeyrisforða til að halda aftur af styrkingu gjaldmiðilsins og lagt í sérstakan sjóð.  Þessi aðferð er vissulega umdeild, en í löndum eins og Singapúr hefur safnazt upp andvirði MISK 6-7 á mann í slíkan sjóð.  Sú fjárhæð hefur að megninu til komið í gegnum gjaldeyriskaup Seðlabankans."

Á Íslandi mundi þessi sérstaki auðlegðarsjóður svara til miaISK 2100, sem er 2/3 af núverandi stærð lífeyrissjóðanna.  Nú er spurningin, hvort stjórnmálamennirnir hafa bein í nefinu til slíkra heilbrigðra aðhaldsaðgerða, eða hvort þeir ætla að verða jólasveinar án búnings og hleypa þessu fé lausu, þannig að það kveiki í púðurtunnu hagkerfisins. 

Vöruútflutningurinn:

Það er nú þegar dúndrandi halli eða miaISK 120/ár á vöruskiptum við útlönd, ef fyrstu 9 mánuðir 2016 eru framreiknaðir til áramóta.  Þetta er 22 % af útflutningsverðmætum, sem er hættulega hátt.  

Alþjóðabankinn spáir versnandi viðskiptakjörum, t.d. 28 % verðhækkun á olíu árið 2017, og hækkun á verði hrávöru og matar.  Jákvætt er fyrir íslenzkar útflutningstekjur, að verð á málmum er nú tekið að þokast upp á við úr langvinnri, djúpri lægð, og er t.d. álverð komið upp fyrir 1700 USD/t Al og hefur þá hækkað á einum mánuði um a.m.k. 5 %, en það er ekki fyrr en við a.m.k. 1850 USD/t Al, sem allur íslenzki áliðnaðurinn fer að skila hagnaði. Þangað til eiga álframleiðendur án orkuverðstengingar við álverð mjög undir högg að sækja.

Framlegð sjávarútvegsins árið 2015 var viðunandi m.v. íslenzk fyrirtæki almennt.  Hún nam þá miaISK 71, og opinber gjöld hans námu þá miaISK 28, sem er 39 % af framlegð, sem er tiltölulega hátt hlutfall og afsannar með öllu, að sjávarútvegurinn skili óeðlilega lágum upphæðum til samfélagsins.  Þvert á móti skilar hann mestu í sameiginlega sjóði allra atvinnugreina, og ofangreind upphæð er t.d. ferföld opinber gjöld áliðnaðarins í landinu 2014, en þá áraði reyndar ekki vel á álmörkuðum. 

Skattlagningarvaldinu er reyndar beitt gegn útgerðinni á fölskum forsendum, eins og þar sé auðlindarenta í starfseminni, en því fer fjarri, þar sem aflahlutdeildir ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði og íslenzki sjávarútvegurinn á í harðvítugri samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum við sumpart niðurgreiddan sjávarútveg, þar sem engum dettur í hug að leggja á veiðigjöld, svo að ekki sé nú minnzt á fyrningarhörmungina og uppboð fyrntra eigna, sem dæmd hefur verið ónothæf aðferð til skattheimtu á þeim fáu stöðum, þar sem tilraunir með hana hafa verið gerðar. 

Nú eru blikur á lofti hjá sjávarútveginum vegna loðnubrests, verðlækkunar á makríl og gengishækkunar ISK og mikillar lækkunar sterlingspundsins, en frá Englendingum hefur fimmtungur tekna sjávarútvegsins  komið.  Spáð er 30 % minni framlegð sjávarútvegs árið 2016 en árið á undan m.v. gengið 1.11.2016.  Þetta jafngildir rúmlega miaISK 20 tekjutapi eða rúmlega 8 % m.v. árið á undan.  Ef gengið styrkist um 10 % til viðbótar, þá verður framlegðin aðeins 54 % af því, sem hún var 2015, og fer niður í miaISK 38.  Þetta er svo lítil framlegð, að fjárfestingargeta sjávarútvegsins og opinber gjöld hans munu stórlækka.  Skuldalækkun hans mun stöðvast, og fjárhagsafkomu veikburða fyrirtækja verður stefnt í voða.  Þessa óheillaþróun verða stjórnvöld að stöðva og snúa henni við í tæka tíð. Slíkt mun gagnast samkeppnishæfni landsins almennt.

Ferðaþjónustan:

Stigullinn í straumi erlendra ferðamanna til Íslands hefur komið öllum í opna skjöldu eða sem "julen på kjerringa", eins og Norðmenn orða það.  Á 4 árum hefur fjöldinn tvöfaldazt og nær líkla 2 milljóna markinu árið 2017.  Ísland er nú þegar mesta ferðamannaland Evrópu að tiltölu með yfir 5 erlenda ferðamenn á íbúa. Þessi snöggi vöxtur hefur valdið alls konar vandkvæðum, sem landsmenn hafa enn ekki náð tökum á, og hann veldur hér óstöðugleika og áhættu, því að það sem vex hratt, getur yfirleitt líka fallið hratt með alvarlegum afleiðingum:

Hagræn áhrif:

Mjög jákvætt er, að gjaldeyrisvarasjóðurinn skuli nú nema miaISK 800 eða þriðjungi af VLF/ár. Á sama tíma og erlendur gjaldeyrir streymir til landsins að mestu frá ferðamönnum, magnar Seðlabankinn vandann, sem af þessu leiðir, með því að halda hér uppi himinháum vöxtum í samanburði við viðskiptalönd okkar, svo að útstreymi gjaldeyris til fjárfestinga er lítið, en of mikil hækkun gengisins hefur þrefaldað vöruskiptahallann síðan 2015 og auðvitað aukið ferðagleði landans til útlanda.  Brýnt er að stöðva gengishækkun og lækka gengið niður í það, sem talið er langtíma jafnvægisgengi í kringum USD/ISK = 125. Þetta er t.d. gert með mikilli vaxtalækkun og fjárbindingu í jöfnunarsjóð, sem þá mætti líkja við s.k. olíusjóð Norðmanna, sem reyndar er þeirra framtíðar lífeyrissjóður, því að þeir eiga ekki söfnunarsjóði, eins og við. 

Álag á ferðamannastaði:

Sigurður Sigurðsson, byggingaverkfræðingur, ritaði greinina:

"Hrollkaldur veruleiki ferðaþjónustunnar á Íslandi"

í Morgunblaðið 13. október 2016.  Þar segir m.a. af varnaðarorðum Önnu Dóru Sæþórsdóttur, ferðamálafræðings við Háskóla Íslands í viðamiklum skýrslum og sorglega litlum viðbrögðum við þeim.  Hvers vegna hafa yfirvöld stungið hausnum í sandinn að hætti strútsins varðandi ferðaþjónustuna ?  Líklega er hún, eins og ýmislegt annað, dreifð um smákóngaveldi embættismannakerfisins, báknsins, og full þörf á að sameina málefni stærstu atvinnugreinar landsins í eitt ráðuneyti:

"Að lokum kom yfir 200 bls. skýrsla fræðimannsins á vegum Háskóla Íslands og Ferðamálastofu um allt þetta efni saman tekið.  Tugir eða hundruð skýrslna um þessi ferðamál hafa verið birt án þess, að það hafi borið neinn árangur til úrbóta.  Ragnheiður Elín Árnadóttir, ferðamálaráðherra, gat þess á þingi Samtaka atvinnulífsins nú í september, að skúffur hennar væru fullar af skýrslum um ferðaþjónustuna. 

Niðurstöður í skýrslum Önnu Dóru Sæþórsdóttur eru mjög sláandi.  Ráðamenn hafa ekki hlustað á vísindalegar ábendingar um það í hvað stefndi, eins og fagleg rannsóknarvinna og skýrslur þessa fræðimanns og Háskóla Íslands hafa bent á ár eftir ár og Ferðamálastofa hefur gefið út á undanförnum árum."

Það hefnir sín alltaf að hunza beztu þekkingu á hverju sviði, og við svo búið má alls ekki standa.  Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi, og undirstöður stærstu tekjulindarinnar geta hæglega hrunið vegna vanrækslu og skipulagsleysis.  Hvorki þessi né önnur starfsemi má einkennast af gullgrafaraæði. 

Samgöngumál:

Fólksbílafjöldinn eykst um yfir 2 % á ári, og fjöldi bílaleigubíla og langferðabíla enn meira, og er nú fjöldi hinna fyrr nefndu um 20´000 í landinu.  Umferðin eykst hlutfallslega enn meir en bílafjöldinn vegna mikils hagvaxtar, 4 %-5 %, gríðarlegrar aukningar ráðstöfunartekna heimilanna, um 10 %/ár þessi misserin, og lágs eldsneytisverðs. Á höfuðborgarsvæðinu hefur umferðin aukizt 6,5 % fyrstu 10 mánuði ársins 2016 m.v. sama tímabil 2015. Nú ríkir "framkvæmdastopp" stórframkvæmda til gatnakerfisbóta í Reykjavík eftir samning Reykjavíkurborgar og Vegagerðar um, að Vegagerðin setti í staðinn "stórfé" í strætisvagnasamgöngur á milli Reykjavíkur og fjarlægra staða.  Rafvæðing bílaflotans mun framkalla aukningu á umferð, af því að orkukostnaður á hvern ekinn km minnkar um 2/3 m.v. núverandi orkuverð. 

Við þessari þróun er bráðnauðsynlegt að bregðast við af myndarskap, en þá vill svo óheppilega til, að í Reykjavík ræður afturhald ríkjum, sem vill synda á móti straumnum og er með kenningar um, að yfirvöld eigi að vinna gegn umferðaraukningu af völdum einkabílsins með því að halda nýjum umferðarmannvirkjum í lágmarki og tefja för vegfarenda með þrengingum gatna og öðru ámóta. Á sama tíma eru gælur gerðar við "Borgarlínu".  Þetta nær engri átt. 

Höggva þarf á þennan hnút og setja nú þegar í gang verkefni við Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga. Spölur mun afhenda Vegagerðinni Hvalfjarðargöngin í árslok 2018, og allt bendir til, að árið 2019 verði meðalumferð þar í gegn yfir 8000 farartæki á sólarhring, sem er viðmiðunar hámark.  Strax þarf að hefja undirbúning tvöföldunar, og þessi 2 nefndu verkefni eru upplögð í einkaframkvæmd og vegtollheimtu, af því að leiðirnar verða valfrjálsar.  Fjárveitingu til Vegagerðarinnar þarf jafnframt að auka um 40 % upp í a.m.k. 35 miaISK/ár.

Fjármögnun innviðaframkvæmda:

Ferðamennskan hefur ekki aðeins valdið auknu álagi á vegakerfið, heldur líka á heilbrigðiskerfið og löggæzluna, svo að eitthvað sé nefnt.  Hér gæti verið um 10 % aukningu álags að ræða af völdum ferðamanna, sem bregðast verður við með auknum fjárveitingum úr ríkissjóði að sama skapi.  

Þetta kallar á nýja fjármögnun, og er álagning gistiskatts í stað gistináttagjalds, e.t.v. 1000 kr/fullorðinn per nótt, og hækkun virðisaukaskatts upp í 24 % og afnám undanþága, leið til að fjármagna hin auknu útgjöld. 

Jafnframt þarf að fara að huga að útjöfnun hinna gríðarlegu gróðurhúsaáhrifa af völdum flugsins, sem fyrir 2,0 milljónir gesta til Íslands gæti numið 2,3 Mt, sem er helmingur af allri losun  á landi og sjó hérlendis.  Til þess mætti leggja á hóflegt komugjald, t.d. 2´000 kr á hvern fullorðinn, og leggja þetta fé til skógræktar og landgræðslu. 

Náttúruhamfarir:

Ferðaþjónustan getur beðið mikinn hnekki af völdum goss undir jökli, eins og dæmin sanna.  Flutningar í lofti að og frá landinu geta teppzt um tíma, og jökulflóð geta rofið hringveginn, og verulegar truflanir geta orðið á afhendingu rafmagns.  Aðrar atvinnugreinar en ferðaþjónustan munu að vísu verða fyrir meira tjóni af völdum rafmagnsleysis, en hætt er við stóráfalli í ferðaþjónustunni, því meiru þeim mun fleiri ferðamenn, sem eru staddir á landinu, þegar ósköpin dynja yfir, fyrirvaralítið.  Þess vegna er bráðnauðsynlegt að fjölga áfangastöðum erlendra ferðamanna utan gosbeltisins, t.d. á Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi. 

Samantekt:

Ferðaþjónustan stendur að baki núverandi hagvexti og velmegun á Íslandi að miklu leyti.  Hún er hins vegar afar viðkvæm atvinnugrein, og með afturkippi í henni er efnahagsstöðugleika á Íslandi ógnað.  Veldisvöxtur greinarinnar er ekki einvörðungu blessun, heldur getur hann leitt til hruns þessarar stærstu atvinnugreinar landsins með fjöldagjaldþrotum og fjöldaatvinnuleysi sem afleiðingu.  Sumu er hægt að stemma stigu við, en öðru ekki með góðu móti.

 

 

 

 


Hrakfarir uppboðsleiðar

Það er sláandi, að stjórnmálaflokkarnir, sem nú vilja biðja þjóðina um leyfi til að senda inn öðru sinni umsóknarbeiðni til Evrópusambandsins, ESB, hafa allir boðað, að þeir muni á nýhöfnu kjörtímabili berjast fyrir byltingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Ætla þeir að kasta fyrir róða núverandi aflahlutdeildarkerfi með frjálsu framsali, sem þó hefur umbylt stöðu sjávarútvegs til hins betra, skiljanlega þó ekki án fórna, fyrna, þ.e. þjóðnýta aflahlutdeildir, og bjóða þær upp. 

ESB hefur að vísu ekki tekið upp þetta kerfi, en sjávarútvegurinn hér mun komast á vonarvöl, þ.e. á ríkisframfæri, eins og hann er í ESB-löndunum, með þessari fáránlegu þjóðnýtingu, sem er bylting í anda bolsévismans. Í Færeyjum yrði engin þjóðnýting, þótt Færeyingar mundu innleiða uppboðsleið, því að aflahlutdeildir útgerðanna renna úr gildi þar á næsta ári samkvæmt ákvörðun, sem mun hafa verið tekin af Lögþinginu árið 2008.  Í Færeyjum má þó vænta harðra deilna um það, hvort fara á "íslenzku leiðina", "uppboðsleiðina" eða einhverja aðra leið en sóknardagaleið, sem þeir hafa gefizt upp á, ef rétt er skilið.

Á Íslandi virðist "uppboðsleið" aðallega njóta fylgis í pósthólfi 101, á meðal stjórnmálaforkólfa á höfuðborgarsvæðinu og á meðal fáeinna fræðimanna, sem þó eru hvorki sérfræðingar í sjávarútvegsfræðum né í fiskihagfræði. 

Á meðal fólks, sem vinnur í sjávarútvegi, virðist enginn stuðningur vera við "uppboðsleið", hvorki á meðal sjómanna, fiskvinnslufólks né útgerðarmanna.  Þannig hafa forystumenn sjómanna tjáð verulegar áhyggjur sínar af hag umbjóðenda sinna, verði þessari allsendis óþörfu félagslegu tilraunastarfsemi hleypt af stokkunum.  Þeir, sem íhuga afleiðingar "uppboðsleiðar", gera sér glögga grein fyrir því, að atvinnuöryggi í sjávarútvegi getur aðeins versnað við að hverfa frá aflahlutdeildarkerfi til "uppboðsleiðar".  Fyrirtæki, sem annars eru grunnstoðir hinna dreifðu byggða, munu veikjast, og þar með munu mörg sveitarfélög óhjákvæmilega veiklast.  "Uppboðsleið" er þannig aðför að íslenzkum sjávarútvegi og hinum dreifðu byggðum landsins.

Það þarf hins vegar ekki að ímynda sér neitt í þessum efnum, því að það vill svo til, að nokkur reynsla er þegar komin á "uppboðsleið", og hún er svo neikvæð, að með endemum er, að nokkur heilvita maður skuli mæla með innleiðingu hennar á Íslandi og að þar í bendu skuli vera a.m.k. 4 stjórnmálaflokkar, þ.e. Píratahreyfingin, Samfylking, Björt framtíð og Viðreisn. Er það tilviljun, að þetta eru sömu stjórnmálaflokkarnir og stefna leynt og ljóst að innlimun Íslands í Evrópusambandið ?

Þann 13. október 2016 birtist í Fiskifréttum afar fróðleg grein aftir Sigurð Stein Einarsson,

"Er uppboðsleiðin raunhæf ?".  Þar greinir hann frá tilraunum nokkurra þjóða með "uppboðsleið", sem allar eru á eina lund:

eftir skamma hríð hurfu þær frá "uppboðsleiðinni".  Hér verður gripið niður í greininni:

"Eistar buðu upp 10 % aflaheimilda á árunum 2001-2003.  Árið 2003 var árangurinn af uppboðskerfinu metinn, og var niðurstaðan fjarri því að vera jákvæð.  Uppboðskerfið var talið hafa leitt til sóunar á auðlindinni, orðið til þess, að smærri fyrirtæki urðu gjaldþrota og leitt til stórminnkandi starfsöryggis sjómanna.  Fyrst og fremst af þessum ástæðum var ákveðið að hætta uppboðum á aflaheimildum."

Þetta er nákvæmlega það, sem andstæðingar "uppboðsleiðar" hérlendis hafa varað við, að gerast mundi.  Það er í raun borðleggjandi, og reynsla Eista staðfestir það.  Hérlendis eru samt "spekingar", sem fullyrða á grundvelli skrifborðsvinnu sinnar einvörðungu, að "uppboðsleið" sé bezta leiðin til að hámarka skatttekjur ríkissjóðs af sjávarafla.  Þetta stenzt ekki í raun:

"Í austurhluta Rússlands stóð einnig yfir uppboð á aflaheimildum 2001 til 2003.  Vonir stóðu til, að leiðin myndi auka hlut ríkisins í auðlindarentunni, auka gagnsæi varðandi úthlutun á fiskveiðiheimildum og gera atvinnugreinina arðbærari, t.d. með fækkun fiskiskipa.

Aflaheimildirnar, sem boðnar voru út, voru í Austur-Rússlandi og Barentshafi.  Í austurhluta Rússlands störfuðu 160´000 manns við sjávarútveg hjá 1´500 fyrirtækjum.  Mikilvægi sjávarútvegsins í þessum hluta landsins var ótvíræður, og stóð hann undir 27 % allrar framleiðslu á Primorsky-skaga og 55 % framleiðslu á Kamtsjatka.

Árið 2001 var boðin upp 1,0 milljón tonna og 1,2 milljónir tonna árið 2002.  Ekki seldist allt, sem fór á uppboð, en tilboðin í heimildirnar reyndust mun hærri en gert hafði verið ráð fyrir.  Ríkið fékk í sinn hlut miaISK 20,3 árið 2001, miaISK 29,6 2002 og miaISK 38,6 2003.  Bar þetta ekki vitni um stórkostlegan árangur ?

Hér heima hefur samfélagslegum áhrifum uppboðsleiðarinnar lítill gaumur verið gefinn.  Einblínt er á aukinn hlut ríkisins í auðlindarentunni, en ótrúlega lítið er fjallað um áhrif uppboðsleiðarinnar á sjávarbyggðir. Hafa verður í huga, að sjávarútvegsfyrirtæki eru meginstoðir atvinnulífs víða á landsbyggðinni og starfsmenn þeirra á sjó og í landi drjúgur hluti íbúa.  Starfsgrundvöllur fyrirtækjanna skiptir því samfélögin afar miklu máli, en aflaheimildunum byggja þau tilvist sína á. 

Sjávarútvegur í austurhluta Rússlands skilaði miaISK 6 hagnaði árið 2000.  Dramatískur viðsnúningur átti sér hins vegar stað 2001; tap varð af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á svæðinu, sem nam miöISK 6.  Upplýst var, að árið 2001 væru 90 % sjávarútvegsfyrirtækja á umræddu svæði þegar illa stödd og jafnvel á barmi gjaldþrots.  Þá hófu sveitarfélög á uppboðssvæðinu strax 2001 að kvarta sáran, því að uppboðskerfið leiddi til þess, að 96 % af skatttekjum af sjávarútvegi runnu til ríkisins, en einungis 4 % til sveitarfélaga.  Áður höfðu 34 % af skatttekjum af sjávarútvegi runnið til sveitarfélaga. 

Skuldir sjávarútvegsins á svæðinu fóru úr 30 % af framleiðsluverðmæti ársins 2000 í 66 % af framleiðsluverðmæti ársins 2002, en sú þróun bendir ótvírætt til þess, að sjávarútvegsfyrirtækin hafi boðið of hátt verð í þær heimildir, sem boðnar voru upp.  Fyrir lá, að kvótakaupin voru fjármögnuð með lánsfé, og skuldsetning fyrirtækjanna jókst því hratt.  Fyrir félögin skipti öllu að verða sér úti um kvóta, og sum þeirra gripu til þess ráðs að selja eignir til að fjármagna kvótakaup."

"Uppboðsleiðin" á Íslandi hefur ekki verið útfærð til hlítar, en það má gera því skóna, að þessar lýsingar frá útlöndum megi í miklum mæli heimfæra á Ísland.  Aflahlutdeildarhafar, sem missa kvóta, munu í örvæntingu teygja sig upp í rjáfur á uppboðsmarkaði til að afla sér og sínu fólki lífsviðurværis.  Minni fyrirtækin munu þurfa að skuldsetja sig, og þau munu sennilega fara á hausinn, hvort sem þau hreppa rándýrar aflaheimildir eða sitja eftir slyppar og snauðar.  Útgerðum mun þess vegna á skömmum tíma fækka um nokkur hundruð, e.t.v. 400. 

Eignastaða útgerðanna stórversnar vegna afskrifta aflahlutdeilda og skuldsetningar við kaup aflahlutdeilda, sem rifnar voru af þeim.  Tekjur rýrna með minnkandi aflaheimildum.  Atvinnuöryggi á sjó og í landi fellur undir velsæmismörk.  Mörg minni sjávarplássin munu sjá skriftina á veggnum, og kvótatilflutningur í fortíðinni verður hjóm eitt hjá hörmungunum, sem "uppboðsleiðin" leiðir af sér.  Fræðimenn hafa reyndar sýnt fram á, að kvótakerfið sjálft hafi haft óveruleg áhrif á byggðaþróun Íslands umfram þau áhrif, sem gríðarlegur aflasamdráttur hafði að ráði Hafrannsóknarstofnunar. 

Veiðiheimildir ganga kaupum og sölum og hafa gert frá 1990.  Íslenzkur sjávarútvegur berst nú í bökkum á erlendum fiskmörkuðum í argvítugri samkeppni við niðurgreiddan sjávarútveg, sem yfirleitt greiðir engin veiðigjöld. Hátt gengi ISK fækkar krónum í kassann og dregur mjög úr hagnaði. 

Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur skapað umgjörð góðrar umgengni við auðlindina, betri en önnur fiskveiðistjórnunarkerfi megna.  "Uppboðsleiðin" felur ekki í sér sambærilega hvata til góðrar umgengni um veiðistofnana og aflahlutdeildarkerfið.  Verðmætasköpun aflahlutdeildarkerfis og vísindalega ákvarðaðs aflamarks í hverri tegund er meiri en nokkurra annarra þekktra fiskveiðistjórnunarkerfa, og þess vegna er skattsporið stærst með aflahlutdeildarkerfinu, og þar af leiðandi innbyrðir samfélagið mest í sameiginlega sjóði með aflahlutdeildarkerfi og frjálsu framsali aflahlutdeilda á skip.  Hvers vegna að umbylta kerfi, sem gefur mest ?  Ráðgjafarfyrirtækið McKinsey sá enga ástæðu til þess í viðamikilli úttekt á stjórnarháttum og hagkerfi fyrir örfáum árum, og slíkt er í raun ekki tilraunarinnar virði og væri hið versta glapræði, eins og hér hefur verið rakið. Ný tegund í lögsögu Íslands, makríll

 

 


Lýðveldinu brugguð launráð

Tilburðir stjórnarandstöðu til að stilla saman strengi um ríkisstjórnarmyndun eru skrýtnar út frá lýðræðislegu sjónarmiði.  Í löndum, þar sem slík blokkamyndun á sér stað, fer hún fram á þingum landanna, en hér var blásið til lokaðs fundar flokksbroddanna að viðstöddu fjölmiðlafólki utan dyra, en ekkert bitastætt upplýst um efni fundanna. Upphaflega hugmynd Pírataklíkunnar mun hafa verið að skrifa stjórnarsáttmála og kynna hann þjóðinni fyrir kosningar, en ekkert kom.  Um þessa uppákomu skyni skroppinnar stjórnarandstöðu má hafa þau orð, að fjallið tók jóðsótt, en út kom lítil mús. 

Óhjákvæmilega virðast þessir flokksbroddar gera lítið úr vilja kjósenda og gefa sér eitthvað fyrirfram í þeim efnum, sem engri átt nær.  Það eru t.d. áhöld um, hvort tvær þessara flokksnefna fá yfirleitt kjörna fulltrúa á þing 29. október 2016.  Fylgi þeirra er svo lítið, að þeir eiga ekki nokkurt erindi í ríkisstjórn.  Loddararnir ætla greinilega ekki að taka nokkurt tillit til vilja kjósenda frekar en fyrri daginn, t.d. höfnun óskar þingflokks Sjálfstæðisflokksins sumarið 2009 um þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort sækja ætti um aðild Íslands að ESB. 

Maður er nefndur Hjörleifur Guttormsson, er náttúrufræðingur og fyrrverandi Alþingismaður Alþýðubandalagsins og iðnaðarráðherra á vegum flokksins.  Hann er m.a. þekktur fyrir skarplegar greiningar á stjórnmálaástandinu hérlendis og erlendis, og grein hans í Morgunblaðinu, 25. október 2016,

"Á að farga fullveldi Íslands á aldarafmælinu 2018 ?",

sýnir, að samloðun Pírataklíkunnar, fallhættuflokkanna Bjartrar framtíðar og Samfylkingar, fullveldissvikaranna í Vinstri hreyfingunni grænu framboði og varadekksins Viðreisnar, felst í þráhyggjunni um stjórnarskrárbreytingar til að opna fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, og að knýja síðan á um endanlega aðlögun Íslands að ESB eftir að hafa kollvarpað íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu, sem allir téðir stjórnmálaflokkar, að varadekkinu meðtöldu, virðast sammála um, þó að vöflur séu á VG í þeim efnum. Ætlunin er að brjóta miskunnarlaust niður bólvirki fullveldisins, þar á meðal grunnstoðir atvinnulífsins, til að ryðja braut örvæntingarfullra Íslendinga inn í "hið brennandi hús". 

Nú verður vitnað ótæpilega í téða grein Hjörleifs:

"Átökin um aðild [að ESB - innsk. BJo] héldu hins vegar áfram hérlendis og voru fyrir alþingiskosningarnar 1999 bakgrunnurinn í uppstokkun flokka á vinstri væng, þegar til urðu Samfylkingin og Vinstri grænir. Allar götur síðan hefur Samfylkingin gert ESB-aðild að þungamiðju sinnar stefnu, en VG hafnaði aðild frá upphafi. Við það var staðið til vors 2009, en þá var merkið fellt með sögulegum svikum af hálfu forustu VG við myndun ríkisstjórnar að afstöðnum kosningum.  Um þau efni og framhaldið í kjölfar aðildarumsóknar að ESB í júlí 2009 geta menn lesið í nýútkominni bók Jóns Torfasonar, skjalavarðar, Villikettirnir og vegferð VG."

Það gekk ekki hnífurinn á milli Steingríms J. Sigfússonar og Katrínar Jakobsdóttur, formanns og varaformanns VG, vorið 2009, þegar þau ráku rýtinginn í bak fjölda stuðningsmanna VG með því að svíkja eiðstafinn um að verja fullveldi Íslands með kjafti og klóm.  Þau fórnuðu þessari fornu kjölfestu VG fyrir ráðherrastólana um leið og þau lugu að kjósendum fyrir kosningar 2009, því að þessu var handsalað á milli flokkanna fyrir þær. 

Eftir þennan viðbjóðslega valdastreitugjörning má segja, að Katrín hljóti að hafa teflon-húð, því að hún er að skora nokkuð hátt í vinsældakönnunum enn þá.  Hún bítur þó höfuðið af skömminni með því að gera út á traust í þessari kosningabaráttu, haustið 2016, því að hún er ekki traustsins verð fyrir 5 aura. Eftir aðdraganda kosninga 2009 og gjörninga Teflon-Kötu í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms 2009-2013, ætti hún réttu lagi að vera rúin trausti. 

"Aðvörunum um framtíð ESB hefur rignt yfir undanfarið; síðasti skellurinn yfirlýsingar þýzka hagfræðingsins Otmar Issing (f.1936), eins helzta hugmyndafræðingsins að baki evrunnar og frá 2006 forseti Centre for Financial Studies (CFS) við Göthe-háskólann í Frankfurt.  Viðtal við hann undir fyrirsögninni: "Spilaborg evrunnar mun óhjákvæmilega hrynja", (sjá Viðskiptablaðið, 20. október 2016) hefur farið sem eldur í sinu um fréttaheiminn.  Hann segir þar framkvæmdastjórn ESB í Brüssel vera "pólitíska ókind" og Seðlabanka evrunnar "á hálli leið til Heljar".  Evran segir hann, að hafi verið misheppnuð frá fyrsta degi, og raunar áður en hún varð til."

Það sætir pólitískum jarðskjálfta, þegar virtasti hagfræðingur Þýzkalands kveður upp dauðadóm yfir evrunni.  Skilningssljóir á Íslandi á hina stjórnmálalegu þróun eru í afneitun, þegar þeir boða landsmönnum enn fagnaðareindið um inngöngu Íslands í ESB til að geta kastað ISK fyrir róða og tekið upp mynt Evrópusambandsins, evruna.  Þessa pólitísku afneitun er aðeins hægt að skýra með heimsku, og dómgreindarleysi er ein birtingarmynd heimskunnar.  Sumir fulltrúar þessarar heimsku hafa setið á svikráðum við þjóð sína á Litlu-Brekku í Bakarabrekkunni í 101-Reykjavík undanfarið til að leggja á ráðin um að smygla henni í faðm kommissaranna í Brüssel, ef hún glepst á fagurgala lygamarðanna.

"Það er þetta Evrópusamband, sem núverandi stjórnarandstaða og Viðreisn vilja leiða Ísland inn í á fullveldisafmælingu 2018.  Þetta hefur verið staðfest með lítils háttar blæbrigðum af talsmönnum flokkanna í kosningasjónvarpi RÚV undanfarið, og helzta bindiefnið á milli þeirra er að fá þjóðina til að samþykkja að taka á ný upp aðildarviðræður við ESB og knýja jafnframt fram stjórnarskrárbreytingar, sem heimili slíka aðild. 

Enginn hefur kveðið fastar á um þetta en Össur Skarphéðinsson, sem sagði 18. október 2016, að í utanríkismálum legði Samfylkingin mesta áherzlu á, "að við höldum áfram aðildarumsókninni, ekki sízt vegna þess, að við viljum taka upp nýjan gjaldmiðil; við teljum krónuna hafa gengið sér til húðar.  Í sama þætti sagði Ari Trausti frá VG, "að ef það kemur upp ósk um að taka upp aðildarsamningana eða starta nýjum, þá auðvitað tökum við þátt í því."

Hér vekur Hjörleifur máls á samsæri, sem ESB-flokkarnir vildu gera fyrir kosningarnar 29. október 2016 um að ryðja brautina fyrir inngöngu Íslands í ESB.  Við fengum ekkert að vita eftir Litlu-Brekku-fundinn 27. október 2016, eins og forsætisráðherraefnið og falsstærðfræðingurinn Smári McCarthy þó hafði lofað tveimur dögum áður, en það gæti verið vegna þess, að umræðuefnið þolir ekki dagsljósið, eins og nú standa sakir. 

Hvað skyldi Otmar Issing segja um þann fíflagang fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, hins digra Össurar, sem enginn hefur þó borið brigður á, að er doktor í kynlífi laxfiska, að Íslandi ríði nú á að kasta ISK og innleiða EUR ?  "Wahnsinn" mundi líklega hrökkva af vörum hans. 

"Hvernig sem því máli er háttað [örlögum aðildarumsóknar, sem Alþingi samþykkti 16.07.2009], er ljóst, að hugsanleg vinstri stjórn með aðild Pírata hyggst knýja á um aðild Íslands að Evrópusambandinu, sem drjúgur meirihluti Íslendinga, sem afstöðu taka samkvæmt skoðanakönnunum, hefur verið andvígur um langt árabil."

Hjörleifur Guttormsson þekkir flárátt eðli vinstri manna.  Þeir munu ríða gandreið á Pírataeinfeldingunum og hafa þá sem gólftusku sína í hugsanlegu stjórnarsamstarfi.  Hjörleifur á þakkir skildar fyrir að vekja athygli kjósenda á hinni raunverulegu og yfirvofandi hættu ("clear and imminent danger"), sem landinu stafar af þeim, sem sitja á svikráðum við alþýðu manna, eins og á kjörtímabilinu 2009-2013.

Nú kemur rúsínan í pylsuendanum hjá Hjörleifi Guttormssyni:

"Fráhvarf forystu Vinstri grænna frá upphaflegri andstöðu við ESB-aðild er annað og djúpstæðara en almenningur gerir sér grein fyrir. Eftir að einarðir ESB-andstæðingar höfðu einn af öðrum hrakizt úr þingflokki VG, hljóðnuðu andstöðuraddir forystumanna, sem eftir sátu, við ESB-aðild.  Eftir að Ísland lagði inn aðildarumsókn að ESB sumarið 2009, minnist ég þess ekki, að Steingrímur J., sem formaður, eða arftakinn, Katrín Jakobsdóttir, hafi í blaðagreinum eða á öðrum vettvangi rökstutt og útskýrt þá formlegu afstöðu flokksins að vera á móti aðild.  Klisjunni virðist eingöngu hafa verið viðhaldið til að villa á sér heimildir og til að missa sem fæsta eindregna andstæðinga ESB-aðildar út úr röðunum.  Öðru vísi verður ekki útskýrð þögn þessa fólks í örlagaríkasta máli Íslendinga um langt skeið.-

Það sama er uppi á teninginum nú í aðdraganda kosninga.  Í kosningaáherzlum VG, eins og þær birtast á heimasíðu flokksins, er ekki að finna stakt orð um Evrópusambandið, af eða á.  Þurfum við frekari vitnana við ?"

Hér höfum við það "directly from the horse´s mouth", að Vinstri hreyfingin grænt framboð siglir undir fölsku flaggi "í örlagaríkasta máli Íslendinga um langt skeið", og formaður flokksins, Teflon-Kata, ber kápuna á báðum öxlum.  Hún bítur svo höfuðið af skömminni með því að fara nú fram undir merkjum "trausts".  Þetta er eitt versta fláræðið í nafni valdasýki, sem sézt hefur á Íslandi í háa herrans tíð. 

Kröfuhafar og aflandskrónueigendur fara ekki í grafgötur um, hvað í uppsiglingu er hér á Íslandi nú og hafa fengið "blod på tanden" við tilhugsunina um, að Teflon-Kata stefni nú hraðbyri í stól forsætisráðherra með eintómar liðleskjur og afturúrkreistinga í hirðinni.  Um þetta segir m.a. í forystugrein Morgunblaðsins 26. október 2016, "Aprígöbb í október og ein alvörufrétt":

"Önnur frétt, sem hefur enn meiri þunga, var birt í gær í Financial Times.  Hún hefur ekki náð sömu athygli og allt fyrrnefnt sprikl.  Þar má lesa, að hinir frægu kröfuhafar, sem haft hafa fjölmörg handbendi hér á sínum snærum, bindi vonir við kosningarnar.  Þeir telja, að núverandi stjórnarflokkar hafi haft óþægilegt sjálfstraust í samningum við kröfuhafa síðustu misserin.  Þeir spá upplausn í landstjórninni eftir kosningarnar, og að veik ríkisstjórn sé í burðarliðnum, og binda raunir vonir við það.  Helzt mundu þeir sjálfsagt vilja, að slík ríkisstjórn skartaði Steingrími J. Sigfússyni innanborðs.  Þá gætu kröfuhafar á ný farið að tala um "silfurfatsstjórn" á Íslandi."

Bezti varnarleikur íslenzkra kjósenda laugardaginn 29. október 2016 gegn því, að kröfuhafar föllnu bankanna og aflandskrónueigendur fái hér ríkisstjórn á silfurfati er að styðja Sjálfstæðisflokkinn til að berjast í fremstu víglínu fyrir hagsmunum Íslands.

Skjaldarmerki lýðveldisinsListakjörh_my_pictures_falkinn 

 

 


Fjármálakerfið til fólksins

Fyrirsögnin ber með sér andblæ byltingar, og íslenzka fjármálakerfið hefur verið vettvangur mikilla og dýrkeyptra atburða í þjóðarsögunni, og það sýgur til sín mikil verðmæti í nútímanum.  Stór hluti fjármálakerfisins er hins  vegar í eigu almennings, þ.e. lífeyriskerfið og ríkisbankarnir. Hér verða róttækar hugmyndir varðandi eignarhald á bankakerfinu gerðar að umfjöllunarefni. 

Það er rétt að huga að aðdraganda núverandi fjármálakerfis.  Fjármálakerfið var fyrir Hrun aðallega samsett af lífeyrissjóðunum og bankastofnunum og svo er enn.  Lífeyrissjóðirnir töpuðu ægilegum fjárhæðum, e.t.v. miöISK 500, í Hruninu, t.d. vegna fjármálagjörninga tengdum föllnu bönkunum. 

Nú eru nokkrir lífeyrissjóðir enn að bera víurnar í eignir bankanna, í þetta sinn með viðræðum við eigendur að 87 % eignarhlut í Aríon-banka, en þar liggja kröfuhafar Kaupþings á fleti fyrir frá dögum vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms.  Það ber að vara við því, að lífeyrissjóðir gerist eigendur að bönkum.  Bankastarfsemi er of áhættusöm fyrir lífeyrissjóði, eins og nýleg saga kennir, og á Íslandi eiga lífeyrissjóðir nú þegar stóran hlut í atvinnulífinu og sætu þar með beggja vegna borðs, sem er ótækt og samræmist ekki kröfum um jafnstöðu fyrirtækja og frjálsa samkeppni. Fyrir lífeyrissjóðina er fátt um feita drætti erlendis um þessar mundir, þar sem hagkerfin hafa víðast hvar verið drepin í dróma, og eru ekki að lifna við þrátt fyrir vaxtastig í sögulegu lágmarki.  Eignarhlutur í orkufyrirtækjunum á Íslandi gæti hins vegar hentað lífeyrissjóðunum. 

Ef þingmeirihluti ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hefði fengið vilja sínum framfylgt, þá hefði ríkissjóður Íslands gengið í ábyrgð fyrir forgangskröfum í þrotabú föllnu bankanna.  Vegna dráttar á innheimtu útistandandi krafna þrotabúanna og annars , hefðu hundruðir milljarða ISK fallið á ríkissjóð, ef vinstri stjórn þessi hefði fengið vilja sínum framgengt.  Það er þess vegna útilokað, að staða hans væri jafngóð og raun ber vitni um nú, ef þjóðin hefði ekki með réttu í tvígang hafnað "Icesave-skuldaklafanum", sem EFTA-dómstóllinn síðan staðfesti lagalega réttmætt, en alltaf sat hin illræmda og ólýðræðislega vinstri stjórn, jafnvel þótt hún missti þingmeirihluta sinn. 

Af ótrúlegri glámskyggni tók þessi ríkisstjórn upp á því á sínu fyrsta ári við völd, 2009, að smjaðra fyrir AGS og ESB og til að friða kröfuhafa gömlu bankanna, sem var undarlegt, þar sem hlutir höfðu þá þegar skipt um hendur, að færa kröfuhöfum föllnu bankanna nýju bankana, Aríon og Íslandsbanka, á silfurfati. 

Það er hægt að fullyrða, að stjórnmálamenn, sem fremja slík axarsköpt, hefðu engan veginn verið í stakk búnir til að greiða fyrir haftalosun og bæta ríkissjóði ríkulega upp tap sitt í Hruninu með samningum við kröfuhafana um stórfelld stöðugleikaframlög, sem m.a. fólu í sér að skila þessum bönkum aftur til ríkisins. Hér var auðvitað um átakamál við kröfuhafana að ræða, sem hryggleysingjar vinstri stjórnarinnar voru engir bógar til að standa í.  Mannvalið vinstra megin miðju hefur ekki batnað, nema síður sé. Þar eru eintóm lindýr. Reynsluheimur þeirra er afar þröngur og "ópraktískur", enda er þekking þeirra á athafnalífi og fjármálum mjög af skornum skammti.  Stjórnunarreynslu er heldur ekki fyrir að fara, enda eiga þau sum fullt í fangi með að stjórna sjálfum sér.

Með öðrum orðum hefði ekkert verið hægt að fást við losun hafta undir vinstri stjórn, og skuldastaða ríkissjóðs væri nú mjög íþyngjandi fyrir rekstur ríkisins. 

Eign lífeyrissjóðanna nemur um þessar mundir miöISK 3500.  Til samanburðar nema eignir (útlán) almennu bankanna þriggja nú um miöISK 2400, sem er tæplega 70 % af lífeyrissjóðseignunum. Hér er þess að gæta, að lífeyrissjóðseign félagsmanna lífeyrissjóðanna myndar skattstofn tekjuskatts og útsvars við útgreiðslu úr sjóðunum, svo að ríkissjóður og sveitarsjóðir eru eigendur að verulegum hluta í lífeyrissjóðunum og fá þessar eignir í sína vörzlu við útgreiðslur til félagsmanna. Að teknu tilliti til þessa, eru félagar lífeyrissjóðanna líklega eigendur að svipaðri eignaupphæð og eigendur bankanna.  Félagar lífeyrissjóðanna eru reyndar að mestu leyti sama fólkið og á meirihluta bankakerfisins nú um stundir, þ.e.a.s. þann hluta, sem er í ríkiseigu.  Þannig má segja, að megnið af fjármálakerfi landsins sé í almannaeigu, en það má þó gera enn betur í þeim efnum með því að færa hluta af ríkiseigninni í einkaeign íslenzkra ríkisborgara með takmörkunum á framsali og eignarhlut hvers og eins.  

Í ársbyrjun 2016 áttu almennu lífeyrissjóðirnir að meðaltali 3,2 % umfram skuldbindingar, og hefur staða þeirra farið stöðugt batnandi frá árinu 2009, þegar staða þeirra var neikvæð um 10,5 % vegna hroðalegra og óafsakanlegra hlutabréfa- og skuldabréfatapa árið 2008.  Á árinu 2011 var staða almennu lífeyrissjóðanna enn neikvæð um 4,9 %, og það varð að skerða lífeyrisgreiðslur, og hún var neikvæð fram á 2013, þ.e. - 2,3 % þá.  Á tímabilinu 2013-2016 hefur hagur þeirra blómgazt, enda blóm í haga hjá launþegunum, sem fengið hafa 20 % - 30 % kjarabætur á þessu tímabili, margir hverjir, og atvinnustigið hækkað í hámark.

Hins vegar er lífeyriskerfi opinberra starfsmanna, ríkis og sveitarfélaga, ósjálfbært.  Staða þessara sjóða er tryggingafræðilega neikvætt um 38 % !  Ríkisstjórn Sigurðar Inga vildi útjafna þennan mikla halla með gríðarframlagi úr ríkissjóði um leið og réttindi allra launþega, án tillits til vinnuveitanda, yrðu jöfnuð.  Þetta var stærsta félagslega framfaramálið um langa hríð, og það tengdist framfaramáli á sviði kjarasamninga, s.k. SALEK-samkomulagi, þar sem innleiða átti kerfisbundin vinnubrögð til að ákvarða launabreytingar á grundvelli samkeppnishæfni fyrirtækjanna, t.d. á útflutningsmörkuðunum.  Hér er um mikið hagsmunamál heildarinnar að ræða, en afturhaldið í landinu, klárlega vinstra megin við miðju í stjórnmálunum, með fáeina sérhagsmunahópa í broddi fylkingar, settu skít í tannhjólin, svo að þetta framfaramál er nú í biðstöðu.  Hverjum dettur í hug, að amlóðaríkisstjórn takist að koma þessu eða öðrum framfaramálum í höfn ?

Í viðtali við Þóreyju S. Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, í Viðskiptablaðinu 5. október 2016, kom eftirfarandi fram m.a.:

"Umræða er innan lífeyrissjóðanna um, hvort breyta eigi aðferðarfræði við útreikning á lífslíkum.  "Það er ljóst, að breytingar á henni hafa áhrif á sjóðina, og í framhaldinu þarf að ákveða til hvaða mótvægisaðgerða þarf að grípa."

Í dag eru lífslíkur metnar jafnar, en lífslíkur kynslóðanna eru ekki þær sömu, og markast umræðan af því að meta lífslíkur rétt á milli kynslóða.  Þórey segir, að stóra málið nú sé jöfnun lífeyrisréttinda á milli einkamarkaðar og opinbers markaðar, en fyrir Alþingi liggur nú slíkt frumvarp. "Það væri mikið framfaraskref að ná einu samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn, sem mundi auka til muna sveigjanleika á vinnumarkaði", segir Þórey."

Lífslíkurnar fara hækkandi, og fólk nær að jafnaði hærri aldri en áður.  Þetta, ásamt lækkandi fæðingartíðni, mun senn hafa neikvæð áhrif á tryggingafræðilega stöðu sjóðanna, þó að iðgjöldin eigi að hækka í almennu lífeyrissjóðina með jöfnun lífeyrisréttindanna.  Af þessum sökum er sjálfsagt að gera starfslokaaldurinn sveigjanlegri og hækka meðalstarfslokaaldur, svo að starfslokabilið verði 65-75 ár.  Hækkunin ætti að verða á 10-15 árum.  Svipuð þróun hlýtur að verða á lífeyrisaldri Tryggingastofnunar ríkisins, TR, með sveigjanlegum réttindaaldri til töku ellilífeyris og stighækkandi upphæð með upphafstöku við 65 ár til 75 ára.

Það er almenn óánægja á meðal fyrirtækja og skuldugra fjölskyldna með hátt vaxtastig í landinu.  Mikill vaxtamunur á Íslandi og flestum löndum hefur ásamt jákvæðum viðskiptajöfnuði ýtt gengi ISK upp.  Á þá þróun þarf nú að slá með verulegri stýrivaxtalækkun Seðlabankans.  Það er þó e.t.v. huggun skuldugra harmi gegn, að Aríon-banki er að 13 % í eigu ríkisins og Íslandsbanki og Landsbanki eru nánast alfarið í eigu ríkissjóðs.  Ánægju landsmanna með eignarhaldið má þó vafalítið auka með því að gera þá að beinum eigendum, hvern og einn, að tilgreindum eignarhlut, t.d. 10 % í upphafi til reynslu. 

Eigið fé bankanna hefur frá 2009 til júní 2016 vaxið um miaISK 315, eða um 93 %, og er nú miaISK 655. Ef 10 % af eign ríkisins, ISK 65,5, verður fært borgurunum sem fyrsta skref í að gera þessa banka að almenningshlutafélögum, þá koma um kISK 197 í hlut hvers einstaklings eða um kISK 788 í hlut hverrar fjögurra manna fjölskyldu. Sama hlutfall af hagnaði bankanna mundi þá hafna beint í vösum hinna eiginlegu eigenda bankanna, sem er mun eðlilegri ráðstöfun en einhvers konar "samfélagsbanki", sem er líklega banki án ágóðavonar; þar hlýtur þá að fara fé án hirðis. 

Um almannavæðingu bankanna skrifaði Óli Björn Kárason, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins til Alþingis í SV-kjördæmi 2016:

"Almenningsvæðing bankakerfisins", 

í Morgunblaðið, 5. október 2016:

"Það er grunnstef Sjálfstæðisflokksins að gera sem flesta að eignamönnum - stuðla að fjárhagslegu sjálfstæði.  Almenningsvæðing banka, líkt og flokksráðsfundur samþykkti, er í takti við þetta grunnstef.  Um leið er aðhald að bönkum - mikilvægum stofnunum samfélagsins, aukið, tiltrú almennings á fjármálakerfið endurreist, og styrkari stoðum er skotið undir fjármálamarkaðinn."  

Í upphafi greinar sinnar skrifaði ÓBK:

""Við viljum almenningsvæða banka.  Rétt er, að almenningur fái drjúgan hlut eignar sinnar milliliðalaust í hendur samhliða skráningu bankanna á markað", segir í stjórnmálaályktun flokksráðsfundar Sjálfstæðisflokksins 24. september síðastliðinn.

Hugmyndafræðin er skýr, og vilji flokksráðsfundar er ákveðinn.  Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að beita sér fyrir því, að almenningur eignist beinan hlut í bönkunum.  Loforðið er í samræmi við það, sem Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hefur áður sagt, m.a. á Landsfundi á síðasta ári [2015].

Nái stefna Sjálfstæðisflokksins fram að ganga, verður um að ræða einhverja umfangsmestu og áhrifaríkustu aðgerð til að styrkja eignastöðu íslenzkra heimila.  Allir landsmenn verða þátttakendur á hlutabréfamarkaði."

Sjálfstæðisflokkurinn er einn íslenzkra stjórnmálaflokka um að boða þessa sjálfseignarstefnu fyrir kosningar til Alþingis 29. október 2016 og mun auðvitað þurfa að semja um hana, ef hann verður í aðstöðu til stjórnarmyndunar.  Þessi stefna á afar vel við íslenzkar aðstæður, þar sem drjúgur hluti af aflafé fjölskyldna hefur farið í fjármagnskostnað til bankanna.  Með því að gerast beinir eigendur fá þær nokkuð af þessum kostnaði til baka með arðgreiðslum frá bönkunum, og einnig geta þær selt þessa eign sína með ákveðnum skilyrðum.

"Í febrúar síðastliðnum lagði ég [ÓBK] til, að íslenzkum heimilum yrðu afhent hlutabréf í bönkunum og miðaði við 12 %.  Frá þeim tíma hefur staðan gjörbreytzt.  Þar skiptir mestu, hversu vel ríkisstjórnin hefur haldið á málum.  Stöðugleikaframlög þrotabúa bankanna eru langt umfram það, sem mig óraði fyrir.  Eðlilegt er, að almenningur njóti þess með beinum hætti, enda urðu einstaklingar fyrir miklum búsifjum við fall bankanna.  Með því að afhenda eigendum þeirra - almenningi - beinan eignarhlut í bönkunum er stuðlað að endurheimtum vegna áfalla fyrri ára."

Þannig skrifar málsvari einkaframtaks, frjálsrar samkeppni og markaðshyggju, Óli Björn Kárason.  Það er nánast útilokað, að slíkur boðskapur komi að fyrra bragði frá nokkrum öðrum stjórnmálaflokki á Íslandi en Sjálfstæðisflokkinum, því að hinir stjórnmálaflokkarnir eru rígbundnir við ríkisrekstur og/eða ríkisafskipti og munu aldrei eiga neitt frumkvæði að því að lagfæra samkeppnisstöðuna á fjármálamarkaðinum.  Það gengur auðvitað ekki til lengdar, að um 70 % af bankakerfinu, reiknað út frá eiginfé, sé í eigu ríkissjóðs, enda tíðkast slíkt hvergi annars staðar í Evrópu, og þótt víðar væri leitað. 

Ef ríkissjóður heldur eftir 75 % eignarhlut í Landsbanka, en selur aðrar eignir í bönkunum, nema þær, sem afhentar verða landsmönnum beint, þá verða tæplega 30 % af eignunum, sem bankarnir þrír, Aríon, Íslandsbanki og Landsbanki, mynda, í eigu ríkissjóðs, og meira má það ekki vera án markaðsráðandi stöðu ríkisins í þessum áhættusama rekstri.  Seldar eða afhentar landsmönnum verða þá eignir að upphæð um miaISK 290.  Reka verður ýmsa varnagla við slíkar eignabreytingar, og um suma þeirra ritar ÓBK:

"Skynsamlegt er að setja ákveðnar kvaðir á hlutabréfin, þannig að einstaklingar verði að eiga þau í 3-5 ár, en sé þó heimilt að selja þau, ef keypt eru önnur skráð hlutabréf.  Að öðrum kosti er söluverðmætið skattlagt.  Rétt er, að eldri borgarar geti selt sín bréf, hvenær sem er án skattlagningar og skerðingar á lífeyri."

Það þarf að girða fyrir spákaupmennsku með þessi verðbréf, og í því augnamiði mætti sérmerkja þau, banna sölu á þeim til lögaðila, og setja efri mörk á eignarhald slíkra bréfa við 0,1 % af verðmæti útgefinna bréfa af þessari gerð á kennitölu.  Ennfremur ætti ríkissjóður að eiga forkaupsrétt og skattheimta söluverðmætis gæti verið tvöföld sú skattheimta, sem annars tíðkast af fjármagnstekjum, nema í tilviki eldri borgara, eins og ÓBK leggur til.  Þetta eru nauðsynlegar og nægilega öflugar girðingar til að hindra brask með gjafabréf ríkissjóðs til þjóðarinnar, enda öðlist allir íslenzkir ríkisborgarar þennan eignarrétt, þegar þeir eru skráðir í þjóðskrá.

Þetta er umfangsmikið kerfi, sem þarfnast vandaðrar lagaumgjarðar og reglugerðar, en með nútíma skráningartækni og rafrænum fjármagnsflutningum á þetta að vera gerlegt án mikillar yfirbyggingar.  Kostnaður ríkissjóðs við þetta er réttlætanlegur í ljósi þess réttlætismáls, að landsins þegnar njóti hluta af ágóða fjármálakerfisins, sem nánast allir þurfa að standa í dýrum viðskiptum við drjúgan hluta ævinnar.

 

   

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband