Færsluflokkur: Fjármál

Fánýti eða framfarir

Alþingiskosningar eru í vændum, ótímabærar að margra mati.  Kjósendur geta virt fyrir sér störf núverandi þingmeirihluta, 2013-2016, og borið þau saman við störf fyrrverandi þingmeirihluta, 2009-2013. Þá blasir við skýr munur og stökk fram á við í lífskjörum og eignastöðu allra tekjuhópa samfélagsins á seinna tímabilinu.  Nægir að nefna samkeppnishæfni landsins og lánshæfismat, skuldastöðu ríkis og sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga, atvinnuþátttöku, atvinnustig og kaupmátt. 

Einnig hljóta kjósendur að hlusta eftir því, sem frambjóðendur til Alþingis hafa fram að færa.  Ekki verður orðum eytt að hinu undirfurðulega loforði Oddnýjar Harðardóttur fyrir hönd Samfylkingarinnar, að ríkissjóður fari nú inn á þá nýstárlegu braut bótagreiðslna að greiða þær fyrirfram.  Líklega tíðkast það hvergi, að fólk fái bætur frá hinu opinbera áður en það öðlast rétt til þeirra.  Hér áttu vaxtabætur í hlut, en hvers vegna ekki ýmsar aðrar bætur og styrki fyrirfram ?  Tíminn er peningar, og það er dýrt að bíða. Þetta er yfirborðslegt og illa ígrundað lýðskrumsloforð, þar sem Samfylkingin sýnir skattgreiðendum lítilsvirðingu.  Þeir hafa komið auga á þann kæk Samfylkingarinnar og ætla að jarðsetja hana án viðhafnar.

Katrín Jakobsdóttir hefur gert traust að einkennismáli sínu fyrir þessar kosningar.  Það er merkilegt, því að hún gengur þar að fiskaminni kjósenda sem gefnu.  Hún varð uppvís að mestu svikum lýðveldissögunnar við kjósendur á síðasta kjörtímabili, þegar hún gegndi stöðu mennta- og menningarmálaráðherra við lítinn orðstír.  Hún hafði fyrir kosningar 2009, þá varaformaður VG, lofað kjósendum því, að hún mundi berjast gegn umsókn um aðild Íslands að ESB. Á meðan hún var með þá lygi á vörunum, voru hún og Steingrímur, þá formaður VG, að semja við SF um ríkisstjórnarmyndun, þar sem kjarninn í samstarfinu var umsókn Íslands með hraðpósti til Brüssel.  Svikahrappurinn er svo ósvífinn að reyna nú að hylja pólitíska nekt sína með voðum, sem á stendur "TRAUST".  Dr Josef Göbbels hefði ekki lagt í jafn mikil öfugmæli í áróðri sínum og þessi, enda koma þau nú sem bjúgverpill í kjöltu Teflon-Kötu.  Dugar teflonhúðin lengur ? Komi á hana rispa, er hún fljót að flagna af.

Þá verður að minnast á haturs-ástarsamband VG-forystunnar við AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.  Fyrir téðar kosningar gerði hún sig breiða og vildi ekkert af AGS vita við stjórn íslenzkra málefna.  Eftir kosningar leiddi hún AGS til öndvegis á Íslandi og reif niður innviði íslenzks samfélags til að þóknast AGS.  Er til nokkuð ómerkilegra í pólitík en Vinstri hreyfingin grænt framboð ?

Teflon-Kata hefur markað sér stefnu fyrir þessar kosningar, sem hún ætlar að framfylgja eftir kosningar, taki hún sæti í ríkisstjórn, sem vonandi verður bið á. Hún fullyrðir, að ójöfnuður hafi aukizt í þjóðfélaginu, og hennar ráð við því er að hækka skatta, líklega bæði beina og óbeina. Þetta er skaðleg aðgerð fyrir almenning, af því að landið verður þá síður samkeppnishæft um dýrt vinnuafl, t.d. háskólafólk og iðnmeistara, hagvöxtur minnkar og þar með vinnuframboð.  Teflon-Kata áformar sem sagt að kasta barninu út með baðvatninu. 

Það sýnir hins vegar vel málefnafátækt VG/Katrínar, að hún hefur tekið alrangan pól í hæðina og að það er hreinn tilbúningur hjá henni eða ímyndun vegna almennrar hagsældar, að ójöfnuður hafi aukizt á meðal landsins barna.  Um þetta eru orð Hagstofu Íslands órækust:

"Litlar breytingar urðu á dreifingu ráðstöfunartekna á milli áranna 2014 og 2015 samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar (tekjuárin 2013 og 2014). Gini-stuðullinn hækkaði lítillega á milli ára, úr 22,7 í 23,6.  Þessi breyting er þó vel innan vikmarka og því ekki hægt að draga þá ályktun, að ójöfnuður hafi aukizt á milli ára. [Téður Gini-stuðull hækkar með auknum tekjuójöfnuði - innsk. höf.]"

Katrín, formaður VG, ætlar samt að nota þessa ómarktæku hækkun Gini sem átyllu til skattahækkana, komist hún til valda.  Ef að líkum lætur, mun slíkt koma niður á framkvæmdum, atvinnutækifærum og verðstöðugleika, því að hún mun ráðast til atlögu við fyrirtækin í landinu, vinnuveitendur, sem þá munu draga úr fjárfestingum, fækka hjá sér fólki og neyðast til að velta kostnaðaraukanum út í verðlagið. Fjandsemi nýrra valdhafa við atvinnulífið getur hæglega valdið verulegri lækkun á gengi ISK, og þar með er verðhækkanaspírallinn, "landsins forni fjandi", kominn í gang, sem allir tapa á, hinir lakast settu mest.

Um afleiðingar skattheimtu ritar Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og frumkvöðull, góða grein í Morgunblaðið 14. október 2016:

"Hádegismaturinn er aldrei ókeypis":

"Flestir fyrirtækjaskattar eru síðan ákveðinn blekkingarleikur, því að fyrirtæki eru bara milliliðir, sem fjármagna skattborgunina í gegnum þá vöru, sem þau eru að selja og neytandinn borgar á endanum fyrir.  Þannig er bankaskatturinn fjármagnaður með hærri útlánsvöxtum, skattur á leigusala er fjármagnaður með hærra leiguverði, og almennur tekjuskattur á fyrirtæki er fjármagnaður með með dýrari þjónustu, á sama tíma og svigrúm atvinnurekandans til að þróa þjónustuna og borga starfsmönnum hærri laun minnkar. 

Á einn eða annan hátt þá endar reikningurinn fyrir örlæti stjórnmálamanna alltaf á launþeganum.  Þegar fjárlögum 2016 er skipt niður á fjölda launþega (191 þúsund), þá blasir við allhrikaleg sviðsmynd:

Í dag kostar hinn "ókeypis" hluti heilbrigðisþjónustunnar okkur um 860 þúsund kr á ári til viðbótar við 20 % eiginframlagið.  762 þúsund kr fara síðan í "ókeypis" almannatryggingar og velferðarmál, og 380 þúsund kr fara síðan í vaxtagjöld fyrir lán, sem stjórnmálamenn hafa tekið."

Gjalda verður varhug við stjórnmálamönnum, sem hafa fátt annað fram að færa en loforð um, að hið opinbera greiði alls kyns kostnað fyrir skattborgarann.  Þá fyrst er efnahag hans hætta búin. Reikningarnir fyrir örlætisgjörninga stjórnmálamanna lenda allir hjá launafólki og öðrum neytendum. Að styðja stjórnmálaflokka örlætisgjörninganna í kosningum mun von bráðar lenda sem bjúgverpill í kjöltu kjósenda.

 

Samkvæmt lífskjararannsóknum Hagstofunnar er jöfnuður lífskjara hvergi meiri innan OECD en á Íslandi.  Hagfræðingar hafa varað við afleiðingum þess að auka hann meira, því að slíkt getur eyðilagt hvata einstaklinga til að sækja fram til bættra lífskjara, t.d. með því að afla sér menntunar.  Ef það er ekki fjárhagslega eftirsóknarvert að afla sér aukinnar þekkingar eftir grunnskólanám, þá mun Ísland dragast aftur úr í lífskjörum, og hér magnast enn skortur á iðnaðarmönnum og háskólamenntuðum sérfræðingum. 

Tveir mælikvarðar á tekjujöfnuð eða öllu heldur ójöfnuð eru Gini-stuðullinn og Fimmtungsstuðullinn.  Sá fyrr nefndi er 0, þegar allir fá sömu tekjur.  Það er hvorki eftirsóknarvert né raunhæft að reyna að koma slíku á, þótt æstustu vinstri sinnar telji það e.t.v. Gini er 100 %, ef einn fær allar tekjur þjóðfélagsins.  Það er argasta ósanngirni og sjúkt samfélag, sem leyfir slíkt.  Margt bendir til, að Gini á bilinu 22 %-25 % henti íslenzka samfélaginu. 

Fimmtungsstuðull, FS, er hlutfall á milli meðaltekna í efsta og neðsta tekjufimmtungi.  Hann er jafnframt lægri á Íslandi en í öðrum löndum (eins og Gini): 

  • Ár      Gini      FS
  • 2009    29,6 %    4,2
  • 2010    25,7 %    3,6
  • 2011    23,6 %    3,3
  • 2012    24,0 %    3,4
  • 2013    24,0 %    3,4
  • 2014    22,7 %    3,1
  • 2015    23,6 %    3,4 

Á samdráttarárinu mikla, 2009, jókst tekjuójafnrétti mikið.  Á hagvaxtarárinu 2015 er tekjujöfnuðurinn jafn eða meiri en á stöðnunartímanum 2010-2013.  Á hagvaxtarskeiðum bera allir meira úr býtum en áður, og á núverandi hagvaxtarskeiði á Íslandi hefur lífskjarabati lægri tekjuhópanna verið hlutfallslega meiri en hinna. 

Viðskiptablaðið birti þann 6. október 2016 yfirlitsgrein um þróun eignastöðu mismunandi þjóðfélagshópa:

"Eignastaðan batnar",

og þar kemur fram, að eignastaða hinna lakar settu hefur tekið stakkaskiptum á þessu kjörtímabili, sem færir sönnur á, að eignajöfnuður eykst í góðæri:

"Hagstofan birtir einnig tölur um eiginfjárstöðu, flokkaða eftir tíundarhlutum.  Árið 2010 voru 4/10 hlutar þjóðarinnar með neikvætt eigið fé, en í árslok 2015 voru 2/10 hlutar þjóðarinnar með neikvætt eigið fé.  Þriðja tíundin komst ekki í jákvæða eiginfjárstöðu fyrr en í fyrra. 

Á tímabilinu 2010-2015 hefur hagur fjórðu tíundarinnar vænkazt mest, hlutfallslega.  Hún var með neikvæða eiginfjárstöðu um MISK 613 árið 2010, en var komin í jákvæða eiginfjárstöðu upp á miaISK 6,1 í fyrra. Hlutfallslega hefur eiginfjárstaða tíunda hlutarins, þ.e.a.s. þess hluta þjóðarinnar, sem mest eigið fé á, aukizt minnst, eða um 39 % á tímabilinu.  Árið 2010 átti þessi hópur fólks um 86,4 % af heildareiginfé landsmanna, en árið 2015 var hlutfallið komið í 63,7 %."

Þarf frekari vitnana við um það, að jöfnuður hefur vaxið í góðærinu á þessu kjörtímabili ?  Að halda öðru fram, eins og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, gerir purkunarlaust, er ekkert annað en bölmóður og ósannindavaðall.  Hún á ekki að komast upp með það að hefja eftir kosningar tangarsókn gegn lífskjörum almennings undir því yfirskyni, að nauðsynlegt sé að auka samneyzluna til að auka aftur jöfnuðinn í samfélaginu.  Slíkt tal er uppspuni og þvættingur.

Síðan stóð í téðri grein í Viðskiptablaðinu um efnahagshorfurnar:

"Greiningardeild Arion-banka sagði í síðustu hagspá sinni, að aðstæður í efnahagslífinu væru til þess fallnar að auka bjartsýni, atvinnuleysi væri með minnsta móti, afnám hafta væri komið vel á veg og hagvaxtarhorfur væru betri en í flestum þróuðum ríkjum. Af þeim 35 ríkjum, sem mynda OECD, voru aðeins 3 ríki, sem gátu státað af meiri hagvexti en Ísland á fyrsta fjórðungi ársins [2016]."

Það er ljóst, að núverandi ríkisstjórn og þingmeirihluta hennar hefur um allt það, er mestu máli skiptir, tekizt svo vel upp við stjórnun landsins, að viðkomandi stjórnmálaflokkar eiga hrós skilið og rós í hnappagatið frá kjósendum í næstu Alþingiskosningum, enda er hinn valkosturinn alveg skelfilegur. 

Ríkisstjórnin hefur reynzt róttæk umbótastjórn í þeim skilningi, að hún hefur reynzt þess umkomin að framkvæma kerfisbreytingar, sem sveimhugar stjórnarandstöðunnar láta sig ekki einu sinni dreyma um, því að þar á bæ fer allt púðrið í vangaveltur um fánýti á borð við nýja stjórnarskrá, eins og Ísland væri Þriðja heims land, fjárhagslega aftöku útgerðarmanna, sem engum hérlendis gagnast, fyrirfram greiddar bætur, sem eru hlægileg vitleysa, gælur við skattahækkanir og þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort Ísland eigi að taka upp slitinn þráð í viðræðum um inngöngu Íslands í ESB.  Hið síðast nefnda mundi gera Íslendinga að athlægi um alla Evrópu, en til samkomulags við blinda aðdáendur ESB mætti þó spyrja þjóðina, hvort hún vilji ganga í ESB, en það er reyndar ekki kostnaðarins virði að spyrja, þegar svarið er löngu vitað með vissu. 

Ríkisstjórnin hélt svo vel á spilunum gagnvart slitabúum föllnu bankanna, að ríkissjóður hreppti frá þeim eignir, sem eru hærri en tap ríkissjóðs á gjaldþroti sömu banka.  Hún hefur jafnframt létt á "snjóhengju aflandskróna", svo að haftaafnám er mögulegt og þegar framkvæmt að nokkru leyti.  Þetta hafði stjórnarandstaðan hvorki hugmyndaflug né getu til að gera, enda voru vinstri flokkarnir handbendi fjármálaafla á valdatíma sínum 2009-2013, sem hámarki náði með því að færa kröfuhöfunum nýju bankana tvo á silfurfati.  Þvílík endemis stjórnsýsla. 

Af öðrum umbótamálum ríkisstjórnarinnar má nefna menntamálin.  Þar lá Teflon-Kata á fleti fyrir árin 2009-2013 og var óttalega framkvæmdalítil, enda í heljargreipum sérhagsmuna innan þessa málaflokks, þar sem VG á hauka í horni stéttarfélaga kennara.  Helzt vann hún sér það til frægðar að henda peningum í LÍN til að lána stúdentum erlendis algerlega án þarfagreiningar fyrir hvern stað.  Á síðustu dögum haustþingsins 2016 þvældist hún síðan fyrir merku umbótafrumvarpi Illuga Gunnarssonar, arftaka sínum á stóli menntamálaráðherra, um LÍN, þar sem átti að færa sjóðinn til nútímahorfs og þess, sem þekkt er með hliðstæða sjóði á hinum Norðurlöndunum.  Stúdentahreyfingar á Íslandi hvöttu Alþingi eindregið til að samþykkja frumvarp Illuga, en andstaðan við róttækar umbætur var svo rík á meðal stjórnarandstöðunnar, að henni tókst að draga málið svo á langinn, að ekki vannst tími til að afgreiða umbótafrumvarp Illuga sem lög frá Alþingi.  Þessi mistök þingsins verður að skrifa mest á Teflon-Kötu, formann VG, sem hefði getað greitt leið þessa umbótafrumvarps.  Nú er meðalaldur háskólastúdenta við útskrift með BA eða BSc gráðu 31 árs, sem er mun hærri aldur en annars staðar tíðkast.  Í frumvarpi Illuga var fólginn árangurshvati, og slíkt er eitur í beinum afturhaldsins. 

Annað afar tímabært umbótamál er jöfnun lífeyrisréttinda allra landsmanna.  Nú hafa sérhagsmunahópar í röðum opinberra starfsmanna, sem augsýnilega hafa asklok fyrir himin, stöðvað framgang þessa mikla réttlætismáls, þótt ríkisstjórnin hafi útvegað stórfé til að fullfjármagna lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, sem eru einu lífeyrissjóðir landsins, sem ekki eiga fyrir skuldbindingum sínum í framtíðinni, eins og nú standa sakir.  Ríkissjóður stendur þar reyndar í ábyrgð, og með fullfjármögnun átti að taka það sjálfsagða skref að afnema þessa ríkisábyrgð.  Á öllum sviðum á að draga úr ríkisábyrgð til að draga úr hættunni á ríkisgjaldþroti, þegar næsti brotsjór ríður yfir íslenzka hagkerfið. Jöfnun lífeyrisréttinda í einkageira og hinum opinbera geira atvinnulífsins er stórfellt réttlætismál, og auðvitað dregur afturhaldið lappirnar í slíku máli.  Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.    

 

 


Váboðar í vændum

Gott gengi íslenzks efnahagslífs stingur algerlega í stúf við bágborið efnahagsástand annars staðar á Vesturlöndum.  Þar ríkir víðast stöðnun, þ.e. sáralítill hagvöxtur, og barátta við hinn illa spíral verðhjöðnunar með stýrivöxtum um og undir 0. 

Þetta hefur valdið bönkum miklum rekstrarerfiðleikum, og jafnvel "klettar í hafinu" riða nú til falls.  Á sama tíma virðist andstaða við frjáls heimsviðskipti aukast víða samfara vaxandi einangrunarhyggju.  Þetta birtist t.d. í því, að samningaviðræður ESB og BNA um brotfellingu á viðskiptahömlum á milli þessara stóru viðskiptasvæða hafa stöðvazt vegna andstöðu beggja vegna Atlantshafs. 

Við þessar erfiðu aðstæður ákváðu Bretar að segja sig úr ESB og virðast nú stefna á fríverzlunarsamning við bæði þessi svæði og Brezku samveldislöndin. Reyndar sló Theresa May algerlega nýjan tón á nýafstöðnu flokksþingi Íhaldsmanna, þar sem hún kvað ákvörðun meirihluta kjósenda um að segja skilið við ESB eiga sér margvíslegar orsakir, sem ríkisstjórn Íhaldsflokksins ætlar að bregðast við með því að halda inn á miðju stjórnmálanna, enda er Verkamannaflokkurinn þar ekki lengur, heldur hefur gufað upp á leið sinni langt til vinstri.

 Það er rétt við þessar aðstæður að huga að þeim áhættuþáttum, sem helzt steðja að Íslendingum á vissum tímamótum í vályndum heimi.

Stjórnmálin: 

Í Alþingiskosningunum 29. október 2016 eru 13 stjórnmálaflokkar nefndir til sögunnar, hvernig sem framboðum þeirra verður háttað.  Dreifing atkvæða verður væntanlega mikil, svo að myndun tveggja flokka ríkisstjórnar verður vart í boði.  Þetta býður upp á langdregnar stjórnarmyndunarviðræður og að lokum stjórnarmyndun, kannski utanþings í boði forseta lýðveldisins eftir mikið japl og jaml og fuður, þar sem stefnumörkun verður óljós og ríkisstjórnarsamstarfið brothætt. 

Slíkt ástand býður ekki upp á efnahagslega festu og aðhald við stjórnun ríkisfjármálanna, eins og þó ríður á nú, heldur lausatök, gáleysislega aukningu ríkisútgjalda og skattahækkanir á fyrirtæki og einstaklinga, ef eitthvað er að marka málflutning núverandi stjórnarandstöðu.  Samfylkingin, sem er í útrýmingarhættu undir stjórn Oddnýjar Harðardóttur, hefur í örvæntingu sinni boðað fyrirfram greiddar bætur (vaxtabætur) úr ríkissjóði.  Þetta er eitt hæpnasta gylliboðið, sem heyrzt hefur á þessu hausti.

Stjórnkerfisástand af þessu tagi leiðir óhjákvæmilega til þess, að verðlagsstöðugleikanum verður kastað á glæ, og verðbólgan mun þess vegna hefja innreið sína á ný vegna skilningsleysis á efnahagsáhrifum skattahækkana og opinberra framkvæmda og getuleysis valdhafa við jafnvægisstillingu hagkerfisins.  Þetta ásamt ytra áfalli getur orðið upphafið að nýrri kreppu hérlendis eftir hagvaxtarskeið 2011-2016, sem leitt hefur til hærri VLF/mann nú en 2008 á föstu verðlagi, sem er meira en annars staðar frá hefur frétzt af.

Þá er afar ólíklegt, að fjölflokkastjórn, og þaðan af síður utanþingsstjórn, muni hafa þann innri styrk og bolmagn, sem þarf til að halda áfram vegferð mikilvægra kerfisbreytinga, sem núverandi ríkisstjórn hóf.  

Peningamálin:   

Seðlabankinn hefur ekki verið með á nótunum, heldur haldið verðbólguvæntingum við með of háum verðbólguspám í 2-3 ár. Líkön hans af hagkerfinu þarfnast endurbóta, t.d. áhrif innflutts vinnuafls á launaskrið.  Með þessu hefur hann valdið of háum breytilegum vöxtum á óverðtryggðum lánum, og með allt of háum stýrivöxtum hefur hann valdið ásókn spákaupmanna í ISK og þrýst upp gengi ISK, sem er til óþurftar fyrir hagkerfið við núverandi aðstæður.

Seðlabankinn hefur með óþarflega háum stýrivöxtum valdið miklum kostnaðarauka á öllum stigum samfélagsins og auðvitað aukið samtímis sparnaðinn, en hann hefði átt að nýta sér innflutta verðhjöðnun og lækkun innflutningsgjalda að hálfu ríkissjóðs til að feta vaxtalækkunarbraut niður fyrir 4 % í stað núverandi 5,25 %. 

Hann er nú að gefast upp við gjaldeyriskaup, sem aðallega eru ætluð til að vinna gegn hækkun ISK. Gengisvísitalan er núna a.m.k. 5 % of lág, og bankinn verður að lækka stýrivexti, þar til gengisvísitalan hækkar í 180-190 (er rúmlega 170 í byrjun október 2016). 

Hátt gengi ISK hefur nú þegar veikt samkeppnisstöðu íslenzkra útflutningsgreina um of.  Bretland er helzta viðskiptaland Íslands, og gengi sterlingspunds hefur á skömmum tímum lækkað úr 210 ISK/GBP í 140 ISK/GBP eða um 33 %.  Þetta hefur þegar haft mjög tekjurýrandi áhrif á fyrirtæki, sem flytja út á Bretlandsmarkað, t.d. í sjávarútvegi, og það hlýtur að fara að nálgast þolmörk brezkra ferðamanna hingað til lands.

Seðlabankinn notaði ekki tækifærið 5. október 2016 á vaxtaákvörðunardegi að lækka stýrivexti sína.  Það sýnir, að kominn er tími til að endurnýja Peningastefnunefnd, sem virðist vera í öðrum heimi. 

Alþingi hefur nú samþykkt verulegar tilslakanir á fjármagnshöftum.  Ætla má, að vinstri stjórn í landinu hefði ekki átt neitt frumkvæði að slíku, því að Samfylkingin hefur látið í ljós, að það væri ekki hægt, nema að ganga í ESB, og Vinstri hreyfingin grænt framboð er haftaflokkur, því að þannig halda stjórnmálamenn fleiri valdataumum í sínum höndum.  Ríkisforsjárflokkar losa aldrei um gjaldeyrishöft né önnur höft á einkaframtakið.

 

Verðlagsmálin:

Hjörtur H. Jónsson, forstöðumaður áhætturáðgjafar hjá ALM Verðbréfum, skrifaði Sjónarhól Morgunblaðsins, 22. september 2016,

"Hver er hræddur við verðbólgu ?":

"En hvað hefur stuðlað að lágri verðbólgu síðustu ár ?  Ef við skoðum þróunina frá 2014, t.d. með vísan til hrávöruvísitalna Deutsche Bank, hefur orka lækkað um 60 % [Nú er afkoma stærstu íslenzku orkufyrirtækjanna, LV og OR, orðin svo góð, að svigrúm hefur skapazt til að lækka raforkuverð og verð á heitu vatni, en ekkert hefur frétzt um, að slíkt sé í bígerð.  Þvert á móti hefur frétzt af áformum um auknar arðgreiðslur til eigendanna. - innsk. BJo], landbúnaðarvörur um á milli 20 % og 25 % og málmar um 20 %.  Og á sama tíma og innlend aðföng hafa lækkað umtalsvert í erlendri mynt, hefur krónan styrkzt um nærri 20 %. [Hún þarf að lækka aftur um 5 %, sjá "Peningamálin" að ofan. - innsk. BJo.] Þessar miklu lækkanir á innfluttri vöru [Hér má minna á afnám vörugjalda, oft 15 %, af öllu, nema jarðefnaeldsneyti og bifreiðum, sem knúnar eru slíku, afnám tolla af fötum & skóm og lækkun þeirra á öðru en matvælum.]  hafa unnið gegn innlendum hækkunum, en launavísitalan hefur t.d. hækkað u.þ.b. um 20 % frá 2014. 

Mikið hefur hins vegar dregið úr erlendum lækkunum að undanförnu, og orkuverð fer t.d. aftur hækkandi.  Þótt ekki sé útilokað, að ferðaþjónustan haldi áfram að vaxa og skila gjaldeyri inn í landið með tilheyrandi styrkingu krónu, er ólíklegt, að ytri aðstæður verði áfram jafnhagstæðar, þ.e. að innfluttar vörur haldi áfram að lækka jafnhratt og þær hafa gert að undanförnu, að því ógleymdu, að styrking krónu grefur undan vöruskiptajöfnuðinum og vinnur gegn vexti ferðaþjónustunnar.  Það er því líklega kominn tími til, að fyrirtæki, sem nota verðtryggð lán sem óbeina gengisvörn, hafi varann á." 

Af þessu er ljóst, að nú mun reyna meira á innlenda hagstjórn til að halda verðbólgunni í skefjum en á tíma erlendra verðlækkana.  Þá þarf að grípa til þeirra verðlækkunarleiða, sem færar eru.  Fjárfestingar heimila og fyrirtækja eru ekki þensluhvetjandi núna, þar sem nettó skuldastaða þeirra hefur lækkað.  Lækkun vaxtastigs í landinu mun valda kostnaðarlækkunum og þannig draga úr þenslu. Þetta virðist þó ekki fást út úr hagkerfislíkönum Seðlabankans.  Kannski er þetta bara almannarómur ?  

Hagvöxtur:

Hagvöxtur er nauðsynlegur hjá vaxandi þjóð til að tryggja kjarabætur, ný atvinnutækifæri og jöfnuð í samfélaginu.  Vinstri flokkarnir og Píratar hafa horn í síðu hagvaxtar, og þeir skilja þess vegna ekki mikilvægi þess, að valdhafar skapi grundvöll hagvaxtar.  Þeir virðast ekki átta sig á neikvæðum áhrifum skattahækkana á hagvöxtinn, eða þeim er alveg sama. Það er einmitt eitt áhættuatriðið núna fyrir velferðarþjóðfélag á Íslandi, að slíkt fólk komist til valda í Stjórnarráðinu í vetur, því að þá mun þar hefjast sama dæmalausa geðþóttastjórnun sérvizku og efnahagslegrar fávizku og nú blasir við í Reykjavíkurborg.  

Þar ríður  nú lestarsérvizka húsum, og er fjöldi manns sendur í heimsreisur til að kynna sér rekstur sporvagna, þótt kunnáttumaður um arðsemisútreikninga þyrfti aðeins eina klst til að sýna fram á glapræði slíkrar fjárfestingar í borginni yfir 100 miakr, og að miklu arðsamara er að verja fé borgarinnar og Vegagerðarinnar til að auka flutningsgetu núverandi gatnakerfis í Reykjavík.  Sérvizka vinstri manna ríður ekki við einteyming, og hún reynist skattborgurum jafnan dýrkeypt. 

Hagvöxtur 2016 verður um 4,5 %, sem er einn mesti hagvöxtur á Vesturlöndum, en hann er líklega svipaður á Írlandi.  Þar er hann knúinn áfram af beinum erlendum fjárfestingum í krafti lágs tekjuskatts á fyrirtæki eða um 12 %, en hér er hann enn 20 %.  Á Íslandi er hagvöxturinn líka knúinn áfram af fjárfestingum, en hér eru þær bæði innlendar og erlendar.  Nú horfir að vísu óbjörgulega fyrir erlendri fjárfestingu á Bakka við Húsavík og innlendri fjárfestingu á Þeistareykjum, og er það þyngra en tárum taki að sjá skemdarverkamenn komast upp með að kasta rýrð á orðspor Íslands sem áreiðanlegs lands, þar sem af öryggi má fjárfesta í trausti þess, að staðið verði við samninga.  Þetta er áhættuatriði fyrir framtíðar fjárfestingar í landinu. 

Atvinnuvegafjárfesting jókst um 15,1 % árið 2014 m.v. 2013, en þá var 6,7 % samdráttur í fjárfestingum.  Aukningin 2015 m.v. 2014 varð um 21 %, og spáð er 18 % vexti atvinnuvegafjárfestinga 2016.  Þar munar töluvert um innflutning skipa og flugvéla ásamt búnaði í stóriðjuver, virkjanir og flutningslínur.  Stóriðjuframkvæmdir munu ná hámarki 2016-2017, enda hörgull að verða á raforku, sem takmarka mun hagvöxtinn. 

Nú kann orðspor Íslands sem áreiðanlegt land varðandi umsamda raforkuafhendingu að vera í húfi vegna tafaleikja andstæðinga loftlínulagna, sem hefur neikvæð áhrif á samningsstöðu Íslands við erlenda fjárfesta.  Hætta ætti reyndar öllum skattalegum ívilnunum í þeirra garð og annarra fjárfesta, svo að allur atvinnurekstur sitji við sama borð gagnvart hinu opinbera hérlendis.  Andstæðingar hagvaxtar berjast með kjafti og klóm gegn framkvæmdum, þótt þær hafi farið í umhverfismat og framkvæmdaleyfi verið gefið.  Ábyrgðarlausar úrskurðarnefndir ættu ekki að geta stöðvað framkvæmdir.  Aðeins lögbann dómstóls ætti að geta stöðvað framkvæmdir, sem hlotið hafa framkvæmdaleyfi.     

Til að tryggja framtíðartekjur í þjóðfélaginu án þensluáhrifa á framkvæmdastigi þurfa fjárfestingar atvinnuvega að vera á bilinu 20 % - 25 % af VLF, og árið 2016 eru þær að öllum líkindum á þessu bili.  Það vitnar um styrk hagkerfisins, að þrátt fyrir miklar fjárfestingar og 4,5 % hagvöxt 2016, þá stefnir samt í yfir 4,0 % af VLF jákvæðan viðskiptajöfnuð . 

Þetta getur hratt snúizt við.  Hægt er að kyrkja fjárfestingargetu með hækkaðri skattheimtu, t.d. sértækri á sjávarútveginn, eins og nokkrir stjórnmálaflokkar hafa boðað, og gjaldeyristekjur geta hrapað með óhóflegri hækkun gengis eða náttúruhamförum (Katla).  Nú stefnir t.d. í mun minni hagnað sjávarútvegsfyrirtækja en á árabilinu 2012-2015 vegna óhóflegrar gengishækkunar, sem Seðlabankinn illu heilli heyktist á að vinna gegn með vaxtalækkun í byrjun október 2016.  Vitnar það um ótrúlegt sinnuleysi um hag atvinnulífsins og skrýtna forgangsröðun.  Er orðið brýnt að endurskoða lög um Seðlabankann, sem alræmdur vinstri meirihluti setti á síðasta kjörtímabili, og velja þangað nýtt fólk til forystu.  Núverandi Seðlabanki er áhættuþáttur fyrir hagkerfið. 

Skattheimta:

Miðað við umræðuna núna er líklegt, að á næsta kjörtímabili muni koma fram frumvarp á Alþingi um breytingar á skattalögunum.  Innihald slíks frumvarps er algerlega háð því, hvernig úrslit kosninganna verða.  Vinstri menn munu vilja færa allt í svipað horf og var hjá þeim á síðasta kjörtímabili, þar sem ekkert var hirt um einföldun og aukna skilvirkni skattkerfisins, heldur hlaupið eftir pólitískum duttlungum og sérvizku um að rífa sem mest af þeim, sem hærri hafa tekjurnar, og auðvitað urðu millistéttin, menntaðri hluti hennar aðallega, og gamlingjar, sem áttu nokkrar eignir, en voru jafnvel mjög tekjulitlir, helztu fórnarlömbin.  Þetta skilaði litlu í ríkiskassann, enda var ekkert hugað að hagvaxtarhvetjandi aðgerðum.  Það er miklu áhrifaríkara fyrir tekjustreymið til ríkissjóðs að stækka skattstofninn en að auka skattheimtuna. 

Borgaralega sjónarmiðið er það, að skattkerfið sé tekjuöflunarkerfi hins opinbera, ríkissjóðs og sveitarsjóða, og það beri að gera þannig úr garði, að það virki sem minnst letjandi til vinnu og framtaks.  Góð laun, sem fengin eru á heiðvirðan hátt, skaða engan, og því ber alls ekki að refsa neinum löghlýðnum borgara fyrir háar tekjur. Það er misnotkun á valdi ríkisins að refsa fólki fyrir háar tekjur.

Nú hefur forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins viðrað hugmynd um skattkerfisbreytingu, sem felur í sér lækkun á neðsta þrepi tekjuskatts einstaklinga úr rúmlega 37 % í 25 % (vonandi er það að meðtöldu útsvari, því að annars er þetta engin lækkun), og lækkun efra þreps úr rúmlega 46 % í 43 %, og hækkun byrjunarupphæðar þess úr ISK 836´990  í ISK 970´000 .  Miðþrepið, 38,35 %, fellur brott í árslok 2016. 

Lækkun lægra þrepsins er sanngjörn fyrir alla, ekki sízt hina tekjulægri.  Við þetta mætti bæta að fella niður skattheimtu af greiðslum frá TR.  Það er einfalt, skilar sér að miklu leyti aftur í ríkiskassann og er sanngjarnt fyrir þá, sem ekki hafa aðrar tekjur. 

Jaðarskattheimtan, 43 %, er svo há, að hún hvetur til undanskota og virkar hamlandi á aukið vinnuframlag og framtak fólks.  Ef þessi tillaga er miðuð við lungann úr millistéttinni, ætti að lækka þetta jaðarskattstig niður í 35 %, enda ættu ekki að vera meira en 10 % á milli skattþrepa.  Annars verða jaðaráhrifin of tilfinnanleg.  

Ef ríkissjóður kveinkar sér undan þessu og ef hætt verður að heimta skatt af greiðslum frá TR, mætti jafnvel fella persónuafsláttinn á brott. 

Verkefnisstjórn um úttekt á íslenzka skattkerfinu undir formennsku Daða Más Kristóferssonar, hagfræðings, leggur til, að virðisaukaskattstigin tvö, 11 % og 24 %, verði sameinuð í eitt skattþrep, 18,6 %.  Þriðja skattþrepið er fyrir hendi, og það er 0.  Þar er menntastarfsemi, og þar ætti menningarstarfsemi og útgáfa hugverka líka að vera ásamt allri heilbrigðisþjónustu, nuddi, nálastungum, grasalækningum, smáskammtalækningum o.s.frv., lyfjum og bætiefnum. 

Til að draga úr hækkun matarkostnaðar við einföldunina í eitt þrep, er ráð að setja allar innlendar landbúnaðarvörur í núll virðisaukaskattsflokk.  Jafnframt yrðu tollar á erlendum mat, sem ekki er fáanlegur frá innlendum framleiðendum, felldur niður í áföngum, og lækkaður umtalsvert á öðrum gegn fríum aðgangi að erlendum mörkuðum fyrir ákveðið magn íslenzkra landbúnaðarvara. Algert skilyrði fyrir upplýst kaup neytenda er að upprunamerkja allar landbúnaðarvörur kyrfilega, svo að neytandinn fari ekki í neinar grafgötur um uppruna matfanganna, sem hann er að festa kaup á.  

Fjármálaþjónusta og tryggingastarfsemi eru erlendis undanþegnar virðisaukaskatti, og svo er einnig hérlendis, og hefur ekki verið gerð tillaga um annað, enda er þessi þjónusta nú í hæstu hæðum kostnaðarlega fyrir íslenzka neytendur. 

Núverandi ríkisstjórn hefur fækkað undanþágum ferðaþjónustu frá VSK, og afnema ætti unanþágur þessar með öllu.  Sérskilmála bílaleiga við innkaup á bílum á að fella niður, þó að þær verði þá að hækka leiguverðið.  Með yfir 20 þúsund bíla í útleigu lungann úr árinu eru slíkar ívilnanir tímaskekkja. 

Ferðaþjónustan:

Ofboðsleg árlega aukning á fjölda erlendra ferðamanna hefur komið öllum hérlendis í opna skjöldu.  Norðurslóðir njóta vinsælda um þessar mundir sem áfangastaður ferðamanna, af því að þar blasa afleiðingar hlýnunar andrúmsloftsins við, þar er náttúran tiltölulega óspillt og þar er friðsælt og tiltölulega öruggt. Þessi atvinnugrein er hins vegar viðkvæm gagnvart kostnaðarbreytingum, ekki sízt á stöðnunar- og samdráttartímum, eins og nú ríkja.

Yfir 21 þúsund launþegar eru árið 2016 starfandi að meðaltali yfir árið í ferðaþjónustu, en voru árið 2009 um 11 þúsund talsins, þ.e. 13 % aukning á ári að meðaltali.  Í greininni eru til viðbótar tæplega 3 þúsund verktakar.

Til samanburðar er fjöldi beinna starfa í málmframleiðslufyrirtækjunum 1900 eða 9 % af fjöldanum í ferðageiranum, sjómenn eru um 4400 talsins, 21 %, og í fiskiðnaði eru 4700 manns. Það er athyglivert, að fjöldi starfsmanna í hinum meginútflutningsgreinunum er aðeins um helmingur af fjölda starfsmanna í ferðageiranum, að verktökum meðtöldum í öllum geirum, og þar eru yfir 13 % starfanna í landinu. Ef eitthvað bregður út af í ferðageiranum, er voðinn vís fyrir atvinnustigið á Íslandi og gjaldeyristekjur landsins.

Eftirfarandi tilvitnun í Böðvar Þórisson, skrifstofustjóra fyrirtækjasviðs Hagstofunnar, í Viðskipta-Mogganum 13. ágúst 2015, sýnir mikil ruðningsáhrif ferðageirans í íslenzku atvinnulífi:

"Það hefur ekki orðið nein breyting að ráði á heildarfjölda starfa í landinu frá árinu 2008, og hafa því þessi nýju störf, sem hafa skapazt í ferðaþjónustunni, komið í stað starfa í öðrum atvinnugreinum."

Allt sýnir þetta, hversu gríðarlega er búið að magna umfang ferðaþjónustu í íslenzku samfélagi.  Þessu fylgir mikil fjárhagsleg áhætta, því að tekjustreymið, sem aðallega er háð fjölda erlendra ferðamanna, getur hæglega snarminnkað af völdum náttúruhamfara, t.d. Kötlugoss, eða vegna fjármála, t.d. mikillar lækkunar sterlingspunds, en fjölmennasta þjóðernið, sem hér gistir í orlofi, er brezkt.  Meiri hækkun ISK en þegar er orðin, gæti leitt til viðsnúnings í fjölgun ferðamanna.  Afleiðingarnar yrðu fjöldagjaldþrot og fjöldaatvinnuleysi.  Sem mótvægisaðgerð er tímabært að stofna jöfnunarsjóð ferðageirans, t.d. með komugjöldum, 2000 ISK per einstakling, 18 ára og eldri, yfir háannatímann. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Ágústus og ellilífeyririnn

Ottó von Bismarck var stjórnmálamaður, sem lét verkin tala, enda sameinaði hann þýzku ríkin "með járni og blóði". Hann hirti Frakka og sameinaði Þjóðverja undir stjórn Prússa í Berlín 1871. Hann var stjórnskörungur, og lengi hefur til hans verið vitnað sem höfundar lífeyriskerfis í Evrópu.

Nýlega rakst blekbóndi hins vegar á greinina:

"Fade to grey", sem birtist í The Economist, dags. 24. september 2016, og verður gripið niður í upphaf hennar með lauslegri þýðingu:

"Ágústus, keisari, komst til valda í krafti einkahers síns.  Að fengnum völdunum var honum skiljanlega mikið í mun að tryggja tryggð hermanna sinna við rómverska ríkið.  Hann fékk þá ljómandi góðu hugmynd að bjóða þeim eftirlaun, sem þjónað höfðu í hernum lengur en 16 ár (seinna 20 ár) að andvirði 12 árslauna hermannanna í reiðufé eða landareign. 

Eins og Mary Beard, sagnfræðingur, útskýrir í Rómverjasögu sinni, "SPQR", var þetta loforð gríðarlega dýrt.  Hernaðarútgjöld og lífeyrir hermanna soguðu til sín helminginn af skatttekjum rómverska ríkisins. 

Keisarinn var ekki sá síðasti til að vanmeta kostnaðinn við eftirlaun. Nú eru um allan heim að koma upp vandamál við fjármögnun ellilífeyris.  Rahm Emanuel, borgarstjóri Chicago-borgar, berst í bökkum við að bjarga lífeyriskerfi borgarinnar, en nú stefnir kerfið í þrot innan 10 ára.  Sömu sögu er að segja af fleiri borgum Bandaríkjanna, BNA, og sömu sögu er að segja af stórum fyrirtækjum í BNA og á Bretlandi og víðar, sem ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar hvíla á. Nú eru að jafnaði aðeins 75 % lífeyrisskuldbindinga brezkra fyrirtækja fjármögnuð." 

Í þessu samhengi mega Íslendingar hrósa happi, en lífeyriskerfi Íslendinga er einstaklega sterkt, og eftir fullnustu SALEK-samkomulagsins hefur ríkisstjórn Íslands nú stigið það framfaraspor að samræma iðgjöld og réttindi allra landsmanna, óháð vinnuveitanda, og loksins fullfjármagnað lífeyriskerfi opinberra starfsmanna með um miaISK 100 framlagi.  

Eignir íslenzkra lífeyrissjóða nema nú um miaISK 3500, sem er um 1,5 x VLF(is).  Holland er bezt statt í þessum efnum allra Evrópulanda, ef olíusjóður Norðmanna er undanskilinn, enda er hann ekki lífeyrissjóður.  Eignir hollenzkra lífeyrissjóða nema 2,0 x VLF(ho), en með miklum hækkunum iðgjalda, sem urðu til lífeyrissjóða starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum innan ramma SALEK-samkomulagsins í sumar, þá gæti þetta mark, 2,0 x VLF, náðst á áratug. 

Með haftalosun opnast fjárfestingarmöguleikar erlendis fyrir lífeyrissjóðina og aðra hérlendis, en það eru fáir fjárfestingarkostir girnilegir erlendis, eins og nú standa sakir með stýrivexti um og undir núlli og hlutabréf á fallanda fæti í stöðnuðum hagkerfum.  Skuldabréfaávöxtun er með allægsta móti í Evrópu nú um stundir. Þá verður enn vandasamara að stjórna fjárfestingum sjóðanna innanlands, svo að þeir verði ekki allt of fyrirferðarmiklir.  

Lífeyrissjóðirnir hafa verið orðaðir við kaup á hlutum í ríkisbönkunum.  Það er afspyrnu slæm hugmynd að láta lífeyrissjóði fjárfesta í svo áhættusömum rekstri sem bankastarfsemi er, og þar með sætu lífeyrissjóðir beggja vegna borðs, því að þeir eiga í stórum hluta íslenzks atvinnulífs. 

Hins vegar eru orkufyrirtæki landsins kjörinn fjárfestingarkostur (þó ekki olíuleitarfyrirtæki) fyrir lífeyrissjóði, sem þurfa áreiðanlega og jafna ávöxtun yfir langt tímabil.  Þeir gætu hæglega keypt allt að 25 % hlut í raforkuvinnslufyrirtækjum ríkisins.   

Lífeyriskerfið er ómetanleg trygging fyrir félagsmenn lífeyrissjóðanna, og fjárfestingar þeirra mega aldrei bera einkenni áhættusækni. Það hefur því miður stundum skort ábyrgðartilfinningu og/eða fjármálavit, hvað fjárfestingar lífeyrissjóðanna áhrærir. 

Lífeyrir sjóðanna er viðbót við lífeyri Tryggingastofnunar (TR), og greiðslur úr lífeyrissjóðunum eiga alls ekki að valda skerðingu á greiðslum TR, sem líta verður á sem jöfn borgaraleg réttindi allra hérlandsmanna. Síðasta samþykkt ríkisstjórnarinnar um 280 kkr ellilífeyri til einstaklinga frá TR og 25 kkr frítekjumark á allar viðbótar tekjur við greiðslur úr TR er gott skref í rétta átt, en frítekjumarkið þarf að verða fjórfalt hærra á næsta kjörtímabili. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um umbætur á ellilífeyriskerfinu mun þýða 10 miakr aukningu í útlögðum kostnaði ríkissjóðs, en vegna beinna og óbeinna skatta fær hann líklega 4 miakr til baka á sama árinu.

Á meðan summa greiðslna úr TR og úr lífeyrissjóði er undir dæmigerðum viðmiðunarmörkum framfærslukostnaðar frá Velferðarráðuneytinu, sem nú nema 402,3 kkr, er siðferðislega rangt og í andstöðu við hugmyndafræðina um einkasparnað í lífeyrissjóðunum að skerða greiðslur TR.  Nú nema þessar skerðingar á greiðslum frá TR 45 % af greiðslum úr sameignarsjóðum lífeyrissjóðanna, en greiðslur úr séreignasjóðum þeirra koma að vísu ekki til frádráttar.  Þó það nú væri. Af þessum ástæðum þarf frítekjumarkið að hækka úr 25 kkrí 100 kkr á mánuði. 

Jaðarskattáhrif þessarar 45 % skerðingar hafa lítið komið til umræðu, en þau eru gríðarleg, eiginlega skelfileg, því að skerðingin bætist við tekjuskattheimtu 37,13 % af fyrstu 336 kkr, að teknu tilliti til persónuafsláttar, og 38,35 % af næstu 501 kkr.  Þetta milliþrep tekjuskattsins verður að vísu afnumið um áramótin 2016/2017, ef áform núverandi ríkisstjórnar ná fram að ganga, sem eru óvissu undirorpin vegna Alþingiskosninga, sem fram fara 29. október 2016, og hugsanlegra nýrra valdhafa í kjölfarið, sem engan skilning hafa á nauðsyn þess að draga úr jarðarskattaáhrifum.   

Hver er jaðarskattur af lífeyri, X, frá lífeyrissjóði ?: [0,3713*X + 0,45*0,6287*X > 0,65*X], þ.e. meira en 65 %. Þetta er reginhneyksli og þekkist vart nokkurs staðar  annars staðar á byggðu bóli. Engar skerðingar á greiðslum TR ættu að tíðkast fyrir aðrar tekjur upp að heildartekjum rúmlega 400 kkr (framfærsluviðmið Velferðarráðuneytis), og hætta ætti tekjuskattsálagningu á greiðslur frá TR. 

Slíkt afnám skattheimtu mundi ekki sízt gagnast þeim, sem litlar sem engar tekjur hafa annars staðar frá.  Þetta mundi lítil áhrif hafa á tekjustreymið til ríkissjóðs, en um 10 þúsund manns mundi muna mikið um þetta "skattaafsal", og fyrir rúmlega 40 þúsund manns er þetta sjálfsagt réttlætismál. 

Það er svipaða sögu að segja um afnám skerðinga frá TR upp að heildartekjum rúmlega 400 kkr.  Þær mundu hafa lítil áhrif á tekjustreymið til ríkissjóðs.  "Tekjuafsal" ríkisins (orðalag vinstri manna) eru tiltölulega lágar upphæðir á mælikvarða ríkissjóðs, og þær mundu að miklu leyti skila sér til baka til hins opinbera á formi annarrar skattheimtu. 

Tryggingamál ríkisins, almannatryggingar, gagnvart borgurunum hafa verið í ólestri, en standa nú til bóta.  Núverandi ríkisstjórn hefur gert góða atlögu að einföldun og umbótum á ellilífeyriskerfinu, en betur má, ef duga skal.  Það eru sjálfsagðar umbætur á þessu kerfi að afnema beina skattheimtu af greiðslum TR og að innleiða frítekjumark skerðinga TR um 100 kkr, þannig að skerðing á tekjum, sem eru undir framfærsluviðmiði Velferðarráðuneytisins á hverjum tíma, sem nú jafngildir rúmlega 400 kkr, verði liðin tíð.  Með þetta fyrirkomulag mættu eldri borgarar þessa þjóðfélags vel við una, og þyrftu yfirleitt hvorki að bera kvíðboga fyrir fjárhag elliáranna né að hafa samvizkubit gagnvart fjárhagsbyrði á TR.  

 


Eyðandi afleiðingar uppboðsleiðar

Maður hefur gengið undir manns hönd í fræðaheiminum, innlendir sem erlendir, að vara Íslendinga við að taka kollsteypu með fiskveiðistjórnunarkerfi sitt, sem almennt er viðurkennt, að tekizt hafi með ágætum að tryggja líffræðilega og efnahagslega sjálfbærni veiðanna. 

Það fullnægir m.a. eftirfarandi grundvallarskilyrðum:

  • Aflahlutdeildarkerfið hefur í sér hvata fyrir útgerðarmenn og sjómenn til að stunda líffræðilega sjálfbærar veiðar.
  • Frjálst framsal aflahlutdeilda felur í sér hvata fyrir útgerðir til fækkunar skipa, en veiðigeta flotans er enn langt umfram það, sem veiðistofnar þola. 
  • Kerfið felur ekki í sér rentusækni, þ.e.a.s. í því er frjáls samkeppni um veiðiheimildirnar, og það er frjáls samkeppni um sölu afurðanna á mörkuðunum, aðallega erlendis.
  • Aflahlutdeildarkerfi með frjálsu framsali aflaheimilda er þjóðhagslega hagkvæmt.  Þetta felur í sér, að ekkert annað fiskveiðistjórnunarkerfi gagnast almenningi betur fjárhagslega.  Af þessu leiðir, að skattspor sjávarútvegsins verður stærst með þessu kerfi og hóflegum veiðigjöldum á bilinu 2 % - 5 % af verðmæti afla upp úr sjó, háð afkomu veiðanna. 

Dæmi um ytri áhrifaþætti á afkomu sjávarútvegsins er gengi ISK.  Á fyrstu 7 mánuðum 2016 hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða minnkað um miaISK 22, m.v. sama tímabil 2015, eða tæplega 14 %. Gefur þá auga leið, að hagnaður dregst saman í greininni. Aðalskýringin á þessu er hækkun íslenzku krónunnar, sem kemur reyndar niður á arðsemi allra útflutningsfyrirtækja hérlendis og ferðaþjónustunni.   Þess vegna mætti stýra veiðigjöldunum á ofangreindu bili eftir gengisvísitölu.

 

Þann 28. september 2016 birtist, eins og skrattinn úr sauðarleggnum m.v. ofangreint, grein í Fréttablaðinu:

"Fyrningar- og uppboðsleið: Málamiðlun í kvótamálum" eftir Bolla Héðinsson, hagfræðing, og Þorkel Helgason, stærðfræðing.  Hún sýnir, að vindmylluriddarar uppboðsleiðarinnar eru ekki af baki dottnir, enda hafa nokkrir stjórnmálaflokkar í landinu gert þessa stefnu að sinni í sjávarútvegsmálum, a.m.k. Píratahreyfingin, Samfylking og Viðreisn, og mælt með henni nú í kosningabaráttunni.  Glefsum í greinina:

"Sú breyting, sem kallað er eftir, þarf ekki og á ekki að valda kollsteypum, eins og sumir óttast og aðrir hræða með."

Það er kolrangt hjá þeim tvímenningum, að uppboðsleiðin mundi ekki valda kollsteypu, ef svo ólíklega skyldi fara, þvert á heilbrigða skynsemi, að hún yrði látin taka hér við af aflahlutdeildarkerfinu. 

Þvert á móti mundi þokkaleg og batnandi eiginfjárstaða útgerðarfélaganna, 32 % eiginfjárhlutfall, hverfa eins og dögg fyrir sólu, og eftir stæðu útgerðir á gjaldþrotsbarmi með neikvæða eiginfjárstöðu upp á miaISK 46. Þetta er ekki hræðsluáróður blekbónda og hans nóta, heldur var þessi sviðsmynd dregin upp í viðtali Kjartans Stefánssonar við Jónas Gest Jónasson, sviðsstjóra viðskiptalausna hjá Deloitte í Fiskifréttum, 29. september 2016:

""Ef ríkið tekur allar aflaheimildir af útgerðinni án þess, að gagngjald komi fyrir [verðmæti a.m.k. miaISK 250 - innsk. BJo], þarf að gjaldfæra þær í ársreikningum útgerðanna, sem þá mundi þýða, að bókfært eigið fé sjávarútvegsfélaga samkvæmt tölum Hagstofunnar myndi lækka um sem nemur bókfærðu verði aflaheimilda, sem er 249 milljarðar kr [í árslok 2014], og til viðbótar lækka aflaheimildir, sem skráðar eru í ársreikningum á formi yfirverðs við kaup á eignarhlutum í sjávarútvegsfyrirtækjum að verðmæti um 25 milljarðar kr, sem eignfærðar eru í áhættufjármunum inni í bókfærðu verði eignahluta í öðrum sjávarútvegsfélögum.  Til hækkunar á móti kemur tekjuskattsskuldbinding vegna aflahlutdeilda, sem er áætluð um 43 milljarðar kr. 

Við áætlum því, að bókfært eigið fé gæti lækkað um 231 milljarð kr [249+25-43=231] og bókfært eigið fé yrði þannig neikvætt um 46 milljarða kr miðað við árslok 2014", sagði Jónas Gestur.  [185-231=-46, þar sem miaISK 185 var bókfært eigið fé sjávarútvegsfélaga í árslok 2014 - innsk. BJo.]

Hér er sem sagt um mikinn viðsnúning að ræða, því að eiginfjárhlutfall útgerðarinnar færi úr 32 % [185/574=0,32] í það að vera neikvætt um 46 milljarða kr [=-13 %].  Ef hluti aflahlutdeildanna yrði settur á uppboð og ekkert gagngjald kæmi fyrir, myndi bókfærð eign lækka um hlutfall þeirra af eignfærðum aflahlutdeildum."

Ef þessi sviðsmynd Deloitte gengur eftir, jafngildir hún vissulega fjárhagslegri kollsteypu sjávarútvegsins, gjaldþroti flestra útgerðarfyrirtækjanna og mikilli veikingu fjármálakerfisins í landinu.  Hér er um að ræða jafngildi klassískrar kommúnistabyltingar, eins og menn sáu síðast raungerast í Venezúela, sem nú er á gjaldþrotsbarmi. Í þessu sambandi má vitna í Lars Christensen, alþjóðahagfræðing, sem í grein sinni í Markaðnum/Fréttablaðinu:

"Þyngdaraflið verður ekki hunsað-Tilfelli Venesúela", skrifaði í lokin:

"Niðurstaðan er sú, að ekki einu sinni sósíalistar geta hunsað hið hagfræðilega þyngdarafl.  Fyrr eða síðar tekur raunveruleikinn við.  Því miður er efnahagslegt og þjóðfélagslegt hrun Venesúela enn einn vitnisburðurinn um, að sósíalismi endar alltaf með hörmungum." 

Téðir tvímenningar halda hins vegar áfram í Fréttablaðinu með sína útgáfu af sósíalisma:

  • "Breytingar hafi eðlilegan aðdraganda."  Hér er sennilega átt við, að "fyrningin" eigi sér stað á tilteknu árabili, og eru 5-10 ár oftast nefnd í því sambandi.  Það hefur engin önnur áhrif á sjávarútveginn en að hægja á dauðastríði fyrirtækjanna.  Er það einhver kostur ?
  • "Nýtt fyrirkomulag feli í sér vissa festu bæði fyrir sjávarútveginn og þjóðina."  Að nefna þetta í samhengi við uppboðsleiðina felur í sér örgustu öfugmæli, því að augljóslega felur uppboðsleið í sér mjög aukna óvissu fyrir útgerðir, fiskvinnslufyrirtæki, starfsmenn og byggðarlögin, þar sem þau hafa starfsemi, svo að ekki sé nú minnzt á viðskiptasamböndin.  Jafnframt er gjaldið, sem ríkissjóður innheimtir með þessum hætti, algerlega undir hælinn lagt, eins og tilraunauppboð Færeyinga sumarið 2016 leiddi í ljós.
  • "Með breyttu kerfi sé stuðlað að auknu aðgengi fyrir nýliða."  Það er órökstutt, hvernig uppboðsleið getur stuðlað að aukinni nýliðun í greininni, og sú varð alls ekki raunin í tilraunauppboðum Færeyinga sumarið 2016, þar sem engin nýliðun varð. 
  • "Fullt gegnsæi í ráðstöfun aflaheimilda."  Vantar eitthvað upp á þetta í núverandi kerfi á Íslandi ?  Fram kom í kjölfar tilraunauppboðs Færeyinga með aflaheimildir á skipti- og/eða deilistofnum í sumar, þar sem fáeinir aðilar hrepptu allt, að grunur léki á um, að sá, sem mest fékk, væri leppur fyrirtækis í Hollandi, sem vantaði fisk.  Ekki var nú gegnsæinu með ráðstöfun aflaheimilda fyrir að fara þar.  Hvernig á að koma í veg fyrir það, að sama verði uppi á teninginum hérlendis, þ.e. leppar fjársterkra aðila bjóði í aflaheimildir ? 
  • "Auðlindaarðurinn skili sér til þjóðarinnar."  Auðlind hefur ekkert gildi út af fyrir sig, nema hún sé nýtt.  Til nýtingar og verðmætasköpunar þarf fólk, fjármagn, tæki og þekkingu, sem saman kemur í fyrirtæki, ásamt markaði. Hér að ofan hefur komið fram, að uppboðsleiðin rústar fjárhag útgerðarfélaganna gjörsamlega.  Þetta hefur óhjákvæmilega neikvæð áhrif á verðmætasköpunina, og hinu sama gegnir þá um "auðlindaarðinn til þjóðarinnar".  Það er samdóma niðurstaða ýmissa hagfræðinga, sem sérfróðir eru í auðlindahagfræði og undirgrein hennar, fiskihagfræði, að hámarks verðmætasköpun í sjávarútvegi næst með núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi, sem reist er á vísindalegu afmörkuðu aflamarki í hverri tegund og aflahlutdeildum úthlutuðum á skip á grundvelli veiðireynslu og frjálsu framsali aflahlutdeilda.  Það, sem skiptir tekjuöflun hins opinbera af greininni meginmáli, er heildarskattsporið, en hvorki veiðigjöldin ein og sér né gjald greitt á uppboði fyrir veiðiheimildir.  Af sjálfu leiðir, að aðferðarfræði, sem framkallar hámarks verðmætasköpun, framkallar um leið stærsta skattsporið.  Það er rökleysa að leggja atvinnugreinina í rúst til að "auðlindaarðurinn skili sér til þjóðarinnar", enda renna hæstu mögulegu tekjur í sameiginlegan sjóð landsmanna til lengdar með núverandi stjórnkerfi fiskveiða.  Að halda öðru fram er órökstuddur blekkingavaðall, settur fram í áróðursskyni fyrir ákveðin stjórnmálaöfl.   

Það þarf furðu mikla glámskyggni til að rembast eins og rjúpan við staurinn við að telja þjóðinni trú um, að þar sem hún sé eigandi sjávarauðlindarinnar, sé það í þágu hennar hagsmuna að umbylta kerfi, sem býr til mestu verðmæti í heimi úr hverri veiddri einingu úr sjó.  Slíkt stangast beinlínis á við heilbrigða skynsemi, svo að eftirfarandi orð Victors Hugo virðast eiga hér bezt við. 

"Þeir, sem illa eru innrættir, tjá einatt öfund sína  og reiði; það er þeirra aðferð til að láta í ljós aðdáun sína."

 

 

 


Er bankahrun í vændum ?

Það er engum blöðum um það að fletta, að ástand fjármálamarkaða heimsins er óeðlilegt.  Í tæplega 6 ár hafa stýrivextir stórra seðlabanka verið niðri við núllið eða jafnvel undir því.  Þrátt fyrir þetta og peningaprentun í þokkabót með miklum kaupum seðlabanka á misjöfnum skuldabréfum, hefur ekki tekizt að koma hjólum efnahagslífsins í gang, og það hillir ekki undir það, nema síður sé. 

Suður-Evrópuþjóðirnar taka við þessar aðstæður hagstæð lán og bæta þar með á ódýran hátt við skuldasúpu sína, en hvað gerist, er vextir hækka á ný ?  Gríska ríkið er í raun nú þegar í greiðsluþroti, og ítalska bankakerfið er mikið áhyggjuefni og talið standa tæpt.  Það er svo stórt, að björgun þess verður stöðugleikasjóði evru-landanna um megn. 

Fórnarlömb lágvaxtaskeiðs eru innlánseigendurnir.  Þeir eru æfir yfir að fá ekki umbun fyrir sparnað sinn, eins og þeir eru vanir.  Þarna skilur algerlega á milli Evrópu sunnan og norðan Alpafjalla.  Af þessum sökum magnast nú  spenna og ágreiningur um peningamálastefnuna á milli Norður-og Suður-Evrópu.

Pieter Omtziegt, hollenzkur þingmaður í Kristilega demókrataflokkinum, hefur kallað ECB-evrubankann Miðjarðarhafs-seðlabanka, sem nú reki þá stefnu að dreifa auði frá norrænum sparendum til suðrænna spreðara. 

Í þýzka dagblaðinu, Die Welt, hefur íhaldssamur hagfræðingur, Hans-Werner Sinn, fullyrt, að lágir vextir hafi nú kostað Þýzkaland 327 milljarða evra.  Þetta eru 12 % af VLF/ár Þýzkalands, og þess vegna ljóst, að verulega svíður undan, þótt ekki komizt þessi fjármagnsflutningur í hálfkvisti við stríðsskaðabætur Versalasamninganna, enda má nú fyrr rota en dauðrota. Það á ekki af Þjóðverjum að ganga. 

Í annarri grein um þetta efni vitnaði Die Welt í áætlun DZ bankans í Þýzkalandi um, að eftir að hafa búið í 6 ár við lága vexti muni "meðal-Þjóðverjinn" hafa tapað 2450 evrum í árslok 2016, eða u.þ.b. 320 þúsund ISK á lágvaxtastefnu evrubankans.  Á þýzka meðalfjölskyldu nemur þetta um MISK 1,0, svo að það er tekið að svíða undan.   

Þjóðverjar leggja fyrir 17 % af ráðstöfunartekjum sínum. Hollendingar leggja fyrir 14 % ofan á iðgjöld til lífeyrissjóða, þar sem nú eru 1300 milljarðar evra, sem er tvöföld landsframleiðsla þeirra.  Á Íslandi nema eignir lífeyrissjóða um 1,5-faldri VLF. Hollendingar og Íslendingar eru líklega einu þjóðirnar í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, sem búa nú við fullfjármagnað lífeyrissjóðakerfi. Íslendingar búa svo vel eftir síðasta frumkvæði og átak ríkisstjórnarinnar við fjármögnun lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins.   

Í Þýzkalandi eru um 80 % af eignum heimilanna á sparnaðarreikningum, í réttindum í líftryggingafélögum eða í lífeyrissjóðum.  Ávöxtun þessara eigna er eðlilega mjög háð vaxtastiginu í landinu, og langvinnt lágvaxtaskeið skapar þess vegna eldfimt þjóðfélagsástand í Þýzkalandi, eins og nú þegar er orðin raunin.  Formaður AfD hefur sagt, að Angela Merkel muni þurfa að flýja land, þegar hún hrekst frá völdum.  Það er þó allt of langt gengið og algerlega óviðeigandi að bera ástandið saman við árið 1945, eins og heyrzt hefur.   

Í Þýzkalandi búa flestir í leiguhúsnæði. Í Suður-Evrópu nema eignir íbúanna í fjármálakerfinu aðeins um 20 % af heildareignum þeirra, af því að þar er mun algengara, að fólk búi í eigin húsnæði. 

Nýlega bárust hollenzkum félögum í lífeyrissjóðum slæm tíðindi, sem rekja má til lélegrar ávöxtunar lífeyrissjóðanna.  Lífeyrisgreiðslur munu að líkindum verða skertar árið 2017, og iðgjöldin verða hækkuð. Við þessar aðstæður er skiljanlegt, að íbúarnir, margir hverjir, gjaldi varhug við flóðbylgju flóttamanna, sem verða munu þungir á fóðrum sameiginlegra sjóða, því að þeir eiga mjög langt í land aðlögunar til að verða nýtir þjóðfélagsþegnar. Lágvaxtastefnan kemur hart niður á lífeyrissjóðunum.  Fjármögnun ellilífeyris er verða að stórfelldu þjóðfélagslegu vandamáli víðast í Evrópu utan Íslands.

Annað umræðuefni í þessu sambandi er efnahagslegt ójafnræði íbúanna.  Í nýrri bók eftir hagfræðinginn Marcel Fratzscher fullyrðir hann,  að 40 % íbúa Þýzkalands, þeir sem minnstar eignir eiga, eigi minna en nokkurs staðar þekkist annars staðar á evrusvæðinu. Þetta er m.a. vegna þess, hvernig húsnæðismálum er háttað í Þýzkalandi og áður er á drepið. Sannast hér enn og aftur, hversu skynsamleg ráðstöfun það er að hálfu yfirvalda, t.d. á Íslandi, að hvetja með raunhæfum aðgerðum til einkaeignar á húsnæði.  Skilur hér greinilega á milli hægri og vinstri manna. 

Af þessum sökum hefur grafið um sig djúpstæð óánægja í Þýzkalandi með núverandi vaxtastig í landinu, því að það mun fyrirsjáanlega enn auka á fjárhagslegt og þar af leiðandi félagslegt ójafnræði þegnanna.  Fjármálageirinn hefur þess vegna stjórnmálalegan bakhjarl, þegar hann nú þrýstir á ríkisstjórnina í Berlín, sérstaklega á fjármálaráðherrann, Wolfgang Schäuble, að taka sér nú á raunhæfan hátt stöðu með sparendum, sem eru reyndar taldir siðferðisleg og fjárhagsleg kjölfesta Þýzkalands frá fornu fari. 

"Þetta er í fyrsta skipti, sem fólk og fyrirtæki í Norðrinu verða fyrir skakkaföllum af völdum evru-vandræðanna",

segir Guntram Wolff hjá Brügel, ráðgjafarstofnun (Think Tank) í Brüssel. 

Hérlendis hefur yfirvofandi hætta á fjármálamörkuðunum ekki farið framhjá mönnum, og þess mátti sjá stað í forystugrein Morgunblaðsins, 27. september 2016:

"Aðvörunarmerki hræða"

"Evrusvæðið er í ógöngum.  Við bætist stjórnmálalegt uppnám álfunnar.  Það eykur vandann, að staða kanzlara Þýzkalands og forseta Frakklands hefur veikzt síðustu misseri. Þessi tvö, Merkel og Hollande, hafa verið raunverulegir stjórnendur álfunnar. ["Wir schaffen das"-innsk. BJo.] Bakland þeirra heima brast hins vegar hjá báðum og þar með myndugleikinn gagnvart öðrum ESB-ríkjum.  Stórmál hrannast upp, og vottar ekki fyrir lausnum. Efnahagur Ítalíu er við þolmörk." ....

"Það sýnir, hve ástandið er kvikt, að vandamál eins banka í Þýzkalandi veikti alla markaði álfunnar.  Hlutabréf í Deutsche Bank hafa fallið mjög að undanförnu og tóku enn nýja dýfu í gær.  Þau eru nú þriðjungi lægri en þau lögðust lægst í bankakreppunni 2007-2009.  Síðasta ógæfa þýzka bankans var sú, að bandarísk dómsmálayfirvöld gerðu honum að greiða miaUSD 14 í sekt fyrir vafasama viðskiptahætti.  Verð bréfa í bankanum hafa lækkað um meira en helming, það sem af er ári."

Þessi lýsing á ástandinu í kjölfestulandi evrunnar, Þýzkalandi, sýnir verra efnahagsástand á evrusvæðinu en þar hefur orðið áður í hennar sögu. Fjármálakerfið þar nálgast nú hengiflugið, og evran mun ekki standa af sér bankahrun í Þýzkalandi, því að þýzka útflutningsvélin hefur hindrað enn hraðari lækkun evrunnar en reyndin hefur orðið.

Hælisleitendur hafa í þokkabót grafið undan stjórnmálalegum stöðugleika í landinu, og forsetakosningar í Frakklandi 2017 gera að verkum, að ekki er að vænta róttækra aðgerða til lausnar á efnahags- og þjóðfélagsvanda.  Það verður flotið sofandi að feigðarósi, enda Bretar á förum úr ESB, og þegar þangað er komið, verður neyðarástand á meginlandinu. 

Þá er nú betra, og reyndar bráðnauðsynlegt, ef forðast á öngþveiti á Íslandi, að við stjórnvölinn  í Stjórnarráðinu sé hæft fólk, sem hefur vit á fjármálum, er með tengsl erlendis og með getu til að stjórna þjóðfélagi í háska.

Um þetta ritaði "Innherji" í Viðskipta-Moggann, 29. september 2016 með vísun í íslenzkt forystufé:

"En það er fleira en fé, sem er til forystu fallið, að eigin mati í það minnsta.  Nú fer í hönd sú tíð, að forystufólk íslenzkra stjórnmála lítur yfir hjörð sína og hristir sig, svo að hátt lætur í bjöllum þess, í yfirfærðri merkingu.  Þótt stillt sé, að því er virðist, geta veður skipast fljótt í lofti, og hjörðin öll verður að geta treyst á að verða leidd til byggða af viti og styrk. Það er því mikilvægara en oft áður, að val á þeim, sem forystan verður falin, sé yfirvegað og byggt á reynslu og getu þeirra, sem koma til greina."

 

 

 


Vaxandi spenna í Evrópu

Niðurstöður nýlegra fylkiskosninga í Þýzkalandi sýna, að geð kjósenda er verulega tekið að grána.  Ein ástæðan er hár kostnaður við móttöku framandi hælisleitenda, frumstæð hegðun þeirra og slæmt heilsufar margra flóttamanna frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, en einnig er mjög vaxandi óánægja með ofurlága vexti, sem margir Þjóðverjar, Austurríkismenn, Hollendingar o.fl. telja til þess fallna að flytja mikla fjármuni frá sparendum í norðri til skuldara í suðri.

Vaxandi fylgi hægri flokksins, AfD - Alternative für Deutschland, er engin tilviljun, heldur viðbragð kjósenda við þeirri þrúgandi stöðu, að hælisleitendur leggjast af miklum þunga á innviði Þýzkalands, húsnæðisframboð minnkar, og lágir vextir valda óeðlilegum hækkunum á húsnæði í þokkabót, álag á sjúkrahúsin eykst m.a. vegna framandi sjúkdóma, sem fylgt hafa hælisleitendum, og fjöldi atvinnulausra vex úr 2,5 milljónum vegna innflæðis fólks og stöðnunar atvinnulífs, sem lágir vextir og peningaprentun hafa ekki hrinið á. 

Því miður versnar ástandið stöðugt í Sýrlandi, og þurrkar í Norður-Afríku valda uppskerubresti, svo að ekki hillir undir, að hælisleitendur verði fluttir til baka, eins og Angela Merkel þó hefur talað um, að stefnt væri að.  Um hrikalega hegðun hælisleitenda og stórfelld samskiptavandamál er yfirleitt þagað þunnu hljóði enn sem komið er.  Óánægjan fær útrás m.a. með því að kjósa AfD, enda lofast þau til að taka innflytjendamál og "islamvæðingu Evrópu" föstum tökum.   

Víkjum nú að efnahags- og peningamálum ESB með því að styðjast við grein í "The Economist", 30. apríl 2016, "Mario battles the Wutsparer" (Mario [Draghi] berst við reiða sparendur (innistæðueigendur)):

"Þjóðverjar njóta þess að spara.  Þeim finnst siðferðislega rangt að taka lán", segir Reint Gropp, þýzkur hagfræðingur.  Á þýzku og hollenzku þýðir skuld sekt, "Schuld".

Germanskar þjóðir á borð við Þjóðverja, Austurríkismenn og Hollendinga, eiga háar upphæðir á bankareikningum sínum.  Þeir högnuðust þess vegna á háum vöxtum.  Á síðustu árum hafa vextir fallið niður að núlli, og við þessar aðstæður hefur magnazt óánægja í þessum löndum, af því að íbúunum er ekki umbunað fyrir ábyrga fjármálahegðun, og þeir hafa nú fundið blóraböggul: Evrubankinn, ECB, og hans grunsamlegi ítalski formaður bankastjórnar, Mario Draghi. 

Í apríl 2016 réðist þýzki fjármálaráðherrann, Wolfgang Schäuble, á ECB fyrir neikvæða stýrivexti og peningaprentun og sakaði Mario Draghi um að bera ábyrgð á uppgangi, AfD, sem í fylkiskosningum í sumar stórjók fylgi sitt á kostnað flokks fjármálaráðherrans og kanzlarans, CDU. 

Sannleikurinn er sá, að lágvaxtastefna ECB veldur bönkum á evrusvæðinu mjög miklum erfiðleikum.  Nú hafa t.d. borizt fregnir af veikri stöðu eins stærsta banka Þýzkalands, fjárfestingarbankans Deutsche Bank-DB.  DB stendur í alþjóðlegum viðskiptum, hefur tapað stórum fjárhæðum á þeim og verið ákærður fyrir sviksamlega viðskiptahætti í Bandaríkjunum-BNA, sem geta kostað hann um miaUSD 10 í sektum.  Virði hlutabréfa bankans hefur fallið um meira en helming á rúmu ári, sem þýðir, að ótti hefur grafið um sig um afdrif bankans. 

Upplýsingar um of veika eiginfjárstöðu banka í BNA bætast við fregnir af tæpri stöðu ítalskra banka.  Þetta eru allt aðvörunarmerki um það, að bankakerfi heimsins þoli ekki lágvaxtastefnu stærstu seðlabanka heimsins, og þess vegna gæti orðið nýtt alþjóðlegt bankahrun innan tíðar.  Angela Merkel þorir ekki að koma DB til bjargar af ótta við þýzka kjósendur í kosningum til Bundestag að ári liðnu.  Þetta ástand getur leitt til fyrirvaralauss áhlaups á sparibanka Evrópu, sem leitt getur af sér bankahrun.  Ríkissjóðir flestra ríkja Evrópu eru ekki lengur í stakkinn búnir að hlaupa undir bagga með bönkum, svo að væntanleg bankakreppa verður öðruvísi og víðast líklega enn alvarlegri en 2007-2008. 

Á Íslandi er eiginfjárstaða stærstu bankanna þriggja með traustasta móti, en ef ratar sitja í Stjórnarráðinu, þegar ósköpin dynja yfir, munu þeir örugglega ekki rata á beztu lausnirnar, heldur gætu þeir hæglega magnað vandann með aðgerðarleysi eða örvæntingarfullu fáti með grafalvarlegum afleiðingum fyrir ríkissjóð, sparifjáreigendur og alla landsmenn. Það er vert að hafa þetta sjónarmið ofarlega í huga, þegar gengið verður til kosningu 29. október 2016.

 

 

 

 


Húsnæðismarkaðurinn hér og þar

Það skiptir máli, hvaða stjórnmálaflokkar fara með völd í landinu.  Ef fólk heldur, að glæsileg staða efnahags landsins sé tilviljun, þá er það misskilningur.  Verðmætasköpun atvinnulífsins er undirstaða lífskjara almennings, og þess vegna skiptir rekstrarumhverfið miklu máli, og stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga hafa á þetta mikil áhrif.  Við göngum senn til kosninga, og þá er mikilvægt fyrir buddu hvers og eins að taka ekki áhættu með vonarpening og að varast vinstri slysin. Þau hafa alltaf orðið dýrkeypt. Alþingismenn, sem hafa sjónarmið hinnar "hagsýnu húsmóður" að leiðarljósi, eru líklegastir til að ráðstafa sameiginlegu fé kjósenda af skynsamlegustu viti, en stjórnmálamenn, sem lofa öllum öllu eru líklegir til að eyða sameiginlegu fé áður en þeir afla þess og valda hér verðbólgu. Skuldsetning og verðbólga eru fylgifiskar óráðsíu í ríkisfjármálum. 

Húsnæðismálin skipta alla máli, unga sem aldna.  Það er kunnara en frá þurfi að segja, hversu mikilvægt er fyrir fjárhag og velferð fjölskyldna að eiga húsnæðið, sem þær búa í.  Að eignast húsnæði hefur alltaf verið erfitt, enda eru húsnæðisbyggingar eða húsnæðiskaup langstærsta fjárfesting flestra yfir ævina.  Fyrir aldraða, sem látið hafa af störfum, er það í raun skilyrði fyrir sæmilegri afkomu að eiga skuldlausa húseign.  Af þessum ástæðum er séreignarstefnan á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, en blekbónda er til efs, að forysta annarra stjórnmálaflokka sé sama sinnis. Vinstri menn hafa horn í síðu eignamyndunar einstaklinga, af því að þeir telja fjárhagslegt sjálfstæði ekki keppikefli, heldur skuli sem flestir þurfa að reiða sig á sameiginlega forsjá hins opinbera.  Slíka telja þeir líklegasta til fylgilags við sameignarstefnuna.   

Óðinn gerði

"Norðurlöndin og staðreyndir um húsnæðisvexti"

að umfjöllunarefni í Viðskiptablaðinu 15. september 2016:

"Það er líklegt, að eitt stærsta málið fyrir þingkosningarnar, sem fara fram 29. október [2016], verði húsnæðismál, ekki sízt erfiðleikar ungs fólks við að koma sér upp þaki yfir höfuðið."

Þetta á sér t.d. þær skýringar, að frá aldamótaárinu 2000 til 2013 hækkaði byggingarkostnaður án lóðagjalda um tæplega 20 % á föstu verðlagi.  Skúrkarnir, sem þessu valda, eru hvorki efnissalar né byggingameistarar, heldur aðallega hið opinbera, ríki og sveitarfélög.  Ríkið með hækkun skatta á tímum vinstri stjórnarinnar, en nánast allar skattahækkanir leiða til hækkunar byggingarkostnaðar, ekki sízt hækkun virðisaukaskatts.  Á núverandi kjörtímabili var efra þrep hans hins vegar lækkað úr 25,5 % í 24,0 %, og nefnd stjórnvalda hefur lagt til eitt VSK-þrep, 19 %.  Undir vinstri stjórn verður það áreiðanlega ekki lækkað.  Á núverandi kjörtímabili hafa vörugjöld verið afnumin, sem virkar til lækkunar á byggingarkostnaði.

Þá var sett ný löggjöf af vinstri stjórninni, sem leiddi til breytinga á byggingarreglugerð, sem orsökuðu hækkun byggingarkostnaðar.  Þannig vann vinstri stjórnin að því bæði leynt og ljóst að leggja stein í götu þeirra, sem eignast vildu eigið húsnæði. Ofan af þessu hefur nú verið undið að mestu. 

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, sagði við Vilhjálm A. Kjartansson, blaðamann á Morgunblaðinu, í grein VAK,

"Lóðaverð hækkar byggingarkostnað",

þann 9. september 2016,

"að skipulagsstefnur sveitarfélaga geti haft töluvert að segja um byggingarkostnað". 

Sveitarfélögin, sum hver, eru nú Svarti-Pétur húsnæðiskostnaðarins. Björn bar saman kostnað 100 m2 íbúðar í lyftuhúsi á Akureyri og 115 m2 íbúð í lyftuhúsi í Reykjavík.  Í Reykjavík er kvöð um bílageymslu í bílakjallara, en á Akureyri eru bílastæði leyfð á lóð. 

"Fermetraverð íbúðarinnar á Akureyri er 314 kkr, en 562 kkr í Reykjavík." 

Einingarverðið í Reykjavík er tæplega 80 % hærra en á Akureyri.  Björn Karlsson segir, að bílakjallarinn geti hækkað verð á slíkri íbúð um allt að 5 Mkr.  Hann segir ennfremur, að lóðaverð (tilgreinir ekki hvar) hafi hækkað um 500 % á síðustu 12 árum. Þarna er skúrkurinn fundinn.   

Þessi framkoma yfirvalda við húsbyggjendur er fyrir neðan allar hellur.  Markaðsverð á hvern m2 hækkaði um þriðjung frá árinu 2000-2013, og meginsökudólgarnir eru sveitarfélög (ekki öll) og ríkið, þó að það hafi bætt sig, sbr hér að ofan. Þarna er meðvitað með sérvizkulegri kröfu skipulagsyfirvalda verið að leggja stein í götu húsbyggjenda, sem harðast kemur niður á þeim, sem eru að eignast sitt fyrsta þak yfir höfuðið. Vinstri stefna í hnotskurn. 

 

Sum sveitarfélög, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, hreint og beint okra á lóðaúthlutunum.  Þetta er forkastanleg hegðun, sem verst kemur niður á unga fólkinu, sem er að hefja búskap og/eða hefur hug á "að koma sér þaki yfir höfuðið", ætlar með einum eða öðrum hætti að fjárfesta í sínu fyrsta húsnæði. 

Sveitarfélög, sem lóðaokur stunda, gera það með þeim hætti að mynda lóðaskort.  Síðan t.d. bjóða þau út lóðir og selja hæstbjóðanda.  Í Viðskipta-Mogganum 22. september 2016 var t.d. greint frá því, að sami verktakinn hefði hreppt allar lóðirnar í einu útboði og greitt fyrir þær verð, sem svarar til 4,9 Mkr að meðaltali á íbúð.  Þetta er óhæfa. 

Þegar Davíð Oddsson varð borgarstjóri í Reykjavík, lét hann það verða eitt af sínum fyrstu verkum að afnema lóðaskortinn, sem vinstri meirihlutinn þar hafði framkallað, enda er lóðaskortur óþarfi, þar sem nægt er byggingarland.  Í Reykjavík var þess þá einfaldlega gætt, að framboðið annaði eftirspurninni, og lóðirnar voru boðnar til kaups á verði, sem endurspeglaði kostnað við uppbyggingu hverfis án álagningar. Fyrstur kom, og fyrstur fékk. Þannig eiga sýslumenn að vera, og með þessari stefnu stuðla sveitarfélög að lækkun byggingarkostnaðar, sem er brýnt hagsmunamál almennings í landinu. Það sýnir sig oft, að hagsmunir vinstri flokkanna fara ekki saman við hagsmuni almennings.   

Byggingarkostnaður skiptist nú þannig samkvæmt Hannari og Samtökum iðnaðarins:

  • Framkvæmdarkostnaður       60 %
  • Lóðarkaup                  20 %
  • Fjármagnskostnaður         12 %
  • Hönnunarkostnaður           3 %
  • Annar kostnaður             5 %

Af þessu yfirliti sést, að sveitarfélögin eru í lykilaðstöðu til að lækka byggingarkostnað með því að auka framboð lóða til að mæta eftirspurn og láta lóðirnar af hendi á kostnaðarverði

Fjármagnskostnaðinn er líka unnt að lækka.  Hann markast að nokkru af stýrivöxtum Seðlabankans, sem hefur í 2 ár haldið þeim hærri en peningaleg rök standa til og með því skapað gróðrarstíu spákaupmennsku vaxtamunarviðskipta, sem styrkt hefur gengið enn meir en ella, en gríðarleg gengishækkun í boði Seðlabankans á þessu ári er orðin vandamál fyrir útflutningsatvinnuvegina.  Þess vegna ættu réttu lagi að verða enn frekari vaxtalækkanir á næstu vaxtaákvörðunardögum Seðlabankans. 

Nú verður áfram vitnað í Óðin:
"Viðreisn, stjórnmálaafl Benedikts Jóhannessonar, hefur hamrað mjög á samanburðinum milli vaxta á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum."

Óðinn vitnar síðan í skrif Bjarna Halldórs Janussonar, formanns ungliðahreyfingar Viðreisnar um vexti á Norðurlöndunum, sem Óðinn telur afar villandi.  Staða húsnæðiskaupenda á Íslandi sé í raun traustari en staða húsnæðiskaupenda annars staðar á Norðurlöndunum, þegar til lengri tíma er litið. 

Bjarni Halldór skrifar:

"Lánakjör til fasteignakaupa eru mun hagstæðari á Norðurlöndunum en á Íslandi.  Á Norðurlöndum eru breytilegir vextir á bilinu 1-2 %."

Þetta er augnabliksstaðan, en þegar um lántöku til 25-40 ára með breytilegum vöxtum er að ræða, er út í hött að einblína á núið. Hér er blekking höfð í frammi að hálfu Viðreisnar, sem hefur tilhneigingu til að fegra allt í útlöndum á kostnað Íslands. 

Árið 1995 voru breytilegir vextir í Svíþjóð 8,8 %/ár.  Vextir langtíma húsnæðislána með föstum vöxtum í Danmörku hafa á árabilinu 1998-2016 sveiflazt á bilinu 2,0 %- 8,2 %, og meðaltal þessara vaxta verið 5,2 % í Danmörku.  Meðalvextir húsnæðislána í Danmörku með breytilegum vöxtum eru 2,7 %, en eru nú neikvæðir, -0,23 %, og hafa hæst orðið 6,4 %.  Áfram verður vitnað í Óðin:

"Það, sem ræður vöxtunum í viðkomandi löndum, eru stýrivextir seðlabankanna.  Með töluverðri einföldun má segja, mjög háir og mjög lágir stýrivextir þýði, að eitthvað verulegt sé að efnahagnum á myntsvæði viðkomandi seðlabanka."

Stýrivextir í Danmörku eru núna -0,65 % og í Svíþjóð -0,50 %.  Það er efnahagsstöðnunin í ESB og baráttan við verðhjöðnun í evru-löndunum, sem veldur neikvæðu vaxtastigi í Danmörku og Svíþjóð, en þá þurfa fjármagnseigendur að borga fyrir að setja fé á bankareikninga.  Þeim hefur hingað til verið hlíft við þessu, og þess vegna er afkoma viðskiptabanka í ESB slæm. Á Ítalíu vofir yfir bankahrun.

Þegar flótti fjármagns frá evrunni gerði vart við sig, seldu menn evrur og keyptu danskar og sænskar krónur.  Til að bregðast við þessu og til að vinna gegn stöðnunaráhrifum frá hinum ESB-löndunum lækkuðu seðlabankar Danmerkur og Sviþjóðar stýrivexti meira en dæmi eru um þar.  Hér er Seðlabankinn sem þurs, sem ekki áttar sig á stöðu mála fyrr en um seinan. 

"Þegar að því kemur, að stýrivextir hækka í löndunum tveimur [Danmörku og Svíþjóð], verður til nýtt vandamál.  Þeir, sem hafa keypt húsnæði á svo lágum vöxtum, eins og verið hafa undanfarið, munu sjá greiðslubyrðina snarhækka, enda eru lán með breytilegum vöxtum reglan, en ekki undantekning.  Ekki nóg með það, heldur hefur húsnæðisverð hækkað viðstöðulaust í algjörum takti við lága vexti.  Þetta hefur gerzt víðar í Evrópu."

Það munu alvarlegir timburmenn fylgja í kjölfar hækkunar vaxta á Norðurlöndunum og annars staðar, þar sem þeir eru við núllið núna.  Ástandið núna erlendis er mjög óeðlilegt og mun leiða til fjöldagjaldþrota, þegar vextir hækka á ný.  Að dásama þetta fyrirkomulag ber vitni um heimsku. 

Hvað skrifar Óðinn um afleiðingar óhjákvæmilegra vaxtahækkana ?:


"Eftirspurnin mun minnka, húsnæðisverð lækka, greiðslubyrði hækka, og ástandið gæti orðið ekki ósvipað því, sem var á Íslandi eftir fall viðskiptabankanna haustið 2008.  Seðlabankar Svíþjóðar og Danmerkur hafa eðlilega miklar áhyggjur af þessu.  Það er óðs manns æði að fara inn á fasteignamarkaðinn víða í Evrópu vegna lágra vaxta, því að fyrr eða síðar, og líklega fyrr en seinna, munu vextir hækka."

Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum, sem er ályktun Óðins um vitlaus viðmið Viðreisnar og þá um leið annarra evru-hallra stjórnmálaflokka hérlendis, sem allir virðast blindir og heyrnarlausir varðandi það, sem nú er að gerast í Evrópu.

"Það er ábyrgðarmál að segja ungu fólki í dag, að þau muni búa við betri kjör á Norðurlöndunum, þegar staðreyndin er sú, að líklega er hvergi eins bjart fram undan í efnahagsmálum og á Íslandi.  Kaupmátturinn vex hratt, gengi krónunnar styrkist, og atvinnuleysið er horfið.  ...... Það er líka afar sérstakt, að flokkur tryggingastærðfræðingsins Benedikts Jóhannessonar skuli af öllum flokkum halda þessari tálsýn að ungu fólki.  Margur hefði haldið, að hann af öllum mönnum skildi, hvernig umgangast ætti hugtakið vexti.

Nú er reyndar svo komið, að styrking ISK er fremur ógn en tækifæri, því að hún hefur gengið svo langt, að hún er farin að veikja samkeppnishæfni landsins.  Slík veiking mun innan tíðar leiða til minni hagvaxtar, sem kemur niður á lífskjörum og getu ríkissjóðs til að standa undir bættu almannatryggingakerfi, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, vegakerfi o.s.frv. 

Þessi neikvæða þróun er í boði Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, sem styðst við meingölluð líkön af íslenzka hagkerfinu og virðist skorta hagfræðilegt innsæi og hugrekki til að taka sjálfstæða afstöðu á grundvelli borðleggjandi staðreynda.  Vextirnir eru afkáralega háir m.v. vaxtastigið í heiminum og stöðu íslenzka hagkerfisins.  Þeir þurfa líklega að lækka um 2 %, svo að jafnvægi verði náð.   

Ásalóð (Oslo)

 

   

 


Almannatryggingar - úrbætur

Það er engin hemja, að réttur þegnanna til greiðslu úr almannatryggingakerfi Tryggingastofnunar skuli vera skertar vegna greiðslu, sem sömu þegnar hafa unnið sér inn frá lífeyrissjóði sínum.  Þarna kemur ríkissjóður aftan að félögum í lífeyrissjóðunum og beitir þá misrétti miðað við hina, sem verið hafa á vinnumarkaðinum án þess að spara, t.d. til elliáranna, með inngreiðslum í lífeyrissjóð. 

Þann 19. september 2016 var undirritað samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaði á milli opinbera geirans og einkageirans.  Ríkissjóður  og sveitarfélögin brúuðu bilið, sem þurfti til samkomulags, með skuldbindingum um háar fjárhæðir, og samkomulagið er enn ein rósin í hnappagat fjármála- og efnahagsráðherra, því að nú loksins er lífeyriskerfi landsmanna sjálfbært og ríkissjóður ekki í ábyrgð fyrir afkomu lífeyrissjóða opinberra starfsmanna.  Jafnræði hefur náðst á vinnumarkaði varðandi lífeyrisréttindi. 

Þetta er stórt framfaraskref fyrir allt þjóðfélagið, og væri nú verðugt, að ráðherrann léti kné fylgja kviði á sviði lífeyrisréttinda og beitti sér fyrir afnámi téðrar neikvæðu tengingar lífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum og ellilífeyris frá Tryggingastofnun. 

Um þetta o. fl. skrifar Halldór Gunnarsson, fyrrverandi sóknarprestur í Holti, í þrælmagnaðri grein,

"Uppgjöf formanns LEB", 

sem birtist í Morgunblaðinu 15. september 2016:

"Vinstri stjórnin skerti kjör öryrkja og eldri borgara miskunnarlaust og kom á skerðingum, langt umfram alla aðra, þannig að eldri borgarar voru skertir, miðað við stöðuna í dag, um 150´000 kr á mánuði."

Þetta leyfði hin hraksmánarlega "norræna velferðarstjórn" sér að gera og þóttist þó hafa "myndað skjaldborg um heimilin".  Annað eins ginnungagap á milli orða og efnda hefur ekki myndazt á nokkru kjörtímabili á lýðveldistímanum, enda eiga viðkomandi tveir stjórnmálaflokkar fremur erfitt uppdráttar um þessar mundir, hvað sem verður.  Það er einfaldlega ekkert að marka vinstri menn. 

Fé Tryggingastofnunar ætti síðast af öllu að skerða, enda ekki feitan gölt að flá, og eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar var að afnema skerðingar á grunnlífeyri allra.

Í lok greinar sinnar skrifar Halldór í Holti:

"Um 40 þúsund eldri borgarar gera þá réttmætu kröfu, að lífeyrissjóðsgreiðslur, sem einstaklingar hafa áunnið sér með greiðslum af eigin launum, komi ekki til skerðingar á greiðslum Tryggingastofnunar með ólögum, sem fyrir löngu hefði átt að mæta með lögsókn til að sækja lögvarða eign einstaklinga í lífeyrissjóðum.  Formanni LEB hefði verið meiri sómi að því að beita sér fyrir þeirri lögsókn fremur en að mæla með samþykkt á uppfærðu lífeyriskerfi."

Óli Björn Kárason, sem hlut 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í "Kraganum", ritar vikulega í Morgunblaðið, og þann 7. september 2016 nefndist hugvekja hans,

"Frítekjumark er réttlætismál".  Þar skrifar þessi pólitíski hugsjóna- og baráttumaður m.a.:

"Frumvarp félagsmálaráðherra gerir ráð fyrir, að grunnlífeyrir, tekjutrygging og sérstök uppbót til framfærslu, verði sameinuð í einn bótaflokk, ellilífeyri.  Fjárhæð sameinaðs bótaflokks verður 212´776 kr á mánuði.  Heimilisuppbót til þeirra, sem búa einir, helzt óbreytt.  Tekjur eldri borgara verða meðhöndlaðar með sama hætti, óháð uppruna (atvinnutekjur, fjármagnstekjur og lífeyrissjóðstekjur).  Frítekjumörk verða afnumin, en fjárhæð ellilífeyris skerðist um 45 % vegna vegna tekna frá öðrum en almannatryggingum, en þó ekki vegna greiðslna séreignarlífeyrissparnaðar."

Þetta er gott og blessað, en þó er nauðsynlegt að gera við þetta 2 athugasemdir, svo að sanngirni sé gætt í garð iðgjaldagreiðenda lífeyrissjóða og þeirra, sem einvörðungu fá ofangreindar 212´776 kr sér til framfærslu.  Er þá vísað til stefnumiðs Sjálfstæðisflokksins um afnám tekjutenginga ellilífeyris. 

  1. Skattleysismarkið er nú 145´000 kr á mánuði.  Þetta þarf að hækka upp í ellilífeyrismörkin eða um 47 %.  Það er engin hemja að skattleggja tekjur eða lífeyri, sem eru undir fátæktarmörkum.  Ef þetta er talið of dýrt fyrir ríkissjóð, verður að flækja þetta með því, að þeir, sem eru með tekjur yfir skilgreindum framfærslumörkum af Hagstofunni, verði með neðri skattleysismörkin, 145 kkr, en hinir með hin efri, 213 kkr. 
  2. Frumvarp félagsmálaráðherra afnemur núverandi frítekjumark, 110´000 kr á mánuði, fyrir greiðslur ellilífeyris frá Tryggingastofnun.  Þetta er ekki í takti við tímann, þegar æ stærri hluti fólks, sem kemst á ellilífeyrisaldur, hefur starfsþrek og áhuga á að vinna sér inn aukatekjur.  Með frumvarpinu er fólk latt til að vinna á efri árum, því að 45 % teknanna dragast frá greiðslum Tryggingastofnunar.  Það er óeðlilegt, að jaðarskattur á aðrar tekjur eldri borgara en greiðslur frá Tryggingastofnun sé 45 %.  Annaðhvort þarf að lækka þennan jaðarskatt, t.d. niður í 25 %, eða að innleiða frítekjumark í nýju lögin, t.d. 110´000 kr.     

Um þetta skrifar Óli Björn í Morgunblaðið í téðri grein:

"Með innleiðingu frítekjumarks verður eldri borgurum gert kleift að bæta sinn hag verulega.  Þetta ættu þingmenn að hafa í huga, þegar þeir ganga til þess verks að afgreiða frumvarp félagsmálaráðherra."

Til að létta undir með ríkissjóði er sjálfsagt að hækka eftirlaunaaldurinn.  Meðalaldur við dauðsfall er um aldarfjórðungi hærri nú á Íslandi en var í Þýzkalandi um 1880, þegar járnkanzlarinn, Otto von Bismarck, lagði til við þýzka þingið, Reichstag, að sameiginlegu tryggingakerfi yrði komið á laggirnar fyrir allt Þýzkaland, sem þá var nýsameinað.  Þetta var svar hans við þjóðfélagsbreytingum, sem af iðnvæðingunni leiddu og bættu hag verkalýðsstéttanna til muna, svo að ekki sé nú minnzt á miðstéttina.  Vaxandi þrýstings um aukin réttindi gætti að hálfu þessara stétta á þá, sem enn höfðu tögl og hagldir í þjóðfélaginu, aðalinn, sem missti ekki tök sín á þjóðfélaginu fyrr en í kjölfar hildarleiksins 1914-1918.  Nú er gerjun í íslenzka þjóðfélaginu, enda lýðfræðilegar breytingar hafnar, sem krefjast framtíðarhugsunar við lagasetningu.

Lýðfræðileg staða Íslands er tekin að snúast á verri veg, eins og tók að gæta annars staðar á Vesturlöndum fyrir síðustu aldamót og í Japan verulega um 1990.  Meðalaldur þjóðanna hækkar vegna lítillar viðkomu.  Það þýðir, að hlutfallslega fækkar þeim, sem eru á aldrinum 18-67 ára, en þeim, sem eru 67 ára og eldri fjölgar hlutfallslega.  Nú eru um fimmfalt fleiri á vinnumarkaðsaldri en nemur fjölda eldri borgara, en eftir tvo áratugi gæti þetta hlutfall hafa helmingazt. Eldri borgarar, 67+, stefna á að verða a.m.k. fjórðungur íslenzku þjóðarinnar, og í mörgum löndum er sú nú þegar orðin raunin.  Þeir eru nú í fjárhagslegri spennitreyju ríkisvaldsins, sem líkja má við fátæktargildru, þar sem þeim eru allar bjargir bannaðar.  Það verður þegar í stað að gera bragarbót á og draga úr þungri refsingu kerfisins fyrir að sýna sjálfsbjargarviðleitni. Slíkar refsingar koma ætíð niður á hagsmunum heildarinnar, en það skilja ekki jafnaðarmenn. 

Almannatryggingakerfið er augljóslega ósjálfbært núna, og þess vegna er brýnt að hækka eftirlaunaaldurinn, þó ekki um 25 ár með vísun í þróunina frá upphafi almannatryggingakerfisins, heldur um t.d. 6 mánuði á ári f.o.m. 2018 þar til 70 árum er náð 2024, og endurskoða þá stigulinn.  Jafnframt ætti að gera aldursmörk fyrir elilífeyri sveigjanleg, svo að t.d. mætti hefja töku 50 % ellilífeyris 65 ára, sem þá mundi lækka réttindin við lögboðinn ellilífeyrisaldur, eins og fresta mætti töku ellilífeyris þá gegn hækkun fram að 75 ára aldri. Í raun og veru þarf að aðlaga vinnumarkaðinn að breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og mjög mismunandi heilsufari hennar við aldursmörk ellilífeyris. Um þetta o.fl. skrifar Óli Björn í téðri Morgunblaðsgrein.

"Kostnaður við frítekjumarkið er verulegur, en á móti er hægt að ganga rösklegar til verka við hækkun eftirlaunaaldurs.  Frumvarp félagsmálaráðherra gerir ráð fyrir, að eftirlaunaaldurinn hækki í áföngum í 70 ár á næstu 24 árum, og er það í samræmi við tillögur Pétursnefndarinnar. Í bókun með tillögunum undirstrikaði ég, að gengið væri of skammt og að miklu skipti, að hækkun lífeyrisaldurs kæmi til framkvæmda á ekki lengri tíma en næstu 15 árum.  Um leið var bent á, að stjórnvöld yrðu að meta kosti og galla þess að setja inn í lög ákvæði um reglubundna endurskoðun lífeyrisaldurs út frá lífaldri, sem stöðugt verður hærri."

Eldri borgarar eru mjög mismunandi hópur og samtímis mjög stækkandi hópur.  Þessi hópur á, eins og allir aðrir hópar í samfélaginu, rétt á að geta notað krafta sína til að efla sinn hag án þess að verða refsað harðlega fyrir það af ríkisvaldinu, og hinu sama ríkisvaldi ber á sama tíma skylda til að breyta umgjörð tryggingakerfisins til aukins sveigjanleika til að mæta breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu.  Hvaða stjórnmálaflokkur er líklegastur til að taka frumkvæði með ferskri hugsun, sem tekur mið af þróuninni ?

 


Tilraunahagfræðingur tjáir sig

Það er nauðsynlegt að ígrunda vel hvert skref, sem stjórnvöld hyggjast taka og kalla má inngrip í atvinnulífið.  Þau geta hæglega komið niður á afkomu almennings í landinu. Ef slík skref eru í andstöðu við atvinnugreinina, jafnvel bæði vinnuveitendur og launþega í greininni, þá þurfa slíkum inngripum að fylgja pottþétt lagaleg rök og sannfærandi rökstuðningur um, að slík inngrip bæti almannahag frá því, sem núverandi fyrirkomulag er megnugt að veita. 

Málflutningur þeirra, sem kollvarpa vilja íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu, en þeirra á meðal eru a.m.k. 3 stjórnmálaflokkar, Samfylking, Viðreisn og Píratahreyfingin, nær ekki máli sem rökstuðningur fyrir kúvendingu, því að eina ástæðan, sem tilfærð hefur verið, er, að samfélaginu öllu, þ.e. ríkissjóði, beri stærri hluti af þeim verðmætum, sem útgerðirnar afla. Þar er ekkert hugað að jafnræði atvinnurekstrar í landinu gagnvart ríkisvaldinu.

Viðfangsefnið hér er m.a. að ákvarða, hvort tekjur ríkisins verði meiri með "uppboðsleið" en með núverandi aflahlutdeildarkerfi.  Þá dugar ekki að skoða ríkistekjur af útgerðunum einvörðungu, heldur verður að skoða skattspor alls sjávarútvegsklasans, enda er hann reistur á útgerðunum. Versnandi hagur útgerða hefur strax neikvæð áhrif á heildarskattsporið, því að fjárfestingar munu minnka. Þetta er verðugt hagfræðilegt verkefni, t.d. fyrir Hagfræðistofnun, HHÍ, eða eitthvert endurskoðunarfyrirtækið, en tilgáta blekbónda er, að skattsporið með hóflegu veiðigjaldi á bilinu 2 % - 5 % af verðmæti afla upp úr sjó sé stærra en búast má við, að skattsporið mundi verða með uppboði aflaheimilda.  

Fyrir þessu eru þau almennu rök, að vaxtarskilyrði skattstofnsins eru því betri, þeim mun minna sem rennur af ráðstöfunarfé fyrirtækja beint til ríkisins.  Þetta verður auðskilið, ef gert er ráð fyrir, að unnt sé að velja á milli þess, að drjúgur hluti hagnaðar renni til fjárfestinga eða skattgreiðslna.  

Það er þannig næsta víst, að ríkisvaldið væri að skjóta sig í tekjufótinn með því að fara inn á braut uppboða í stað núverandi aflahlutdeildarkerfis með hóflegum veiðigjöldum. 

Nú vill svo til, að sérfræðingur um mál af þessu tagi, Charles Plott, CP,tilraunahagfræðingur, tjáði sig um uppboð við Stefán Gunnar Sveinsson í Morgunblaðinu 15. september 2016.  Allt, sem CP segir þar, er sem snýtt út úr nös blekbónda, og verður nú vitnað í viðtalið:

"Charles Plott, prófessor í tilraunahagfræði við Tækniháskólann í Kaliforníu, segir, að uppboð, eins og í sjávarútvegi, geti verið til margra hluta nytsamleg, ef þeim er beitt rétt.  Glapræði sé hins vegar að ætla að nýta þau til þess að endurúthluta gæðum eða breyta kerfi, sem virki vel, og nánast sé öruggt, að eitthvað af verðmætum muni fara forgörðum, verði sú leið farin."

Þessi yfirlýsing hins virta fræðimanns við Caltech sýnir, að hérlendis hafa menn af vanþekkingu hent á lofti fiskveiðistjórnunaraðferð, sem engan veginn á við íslenzkar aðstæður.  Fræðimaður, sem gleggst má vita um virkun og afleiðingar "uppboðsleiðar", CP, telur hana mundu verða til meira tjóns en gagns í íslenzka hagkerfinu.  Þessi varnaðarorð ættu að vega þungt ekki sízt, þar sem eintómir fræðilegir liðléttingar, ef nokkrir fræðimenn, hafa mælt með "uppboðsleiðinni" fyrir veiðiheimildir í íslenzku lögsögunni.

Málflutningur CP felur í sér, að hagvöxtur mundi minnka og þar með drægjust skattstofnar saman, sem hefði í för með sér minni skatttekjur ríkisins en nú.  Þar með væri ver farið en heima setið.  Óráðshjalið um, að "ósanngirni" núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis þurfi að leiðrétta með "fyrningu" og uppboði á andlagi "fyrningarinnar", er helber þvættingur, enda mundi þessi leið skaða ríkissjóð ekki síður en hag almennings í landinu.  Hér er fullkomið fúsk á ferð. 

"Í krafti reynslu sinnar hefur Plott komið að gerð og hönnun ýmissa uppboða á auðlindum, þar á meðal í sjávarútvegi. 

"Ég nefni sem dæmi fiskeldi, þar sem stjórnvöld hafa opnað ný svæði til að koma fyrir fiskeldiskerum, og spurningin verður, hver eigi að fá réttinn. Þetta eru ný gæði, og uppboð verður þá betri leið til að útdeila þessum nýju gæðum en einhver skriffinnskufegurðarsamkeppni, þar sem embættismenn fá að ákveða, hvern þeim lízt bezt á, sem er mjög ósanngjörn leið.  Þú hefur enga leið til að fá að vita, hver rökin á bak við þá ákvörðun verða."" 

Á þessu vefsetri hafa verið færð rök fyrir því, að nauðsynlegt sé að markaðsvæða úthlutun hinnar takmörkuðu nýju auðlindar, sem er hafsvæði í fjörðum Íslands fyrir eldiskvíar, svo að enn er blekbóndi hér algerlega sama sinnis og tilraunahagfræðingurinn Charles Plott.  Sama máli gegnir um orkugeirann, þó að CP nefni hann ekki í þessu viðtali.  

"Hann segir, að svo virðist sem ákvörðunin [Færeyinga um tilraunauppboð] sé byggð á þeirri tilfinningu, að útgerðarmennirnir hafi ekki unnið sér það inn að fá arð af auðlindinni.  "Þetta er tilfinning, sem er reist á skyssu: að auðlindin hafi eitthvert verðgildi utan þess, sem byggt hefur verið upp af eigendum eða rétthöfum.  Þeir byggðu hana upp, hafa sérfræðiþekkinguna, og það að taka hana í burtu og bjóða upp til einhvers annars mun líklega eyðileggja sumt af grunninum að verðmætasköpuninni, sem hefur gert miðin sjálfbær.""

Það á enginn óveiddan fisk í sjónum,  enda miðin almenningur frá fornu fari, þó að ítala hafi verið sett þar árið 1984 af illri nauðsyn. Þessi auðlind hefur ekkert sjálfstætt gildi, frekar en flestar aðrar, heldur markast verðmæti hennar af tæknibúnaði, tækniþekkingu og viðskiptaviti til að sækja aflann, breyta honum í markaðsvöru og afla viðskiptavina. 

Það er þess vegna botnlaus forræðishyggja og virðingarleysi gagnvart útgerðarmönnum, sjómönnum, vinnslunni um borð og í landi og viðskiptavinunum, fólgin í því að rífa grundvöll lifibrauðs fjölda fólks af því og færa hann einhverjum öðrum einvörðungu á tilfinningalegum og hugmyndafræðilegum grunni, en alls engum hagfræðilegum grunni.  Þar er svo sannarlega engri sanngirni fyrir að fara, heldur er þetta ómengaður "sósíalismi andskotans".  Ástæða er til að halda, að sú hugmyndafræði njóti sáralítils stuðnings almennings (utan R-101), þó að þrír ólíkir stjórnmálaflokkar virðist hafa látið ginnast og gert hana að sinni.

"Hann segir, að uppboð á vel starfhæfu kvótakerfi væri  óskiljanlegt.

"Ég skil ekki hvatann á bak við að trufla iðnað, sem gengur upp.  Uppboð mundi vera mjög truflandi fyrir sjávarútveginn.  Það skemmir fyrir hvötum fólks til að sækja sjóinn, það skemmir fyrir stofnunum í útvegi.  Ef það er hægt að kaupa og selja kvóta á opnum markaði [eins og á Íslandi], verður á þeim markaði eðlileg þróun, þar sem kvótinn færist frá þeim óskilvirku til þeirra skilvirku.  Ef frjáls markaður er fyrir hendi, munu lögmál hagfræðinnar sjá um það.""

Umbylting á atvinnugrein með valdboði að ofan hefur alls staðar reynzt vera stórskaðleg, enda á slík hugmyndafræði rætur að rekja til Karls Marx og Friedrichs Engels, svo að það er skiljanlegt, að " botninn sé suður í Borgarfirði" og Bandaríkjamaðurinn Charles Plott skilji ekki, hvað að baki býr slíku fáránleikaleikhúsi á Íslandi 2016.

"Plott segir það því vera nánast einfeldningslegt að trúa því, að hægt sé að taka eignina og gera betur án þess, að eitthvað láti undan.  "Og það mun eitthvað láta undan í aðförunum.""

Plott gengur hér svo langt að gera lítið úr vitsmunum þeirra, sem fara vilja "uppboðsleið" á veiðiheimildum í íslenzkri lögsögu.  Hér skal ekki reyna að leggja mat á greindarvísitölu þeirra, enda með öllu óáhugavert viðfangsefni.  Hitt er annað, að málsvarar og fylgjendur "uppboðsleiðar" eru af manngerð, sem telur tilganginn helga meðalið, "Der Erfolg berechtigt den Mittel". 

Að varpa fyrir róða núverandi árangursríku fiskveiðistjórnunarkerfi með þjóðnýtingu veiðiheimildanna réttlætir í huga gösslara, lýðskrumara og öfundarmanna hins markaðsstýrða íslenzka sjávarútvegs að taka gríðarlega áhættu með hag fólks, sem beina afkomu hefur af sjónum, hag viðkomandi sveitarfélaga, ríkissjóðs og alls hagkerfisins.  Þetta er hið sanna byltingarhugarfar, sem nú gengur ljósum logum á Íslandi í heilu stjórnmálaflokkunum og er afturganga Karls Marx.

 

 


Að hafa asklok (ESB) fyrir himin

Vinstri stjórnin 2009-2013 starfaði eftir hugmyndafræði. Hér verður meginhugmyndafræði hennar gerð að umfjöllunarefni í tilefni af drögum að skýrslu meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um einkavæðingu tveggja banka 2009-2010, sem er að finna sem viðhengi á þessari vefsíðu. 

Hugmyndafræði Stjórnarinnar yfirskyggði heilbrigða skynsemi og lá að baki atburðarás við umsóknarferli að Evrópusambandinu (ESB), sem hófst með "kattasmölun" á Alþingi í júlí 2009, réði hreinni uppgjöf Svavars Gestssonar gagnvart harðsvíruðum kröfum Breta og Hollendinga um ríkisábyrgð á greiðslum innistæðutrygginga í föllnum íslenzkum bönkum erlendis, og hún stjórnaði undarlegu og óvæntu einkavæðingarferli tveggja nýju bankanna þriggja, sem átti ekki eftir að hafa heillavænleg áhrif á hag skuldugra viðskiptavina gömlu bankanna, sem voru fluttir yfir í nýju bankana með um 50 % afskriftum, sem innheimtust í miklu hærra hlutfalli.

Einkavæðingu þessa bar brátt að, enda var hvorki gert ráð fyrir henni í Neyðarlögunum né í áætlunum FME (Fjármálaeftirlitsins) haustið 2008. Hvers vegna voru tveir nýir ríkisbankar skyndilega afhentir kröfuhöfum föllnu bankanna á silfurfati ?  Svarið er að finna með því að skoða meginhugmyndafræði Stjórnarinnar, sem var þessi að mati blekbónda:

  • Neyðarlögin, sem Alþingi samþykkti haustið 2008 að tillögu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, munu hvorki halda fyrir íslenzkum né alþjóðlegum dómstólum, enda sat Vinstri hreyfingin-grænt framboð hjá við afgreiðslu þessararar lagasetningar. 
  • Við (Íslendingar) verðum að friðþægja fyrir þessi lög með því að færa kröfuhöfum föllnu bankanna fórnir í þeirri von, að þeir láti hvorki reyna á gildi Neyðarlaganna hérlendis né erlendis.
  • Með þessari friðþægingu mun sérstaða íslenzku leiðarinnar ("við greiðum ekki skuldir óreiðumanna") minnka, en hún var Evrópusambandinu (ESB) mikill þyrnir í augum.  ESB hafði mótað þá stefnu, að ríkissjóðir í Evrópu skyldu hlaupa undir bagga með bönkunum, og tóku ríkissjóðir margra landa stórlán í þessu skyni, sem þeir eru enn að bíta úr nálinni með.  ESB óttaðist áhlaup á bankana og fall bankakerfis Evrópu, ef þetta yrði ekki gert.  Þess vegna voru yfirvöld á Íslandi, bæði ríkisstjórn Geirs Haarde og Jóhönnu Sigurðardóttur, undir miklum þrýstingi frá leiðtogum ESB og Evrópulandanna.  ESB ætlaði að brjóta Íslendinga á bak aftur, svo að þeir ógnuðu ekki fjármálastöðugleika Evrópu. Jafnvel forseti íslenzka lýðveldisins mátti þola aðför að hálfu forsætisráðherra Dana í tilraun Danans til að knýja fram stefnubreytingu, sem dr Ólafur Ragnar Grímsson lagðist harðlega gegn, eins og enn er mönnum í fersku minni.
  • Með friðþægingunni átti að greiða fyrir hraðferð Íslands inn í ESB, en handjárnaðir þingmenn vinstri stjórnarinnar samþykktu umsókn um aðild 16. júlí 2009 og höfnuðu skömmu áður þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina. Til að kóróna skrípaleikinn vilja þeir núna þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna, sem sigldu í strand 2011.  

Þessi hugmyndafræði er heildstæð og rúmast öll undir askloki Evrópusambandsins, þangað sem vanmáttug vinstri öflin ætluðu að leita skjóls fyrir Ísland í hörðum heimi. Öll var þessi hugmyndafræði afsprengi algers metnaðarleysis fyrir Íslands hönd, enda reist á sandi þekkingarleysis, reynsluleysis, getuleysis, dómgreindarleysis og þjóðhættulegra viðhorfa til fullveldis landsins.   

Þetta er ítarlega rakið í tímabærri skýrslu,

"Einkavæðing bankanna hin síðari",

sem er að finna undir hlekk "skyrsla-12_september_2016.pdf" hér á síðunni, þannig að lesendur geta þar sannreynt, hvort sparðatíningur þeirra, sem nú hafa verið afhjúpaðir, um framsetningu og frágang eigi við rök að styðjast. 

E.t.v. má þó segja, að um drög að skýrslu hafi verið að ræða, þegar hún var upphaflega birt, því að boðuð hefur verið rýni á henni, og hún var síðar kynnt á fundi Fjárlaganefndar.  Hún er samin og gefin út af meirihluta Fjárveitingarnefndar Alþingis, Vigdísi Hauksdóttur, formanni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, varaformanni, Valgerði Gunnarsdóttur, Páli Jóhanni Pálssyni, Ásmundi Einari Daðasyni og Haraldi Benediktssyni, sem þannig hafa sinnt eftirlitshlutverki sínu, sem oft hefur þó verið vanrækt af nefndum þingsins. 

Meirihlutinn hefur átt á brattann að sækja við efnisöflun, en hefur samt tekizt að leiða fram mikið af nýjum gögnum, svo að nú mun koma til kasta Ríkisendurskoðunar að varpa enn betra fjárhagslegu ljósi á málið, Umboðsmanns Alþingis að kanna lagalegu hliðina á gjörningum vinstri stjórnarinnar og jafnvel Ríkislögmanns. Landsdómur hefur og verið nefndur að gefnu tilefni, en það er ótímabært. 

Líta má á þessa skýrslu sem mikilvæga upplýsingaöflun Alþingis fyrir íbúa þessa lands að mynda sér skoðun um þá dularfullu og að mörgu leyti illskiljanlegu atburði, sem hér urðu í boði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. 

Reynt hefur verið eftir föngum að þagga þetta mál niður, af því að það varpar ljósi á, hversu vinstri flokkunum á Íslandi eru hroðalega mislagðar hendur við stjórnarathafnir, og að þeim er um megn að gæta hagsmuna Íslands. 

Þrátt fyrir gríðarlega fjárhagslega áhættu, sem þáverandi ríkisstjórn tók í sambandi við nýju bankana, hefur samt á endanum tekizt að sigla fleyinu (ríkissjóði) klakklaust í höfn á þessu kjörtímabili.  Það er þó ekki vinstri stjórninni að þakka, heldur endurreisn efnahagslífsins, sem knúin var áfram af útflutningsatvinnuvegunum í krafti gengisfalls krónunnar og gosi í Eyjafjallajökli 2010, sem vakti heimsathygli á Íslandi sem spennandi orlofsáfangastað í viðsjárverðum heimi. 

Með skattlagningu bankanna og samningum við þrotabú gömlu bankanna um stöðugleikaframlög þeirra til ríkissjóðs Íslands sem forsendu afnáms gjaldeyrishafta, hefur blaðinu algerlega verið snúið við í samskiptum íslenzka ríkisvaldsins við fjármálaöfl heimsins og kröfuhafa föllnu bankanna. 

Í stað fúsks, undirlægjuháttar og annarlegra forgangssjónarmiða um innlimun Íslands í ríkjasamband er nú komin fagmennska, þekking, yfirvegun og metnaður fyrir hönd fullvalda íslenzkrar þjóðar, svo að ríkissjóður ber ekki lengur skarðan hlut frá borði Hrunsins.  Þennan gríðarlega mun á vinnubrögðum og viðhorfum má persónugera í samanburði á tveimur fjármála- og efnahagsráðherrum, hinum tækifærissinnaða, vinstri sinnaða þingmanni, Steingrími Jóhanni Sigfússyni, og hinum trausta, borgaralega sinnaða formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni.

Grípum nú niður í téðri skýrslu:

"Eigendur þessara banka (Aríonbanka og Íslandsbanka) fengu því í hendurnar áhættulausa fjárfestingu, sem skilaði þeim 132,4 miökr á árunum 2009-2012 og 216,0 miökr, sé Landsbankinn tekinn með.  Hagnaður bankanna síðast liðin 7 ár er 468,7 miakr." 

Þetta sýnir svart á hvítu, hvað það var, sem vinstri stjórn J & S færði kröfuhöfum föllnu bankanna, hvað friðþæging ríkisstjórnarinnar kostaði íslenzka ríkissjóðinn í glötuðum tekjum. Þetta hefur ekki verið hrakið. 

"Samtals var ríkissjóður settur í áhættu fyrir 296 miökr við endurreisn bankanna.  Þetta er sama fjárhæð og í upprunalegu áætlunum neyðarlaganna, en þar var miðað við, að ríkið eignaðist alla bankana.  Með því að taka fram fyrir hendurnar á Fjármálaeftirlitinu (FME), glopraði fjármálaráðherra niður gríðarlegum ávinningi. 

Skýrslan sýnir, að samningagerðin gekk alfarið út á að friðþægja kröfuhafana með því að afhenda þeim eignarhaldið á bönkunum, varpa allri ábyrgð á íslenzka skattgreiðendur og falla frá tugmilljarða króna arðgreiðslum, endurgreiðslum og vaxtagreiðslum.  Samningamenn fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans afhentu kröfuhöfunum eignir á silfurfati og afsöluðu meira og minna öllum ávinningi ríkisins af þeirri ábyrgð, sem það tók á sig frá hruni bankanna."

Þetta er lýsing á því, hvernig þáverandi ábyrgðarmaður ríkissjóðs "afsalaði honum tekjum", svo að notað sé orðalag vinstri manna sjálfra, þegar skattalækkun er til umræðu, eða öllu heldur, hvernig þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra hlunnfór ríkissjóð með stórfelldri vanrækslu, þegar honum bar að gæta hagsmuna ríkissjóðs á viðsjárverðum tímum. Var ekki von, að hann þyrfti að skerða kjör öryrkja og aldraðra stórlega 1. júlí 2009 og þyrfti að láta fara fram hvern flata niðurskurðinn á fætur öðrum á Landsspítalanum, sællar minningar ?

Við sjáum af skýrslu meirihluta fjárlaganefndar, sem birt var 12. september 2016 og sem er sem viðhengi með þessum pistli, að vinstri stjórnin með Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar framdi afglöp.  Þessi afglöp voru engin tilviljun stundarmistaka í hita leiksins, heldur bein afleiðing þjóðníðingslegrar stefnumörkunar á grundvelli hugmyndafræði, sem rakin er í upphafi þessa pistils. Í skýrslunni segir:

"Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem tók við 1. febrúar 2009, kaus að fara þá leið að byggja endurreisn bankanna ekki á neyðarlögunum, heldur ganga til samninga við kröfuhafa." 

Í þessum pistli er gerð tilraun til að útskýra á grundvelli skýrslunnar, hvers vegna atburðarásin tók þessa óvæntu stefnu. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband