Stefnumarkandi um vindmylluþyrpingar

Ljóst er, að fjármagni hefur í of miklum mæli verið beint í afkastalítil tæki með lága nýtni og óreglulega framleiðslugetu til að breyta vindorku í raforku í heiminum, t.d. í Evrópu. Þetta ásamt andvana fæddri hugmyndafræði um að mynda friðelskandi gagnkvæmt hagsmunasamband lýðræðisríkja og einsflokksríkja, sem auðveldlega virðast breytast í einræðis- og alræðisríki, hefur valdið hrollvekjandi stöðu orkumála í Evrópu, þar sem dauðsföll af völdum kulda gætu tífaldast af völdum orkukreppu í vetur, verði hann  harður.  Í Úkraínu geta eldflaugaárásir hryðjuverkaríkis í austri á orkukerfi landsins valdið enn meiri hörmungum. Eru örlög Úkraínu þyngri en tárum taki.  Þar láta hermenn og almennir borgarar lífið fyrir fullveldi lands síns.  Úkraínumenn vita og skilja og allra þjóða bezt, að yfirráð Rússlands jafngilda ánauð.  Þeir eru búnir að fá meira en nóg af að vera hnepptir í þrældóm af villimönnum.  

Evrópa hefur hundsað þróun kjarnorkunnar, sem ein getur með raunhæfum hætti leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi.  Bretar eru þó að vakna úr dvala að þessu leyti, og brezka ríkið hefur nú skuldbundið sig til að kaupa kínverskt fyrirtæki út úr samsteypu, sem reisir kjarnorkuver á Englandi. 

Hérlendis eru háreist áform um að reisa vindmylluþyrpingar víðs vegar um landið , t.d. 687 MW á Vesturlandi og a.m.k. 500 MW á Austurlandi.  Þá eru ótalin mikil áform á Norðurlandi og Suðurlandi, t.d. hjá ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun.  Það gætir vanmats á neikvæðum áhrifum vindmylluþyrpinga á landið og landnýtingu annarra hagsmunaafla, s.s. íbúa frístundabyggða, bænda og ferðaþjónustunnar.  Þá hefur lítil grein verið gerð fyrir áhrifunum á verðlagningu raforku til almennings, sem vafalaust verður til meiri hækkunar en nýjar hefðbundnar virkjanir í landinu munu valda. 

Umræðan um áhrifin á raforkukerfið er einsleit og því er haldið fram, að vindmyllur vinni vel með vatnsorkuverum, muni minnka álag þeirra og spara miðlunarvatn.  Þessi samkeyrsla getur hins vegar rýrt nýtni vatnsorkuveranna svo mikið, að vatnssparnaður verði lítill sem enginn. 

Morgunblaðið tók stefnumarkandi afstöðu gegn mikilli vindorkuvæðingu landsins í gagnmerkum leiðara blaðsins 29. nóvember 2022, sem hét:

  "Ná að hræða lítil börn".

Síðari hluti hans var þannig:

"Það er engin samstaða með þjóðinni um að eyðileggja ásýnd landsins og útbía það með niðurgreiddum vindmyllum, sem eru ótryggur orkugjafi og knúinn áfram af áróðri um loftslagshamfarir, sem hefur staðið í 3 áratugi, og á þeim tíma hefur samt ekkert gerzt til að skipta um orkugjafa í heiminum.  En hamagangurinn er þó ekki til einskis. Upplýst er, að börn á aldrinum 7-12 ára (70 % þeirra) eru heltekin af ótta við loftslagsósköpin, sem tryggi, að þau nái ekki fullorðinsaldri. 

Við Íslendingar höfum "náð því marki", sem öðrum þjóðum er sett, áður en það gerðist í Kyoto.  Hefðu spár þaðan staðizt, væru ísbirnir við það að deyja út vegna eyðingar náttúrulegs umhverfis þeirra.  En ísbjörnum hefur fjölgað verulega síðan þá ! Barnaleg íslenzk yfirvöld lofa að henda milljarðatugum út í buskann til að stuðla að því, að aðrar þjóðir nái þessum "markmiðum" !  Rétt er að taka fram, að Kína, Indland, Indónesía og Rússland með sína fáu íbúa gera ekkert með fyrirætlanirnar.  Joe Biden slær burtu flestum hömlum af viðskiptabanni gegn Venesúela, svo að þaðan megi hann kaupa olíu !"

Þetta er ekki lítil ádrepa.  Það er einmitt helzti ljóðurinn á málflutningi hlýnunarpostulanna, að þeir taka allt of djúpt í árinni án þess að hafa annað fyrir sér en meingallað spálíkan, sem er með gríðarlega slagsíðu til hækkunar m.v. nákvæmustu raunmælingar, sem völ er á.  Hér er um gegndarlausan og fótalausan hræðsluáróður að ræða, eins og dæmið af ísbjörnunum sýnir.  Loftslagskirkjan er komin í fótspor ofsatrúarsafnaða, og slíkir eru stórhættulegir viðkvæmum sálum. 

Steinar Ingimar Halldórsson, verkfræðingur, ritaði merka grein í Morgunblaðið 29.11.2022, þar sem hann vakti máls á þeim vandkvæðum við samrekstur stórra vindmylluþyrpinga við vatnsorkuverin, að álagsbreytingar þeirra, þegar vindmyllur taka upp hluta álags þeirra eða missa álag, munu gera kerfisstjórn Landsnets erfiðara fyrir en nú er að reka heildarkerfið nálægt hámarksnýtni.  Francis-hverflar vatnsorkuveranna geta fallið um 10 % í nýtni, ef rennslið sveiflast annaðhvort upp eða niður frá kjörstöðu. Þetta á við þann hluta hverflanna, sem tekur þátt í reglun kerfisins hverju sinni.

Greinina nefndi Steinar Ingimar:

 "Ávinningur vindmylla er ofmetinn",

og hófst hún þannig:

"Í september [2022] sagði Morgunblaðið frá greiningu á efnahagslegum áhrifum uppbyggingar vindorkuvera á Vesturlandi, alls 687 MW af vindafli.  Í greiningunni eru árlegar skatttekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga af starfsemi vindorkuveranna metnar MISK 900 eða 0,3 ISK/kWh. Til samanburðar var meðalverð forgangsorku án flutnings 5,3 ISK/kWh árin 2020 og 2021.  Skatttekjur af vindmyllum segja ekki alla söguna, og útkoman er ekki jafnlofandi fyrir skattgreiðendur, þegar stóra myndin er skoðuð." 

Framleiðslukostnaður vindmylluþyrpinga af því tagi, sem nota á hér, er líklega um 50 USD/MWh eða 7,1 ISK/kWh, sem er 34 % hærra en ofangreint verð frá virkjun hérlendis.  Í markaðskerfi að hætti ESB, sem dótturfélag Landsnets vinnur nú að undirbúningi fyrir, og meiri eftirspurn en hefðbundnu virkjanirnar geta annað, munu vindmylluþyrpingarnar fá sitt boðna verð, og hæsta verðið ákvarðar síðan markaðsverðið til allra notenda á þessum markaði. Þetta gæti þýtt um 10 % hækkun raforkukostnaðar heimila og fyrirtækja án langtímasamninga. 

Nú má spyrja sig, hversu mikið nýtni vatnsorkuverflanna má minnka til að vega upp á móti ofangreindum opinberu gjöldum af vindmylluþyrpingunum. Það eru um 170 GWh/ár eða rúmlega 1 % af raforkuvinnslu vatnsorkuveranna.  Það má ætla, að vaxandi óróleiki á raforkukerfinu með tilkomu mikilla vindmylluþyrpinga geti valdið meira nýtnitapi í kerfinu en þetta, svo að uppsetning vindmylla til að spara vatn og auka tekjur samfélagsins er unnin fyrir gýg. Er anað út á vindmylluforaðið af glópsku einni saman ?    

 


Bloggfærslur 14. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband