Orkupakkarnir segja til sín

Sumir halda, að orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), sem Alþingi hefur innleitt hér í þremur áföngum, og sá fjórði bíður handan við hornið, hafi engin áhrif hér á heimilisrekstur og fyrirtækjarekstur. Það er reginmisskilningur eða vanmat á áhrifum stefnumörkunar í orkumálum, og nægir í því sambandi að benda á skýrslu "Orkunnar okkar", samtaka gegn innleiðingu Orkupakka #3, um þann þriðja áfanga, frá ágúst 2019.  Þar var t.d. sýnt fram á, að orkukostnaður almennings (heimila og fyrirtækja án sérsamninga við orkubirgja) á hverja orkueiningu (ISK/kWh) hefði að jafnaði hækkað um tæplega 10 % umfram almennt verðlag frá innleiðingu fyrsta áfangans.

Hækkunina má rekja beint til uppskiptingar raforkugeirans, sem kveðið er á um í öllum áföngunum þremur, en Íslandi bar engin skylda til að innleiða vegna smæðar rekstrareininga orkugeirans.  Á þessu tímabili hefði raunorkukostnaðurinn hins vegar að öllu eðlilegu átt að lækka vegna skuldalækkunar raforkugeirans. Nú þurfa flutningur og dreifing að standa undir sér, en áður var hægt að fjármagna framkvæmdir á þessum sviðum með ágóða af orkusölu.  Samkeppni um viðskipti á þessu sviði hefur engan veginn vegið upp á móti dýrari og smærri rekstrareiningum, og á sviði stórsölu með rafmagn ríkir nánast einokun, sem er hættuleg í þessu kerfi orkupakkanna, þar sem hver er sjálfum sér næstur í orkugeiranum, og ekki er lagt upp með að taka tillit til þjóðarhags (hámarka verðmætasköpun, gjaldeyrisöflun og atvinnu), eins og áður var viðmiðun við verðlagningu raforku. 

Sannleikurinn er sá, að Íslendingar voru ginntir til að innleiða hina svo kölluðu orkupakka ESB á þeim fölsku forsendum, að það yrði landsmönnum til hagsbóta (að efla frjálsa samkeppni). Raforkugeirinn sjálfur var þó á móti því (og vinstri grænir), en skammsýnir stjórnmálamenn létu embættismenn, sem ekki var gefin andleg spektin, leiða sig í gönur, sem síðan hefur valdið vandræðum og deilum í landinu. 

Engin þörf var þó á þessari innleiðingu vegna EES-samningsins, eins og Jón Baldvin Hannibalsson, sem ábyrgð bar á gerð þessa einstæða viðskiptasamnings fyrir Íslands hönd, og fjölmargir aðrir, hafa bent á.  Samningurinn er einstæður fyrir miklar kvaðir á hendur löggjafarvaldi og dómsvaldi um aðlögun laga og reglna að Innri markaði Evrópusambandsins (ESB). Hann var hugsaður til bráðabirgða, en hefur virkað í meira en aldarfjórðung.  Eftir útgöngu Breta úr ESB er ljóst, að vægi fríverzlunarsamninga mun aukast í okkar umhverfi, og á þeim grundvelli mun vafalítið fara fram nýtt hagsmunamat í Noregi og á Íslandi.  Kosningaúrslitin í Noregi haustið 2021 munu einnig hafa áhrif á þróun þessara mála á næstu árum. 

Vandamálið í þessu orkutilviki er, að orkulöggjöf ESB er sniðin við raunverulegt samkeppnisumhverfi, og hún hvetur raforkuvinnslufyrirtækin til að hámarka hagnað sinn án tillits til annarra hlekkja í virðiskeðjunni.  Hagnaðurinn á síðan að virka sem hvati fyrir þau að byggja ný orkuver og koma þannig í veg fyrir aflskort og til að raforkuvinnslan fari jafnan fram með hámarks nýtni (ný orkuver bjóða upp á hærri orkunýtni og lægri rekstrarkostnað en hin eldri). Á Innri markaðinum virkar frjáls samkeppni orkubirgjanna sem hemill á verðhækkanir þeirra, og verðið ákvarðast í skurðpunkti framboðs og eftirspurnar.  

Þegar þetta kerfi, sem reist er á jafnvægi samkeppnisumhverfis, er hins vegar innleitt í einokunarumhverfi, eins og íslenzki orkugeirinn er, sérstaklega á sviði stórviðskipta með raforku, þar sem enginn annar en stærsti aðilinn er í færum til að afhenda umbeðinn fjölda GWh/ár, þá endar það auðvitað með ósköpum, eins og gleggst má sjá með hrikalegustu afleiðingum í Straumsvík þessa dagana. 

Það er jafnframt pólitískt áfall fyrir þann, sem dáðst hefur að kjarki og framsýni frumkvöðlanna á iðnvæðingarsviðinu hérlendis úr röðum forystu Sjálfstæðisflokksins, að verða vitni að vanhugsaðri og afar óheppilegri yfirlýsingu núverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins og iðnaðarráðherra, sem skilja mátti þannig, að hún sæi ekki muninn á því að flytja út rafmagn um sæstreng (með 10 % töpum) og á föstu formi áls. Í framhaldinu var hún þess hvetjandi, að tekinn væri upp þráðurinn við að kanna fýsileika aflsæstrengstengingar Íslands við erlenda markaði.

Hún horfir þá gjörsamlega framhjá gildi verðmætasköpunar í landinu úr rafmagninu fyrir landsmenn. Þetta er ennfremur sem blaut tuska framan í Straumsvíkurfólk á erfiðri stundu og mjög undarlegt, skömmu eftir að ríkisstjórnin, sem hún á sæti í, gerði gangskör að því við íslenzku bakhjarlana að "Ice-Link", að hann yrði tekinn út af forgangslista ESB um innviðaverkefni, PCI. Slíkar yfirlýsingar geta orðið henni og flokki hennar afar dýrkeyptar, ekki sízt í ljósi eldri og spánýrrar sögu (iðnvæðingin, orkupakki 3).

Við verðlagningu sína á raforkunni til ISAL, þegar gerð nýs raforkusamnings við Rio Tinto Alcan (RTA) stóð yfir 2010-2011, fylgdi Landsvirkjun forskrift orkupakkanna, tók ekkert tillit til áhrifa verðlagningar sinnar á samkeppnishæfni viðskiptavinarins eða áhrifanna á vilja hans til að halda hér uppi fjárfestingum og fullri framleiðslu, sem þó nauðsyn ber til í íslenzku umhverfi einokunar á þessu sviði, heldur lagði mikla áhættu á viðskiptavininn, sem reyndist stórhættulegt og ógnaði framtíðarstarfsemi hans á Íslandi. Þetta var kúvending hjá Landsvirkjun frá drögum að nýjum samingi frá 2008-2009.  Ósjálfbærni samningsins er fólgin í stöðugum hækkunum raforkuverðsins með bandarískri neyzluvísitölu (CPI), sem hækkað hefur um 16 % á 10 árum, á meðan alls ekkert tillit er tekið í samninginum til þróunar álverðs eða almenns orkuverðs í heiminum. Svona gera menn ekki, sem rækta vilja langtíma viðskiptasamband. 

Þessi einsleitni samningsins reyndist afdrifarík, því að þróun orkuverðs og álverðs varð með allt öðrum hætti í heiminum en Landsvirkjun hafði spáð.  Þvergirðingur Landsvirkjunar keyrði svo úr hófi fram, að hún tók ekki í mál að draga úr áhættunni fyrir afkomu viðskiptavinarins með því að tengja  raforkuverðið við afurðaverð hans (skráð álverð) með svipuðum hætti og gert hafði verið lengi og er algengt í þessum viðskiptum.  Áhættan við slíkt fyrir Landsvirkjun er miklu minni en áhættan við að sleppa tengingunni er fyrir viðskiptavininn, þegar byrjað er á að skrúfa orkuverðið upp í hæðir, sem búizt er við í framtíðinni, eins og þarna var gert.  Það er alltaf gólf í slíkri tengingu, þannig að hagnaður af viðskiptunum er orkusalanum í raun tryggður út samningstímabilið. 

Blanda af þvergirðingshætti og tilhæfulausum væntingum er rótin að því, að nú vofir lokun yfir starfseminni í Straumsvík, og Landsvirkjun, undir núverandi stjórn, spilar sennilega rassinn úr buxunum núna í viðskiptum við RTA, svo að hún glutrar niður kaupskylduákvæðinu (fyrir dómi), sem er gríðarlega verðmætt (yfir mrdISK 200), því að það gildir til ársins 2036.

Gunnar Snær Ólafsson ritaði áhugaverða baksviðsfrétt um málefni álversins í Straumsvík og Landsvirkjunar í Morgunblaðið, 14. febrúar 2020, undir fyrirsögninni:

"Breyttu rekstrargrunni án greiningar":

"Áratug eftir, að gerð var grundvallar stefnubreyting [á] tilhögun raforkusölu Landsvirkjunar til orkufreks iðnaðar að frumkvæði fyrirtækisins og með stuðningi stjórnvalda, hafa stjórnvöld ákveðið að láta gera úttekt á samkeppnishæfni greinarinnar. Hafði mbl.is eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðarráðherra, í gær, að slík úttekt hefði aldrei verið gerð áður.  En nú þegar hefur eitt fyrirtæki, Rio Tinto Aluminium (RTA), ákveðið að hefja endurskoðun á starfsemi álversins í Straumsvík (ISAL) og meta rekstrarhæfi þess.

Í tilkynningu, sem barst fjölmiðlum á miðvikudag [12.02.2020], sagði Alf Barrios, forstjóri RTA, að álverið í Straumsvík væri óarðbært og "ekki samkeppnishæft í krefjandi markaðsaðstæðum vegna hás raforkukostnaðar".  Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur hins vegar ekki samþykkt né útilokað, að það sé verðlagningin, sem valdi usla, þar sem ISAL sé afhent orka á að hans mati samkeppnishæfu verði."

Staðan er sorglega einföld: forstjóri Landsvirkjunar lemur hausnum við steininn og neitar að horfast í augu við ömurlegar staðreyndir.  Staðreyndir málsins eru, að 2010-2011 voru gerðar spár um þróun álverðs og orkuverðs í heiminum af hálfu Landsvirkjunar o.fl., sem voru hafðar til hliðsjónar við samningsgerð, en stóðust engan veginn, því að í stað hækkana álverðs og orkuverðs komu lækkanir á báðum.  Álverð (LME) var þá 2000-2300 USD/t, og hefði það hækkað með vísitölu neyzluverðs í Bandaríkjunum (BNA), eins og raforkuverðið til ISAL, þá væri álverðið núna um 2500 USD/t, en það er í raun aðeins tæplega 1700 USD/t.  Í stað væntrar hækkunar um 350 USD/tAl eða 16 % hefur komið raunlækkun um 450 USD/tAl eða 21 % tímabilið 2010-2020. Til að ná raforkukostnaðinum núna niður í sama hlutfall af skráðu álverði og var við lýði í upphafi samningsins 2011, þ.e. tæplega 24 %, þarf að lækka heildar raforkuverðið (orka+flutningur) um 12 USD/MWh eða rúmlega 30 %.  

Heimsmarkaðsverð á orku hefur lækkað frá 2010.  Sífellt meira af raforku Vesturlanda er nú framleitt með jarðgasi, og verð á því hefur helmingazt á tímabilinu 2010-2020, úr 5 USD/MBtu í 2,5 USD/MBtu, og verður samkvæmt grunnspá US Energy Information Agency um 3,5 USD/MBtu árið 2035, þ.e. lækkar um 30 % frá 2010, sem er svipað og heildarraforkuverð til ISAL þarf að lækka um til að ná jafnstöðu við upphafsforsendur.  

Landsvirkjun reiknaði hins vegar með raunhækkun raforkuverðs (meiri en neyzluvísitölunnar) allt samningstímabilið (2011-2036) og heimtaði þess vegna mikla hækkun upphafsraforkuverðs frá fyrri samningi og vísitölubindingu á því við neyzluverð í BNA í stað þess að draga úr óvissu fyrir báða samningsaðila með því að hafa byrjunarhækkunina minni og tengja orkuverðið við álverð og jafnvel einnig við skráð orkuverð (olíu eða gas), en þó með gólfi til að tryggja hag Landsvirkjunar. 

Þessi kolranga áætlanagerð og ógætilega og sumir segja hranaalega málsmeðferð hefur nú leitt samningsaðila út í algerar ógöngur, og ber Landsvirkjun mestu ábyrgðina, því að hún mótaði samningsferlið í krafti þeirrar stefnubreytingar að nýta sér einokunarstöðu sína til hins ýtrasta, án tillits til þjóðarhags, sem var eins óráðlegt og hægt er að hugsa sér, og varla hefur hvarflað að höfundum orkupakka ESB, að nokkrum myndi detta slík misbeyting aðstöðu til hugar, enda ekki skilyrði til þess í ESB.   

Þessi keyrsla Landsvirkjunar út í skurð lýsir sér í yfirvofandi hættu á tekjutapi upp á 16 mrdISK/ár og í heildina yfir mrdISK 230 á samningstímabilinu.  Enginn fæst að samningaborðinu á afarkostum Landsvirkjunar.  Þjóðfélagið missir um 1250 störf samkvæmt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og yfir 50 mrdISK/ár í útflutningstekjur.  Þetta högg ofan á fækkun erlendra ferðamanna loðnubrest og efnahagssamdrátt í heiminum (CoVid-19) mun að líkindum snara viðskiptajöfnuði landsins öfugum megin við núllið, og þar með er meginforsenda efnahagsstöðugleikans brostin.

  Landsvirkjun tók áhættu, sem getur haft grafalvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir landið.   Höfuðsök á mistökunum á forstjóri fyrirtækisins, sem hlýtur að axla sín skinn. 

Baksviðsgrein Gunnlaugs Snæs lauk þannig:

"Sé það svo, að raforkuverð til ISAL hafi dregið úr samkeppnishæfni þess og þar með stofnað rekstrinum í hættu, má í einhverjum mæli segja, að sú staða hafi skapazt, þegar stjórnvöld og Landsvirkjun lögðust á eitt til að bæta fjárhagsstoðir fyrirtækisins, líklega í von um að tryggja aukna arðsemi, sem síðan myndi skila sér í ríkissjóð.  Ekki lá fyrir greining á samkeppnisstöðu orkufreks iðnaðar á Íslandi og spurning, hvort þjóðhagsleg langtímaáhrif í kjölfar breyttra rekstrarforsendna álveranna hafi yfirhöfuð verið metin."

Það er engum vafa undirorpið, að til að gæta að þjóðhagslegum afleiðingum gjörða sinna bar Landsvirkjun að áhættugreina samningskröfur sínar, en það virðist hafa farið í handaskolum 2010-2011 áður en samningur var undirritaður.  Annars hefði komið í ljós, að nauðsyn bæri til að setja varnagla inn í samninginn, sem stöðva myndi sjálfvirka árlega vísitöluhækkun raforkuverðsins við stöðuga lækkun álverðs og lækka raforkuverðið, ef hlutfall raforkukostnaðar á hvert áltonn færi yfir t.d. 25 %.  Við upphaf samningsins árið 2011 var þetta hlutfall undir 24 % af skráðu álverði LME, en á árinu 2020 er það komið í rúmlega 34 %.  Það hefur algerlega snarazt á merinni, sem ætti að sýna í sjónhendingu, að samningurinn er meingallaður og sem slíkur stórhættulegur efnahagslegum stöðugleika á Íslandi.  Í ljósi þessa verða ríkisstjórn og Alþingi að grípa inn og sjá til þess, að nýr samningur verði með innbyggðan stöðugleika að þessu leyti og sanngjarna áhættudreifingu beggja aðila.  Til þess eru margar leiðir færar.  isal_winter

 

 

    

 

      


Bloggfærslur 23. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband