Loftslagsmálin fá vaxandi vægi

Það varð vendipunktur í viðleitni vestrænna ríkja til að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis, þegar Joe Biden, forseti Bandaríkjanna (BNA), tilkynnti, að Bandaríkin vildu á ný takast á hendur skuldbindingar Parísarsáttmálans frá desember 2015.  Forsetinn snýr nú ofan af hverjum gerningi fyrirrennara síns á fætur öðrum, en sá rak argvítuga einangrunarstefnu undir kjörorðinu "America first".  Lýðræðisríki heims mega einfaldlega ekki við því, að forysturíki þeirra dragi sig inn í skel sína í heimsmálunum, enda sá kínverski drekinn sér þá hvarvetna leik á borði að fylla tómarúmið.  Hann vex stöðugt meir en allir hinir risarnir á heimssviðinu bæði að vergri landsframleiðslu og hernaðarmætti. 

Er alveg ljóst, að heimsmálin munu næstu áratugi einkennast af baráttu Vesturveldanna við að hemja drekann í austri.  Þar takast á ólíkir menningarheimar og ólík pólitísk hugmyndafræði. Drekanum hefur tekizt að virkja auðvaldskerfið til að endurreisa Kína sem stórveldi á mettíma undir stjórn kommúnistaflokksins.  Þessi samþætting er vandasöm, og tjáningarfrelsið, sem yfirleitt helzt í hendur við athafnafrelsið, stendur sem fleinn í holdi einræðisstjórnarinnar í Beijing.

  Áróðursstríð verður háð ásamt baráttu um auðlindir og pólitísk yfirráð.  Búast má við hernaðarátökum í Asíu. Nóg er að virða fyrir sér hernaðaruppbygginguna á Suður-Kínahafi og flotauppbyggingu Kínverja.  Taiwanstjórnin óttast kínverska innrás innan áratugar, enda viðurkennir Beijing-stjórnin ekki fullveldi Taiwan.

Joe Biden og loftslagserindreki hans , John Kerry, fyrrverandi utanríkisráðherra BNA, hafa tilkynnt um stórhuga áform BNA um orkuskipti.  Það á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50 % fyrir árið 2030 m.v. árið 2020. Um þetta mun muna á heimsvísu. Gangi þetta eftir munu Bandaríkin verða í forystu, hvað orkuskiptin áhrærir, árið 2030. Þetta er aðeins mögulegt með tæknibyltingu, en BNA hafa áður sýnt, að þau geta unnið upp tæknilegt forskot annarra á innan við áratugi.  Þessi stefnubreyting er mikið fagnaðarefni, því að tæknibylting er forsenda raunverulegs árangurs í baráttu við hlýnun lofts og lagar. Heimurinn allur mun njóta góðs af, og BNA verða í fararbroddi vestrænna ríkja við að hægja á og síðan stöðva hlýnun jarðar.

Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi iðnaðarráðherra, er manna fróðastur um loftslagsmálin.  Hann reit fróðlega grein í Morgunblaðið 4. desember 2019, sem hann nefndi:

"Hvers vegna er loftslagsváin nú hvarvetna mál mála ?"

"Hann [Parísarsáttmálinn] tekur í raun f.o.m. árinu 2021 við af Kyoto-bókuninni.  Samkvæmt samningnum taka þróuð ríki sjálfviljug á sig skuldbindandi markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofts næsta áratuginn, þ.e. fram til ársins 2030.  Miðað er við, að þær skuldbindingar liggi fyrir í síðasta lagi á næsta ársfundi (COP-26), sem halda á í Glasgow haustið 2020.  Talið er, að fundurinn í Madrid gefi tóninn um, hvert stefni.  Ísland hefur sett stefnuna á a.m.k. 29 % samdrátt í losun 2030 m.v. stöðuna árið 2005 og stefnir á 40 % samkvæmt aðgerðaáætlun." 

Umhverfisstofnun (UST) telur, að losun Íslands á GHL, sem fellur undir beina ábyrgð stjórnvalda, árið 2030 muni nema 2513 kt CO2íg, en hún var 2965 kt árið 2020.  Þetta er minnkun um 452 kt eða 15,2 % og  nemur 19 % m.v. viðmiðunarárið 2005.  Þetta er miklu minni samdráttur koltvíildislosunar en ofangreint markmið Íslands (29 %), svo að ekki sé nú minnzt á 40 % í aðgerðaráætlun, sem ekki er enn tilbúin.  Eru það stórundarleg vinnubrögð Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, að birta lokatölu aðgerðaráætlunar áður en einstakir þættir hennar hafa verið mótaðir og kóróna svo ábyrgðarleysið með því að hækka markmiðið upp í 55 % árið 2030, en Katrín Jakobsdóttir tilkynnti þessi ósköp nú 2021 drýgindalega í hópi fleiri evrópskra þjóðarleiðtoga, þótt markmiðið sé sett algerlega út í loftið. 

Hvernig er hægt að ná 55 %, þegar Umhverfisstofnun telur aðeins raunhæft að ná 19 % samdrætti m.v. 2005, þ.e. að komast í 2513 kt árið 2030 ?  Það er ekki hægt án rándýrra þvingunarráðstafana af hálfu ríkisvaldsins, sem óhjákvæmilega munu rýra lífskjörin á Íslandi algerlega að þarflausu, því að öll núverandi losun á Íslandi frá starfsemi manna hefur engin mælanleg áhrif á hlýnun jarðar.  Þetta óðagot forsætisráðherra er unnið fyrir gýg og nær þess vegna engri átt, enda getur það kostað Íslendinga yfir mrdISK 10 á þessum áratugi í greiðslur losunargjalds.  Er það ekki Stjórnarskrárbrot að skuldbinda landsmenn þannig á alþjóðavettvangi fyrir greiðslu upphæðar, sem óvissa ríkir um ?

UST telur, að vegaumferð muni losa 603 kt CO2 árið 2030 og að hún hafi losað 992 kt árið 2020.  Þetta er 389 kt samdráttur eða 39,2 % og 86 % af áætluðum heildarsamdrætti á ábyrgð stjórnvalda. 

Þetta jafngildir um 100 k færri jarðefnaeldsneytisbílum árið 2030, og þá má reikna með um 130 k fleiri hreinorkubílum.  Þetta er ekki útilokað, en þá þurfa nánast allir nýir bílar að verða hreinorkubílar héðan í frá, og til þess þarf að halda vel á spöðunum, því að þeir nema nú undir 70 % allra nýrra fólksbíla og jeppa.  Verð rafmagnsbíla færist nær verði sambærilegra benzín og dísilbíla með tímanum, og úrvalið vex nú með hverju árinu. Það má heita útilokað, að nýjasta, rándýra hugdetta forsætisráðherra um 55 % samdrátt náist 2030.  Ótrúlegt ábyrgðarleysi að binda þjóðinni slíka bagga að henni forspurðri.   

Þessi orkuskipti verða hins vegar ekki án fjárfestinga í innviðum og endabúnaði til að hlaða rafgeymana.  Reikna má með orkuþörfinni 640 GWh/ár (án vetnisverksmiðju) og samsvarandi aflþörf 200 MW fyrir orkuskiptin árið 2030.  Þetta ásamt öðrum innviðum til orkuskipta gæti kostað um mrdISK 300.  Árið 2030 gæti eldsneytissparnaður orkuskiptanna verið 120 kt/ár og gjaldeyrissparnaðurinn numið MUSD 120 eða mrdISK 15.  Þetta er alveg viðunandi "endurgreiðslutími" m.v., að um áratuga endingu fjárfestinganna er að langmestu leyti að ræða.  Þjóðhagslega lítur þessi hluti orkuskiptanna ekki illa út. 

Höldum áfram með tilvitnaða grein Hjörleifs:

"Það er því með ólíkindum, þegar einstaklingar og stjórnmálasamtök telja sig þess umkomin að gera niðurstöðurnar um þátt mannsins í aukinni CO2-losun tortryggilegar og segja þær ómarktækar."  

Þetta skrifar Hjörleifur eftir ýmsar tilvitnanir, t.d. í IPCC, Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna.  Það hefur með haldgóðum rökum verið sýnt fram á þátt mannkynsins í auknum styrk koltvíildis í lofthjúpinum, en hann hefur aukizt um 48 % frá 1850 til 18.03.2021, þ.e. úr 280 ppm í 416 ppm.  Það hefur hins vegar verið bent á, að fleiri þættir geta haft áhrif á hitastig lofthjúpsins, t.d. breytileg geislun orkugjafans sjálfs, sólarinnar.

Það er þó hægt að beita sambandi breytts koltvíildisstyrks og hitastigsbreytingar til að nálgast vænt gildi hlýnunar.  Lögmálið er kennt við Ångström og af því leiðir, að tvöföldun koltvíildisstyrks hækkar hitastig um 1,0 %.  Ef gert er ráð fyrir línulegri breytingu, fæst: DT=0,48*2,88°K=1,4°C.

Þetta er í hærri kantinum m.v. nýlegar mælingar, sem birtar hafa verið, og munar þar e.t.v. 0,2°C, sem unnt er að skýra með varmaupptöku hafsins og kælingaráhrifum eldgosa, sem spúa m.a. brennisteini.  Þannig er engum blöðum að fletta um sjálf gróðurhúsaáhrifin með vísun til eðlisfræðinnar. 

"Þeir [7 loftslagssérfræðingar, sem eru höfundar "Climate tipping points-too risky to bet against] benda á, að jafnvel þótt staðið verði við fyrirliggjandi loforð um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum muni meðalhitinn samt hækka í um 3°C, þ.e. langt yfir markmið Parísarsamningsins, þar sem miðað er við að hámarki 2°C hlýnun.  [Samkvæmt Ångströmslögmálinu gerist þetta um árið 2077.]  Þeir telja því úreltar kenningar sumra hagfræðinga um, að fyrst við 3°C hækkunarmörkin sé þörf á gagnaðgerðum.  Í stað þess verði að draga mörkin við 1,5°C hlýnun.  Þessi staða kalli því á neyðarviðbrögð nú þegar.  M.a. leggja þeir ríka áherzlu á að bregðast þurfi við hættunni af yfirvofandi hækkun sjávarborðs.  Hún geti numið 3 m vegna bráðnunar tiltekinna jökla á Suðurskautslandinu, að ekki sé talað um hraðari bráðnun Grænlandsjökuls.  Til samans geti þessir þættir leitt af sér 10 m hækkun sjávarborðs, sem varað geti í margar aldir." 

Í stað þess að flýta orkuskiptunum hérlendis óhóflega með miklum kostnaði fyrir þjóðarbúið, sem hefur þó engin áhrif á hlýnunina, væri ríkisstjórninni nær að gera áætlun um fyrstu ráðstafanir til að bregðast við hærra sjávarborði. Margir staðir hérlendis eru viðkvæmir fyrir hækkun sjávarborðs, en við erum svo heppin, að nokkurt landris verður við minnkun fargs, t.d. bráðnun jökla. 

Vegna þess, að enn hefur ekki náðst að draga varanlega úr heimslosun koltvíildis, þótt umhverfisráðherra telji, að hámarkslosun hafi náðst á Íslandi 2018, er farið að huga að því að vinna CO2 úr andrúmslofti.  Þetta er þó mjög dýrt og afköstin sáralítil.  Hérlendis er aðferðin fjarri því að vera samkeppnishæf við bindingu CO2 með ræktun hvers konar. 

Álverið í Straumsvík og líklega einnig Norðurál eru að búa sig undir tilraun með að vinna koltvíildi úr kerreyk.  Það er ódýrara en úr andrúmslofti, því að styrkur CO2 er miklu meiri í kerreyk en í andrúmslofti.  Það kostar um 5 USD/t CO2 að dæla vatninu með uppleystu koltvíildi niður í  gljúpt blágrýtið Straumsvík, og það má ekki kosta meira en 10-15 USD/t CO2 að fanga koltvíildið úr kerreyk, til að þessi aðferð verði samkeppnishæf.  Hin endanlega lausn fyrir álverin er auðvitað að breyta kerunum og leysa kolaskautin af hólmi með s.k. eðalskautum til að losna við myndun CO2.  Á vegum móðurfyrirtækis ISAL, Rio Tinto, standa nú yfir tilraunir í Frakklandi og Kanada með þá tækni í kerum af fullri stærð. 

"Þannig áætlar Umhverfisstofnun SÞ, að til að stöðva sig af við 1,5°C hlýnun þurfi árlega að draga sem svarar 7,6 % úr losun gróðurhúsalofts.  Hlutur Íslands er hingað til öfugsnúinn.  Árið 2017 jókst losun hér um 2,5 % m.v. árin á undan og um 32 % frá árinu 1990; staðan hefur ekki skánað síðan.  Þetta þýðir, að til að ná fyrirhuguðum bindandi niðurskurði CO2 næsta áratuginn þarf annað og meira að koma til.  

Athygli vekur, að Evrópusambandið stendur að baki Bandaríkjunum og Kína, þegar kemur að fjárfestingum í loftslagsaðgerðum.  Þær námu í ESB aðeins 1,2 % [af hverju, líklega af VLF ?], í USA 1,3 % og 3,3 % í Kína."

Með "öðru og meira" á Hjörleifur Guttormsson sennilega við þvingunarúrræði ríkisins, sem geta orðið mjög íþyngjandi fyrir almenning.  Það er algerlega óverjandi að leggja þungbærar álögur á atvinnulíf og almenning til að ná árangri, sem munar ekkert um í heildarsamhenginu og verða þess vegna fórnir til einskis.  Svona hafa engir tekið til máls síðan trúarhöfðingjar voru og hétu og hvöttu til krossfara af gríðarlegum trúarhita.  

Nú eru að verða vatnaskil í orkuskiptunum í Bandaríkjunum með síðustu valdaskiptum í Hvíta húsinu og á Capitol Hill.  Bandaríkin munu vafalaust taka forystu í tæknilegum efnum, en hraðfara tækniþróun er eina vonin til að nálgast megi ofangreinda lækkunarþörf losunar koltvíildis um 7,6 % á ári á heimsvísu.  Þá er aðallega horft til nýs orkugjafa, sem komið geti í stað kolaorkuvera. Jafnvel Bandaríkin treysta sér ekki í 7,6 % samrátt á ári, sbr 50 % á 10 árum.  Þess vegna er hlýnun umfram 1,5°C næsta vís.  

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 4. maí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband