Stjórnvöld og Stjórnarskráin

Arnaldur Hjartarson, aðjunkt við Lagadeild Háskóla Íslands, ritaði þann 2. júní 2018 grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Stjórnarskráin, EES-samningurinn og reglur um persónuvernd".

Tilefni greinarinnar er frumvarp ríkisstjórnarinnar um innleiðingu nýs umdeilds lagabálks ESB um persónuvernd. Þessi lagabálkur og krafa ESB gagnvart EFTA-ríkjunum um upptöku hans án tveggja stoða fyrirkomulags er enn ein staðfesting á stefnubreytingu ESB til hins verra fyrir EFTA, sem ekki dugar að láta sem ekkert sé.

Það er fengur að grein fræðimanns á sviði lögfræði um þetta viðkvæma mál. Of lítið bitastætt hefur verið í þeim efnum. Það er mikill samhljómur með þessari grein aðjunktsins og greinargerð norsku andófssamtakanna "Nei til EU", sem birtist hér á vefsíðunni 2. júní 2018 undir heitinu "Persónuvernd með fullveldisframsali", https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2217736 .

Það er ekki hægt að bera í bætifláka fyrir þetta frumvarp með þeirri viðbáru, að fullveldisframsalið, sem í því felst breyti litlu fyrir daglegt líf fólksins í landinu, sé "lite inngripende", eins og Norðmenn segja, sbr niðurlagsorð aðjunktsins:

"Þær reglur, sem felast í reglugerð ESB um persónuvernd, eru til þess fallnar að hafa víðtæk áhrif á íslenzkt samfélag.  Alþingi gefst nú tækifæri til að ræða hið nýja frumvarp.  Vonandi gefst nægur tími til að kanna, hvort gætt hafi verið fyllilega að ákvæðum stjórnarskrárinnar í samningaviðræðum ríkisins við viðsemjendur þess á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar."

Þetta er mjög varfærnislega orðað, þótt tilefnið sé ærið, því að í augum leikmanna blasa við gróf stjórnarskrárbrot, ef af þessari innleiðingu verður.  Þar að auki er téðum samningaviðræðum ekki lokið, því að Sameiginlega EES-nefndin hefur enn ekki lokið umfjöllun þessa máls.  Þar af leiðandi hefur ríkisstjórnin farið fram úr sér með framlagningu þessa frumvarps.  ESB á líka eftir að samþykkja aðlaganir gagnvart EFTA.  Frumvarp þetta er vanbúið og ótækt inn í lagasafn Íslands.  Alþingi ber þess vegna að vísa því aftur til ríkisstjórnarinnar eða hreinlega að fella það.  

Aðjunktinn sýnir fram á, að í frumvarpinu felst bæði framsal framkvæmdavalds og dómsvalds til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland á enga aðild.  Hvorki ríkisstjórn né Alþingi hafa umboð til slíks gjörnings:  

"Þessari stofnun ESB [EDPB-Persónuverndarráðinu-innsk. BJo] verður í einhverjum tilvikum heimilað að gefa Persónuvernd bindandi fyrirmæli.  Í þessu felst fyrirætlun um framsal framkvæmdavalds.  

Ákvarðanir stofnunar ESB virðist einungis mega bera undir Evrópudómstólinn, en íslenzka ríkið á ekki aðild að þeim dómstóli.  Þá mun ætlunin með reglugerð ESB jafnframt vera sú að binda hendur íslenzkra dómstóla, þegar kemur að mati á lögmæti þeirra ákvarðana Persónuverndar, sem tengjast ákvörðunum stofnunar ESB, sbr 143. mgr. formálsorða reglugerðarinnar.  Ef þetta er rétt, þá felst í þessu fyrirætlun um framsal dómsvalds."

Það er glapræði að grafa undan réttarríkinu með því að halda áfram á þessari braut spægipylsuðferðar við sniðgöngu íslenzku Stjórnarskrárinnar.  Stjórnvöld verða að leita sér fullnægjandi umboðs áður en lengra er haldið.  Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvert mál af þessu tagi fullveldisframsals er ein leið til að afla fullnægjandi lýðræðislegs umboðs fyrir þessum og öðrum slíkum gjörningum.  Önnur leið er stjórnarskrárbreyting, sem veitir Alþingi slíkar heimildir með skilyrðum, t.d. með ákvæðum um aukinn meirihluta, þegar framsal fullveldis ríkisins á sér stað til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland ekki er fullgildur aðili. 

Festung Europa


Bloggfærslur 4. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband