Bréf frá ESA

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, sendi þann 30. apríl 2019 bréf til norska olíu- og orkuráðuneytisins undir fyrirsögninni: "Request for information concerning the the award and renewal of hydropower authorizations in Norway" eða "Krafa um upplýsingar varðandi úthlutun og endurnýjun vatnsvirkjanaleyfa í Noregi".  Þessi upplýsingakrafa er reist á þjónustutilskipun nr 2006/123/EB. 

Það er augljóst, hvað er í uppsiglingu gagnvart Norðmönnum að hálfu ACER/ESA, og tímasetningin er athygliverð.  Frá útgáfu þjónustutilskipunarinnar eru 13 ár, en fyrst núna, rúmlega ári eftir, að Stórþingið aflétti hinum stjórnskipulega fyrirvara af Orkupakka #3, OP#3, treður ESA sama slóða og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ESB, tróð fyrir nokkrum árum gagnvart 8 aðildarlöndum ESB, þ.á.m. Frakklandi, þar sem svipað háttar til með markaðshlutdeild stórs orkufyrirtækis í ríkiseigu, EdF, og íslenzku Landsvirkjunar.  Því máli virðist ætla að ljúka þannig, að EdF selji vatnsvirkjanir sínar, en eftir standa þá kjarnorkuverin og annars konar orkuver.  

´I Noregi eru virkjanaleyfi veitt ótímabundin og án uppboðs eða tilboðsbeiðna, þannig að í raun er veittur aðgangur að takmarkaðri auðlind gegn gjaldi, sem enginn veit, hvort er markaðsverð. Þetta kallar sumir ógagnsæi, en aðferðin er einföld og ætluð til að lágmarka kostnað, sem á endanum lendir á raforkunotendum.

Þetta er  hins vegar andstætt þjónustutilskipuninni og EES-samninginum og þess vegna augljóst, að niðurstaðan verður sú, að gömul og ný virkjanaleyfi verða sett á EES-markaðinn með einum eða öðrum hætti.  Nákvæmlega hið sama mun gerast á Íslandi.  Virkjanaleyfin í Þjórsá og í Tungnaá, sem ríkið öðlaðist frá Títanfélaginu og lét verða stofnframlag sitt til Landsvirkjunar 1965, munu verða einkavædd, ef ESA/ESB fá vilja sínum framgengt og þróun mála verður að þessu leyti með sama hætti í EFTA-löndunum og í ESB-löndunum. Þessu verður erfitt að standa gegn, eins og það er erfitt að verjast úrskurði ESA og dómi EFTA-dómstólsins um varnir Alþingis frá 2009 gegn dýra- og mannasjúkdómu, t.d. fjölónæmum sýklum í innfluttu kjöti.   

Þessi þróun mála hlýtur að leiða til raforkuverðshækkunar, því að hæstbjóðandi, sem virkjunarleyfið hreppir til tiltölulega skamms tíma í senn, hlýtur að vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð, og það mun á endanum koma niður á raforkunotandanum. Sá, sem á virkjanaleyfið, hefur töglin og hagldirnar varðandi rekstur viðkomandi virkjunar, hver sem eigandi hennar er.  Með þessu móti geta erlend orkufyrirtæki náð kverkataki á virkjunareigandanum og ráðstöfun hans á orkunni.  Þar kemur einmitt Orkupakki #3 til skjalanna, því að honum er ætlað að breyta litlum innanlandsmarkaði í risavaxinn innri markað ESB. 

Þetta ferli er eins ólýðræðislegt og hugsazt getur, og það er ekki nokkur leið fyrir almenna raforkunotendur á Íslandi, sem jafnframt eru eigendur þessara virkjana og virkjanaleyfa, að sætta sig við, að þessi þessi kaupahéðnastefna sé innleidd á Íslandi með virkjanaleyfi, án þess að stefnumótandi ákvörðun um slíkt sé tekin í nokkrum stjórnmálaflokki, hvað þá á Alþingi.  Þetta er forsmekkurinn að því, sem búast má við eftir innleiðingu OP#3 hér, þótt hann komi ekki beinlínis við sögu í þessu máli. Umrætt bréf ESA er að finna í viðhengi með þessum vefpistli. Svipað bréf var sent íslenzkum yfirvöldum fyrir nokkrum árum, en það er meðhöndlað af íslenzka stjórnkerfinu, eins og því er lagið, með því að stinga hausnum í sandinn.

Í Noregi var það almennt og óumdeilt sjónarmið, að með því að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3 væri Stórþingið að samþætta norska raforkukerfið rækilega við raforkukerfi ESB-landanna og að undirgangast fyrir hönd Noregs þá tækni- og viðskiptaskilmála, sem gilda á hinum sameiginlega ESB-raforku- og gasmarkaði, sem t.d. eru útlistaðir í reglugerð #713/2009 í OP#3.  Hérlendis er hins vegar þrætt fyrir, að nokkuð slíkt eigi sér stað hér og beitt við það "lofsverðum blekkingum" að mati fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og núverandi áhrifamanns í Viðreisn.  

Það er skákað í því skjólinu, að engin millilandatenging sé enn við íslenzka raforkukerfið og boðuð lagasetning, sem bannar undirbúning að sæstreng hérlendis að hálfu Landsnets án samþykkis Alþingis.  Þetta eru Pótemkíntjöld og gagnslaus fyrirætlun, því að Evrópurétturinn hefur forgang umfram hinn íslenzka, þegar ágreiningur verður, og hann getur orðið strax eftir innleiðingu OP#3 og uppsetningu þessarar "Maginot-línu".  Aðferðin brýtur nefnilega í bága við sjálfan EES-samninginn, grein 7. Það er ekki nóg að fá pólitískar yfirlýsingar frá orkukommissar ESB á förum og tveimur EFTA-fulltrúum í Sameiginlegu EES-nefndinni, því að hagsmunaaðilar geta kært þann galla við innleiðingu OP#3, að hún sé gerð óvirk að hluta með banni Alþingis við lagningu aflsæstrengs til Íslands.  Hvers vegna halda menn, að norska ríkisstjórnin hafi enn ekki sett umsamda fyrirvara stjórnar og stjórnarandstöðu við OP#3 í lagabúning til framlagningar í Stórþinginu, eins ríkisstjórnin lofaði áður en Stórþingið samþykkti OP#3.  Það ætti að verða fyrirvarafólkinu á Alþingi alvarlegt umhugsunarefni, og kannski þá færi að tíra á tíkarrófunni.  Jafnvel sameignarsinninn í stóli forsætisráðherra skilur ekki afleiðingar markaðsvæðingar raforkugeirans, sem ESB stefnir leynt og ljóst að. Það gæti orðið pólitískt dýrkeypt.

Fyrirtækið Atlantic Superconnection, sem lýst hefur áformum sínum um að framleiða aflsæstreng á NA-Englandi og leggja hann til Íslands, bíður áreiðanlega eftir því, að Evrópurétturinn taki yfir málefni millilandatenginga rafmagns við Ísland. Ef íslenzk stjórnvöld sýna þvermóðsku gagnvart þessu verkefni eftir að hafa beitt sér fyrir innleiðingu OP#3, þá má vissulega búast við kærumálum fyrir EFTA-dómstólinum (brotamál vegna EES-samningsins) og kröfugerð fyrir íslenzkum dómstólum um skaðabætur á hendur íslenzka ríkinu fyrir óþarfa tafir á að hefja ábátasöm viðskipti.  Alþingi er augljóslega að skapa mikla réttaróvissu, ef það afléttir hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.  Það er heilt lögfræðingastóð á Alþingi, sem ætlar að standa að þessu, og eru þó lagasérfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson búnir að vara við þessari hættu í álitsgerð sinni frá 19. marz 2019.  Hvers vegna er allt þetta fólk stungið líkþorni ?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 27. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband