Ráðuneyti tekur afstöðu

Svo er að sjá sem ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, sem jafnframt er varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hafi tekið sér það fyrir hendur að sýna þingheimi og öðrum fram á, að eftirfarandi ályktun, sem einróma var samþykkt á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í 18. marz 2018, eigi alls ekki við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB, í EES-samninginn:

"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."

Til þess pantaði ráðherrann minnisblað frá fyrrverandi framkvæmdastjóra "innra markaðssviðs ESA" (Eftirlitsstofnunar EFTA með framkvæmd EES-samningsins), Ólafi Jóhannesi Einarssyni, lögmanni.  Ráðuneytið dró niðurstöður lögmannsins saman í 7 liði, sem verða tíundaðir hér á eftir, og athugað, hvernig til hefur tekizt:

  1. "Þriðji orkupakkinn haggar í engu heimildum íslenzkra stjórnvalda til að banna framsal á eignarrétti að orkuauðlindum, sem eru í opinberri eigu, eins og nú þegar er gert í íslenzkum lögum."  Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn spannar aðeins flutningskerfi fyrir jarðgas og raforku.  Orkulindirnar eru þar ekki undir, hvað sem verða kann um framhaldið, t.d. 1000 blaðsíðna 4. orkumarkaðslagabálk, sem nú er í vinnslu hjá ESB.
  2. "Þriðji orkupakkinn haggar í engu rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar, og hvaða orkugjafar eru nýttir hér á landi." Þetta er rétt svo langt sem það nær.  Ef hins vegar Ísland gengur í Orkusamband ESB (án þess að eiga atkvæðisrétt í ACER, Orkustofnun ESB), þá mun ACER (ESB) að öllum líkindum þrýsta á um tengingu landsins við sameiginlegan raforkumarkað ESB um sæstrenginn Ice Link, sem stofnunin hefur þegar sett á forgangsverkefnalista sinn.  Eftir slíka tengingu hverfur ráðstöfunarréttur allrar tiltækrar orku á íslenzka raforkumarkaðinum óhjákvæmilega til ESB-raforkumarkaðarins, því að öllum raforkukaupendum þar verður heimilt að bjóða í íslenzka raforku. Kemur þá innlend stjórnun auðlindanýtingar og virkjana fyrir lítið.
  3. "Samstarfsstofnun evrópskra [svo ?!] orkueftirlitsaðila, ACER, myndi, þrátt fyrir aðild Íslands að stofnuninni, ekki hafa neitt að segja um atriði á borð við fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu hér á landi, og upptaka þriðja orkupakkans hefði í för með sér óverulegar breytingar í því sambandi."  Þetta er alrangt, og villan liggur í því, að ekki er minnzt á útibú ACER á Íslandi, sem ætlað er mikilvægt stjórnsýslulegt hlutverk á sviði raforkuflutninga. Útibúið (Norðmenn kalla það RME hjá sér-Reguleringsmyndighet for energi) verður sjálfstæð stofnun gagnvart hagsmunaaðilum á Íslandi og algerlega óháð vilja íslenzkra yfirvalda.  Útibúið verður undir stjórn ACER með ESA sem millilið á milli ACER og útibúsins á skipuritinu, en ESA hefur alls engar heimildir hlotið til að breyta út af ákvörðunum ACER.  Útibúið tekur aðeins við fyrirmælum frá ACER, og er ætlað að hálfu ESB að ryðja brott öllum staðbundnum hindrunum á vegi ætlunarverks ACER að bæta raforkutengingar á milli landa, þar til verðmunur þeirra á milli verður undir 2,0 EUR/MWh.  Þetta er gert með því að fela útibúinu allt reglugerðar- og eftirlitsvald á sviði raforkuflutninga. Leyfisveitingavaldið verður áfram hjá Orkustofnun,OS, en ef OS hafnar leyfisumsókn, sem uppfyllir öll skilyrði útibúsins, verður höfnun vísast kærð til ESA/EFTA-dómstólsins. Ráðuneytinu skjátlast þess vegna algerlega um valdaleysi ACER á Íslandi.  Til að bæta gráu ofan á svart, verður Ísland valdalaust innan ACER án atkvæðisréttar.
  4. "ACER hefur engar valdheimildir gagnvart einkaaðilum, heldur eingöngu opinberum eftirlitsaðilum."  Þessi túlkun ráðuneytisins stenzt ekki.  Útibú ACER er ekki opinber eftirlitsaðili, því að útibúið verður algerlega óháð opinberu valdi á Íslandi, ráðuneyti, OS og innlendum dómstólum.  Landsnet mun verða að "sitja og standa", eins og útibúið fyrirskrifar.  Landsnet hefur mikil áhrif á almannahagsmuni á Íslandi, viðskiptavini og birgja, og þannig myndi stofnun ESB, ACER, fá óbeinar valdheimildir gagnvart einkaaðilum á Íslandi án þess, að ríkisvaldið fái rönd við reist.  Slíkt er gróft Stjórnarskrárbrot.
  5.  "Við upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn var um það samið, að valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í EFTA-ríkjunum yrðu ekki hjá ACER, heldur hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA)."  Með því að troða ESA inn í stjórnunarferli ACER í EFTA-löndunum þremur er gerð ósvífnisleg blekkingartilraun.  Reynt er að láta líta svo út, að ESA gegni hliðstæðu hlutverki og ACER EFTA-megin og fullnægi þannig kröfum EES-samningsins um tveggja stoða lausnir allra sameiginlegra viðfangsefna ESB og EFTA.  ESA getur ekki gegnt þessu hlutverki vegna skorts á sérfræðingum á orkusviði, og ESA hefur heldur engar heimildir til að ráðskast neitt með ákvarðanir ACER.  ESA verður þess vegna ekkert annað en miðlari boða og banna frá ACER til útibúa ACER í EFTA-löndunum.  Norðmenn kalla ESA í þessu sambandi "dýrustu ljósritunarvél í heimi".  Stjórnlagafræðingar þar í landi telja þetta aumkvunarverða fyrirkomulag engu breyta um það, að yfirþjóðleg stofnun, ACER, þar sem EFTA-ríkin eru ekki fullgildir aðilar, fær völd yfir mikilvægum málaflokki í EFTA-löndunum, þar sem hún hefur tækifæri til áhrifa á lífshagsmuni almennings.  Þetta er í Noregi óleyfilegt að heimila, nema með a.m.k. 75 % greiddra atkvæða í Stórþinginu, og á Íslandi leyfir Stjórnarskráin þetta alls ekki.  Því til staðfestu eru álitsgerðir prófessora í stjórnlögum við Háskóla Íslands. Að ráðuneytið skuli bera þessa blekkingu á borð fyrir almenning, sýnir, hversu slæman málstað það nú hefur opinberlega gert að sínum.
  6. "Heimildir ACER til að taka bindandi ákvarðanir eru að meginstefnu bundnar við ákvæði, sem gilda um orkumannvirki, sem ná yfir landamæri (t.d. sæstrengi); eðli málsins samkvæmt eiga slíkar valdheimildir ekki við á Íslandi svo lengi sem hér eru engin slík orkumannvirki." Þetta er alrangt.  ACER fær hér valdheimildir strax og innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn hlýtur lagagildi á Íslandi, enda næði ESB aldrei fram vilja sínum um greið orkusamskipti á milli svæða og landa, þar sem tengingar vantar við gildistöku Þriðja orkumarkaðslagabálksins, ef túlkun ráðuneytisins væri rétt. ACER var stofnað til að ryðja burt staðbundnum hindrunum, eins og andstöðu ríkisstjórna og/eða þjóðþinga við tengingar af þessu tagi.  Þegar þrýstingur frá ACER hefur leitt til ákvörðunar um lögn Ice Link, mun Landsnet bera skylda til að styrkja flutningskerfið innanlands í þeim mæli, að það geti flutt fullt afl, t.d. 1300 MW að meðtöldum töpum, frá virkjunum að afriðlastöð sæstrengsins.  Hér er um gríðarleg mannvirki að ræða, eins og menn geta séð af því, að flutningsgeta 132 kV byggðalínu er aðeins 1/10 af þessari þörf og flutningsgeta 220 kV línu er minni en 1/3 af þessari þörf.  Valdsvið ACER á Íslandi getur þannig leitt til gjörbreytinga á raforkuflutningskerfi landsins.  Það er þannig helber uppspuni, að bindandi ákvarðanir ACER á Íslandi nái aðeins til sæstrengja frá Íslandi til útlanda.  
  7. "Þriðji orkupakkinn haggar því ekki, að það er á forræði Íslands að ákveða, hvaða stjórnvald myndi veita leyfi fyrir lagningu sæstrengs og eins, hvort íslenzka ríkið ætti að vera eigandi að honum."  Kjarni málsins liggur óbættur hjá garði hér að ofan.  Látið er í það skína, að íslenzk yfirvöld muni ráða því, hvort sæstrengur verði lagður frá Íslandi til útlanda, eftir að ACER hefur verið leidd hér til valda.  Þetta er þó hrein blekking, þótt að forminu til virðist rétt.  Ástæðan er sú, að forsendur leyfisveitinga á þessu sviði verða ekki lengur í höndum íslenzka ríkisins, heldur verða þær samdar af útibúi ACER á Íslandi. Ef sæstrengsfélagið, sem um leyfisveitinguna sótti til handhafa íslenzka ríkisvaldsins, t.d. OS, sættir sig ekki við úrskurðinn, verður deilan ekki útkljáð fyrir íslenzkum dómstóli, heldur ESA og EFTA-dómstólinum, sem auðvitað munu líta til þess, hvort umsóknin uppfyllti kröfur útibús ACER.  Í Noregi er Statnett aleigandi að sæstrengjum til útlanda.  Í umræðunum í aðdraganda afgreiðslu Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB kom fram, að hann gerir ráð fyrir, að eignarhaldið á nýjum sæstrengjum ráðist á markaði, en flutningsfyrirtækjunum verði ekki tryggð einokunaraðstaða.  Verkamannaflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir sínum stuðningi, að allir sæstrengir frá Noregi yrðu áfram að fullu í eigu Statnett, sem er alfarið í beinni eigu norska ríkisins.  Engin trygging hefur samt fengizt fyrir slíku frá ACER(ESB). Fullyrðing um, að íslenzka ríkið geti tryggt sér tilgreint eignarhald á aflsæstreng til útlanda, er fleipur eitt.

Tilraun iðnaðarráðuneytisins til að sýna fram á, að samþykkt Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn breyti litlu sem engu um íslenzk orkumál, hefur algerlega fallið um sjálfa sig, enda stríðir hún gegn heilbrigðri skynsemi.  Sá, sem ekkert veit um ACER, hlýtur að spyrja sig, til hvers stofnað er til Orkustofnunar ESB, ef hún á lítil sem engin áhrif að hafa í landi, sem rafmagnslega er ótengt við umheiminn ?  Sá, sem eitthvað veit um ACER, veit, að hún er stofnuð gagngert til að auka orkuflutninga á milli landa og þá auðvitað að koma þeim á, þar sem þeir eru ekki fyrir hendi.  Ætlunin er göfug: að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa og að jafna orkuverðið innan ESB.  Fyrir Ísland og Noreg verður þetta allt með öfugum formerkjum.  Hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í raforkuvinnslunni hérlendis mun rýrna úr 99 % í e.t.v. 85 %, og raforkuverðið mun stórhækka.  Það eru engir kostir  fyrir Ísland fólgnir í framsali mikilvægs fullveldis yfir ráðstöfun raforkunnar til markaðsafla ESB-landanna; aðeins gallar.  Að ráðuneyti orkumála skuli reyna að draga fjöður yfir það, jaðrar við kjánaskap og er líklega pólitískt glapræði.        


Bloggfærslur 19. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband