Þrautalending pakkasinna

Stríður straumur umfangsmikillar löggjafar frá Evrópusambandinu-ESB hefur legið til Íslands, Noregs og Liechtensteins um farveg EES-samningsins um Evrópska efnahagssvæðið frá samþykkt ESB-landanna á stjórnarskrárígildi ESB 2007 um æ nánara samstarf ESB-landanna. Undantekningarlaust þýðir þetta aukna miðstýringu Framkvæmdastjórnarinnar í hverjum málaflokkinum á fætur öðrum. 

Yfirleitt er hún innleidd með því að setja á laggirnar stofnun á viðkomandi sviði, sem heyrir beint undir framkvæmdastjórnina, t.d. Bankaeftirlitið, sem er hluti af áformuðu sameiginlegu bankakerfi ESB með einum innlánatryggingasjóði (eitur í beinum Þjóðverja), Persónuverndarráð, sem Persónuvernd á Íslandi heyrir undir, og ACER, sem er samráðsvettvangur landsreglara hvers aðildarríkis á sviði orkumála.  

Stefnumótendur ESB telja orkumálin réttilega útheimta miðlæga stefnumörkun til langs tíma, því að orkuskortur ógnar meginlandinu vestan Rússlands í bráð og lengd og reyndar Bretlandi einnig vegna dvínandi olíu- og gaslinda neðansjávar í lögsögu Bretlands.  Noregur er undantekning frá þessari reglu, enda hefur forysta ESB lagt ríka áherzlu á að ná Noregi inn fyrir sín vébönd (ACER).  

Af Kerfisþróunaráætlun ESB að dæma virðist gæta vaxandi áhuga á Íslandi á orkusviðinu í Berlaymont, þótt Íslendingar ráði enn engum þekktum jarðefnaeldsneytislindum. Baráttan um ACER-aðild (Þriðja orkupakkann) er einnig vísbending um þetta, því að sendiherra ESB á Íslandi hefur blandað sér í þrætuna hérlendis. ESB er þess vegna ekki sama, hvernig fer.  Það þýðir hins vegar ekki, að ESB eigi að ráða þessum málalyktum.  

Rökleysur, orðhengilsháttur og formsatriði án innihalds hafa einkennt málflutning sóknaraðila gegn fullveldi landsins á orkusviði, og þrautalending þeirra hefur verið að grípa til goðsagnarinnar um mikilvægi EES-samningsins fyrir hagsmuni landsins, og rekinn hefur verið hræðsluáróður um, að hann verði í uppnámi, ef Alþingi hafnar Orkupakka #3, þótt slíkt sé af og frá samkvæmt köldu mati út frá hagsmunum ESB í bráð og lengd.  

Það er þess vegna rétt að líta á fáein mikilvæg atriði í sambandi við þennan EES-samning. Í ár eru 25 ár liðin frá því, að Norðmenn höfnuðu inngöngusamningi við ESB öðru sinni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Skömmu áður, eða 1992, var EES-samningurinn gerður, og hann var hugsaður sem aðlögunartæki að ESB fyrir eftirlegukindurnar í EFTA, sem þá voru, auk Norðmanna, Íslendinga, Svisslendinga og Liechtensteina, Svíar og Austurríkismenn. Því er vísað á bug af áköfum talsmönnum EES-samningsins að endurskoða þennan samning, og þeir halda því fram, að ekkert jafngott geti komið í staðinn.  Þetta er tómur tilbúningur.

Noregur borgar til uppihalds EES-samningsins og í sjóði ESB árlega u.þ.b. mrdNOK 10,9 (sjá viðhengi með þessum pistli), jafngildi um mrðISK 160.  Íslendingar borga miklu minna beint þarna inn, en rekstrarkostnaður samningsins fyrir Ísland hefur verið áætlaður 22 mrðISK/ár.  Tilfinnanlegastur er þó óbeini kostnaðurinn, sem stafar af risavöxnu reglugerðafargani (a.m.k. 12000 gerðir og tilskipanir ESB hafa verið færðar inn í viðhengi EES-samningsins), sem er svo íþyngjandi fyrir íslenzk fyrirtæki og stofnanir, að taldar eru draga úr árlegri framleiðniaukningu um 0,5-1,0 % (Viðskiptaráð Íslands).  Þarna safnast upp gríðarlegar upphæðir, svo að þessi óbeini kostnaður er grafalvarlegur og sýnir, að viðskiptasamningur af þessu tagi er allt of dýru verði keyptur m.v. ávinninginn, eða 150-200 mrðISK/ár nú   

Árið 2012 kom út í Noregi skýrslan "Alternativer til dagens EÖS avtale" sem framlag til umræðu um framtíðarstefnumörkun varðandi samskiptin við ESB.  Skýrslan leiðir í ljós, að fyrir hendi eru nokkrir valkostir við núverandi EES-samning, sem síðan skýrslan var samin er orðinn miklu víðtækari fyrir EFTA-löndin þrjú.  EES-samningurinn er orðinn of víðtækur og allt of íþyngjandi (sjá EES-leiðarvísi á norsku í viðhengi), svo að nauðsyn ber nú til að velja valkost, sem er þjóðréttarlegs eðlis, þ.e. felur ekki í sér framsal fullveldis ríkisins til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland er ekki aðili.

Einn valkostur eru samningaviðræður við ESB, hugsanlega á vegum EFTA, eftir stefnubreytingu í Noregi, um minni EES-samning til að endurheimta lýðræðislega, innlenda ákvarðanatöku á mikilvægum sviðum. 

Samkvæmt norskum prófessor í lögum við háskólann í Tromsö (UIT), Peter Th Örebech, er Noregur nú aðili að fjölda alþjóðlegra samninga við Alþjóða viðskiptastofnunina WHO, áður GATT, ásamt EFTA-samninginum.  Hið sama er að segja um Ísland, Sviss og líklega Liechtenstein. Ísland og Noregur hafa líka gert tvíhliða viðskiptasamninga við önnur ríki og hafa haft svigrúm til þess, af því að þau eru ekki í tollabandalagi við ESB.  Þessir samningar eru virkir, og engar ráðstafanir eru nauðsynlegar, sem að þeim lúta, þótt EES-samninginum verði sagt upp.

Ísland og Noregur gerðu tvíhliða viðskiptasamninga við þáverandi Efnahagsbandalag Evrópu  (EBE) árið 1973, sem tryggði tollfrían aðgang  að EBE-markaðinum fyrir allan iðnvarning.  Þessi samningur er enn í gildi gagnvart ESB, og eftir honum er t.d. farið í viðskiptum með sjávarfang og landbúnaðarvörur.  Eftir honum mætti fara að öllu leyti, ef EES-samninginum yrði sagt upp. Nýjan tvíhliða samning við ESB eða EFTA-ESB fríverzlunarsamning þarf að einskorða við afmörkuð svið, og hann verður að vera algerlega þjóðréttarlegs eðlis.  

Varðandi samband Noregs við ESB er áhugavert að lesa skrif prófessor Örebechs um málið, því að þau geta að nokkru leyti átt við um Ísland einnig:

"Stefna ESB hefur verið að tryggja hráefnisflutninga til ESB.  Veiði ESB-fiskiskipaflotans hefur farið minnkandi.  Þetta hefur leitt til, að útflutningurinn til ESB hefur vaxið og ESB hefur vegna fiskiðnaðar síns afnumið tollinn á fiski um ótilgreindan tíma. Við getum þannig slegið föstu, að minnkandi geta ESB-landanna til að afla hráefna á borð við fisk, olíu og gas, fyrir iðnað sinn og neytendur, muni gera ESB háðari Noregi í framtíðinni án tillits til þess, hvað verður um EES-samninginn."

Við þessa vöruflokka, sem æ meiri þörf er á í ESB, má bæta áli og kísli. Samkvæmt prófessor Örebech er vel mögulegt að útbúa heildstæðan samningsramma um samninga Noregs við ESB-án þess að slíkt feli í sér náinn samruna við ESB.  Hið sama ætti þá að eiga við um Ísland.  Þá verður að fjarlægja sérkenni EES-samningsins, þ.e.a.s. ESA, EFTA-dómstólinn og ákvæðin um, að allt regluverk frá ESB, sem talið er, að eigi við um EFTA-löndin í EES, komi á færibandi til þeirra (meira en 12000 hingað til).

Því fer víðs fjarri, að EES-samningurinn sé upphaf og endir alls í samskiptum Íslands og ESB í viðskiptalegu tilliti.  Hræðsluáróðurinn um, að EES-samstarfið verði í uppnámi, ef Alþingi synjar Þriðja orkupakka ESB staðfestingar, er skot villuráfandi sálna út í myrkrið.  

Á illa saman

  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 5. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband