Forrannsókn Alþingis á ACER-málinu

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að nú stendur upp á Alþingi að fjalla um innleiðingu í EES-samninginn á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB, því að í Sameiginlegu EES-nefndinni var 5. maí 2017 illu heilli og algerlega að óþörfu samþykkt í Brüssel að taka þennan gjörning inn í EES-samninginn. Ekkert fréttist af málinu á vorþinginu 2018. Hvers vegna er það ekki dregið fram í dagsljósið, fundinn á því kostur og löstur og síðan afgreitt í samræmi við stefnumörkun stjórnmálaflokkanna ? 

Þjóðþing Noregs og Liechtenstein hafa staðfest það fyrir sitt leyti, og í Noregi myndaðist gjá á milli þings og þjóðar við það.  Alþingi á snöfurmannlega að synja þessum ólögum staðfestingar, enda eru 80 % þjóðarinnar andvíg því, að þessi varasami gjörningur ESB fái lagagildi á Íslandi samkvæmt skoðanakönnun Maskínu um mánaðamótin apríl-maí 2018. 

Pólitískt má ætla, að téður gjörningur ESB njóti lítils stuðnings á Alþingi, því að tveir stjórnarflokkar hafa nýlegar landsfundarsamþykktir gegn ACER í farteski sínu, og af talsmanni þess þriðja í málinu má ætla, að hann sé alfarið á móti líka.  Einn stjórnarandstöðuflokkur hefur á landsþingi sínu markað sér stefnu á móti inngöngu Íslands í Orkusamband ESB.  

Ef Alþingi fær frumvarp til laga til umfjöllunar, ber því á málefnalegan hátt að finna á því kost og löst til að leggja til grundvallar ákvörðun sinni.  Það sem frá ráðuneytum utanríkis- og iðnaðarmála hefur fram að þessu komið um þetta mál, er ótrúleg þynnka og greinilega ekki reist á  faglegri greiningu af neinum toga, fjárhegslegri, lögfræðilegri né rekstrartæknilegri fyrir raforkukerfið.  Blaðrið einkennist af fávizku eða barnalegri trúgirni á áróður búrókrata ESB og/eða stjórnarinnar í Ósló og hreinræktuðum hræðsluáróðri, sem er íslenzkum ráðuneytum ekki til sóma. Í raun er málflutningur þeirra, sem þegar eru gengnir Evrópusambandinu á hönd, óboðlegur íslenzkum almenningi, því að einkenni hans er ömurleg útgáfa af "af því bara" flótta frá raunveruleikanum.  

Það, sem Alþingi þarf að krefjast af ríkisstjórn Íslands, er hún að lokum leggur fram téð ólánsfrumvarp, er vönduð greining á eftirfarandi viðfangsefnum, sem upp mundu koma eftir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og ACER:

  • Möguleikar Íslands á að hafna tillögu ACER um aflsæstreng eða -sæstrengi til Íslands.
  • Áhrif lagningar og rekstrar aflsæstrengs til útlanda á íslenzka náttúru við sæstrengslandtakið og á lífríki í og við miðlunarlón og virkjaðar ár, þegar virkjanir eru stilltar á hámarksafl til að anna mikilli afleftirspurn frá útlöndum.
  • Áhrif aðildar Íslands að Orkusambandi ESB á rafmagnsverð og flutningsgjald raforku fyrir atvinnulíf og heimili, einnig langtímaáhrif á iðnaðaruppbyggingu og endurskoðun langtímasamninga um raforkusölu innanlands.
  • Áhrif aðildar á þjóðhagsleg verðmæti íslenzkra orkuauðlinda, þ.e. verðmæti auðlindanna fyrir verðmætasköpun á Íslandi og hagsæld íslenzkra heimila.
  • Möguleikar íslenzkra stjórnvalda til að gera sjálf ráðstafanir til að tryggja nægt framboð afls- og orku á íslenzka raforkumarkaðinn, þ.e. möguleikar þeirra til að hafa áhrif á stjórnun aflflæðisins um strenginn.
  • Síðast en ekki sízt þarf að sýna fram á, að valdsvið ACER á Íslandi feli ekki í sér framsal á ríkisvaldi til erlendrar stofnunar, þar sem Ísland ekki er fullgildur aðili.  Ennfremur þarf að sýna fram á með lögfræðilegum rökum, að lögaðilar eða einkaaðilar á Íslandi geti ekki óbeint með ESA sem millilið lent undir valdsviði ACER, t.d. varðandi sektir og aðrar íþyngjandi aðgerðir. 

 


Bloggfærslur 16. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband