Færsluflokkur: Fjármál
30.9.2016 | 10:59
Vaxandi spenna í Evrópu
Niðurstöður nýlegra fylkiskosninga í Þýzkalandi sýna, að geð kjósenda er verulega tekið að grána. Ein ástæðan er hár kostnaður við móttöku framandi hælisleitenda, frumstæð hegðun þeirra og slæmt heilsufar margra flóttamanna frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, en einnig er mjög vaxandi óánægja með ofurlága vexti, sem margir Þjóðverjar, Austurríkismenn, Hollendingar o.fl. telja til þess fallna að flytja mikla fjármuni frá sparendum í norðri til skuldara í suðri.
Vaxandi fylgi hægri flokksins, AfD - Alternative für Deutschland, er engin tilviljun, heldur viðbragð kjósenda við þeirri þrúgandi stöðu, að hælisleitendur leggjast af miklum þunga á innviði Þýzkalands, húsnæðisframboð minnkar, og lágir vextir valda óeðlilegum hækkunum á húsnæði í þokkabót, álag á sjúkrahúsin eykst m.a. vegna framandi sjúkdóma, sem fylgt hafa hælisleitendum, og fjöldi atvinnulausra vex úr 2,5 milljónum vegna innflæðis fólks og stöðnunar atvinnulífs, sem lágir vextir og peningaprentun hafa ekki hrinið á.
Því miður versnar ástandið stöðugt í Sýrlandi, og þurrkar í Norður-Afríku valda uppskerubresti, svo að ekki hillir undir, að hælisleitendur verði fluttir til baka, eins og Angela Merkel þó hefur talað um, að stefnt væri að. Um hrikalega hegðun hælisleitenda og stórfelld samskiptavandamál er yfirleitt þagað þunnu hljóði enn sem komið er. Óánægjan fær útrás m.a. með því að kjósa AfD, enda lofast þau til að taka innflytjendamál og "islamvæðingu Evrópu" föstum tökum.
Víkjum nú að efnahags- og peningamálum ESB með því að styðjast við grein í "The Economist", 30. apríl 2016, "Mario battles the Wutsparer" (Mario [Draghi] berst við reiða sparendur (innistæðueigendur)):
"Þjóðverjar njóta þess að spara. Þeim finnst siðferðislega rangt að taka lán", segir Reint Gropp, þýzkur hagfræðingur. Á þýzku og hollenzku þýðir skuld sekt, "Schuld".
Germanskar þjóðir á borð við Þjóðverja, Austurríkismenn og Hollendinga, eiga háar upphæðir á bankareikningum sínum. Þeir högnuðust þess vegna á háum vöxtum. Á síðustu árum hafa vextir fallið niður að núlli, og við þessar aðstæður hefur magnazt óánægja í þessum löndum, af því að íbúunum er ekki umbunað fyrir ábyrga fjármálahegðun, og þeir hafa nú fundið blóraböggul: Evrubankinn, ECB, og hans grunsamlegi ítalski formaður bankastjórnar, Mario Draghi.
Í apríl 2016 réðist þýzki fjármálaráðherrann, Wolfgang Schäuble, á ECB fyrir neikvæða stýrivexti og peningaprentun og sakaði Mario Draghi um að bera ábyrgð á uppgangi, AfD, sem í fylkiskosningum í sumar stórjók fylgi sitt á kostnað flokks fjármálaráðherrans og kanzlarans, CDU.
Sannleikurinn er sá, að lágvaxtastefna ECB veldur bönkum á evrusvæðinu mjög miklum erfiðleikum. Nú hafa t.d. borizt fregnir af veikri stöðu eins stærsta banka Þýzkalands, fjárfestingarbankans Deutsche Bank-DB. DB stendur í alþjóðlegum viðskiptum, hefur tapað stórum fjárhæðum á þeim og verið ákærður fyrir sviksamlega viðskiptahætti í Bandaríkjunum-BNA, sem geta kostað hann um miaUSD 10 í sektum. Virði hlutabréfa bankans hefur fallið um meira en helming á rúmu ári, sem þýðir, að ótti hefur grafið um sig um afdrif bankans.
Upplýsingar um of veika eiginfjárstöðu banka í BNA bætast við fregnir af tæpri stöðu ítalskra banka. Þetta eru allt aðvörunarmerki um það, að bankakerfi heimsins þoli ekki lágvaxtastefnu stærstu seðlabanka heimsins, og þess vegna gæti orðið nýtt alþjóðlegt bankahrun innan tíðar. Angela Merkel þorir ekki að koma DB til bjargar af ótta við þýzka kjósendur í kosningum til Bundestag að ári liðnu. Þetta ástand getur leitt til fyrirvaralauss áhlaups á sparibanka Evrópu, sem leitt getur af sér bankahrun. Ríkissjóðir flestra ríkja Evrópu eru ekki lengur í stakkinn búnir að hlaupa undir bagga með bönkum, svo að væntanleg bankakreppa verður öðruvísi og víðast líklega enn alvarlegri en 2007-2008.
Á Íslandi er eiginfjárstaða stærstu bankanna þriggja með traustasta móti, en ef ratar sitja í Stjórnarráðinu, þegar ósköpin dynja yfir, munu þeir örugglega ekki rata á beztu lausnirnar, heldur gætu þeir hæglega magnað vandann með aðgerðarleysi eða örvæntingarfullu fáti með grafalvarlegum afleiðingum fyrir ríkissjóð, sparifjáreigendur og alla landsmenn. Það er vert að hafa þetta sjónarmið ofarlega í huga, þegar gengið verður til kosningu 29. október 2016.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2016 | 17:27
Húsnæðismarkaðurinn hér og þar
Það skiptir máli, hvaða stjórnmálaflokkar fara með völd í landinu. Ef fólk heldur, að glæsileg staða efnahags landsins sé tilviljun, þá er það misskilningur. Verðmætasköpun atvinnulífsins er undirstaða lífskjara almennings, og þess vegna skiptir rekstrarumhverfið miklu máli, og stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga hafa á þetta mikil áhrif. Við göngum senn til kosninga, og þá er mikilvægt fyrir buddu hvers og eins að taka ekki áhættu með vonarpening og að varast vinstri slysin. Þau hafa alltaf orðið dýrkeypt. Alþingismenn, sem hafa sjónarmið hinnar "hagsýnu húsmóður" að leiðarljósi, eru líklegastir til að ráðstafa sameiginlegu fé kjósenda af skynsamlegustu viti, en stjórnmálamenn, sem lofa öllum öllu eru líklegir til að eyða sameiginlegu fé áður en þeir afla þess og valda hér verðbólgu. Skuldsetning og verðbólga eru fylgifiskar óráðsíu í ríkisfjármálum.
Húsnæðismálin skipta alla máli, unga sem aldna. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hversu mikilvægt er fyrir fjárhag og velferð fjölskyldna að eiga húsnæðið, sem þær búa í. Að eignast húsnæði hefur alltaf verið erfitt, enda eru húsnæðisbyggingar eða húsnæðiskaup langstærsta fjárfesting flestra yfir ævina. Fyrir aldraða, sem látið hafa af störfum, er það í raun skilyrði fyrir sæmilegri afkomu að eiga skuldlausa húseign. Af þessum ástæðum er séreignarstefnan á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, en blekbónda er til efs, að forysta annarra stjórnmálaflokka sé sama sinnis. Vinstri menn hafa horn í síðu eignamyndunar einstaklinga, af því að þeir telja fjárhagslegt sjálfstæði ekki keppikefli, heldur skuli sem flestir þurfa að reiða sig á sameiginlega forsjá hins opinbera. Slíka telja þeir líklegasta til fylgilags við sameignarstefnuna.
Óðinn gerði
"Norðurlöndin og staðreyndir um húsnæðisvexti"
að umfjöllunarefni í Viðskiptablaðinu 15. september 2016:
"Það er líklegt, að eitt stærsta málið fyrir þingkosningarnar, sem fara fram 29. október [2016], verði húsnæðismál, ekki sízt erfiðleikar ungs fólks við að koma sér upp þaki yfir höfuðið."
Þetta á sér t.d. þær skýringar, að frá aldamótaárinu 2000 til 2013 hækkaði byggingarkostnaður án lóðagjalda um tæplega 20 % á föstu verðlagi. Skúrkarnir, sem þessu valda, eru hvorki efnissalar né byggingameistarar, heldur aðallega hið opinbera, ríki og sveitarfélög. Ríkið með hækkun skatta á tímum vinstri stjórnarinnar, en nánast allar skattahækkanir leiða til hækkunar byggingarkostnaðar, ekki sízt hækkun virðisaukaskatts. Á núverandi kjörtímabili var efra þrep hans hins vegar lækkað úr 25,5 % í 24,0 %, og nefnd stjórnvalda hefur lagt til eitt VSK-þrep, 19 %. Undir vinstri stjórn verður það áreiðanlega ekki lækkað. Á núverandi kjörtímabili hafa vörugjöld verið afnumin, sem virkar til lækkunar á byggingarkostnaði.
Þá var sett ný löggjöf af vinstri stjórninni, sem leiddi til breytinga á byggingarreglugerð, sem orsökuðu hækkun byggingarkostnaðar. Þannig vann vinstri stjórnin að því bæði leynt og ljóst að leggja stein í götu þeirra, sem eignast vildu eigið húsnæði. Ofan af þessu hefur nú verið undið að mestu.
Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, sagði við Vilhjálm A. Kjartansson, blaðamann á Morgunblaðinu, í grein VAK,
"Lóðaverð hækkar byggingarkostnað",
þann 9. september 2016,
"að skipulagsstefnur sveitarfélaga geti haft töluvert að segja um byggingarkostnað".
Sveitarfélögin, sum hver, eru nú Svarti-Pétur húsnæðiskostnaðarins. Björn bar saman kostnað 100 m2 íbúðar í lyftuhúsi á Akureyri og 115 m2 íbúð í lyftuhúsi í Reykjavík. Í Reykjavík er kvöð um bílageymslu í bílakjallara, en á Akureyri eru bílastæði leyfð á lóð.
"Fermetraverð íbúðarinnar á Akureyri er 314 kkr, en 562 kkr í Reykjavík."
Einingarverðið í Reykjavík er tæplega 80 % hærra en á Akureyri. Björn Karlsson segir, að bílakjallarinn geti hækkað verð á slíkri íbúð um allt að 5 Mkr. Hann segir ennfremur, að lóðaverð (tilgreinir ekki hvar) hafi hækkað um 500 % á síðustu 12 árum. Þarna er skúrkurinn fundinn.
Þessi framkoma yfirvalda við húsbyggjendur er fyrir neðan allar hellur. Markaðsverð á hvern m2 hækkaði um þriðjung frá árinu 2000-2013, og meginsökudólgarnir eru sveitarfélög (ekki öll) og ríkið, þó að það hafi bætt sig, sbr hér að ofan. Þarna er meðvitað með sérvizkulegri kröfu skipulagsyfirvalda verið að leggja stein í götu húsbyggjenda, sem harðast kemur niður á þeim, sem eru að eignast sitt fyrsta þak yfir höfuðið. Vinstri stefna í hnotskurn.
Sum sveitarfélög, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, hreint og beint okra á lóðaúthlutunum. Þetta er forkastanleg hegðun, sem verst kemur niður á unga fólkinu, sem er að hefja búskap og/eða hefur hug á "að koma sér þaki yfir höfuðið", ætlar með einum eða öðrum hætti að fjárfesta í sínu fyrsta húsnæði.
Sveitarfélög, sem lóðaokur stunda, gera það með þeim hætti að mynda lóðaskort. Síðan t.d. bjóða þau út lóðir og selja hæstbjóðanda. Í Viðskipta-Mogganum 22. september 2016 var t.d. greint frá því, að sami verktakinn hefði hreppt allar lóðirnar í einu útboði og greitt fyrir þær verð, sem svarar til 4,9 Mkr að meðaltali á íbúð. Þetta er óhæfa.
Þegar Davíð Oddsson varð borgarstjóri í Reykjavík, lét hann það verða eitt af sínum fyrstu verkum að afnema lóðaskortinn, sem vinstri meirihlutinn þar hafði framkallað, enda er lóðaskortur óþarfi, þar sem nægt er byggingarland. Í Reykjavík var þess þá einfaldlega gætt, að framboðið annaði eftirspurninni, og lóðirnar voru boðnar til kaups á verði, sem endurspeglaði kostnað við uppbyggingu hverfis án álagningar. Fyrstur kom, og fyrstur fékk. Þannig eiga sýslumenn að vera, og með þessari stefnu stuðla sveitarfélög að lækkun byggingarkostnaðar, sem er brýnt hagsmunamál almennings í landinu. Það sýnir sig oft, að hagsmunir vinstri flokkanna fara ekki saman við hagsmuni almennings.
Byggingarkostnaður skiptist nú þannig samkvæmt Hannari og Samtökum iðnaðarins:
- Framkvæmdarkostnaður 60 %
- Lóðarkaup 20 %
- Fjármagnskostnaður 12 %
- Hönnunarkostnaður 3 %
- Annar kostnaður 5 %
Af þessu yfirliti sést, að sveitarfélögin eru í lykilaðstöðu til að lækka byggingarkostnað með því að auka framboð lóða til að mæta eftirspurn og láta lóðirnar af hendi á kostnaðarverði.
Fjármagnskostnaðinn er líka unnt að lækka. Hann markast að nokkru af stýrivöxtum Seðlabankans, sem hefur í 2 ár haldið þeim hærri en peningaleg rök standa til og með því skapað gróðrarstíu spákaupmennsku vaxtamunarviðskipta, sem styrkt hefur gengið enn meir en ella, en gríðarleg gengishækkun í boði Seðlabankans á þessu ári er orðin vandamál fyrir útflutningsatvinnuvegina. Þess vegna ættu réttu lagi að verða enn frekari vaxtalækkanir á næstu vaxtaákvörðunardögum Seðlabankans.
Nú verður áfram vitnað í Óðin:
"Viðreisn, stjórnmálaafl Benedikts Jóhannessonar, hefur hamrað mjög á samanburðinum milli vaxta á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum."
Óðinn vitnar síðan í skrif Bjarna Halldórs Janussonar, formanns ungliðahreyfingar Viðreisnar um vexti á Norðurlöndunum, sem Óðinn telur afar villandi. Staða húsnæðiskaupenda á Íslandi sé í raun traustari en staða húsnæðiskaupenda annars staðar á Norðurlöndunum, þegar til lengri tíma er litið.
Bjarni Halldór skrifar:
"Lánakjör til fasteignakaupa eru mun hagstæðari á Norðurlöndunum en á Íslandi. Á Norðurlöndum eru breytilegir vextir á bilinu 1-2 %."
Þetta er augnabliksstaðan, en þegar um lántöku til 25-40 ára með breytilegum vöxtum er að ræða, er út í hött að einblína á núið. Hér er blekking höfð í frammi að hálfu Viðreisnar, sem hefur tilhneigingu til að fegra allt í útlöndum á kostnað Íslands.
Árið 1995 voru breytilegir vextir í Svíþjóð 8,8 %/ár. Vextir langtíma húsnæðislána með föstum vöxtum í Danmörku hafa á árabilinu 1998-2016 sveiflazt á bilinu 2,0 %- 8,2 %, og meðaltal þessara vaxta verið 5,2 % í Danmörku. Meðalvextir húsnæðislána í Danmörku með breytilegum vöxtum eru 2,7 %, en eru nú neikvæðir, -0,23 %, og hafa hæst orðið 6,4 %. Áfram verður vitnað í Óðin:
"Það, sem ræður vöxtunum í viðkomandi löndum, eru stýrivextir seðlabankanna. Með töluverðri einföldun má segja, mjög háir og mjög lágir stýrivextir þýði, að eitthvað verulegt sé að efnahagnum á myntsvæði viðkomandi seðlabanka."
Stýrivextir í Danmörku eru núna -0,65 % og í Svíþjóð -0,50 %. Það er efnahagsstöðnunin í ESB og baráttan við verðhjöðnun í evru-löndunum, sem veldur neikvæðu vaxtastigi í Danmörku og Svíþjóð, en þá þurfa fjármagnseigendur að borga fyrir að setja fé á bankareikninga. Þeim hefur hingað til verið hlíft við þessu, og þess vegna er afkoma viðskiptabanka í ESB slæm. Á Ítalíu vofir yfir bankahrun.
Þegar flótti fjármagns frá evrunni gerði vart við sig, seldu menn evrur og keyptu danskar og sænskar krónur. Til að bregðast við þessu og til að vinna gegn stöðnunaráhrifum frá hinum ESB-löndunum lækkuðu seðlabankar Danmerkur og Sviþjóðar stýrivexti meira en dæmi eru um þar. Hér er Seðlabankinn sem þurs, sem ekki áttar sig á stöðu mála fyrr en um seinan.
"Þegar að því kemur, að stýrivextir hækka í löndunum tveimur [Danmörku og Svíþjóð], verður til nýtt vandamál. Þeir, sem hafa keypt húsnæði á svo lágum vöxtum, eins og verið hafa undanfarið, munu sjá greiðslubyrðina snarhækka, enda eru lán með breytilegum vöxtum reglan, en ekki undantekning. Ekki nóg með það, heldur hefur húsnæðisverð hækkað viðstöðulaust í algjörum takti við lága vexti. Þetta hefur gerzt víðar í Evrópu."
Það munu alvarlegir timburmenn fylgja í kjölfar hækkunar vaxta á Norðurlöndunum og annars staðar, þar sem þeir eru við núllið núna. Ástandið núna erlendis er mjög óeðlilegt og mun leiða til fjöldagjaldþrota, þegar vextir hækka á ný. Að dásama þetta fyrirkomulag ber vitni um heimsku.
Hvað skrifar Óðinn um afleiðingar óhjákvæmilegra vaxtahækkana ?:
"Eftirspurnin mun minnka, húsnæðisverð lækka, greiðslubyrði hækka, og ástandið gæti orðið ekki ósvipað því, sem var á Íslandi eftir fall viðskiptabankanna haustið 2008. Seðlabankar Svíþjóðar og Danmerkur hafa eðlilega miklar áhyggjur af þessu. Það er óðs manns æði að fara inn á fasteignamarkaðinn víða í Evrópu vegna lágra vaxta, því að fyrr eða síðar, og líklega fyrr en seinna, munu vextir hækka."
Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum, sem er ályktun Óðins um vitlaus viðmið Viðreisnar og þá um leið annarra evru-hallra stjórnmálaflokka hérlendis, sem allir virðast blindir og heyrnarlausir varðandi það, sem nú er að gerast í Evrópu.
"Það er ábyrgðarmál að segja ungu fólki í dag, að þau muni búa við betri kjör á Norðurlöndunum, þegar staðreyndin er sú, að líklega er hvergi eins bjart fram undan í efnahagsmálum og á Íslandi. Kaupmátturinn vex hratt, gengi krónunnar styrkist, og atvinnuleysið er horfið. ...... Það er líka afar sérstakt, að flokkur tryggingastærðfræðingsins Benedikts Jóhannessonar skuli af öllum flokkum halda þessari tálsýn að ungu fólki. Margur hefði haldið, að hann af öllum mönnum skildi, hvernig umgangast ætti hugtakið vexti."
Nú er reyndar svo komið, að styrking ISK er fremur ógn en tækifæri, því að hún hefur gengið svo langt, að hún er farin að veikja samkeppnishæfni landsins. Slík veiking mun innan tíðar leiða til minni hagvaxtar, sem kemur niður á lífskjörum og getu ríkissjóðs til að standa undir bættu almannatryggingakerfi, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, vegakerfi o.s.frv.
Þessi neikvæða þróun er í boði Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, sem styðst við meingölluð líkön af íslenzka hagkerfinu og virðist skorta hagfræðilegt innsæi og hugrekki til að taka sjálfstæða afstöðu á grundvelli borðleggjandi staðreynda. Vextirnir eru afkáralega háir m.v. vaxtastigið í heiminum og stöðu íslenzka hagkerfisins. Þeir þurfa líklega að lækka um 2 %, svo að jafnvægi verði náð.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.9.2016 | 12:50
Almannatryggingar - úrbætur
Það er engin hemja, að réttur þegnanna til greiðslu úr almannatryggingakerfi Tryggingastofnunar skuli vera skertar vegna greiðslu, sem sömu þegnar hafa unnið sér inn frá lífeyrissjóði sínum. Þarna kemur ríkissjóður aftan að félögum í lífeyrissjóðunum og beitir þá misrétti miðað við hina, sem verið hafa á vinnumarkaðinum án þess að spara, t.d. til elliáranna, með inngreiðslum í lífeyrissjóð.
Þann 19. september 2016 var undirritað samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaði á milli opinbera geirans og einkageirans. Ríkissjóður og sveitarfélögin brúuðu bilið, sem þurfti til samkomulags, með skuldbindingum um háar fjárhæðir, og samkomulagið er enn ein rósin í hnappagat fjármála- og efnahagsráðherra, því að nú loksins er lífeyriskerfi landsmanna sjálfbært og ríkissjóður ekki í ábyrgð fyrir afkomu lífeyrissjóða opinberra starfsmanna. Jafnræði hefur náðst á vinnumarkaði varðandi lífeyrisréttindi.
Þetta er stórt framfaraskref fyrir allt þjóðfélagið, og væri nú verðugt, að ráðherrann léti kné fylgja kviði á sviði lífeyrisréttinda og beitti sér fyrir afnámi téðrar neikvæðu tengingar lífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum og ellilífeyris frá Tryggingastofnun.
Um þetta o. fl. skrifar Halldór Gunnarsson, fyrrverandi sóknarprestur í Holti, í þrælmagnaðri grein,
"Uppgjöf formanns LEB",
sem birtist í Morgunblaðinu 15. september 2016:
"Vinstri stjórnin skerti kjör öryrkja og eldri borgara miskunnarlaust og kom á skerðingum, langt umfram alla aðra, þannig að eldri borgarar voru skertir, miðað við stöðuna í dag, um 150´000 kr á mánuði."
Þetta leyfði hin hraksmánarlega "norræna velferðarstjórn" sér að gera og þóttist þó hafa "myndað skjaldborg um heimilin". Annað eins ginnungagap á milli orða og efnda hefur ekki myndazt á nokkru kjörtímabili á lýðveldistímanum, enda eiga viðkomandi tveir stjórnmálaflokkar fremur erfitt uppdráttar um þessar mundir, hvað sem verður. Það er einfaldlega ekkert að marka vinstri menn.
Fé Tryggingastofnunar ætti síðast af öllu að skerða, enda ekki feitan gölt að flá, og eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar var að afnema skerðingar á grunnlífeyri allra.
Í lok greinar sinnar skrifar Halldór í Holti:
"Um 40 þúsund eldri borgarar gera þá réttmætu kröfu, að lífeyrissjóðsgreiðslur, sem einstaklingar hafa áunnið sér með greiðslum af eigin launum, komi ekki til skerðingar á greiðslum Tryggingastofnunar með ólögum, sem fyrir löngu hefði átt að mæta með lögsókn til að sækja lögvarða eign einstaklinga í lífeyrissjóðum. Formanni LEB hefði verið meiri sómi að því að beita sér fyrir þeirri lögsókn fremur en að mæla með samþykkt á uppfærðu lífeyriskerfi."
Óli Björn Kárason, sem hlut 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í "Kraganum", ritar vikulega í Morgunblaðið, og þann 7. september 2016 nefndist hugvekja hans,
"Frítekjumark er réttlætismál". Þar skrifar þessi pólitíski hugsjóna- og baráttumaður m.a.:
"Frumvarp félagsmálaráðherra gerir ráð fyrir, að grunnlífeyrir, tekjutrygging og sérstök uppbót til framfærslu, verði sameinuð í einn bótaflokk, ellilífeyri. Fjárhæð sameinaðs bótaflokks verður 212´776 kr á mánuði. Heimilisuppbót til þeirra, sem búa einir, helzt óbreytt. Tekjur eldri borgara verða meðhöndlaðar með sama hætti, óháð uppruna (atvinnutekjur, fjármagnstekjur og lífeyrissjóðstekjur). Frítekjumörk verða afnumin, en fjárhæð ellilífeyris skerðist um 45 % vegna vegna tekna frá öðrum en almannatryggingum, en þó ekki vegna greiðslna séreignarlífeyrissparnaðar."
Þetta er gott og blessað, en þó er nauðsynlegt að gera við þetta 2 athugasemdir, svo að sanngirni sé gætt í garð iðgjaldagreiðenda lífeyrissjóða og þeirra, sem einvörðungu fá ofangreindar 212´776 kr sér til framfærslu. Er þá vísað til stefnumiðs Sjálfstæðisflokksins um afnám tekjutenginga ellilífeyris.
- Skattleysismarkið er nú 145´000 kr á mánuði. Þetta þarf að hækka upp í ellilífeyrismörkin eða um 47 %. Það er engin hemja að skattleggja tekjur eða lífeyri, sem eru undir fátæktarmörkum. Ef þetta er talið of dýrt fyrir ríkissjóð, verður að flækja þetta með því, að þeir, sem eru með tekjur yfir skilgreindum framfærslumörkum af Hagstofunni, verði með neðri skattleysismörkin, 145 kkr, en hinir með hin efri, 213 kkr.
- Frumvarp félagsmálaráðherra afnemur núverandi frítekjumark, 110´000 kr á mánuði, fyrir greiðslur ellilífeyris frá Tryggingastofnun. Þetta er ekki í takti við tímann, þegar æ stærri hluti fólks, sem kemst á ellilífeyrisaldur, hefur starfsþrek og áhuga á að vinna sér inn aukatekjur. Með frumvarpinu er fólk latt til að vinna á efri árum, því að 45 % teknanna dragast frá greiðslum Tryggingastofnunar. Það er óeðlilegt, að jaðarskattur á aðrar tekjur eldri borgara en greiðslur frá Tryggingastofnun sé 45 %. Annaðhvort þarf að lækka þennan jaðarskatt, t.d. niður í 25 %, eða að innleiða frítekjumark í nýju lögin, t.d. 110´000 kr.
Um þetta skrifar Óli Björn í Morgunblaðið í téðri grein:
"Með innleiðingu frítekjumarks verður eldri borgurum gert kleift að bæta sinn hag verulega. Þetta ættu þingmenn að hafa í huga, þegar þeir ganga til þess verks að afgreiða frumvarp félagsmálaráðherra."
Til að létta undir með ríkissjóði er sjálfsagt að hækka eftirlaunaaldurinn. Meðalaldur við dauðsfall er um aldarfjórðungi hærri nú á Íslandi en var í Þýzkalandi um 1880, þegar járnkanzlarinn, Otto von Bismarck, lagði til við þýzka þingið, Reichstag, að sameiginlegu tryggingakerfi yrði komið á laggirnar fyrir allt Þýzkaland, sem þá var nýsameinað. Þetta var svar hans við þjóðfélagsbreytingum, sem af iðnvæðingunni leiddu og bættu hag verkalýðsstéttanna til muna, svo að ekki sé nú minnzt á miðstéttina. Vaxandi þrýstings um aukin réttindi gætti að hálfu þessara stétta á þá, sem enn höfðu tögl og hagldir í þjóðfélaginu, aðalinn, sem missti ekki tök sín á þjóðfélaginu fyrr en í kjölfar hildarleiksins 1914-1918. Nú er gerjun í íslenzka þjóðfélaginu, enda lýðfræðilegar breytingar hafnar, sem krefjast framtíðarhugsunar við lagasetningu.
Lýðfræðileg staða Íslands er tekin að snúast á verri veg, eins og tók að gæta annars staðar á Vesturlöndum fyrir síðustu aldamót og í Japan verulega um 1990. Meðalaldur þjóðanna hækkar vegna lítillar viðkomu. Það þýðir, að hlutfallslega fækkar þeim, sem eru á aldrinum 18-67 ára, en þeim, sem eru 67 ára og eldri fjölgar hlutfallslega. Nú eru um fimmfalt fleiri á vinnumarkaðsaldri en nemur fjölda eldri borgara, en eftir tvo áratugi gæti þetta hlutfall hafa helmingazt. Eldri borgarar, 67+, stefna á að verða a.m.k. fjórðungur íslenzku þjóðarinnar, og í mörgum löndum er sú nú þegar orðin raunin. Þeir eru nú í fjárhagslegri spennitreyju ríkisvaldsins, sem líkja má við fátæktargildru, þar sem þeim eru allar bjargir bannaðar. Það verður þegar í stað að gera bragarbót á og draga úr þungri refsingu kerfisins fyrir að sýna sjálfsbjargarviðleitni. Slíkar refsingar koma ætíð niður á hagsmunum heildarinnar, en það skilja ekki jafnaðarmenn.
Almannatryggingakerfið er augljóslega ósjálfbært núna, og þess vegna er brýnt að hækka eftirlaunaaldurinn, þó ekki um 25 ár með vísun í þróunina frá upphafi almannatryggingakerfisins, heldur um t.d. 6 mánuði á ári f.o.m. 2018 þar til 70 árum er náð 2024, og endurskoða þá stigulinn. Jafnframt ætti að gera aldursmörk fyrir elilífeyri sveigjanleg, svo að t.d. mætti hefja töku 50 % ellilífeyris 65 ára, sem þá mundi lækka réttindin við lögboðinn ellilífeyrisaldur, eins og fresta mætti töku ellilífeyris þá gegn hækkun fram að 75 ára aldri. Í raun og veru þarf að aðlaga vinnumarkaðinn að breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og mjög mismunandi heilsufari hennar við aldursmörk ellilífeyris. Um þetta o.fl. skrifar Óli Björn í téðri Morgunblaðsgrein.
"Kostnaður við frítekjumarkið er verulegur, en á móti er hægt að ganga rösklegar til verka við hækkun eftirlaunaaldurs. Frumvarp félagsmálaráðherra gerir ráð fyrir, að eftirlaunaaldurinn hækki í áföngum í 70 ár á næstu 24 árum, og er það í samræmi við tillögur Pétursnefndarinnar. Í bókun með tillögunum undirstrikaði ég, að gengið væri of skammt og að miklu skipti, að hækkun lífeyrisaldurs kæmi til framkvæmda á ekki lengri tíma en næstu 15 árum. Um leið var bent á, að stjórnvöld yrðu að meta kosti og galla þess að setja inn í lög ákvæði um reglubundna endurskoðun lífeyrisaldurs út frá lífaldri, sem stöðugt verður hærri."
Eldri borgarar eru mjög mismunandi hópur og samtímis mjög stækkandi hópur. Þessi hópur á, eins og allir aðrir hópar í samfélaginu, rétt á að geta notað krafta sína til að efla sinn hag án þess að verða refsað harðlega fyrir það af ríkisvaldinu, og hinu sama ríkisvaldi ber á sama tíma skylda til að breyta umgjörð tryggingakerfisins til aukins sveigjanleika til að mæta breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Hvaða stjórnmálaflokkur er líklegastur til að taka frumkvæði með ferskri hugsun, sem tekur mið af þróuninni ?
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.9.2016 | 13:21
Tilraunahagfræðingur tjáir sig
Það er nauðsynlegt að ígrunda vel hvert skref, sem stjórnvöld hyggjast taka og kalla má inngrip í atvinnulífið. Þau geta hæglega komið niður á afkomu almennings í landinu. Ef slík skref eru í andstöðu við atvinnugreinina, jafnvel bæði vinnuveitendur og launþega í greininni, þá þurfa slíkum inngripum að fylgja pottþétt lagaleg rök og sannfærandi rökstuðningur um, að slík inngrip bæti almannahag frá því, sem núverandi fyrirkomulag er megnugt að veita.
Málflutningur þeirra, sem kollvarpa vilja íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu, en þeirra á meðal eru a.m.k. 3 stjórnmálaflokkar, Samfylking, Viðreisn og Píratahreyfingin, nær ekki máli sem rökstuðningur fyrir kúvendingu, því að eina ástæðan, sem tilfærð hefur verið, er, að samfélaginu öllu, þ.e. ríkissjóði, beri stærri hluti af þeim verðmætum, sem útgerðirnar afla. Þar er ekkert hugað að jafnræði atvinnurekstrar í landinu gagnvart ríkisvaldinu.
Viðfangsefnið hér er m.a. að ákvarða, hvort tekjur ríkisins verði meiri með "uppboðsleið" en með núverandi aflahlutdeildarkerfi. Þá dugar ekki að skoða ríkistekjur af útgerðunum einvörðungu, heldur verður að skoða skattspor alls sjávarútvegsklasans, enda er hann reistur á útgerðunum. Versnandi hagur útgerða hefur strax neikvæð áhrif á heildarskattsporið, því að fjárfestingar munu minnka. Þetta er verðugt hagfræðilegt verkefni, t.d. fyrir Hagfræðistofnun, HHÍ, eða eitthvert endurskoðunarfyrirtækið, en tilgáta blekbónda er, að skattsporið með hóflegu veiðigjaldi á bilinu 2 % - 5 % af verðmæti afla upp úr sjó sé stærra en búast má við, að skattsporið mundi verða með uppboði aflaheimilda.
Fyrir þessu eru þau almennu rök, að vaxtarskilyrði skattstofnsins eru því betri, þeim mun minna sem rennur af ráðstöfunarfé fyrirtækja beint til ríkisins. Þetta verður auðskilið, ef gert er ráð fyrir, að unnt sé að velja á milli þess, að drjúgur hluti hagnaðar renni til fjárfestinga eða skattgreiðslna.
Það er þannig næsta víst, að ríkisvaldið væri að skjóta sig í tekjufótinn með því að fara inn á braut uppboða í stað núverandi aflahlutdeildarkerfis með hóflegum veiðigjöldum.
Nú vill svo til, að sérfræðingur um mál af þessu tagi, Charles Plott, CP,tilraunahagfræðingur, tjáði sig um uppboð við Stefán Gunnar Sveinsson í Morgunblaðinu 15. september 2016. Allt, sem CP segir þar, er sem snýtt út úr nös blekbónda, og verður nú vitnað í viðtalið:
"Charles Plott, prófessor í tilraunahagfræði við Tækniháskólann í Kaliforníu, segir, að uppboð, eins og í sjávarútvegi, geti verið til margra hluta nytsamleg, ef þeim er beitt rétt. Glapræði sé hins vegar að ætla að nýta þau til þess að endurúthluta gæðum eða breyta kerfi, sem virki vel, og nánast sé öruggt, að eitthvað af verðmætum muni fara forgörðum, verði sú leið farin."
Þessi yfirlýsing hins virta fræðimanns við Caltech sýnir, að hérlendis hafa menn af vanþekkingu hent á lofti fiskveiðistjórnunaraðferð, sem engan veginn á við íslenzkar aðstæður. Fræðimaður, sem gleggst má vita um virkun og afleiðingar "uppboðsleiðar", CP, telur hana mundu verða til meira tjóns en gagns í íslenzka hagkerfinu. Þessi varnaðarorð ættu að vega þungt ekki sízt, þar sem eintómir fræðilegir liðléttingar, ef nokkrir fræðimenn, hafa mælt með "uppboðsleiðinni" fyrir veiðiheimildir í íslenzku lögsögunni.
Málflutningur CP felur í sér, að hagvöxtur mundi minnka og þar með drægjust skattstofnar saman, sem hefði í för með sér minni skatttekjur ríkisins en nú. Þar með væri ver farið en heima setið. Óráðshjalið um, að "ósanngirni" núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis þurfi að leiðrétta með "fyrningu" og uppboði á andlagi "fyrningarinnar", er helber þvættingur, enda mundi þessi leið skaða ríkissjóð ekki síður en hag almennings í landinu. Hér er fullkomið fúsk á ferð.
"Í krafti reynslu sinnar hefur Plott komið að gerð og hönnun ýmissa uppboða á auðlindum, þar á meðal í sjávarútvegi.
"Ég nefni sem dæmi fiskeldi, þar sem stjórnvöld hafa opnað ný svæði til að koma fyrir fiskeldiskerum, og spurningin verður, hver eigi að fá réttinn. Þetta eru ný gæði, og uppboð verður þá betri leið til að útdeila þessum nýju gæðum en einhver skriffinnskufegurðarsamkeppni, þar sem embættismenn fá að ákveða, hvern þeim lízt bezt á, sem er mjög ósanngjörn leið. Þú hefur enga leið til að fá að vita, hver rökin á bak við þá ákvörðun verða.""
Á þessu vefsetri hafa verið færð rök fyrir því, að nauðsynlegt sé að markaðsvæða úthlutun hinnar takmörkuðu nýju auðlindar, sem er hafsvæði í fjörðum Íslands fyrir eldiskvíar, svo að enn er blekbóndi hér algerlega sama sinnis og tilraunahagfræðingurinn Charles Plott. Sama máli gegnir um orkugeirann, þó að CP nefni hann ekki í þessu viðtali.
"Hann segir, að svo virðist sem ákvörðunin [Færeyinga um tilraunauppboð] sé byggð á þeirri tilfinningu, að útgerðarmennirnir hafi ekki unnið sér það inn að fá arð af auðlindinni. "Þetta er tilfinning, sem er reist á skyssu: að auðlindin hafi eitthvert verðgildi utan þess, sem byggt hefur verið upp af eigendum eða rétthöfum. Þeir byggðu hana upp, hafa sérfræðiþekkinguna, og það að taka hana í burtu og bjóða upp til einhvers annars mun líklega eyðileggja sumt af grunninum að verðmætasköpuninni, sem hefur gert miðin sjálfbær.""
Það á enginn óveiddan fisk í sjónum, enda miðin almenningur frá fornu fari, þó að ítala hafi verið sett þar árið 1984 af illri nauðsyn. Þessi auðlind hefur ekkert sjálfstætt gildi, frekar en flestar aðrar, heldur markast verðmæti hennar af tæknibúnaði, tækniþekkingu og viðskiptaviti til að sækja aflann, breyta honum í markaðsvöru og afla viðskiptavina.
Það er þess vegna botnlaus forræðishyggja og virðingarleysi gagnvart útgerðarmönnum, sjómönnum, vinnslunni um borð og í landi og viðskiptavinunum, fólgin í því að rífa grundvöll lifibrauðs fjölda fólks af því og færa hann einhverjum öðrum einvörðungu á tilfinningalegum og hugmyndafræðilegum grunni, en alls engum hagfræðilegum grunni. Þar er svo sannarlega engri sanngirni fyrir að fara, heldur er þetta ómengaður "sósíalismi andskotans". Ástæða er til að halda, að sú hugmyndafræði njóti sáralítils stuðnings almennings (utan R-101), þó að þrír ólíkir stjórnmálaflokkar virðist hafa látið ginnast og gert hana að sinni.
"Hann segir, að uppboð á vel starfhæfu kvótakerfi væri óskiljanlegt.
"Ég skil ekki hvatann á bak við að trufla iðnað, sem gengur upp. Uppboð mundi vera mjög truflandi fyrir sjávarútveginn. Það skemmir fyrir hvötum fólks til að sækja sjóinn, það skemmir fyrir stofnunum í útvegi. Ef það er hægt að kaupa og selja kvóta á opnum markaði [eins og á Íslandi], verður á þeim markaði eðlileg þróun, þar sem kvótinn færist frá þeim óskilvirku til þeirra skilvirku. Ef frjáls markaður er fyrir hendi, munu lögmál hagfræðinnar sjá um það.""
Umbylting á atvinnugrein með valdboði að ofan hefur alls staðar reynzt vera stórskaðleg, enda á slík hugmyndafræði rætur að rekja til Karls Marx og Friedrichs Engels, svo að það er skiljanlegt, að " botninn sé suður í Borgarfirði" og Bandaríkjamaðurinn Charles Plott skilji ekki, hvað að baki býr slíku fáránleikaleikhúsi á Íslandi 2016.
"Plott segir það því vera nánast einfeldningslegt að trúa því, að hægt sé að taka eignina og gera betur án þess, að eitthvað láti undan. "Og það mun eitthvað láta undan í aðförunum.""
Plott gengur hér svo langt að gera lítið úr vitsmunum þeirra, sem fara vilja "uppboðsleið" á veiðiheimildum í íslenzkri lögsögu. Hér skal ekki reyna að leggja mat á greindarvísitölu þeirra, enda með öllu óáhugavert viðfangsefni. Hitt er annað, að málsvarar og fylgjendur "uppboðsleiðar" eru af manngerð, sem telur tilganginn helga meðalið, "Der Erfolg berechtigt den Mittel".
Að varpa fyrir róða núverandi árangursríku fiskveiðistjórnunarkerfi með þjóðnýtingu veiðiheimildanna réttlætir í huga gösslara, lýðskrumara og öfundarmanna hins markaðsstýrða íslenzka sjávarútvegs að taka gríðarlega áhættu með hag fólks, sem beina afkomu hefur af sjónum, hag viðkomandi sveitarfélaga, ríkissjóðs og alls hagkerfisins. Þetta er hið sanna byltingarhugarfar, sem nú gengur ljósum logum á Íslandi í heilu stjórnmálaflokkunum og er afturganga Karls Marx.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.9.2016 | 10:12
Að hafa asklok (ESB) fyrir himin
Vinstri stjórnin 2009-2013 starfaði eftir hugmyndafræði. Hér verður meginhugmyndafræði hennar gerð að umfjöllunarefni í tilefni af drögum að skýrslu meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um einkavæðingu tveggja banka 2009-2010, sem er að finna sem viðhengi á þessari vefsíðu.
Hugmyndafræði Stjórnarinnar yfirskyggði heilbrigða skynsemi og lá að baki atburðarás við umsóknarferli að Evrópusambandinu (ESB), sem hófst með "kattasmölun" á Alþingi í júlí 2009, réði hreinni uppgjöf Svavars Gestssonar gagnvart harðsvíruðum kröfum Breta og Hollendinga um ríkisábyrgð á greiðslum innistæðutrygginga í föllnum íslenzkum bönkum erlendis, og hún stjórnaði undarlegu og óvæntu einkavæðingarferli tveggja nýju bankanna þriggja, sem átti ekki eftir að hafa heillavænleg áhrif á hag skuldugra viðskiptavina gömlu bankanna, sem voru fluttir yfir í nýju bankana með um 50 % afskriftum, sem innheimtust í miklu hærra hlutfalli.
Einkavæðingu þessa bar brátt að, enda var hvorki gert ráð fyrir henni í Neyðarlögunum né í áætlunum FME (Fjármálaeftirlitsins) haustið 2008. Hvers vegna voru tveir nýir ríkisbankar skyndilega afhentir kröfuhöfum föllnu bankanna á silfurfati ? Svarið er að finna með því að skoða meginhugmyndafræði Stjórnarinnar, sem var þessi að mati blekbónda:
- Neyðarlögin, sem Alþingi samþykkti haustið 2008 að tillögu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, munu hvorki halda fyrir íslenzkum né alþjóðlegum dómstólum, enda sat Vinstri hreyfingin-grænt framboð hjá við afgreiðslu þessararar lagasetningar.
- Við (Íslendingar) verðum að friðþægja fyrir þessi lög með því að færa kröfuhöfum föllnu bankanna fórnir í þeirri von, að þeir láti hvorki reyna á gildi Neyðarlaganna hérlendis né erlendis.
- Með þessari friðþægingu mun sérstaða íslenzku leiðarinnar ("við greiðum ekki skuldir óreiðumanna") minnka, en hún var Evrópusambandinu (ESB) mikill þyrnir í augum. ESB hafði mótað þá stefnu, að ríkissjóðir í Evrópu skyldu hlaupa undir bagga með bönkunum, og tóku ríkissjóðir margra landa stórlán í þessu skyni, sem þeir eru enn að bíta úr nálinni með. ESB óttaðist áhlaup á bankana og fall bankakerfis Evrópu, ef þetta yrði ekki gert. Þess vegna voru yfirvöld á Íslandi, bæði ríkisstjórn Geirs Haarde og Jóhönnu Sigurðardóttur, undir miklum þrýstingi frá leiðtogum ESB og Evrópulandanna. ESB ætlaði að brjóta Íslendinga á bak aftur, svo að þeir ógnuðu ekki fjármálastöðugleika Evrópu. Jafnvel forseti íslenzka lýðveldisins mátti þola aðför að hálfu forsætisráðherra Dana í tilraun Danans til að knýja fram stefnubreytingu, sem dr Ólafur Ragnar Grímsson lagðist harðlega gegn, eins og enn er mönnum í fersku minni.
- Með friðþægingunni átti að greiða fyrir hraðferð Íslands inn í ESB, en handjárnaðir þingmenn vinstri stjórnarinnar samþykktu umsókn um aðild 16. júlí 2009 og höfnuðu skömmu áður þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina. Til að kóróna skrípaleikinn vilja þeir núna þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna, sem sigldu í strand 2011.
Þessi hugmyndafræði er heildstæð og rúmast öll undir askloki Evrópusambandsins, þangað sem vanmáttug vinstri öflin ætluðu að leita skjóls fyrir Ísland í hörðum heimi. Öll var þessi hugmyndafræði afsprengi algers metnaðarleysis fyrir Íslands hönd, enda reist á sandi þekkingarleysis, reynsluleysis, getuleysis, dómgreindarleysis og þjóðhættulegra viðhorfa til fullveldis landsins.
Þetta er ítarlega rakið í tímabærri skýrslu,
"Einkavæðing bankanna hin síðari",
sem er að finna undir hlekk "skyrsla-12_september_2016.pdf" hér á síðunni, þannig að lesendur geta þar sannreynt, hvort sparðatíningur þeirra, sem nú hafa verið afhjúpaðir, um framsetningu og frágang eigi við rök að styðjast.
E.t.v. má þó segja, að um drög að skýrslu hafi verið að ræða, þegar hún var upphaflega birt, því að boðuð hefur verið rýni á henni, og hún var síðar kynnt á fundi Fjárlaganefndar. Hún er samin og gefin út af meirihluta Fjárveitingarnefndar Alþingis, Vigdísi Hauksdóttur, formanni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, varaformanni, Valgerði Gunnarsdóttur, Páli Jóhanni Pálssyni, Ásmundi Einari Daðasyni og Haraldi Benediktssyni, sem þannig hafa sinnt eftirlitshlutverki sínu, sem oft hefur þó verið vanrækt af nefndum þingsins.
Meirihlutinn hefur átt á brattann að sækja við efnisöflun, en hefur samt tekizt að leiða fram mikið af nýjum gögnum, svo að nú mun koma til kasta Ríkisendurskoðunar að varpa enn betra fjárhagslegu ljósi á málið, Umboðsmanns Alþingis að kanna lagalegu hliðina á gjörningum vinstri stjórnarinnar og jafnvel Ríkislögmanns. Landsdómur hefur og verið nefndur að gefnu tilefni, en það er ótímabært.
Líta má á þessa skýrslu sem mikilvæga upplýsingaöflun Alþingis fyrir íbúa þessa lands að mynda sér skoðun um þá dularfullu og að mörgu leyti illskiljanlegu atburði, sem hér urðu í boði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.
Reynt hefur verið eftir föngum að þagga þetta mál niður, af því að það varpar ljósi á, hversu vinstri flokkunum á Íslandi eru hroðalega mislagðar hendur við stjórnarathafnir, og að þeim er um megn að gæta hagsmuna Íslands.
Þrátt fyrir gríðarlega fjárhagslega áhættu, sem þáverandi ríkisstjórn tók í sambandi við nýju bankana, hefur samt á endanum tekizt að sigla fleyinu (ríkissjóði) klakklaust í höfn á þessu kjörtímabili. Það er þó ekki vinstri stjórninni að þakka, heldur endurreisn efnahagslífsins, sem knúin var áfram af útflutningsatvinnuvegunum í krafti gengisfalls krónunnar og gosi í Eyjafjallajökli 2010, sem vakti heimsathygli á Íslandi sem spennandi orlofsáfangastað í viðsjárverðum heimi.
Með skattlagningu bankanna og samningum við þrotabú gömlu bankanna um stöðugleikaframlög þeirra til ríkissjóðs Íslands sem forsendu afnáms gjaldeyrishafta, hefur blaðinu algerlega verið snúið við í samskiptum íslenzka ríkisvaldsins við fjármálaöfl heimsins og kröfuhafa föllnu bankanna.
Í stað fúsks, undirlægjuháttar og annarlegra forgangssjónarmiða um innlimun Íslands í ríkjasamband er nú komin fagmennska, þekking, yfirvegun og metnaður fyrir hönd fullvalda íslenzkrar þjóðar, svo að ríkissjóður ber ekki lengur skarðan hlut frá borði Hrunsins. Þennan gríðarlega mun á vinnubrögðum og viðhorfum má persónugera í samanburði á tveimur fjármála- og efnahagsráðherrum, hinum tækifærissinnaða, vinstri sinnaða þingmanni, Steingrími Jóhanni Sigfússyni, og hinum trausta, borgaralega sinnaða formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni.
Grípum nú niður í téðri skýrslu:
"Eigendur þessara banka (Aríonbanka og Íslandsbanka) fengu því í hendurnar áhættulausa fjárfestingu, sem skilaði þeim 132,4 miökr á árunum 2009-2012 og 216,0 miökr, sé Landsbankinn tekinn með. Hagnaður bankanna síðast liðin 7 ár er 468,7 miakr."
Þetta sýnir svart á hvítu, hvað það var, sem vinstri stjórn J & S færði kröfuhöfum föllnu bankanna, hvað friðþæging ríkisstjórnarinnar kostaði íslenzka ríkissjóðinn í glötuðum tekjum. Þetta hefur ekki verið hrakið.
"Samtals var ríkissjóður settur í áhættu fyrir 296 miökr við endurreisn bankanna. Þetta er sama fjárhæð og í upprunalegu áætlunum neyðarlaganna, en þar var miðað við, að ríkið eignaðist alla bankana. Með því að taka fram fyrir hendurnar á Fjármálaeftirlitinu (FME), glopraði fjármálaráðherra niður gríðarlegum ávinningi.
Skýrslan sýnir, að samningagerðin gekk alfarið út á að friðþægja kröfuhafana með því að afhenda þeim eignarhaldið á bönkunum, varpa allri ábyrgð á íslenzka skattgreiðendur og falla frá tugmilljarða króna arðgreiðslum, endurgreiðslum og vaxtagreiðslum. Samningamenn fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans afhentu kröfuhöfunum eignir á silfurfati og afsöluðu meira og minna öllum ávinningi ríkisins af þeirri ábyrgð, sem það tók á sig frá hruni bankanna."
Þetta er lýsing á því, hvernig þáverandi ábyrgðarmaður ríkissjóðs "afsalaði honum tekjum", svo að notað sé orðalag vinstri manna sjálfra, þegar skattalækkun er til umræðu, eða öllu heldur, hvernig þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra hlunnfór ríkissjóð með stórfelldri vanrækslu, þegar honum bar að gæta hagsmuna ríkissjóðs á viðsjárverðum tímum. Var ekki von, að hann þyrfti að skerða kjör öryrkja og aldraðra stórlega 1. júlí 2009 og þyrfti að láta fara fram hvern flata niðurskurðinn á fætur öðrum á Landsspítalanum, sællar minningar ?
Við sjáum af skýrslu meirihluta fjárlaganefndar, sem birt var 12. september 2016 og sem er sem viðhengi með þessum pistli, að vinstri stjórnin með Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar framdi afglöp. Þessi afglöp voru engin tilviljun stundarmistaka í hita leiksins, heldur bein afleiðing þjóðníðingslegrar stefnumörkunar á grundvelli hugmyndafræði, sem rakin er í upphafi þessa pistils. Í skýrslunni segir:
"Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem tók við 1. febrúar 2009, kaus að fara þá leið að byggja endurreisn bankanna ekki á neyðarlögunum, heldur ganga til samninga við kröfuhafa."
Í þessum pistli er gerð tilraun til að útskýra á grundvelli skýrslunnar, hvers vegna atburðarásin tók þessa óvæntu stefnu.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.9.2016 | 11:32
Skattkerfisumbætur
Þann 6. september 2016 skiluðu "6 sérfræðingar í skattamálum" tillögum til "Samráðsvettvangs um aukna hagsæld" um umbætur á skattkerfinu. Ekki var vanþörf á því. Á þessu kjörtímabili hefur reyndar verið gerð gangskör að umbótum til einföldunar á tolla- og vörugjaldafrumskóginum og einnig á óbeinu- (neyzlu) og beinu (tekju) skattheimtunni. Breytingarnar eru til hagsbóta fyrir skattborgarana og ríkissjóð. Þetta tvennt fer nefnilega saman, þegar stjórnað er af skynsamlegu viti, en þegar vankunnátta, þröngsýni og ofstæki eru við völd, skaðast allir, eins og skemmst er að minnast frá 2009-2013.
Skattkerfið er flókið, krefst mikillar skriffinnsku, jafnvel í kringum litla atvinnustarfsemi, í um 17 þúsund tilvikum vegna tekna innan við 3 Mkr/ár. Þarna er líka verið að leggja steina í götu "litla" atvinnurekandans, sem er þó driffjöður atvinnulífsins og kjarni miðstéttarinnar. Með því að létta "litla" atvinnurekandanum lífið, hvort sem hann er einyrki eða með nokkra í vinnu, mun hagsæld miðstéttarinnar vaxa, og það er gott fyrir þjóðfélagið allt.
Innheimtudagar ríkissjóðs eru 269 á ári, sem er dæmigert fyrir "bákn", sem vaxið hefur án yfirsýnar nokkurs manns. Skattkerfið gæti verið mun skilvirkara og verið síður letjandi til tekjuöflunar en nú, ef við hönnun þess væri tekið meira tillit til hagsmuna skattborgaranna en nú er. Hið opinbera má ekki refsa fólki fyrir frumkvæði í lífsbaráttunni og fyrir að leggja meira á sig. Ef A bætir við sig tekjum, mun B njóta góðs af því. Þetta skilur fólk ekki, sem nærist á öfund í garð náungans, þolir ekki velgengni annarra, en nennir sjálft ekki að teygja sig eftir lífsbjörginni. Kerfið er dugnaðarfólki og ríkissjóði óhagfellt, því að lægri skattheimta á Íslandi mun leiða til hærri skatttekna vegna aukins hagvaxtar og vaxandi skattstofna.
Það vekur athygli, að nefndin lagði til eitt virðisaukaskattþrep, 19 %, í stað núverandi tveggja, 11 % og 24 %. Á þessu kjörtímabili var bilið stytt á milli þrepanna með hækkun úr 7 % í 11 % og lækkun úr 25,5 % í 24,0 %. Jafnframt var skattstofninn breikkaður með fækkun undaþága. T.d. var ferðaþjónustan felld meira inn í VSK-stofninn en verið hafði. Þessari grein hafði verið haldið í bómull, og svo er að nokkru leyti enn. Þessi VSK-breyting var gerð í mikilli andstöðu við stjórnarandstöðuna, sem þyrlaði upp miklu moldviðri, og Framsóknarflokkurinn stóð gegn meiri hækkun neðra þreps en upp í 11 % vegna áhrifa frá lýðskruminu. Tillagan nú gengur út á að fara enn lengra á sömu braut og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vildi 2014-2015, en það eru litlar líkur á, að hún geti hlotið brautargengi á Alþingi eftir næstu kosningar m.v. afstöðu þingflokkanna á núverandi Alþingi.
Það er þó spurning, hvort þær gætu hlotið brautargengi með því að undanskilja innlenda matvælaframleiðslu og orku og setja þessa lífsnauðsynlegu framfærsluþætti í núllflokk. Það ættu að vera nokkuð hreinar línur að fylgja í framkvæmd, þó að ekki sé í samræmi við stefnumiðið um breikkun skattstofnsins. Þá kann þetta að fela í sér óleyfilega mismunun innlendra og erlendra framleiðenda matvæla, en á móti kemur minnkandi tollvernd.
Um tekjuskatt einstaklinga leggja sérfræðingarnir til fækkun skattþrepa, og slíkt mun einmitt koma til framkvæmda um áramótin 2016/2017, er miðþrepið, 38,35 %, fellur brott. Það vekur nokkra furðu, að sérfræðingarnir leggja ekki til eins þreps, heldur tvíþrepa tekjuskattskerfi. Daði Már Kristófersson, formaður nefndarinnar, segir í viðtali við Vilhjálm A. Kjartansson í Morgunblaðinu 7. september 2016,
"Sérfræðingar leggja til einföldun á skattkerfinu" :
"Ástæðan fyrir því, að við höfum 2 þrep í stað þess að fara niður í eitt, er reynsla annarra þjóða af tveggja þrepa kerfi. Það hefur sýnt sig, að tveggja þrepa kerfi er skilvirkara en eitt þrep (sic !) og kemur vel út í rannsóknum."
Hvort það kemur betur út í rannsóknum sem tekjuöflunarkerfi fyrir ríkissjóð en eins þreps kerfi er ekki sagt, og tekjuöflun á að vera eina hlutverk skattkerfis, og um það má efast, því að hvati til vinnu er óneitanlega meiri í eins þreps kerfi en í tveggja þrepa, og hvati til undanskota er meiri í tveggja þrepa kerfi. Skattstofninn er þess vegna líklegri til vaxtar, ef aðeins er beitt einu þrepi. Hinar neikvæðu hamlandi hliðar tveggja þrepa kerfa magnast við hækkun skattheimtunnar yfir 40 %. Sérfræðingarnir leggja til 43 %, og þar með verða jaðarskattsáhrifin of há að mati blekbónda. Betra er, að ekki sé meiri en 10 % munur á milli þrepa, þ.e. efra þrepið verði 35 %, þegar það byrjar að telja við tekjurnar 650 kkr/mán, sem algengar eru á meðal þeirra, sem leggja þurfa hart að sér við kaup á húsnæði og/eða eru að koma út á vinnumarkað klyfjaðir námslánum. Að taka 43 % af hverri umframkrónu, sem dugnaðarfólk aflar sér, er ótækt, og á að milda þennan jaðarskatt niður í 35 %.
Það fáránlega fyrirkomulag var innleitt á dögum vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms að tvöfalda skattheimtu af sparnaði og reikna vísitölubætur inn í skattgrunn fjármagnsteknanna. Hið síðar nefnda leggja sérfræðingarnir að sjálfsögðu til, að verði afnumið, en til að efla sparnað í landinu, sem er undirstaða fjárfestinga, ætti að auki að lækka skattheimtuna úr 20 % í 15 % og hafa bankainnistæður eins eiganda í sama sparnaðarflokki upp í 5 Mkr fríar undan skatti. Þetta mundi örva miðstéttina til sparnaðar.
Tekjuskattur fyrirtækja er nú almennt 20 % hérlendis. Með því að lækka þessa skattheimtu, hefur þjóðum á borð við Íra, þar sem þessi skattheimta ku vera 12,5 % um þessar mundir (Írska lýðveldið), tekizt að draga til sín fjárfestingar erlendra fyrirtækja, og opinberar tekjur af þeim hafa margfaldlega unnið upp minni ríkistekjur vegna lægra tekjuskattshlutfalls á fyrirtækin. Reyndar verður tekjutapið sáralítið, því að hvatinn til að auka téðan skattstofn vex með lækkandi skattheimtuhlutfalli. Miklar beinar erlendar fjárfestingar á Írlandi eru meginástæða þess, að Írar eru að rétta úr kútnum eftir fjármálakreppuna 2007-2008, sem kom hart niður á þeim, af því að skuldsetning írska ríkisins jókst mjög við björgunaraðgerðir í bankakerfinu.
Fjárfestar í ýmsum tiltölulega stórum nývirkjum á Íslandi hafa gert lækkun tekjuskatts af starfsemi þessara fyrirtækja ásamt ýmiss konar öðrum ívilnunum að skilyrði fyrir því að fjárfesta í þessari atvinnustarfsemi. Það á að steinhætta að verða við þessum skilyrðum þeirra, en láta eitt yfir alla atvinnustarfsemi í landinu ganga og lækka skattheimtu af hagnaði fyrirtækja niður í 15 %.
Það þarf ekki að taka það fram, að s.k. "þunn eiginfjármögnun" er ekki fremur líðandi en önnur sniðganga skattalaga. Skatta ber almennt að greiða, þar sem verðmætin verða til, og himinhár fjármagnskostnaður til brúðulands með mun lægri skattheimtu en landið, þar sem fjárfest var, er óeðlilegur. Evrópusambandið er að reyna að beita sér gegn þessu ásamt OECD, og sömu sögu er að segja um ríkisstjórn Íslands með undirbúningi lagasetningar í samræmi við alþjóðlegar ráðleggingar.
Sexmanna sérfræðinganefndin telur grunnauðlindanýtingu standa undir 22 % af framleiðslu hagkerfis Íslands. Þessi tala verður mun hærri, e.t.v. þreföld, þegar allar hliðargreinar og afleiddar greinar auðlindanýtingarinnar eru taldar með. Auðlindirnar eru þess vegna kjölfesta núverandi lífskjara á Íslandi. Sexmenningarnir leggja til, að umhverfis- og auðlindagjöld verði hækkuð og að tekjunum verði varið til að lækka aðra skatta. Hér eru þeir því miður staddir uppi í fílabeinsturni, og kjörin gerast ekki þannig á eyrinni. Það er t.d. undir hælinn lagt, að stjórnmálamenn lækki skatta, og vinstri menn gera það nánast aldrei, því að þeir skattleggja allt, sem hreyfist, og þeir líta á fjölskyldur og fyrirtæki sem skattstofna fyrir hið opinbera og virðast halda, að starfsemi þessara aðila snúist um að afla hinu opinbera tekna. Þetta er stórhættulegur misskilningur.
Gera þarf greinarmun á úthlutun nýrra verðmæta, t.d. svæðum úti fyrir strönd fyrir eldiskvíar, og úthlutun hefðbundinna verðmæta, t.d. fiskveiðiheimilda í lögsögu Íslands:
- Er verið að úthluta nýrri auðlind, eða er hefð á nýtingu hennar ? Ef ný auðlind, þá þarf að kanna, hvort rentusækni er í greininni, þ.e. ásókn í ívilnanir eða meðgjöf að hálfu hins opinbera á kostnað annarra, sem sækjast eftir sama. Ef rentusækni er fyrir hendi í greininni, þá er þar væntanlega einnig að finna auðlindarentu.
- Ef hefð er fyrir nýtingu, og menn standa frammi fyrir nauðsyn kvótasetningar, þarf að draga fram lögfræðileg rök eða annars konar jafngild rök fyrir annars konar úthlutun en á grundvelli nýtingar í nánustu fortíð. Þó að takmarkaðri auðlind sé úthlutað á grundvelli nýtingarreynslu, þarf samt að kanna, hvort rentusækni hafi myndazt í greininni. Rentusækni þýðir, að líklega hefur myndazt auðlindarenta, annars ekki.
Dæmi um úthlutun nýrra auðlinda:
- Uppeldissvæði fisks í kvíum við strendur landsins. Þetta er takmörkuð auðlind, og nánast fullnýtt auðlind í sumum nágrannalöndum okkar, t.d. við strendur Noregs. Þar eru starfs- og rekstrarleyfi til þessarar viðkvæmu starfsemi margfalt dýrari en hér. M.a. af þessum ástæðum hafa norsk fyrirtæki í þessari grein fjárfest í fyrirtækjum hérlendis, og því ber að fagna, því að þar með flyzt erlent fjármagn til atvinnu- og verðmætasköpunar á Íslandi. Norðmenn búa yfir langri reynslu og þekkingu í fremstu röð í þessari grein. Svæði, þar sem fiskeldi í sjó verður leyft, eru nánast bundin við Vestfirði og Austfirði af ótta við blöndun við íslenzka stofna, en suðurströndin er ekki talin heppileg til þessarar starfsemi vegna brims. Fyrirtækin kosta að vísu að miklu leyti sjálf rannsóknir og umhverfismat, en engu að síður er ljóst, að verð á starfs- og rekstrarleyfum hérlendis er óeðlilega lágt borið saman við nágrannana, og færri fá þessi leyfi en vilja. Af þessum ástæðum hefur skýlaust myndazt þarna rentusækni, og gegn slíku ber að beita markaðsráðum, þ.e. útboði á starfsleyfum, t.d. til 25 ára, sem megi ganga kaupum og sölum á tímabilinu með forkaupsrétti hins opinbera. Rekstrarleyfin ættu að þurfa endurnýjunar við árlega í ljósi þess, hversu miklar kröfur er nauðsynlegt að gera til rekstraröryggis eldiskvíanna.
- Úthlutun virkjanaleyfa er annað dæmi um úthlutun takmarkaðrar auðlindar, þar sem meiri eftirspurn er en framboð. Um vatnsorkuver hefur Hæstiréttur nýlega dæmt, að vatnsréttindin myndi andlag fasteignagjalda. Viðkomandi sveitarfélag vill beita hæsta taxta í gjaldskrá sinni, en virkjunarfyrirtækið móast því miður við. Með úrskurði dómstóla kemst þannig auðlindarenta vatnsorkuvera á hreint, og mun auðlindagjaldið renna til viðkomandi sveitarfélaga samkvæmt þessu, eins og önnur fasteignagjöld. Fyrir jarðhita í þjóðlendum eða á öðrum svæðum, sem eru utan einkaeignarlanda, þarf að meta verðmæti jarðgufunnar eða heita vatnsins til að reikna út auðlindarentuna. Nú er enginn virðisaukaskattur af jarðhita, en raforkan er í lægra þrepinu. Eðlilegast er að hafa hana í núllflokki VSK til að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja og mynda mótvægi við hækkanir út af auðlindagjaldi.
Dæmi um úthlutun hefðbundinna auðlinda:
- Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur verið eitt heitasta umræðuefni stjórnmálanna í heilan mannsaldur hérlendis. Umræðan hófst í kjölfar "Svörtu skýrslunnar" 1977, þar sem Hafrannsóknarstofnun birti varnaðarorð sín um, að sóknin í þorskstofninn væri ósjálfbær. Fljótlega varð ljóst, að draga yrði úr sókninni til að vernda stofnana, og spurningin var aðeins um, hvernig það yrði gert. Í desember 1983 lagði þáverandi sjávarútvegsráðherra, Halldór Ásgrímssson, fram frumvarp um úthlutun aflahlutdeilda 1984 á skip á grundvelli veiðireynslu síðustu þriggja ára á undan. Var til einhver sanngjarnari leið til þessarar úthlutunar ? Hún var í eðli sínu þannig, að þó að yfirvöld stæðu frammi fyrir ósjálfbærum sjávarútvegi með miklum taprekstri vegna allt of mikils sóknarþunga í stofna á undanhaldi, þá ýttu þau engum út af miðunum, heldur létu markaðsöflin um það. Þannig hafa núverandi útgerðarmenn keypt yfir 90 % af sínum aflahlutdeildum, og skiptir þá auðvitað engu, þótt einhverjir hafi fengið skuldalækkun hjá bönkum til að geta haldið starfsemi sinni áfram. Það ríkir frjáls markaður með aflahlutdeildir á Íslandi, og afurðirnar eru seldar á frjálsum markaði, oftast í harðri samkeppni við niðurgreiddan sjávarútveg á erlendum mörkuðum. Af þessum sökum er engin rentusækni í íslenzkum sjávarútvegi samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu, og þar af leiðandi er þar enga auðlindarentu að finna. Þetta er hægt að staðfesta hagfræðilega með því að leita til rits Hagstofunnar, "Hagur veiða og vinnslu 2014", sem var sjávarútveginum hagfelldara ár en árin tvö á eftir. Þar kemur fram, að arðsemi eigin fjár útgerðarinnar nam 13 %, sem að teknu tilliti til áhættu fjárfestingar er sízt meiri en í öðrum atvinnugreinum á Íslandi. Hitt er annað mál, að útgerðarmenn eiga íslenzka ríkinu mikla þökk upp að inna fyrir að hafa gert þeim kleift að reisa starfsemi sína úr öskustó til sjálfbærni með innleiðingu núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis. Þar af leiðandi er siðferðisgrundvöllur fyrir því, að þeir létti fjárhagslega undir með ríkinu við fjárfestingar stofnana ríkisins, sem aðallega þjóna sjávarútveginum, t.d. Landhelgisgæzlunni, Hafrannsóknarstofnun og Hafnasjóði, með því að stofna sjávarútvegssjóð, og þangað renni 2 %-5 % af verðmætum óslægðs afla upp úr sjó, háð gengisvísitölu.
- Annað kerfi, sem reynt hefur verið við úthlutun fiskveiðiheimilda, er s.k. "uppboðsleið". Hún er fólgin í því, að ríkið aflar sér eignarréttar á hluta veiðiheimildanna og býður þær síðan upp. Ríkið ræður núna yfir rúmlega 5 % allra veiðiheimilda og getur þar af leiðandi gert tilraunir með "uppboðsleiðina", ef sæmileg sátt verður um það á meðal hagsmunaaðilana, en að öðru leyti þyrfti að fara s.k. fyrningarleið. Á Íslandi er þetta mjög torsótt leið, af því að ólíklegt er, að útgerðarmenn vilji láta afnotarétt af miðunum af hendi við ríkið. Einu gildir, hvort um aukningu aflaheimilda til núverandi útgerðarmanna er að ræða. Heimildir þeirra hafa áður verið skertar, og þeim ber afnotaréttur á aukningunni líka. Þessi aðferð, "uppboðsleið", hefur verið reynd í nokkrum löndum, t.d. í Eistlandi, og alls staðar hefur verið horfið frá henni jafnharðan aftur. Nú eru Færeyingar að gera tilraunir með þessa aðferð, en þar í landi munu allar fiskveiðiheimildir falla til Landsstjórnarinnar 2018 samkvæmt lögum þar í landi frá 2008. Það eru mjög skiptar skoðanir í Færeyjum um "uppboðsleiðina". Nýlega var boðinn upp kolmunnakvóti í tvígang án þess, að nokkur byði. Það var fyrst, eftir að lágmarksverð hafði verið lækkað mjög, að tilboð bárust, og voru þau ekkert umfram veiðigjöldin, sem verið höfðu. Það er mikil hætta á markaðsmisnotkun í þessu kerfi, t.d. að stórútgerðir bíti fljótlega af sér samkeppni og sammælist að því loknu um lág tilboð. Röksemdin fyrir þessu "ríkisvædda markaðskerfi" er, að "fólkið", þ.e. ríkissjóður, fái meira í sinn hlut af verðmætum auðlindarinnar. Þetta er afstyrmislegt sjónarmið, því að með núverandi fyrirkomulagi hefur tekizt að hámarka virði auðlindarinnar með beintengingu markaðar og veiða og gjörnýtingu aflans. Allt þjóðfélagið nýtur góðs af. Ef á að breyta útgerðarmönnum í leiguliða ríkisins, er það ávísun á gjaldþrot útgerða. Slík þjóðnýting (fyrning aflaheimilda) brýtur í bága við jafnréttissjónarmið til atvinnurekstrar og brýtur á atvinnuréttindum útgerðarmanna og sjómanna, því að atvinna og atvinnutekjur sjómanna munu verða í uppnámi. Af hverju reyna vinstri menn ekki að móta aðrar einfaldari og löglegri leiðir en þessa meingölluðu "uppboðsleið", sem hvorki á hljómgrunn á meðal sjómanna né útgerðarmanna.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2016 | 18:22
Mengunarvaldurinn mikli
Mesta bábilja umræðunnar um íslenzku atvinnuvegina sem mengunarvalda er, að ferðaþjónustan sé umhverfisvænst. Þessu er þveröfugt farið; hún er verst, þegar að er gáð, og kemst upp með það, enn sem komið er, án þess að greiða fyrir tjónið. Lágmark er, að hún greiði fyrir þær mótvægisaðgerðir, sem tiltækar eru. Ofurvöxtur í greininni sýnir, að það er borð fyrir báru hjá henni að hækka verðið til að mæta slíkum umhverfiskostnaði, enda er fátt um fína drætti hjá ferðamönnum, þegar kemur að staðkvæmni fyrir Ísland.
Landnotkun ferðaþjónustunnar, eins og hún er nú rekin á Íslandi, má víða kalla áníðslu, sem fer jafnvel ver með landið en ofbeit sauðfjár og hrossa. Nú mótar loksins fyrir vitrænum tillögum til að stemma stigu við átroðslunni, þ.e. að landeigandi og/eða umráðaaðili lands taki bílastæðagjald, sem standi undir uppbyggingu aðstöðusköpunar og þjónustu á staðnum. Þessi aðferð felur í sér möguleika á að stjórna fjöldanum með verðlagningu, eins og víða er gert.
Það er líka eðlilegt að taka gistináttagjald, sem renni að mestu leyti til viðkomandi sveitarfélags, því að meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. skólps, frá 2,0 M ferðamönnum, lendir á sveitarfélaginu og útheimtir miklar fjárfestingar, ef vel á að standa að hreinsun, svo að úrgangurinn, sem jafngildir úrgangi frá a.m.k. 50 þúsund manna sveitarfélagi, verði ekki stórskaðlegur umhverfinu. Nýlega hefur komið fram, að meðhöndlun skólps hérlendis nær ekki máli og er til skammar, þegar borið er saman við síun skólps á hinum Norðurlöndunum, sem er 50 sinnum öflugri en hér.
Akkilesarhæll ferðaþjónustunnar í mengunarmálum er þó loftmengunin. Það eru um 20 k (þúsund) bílaleigubílar í rekstri hér, sem er tæplega 9 % bílaflotans, og erlendir ferðamenn eru stærsti viðskiptamannahópurinn. Þessum bílum er ekið margfalt meira en öðrum bílum landsmanna að meðaltali, eða líklega um 100 kkm/ár. Þannig gæti eldsneytisnotkun ferðamannanna á vegum numið um þriðjungi heildareldsneytisnotkunar bílaflotans, sem árið 2015 nam 260 kt, og verið valdur að 6 % losun gróðurhúsalofttegunda án flugs og millilandaskipa.
Þetta stendur þó til bóta vegna umhverfisvænni bíla, aðallega rafbíla, sem senn munu taka við af bílum knúnum jarðefnaeldsneyti. Nú (2015) er innlend olíunotkun 523 kt/ár. Henni er spáð hægt vaxandi fram til 2020, þegar hún gæti numið tæplega 600 kt vegna hagvaxtarins, en eftir það fari hún minnkandi vegna minni eldsneytisnotkunar bílaflotans, fiskiskipaflotans og iðnaðarins.
Árið 2035 gæti olíunotkun á Íslandi (án millilandaflutninga) hafa minnkað um helming niður í 300 kt, sem skiptist þannig:
- bílaflotinn 57 % (nú 50 %)
- fiskiskip 35 % (nú 40 %)
- landb.& iðn.& innanl.fl. 8 % (nú 10 %)
Þessar tölur eru ágizkun blekbónda, og þróun bílaflotans verður vonandi hraðari en þarna er gert ráð fyrir. Allt önnur og verri sviðsmynd er uppi á teninginum, þegar eldsneytisnotkun millilandaflugvéla og -skipa er tekin með í reikninginn.
Árið 2015 nam hún 261 kt eða 33 % af heild. Árið 2025 er þessari notkun spáð 463 kt, sem jafngildir 77 % aukningu á 10 árum og að hún nemi þá 44 % af heildarnotkun Íslendinga á olíuvörum ættuðum úr iðrum jarðar.
Árið 2035 verður notkun millilandaflugvéla og millilandaskipa íslenzkra komin upp í 562 kt samkvæmt spá og er þá orðin 2,15-föld á við notkunina 20 árum fyrr og nemur þá 65 % af heildar jarðefnaeldsneytisnotkun landsmanna.
Megnið af þessu er vegna flugsins og má segja, að þessi mengunarþróun stefni í algert óefni, eins og bezt sést á því, að árið 2035 mun losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt þessari spá nema 100 % af allri núverandi losun Íslands á CO2 jafngildum án millilandaflutninga.
Millilandafluginu ber sjálfu að mynda mótvægi við þessu. Það er t.d. hægt að gera með skógrækt. Setjum sem svo, að millilandafluginu verði gert að mynda mótvægi árið 2035 við allri aukningunni síðan árið 2015, þ.e. mótvægi við 2,7 Mt af CO2 jafngildum. Til þess þarf skógrækt á um 6000 km2 lands. Kostnaðurinn er um 30 Mkr/km2, svo að heildarkostnaður nemur 180 miakr eða 9 miakr/ár. Kostnaðinn má lækka með endurheimt votlendis til að mæta voveiflegri aukningu að hluta, sem er mun ódýrari aðgerð.
Þetta mundi aðeins jafngilda 2-3 kkr/farmiða fram og tilbaka, ef millilendingarfarþegum er sleppt og farþegaaukningunni vindur fram, eins og ferðaþjónustumenn gera skóna, svo að það er alls engin goðgá að láta flugfarþega útjafna kolefnisspor sitt með þessum hætti. Augljóslega stendur ferðaþjónustan í mikilli skuld við landsmenn og heimsbyggðina alla, sem verður fyrir barðinu á hlýnandi loftslagi.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2016 | 22:28
Dillan um stjórnun fiskveiða
Sú meinloka hefur grafið um sig, að í sjávarútveginum íslenzka grasseri rentusækni og að þar sé þess vegna auðlindarentu að finna. Þetta stenzt ekki samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu rentusækni. Rentusækni er hins vegar auðvelt að sýna fram á í ýmsum öðrum atvinnugreinum, sem nýta náttúruauðlindir Íslands, og þar er brýnt að meta auðlindarentuna.
Rentusækni má búast við, þar sem takmarkaðri auðlind er úthlutað af hinu opinbera til útvalinna með hætti, sem mismunar aðilum á markaði. Við upphaf núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis árið 1984 setti ríkisvaldið aflamark, sem skerti afla allra útgerða í þorski o.fl. tegunda í fiskverndarskyni. Hvert skip fékk sína aflahlutdeild, sem reist var á fiskveiðireynslu næstu 3 ára á undan. Viðurkennt er, að þessi úthlutun var málefnaleg í alla staði, enda var enginn þvingaður af miðunum, nema hann treysti sér ekki til að gera út á skertan afla. Erfiðir tímar aflaskerðinga fóru í hönd, og sumir lögðu upp laupana.
Um 1990 var frjálst framsal aflaheimilda heimilað, og síðan þá hafa aflahlutdeildirnar gengið kaupum og sölum og útgerðum fækkað hraðar en áður. Hið opinbera skiptir sér lítið af þessum viðskiptum, og þess vegna má segja, að frjáls markaður sé á afnotaréttinum, sem er eitt form eignarréttar. Á frálagshliðinni ríkir einnig frjáls samkeppni fyrir megnið af afurðunum, þar sem keppt er við niðurgreiddan fisk erlendis. Í flestum öðrum löndum er þess vegna rentusækni í sjávarútvegi annaðhvort vegna úthlutunar hins opinbera á veiðiheimildum eða vegna opinbers stuðnings við markaðssetningu afurðanna, nema hvort tveggja sé. Hvorugu er til að dreifa hérlendis.
Engu að síður má finna fyrir því rök, að sjávarútvegurinn greiði ríkinu gjald fyrir að hafa komið á og viðhaldið sjálfbæru fiskveiðistjórnunarkerfi, sem stjórnað er á hlutlægan hátt samkvæmt ráðgjöf vísindamanna, en þá ætti afgjaldið ekki að renna beint í ríkissjóð, heldur til að kosta þjónustu ríkisins við sjávarútveginn, u.þ.b. 4 % af verðmæti afla upp úr sjó. Það er auðskilin reikniregla og gjald, sem ekki ætti að ríða neinum rekstri á slig, eins og reyndin hefur verið með núverandi vitlausa veiðigjaldakerfi.
Hugmyndafræðingur uppboðsleiðarinnar svo kölluðu, sem blekbóndi leyfir sér að kalla mestu dillu í seinni tíma hagsögu Íslands, Jón Steinsson, hagfræðingur, JS-h, fékk birta eftir sig greinina,
"Færeyingar bjóða upp veiðiheimildir",
í Fréttablaðinu 16. ágúst 2016. Hann hleypur þar herfilega á sig, ef fögnuður hans yfir "árangursríku" uppboði Færeyinga á aflaheimildum í júlí 2016 er borinn saman við mat Jörgen Niclasen, formanns Fólkaflokksins í Færeyjum, JN, sem einnig verður tíundað í þessari vefgrein.
Skoðum nú tilvitnun í grein JS-h, sem vitnar um fljótfærnislega ályktun hans af uppboði Færeyinga á hluta aflaheimilda sinna :
"Það er skemmst frá því að segja, að uppboðin tókust mjög vel. Færeysk stjórnvöld fengu hátt verð fyrir veiðiheimildarnar, ef verðið er borið saman við þau veiðigjöld, sem íslenzkar útgerðir greiða í dag. Fyrir þorskkvóta í Barentshafi fengu Færeyingar að meðaltali 3,42 DKK/kg, sem gera u.þ.b. 62 ISK/kg. Til samanburðar munu íslenzkar útgerðir greiða rúmar 11 ISK/kg í veiðigjald af þorskkvóta á næsta fiskveiðiári. Munurinn er því meira en fimmfaldur.
Færeyingar fengu að meðaltali 3,66 DKK/kg fyrir makrílkvóta (u.þ.b. 66 ISK/kg). Til samanburðar verður veiðigjald á makríl á Íslandi einungis 2,78 ISK/kg á næsta fiskveiðiári."
Hrifning JS-h hlýtur að stafa af háum hlut landssjóðsins í Færeyjum af afurðaverði sjávarútvegsins, en þeirri hrifningu má líkja við ánægjuna af að míga í skóinn sinn berfættur í frosti. Þessi hlutur landssjóðs er óeðlilega hár m.v. venjulegar rekstrarforsendur fyrirtækja, eins og sýnt verður dæmi af. Þetta verð á aflaheimildum er ósjálfbært, enda varð engin nýliðun í greininni við þetta uppboð. Aflaheimildirnar hrepptu örfá fjársterk fyrirtæki og mest lenti hjá fyrirtæki, sem talið er vera leppur Hollendinga, sem vantar afla fyrir vinnslu sína í Hollandi.
Þetta er ófögur mynd af niðurstöðunni, sem stingur í stúf við fagnaðarlæti JS-h, en hvað hefur málsmetandi Færeyingur um málið að segja ? Börkur Gunnarsson birti 24. ágúst 2016 frétt í Morgunblaðinu um uppboð Færeyinga með fyrirsögninni,
"Enginn í Færeyjum ánægður með uppboðið".
Þar var á ferð viðtal við fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja, Jörgen Niclasen:
""Engum í Færeyjum finnst þetta uppboð á kvóta hafa tekizt vel", segir Jörgen Niclasen, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og núverandi formaður Fólkaflokksins, sem kom í stutta heimsókn til Íslands á dögunum. "Þetta er búið að vera algjörlega misheppnað. Allt í lagi að hafa gert tilraun, en þessi tilraun mistókst algjörlega.
Það, sem boðið var upp, var aldrei meira en 10 % af kvótanum. Þetta voru 10 kt af makríl, 5 kt af síld, 25 kt af kolmunna og 3 kt af botnfiski í Barentshafi. Þetta uppboðsdæmi hljómar kannski vel á pappír, en í framkvæmd var það gripið glóðvolgt af raunveruleikanum og afhjúpað.
Draumur fólks um, að aðrir en stóru fyrirtækin kæmust að, reyndist vitleysa; á uppboðinu fengu þeir stóru allt. Þeir, sem hafa efni á því að tapa. Draumurinn um að fá rétt verð reyndist rugl. Verðið var of hátt, og aðeins þeir risastóru, sem vilja halda bátunum sínum gangandi, fengu kvóta. Eitt fyrirtæki keypti 65 % kvótans. Það fyrirtæki er með augljós tengsl við fjársterka aðila í Hollandi." .....
"Þannig að þú mælir ekki með uppboðsleiðinni ? Ég held, að þú getir ekki fundið nokkurn mann í Færeyjum, sem finnst það góð hugmynd. Við vorum með 6 uppboð á þessu ári. Ef við höldum þessu mikið lengur áfram, þá mun færeyskur sjávarútvegur staðna og erlend fyrirtæki taka útveginn yfir.""
JS-h og kumpánar eru sem sagt gripnir glóðvolgir í bælinu með einskis nýta hugmyndafræði sína, sem eftir þetta hlýtur að eiga formælendur fáa, þó að kaffihúsasnatar muni vafalaust hampa henni áfram. Hér höfum við, "directly from the horse´s mouth", þ.e. frá fyrstu hendi, að öll varnaðarorð hérlendra manna við "uppboðsleið aflaheimilda" voru á rökum reist og að þau hafa hlotið staðfestingu í reynd hjá frændum okkar, Færeyingum. Það sýnir firringu stjórnmálanna, að hérlendis skuli a.m.k. 3 stjórnmálaflokkar, Samfylking, Píratahreyfingin og Viðreisn, hafa tekið upp þá glórulausu stefnu að innleiða þessa aðferð í stað aflahlutdeildarkerfisins á Íslandi. Vonandi verður þeim refsað vægðarlaust í kosningunum.
Í viðtali Fiskifrétta við Árna Bjarnason, forseta Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, og Valmund Valmundsson, formann Sjómannasambands Íslands, þann 25. ágúst 2016, kemur fram, að "Samtök sjómanna og skipstjórnenda leggjast alfarið gegn hugmyndum um uppboðsleið á aflaheimildum og telja þá leið vega að starfsöryggi sjómanna og hagsmunum þjóðarinnar".
Þarf frekari vitnana við um það, að boðskapur uppboðsleiðarinnar er gjörsamlega úr tengslum við vinnandi fólk og heilbrigða skynsemi í landinu, grasrótina, sem stundum er kölluð ?
Árni Bjarnason segir:
"Það alvarlegasta við þessar hugmyndir er, að yrðu þær að veruleika, byggju sjómenn í fyrsta sinn í sögu fiskveiða við Ísland ekki við neitt atvinnuöryggi. Þeir gætu aldrei vitað, hvort þeirra útgerð fengi heimildir eður ei. Það felst í þessum hugmyndum ámælisvert virðingarleysi fyrir sjómönnum. Píratar vilja innkalla allar aflaheimildir. Það eru vissulega nokkur hundruð útgerðir á Íslandi, en hverjir myndu ráða við að kaupa aflaheimildirnar á uppboði ? Það yrðu stærstu fyrirtækin, og um leið yrði atvinnuöryggi fleiri hundruð sjómanna í veði sem og útgerðarfyrirtækja. Þetta er bara lýðskrum fyrir kosningar. Það vantar mikið upp á, að hægt sé að taka málflutning af þessu tagi alvarlega, og ég trúi því ekki, að fólk kjósi svona lagað yfir sig."
Þetta er hverju orði sannara, og skýr afstaða Árna og Valmundar sýnir svart á hvítu, að þeir standa báðum fótum á jörðinni eða öllu heldur á þilfarinu. Varla dirfist nokkur með viti að halda því fram, að þessir tveir menn hafi ekki full tök á viðfangsefninu, sem hér er til umræðu. Málflutningur þeirra sýnir, að þeir hafa krufið málið til mergjar og komizt að þeirri skýru niðurstöðu, sem þessi blekbóndi er algerlega sammála, að uppboðsleið við fiskveiðistjórnun mundi setja afkomu og lifibrauð bæði sjómanna og útgerða í fullkomið uppnám, og hún er þess vegna einfaldlega þjóðhagslega skaðleg og sjávarútveginum og þar með efnahag landsins stórhættuleg.
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, greindi í Fiskifréttum 18. ágúst 2016 kostnað við að koma makríl til viðskiptavinar, og greiðslugetu veiðigjalds/uppboðs:
- Skilaverð á sjófrystum makríl frá Íslandi er núna um 122 kr/kg.
- Frá því dragast laun sjómanna: 44 kr/kg
- Síðan fara í olíu: 16 kr/kg
- Í veiðarfæragjald og viðhald: 20 kr/kg
- Annar kostnaður (tryggingagjöld, sölukostnaður, löndun, flutningar o.fl.): 18 kr/kg
- Afgangurinn er framlegðin upp í fasta kostnaðinn (vextir, afskriftir, fjárfestingar og arður): 24 kr/kg = 20 %.
"Þessi útreikningur er byggður á reikniformúlum Hagstofunnar. Hvar á þá að taka 66 kr/kg veiðigjaldið, spyr framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar og bætir við, að þetta sé auðvitað glórulaust dæmi."
Ef Vinnslustöðin hefði boðið 66 kr/kg fyrir makrílkvóta, eins og gert var í Færeyjum, þá hefði önnur veiði og verkun en á makríl augljóslega orðið að standa undir þeim kaupum. Til skemmri tíma geta stór og fjölbreytt fyrirtæki e.t.v. stundað slíkt, þó varla, ef heimildir í öðrum tegundum eru rifnar af þeim. Svona yfirboð eru óeðlilegir viðskiptahættir og aðeins stundaðir, ef önnur sjónarmið en góð og gild viðskiptasjónarmið ráða ferðinni, t.d. að bíta af sér samkeppni veikari fyrirtækja. Með þessu væri hið opinbera að breyta útgerðarmönnum í þurfalinga, leiða sjúkt hugarfar og óeðlilega viðskiptahætti til öndvegis í íslenzkum sjávarútvegi og gegn þessu ber að berjast með kjafti og klóm, því að þetta mun leiða til gömlu bæjarútgerðanna áður en lýkur með viðvarandi taprekstri og niðurgreiðslum til sjávarútvegsins og jafnvel gengisfellingum hans vegna, eins og í gamla daga. Félegt a´tarna, eða hitt þó heldur.
Hugmyndafræðingur uppboðsleiðarinnar, téður JS-h, tjáir sig með eftirfarandi hætti um fyrirætlanirnar:
"Í því sambandi er vert að minna á, að flestir, sem tala fyrir uppboði á veiðiheimildum á Íslandi telja einmitt skynsamlegt, að kerfisbreytingin eigi sér stað hægt og bítandi yfir nokkurra ára skeið með þeim hætti, að 10 - 20 % af veiðiheimildum hverrar tegundar séu boðnar út ár hvert til 5 eða 10 ára. [Þetta þýðir, að á 5 til 10 árum færi eignaupptakan fram, og öllum útgerðarmönnum yrði í raun breytt í leiguliða ríkisins, þar til þeir gæfu reksturinn upp á bátinn. Útgerð reist algerlega á leigukvóta hefur hvergi þrifizt, og umgengni við auðlindina mundi versna, því að skammtímasjónarmið mundu taka völdin við veiðarnar. Leigugjaldið mundi lækka frá því sem nú er, því að í stað þess að afskrifa kvótakostnaðinn á löngum tíma, eins og aðrar óforgengilegar eignir (sjálfbær lífmassi í sjónum), þá þyrfti að afskrifa leigukvótann á 5 - 10 árum. Kvótaverðið mundi þess vegna lækka, en það mundi kaupgeta leiguliðanna gera líka, og það er misskilningur hjá JS-h, að þetta mundi eitthvað "bæta stöðu nýliða og minni útgerða á Íslandi", eins og hann skrifar í tilvitnaðri grein, því að rekstrargrundvöllur hyrfi. Innsk. BJo]
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.8.2016 | 14:26
Stjórnmálamaður í sporum Don Kíkóta
Fyrir daga aflahlutdeildarkerfisins, sem Alþingi samþykkti og sett var á laggirnar árið 1984, voru veiðar að mestu leyti frjálsar á Íslandsmiðum. Endanleg viðurkenning fékkst á 200 sjómílna lögsögu Íslendinga árið 1976, og þá hurfu erlendir togarar að mestu af Íslandsmiðum, og íslenzka ríkið gat farið að stjórna veiðunum að eigin vild. Mátti það ekki seinna vera, því að 1982-1984 hrundi þorskveiðin úr 460 kt í 280 kt, líklega vegna ofveiði.
Það er út af fyrir sig æskilegast að hafa veiðar frjálsar, eins og verið hafði frá alda öðli, en veiðigetan var orðin langt umfram þol veiðistofnanna, og þá var ekki um neitt annað að ræða til að vernda viðgang lífríkis í sjónum og til að bjarga afkomu sjávarútvegsins og þar með lífskjörum í þessu landi en að innleiða stranga takmörkun á veiðunum.
Hvernig átti að gera þetta ? Um það urðu heitar umræður á árunum 1979-1983. Uppboð aflaheimildanna hefði misheppnazt. Vart hefði nokkur útgerðarmaður haft efni á að bjóða í aflaheimildirnar, því að allar útgerðir voru reknar með tapi og skuldastaðan erfið. Staðan á þessum tíma var sú, að aflaheimildirnar voru verðlausar fyrir útgerðirnar, sem hengu á heljarþröm. Einhverjir aðrir hefðu þó hugsanlega boðið í heimildirnar og leigt þær útgerðarmönnunum. Hvernig hefðu sjávarbyggðirnar farið út úr því ? Mörg þorp og bæir gætu þá hafa misst lífsbjörgina.
Rætt var um innleiðingu sóknarmarks sem aðalstjórnkerfis, en það var horfið frá því, enda meiri hætta og álag á sjómenn og landvinnslufólk fólgið í því og skipulag markaðssetningar illmöguleg af því að aflabrögð voru ófyrirsjáanleg og stöðugleiki vöruafhendingar lítill. Sóknarkerfið hefur leitt til hruns hrygningarstofns þorsks í lögsögu Færeyinga niður í 20 kt, og þeir komast ekki með tærnar, þar sem Íslendingar hafa hælana í verðmætasköpun á hvert aflakg, eins og fram kemur í Morgunblaðsgreininni, "Samhengi hlutanna - af uppboðsraunum Færeyinga", þann 11. ágúst 2016, eftir Kristján Þórarinsson og Steinar Inga Matthíasson.
Kerfið, sem ofan á varð hérlendis, aflahlutdeildarkerfi með frjálsu framsali aflahlutdeilda og virðisaukandi keðju frá skipi til markaðar, er þjóðhagslega hagkvæmasta kerfið, sem völ var og er á. Þetta er staðreynd, sem vert er að draga fram í ljósi samanburðar við önnur lönd með annars konar fyrirkomulag.
Kvótakerfinu var komið á til að bjarga veiðistofnunum og útgerðunum frá hruni. Innleiðingin var fullkomlega málefnaleg, þar sem aflahlutdeild á skip var ákvörðuð á grundvelli veiðireynslu 3 undanfarandi ára. Engum var gert að hætta veiðum þá, en allir bjuggu þó við skertan kost, því að aflamark í helztu tegundum snarlækkaði samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar. Útgerðirnar voru allt of margar og veiðiskipin allt of mörg, til að þær gætu allar lifað af við þessar aðstæður, enda var reksturinn mjög misjafn, og margir lögðu upp laupana, einkum eftir að frjálsa framsalið var leyft um 1990.
Yfir 90 % aflahlutdeildanna hafa frá innleiðingu kvótakerfisins verið seldar og keyptar af öðrum útgerðum, gömlum og nýjum. Útgerðum og veiðiskipum hefur fækkað mikið, og var það einmitt hlutverk kvótakerfisins frá byrjun að láta markaðinn sjá um fækkunina, því að skip og útgerðir voru einfaldlega allt of margar til að nokkur rekstrargrundvöllur væri í sjávarútveginum á sama tíma og leyft aflamark minnkaði.
Á árunum fyrir kvótakerfi, 1980-1983, var meðalframlegð þorskveiða aðeins 7 %, þótt þorskaflinn hafi farið í hæstu hæðir, t.d. 450 kt árið 1981. Á fyrstu árum kvótakerfisins nam framlegðin (EBITDA) 15 % og meðalþorskafli um 330 kt/ár. Frá upphafsári frjáls framsals aflahlutdeilda, 1991, og til 2007 var meðalframlegðin 20 % og meðalþorskafli um 220 kt/ár, og 2008-2014 náði framlegðin 28 %, og meðalþorskaflinn var um 170 kt/ár. Þetta sýnir gríðarlega góðan hagrænan árangur kvótakerfisins, sem auðvitað hefur gagnazt þjóðarbúinu öllu og bætt hag almennings. Það hefur ekki verið sýnt fram á það með skilmerkilegum hætti, að nokkurt annað fyrirkomulag við stjórnun fiskveiðanna skili þjóðarbúinu meiri búbót og tryggi um leið sjálfbæra nýtingu veiðistofnanna.
Nú er verð á aflahlutdeildum (veiðikvótum) hátt, og þess vegna eiga nýliðar vissulega erfitt uppdráttar, og stjórnmálamenn af verri sortinni reyna óspart að sá fræjum öfundar og óánægju með fiskveiðistjórnunarkerfi í þann jarðveg. Því er haldið fram, að auknar greiðslur útgerðarmanna fyrir veiðiheimildir í ríkissjóð, t.d. með uppboðum, gagnist almenningi betur. Þetta er tóm vitleysa. Hvers vegna ætti ofurskattlagning á sjávarútveg að gefast almenningi betur en önnur ofurskattlagning á atvinnurekstur ?
Nýr formaður Samfylkingarinnar, Oddný Harðardóttir, OH, starfar eftir 130 daga áætlun, sem virðist ætla að koma Samfylkingunni undir 5 % þröskuldinn, enda er hún greinilega harðákveðin í því að eyða kröftum sínum í vonlaus verkefni, sem útilokað er, að bætt geti hag almennings með nokkrum hætti. Minnir hún að þessu leyti á vindmylluriddarann sjónumhrygga frá 17. öld. Öðru þessara hugðarefna sinna lýsir hún í Morgunblaðsgrein, "Ávinningur af útboði veiðiheimilda",
þann 6. ágúst 2016. Hitt vindmyllumálið hennar er, að þjóðin kjósi um aðildarviðræður að ESB. Vesalings nýi formaðurinn er 7 árum of sein með þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, því að sumarið 2009 felldi hún á Alþingi tillögu frá sjálfstæðismönnum um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvort sækja ætti um aðild að ESB eður ei. Hefði hún betur samþykkt þá tillögu í stað þess að ana út í mestu hrakfallasögu íslenzkra utanríkismála á lýðveldistímanum. Hverjum dettur það eiginlega í hug, eftir að brezka þjóðin ákvað úrsögn Bretlands úr ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu 23. júní 2016, að Íslendingar hafi minnsta áhuga fyrir samningaviðræðum nú um aðild landsins að Evrópusambandinu ? Halló, er einhver heima ? Ætli vanti ekki ein 92 % upp á almenna dómgreind þarna á sama tíma og fylgi flokksins mælist 8 % ?
Nú skal vitna í téða grein OH:
"Samfylkingin hefur lengi barizt fyrir útboði [ekki uppboði ? - innsk. BJo] veiðiheimilda. Sú aðgerð ein og sér færir samfélaginu réttlátari [1] hlut í auðlindaarðinum og gerir nýliðun [2] í greininni mögulegri. Í dag er staðan þannig, að eigandi auðlindarinnar, þjóðin sjálf, fær aðeins um 10 % af arðinum, en útgerðarmönnum er leyft að ráðstafa 90 % hlut [3]. Það hallar verulega á okkur eigendur auðlindarinnar, og það mun ekki nást um kerfið, á meðan svo er."
Hér er heldur betur fiskað í gruggugu vatni, og hugtakaruglingurinn er í algleymi:
- Hvaða réttlæti felst í því að rífa keyptar aflahlutdeildir af fyrirtækjum með eignarnámi (stríðir gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti) og færa þær "sófaútgerðarmönnum" á silfurfati ? Þar er sósíalismi andskotans að verki og verður aldrei leyfður af dómstólum. Þegar af þeirri ástæðu er allt þetta uppboðshjal út í loftið og líkist mest baráttu Don Kíkóta við vindmyllurnar; gjörsamlega gagnslaust.
- Nýlega fór fram uppboð á nokkur þúsund tonnum (um 10 %) af veiðiheimildum í Færeyjum,sjá vefgreinina "Misheppnuð uppboðshugmynd" (tengill til hliðar undir "nýjustu færslum) hér á vefsetrinu, frá 3. ágúst 2016. Þar varð alls engin nýliðun, enda hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug, að uppboðsleið sé vel fallin til nýliðunar. Í Færeyjum hrepptu fjársterkir útlendingar allar veiðiheimildarnar, sem í boði voru. Þetta kerfi er sniðið fyrir auðvaldið á Evrópska efnahagssvæðinu. Innan þess er mismunun í útboðum eða uppboðum óheimil eftir þjóðernum. Þær reglur ESB er ekki hægt að taka úr sambandi, þegar skylt er að bjóða út á öllu EES, sem er, þegar vænt tilboðsfjárhæð er yfir tilteknum mörkum, og verður þá ekki unnt að beita "salami-aðferðinni" í blekkingarskyni. Með uppboðskerfinu munu aflaheimildir safnast hratt á fjársterkustu útgerðirnar, og við munum sitja uppi með "nokkrar Þorlákshafnir" eftir hvert uppboð. Hinir stóru munu verða enn stærri enn hraðar en nú, og hinir minni, einnig þeir, sem nú starfa á heilbrigðum rekstrargrundvelli, munu fljótt missa fótanna vegna skertra aflaheimilda. Hér er um útfærslu á "fyrningarleiðinni" að ræða, sem svo sannarlega má kenna við "sósíalisma andskotans".
- Hvernig í ósköpunum kemst OH að þessari reikningslegu niðurstöðu ? Samkvæmt Fiskifréttum 15. október 2015 voru arðgreiðslur í sjávarútvegi árið 2014 taldar vera 13,5 miakr, en opinber gjöld, tekjuskattur, veiðigjöld og tryggingagjald, námu þá 22,9 miakr. Af þessari upphæð námu veiðigjöld 35 %. Samkvæmt kokkabókum blekbónda skiptast ávöxtun fjármagnseigenda og gjöld til ríkisins í hlutföllunum 37 % : 63 %, en ekki 90 % : 10 %, eins og "reikningskennarinn" fær út. Hún gerir sig seka um hugtakarugling og slær fram bölvaðri vitleysu til að sá fræjum óánægju og öfundar.
Hvað skyldi nú virtur lögfræðingur hafa um uppboð veiðiheimilda að segja. Haukur Örn Birgisson, hæstaréttarlögmaður, skrifaði 27. ágúst 2015 á Sjónarhóli Morgunblaðsins, "Sjóræningjar í sjávarútvegi". Hann kallar aðferðina þar reyndar stefnu pírata, sem kemur heim og saman við mat Össurar Skarphéðinssonar, að enginn munur sé á stefnu pírata og samfylkinga. Hefur ruglandi stjórnarandstöðunnar þar með náð nýjum hæðum, enda er hún með óframkvæmanlega stefnu skýjaglópa, sem ómögulegt er að fá botn í:
"Aftur að stefnu Pírata. Meðal annars kveður hún á um, að ríkið eigi að bjóða aflaheimildir til leigu á opnum markaði, og skuli leigugjaldið renna í ríkissjóð. Þetta felur í sér upptöku núverandi aflaheimilda af hálfu ríkisins, svo að ríkið geti boðið upp heimildirnar til leigu á opnum markaði. Stefnan ber ekki með sér til hversu langs tíma aðilar á markaði fái heimildirnar leigðar, en líklega er það eitt fiskveiðiár í senn. Þá er spurningin, hvort jafnræðisregla Pírata feli það í sér, að allir ríkisborgarar á EES-svæðinu, t.d. Spánverjar, megi taka þátt í opnu uppboði aflaheimilda í krafti markaðsforsendna og fái í kjölfarið að veiða fiskinn við strendur landsins. [Ríkið hættir á að verða kært af ESA og dregið fyrir EFTA-dómstólinn fyrir mismunum. Það hefur þá gert eignarnám hjá íslenzkum fyrirtækjum til að afhenda eignirnar auðvaldinu í ESB. Er þetta ekki í stíl við lágkúruna og undirlægjuhátt vinstri stjórnarinnar 2009-2013 gagnvart ESB í Icesave-deilunni ? - innsk. BJo]
Í þessu sambandi er einnig rétt að velta fyrir sér, hver sé reynsla þeirra aðila, sem hafa byggt útgerð sína alfarið á leigu aflaheimilda. Reynslan hefur sýnt, að ekki er rekstrargrundvöllur fyrir slíkri útgerð, enda hafa viðkomandi aðilar enga tryggingu fyrir því, að þeir hafi aflaheimildir á hverju ári, og á hvaða verði þeir fái þær. [Útgerðir, sem verða undir í uppboðunum og missa kvóta, munu missa rekstrargrundvöll og hin smærri fara fljótlega á hausinn. Hin munu lækka tilboð sín, þegar þau verða búin að bíta af sér samkeppnina. - innsk. BJo].
Þá má benda á, að þeir, sem alfarið byggja á leigukvóta, hafa ekki sömu hvata til góðrar umgengni um fiskistofnana og þeir, sem hafa fjárfest í aflahlutdeildum. Sterkur grunur er t.d. fyrir því, að aðilar, sem hafa stundað slíkan rekstur, hafi stundað brottkast á fiski í stórum stíl. [Það er alþjóðlega viðurkennt, að bezta og skilvirkasta leiðin til sjálfbærrar nýtingar á lifandi auðlindum er innleiðing einkaeignarréttar á henni, eins og er kjarninn í íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu. - innsk. BJo].
Þá blasir við, að veiking starfandi útgerða, og fjölgun þeirra, sem byggja á ótraustum rekstri með leigu aflaheimilda af ríkinu á frjálsum markaði, styrkir ekki byggð í landinu. [Eitt helzta ádeiluefnið á kvótakerfið hefur verið frjálst framsal aflaheimilda, þó að ljóst sé, að það hefur stuðlað mest að hagræðingu og þar með treyst afkomu fyrirtækjanna og þar með atvinnuöryggi í flestum tilvikum. Á frjálsum markaði verða þó sum fyrirtæki undir í samkeppninni, og það hefur komið, a.m.k. tímabundið, niður á ákveðnum þorpum og bæjum, en með "uppboðsleiðinni" á að fjölga fórnarlömbunum til muna, og fyrir hinar dreifðu byggðir landsins þýðir það, að þær munu fara úr öskunni í eldinn. Nú eru t.d. útgerðir með aflahlutdeild í þorski um 400 talsins. Þær munu missa spón úr aski sínum til ríkisins samkvæmt "uppboðsleiðinni", e.t.v. 15 % á ári. Setjum svo, að 10 "uppboð" verði haldin á þessum tæplega 40 kt/ár, þá gætu setið eftir 390 "fórnarlömb" kvótaskerðingar, og 15 % skerðing á einu ári getur riðið sumum þeirra að fullu, hvað þá 30 % á tveimur árum. - innsk. BJo].
Við bætist, að leigukvóti mun engan veginn stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskistofna við Ísland, treysta atvinnu og byggð í landinu, hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni eða stuðla að því, að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrar- og lagaumhverfi. Það má því færa sterk rök fyrir því, að stuðlað sé að miklum skammtímasjónarmiðum með ríkis- eða markaðsleigunni. [OH virðist halda, að almannahagur sé bættari með skammtímaávinning ríkissjóðs af sjávarauðlindinni en hámörkun þjóðhagslegs ávinnings af sömu auðlind til langs tíma litið. Þetta er grundvallarmisskilningur hjá henni, eins og hagfræðingar hafa margsannað, að með hverri krónu, sem fær að fljóta um hagkerfið án viðkomu hjá hinu opinbera, eru sköpuð mun meiri verðmæti, jafnvel tvöföld, en hið opinbera er fært um að gera. Þar með stækka skattstofnar, og tekjur hins opinbera vaxa með sjálfbærum hætti við tiltölulega lága skattheimtu. - innsk. BJo].
"Uppboðsleiðin" er einhver skaðlegasta hugmynd um fyrirkomulag í athafnalífinu, sem nokkur stjórnmálaflokkur hefur sett á oddinn hérlendis á lýðveldistímanum. Hún leysir ekkert vandamál, en skapar fjölmörg ný. Hún felur í sér hrikalegt brot á stjórnarskrárvörðum atvinnuréttindum og eignarréttindum. OH heldur, að með því að hefja uppboðin með kvótaaukningu, sem t.d. er búizt við í þorski, þá brjóti hún minna af sér gagnvart útgerðum í landinu. Í þessu sjónarmiði felst í senn mikil ósanngirni gagnvart þeim og mikill misskilningur.
Ósanngirnin felst í því, að hefðbundnar þorskútgerðir hafa tekið á sig í mörgum tilvikum um 20 % skerðingu aflaheimilda, sem þær keyptu á sínum tíma. Þegar séð er fram á svo góðan árangur verndunarstarfsins, að hægt sé að bæta útgerðunum upp tap aflahlutdeilda sinna, þá hótar OH að þjóðnýta þessar viðbætur frá ári til árs. Útgerðarmenn eru með öðrum orðum nógu góðir til að taka skellinn, þegar Hafró ráðleggur að draga úr aflamarki, en ekki nógu góðir til að taka við viðbót, þegar aflamark má hækka. Þetta er jöfnuður OH og sósíalismi andskotans.
Hún mun ekki komast upp með þetta óréttlæti, því að við hækkun ákvarðaðs aflamarks, þá vex hver aflahlutdeild skips sjálfvirkt að sama skapi. Að ganga á þennan rétt, er stjórnarskrárbrot.
Að berjast fyrir "uppboðsleið" er loddaraskapur, þar sem látið er í veðri vaka, að hún gagnist almenningi með því, að ríkissjóður hans fitni. Langtíma kostnaður ríkisins verður hins vegar margfaldur skammtíma ávinningur ríkissjóðs vegna tjónsins, sem þessi atvinnustefna veldur, eins og rakið hefur verið hér, og eftir stendur, að aflaheimildir hafa safnazt á enn færri hendur en ella væri. Með forsjárhyggju ríkisins að vopni geta stjórnmálamenn komið sjávarútveginum á vonarvöl og tryggjt sér um leið aðstöðu til að deila og drottna að hætti gamla tímans. Loddarahátturinn felst í að gera þetta undir merkjum markaðshyggju.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.7.2016 | 10:44
Hnignun Vesturlanda
Forysturíki Vesturlanda, Bandaríki Norður-Ameríku, BNA, er í úlfakreppu. Kynþættirnir eiga þar í stöðugum erjum, þar sem skotvopnum er beitt á báða bóga að hætti kúrekanna, og gríðarleg ólga er undir niðri, svo að ástandið er víða eldfimt, þó að sú sé ekki reglan. Tvímælalaust virðist vera friðsamlegra, þar sem íbúarnir eru einsleitir m.t.t. uppruna.
Þar sem meiri kynþáttaleg einsleitni ríkir, er miðstéttin hins vegar hundóánægð með sitt hlutskipti og sinn skerf af kökunni, en raunlaun miðstéttarinnar hafa litlum breytingum tekið í yfir 25 ár þrátt fyrir framleiðniaukningu og vöxt landsframleiðslu á mann. Tekju- og eignalegur ójöfnuður hefur þannig vaxið í BNA á þessu tímabili, og er það meginskýringin á vinsældum öldungsins, jafnaðarmannsins Bernie Sanders, í forkosningum demókrata og almennri þjóðfélagsóánægju í flestum ríkjum landsins, sem er ný af nálinni í "Guðs eigin landi", landi tækifæranna. Helzt að vaxandi olíu- og gasvinnsla með leirbroti ("fracking") hafi hresst upp á kjörin, þar sem hún hefur verið innleidd.
Þegar þegnarnir fá á tilfinninguna, að ekki séu allir jafnir fyrir lögunum, þá grefur um sig vantraust á yfirvöldum, og skrattinn getur losnað úr grindum. Eitt dæmi um, að ekki er sama Jón og séra Jón varð skömmu eftir þjóðhátíðardag Bandaríkjamanna 2016, er James Comey, yfirmaður alríkislögreglunnar, FBI, gerði grein fyrir rannsókn sinna manna á netþjónsmáli utanríkisráðherrans, þáverandi, Hillary Clinton, en hún lét beina öllum embættisnetpósti sínum um einkanetþjón sinn, sem þá var harðbannað af öryggisástæðum í utanríkisráðuneytinu og er enn, og jafnframt bannaði hún undirmönnum sínum að viðhafa þetta fyrirkomulag. Brot þeirra hefði framkallað tafarlausa brottvísun úr starfi og saksókn. Hvað hafði hún að fela fyrir hinum opinbera netþjóni ? Hér er einbeittur brotavilji á ferð, sem vitnar um meiri dómgreindarskort en svo, að þorandi sé að fela henni embætti forseta Bandaríkjanna, sem hún nú svo ákaft sækist eftir. Donald Trump er strigakjaftur, en hefur hann orðið uppvís að verknaði, sem vitnar um alvarlegan dómgreindarbrest ? Af tvennu illu virðist Donald vera skárri kostur í "sívölu skrifstofuna" (oval office), og líklega nær hann þangað, ef draga má ályktun af gengi beggja í kosningabaráttu.
Í 12 mínútur lýsti Comey miklum ávirðingum á hendur Hillary Clinton á blaðamannafundi, sem sannfærðu áheyrendur um, að FBI mundi kæra hana fyrir þjóðhættulegt hátterni. Comey sneri hins vegar við blaðinu, þegar 3 mínútur voru eftir af ræðunni, með þeirri haldlitlu skýringu, að hann væri ekki viss um, að gjörningurinn hefði verið "að yfirlögðu ráði". Vissi þá Hillary Clinton ekki, hvað hún var að aðhafast með þessu framferði ? Er það ekki sýnu verst, þegar meta á hæfni hennar til að gegna stöðu forseta Bandaríkjanna ?
Bandaríkjamenn hljóta nú að spyrja sig, hvort það hafi áður gerzt, að
"stórkostleg vanræksla samfara yfirgengilegu kæruleysi í umgengni við viðkvæmustu trúnaðarmál þjóðarinnar"
dygðu ekki til ákæru ? Það er augljóslega ekki sama, hver brýtur af sér í BNA, og það hlýtur að draga m.a. þann dilk á eftir sér, að almenningur snúist til varnar og kjósi andstæðinginn, þó að hann sé enginn engill sjálfur. Hætt er við, að pólitískur tilgangur Comeys snúist upp í mikinn og réttmætan æsing yfir því, að allir séu ekki jafnir fyrir lögunum. Gildir þá hið fornkveðna:
"Ef vér slítum í sundur lögin, þá munum vér og friðinn í sundur slíta".
Í Evrópu er fíll í stofunni, sem heitir Evrópusamband, ESB. Fyrirbrigðið verður sífellt óvinsælla í aðildarlöndunum, einkum í kjarnaríkjunum, sem tekið hafa upp evru, því að myntinni er kennt um efnahagslega stöðnun, skuldasöfnun og geigvænlegt atvinnuleysi, einkum á meðal fólks undir þrítugu. Almenningur hefur um hríð tortryggt búra í Brüssel á skattfríum háum launum, sem þurfa ekki að standa kjósendum reikningsskap gjörða sinna og unga út íþyngjandi tilskipunum og reglugerðum og virðast vinna umboðslaust að myndum Sambandsríkis Evrópu, sem á lítinn hljómgrunn á meðal aðildarþjóðanna. Evrópusambandið hefur þannig verið á lestarspori, sem almenningur samsamar ekki sínum hagsmunum. Þetta veldur einnig vaxandi tortryggni almennings í garð ráðandi afla í eigin löndum, sem vinna með Brüssel. Þann 23. júní 2016 fékk almenningur í Bretlandi útrás fyrir óánægju sína og sagði þinginu, þar sem meirihlutinn er samdauna ráðandi öflum í Brüssel, fyrir verkum um að draga Bretland út úr öngþveiti meginlandsins og að taka þess í stað stjórn landsins í eigin hendur, þ.á.m. stjórn á umferð um landamærin.
Mesti ótti forkólfa ESB stafar nú ekki af Rússum, sem þó stunda vopnaskak aðallega til innanhússbrúks, heldur af fordæminu, sem Brexit, útganga Bretlands úr ESB, gefur hinum aðildarþjóðunum. Frakkar og Hollendingar höfnuðu á sinni tíð stjórnarskrá ESB, sem kennd var við franska aðalsmanninn Giscard d´Estaing og átti að varða veginn til eins ríkis. Henni var þá lítillega hnikað til og skírð "Lissabon-sáttmálinn". Hálfkák af þessu tagi og sniðganga meirihlutaviljans mun á endanum verða ESB og sameiningarhugsjóninni dýrkeypt.
Það mun líklega verða krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu í þessum tveimur löndum og víðar um aðildina að ESB að fengnu fordæminu frá Bretlandi. Verði slík atkvæðagreiðsla haldin í þessum löndum, eru meiri líkur en minni á, að "Frexit" og "Nexit" verði samþykkt; svo mikið er vantraustið í garð "elítunnar" - hinna ríkjandi afla á stjórnmála- og fjármálasviði. Kann nú leið Marie le Pen til búsforráða í Elysée-höllinni í París að verða greiðari en verið hefur. Stjórnleysingjar og nýkommar Evrópu mega þá snapa gams.
Svipaða sögu má segja af norðurvængnum, Danmörku, Svíþjóð, og jafnvel Finnlandi, og af suðurvængnum, Kýpur, Grikklandi og Ítalíu. Á Ítalíu hefur enginn hagvöxtur verið í einn áratug, skuldastaða ríkisins er þung (130 % af VLF) og bankakreppa er þar yfirvofandi eftir álagspróf evrubankans í haust. Eina úrræði margra aðildarlandanna er að losa sig við helsið, sem fólgið er í evrunni, jafnvel þótt hún hafi fallið um 10 % gagnvart bandaríkjadal á 2 árum.
Á Íslandi á það einnig við, að almenningur ber takmarkað traust til löggjafarsamkomunnar og stjórnmálamanna og kaupsýslumanna almennt. Íslenzkir stjórnmálamenn voru þó ekki valdir að hruni fjármálakerfisins, heldur fylgdu framan af reglum EES, en þeir tóku þó þveröfugan pól í hæðina 2008, gegn vilja ESB, varðandi endurreisn fjármálastofnana miðað við erlenda stjórnmálamenn, því að í október 2008 samþykkti Alþingi s.k. Neyðarlög, sem björguðu þjóðinni undan þeirri kvöð að ábyrgjast skuldir bankanna, en ríkistryggðu hins vegar innlendar bankainnistæður. Má þakka þessum gjörningi hraðari viðsnúning hérlendis en erlendis eftir fjármálakreppuna 2007-2008, sem hefði verið óhugsandi með landið innan vébanda ESB.
Valdhafarnir í vinstri stjórninni 2009-2013 létu reyndar síðan brezka og hollenzka stjórnmálamenn svínbeygja sig og kúga til að semja samt sem áður um, að íslenzka ríkið gengist í ábyrgð fyrir skuldir íslenzkra banka í þessum löndum. Þetta var ófyrirgefanleg eftirgjöf óþjóðlegra afla til að þóknast lánadrottnum og búrum í Brüssel, en þjóðin hafnaði í tvígang, og eftir situr vantraust almennings. Vinstri stjórnin ætlaði með þessum risaskuldbindingum ríkisins að greiða leið landsins inn í ESB. Það var bæði óþjóðholl og heimskuleg ákvörðun, því að stækkunarstjóri ESB hefði ekki verið í neinum færum til að veita Íslandi afslátt af sáttmálum ESB. Allt, sem Alþingi hefði upp skorið með þessum gerningi, hefði verið stórfelld og langdregin kjaraskerðing almennings á Íslandi. Hrikalegt dómgreindarleysi fylgjenda forræðishyggju og sameignarstefnu í hnotskurn.
Nú síðast hafa uppljóstranir í s.k. Panamaskjölum um geymslu fjár í skattaskjólum orðið tilefni vantrausts almennings í garð stjórnmála- og kaupsýslustéttarinnar. Enn sýndi vinstri stjórnun þýlindi sitt í garð fésýsluaflanna með því að stytta verulega fyrningartíma fjármálaflutninga í skattaskjól fyrir gjaldþrot. Þá setti nú skrattinn upp á sér skottið, þegar Katrín Jakobsdóttir kvað sér og sínum pótintátum bezt treystandi til að fást við skattaskjólin. Það er nú líka betra að hafa eitthvert fjármálavit með í för, þegar leggja á til atlögu við skattaskjólin. Annars verður sú barátta hálfkák eitt, eins og allur hennar ráðherraferill reyndist. Stjórnleysingjum og nýkommum er í engu treystandi.
Hins vegar er allt annað uppi á teninginum í efnahagsmálum Íslendinga nú en allra annarra ríkja Evrópu og reyndar víðast hvar um heiminn. Stöðnun hefur ríkt í Evrópu og víðast hvar annars staðar síðan 2008, en síðan 2011 hefur verið hér þokkalegur hagvöxtur og rífandi gangur síðan 2013, eins og hér verður tíundað. Hið merkilega er, að þrátt fyrir 11 % kaupmáttaraukningu undanfarið ár hefur verðbólgu hérlendis verið haldið í skefjum, þó að Seðlabankinn hafi gert sitt til að auka verðbólguvæntingar með allt of háum verðbólguspám. Þjóðhagslíkön bankans eru meingölluð.
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) spáir því, að árið 2016 verði 4,9 % hagvöxtur hérlendis, sem yrði mesti hagvöxtur síðan 2007, er hann var 9,5 %. Í endurskoðaðri þjóðhagsspá hagdeildar ASÍ, sem birt var 3. maí 2016, segir, að ferðaþjónustan, aukin einkaneyzla og fjárfesting, muni drífa hagvöxtinn áfram næstu ár. Traustar undirstöður sjávarútvegs og iðnaðar, gríðarleg fjölgun erlendra ferðamanna og traust efnahagsstjórn hafa framkallað núverandi velmegun. Á að tefla þessu öllu í tvísýnu með því að kasta perlu fyrir svín og kjósa hér glópa til valda ?
Seðlabankinn hefur það lögbundna hlutverk m.a. að halda verðbólgunni undir 2,5 %/ár, og hefur það tekizt síðan í febrúar 2014, eða í 30 mánuði, þótt í fyrra hafi verið samið um almennar 30 % launahækkanir á vinnumarkaði. Í fyrra jókst líka einkaneyzlan um 4,8 %, og í ár spáir ASÍ 6,0 % vexti einkaneyzlu, sem þýðir að hún nær methæðum ársins 2007. Hagfræðingar ASÍ skrifa:
"Aukin neyzla heimilanna á rætur að rekja til jákvæðrar þróunar efnahgslífsins, þar sem m.a. aukinn kaupmáttur, meiri væntingar, efnahagslegur stöðugleiki og fjölgun starfa hafa gefið heimilum rými til að auka neyzlu sína. Þetta er ólíkt þróuninni fyrir hrun að því leyti, að skuldastaða heimilanna hefur hingað til farið batnandi m.a. vegna skuldalækkunar stjórnvalda og nýtingar séreignarsparnaðar til niðurgreiðslu húsnæðislána."
Samanburður á þessari lýsingu á efnahagsstöðu Íslendinga og t.d. efnahagsstöðunni í ESB-löndunum sýnir svart á hvítu, hvers virði sjálfstæði landsins er, og hversu hárrétt stefna það er hjá núverandi stjórnvöldum landsins að leita ekki inngöngu í ESB.
Þeim mun hlálegra er, að nýstofnaður stjórnmálaflokkur, Viðreisn, hefur það á sinni stefnuskrá að leita inngöngu í þennan klúbb fyrir landsins hönd og leiða "samningaviðræður" til lykta. Það mun koma í ljós nú á næstu mánuðum, hvernig þróun ESB verður eftir Brexit, og hvers konar aukaaðildarkjör, ef nokkur, Bretum munu bjóðast, en af ummælum forystumanna ESB hingað til má ráða, að aðeins sé hægt að vera í ESB og lúta sáttmálum þess í einu og öllu eða að vera utan við. Þetta er í samræmi við það, sem andstæðingar aðildarumsóknar hafa ætíð haldið fram.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)