Fundur í Valhöll um ACER-málið 10.04.2018

Sjálfstæðisflokkurinn lætur ekki embættismannakerfið mata sig á upplýsingum um flókin mál, til þess síðan að gleypa þær hráar, þótt þær séu ættaðar innan úr EES-samstarfinu. Af málflutningi utanríkisráðuneytisins er þó ljóst, að ráðuneytið ætlaðist til, að þingsályktunartillaga þess rynni gagnrýnislítið gegnum Alþingi.  Embættismönnum verður þó ekki kápan úr því klæðinu, og þeir komast ekki upp með að dreifa hálfsannleika um "óbreytt ástand", sem við nánari skoðun er í raun formið eitt, því að inntak valdaframsals ESB/EES landanna til Framkvæmdastjórnarinnar og stofnana hennar er einmitt að miðstýra ákvarðanatöku um hvern málaflokkinn á fætur öðrum. Dæmi um stórgallaða upplýsingagjöf embættismannakerfisins er minnisblað fyrrverandi framkvæmdastjóra Eftirlitsstofnunar EFTA-ESA til iðnaðarráðherra, dags. 12. apríl 2018, en útdráttur ráðherra úr því hefur verið veginn og léttvægur fundinn á þessu vefsetri.   

Ef embættismenn í þessum tveimur íslenzku ráðuneytum hefðu haft örlítið víðara sjónarhorn, hefðu þeir lagt saman 2+2 og áttað sig á, út frá látunum, sem urðu út af þessu máli í Noregi, og afstöðu meirihluta Alþingismanna til ESB, að ekki mundi duga að beita hér blekkingum og hálfsannleika.  Þeir bitu höfuðið af skömminni með hræðsluáróðri um tjón Norðmanna, ef þeir kæmust ekki í Orkusamband ESB.  Embættismennirnir virðast vera ólesnir um það, sem nákvæmlega er fyrirskrifað í EES-samninginum, að við taki eftir synjun þjóðþings.  Þar eru viðskiptalegar refsiaðgerðir sannarlega ekki á dagskrá.  

Landsmálafélagið Vörður og Atvinnuveganefnd Sjálfstæðisflokksins héldu fróðlegan fund um Orkusamband og Orkustofnun ESB, ACER, 10. apríl 2018.  Fundarstjóri var formaður þingflokks sjálfstæðismanna, Birgir Ármannsson, og frummælendur voru Óli Björn Kárason (ÓBK), Alþingismaður, Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor við HÍ, og Elías B. Elíasson, fyrrverandi sérfræðingur hjá Landsvirkjun. 

Það er næsta víst, að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggur sig í framkróka við að komast til botns í því, hvort hagsmunum Íslands muni verða betur borgið innan eða utan Orkusambands ESB. Var ekki annað á ÓBK að heyra en hann hefði gert upp hug sinn um það, að Íslendingar ættu ekkert erindi inn í þetta Orkusamband, enda snertir það ekki "frelsin fjögur" á Innri markaði EES, sem EES-samningurinn upphaflega var gerður til að þjóna.  Verður að vona, að sú verði niðurstaða þingflokksins af frekari umræðum um málefnið þar. Er einkar hrósvert, hvernig þingmenn sjálfstæðismanna hafa fengizt við þetta viðfangsefni.

  ÓBK taldi ennfremur, að orkumálin hefðu ekkert erindi átt inn í EES-samninginn, enda voru þau utan hans í fyrstu.  Hann er meira en nógu viðamikill og þunglamalegur að fylgja honum, þótt þar séu aðeins málefni, er varða frelsin fjögur.  Blekbónda dettur í hug, að hin EFTA-ríkin í EES-samstarfinu hafi verið þess fýsandi að taka orkumálin með, þegar ESB þrýsti á um það, og íslenzk yfirvöld á sínum tíma látið það eftir þeim, enda hafa Noregur og Liechtenstein nú samþykkt innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn, en ýmislegt bendir til, að Alþingi muni snúa þeirri ákvörðun við, þótt blikur séu á lofti. 

Stefán Már Stefánsson var annar frummælenda.  Hann benti á fjölmörg atriði varðandi EES-samninginn frá upphafi og þó einkum við þróun hans, sem orka tvímælis m.t.t. Stjórnarskrár lýðveldisins.  Hann benti á, að enginn hefði getað séð þróun EES-samningsins fyrir og að enn sé þróun hans algerlega ófyrirsjáanleg. Það vantar s.k. gagnsæi, sem þýðir, að menn vita ekkert, hvað þeir eru að samþykkja.  Þetta á t.d. við um Orkusamband ESB, en málsvarar þess, t.d. í Noregi, vilja auka völd Orkustofnunar ESB, ACER, enn, og nú er í bígerð hjá ESB Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn upp á 4000 blaðsíður, þannig að þetta er sagan endalausa.  Fyrir þjóð, sem stendur utan ESB, er þessi ófyrirsjáanleiki um þróun EES-samningsins  óásættanlegur. Hann gengur fyrir þjóðir, sem gengið hafa í ESB, þannig samþykkt framsal fullveldis og taka þátt í þróun "gerðanna" og undirbúningi tilskipana og lagasetningar, þótt ekki sé hægt að tala um jafnræðisgrundvöll þar heldur.  

Tveggja stoða fyrirkomulagið er stjórnlagalega mikilvægt, sagði Stefán Már, "en bjargar ekki öllu". Þegar það er hins vegar þverbrotið, eins og ESB ætlast til, að EFTA-löndin láti yfir sig ganga ganga í ACER-málinu og öðrum stórmálum, þar sem alls engin EFTA-stofnun svarar til stofnana ESB á borð við Orkustofnunina, ACER, þá er skörin tekin að færast upp í bekkinn, svo að staða EFTA-ríkjanna, a.m.k. Íslands, verður óviðunandi. Í Noregi er staðan dálítið önnur, því að Stórþingið samþykkti EES-samninginn með auknum meirihluta 1992, yfir 75 % viðstaddra þingmanna. ESB-sinnar á norska Stórþinginu segja síðan, að allar breytingar á EES-samninginum séu svo lítilfjörlegar, að einfaldur meirihluti Stórþingsins nægi til að leiða þær í lög.  Þessi afstaða meirihluta Stórþingsins veldur hatrömmum deilum um allt norska þjóðfélagið.  Fjölmargir norskir lagaprófessorar töldu nauðsynlegt að afgreiða ACER-frumvarpið með auknum meirihluta.

Hér á Íslandi var sett á laggirnar nefnd þriggja stjórnlagafræðinga 1992 til að leggja mat á það, hvort upphaflegi EES-samningurinn stæðist kröfur Stjórnarskrár um varðveizlu fullveldis.  Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að það væri á mörkunum, en slyppi.  Síðan þá hefur mjög sigið á ógæfuhlið í þessum efnum, svo að telja má fullvíst, að hunzun ESB á jafnréttiskröfunni (tvær jafnréttháar stoðir) geri EES-samstarfið kolólöglegt hérlendis.  Þetta er háalvarlegt, og Alþingismenn verða á þessum grundvelli að setja ESB-gerningum skorður.  

Stefán Már sagði, að ósambærilegt væri talið, hvort stjórnvald ESB-stofnunarinnar næði aðeins til viðkomandi ríkisvalds eða til lögaðila og lögpersóna, þ.e. fyrirtækja og einstaklinga.  Í tilviki ACER nær hið erlenda vald til útibús stofnunarinnar í viðkomandi landi, sem er algerlega óháð ríkisvaldinu og öðrum hagsmunaaðilum.  

Hin stjórnlagalega staða ACER-málsins er svo slæm, að hún ein og sér dugir fyrir Alþingi til að synja málinu brautargengis að mati blekbónda.  Þá breytir engu, þótt reynt sé að fegra fullveldisframsalið með því að láta samskipti ACER og útibús þess í viðkomandi EFTA-landi fara um hendur ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA.  Hún getur ekkert annað gert en að framsenda fyrirmælin óbreytt til útibúsins, því að ESA hefur ekki þegið neitt vald til að breyta eða hafna ákvörðunum ACER, og það er ekkert svigrúm veitt fyrir sáttafundi á milli EFTA og ESB.  

Þriðji og síðasti framsögumaðurinn, Elías B. Elíasson, taldi íslenzka raforkumarkaðinn og raforkumarkað ESB vera ósamrýmanlega, því að eðli þeirra væri ólíkt.  Á Íslandi er meginhluti raforkuvinnslukostnaðar fólginn í uppsettu afli, en orkan, stöðuorka vatns í miðlunarlónum, jarðgufa og vindur, eru mun minni kostnaðarþættir.  Þessu er öfugt farið í ESB, þar sem enn er mest notazt við jarðefnaeldsneyti.  Elías varaði sterklega við skaðlegum áhrifum aflsæstrengs á raforkumarkaðinn á Íslandi.  

Ekki var að heyra annað á öllum fyrirspyrjendum á fundinum en þeir hefðu áhyggjur af skaðlegum áhrifum þess á íslenzka hagkerfið og íslenzka stjórnsýslu að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.  Ekki varð blekbóndi þess var, að nokkur fundarmanna væri hlynntur inngöngu Íslands í Orkusamband ESB eða aflsæstrengstengingu við útlönd.  

Það er áreiðanlegt, að sá póll, sem Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að taka í ACER-málinu á meirihlutafylgi að fagna á Íslandi, enda virðast allir ríkisstjórnarflokkarnir vera sama sinnis í málinu. 

 


Að binda sitt trúss á rangt hross

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði í viku 16/2018 við mikilli hættu, sem hann taldi heimsbúskapnum stafa af skuldsetningu þjóða.  Skuldahlutfall þjóða er í sögulegu hámarki eða 225 % af heimsframleiðslu.  Staða ríkissjóða ESB-ríkjanna er slæm, nema Þýzkalands og Hollands.  Bæði lönd eru með um 6 % viðskiptaafgang af VLF, og skuldir ríkissjóða þessara landa eru um 60 % af VLF.  Ísland er nú í þessum úrvalsflokki Evrópuþjóða, hvað hagstjórn varðar, með ríkisskuldir 35 % af VLF og viðskiptaafgang 4 %.

Mikill vandi blasir við löndum Evrópusambandsins, einkum evrusvæðisins.  Ofangreind tvö lönd halda í raun verðgildi evrunnar uppi, en hún gæti orðið fyrir áfalli á næstu misserum vegna slæmrar skuldastöðu nokkurra ríkissjóða, og er sá ítalski stærstur þeirra.  Komið er í ljós, að ný ríkisstjórn Þýzkalands ætlar ekki að ganga í ábyrgð fyrir önnur evrulönd. Ríkisstjórnin í Berlín endurspeglar að þessu leyti vilja mikils meirihluta Þjóðverja, sem vinna og spara fyrir því, sem þeir veita sér, og til elliáranna.  Þeim, og forráðamönnum Bundesbank, hefur gramizt mjög lágvaxtastefna Evrubanka Ítalans Draghis og telja sig greiða meira en nóg í þágu ESB.   

Á fundi Angelu Merkel og Emmanuels Macron í Berlín í apríl 2018 kom í ljós gjá á milli ríkisleiðtoganna tveggja, hvað sýn á þróun evrusvæðisins varðar. Iðnir og sparsamir Þjóðverjar vilja ekki deila fjárhagslegum örlögum sínum með öðrum þjóðum evrusvæðisins, sem kannski má kalla lata og eyðslusama í samanburði við Hollendinga og Þjóðverja, a.m.k. eru hagkerfi sumra ríkjanna í megnasta ólestri.  Fyrir vikið eru horfur evrunnar dökkar, þegar næsta kreppa ríður yfir.  Hvers vegna í ósköpunum ættu Íslendingar að binda sitt trúss við þessa skepnu, sem líklega fellur úr hor næst, þegar syrtir í álinn ?  Hagkerfi Íslands á svo fátt sameiginlegt með hagkerfi evrunnar, að á þessum ólíku stöðum er hagsveiflan aldrei í fasa.  Evran sjálf var hagfræðilegt glapræði, eins og í pottinn var búið, og pólitísk tilraunastarfsemi hugsjónamanna um Sambandsríki Evrópu.  Hvað má þá segja um kenningar hér uppi á Íslandi um, að keppa beri að því að taka upp evru ? Sennilega má lýsa slíkri afstöðu sem áhættusækni, sem jaðrar við ábyrgðarleysi. Það þarf mjög vandaða áhættugreiningu hinna beztu manna áður en tekið verður róttækt skref í gjaldmiðilsmálum, hvort sem það verður í átt að EUR, GBP, NOK, USD eða öðrum gjaldmiðli.

Nú virðist vera að hefjast samdráttarskeið á evrusvæðinu.  Iðnaðarframleiðsla Þýzkalands hefur ekki vaxið frá í desember 2017, og í febrúar 2018 dróst hún saman um 1,6 % m.v. mánuðinn á undan að teknu tilliti til dagafjölda.  Samkvæmt Samtökum evrópskra bílaframleiðenda dróst framleiðsla þeirra saman um 5,3 % í marz 2018 m.v. sama mánuð 2017.  Hagsveiflumælir þýzku hagstofunnar, IMK, þykir einna áreiðanlegastur hagvísa.  Núna metur hann 30 % líkur á kreppu, en þær voru undir 10 % í marz 2018.  Þegar hagvísar snúast niður á við um leið og neikvæðar fréttir berast af pólitíkinni, þá er ekki von á góðu:

  1. Þjóðverjar munu ekki fallast á sameiginleg fjárlög fyrir evrusvæðið til að mæta efnahagslegum skakkaföllum.
  2. Ekkert verður úr áformum um sameiginlega ríkisskuldabréfaútgáfu evruríkjanna.
  3. Það verður ekkert sameiginlegt innistæðutryggingakerfi.  
  4. Sameiginlegu eftirlitskerfi með bankakerfinu hefur verið komið á, og voru Íslendingar þvingaðir í það dýra samkrull á vettvangi EES-samstarfsins, en að koma á sameiginlegu evrópsku bankakerfi er verkefni, sem sennilega lýkur aldrei. 

Um þessa stöðu skrifar Wolfgang Münchau í Financial Times og Morgunblaðið fimmtudaginn 26. apríl 2018:

"En að það skuli fara saman að það dragi úr hagvexti eða jafnvel verði samdráttur í myntbandalagi, og það vilji ekki taka á vandamálum sínum, er einn stærsti áhættuþátturinn, sem alþjóða hagkerfið stendur frammi fyrir um þessar mundir."

Síðan tekur Münchau dæmi af mesta áhyggjuvaldinum á evrusvæðinu um þessar mundir, Ítalíu:

"Á Ítalíu hefur framleiðni varla aukizt, svo að nokkru nemi, frá því að landið gerðist eitt af stofnríkjum evrusvæðisins árið 1999.  Samt var árið 2017 tiltölulega gott í efnahagslífinu.  Það skiptir töluverðu máli fyrir land með ríkisskuldir, sem nema 132 % af landsframleiðslu, hvort hagvöxtur er að jafnaði minni en 1 % eða um 2 %.  Bilið þar á milli er munurinn á því, hvort landið er gjaldfært eða á leið í greiðsluþrot."

Af þessu að dæma er vissast að búa sig undir slæm tíðindi frá Ítalíu.  Ítalía gæti hrökklast út úr myntbandalaginu, og þá verður gríðarlegt rót á öllu evrusvæðinu.  Fullyrða má, að gengi hennar mun taka tímabundna dýfu, en um jafnvægisgengið fer eftir atburðarásinni.

"Ítalía er bezta dæmið um, hvers vegna umbætur á evrusvæðinu eru spurning um líf og dauða.  Evrópusambandið hefur engin úrræði til að bregðast við, ef ítalska ríkið getur ekki lengur greitt af skuldum sínum.  Ítalía er of stór til að falla, og of stór til að hægt sé að bjarga.  Efnahagsstöðugleikastofnun ESB, sem á að leysa vandann, er ekki nægilega stór til að ráða við slíkan skell.  Ég efast ekki um, að evran sem slík mundi ná að lifa áfram í einhverri mynd, en ef engar umbætur eiga sér stað, þá stóraukast líkurnar á, að myntbandalagið bútist í sundur."  

Evrópusambandið á við yfirþyrmandi vandamál að etja og miklar heimiliserjur í þokkabót.  Við slíkar aðstæður reyna stjórnendur þess og 33´000 búrókratar að sækja fram á öðrum sviðum, þar sem hagræðingar er að vænta af sameiginlegri stjórnun frá Brüssel.  Eitt þessara sviða eru orkumálin, þar sem í upphafi á að einbeita sér að auknum flutningum á milli landa.  T.d. eiga raforkuflutningar að aukast um 50 %, fara úr 10 % 2015 í 15 % af raforkuvinnslu árið 2030 og stefnt er á 30 %.  Þetta á að flýta fyrir orkuskiptum og jafna raforkuverðið á milli landa.  Ráðast á á markaði, hverjir fá hversu mikið af orku og á hvaða verði.  Ætlun Framkvæmdastjórnarinnar er, að þetta auki verðmætasköpun innan ESB og örvi þannig hagvöxt.  

Það getur vel verið, að svo verði í ESB, en á Íslandi mundi það hins vegar draga úr hagvexti að taka þátt í slíku, og það mundi örugglega tefja orkuskiptin.  Ástæðurnar eru, að hækkun raforkuverðs dregur úr samkeppnishæfni fyrirtækjanna við útlönd, og minni og dýrari raforka verður til ráðstöfunar til orkuskiptanna.  

Krafan frá ESB um inngöngu EFTA-landanna í EES í Orkusamband ESB er dæmigerð fyrir minna umburðarlyndi og minni skilning að hálfu Framkvæmdastjórnarinnar og búrókrata hennar á sérþörfum EFTA-ríkjanna en áður var.  EES-samningurinn er orðinn helsi á Íslendingum í þeim skilningi, að ESB treður stjórnkerfi sínu upp á landsmenn í blóra við EES-samning og Stjórnarskrá landsins, og gjörðir ESB eru allar íþyngjandi fyrir landsmenn, aukið skrifræði og reglugerðafargan dregur úr getu fyrirtækja og stofnana til framleiðniaukningar, og byrðarnar geta orðið svo svæsnar, eins og í tilviki Orkusambandsins, að þær dragi beinlínis úr hagvexti og valdi atvinnuleysi. Það má hiklaust halda því fram, að EES-samningurinn sé orðinn úreltur.  Stjórnvöld ættu ekki að berja lengur hausnum við steininn, heldur að skipuleggja útgöngu úr þessu ólýðræðislega, óhentuga og rándýra viðskiptalega og stjórnmálalega samkrulli.

Þann 4. maí 2018 skrifaði Elías Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, grein í Morgunblaðið um afleiðingar þess að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Hann lauk grein sinni þannig:

"Enginn hefur getað sagt, hvað við höfum upp úr því að samþykkja, en það væri algerlega ástæðulaust fyrir ESB að knýja á um samþykkt þriðja orkupakkans, ef ekki væri ætlunin, að sæstrengur fylgdi í kjölfarið.  Allar umsóknir um sæstreng og tengdar virkjanir yrði Ísland að meðhöndla af ýtrustu sanngirni og í samræmi við aðrar reglur ESB, eins og Ólafur Jóhannes Einarsson, lögmaður, minnir á í minnisblaði sínu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 12. apríl 2018 og minnir þar á þjónustutilskipunina.  Þau rök, að sjálfræði Íslands sé í svo litlu skert með samþykkt þriðja orkupakkans, að það skaði okkur ekki, sneiða hjá þessum kjarna máls."

 

Þessar fórnir í þágu aukins samruna ESB og þar með EES til að viðhalda aðgangi að Innri markaði ESB eru í raun unnar fyrir gýg, því að jafnvel betri viðskiptaskilmálum virðist vera unnt að ná með fríverzlunarsamningum við ESB og Bretland, ef tekið er mið af fríverzlunarsamningi Kanada og ESB frá haustinu 2017. Málflutningur áköfustu stuðningsmanna ESB/EES einkennist af nauðhyggju, þar sem litið er framhjá þeirri staðreynd, að markaður ESB-ríkjanna vegur minna með hverju árinu, sem líður, af heimsviðskiptunum og mun senn aðeins verða 440 milljón manna markaður samfélaga, sem eldast hraðar en flest önnur samfélög, að hinu japanska undanskildu.    

 


Valkostir við EES

Um allt þjóðfélagið gera menn sér grein fyrir því, að EES-samstarfið er komið að leiðarlokum í sinni núverandi mynd.  Alþingi, sem er einhvers konar þversnið þjóðarinnar, hefur ekki farið varhluta af alvarlegum efasemdum um, að núverandi fyrirkomulag gangi lengur.  Frægar eru ræður fjármála- og efnahagsráðherra um þetta efni 6. febrúar og 22. marz 2018.  

Breyting á afstöðu manna á Íslandi og í Noregi til EES-samstarfsins stafar af þeirri samrunabraut, sem ESB er á, og afar takmörkuðu umburðarlyndi þar á bæ gagnvart sjálfstæði EFTA-ríkjanna. Forsendur upprunalega EES-samningsins eru þar með brostnar. Kemur þetta fram bæði í Sameiginlegu EES-nefndinni með því, að s.k. "tveggja stoða" samstarf er í raun virt að vettugi, og í framkvæmd með stjórnunarfyrirkomulagi, sem stríðir gegn Stjórnarskrám Íslands og Noregs og er fólgið í því, að stjórnvald á afmörkuðum sviðum þjóðfélagsins er flutt frá aðildarlöndum EES og til stofnunar ESB, sem hefur hlotið víðtækar valdheimildir frá Framkvæmdastjórninni. 

Ágætt dæmi um slíkan málaflokk eru flutningsmál rafmagns og jarðgass.  Um valdatilflutning á þessum sviðum er fjallað í Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB frá 2009, þar sem völdum Orkustofnunar ESB, ACER, er lýst, hvers vegna hún er sett á stofn og til hvers starfsemi hennar á að leiða.  Völd ACER í ESB-löndunum voru innsigluð í ráðherraráðinu 2009 og staðfest á ESB-þinginu sama ár.

Það gekk erfiðlega að troða þessum orkubálki niður um kok EFTA-landanna í sameiginlegu EES-nefndinni, en eftir 6 ára þref tókst það 5. maí 2017.  Þann 22. marz 2018 var gjörningurinn leiddur í lög af Stórþingi Noregs við griðarleg mótmæli hagsmunaaðila, verkalýðsfélaga, Alþýðusambandsins og alls almennings.  Hérlendis hefur utanríkisráðuneytið rekið undarlegan áróður fyrir þessari innleiðingu á Íslandi, gert lítið úr mikilvægi málsins hérlendis og mikið úr tjóni, sem Norðmenn geti orðið fyrir við höfnun Alþingis. Sjá viðhorf alþýðu til þessa í viðhengi með þessari færslu. Þá hefur iðnaðarráðuneytið lagt sig í framkróka við að reyna að sannfæra mann og annan um, að samþykki Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn muni nánast engu breyta varðandi fullveldi Íslands yfir raforku úr virkjunum á Íslandi.  Þetta er fjarstæða, sem hefur verið hrakin rækilega hér á vefsetrinu og af Heimssýn, sjá: https://heimssyn.blog.is/blog/heimssyn/entry/2215324 .

Í EES-samstarfinu þurfa allir aðilar, 3 EFTA þjóðir og ESB, að vera sammála, og hver EFTA-þjóð hefur neitunarvald gagnvart innleiðingu á gjörð ESB í EES-samninginn.  Áróður téðra tveggja ráðuneyta fyrir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB á ekki við nein rök að styðjast, landið hefur af honum ekkert gagn, en tekin er mikil stjórnlagaleg og stjórnskipuleg áhætta, áróðurinn gengur algerlega fótalaus og kemur úr hörðustu átt, þar sem flokkur utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra samþykkti á Landsfundi sínum 16.-18. marz 2018 eftirfarandi ályktun:

"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."

Það er pólitískt glapræði af þessum ráðherrum að reyna að grafa undan alvörunni í þessari ályktun og óskiljanleg sú vegferð, sem þeir hafa tekizt á hendur í þessum efnum, þegar litið er til líklegrar afstöðu kjósendanna, en skoðanakönnun mun bráðlega leiða það í ljós. Hinir ríkisstjórnarflokkarnir eru líka algerlega á móti innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn.  Það kom fram á Flokksþingi Framsóknarflokksins 11. marz 2018, og afstaða talsmanns VG í þessu máli, Kolbeins Proppé, bendir eindregið til, að VG sé ekki aðeins á móti þriðja bálkinum, heldur hafi að auki efasemdir um annan bálkinn, sem er afar skiljanlegt.  Það er mjög æskilegt að sníða af honum alvarlega vankanta fyrir íslenzkar aðstæður, en þar verður ESA og EFTA-dómstólinum að mæta. Því mætti taka því fagnandi, ef Sameiginlega EES nefndin myndi fella Annan orkumarkaðslagabálkinn úr gildi að kröfu ESB sem andsvar við höfnun Alþingis. 

Að mörgu leyti er heppilegast, að EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein, ákveði sameiginlega að slíta EES-samstarfinu, og að þessi ríki ásamt Sviss bjóði Bretum aðild að EFTA.  Síðan taki þessi öfluga samsteypa upp samningaviðræður við ESB um fríverzlunarsamning.  

Að svo komnu er þó ekki stjórnmálalegur grundvöllur fyrir þessu, svo að skynsamlegt væri af utanríkisráðuneytinu að kanna jarðveginn hjá ESB og hjá Bretum fyrir fríverzlunarsamningi með fyrirmynd í samninginum á milli ESB og Kanada frá 2017.  

Einn ávinningur af því að losna af klafa EES er að létta byrðum af athafnalífi og opinberri stjórnsýslu, sem stafa af reglugerða- og eftirlitsbákni, sem sniðið er við tugmilljónaþjóðir, en er hér með sama hætti og annars staðar í EES, því að ESB vinnur samkvæmt "one size fits all", þ.e. engar sérsniðnar lausnir, enda yrði slíkt stjórnkerfi óviðráðanlegt, jafnvel fyrir 33´000 búrókrata í Berlaymont. 

Annar ávinningur af að losna undan EES eru hagstæðari viðskiptakjör við ESB.  Kanadamenn njóta nú lægri tolla fyrir sjávarafurðir sínar en Íslendingar og Norðmenn.

Þriðji ávinningurinn er að taka aftur stjórn á landamærum ríkisins, sem getur losað þjóðfélagið undan miklum beinum og óbeinum kostnaði af frjálsu flæði fólks og er í raun nauðsynlegt í sjálfsvarnarskyni fyrir smáþjóð, þegar ytri landamæri ESB eru hriplek á tímum vaxandi flóttamannaþrýstings.   

Í fjórða og síðasta lagi losnar löggjafinn þá undan því óviðunandi ástandi að vera afgreiðslustofnun við innleiðingu yfirþjóðlegrar löggjafar í EES-samninginn, sem þá um leið öðlast lagagildi á Íslandi.  Nú er svo komið, að stjórnkerfi ESB krefst þess í sumum tilvikum, að með samþykkt sinni brjóti Alþingi Stjórnarskrá lýðveldisins.  Þetta á t.d. við, þegar stjórn innlendra málefna er færð í hendur stofnana sambandsins, þar sem Ísland að sjálfsögðu á engan fullgildan fulltrúa.  Þetta er ekkert minna en frágangssök, sem réttlætir að endurskoða þessi samskipti frá grunni. Lágmarks viðspyrna er, að utanríkisráðuneytið og Alþingi setji ESB skorður í EES-samstarfinu, þegar valtað er yfir grunnregluna um EFTA og ESB sem tvo jafnréttháa aðila í tveggja stoða samstarfi.   

 

 

 


Bloggfærslur 26. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband