Ólögmætt framsal valds yfir orkukerfinu

Lögfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst (FÁFH) og Stefán Már Stefánsson (SMS) skiluðu greinargóðri skýrslu til verkkaupans, utanríkisráðuneytisins, þann 19. marz 2019 "um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB".   

Viðfangsefnið var nánar til tekið, "hvort það standist ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr 33/1944, að ESA sé falið vald til að taka lagalega bindandi ákvarðanir um grunnvirki yfir landamæri, sem haft geta bein og óbein áhrif á hagsmuni einstaklinga og lögaðila hér á landi, svo og almannahagsmuni, tengda raforkukerfinu og nýtingu þess".

Hér kveður strax við annan en tón en þær innantómu fullyrðingar margra ráðamanna, lögfræðinga og stjórnmálamanna, að ekkert valdaafsal felist í samþykkt Þriðja orkupakkans.  Gagnvart EFTA-löndunum er, eins og kunnugt er, til málamynda gert ráð fyrir, að ESA fari með völd ACER-Orkustofnunar ESB, m.a. valdheimildir, sem ESA eru veittar í reglugerð 713/2009 um "lagalega bindandi ákvarðanir, er varða grunnvirki yfir landamæri".  Utanríkisráðuneytið hefur aldrei komið auga á hættuna, sem í þessu felst, og er enn við sama heygarðshornið. Nú hefur það ákveðið að hundsa eftirfarandi meginniðurstöðu hinna mætu lögspekinga í téðri skýrslu:

"Með vísan til framanritaðs er það álit höfunda, að ekki séu að óbreyttu forsendur til þess, að Ísland aflétti stjórnskipulegum fyrirvara við umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn, sbr 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins, nema tryggt sé, að reglugerð nr 713/2009 verði innleidd í íslenzkan rétt á þann hátt, að samræmist stjórnarskránni, sjá nánar kafla 4.1 og 4.3.3."

Skoðun höfundanna á þeirri fráleitu aðferðarfræði, sem felst í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í landslög, kemur einmitt fram í grein 4.1, sem þeir vísa til og veitir þingsályktunartillögu utanríkisráðherra í raun og veru falleinkunn, hvað sem öðru líður:

"Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði, sem ekki fá staðizt íslenzka stjórnarskrá, þó að svo standi á, að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn.  Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt, að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna, sem tengjast þriðja orkupakkanum, nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann.

Verður því að hafna því sjónarmiði, að álitaefni, tengd valdframsali til ESA, skipti ekki máli á þessu stigi, þar sem grunnvirki yfir landamæri eigi enn eftir að líta dagsins ljós hér á landi, og því sé Alþingi fært að samþykkja þriðja orkupakkann, hvað svo sem líði stjórnskipulegum álitaefnum varðandi valdframsal til ESA. Vikið verður nánar að þessu atriði hér síðar."

Utanríkisráðherra göslast samt áfram með þingsályktunartillögu sína, sem snýst einmitt um að innleiða orkubálk #3 í landsrétt, en setja síðan lög, sem eiga að gera gerð 713/2009 óvirka, þar til stjórnlagavandinn hefur verið gerður upp, og þar til Alþingi ákveður, að lagður skuli sæstrengur.

Leið utanríkisráðherrans er rökleysa og lögleysa, hún mun verða okkur til hneisu í EES-samstarfinu við EFTA og ESB, og hún mun baka íslenzka ríkinu stórfelldar skaðabótakröfur, því að Alþingi mun efna til mikillar réttaróvissu með því að fara leið utanríkisráðherrans. Þetta er algerlega óafsakanlegt ábyrgðarleysi. 

Hvers vegna utanríkispólitísk hneisa ?  Það er vegna þess, að EES-samningurinn, kafli 7, er brotinn með því að innleiða gerð í landsrétt, samþykkta af sameiginlegu EES-nefndinni, en með skilmálum síðar í landslögum.  Þetta er fordæmi, sem stríðir gegn anda EES-samningsins, og verður væntanlega ekki látinn óátalinn af ESA, enda getur hvaða hagsmunaaðili sem er kvartað undan þessu við Eftirlitsstofnunina. 7. kaflinn, sem vitnað er til, hljóðar þannig:

"Gerðir, sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila, og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir: a) gerð, sem samsvarar reglugerð EBE, skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila; b) gerð, sem samsvarar tilskipun EBE, skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina." 

Í þessu sambandi getur vart skipt máli, hver staðan er, þegar innleiðingin á sér stað, í þessu tilviki enginn millilandaaflstrengur fyrir hendi.  Það er alveg ljóst, að Evrópusambandið, sem hungrar eftir raforku úr endurnýjanlegum orkulindum og leggur í 4. orkupakkanum sérstaka áherzlu á að tengja jaðarsvæði Evrópu við stofnkerfi meginlandsins í þungamiðju iðnaðarins, mun verða þess hvetjandi, að hagsmunaaðilar, t.d. sæstrengsfjárfestar, muni láta reyna á þessar heimalöguðu undanþágur Íslendinga.  Þessar "undanþágur" eru algerlega fordæmalausar í EES-samstarfinu og grafa undan starfsemi Sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem segja má, að sé kjarninn í samstarfi EFTA og ESB vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Að leggja upp með innleiðingu á reglugerðum og tilskipunum ESB á Íslandi á sviði millilandatenginga fyrir raforku á þvílíkum brauðfótum, sem hér hefur verið lýst, er forkastanlegt og fordæmanlegt.  Málið er af slíkri stærðargráðu, að það getur skipt sköpum um afstöðu margra til ríkisstjórnar og stjórnmálaflokka.  Eru ríkisstjórnarflokkarnir tilbúnir til að greiða pólitískt ofurgjald fyrir mál, sem hefur enga kosti í för með sér, hvorki pólitíska né fjárhagslega fyrir þjóðarbúið ?  Ef svo er, þá er áreiðanlega maðkur í mysunni.  Sá maðkur þolir ekki dagsljósið, en það verður "engin miskunn hjá Magnúsi".

 

 

 

 


Bloggfærslur 11. apríl 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband