Hundsbit

Það hefur komið fram, að ætlunin er að gera Orkumálastjóra að Landsreglara og þar með væntanlega að sameina embættisskyldur Orkumálastjóra og Landsreglara Evrópusambandsins, ESB, á Íslandi.  Þetta er stórfurðulegt uppátæki, því að embættisskyldur orkumálastjóra spanna mun meira en raforkumál, en Landsreglari (National Energy Regulator) verður æðsti maður raforkumála á Íslandi, óháður íslenzkum stjórnvöldum, en Orkumálastjóri er aftur á móti núna beint undir ráðherra.  Það fer mjög illa á þessu, enda ætla Norðmenn að viðhafa annað fyrirkomulag, þar sem Stórþingið áskildi, að völd Landsreglara yrðu eins takmörkuð og auðið væri.

Nú er Landsreglari Noregs sjálfstætt embætti innan Orkustofnunar, en verði Þriðji orkupakkinn hluti EES-samningsins, þá verður stofnað sjálfstætt embætti Landsreglara í Noregi. Ekkert slíkt virðist vaka fyrir íslenzka iðnaðarráðherranum.  Þvert á móti virðist Landsreglarinn munu verða hér valdameiri en efni standa til.    

Hvert verður fyrirsjáanlega hlutverk Landsreglara ? Verkefnum hans er lýst í Raforkumarkaðstilskipuninni 2009/72/EB, sem er hluti af Orkumarkaðslagabálki #3.  Hér verður drepið á fáein atriði varðandi flutning og dreifingu raforku úr þessari tilskipun, og fleiri atriði tíunduð við tækifæri:

1 a) ákvarða eða samþykkja, á grundvelli skýrra skilmála, raforkuflutningsgjaldskrár og raforkudreifingargjaldskrár eða aðferðirnar, sem útreikningar þeirra eru grundvallaðar á.

Landsnet hefur hingað til samið sínar gjaldskrár, og rafmagnsdreifingarfyrirtækin sínar, og fyrirtækin hafa síðan lagt þær fyrir Orkustofnun til rýni og samþykktar.  Orkumálastjóri hefur starfað í umboði ráðherra, en verður, ef "pakkinn" gengur eftir, starfandi í umboði ESB.  Á bara að taka þessu sem hverju öðru hundsbiti ?

1 b) tryggja, að rekstraraðilar flutnings- og dreifikerfanna, og, eins og við á, eigendur þessara kerfa, auk allra fyrirtækja í raforkugeiranum, standi við skuldbindingar sínar samkvæmt þessari tilskipun og öðrum viðeigandi Evrópusambandsreglum, að meðtöldu því, sem varðar millilandatengingar.  

Raforkugeirinn í heild sinni skal sýna regluverki Evrópusambandsins hollustu framar öllu öðru.  Íslenzk orkulög og íslenzk orkustefna verða að vera í samræmi við gildandi regluverk ESB á hverjum tíma á sviði orkumála, ekki einvörðungu þess hluta, sem fólginn er í Þriðja orkupakkanum.  Er þetta ekki of stór biti að kyngja fyrir þjóð, sem stendur ekki í neinum raforkuviðskiptum við ESB og kærir sig ekki um það, eftir því sem bezt er vitað ?

Í kafla 6 er tekið til við að lýsa hlutverkum Landsreglarans við tengingu inn á þessi kerfi: 

6 Landsreglarinn skal bera ábyrgð á að ákvarða eða samþykkja, tímanlega fyrir gildistöku, a.m.k. aðferðirnar, sem nota á til að reikna eða ákvarða skilmálana fyrir:

a) tengingu og aðgang að landskerfi, þ.m.t. flutnings- og dreifingargjaldskrár, eða aðferðirnar, sem leggja skal til grundvallar útreikningunum.  Þessar gjaldskrár eða aðferðir eiga að vera þannig, að tekjur af þeim standi undir nauðsynlegum fjárfestingum í kerfunum fyrir viðgang þeirra.

 Landsreglarinn ákveður þannig tengigjöldin fyrir nýja birgja, t.d. vindorkuver, og notendur raforku.  Það er líklegt, að hann muni fá leiðbeiningar frá ACER um þetta, svo að samræmis við ESB-löndin verði gætt.  Með þessu fyrirkomulagi getur hvorki Alþingi né ráðherra haft áhrif á hvetjandi og letjandi þætti þessara gjaldskráa.

b) viðskipti með jöfnunarorku. 

Allir kaupendur á heildsölumarkaði raforku í landinu senda með minnst sólarhrings fyrirvara inn áætlun um orkukaup sín á hverri klukkustund til síns orkubirgis og þurfa að greiða honum fyrir mismun raunverulegrar notkunar og áætlunar utan vissra marka.  Orkubirgjarnir senda jafnframt inn tilboð um að láta þessa jöfnunarorku í té.  Þessi jöfnunarorkumarkaður hefur virkað vel, síðan honum var komið á hérlendis.  Samkvæmt Orkupakka #3 verður hann settur undir stjórn Landsreglara.  Nú stjórnar Landsnet þessum markaði.  Ólíklegt er, að til bóta verði að færa stjórn þessa markaðar lengra frá mörkinni, persónum og leikendum.

c) aðgang að innviðum á milli landa, þar með aðferðarfræði við úthlutun flutningsgetu og meðhöndlun yfirálags.

Landsreglarinn mótar regluverkið um það, hvernig orkuvinnslufyrirtækjum og vinnslugetu þeirra verður á hverjum tíma raðað inn á sæstrenginn eða sæstrengina.  Þarna munu áreiðanlega samræmdar reglur ACER gilda í þessum efnum.  Til þessara kasta kemur sérstaklega, ef strengurinn er fulllestaður.  Landsreglarinn ræður því líka, hvaða orkubirgi er kastað fyrst út eða dregið úr flutningi frá, ef mannvirkin verða yfirlestuð.  Hér kunna að koma upp hagsmunaárekstrar á milli orkuseljenda og orkukaupenda. Verður sá úrskurður þjóðhagslega hagstæður Íslandi ?

Norski hagfræðiprófessorinn Anders Skonhoft hefur rannsakað þjóðhagslegar afleiðingar fleiri aflsæstrengja á milli Noregs og útlanda.  Þjóðhagslegar afleiðingar fyrsta aflsæstrengsins til útlanda hérlendis ættu að verða sams konar, en þó meiri.  Skonhoft fann út, að summa ávinnings orkuvinnslufyrirtækjanna og taps orkukaupenda yrði neikvæð.  Þetta þýðir, að út frá þjóðhagslegu sjónarmiði er verr farið en heima setið varðandi sæstrengsverkefni hérlendis.

Málið er enn alvarlegra en þetta, því að Skonhoft reiknaði ekki út afleiðingar orkuverðshækkana á fyrirtækin.  Samkeppnisstaða þeirra hríðversnar, og hefur formaður samtaka grænmetis- og blómaræktenda lýst þessu á raunsæjan hátt í Bændablaðinu, en gróðurhúsabændur nota tiltölulega mikla orku á hvert kg framleiðslunnar.  Svigrúm allra framleiðslufyrirtækja í landinu til launagreiðslna, nýsköpunar og annarra fjárfestinga mun minnka, sem leiða mun til minni hagvaxtar og að lokum stöðnunar.  Að jafna raforkuverðið á Íslandi og í Evrópu er þannig stórfelld ógn við lífskjör allra Íslendinga.

Af þessum sökum ætti það að verða þáttur í orkustefnu landsmanna að tengjast ekki erlendum raforkukerfum.  Þá vaknar spurningin um sambúð innlendrar orkustefnu við orkustefnu ESB eftir samþykkt Orkupakka #3.  Ef í Orkustefnu Íslands verður stefnumörkun um að nýta beri orkulindir Íslands með sjálfbærum hætti og einvörðungu hér innanlands, þá samræmist sú stefnumörkun alls ekki Þriðja orkupakka ESB, sem er sniðinn við að koma öllum slíkum orkulindum ESB/EES á sameiginlegan Innri orkumarkað ESB og hið minnsta að tvöfalda flutningsgetu raforku á milli landa ESB frá 2010-2030. Aðildarríkin eiga að koma sér upp orkustefnu, eins og iðnaðarráðherra hefur upplýst, að nú sé í mótun, en, ef samþykkja á Orkupakka #3, þá verður orkustefna Íslands að verða í samræmi við orkustefnu ESB, eins og hún er sett fram í Viðauka IV í EES-samninginum, t.d. í gerð #714/2009, kafla 1 b, formálanum-atriði 24 og formálanum-atriði 1.  Þarna er skrifað um að tryggja "mikið afhendingaröryggi fyrir raforku" í ESB, styðja við "vel virkan" samkeppnismarkað og "samkeppnishæf verð" á ESB markaði.  Íslendingar geta þetta ekki án þess að tengjast ESB-markaði beint.

Nú hafa 2 af 4 lagasérfræðingum, sem utanríkisráðherra fékk til að meta, hvort ákvæði Þriðja orkupakka ESB brytu í bága við Stjórnarskrá, komizt að þeirri niðurstöðu, að ein gerð hans, nr 713/2009, samrýmist ekki Stjórnarskrá.  Þá hefur hann brugðið á afar einkennilegt ráð.  Hann leggur til innleiðingu gerðarinnar "með hefðbundnum hætti", en með lagalegum fyrirvara um, að sæstrengur verði hvorki undirbúinn né lagður, "nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar, og komi ákvæði hennar, sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni."

Samkomulag utanríkisráðaherra við framkvæmdastjóra orku- og loftslagsmála er ekki lagalega skuldbindandi fyrir Evrópusambandið, sem þýðir, að ESB getur litið svo á, að Orkupakki #3 hafi verið innleiddur á Íslandi.  Lagasetning um skilyrta innleiðingu verður væntanlega úrskurðuð ólögmæt að Evrópurétti hjá ESA.  Leiðin er þess vegna greið fyrir sæstrengsfjárfesta, hafi þeir hug á "Ice-Link", og sá áhugi er fyrir hendi.  Yfirlit um þetta er að finna í viðhengi með þessum pistli.  

 

Ef orkustefna Íslands reynist verða sniðin við orkustefnu ESB, er áreiðanlegt, að hún mun vekja upp miklar deilur í landinu og óvíst, hvernig henni reiðir þá af á Alþingi.  Hugsanlega verður hún eitt af "kosningamálunum" fyrir næstu Alþingiskosningar, ef drög að henni hafa birzt þá.  Ráðstöfun orkulindanna er eitt af mestu hagsmunamálum landsmanna, og afstaða kjörinna fulltrúa á löggjafarsamkundunni til orkumálanna gæti haft drjúg áhrif á beitingu atkvæðisréttarins.     

 Akkilesarhæll

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 27. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband