Gönuhlaup í loftslagsmálum

Engu máli skiptir fyrir þróun hitastigs á jörðunni, hversu fljótir Íslendingar verða að ná kolefnishlutleysi.  Engu að síður hafa leiðandi stjórnmálamenn á Íslandi á borð við forsætisráðherra fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar, Katrínu Jakobsdóttur, beitt sér fyrir því, að Íslendingar verði á undan öðrum þjóðum í heiminum að ná þessu marki. Þetta er sem sagt "futile" eða marklaust markmið.  Innihaldsleysið og tvískinningurinn við þessa markmiðssetningu er síðan, að græningjarnir grafa undan þessu markmiði með því að leggjast gegn því, sem er forsenda markmiðsins, að til sé næg áreiðanleg virkjuð orka til að framleiða raforku til að koma í stað jarðefnaeldsneytisins, sem óhjákvæmilegt er að stórminnka notkun á til að ná kolefnishlutleysi.  Markmiðið er þannig ómarktækt. Síðan er vaðinn elgurinn í kringum þessi orkuskipti, sem þar að auki eru óraunhæf innan settra tímamarka, af því að nauðsynlegar þróaðar tæknilausnir vantar. Blindur leiðir haltan.   

Þann 3. október 2022 birti Morgunblaðið viðtal við forstöðumann Grænvangs, þar sem kenndi ýmissa grasa:

""Loftslagsmál þurfa hvarvetna að vera efst á blaði", segir Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs, sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir.  "Græn orkuskipti byggjast á samvinnu fjöldans, þannig að um verkefni ríki samfélagsleg sátt. Umskipti, sem nú eiga sér stað í heiminum, fela í sér mörg sóknartækifæri fyrir Ísland.  Munu geta aukið samkeppnishæfni okkar í alþjóðlegu samhengi, en jafnhliða þurfa umskiptin að vera sjálfbær og réttlát.  Því eru fram undan spennandi tímar í umbreytingum, þar sem Íslendingar ætla að ná forystu á heimsvísu.""

Hér orkar æði margt tvímælis og annað svo loftkennt, að erfitt er að festa fingur á því.  Hvers vegna þurfa loftslagsmál hvarvetna að vera efst á blaði á Íslandi, þótt ljóst sé, að losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi manna hérlendis hafi engin mælanleg áhrif á meinta hlýnun jarðar af mannavöldum og sé ekki umfangsmikil í samanburði við losun náttúrunnar sjálfrar án tilstillis "homo sapiens", m.a. frá eldstöðvum landsins ?  Þá hafa landsmenn þegar staðið sig betur en flestar þjóðir aðrar við að sneiða hjá jarðefnaeldsneyti við rafmagnsframleiðslu og upphitun húsnæðis.  Hvers vegna liggur svona mikið á, þegar hlutfall jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun landsmanna er nú þegar lægra (15 %) en víðast hvar annars staðar ?

Hefði forstöðumanni Grænvangs ekki verið nær að hefja mál sitt á nauðsyn þess að leggja traustan og sjálfbæran grunn að orkuskiptum á Íslandi ?  Sá grunnur felst í að afla raforku úr vatnsföllum landsins og iðrum jarðar.  Á meðan það er ekki gert, er allt tal um hröð orkuskipti hérlendis fleipur eitt. Hér stendur upp á stjórnvöld, því að stofnanir ríkisins hafa ekki verið hjálplegar í þessu tilliti, og nægir að nefna Orkustofnun, sem legið hefur nú á umsókn Landsvirkjunar um virkjanleyfi í Neðri-Þjórsá í hálft annað ár. Þetta heitir að draga lappirnar og stuðla að langvarandi raforkuskorti í landinu, sem hamlar hagvexti stórlega og þar með kjörum almennings   og afkomu hins opinbera. 

""Orkunýting með virkjunum bætti þjóðarhag.  Hún styrkti sjálfstæði þjóðarinnar, skapaði meiri stöðugleika og jók samkeppnishæfni okkar í alþjóðlegu samhengi.  Það sama er að gerast núna.  Verkefnið í dag er stærra og snýr að öllum heiminum, sbr fyrirheit þjóða um að draga úr mengun og halda hlýnun andrúmsloftsins undir 1,5°C, sbr Parísarsamkomulagið.  Stærðargráða viðfangsefna er því allt önnur en áður, auk þess sem lönd og jafnvel atvinnugreinar eru tengdari nú en áður.  Orkuöflun og -skipti eru alþjóðleg verkefni.""  

Það er jákvætt, að þarna er viðurkennt, að virkjanir landsins eru hornsteinn velmegunarinnar í nútímasamfélaginu á Íslandi, en annað þarfnast skýringa af hendi höfundarins.  Hvernig getur orkuskiptaverkefnið verið stærra núna en áður, þegar aðeins 15 % heildarorkunotkunarinnar er úr jarðefnaeldsneyti ?  Hvernig leggjum við mest af mörkum á heimsvísu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ?  Það er með því að virkja sem mest af stöðugum orkulindum landsins til að verða við óskum stóriðjufyrirtækja um ný orkukaup á Íslandi, hvort sem það eru núverandi stóriðjufyrirtæki á landinu eða önnur.  Það er hins vegar ekki á döfinni samkvæmt forstjóra Landsvirkjunar á Haustfundi fyrirtækisins í október 2022.  Það fer víða ekki saman hljóð og mynd, þegar umræðan snýst um orkumálin á Íslandi, þ.e.a.s. hún er handan raunveruleikans, enda ríkir stöðnun á því sviði, sem mestu máli skiptir; á sviði stórfelldrar nýrrar hagnýtingar náttúrulegra, hefðbundinna orkulinda landsins.   

    


Bloggfærslur 12. október 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband